141. löggjafarþing — 85. fundur.
Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu, 2. umræða.
stjfrv., 194. mál (heildarlög). — Þskj. 197, nál. 1040, brtt. 1041.

[11:35]
Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Skúli Helgason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar um frumvarp til laga um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu.

Hér er um að ræða góðkunningja þingheims, frumvarp sem var lagt fram á síðasta þingi. Meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar kláraði vinnu við það mál, lagði fram nefndarálit og breytingartillögu en frumvarpið komst þá ekki á dagskrá. Ég fagna því að málið sé komið á dagskrá nú. Það hefur fengið mikla og ítarlega umfjöllun í nefnd og um það verið prýðileg samstaða og allir nefndarmenn hafa lagt þar gott til málanna.

Með þessu frumvarpi er lagt til að lögfest verði ný heildarlöggjöf um Ríkisútvarpið með tilliti til þeirrar reynslu sem fengist hefur af gildandi lögum um Ríkisútvarpið ohf. frá árinu 2007. Jafnframt er tilefni þessa frumvarps athugasemdir Eftirlitsstofnunar EFTA um tilhögun ríkisaðstoðar, en þessu frumvarpi er ætlað að afmarka betur ákvörðun íslenskra stjórnvalda um það hvað felist í fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu með það að leiðarljósi að skapa traustari grundvöll og aðskilnað á milli almannaþjónustuhlutverks Ríkisútvarpsins annars vegar og þeirrar starfsemi sem telst til samkeppnisrekstrar hins vegar.

Ég mun í framsögu minni beina athyglinni sérstaklega að þeim breytingartillögum sem meiri hlutinn leggur til á frumvarpinu og vísa að öðru leyti í það nefndarálit sem meiri hlutinn hefur lagt fram.

Í fyrsta lagi vil ég vekja athygli á því að í 2. tölulið 1. mgr. 3. gr. er fjallað um hlutverk Ríkisútvarpsins og þá sérstaklega með vísan til þjónustu við alla landsmenn. Þar kemur fram að Ríkisútvarpið skuli gera ráðstafanir til að hægt sé að flytja fréttir og framleiða efni utan höfuðborgarsvæðisins. Meiri hlutinn leggur mjög mikla áherslu á þetta atriði í þjónustu Ríkisútvarpsins og hnykkir á því í breytingartillögu sinni að mikilvægt sé að Ríkisútvarpið komi sér upp fastri starfsemi á völdum svæðum á landsbyggðinni án þess að hlutast til um það nákvæmlega með hvaða hætti það skuli gert. Við þekkjum það öll í þessum sal að Ríkisútvarpið hefur haldið úti starfstöðvum á landsbyggðinni til lengri og skemmri tíma. Starfsemi og fjöldi hefur verið mismunandi eftir tímabilum og það er afar mikilvægt að Ríkisútvarpið hafi áfram metnað til þess að flytja bæði fréttir af landsbyggðinni og halda úti dagskrárgerð sem miðlar til allrar þjóðarinnar menningu og mannlífi í öllum landshlutum.

Í öðru lagi vil ég leggja áherslu á breytingartillögu sem fjallar um það að Ríkisútvarpið setji sér sérstaka öryggisstefnu og fylgi henni. Þetta er samkvæmt ábendingu frá Póst- og fjarskiptastofnun sem í umsögn sinni vakti athygli á því að ekki væri að finna í frumvarpinu neina skilgreiningu á tæknilegum gæðum þeirrar þjónustu sem Ríkisútvarpinu bæri að veita, t.d. með tilliti til móttökuskilyrða. Meiri hlutinn tekur undir þau sjónarmið Póst- og fjarskiptastofnunar og leggur til að Ríkisútvarpið skuli setja sér öryggisstefnu um órofinn rekstur hljóðvarpsþjónustu um land allt og á næstu miðum.

Við vitum að Ríkisútvarpið býr yfir miklum menningarverðmætum sem geymd eru í safni útvarpsins. Meiri hlutinn telur afar mikilvægt, og raunar nefndin öll, að aðgengi almennings að þessu safnaefni Ríkisútvarpsins sé tryggt, bæði fyrir einstaklinga sem vilja fá afrit af því efni sem þar er til eigin nota og sömuleiðis að eðlilegt aðgengi sé fyrir þá sjálfstæðu framleiðendur sem vilja nýta þetta efni til framleiðslu á myndefni í til dæmis sjónvarpsþætti eða kvikmyndir. Við hnykkjum á þessu í breytingartillögu nefndarinnar.

Sömuleiðis í samhengi við umræðu um sjálfstæða framleiðendur er meiri hlutinn með áréttingu á því að mikilvægt sé að í þjónustusamningi stjórnvalda og Ríkisútvarpsins komi sérstaklega fram og sé tryggt tiltekið lágmarkshlutfall dagskrárefnis sem keypt sé af sjálfstæðum framleiðendum og meiri hlutinn áréttar í nefndaráliti að slíkt hlutfall skuli …

(Forseti (ÞBack): Gefa ræðumanni hljóð.)

… að lágmarki vera 10% en það mun vera í kringum 6% um þessar mundir.

Virðulegi forseti. Þá er komið að þeim þætti nefndarálits sem lýtur að umfjöllun Ríkisútvarpsins um kosningar, hvort sem um er að ræða alþingiskosningar, forsetakosningar eða þjóðaratkvæðagreiðslur. Þar er frá því að segja að í kjölfar álits meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar um annað frumvarp, frumvarp til fjölmiðlalaga á sínum tíma, þá lagði nefndin fram tillögu um að stofnuð yrði nefnd til að fjalla um athugasemdir Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu varðandi aðgengi stjórnmálahreyfinga og frambjóðenda að fjölmiðlum í aðdraganda kosninga. Sú nefnd hefur verið að störfum undanfarið og lýkur störfum á allra næstu dögum. Hún hefur meðal annars haft til umfjöllunar fyrirbærið „gjaldfrjáls útsendingartími“, þ.e. „free airtime“ upp á enska tungu, sem er þekkt úrræði í ýmsum ríkjum í kringum okkur. Þarna vegast á sjónarmið annars vegar um jafnt aðgengi stjórnmálahreyfinga og framboða að ríkismiðlinum til þess að kynna stefnumál sín og hins vegar þau sjónarmið að Ríkisútvarpið þurfi að standa vörð um og hafa tryggt ritstjórnarlegt sjálfstæði yfir ekki síst því efni sem lýtur að umfjöllun um samfélagsmál og er mikilvægt að löggjafinn sé ekki með íhlutun í það ritstjórnarvald Ríkisútvarpsins.

Við ræddum þetta fram og til baka. Í fyrsta lagi var dregið fram að Ríkisútvarpið hefur á undanförnum áratugum, allt frá byrjun áttunda áratugarins, ef ég fer rétt með, boðið stjórnmálahreyfingum upp á tíma í dagskrá sinni til kynningar á stefnumálum sínum fyrir kosningar. Það er ekki lengra síðan en í kosningunum 2007 sem þetta fyrirkomulag var viðhaft og þá var flokkunum boðið upp á að vera þar með kynningar á stefnumálum sínum sem voru í kringum 15 mínútur, ef ég man rétt. Í síðustu alþingiskosningum 2009 féll þessi dagskrárliður hins vegar niður og mun það hafa verið út af mismunandi sjónarmiðum flokkanna um hvort þeir hefðu áhuga á því að nýta sér þessa þjónustu Ríkisútvarpsins. Það er vissulega gagnrýnisvert og var viðurkennt af forsvarsmönnum Ríkisútvarpsins í umfjöllun nefndarinnar að þarna hefðu verið gerð ákveðin mistök, að í reynd hefði með þessu fyrirkomulagi ríkjandi flokkum á þingi, stóru flokkunum, verið fært eiginlegt neitunarvald gagnvart því að minni framboð og ný framboð gætu kynnt sig sem skyldi í Ríkisútvarpinu. Þetta er að sjálfsögðu gagnrýnisvert og var viðurkennt í umfjöllun nefndarinnar að væri ekki til eftirbreytni.

Það er mat meiri hlutans að óumdeilt sé að frjáls útsendingartími í sjónvarpi hafi mjög mikla þýðingu fyrir stjórnmálahreyfingar sem bjóða fram í almennum kosningum og leita eftir umboði kjósenda og yfir allan vafa sé hafið að sjónvarpið sé ein áhrifaríkasta leiðin til þess að ná til kjósenda í kosningabaráttu. Hins vegar leggjum við mikla áherslu á ritstjórnarlegt sjálfstæði Ríkisútvarpsins í þessum efnum og er niðurstaða okkar sú að við eigum ekki að stíga yfir þau mörk að hlutast til um það hvernig Ríkisútvarpið útfærir þá skyldu að veita jafnt aðgengi framboða að dagskránni. Útfærslan sé þá með þeim hætti að Ríkisútvarpið gæti þess að jafnræðis verði gætt meðal framboða, þau fái tækifæri til að kynna stefnumál sín í hefðbundnum dagskrártíma Ríkisútvarpsins en efnið skuli lúta ritstjórnarvaldi Ríkisútvarpsins.

Virðulegi forseti. Ég vil næst vekja athygli á breytingartillögu við 6. gr. frumvarpsins sem fjallar um textun og táknmálstúlkun. Í þeirri grein er kveðið sérstaklega á um aðgengi heyrnarskertra að sjónvarpsdagskrá Ríkisútvarpsins. Þetta ákvæði er merkilegt nýmæli. Þar er gerður sá áskilnaður að Ríkisútvarpið skuli veita heyrnarskertum aðgengi að fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu með textun á sjónvarpsefni, með textavarpi, útsendingum á táknmáli og/eða öðrum miðlunarleiðum sem henta kunna í þessu skyni og eru í samræmi við tæknilega möguleika á hverjum tíma. Meiri hlutinn leggur til þá breytingu að sérstaklega verði kveðið á um það að Ríkisútvarpið skuli texta fréttir, fréttaefni og eftir atvikum annað dagskrárefni þar sem um sé að ræða brýnt jafnréttismál fyrir hluta þjóðarinnar. Við vísum þar í álitinu meðal annars til nýsamþykktra laga um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls þar sem segir að íslenskt táknmál sé fyrsta mál heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra og að stjórnvöld skuli hlúa að því og styðja.

