141. löggjafarþing — 7. fundur
 20. september 2012.
frádráttur á tekjuskatti vegna afborgana af fasteignalánum einstaklinga, fyrri umræða.
þáltill. SDG o.fl., 4. mál. — Þskj. 4.

[13:31]
Flm. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Frú forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar sem borin er fram af öllum þingflokki framsóknarmanna og fjallar um frádrátt á tekjuskatti vegna afborgana af fasteignalánum einstaklinga. Ég ætla að byrja á því, með leyfi virðulegs forseta, að lesa upp tillöguna sjálfa:

„Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra að láta undirbúa lagasetningu með það að markmiði að beita skattkerfinu til að létta á húsnæðisskuldum almennings á þann hátt að afborganir af fasteignalánum einstaklinga verði frádráttarbærar frá tekjuskatti upp að ákveðnu marki. Andvirði skattafsláttarins verði nýtt beint til niðurgreiðslu höfuðstóls viðkomandi fasteignaláns. Lögin gildi tímabundið í þrjú ár. Miðað yrði við breytingu á höfuðstól skulda samkvæmt skattframtali.“

Það er ákveðin ástæða fyrir því að þetta er lagt fram í þessu formi, sem þingsályktunartillaga þar sem við hvetjum ráðherra fjármála og efnahagsmála til að leggja fram útfært frumvarp. Hún er sú að reynsla okkar sýnir að þegar við í stjórnarandstöðu höfum lagt fram útfærða tillögu að lausn í skuldamálum og raunar á það sama við um önnur mál líka hefur umræðan öll oft farið að snúast um einhverja meinta galla á útfærslunni og raunar hefur það oft verið þannig að tillögum sem koma frá stjórnarandstöðu hefur verið hafnað vegna þess hvaðan þær koma. Þess vegna ákváðum við að fara nýja leið núna og leggja þessa tillögu inn til umræðu en jafnframt treysta ráðherrunum fyrir því að útfæra tillöguna og vonandi gera þeir það í samráði við þingmenn Framsóknarflokks en einnig þingmenn annarra flokka. Við skýrum reyndar í greinargerð með tillögunni hvernig við teljum að hægt sé að framkvæma þetta og hverjir kostirnir við að ráðast í þessa aðgerð eru að okkar mati, en við erum að sjálfsögðu tilbúin að hlýða á ábendingar um það hvernig megi gera þetta enn betur. Þetta er sem sagt liður í þeim tilraunum til að skapa sátt og samstöðu um að þingmenn ólíkra flokka vinni saman að því að ráða bót á þessum mikla vanda sem enn er mjög stór, þ.e. skuldavandi heimilanna.

Ég ætla ekki að verja löngum tíma í að rifja upp fyrri tillögur okkar í þessum efnum. Þær hafa verið allmargar og sú þekktasta kannski tillagan sem við lögðum fram strax í byrjun árs 2009, um almenna leiðréttingu á skuldum heimilanna á fasteignalánum. Sú tillaga held ég að mér sé óhætt að fullyrða hefur sannað gildi sitt á þeim tíma sem síðan er liðinn en því miður hafa verið gerðar þær breytingar, m.a. með stofnun nýju bankanna og yfirfærslu lána yfir í Íbúðalánasjóð, að orðið er mun erfiðara, a.m.k. mun dýrara, að framkvæma aðgerðina eins og við lögðum til á sínum tíma. Með tillögunni sem ég kynni hér í dag erum við ekki að falla frá hugmyndafræðinni um almenna leiðréttingu, við erum svo sannarlega ekki að falla frá þeirri skoðun okkar að það hafi verið hin rétta, hin sanngjarna og raunar líka hin hagkvæma leið og verðum áfram tilbúin að skoða allar lausnir sem miða að því að leiðrétta vegna þess forsendubrests sem varð hér á lánamálum heimilanna við efnahagshrunið. Tilgangurinn með tillögunni er að leggja inn í púkkið, þ.e. umræðuna um þessi mál, tillögu sem tekur á vandamálinu eins og það er núna, tillögu sem hægt er að hrinda í framkvæmd strax og er tiltölulega einföld í framkvæmd og, að því er við teljum, mjög skilvirk.

Með tillögunni er ekki hvað síst komið til móts við hóp sem hefur algjörlega orðið út undan í þeim aðgerðum sem þó hefur verið ráðist í í skuldamálunum af hálfu bankanna og kannski ekki hvað síst af hálfu dómstóla sem hafa dæmt ákveðin lánaform ólögmæt og með því í rauninni haft miklu meiri áhrif á skuldastöðu heimilanna en stjórnvöld með aðgerðum sínum.

Sá hópur sem hér er verið að reyna að koma sérstaklega til móts við, þótt þetta muni gagnast fleirum, er fólk sem er tiltölulega nýbúið að koma sér upp húsnæði, er nýbúið að stofna fjölskyldu eða stækka fjölskyldu og hefur verið að vinna við það að reyna að borga af skuldum sínum, reyna að standa í skilum, vinnur jafnvel langan vinnudag, jafnvel tvöfalda vinnu við það að standa undir stökkbreyttum skuldum af húsnæði, en fyrir þann hóp hefur í raun ekkert verið gert. Það er alltaf verið að senda fólki þau skilaboð að það verði ekkert gert fyrir menn nema þeir séu komnir algjörlega í þrot. Það má því segja að stjórnvöld séu nær eingöngu að búa til öfuga hvata í stað þess að skapa jákvæða hvata, hvetja fólk til þess að halda áfram að borga af skuldum og reyna að ná þeim niður, gera fólki það aðeins léttara að takast á við afleiðingarnar af stökkbreytingu lánanna.

Með þessu er reynt að koma til móts við þann hóp, fólk sem átti kannski eitthvert eigið fé í fasteign sinni, sem hefur verið að reyna að endurheimta dálítið eigið fé með því að halda áfram að borga af lánum og standa í skilum.

Þetta leysir þar með ekki vanda allra, enda mun engin ein aðgerð í skuldamálum augljóslega leysa vanda alls fólks. Aðstæður eru mjög mismunandi en með þessu er verið að reyna að koma til móts við stóran hóp sem algjörlega hefur verið litið fram hjá, hóp sem varð fyrir þessum forsendubresti en hefur haldið áfram að reyna að standa í skilum.

Þetta gagnast hins vegar miklu fleirum en þeim sem munu nýta sér þessi úrræði, þetta hlýtur að gagnast samfélaginu öllu því að þetta er liður í því að koma samfélaginu af stað, að hagkerfið fari að virka aftur. Það versta sem gæti gerst í framhaldi af efnahagskrísunni efnahagslega er að hún leiði til algjörrar stöðnunar, jafnvel langvarandi samdráttar. Til að útskýra hvað átt er við með þessu, og þessi hætta er mjög raunveruleg, nefna menn oft Japan sem dæmi. Japan lenti í sinni fjármálakrísu 1990, þar hækkuðu lán til mikilla muna en í stað þess að taka á vandanum á sínum tíma, leiðrétta lánin eða færa þau niður á einhvern hátt, var lengt í lánunum. Nú eru í Japan til dæmis 100 ára lán þekkt fyrirbæri, lán sem ganga þá bara í erfðir milli kynslóða. Afleiðingin hefur verið sú að efnahagsleg stöðnun hefur ríkt í Japan í tvo áratugi, þar hefur varla orðið hagvöxtur í 20 ár og efnahagslegt tjón af því og tap fyrir samfélagið þar af leiðandi orðið miklum mun meira en ef menn hefðu tekið á vandanum á sínum tíma.

Það að beita skattkerfinu til að ná jákvæðum efnahagslegum áhrifum, skapa jákvæða hvata, er vel þekkt. Við höfum að undanförnu fylgst með ríkisstjórninni státa sig af árangri af verkefni sem kallað er Allir vinna og gekk út á að endurgreiða virðisaukaskatt vegna framkvæmda, viðhaldsverkefna o.s.frv. Niðurstaðan varð sú, að mati stjórnvalda sjálfra, að þetta hefði á endanum komið út í plús fyrir ríkið og samfélagið, þ.e. að það að veita skattafsláttinn, endurgreiða skattinn, hefði skapað svo aukin umsvif og þar með talið svo auknar tekjur að niðurstaðan hefði orðið jákvæð. Ég rengi þetta ekki, ég efast ekki um að þetta hafi verið tilfellið. Annað þekkt dæmi sem rætt hefur verið töluvert að undanförnu er endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar. Stjórnvöld hafa bent á að mikill árangur hafi einnig náðst þar, tekjurnar og umsvifin hafi orðið meiri en ef ekki giltu þessar reglur um endurgreiðslur.

