141. löggjafarþing — 48. fundur
 6. desember 2012.
vörugjöld og tollalög, 1. umræða.
stjfrv., 473. mál (skilvirkari innheimta, álagning á matvörur o.fl.). — Þskj. 611.

[21:41]
fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um vörugjald og tollalögum. Í frumvarpinu er að finna umtalsverðar breytingar á almennu vörugjaldi hvað varðar framkvæmd við álagningu gjaldsins og þeim vöruflokkum sem bera vörugjald. Breytingar á tollalögum eru afleiddar af breytingum vegna vörugjalda.

Fyrst varðandi framkvæmdina. Samkvæmt gildandi lögum annast ríkisskattstjóri álagningu vörugjalds á innlendar framleiðsluvörur, auk skráninga og útgáfu vörugjaldsskírteina gagnvart þeim aðilum sem flytja inn vörur án vörugjalds eða fá það endurgreitt. Tollstjóri annast aftur á móti álagningu gjaldsins á innfluttar vörur auk innheimtu þess. Í frumvarpinu er hins vegar lagt til að álagning gjaldsins, bæði á innflutning og innlenda framleiðslu, verði á einni hendi, þ.e. hjá tollstjóra, og skráning og útgáfa vörugjaldsskírteina sömuleiðis. Með þessari breytingu er leitast við að skapa heildarsýn yfir alla þætti kerfisins samhliða meiri samræmingu í álagningu gjaldanna, auk þess að gera kerfið gagnsærra, bæði gagnvart gjaldendum og álagningaraðilanum.

Í frumvarpinu er sem fyrr segir að finna umtalsverðar breytingar á álagningu vörugjalda á einstaka vöruflokka, einkum þá matvæli. Þar er þó einnig að finna tillögur um að vörugjöld verði felld niður í nokkrum tilvikum af öðrum vöruflokkum en matvælum með það að markmiði að skapa aukið samræmi í álagningu gjaldanna. Þessar tillögur er í megindráttum að finna í skýrslu starfshóps sem hafði það hlutverk að fjalla heildstætt um álagningu vörugjalda á aðrar vörur en matvæli. Starfshópurinn lagði meðal annars til að vörugjald yrði fellt niður af smærri raftækjum til heimilisnota, svo sem samlokugrillum og hraðsuðukötlum, til samræmis við raftæki sem gegna svipuðu hlutverki en eru án vörugjalds í dag. Þarna er um að ræða verulega samræmingu á vörugjaldaflokkum þannig að sambærileg tæki beri sambærileg gjöld en ekki sé munur á brauðrist og samlokugrilli eins og verið hefur hingað til.

Jafnframt er lagt til að vörugjöld verði felld niður af varmadælum og öryggisbúnaði ökutækja.

Til samræmingar er einnig lagt til að vörugjöld verði sett á nuddbaðkör og nuddpotta en sambærilegar vörur án nudds bera í öllum tilvikum vörugjald.

Hvað varðar álagningu vörugjalda á matvæli er henni breytt þannig að hún verði í réttu hlutfalli við viðbættan sykur eða ígildi hans í sætuefnum.

Með þessu móti er leitast við að koma á hagrænum hvötum sem ætlað er að beina neyslu í átt til aukinnar hollustu með aukinni gjaldtöku á það efni sem æskilegt er að takmarka neyslu á. Um þetta hefur lengi verið rætt en lítið gert og nú er komin niðurstaða í það mál. Hingað til hefur álagning vörugjalda á matvæli ekki verið nægilega markviss. Gjöldin hafa til dæmis lagst af jafnmiklum þunga á gosdrykki og hreina ávaxtasafa, og sumar vörur með miklum viðbættum sykri hafa ekki borið vörugjald. Þarna hefur verið innbyrðis ósamræmi. Með samþykkt þessa frumvarps munu sykraðar mjólkurvörur og morgunkorn bera vörugjald í hlutfalli við sykurinnihald en það hafa þær ekki gert hingað til. Vörur sem ekki innihalda viðbættan sykur, svo sem hreinir ávaxtasafar og bragðbætt vatn, munu ekki bera vörugjald en það er lagt á þessar vörur nú. Þessar tillögur byggja á rannsóknum sem sýna að margir Íslendingar, og þá sérstaklega ungt fólk, neyta of mikils sykurs miðað við það sem æskilegt er talið. Jafnframt benda rannsóknir til þess að hægt sé að breyta neysluvenjum með hagrænum hvötum. Þörfin er brýn til þess að snúa af þeirri braut að meðal Norðurlandabúa er hæst hlutfall fólks sem þjáist af offitu hér á landi. Þá er tannheilsa íslenskra ungmenna mun lakari en hjá jafnöldrum þeirra annars staðar á Norðurlöndum.

Ein helsta forsenda þess að lagt er til að ekki sé gerður greinarmunur á sætuefni og sykri í álagningu vörugjaldsins er einmitt mikil notkun sætuefnanna í gosdrykkjum en þar er að finna mikilvægan orsakavald tannskemmda og gildir þá einu hvort gosið er með sykri eða sætuefni.

Þær tillögur sem er að finna í þessu frumvarpi eru einungis hluti af aðgerðum stjórnvalda til að hafa áhrif á bætta heilsu landsmanna. Stjórnvöld hafa verk að vinna í að beita jafnframt og samhliða öðrum aðferðum en hinum hagrænu til þess að auka meðvitund fólks um hlut holls mataræðis og aukinnar hreyfingar í þessum efnum.

Auk þeirra ákvæða sem þegar hefur verið gerð grein fyrir er í frumvarpinu kveðið á um að skil á vörugjaldi innlendra framleiðenda matvæla geti farið fram í gegnum kaup á vörugjaldsskyldum aðföngum í stað þess að vörugjald sé lagt á framleiðsluna sjálfa. Þannig geta innlendir framleiðendur losnað við skýrsluskil, rekstur tölvukerfa og annað umstang við skil á gjaldinu. Innflytjendum matvæla er jafnframt gert kleift að tilgreina á tollskýrslu nákvæmt hlutfall viðbætts sykurs eða sætuefnainnihald vöru og greiða gjald í samræmi við það. Þannig er innflytjendum og innlendum framleiðendum gert kleift að skila vörugjaldi í samræmi við hlutfall sykurs eða sætuefna í vörunni.

Frumvarpinu er ætlað að afla ríkissjóði 800–900 millj. kr. í tekjur umfram það sem vörugjöld gera nú og er það í samræmi við tekjuöflunaráform sem kynnt hafa verið í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2013. Er þá miðað við að sú aukning komi fram í hærri gjaldtöku á sykruð matvæli.

Lagt er til að frumvarpið taki gildi 1. mars á næsta ári til að gefa aðilum nægan tíma til að undirbúa ýmis tæknileg atriði þannig að framkvæmdin megi heppnast sem best.

Virðulegi forseti. Að þessu sögðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari.



[21:47]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna. Það verður nú að segjast að innihaldið er afskaplega rýrt og veldur gríðarlegum vonbrigðum. Það eru settir af stað starfshópar til að samræma þetta ótrúlega flókna kerfi og svo er bara sagt að starfshópur eitt hafi ekki lokið störfum og því fyrirsjáanlegt að áframhaldandi starf hans muni ekki leiða til sameiginlegrar niðurstöðu eða tillagna. Það er fullkomin uppgjöf.

Ég vil spyrja hvort ekki hafi hvarflað að hæstv. ráðherra og ríkisstjórn að líta aðeins til þess að 40% af skóm og fötum eru keypt erlendis, svo ég taki eitt dæmi. Hvarflaði ekki að þeim að kannski gangi að lækka vörugjöld og tolla af þeim vörum til að fá verslun til landsins? Úr því að menn fóru í þetta mundi ég telja að með því ætti að vera sérstakt markmið: Einföldun og að bæta samkeppnisstöðu íslenskrar verslunar.

