150. löggjafarþing — 129. fundur,  29. júní 2020.

samkeppnislög.

610. mál
[16:24]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Ég ætla að fara nokkrum orðum um samkeppnisreglur og samkeppnisrétt. Það er alveg ljóst og það vita allir að samkeppnisreglur eru ekki óumdeildar þótt flest þjóðfélög telji sig hafa þörf á slíkum reglum, a.m.k. að einhverju leyti. Ég er einn af þeim sem telja að við eigum að hafa mjög öfluga löggjöf á þessu sviði og mjög öfluga eftirlitsstofnun. Við eigum að fara í þá áttina. Við eigum að efla viðkomandi eftirlitsstofnun. Við eigum að efla lögin frekar en að stuðla að veikingu þeirra eins og hér hefur verið bent á og málsmetandi aðilar hafa a.m.k. haft áhyggjur af.

Sumum finnst samkeppnisreglur alvarlegt inngrip ríkisvaldsins í hinn frjálsa markað og að þær takmarki í raun samningsfrelsið. Á sama tíma telja aðrir samkeppnisreglur vera eðlilegar leikreglur. Samkeppnisreglur eru að mínu mati almennar leikreglur á markaði sem gera inngrip ríkisvaldsins í flestum tilvikum óþarft. Þess vegna skil ég ekki að við deilum stundum um gildi samkeppnisreglna, ég segi kannski ekki í þessum sal, hér í þinginu, en þetta gerist í samfélaginu. Þessar leikreglur markaðarins draga úr hugsanlegum afskiptum ríkisvaldsins á markaðnum. Í mínum huga koma öflugar samkeppnisreglur í veg fyrir að ríkisvaldið fari að ákvarða verð, magn, gæði og framleiðsluhætti.

Ríkisvaldið hefur hins vegar hlutverki að gegna. Þetta viðurkenna fræðin svo sannarlega þegar fjallað er um svokallaða markaðsbresti. Í hagfræðinni er kallað eftir því að ríkið hafi hlutverki að gegna, m.a. með samkeppnislöggjöf, þegar hin svokallaða ósýnilega hönd markaðarins bregst, þegar samkeppni mistekst með einhverjum hætti. Adam Smith, sem er oft talinn faðir nútímahagfræði, leit ekki á samkeppni sem stöðugt ástand heldur sem keppni milli tveggja eða fleiri aðila í að selja framboð eða kaupa vörur sem væru til í takmörkuðu magni. Hann sagði í bók sinni Auðlegð þjóðanna, sem kom út árið 1776, að fjármagnseigendur gætu ekki komið saman, jafnvel þótt tilefnið væri einungis til ánægju eða skemmtunar, án þess að félagsskapurinn endaði í einhvers konar samsæri gegn almannaheill eða leynilegu samkomulagi um verðhækkanir. Þessi orð Adams Smiths, þótt gömul séu, hafa margir notað til að réttlæta samkeppnislög og -reglur og var m.a. vísað í þessi ummæli í athugasemdum við frumvarp til samkeppnislaga þegar þau voru sett 1993. Þetta er svona sögulegur fróðleikur.

Hagfræðin kennir að skortur sé á framleiðsluháttum, þ.e. að þarfirnar séu í reynd óendanlegar. Það er einmitt þessi skortur sem mótar síðan öll hagfræðilögmál og hegðun einstaklinga á markaði. Í rauninni byggja samkeppnislög á hagfræði, ekki bara á pólitík, refsipólitík eða lögfræði, heldur byggjast þau að grunni til á hagfræði vegna þess að markaðshagkerfið gerir ráð fyrir að framboð og eftirspurn mætist í jafnvægi í frjálsum viðskiptum. Þetta skiptir mjög miklu máli. Við sem aðhyllumst blandað hagkerfi áttum okkur á þessu. Flestir hagfræðingar viðurkenna þó tilvist svokallaðs markaðsbrests. Þess vegna eru hægri sinnuðustu hagfræðingar tilbúnir að viðurkenna að markaðurinn sé ekki fullkominn. Það gera svokallaðir markaðsbrestir og þess vegna geta inngrip hins opinbera verið réttlætanleg. Markaðsbrestir geta t.d. verið ytri áhrif, eins og mengun eða einokun og fákeppni. Takið eftir því. Við einokun virkar markaðurinn ekki eins og honum ber og þá myndast svokallað einokunarverð sem felur í sér óhagkvæmni. Framleiðslumagnið verður minna en ella. Myndist síðan markaðsráðandi staða og sé hún misnotuð er komið í veg fyrir eðlilegan ávinning neytenda. Mér finnst þetta skipta máli þegar við tölum um samkeppnislög, sérstaklega í umræðu um hvort við viljum efla lögin eða stofnunina sem hefur eftirlit með þeim.

