132. löggjafarþing — 9. fundur
 17. október 2005.
Aðgerðir til að endurheimta efnahagslegan stöðugleika, frh. fyrri umræðu.
þáltill. SJS o.fl., 5. mál. — Þskj. 5.

[15:27]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Þá tökum við upp þráðinn þar sem frá var horfið síðast þegar þing kom saman við að ræða þingmál Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, tillögu til þingsályktunar um aðgerðir til að endurheimta efnahagslegan stöðugleika. Fyrsti flutningsmaður tillögunnar, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, fór ítarlega yfir málið í síðustu viku. Ég mun því aðeins stikla á stóru en minni á að í upphafi tillögunnar eru skilgreind þau markmið sem við viljum ná.

„a. verðbólga náist sem fyrst niður fyrir viðmiðunarmörk Seðlabankans,

b. stöðugleiki haldist á vinnumarkaði og kaupmáttur launa verði varðveittur,

c. sjálfbær þróun verði leiðarljós í orku- og atvinnumálum og þróun þjóðlífsins almennt,

d. tryggja útflutnings- og samkeppnisgreinum viðunandi starfsskilyrði,

e. bæta skilyrði til nýsköpunar í atvinnulífinu og til uppbyggingar sprotafyrirtækja,

f. draga úr viðskiptahalla og erlendri skuldasöfnun,

g. viðhalda stöðugleika í fjármálakerfinu og halda aftur af skuldasöfnun heimilanna,

h. jafnvægi náist á nýjan leik í þjóðarbúskapnum almennt.“

Þetta eru þau markmið sem við skilgreinum og viljum ná. Síðan eru ítarlegar tillögur um hvernig eigi að ná þeim markmiðum fram. Ég ætla að nefna nokkur.

Í fyrsta lagi viljum við að út verði gefin formleg yfirlýsing um að hvorki verði af hálfu opinberra aðila stuðlað að né veitt leyfi fyrir frekari stórvirkjunum né uppbyggingu meiri orkufrekrar stóriðju en þegar er í byggingu, a.m.k. til ársloka 2012.

Hvers vegna segjum við þetta? Er það vegna þess að við óttumst að það verði ótryggur grunnur undir efnahagslíf framtíðarinnar ef villtustu draumar hæstv. iðnaðarráðherra, Valgerðar Sverrisdóttur, ná fram að ganga um að hér á landi verði framleidd 1,4 millj. tonna af áli á ári hverju en sem kunnugt er er framleiðslan núna innan við 300 þúsund tonn? Er það einvörðungu vegna þess? Nei. Við teljum þetta hins vegar mjög óráðlegt að Íslendingar framleiði 5% af öllu áli í heiminum. Það sem við erum að horfa til eru skammtímaáhrifin. Við höfum orðið vitni að því að innlendir og erlendir peningabraskarar eru að pumpa tugum milljarða inn í íslenska hagkerfið til að hagnast á þeim vaxtamun sem er á milli Íslands og útlanda.

Það sem skiptir þessa braskara máli er hvert gengi krónunnar verður. Þeir vita að í genginu liggur þeirra áhætta. Ef krónan veikist þá eru þeir að taka mikla áhættu með peningana sína. (Gripið fram í: Þá tapa þeir.) Þá tapa þeir. Yfirlýsingar viðskiptaráðherrans um að á komandi árum verði ráðist í áframhaldandi stóriðjuuppbyggingu fela það í sér að hún er að segja við þetta fólk að framhald verði á eftirspurn eftir krónunni sem þá tryggi og styrki krónuna. Það er vísbending og grænt ljós til braskaranna um að halda áfram að dæla peningum inn í fjárkerfið.

Við viljum beina þeim tilmælum til Fjármálaeftirlitsins að hugað verði vandlega að áhættumati í bankakerfinu, svo sem hvað varðar áhrif af snöggri gengislækkun krónunnar eða lækkun fasteignaverðs. Við viljum beina þeim tilmælum til Seðlabanka Íslands að íhuga vandlega að beita aukinni bindiskyldu hjá innlánsstofnunum, a.m.k. tímabundið, yfirfara aðferðir við mælingar og þróun verðlags og athuga sérstaklega hvernig vænlegast sé að meta húsnæðiskostnað í vísitölu neysluverðs. Við viljum tryggja aðhald í ríkisfjármálum og þar viljum við láta endurskoða áform um skattalækkanir og við viljum efna til víðtæks samstarfs við aðila vinnumarkaðarins, samtök bænda, neytenda, öryrkja og aldraðra og aðra þá aðila sem efni standa til um aðgerðir þessar og þátttöku um að tryggja á nýjan leik efnahagslegan og félagslegan stöðugleika. Við viljum víðtækt samráð í samfélaginu og sameiginlegt átak til að endurheimta efnahagslegan stöðugleika á Íslandi.

Ég hef ekki margar mínútur til ráðstöfunar en vil þó segja þetta: Það er margt í íslensku efnahagslífi sem lofar góðu. Víða er uppbygging í atvinnustarfsemi. Þegar á heildina er litið hefur kaupmáttur farið vaxandi og velsæld verið mikil hjá stórum hópum í samfélaginu. Allt er þetta ágætt. Atvinnuleysi er tiltölulega lítið miðað við það sem verið hefur á undanförnum 10–12 árum. Það er um 1,4%. Það er of mikið en það er tiltölulega lítið miðað við það sem verið hefur.

Við sem berum ábyrgð á efnahagsstefnunni, og þá er ég að horfa til Alþingis, fyrst og fremst ríkisstjórnar og þeirra sem eiga að veita henni aðhald, okkar í þingsal, við hljótum að spyrja: Er byggt á bjargi eða er byggt á sandi? Það er enginn vandi að slá mikil lán og eyða og spenna og kaupa nýja bíla og auka kaupmáttinn. Það sem máli skiptir er að halda vel á spöðunum. Það er þetta sem við óttumst að sé ekki gert. Hér horfum við til vaxandi skulda íslensku þjóðarinnar, 310–315% af vergri landsframleiðslu, meira en nokkru sinni í sögu þjóðarinnar. Við stefnum í 14% viðskiptahalla á þessu ári, 140 milljarða. Á árinu 2003–2010 ætla menn að samanlagður viðskiptahalli nemi 500 milljörðum kr. Með öðrum orðum, þetta góðæri virðist vera byggt á sandi, á skuldum og meira að segja kemur fram í Peningamálum, riti Seðlabankans, að það sem er afgangs hjá ríkinu er einvörðungu vegna tímabundinna þensluskatta og það eru þessir hlutir sem við viljum horfa til. Að sjálfsögðu horfum við með ugg í brjósti á þá vaxandi mismunun og misrétti sem einkennir íslenskt þjóðfélag.

Þegar ég segi að við fögnum því að atvinnuleysi sé tiltölulega lítið þá er það einu sinni svo að við erum að tala um 2.267 einstaklinga í mánuði sem eru án atvinnu og þetta fólk hefur 91 þúsund rúmar í mánaðartekjur eða 85.252 þegar búið er að skattleggja það. (Forseti hringir.)

Hæstv. forseti. Ég hefði viljað ræða þessi mál miklu frekar og miklu nánar og við eigum eftir að gera það að sjálfsögðu á komandi vikum og mánuðum en þetta þingmál okkar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs er tilraun til að taka á þeim vanda sem blasir við og reyna að færa málin til betri vegar.



[15:36]
Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er athyglisvert þegar maður hlustar á svona ræður að óskhyggjan virðist algerlega ráða ferðinni. Hv. ræðumaður sagði áðan að hann vildi að kaupmáttur launanna héldist. Draga samt úr skuldasöfnun heimilanna og bæta hag útflutningsgreinanna. Bíddu nú við. Hvernig gekk þetta upp? Hvernig í veröldinni átti þetta að gerast? Hann sagði ekkert um það, hann sleppti því.

Það er nefnilega þannig að það er svo einfalt að tala fallega um hlutina en sleppa því alveg að horfast í augu við veruleikann. Ég held það sé nú fyrsta skrefið sem hver og einn ætti að stíga, virðulegi forseti, ef við ætlum að takast á við vandamál okkar, að reyna að horfast í augu við veruleikann.

Við erum með kaupmátt Íslendingar sem hefur þróast þannig að raunlaun hafa hækkað meira en stærð hagkerfisins. Það leiðir til umframeyðslu. Útflutningsgreinarnar geta ekki lifað við svo hátt gengi eins og nú er á Íslandi, það hef ég margsagt, virðulegi forseti, úr þessum stól. Til þess að útflutningsgreinarnar geti staðist og til þess að samkeppnishæfni okkar haldist verður gengið að gefa eftir. Það er óhreinskilni, virðulegi forseti, að vilja ekki segja það sem allir vita og allir sjá og allir kunna. Auðvitað dregur það úr kaupmættinum. Annað er alveg útilokað. Af hverju eru menn, jafnvel hinir bestu menn, að stinga svona höfðinu í sandinn og þykjast ekki sjá það sem allir sjá? Þetta er nauðsynlegt að gera. Þetta mun gerast, virðulegi forseti, fyrr en síðar, en þá á líka að segja það og tala um það.



[15:38]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er að reyna að átta mig á því hvað hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson raunverulega átti við. Hann segir að við búum við umframeyðslu. Hann segir að gengið sé of hátt. Hann segir okkur ekki nákvæmlega hvað það er sem hann vilji gera en ásakar mig, og okkur í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, um að horfast ekki í augu við veruleikann. Það erum við sem horfumst einmitt í augu við veruleikann og viljum taka á honum og höfum þess vegna sett fram ítarlegar tillögur um hvernig við eigum að bera okkur að.

