140. löggjafarþing — 74. fundur
 15. mars 2012.
úttekt á neytendavernd á fjármálamarkaði, síðari umræða.
þáltill. SII o.fl., 12. mál. — Þskj. 12, nál. m. brtt. 980.

[14:37]
Frsm. meiri hluta (Skúli Helgason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar um tillögu til þingsályktunar um úttekt á neytendavernd á fjármálamarkaði.

Það fer vel á því á þessum degi, 15. mars, sem er alþjóðlegur dagur neytendaréttar að við ræðum þetta mál, en í dag eru einmitt 50 ár síðan John F. Kennedy, fyrrum Bandaríkjaforseti, kynnti fjórar meginkröfur um grundvallarréttindi neytenda í ræðu sem hann hélt á bandaríska þinginu. Þá sagði Kennedy, með leyfi forseta:

„Samkvæmt skilgreiningu erum við öll neytendur. Um er að ræða stærsta hópinn sem hefur áhrif og verður fyrir áhrifum af næstum öllum efnahagslegum ákvörðunum sem stjórnvöld og einkafyrirtæki taka en samt er þetta eini mikilvægi hópurinn sem ekki er hlustað á.“

Þetta var í fyrsta sinn sem stjórnmálamaður með alþjóðlega vigt setti formlega fram kröfu til handa neytendum. Þessi yfirlýsing leiddi að lokum til þess að Sameinuðu þjóðirnar og einstakar aðildarþjóðir þeirra samþykktu á allsherjarþinginu árið 1985 sérstakar leiðbeiningar um neytendavernd. Í þeim var meðal annars kveðið á um að allur almenningur án tillits til tekna eða félagslegrar stöðu hefði ákveðin lágmarksréttindi sem neytendur.

Óhætt er að segja að hrun fjármálakerfisins á Íslandi og afleiðingar þess hafi varpað ljósi á veika stöðu neytenda gagnvart fjármálafyrirtækjum hér á landi. Ekki þarf að fara mörgum orðum um það að starfshættir stjórnenda fjármálafyrirtækja á Íslandi í aðdraganda hrunsins voru á stundum langt frá því að geta talist til eðlilegra eða heilbrigðra viðskiptahátta og á köflum var framferði manna ólögmætt eins og dómar Hæstaréttar um gengistryggð lán bera glöggt vitni um. Af þessum ástæðum og vegna almenns skuldavanda í kjölfar hrunsins ríkir almenn óánægja og vantraust í garð fjármálastofnana hér á landi. Við þessu er nauðsynlegt að bregðast og tilgangur tillögunnar er ekki síst að styrkja stöðu neytenda á fjármálamarkaði þannig að hún verði til jafns við það sem við þekkjum í nágrannalöndunum.

Ég held það sé morgunljóst að réttur neytenda hefur ekki verið virtur sem skyldi á fjármálamarkaði hér á landi undanfarna áratugi. Nægir þar að horfa til þeirrar þungu greiðslubyrði sem fylgt hefur verðtryggingu lánaskuldbindinga og háum vöxtum í alþjóðlegum samanburði. Auðvitað verður sú umræða ekki skilin frá umræðu um peningamálastefnu og viðkvæma stöðu íslensku krónunnar sem hefur verið undirorpin miklum sveiflum sem hafa komið illa við pyngju heimila með neytendalán.

Fyrrnefndir dómar Hæstaréttar um gengistryggð lán hafa síðan dregið enn frekar fram hve neytendur hafa haft veika stöðu gagnvart fjármálafyrirtækjunum og ég held að það sé einhver mikilvægasti lærdómur nýfallins dóms Hæstaréttar frá 15. febrúar að við hér í þinginu þurfum að taka okkur á og standa dyggari vörð um rétt neytenda á fjármálamarkaði hér eftir en hingað til. Bankar og aðrar fjármálastofnanir hafa yfir að ráða sérfræðikunnáttu, mannafla og fjárhagslegum styrk sem veitir þeim yfirburðastöðu gagnvart neytendum og því er mikilvægt að stjórnvöld gangi fram fyrir skjöldu og standi vörð um rétt neytenda.

Þessi tillaga til þingsályktunar er því afar tímabær. Ég tel afar brýnt að koma strax af stað þeirri vinnu sem hún kveður á um, sem er að skipa nefnd sem geri úttekt á neytendavernd á fjármálamarkaði og setji fram tillögur um hvernig styrkja megi stöðu neytenda í þessu efni og ekki síst að skipa málum með þeim hætti að neytendur hafi skýra og einfalda leið að þeim aðila innan stjórnkerfisins sem ber ábyrgð á þessum málaflokki.

Neytendamál hafa yfirleitt ekki verið í forgrunni íslenskra stjórnmála en þáverandi viðskiptaráðherra, Björgvin G. Sigurðsson, lét sig þau sérstaklega varða og hafði forgöngu um að þrjár háskólastofnanir gerðu úttekt á stöðu neytendamála frá mismunandi sjónarhornum. Niðurstöður voru kynntar í apríl 2008 í skýrslunni Ný sókn í neytendamálum. Þar var meðal annars að finna gagnlegar tillögur um skipan neytendamála innan Stjórnarráðsins þar sem lagt var til í skýrslu Lagastofnunar Háskólans og Hagfræðistofnunar að sett yrði á fót ný sameinuð stofnun á sviði neytendaréttar og eftirlit með vernd neytendaréttar af hálfu stjórnvalda. Sú tillaga endurómar í sjónarmiðum umsagnaraðila tillöguna sem benda margir á að núverandi skipan neytendaverndar á fjármálamarkaði sé með þeim hætti að margar ólíkar stofnanir hafi með höndum skyldur í þessu efni sem geri skipulag málaflokksins óþarflega flókið og þjónustu við neytendur ómarkvissa.

Neytendavernd á fjármálamarkaði er nú falin stofnunum eða nefndum sem heyra undir nokkur ráðuneyti. Neytendastofa og talsmaður neytenda heyra undir innanríkisráðuneyti, Fjármálaeftirlitið og eftirlitsnefnd með framkvæmd sérstakrar skuldaaðlögunar heyrir undir efnahags- og viðskiptaráðuneyti og umboðsmaður skuldara undir velferðarráðuneyti. Sumar stofnanir eða nefndir fara með verkefni sem eru tímabundin og fullt tilefni er til að fara yfir þennan málaflokk með það að markmiði að sameina þau verkefni er lúta að vernd neytenda á fjármálamarkaði og marka heildræna stefnu á þessu mikilvæga sviði á einni hendi. Meiri hlutinn telur brýnt að sameina á einni hendi stjórnsýslulega ábyrgð á neytendavernd á fjármálamarkaði þannig að neytendur geti sótt þjónustu og ráðgjöf á einum stað.

Mikilvægt er að það sé skýrt fyrir neytendum hvert þeir geti leitað og sömuleiðis er mikilvægt fyrir eftirlitsstofnanir að valdmörk séu skýr. Með þingsályktunartillögu þessari gefst tækifæri til að fara yfir verkaskiptingu opinberra aðila með tillit til neytendaverndar á fjármálamarkaði og móta skýrar tillögur um hvernig megi styrkja stöðu neytenda gagnvart aðilum á þeim markaði sem bjóða neytendum þjónustu sína. Meiri hlutinn áréttar í þessu sambandi að mikilvægt er að búa svo um hnútana að sú stofnun sem fer með neytendavernd á fjármálamarkaði hafi skýra frumkvæðisskyldu varðandi mat á mismunandi tegundum neytendalána og annarri þjónustu á fjármálamarkaði sem snýr að einstaklingum.