Að mínu mati þurfum við að skilja tilgang lagasetningarinnar. Tilgangurinn á bak við samkeppnislög er einmitt að efla hér hagkvæmni og tryggja eðlilegan ávinning neytenda. Þriðja markmiðið er að sjálfsögðu að huga að því að samkeppni nái að þrífast, að hinn stóri nái ekki að valta yfir hinn minni. Þetta höfum við mýmörg dæmi um eins og ég mun aðeins koma að á eftir.

Í máli Bandaríkjanna gegn Tobacco Associates árið 1972 sagði hæstiréttur Bandaríkjanna að samkeppnislög væru eins og stjórnarskrá atvinnulífsins. Mér finnst hún nokkuð vel orðuð þessi nálgun hæstaréttar Bandaríkjanna á samkeppnislög. Ég held að við ættum að hafa þetta svolítið í huga. Þess vegna furða ég mig stundum á því viðhorfi sem ég skynja hjá samtökum fyrirtækja á Íslandi að vilja draga tennurnar úr Samkeppniseftirlitinu eða jafnvel löggjöfinni. Samkeppnislög eiga ekki bara þjóna hagsmunum neytenda heldur líka hagsmunum smærri fyrirtækja. Ég velti fyrir mér úr þessum stól, og hef svo sem gert áður, að smærri fyrirtæki á Íslandi, sem eru hryggjarstykkið í íslensku atvinnulífi, þurfi í raun og veru málsvara. Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð, þessi öflugu hagsmunasamtök, finnst mér í allt of miklum mæli draga taum stórfyrirtækja, fákeppnisfyrirtækjanna. Hagsmunir stóru fyrirtækjanna, risanna í íslensku hagkerfi, fara ekkert endilega saman við hagsmuni lítilla og meðalstórra fyrirtækja, bara alls ekki. Við sjáum það m.a. á hugmyndum Samtaka atvinnulífsins í skýrslu frá þeim á sínum tíma, með leyfi forseta:

„Til lengri tíma litið má þó ætla að frjálst markaðskerfi feli sjálft í sér bestu trygginguna fyrir virkri samkeppni. Meginhlutverk löggjafar og opinberrar starfsemi á þessu sviði á að beinast gegn mismunun, t.d. vegna opinberrar íhlutunar og styrkja og gegn misnotkun á aðstöðu á borð við markaðsráðandi stöðu. Það á ekki að vera hlutverk opinberrar stofnunar að stýra uppbyggingu atvinnulífsins og hamla þar gegn hagræðingu og aukinni framleiðni.“

Þetta er áhugaverð nálgun og ég get tekið undir ýmislegt þarna. En mér finnst þau gleyma að fókusera á litlu fyrirtækin sem oft eru að kljást við risana á markaðnum. Samkeppni er af hinu góða. Samkeppnislög eru af hinu góða. Uppáhaldslagabálkurinn minn í öllu lagasafninu er samkeppnislög. Alltaf þegar menn ætla að hrófla við þeim, og hvað þá þegar menn, að mati sumra mati, veikja þau með einhverjum hætti eða taka skref til að grafa undan þeim, ættum við að rísa upp á afturlappirnar. Í litlu fákeppnishagkerfi eins og á Íslandi held ég að við þurfum að passa sérstaklega upp á að samkeppnislögin og Samkeppniseftirlitið séu í stakk búin til að verja þá mikilvægu hagsmuni sem um er að ræða.

Í mínum huga, og auðvitað flestra, eru ýmsir kostir fólgnir í virkri samkeppni. Verðið til neytenda lækkar ekki bara heldur fáum við fleiri fyrirtæki til að keppa um hylli okkar sem neytenda því að annar kostur við öfluga samkeppni er að fyrirtæki keppa um viðskiptavinina. Það myndast hvati til nýjunga, endurbóta, aukinna afkasta og stöðugra framboðs ásamt því að verðið helst sem næst framleiðslukostnaði. Ágóðinn af samkeppni á því að leiða til lægra verðs, betri vöru, meira úrvals og meiri skilvirkni sem síðan leiðir til meiri hagsældar. En einokun og fákeppni, sem eru markaðsbrestir alveg eins og mengunin sem ég gat um áðan, skapa einmitt aðstæður þar sem vantar innbyggða hvata samkeppninnar til að halda kostnaði niðri. Sé samkeppni fyrir hendi er hún besti hemillinn á óeðlilega verðlagningu. Ef við lítum aðeins á markmið flestra samkeppnislaga í heiminum er það einmitt að tryggja að hin efnahagslega hagkvæmni verði þannig að neytendur geti notið lægra verðs, fjölbreyttara úrvals og betri gæða. Samkvæmt 1. gr. íslensku samkeppnislaganna er það einmitt:

