Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 4. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 4  —  4. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um frádrátt á tekjuskatti vegna afborgana af fasteignalánum einstaklinga.


Flm.: Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Ásmundur Einar Daðason, Birkir Jón Jónsson, Eygló Harðardóttir, Gunnar Bragi Sveinsson, Höskuldur Þórhallsson,
Sigurður Ingi Jóhannsson, Siv Friðleifsdóttir, Vigdís Hauksdóttir.


    Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra að láta undirbúa lagasetningu með það að markmiði að beita skattkerfinu til að létta á húsnæðisskuldum almennings á þann hátt að afborganir af fasteignalánum einstaklinga verði frádráttarbærar frá tekjuskatti upp að ákveðnu marki. Andvirði skattafsláttarins verði nýtt beint til niðurgreiðslu höfuðstóls viðkomandi fasteignaláns. Lögin gildi tímabundið í þrjú ár. Miðað yrði við breytingu á höfuðstól skulda samkvæmt skattframtali.

Greinargerð.

    Skuldavandi íslenskra heimila er enn mikill, fjórum árum eftir bankahrunið. Ríkisstjórnin hefur ítrekað haldið því fram að ekki verði meira gert til að koma til móts við skuldug heimili. En staðreyndin er sú að þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur gripið til ná ekki nægilega langt. Aðgerðir stjórnvalda hafa haft letjandi áhrif á greiðsluvilja almennings en mikilvægt er að byggja inn greiðsluhvata.
    Almennar aðgerðir eru enn mögulegar. Það er nauðsynlegt að vinna áfram að raunverulegum lausnum á skuldavanda heimilanna, ekki síst lausnum fyrir þann hóp sem orðið hefur út undan, t.d. það fólk sem að mestu hefur getað staðið í skilum með verðtryggðu húsnæðislánin en hefur horft á eigið fé og sparifé sitt brenna upp vegna þess.
    Það er ljóst að í dag eru ekki sömu aðstæður í fjármálakerfinu og árið 2009 þegar mikil tækifæri voru til almennrar skuldaleiðréttingar en stjórnvöld kusu að nýta ekki. Samt sem áður eru ýmsar leiðir mögulegar sem vert er að skoða.
    Hér er lagt til að Alþingi feli fjármála- og efnahagsráðherra að láta semja frumvarp til laga um að afborganir af fasteignalánum einstaklinga verði frádráttarbærar frá tekjuskatti, upp að ákveðnu marki. Aðgerðin taki aðeins til lána sem þegar hafa verið tekin og tryggja þarf að aðilar taki ekki ný lán til að endurgreiða gömul.
    Skattafslátturinn greiðist inn á höfuðstól lánsins og færir hann hraðar niður en annars hefði verið. Auk þess gætu þeir sem eiga möguleika á því greitt meira inn á lán sín og fengið skattafslátt upp að ákveðnu hámarki.
    Helstu kostir við löggjöf af þessu tagi eru m.a.:
          Jákvæður hvati myndast til sparnaðar.
          Skuldastaða heimila verður mun betri.
          Lánveitandi verður í betri stöðu þar sem greiðslugeta skuldara verður meiri.
          Losar um lánasöfn, sem gerir lánveitendum betri möguleika á að lána aðilum með góða greiðslugetu, sem ætti að setja lækkunarþrýsting á langtímavexti til heimila.
          Ráðstöfunartekjur heimila aukast sem leiðir til þess að fjárfestingar og einkaneysla mun aukast. Auk þess verður aukning í ráðstöfunartekjum varanleg með lægri skuldastöðu.
          Hvati myndast til þess að gefa upp tekjur til skatts. Aðgerðin vinnur því gegn svartri atvinnustarfsemi.
    Ríkissjóður þyrfti að taka á sig kostnað vegna þessa en taka verður tillit þess að aukin fjárfesting og einkaneysla skapar beinar skatttekjur auk þess að skapa atvinnu. Þannig getur aðgerðin dregið úr atvinnuleysi og aukið hagvöxt. Einnig sparast hluti vaxtabóta á móti kostnaði, en vaxtabætur árið 2013 verða 12,1 milljarður kr. samkvæmt fjárlögum.
    Samhliða þessum aðgerðum stjórnvalda færa lánveitendur lán niður í 100% af verðmæti fasteignar. Aðgerðir ríkissjóðs bæta stöðu lánveitenda og því er eðlileg krafa að þeir komi til móts við skuldara.
    Slík leiðrétting eykur hlutfallslegt virði lánsins fyrir lánveitanda. Sé þetta gert hvetur ríkissjóður lántaka með afslætti á tekjuskatti til þess að greiða inn á lán. Það mun auk þess hvetja til fjárfestinga og einkaneyslu sem gefur ríkinu tekjur til baka. Það bætir hag allra.
    Skuldir eru mikið vandamál. Skuldakreppa eins og ríkt hefur í Japan síðastliðin 20 ár leiðir til stöðnunar hvert sem litið er til. Slík stöðnun hefur lamandi áhrif á efnahagskerfið og rýrir lífskjör. Nú þarf að róa að því öllum árum að íslenskt efnahagslíf komist út úr kreppunni. Þessi leið er liður í því að höggva á skuldahnútinn með jákvæðum hvata sem leiðir til aukinna umsvifa og hagvaxtar. Eftir sem áður þarf að leita allra leiða til ná samkomulagi um aðrar almennar aðgerðir.