131. löggjafarþing — 67. fundur.
vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, 1. umræða.
stjfrv., 495. mál (rjúpnaveiðar, sölubann og takmörkun veiða). — Þskj. 757.

[16:31]
umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Árið 2003 var ákveðið að hætta við að aflétta friðun á rjúpu frá og með árinu 2003 til og með árinu 2005 vegna bágs ástands stofnsins. Ákvörðunin var tekin í samræmi við 17. gr. laga nr. 64/1994, um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, en samkvæmt lögunum er aðalreglan sú að þau dýr sem undir lögin falla njóta friðunar nema henni sé aflétt eins og heimilt er í vissum tilvikum, m.a. þegar rjúpa á í hlut. Samkvæmt 17. gr. laganna er heimilt að aflétta friðun á rjúpu frá og með 15. október til og með 22. desember ár hvert. Í framhaldi af áðurnefndri ákvörðun varð mikil umræða í þjóðfélaginu og skiptar skoðanir. Ég sé ekki ástæðu til þess að rekja það frekar hér enda er mönnum sú umræða í fersku minni.

Við talningu rjúpu vorið 2004 kom fram að stofninn hefur tvöfaldast á milli áranna 2003 og 2004, sem bendir til þess að hann sé í töluverðri uppsveiflu og að mögulegt kunni að vera að leyfa takmarkaðar veiðar í framtíðinni. Það verður hins vegar ekki gert nema með því að koma á enn markvissari stjórn veiðanna en tíðkast hefur til þessa og til þess þarf lagabreytingar.

Síðastliðið haust ákvað ég að leggja fram á yfirstandandi þingi frumvarp í því skyni að styrkja stjórn rjúpnaveiða á grundvelli þess að möguleikar gefist til veiða þegar á hausti komanda og var það gert í ljósi niðurstöðu talninga Náttúrufræðistofnunar á sl. ári. Mikilvægt er að tryggja að rjúpnaveiðar verði sjálfbærar þegar þær hefjast á ný og að ekki þurfi að grípa til tímabundinnar friðunar í framtíðinni.

Í framhaldi af þeirri ákvörðun fól ég svokallaðri rjúpnanefnd að semja frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 64/1994, um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum. Í nefndinni eiga sæti fulltrúar umhverfisráðuneytisins, Náttúrufræðistofnunar Íslands, Umhverfisstofnunar, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Fuglaverndarfélags Íslands, Skotveiðifélags Íslands og Bændasamtaka Íslands. Nefndinni var sérstaklega falið að líta til tiltekinna þátta, þ.e. heimildar til að banna sölu rjúpna og rjúpnaafurða, heimildar til að kvótabinda rjúpnaveiðar, takmörkun á notkun farartækja og hugsanlegar breytingar á veiðitíma, þ.e. upphaf og lok hans. Nefndinni var jafnframt falið að haga störfum sínum þannig að nýtt stjórnkerfi rjúpnaveiða gæti verið fyrirmynd að stjórn veiða á öðrum fuglastofnum eftir því sem aðstæður krefðust.

Nefndin skilaði tillögum sínum um lagabreytingar til ráðuneytisins í nóvember sl. þar sem farið var yfir áðurnefnda þætti og fleiri sem til greina kæmu í tengslum við stjórn á veiðum.

Frumvarp það sem hér er til umræðu byggist í megindráttum á tillögum nefndarinnar að því frátöldu að ekki er að svo stöddu lagt til að heimilt verði að setja kvóta á fuglaveiðar eins og nefndin lagði til, enda ekki talin þörf á slíkri heimild nema í ljós komi að aðrar aðgerðir sem lagðar eru til í frumvarpi þessu séu ekki nægjanlegar. Það bíður því síðari tíma ef á þarf að halda sem vonandi verður ekki.

Í frumvarpinu er lagt til að til þess að takmarka veiðisókn í fuglastofna, sem ákveðið er að létta friðun af samkvæmt áðurnefndum lögum, verði umhverfisráðherra heimilt í reglugerð að draga úr veiðisókn með sölubanni og sóknarstýringu. Sölubannið gæti þannig tekið til tiltekins tíma t.d. þegar viðkomandi stofn er í lágmarki vegna náttúrulegra sveiflna.

Margoft hefur komið fram að helmingur af þeirri rjúpu sem veidd er falli undir svokallaða magnveiði, þ.e. sé einkum til sölu á almennum markaði. Nefndin taldi ekki ástæðu til að leggja til breytingar á upphafi eða lokum veiðitíma, enda ríki góð sátt um veiðitímann, en lagt er til svo ekkert fari á milli mála að ráðherra fái ótvíræðar heimildir til að ákveða hvaða daga megi veiða innan veiðitímans og jafnframt að takmarka megi veiðar við ákveðinn tíma sólarhrings.

Rjúpnanefndin taldi ekki heldur ástæðu til þess að fjalla sérstaklega um þau farartæki sem nota má við veiðar þar sem ákvæði náttúruverndarlaga séu nægjanlega skýr. Rétt þykir þó að leyfa notkun tiltekinna vélknúinna farartækja á landi til að komast á veiðilendur svo framarlega sem ekki sé um að ræða vélsleða, fjórhjól og annan sambærilegan búnað, þ.e. torfærutæki, og þá að sjálfsögðu á merktum vegarslóðum og vegum. Samkvæmt gildandi lögum nær bannið eingöngu til vélsleða og fjórhjóla en komin eru á markaðinn sambærileg torfærutæki og er lagt til að lögin nái einnig yfir þau.

Nái frumvarpið fram að ganga á þessu þingi er ætlunin að rjúpnaveiðar hefjist í haust komi ekkert óvænt fram um ástand rjúpnastofnsins við talningar í vor. Þetta hefði í för með sér að bann við rjúpnaveiðum stæði í tvö ár en ekki í þrjú. Rannsóknir Náttúrufræðistofnunar Íslands á rjúpnastofninum samkvæmt samþykktri rannsóknaráætlun munu óháð þessu standa yfir til og með 2007. Að þeim loknum ættu umhverfisyfirvöld að vera betur í stakk búin til þess að taka ákvarðanir um framhaldið.

Ég vil einnig nefna að rjúpnanefnd umhverfisráðuneytisins fjallaði auk áðurnefndra þátta um griðlönd, skotvopn, veiðihunda og innflutning á villibráð. Niðurstaða nefndarinnar er sú að ekki sé ástæða til þess að taka sérstaklega á þessum þáttum þar sem ákvæði laganna, sbr. 18. gr., væru nægjanlega rúm til að kveða á um friðun, varp og vetrarstöðvar villtra fugla og ákvæði vopnalaga taka á skotvopnum. Nefndin taldi ekki ástæðu til að banna notkun hunda við veiðar, enda ljóst að svokallaðir sækjar, þ.e. hundar sem ætlað er að ná í bráð, minnka líkurnar á því að særð bráð finnist ekki. Auk þess er samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum meðalveiði þeirra sem nota hunda svipuð og þeirra sem ekki nota þá, eða um 3–5 rjúpur á dag.

Hvað varðar innflutning á fuglum og bann við honum telur nefndin vandséð að lög sem eiga að vernda villt dýr í íslenskri náttúru eigi að taka á slíkum þáttum, enda eigi að vera tryggt að settum reglum sé fylgt, svo sem um sýkingavarnir og merkingar jafnvel þó óheimilt sé að veiða slíka bráð hér á landi. Hér sé einfaldlega um matvælainnflutning að ræða sem lýtur tilteknum reglum varðandi merkingar, sýkingavarnir og fleira.

Að lokum vil ég árétta að frumvarpið eins og það liggur fyrir hér tekur ekki aðeins á rjúpu og stjórnun rjúpnaveiða heldur til allra fugla sem heimilt er að aflétta friðun af samkvæmt heimild í áðurnefndum lögum, sé sú heimild nýtt.

Frú forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til hv. umhverfisnefndar að lokinni 1. umr.



[16:39]
Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Fram kom í ræðu hæstv. umhverfisráðherra að mikilvægt sé að tryggja að rjúpnaveiðar verði sjálfbærar þegar þær hefjast á ný og að ekki þurfi að grípa til tímabundinnar friðunar. Mér þætti mjög gott að fá það fram hjá hæstv. ráðherra hvað hún eigi nákvæmlega við, vegna þess að þegar gripið var til friðunaraðgerðanna 2003 var sýnt fram á það með vísindalegum gögnum að lágmark rjúpnastofnsins var ekki marktækt lægra en fyrri lágmörk stofnsins.



[16:40]
umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel mikilvægt að tryggt sé að veiðarnar verði sjálfbærar. Þess vegna þarf ráðherra hverju sinni að hafa í höndunum bestu aðferðir til að slíkt sé unnt. Hins vegar er alveg ljóst að þegar ákveðið var að rjúpan yrði friðuð voru stofnanir umhverfisráðuneytisins sem um þau mál ber að fjalla, Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun, ekki sammála í áliti sínu á því hvort aflétta bæri friðun eða ekki. Ég býst við að hv. þingmaður sé að vísa til þess. Þar að auki voru skoðanir sérfræðinga á þessu sviði skiptar.



[16:41]
Rannveig Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er áhugavert að við erum komin með frumvarp, svokallað rjúpumál, eftir þær deilur sem áttu sér stað þegar rjúpnaveiðibannið var sett á. Ég geri mér grein fyrir því að ráðherra er að koma með eins konar sáttatillögu.

Mig langar að koma með fyrirspurn varðandi það að draga úr veiðisókn og vera með sölubann eða sóknarstýringu. Ég sé að hér er fyrst og fremst getið um að takmarka veiðar miðað við ákveðna daga, ákveðinn tíma sólarhrings ef ekki er talið unnt að leyfa ótakmarkaða veiði innan tímamarkanna sem tilskilin eru. Ég vil spyrja um það af því það var talsvert rætt þegar verið var að setja bannið á að það væri mjög erfitt að takmarka veiðar, sérstaklega að takmarka fjölda rjúpna af því þetta kallaði á mjög beinskeitt eftirlit í okkar stóra landi. Menn töluðu um að hægt væri að vera með merkingar á rjúpu og annað slíkt. Hefur þetta verið skoðað? Hefur nefndin skilað einhverju varðandi takmörkun veiða annað en að setja í lög að ráðherra geti ákveðið daga eða tíma sólarhrings innan veiðitímabilsins?



[16:43]
umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S) (andsvar):

Það er alveg hárrétt hjá hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur að frumvarpið sem hér er komið fram er m.a. lagt fram til sátta til að koma til móts við þá aðila sem deildu um þessi mál. Það hefur verið vandað mjög til þess. Þeir aðilar sem hafa farið ofan í þessi mál eru gjörkunnugir þeim og að nefndarstarfinu kom fólk sem á hagsmuna að gæta í þessum efnum.

Eins og ég nefndi í framsögu minni var nefndinni m.a. falið að skoða að kvótabinda veiðar, sem tengist því sem hv. þingmaður spurði um, en að svo stöddu var ekki talið skynsamlegt að festa það í lög heldur fá reynslu af þeim heimildum sem verið er að leggja til að umhverfisráðherra fái áður en menn færu að stíga það skref að kvótabinda veiðarnar, sem væri vissulega mjög mikil takmörkun.



[16:44]
Rannveig Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. umhverfisráðherra fyrir svarið. Vel má vera að skynsamlegt sé að bíða með að grípa til aðgerða eins og að kvótabinda veiðarnar, en það er líka gott að hafa það í farteskinu að það er möguleiki sem hægt er að taka upp þegar búið verður að skoða hin ólíku svæði sem rjúpan er á og horfast í augu við að það þarf kannski að meðhöndla þau á ólíkan hátt. En með því að byrja með þetta til reynslu er náttúrlega alveg ljóst að ef illa gengur og ef það næst ekki sátt um að virða þau ákvæði sem er að finna í frumvarpinu vofir að sjálfsögðu yfir að taka upp kvótabindingu með öllu því sem fylgir kvóta á veiðar. Því er e.t.v. snjallt að byrja á þennan hátt.



[16:45]
umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil líka upplýsa það hér í þessu sambandi að rjúpnanefndin svokallaða er enn að störfum. Ég á von á því að frá henni komi tillögur um svæðisbundna friðun og griðlönd.



