138. löggjafarþing — 74. fundur.
stjórn fiskveiða, frh. 2. umræðu.
stjfrv., 174. mál (rýmkun frístundaveiða, aukin veiðiskylda o.fl.). — Þskj. 193, nál. 488 og 645, brtt. 646.

[13:31]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp sem lætur frekar lítið yfir sér en hefur þeim mun meira fordæmisgildi. Hv. þm. Árni Johnsen sagði fyrr í umræðunni að sjávarútvegur á Íslandi væri þjóðnýttur. Það er ekki rétt. Útgerð á Íslandi er stýrt með lögum, henni er ekki stýrt af framkvæmdarvaldinu, heldur er óskaplega mikil lagaumgerð um nánast hvert einasta smáatriði og hér er enn verið að auka á það. Til að fara að gera út trillu þurfa menn að kunna heilmikið í lögfræði og um framkvæmd laganna og þyrftu eiginlega að vera lögfræðingar. Þannig er komið fyrir þessari atvinnugrein.

Frumvarpið er eins og ég sagði í sjálfu sér tiltölulega meinlaust. Þar er verið að segja að menn geti stundað frístundaveiðar ásamt með öðrum veiðum. Frístundaveiðar eru sóknarmark. Þar mega menn sækja eins og þeir vilja innan ákveðins tíma en nú mega þeir jafnframt vera í aflamarki. Þetta hefur aldrei kunnað góðri lukku að stýra. Svo er gert ráð fyrir að það flytja megi milli ára 15% í stað 33%. Þetta þýðir bara minni sveigjanleika og að menn geti ekki tekið eins mikið mið af mörkuðum, og minni arðsemi, það liggur í hlutarins eðli. Síðan er sagt að 20% af afla sem er á landbeitta línu, þ.e. línuveiðar þar sem línan er beitt í landi, megi áfram teljast utan kvóta í staðinn fyrir 16%. Svo er það landstokkuð lína, þetta er tekið inn nýtt núna, þ.e. lína sem er stokkuð upp í landi en beitt úti á sjó, að þar skuli 15% ekki teljast til kvóta. Svo er veittur ákveðinn forgangur líka. Þetta var um þessi atriði.

Svo er verið að tala um ótrúlegt ákvæði um vinnsluskyldu á uppsjávarfiski, þ.e. ráðherra hefur heimild til að kveða í reglugerð á um það hvernig vinna eigi uppsjávarfiska, t.d. makríl, kannski sérstaklega, og gulldeplu, sem er uppsjávarfiskur. Hann getur farið að segja að gulldepla eigi að fara til manneldis. Það er áhugavert.

Þarna er sem sagt verið að bregðast við ákveðnum vanda sem ráðherrann hefur sjálfur búið til. Þegar makríllinn fór að ganga inn í íslenska fiskveiðilögsögu átti ráðuneytið að sjálfsögðu að gefa það út að veiðireynsla í þeirri fisktegund mundi byggjast á verðmæti en ekki magni. Ákaflega einföld skilaboð sem hefðu gert það að verkum að menn hefðu vandað sig við það að fá sem mest verð út úr makrílnum í stað þess að reyna að moka upp sem mestum afla, í ljósi þess sem áður hefur gerst að menn fá kvóta eða veiðiheimildir í hlutfalli við magn en ekki verðmæti sem hefur svo sem alltaf verið vandamál.

Svo er talað um veiðiskyldu, þ.e. að menn verði að veiða svo og svo mikið af fiski, og það er verið að auka hana þannig að menn skuli veiða meira af aflaheimildum sínum. Það þýðir að það verður minna til sölu utan kvóta og verðið á aflaheimildum hækkar væntanlega. Það gerir þeim útgerðum sem hafa lifað á kvóta erfiðara fyrir, þau eiga erfiðara uppdráttar. Það er dálítið merkilegt af því að ég skrifaði grein fyrir mörgum árum þar sem ég spurði af hverju útgerðin vildi ekki græða, ég reiknaði nefnilega út hve hagnaður fyrirtækjanna, útgerðarfyrirtækjanna, væru margar krónur á kíló. Ég man að Grandi var þá með mesta arðsemina á kíló veiðiheimilda eða 20 kr. á kíló. Á þeim tíma gengu veiðiheimildirnar í þorskígildi á um 100 kr. Grandi hefði því getað fimmfaldað hagnað sinn með því að leigja frá sér kvóta — ég skil ekki af hverju hann gerði það ekki eins og honum var heimilt — allt að helminginn af kvótanum, hann hefði getað leigt skipin með og hætt útgerð á helmingi af kvótanum. Ég hef ekki enn þá fengið svar við því af hverju útgerðin vildi ekki græða. En afleiðingin yrði samt sú — ef öll útgerðarfyrirtæki færu að leigja frá sér kvóta vegna þess að hagnaður þeirra er miklu minni á hvert kíló en kvótinn var seldur á — að verðið á kvótanum mundi lækka, frú forseti, sennilega á þeim tíma niður í 20 kr. því að best rekna fyrirtækið virtist skila þeim hagnaði. Það hefði hins vegar gerst að kvótinn hefði flust eitthvert annað, þ.e. þau skip sem veiða miklu hagkvæmar en önnur skip, og ég hygg að þegar grannt er skoðað séu það einmitt smábátarnir sem veiða hvað hagkvæmast það sem þeir geta veitt. Sennilega mundi kvótinn því fara til Vestfjarða og Grímseyjar og þar sem mikið er um smábáta, því að þeir veiða sennilega ódýrast, sérstaklega ef maður tekur fjármagnið inn í og kostnað við hvert pláss. Nú hef ég farið í gegnum þær breytingar sem gerðar eru hérna.

Síðan er talað um gullkarfa og djúpkarfa og þar eru menn aftur með ákveðinn vanda. Sum skip geta veitt gullkarfa en ekki djúpkarfa og þau fá samt sem áður úthlutað í djúpkarfa af því að frumvarpið er þannig og hv. sjávarútvegsnefnd hefur ekki tekið á þeim vanda. Auðvitað átti hún að taka á vandanum og segja að þeir sem hafi veiðireynslu í gullkarfa fái kvóta í gullkarfa og hinir sem hafi veiðireynslu í djúpkarfa fái kvótann í karfanum úthlutað sem kvóta í djúpkarfa. Það er svona ýmislegur vandi sem menn hafa hreinlega búið til að ég held í skilningsleysi eins og þetta sem ég nefndi með makrílinn.

Þá er það skötuselurinn, frumvarpið hefur verið kennt við hann og ekki að ósekju vegna þess að þau 3.000 tonn sem er ráðlegt að veiða í skötusel fara niður í 2.500 tonn, aflaheimild þeirra sem eiga kvóta og veiðiheimildir í skötusel er sem sagt minnkuð um 17%. Ég mundi segja að þetta væri eignaupptaka, að taka 17% af þessari eign og umfram alla aðra og úthluta þessu svo, selja það eftir reglum sem ekki eru enn þá útfærðar til einhverra annarra. Og ekki nóg með það að selja eigi 500 tonn, heldur á að selja 2.000 tonn og fara langt umfram veiðitilskipun eða ráðleggingu Hafró. Þá fer að verða dálítið athyglisvert að tala við hv. þingmenn Vinstri grænna, sem margir hverjir gefa sig út fyrir að vera umhverfissinnar og vilja að fiskveiðar séu sjálfbærar og farið sé eftir vísindalegri ráðgjöf. Þetta fólk hlýtur náttúrlega að vera núna alveg standandi hissa. Má allt í einu veiða 80% meira af skötusel en vísindamenn leggja til? Ég spyr. Og hvar eru allir umhverfissinnarnir, frú forseti? Hvar eru allir umhverfissinnarnir í Vinstri grænum, þessir grænu í Vinstri grænum? Þeir sjást ekki. Þeir ættu núna að koma og segja: Við erum eindregið á móti því að veiða svona mikið af skötusel þegar vísindamenn segja að það eigi að veiða miklu minna.

Svo er hér annað athyglisvert. Ráðuneytið má selja kílóið á 120 kr., þ.e. tonnið á 120 þúsund. Það þýðir að það ætlar að selja og fá 240 milljónir á ári fyrir þessi 2.000 tonn og menn mega kaupa allt að 5 tonn, þ.e. fyrir 600 þúsund kall. En hér kom fram fyrr í umræðunni að kvótinn er seldur á 330 kr. þannig að þeir sem eru svo heppnir að fá að kaupa þennan kvóta — það eru að hámarki 400 skip og miðað við 5 tonn á hvert skip — munu hagnast um mismuninn á því kvótaverði sem er á markaði, 330 og 120 kr., það eru 180 kr. sem þeir græða á hverju einasta kílói og það gera 900 þús. kr., frú forseti, sem þeir fá gefnar. Það er nú aldeilis gaman að fara að gefa svona peninga. Það er ráðuneytið, væntanlega ráðherra og ég ætla að biðja ráðherra — hann er reyndar ekki viðstaddur umræðuna og það er dálítið miður — ég ætla að biðja hann að minnast mín sem vinar síns, ég hef ekkert verið voðalega vondur við hann í gegnum tíðina, þegar hann fer að gefa þennan kvóta og gefa þessa peninga, 900 þús. kr.

En án gamans, frú forseti, þetta er mjög alvarlegt að það eigi að fara að úthluta svona gæðum með þessum hætti án þess að neitt sé í frumvarpinu um það hvernig fara eigi að því, hvort hann eigi að miða við skólabræður sína — ég var nú einu sinni með honum í skóla, eða hvort hann eigi að miða við frændur sína eða einhvern ákveðinn stað, Ísafjörð eða hvað það nú er, Breiðafjörð. Það er ekkert um það hvernig hann eigi að úthluta þessum kvóta. Þetta er mjög alvarlegt. Þetta frumvarp er eins og ég segi fordæmisgefandi, þetta litla frumvarp, og nú er skötuselur ekkert voðalega mikilvægur í fiskveiðum Íslendinga, það er ekki svo að allt standi og falli með honum en samt sem áður er þetta er ákveðin vísbending um það hvert menn ætla að sigla. Menn ætla að fara langt umfram fiskveiðiráðgjöf vísindamanna, það er sem sagt meiningin að brjóta regluna um sjálfbærni veiðanna og brjóta reglurnar sem umhverfisverndarsinnar hafa haldið á lofti, og þeir ætla auk þess að fara að úthluta gæðum, gefa gæði án þess að sagt sé nákvæmlega fyrir um það hvernig eigi að fara því. Ekki er það gott, en við eigum enn þá möguleika, frú forseti, að setja málið inn milli 2. og 3. umr. og þá gæti hv. nefnd tekið á þessu skarpari tökum, þannig að þau ósköp dynji ekki yfir okkur sem ég er að tala um.

Svo er annað, það er ákveðið umhverfi í gangi. Stjórnarflokkarnir hafa báðir lofað að ríkisvæða kvótakerfið á Íslandi, þeir ætla sér að taka kvótann af útgerðarmönnum og flytja hann til ríkisins, alltaf með þá hugljómun að ríkið sé sama og þjóðin. En það er reginmunur þar á, ríkið er lögpersóna og framkvæmdarvaldið fer með ríkisvaldið, og ég geri mikinn mun á þjóðinni og ríkinu. Á þessum tímapunkti núna hafa báðir stjórnarflokkarnir lagt til afskriftir, að kvótinn verði afskrifaður og hann verði ríkisvæddur, hann verði fluttur til ríkisins og svo eiga stjórnmálamennirnir að deila honum út aftur. Það verður nú aldeilis gaman. Það er þetta sem menn hafa verið að gagnrýna út um allt land.

Sett var á laggirnar sáttanefnd af þeim sama hæstv. ráðherra, sjávarútvegsráðherra, sem leggur fram þetta frumvarp. Sú nefnd er að störfum og allt í einu fær hún eins og blauta tusku framan í sig þessa meðhöndlun bæði á veiðiskyldunni og skötuselnum og það er sérstaklega hann sem kemur eins og blaut tuska framan í hana, því að það er verið að taka kvóta af ákveðnum kvótaeigendum og flytja hann yfir til annarra, ríkið ætlar að selja hann. Ef þetta er dæmi um það hvernig stjórnarflokkarnir ætla að fara með þessa hugljómun, að ríkisvæða kvótann með afskriftum, er það ekki beint gæfulegt. En það vantar alla útfærslu hjá stjórnarflokkunum um það hvernig þeir ætla að fara að því að deila út þessum kvóta aftur. Það eru mjög óljósar hugmyndir, a.m.k. hef ég ekki fengið skýra mynd af því.

Ljóst er að framsal og veiðiskylda er hlutur sem hefur verið mjög óvinsæll vegna þess að þjóðin er ósátt við kvótakerfið en aðallega eignarhaldið og þá eru menn ósáttir við það að menn megi framselja, en framsalið þýðir meiri hagræðing. Ef útgerðarmaður á tvö skip og getur veitt með einu gerir hann að sjálfsögðu bara út eitt skip og eina áhöfn, ef hann getur gert það. Í því er fólgin hagræðing. En ef um er að ræða tvo útgerðarmenn með tvö skip og ekki má leigja kvóta á milli, verða þeir að gera út sitt skip hvort með sinni áhöfn, sem er mjög óhagkvæmt og mjög óhagkvæmt fyrir þjóðina. Og því meira framsal þeim mun meiri hagræðing. Því að minna framsal, og t.d. ef ekkert framsal er sem sumir krefjast, þýðir að gera yrði út sama skipið endalaust. Ég veit ekki hvað menn ætla að gera með nýtt skip, hvort það mundi taka við kvótanum. Má framselja yfir á nýtt skip? Við sætum því uppi með skip, eins og Norðmenn hafa reyndar lent í með sitt kvótakerfi, eldgömul skip, manndrápsdalla sem eru að gera út og veiða fisk af því enginn annar má veiða. Þannig að þetta frumvarp er mjög margþætt.

Deilur um kvótakerfið hafa verið alveg frá því að það var sett á laggirnar fyrir 25 árum. Í auknum mæli er þetta að færast í deilur milli höfuðborgar og Akureyrar að einhverju leyti og þeirra staða sem gera út. Síðan er landsbyggðin, þ.e. landbúnaðarhéruðin, hlutlaus eða kannski meira í því að vera á móti eignarhaldi á kvótanum. Þrátt fyrir það að Reykjavík hafi löngum verið einn stærsti útgerðarstaðurinn á landinu og þetta sé hlutfallslega lítið af umsvifum í borginni hefur verið mikil óánægja í mínu kjördæmi — og mínum kjördæmum, ég er fulltrúi Reykjavíkur allrar — um kvótakerfið. Nú er það svo að 90% af kvótanum hafa verið keypt að mér skilst, 80–90% hafa menn keypt, þannig að menn hafa borgað mikla peninga fyrir þann kvóta sem þeir eru með. Þess vegna yrði mjög ósanngjarnt að taka þessa eign af þeim einn, tveir og þrír og það er mjög ósanngjarnt eins og menn gera ráð fyrir að taka þetta á 25 árum því að flestir hafa keypt þetta. Þeir sem fengu kvóta á sínum tíma fengu hann vegna skerðingar, vegna þess að það var verið að skerða aðgang að auðlindinni — og þá mynduðust verðmæti, því að þeir sem máttu veiða fengu verðmæti — ella hefði, ef ekkert hefði verið að gert, fiskurinn sennilega klárast og allir beðið tjón og alveg sérstaklega þjóðin.

Á þinginu 1999/2000 lagði ég fram í seinna skipti þingsályktunartillögu um að dreifa kvótanum á þjóðina. Sumir mundu segja að það sé eiginlega það sama og stjórnarflokkarnir eru að leggja til, en það er reginmunur á. Ég ætla að dreifa þessu á alla sem búsettir eru í landinu, að allir þeir sem búa í landinu hverju sinni fái veiðiheimildir, aldrei kvótann sjálfan. Þegar menn falla frá eða flytja úr landi fellur kvótinn niður og þegar menn fæðast eða flytja til landsins fá þeir kvóta. Hver yrði munurinn? Ég ætla að gera þetta á löngum tíma — og ég vildi gjarnan að útgerðarmenn kæmu inn í þá umræðu og það mætti gjarnan ræða í þessari sáttanefnd — ég mundi tala um 33 ár, 50 ár mætti gjarnan ræða, 2% afskriftir á ári, og þetta færi til þjóðarinnar og þá yrði hver og einn að reyna að selja sinn kvóta. Og ég ætlaði að gera meira, ég vildi segja að útgerð með þennan kvóta mætti gera við hann það sem hún vildi, hún mætti veiða hann, selja hann eða bara gefa þennan kvóta sem hún hefði til afskrifta. Þannig yrði hann verðmætari í höndum útgerðarinnar en núverandi kvóti þar sem menn búa við stöðugan ótta um það að ný stjórn taki við og alltaf er stöðug umræða um að taka kvótann af þeim. Ég held að útgerðarmenn ættu virkilega að skoða slíkar hugmyndir.

Hver er munurinn? Hann er sá að útgerðarmenn stæðu frammi fyrir svona 150 þúsund seljendum sem vildu selja kvóta. Eflaust mundu myndast sjóðir sem keyptu upp kvóta o.s.frv. Ég lagði til að þessu yrði úthlutað þrjú ár fram í tímann þannig að það væri alltaf til markaður með kvóta og meira að segja ef skip veiðir einn skötusel getur það bara keypt kvóta á leiðinni í land í gegnum gemsann sinn fyrir þessu eina kílói. Það mundi myndast mjög virkur kvótamarkaður af því að stór hluti þjóðarinnar mundi aldrei veiða sinn kvóta heldur bara selja hann. Um leið er maður kominn með ákveðinn grunn. Menn fengju í rauninni borgað fyrir það að búa á Íslandi og þetta mundi minnka þörfina á barnalífeyri, örorkulífeyri og ellilífeyri. Þetta mundi minnka þörfina á því að halda uppi ákveðinni grunnframfærslu á Íslandi vegna þess að menn fengju þarna sirka 2 þorskígildistonn, hver einasti Íslendingur, og verðmæti þess færi eftir því hvert yrði markaðsverð á kvóta eftir svona mikil umskipti en þegar fram liði mundi verðmætið sennilega lækka niður í kannski 100 kr. á kíló en það væru engu að síður 200.000 kr. sem menn fengju á ári, og hvort það er skattfrjálst eða skattskylt er svo aftur líka umræða. En þetta yrði mikill munur fyrir útgerðarmennina, hvort þeir horfa á 200 þúsund seljendur eða einn sem er ríkið og ríkið gerir kannski eitthvað allt annað en að selja þetta á markaði. Það er ekkert útfært hvernig það verður gert. Ég vil gjarnan að menn skoði þessar hugmyndir sem ég var með um að dreifa kvótanum á þjóðina. Ég er ekki að segja að þetta sé albesta lausnin, alls ekki, það geta verið til aðrar lausnir.

En svo er það tímasetningin, frú forseti. Tímasetningin núna eftir hrun er eiginlega sú alversta sem menn gátu valið til svona breytinga. Hvers vegna? Vegna þess að við þurfum að reyna að halda uppi eins mikilli atvinnu og hægt er. Það að fara að ráðast á útgerðirnar núna og valda ólgu og jafnvel því að menn stöðvi framkvæmdir og fjárfestingar er afskaplega slæmt. Við eigum að nýta okkur það afl sem útgerðin fær út úr lágu gengi krónunnar til að skapa enn meiri vinnu, enn meiri framleiðni og enn meiri virkni. Tímasetningin er eins slæm og hugsast getur með þessa skattlagningu og niðurskrift á kvóta og ég vil biðja menn að bíða pínulítið með það þangað til útgerðin braggast.



[13:51]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans og þær hugmyndir sem hann reifaði hér og hefur reifað áður um það að kvótinn eigi að vera eign þjóðarinnar með beinum hætti, hvers og eins einstaklings. Ég vil biðja hv. þingmann um að fara aðeins betur í gegnum það hvernig hann sér innköllun á kvóta frá útgerðinni fyrir sér, hvernig hann hugsar slíka breytingu í framkvæmd og praktík, hvort það sé með því að fyrna kvótann á einhverju ákveðnu tímabili eða hvernig hann hafi hugsað þetta.



[13:52]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Í þeirri þingsályktunartillögu sem ég flutti og hef flutt í tvígang er gert ráð fyrir því að 4% af kvótanum verði afskrifuð árlega hjá útgerðinni og flutt yfir til þjóðarinnar. Aflaheimildir yrðu seldar þrjú ár fram í tímann, sem mundi þýða það að fyrsta árið kæmu 4%, 8% og 12% til úthlutunar, að sjálfsögðu gætu menn ekki ráðstafað þeim fyrr en eftir þrjú ár en ég geri ráð fyrir því að margar útgerðir vilji kaupa kvóta fram í tímann og þetta var hugsað þannig. Þetta var hugsað sem umræðugrundvöllur þar sem menn gætu rætt við útgerðina um það hvað henni þætti bærilegt. Eins og ég gat um áðan finnast mér 3% eða jafnvel 2% á ári alveg ásættanleg vegna þess að 50 ár eru langur tími í ævi einstaklinga og fyrirtækja, mjög langur tími, og mönnum þykir ekkert mikið að afskrifa 2% á ári t.d. ef við tækjum 50 ár í þetta. En í lífi þjóðar og þegar unnið er að því að ná sátt um eignarhald á kvótanum til framtíðar er vel þess virði að taka í það 50 ár, eða 30 ár. Þetta er eitthvað sem mér finnst að menn ættu að ræða og fyrir útgerðina mundi ég segja, eins og ég gat um áðan, að eignarhald á því sem eftir er, þ.e. því sem þeir halda eftir, yrði algjörlega laust við allar kvaðir og bönd til að gera það verðmeira. Þá næðist fram eins mikil hagræðing í sjávarútvegi og mögulegt er, því framsalið yrði algjörlega frjálst og eins og ég gat um áðan er sérhver takmörkun á framsali ekkert annað en skerðing á hagkvæmni.



[13:54]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Ég verð að játa að ég hef alltaf verið skotinn í þeirri hugmynd að einstaklingarnir sjálfir fái aflaheimildirnar til ráðstöfunar og við settum þessa hugmynd fram þegar ég ritstýrði Stefnuskrá ungra jafnaðarmanna einhvern tíma á síðustu öld. Það vekur athygli mína að þær hugmyndir sem hv. þingmaður reifar um afskriftirnar eru býsna nærri því sem ríkisstjórnin hefur kynnt í stefnuyfirlýsingu sinni. Við höfum kynnt u.þ.b. 5% afskriftir á ári, þ.e. að kvótinn væri afskrifaður á 20 árum. Hv. þingmaður talar um 4% sem umræðugrundvöll. Ég held að það sé kannski bitamunur en ekki fjár, því það er rétt hjá hv. þingmanni að einn áratugur er ekki langur tími í lífi þjóðar. Þannig að ég fæ ekki betur séð en að mat um það hvað sé raunsætt í þessu sé nokkuð samhljóða hjá stjórnarliðinu og hv. þingmanni, sem þekkir vel til viðskipta- og efnahagsreikninga fyrirtækja.

Ég verð þó að vera algerlega ósammála hv. þingmanni um að tíminn til að gera breytingar sé ekki núna. Auðvitað er tíminn til að gera breytingar einmitt núna í kjölfar hrunsins þegar menn eru að skipuleggja atvinnuvegina áratugi fram í tímann. Það væri mikið óráð að skipuleggja atvinnuvegina áratugi fram í tímann og ætla svo að koma eftir þrjú ár eða fimm ár og rífa allt skipulagið upp. Við eigum einmitt að endurskipuleggja það núna. Sá leiðangur ríkisstjórnarinnar hefur sannarlega ekki orðið til þess að draga úr atvinnusköpun í sjávarútvegi, því á að þeim tíma sem hefur liðið frá því að stefnuyfirlýsingin kom fram hefur störfum í íslenskri fiskvinnslu fjölgað um mörg, mörg, mörg hundruð. Sem betur fer, því í þeim erfiðleikum sem við er að glíma, hefur það verið mikilvæg viðbót og gott að þannig sé búið að sjávarútveginum.



[13:56]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt að gagnvart útgerðinni er ekki stór munur á hugmyndum mínum og þeim hugmyndum sem ríkisstjórnin hefur væntanlega tekið upp eftir mér, sem er mér ákveðinn heiður. Einn reginmunur er þó á, framboð á veiðiheimildum eftir á. Því ef ríkisvaldið, þ.e. einn aðili, situr við borðið, sérstaklega ef það þarf að kaupa sér atkvæði og vera vinsælt, þá getur það úthlutað heimildunum í alls konar leikaraskap, sem ég kalla svo, eins og þessar frjálsu strandveiðar sem innleiddar voru síðastliðið haust, en þar var tekið frá hinum og gert eitthvað sem var vinsælt. Þá myndast ekki markaður með kvótann í sama mæli og í minni hugmynd þar sem hver einstaklingur yrði að reyna að selja kvótann sinn og þeir sem vildu ekki kvótakerfið, elskuðu þorskinn, gætu bara hent sínum kvóta og látið þorskinn óveiddan. En flestir mundu reyna að selja og 180 til 190 þúsund seljendur mundu mynda markað sem útgerðarmenn stæðu andspænis. Ég hugsa að kvótaverð mundi lækka umtalsvert bara strax á fyrsta degi, alla vega fyrstu tvö, þrjú árin. Það gerir útgerðinni léttara að vinna eftir að hún hefur misst kvótann, að verð á veiðiheimildunum — í minni hugmynd er bara um að ræða veiðiheimildir — mundi lækka og að við byggjum ekki við það kerfi sem yrði þegar búið væri að ríkisvæða þetta, að menn úthlutuðu heimildunum til einhverra allt annarra, eins og hér er gert ráð fyrir að gera með skötuselinn. Það er nefnilega hættan. Menn ætla núna að gefa hverjum manni 180 kr. á kíló í skötuselnum sem hann fær, það er hættan.



[13:58]
Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum um breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu. Ég held að ekki sé úr vegi að byrja á að beina því til forseta hvort sjávarútvegsráðherra gæti ekki setið undir þessum umræðum þar sem þetta er eitt af stærstu málum sem hann hefur á sinni könnu um þessar mundir. Ég held að rétt sé að hæstv. ráðherra sitji í salnum og hlusti á umræðurnar, hann láti svo lítið.

(Forseti (ÞBack): Forseti vill koma þessari ósk til hæstv. sjávarútvegsráðherra.)

Ég þakka fyrir, virðulegi forseti.

Upphaf þessa kvótakerfis má rekja til ársins 1983 þegar svarta skýrsla Hafrannsóknastofnunar kom fram. Í þeirri skýrslu var tíundað að fiskveiðum við Ísland væri hætta búin vegna þess að búið væri að ofveiða fiskstofnana. Góð ráð voru dýr og það sem kom út úr þessari skýrslu, eða réttara sagt framhaldsvinnunni við þá skýrslu, var að sett var á kvótakerfi í fiskveiðum við Ísland. Þetta var mikið framfaramál. Það leiddi til þess að hægt var að hafa stjórn á heildaraflanum en jafnframt var að nokkru leyti innleidd hagkvæmni í íslenskar fiskveiðar, sem hafði vantað mjög upp á.