Með núverandi kerfi búum við til vinnu í útlöndum. Mér er vel við útlendinga en vil frekar fá verslunina á Laugaveginn. Hvernig á að framkvæma þetta? Er það ekki valdaframsal til tollsins þegar miða á við að sætuefnið sé það sama og ef sykur væri notaður, varðandi skattlagninguna? Það er miðað við kíló á sykurinn og svo er sama niðurstaða með sætuefni. Mér sýnist það vera nokkuð mikið valdaframsal til embættismanna. Ég er ekki viss um að það standist. (Forseti hringir.)



[21:49]
fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég skil hv. þingmann og spurningar hans til mín snúa þær aðallega að því sem ekki er gert í þessari vinnu, þ.e. hvort menn hefðu átt að taka meira inn í þetta, eins og föt, skó og annað slíkt. Það rétt að það er ekki gert. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum auðvitað að reyna að hafa sem mesta verslun hér á landi. Ég er alveg til í einhverja frekari skoðun á því hvernig við getum örvað hana og breytt þeirri staðreynd að 40% af skóm og fatnaði eru keypt erlendis. Ég er ekki viss um að það sé eingöngu vörugjaldið sem hefur áhrif þar, því miður.

Frú forseti. Ég held að séum við komin með mjög góða niðurstöðu vegna þess að um það hefur verið deilt mjög lengi. Við höfum í mörg ár talað um að menn þurfi einhvern veginn að samræma tollaflokka og við gerum það með breytingunum á raftækjum. Eftir þær hættir að vera munur á milli þess hvort menn grilla samlokuna í flötu grilli eða rista hana lóðrétt. Við gerum fleiri mjög mikilvægar breytingar í frumvarpinu.

Ég tel líka að sú leið sem farin er varðandi sykurskattinn og álagninguna á honum sé sú réttlátasta gagnvart innlendri framleiðslu og innflutningi. Ég held að það sé það mikilvægasta í því öllu saman, að finna þarna réttláta leið þar sem eingöngu horft á hlutfall sykurmagns í vörunni. Það er gert þannig að þeir sem nota hana síðan í innlenda framleiðslu taka vörugjöldin með inn í aðföngunum. Það tel ég réttláta niðurstöðu og ég veit að lengi hefur verið kallað eftir þeirri jöfnun á samkeppnisstöðu.



[21:51]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil alls ekki gera lítið úr því að verið sé að samræma vörugjöld á brauðrist og samlokugrill en er verið að setja af stað tvo vinnuhópa til að ná þeirri niðurstöðu? Er málið ekki stærra en svo? Hvenær eigum við að skoða það? Er ekki 6. desember í dag? Eigum við að kanna samkeppnisstöðu íslenskrar verslunar núna í desember? Ég verð að viðurkenna að ég fyllist ekki ómældri gleði yfir því að verið sé að setja vörugjöld á nuddbaðkör og nuddpotta. Var farið í alla þessa vinnu til að ná þeirri niðurstöðu?

Ég spurði líka hæstv. ráðherra hvernig hún ætlar að framkvæma það að ná sömu skattlagningu á sætuefni og sykur. Sætuefni eru mismunandi, þau eru í örri þróun. Eiga tollayfirvöld að verða sérfræðingar í sætuefnum? Verður það einhver sérdeild hjá tollinum? Það er alveg ljóst að sykurskatturinn virðist ansi dýr í framkvæmd hjá hinu opinbera. Ég er með sér þingmál sem heitir Viðskiptastefna Íslands vegna þess að mér finnst ástandið fullkomlega óþolandi. Það er óþolandi að vera að skattleggja verslun út úr landinu. Auðvitað munu menn versla í útlöndum og það er hið besta mál, en hlutfallið er allt of hátt. Það er eitthvað að í gjalda-, tolla- og skattstefnu okkar þegar við erum með svona hátt hlutfall af ákveðnum vörum í útlöndum.

Búið er að setja tvo vinnuhópa af stað, eða réttara sagt hæstv. ráðherra, og þeir segja bara: Við komust ekki að neinni niðurstöðu. Ég spyr enn og aftur: Er það virkilega þannig að það eigi að vera sérfræðingar hjá tollinum sem finnur út skattlagningu á sætuefni eins og (Forseti hringir.) verið væri að nota sykur? Af hverju í ósköpunum var ekki tekið á stóru þáttunum í því máli?



[21:54]
fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Sú staða sem hv. þingmaður lýsir og kallar eftir að við leysum fyrir jólin 2012 er ekkert ný. (Gripið fram í.) Það hafa verið tollar og vörugjöld á öllum þeim vöruflokkum sem hv. þingmaður nefnir svo árum skiptir. (Gripið fram í: Nákvæmlega.) Hans flokksfélagar sem sátu í fjármálaráðuneytinu árum saman gerðu ekkert í því og svo kallar hv. þingmaður eftir að því sé reddað fyrir jól.

Við tökum stórstíg áfangaskref í breytingum á tollakerfinu. Við samræmum til dæmis innan smárra raftækja og innan baðkara, hvort þau erum með nuddkerfum eða ekki. Við afnemum tolla- og vörugjöld á varmadælum, á öryggisbúnaði í bifreið o.s.frv. Hv. þingmaður ætti ekki gera lítið úr því sem er verið að gera.

Sömuleiðis komum við með langþráðar breytingar á vörugjöldum þegar kemur að matvælum með sykurinnihaldi. (Gripið fram í.) Um það hefur verið deilt lengi. Við tökum út vörur sem hafa hingað til borið vörugjöld en eru ekki með sykri og setjum inn aðrar vörur sem eru með sykri en hafa ekki borið vörugjöld. Við erum þar með að samræma innbyrðis og fara réttlátustu leiðina við það sem er að horfa á hlutfallið. Ég held að hv. þingmaður snúi mikið út úr með því að ætla að við séum að setja upp eitthvert þungt og flókið embættismannakerfi í tengslum við þegar menn skilgreina hvað er hvað. (GÞÞ: Svarar ekki spurningunni.) Það er það sem ég er að segja, (GÞÞ: Nei.) að það sé ansi langt seilst í málflutningnum (Gripið fram í.) hjá hv. þingmanni.



[21:56]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla að byrja á því að hrósa því sem vel er gert og um það eru nokkur dæmi í þessu frumvarpi sem full ástæða er til að þakka fyrir. Það er jákvætt að verið sé að samræma og lækka gjöld á ákveðnar vörutegundir. Ég tek hins vegar undir með hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni um að auðvitað veldur það vonbrigðum að ekki sé um róttækari uppstokkun að ræða. Hæstv. fjármálaráðherra til upplýsingar erum við auðvitað ekki að tala um að eitthvað sé gert á nokkrum dögum núna í desember 2012 heldur að vekja athygli á því að verkefnið hefur verið fyrir augunum á okkur árum saman, alveg rétt sem hæstv. ráðherra segir um það. Hæstv. ráðherra hefur átt aðild að ríkisstjórn, eða hennar flokkur, um allmargra ára skeið og það veldur auðvitað vonbrigðum að ekkert hafi verið gert í þessum málum.

Síðustu breytingar sem einhverju skipta á vörugjaldakerfinu áttu sér stað skömmu eftir að núverandi ríkisstjórn tók við völdum sumarið 2009. Hvað var gert þá? Vörugjöld á fjöldamargar vörur voru hækkuð. Farið var í að snúa til baka vörugjaldabreytingu sem Sjálfstæðisflokkur og Samfylking höfðu staðið að skömmu áður. Öllu var snúið til verri vegar og gagnrýnt harkalega og síðan hefur ekkert gerst sem máli skiptir. Því miður, hæstv. forseti.

Þegar talað er um þá breytingu í heild á þeirri forsendu að þarna sé um að ræða jákvætt skref, réttlæti og annað, velti ég fyrir mér hvort hæstv. ráðherra sé þeirrar skoðunar að það sé (Forseti hringir.) réttlætismál að auka heildargjaldtökuna um 800–900 millj. kr. eins og þarna er gert, og hvort það komi ekki fram á öðrum stöðum í þjóðfélaginu, t.d. með hækkun á vísitölu.



