131. löggjafarþing — 33. fundur
 18. nóvember 2004.
fjáraukalög 2004, frh. 2. umræðu.
stjfrv., 76. mál. — Þskj. 76, nál. 375, 380 og 390, brtt. 376, 377, 378 og 391.

[13:33]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (frh.):

Frú forseti. Þar var komið sögu að ég ætlaði að víkja að fjármálum sveitarfélaganna og þeirri afgreiðslu sem mál þeirra fá í þessu fjáraukalagafrumvarpi. Það gleður mig jafnframt alveg sérstaklega að hér er kominn til umræðunnar hv. varaformaður fjárlaganefndar, 9. þm. Norðvest., Einar Oddur Kristjánsson. Hann tjáði sig nokkuð um þessi efni, eða skyld efni, í fjölmiðlum svo að ég heyrði í gærkvöldi og aftur var eftir honum haft í útvarpi í morgun. Það tengdist þeim kjarasamningum sem sveitarfélög hafa núna gert drög að við grunnskólakennara, og hafa náttúrlega mjög verið til umræðu öll þau mál eins og kunnugt er.

Fjárhagsvandi eða erfiðleikar sveitarfélaganna margra upp til hópa eru vel kunnir og ætti ekki að þurfa að fjölyrða um þá hér. Þær staðreyndir tala einfaldlega sínu máli hvað sem hver segir og hvað sem mönnum um þær finnst, sveitarfélögin í landinu hafa verið rekin með halla, samfellt í um 15 ár, kannski að einu ári frátöldu eða svo þegar þau náðu nokkurn veginn að loka reikningum sínum á núlli.

Nú stefnir í talsverð útgjöld hjá sveitarfélögunum vegna kjarasamninga við starfsmenn þeirra. Fjölmennasti hópurinn, grunnskólakennarar, hefur verið að reyna að sækja sér kjarabætur þó að enginn nema reynslan geti svarað því hvort úr því verða umtalsverðar kjarabætur. Því ráða verðlagsforsendur og annað á komandi árum ef svo heldur sem horfir. Það er a.m.k. ljóst að sveitarfélögin, burt séð frá þessu, þurfa m.a. að getað borgað starfsmönnum sínum kaup þannig að sveitarfélögin geti ráðið hæft fólk til hinna mikilvægu starfa sem þar eiga í hlut.

Það er einfaldlega veruleiki sem sveitarfélögin sem vinnuveitendur verða að horfast í augu við rétt eins og ríkisvaldið hefur orðið að horfast í augu við það á undanförnum árum og hefur þurft að gera átak í að bæta kjör ýmissa hópa sem hjá því hafa starfað, t.d. heilbrigðisstétta, af þeirri ósköp einföldu ástæðu að þessari starfsemi verður ekkert haldið úti, þjónustan ekki veitt og allra síst með mannsæmandi hætti og þannig að sómi sé að nema að menn geti greitt laun og búið þannig að þessu starfsfólki að það sé ánægt í störfum sínum.

Staða sveitarfélaganna til þess að gera þetta er hins vegar erfið. Laun eru mjög hár hluti heildarrekstrarkostnaðar sveitarfélaganna, ég veit ekki hvort það eru kannski ein 70% eða upp undir það. Þar af leiðandi er fátt til ráða í þeim efnum annað en einfaldlega að hafa tekjur til að mæta þeim útgjöldum sem launaliðnum nemur.

Ég heyrði hv. þm. Einar Odd Kristjánsson óskapast yfir því að þarna væru á ferðinni svo miklar kauphækkanir eða mikil útgjaldaaukning hjá sveitarfélögunum að þau mundu þurfa að skera niður á móti þessu. Er það ekki í grófum dráttum rétt eftir haft? Hv. þm. getur þá leiðrétt mig hér á eftir. Það var ekki á hv. þingmanni að heyra að honum litist vel á að aðrir hópar sem starfa hjá sveitarfélögunum fengju svipaða úrlausn mála sinna á næstu mánuðum. Þvert á móti skildi ég hv. þingmann þannig að markmiðið væri að berja það allt saman sem mest niður.

Nú er staða sveitarfélaganna þannig fyrir að þau eru rekin með milljarðahalla, þau safna skuldum. Þau ráða ekki við verkefni sín eins og þau eru í dag. Þetta hefur blasað við undanfarin ár. Það er vissulega rétt sem alltaf er bent á í þessu sambandi að staða þeirra er misjöfn. Það eru til sveitarfélög sem fullnýta ekki tekjur sínar og ráða sjálfsagt ágætlega við u.þ.b. umfang þeirrar þjónustu og þeirrar starfsemi sem þau hafa með höndum, en þeim fer fækkandi.

Þegar svo er komið að upp undir helmingur sveitarfélaganna í landinu er tekinn til sérstakrar skoðunar árlega af eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaganna og þriðjungi þeirra er skrifað og þau krafin sérstakra skýringa á því hvernig þau ætli að leysa mál sín ætti það að duga til þess að menn horfist í augu við vandann, viðurkenni að hann sé til. Það er ekki nóg að skjóta bara sendiboðann og halda að þar með sé málið leyst.

Mér finnst menn stundum nálgast þessi mál þannig, eins og það sé bara nóg að lemja niður þessa menn sem eru með eitthvert leiðindaröfl um að það sé vandi hjá sveitarfélögunum og þar með sé málið leyst. Sjálfstæðisflokkurinn talar þannig, að uppistöðu til. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson er duglegur málsvari hans í þessum efnum.

Hvers vegna skyldi þetta vera? Er það af því að sjálfstæðismenn séu svo blindir á tölur, er það vegna þess að þeir séu svo dómgreindarlausir almennt? Að þeir átti sig ekki á þessum vanda einir manna í landinu? Ég held ekki. Í þeirra röðum eru menn ágætlega glöggir á tölur og vanir í sveitarstjórnarmálum. Ég held að þetta sé pólitík. Ég held að það sé bara alveg markviss pólitík hjá Sjálfstæðisflokknum að sverta sveitarfélögin, halda þeim í þannig kreppu að þau neyðist út í ráðstafanir sem Sjálfstæðisflokkurinn gjarnan vill láta þau fara í. Hvað er það? Jú, svo sem að einkavæða þjónustuna og leita leiða einkafjármögnunar í framkvæmdum, selja eignir, einkavæða þjónustustarfsemi sem á þeirra vegum hefur verið og færa hana yfir á herðar einkaaðila.

Það verður auðvitað að horfast í augu við það að Sjálfstæðisflokknum með meðreiðarsveinum sínum undanfarin ár, hvort sem það eru kratar eða framsóknarmenn, hefur gengið ágætlega í þessum efnum. Í þrengingum sínum hrekjast sveitarfélögin út í ýmsar ráðstafanir sem ég fullyrði að þau mundu í fæstum tilvikum vilja ella. Mjög oft eru menn að velja leiðir eða lausnir sem fleyta þeim kannski áfram til skamms tíma en þýða svo þegar frá líður að staðan verður verri en ella. Mjög margar af þessum einkafjármögnunarleiðum þýða það, það er vitað, það er borðleggjandi reikningsdæmi að kannski að 7–10 árum liðnum sé dæmið þegar orðið neikvætt fyrir sveitarfélögin. Þegar upp verður staðið, eftir kannski 25 ára samning sem ekki er óalgengt að gerður sé um svona hluti, er kostnaður sveitarfélaganna orðinn verulega meiri. Þetta sýna innlendar kannanir og þetta sýna t.d. ítarlegar rannsóknir annars staðar á Norðurlöndunum. Þetta vita menn.

Af rausn sinni ætlar meiri hluti fjárlaganefndar að leggja til að til þeirra sveitarfélaga sem eru í alveg sérstökum vanda og þrengingum um þessar mundir verði hægt að ráðstafa 400 millj. kr. viðbótarfjárveitingu í gegnum jöfnunarsjóð. Forsvarsmenn sveitarfélaganna — t.d. formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og oddviti sjálfstæðismanna hér í Reykjavík hefur talað fyrir því, bæði opinberlega og víðar, að það sé alveg svartasta lágmark að í þetta komi 700 milljónir, jafnvel 1 milljarður kr., vegna vandans á yfirstandandi ári. Erum við þá ekkert byrjuð að ræða það sem fram undan er og tengist nýgerðum samningi við grunnskólakennara verði hann samþykktur. Hann var bara að tala um þann hengjandi vanda sem er hjá stórum hluta sveitarfélaganna hjá eftirlitsnefndinni á yfirstandandi ári.

Hv. þm. Jón Bjarnason leggur hér til að a.m.k. þessar 700 millj. verði þó settar í þetta sem hafa verið neðri mörkin á því sem forsvarsmenn sveitarfélaganna hafa talið lágmark. Ef eitthvað er má svo sem gagnrýna það að hafa þessa breytingartillögu ekki frekar rausnarlegri en hitt og hafa í henni hærri mörkin. Örugglega veitti ekki af eins og 1 milljarði þarna til að ganga til verst stöddu sveitarfélaganna, þótt ekki væri nema upp í þennan upp undir 3 milljarða halla sem fyrirsjáanlegur er á rekstri þeirra á þessu ári.

Ég verð að segja alveg eins og er að ég er dálítið hissa á meiri hlutanum, og það er ekki í fyrsta skipti. Ég velti því t.d. fyrir mér með framsóknarmenn sem eiga félagsmálaráðherrann sem fór mikinn og ætlaði að gera stóra hluti í sambandi við sameiningu sveitarfélaga og færa þeim ný verkefni og hvaðeina, láta kjósa um þetta allt saman hér í apríl á næsta ári, svo situr náttúrlega allt rígfast í sambandi við tekjumálin — er þetta innlegg í það mál? Er þetta innlegg til að smyrja hjólin og koma á jákvæðum samskiptum við sveitarfélögin, þessi afgreiðsla á fjárhagsvanda þeirra hér í þessu fjáraukalagafrumvarpi?

Nei, ég held að það hefði verið frekar í áttina ef menn hefðu tekið mjög myndarlega á óskum sveitarfélaganna um stuðning vegna erfiðleikanna á yfirstandandi ári og gert það dæmi að verulegu leyti upp. Þá á ég ekki bara við jöfnunarsjóðinn þótt hann sé auðvitað stærstur í þessu.

Ég vek t.d. athygli á öðru hér í breytingartillögu meiri hlutans, sem er stórathyglisvert, rausnarskapnum í sambandi við liðinn Eyðing refa og minka. Hér er lögð til breyting á fjárveitingum til umhverfisráðuneytisins, það á að setja heilar 9,8 millj. kr., það er nú ekkert annað, í fjárveitingu til að endurgreiða sveitarfélögunum kostnað við refa- og minkaveiðar. Er það uppgjör vegna ársins 2002. Það er vegna þess að þá var endurgreiðsluhlutfallið fast, það skyldi vera 50%. Það á sem sagt að horfast í augu við að það á ekki að svíkja sveitarfélögin um þetta sem út af stendur vegna ársins 2002. Enn kemur ekki króna í þetta vegna 2003 eða yfirstandandi árs. Nú liggur það alveg fyrir að fjárveitingarnar í fjárlögum hafa engan veginn dugað til þess að halda óbreyttu kostnaðarhlutfalli ríkisins í þessum lið. Hann vegur svo sem ekkert óskaplega þungt á landsvísu, en þetta er tilfinnanlegur útgjaldaliður hjá mörgum af fámennustu og fátækustu sveitahreppum landsins. Þá er þetta tillaga hv. meiri hluta fjárlaganefndar.

Þetta er náttúrlega stórkostlega jákvætt innlegg í samskipti ríkis og sveitarfélaga, er það ekki? Boðar þetta ekki gott upp á framhaldið? Það er von að spurt sé. Eru þeir ekki kampakátir, landsbyggðarþingmennirnir og fóstbræðurnir, formaður og varaformaður fjárlaganefndar, að geta lagt þetta til? Eru þeir ekki montnir af þessum 9,8 millj. sem þeir ætla af rausnarskap sínum að setja í að klára uppgjörið vegna ársins 2002? Jú, ég ætla að þeir séu stoltir af þessu.

Þannig er það auðvitað að það hallar á sveitarfélögin í hverjum samskiptaþættinum á fætur öðrum af þessu tagi. Við þekkjum söguna um húsaleigubæturnar þar sem hið sama er upp á teningnum, ríkið býr þannig um þessi samskiptaform að það eru alltaf sveitarfélögin sem skulu taka það á sig sem út af stendur. Ef útgjöldin aukast, ef verkefnin vaxa skal það vera hausverkur sveitarfélaganna, hvort sem þau hafa tekjur til þess að mæta þeim eða ekki. Þær hafa þau auðvitað ekki.

