150. löggjafarþing — 129. fundur,  29. júní 2020.

samkeppnislög.

610. mál
[16:17]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég kom ekkert hingað upp vegna þess að ég beri hag Samkeppniseftirlitsins neitt sérstaklega fyrir brjósti. Ég hef hins vegar áhyggjur af litlum og meðalstórum fyrirtækjum og þar skiptir öflugt Samkeppniseftirlit höfuðmáli. Það er ótvírætt verið að hækka veltumörk tilkynningarskyldra samruna og það er verið að gera það um 50%, að mér skilst. Það er gert með þeim hætti að það er langt umfram það sem verður annars staðar á Norðurlöndum. Við munum sitja uppi með það að stórir samrunar verða ekki tilkynningarskyldir. Þetta verður lagt dálítið í hendurnar á atvinnulífinu sjálfu.

Eins og kom fram í umsögnum um frumvarpið breytir heimsfaraldur í raun öllu samkeppnisumhverfi, ég tala ekki um nú þegar jafnvel er verið að borga fyrirtækjum fyrir að segja fólki upp til að halda starfhæfi þeirra gangandi. Við getum svo sem diskúterað fram og til baka um það hvort það geti ekki haft áhrif á samkeppni fyrirtækja þegar öllu þessu lýkur og þau fara af stað aftur.

Ætlar þá hv. þingmaður á móti að svara mér því hvort hann hafi virkilega ekki áhyggjur af því að í skjóli þessara breytinga geti sú staða skapast að stórfyrirtæki, sem hafa mikinn aðgang að fjármagni, sem bankarnir hafa veðjað á, geti ekki farið að plokka fínustu berin af trjánum og það geti svo leitt til einsleitni, að best launuðu störfin, markaðsstarfið og annað slíkt, verði eftir hér en óbreyttu störfin verði eftir annars staðar og við sitjum uppi með fátæklegra atvinnulíf?