145. löggjafarþing — 142. fundur
 30. ágúst 2016.
búvörulög o.fl., 2. umræða.
stjfrv., 680. mál (búvörusamningar, búnaðarlagasamningur). — Þskj. 1108, nál. 1591, 1597, 1599 og 1600, frávtill. 1536, brtt. 1544, 1592, 1594 og 1598.

[14:09]
Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Haraldur Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta atvinnuveganefndar um frumvarp til laga um breytingu á búvörulögum, búnaðarlögum og tollalögum, líkt og fram kemur í fyrirsögn nefndarálitsins, í daglegu tali kallaðir búvörusamningar, og afgreiðslu þeirra á þinginu sem var mælt var fyrir í vor. Frumvarpið gekk til hv. atvinnuveganefndar til meðferðar og hv. atvinnuveganefnd hefur frá þeim tíma haft það til meðhöndlunar og fengið fjölmarga gesti og umsagnaraðila um þetta stóra mál.

Almennt má segja um umræðu um landbúnað sem er oft fyrirferðarmikil og hörð en yfirleitt alltaf góð og gagnleg að hún er stundum langt umfram eðlilegt umfang atvinnugreinarinnar í einhverjum skilningi, þ.e. við erum að fjalla um 1% af vergri landsframleiðslu í útgjöldum ríkissjóðs, atvinnugrein sem framleiðir matvöru fyrst og fremst, sem tengist búvörusamningum sem eru um 6% af útgjöldum heimilanna. Af umræðunni mætti ætla að þetta væri miklu stærri og fyrirferðarmeiri atvinnugrein.

Auðvitað vakna margar spurningar þegar verið er að fjalla um svo stórt mál eins og búvörusamninga og stefnumörkun í landbúnaði. Við skulum byrja á því að draga það fram hér að sá samningur sem hæstv. landbúnaðarráðherra kom með inn í þingið í vor og við höfum verið að fjalla um er mikil tímamót. Við erum í fyrsta sinn í rúman áratug að ráðast í að breyta áherslum í búvörusamningum og landbúnaðarstefnu á Íslandi. Í mínum huga getur það ekki verið kostur að gera ekki neitt á þessari stundu, láta reka á reiðanum og framlengja eitt eða tvö eða þrjú ár til viðbótar þá samninga sem hafa verið í gildi. Það er búið að gera of lengi. Það eru stóru tíðindin, það er stóra verkefnið sem við höfum fengist við undanfarnar vikur og mánuði og það er verkefni umræðunnar í dag, að við ræðum okkur fram úr því verkefni hvernig við viljum leggja þær áherslur. Auðvitað eru deildar meiningar, auðvitað eru misjafnar áherslur eftir því hvaðan við komum og fyrir hvaða stjórnmálaflokka við störfum, en það vil ég sérstaklega taka utan um í upphafi á framsögu minni að stóru tíðindin eru eftirfarandi: Mestu breytingar á landbúnaðarstefnu líklega í 25 ár eru hér undir og það er ekki eftir neinu að bíða að leggja upp í þá vegferð.

Stór hluti gagnrýni á samningana þegar þeir komu inn í þingið var að þeir væru lokaðir til mjög langs tíma. Þá umræðu tók hv. atvinnuveganefnd mjög alvarlega og vann sérstaklega með og ég mun gera nánari grein fyrir því þegar kemur lengra inn í ræðuna. Eins og oft áður týnast staðreyndir í umræðu um mál sem og veruleiki mála en svo var alls ekki hér. Aldrei stóð til að festa eða meitla í stein tíu ára óbreytta landbúnaðarstefnu eins og mátti skilja á umræðu sem upphófst á vordögum nema síður sé.

Það er eðlilegt að menn spyrji hverju þetta skili. Ég held að mikilvægasta svarið við því sé fyrst og fremst: Við erum að innleiða miklu meiri samkeppni í landbúnaði en við höfum áður staðið frammi fyrir. Þar tengist inn í annað þingmál sem við ræðum hér seinna í dag sem er frágangur á tollasamningi við Evrópusambandið þar sem verið er að innleiða verulega mikla tilslökun á innflutningsheimildum, líklega mestu breytingar í áratug í þeim efnum. Það er líka eðlilegt að spurt sé hvort þessir samningar sem hér eru auki samkeppnina þannig að neytendur geti treyst því að hér verði lægra verð úti í búð. Já, þeir geta treyst því, ekki síst vegna þess sem ég nefndi áðan, að við erum að stækka margfalt innflutningsheimildir sem að öllu óbreyttu munu leiða til mikils verðaðhalds fyrir innlenda búvöruframleiðslu. Síðan má spyrja margra annarra grunnspurninga um hvernig við tryggjum hag bændanna. Eitt af stóru viðfangsefnunum í meðferð nefndarinnar var að taka utan um það. Auðvitað er til einskis barist og unnið ef við með öllum þeim breytingum sem við erum að innleiða röskum á einhvern hátt alvarlega afkomu bænda til lengri tíma. Ég skal viðurkenna, hæstv. forseti, að ég hef ákveðnar áhyggjur af því og um það fjallar að stórum hluta nefndarálit okkar. Ég held að það sé hollt fyrir okkur í þessari umræðu í dag að nálgast hana meira út frá þeim staðreyndum sem oftar en ekki hafa glatast eða farið hjá í þessari miklu umræðu.

Það er mjög gaman að skoða, og ég hef sagt það áður í þessum ræðustól, hvernig umræða um landbúnað er á Íslandi samanborið við mörg önnur lönd. Við lærum þegar við velkjumst í þessum heimi, sem ég hef gert í of langan tíma, að við nálgumst umræðuna misjafnt á milli þjóða. Ef við skoðum fundardagskrá stóru iðnríkjanna þegar leiðtogar þeirra hittast eru mál númer eitt, tvö og þrjú á þeim fundum fæðuöryggi, öryggi matvælanna og hvernig við ætlum að bregðast við því stóra verkefni að framleiða meiri mat í heimi sem er í einhverjum skilningi að verða ofsetinn mannfólki. Það er stórt verkefni en hérna nálgumst við umræðuna oftar út frá einhverjum öðrum hagsmunum en bara bændanna sjálfra. Það er verkefni sem við eigum að takast á við og draga fram mismunandi spil og mismunandi hliðar þeirrar umræðu.

Það hefur komið fram í fréttaflutningi eftir að nefndarálit atvinnuveganefndar fór að fæðast að við værum að gera mjög miklar og róttækar tillögur um breytingar á fyrirliggjandi búvörusamningum. Um það vil ég aðeins segja eitt: Við höfum leitast við það í allri okkar vinnu að brjóta ekki ákvæði samninganna sem hafa verið undirritaðir. Við höfum aftur á móti líka leitast við að nota þau verkfæri sem eru innifalin í þeim samningum til að sækja fram, breikka umræðuna um landbúnaðinn og takast á við það verkefni sem ég rakti áðan, hvort við værum að loka atvinnugreinina inni í einum áratug af óbreytanleika. Svo er alls ekki. Það má vel vera, og ég reikna fastlega með því, að margir þeir sem greiddu atkvæði um þessa samninga í atkvæðagreiðslum meðal bænda í vor hrökkvi við þegar þeir sjá þessa framsetningu og afgreiðslu nefndarinnar á búvörusamningum en ég bið þá hina sömu að rýna vel í hvað er verið að leggja á borðið og til hvers við erum að reyna að þróa málið áfram til að búa til meiri sátt.

Meiri sátt hefur verið boðorð hv. atvinnuveganefndar í allri þessari umfjöllun. Ég held að engin atvinnugrein á Íslandi standi núna frammi fyrir því að rétta betur fram hönd til sáttaumræðu um starfsskilyrði sín og kjör. Í kjölfar þjóðarsáttarsamninganna 1991 fór fram mikið og breitt samtal um landbúnað og landbúnaðarkerfi á Íslandi. Það samtal var óhjákvæmilegt, það samtal leiddi til grundvallar að þeirri landbúnaðarstefnu sem við ræðum enn hér og erum að breyta í veigamiklum atriðum. Í aðdraganda mjólkursamnings sem gerður var árið 2004 var líka breitt samtal um hagsmuni mjólkurframleiðslunnar, neytendanna og framleiðendanna. Sú vinna varð síðan andlag að mjólkursamningi er gerður var árið 2004. Þeir stóru starfshópar og sú breiða samvinna kenndi okkur fyrst og fremst að atvinnugrein landbúnaðar á taugar víða. Hún er oft og tíðum umdeild og í skotfæri en hún þarf á því að halda að opna bækur sínar og skapa aukinn og mikinn skilning á aðstæðum sínum. Stóra boðorðið sem atvinnuveganefnd leggur til í þeim breytingum sem við fjöllum um í okkar nefndaráliti er að við nýtum þau endurskoðunarákvæði sem felast í samþykktum samningum bændanna og undirritaðir hafa verið af ráðherrum ríkisstjórnarinnar og tökum núna þrjú ár í breitt þjóðarsamtal um íslenskan landbúnað. Hvort sem við beitum til þess aðferðum þjóðfunda eða öðrum slíkum verkfærum skal ég ekki dæma um en við leiðum hér fram sem eina af breytingartillögum okkar að landbúnaðarráðherra myndi þann samstarfsvettvang sem fyrst og að við hefjum það samtal þannig að þegar kemur til endurskoðunarinnar árið 2019 hafi átt sér stað þjóðarsamtal um íslenskan landbúnað, hvert við viljum stefna með hann, hvernig við viljum að hann líti út og hvernig við ætlum að búa okkur undir framtíðina. Það breytir því ekki að hin endanlega samningagerð um sjálfa landbúnaðarstefnuna og framkvæmd hennar verður áfram á hendi bændanna sjálfra og stjórnvalda þó að við höfum undirbyggt hana í breiðu þjóðarsamtali.