Ef það hefði nú verið komið til móts við þau klögumál sveitarfélaganna, yfirstandandi og frá undanförnum árum, sem þau telja hvað tilfinnanlegust vegna þessara samskipta hefði það þó verið litur til viðbótar þessari hungurlús sem á að fara inn í jöfnunarsjóðinn. Það er ekkert slíkt að finna. Ég sé ekki stafkrók hér um húsaleigubætur. Það á ekki að setja eina krónu í þær. Það er ekki á nokkurn hátt komið til móts við sveitarfélögin vegna t.d. tekjutaps sem skattbreytingar ríkisstjórnarinnar, algjörlega utan valdsviðs sveitarstjórna, hafa bakað þeim, metið upp á milljarð til 1.200 millj. á ári sem sveitarfélögin verða af tekjum vegna skattbreytinga á undanförnum árum. Þá er afgreiðslan sem sagt sú að setja heilar 400 millj. kr. í jöfnunarsjóð.

Hvað segja þeir um þetta, hv. þingmenn, formaður og varaformaður fjárlaganefndar? Hver eru rök þeirra í málinu? Eru þeir tilbúnir til að fara aðeins yfir þetta fyrir okkur? Er hægt að fara fram á það hérna að þeir fari aðeins yfir þessi samskipti ríkisins og sveitarfélaganna og hvernig þeir telja að þetta sé allt saman að þróast? Vill hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson fara aðeins betur yfir þetta? Hverjar eru hugmyndir hans þá um niðurskurð hjá sveitarfélögunum á móti þessum útgjöldum? (EOK: Ég er á mælendaskrá) Hv. þm. veit væntanlega að þetta ... já, ég er að reyna að undirbúa ræðuna með hv. þingmanni, fara yfir það með honum hvað hann þarf helst að koma inn á. (Gripið fram í.) Nei, því ræður hv. þm., en ég vil gjarnan hafa áhrif á það hvað hann fjallar um. Mér leikur mikill hugur á að heyra rök hv. þingmanns fyrir því (EOK: Þakka þér fyrir.) að traktera sveitarfélögin með þessum hætti og niðurskurðarhnífinn sem hann vill láta blika við loft þegar kemur að þeim og verkefnum þeirra.

Ég hef ekki orðið var við auðugan garð að gresja hjá sveitarfélögunum í landinu hvað varðar liði þar sem þau gætu sparað verulega fjármuni. Hvar á að taka þá þegar langstærsti einstaki útgjaldaliður þeirra er launakostnaður? Er starfsfólk sveitarfélaganna svona ofhaldið að hægt sé að taka af því? Eru fjárfestingar hjá sveitarfélögunum svo miklar um þessar mundir að þau séu almennt í færum til að draga verulega úr þeim? Nei, öðru nær. Þau skipta tugum, sveitarfélögin sem geta ekki ráðist í neinar nýfjárfestingar og eru ekki að því núna ár eftir ár, verða að fresta brýnustu gatnagerðarframkvæmdum og geta ekki einu sinni haldið við eignum sínum. Þetta er svona. Ég veit að hv. þm. hlýtur að vita þetta. Afkoma sveitarfélaganna í kjördæmi hans, hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar, er örugglega misjöfn og mjög víða slök. Að breyttu breytanda er hið dæmigerða sveitarfélag sem á í mestum erfiðleikum miðlungsstórt þéttbýlissveitarfélag á landsbyggðinni. Ég hygg að ekki sé um það deilt að þau, mörg hver, eigi í almestum erfiðleikum. Á þau standa miklar þjónustukröfur. Þau hafa mátt horfast í augu við tekjutap, mörg hver, og eru í afar miklum erfiðleikum með að ná rekstri sínum saman.

Ég held að það sé full ástæða til þess, frú forseti, að við fáum aðeins að heyra frá stjórnarliðum hvernig þeir horfa á þetta, hvað ræður þeirri niðurstöðu sem hér er lögð til af hálfu meiri hlutans hvað varðar samskiptin við sveitarfélögin. Við skulum fá þá umræðu núna, a.m.k. áður en þing fer heim í jólaleyfi, því mér býður svo í grun að margir sveitarstjórnarmenn og íbúar sveitarfélaganna, landsmenn, hafi fullan hug á því að heyra hvað í vændum er í þessum efnum. Eigi menn að taka það trúanlegt á annað borð og taka eitthvert minnsta mark á því að alvara sé að baki áformum ríkisstjórnarinnar um sameiningarkosninguna í aprílmánuði nk. og eigi að verða einhver niðurstaða í þeim efnum sem eitthvað komi út úr verða að fást skýr svör.

Það væri líka fróðlegt að vita hvort einhverjar fréttir eru af þessu endurskoðunarstarfi hvað varðar tekjuleg samskipti ríkis og sveitarfélaga. Menn hafa metið það svo að það væru allra síðustu forvöð að þeir hlutir litu dagsins ljós í þessum mánuði, það væri tilgangslaust að halda þessu áfram nema þar sæi til lands og menn vissu að hverju þeir gengju í þeim efnum. Ég sé ekki að afgreiðslan á málefnum sveitarfélaganna í þessu fjáraukalagafrumvarpi bendi til þess að þar sé einhver breyting í vændum, nema síður sé. Það er ekki annað að sjá en að Sjálfstæðisflokkurinn sé heldur að forherðast í þeirri stefnu sinni að halda sveitarfélögunum áfram í algerri þvingu, algerri afkomukreppu og hrekja þau þá væntanlega lengra áfram út á þann ís að verða að selja eignir sínar og lifa frá ári til árs með einhverjum slíkum aðferðum.

Það var þetta, frú forseti, sem ég vildi sérstaklega gera hér að umtalsefni. Mér þykir vænt um að formaður og varaformaður fjárlaganefndar hafa heiðrað okkur hér með viðveru sinni þannig að við fáum kannski að heyra eitthvað frá þeim um þessi efni.



[13:53]
Einar Oddur Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Manni hlýnar alltaf um hjartaræturnar þegar maður fréttir af því að manns sé saknað. En þannig var í hádegishléinu, milli tólf og eitt, að ég fór að beiðni formanns þingflokks Sjálfstæðisflokksins yfir í hús hér rétt hjá sem heitir Iðnó þar sem SÍBS stóð fyrir umræðu um verðmyndun á lyfjum. (SJS: Gott, skínandi gott.) Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon má vera alveg viss um að ég hafi verið við skyldustörf og hvergi nokkurs staðar að svíkjast um frá vinnu minni. Það er sjálfsagt að verða við þeirri beiðni hans að ræða stöðu sveitarfélaga, sérstaklega í ljósi þess sem gerðist í gær og á ábyggilega eftir að hafa veruleg áhrif á gang mála á Íslandi næstu vikur, mánuði og missiri.

Að mínum dómi liggur alveg fyrir að það hefur verið höfuðgæfa þessa lands í einn og hálfan áratug að Alþýðusamband Íslands og Starfsgreinasamband Íslands hafa haft um það forustu að stjórna hér launaþróun og tekið í launasamningum sínum fullkomlega tillit til samkeppnishæfni Íslands og hvernig við getum fótað okkur, hvernig við getum staðið okkur, vegna þess að tilvera okkar í þessu litla landi byggist á því að geta framleitt vörur og selt til að kaupa aðrar vörur. Um árabil, áratugabil, trúðu því mjög margir að það væri náttúrulögmál að á Íslandi væri stöðug óstjórn efnahagsmála, hér á landi væri alltaf allt logandi í verðbólgu, hér stæðum við föst meðan aðrar þjóðir sæktu fram á farsælan hátt. Í mínum huga er enginn vafi að það er einmitt hin ábyrga stefna launþegasamtakanna sem hefur gert okkur kleift að hafa hér eitt mesta framfaratímabil í sögu þessa lands. Við höfum notið þess að hér var stöðugleiki í efnahagsmálum, hér ríkti það umhverfi að íslensk fyrirtæki hafa getað þróast, tekist á við þau verkefni sem bíða þeirra í framtíðinni, tekist á við önnur fyrirtæki alls staðar í heiminum og keppt með glæsilegum árangri. Hér hefur orðið algjör viðsnúningur á síðustu 15 árum samfara því að stjórnmálaöflin í landinu hafa borið gæfu til þess að umsnúa því, taka þetta þjóðfélag frá þeirri stefnu sem áður var þegar öllu var hér handstýrt. Hér var handstýrt þjóðfélag en nú er það orðið þjóðfélag þar sem markaðurinn ræður, þar sem markaðurinn sér um það að verðmyndunin sé frjáls þannig að jafnvægi ríki. Það var náttúrulögmál hér áður fyrr að á nokkurra missira fresti, á nokkurra mánaða fresti, fór þjóðfélagið með efnahagsstjórninni út í móa. Það þótti bara ekki tiltökumál og margir trúðu því að svona yrði þetta að vera.

Frá þessu hefur nú verið horfið, eins og ég hef sagt áður, virðulegi forseti. Síðustu samningar Alþýðusambands Íslands og Starfsgreinasambandsins gerðu ráð fyrir því, alveg eins og fyrri samningar, að því aðeins gætu menn krafist þess af launþegum þessa lands, þeim sem vinna í framleiðslunni, vinna í þjónustunni og í versluninni, að þeir tækju ábyrga stefnu í launamálum ef opinberir starfsmenn, starfsmenn ríkisins, gerðu slíkt hið sama. Það er grundvallaratriði. Engum leyfist undan að líta. Að sjálfsögðu verður sú krafa gerð og hefur alltaf verið gerð að starfsmenn hins opinbera gætu ekki annað en tekið sömu stefnu.

Það þýðir ekkert fyrir forustumenn einstakra hópa, faghópa, sérmenntaðra hópa, sem vinna hjá hinu opinbera, að segja við alþjóð: Nei, við erum eyland. Hvað kemur okkur við efnahagslíf? Nei, efnahagslíf kemur okkur ekkert við. Við ætlum að semja á okkar eigin forsendum. Hvaða forsendur eru það, virðulegi forseti? Jú, við ætlum að semja þannig að allt okkar fólk, eins og þeir segja, sé ánægt. Já, þannig skal samið.

Því spyr ég, virðulegi forseti, og krefst þess að allir þeir sem hafa manndóm til svari því þá opinberlega: Hverjir eru það meðal íslenskra launþega sem ekki eiga þá að hækka eins? Eru það íslenskir verkamenn? Eru það íslenskir iðnaðarmenn? Eru það íslenskir verslunarmenn? (Gripið fram í: Þingmenn.) Eru það öryrkjar sem taka laun samkvæmt launaþróuninni eða ellilífeyrisþegar? Hverjir eru þetta, virðulegi forseti?

Menn geta ekki komið opinberlega fram, stjórnmálamenn og forustumenn stjórnmálaflokka. Þeir geta ekki borið blak af þeim skelfilegu mistökum sem íslensk sveitarfélög stóðu fyrir í gær öðruvísi en að svara þessu.

Það var hörmulegt að íslensk sveitarfélög skyldu rata í þessa ógæfu. Það lá fyrir, eins og ég hef áður sagt, virðulegi forseti, að því aðeins gætum við krafist þess að fólkið sem stendur að framleiðslunni í þjóðfélaginu tæki ábyrga afstöðu til launamála ef starfsmenn ríkisins gerðu það líka. Svo bera menn blak af þessum skelfilegu mistökum.

Það skiptir ekki meginmáli hvort þeir samningar sem undirritaðir voru í gær eru 5, 6, 7, 8 eða 9% hærri en samningar Alþýðusambands Íslands. Þeir eru stílbrot sem auðveldlega gætu fært þetta þjóðfélag á bólakaf, gætu eyðilagt á einni nóttu þann kaupmáttarauka sem tekist hefur að búa hér til í einn og hálfan áratug, gert launafólk á Íslandi fátækt og komið því í öngþveiti.

Það leikur enginn vafi á því, virðulegi forseti, að engir launahópar hins opinbera, BSRB og BHMR, sem eru með lausa samninga — BSRB er með alla samninga, ég held að ég fari með það rétt, lausa núna 1. desember — hafa enn þá sett fram kröfur. Hvorki hefur heyrst hósti né stuna. Það hefði mátt heyra saumnál detta. Þeir hafa algjörlega þagað meðan verkfall og verkdeilur grunnskólakennara hafa staðið.