Virðulegi forseti. Það er rakið nokkuð ítarlega í nefndarálitinu hvaða löggjöf hefur verið sett á þessu sviði frá árinu 2008. Má þar nefna ný lög um neytendalán frá því ári þar sem meðal annars voru lögfest ákvæði um aukinn rétt neytenda og takmarkanir á ýmiss konar gjaldtöku fjármálastofnana, auk þess sem ríkari upplýsingaskylda var lögð á lánveitendur um breytingar á gjaldskrá. Þessi lög þykja um margt vönduð en hins vegar má færa fyrir því gild rök að eftirliti með framkvæmd þeirra hafi í grundvallaratriðum verið ábótavant og má að verulegu leyti rekja það til þeirrar flóknu og ómarkvissu stjórnsýslu sem ég nefndi áðan. Þá má nefna lög um greiðsluaðlögun, innheimtulög og lög um ábyrgðarmenn, breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki þar sem skerpt var á ákvæðum um hegðun fjármálafyrirtækja gagnvart viðskiptamönnum, lög um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði o.s.frv.

Loks má nefna að von er á nýju frumvarpi á yfirstandandi þingi um breytingar á lögum um neytendalán sem meðal annars felur í sér innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 48 frá 2008 um lánasamninga fyrir neytendur og um niðurfellingu tilskipunar ráðsins nr. 102 frá 1987. Tilgangurinn með setningu tilskipunarinnar var að endurskoða reglur um neytendalán til að auka neytendavernd og tryggja samræmt lagaumhverfi um slík lán, auk þess að stuðla að aukinni neytendavitund um lánskjör og gera neytendum betur kleift að bera saman ólíka lánasamninga. Frumvarpið hefur meðal annars að geyma ákvæði er fela í sér auknar kröfur um upplýsingaskyldu lánveitenda, mat á lánshæfi lántakenda og skyldur lánamiðlara, auk ákvæða um rétt neytenda til að beita úrræðum gegn lánveitanda vegna vanefnda samnings.

Virðulegi forseti. Í október 2009 var lögum um Stjórnarráð Íslands meðal annars breytt í þá veru að málefni Neytendastofu og talsmanns neytenda fluttust frá efnahags- og viðskiptaráðuneyti til dómsmála- og mannréttindaráðuneytis sem nú heitir innanríkisráðuneyti. Talið er að endurskipulagningu neytendamála sé ekki lokið með þessari yfirfærslu, m.a. þar sem fjölmargir lagabálkar sem varða neytendamál falla undir ábyrgðarsvið annarra ráðherra, einkum efnahags- og viðskiptaráðherra. Um þessar mundir hefur starfshópur í innanríkisráðuneyti það verkefni að fara yfir skipulagningu neytendamála með það að markmiði að stuðla að hagkvæmu, skilvirku og öflugu neytendastarfi hér á landi þar sem verkaskipting sé skýr, boðleiðir eins stuttar og mögulegt er og verkefni og aðföng fylgi ábyrgðarsviði stofnana.

Rætt var í nefndinni hvort fela ætti þessum starfshópi viðfangsefni þeirrar tillögu sem við ræðum hér, en þar sem sá hópur hefur ekki sett sér það verkefni að fjalla sérstaklega um neytendavernd á fjármálamarkaði og brýnt er að setja þá vinnu strax í gang var það niðurstaðan að markvissara væri og líklegra til skjótrar úrlausnar að fela sérstakri nefnd það verkefni. Ég árétta þó að mikilvægt er að sú nefnd sem rætt er um í þessari tillögu hafi gott samráð við starfshóp innanríkisráðuneytis til að tryggja samræmingu við þær áherslur og þá vinnu sem þar er unnin.

Bent var á í umsögn um málið að óheppilegt sé að afmarka tillöguna við stöðu neytenda gagnvart fjármálafyrirtækjum þar sem markmið hennar ætti væntanlega að vera að styrkja stöðu neytenda almennt á fjármálamarkaði. Fjármálafyrirtæki eru samkvæmt lögum ein tegund fyrirtækja á fjármálamarkaði, samanber 1. mgr. 4. gr. laga um fjármálafyrirtæki, en þar er kveðið á um að fjármálafyrirtæki geti fengið starfsleyfi sem viðskiptabanki, sparisjóður, lánafyrirtæki, rafeyrisfyrirtæki, verðbréfafyrirtæki, verðbréfamiðlun eða rekstrarfélag verðbréfasjóðs. Bent var á við umfjöllun um málið að líta þyrfti á málið heildstæðari augum en svo að horfa fyrst og fremst á stöðu skuldara, enda væru viðskiptavinir fyrirtækja á fjármálamarkaði fleiri en þeir sem skulduðu þeim. Viðskipti neytenda við þá sem veita þjónustu á fjármálasviði heyra undir margs konar löggjöf sem einkum heyrir undir málefnasvið efnahags- og viðskiptaráðherra og byggist að miklu leyti á Evrópurétti.

Með hliðsjón af framangreindu leggur meiri hlutinn til breytingu á tillögugreininni til að útvíkka orðalag hennar nokkuð.

Meiri hlutinn leggur til nokkrar breytingar á tillögutextanum. Í fyrsta lagi er lögð til orðalagsbreyting í þá veru að hnykkja á því að úttekt umræddrar nefndar nái til fleiri aðila en fjármálafyrirtækja einungis eins og ég hef áður nefnt. Sömuleiðis að beint verði sjónum að því hvernig styrkja megi stöðu einstaklinga og heimila enda eru neytendur á fjármálamarkaði ekki aðeins einstaklingar heldur einnig fyrirtæki og aðrir lögaðilar. Því er lagt til að í 1. málslið verði tilgreint að nefndin geri úttekt og setji fram tillögur um hvernig megi styrkja stöðu einstaklinga og heimila gagnvart aðilum á fjármálamarkaði sem í atvinnuskyni veita einstaklingum neytendalán. Með þessu breytta orðalagi nær úttekt nefndarinnar yfir þá aðila sem eru lánveitendur einstaklinga, svo sem fjármálafyrirtæki, Íbúðalánasjóð, lífeyrissjóði og vátryggingafélög. Í öðru lagi er lagt til að verkefni nefndarinnar verði einfaldað nokkuð, þ.e. að það feli í sér að bæta og skýra stöðu einstaklinga og heimila gagnvart þeim aðilum á fjármálamarkaði sem veita lán og auka ábyrgð lánveitenda gagnvart þessum hópi neytenda. Í þriðja lagi er lagt til að tilvísun til framkvæmdar í Bandaríkjunum og Kanada falli brott enda er íslenskt lagaumhverfi á þessu sviði að miklu leyti háð reglum Evrópusambandsins. Lagt er til að nefndin horfi fyrst og fremst til Norðurlandanna í samanburði sínum. Þó ber að líta til þess á að nefndin hafi heimild til að skoða neytendamál í víðara samhengi ef hún telur það nauðsynlegt, svo sem með vísan til neytendamála í Kanada sem þykja standa framarlega á sviði neytendaréttar og stjórnsýslu málaflokksins. Í fjórða lagi er lagt til að bætt verði við tveimur nýjum málsgreinum um skipan og starfstíma nefndarinnar. Lagt er til að forsætisráðherra skipi formann nefndarinnar, en efnahags- og viðskiptaráðherra, innanríkisráðherra og velferðarráðherra skipi hver sinn fulltrúa í nefndina. Þá skipi Neytendasamtökin og Hagsmunasamtök heimilanna jafnframt hvort sinn fulltrúa í nefndina. Ég vek athygli á þessari breytingu en með henni leggur meiri hluti nefndarinnar til að hlutur neytenda í þeirri stefnumótun sem hér fer fram verði aukin frá því sem lagt var til í upphaflegri tillögu. Þá er áskilið að nefndin hafi gott samstarf við Neytendastofu, talsmann neytenda, umboðsmann skuldara, Fjármálaeftirlitið, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök lánþega og Samkeppniseftirlitið auk launþegasamtaka, svo sem ASÍ, BSRB og BHM.