Í fjölmörgum umsögnum til nefndarinnar hefur verið velt upp ýmsum hliðum sem of langt mál er að tíunda í þessari framsögu. Meiri hluti atvinnuveganefndar dregur fram í einum níu tölusettu atriðum í nefndarálitinu hvert verkefni þessa þjóðarsamtals ætti að vera.

Í fyrsta lagi tökum við þar fram að menn þurfa miklu nánari greiningu á sérstöðu íslensks landbúnaðar, hvaða sérstöðu við viljum verja til frambúðar í íslenskum landbúnaði og hvernig við getum styrkt samkeppnishæfni hans er varðar gæði og hreinleika. Sú sérstaða er ekki síst í heilbrigðum dýrastofnum okkar, í grasfóðrun okkar, í lítilli notkun tilbúins áburðar sem er óvenjulítil notkun á hér á landi miðað við margan annan landbúnað sem við berum okkur saman við, miklu minni lyfjanotkun en annars staðar og svo banni við því að nota hér vaxtarhvetjandi efni eða vaxtarhormón. Þegar árið 1965, fyrir rúmlega hálfri öld, stigum við það gæfuspor að útiloka það úr okkar landbúnaði. Það var líka undir forustu íslenskra bænda árið 1985 sem stigið var það skref að hvetja stjórnvöld til að draga verulega saman notkun sýklalyfja í fóðri og útiloka þau nánast úr fóðri hér á landi og það skilar okkur þeim árangri að við erum með landbúnað sem í alþjóðlegum samanburði notar einna minnst af fúkkalyfjum til framleiðslu sinnar. Við þekkjum að því miður þarf í mörgum löndum vegna þauleldisbúa þar, sem sumir kalla verksmiðjubú, að nota mikið af lyfjum til þess einfaldlega að láta bústofninn þrífast og vaxa áfram. Þannig er t.d. nauðsynlegt í Þýskalandi að gefa kjúklingahópum tvö til þrjú breiðvirk sýklalyf til að ná þeim upp í sláturstærð. Allt er þetta sérstaða sem íslenskur landbúnaður hefur og við trúum að menn vilji varðveita til lengri tíma og byggja á þeirri sérstöðu og þannig taka utan um samkeppnishæfnina. Þetta er tvímælalaust helsta samkeppnisforskot íslensks landbúnaðar. Þess vegna vekur meiri hluti atvinnuveganefndar líka athygli á því að í þessu ljósi sé tímabært, á þeim tíma sem við notum fram að fyrstu endurskoðun búvörusamninga, að ræða kosti og galla þess að útiloka erfðabreytt fóðurhráefni í íslenskum landbúnaði. Ég tel það persónulega mikið gæfuspor en við skiljum það eftir til nánari greiningar á þessum samráðsvettvangi til þess að við getum farið nánar í þá umræðu á dýptina.

Þriðji tölusetti punkturinn í nefndaráliti meiri hlutans er að eitt af stóru verkefnum samráðsvettvangsins og undirbúnings að næstu endurskoðun varði loftslags- og umhverfismál. Við leggjum til að við endurskoðun samninga árið 2019 hafi farið fram undirbúningur að heildaráætlun um hlutverk landbúnaðarins í aðgerðum er snerta loftslags- og umhverfismál, að við skerpum á þeim atriðum í samningunum er snúa að umhverfismálum og setjum fram tölusett markmið og áfanga í þeim verkefnum sem bændur og ríkisvaldið hyggjast vinna sameiginlega að á næstu árum. Meiri hlutinn er sammála um mikilvægi þessara verkefna og telur að þau þurfi að setja sterkan svip á endurskoðun samninganna árið 2019. Hér er m.a. átt við vegvísi um minni losun gróðurhúsalofttegunda í landbúnaði, áætlun um endurheimt votlendis, sívirkt rannsóknar-, mats- og vöktunarkerfi með ástandi og þróun gróðurauðlinda til þess m.a. að tryggja sjálfbærni beitilands, skógrækt á vegum bænda, uppgræðslu í samvinnu við bændur, samanber verkefnið Bændur græða landið, og umhverfisráðgjöf til bænda, t.d. um bindingu kolefnis og minni losun, svo og orkusjálfbærni í landbúnaði.

Það vantar tommustokk til að veita bændum ráðgjöf ef við komum t.d. að loftslagsmálum og hvað við getum bundið og hvernig við getum minnkað losun í íslenskum landbúnaði. Okkur vantar grundvallarþekkingu og grundvallarleiðbeiningartæki til að við getum unnið að þessum verkefnum við okkar sérstaka, íslenska landbúnað að þessu leyti. Við höfum margar vísbendingar og margar erlendar mælingar og niðurstöður sem við þurfum að fara yfir og sannreyna hér heima. Við eigum miklar vísbendingar um að t.d. vegna fóðrunar nautgripa með grasi, sem er fyrst og fremst stunduð hér á landi, sé mun minni losun gróðurhúsalofttegunda frá þeirri búgrein en frá sömu búgrein sem stunduð er í öðrum löndum með mikilli fóðrun á korni.

Fjórði tölusetti liðurinn sem meiri hlutinn leggur til fyrir næstu endurskoðun er að gera alvöruátak í upplýsingagjöf til neytenda um búvöru. Við höfum í vinnu okkar kafað rækilega ofan í það að það þurfi að upplýsa neytendur um vöruna sem er í hillunum, hvernig hún er framleidd og við hvaða aðstæður. Þetta er einn af þeim rauðu þráðum sem við getum sagt að hafi verið í fjölmörgum umsögnum til nefndarinnar, upplýsingagjöf til neytenda og réttur neytandans til að fá upplýsingar um hvernig varan er framleidd. Við höfum sett lög og reglur hér á landi. Við höfum fjölmörg tæki og tól til að ná þessu markmiði. Í nefndaráliti okkar bendum við á að t.d. megi ná þeim markmiðum með því að nota lög sem þegar er búið að samþykkja og setja reglugerðir á grundvelli þeirra. Við hvetjum eindregið til að það verði gert hið fyrsta.

Í fimmta lagi bendum við líka á að við viljum að upptöku á tilskipun Evrópusambandsins um upprunamerkingar verði hraðað sem mest má til að tryggja rekjanleika búvöru. Við höfum fengið upplýsingar um að það mál strandar á Norðmönnum í dag, eftir okkar vitund fyrst og fremst vegna þess að Norðmenn vilja ganga öllu lengra en tilskipunin leyfir. Ég held að það sé umhugsunarvert sjónarmið sem Norðmenn færa fram í þeim efnum. Þeir tala einfaldlega fyrir því að það verði ekki leyfilegt í þeim mæli sem tilskipunin heimilar að nota hráefni í matvælaframleiðslu sem ekki er getið sérstaklega um eða er tekið frá einhverjum öðrum markaðssvæðum en kemur fram í merkingu vörunnar. Ég tek dæmi sem er kannski fjarlægt okkur, þar er heimilað að nota verulegt magn af vínum frá Chile út í evrópsk rauðvín en samt eru þau upprunamerkt sem evrópsk vín. (Gripið fram í.) Það verður líka að geta þess í sambandi við umfjöllun um upprunamerkingar að upprunamerkingar er varða nautakjöt hafa þegar öðlast gildi á grundvelli þessarar tilskipunar og hafa verið innleiddar hér á landi sem var kannski fyrst og fremst viðbragð við hrossakjötssvindli sem stundum hefur verið kallað svo þar sem fór að bera á því að hrossakjöt væri selt neytendum sem nautakjöt. Upprunamerkingar er varða nautakjöt hafa þegar verið innleiddar.

Í sjötta lagi gerir meiri hluti atvinnuveganefndar sérstakar tillögur um að í greiningarvinnunni sem nú fer fram þurfi að ræða tengsl annarra atvinnuvega við landbúnað. Ísland fellur undir hina hreinu ímynd norðurslóða í augum umheimsins og mikilvægt er að hún standist skoðun. Hrein orka, heilnæm og fersk matvæli og tær náttúra eru atriði sem eru ofin inn í markaðsstarf útflutningsgreina og kalla á samræmd vinnubrögð. Vöxtur og viðgangur ferðaþjónustu hefur skapað sveitunum ný tækifæri víða um land, en um leið er það ferðaþjónustunni mikilvægt að viðhaldið sé menningarlandslagi og byggðamynstri í landinu sem landbúnaðurinn getur helst tryggt. Við endurskoðun landbúnaðarstefnu þarf sérstaklega að huga að tengslum landbúnaðar við aðra atvinnuvegi.

Virðulegi forseti. Áherslupunktur meiri hluta atvinnuveganefndar í þessu sambandi er að það er engin ein atvinnugrein sem ekki þarf að taka tillit til annarra. Atvinnugreinar hafa hagsmuni þvers og kruss. Þess vegna er mikilvægt að við greiningarvinnu og þjóðarsamtalið um landbúnaðinn sem nú fer í hönd áttum við okkur á að við erum ekkert eyland í íslenskum landbúnaði frekar en nokkur önnur atvinnugrein getur verið eyland.