[16:46]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Það hefur komið fram í andsvörum við hæstv. umhverfisráðherra að frumvarp það sem við hér ræðum sé að ákveðnu marki málamiðlun þeirra sjónarmiða sem tekist hafa á í þessu máli. Ég geri ráð fyrir að tekist hafi verið á um þessi sjónarmið í rjúpnanefndinni. Ég ætla að byrja á því að lýsa yfir ánægju minni með það sem hæstv. umhverfisráðherra segir núna, að rjúpnanefndin sem eins og hún getur um er enn að störfum skuli eiga eftir að gera tillögur um griðlönd og frekari atriði í þessum efnum. Það finnst mér mjög gott. Ég held að mjög mikilvægt sé að við höfum rjúpnanefndina starfandi og virka, sérstaklega á þeim tímum sem verið er að takast á um veiðar annars vegar og friðun hins vegar.

Ég er ein þeirra þingmanna sem sveið það ekki mjög sárt þótt veiðibann yrði sett á rjúpuna í þrjú ár. (Gripið fram í.) Ég hafði fulla þolinmæði hvað þetta varðaði og lýsti yfir stuðningi við ákvörðun hæstv. umhverfisráðherra Sivjar Friðleifsdóttur á sínum tíma, þegar veiðibannið var ákveðið til þriggja ára. Ég hef hins vegar ekki verið mjög herská í þessum sjónarmiðum og get þess vegna alveg viðurkennt að sú leið sem lögð er til hér sé ásættanleg. Ég kem þó til með að krefjast þess að þetta verði skoðað í umhverfisnefndinni þegar málið verður þar tekið fyrir.

Ég hef heyrt erindi fuglafræðinga varðandi það hversu mikið rjúpunni virðist hafa fjölgað á milli ára eftir að veiðibannið var sett á. Það sýnir okkur auðvitað svart á hvítu að veiðibannið hefur haft veruleg áhrif. Það sýnir okkur líka að sú veiði sem hefur viðgengist undanfarin ár hefur að öllum líkindum verið allt of mikil. Það verður að tempra veiðina á rjúpnastofninum umfram það sem gert hefur verið hingað til.

Ég er sátt við meginmarkmið þessara breytinga, að þær séu til að styrkja stjórn rjúpnaveiðanna og tryggja það að veiðarnar verði sjálfbærar. Ég held að það sé grundvallaratriði í þessum efnum og þá þurfum við náttúrlega að ganga í gegnum það hvað hugtakið sjálfbær þýðir í þessum efnum. Hvað treystum við rjúpnastofninum til þess að fara í gegnum mikil afföll vegna veiða? Við þurfum að skilgreina þetta verulega vel þannig að hægt sé að fylgjast með því og tryggja að veiðarnar séu sjálfbærar.

Eitt af því sem fjallað hefur verið um í þessu máli öllu er erfiðleikarnir við að framfylgja þeim takmörkunum sem lögin kveða á um. Ég held að full ástæða sé til að brýna hæstv. umhverfisráðherra og umhverfisráðuneytið í því að finna leiðir til að efla eftirlitið, eftirlit með því að farartæki séu rétt notuð og sömuleiðis að hundar séu rétt notaðir. Þó að við vitum að vel þjálfaðir veiðihundar séu til fyrirmyndar og veiðimenn sem veiða með veiðihundum séu margir hverjir til fyrirmyndar eru líka dæmi um það að hundar séu misnotaðir við veiðar. Auðvitað verður umhverfisráðuneytið að vera í stakk búið til að hafa eftirlit sem gagnast okkur, virkt eftirlit.

Ég ætla að minna á það varðandi sölubannið sem þetta frumvarp gerir ráð fyrir að heimila umhverfisráðherra að Náttúrufræðistofnun hafði á sínum tíma í upphaflegum tillögum sínum til hæstv. umhverfisráðherra varðandi friðun rjúpunnar, tímabundna friðun, lagt til að sölubann yrði sett á. Jafnframt töldu vísindamenn Náttúrufræðistofnunar nauðsynlegt að til þess að sölubann hefði þau áhrif sem menn gerðu ráð fyrir yrði jafnframt að setja innflutningsbann á rjúpuna. Annað byði upp á svartamarkaðsverslun. Þau rök sem fylgdu í kjölfarið voru að mínu mati afar frambærileg. Ég held að við verðum að gera okkur grein fyrir því að ákveðin hætta er fólgin í því að bara sé til staðar sölubann en ekki innflutningsbann. Hvernig ætlum við t.d. að tryggja að veitingahús selji eingöngu innflutta rjúpu, séu ekki með íslenska rjúpu á boðstólum? Samkvæmt þessu sölubanni, ef sölubanni verður komið á, mega veitingahús ekki kaupa íslenska rjúpu til að selja áfram til neytenda. Hér er ákveðin glíma og ég held að við þurfum að skoða gaumgæfilega hvort okkur nægi sölubannið eða hvort meira þurfi að koma til.

Það kom fram í máli hæstv. umhverfisráðherra að í frumvarpinu væru ekki lagðar til breytingar á upphafi og lokum veiðitíma, enda verði að líta svo á að tiltölulega góð sátt sé um veiðitímann. Í því sambandi langar mig til að rifja upp að bæði veiðimenn og landeigendur hafa einmitt rætt um þennan veiðitíma sem ég dreg í efa að sé góð sátt um. Landeigendur og bændur hafa viljað taka framan af veiðitímanum. Ein ástæðan hefur verið sú að ástand vega sé hreinlega ekki nægilega gott í upphafi veiðitímans til þess að vegirnir, fjallaslóðar, þoli áganginn, þoli ágang ökutækja. Það er of blautt, kannski ekki komið hjarn yfir sem tryggi að vegirnir varðveitist þannig að það er veruleg hætta á því að vegirnir spillist ef veiði hefst of snemma.

Sömuleiðis hefur í þessu tilliti verið fjallað um það að sú rjúpa sem veidd er fyrst á veiðitímabilinu, þ.e. í október, sé komin í vetrarbúning en oft og tíðum sé ekki kominn snjór yfir jörð þannig að sú rjúpa eigi sér engrar undankomu auðið. Landeigendur og bændur hafa mælt með því að veiðitíminn verði styttur í fremri endann með þessum rökum.

Veiðimenn hafa í allri þessari umræðu lýst sig reiðubúna til að stytta veiðitímann. Þeir hafa líka lýst sig reiðubúna til þess að fara kvótaleiðina og hvorugt er lagt til í þessu frumvarpi. Mér finnst það umhugsunarefni og það mun auðvitað koma til skoðunar umhverfisnefndarinnar þegar málið verður tekið þar fyrir.

Ég ítreka að hér virðist vera skynsamleg málamiðlun á ferðinni sem eflaust er til þess fallin að lægja öldur þær sem risu á sínum tíma út af veiðibanninu. Ég kem til með að áskilja mér allan rétt í þessum efnum hafandi haft uppi þau sjónarmið sem ég hef haft. Ég hlakka til að fá vísindamenn Náttúrufræðistofnunar á fund okkar í nefndinni til að skoða þetta nánar og skoða það svart á hvítu hver staða rjúpnastofnsins er núna eftir tveggja ára alfriðun.



[16:53]
Rannveig Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er svolítið gaman að því að horfa yfir salinn og finna friðsemdarandrúmsloftið sem virðist ríkja yfir þessum fundi, líta til baka og rifja upp spennuna sem var yfir banninu þegar hæstv. fyrrverandi umhverfisráðherra ákvað að grípa til þess ráðs. Það var auðvitað mjög athyglisvert að þessi stjórnartillaga hafði ekki stuðning allra stjórnarliða á sínum tíma. Það voru miklar og heitar tilfinningar sem vöknuðu í málinu og í hverjum þingflokki voru skiptar skoðanir og eðli máls samkvæmt var hið svokallaða rjúpumál því ekki flokkspólitískt, það var mjög einstaklingsbundið hvernig menn brugðust við. Þannig var það í mínum flokki og þannig var það ekki síst í stóra stjórnarflokknum þar sem kom fram sérstakt þingmál með öllum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins innan borðs nema ráðherrunum, forseta þingsins og formanni umhverfisnefndar. Fannst mér frekar gaman að.

Þetta segir miklu meira um eðli málsins en e.t.v. flokksaga eða flokksviðbrögð. Þess vegna lít ég svo á að þegar ég bregst við þessu frumvarpi hér sé ég ekki að bregðast við í nafni flokks míns, heldur fyrst og fremst að bregðast örlítið við þeirri stöðu sem kom upp og af hverju við erum hér nú.

Ég er sjálf ekki í nokkrum vafa um að það var rétt að setja rjúpnaveiðibannið á. Ég er ekki í nokkrum vafa um að árangur varð af því og að þeir fræðimenn sem hafa bent á að það var nauðsynlegt að bregðast við höfðu rétt fyrir sér. Við erum núna að fá hér nýtt frumvarp inn á borð sem styttir friðunartímabilið einmitt af því að það náðist að framkvæma vissa björgunaraðgerð á þessum tíma.

Ég geri mér líka alveg grein fyrir því, virðulegi forseti, að eins og kom fram í ræðu hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur sem talaði á undan mér er auðvitað misjafnt hvernig fólk fer í veiðar og hvernig það beitir tækjum og tólum eða fer með hunda á svæðið í tilefni af því að hér á ekki að banna veiðar með hundum. Við getum ekki búið til lög og sett reglur ef við ætlum alltaf að horfa á það að hugsanlega sé hægt að virða lög og reglur að vettugi. Það er alveg sama hvar við berum niður. Við setjum lög og reglur af því að við teljum að þannig eigi að umgangast hvort heldur er náttúruna, umferðina eða hvað það er annað sem við erum að setja reglur um, um hvernig fólk hegðar sér í því að vinna í samfélagi, fá heimild til að nýta auðlindir náttúrunnar eða annað. Þess vegna er mikilvægt að reglur séu skýrar, að þær séu góðar og ekki ósanngjarnar. Svo er mjög mikilvægt að vera með þannig eftirlit að það sé ekki eins og fúsk út í loftið, að þeim sé ljóst sem nýta auðlindina eða eru með í samfélaginu að brugðist verði við ef menn fara ekki að reglum.

Þetta eru hin einföldu sannindi sem eiga við, hvort heldur er úti í náttúrunni eða annars staðar. Þess vegna er mjög mikilvægt að okkur sem setjum lögin takist að gera það þannig að sátt sé um. Þess vegna finnst mér mjög mikilvægt að hér sé það lagfært að ekki sé bara verið að tala um vélsleða eða fjórhjól, heldur að þetta gildi um torfærutæki, þetta gildi um þau tæki sem er hægt að fara hratt yfir á og elta dýrið uppi, í þessu tilfelli fuglinn. Mér finnst það mikilvægt.

Mér finnst það líka skipta mjög miklu máli þó að það sé ekki komið inn í þetta frumvarp að nefndin muni starfa áfram og að tillögur muni koma um svæðisbundin griðlönd og/eða friðun á tilteknum svæðum eða tilteknum tímum.

Svo mikið lærðum við um þetta mál í vinnunni við það í umhverfisnefnd í fyrra að við vitum að landið allt er ekki bara eitthvað sem er eins. Við vitum líka að það er meira um fugl á einu svæði en öðru. Við vitum líka að fuglinn á erfitt uppdráttar á sumum svæðum. Það getur verið nauðsynlegt að skapa þær aðstæður að fuglinn fái frið á einu svæði þó að ekki sé verið að friða allt landið.

Þetta finnst mér skipta máli í umræðunni. Úr því að fram er komið sáttafrumvarp er mikilvægt að sem best sátt geti orðið um það. Við vorum ekki öll sammála, ekki einu sinni við fulltrúar Samfylkingarinnar í umhverfisnefndinni í fyrra, sum okkar vildu bara fara nákvæmlega leið þáverandi umhverfisráðherra meðan aðrir vildu fara aðra leið og fluttu tillögur um það. Þess vegna munum við að sjálfsögðu skoða málið mjög vel í umhverfisnefndinni og skoða hvort þarna hafi verið farin sú leið sem við öll teljum að sé góð og getum sæst á. Auðvitað þarf í máli eins og þessu að muna að ekki geta allir fengið viljann sinn fram. Ef maður er að reyna að ná fram sátt þurfa sem flestir að láta af sínu og skoða hvað hægt sé að sameinast um í ljósi þess að það verður að reyna að stíga skref til þess að koma til móts við sjónarmið sem flestra. Þannig ætla ég að vinna í málinu, virðulegi forseti.



[17:00]
Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Ég fagna því að þetta frumvarp kemur fram ef það verður til þess að rjúpnaveiðar verði leyfðar á ný sem ég reikna nú með. Þetta frumvarp snýr að því að auka heimild til ráðherra til að takmarka sókn í stofninn og það er þá heimild til að banna sölu rjúpna og rjúpnaafurða.