Varðandi raunsæið og trúverðugleikann þá var það Vinstri hreyfingin – grænt framboð sem einn flokka á Alþingi lagði fram raunsæjar tillögur í skattamálum. Ríkisstjórnin er að lækka skatta á Íslandi, sérstaklega á þeim sem standa vel að vígi. Þeir eru sérstaklega teknir og lagðir í bómull. Ríkisstjórnin er að lækka skatta á Íslandi um á milli 20 og 30 milljarða á ári. Síðan bendir stofnun ríkisstjórnarinnar og þjóðarinnar, Seðlabankinn, á það að tekjuafgang ríkissjóðs sé hægt að skýra einvörðungu vegna tímabundinna þensluskatta. Síðan þekkjum við það hvað er að koma inn í ríkissjóð vegna sölu á ríkiseignum.

Við þessar aðstæður, og þetta er tillaga sem við höfum lagt fram, ber að endurskoða áform um skattalækkanir? Er þetta ekki raunsæi? Er þetta ekki tillaga? Er hægt að saka mig og okkur um að setja ekki fram ákveðnar tillögur? Ég nefni aðeins eina. Við erum með margar fleiri. Þegar talað er um kaupmátt þjóðarinnar erum við að sundurgreina þjóðina. Við horfum til öryrkjans og hins atvinnulausa og erum með tillögur um hvernig eigi að vernda og bæta kaupmátt þessara aðila sérstaklega ef fer sem hv. þingmaður talar um að krónan veikist og dregur úr kaupmætti af þeim sökum.



[15:41]
Einar Oddur Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður las upp fyrir okkur hver væru meginmarkmið tillögunnar: Að varðveita kaupmáttinn, að draga úr skuldasöfnun heimilanna og að bæta hag útflutningsgreinanna. Ég er aðeins að benda á að þetta gengur hvert gegn öðru. Það gengur algerlega þvert hvert á annað. Ef við bætum hag útflutningsgreinanna og lækkum gengið, eins og verður að gera, og það mun koma að því, mun kaupmáttur Íslendinga rýrna, allra nema öryrkja og eldri borgara því að kjör þeirra eru tryggð í lögum. Þeir munu ekki verða fyrir kjaraskerðingu. Það eru lögin frá 1997, þjóðin öll ætlar að standa undir því. Öryrkjar og eldri borgarar verða ekki fyrir kjaraskerðingu. Allir aðrir verða fyrir kjaraskerðingu, það liggur alveg fyrir.

Og að koma hér upp með tillögu þar sem allt gengur 180 gráður hvert á annað og segja: Við ætlum að bæta hag útflutningsins og varðveita kaupmáttinn. Það vita það allir menn, það þýðir ekkert fyrir hv. þingmann að tala hér út og suður. Auðvitað gengur þetta hvert gegn öðru. Þessi óhreinskilni að þora ekki að segja það að þegar við verðum að bæta stöðu íslenskrar framleiðslu, þá hefur það í för með sér að kaupmáttur rýrnar. Hann gerir það um sinn. Við förum í gegnum ölduna. Það þarf ekki að vera mjög lengi, 1–2 ár kannski, ½ ár, ég veit það ekki, get ekki sagt um það. En við komumst ekki hjá því og þessi hræsni, virðulegi forseti, þessi hræsni að þykjast bæði geta stigið til hægri og vinstri, þykjast bæði geta farið fram og aftur, er náttúrlega blekking ein og ég skil ekki til hvers menn eru að þessu. Það hefur engan tilgang að vera að þessu. Ættu menn ekki að segja hlutina eins og allir vita að þeir eru frekar en vera með þetta fjaðrafok út af engu?



[15:43]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég á mér eina ósk: Að sem flestir heyri þessa umræðu, heyri talsmann Sjálfstæðisflokksins tala og meti svo málflutning okkar og það sem við höfum haft fram að færa. Við í Vinstri hreyfingunni grænu framboði höfum varað við því hvert stefndi í allt sumar og allt haust. Nú er staðan sú að efnahagssérfræðingar, hagfræðingar hjá greiningardeildum bankanna og aðilar sem eru óháðir ríkisstjórn og stjórnvöldum, taka undir með okkur og við höfum að sjálfsögðu einnig hlustað á ráðleggingar þeirra. Ég er sannfærður um að það er meiri samhljómur með því sem við erum að segja annars vegar og þessum aðilum í þjóðlífinu almennt en kvakinu í hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni. — Ég ætlaði ekki að tala svona niðrandi til hans og bið hann afsökunar á því. — En við höfum lagt áherslu á að gengi íslensku krónunnar þurfi að endurspegla íslenskan veruleika, veruleikann í íslensku efnahagslífi, og við höfum bent á að svo sé ekki. Við höfum bent á leiðir til að ná samræmi þar á milli og við höfum einnig rætt um það hve mikilvægt er að verja tiltekna hópa í samfélaginu ef til kaupmáttarskerðingar kemur (EOK: Þeir eru varðir.) hjá íslensku þjóðinni almennt. Þeir eru varðir, segir hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson. Við ræddum það núna í síðustu viku hvernig ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn hafa haft kjörin af öryrkjum og öldruðum á Íslandi en við skulum fara út í þá umræðu síðar.



[15:45]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Við ræðum tillögu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs til þingsályktunar um að tryggja og endurheimta stöðugleika í efnahagsmálum. Ég hugsa að það sé sameiginlegt áhugamál allra þingmanna, hvar í flokki sem þeir standa, að þörf sé á að huga mjög vel að stöðu efnahagsmála um þessar mundir. Þau má m.a. lesa út úr þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins. Það er ekki eins og fjármálaráðuneytið vari ekki við því á hvaða vegferð við erum. Hér segir m.a., með leyfi forseta:

„Óhjákvæmileg afleiðing umfangsmikilla stóriðjuframkvæmda og aukinnar einkaneyslu heimilanna er vaxandi viðskiptahalli sem spáð er að nái hámarki í ár og verði 13,3% af landsframleiðslu og rúm 12% á næsta ári. Með auknum álútflutningi og samdrætti í innflutningi mun viðsnúningur í utanríkisviðskiptum einkenna hagvöxtinn árið 2007.“

Þessu er spáð fyrir árið 2007. Þá skulum við velta því fyrir okkur hvort spáin er í samræmi við það sem menn virðast vinna að í ríkisstjórninni. Í ríkisstjórninni vinna menn að ýmsu. Á minnisblaði sem ég hef fyrir framan mig segir að verið sé að skoða stóriðjukosti á miðju Norðurlandi. Þar segir að verið sé að skoða álver í Helguvík. Þetta er allt til viðbótar við það sem við vitum að er til staðar. Við vitum af framkvæmdunum fyrir austan, að þar er mikil uppbygging og þensla. Það er líka mikil þensla á suðvesturhorninu. Það tengist m.a. miklum húsbyggingum, lánveitingum bankanna og öðrum framkvæmdum á svæðinu. Inn í þetta kemur hækkun á íbúðaverði o.s.frv.

Við vitum að álverið í Straumsvík mun stækka á næstu árum. Mér finnst framsetningin á minnisblaðinu frá iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti í þá veru að við getum horft til erfiðleika lengra inn í framtíðina en hér um ræðir, a.m.k. miðað við þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins. Vissulega sjást hættumerkin og við erum ábyggilega öll sammála um að menn megi hafa miklar áhyggjur af stöðu útflutningsgreinanna og gengismálum. Það liggur fyrir að þegar gengið fellur mun það hafa áhrif á kaupgetu fólks í landinu. Það mun gerast, hvort sem það gerist fyrr eða síðar. Að því leyti hefur hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson algerlega rétt fyrir sér, að þegar gengið fellur mun kostnaður fólks við vöruinnkaup o.s.frv. almennt aukast.

Það er ekki einfalt að stýra efnahagslífinu um þessar mundir. Bankarnir búa við frjálsræði, hafa fengið frelsi. Ég hlustaði á föstudag á fyrirlestur seðlabankastjóra á landsfundi Landssambands smábátaeigenda. Þar ásakaði hann bankana um mikla útþenslustefnu í lánum, um að þeir misnotuðu frelsið sem þeim hefur verið fengið. Frelsið sem þeir fengu kom með einkavæðingu bankanna og síðan var farið í það að bjóða fasteignaveð á hagstæðum lánum til íbúðakaupa landsmanna. Því miður hefur allt þetta orðið til þess að þenslan hefur magnast umfram það sem ráð var fyrir gert. Ég held að enginn deili um það, hvort sem við erum í stjórn eða stjórnarandstöðu.

En þá spyr maður. Hvað getur ríkisstjórnin gert í þessari stöðu? Það er a.m.k. þó nokkuð sem ríkisstjórnin getur gert. Ég ætla sérstaklega að gera eitt atriði að umræðuefni í lok ræðu minnar. Það er skattastefna ríkisstjórnarinnar. Ég tel að ríkisstjórnin geti haft veruleg áhrif til að tryggja vinnufrið og tryggja að verkalýðshreyfingin eigi kost á að taka af fullri ábyrgð á komandi kjarasamningum. Við vitum jú að miðað við stöðu kjarasamninganna og verðbólguþróun geta kjarasamningarnir verið í uppnámi. Við höfum svo sem heyrt ýmsar yfirlýsingar frá verkalýðshreyfingunni um það, samtökum launamanna. Ég hef nokkrum sinnum sagt það í þessum ræðustól að ég tel að það hafi verið rangt hjá ríkisstjórninni að aflétta hátekjuskattinum og koma síðan með flata prósentulækkun í tekjuskattinum. Það hefði mátt velja leiðir sem hefðu kostað hið sama og jafnvel minna, eftir því hvernig þær væru útfærðar, a.m.k. að því er nemur að viðhalda ekki 4–5% hátekjuskatti. Ég held að það hafi verið afar misráðið.