[21:58]
fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður sagði: Ekkert hefur gerst á tímabilinu. Þá er hann líklega að vísa í undanfarin ár. Það hefur heilmikið gerst í íslensku þjóðfélagi og það gerðist heilmikið á þeim árum sem hv. þingmaður nefnir. Þessi ríkisstjórn tók við fordæmislausri stöðu í ríkissjóði með 216 milljarða gati á fjárlögum. Að sjálfsögðu var gripið til þeirra leiða sem hægt var til að loka því gati hratt þannig að hægt væri að stöðva skuldasöfnun ríkissjóðs og farið var í að breyta vöxtum og vaxtagreiðslum í velferð. Út á það hefur þetta allt gengið og það var þess vegna sem menn gripu til hækkana á ýmsum gjöldum. Ég tel að engin þeirra hafi farið fram úr hófi. Við fórum mjög hóflega og varlega í gjalda- og skattahækkanir enda hefur það sýnt sig að Ísland stendur nokkuð vel í samanburði við önnur ríki þegar kemur að því öllu saman og ég óttast ekki samanburð í þeim efnum.

Virðulegi forseti. Verkefnið okkar hefur gengið út á það og við sjáum loks til sólar í þeim efnum. Ríkisstjórninni er að takast að loka gatinu og þá er sjálfsagt og eðlilegt að við höldum áfram að vinna með vörugjöldin og reynum að tryggja að við séum sem samkeppnishæfust á því sviði.

Hér er nefnilega ekki bara verið að hækka gjöld. Ef menn lesa allt frumvarpið af sanngirni er verið að samræma, breyta og gera umbætur á vörugjaldakerfinu. Það er staðreynd málsins.



[22:00]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég geri þá ráð fyrir því að hæstv. fjármálaráðherra ætlist til að við metum það svo að það verði engin tekjuaukning fyrir ríkissjóð af þeim breytingum. Ef þetta eru bara umbætur og réttlæti og allt það, er engin tekjuaukning. Það er væntanlega til þess sem leikurinn er gerður, að halda því á sléttu, og ekki verið að auka tekjurnar sem ríkið fær í sinn hlut og neytendur borga. Auðvitað er ekki verið að því. Það er ekki verið að hækka vísitöluna sem meðal annars kemur fram í húsnæðisverðinu í landinu. Er það nokkuð, hæstv. fjármálaráðherra?

Þessi svokallaði sykurskattur, til hvaða fordæma var litið þegar sú skattlagning var ákveðin? Var kannski horft til Danmerkur þar sem skattlagning af því tagi hefur verið við lýði og menn eru í þann veginn að leggja hana niður?



[22:01]
fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður veit vel hvað ég er að tala um. Í aðra höndina erum við að gera almennar umbætur á kerfinu þar sem hlutirnir eru samræmdir. Menn mega heldur ekki gera lítið úr því. Við getum alveg haldið áfram með þá vinnu og ég er vel til í það eins og ég lýsti áðan.

Við stígum mikilvæg skref sem enginn hefur stigið árum saman í þessu kerfi og það er vel. Á hinn bóginn setjum við á svokallaðan sykurskatt sem lengi hefur verið rætt um og ég tel að um hann hafi ríkt þó nokkur sátt í þingsölum í gegnum árin. Menn hafa bara ekki fundið leiðina fyrr en nú. Ég tel að sú leið sem er farin í álagningu sykurskatts, til að reyna að stemma stigu við óhóflegri neyslu á sykri, sé sú besta sem hægt var að fara. Það gerum við með því — (Gripið fram í.) Hv. þingmaður vill kannski eiga við mig samtal á eftir ef ég fæ að klára ræðu mína. Það er auðvitað gert þannig að menn greiða eftir hlutfallslegu sykurinnihaldi vörunnar. Það hlýtur að vera réttlátasta leiðin. Það er það sem ég á við þegar ég tala um réttlátar leiðir í þeim efnum.

Ég held að um það mál eigi að geta ríkt þó nokkur samstaða í þinginu. Ég trúi því ekki að menn séu á móti því að við reynum að gera bragarbót á vörugjaldakerfinu. Ég trúi því ekki heldur fyrr en ég tek á því að menn séu ekki tilbúnir í þann leiðangur að leggja á sykurskatt eins og hér er gert.

Virðulegi forseti. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að ekki verði samstaða að fara þá leið.



[22:03]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Þeir sem hlustað hafa á umræðuna hafa kannski metið það þannig eftir ummæli hæstv. fjármálaráðherra að hér væri ekki um neina tekjuöflun að ræða. Ég vil þess vegna lesa beint upp úr frumvarpi hæstv. fjármálaráðherra. Þar segir á bls. 15, með leyfi forseta:

„Niðurstaðan er sú að á ársgrundvelli eru auknar tekjur ríkissjóðs af vörugjöldum á matvæli um 800 millj. kr.“

Það er augljóst flækjustig þarna sem er mjög mikilvægt að menn fái niðurstöðu í. Miðað við frumvarpið er gert ráð fyrir að kostnaður við breytingarnar, sem eiga að vera til einföldunar, verði 25 millj. kr. á hverju ári. Það er eins gott að menn einfölduðu það ekki meira, ég veit ekki hvar það hefði endað. Þá er ekki tekinn inn einskiptiskostnaðurinn upp á 10 millj. kr. sem kemur af breyttu tölvukerfi.

Ég vek athygli á því og við þurfum að skoða það betur, að gert er ráð fyrir því að þetta muni hækka vísitölu neysluverðs um 0,1%. Við erum komin þar með um 1,3 milljarða hækkun á lánum heimilanna. Svo er tóbaksgjaldið um 3 milljarðar þannig að við erum komin upp í 4,3 milljarða og erum því miður ekki enn hætt ef marka má þessi frumvörp.

Við skulum bara kalla hlutina réttum nöfnum. Þarna er þó einhver samræming á ferðinni og ekki vil ég gera lítið úr henni, en þegar maður les frumvarpið, þegar maður skoðar fréttatilkynningarnar og þegar settur er á fót starfshópur er óhætt að segja að það valdi miklum vonbrigðum.

Hæstv. ráðherra segir: Þið sjálfstæðismenn voruð í þessu og þið stóðuð ykkur heldur ekki nógu vel. Alveg hárrétt. Við vorum að vísu í því að lækka skatta, m.a. með Samfylkingunni, og þau undur og stórmerki hafa gerst að hér kom hv. þingmaður Samfylkingarinnar í gær sem kannaðist við að hafa verið í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum 2007–2009. Það er alveg ágætt. Ég man í fljótu bragði ekki eftir því að menn hafi gengist við því á þessu kjörtímabili.

Mér finnst gott að heyra að hæstv. fjármálaráðherra, sem er nú að hætta eftir nokkra mánuði, sé tilbúin að skoða þessi mál. Ég var að vonast til þess að hér ætti að fara að stíga einhver alvöruskref miðað við stóryrðin sem fuku: Við tókum við svo erfiðu búi eftir ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokksins. Við skulum ekki fara í þau mál, en við tókum við svo erfiðu búi, við þurftum að hækka öll vörugjöld og tolla og skatta.

Halda menn að það sé einhver tilviljun að Íslendingar eyða nokkurn veginn sambærilegri upphæð þegar þeir eru í útlöndum og allir útlendingar hér á Íslandi, meira að segja ferðamenn? Halda menn að það sé engin hugsanleg tenging við þá vörugjaldastefnu, tollastefnu og skattstefnu sem við erum með hér? Telja menn engar líkur á því að ef við lækkuðum vörugjöld og tolla mundi það hugsanlega auka veltuna og tekjurnar? Mundu útlendingarnir þá kannski versla meira? Ég hélt að menn ætluðu að reyna að ná verslun inn í landið, auka atvinnu hér heima, því að kallað hefur verið eftir því. Ef menn velta fyrir sér eftir hverju hafi verið kallað er það þetta sem menn hafa kallað eftir og af góðri ástæðu.

Með fullri virðingu fyrir samræmingu á gjöldum á brauðristum, samlokugrillum og nuddpottum — mér sýnist nuddpottadæmið ganga aðallega út á að setja á vörugjöld þar sem þau voru ekki, en látum það liggja á milli hluta — vonaðist maður til þess að þetta væri ekki jafnrýrt og raun ber vitni þar sem tveir vinnuhópar hafa unnið að málinu í dágóðan tíma. Það er svo sannarlega ekki um neinar stórar breytingar að ræða ef horft er á hlutina í stærra samhengi.