Sú skoðun kom fram hjá hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur að banna þyrfti innflutning á rjúpum. Ég tel að ekki eigi að gera það strax heldur frekar láta reyna á þetta. Ég reikna frekar með að veiðimenn vilji að þessi lög nái fram að ganga og veiðar verði leyfðar um næstu framtíð.

Einnig hafa menn rætt um að setja kvóta á rjúpur. Ég tel það algjörlega ófært. Það er hrein og klár della að ætla að kvótasetja rjúpu. Það er nógu erfitt að framfylgja ýmsum öðrum kvótalögum þó að menn fari ekki að ætla að framfylgja kvótum á fiðurfé úti um öll fjöll landsins. Ég skil ekkert í því ef menn ætla að fara þessa leið. Þetta er hrein og klár della. En mér líst ágætlega á takmörkun farartækja. Aðalatriðið í þessu er að almenn sátt verði um veiðarnar. Ég tel að veiðimenn verði fremstir í því að hafa gætur á öðrum veiðimönnum.

Það hafa komið hér ýmsar fullyrðingar, t.d. hjá hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur, um að veiðibannið hefði haft mjög mikil áhrif til hins betra. En eins og veiðibannið var framkvæmt af hæstv. þáverandi umhverfisráðherra þá vitum við því miður lítið um það vegna þess að rjúpnastofninn var í lágmarki og auðvitað óx rjúpnastofninn. Það er vita mál að þegar rjúpnastofninn er í lágmarki þá eru allar líkur til þess að í honum fjölgi á ný. Við vitum í raun ekkert eftir algjört veiðibann hvort fjölgunin sé vegna veiðibannsins eða einfaldlega liður í náttúrulegri sveiflu stofnsins. Það hefði verið miklu nær að friða ákveðin svæði og leyfa veiðar á öðrum og jafnvel að leyfa mismiklar veiðar á ákveðnum svæðum og reyna þannig að átta sig á því hver áhrif veiðanna eru. (HBl: Kvótasetja svæðin með öðrum orðum.) Eigum við ekki frekar að segja að hv. þingmaður ætti að líta til tillagna okkar um hvernig á að stýra veiðum vegna þess að í okkar ágæta þingflokki, Frjálslynda flokknum, eru margir sem hafa reynslu af veiðum og við gerum okkur ljóst að mjög erfitt er að takmarka það sem fæst í veiði. Miklu nær væri að takmarka sókn á ákveðin veiðisvæði. Þar hefur einmitt náðst árangur við að stýra veiðum.

Ég tel einmitt vegna þeirra reglna sem hæstv. umhverfisráðherra leggur til, geri hún sér grein fyrir því svona smám saman að það sé eiginlega mjög erfitt að takmarka það sem fæst í veiðinni og að miklu nær sé að takmarka sóknina og takmarka græjur og annað. Ég tel því að Sjálfstæðisflokkurinn sé þarna að átta sig á rökum og taka upp rök okkar í Frjálslynda flokknum. Það væri betur ef Sjálfstæðisflokkurinn gerði það í fleiri málum. Þá gengi okkur eflaust betur að stjórna annars konar veiðum en úr rjúpnastofninum og næðum mun meiri árangri t.d. í veiðum úr þorskstofninum sem Sjálfstæðisflokknum hefur nú gengið alveg hrapallega að stjórna.

Það er sárt til þess að vita — það var farið í gengum það — varðandi veiðitölur úr þorski t.d. þar sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur ráðið, að meðaltöl síðustu ára eru lægri en þegar nasistar friðuðu fiskimiðin hér á stríðsárunum. Það er til marks um það hvað fiskveiðistjórn og stjórn sjálfstæðismanna í sjávarútvegi hefur gengið illa. Ég tel að þetta geti verið fyrsta skrefið í að flokkurinn átti sig á því að miklu nær væri að taka upp sóknarstýringu.

Því var haldið hér fram að veiðin væri of mikil. Ég tel að við verðum að spyrja okkur hvað við eigum við með því. Ég tel að þetta sé mjög góð spurning sem verði að spyrja. Erum við eitthvað bættari með því að flögrandi séu 50 þúsund fleiri rjúpur? Ég tel ekki svo endilega vera. Ég tel að þetta mál snúist miklu frekar um viðhorf til veiða og hvort fólk sé almennt fylgjandi hæfilegum veiðum eður ei.

Ég tel að fróðlegt væri í umræðunni að fá svör við einni spurningu hjá hæstv. umhverfisráðherra. Spurningar komu fram um hvort umrætt rjúpnaveiðibann sem hefur staðið nú yfir hefði haft mjög slæm áhrif á veiðikortakerfið. Ég tel að mjög þarft sé að fá svar við þeirri spurningu, þ.e. hvort það hafi farið svo illa og hvort menn leiði líkur að því að verið sé að gefa upp rangar veiðitölur eður ei.

Varðandi þá umræðu sem kom upp hér um stærð rjúpnastofnsins liggja staðreyndirnar reyndar á borðinu um að lágmark rjúpnastofnsins þegar friðun hófst var ekkert lægra en fyrri lágmörk stofnsins. Það er náttúrlega ákveðið áhyggjuefni, þ.e. þegar Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun tókust á, að þá hugðist Náttúrufræðistofnun setja rjúpuna á válista. Það er með ólíkindum að Náttúrufræðistofnun hafi talið það vænlegt að þegar sveiflur í dýrastofni — þ.e. reglurnar sem þeir beita eru þær að minnkunin verði 30% en náttúrulegar sveiflur eru langt umfram þessi 30% sem Náttúrufræðistofnun lagði til grundvallar. Í raun er það spurning þegar menn hyggjast setja dýrastofna á válista vegna náttúrulegra sveiflna og það tel ég vera ákveðið áhyggjuefni.



[17:08]
Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú er það svo samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 17. gr. laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum að gert er ráð fyrir að heimilt sé að skjóta hrafn allt árið um kring. Nú vill svo til að hrafn er helgur fugl hjá heiðnum mönnum, ásatrúarmönnum. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann telji að þetta ákvæði beri að fella á brott.



[17:09]
Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel svo ekki vera.



[17:09]
Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í ljósi Íslendingasagna, Snorra-Eddu og samkvæmt öðrum heimildum — ef við veltum því einnig fyrir okkur og rifjum það upp — og að Huginn og Muninn voru hrafnar Óðins þá kemur mér nokkuð á óvart að hv. þingmaður skuli telja hrafna réttdræpa allt árið um kring.



[17:10]
Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Ég get nú svarað þessu með annarri spurningu. Það væri fróðlegt að vita hvort hinn kristni leiðtogi þingsins, hæstv. forseti þingsins Halldór Blöndal, borði dúfur og hvort það gangi gegn hans siðferðisvitund og trúarsannfæringu.



[17:10]Útbýting:

[17:11]
Halldór Blöndal (S):

Hæstv. forseti. Hér er merkilegt frumvarp á ferðinni sem rétt er að fara nákvæmlega yfir um leið og nauðsynlegt er að velta því fyrir sér hvort ástæða sé til þess að taka fleiri greinar laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum til athugunar.

Eins og fram kemur í þessu frumvarpi er tilgangur þess fyrst og fremst sá að reyna að standa þannig að veiðum á rjúpum að menn sætti sig við að slíkar veiðar skuli heimilaðar. Auðvitað eru um það skiptar skoðanir og við erum ýmsir sem teljum að ekki sé kominn tími til þess að hefja rjúpnaveiði á nýjan leik um leið og við vörum sérstaklega við því að þannig verði staðið að veiðum með því að efna til þeirra í atvinnuskyni að við því er að búast hvenær sem er að stofnarnir geti hrunið nema mjög vandlega sé fylgst með veiðunum.

Ég vil í þessu sambandi rifja upp að auglýstar voru á netinu fuglaveiðar á Íslandi, rjúpnaveiði og andaveiði, fyrir nokkrum árum og þá tókst svo til að með birtist mynd af veiðimanni glaðhlakkalegum uppi við Efri-Laxá með tvo straumandarsteggi í fanginu. Þetta lýsir í stuttu máli hvernig staðið hefur verið að þessum veiðum og því mikla kæruleysi sem sumir sýna náttúru landsins. Í þessu sambandi vil ég rifja upp að áætlaður varpstofn straumandar á Íslandi er um sex þúsund pör. Fjöldi að vetrarlagi er um 14 þúsund fuglar, næstum allir á sjó. En talið er að aðeins 20–30 fuglar haldi sig að vetrarlagi á Laxá í Þingeyjarsýslu og Elliðaánum. Þegar menn gera það nú sér að leik að skjóta þessa fáu straumandarsteggi og auglýsa fyrir veiðimönnum opinberlega á vefnum þá sjáum við að sumir ganga að þessum veiðum af mikilli óskammfeilni og taka með engum hætti tillit til hinnar veiku íslensku náttúru. Mun ég víkja nánar að því síðar.

Ég tel rétt í þessum fáu orðum mínum að fara yfir lögin eins og þau liggja fyrir. Ég vil vekja athygli á 1. mgr. 4. gr. laganna.

Með leyfi hæstv. forseta stendur þar:

„Náttúrufræðistofnun Íslands stundar rannsóknir á stofnum villtra fugla og spendýra, metur ástand þeirra og gerir í framhaldi tillögur til umhverfisráðherra um vernd og hvort viðkomandi stofn þoli veiðar, sbr. lög um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur.“

Mér finnst athyglisvert að rifja þessa grein upp í ljósi þess hvernig staðið hefur verið að andaveiðum á ýmsum mjög viðkvæmum stöðum landsins. Náttúrufræðistofnun hefur með öðrum orðum ekki við það að athuga að þær séu stundaðar í svartasta skammdeginu, þorranum, þar sem við getum talið upp nokkur mjög viðkvæm svæði þar sem endurnar halda sig innan um vakir. Þá erum við ekki aðeins að tala um þær endur sem leyfilegt er að skjóta heldur erum við líka að ræða um endur eins og stóru-toppönd, gulönd, við erum að tala um straumönd, við erum að tala um húsönd og skúfönd.

Nú er það svo um stóru-toppönd að varppör eru einungis 300 og innan við þúsund fuglar hér að vetrarlagi. (Gripið fram í.) Hún er veidd. Hún er skotin. Við vitum um það. Við vitum það ýmsir aðrir þótt hv. þingmaður viti ekki um það. Hið sama er að segja um húsöndina, af henni eru einungis 600 pör og fjöldi að vetrarlagi um 2 þús. fuglar.

Ég hef flutt frumvarp um að stytta þann skotveiðitíma sem heimilt er að veiða endur. Mér finnst eftir á að hyggja og eftir að hafa rætt við ýmsa menn um þessi mál skynsamlegra að friða fremur einstök lindarsvæði þar sem eru þröng vetrarbúsvæði og viðkvæm. Hæstv. ráðherra hefur samkvæmt núgildandi lögum og eins þó að þessi breyting verði á lögunum heimild til að koma fram slíkri staðbundinni friðun. Ég vil nefna þessi dæmi, þessi svæði, með leyfi forseta: Laxá í Þingeyjarsýslu, Litluá í Kelduhverfi, Sogið og Úlfljótsvatn, Ölfusið, Veiðivötn, Apavatn, Rangárnar og lindir undan Skaftárelda- og Landbrotshraunum. Þessi svæði get ég ekki sagt að séu sett þarna af handahófi, það væri rangt af mér, því að ég er einmitt að leggja fram tillögu um svæði þar sem ég tel sérstaka ástæðu til staðbundinnar friðunar vegna þess að þær endur sem hér eru að vetrarlagi og eru alfriðaðar halda sig á þessum stöðum.

Það hefur komið upp að skynsamlegt kunni að vera að hafa staðbundna friðun á rjúpunni. Það kom fram í ræðu eins hv. þingmanns hér áður. Það hefur verið gert og ég tel að sú leið komi vel til greina. Ég vil að vísu friða endur allt árið um kring en ég geri mér grein fyrir því að það er mikil andstaða við það og ég ætla ekki að fara í reiptog um það sem ekki þýðir að vera í reiptogi um. Ég legg hins vegar mikla áherslu á, hæstv. ráðherra og formaður, og enn fremur vil ég beina þeim orðum til formanns umhverfisnefndar sem hér er staddur í þingsalnum, að þetta sé sérstaklega athugað. Er ekki nægt að skrifa t.d. sveitarstjórnum á þeim svæðum sem ég nefndi til eða öðrum sveitarstjórnum sem Náttúruverndarstofnun mundi þá benda á og grennslast fyrir um hvort þær telji að ástæða sé til að taka fastar á þessum málum en gert hefur verið.