Hins vegar hefði mátt fara með eitthvað af þeim fjármunum sem menn ætla til skattalækkana í persónuafsláttinn. Þannig hefði mátt hafa áhrif á launajöfnuð fólks í landinu. Slíkar aðgerðir gerðu það að verkum að verkalýðshreyfingin og fólk á hinum almenna vinnumarkaði sæi að ráðstafanir ríkisstjórnarinnar hefðu áhrif til jöfnunar á kjörum landsmanna. Með því væri ekki aukið á misskiptingu þeirra sem hæstar hafa tekjurnar hér á landi og þeirra sem eru á lægri töxtum.

Ég hef miklar áhyggjur af því, hæstv. forseti, að misskipting í landinu aukist milli þeirra sem lakar eru settir og þeirra sem ofurlaunin hafa.



[15:53]
Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hefur lagt fram tillögu til þingsályktunar um aðgerðir til að endurheimta efnahagslegan stöðugleika. Í tillögunni eru nokkur meginatriði sem við leggjum til að unnið verði eftir. Tillögur okkar eru gerðar á grundvelli upplýsinga og álits frá hinum ýmsu fyrirtækjum og stofnunum í samfélaginu, frá bönkunum og aðilum viðskiptalífsins en ekki hvað síst frá samtökum atvinnulífsins, einstökum greinum atvinnulífsins vítt og breitt um landið.

Við viðurkennum fúslega að margt er gott og sterkt í efnahagslífi okkar. En það hefur einnig veikleika sem við eigum að hafa alla burði til að takast á við og færa til betri vegar ef við höfum vilja til og skiljum hvað um er að ræða. Við höfum heyrt ræður forustumanna ríkisstjórnarflokkanna, stefnuræðu hæstv. forsætisráðherra í haust og ræður forustumanna Sjálfstæðisflokksins. Þeir halda því fram að allt sé fullkomlega gott í efnahags- og atvinnulífi þjóðarinnar og því engin ástæða til að vera á verði eða grípa til aðgerða til að halda þjóðarskútunni á réttum kili og vel á floti. En ef við lítum á raunveruleikann þá er hann ekki eins og þeir segja.

Háttvirtir þingmenn Steingrímur J. Sigfússon og Ögmundur Jónasson hafa einmitt rakið það hver skuldastaða þjóðarbúsins er gagnvart útlöndum, að skuldir hafa hækkað stórlega og skert þannig efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar og möguleika hennar til að taka á sig aukin verkefni. Gengið hefur heldur betur, frú forseti, sigið á ógæfuhliðina og ekkert af þessu kom af himnum ofan. Þetta er vegna stefnu ríkisstjórnarinnar í atvinnu- og efnahagsmálum sem ekkert er reynt að rétta af.

Mig langar að vitna í ummæli nokkurra manna úr atvinnulífinu, frú forseti. Í Bæjarins besta segir í frétt frá 31. ágúst á þessu ári, með leyfi forseta:

„Pétur Sigurðsson, formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga, segir það skelfileg tíðindi sem bárust í morgun að rækjuvinnslu hjá Frosta hf. í Súðavík verði hætt, um sinn að minnsta kosti, síðar í haust. ... Pétur segir ljóst að ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að leggja allt undir í efnahagslífinu með virkjunum og byggingu álvers á Austurlandi sé farin að hafa skelfilegar afleiðingar víða á landsbyggðinni. „Það er öllum ljóst að meginvandamál sjávarútvegsfyrirtækja er hin sterka staða krónunnar um þessar mundir og afleiðingar þeirrar stefnu erum við að upplifa hér vestra þessa dagana.““

Ef við lítum, frú forseti, á ályktun Útvegsmannafélags Norðurlands segir í frétt í Ríkisútvarpinu 5. október síðastliðinn, með leyfi forseta:

„Þær aðstæður sem nú eru í efnahagsmálum skapa útflutningsatvinnuvegunum mikla erfiðleika, segir í ályktun aðalfundar Útvegsmannafélags Norðurlands. Gengi krónunnar sé allt of hátt og mun hærra en þessar greinar geti búið við.

Þessi þróun leiði til þess að afkoma fyrirtækja í sjávarútvegi sé óviðunandi, fyrirtækin í taprekstri og eigið fé þeirra glatist verði haldið áfram á sömu braut, segir í ályktuninni. Á sama tíma og hátt gengi sé að sliga útflutningsgreinarnar hafi olíuverð hækkað ...“ — sem gerir samkeppnisstöðu þessara greina mun erfiðari.

Greint er frá skoðun framkvæmdastjóra Landssambands smábátaeigenda í kvöldfréttum útvarps 1. október síðastliðinn. Þar kom fram, með leyfi forseta:

„Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, segir: „Við höfum af þessu miklar áhyggjur og ég hef verið að funda með mínum félögum núna undanfarið og hafa streymt inn ályktanir þar sem þess er jafnvel krafist að stjórnvöld geri allar mögulegar ráðstafanir til að hamla gegn hinu gífurlega háa gengi krónunnar.““

Í sama fréttatíma er viðtal við Ernu Hauksdóttur, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, sem tekur undir að hið opinbera eigi að aðstoða útflutningsgreinarnar við þær aðstæður sem nú eru. Hún vill reyndar líka aukið fjármagn til markaðsstarfa sem var skorið niður á fjárlögum þessa árs. En hún bendir einnig á hið gríðarlega háa gengi. Hún óttast afleiðingarnar ef ekki verði gerð leiðrétting fyrir næsta sumar þegar aðaltími ferðaþjónustunnar rennur upp og kynna verður þetta háa raungengi sem við nú búum við.

Það er kannski táknrænt fyrir ástandið að í dag var í fréttum sagt frá því að verið væri að bjóða upp eignir fyrirtækisins Sindrabergs á Ísafirði, sem miklar vonir voru bundnar við. Í frétt Bæjarins besta sagði frá því er rekstur fyrirtækisins stöðvaðist. Þar segir með, leyfi forseta:

„Með stofnun Sindrabergs ehf. 1999 var gerð tilraun til merkilegrar nýsköpunar á Ísafirði. Strax í upphafi var eðlilega gert ráð fyrir tapi af framleiðslunni fyrstu missirin og það gekk eftir. Fyrirtækið vakti verðskuldaða athygli fyrir framleiðslu sína innan lands sem utan. Flestir hafa starfsmenn verið um 30, en fyrirtækið hefur verið mikilvægur hlekkur í atvinnulífi heimamanna. Mikill rekstrarbati á árinu 2004 gaf von um að ná mætti endum saman á árinu 2005. Þróun gengis íslensku krónunnar gerði það hins vegar að verkum að þær vonir urðu að engu auk þess sem samkeppni jókst sem ekki var hægt að bregðast við m.a. vegna sterkrar stöðu krónunnar.“

Ég vitna hér í nokkur ummæli sem okkur þingmönnum hafa borist og lesin hafa verið upp í fréttum. En ríkisstjórnarflokkarnir segja að þetta allt í lagi. Ruðningsáhrifin eru líka af því góða, sagði hv. iðnaðarráðherra í fréttaviðtali í sumar þegar var verið að loka fyrirtækjum á Vestfjörðum og fólkið að missa atvinnuna. (Forseti hringir.) Eini maðurinn í stjórnarliðinu sem óttast þetta og tekur undir með okkur er hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson þótt hann skilji kannski ekki málið alveg til fulls.



[16:02]
Einar Oddur Kristjánsson (S):

Virðulegur forseti. Ég fór aðeins yfir það í andsvörum um þessa tillögu og benti á hvernig þetta gengi hvað gegn öðru. En í tillögunum er nú gengið lengra, hér er komið með sex tillögur um hvað eigi að gera til að forða þessari vá og eins og ég hef lesið hér upp er fyrsta tillagan yfirlýsing um að ekki verði farið í frekari álverksmiðjur.

Ég veit ekki hver á að standa að því, ég veit ekki betur en orkuöflunin sem á sér stað á Reykjavíkursvæðinu í kringum Norðurál sé á vegum R-listans í Reykjavík, ég veit ekki betur en hann standi að þeim framkvæmdum og Reykjavíkurborg eigi Orkuveitu Reykjavíkur þannig að ég skil ekki hvað Alþingi hefur með það að gera.

Það er líka ástæða til að átta sig á því að í viðskiptahallanum, sem er ætlaður 120–140 milljarðar í ár og annað eins næsta ár, er reiknað með 36 milljörðum þar af vegna framkvæmda við orkufyrirtækin og álbræðslurnar, 36 milljarðar af 140, þannig að eitthvað fleira þarf að koma þarna til.

Í þriðja lagi er gerð áskorun til Fjármálaeftirlitsins. Sú áskorun hlýtur alltaf að vera uppi til Fjármálaeftirlitsins, það þarf alltaf að skoða stöðu bankanna.