Við ræðum um samkeppnismál og starfsumhverfi. Umræðan um samkeppnislög og mjólkuriðnað er oft og tíðum hávær. Ég á von á því að hún verði það áfram í þessari umræðu eins og oft áður. Þegar við skoðum regluverk um íslenska búvöruframleiðslu og um samkeppnislöggjöf og berum saman við önnur lönd er nú ósköp fátæklegt um að litast í okkar lagasafni um hvernig við stöndum að baki íslenskum landbúnaði miðað við mörg önnur ríki. Við höfum innleitt hér og vinnum samkvæmt samkeppnislöggjöf sem á uppruna sinn á hinu stóra Evrópska efnahagssvæði og við notum dagsdaglega hér á landi. (Gripið fram í.) Þau samkeppnislög gilda að sjálfsögðu á því efnahagssvæði sem kallað er Evrópska efnahagssvæðið en það sem ég ætlaði að draga fram er að þar gildir líka stór og mikil tilskipun um markaðsmál landbúnaðarvara. Markaðstilskipun landbúnaðarins í Evrópusambandinu er stór og þungur lagabálkur sem víkur ætíð til hliðar samkeppnislagaumhverfinu. Það er mikilvægt að hafa í huga að við höfum ákaflega fátækleg úrræði í okkar búvörulögum til að halda utan um búvöruframleiðslu og hagsmuni búvöruframleiðslunnar hér á landi miðað við mörg önnur ríki. Það getur bæði verið kostur og galli.

Um það hvort samráðsvettvangurinn eða endurskoðunarvinnan fram til 2019 leiðir það af sér að við breytum hinni frægu undanþágu mjólkuriðnaðarins frá tilteknum atriðum til samstarfs vil ég aðeins segja þetta: Það samstarf er miklu stærri pakki en eitthvert samstarf um uppgjör og verkaskiptingu innan mjólkuriðnaðarins. Sú undanþága er raunverulega hryggjarstykkið í byggðastefnu, hryggjarstykki í því að við getum sagt bændum: Þið hafið frelsi til að búa þar sem þið viljið hvar sem er um landið en þið hafið jafna stöðu gagnvart ykkar framleiðslugrein, í þessu tilfelli mjólkurframleiðslunni, og við leggjum miklar kvaðir á mjólkurfyrirtæki til að standa undir þeim skyldum. Í þeim heimi ætla ég að geta þess að heimild til samstarfs getur líka fætt af sér allt aðra vinkla en hafa endilega komið fram. Þannig er t.d. núna verið að ráðast í, á grundvelli þessarar heimildar um samstarf og samvinnu, stórt verkefni er varðar frárennsli frá mjólkurstöðvum og nýtingu á mysu sem til fellur við framleiðsluna og er stórt og mikið umhverfismál. Okkar ábending til endurskoðunarvinnunnar er að fjalla um samkeppni og starfsumhverfi afurðastöðva almennt.

Á fundi hv. atvinnuveganefndar í morgun vorum við með fulltrúa sláturleyfishafa og fulltrúa frá sauðfjárbændum þar sem við ræddum um verulega kjaraskerðingu bænda sem nú blasir við, líklega 15–25% launalækkun íslenskra sauðfjárbænda. Eðlilega hljótum við að spyrja: Hvað er það sem virkar ekki í starfsumhverfi okkar? Hvað er það sem okkur vantar til að við getum brugðist við slíkri stöðu sem núna er komin upp? Eru einhver tæki og tól sem við höfum lagt frá okkur sem valda þessari stöðu? Við gerð sauðfjársamninga árið 2007 var lagt til hliðar, að kröfu íslenskra stjórnvalda, mikilvægt tól sem hét útflutningsskylda á þeim tíma. Það má eiginlega með nokkrum rökum segja að sú ákvörðun sem þá var tekin komi nú af fullum þunga í hausinn á okkur með þeim veruleika sem blasir við íslenskum sauðfjárbændum þar sem allt samfélagið er á blússandi ferð, aukinn kaupmáttur, en þeir sitja uppi með verri kjör. Ýmislegt í starfsumhverfinu, sem auðvitað verður á hverjum tíma að harmónera við samkeppnislöggjöf og eðlilega samkeppnishætti, er nokkuð sem við þurfum sannarlega á að halda. Einn af áherslupunktunum í okkar breytingartillögum er að við viljum sérstaklega taka utan um hagsmuni þeirra sem standa í að framleiða úr hrámjólk vörur á innlendan markað, oft kallaðir minni vinnsluaðilar.

Í áttunda tölulið þeirra verkefna sem við felum samstarfsnefndinni að ræða er afkoma bænda. Við vekjum athygli á því að það þarf að greina kostnaðarsamsetningu og framleiðslukostnað í íslenskum búgreinum miklu meira en við höfum gert. Ég held að margt áhugavert geti komið út úr slíkri greiningarvinnu. Ég ætla sérstaklega að geta þess að margar vísbendingar eru um að afkoma bænda hafi ekki fylgt almennri launaþróun í landinu. Gera þarf ítarlegan samanburð á kröfum til innlendrar og innfluttrar framleiðslu og kortleggja áhrif á framleiðslukostnað.

Herra forseti. Í okkar huga hlýtur það að verða grundvallaratriði í nýrri landbúnaðarstefnu og nýjum búvörusamningum, eða hvað sem við köllum þá umgjörð sem við tekur, að við römmum inn þær auknu kröfur sem við gerum til innlendrar framleiðslu og þann kostnað sem hlýst af framleiðslu okkar í okkar fámenna landi sem býr við afar sérstakar aðstæður, a.m.k. á margan hátt. Það er líka verðugt að velta upp þeirri spurningu í tengslum við þennan punkt hvort búvöruframleiðsla og afurðaverð til bænda geti í raun og veru eitt og sér haldið uppi byggð í landinu.

Þetta eru þau aðalatriði sem meiri hluti atvinnuveganefndar leggur til að samráðsvettvangur ræði ásamt fjölmörgum öðrum atriðum sem hann mun örugglega taka sig til við að greina og átta sig á. Við teljum mjög mikilvægt að hratt verði gengið fram til þess að skapa rými fyrir slíkt þjóðarsamtal um landbúnað sem við erum að leggja upp með og að landbúnaðarráðherra gangi þar rösklega til verks og að þessu mikla starfi verði skapað nauðsynlegt rými sem og nauðsynlegar fjárveitingar. Það er augljóst að miðað við þau viðamiklu verkefni sem við höfum rammað inn í okkar nefndaráliti og fleiri atriði sem vafalaust koma upp í því samtali verður að kosta verulegu til svo við getum haft öflugan, góðan og vandaðan undirbúning að þeim miklu breytingum sem af því geta leitt.

Herra forseti. Það er óhjákvæmilegt að gerður tollasamningur blandist líka að verulegu leyti inn í umfjöllun um búvörusamninga. Við höfum eytt talsverðum tíma í að greina hann og við erum hér með tillögur um hvernig við getum komið til móts við aukna samkeppni og þar af leiðandi reynt að styrkja samkeppnisstöðu innlendrar framleiðslu á móti auknum innflutningsheimildum. Það sem ég vil geta sérstaklega er að við sköpum samt enn ekki landbúnaðinum þau tól og tæki að hann geti endurreist framleiðslugetu sína. Við töpum á hverju einasta ári hlutdeild á markaði, í það minnsta í svína- og kjúklingaframleiðslunni, án þess að við höfum skapað þeim búgreinum nein alvörutækifæri til að takast með framleiðslu á við stækkandi markað, því miður. Auðvitað eru engar patentlausnir til í þeim efnum en það er sannarlega eitt af þeim verkefnum sem við þurfum að takast á við. Í breytingartillögum erum við með tímamótatillögur um að t.d. sérupprunamerktir ostar, sem samið var um í tollasamningi, verði fluttir inn án útboða en úthlutað með hlutkestisaðferð sem nánar er rakin í greinargerð okkar. Við teljum að 230 tonna kvóti með sérupprunamerktum ostum sé þess eðlis að við eigum af fremsta megni að leitast við að láta hann verða til þess að auka hér lífsgæði, getum við sagt, auka vöruval í búðum og að ávinningurinn af þeirri breytingu skili sér hratt og vel til neytenda en reynum á sama tíma að láta það ekki verða til þess að hann verði einhæfur innflutningur á einni ostategund sem stíflar markaðinn á degi eitt frá því að hann kemur til framkvæmda.

Ég held að það sé líka óhjákvæmilegt að við ræðum í tengslum við tollasamning og frágang á búvörusamningum og þessu þingmáli að ýmis iðnaður í landinu notar mikið af landbúnaðarhráefnum. Við tökum sérstaklega utan um hagsmuni þeirra er nota mjólkurduft og vekjum athygli á því að verðlagsnefnd búvöru sem hefur verðlagt búvöru, eðli málsins samkvæmt, lækkaði í sumar um 20% mjólkurduft til matvælavinnslu. Við leggjum eindregið til að á hverjum tíma sé verðlagning á mjólkurdufti í ákveðnu samhengi við heimsmarkaðsverð. Til skamms tíma var heimsmarkaðsverð reyndar mun hærra en mjólkurduftsverð var skráð á Íslandi. Þetta er ein af þeim mótvægisaðgerðum sem við teljum mikilvægt að komi til framkvæmda, til móts við nýjan tollasamning, til að tryggja að íslenskur matvælaiðnaður geti (Forseti hringir.) notið íslenskra hráefna.

Herra forseti. Í nefndarálitinu eru tíundaðar breytingartillögur okkar sem ég hef ekki tíma til að rekja nánar en hlakka til að taka þátt í umræðunni um þetta stóra mál.



