Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 28. fundur,  9. nóv. 2022.

heimild til rannsókna og notkunar á efninu sílósíbíni í geðlækningaskyni.

163. mál
[17:21]
Horfa

Flm. (Vilhjálmur Árnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Já, að sjálfsögðu er ég hlynntur því og ég held að það sé mikilvægt að við séum dugleg að rannsaka eiginleika sem flestra efna. Grunnrannsóknir eru mjög mikilvægar mjög víða í allri framþróun. Við eigum, sérstaklega með svona náttúruleg efni, að setja mikinn fókus á að rannsaka eiginleika þeirra og nýta sem best. Ég held að það sé mun betra en að nota mörg önnur efni. Ég tók þátt í því í hv. velferðarnefnd að breyta löggjöfinni varðandi hampinn og CBD-olíuna. Þar eigum við enn eftir að breyta löggjöfinni varðandi blómin eða virku efnin í hampinum o.fl., ég held að það sé mjög mikilvægt.

Ég vil þó taka fram að við erum að fjalla um sílósíbín hér og það kom fram í ræðu minni áðan að það er staðfest að það er ekki ávanabindandi efni þannig að það myndar ekki þessa fíkn. Það skiptir miklu máli og breytir leiknum töluvert hvað þetta efni varðar.