Í fjórða lagi er beint til Seðlabankans, um aukna bindiskyldu. Ég vil taka það fram, virðulegi forseti, að það kann að hafa verið rangt fyrir nokkrum árum að minnka hana. Í dag liggur alveg fyrir að þó að við aukum bindiskylduna þá geti hinir stóru bankar, þeir þrír sem eru með mikla starfsemi erlendis, auðveldlega hlaupist undan því og enginn vandi fyrir þá að gera það. Það eru aðeins litlir sparisjóðir úti á landi, sem eru að reyna að hjálpa til við atvinnulífið þar, sem mundu lenda í þessari bindiskyldu.

Í fimmta lagi er komið inn á þennan vafasama mæli sem hafður er til grundvallar verðbólgunni og við höfum gagnrýnt hér mjög, ég gerði það fyrir ári síðan. Hvað er verið að mæla þegar eignaverðbólgan er svona mikil? En það er nú búið að mæla eignirnar upp í verðbólgunni og við sitjum uppi með það. Það eru margir sem trúa því, og ég ætla bara að vona að það sé rétt, að við séum komin að endimörkum þeirrar þenslu. Íbúðaverð hefur verið kyrrt í eina tvo mánuði og það eru mjög margir sem spá því að við fáum það aðeins niður. Að fasteignaverð fari niður er eiginlega grundvallarnauðsyn þess að við getum komist út úr þeim vanda sem við sannarlega erum í í dag. Við þurfum að stuðla að því ef við mögulega getum. Þá er rétt að hafa það inni í vísitölunni, úr því að við erum búin að mæla þetta á leiðinni upp skulum við ekki sleppa því að mæla það á leiðinni niður.

Í sjötta lagi er talað um að tryggja aðhald í ríkisútgjöldum. Það er allt rétt og satt og ef stjórn og stjórnarandstaða, ef Alþingi í heild, virðulegi forseti, ber gæfu til þess væri það ábyggilega mjög til bóta fyrir okkur að auka aðhald í ríkisfjármálum. Það er ekki nógu mikið á Íslandi, ég hef margsinnis farið í gegnum það á umliðnum árum, þar getum við gert miklu betur. En það dugir ekki eitt sér að vera með sýndaryfirlýsingu þar um heldur skulum við þá standa frammi fyrir því hvað um er að ræða.

Ég fór í gegnum útgjöld ríkisins hér fyrir tíu dögum og sýndi mönnum fram á í hvað þau skiptist þannig að menn eiga að kunna það. Við erum með 13 milljarða í fjárfestingar, við erum með 5 milljarða í viðhald o.s.frv. Hitt er rekstur, tilfærslur og laun. Það er auðveldara um að tala en í að komast eins og ég hef áður bent á. Raunhæfast í því sambandi er að standa gegn útgjöldunum áður en þau verða til.

Í sjöunda lagi, virðulegi forseti, er talað um æskilegt samráð aðila vinnumarkaðarins. Það er ástæða til að taka undir það, það er alltaf af hinu góða. Ég tel að það hafi verið ákveðin handleiðsla og samráð sem varð okkur til hjálpar árið 2001 þegar við fengum hrun í gengið. Þá hjálpuðumst við að við að ná því aftur upp í jafnvægi og það var af hinu góða. Ég held að menn eigi alltaf að vera opnir fyrir slíku samstarfi og það eigi alltaf að vera til staðar.

Það er hins vegar ástæða til þess að fara í gegnum þetta vandamál. Hvert er þetta vandamál? Jú, vandamálið er gríðarleg aukning á peningum í umferð. Það má rekja það til ýmissa mistaka. Ég er alveg sannfærður um það og ég held að enginn þræti fyrir það í dag að hækkun á lánum Íbúðalánasjóðs voru mistök. Við gerðum rangt í því, við fórum að egna óbilgjarnan, við fórum að egna bankana, fá þá í samkeppni við okkur, það var slæmt mál. Ef við eigum þess nokkurn kost, virðulegi forseti, þá eigum við í dag að stefna að því að draga úr þeim lánum, reyna að ná samstöðu um það á bankamarkaði. Ég er viss um og hef fyrir mér dálitla vissu um að viðskiptabankarnir mundu taka því mjög vel. Það er mikil þörf á því að draga úr þessu peningaflæði inn í fasteignirnar, ef nokkur möguleiki er á því, vegna þess að lækkun fasteignaverðs er það sem gæti hjálpað okkur við handleiðslu krónunnar í leit að jafnvægi.

Ég hef gagnrýnt þá stefnu Seðlabankans núna í meira en ár að við skyldum hækka svo stýrivextina og efast mjög um hversu raunhæfar aðgerðir það væru því það hefði engin áhrif á langtímavexti á Íslandi en hins vegar bein áhrif á gengið. Það hefði einfaldlega þau áhrif að við værum að auka vaxtamuninn milli Íslands og útlanda þannig að við værum að þrýsta meira og meira á að peningar streymdu inn í landið. Hver hefur nú orðið raunin?

Ég veit alveg hvað Seðlabankinn er að hugsa. Hann er mjög hræddur við að hætta á þeirri vegferð sem hann er á, því þegar gengið sígur þá verður víxlverkun sem væri erfitt að komast út úr þegar svona mikil þensla er í þjóðfélaginu. Þetta kann að vera alveg rétt hjá þeim. En ég fullyrði og hef fullyrt það áður að við getum aldrei haldið íslenskum útflutningsgreinum með genginu einhvers staðar milli 100 og 105, það endar bara með skelfingu fyrir okkur, fjöldauppsögnum og atvinnuleysi sem íslenskt þjóðfélag getur ekki borið. Þess vegna er það rétt stefna og óumflýjanleg að Seðlabankinn hætti á þessari vegferð sinni, hætti að hækka vextina. Við vitum að þá mun gengið síga, það er lífsnauðsynlegt að það sígi, við verðum að hjálpa því. Seðlabankinn þarf að gefa út markmið sín um hvernig hann ætlar að ná vöxtunum niður og hvenær hann ætlar að hafa lokið því, hvaða jafnstöðu hann ætlar að reyna að ná gagnvart evrunni, vera þar 2–3% yfir, segja frá því þannig að íslenskt viðskiptalíf geti áttað sig á því þannig að ekki grípi um sig hræðsla. Það verður þá sig á genginu, við þurfum að ná því a.m.k. í 120, eitthvað svoleiðis. Þá mun atvinnulífið blómgast á ný, þá munum við ná stöðu.

Það verður hins vegar lífskjararýrnun hjá flestum í þjóðfélaginu, öllum öðrum en öryrkjum og ellilífeyrisþegum. Við gerum ráð fyrir 2,7% kaupmáttaraukningu í fjárlagafrumvarpinu, ég mundi spá því að það gæti orðið 2–3% rýrnun kjaranna. Við eigum að segja það við fólk og við eigum að ræða það við verkalýðshreyfinguna, við eigum að ræða það við aðila vinnumarkaðarins. Við eigum að átta okkur á því að þetta er óumflýjanlegt og reyna að finna mögulegar leiðir til þess að bæta um þar sem sárast kann að vera hjá fólki, þar sem mestur sársauki kann að vera. Ég hef áður bent á að öryrkjar eru þó tryggðir og ellilífeyririnn er líka tryggður. Hins vegar þurfum við kannski að skoða fleiri hópa vandlega í því sambandi.

Aðalatriðið er þetta: Lífskjararýrnunin er óumflýjanleg. Ef við getum leitt gengið niður og veitt þá handleiðslu í því, þá þarf það ekki að vera neitt mikið áfall fyrir þjóðfélagið. Það verður rýrnun á kaupmætti kannski tvö, þrjú, fjögur missiri. Síðan er íslenskt efnahagslíf mjög sterkt, það mun taka við aftur og við munum aftur geta haldið þá miklu vegferð sem við erum á, að auka kaupmátt og kaupgetu fólks. Þetta er samt alda sem við þurfum að fara í gegnum og það borgar sig fyrir alla aðila að tala um það, horfast í augu við það og viðurkenna það.

Ástæðan er einföld. Við höfum farið óvarlega. Það getur enginn maður komið hér og sagt að hann beri ekki ábyrgð á því. Auðvitað ber ríkisstjórnin ábyrgð á því, auðvitað bera aðilar vinnumarkaðarins ábyrgð á því. Við höfum hækkað hér laun meira en aðrir. Alla forustu í þessu lauslæti hafa íslenskir bankar haft. Þeir hafa verið mjög kærulausir, sérstaklega í launamálum og útlánamálum. Þeir verða að átta sig á stöðu sinni í nýfengnu frelsi, að þeir bera ábyrgð í samfélaginu og geta ekki verið með — jæja, virðulegi forseti — þá hegðun sem þeir hafa sýnt fram að þessu. Þeir bera mikla ábyrgð í þessu opna, frjálsa samfélagi. Þeir verða að gæta sín og þau mistök sem hafa verið gerð á undanförnum missirum, menn verða að horfa til þeirra og gæta þess að láta þau ekki endurtaka sig. Það skiptir okkur öllu máli, vegna þess að Ísland hefur þessa glæsilegu stöðu, að geta haldið áfram sem frjáls og sjálfstæð þjóð, öllum öðrum óháð, að efla atvinnulíf sitt meira og betur en aðrir. Við eigum ótæmandi möguleika í þessu landi. Við þurfum bara alltaf að gæta okkar að vera ekki svona óskaplega — ja, hvað eigum við að segja, virðulegi forseti — vera ekki með þennan óhemjuskap. Þetta er óhemjuskapur sem við Íslendingar eigum að geta komist út úr og vanið okkur af. Reynslan er ótvíræð, það er kaupmátturinn sjálfur sem skiptir máli fyrir fólkið, ekki hvað þú hækkar kaupið mikið. Þetta voru menn búnir að læra, þess vegna tókst okkur að koma okkur út úr þessari vitleysu með þjóðarsáttarsamningunum. Við megum ekki falla í sömu gryfjuna aftur. Við verðum að vera þolinmóð. Tvö til þrjú prósent raunhækkun launa er meiri launahækkun en nokkur önnur þjóð gerir kröfur til og veit að er hægt að gera. Þannig siglum við þessu þjóðfélagi hratt og örugglega fram úr öðrum þjóðfélögum en verðum að passa okkur að ofreisa okkur ekki eins og við höfum sennilega gert. Fara varlega, það skiptir máli.

