150. löggjafarþing — 129. fundur.
samkeppnislög, 2. umræða.
stjfrv., 610. mál (almenn endurskoðun og norrænn samstarfssamningur). — Þskj. 1029, nál. m. brtt. 1732, nál. 1863, breytingartillaga 1891.

[15:42]
Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á samkeppnislögum, nr. 44/2005, með síðari breytingum, frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar á þskj. 1732.

Með frumvarpinu eru lagðar til umtalsverðar breytingar á samkeppnislögum. Í fyrsta lagi er lagt til að við upptalningu 1. gr. laganna, um hvernig ná skuli markmiði þeirra, bætist að stuðla skuli að heilbrigðu samkeppnisumhverfi til hagsbóta fyrir neytendur.

Í öðru lagi eru lagðar til breytingar á 6. gr. laganna, sem fjallar um forstjóra Samkeppniseftirlits, þannig að ráðning forstjóra verði framvegis ekki ótímabundin eins og hingað til heldur til fimm ára í senn. Þá verði kveðið á um að sama einstakling megi ekki ráða forstjóra oftar en tvisvar. Breytingin nær til ráðninga sem fram fara eftir gildistöku laganna.

Í þriðja lagi eru lagðar til breytingar á 15. gr. laganna um undanþágur frá banni við samkeppnishömlum samkvæmt 10. og 12. gr. Samkvæmt gildandi fyrirkomulagi getur Samkeppniseftirlitið veitt slíkar undanþágur að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Í 3. gr. frumvarpsins er lagt til að í lögunum verði tekið fram að bann samkvæmt 10. og 12. gr. gildi ekki ef skilyrðin sem talin eru upp í 1. mgr. 15. gr. gildandi laga eru uppfyllt. Þannig verði fyrirtækjum eða samtökum fyrirtækja gert að meta hvort ráðstafanir, sem ella myndu falla undir bannákvæði 10. eða 12. gr. laganna, uppfylli umrædd skilyrði og séu þar með heimilar. Samkeppniseftirlitið gefi út leiðbeiningar um undanþágur samkvæmt ákvæðinu.

Í fjórða lagi er lagt til að c-liður 1. mgr. 16. gr. laganna falli brott. Í ákvæðinu er kveðið á um heimild Samkeppniseftirlitsins til að grípa til aðgerða gegn aðstæðum eða háttsemi sem kemur í veg fyrir, takmarkar eða hefur skaðleg áhrif á samkeppni almenningi til tjóns. — Ég mun víkja að þessu hér síðar.

Í fimmta lagi eru lagðar til breytingar á ákvæðum laganna um samruna. Lagðar eru til hækkanir á veltumörkum tilkynningarskyldra samruna og á skilyrðum og efni styttri samrunatilkynninga samkvæmt 17. gr. a laganna. Jafnframt er lögð til hækkun á veltumörkum samruna þar sem Samkeppniseftirlitið getur krafist tilkynningar eftir á samkvæmt 3. mgr. 17. gr. b. Þá eru lagðar til breytingar á tímafrestum í málsmeðferð samrunamála samkvæmt 17. gr. d og á gjaldtöku fyrir samrunatilkynningar samkvæmt 17. gr. g.

Í sjötta lagi er lögð til breyting á 17. gr. f laganna um heimild til að ljúka máli með sátt og til að hefja málsmeðferð að nýju.

Í sjöunda lagi eru lagðar til breytingar á 19., 20. og 35. gr. laganna sem snúa að upplýsingagjöf Samkeppniseftirlitsins til samkeppnisyfirvalda annarra ríkja og heimild stofnunarinnar til að framkvæma athuganir hér á landi samkvæmt beiðni erlendis frá. Breytingarnar eru tilkomnar vegna nýs samnings um norrænt samstarf í rannsóknum samkeppnismála.

Loks er lagt til að fellt verði brott ákvæði 40. gr. samkeppnislaga um að leita þurfi úrskurðar áfrýjunarnefndar samkeppnismála áður en dómsmál er höfðað um ákvörðun Samkeppniseftirlitsins. Þannig verði aðila að ákvörðun Samkeppniseftirlitsins mögulegt að leita beint til dómstóla kjósi hann það en frjálst að bera ákvörðunina undir áfrýjunarnefndina.

Líkt og bent er á í greinargerð með frumvarpinu […] er sjálfstæði samkeppnisyfirvalda frá öðrum stjórnvöldum mikilvægur þáttur í framkvæmd samkeppnislaga.“ — Vegna þessa er talið mikilvægt að samkeppniseftirltið geti skotið úrskurðum áfrýjunarnefndar samkeppnismála til dómstóla.

Frá því heimildin var lögfest árið 2011 hefur Samkeppniseftirlitið höfðað þrjú dómsmál til ógildingar á úrskurðum áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Í þessu sambandi er vert að hafa í huga að málskotsheimild Samkeppniseftirlitsins er ekki í samræmi við þá meginreglu að úrlausn æðra setts stjórnvalds sé bindandi fyrir lægra sett stjórnvald og endanleg á stjórnsýslustigi. Áfrýjunarnefnd samkeppnismála er æðra sett stjórnvald gagnvart Samkeppniseftirlitinu. […]

Við umfjöllun nefndarinnar komu fram áhyggjur af því að réttarfarsleg óvissa gæti skapast ef aðilar máls, sem sætta sig ekki við ákvörðun Samkeppniseftirlitsins, fá heimild til að skjóta máli sínu beint til dómstóla, líkt og lagt er til með 13. gr. frumvarpsins. Meiri hlutinn hefur skilning á þessu sjónarmiði en telur að önnur atriði vegi þyngra, ekki síst rétturinn til að fá úrlausn um réttindi sín og skyldur fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli, samanber 70. gr. stjórnarskrárinnar.

Meiri hlutinn telur mikilvægt að gæta sérstakrar varúðar við því að setja skorður við rétt manna til að leita úrlausnar sinna mála fyrir dómstólum. Skilyrði um að ekki sé heimilt að höfða mál fyrir dómstólum fyrr en kæruleiðir á stjórnsýslustigi séu tæmdar verður að mati meiri hlutans að byggjast á þeirri meginreglu að ákvörðun æðra setts stjórnvalds sé endanleg á stjórnsýslustigi.

Frá því að Samkeppniseftirlitið fékk heimild til að bera niðurstöðu áfrýjunarnefndar samkeppnismála undir dómstóla hafa orðið grundvallarbreytingar á skipan dómsmála með tilkomu Landsréttar. Eftir þá breytingu er mögulegt að um samkeppnismál sé fjallað á tveimur stjórnsýslustigum og þremur dómstigum. Það er löng málsmeðferð.

Þótt nauðsynlegt sé að tryggja vandaða og ítarlega málsmeðferð getur ekki síður verið mikilvægt að tryggja skjóta málsmeðferð í samkeppnismálum. Í því felast miklir hagsmunir, jafnt fyrir þá sem eiga beina aðild að máli og fyrir almenning og atvinnulífið í heild sinni enda getur málsmeðferð sem dregst mjög á langinn valdið viðvarandi réttaróvissu. Örðugt getur reynst að tryggja hvort tveggja, vandaða og skjóta málsmeðferð, einkum í ljósi þess að ágreiningsmál í samkeppnisrétti eru oft og tíðum flókin og réttarsviðið efnismikið. Hið sama á við um ýmis önnur ágreiningsmál er tengjast viðskiptaháttum og starfsemi á markaði.

Með hliðsjón af þessu beinir meiri hlutinn því til ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, að gerð verði fýsileikakönnun þar sem kannaðir verði kostir og gallar þess að settur verði á fót sérstakur dómstóll sem leysi af hólmi ýmsar áfrýjunar- og úrskurðarnefndir á sviði viðskipta- og neytendamála. Könnunina þarf að vinna þvert á ráðuneyti og hafa náið samráð, m.a. við eftirlitsstofnanir, sérfræðinga og haghafa á viðkomandi sviði. Meðal þeirra stjórnsýslunefnda sem til greina kæmi að slíkur dómstóll leysti af hólmi eru áfrýjunarnefnd samkeppnismála, áfrýjunarnefnd neytendamála, kærunefnd útboðsmála, áfrýjunarnefnd hugverkaréttinda, úrskurðarnefnd raforkumála og úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála. Ég vil taka það fram, frú forseti, að hér er ekki um tæmandi talningu að ræða.

Með stofnun sérhæfðs dómstóls um framangreind málefni yrði annars vegar stuðlað að vandaðri og skjótri málsmeðferð og hins vegar að því að tryggja sem best að til staðar verði sú sérhæfing og þekking sem nauðsynleg er á sífellt flóknari réttarsviðum viðskiptalífsins. Takist vel til stuðlar hvort tveggja að auknu réttaröryggi.

Veigamesta breytingin sem meiri hlutinn leggur til er í 4. gr. frumvarpsins þar sem heimild Samkeppniseftirlitsins til íhlutunar án brots er felld brott.

Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að Samkeppniseftirlitið hafi ekki beitt umræddri heimild þó ein markaðsrannsókn hafi verið framkvæmd. […] Við umfjöllun nefndarinnar um málið sættu áform um brottfall heimildar til íhlutunar án brots talsverðri gagnrýni. […]

Meiri hlutinn telur ekki rétt að fella brott heimild Samkeppniseftirlits til íhlutunar án brots og leggur til breytingar á frumvarpinu vegna þess. Til grundvallar þeirri afstöðu liggja almannahagsmunir enda geta samkeppnishindranir sem leiðir af samsetningu markaða án þess að brotið sé gegn lögum haft jafnalvarlegar afleiðingar fyrir almenning — og fyrirtæki — og brot gegn bannreglum. […] Meiri hlutinn telur að hagsmunir minni fyrirtækja séu betur tryggðir með því að halda heimild Samkeppniseftirlitsins til íhlutunar án brots inni í lögum.

Meiri hlutinn lagði hins vegar fram breytingartillögu til að afmarka beitingu heimildarinnar og gera hana skýrari í lögum sem ég ætla ekki að gera frekari grein fyrir hér að þessu sinni. Ég vísa bara í nefndarálitið. Ég vil þó vekja athygli þingheims á því að ég hef lagt fram breytingartillögu þessa efnis og hún er gerð í samráði við aðra í meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar þó að breytingartillagan sé í mínu nafni. Breytingartillagan, sem er einföld, tryggir að 16. gr. gildandi samkeppnislaga verður óbreytt. Með þessu er verið að koma, a.m.k. að hluta til, til móts við minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar. Vonast ég til þess að þessi breytingartillaga verði samþykkt.

Í 13. gr. frumvarpsins er lagt til að fellt verði brott ákvæði 40. gr. samkeppnislaga um að leita þurfi úrskurðar áfrýjunarnefndar samkeppnismála áður en dómsmál er höfðað um ákvörðun Samkeppniseftirlitsins. Í 41. gr. laganna er m.a. kveðið á um málshöfðunarfrest fyrir dómstólum þegar úrskurður áfrýjunarnefndar er borinn undir dóm. Meiri hlutinn leggur til að við ákvæðið bætist ný málsgrein um að sami málshöfðunarfrestur eigi við þegar ákvörðun Samkeppniseftirlitsins er skotið beint til dómstóla.