Að lokum legg ég á það áherslu að lagt er til að nefndin starfi samkvæmt tilteknum tímamörkum og skili niðurstöðum eigi síðar en 15. janúar 2013.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið við að reifa í stórum dráttum álit meiri hlutans um þessa mikilvæga mál. Ég vil þakka sérstaklega 1. flutningsmanni tillögunnar, hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, fyrir að eiga frumkvæði að þessu máli. Ég þakka sömuleiðis nefndarmönnum í allsherjar- og menntamálanefnd fyrir þeirra ágæta framlag til málsins og vona að þetta mál hljóti almennan og góðan stuðning í þinginu til samræmis við þá vaxandi samstöðu sem er að myndast hér um aðgerðir til að standa vörð um rétt neytenda í tengslum við skuldamál heimilanna.

Þuríður Backman var fjarverandi við afgreiðslu þessa máls. Að öðru leyti skrifa undir álit meiri hlutans fulltrúar Samfylkingarinnar, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Framsóknarflokksins og Hreyfingarinnar í allsherjar- og menntamálanefnd.

Meiri hlutinn leggur til að tillagan verði samþykkt með þeim breytingum sem koma fram í þskj. 980.



[14:50]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu um þetta mál. Hins vegar sannast hér sem endranær að hv. Alþingi sinnir bara skuldurum en aldrei sparifjáreigendum. Ég hef lesið þetta yfir en get ekki séð að menn gæti hagsmuna sparifjáreigenda sem í dag eru að tapa á óverðtryggðum reikningum vegna neikvæðra raunvaxta sem bankarnir leyfa sér að borga og skattlagningar á þá neikvæðu raunvexti.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort ekki hafi komið til tals í nefndinni að ræða um stöðu þeirra viðskiptavina bankanna og fjármálastofnana sem eru sparifjáreigendur, sem mörgum hverjum var ráðlagt að taka út af sparisjóðsinnstæðum sínum og kaupa fyrir það í peningamarkaðssjóði eða jafnvel hlutabréf?

Mér finnst að við verðum að fara að huga að því að örva ráðdeild og sparnað í þjóðfélaginu. Það eru skuldirnar sem eru að fara með þjóðfélagið en ekki sparnaðurinn. Sparnaður heimilanna er allt of lítill og mér sýnist að menn séu enn og aftur og aftur með hugann eingöngu við skuldarana.



[14:52]
Frsm. meiri hluta (Skúli Helgason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir fyrirspurnina. Hann vekur athygli á atriði sem var vissulega rætt í nefndinni, ég fór nú lítillega yfir það í framsöguræðu minni, þ.e. sú augljósa staðreynd að neytendur eru ekki eingöngu skuldarar á fjármálamarkaði. Hins vegar er það svo að við núverandi aðstæður er staða skuldara mjög ofarlega í forgangsröðinni og framarlega í umræðunni um neytendavernd á fjármálamarkaði, því er kannski eðlilegt að þau mál séu efst á baugi þegar við förum yfir það hvernig staðið er að neytendavernd á þessum mikilvæga markaði.

Það má finna því stað í nefndarálitinu, ef hv. þingmaður fer vandlega í gegnum það, að nefndin hefur skoðað þetta mál og vekur sérstaklega athygli á þeim sjónarmiðum sem hv. þingmaður benti á. Ég tel einsýnt að tekið verði tillit til þess í þeirri vinnu sem vonandi fer af stað í framhaldi af afgreiðslu þessarar tillögu.



[14:53]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Ég vildi vekja athygli á því, herra forseti, og þakka hv. þingmanni fyrir svörin, að undirstaða útlána er sparnaður. Það verður ekkert lánað út nema einhver annar spari. Ef menn ætla að brjóta þá reglu brestur á óðaverðbólga.

Menn verða að fara að huga að sparifjáreigandanum og reyna að búa hann til, því að hann er að hverfa. Það er til dæmis ekki ríkisábyrgð á innstæðum. Sparifjáreigendur þurfa að hlíta því. Það eru neikvæðir vextir á meginhluta sparnaðar, 80% af sparnaði er á óverðtryggðum reikningum. Það eru neikvæðir vextir á því, þeir vextir eru skattaðir með 20% þannig að tapið er skattlagt. Þetta er svo óheyrilegt því að þetta er oft og tíðum eldra fólk sem getur ekki varið sig og hefur verið ráðdeildarsamt um ævina, ekki farið í eins miklar ferðir og aðrir, ekki keypt sér flotta jeppa og bíla og ekki stundað eyðslu og glannaskap sem hefur komið þjóðfélaginu í koll. Nú er verið að refsa því, herra forseti. Ég er ekki sáttur við það. Ég vildi gjarnan að málið yrði tekið inn í nefndina aftur og þetta atriði sérstaklega tekið inn í þingsályktunina.



[14:55]
Frsm. meiri hluta (Skúli Helgason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef í sjálfu sér litlu eða engu við þetta að bæta. Við fórum yfir þetta atriði í umfjöllun um málið, (Gripið fram í.) um það er getið á bls. 2 að þessum sjónarmiðum hafi verið komið á framfæri. Við höfum lagt til að útvíkka orðalag tillögunnar nokkuð til þess meðal annars að ná utan um þessa hugsun. Ég lít svo á að við höfum sinnt þessu ágætlega.



[14:55]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Herra forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um úttekt á neytendavernd á fjármálamarkaði. Ég vil undirstrika það að í sjálfu sér er tilgangurinn með henni afar göfugur. Við getum öll tekið undir að við viljum hafa heilbrigðan og traustan fjármálamarkað og ekki síst viljum við styrkja stöðu neytenda á þeim markaði. Ég held að allir sem hér eru inni geti tekið undir það en okkur greinir á um leiðir.

Það er rétt, sem hefur komið fram hér, að við sjálfstæðismenn skrifum ekki upp á þetta álit. Við munum sitja hjá í þessu máli. Þegar ég skoða þetta finnst mér málið allt að því vera flækt með þessum hætti, ekki síst í ljósi þess, og við verðum að taka tillit til þess, sem er að gerast innan Stjórnarráðsins. Að störfum er nefnd sem er að gera úttekt á neytendamálum og er að fara yfir neytendamálin í heild, nema á fjármálamarkaði. Vinnu þeirrar nefndar lýkur væntanlega á þessu ári miðað við þær upplýsingar sem við fengum í allsherjar- og menntamálanefnd og er starfið leitt af Steinunni Valdísi Óskarsdóttur í innanríkisráðuneytinu. Það er alveg rétt, sem kemur fram í tillögunni hér og í því sem bent hefur verið á, að neytendamál eru dreifð um stjórnkerfið. Við eigum að reyna að sameina þau á einum stað þannig að Neytandinn, með stóru n-i — og það er alveg rétt sem John F. Kennedy sagði: Við erum öll neytendur. Við eigum eftir að ræða þetta: Viljum við aðgreina neytendur á fjármálamarkaði frá öðrum neytendum? Ég er ekki viss um að það sé endilega heppilegt. Hvað með þá sem eru með bílalán? Fara þeir inn í þá stofnun sem hugsanlega verður sett á fót, eða fara þeir í annað stjórnkerfi fyrir neytendur?