Ég fullyrði að um leið og gengið hefur verið frá kjarasamningum grunnskólakennara mun hver einasti starfshópur ríkisins reisa kröfur sínar og þeir munu allir reisa þær kröfur á þeim samningi sem var gerður við grunnskólakennara. Hver einn og einasti.

Svo koma menn, svo koma virðulegir þingmenn og bera blak af þessum skelfilegu mistökum.

Launasumman í þessu landi er einhvers staðar í kringum 500–550 milljarðar. Reikni svo hver sem vill. 30%. 40%. Einu sinni þegar vitleysan var í algleymingi í þessu þjóðfélagi, fyrir nokkrum áratugum, var sögð sú saga af þeim ágæta hagfræðingi, Benjamín J. Eiríkssyni heitnum, að þegar honum barst til eyrna að samið hefði verið um 37% kauphækkun sagði hann: Af hverju ekki 73%? Ef vitleysan er algjör skiptir svo sem ekki máli hver talan er. (Gripið fram í.) Hækka laun um 150 milljarða? 200 milljarða?

Ég minnist kvæðis sem mig minnir að sé eftir Þórarin Eldjárn. Þar eru þessi vísuorð, virðulegi forseti:

Mamma, einn dans enn

og hann kemur senn

og nýjustu dansarnir duna

í diskótekinu í Hruna.

Ætli það verði ekki eitthvað svoleiðis. Hvað halda menn að láti undan? Veikasti hlekkurinn lætur alltaf undan. Hann slitnar. (Gripið fram í.) Auðvitað er veikasti hlekkurinn gengi íslensku krónunnar, auðvitað er það langveikasti hlekkurinn sem allt byggist á. (SJS: Er það grunnskólakennurunum að kenna?) (Gripið fram í.) Auðvitað er það veikasti hlekkurinn. Svo skulum við sjá eftir 30, 40, 50, 60, 70, 80% verðbólgu, tölu sem menn þekktu hér áður. Það verður glæsileg kaupmáttaraukning þegar búið verður að setja hvert heimili í landinu í ösku. Og þetta voga menn sér að verja. (KolH: En .....?)

Ríkisstjórn Íslands, virðulegi forseti, á engra annarra kosta völ í þessu en að reyna að taka upp varnir. (Gripið fram í: ... skatta.) Taka upp varnir. (Gripið fram í: Lækka skatta.) Auðvitað á hún engra annarra kosta völ en að taka upp varnir og lýsa því yfir að hin skelfilegu mistök sveitarstjórnanna í gær skuli aldrei yfir hana ganga. Við skulum átta okkur á því að þessir samningar sveitarstjórnanna við starfsfólk sitt í grunnskólunum voru samningar við ¼ starfsmanna sveitarfélaganna. Þær eiga eftir að semja við ¾ í viðbót. Þá kemur aftur spurningin: Hver á ekki að hækka?

Menn voru að gera því skóna hér, einhverjir bjartsýnismenn og fallega hugsandi, að Íslendingar mundu unna grunnskólakennurum þess að þeir gætu hækkað sérstaklega og aðrir mundu ekki gera slíka kröfu.

Ég gæti vel ímyndað mér að ef samstaða væri um það á Íslandi að hækka grunnskólakennara og að Íslendingar ætluðu ekki, ekki einn einasti, að gera sams konar kröfur gæti það leitt til mikillar farsældar fyrir þetta samfélag. Ég gæti alveg trúað því að það væri skynsamlegt og vel gert hjá hinni íslensku þjóð að hækka grunnskólakennara umfram aðra. En allan þann tíma sem kjaradeilan stóð hefur enginn einasti Íslendingur, ekkert einasta stéttarfélag, enginn lýst því yfir að þeir mundu ekki gera slíkt hið sama. Auðvitað gera allir þá kröfu af því að enginn er tilbúinn til þess að ein stétt fái þessa kauphækkun, ekki önnur. Þetta vita allir, virðulegi forseti. Það veit hver einasti maður.

Svo halda virðulegir þingmenn því fram að það sé nú bara hið minnsta mál, það eigi bara að rétta sveitarfélögunum aukna skatta og þá séum við búin að leysa þetta, búin að leysa þetta allt. Aukna skatta. Hverjir eiga svo að borga þá skatta? (Gripið fram í: Þú.) Ætli það sé ekki þessi sama þjóð sem á að borga þá? Draumurinn um að geta halað sig upp á hárinu er ekki bundinn við barón von Munchhausen, fleiri hefur dreymt um að geta leikið það eftir.

Hið hörmulega í þessu, virðulegi forseti, er að þetta er að gerast á þeim tíma þegar þau válegu tíðindi berast okkur að hinar endurskoðuðu töflur um lífaldur Íslendinga sem segja okkur að allar forsendur lífeyrissjóðanna eins og við höfum verið að reikna þær í 30 ár eru rangar. Íslendingar lifa núna manna lengst. Þær forsendur sem við höfum gefið okkur í kjarasamningum gagnvart innborgunum í lífeyrissjóðina hafa verið rangar.

Hvernig kemur það svo út, virðulegi forseti? Jú, það kemur þannig út að hinir frjálsu lífeyrissjóðir, lífeyrissjóður verkafólksins, lífeyrissjóður fólksins sem vinnur að framleiðslunni, versluninni og þjónustunni, eiga ekkert fram undan annað en skerðingar, skerðingar á lífeyri, eftirlaunum, örorkulífeyri o.s.frv.

Þetta er sá veruleiki sem við stöndum frammi fyrir. Á meðan lífeyrissjóður opinberra starfsmanna er með allt sitt á þurru koma menn og verja þau skelfilegu mistök að ætla enn og aftur að hækka laun opinberra starfsmanna meira en laun Alþýðusambands Íslands. Á sama tíma. Þetta er skelfilegt, virðulegi forseti, skelfileg ógæfa að til séu svo ábyrgðarlausir þingmenn.

Sveitarfélögin í landinu hafa engin efni á því að borga slíkar kauphækkanir. Það er af og frá, og allra síst sveitarfélögin úti á landi sem sannarlega eiga við erfiðleika að stríða vegna fækkandi fólks, lækkandi tekna í sjávarútvegi o.s.frv. Mörg sveitarfélög á Reykjavíkursvæðinu standa mun betur að vígi.

Þegar búið verður að hækka launin hjá öllum starfsmönnunum, hvað á þá að gera? Fá meiri skatta frá ríkinu? Menn gleyma grundvallarsannindum, og það er alveg sama, virðulegi forseti, hversu góðir menn og gegnir við Íslendingar erum eða aðrar lýðfrjálsar þjóðir, það hefur alltaf legið fyrir að eyðslustig hins opinbera, bæði hér á landi og alls staðar í Vestur-Evrópu, í lýðfrjálsum löndum, er skattstigið. Alltaf.

Halda menn að það hafi einhvers staðar gerst á byggðu bóli að einhverjir nýir skattar séu bara frystir inni í einhverjum seðlabanka og geymdir þar? Engin einasta saga er til um það í Vestur-Evrópu. Skattstigið er eyðslustigið.

Ríkisstjórnin á engra annarra kosta völ en að setja upp allar sínar varnir og standa þannig að málum að starfsmönnum ríkisins sé gerð fullkomlega grein fyrir því. Það er af og frá að hægt sé að semja við þá um eina einustu krónu umfram það sem Alþýðusamband Íslands hefur samið um.

Hvað haldið þið að verði í landi þar sem misskipting í lífeyrissjóðunum er svo gríðarleg sem raun ber vitni, á sama tíma og við skerðum lífeyrisgreiðslurnar, skerðum bæturnar til hins almenna verkamanns? Að þegar ríkisstarfsmennirnir hafi allt sitt á þurru geti menn leikið þann leik að hækka laun þeirra umfram þá sem vinna í framleiðslunni? Hvaða maður, virðulegur forseti, er svo vitskertur að trúa þessu? Ég trúi því ekki að nokkur maður (Gripið fram í: Ég trúi því.) sé svo fjarri lagi, algjörlega laus við allan veruleika.

Ríkisstarfsmenn verða að átta sig á því hverjir eru að borga tugmilljarða og aftur tugmilljarða inn í lífeyrissjóði þeirra. Það eru skattborgarar þessa lands, sama fólkið og á að þola skerðingu á kjörum sínum. (SJS: Eru opinberir starfsmenn ekki skattgreiðendur eins og aðrir?) Mismunurinn á milli þeirra og kjara hinna sem vinna á hinum almenna vinnumarkaði verður óþolandi. Það þýðir ekkert fyrir ríkisstarfsmenn að horfast ekki í augu við það að þjóðin mun ekkert líða þetta. Hún mun krefjast þess að ríkisstarfsmenn hafi ekkert öðruvísi lífeyrissjóð en aðrir menn. Það kemur að því ef svo á að halda sem horfir. Þetta er sú hætta sem menn skulu gera sér grein fyrir. Þetta getur sprengt okkar góða þjóðfélag heinlega í loft upp.

Þetta er óveðursskýið sem hrannast upp, hið svarta óveðursský. Enn þá er farsæld í þessu landi. Enn þá stendur ríkissjóður þessa lands vel, betur en flestir aðrir í Evrópu. Enn þá er hér kyrrð og ró en það gæti breyst.

Það er mikil ábyrgð, virðulegi forseti, að vera í stjórnarandstöðu. Þeir verða krafnir ábyrgðar og þeir verða að svara íslensku þjóðinni. Ef þeir eru ekki menn til að gera það opinberlega þá gagnvart samvisku sinni aftur og aftur: Hvaða launþegar á Íslandi eiga ekki að hækka? Hverjir eru það?

Menn verða að temja sér ábyrgð gagnvart launum. Laun eru um 70% af þáttatekjunum í þjóðfélaginu. Svo halda menn að þeir geti farið með þetta af einhverri léttúð, þetta sé bara spurning um að vera huggulegur, bara spurningin um að segja: Jú, við ætlum af gæsku okkar að hækka launin svo að þau séu mannsæmandi, eins og það heitir. Ha. Svo það sé mannsæmandi og sómi að. Eigum við ekki að hækka verkafólkið svo það sé mannsæmandi, sé sómi að því? Það er örlæti, þetta. Blessuð, förum öll og hækkum okkur um 100%. Yrðu ekki allir hamingjusamir? Yrði ekki stórkostleg gleði?

Við lékum þessa leiki í 40 ár, virðulegur forseti, og allir vissu að öll þjóðin tapaði og mest þeir sem voru fátækastir. Alltaf fóru lægstlaunuðu stéttirnar verst út úr því. Því meiri sem verðbólgan var þeim mun verr fór láglaunafólkið út úr því. Þess vegna höfðu verkalýðsfélögin forustu um að stoppa þessa vitleysu. Nú láta menn eins og enginn kunni neitt, eins og enginn muni neitt og þess vegna megi taka einn dans enn. Það er ekki hægt. Það verður að berjast og það verður að stoppa þetta. Sveitarfélögin verða að sitja uppi með sinn hörmungarsamning og þau eiga enga aðra leið út úr honum en að skera niður opinbera þjónustu. Það er borin von að ríkið geti undir nokkrum kringumstæðum komið þeim til hjálpar. Það er hörmulegt að þurfa að segja þetta en svona er þetta. Það er engin leið út úr vanda þeirra. Engin, nema menn ætlist til þess að ríkið bara gefist upp, ríkisstjórnin bara segi: Við gefumst upp og allt fari hér til helvítis.

Nei, það verður ekki gert, virðulegi forseti, það skal barist. Þær varnir skulu settar upp og það skal verða gerð grein fyrir því að það er ekki ábyrgðarlaus lýður við stjórnvöl á Íslandi, heldur fólk sem gerir sér fullkomlega grein fyrir ábyrgð sinni og ætlar sér að standa við það sem við höfum alltaf sagt að okkur bæri að gera, standa við hliðina á framleiðslunni, atvinnuvegunum, standa við hliðina á þeim sem vinna í framleiðslunni og þetta þjóðfélag byggist á.