Meiri hlutinn leggur til að við 8. gr. samkeppnislaga, sem fjallar um hlutverk Samkeppniseftirlitsins, bætist ákvæði um að stofnunin skuli gefa út ársskýrslu um störf sín.

Þess ber að geta að til skamms tíma hefur stofnunin gefið út slíkar ársskýrslur en verkefnin hafa verið ærin og sjálfsagt hafa ársskýrslurnar þurft að mæta afgangi en nú verður það lagaleg skylda að gefa út ársskýrslu enda gefa skýrslurnar mikilvægt innsæi og eru mikilvægt innlegg í umræðu um samkeppnismál hér á landi og geta haft jákvæð áhrif á meðvitund almennings um mikilvægi virkrar samkeppni og eftirlits með samkeppnismarkaði.

Telur meiri hlutinn að í ársskýrslu um störf Samkeppniseftirlitsins verði, auk yfirlits yfir starfsemi stofnunarinnar á undangengnu ári, að finna upplýsingar um það sem efst er á baugi í samkeppnismálum, hérlendis og á alþjóðavísu, auk fleiri þátta sem haft geti fræðslugildi.

Frú forseti. Ég hygg að ég þurfi ekki að gera frekari grein fyrir því nefndaráliti sem liggur hér fyrir, vísa til þeirra breytingartillagna sem fylgja nefndarálitinu.

Undir þetta nefndarálit skrifa hv. þingmenn, sá er hér stendur, Óli Björn Kárason, Brynjar Níelsson, Bryndís Haraldsdóttir, Ólafur Þór Gunnarsson og Willum Þór Þórsson.



[15:57]
Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti 1. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar með frávísunartillögu um frumvarpið.

„Sagan sýnir að sterkt og virkt samkeppniseftirlit er nauðsynleg forsenda fyrir samkeppnishæfu atvinnulífi og neytendavernd. Á fámennum og litlum markaði þarf að feta stíginn milli stærðarhagkvæmni og virkrar samkeppni. Flestir markaðir leita í fákeppni og það kallar á öflugt og skilvirkt samkeppniseftirlit. Breytingarnar sem lagðar eru til í frumvarpinu bera með sér að hagsmunum neytenda hafi ekki verið gefinn nægur gaumur. Hið sama á við um stöðu og vernd minni aðila á markaði.

Fyrsti minni hluti fellst ekki á að frumvarpið sé þess eðlis að nauðsynlegt sé að ljúka afgreiðslu þess á yfirstandandi þingi. Þvert á móti þarf að gefa rýmri tíma í verkið. Starfshópar hafa verið skipaðir af minna tilefni. Þar væri hægt að draga öll sjónarmið að borðinu og taka afstöðu til þeirra margháttuðu athugasemda sem gerðar hafa verið við efni frumvarpsins.

Samhliða uppbyggingu efnahagsins eftir heimsfaraldur kórónuveiru á grundvelli ýmissa sérráðstafana til handa lögaðilum er aukin hætta á markaðsbrestum. Taka verður tillit til þess þegar samkeppnislögum er breytt og líta til þess hvaða áhrif breytingarnar kunni að hafa á markaði og dómaframkvæmd. Það blasir við að umtalsverð uppstokkun verður á ýmsum sviðum atvinnulífsins sem getur leitt til óæskilegrar samþjöppunar og óskilvirkra markaða. Við þessar aðstæður þarf Samkeppniseftirlitið að vera öflugt og hafa tæki og tól til þess að takast á við það viðfangsefni. Þegar af þessari ástæðu þarf nánari ígrundun og undirbúning fyrir breytingar á samkeppnislögum.

Allt frá því að frumvarpið var lagt fram í samráðsgátt stjórnvalda og síðar við umfjöllun í nefndinni hafa komið fram fjölmargar athugasemdir um einstök atriði sem orka mjög tvímælis og athygli vakin á atriðum sem þarfnast nánari skýringa vegna óvissu um réttaráhrif og framþróun samkeppnisréttarins og túlkun hans. Þá er óhjákvæmilegt að heimsfaraldur kórónuveiru setji hér strik í reikninginn því við blasir að umtalsverðar breytingar verða á skipan fyrirtækjarekstrar hér á landi á næstu missirum.

Meiri hlutinn hefur lagt fram breytingartillögu við frumvarpið. Þær breyta engu um það álit 1. minni hluta að taka þurfi málið allt upp frá grunni.

Fyrsti minni hluti telur að ekki verði hjá því komist að taka til frekari skoðunar þá gagnrýni sem hefur komið fram. Leggur 1. minni hluti því til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar þar sem það sæti skoðun í ljósi fram kominna athugasemda, en ekki síður þeirra aðstæðna sem hafa skapast vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Mikilvægt er að við þá skoðun fari fram víðtækt samráð við alla haghafa til að tryggja að öll sjónarmið komi að borðinu áður en frumvarp um breytingar á samkeppnislögum verður lagt fram að nýju.“

Herra forseti. Þetta er nefndarálit með frávísunartillögu frá 1. minni hluta. Hv. þm. Inga Sæland, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, styður þetta nefndarálit en undir álitið skrifa sú sem hér stendur og hv. þingmenn Jón Steindór Valdimarsson og Smári McCarthy.

Herra forseti. Nú hef ég farið yfir nefndarálitið og vil nýta tækifærið og segja nokkur orð frá eigin brjósti um þetta mál. Nú á lokadögum þingsins ætlar ríkisstjórnin að keyra í gegn frumvarp sem mun veikja Samkeppniseftirlitið. Nærtækara væri að styrkja Samkeppniseftirlitið í því efnahagsástandi sem ríkir eftir Covid-19. Auk þess er íslenskt viðskiptalíf lítið og einangrað í samanburði við alþjóðleg markaðssvæði og gríðarlegt hagsmunamál fyrir neytendur að hér sé heilbrigt samkeppnisumhverfi. Hér er því enn mikilvægara að hafa virkt eftirlit með samkeppni en í stærri löndum. Með veiku eftirliti geta fyrirtæki nýtt sér aðstæður til að skapa einokunarstöðu sem vinnur gegn hag almennings. Lengi hefur Sjálfstæðisflokkurinn viljað veikja Samkeppniseftirlitið og svo virðist að þeim hafi tekist að fá VG og Framsókn á sitt band. Verði frumvarpið að lögum mun það auðvelda samruna stórra fyrirtækja þar sem veltumörk tilkynningarskyldra samruna eiga að hækka verulega þannig að stórir samrunar verða ekki tilkynningarskyldir. Einnig er fyrirtækjum ætlað að meta sjálf hvort skilyrði samkeppnislaganna til samstarfs séu uppfyllt, svo að dæmi séu tekin um breytingarnar. Í greinargerð frumvarpsins kemur fram að það sé samið m.a. til þess að taka tillit til þess að miklar breytingar hafi orðið í íslensku efnahagslífi frá því að samkeppnislögunum var síðast breytt árið 2011. Þar segir, með leyfi forseta:

„Mikill uppgangur hefur verið á síðustu árum á ákveðnum sviðum atvinnulífsins þar sem mikil samkeppni hefur leitt af sér töluvert aðhald fyrirtækja hvert með öðru og nokkurn fjölda samruna.“

Öllum má vera ljóst að miklar breytingar hafa orðið á íslensku efnahagslífi eftir Covid-19. Því hafa forsendur fyrir frumvarpinu einfaldlega brugðist og það ætti að vísa því frá.

Samkeppniseftirlitinu er ætlað að sporna gegn blokkamyndun í viðskiptalífinu. Hættan á blokkamyndun er enn meiri í þeim aðstæðum sem nú hafa skapast eftir Covid-19. Það er því rangt og vinnur gegn almannahagsmunum að nýta þetta erfiða umhverfi til að búa til kjöraðstæður fyrir ráðandi fyrirtæki á fákeppnismörkuðum. Á þessum tímapunkti er mikilvægt að valda ekki auknu tjóni með því að búa til einokunarfyrirtæki á mörkuðunum. Slíkt gengur gegn hag almennings.

Samkeppniseftirlitið og fleiri hafa bent á að viðbrögð stjórnvalda við Covid-19 geti haft mikil áhrif á samkeppnishæfni Íslands og lífskjör í landinu um langt skeið. Í því ljósi er mikilvægt að stjórnvöld tryggi að viðbrögð verði ekki á þá leið að minnka samkeppni, veikja samkeppnislög eða Samkeppniseftirlitið.

Árið 2011 stóðum við í Samfylkingunni og Vinstrihreyfingunni – grænu framboði, sem þá vorum í ríkisstjórn, að styrkingu samkeppnislaga til að skapa virka samkeppni. Þar lá til grundvallar skýr vilji til að gæta almannahagsmuna. Sjónarmiðið var einkum það að við keppni fyrirtækja á markaði um viðskiptavini batni kjör almennings og atvinnulífið verði þróttmeira. Þannig skapast tekjur og skattar sem síðan auðveldar að reka betra velferðarkerfi. Virk samkeppni er á hinn bóginn ekki sjálfgefin og stórfyrirtæki á hinum litla íslenska markaði hafa mikla hagsmuni af því að draga úr henni og þá ekki síst að draga úr eftirliti með samkeppnisreglum. Við styrkingu samkeppnislaganna árið 2011 mættum við mikilli andstöðu frá Sjálfstæðisflokknum, Samtökum atvinnulífsins og Viðskiptaráði. Sú sérhagsmunabarátta skilaði ekki árangri þar sem við og VG stóðum saman í að efla nauðsynlegt eftirlit og aðhald gagnvart viðskiptalífinu. Þessir sömu aðilar vilja nú nýta stöðu sína til að veikja Samkeppniseftirlitið og að þessu sinni með stuðningi VG.

Ekki verður annað séð en að möguleikar til að grípa til aðgerða gegn háttsemi fyrirtækja sem hefur skaðleg áhrif á samkeppni, almenningi til tjóns, verði stórlega veiktir gangi frumvarpið eftir. Þar er einnig lagt til að dregið verði verulega úr eftirliti með því að fyrirtækjum verði falið að meta hvort samráð þeirra raski samkeppni og mun fleiri samrunar verða undanþegnir eftirliti en nú er samkvæmt samkeppnislögum. Þá er það mikið áhyggjuefni að frumvarpið ber með sér þann anda að í stað þess að styrkja samkeppnislögin í samræmi við það sem verið hefur að gerast í Evrópu undanfarin ár er verið að veikja þau. Það er nefnilega algerlega rangt að frumvarpið eins og það lítur út, jafnvel með breytingum efnahags- og viðskiptanefndar, sé í samræmi við þróun samkeppnisreglna í Evrópu undanfarin ár. Þar hefur hugmyndafræðin byggst á því að styrkja lögin en ekki að veikja þau eins og hér. Það er því að mínu mati nauðsynlegt að allir, jafnt innan þings sem utan og þá einkum verkalýðshreyfingin og Neytendasamtökin sem vilja gæta hagsmuna almennings, standi saman á ný og verjist þessari atlögu sérhagsmunanna og að Alþingi geri það með því að vísa frumvarpinu til ríkisstjórnarinnar eins og 1. minni hluti efnahags- og viðskiptanefndar leggur til.