Eitt af því sem er veigamikið í þessu frumvarpi eru ákvæði um takmarkanir á veru Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði. Það þarf ekki að fjölyrða um að árum saman hefur tvíeðlið varðandi fjármögnun Ríkisútvarpsins verið gagnrýnt. Útvarpið hefur annars vegar fengið hlutdeild af almannafé í gegnum afnotagjöld á sínum tíma og í gegnum útvarpsgjald, eins og það er útfært í dag, og hins vegar haft umtalsvert hlutfall af tekjum sínum í gegnum auglýsingar.

Nokkur afgerandi skref eru stigin í þessu frumvarpi til þess að koma til móts við þau sjónarmið að mikilvægt sé að þrengja ekki svo að einkafjölmiðlum á markaðnum að þeir eigi erfitt með að þrífast í ljósi umfangs Ríkisútvarpsins á sama markaði. Við þessu er brugðist með þrennum hætti: Í fyrsta lagi er sett þak á auglýsingatímann þannig að Ríkisútvarpinu er óheimilt að vera með auglýsingar sem eru umfram átta mínútur á hverjum klukkutíma, í öðru lagi er lagt bann við að slíta í sundur dagskrárliði með auglýsingum og í þriðja lagi bann við kostun. Tilteknar undanþágur eru heimilar á þessum tveimur síðari liðum, en meiri hlutinn ákvað í vinnu sinni að skerpa á undanþáguákvæðunum og þrengja þau.

Niðurstaðan er sú að við leggjum til að einungis verði kostun heimil þegar um er að ræða útsendingu á íburðarmiklum dagskrárliðum sem eru sérstaklega nefndir í greinargerð frumvarpsins og áréttaðir í nefndaráliti meiri hlutans og er þá verið að fjalla um stórviðburði eins og Ólympíuleika, heimsmeistara- og Evrópumót í knattspyrnu- og handknattleik og Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, þar á meðal undankeppnina sem kölluð er Söngvakeppni Sjónvarpsins hér heima. Það er álit meiri hlutans að þetta undanþáguákvæði beri að túlka þröngt og ná fyrst og fremst til þeirra viðburða sem að framan greinir.

Hin undanþágan frá banninu við kostun lýtur að innlendu íþróttaefni en nokkur gagnrýni kom fram á ákvæðið, og var henni miðlað til nefndarinnar í umsögnum aðila úr íþróttahreyfingunni, þess efnis að ljóst væri að sýnileiki ýmissa íþróttagreina, t.d. mót sem tengjast kvennaíþróttum og börnum og ungmennum, gæti valdið greinunum miklum skaða ef heimild til kostunar á efni þeirra félli alfarið út. Meiri hlutinn tekur undir þau sjónarmið og tekur tillit til þeirra í breytingartillögu sinni.

Rétt er að árétta að í frumvarpinu er kveðið á um að Ríkisútvarpið skuli setja reglur um auglýsingar eða viðskiptaboð í miðlum sínum, birta gjaldskrá fyrir þessar auglýsingar opinberlega, gæta jafnræðis milli viðskiptamanna og gæta að því að afsláttarkjör viðskiptamanna séu í fyrsta lagi gagnsæ og standi í öðru lagi öllum viðskiptamönnum til boða fyrir sambærilegt umfang viðskipta.

Talsverðar breytingar eru í frumvarpinu á stjórn Ríkisútvarpsins. Veigamest er sú tillaga að taka upp armslengdarfjarlægð frá löggjafarvaldinu gagnvart beinni skipan í stjórn Ríkisútvarpsins. Fyrirkomulagið verður með þeim hætti í framhaldinu, ef frumvarpið nær fram að ganga, að Alþingi eða allsherjar- og menntamálanefnd skipar þrjá fulltrúa af fimm í sérstaka valnefnd sem síðan mun koma með tilnefningar um hverjir skuli skipa stjórn Ríkisútvarpsins þannig að tekið verði fyrir það fyrirkomulag að stjórnarmenn séu skipaðir beint með samþykkt Alþingis og tilnefningu flokka. Ég tel að þetta sé veigamikil og farsæl breyting enda er mikilvægt að armslengdarfjarlægð sé á milli hins pólitísk valds og Ríkisútvarpsins svo sem kostur er.

Það eru ákvæði í nefndarálitinu og breytingartillögum sem fjalla um innra eftirlit og gæðamál annars vegar og hins vegar eftirlit og mat, sem ekki er þörf á að eyða mörgum orðum í, en við erum þar að koma til móts við sjónarmið umsagnaraðila, m.a. að auka þann tíma sem fjölmiðlanefnd hefur til þess að leggja mat á það hvort Ríkisútvarpið hafi uppfyllt almannaþjónustuhlutverkið.

Ég vil síðan víkja nokkrum orðum að 16. gr. frumvarpsins sem fjallar um nýja fjölmiðlaþjónustu og heimild til Ríkisútvarpsins til að setja á fót tilraunaþjónustu í afmarkaðan tíma. Annars vegar er um að ræða tímabundna þjónustu til að þjóna ákveðnum lýðræðislegum, menningarlegum eða samfélagslegum þörfum og hins vegar þjónustu sem áætlað er að þróa frekar.

Við meðferð málsins í nefnd kom fram nokkur gagnrýni á ákvæði í 4. mgr. 16. gr., sem fjallar um tilraunaþjónustu í allt að 24 mánuði án sérstakrar heimildar. Og þó að meiri hlutinn bendi á að mikilvægt sé að Ríkisútvarpið hafi þessa heimild til að prófa nýja þjónustu sé mikilvægt að um hana gildi skýrar reglur og afmarkað sé að þarna sé ekki farið af stað með óljós fyrirheit eða með þjónustu sem kann að raska samkeppnisumhverfi á fjölmiðlamarkaðnum. Það er mat meiri hlutans að hér eigi einkum að vera um að ræða þjónustu sem hefur ekki viðskiptalegt gildi, fremur þjónustu sem eykur möguleika Ríkisútvarpsins á að þróa nýmiðlun. Vissulega er afar mikilvægt að Ríkisútvarpið hafi svigrúm til þess að geta verið með tilraunir rétt eins og ríkisfjölmiðlar í öðrum löndum hafa haft en engu að síður telur meiri hlutinn rétt að þær lúti tilteknum skilyrðum og afmörkunum og leggur fram breytingartillögu þess efnis.

Ég vil að öðru leyti árétta að ég tel að þetta sé afar mikilvægt frumvarp sem komi til móts við sjónarmið um að Ríkisútvarpið sé lykilfjölmiðill í landinu sem hafi ríku lýðræðis-, menningar- og samfélagslegu hlutverki að gegna, hlutverki sem er kannski mikilvægara en nokkru sinni fyrr í ljósi þess umróts sem hefur verið í samfélagi okkar eftir hrun, og þá kröfu almennings að vera enn betur upplýstur um samfélagsmálefni, um málefni stjórnvalda en dæmi eru um í seinni tíma sögu lýðveldisins.

Ég vil að lokum þakka öllum nefndarmönnum kærlega fyrir afar góða vinnu við þetta frumvarp, bæði á þessu þingi og því fyrra. Undir þetta áliti meiri hlutans rita Björgvin G. Sigurðsson, sá sem hér stendur, Þráinn Bertelsson, Sigmundur Ernir Rúnarsson, Ólafur Þór Gunnarsson, Siv Friðleifsdóttir, með fyrirvara, og Birgitta Jónsdóttir. Ég þakka öllum þessum fulltrúum fyrir störf þeirra í þágu þessa máls og sömuleiðis fulltrúum Sjálfstæðisflokksins sem lögðu gott til málsins þó að þeir rituðu ekki undir þetta álit.



[11:54]
Frsm. minni hluta allsh.- og menntmn. (Þorgerður K. Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Skúla Helgasyni fyrir framsögu hans og um leið fyrir vinnuna í nefndinni sem hefur verið mjög upplýsandi. Það er hins vegar alveg ljóst að við deilum ekki nákvæmlega sömu skoðun á því hvert hlutverk Ríkisútvarpsins er og á að vera í íslensku samfélagi. Þess vegna er ég til að mynda ekki sammála áliti meiri hlutans því að það er margt sem við þurfum að fara yfir og ég mun koma að í ræðu minni á eftir.

Við fórum meðal annars aldrei yfir það í nefndinni hvort við ættum ekki einfaldlega að stokka þetta almennilega upp, burt séð frá forsögu málsins, og reyna að takmarka hlutverkið enn betur. Það var margítrekað, ekki bara af minni hálfu heldur m.a. þeirra gesta sem komu á fund nefndarinnar, að hlutverk Ríkisútvarpsins í málinu eins og það er lagt fyrir er enn þá allt of víðtækt. Það kom fram við 1. umr. málsins í samræðum við hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra hvort ekki væri hægt að takmarka það.

Að vissu leyti er verið að reyna að gera það með ákveðnum tillögum frá nefndinni en ég velti því fyrir mér hvort hv. þm. Skúli Helgason geti sagt mér hvort hann sjái Ríkisútvarpið í samhengi við til dæmis danskan veruleika. Er Ríkisútvarpið að hans mati nær Danmarks Radio eða er það nær TV2, sem er reyndar líka í eigu danska ríkisins? Hvar vill hv. þingmaður staðsetja Ríkisútvarpið á þeim markaði? Það er svo einkennilegt að við í þessu máli lesum að verið er að rökstyðja ákveðnar breytingar, alls ekki allar, með vísun til Norðurlandanna, m.a. það að reyna að fá starfsmenn í stjórn stofnunarinnar. Á móti kemur að við megum ekki ræða að taka Ríkisútvarpið almennilega út af auglýsingamarkaði eða takmarka það enn frekar en er verið að gera í málinu.

Ég vil því spyrja hv. þingmann: Er fyrirmynd Ríkisútvarpsins Danmarks Radio eða TV2?



[11:56]
Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Skúli Helgason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt að ekki sé stigið skref í að þrengja verulega að Ríkisútvarpinu eða afmarka hlutverk þess frá því sem verið hefur hvað varðar innihald dagskrár eða það verkefni sem því er úthlutað. Það er ekki rétt að við höfum ekki rætt það í nefndinni. Við fórum yfir umræðuna og veltum fyrir okkur þeim möguleikum en það voru reyndar engar tillögur, þannig að það sé sagt, sem komu frá nefndarmönnum um neinar breytingar á þeim ákvæðum um hlutverk Ríkisútvarpsins um hvernig ætti að þrengja það ef menn vildu stíga slík skref. Ég er fyrir mitt leyti áhugasamur um að sú umræða fari fram og menn velti fyrir sér hvernig það mundi líta út en ég hef ekki heyrt, og það kom aldrei fram í umfjöllun nefndarinnar um málið, neinar tillögur í því efni.