Hversu göfugt sem þetta markmið er, að efla og styrkja stöðu á neytendamarkaði, sem við sjálfstæðismenn tökum undir, er ég hrædd um að verið sé að fara fjallabaksleið að markmiðinu. Ég hefði kosið að menn hefðu rætt um að útvíkka starfssvið nefndarinnar sem nú er að störfum, beina þeim tilmælum til hennar að skoða sérstaklega neytendavernd á fjármálamarkaði. Auðvitað má líka segja: Gott og vel — af því að hv. þm. Skúli Helgason, framsögumaður málsins, sagði að við þyrftum öll að taka okkur á, og það er rétt, við þurfum öll að taka okkur á hér í þinginu við að vanda löggjöfina sem héðan kemur enn betur. En kannski er þessi þingsályktunartillaga fjarvistarsönnun ríkisstjórnarinnar hvað snertir skuldavanda heimilanna. Kannski er þetta leið ríkisstjórnarinnar til að koma til móts við skuldavanda heimilanna. Í nefndarálitinu segir meðal annars, með leyfi forseta, að það sé:

„mikilvægt að stjórnvöld gangi fram fyrir skjöldu og standi vörð um rétt neytenda.“

Síðan er vísað til dóms Hæstaréttar um gengistryggð lán o.s.frv. Það er alveg rétt. Það þarf að taka tillit til þessara dóma, en ríkisstjórnin hefur skilað auðu þar. Kannski er þetta bara fínt innlegg til að reyna að bjarga ríkisstjórninni.

Ég er á því að við eigum að reyna að skoða málin heildstætt. Það er tækifæri til þess núna. Líka í ljósi þeirra breytinga sem hugsanlegar eru á forustunni hjá Fjármálaeftirlitinu. Við eigum að reyna að knýja fram breytingar á stjórnkerfinu og við eigum að ræða hvort ekki sé rétt, í ljósi þess hlutverks sem Fjármálaeftirlitið gegnir, að fara í það sem menn, bæði í stjórn og stjórnarandstöðu — þetta er ekki gagnrýni á ríkisstjórnarflokkana heldur líka á það, sem við höfum í öllum flokkum sagt að beri að skoða, að Fjármálaeftirlitið sé ekki undir Seðlabankanum. Sá litli hluti af Fjármálaeftirlitinu sem eftir stendur og snýr sérstaklega að neytendum verði þá settur undir aðra stofnun sem tekur heildstætt á neytendum. Þannig að neytandinn, hvort sem hann er á fjármálmarkaði, bílamarkaði, fasteignamarkaði eða matvörumarkaði, geti farið á einn stað; að það eigi að gera kerfið einfalt og skilvirkt.

Það er þess vegna sem ég varpa þeirri spurningu fram hvers vegna þetta sé ekki skoðað nú þegar tækifæri er til breytinga, tækifæri til að setja á fót eina öfluga stofnun, hvort sem það er Samkeppnisstofnun sem er skeytt saman við þann hluta Fjármálaeftirlitsins sem snertir neytendur — hann er reyndar ekki stór eins og kemur fram í bréfinu frá Fjármálaeftirlitinu, en talsmaður neytenda færi líka þar undir og Neytendastofa.

Ég efast ekki um að það er þetta atriði sem nefndin sem hefur verið skipuð af innanríkisráðherra er að skoða. Þess vegna hefði ég viljað að þingið hefði til viðbótar falið henni þetta verkefni í staðinn fyrir að við bíðum eftir skýrslu sem á að vera búið að skila eigi síðar en 15. janúar — mig minnir að 95% þeirra skýrslna sem kveðið er á um í lögum að eigi að skila sé ekki skilað innan tiltekins frests. Mér finnst við frekar vera að fresta því að taka á málum er tengjast neytendavernd á fjármálamarkaði og ég hefði því kosið að fara þessa leið.

Í bréfi frá Fjármálaeftirlitinu er ágætisyfirlit yfir það hvernig neytendamálin eru stödd í samfélagi okkar í dag. Ég vil líka benda á að það er ekki eins og ekkert hafi verið unnið í neytendamálum. Það er ekki eins og ekkert hafi verið unnið að því að reyna að koma heilbrigðu skikki á þessi mál. Gerð var skýrsla árið 2008, undir forustu Björgvins G. Sigurðssonar, eins og kom fram hér, þar sem talað var um nýja sókn í neytendamálum. Ég held einmitt að hægt sé að byggja verulega mikið á henni.

Ef við skoðum verkaskiptingu í neytendamálum og fjármálamarkaði innan Stjórnarráðsins — þá er ég bara að tala um á fjármálamarkaði, hitt kerfið er líka nógu flókið, talsmaður neytenda, Neytendastofa og fleiri aðilar — sjáum við að Fjármálaeftirlitinu, sem heyrir undir efnahags- og viðskiptaráðuneytið, er falið mjög takmarkað vald varðandi neytendamálin. Þó er rétt að geta þess að Fjármálaeftirlitið hefur mótað sérstaka stefnu í neytendamálum sem er birt á heimasíðu þess. Þar er skýrt tekið fram, og það er rétt að menn viti það, að eftirlitið hefur ekki úrskurðarvald í einkaréttarlegum ágreiningsmálum sem upp kunna að koma á milli neytenda og eftirlitsskyldra aðila. Fjármálaeftirlitið hýsir hins vegar tvær úrskurðarnefndir sem eru mjög mikilvægar fyrir neytendur og fjalla um ágreiningsmál á milli neytenda og fjármálafyrirtækja annars vegar og neytenda og vátryggingafélaga hins vegar. Þannig að þetta er í raun hlutverk Fjármálaeftirlitsins.

Við erum síðan með Neytendastofu sem hefur lögum samkvæmt fengið það vald að taka ákvarðanir í einstaka málum sem varða neytendur og viðsemjendur þeirra. Af þeim verkefnum sem Neytendastofu er falið eftirlit með, og snúa sérstaklega að fjármálamarkaði, má nefna lög um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins frá 2005 og líka lög um neytendalán.

Rétt er að geta þess, sem ég held að menn megi heldur ekki gleyma, að búið er að boða frumvarp á vorþingi — það hlýtur þá að verða lagt fram innan tveggja vikna áður en tilskilinn frestur rennur út — búið er að boða lög um neytendalán vegna innleiðingar á tilskipunum frá ESB. Ég held að þetta séu allt tækifæri fyrir okkur til að vinna hratt frekar en fara að útbúa enn eina skýrsluna þó að markmiðið sé göfugt. Ég held að við eigum að fara í skilvirkari vinnubrögð og nota tækifærið til að fara í þessa uppstokkun sem er svo augljós og er svo þörf upp á gegnsæi fyrir neytendur í landinu.

Umboðsmaður skuldara hefur ákveðnu hlutverki að gegna. Hann skal hafa hagsmuni skuldara og réttindi þeirra að leiðarljósi. Hann gegnir gríðarlega mikilvægu hlutverki þegar kemur að því að halda uppi öflugri neytendavernd fyrir fólk, ekki síst á fjármálamarkaði.

Eftirlitsnefndin, sem sér um framkvæmd sérstakrar skuldaaðlögunar, er líka til staðar. Síðan má telja upp fleiri þætti. Menn sjá að þetta er flókið en nú er borð fyrir báru að beina því til þeirrar nefndar sem er til staðar, er á fullu í vinnu. Ég spurði sérstaklega að því í hvort hægt væri að bæta við erindisbréf nefndarinnar þannig að hún gæti strax einhent sér í að fara yfir þessa þætti, þessa þætti sem við erum sammála um að þurfa að vera betri og skýrari. Það er ljóst að það er auðveldlega hægt.