Hver man ekki, sá sem kominn er eitthvað við aldur, a.m.k. á aldur við mig, eftir fréttum í öllum fréttatímum þar sem fyrstu tvær fréttirnar byrjuðu á því að sjávarútvegurinn væri kominn í svo og svo slæma stöðu og það þyrfti að gera þetta og þetta fyrir sjávarútveginn. Íslensk hagstjórn gekk að stórum hluta út á það að gera fiskveiðar á Íslandi lífvænlegar. Út af hverju var það? Það var út af því að fiskveiðar voru óheftar, eða sóknin í fiskstofnana var óheft að miklu leyti, og að upp hafði komið vandamálið sem kallað er vandamálið með almenning, þ.e. að ef öllum er frjálst að sækja í einhverja auðlind þar sem fyrir hendi er auðlindarenta, munu aðilar fjárfesta til að geta sótt í þá auðlind ókeypis, óhindrað, allt þar til allri auðlindarentunni hefur verið sóað í allt of miklar fjárfestingar og allt of mikla sóknargetu. Það er í stuttu máli sú staða sem upp var komin þá, auk þess sem því fylgdi auðvitað ofveiði.

Landnámsmennirnir leystu þetta vandamál með almenningana í landbúnaði með því að ákveða hversu margir bændur mættu setja svo og svo mikið fé á afréttir og viðurlög voru við því að setja meira fé en afrétturinn bar. Við Íslendingar, nútímamennirnir, leystum þetta árið 1983 með því að setja á kvótakerfi. Kvótakerfið virkar þannig í sinni einföldustu mynd að fiskifræðingar ákveða eða ákvarða út frá rannsóknum hversu mikið sé óhætt að veiða þannig að stofnarnir viðhaldist og byggist upp. Síðan er útdeilt hlutdeildum til þeirra sem stunda fiskveiðar og þeir veiða samkvæmt þeim hlutdeildum. Þetta er einfalt kerfi í framkvæmd að því leytinu til að þegar heildarkvótinn er ákveðinn, ef hann t.d. hækkar, breytist ekki hlutdeild hjá þeim sem fiska heldur breytist einfaldlega það tonnamagn eða kílóamagn sem fiskiskipin geta sótt í eða útgerðarmennirnir.

Árið 1990 varð grundvallarbreyting á kerfinu þannig að þá gátu útgerðarmenn framselt kvótann, þ.e. þeir gátu selt hann á milli sín. Þetta var mikið framfaraskref vegna þess að þá var hægt að vinda ofan af þeirri offjárfestingu sem hafði átt sér stað í fiskveiðum. Tæknibreytingar gátu orðið örari og arðsemin meiri. Það er akkúrat það sem við höfum séð í íslenskum fiskveiðum allt frá upphafi kvótakerfisins, að þær eru orðnar mjög hagkvæmar. Auðlindarentunni er ekki sóað heldur er hún innheimt og rennur til þjóðarinnar í gegnum fyrirtækin. Það var mikið framfaraskref.

Mér þykir miður að við sjálfstæðismenn stóðum á móti þeim breytingum á sínum tíma og að það hafi þurft vinstri flokkana til að setja þetta kerfi á vegna þess að ég hefði stoltur staðið að því að greiða þessu kerfi atkvæði, en því miður féll sá heiður í flokk vinstri flokkanna. En aftur á móti, svo skrýtið sem það kann að virðast, höfum við sjálfstæðismenn reynt að standa vörð um það kerfi sem vinstri flokkarnir settu á, en nú hafa þeir barist við að breyta kerfinu, rífa það niður, jafnframt því sem margir vinstri þingmenn virðast halda að þeir eigi engan þátt í því að króganum skyldi hafa verið komið til lífs. Svo merkilegt sem það kann að vera.

Eins og ég sagði áðan gerði innleiðing þessa kerfis örari tækniframfarir gerlegar. Mér eru minnisstæðar myndir sem ég sá hjá einum góðum útgerðarmanni, eða framkvæmdastjóra stórs útgerðarfyrirtækis, sem voru teknar í höfninni á Siglufirði annars vegar árið 1980 og hins vegar árið 2006, held ég að hafi verið. Á myndinni frá 1980 biðu níu bátar sem voru byggðir í Austur-Þýskalandi á sínum tíma með fullfermi af loðnu. Samtals voru þessir bátar með um 2.700 tonn af loðnu og biðu þar löndunar. Á þeim bátum unnu um 100 sjómenn. Myndin sem tekin var 26–27 árum seinna sýndi eitt skip sem á voru 20 karlar. Þar beið skip löndunar sem innihélt um 2.800 tonn af loðnu. Þetta sýnir í hnotskurn þær gríðarlegu tækniframfarir sem hafa orðið í sjávarútvegi. Þessum tækniframförum hefur oft verið ruglað saman við kvótakerfið að því leytinu til að samþjöppun kvóta í stærri fyrirtæki, þar sem hagkvæmni er meiri, arður meiri og annað slíkt, hefur kallað á að veiðiheimildir hafa flust milli byggðarlaga og menn eru orðnir mun sérhæfðari núna. Til dæmis á Austfjörðum, þegar ég var að alast upp þar, voru stundaðar allar fiskveiðar; síld, loðna, kolmunni, Börkur var að byrja á kolmunna, síðan voru togararnir og bátarnir á bolfiskveiðum, grálúðu og öðru slíku. Þetta hefur breyst nokkuð mikið. Nú eru uppsjávarveiðar mjög stundaðar frá Austfjörðum. Þar eru stærstu uppsjávarfyrirtæki landsins, fyrirtæki eins og Síldarvinnslan á Neskaupstað, Eskja á Eskifirði o.fl. Þessu hefur oft verið ruglað saman, eins og ég sagði áðan, við kvótakerfið. Menn verða að læra að skilja hvað er tæknibreytingum að kenna og hvað er kvótakerfinu sjálfu að kenna.

Það frumvarp sem er hér til umræðu lætur ekki mikið yfir sér. Það virðist vera svona tiltölulega sakleysislegt fyrir leikmann að sjá en það ber í sér dauðann, getum við sagt, fyrir mörg þessara útgerðarfyrirtækja. Vegna þess að hér er byrjað að bora í það hagkvæma kerfi sem við höfum verið með í fiskveiðum við Ísland allt frá árinu 1983. Eins mikið öfugmæli og það kann að vera, í þeirri lukku sem vinstri flokkarnir leiddu fram með því að setja á það kerfi, þá ætla þeir sömu vinstri flokkar að rífa niður kerfið og hverfa aftur til óhagkvæmari atvinnuhátta.

Ef ég fer yfir einstök atriði í frumvarpinu þá á í fyrsta lagi að heimila að stundaðar verði veiðar í atvinnuskyni á sama tímabili og frístundaveiðar eru stundaðar. Þetta er sakleysislegt en aftur á móti er verið að bora þarna lítið gat. Í öðru lagi á að draga úr heimildum til að flytja aflamark milli fiskveiðiára úr 33% í 15%. Jafnframt er það undarlega orðalag í frumvarpinu, þar sem talið er að þetta sé nægilegt til að ná markmiðum um hagkvæma nýtingu fiskstofna. Þetta er í raun eini staðurinn þar sem einhver hugmynd er um það að stuðla beri að hagkvæmni í fiskveiðistjórnarkerfinu, vegna þess að aðrir þættir sem á að breyta ganga flestallir gegn þessari hagkvæmni, og er gott að taka t.d. línuívilnunina sem dæmi. Þar er talað um að þar sem lína er stokkuð upp á landi eða þar sem lína er beitt í landi, þess lags veiðar skuli njóta meiri ívilnunar en aðrar veiðar. Varaformaður sjávarútvegsnefndar nefndi það í ræðu sinni í gær eða fyrradag að þetta sé talið sérstaklega gott vegna þess að það auki svo störf í landi.

Það er miður að hæstv. landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra skuli ekki vera í salnum vegna þess að ég veit að hann er ekki bara mikill áhugamaður um búhætti heldur er hann búmaður góður. Ég gæti þýtt þá aðgerð sem verið er að gera í sjávarútveginum yfir í eitthvað sem hann skilur í landbúnaði, og það gæti hljómað einhvern veginn svona: Til að skapa fleiri störf á Íslandi muni mjólkurbændur sem slá með orfi og ljá, fá meiri kvóta en þeir sem slá með sjálfvirkum vinnuvélum, þ.e. að ef bændur hverfa frá tækniframförum eða hverfa frá því að vera framleiðendur, skipta úr vélum yfir í vinnuafl megi þeir selja meiri kvóta inn í mjólkursamsölurnar sínar. Það skapar vafalaust fleiri störf. En það leiðir líka tvímælalaust til óhagkvæmni.

Þessi ráðstöfun um línuívilnun, að hún skuli vera aukin, leiðir til þess að beitningavélar, sem eru tækniframfarirnar sem hafa orðið, verða teknar úr bátunum og farið verður að beita meira í landi með meiri mannskap og minni arðsemi verður af línuveiðum.

Fjórða atriðið er heimild til að kveða á um vinnsluskyldu á uppsjávarfiski. Það er gert í þeim tilgangi að tryggja betur að hámarksverðmæti fáist fyrir nýtingu þeirra stofna þannig að fiskur fari ekki til bræðslu þegar hann er vel hæfur til manneldis. Nú er það svo að þær útgerðir sem stunda uppsjávarveiðar, makríll er jú uppsjávarstofn, stunda líka síldveiðar. Það er hagkvæmt að skipta á milli makrílveiða og síldveiða á vissum tímum meðan beðið er eftir því að fituinnihald makríls verði rétt til þess að það borgi sig að fara með hann í manneldi. Það getur verið hagkvæmt að vinna makríl í bræðslu, það er óumdeilt, þegar fituinnihaldið er orðið þannig að hann er ekki hæfur til manneldis lengur. Það þarf að gefa þann sveigjanleika og það frelsi fyrir útgerðirnar að skipta á milli veiða til að hámarka aflaverðmætið.

Það er eitt sem hefði mátt sjást í frumvarpinu. Það hefði mátt sjást hvernig má stöðva óheftar veiðar í makrílstofnana, ólympísku fiskveiðarnar sem eru í gangi, með því að setja það í kvótakerfi. Það mundi auka hagkvæmnina. Metið hefur verið að það fáist um 6–8 milljörðum meira fyrir það sem er veitt af makríl með því að veiða hann á réttum tíma og nýta hann í manneldi, en það verður ekki gert með sérstökum aðgerðum á borði sjávarútvegsráðherra. Það verður einungis gert með því að fyrirtækjunum verði búið það umhverfi að hægt sé að ná sem mestri hagkvæmni.

Síðan er talað um veiðiskyldu og heimildir til flutnings aflamarks. Ég ætla ekki að eyða tímanum í að tala um það og reyndar ekki heldur um skiptingu leyfilegs heildarafla í karfa, fyrir utan það að ég ætla að benda á að það að úthluta djúpkarfa til skipa sem ekki geta stundað þær veiðar á náttúrlega ekkert skylt við neitt sem heitir hagkvæmni.

Ég ætla að eyða síðustu þrem mínútunum í að tala um ákvæðið sem frumvarpið er frægt fyrir, þ.e. skötuselsákvæðið. Þar er gert ráð fyrir að stjórnvöld geti með bráðabirgðaákvæði tekið allt að 2.000 tonn og úthlutað og tekið fyrir einhvers konar gjald fram hjá kvótakerfinu, þ.e. að þeir sem hafa keypt skötuselskvóta njóta ekki aukningar aflans, eins og ég lýsti hérna fyrst í ræðu minni. Þetta dregur frá þeim útgerðarmönnum sem hafa skötuselskvóta um 1.100 milljónir, og því er ráðstafað á einhvern annan hátt — 1.100 milljónir. Það er einfalt að reikna það. Ef við gerum ráð fyrir einhverju meðalverði á skötusel sem gæti verið 550 kr. og þetta eru 2.000 tonn, eru það 1.100 milljónir, það er ekki flókið dæmi.

Það sem er áhugavert er hvernig á að úthluta þessum 2.000 tonnum og selja á 120 kr. tonnið. Ég sé fyrir mér að ég gæti fengið mér bát með veiðileyfi, ég gæti keypt af ríkinu skötuselskvóta, eða leyfi til að veiða skötusel, á 120 kr., svo mundi ég einfaldlega fara og selja það til þeirra sem eru á skötuselsveiðum nú þegar og eru tilbúnir til að borga 330 kr. Nákvæmlega eins og með aflandsgengið á krónunni og gengi Seðlabankans þá myndast þarna það sem í fjármálafræðum er kallað „arbitrage“, eða högnun, upp á 420 millj. kr. Þetta er ekki einungis óhagkvæmt heldur býður þetta upp á spillingu og ósanngirni.

Þessi punktur sem ég er að setja hérna fram sýnir fram á að þetta frumvarp er vanhugsað frá ákvæði eitt til ákvæðis átta og ætti að snúa ofan af þessu, hverfa frá þessu og hugsa þetta mun betur. Þar væri t.d. sáttanefndin sem ríkisstjórnin setti upp og LÍÚ hefur núna farið úr kjörinn vettvangur fyrir það.



[14:18]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans þó að við séum nú ósammála um flest atriði sem viðvíkja því máli sem hér er fyrir og við stefnum að því að festa í lög á þessu þingi.

Ég vil inna hv. þingmann eftir afstöðu hans til þeirra hugmynda sem starfsfélagi okkar, hv. þm. Pétur Blöndal, hefur kynnt hér fyrr í umræðunni um að unnt væri að innkalla aflaheimildirnar á 25 ára tímabili, 4% á ári frá útgerðinni, dreifa þeim síðan með tilteknum hætti sem þingmaðurinn mælti fyrir. Mig langar að vita hvort hv. þingmaður líti svo á að það sé hóflegar farið heldur en ríkisstjórnin hyggst gera í stefnuyfirlýsingu sinni, þ.e. að innkalla þetta á 20 árum, og hvort það væri skref sem hann væri frekar tilbúinn til þess að taka í endurskipulagningunni á þessari atvinnugrein.



[14:19]
Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hjörvar fyrir þessa spurningu, en minni á það sem hv. þingmaður sagði, þ.e. að við værum ósammála um flest ef ekki allt í þessu. Ég get því gengið að því vísu að þingmaðurinn sé sáttur við að þarna komi 420 milljónir sem hægt verði að nota í spekúlasjón fyrir menn sem eru á engan hátt tengdir sjávarútvegi, t.d. eins og ég gæti gert.

Í öðru lagi til þess að svara spurningunni beint, vil ég byrja á því að segja að í húsi föður míns eru mörg herbergi og innan Sjálfstæðisflokksins rúmast margar skoðanir. Ég og hv. þm. Pétur Blöndal erum í sínu herberginu hvor í þessu máli. Ég er sennilega uppi í risi og hann niðri í kjallara, eða öfugt. Ég er algjörlega ósammála þingmanninum og tek á engan hátt undir hugmyndir hans eða skoðanir í þessu máli. En eins og ég segi, að í húsi föður míns eru mörg herbergi og í Sjálfstæðisflokknum rúmast margar skoðanir, eins og þetta mál ber vitni um.



[14:21]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni svar hans, það var býsna skýrt.

Braski með þessar heimildir er auðvitað hægt að mæta með ýmsum hætti. Það er til að mynda auðvitað hægt að gera með veiðiskyldu eða öðrum slíkum ákvæðum. Ég vil hins vegar inna þingmanninn eftir því í síðara andsvari hvort hann sjái ekki í öðrum þáttum frumvarpsins en þeim sem lúta að skötuselsheimildunum ýmis mikilvæg framfaramál og hvort hann sé t.d. ekki algerlega sammála því eftir þá miklu sóun sem við sáum í einni tegund uppsjávarfisks á síðasta ári, sóun á auðlindinni beinlínis, að með þessu frumvarpi séu settar inn skýrar heimildir fyrir ráðherra til þess að leggja vinnsluskyldu á ef slíkt ástand kemur upp til þess að tryggja það að sem þjóð og sem hagkerfi séum við að fá — af því hv. þingmaður er nú meðfram þingmennskunni hagfræðingur, hvort það sé ekki mikilvægt að við felum ráðherranum slík stjórntæki til þess að tryggja að við hámörkum tekjurnar fyrir þjóðarbúið og fyrir efnahaginn að þessum grundvallaratvinnuvegi.



[14:22]
Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég reyndi að rekja í ræðu minni er það einfaldlega þannig að ef útgerðin er skylduð til þess að veiða makríl í manneldi getur það leitt til óhagkvæmni vegna þess að þeir eru á öðrum veiðum, t.d. síldveiðum eins og ég talaði um áðan. Í öðru lagi getur verið hagkvæmt eftir að fituinnihald í makríl er orðið visst mikið að nota hann frekar í bræðslu.

Ég benti líka á lausn til þess að ná fram nákvæmlega þeim markmiðum sem þingmaðurinn talar um. Ég talaði meira að segja um að það væri hægt að auka aflaverðmæti í makrílveiðum og -vinnslu um allt að sex til átta milljarða með því að innleiða eða réttara sagt með því að útrýma ólympísku veiðunum í makríl, að setja makrílinn inn í kvótakerfi. Það er óumdeilt. Ég vil benda þingmanninum á að kynna sér hugmyndir útgerðarmanna um að hægt sé að auka aflaverðmæti með því að setja það inn í kvóta. En það er algerlega ljóst að ef stóra samhengið er skoðað og skip er skyldað til þess að vera með makríl í manneldi getur vel verið að meiri verðmæti fari forgörðum á öðrum stað vegna þess að þá þarf að keppast við að fara í makrílveiðarnar út af ólympísku eðli makrílveiðanna. Þetta ákvæði í frumvarpinu er því vanhugsað en lausnin er fyrir hendi og henni hefur verið veifað framan í hæstv. sjávarútvegsráðherra en hann hefur því miður ekki séð það sem er veifað framan í hann, eða ekki viljað sjá það. (Forseti hringir.) Svoleiðis liggur það.



[14:25]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við Íslendingar glímum nú við afleiðingar falls bankanna. Við ætlum okkur að byggja upp sterkt samfélag og ein sterkasta stoðin í þeirri baráttu er íslenskur sjávarútvegur sem stendur styrkum fótum. Við höfum borið gæfu til þess að búa honum slíka umgjörð að það er staðreynd. Sterkur sjávarútvegur sem skapar miklar gjaldeyristekjur. En hann er ekki bara sterkur, hann er líka sjálfbær. Með þessu frumvarpi, og þá vísa ég sérstaklega til ákvæða til bráðabirgða varðandi skötuselinn, er verið að hverfa frá því. Þar er verið að heimila slíkar veiðar á skötuselnum og að mínu mati er það ekki viðunandi. Ég furða mig á því hvers vegna hv. þingmenn Vinstri grænna sem hingað til hafa kennt sig mjög við náttúruvernd og við vernd ýmissa lífvera og fallvatna, hvernig þeir geta staðið að þessu frumvarpi. Mér er bara mikil spurn að því. Ég hreinlega óska eftir því að ég sé upplýst um það, af hæstv. sjávarútvegsráðherra, eða öðrum hv. þingmönnum Vinstri grænna, hvernig þetta fer saman við náttúruverndarstefnu Vinstri grænna.

Íslenskur sjávarútvegur er ekki bara sterkur og sjálfbær, hann er líka arðsamur. Það er ekki síst mikilvægt nú á tímum. Eitt af markmiðum kvótakerfisins okkar er ekki bara að stuðla að sjálfbærum veiðum heldur líka að lækka kostnaðinn við hvert veitt tonn. Íslenskur sjávarútvegur skilar arði. Þannig er það ekki t.d. í ESB. Reglur Evrópusambandsins eða Evrópusambandsríkin gera ekki ráð fyrir því að sjávarútvegurinn þar skili arði. Þar eru hins vegar önnur sjónarmið í gangi. Þar eru hálfgerð félagsleg sjónarmið í gangi. Mjög margir aðilar starfa í greininni en eru ekki á háum tekjum og það koma til umtalsverðir ríkisstyrkir í því kerfi. Mér finnst það umhverfi ekki spennandi. Ég vil ekki að við Íslendingar hverfum í þá átt.

Mér sýnist, frú forseti, að hér sé verið að reyna að gera tilraun til þess að fara í þá áttina. Þar með er verið að kippa rótunum og grundvellinum undan íslenska sjávarútvegskerfinu sem er bæði sjálfbært og hefur það í för með sér að greinin er arðsöm. Ég hef miklar áhyggjur af þessari tilhneigingu og fyrirætlunum ríkisstjórnarflokkanna að fara hina svokölluðu fyrningarleið.

Sjávarútvegurinn skilar miklum tekjum, bæði í formi skatta og einnig í formi veiðileyfagjaldsins. Miklar gjaldeyristekjur skapast vegna hinnar sterku stöðu sjávarútvegsins. Við eigum ekki að kippa burt grundvellinum undan þessu gulleggi okkar, fjöreggi okkar. Ég hef áhyggjur af því hvers vegna svo er komið á þessum tímum þegar þetta er ein sterkasta stoðin í samfélaginu. Vilja menn virkilega stefna á þá átt að byggja hér upp kerfi sem líkist því sem er úti í Evrópu? Er það hugsunin? Að hafa kerfið þannig að of margt fólk vinni fyrir of litlum tekjum, fylla kerfið af ríkisstyrkjum og fara í þá áttina? Ég segi nei, frú forseti. Þess vegna líst mér ekki á þessa vegferð og þá vísbendingu að stefnu sem birtist í þessu frumvarpi.

Það eru fáir hv. þingmenn Vinstri grænna í þingsalnum nú en ég óska engu að síður eftir skýringum á fyrstu spurningu minni varðandi það hvernig þetta frumvarp samræmist náttúruverndarstefnu þeirra og hvet þá enn og aftur að koma og ræða aðeins við mig um þetta mál, en það virðist vera afskaplega erfitt, frú forseti, að fá hv. þingmenn stjórnarliðsins til þess að taka þátt í málefnalegri umræðu um þetta. Ég vil reyndar undanskilja hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur sem er formaður sjávarútvegsnefndar og eins Helga Hjörvar, sem hefur töluvert blandað sér í umræðuna, sem eru bæði þingmenn Samfylkingarinnar.

Frú forseti. Ég vil að við hér á þingi förum að einbeita okkur að því að leysa þau vandamál sem tengjast efnahagshruninu, förum að einbeita okkur að því að leysa skuldavanda heimilanna, förum að einbeita okkur að því að koma hjólum atvinnulífsins af stað, en hættum að hræra í því umhverfi sem sjávarútvegurinn stendur í. Við verðum að búa grundvallaratvinnugreinum okkar þannig starfsskilyrði að þær geti starfað, vaxið og dafnað en við höldum greininni ekki í þeirri gríðarlegu óvissu sem stefna ríkisstjórnarinnar, sem kallast að fara í átt til fyrningar, en hefur hins vegar hvergi verið útfærð nema hér í þessu frumvarpi, virkilega stefnir að. Vegna þess, frú forseti, að það að halda fólki í óvissu er það versta sem við gerum, hvort sem þar er verið að tala um sjávarútveginn sem grundvallaratvinnugrein okkar eða heimilin í landinu.

Ég óska eftir því, frú forseti, að hæstv. sjávarútvegsráðherra, sem ég held að sé einhvers staðar í húsinu, ég sá honum bregða fyrir áðan, útskýri fyrir okkur hvort ætlunin með þessum aðgerðum sé virkilega sú að hverfa í átt til félagslegs kerfis í sjávarútvegi eða hvort það sé ætlunin að halda sig áfram við það að hér sé byggt á markaðssjónarmiðum. Hvort er það, frú forseti? Þetta er ekki skýrt, óvissan er algjör, en vísbendingarnar um hvert skuli stefnt liggja fyrir í þessu frumvarpi.



[14:31]
Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef nú hlustað hér á endurteknar ræður í þessu máli og skilmerkilegar og ágætar ræður stjórnarandstöðunnar. Nú er svo komið að þær eru endurteknar og menn eru að koma inn á þætti sem koma frumvarpinu ekki við. Ég spyr hv. þingmann hvort þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hafi ákveðið málþóf í málinu. Ég spyr hvort flokkurinn hafi ákveðið að tefja þetta mál þannig að það komist síður eða seint inn í nefndina, sem stendur til að gera milli 2. og 3. umr. Ég spyr líka hv. þm. að því hver afstaða hennar til línuívilnunarákvæðisins sé, til þess að takmarka flutning milli ára, til veiðiskyldunnar o.fl. Í mínum augum eru öll þessi ákvæði og einnig skötuselsákvæðið atvinnuskapandi og þá sérstaklega fyrir landsbyggðina. Línuívilnunin hefur reynst sérstaklega vel fyrir Vestfirði og víðar þar sem er kvótalítið. Hver er afstaða hv. þingmanns til þessara atriða sem frumvarpið snýr beinlínis að? Ég vil heyra þau sérstöku rök.

Hv. þm. Björn Valur Gíslason og hv. varaformaður sjávarútvegsnefndar, Ólína Þorvarðardóttir, hafa gert ítarlega grein fyrir þessum atriðum. Ég vil heyra skoðanir þeirra sjálfstæðismanna sem kjósa að ræða þetta til einstakra atriða frumvarpsins, m.a. þess sem ég hef spurt hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur um.



[14:33]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú er það svo að ég er bundin af sannfæringu minni samkvæmt stjórnarskrá og ég læt ekki hv. þm. Atla Gíslason né nokkurn annan þingmann hér á þingi ritskoða ræður mínar. Ég fjalla hér um þau atriði sem mér brenna á hjarta. Ég sé í umræddu frumvarpi ákveðnar vísbendingar um það á hvaða vegferð ríkisstjórnarflokkarnir eru. Ég kýs að tjá mig um það og ég geri það. Mér er fullkomlega sjálfrátt varðandi það um hvað ég er að fjalla og ég þarf ekki hjálp hv. þm. Atla Gíslasonar til þess að ákveða efnistök mín í þessu máli.

Sjávarútvegur er grundvallaratvinnugrein þjóðarinnar. Sjávarútvegur er gríðarlega mikilvægur í mínu kjördæmi, sem er Suðurkjördæmi, sem hv. þm. Atli Gíslason er jafnframt þingmaður fyrir. Ég tel að það væri nær að við reyndum að styðja þá grundvallaratvinnugrein sem er hér í landinu, og er ekki síst öflug í kjördæmi okkar. Við getum rætt það með hvaða hætti við eigum að gera það en við gerum það ekki með þessu frumvarpi.