Svo er ekki úr vegi að vísa í annað þekkt dæmi sem er skattafsláttur vegna hlutabréfakaupa, þegar stjórnvöld sáu ástæðu til að hvetja fólk til að fjárfesta í fyrirtækjum og þar með atvinnusköpun og töldu þar af leiðandi hagkvæmt að veita þann hvata að lækka skattana ef menn fjárfestu í atvinnurekstri. Svo hefur þetta raunar gengið svo langt að hér var sérstakt skattlaust ár, 1987 minnir mig að það hafi verið, þar sem voru algjör skattfríðindi. Menn héldu auðvitað áfram að borga söluskatt en það var haft sérstakt skattlaust ár til þess að koma efnahagslífinu í gang og ná ýmsum fleiri hagstjórnarmarkmiðum. Ég held að það hafi bara reynst ljómandi vel á sínum tíma.

Spyrjum okkur nú: Hvar er alveg sérstök þörf fyrir jákvæða hvata? Hvar í efnahagslífinu er alveg sérstök þörf á að bæta úr? Jú, auðvitað þurfti að koma af stað atvinnu í byggingargeiranum, þar var knýjandi þörf, en á hverju hanga nánast öll önnur vandamál? Hvar er kjarni vandans? Hann er í skuldastöðu íslenskra heimila vegna þess að allt hitt, velta í samfélaginu og þar með atvinnustig o.s.frv., er háð því að heimilin nái endum saman, geti verið virkir þátttakendur í efnahagslífinu. Þess vegna segjum við: Ef einhvers staðar á að nýta skattkerfið til að skapa jákvæðan hvata til að vinna bug á vanda eða stöðnun er það í skuldamálunum. Þess vegna leggjum við til, eins og ég las í upphafi máls míns, að útfærð verði tillaga um að það fjármagn sem fólk notar til að greiða niður húsnæðisskuldir sínar dragist frá tekjuskattsstofni. Það myndar hvata til að borga lánin hraðar niður og hefur mjög jákvæð langtímaáhrif, ólíkt greiðslum sem fólk notar strax í neyslu og hefur hugsanlega jákvæð áhrif til skamms tíma þá hefur þetta jákvæð langtímaáhrif langt fram í tímann ef tekst að ná niður skuldastöðu heimilanna.

Þetta ætti líka að hafa jákvæð áhrif á stöðu Íbúðalánasjóðs vegna þess að það liggur alveg fyrir að Íbúðalánasjóður er lentur í vanda. Menn tala um að hugsanlega þurfi að leggja 17 milljarða inn í hann strax á þessu ári af hálfu ríkisins. Þá væri það lánsfé enda ríkið ekki aflögufært um eigið fé, það þyrfti því að taka þessa peninga að láni. Með því móti bærust greiðslur miklu hraðar inn í Íbúðalánasjóð en ráð var fyrir gert og það væri þá hagkvæm og skynsamleg leið til að fjármagna sjóðinn. Auðvitað er þetta lántaka líka en þetta er hins vegar miklu vænlegri leið en ef ríkið færi að slá lán núna og setja það allt inn í sjóðinn. Með þessu móti gæti, þegar fram líða stundir, ríkið verið betur í stakk búið til að fjármagna sjóðinn og við skulum vona það líka að sjóðurinn verði kominn í betri stöðu eftir nokkur ár.

Þetta ætti líka að hafa þau áhrif að þrýsta vöxtum niður vegna þess að endurgreiðslurnar af lánunum koma hraðar inn í bankana og það þýðir að þeir sitji uppi með meira fjármagn en þeir gerðu ráð fyrir og þurfa að koma því aftur út, lána það aftur út og geta betur leyft sér að lána það til fasteignakaupa á lægri vöxtum, enda er þá fasteignalánasafnið þeirra orðið betra, veðhlutfallið orðið betra. Þetta helst í hendur, þetta tvennt, bæði eru lánasöfnin betri og meira fjármagn er komið inn í fjármálastofnanirnar, fjármagn sem þær þurfa að lána út aftur, og ef einhverjar af grundvallarkenningum hagfræðinnar gilda á það að þrýsta niður vöxtum.

Þetta hefur ýmis jákvæð hliðaráhrif. Þetta hefur jákvæð áhrif fyrir samfélagið allt og þetta tekur á meginvandanum, undirliggjandi vanda íslensks efnahagslífs, vanda sem þarf að leysa til að hægt sé að leysa annan vanda. Það er sama hvert litið er, við komum alltaf aftur að þessu meginvandamáli sem er skuldastaða heimilanna. Sú tillaga sem hér er lögð fram til umræðu er vonandi gott innlegg í það að taka á þessum grundvallarvanda.



[13:46]
Lilja Mósesdóttir (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna öllum tillögum til lausnar á skuldavanda heimilanna og það verður að viðurkennast og á að viðurkennast að framsókn hefur tekið forustu í því máli, ekki síst með tillögu sinni um 20% leiðréttingu sem sett var fram í byrjun árs 2009.

Ég hef áhuga á að fá svör við nokkrum spurningum sem vakna við lestur þessarar þingsályktunartillögu og í fyrsta lagi hvort framsókn sé nokkuð búin að gefa upp á bátinn 20% leiðréttingarleiðina til að taka á skuldavanda heimilanna. Hvað varðar þessa nýju tillögu um frádrátt vegna innborgunar á höfuðstól, þ.e. frádrátt af tekjuskatti, óttast hv. þingmaður ekki að þessi frádráttur dugi einfaldlega ekki til til að hjálpa þeim sem eru í vanda staddir? Að þessi leið muni hjálpa mörgum en bara allt of lítið til þess að það breyti nokkru?

Að lokum hef ég áhyggjur af því að til þess að þetta breyti einhverju þurfi fólk í raun að nota sparifé sitt eða viðbótarlífeyrissparnað til að greiða inn á höfuðstól lánanna, en flestir eru löngu búnir að nýta sparifé til þess að borga niður höfuðstólinn, þeir gerðu það bara fljótlega eftir hrun og eru nú margir hverjir búnir að nýta sér réttinn til þess að taka út séreignarsparnaðinn sinn. Ég velti því fyrir mér hvort hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hafi ekki áhyggjur af því að sú leið sem lögð er til gangi ekki nógu langt og gagnist mjög fáum. Reynsla okkar fram til þessa er sú að ríkisstjórnin grípur yfirleitt þannig leiðir til þess að geta sagt að hún hafi leyst skuldavanda heimilanna.



[13:49]
Flm. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni ágætar spurningar. Hv. þm. Lilja Mósesdóttir hefur að sjálfsögðu látið sig þessi mál miklu varða alveg frá því að hún settist á þing og því er ég feginn að hún skuli áfram taka þátt í umræðunni.

Ábendingarnar eru margar hverjar réttmætar. Auðvitað nægir þetta ekki fyrir alla. En hvað varðar spurninguna um hvort þetta gagnist fáum og ekki nógu mikið er því annars vegar til að svara að þetta gagnast mjög mörgum, þetta gagnast raunar öllum sem eru með verðtryggð fasteignalán. Það er svo annað mál hvort þetta gagnast nógu mikið og það er alveg ljóst að þetta er ekki nóg í öllum tilvikum, áfram mun þurfa aðrar leiðir.

Reyndar hafði ég ekki tíma til að geta þess í ræðu minni að við teljum eðlilegt að þegar ráðist er í svona aðgerðir þar sem ríkið er í rauninni að hjálpa fólki að greiða af fasteignalánum sínum og þar með að gera stöðu bankanna eða annarra lánveitenda betri, að bankarnir komi þá til móts við þá sem skulda til viðbótar við þetta vegna þessarar aðstoðar frá ríkinu og geri það til að mynda með því að færa lánin niður í 100% af fasteignamati, þ.e. að 110%-leiðin svokallaða, sem var raunar alltaf furðuleg nálgun, verði gerð að 100% leið.

Það mun heldur ekki duga til að leysa vanda allra þannig að til þess að svara öllum spurningum hv. þingmanns í einu þá er þetta innlegg í umræðuna, ein leið, en hún leysir ekki öll málin og felur ekki í sér að horfið sé frá öðrum leiðum.