Hv. þingmaður spyr um fyrirmynd að þeirri leið sem er valin hér. Ég hef fyrst og fremst þá skoðun að Ríkisútvarpið eigi að þjóna íslenskum veruleika eins og hann er. Það á að vera fyrirmyndarfjölmiðill að því leyti að hann hafi metnað til að sinna innlendri dagskrárgerð, sinna íslenskri menningu úti um allt land en sérstaklega þó rækja lýðræðishlutverk sitt í því efni að flytja hlutlægar og ábyrgar fréttir af samfélagsmálum, gæta þar jafnræðis milli ólíkra sjónarmiða og hafa í huga að Ríkisútvarpið hefur í ljósi útbreiðslu sinnar og mikils stuðnings meðal þjóðarinnar aðstöðu sem enginn annar fjölmiðill í landinu hefur til að koma góðu til leiðar, ef svo má segja, í sambandi við vandaða umfjöllun um samfélagsmálefni. Það er kannski kjarni málsins. RÚV þarf að endurspegla og gefa almenningi betri innsýn í íslenskan veruleika eins og hann er í dag en ekki endilega taka mið af (Forseti hringir.) af erlendum fjölmiðlum.



[11:58]
Frsm. minni hluta allsh.- og menntmn. (Þorgerður K. Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er einfaldlega ekki rétt að ekki hafi verið farið sérstaklega yfir hvort við ættum ekki að fara í að reyna að þrengja hlutverk Ríkisútvarpsins, það voru bara engar undirtektir af hálfu hv. nefndarmanna. Ef menn voru að bíða sérstaklega eftir tillögum hefði fyrsta skrefið verið að segja: Já, við erum reiðubúin til að fara gaumgæfilega yfir það að reyna að takmarka hlutverk Ríkisútvarpsins. Á það var ekki hlustað. Ýmsum öðrum breytingum hefur þó sem betur fer verið tekið vel og ég vil segja, og mun koma að því á eftir, að sumt er jákvætt varðandi ýmsa aðra þætti.

Ég vil spyrja hv. þingmann: Telur hann einhverja hættu á því varðandi 16. gr. — sem ég óttast svolítið þrátt fyrir skýran texta nefndarinnar um að þá grein beri að skýra þröngt — óttast hv. þingmaður að Ríkisútvarpið geti farið svolítið út fyrir sitt svið og hugsanlega farið inn á samkeppnisrekstur? Mun hann sem væntanlegur þingmaður á komandi þingi fylgja því eftir að (Forseti hringir.) Ríkisútvarpið fari að lögum, skilgreini og fari að (Forseti hringir.) þröngri túlkun löggjafans eins og ætlunin er af hálfu nefndarinnar?



[11:59]
Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Skúli Helgason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem ég vildi leggja áherslu á í máli mínu og fyrra andsvari við hv. þingmann var að það komu ekki fram neinar breytingartillögur, neinar tillögur frá fulltrúum Sjálfstæðisflokksins í nefndinni varðandi þrengri skilgreiningu á hlutverkinu. Það er kjarni málsins. Við ræddum þetta í nefndinni, það var ekkert sérstakt áhugamál hjá meiri hlutanum að þrengja að Ríkisútvarpinu í því efni. Ég nefndi áðan að ég er tilbúinn að hlusta á öll sjónarmið og skoða allar tillögur sem kunna að vera skynsamlegar í því efni en þær komu aldrei fram.

Varðandi 16. gr. tek ég undir það með hv. þingmanni að við eigum að fara mjög varlega í því að veita opnar heimildir til Ríkisútvarpsins varðandi það að breiða úr sér yfir á ný lönd, ef svo má segja. Það var ástæðan fyrir því að við töldum mikilvægt að þrengja heimildina og setja inn skilyrðingar varðandi þá (Forseti hringir.) heimild sem stofnunin hefði í því efni.



[12:01]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir yfirferðina á nefndarálitinu þó að ég sakni þess dálítið að ekki skuli vera fjallað um fjárhagslega aðskilnaðinn sem hefur verið töluvert til umræðu og var mikið til umræðu í 1. umr.

Ég verð að lýsa yfir miklum vonbrigðum með að ekki skuli vera tekið tillit til umsagnar hv. fjárlaganefndar, þar sem fjárlaganefnd vinnur að því að taka svokallaða markaða tekjustofna og setja í ríkissjóð. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að í upphafi árs 2014, þ.e. eftir tæpt ár, aukist ríkisútgjöldin til Ríkisútvarpsins um 875 milljónir og á sama tíma fáum við fregnir af neyðarástandi á Landspítalanum, neyðarástandi á heilbrigðisstofnunum, en samt á að fara í þessa vegferð, með fullri virðingu fyrir starfsemi Ríkisútvarpsins.

Þegar menn tala um sjálfstæði stofnunarinnar þá blæs ég auðvitað á þá umræðu, algjörlega. Við getum þá alveg eins tekið umræðu sem snýr að Hæstarétti og öðrum þeim þáttum sem snúa þar að. Ég vil spyrja hv. þingmann — því að nú er verið að vinna að svokölluðum rammafjárlögum um að menn setji viðkomandi ráðuneyti fjárhagsramma — ef menn ætla að auka útgjöldin um tæpar 900 milljónir frá og með upphafi næsta árs hvar á þá að skera niður í sambærilegum málaflokki undir því ráðuneyti? Hvar á að skera niður? Engar hugmyndir eru um það hér. Það er bara verið að ausa peningum úr ríkissjóði, tæpum 900 milljónum. Verið er að auka útgjöldin til Ríkisútvarpsins um 27%, sisvona, á sama tíma og okkur berast fregnir af því neyðarástandi sem er á Landspítalanum og fleiri stöðum. Er það kannski til þess að Ríkisútvarpið geti þá flutt allar fréttir af því neyðarástandi sem er á þeim stofnunum? Hver er eiginlega hugsunin á bak við þetta? Það veldur mér miklum vonbrigðum að ábendingar hv. fjárlaganefndar skuli ekki hafa verið teknar til athugunar. (Forseti hringir.) Ég kalla eftir útskýringum hv. þingmanns á því.



[12:03]
Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Skúli Helgason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ásbirni Óttarssyni fyrir fyrirspurnina. Hann nefnir reyndar ekki að ástæðan fyrir því að Ríkisútvarpið sér fram á auknar tekjur, þegar og ef frumvarpið verður að lögum, er sú að það er virt að með útvarpsgjaldi sem lagt er á gjaldendur í landinu er verið að rukka inn gjald sem á að renna til þeirrar almannaþjónustustofnunar sem uppfræðir almenning um samfélagsleg málefni til að gefa því í raun og veru einhvern grundvöll til að geta tekið meðal annars ákvarðanir um afstöðu til stjórnmálahreyfinga í landinu.

Praxísinn hefur hins vegar verið sá afar lengi að einungis hluti af útvarpsgjaldinu hefur skilað sér til Ríkisútvarpsins þannig að þessi skattlagning á almenning í tilteknum tilgangi hefur ekki skilað sér sem skyldi til almennings. Og það er ein af breytingunum sem menn horfa fram á. Reyndar hef ég lagt áherslu á, og það er einn tilgangur meiri hlutans í afgreiðslu sinni á málinu og þeim breytingartillögum sem koma fram, að tryggja að betra jafnræði verði á þessum markaði, bæði að Ríkisútvarpið geti dafnað, því að það gegnir afar mikilvægu hlutverki í samfélaginu og miklu mikilvægara en mér heyrist hv. þingmaður viðurkenna, og sömuleiðis að einkaaðilar fái aukið svigrúm til að dafna. Við þekkjum það öll, ekki síst þegar hart er í ári eins og verið hefur eftir hrun, að rekstrarumhverfi fjölmiðlanna er mjög viðkvæmt.

Það munu því fara 300–400 milljónir af auglýsingatekjum Ríkisútvarpsins út úr bókhaldi þess. Þær tekjur munu skerðast í samhengi við þessar breytingar en á móti koma auknar tekjur í gegnum útvarpsgjaldið þannig að bæði Ríkisútvarpið og einkamiðlarnir eiga að standa betur eftir og verði betur færir um að sinna almenningi í landinu.



[12:05]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður segir að ég geri mér ekki alveg nógu mikla grein fyrir mikilvægi reksturs Ríkisútvarpsins. Ég vil benda hv. þingmanni á að ég geri mér alveg fulla grein fyrir mikilvægi Ríkisútvarpsins og ég sagði það áðan, með fullri virðingu því góða starfsfólki sem þar er. En þetta er nú einu sinni einn og hinn sami ríkissjóður sem greiðir til Ríkisútvarpsins, hvort sem það er í gegnum mörkuð gjöld eða á fjárlagaliðum, og sem borgar líka fyrir heilbrigðisþjónustuna, Landspítalann og það sem þar fer fram. Það er sami ríkissjóður.

Þegar menn tala um markaðar tekjur þá er þetta orðinn algjör frumskógur og algjör ófreskja í fjárlögunum. Það eru yfir 100 milljarðar í mörkuðum tekjum sem Alþingi kemur — að minnsta kosti að mínu mati — allt of lítið að í ákvörðunum um hvernig er ráðstafað. Mörg dæmi eru um að menn fái ekki allan markaða tekjustofninn. Mér er það því algjörlega óskiljanlegt að á sama tíma og við stöndum í þeim sporum að geta ekki hlúð að þeim innviðum sem við viljum gera skuli vera farið í þessa vegferð. Það er mér algjörlega óskiljanlegt.



[12:06]
Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Skúli Helgason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég deili fullkomlega þeim skoðunum með hv. þingmanni að of mikið er um markaða tekjustofna í fjárlögum sem samþykkt eru frá þingi. Ég tel hins vegar að önnur sjónarmið gildi um Ríkisútvarpið, þar sé mun viðkvæmara en í öðrum tilvikum að löggjafinn geti kippt til dæmis fjárveitingum til Ríkisútvarpsins til baka, meðal annars í pólitískum tilgangi þegar það hentar stjórnvöldum á hverjum tíma illa að Ríkisútvarpið gangi of langt í því að miðla fréttum af því hvernig stjórnvöld haga sér á hverjum tíma. Að stjórnvöld geti með einföldum hætti í raun og veru veikt Ríkisútvarpið með einni ákvörðun við gerð fjárlaga. Ég tel því einfaldlega að þetta sé kannski undantekningin sem sanni regluna, við eigum að draga úr mörkuðum tekjustofnum en við verðum, ef við viljum varðveita sjálfstæði þeirrar stofnunar og virða lýðræðishlutverk hennar, að hafa skilning á því að (Forseti hringir.) mikilvægt sé að þessi tekjustofn, útvarpsgjaldið, renni óskiptur til Ríkisútvarpsins.