[14:18]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Bjargvætturinn hefur talað og víst á íslensk þjóð hv. þingmanni nokkuð að gjalda fyrir þátt hans í því að koma hér á stöðugleika fyrr á tímum. En sjálfum sér verður hver sárreiðastur. Auðvitað er það bjargvætturinn sem ekki hefur staðið vaktina, því sveitarfélögin hafa ekki forustu um launamyndun opinberra starfsmanna. Það hefur hæstv. fjármálaráðherra Geir H. Haarde haft, m.a. með frægum samningum við lækna, við hjúkrunarfræðinga og ekki síst við framhaldsskólakennara. Sveitarfélögin hafa ekki gert annað en fylgja eftir launastefnu hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar og áttu enga aðra leið en að mæta sanngjörnum kröfum grunnskólakennara í því ljósi. Eina leiðin til lausnar vandanum var að mæta þeim kröfum, en ekki að svelta sveitarfélögin.

Ég held að íslensk þjóð geti unnt grunnskólakennurum þess að fá á nokkrum árum 5% hækkun umfram aðra, vegna þess hvernig staða þeirra í samanburði stéttanna var orðin. Sá 750 millj. kr. kostnaðarauki sem það veldur mun ekki ógna stöðugleikanum hér. Það er þetta fjárlagafrumvarp og fyrirætlanir um tuttugu og eitthvað milljarða skattalækkanir, hundrað milljarða útgjaldabólgnun og markleysi fjárlaga ár eftir ár og lítið aðhald hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar í ríkisfjármálunum sem sætir vaxandi gagnrýni úti í atvinnulífinu. Það þýðir ekki að skammast út í sveitarfélögin eða gera þau ábyrg fyrir þessu öllu saman.



[14:20]
Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Ef það er rangt hjá mér sem kjararannsóknarnefnd gefur út, að kaup starfsmanna sveitarfélaga hafi hækkað meira en ríkisins, þá er það athyglisvert, en þetta sýna tölurnar. Samt er engin ástæða, virðulegi forseti, til að vera að rífast um það. Hvað vill hv. þm. þá gera? Hann mun segja að einhver annar en sveitarfélögin beri ábyrgðina, að ríkið beri ábyrgðina. Allt í lagi, ég ætla ekki að fara í neina þrætubók við hann um það. Mér finnst fróðlegt að vita hvað hann vill gera í stöðunni. Eru einhverjir sem ekki eiga að hækka að hans dómi? Það verður fróðlegt að heyra það, einkar fróðlegt.

Ef það reynist rétt sem virðulegur þingmaður heldur fram, að þjóðin sé sátt við að grunnskólakennarar hækki meira en allir aðrir, þá eru það hin bestu tíðindi. Þá kemur það fram í kjaraviðræðunum sem eru fram undan, í kröfum frá BSRB og BHMR. Það eru þá góð tíðindi að vita að þeir ætla ekki að gera sömu kröfur og grunnskólakennarar. En ég er ansi hræddur um, virðulegi forseti, að óskhyggjan ráði töluverðu um málflutning hv. þm. Helga Hjörvar.



[14:21]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Allir þeir sem hafa verið vakandi hin síðari ár vita að grunnskólakennarar á Íslandi hafa ekki hækkað umfram aðrar stéttir, þvert á móti, enda er hér um sjálfsagða leiðréttingu að ræða. Þegar hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson spyr hverjir eiga þá ekki að fá meira, er rétt að vekja athygli hans á því að útgjöld okkar til menntamála eru minni en í nágrannalöndunum, í samanburðarlöndunum, m.a. vegna þess að við höfum ekki gert nægilega vel við þessar stéttir. Það er fásinna að sá 750 millj. kr. kostnaður sem kann að felast árlega í umframhækkunum til kennara ógni stöðugleikanum, það eru þeir nærri 300 milljarðar sem hér eru, þar sem útgjaldaaukningin til utanríkismála ein sér er einn milljarður milli ára, sem er meiri en hækkunin til allra kennara á Íslandi umfram almenna launaþróun. Það sem ógnar stöðugleikanum er aðhaldsleysi í ríkisfjármálum, hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, og t.d. sá hroki hv. þingmanns að koma hér og moka hundruðum milljóna í aukin lífeyrisréttindi þingmanna og ráðherra með annarri hendinni, en berja í pontuna yfir ábyrgðarleysi og óráðsíu lífeyrisskuldbindinga ríkisins með hinni hendinni.

(Forseti (JBjart): Forseti minnir hv. þingmenn á að aðgæta ræðutímann.)



[14:23]
Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef þessar kauphækkanir eru bara 700 milljónir, þá horfir þetta allt miklu betur en menn héldu. En þá væri fróðlegt að vita hvernig stendur á því að Reykjavíkurborg þarf að hækka skatta, ég held þeir geti hætt við það ef þetta er svona. (GHall: Dugar ekki til.) Það er hið furðulegasta mál, virðulegi forseti, ef menn vilja ekki horfast í augu við þessa hluti, vilja sjá þá allt öðruvísi, tala út og suður en þora ekki að horfast í augu við hvað hefur gerst. Ísland er með fjórðu hæstu framlögin til menntamála samkvæmt opinberum tölum OECD og það verður ekki hrakið. Þetta eru þær staðreyndir sem við erum að tala um. Hér er mikil vá fyrir dyrum.



[14:24]
Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni fyrir afar áhugaverða ræðu. Mig langar til að spyrja hann spurninga, af því hann vék að því að í gær hefðu náðst samningar milli sveitarfélaganna og grunnskólakennara um kauphækkanir. Þetta eru samningaviðræður sem hafa staðið á milli þessara tveggja aðila, annars vegar kennara og hins vegar sveitarfélaga, um kjör kennarastéttarinnar.

Það vill hins vegar þannig til, og það gleymist alltaf í umræðunum um þessi mál, að samningarnir sem hafa verið gerðir hafa áhrif á þriðja aðila, sem er ríkið.

Samningarnir sem voru gerðir í gær hafa áhrif á lífeyrisskuldbindingar ríkisins. Ríkið er ekki spurt að því hvort það samþykki þær hækkanir sem sveitarfélögin tóku á sig í gær. Ég tek undir það með hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni, telji sveitarfélögin sig vera í stakk búin fjárhagslega til þess að standa við þennan samning og greiða kennurum þessi laun, þá gott og vel, þá gera þau það. En þau skulu ekki komast upp með að koma skríðandi til ríkisvaldsins og biðja um frekari fjármuni vegna þeirra samninga sem þeir hafa gert. (HHj: Sagðirðu skríðandi?) Sveitarfélögin já. (HHj: Sagðirðu skríðandi?) Já. (ÖS: Hvað sagði menntamálaráðherra í síðustu ræðu sinni um þessi mál?) Það veit ég ekkert um, hv. þingmaður.

Það þýðir ekkert fyrir forsvarsmenn sveitarfélaganna að koma hingað og biðja ríkið að taka upp budduna ef þeir telja sig hafa farið fram úr sjálfum sér í þessum samningum.

En að lífeyrisskuldbindingunum aftur. Mig langar til þess að varpa þeirri spurningu fram til hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar, sem hefur frætt okkur um það, fyrst í gær, hvað þessi samningur gengur út á fyrir sveitarfélögin. Mig langar til að spyrja hann: Hvað þýðir þessi samningur í auknum skuldbindingum, lífeyrisskuldbindingum, fyrir ríkissjóð?



[14:26]
Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessi tala er að sjálfsögðu ekki nákvæmlega þekkt, en þeir sem gleggst þekkja telja að hún sé kringum 10 þús. millj. — tíu milljarðar króna í nýjar skuldbindingar ríkisins.

Það er hins vegar rétt, virðulegi forseti, að taka það fram að mér er kunnugt um að margir sveitarstjórnarmenn lögðu sig alla fram þennan tíma um að vera ábyrgir. Og þeir börðust fyrir því mánuðum saman að sveitarstjórnirnar tækju ábyrga stöðu í þessu máli. Því miður urðu þeir undir í þeim átökum. Það er hið hörmulega, sérstaklega hörmulegt af því ég veit það að margir þeirra sem höfðu forustu um að reyna að vera ábyrgir, voru einmitt forustumenn sveitarfélaga úti á landi þar sem sveitarfélögin standa hvað höllust að vígi. Þeir urðu bara undir. Það verður að segja þessa sögu eins og hún er. Þetta er mikil sorgarsaga.

En 10 þús. milljónir, eitthvað þar í kringum, það er hið rétta svar.



[14:28]
Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar til þess að þakka hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni fyrir upplýsingarnar, sem ég taldi nauðsynlegt að fá fram í þessari umræðu, vegna þess að það er aldrei vikið að því að þessir samningar sem sveitarfélögin eru að gera við stéttir sínar snúa líka að ríkinu og fela í sér skuldbindingar fyrir það. Og 10 milljarðar kr. í auknar lífeyrisskuldbindingar fyrir ríkissjóð vegna þessa samnings eru töluverðir fjármunir. Menn skulu ekki halda því fram að ég sé að segja að kennarar séu of góðir af sínum launum, ég er ekki að segja það. (Gripið fram í: Þú varst að segja það.) Ég er hins vegar ... ég var ekkert að segja það. En það er nauðsynlegt að hér komi fram að þessi samningur kostar ríkissjóð 10 milljarða. Það er líka mikilvægt að fram komi að þeir sveitarstjórnarmenn sem gerðu þessa samninga, margir þeirra ábyrgir, alveg rétt, gerðu þá fyrir hönd sinna sveitarfélaga (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) og þeir munu standa og falla með sinni pólitík.



[14:29]
Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt að fara í gegnum það að ég hef aldrei vitað um nokkurn launþega sem þarf ekki á kauphækkun að halda. Ég veit um ekki um neinn launþega sem hefur nógu hátt kaup. Það er eðlileg krafa hvers manns að krefjast hærra kaups. Það þarf enginn að hneykslast á því. En þegar menn vinna hjá ríkinu þá geta þeir ekki gert kröfur umfram það sem þeir sem vinna hjá framleiðslunni gera. Það er sú ábyrgð sem verður að krefja menn um, nákvæmlega sama hvað þeir heita eða hvar þeir eiga heima.



[14:30]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að segja eins og er að mér blöskrar málflutningur hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar. Það væri fróðlegt að spyrja, vegna þess að flokksbróðir hans, hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, kemur svo oft og mælir upp í þingmanninum, hvort hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson tali hér í umboði Sjálfstæðisflokksins eða jafnvel ríkisstjórnarinnar allrar. Er hér verið að gefa út línuna?

Hv. þingmaður bætir gráu ofan á svart og nú skulu grunnskólakennarar landsins vera allsherjarsökudólgar og blórabögglar. Það skal vera þeim að kenna ef allt fer úr böndum í efnahagsmálunum og ábyrgðin þá að hinu leytinu hjá sveitarfélögunum, vegna þess hve heimskulega þau hafa samið við kennarana.

Það er talað eins og ríkisstjórnin beri enga ábyrgð vegna efnahagsstefnu sinnar eða vegna kjarasamninga sem hún hefur sjálf gert, en grunnskólakennarar bera samninga sína eðlilega saman við þá, ekki síst kjarasamninga framhaldsskólakennara. Er ekki 6% verðbólga í dag og fer hækkandi? Er ekki verið að semja í því umhverfi? Er hv. þingmaður hissa þó að grunnskólakennarar vilji a.m.k. reyna að tryggja að kaup þeirra lækki ekki á næstu mánuðum? Um hvað er hv. þingmaður að tala? Hvernig í ósköpunum á að ætlast til þess að þessi stétt ljúki gerð kjarasamninga til fjögurra ára öðruvísi en að þar séu einhverjar launahækkanir innibyggðar, þannig að a.m.k. séu sæmilegar líkur á að koma út á núlli? Hv. þingmaður talar eins og að frá og með morgundeginum verði núll prósent verðbólga á Íslandi næstu fjögur árin. Mér finnst bjargvættinum vera farið að skjöplast eitthvað í útreikningunum. (Gripið fram í.) Og er verið að fara fram á að sveitarfélögin felli samninginn? Er það línan sem ríkisstjórnin er að gefa hérna út, eða er jafnvel verið að hóta lögum ef samningurinn verður samþykktur?



[14:32]
Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef aldrei þurft að taka það fram í ræðum mínum að auðvitað tala ég sem þingmaðurinn Einar Oddur Kristjánsson. (JBjarn: Og var komið ...) Það hefur alltaf legið fyrir. Ef menn eru svo sárir yfir eða hneykslaðir á málflutningi mínum, að það sé voðalegt að segja að einhver beri ábyrgð, allt í lagi. Allt í lagi, virðulegi forseti. Ef einhver annar ber ábyrgð, er það eitthvað betra? Erum við þá eitthvað hamingjusamari? Er hættan þá eitthvað minni? Allt í lagi. Við skulum segja að ríkið beri líka einhverja ábyrgð. Ég er ekki frá því að það sé rétt. Erum við þá eitthvað betur settir? Er hættan þá minni? Ég tala hér fyrir því að okkar góða samfélag geti verið í lífshættu. Ég fullyrði að þau góðu kjör, sá góði árangur sem hefur náðst í efnahagsmálum geti verið í mjög mikilli hættu. Ég trúi þessu, því ég veit að það er rétt.