Ef menn hafa ekki svör við þeirri spurningu sem ég bar fram varðandi sætuefni, segir á bls. 12, með leyfi forseta:

„Lagt er til að gjaldið verði 210 kr. á hvert kíló sykurs og þar sem sætuefni eru notuð í stað sykurs, sem er einkum í gosdrykkjum, verði gjaldið miðað við að vera hið sama og ef sykur væri notaður í stað sætuefnis.“

Þarna er mikið flækjustig og það sér hver maður að því miður eru sætuefni ekki eingöngu notuð í gosdrykki, því fer víðs fjarri, og er ég enginn aðdáandi þeirra. Ef við ætlum að leggja það í hendur tollyfirvalda að finna út með bragðprófunum hversu mikið er af sykri í viðkomandi vöru erum við komin með ansi hátt flækjustig. Væntanlega verður það gert með bragðprófunum, ég held að önnur leið sé ekki fær.

Það verður bið á því að við gerum alvörubreytingar á kerfinu, því miður. Okkar í hv. efnahags- og viðskiptanefnd bíður það verkefni að kanna hvort þessir hlutir gangi upp og hvort það sé skynsemi í þessu og höfum við til þess afskaplega skamman tíma eins og öllum er ljóst. Það virðist að vísu vera almenn regla þegar stórmál liggja fyrir í þessari ríkisstjórn að þá eru þau unnin hratt. En svo ég verði aðeins á jákvæðu nótunum er ég ekkert að gantast með það, það er mjög gott að hin kjánalega mismunun á milli brauðristar og samlokugrills heyri sögunni til. Ég held að það sé hið besta mál, en við skulum nú samt ekki alveg missa okkur í gleðinni því að það er svo sannarlega mikið verk óunnið á því sviði.



[22:10]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra kærlega fyrir greinargerðina fyrir málinu þar sem ég held að margt sé fært til betri vegar í því vörugjaldakerfi sem við höfum búið við. Ég vil líka fá að nota tækifærið og þakka fulltrúum stjórnarandstöðunnar í umræðunni, hv. þm. Birgi Ármannssyni og hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni, fyrir jákvæðar undirtektir um margt þó að eðlilega andmæli þeir gjaldahækkunum.

Sú leið sem hér er farin um álagninguna á sykurskattinum er framför frá því sem gert var um áratugaskeið undir forustu allra flokka. Með þessari aðferð er eytt því mikla ósamræmi sem var á ýmsum vörum þar sem mikið sykraðar vörur voru án gjalda en sumar ósykraðar með gjöldum á. Það þjónaði sannarlega ekki þeim markmiðum sem yfirlýst voru með vörugjaldakerfinu sem komið var á fyrir einhverjum áratugum síðan í tíð einhverra stjórnmálaflokka sem þá voru við völd í landinu, sem ég veit ekki einu sinni hverjir voru á þeim tíma.

Eins og nefnt var áðan var það kerfi lagt af í samstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks á árinu 2008 þegar menn héldu að þeir hefðu efni á því að hætta þeirri tekjuöflun fyrir ríkissjóð, því að ýmsir gallar eru á þessari skattheimtu. Það er hins vegar deginum ljósara að eftir efnahagshrun getum við ekki lifað með minni tekjustofna fyrir ríkissjóð en voru fyrir hrun, fyrir bóluna í aðdraganda hrunsins, og þess vegna var nauðsynlegt að innleiða á ný þessi vörugjöld. Ég held hins vegar að full ástæða sé til að fara vel og vandlega yfir kerfisbreytinguna sjálfa og skoða hvernig hún kemur út fyrir einstakar vörur. Nefndin áskilur sér auðvitað allan rétt til breytinga á málinu í meðförum þingsins.



[22:13]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla að byrja á jákvæðu nótunum. Ég tel að það sé jákvætt að hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar sé tilbúinn að skoða breytingar á kerfinu eins og lagt er upp með frumvarpinu. Ég tel fulla ástæðu til þess. Ég segi, eins og ég sagði í andsvörum við hæstv. fjármálaráðherra, að það eru vissulega jákvæðar breytingar í frumvarpinu.

Ég hef ekki trú á sykurskattinum sem þarna er verið að leggja til, ég hef áhyggjur af honum. Ég held að hann verði flókinn í framkvæmd og sé ekki til þess fallinn að ná þeim manneldismarkmiðum sem hæstv. fjármálaráðherra gerði grein fyrir áðan. Ég held að ef fjármálaráðuneytið hefði trú á þessum manneldismarkmiðum væri ekki reiknað með jafnmikilli tekjuaukningu og fram kemur í áætlunum frumvarpsins.

En burt séð frá því vildi ég benda hv. þm. Helga Hjörvar, sem á eftir að fjalla um málið í hv. efnahags- og viðskiptanefnd, á reynslu annarra þjóða varðandi skattheimtu af þessu tagi. Eftir því sem mér skilst hefur verið mikil umræða í Danmörku um sambærilega skattheimtu þar sem menn eru að leggja hana af. Ég held að það væri mjög eðlilegt áður en við tökum hana upp hér að menn kynntu sér reynslu næstu nágranna okkar af skattheimtu af þessu tagi.



[22:14]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og ég þekki málið er núgildandi vörugjaldakerfi á Íslandi byggt á hinu danska vörugjaldakerfi sem, ólíkt því sem haldið var fram fyrr í umræðunni í dag, hefur ekki verið í gildi þar í tvö ár, ef ég veit rétt, heldur um mjög langt skeið. Það virðast vera nokkrar sveiflur í pólitískri umræðu um þessa gjaldtöku í Danmörku því að eftir því sem ég best veit er tiltölulega mjög stutt síðan Danir ákváðu að gera skatttökuna víðtækari og láta hana ekki aðeins ná til sykurs heldur leggja líka sérstakan skatt á herta fitu. En það er rétt að umræður eru um það nú að hverfa frá þessari gjaldtöku. Kann það að stafa af því með hvaða hætti ríkisstjórnin í Danmörku er nú samansett.

Ég held hins vegar að stjórnmálamenn geti ekki litið fram hjá því að stærstu verkefnin í lýðheilsumálum sem menn eiga við að fást nú um stundir fylgja ofneyslu á þessum þáttum. Menn hafa kosið að leggja sérstök gjöld á aðrar vörur, einkanlega áfengi en ekki síst á tóbak vegna þess að menn hafa trú á því að með slíkri gjaldtöku hafi menn áhrif á neyslu. Það þótti vissulega óvinsælt þegar menn voru að taka hér fyrstu skrefin í því efni, en ég held að þeir séu orðnir býsna fáir sem leggjast nú orðið gegn því að menn taki til að mynda ríkuleg gjöld af tóbaki sem selt er. Miðað við þau gríðarlegu lýðheilsuvandamál sem fylgja ofneyslu þeirra hluta sem hér eru undir held ég að sannarlega sé ástæða til að leita leiða til að hafa áhrif á þá þróun því að hún er satt að segja ekki vænleg.



[22:17]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alltaf gott að vita að til eru góðgjarnir stjórnmálamenn sem vilja tryggja að við lifum góðu og heilbrigðu lífi og nota skattheimtu til að stýra neyslu okkar. Ég er ekki alveg viss um að það verði afleiðingin af henni en það kann vel að vera. Ég hef hins vegar áhyggjur af þeirri skattahækkun sem felst í þessu frumvarpi af því að ég hef ekki mikla trú á því að manneldismarkmiðið náist, eins og ég sagði áðan. Það verður fyrst og fremst um að ræða útgjaldaauka fyrir heimilin í landinu. Það verður útgjaldaauki sem birtist ekki bara í hærra verði þeirrar vöru sem fólkið kaupir heldur kemur þetta líka til með að spila inn í vísitölu og hafa áhrif þar. Síðan bætast auðvitað við vísitöluáhrif annarra gjaldabreytinga sem ríkisstjórnin stendur nú að. Það er dálítið hlálegt að á sama tíma og menn tala um skuldamál heimilanna sem stærsta viðfangsefnið á vettvangi stjórnmálanna, skuli ríkisstjórnin trekk í trekk koma með frumvörp sem hafa strax þau áhrif að hækka skuldastöðu íslenskra heimila. Þá geta menn komið og sagt: Það á bara að afnema vísitölutengingar. En á meðan þær eru fyrir hendi eru þetta hin beinu áhrif ákvarðana sem teknar eru í þessum sal af meiri hluta ríkisstjórnarflokkanna.