[12:08]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Skúla Helgasyni fyrir ágæta ræðu og alveg sérstaklega fyrir síðasta svar hans við andsvari. Þar sagði hann að hægt væri að hafa áhrif á stefnu og stjórnun þessa ríkisfjölmiðils. Það vill nefnilega svo til að fyrir nokkrum árum var rætt mikið um eignarhald á fjölmiðlum. Flutt var fjölmiðlafrumvarp sem lenti í umræðum sem aldrei fyrr, en þá voru reyndar núverandi stjórnarþingmenn í stjórnarandstöðu, og það frumvarp var síðan dregið til baka. Þar voru menn að vandræðast með það að eigandi fjölmiðils gæti haft svo mikil áhrif á stefnu hans og að upplýsa þyrfti um eigendur og allt svoleiðis. Nú vill svo til að sá fjölmiðill sem við ræðum nú um, þar er aðeins einn eigandi, frú forseti, og tekið er sérstaklega fram að þessi eini eigandi eigi að vera það um aldur og ævi. Í 2. gr. frumvarpsins stendur, með leyfi forseta:

„Ríkisútvarpið er sjálfstætt opinbert hlutafélag í eigu íslenska ríkisins.“

Og aldrei má selja það. Það er því einn eigandi. Starfsmenn Ríkisútvarpsins vita að fjármálaráðherra getur aukið eða dregið úr fjárveitingum til þeirra og hefur gert það. Þeir vita eins og allir aðrir hver borgar saltið í grautinn hjá þeim. Menntamálaráðherra kemur reyndar þarna inn í líka, en það er sem sagt ríkisstjórnin í heild sinni sem menn þurfa að hafa góða. Starfsmenn Ríkisútvarpsins, sem eflaust hafa mikinn metnað til að vera óháðir og annað slíkt, eru því á þann hátt háðir eiganda sínum, hvort starfsemi verði aukin, framleiðsla verði aukin eða dregin saman, fólki sagt upp, jafnvel mér, þ.e. starfsmanninum. Það þýðir að þeir munu fjalla nettar og varlegar um gerðir ríkisstjórnarinnar.



[12:10]
Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Skúli Helgason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held einmitt að eitt af því sem er merkilegt við frumvarpið og menn eigi að taka sérstaklega eftir í breytingartillögum meiri hlutans sé sú viðleitni að virða sjálfstæði Ríkisútvarpsins. Það er gert með því að setja inn þetta nýja ákvæði um skipan stjórnarinnar. Það eru ekki lengur við hér í þessum sal sem skipum stjórn Ríkisútvarpsins heldur er hlutverk og aðkoma Alþingis einvörðungu að skipa þrjá af fimm fulltrúum í valnefnd sem síðan tilnefni fulltrúana. Þetta er mikilvægt.

Í öðru lagi bendi ég á hvernig meiri hlutinn vinnur með tillöguna um hlutverk Ríkisútvarpsins varðandi kynningu á stjórnmálaöflum eða frambjóðendum í forsetakosningum eða hreyfingum í þjóðaratkvæðagreiðslum. Hann gerir það með því að virða ritstjórnarlegt sjálfstæði Ríkisútvarpsins til að forma það efni og sömuleiðis með því að stíga þetta skref, að útvarpsgjaldið renni til Ríkisútvarpsins. Með því erum við einmitt að víkja frá því að það sé pólitísk ákvörðun hér á hverju ári hvort Ríkisútvarpið eigi að fá stóran eða lítinn hlut af því útvarpsgjaldi sem lagt er á skattborgara í landinu. Það undirstrikar enn fremur það sem ég nefndi áðan að mikilvægt er að menn hafi og sýni í verki skilning sinn á því að þetta er mikilvæg stofnun hvað varðar almannavaldið og að menn þurfi að sýna það í verki að þeir virði það að löggjafinn þurfi að halda í sér varðandi íhlutun í málefni þessarar stofnunar.



[12:12]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er nú einmitt það sem gerist, ríkisstjórnin hefur jafnframt löggjafar- og fjárveitingavald og hún getur breytt hvoru tveggja. Þetta vita starfsmennirnir líka, þannig að jafnvel þær breytingar sem menn eru að gera hérna, þegar þeir eru sem sagt að yfirgefa ríkissjóð og þurfa ekki að hafa áhyggjur af því að hann standi undir sér — það getur komið með næsta fjármálaráðherra að hann segi að nauðsynlegt sé vegna reksturs spítalanna o.fl. að skerða þetta gjald aftur. Þetta vita starfsmenn Ríkisútvarpsins og þeir vita hver skipar þetta kerfi allt saman. Allt kerfið er skipað og stjórnað af ríkisstjórninni og meiri hlutanum á Alþingi. Verið getur að það breytist og að þar komi inn menn sem eru kannski ekki eins hlynntir þessum fjölmiðli og aðrir. Og það vita starfsmenn Ríkisútvarpsins. Um leið og stjórnarskipti verða fara þeir að fjalla mjúklega um nýja herra í stjórnarráðinu.



[12:13]
Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Skúli Helgason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hlýt að benda á að mjög breið og góð samstaða náðist um málið í allsherjar- og menntamálanefnd. Það eru eingöngu fulltrúar eins flokks sem eru á móti, fulltrúar Sjálfstæðisflokksins standa ekki að áliti meiri hlutans. Ég held því að áhyggjur hv. þm. Péturs H. Blöndals um að næsti stjórnarmeirihluti muni kollvarpa þessu og vera með meiri íhlutun í starfsemina séu óþarfar, en auðvitað er ekki hægt að gefa sér neitt í þeim efnum hvað framtíðin beri í skauti sér.

Síðan hef ég það mikið traust á því fólki sem vinnur hjá þeirri stofnun að ég tel að það hafi nægilegan grundvöll til þess að vega og meta hlutina sjálft og hafi þá dómgreind sem til þarf til að fjalla um samfélagsmálefni án þess að lyppast niður af ótta við að umfjöllun þess geti haft afleiðingar fyrir fjárhagslega afkomu stofnunarinnar í framtíðinni.



[12:14]
Frsm. minni hluta allsh.- og menntmn. (Þorgerður K. Gunnarsdóttir) (S):

Herra forseti. Við höldum áfram að ræða frumvarp um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu. Ég sagði við 1. umr., og stend við það, að bara við að lesa frumvarpið er ljóst að hlutverk Ríkisútvarpsins er enn og aftur skilgreint allt of vítt.

Fyrst vil ég leyfa mér að segja að ég sakna þess að við höfum ekki nýtt tækifærið núna því að við vitum öll, ég þekki það af reynslu fyrri ára og fyrri missira, að skiptar skoðanir eru um Ríkisútvarpið. Það eru skiptar skoðanir um Ríkisútvarpið innan míns flokks um hvert hlutverkið eigi að vera og ég hef ekki dregið dul á það. Sumir vilja leggja það niður, aðrir vilja takmarka það verulega og skilgreina hlutverk þess mun skýrar en nú er gert í lögum og ég er þar á meðal. Sumir vilja ekki taka Ríkisútvarpið af auglýsingamarkaði á neinn hátt, sem gildir reyndar þvert á flokka, og síðan eru aðrir sem vilja takmarka aðkomu Ríkisútvarpsins að auglýsingamarkaði. Ég er líka í þeim hópi.

Mér finnst standa eftir að tækifærið til að reyna að skilgreina, skerpa og skapa meiri sátt um Ríkisútvarpið hafi ekki verið nýtt. Ríkisútvarpið er víða virt í samfélaginu og ég vil taka undir að þar er margt afar vel gert. Ég vil draga fram að að mínu mati er Ríkisútvarpinu vel stjórnað af hæfum stjórnendum og ekki síst af þeim sem stýrir því og ber ábyrgð á allri starfsemi þess. Það er ekki þar með sagt að maður geti ekki gagnrýnt ýmislegt sem fer fram innan dyra, en ég veit að menn reyna þó að rækja starf sitt bæði af metnaði og samviskusemi. Um það eru reyndar ekkert allir sammála og við sjáum þegar við lesum yfir gagnrýni á öldum ljósvakans eða á síðum ýmissa blaða að það er aldeilis ekki þannig að allir séu sáttir við Ríkisútvarpið. Ég held ekki heldur að allir séu alveg sáttir við til dæmis hlutverk Danmarks Radio, en það sem hefur gerst í Danmörku er að menn hafa þó náð pólitískri sátt um hvert hlutverk Danmarks Radio á að vera. Það er skýrt afmarkað umfram það sem er gert með hina sjónvarpsrásina í Danmörku sem er í eigu ríkisins og er TV2.

Ég sakna þeirrar umræðu. Ég ber að hluta til ábyrgð á því að hún hefði getað verið tekin með skarpari og markvissari hætti á sínum tíma, en þá var einfaldlega ekki hægt að tala við þáverandi sjórnarandstöðu sem lagði sig fyrst og fremst fram um það að stoppa til að mynda almenn lög um fjölmiðla sem snertu eignarhaldið. Það var forgangsröðun þeirrar stjórnarandstöðu og síðan að leggjast í almennt málþóf út af Ríkisútvarpinu og reyna að koma í veg fyrir það. Ég átti margar fallegar og yndislegar andvökunætur á mörgum þingum. Margt var upplýsandi en annað undirstrikaði að menn voru í einhverjum leik án þess að hafa endilega hagsmuni Ríkisútvarpsins að leiðarljósi og vera með framtíðarstarfseminni fyrir samfélagið í huga.

Það er önnur saga en tengist samt málinu. Ég vil undirstrika að í frumvarpinu er ekki verið að fara fram á breytingar sem mesta andstaða þáverandi stjórnarandstöðu var gegn og en hún var gagnvart Ríkisútvarpinu ohf., að breyta því í opinbert hlutafélag. Af hverju breyttum við því í opinbert hlutafélag? Einfaldlega vegna þess að það var ekki nokkurt viðlit að breyta meðal annars lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, það var ekki hægt að breyta starfsmannalögunum. Það var ekki hægt að koma með reglur sem tengjast meðal annars raunhæfum opinberum rekstri Ríkisútvarpsins nema fara í gegnum ohf. Fyrir utan að við trúðum því, og ég geri það enn, að það sé sú leið sem er best til þess fallin að undirstrika og hnykkja á mikilvægi Ríkisútvarpsins og um leið reyna að koma böndum á það og hlutverk þess. Það er ekki verið að gera í frumvarpinu og mér finnst það miður.