Mér er það ekkert kappsmál, virðulegi forseti, að segja að einhver beri ábyrgð. Ef það er eitthvað léttara fyrir menn að segja að ríkið beri ábyrgð með sveitarstjórnunum, þá er það allt í lagi. En ég fullyrði hins vegar að hættan, hin efnahagslega hætta sem við stöndum frammi fyrir, er nákvæmlega sú sama. Þannig að við erum engu nær.

Ég get ekkert að því gert, virðulegi forseti, þó hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, sé hneykslaður á málflutningi mínum. Það vill nefnilega þannig til að það er alveg gagnkvæmt. Ég er nefnilega mjög hneykslaður á málflutningi hans.



[14:34]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mér fannst hv. þingmaður vera að reyna að ná sér aðeins niður, hann útilokaði ekki að einhverjir fleiri en grunnskólakennarar gætu hugsanlega borið einhverja ábyrgð á ástandinu. Það er framför. Hv. þingmaður svaraði því litlu hvernig grunnskólakennarar ættu að semja til fjögurra ára í 6% verðbólgu, með þær þensluhorfur fram undan sem þjóðhagsspá og margt fleira bendir til að verði, án þess að reyna að taka tillit til þess í einhverjum kauphækkunum í þrepum á komandi árum. Hvernig vill hv. þingmaður ganga frá kjarasamningum við þessar aðstæður? Sú 6% verðbólga sem við stöndum frammi fyrir núna er ekki grunnskólakennurum að kenna, ekki bjuggu þeir hana til. Þeir hafa ekki fengið kauphækkanir að undanförnu, það vitum við. Þar verða aðrir að líta í eigin barm.

Það sem mér sárnaði í málflutningi hv. þingmanns, það hneykslaði mig og mér blöskraði uppleggið í ræðu hans, að gera grunnskólakennarana og kjarasamninga þeirra, og svo sveitarfélögin, að algjörum blórabögglum. (Forseti hringir.) Að allsherjarábyrgðaraðilum þess ef hlutirnir færu úr böndum í efnahagsmálum.

Ég fagna því að hv. þingmaður er byrjaður að draga í land, en hann má draga miklu (Forseti hringir.) meira í land.



[14:36]
Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er algjörleg misskilningur að ég hafi neitt dregið í land og það mun ég ekki gera. Ég óttast að þessir samningar geti haft þau örlagaríku áhrif sem ég var að lýsa áðan.

Það er hins vegar alveg ljóst í mínum huga hvernig opinberir starfsmenn geta samið. Þeir geta ekki samið á neinn annan hátt en samið er við fólkið í framleiðslunni, fólkið sem er í Alþýðusambandi Íslands. Það er með opnunarmöguleika ef verðbólgan fer úr böndum, þá fylgja þeir með líka. Þá er búið að tryggja það, en þeir geta aldrei samið öðruvísi og það má aldrei semja öðruvísi við þá, vegna þess að þeir eru ekki með séraðstöðu, þeir geta ekki búið sér til sínar forsendur. Þeir verða að standa við hliðina á fólkinu sem vinnur í framleiðslunni og búa við sömu örlög og þeir.



[14:37]
Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Einar Már Sigurðarson) (Sf):

Frú forseti. Hér hafa farið fram athyglisverðar umræður. Það má segja að þær hafi að hluta til hafist með ræðu hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar, eins og oft áður þegar fjárlög eða fjáraukalög hafa verið rædd. Það er hins vegar afskaplega athyglisvert þegar hv. þingmaður vísar allri ábyrgð á ákveðna stétt eða ákveðinn hóp. Hér er ábyrgðin öll, miðað við málflutning hv. þingmanns, hjá sveitarfélögunum og grunnskólakennurum. Það er eins og sagan hafi hafist með kröfugerð grunnskólakennara. Í andsvörum var hv. þingmaður að vísu farinn að bakka örlítið inn í raunveruleikann og farinn að kannast við að hugsanlega bæru einhverjir fleiri ábyrgð í þessu máli.

Frú forseti. Það sem einkenndi allan málflutning hv. þingmanns voru áhyggjur hans af ríkisstjórninni sinni, af stefnu ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum. Það var augljóst mál. Hv. þingmaður gekk hins vegar ekki nógu langt í hreinskilninni sem hann er þó þekktur fyrir, þ.e. að skamma sína eigin ríkisstjórn, sem hann gerði þó óbeint, vegna þess að hv. þingmaður kann alla þessa sögu mjög vel, sögu kjarasamninganna, hvenær fyrst var gefið eftir í þeirri stefnu sem hv. þingmaður vill nú að verði tekin upp. Hann þekkir vel samningana sem voru gerðir við framhaldsskólakennara, sem var eðlilega ákveðið viðmið grunnskólakennaranna, en framhaldsskólakennararnir höfðu líka viðmið. Við þekkjum kjarasamningana sem voru gerðir þar á undan, við þurfum ekki að nefna þá alla, m.a. kjarasamningana sem þurfti þrjá ráðuneytisstjóra í heilbrigðiskerfinu til að gera. Það var spírall sem fór í gang og snerist í mörg ár og það hefur verið að skila sér út, jafnt og þétt. Ef við erum að leita að ábyrgðinni þá þarf að vita hvar þetta hófst. Það er ósköp eðlilegt að þeir sem hófu leikinn verði að ljúka honum líka.

Það er auðvitað hárrétt hjá hv. þingmanni að á ákveðnu tímabili hefur verið mismunur á því hvernig launahækkanir hafa dreifst um samfélagið, það er alveg ljóst. Vandinn er hins vegar alltaf sá við hvaða tíma eigi að miða. Hvar ætlum við að byrja og hvar ætlum við að enda?

Hv. þingmaður hefur oft sagt, sem er hárrétt: Kjarasamningar eru fyrst og fremst samanburðarfræði. Það er alltaf verið að bera sig saman við einhverja og þannig er það auðvitað nú. Það er ljóst að staðan gagnvart grunnskólakennurum í deilunni við sveitarfélögin var afskaplega viðkvæm og erfið og ég hélt að flestir mundu fagna því að tekist hefði að leysa hana.

Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að það leysir enginn svona deilur með því að vísa á aðra, að aðrir eigi að borga brúsann. En enn og aftur er spurningin: Hvar ætlum við að hefja leikinn?

Það liggur ljóst fyrir og hefur verið vitnað til þess, sem margir flokksbræður hv. þingmanns úr forustusveit sveitarstjórnarmanna hafa bent á, að það er vitlaust gefið í samskiptum ríkis og sveitarfélaga. Þar þarf að taka til hendinni. Það þarf því ekki samninginn við grunnskólakennara til til að fara í þau mál og lagfæra samskipti þar.

Það hefur hallað á sveitarfélögin á margvíslegan hátt. Hér í umræðunni hafa verið nefnd nokkur dæmi. Það hefur verið gert á undanförnum missirum og þarf ekki að endurtaka það.

Við vitum líka að tekjuþróun sveitarfélaga og ríkisvaldsins hefur verið mismunandi, þ.e. tekjur hafa aukist mun meira hjá ríkinu en sveitarfélögunum (Gripið fram í.) mun meira ... ja, getur hv. þingmaður fundið eitthvað tímabil sem þetta passar ekki við? Þá er aftur spurningin: Hvar ætlum við að byrja og hvar ætlum við að enda í samanburðarfræðunum? En við vitum að hinar óbeinu tekjur hafa vaxið mun meira en beinar tekjur sveitarfélaganna.

Um þetta þarf ekki að deila. Þetta er reikningsdæmi sem verið er að vinna í og við skulum vona að menn komist að niðurstöðu. Auðvitað geta sveitarfélögin ekki treyst því alfarið að þau fái auknar tekjur frá ríkisvaldinu vegna grunnskólakennarasamninganna, enda held ég að ekki sé unnið þannig t.d. í tekjustofnanefndinni milli ríkis og sveitarfélaga, þar sem þessum málum er sinnt. Það skyldi þó ekki vera að hv. þingmaður væri að tala fyrir hönd einhvers arms í Sjálfstæðisflokknum, sem e.t.v. hefur engan áhuga á að auka tekjur eða styrkja sveitarfélögin, og hefur engan áhuga á því verkefni sem hæstv. félagsmálaráðherra er í fararbroddi fyrir, þ.e. að efla sveitarstjórnarstigið?

Það skyldi þó ekki vera að þetta væri hluti af þeim leik að eyðileggja það verkefni? Það er mjög auðvelt að eyðileggja það. Það verður líklega hægt að gera það á næstu vikum vegna þess að ef ekki næst viðunandi niðurstaða í tekjustofnanefndinni fyrir sveitarfélögin vegna þess sem liðið er, ekki vegna þess sem fram undan er, þá eru einfaldlega allar tillögur um eflingu sveitarstjórnarstigsins foknar út um gluggann. Þá mun ekki takast að gera neitt í þeim efnum í þessari atrennu.

Þess vegna er afar mikilvægt að þetta nái saman. Það þarf auðvitað að tryggja að sveitarfélögin séu í stakk búin til að sinna verkefnum sínum, burt séð frá þessum nýjasta samningi.

Hv. þingmaður tók þannig til orða að nú þurfi ríkisstjórnin að setja upp allar sínar varnir. Ég taldi að slíkt þyrfti ekki að segja, vegna þess að í núverandi efnahagsástandi þarf ríkisstjórnin að setja upp allar sínar varnir og átti að vera uppi með þær. Hún þarf ekki að fara að setja þær upp núna, en það er eðlilegt að hv. þingmaður taki svo til orða, vegna þess að hann veit að þeir hafa ekki verið uppi með þær.

Aðeins varðandi lífeyrissjóðsmálin. Þetta er að hluta til hárrétt hjá hv. þingmanni, það er ekki viðunandi ástand í lífeyrissjóðsmálum þjóðarinnar þegar mismunurinn er jafngífurlegur og hann er nú. Það ætti auðvitað að vera verkefni okkar allra að finna leið til að jafna þann mun. Það er eðlilegt að reynt sé að gera slíkt og það hafa verið stigin skref í þá átt. Það þyrfti að taka fleiri slík skref og væri auðvitað mannsbragur á að hér yrði t.d. kosin nefnd sem hefði það verkefni að jafna þessi kjör á einhverju tímabili, því það verður ekki gert á einni nóttu.

Hv. þingmaður spyr líka þeirrar merku spurningar og ætlast til að fá svar: Hvaða launamenn eiga ekki að hækka? Hv. þingmaður hefur sjálfur svarað spurningunni, að faktískt er hægt að færa rök fyrir því að allir launamenn eigi að hækka. Þetta eru frjálsir samningar og það þarf að treysta samningsaðilum í gerð þeirra. Hv. þingmaður nefndi að forusta Alþýðusambands Íslands og Starfsgreinasambandsins hefðu verið í fararbroddi til að gera ábyrga samninga sem hefðu skilað auknum kaupmætti til láglaunafólksins. Undir það er eðlilegt að taka eins og kom fram hjá hv. þingmanni; þær stéttir sem mest tapa á verðbólgunni eru þær stéttir sem hafa lægstu launin. Það á því að vera sameiginlegt verkefni okkar allra að vinna gegn því að verðbólgan fari aftur af stað.

En þá kemur að því að það gengur ekki að setja stöðuna upp þannig að verðbólgan muni fara af stað vegna þeirra kjarasamninga sem gengið var frá í gær. Það liggur fyrir frá greiningardeildum ýmissa banka og frá ýmsum stofnunum sem hafa verið að kanna efnahagsmálin að verðbólgan er komin af stað, sem er hluti af þeim vanda sem menn eru í sem eru að gera kjarasamninga í dag, en það er vegna þess að menn hafa ekki viljað fara inn í það sem hv. þingmaður var að lýsa þegar samið var um að sjálfvirk hækkun yrði eftir því hvernig verðbólgan þróast. Það er því eðlilegt að menn reyni að tryggja sig í samningum.

