150. löggjafarþing — 129. fundur,  29. júní 2020.

samkeppnislög.

610. mál
[15:57]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti 1. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar með frávísunartillögu um frumvarpið.

„Sagan sýnir að sterkt og virkt samkeppniseftirlit er nauðsynleg forsenda fyrir samkeppnishæfu atvinnulífi og neytendavernd. Á fámennum og litlum markaði þarf að feta stíginn milli stærðarhagkvæmni og virkrar samkeppni. Flestir markaðir leita í fákeppni og það kallar á öflugt og skilvirkt samkeppniseftirlit. Breytingarnar sem lagðar eru til í frumvarpinu bera með sér að hagsmunum neytenda hafi ekki verið gefinn nægur gaumur. Hið sama á við um stöðu og vernd minni aðila á markaði.

Fyrsti minni hluti fellst ekki á að frumvarpið sé þess eðlis að nauðsynlegt sé að ljúka afgreiðslu þess á yfirstandandi þingi. Þvert á móti þarf að gefa rýmri tíma í verkið. Starfshópar hafa verið skipaðir af minna tilefni. Þar væri hægt að draga öll sjónarmið að borðinu og taka afstöðu til þeirra margháttuðu athugasemda sem gerðar hafa verið við efni frumvarpsins.

Samhliða uppbyggingu efnahagsins eftir heimsfaraldur kórónuveiru á grundvelli ýmissa sérráðstafana til handa lögaðilum er aukin hætta á markaðsbrestum. Taka verður tillit til þess þegar samkeppnislögum er breytt og líta til þess hvaða áhrif breytingarnar kunni að hafa á markaði og dómaframkvæmd. Það blasir við að umtalsverð uppstokkun verður á ýmsum sviðum atvinnulífsins sem getur leitt til óæskilegrar samþjöppunar og óskilvirkra markaða. Við þessar aðstæður þarf Samkeppniseftirlitið að vera öflugt og hafa tæki og tól til þess að takast á við það viðfangsefni. Þegar af þessari ástæðu þarf nánari ígrundun og undirbúning fyrir breytingar á samkeppnislögum.

Allt frá því að frumvarpið var lagt fram í samráðsgátt stjórnvalda og síðar við umfjöllun í nefndinni hafa komið fram fjölmargar athugasemdir um einstök atriði sem orka mjög tvímælis og athygli vakin á atriðum sem þarfnast nánari skýringa vegna óvissu um réttaráhrif og framþróun samkeppnisréttarins og túlkun hans. Þá er óhjákvæmilegt að heimsfaraldur kórónuveiru setji hér strik í reikninginn því við blasir að umtalsverðar breytingar verða á skipan fyrirtækjarekstrar hér á landi á næstu missirum.

Meiri hlutinn hefur lagt fram breytingartillögu við frumvarpið. Þær breyta engu um það álit 1. minni hluta að taka þurfi málið allt upp frá grunni.

Fyrsti minni hluti telur að ekki verði hjá því komist að taka til frekari skoðunar þá gagnrýni sem hefur komið fram. Leggur 1. minni hluti því til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar þar sem það sæti skoðun í ljósi fram kominna athugasemda, en ekki síður þeirra aðstæðna sem hafa skapast vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Mikilvægt er að við þá skoðun fari fram víðtækt samráð við alla haghafa til að tryggja að öll sjónarmið komi að borðinu áður en frumvarp um breytingar á samkeppnislögum verður lagt fram að nýju.“

Herra forseti. Þetta er nefndarálit með frávísunartillögu frá 1. minni hluta. Hv. þm. Inga Sæland, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, styður þetta nefndarálit en undir álitið skrifa sú sem hér stendur og hv. þingmenn Jón Steindór Valdimarsson og Smári McCarthy.