[13:51]
Lilja Mósesdóttir (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um að við þurfum að leggja áherslu á að þessi leið er bara ein af mörgum nauðsynlegum úrræðum sem grípa þarf til vegna skuldavanda heimilanna. Við heyrum núna af stórauknum yfirdrætti heimilanna til þess að fjármagna meðal annars afborganir af lánum. Það er alveg ljóst að slík lántaka er bara gálgafrestur og má velta því fyrir sér hversu lengi sá gálgafrestur muni duga, ég held að það verði ekki mjög lengi. Þess vegna er ég þeirrar skoðunar að úrlausn skuldavanda heimilanna sé eitt brýnasta málið á þessu þingi og fagna því að í dag verði fleiri mál til umræðu þar sem (Forseti hringir.) lagðar verða til leiðir til þess að fjármagna almenna leiðréttingu lána og eins frumvarp sem gerir það að verkum að fólk getur skilað inn (Forseti hringir.) veðsettri eign sinni þannig að skuldir falli niður, dugi andvirðið ekki fyrir þeim. (Forseti hringir.)



[13:52]
Forseti (Álfheiður Ingadóttir):

Forseti biðst velvirðingar á því að enn er klukkan í borðinu ekki rétt en tímamæling fer fram á forsetastóli.



[13:52]
Flm. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Mér heyrist við hv. þingmaður vera sammála um þessi mál í grófum dráttum, um mikilvægi þess að menn hald áfram að leita lausna og geri sér grein fyrir því að engin ein leið nægir til að leysa allan vanda. Ég hlakka til að fylgjast með áframhaldandi umræðu hér í dag, meðal annars um þá leið sem hv. þingmaður hefur beitt sér fyrir, að hægt verði að skila fasteign og lánin sem á henni hvíla falli niður, dugi andvirði eignarinnar ekki til að greiða þau upp. Það er önnur leið sem ræða þarf í þaula, hún hefur raunar verið rædd töluvert en hefur ekki hlotið þá athygli sem hún hefði átt að fá þótt hún hafi notið velvildar frá flestum flokkum, vegna þess að ríkisstjórnin hefur ekki verið tilbúin að skoða hana af neinni alvöru. En vonandi skoðar ríkisstjórnin þá leið og það er þess vegna sem ég tala fyrir henni í dag.



[13:54]
Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Forseti. Það gleður mig að við fáum nýja hugmynd í púkkið á þessu risastóra vandamáli sem heldur öllu í járngreipum. Mér finnst jákvætt að hér sé gert ráð fyrir ákveðnu jafnræði en vandinn er að þetta er ójafn heimur sem við búum í og fólk hefur mjög mismikla greiðslugetu. Það hefur áður notið ólíkra úrræða eða notið góðs af dómum sem fallið hafa, til dæmis um gengislán. Svo eru enn aðrir sem tekið hafa gengistryggð lán og ekki notið góðs af dómum. Spurning mín er því þessi: Þarf ekki að jafna stöðuna svolítið fyrst?

Ég velti líka fyrir mér hvort ekki sé einfaldara að afnema verðtrygginguna. Fólk borgar ef til vill 100 þúsund kall og lánið hækkar um 100 þúsund kall af því að það er verðtryggt. Er það ekki óbein niðurgreiðsla eða ríkisstyrkur til bankanna með því að halda verðtryggingunni þannig að í raun og veru greiði ríkið bönkunum verðtrygginguna og þeir halda áfram að græða 200 milljarða á næstu árum?



[13:55]
Flm. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er vissulega rétt að verðtryggingin getur áfram verið vandamál þó að gripið verði til þeirra aðgerða sem ég lýsti og þess vegna þarf að ræða það vandamál sérstaklega. Við framsóknarmenn höfum lagt fram lagafrumvarp í þeim efnum og hv. þm. Margrét Tryggvadóttir hefur að sjálfsögðu verið dugleg að ræða verðtrygginguna og vandamálin við hana. Sú vinna þarf að halda áfram burt séð frá þessu, það er alveg rétt.

Það er líka alveg rétt að með því að gera fólki auðveldara að borga lánin sín í bönkunum er á vissan hátt verið að aðstoða bankana. En þá komum við að því sem er svo grátlegt, þ.e. að ríkisstjórnin skyldi ekki nota tækifærið á meðan hún réð yfir bönkunum til þess að ráðast í almenna leiðréttingu. Þvert á móti voru lánin færð úr bönkunum að miklu leyti yfir í Íbúðalánasjóð, sem er auðvitað rekinn af ríkinu, þannig að þetta væru þá fyrst og fremst styrkir ríkisins til sjálfs sín. Það er vissulega áminning um hversu grátlegt það er að ekki skuli hafa verið tekið á málinu á meðan stjórnvöld höfðu tækifæri til þess, þ.e. áður en bönkunum var skipt upp.

Ég vil þó ítreka það sem ég nefndi áðan, að í ljósi þess að þetta gagnast bönkunum finnst mér mikilvægt að þeir komi að málinu með ákveðinni eftirgjöf með því til að mynda að breyta 110%-leiðinni, sem nú er kannski orðin 120–130%, í 100% leið, og færa lánin yfir í 100% af fasteignamati.



[13:57]
Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Forseti. Við getum verið sammála um að við höfum horft á mörg tækifæri ganga mönnum úr greipum. Bankarnir þurfa að taka þátt í að leysa vandann en Íbúðalánasjóður er auðvitað í annarri stöðu, ég veit að hv. þingmaður áttar sig á því. En hvað finnst hv. þingmanni um að leggja sérstakan hvalrekaskatt á hagnað bankanna til þess að mæta þessu?



[13:58]
Flm. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Kosturinn við lánin sem eru í Íbúðalánasjóði er þó sá að í fæstum tilvikum eru þau yfir 100% af fasteignamati svoleiðis að viðbótarkostnaður fyrir Íbúðalánasjóð af þessari leið, þ.e. að fara niður í 100%, er takmarkaður.

Hv. þingmaður nefndi áðan hagnaðinn sem bankarnir hafa sýnt undanfarin ár. Hann er náttúrlega alveg ótrúlegur, að eftir efnahagshrunið skuli bankarnir áfram sýna sambærilegar hagnaðartölur að því er virðist, ekki hvað síst með því að færa upp mat eigna sem fluttar voru úr gömlu bönkunum yfir í þá nýju með verulegum afslætti. En í stað þess að láta þann afslátt ganga áfram til þeirra sem skulda er verðmætið bara fært upp aftur innan nýju bankanna sem hagnaður hjá bönkunum. Það hlýtur þá að viðhalda spurningunni um hvort ekki sé enn þá svigrúm til að ráðast í meiri leiðréttingar en gert hefur verið. Ef menn fara ekki þá leið, er þá ekki réttlætanlegt að skattleggja bankana sérstaklega?



[13:59]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ástæða til að þakka hv. þingmanni og flokki hans fyrir frumkvæði í tillögugerð í skuldamálum heimilanna, enda er það brýnt úrlausnarefni á þinginu. Það er líka sérstök ástæða til að þakka fyrir hlý orð og hrós hv. þingmanns til ríkisstjórnarinnar fyrir ýmsar aðgerðir eins og í atvinnusköpun, um endurgreiðslu bæði í tengslum við kvikmyndagerð og í tengslum við viðhald og aðra slíka hluti sem gefið hafa góða raun, skapað hér umsvif og umtalsverðar tekjur.

Það er þó erfitt að jafna saman ávinningi ríkissjóðs af því við þær tillögur sem hér eru því að þær aðgerðir skapa miklar óbeinar skatttekjur, meðal annars virðisaukaskatt í ríkissjóð, sem ella hefðu ekki orðið til ef um svarta atvinnustarfsemi hefði verið að ræða, ef ekki hefði verið gripið til þessara úrræða. Þess vegna er nauðsynlegt að spyrja hv. þingmann nánar út í þann kostnað sem í tillögunum felst.

Í fyrsta lagi: Hvað áætlar hv. þingmaður að heildarkostnaður við þessar aðgerðir gæti orðið fyrir ríkissjóð áður en það sem kemur á móti kemur til frádráttar?

Í öðru lagi: Á þetta að ná til allra? Þá hlýtur maður að spyrja: Er um að ræða 150 þús. kr. fyrir hvern einstakling sem í hlut á, eins og var í hlutabréfaafslættinum, eða er um að ræða 500 þúsund eða 1 milljón, 2 milljónir eða 5 milljónir? Hvaða stærðargráðu af stuðningi sér hv. þingmaður fyrir sér?

Í þriðja lagi: Hvaða tekjur kæmu á móti þessum útgjöldum? Hve stórt hlutfall þeirra kæmi til baka í ríkissjóð? Á hvaða rannsóknum og athugunum byggja þær áætlanir?