Vandinn í þessu máli er, eins og allur málflutningur hv. þingmanns gekk út á þar sem hann skammaði sína eigin ríkisstjórn, að lausatök ríkisstjórnarinnar eru því miður upphafið að því að verðbólgan hefur farið af stað. Frá þeirri ábyrgð kemst ríkisstjórnin ekki og það er alveg sama hversu oft hv. þingmaður lemur hér í púltið og vill dreifa ábyrgðinni eitthvað annað þá endar hún alltaf þar. Það er lykilatriði að menn nái tökum á ríkisfjármálunum og til þess er nauðsynlegt að menn hagi vinnu við fjárlögin á þann hátt að hægt sé að taka mark á þeim. Það er algjört grundvallaratriði ef menn ætla að ná tökum á ríkisfjármunum að fjárlög séu þannig gerð.

Í ræðu minni í morgun fór ég yfir það og nefndi nokkur dæmi um að því miður hefðu jafnvel stjórnvöld gefið stofnunum heimild til að keyra fram úr fjárlögum. Hvers konar virðingu er verið að skapa fyrir fjárlögunum með slíku háttalagi? En það er hins vegar eðlilegt miðað við hvernig staðið er að fjárlögunum þar sem ekkert er unnið að því að menn beri virðingu fyrir þeim, vegna þess að áætlunargerðin er þannig að ekki er nokkur leið að taka fyllilega mark á þeim. Það liggja fyrir fjölmörg dæmi um að ekki er staðið að fjárlögum eins og á að gera.

Ég skal nefna bara eitt afskaplega skýrt dæmi sem blasir við í frumvarpinu til fjárlaukalaga sem er hér til umræðu. Það eru framhaldsskólarnir. Í 2. umr. um fjárlög fyrir árið 2004 var bætt inn 600 millj. kr. vegna þess sem talið var vanáætlað í fjárlagafrumvarpinu sjálfu, og síðan sagt að nú væri búið að ná þeirri stöðu sem þyrfti til að framhaldsskólarnir pössuðu inn í næsta ár.

Í fjáraukalagafrumvarpinu koma 250 millj. kr. núna, og enn er sagt að nú sé búið að ná utan um vandann. (Utanrrh.: Nei.) Í 2. umr., hv. þingmaður, kemur síðan tillaga um 200 milljónir til viðbótar, þannig að samanlagt er núna í þremur tilraunum búið að hækka þetta um rúmlega milljarð. Og alltaf er verið að tala um hluti sem lágu fyrir þegar fjárlögin voru samþykkt, þessar tölur lágu allar fyrir. En vegna þess að menn hafa verið með alls konar talnaleiki til að láta eitthvað passa eða — sem ég er farinn að aðhyllast hvað mest — að þetta sé sú aðferð sem ríkisvaldið notar til að reyna að sýna aðhald í ríkisrekstrinum; gera rangar áætlanir, áætla fyrir neðan raunverulegan kostnað við þá starfsemi sem fyrir liggur.

Þetta skapar auðvitað það virðingarleysi gagnvart fjárlögunum sem við erum því miður að berjast við. Við munum aldrei ná tökum á að full virðing verði borin fyrir fjárlögunum og menn umgangist þau eins og á að gera fyrr en áætlað verður á réttan hátt og undirbúningur fjárlaganna með þeim hætti að hægt sé að taka mark á þeim .

Frú forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu meira, ég vildi aðeins koma inn á þessi ákveðnu atriði vegna hinnar yfirgripsmiklu ræðu hv. þingmanns þar sem hann reyndi að gera sökudólga úr þeim sem saklausir eru.



[14:49]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég held að óhjákvæmilegt sé í framhaldi af ræðu hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar hér áðan — sem ég þakka fyrir þó að ég væri innihaldinu ákaflega ósammála og undrandi yfir því — að fara aðeins betur yfir þessi atriði, því að sú uppsetning mála sem þar kom fram stenst ekki þegar betur er að gáð.

Ég hlýt að byrja á að mótmæla hvernig hv. þingmaður reyndi í ræðu sinni — þó að ég vilji nú meina að hann hafi dregið nokkuð í land í andsvörum — að draga upp þá mynd af ástandinu að hér væri allt teppalagt og í himnalagi. Hins vegar væru þessir hroðalegu samningar grunnskólakennaranna þannig að þeir gætu sett allt á hvolf og þá bæru þeir, og þeir einir, ábyrgð á því og svo viðsemjendur þeirra.

Hv. þingmaður byrjaði í þjóðarsáttinni, eða ég skildi hann svo þegar hann talaði um að það hefði verið gæfan frá því fyrir um einum og hálfum áratug, þá hefðu menn náð ábyrgum kjarasamningum. Þar erum við sammála. Þjóðarsáttin var auðvitað mikil gæfa. Ég hygg að það hafi verið einhver best heppnaða aðgerð sem menn hafa farið í í langan tíma til að ná tökum á ástandi sem var búið að vera í ólestri um langt árabil, þ.e. að ná stöðugleika í hagstjórninni, ná niður verðbólgunni og skapa umhverfi bæði fyrir kjarasamninga og atvinnulífið sem byði upp á að menn semdu í sæmilega stöðugu umhverfi, gerðu áætlanir, fjárfestingar og annað því um líkt í þannig umhverfi.

Hvernig varð þjóðarsáttin til? Jú, hún varð til í þríhliða samstarfi: ríkisvaldsins, vinnuveitenda og Alþýðusambands Íslands, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og Bændasamtakanna (EOK: Kennarasamband Íslands.) og Kennarasambandið kom inn í það líka. Ég veit að hv. þingmaður kann þetta og ekki þarf að rifja þetta upp fyrir honum, en það er kannski ástæða til fyrir einhverja aðra.

Það er alveg hárrétt að stöðugleikinn er ómetanlegur í þessum efnum og það var mikil hátíðisstund þegar verðbólgan á Íslandi komst í fyrsta skipti niður fyrir tveggja stafa tölu haustið 1990 og við munum það örugglega mjög vel báðir, hv. þingmaður og ég.

En þegar hv. þingmaður tók að skilgreina framhaldið og sérstaklega ástandið núna þá fara leiðir að skilja, því það getur ekki verið að eingöngu launamenn og þá sérstaklega lægri launahlutinn í samfélaginu eigi að axla alla ábyrgðina á stöðugleika í efnahagsumhverfinu. En þannig talaði hv. þingmaður. Hann skautaði yfir ærið margt sem er að verki þegar að því kemur að greina ástandið eins og það er í dag, en þar má nefna verðbólgu og það jafnvægisleysi sem við búum við.

Er það bara grunnskólakennurum að kenna að viðskiptahallinn er fleiri tugir milljarða? Ætli stóriðjustefna ríkisstjórnarinnar eigi ekki nokkurn þátt í því að verðbólgan hefur farið upp, gæti það ekki verið? Eru ekki að koma fram nákvæmlega þau ruðningsáhrif í atvinnulífinu og efnahagskerfinu sem var varað við af fjölmörgum hagfræðingum?

Hvernig er með bankana, bera þeir enga ábyrgð? Eru grunnskólakennarar ábyrgir fyrir því að bankarnir hafa mokað hundruðum milljarða af erlendu lánsfé inn í hagkerfið undanfarin missiri? Bættu við 300 milljörðum í fyrra, upplýsti þáverandi forsætisráðherra Davíð Oddsson. Og hvað eru þeir að gera í dag? Eru þeir ekki að bjóða 100% húsnæðislán sem eru auðvitað engin húsnæðislán heldur lán sem geta farið í að fjármagna hvaða eyðslu sem er svo fremi sem að á bak við sé veð í húsnæði, og reyndar fylgja með í kaupunum skuldbindingar um viðskipti við bankana.

Og hvað um ríkið, hvað um Geir H. Haarde fjármálaráðherra, ber hann enga ábyrgð? Hver samdi við framhaldsskólakennara? Voru það grunnskólakennarar? Nei, ekki veit ég til þess. Það var fjármálaráðherra, flokksbróðir hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar, sem samdi við þá hópa háskólamenntaðra starfsmanna sem grunnskólakennararnir miða sig við núna. Er þetta ekki staðreynd? Jú. Er þá sanngjarnt að tala með þeim hætti sem hv. þingmaður gerði hér áðan?

Ég ætla ekkert að draga í efa að áhyggjur hv. þingmanns séu ekta né að hann meini allt sem hann sagði, þó að mér fyndist sú mynd að vísu allt of dökkum dráttum dregin því ég hef ekki trú á að slíkt óskaplegt fár sé þar á ferðinni að það gefi tilefni til nánast heimsendaspádóma af því tagi sem hv. þingmaður var með, að menn muni algjörlega missa öll tök á hlutunum ef þetta gengur eftir.

Hvað með skatta- og efnahagsstefnu hæstv. ríkisstjórnar? Eru það grunnskólakennarar sem lofa hér upp í ermina á sér, lofuðu þeir næstum 30 milljarða skattalækkunum fyrir síðustu kosningar? Nei, er ekki rétt munað að það hafi verið Sjálfstæðisflokkurinn? Ætli það sem ríkisstjórnin er að gera núna sé gott innlegg í stöðuna eins og hún er í dag og samrýmist vel t.d. glímu Seðlabankans við að reyna að halda aftur af verðlagi? Nei, auðvitað ekki, það er í 100% mótsögn við það sem Seðlabankinn er að baksa, að reyna að halda aftur af verðlagsþróuninni með hækkun stýrivaxta, og jafnvel að reyna að halda í við styrkingu krónunnar með því að kaupa gjaldeyri. En þannig er staðan, eins og raun ber vitni.

Auðvitað er það þannig, frú forseti, að það þýðir ekki bara að einblína á hina almennu kjarasamninga þegar við erum að ræða um hlutaskiptin í þjóðfélaginu, eða hvað? Er ekki hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson sammála því að þegar menn horfa upp á t.d. launakjör toppanna í samfélaginu, eða á 30–40 milljarða króna hagnað bankanna, eða þegar menn horfa upp á fjármagnsgróðann eða á ríkisstjórn sem ætlar að lækka sérstaklega skattana hjá hátekjufólki, að þá reyni menn að rétta sinn hlut og beita samtakamætti sínum til að ná sínum skerf af verðmætunum sem eru til skipta í þjóðfélaginu?

Hér á ferð eru einfaldlega átökin um hlutaskiptin í hagkerfinu, þetta heitir pólitík og í þessu er ekkert nýtt, eða á ekki að svo vera fyrir hv. þm. Einar Odd Kristjánsson. Það er ekki hægt að hengja þetta á þá stétt sem hefur í augnablikinu staðið í því að reyna að bæta kjör sín. Menn hafa samningsrétt og verkfallsrétt hér í landinu — og ég geri ekki ráð fyrir að hv. þingmaður sé að tala fyrir því að sá réttur, eða að honum verði beitt, verði tekinn af mönnum.

Þetta er þannig að ef frá eru dregin þau útgjöld sem tengjast breyttri vinnuskyldu kennara og annað í þeim dúr, tekið mið af því að um fjögurra ára samning er að ræða sem er þannig upp byggður, svo gróft sé farið yfir þetta tímans vegna, að hækkanirnar nú eru í raun og veru sambærilegar við, eða nokkurn veginn í takt við verðlagsþróunina eins og hún er síðustu mánuði og fyrirsjáanleg á allra næstu mánuðum, þá eru þessar prósentuhækkanir í lok samningstímans komnar niður í hvað (Gripið fram í: 2,25...) 2,25 fyrir árið. Eru það þau lifandi ósköp sem eru að setja allt úr skorðum?

Ég mótmæli því algerlega að stiginn eins og hann er í þessum kjarasamningum sé einhver ógæfa í þessu samhengi. Er það skrýtið að menn skuli vera að semja um 5 eða 6% kauphækkanir í 6% verðbólgu? Eru það einhver ósköp? Bíddu, um hvað eiga menn að semja? (Gripið fram í: Það eru ekki Íslendingar.) Um mínus eitthvað? Grunnskólakennarar sem eru að gera kjarasamning núna, hv. þingmaður, eru að semja til næstu fjögurra ára eða inn á það spor þróuðust viðræðurnar. Þeir eru að semja langt út yfir þann tíma sem í gildi er hjá aðilum á hinum almenna vinnumarkaði.