Ég vil draga fram að þrátt fyrir mikla umræðu í nefndinni og ýmislegt sem var hlustað á var ekki hlustað á að við gætum farið í að reyna að skilgreina betur hvert hlutverk Ríkisútvarpsins er. Enda er 3. gr. þannig að ég spurði hæstv. ráðherra á sínum tíma hvað félli ekki undir hlutverk Ríkisútvarpsins miðað við að greinin tekur næstum því tvær blaðsíður. Hvað fellur ekki undir hlutverk Ríkisútvarpsins? Því var ekki hægt að svara við 1. umr. og það er ekki enn þá hægt að svara því við 2. umr. hvað sé undanskilið.

Ég mun hins vegar á eftir fara yfir þær jákvæðu breytingar sem felast í meðförum eða tillögum nefndarinnar. Þar er reynt með óbeinum hætti að koma ákveðnu skikki á hlutverk og starfsemi Ríkisútvarpsins en þetta er það sem var hvað mest áberandi í athugasemdum flestra þeirra sem komu bæði fyrir nefndina og sendu henni umsögn varðandi Ríkisútvarpið. Hlutverkið er allt of víðtækt. Þrátt fyrir meiri kröfur um að setja aukin skil og skerpa á skilum milli almannaþjónustu og samkeppnisrekstrar er það enn þá þannig að hægt er fella allt undir orðið almannaþjónusta. Það er ekki hægt að segja neitt annað en að allt geti fallið undir hugtakið „almannaþjónusta“ og hlutverk Ríkisútvarpsins sem er skilgreint í 3. gr. frumvarpsins.

Það kom fram í máli ráðherra við 1. umr. að kveikjan að því að fara aftur af stað með breytingar á Ríkisútvarpinu væru meðal annars athugasemdir ESA varðandi þann þátt að skerpa þurfi mun betur á samkeppnisþætti Ríkisútvarpsins gagnvart þjónustunni sem við viljum að sé í almannaþágu, menningarhlutverkinu, að halda uppi öflugum fréttum, upplýsingum, fræðsluhlutverkinu o.s.frv. Það er að því leytinu jákvætt að verið er að reyna að skilja betur á milli fjölmiðlaþjónustunnar í almannaþágu annars vegar og samkeppnisstarfsemi Ríkisútvarpsins hins vegar með því að skerpa á hlutdeild auglýsingadeildarinnar. Það er reyndar verið að setja auglýsingadeildina í dótturfélag sem ég held að sé umhugsunarefni. Við höfum fengið mjög athyglisverðar ábendingar frá til dæmis Skjá einum og forsvarsmönnum hans sem telja að það sé ekki besta leiðin til að aðgreina samkeppnisreksturinn og auglýsingarnar frá því sem nefskatturinn á meðal annars að fjármagna.

Ég vil engu að síður ítreka að þarna eru ákveðnir þættir sem ég tel til bóta og ég vil fara örlítið yfir þá. Ég vil fyrst nefna það sem meiri hlutinn leggur til breytingu á sem varðar aðgang almennings að hinum mikla safnkosti Ríkisútvarpsins. Það er fagnaðarefni að meiri hlutinn leggur áherslu á aðgengi almennings að safnefni, hvort sem er til einkanota eða til viðskiptalegrar hagnýtingar sjálfstæðra framleiðenda. Það er að mínu mati jákvætt en á móti má gagnrýna Ríkisútvarpið fyrir að hafa ekki einfaldlega sjálft sett sér stefnu í því efni að frumkvæðisskyldan eigi líka að vera hjá Ríkisútvarpinu ef hún lýtur að því að koma til móts við eðlilegar þarfir almennings varðandi aðgengi að efni líkt og þessu.

Það kom fram mikil gagnrýni á að ekki væri vikið að sjálfstæðum framleiðendum íslensks efnis varðandi mismunandi afþreyingar- og menningarefni. Ég vil undirstrika að þjónustusamningurinn er tæki sem þarf að nýta betur. Það var verið að taka fyrstu skrefin á sínum tíma og ég er sannfærð um að þjónustusamningurinn er skilvirkt og hreyfanlegt tæki sem ráðherra hverju sinni á að nýta sér og ekki síst þegar hann er kominn með ákveðinn stuðning af hálfu þingsins og nefndarinnar til að gera það. Þess vegna tel ég fagnaðarefni að það sé undirstrikað í nefndaráliti meiri hlutans að eðlilegt sé að hlutfall frá sjálfstæðum framleiðendum af útsendu efni á kjörtíma, og það er rétt að draga það fram, skuli að lágmarki vera 10%, en mér skilst að það sé um 6% um þessar mundir. Það er einn af lykilþáttunum varðandi rekstur Ríkisútvarpsins, einn af þáttunum sem fær fólk til að segja: Já, við viljum ríkisútvarp. Það er af því að við viljum sjá aukna framleiðslu íslensks efnis. Það er hluti af því að þjóðin sættist við að fjármunum sé varið til Ríkisútvarpsins.

Það er alveg rétt sem hefur verið bent á, — áður en ég held áfram með ákveðna þætti sem ég tel að séu til framdráttar — af hverju höfum við ekki farið nákvæmlega í að skerpa betur á hlutverki Ríkisútvarpsins og spurt spurningarinnar hvort Ríkisútvarpið eigi að þenjast út. Á það að fara úr 3 milljörðum í 5 milljarða á nokkrum árum og af hverju er það gert? Fáum við aukið framleitt íslenskt efni á kjörtíma? Nei, við höfum ekki fengið það fram til þessa þrátt fyrir aukningu. Sjáum við til dæmis að fréttum af landsbyggðinni sé sinnt með markvissari hætti? Við sjáum frábæra þætti sem hafa verið sendir út sem góðir starfsmenn Ríkisútvarpsins hafa verið að reyna að tryggja, en ég get ekki séð að aukin umfjöllun Ríkisútvarpsins í fréttatíma sé í tengslum við landsbyggðina. Það er þáttur sem menn hafa sagt að sé hluti af því að við starfrækjum ríkisútvarp hér, enda er nefndin sérstaklega að taka á þeim þætti og viðurkenna þar með að Ríkisútvarpið eigi að geta gert betur hvað varðar landsbyggðina.

Ég er hins vegar ósammála því sem kemur fram í nefndaráliti meiri hlutans og ég veit að ég er kannski ekki alveg í takt við hluta af þeim þingmönnum sem tilheyra landsbyggðinni í mínum flokki. Ég tel að ef við skilgreinum hlutverk Ríkisútvarpsins mjög skýrt og afmarkað, m.a. með það í huga að það eigi að sinna landsbyggðinni betur, fréttum af landsbyggðinni, af hinu daglega lífi og því sem er að gerast þar, eigum við samt ekki að segja Ríkisútvarpinu fyrir verkum um hvar og hvort það eigi að koma upp fastri starfsemi. Sú starfsemi getur þess vegna verið öll suðvestan lands eða fyrir norðan eða austan, hvar sem er svo lengi sem menn starfrækja það hlutverk sitt og rækja það af samviskusemi að efla íslenska dagskrárgerð, sinna fréttaflutningi af landsbyggðinni o.s.frv.

Það má alveg undirstrika að Stöð 2 hefur staðið sig afar vel hvað varðar fréttaflutning af landsbyggðinni. Það er greinilegt að Kristján Már Unnarsson, sá ágæti fréttamaður, fer reglulega og markvisst út á landsbyggðina, kemur með merkilegar fréttir og sendir þær út á öldum ljósvakans. Það má líka draga fram að með tilkomu Magnúsar Hlyns fréttaritara á Suðurlandi á Stöð 2 hefur fréttaflutningur af því svæði aukist þannig að eitthvert samhengi er á milli þar. Ég tel hins vegar mikilvægt að yfirstjórn Ríkisútvarpsins hverju sinni hafi það í hendi sér hvernig hún vilji haga rekstri fyrirtækisins. Við krefjumst þess að fyrirtækið sé rekið á hagkvæman hátt og að farið sé vel með fjármagn sem kemur úr ríkissjóði en um leið að við setjum þá ekki þær aukakvaðir á Ríkisútvarpið að vera með starfsstöðvar úti um allt land ef það getur með öðrum hætti miðlað fréttum af landsbyggðinni. Ég tel því mikilvægt að treysta á rekstrarlegt sjálfstæði yfirstjórnar Ríkisútvarpsins.

Ég ætla halda áfram að hæla Páli Magnússyni sem allir vilja hnýta í núna eða þá í aðra starfsmenn Ríkisútvarpsins en ég ætla ekki að taka þátt í því. Með því er ég ekki að segja, eins og kom fram hjá mér áðan, að ég sé gagnrýnislaus þegar kemur að Ríkisútvarpinu og efnisumfjöllun, pólitískri sem annarri, en það verður að benda á það sem er vel gert. Ríkisútvarpið hefur verið að skila hagnaði, verið réttum megin við núllið á síðustu missirum og hluti af því er að það er sjálfstæðara en áður varðandi rekstur og hefur skýrari ábyrgð varðandi hvernig það eigi að skila og haga rekstri sínum, þannig að það sé sagt. Ég get ekki betur séð en margt jákvætt sé í þróun starfsemi Ríkisútvarpsins.

Það eru náttúrlega umbreytingartímar fram undan og það mun reyna aftur á Ríkisútvarpið að sinna skyldum sínum. Það er komið inn á það í meirihlutaáliti allsherjar- og menntamálanefndar hvernig það eigi að starfrækja skyldur sínar. Ég vil sérstaklega fagna þeirri breytingu sem varð í meðförum meiri hluta nefndarinnar að tekið var tillit til þess lykilþáttar sem við höfum meðal annars ýtt undir varðandi starfsemi Ríkisútvarpsins og snertir hlutverk þess, þ.e. sjálfstæði Ríkisútvarpsins í dagskrárvali, dagskráruppbygginu og fréttauppbyggingu. Það má ekki vera þannig að menn ætli sér héðan af þingi að fara inn með krumluna til að hafa skoðun á ritstjórnarlegu sjálfstæði Ríkisútvarpsins. Við verðum einfaldlega, fyrst við höfum ríkisútvarp, að móta því reglur, setja því skýrar reglur og síðan er það Ríkisútvarpsins að sjá til þess að það sé innan þess ramma sem þingið markar. Hluti af því er mikilvægi þess að það geti verið ritstjórnarlega sjálfstætt en ekki á pólitísku forræði.