Herra forseti. Nú hef ég farið yfir nefndarálitið og vil nýta tækifærið og segja nokkur orð frá eigin brjósti um þetta mál. Nú á lokadögum þingsins ætlar ríkisstjórnin að keyra í gegn frumvarp sem mun veikja Samkeppniseftirlitið. Nærtækara væri að styrkja Samkeppniseftirlitið í því efnahagsástandi sem ríkir eftir Covid-19. Auk þess er íslenskt viðskiptalíf lítið og einangrað í samanburði við alþjóðleg markaðssvæði og gríðarlegt hagsmunamál fyrir neytendur að hér sé heilbrigt samkeppnisumhverfi. Hér er því enn mikilvægara að hafa virkt eftirlit með samkeppni en í stærri löndum. Með veiku eftirliti geta fyrirtæki nýtt sér aðstæður til að skapa einokunarstöðu sem vinnur gegn hag almennings. Lengi hefur Sjálfstæðisflokkurinn viljað veikja Samkeppniseftirlitið og svo virðist að þeim hafi tekist að fá VG og Framsókn á sitt band. Verði frumvarpið að lögum mun það auðvelda samruna stórra fyrirtækja þar sem veltumörk tilkynningarskyldra samruna eiga að hækka verulega þannig að stórir samrunar verða ekki tilkynningarskyldir. Einnig er fyrirtækjum ætlað að meta sjálf hvort skilyrði samkeppnislaganna til samstarfs séu uppfyllt, svo að dæmi séu tekin um breytingarnar. Í greinargerð frumvarpsins kemur fram að það sé samið m.a. til þess að taka tillit til þess að miklar breytingar hafi orðið í íslensku efnahagslífi frá því að samkeppnislögunum var síðast breytt árið 2011. Þar segir, með leyfi forseta:

„Mikill uppgangur hefur verið á síðustu árum á ákveðnum sviðum atvinnulífsins þar sem mikil samkeppni hefur leitt af sér töluvert aðhald fyrirtækja hvert með öðru og nokkurn fjölda samruna.“

Öllum má vera ljóst að miklar breytingar hafa orðið á íslensku efnahagslífi eftir Covid-19. Því hafa forsendur fyrir frumvarpinu einfaldlega brugðist og það ætti að vísa því frá.

Samkeppniseftirlitinu er ætlað að sporna gegn blokkamyndun í viðskiptalífinu. Hættan á blokkamyndun er enn meiri í þeim aðstæðum sem nú hafa skapast eftir Covid-19. Það er því rangt og vinnur gegn almannahagsmunum að nýta þetta erfiða umhverfi til að búa til kjöraðstæður fyrir ráðandi fyrirtæki á fákeppnismörkuðum. Á þessum tímapunkti er mikilvægt að valda ekki auknu tjóni með því að búa til einokunarfyrirtæki á mörkuðunum. Slíkt gengur gegn hag almennings.

Samkeppniseftirlitið og fleiri hafa bent á að viðbrögð stjórnvalda við Covid-19 geti haft mikil áhrif á samkeppnishæfni Íslands og lífskjör í landinu um langt skeið. Í því ljósi er mikilvægt að stjórnvöld tryggi að viðbrögð verði ekki á þá leið að minnka samkeppni, veikja samkeppnislög eða Samkeppniseftirlitið.

Árið 2011 stóðum við í Samfylkingunni og Vinstrihreyfingunni – grænu framboði, sem þá vorum í ríkisstjórn, að styrkingu samkeppnislaga til að skapa virka samkeppni. Þar lá til grundvallar skýr vilji til að gæta almannahagsmuna. Sjónarmiðið var einkum það að við keppni fyrirtækja á markaði um viðskiptavini batni kjör almennings og atvinnulífið verði þróttmeira. Þannig skapast tekjur og skattar sem síðan auðveldar að reka betra velferðarkerfi. Virk samkeppni er á hinn bóginn ekki sjálfgefin og stórfyrirtæki á hinum litla íslenska markaði hafa mikla hagsmuni af því að draga úr henni og þá ekki síst að draga úr eftirliti með samkeppnisreglum. Við styrkingu samkeppnislaganna árið 2011 mættum við mikilli andstöðu frá Sjálfstæðisflokknum, Samtökum atvinnulífsins og Viðskiptaráði. Sú sérhagsmunabarátta skilaði ekki árangri þar sem við og VG stóðum saman í að efla nauðsynlegt eftirlit og aðhald gagnvart viðskiptalífinu. Þessir sömu aðilar vilja nú nýta stöðu sína til að veikja Samkeppniseftirlitið og að þessu sinni með stuðningi VG.