[14:40]
Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það vekur mikla athygli í ræðu hv. þingmanns og í áliti meiri hluta atvinnuveganefndar að menn ætla núna að efna til þjóðarsamtals um landbúnað, um stefnumörkun í greininni eftir að búið er að gera samning til tíu ára. Getur hv. þingmaður fullvissað þingheim um að það samráð verði nokkuð annað en sýndarsamráð? Því að til stendur engu að síður af hálfu meiri hlutans að afgreiða samninginn til tíu ára. Í hvaða stöðu verður ríkið til þess að endurmeta útgjöld og aðferðir samkvæmt samningnum í því sýndarsamráði sem fram undan er? Getur hv. þingmaður fullvissað þingheim um að það verði mögulegt fyrir ríkið að víkja frá ákvæðum samningsins bótalaust?

Það er líka með eindæmum af hálfu ríkisstjórnarinnar að leggja fram samning þar sem engin greining á samningsmarkmiðum hefur farið fram fyrir fram og það skuli vera þingsins eftir á að reyna að búa til markmið með samningsgerð um útgjöld til tíu ára, hjá ríkisstjórn sem er á síðustu metrunum, í andarslitrunum, lafmóð, örend, að reyna að slefa sér yfir marklínuna. Og það skuli þá virkilega vera metnaðarmál þess stjórnarmeirihluta sem situr í þessari framorðnu ríkisstjórn og veitir henni stuðning á Alþingi, að reyna að binda hendur þriggja næstu þinga með útgjöldum sem helst er hægt að jafna við Icesave, verstu útgáfuna af Icesave-samningum, 200 milljarðar ef allt er talið, jafnt tollvernd og bein útgjöld til næstu tíu ára.

Getur hv. þingmaður lofað því að hér sé hægt að endursemja? Getur hann lofað því að verið sé að ganga frá samningi til þriggja ára en ekki tíu?



[14:42]
Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Haraldur Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég get lofað hv. þingmanni því að þingið hefur þær heimildir sem til þarf til að taka upp á hverjum tíma þær áherslur sem það sjálft vill leggja í samningum og samskiptum við bændur. Það kom rækilega fram á fundi hv. atvinnuveganefndar við undirbúning að þessu máli. Við höfum líka söguna til að vísa í í þeim efnum, því að ríkisstjórn sem hv. þingmaður studdi á sínum tíma gekk inn í búvörusamninga og lækkaði framlög til þeirra, síðan var samið um það eftir á þegar önnur stjórnarskipti höfðu orðið og þingmaðurinn studdi þá ríkisstjórn reyndar líka.

En það sem ég saknaði aftur á móti frá þingmanninum í hans ágæta andsvari var hvaða sýn hann hefði á þetta og hvað hann ætlaði að leggja til. Ætlar hann að leggja til það sem hann gerði oftast í fyrrverandi ríkisstjórn, að framlengja alltaf gömlu samningana aftur og aftur og takast aldrei á við breytingar og þora aldrei að takast á við það sem raunverulega þarf að gera, að brjótast út úr því sem m.a. skilar íslenskum sauðfjárbændum 25% tekjulækkun á þessu hausti.



[14:43]
Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Því er auðsvarað hvað ég vil gera. Ég vil taka á ofstýringarkerfinu í greininni, auka markaðsfrelsi. Ég sagði stjórnvöldum þegar var verið að vinna að þessari samningsgerð, að ef það kostaði tíu ára samning að losa okkur út óstjórnar- og ofstjórnarkerfinu sem við búum við þá væri ég alveg tilbúinn til þess. Vandinn er bara sá að hér eru menn ekkert að taka á því. Framleiðslustýringin er ekki afnumin. Og menn viðhalda óbreyttu ástandi.

Ég vil þess vegna líka spyrja hv. þingmann, vegna þess að hann sagði ósatt í ræðu sinni áðan að það væri nauðsynlegt að viðhalda undanþágunni frá samkeppnislögum fyrir mjólkuriðnaðinn. Það kom skýrt fram frá Samkeppniseftirlitinu fyrir nefndinni að það væri ekkert í skyldunni til þess að sækja mjólk á sama verði um allt land sem krefðist undanþágu frá samkeppnislögum. Hvers vegna er meiri hlutinn að viðhalda þeirri skekkju, þvert á það sem ætlunin var þegar þeirri undanþágu var komið á 2004, hún átti að vera tímabundin, til að greiða (Forseti hringir.) fyrir samþjöppun í greininni? Hvers vegna (Forseti hringir.) er verið að viðhalda því?



[14:45]
Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Haraldur Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Árni Páll Árnason stóð tvisvar að því að framlengja gömlu búvörusamningana, og er rétt að taka fram að ég tók þátt í því með honum. Ég get líka þar af leiðandi vitnað um að það var ósköp örðugt að fá eitthvert samtal um það að gera breytingar sem þá þegar þurfti að fara að gera. Það eru þær breytingar sem við erum að leggja af stað með hér. Við erum ekki að segja að undanþága mjólkuriðnaðarins þurfi að standa um aldur og ævi. Ég tek undir orð hv. þingmanns að hún var sett á til að ná fram ákveðnum markmiðum. En veruleikinn er einfaldlega sá að þessi undanþága er mörg hundruð milljóna virði. Förum við nú kannski að nálgast umræðuna um það hvernig við ætlum að aflétta henni eða breyta henni til að ná sömu markmiðum. Það getur líka þýtt að við þurfum að stofna til annarra ríkisútgjalda og annarra aðferða til að takast á við það. Ef við tökum bara nákvæmlega stöðuna eins og hún er í dag, að hið ágæta mjólkurvinnslufyrirtæki Arna í Bolungarvík, (Forseti hringir.) sem vonandi nýtir bráðum alla þá mjólk sem til fellur á Vestfjörðum, hefur þá rétt á að láta stóran (Forseti hringir.) markaðsráðandi aðilann, Mjólkursamsöluna, keyra til sín mjólk alls staðar að af landinu án þess (Forseti hringir.) að borga neitt sérstaklega fyrir það.



[14:46]
Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla að nýta mér þann rétt að fara í andsvar við hv. þm. Harald Benediktsson, framsögumann málsins fyrir hönd meiri hlutans. Ég kem svo að öðrum atriðum þegar ég flyt mitt nefndarálit á eftir.

Það sem mig langar í upphafi að spyrja hv. þingmann út í varðar samkeppnislög og undanþágu frá samkeppnislögum fyrir mjólkurframleiðslu í landinu. Ég spyr vegna þess að aðrir hlutar samningsins, t.d. sauðfjársamningurinn eins og kom fram á fundi í morgun og framleiðsla hjá Örnu í Bolungarvík og Kú í Kópavogi, eru undir samkeppnislögum. Sama má segja í raun og veru um garðyrkjubændur að ég veit best. Þarna nefni ég sauðfjárbændur, tvö fyrirtæki í mjólkuriðnaði, Örnu og Kú, og grænmetisframleiðendur, allt aðilar undir samkeppnislögum. Er þessi undanþága þá ekki tímaskekkja í dag og hefði ekki verið betra að við tækjum undanþáguna frá og felldum allar greinarnar undir samkeppnislög?

Spurning mín til hv. þingmanns er þessi: Af hverju eru sauðfjárbændur, Arna, Kú og grænmetisframleiðendur undir samkeppnislögum en mjólkurframleiðendur, MS og Auðhumla, ekki?



[14:48]
Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Haraldur Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Í öllum meginatriðum er landbúnaður, úrvinnsla, dreifing, undir samkeppnislögum þótt við höfum haft þetta sérstaka ákvæði er varðar verkaskiptingu og heimild til hagræðingaraðgerða í mjólkuriðnaði sem við settum og hefur verið rakið hér. Þetta á sér líka miklu fleiri hliðar. Við getum rifjað upp söguna frá árinu 2002 þegar búið var að ákveða að hætta opinberri verðlagningu á heildsöluverði á mjólkurvörum og síðan var bakkað út úr þeirri ákvörðun. Það var ekki að kröfu íslenskra bænda. Það var að kröfu smásöluverslunar hér landinu þar sem þetta atriði, sama verðið fyrir þennan mikilvæga vöruflokk í íslenskri matvöruverslun, gerði að verkum að minni aðilar á markaði gátu treyst því að fá hann á sama verði.

Ég held að undanþága frá samkeppnislögum vegna mjólkuriðnaðar sé vonandi að verða óþörf. Ég held að fram að þeim tíma þurfum við að lyfta miklu grettistaki og skoða hvernig við framkvæmum samkeppnislöggjöfina, hvaða samkeppnismarkmiðum við viljum ná. Ég hef m.a. skrifað blaðagrein er fjallar um skortsölu og starfshætti á smásölumarkaði.

Ég vil líka minna á að hvað Samkeppniseftirlitið hefur sagt, t.d. í skýrslu sinni í janúar 2012 um matvörumarkaðinn, með leyfi forseta:

„Upplýsingar um innkaupsverð dagvöruverslana frá birgjum á algengum mjólkurvörum sýna að mjög lítill munur er á viðskiptakjörum til verslana og er þetta eini flokkurinn þar sem minni verslanir eru með svipuð kjör og stóru verslunarsamstæðurnar.“

Við getum ekki skoðað bara eina hlið á þessum teningi. Þetta er miklu stærra spilverk en oft kemur fram í umræðunni. Þetta snýr m.a. að því að við viðhöldum virkari samkeppni á smásölumarkaði. Við skulum ekki gleyma því.