Hins vegar veit ég af fenginni reynslu að það sem skiptir máli og það sem Alþingi getur helst gert tengist því þegar verið er að endurskoða hlutverk stofnana og skýra verkferla. Þegar verkferlar og verkefni skarast á við ráðuneytið kemur oft upp togstreita á milli ráðuneyta. Togstreitan byrjar oft í embættismannaferlinu, með fullri virðingu, síðan fer hún upp til ráðherra og það er oft sem menn enda í öngstræti. Þar á þingið að geta tekið málin til sín og segja: Þið fáið ekki heimild til að vinna ekki saman, þið verðið að vinna að því að stefnan verði heildstæð og það skiptir okkur engu máli hvernig þið viljið hafa þetta innan Stjórnarráðsins, Alþingi getur alveg haft skýra skoðun á því hvar það eigi að vera og hvernig málum eigi að vera háttað. Enda sýnir það sig að þær breytingar sem gerðar voru á Stjórnarráðinu núna — og við finnum það öll held ég, meðal annars innan nefndarinnar. Ég tel þó að margar breytingar, ekki síst á þingskapalögum, séu til hins betra. Ég held að framsögumannakerfið innan nefndanna sé til mikilla bóta. Við sjáum það meðal annars á því að þingmannamálum, hvort sem það er gott eða vont, er að fjölga hér í umræðu. Ég held að það sé fínt. Hins vegar má það ekki vera tilgangur í sjálfu sér að afgreiða þingmannamál af því að þau eru þingmannamál. Við þurfum að spyrja að innihaldinu og hvort við getum náð göfugum markmiðum með öðrum skilvirkari aðferðum. Ég held að það sé hægt í þessu tilviki.

Mér finnst við vera, eins og ég segi, að fara ákveðna fjallabaksleið við að efla og styrkja neytendavernd á Íslandi. Ég held að við eigum fyrst og fremst að byrja innan ríkisstjórnar sem hefur ekki staðið sig hvað þetta varðar. Við getum öll farið í að rökræða það, en ég held að þetta mál undirstriki það að ríkisstjórnin hefur ekki haldið með sómasamlegum hætti á neytendamálum, skuldamálum heimila og fyrirtækja.

Ég ætla ekki að fara frekar yfir þetta mál að öðru leyti en því að efnislega erum við sammála því, við sjálfstæðismenn, að hér þurfi að vera heilbrigður og traustur fjármálamarkaður. Við þurfum að styrkja neytendur á öllum sviðum. Ég held að það hafi komið ljómandi vel fram í andsvörum við ræðu framsögumanns hér áðan að ekki er verið að huga að öllum neytendum, ekki er verið að hugsa um alla neytendur eins og Kennedy benti á á sínum tíma. Það er verið að undanskilja ákveðinn hóp sem tengist fjármálamarkaðnum og ekki er verið að sinna honum. Það er hlutur sem ég hefði gjarnan viljað að nefndin sem er að störfum hefði getað farið yfir, ef við hefðum farið þá leiðina. Ég undirstrika að nú er það tækifæri til staðar að endurskipuleggja stofnanaverkið sem tengist neytendum almennt. Það er einmitt það sem menn eru að benda á í ýmsum umsögnum.

Ég vil líka geta um ákveðnar efasemdir okkar sjálfstæðismanna varðandi upphaflegu tillöguna, en henni hefur sem betur fer verið breytt í allsherjar- og menntamálanefnd. Það er meðal annars það sem sagt var í upphaflegu tillögunni um að hugsanlega yrði sett á fót ný stofnun. Sú spurning var undirliggjandi hjá mörgum þeim sem komu á fund nefndarinnar, hvort sem það voru Samtök atvinnulífsins, Neytendastofa eða aðrir, hvort setja ætti á fót enn eina ríkisstofnunina. Ég held að það sé mjög varhugavert. Ég vil sérstaklega draga það fram að við sjálfstæðismenn erum andvíg því að enn ein stofnunin verði sett á fót. Það er nær að menn skoði það í þessari heildstæðu úttekt hvar þessum málum er best fyrir komið, að ekki verið farið að setja upp enn eina eftirlitsstofnunina.

Ég vil að öðru leyti þakka fyrir starfið í nefndinni. Ég held að það hafi verið mjög gagnlegt að fá þá gesti sem við fengum á fund nefndarinnar, sem fóru vel yfir sjónarmið sín, en ekki síður það að okkur gafst tækifæri til að ræða nokkuð vítt og breitt um þetta mál og fyrir þau vinnubrögð vil ég þakka.

Eins og ég gat um áðan munum við sjálfstæðismenn sitja hjá við þessa leið því að við teljum hana ekki vera best til þess fallna að styrkja stöðu neytenda á fjármálamarkaði, sem við erum þó öll sammála um að beri að gera.



[15:10]
Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir ræðuna, það var mjög áhugavert að hlusta á vangaveltur hennar. Ég er samt ekki viss um að ég vilji nálgast málið á sama hátt og hún. Ég vil hins vegar spyrja þingmanninn hvort einhver forsenda hafi verið til þess að ná einhvers konar lendingu á milli sjónarmiða sjálfstæðismanna og annarra þingmanna í nefndinni varðandi það hvernig vinna eigi að því að bæta neytendavernd á fjármálamarkaði. Ég held að nánast hver einasti þingmaður hér telji mikilvægt að bæta neytendavernd á fjármálamarkaði. Í ljósi þess samvinnuanda sem að mörgu leyti hefur einkennt vinnuna í nefndinni að undanförnu, í framhaldi af breytingum sem við gerðum á þingsköpum, þ.e. þetta framsögumannafyrirkomulag, spyr ég hvort einhver grunnur hafi verið fyrir því að ná samkomulagi.

Segja má að tveir straumar séu í gangi varðandi uppbyggingu neytendaverndar á fjármálamarkaði. Annars vegar erum við með bandaríska módelið sem kom inn með nýju fjármálalöggjöfinni þar. Þeir settu á stofn sérstaka fjármálalega „verndunarneytendastofu“, svo að maður þýði það orð beint, sem á að fara með eftirlit með öllum fjármálagjörningum í Bandaríkjunum. Breska leiðin snýst hins vegar um það að taka út þá þætti sem varða neytendavernd í fjármálaeftirlitinu og sameina þá hugsanlega samkeppniseftirlitinu í Bretlandi. Þannig að menn eru að skoða hlutina og eru að útfæra mismunandi leiðir.

Ég hafði áhyggjur af því að ef þetta yrði sameinað þeirri vinnu sem þegar væri í gangi yrði fókusinn ekki nógu skarpur á (Forseti hringir.) neytendavernd á fjármálamarkaði en ástandið hvað það varðar hefur verið slæmt hér á Íslandi, (Forseti hringir.) og ekki bara á Íslandi heldur í hinum vestræna heimi eins og við höfum séð á síðustu árum.



[15:12]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þær fyrirspurnir sem tengjast þessu máli. Hv. þm. Eygló Harðardóttir dró ágætlega fram þær leiðir sem menn hafa verið að velta fyrir sér.

Ég held að leiðir Bandaríkjamanna séu allrar athygli verðar en við verðum líka að hafa hugfast að það er takmörkunum háð hvað við Íslendingar getum byggt upp af stofnunum. Við höfum takmarkað fjármagn til að setja í allt eftirlitskerfið. Við verðum miklu frekar að skoða hvernig við getum nýtt það fjármagn — við höfum stóraukið fjármagnið, við þurftum að gera það — og fengið meiri skilvirkni til hagsbóta fyrir neytendur í landinu. Ég er ekki viss um að við höfum efni á því að fara þessa bandarísku leið, enda dregur nefndin þá leið til baka.

Ég held hins vegar, og ég ítreka það sem ég sagði áðan í ræðu minni, að nú sé möguleiki til að stórauka og efla neytendavernd með því að samþætta þessa hluti. Enginn getur leyft sér, á þeim tímum sem nú eru, að horfa fram hjá þeirri ríku neytendavernd sem þarf að vera til staðar og þá ekki síst á fjármálamarkaði. Ég efast ekki um að sú nefnd sem er að störfum mundi rækja það hlutverk sitt mjög alvarlega, ekki síst ef bætt yrði í hana einum fulltrúa til viðbótar sem heyrði undir efnahags- og viðskiptaráðuneytið. Ég held að sú nefnd yrði burðug til að gera það.