Ekki verður annað séð en að möguleikar til að grípa til aðgerða gegn háttsemi fyrirtækja sem hefur skaðleg áhrif á samkeppni, almenningi til tjóns, verði stórlega veiktir gangi frumvarpið eftir. Þar er einnig lagt til að dregið verði verulega úr eftirliti með því að fyrirtækjum verði falið að meta hvort samráð þeirra raski samkeppni og mun fleiri samrunar verða undanþegnir eftirliti en nú er samkvæmt samkeppnislögum. Þá er það mikið áhyggjuefni að frumvarpið ber með sér þann anda að í stað þess að styrkja samkeppnislögin í samræmi við það sem verið hefur að gerast í Evrópu undanfarin ár er verið að veikja þau. Það er nefnilega algerlega rangt að frumvarpið eins og það lítur út, jafnvel með breytingum efnahags- og viðskiptanefndar, sé í samræmi við þróun samkeppnisreglna í Evrópu undanfarin ár. Þar hefur hugmyndafræðin byggst á því að styrkja lögin en ekki að veikja þau eins og hér. Það er því að mínu mati nauðsynlegt að allir, jafnt innan þings sem utan og þá einkum verkalýðshreyfingin og Neytendasamtökin sem vilja gæta hagsmuna almennings, standi saman á ný og verjist þessari atlögu sérhagsmunanna og að Alþingi geri það með því að vísa frumvarpinu til ríkisstjórnarinnar eins og 1. minni hluti efnahags- og viðskiptanefndar leggur til.

Gylfi Magnússon, dósent í viðskiptahagfræði við Háskóli Íslands og fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra, segir m.a. í ítarlegri umsögn sinni, með leyfi forseta:

„Rökin fyrir styrkri samkeppnislöggjöf í Bandaríkjunum í kringum aldamótin 1900 byggðu ekki einungis á áhyggjum af skilvirkni markaða heldur einnig því að lýðræðinu gæti staðið ógn af afar stórum fyrirtækjum og auðkýfingum.“

Gylfi bendir einnig á að Bandaríkjamenn hafi tekið um margt sérkennileg skref í sigruðu löndunum eftir síðari heimsstyrjöldina. Þeim þótti nauðsynlegt til að tryggja friðinn að tryggja lýðræði í þessum löndum og það væri vart hægt nema taka á ægivaldi stórfyrirtækjanna. Við þurfum einnig að vara okkur á ægivaldi stórra fyrirtækja hér á landi og gæta að lýðræðinu um leið.

Regluverk og eftirlit sem er sniðið að þröngum sérhagsmunum er alþjóðlegt vandamál og Evrópusambandið hefur með tilskipunum, sem við höfum tekið upp í gegnum EES, tekið að einhverju leyti á þeim vanda. Gylfi Magnússon bendir á þetta í umsögn sinni og á það að hvert EES-land sé með sína eigin samkeppnislöggjöf en hún verði að vera í samræmi við tilskipanir ESB. Íslensk stjórnvöld geti því ekki að eigin vild látið undan þrýstingi sérhagsmuna.

Sú neytendavernd sýndi sig vel á breytingum sem frumvarpið tók eftir að það hafði verið í samráðsgáttinni og hætt var við að afnema heimild Samkeppniseftirlitsins til að bera niðurstöður áfrýjunarnefndar samkeppnismála undir dómstóla enda hefði það gengið gegn EES-samningnum. Gylfi Magnússon segir að afdrif frumvarpsins séu prófsteinn á íslenska stjórnmálakerfið og hann spyr: Ætla íslensk stjórnvöld að láta undan háværum kröfum stórfyrirtækja og samtaka þeirra um að veikja íslenskt samkeppniseftirlit eða fær almenningur að njóta þeirrar verndar sem hann hefur notið til þessa?

Frumvarpið á ekkert erindi við núverandi aðstæður, í miðjum veirufaraldri og mesta samdrætti lýðveldissögunnar. Veruleg hætta er á samþjöppun í efnahagslífinu. Illa stödd fyrirtæki munu hætta rekstri og þau betur settu taka við markaðshlutdeild þeirra. Með frumvarpinu eru tekin óheillaspor, jafnvel þó að stjórnarandstaðan hafi náð að knýja fram breytingar.

Herra forseti. Vísum frumvarpinu frá í atkvæðagreiðslu um málið síðar í dag.