140. löggjafarþing — 74. fundur,  15. mars 2012.

úttekt á neytendavernd á fjármálamarkaði.

12. mál
[15:10]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir ræðuna, það var mjög áhugavert að hlusta á vangaveltur hennar. Ég er samt ekki viss um að ég vilji nálgast málið á sama hátt og hún. Ég vil hins vegar spyrja þingmanninn hvort einhver forsenda hafi verið til þess að ná einhvers konar lendingu á milli sjónarmiða sjálfstæðismanna og annarra þingmanna í nefndinni varðandi það hvernig vinna eigi að því að bæta neytendavernd á fjármálamarkaði. Ég held að nánast hver einasti þingmaður hér telji mikilvægt að bæta neytendavernd á fjármálamarkaði. Í ljósi þess samvinnuanda sem að mörgu leyti hefur einkennt vinnuna í nefndinni að undanförnu, í framhaldi af breytingum sem við gerðum á þingsköpum, þ.e. þetta framsögumannafyrirkomulag, spyr ég hvort einhver grunnur hafi verið fyrir því að ná samkomulagi.

Segja má að tveir straumar séu í gangi varðandi uppbyggingu neytendaverndar á fjármálamarkaði. Annars vegar erum við með bandaríska módelið sem kom inn með nýju fjármálalöggjöfinni þar. Þeir settu á stofn sérstaka fjármálalega „verndunarneytendastofu“, svo að maður þýði það orð beint, sem á að fara með eftirlit með öllum fjármálagjörningum í Bandaríkjunum. Breska leiðin snýst hins vegar um það að taka út þá þætti sem varða neytendavernd í fjármálaeftirlitinu og sameina þá hugsanlega samkeppniseftirlitinu í Bretlandi. Þannig að menn eru að skoða hlutina og eru að útfæra mismunandi leiðir.

Ég hafði áhyggjur af því að ef þetta yrði sameinað þeirri vinnu sem þegar væri í gangi yrði fókusinn ekki nógu skarpur á (Forseti hringir.) neytendavernd á fjármálamarkaði en ástandið hvað það varðar hefur verið slæmt hér á Íslandi, (Forseti hringir.) og ekki bara á Íslandi heldur í hinum vestræna heimi eins og við höfum séð á síðustu árum.