Gylfi Magnússon, dósent í viðskiptahagfræði við Háskóli Íslands og fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra, segir m.a. í ítarlegri umsögn sinni, með leyfi forseta:

„Rökin fyrir styrkri samkeppnislöggjöf í Bandaríkjunum í kringum aldamótin 1900 byggðu ekki einungis á áhyggjum af skilvirkni markaða heldur einnig því að lýðræðinu gæti staðið ógn af afar stórum fyrirtækjum og auðkýfingum.“

Gylfi bendir einnig á að Bandaríkjamenn hafi tekið um margt sérkennileg skref í sigruðu löndunum eftir síðari heimsstyrjöldina. Þeim þótti nauðsynlegt til að tryggja friðinn að tryggja lýðræði í þessum löndum og það væri vart hægt nema taka á ægivaldi stórfyrirtækjanna. Við þurfum einnig að vara okkur á ægivaldi stórra fyrirtækja hér á landi og gæta að lýðræðinu um leið.

Regluverk og eftirlit sem er sniðið að þröngum sérhagsmunum er alþjóðlegt vandamál og Evrópusambandið hefur með tilskipunum, sem við höfum tekið upp í gegnum EES, tekið að einhverju leyti á þeim vanda. Gylfi Magnússon bendir á þetta í umsögn sinni og á það að hvert EES-land sé með sína eigin samkeppnislöggjöf en hún verði að vera í samræmi við tilskipanir ESB. Íslensk stjórnvöld geti því ekki að eigin vild látið undan þrýstingi sérhagsmuna.

Sú neytendavernd sýndi sig vel á breytingum sem frumvarpið tók eftir að það hafði verið í samráðsgáttinni og hætt var við að afnema heimild Samkeppniseftirlitsins til að bera niðurstöður áfrýjunarnefndar samkeppnismála undir dómstóla enda hefði það gengið gegn EES-samningnum. Gylfi Magnússon segir að afdrif frumvarpsins séu prófsteinn á íslenska stjórnmálakerfið og hann spyr: Ætla íslensk stjórnvöld að láta undan háværum kröfum stórfyrirtækja og samtaka þeirra um að veikja íslenskt samkeppniseftirlit eða fær almenningur að njóta þeirrar verndar sem hann hefur notið til þessa?

Frumvarpið á ekkert erindi við núverandi aðstæður, í miðjum veirufaraldri og mesta samdrætti lýðveldissögunnar. Veruleg hætta er á samþjöppun í efnahagslífinu. Illa stödd fyrirtæki munu hætta rekstri og þau betur settu taka við markaðshlutdeild þeirra. Með frumvarpinu eru tekin óheillaspor, jafnvel þó að stjórnarandstaðan hafi náð að knýja fram breytingar.

Herra forseti. Vísum frumvarpinu frá í atkvæðagreiðslu um málið síðar í dag.



[16:10]
Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Í nýrri úttekt IMD viðskiptaháskólans á samkeppnishæfni 63 þjóða lækkar Ísland um eitt sæti á listanum og er nú í 21. sæti. Enn drögumst við aftur úr Norðurlöndunum og stöndum þeim að baki í flestum undirþáttum. Það er auðvitað mikið áhyggjuefni á tímum þar sem við verðum að ýta undir öflugt atvinnulíf sem er samkeppnishæft og fjölbreytt á alþjóðamörkuðum. Í úttekt viðskiptaháskólans er að finna ýmis tækifæri til úrbóta. Niðurstöður sýna t.d. að stjórnsýslubyrði þeirra sem reka ný fyrirtæki er með því hæsta sem gerist innan OECD og möguleikar erlendra aðila til að fjárfesta hér á Íslandi eru lakari en víðast hvar. Ísland nær ekki að draga til sín hæft erlent starfsfólk og útflutningur er heldur fábreyttur, svo að eitthvað sé nefnt. Við þurfum því augljóslega að ráðast í markvissa sókn í átt að aukinni samkeppnishæfni, eins og talsmenn atvinnulífsins tala reyndar um, en það skiptir máli hvernig það er gert. Við eigum mikið undir því á næstu árum að tryggja að nýsköpunarfyrirtæki fái að vaxa og dafna og byggja undir fjölbreyttara atvinnulíf til framtíðar. Maður hefði haldið að ríkisstjórnin myndi sýna þessu áhuga og brydda upp á verulegum úrbótum er varða samkeppnishæfi landsins.

Svar ríkisstjórnarinnar við þessari stöðu er að veikja samkeppnislög, draga tennur úr sjálfstæðu samkeppniseftirliti á Íslandi. Þessi lög eru síst til þess fallin að örva samkeppni hér á landi eða til að bæta lífskjör almennings. Með þessum lögum er einfaldlega og einvörðungu verið að þjóna hagsmunum stærstu og voldugustu fyrirtækja landsins. Í stað þess að undirbyggja það smáa, það nýja, það sérstaka í íslensku atvinnulífi er farið í þveröfuga átt. Sagan sýnir okkur að þessi leið, að draga tennurnar úr eftirliti, er slæm og hvorki til hagsbóta fyrir neytendur né þann fjölda fjölbreyttra fyrirtækja sem stunda viðskipti á Íslandi. Þvert á móti ættum við að tryggja öflugt samkeppniseftirlit eins og víðast er í Evrópu og Evrópuríkin hafa verið að feta sig í átt að síðustu ár. Það er ekki síst mikilvægt hér á Íslandi vegna smæðar markaðarins og þeirrar fákeppni sem henni fylgir. Hátt verð á vöru og þjónustu hérlendis sýnir vel að engin ástæða er til að slaka á samkeppnislöggjöfinni.

Við í Samfylkingunni höfum lagt fram tillögur um aðgerðir í þágu lítilla og meðalstórra fyrirtækja sem eiga sér allt of fáa málsvara hér inni. Við leggjum áherslu á að lækka álögur og bæta rekstrarumhverfi þessara litlu fyrirtækja sem veita fjölbreytta þjónustu, skapa atvinnu og eru farvegur frumkvöðlastarfs. Þau hafa sveigjanleika til að laga sig hraðar að breyttum aðstæðum. En hér á Íslandi eru flestar ákvarðanir hugsaðar út frá hagsmunum stærri fyrirtækja, jafnvel þeirra allra stærstu. Þessu þarf að breyta.

Reyndar kynnir ráðherra þetta frumvarp með þeim hætti að verið sé að draga úr reglubyrði. Raunin er aftur á móti sú að verið er að draga úr eftirliti með samkeppni á mörkuðum. Það er mjög alvarlegt við þær aðstæður sem nú eru uppi í efnahagslífinu vegna Covid-heimsfaraldursins þar sem við horfum jafnvel fram á fjöldagjaldþrot. Samþjöppun í atvinnulífinu er því miður allt of þekkt afleiðing kreppu. Smærri fyrirtæki, þar sem minna má út af bregða, lenda oft fyrr í erfiðleikum. Stærri keppinautar, sem hafa betri aðgang að fjármagni og bankarnir hafa jafnvel veðjað á, sjá sér leik á borði og taka yfir þau minni.

Það er því mikið óráð að hækka veltumörk vegna samruna við þessar aðstæður. Það er ekki ábyrg efnahagsstjórn. Flest störf í landinu er að finna hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Þau eru einfaldlega hryggjarstykkið í verðmætasköpuninni. Ef þau gefa hlutfallslega eftir hefur það alvarlegar afleiðingar fyrir atvinnustigið í landinu. Best launuðu störfin á landsbyggðinni gætu horfið hingað suður, hin orðið eftir og fábreytni aukist. Við sætum uppi með miðstýrðara, einsleitara og fátæklegra atvinnulíf en ella. Þess vegna er mjög alvarlegt að ríkisstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks leggi áherslu á að draga úr eftirliti með mörkuðum á þessum tímapunkti svo að lítið beri á þegar við förum að nálgast sumar. Jafnvel þó að frumvarpið hafi breyst eftir að hafa verið í samráðsgátt og jafnvel þó að komið hafi verið á móts við einstök atriði minni hlutans getum við í Samfylkingunni ekki samþykkt frumvarpið. Við viljum standa með almannahagsmunum í þessu máli.



[16:15]
Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætlaði svo sem ekki að vera mikið hér í andsvörum í þessu máli en ég taldi mér rétt og skylt að gera það að þessu sinni. Nú geta menn haft mismunandi skoðanir á því hvort verið sé að veikja Samkeppniseftirlitið. Ég hafna því alfarið. Ég held akkúrat að verið sé að tryggja að Samkeppniseftirlitið geti einbeitt sér að mikilvægustu málum sem það þarf að sinna, t.d. með því að hækka veltumörk. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann sé þá ósammála Samkeppniseftirlitinu sem segir í ítarlegri umsögn, einhverri ítarlegustu umsögn sem við höfum fengið til efnahags- og viðskiptanefndar:

„Samkeppniseftirlitið telur málaefnalegt að veltumörk samkeppnislaga séu endurskoðuð reglulega. Að athuguðu máli gerir eftirlitið því ekki athugasemdir við að gerð verði sú breyting sem fram kemur í 5. gr. frumvarpsins.“

Er hv. þingmaður, sem ber hag Samkeppniseftirlitsins mjög fyrir brjósti, eins og ég vona að fleiri geri, ósammála þessu mati Samkeppniseftirlitsins sem telur skynsamlegt að hækka veltumörkin sem hv. þingmaður er á móti að verði gert?



[16:17]
Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég kom ekkert hingað upp vegna þess að ég beri hag Samkeppniseftirlitsins neitt sérstaklega fyrir brjósti. Ég hef hins vegar áhyggjur af litlum og meðalstórum fyrirtækjum og þar skiptir öflugt Samkeppniseftirlit höfuðmáli. Það er ótvírætt verið að hækka veltumörk tilkynningarskyldra samruna og það er verið að gera það um 50%, að mér skilst. Það er gert með þeim hætti að það er langt umfram það sem verður annars staðar á Norðurlöndum. Við munum sitja uppi með það að stórir samrunar verða ekki tilkynningarskyldir. Þetta verður lagt dálítið í hendurnar á atvinnulífinu sjálfu.

Eins og kom fram í umsögnum um frumvarpið breytir heimsfaraldur í raun öllu samkeppnisumhverfi, ég tala ekki um nú þegar jafnvel er verið að borga fyrirtækjum fyrir að segja fólki upp til að halda starfhæfi þeirra gangandi. Við getum svo sem diskúterað fram og til baka um það hvort það geti ekki haft áhrif á samkeppni fyrirtækja þegar öllu þessu lýkur og þau fara af stað aftur.

Ætlar þá hv. þingmaður á móti að svara mér því hvort hann hafi virkilega ekki áhyggjur af því að í skjóli þessara breytinga geti sú staða skapast að stórfyrirtæki, sem hafa mikinn aðgang að fjármagni, sem bankarnir hafa veðjað á, geti ekki farið að plokka fínustu berin af trjánum og það geti svo leitt til einsleitni, að best launuðu störfin, markaðsstarfið og annað slíkt, verði eftir hér en óbreyttu störfin verði eftir annars staðar og við sitjum uppi með fátæklegra atvinnulíf?