Ég er t.d. ekki í neinum vafa um að því yrði fagnað af þeim sveitarstjórnum sem koma að Laxá í Þingeyjarsýslu og flestum jarðeigendum þar ef andaveiði við ána yrði með öllu bönnuð. Það má auðvitað rifja upp margar ömurlegar sögur af skotveiðum á því svæði og er nærtækast að vísa til Guðmundar skálds Friðjónssonar á Sandi sem hefur lýst því ágæta vel hvernig gengið var um eitt stóru-toppandarhreiður þar.

Um leið og ég legg áherslu á friðun þessara svæða vek ég athygli á 17. gr. laganna, síðasta málsl. 3. tölul., þar sem stendur:

„Ætíð er heimilt að skjóta kjóa nærri æðarvarpi.“

Ég er þessu sammála. Ég tel engu að síður að við eigum líka að bæta þar við öðrum fugli, skúmi, sem er sýnu verri í æðarvarpinu en kjóinn. Hér áður fyrr var skúmur á takmarkaðri svæðum en nú er en á síðustu áratugum hefur svæði hans verið að færast út, varplönd hans eru farin að teygja sig að ég hygg um Álftaver, jafnvel til Víkur í Mýrdal. Ég veit ekki hvort hann er þar vestar. Skúmurinn verpir við Héraðsflóa, hann er í Öxarfirði, við Skjálfandaflóa og kannski víðar. Ég tel ástæðu til að heimila að skjóta skúm ekki síður en kjóa nærri æðarvarpi. Þessir fuglar eru af sama kyni, a.m.k. samkvæmt sumum fuglafriðunarbókum. Ég kann það ekki í þaula en þetta er sama kynið, stærðarmunur á þeim, og ég hygg að það markmið sem á sínum tíma var sett fram um algjöra friðun skúmsins eigi ekki lengur við — algjöra friðun, segi ég, en það má veiða hann, stendur hér, frá 1. september til 31. mars. Ég tel þýðingarmikið að heimilt sé að stugga við skúm og skjóta hann nálægt æðarvörpum.

Ég vil jafnframt þegar farið er yfir 7. gr. laganna vekja athygli á því að samkvæmt henni er heimilt að skjóta allt árið svartbak, sílamáf, silfurmáf og hrafn. Ég átta mig ekki á því af hverju hvítmáfur er ekki þar á meðal, hettumáfur sömuleiðis. Ef horft er til hettumáfs má segja að hann sé friðaður allt árið um kring því að þann tíma sem má skjóta hann er hann yfirleitt ekki á Íslandi. Þessir fuglar er náttúrlega miklir vargar í hreiðrum, sérstaklega hvítmáfurinn. Ég vil biðja umhverfisnefnd að athuga sérstaklega hvort ekki sé rétt að hafa þetta í huga.

Jafnframt vil ég segja í sambandi við grágæs og heiðagæs að ég hef athugasemd að gera við að heimilt skuli vera að skjóta þær frá 20. ágúst. Ég tel 1. september nægilegt. Með sama hætti tel ég að það ákvæði sem varðar andaregg og heiðagæsaregg sem tekin eru samkvæmt ákvæðum þessarar málsgreinar — ég er kominn í 20. gr., líklega 6. mgr., og þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Andaregg og heiðagæsaregg, sem tekin eru samkvæmt ákvæðum þessarar málsgreinar, má hvorki bjóða til sölu, selja, kaupa, gefa né þiggja að gjöf.“

Ég tel að þetta eigi að samræma, rétt sé að niður falli orðin „gefa né þiggja að gjöf“ til samræmis við það sem hugsað er um rjúpuna. Um hana er látið duga að segja „að hana megi hvorki bjóða til sölu, selja né kaupa“. Ég tel rétt að hið sama verði um þessi egg, enda sjáum við í þessari málsgrein að heimilt er að taka frá takmörkuðum svæðum egg af æðarfugli, stokkönd, rauðhöfðaönd, urtönd, duggönd, skúfönd, hávellu, húsönd og toppönd. Ef heimilt á að vera að gefa slík egg þeirra fugla eða selja, ég tala nú ekki um þar sem heimilt er að selja þau, finnst mér hálfnöturlegt að bannað sé að gefa eða þiggja egg heiðagæsar eða grágæsar, enda vitum við að þeir fuglar eru ekki í sérstakri útrýmingarhættu eins og nú standa sakir. Því hefur að vísu verið haldið fram að í nálægð Reykjavíkur séu allir fuglar sem heimilt er að skjóta í hættu. Skal ég ekki um það segja en ef við förum fjær höfuðborginni er svo ekki. Ég held að það sé mjög erfitt að færa rök fyrir öðru en að samræma ákvæðin um heiðagæsaregg.

Ég biðst afsökunar, ég hef nú lesið vitlaust, það eru andaregg og heiðagæsaregg sem hvorki má gefa né þiggja að gjöf. Við vitum að við þetta er ekki staðið. Er betra og skynsamlegra að sleppa þessu „gefa né þiggja að gjöf“.

Í 18. gr. er sérstaklega vikið að því að ráðherra geti „með reglugerð, að höfðu samráði við hlutaðeigandi sveitarfélög eftir því sem við á og að fenginni tillögu Náttúrufræðistofnunar Íslands, [kveðið] á um aukna vernd ákveðinna friðaðra stofna villtra fugla og spendýra ef brýn ástæða er til“. Ég vil líka leggja áherslu á þessi ákvæði með rökstuðningi fyrir því að ástæða sé til að huga sérstaklega að þeim svæðum sem ég nefndi hér áðan.

Auðvitað er erfitt að færa fram sönnur fyrir því að friðaðir fuglar séu drepnir. Ég hef slíkt ekki í hendi mér, þ.e. að benda á sökudólga í því sambandi, en ég hef þó hin síðustu missiri fengið æ fleiri dæmi um að slíkt hafi verið gert. Endur eru gjarnan skotnar eftir að fer að rökkva og menn geta svo sem spreytt sig á því að reyna að þekkja kollur anda í sundur af mismunandi tegundum í björtu, hvað þá eftir að skyggja tekur. Því er ljóst að slíkar veiðar á mjög viðkvæmum svæðum þar sem fágætustu endur sem hér eru halda til yfir veturinn mega ekki ganga svo áfram. Sumir hafa lagt mikið upp úr því að landeigendur geti bannað veiðar í sínu landi en fuglar eru nú eins og fiskarnir að því leyti að þeir eru ekki bundnir við ákveðin landsvæði. Það eru engin vébönd, hv. þm. Sigurjón Þórðarson, sem heldur þeim innan ákveðinna svæða svo að segja má að réttur þeirra sem vilja friða öndina sé skertur með því að ótakmarkaðar veiðar eru heimilaðar á öðrum stöðum við ána.

Ég vil líka í þessu sambandi, hæstv. ráðherra, leggja áherslu á að fastar verði tekið á veiðum á mink, auðvitað á viðkvæmum stöðum en raunar á landinu öllu. Ágætur bóndi sagði við mig í hálfkæringi að hann vekti yfir andavarpinu, þeir skiptust á að gera það yfir varptímann, og sagði svo við mig: Til hvers er það eiginlega ef menn geta gengið um og skotið endur í sjö mánuði og enginn hreyfir við minknum? Missa menn þá ekki áhugann á því að reyna að standa vörð um þessa viðkvæmu stofna, örfáu fugla sem eru hér af sumum andategundum?

Ég vil að lokum leggja áherslu á að fuglaskoðun verður æ vinsælli hér á landi. Eins og fjölfróður maður og mikill fuglaskoðari og raunar sérfræðingur í því að fara með ferðamenn um landið og sýna þeim fugla, Stefán Þorláksson frá Svalbarði, hefur bent mér á eru skilyrði hér á landi betri en víðast hvar annars staðar. Hér er lítið skóglendi en af þeim sökum er tærleiki loftsins meiri en ella mundi vera og því skilyrði til fuglaskoðunar og myndatöku af fuglum einstök.

„Enn skal hér ljóma rækt og runnablámi,“ segir Einar Benediktsson í Stórasandi og víkur einmitt að því að þessi runnablámi sem við sjáum víða erlendis er óvíða hér á landi meiri nú en var þegar hann orti Stórasand, en víðast hvar er tærleiki loftsins mjög mikill, gróður lítill, þannig að menn sjá vítt yfir og geta þess vegna einbeitt sér að fuglaskoðun með meiri árangri en víðast annars staðar. Fuglaskoðun er vinsæl á öllum árstímum, því að fuglar breyta um hegðun og lit margir hverjir eftir árstíð og þess vegna er ævinlega jafnskemmtilegt og jafngott að fara um landið, leita uppi fugla og reyna að þekkja þá í sundur, ef maður hefur góðan leiðsögumann eins og ég hef raunar stundum haft.

Ýmsir hafa haft orð á því við mig nú að rjúpan sé gæfari og hagi sér öðruvísi en hún gerði á meðan veiðarnar voru leyfðar á hverju ári. Er enginn vafi á því að margir munu sakna þess nú þegar rjúpnaveiðar verða teknar upp að nýju að hafa rjúpurnar ekki hjá sér eins gæfar og þær hafa verið nú á þessum vetri.

Hið sama getum við auðvitað sagt um endurnar. Ef leyft er að skjóta þær sjö mánuði á ári er ekki við því að búast að auðvelt sé að koma að þeim. Auðvitað sækir að þeim styggð eins og við vitum og það er á kostnað þeirra sem einkum hafa gaman að því að fara um landið og skoða fugla og athuga dýralífið, hið frjálsa dýralíf, áður en því er ógnað og þegar fuglarnir fá að vera í friði. Þar stangast á þessi tvö sjónarmið, friðunarsjónarmiðið og skotveiðisjónarmiðið.

Ég hef lagt áherslu á, vegna þess að ég tel að það sé gott fyrsta skref, að hæstv. umhverfisráðherra nýti sér þær heimildir sem eru í lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, að viðkvæmustu og fegurstu blettir landsins verði fríaðir af skotveiði, menn geti treyst því að fuglalífið sé þar í eðlilegum skorðum. Ég nefndi nokkur svæði áðan. Það má vera að ég hafi farið þar offari eða ekki nefnt nógu mörg. Það má deila um hversu hratt eigi að fara af stað með slíka svæðisfriðun, en það er alveg óhjákvæmilegt að leggja upp í þá ferð, því ef það verður ekki gert er óhjákvæmilegt að þeir menn sem hugsa á mínum nótum og eiga sæti á Alþingi, leggi fram lagafrumvarp sem gangi mun lengra en það frumvarp sem hér liggur fyrir.

Ég vil þess vegna þakka hæstv. umhverfisráðherra fyrir að reyna að stíga skref sem eftir atvikum er hægt að búa við um leið og ég beini því til hæstv. umhverfisráðherra að nýta aðrar þær reglur sem megi verða til þess að hér sé frjáls náttúra.



[17:34]
Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Það er hægt að gera ýmsar athugasemdir við ræðu hv. þingmanns, en ég ætla nú að taka undir ýmislegt sem er jákvætt líka og það ber að taka undir það, svo sem eins og að friða svæði og reyna að stýra sókninni.

Þess vegna langar mig að spyrja hv. þingmann um það sem einmitt þetta frumvarp gengur út á, þ.e. að stýra sókninni. Telur hann það ekki almennt vera miklu vænlegra til að vernda dýrastofna að fara þá leið sem við í Frjálslynda flokknum höfum lagt til, þ.e. að stýra sókninni og vernda svæði í stað þess að vera með eitthvert kvótakerfi?



[17:35]
Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel kvótakerfi nauðsynlegt í fiskveiðum, en ég vil benda hv. þingmanni á að eignarréttur manna er mjög sterkur víðs vegar um landið. Bændur hafa leyfi til að banna mönnum veiðar á jörðum sínum. Það er í þeirra hendi hvort veiðin er sótt. Það er með öðrum orðum eignarréttarleg stýring á veiðunum. Það er það sem við erum að tala um. (Gripið fram í.) Ég vil … það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að ég vil ekki leyfa veiðar á viðkvæmustu stöðum landsins.