[22:18]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fyrst um hið síðastnefnda. Ef þingflokkur Sjálfstæðisflokksins flytur mál í samræmi við ályktanir á landsfundi flokksins um að afnema skuli vísitölubindingu lána til einstaklinga, skal ég sannarlega verða stuðningsmaður þess. Ég er sammála hv. þingmanni um að það er óheppilegt fyrirkomulag að hækkanir á sköttum leiði til hækkana á lánum.

Hitt er síðan fjarri öllu lagi, að hér sé um einhverja ofurgjaldtöku eða gríðarlega forræðishyggju að ræða. Staðreyndin er sú að matvara, sem við erum að fjalla um, sætir sérstökum skattaívilnunum. Þannig er til dæmis ekki krafist 25,5% virðisaukaskatts á sykruðum gosdrykkjum, eins og á allri annarri vöru í landinu, heldur aðeins 7% virðisaukaskatts. Sykruð matvara nýtur þannig alveg sérstakra fríðinda í virðisaukaskattskerfinu. Þau gjöld vega ekki einu sinni upp á móti þeim ívilnunum þannig að auðvitað má nálgast verkefnið öðruvísi. Það mætti út af fyrir sig nálgast það með því að láta sykruðu vörurnar, sykraða gosdrykki og annað slíkt, bera 25,5% virðisaukaskatt. Það er engin sérstök forræðishyggja fólgin í því, engin sérstök neyslustýring. Það er bara afstaða um að sykraðir gosdrykkir eigi að bera hina almennu virðisaukaskattsprósentu sem er í gildi í landinu. Það er út af fyrir sig önnur aðferð við að nálgast sama viðfangsefnið og felur hvorki í sér ofurskattlagningu né einhverja sérstaka forræðishyggju.



[22:20]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað hlálegt að hlusta á hv. stjórnarliða tala um að þeir séu að hugsa um manneldissjónarmið og heilsustefnu. Þessi hæstv. ríkisstjórn tók við heilsustefnu sem 100–200 einstaklingar voru búnir að koma að og móta. Með skilgreindum tímasettum markmiðum og hvernig ætti að ná þeim, sérstaklega þeim sem snúa að hreyfingarleysi og næringu ungs fólks. Hvað gerði hæstv ríkisstjórn? Hún henti stefnunni í ruslið og hefur ekkert gert með hana.

Hér koma menn með skatta sem ekki bara leggjast á almenning í landinu í formi hærra vöruverðs heldur líka beint á lánin. Þeir skulu bara kalla það því nafni og ekki vera að reyna að búa til eitthvað annað úr því.

Ég vil spyrja hv. þm. Helga Hjörvar vegna þess að hann talaði um erfitt bú, bara svo við fáum að heyra það, hvort hann trúi því að ef við hækkum vörugjöld og tolla að muni það skila sér sem tekjur í ríkissjóð. Telur hv. þingmaður ekki að það gæti verið að ef menn lækkuðu vörugjöld á tolla mundi það skapa verslun í landinu? Bæði mundu Íslendingar versla meira á Íslandi og þeir ferðamenn sem hingað koma mundu hugsanlega versla meira sem mundi leiða af sér tekjur út af fleiri störfum í verslun og annars staðar. Getur það verið að þau lönd til dæmis sem eiga engar auðlindir eða neitt slíkt, lönd og svæði eins og Singapúr og Hong Kong, hafi kannski skapað sér sína velmegun með því að hafa ekki tolla og vörugjöld?



[22:22]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Auðvitað er það meginmarkmið þeirra mála sem hér eru flutt í tengslum við fjárlög að afla ríkissjóði tekna. Manneldissjónarmiðin eru aðeins þáttur málsins og byggja fyrst og fremst á því sjónarmiði að það skjóti nokkuð skökku við að vörur sem almennt eru ekki taldar hollustuvörur njóti sérstakra ívilnana í skattkerfinu og sæti lægri álagningu en aðrar vörur almennt. Ég held að það sé ekkert sérstakt markmið með einhverjum ofursköttum að koma í veg fyrir að maður geti fengið sér kók og prins, það er ekki þannig. Þetta eru ekki hættulegar vörur í þeim skilningi, enda er ekki verið að leggja nein slík gjöld á vörurnar. Það er einfaldlega verið að samræma gjaldtöku og gera, með hætti sem Samtök iðnaðarins lögðu til árið 2009, þá gjaldtöku miklu heildstæðari en áður var. Ég held að almennt fari verslun á sykraðri matvöru fram á Íslandi. Ég held ekki að við leitum mikið til útlanda til að stunda hana.

Hitt getur svo vel verið rétt hjá hv. þingmanni, að með því að afnema ýmsa tolla á vörugjöld megi auka verslun í öðrum verslunargreinum og skapa fleiri störf í tengslum við hana og það er full ástæða til að skoða. Skilvirkasta leiðin í því efni held ég þó að væri einfaldlega, hv. þingmaður, að ganga í Evrópusambandið því þar með falla þessir múrar sjálfkrafa niður gagnvart öðrum löndum á Evrópska efnahagssvæðinu.



[22:24]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil vekja athygli fólks á því hvað hv. þingmaður sagði. Kannski er það svo að ástæðan fyrir ESB-dýrkun Samfylkingarinnar sé fullkominn misskilningur. Hv. þingmaður sagði: Við göngum bara í ESB, þá falla allir tollar og gjöld niður, þetta verður allt annað líf.

ESB er tollabandalag. Við erum nú með flestan þann aðgang sem við getum gegnum EES, en ESB er sá aðili sem hefur staðið helst í vegi fyrir frjálsri heimsverslun. Nú er það þannig að við getum ráðið því öllu saman. Við getum lagt einhliða niður tolla ef við bara viljum. Við getum gert þá fríverslunarsamninga sem við viljum og höfum gert það. EFTA hefur haft ákveðið frumkvæði undir okkar forustu. ESB hefur engan áhuga á fríverslun í heiminum, hefur í það minnsta ekki sýnt það í verki. Það er mjög alvarlegt ef forustumenn Samfylkingarinnar vita ekki meira um ESB og það getur hver sem er lesið þetta. Menn þurfa ekki að hlusta á mig heldur bara kynna sér málið.

Síðan er annar misskilningur mjög alvarlegur, að ef vörur eru ekki með 25,5% virðisaukaskatt sé ívilnun í skattinum. Trúir hv. þingmaður því? Ég hélt að það væri einkaskoðun eins af þeim sem hefur verið hæstv. fjármálaráðherra í þessari ríkisstjórn, en það virðist vera algild skoðun Samfylkingarinnar að það sé sérstök ívilnun ef ekki er 25,5% virðisaukaskattur. Hv. þingmaður sagði að það væri almenna reglan að virðisaukaskattur væri 25,5%. Ekkert er fjær lagi. Það er svo sannarlega ekki almenn regla. Hér eru nokkur virðisaukaskattsstig, allt of mörg, m.a. núll. Þetta er svo sannarlega ekki almenn regla. Það er alveg ljóst hver draumur Samfylkingarinnar er. Það er að koma öllu í 25,5% þannig að það verði engar ívilnanir.



[22:26]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við þurfum nú ekki að rífast mikið um tolla, ég og hv. þingmaður. Við erum út af fyrir sig báðir áhugamenn um frjálsa verslun og viðskipti, sem minnstar hömlur á það milli landa og yfir landamæri. Það gerir mig að Evrópusinna en hann að einhverju öðru. Ég held að við munum eftir sem áður kappkosta að gera fríverslunarsamninga og leitast við að draga úr viðskiptahindrunum við landamæri Íslands, eins og kostur er.