[16:19]
Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég fæ ekki svar við því hvort hv. þingmaður mótmæli mati Samkeppniseftirlitsins sem kemur fram í umsögn þess um frumvarpið til efnahags- og viðskiptanefndar. Þeir telja eðlilegt að leggja til þá hækkun sem hér um ræðir. Ef farið væri eftir vísitölu neysluverðs frá árinu 2008, veltumörkin eru síðan 2008, ættu veltumörkin að fara upp í upp í 3,2–3,3 milljarða. Það er 56% hækkun. En látum það liggja á milli hluta. Það væri ágætt ef hv. þingmaður gæti svarað því vegna þess að ég er ekki í andsvari við hann. Hann er í andsvari við mig.

Herra forseti. Það er rangt sem hér er verið að hamra á að verið sé að veikja Samkeppniseftirlitið, að verið sé að búa til einhvern farveg eða einhverja möguleika fyrir stærri fyrirtæki til að taka yfir þau minni. Það er hvergi í frumvarpinu verið að stíga nein slík skref. Það er akkúrat fremur verið er að einfalda regluverkið og gera það hagkvæmara fyrir lítil fyrirtæki. Það þýðir ekki að hrista hausinn, hv. þingmaður. Það er bara svoleiðis. Við eigum auðvitað að hafa í huga að það er rétt sem haldið er fram að flókið regluverk felur í sér samkeppnishindranir, ekki síst fyrir lítil fyrirtæki en ekki fyrir hin stóru.



[16:21]
Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst nú ansi sérstakt ef hv. þingmaður lítur á andsvör á þann hátt að ekki megi eiga sér stað skoðanaskipti og spurningar á báða bóga. Auðvitað ræður hann hvort hann kýs að svara mér. (ÓBK: En þú mátt svara mér.) Ég get svarað þér á þann hátt, hv. þingmaður, að það er alveg örugglega rétt hjá Samkeppniseftirlitinu að nauðsynlegt hafi verið að hækka og uppfæra veltumörkin sem höfðu verið óbreytt frá 2008. En fyrr má nú vera. Það var alger óþarfi að fara með þau svona hátt eins og hér er verið að gera og setja þau hlutfallslega langt umfram það sem þau eru á hinum Norðurlöndunum.

Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að flókið regluverk og óþarflega mikið flækjustig getur bitnað illa á litlum fyrirtækjum. Ég held að þingheimur ætti kannski að fara að temja sér vinnulag Evrópusambandsins þegar það undirbýr lög um atvinnurekstur þar sem mottóið er: Hugsum fyrst smátt. Með öðrum orðum: Skoðum hvernig löggjöfin gagnast eða bitnar á litlum fyrirtækjum og ef niðurstaðan er jákvæð fyrir þau er einfaldlega haldið áfram með lögin.

Hér hefur þessu verið öfugt farið. Þau þrjú ár sem ég hef verið á þingi hefur meiri hluti alls tímans farið í að bregðast við og dekstra við vanda risafyrirtækja, stundum tímabundinn eða óvæntan. Ég held að það sé bara kominn tími til þess að hér á þingi verði háværari málsvari lítilla fyrirtækja. Og það er auðvitað rangt hjá hv. þingmanni að hér sé ekki verið að slaka á þegar fyrirtæki munu bara sjálf hafa eftirlit með því hvernig þessu verður háttað. (ÓBK: Það er rangt.)(OH: Heyr, heyr.)



[16:24]
Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Ég ætla að fara nokkrum orðum um samkeppnisreglur og samkeppnisrétt. Það er alveg ljóst og það vita allir að samkeppnisreglur eru ekki óumdeildar þótt flest þjóðfélög telji sig hafa þörf á slíkum reglum, a.m.k. að einhverju leyti. Ég er einn af þeim sem telja að við eigum að hafa mjög öfluga löggjöf á þessu sviði og mjög öfluga eftirlitsstofnun. Við eigum að fara í þá áttina. Við eigum að efla viðkomandi eftirlitsstofnun. Við eigum að efla lögin frekar en að stuðla að veikingu þeirra eins og hér hefur verið bent á og málsmetandi aðilar hafa a.m.k. haft áhyggjur af.

Sumum finnst samkeppnisreglur alvarlegt inngrip ríkisvaldsins í hinn frjálsa markað og að þær takmarki í raun samningsfrelsið. Á sama tíma telja aðrir samkeppnisreglur vera eðlilegar leikreglur. Samkeppnisreglur eru að mínu mati almennar leikreglur á markaði sem gera inngrip ríkisvaldsins í flestum tilvikum óþarft. Þess vegna skil ég ekki að við deilum stundum um gildi samkeppnisreglna, ég segi kannski ekki í þessum sal, hér í þinginu, en þetta gerist í samfélaginu. Þessar leikreglur markaðarins draga úr hugsanlegum afskiptum ríkisvaldsins á markaðnum. Í mínum huga koma öflugar samkeppnisreglur í veg fyrir að ríkisvaldið fari að ákvarða verð, magn, gæði og framleiðsluhætti.

Ríkisvaldið hefur hins vegar hlutverki að gegna. Þetta viðurkenna fræðin svo sannarlega þegar fjallað er um svokallaða markaðsbresti. Í hagfræðinni er kallað eftir því að ríkið hafi hlutverki að gegna, m.a. með samkeppnislöggjöf, þegar hin svokallaða ósýnilega hönd markaðarins bregst, þegar samkeppni mistekst með einhverjum hætti. Adam Smith, sem er oft talinn faðir nútímahagfræði, leit ekki á samkeppni sem stöðugt ástand heldur sem keppni milli tveggja eða fleiri aðila í að selja framboð eða kaupa vörur sem væru til í takmörkuðu magni. Hann sagði í bók sinni Auðlegð þjóðanna, sem kom út árið 1776, að fjármagnseigendur gætu ekki komið saman, jafnvel þótt tilefnið væri einungis til ánægju eða skemmtunar, án þess að félagsskapurinn endaði í einhvers konar samsæri gegn almannaheill eða leynilegu samkomulagi um verðhækkanir. Þessi orð Adams Smiths, þótt gömul séu, hafa margir notað til að réttlæta samkeppnislög og -reglur og var m.a. vísað í þessi ummæli í athugasemdum við frumvarp til samkeppnislaga þegar þau voru sett 1993. Þetta er svona sögulegur fróðleikur.

Hagfræðin kennir að skortur sé á framleiðsluháttum, þ.e. að þarfirnar séu í reynd óendanlegar. Það er einmitt þessi skortur sem mótar síðan öll hagfræðilögmál og hegðun einstaklinga á markaði. Í rauninni byggja samkeppnislög á hagfræði, ekki bara á pólitík, refsipólitík eða lögfræði, heldur byggjast þau að grunni til á hagfræði vegna þess að markaðshagkerfið gerir ráð fyrir að framboð og eftirspurn mætist í jafnvægi í frjálsum viðskiptum. Þetta skiptir mjög miklu máli. Við sem aðhyllumst blandað hagkerfi áttum okkur á þessu. Flestir hagfræðingar viðurkenna þó tilvist svokallaðs markaðsbrests. Þess vegna eru hægri sinnuðustu hagfræðingar tilbúnir að viðurkenna að markaðurinn sé ekki fullkominn. Það gera svokallaðir markaðsbrestir og þess vegna geta inngrip hins opinbera verið réttlætanleg. Markaðsbrestir geta t.d. verið ytri áhrif, eins og mengun eða einokun og fákeppni. Takið eftir því. Við einokun virkar markaðurinn ekki eins og honum ber og þá myndast svokallað einokunarverð sem felur í sér óhagkvæmni. Framleiðslumagnið verður minna en ella. Myndist síðan markaðsráðandi staða og sé hún misnotuð er komið í veg fyrir eðlilegan ávinning neytenda. Mér finnst þetta skipta máli þegar við tölum um samkeppnislög, sérstaklega í umræðu um hvort við viljum efla lögin eða stofnunina sem hefur eftirlit með þeim.

Að mínu mati þurfum við að skilja tilgang lagasetningarinnar. Tilgangurinn á bak við samkeppnislög er einmitt að efla hér hagkvæmni og tryggja eðlilegan ávinning neytenda. Þriðja markmiðið er að sjálfsögðu að huga að því að samkeppni nái að þrífast, að hinn stóri nái ekki að valta yfir hinn minni. Þetta höfum við mýmörg dæmi um eins og ég mun aðeins koma að á eftir.

Í máli Bandaríkjanna gegn Tobacco Associates árið 1972 sagði hæstiréttur Bandaríkjanna að samkeppnislög væru eins og stjórnarskrá atvinnulífsins. Mér finnst hún nokkuð vel orðuð þessi nálgun hæstaréttar Bandaríkjanna á samkeppnislög. Ég held að við ættum að hafa þetta svolítið í huga. Þess vegna furða ég mig stundum á því viðhorfi sem ég skynja hjá samtökum fyrirtækja á Íslandi að vilja draga tennurnar úr Samkeppniseftirlitinu eða jafnvel löggjöfinni. Samkeppnislög eiga ekki bara þjóna hagsmunum neytenda heldur líka hagsmunum smærri fyrirtækja. Ég velti fyrir mér úr þessum stól, og hef svo sem gert áður, að smærri fyrirtæki á Íslandi, sem eru hryggjarstykkið í íslensku atvinnulífi, þurfi í raun og veru málsvara. Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð, þessi öflugu hagsmunasamtök, finnst mér í allt of miklum mæli draga taum stórfyrirtækja, fákeppnisfyrirtækjanna. Hagsmunir stóru fyrirtækjanna, risanna í íslensku hagkerfi, fara ekkert endilega saman við hagsmuni lítilla og meðalstórra fyrirtækja, bara alls ekki. Við sjáum það m.a. á hugmyndum Samtaka atvinnulífsins í skýrslu frá þeim á sínum tíma, með leyfi forseta:

„Til lengri tíma litið má þó ætla að frjálst markaðskerfi feli sjálft í sér bestu trygginguna fyrir virkri samkeppni. Meginhlutverk löggjafar og opinberrar starfsemi á þessu sviði á að beinast gegn mismunun, t.d. vegna opinberrar íhlutunar og styrkja og gegn misnotkun á aðstöðu á borð við markaðsráðandi stöðu. Það á ekki að vera hlutverk opinberrar stofnunar að stýra uppbyggingu atvinnulífsins og hamla þar gegn hagræðingu og aukinni framleiðni.“

Þetta er áhugaverð nálgun og ég get tekið undir ýmislegt þarna. En mér finnst þau gleyma að fókusera á litlu fyrirtækin sem oft eru að kljást við risana á markaðnum. Samkeppni er af hinu góða. Samkeppnislög eru af hinu góða. Uppáhaldslagabálkurinn minn í öllu lagasafninu er samkeppnislög. Alltaf þegar menn ætla að hrófla við þeim, og hvað þá þegar menn, að mati sumra mati, veikja þau með einhverjum hætti eða taka skref til að grafa undan þeim, ættum við að rísa upp á afturlappirnar. Í litlu fákeppnishagkerfi eins og á Íslandi held ég að við þurfum að passa sérstaklega upp á að samkeppnislögin og Samkeppniseftirlitið séu í stakk búin til að verja þá mikilvægu hagsmuni sem um er að ræða.