[14:01]
Flm. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður taldi skattafslátt vegna niðurgreiðslu lána ekki sambærilegan við afslátt vegna framkvæmda, sem hann nefndi sem dæmi, vegna þess að þannig yrðu til svo miklar óbeinar skatttekjur. Það lýsir kannski vandanum sem við stöndum frammi fyrir ef stjórnvöld gera sér ekki grein fyrir því að skuldirnar eru rót alls vanda. Ef ekki er tekið á skuldunum er fólk ekki aflögufært með að nota peninga í annað þannig að skatttekjur skili sér óbeint, eins og hv. þingmaður sagði að þyrfti að vera skilyrði þess að veitt væri eftirgjöf af sköttum. Þetta hangir allt á skuldavandanum. Ef ekki er tekið á honum, ef fólk situr uppi með þessar skuldir þá verða ekki til þær óbeinu tekjur sem eru forsendur þess að veita skattafslátt að mati hv. þingmanns.

Hvað varðar kostnaðinn, hv. þingmaður spurði sérstaklega um kostnað, áður en annað kemur á móti, þ.e. beinan kostnað ef menn reikna allan afsláttinn sem kostnað fyrir ríkið, þá er til þess að líta að það fer að sjálfsögðu eftir því hversu margir nýta sér það úrræði og hvernig það er útfært. Ég lýsti því hér í upphafi að ástæða væri fyrir því að við vildum leyfa ríkisstjórninni að vera með í útfærslunni. En til að gera okkur grein fyrir hvaða tölur er þarna um að ræða var tekjuskattsstofn Íslendinga, í fyrra held ég að það hafi verið, 876,1 milljarður og tekjuskattur 97,4 milljarðar. Við sjáum að þetta er ekki nema rúmlega 10% af tekjuskattsstofninum. Ef þessi skattstofn er færður eitthvað niður mun það að sjálfsögðu kosta einhverja milljarða en það er enginn kostnaður í samanburði við margt annað sem ríkisstjórnin hefur verið tilbúin til að verja fjármagni í. Vel að merkja, þetta eru ekki peningar sem eru glataðir, (Forseti hringir.) þetta eru peningar sem veltast áfram inni í hagkerfinu.

Ég næ því miður ekki alveg að klára svarið, frú forseti, ég verð að halda áfram á eftir.



[14:04]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Enn er nokkuð af spurningum mínum ósvarað. Einhverja milljarða, sagði hv. þingmaður. Sér hann fyrir sér allt að 10 milljörðum eða allt að 20 milljörðum, 30 milljörðum eða allt að 40 milljörðum? Einhver stærðargráða af brúttókostnaðinum hlýtur að búa hér að baki. Hvað telur hv. þingmaður að það geti þýtt fyrir hvern einstakling sem er með skuldir í landinu? Mundi það þýða 100 þús. kr. fyrir viðkomandi, 200 þús. kr. eða 300 þús. kr.? Hvaða athuganir hefur hv. þingmaður gert á því hvað mundi skila sér á móti? Því að við deilum ekkert um það, það mun skila sér á móti í auknum umsvifum að einhverju leyti. En hversu miklu telur hv. þingmaður? Það fýsir mig að vita.



[14:05]
Flm. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get ekki svarað síðustu spurningunni öðruvísi en ég gerði áðan með því að benda á að útfærslan til dæmis um hámark og slíka hluti, sem óneitanlega hefur áhrif á heildarkostnaðinn að lokum, eru hlutir sem við skiljum eftir opið til að fá ríkisstjórnina að borðinu með okkur í því að leggja mat á hvað er ásættanlegt í þessu.

Ég gæti svo sem gefið mér einhverjar ákveðnar forsendur út frá tölunum sem ég nefndi áðan og þar með komist auðveldlega að einhverri tiltekinni tölu. En það hefur ósköp lítið að segja ef þær forsendur ganga ekki eftir. Það er hægt eins og við höfum séð hjá Seðlabankanum að skrifa bók á stærð við símaskrá út frá sínum forsendum, en svo höfum líka séð hjá Seðlabankanum að aftur og aftur reynist raunin allt önnur og forsendurnar ganga engan veginn upp, áætlanirnar ganga engan veginn upp.

Kosturinn við þessa tillögu er sá að það er alltaf hagkvæmt á endanum að taka á skuldavandanum. Svo hagkvæmt getur það reynst að gefa skattafslátt að veittur var skattafsláttur, eins og ég nefndi áðan, í heilt ár á sérstöku skattlausu ári.



[14:06]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég fagna þeirri tillögu sem við ræðum hér, tillögu til þingsályktunar um frádrátt á tekjuskatti vegna afborgana af fasteignalánum einstaklinga.

Ég tel að allar hugmyndir séu góðar, þær þurfi að skoða og fara í gegnum kosti þeirra og galla. Kosturinn við þessa tillögu er sá að hún eykur ekki útgjöld ríkissjóðs heldur lækkar tekjur ríkissjóðs, það er fyrsti kosturinn. Það er töluvert atriði. Síðan er það kostur að þetta kemur þeim til góða sem hafa kannski minnst orðið varir við ráðstafanir ríkisstjórnarinnar, stétt sem sumir hafa í hálfkæringi kallað miðstéttaraulann, þ.e. fólk sem er með sæmilegar tekjur og stendur í skilum með harðfylgi. Það ætlar að standa í skilum en fær hvergi aðstoð því það skuldar ekki nógu mikið, fellur ekki undir 110%-leiðina, er ekki á leið til umboðsmanns skuldara o.s.frv., en borgar alveg undir drep þannig að menn hafa jafnvel ekki efni á að fara í bíó. Þetta kæmi því þeim hópi til góða.

Það eru nokkrir ókostir í þessu og mætti skoða það pínulítið betur. Hér stendur „afborganir af fasteignalánum“, þ.e. ekki vextir. Nú er það þannig í annuitetslánum að afborganir eru einungis 14–20% af ársgreiðslunni fyrstu tíu árin, restin er vextir, síðan verðbætur ofan á allt saman. Ég held að hv. nefnd sem fær þetta til skoðunar verði að breyta þessu að minnsta kosti yfir í það að vera greiðslur af fasteignalánum — það ætti að standa fasteignaveðlánum, en það skiptir svo sem ekki stóru máli. Síðan þarf að hindra menn í að greiða aukaafborgun inn á lánið sem gæti fallið undir þetta, sem sagt tekið lán annars staðar og greitt aukaafborganir inn á lánið og þannig ráðið í rauninni skattskyldu sinni. Það þarf líka að hindra það að þetta séu ekki aukaafborganir.

Svo er annað sem kemur mjög illa út. Það gildir fyrir öll lán. Nú er það svo að Hæstiréttur sagði fyrst að gengistryggðu lánin ættu að vera í krónum, þá héldu menn að það ætti að vera í krónuvöxtum. Nei, hann felldi annan dóm og sagði að reikna ætti vexti sem miðast við jen og evrur o.s.frv. ofan á íslenskar krónur. Um leið gaf hann vissum aðilum lánin. Þetta er óskapleg gjöf að geta á Íslandi verið að borga lán í krónum með jafnvel 1% vöxtum í 6% verðbólgu. Það er náttúrlega bara hrein og klár gjöf miðað við hina sem eru að borga verðtryggingu, vexti og slíkt. En slíkir aðilar fengju afborgunina líka dregna frá skatti. Ég held að það verði nú að undanskilja þá sem eru búnir að fá fasteignalánin sín gefin með dómum Hæstaréttar, það verði að undanskilja þá frá því að fá þessi lán líka til viðbótar. Þetta eru nú kannski hártoganir og atriði sem hægt er að laga auðveldlega í nefndinni.

Það sem er líka slæmt við þetta er að þetta er óháð tímabili. Þeir sem tóku lán á bilinu september 2004 til nóvember 2009, held ég það hafi verið, töpuðu í þeim skilningi að fasteignir hafa til dagsins í dag hækkað minna en lánið, þ.e. þeir skulda hlutfallslega meira. Mikið hefur verið kvartað undan þessu verðfalli á fasteignum. Þeir sem keyptu árin 2006 og 2007 eru kannski verst settir, þeir eru að tapa vegna þess að lánin hafa hækkað miklu meira en íbúðin, hlutfallslega. En þeir sem keyptu fyrir þann tíma, árin 1995, 2000 o.s.frv., eru enn í hagnaði. Lán þeirra hafa enn ekki hækkað jafnmikið og íbúðin. Sá hópur fellur undir þetta líka. Svo náttúrlega án takmarkana. Menn gátu hafa keypt einbýlishús einhvern tímann, tekið það nánast allt að láni, eða 80% eins og þá var kannski, og borgað alltaf af því en skulda dágott enn þá, þeir fá allt í einu frádrátt á afborgunum þó að þeir séu ekki í þeim hópi sem hefur tapað. Þeir eru í hópnum sem hefur grætt. Ég held að það þurfi nú að skoða ýmislegt fleira í þessu.