Hvað varðar að það sé ívilnun að vera ekki í hinu almenna þrepi virðisaukaskattsins, þá er það þannig. Það er ívilnun. (Gripið fram í.) Það geta hins vegar verið ýmsar ástæður fyrir því að slíkar ívilnanir séu veittar, það eru röksemdir fyrir því. Til dæmis bera útflutningsgreinar ekki virðisaukaskatt, það er einfaldlega þannig. Það er vegna þess að við teljum að svona sé málum best skipað. Það sé eðlilegt fyrirkomulag og ekki sé ástæða til að krefja þær greinar um virðisaukaskatt enda er það ekki almennt gert í viðskiptum þjóða. Það eru líka röksemdir fyrir því að bóka- og blaðaútgefendur sem starfa í þessu litla málsamfélagi þurfi ekki að greiða hinn almenna virðisaukaskatt heldur hinn lægri. Það var raunar Samfylkingin sem fann upp lægra virðisaukaskattsþrepið þannig að það er ekki sérstakur draumur okkar að koma öllu í 25,5%. Þvert á móti börðust jafnaðarmenn á Íslandi fyrir því með oddi og egg að knýja fram hið lægra þrep og hinn fræga matarskatt sem Jóhanna Sigurðardóttir innleiddi á sínum tíma. Til þess einmitt að tryggja að með ívilnunum (Gripið fram í.) mætti í því tilfelli skapa sem best almenn skilyrði fyrir láglaunafólk og meðaltekjufólk í landinu til að standa straum af matarkostnaði sem er tiltölulega hár, einkanlega hjá lágtekjufólki sem hlutfall af tekjum þess.



[22:28]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Margar atlögur hafa verið gerðar að því að einfalda vörugjaldakerfið. Það er þvílíkur frumskógur að ég hugsa að fáir þekki það, nema kannski þeir sem framkvæma skattlagninguna og það er eins gott að þeir skilji það þá rétt. Hér er gerð tilraun til þess að ná fram einhverri einföldun en menn ætla sér líka að breyta hegðun fólks og það er eitthvað sem ég tel mjög varasamt.

Það má vel vera að fólk borði of mikið af fitu og það getur vel verið að það borði of mikinn sykur og hafi ekki vit fyrir sér í þeim efnum. Ætti að borða minni sykur og minni fitu. En er ekki líka betra að hreyfa sig? Gæti ekki verið að ef þeir sem borða mikið smjör og fitu hreyfa sig nógu mikið sé enginn skaði skeður? (Gripið fram í: Líka. Hreyfir sig …) Sömuleiðis með sykurát, það hefur náttúrlega slæm áhrif á tennurnar en segjum að menn borði sykur og bursti tennurnar vandlega á eftir og hlaupi svo eða hreyfi sig. Þá kann að vera að þeir losni við þau skaðlegu áhrif sem þessu frumvarpi er ætlað að koma í veg fyrir. Þ.e. hæstv. fjármálaráðherra ætlar að hafa vit fyrir því hvað fullorðið fólk er að borða heima hjá sér. Það er forsjárhyggja sem ég er ekki mjög hrifinn af. Ég held að nota eigi skattkerfið til að afla tekna fyrir ríkissjóð þannig að hann geti staðið undir góðu og skilvirku velferðarkerfi, greitt styrki til aldraðra og því um líkt og staðið undir heilbrigðiskerfi og menntakerfi. Það tel ég vera markmið skattlagningar, en ekki að stýra hegðun fólks, hvernig það borðar eða hvað það gerir.

Þegar farið er í gegnum frumvarpið þá er talað um á bls. 5 að skyr með viðbættum sykri og sætuefni ber 30% skatt og 430 kr. á kíló, en sömuleiðis líka annað skyr. Ég vildi gjarnan fá skýringu á hvort það geti verið rétt, því í greinargerð stendur að það sé einmitt skyr án sykurs sem á að losna við skattinn. Ég tel skyrið vera afskaplega hollt, frú forseti, jafnvel með sykri, ef menn bursta tennurnar og fara að hlaupa á eftir.

Síðan er margt í frumvarpinu sem er mjög undarlegt. Á bls. 3 er talað um að tollskrárnúmer 2924.2960 eigi að bera um 40 þús. kr. skatt á kíló. Ég hefði gaman að vita hvaða efni það er. Það er farið að nálgast eiturlyf. Ég vildi gjarnan fá skýringar á því hvað það er.

Svo er talað um að álagningin verði einföld og gagnsæ. Samt eru þeim sem framleiða vöruna gefnir tveir valkostir, annars vegar að þeir geti notað sykur sem er með sykurskatti til framleiðslunnar og þá þurfa þeir ekki að falla undir skattlagningu á vörunni og hins vegar að varan beri vörugjald, en framleiðendur geti þá dregið frá skattlagningu á sykrinum sem þeir nota. Þarna er verið að flækja kerfið enn frekar og það verður mjög gaman að sjá hvernig þetta verður útfært í smáatriðum. Þetta er um 1. gr.

Svo er það með sætuefnin. Það þarf mun færri grömm af sætuefni en sykri til að ná fram sama sætumagni. Þess vegna á að skattleggja sætuefnin því talið er að þau séu 180–350 sinnum sætari, það er erfitt að ákvarða það með nákvæmum hætti. Nú er spurningin: Af hverju eiga sætuefni að falla undir þetta? Hvað er svona skaðlegt við sætuefni? Ekki skemma þau tennurnar. Nú getur vel verið að einhverjir hafi efasemdir um að þau séu ekki hreinlega skaðleg, ekki heilsusamleg, en það er allt annar handleggur. Það á að banna þau ef kemur í ljós að þau eru einhver veginn skaðleg heilsunni.

Ég ætla ekki að fara mjög djúpt í þetta. Ég hefði gjarnan viljað sjá að menn einfölduðu vörugjaldakerfið allverulega vegna þess að svona flókið kerfi veldur mikilli vinnu hjá atvinnulífinu og hjá eftirlitsaðilum. Möguleikar á svindli, undanskotum og skattsniðgöngu aukast, þannig að ég hefði viljað sjá verulega mikla einföldun á vörugjaldakerfinu. Ég skora á þá aðila sem verða í ríkisstjórn eftir kosningar að þeir taki sér tak og nenni, herra forseti, að fara í gegnum vörugjaldakerfið, setja sig inn í það og einfalda það. Því til þess að geta einfaldað það þurfum við fyrst að skilja það.

Það hefur verið nefnt í mín eyru nokkrum sinnum að þegar menn leggja t.d. grasdúk á fótboltavelli, þá sé á honum mjög hátt vörugjald. Hvers vegna skyldi það nú vera? Það er vegna þess að einu sinni voru framleidd teppi í Álafossi. Til að vernda þá framleiðslu þá voru sett há vörugjöld á teppi, þannig að erfitt yrði að flytja inn teppi í samkeppni. Síðan fór þessi verksmiðja á hausinn eins og kunnugt er og það er langt síðan menn hafa framleitt teppi á Íslandi, en skatturinn situr áfram og leggst meira að segja á teppi sem eru lögð á fótboltavelli.

Ég veit ekki hvað ég á að taka mikið inn á þetta. Ég held að þetta muni flækja framkvæmdina mjög mikið enda er gert ráð fyrir því að ráða fólk í vinnu við þetta. Ég held að árangurinn af því að hækka verð á sykurvörum með tollum, sköttum og vörugjöldum hafi lítil áhrif vegna þess að verðteygnin er ekki svo mikil. Þó að verðið hækki á karamellum og því um líku, segjum að það hækki um 20–30 kr., þá mun það ekki hafa mikil áhrif á neysluna. Fólk langar svo mikið í karamellur, það er vandamálið.