Í mínum huga, og auðvitað flestra, eru ýmsir kostir fólgnir í virkri samkeppni. Verðið til neytenda lækkar ekki bara heldur fáum við fleiri fyrirtæki til að keppa um hylli okkar sem neytenda því að annar kostur við öfluga samkeppni er að fyrirtæki keppa um viðskiptavinina. Það myndast hvati til nýjunga, endurbóta, aukinna afkasta og stöðugra framboðs ásamt því að verðið helst sem næst framleiðslukostnaði. Ágóðinn af samkeppni á því að leiða til lægra verðs, betri vöru, meira úrvals og meiri skilvirkni sem síðan leiðir til meiri hagsældar. En einokun og fákeppni, sem eru markaðsbrestir alveg eins og mengunin sem ég gat um áðan, skapa einmitt aðstæður þar sem vantar innbyggða hvata samkeppninnar til að halda kostnaði niðri. Sé samkeppni fyrir hendi er hún besti hemillinn á óeðlilega verðlagningu. Ef við lítum aðeins á markmið flestra samkeppnislaga í heiminum er það einmitt að tryggja að hin efnahagslega hagkvæmni verði þannig að neytendur geti notið lægra verðs, fjölbreyttara úrvals og betri gæða. Samkvæmt 1. gr. íslensku samkeppnislaganna er það einmitt:

„Markmið laganna er að efla virka samkeppni í viðskiptum og þar með vinna að hagkvæmri nýtingu framleiðsluþátta þjóðfélagsins. Markmiði þessu skal náð með því að:

Vinna gegn óhæfilegum hindrunum og takmörkunum á frelsi í atvinnurekstri,

vinna gegn óréttmætum viðskiptaháttum, skaðlegri fákeppni og samkeppnishömlum,

auðvelda aðgang nýrra keppinauta að markaðnum.“

Mér finnst þessi hugsun í samkeppnislögum hér á landi göfug og hana má rekja til Evrópulöggjafar.

Sumir tala með þeim hætti að markaðurinn eigi að hafa eftirlit með sjálfum sér. Mér finnst það gjaldþrota hugmyndafræði og reynslan sýnir að það er gjaldþrota hugmyndafræði. Stórfyrirtæki geta ekki haft eftirlit með sjálfum sér. Þegar ég hef teflt fram þessari fullyrðingu hef ég verið beðinn um dæmi. Það eru mýmörg dæmi um að íslenskt stórfyrirtæki brjóti samkeppnislög sem bitnar á smærri keppinautum þeirra annars vegar og hins vegar á neytendum, almenningi. Ég hef tekið saman lista en á eftirtöldum mörkuðum hafa íslensk stórfyrirtæki brotið á neytendum og smærri fyrirtækjum sem þau hafa verið að keppa við: Númer eitt, á fjármála- og bankamarkaðnum; númer tvö, á matvörumarkaðnum; númer þrjú, á fjarskiptamarkaðnum; númer fjögur, á eldsneytismarkaðnum; númer fimm, á byggingarvörumarkaðnum; númer sex, á flutningamarkaðnum; númer sjö, á póstmarkaðnum; númer átta, í landbúnaði; númer níu, á flugmarkaðnum og númer tíu, í upplýsingatækni.

Eins og herra forseti skynjar, sér og hlustar á eru þetta risar á markaði þar sem við sem neytendur höfum gríðarlega mikla hagsmuni af því að samkeppni sé virk. Þetta er ekki sjaldgæft. Þetta eru ekki jaðartilvik þar sem íslensk stórfyrirtæki brjóta samkeppnislög með einum eða öðrum hætti. Þetta virðist frekar vera reglan heldur en hitt. Þetta er það sem ég hef áhyggjur af, því að við hér inni eigum að gæta hagsmuna neytenda, gæta hagsmuna kjósenda, þetta er sami hópurinn. Þess vegna segi ég að þessi listi, sem gæti verið talsvert lengri, ber þau merki að við getum ekki treyst íslenskum stórfyrirtækjum til að hafa eftirlit með sjálfum sér, bara þvert á móti.

Við vitum að hér eru stjórnmálamenn sem hafa frekar talað fyrir því að við eigum að draga úr eftirliti hvert sem litið er. Ég er ekki að boða eitthvert eftirlitssamfélag. Ég held hins vegar að skilvirkt og hagkvæmt eftirlit sem hefur almannahagsmuni að leiðarljósi vinni í þágu almennings. Ég tók sem dæmi tíu risastóra fákeppnismarkaði. Ég get nefnt brot gegn hagsmunum neytenda af hálfu íslenskra stórfyrirtækja á öllum þessum mörkuðum. Það segir mér að við þurfum að efla Samkeppniseftirlitið, efla samkeppnislöggjöfina. Mig langar í því sambandi að rifja upp þegar Samfylkingin var í ríkisstjórn fyrir meira en áratug. Það fyrsta sem ríkisstjórn Samfylkingarinnar gerði var að auka fjárveitingar til Samkeppniseftirlitsins. Á tveimur árum var 50% aukning í fjárveitingum til Samkeppniseftirlitsins. Mig langar að sjá þetta aftur því að mér finnst vera vísbendingar hjá þessari ríkisstjórn um að við séum að fara í hina áttina.

Þessi ríkisstjórn er búin að leggja niður Fjármálaeftirlitið sem sjálfstæða einingu. Það er komið í Seðlabankann. Við tókum þann slag fyrir jól. Þessi ríkisstjórn kynnti breytingar á samkeppnislögunum, fyrstu drögin að því frumvarpi sem við ræðum hér, þar sem átti að veikja Samkeppniseftirlitið með þeim hætti að afnema heimild þess til að bera niðurstöðu áfrýjunarnefndar samkeppnismála undir dómstóla. Þannig leit fyrsta útgáfa frumvarpsins út. Hv. þingmenn muna það. Að sjálfsögðu var það gagnrýnt gríðarlega og var sem betur fer tekið út. Við vitum að ríkisstjórnarflokkarnir hafa líka í þessum sal beinlínis fellt tillögur stjórnarandstöðunnar um að efla aðrar lykileftirlitsstofnanir. Þið hafið fellt tillögur okkar um auknar fjárveitingar til skattrannsóknarstjóra. Þið hafið fellt tillögur stjórnarandstöðunnar um að efla eftirlit héraðssaksóknara. Hvort sem umræðan er um Fjármálaeftirlitið, Samkeppniseftirlitið, skattrannsóknarstjóra, héraðssaksóknara, Fiskistofu eða aðra eftirlitsaðila í samfélaginu mæta þeir ríkisstjórn sem hefur þá hugmyndafræði að veikja frekar en að styrkja. Það er áhyggjuefni, herra forseti. Þetta er hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins. Þess vegna sjáum við líka að það er ekki einn einasti þingmaður Vinstri grænna í salnum í þessari umræðu og það er ekki einn einasti þingmaður Framsóknarflokksins í salnum í þessari umræðu. En Sjálfstæðisflokkurinn gætir sinnar hugmyndafræði sem er andstæð við mína þegar kemur að öflugu opinberu eftirliti. Það sem ég er að reyna að draga fram í þessari stuttu ræðu minni er að við þurfum að fara varlega. Við erum ekki að rífast hér um keisarans skegg eins og við gerum oft í þessum sal. Þetta er eitt af þeim málum sem skipta máli. Þetta er eitt af þeim málum sem Samfylkingin, með hv. þm. Oddnýju Harðardóttur í fararbroddi, setti á oddinn að reyna að ná jákvæðum breytingum á í meðförum þingsins. Hv. þm. Oddný Harðardóttir náði að gera vont mál aðeins skárra. (Gripið fram í: Ha?) Gera vont mál aðeins skárra. Það gerðist í meðförum þingsins eins og hv. þingmenn hafa tekist á um og rætt hér fyrr í dag.

Að lokum, herra forseti, þurfum við kannski að taka dýpri og skemmtilegri umræðu um samkeppnislög og Samkeppniseftirlitið, ekki síst á tímum Covid þar sem við sjáum hugsanlega fram á frekari samþjöppun á markaði. Vegna þessarar dýpstu kreppu íslensks hagkerfis í 100 ár er enn meiri ástæða til að við pössum okkur að hér sé öflugt Samkeppniseftirlit sem hefur fjárveitingar og stuðning hins opinbera til að grípa inn í og bregðast við ef hér er að verða til óæskilegt fákeppnisástand. Það er nóg af fákeppni á Íslandi. Fákeppni er skilgreind sem tvö til þrjú fyrirtæki á markaði. Við sjáum að á öllum lykilmörkuðum sem íslenskir neytendur eru á, hvort sem það er matvörumarkaðurinn, fjármálamarkaðurinn, fjarskiptamarkaðurinn, eldsneytismarkaðurinn o.s.frv.,er fákeppni. Þess vegna skiptir svo miklu máli að við reynum að draga úr fákeppni eins og kostur er. Samrunar draga í eðli sínu eða geta dregið, ég ætla ekki að taka of stórt upp í mig, úr samkeppni. Ég get vitnað um það að þegar Bónus sameinaðist Hagkaup árið 1992, reyndar áður en samkeppnislögin tóku gildi og í kjölfarið á því varð frekari samþjöppun á matvörumarkaði, þá hækkaði verðið til neytenda meira en verð hækkaði almennt milli birgja og heildsala. Þetta skoðaði Samkeppnisstofnun á sínum tíma í sérstakri skýrslu sem áhugasamir geta kynnt sér.

Ég vona að við hv. þingmenn, hvaðan sem við komum í pólitík, getum sameinast um að verja Samkeppniseftirlitið og verja samkeppnislögin því að markmið þeirra er svo göfugt. Það markmið er að tryggja hér eðlilegan og réttmætan ávinning neytenda, öfluga samkeppni, að lítil fyrirtæki sem ná að þrífast hér þurfi ekki að óttast hin stóru á markaðnum. Þetta og hagkvæm nýting framleiðsluþátta er hugsunin á bak við samkeppnislögin. Þetta eru lykillög sem við þurfum að standa vörð um en ekki vega að með einum eða öðrum hætti.



[16:42]
Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég var nokkuð ánægður með fyrri hluta ræðu hv. þingmanns og mér þótti gaman að hlusta á hann. Ég var kannski ekki sammála öllu, en ég skemmti mér yfirleitt betur við að hlusta á fólk með alls konar skoðanir heldur en á það sem er sammála mér. Þegar leið á seinni hluta ræðunnar fóru að renna á mig tvær grímur. Nú erum við sem erum hægra megin í tilverunni, frjálshyggjumenn eða íhaldsmenn, ekki talsmenn þess að hér sé stjórnleysi. Við erum almennt talsmenn þess að hér séu ákveðnar leikreglur, þær séu eins einfaldar og hægt er að hafa þær og að leikreglurnar gildi um alla, allir séu jafnir fyrir lögum og reglum. Þannig er nálgunin. Það má vitna til þess sem Milton Friedman sagði þegar hann hélt kvöldverðarboð hjá Verslunarráði eins og það hét, hygg ég upp úr 1980, 1983 eða 1984. Hann var spurður hver mesta ógnun við kapítalisma væri og hann stóð upp og horfði yfir sal fullan af íslenskum kaupsýslumönnum og bað alla að horfa í spegil. Það er auðvitað rétt að kapítalisminn er stundum sinn versti óvinur.