Svo er annað. Þetta er ekki ætlað til greiðslu á vanskilum. Mér finnst það lágmark að byrjað sé á því að greiða upp vanskil áður en lánið er lækkað til að létta á fólki. Þetta eru nú svona tæknilegar athugasemdir frá mér sem hv. nefnd sem fær málið til skoðunar getur skoðað.

Svo eru það þeir sem eru hjá umboðsmanni skuldara. Það þarf að skoða þá líka því að þeir eru í ákveðnu ferli þar sem á að fella niður skuldir. Það er mjög skrýtið ef á að fara að fella niður afborganir hjá þeim líka. Og skoða þarf þá sem hafa farið í 110%-leiðina, það er sem sagt ýmislegt í þessu sem þarf að skoða.

Svo stendur á síðu tvö að ráðstöfunartekjur heimilanna aukist. Það verður sáralítið vegna þess að þetta kemur til lækkunar á höfuðstól og hún verður hlutfallslega mjög lítil. Menn munu þurfa að borga kannski 80–90% af því sem þeir greiddu áður, að minnsta kosti. Ráðstöfunartekjurnar aukast því ekki mikið. Ég geri athugasemdir við það.

Svo er hérna talað um að samhliða þessum aðgerðum stjórnvalda færa lánveitendur lán niður í 100% af verðmæti fasteignar. Þetta er sjálfsögð krafa, en hún þyrfti að standa í ályktuninni sjálfri svo hún hafi eitthvert lagagildi eða eitthvert tilvísunargildi. Það er sterkara að hafa það í ályktuninni sjálfri. Ég legg til að hv. nefnd sem fær þetta til skoðunar bæti því við.

Svo er nokkur umræða um Íbúðalánasjóð og sagt að þetta sé gott fyrir Íbúðalánasjóð. Ég er nú ekki alveg viss um það vegna þess að Íbúðalánasjóður fær þarna aukið innstreymi fjár sem ber ekki lengur vexti. Hann þarf að koma því í lóg. Hann er í standandi vandræðum með það í dag að koma uppgreiðslum í lóg. Hann yrði bara verr settur að fá slíkar aukainngreiðslur. Núna er staðan sú að það vill í rauninni enginn eiga lausafé því að ekki er að fá neina ávöxtun á það og Íbúðalánasjóður fær það ekki frekar en aðrir. Veðstaða Íbúðalánasjóðs batnar vissulega eins og annarra lánveitenda. Þegar skatturinn fer að greiða niður afborganir á lánin, lækka höfuðstólinn, þá batnar veðstaða allra kröfuhafa, þ.e. að veðið stendur betur undir láninu.

Mér finnst vanta í frumvarpið eitthvert mat á kostnaði. Hvað kostar þetta ríkissjóð? Mér finnst nú alveg lágmark að menn hefðu reynt að meta það hvað þetta kemur til með að kosta og hvernig þetta kemur út fyrir einstaka fjölskyldur. Ég tel líka mikilvægt að nefna annað. Ef þetta er bara afborgun sem er 14% af greiðslunni fyrsta kastið sem menn borga af láninu, menn eru kannski að borga 100 þús. kr. og fá ekki nema 14 þús. kr. til frádráttar skatti og af því er þá tekinn — þetta lækkar skattinn um einhverjar prósentur, þá er ekki nema hluti af þessum 14 þús. kr. sem fer til lækkunar á höfuðstól. Þetta þarf að reikna allt saman og meta.

Hér hefur nokkuð komið til umræðu lyklafrumvarp sem svo hefur verið nefnt. Hv. þm. Lilja Mósesdóttir hefur flutt það frumvarp, mjög jákvætt, nema mér finnst það eigi að heita lyklakippufrumvarpið. Mér finnst alveg fráleitt, frú forseti, og það getur ekki verið að menn ætli að fara að lækka lán hjá fólki eða að fólk geti skilað íbúðinni sinni sem er ofveðsett og haldið eftir sparisjóðsinnstæðunum, hestinum, sumarbústaðnum, jeppanum, allt saman skuldlaust. Menn þurfa að líta á allar eignirnar sem viðkomandi á og hann gefi þær allar inn, geti afhent þær allar og geti síðan skilað lyklunum að þeim öllum samtímis. Annað er afskaplega ófélagslegt, bara hreinlega ófélagslegt að maður sem jafnvel borgar auðlegðarskatt — einn slíkur hringdi í mig um daginn, hann borgar auðlegðarskatt, hann er ekki illa staddur, en hann er með mjög ofveðsett húsnæði. Hann kvartaði undan því við mig af hverju hann fái ekki bætur frá ríkinu, frá hinu opinbera, svo hann geti fellt niður lánin á íbúðarhúsnæðinu sínu. Honum fannst það eðlilegt. Mér fannst það ekki eðlilegt.



[14:16]
Flm. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta yfirferð, nokkurs konar prófarkalestur, á þessari tillögu. Flest ef ekki öll atriði sem hv. þingmaður nefndi eru hlutir sem við höfum velt fyrir okkur. Það má vel vera að kveða þurfi skýrar á um eitthvað í tillögunni. Það er til dæmis rétt að betra væri að nota orðið „greiðslur“ frekar en orðið „afborganir“, þannig að ekki fari á milli mála við hvað er átt, að átt sé við vextina líka.

Hv. þingmaður nefndi að hindra þyrfti menn í að taka ný lán og nota þau til að greiða niður fyrri lán. Það er ástæðan fyrir því að í tillögunni segir, með leyfi forseta:

„Miðað yrði við breytingu á höfuðstól skulda samkvæmt skattframtali.“

Því var ætlað að reyna að hindra að menn gætu notað þá aðferð sem hv. þingmaður lýsti, ef til vill þarf einhverjar frekari varúðarráðstafanir til þess.

Hugsunin er að sjálfsögðu fyrst og fremst sú að koma til móts við þá sem eru með verðtryggð lán, eins og segir í greinargerðinni, það þætti hv. þingmanni eflaust betra að kæmi fram í tillögunni sjálfri. Þó verðum við að hafa í huga að um er að ræða tillögu um að ráðherra verði falið að útfæra frumvarp. Vonandi tekur ráðherrann mið af greinargerð auk tillögunnar.

Hv. þingmaður nefndi tímabil, þ.e. hvenær lánin hafi verið tekin. Það er alveg réttmæt gagnrýni. Þetta er einmitt vandamál í öllum tilraunum okkar til að taka á skuldavandanum. Finnist góð lausn á þessu, þar sem hægt er að koma sérstaklega til móts við fólk sem tók lánin á ákveðnum tímapunkti, má segja að það sé réttlátt. Spurningin er: Er það of flókið? Er hægt að gera það? Ég er svo sannarlega til í að skoða leiðir til þess.

Fleiru (Forseti hringir.) næ ég ekki að svara í þessu andsvari, frú forseti.



[14:18]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla aðallega að gefa hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni færi á því að svara frekari spurningum, t.d. um gengistryggðu lánin sem Hæstiréttur gaf lántakendum að miklu leyti. Þau eru kannski með 1%–3% vöxtum og í krónum, óverðtryggð. Hvað gerist með þá sem eru hjá umboðsmanni skuldara? Ég ætla að ítreka þá spurningu. Ég spyr líka um vanskilin, hvort ekki sé eðlilegt að taka þau fyrst.



[14:19]
Flm. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég held áfram þar sem frá var horfið og mun svo reyna að svara því sem hv. þingmaður bætti hér við.

Hv. þingmaður nefndi að ráðstöfunartekjur hefðu aukist mjög lítið með þessu, en í því sambandi er fyrst og fremst verið að hugsa um langtímaáhrif, að til lengri tíma litið verði íslensk heimili betur í stakk búin til að taka þátt í efnahagslífinu. Þetta er sem sagt ólíkt aðgerðum þar sem fólk fær einhverja peninga strax upp í hendurnar, þarna er verið að hugsa til langs tíma. En ef menn sjá fyrir sér ákveðna þróun til langs tíma hefur það líka strax áhrif.

Hv. þingmaður nefndi stöðu Íbúðalánasjóðs sem sæti þá uppi með miklar inngreiðslur. Nú er ljóst að Íbúðalánasjóður mun þurfa á fjármagni að halda til að borga af skuldabréfum sínum. Þess vegna teljum við þetta góða leið til að fjármagna sjóðinn til skamms tíma. Ég ítreka hins vegar það sem ég nefndi í ræðu minni að auðvitað er það lántaka líka, en vonandi hagkvæmari lántaka en ef ríkið færi að slá lán til að setja peninga inn í sjóðinn og borga af komandi skuldabréfum.