Varðandi skötuselinn svaraði hv. þingmaður ekki þeirri spurningu sem ég beindi til hv. þingmanna Vinstri grænna um það hvernig þingmaðurinn samræmir þetta frumvarp, þetta ákvæði, þeirri skoðun Vinstri grænna, sem hefur verið útmáluð hér á torgum, bæði fyrir kosningar og í ræðu og riti hvarvetna, að þetta sé náttúruverndarflokkur.

Hér er verið að leggja til stóraukna veiði á umræddri tegund og ég hef áhyggjur af því að hér sé of langt seilst. Er það lausnin á efnahagsvanda þjóðarinnar að taka upp stöðugar ofveiðar á þeim tegundum sem veiðast hér við land? Er það leið ríkisstjórnarflokkanna? Ég spyr og ég vil fá svör við þessu. Ég vil sérstaklega fá svör við því hvernig þetta frumvarp, eða þetta ákvæði varðandi skötuselinn, samræmist stefnu Vinstri grænna. Eða er náttúruverndin og virðingin fyrir þeim dýrum sem lifa við landið líka farin út um gluggann í stefnuskrá Vinstri grænna (Forseti hringir.) eins og andstaðan gegn ESB?



[14:35]
Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef greinilega vakið upp einhverja Icesave-takta hjá hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur. Það hvarflar ekki að mér að ritskoða ræður nokkurs þingmanns hér í salnum, né ritskoða fólk yfir höfuð, en ég er að biðja um markvissa, málefnalega umræðu. Ég vísa sérstaklega til yfirferðar hv. þm. Björns Vals Gíslasonar þar sem hann fór ítarlega yfir hvert einasta atriði frumvarpsins, lýsti á því kostum og göllum, dró fram málefnaleg rök með og á móti og komst að ákveðnum niðurstöðum. Þannig vil ég nálgast þetta mál. Þess vegna get ég ítrekað spurningar mínar til hv. þingmanns: Hver er afstaða hennar til einstakra atriða þessa máls? Hún hefur til þess fullt málfrelsi.

Hér hefur líka óformlega, og komið fram hér í þingsal og víðar, verið boðin fram málamiðlun í þessu máli til móts við sjónarmið þeirra sem hafa aflahlutdeild í skötusel. Því hefur ekki verið sinnt enn þá, en ég vonast til að það náist fram. Ég vonast til þess að menn nálgist þessa umræðu með það að markmiði að ná sátt eða málamiðlun í málinu því að ríkisstjórnin hefur aðra stefnu í fiskveiðistjórnarmálum en Sjálfstæðisflokkurinn. Við viljum tryggja hagsmuni fleiri en kvótaeigenda. Ég tala þar um útgerðir án kvóta sem hafa fundið flestar matarholurnar í íslenskum sjávarútvegi sem til eru. Ég nefni leiguliðana eins og hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir gerði.

Hvað varðar okkar umhverfisgrænu sjónarmið bið ég hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur að lesa nefndarálitið. Þar kemur skýrt fram að haft verði samráð við Hafrannsóknastofnun um hugsanlega aukningu og það verður byggt á vísindalegum rökum. Þar munu minn flokkur og Samfylkingin standa að því (Forseti hringir.) að stofninn muni njóta (Forseti hringir.) vafans eins og jafnan.



[14:37]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Aðeins varðandi skötuselinn til að byrja með. Það kemur fram í nefndaráliti minni hlutans, þar sem sitja fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, sem skrifa undir, að þetta ákvæði gerir ráð fyrir því að aflaheimildir í skötusel verði auknar um 80% umfram ráðleggingar Hafrannsóknastofnunar. Það er augljóst, miðað við ráðgjöf þeirrar ágætu stofnunar, að þarna er verið að seilast langt umfram það sem getur verið æskilegt fyrir þennan stofn. Það er því ekkert skrýtið að mér sé tiltölulega mikið niðri fyrir yfir því að Vinstri grænir skuli leggja í að leggja þetta frumvarp fram með þessum hætti hér í þinginu.

Varðandi það að ég sé komin hér í einhverja Icesave-takta, ég einfaldlega skil ekki þann málflutning. Ég óska eftir því, frú forseti, að við reynum að temja okkur það háttalag hér í þingsölum að vera svolítið málefnaleg. Ég hélt nú að hv. þm. Atli Gíslason væri í þeim hópi, að hann væri frekar á þeirri hliðinni en hinum megin. Ég skil ekki, frú forseti, að hv. þingmaður leyfi sér það að koma hér upp, ásaka mig, þingmann Suðurkjördæmis, þar sem sjávarútvegur er ein mikilvægasta undirstöðuatvinnugreinin, um það að standa hér í málþófi þótt ég leyfi mér að halda 10 mínútna ræðu í þessu máli. Ég einfaldlega skil ekki þennan málflutning, frú forseti. Ég óska einfaldlega eftir því að hv. þm. Atli Gíslason biðji mig afsökunar hér á göngunum vegna þess að ég tel að ræða mín hafi átt fullt erindi inn í þessa umræðu.

Frú forseti. Þrátt fyrir að hv. þingmaður segist ekki hafa ætlað að vera hér með neina tilburði í átt til ritskoðunar hafi það engu að síður verið tilgangurinn með þessu andsvari. Ég frábið mér slíkan málflutning. Ég óska frekar eftir því að við tölum hér saman á grundvelli raka og með málefnalegum hætti.



[14:39]
Tryggvi Þór Herbertsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil beina því til forseta hvort hann geti beitt sér fyrir því að þingmenn, stjórnarþingmenn, komi ekki hingað upp og tali með oflæti og yfirlæti um ræður annarra þingmanna. Ég hélt 20 mínútna ræðu og fór málefnalega í gegnum hvern einasta af þessum átta liðum sem frumvarpið fjallar um. Síðan dirfist hv. þm. Atli Gíslason að koma hingað upp og tala um málþóf. Þetta er skammarlegt og það er líka skammarlegt að gefa í skyn að hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir hafi verið að flytja einhverja málþófsræðu. Þetta er skammarlegt og ekki til sóma manni sem þykist í öðru orðinu kenna sig við málfrelsi og umburðarlyndi en vill í hinu orðinu þagga niður í fólki.



[14:40]
Pétur H. Blöndal (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Mér finnst að hæstv. forseti þegar hann verður var við það að einstakir þingmenn séu að gefa öðrum þingmönnum einkunnir fyrir ræðumennsku, að þeir séu ekki málefnalegir o.s.frv., og bera þá saman við aðra — ég var t.d. borinn saman við hv. þm. Björn Val Gíslason og þótti mín ræða ekki málefnaleg því að allar ræður stjórnarandstæðinga voru ekki málefnalegar. Samt fór ég eftir bestu getu, frú forseti, í gegnum hvern einasta lið í frumvarpinu og lagði mat á hvert einasta atriði. En það er sennilega ekki nógu málefnalegt í hugum hv. þingmanns þannig að ég var bara settur í sama flokk og allir aðrir og alls ekki sambærilegur við mjög málefnalega ræðu hv. þm. Björns Vals Gíslasonar. Ég vil að forseti geri athugasemd við svona einkunnagjöf.



[14:41]
Frsm. minni hluta sjútv.- og landbn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Atli Gíslason brá sér í hlutverk prófdómara en það gerðist óvænt að prófdómari féll á prófinu. Ræðurnar sem hér hafa verið fluttar í dag og á þriðjudaginn hafa verið mjög málefnalegar. Ég hef verið ósammála sumum þessum ræðum í grundvallaratriðum en mér hefur hins vegar fundist að þingmenn hafi reynt að tala málefnalega og margir af mjög góðri þekkingu.

Ég hef marga fjöruna sopið í sjávarútvegsumræðunni í þessum sal. Oft var það nú þannig að þegar stjórnarandstaðan var forðum daga að ræða um sjávarútvegsmálin, að gefnu tilefni, vegna einhvers frumvarps, að ekki voru nefnd einu orði efnisatriðin í því frumvarpi. Það fannst mér ekki til neinnar fyrirmyndar. Þetta fór fram sem einhvers konar pólítísk kappræða um sjávarútvegsmál. Það á alveg rétt á sér. Þetta frumvarp er hins vegar þannig að það er auðvelt að fjalla um það efnislega en það gefur hins vegar líka tilefni til almennrar umræðu um sjávarútvegsmál vegna þess að það snertir marga grundvallarþætti.

Ég frábið mér (Forseti hringir.) prófdóma hv. þm. Atla Gíslasonar. Ég held að við ættum bara að halda áfram þessari efnislegu og góðu umræðu þar sem við getum (Forseti hringir.) bent á hinar miklu veilur í þessu frumvarpi.



[14:43]
Forseti (Þuríður Backman):

Ég bið hv. þingmenn um að reyna að halda sig við fundarstjórn forseta. Forseti stjórnar ekki málflutningi einstakra þingmanna og hvetur því þingmenn til að vera málefnalega og sýna öllum þingmönnum og þingi fulla virðingu. (Gripið fram í.)



[14:43]
Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég skal reyna að vera mjög málefnalegur í ræðu minni hér á eftir, ég reyndi líka í gær að fara málefnalega yfir frumvarpið eins og það lítur út fyrir mér.

Að mínu viti er ekki mikill núningur á milli manna um þær breytingar sem verið er að boða hér nema um tvö atriði. Menn geta deilt um það í sambandi við línuívilnunina hvort prósentustigin eigi að vera einu fleiri eða færri og þar fram eftir götunum. Ég benti á í ræðu minni að það er líka innbyggð skekkja í slægingarstuðli gagnvart línufiski þannig að í raun og veru mætti alveg færa rök fyrir því, líkt og ég gerði í síðustu ræðu minni, að línuívilnun í dag sé yfir 20% eða 24% en gæti eftir þessa breytingu hugsanlega orðið 28%.

Ég held að ef við hefðum öll sest niður í rólegheitunum og andað í gegnum nefið, þá hefðum við hugsanlega getað náð niðurstöðu um það sem út af stendur í frumvarpinu og er ekki skynsamlegt. Þar vil ég fyrst koma inn á úthlutun á karfakvóta. Í dag erum við með 50.000 tonna karfakvóta, sem er skráður inn hvort heldur sem verið er að veiða djúpkarfa eða gullkarfa. En nái breytingin fram að ganga eins og hún liggur fyrir í þessum drögum munu hljótast af því ákveðin slys. Hins vegar hefur komið fram í máli einstakra stjórnarþingmanna að þeir hafa fullan skilning á þessum hlutum, eins og kom fram í máli hv. þm. Björns Vals Gíslasonar hér áðan að hann hefði mikinn skilning á þessu og vildi skoða þessa hluti á milli umræðna. Eftir situr sú spurning hjá mér: Hvers vegna var það ekki gert á milli 1. og 2. umr.? En hvað um það, vandamálið snýst ekki um þetta.

Ef við breytum þessu núna með þessum hætti erum við klárlega að úthluta skipum veiðiheimildum sem þau geta ekki nýtt. Við erum að fara að breyta úthlutuninni á þann veg að þeir sem eru núna að veiða þúsund tonn, ég get nefnt sem dæmi fyrirtækið Guðmund Runólfsson í Grundarfirði sem er með u.þ.b. þúsund tonna karfakvóta og fær eftir þessa breytingu veiðiheimildir upp á um 300 tonn af djúpkarfa sem það hefur ekki möguleika á að veiða af þeirri einföldu ástæðu að útgerðin á ekki skip til að veiða upp í þær. Krafan um þessa skiptingu kemur að hluta til að sjálfsögðu frá Hafrannsóknastofnun þar sem menn vilji halda betur utan um þá veiði sem á sér stað í karfastofnunum, hvort heldur sem það er djúpkarfi eða gullkarfi, þó að menn hafi oft verið reikulir í spori að átta sig á því hvað er.

Þetta þýðir í örstuttu máli að aflaheimildir þessa ágæta fyrirtækis, sem áratugum saman hefur sérhæft sig í veiðum, vinnslu og markaðssetningu á þessari afurð, eru í raun og veru skertar um 30% út af því að það fær úthlutað djúpkarfa í staðinn fyrir gullkarfann sem það hefur alla tíð veitt. Með því mun ein af grunnstoðum þessa fyrirtækis hljóta mikil afföll og það setur að vissu leyti framtíð þess í uppnám. Við megum ekki gleyma markaðsþættinum og þetta fyrirtæki hefur, eins og ég sagði áðan, sérhæft sig áratugum saman í karfaveiðum, karfavinnslu og markaðssetningu á karfa. Það er nú það sem við gleymum svo oft í þessari umræðu hve stór hluti af sjávarútveginum er markaðssetning, ábyggileg afhending á vöru, náið samstarf við kaupendur og seljendur, þessu stóra atriði gleymum við alltaf í umræðunni sem slíkri.

Þetta fyrirtæki hefur fjárfest fyrir mjög mikla peninga og einu úrræðin sem það hefur, ef þessi lög fara óbreytt í gegn, er að skipta við þá sem hafa veiðigetu í djúpkarfa, þ.e. skipta á aflaheimildum á miklu lægra gengi en er. Þess vegna hefði verið mjög skynsamlegt að fara þá leið sem bent er á í minnihlutaáliti sjávarútvegsnefndar, að menn nýttu sér þær upplýsingar sem fyrir liggja í afladagbókum viðkomandi skipa. Þá hefði verið hægt að sjá þar hvar menn eru í raun og veru að veiða og hvaða tegundir.

Síðan er líka ákveðin þversögn í þessu vegna þess að ef þetta verður að veruleika er að hluta til verið að færa störf af landi út á sjó, vegna þess að þá fara menn að veiða þetta á stærri skipum sem eru þá yfirleitt að frysta, sem gengur í berhögg við þá hugsun stjórnarliða að auka svokallaða línuívilnun, þannig að þetta rekst aðeins hvað á annars horn. Eigi að síður er það bjargföst trú mín og skoðun að ef við öndum öll aðeins í gegnum nefið og setjumst niður og ræðum málin af skynsemi og yfirvegun þá sé ekkert svo langt í milli og menn geti lent þessu máli skynsamlega.

Hitt atriðið sem ég vil koma inn á er svokölluð breyting á skötuselsákvæðinu. Skýringin á því er mjög einföld, það hefur verið vandamál á miðunum og ég lít svo á og gef mér það fyrir fram að stjórnarþingmenn hugsi um að bregðast við þeim vandamálum, ég geri ekki lítið úr því en mig hins vegar greinir á um það við hv. stjórnarþingmenn hvernig eigi að gera þetta. Hækkun á hita sjávar sem hefur orðið á undanförnum árum gerir það að verkum að skötuselurinn sækir í miklu meira mæli en áður hefur þekkst á norðurslóðir, en það þýðir ekki að allur skötuselurinn sem var við suðurströndina hafi siglt norður eftir. Það er bara að koma meiri skötuselur inn á veiðislóðina. Þannig gerist þetta. Það veiðist enn mjög vel af skötusel við suðurströndina.

Það hefði verið miklu skynsamlegra að gera þetta að meðaflareglu, þ.e. að þeir sem eru ekki á beinum skötuselsveiðum mættu vera með ákveðna prósentu til að bregðast við þessu vandamáli í svokallaðri meðaflareglu og mættu þá landa 1% til 2% í aflamarki af skötusel sem teldist ekki til aflamarks viðkomandi skips þó svo að menn hafi reyndar þessa 5% Hafróreglu sem við eða ég þekki alla vega mjög vel, menn hafa líka svigrúm þar, en þá væri hægt að gera þetta skynsamlega.

Það er líka ákveðið vandamál við grásleppuveiðar. Skötuselurinn færist með hverju árinu norðar og norðar. Fyrir örfáum árum kom hann í Breiðafjörðinn og svo koll af kolli og hann er kominn núna norður fyrir land og þetta er hlýnun sjávar. Ég get sýnt mönnum gröf um hvernig það hefur breyst.

Ég hefði talið mun skynsamlegra að gera þetta með þeim hætti að menn fengju að landa meðaflanum. Þá gætu menn sem eru á grásleppuveiðum haft aðra prósentu af því að þar er eingöngu verið að landa hrognum en ekki fiskinum í heild sinni þannig að menn yrðu að skoða það með raunhæfum hætti og ég hef engar áhyggjur af því.

Eftir situr líka að margir grásleppubátar fara á grásleppu eingöngu til að veiða skötusel. Það eru grásleppubátar sem eru innan krókaflamarksins vegna þess að þar er heimild til að veiða þessa tegund án þess að hafa kvóta og það eru bátar sem fara á grásleppuveiðar til að veiða bara skötusel upp að þessu ákveðna hámarki, menn geta skoðað þetta, og þegar þeir eru komnir upp í hámarkið fara þeir út. Þeir eru því oft og tíðum að velja síðari hluta tímabils grásleppunnar til að geta líka náð sér í skötusel þannig að margar hliðar eru á þessu máli.

Jú, þetta er fyrir nýliða og allt gott um það að segja og ég ætla ekki að taka djúpar rökræður um það, hver hefur sína skoðun á hvernig stendur á því að þeir sem vilja gera út og byrja útgerð frá Hornafirði allt að Reykjanesi mega það ekki, en í þessu frumvarpi hafa menn tileinkað sér með ákveðnum línum þau svæði þar sem skötuselurinn er byrjaður að veiðast og þá verður til þessi viðmiðun. Það sem stendur eftir í mínum huga og stærsta spurning mín er þessi: Hvernig stendur á því að þeir sem vilja gera út á svæðinu frá Hornafirði til Reykjaness mega ekki nýta heimildirnar úr þessum potti líka?

Mér finnst þetta vera gróf mismunun gagnvart þeim sem vilja gera út á þessu svæði. Mér finnst að menn sem eru að byrja og vilja fara í skötuselsveiðar megi það hvort sem þeir búa á Hornafirði, í Þorlákshöfn eða Vestmannaeyjum frekar en einhvers staðar við Breiðafjörð. Þetta held ég að mönnum hafi yfirsést. Mér finnst ákveðin mismunun vera innbyggð í þessu, en ég ítreka og segi það hér sem mín lokaorð: Ef við setjumst niður og öndum með nefinu þá er nú ekki svo langt á milli og festumst ekki í þessum pólitísku hjólförum og verum frekar lausnamiðuð í málunum.



[14:53]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ásbirni Óttarssyni fyrir ágætt málefnalegt innlegg í þessa umræðu. Þau atriði sem hv. þingmaður minntist á og hefur minnst á áður og við höfum skipst á skoðunum um eru sú skipting á karfanum sem hér er lögð til og hvernig jafna megi möguleika útgerða til að sækja karfann í þessu breytta umhverfi. Ég hef sagt það og segi hér aftur að ég hef samúð með sjónarmiðum hv. þingmanns. Sameining þessara stofna var jú gerð að tillögu starfshóps sem taldi ekki annað fært en jafnframt er ljóst að sóknarmöguleikar eða veiðimöguleikar skipa eftir stærð og búnaði eru mismunandi og nauðsynlegt að taka tillit til þeirra. Ég legg því til, eins og við höfum rætt, að þessi atriði verði skoðuð frekar í nefnd og að einnig verði kannað hvað verði þá hægt að færa inn til heimildar ráðherra til að koma til móts við þessi sjónarmið í stýringu veiðanna, ég vil bara ítreka það og ábendingar hv. þingmanns í þessum efnum eru hárréttar að mínu mati.

Hvað varðar skötuselinn þá vil ég taka undir það viðhorf sem hv. þingmaður kom inn á að þetta er ekki skötuselurinn fyrir sunnan land sem er að synda norður, heldur er stofninn að stækka og vaxa á nýjum miðum (Forseti hringir.) fyrir vestan og norðan land og á því þarf að taka með (Forseti hringir.) viðeigandi hætti.



[14:56]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að hæstv. ráðherra tekur undir það með mér að hann hafi samúð með þeim sem hugsanlega lenda í því að fá úthlutað veiðiheimildum sem þeir geta sannanlega ekki nýtt. Ég velti því fyrir mér í mikilli einlægni hvort það geti verið, eins og gerist stundum og er engum sérstökum að kenna, að þegar menn fjalla um málin í einstökum þingnefndum komist menn kannski að þeirri niðurstöðu að vilja leysa málin og ræða þau efnislega.

Nú þekki ég mjög vel starfið í hv. fjárlaganefnd. Þar náum við sem þar sitjum afskaplega vel saman um ákveðin málefni en það er oft þannig að ekki er sjálfgefið að svo sé alls staðar. Eins og ég sagði í upphafi, þá er ég ekki að kenna neinum einstökum um það. Ég held í raun og veru að það sé ákveðinn galli að menn geri þetta með þessum hætti.

Aðeins út af karfanum. Það er klár krafa frá Hafrannsóknastofnuninni um að vilja skilgreina karfann, skilgreina kröfuna um það hvað veitt er úr hverjum stofni, það er alveg skiljanlegt. En við skulum líka rifja upp að þegar menn voru að veiða úthafskarfa fyrir nokkrum árum þá veiddu menn oft fullt af djúpkarfa. Síðan gerðist það að svokallaður úthafskarfi, sem var að stórum hluta til djúpkarfi, synti norður með ströndinni og hvernig var þá skiptingin á aflanum? Hún var með þeim hætti að þeir sem veiddu í botntroll fóru að veiða djúpkarfa, þeir sem veiddu í flottroll fóru að veiða úthafskarfa, hlið við hlið. Menn sjá því rökvillurnar í þessu.

Líka kemur krafa frá stórútgerðinni um að skipta djúpkarfa og gullkarfa upp með þessum hætti, en það sem er hættan í þessu er að við þurfum að klára þetta inni í nefndinni til þess að við setjum einmitt ekki fyrirtæki — ég nefndi sérstaklega eitt slíkt áðan — í óvissu um framtíðina. Þess vegna er svo mikilvægt að menn klári hlutina og segi: Við skoðum þetta ekki seinna því að við höfum öll færi á því að klára málið nú í skynsemi og ætlum ekki að gera það á morgun sem (Forseti hringir.) við getum gert í dag.



[14:58]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi karfann þá eru sömu álitaefni uppi og þegar við fjölluðum um frumvarp um strandveiðar í vor. Það er snúið að finna leið til þess að koma til móts við þau sjónarmið. Þá ræddi hv. sjávarútvegsnefnd um sömu álitaefnin þannig að ég tek undir að þetta verði skoðað. Þetta hefur verið skoðað í nefndinni og varaformaður sjávarútvegsnefndar, sem leiddi starfið í nefndinni nú fyrir jól, hafði einmitt gert mér grein fyrir þessu og að ástæða væri til að óska eftir því að við skoðuðum þetta nánar. Ég treysti nefndinni til þess og heiti fullu samráði hvað það varðar ef ég og ráðuneytið getum orðið að liði í þeim efnum. Vinnan í nefndinni hefur að mínu mati verið bæði mjög vönduð og góð en það er í þessum efnum sem mörgum öðrum að þar eru ýmis álitaefni sem getur verið vandi að vita hver er besta lausnin á, en það er alveg klárt að í þessum efnum sem öðrum er góður vilji fyrir hendi. Ég treysti nefndinni til að skoða þetta og geri ráð fyrir að þetta fari inn á milli 2. og 3. umr. og verði skoðað, eins og hv. þingmaður hefur bent ágætlega á.

Um önnur atriði sem hv. þingmaður kom inn á, þá er gerð ítarleg grein fyrir veiðum á skötusel í nefndarálitinu og ég ætla ekki að fara frekar inn í þá umræðu hér en finnst ágætt að heyra hvernig hv. þingmaður nálgast (Forseti hringir.) málið sem slíkt. Auðvitað er skoðanamunur á einstökum þáttum þess en markmið okkar er það sama að hámarksábati verði (Forseti hringir.) á öllum stofnum og að við sækjum þetta á sjálfbæran hátt o.s.frv. (Forseti hringir.) Við þekkjum þau sjónarmið og eigum vonandi og örugglega samleið í þeim efnum.



[15:00]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Til að taka af öll tvímæli um það sem ég sagði um hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd áðan þá var ég ekki að setja út á vinnubrögðin og þar fram eftir götunum, svo það sé alveg skýrt. Ég var einfaldlega að draga upp þær staðreyndir að við lendum oft í því hér, alveg sama hvort um er að ræða sjávarútvegsmál eða einhver önnur mál, að detta ofan í einhver póltísk hjólför og virðumst aldrei geta kíkt upp úr þeim nema til að kasta einhverjum bombum hvert á annað. Það var það eina sem ég var að segja. Ég geri ekki athugasemdir við vinnubrögðin og þó svo að margt sem kemur frá hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd sé mér ekki að skapi virði ég auðvitað skoðanir annars fólks, ég var ekkert að setja út á það, þannig að það sé alveg á hreinu.

Það sem ég var hins vegar að segja áðan og vil kalla enn frekar eftir er það — ég fór mjög vel yfir málið í fyrri ræðu minni og það er fullt af hlutum hérna sem eru bara ágætir og ég hef farið yfir það — að ég hefði talið t.d. mun skynsamlegra ef við hefðum brugðist fyrr við eins og í sumar gagnvart makrílnum, þar fór fram sóun á verðmætum, það er alveg klárt. Og þó að margir stjórnarandstöðuþingmenn séu ekki sammála mér um að það eigi að vera með einhvers konar forsjárhyggju er það bara mín skoðun og mín trú og ég sagði það í sumar í ræðustól að við eigum að bregðast við þegar svona kemur upp á.

Það eru líka aðrir hlutir sem ekki er stórvægilegur greinarmunur á milli, en ég tel hins vegar að það sé mjög varhugavert eins og í þessu tilfelli að fara að úthluta skipum veiðiheimildum sem þau geta ekki nýtt. Það setur líka fyrirtækin í óvissu og það er ekki skynsamlegt og það er ekki gott. Það getur skemmt og grafið undan, eins og ég nefndi áðan, sterkri stoð þessa fyrirtækis. Þetta er því miður ekki skynsamlegt að mínu mati.

Við skulum heldur ekkert gleyma því að krafan um þessa skiptingu, eins og ég sagði áðan, kemur frá Hafrannsóknastofnun að hluta til og hún kemur líka frá stórútgerðinni vegna þess að það sem gerist er það að litlu aðilarnir sem hafa ekki tökin til að veiða djúpkarfann, hafa ekki skipin til þess, munu þurfa að skipta á veiðiheimildum við hina á útsöluverði.



[15:02]
Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég leyfi mér sem gamall kennari og prófdómandi að þakka hv. þm. Ásbirni Óttarssyni fyrir innlegg hans hér. Ég deili áhyggjum hans af djúpkarfanum og gullkarfanum og vil bæta við einu sjónarmiði. Þegar ég og hv. varaformaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, Ólína Þorvarðardóttir, fórum á fund í Granda laust fyrir jól, í nóvember held ég, lýstu forsvarsmenn Granda yfir miklum áhyggjum út af markaðsmálum varðandi þessa skiptingu og töldu skiptingu bráðnauðsynlegar. Ástæðan var sú að djúpkarfann, veiddur utan landhelgi, hugsanlega í sjóræningja veiðum, er settur á svartan lista í Þýskalandi. Honum er blandað saman við gullkarfann sem við veiðum innan lands og er undir fiskveiðistjórn, þannig að þeir merkja það í Granda að þeir lendi í erfiðleikum í stórmörkuðum og annars staðar. Það er því brýnt að taka á þessu og það er brýnt að lögfesta þessa skiptingu.