[14:50]
Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér finnst í raun og veru dálítið merkilegt það sem hv. þingmaður segir, með tilliti til þess að hv. þingmaður er þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem hefur borið fyrir sig að vilja viðskiptafrelsi og frelsi í viðskiptum o.s.frv., um að mjólkin og mjólkurframleiðsla sé undanþegin samkeppnislögum. Þess vegna spyr ég hv. þingmann aftur og bið hann að svara alveg skýrt varðandi það sem mér fannst koma hér fram: Ef til vill var undanþágan nauðsynleg meðan ákveðin hagræðing átti sér stað, en er hún nauðsynleg núna árið 2016? Ég segi nei og ég spyr hv. þingmann vegna þess að ég hef haft það sjónarmið og spurt gesti á nefndarfundum: Er það ekki bara til góðs fyrir Bændasamtökin og Mjólkursamsöluna og aðra hreinlega að stíga fram og segja: Já, við óskum eftir því núna að þessi undanþága falli brott og við föllum bara undir samkeppnislög eins og aðrar greinar landbúnaðarins?



[14:51]
Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Haraldur Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég er þeirrar skoðunar að hún eigi og þurfi að standa enn um sinn. Mér finnst það vera til nokkurs merkis um að þingmaðurinn sé kominn á ákveðinn flótta frá sínum málflutningi þegar hann fer að tala um það hvernig í veröldinni þetta geti komið frá þingmanni Sjálfstæðisflokksins, það sjónarmið sem ég er að rekja hér. Landbúnaður, hvar sem við berum niður í landbúnaði, er ekki settur á mælistiku frjálsrar verslunar. Ég vil líka benda hv. þingmanni á …(Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Ég rakti í framsögu með nefndarálitinu að markaðstilskipun Evrópusambandsins um landbúnaðarmál er full af slíkum inngripum sem við getum sagt að sé í ætt við þessa undanþágu, bara vegna þessa frammíkalls vildi ég taka þetta fram. Ég vil líka þá vekja athygli á því að í tvígang meðan hv. þingmaður sat í ríkisstjórn var búvörulögum breytt og þá var ekki gerð tilraun til að taka þessa undanþágu út þannig að við skulum skoða bæði orð og efndir í þessum samræðum.



[14:52]
Frsm. 3. minni hluta atvinnuvn. (Björt Ólafsdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þjóðarsamtal um landbúnað, sagði hv. þingmaður, en er það ekki einkennilegt að vilja lögfesta fyrst samninginn og spyrja svo álits, taka svo samtalið? Það er þetta sem við í Bjartri framtíð höfum bent á og ekki bara núna. Við báðum um það og kölluðum eftir því í þessum sal árið 2014, ítrekað, að við gerð þessara samninga yrði farið strax í samtal og samvinnu um samningana en það var ákveðið að gera það ekki. Núna vill stjórnarmeirihlutinn allt í einu gera þetta en nota bene eftir að þessi samningur verður lögfestur. Ég hræðist þetta og tortryggi.

Ég vil aðeins koma að afkomu bænda af því að hér var rakið hvernig meiri hlutinn hefur áhyggjur af henni. Það á að skoða þróun tekna. Ég skal segja ykkur hvernig hún er. Við dræma sölu eða við breytingu á gengi krónunnar, við hækkun á gengi eins og nú er, lækkar afurðaverð til bænda. Afurðastöðvar boða nú t.d. 10% lægra verð til sauðfjárbænda. Þessi samningur bregst þannig við að auka gripagreiðslur. Það mun leiða til meiri framleiðslu, þetta er bara mjög einföld hagfræði, verð lækkar með auknu framboði og svona verður afkoma bænda. Hún verður áfram lakari og enn lakari með samþykkt á þessum samningi. Og mig langar ofureinfaldlega að spyrja: Af hverju einbeitir meiri hluti atvinnuveganefndar sér ekki að því að auka hag bænda (Forseti hringir.) og gera hann betri?



[14:55]
Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Haraldur Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég held að það sé mjög mikilvægt, eins og ég rakti í framsögu minni, að við hefjum núna vegferðina að þessum stóru breytingum. Það er þess vegna sem sleginn er þessi tíu ára rammi, þess vegna erum við lögð upp í mikla breytingaferð og ég held að það þjóðarsamtal sem við viljum núna setja ákvæði um í lögin og ræsa fram sé mikilvægt sem hluti af því breytingaferli sem þarf að fara fram. Ég ber virðingu fyrir skoðunum hv. þingmanns um það hvort þetta hafi átt að koma á undan eða eftir en veruleikinn er einfaldlega sá að hinn kosturinn er að gera ekki neitt, halda áfram með gömlu samningana og fresta því enn um sinn að takast á við þessa umræðu á meðan við bíðum eftir einhverju öðru skipi.

Ég tek undir með hv. þingmanni um þróun á afkomu bænda og veit að hún hefur góða þekkingu á því og áhyggjur líkt og við mörg fleiri. Ég held að það sé nefnilega svo mikilvægt þegar veruleikinn er orðinn þessi — um langan tíma var skilaverð á nautakjöti til bænda lægra og svipað og í öðrum löndum, núna er skilaverð á lambakjöti til bænda mun lægra en í öðrum löndum — að við skoðum allan virðisaukaferilinn, allan vinnsluferil vörunnar frá bónda til neytanda og áttum okkur á því hvar óhagkvæmnin er. Hvar verður verðið til? Ég held að ekki fyrr en við erum búin að komast í gegnum þá umræðu getum við tekist á við það. Ég held að við getum sagt með ágætri samvisku að næstum hver einasta búgrein á framleiðandastiginu sé fyllilega samkeppnishæf þrátt fyrir allt, þrátt fyrir fámennið, þrátt fyrir legu landsins í heiminum, en þegar farið er í gegnum allan vinnsluferilinn keyrir út af einhvers staðar. (Gripið fram í.) Það geta verið margar ástæður fyrir því sem við þurfum að komast að.



[14:57]
Frsm. 3. minni hluta atvinnuvn. (Björt Ólafsdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Með fullri virðingu, þetta er atriði sem hefur þurft að skoða lengi. Ég veit að hv. þingmaður hefur einmitt talað fyrir því mjög lengi að skoða þessi hluti. Hvað mun koma út úr þjóðarsamtali um þetta tiltekna mál sem mun einhvern veginn breyta sýn hans? Við þekkjum öll hvernig aðstæður hafa verið hérna; kjötfjöllin, offramleiðslan, lækkað verð til bænda. Við þekkjum alveg þá sögu. Við vitum alveg við hvað er að glíma. Í þessum samningum eru lagðar til auknar gripagreiðslur sem mun þýða offramleiðsla, sem mun þýða lækkað verð til bænda. Hvernig getur meiri hluti atvinnuveganefndar boðið bændum upp á þetta, boðið bændum enn og aftur upp á verri kjör?



[14:58]
Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Haraldur Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Við höfum gengið í gegnum mörg breytingaskeið eins og hv. þingmaður rekur. Við höfum gengið í gegnum offramleiðslu, við höfum gengið í gegnum fækkun bænda. Við höfum líka gengið í gegnum skort. Þegar undirbúningur samningsgerðar að þeim samningum sem við fjöllum um í dag hófst leit t.d. út fyrir skort á mjólk. Það er ekki þannig lengur.

Ég hef ekki sömu áhyggjur af því að þær breytingar sem leiddar eru fram í búvörusamningnum sem við erum hér að staðfesta leiði til offramleiðslu eða verulegrar fjölgunar sauðfjár eins og hv. þingmaður hefur áhyggjur af og hún hefur rakið skilmerkilega. Ég held t.d. að þau verð sem nú er verið að bjóða fyrir þessa framleiðslu sé ekki beint hvetjandi fyrir bændur að stækka bú sín eða leggja út í meiri tilkostnað við þá framleiðslu.

Hvað kemur út úr samtalinu sem ég hef ekki séð áður? Ég held að það sé mjög mikilvægt að þingið, hið háa Alþingi, og atvinnuveganefnd, geti ekki verið að leggja einhverjar línur um það hvað eigi að koma út úr því. Ég hef ákveðnar hugmyndir hvað ætti að koma út og hvernig við ættum að bregðast við. Veruleikinn er því miður sá (Forseti hringir.) að okkur hefur í langan tíma vantað góða statístik um ýmsa þætti í búvöruframleiðslunni og við þurfum að ráða bót á því.



[14:59]Útbýting:

[15:00]
Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég flyt hér í byrjun nefndarálit mitt, sem skipa 1. minni hluta atvinnuveganefndar, um frumvarp til laga um breytingu á búvörulögum, búnaðarlögum og tollalögum (búvörusamningar og búnaðarlagasamningur).

Fyrir það fyrsta nefni ég að 1. minni hluti telur rétt að benda á þá stöðu sem þingið er sett í hvað varðar gerð og staðfestingu búvörusamninga. Samningurinn er gerður milli ráðherra í ríkisstjórn og Bændasamtakanna án nokkurrar aðkomu Alþingis á undirbúnings- og samningatíma. Málunum er eins háttað núna og venjulega, þ.e. þingið stendur frammi fyrir orðnum hlut og getur nær engu breytt þar sem því er þá haldið fram að samningurinn haldi ekki og verði að fara í aðra atkvæðagreiðslu meðal bænda.

Fyrsti minni hluti telur þetta óásættanlega stöðu fyrir Alþingi og alþingismenn og telur rétt að ráðherra leggi fram samningsmarkmið í formi þingsályktunartillögu sem Alþingi getur rætt og lagt til breytingar á ef svo ber undir. Þau samningsmarkmið sem hefðu fengið umræðu á Alþingi yrðu svo undirstaða viðræðna ríkisins við bændur við gerð búvörusamnings sem Alþingi mundi svo samþykkja að loknu slíku ferli.