Það leiðir náttúrlega hugann að öðru máli sem er allt annað og er sú lenska hjá yfirvöldum núna, bæði hjá stjórnmálamönnum sem styðja ríkisstjórnina og eru í henni, að skipta sér af sjálfstæðum stofnunum. Ég er eðlilega með inngrip innanríkisráðherra í sjálfstæði ákæruvaldsins í huga. Það mál sem og þetta undirstrikar að hversu mikið sem við stjórnmálamenn viljum skipta okkur af öllum sköpuðum hlutum er það okkar að móta reglurnar, setja rammann og síðan að sjá til þess að þar til bærar stofnanir, Ríkisútvarpið, ákæruvaldið eða hver sem það er hverju sinni, hafi burði og möguleika til að sinna því markmiði og því hlutverki sem þeim er skipað í stjórnsýslu okkar og stjórnskipan.

Þess vegna tel þá breytingu meiri hlutans mikilvæga að undirstrika, og skilja vel, athugasemdir sem komu meðal annars frá nefnd sem er að fara yfir fjölmiðla undir forustu Finns Becks. Engu að síður er mikilvægt að menn árétti að óumdeilt sé að Ríkisútvarpið hafi ritstjórnarlegt sjálfstæði. Það er fagnaðarefni og rétt að leggja áherslu á það. Ég vil líka draga það sérstaklega fram sem ég tel jákvætt. Skrefin í þeim efnum eru í raun öll jákvæð þótt þau séu ekki stór að mínu mati af því að ég hef aðrar skoðanir á hlutverki Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði en margir aðrir. Engu að síður er sá kafli mikilvægur í nefndaráliti meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar sem er á bls. 4 og fjallar um viðskiptaboð. Ég vil sérstaklega fagna þeim skilningi sem var mætt af hálfu meiri hluta nefndarinnar við að reyna að koma með aðeins harðari og skarpari ramma hvað varðar viðskiptaboðin.

Við fáum vissulega ábendingar frá öðrum aðilum á markaði eins og 365 miðlum, frá Skjánum og öðrum sem reyna af veikum mætti að starfrækja sjálfstæða fjölmiðla. Þeir benda á að þýðingarlaust sé varðandi auglýsingarnar að setja þann ramma sem er verið að setja hér því að Ríkisútvarpið fylli hvort sem er ekki upp í tímarammann. Gott og vel. Það er engu að síður verið að reyna að gera það svona. Hitt er síðan hvernig við ætlum að senda út bæði auglýsingar, viðskiptaboð og síðan varðandi kostunina sem ég held að sé jákvætt skref í því efni.

Menn taka tillit til þarfa íþróttahreyfingarinnar og ákveðinna atriða sem þurfa að njóta skilnings hvað varðar kostun en það er allt saman þrengt frá núverandi umhverfi sem ég tel til mikilla bóta og á að auðvelda m.a. sjálfstæðum fjölmiðlum að halda uppi starfsemi til lengri og skemmri tíma. Þetta eru lítil skref en táknræn. Ég vil fagna þeim og líka því hvernig er verið að reyna að takmarka viðskiptaboð í nefndinni, annars vegar rof á kostun og hins vegar á útsendingu, að það verði ekki gert nema í mjög sérstökum tilvikum og tilfellum sem er tilgreint í meirihlutaáliti nefndarinnar, þ.e. Ólympíuleikarnir, heimsmeistara- og Evrópumót í knattspyrnu- og handknattleik og Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, þar með talin Söngvakeppni Sjónvarpsins. Það eru þættir sem meiri hluti nefndarinnar dregur fram að hægt sé að rjúfa. Síðan segir meiri hlutinn það álit sitt, sem ég tel afar mikilvægt að menn hlusti á, ekki síst hjá Ríkisútvarpinu, að undanþáguákvæðið beri að túlka þröngt og eigi fyrst og fremst að ná til þeirra viðburða sem að framan greinir. Það tel ég jákvætt skref og mér finnst rétt að benda á það.

Ég tel mikilvægt í því samhengi að draga fram skoðanir, og þá ekki bara mínar, hvað varðar auglýsingar Ríkisútvarpsins og aðkomu þess að auglýsingamarkaði. Ég hef margoft sagt að ég hefði viljað sjá mun meiri takmörkun á aðkomu Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði. Ég hef meðal annars bent á fyrirkomulagið í Þýskalandi hjá ARD og ZDF þar sem má senda út auglýsingar á ákveðnum tíma, annað er ekki heimilt.

Síðan er auðvitað það sem kemur fram í máli þeirra sem komu fyrir hönd Blaðamannafélagsins. Hjálmar Jónsson og Sigurður Már Jónsson, formaður og varaformaður félagsins, komu fyrir hönd þess og sögðu skoðun sína á auglýsingahlutdeild Ríkisútvarpsins. Þeir sögðu skýrt að ótækt væri að hafa Ríkisútvarpið á auglýsingamarkaði og að þeir hefðu viljað sjá það tekið algjörlega út af honum, eins og þeir orðuðu það, og tækifærið nýtt til að efla fjölmiðla á einkamarkaði.

Þetta er ekki eins og menn halda alltaf, að það séu bara 365 miðlar og ekkert annað fyrirtæki. Það er líka Skjárinn og ekki síst eru það fjölmiðlar sem við förum að fá núna í gegnum hina nýju miðla, netið og fleiri leiðir, og herja á auglýsingamarkaðinn. Auglýsingamarkaðurinn er bara einn stór pottur. Það er ekkert þannig að með tilkomu nýrra miðla muni hann stóraukast. Það er einn pottur sem fyrirtækin hafa að spila úr til að auglýsa og þau reyna síðan að sjá hvar þeirra hag er best borgið varðandi útbreiðslu auglýsinga.

Ég vil að hluta til taka undir það sem Blaðamannafélag Íslands segir, að eiginlega sé tækifærið til að efla frjálsa fjölmiðlun vannýtt. Þeir bentu á að að mörgu leyti er búið drepa niður umræðu um samfélagsmál í öðrum fjölmiðlum en í Ríkisútvarpinu en að sjálfsögðu finnast slíkir þættir að hluta til, m.a. á Bylgjunni. Þeir undirstrika að það að hafa þetta fyrirkomulag á auglýsingamarkaði ógni fjölbreytni í fjölmiðlun frekar en að auka hana. Þeir lögðu áherslu á að þeim fannst tækifærið vannýtt til að efla og styrkja frjálsa fjölmiðla varðandi það að styrkja innviði samfélagsins og efla umræðuhefðina í fjölmiðlum.

Ég talaði áðan um Danmarks Radio í því samhengi en þáverandi menningarráðherra Danmörku, Per Stig Møller dró einmitt fram hvers vegna menn eru með Danmarks Radio. Ég sakna þess að við höfum ekki farið í nákvæmlega þá spurningu af hverju við erum með Ríkisútvarpið. Menn reyna að svara því að mínu mati með frekar loðnu ákvæði um hlutverk Ríkisútvarpsins. Hvers vegna erum við með Ríkisútvarpið, hversu réttlætanlegt er að fjármagn frá almenningi fari í það og o.s.frv.? Ég hef að hluta til komið inn á að ég vil sjá eflingu menningarhlutverks í Ríkisútvarpsins, sjá því beint í skarpari farveg og þá er ég þar með talið að ræða og koma inn á aukið efni frá sjálfstæðum framleiðendum, en að sjálfsögðu erum við líka að tala um menningarefni sem undirstrikar hvernig íslenskt samfélag er.

Það eru til að mynda ýmsir sem vilja taka út messuna á sunnudögum á Rás 1 en ég held að það sé vanráðið af hálfu Ríkisútvarpsins af því að það er hluti af því sem er að gerast í íslensku samfélagi. Ég er viss um að ef Ríkisútvarpið tæki messuna út mundi enginn annar útvarpa því efni. Það er hluti af okkar menningu að miðla hvort sem það eru messur eða sinfóníutónleikar en Ríkisútvarpið hefur átt í afar farsælu samstarfi hvað varðar að útvarpa sinfóníutónleikum. Það má svo sannarlega nefna margt fleira eins og íslenska tónlist. Allt þetta hefðum við átt að meta til að reyna að fá fólk í lið með okkur og til að skilja af hverju það er nauðsynlegt að hafa starfandi ríkisútvarp. Ég er einn af þeim sjálfstæðismönnum sem telja mikilsvert að Ríkisútvarpið sé starfandi en það verður að setja því skorður og skarpari ramma en er verið að gera.

Það má kannski segja að það sé ákveðin þróun og það felst jákvæð þróun í breytingartillögum meiri hluta nefndarinnar, það er ekki spurning. En ég hefði gjarnan viljað eiga þetta samtal áður en ráðherra lagði frumvarpið fram. Það einkennist líka af mikilli pólitískri nálgun að því leytinu til að verið er, sem er að mínu mati afar misráðið, að setja starfsmenn í opinber hlutafélög. Það þýðir meðal annars að breyta þarf hinum almennu lögum um opinber hlutafélög því að menn gerðu einfaldlega ekki ráð fyrir því að starfsmenn ríkisfyrirtækja ættu að hafa sjálfkrafa aðgang að stjórn Ríkisútvarpsins.

Það er sem betur fer líka búið að takmarka það í þessu máli. Þeir hafa málfrelsi og tillögurétt en ekki atkvæðisrétt. Ég held að það hefði einfaldlega verið betra að halda áfram að skerpa á því sem stjórn Ríkisútvarpsins hefur þó verið að gera — alla vega til að byrja með en ég ætla ekkert að tjá mig um núverandi stjórn Ríkisútvarpsins sem að mínu mati er meira pólitískt skipuð en á umliðnum missirum — af því að meginhlutverk stjórnar Ríkisútvarpsins er að hafa eftirlit með fjármunum og rekstri þess. Það er ekki hlutverk þess að vera framlenging á pólitískum ráðherra, hver sem hann er hverju sinni, hvað eigi að vera í dagskrárefni Ríkisútvarpsins. Ég er ekki að segja að stjórnin eigi ekki að hafa einhverjar hugmyndirnar um hverjar stóru línurnar eru. Stjórn Ríkisútvarpsins á að hafa skoðun á því að efla og auka hlutdeild sjálfstæðra framleiðenda í dagskrá þess.