Jafnframt ítreka ég það sem ég nefndi í fyrra andsvari að hér er fyrst og fremst um verðtryggðu lánin að ræða eins og kemur fram í greinargerð, en ábending hv. þingmanns, um vanskil og þá sem eru þegar í ferli hjá umboðsmanni skuldara, er sannarlega réttmæt og eitthvað sem þarf að taka tillit til þegar frumvarp yrði samið.

Nú er tími minn aftur á þrotum, frú forseti, en ég verð að fá að nota tækifærið til að leggja til að að lokinni umræðu verði tillögunni vísað til efnahags- og skattanefndar, mér láðist að nefna það áðan.



[14:21]
Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Afsakið hvað ég kem seint í ræðustól, ég taldi að einn ágætur þingmaður hefði verið á undan mér á mælendaskrá, en sá virðist hafa fallið frá orðinu.

Mig langar til að byrja á að þakka hv. þm. Lilju Mósesdóttur orð hennar í andsvari við formann Framsóknarflokksins, hv. þm. Sigmund Davíð Gunnlaugsson. Hún telur að Framsóknarflokkurinn sé í fararbroddi við að leysa skuldamál heimilanna. Fyrir þau orð ber að þakka, sérstaklega í ljósi þess að viðkomandi þingmaður hefur nú þegar stofnað annan stjórnmálaflokk. En þess má líka geta að hv. þm. Lilja Mósesdóttir hefur verið ötul baráttukona og lagst á sveif með okkur í Framsóknarflokknum við að leiðrétta skuldir heimilanna.

Formaður Framsóknarflokksins, hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fór yfir þá tillögu til þingsályktunar sem við framsóknarmenn hér á þingi stöndum öll að. Allir þingmenn flokksins flytja þetta mál og í framsöguræðu hefur verið farið yfir það hvers vegna farin er sú leið að leggja fram þingsályktunartillögu og fela hv. efnahags- og viðskiptaráðherra að koma fram með frumvarp. Við viljum fá alla að borðinu og líka að forða því að þessi mál verði umdeild og að ekki verði ráðist á þessa tillögu okkar á sama hátt og ráðist var á efnahagstillögur okkar fyrir síðustu kosningar.

Það bar aðeins á þeim keim í andsvari frá hv. þm. Helga Hjörvar hér áðan, þar sem hann lagði eiginlega að því drög að tillagan gengi ekki upp. Hann kallaði eftir upplýsingum um kostnað og hvað þetta þýddi í útgjöldum fyrir ríkissjóð, en hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson svaraði því mjög vel. Þær upplýsingar eru einfaldlega ekki settar fram á þessum tímapunkti vegna þess að nokkrir óvissuþættir eru til staðar. Í fyrsta lagi er ekki vitað hve margir koma til með að nýta sér úrræðin, en að sjálfsögðu yrði farið nákvæmlega yfir þá greiningu í frumvarpinu sem þingsályktunartillagan boðar. Þá yrðu jafnvel, eins og gjarnan er gert í góðum frumvörpum, settar upp töflur með mismunandi forsendum.

Ég hef fulla trú á því að ef þessi þingsályktunartillaga verður samþykkt verði farið í þá vinnu, frú forseti, og lýsi því hér yfir.

Það sem mér finnst mest heillandi í þessari tillögu eru þau jákvæðu áhrif sem þessi leið hefði á íslenskt samfélag, ekki síður þá sem skulda íbúðalán. Ég nefni sem dæmi að ráðstöfunartekjur heimilanna kæmu til með að aukast sem yrði til þess að fjárfestingar og einkaneysla mundi aukast. Hv. þm. Pétur Blöndal er ekki alveg sammála þessu en það gefur augaleið að um leið og minna fjármagn fer í greiðslur á lánum hefur fólk meiri peninga á milli handanna. Þarna er líka sá hvati sem er lífsnauðsynlegur íslensku samfélagi nú, með þessari tillögu myndast hvati til að gefa allar tekjur upp til skatts. Þarna erum við bæði að forða því að fólk vinni svarta atvinnustarfsemi og taki þátt í hinu svarta hagkerfi sem hefur stóraukist frá hruni. Það sannar, svo að dæmi sé tekið, það gat sem komið er í virðisaukaskattskerfið, það vantar á milli 30 og 40 milljarða á einu ári inn í virðisaukaskattskerfið af innlendri sölu á vörum og þjónustu. Aðgerðin vinnur sem slík gegn svartri atvinnustarfsemi.

Maður heyrir sögur af því að fólk kemur til Íbúðalánasjóðs og bankastofnana og fer í greiðslumat til að kaupa íbúðarhúsnæði þar sem þarf að gefa upp tekjur. Svo segir fólk: Já, en svo er ég í þessari og þessari vinnu og hef svo og svo miklar tekjur, þær eru greiddar svart. Slíkir peningar eru ekki á borðinu. Við þurfum að fá þá upp á yfirborðið, líka til að auka jafnræði í því að allir leggi sitt til samfélagsins.

Í greinargerð með þingsályktunartillögunni kemur fram að áætlaðar vaxtabætur fyrir árið 2013 verði rúmir 12 milljarðar. Þarna værum við líka að flytja til fjármagn í sama vasanum, því að samkvæmt tillögunni sparast hluti þeirra vaxtabóta. Vaxtabætur hafa verið auknar mjög í tíð þessarar ríkisstjórnar til að koma til móts við hinar himinháu stökkbreyttu skuldir. En þá er ekki öll sagan sögð því að þar eru peningar einungis að fara á milli í stað þess að virkilega sé verið að borga lánin niður. Þessi tillaga gengur svo sannarlega út á það að borga lánin hraðar niður.

Ég vil einnig taka fram að þessi aðgerð, eins og kom fram í máli framsögumanns, felur í sér þá forsendu að lánveitendur færi lánin niður í 100%, hætti þessari óskiljanlegu 110%-leið sem hér var farin, þá er hægt að núllstilla lánin. En það kemur líka fram hér að þetta er til bráðabirgða, þessi lög sem fyrirhugað er að semja eiga einungis gilda í þrjú ár og um þau lán sem þegar hafa verið tekin. Ég hef fengið fyrirspurn um það hvort þetta gildi til framtíðar um lán sem verða tekin. Þetta er skýrt. Þetta á að gilda til þriggja ára og um þau lán sem þegar hafa verið tekin og þau sem þá þegar hafa verið flutt niður í 100% af lánastofnunum. Þannig fer að ganga á höfuðstólinn.

Andstæðingar okkar segja að þetta sé ekki nógu vel útskýrt hjá okkur og þetta sé flókin aðferð. Svo er bara alls ekki, frú forseti. Þetta er mjög einföld aðferð og hefur verið farið yfir áhrif hennar hér og fordæmi fyrir henni í framsöguræðu hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar varðandi til dæmis skattafslátt á hlutabréfakaup o.s.frv.

Rætt hefur verið um það að ekkert hafi verið gert í verðtryggingarmálum frá hruni. Við framsóknarmenn höfum staðið vörð um heimilin frá 2009, frá því að þetta þing var kosið, og lagt til margar tillögur varðandi það að taka á skuldavanda heimilanna, því má enginn gleyma. En því miður hafa tillögur okkar ekki gengið fram, líklega vegna þrjósku ríkisstjórnarinnar. En ég vil benda á það í þessari umræðu að við höfum nú þegar lagt fram tillögu um hámarkshækkun á verðtryggingu, um þak á hækkun verðtryggingar og lækkun vaxta sem verður rædd hér síðar, það er á þskj. 9, 9. mál, þannig að það er mjög framarlega í málaröðinni. Við erum hér aftur með það þjóðþrifamál að koma til móts við verðtrygginguna sem er kannski mesta ógnin við íslensk heimili. Ekki virðist vera samkomulag um það í samfélaginu að afnema verðtrygginguna með öllu þrátt fyrir að hæstv. forsætisráðherra hafi flutt frumvörp og þingsályktunartillögur um þau efni alla tíð síðan hún settist á þing eða mjög oft að minnsta kosti, mig minnir í ein 11 skipti. Nú hefur hæstv. forsætisráðherra verið forsætisráðherra í tæp fjögur ár og ekki bólar á þessu baráttumáli hennar þrátt fyrir að hún fari með forsætið í ríkisstjórninni. Þarna erum við framsóknarmenn að koma enn og aftur með tillögur til að gera fólki með verðtryggð lán lífið bærilegra á meðan verið er að vinna að því að hægt sé að afnema verðtryggingu með öllu.