Ég hygg að hv. þm. Jóhann Ársælsson sé ekki reiðubúinn til að lýsa því yfir að ríkið eigi engin afskipti að hafa af því að frjálst fugla- og dýralíf sé hér á landi, nema hv. þingmaður sé að gefa það í skyn að honum finnist rétt að fara eftir tillögum formanns Skotveiðifélagsins og leyfa mönnum að skjóta hrossagauk í matinn.



[17:37]
Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst mjög ánægjulegt að heyra að hv. þingmaður sjái einmitt kostina við að stýra sókninni og vonandi að hann sjái að það verði einnig vænlegra með ýmsa aðra dýrastofna. Ég tel að ljósið renni nú upp fyrir ágætum þingmönnum og þeir viðurkenni að Frjálslyndi flokkurinn hafi einfaldlega rétt fyrir sér í þessu máli, enda hefur árangur þess að stjórna þorskveiðum í tíð Sjálfstæðisflokksins verið hörmulegur og hrein sorgarsaga.

Hvað varðar fuglaskoðun og skotveiðar þarf það ekki að stangast á, það get ég staðfest, vegna þess að ég er meðlimur í Fuglaverndarfélagi Íslands og stunda einnig skotveiðar. Það sem er miklu mikilvægara fyrir fuglavernd er einmitt vernd búsvæða, að fuglar hafi búsvæði, en veiðar skipta kannski ekki öllu máli eins og oft er gefið í skyn hér í umræðunni.



[17:38]
Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vissi það áður en hv. þingmaður kom hér að fuglaskoðari og fuglaveiðimaður mundu ekki ganga hlið við hlið um mörkina. Ég sé að þessar tvær andstæður hafa líkamnast í hv. þingmanni. Það væri gaman að fá að vita hvor má sín meir í honum, skotmaðurinn eða fuglaskoðarinn? (SigurjÞ: Þetta er spurning um tíma.)



[17:39]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég taldi mig hafa skilið það á máli hv. þm. Halldórs Blöndals áðan að hann teldi að afar nauðsynlegt væri að standa kröftuglega að því að veiða mink og ná þar verulegum árangri til stofnminnkunar. Ég hefði því viljað spyrja hv. þingmann hvort hann væri sammála þeim sjónarmiðum sem komið hafa fram um að leggja í þá baráttu að reyna að útrýma mink úr náttúru Íslands, sem ég tel fyrir mína parta að væri mjög æskilegt en er hins vegar á þeirri skoðun að það sé afar erfitt úr því sem komið er, að ná þeim árangri þó það kunni að vera hægt með einhverjum aðferðum.

Þegar við ætlum að banna skotveiðar — ég tek undir það sem kom fram í máli hv. þingmanns um að vernda ákveðin svæði þar sem eru staðbundnir stofnar fuglategunda sem ekki hafa mikla og almenna útbreiðslu eins og hann nefndi um ýmsar andategundir, ég held að það sé jákvæð og eðlileg leið til að fara, en í þeirri virku baráttu sem ég tel að við þurfum að viðhalda varðandi minkinn, þá er ekki sama að banna skotveiði á viðkvæmum svæðum og banna skotveiði á ákveðnum dýrategundum á viðkvæmum svæðum. Það verða menn auðvitað að hafa í huga og mega ekki loka sig af í því að geta ekki varist minknum því að minkurinn sækir örugglega í sum af þeim svæðum sem haldast opin yfir vetrartímann og ýmsar andartegundir halda sig á. Menn geta auðvitað þurft að bera þar skotvopn til þess að eyða mink þótt þeir megi ekki nota þau til annars.



[17:41]
Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Góður minkaveiðimaður og þaulvanur veiðimaður hefur sagt mér að hann telji að hægt sé að útrýma mink úr íslenskri náttúru, en hann segir að það sé dýrt. Ég hef heyrt tölur um það og mér finnast þær ekki háar ef þetta er í raun og veru hægt. Um það þarf auðvitað að vera mikil sátt og menn verða að gera sér grein fyrir að það kann að mistakast. Mér finnst þetta mjög freistandi hugmynd, að útrýma minknum og tel að landið mundi gjörbreytast til hins betra. Að vísu játa ég það að norður á Sléttu voru miklir minkaveiðimenn fyrir 20, 30 árum á einum bæ og þegar við hjónin og vinir okkar tjölduðum þar niðri á sjávarkambinum tókum við eftir því að fjaran var full af rottum sem hurfu síðan eftir að veiðimennirnir hættu að veiða minkinn. Ég veit því ekki hvað við fáum ef minkurinn hverfur.

Ég er alveg sammála hv. þingmanni líka um það, auðvitað verður að gera undanþágu ef við erum að tala um minkaveiðar í friðlöndum, enda er heimilt að skjóta mink í æðarvarpi eins og hv. þingmaður veit, svo ég geri ekki athugasemd við það.

Á hinn bóginn er rétt að rifja upp í þessu sambandi að ýmsir halda því fram að innan þjóðgarðanna sé ekki nógu vel staðið að eyðingu minks og er nauðsynlegt að það sé athugað. Ég vil biðja hæstv. umhverfisráðherra að athuga hvort sá orðrómur hefur við rök að styðjast.



[17:43]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Virðulegu forseti. Það er að mínu viti algjörlega rétt sem hv. þingmaður vék að áðan að ekki er nægilega vel staðið að eyðingu minks í friðlöndum og reyndar dreg ég mjög í efa það uppeldishlutverk sem við höfum tekið að okkur að hafa þar varðandi tófuna og hvort það sé nú hið rétta í náttúru Íslands.

Í ljósi þess að við erum nokkuð sammála um viðhorfið til minksins, þá hefði ég líka viljað spyrja hv. þingmann hvort hann gæti ekki fallist á þá skoðun sem ég hef í þeim málum að það verði að vera ríkið sem taki að sér alfarið að sjá um veiðar á minknum. Það þarf auðvitað að ná betra samkomulagi en verið hefur undanfarin ár um það í dreifðum og fámennum sveitarfélögum hversu mikinn kostnað þau bera af refaveiðinni. Þær reglur held ég að þurfi að endurskoða alveg gjörsamlega upp á nýtt.



[17:44]
Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ef ég tek dæmi af sveitarfélögum þar sem ég er kunnugastur, annars vegar af Skútustaðahreppi sem á að sjá um Mývatnssvæðið og hins vegar af Þingeyjarsveit, þá er alveg ljóst að fjárhagur þessara fámennu byggðarlaga er ekki með þeim hætti að rétt sé að leggja jafnþungar byrðar á þau eins og gert er með því að ætlast til að þau standi undir minkaveiðinni að svo miklu leyti sem raun hefur orðið á. Það má auðvitað velta fyrir sér hvort rétt sé að sveitarfélög taki þar nokkurn þátt, en þær reglur verða þá að vera aðrar en nú eru og eitthvert samræmi á milli stærðar sveitarfélaga, umfangs landsins og þess fjölda sem býr í sveitarfélögunum.



[17:45]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar til að beina einni spurningu til hv. þm. Halldórs Blöndals er varðar efni ræðu hans áðan. Hann lagði til að menn íhuguðu aðgerðir sem miðuðu að því að friða svæðið þar sem endur halda sig yfir vetrartímann, þær finna sér búsvæði á vatni sem ekki er frosið og leita sér jafnvel griða. Þá rifjaðist upp fyrir mér að hv. þingmaður er með frumvarp í þinginu um breytingu á lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum sem er til umræðu í dag, þar sem hann legur til að andaveiðitíminn verði styttur, þ.e. veiðitíminn á sjö andategundum, frá því að vera frá 1. september til 31. mars í að vera frá 1. september til 31. desember. Ber að túlka það svo að tillaga hv. þingmanns nú um að menn íhugi þær reglur að friða ákveðin svæði fyrir skotveiðum á öndum, að hann hafi fallið frá frumvarpi sínu sem liggur á hinu háa Alþingi? Ég fæ trauðla séð að það sé þörf á frumvarpinu ef við grípum til þeirra ráða að friða víðfeðm svæði yfir vetrartímann gegn öllum veiðum á öndum.



[17:47]
Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það liggur fyrir að ég gerði tilraun til þess að frumvarpið fengi að ganga til nefndar án þess að það yrði rætt, en einstakir þingmenn kvöddu sér hljóðs þannig að það gat ekki orðið. Jafnframt hef ég rætt það á fundum með þingflokksformönnum hvort möguleiki væri á að frumvarpið færi órætt til þingnefndar, en á það var ekki fallist. Af þeim sökum getur frumvarpið ekki fengið þinglega meðferð á þessu þingi samhliða því stjórnarfrumvarpi sem við ræðum nú.

Ég get á hinn bóginn vel fallist á það að fyrsta skrefið verði að einstök svæði verði friðuð, en ég vil líka benda hv. þingmanni á að umhverfisráðherra hefur það í hendi sér að stytta friðunartímann frá sjö mánuðum í fjóra með sama hætti og umhverfisráðherra hefur heimild samkvæmt ákveðnum skilyrðum til þess t.d. að banna sölu á svartfugli samkvæmt lögunum eins og þau eru núna.



[17:48]
Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég vil koma nokkrum atriðum á framfæri varðandi frumvarp til laga um breytingu á lögum um vernd og friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

Ég vil fyrst vísa til ágætra ræðna hjá bæði hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur og hjá hv. þm. Halldóri Blöndal og get tekið undir flest af því sem þeir hv. þingmenn hafa sagt um þetta mál.

Ég vil þó í fyrsta lagi láta í ljós þá skoðun mína að ég tel að sú ákvörðun sem tekin var um að friða rjúpuna í þrjú ár eigi að standa. Ákvörðunin var umdeild en hún var tekin og sagt að á þeim tíma yrði leitast við að meta bæði áhrif friðunar og ýmis önnur atriði sem lúta að takmarkaðri vernd, friðun eða veiðum á rjúpu, tíminn yrði notaður til þess að endurskoða þau lög og þá umgjörð sem hefur verið. Ég tel að það eigi að standa og eigi ekki að láta leika vafa um að þau þrjú ár standi og eftir það verði framhaldið metið.

Önnur atriði sem ég vil líka minnast á eru að ég tel að nota eigi tækifærið þegar verið er að opna lögin aftur og skoða og fá heimildir, eins og hér hefur verið nefnt, til svæðisbundinna friðana af hinum ýmsu ástæðum, dýralífsástæðum. Rjúpan og aðrir fuglar eru hluti af því dýralífi sem við höfum og er samspil þar á milli, bæði hvað varðar náttúrufarsleg lífsskilyrði og einnig hvað varðar truflun svo sem við veiðar og umferð. Þess vegna styð ég heils hugar þær hugmyndir sem hv. þm. Halldór Blöndal minntist á um staðbundna friðun og tel að skoða eigi þetta mjög nákvæmlega og veita til þess heimildir.

Eins tel ég að skoða eigi það sjónarmið að rjúpan sem og aðrir fuglar hafa nýtingargildi sem hluti af náttúrunni til skoðunar. Við þekkjum að í ferðaþjónustu er farið að gera það að atvinnugrein að skoða fugla við náttúrulegar aðstæður, hvort sem það eru rjúpur, endur eða aðrir fuglar. Þá fer alls ekki saman að á sömu stöðum séu veittar heimildir til þess að skjóta fuglinn.

Þess vegna finnst mér að koma eigi víðtækari heimildir til þess að svæði séu lokuð til veiða. Mér finnst að opna ætti jafnvel möguleika á því að sveitarfélög geti lokað þeim landsvæðum sem þau bera skipulagslega ábyrgð á, að við getum lokað fyrir veiðar á ákveðnum svæðum með tilliti til annarra hlunninda, annarra atvinnuhagsmuna sem geta verið í húfi og líka náttúrufarslegra og líffræðilegra atriða.

Mér finnst að færa eigi hluta af valdinu og ákvarðanatökunni til sveitarfélaganna sem bera hvort eð er skipulagslega ábyrgð á svæðinu, enda stendur í lögunum um vernd, friðun og veiðar í 2. mgr. 6. gr.: „Við skipulag og landnotkun skal tekið tillit til villtra dýra og búsvæða þeirra.“ Hver ber ábyrgð á skipulaginu? Jú, það eru sveitarfélögin. Hver ber ábyrgð á landnotkuninni í viðkomandi sveitarfélagi? Það er jú sveitarfélagið. Þegar komið er út fyrir heimalönd eða lönd einstakra lögbýla finnst mér að íhlutunarvald sveitarfélaganna eigi að vera sterkara. Það er líka ástæða til þess að taka tillit til sjónarmiða skotveiðimanna. Ég er ekki andvígur skotveiðum á fuglum ef það þykir geta gengið gagnvart bæði stofni og lífríkinu, en þá skal því líka stýrt á svæðum þar sem tekið er tillit til allra þeirra sjónarmiða sem ég hef nefnt.