„Markmið laganna er að efla virka samkeppni í viðskiptum og þar með vinna að hagkvæmri nýtingu framleiðsluþátta þjóðfélagsins. Markmiði þessu skal náð með því að:

Vinna gegn óhæfilegum hindrunum og takmörkunum á frelsi í atvinnurekstri,

vinna gegn óréttmætum viðskiptaháttum, skaðlegri fákeppni og samkeppnishömlum,

auðvelda aðgang nýrra keppinauta að markaðnum.“

Mér finnst þessi hugsun í samkeppnislögum hér á landi göfug og hana má rekja til Evrópulöggjafar.

Sumir tala með þeim hætti að markaðurinn eigi að hafa eftirlit með sjálfum sér. Mér finnst það gjaldþrota hugmyndafræði og reynslan sýnir að það er gjaldþrota hugmyndafræði. Stórfyrirtæki geta ekki haft eftirlit með sjálfum sér. Þegar ég hef teflt fram þessari fullyrðingu hef ég verið beðinn um dæmi. Það eru mýmörg dæmi um að íslenskt stórfyrirtæki brjóti samkeppnislög sem bitnar á smærri keppinautum þeirra annars vegar og hins vegar á neytendum, almenningi. Ég hef tekið saman lista en á eftirtöldum mörkuðum hafa íslensk stórfyrirtæki brotið á neytendum og smærri fyrirtækjum sem þau hafa verið að keppa við: Númer eitt, á fjármála- og bankamarkaðnum; númer tvö, á matvörumarkaðnum; númer þrjú, á fjarskiptamarkaðnum; númer fjögur, á eldsneytismarkaðnum; númer fimm, á byggingarvörumarkaðnum; númer sex, á flutningamarkaðnum; númer sjö, á póstmarkaðnum; númer átta, í landbúnaði; númer níu, á flugmarkaðnum og númer tíu, í upplýsingatækni.

Eins og herra forseti skynjar, sér og hlustar á eru þetta risar á markaði þar sem við sem neytendur höfum gríðarlega mikla hagsmuni af því að samkeppni sé virk. Þetta er ekki sjaldgæft. Þetta eru ekki jaðartilvik þar sem íslensk stórfyrirtæki brjóta samkeppnislög með einum eða öðrum hætti. Þetta virðist frekar vera reglan heldur en hitt. Þetta er það sem ég hef áhyggjur af, því að við hér inni eigum að gæta hagsmuna neytenda, gæta hagsmuna kjósenda, þetta er sami hópurinn. Þess vegna segi ég að þessi listi, sem gæti verið talsvert lengri, ber þau merki að við getum ekki treyst íslenskum stórfyrirtækjum til að hafa eftirlit með sjálfum sér, bara þvert á móti.

Við vitum að hér eru stjórnmálamenn sem hafa frekar talað fyrir því að við eigum að draga úr eftirliti hvert sem litið er. Ég er ekki að boða eitthvert eftirlitssamfélag. Ég held hins vegar að skilvirkt og hagkvæmt eftirlit sem hefur almannahagsmuni að leiðarljósi vinni í þágu almennings. Ég tók sem dæmi tíu risastóra fákeppnismarkaði. Ég get nefnt brot gegn hagsmunum neytenda af hálfu íslenskra stórfyrirtækja á öllum þessum mörkuðum. Það segir mér að við þurfum að efla Samkeppniseftirlitið, efla samkeppnislöggjöfina. Mig langar í því sambandi að rifja upp þegar Samfylkingin var í ríkisstjórn fyrir meira en áratug. Það fyrsta sem ríkisstjórn Samfylkingarinnar gerði var að auka fjárveitingar til Samkeppniseftirlitsins. Á tveimur árum var 50% aukning í fjárveitingum til Samkeppniseftirlitsins. Mig langar að sjá þetta aftur því að mér finnst vera vísbendingar hjá þessari ríkisstjórn um að við séum að fara í hina áttina.