Þegar þetta er tekið saman, þessi þriggja ára aðgerð í þeirri þingsályktunartillögu sem hér er til umræðu, og svo verðtryggingarfrumvarpið okkar, gætum við kannski litið fram á árið 2015 til 2016, að þá verði komin niðurstaða í þau dómsmál sem farin eru af stað og eru að fara af stað; að skera úr um það samkvæmt neytendalöggjöf Evrópusambandsins hvort verðtryggingin á íslensk lán séu flóknir afleiðusamningar sem ekki eigi stoð í lögum. Nú kemur til með að reyna á það fyrir dómstólum. Við sjáum hve langan tíma tók að leysa úr málunum með gengistryggðu lánin fyrir dómstólum og enn eru einhverjir 10 eða 11 dómar sem á eftir að leysa úr, hvort og hvernig sú hlið af lánasamningum verður leyst.

Ég gef því þrjú til fjögur ár að leyst verði úr því hvort verðtryggingin sé flókinn afleiðusamningur, en þarna erum við þá alla vega að gera tilraun til að brúa það bil þar til niðurstaða kemur í þeim dómsmálum. Miðað við það sem ég hef skoðað varðandi verðtrygginguna á neytendalán til íbúðakaupa bendir allt til þess að um flókna afleiðusamninga sé að ræða sem eru ólöglegir í neytendarétti. (Forseti hringir.) Þar af leiðandi gæti dómsmál farið á þann hátt að verðtryggingin verður dæmd ólögleg. Líklega fæst ekki niðurstaða í það fyrr en dómstólar kveða upp úr um það þrátt fyrir að einhver vilji sé til að afnema (Forseti hringir.) verðtrygginguna. Líklega þarf að dæma hana ólöglega.



[14:32]
Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Það er ánægjulegt að hefja þingveturinn á að ræða mikilvæg mál eins og það sem við ræðum hér. Það miðar að því að koma til móts við venjulegt fólk, fólk sem tók lán í aðdraganda hrunsins, fyrir hrun, og hefur þurft að horfa upp á verðtryggð lán hækka mánuð eftir mánuð, sérstaklega í kjölfar hruns krónunnar. Við framsóknarmenn höfum gagnrýnt mjög harðlega á þessu kjörtímabili sem nú er senn á enda, að skort hefur á aðgerðir til handa millistéttinni í landinu, skuldugu fólki. Þetta er fólk sem fór ekki óvarlega í aðdraganda hrunsins en er margt í miklum vandræðum vegna hrunsins og vegna tekjutaps sem fjölmargar fjölskyldur hafa lent í og vegna þess að húsnæðislánin og afborganirnar hafa hækkað.

Á sama tíma hefur þessi þjóðfélagshópur, venjulegt fólk, horft upp á að þeir sem fóru óvarlega í aðdraganda hrunsins, keyptu sér ný og flott hús, hreinsuðu jafnvel allt innan úr þeim fasteignum og endurinnréttuðu allt og skuldsettu sig gríðarlega, hafa fallið inn í áætlanir ríkisstjórnarinnar um hvernig eigi að koma til móts við skuldug heimili. Það hefur verið búið til kerfi þar sem þeir sem fóru allra óvarlegast í skuldsetningu í aðdraganda hrunsins hafa fengið aðstoð, á meðan þeir sem fóru ekki jafnskarpt fram hafa nær enga aðstoð fengið. Svo við gætum nú sanngirni hafa vaxtabætur verið hækkaðar að einhverju marki, en það breytir því ekki að höfuðstóll verðtryggðra lána hefur hækkað gríðarlega á umræddu tímabili.

Hér er komin fram tillaga frá þingflokki framsóknarmanna um að nota skattkerfið sem hvata til þess að auðvelda venjulegu íslensku fólki að greiða niður skuldir sínar með því að fara þessa leið um þriggja ára skeið. Fólki verði veitt umbun fyrir að greiða inn á húsnæðislán sín í formi einhvers konar skattafsláttar. Með því erum við í raun að styrkja innviði íslensks samfélags vegna þess að það er engin sátt í dag um það aðgerðaleysi sem þúsundir íslenskra fjölskyldna hafa horft upp á á undangengnum þremur árum.

Eins og frægt er orðið lögðum við framsóknarmenn fram tillögu í upphafi ársins 2009 um almenna leiðréttingu á húsnæðislánum landsmanna. Þá var einstakt tækifæri til þess að láta kröfuhafana axla þyngri byrðar á efnahagshruninu og létta undir með íslenskum fjölskyldum. Það tækifæri var ekki nýtt. Þess vegna þurfa stjórnmálaflokkar að upphugsa nýjar leiðir hvernig við getum komið til móts við heimilin í landinu. Þetta er viðleitni til þess.

Ég vil þakka fyrir ágætar undirtektir og vona að fulltrúar allra flokka séu tilbúnir að skoða þessa leið, kosti hennar og galla, vegna þess að menn mega ekki einvörðungu líta á hvað hún kostar í beinhörðum peningum heldur verðum við líka að líta til þeirra heildaráhrifa sem þessar aðgerðir mundu skila.

Þessi þingsályktunartillaga kveður á um að skattafslátturinn sem fólki yrði veittur yrði nýttur beint til niðurgreiðslu á höfuðstól viðkomandi fasteignaláns. Við viljum fela fjármála- og efnahagsráðherra að undirbúa lagasetningu með þessu markmiði. Þannig munum við vonandi sjá að samfélagið og fólk verði viljugra til að greiða af lánum sínum, vegna þess að með þessari leið fer fólk að sjá raunverulegan ávinning af því að strita fyrir og standa straum af rekstri húsnæðis síns.

Eins og fram hefur komið í umræðunni teljum við margt mæla með þessari leið. Við myndum jákvæðan hvata til sparnaðar. Við myndum líka, eins og hv. þm. Vigdís Hauksdóttir benti á áðan, ákveðinn hvata til þess að fólk verði viljugra að gefa upp tekjur sínar. Ég hef það á tilfinningunni og margir aðrir að svört atvinnustarfsemi hafi aukist til muna í íslensku samfélagi. Reyndar er ekki að undra í ljósi þeirra breytinga sem hafa verið gerðar á skattkerfinu að undanförnu sem við framsóknarmenn höfum mótmælt mjög harðlega vegna þess að ýmiss konar tekjutengingar, svo sem vaxtabætur og barnabætur, og breytingar á tekjuskattskerfinu sem slíku, hafa leitt af sér að það borgar sig hreinlega ekki fyrir fólk að gefa upp tekjur þegar komið er upp fyrir ákveðna krónutölu. Það er vegna þess að þá flyst viðkomandi fjölskylda í hærra skattþrep, barnabæturnar nær hverfa, vaxtabæturnar minnka. Allt miðar þetta að því að hvetja fólk til að sýna fram á að það hafi lægri tekjur en raunin er. Þessu þurfum við að berjast gegn. Mér finnst að samfélagið sé að mörgu leyti komið í það form sem það var í á 10. áratug síðustu aldar þegar hinir svokölluðu jaðarskattar bitu mjög í barnafólk og þá sem reyndu að starfa og sýna dugnað á íslenskum vinnumarkaði.

Það má líka vænta þess að vanskil muni minnka í bankakerfinu. Trúlega græða allir á því. Og með lækkandi höfuðstól húsnæðislána minnka jafnvel greiðslur ríkissjóðs vegna vaxtabótakerfisins. Að sama skapi má færa fyrir því rök að aðgerð sem þessi gæti mögulega dregið úr atvinnuleysi og aukið hagvöxt í íslensku samfélagi, ekki veitir af þegar kemur að rekstri ríkissjóðs.

Um leið og ég lýsi yfir mikilli ánægju með að við skulum vera að ræða þetta uppbyggilega mál og að flestir séu tilbúnir til að skoða hvaða leiðir eru færar til að koma til móts við venjulegt fólk í landinu þegar kemur að skuldamálum heimilanna, vil ég lýsa þeirri von minni að nú munum við ná árangri með því að ráðast í alvöru aðgerðir til þess að koma til móts við skuldug heimili.