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa um þetta mörg orð, en vil bara árétta það sem ég sagði áðan. Ég tel að friðun rjúpunnar eigi að fá að standa óumdeilt í þau þrjú ár sem ákveðið var, eftir það sé vandlega skoðað með hvaða hætti það verði tekið upp aftur.

Ég tek eindregið undir svæðisfriðanir af hinum ýmsu ástæðum, eins og hafa verið raknar af ýmsum ræðumönnum hér á undan. Ég vil að tekin séu sterkar inn önnur nýtingarsjónarmið en bara veiðar sem lúta að fuglum, eins og fuglaskoðun og almenn náttúrulífsskoðun sem er orðinn vaxandi atvinnuvegur og alveg sjálfsagt að fái sitt svigrúm.

Ég tel að sveitarfélögin og heimaaðilar eigi að hafa meira um það að segja hvernig farið er að hvað varðar vernd, vörslu og nýtingu lífríkisins og þeirra auðlinda sem felast í fuglum, til annars en að skjóta þá til matar, en að sá möguleiki fá líka sinn sess innan skipulagsins.



[17:56]
Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Hér er til umræðu frumvarp frá hæstv. umhverfisráðherra um rjúpuna. Af því tilefni langar mig aðeins að líta yfir farinn veg í því sambandi þar sem ég átti á sínum tíma þátt í því að taka afdrifaríka ákvörðun varðandi rjúpnaveiðar.

Fyrir nokkuð stuttu var alveg ljóst að veiðar á rjúpu voru ekki sjálfbærar. Stofninn var að vaxa um 20%–25% milli ára, en átti að vera að vaxa um 50% á milli ára. Hinar svokölluðu eðlilegu sveiflur voru því að jafnast út í stofninum. Hann sveiflast með reglulegu millibili, vex og minnkar á víxl, en sveiflurnar voru að jafnast út.

Við Íslendingar höfum alltaf haldið því á lofti að stunda beri veiðar á sjálfbæran hátt. Þar hafa fiskstofnarnir oftast verið nefndir. Við höfum líka nefnt hvalinn, sérstaklega þegar við höfum verið að rökræða við erlenda aðila sem telja að það eigi ekki að veiða hval. Þá höfum við bent á það t.d. að við Íslandsstrendur eða í Norður-Atlantshafi eru 70 þús. hrefnur, þannig að það er hægt að veiða úr þeim stofni á mjög sjálfbæran hátt. Þetta hefur líka átt við um rjúpnastofninn. Það var alveg ljóst að okkar færustu fuglafræðingar á Náttúrufræðistofnun Íslands höfðu fylgst með rjúpnastofninum og sáu hvað átti sér stað í sveiflunum og þeir ráðlögðu árið 2003 að við skyldum ekki veiða í fimm ár, það ætti að friða rjúpuna í fimm ár gagnvart veiðum með endurskoðunarákvæði og skoða málið að þremur árum liðnum en helst að friða í fimm ár. Það var sem sagt ákveðið og ég tók þá ákvörðun að friða rjúpuna í þrjú ár. Þetta er árið 2003. Að sjálfsögðu hlustar maður á sérfræðinga Náttúrufræðistofnunar Íslands. Það var á sínum tíma pólitísk ábyrgð mín að grípa til aðgerða til friðunar og annað hefði verið mjög óábyrgt og óréttlætanlegt að mínu mati.

Á þessum tíma var mjög ómaklega vegið að sérfræðingum Náttúrufræðistofnunar Íslands, fuglafræðingunum þar. Rannsóknir þeirra voru gerðar tortryggilegar og ýmis orð féllu sem betur hefðu mátt kyrr liggja. Þetta er orðin saga í dag, en mér finnst eðlilegt að rifja þetta upp af því að það var virkilega ómaklega vegið að fuglafræðingunum.

Áður en til kom að friða rjúpuna var alveg ljóst að það gæti komið til þess að við þyrftum að bregðast við, rannsóknir sýndu það.

Því var lagt til á sínum tíma að grípa til sölubanns á rjúpu. Sú er hér stendur flutti slíkt mál í þinginu sem átti að vera tímabundið sölubann til fimm ára til að reyna að hemja þessar miklu veiðar. Þetta sölubann átti að sjálfsögðu aðallega að beinast að svokölluðum magnveiðimönnum, en það eru þeir veiðimenn sem veiða mjög mikið magn rjúpna. Segja má að 10% veiðimanna séu magnveiðimenn, en þessi 10% veiðimanna veiða um helming allra veiddra rjúpna. Það þótti því og þykir mjög æskilegt að geta gripið til sölubanns til að geta vonandi hamið þessa magnveiðimenn. Það er ekki eins mikill hvati ef þeir geta ekki selt bráðina.

Ég vil, virðulegi forseti, rifja það upp að Skotvís, þau ágætu samtök skotveiðimanna, með Sigmar G. Hauksson formann í broddi fylkingar studdu þetta mjög eindregið, þ.e. sölubann á rjúpu.

En það fór nú ekki þannig að þingið samþykkti slíkt sölubann. Málið fór til umhverfisnefndar og því miður vil ég segja sameinuðust þar bæði stjórnarsinnar og stjórnarandstaðan um að hafna sölubanninu. 13. mars 2003 var því hafnað hér á Alþingi að grípa til sölubanns. Í staðinn átti ráðherra að grípa til þeirra aðgerða sem honum voru færar. Það var gert með því að friða rjúpuna.

Árið 2003 var ákveðið að friða rjúpuna til þriggja ára og skoða svo málið aftur, setja málið í nefnd til að vinna að hugmyndum um hvernig væri hægt að hafa nýtt veiðistjórnarkerfi þegar veiðar hæfust aftur og allt það starf fór í gang. Það var vissulega uppi mikil andstaða í samfélaginu hjá skotveiðimönnum við slíkar hugmyndir, mörgum þeirra, ekki öllum. Sumir studdu þetta og höfðu mikinn skilning á því að það þyrfti að friða rjúpuna um tíma til að geta veitt hana til langs tíma og þyrfti því að friða til skamms tíma. Það eru 12–13 þúsund manns á Íslandi sem stunda skotveiðar og það eru u.þ.b. 5 þúsund sem ganga til rjúpna, þannig að auðvitað er þetta hópur sem fylgdist með þessu og ekki voru allir sáttir við friðunina. Það er skiljanlegt að mörgu leyti því að alltaf er erfitt að þurfa að banna fólki að gera eitthvað sem því þykir mjög skemmtilegt og er sterkur hluti af menningu þess. Rjúpnaveiðar er mjög sterkur hluti af okkar menningu hjá mjög mörgum.

Mjög athyglisvert var að þegar búið var að ákveða af minni hálfu að banna rjúpnaveiðar kaus einn hv. þingmaður, hv. þm. Gunnar Birgisson, sem sat í umhverfisnefnd að skrifa í blaðagrein í Morgunblaðinu að hann væri mjög mikið á móti rjúpnaveiðibanninu, en þó væri hann enn þá meira á móti sölubanninu. Það verður því spennandi að sjá hvernig atkvæðagreiðslur fara hér seinna á þinginu fari þetta mál í gegnum umhverfisnefnd.

Í október 2003, eftir að búið var að ákveða þetta bann, kom þingsályktun á borð þingmanna frá 18 þingmönnum, sem á þeim tíma ég frétti af úti í bæ en það hefur nú yfirleitt tíðkast að hæstv. ráðherrar séu upplýstir um slíkar þingsályktanir, sérstaklega ef stjórnarþingmenn flytja þær, þá er það nú yfirleitt upplýst í aðdragandanum gagnvart ráðherrunum. Það var ekki gert að þessu sinni og í þeirri þingsályktunartillögu 18 þingmanna var m.a. tvennt lagt til grundvallar, þ.e. ráðherrann átti að grípa til sölubanns og ráðherrann átti að nota kvóta eða setja hámarksveiði á hvern veiðimann ef þyrfti. Þessir 18 hv. þingmenn vildu sem sagt að ráðherra gæti gripið til sölubanns og notað kvóta. Ráðherrann hafði enga lagaheimild til þess, hvorki til að setja sölubann á — nú er verið að biðja um slíka lagaheimild með þessu frumvarpi — né hafði ráðherrann lagaheimildir til að setja á kvóta. Þessi þingsályktunartillaga var því með ólíkindum, að biðja ráðherra um að gera eitthvað sem hann hafði engar heimildir til og eiginlega ótrúlegt að slík þingsályktunartillaga hafi verið samin af þingmönnum sem hafa þingreynslu.

Staðan núna er sú að stofninn hefur rétt verulega úr sér og ráðherra hefur kosið að koma hingað inn með þetta mál aftur, núverandi hæstv. umhverfisráðherra. Þar er einmitt verið að styðjast við margumtalað sölubann sem ég fagna mjög að skuli koma hér inn aftur. Ég tel að víðtæk sátt geti skapast um það þótt umhverfisnefndin hafi hafnað því á sínum tíma, en ég trúi ekki öðru en menn sjái að sér í því og samþykki þá aðferð að þessu sinni.

Ég vil leyfa mér að spyrja aðeins út í þrjú atriði. Það er í fyrsta lagi að spyrja hæstv. umhverfisráðherra hvort sá skilningur sé ekki alveg réttur vegna þess sem kemur fram á bls. 3, en þar segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Í frumvarpi þessu eru ekki lagðar til breytingar á upphafi og endi veiðitíma, enda verður að líta svo á að tiltölulega góð sátt sé um veiðitímann.“

Af þessu tilefni vil ég spyrja hvort það sé ekki alveg réttur skilningur að þótt þetta frumvarp verði samþykkt hafi ráðherra áfram allar heimildir til að stytta veiðitímann í báða enda. Meðan þessi umræða stóð sem hæst voru fjölmargir veiðimenn á þeirri skoðun að stytta ætti veiðitímann í staðinn fyrir að banna veiðarnar, og stytta veiðitímann verulega. Ég vona að það sé réttur skilningur minn — ég sé að ráðherra nikkar hér — að hæstv. ráðherra geti stytt veiðitímann hvort sem er í fremri endann eða aftari endann, þó að þetta komi hérna fram á bls. 3 í frumvarpinu.

Síðan langar mig líka að spyrja um verndarsvæðin. Á sínum tíma þegar við vorum að skoða hvað væri hægt að gera voru mörg atriði tínd til. Það var sölubann á rjúpu. Það var að setja upp nokkur verndarsvæði eða uppeldisstöðvar þar sem ekki mætti skjóta rjúpu á. Þetta hefur verið gert í Noregi skilst mér með mjög góðum árangri. Rætt var um kvóta og um veiðihundana, hvort þeir væru til bóta eða ekki. Það var rætt um skotvopn, einhleypur eða tvíhleypur, um styttingu veiðitíma, dagalokanir, ref og mink. Alls konar hugmyndir voru ræddar. Það hefði því verið ágætt að vita meira um það hvort einhver vinna sé í gangi í umhverfisráðuneytinu varðandi þessi verndarsvæði, þessar uppeldisstöðvar, hvort við getum séð það í framtíðinni að einhver slík svæði verði til þar sem verði algerlega bannað að skjóta.

Í þriðja lagi, virðulegi forseti, hefði ég áhuga á að heyra um það sem kemur fram í 3. gr. í frumvarpinu, en þar segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Umhverfisráðherra er heimilt með reglugerð, þegar friðun einstakra fuglategunda er aflétt í samræmi við ákvæði 17. gr., að banna sölu á þeim fuglum og afurðum þeirra, enda sé talin hætta á að viðkomandi stofn þoli ekki ótakmarkaða veiði innan leyfilegs veiðitímabils.“

Það er alveg ljóst að hér er verið að opna heimild til sölubanns á fleiri fuglum en bara rjúpu, sem ég tel að sé mjög snjallt að gera í staðinn fyrir að þurfa alltaf að koma hérna aftur og aftur og biðja um heimild til sölubanns á öðrum tegundum. Ég sé ástæðu til þess, virðulegi forseti, að spyrja ráðherra hvort til greina komi að setja líka sölubann á grágæs. Árið 2000 var grágæsin sett á válista af því að þá hafði henni fækkað um meira en 20% næstu tíu árin þar á undan. Fyrir nokkru var árleg veiði 35–40 þúsund grágæsir úr stofni sem var um 76 þúsund fuglar. Veiðin hefur líklega eitthvað aukist núna eftir að rjúpan var friðuð. Því er ástæða til að spyrja ráðherra hvort líklegt sé að sölubann verði líka sett á grágæsina í leiðinni þegar sölubannið verður sett á rjúpuna.