Auðvitað eigum við að hafa samráð og það kann að vera allra góðra gjalda vert hjá þeim tillögumönnum sem leggja þessa þingsályktun fram. En ég gagnrýni enn og aftur þá óhreinskilni sem þeir hafa alltaf við, að vilja ekkert segja nema það sem þeir halda að aðrir vilji heyra. Þeir búa ekki yfir neinum töfralausnum sem geta bætt hag framleiðslunnar án þess að kaupmáttur Íslendinga rýrni um einhvern tíma.



[16:14]
Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er út af fyrir sig virðingarvert hjá hv. þingmanni Einari Oddi Kristjánssyni að koma hér einn stjórnarliða og ræða þessi mál. Ég saknaði viðveru t.d. hæstv. sjávarútvegsráðherra og iðnaðar- og viðskiptaráðherra sem hefðu alveg mátt gera sér erindi í þingsalinn í dag til þess að ræða stöðuna í útflutnings- og samkeppnisgreinum í landinu.

Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að bankarnir bera heilmikla ábyrgð á þeirri gríðarlegu útlánaþenslu sem hér hefur verið. En það þýðir náttúrlega ekki að ræða þetta eins og ríkisstjórnin hafi hvergi komið nálægt neinu. (EOK: Ég gerði það ekki.) Nei, en það þýðir heldur ekki að gera lítið úr þætti stóriðjustefnunnar í þessu, bæði hvað varðar hin beinu efnislegu áhrif og væntingaáhrifin sem auðvitað voru gíruð upp með þessum stóriðjuframkvæmdum og eru áfram svo lengi sem það er óbreytt stjórnarstefna að troða öllum þeim stóriðjuframkvæmdum og fjárfestingum sem mögulega er hægt að landa hér með opinberum tilstyrk inn í hagkerfið, en það er stefna iðnaðar- og viðskiptaráðherra og virðist vera stefna allrar ríkisstjórnarinnar.

Það er auðvitað ekki þannig að þetta séu bara einhverjar sjálfstæðar ákvarðanir markaðsaðila úti í bæ. Ef eitthvað eru opinberar framkvæmdir þá eru það nú t.d. bygging Kárahnjúkavirkjunar og framkvæmdirnar eystra þar sem opinbert fyrirtæki reisir virkjunina, þar sem opinbert fé er notað til að reka áróður fyrir því að erlendir aðilar komi hér og fjárfesti, og rekin er markaðsskrifstofa fyrir tugi milljóna á ári hverju af opinberu fé. Og jafnvel þó að í einhverjum tilvikum séu aðrir aðilar en Landsvirkjun að framleiða rafmagnið, eins og í stækkun á Grundartanga, þá eru það leyfisskyldar framkvæmdir. Það eru sett sérlög um þær stóriðjuframkvæmdir eins og aðrar, sérskattaákvæði o.s.frv.

Varðandi það að í framsetningu og málflutningi okkar sé fólginn einhver tvískinnungur eða hræsni þá hafna ég því. Við gerum okkur vel grein fyrir því að ef gengi krónunnar lækkar, sem auðvitað verður að gerast vegna þess að það er langt yfir öllum jafnvægismörkum, þá dregur eitthvað úr kaupmætti almennings gagnvart innfluttri vöru. En það mun væntanlega líka draga úr innflutningnum og draga úr viðskiptahallanum. Það eru miklu meiri hagsmunir í húfi að verja stöðugleika, að missa ekki upp verðbólgu og auðvitað skiptir (Forseti hringir.) það máli að halda kyrrð á vinnumarkaði og verja kaupmátt umsaminna launa eins og kostur er. Það er út á það sem þessi tillaga gengur.



[16:16]
Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þá erum við komin að lokum í þessu máli og þetta er allt saman ljóst. Við erum þá sammála um málið. Þar kom að því. Auðvitað dregur úr kaupmætti á erlendum varningi, ég er að tala um það og það yrði að segja fólki frá því. Auðvitað minnkar þá innflutningurinn og dregur úr einkaneyslunni og auðvitað minnka tekjur ríkisins sem því nemur. Ég fór yfir það í fyrstu fjárlagaumræðunni í síðustu viku og taldi það af hinu góða að gera það. Auka þarf getu, umsvif og möguleika til samkeppni hjá útflutningsgreinunum. Það er óumflýjanlegt. Við getum ekki haldið þessari stefnu áfram, við verðum að hjálpa genginu til að ná jafnvægi. Við erum meira og minna sammála um þetta, ég og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, og ég fagna því.

Í þingsályktunartillögunni stendur að verja eigi kaupmáttinn og ég las það þannig. Ég gerði athugasemdir við það. Þeir hafa bara ekki skrifað það nógu skýrt í textann að auðvitað fylgdi með að kaupmáttur erlends varnings færi niður. Þeir gerðu það ekki og ég gerði athugasemdir við það, en ef þeir hafa meint annað, meint það sama og ég segi, þá skulum við ekki eyða tíma í að rífast. Þá erum við bara sammála.



[16:18]
Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður þarf ekki að óttast að hann þurfi að kenna mér stafrófið alveg frá a í umræðum um þessi mál. Auðvitað er algerlega ljóst hvað í því er fólgið að tala um að gengið verði að aðlaga sig að íslenskum veruleika eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson kom inn á áðan. Það stendur hvergi í þessari tillögu að markmiðið sé að varðveita að fullu kaupmátt íslensku krónunnar gagnvart erlendum varningi, enda verður þá auðvitað ekkert hreyft til. Þarna eru 6–8 mikilvæg og jafngild markmið sett fram sem auðvitað verður að leita bestu málamiðlana á milli. Það er ljóst að með því að nefna forsendur kjarasamninga og mikilvægi þess að halda stöðugleika á vinnumarkaði erum við auðvitað að vísa til þess ástands sem þar er uppi núna. Eða heldur hv. þingmaður, og fyrrverandi formaður Vinnuveitendasambands Íslands á sinni tíð, að það auðveldi okkur glímuna við að ná aftur tökum á ástandinu og koma í veg fyrir allar þær fórnir sem færðar voru á sínum tíma og eru okkur báðum minnisstæðar, mér og hv. þingmanni, til þess að ná stöðugleikanum á tímum þjóðarsáttar; að það verði auðveldari glíma ef við missum tökin á ástandinu á vinnumarkaði og missum þar allt upp í loft?

Eitt af allra mikilvægustu markmiðunum er líka að verja eftir föngum kaupmátt umsaminna launa en það skiptir máli hvernig að því er staðið og hvernig það er gert. Hættan er sú ef ríkisstjórnin vaknar ekki af þyrnirósarsvefni sínum, og það er við ríkisstjórnina sem hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson þarf fyrst og fremst að tala og jagast við en ekki við okkur, að þá verði hrunið miklu meira, þá verði gengiskollsteypan meiri og verðbólguskotið meira og þá vitum við hvernig fer með kaupmáttinn og skuldbindingar almennings þar sem lánin eru verðtryggð nánast að fullu. Það eru því ríkir hagsmunir í húfi gagnvart því að verja kjörin almennt eins og kostur er og standa þarf sérstaklega vörð um veikustu hópana. Það er að sjálfsögðu aðalverkefnið hér og það sem þessi tillaga tekur fyrst og fremst útgangspunkt í og það er með því hugarfari sem lesa ber markmiðin sem þarna eru sett upp.



[16:20]
Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég las þetta bara eins og það stóð. Hér stendur: „Stöðugleiki haldist á vinnumarkaði og kaupmáttur launa verði varðveittur.“ Ég gagnrýndi það. Ég sagði að þetta væri óraunhæft, þetta væri ekki hægt. Ég gagnrýndi ekkert annað. Ég sagði að þetta markmið gengi ekki upp.

Það er alveg hárrétt, virðulegi forseti, hjá hv. þingmanni að auðvitað á að reyna að verja kaupmáttinn eins og mögulegt er. Ég er alveg sammála honum um það, nákvæmlega. Ég er líka sammála honum um að það er glannalegt að halda þessari vegferð áfram vegna þess að ef við reisum krónuna enn þá meira, ef við lendum í þeirri ógæfu að það komi eins og sagt er „run“ í gengið, þ.e. að það falli, þá getur það fallið miklu meira en það þarf til að ná jafnvægi. Þá fyrst erum við í vondum málum. Þá gæti samstaðan á vinnumarkaði brotnað upp og ég hef áður sagt í þessum ræðustól að ég þekki engan sem kann að líma hana saman. Mér sýnist hv. þingmaður vera mér ótrúlega mikið sammála um það og ég fagna því, virðulegi forseti, að svo sé. Þetta er viðfangsefnið. Við munum reyna að verja kaupmáttinn eins og við getum en við megum ekki segja að við getum varðveitt hann í heild sinni. Það er ekki hægt. Einkaneyslan hlýtur að fara niður vegna þess að kaupmátturinn í erlendum varningi hlýtur að fara niður. Við getum varið hann og í núgildandi lögum er vörn fyrir kaupmátt öryrkja. Það segir svo í lögum um almannatryggingar. Það er líka vörn fyrir kaupmátt ellilífeyrisþega. Við skulum athuga hvort verja þarf eitthvað fleira en við skulum reyna að gera það þannig að rýrnunin verði sem minnst. Því fyrr því betra, en við getum aldrei varið kaupmáttinn.