Ég saknaði hins vegar eins hjá hv. þingmanni. Hann hefur greinilega áhyggjur af því að hér séu vond stórfyrirtæki sem geti misnotað sér aðstöðu o.s.frv. Það er vissulega rétt. Dæmi eru fyrir hendi. En það eru hins vegar ríkið og sveitarfélög sem eru stórir leikendur hér á markaði og koma í veg fyrir heilbrigða samkeppni, koma í veg fyrir að fyrirtæki, einkafyrirtæki, geti t.d. boðið þjónustu sína í Reykjavík eins og gert hefur verið. Ég nefni þar t.d. söfnun á lífrænum úrgangi (Forseti hringir.) sem einkafyrirtæki vildi gera en Reykjavíkurborg hafnaði og kom í veg fyrir. Ég spyr hv. þingmann: Er ekki rétt að við förum að skoða (Forseti hringir.) hvort við þurfum að setja inn í samkeppnislögin einhver ákvæði sem taka á ósanngjörnum (Forseti hringir.) samkeppnisrekstri ríkisins alveg sérstaklega, en ekki einblína alltaf á stórfyrirtæki?



[16:45]
Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseta. Samkeppnislögin ná líka til ríkisstofnana og stofnana sveitarfélaga. Það liggur alveg fyrir. Það þarf bara að skoða gildissvið. Þetta nær alveg til þeirra. Svarið er því einfalt: Já, það á ekkert að svína á neinu með einum eða öðrum hætti hvað það varðar. Þess vegna skiptir svo miklu máli að Samkeppniseftirlitið sé öflugt og það geti sinnt kvörtunum eða ábendingum, hvort sem þær koma frá neytendum eða einkafyrirtæki, gagnvart íslenskum fákeppnisfyrirtækjum eða opinberum aðilum. Þannig að já, við hljótum að geta verið sammála um að efla stofnunina og hætta að fella tillögur stjórnarandstöðunnar um að setja aukna fjármuni í Samkeppniseftirlitið. Getum við hv. þingmaður verið sammála um það?

Hv. þingmaður segir að hann sé hlynntur almennum leikreglum og jafnræði. Ég veit að hann er það. Samkeppnislögin eru einmitt til að tryggja almennar leikreglur og jafnræði. Þetta er löggjöf sem kemur í veg fyrir að við höfum hér handahófskennt inngrip opinberra aðila. Þetta eru almennar leikreglur sem allir eiga að fara eftir.

En ég hef miklar áhyggjur af því og hv. þingmaður hlýtur, ef hann kærir sig, að hafa skoðun á upptalningu minni þegar kemur að víðtækri og sorglegri brotasögu íslenskra stórfyrirtækja, af brotum þeirra á hagsmunum ekki bara neytenda heldur líka annarra fyrirtækja sem hv. þingmanni er umhugað um. Ég veit að hv. þingmaður styður frjálsa samkeppni en það eru ekki síst litlu fyrirtækin — og við fókuserum svolítið á neytendur í þessari umræðu — sem verið er að brjóta á af hálfu hins stóra. Ég nefndi tíu lykilmarkaði og gleymdi að nefna lyfjamarkaðinn en það er líka dæmi um brot á hagsmunum lítilla fyrirtækja og neytenda þess markaðar. Þetta hlýtur að vera svolítið vakningarkall. Á meðan staðan er óvenju slæm á Íslandi þá hljótum við að vilja fara í hina áttina og efla stofnunina og tök Samkeppniseftirlitsins á því að skipta sér af markaði sem er aftur að þróast í óæskilega átt.



[16:48]
Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég ætla að halda aðeins áfram. Ég hef nefnilega ekki orðið var við að þingmenn Samfylkingarinnar legðust á árarnar með mér og öðrum þingmönnum sem höfum bent á ítrekuð brot ríkisfyrirtækja, ríkisvaldsins og sveitarfélaga, sérstaklega Reykjavíkurborgar, þegar kemur að hagsmunum einkafyrirtækja. Ég benti á t.d. að Reykjavíkurborg kom í veg fyrir það að einkafyrirtæki gæti farið að bjóða íbúum hér að hirða lífrænan úrgang. Borgin sagði nei. Reykjavíkurborg hefur með ýmsum öðrum hætti komið í veg fyrir að einkafyrirtæki að gæti haslað sér völl á öðrum sviðum. Ég ætla ekki að tala um þegar ég benti á það hér að Ríkisútvarpið vísvitandi bryti lög um stofnun dótturfélags um samkeppnisrekstur. Enginn hér í þingsal tók undir. Það var ekki fyrr en Ríkisendurskoðun einu og hálfu ári síðar benti á þá augljósu staðreynd að menn fóru aðeins að ranka við sér. En þegar kemur að ríkisfyrirtækjum, sérstaklega opinberum hlutafélögum, þá er eins og í hugum hv. þingmanna Samfylkingarinnar sé einhver friðarskylda. Það megi ekki einhvern veginn ræða um hvernig ríkisvaldið og hið opinbera kemur fram við einkafyrirtæki. Það er alltaf talað um stórfyrirtækin. En þegar kemur að ríkisvaldinu og sveitarfélögum þá er allt í lagi hvernig þau haga sér, hvernig þau koma fram, ekki síst við lítil fyrirtæki. Ég ætla að benda hv. þingmanni á hvernig skipulagsvaldið í Reykjavíkurborg hefur komið í veg fyrir eðlilega samkeppni, t.d. á matvörumarkaði og eldsneytismarkaði.



[16:49]
Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Eins og ég gat um þá kemur fram í 2. gr. samkeppnislaga að þau lög taka til opinberra aðila í atvinnustarfsemi á sama hátt og einkaaðila. Auðvitað geta opinberar stofnanir gert mistök og jafnvel brotið á réttindum einstaklinga og fyrirtækja en stóri vandinn liggur ekki þar, hv. þingmaður. Talandi um friðarskyldu þá finnst mér hv. þingmaður iðulega setja í forgang hagsmuni einkafyrirtækja, stórfyrirtækjanna. En stóri vandinn er að hér eru dæmi um brot á samkeppnislögum á fjármála- og bankamarkaði, á matvörumarkaði, á lyfjamarkaði, á fjarskiptamarkaði, á eldsneytismarkaði, á byggingarvörumarkaði, á flutningamarkaði, á póstmarkaði, í landbúnaði, í fluginu og í upplýsingatækni. Þetta er íslenska brotasagan. Það er það sem ég er að reyna að draga fram hér. Það gengur ekki að fókusa á lítinn afkima. Ég er ekki að réttlæta brot af neinu tagi. Skoðum það. Hafi hv. þingmaður rökstuddan grun um að verið sé að brjóta á hagsmunum fyrirtækja þá hvet ég viðkomandi aðila til að leita til Samkeppniseftirlitsins, sem ég vil styrkja. En vandinn er hvernig íslensk stórfyrirtæki hafa hagað sér á þessum fákeppnismörkuðum. Það má ekki vera nein friðarskylda, hv. þingmaður. Íslensk fákeppnisfyrirtæki þurfa að finna fyrir því að þau geti ekki hagað sér eins og þau kjósa á markaði. Þau mega ekki misnota markaðsráðandi stöðu, gangast undir óeðlilegar viðskiptahömlur o.s.frv. Brot á samkeppnislögum er ekki brot án fórnarlamba heldur líður allur almenningur fyrir þau. Þegar fyrirtæki brjóta samkeppnislög, hvort sem það er ólögmætt samráð eða misnotkun á markaðsráðandi stöðu, þá eykur það kostnað fyrir íslensk heimili og Ísland, herra forseti, er nógu dýrt fyrir þó svo ekki bætist við hærra verð en ella vegna samkeppnislagabrota hjá íslenskum einkafyrirtækjum.



[16:52]
Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Samkeppnislög eru löggjöf af því tagi sem er afskaplega mikilvægt að sé góð, vönduð og þjóni tilgangi sínum. Tilgangurinn er jú að skapa leikreglur á markaði þar sem fyrirtæki starfa. Samkeppnislögin hafa það hlutverk að halda óheftri starfsemi á markaði í skefjum þegar hún brýtur á réttindum eða rétti annarra fyrirtækja, neytenda og alls almennings. Jafnan eru miklir hagsmunir undir þegar tekist er á á markaði og alls ekki sama hvernig sú samkeppni er rekin. Stjórnarmeirihlutinn hefur lagt fram tillögur um breytingar á samkeppnislögum og er orðin nokkur stund síðan það var gert og lagt fram í samráðsgátt eins og nú tíðkast. Síðan hefur það gerst í framhaldinu að miklar sviptingar hafa orðið í efnahagslífinu af ástæðum sem enginn sá fyrir.

Þegar maður skoðar málið allt saman og fjölmargar umsagnir sem hafa borist hv. efnahags- og viðskiptanefnd sem fjallar um málið ber það þess glöggt merki að þarna togast á hagsmunir. Ég held að það sé eiginlega ekki hægt að komast hjá því að nefna það, þegar maður horfir á þessar umsagnir, að þær bera þess nokkur merki að mörg fyrirtæki, mörg hagsmunasamtök fyrirtækja, hafa verið mjög jákvæð í garð frumvarpsins. Ég hef jafnan sagt, og kannski einkum á hinum síðari árum, að hagsmunasamtök séu gríðarlega mikilvæg í samfélagi okkar. Þau hafa oft á að skipa fólki sem hefur mikla þekkingu og reynslu og á það ber að hlusta og gaumgæfa það sem þar er sagt. En ekki er þar með sagt að samtök af því tagi hafi í fyrsta lagi alltaf rétt fyrir sér og í öðru lagi að þau hafi heildarhagsmuni að leiðarljósi, almannahagsmuni, þegar þau tjá sig um einstök málefni. Það er mjög mikilvægt að við höfum þetta alltaf í huga þegar við erum að hlusta á hagsmunasamtök af hvaða tagi sem er. Samkeppnislögin okkar eru ekki gallalaus, það má lagfæra þau og þau má bæta. Það er jafnvel kallað eftir því, og það gildir svo sem um alla löggjöf, að löggjöfin sé sanngjörn, hún sé með einhverjum hætti þannig að menn geti séð fyrir hvað má og hvað má ekki. Það er líka mikilvægt að hún sé skilvirk og sinni hlutverki sínu. Um þetta held ég að við getum flest öll sameinast.