Ég mun í seinna andsvari koma inn á þá lendingu sem hægt væri að ná.



[15:14]
Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svar hennar. Það sem ég vildi bæta við í framhaldi af ræðu hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur er að þó að til verði „ný stofnun“ með nýju heiti hljómaði það samt sem áður svo, þegar hv. þingmaður fór í gegnum þær hugmyndir sem eru í gangi, að menn séu frekar eiginlega að tala um að sameina núverandi stofnanir og jafnvel fækka stofnunum þótt nýja stofnunin mundi heita eitthvað annað, þannig að verkefnunum yrði skipt öðruvísi. Sem dæmi, ef Fjármálaeftirlitið færi undir Seðlabankann værum við komin þar með eina sjálfstæða stofnun í staðinn fyrir tvær. Hið sama væri ef við sameinuðum til dæmis Neytendastofu og Samkeppniseftirlitið, þá værum við búin að fækka þar um tvær stofnanir raunar. Ef við mundum skoða hvar við vildum staðsetja umboðsmann skuldara, þegar hann væri búinn að vaða í gegnum mestu endurskipulagningu á skuldavanda heimilanna, væri hugsanlega möguleiki á því að sameina það embætti jafnvel líka Neytendastofu og Samkeppniseftirlitinu.

Þó að hugsanlega kæmu ný nöfn erum við að tala um raunverulega fækkun stofnana. Þó að ég sé kannski síðasta manneskjan til að hrósa þessari ríkisstjórn mikið varðandi fjárhagslega endurskipulagningu hjá heimilum og fyrirtækjum má hún samt eiga það að hún hefur fækkað umtalsvert stofnunum í samanburði við þær ríkisstjórnir sem fóru á undan henni.



[15:16]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi síðasta atriðið fer það eftir um hvaða málaflokka menn eru að tala. Ef menn skoða önnur ráðuneyti var markvisst verið að reyna að sameina stofnanir, t.d. á sviði háskólamála, en það er önnur Ella.

Hins vegar sé ég ekki ef við náum að sameina fleiri stofnanir að það réttlæti tilvist enn einnar nýrrar stofnunar. Ég held miklu frekar að meiri dínamík verði í því ef menn sameina þær stofnanir sem hv. þingmaður kom inn á og ég í minni ræðu.

Ég verð að segja hvað það varðar að menn hafi reynt að ná einhverri lendingu, þá hefur kannski ekki sérstaklega reynt á það enda eru menn ekki endilega tilbúnir til að samþykkja þær breytingar sem sjálfstæðismenn hafa lagt fyrir. Ég get til dæmis nefnt tillögur okkar sem við settum fram fyrir tveimur árum um flýtimeðferð í réttarfarsmálum er tengjast skuldamálum heimila og fyrirtækja. Ekki var tekið undir það. Það var alveg skýrt af hverju það var. Það var út af því að það voru sjálfstæðismenn sem lögðu þá tillögu fram. Sem betur fer dúkkar hún upp núna, ég vona að hún hljóti brautargengi þó að hún komi efnislega frá okkur sjálfstæðismönnum. Það skiptir öllu máli að tillögurnar feli efnislega í sér réttarbætur fyrir fólkið í landinu. Hugsunin í þessu er sú að menn vilja ná fram ákveðnum réttarbótum.

Ég held hins vegar að menn hafi ekki reynt nóg til þess að átta sig á að við höfum ekki endilega allt of mikinn tíma. Reynum að nýta tímann betur. Reynum að nýta þá „instansa“ sem eru fyrir í samfélaginu núna til að reyna að knýja fram þær bætur sem við erum sammála um. Já, ég hefði gjarnan viljað sjá fram á það að menn hefðu gefið sér meiri tíma til að ná þverpólitískri lendingu. Sú varð ekki raunin.

Við sjálfstæðismenn munum ekki standa gegn þessu. Við munum sitja hjá, en ég hefði talið aðrar leiðir heppilegri af því ég er hrædd um að þetta bjóði upp á stóraukið eftirlit á svo mörgum sviðum. Við erum búin að sjá það, alla vega hjá þessari ríkisstjórn, að hún er tilbúin að setja mikinn pening í (Forseti hringir.) aukna miðstýringu.



[15:18]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil hefja mál mitt á því að þakka allsherjar- og menntamálanefnd fyrir mjög vandaða vinnu við þessa þingsályktunartillögu sem ég flutti hér ásamt fleiri þingmönnum. Ég vil þakka sérstaklega Skúla Helgasyni fyrir, sem vandaði mjög til verka eins og með allt annað sem hann tekur sér fyrir hendur og kom ágætlega fram í umræðu um málið sem var áðan á dagskrá, þ.e. græna hagkerfið. Ég verð líka að segja að ég er mjög ánægð með þær breytingar sem gerðar hafa verið og tel þær vera til bóta.

Það er mjög mikilvægt að sameina neytendamál í þessum málaflokki, þ.e. neytendamál á fjármálamarkaði, á einn stað. Þegar einstaklingar lenda í vanda sem þeir gera gjarnan núna í kjölfar hrunsins er mjög óljóst fyrir þá sem eru í vandræðum með rétt sinn hvert þeir eiga að leita. Það er ekki síður mikilvægt að sú stofnun sem fengi þetta meginhlutverk hafi frumkvæði að því að verja hagsmuni neytenda, eins og flutningsmaður nefndarálits kom inn á, og hafi yfirsýn yfir stöðu neytenda og möguleg áhrif á neytendur við breytingar á löggjöf og setningu nýrra laga. Og þar sé jafnframt aðstaða til að veita einstaklingum ráðgjöf ef þeir telja að hagsmunir þeirra séu fyrir borð bornir í viðskiptum á fjármálamarkaði.

Í nefndaráliti er farið mjög vandlega yfir þá löggjöf sem nær til fjármálamarkaðarins og neytenda á fjármálamarkaði. Eins og sjá má á upptalningunni er þetta langt í frá einföld lagaumgjörð. Það finnst mér vera bestu rökin fyrir því að fjalla um þessi mál í sérstakri nefnd með því fólki sem hefur sérstaka þekkingu á þessum málaflokki.

Ég get til dæmis játað það hér, herra forseti, að mér er sagt að um margt sé lagaumhverfið á Íslandi ekki stóra vandamálið, en ég er ekki í neinum færum til að meta það. Þessi lög eru mjög yfirgripsmikil og það krefst mikillar yfirlegu að öðlast djúpan og raunverulegan skilning á því umhverfi.

Það sem við vitum og blasir við er að stjórnsýslan á þessu sviði er allt of flókin. Það eru óskýr valdmörk og síðan er eftirlitinu ábótavant.

Þá vil ég endurtaka þetta með frumkvæðið á þessum vettvangi, að gríðarlega mikilvægt er að það sé stofnun eða einhver aðili innan stjórnsýslunnar sem hafi þá ábyrgð að meta framboð þjónustu á markaðnum og hvaða áhrif það kunni að hafa á neytendur, enda eru oft stórir fjárhagslegir hagsmunir í húfi.

Núverandi ríkisstjórn hefur reynt að efla stöðu neytenda eftir hrun. Gott dæmi um það er umboðsmaður skuldara þar sem nú starfa yfir 100 manns að því að aðstoða skuldug heimili við að komast út úr því helsi sem því fylgir að vera í alvarlegum vanskilum. Eins settum við á laggirnar samhliða löggjöf um skuldaaðlögun eftirlitsnefnd. Það var að frumkvæði félags- og tryggingamálanefndar sem við settum þá nefnd á laggirnar sem hefur komið með mjög þarfar ábendingar og haft eftirlit með þeim úrræðum sem verið er að vinna með á fjármálamarkaði.