Spurning mín til hv. þingmanns er sú: Hvaða leiðir sér hann bestar til að koma í veg fyrir þá ágalla sem hann benti á með skipin, með getu skipa sem veiða gullkarfa og geta ekki farið í djúpkarfann?

Ég er líka sammála hv. þingmanni að það er hægt að lenda þessu máli skynsamlega, það er ekki slíkur ágreiningur nema þá um skötuselinn, um prinsipp þar, og ég deili þeirri skoðun að það sé hægt að leysa það líka með málamiðlun. Ég lýsi mig reiðubúinn til að ræða það sem formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar milli 2. og 3. umr. að taka á þeim ágöllum sem bent hefur verið á og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson hefur einnig bent á. Ég lýsi mig reiðubúinn til að ræða það milli 2. og 3. umr. Ég tel það vera komið í púkkið hér í dag sem nægir mér til að fara í þá viðræðu og til að leita lausna í þessu máli.



[15:05]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Atla Gíslasyni fyrir það að lýsa því yfir að hann sé sáttfús maður, eins og hann er reyndar yfirleitt alltaf í öllum málum, og vilji leita lausna. Það hefur komið fram og kom fram í máli hans hér að þeir ágallar sem hv. þingmenn hafa bent á hér í umræðunni hafa orðið til þess að hann vill skoða þetta vandlega á milli 2. og 3. umr. til að ná lausn í málinu. Ég fagna því sérstaklega vegna þess að það er mjög mikilvægt fyrir okkur sem störfum núna á Alþingi að við hugsum í lausnum og séum ekki alltaf að skjóta allt niður sem aðrir segja og höldum að við höfum alltaf ein rétt fyrir okkur, hver sem sú skoðun er. Ég hef alla vega reynt að gera það eftir bestu getu, það getur vel verið að mér hafi oft mistekist að gera það en ég hef reynt að hafa það að markmiði og það verður þá að taka viljann fyrir verkið.

Ég tek heils hugar undir það sem hv. þingmaður sagði um skiptinguna, eins og ég kom líka inn á í ræðu minni, að það er mjög mikilvægt að menn geri þetta með þeim hætti að ekki sé verið að ofnýta annan stofninn. Hv. þingmaður kom inn á að það hefði líka markaðsleg áhrif og það sé hætta á því ef menn eru í sjóræningja veiðum að menn verði stimplaðir út. Þetta er alveg hárrétt.

Mín skoðun er sú að ef núna yrði þetta með þeim hætti að allir sem veiða fisk, hvort heldur það er karfi eða eitthvað annað, þurfi að skila svokölluðum afladagbókum og þurfi að gefa upp hvar þeir eru að veiða, hvort þeir eru að veiða í botntroll og þar fram eftir götunum, gæti grunnurinn að sátt legið í þessu fyrir þau skip sem hafa klárlega verið að veiða gullkarfa, eins og þessi minni togskip, að menn geti séð það og rakið það í afladagbókum viðkomandi skips og þá sé hægt að leiðrétta það með þeim hætti, vegna þess að stærri skipin sem veiða í dýpri sjó með flottroll og annað setja þetta hvort sem er inn í frystinguna. Þetta er í raun og veru lausnin sem ég sé í málinu að menn mundu gera þetta með þeim hætti að skoða afladagbækurnar sem segja nákvæmlega hvar menn eru að toga, með hvaða veiðarfærum, hvort menn eru með botntroll eða flottroll, að menn geti gert þetta með þeim hætti. Það er lausnin.



[15:07]
Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Til stóð að kvóti í djúpkarfa og gullkarfa skiptist bara „fifty/fifty“ eða til helminga. Skil ég hv. þingmann rétt að skiptingin gæti orðið þannig gagnvart skipum sem hafa ekki búnað til að sækja djúpkarfa að þau fengju meiri hlutann í gullkarfa og minna eða ekkert í djúpkarfa? Þarna er ákveðið vandamál uppi sem er vel hægt að leysa.

Það er eitt atriði sem hv. þingmaður kom líka inn á sem ég vil gera að umtalsefni og það er þessi VS-afli eða svokallaður Hafró-afli. Það var hárrétt ábending um 5% heimildina til að veiða umframafla og skila inn og sem fer í ákveðinn uppgjörspott hjá Hafró, að það hefur gerst að menn hafi safnað þessum 5% upp og farið svo eingöngu í að veiða meðafla þegar líður á tímabilið. Á þessu þarf að taka. Ég hef líka bent á að ég hefði viljað skoða þennan Hafró-afla betur, mjótt er mundangshófið þar í þeim efnum, en það þarf að skoða það vel og vandlega. Ég spyr hv. þingmann hvort hann deili þeim sjónarmiðum með mér að hægt sé að efla þennan þátt og þá í því skyni að tryggja það að allur meðafli komi í land, ekki bara skötuselur á grásleppunni heldur líka koli og fleiri tegundir sem koma fram í meðaflanum.



[15:08]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Bara til að ljúka þessari umræðu í sambandi við skiptingu á karfakvótanum þá er það mín skoðun að ef menn fara inn í afladagbækurnar geti menn séð þetta. Ef ég man rétt, nú segir hv. þingmaður að þetta sé til helminga en ef ég man þetta rétt eru það um 30% sem eru í djúpkarfa og um 70% í gullkarfa.

Þar sem hv. þingmaður kemur inn á svokallaðan Hafró-afla og það var einmitt umræða um það í gær, er mín skoðun sú að þessi aðgerð stjórnvalda á sínum tíma hafi virkað mjög vel vegna þess að nú hafa menn heimild til að landa 5% inn í Hafró-afla sem skiptist þá þannig að 80% fara til Hafrannsóknastofnunar og 20% til útgerðarmanna og sjómanna. Það gerir það að verkum eða hefur skilað sér í því að menn eru að landa fiski inn í þennan Hafró-afla og þetta flyst þá miðað við það sem menn eru að veiða. Það er ekki miðað við úthlutaðan afla, þannig að þeir sem veiða mest mega þá landa mest og geta þá gripið til þessara ráðstafana. Í dag er þetta eingöngu miðað við ígildi, þ.e. menn mega veiða kannski 500 tonn af karfa og 500 tonn af ufsa en landa síðan bara annarri tegundinni inn í Hafró-aflann. Menn þurfa að skoða með hvaða hætti hægt er að gera þetta.

Ég tek undir með hv. þm. Atla Gíslasyni að það er mjög skynsamlegt að við skoðum þessa hluti á hverjum tíma, við verðum alltaf að skoða þetta vel. En það sem eftir stendur er þá þetta, og ég er búinn að skoða þetta dálítið á undanförnum vikum, að aflaaukningin inn í Hafró-aflann er út af þorski. Það er mjög sláandi að það hafa bæst við 850 tonn af lönduðum þorski núna á milli kvótaáramótanna, sem segir mér persónulega vegna þess að ég þekki nokkuð vel ástandið á miðunum að við erum með ranga ráðgjöf í þorskinum, þ.e. við erum með ranga ráðgjöf miðað við þá þorskgengd sem er á miðunum. Því er mjög mikilvægt og ég hefði viljað ræða þau tvö frumvörp sem koma hér á eftir — þau komast sennilega ekki að í dag — bæði frumvarp sem ég legg fram um aflaráðgefandi nefnd sjómanna og hins vegar frumvarp um vísindaveiðar sem hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir leggur fram. Ég held að við þurfum að taka umræðuna miklu lengra til þess að átta okkur á stöðu mála.



[15:10]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég náði því miður ekki að vera viðstaddur fyrri hluta þessarar umræðu þegar mælt var fyrir málinu og fyrstu ræðurnar. En ég held að maður geri sér nokkuð vel grein fyrir því, í ljósi 1. umr. og umfjöllunar í þinginu undir jafnvel öðrum liðum, hvernig landið liggur varðandi þennan helsta atvinnuveg þjóðarinnar, þ.e. okkar helsta gjaldeyrisskapandi atvinnuveg og framtíð hans.

Í því frumvarpi sem hér er til umræðu eru nokkur atriði sem er ljóst að skiptar skoðanir eru um. Hér er rætt um m.a. línuívilnun og ég hef einna mestar áhyggjur af því varðandi línuívilnunina ef það er í raun stefna stjórnvalda að draga úr tækninýjungum og hagkvæmni í þeirri grein. Ég hef í sjálfu sér ekki stórar áhyggjur af því þó að verið sé að auka um einhver prósent til eða frá það magn sem má veiða í línuívilnuninni, en það er ljóst að með því frumvarpi sem hér er rætt er verið að fjölga þeim sem mega veiða þarna, eins og kom fram hjá hv. þm. Ásbirni Óttarssyni áðan, en ekki í raun að auka það magn sem er til ráðstöfunar.

Varðandi veiðiskylduna held ég að þurfi menn að stíga mjög varlega til jarðar því að þetta er mjög tvíbent. Ljóst er að það er hagur margra að veiðiskyldan sé aukin, að hún sé í raun höfð 100% eða eitthvað slíkt, en það hefur vitanlega þau áhrif eins og hér hefur komið fram að það getur dregið úr nýliðun, það getur dregið úr framboði til þeirra sem vilja hugsanlega leigja sér aflamark, og það koma upp ýmis vandamál þegar við skoðum þessa tillögu. Þar af leiðandi vil ég hvetja nefndina til að skoða það mjög vandlega milli umræðna, eins og annað í þessu frumvarpi, hvort verið sé að stíga nógu varlega til jarðar varðandi þennan þátt.

Hér er einnig rætt um geymslurétt. Þetta er kannski eitt af því sem ég persónulega hef hvað mestar efasemdir um ásamt skötuselsákvæðinu svokallaða, að verið sé að takmarka þennan geymslurétt. Í rauninni er samt sem áður verið að segja að ráðherra geti ákveðið annað ef þær aðstæður eru uppi. Ég held að það sé mjög mikilvægt, ef við horfum á hagkvæmni eða hagræðingu útgerðarinnar til þess að sækja aflann, að heimilt sé að færa töluvert af honum á milli tímabila. Það snýr ekki eingöngu að útgerðinni sem fyrirtækis heldur snýr það líka að starfsfólkinu og þeirri starfsemi sem þar er, markaðsaðstæðum og öðru slíku. Við megum ekki gleyma því, og ég kem aðeins að því á eftir, hversu margir starfa við sjávarútveginn.

Varðandi hið svokallaða skötuselsákvæði sem nefnt er eftir þeim ljóta fiski en bragðgóða, er það mjög mikið áhyggjuefni að mínu viti að verið sé að taka þetta skref sem verið er að taka í því sem í raun má kalla fyrningu. Það er eitthvað sem ég er alfarið á móti að verði tekið. Við getum staðið hér og talað í allan dag og margir eru betur til þess fallnir en ég að ræða um tæknilegar útfærslur á því hvar skötuselurinn heldur sig og hvar á að veiða hann og slíkt. (REÁ: Ég skal …) Já, þakka þér fyrir, hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir ætlar að fara yfir það fyrir mig, en það er ekki það sem ég ætlaði að segja heldur í rauninni sú hugsun sem býr að baki þessa ákvæðis og við það er ég hvað hræddastur og vona svo sannarlega að menn stígi ekki það skref sem boðað er í frumvarpinu varðandi þann hluta.

Ég er búinn að nefna helstu atriðin í mjög stuttu máli og hér hefur verið farið yfir í ræðum sem ég hef heyrt tæknilegar útfærslur og um hvað þetta mál snýst tæknilega. Það sem ég ætla að nefna eru vinnubrögðin, ekki er hægt að standa hér án þess að nefna þau. Ég er ásamt mörgum öðrum þingmönnum mjög ósáttur við það hvernig haldið er á vinnu og umfjöllun hér um sjávarútvegsmál. Nú er svokölluð sáttanefnd að störfum, nefnd sem á að fjalla um breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu, nauðsynlegar breytingar, og hugsanlega skapa sátt milli stjórnvalda og hagsmunaaðila og slíkt, og þá komum við fram með frumvörp, bæði stjórn og stjórnarandstaða, ofan í þá vinnu. Mér finnst það ekki skynsamlegt, ég tel skynsamlegra að reyna að herða á okkur í nefndinni að klára það sem þar fer fram til að hægt sé að koma fram með lagafrumvörp sem byggja á þeirri vinnu.

Ég hlýt hins vegar að taka mark á því að í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er vitanlega kveðið á um að þetta skuli gert. Ég hefði haldið að það væri hreinlegra af hæstv. ríkisstjórn að tilkynna það hér hvort það væri markmið að út úr hinni svokölluðu sáttanefnd næðist einhver sátt eða hvort það væri í rauninni til nefnd eða vettvangur til þess að kynna svokallaða fyrningarleið fyrir þessum hagsmunaaðilum.

Ég get ekki látið hjá líða fyrst við erum að ræða þetta mál að nefna aðeins hagsmunaaðila í sjávarútvegi. Ég tel mjög mikilvægt að allir þeir hagsmunaaðilar sem teljast til sjávarútvegs, hvort sem það eru samtök sjómanna eða útgerðarmanna eða fiskvinnslustöðvanna eða hverjir sem það eru, stígi varlega til jarðar varðandi þennan meginatvinnuveg þjóðarinnar. Það er mjög mikilvægt að hagsmunaaðilarnir, líkt og stjórnvöld, líkt og alþingismenn, íhugi vel hvar hagsmunum þjóðarinnar er best borgið varðandi þessa atvinnustarfsemi. Ég tel að þarna eigi allir að taka eitthvað til sín vegna þessara orða minna, ég held að það sé mjög mikilvægt að menn líti í eigin barm og spyrji sig og þá á ég við stjórnvöld og þessa hagsmunaaðila: Stöndum við of fast á skoðunum okkar, erum við föst í einhverju fari sem við komumst ekki upp úr og ber okkur að leggja okkur fram við að komast upp úr þessum hjólförum?

Frú forseti. Nú starfa líklega um 8 þúsund manns í sjávarútvegi í landinu, þ.e. við veiðar og vinnslu, og ég sá einhvers staðar að talið er að hann skapi um 16 þúsund afleidd störf, og 90% veiðiheimilda eru á landsbyggðinni. Þar af leiðir að þær miklu breytingar sem boðaðar hafa verið geta og munu hafa hvað mest áhrif á landsbyggðinni. Sú staðreynd að aflaheimildirnar eru að mestu leyti á landsbyggðinni, auðvitað ekki að öllu leyti, kann að endurspegla það að svo virðist sem að í þéttbýli og sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu séu sterkustu skoðanirnar á því að fara eigi í stórfelldar breytingar á sjávarútvegskerfinu, innkalla jafnvel aflaheimildir og úthluta þeim aftur með einhverjum hætti sem ekki hefur verið upplýst um. Af hverju þetta skiptist með þessum hætti veit ég ekki en það er hins vegar mjög sláandi að svo er. Ég held að það sé rangt að auka forræðishyggju, sem er kannski ekki besta orðið, í þessari grein frekar en öðrum en að sama skapi er mjög mikilvægt að einhvers konar utanumhald sé um meginreglur og annað í sjávarútvegi. Ég er að sjálfsögðu fylgjandi því að áfram verði unnið eftir því kerfi sem við erum með í dag, aflamarkskerfinu, en það er mikilvægt að hlusta á þá gagnrýni sem hefur komið fram og reyna að finna leiðir til sátta. Þess vegna tók ég sæti í þeirri ágætu nefnd sem er að fjalla um þetta mál og ég vona svo sannarlega að það fáist niðurstaða í það sem fyrst. Ég óska líka eftir því að stjórnvöld stígi varlega til jarðar með frumvörp og breytingar á því kerfi sem er til umfjöllunar meðan nefndin starfar, ég held að það sé frumskilyrði.

Ríkt hefur óvissa um sjávarútveginn í marga mánuði vegna þeirra yfirlýsinga sem gefnar voru hér varðandi fyrningu aflaheimilda og ekki verður undan því vikist að eyða þeirri óvissu sem fyrst til að við getum unnið áfram með þennan mikilvæga atvinnuveg og hvet ég stjórnvöld til að leggja sitt á vogarskálarnar í því.



[15:21]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir innlegg í þessa umræðu og þær áherslur sem hann réttilega dregur fram um mikilvægi sjávarútvegsins fyrir atvinnulíf og allt líf í landinu. Ætli það séu ekki yfir 40% af gjaldeyristekjum þjóðarinnar sem koma um þessar mundir frá útflutningi í sjávarútvegi? Engu að síður þurfum við stöðugt að huga að því hvernig best er hægt að haga málum, bæði hvað varðar sjálfbæra nýtingu auðlindarinnar, meðferð hennar, þjóðhagslegan ábata af veiðum og vinnslu og svo því hvernig arðurinn skiptist og kemur þjóðinni í heild sem mest til góða. Um það hefur verið rætt hér og deilt hvort við höfum á öllum sviðum verið þar á réttri braut.

Frumvarpið tekur ekki á öllum þeim stóru atriðum heldur ákveðnum leiðréttingaratriðum. Hv. þingmaður minntist á veiðiskylduna og tilfærslu á milli ára. Í því kerfi sem byggst hefur upp í leigukvótakerfinu geta allar slíkar breytingar vissulega haft áhrif. En það er líka mjög ótryggt þannig að erfitt er að finna leiðir til að verja það nema einhver ákveðinn pottur sé bara stöðugt tekinn frá sem sé þá fastur til útleigu, en annars er þetta mjög ótrygg stærð og það er staðreynd. Það má vera nálgun að alltaf sé einhver ákveðinn pottur hugsaður til útleigu.

Hitt er líka mjög mikilvægt að þær veiðiheimildir sem úthlutað er eða það aflamark sem úthlutað er innan veiðiársins sé að meginhluta til veitt innan ársins. (Forseti hringir.) Þess vegna er verið að draga úr þessum takmörkunum á flutningi milli ára, sem voru upphaflega bara tímabundnar af sérástæðum, og færa þær aftur (Forseti hringir.) þannig að það sem heimilt er að veiða verði veitt innan ársins.



[15:24]
Frsm. meiri hluta sjútv.- og landbn. (Ólína Þorvarðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir hans ræðu. Þingmaðurinn hvetur til þess að stjórnvöld stígi varlega til jarðar í sjávarútvegsmálum. Ég held að það sé gert. Það er verið að stíga mjög varlega til jarðar.

Mér finnst það ekki algjörlega sanngjarn málflutningur þegar talað er um að ekki eigi að leggja fram frumvörp eða aðhafast neitt í stefnumótandi aðgerðum í sjávarútvegsmálum á meðan viðræðunefnd, sem nú er í gangi með hagsmunaaðilum og fulltrúum stjórnmálaflokkanna, er að störfum. Ráðuneytið getur ekki fellt niður störf þó að starfshópur sé að verki og mér finnst þetta líka hálfótrúverðugur málflutningur á sama tíma og stærsti hagsmunaaðilinn, sem er LÍÚ, tefur beinlínis fyrir starfi nefndarinnar með því að mæta ekki þar til starfa og vilja ekki taka þátt í starfinu. Þá spyr ég: Hversu trúverðugur er málflutningurinn?

Auðvitað er mikils um vert að nefndin geti lokið starfi sínu og þar sé vel og málefnalega tekið á þeim verkefnum sem bíða en þá verða líka allir að koma að því borði. Það er á ábyrgð hagsmunaaðila ekki síður en stjórnvalda að það gangi vel fyrir sig.

Síðan þetta með hagsmunina sem í húfi eru. Það eru hagsmunir þjóðarinnar að hafa vel rekinn sjávarútveg. Sjávarútvegur er undirstöðuatvinnuvegur í landi okkar og það eru eðlilegir hagsmunir og sameiginlegt markmið okkar allra sem komum að þessari umræðu að hægt sé að tryggja rekstrarskilyrði hans en um leið þarf líka að tryggja sanngjarnar leikreglur. Það sem þessi deila stendur um í „grund og bund“ er að þjóðin, sem eigandi auðlindarinnar, njóti eðlilegs arðs af auðlind sinni. Það sem hv. þingmaður og fleiri kalla (Forseti hringir.) forræðishyggju er spurning um sanngjarnar leikreglur.



[15:26]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ástæðan fyrir því að ég talaði um, og er mjög upptekinn af því, að þessi nefnd fái frið er sú að ég held að það sé betra fyrir málaflokkinn í heild, fyrir umræðuna og fyrir það sem við viljum fá út úr þessu.

Eins og fram kemur í nefndaráliti minni hlutans var talað um það á ársfundi LÍÚ, að ég held, af ráðherra m.a., að það þyrfti að vera friður til þess að nefndin gæti unnið. Stjórnvöld hafa, eftir því sem ég best veit, m.a. við gerð stöðugleikasáttmála og annað, lýst því yfir að það eigi að vera friður og ró meðan menn eru að reyna að finna út úr þessu. Það hefur ekki gengið eftir, frú forseti.

Ef hv. þingmaður gleymdi að spyrja mig út í LÍÚ ætla ég ekki að standa hér sem talsmaður þeirra eða verja þá, það apparat á að gera það sjálft, þeir eru, að ég held, fullfrískir og fullfærir um það. Ég held hins vegar að sjávarútvegurinn sé í heildina vel rekinn. Það eru að sjálfsögðu í öllum greinum einhverjir skussar, þannig er það bara í öllum atvinnugreinum. Því miður er það einhvern veginn þannig að hvort sem verið er að tala um iðnað eða verslun og þjónustu eða veitingahús að mjög oft eru þeir dregnir upp sem standa sig verst. Í sjávarútveginum er í heildina litið mjög gott fólk, mikil kunnátta, sérfræðiþekking og nýsköpun en mér finnst að margir hér inni hafi ekki tekið tillit til þess í umræðu sinni.

Það er heldur ekki rétt að tala þannig að ekki sé greitt neitt afgjald fyrir nýtingarréttinn — ég er að tala um nýtingarrétt, takið eftir því, ég er ekki að tala um eignarrétt, ég er að tala um nýtingarrétt á auðlindinni. Það er greitt gjald fyrir hann. Hvort það eigi að vera (Forseti hringir.) hærra eða lægra eða hvernig það er, það er eitthvað sem þarf að ræða.



[15:28]
Frsm. meiri hluta sjútv.- og landbn. (Ólína Þorvarðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það gleður mig að heyra að hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson talar um nýtingarrétt því að það er náttúrlega lykilhugtak í þessari umræðu allri saman.

Það kann að vera að sjávarútvegurinn sé vel rekinn, ég vil ekki draga það í efa, en þetta snýst kannski ekki aðallega um það nema þá öðrum þræði. Þetta snýst fyrst og fremst um það að þjóðin njóti arðsins af vel rekinni atvinnugrein þar sem þjóðin er eigandi auðlindarinnar. Það kerfi sem við búum við er leiguliðakerfi, það býður upp á mismunun. Leikreglurnar eru ekki eins sanngjarnar og þær gætu verið. Umræðan snýst um það að reyna að breyta því. Umræðan er hins vegar allt of mörkuð tortryggni og átakasókn í allri framgöngu, jafnvel beggja málsaðila ef út í það er farið.

Af því að þingmaðurinn talar um að það sé æskilegra að umrædd nefnd fái frið til starfa vil ég benda á að það verður þá líka að vera trúverðugt að nefndin sé að störfum og að menn gangi þar af fullum heilindum til starfa. Eins og sakir standa hefur maður ekki ástæðu til að ætla að þar séu menn nægilega samstilltir og samstiga í því að ganga að verkefninu af fullum heilindum því, eins og við vitum, hefur einn stærsti hagsmunaaðilinn þegar eiginlega stokkið frá verkinu. Þar með er komin óvissa og undir þá óvissu ýtir sá hagsmunaaðili með framgöngu sinni.

Auðvitað væri æskilegast ef menn gengju af fullri alvöru að því verki að takast á við þetta verkefni og að menn tækju það verkefni alvarlega að stjórnvöld hafa þann einlæga ásetning að koma hér á sanngjarnari skipan í fiskveiðistjórnarmálum.



[15:30]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ítreka það sem ég sagði áðan að sjávarútvegurinn er að mínu viti hátækniiðnaður og hátæknigrein. Í honum starfa öflugir aðilar, það eru um 8 þúsund störf í þessari grein, 16 þúsund afleidd störf væntanlega. Eins og fram kom hjá hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skapar þessi grein líklega 40% gjaldeyristekna okkar í dag.

Sjávarútvegurinn er í dag einhver mikilvægasta atvinnugrein okkar og skapar þjóðinni gríðarlega mikinn arð. Mér finnst ekki sanngjarnt að tala á þann veg að sjávarútvegurinn skili ekki neinum arði til þessa samfélags. Það er gríðarlegur arður sem kemur úr sjávarútveginum inn í samfélögin í landinu, inn í þjóðarbúið í heild. Hægt er að sýna fram á það með mjög einföldum hætti með því að skoða einfaldlega opinbera vefi Hagstofu og annarra aðila.

Að þjóðin njóti arðsins — ef við erum einfaldlega að tala um að borgað sé hærra leigugjald fyrir aflaheimildirnar en er í dag, ef málið er ekki flóknara en það, þá eigum við að ræða það á þeim grunni. Það getur vel verið að útgerðin þoli að borga hærra leigugjald fyrir nýtingarréttinn. En ég tek ekki undir það og tek ekki þátt í umræðum ef því er haldið fram að sjávarútvegurinn skili ekki þjóðarbúinu tekjum eða arði, það er einfaldlega rangt. Það er líklega engin atvinnugrein sem er okkur eins mikilvæg ef við horfum á stöðuna í dag og til framtíðar.



[15:32]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Ég vil taka þá umræðu sem átti sér stað á milli hv. tveggja síðustu ræðumanna aðeins áfram. Ég verð að taka undir með hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni og ég lýsi furðu minni yfir málflutningi hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur þegar hún segir að tími sé kominn til þess að þjóðin njóti arðsemi af sjávarútvegi. Við hv. þingmann vil ég segja að þjóðin nýtur að sjálfsögðu arðsemi af þessari atvinnugrein í því formi að þegar við erum með vel rekinn sjávarútveg, eins og við erum með núna, veitir hann atvinnu og greiðir skatta og hann er jafnframt eina atvinnugreinin sem greiðir auðlindagjald, fyrir utan þessa nýju ömurlegu orkuskatta sem þessi ágæta ríkisstjórn var að setja á.