Mig langar einnig að vita hvort ekki sé öruggt eða mjög líklegt — það væri ágætt ef ráðherra gæti kveðið upp úr um það nú — að sett verði sölubann. Nú er heimildin að koma ef þetta verður samþykkt. Verður hún ekki örugglega nýtt?

Þetta eru því spurningar mínar, virðulegi forseti:

Er sá skilningur ekki réttur að hægt sé að stytta veiðitímann? Er verið að vinna eitthvað að þessum verndarsvæðum, eða er búið að slá það út af borðinu? Og hvort ekki sé öruggt eða mjög líklegt að gripið verði til sölubanns á rjúpu og jafnvel á grágæs líka í ljósi þess að stofninn þar hefur verið veikur. Heiðagæsastofninn er mjög sterkur, yfir 200 þúsund fuglar og það væri mjög gott ef veiðimenn færu frekar í heiðagæsastofninn en í grágæsastofninn eins og staðan er í dag.



[18:11]
Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir fór í gegnum söguna. Það er þá ágætt að ég rifji upp söguna kannski frá öðrum sjónarhóli og sjónarhóli eins og margir veiðimenn upplifðu þá sögu en það var á allt annan hátt.

Fyrst var farið fram á sölubann. Síðan var næsta skref þáverandi umhverfisráðherra eða Náttúrufræðistofnunar til að ná fram sama árangri og sölubann, fimm ára veiðibann. Það sjá náttúrlega allir að þetta er bara þvílík della. Síðan var einhver sátt um þriggja ára veiðibann sem núverandi hæstv. umhverfisráðherra er með þessu ágæta frumvarpi að lagfæra. Þetta er málflutningurinn. Það er sölubannið. Fyrst það náðist ekki í gegn er í einhverri gremju farið í fimm ára veiðibann til að ná fram sömu markmiðum. Þetta er náttúrlega með ólíkindum.

Þegar verið er að vitna í okkar færustu fuglafræðinga þá var það nú svo að ýmsir fuglafræðingar, m.a. Arnþór Garðarsson prófessor, voru gáttaðir á þessu veiðibanni. Enda er nú verið að endurskoða það, þetta þriggja ára veiðibann.

Það er annað. Þegar verið er að tala um að menn tortryggi Náttúrufræðistofnun — vísindi ganga náttúrlega út á gagnrýna hugsun og tekist er á um sjónarmið. Það er eðlilegur hlutur að vinnubrögð séu gagnrýnd eins og þegar Náttúrufræðistofnun er með línurit þar sem hún reiknar út rjúpnastofninn, ekki eitt ár fram í tímann, ekki tvö og ekki fimm, heldur heil 40 ár fram í tímann. Það ættu allir að sjá að þetta stenst ekki.



[18:13]
Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og ég rifjaði upp áðan vildi ég á sínum tíma, Skotvís og afar margir fá sölubann. Það mál var flutt í þinginu, sama mál sem er verið að flytja eiginlega núna. Því var hafnað af þinginu, þannig að það var ekki hægt að nota neitt sölubann. (Gripið fram í.) Meiningin var þá að reyna að hemja magnveiðimennina með sölubanninu. Einnig kom í ljós að stofninn var slakur. Hann var svo slakur, hann var svo rosalega slakur að okkar færustu fuglasérfræðingar sem vinna á Náttúrufræðistofnun, í stjórnsýslu okkar, ráðlögðu fimm ára veiðibann með endurskoðunarákvæði eftir þrjú ár. Það var mitt val af því að ég bar þá pólitíska ábyrgð á rjúpnastofninum. Það var mitt val að hlusta á þessa færustu fuglasérfræðinga landsins og ákvað veiðibann til þriggja ára. Það hefði verið hægt að framlengja því ef þörf hefði verið á um tvö ár, þá hefði veiðibann verið í fimm ár.

Núna er ljóst að stofninn hefur verið að rétta verulega úr sér. Með því að fara þá leið sem hér er lögð til, þ.e. að fá loksins þetta sölubann — það verður gaman að sjá þegar þingmenn greiða atkvæði um það — og að geta gripið til fleiri aðgerða sem hafa verið nefndar, dagalokanir o.s.frv., þá er það von núverandi hæstv. umhverfisráðherra að hægt verði að hafa veiðarnar með sjálfbærum hætti. Ég held að allir ættu að fagna því. Og það var mjög ómaklega vegið að sérfræðingum Náttúrufræðistofnunar á sínum tíma, og ég heyri að hv. þingmaður er nánast að fara í sama leik aftur, en þeir hafa staðið sig vel og verið með öflugar rannsóknir og góða ráðgjöf.



[18:15]
Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að ég verði að upplýsa það enn og aftur að lágmark stofnsins 2003 var ekki marktækt lægri en fyrri lágmörk stofnsins. Það eru bara staðreyndir. Deilurnar snerust aðallega um það haustið 2003 hvort ekki væri hægt að ná fram markmiðunum með vægari úrræðum í staðinn fyrir að fara í þriggja ára veiðibann. Það var það sem deilurnar snerust um.



[18:16]
Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það verður ekki undan því flúið að viðurkenna að stofninn stóð svo illa á þessum tíma að okkar mati … (SigurjÞ: … ekki verr en hann var áður.) og öll sókn gjörbreytt. Hv. þingmaður veit að fólk er löngu hætt almennt að ganga til rjúpna. Við erum með allt önnur tæki í dag, komumst yfir miklu meira svæði. Það er ekki sambærilegt hvernig veiðarnar voru fyrir tveimur árum og fyrir 10 árum, það er bara ekki sambærilegt. Það hefur stórbreyst. Fleiri veiðimenn komast yfir miklu stærra svæði, eru líklega með öflugri vopn og sumir hafa hunda. Einhverjir telja þá mjög slæma gagnvart veiðunum, menn veiði meira en aðrir segja að það sé vitleysa. Ég veit ekki nákvæmlega hvað er rétt í því. En það var alveg ljóst að okkar færustu fuglasérfræðingar á Náttúrufræðistofnun Íslands ráðlögðu í ljósi þess hvað stofninn var slakur, sveiflurnar að sléttast út og veiðarnar ekki sjálfbærar, fimm ára veiðibann.

Það var að sjálfsögðu mín pólitíska ábyrgð á þeim tíma að grípa til þess. Þeir ráðlögðu ekki einhver vægari úrræði. Þeir ráðlögðu fimm ára algjört veiðibann (Gripið fram í.) með endurskoðun eftir þrjú ár. Að sjálfsögðu tók ég sem ábyrgur ráðherra á þeim tíma mark á þessum sérfræðingum. Núna verður sölubannið vonandi samþykkt, hugsanlega gripið til fleiri takmarkana sem líklega er ástæða til og menn geta þá hafið veiðar og tryggt að þær séu sjálfbærar. Aðalatriðið er að við getum veitt rjúpu til langs tíma án þess að fara þannig með stofninn að það þurfi að friða hann alltaf inn á milli. Ég teldi það vera skaða ef við þyrftum að friða hann alltaf inn á milli.



[18:18]Útbýting:

[18:19]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Við erum að ræða frumvarp til laga um breytingu á lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, með síðari breytingum.

Ég hef nokkuð fylgst með þessari umræðu úr fjarlægð enda hefur hún verið tiltölulega hávær í þjóðfélaginu um langan tíma, sérstaklega hvað varðar veiðar á rjúpu en einnig hvað varðar veiðar á öndum, ekki síst eftir að það kvisaðist út í þjóðfélagið að hv. þingmaður og forseti Alþingis, Halldór Blöndal, hygðist leggja fram frumvarp um friðun á einum sjö andartegundum yfir háveturinn, þ.e. að veiði yrði einungis leyfð frá 1. september til 31. desember. Núna er heimilt að veiða þessar endur frá 1. september til 31. mars.

Ég vil fá að lýsa því yfir, frú forseti, að mér líst ágætlega á það frumvarp sem hér er til umræðu þó að ég hafi vissulega nokkrar athugasemdir við það. Mér hugnast ágætlega að hér sé verið að veita heimild til að setja lög sem þá framkvæmdarvaldið, umhverfisráðuneytið, getur beitt fyrir sig til að stjórna veiðum úr fuglastofnum, með tilteknum takmörkunum sem varða sóknargetu einstakra veiðimanna, ef svo má segja. Hér er til að mynda tekið á atriðum hvað varðar notkun farartækja um veiðilendur. Þetta er í sjálfu sér hið besta mál. Kannski er heimild fyrir því í lögunum eins og þau eru í dag en ég hefði gjarnan viljað sjá möguleika til að stýra sókninni í ákveðnar fuglategundir með fleiri breytum, ef svo má segja, til að mynda með notkun þeirra vopna sem menn bera og hafa leyfi til að nota á hverjum tíma, notkun veiðihunda og öðru þess háttar sem á sinn hátt getur aukið afkastagetu veiðimannanna.

Ég hef enga trú á því að menn ætli sér í framtíðinni hér á landi að reyna að stjórna fuglaveiðum með kvótasetningum. Ég tel reyndar að það geti verið mjög varhugavert af mörgum ástæðum. Ein ástæðan er sú að ef menn setja kvóta á veiðar, til að mynda á rjúpu, mun það leiða til þess að svokallaðar svartar veiðar færast í aukana, þ.e. menn munu reyna að smygla veiðinni fram hjá eftirliti, telji ekki veiðina fram. Það er mjög skaðlegt fyrir alla veiðistjórn vegna þess að það leiðir þá til þess að við vanmetum veiðiálagið og þar af leiðandi ruglast öll stjórn á veiðunum. Það er mjög alvarlegt mál. Ég hygg að það sé miklu skynsamlegra að reyna að takmarka sóknargetuna, t.d. eins og gert er hér með farartækjum, vopnum og öðru þess háttar, takmarka vopnanotkun, verkfæranotkun við veiðarnar og hvetja síðan veiðimenn til að telja fram það sem þeir veiða á hverjum tíma og hvar fuglarnir eru veiddir.

Ef við óttumst að gengið sé of nærri einhverjum ákveðnum stofnum má beita viðurkenndum aðferðum, t.d. þeirri að friða ákveðin svæði. Ekki er nefndur sá möguleiki í því frumvarpi sem hér liggur fyrir en mér skilst reyndar að í núverandi lögum séu ákvæði sem eigi jafnvel að duga þannig að umhverfisráðherra geti til viðbótar því sem hér er dregið fram beitt svæðafriðunum.

Hv. þm. Halldór Blöndal lagði til í ræðu sinni áðan þar sem hann var að tala um endurnar að við skoðuðum það mjög vandlega að friða ákveðin svæði, dvalarsvæði eða griðasvæði sem endur notfæra sér yfir veturinn, þ.e. ákveðin vatnasvæði. Ég tel það mjög góða hugmynd. Ég held að þetta sé rétt aðferð til að reyna að hlífa öndum við því að verið sé að veiða jafnvel viðkvæma stofna yfir hávetrartímann. Ég er í sjálfu sér sammála mjög mörgu af því sem hv. þm. Halldór Blöndal hefur verið að segja varðandi friðun á fuglum. Þetta er að sjálfsögðu tilfinningamál og háð gildismati hvers og eins. Sum okkar aðhyllast veiðar og njóta þess að stunda þær. Ég hef fullan skilning á þeim sjónarmiðum en er hins vegar sjálfur ekki veiðimaður og stunda ekki skotveiðar. Ég vil frekar njóta en skjóta. Það er mitt persónulega gildismat. Ég vil gjarnan sjá að fuglarnir séu látnir í friði svo að ég fái notið þeirra úti í náttúrunni. Á hinn bóginn, eins og ég segi, virði ég fyllilega það sjónarmið að sumir vilji stunda veiðar. Kannski er ekkert við því að segja. Ég hygg að þegar upp er staðið hafi veiðar sjaldnast mikil áhrif á þessa stofna. Náttúrulegar sveiflur eru eðlilegar í villtum dýrastofnum og náttúruleg dánartíðni, áföll af náttúrulegum orsökum, er oftast miklu afdrifaríkari fyrir stofnana en veiðar okkar mannanna. Við erum oft og tíðum að veiða fugla að hausti til sem hvort eð er mundu drepast af náttúrulegum orsökum um veturinn.