Þessi ríkisstjórn er búin að leggja niður Fjármálaeftirlitið sem sjálfstæða einingu. Það er komið í Seðlabankann. Við tókum þann slag fyrir jól. Þessi ríkisstjórn kynnti breytingar á samkeppnislögunum, fyrstu drögin að því frumvarpi sem við ræðum hér, þar sem átti að veikja Samkeppniseftirlitið með þeim hætti að afnema heimild þess til að bera niðurstöðu áfrýjunarnefndar samkeppnismála undir dómstóla. Þannig leit fyrsta útgáfa frumvarpsins út. Hv. þingmenn muna það. Að sjálfsögðu var það gagnrýnt gríðarlega og var sem betur fer tekið út. Við vitum að ríkisstjórnarflokkarnir hafa líka í þessum sal beinlínis fellt tillögur stjórnarandstöðunnar um að efla aðrar lykileftirlitsstofnanir. Þið hafið fellt tillögur okkar um auknar fjárveitingar til skattrannsóknarstjóra. Þið hafið fellt tillögur stjórnarandstöðunnar um að efla eftirlit héraðssaksóknara. Hvort sem umræðan er um Fjármálaeftirlitið, Samkeppniseftirlitið, skattrannsóknarstjóra, héraðssaksóknara, Fiskistofu eða aðra eftirlitsaðila í samfélaginu mæta þeir ríkisstjórn sem hefur þá hugmyndafræði að veikja frekar en að styrkja. Það er áhyggjuefni, herra forseti. Þetta er hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins. Þess vegna sjáum við líka að það er ekki einn einasti þingmaður Vinstri grænna í salnum í þessari umræðu og það er ekki einn einasti þingmaður Framsóknarflokksins í salnum í þessari umræðu. En Sjálfstæðisflokkurinn gætir sinnar hugmyndafræði sem er andstæð við mína þegar kemur að öflugu opinberu eftirliti. Það sem ég er að reyna að draga fram í þessari stuttu ræðu minni er að við þurfum að fara varlega. Við erum ekki að rífast hér um keisarans skegg eins og við gerum oft í þessum sal. Þetta er eitt af þeim málum sem skipta máli. Þetta er eitt af þeim málum sem Samfylkingin, með hv. þm. Oddnýju Harðardóttur í fararbroddi, setti á oddinn að reyna að ná jákvæðum breytingum á í meðförum þingsins. Hv. þm. Oddný Harðardóttir náði að gera vont mál aðeins skárra. (Gripið fram í: Ha?) Gera vont mál aðeins skárra. Það gerðist í meðförum þingsins eins og hv. þingmenn hafa tekist á um og rætt hér fyrr í dag.

Að lokum, herra forseti, þurfum við kannski að taka dýpri og skemmtilegri umræðu um samkeppnislög og Samkeppniseftirlitið, ekki síst á tímum Covid þar sem við sjáum hugsanlega fram á frekari samþjöppun á markaði. Vegna þessarar dýpstu kreppu íslensks hagkerfis í 100 ár er enn meiri ástæða til að við pössum okkur að hér sé öflugt Samkeppniseftirlit sem hefur fjárveitingar og stuðning hins opinbera til að grípa inn í og bregðast við ef hér er að verða til óæskilegt fákeppnisástand. Það er nóg af fákeppni á Íslandi. Fákeppni er skilgreind sem tvö til þrjú fyrirtæki á markaði. Við sjáum að á öllum lykilmörkuðum sem íslenskir neytendur eru á, hvort sem það er matvörumarkaðurinn, fjármálamarkaðurinn, fjarskiptamarkaðurinn, eldsneytismarkaðurinn o.s.frv.,er fákeppni. Þess vegna skiptir svo miklu máli að við reynum að draga úr fákeppni eins og kostur er. Samrunar draga í eðli sínu eða geta dregið, ég ætla ekki að taka of stórt upp í mig, úr samkeppni. Ég get vitnað um það að þegar Bónus sameinaðist Hagkaup árið 1992, reyndar áður en samkeppnislögin tóku gildi og í kjölfarið á því varð frekari samþjöppun á matvörumarkaði, þá hækkaði verðið til neytenda meira en verð hækkaði almennt milli birgja og heildsala. Þetta skoðaði Samkeppnisstofnun á sínum tíma í sérstakri skýrslu sem áhugasamir geta kynnt sér.

Ég vona að við hv. þingmenn, hvaðan sem við komum í pólitík, getum sameinast um að verja Samkeppniseftirlitið og verja samkeppnislögin því að markmið þeirra er svo göfugt. Það markmið er að tryggja hér eðlilegan og réttmætan ávinning neytenda, öfluga samkeppni, að lítil fyrirtæki sem ná að þrífast hér þurfi ekki að óttast hin stóru á markaðnum. Þetta og hagkvæm nýting framleiðsluþátta er hugsunin á bak við samkeppnislögin. Þetta eru lykillög sem við þurfum að standa vörð um en ekki vega að með einum eða öðrum hætti.