Auðlindagjaldið var, eftir því sem ég best man, 1,4 milljarðar á seinasta ári og ríkisstjórnin hefur kosið að verja 1,4 milljörðum í að sækja um aðild að Evrópusambandinu. En það er önnur saga. En þetta er mikilvæg arðsemi af þessari atvinnugrein og það er köld, blaut tuska framan í allt það góða fólk sem vinnur í þessari mikilvægu atvinnugrein að þurfa sífellt að hlusta á málflutning eins og þann sem sérstaklega þingmenn Samfylkingarinnar hafa í frammi, en þó örlar á því líka hjá sumum þingmönnum Vinstri grænna. Það þarf alltaf að vera að tala niður til þessa fólks, það þarf að vera að tala niður til fólks sem er að hætta fjármunum sínum í rekstur og er að kaupa til þess atvinnutæki og tól og veiðiheimildir vegna þess að — (ÓÞ: Hver er að tala niður til fólks núna?) ég er ekki að tala niður til þess fólks sem stundar þessa atvinnugrein, ég leyfi mér að andmæla því sjónarmiði sem ég tel koma fram hjá hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur. Ég er ekki heldur að tala niður til þingmannsins, ég er að lýsa mig andsnúna skoðunum hennar. Það hlýtur að vera það hlutverk sem okkur hér á hinu háa Alþingi er ætlað. Það hefur nefnilega verið einkenni þessarar umræðu, bæði í dag og líka í fyrradag, að það eru allir að kalla eftir sátt og það er nákvæmlega það sem ég held að við öll getum sameinast um. Við viljum öll hafa sátt um þessa atvinnugrein en við erum ekki sammála um það hvernig við getum nálgast þá sátt.

Þegar hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipaði þennan sáttahóp og þessa sáttanefnd, sem í áttu sæti allir hagsmunaaðilar, allir stjórnmálaflokkar og væntanlega allar skoðanir sem er að finna um þennan málaflokk, hélt ég að eitthvað væri á bak við það, að það ætti að leita sátta. Þá kemur hæstv. ríkisstjórn og segist vera að framfylgja stefnu sinni sem allir hefðu átt að þekkja og að þjóðin hafi kosið þessa tvo flokka út af stefnu þeirra. Ég fór yfir það í andsvari við hv. þm. Róbert Marshall í fyrradag að ég er ekki sammála því. Ég held að þessi ríkisstjórn hafi verið kosin af mörgum vitlausum ástæðum og ég held hún hafi verið kosin þrátt fyrir stefnu hennar í sjávarútvegsmálum. Hún var m.a. kosin vegna þess að verið var að refsa mínum flokki, sem hafði verið lengi við völd. Við urðum fyrir efnahagslegu áfalli á okkar vakt. Það var þess vegna sem var verið að skipta um ríkisstjórn, það var ekki út af sjávarútvegsstefnunni og það er algjör fjarstæða að halda slíku fram.

Gott og vel. Hæstv. ríkisstjórn segist vera að framfylgja stefnu sinni sem allir hafi átt að þekkja og hún sé að ná fram breytingum. Þetta segir hún í öðru orðinu, sáttin mikilvæga er sett í nefnd en um leið og nefndin er skipuð er allt tekið úr því sáttaferli og þá kennir ríkisstjórnin þeim aðilum sem eru ekki sáttir við það verklag um að vera að rjúfa þá margumræddu sátt. Ég bara næ ekki þessu samhengi.

Það er fullt af atriðum sem menn eru ekki sammála um í þessu kerfi og það er fullt af atriðum sem hægt er að breyta. Og það má nefna fullt af öðrum atriðum, eins og hér hefur komið fram, sem ég ætla ekki að endurtaka. Hv. þm. Ásbjörn Óttarsson sem þekkir þessi mál eflaust betur en nokkur annar í þessum sal — ég leyfi mér að fullyrða það, með allri virðingu fyrir öllum öðrum — talar af þvílíkri kunnáttu og reynslu að það ber af. Hann nefnir fullt af atriðum sem hægt væri að fara yfir og heldur þeirri skoðun sinni fram að í sumum tilfellum þurfi ekki að vera svo langt á milli manna. En það er langt á milli manna um ákveðin grundvallaratriði og ég hélt, miðað við það sem segir í skipunarbréfi umræddrar nefndar, og það sem hæstv. ráðherra sagði á ræðu sinni hjá LÍÚ í haust, að það ætti einmitt að taka þessi grundvallaratriði út fyrir það karp sem við erum í hér, taka grundvallaratriðin, þau atriði sem mestu deilurnar eru um, og setja það í þann farveg að við getum náð einhverri lendingu. Ég hélt, kannski í einfeldni minni, að það væri stefna ríkisstjórnarinnar sem talar svo mikið um mikilvægi þverpólitískrar sáttar á tyllidögum.

Nei, þrátt fyrir að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hafi sagt í ræðu hjá LÍÚ fyrir örfáum vikum, með leyfi forseta:

„Eins og þið þekkið ákvað ég á grundvelli samstarfsyfirlýsingar þessarar ríkisstjórnar að setja á fót vinnuhóp til þess að fara yfir stóru drættina og álitaefnin í fiskveiðistjórnarkerfinu og koma með tillögur til úrbóta. Meginmarkmiðið með skipan þessa vinnuhóps er að freista þess að ná fram tillögum sem skapa meiri sátt um það meðal þjóðarinnar. Ég vil tiltaka hér sérstaklega að ég hef fyrir löngu ákveðið að gefa vinnuhópnum það svigrúm sem hann þarf. Með þessu á ég við að hann mun fá frið til verka sinna án sérstakrar íhlutunar af minni hálfu. Ég tel mikilvægt að aðrir sem hér eiga hlut að máli haldi þessa sömu stefnu í heiðri.“

Hér talar hæstv. ráðherra um álitaefni og stóru drættina. Það kann vel að vera, eins og hv. þm. Helgi Hjörvar hélt fram við umræðuna í fyrradag, að þetta frumvarp sé ekki stærsta álitamálið, en það sem verið er að gera, t.d. með skötuselsákvæðinu, er að það er verið að fara bakdyramegin að fyrningarleiðinni. Og fyrningarleiðin er eitt af þeim stóru atriðum sem grundvallarágreiningur er um og ég hefði haldið að væri þá það sem ætti að vera til umræðu í þessari ágætu nefnd.

Ef menn eru virkilega á þeim buxunum að ná sátt, ef menn eru virkilega að leita eftir því að kalla alla aðila að borðinu til þess að ná sátt, hefði ég talið að það væri einfaldara með það að markmiði að ná sameiginlegri niðurstöðu, sem ég trúi að menn vilji, hefði ég haldið, vegna þess að menn vissu og gátu sagt sér það fyrir fram að þetta atriði mundi valda deilum, að það væri einfaldara að setja það inn í nefndina, gera eins og hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson sagði hér í fyrradag, láta fyrningarleiðina vera eina af þeim tillögum sem nefndin fengi til skoðunar til útfærslu, til umræðu, og sjá, þegar öll rök eru komin fram, þegar allir sem að þessu máli koma og hafa skoðun, eru búnir að ræða þetta sín á milli, ná einhverri lendingu, þá væri hægt að fara fram. En það sem verið er að gera hér, þó að mönnum finnist þetta ekki vera stærsta málið, er að grafa undan því að hægt sé að ná þessari sátt vegna þess að það virðist vera þannig að það ekki sé vilji fyrir hendi.

Hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir kemur hinum megin frá og segir: Það er LÍÚ sem er að rjúfa sáttina með því að mæta ekki. Það eru útvegsmenn sem eru vondi kallinn í þessu samhengi og það er þeim að kenna að ekki næst sátt. Það getur vel verið að LÍÚ ætti að fara að finna sér einhverjar aðrar aðferðir en að mæta ekki á fundi, ég skal ekkert um það segja. Ég held að í flestum deilumálum sé betra að koma að borðinu og ræða málin. Ég held hins vegar að ef báðir aðilar ættu hugsa málið: Hvað er það sem kemur í veg fyrir að við getum rætt þessi mál? Það er annars vegar það sem hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir kallar hótanir LÍÚ en hins vegar er það það sem ég held fram að sé hálfgerð ögrun frá ríkisstjórninni að vera að koma með þetta mál vitandi að það muni valda þessum deilum.

Ég spurði hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að því í umræðunni í andsvari fyrr í vikunni, hvort það væri ekki augljósasta málið til þess að leyfa þessum málum einhvern veginn að komast áfram að taka það úr þessu frumvarpi sem ekki er ágreiningur um, leggja hitt til hliðar, halda áfram með nefndarstarfið og reyna að freista þess í einlægni að ná um þetta sátt. Ég held að það sé eina vitið í þessu máli og legg það hér formlega til. Þetta snýst nefnilega um vinnubrögð. Þetta snýst um að koma málum áfram og fólk þarf að gefa eftir og við erum með nóga óvissu í samfélaginu þó að það þurfi ekki að bæta á þetta. Við erum með svo mörg verkefni í gangi sem eru brýn og þarf að leggjast yfir og einhenda sér í. Það er grátlegt að sjá það að embættismenn, t.d. í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, eru annars vegar að undirbúa aðildarumsókn til Evrópusambandsins og hins vegar að vinna í máli sem gæti svo — segjum að það næðist nú sátt þrátt fyrir allt í nefndinni og það yrði ekki um þessa leið. Þá er búið að eyða þarna dýrmætum tíma í það sem ég vil leyfa mér að kalla vitleysu.

Virðulegi forseti. Það er mikið talað í þessum stól af hálfu ákveðinna þingmanna um 18 ára valdatíð Sjálfstæðisflokksins og henni er kennt um allt sem miður hefur farið hér, ég sé að hv. þm. Ögmundur Jónasson allt að því nikkar og kinkar kolli yfir þessu, það er einmitt það sem við erum ekki alltaf sammála um. Ég vil leyfa mér að halda því fram að það sé 18 ára, í tilfelli VG, og 16 ára stjórnarandstaða og valdaþrá þeirra tveggja flokka sem nú eru í ríkisstjórn sem verður til þess að það er farið dálítið vitlaust að verkum. Það er verið að fara hér af stað til að breyta bara til þess að koma einhverju í burtu sem þessi bévítans, svo að ég kveði nú ekki sterkara að orði, Sjálfstæðisflokkur hefur komið til leiðar. Við verðum að breyta bara breytinganna vegna til þess að láta í það skína að við séum komin til valda núna.

Þetta er eins með skattkerfið. Það var ákveðið að ná þyrfti meiri tekjum í ríkissjóð. Það þurfti ekkert endilega að fara að breyta öllu skattkerfinu kortéri fyrir áramót til þess að ná þeim markmiðum. Nei, en það þurfti að breyta breytinganna vegna og ég vil kenna 18 ára valdaþrá um. Hún verður þess valdandi að menn blindast af verkefninu og átta sig ekki á því að það er endapunkturinn og útkoman sem skiptir máli. Mér finnst gagnrýnisvert að þannig sé farið af stað með þessa mikilvægu atvinnugrein okkar, og þetta er ekki einhver áróður Sjálfstæðisflokksins eða áróður LÍÚ sem ég er að segja hér. Það er óvissa í þessari grein fyrst og fremst vegna þess að menn vita ekki hvers konar fiskveiðistjórnarkerfi, hvers konar sjávarútveg, við erum að fara að reka á næstu mánuðum og missirum.

Það er ekki eitthvað sem Sjálfstæðisflokkurinn heldur fram í einhverju tómarúmi. Ég er þingmaður stórs kjördæmis, landsbyggðarkjördæmis, þar sem eru mikilvægir útgerðarstaðir, og ég fer og tala við fólkið í þessu kjördæmi, úr öllum flokkum, niðri á höfn, inni í frystihúsunum, þá sem eru að reka útgerðarfyrirtækin, úti um allt. Það er það fólk sem er að segja þetta við mig, fiskvinnslufólkið. Það segir bara: Látið okkur í friði. Það er nóg af verkefnum fyrir ykkur til að dandalast yfir og sinna. Látið þið okkur í friði til að við getum haldið áfram að byggja hér upp samfélag og byggja upp að nýju eftir það áfall sem við urðum fyrir. Það er ábyrgðarhluti að taka atvinnugrein, sem er að sönnu skuldsett eins og aðrar atvinnugreinar hér í landinu, en hefur alla burði til að vinna sig út úr þeim skuldum, þessum tökum. Ef hún fengi að vera í friði og fengi tækifæri til þess að gera áætlanir og plana reksturinn fram í tímann, hvort sem það heitir veiðar eða markaðsstarf, þá er það það mikilvægasta sem við getum gert hér á Alþingi að veita fólki svigrúm til þess að vinna vinnuna sína. Þetta er ekki áróður Sjálfstæðisflokksins, þetta er það sem fólkið í landinu er að segja, a.m.k. við mig.

Virðulegur forseti. Það má líka ræða forgangsröðun ríkisstjórnarinnar í þessu samhengi. Ég mundi frekar vilja vera hér að ræða það sem var rætt hér fyrr í dag, þau verkefni sem við stöndum frammi fyrir til að aðstoða heimilin og fyrirtækin í landinu í staðinn fyrir að vera alltaf að fikta í hlutum sem eru í lagi. Tökum þau atriði sem ósætti er um, hv. þm. Ögmundur Jónasson, og leyfum þessari nefnd að vinna að þeim atriðum eins og hæstv. ráðherra boðaði að hann mundi gera. Það er það sem mér er fyrirmunað að skilja. Ég er ekki að taka neitt löggjafarvald, hvorki af stjórnarþingmönnum né af ríkisstjórninni, að hún geti ekki komið þeirri stefnu sinni í framkvæmd sem hún hefur boðað. En þá, eins og ég held að hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson hafi sagt hér áðan: Þá er bara að segja það, við ætlum ekkert að gera þetta í sátt við greinina. Við teljum að þetta sé rétta stefnan og þá ætlum við bara að gera það. Hætta þá bara öllum leikaraskap og vera ekki að eyða tíma 18 manna í eitthvert nefndarstarf. (BVG: 23.) — Hvað segirðu, 23? Afsakið, ég fæ hér leiðréttingu frá hv. þm. Birni Vali Gíslasyni, nefndarmenn eru 23 en ekki 18, og rétt skal vera rétt.

Það er líka dálítið kúnstugt ef maður fer, og nú er tími minn bráðum á þrotum, aðeins í efnisatriði þessa frumvarps — mikið hefur verið rætt um þetta skötuselsákvæði og raunar með ólíkindum að þingflokkur Vinstri grænna skuli vera að leggja það fram eftir allt talið um sjálfbæra þróun að hér sé verið að fara þvert gegn ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar. Hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra kom hér og sagði: Ég mun fara varlega og ég mun hafa samband við Hafrannsóknastofnun um þetta allt saman.

Ég er hér með bréfið frá Hafrannsóknastofnun frá því 24. nóvember, það er varla þornað á því blekið, þar sem segir, með leyfi forseta:

„Það gengur gegn þessum sjónarmiðum“ — sem eru um skynsamlega nýtingu fiskstofna, vil ég bæta hér við af því að ég les ekki alla málsgreinina — „að veitt sé umfram ráðgjöf stofnunarinnar eins og verið hefur undanfarin ár og samrýmist ekki stefnu um sjálfbæra nýtingu. Það geta varla talist ábyrgar fiskveiðar eða varúðarnálgun við stjórn fiskveiða ef verulega er farið fram úr ráðgjöf sem miðast við að nýta uppvaxandi árganga jafnvel þótt stofn sé í vexti.“

Nú er ég ekki fiskifræðingur og ætla ekki að halda því fram að ég viti mest um þessi mál en hér tjáir forstjóri Hafrannsóknastofnunar sig beint um þetta í bréfi frá því í október, í tveggja mánaða gömlu bréfi, og hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra segir hér á þriðjudaginn að hann ætli að fara varlega og tala við Hafrannsóknastofnun. Hann þarf ekkert að fara varlega, hann þarf ekkert að tala við Hafrannsóknastofnun, hann getur bara lesið þetta bréf ef hann ætlar að hlusta á þá.

Allt tal um sjálfbæra nýtingu og það sem segir í nefndaráliti meiri hlutans, með leyfi forseta:

„Það er mat meiri hlutans að mikilvægt sé að ganga með ábyrgum hætti um nytjastofna sjávar og hlúa að þeirri ímynd sem við höfum á alþjóðavettvangi sem ábyrg fiskveiðiþjóð.“

Þá segi ég, frú forseti: Byrjum þá á því að draga þetta ákvæði til baka vegna þess að þetta gengur augljóslega gegn þessum sjónarmiðum og mun augljóslega, ef menn hafa miklar áhyggjur af því, sem ég held að fólkið í greininni og þeir sem stunda markaðsstarf og eru að selja íslenska fiskinn á grundvelli þessara sjónarmiða hafi. Þeir aðilar halda því fram að þetta muni skemma okkar alþjóðlegu ímynd sem ábyrg fiskveiðiþjóð.

Þar vitna ég til umsagna fjölmargra umsagnaraðila. Ég er til að mynda með umsögn frá Samtökum fiskvinnslustöðva þar sem þeir segja þetta beinlínis, með leyfi forseta:

„Framlagning frumvarpsins býður heim hættu á að orðspor okkar sem ábyrg fiskveiðiþjóð bíði varanlegan hnekki með tilheyrandi skaða. Líklegt verður að telja að íslenskur skötuselur verði gerður útlægur á okkar helstu mörkuðum fyrir sjávarafurðir komi bráðabirgðaákvæði frumvarpsins til framkvæmda.“ — Og takið eftir því að þeir segja ekki: … þrátt fyrir að hæstv. ráðherra sýni varfærni.

Nei, frú forseti, þetta mál er ekki gott. Ef allt talið um sáttina á við eitthvað að styðjast, ef vilji er til sátta, er ég tilbúin til að hugsa þetta upp á nýtt þrátt fyrir að ég sé ósammála hv. stjórnarþingmönnum um þetta mál og þrátt fyrir að ég sé mjög andvíg fyrningarleiðinni í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Ég skal skipta um skoðun þegar þeir 23 einstaklingar sem þekkja þetta best eru búnir að fara yfir málið. (Forseti hringir.) Ef þeir komast að þeirri niðurstöðu að fyrningarleiðin sé best og að þetta mál sé af hinu góða skal ég íhuga að breyta um skoðun. (Forseti hringir.) Fram að því verð ég mjög mikill andstæðingur þessa máls.



[15:53]
Frsm. meiri hluta sjútv.- og landbn. (Ólína Þorvarðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Tónninn í umræðunni breyttist töluvert við þessa ræðu hv. þm. Ragnheiðar Elínar Árnadóttur en hvað um það. Mér finnst alltaf verra þegar umræðan er persónugerð og talað er niður til fólks og því lögð orð í munn. Mér finnst það alltaf verra og finnst þar af leiðandi allt þetta tal um sátt og sáttavilja ekki traustvekjandi. Það er ekki trúverðugt þegar talað er þannig að sáttin eigi bara að verða á forsendum þess sem talar og það var nákvæmlega það sem mér heyrðist á ræðu hv. þingmanns: Ef þið gerið það sem við viljum, hendið þessu frumvarpi og vinnið þetta eins og við viljum þá skal verða sátt um málið. En þannig nær maður ekki sáttum.

Enginn efast um það að íslenskt þjóðarbú nýtur góðs af atvinnugreininni sjávarútvegi og það er náttúrlega grundvallarforsenda að skapa eðlilegar leikreglur og góð starfsskilyrði fyrir atvinnugreinina. Spurningin snýst um það að þjóðin njóti arðs af fiskveiðiauðlindinni. Leikreglurnar varðandi úthlutun veiðiheimilda og hvernig með þær er sýslað eru það sem þetta mál snýst um. Þetta er með öðrum orðum sanngirnismál, mál sem lýtur að því að draga úr mismunun og auka jafnræði og hafa heiðarlegar og eðlilegar samskiptareglur á milli stjórnvalda og atvinnugreinarinnar.

Hv. þingmaður vísaði til þess að hv. þm. Ásbjörn Óttarsson hefði í ræðu sinni fyrr í dag nefnt ýmislegt sem betur mætti fara varðandi skötuselsfrumvarpið. Rétt er það, margt gott lagði þingmaðurinn til. Margt af því hefur meiri hluti sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar lýst sig reiðubúinn til að skoða og vera til viðræðu um eins og margoft hefur komið fram í umræðunni í dag og óskandi væri að við gætum frekar haldið þessari umræðu áfram á þeim nótum en í þeim ágreiningstón sem nú er kominn upp.



[15:55]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil algerlega frábiðja mér það að ég hafi talað niður til nokkurs manns. Ég tók það sérstaklega fram í ræðu minni. Það að ég sé ekki sammála hv. þingmanni og færi fyrir því rök þýðir ekki að ég sé að tala niður til hans. Ég frábið mér algerlega að því sé haldið fram.

Ég er ósammála þessum sanngirnis- og eðlilegheitarökum hv. þingmanns varðandi arðsemina af auðlindinni. Ég er hluti af þessari þjóð. Þótt hvorki ég né nokkur í minni fjölskyldu eigi krónuhagsmuni, þá finnst mér ekki á mér brotið eða komið fram við mig með ósanngjörnum hætti. Hér er fólk í þessari atvinnugrein sem hefur keypt sig inn. Kvótanum var úthlutað á sínum tíma, já, en með hvað að leiðarljósi? Honum var úthlutað á grundvelli veiðireynslu á þeim tíma. Ef eitthvert kerfi er sett á fót, þá er einhver upphafsdagur. Við erum komin langt út fyrir þann upphafsdag. Síðan hafa menn keypt sig inn í þessa grein, fjárfest og hætt fjármunum sínum. Ég leyfi mér að segja að engin sanngirni er í því að ætla að taka það af fólki. Það finnst mér vera ósanngirni.

Varðandi það að sáttin sé undir þeim formerkjum að ef þið gerið eins og við viljum þá skulum við koma að sáttinni, þá sný ég því og vísa því beint aftur til baka til þingmannsins, af því að mér finnst það vera nákvæmlega það sem ríkisstjórnin er að gera með þessu frumvarpi: Við getum alveg rætt þessi mál í einhverjum sáttafarvegi en við ætlum samt að gera það sem við ætlum að gera. Ég lagði engum orð í munn vegna þess að ég las upp það sem fram kom í minnihlutaáliti okkar sjálfstæðismanna og framsóknarmanna, ég las orðrétt upp það sem hæstv. landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra sagði þannig að ég lagði hvorki einum né neinum orð í munn. Þetta voru hans eigin orð.



[15:57]
Frsm. meiri hluta sjútv.- og landbn. (Ólína Þorvarðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er margt sem ástæða er til að svara af því sem fram kom í ræðu þingmannsins, t.d. að það væri valdaþrá núverandi stjórnarflokka að fá að leika sér með fiskveiðistjórnarkerfið af því að við værum komin til valda. Ég vil benda á að það kom út auðlindaskýrsla árið 2000 og fyrsta frumvarpið sem Samfylkingin flutti um þessa svokölluðu fyrningarleið var flutt árið 2003 eða 2002 ef ég man rétt.

Þingmaðurinn segir að hún og hennar byggðarlag hafi engu tapað og þar með sé ástæðulaust að breyta nokkru í þeim leikreglum sem nú eru við lýði. Ég vona að ég sé ekki að mistúlka orð þingmannsins (Gripið fram í: JónG: ég og mín fjölskylda ...) — já, ég og mín fjölskylda, sagði þingmaðurinn — en þarna kannski greinir á milli mín og þingmannsins vegna þess að ég kem úr byggðarlagi sem tapaði gríðarlega á núverandi kvótakerfi, mörg hundruð störfum, varð fyrir atvinnuröskun sem er svo margfalt meiri en sú atvinnuröskun sem suðvesturhornið horfist í augu við núna og upplifði það fyrir þremur árum síðan að útvegsmaður seldi kvótann og fór með allt sitt hafurtask og þrjá milljarða út úr byggðarlaginu.



[15:59]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Fyrst aðeins út af auðlindaskýrslunni frá árinu 2000 sem þingmaðurinn nefndi, það má margt af henni læra. Hvað var gert þar? Þeir sem komu að þeirri skýrslu voru alls staðar að úr samfélaginu. Það var þverpólitísk sátt um þá skýrslu. Hún var unnin af mikilli vandvirkni. Það var ekki verið að þröngva einhverju fram eins og verið er að gera núna og það er það sem ég er að gagnrýna. Ég vil benda hv. þingmanni á að tónninn breyttist ekkert í umræðunni þegar ég kom í stólinn. Tónninn breyttist í umræðunni þegar hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir kom í andsvar við hv. þm. Gunnar Braga Sveinsson vegna þess að það sem ég byrjaði á að tala um í minni ræðu var svar við því sem fram kom í andsvari hv. þingmanns. En það á að hafa auðlindaskýrsluna frá árinu 2000 og vinnubrögðin að henni að leiðarljósi. Þegar um svo stórt og mikilvægt og umdeilt mál er að ræða þá eigum við að reyna að leggja okkur öll fram um að ná sátt.



[16:00]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður nefndi fólkið í landinu og auðvitað er mikilvægt að hlusta á það. Það er deginum ljósara að fólkið í landinu er og hefur verið mjög ósátt við eignarhald á aflaheimildum í sjávarútveginum. Það hefur legið fyrir í aldarfjórðung eða svo, margmælt og staðfest að yfirgnæfandi meiri hluti fólksins í landinu er mjög ósáttur við það og það ósætti hefur skapað þá óvissu sem er í þessari grein og sú óvissa hefur verið viðvarandi og er ekki góð fyrir greinina. Óvissan sem hv. þingmanni var tíðrætt um er ekki góð fyrir greinina, en hún er og hefur verið viðvarandi vegna þess mikla ósættis sem verið hefur um þetta fyrirkomulag og þess vegna er það ekki til að skapa óvissu heldur þvert á móti til að eyða óvissu sem ríkisstjórnin hefur lagt upp í þann leiðangur að koma á skipan í greininni sem hér getur tekist um friður til framtíðar. Það er líka til að eyða óvissu í greininni sem þetta mál sem hér liggur fyrir er flutt vegna þess að hér er einfaldlega verið að taka á ýmsum atriðum sem nauðsynlegt er að taka á við rekstur greinarinnar, skýra og skerpa og ég spyr hv. þingmann hvort hún sé andvíg sjálfsögðum framfaramálum eins og hér er að finna í frumvarpinu og lúta t.d. að aukningu á veiðiskyldunni eða þeim heimildum sem hæstv. ráðherra eru fengnar til að setja á vinnsluskyldu til að koma í veg fyrir sóun á auðlindum sem eru sameign þjóðarinnar eða aðgreiningunni á karfa og djúpkarfa sem ég hygg að flestir þingmenn fagni og telji mikilvæga. Og hvort hún telji ekki að þetta frumvarp sé til þess fallið, a.m.k. í langflestum atriðum, að skýra, bæta, draga úr óvissu og eyða álitamálum sem greinilega hrannast upp.