Ég fagna því aftur að við skulum vera svo innilega sammála sem raun ber vitni.



[16:22]
Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Það er að heyra á hv. þingmanni að hann geri kröfu um að Seðlabankinn lækki vexti sína til að gengi íslensku krónunnar lækki. Seðlabankinn hefur ekki þessa háu vexti að þarflausu, hann er að halda aftur af verðbólgunni í landinu. Mig langar að spyrja hv. varaformann fjárlaganefndar hvort hann sé að boða það að Seðlabankinn eigi að falla frá verðbólgumarkmiðum sínum og að við eigum einfaldlega að sætta okkur við verðbólgu í einhvern ákveðinn tíma.



[16:23]
Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þriðja desember á síðasta ári, daginn eftir að Seðlabankinn hækkaði stýrivexti sína um 100 punkta, hélt ég langa ræðu hér um gengisstefnuna og hávaxtastefnuna. Ég gagnrýndi þar þá viðmiðun sem Seðlabankinn notaði. Ég fór yfir að verðbólgan svokallaða væri fyrst og síðast eignaverðbólga og það hefði ekkert upp á sig að sperra upp íslenskt gengi til að berjast gegn þeirri eignaverðbólgu. Í hæsta máta gæti það virkað öfugt. Ég gagnrýndi það mjög hörðum orðum í langri ræðu sem ég veit að hv. þm. Steingrímur Sigfússon man vel því að hann stóð fyrir henni að meira og minna leyti.

Ég fór líka yfir hvað það þýddi að hugsa sem svo að við ættum að berjast gegn verðbólgu ef hún kæmi af einhverjum völdum erlendis frá, eins og t.d. olíuverðshækkun. Við getum engu ráðið um það, enda skulu menn átta sig á því, virðulegi forseti, að t.d. þegar Bandaríkjamenn meta verðbólgu hjá sér miða þeir hana við sitt eigið efnahagslíf og taka ákvarðanir út frá því. Þetta gagnrýndi ég fyrir ári og gagnrýni mín er nákvæmlega eins í dag. Ef ég ætti að flytja þessa ræðu aftur breytti ég varla einum stafkrók í henni. Þetta er því ekkert nýtt frá minni hendi. Ég taldi þá að þetta væri vegferð sem gæti endað með skelfingu og fór yfir það lið fyrir lið hvernig útflutnings- og samkeppnisgreinarnar gætu farið út úr henni og stend við að allt í dag.



[16:25]
Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst slæmt þegar hv. þingmaður sem hefur gengið hart fram og sakað aðra um tvískinnungshátt og að tala ekki hreint út um hlutina, t.d. að ekki sé hægt að ná fram markmiðum sem koma fram í þingsályktunartillögunni sem hér er til umræðu, svarar því ekki hvort Seðlabankinn eigi að falla frá vaxtastefnu sinni sem mun þá leiða til verðbólgu. Eigum við að sætta okkur við hana?

Það er nokkuð ljóst að ef Seðlabankinn lækkaði vextina leiddi það til þess að gengið mundi ekki bara síga heldur mjög líklega hrapa. Fjárstreymið sem nú kemur inn, um 80 milljarðar á nokkrum vikum, hefur leitt til þess að gengi krónunnar hefur risið mjög hratt og ef það fjárstreymi hættir er hætt við að gengi krónunnar muni ekki síga heldur hrapa og leiða til verðbólgu. Er hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson að segja að við eigum að sætta okkur við verðbólgu í einhvern ákveðinn tíma?

Nú veit ég að í Seðlabankann er að koma maður að nafni Davíð Oddsson og ég hef þá trú að þeir séu að einhverju leyti sammála um vaxtastefnuna og að þar muni því verða veruleg breyting á. Það væri fróðlegt að heyra það hjá hv. þingmanni hvort hann vænti þess að veruleg breyting verði á vaxtastefnu Seðlabankans við þessi mannaskipti í Seðlabankanum.



[16:27]
Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef hv. þingmaður læsi skrif Seðlabankans gaumgæfilega þá stendur þar mjög skýrum stöfum að að sjálfsögðu telji þeir að gengið muni leita jafnvægis síns á árunum 2006 og 2007. Þetta stendur í plöggum Seðlabankans. Hvað gerist þá? Halda menn að því fylgi ekki verðbólga? Jú, en Seðlabankinn telur að spíraláhrifin geti orðið minni ef við verðum komin út úr þeirri spennu sem þeir telja að peningamálin séu í í dag. Það er þeirra stefna, það hafa þeir sagt og þetta er eflaust sjónarmið sem við skulum bera virðingu fyrir.

Ég hef hins vegar haldið því fram að ef við hættum að hækka þessa stýrivexti, eins og t.d. ef við hefðum látið það vera að hækka stýrivexti 29. september sl. þá hefði gengið sigið niður í 108–110 sem hefði þó verið miklu betra, það hefði haldið áfram að síga. Það er óumflýjanlegt að við náum jafnvægi. Ég tel að við getum ekki beðið í tvö ár eftir að ná jafnvægi, að útflutningsframleiðslan muni hrynja á þeim tíma og gengið hrynja í kjölfarið. Menn muni missa trúna á þetta efnahagskerfi, það kæmi flótti og hræðsla í liðið og þá gætu afleiðingarnar orðið miklu verri eins og við fórum yfir áðan, virðulega forseti.

Það sem ég er að segja er að við eigum að fara varlega, reyna eftir fremsta megni að láta gengið síga þannig að framleiðslan geti lifað en bláni ekki upp og deyi. Ég er að tala um að fara varlega til að koma í veg fyrir hrun í genginu, en auðvitað undir öllum kringumstæðum kemur einhver verðbólga. Við verðum bara að sætta okkur við hana, fara í gegnum það en byrja svo upp á nýtt.



[16:29]
Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Við erum að ræða tillögur til aðgerða til að endurheimta efnahagslegan stöðugleika. Ég tel að þessi umræða sé mjög þörf. Í raun finnst mér sú gagnrýni sem hefur komið fram hjá ýmsum stjórnarliðum á þessar tillögur vera mjög ómakleg. Þegar menn bera á borð málefnalegar tillögur þá saka þeir þá um ákveðinn tvískinnung. Og hverjir eru að segja að tvískinnungur sé í gangi? Hafa ekki formenn stjórnarflokkanna einmitt sýnt mikinn tvískinnung í umræðunni? Því hefur verið haldið fram að mikill stöðugleiki ríki í alla staði þrátt fyrir að neyðaróp berist frá útflutningsgreinum í landinu. Einnig má fara yfir það að það er ákveðinn tvískinnungur að tala um að aðhald sé í ríkisfjárlögum þegar á sama tíma verið er að dreifa Símasilfri vítt og breitt um landið og boða bæði niðurskurð og framkvæmdir á sama tíma. Það gengur ekki upp. Það sem ég hefði viljað sjá og mér finnst vanta í þessa tillögu er að hamra á því að hvetja fólk í landinu til sparnaðar — það er mjög mikilvægt við þessar kringumstæður — og vara fólk við þessum falsvonum og glansraunveruleika ríkisstjórnarinnar um að hér sé mikill stöðugleiki. Það á einmitt að segja fólki að hafa varann á sér og greiða niður skuldir ef það hefur einhvern kost á því. Eini maðurinn kannski sem hefur talað af einhverri hreinskilni um efnahagsmál í stjórnarliðinu er hv. varaformaður fjárlaganefndar. Hann hefur boðað í rauninni verðbólgu á meðan allir aðrir hafa einmitt sagt að hér sé mikill efnahagslegur stöðugleiki og að þessi vandi sé varla nokkuð til að tala um.

Fyrsta tillagan sem er til umræðu er sú að það eigi að gefa út af opinberri hálfu að ekki verði stuðlað að mikilli stóriðju fyrr en í fyrsta lagi eftir árslok 2012. Ég tel að það sé einsýnt að menn fara ekki út í neinar stóriðjuframkvæmdir a.m.k. ekki til ársins 2008. Ég tel að flestir hér inni ættu að geta tekið undir einmitt þessa tillögu þó að þeir séu miklir stóriðjusinnar. Það er mjög skynsamlegt út frá efnahagslegum forsendum að boða einfaldlega ekki neinar stórframkvæmdir eða mikla stóriðju á tímabilinu allt til 2008. Síðan get ég ekki séð að það sé nokkuð athugavert við tillögu um að beina þeim tilmælum til Fjármálaeftirlitsins að hugað verði vandlega að áhættumati í bankakerfinu. Ég tel það vera vel þess virði að Fjármálaeftirlitið fari yfir þá hluti. Við eigum einmitt að hvetja til þess.