Stjórn Ríkisútvarpsins getur líka haft skoðun á því að auka aðgengi almennings að þeim magnaða safnkosti sem þar er, en hún á ekki, þrátt fyrir að menn greini mikinn vilja til þess af hálfu núverandi stjórnvalda eins og í öðrum málum, að hafa bein afskipti af dagskrá Ríkisútvarpsins, hverjir það eru sem eru ráðnir þangað o.s.frv. Það var meðal annars þess vegna sem var farið í þær breytingar á sínum tíma að framkvæmdastjóri sjónvarpsins og útvarpsins voru ekki, og eru ekki lengur, pólitískt skipaðir af ráðherra og ég held að menn hafi einmitt fagnað því á sínum tíma.

Herra forseti. Ég held að margt sé til bóta af því sem kemur frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar. Ég sakna þess þó, eins og ég hef komið inn á, að menn setja ekki skarpari ramma utan um Ríkisútvarpið. Ég óttast enn þá 16. gr. frumvarpsins. Ef menn hefðu lesið hana og túlkað samkvæmt orðanna hljóðan hefði Ríkisútvarpinu að öllu óbreyttu verið falið alveg gríðarlega víðtæk heimild til að koma að og setja á fót ýmsa nýja fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu, af því að eins og við vitum miðað við 3. gr. er almannaþága beinlínis allt sem hægt er að starfrækja innan Ríkisútvarpsins þar sem það er ekki nægilega vel skilgreint.

Það er rétt að menn átti sig á því, af því að bæði þessi ræða og ræða flutningsmanns meiri hluta nefndarinnar er hluti af lögskýringargögnum, að sem betur fer er 16. gr. afar þröngt túlkuð og það kom skýrt fram í meðförum nefndarinnar að hún er ætluð við afar takmarkaðar aðstæður. Menn vilja á hinn bóginn ekki takmarka heimild Ríkisútvarpsins til að fara út í nýja tækniþjónustu eins og útvarp á hinum Norðurlöndunum hefur gert. Það má ekki verða til þess að Ríkisútvarpið fari bakdyramegin, fari einhverja fjallabaksleið til að setja á laggirnar hlut sem snertir samkeppnisrekstur í útvarpi eða sjónvarpi. Það má alls ekki gerast og mér finnst meiri hluti nefndarinnar vera að reyna að koma til móts við þau sjónarmið og hann undirstrikar líka þrönga túlkun ákvæðisins.

Ég vil taka undir þá túlkun. Ég tel ekkert óeðlilegt að Ríkisútvarpið geti í afar takmörkuðum mæli og undir eftirliti Fjölmiðlastofu farið út í ákveðna tækniþróun en ekki þannig að hún stangist á við það sem fellur undir samkeppnisrekstur. Það má ekki gerast.

Það er ýmislegt eftir hvað varðar umfjöllun mína um Ríkisútvarpið og ég mun koma að því síðar. Ég vil almennt séð þakka fyrir vinnuna í nefndinni. Ég er ósammála þeirri nálgun sem er sett fram í frumvarpinu en eftir stendur þó að við reyndum að lagfæra það og það var gert að hluta til í nefndinni. Ég hefði hins vegar kosið að við hefðum skerpt á hlutverki Ríkisútvarpsins og tekið stóru umræðuna um af hverju við erum með Ríkisútvarpið og hversu umfangsmikið það eigi að vera á hljóðvarps- og sjónvarpsmarkaði. Sú umræða er hins vegar enn þá eftir. Hún mun ekki fást í gegn með því að menn stundi málþóf hér. Menn ættu miklu frekar að reyna að leiða saman hesta sína í málinu og fá alla stjórnmálaflokka að því til að móta og skerpa á hlutverki Ríkisútvarpsins svo það verði ekki þannig að starfsmenn Ríkisútvarpsins eða einstakir þingmenn, ekki síst stjórnarflokkanna, ráði því hvert Ríkisútvarpið er að fara og hvernig það þróast. Til þess eru hagsmunirnir í húfi allt of miklir. Það getur náðst sátt um Ríkisútvarpið (Forseti hringir.) ef það hefur skýrt hlutverk og skýrt markmið. Það er ekki nægjanlega skýrt í málinu sem við ræðum hér.



[12:45]
Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég vil aðeins gera grein fyrir afstöðu minni til frumvarps til laga um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu. Eins og fram kemur í nefndarálitinu og hv. þingmaður og talsmaður þessa máls, Skúli Helgason, rakti er ég á nefndaráliti meiri hlutans. Ég styð þetta mál, tel það gott, en hef þó fyrirvara. Sá fyrirvari er ekki mjög alvarlegur en ég ætla að gera grein fyrir honum og fara aðeins yfir málið í heild.

Það má segja að þetta mál sé að verða gamall kunningi, þetta er ekki í fyrsta sinn sem við erum með það til umfjöllunar í þinginu. Það var lagt fram á síðasta þingi líka og þá fórum við að mínu mati mjög vel yfir málið og gerðum breytingar á því, lögðum fram breytingartillögur og gerðum athugasemdir. Málið fór ekki í gegn þá, það kom aftur hingað inn en í breyttu formi. Þá var búið að taka tillit til sjónarmiða allsherjar- og menntamálanefndar og núna erum við vonandi að klára það í þessari umferð. Því má segja að málið hafi farið í gegnum tvær þvottavélar í þinginu og fengið ítarlega skoðun. Ég tel þess vegna að okkur sé ekkert að vanbúnaði að klára það, þ.e. láta reyna á þann meiri hluta sem ég tel vera örugglega fyrir hendi í þessu máli.

En af hverju er málið hérna yfirleitt? Jú, frumvarpið er lagt fram til að sníða af agnúa eða taka tillit til reynslunnar varðandi rekstur Ríkisútvarpsins. Það er önnur hliðin, annar hvatinn að þessu máli. Hinn hvatinn er að bregðast við athugasemdum Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA, um tilhögun ríkisaðstoðar. Ætlunin er að afmarka betur hvað felst í fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu með það að leiðarljósi að skapa traustari starfsgrundvöll fyrir Ríkisútvarpið innan þess ramma sem reglur ESA frá árinu 2010 um ríkisstyrki til fjölmiðla í almannaþágu leyfa. Það er hinn hvatinn að því að við erum með þetta mál í vinnslu. Það er því bæði reynslan og erlendar reglur sem við þurfum að uppfylla sem veldur því að við erum að vinna að málinu.

Framsóknarflokkurinn hefur haft skoðun á Ríkisútvarpinu um langt skeið og sú skoðun er frekar sterk. Framsóknarflokkurinn hefur verið mikill vinur Ríkisútvarpsins og hefur viljað standa vörð um það og hefur ítrekað ályktað á þeim nótum. Ég ætla að drepa aðeins á því sem var ályktað á flokksþingi. Þar segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Fjölmiðlar eru mikilvæg upplýsingaveita almennings í lýðræðislegu samfélagi. Auka þarf gagnsæi um útbreidda fjölmiðla þannig að eignarhald sé skýrt og til að koma í veg fyrir samþjöppun. Ríkisútvarpið gegnir mikilvægu hlutverki í íslensku samfélagi og á því hvílir rík skylda að þjóna öllu landinu. Útvarpsgjaldið verður að renna óskipt til RÚV.“

Það er alveg ljóst að Framsóknarflokkurinn vill viðhalda sterku RÚV, sterku ríkisútvarpi, og dregur sérstaklega fram að það eigi að þjóna landinu öllu. En ein af þeim breytingum sem meiri hlutinn gerir er að tiltaka sérstaklega að RÚV eigi að þjóna öllu landinu og koma upp starfsstöðvum í því sambandi. Það hugnast okkur mjög vel.

Ég hef fylgst með Ríkisútvarpinu í langan tíma eins og flestallir stjórnmálamenn gera og þeir sem eru á ferðinni í samfélaginu. Ég verð að segja að ég er frekar ánægð með Ríkisútvarpið, mér finnst það hafa staðist vel tímans tönn. (Gripið fram í.) Það hefur brugðist við breytingum á fjölmiðlamarkaði, tækninni, samkeppninni o.s.frv. Það hefur líka brugðist vel við kröfu um sparnað. Við bankahrunið breyttist mjög mikið á Íslandi og var gerð rík krafa um sparnað hjá stofnunum. Ríkisútvarpið hefur alls ekki farið varhluta af því frekar en aðrar stofnanir. Það hefur tekist að spara ótrúlega háar upphæðir í rekstri Ríkisútvarpsins án þess að dagskráin hafi látið mikið á sjá. Hún hefur eitthvað látið á sjá, en ótrúlega lítið miðað við hve háar upphæðir voru sparaðar. Ég er ekki með þær á takteinum en ég man að þær eru tilgreindar í ársskýrslu RÚV. Það munar verulega, ég held að það hafi hlaupið á meira en milljarði sem sparaðist. Ég vil sérstaklega hæla forustu RÚV fyrir að hafa getað sparað svona mikið án þess að það hafi bitnað mjög á dagskránni.

Á sama tíma og þessi mikli sparnaður hefur orðið með mikilli hagræðingu og niðurskurði hefur traustið á Ríkisútvarpinu ekki dalað. Traustið mælist hátt, það eru reglulega gerðar traustsmælingar í samfélaginu á stofnunum og nokkrar stofnanir hafa komið ítrekað vel út, m.a. lögreglan, Landhelgisgæslan, háskólinn, heilbrigðiskerfið og RÚV. Það er mjög ánægjulegt að RÚV sé í þeim hópi, að fólk beri traust til þess. Það hafa líka verið gerðar kannanir á trausti til fréttastofanna. Ég man eftir könnun sem var gerð í fyrra á því og þá mældist fréttastofa RÚV með 80% traust sem verður að teljast mjög hátt hlutfall og gott traust en næstu fréttastofur þar á eftir voru með 50% og lægra. RÚV hefur því staðið sig að mínu mati mjög vel í þeim ólgusjó sem hér hefur verið hin seinni ár.

Með þessu frumvarpi er að vissu leyti verið að herða að RÚV. Það er verið að takmarka stöðu RÚV á auglýsingamarkaði til að gefa öðrum miðlum færi á að koma þar sterkar inn. Við erum líka að taka enn þá stærri skref en voru í upphaflegu máli, þ.e. að hemja RÚV varðandi kostun líka, þó með ákveðnum undanþágum. Ef ég man rétt er talið að þær takmarkanir á umsvifum RÚV nemi um 500–600 millj. kr. missi í tekjum. RÚV eru því settar takmarkanir með þessu frumvarpi. Á sama tíma er verið að skýra hlutverk þess að mínu mati á mjög jákvæðan hátt.