[16:02]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Eins og ég fór yfir í ræðu minni þá ítreka ég að ósætti er um hluta af þessu kerfi. Það vita það allir og hv. þingmaður segir að fólkið í landinu sé ósátt og einmitt þess vegna tók auðlindanefndin þá ákvörðun í þessari nefndu skýrslu frá árinu 2000 og stjórnvöld færðu það í lög að á sjávarútveginn yrði sett auðlindagjald og var það eina atvinnugreinin sem bjó við það þar til orkuskattarnir voru settir á fyrir jólin. Auðlindagjald í sjávarútvegi var sett einmitt með það að markmiði að leita sátta en það hefur greinilega ekki dugað til og ég vil halda því fram að það sé vegna þess að ákveðnir aðilar í samfélaginu geta ekki séð þessa atvinnugrein í friði og ala á ósætti. Það finnst mér mjög miður vegna þess að ég tel þetta afar ósanngjarnt og þegar menn fara að kafa ofan í þessa hluti þá á þetta ekki við nein rök að styðjast. Það er markmið okkar allra að vera með sjávarútveg sem er arðbær og hagkvæmur og vel rekinn og ég tel alla vega og það er mín skoðun og þar deilum við ekki skoðun að þetta kerfi sé það besta sem völ er á. En það er ekki fullkomið, ekki frekar en önnur mannanna verk.

Hvað varðar ýmis efnisatriði, ég talaði líka um það að efnisatriði eru hér inni sem mætti taka út og koma í gegn. Ég er reyndar ekki sammála þessu með vinnsluskylduna að það sé eitthvert framfaramál, ég get ekki séð að það sé eitthvert til bóta að ráðuneytið setji einhverjar reglur og lög um það hvernig eigi að stýra vinnslu á uppsjávarfiski. Ég treysti fólkinu sem vinnur í þessu, sjómönnunum og útgerðarmönnunum, miklu betur til að ákveða það á staðnum heldur en ráðherra úr sínum stól, þannig að mér finnst það fráleitt.



[16:05]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ósættið er auðvitað um eignarhaldið og auðlindagjaldið sem fram að þessu hefur verið hverfandi, nam á síðasta ári hygg ég nokkur hundruð millj. á meðan tekjur greinarinnar á því ári einu voru að aukast um 50 þúsund millj. Það gjald var aldrei til þess fallið að skapa neina sátt um greinina.

Það er ríkur vilji meiri hluta þjóðarinnar að gera breytingar í þessu efni. Hér fóru fram kosningar í landinu þar sem tekin var afstaða, m.a. til þeirrar stefnu sem menn kynntu í þessum málum, og stjórnarflokkarnir kynntu nánast samhljóða stefnu um þær breytingar sem gera ætti og lýðræðisleg niðurstaða úr þeim alþingiskosningum liggur fyrir og það er auðvitað fullkomlega eðlilegt að stjórnarmeirihlutinn fylgi fram þeim lýðræðislega vilja sem legið hefur fyrir í áratugi og náði loks fram að ganga á flokkagrundvelli í síðustu alþingiskosningum og nýtur enn samkvæmt skoðanakönnunum fylgis meiri hluta þjóðarinnar.



[16:06]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er eins og sumir þingmenn skilji ekki að þegar þessari atvinnugrein gengur vel greiðir hún að sjálfsögðu hærri skatta til samfélagsins. Þegar ég tala um veiðileyfagjaldið, þá segja upplýsingar mínar að það hafi skilað 1,4 milljörðum í tekjur á seinasta ári. Þingmaðurinn talar um nokkur hundruð millj., það verður að finna út úr því hvaða tala er rétt, en ef tekjuaukningin er eins og þingmaðurinn heldur fram er hún þá ekki bara af hinu góða? Er þá ekki samfélagið að fá sinn arð í formi skatta? Sem þingmaðurinn er iðinn við að hækka, ef ég mætti bæta því við.

Varðandi kosningarnar þá er það þannig og ég hef sagt það nokkrum sinnum í þessari umræðu að mín skoðun er sú að þessir ríkisstjórnarflokkar hafi verið kosnir þrátt fyrir þessa stefnu en ekki út á hana. Það er ótrúlegt en satt en Samfylkingunni var ekki refsað í kosningunum fyrir hrunið en okkur var refsað fyrir það, mér þykir leitt að hryggja hv. þingmann með því en þessi vinstri sveifla er ekki komin til að vera.



[16:07]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér fannst ég eiginlega kominn í sögutíma áðan hjá hv. þm. Ragnheiði E. Árnadóttur og það var Íslandssaga síðustu tveggja áratuganna, frá 1. maí 1991, þegar Sjálfstæðisflokkurinn fór með völdin á Íslandi. Þá var allt óskaplega gott og fallegt á Íslandi vegna þess að það var haft svo mikið samráð við fólk. Síðan, ég man ekki orðalagið alveg, lenti Sjálfstæðisflokkurinn í hruni og þá varð hann að fara frá völdum og nú eru allir óskaplega reiðir út í Sjálfstæðisflokkinn að sjálfsögðu að ósekju og þess er skammt að bíða að hann komist aftur á valdastól. Ég verð að segja eftir að hafa hlustað á þessar umræður að ég vona að það verði langt í það. Ég man ekki eftir þessum tíma á sama hátt og hv. þingmaður og ég er ekki viss um að Öryrkjabandalagið, verkalýðshreyfingin, Landvernd eða önnur almannasamtök skrifi almennt upp á þessa söguskýringu.

Eitt (Gripið fram í.) mesta átakamál á undanförnum tveimur áratugum hefur verið einkavæðingin á sjávarauðlindinni og um hana hefur ríkt mikið ósætti á Íslandi. Einkavæðing sjávarauðlindarinnar með kvótakerfi þar sem heimilt er að framselja kvótann fyrir fé hefur skapað geysilegt óöryggi í sjávarbyggðum og þegar talað er um öryggi þeirra sem eru handhafar kvótans þá skulum við ekki gleyma þessu. Við skulum ekki gleyma því fólki sem hefur tapað eigum sínum og misst atvinnu sína vegna þessa kerfis.

Nú er um það að ræða að skoða breytt skipulag í sjávarútvegi. Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur lagt áherslu á að hér eigi ekki að taka nein heljarstökk, menn eigi að gefa sér góðan tíma vegna þess að menn vilja ekki skapa óöryggi. En hvað gerist þegar menn telja að örlítið sé hróflað eða haggað við þessu kerfi? Þá sjáum við forgangsröðun Sjálfstæðisflokksins birtast okkur í þingsal í þessu frumvarpi. Hann setur í öndvegi varnir fyrir eignarhald einkaaðila á sjávarauðlindinni.



[16:10]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Það var ekki ætlun mín að vera með hv. þm. Ögmund Jónasson í sögutíma, enda er hann eins og allir sjá miklu eldri en ég og gæti kennt mér söguna, alla vega munað lengra aftur í tímann. Þess vegna fannst mér leiðinlegt að hv. þingmaður fór ekki aðeins aftar í tímann þegar hann rifjaði upp stöðuna í sjávarútveginum vegna þess að sögutími hans byrjaði á því sem hann kallaði einkavæðingu auðlindarinnar en ég mundi vilja fara enn lengra til baka. Hvernig var umhorfs í sjávarútveginum þegar kvótakerfinu var komið á? Vorum við þá ekki að veiða of mikið, allt í bullandi tapi og ríki og sveitarfélög að reka þetta? Ég veit að ég og hv. þm. Ögmundur Jónasson deilum ekki þeirri skoðun hvaða rekstrarform á að vera á ýmsum hlutum og við getum talað okkur blá í framan um það. En ég leyfi mér að fullyrða það að núverandi kvótakerfi með öllum sínum kostum og öllum sínum göllum er margfalt betra en það kerfi sem vikið var frá þá og það hefur bæði með það að gera hvernig auðlindin er nýtt, hvernig farið er með hana og líka hvernig arðsemin er í greininni. Ég verð að segja alveg eins og er að það hryggir mig að sjá hv. þm. Ögmund Jónasson koma hér og tala um að Sjálfstæðisflokknum sé rétt lýst og allt að því væna mig um að ganga erinda einhverra. Ég geng ekki erinda sægreifanna, ég geng ekki erinda LÍÚ eða hverra sem menn vilja klína á mig að vera einhver talsmaður fyrir. Ég tala frá hjarta mínu, hef mína skoðun og ég er algerlega sannfærð um að þessi ríkisstjórn er á rangri leið, líka vegna þess sem hv. þingmaður talaði um að ekki hefði verið neitt samráð á þeim árum þegar Sjálfstæðisflokkurinn var við völd. Vel getur verið að það sé rétt að það hefði mátt vera meira og hv. þingmaður hefur gagnrýnt það. Þess vegna hryggir það mig að ekkert skuli breytast í þeim efnum. Hv. þingmaður er dottinn í sama pyttinn.



[16:13]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég efast ekkert um að hv. þingmaður tali frá eigin hjarta og sé heiðarleg í málflutningi sínum en það er ekkert rangt við það að ganga erinda einhverra. Ég skammast mín ekkert fyrir það að ganga erinda Öryrkjabandalagsins. Ég vil gjarnan ganga erinda lágtekjufólks, almenns launafólks á Íslandi og öll erum við að reyna að stuðla að því að Alþingi setji lög sem gagnist þjóðinni allri og almannahag sem ég tel að þetta kerfi geri ekki. Deilan snýst ekki um úthlutun á aflaheimildum og varnir gegn ofveiði, við erum alveg sammála um það. Spurningin snýst um markaðsvæðingu kerfisins og mér finnst þetta sýna okkur vel framan í Sjálfstæðisflokkinn og forgangsröðun hans, hvernig hann bregst við þessu litla frumvarpi. Þetta fjallar ekkert um 500 tonn eða 2.000 tonn. Þetta fjallar um það að Sjálfstæðisflokkurinn telur að verið sé að ógna markaðsvæddu fiskveiðikerfi.

Ég spyr hv. þingmann: Finnst hv. þingmanni ekki skipta máli núna, ekki síst á krepputímum, að við tryggjum almannaeign á auðlindum Íslands til lands og sjávar?



[16:14]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Ögmundur Jónasson segist vera stoltur af því að ganga erinda Öryrkjabandalagsins, almennings og launafólks og ég dreg það (ÖJ: Jú, vitanlega.) — að þingmaðurinn vilji gjarnan gera það og (Gripið fram í.) — ég dreg þá fyrirætlan þingmannsins ekki í efa. Hann hefur sýnt það og sannað í verkum sínum. Þess vegna mundi ég í hans sporum segja við þingflokk Vinstri grænna: Nú skulum við ekki eyða tíma í að karpa um þetta mál sem er í sáttanefnd okkar ágæta félaga, hæstv. sjávarútvegsráðherra Jóns Bjarnasonar, sem hann lofaði og hét á að færi í sáttafarveg. Nú skulum við finna þessa týndu skjaldborg fyrir Öryrkjabandalagið, launþegana, heimilin, fyrirtækin og atvinnulífið, hvort sem er í opinberri eigu eða einkaeigu. Við skulum finna þessa týndu skjaldborg og reisa Ísland við. Við gerum það ekki með því að standa hér og rífast um hluti sem eiga að vera í ferli annars staðar.



[16:16]
Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Heldur þótti mér hv. þm. Ögmundur Jónasson seilast langt þegar hann fór að gagnrýna ríkisstjórn sjálfstæðismanna á undanförnum árum fyrir meðferð hennar á Öryrkjabandalaginu og öryrkjum í landinu. Öryrkjabandalagið og öryrkjar sáu sig knúna til að koma hingað og leggja blómsveig að dyrum Alþingishússins sem minnisvarða um þann mesta hroka sem þeim hefur verið sýndur af stjórnsýslunni á síðustu árum og það gerðist í þessum mánuði eða síðasta mánuði. Mér fannst heldur langt seilst og menn eiga ekki að kasta grjóti úr glerhúsi.

Grundvallaratriðið í því sem við ræðum þegar við ræðum málefni sjávarútvegsins er á hversu hagkvæman hátt við náum að reka hann. Þetta hlýtur allt í grundvallaratriðum, virðulegi forseti, að snúast um það. Um það verður ekki deilt að á Íslandi er rekinn einhver hagkvæmasti sjávarútvegur í heimi.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson nefndi það áðan að sjálfstæðismenn berðust fyrir markaðsvæddu sjávarútvegskerfi eða sjávarútvegsstefnu, það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni, vegna þess að við höfum um tvær leiðir að velja í sjávarútvegskerfi okkar, félagslegt kerfi og markaðslegt kerfi. Segja má að Evrópusambandið reki félagslegt kerfi þar sem skattfé borgaranna er notað til að niðurgreiða fjölda starfa og fjölda skipa svo nemur hundruðum milljarða á ári og á meðan rekum við kerfi sem er markaðsvætt og skilar miklum arði til þjóðarbúsins, um það snýst þetta í grundvallaratriðum og það var kvótakerfið sem varð til þess að við fórum að sjá breytingar í hagkvæmnisátt í sjávarútvegi. Útgerðarmenn á þeim tíma stóðu gegn þessu og voru hundóánægðir með að fá yfir sig þetta kvótakerfi. Af hverju? Það var verið að rýra möguleika þeirra á því að vinna. Það var verið að takmarka atvinnu þeirra og atvinnufrelsi en það var gert af illri nauðsyn. Það var gert vegna þess að við vorum að ofsækja fiskimiðin og þetta gat ekki gengið svona til frambúðar. Framsalið sem var sett á í tíð vinstri flokkanna hefur síðan verið ákveðinn ásteytingarsteinn í þessu kerfi og vinstri flokkarnir vilja helst ekki kannast við að hafa komið þessu kerfi á, sem þó er af fræðimönnum okkar og Hagfræðistofnun Háskóla Íslands talið einn af hornsteinum hagkvæmni kerfisins.

Það er allt of seint núna að reyna að breyta þeirri ákvörðun sem var tekin upp úr 1990 vegna þess að þeir sem hafa unnið í kerfinu frá þeim tíma hafa fylgt þeim leikreglum sem vinstri flokkarnir settu og vilja svo ekki kannast við. Það er talað um að arðurinn í sjávarútvegi sé mikilvægastur og hann verði að liggja hjá þjóðinni. Ég skil aldrei þessa nálgun. Hvar getur arðsemi í sjávarútvegi legið frekar hjá þjóðinni heldur en í arðsömum sjávarútvegsfyrirtækjum, í arðsömum veiðum og vinnslu sem skilar þjóðarbúinu sem mestum útflutningstekjum? Eru þingmenn meirihlutaflokkanna á þingi sannfærðir um að almennt séð sé allt of mikill hagnaður í þessari grein? Er það málið? Eru þau fjölmörgu fjölskyldufyrirtæki og einstaklingsfyrirtæki úti um allt land, sem eru í meðalstórum og litlum útgerðum, að bera allt of mikið úr býtum fyrir langan og erfiðan vinnudag og harða sjósókn? Ég held ekki. Ég held að fólk sé að fá eðlilegan arð af vinnu sinni, af framlagi sínu. Þá er þetta alltaf spurning um þær sanngjörnu leikreglur sem þessir þingflokkar settu á sínum tíma.

Hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir nefnir það til sögunnar að nýlega hafi fyrirtæki í kjördæmi hennar verið selt og eigandinn hlaupið burtu með þrjá milljarða og skapað mikið atvinnuleysi og óvissu í framhaldinu. Þrír fjórðu hlutar af þeim kvóta sem það fyrirtæki seldi urðu eftir í kjördæminu. (Gripið fram í.) Það er víst rétt, hv. þingmaður. (Gripið fram í.) Urðu eftir, ekki á Flateyri nei, en í kjördæminu, á Vestfjörðum og með þeim hugmyndum sem þessi ríkisstjórn og þessir stjórnarflokkar hafa um breytingar á sjávarútvegskerfinu er verið að setja í uppnám það fólk sem keypti þann kvóta til að halda honum í byggðarlaginu, fólk sem spilaði eftir leikreglum sem þessir sömu flokkar settu og treysti því að það gæti fengið vinnufrið og byggt áfram upp fyrirtækjarekstur sinn og staðið við skuldbindingar sínar. Það er verið að setja allt þetta fólk í uppnám. Sú ósátt sem ríkir í samfélaginu er að mínu viti að mörgu leyti vegna þess að víða er takmarkaður skilningur á því út á hvað þetta gengur, því miður. Það er auðvitað okkar þingmanna að reyna að koma þessum rétta skilningi á. Það er auðvitað okkar verk líka að reyna að leita sátta og þess vegna var þessi nefnd skipuð til að fara ofan í breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu og um það skapaðist víðtæk sátt og allir hagsmunaaðilar og allir flokkar á þingi eiga aðild að þeirri nefnd.

Flestir þessara aðila hafa hvatt hæstv. sjávarútvegsráðherra til að hverfa frá þeim hugmyndum sem hann leggur fram með þessu frumvarpi og beðið um að þessari nefnd sé gefinn friður til að vinna. Ég skil ekki af hverju það er ekki leið sem við getum farið. Ég er ánægður með að heyra það hjá hv. þm. Birni Val Gíslasyni og hv. þm. Atla Gíslasyni að skilningur á ákveðnum ágreiningsmálum í þessu frumvarpi er að vaxa, að það þurfi að leiðrétta og menn eru farnir að tala um það að við þurfum að setjast niður á milli 2. og 3. umr. og reyna að ná sáttum um ágreiningsmál eins og skötuselinn og karfann. Það er vel en ég held að við ættum að ná sátt um að leggja þetta til hliðar vegna þess að ég sé ekki af hverju okkur liggur svo mikið á, hvað það er í þessu frumvarpi sem liggur svo mikið á. Við getum þá kannski haft sem b-leið að taka stærri ágreiningsmálin út fyrir sviga og keyra í gegn aðrar breytingar í þessu frumvarpi sem við getum náð sátt um og er kannski ekki eins mikill ágreiningur um á milli hagsmunaaðila og annarra sem að málum koma.

Ég vil taka undir með hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur um að það verði að stíga varlega til jarðar en ekki er verið að stíga varlega til jarðar þegar svo mikill ágreiningur er um eitt mál. Það er ekki verið að því. Það er ekki verið að leita sátta. Í þessari umræðu hefur oft verið reynt að draga það til að samtök stærri útgerða, LÍÚ, sé einhver grýla og reynt er að svelta mál í umræðunni með því að draga það að sægreifarnir, sem sumir nefna það fólk sem er með stærri útgerðir landsins, stýri allri umræðu og séu stærsti hagsmunaaðilinn. Það má vel vera að þeir séu það í tonnum en miklu fleiri hafa hagsmuni af þessu í öllum meðalstóru og litlu útgerðunum. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir okkur að raska ekki ró þeirra við þær erfiðu aðstæður sem eru í samfélagi okkar í dag. Við þurfum á því að halda að sjávarútvegurinn verði áfram öflugur vettvangur og öflunaraðili fyrir þetta samfélag. Ég dáist að kjark sjávarútvegsráðherra þegar hann fer í skötuselshækkunina. Hún er bara allt of mikil. Ég vil hvetja hann til að skoða þá sömu aðferð gagnvart öðrum tegundum til að leysa þau mál sem eru að skapast í verstöðvum landsins.



[16:26]
Frsm. meiri hluta sjútv.- og landbn. (Ólína Þorvarðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég sé ekki ástæðu til að endurtaka margt af því sem ég hef sagt í dag. Við mörgu af því sem fram kom í máli þingmannsins hef ég brugðist í öðrum andmælum en hvað varðar fiskveiðiheimildirnar sem hurfu frá Flateyri við brotthvarf útvegsmannsins þar þá er það ekki rétt sem fram kom í máli þingmannsins að þrír fjórðu hlutar þeirra hefðu orðið eftir á svæðinu. Í fyrsta lagi var nánast ekki neitt eftir á Flateyri, heimildirnar bara hurfu. Flateyringar vinna núna keyptan fisk að mestu leyti og heimaaðilar fréttu svo seint af þessari fyrirhuguðu sölu að þeir gátu mjög seint brugðist við og náðu að ég held um helmingi veiðiheimildanna á víð og dreif um svæðið. Það voru um 1.500 tonn.

Þessu vildi ég koma á framfæri svo að það standi ekki skekkja eftir í málflutningnum.



[16:27]
Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hártogast við hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur um það hvort 50% eða 75% urðu eftir á svæðinu. Stór hluti aflaheimildanna varð eftir á svæðinu og það er meginatriðið. Ég vil nefna í þessu sambandi að landanir á Flateyri hafa aldrei verið fleiri en eftir þetta, á árunum 2007–2008. Það segir sína sögu.

Meginatriðið er það að uppnám er hjá öllum þeim sem léku eftir leikreglum þessara flokka, eftir þeim leikreglum sem þessir flokkar settu þegar þeir komu framsalinu á. Það er uppnám hjá öllu því unga fólki sem tók ákvörðun um að hefja sig inn í sjávarútveg, leggja allt sitt undir og fara að vinna í sjávarútvegi, kaupa sér kvóta, leigja sér með, byggja upp sínar útgerðir, skuldbinda sig mjög og nú á að rífa af þeim þennan kvóta. Það er að byrja núna í skötuselnum, samkvæmt þessu frumvarpi verða 500 tonn tekin af þeim sem hafa keypt kvóta og það er forsmekkurinn að því sem koma skal og ég vitna ekki í ómerkari manneskju en hæstv. forsætisráðherra í þeim efnum því hún segir algerlega klárt að fyrningarleiðin komist í gildi á næsta fiskveiðiári sem er í haust. Það er það sem er að setja þetta allt í uppnám og þess vegna er svo mikilvægt fyrir okkur að huga frekar að því núna að auka aflaheimildir í einhverjum mæli, eins og við getum gert, í okkar helstu nytjastofnum þannig að þessar útgerðir geti aflað meiri verðmæta fyrir samfélagið og þeim verði gert kleift að standa við skuldbindingar sínar og ekki sé verið að raska ró þeirra við þessar erfiðu aðstæður.



[16:30]
Frsm. meiri hluta sjútv.- og landbn. (Ólína Þorvarðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ástæða þess að u.þ.b. helmingur þeirra aflaheimilda sem hvarf frá Flateyri komst í not annars staðar á svæðinu var sú að farið var í sértækar björgunaraðgerðir til að bjarga þessu byggðarlagi sem var skilið eftir í sárum. Þetta voru og eru leikreglurnar. Það er ein stærsta meinsemd kvótakerfisins að menn geta selt, farið út úr kerfinu og skilið byggðarlög sín eftir blæðandi í sárum eins og gerðist þarna.

Hv. þingmaður talar mikið um „sægreifa“ og „kvótakónga“ og ég vek athygli á því þingtíðinda vegna að það eru hans eigin orð. Þau orð hafa ekki verið notuð í ræðum stjórnarþingmanna í þessari umræðu.



[16:31]
Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú vill þingmaðurinn ekki kannast við þau orð sem oft eru notuð af þessum flokkum um stórútgerðarmenn í landinu.

Almennt séð ganga fyrirtæki kaupum og sölum. Ég dreg ekki fjöður yfir að það var mikið áfall þegar þetta útgerðarfyrirtæki seldi rekstur sinn á Flateyri og kvótinn dreifðist víðar. En hann hefði þá átt að verða til þess að efla atvinnu annars staðar. Þessi kvóti sem gengur kaupum og sölum fer ekkert. (ÓÞ: Hann fór frá Flateyri.) Hann fór frá Flateyri, já, og hann var keyptur af einhverjum öðrum, hvort sem þeir voru í Bolungarvík eða á Siglufirði eða í Neskaupstað. Hann fór þá til vinnslu annars staðar. Hann skapaði atvinnu annars staðar. Þannig er þetta eða vill þingmaðurinn að við höfum kvótalágmark á hverjum einasta stað? Verður ekki hagkvæmnin að ráða í þessum rekstri eins og öðrum? (ÓÞ: Frjálshyggjan.) Já, það er mikil einföldun, virðulegi forseti, þegar þingmaðurinn kallar fram í frjálshyggjan. Ég fæ enga skynsemi í slíkan málflutning. Þetta hefur ekkert með frjálshyggju að gera. Þetta hefur með það að gera hvort við ætlum að stunda sjávarútveg byggðan á félagslegum eða markaðslegum gildum, um það snýst þetta. Við förum ekki báðar leiðirnar. Það er ekki hægt, virðulegi forseti. Sú leið er ófær.

Önnur leiðin kallar á að skattborgararnir verði að dæla fé í reksturinn, hann verður óhagkvæmur en hann sér um að viðhalda byggðunum. Það er mikill rangflutningur eins og kom fram hjá hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur fyrr í umræðunni að atvinnutækifæri (Forseti hringir.) hefðu tapast í sjávarútvegi út af kvótakerfinu. Það hefur bara ekkert haft með það að gera (Forseti hringir.) og fór annar þingmaður vel yfir það í umræðunni fyrr í dag.



[16:33]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum sjávarútvegsmál og þrátt fyrir að hér sé verið að ræða afmarkaðan þátt þeirra liggja samt undir hugmyndir stjórnarflokkanna um svokallaða fyrningarleið. Hún er eitt af því sem hefur fengið litla umræðu í þjóðfélaginu, alveg eins og skattamálin og skattbreytingarnar þegar ríkisstjórnarflokkarnir fóru í þá vegferð að eyðileggja skattkerfið eins og við þekkjum það. Þetta er nokkuð sem stjórnarflokkarnir verja með þeim orðum að þeir hafi fengið lýðræðislegt umboð við síðustu alþingiskosningar til að gera þetta. Þær kosningar voru ekki við kjöraðstæður og ég held að þegar upp verður staðið muni menn telja það afskaplega mikil mistök að hafa farið þá leið. Við fórum sömu leið og frændur vorir Finnar sem var búið að vara okkur alveg sérstaklega við. Ég held í rauninni að þetta mál sem hér er rætt sé skilgetið afkvæmi þess að við fórum óskynsamlega leið. Við sitjum hér nú með duglitla ríkisstjórn. Í stað þess að takast á við raunverulegan vanda þjóðfélagsins, ræða það sem skiptir máli og taka á því sem þarf að taka á er hún að koma ýmsum pólitískum dægurmálum í gegn sem núverandi stjórnarliðar hafa kannski rætt á fundum sínum í gegnum tíðina en sem svo sannarlega hefur ekki verið mikil umræða um í þjóðfélaginu. Svo sannarlega hefur verið umræða um sjávarútvegsmál á undanförnum árum og áratugum en það hefur ekki verið farið djúpt í umræðuna um hvað eigi að koma í staðinn ef menn ætla að kollsteypa núverandi fiskveiðistjórnarkerfi. Svo sannarlega eru menn ekki búnir að ræða þessa fyrningarleið og afleiðingar hennar eins og nauðsynlegt er vegna þess að hér er um að ræða gríðarlega mikla breytingu á því fyrirkomulagi sem er til staðar núna og mun hafa mjög alvarlegar afleiðingar.