Eins vil ég ræða 5. liðinn um að tryggja eigi aðhald í ríkisfjármálum og slá á þenslu með því að leggja fyrir Alþingi nú í haust tillögur um að fresta eftir atvikum hluta þeirra almennu skattalækkana sem lögfestar hafa verið. Það er nú svo að þessi tillaga er í miklu samræmi við tillögu frá nefnd sem skipuð var af sjávarútvegsráðuneytinu um hágengismálin í landinu. Það má vera að þetta sé skynsamlegt og vonandi tekur ríkisstjórnin það alvarlega að skoða þær leiðir að boða til sparnaðar meðal almennings og draga úr þenslunni og peningamagni í umferð. Það er mjög sérstakt að hlýða á hv. varaformann fjárlaganefndar halda því fram að það sé vandamál hvað miklir peningar séu í umferð og taka síðan þátt í því að samþykkja skattalækkanir sem munu koma enn meiri peningum í umferð. Þetta kemur ekki heim og saman og eiginlega eru engin rök á bak við þetta. Menn verða að færa einhver rök fyrir þessu. Ef mikið peningamagn í umferð er vandamál, hvers vegna á þá að fara með meira af peningum inn í hagkerfið?

Það fer líka fyrir brjóstið á mér að þegar rætt er um aðhald að ríkisfjármálum þá er eins og stjórnarliðar og spyrji alltaf vinstri flokkana og okkur í Frjálslynda flokknum hvar við viljum spara. Það er eins og þeir séu orðnir algerlega hugmyndasnauðir. Þeir eru alltaf fastir í því sama, alltaf að skerða af öryrkjum og aftur og aftur af öryrkjum. Sér í lagi virðast framsóknarmenn hafa það alveg á heilanum að þar megi ná miklu fram, að þar séu greinilega peningarnir í landinu, þ.e. hjá öryrkjunum. Sviknar voru 500 milljónirnar frá samningi sem var handsalaður í Þjóðmenningarhúsinu og síðan er verið að boða í fjárlagafrumvarpinu nú í haust að taka ökutækjastyrk af hreyfihömluðum. Svo virðist sem sjálfstæðismenn viti ekki af þessum tillögum. Það kom fram hér í umræðunni í síðustu viku á fimmtudaginn að tveir hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins höfðu aldrei heyrt þessara tillagna framsóknarmanna getið. Þetta er mjög sérstakt að þarna séu einmitt breiðu bökin.

Við í Frjálslynda flokknum viljum tryggja aðhald í ríkisfjármálunum og við höfum ýmsar hugmyndir þar um. Það á ekki endilega að vera að krukka í þá fjárlagaliði sem fyrir eru. Það má skoða það að slá saman stofnunum og skoða ýmislegt í hlutverki ríkisins. Það er t.d. óskiljanlegt með löggæsluna að sitt hvorum megin við Snorrabrautina í Reykjavík eru tvær stofnanir, önnur hefur yfir rúmum milljarði að ráða. En hinum megin við Snorrabrautina er stofnun sem sinnir einnig löggæslu og verkefni þeirra skarast á margvíslegum sviðum. Hún hefur yfir rúmum 2 milljörðum að ráða. Þarna hlýtur að vera hægt að ná fram sparnaði og menn hljóta að fara að skoða það í alvöru

Varðandi lið 6, að efna til víðtæks samstarfs við aðila vinnumarkaðarins, þá tel ég að þetta sé mikilvæg tillaga, þ.e. að skoða hvert þjóðfélagið er að stefna varðandi jöfnuð og ójöfnuð í þjóðfélaginu. Það er ekki nóg með að framsóknarmenn með aðstoð sjálfstæðismanna skerði kjör öryrkja og eldri borgara heldur virðast þeir líka vilja skattleggja þetta fólk í meira mæli en gert hefur verið áður. Ég tel að ef við ætlum að ná fram samstöðu um að taka á efnahagsmálunum í þjóðfélaginu þá ættum við að reyna að ná (Forseti hringir.) fram víðtækri sátt, frú forseti. Ég tel einmitt að þá þurfi að fara yfir jöfnuðinn í samfélaginu.



[16:37]
Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu sem hér hefur orðið bæði á fimmtudaginn var og aftur núna í dag um þessa tillögu okkar um efnahagsmál. Ég vil sérstaklega þakka þingmönnum sem hér hafa tekið til máls úr Frjálslynda flokknum og Sjálfstæðisflokknum fyrir þátttöku í umræðunni. Ég get ekki neitað því að ég sakna þess svolítið að fulltrúar annarra flokka, þ.e. Samfylkingarinnar og Framsóknarflokksins að því slepptu sem hæstv. forsætisráðherra tók þátt í umræðum síðastliðinn fimmtudag, hafi ekki tjáð hug sinn til málsins. En þeir velja sér væntanlega einhver önnur tækifæri til að gera það þá sem þeir telja heppilegri og betur til þess fallin.

Ég held að það verðskuldi alveg umræður á hinu háa Alþingi að ræða þá dapurlegu staðreynd að við þurfum að ræða orðið um efnahagslegan stöðugleika í landinu í þátíð. Það hefur enginn mótmælt þeim titli þessarar þingsályktunartillögu að viðfangsefnið sé að endurheimta efnahagslegan stöðugleika því hann er ekki til staðar. Til marks um það eru vitnisburðir sérfræðinga og stofnana eins og Seðlabankans, greiningardeilda bankanna og alþjóðastofnana sem ítrekað vara nú við því jafnvægisleysi sem er í efnahagsmálum.

Ég held að það sé alveg ljóst að þær hættur sem við stöndum frammi fyrir í þessu efni eru margvíslegar og tengjast óstöðugleikanum og jafnvægisleysinu. En það er tvennt sem augljóslega gerir ástandið langalvarlegast. Það er annars vegar sú hætta sem blasir við, þ.e. að hagkerfið brotlendi vegna þess að gengi krónunnar og afkoma útflutnings- og samkeppnisgreina er algerlega óviðunandi og horfurnar í þessum efnum til næstu tveggja ára eða svo slæmar. Verðbólguhorfur næstu tveggja ára eru enn óviðunandi að mati Seðlabankans. Þeim mun lengur sem þetta ástand varir þeim mun meiri er hættan á harkalegri brotlendingu, á gengiskollsteypu og verðbólguskoti sem leiði yfir í fjármálakerfið í formi greiðsluerfiðleika o.s.frv. Hitt sem gerir ástandið mjög varhugavert er hin gríðarlega skuldsetning, skuldsetning heimilanna, skuldsetning atvinnulífsins og skuldsetning þjóðarbúsins út á við því að þjóðarbúið og þessir aðilar eru mjög viðkvæmir fyrir breytingum í gengi og vöxtum vegna þungrar greiðslubyrði af erlendum skuldum. Heimilin eru að vísu sem betur fer ekki í stórum mæli enn farin að taka erlend lán eða lán í erlendri mynt. En lán heimilanna eru nánast að uppistöðu til verðtryggð þannig að um leið og verðbólgan hreyfir sig fer greiðslubyrðin af þeim lánum upp á við og á fulla ferð. Þess vegna er svo mikilvægt að reyna að afstýra þessu þensluástandi, þessu jafnvægisleysi sem allir viðurkenna að er, og að menn fari að reyna að ná tökum á ástandinu, snúa hlutunum við og tryggja að þetta geti aðlagast og komist í eðlileg horf án þess að veruleg brotlending verði. Þess vegna var það nokkurt umhugsunarefni að hæstv. forsætisráðherra kom hér upp í þessum umræðum á fimmtudaginn var og endurtók í raun sama stefið um hvað allt væri gott og stórkostlegt á Íslandi og að hér væru í raun engin vandamál. Menn láta eins og það séu engin vandamál af því að viðfangsefnið sé að ná tökum á spennu, á þenslu, á verðbólguhættu og hættu á gengishruni og að það sé svona góðkynjaður vandi sem menn eru að glíma við og að það sé eitthvað annað en að kljást við atvinnuleysi og samdrátt. Auðvitað vill enginn atvinnuleysi og samdrátt. En sýnir ekki reynslan okkur að einmitt þessar aðstæður eru stundum undanfari verstu áfalla sem menn verða fyrir sem jafnvel enda í atvinnuleysi ef illa tekst til, ef illa fer? Hvað eru uppsagnir fólks í stórum stíl í útflutnings- og samkeppnisgreinum annað en ávísun á færri störf og minni umsvif þeirra greina þegar frá líður? Auðvitað er það ekkert annað.

Sveiflan getur verið mjög hröð. Þetta getur snúist snöggt við frá því að hér hefur verið skortur á vinnuafli í ákveðnum greinum og hundruð og þúsundir útlendinga við störf yfir í hitt að aftan að okkur læðast verulegir erfiðleikar í okkar hefðbundna atvinnulífi. Þeir blasa nú við hverjum þeim sem vill leggja við því eyru og hv. þm. Jón Bjarnason las hér upp m.a. nokkrar ályktanir og vitnaði í fjölda forsvarsmanna í atvinnulífinu því til stuðnings.

