141. löggjafarþing — 85. fundur,  21. feb. 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[12:01]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir yfirferðina á nefndarálitinu þó að ég sakni þess dálítið að ekki skuli vera fjallað um fjárhagslega aðskilnaðinn sem hefur verið töluvert til umræðu og var mikið til umræðu í 1. umr.

Ég verð að lýsa yfir miklum vonbrigðum með að ekki skuli vera tekið tillit til umsagnar hv. fjárlaganefndar, þar sem fjárlaganefnd vinnur að því að taka svokallaða markaða tekjustofna og setja í ríkissjóð. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að í upphafi árs 2014, þ.e. eftir tæpt ár, aukist ríkisútgjöldin til Ríkisútvarpsins um 875 milljónir og á sama tíma fáum við fregnir af neyðarástandi á Landspítalanum, neyðarástandi á heilbrigðisstofnunum, en samt á að fara í þessa vegferð, með fullri virðingu fyrir starfsemi Ríkisútvarpsins.

Þegar menn tala um sjálfstæði stofnunarinnar þá blæs ég auðvitað á þá umræðu, algjörlega. Við getum þá alveg eins tekið umræðu sem snýr að Hæstarétti og öðrum þeim þáttum sem snúa þar að. Ég vil spyrja hv. þingmann — því að nú er verið að vinna að svokölluðum rammafjárlögum um að menn setji viðkomandi ráðuneyti fjárhagsramma — ef menn ætla að auka útgjöldin um tæpar 900 milljónir frá og með upphafi næsta árs hvar á þá að skera niður í sambærilegum málaflokki undir því ráðuneyti? Hvar á að skera niður? Engar hugmyndir eru um það hér. Það er bara verið að ausa peningum úr ríkissjóði, tæpum 900 milljónum. Verið er að auka útgjöldin til Ríkisútvarpsins um 27%, sisvona, á sama tíma og okkur berast fregnir af því neyðarástandi sem er á Landspítalanum og fleiri stöðum. Er það kannski til þess að Ríkisútvarpið geti þá flutt allar fréttir af því neyðarástandi sem er á þeim stofnunum? Hver er eiginlega hugsunin á bak við þetta? Það veldur mér miklum vonbrigðum að ábendingar hv. fjárlaganefndar skuli ekki hafa verið teknar til athugunar. (Forseti hringir.) Ég kalla eftir útskýringum hv. þingmanns á því.