141. löggjafarþing — 85. fundur,  21. feb. 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[11:54]
Horfa

Frsm. minni hluta allsh.- og menntmn. (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Skúla Helgasyni fyrir framsögu hans og um leið fyrir vinnuna í nefndinni sem hefur verið mjög upplýsandi. Það er hins vegar alveg ljóst að við deilum ekki nákvæmlega sömu skoðun á því hvert hlutverk Ríkisútvarpsins er og á að vera í íslensku samfélagi. Þess vegna er ég til að mynda ekki sammála áliti meiri hlutans því að það er margt sem við þurfum að fara yfir og ég mun koma að í ræðu minni á eftir.

Við fórum meðal annars aldrei yfir það í nefndinni hvort við ættum ekki einfaldlega að stokka þetta almennilega upp, burt séð frá forsögu málsins, og reyna að takmarka hlutverkið enn betur. Það var margítrekað, ekki bara af minni hálfu heldur m.a. þeirra gesta sem komu á fund nefndarinnar, að hlutverk Ríkisútvarpsins í málinu eins og það er lagt fyrir er enn þá allt of víðtækt. Það kom fram við 1. umr. málsins í samræðum við hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra hvort ekki væri hægt að takmarka það.

Að vissu leyti er verið að reyna að gera það með ákveðnum tillögum frá nefndinni en ég velti því fyrir mér hvort hv. þm. Skúli Helgason geti sagt mér hvort hann sjái Ríkisútvarpið í samhengi við til dæmis danskan veruleika. Er Ríkisútvarpið að hans mati nær Danmarks Radio eða er það nær TV2, sem er reyndar líka í eigu danska ríkisins? Hvar vill hv. þingmaður staðsetja Ríkisútvarpið á þeim markaði? Það er svo einkennilegt að við í þessu máli lesum að verið er að rökstyðja ákveðnar breytingar, alls ekki allar, með vísun til Norðurlandanna, m.a. það að reyna að fá starfsmenn í stjórn stofnunarinnar. Á móti kemur að við megum ekki ræða að taka Ríkisútvarpið almennilega út af auglýsingamarkaði eða takmarka það enn frekar en er verið að gera í málinu.

Ég vil því spyrja hv. þingmann: Er fyrirmynd Ríkisútvarpsins Danmarks Radio eða TV2?