150. löggjafarþing — 129. fundur,  29. júní 2020.

samkeppnislög.

610. mál
[16:45]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseta. Samkeppnislögin ná líka til ríkisstofnana og stofnana sveitarfélaga. Það liggur alveg fyrir. Það þarf bara að skoða gildissvið. Þetta nær alveg til þeirra. Svarið er því einfalt: Já, það á ekkert að svína á neinu með einum eða öðrum hætti hvað það varðar. Þess vegna skiptir svo miklu máli að Samkeppniseftirlitið sé öflugt og það geti sinnt kvörtunum eða ábendingum, hvort sem þær koma frá neytendum eða einkafyrirtæki, gagnvart íslenskum fákeppnisfyrirtækjum eða opinberum aðilum. Þannig að já, við hljótum að geta verið sammála um að efla stofnunina og hætta að fella tillögur stjórnarandstöðunnar um að setja aukna fjármuni í Samkeppniseftirlitið. Getum við hv. þingmaður verið sammála um það?

Hv. þingmaður segir að hann sé hlynntur almennum leikreglum og jafnræði. Ég veit að hann er það. Samkeppnislögin eru einmitt til að tryggja almennar leikreglur og jafnræði. Þetta er löggjöf sem kemur í veg fyrir að við höfum hér handahófskennt inngrip opinberra aðila. Þetta eru almennar leikreglur sem allir eiga að fara eftir.

En ég hef miklar áhyggjur af því og hv. þingmaður hlýtur, ef hann kærir sig, að hafa skoðun á upptalningu minni þegar kemur að víðtækri og sorglegri brotasögu íslenskra stórfyrirtækja, af brotum þeirra á hagsmunum ekki bara neytenda heldur líka annarra fyrirtækja sem hv. þingmanni er umhugað um. Ég veit að hv. þingmaður styður frjálsa samkeppni en það eru ekki síst litlu fyrirtækin — og við fókuserum svolítið á neytendur í þessari umræðu — sem verið er að brjóta á af hálfu hins stóra. Ég nefndi tíu lykilmarkaði og gleymdi að nefna lyfjamarkaðinn en það er líka dæmi um brot á hagsmunum lítilla fyrirtækja og neytenda þess markaðar. Þetta hlýtur að vera svolítið vakningarkall. Á meðan staðan er óvenju slæm á Íslandi þá hljótum við að vilja fara í hina áttina og efla stofnunina og tök Samkeppniseftirlitsins á því að skipta sér af markaði sem er aftur að þróast í óæskilega átt.