Ég vil líka taka undir með hv. þm. Pétri H. Blöndal að að sjálfsögðu þarf að líta til hagsmuna þeirra sem eiga sparnað eins og þeirra sem skulda, enda gerir tillagan ráð fyrir að þetta varði almennt málefni þeirra sem eru í viðskiptum á fjármálamarkaði.

Mörg fjármálafyrirtæki leggja nú mjög hart að sér við að bæta ímynd sína og auka þjónustu við viðskiptavini. Ég vil alls ekki gera lítið úr þeirri viðleitni og veit að mörgum stjórnendum í þeim fyrirtækjum er það mjög umhugað. Það breytir ekki því að þau fyrirtæki eru með miklu sterkari stöðu en þeir sem við þau eiga viðskipti, síðan er það jú hlutverk fjármálafyrirtækja að tryggja arðsemi af rekstri sínum. Þá skiptir máli að þeir sem eru í veikari stöðu og eiga í viðskiptum við þau geti verið vissir um að ekki sé verið að brjóta á rétti þeirra eða veita þeim misvísandi upplýsingar.

Við skulum hafa í huga að þótt margt hafi breyst er það enn svo að fjármálafyrirtæki ganga hart fram í því að markaðssetja vöru sína, eins og til dæmis núna hvað varðar óverðtryggðu lánin. Það minnir sumpart á það þegar gengisbundnu lánin komu á markað, þá voru lægri vextir gylliboðið fyrir fólk að taka þau lán en það lá kannski ekki fyrir hvaða áhætta gæti falist í því til lengri tíma.

Varðandi óverðtryggðu lánin eru á þeim núna fastir vextir til þriggja eða fimm ára. En það liggur ekki ljóst fyrir hvaða stöðu fólk kann að lenda í þegar þeim tíma er lokið þó að fólk geti þá að sjálfsögðu farið yfir í verðtryggð lán en það er kannski að fórna tiltölulega hagstæðum vaxtakjörum núna til þess að fara inn í óverðtryggðu lánin. Ég ætla ekki að leggja dóm á það hvort þetta er gott eða slæmt. Það væri því mjög mikilvægt fyrir neytendur að geta fengið hjá hlutlausum aðila mat á því hversu skynsamlegar þessar ráðstafanir eru.

Svo voru innleidd há veðhlutföll sem til skamms tíma voru hagfelld fyrir heimilin en allir vita að til lengri tíma koma þau ekkert sérstaklega vel við fjárhag heimilanna.

Sama má segja um 40 ára lánin sem eru enn við lýði og þykja sjálfsögð en eru í raun ansi löng lán og valda því að fjármagnskostnaður verður gríðarlega mikill.

Jafngreiðslulán hafa vikið í stað lána með jafnar afborganir. Til dæmis lánar Íbúðalánasjóður eingöngu lán með jöfnum afborgunum. Margt af því fyrirkomulagi sem er á lánveitingum er til þess fallið að lækka greiðslubyrði lántakenda og getur til skemmri tíma litið verið hagfellt en reynist þegar lánveitingin er skoðuð til enda ansi dýrkeypt fyrir lántakendur. Þetta eru flóknir hlutir sem langt frá því allir neytendur hafa djúpan skilning á og þeir verða að hafa aðgang að upplýsingum sem eru hlutlausar og til þess fallnar að tryggja rétt neytenda.

Ég ætla að ljúka þessu, herra forseti, eins og ég byrjaði, á þökkum. Ég er ákaflega ánægð að búið sé að afgreiða málið til síðari umr. Ég vonast til að við getum samþykkt þingsályktunartillöguna í næstu viku og nefndin hafið störf fljótlega og komi neytendamálum á fjármálamarkaði í viðunandi horf.



[15:27]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur fyrir ræðu hennar og óska henni til hamingju með að ferli máls hennar er núna að ljúka og verður væntanlega að þingsályktun Alþingis.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann. Nú er nefndin búin að breyta texta ályktunarinnar í þá veru að í staðinn fyrir „neytendur“ kemur „einstaklingur og heimili“. Það er í mínum huga svona nokkurn veginn það sama og neytendur. En svo er bætt við „gagnvart aðilum á fjármálamarkaði sem í atvinnuskyni veita einstaklingum neytendalán.“ Það er verið að leggja áherslu á lán, það er búið að taka í burtu sparifjáreigendur. Sömuleiðis stendur: „Tillögur nefndarinnar miði að því að bæta og skýra stöðu einstaklinga og heimila“ — aftur í staðinn fyrir neytendur — „gagnvart aðilum á fjármálamarkaði sem veita einstaklingum lán og auka ábyrgð þeirra gagnvart þessum hópi neytenda.“ Nefndin er búin að skemma þá ályktun sem hv. þingmaður kom með í þá veru að nú er bara verið að skoða skuldara. Á sama tíma og allir hér inni ættu að vita, en vita það greinilega ekki, að verið er að hafa fé af því fólki sem hefur af ráðdeild og sparsemi lagt fyrir peninga á innlánsreikningum. Mér finnst þetta mjög dapurlegt, frú forseti.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann: Er hún virkilega hlynnt því að fara svona illa með sparifjáreigendur að þeir hætta hugsanlega að spara? Eftir nokkur ár þegar útlendingarnir verða búnir að taka sitt ofurframboð af peningum sem þeir eiga hérna á Íslandi, bæði skilanefndirnar og jöklabréfin, það eru 1.000 milljarðar sem þarf að skipta yfir í bréf — er það markmiðið að innlendi sparnaðurinn sé þá dauður og farinn?



[15:30]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Skúli Helgason fór yfir það í ræðu sinni um nefndarálitið að þessi breyting á stöðu neytenda yfir í einstaklinga og heimila var gerð með það að leiðarljósi að fyrirtæki og ýmsir lögaðilar teldust líka til neytenda. Ætlunin var fyrst og fremst sú að veita einstaklingum og heimilum sterkari stöðu og betri upplýsingar um rétt sinn. Ég er algjörlega sammála þessari áherslubreytingu.

Hvað varðar aðila á fjármálamarkaði sem í atvinnuskyni veita einstaklingum neytendalán fór hv. framsögumaður líka yfir af hverju þessi víkkun var gerð. Það kemur til af því að ef eingöngu er talað um fyrirtæki á fjármálamarkaði sem veita allra handa þjónustu, jafnt innlán sem útlán sem og aðra fjármálagjörninga, nær það ekki til allra þeirra sem veita neytendalán. Ýmsir aðilar sem veita lán mundu ekki falla undir þá skilgreiningu sem var í fyrstu tillögunni. Það þýðir ekki að sparifjáreigendur séu útilokaðir þó að tillagan sé orðuð með þessum hætti.

Ég tel að nefndin hafi unnið mikið gagn með vinnu sinni og sett tillöguna í góðan búning. Ég lít svo á af lestri nefndarálitsins að það liggi ljóst fyrir að hér sé átt við alla þá sem eiga, einstakling eða heimili, í samskiptum við fjármálastofnanir og þá aðila sem veita neytendalán og enginn hópur sé þar sérstaklega undanskilinn.



[15:32]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Nefndin hefur breytt ályktuninni í þá veru að öll áhersla er lögð á lántakendur og skuldara. Ég get ekki með nokkru móti séð að hagsmunir sparifjáreigenda komi þarna við sögu, fyrir utan það að ekki er vísað í þau samtök sem þeir eru þó í, sem eru Samtök fjárfesta. Þeir eiga ekki að tilnefna í nefndina.