Það er líka til önnur leið og það væri að setja upp eftirlitsvél í íbúðinni minni. Fylgjast bara með því sem ég geri, hvort ég stelist ekki til að fá mér karamellu öðru hverju, sem ég reyndar geri. (Gripið fram í: Stela nógu oft.) Svo er bara að ráða eftirlitsmenn út um allt. Mér finnst að ríkið og hv. þingmenn eigi ekki að hafa vit fyrir fullorðnu fólki. Það er allt í lagi að hafa vit fyrir börnum og sérstaklega börnunum sínum, en að vera að hafa vit fyrir fullorðnu fólki finnst mér ekki vera rétt.

Ég ætla ekki að ljúka þessari ræðu án þess að minna á það sem er jákvætt í frumvarpinu. Það er nefnilega dálítið jákvætt í því. Það er til dæmis verið að fella niður vörugjöld á varmadælum og það tel ég vera jákvætt. Þó ég vilji almennt séð hafa skattkerfin einföld, ég mundi til dæmis vilja hafa virðisaukaskattinn bara eitt þrep. Þá væri öll heila framleiðslan, heilbrigðisþjónustan, ferðaþjónustan, menntakerfið, sjávarútvegurinn, allt heila kerfið undir einni prósentutölu. Hún mætti mín vegna vera 17% eða eitthvað slíkt, eða það sem þarf til að gefa ríkissjóði sömu tekjur. Allar undanþágur burt og þar með öll undanskotin sem eru möguleg í dag. Þetta mundi ég vilja hafa. Svo vildi ég helst að menn tækju sér tak, þ.e. á næsta kjörtímabili, og útrýmdu vörugjaldafrumskóginum sem gefur ríkissjóði mjög litlar tekjur. Nema þá stóru vörugjöldin sem eru á bifreiðum. Þar þyrftu menn hugsanlega að velta fyrir sér hvort ekki sé betra að flytja vörugjald á bifreiðar yfir á notkun á vegum. Vegna þess að há vörugjöld á bifreiðum núna stöðvar fólk í því að kaupa nýjar bifreiðar og stöðvar fólk í að kaupa eyðslugrannar bifreiðar. Það hefur orðið mikil breyting á eyðslu bifreiða undanfarin 10 ár. Floti landsmanna er eldgamall og mjög eyðslufrekur þannig að ég held að menn ættu að skoða að fella niður vörugjöld á bifreiðum og flytja skattlagninguna yfir á notkun á vegum eins og talað hefur verið um. Jafnvel yfir á mæla, en það er eitthvað sem þarf meiri tíma til og kannski meiri vinnusemi hjá þeim sem vinna við lagasetninguna svo við getum tekið okkur tak og komið henni á skikkanlegt form. Ég held að vörugjöld eigi ekki að vera til. Virðisaukaskatturinn á að vera einn og undantekningarlaus. Þá mun ríkissjóður ná markmiðinu sem er að afla tekna fyrir velferðarkerfið og vera ekki að stýra neyslu fólks.

Það sem við gætum hins vegar gert er að upplýsa fólk enn betur um skaðleg áhrif af neyslu þessara og hinna vörutegundanna. Benda fólki alveg sérstaklega á að til að upphefja þau skaðlegu áhrif þá gerir ekkert til að hreyfa sig pínulítið og stunda hlaup eða íþróttir eða eitthvað slíkt. Þannig upphefja menn skaðleg áhrif neyslunnar sem vinstri menn, hv. þingmenn, eru svo uppteknir af að hafa vit fyrir fólki með. Mér finnst ekki rétt að 35 ára gamall þingmaður sé að hafa vit fyrir 50 ára gömlum Íslendingi sem hefur heilmikið vit á því hvernig hann á að hegða sér og hvað hann ætlar að gera. En það er sem sagt eitt jákvætt í frumvarpinu og það eru vörugjöld af varmadælum og slíku sem getið er um að séu tekin út. Svo er eitt sem hv. nefnd þarf að gera, það er að fara í gegnum öll vörugjaldanúmerin og vita hvað er á bak við þau, því ég man eftir því að einu sinni þegar átti að hækka skatta á sykur þá voru gúmmídekk allt í einu komin með.



[22:40]
Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa langt mál um þetta frumvarp í 1. umr. Ég reikna með að það fari fram töluvert meiri umræða þegar málið kemur frá nefnd í 2. umr., en ég vildi þó taka eftirfarandi fram.

Við þær aðstæður sem eru í efnahagsmálum þjóðarinnar ber að gjalda varhuga við öllum tilraunum og tillögum til að hækka gjöld og álögur sem síðan leiða út í verðlagið, til hækkunar á vísitölu. Það þarf ekki að hafa mörg orð um hvers vegna það er. Íslensk heimili eru of skuldsett, sama hvernig á það er litið, og það þýðir að allar hreyfingar upp á við í verðbólgunni eru heimilunum mjög dýrar. Litlar breytingar á verðbólgunni geta hlaupið á milljörðum í hækkun á lánum heimilanna. Hvort sem um ræðir það mál eða önnur sambærileg, sem ríkisstjórnin er að véla um þessa dagana í bandorminum svokallaða eða í fjárlagafrumvarpinu þar sem um ræðir gjaldahækkanir sem leiða til hækkunar á verðlagi, er það að mínu mati svo að menn eiga að skoða það mjög vandlega, reyna að finna allar mögulegar leiðir til að snúa ofan af slíku og koma í veg fyrir að það gerist.

Seðlabanki Íslands hefur áhyggjur af verðlagsþróuninni. Þegar Seðlabankinn lýsir væntingum sínum um verðbólguna tiltekur hann sérstaklega áhyggjur sínar af meðferð fjárlagafrumvarpsins, hver endanleg tala verður þar og hver verðlagsáhrifin af fjárlagafrumvarpinu verða. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn segir það sama. Hann hefur áhyggjur af verðlagsþróuninni, og reyndar meiri en Seðlabankinn. Það eru nákvæmlega svona mál sem ýta undir þá þróun, kosta heimilin og valda því að pressan á Seðlabankann að vera áfram í vaxtahækkunarferli eykst. Þegar áhrif þeirra mála eru lögð saman, því kannski má segja sem svo að hvert og eitt þeirra sé ekki svo hræðilegt, skipta þau máli fyrir heimilin í landinu og skuldsetningu þeirra.

Það sem meira er þýða verðlagshækkanirnar að kaupmátturinn skerðist. Þá kemur eðlilega krafa frá launþegahreyfingunni um að það sé bætt í kjarasamningum. Það liggur fyrir að svigrúm fyrirtækjanna til að mæta slíkri hækkun á kaupgjaldsliðnum er horfið vegna skattahækkananna. Vegna þess að ekki var staðið við loforð um að lækka tryggingagjaldið og verið er að hækka ýmis önnur gjöld geta fyrirtækin ekki mætt hækkuninni. Það sem fer af stað, og það er alveg hræðilegt að þurfa að vera að fara í gegnum þá sögu eina ferðina enn því hún ætti að vera okkur Íslendingum vel kunn, er víxlverkan launa og verðlags. Innstæðulausar kauphækkanir sem leiða til verðhækkana og verðbólgu sem síðan leiða aftur til kauphækkana og svo koll af kolli. Það grefur undan efnahagsstarfsemi og kaupmættinum og við þær aðstæður, þegar lánin eru svona mikil og há og stór hluti þeirra verðtryggður, er það skelfileg þróun. Þess vegna hefði það þurft að vera, og varð að vera, þannig í þessu frumvarpi að allt væri gert og að öllu væri gætt til að koma í veg fyrir verðlagshækkanir.

Virðulegi forseti. Nú er það svo að það kunna að vera göfug og góð lýðheilsumarkmið bak við það að draga úr sykurneyslu. Það er víst alveg ábyggilegt og þarf ekkert að deila um að sykurneysla er of mikil á Íslandi. En það sem ég var að lýsa hér áðan gengur framar í þeim verkefnum sem við fáumst við núna. Það verður að raða hlutunum rétt upp. Það verður að vera rétt forgangsröðun og forgangsröðunin í þessu frumvarpi átti bara að vera ein. Hún var sú að koma í veg fyrir verðbólgu, hækkun lánanna, og vanda varðandi kjarasamningana, og síðan gera allt sem við getum til að fjárlögin verði þannig að þau auðveldi okkur afnám gjaldeyrishaftanna og ýti undir hagvöxt. Það voru mikilvægustu þættirnir. Því miður er frumvarpið sem er til umræðu ekki til þess fallið að ná neinum af þeim markmiðum heldur gengur þvert á móti.