Ég tiltók áðan áherslur okkar í Framsóknarflokknum varðandi það að RÚV eigi að sinna öllu landinu og ég vil tilgreina sérstaklega Rás 1. Við teljum að hún hafi gegnt og gegni mjög miklu menningarlegu hlutverki og það beri að passa mjög vel upp á að menningardagskráin verði áfram vönduð eins og verið hefur.

Hér er tilgreint að stofnunin eigi að móta sér öryggisstefnu. Yfir þetta fór talsmaður málsins, hv. þm. Skúli Helgason, ágætlega áðan. Ég get komið því á framfæri í „forbífarten“ að sú er hér stendur lenti í svolítið skondnu atviki í sambandi við þetta á sínum tíma. Ég var í sjónvarpsþætti á RÚV í beinni útsendingu þegar maður komst inn í Ríkisútvarpið og inn í einhverja stjórnstöð og slökkti á öllum tækjunum. Allt í einu sátum við þarna í myrkri í útsendingunni og uppi varð fótur og fit og það var kallað: Þetta er martröð pródúsentsins. Það er martröð framleiðandans þegar allir skjáirnir verða svartir og ekki verður við neitt ráðið. Þarna varð óheppilegt atvik en eftir að það gerðist hefur verið bætt úr og mér skilst að ekki sé hægt að gera svona aftur. Það er auðvitað alvarlegt ef hægt er að labba inn í Ríkisútvarpið og slökkva á öllum græjum og hertaka dagskrána þar með. Það er því mikilvægt að móta öryggisstefnu þannig að þetta verði allt í lagi um allt land.

Þá ætla ég að gera nokkra grein fyrir fyrirvara mínum — nei, ég ætla að fjalla um eitt annað áður, um kostunina. Hér erum við að takmarka kostun í Ríkisútvarpinu, þó með undantekningu. Í breytingartillögu við 7. gr. kemur fram að Ríkisútvarpinu er óheimilt að afla tekna með kostun dagskrárefnis, en víkja megi frá því í eftirfarandi tilvikum:

a. við útsendingu íburðarmikilla dagskrárliða til að mæta útgjöldum við framleiðslu eða kaup á sýningarrétti,

b. við útsendingu innlendra íþróttaviðburða og umfjöllun um þá.

Þarna er sérstaklega mikilvægt að sá skilningur komi fram að hér er ekki einungis átt við alþjóðlega viðburði. Það er líka átt við íburðarmikla innlenda dagskrárliði. Ég ætla að nefna eitt dæmi, undanfara söngvakeppninnar sem er innlendur atburður. Það má nefna fleiri slík dæmi þannig að ég tel að slíkt verði heimilað áfram.

Varðandi fyrirvara minn kemur hann fram í nefndarálitinu. Hann lýtur að kynningarmálum stjórnmálaflokkanna. Í upphaflegu frumvarpi voru ýmis inngrip varðandi kosningar og umfjöllun RÚV um þær, til dæmis var lagt til að banna skoðanakannanir skömmu fyrir kjördag, viku eða svo minnir mig. Nefndin gerði athugasemdir við það og ákveðið var að taka þau ákvæði út úr frumvarpinu í seinna skiptið. Sérstök nefnd fékk það hlutverk að skoða öll mál er við komu kosningum og RÚV. Finnur Beck er formaður í þeirri nefnd og fulltrúar stjórnmálaflokkanna eiga þar fulltrúa. Sunna Gunnars Marteinsdóttir er fulltrúi Framsóknarflokksins í þeirri nefnd. Nefndin hefur reynt að vinna á miklum hraða til að koma að málinu áður en við afgreiðum það fyrir vorið og hefur komið með ábendingu sem við ræddum í nefndinni um það hvernig ætti að kynna framboð stjórnmálaflokkanna fyrir kosningar.

Það má eiginlega segja að í þessu séu tveir skólar. Annar skólinn er sá sem RÚV hefur sjálft lagt áherslu á og það er að RÚV verði með kynningu á framboðunum en hafi ritstjórnarlegt vald á þeim kynningum. RÚV sýni það sem RÚV telji eðlilegt að sýna, og geti stoppað af umfjöllun ef flokkarnir senda inn eitthvað vafasamt, þó að ég búist ekki við því að það verði reynt aftur. Mér skilst að það sé ólíklegt. Þá hafi RÚV ritstjórnarlegt vald yfir kynningu á flokkunum, hugsanlega með litlum þáttum, umræðuþáttum um einhver ákveðin mál, spyrji alla flokkana eða fulltrúa þeirra ákveðinna spurninga o.s.frv.

Þetta er annar skólinn. Hinn skólinn sem Finnur Beck og nefnd hans hefur frekar hallað sér að er ókeypis dagskrártími fyrir framboðin. Þau geti sýnt á þeim tíma efni sem væri algjörlega á þeirra eigin ábyrgð og lyti ekki ritstjórnarlegu valdi RÚV. Þá mætti líta á það efni meira sem hreina auglýsingu, eins og bara frá hvaða fyrirtæki sem er eða samtökum. Menn mundu senda inn alveg tilbúið efni og hafa algjörlega frjálsar hendur um hvernig það væri.

Nefndin ræddi þetta og komst að þeirri niðurstöðu að fara leiðina sem RÚV sjálft mælti frekar með, þ.e. að RÚV ætti að hafa ritstjórnarlegt vald á kynningunum og vera með ákveðið form í því sambandi og setja sér reglur þar að lútandi. Það er mjög mikilvægt að þessar reglur verði settar og þær verði góðar.

Ég get alveg fallist á að þetta er fær og ágæt leið, ég geri ekki athugasemdir við það. Ég tel hins vegar að við þurfum ekki að velja bara aðra hvora leiðina, ég held að við getum valið blandaða leið. Það væri hægt að vera með kynningarefni sem lýtur ritstjórnarlegu valdi RÚV og einnig úthlutað flokkunum ákveðnum tíma til að senda inn efni sem þeir hafa sjálfir útbúið og væri sýnt eins og hver önnur auglýsing, flokkunum að endurgjaldslausu. Flokkarnir fengju ígildi auglýsingatíma. Ég hefði talið heppilegast að fara báðar leiðirnar, nota þessa tvo svokölluðu skóla samhliða. RÚV gæti auðvitað gripið inn í ef það mæti það sem svo að einhver hatursáróður væri í kynningunni eða eitthvað slíkt. Þá mundu þeir stoppa af að sýna slíkt, eins og menn mundu gera í dag eðli máls samkvæmt ef einhverjar slíkar auglýsingar kæmu fram. Kynningarefnið mundi lúta sömu lögmálum og auglýsingar í dag.

Þessi blandaða leið var ekki farin enda höfðum við svo sem frekar lítinn tíma í lokin til að sökkva okkur mikið ofan í þetta. Ég ákvað að koma þessu sjónarmiði mínu á framfæri í fyrirvara. Ég er samt ekki með breytingartillögu sem lýtur að því og hef ekki endilega hugsað mér að flytja slíka breytingartillögu þó að það komi til greina. Ef manni væri stillt upp við vegg og ætti að velja aðra hvora leiðina, ef staðan væri sú, hefði ég valið þá leið sem meiri hlutinn velur hér, að hafa kynningarefnið undir ritstjórnarlegu valdi RÚV en fara ekki þessa svokölluðu auglýsingaleið. Best hefði ég talið að fara báðar leiðir.

Það sem fær mig til að komast að þeirri niðurstöðu er að fyrir hendi er ákveðin hætta, ég vona að hún sé samt ekki mikil, að ef allir flokkarnir eru settir í sama form undir ritstjórnarlegu valdi RÚV getur komið upp sú staða að stjórnmálaafl sem hefur mjög ákveðnar skoðanir í einhverju máli, er upptekið af fáum málum, einu, tveimur, þremur málum en hefur kannski ekki mikla málefnabreidd, komi sjónarmiðum sínum ekki nægilega vel á framfæri innan þeirra reglna sem RÚV mun setja um kynningarefni. Slíkt afl verði of heft í því formi. Hugsanlega kæmi RÚV sjónarmiðum þess aldrei nægilega skýrt á framfæri en þá hefði slíkt framboð getað komið þeim á framfæri án endurgjalds í auglýsingaformi, ef má kalla það svo.

Ég gef mér að flokkarnir muni ekki allir, sérstaklega ekki nýir flokkar, hafa fjárhagslega burði til að auglýsa mikið þannig að þeir geti ekki bjargað sér sjálfir að því leyti. Þeir hefðu átt að fá einhverja meðgjöf í því, og hún fælist í því að gefa þeim ókeypis auglýsingatíma, ákveðnar mínútur þar sem þeir hafa algjörlega vald á því hvað þeir vilja leggja mesta áherslu á og í hvaða formi þeir vilja koma því á framfæri o.s.frv.

Ég vona að RÚV setji sér góðar reglur í þessu sambandi þannig að áhyggjur mínar verði óþarfar, reglurnar hafðar þannig að reynt verði að koma til móts við sjónarmið flokka með alveg sérstakar áherslur. Það eru þá líklega ný framboð sem taka á sérstökum málum sem hafa komið upp í samfélaginu. Reglurnar verði þannig að þeirra tónn komist nægilega skýrt í gegn þannig að allir verði sáttir við sinn hlut í þeim flokkum sem munu bjóða fram.

Virðulegur forseti. Á þeirri mínútu sem ég á eftir vil ég sérstaklega árétta að ég tel mikilvægt að við klárum þetta mál í þinginu núna. Ég tel ómögulegt að láta það bíða til næsta kjörtímabils, það er fráleitt. Við eigum að klára þetta núna. Það er búið að vinna málið vel, þetta mun bæta rammann utan um RÚV, en mun líka stórbæta aðstæður annarra fjölmiðla. Þeir munu hafa frjálsari hendur á auglýsingamarkaði þar sem við munum ná að hemja RÚV á auglýsingamarkaði miðað við það sem nú er.

Ég þakka líka talsmanni málsins, hv. þm. Skúla Helgasyni, fyrir að halda mjög lipurlega utan um það. Það er ekki alltaf sjálfgefið að talsmenn geri það, en hann hefur lagt sig í líma við að hlusta á sjónarmið allra aðila. Við tókum málið jafnvel seinna út úr nefndinni en við hefðum getað af því að hv. þingmaður (Forseti hringir.) reyndi að ná öllum sjónarmiðum saman í lokin. Ég þakka honum sérstaklega fyrir það.