Hvað varðar frumvarpið sem hér liggur fyrir og er verið að ræða þá er í fyrsta lagi í mínum huga mjög skýrt að á því eru ýmsir annmarkar sem bent hefur verið á, bæði þeir sem í því eru og síðan annað sem hefði gjarnan mátt taka upp í frumvarpi af þessu tagi eða endurskoðun. Það er að mínu mati ekkert sem kallar á það að veigamiklar breytingar á samkeppnislögum séu gerðar núna. Það er engin tímapressa og eiginlega má segja að það sé síður en svo vegna þess ástands sem uppi er í samfélaginu núna og það er fyrirséð að margvíslegar breytingar verða á samsetningu atvinnulífsins og það verður uppstokkun og trúlegt að mörg fyrirtæki muni leggja upp laupana, því miður, og það verði svona endurskipulagning í því þar sem hætt er við því að fyrirtækjum fækki og jafnvel að þau sem eftir verða stækki. Þannig að þetta eru aðstæður þar sem ég tel að sé óráðlegt að ráðast í miklar breytingar á samkeppnislögunum. Í það minnsta þurfi meiri íhugunar við. Þess vegna er ég með 1. minni hluta á frávísunartillögunni. Rökin eru einmitt þessi, að það þurfi að flýta sér hægt og það þurfi að hugsa málið betur.

Það má nefna í þessu samhengi, bara til að benda á það, að eitt veigamikið atriði sem var í frumvarpinu var að taka úr sambandi heimildir Samkeppniseftirlitsins til íhlutunar án brotsins, eins og það er kallað, á mörkuðum þar sem samþjöppun eða samkeppnisstaðan verður óeðlileg án þess að beinlínis sé hægt að segja að eitthvert fyrirtæki hafi brotið af sér. Það verða einfaldlega til þær aðstæður og markaðsbrestur að það verður að grípa til íhlutunar.

Það var lögð mikil áhersla á að þetta færi í gegn og í umsögnum margra hagsmunaaðila var þetta talið eitt af mikilvægustu ákvæðum frumvarpsins. Það var mjög vísað til þess að hér væri verið að feta sömu slóð og væri verið að gera í Evrópu. Það kann að vera að frumvarpið hafi orðið til fyrir það löngum tíma, eða þessi hugmynd, að menn hafi ekki haft tíma eða tækifæri til að fylgjast með þeirri þróun sem er að verða í Evrópu sem gengur einmitt út á að það sé mjög mikilvægt að samkeppniseftirlit hafi slíkar heimildir þannig að það að vísa til þróunar í öðrum ríkjum reyndist, a.m.k. þegar hér var komið sögu, vera rangt. Mín bjargfasta skoðun er sú að það séu mörg tækifæri til að gera betur, bæði þannig að þeir sem lögin varða með beinum hætti, þ.e. fyrirtækin í landinu sem líta á þetta sem sínar leikreglur, það er hægt að laga þar ýmislegt og straumlínulaga og gera auðveldara viðfangs. En við megum heldur ekki gleyma því að á hinni hliðinni eru þá annars vegar þau fyrirtæki sem eru minni í sniðum, síðan auðvitað allur almenningur sem misnotkun á ráðandi stöðu eða misbeiting á einhvers konar valdi sem fyrirtæki hefur á markaði bitnar fyrst og fremst á. Það var t.d. eitt af því sem var sterklega bent á í umsögnum frá Samkeppniseftirlitinu sjálfu og Neytendasamtökum o.fl., að það vantar sárlega ákvæði í samkeppnislögin um það hvernig þeir geta sótt bætur sem verða fyrir skakkaföllum vegna þess að lögin eru brotin. Þannig að mín niðurstaða er einfaldlega sú að málið sé ekki það brýnt núna og það sé miklu skynsamlegra að hugsa málið upp á nýtt og menn reyni að skoða öll þessi mál mun betur.

Eitt atriði í viðbót sem ég mundi eftir hérna þegar ég ætlaði að fara að slá botninn í þetta er þetta með áfrýjunarnefndina og samspil við dómstóla. Fyrst átti nú að banna Samkeppniseftirlitinu að geta skotið úrskurðum áfrýjunarnefndarinnar til dómstóla en nú er farin blönduð leið. Síðan kemur fram í nefndarálitinu frá meiri hlutanum að þar eru menn farnir að velta fyrir sér hvort setja eigi upp sérdómstól sem fjalli um samkeppnismál og reyndar fleiri mál. Ég held að það sé ekkert afleit hugmynd og það er sjálfsagt að skoða hana en sýnir enn og aftur að lausnin sem frumvarpið boðar leysir ekki þann vanda sem henni er ætlað og menn eru þegar farnir að huga að einhverju öðru. Þess vegna segi ég, og það er mín meginniðurstaða: Við skulum láta staðar numið hér í meðferð málsins í þinginu og vísa því til ríkisstjórnarinnar til frekari úrvinnslu og fá síðan, ég veit ekki hvað það tekur langan tíma, eftir einhverja mánuði, kannski í haust eða vor, betur unnið frumvarp þar sem búið er að fara yfir málin með þeim aðilum sem gerst þekkja og þá með sem víðastri skírskotun og horfa til þróunar í öðrum löndum. Þá er ég alveg sannfærður um að getum við stigið lengra í þá átt að bæta þetta allt saman. En að lokum þá er það þannig að samkeppnislög sem hagsmunasamtök í atvinnulífinu, atvinnurekendur, eru fullkomlega sátt við eru samkeppnislög sem hafa ekki nægt bit.



[17:03]
Þorgerður K. Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Þetta er mikilvæg löggjöf sem við fjöllum hér um. Við megum ekki gleyma því að samkeppni er öflugasta neytendaverndin og þess vegna er það ekki lítið mál þegar settar eru fram stórar og miklar breytingar og ekki lítið mál hver hugur ríkisstjórnarinnar er þegar kemur að samkeppnismálum. Og af hverju segi ég þetta? Málið var sett í samráðsgáttina — við þurfum reyndar aðeins að fara að huga að því hvort hún sé að fúnkera í raun og veru því að þegar athugasemdir koma er oft ekki tekið tillit til þeirra. En út af þessu máli sem ríkisstjórnin lagði fram, og sýndi ákveðinn hug og markmiðssetningu af hálfu ríkisstjórnarflokkanna, ekki síst þess flokks sem sér um samkeppnismálin, þá voru athugasemdirnar sem betur fer það miklar og þungar og það háværar að dregið var í land hvað það varðar. Stefnt var að því að veikja íslensku samkeppnislöggjöfina og var m.a. fyrirhugað að afnema heimild Samkeppniseftirlitsins til að fara með niðurstöðu áfrýjunarnefndar samkeppnismála fyrir dómstóla. Auðvitað hefði það veikt mjög möguleika Samkeppniseftirlitsins til að verja sig og ýta undir ákveðna samkeppni. Ef það lagaumhverfi hefði verið til staðar hefði sú leið sem Landsréttur staðfesti á þessu ári — en þá staðfesti Landsréttur að Mjólkursamsalan hefði gerst sek um samkeppnisbrot og bæri að greiða ríkinu tæpan hálfan milljarð vegna samkeppnislagabrota — ekki verið fær og ekki verið reynd, ef búið hefði verið að taka af þessa heimild Samkeppniseftirlitsins til að fara áfram með málið. Þess vegna segi ég: Þegar öflugasta neytendaverndin er samkeppni og þegar við greinum hug til þess að veikja samkeppni hljóta öll viðvörunarljós að blikka.

Ég leyni því ekki að í samningaviðræðum við þinglok lögðum við í Viðreisn mikla áherslu á að hægja á ferli breytinga varðandi samkeppnislöggjöfina, af því að hún er svo mikilvæg, frekar en að ýta í gegn máli sem er ekki fullburða. Er ég með þessu að segja að ekki megi breyta neinu í samkeppnislögunum? Aldeilis ekki. Og það er ekki þannig að Samkeppniseftirlitið sé yfir gagnrýni hafið, aldeilis ekki. Það er algerlega eðlilegt að skoða t.d. einfaldara regluverk, og þá raunverulega einfaldara regluverk, til að ýta undir samkeppni og neytendavernd. Það er mjög eðlilegt að dregið sé fram að tímabinda eigi skipunartíma forstjóra Samkeppniseftirlitsins. Það má líka taka undir það, sem hefur m.a. komið fram hjá Gylfa Magnússyni, fyrrverandi formanni stjórnar Samkeppniseftirlitsins, að skerpa þurfi á hæfiskröfum þeim sem gerðar eru til stjórnar Samkeppniseftirlitsins. Við þeirri athugasemd var reyndar ekki brugðist. Það má því skerpa á ýmsu varðandi Samkeppniseftirlitið.

Við í Viðreisn höfum líka lagt gríðarlega mikla áherslu á að auka leiðsagnarhlutverk Samkeppniseftirlitsins af því að það sparar tíma og fjármagn. Það skiptir miklu máli. Eftirlitið hefur verið gagnrýnt fyrir að hafa ekki sinnt því sem skyldi af því að heimildin er til staðar. Og af hverju skyldi það nú vera? Þegar fjárframlög til Samkeppniseftirlitsins eru skoðuð sést að leynt og ljóst hefur verið dregið úr framlögum til eftirlitsins. Það segir ákveðna sögu, ekki síst í tíð þessarar ríkisstjórnar og ríkisstjórnarinnar 2013–2016. Og það segir ákveðna sögu, virðulegi forseti, þegar viðhorfið er svona, af því að það fjármagn sem hægt væri að eyrnamerkja til Samkeppniseftirlitsins, til þess að ýta undir leiðsagnarhlutverkið, myndi bæði vera í þágu lítilla sem stórra fyrirtækja. Við höfum upplifað ákveðinn samruna á smásölumarkaði, við höfum upplifað eitt og annað sem eðlilegt, mikilvægt og brýnt væri að eftirlitið fari yfir. En það hefði líka verið hjálplegt ef stigið hefði verið fyrr inn í ferlið. Það hefði sparað bæði tíma og mikla fjármuni fyrir fyrirtæki sem fóru af stað í samrunaferlið. Það er því ekki þannig að ekki eigi að endurskoða samkeppnislögin. Það er um að gera og það er það sem við eigum að gera. En það er ekkert í dag sem kallar á að ýta eigi þessu máli í gegnum þingið. Það er miklu frekar eftir heimsfaraldurinn, eftir Covid, því að við erum að sjá fyrirtæki flosna upp í einum af grunnatvinnuvegum okkar, ferðaþjónustunni. Við sjáum gríðarlegan samruna á þeim markaði sem ég held að muni skipta máli. Ég held að hagræðing þurfi að eiga sér stað innan ferðaþjónustunnar, ákveðin samþjöppun, en ekki sé þá á sama tíma verið að draga tennur úr Samkeppniseftirlitinu. Þess vegna segi ég: Það er miklu frekar núna, undir heimsfaraldri, með m.a. stöðuna innan ferðaþjónustunnar og víða annars staðar í samfélaginu, að við hefðum átt að hægja á nákvæmlega þessu. Eins og ég segi höfum við í Viðreisn verið reiðubúin til að beita okkur fyrir því að eiga þverpólitískt samstarf um þetta en fá líka fleiri raddir strax að borðinu til að styrkja betur það regluverk sem er í kringum samkeppnismálin sem eru okkur ótrúlega mikilvæg.