Hvað varðar lýðheilsusjónarmiðin get ég tekið undir með öðrum hv. þingmönnum sem hafa bent á að það kann að verða erfitt fyrir ríkisvaldið að fara fram með þessa tegund af skattlagningu til að ná markmiðunum. Það kann að verða flókið. Það má vel velta fyrir sér annarri óhollustu og spyrja hvers vegna er ekki tekið á þeim þáttum. Saltneyslu, fitu og ýmsu öðru sem veldur vandræðum út frá lýðheilsusjónarmiði. Því skyldum við ekki skattleggja það eins? Menn sjá þá hvar þetta endar og reyndar var mér bent á ágæta hugmynd. Því ekki að fara frekar þá leiðina að skilgreina það sem er einstaklega hollt og gott og lækka frekar gjöldin þar, gera það ódýrara og aðgengilegra og leggja meiri áherslu á almenna meðvitund og skilning á því hversu hættulegt það er að neyta of mikils sykurs, fitu, salts og annarrar óhollustu? Það er eitt sjónarmið. Ég játa að ég hef ekki lagt mig mjög eftir því að skoða þessi tollalög og tollskrárnúmer og allan þann frumskóg. Það er vægt til orða tekið að tala um frumskóg þegar menn fara að skoða það. Þetta virkar á mig sem alveg ótrúlega, ég leyfi mér að segja gamaldags kerfi og undarlegt kerfi. Ég ætla að grípa niður á bls. 6 í frumvarpinu þar sem er verið að lýsa tollskrárnúmerinu 1806.9028, 1806.9209 og 1806.9039, þau tollskrárnúmer eiga öll falla niður. Ekki veit ég hvaða afleiðingar það hefur og hvað kemur í staðinn. Ég ætla að lesa þennan texta sem dæmi um hvað það hlýtur að vera erfitt að vinna eftir því öllu saman:

Kakóduft, þó ekki í vörur í nr. 1901, sem mér sýnist vera kextengd framleiðsla, sem inniheldur 30% eða meira miðað við þyngd af nýmjólkur- og/eða undanrennudufti með eða án viðbætts sykurs eða annarra sætuefna en án íblöndunar annarra efna.

Svo kemur tvípunktur og svo langur listi af alls konar hlutum sem þarf að hafa í huga þegar verið er að reyna að greiða úr þessu. Þetta er alveg ótrúlega margbrotið og sérkennilegt og þá er ekki, enn og aftur, of fast að orði kveðið. Svo skoðar maður textann áfram og hann minnir á texta sem sást í frumvörpum, lagatextum og reglugerðum frá tímum bannáranna, frá haftaárunum, þegar við vorum einhvern veginn að reyna að skilgreina þetta þar. Ég gríp aftur niður á bls. 11, með leyfi virðulegs forseta. Þar segir:

Flokkur sem ber 130 kr. vörugjald á kíló er að mestu leyti vörur sem innihalda kakó, gjarnan til að gera drykki. Einnig er í flokknum núggatmassi. Innflutningur í þeim flokki var ekki mikill. Svo er haldið áfram að fjalla um það allt saman og stendur í frumvarpinu: Gert er ráð fyrir að tollflokkar beri vörugjald í hlutfalli við þyngd viðbætts sykurs. Þau verða því hærri en nú er ef sykurinnihaldið er yfir 62% en annars munu vörugjöld í þeim flokki lækka frá því sem nú er. Svona er haldið áfram síðu eftir síðu. Ég verð að segja eins og er, þeir sem þurfa að vinna eftir þessu eiga alla mína samúð. Ég tala ekki um aumingja embættismennina sem þurfa einhvern veginn að velta þessu fyrir sér, greiða úr því og úrskurða um hvað er hvað, í hvaða flokki o.s.frv. Það er auðvitað tímabært að við finnum eitthvað annað kerfi, virðulegi forseti, en það sem er hér. Það er víst alveg ábyggilegt.



[22:50]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég mun ekki dvelja lengi við umræðu að þessu sinni. Það var samið um að umræðunni mundi ljúka einhvern veginn og að sjálfsögðu ætla ég að standa við það og virða það. Ég vil þó koma á framfæri að mér sýnist að þetta frumvarp, eins og svo mörg önnur sem við höfum verið að ræða, sé til þess fallið að veikja hag heimilanna með því að hækka lánin því eitthvað af þessu fer út í verðlagið o.s.frv. Ég tala ekki um þennan svokallaða sykurskatt sem mun klárlega gera það.

Mér finnst svolítið sérstakt að við skulum fara þá leið núna þegar við höfum nýlegt dæmi frá nágrannaþjóð okkar þar sem hætt er við þennan skatt vegna þess að hann hefur leitt til stjórnsýslukostnaðar sem ekki var fyrirséður og hefur ekki skilað þeim árangri sem hann átti að gera. Þar af leiðandi finnst mér þetta sérkennilegt.

Að sjálfsögðu fer málið sína leið í þinginu en ég reikna ekki með að hægt verði að styðja það frekar en aðrar skattahækkanir vegna þess að við höfum dæmi um að þær skili ekki árangri og muni á endanum fara út í verðlagið og hækka lán heimilanna.

Svo tek ég undir orð hv. þm. Illuga Gunnarssonar um að frumvarpið sé nánast óskiljanlegt. Í það minnsta hefði verið gott að fá betri skýringar á því hvað hækkar eða breytist og hvað ekki. Það er nánast óboðlegt að leggja svona töflur fyrir þingheim. Við kunnum tollskrárnúmerin ekki utanbókar, í það minnsta hugsa ég að fáir geri það.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra. Ég vildi bara koma því á framfæri að mér líst illa á þetta frumvarpið, eins og flest önnur sem ríkisstjórnin hefur lagt fram síðustu daga.



[22:52]
Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Sú lagabreyting sem við ræðum fjallar mest um sykur, sætuefni og slíkt og það að hafa vit fyrir fólki. En það er líka fleira. Á bls. 19 stendur, með leyfi herra forseta:

Í c-lið greinarinnar er lagt til að tollskrárnúmer 4421.9021 bætist við C-lið viðaukans og beri því 15% vörugjald. Undir það númer fellur hreinlætisbúnaður úr viði fyrir baðherbergi.

Síðan er talað um annað tollskrárnúmer, sem ég nenni ekki að lesa, en þar undir falla nuddbaðker, nuddklefar og nuddpottar. Plastbaðker án nudds falla undir tollskrárnúmerið 3922.1000 og stálbaðker án nudds falla undir tollskrárnúmer 7324.2100. Heiti potturinn sem er án nudds fellur undir tollskrárnúmerið 3922.9009 o.s.frv. Öll þessi tollskrárnúmer bera 15% vörugjald. Þá vitum við það.

Þarna er verið að lauma inn einhverri breytingu, hugsanlega mjög skynsamlegri. Ég legg til að nefndin fari mjög nákvæmlega í gegnum það.

Baksýnisspeglar í ökutæki falla undir tollskrárnúmer, loftpúðar ökutækja, sem sagt ýmisleg öryggistæki. Ég geri ráð fyrir að verið sé að fella niður vörugjald af þeim vörum.

Svo kemur það sem skiptir kannski mestu máli. Það er líka talað um samlokugrill, grill og vöfflujárn og annað slíkt. Ég veit að það hafa verið ákveðin vandamál með aðgreiningu þar og ég held að verið sé að samræma það allt saman. Að lokum er lagt til að vörugjald á varmadælum til heimilisnota verði fellt niður, bæði með tilvísun til samræmingarsjónarmiða vegna annarra varmadælna og með tilvísun til umhverfissjónarmiða.

Þetta er það jákvæða sem ég sé við frumvarpið, svo ég endi í raun og veru á jákvæðum nótum.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til efh.- og viðskn.