Ég var svo lánsamur, virðulegi forseti, að vera um daginn á fundi í Vestmannaeyjum. Á honum voru 500–600 manns. Það er sambærilegt og að 16.000 Reykvíkingar hefðu fundað hér út af einu máli. Til fundarins boðuðu sjómenn, bæjarfélagið og útgerðarmenn og þangað kom fjölbreyttur hópur fólks, fjölbreyttur hópur bæjarbúa með það að markmiði að verja Vestmannaeyjar. Vestmannaeyjar eru blómlegt og gott bæjarfélag sem hefur byggt og mun á næstu árum og áratugum fyrst og fremst byggja afkomu sína á sjávarútvegi. Það er algjörlega skýrt að áherslur ríkisstjórnarinnar eru hrein og klár atlaga að bæjarfélagi eins og Vestmannaeyjum. Það kemur illa við okkur Reykvíkinga og illa við alla landsmenn, en sannarlega er þetta hrein og klár atlaga að sjávarbyggðum eins og Vestmannaeyjum.

Menn gleyma kannski þegar þeir ræða þetta að aflamarkskerfið er fyrir þjóðina, ástæðan fyrir því að menn enduðu á aflamarkskerfinu er sú að menn voru búnir að reyna mjög margt annað sem gekk afskaplega illa. Það er mjög mikilvægt að menn rifji það upp. Af hverju segi ég að þetta sé fyrir þjóðina? Þetta þýðir 200 milljarða kr. útflutningstekjur. Munurinn á okkur og mörgum öðrum þjóðum felst í því að útgerðirnar sjálfar sjá um hagræðinguna en t.d. Evrópusambandið, svo við tökum eitt dæmi, og flestar þær þjóðir sem við berum okkur saman við gera það í gegnum ríkissjóð. Við vorum svo sannarlega í því áður. Það var okkur að vísu alveg gríðarlega dýrt á sínum tíma og við sem erum búin að fylgjast með stjórnmálum í langa tíð — ég var ekki kominn á þing þegar þetta var rætt, ætli það séu ekki bara hæstv. forsætisráðherra og kannski hæstv. fjármálaráðherra og hv. þm. Árni Johnsen sem tóku umræðuna þegar menn voru með Úreldingarsjóð og alla hina sjóðina. Síðan hefur hagræðingin orðið í gegnum sjávarútveginn sjálfan. Stór hluti og örugglega stærsti hluti af skuldsetningu sjávarútvegsins felst í því að menn eru að hagræða innan greinarinnar. Það er m.a. verið að kaupa menn út eins og það er stundum kallað en sömuleiðis eru menn að bæta þau tæki og tól sem nauðsynleg eru við veiðarnar. Ég efast um að margar þjóðir eigi jafnglæsilegan flota og aðbúnað til að standa að sjávarútvegi.

Það sem hefur gerst á Íslandi á undanförnum áratugum er að nú hefur rekstrarleg ábyrgð verið ágætlega tryggð. Við erum með 5000–6000 sjómenn með góða afkomu. Það er stöðugleiki í fiskvinnslu. Við munum þá umræðu þegar fiskvinnslufólk var með mjög óstöðuga vinnu, það er ekki lengur til staðar. Tæknivæðing er mikil, þetta eru öflug fyrirtæki, gæði í fyrirrúmi og mjög sterk markaðsstaða.

Ástandið fól áður í sér ófyrirsjáanlegar sveiflur í veiðum sem voru undirrót óstöðugleika í efnahagslífinu og verðbólgu. Allir landsmenn fundu fyrir því þegar breytingar og sveiflur urðu í veiðum. Mettap var af útgerðinni jafnvel þó að það væri metveiði. Fólk er fljótt að gleyma þessu. Það var metveiði en samt sem áður mettap. Afkoma í sjávarútvegi var sífellt áhyggjuefni stjórnvalda og endalaust var gripið til nýrra ráðstafana vegna skulda og yfirvofandi rekstrarstöðvunar. Þrátt fyrir að við værum ekki með þetta kerfi sem við erum með núna var sjávarútvegurinn sannarlega skuldsettur þá. Það hafði t.d. áhrif á bankana sem voru þá ríkisbankar.

Menn tala um frjálsan aðgang. Að hverju var þessi frjálsi aðgangur og hver græddi á því fyrirkomulagi? Hver var betur settur? Þjóðin? Nei. Ekki með nokkrum hætti er hægt að halda því fram að þjóðin hafi verið betur sett fyrir aflamarkskerfið. Það er algjörlega útilokað að halda því fram. Væri einhver betur settur núna ef tvöfalt fleiri ynnu að því að búa til sömu verðmæti í sjávarútvegi? Væri einhver betur settur ef þeir sem þurfa að hætta rekstri í sjávarútvegi neyddust í gjaldþrot vegna banns við kvótasölu? Hver græðir á því? Þjóðin? Nei. Hver græðir á því ef fyrirgreiðslupólitík verður í fyrirrúmi sem óhjákvæmilega mun gerast ef menn fara í fyrra horf? Hver mundi hagnast á því, virðulegi forseti, ef endalausar pólitískar deilur væru um einstök fyrirtæki og byggðarlög eins og var áður? Ég held að það sé mikið atriði að stjórnarliðar svari því. Um það snýst málið.

Ég vek athygli á því að í stjórnarsáttmálanum segir að það eigi að innkalla aflaheimildir og endurráðstafa þeim á næstu 20 árum. Þetta á að taka gildi 1. september á þessu ári. Það á að stofna auðlindasjóð sem fer með ráðstöfun innkallaðra veiðiréttinda í eigu þjóðarinnar eins og það er kallað. Veiðiheimildir skulu ákvarðast af nýtingarstefnu og aflareglu. Það segir í stjórnarsáttmálanum.

Samkvæmt stöðugleikasáttmálanum frá 25. júní 2009 var skipuð sáttanefnd og það var áréttað í honum að málin yrðu í sáttafarvegi. Það var ítrekað í yfirlýsingu 28. október að engin breyting væri á sáttafarvegi og sérstök áhersla lögð á mikilvægi góðra rekstrarskilyrða í sjávarútvegi. Blekið var varla þornað, virðulegi forseti, þegar ráðherra lagði fram frumvarp um veigamiklar breytingar í sjávarútvegi og það stjórnarfrumvarp var samþykkt í ríkisstjórnarþingflokkunum. Þær breytingar eru ekki til bóta en þar er alvarlegast skötuselsmálið sem við erum að ræða hér. Þar og hér er talað um, virðulegi forseti, að nýr heildarkvóti verði 80% umfram ráðgjöf Hafrós.

Virðulegi forseti. Það er ástæða fyrir því að þessi stjórn er kölluð öfugmælastjórnin. Í stjórnarsáttmálanum er sérstaklega talað um að veiðiheimildirnar skuli ákvarðast af nýtingarstefnu og aflareglu. Þessir flokkar eru búnir að starfa saman núna í eitt ár en stjórnarsáttmálinn er mun yngri. Þetta mundi heita einhvers staðar að menn væru að fara þvert gegn umhverfissjónarmiðum. Það er kannski allt í lagi, skötuselurinn er kannski ekki fallegur fiskur og bara sjálfsagt að hreinsa hann upp en þetta er ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að fiska stofninn niður. Þetta er ákvörðun um að fara þvert á nýtingarstefnu og aflaregluna og það er mjög sérkennileg umhverfisstefna.

Það á að selja þetta í 5 tonna hlutum og 120 kr. kílóið. Hver getur gert út á beinar skötuselsveiðar með því að borga 120 kr. á kíló fyrir kvótann?

Virðulegi forseti. Þetta mun koma beint niður á sjómönnum.

Það sem er búið að gerast er að frumvarpinu var mótmælt og mælst til þess að málið færi í sáttanefndina. Hver voru viðbrögðin, virðulegi forseti? Því var hafnað. Það er búið að rífa þetta mál út úr nefnd eins og við þekkjum og senda það núna til 2. umr. Enn er mælst til þess að sáttanefnd fái málið. Hvað ætlar samráðsstjórnin að gera, samráðsstjórnin sem skrifaði undir það að vera með sérstaka sáttanefnd til að ræða þessi mál? Hún segir nei. Öfugmælastjórnin segir nei.

Það sem gerist, virðulegi forseti, er einfaldlega það að menn ráðast sérstaklega að sjávarbyggðunum og menn ráðast að sjómönnum og þjóðinni. Til dæmis hefur verið upplýst í viðskiptanefnd svo því sé alveg til haga haldið, og það kom fram opinberlega ef ég man rétt, að núverandi bankastjóri Landsbankans hafi bent á að bankinn mundi aldrei þola það ef fyrningarleiðin yrði farin. Nú finnst kannski öfugmælastjórninni að við höfum sett svo litla fjármuni í ríkisbankann — ef ég man rétt voru það 126 milljarðar kr. — að það sé allt í lagi að setja eitthvað meira, það sé eitthvað aflögu einhvers staðar. Það má vera en það er svo sannarlega ekki sjónarmið þeirra sem taka á þessu af ábyrgð.

Í ofanálag er sett útflutningsálag og með því fara menn áratugi aftur í tímann. Upphaflega var það sett til að ná jafnræði milli siglingaskipa og annarra. Niðurfellingu á því var teflt saman við tollalækkanir á sjávarvörum til Evrópusambandsins. Á þessum fundi í Vestmannaeyjum sem ég byrjaði að tala um hélt margt gott fólk góðar ræður, m.a. fulltrúi sjómanna og bæjarstjórinn sem þarf að gæta hagsmuna Vestmannaeyinga. Ég ætla að lesa örstutt úr ræðu bæjarstjórans, Elliða Vignissonar, með leyfi forseta:

„Íbúar í Vestmannaeyjum, og ég þar á meðal, eru hreinlega óttaslegnir. Í þetta skipti koma náttúruöflin ekki við sögu, heldur verk mannanna. Ég veit að ég þarf ekki að útskýra þetta mál fyrir ykkur sem hér eruð. Þið þekkið sjávarútveginn, skiljið gangverk hans og eruð mörg hver sjálf hluti af því. Því miður er það hins vegar svo að ýmsir þeir sem miklu valda um örlög þessarar höfuðatvinnugreinar vita ekki ýkja mikið um hana og forsendur atvinnuvegarins yfirleitt og láta sig litlu varða varnaðarorð vegna óhjákvæmilegra afleiðinga ákvarðana sinna og gerða. Hin svokallaða fyrningarleið flokkast ekki lengur undir pólitískar vangaveltur og kaffihúsaspeki, heldur er yfirlýst stefna ríkisstjórnar og felur það í sér að 5% af aflaheimildum verða leyst til ríkisins og þeim deilt síðan aftur út „á sanngjarnari máta“. Hver sú sanngirni er veit ég ekki.“

Síðan spyr bæjarstjóri: „Er það sanngjarnt að breyta smávægilega „reglugerð um skötuselskvóta“ innan veggja ráðuneytisins án þess að löggjafarsamkoman hafi fjallað um málið með þeim afleiðingum að fyrirtækin í Vestmannaeyjum eru svipt 400 milljónum króna, rétt um 100.000 krónum á hvern einasta íbúa?“

Hér er þingmaður kjördæmisins, þingmaður Vestmannaeyinga, hv. þm. Atli Gíslason, og svarar kannski þessari spurningu.

Aftur spyr bæjarstjóri: „Er það sanngjarnt gagnvart sjómönnum í Vestmannaeyjum að skerða með þessu tekjur þeirra um 140 milljónir króna? Er það sanngjarnt að skella 5% álagi á útflutning á ferskum fiski og skemma með því arðbæra markaði sem fyrst og fremst við Eyjamenn höfum byggt upp? Sú ákvörðun ein og sér kostar samfélagið hér um 200 milljónir króna og skerðir tekjur sjómanna um nálægt 70 milljónir króna. Er þetta sanngirnin sem fylgjendur þessara gjörninga klifa á?“

Virðulegi forseti. Þetta er nokkuð sem stjórnarliðar þurfa að svara því að á bak við þetta mál sem hefur ekki farið hátt — það fer ekki hátt í fjölmiðlum núna frekar en mörg önnur stór mál — er fólk. Það liggur alveg fyrir og er auðvelt að reikna út hvaða afleiðingar þetta hefur. Það er ekkert skrýtið að 500–600 manns mæti á baráttufund í Vestmannaeyjum til að reyna að koma í veg fyrir þessa atlögu að þeim útvegsbæ. Þetta er atlaga að Vestmannaeyingum. Vestmannaeyjar eru einn af útvegsbæjunum á Íslandi. Reykjavík er annar, en við höfum hins vegar hér fleiri stoðir undir atvinnulífinu en eru þar.

Það skal engan undra að þessi ríkisstjórn sé kölluð öfugmælastjórnin vegna þess að henni virðist algjörlega fyrirmunað að fara eftir því sem hún sjálf segir. Það er í rauninni rannsóknarefni að hlusta á hæstv. ráðherra og hv. þingmenn stjórnarliðsins tala þegar svo ber undir um samráð og samvinnu og svíkja síðan allt sem þeir geta þegar að slíku kemur.

Ég rakti áðan að sérstaklega hefði verið samið um það í stöðugleikasáttmálanum að hafa sáttanefnd. Þegar menn voru búnir að skrifa undir ítrekun á þessu ákvæði, af ástæðu, 28. október, blekið varla þornað, kom ríkisstjórnin fram með þetta mál og neitar að fara með það í sáttanefnd. Það er hvað eftir annað búið að fara fram á það og ég held að hv. þingmenn þurfi að útskýra fyrir fólkinu í landinu, sérstaklega því sem hefur beina aðkomu að þessu, eins og íbúum útgerðarbæja, af hverju þeir skrökvuðu að þjóðinni. Af hverju skrökvuðu ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn að þjóðinni? Af hverju sögðu þeir 28. október ekki orð um þetta, skrifuðu þvert á móti að þeir ætluðu að hafa samráð um þetta í sérstakri sáttanefnd? Síðan hafa þeir ákveðið að ganga á bak þeirra orða.

Það er ein af þessum fjölmörgu spurningum sem verður að svara og ég vonast til þess að stjórnarliðar og hæstv. ráðherra muni gera það.



[16:53]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna en það gætir býsna mikils misskilnings í orðum hv. þingmanns þegar hann heldur því fram að hér eigi að setja frá aflamarkskerfið og hverfa eigi aftur til fyrra horfs sem verið hafi fyrir aflamarkskerfið. Ég vil hvetja hv. þingmann til að lesa það frumvarp sem við höfum verið að fjalla um í hv. landbúnaðar- og sjávarútvegsnefnd áður en hann lætur slík ummæli falla í umræðunni. Það er auðvitað alls ekki á dagskránni. Það er einfaldlega verið að fjalla um kvótaúthlutun í tiltekinni tegund og þar er gert ráð fyrir að þeir sem hafa haft aflaheimildir þar haldi þeim að mestu leyti og stjórnarmeirihlutinn er út af fyrir sig tilbúinn til að láta þá halda þeim að öllu leyti, þ.e. í kílóum og tonnum talið, en það sem veitt verði umfram verði leigt út og leigt á 120 kr. Ég heyri að hv. þingmaður segir að þar sé höggvið nærri sjómönnum og menn muni eiga erfitt með að greiða 120 kr. í leigu fyrir það. Þá hlýtur maður að spyrja hv. þingmann hvernig á því standi að hægt sé í dag að greiða 320 kr. í markaðsleigu fyrir þessar aflaheimildir. Og enn fremur hefur komið fram við umræðuna að 70–80% af öllum aflaheimildum í umræddri tegund eru leigðar en ekki veiddar af þeim sem hafa þær. Allur þorri þess afla sem á land kemur er því leigður á verði af þessu tagi.

Hvernig rökstyður hv. þingmaður það að þeir sem í dag greiða 320 kr. fyrir hvert kíló sem þeir draga muni ekki geta greitt í ríkissjóð 120 kr. fyrir væntanlega jafnverðmæt kíló þegar þessi lög hafa tekið gildi?



[16:55]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst út af þessum 120 kr., menn þurfa væntanlega að greiða meira en það að því gefnu að þeir missi kvótann því að það er fjárhagslegur skaði líka. Þeir hafa væntanlega lagt út fyrir honum eða öðrum sambærilegum á einhverjum tímapunkti.

Varðandi aflamarkskerfið, þegar menn tala almennt um fiskveiðistjórnarkerfið, þá held ég að almenn málvenja hafi verið sú að menn hafi gert ráð fyrir því fyrirkomulagi eins og það er núna. Þá er ég að vísa í frjálsa framsalið sem vinstri stjórnin setti á á sínum tíma og er að vísa í það fyrirkomulag sem við erum með núna og erum að breyta. Ég er hins vegar ekki að fara af því þegar menn tala um breytingar — ég leyfði mér að tala almennt um sjávarútvegsstefnu ríkisstjórnarinnar og vísaði líka í útflutningsálagið, ég hefði að vísu getað vísað í strandveiðarnar sömuleiðis en ég gerði það ekki í þessari ræðu — að ég vissi ekki að deilur væru um það að við værum að breyta frá því fyrirkomulagi sem er núna. Væntanlega væri þetta mál ekki flutt ef menn ætluðu að hafa þetta eins og áður.

Varðandi leiguna almennt get ég alveg sagt það, svo því sé til haga haldið, að við höfum ekki náð fullkomnun í þessu fiskveiðistjórnarkerfi. Einn gallinn að mínu áliti er að við erum með of lága veiðiskyldu. Mér hefur fundist að það sem snýr að leigunni, ég átta mig á því að ákveðin rök eru fyrir jafnmikilli leigu og um er að ræða en mér finnst þau ekki vera nógu sterk. Ég get ekki séð annað en að það komi niður á einhverjum þegar menn segja að leiguverð sé hátt, það kemur niður á sjómönnum með einum eða öðrum hætti. Ég hefði talið eðlilegra að við færum þá leið að hækka veiðiskylduna og koma í veg fyrir þann agnúa sem hv. þingmaður var að vísa í. En við skulum ekki, þó að við þurfum að gera að sári á fæti, taka fótinn af. Ég held að það sé ekki góð leið.



[16:58]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er enginn að tala um að taka fótinn af en það eru greinilega uppi mjög skiptar skoðanir um mörg atriði í þessu í þingflokki Sjálfstæðisflokksins. Það hefur komið fram við umræðuna að einn þingmanna flokksins talar fyrir því að aflaheimildir verði fyrndar um 4% á ári, sem er nokkuð nærri því sem ríkisstjórnin hefur lagt til, þ.e. um 5%. Hér tala sumir þingmenn flokksins með veiðiskyldu, eins og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, en aðrir gegn henni, eins og hv. þm. Illugi Gunnarsson, og kannski dálítið erfitt að átta sig á heildarmyndinni í þessu. En þegar hv. þingmaður segir: Kemur niður á sjómönnum, kemur niður á greininni, þá skulum við spyrja okkur: Hvað er það sem hefur komið niður á greininni? Það er auðvitað braskvæðingin í henni. Það er sú gríðarlega skuldsetning sem ekki var vegna hagræðingar fyrst og fremst, eins og hv. þingmaður gefur í skyn, heldur vegna þess að menn voru að taka gríðarlega fjármuni út úr greininni og skuldsetja greinina alveg upp í rjáfur til að kaupa hlutabréf í Landsbankanum sem urðu verðlaus, eða einhverjar aðrar fjárfestingar. Greinin situr uppi með þá gríðarlegu skuldsetningu og það dregur auðvitað úr þeim arði sem hún getur skilað, bæði sjómönnum og eigendum.

Leiðangur ríkisstjórnarinnar er fyrst og fremst sá að skapa til lengri tíma sátt um eignarhaldið í greininni vegna þess að það hefur aldrei verið nein sátt um það að menn misstu eignarhaldið úr höndum þjóðarinnar og einkavæddu auðlindina sem við öll eigum. Það þarf að leiðrétta en það þarf að gera það með þeim hætti að um það takist sem víðtækust sátt og til þess hefur sáttanefndin svokallaða verið sett upp en hún varnar ekki því að það megi setja lög á Alþingi um ráðstöfun á 1–2 þúsundum tonna af skötusel. Ég held að það nái engu lagi.



[17:00]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta voru afskaplega áhugaverð lokaorð hjá hv. þingmanni. Sett var sérstök sáttanefnd til að ná sátt en það stoppar ekki það að menn munu keyra mál í gegn þó að mikið ósætti sé um þau. Ég verð að viðurkenna að þetta er einhver speki sem er mjög erfitt, held ég, fyrir flesta að átta sig á. Það er spurning hvað sáttanefndin á að ræða um ef það er ekki nákvæmlega það sem ósættið er um. Það væri ágætt að fá skýringar á því hvað það er nákvæmlega.

Varðandi skuldsetningu er það þannig, virðulegi forseti, að ef við værum bara að tala um skuldsetningu í sjávarútvegi væri leikur einn fyrir okkur að taka á þessu. Ég er að reyna að komast til botns í því hvað er að gerast í bönkunum í gegnum viðskiptanefnd. Það er augljóst, eins og allir vita, að 70% af íslenskum fyrirtækjum, virðulegi forseti, þurfa á einhvers konar fyrirgreiðslu eða aðstoð að halda í tengslum við skuldamál sín. Það að koma og pikka út sjávarútveginn og ætla að ganga á milli bols og höfuðs á honum út af skuldsetningu, þá vitum við hvað er næst. Þá hljóta menn að ganga í allar aðrar atvinnugreinar. Ef rökin eru þau að menn hafi notað viðkomandi fyrirtæki til að fjárfesta í óskyldum atvinnurekstri, sem svo sannarlega hefur gerst í einhverjum mæli í sjávarútvegi, þá á það ekki bara við umrædda grein. Þá væri vandinn ekki eins og hann er í dag. Ég hélt að þetta væri eitthvað sem allir vissu.

Sátt um eignarhaldið, það verður aldrei sátt um það að sjávarútvegurinn standi ekki undir sér og það mun koma beint niður á okkur. Það verður ekki sátt um það við þessar erfiðu aðstæður að teknar séu þær atvinnugreinar sem skila hvað mestum gjaldeyristekjum þegar við þurfum hvað mest á þeim að halda og reyna að ganga til bols og höfuðs á þeim og ekki getur verið sátt um það að nýta ekki sáttanefndir.



[17:02]
Frsm. minni hluta sjútv.- og landbn. (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Umræða um þetta mál hefur staðið alllengi. Hún hófst á þriðjudaginn og hefur staðið nokkurn veginn í allan dag og er það mjög að vonum. Þegar við tökum fyrir málefni sjávarútvegsins, ekki síst við þessar aðstæður, er eðlilegt að umræður séu allítarlegar. Það hefur komið glögglega í ljós t.d. að þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa mikinn og einlægan áhuga á því að ræða málefni sjávarútvegsins einfaldlega vegna þess að við gerum okkur grein fyrir hve mikið er í húfi. Það er gríðarlega mikið í húfi fyrir íslensku þjóðina að okkur takist að búa til þannig lagaumhverfi í kringum sjávarútveginn að það leiði til hagkvæmni fyrir þjóðarbúið í heild. Sem betur fer hefur það verið svo undanfarin ár og nú ríður mjög á að okkur takist að búa þannig um hnútana að sjávarútvegsumhverfið verði þannig að sjávarútvegurinn geti lagt sem mest til þjóðarbúsins í heild. Af hverju segi ég það? Það gefur augaleið, miklar atvinnugreinar hafa hrunið og það hefur orðið gífurlegur verðmætabruni í samfélaginu. Því skiptir miklu máli að þær atvinnugreinar sem eru til staðar séu þannig úr garði gerðar að þær leggi sem mest til þjóðarbúsins í formi verðmætasköpunar af öllu tagi.

Hér hefur farið fram dálítið umræða um það hvort arðurinn, hagnaðurinn eða verðmætasköpunin sem átt hefur sér stað í sjávarútveginum hafi verið að renna til þjóðarinnar eða ekki. Auðvitað mætti hafa um það gríðarlega mörg orð. Ég ætla bara að vekja athygli á einu: Dettur einhverjum í hug að lífskjör á Íslandi hefðu þróast í gegnum tíðina með svo jákvæðum hætti ef sjávarútvegurinn hefði ekki verið að leggja mjög mikið til þess verks? Sjávarútvegurinn hefur verið stór hluti af þjóðarframleiðslu okkar, menn hafa talað um að hann skapi núna væntanlega um 40% af vöruútflutningnum og ef sjávarútvegurinn væri óhagkvæmur, ef hagkvæmni sjávarútvegsins væri ekki að seytlast út í þjóðfélag okkar dettur þá einhverjum í hug að lífskjörin hefðu þróast með þeim hætti sem þau hafa gert í gegnum tíðina? Þetta blasir alveg við, sjávarútvegur okkar er þvílík stærð að ef vel gengur í þeirri atvinnugrein gengur vel í samfélagi okkar. Ef illa gengur í sjávarútveginum gengur illa í samfélagi okkar.

Síðan hefur það verið svo í gegnum tíðina að gengi krónunnar hefur verið skráð með þeim hætti, m.a. á þenslutímanum, að það hefur í raun og veru verið mesti auðlindaskatturinn sem sjávarútvegurinn hefur verið að borga. Hið háa gengi hefur gert það að verkum að hér hefur orðið til óeðlilegt ástand sem menn hafa kannski notið með stundargróða í betri lífskjörum vegna lækkandi innflutningsverðlags en það hefur auðvitað verið borgað með því að sjávarútvegurinn hefur goldið fyrir þetta. Það er mjög mikilvægt að átta sig á þessu. Það er einmitt þannig að skipulagið sem við höfum búið til í kringum sjávarútveginn hefur leitt til þess að menn hafa stöðugt verið að leita að hagkvæmni vegna þess að fiskveiðirétturinn, ekki eignin, fiskveiðirétturinn hefur verið í eigu útgerðanna sem hafa þess vegna haft af því gífurlega hagsmuni að búa sem mest verðmæti til úr þeim fiskveiðiréttindum sem menn hafa. Flóknara er þetta mál ekki. Ef menn klippa á þennan þráð, ef menn taka burtu aflahlutdeildarhugsunina, ef menn hverfa frá því að menn njóti ávaxtanna ef vel gengur en þurfi hins vegar að bera byrðarnar, hverfur þessi hvati út úr greininni, þá hætta menn auðvitað að hafa þessa hvatningu til að reyna að gera vel, til að hámarka verðmætið úr því sem þeir hafa að spila.