Á fundum nefndarinnar hafa komið fram margvíslegar athugasemdir og gagnrýni frá umsagnaraðilum og gestum sem með hliðsjón af framansögðu er í raun ekki hægt að bregðast við. Þó leggur 1. minni hluti fram eftirfarandi breytingartillögur:

Í fyrsta lagi er lagt til að ráðherra tilnefni fulltrúa minni vinnslufyrirtækja mjólkurafurða í verðlagsnefnd búvöru og munu Samtök afurðastöðva fyrir búvöru þá tilnefna einn fulltrúa en samkvæmt gildandi lögum tilnefna síðarnefnd samtök tvo fulltrúa. Sú ánægjulega þróun hefur átt sér stað að samkeppni hefur aukist í þessari grein og minni aðilar hafa haslað sér völl og er breytingartillagan lögð fram til að leitast við að treysta stöðu þeirra.

Nefna má merkilegt framtak bæði Örnu í Bolungarvík, áður Mjólku og nú fyrirtækisins Kú í þessu sambandi. Þarna geng ég lengra en meiri hlutinn gerir sem leggur til að þessir minni aðilar fái að tilnefna áheyrnarfulltrúa í verðlagsráð búvara. Ég legg til að þessu verði skipt og tel ég að það gæti verið góð leið til aukinna sátta um þessi mál, til að ræða þau þar inni.

Í öðru lagi leggur 1. minni hluti til að skýrt verði kveðið á um að gildistími samninganna sé til þriggja ára og eru lagðar til breytingar á nokkrum ákvæðum þar að lútandi. Mikil gagnrýni hefur komið fram um lengd samninganna til tíu ára og er þar um tvö kjörtímabil að ræða.

Í því sambandi vil ég nefna að eftir beiðni mína var kallaður á fund nefndarinnar prófessor við Háskóla Íslands sem er sérfræðingur í samningarétti, sem fór yfir málin með okkur og þessa tillögu taldi ég nauðsynlegt að flytja í framhaldi af því. Þess skal getið að sá ágæti fulltrúi sem kom fyrir nefndina benti líka á að það væri til mikils skýrleika og til bóta ef samningsaðilar, þ.e. fulltrúar ríkisvaldsins og bændasamtaka, kæmu sér saman um bókun sem mundi fylgja með málinu hér um að um þriggja ára samning væri að ræða sem hægt væri að taka upp frá báðum aðilum, en svo er í raun ekki nógu skýrt kveðið á um nú.

Ég hef gengið eftir því og spurt hvort þessi bókun muni koma. Því var svarað til af þeim sem skipa meiri hluta nefndarinnar að að því yrði unnið fyrir 3. umr. Ég tel afar mikilvægt að það komi fram.

Í þriðja lagi er lagt til að undanþága mjólkuriðnaðarins frá samkeppnislögum falli brott og sömuleiðis 3. mgr. 13. gr. laganna en þar er mælt fyrir um að verðtilfærslur milli afurðastöðva í mjólkuriðnaði séu heimilar þrátt fyrir ákvæði samkeppnislaga. Einnig er lögð til viðbót við 13. gr. laganna um skyldu afurðastöðvar til að selja öðrum vinnsluaðilum mjólk á verði sem samræmist 1. mgr. 13. gr. laganna. Breytingin byggist að mestu leyti á tillögum sem Samkeppniseftirlitið sendi nefndinni með minnisblaði, dagsett 23. ágúst 2016, en nefndin hafði óskað eftir tillögum frá eftirlitinu í þessa veru.

Ég vil vekja sérstaklega athygli á því að nefndin hafi óskað eftir tillögum í þessa veru sem ég geri hér að tillögum mínum. Um þetta má hafa mörg orð. Það hefur mikið verið rætt m.a. í nefndinni og eins komu eftir beiðni mína fulltrúar frá MS og Auðhumlu til fundarins til að ræða þessi mál. Það sem gerðist var að það þurftu ekki margir að koma inn. Nánast sömu menn sitja í stjórn MS og Auðhumlu. Í Auðhumlu er að vísu sjö manna stjórn en fimm manna stjórn í MS, en mikið til skipuð sama fólki. Þá var skráð þannig inn, sem kunna að hafa verið mistök og þau verið leiðrétt, ég vil taka það skýrt fram, að framkvæmdastjóri Auðhumlu var skráður sem starfsmaður MS. Hvernig þetta er gert sýnir að í nútímaþjóðfélagi í dag, nútímarekstri, getur þetta ekki gengið svona. Það kom fram t.d., ef ég man rétt, að MS leigir Auðhumlu bíla og tæki til að safna mjólk, en Auðhumla er hins vegar eignarhaldsfélag sem á fullt af fasteignum og leigir MS. Þetta er ekki form sem á að vera til árið 2016. Vitna ég í það sem ég sagði áðan í stuttu andsvari við hv. þm. Harald Benediktsson að það kann vel að vera, og ég er nokkuð sammála því, að undanþágan hafi verið nauðsynleg fram að þessu en ég er algjörlega á því núna að undanþáguna eigi að fella úr gildi og ítreka það sem ég sagði áðan að mér hefði fundist betra að sú tillaga hefði komið bæði frá Bændasamtökunum og þessum fyrirtækjum.

Í fjórða lagi er lögð til breyting á 3. mgr. 65. gr. laganna um úthlutun tollkvóta þess efnis að hlutkesti skuli ráða úthlutun tollkvóta ef það berast umsóknir um meiri innflutning en sem tollkvótanum nemur. Þó er jafnframt kveðið á um að hver umsækjandi eða tengdur aðili geti að hámarki fengið 15% af heildarmagni.

Ef ég hef tíma, virðulegi forseti, þegar ég er kominn í gegnum þetta nefndarálit mun ég setja fram frekari rökstuðning í þessu máli.

Í fimmta lagi leggur 1. minni hluti til að við frumvarpið bætist ákvæði þess efnis að unnt verði að afnema greiðslur frá hinu opinbera til þeirra sem hafa ítrekað brotið gegn lögum um velferð dýra. 1. minni hluti bendir á að í því frumvarpi sem varð að lögum um velferð dýra, þ.e. 283. mál á 141. löggjafarþingi, var ákvæði í þessa veru en það var fellt brott í meðförum þáverandi atvinnuveganefndar. Í áliti nefndarinnar á þskj. 1216 kom eftirfarandi fram, með leyfi forseta:

„Nefndin tekur þó fram að tilvist úrræðisins er eðlileg og í góðu samhengi við þær kröfur sem telja má eðlilegt að gera til gagnaðila ríkisins að samningum sem fela í sér ráðstöfun opinbers fjár. Því beinir nefndin þeirri beiðni til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins að það taki til sérstakrar skoðunar hvort ekki sé rétt að skapa rými til upptöku úrræðisins við síðara tilefni, t.d. við endurskoðun búnaðar- og búvörulaga og endurnýjun samninga á grundvelli þeirra.“

Svo virðist hins vegar sem þessi atriði hafi ekki verið rædd við gerð fyrirliggjandi búvörusamninga þrátt fyrir tilmæli nefndarinnar. Því er þessi tillaga flutt nú.

Fyrsti minni hluti sendi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu eftir að þing kom saman nú í september nokkrar spurningar og bað um svör við þeim og eru í fylgiskjali birtar nokkrar töflur til upplýsinga og fróðleiks. 1. minni hluti harmar og gagnrýnir að ráðuneytið hafi ekki getað svarað spurningum um heildartolltekjur ríkisins af innfluttum landbúnaðarvörum, skipt eftir hinum ýmsu landbúnaðarvörum, og treystir því að svörin liggi fyrir til umræðu í nefndinni milli 2. og 3. umr. málsins, en það hefur þegar komið fram að málið verður kallað til nefndar milli umræðna.

Hvers vegna bað ég um þessi svör? Vegna þess að mig fýsir að vita hvaða tolltekjur ríkið hefur af innflutningi á landbúnaðarvörum til að bera það saman við styrki sem veittir eru, og ég nefni nú og kem að því síðar, t.d. tolla sem settir eru á innflutning á svínakjöti, til að bera það saman við þær 440 milljónir sem eru boðaðar í þessum tíu ára samningi, sem þó kemur á fyrstu fimm árunum, til að bera það saman hverjar tolltekjurnar eru á móti því sem ég tel að ríkið verði að leggja fram til þess að koma til móts við svína- og kjúklingabændur varðandi aðbúnaðarreglugerð sem við tökum upp eftir Evrópusambandinu og Evrópusambandið styrkir bændur í löndum sínum til að taka þetta upp.

Ég tel að þegar við ætlum að bera okkur saman við önnur lönd, m.a. að flytja inn landbúnaðarvörur frá ríkjum Evrópusambandsins og öðrum, þurfum við að geta sagt að við séum að gera þetta líkt og hið stóra kaupfélag úti í Brussel.

Hér kem ég að kafla sem heitir Beingreiðslur í mjólk og sauðfjárrækt.

Þar kemur fram að í töflunni megi sjá skiptingu á beingreiðslum í mjólk og sauðfjárrækt skipt eftir sveitarfélögum og kjördæmum landsins árið 2015 ásamt íbúafjölda hvers sveitarfélags. Í töflunni má m.a. sjá hversu mikilvægur landbúnaður er ýmsum veikari byggðum landsins, sem svo hafa verið flokkaðar samkvæmt skilgreiningu Byggðastofnunar. Rétt er einnig að minna á að samkvæmt frumvarpinu fellur það í hlut Byggðastofnunar að skilgreina ýmsan byggðalegan stuðning.