Frú forseti. Ég held að það standist ekki skoðun þegar betur er að gáð, að ætla að stilla dæminu þannig upp að öll ábyrgðin af því að hér haldist stöðugleiki í verðlagi á næstu árum liggi á herðum þeirra sem stóðu nákvæmlega núna í kjaraviðræðum og reyndu að ganga frá samningum. Þeir bjuggu sér ekki til það umhverfi sem þeir semja í. Það er veruleikinn, hvort sem mönnum líkar betur eða verr og sjálfsagt líkar hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni miklu verr, vegna þess að ábyrgðin af ástandinu í dag er auðvitað fyrst og fremst hjá einum aðila, ríkisstjórninni. Það er stóriðjustefna ríkisstjórnarinnar. Það er skattastefna ríkisstjórnarinnar. Það er ríkið sem viðsemjandi og aðilar eins og fjármálageirinn sem þurfa ekki síður að axla ábyrgðina af ástandinu eins og það er í augnablikinu.

Auðvitað veit ég að það má ekki stugga við hinni heilögu kú, stóriðjustefnunni, en er það ekki nákvæmlega það sem við stöndum frammi fyrir, sem þeir fáu hagfræðingar sem höfðu burði til þess að setja fram sjónarmið á sjálfstæðum forsendum vöruðu við og sögðu: Jú, fletta má upp mörgum blaðagreinum þar sem nákvæmlega var varað við því að herkostnaðurinn af stefnunni yrði m.a. þessi. Ruðningsáhrifin í hinu almenna atvinnulífi sem við ræddum fyrr í dag í samhengi við vaxandi atvinnuleysi og þau vandamál sem hlytu að koma upp í hagstjórninni þessu samfara.

Það er enginn bilbugur á mönnum gagnvart því, þeir halda bara áfram og gefa meira í. Menn halda fagnaðarsamkomur yfir því að semja um enn þá meiri fjárfestingar á næstu missirum í stóriðjugeirann. En það er ekki við grunnskólakennara að sakast þar. Mér finnst alveg ákaflega ómaklegt og óviðeigandi að nudda því salti í sárin að kenna þeim um með þeim hætti sem hv. þm. gerði, eða er ekki hægt að horfast í augu við það og viðurkenna að kennarar eru stórkostlega lemstraðir og í sárum eftir þessa löngu og harðvítugu deilu.

Það er líka athyglisvert, frú forseti, að velta því fyrir sér hvort vonskan í hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni sé í og með svona mikil vegna þess að með samningnum sem undirritaður var í gærkveldi komust menn undan gerðardómslögunum. Menn eru kannski í og með vonsviknir og reiðir vegna þess að þeir bundu vonir við að þeir gætu með lögunum þvingað þetta til baka í það far sem hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson talar fyrir, launalögregluhugsunina.

Ég sakna þess að menn séu jafnaðhaldssamir þegar launakjör toppanna eiga í hlut. Ég sakna þess að menn tali til bankakerfisins þegar það leikur lausum hala með þeim hætti sem það hefur gert undanfarin missiri í íslensku hagkerfi. Hvar voru varnaðarorðin þá? Ætli það eigi ekki líka sinn þátt í því hvernig komið er? Það var a.m.k. annað að heyra í hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra þegar hann messaði yfir mönnum á ársfundi Samtaka atvinnulífsins fyrir ári og reyndar við fleiri tækifæri. Greinilegt var þó að hæstv. utanríkisráðherra, Davíð Oddsson, gerði sér grein fyrir að það gat verið mikið í húfi vegna þess hvernig hlutirnir voru að þróast í hagkerfinu.

Ég verð að vona að það sé rétt, og hef svo sem enga ástæðu til að vefengja það, að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson hafi verið að tala fyrir sjálfan sig og engan annan og hann sé ekki sendiboði eða einhver undanfari sem ríkisstjórnin eða Sjálfstæðisflokkurinn hafi ákveðið að senda fram, reka fram sverðið í ástandið eins og það er.

Ég trúi ekki að menn séu að safna liði til þess að reyna að fá sveitarfélögin til að fella kjarasamninginn, en það var erfitt að komast hjá því að láta sér detta það í hug þegar maður hlýddi á hv. þm. áðan og eins á þær hamfarir sem hann fór í fjölmiðlum þegar hann tjáði sig um atburðina í gærkvöldi og í morgun.

Hvernig ætla menn að leysa hlutina öðruvísi en að reyna að ná einhverri sanngjarnri sátt við stéttirnar í þjóðfélaginu sem sinna þessum mikilvægu störfum? Hvernig ætlum við að manna undirstöðu velferðarþjónustu í landinu öðruvísi en að það takist að hafa starfsfólkið sem það vinnur sæmilega sátt við hlutskipti sitt? Hvernig ætlum við að útskýra fyrir fólki, hvort sem það eru verkamenn, iðnaðarmenn eða kennarar á Íslandi þar sem þjóðartekjur á mann eru fjórðu til sjöttu hæstu í heimi, að samt þurfi kaup að vera 20%–40% lægra en annars staðar á Norðurlöndunum? Ef tímakaupið er mælt er það bara þannig. Þetta veit hv. þm. og þess vegna vinna menn hér að meðaltali u.þ.b. einum mánuði lengri vinnutíma á ári hverju, 48–49 stundir og fer heldur upp á við hjá fjölmörgum starfsstéttum. Það er það sem er að og hefur verið lengi í hlutaskiptunum í landinu að greitt er of lítið fyrir fasta umsamda vinnu. Við erum ekkert nær því núna en fyrir löngu síðan að menn geti lifað sómasamlegu lífi af 40 stunda vinnuviku, hvað þá 36 eða 38 eins og orðin er umsamin víða í löndunum í kringum okkur. Nær væri að við reyndum að komast í þá áttina en að sitja föst í uppsetningu mála af því tagi sem hv. þm. dró upp áðan.

Frú forseti. Ég held að vandamál okkar sé ekki skortur á verðmætum í samfélaginu til að skipta með sanngjörnum hætti svo hægt sé að gera betur við hina almennu launamenn. Auðvitað gildir það um þá alla, að sjálfsögðu. Það virðist a.m.k. ekki vera þannig þegar kemur að gróða fjölmargra greina samfélagsins, þegar kemur að fjármagnsgróðanum, þegar kemur að hagnaði fjármálafyrirtækjanna og öðru slíku, að þar sé ekkert til skiptanna.

Frú forseti. Ég veit ekki hvort það þjónar tilgangi að hafa þessa messu öllu lengri í tengslum við umræðuna um fjáraukalagafrumvarp. Það var kannski minna úr skoðanaskiptum milli mín og hv. þm. en ætlunin var eða hv. þingmanna um stöðu sveitarfélaganna og þann anga málsins sem er að hluta til undir í fjáraukalagafrumvarpinu og ég hefði gjarnan viljað fá meiri skoðanaskipti um líka. Það má þess vegna bíða betri tíma. Þetta er auðvitað ekki síðasta tækifæri sem við höfum áður en þingið lýkur störfum fyrir jólaleyfi til að ræða efnahagsmál og hagstjórn og hlutaskiptin í samfélaginu.

Það er alla vega ljóst að því verður ekki ómótmælt af minni hálfu og okkar hálfu að menn reyni að draga upp mynd af því tagi sem stjórnarliðar og þá sérstaklega hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson reyndi að gera. Ég spái því að ummæli hans, þó svo hann tali ekki í umboði eða annarra nafni en sjálfs sín, munu þykja athyglisverð hvað varðar kjarasamhengið og ýmsum grunnskólakennurum muni þykja þetta kaldar kveðjur. Ég hugsa að sveitarstjórnarmenn muni líka verða hugsi þegar þeir mæta því hugarfari sem fram kom í ræðu hv. þm., sem kemur fram í breytingartillögu meiri hlutans og í því hugarfari að nú skuli sveitarfélögin vesgú skera niður því ekki fái þau krónu frá ríkinu. Nei, þau skuli bara skera niður og reka sig áfram með halla. Svo guma menn af því að ríkissjóður standi vel. Það er kannski ekki svo skrýtið þegar menn fleyta rjómann af tekjunum sem viðskiptahallinn og þenslan í þjóðfélaginu færir ríkissjóði sjálfkrafa. Þá geta menn verið miklir menn og fært verkefni til sveitarfélaganna án þess að láta tekjur fylgja.

Það fyrirkomulag er prýðilegt fyrir ríkissjóð og lækka svo skatta, vera miklir karlar og aðrir sitja uppi með hausverkinn af því að ná endum saman, semja við starfsmenn sína eins og sveitarfélögin.

Öll ábyrgðin af efnahagslegum stöðugleik í landinu, af hagstjórn og öllu heila gúmmúlaðinu, hvílir ekki á herðum þessa 4.500 manna hóps sem kennir börnunum okkar. Það er ekki þannig. Það er ekki sanngjörn eða makleg uppstilling.



[15:11]
Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson hélt mikla dómadagsræðu áðan og hálfskondið að sjá þegar fylgihnöttur hans skaust upp í andsvar til að lofa hann og mæra og herða frekar á þeim hótunum sem hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson setti fram, því það var með engu móti hægt að skilja ræðu hans öðruvísi en svo að verið væri að hóta sveitarfélögunum, þau skyldu heldur betur fá að kenna til tevatnsins því sá samningur sem þau höfðu gert mundi ekki leiða til þess að það kæmi einn einasti eyrir frá ríkinu til sveitarfélaganna.

Undir þetta tók hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson. Hótunin sem í þessu birtist gagnvart íbúum sveitarfélaganna var sú að jafnvel þó sveitarstjórnir þyrftu að ráðast í að skera niður þjónustu sem þau voru beinlínis hvött til af hálfu hv. þm. tveggja skyldi ekki koma eyrir frá ríkinu til sveitarfélaganna. Þó blasir við, frú forseti, að enn er óskipt svo sanngjarnt sé tekjum milli ríkis og sveitarfélaga. Enn er ólokið störfum sérstakrar nefndar sem átti að véla um þau mál og enn hefur ekkert gerst utan að Sjálfstæðisflokkurinn misnotaði flokksmann sinn í forustu Sambands íslenskra sveitarfélaga, borgarfulltrúan Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson, til að skrifa undir eitthvert plagg sem ríkisstjórnin gat veifað í aðdraganda samninganna sem leiddu til þessarar heiftúðugu kjaradeilu við kennara og sagt: Ja, það eru samningaviðræður í gangi.

Ég segi misnota, vegna þess að ég tel að sá ágæti maður hafi verið misnotaður af hálfu ríkisstjórnarinnar og flokksvaldi hafi verið misbeitt til að búa til stöðu sem fríaði ríkisvaldið ábyrgð þegar eðlilega var verið að sækja á það af hálfu sveitarfélaganna.

Í ræðunni sem hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson flutti áðan voru í reynd þrír meginþættir.

Í fyrsta lagi hótunin um að sveitarfélögin skyldu ekki fá krónu til viðbótar frá ríkisvaldinu.

Í öðru lagi hótunin um að opinberir starfsmenn skyldu ekki fá neina hækkun í þeim samningum sem fram undan eru vegna þess að það mundi leiða til kollsteypu.

Í þriðja lagi fullyrðingin sem var rauður þráður í gegnum ræðu hv. þm., að samningurinn sem sveitarfélögin gerðu við grunnskólakennara yrði valdur að ástandi sem hugsanlega leiddi til kollsteypu. Hv. þm. var í reynd að nota samninginn og grunnskólakennara til að breiða yfir slóðahátt og aumingjaskap eigin ríkisstjórnar í fjármálum sem nú þegar hefur leitt til þess að þensla ríkir sem er langt umfram það sem menn væntu og það sem kalla má heilbrigt fyrir samfélagið.

Ég held að þarft sé, frú forseti, að fara aðeins yfir það með hvaða hætti sú staða hefur komið upp. Nú skal það að vísu viðurkennt að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson hefur endrum og sinnum komið upp og haldið ræður sem hafa verið snöggtum sanngjarnari og skárri en sú ræða sem hann flutti áðan. Hv. þm. hefur oftar en ekki verið í hlutverki Jóhannesar skírara. Hann hefur verið eins og hrópandinn í eyðimörkinni, hrópað um það sem betur mætti fara hjá ríkisstjórninni, en enginn hefur hlustað á hann. Það hefur enginn lausnari fæðst til að hrinda í framkvæmd þeim boðskap sem hv. þm. hefur talað um. Hver hefur boðskapurinn verið? Aðhald í ríkisfjármálum.

Illu heilli hefur aðhald þetta aldrei sést. Það þarf ekki formann Samfylkingarinnar eða Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs til að koma upp og benda á að ríkisstjórninni hafi ekki tekist upp sem skyldi. Það er nóg að fara til þeirra stofnana sem leika á markaði og eru háðar öðrum lögmálum heldur en við sem förum með ríkisfjármálin þurfum að hlíta.