Þessi þingsályktun er orðin að skuldaraþingsályktun og nær bara til skuldara. Það er kannski allt í lagi og réttmætt og allt svoleiðis, en mér finnst keyra um þverbak hvað þessi hæstv. ríkisstjórn og þessir hv. stjórnarþingmenn leggja mikla áherslu á skuldarahliðina, vegna þess að það kemur að því að hér muni skorta sparifé til að lána til ungs fólks sem vill kaupa sér íbúð, til fyrirtækja sem vilja fjárfesta og skapa atvinnu.

Við erum að saga greinina sem við sitjum á. Þetta er mjög alvarlegt. Það er búið að hækka fjármagnsskatt úr 10% upp í 20% af nafnvöxtum. Verðbólgan er 6,5%. Vextir eru um 3% og þeir eru skattaðir um 20%, niður í 2,4%. Þetta eru hæstu vextirnir. Þannig að við erum í mjög alvarlegri stöðu til framtíðar, en það getur vel verið að núverandi lántakendur og skuldarar vilji sjá til þess að börnin þeirra fá ekki lán.



[15:33]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar nú að byrja á að segja að það er eiginlega ánægjulegt að fá þann dóm að þessi ríkisstjórn hugsi bara um skuldara því að stjórnarandstaðan orðar það yfirleitt með öðrum hætti þegar hún talar um hæstv. ríkisstjórn og meðferð hennar á skuldurum í landinu. Það er ánægjulegt að að minnsta kosti einn fulltrúi stjórnarandstöðunnar telji að ríkisstjórnin hafi staðið sig gagnvart þeim hópi.

Ég vil bara árétta þann skilning minn, nefndarinnar og hv. framsögumanns nefndarálits að þessi tillaga nær til allra sem eiga viðskipti á fjármálamarkaði. Orðalag tillögunnar er meðal annars til komið vegna ráðgjafar frá efnahags- og viðskiptaráðuneytinu um hvernig tryggt væri að þetta næði til allra fyrirtækja sem störfuðu á fjármálamarkaði. Niðurstaðan var þetta orðalag, til að tryggja að einhver fyrirtæki sem veita lán eða einhvers konar þjónustu á fjármálamarkaði falli ekki utan þeirrar skilgreiningar sem var í tillögugreininni eins og hún var lögð fram af mér og fleiri þingmönnum.

Ég er allsendis sammála hv. þingmanni um að það sé full ástæða til að hafa áhyggjur af sparnaði í þessu landi, en það að í tillögunni standi lán og talað sé um málefni skuldara er ekki á kostnað þeirra sem spara. Oft er það nú svo að þetta er sama fólkið.



[15:36]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Mér þykir leitt að tefja og lengja umræðuna, en mér finnst yfirgengilegt hvað menn huga lítið að stöðu þeirra Íslendinga sem með ráðdeild og sparsemi hafa lagt fyrir og eru að leggja fyrir. Spara fé, fresta neyslu, kaupa ekki, fara ekki í ferðalög o.s.frv., og standa ekki í þeim glannaskap sem mjög margir stóðu í á sínum tíma þegar þeir keyptu sér bíla sem þeir höfðu ekki efni á. 40 þús. landsmenn keyptu sér bíla með mjög áhættusömum lánum, sem reyndust reyndar seinna vera ekki eins dýr, og vissu af áhættunni. Ég veit að ráðgjafar bankanna fóru í gegnum það með mörgum og sögðu að ef gengið félli svo og svo mikið væri viðkomandi enn í gróða eftir fimm ár — en þeir reiknuðu ekki með því gengisfalli sem síðan varð. Farið var mjög vel í gegnum áhættuna með mjög mörgum þó að kannski hafi verið misbrestur á því.

Ég hef líka heyrt sögur um það að hringt hafi verið í fólk sem átti sparifé og því ráðlagt að kaupa jafnvel hlutabréf eða í peningamarkaðssjóðum eða öðrum fjárfestingarmöguleikum sem voru miklu áhættusamari. Það voru 55 þús. heimili — bara venjuleg heimili — sem töpuðu 80 milljörðum í hruninu, bara á hlutabréfum. Ég er ekki að tala um innstæðurnar sem rýrnuðu í erlendri mynt þannig að menn geta ekki lengur keypt sér þann bíl sem þeir gátu keypt sér á þeim tíma, eða aðrar erlendar vörur sem hafa hækkað í takt við gengishrunið.

Þannig að sparifjáreigendur hafa verið að tapa auk þess sem 75–80% af sparnaði heimilanna er inni á óverðtryggðum reikningum. Menn geta spurt sig af hverju hann sé á óverðtryggðum reikningum ef það á að vera svona ógurlega gróðavænlegt að eiga þá á verðtryggðum reikningum. Það er vegna þess að menn þurfa að binda peningana í þrjú ár og sumir geta það kannski ekki, þurfa á þeim að halda áður, eða þeir treysta ekki bönkunum í þrjú ár.

Nú standa margir í þeirri trú að það sé ríkisábyrgð á innstæðum. Svo er ekki. Hæstv. fyrrv. fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon svaraði því hreint út þegar ég spurði hann beint að því: Að sjálfsögðu væri ekki ríkisábyrgð á innstæðum. Það er yfirlýsing ráðherra um að innstæður séu tryggar, en ríkið mun aldrei í lífinu geta tryggt allar þær innstæður sem eru á Íslandi, 2.000 milljarða, ef eitthvað kæmi fyrir. Ég vildi bara að þetta kæmi fram þannig að sparifjáreigendur standi ekki í þeirri trú að það sé ríkisábyrgð á innstæðum.

Þannig að til viðbótar við mjög lága vexti, langt undir verðbólgu, vextir á bestu bókunum eru kannski komnir upp í 4% í 6,5% verðbólgu, svo eru þessir 3 eða 4% vextir eða hvað það nú er skattaðir um 20%, þannig að 4% verða 3,2% í 6,5% verðbólgu.

Þessi þingsályktun hefði getað verið góð ef áherslan verið tekin af þessum eina hópi, skuldurum, og horft á hinn hópinn líka sem er ekkert síður mikilvægur, og í mínum huga jafnvel mikilvægari, vegna þess að þar er uppsprettan. En það er ekki gert. Þessi ríkisstjórn heldur áfram að skattleggja sparifjáreigendur.

Svo eru sögur um að þeir sem áttu spariskírteini eða húsbréf og innleystu þau eftir skattahækkunina þurfi að borga skatta aftur í tímann, 13 ár frá upptöku fjármagnstekjuskattsins. Þeir borga 18% eða jafnvel 20% skatta aftur í tímann þó að stjórnarskráin banni afturvirkni skatta. Þetta er komið í málaferli, það þarf að bíða eftir niðurstöðu þeirra og menn þurfa að leggja í óheyrilegan kostnað til að standa í þeim málaferlum til að verja sig fyrir þessari ásælni ríkisins. Ríkið leyfir sér að skattleggja þessar fjármagnstekjur með 18% eða 20% 13 ár aftur í tímann, frá 1997 þegar fjármagnstekjuskatturinn var tekinn upp.

Ég hefði gjarnan viljað sjá eitt orð um sparifjáreigendur í þessari þingsályktun, eitt orð. Hér er bætt inn orðalagi sem útilokar að menn geti túlkað þetta sem svo að þetta sé líka fyrir sparifjáreigendur. Það á því að halda áfram að hrekkja sparifjáreigendur. Það má vel vera að eftir einhvern tíma, kannski fjögur, fimm eða tíu ár þegar útlendingarnir eru flúnir með allt sitt fé, þá 1.000 milljarða sem við þurfum að afla gjaldeyris fyrir, verði skortur á sparifé eins og ég þekkti svo vel þegar ég kom frá námi, þá var hvergi nokkurs staðar lán að hafa.