150. löggjafarþing — 129. fundur,  29. júní 2020.

samkeppnislög.

610. mál
[16:15]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætlaði svo sem ekki að vera mikið hér í andsvörum í þessu máli en ég taldi mér rétt og skylt að gera það að þessu sinni. Nú geta menn haft mismunandi skoðanir á því hvort verið sé að veikja Samkeppniseftirlitið. Ég hafna því alfarið. Ég held akkúrat að verið sé að tryggja að Samkeppniseftirlitið geti einbeitt sér að mikilvægustu málum sem það þarf að sinna, t.d. með því að hækka veltumörk. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann sé þá ósammála Samkeppniseftirlitinu sem segir í ítarlegri umsögn, einhverri ítarlegustu umsögn sem við höfum fengið til efnahags- og viðskiptanefndar:

„Samkeppniseftirlitið telur málaefnalegt að veltumörk samkeppnislaga séu endurskoðuð reglulega. Að athuguðu máli gerir eftirlitið því ekki athugasemdir við að gerð verði sú breyting sem fram kemur í 5. gr. frumvarpsins.“

Er hv. þingmaður, sem ber hag Samkeppniseftirlitsins mjög fyrir brjósti, eins og ég vona að fleiri geri, ósammála þessu mati Samkeppniseftirlitsins sem telur skynsamlegt að hækka veltumörkin sem hv. þingmaður er á móti að verði gert?