150. löggjafarþing — 129. fundur,  29. júní 2020.

samkeppnislög.

610. mál
[16:21]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst nú ansi sérstakt ef hv. þingmaður lítur á andsvör á þann hátt að ekki megi eiga sér stað skoðanaskipti og spurningar á báða bóga. Auðvitað ræður hann hvort hann kýs að svara mér. (ÓBK: En þú mátt svara mér.) Ég get svarað þér á þann hátt, hv. þingmaður, að það er alveg örugglega rétt hjá Samkeppniseftirlitinu að nauðsynlegt hafi verið að hækka og uppfæra veltumörkin sem höfðu verið óbreytt frá 2008. En fyrr má nú vera. Það var alger óþarfi að fara með þau svona hátt eins og hér er verið að gera og setja þau hlutfallslega langt umfram það sem þau eru á hinum Norðurlöndunum.

Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að flókið regluverk og óþarflega mikið flækjustig getur bitnað illa á litlum fyrirtækjum. Ég held að þingheimur ætti kannski að fara að temja sér vinnulag Evrópusambandsins þegar það undirbýr lög um atvinnurekstur þar sem mottóið er: Hugsum fyrst smátt. Með öðrum orðum: Skoðum hvernig löggjöfin gagnast eða bitnar á litlum fyrirtækjum og ef niðurstaðan er jákvæð fyrir þau er einfaldlega haldið áfram með lögin.

Hér hefur þessu verið öfugt farið. Þau þrjú ár sem ég hef verið á þingi hefur meiri hluti alls tímans farið í að bregðast við og dekstra við vanda risafyrirtækja, stundum tímabundinn eða óvæntan. Ég held að það sé bara kominn tími til þess að hér á þingi verði háværari málsvari lítilla fyrirtækja. Og það er auðvitað rangt hjá hv. þingmanni að hér sé ekki verið að slaka á þegar fyrirtæki munu bara sjálf hafa eftirlit með því hvernig þessu verður háttað. (ÓBK: Það er rangt.)(OH: Heyr, heyr.)