Það var athyglisvert þegar hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson fór yfir þessa tillögu áðan að í aðalatriðum var hann þegar upp var staðið efnislega sammála öllum meginliðum tillögunnar sem eru í 6 tölusettum liðum, nema þá kannski helst þeim fyrsta, þ.e. að það gengi ekki að stjórnvöld færu í stóriðjubindindi og lýstu því yfir til þess að hjálpa til í þessum efnum og kæla hagkerfið niður að nú yrði ekki stuðlað að af opinberri hálfu né veitt leyfi fyrir frekari stórvirkjunum né uppbyggingu meiri orkufrekrar stóriðju en þegar hefur verið ákveðið á ákveðnu árabili. Menn hafa, og hæstv. forsætisráðherra einnig, talað eins og það sé ekki á valdi stjórnvalda, það sé ekki á færi hins opinbera að hafa áhrif á framvinduna á þessu sviði. Þetta er mikill misskilningur, frú forseti. Eru menn búnir að gleyma því að það er akkúrat hið opinbera sem knýr þessar framkvæmdir áfram og keyrir þær inn í hagkerfið algerlega? Hver var það sem boðaði fyrstur stóriðjuframkvæmdirnar eystra? Það var hæstv. forsætisráðherra Halldór Ásgrímsson, þáverandi utanríkisráðherra. Og hverjir standa fyrir framkvæmdunum? Það er hið opinbera fyrirtæki Landsvirkjun. Hverjir veita leyfin? Það eru ráðherrar í ríkisstjórnum og það eru sveitarstjórnir. Hverjir ábyrgjast lánin? Það er ríkið. Hverjir flytja frumvörp og setja sérlög um skattaleg atriði þessara framkvæmda? Það er ríkið og það er Alþingi. Ramminn utan um þessar framkvæmdir allar er algerlega opinber og ef það er niðurstaða okkar að hagkerfið þoli ekki að troðið sé fleiri slíkum stórframkvæmdum inn í það á skömmum tíma með tilheyrandi ruðningsáhrifum og tilheyrandi þenslu og spennu þá höfum við öll tök á því sem betur fer, a.m.k. að þessu leyti, að hafa áhrif á framvindu mála. Það er alveg augljóst mál.

Það væri náttúrlega illa komið ef við gætum það ekki, ef þannig væri að stjórnvöld yrðu að taka við hverju sem kemur af þessum toga og við yrðum þá að færa þá fórn á móti að ryðja út enn meiru af öðru atvinnulífi í staðinn og skerða kaupmáttinn eins og hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson lét í rauninni að liggja hér, að fórnarkostnaðurinn yrði þá m.a. falinn í því að skerða kaupmáttinn því annars færi allt í vitleysu. Þá færu kannski að renna grímur á einn og einn mann sem hefur asnast til að styðja þessa blindu stóriðjustefnu hingað til ef það bætist við að við séum algerlega varnarlaus fórnarlömb gagnvart henni. En það er ekki þannig. Auðvitað er það ekki þannig að við þurfum að sitja upp við iðnaðarráðherra sem flakkar á milli landshluta og boðar stóriðju hér og stóriðju þar, stóriðju í álveri í Helguvík, álver fyrir norðan, stækkun á Grundartanga, stækkun í Straumsvík, rafskautaverksmiðju í Hvalfirði og eitthvað fleira. Þetta er allt í gangi og það er látið eins og það sé alveg mögulegt, að taka þetta allt saman inn í hagkerfið þó að við mönnum blasi að til viðbótar því sem var auðvitað harðasta deiluefnið, sem eru umhverfisspjöllin sem t.d. Kárahnjúkavirkjun eru samfara, þá er núna allt að sannast sem við sögðum og vöruðum við gagnvart ruðningsáhrifum þeirra stórframkvæmda í hagkerfinu. Það er bara ósköp einfaldlega þannig.

Mér er með öllu óskiljanlegt að menn skuli láta þessa stefnu halda óbreytta áfram og láta eins og ekkert sé. Ég hef spurt að því áður og get endurtekið það: Ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að láta Framsókn leiða sig í bandi í gegnum brunarústirnar á íslensku atvinnulífi allt til enda, bara til að Framsókn geti þjónað áfram stóriðjutrúboði sínu? Hvað þurfa uppsagnirnar að verða margar í sjávarútvegi áður en einn og einn sjálfstæðismaður fer að vakna til lífsins? Eða er þeim alveg sama þó að landvinnsla á sjávarfangi leggist að meira eða minna leyti af á Íslandi? Það er m.a. það sem er að gerast mjög ört þessa dagana. Það er sá hluti keðjunnar sem skilar þrátt fyrir allt mestum virðisaukanum inn í landið og mestum margfeldisáhrifum eins og nýlegar úttektir hagfræðinga sýna ef hann er sleginn af.

Sama gildir í rauninni um skattstefnuna sem ríkisstjórnin getur ekki viðurkennt að hafi verið mistök. Það blasir við öllum. Það er varla nokkur maður sem er kominn á annað missiri í hagfræði sem ekki veit að skattalækkanir við þessar aðstæður upp á tugi milljarða kr. eru bara eins og hrein della. Það er olía á eldinn. Þegar viðfangsefnið er bullandi viðskiptahalli og þensla og hætta á verðbólgu, og við blasir að handan við hornið getur tekjustreymi til ríkissjóðs þornað mjög snögglega upp, hvað ætla menn þá að gera þegar allt í einu snöggdregur úr tekjum ríkissjóðs af innflutningi og neyslusköttum? Þá verða menn búnir að henda út beinum og traustum tekjustofnum upp á hátt í 30 milljarða kr. ef svo heldur sem horfir frá og með áramótum 2006– 2007. Þá verður ekki mjög gaman að vera fjármálaráðherra. Staðreyndin er sú að ríkisstjórnin er ótrúlega ábyrgðarlaus í þessari framgöngu sinni, ótrúlega ábyrgðarlaus. Það getur vel verið að þeir séu að veðja um það að veislan haldi, að það takist að halda veislunni áfram fram yfir kosningar 2007, vorið 2007 og það virðist allt ganga út á það núna hjá talsmönnum stjórnarflokkanna, nema þá hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni, að láta sem ekkert sé. Vandamálið er ekki til ef menn viðurkenna ekki tilvist þess, ef menn aðeins afneita því. Þá er það ekki þarna. Það er aðferðafræði hæstv. forsætisráðherra sem á að heita yfirmaður efnahagsmála í núverandi ríkisstjórn.

Það er til önnur samlíking yfir þá aðferð. Hún er ættuð frá Ástralíu. Að stinga hausnum í sandinn. Það er það sem strúturinn gerir í Afríku og emúfuglinn gerir í Ástralíu. Þegar hætta steðjar að er bara eitt að gera, það er að stinga hausnum í sandinn, þá sér maður ekki hættuna, hún er ekki til. Þetta gefst nú svona og svona.

Auðvitað væri eina vitið við þessar aðstæður að stjórnvöld boðuðu nú á nýjan leik til samræðu í þjóðfélaginu um það hvernig við náum tökum á ástandinu ef illa fer, kölluðu til aðila vinnumarkaðarins, kölluðu til heildarsamtök og hagsmunaaðila og segðu: Nú er vá fyrir dyrum. Við erum í stórkostlegri hættu með að fórnirnar sem voru færðar á sínum tíma til að ná tökum á verðbólgunni og innleiða stöðugleika í íslenskt efnahagslíf verði aftur til einskis og við gætum þurft að endurtaka leikinn með því blóði, þeim svita og þeim tárum sem það tók og því gríðarlega átaki sem það var fyrir íslenskt þjóðarbú að ná tökum á ástandinu eftir verðbólguáratugina á síðustu öld. Þeim sem gengu í gegnum þá lífsreynslu er það mjög minnisstætt. Þess vegna finnst mér mjög undarlegt af hversu mikilli léttúð sumir sem eiga þó að búa að þeim reynslusjóði fjalla um þá hluti þessa dagana, að vera á fullkomnu afneitunarstigi gagnvart því að ástandið sé eins og raun ber vitni.

Hæstv. forsætisráðherra vísaði mikið í máli sínu í glæsilega einkunnagjöf alþjóðastofnana og tíndi út úr því það sem hentaði frá Alþjóðabankanum, Efnahags- og framfarastofnuninni OECD o.s.frv. Þetta varð mér tilefni til þess, frú forseti, að fara í árshefti OECD fyrir Ísland sem kom út í aprílmánuði síðastliðnum. Ég fletti m.a. upp á því sem OECD segir um skattalækkanirnar og hvað er þar sagt? Þar segir OECD að þær séu einstaklega illa tímasettar og varar við þeim. Hvað hefur Alþjóðabankinn verið að segja í sínum álitsgjöfum? Hann hefur varað við skuldsetningunni, hann hefur varað við viðskiptahallanum. Auðvitað hæla þessar stofnanir sem eru forritaðar í anda nýfrjálshyggjunnar þeim sem eru að einkavæða og reka hægri stefnu í skatta- og efnahagsmálum en þær eru þó það heiðarlegar að þær mæla mjög alvarleg varnaðarorð á móti. Nei, frú forseti. Það getur vel verið að meira þurfi til en þessa tillögu okkar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og þær umræður sem hér hafa farið fram til þess að vekja hæstv. ríkisstjórn af þyrnirósarsvefni sínum. En því miður er það svo að hún mun fyrr eða síðar vakna. Hitinn mun vekja hana. Hitinn af eldunum sem fara að loga í hagkerfinu mun vekja ríkisstjórnina. Spurningin er bara hversu sviðin verður hún orðin þegar þar að kemur. Ég mundi ekki sofa mikið lengur rólegur í þeirra sporum ef ég ætlaði ekki að verða illa brenndur á fiðrinu áður en lýkur. Ég spái ekki vel fyrir því, frú forseti, ef ríkisstjórnin aðhefst ekkert í þessum efnum, nær ekki einhverju sambandi við aðila vinnumarkaðarins, fer ekki að vinna með Seðlabankanum í staðinn fyrir að vinna á móti honum í þessum málum.