Ég vek athygli á því að þetta er fylgiskjal með nefndaráliti mínu sem hægt er að sjá á vef Alþingis, en svolítil vandkvæði komu upp við að taka þessi skjöl sem komu frá ráðuneytinu og líma þau inn í þetta nefndarálit. Ég geri ráð fyrir því að í hinum rafræna heimi geti menn séð þetta vel.

Ég vek athygli á töflunni vegna þess að hún er mjög athyglisverð til að bera saman annars vegar beingreiðslur í mjólk og hins vegar í sauðfé og bera það saman við íbúafjölda og geta svo skoðað það út frá því sem hérna er skrifað inn þar sem menn ætla m.a. varðandi sauðfjárbændur að grípa til sérstakra aðgerða fyrir þá sem búa langt frá þéttbýlisstöðum og eiga þar með erfiðara með að sækja vinnu annað. Það kemur líka fram í nefndaráliti mínu að svo virðist sem sauðfjárbændur geti ekki lifað af búrekstri sínum og þurfi flestallir að sækja vinnu annað.

Í kaflanum um skilaverð til bænda koma fram í meðfylgjandi töflu svör ráðuneytisins við spurningu um skilaverð til sauðfjárbænda síðastliðin tíu ár. Þar má sjá að skilaverð er 597 kr. árið 2015 fyrir dilka og 174 kr. fyrir fullorðið fé. Ljóst er að þessar greiðslur eru ekki háar og skýra m.a. lélega afkomu sauðfjárbænda og það að flestallir bændur þurfa einnig að sinna annarri vinnu. Vert er einnig að hafa þetta í huga ásamt skiptingu beingreiðsla eftir sveitarfélögum að á sumum svæðum eiga sauðfjárbændur um langan veg að fara til að leita sér að annarri vinnu. Taka verður tillit til þess, eins og fyrstu tillögur Byggðastofnunar fjalla um, þ.e. um fjarlægðarstyrki. Þetta er raun og veru árétting á því sem ég var að segja áðan.

Áréttað er einnig að nýlega hafa nokkrir sláturleyfishafar tilkynnt um allt að 10–15% verðlækkun til bænda, sem mun gera afkomu þeirra enn verri, og hafa forustumenn sauðfjárbænda gagnrýnt þá verðlækkun. Þegar nefndarálit þetta var skrifað hafði ekki unnist tími til að funda með stjórn sláturleyfishafa til að fara yfir boðaða verðlækkun og því hvers vegna hún er nauðsynleg að þeirra mati. Undirritaður óskaði eftir þessum gestum fyrir töluverðum tíma síðan og fýsir að vita hvers vegna þetta er nauðsynlegt. 1. minni hluti veltir því fyrir sér hvort slæm útkoma vegna útflutnings spili þarna inn í. Í fylgiskjali við álit þetta er tafla sem ber heitið Skilaverð til bænda.

Ég vil geta þess að á seinni hluta fundar atvinnuveganefndar í morgun kom fulltrúi sláturleyfishafa, Steinþór Skúlason, og flutti okkur mjög góðan pistil um þetta mál og opnaði sýn okkar hvað þetta varðar. Þar á eftir komu fulltrúar frá Landssambandi sauðfjárbænda og formaður Bændasamtakanna og útskýrðu sína hlið. Í raun og veru sannfærðist ég um það eftir þann fund að það eru hlutir að gerast sem við mundum kalla í öðrum samningum jafnvel forsendubrest fyrir þessum hluta búvörusamningsins, þ.e. samningnum við sauðfjárbændur. Ég vil segja það, vegna þess að ég á væntanlega ekki eftir að ræða aftur á Alþingi um búvörusamning, að ég hygg að á næstu árum muni það koma í ljós að ýmislegt á þessu og næsta ári hafi farið á miklu verri veg hvað varðar sauðfjárbændur.

Í töflu um framleiðslu kindakjöts er yfirlit yfir fjölda sláturdýra síðastliðin tíu ár. Þar kemur m.a. fram að um 600 þúsund sláturdýrum var slátrað á síðasta ári þ.e. árið 2015. Framleiðsla í tonnum talið árið 2015 voru 10.185 tonn og innan lands voru það ár seld 6.462 tonn. Enn fremur kemur fram að útflutt voru 2.947 tonn á síðasta ári. Athygli vekur að fjölgun sláturdýra frá árinu 2009 er um 58.000 dýr eða um 1.344 tonn.

Þetta er sett hérna fram m.a. til að draga fram að það sem ég óttast er að framleiðsla á lambakjöti sé að aukast og vandinn þar með að aukast, líkt og kom fram hjá hv. þm. Björt Ólafsdóttur áðan. Það kom að vísu fram á fundi nefndarinnar hjá fulltrúum Landssambands sauðfjárbænda að þarna kynni að vera um að ræða að verið væri að slátra mörgum fullorðnum kindum og verið að minnka ásetning, en það hefur mér ekki gefist tími til þess að skoða og fara í gegnum.

Í kaflanum um útflutning á lamba- og kindakjöti 2014 og 2015 kemur fram að ein spurning mín til ráðuneytisins var um útflutning á lamba- og kindakjöti árið 2014 og 2015, til hvaða landa og hvaða verð hefði fengist fyrir útflutninginn.

Í svari ráðuneytisins kemur fram mjög gagnleg og ítarleg skipting útflutningsins, þ.e. um kjöthluta, til hvaða lands afurð var flutt og hvaða verð fékkst fyrir hana. Í stuttu máli er niðurstaðan eftirfarandi árið 2015: Flutt voru út 2.572 tonn á fob-verði, þ.e. seljandi greiðir flutningskostnað. Fyrir vöruna á þáverandi gengi íslensku krónunnar fengust 1,9 milljarðar kr. eða 761 kr. fyrir hvert kg að meðaltali. Ég til taka það skýrt fram að þetta er að meðaltali. Það er auðvitað mikill munur á því hvort verið er að selja lambalæri eða hrygg eða slög. Í töflunni kemur fram útflutt magn og til hvaða lands svo og meðaltalsverð.

Þetta er mjög athyglisverð tafla í umræðunni um það sem menn hafa sagt að sé forsenda fyrir sauðfjársamningnum, þ.e. að útflutningur aukist og við förum að fá meira verð fyrir útflutt lambakjöt, en eins og ég hef sagt dreg ég það mjög í efa.

Í meðförum nefndarinnar hefur komið fram að áætlaður útflutningur þessa árs er um 3 þúsund tonn. Rétt er að taka fram að miðað við sama verð í erlendri mynt og við styrkingu krónunnar, sem hefur verið undanfarið, megi áætla að um 1,6 milljarðar kr. fáist fyrir sama magn. Einnig hefur komið fram við meðferð málsins í nefndinni að upplýsingar séu farnar að berast um kröfur erlendra kaupenda um lægra verð. Ef það gengur eftir verður minna sem kemur inn fyrir útflutta sauðfjárafurð.

Miðað við að heildarstuðningur til sauðfjársamningsins sé um 5 milljarðar kr. á ári fyrir framleiðslu á 10 þúsund tonnum má áætla að niðurgreiðslur eða útflutningsbætur, sama hvaða orð menn vilja nota, með þessum 3 þúsund tonnum lamba- og kindakjöts séu um 1,5 milljarðar kr. Því má með sanni segja að útflutningur á þessu umframmagni skili þjóðarbúinu engu, þ.e. 1,6 milljörðum kr. af sölutekjum til seljenda en 1,5 milljörðum kr. í greiðslur frá ríkissjóði.

Nú hefur einkum verið fjallað um sauðfjárhluta samningsins í þessu áliti mínu og vill 1. minni hluti taka fram og ítreka að hann telur fjárhagsstöðu sauðfjárbænda afar slæma og verður að taka tillit til þess og til þess að þrátt fyrir allt er íslenskt lamba- og kindakjöt frekar ódýrt, þó svo að skiptar skoðanir séu á því eftir því hvaða hlutar kjötsins er um að ræða. Auðvitað má alltaf takast á um skiptingu verðsins sem neytendur borga fyrir okkar frábæra og heilnæma lambakjöt. Frekari verðlækkun til bænda er enn eitt áhyggjuefnið sem auka mun fjárhagslega misskiptingu. Sauðfjárbændum ber hins vegar að þakka fyrir heilnæma og frábæra vöru sem þeir framleiða.

Í kaflanum um innflutning á svínakjöti, í þeirri töflu, er innflutningi á svínakjöti árið 2014 og 2015 skipt eftir kjöthlutum og útreiknað meðalverð frá ráðuneytinu. Taflan er athyglisverð fyrir margra hluta sakir og dregur fram miklar upplýsingar, eins og t.d. að árið 2015 voru flutt inn 433 tonn af svínasíðum og greitt fyrir það 209 millj. kr. Útreiknað cif-meðalverð á þessum svínasíðum er 482 kr./kg. Það þarf auðvitað ekki að taka fram hvað cif-verð er, þ.e. verð og við bætist flutningskostnaður og tryggingakostnaður. Því miður hefur ráðuneytið, eins og ég hef áður sagt, ekki getað svarað því enn þá hver er innheimtur tollur af öllu þessu svínakjöti er en ítrekuð hefur verið beiðni um svar við því og vonandi berast svör fyrir 3. umr.

Þess má til gamans geta að svínasíður með upprunalandsmerkingu frá Danmörku kostuðu í Bónus nýverið 1.698 kr./kg og á sama tíma kostuðu íslenskar svínasíður í sömu verslun 1.598 kr./ kg. Af því má draga þá ályktun að tollar eru mjög háir á innfluttar svínasíður og verðmunur til neytenda er enginn, m.a. vegna hárra tolla.

