Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 28. fundur,  9. nóv. 2022.

heimild til rannsókna og notkunar á efninu sílósíbíni í geðlækningaskyni.

163. mál
[17:40]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka flutningsmanni þessarar tillögu fyrir að leggja þetta mál fram og koma því í umræðu. Ég er í hópi meðflutningsmanna og hef fulla trú á þessari vegferð. Ég þekki marga úr fremstu röð geðlækna á Íslandi sem hafa trú á þessari vegferð og sömuleiðis marga sem hafa glímt við andlega erfiðleika af einhverjum toga sem hafa hlotið gott af. En það þarf að gera þetta með vísindalegri ögun og mælistikum ef þetta á að verða framtíðarlyfseðill og koma að gagni. Þetta getur sannarlega orðið ábatasamt fyrir þá sem kæmu til með að hefja framleiðslu ef vel tekst til.

Það er rétt að minna á að um miðjan fimmta áratug síðustu aldar var einn fremsti vísindamaður heims í læknavísindum, Albert Hoffmann, sem Hoffmann-La Roche lyfjarisafyrirtækið er nefnt eftir, fyrir algjöra tilviljun kominn á svipaðar slóðir. Hann var að leita að meðali við augnbotnahrörnun og rambaði á svepp, myglaðan rúg, sem hann taldi að gæti gagnast. Sveppurinn rataði óvart í munnholið á honum, hann sleikti á sér puttana eftir að hann var búinn að skoða hann í smásjánni og fann fyrir áhrifum sem hann hafði ekki áður kynnst. Eftir að hafa tekið til við að rannsaka málið — þetta er í kjölfarið á því að það uppgötvaðist sveppur sem megnaði að bjarga hundruðum milljóna mannslífa, ég er að tala um pensilínefnið. Albert Hoffmann hélt því fram að þetta væri merkilegasta geðlyf sem hefði uppgötvast og hóf að rannsaka það með vísindalegum nálgunum. Hann taldi að þarna gæti verið efni sem gagnaðist við lækningar á margs konar geðvanda og fíknivanda, einnig hjónalífsvanda. En það varð þessum rannsóknum að fótakefli og til trafala að þetta efni, sem er auðvitað ekki nákvæmlega það sama og hér er verið að ræða um en náskylt, varð að einhvers konar tískuefni sem blandað var saman við hættuleg efni eins og amfetamín og rottueitur og markaðssett undir yfirskriftinni Ferðalagið, The Trip. Þessi eiturefni sem þarna var blandað saman til að búa til það sem kynnt var sem þetta stórhættulega efni varð til þess að Nixon-stjórnin taldi að þarna væru öfl hins illa að verki og lét stöðva allar rannsóknir af þessum toga sem verið var að vinna að á sjúkrahúsum og háskólum á þessum tíma. Þar með stöðvaðist ferlið og tiltrúin á þetta efni. Það var ekki sveppnum að kenna heldur efnunum sem blandað var saman við hann sem gáfu honum slæma ímynd og orðspor. En hreinræktuð íslensk vara, beint úr hreinni íslenskri náttúru með hreinu íslensku vatni, er efni sem ég held að við eigum að horfa til björtum augum og vonglöð um að þarna séum við að fara að feta nýja slóð. Ég veit að Geðhjálp og fleiri samtök horfa mjög til þessa og eins og fram hefur komið er þegar verið að neyta þessara efna, undir eftirliti en líka án eftirlits.

Ég vona að málið nái fram að ganga hér í þinginu og ég bind vonir við það þegar ég heyri svo jákvæða flutningsmenn úr meirihlutasamstarfinu sem vilja sjá þetta gerast. Ég vil enn og aftur þakka fyrir umræðuna og þakka flutningsmanni fyrir frumkvæðið í þessu og öðrum sem hér hafa tekið til máls. Áfram veginn, eins og Tommi segir.