Ég ætla að taka lítið dæmi sem snertir í rauninni það sem er að gerast í sjávarútveginum þessa dagana. Fyrir fáeinum dögum tókst svo vel til að það fannst nægileg loðna til þess að hægt væri að gefa út 130.000 tonna loðnukvóta. Einhvern tíma hefðu menn ekki talið sérstaka ástæðu til að fagna þessu því að ef menn skoða tölurnar aftur í tímann hafa menn verið að veiða upp í milljón tonn og rúmlega það af loðnu hér við land. Hins vegar hefur þróunin orðið sú að mönnum hefur tekist með gífurlegri fjárfestingu í góðum skipum, með mikilli hagræðingu í greininni, með því að samræma aflaheimildir til að draga úr sóknartengdum kostnaði, með því að fjárfesta í landvinnslunni til að geta unnið meira til manneldisvinnslu, allt þetta hefur leitt til þess að verðmætið fyrir veidda einingu hefur margfaldast. Þetta hefði ekki gerst nema vegna þess að hér hefur verið markaðsbúskapur, hér hefur verið það fyrirkomulag að fiskveiðirétturinn hefur verið vel skilgreindur, menn hafa getað treyst því til frambúðar að þeir ættu aðgang að þessum fiskveiðirétti þó að þeir gerðu sér grein fyrir því að eignarhald auðlindarinnar væri að sjálfsögðu ríkisins eða þjóðarinnar. Það er þetta sem er ævintýrið í kringum íslenskan sjávarútveg.

Ég ætla að rekja þetta aðeins. Í nýjustu Fiskifréttum er birt ákaflega athyglisverð tafla um útflutningsverðmæti loðnuafurða. Þar kemur fram, svo ég grípi þar aðeins niður í, að árið 2004 veiddum við um 500.000 tonn af loðnu, 2005 veiddum við 600.000 tonn af loðnu og aflaverðmætið hvort ár um sig var um 9,3 milljarðar kr. Árið 2008 veiddum við þriðjunginn af þessu og tæplega það, 149.000 tonn af loðnu. Aflaverðmætið var 10 milljarðar kr., var sem sagt meira en í hittiðfyrra þegar við vorum að veiða þriðjung af því sem við veiddum 2004 og 2005. Nú er hins vegar lagt fram frumvarp til að segja að þessu fólki sem svona hefur staðið að sínum málum, sem svona hefur búið til verðmætasköpun í sjávarútveginum sem auðvitað hefur gagnast þjóðfélaginu í heild, að þessu fólki sé ekki treystandi til að fara með auðlindina öðruvísi en að því sé stýrt nákvæmlega á borði hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem hefur óskað eftir því að Alþingi gefi sér heimild til að stýra þessum veiðum. Honum finnst sem sagt árangurinn vera þannig, þó að menn þrefaldi aflaverðmætið fyrir veidda einingu, að það þurfi að stýra þessu með einhverjum öðrum hætti ofan úr sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu. Þetta er auðvitað forræðishyggja af verstu tegund, þetta er afturhvarf til fortíðar, þetta er ekki líklegt til að skila þjóðinni meiri arði. Það er ótrúlega sérkennileg hugsun að til þess að koma arði af atvinnugrein til einnar þjóðar þurfi það að gerast með þeim hætti að stjórnsýslan í landinu hafi puttana ofan í rekstrarlegum ákvörðunum. Það er ekki skynsamlegt, það hefur hvergi gefist vel.

Annað atriði sem ég vil nefna í sambandi við þessi mál — vegna þess að ég er nú að reyna að bregðast við þeirri almennu umræðu sem hefur orðið á undanförnum tveimur dögum — er þessi nálgun á karfaveiðinni sem er mjög óskynsamleg. Ég fagna því að komið hefur fram skilningur af hálfu einstakra nefndarmanna í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd á því að nálgun nefndarinnar og meiri hlutans er röng. Við vöruðum við því á sínum tíma þegar þessu máli var kippt út úr nefndinni á aðventunni að málið væri vanbúið. Það er auðvitað að koma á daginn. Hér eru fjölmörg atriði, eins og þetta karfamál er glöggt dæmi um, sem segja okkur að menn höfðu ekki hugsað þetta til enda. Sú útfærsla sem hér er verið að leggja til er mjög gölluð og hún mun búa til mörg vandamál. Ég ítreka að auðvitað þarf að úthluta þessum tegundum aðskildum, það er enginn ágreiningur um það, a.m.k. ekki við mig. Ég hafði raunar frumkvæði að því að láta slíka vinnu fara fram, en þá verða menn auðvitað að ljúka verkinu og reyna að gera þetta þannig úr garði að brúklegt sé.

Þriðja atriðið sem mig langar að nefna er línuívilnunin. Ég var sjálfur baráttumaður fyrir línuívilnuninni og er einn þeirra sem kannski áttu hvað stærstan þátt í því á Alþingi að koma því fyrirkomulagi á. Þetta var umdeilt atriði þá, þetta er umdeilt atriði núna. Ég er þeirrar skoðunar að þetta hafi gefist í meginatriðum vel. Þetta styrkti veiðiréttinn í ýmsum byggðum sem á þessu þurftu að halda. Þetta hvatti til línuútgerðar, þetta varð til þess að verja störf í landi og skapa störf í landi og þetta varð til þess að efla margs konar byggðarlög sem höfðu átt undir högg að sækja. En sporin hræða frá fyrri tíð. Á sínum tíma höfðum við fyrirkomulag sem kallað var línutvöföldun. Þá gátu menn veitt fjóra mánuði á ári á línu og helmingurinn af því sem veiddist var utan við kvóta. Þetta var að mörgu leyti áhugaverð nálgun og gekk vel í nokkur ár þangað til að því kom að sóknin jókst auðvitað á þessu sviði og stjórnmálamenn þess tíma, og þar meðtalinn ég, höfðu ekki kjark eða afl til að tryggja það að aðgangurinn inn í kerfið yrði takmarkaður, því að það var auðvitað þannig að með því að sóknin jókst stöðugt sprakk þessi línutvöföldunarpottur og að lokum eyðilagðist kerfið. Ég óttast að það sem nú er verið að gera hérna, þó að í litlu sé, kunni að vera upphafið að einhverju slíku.

Auðvitað ætti ég að fagna því, ég tala ekki um komandi frá svæði sem nýtur linuívilnunar svona ríkulega eins og raun ber vitni um, ekki síst mín heimabyggð, auðvitað ætti ég kannski að fagna því út frá þeim sjónarhóli að verið sé að hækka línuívilnunarprósentuna. En ég óttast að til lengri tíma kunni að leynast í þessu miklar hættur fyrir utan það að í raun og veru er ekki verið að auka heimildirnar til línuívilnunar í þessu frumvarpi. Lögin sem taka til línuívilnunar kveða á um það að tiltekið magn í tonnum megi nýta til línuívilnunar og þá er ég að tala um þorskinn í þessu sambandi. Með því að opna fleirum leið og með því að hækka prósentuna er í raun og veru bara verið að ganga hraðar á þennan pott. Það er alveg rétt að línuívilnunarpotturinn í þorskinum hefur ekki nýst að fullu núna þegar við erum að veiða 140–160.000 tonn af þorski. Það er alveg hárrétt. Línuívilnunarpotturinn upp á 3.000 og eitthvað tonn í þorski var miðaður við meiri aflaheimildir í þorski. Þegar þær eru skornar niður nýtast þessi 3.000 tonn auðvitað ekki að fullu. En eigum við ekki að ganga út frá því að þorskaflinn eigi eftir að vaxa? Eigum við virkilega að ganga út frá því í löggjöfinni að við gerum ráð fyrir að hanga í 140–150.000 tonna ársafla í þorski von úr viti? Vitaskuld ekki. Ég trúi því ekki að nokkur maður hafi þá framtíðarsýn. Við hljótum að trúa því að okkur takist þannig til við fiskveiðistjórn okkar að hér verði vaxandi þorskveiðar og þá gerist það auðvitað að með þessari breytingu mun línuívilnunarpotturinn tæmast fyrr en varir. Þá kemur þessi þrýstingur sem við þekktum frá árum áður og grandaði á sínum tíma línutvöfölduninni, svo ágæt sem hún samt sem áður var að mörgu leyti. Það er þetta sem ég er að vara við og það er þetta sem ég óttast. Í áliti meiri hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar er vakin athygli á því að línuívilnun á sínum tíma hafi verið hugsuð til að skapa fleiri störf í landi, og það er að sönnu rétt, og þess vegna var línuívilnunin takmörkuð á sínum tíma fyrir handbeitta línu. Hér er verið að opna fyrir mjög litla og takmarkaða útgerð sem eru trektarbátar og ég hef svo sem ekki miklar áhyggjur af því máli í sjálfu sér eða vil ekki leggjast gegn því, en ég er einfaldlega að segja að með þessari hækkun — sem þó kemur örugglega til skamms tíma byggðum sem ég ann mjög til góða — óttast ég að til lengri tíma kunnum við að vera óafvitandi að grafa okkur gröf.

Skötuselurinn er skyndilega orðinn ein þekktasta fisktegund við Ísland eins og menn vita. Að mínu mati er verið að fara ranga leið í þessu frumvarpi. Það er verið að seilast um hurð til lokunar, það er verið að fara flækjuleið að því að ná því markmiði að skapa veiðirétt á svæðum þar sem menn hafa ekki haft veiðirétt í skötusel af því að útbreiðslan hefur aukist. Hægt er að nálgast þetta mál með öðrum hætti. Við í minni hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar leggjum fram breytingartillögu sem felur það í sér að opna heimild fyrir hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til þess að gefa möguleika á meðafla hjá bátum sem ekki stunda beinar skötuselsveiðar. Sú leið mundi duga til að leysa vandann hjá langflestum a.m.k. í þessu tilviki. Þess vegna segi ég: Vegna þess að hér hefur verið talað mjög mikið um nauðsyn þess að skapa frið, hér hefur verið sagt að menn vilji ekki trufla starf þeirrar endurskoðunarnefndar sem nú er að störfum, þá hlýtur að koma til álita hjá meiri hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar að fara aðrar leiðir að þessu markmiði en gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Fara frekar í það að búa til almenna meðaflareglu til að auðvelda þeim sem ekki hafa veiðirétt í skötusel til að stunda veiðar þar sem skötuselurinn kemur í veiðarfærin. Þetta, virðulegi forseti, er að mínu mati málefnalegt innlegg sem ég skora á meiri hluta hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar að bregðast við.



[17:18]
Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Örstutt varðandi þann þátt ræðu hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar sem ég vil gera að umtalsefni, það er þessi aukning í línuívilnuninni og sú staðreynd að sá pottur sem þar hefur legið fyrir hefur ekki nýst sem skyldi, en hv. þingmaður þekkir það mætavel og veit auðvitað hvernig ívilnunin hefur komið til góða, bæði á Vestfjörðum og víðar. Í ljósi þess að aflahlutdeild í þorski er takmörkuð í dag og potturinn hefur ekki nýst, spyr ég hv. þingmann: Er ekki allt í lagi að fara með ívilnunina upp og bregðast síðan við ef aflahlutdeild verður aukin síðar meir? Þannig að brugðist verði við því að ívilnunin nýtist til fulls eftir þeim tilgangi sem henni var ætlað á sínum tíma. Ég get svo sem tekið undir með hv. þingmanni að á því kerfi voru bæði kostir og gallar, en ég held að kostirnir vegi þyngra en gallarnir. Það er mitt mat á þessu, sérstaklega út frá því að veiðarnar eru vistvænar og ég hef haft þær hugmyndir að ef sett eru 100% á þau veiðarfæri sem verst fara með lífríkið eða eru ágengust við lífríkið í sjónum, þá ættu þau veiðarfæri sem eru vistvænust að fá meira, eins og menn hafa varpað fram sem hugmyndum. Ég vil líka leita eftir skoðun hv. þingmanns á því.



[17:19]
Frsm. minni hluta sjútv.- og landbn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um að auðvitað eru gallar og kostir við línuívilnunina en að mínu mati eru kostirnir yfirgnæfandi. Ég var baráttumaður fyrir því að hún yrði sett á og hef verið stoltur af því. Ég hef oft tekið á mig gagnrýni fyrir þetta en tel hins vegar að línuívilnunin hafi gert sitt gagn.

Ástæðan fyrir því að ég hef dálítinn beyg í hjarta mér vegna þeirra hugmynda að hækka ívilnunina upp í 20% er það sem ég sagði áðan. Ég óttast að það gæti til lengri tíma haft skaðvænleg áhrif á framtíð línuívilnunar og það vil ég ekki að gerist. Mér finnast sporin frá því í gamla daga hræða þegar við vorum með línutvöföldunina og af þeim ástæðum hef ég verið með varúðarorð gagnvart þessum breytingum hér.

Ég get samþykkt það með hv. þingmanni að þegar heildaraflinn er svona lítill og við erum með lögbundinn pott í línuívilnun upp á rúmlega 3.000 tonn og ekki er hægt að ná þessum 3.000 tonnum með 16% ívilnun, það er alveg hárrétt, þá finnst mér það vel koma til greina til skamms tíma. Ég er ekki að leggjast gegn því en vil hins vegar segja að ég held að menn þurfi að horfa á málið til lengri tíma jafnframt því að ótti minn er sá að eftir því sem þrýstingurinn inn í þennan pott eykst, eftir því sem fleiri fara inn í hann þeim mun meiri líkur eru á því að að lokum standist línuívilnunin ekki álagið og hverfi eins og gerðist hér áður fyrr.

Það er auðvitað líka óheppilegt eins og er að gerast núna að 16 prósentin virtust hafa verið einhver svona jafnaðartala sem gerði það að verkum að við sáum hvort tveggja gerast, handbeitta línuútgerðin jókst, en menn gátu líka haldið áfram í beitingavélabátunum þannig að þetta er mjög vandmeðfarið mál.



[17:21]
Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég skil hv. þingmann þannig að hann fallist á að línuívilnunin verði hækkuð og að það geti verið tímabundið á meðan aflahlutdeildin í þorski er ekki hærri en raun ber vitni. Hv. þingmaður leiðréttir mig ef ég hef misskilið hann.

Hitt er svo annað mál sem þingmanninum gafst ekki tóm til að svara og það er hvort við ættum að taka upp ívilnanir almennt eftir veiðarfærum og ég ítreka þá spurningu.



[17:22]
Frsm. minni hluta sjútv.- og landbn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er eiginlega ekki tilbúinn til að skrifa upp á það að við ættum að hafa svona flókið kerfi ívilnana eða refsipunkta í fiskveiðistjórnarkerfinu. Ég held að miklu skynsamlegra sé að gera þetta með svipuðum hætti og við höfum gert. Við höfum okkar landhelgi og við höfum síðan gengið miklu lengra en allar aðrar þjóðir sem mér er kunnugt um í því að loka einstökum svæðum, við höfum lokað svæðum fyrir dragnót, við höfum lokað svæðum fyrir togveiðum bæði tímabundið og ótímabundið. Þegar við berum þetta saman við aðrar þjóðir þá er ekki líku saman að jafna. Aðrar þjóðir sem sjá þetta fyllast mjög aðdáun vegna þess að þetta er líka ákveðin veiðarfærastýring til viðbótar við aflamarkskerfið okkar.

Ég ítreka það varðandi línuívilnunina sjálfa að ég hef verið og er talsmaður hennar, ég tel að hún hafi gert gagn. Hún er hluti af fiskveiðistjórnarkerfi okkar. Við erum annars vegar með þetta almenna fiskveiðistjórnarkerfi, aflamarkskerfið. Síðan erum við með krókaaflamarkskerfi sem er kerfi smábátanna og þar höfum við með pólitískum ákvörðunum flutt aflaheimildir yfir til þeirra til að styðja við byggðirnar og síðan erum við með aðra þætti sem við lítum þannig á að komi minni byggðunum sérstaklega til góða. Línuívilnunin hefur verið hluti af því þannig að við höfum reynt að verja það að vera með markaðskerfi, heilbrigt viðskiptakerfi í sjávarútveginum í heild en um leið búið til sérstök úrræði fyrir byggðirnar og línuívilnunin hefur verið hluti af því.

Það sem menn þurfa að hugsa um þegar gerðar eru breytingar á línuívilnuninni er að þær eru ekki bara til skamms tíma. Það er auðvitað gott fyrir þá sem eru að gera út á þetta að fá 20% í staðinn fyrir 16% en ef 20% verða síðan til þess að línuívilnunin lifir ekki nema einhvern stuttan tíma þá er auðvitað til lítils barist og því hef ég alltaf haft áhyggjur af. Ég stóð alltaf gegn því að opna það kerfi meira þrátt fyrir mikinn þrýsting vegna þess að ég óttaðist að sorgarsagan frá línutvöfölduninni endurtæki sig, að hún spryngi að lokum.



[17:24]
Erla Ósk Ásgeirsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Fiskveiðistjórnarkerfið sem við búum við í dag hefur verið við lýði í 30 ár. Á þeim tíma hefur kerfið leitt til þess að breytingar hafa orðið á sjávarútvegi og mikil hagræðing hefur átt sér stað í greininni og verðmæti aflaheimilda hefur aukist gríðarlega, en jafnframt hefur skipum og fólki sem vinnur í greininni fækkað mjög hratt. Reyndar spilar tækniþróun líka stórt hlutverk þar.

Staðreyndin er sú að útgerðarmenn þurfa að hafa mikið fyrir því að skapa verðmæti úr auðlindinni og m.a. vegna velgengni þeirra, hugvitssemi og atorku hefur Íslendingum tekist að gera sjávarútveg að sjálfbærum og ábatasömum atvinnuvegi sem skilar miklum tekjum til þjóðarinnar. Verðmætin verða til með vinnu og því betri og markvissari sem sú vinna er því meiri verða verðmætin sem hægt er að nýta úr auðlindinni. Þá er það allra hagur að gengið sé fram af virðingu við auðlindir þjóðarinnar og þær nýttar með sem hagkvæmustum hætti og að afraksturinn sé hámarkaður og sjálfbærni auðlindarinnar þannig tryggð. Frumvarpið sem hér er til umfjöllunar vinnur því miður gegn kostum kerfisins sem einmitt eru sveigjanleiki og hagkvæmni.

Virðulegi forseti. Að störfum er svokölluð sáttanefnd á vegum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem fékk það hlutverk að fara ofan í helstu álitamál er varða sjávarútvegsstefnuna. Nefndin er skipuð bæði þingmönnum og hagsmunaaðilum í sjávarútvegi og hæstv. ráðherra á hrós skilið fyrir að setja þessa nefnd á fót og sýnir það góðan vilja ráðherra til að leysa þetta mikilvæga mál í sátt og samlyndi. En einmitt þess vegna kemur á óvart að á sama tíma sé hér til umfjöllunar í þinginu frumvarp til breytingar á lögum um stjórn fiskveiða. Það er ekki hægt að horfa fram hjá því að þessi vinnubrögð setja starf nefndarinnar í uppnám.

Virðulegi forseti. Komin er fram beiðni frá nánast öllum fagfélögum í sjávarútvegi — sem er einstakt — um að frumvarpið verði dregið til baka í þeirri von að hægt verði að skapa frið um störf nefndarinnar. Umfjöllunarefni nefndarinnar er einmitt að fara yfir allar þær breytingartillögur sem koma fram í frumvarpinu er varða stjórnkerfi fiskveiða. Farmanna- og fiskimannasamband Íslands ásamt Félagi skipstjórnarmanna sendi sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd umsögn þar sem lýst er miklum vonbrigðum með frumvarpið og óskað eftir því að það verði dregið til baka og bent á að þær breytingar sem hér liggja til grundvallar séu ekki dæmi um brýna nauðsyn. Félag vélstjóra og málmtæknimanna óskar jafnframt eftir því að frumvarpið verði saltað á meðan störf nefndarinnar standa yfir og sömu sögu er að segja um Landssamband íslenskra útvegsmanna og Sjómannasamband Íslands. Við getum ekki skellt skollaeyrum við ákalli þeirra sem starfa í sjávarútvegi en í þeirra röðum eru einmitt flestir okkar færustu sérfræðinga um sjávarútvegsmál. Þeir hafa þekkingu sína af beinu starfi í greininni.

Virðulegi forseti. Það eru ekki bara starfsmenn í greininni sem hafa lýst yfir áhyggjum sínum vegna þessa frumvarps heldur hafa sveitarfélög vítt og breitt um landið lýst yfir áhyggjum af þróun mála enda er staðan einfaldlega sú að sjávarútvegurinn og velgengni atvinnugreinarinnar eru það sem menn treysta á í þeirri erfiðu stöðu sem við erum í varðandi atvinnumál á Íslandi í dag. Þetta er slæmur tími til að skapa óvissu um framtíð greinarinnar.

Virðulegi forseti. Misvísandi skilaboð eru í frumvarpinu í heild. Annars vegar er lagt til að dregið sé úr framsalsrétti og hins vegar er lagt til að stuðlað sé að auknum leigukvóta og frumvarpið er þar af leiðandi afar mótsagnakennt að því leyti. Framsalsrétturinn er einn af grundvallarþáttum kerfisins en mér finnst sjálfsagt að skoðaður verði sá möguleiki, eins og hér er lagt til, að veiðiskyldan verði að einhverju leyti aukin á kostnað framsalsréttarins, en hafa ber í huga að ekki má fara of geyst í þeim efnum og að sjávarútvegurinn verður að fá hæfilegan aðlögunartíma því að framsalsrétturinn er einmitt ein forsenda nýliðunar í greininni og takmörkun á honum getur dregið úr aðgengi minni útgerða að greininni.

Virðulegi forseti. Mig langar til að koma stuttlega inn á þá breytingu sem lögð er til í frumvarpinu að dregið verði úr heimild til að flytja aflamark á milli fiskveiðiára úr 33% í 15%. Ég tel að þetta ákvæði sé ekki til vandræða fyrir kerfið eins og það er í dag heldur sé það afar þýðingarmikið fyrir útgerðirnar að geta flutt aflamark á milli fiskveiðiára, t.d. ef ekkert fiskast eða ef menn ná ekki að fiska upp í kvóta eða vegna ástands fiskstofna eða veðurfars eða bilunar í skipum og svo mætti lengi telja. Í frumvarpinu er lögð til breyting upp á 18 prósentustig sem að mínu mati er fulllangt gengið.

Að lokum langar mig til að koma inn á þau einkennilegu völd sem færð eru hæstv. sjávarútvegsráðherra í lið d í 2. gr. frumvarpsins, þ.e. að hann geti stýrt vinnslu á uppsjávarfiski. Á það ekki að vera hlutverk okkar stjórnmálamanna að setja almennan vinnuramma eða almennar reglur um atvinnugrein sem sjávarútveginn? Er ekki of langt seilst með þessu ákvæði? Ég leyfi mér að spyrja: Vill hæstv. sjávarútvegsráðherra virkilega vera með puttana í þessu? Eigum við ekki heldur að treysta útgerðunum og fiskvinnslunum í landinu til að meta þetta?

Að endingu, virðulegi forseti, vil ég ítreka mikilvægi sjávarútvegsins sem atvinnugreinar í landinu. Greinin skapar miklar tekjur og atvinnu fyrir Íslendinga og mín skoðun er sú að það beri að fara varlega í allar breytingar á kerfinu, sem hefur að mestu leyti reynst okkur Íslendingum vel.



[17:30]
Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Ég minnist þess að hafa heyrt það haft eftir hagfræðingnum Benjamín H. J. Eiríkssyni eitt sinn þegar hann var spurður um atvinnuskapandi aðgerðir, að hann hafi svarað eitthvað á þá leið að það hafi aldrei verið vandamál á Íslandi að finna störf fyrir fólk. Reyndar hafi það verið svo að það hafi verið eitt helsta bölið, vinnuáþjánin.

Það er mikið til í þessu vegna þess að það sem þetta snýst allt um er að störf verði til sem skila ágóða fyrir þann sem vinnur starfið, fyrir þann sem fær einhvern til starfans og fyrir samfélagið í heild. Stritið eitt og sér er ekki markmið og störfin ein og sér eru ekki markmið. Það er afrakstur starfanna sem skiptir öllu máli og er Íslandssagan sjálf glöggt vitni um það hvernig þjóðin, sem mátti strita myrkranna á milli út í eitt, komst í álnir vegna þess að vinnan fór að skila afrakstri. Þar var í forgrunni íslenskur sjávarútvegur og það sem skipti mestu, þessi gríðarlega auðlind í hafinu sem breytti landinu úr því að vera eitthvert hið fátækasta í Evrópu í að verða eitt það ríkasta.

Þegar við alþingismenn, frú forseti, erum að véla um umhverfi, lagaumhverfi þessarar mikilvægustu atvinnugreinar þjóðarinnar er hollt fyrir okkur að hafa í huga að við erum að fjalla um fjöreggið. Það skiptir gríðarlega miklu máli fyrir Íslendinga, bæði þá sem nú eru uppi og lifandi og þá sem ófæddir eru og munu vonandi búa hér, að sjávarútvegur Íslendinga sé rekinn þannig að við fáum sem mesta arðsemi úr þeirri grein. Vitanlega og að sjálfsögðu er það svo að fleiri sjónarmið koma þar að, en í grunninn er það þetta sem skiptir mestu. Það er auðvitað þess vegna, frú forseti, sem við höfum komið upp og höfum möguleika á ýmsum aðgerðum, t.d. eins og byggðakvóta til að bregðast við þar sem mikið rask verður vegna þess að kvóti hafi verið seldur úr byggðarlögum eða eitthvað kemur upp á í rekstri sem kallar á slíkt. Það er þó þannig og rétt að hafa í huga og það kom m.a. fram hjá forustumönnum í Vestmannaeyjabæ nýverið að það virðist þar lítið samhengi vera á milli þess hversu mikill kvóti er í bæjarfélaginu annars vegar og hvernig fólksfjöldanum hefur miðað hins vegar. Það er fleira sem kemur til, aðgengi að þjónustu, afþreyingu, fjölbreytni í starfsvali o.s.frv.

Grundvallaratriðið er þetta og það er það sem ég vil segja við hv. þingmenn í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd að þegar nefndin fer yfir málið aftur á milli 2. og 3. umr. að hafa það hugfast að þær aðgerðir sem eru boðaðar í frumvarpinu snúa ekki bara að fisktegundinni skötusel einni saman. Hér er um að ræða fordæmisgefandi löggjöf. Mitt mat er að þar sé verið að taka ákvarðanir sem geti haft mjög slæmar afleiðingar þegar upp verður staðið fyrir íslenskan sjávarútveg. Eins vona ég að það verði skoðað með opnum huga hvaða áhrif það hefur að draga svo mjög úr möguleikum manna að leigja kvóta að erfiðara verði en áður að komast inn í þessa meginatvinnugrein þjóðarinnar, því að eftir því sem við höfum meiri veiðiskyldu því minna framboð verður á leigukvóta og þar af leiðandi erfiðara fyrir nýliða að komast inn.

Við eigum eftir að ræða þetta mál við 3. umr. og ég vona að þegar við sjáum málið koma aftur í þingsal hafi verstu agnúar verið sniðnir af málinu. Það er mikið undir, frú forseti.