Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 28. fundur,  9. nóv. 2022.

heimild til rannsókna og notkunar á efninu sílósíbíni í geðlækningaskyni.

163. mál
[17:33]
Horfa

Jóhann Friðrik Friðriksson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka flutningsmanni, hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni, fyrir að hafa farið vel yfir þessa þingsályktunartillögu. Auðvitað er það svo að við ræðum oft hér í þingsal þann vanda sem steðjar að varðandi geðheilbrigðismál í landinu og hann er víðtækur. Við höfum mörg úrræði, m.a. lyfjagjöf. Þegar fram koma vísbendingar um að tækifæri sé fólgið í því að rannsaka frekar efni eins og sílósíbín, til að skoða kosti þess að nota það í þessum tilgangi, fagna ég því að við séum að stíga hér skref til að auðvelda þá vegferð og tel það mikilvægt. Ég tek líka undir það með flutningsmanni að rannsóknir hér á landi, ekki bara á sílósíbíni heldur almennt, eru nokkuð hagfelldar. Það skiptir til að mynda máli við slíkar rannsóknir að fólk sé jákvætt fyrir þátttöku og að við séum með góðan hóp af vísindamönnum sem geti verið í alþjóðlegu samstarfi.

Spurning mín til flutningsmanns snýr kannski fyrst og fremst að því hvort hann taki ekki undir það með mér að hin faglega umgjörð og jarðvegurinn sem er hér á Íslandi til þess að vera leiðandi í rannsóknum á þessu sviði kalli jafnvel á það að í framhaldinu, þegar þessi vinna er búin, munum við áfram huga að því að reyna að styrkja rannsóknarumhverfið hér á landi, sérstaklega í ljósi þess að við erum hér með virt lyfjafyrirtæki sem hafa verið að hasla sér völl og horfa þá ekki síst, eins og nefnt hefur verið í þessari umræðu, til hins stóra heims í því tilliti, þ.e. að rannsóknirnar skili sér alla leið, ekki bara til okkar hér innan lands heldur ekki síst til fólks um allan heim sem glímir við heilbrigðisvandamál.