Ég vísa til þess að greiningarstofnanir fjármálafyrirtækja á markaði sem hv. þingmaður hefur stundum glaðst yfir hafa lýst því yfir að í besta falli séu ríkisfjármálin hlutlaus varðandi þensluþróun í samfélaginu. Í versta falli telja þær haldið um ríkisfjármálin með þeim hætti að þau kynnu að hvetja til aukinnar þenslu. Það er auðvitað það sem máli skiptir. Ríkisfjármálunum er ekki beitt í þágu þeirra markmiða sem hv. þingmaður lýsti sem hinum jákvæðustu í rekstri samfélags okkar.

Hvert er þá hlutverk hv. þingmanns í þessu? Hann er varaformaður fjárlaganefndar og þótt hann komi hingað og tali í eigin nafni sem þingmaður þá vitum við að hann hefur verið hugmyndafræðingurinn á bak við ríkisreksturinn og hefur mörgum sinnum bent á ýmsa þætti sem betur mættu fara í rekstri ríkisins. Ég spyr hins vegar, frú forseti: Er Sjálfstæðisflokkurinn hættur að hlusta á hv. þm. Einar Odd Kristjánsson? Mér fannst sem hann hellti úr fötum bölsýni og örvæntingar og ég velti því fyrir mér hvernig á því stæði. Er það vegna þess að hann hafi komið að luktum dyrum í Sjálfstæðisflokknum? Eru menn hættir að hlusta á varnaðarorð hans þar? Er hann að reyna að finna önnur sektarlömb í ræðum sínum utan þeirrar hjarðar þar sem hann veit að sektarlömbin hlaupa saman, þ.e. hæstv. ráðherrar, hans eigin ráðherrar? Hann er að reyna að búa til sektarlömb úr grunnskólakennurum, úr opinberum starfsmönnum og líka ónafngreindum þingmönnum hér í þessum sölum sem hann segir að taki undir með grunnskólakennurum.

Auðvitað fagna ég þeim kjarabótum sem grunnskólakennarar fengu með samningum sínum í gær. Hvers vegna fagna ég þeim? Vegna þess að þeir áttu þær skilið. En það sem skiptir mestu máli er að þetta voru frjálsir samningar. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson getur ekki hlaupið eins og griðungur um foraðið og kvartað undan niðurstöðu frjálsra samninga.

Það hefði verið öðruvísi ef hér hefði verið um að ræða niðurstöðu sem hefði verið afleiðing laga. Þá gæti hv. þingmaður með rökum kvartað undan því frá þeim sérkennilega sjónarhóli sem hann hleður upp og stendur síðan á þegar hann heldur þessar tölur sínar. En þetta var niðurstaða frjálsra samninga. Það skiptir máli. Alþingismenn geta ekki komið og bölvað og ragnað eins og naut í flagi yfir því að sveitarfélög og grunnskólakennarar nái niðurstöðu í frjálsum samningum.

Ég verð að segja að ef ég ætti hatt og væri með hann í þessum stól, frú forseti, þá mundi ég taka hann ofan fyrir sveitarfélögunum. Ég tel að þau hafi sýnt kjark og framsýni með því að ráðast í þessa samninga þegar fyrir lágu lög um gerðardóm. Með þeim ósóma, gerðardómnum, og þá á ég við 3. gr. laganna sem samþykkt voru hér gegn öllum atkvæðum stjórnarandstöðunnar á laugardaginn, þá lá fyrir að auðvelt væri að færa rök að því að niðurstaða gerðardómsins yrði að öllum líkindum verri en miðlunartillagan. Mér finnst það því sýna lýðræðislegan þroska hjá sveitarfélögunum að fara þessa leið.

Er það þá þannig, frú forseti, að líklegt sé að þessir samningar setji allt úr böndum í þjóðfélaginu og leiði til of mikillar þenslu sem leiði til þess að þjóðfélagið fari á hliðina? Það sagði hv. þingmaður hér áðan.

Við skulum vona að okkur takist sameiginlega að stýra og aka seglum þjóðarskútunnar þannig að hana beri ekki á sker. En ríkisstjórnin hefur verið vöruð við. Fulltrúar stjórnarandstöðunnar hafa ítrekað bent á misfellur í stjórn ríkisfjármála sem því miður gætu leitt til þess að þjóðarskútuna bæri af leið. Þau atriði eru mun alvarlegri en sá samningur sem gerður var í gær.

Hv. þingmaður hlýtur að hafa hlustað á þá menn sem hafa varað við þeirri þróun sem er að koma í ljós varðandi verðlag og verðbólgu. Sú þróun réði miklu um niðurstöðu atkvæðagreiðslu miðlunartillögu sáttasemjara.

Það er ekki hægt að lá kennurum að hafa ekki viljað taka möglunarlaust við þeim kjarabótum og launahækkunum sem miðlunartillagan fól í sér þegar við blasir að á næstu mánuðum og missirum mun verðbólga þróast þannig að hún hefði meira en étið upp launahækkanirnar sem voru í boði. Verðbólguþróunin er langt umfram það sem menn gerðu ráð fyrir þegar þeir gerðu kjarasamninga á frjálsum vinnumarkaði á síðasta ári. Hún er töluvert fram yfir það sem var að finna í spá fjármálaráðuneytisins sem lá til grundvallar fjárlögum sem hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson hefur verið að véla um í vetur.

Verðbólguþol samfélagsins er samkvæmt mati Seðlabankans 2,5%. Verðbólgan núna er í 4% á tólf mánaða grundvelli, að hlaupa í 6% og það liggur fyrir að hagdeild ASÍ hefur spáð því að það verði nauðsynlegt að segja upp kjarasamningum Alþýðusambands Íslands á næsta ári ef svo heldur sem horfir vegna þess að þá muni verðbólguforsendurnar bresta. Greiningardeild Landsbanka Íslands hefur sagt að undir lok næsta árs verði verðbólgan líklegast komin í 6%.

Það er alveg ljóst að það eru ekki grunnskólakennarar sem með samningum sínum í gær hafa leitt til að verðbólgan færi úr böndum. Hún er farin úr böndum. En mér þótti gæta ósamkvæmni í reiðilestri hv. þingmanns áðan sé horft til orða hans í sjónvarpsþætti í gær þegar hann var að tala við hv. þm. Ögmund Jónasson. Þá talaði hann um verðbólguskot sem mundi líða hjá. Hann hafði ekki miklar áhyggjur þegar hv. þm. Ögmundur Jónasson útskýrði fyrir honum hvers vegna það hefði ráðið úrslitum hjá mörgum kennurum þegar þeir felldu miðlunartillöguna að verðbólgan væri að verða miklu meiri en ætlað var, fyrst og fremst vegna agaleysis ríkisstjórnarinnar. Þegar ég tala um agaleysi ríkisstjórnarinnar á ég við þá staðreynd, frú forseti, að hér er viðskiptahallinn að fara úr böndum. Hann er á um það bil 100 milljarðar á þessu ári og verður á næsta ári 164 milljarðar kr. Fram til ársins 2010, samkvæmt spám fjármálaráðuneytisins, verður hann 50 milljarðar kr. á ári. Hann verður 500 milljarðar kr. þegar kemur fram á árið 2010 ef ekkert gerist.

En auðvitað mun eitthvað gerast. Hvað mun gerast? Það sama og við höfum áður séð. Hann leiðréttir sig sjálfur, þ.e. heggur stoðir undan genginu og gengið fellur. Það mun gerast og verðbólgan mun aukast meira. Hv. þingmaður segir segir hins vegar ekki ærlega frá því sem valdið hefur þessum mikla viðskiptahalla. Eru það kennararnir með samningi sínum í gær? Nei. Eru það fjárfestingar vegna stóriðjuframkvæmda fyrir austan? Er það svo, frú forseti? Getum við réttlætt þennan mikla viðskiptahalla með því að þar sé um tímabundinn uppsafnaðan halla að ræða sem muni leiða til þess að mikill arður mun skapast í íslensku samfélagi? Að hluta til. En þegar viðskiptahallinn er greindur kemur því miður í ljós að helmingurinn af honum stafar af aukinni einkaneyslu sem enginn gerði ráð fyrir.

Af hverju stafar aukin einkaneysla? Hún stafar af tvennu, frú forseti, og báða þá þætti má rekja til ríkisstjórnarinnar. Í fyrsta lagi hefur orðið breyting á húsnæðislánamarkaði. Segja má að sú breyting sé til góða fyrir þá sem hennar njóta. En það er ekki hægt að horfa fram hjá þeirri staðreynd að hún hefur leitt til þess að hér hefur orðið þensla og aukin verðbólga. Hún hefur öðrum þræði einnig leitt til aukinnar einkaneyslu.

Hitt atriðið eru þær ábyrgðarlausu og gáleysislegu yfirlýsingar sem hæstv. fjármálaráðherra, hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson og ríkisstjórnin eru sek um og varða skattalækkanir. Í þensluástandinu ræða menn um það eins og sjálfsagðan hlut að innan tíðar verði ráðist í skattalækkanir upp á 23 milljarða kr. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson gat þess að nú þegar væri búið að ákveða skattalækkanir um 4 milljarða kr.

Hverjar eru afleiðingarnar af svona yfirlýsingum? Afleiðingarnar eru auðvitað þær að miklar væntingar skapast. Það er verið að skapa væntingar hjá fólki um að innan tíðar fái það happdrættisvinninga í formi skattalækkana og fái bókstaflega seðlabúntin í hendur. Reynslan sýnir að við þær aðstæður eykst einkaneysla. Yfirlýsingar hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar, hæstv. fjármálaráðherra og ríkisstjórnarinnar allrar um þetta efni hafa leitt til aukinna væntinga og hvatt til eyðslu. Þar af leiðandi hefur einkaneyslan aukist og viðskiptahallinn með.

Það er viðskiptahallinn sem hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson var áðan að segja að væri svo hættulegur. En hann á sök á honum með hæstv. ríkisstjórn. Það er ekki hægt að koma hingað og segja að því ráði samningar kennara frá því í gær. Þegar við förum yfir sviðið sjáum við að meinsemdin hafði grafið um sig áður en menn gengu til þessara samninga. Samningarnir sem gerðir voru í gær eru að hluta til afleiðing en alls ekki orsök ástands sem þegar er farið að sýna sig.

Viðskiptahallann má rekja til aðgerða og ekki síður yfirlýsinga hæstv. ríkisstjórnar. Þar ber hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson einnig sök. Enginn hefur í ríkari mæli en hann talað um nauðsyn þess, nytsemd og möguleika á að lækka skatta í árferði eins og núna er. Drottinn minn dýri, frú forseti, auðvitað vildum við öll lækka skatta ef hægt væri en menn verða að velja tímann og þetta er ekki rétti tíminn til að gefa ábyrgðarlausar yfirlýsingar um að á næstu árum verði skattar lækkaðir um 23–24 milljarða kr. Engin alvörustofnun í öllum heiminum telur slíkt ráðlegt. Þvert á móti hafa allar stofnanir, sem hingað hafa komið eða eru staddar á Íslandi og hafa farið yfir ástandið, komist að þeirri niðurstöðu að þetta sé hættulegt.

Varla verður Hagfræðistofnun Háskólans sökuð um að vera hlutdræg og mótdræg ríkisstjórninni. Hún hefur varað ríkisstjórnina við því að ráðast í skattalækkanir í þessari stöðu. Alþýðusamband Íslands, sem ég veit að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson metur og virðir, hefur komist að sömu niðurstöðu. Seðlabanki Íslands, sem ég veit að hv. þingmaður hefur ekki sömu mætur á og ASÍ en hefur eigi að síður líka komist að þessari niðurstöðu.

Samt sem áður lemur þessi ríkisstjórn hausnum við steininn og í þessu árferði er hún enn að tala um það, hvenær sem hún fær tækifæri til, að lækka skatta um tugi milljarða. Þetta skapar væntingar sem leiða til eyðslu og aukins viðskiptahalla sem grefur undan genginu. Það leiðir til þess að verðbólgan mun enn frekar aukast.

Þannig er samhengi hlutanna, frú forseti, og þetta hlýtur hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson að vita. Hann á þess vegna ekki að koma hingað og lemja og skekja þennan saklausa ræðustól, eins og hann gerði fyrr í dag, og kenna grunnskólakennurum um. Það er ekki stórmannlega gert.