Í frumvarpinu er ákvæði um bann við sölu á veiðifangi. Ég verð að viðurkenna að ég er hálfskeptískur á nauðsyn þess að banna sölu á fuglum. Það er jú búið að veiða þessa fugla, það er búið að aflífa þá og mér finnst ekki skipta miklu máli hvort einhverjir hafi áhuga á því að selja þá eða ekki. Ég var að hugsa með sjálfum mér hvort ekki fælist í þessu sölubanni tilræði við 75. gr. stjórnarskrárinnar sem kveður á um atvinnufrelsi. Sú grein hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Öllum er frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa. Þessu frelsi má þó setja skorður með lögum, enda krefjist almannahagsmunir þess.“

Ég fæ í raun og veru ekki séð að almannahagsmunir krefjist þess að mönnum sé bannað að koma í verð fuglum sem þeir hafa veitt með annars lögmætum hætti. Mér finnst satt best að segja þetta ákvæði alveg fáránlegt, a.m.k. þar til ég fæ heyrt almennileg rök fyrir því. Það er talað um að þetta ákvæði sé sett til að koma í veg fyrir svokallaða magnveiði, að menn gangi nánast af göflunum, skjóti allt sem fyrir verður og sanki að sér miklu meira af fugli en þeir sjálfir nái nokkurn tíma að torga. Það má vel vera, frú forseti, að þær aðstæður geti komið upp í einhverjum undantekningartilfellum. Ef lagaumhverfið er með þeim hætti að við fáum góðar tölur yfir veiði á hverjum tíma, að veiðimenn sjálfir skrái samviskusamlega það sem þeir veiða og hvar þeir veiða það hverjum tíma hygg ég að hægt sé að bregðast við með friðunarákvæðum ef við teljum að of nærri sé gengið stofnum með veiðum, til að mynda þá með áðurgreindum sóknartakmörkunum, þ.e. að takmarka notkun þeirra verkfæra sem notuð eru við veiðarnar eða hreinlega að friða svæði, annaðhvort allt árið eða á vissum árstímum. Þetta ætti fyllilega að duga til að tryggja það að veiðar séu stundaðar með sjálfbærum hætti.

Þar fyrir utan hef ég í sjálfu sér ekki mikið við þetta frumvarp að athuga. Ég tók eftir því áðan að hv. formaður umhverfisnefndar Alþingis, hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, sat í þingsal og tók glósur af mikilli elju á meðan hv. þingmaður og samflokksmaður hans Halldór Blöndal var í ræðustól. Það er náttúrlega til fyrirmyndar að formenn þingnefnda sem iðulega eru stjórnarþingmenn séu í þingsal þegar verið er að ræða mál sem varða nefndir þeirra. Því miður, virðulegi forseti, hefur allt of mikið borið á því að formenn þingnefnda láti ekki sjá sig í þingsal þegar verið er að ræða mál sem varða þá málaflokka sem tilheyra nefndum þeirra. Þetta atferli hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar tel ég, virðulegi forseti, vera til mikillar fyrirmyndar og ég vona að hér verði bót á í framtíðinni þannig að nefndarformenn sjái sóma sinn í því að mæta í þingsal þegar verið er að ræða þau mál sem tilheyra nefndum þeirra.

Það hryggir mig hins vegar að ég varð vitni að því áðan að hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson hvarf úr þingsalnum um leið og hv. þm. Halldór Blöndal hafði lokið máli sínu. Hann er samt vonandi enn að hlusta og fylgjast með umræðum annars staðar. Sem betur fer geta þingmenn fylgst með umræðum í þingsal í gegnum sjónvarpstæki víðs vegar í þinghúsinu og á skrifstofum sínum og ég vona að hv. formaður umhverfisnefndar taki athugasemdir mínar til athugunar. Ég veit að hann er mikill maður frelsisins, frelsis til orða og athafna, ekki hvað síst þegar fólk er að afla sér lífsviðurværis. Hann hlýtur að vera svo hlynntur því að fólk fái að stunda atvinnu sína að hann taki til gaumgæfilegrar athugunar þetta með sölubannið. Eins og ég sagði áðan, virðulegi forseti, tel ég koma vel til álita að einmitt það ákvæði brjóti í bága við ákvæði stjórnarskrárinnar. Ekki viljum við brjóta gegn þeim ákvæðum, svo mikið er víst.



[18:31]
umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Ég þakka mjög góða og málefnalega umræðu sem hefur farið fram. Það er alveg ljóst að málið hreyfir við mörgum hv. þingmönnum og þeir hafa gert mörg ákvæði laganna að umtalsefni sem ekki er verið að breyta með frumvarpinu. Það er því ljóst að þingmönnum er mjög umhugað um fuglalíf hér á landi.

Ég vil benda sérstaklega á að sl. vor var til umfjöllunar á þinginu náttúruverndaráætlun fyrir árin 2004–2008, sú fyrsta sinnar tegundar. Í þá áætlun var einmitt verið að festa friðun búsvæða fugla sem ég tel vera mjög merkilegar tillögur.

Markmiðið með frumvarpinu er fyrst og fremst að tryggja að rjúpnaveiðar verði sjálfbærar og að ekki verði gengið á rjúpnastofninn með veiðum. Ég geri mér hins vegar grein fyrir því að um svokallað sölubann geta verið skiptar skoðanir og ýmsir þingmenn hafa lýst efasemdum um það. En hvað snertir atvinnufrelsi stjórnarskrárinnar sem hv. síðasti ræðumaður nefndi tel ég algerlega ljóst að það eru almannahagsmunir í húfi að við getum áfram haft þennan ágæta fugl í landinu og nytjað hann með skynsamlegum hætti og að við gætum þess að rjúpan sé ekki í útrýmingarhættu. Það er það sem verið er að gera með frumvarpinu.

Menn mega t.d. ekki skjóta örn þó hann gangi í varp t.d. hjá æðarbændum, svo við reisum ýmsar skorður þegar almannahagsmunir eru í húfi hvað snertir veiðar á villtum fuglum.

Margar góðar ábendingar hafa komið fram við umræðuna sem ég veit að hv. umhverfisnefnd mun taka til skoðunar og ég treysti því að þar verði málið skoðað mjög grannt. Mér þykir líka mjög gott að finna að sú sáttatillaga sem felst í því að setja strangari reglur um veiðarnar og að það megi, ef talning á rjúpunni gefur tilefni til í sumar, aflétta friðun næsta haust. Mér þykir gott að heyra að það sé þokkaleg sátt um það þó auðvitað hafi líka komið þingmenn í ræðustól í dag og lýst því að þeir vildu hafa friðunina í þrjú ár.

Spurt var um veiðitímann og það er hárréttur skilningur að það verður auðvitað áfram þannig að ráðherra getur takmarkað veiðitímann eins og er í 17. gr. laganna. Varðandi verndarsvæðin, og þá vísa ég í 18. gr. gildandi laga, er rjúpnanefndin að vinna tillögur áfram um griðlönd og svæðisbundna friðun og þeim verður væntanlega skilað í vor. Mjög margir hafa rætt sölubannið og það er alveg hárréttur skilningur að heimildinni er ætlað að gilda yfir veiðar á öllum villtum fuglum þannig að það er ekki eingöngu um það að ræða að verið sé að veita heimild til sölubanns á rjúpum.

Hvað snertir grágæsina sem var nefnd fyrr í dag þá hefur engin tillaga komið inn á mitt borð um að setja sölubann á grágæs og engin slík áform eru uppi. En ég mun nota sölubannsheimildina á rjúpu ef frumvarpið verður að lögum í vor og veiðarnar hefjast í haust.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa orðin fleiri en ítreka þakkir mínar til þingmanna fyrir mjög góðar umræður.



[18:36]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi sölubannið tel ég, eins og ég vona að hafi komið skýrt fram í máli mínu áðan, að það sé óþarfi og markleysa. Ég á mjög erfitt með að sjá fyrir mér að þær aðstæður komi upp að veiðimenn á einhverjum tíma muni geta sett í gang svo stórkostlegar magnveiðar sem kallað er sér til efnahagslegs ávinnings að slíkar veiðar mundu setja tiltekna stofna í hættu og ógna almannahagsmunum. Við verðum að vanda okkur þegar við setjum lög sem ég tel í þessu tilfelli að skerði atvinnufrelsi og við eigum að forðast að setja einhver ákvæði í lög sem eru kannski óþarfi. Ég tel að hægt væri að koma í veg fyrir slíka magnveiði ef lögin væru með þeim hætti að veiðimenn sæju enga ástæðu til að falsa veiðitölur sér til hagsbóta heldur teldu fram það sem þeir veiddu. Stjórnvöld gætu þá gripið inn með aðgerðir ef þau teldu að stofninum væri á einhvern hátt ógnað, til að mynda með svæðafriðunum í nokkra mánuði eða jafnvel lengri tíma eða þá aðrar aðgerðir t.d. hvað varðar þau tæki og tól sem notuð eru við veiðarnar. Þetta ætti alveg að duga.

Við megum ekki vera of áköf í því að setja frelsi fólks takmörk og ég tel að sölubannið sé alger óþarfi frá friðunarlegum sjónarmiðum séð.



[18:39]
umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Sölubanni hefur verið beitt erlendis með góðum árangri og við erum auðvitað ekki að finna upp hjólið hvað þetta snertir. Við erum að líta til reynslu annarra þjóða og staðreyndin er sú að hér á landi veiddu svokallaðir magnveiðimenn, sem eru um 10% af rjúpnaveiðimönnum, helming af þeirri rjúpu sem veidd var. Það er því alveg ljóst að það þurfti að ná til magnveiðimannanna og svo ég vísi beint í 3. gr. segir þar, með leyfi forseta:

„Umhverfisráðherra er heimilt með reglugerð, þegar friðun einstakra fuglategunda er aflétt í samræmi við ákvæði 17. gr., að banna sölu á þeim fuglum og afurðum þeirra, enda sé talin hætta á að viðkomandi stofn þoli ekki ótakmarkaða veiði innan leyfilegs veiðitímabils.“

Þetta segir allt sem segja þarf. Og að sjálfsögðu ber að nýta slíkar heimildir af hófsemd og skynsemi.



[18:40]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vona að enginn misskilji orð mín með þeim hætti að ég sé að reyna að mæla því bót að það sé engin stjórn á veiðum, alls ekki. Ég hef einmitt mikinn áhuga á því að það sé stjórn á veiðunum og að reglur séu virtar á hverjum tíma, en mér finnst að það eigi að setja reglurnar af ákveðinni sanngirni. Hér var verið að tala um magnveiðimenn, að magnveiðimenn hafi veitt svo og svo mikið af rjúpu þegar veiðar voru algerlega frjálsar ef svo má segja. Það mætti hugsa sér að komið yrði í veg fyrir slíka magnveiði að verulegum hluta, t.d. með því að úthluta hverjum og einum veiðimanni ákveðið marga daga sem hann gæti notað til veiða á tilteknum veiðitímabilum, mánuðum eða eitthvað þess háttar. Það eru til ótal útfærsluaðferðir til þess að stýra veiðum. Það er hægt að finna upp á mörgu þar. Eins og ég segi þá tel ég að það sé markleysa að setja á þetta sölubann.

Ég hygg að siðferðisstandardinn hjá veiðimönnum á Íslandi sé tiltölulega hár og að það séu ekki margir veiðimenn sem mundu misnota þær reglur sem yrðu settar, ég tala nú ekki um ef þær reglur eru sanngjarnar og skynsamlegar. Ég sé ekki skynsemina sem falin er í sölubanninu og tel að aðrar aðferðir væru miklu vænlegri til árangurs. Þetta er álitamál og ég hef í sjálfu sér skilning á því en ég hef sagt mína skoðun.



[18:42]
umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil taka það skýrt fram að rjúpnanefndin sem fékk það verkefni að semja frumvarpið fór mjög grannt ofan í allar hugsanlegar aðferðir til að stýra veiðunum. Það er alveg ljóst að þær tillögur sem hún skilaði til ráðherra eru uppistaðan í frumvarpinu. Ég tel að þær séu mjög skynsamlegar og vænlegar til árangurs til þess, sem er megintilgangurinn með frumvarpinu, að rjúpnaveiðar verði í framtíðinni sjálfbærar og það sé ekki gengið of nærri rjúpnastofninum. Ég tel að það hefði verið miklu harðari aðgerð að fara út í kvótabindingu á rjúpnaveiðunum og vil að það komi skýrt fram af minni hálfu, enda nefndi ég það í andsvari fyrr í dag.