Ég vil líka benda á þungann í umsögnum ASÍ og Neytendasamtakanna. Það er ekkert hér annað en ákveðinn þvergirðingsháttur sem leiðir til þess að við, eða stjórnarflokkarnir, erum að keyra þetta mál í gegn. Ég hefði viljað vinna það mun betur og undirstrika að hugsa líka um samhengi Samkeppniseftirlitsins, í ljósi þess ástands sem við erum í í dag þar sem eru, eins og ég gat um áðan, kauptækifæri þeirra stóru, og við upplifum vonandi ekki eftir þessa kreppu að ríkisstjórnin hafi ekki gert neitt til að hafa leikreglurnar heilbrigðar sem stuðla að því að það séu þá ekki alltaf sömu gömlu andlitin og sömu gömlu vinirnir sem kaupa upp heila og hálfa markaðinn. Það vil ég ekki sjá.

Við verðum líka að hafa í huga hið mikilvæga samhengi Samkeppniseftirlitsins og samkeppnismarkaða, skilvirkra samkeppnismarkaða. Það er meginparturinn af íslenska atvinnulífinu. Mig minnir að 90–94% fyrirtækja séu lítil og meðalstór fyrirtæki. Þau eru stólpinn, meginstólpinn, í íslensku atvinnulífi og það eru akkúrat þau fyrirtæki, ekki síður en neytendur sjálfir, sem stóla á virkt samkeppniseftirlit, sem stóla á að til staðar sé eftirlit sem þori að spyrja ákveðinna spurninga, af því að það eru ákveðin lítil fyrirtæki og meðalstór fyrirtæki sem þora ekki að spyrja spurninga eða rugga bátnum af ótta og óöryggi gagnvart þeim sem fjármagnið hafa og eru stóru aðilarnir á markaðnum. Þannig að á fámennum markaði eins og hér þá verður samkeppnisumhverfi sem slíkt alltaf ákveðið samspil að jafnvægi á milli stærðarhagkvæmni á litlum markaði. Við sjáum að á ákveðnum sviðum hefur ákveðin stærðarhagkvæmni á markaði átt sér stað, sem er ágætt og mikilvægt upp á að auka hagkvæmni og hagvöxt. En við verðum líka að gæta að því að þetta jafnvægi sé á milli virkrar samkeppni og stærðarhagkvæmni. Það er af þeim sökum m.a. sem ég geld varhuga við að stíga skref sem að mínu mati eru ekki nægjanlega skýr og skörp til að styrkja stöðu neytenda og lítilla og meðalstórra fyrirtækja.

Ég hef líka undirstrikað og sagði það áðan: Sagan og aðdragandinn að þessu máli segir svo mikið um viðhorf ríkisstjórnarinnar gagnvart neytendum og samkeppni, að ríkisstjórnin hafi í fyrstu ætlað sér að veikja og afnema heimild Samkeppniseftirlitsins til að fara með mál fyrir dómstóla. Það segir sína sögu. Það segir líka sína sögu að við vorum hér fyrir nokkrum vikum að ræða neytendamálin, að ríkisstjórnin afgreiðir frá sér mál sem varðar inneignarnótur vegna pakkaferða, mál sem gekk þvert gegn eignarrétti en ekki síður neytendavernd. Þess vegna segi ég: Þetta dregur fram viðhorf ríkisins og ríkisstjórnarinnar gagnvart neytendum annars vegar og samkeppni hins vegar. Og talandi um samkeppni og viðhorf gagnvart samkeppni og almennum leikreglum á samkeppnismarkaði, þá höfum við í Viðreisn ítrekað lagt fram frumvarp um að leggja niður verðlagsnefnd búvara, sem er ekkert annað en söguleg arfleifð sem þjónar ekki tilgangi lengur í nútímalegum heimi samkeppni, ef menn vilja raunverulega byggja undir samkeppni. Við höfum líka lagt fram mál um að leggja niður sérreglur fyrir tiltekið fyrirtæki á mjólkurmarkaði, Mjólkursamsöluna. En ríkisstjórnin heldur hlífiskildi nákvæmlega yfir þessu, að hafa ákveðnar sérreglur um tiltekið fyrirtæki, þeirra fyrirtæki, á markaði. Það má ekki nefna það hér í þessum þingsal öðruvísi en að það sé kolfellt að láta alla samkeppnislöggjöfina gilda um mjólkurmarkaðinn. Það má ekki nefna hér. Ég segi þetta og dreg þetta fram til að sýna fram á að það eru ekki tilteknir vaktarar á ferð hjá ríkisstjórninni þegar kemur að neytendamálum eða samkeppnismálum.

Svo heyrir maður það í andsvörum af hálfu stjórnarflokkanna að þeir nái ekki upp í nef sér þegar kemur að heilbrigðri samkeppni og hinu opinbera. Ég er algerlega sammála því. Við eigum að gera miklu meira til að undirstrika að samkeppnislög gilda líka um hið opinbera á ákveðnum sviðum. Það er ekki spurning. En hver hefur reynslan verið þegar við í Viðreisn höfum lagt fram frumvarp til að tryggja aðkomu einkarekstrar, t.d. á sviði heilbrigðismála til að losa um biðlistana? Hvað hefur Sjálfstæðisflokkurinn gert? Ítrekað fellt tillögur okkar í Viðreisn um að laga það biðlistaástand sem er í samfélaginu varðandi liðskiptaaðgerðir og fleiri slíkar aðgerðir. Og ég sé ekki betur en að í dag hafi Samband ungra Sjálfstæðismanna, varaformaður þess, sett fram mjög harða gagnrýni á þingmenn Sjálfstæðisflokksins hvað þetta varðar. Þetta er því bara hjómið eitt þegar þingmenn Sjálfstæðisflokksins koma hingað upp og tala um samkeppni, tala um einkarekstur; þegar þeir fá tækifæri til þess hér í þessum sal að ýta á græna hnappinn er það aldrei gert. Þá er það alltaf rauði hnappurinn af því að annaðhvort koma tillögurnar ekki frá réttum aðila eða að ekki má fara út fyrir ramma stjórnarsáttmálans. Ókei, það getur svo sem verið skiljanlegt, en segið það þá bara. Það er um að gera að segja það en ekki koma hingað upp lon og don og tala um mikilvægi einkarekstrar en gera ekki neitt til þess að ýta undir að hann styrkist í samfélaginu, frekar en að koma síðan fram með svona mál eins og hér er sem dregur að einhverju leyti tennurnar úr neytendavernd.

Ég ætla líka að draga það fram að ákveðnar breytingar hafa þó átt sér stað á málinu í nefndinni, eins og til að mynda í 16. gr. laganna, c-lið, um markaðsgreiningar sem átti að afnema, en ákveðin útfærsla er á því sem ég tel vera áhugaverða og ef rétt er á málum haldið gæti tækið orðið mikilvægt fyrir Samkeppniseftirlitið. En fram til þessa hefur þetta tæki, sem Samkeppniseftirlitið hefur haft og ríkisstjórnin vildi afnema, verið mikilvægt og gæti verið leiðbeinandi fyrir markaðinn ef eftirlitið hefði skýrari heimildir til þess. Ég held að þetta sé ákveðin þróun þar og breyting af hinu góða.

Það væri eitthvað að íslensku samfélagi ef stóru aðilarnir í samfélaginu væru ekki óánægðir með Samkeppniseftirlitið, það er eðlilegt að þeir séu það. Maður skyldi ekki halda að það væri skrýtið. Stundum hefur það verið með réttu, það má alveg gagnrýna eitt og annað frá Samkeppniseftirlitinu og maður hefur ekki alltaf skilið þennan tíma, það er ekki fyrr en maður fer að rýna í fjárframlögin sem hafa verið sett til eftirlitsins sem maður fer að skilja samhengið. Fjáraukinn hefur eðlilega verið blásinn út, en það er ekkert í fjáraukanum sem gefur til kynna að ríkisstjórnin hafi einhvern metnað eða dug í því eða sýni á þau spil að hún ætli raunverulega að taka samkeppnismálin alvarlega með því að auka fjármagn til eftirlitsins. Ég hefði svo sannarlega viljað sjá þennan þátt, leiðsagnar- og greiningarhlutann, verða virkjaðan mun betur með skýrum pólitískum vilja og ekki síst vilja löggjafans. Ekki er verið að stíga það skref hér. En þessar raddir stóru aðilanna heyrum við, enda kannski með öflug hagsmunasamtök á bak við sig sem standa sig oft vel, en stundum verður þetta eintóna, stundum fram úr hófi. Raddirnar sem við heyrum frá neytendum eru hins vegar ekki alveg eins sterkar og hvað þá frá ríkisstjórninni, eins og ég hef getið um og get bent á mál eftir mál sem hafa farið gegn hagsmunum neytenda. Þá verðum við að hafa varnartæki fyrir neytendur í lagi, þessa öryggisventla fyrir neytendur, og það eru samkeppnislögin. Þess vegna verðum við að vanda betur til verka. Við í Viðreisn höfum margítrekað lýst því yfir að fara þurfi yfir ákveðnar breytingar á samkeppnislögunum til að gera þau einfaldari, gera þau skilvirkari, án þess að draga mesta bitið úr því aðhaldi og eftirlitshlutverki sem við viljum að Samkeppniseftirlitið hafi gagnvart hinum stóru til verndar litlu og meðalstóru fyrirtækjunum, til að vernda neytendur. Þess vegna hefði ég óskað þess að áður en ráðherra hefði sett þetta mál fram hefði verið skipuð þverfagleg nefnd, ég tel að það sé ekki orðið of seint, til að endurskoða samkeppnislöggjöfina og öll þau sjónarmið sem hafa verið sett fram í tengslum við þetta mikilvæga mál. Það hefur verið mikil og hávær gagnrýni innan fræðasamfélagsins, í fjölmiðlunum. Það kallar allt á að við vöndum málsmeðferðina og umfjöllun um þetta annars mikilvæga mál.

Virðulegi forseti. Það er að mörgu að hyggja í þessu mikla hagsmunamáli lítilla og meðalstórra fyrirtækja, neytenda íslensks samfélags, að hafa hér öfluga neytenda- og samkeppnisvernd. Við sjáum það oft að ef við værum ekki með regluverkið að utan þá værum við verr stödd sem neytendur og verr stödd með hluta af atvinnulífinu. Við sjáum að stórfyrirtæki á alþjóðavísu eru oft og tíðum að gleypa markaðinn. Viðspyrna landa og einstakra þjóða er ekki mikil ein og sér en saman geta sambönd tekið markvisst á því, eins og Evrópusambandið hefur verið að gera gagnvart þessum stórfyrirtækjum og alþjóðastórfyrirtækjahringjum eins og Amazon, Google og Apple. Hver segir að slík heljartök á landi eins og Íslandi náist ekki í gegn hér? Það eru blikur á lofti varðandi ákveðnar samsteypur þar sem mikil samþjöppun er, sem eru að komast í hendur tiltekinna fárra aðila. Það er umhugsunarefni að við sjáum ákveðna þróun. Þess vegna bið ég meiri hlutann hér á þingi að stíga varlega til jarðar þegar komið er að breytingum á samkeppnislöggjöfinni. Ég tel að þetta mál sé þannig vaxið að með betri og meiri umfjöllun væri hægt að ná mun meiri samhljómi um það en nú er verið að gera. Ég held að umfjöllun um málið nokkra mánuði í viðbót myndi ekki skaða það heldur miklu frekar styrkja það og styrkja þar með neytendur og öfluga samkeppni og frjáls viðskipti á Íslandi.