Þetta mál er á allan hátt jákvætt. Það er lagt fram þannig að allir sem vilja, á þingi og úti í samfélaginu, geta haft áhrif á það í hvaða skrefum við tökum þetta, hvaða upphæðir er um að ræða o.s.frv. Ég vonast til þess að bragur Alþingis í vinnubrögðum í tengslum við þessa þingsályktunartillögu verði annar en þegar við mæltum fyrir flatri leiðréttingu á lánum heimila landsins árið 2009. Vonandi var mönnum alvara í þeim ræðum sem haldnar voru í umræðu um stefnuræðu forsætisráðherra að hér ætti að verða meiri samstaða á milli þingmanna. Ég ætla að trúa þeim orðum sem birtust þar í mörgum ágætum ræðum þingmanna úr öllum flokkum.

Frú forseti. Ég lýsi yfir mikilli ánægju með að við framsóknarmenn skulum hafa fengið að mæla fyrir þessari tillögu í upphafi þings. Hún sýnir hvaða áherslu við leggjum á málefni skuldugra heimila og að við viljum koma með lausnir til þess að koma til móts við þau heimili sem hafa nær enga aðstoð fengið allt frá fjármálahruni, heimili sem eiga heiður skilinn fyrir að hafa reynt að ná endum saman um hver mánaðamót á sama tíma og laun hafa hlutfallslega lækkað og fólk horft upp á aðföng hækka og lánin þar með talið.

Nú er kominn tími til aðgerða. Ég vonast til að þessi þingsályktunartillaga sem við framsóknarmenn flytjum fái jákvæða umfjöllun í efnahags- og viðskiptanefnd þingsins. Það er mjög brýnt að við vinnum þetta mál hratt. Nú verður það sent út til umsagnar til helstu hagsmunaaðila í samfélaginu. Við héldum fund á dögunum sem var vel sóttur þar sem formaður Framsóknarflokksins kynnti þessar hugmyndir og þær fengu ágætar viðtökur. Nú skulum við passa okkur á því að detta ekki ofan í gömlu hjólförin Ég vonast til þess að fulltrúar ríkisstjórnarflokkana muni ekki einungis sjá dökkar hliðar á málinu vegna þess að það eru framsóknarmenn sem flytja það, því ég hef sannfæringu fyrir því að þetta sé mál sem horfi til mikilla framfara fyrir íslenskt samfélag.



[14:42]
Lilja Mósesdóttir (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er komin í ræðustól til að taka undir nauðsyn þess að þingið sýni samstöðu og vindi sér í það verkefni að finna varanlega lausn á skuldavanda heimilanna. Því miður var ekki leitað lausna þegar við komum saman í apríl 2009. Það var reynt að gera sem minnst úr skuldavanda heimilanna og talað um að þau úrræði sem þá var búið að innleiða, m.a. frysting lána og afborgana og greiðsluaðlögun, ættu að duga. En það var alveg ljóst að skuldavandi heimilanna var miklu víðtækari en ríkisstjórnarmeirihlutinn taldi.

Ég er þeirrar skoðunar, frú forseti, að ef við hefðum farið hægar í niðurskurðinn 2009 og 2010 og innleitt 20% leiðréttingu lána stæðum við ekki í þeim sporum í dag að fjölda starfandi á vinnumarkaði hefði ekkert fjölgað frá hruni. Reyndar hefur þeim fækkað. Það er bein afleiðing af rangri efnahagsstefnu. Ástæðan fyrir því að farið var út í ranga efnahagsstefnu var ekki sú að enginn vissi betur. Nei. Framsóknarflokkurinn benti meðal annars á leið sem við hefðum átt að fara. Ég reyndi sem þingmaður í stjórnarmeirihlutanum að benda á að við þyrftum að fara mun hægar í niðurskurðinn til að eyðileggja ekki störf og fyrirtæki varanlega eins og þessar tölur um fjölda starfandi á vinnumarkaði sýna. Starfandi fólki á vinnumarkaði (Forseti hringir.) hefur nefnilega fækkað eftir hrun.



[14:44]
Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það var hárrétt sem hv. þm. Lilja Mósesdóttir sagði um þau úrræði sem skuldugum heimilum hafa boðist frá hruni. Dæmi eins og frysting lána — hvað er það? Bara frestun á vandanum. Það er bara verið, ef ég má nota svo ósmekklegt orðalag, að lengja í ólinni fyrir marga í samfélaginu. Það er engin lausn að frysta lán og höfuðstóllinn hækkar um hver mánaðamót og vandinn verður enn meiri. Hann varð enn meiri þegar því úrræði lauk hjá mörgum fjölskyldum.

Ég er líka sammála hv. þingmanni um að þessi fælni við að taka ákvörðun um að ráðast að rót vandans hefur leitt af sér mikla stöðnun í íslensku efnahagslífi. Eins og fram hefur komið hefur störfum á Íslandi fækkað á undangengnum árum. Það er með ólíkindum að áróðursmeistarar ríkisstjórnarinnar hafa gumað sig af minnkandi atvinnuleysi sem stafar kannski meðal annars af því að fólk er að hverfa af vinnumarkaðnum, fólk er að fara af atvinnuleysisbótum yfir á sveitarfélögin í landinu og það er líka að hverfa úr landi. Ef það er dæmi um velferð og minnkandi atvinnuleysi í samfélaginu, eru menn náttúrlega að mála raunveruleikann allt öðruvísi en hann er í raun og veru.

Þannig að ég spyr hv. þingmann hvort hún telji ekki að það eigi að skoða þessa hugmynd, þennan hvata fyrir fólk að geta greitt inn á höfuðstól lána og fengið þar með einhverja umbun í skattkerfinu, hvort hún gæti leitt til þess að við náum meiri sátt — ég segi ekki algjörri sátt en meiri sátt — fyrir það fólk sem hefur orðið algjörlega útundan í lausn á vanda skuldugra heimila eftir efnahagshrunið 2008.



[14:46]
Lilja Mósesdóttir (U) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef sagt hér áður í umræðunni að ég fagna tillögu Framsóknarflokksins um að veita skattafslátt vegna innborgana á m.a. fasteignalán og eigi, að því er mér skilst, að takmarkast við verðtryggð fasteignalán. Ég held að það verði hvati til þess að greiða hraðar niður lán. Það sem ég óttast er að ríkisstjórnin muni nota þetta úrræði til að taka á skuldavanda heimilanna sem dugar ekki. Það er alveg ljóst, og ég held að það sé líka ljóst í huga framsóknarmanna, að þessi leið hjálpar mörgum en kannski flestum of lítið til að koma þeim út úr skuldavandanum. Það þarf aðrar leiðir.

Því vil ég spyrja hv. þm. Birki Jón Jónsson hvort það sé ekki enn stefna Framsóknarflokksins að það þurfi að fara í 20% almenna leiðréttingu á fasteignalánum eða hvort breyttar aðstæður geri það að verkum að sú leið sé ekki lengur fær.



[14:48]
Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Mér þykir miður að hv. þingmaður hafi ekki tök á því að koma aftur hingað upp til að bregðast við því svari sem ég ætla að veita henni hér, en veit að við eigum eftir að ræða skuldavanda heimilanna ítarlega á þessu haustþingi. Þetta er eitt af forgangsmálum okkar framsóknarmanna. Ég veit að hv. þingmaður hefur sömu löngun til að ræða þessi mál frekar í þinginu.

Ég tek það fram að við framsóknarmenn erum síður en svo að segja skilið við það að aðstoða skuldug heimili með því að leggja bara þessa hugmynd fram, hún er hluti af lausninni. Munurinn á þeirri leið sem við mæltum fyrir í ársbyrjun 2009 — og ég veit að hv. þingmaður er mér sammála — er að þá gátum við látið kröfuhafana axla algjörlega þann kostnað sem flöt leiðrétting lána skilaði en nú er veruleikinn aðeins öðruvísi. Við þurfum að skoða með hvaða hætti við getum haldið áfram að koma til móts við skuldug heimili. Þetta er innlegg í þá umræðu. Við eigum eftir að átta okkur fyllilega á því hversu marga milljarða við viljum verja til að hvetja skuldug heimili til þess að greiða inn á höfuðstól lána sinna og hljóta þá umbun sem fylgir því og við viljum nota skattkerfið í.

Ég minni á að við erum ekkert að finna upp hjólið í þessum efnum. Fyrir hrun voru til að mynda veittir afslættir til hlutabréfakaupa þannig að þetta er engin ný leið. Við erum að mínu mati að takast á við erfiðasta vanda samfélagsins í dag, sem snertir tugþúsundir fjölskyldna, og koma til móts við erfiða stöðu þeirra og þann drunga sem fylgir því að horfa upp á húsnæðislán sín hækka mánuð eftir mánuð, alveg sama hvað fólk borgar.

Ég tel að við hv. þingmaður séum sammála um að við þurfum að halda áfram að grípa til róttækra aðgerða til að koma til móts við skuldug heimili.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til efh.- og viðskn.