Þetta er dregið fram til að vekja athygli á því að við Íslendingar höfum tekið upp landbúnaðarreglugerðir ESB, sem styrkja aðlögun að þeim reglum, en í búvörusamningnum eru aðeins veittar 440 millj. kr. fjárfestingarstyrkir til svínaræktar á samningstímanum, sem eins og ég segi eru fjórum sinnum 98 milljónir og restin á fimmta árinu upp í 440 milljónir.

Í þessum svörum ráðuneytisins eru fleiri töflur, athyglisverðar töflur, sem eru dregnar hér fram til þess að reyna að fá meiri umræðu um annars vegar tollaálögur ríkisins, hins vegar hvað þarf að flytja inn nauðsynlega vegna þess að kjöt vantar, eins og nautgripakjöt, til að reyna að finna út úr því hvað ríkið fær. En eins og ég hef margítrekað eru upplýsingarnar um tollupphæðina enn þá eftir.

Virðulegi forseti. Í nefndaráliti þessu er kynntar breytingartillögur 1. minni hluta svo og ýmis gögn sem hafa verið rakin. Frekari afstaða til málsins mun koma fram við umræðu um málið svo og fyrir 3. umr. þess.

Þetta er gert á Alþingi 30. ágúst 2016, sem er í dag að ég held.

Kristján L. Möller skipar 1. minni hluta.

Virðulegi forseti. Í viðbót við það sem ég sagði í byrjun vil ég segja að nefndin sendi málið til 74 umsagnaraðila og óskaði eftir umsögnum þeirra. 50 aðilar skiluðu umsögn. Það var gegnumsneitt að í mjög mörgum umsögnum var gagnrýndur mjög sá stutti frestur sem gefinn var í vor til að skila umsögnum til nefndarinnar, en hann var sjö dagar. Ég hef gert grein fyrir þeim breytingartillögum sem ég tel hægt að gera miðað við þá vonlausu stöðu sem við alþingismenn vorum settir í, út frá því sem ég rakti í byrjun. Ég vil hins vegar segja að vinnan í nefndinni hefur verið ákaflega góð, og vil ég þakka fyrir það, eins og flest sem við gerum í atvinnuveganefnd. Það hefur verið mikill kostur að hafa fyrrverandi bændahöfðingja, Harald Benediktsson, í nefndinni og sem framsögumann málsins, í raun og veru er hægt að fletta upp í honum eins og alfræðiorðabók hvað þetta varðar. Skal ég segja í lokin að ég held að það sé mjög gott fyrir Alþingi að Haraldur Benediktsson sitji þar áfram á næsta kjörtímabili, hvenær sem það hefst, (ÖS: Heyr, heyr. Hvað með þig?) og þá líka unnanda íslensks landbúnaðar, Össur Skarphéðinsson, (ÖS: Heyr, heyr.) sem gerir töluvert mikið af því að neyta allra þessara landbúnaðarvara eins og sjá má á vexti hans. (Gripið fram í.)

Í tillögu meiri hlutans eru breytingartillögur sem voru tillögur sem ég var búinn að hugsa mér að flytja, eins og sú að auka samráð um gerð samningsins með því að stækka hópinn sem er, fulltrúa launþegasamtaka, neytendasamtaka og annarra sem settir eru þar inn. Jafnframt var ég hlynntur því að svokallaðir upprunamerktir ostar féllu út úr þessu tollabixi ríkisins. Það þarf ekki að beita háum tollum á osta sem ekki eru framleiddir á Íslandi og gera ekkert annað en að skapa svimandi hátt verð á þessum ostum á Íslandi til samanburðar við það sem gengur og gerist í löndum sem þá selja og við berum okkur saman við.

Þetta eru þær tvær tillögur sem mér hugnast hvað best í þessum efnum.

En ég sagði líka þegar málið var tekið út við meiri hluta nefndarinnar, sem hefði e.t.v. orðið til þess að ég hefði hugsað minn gang hvað varðar að taka þátt í að samþykkja þetta, þ.e. hvort við nefndin gætum ekki fallist á að flytja frumvarp um afnám undanþágunnar frá samkeppnislögum, eins og ég gerði að umræðuefni áðan og í stuttu andsvari við framsögumann málsins. En það var ekki. Þess vegna er þessi tillaga sett hér fram, sem er tillaga sem kemur frá Samkeppnisstofnun eftir beiðni nefndarinnar. Eins og ég sagði áðan geri ég þá tillögu að minni. Hvað varðar uppboð tollkvótans um sérmerktu ostana þá teldi ég reyndar að það ætti við um allt það sem þarna er flutt inn.

Virðulegi forseti. Ég hef skýrt breytingartillögur mínar og gert töluvert að umræðuefni stöðu sauðfjárbænda og sauðfjárræktar í landinu. Ég hef ekki farið mikið í nautgriparæktina, mjólkurframleiðsluna. Þar voru áform og ég minnist þess að formaður Bændasamtakanna kom á þingflokksfund Samfylkingarinnar 11. janúar síðastliðinn og útbýtti til okkar gögnum sem voru um eitt aðalmarkmið samningagerðarinnar, þ.e. að afnema framleiðslustýringu í mjólkurframleiðslu. Við vitum hvernig það fór. Það breyttist ásamt kannski ýmsu öðru.

Ég minnist þess líka, sem rétt er að hafa í huga, að umræddur bændahöfðingi, þáverandi formaður Bændasamtakanna, Haraldur Benediktsson, kom eitt sinn, sem hann ætti auðvitað að gera oftar, á þingflokksfund Samfylkingarinnar og sýndi okkur skjámynd sem sýndi mismun á stöðu íslenskra bænda og skandinavískra bænda, hann bar saman fjárhagsstöðu og reikninga bænda. Þar stóð tvennt út af hvað varðar íslenska bændur. Hvað var það nú? Í fyrsta lagi kaup á kvóta. Í öðru lagi fjármagnskostnaður. Ég hygg að þau áform um kvótakaupin hafi verið þau sem Bændasamtökin ætluðu sérstaklega að fjalla um á sínum tíma hvað varðar að afnema framleiðslustýringuna, sem ekki varð svo vegna ágreinings meðal bænda sem fór líka dálítið eftir því, að mér fannst, hvar þeir bjuggu á landinu. Það bíður hins vegar enn einnar atkvæðagreiðslu árið 2019 og verður þá hluti af því sem gert verður síðar í þessum efnum.

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði áðan höfum við í atvinnuveganefnd reynt að fara sem best í gegnum þetta mál. Ég ítreka það sem ég sagði í byrjun að það er næstum því tilgangslaust vegna þess að margar góðar umsagnir, margar góðar tillögur að umbótum og öðru slíku, er ekki hægt að setja hérna inn út af því vinnufyrirkomulagi sem haft er um gerð búvörusamnings, þ.e. einn, tveir eða þrír ráðherrar fjalla um málið fyrir hönd ríkisins og Bændasamtökin setjast niður og Alþingi stendur fyrir gjörðum hlut og getur í raun ekki gert neinar breytingar, annaðhvort þarf að samþykkja eða hafna og þá fer málið allt upp í loft.



[15:28]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir nánast allt það sem hv. þingmaður sagði áðan. Þau rök sem hann færði gegn því að hægt væri að samþykkja samninginn í þeim umbúnaði sem fram kemur hjá meiri hluta nefndarinnar eru að mínu mati algjörlega rétt. Hv. þingmaður gerði að umræðuefni mína persónulegu viðleitni til að eyða vandamálum landbúnaðarins upp á það sem einu sinni var kallað lúðvíska, þegar einn af forverum okkar, Lúðvík Jósepsson, sagði að besta leiðin til að ráða bót á offramleiðslu væri að éta sig í gegnum kjötfjöllin. Ekki ætla ég að ræða það frekar.

Mér er umhugað um sauðfjárbændur á Íslandi. Ég tel að ef menn eru á annað borð að eyða peningum í að greiða niður landbúnaðarframleiðslu verði að beita því tæki þannig að gisnustu byggðirnar séu treystar. Ég sagði strax í upphafi þeirrar umræðu sem fór fram hér fyrr í vetur um búvörusamningana að allt benti til þess að sum gisin svæði sem eru mjög háð sauðfjárrækt, ég nefni t.d. Árneshrepp þar sem stór sauðfjárbú eru sem skipta verulega miklu máli til að halda þeim merka stað í byggð, töpuðu eiginlega greiðslum vegna þessa í hlutfallslega meiri mæli en ýmis bú sem eru á þéttbýlli svæðum sem ekki eru í hættu. Ég hef reynt að grafast fyrir um það hvort einhver breyting hafi orðið á þessu í meðförum nefndarinnar og yfirleitt hvort þetta er rétt. Mig langar að spyrja hv. þingmann sem hefur áhuga á þessu og situr í nefndinni: Er þetta rétt? Er það þannig að sauðfjárbændur á ýmsum gisnum svæðum beri hlutfallslega skarðari hlut frá borði en aðrir bændur (Forseti hringir.) á svæðum sem ekki eru með jafn veikar stoðir undir sér?



[15:30]
Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni, vini mínum, Össuri Skarphéðinssyni, fyrir þetta andsvar án þess að ég fari inn í lúðvískuna eða annað hvað það varðar. Meginspurning hv. þingmanns til mín var um sauðfjárbændur og þær áhyggjur sem ég setti fram í ræðu minni um afkomu sauðfjárbænda og hv. þingmaður tekur undir. Þá er það rétt sem hann ræðir hér um gagnvart veikustu byggðum landsins. Það var þannig að til nefndarinnar komu bændur af Ströndum, úr Dölunum og úr Húnavatnssýslu, ef ég man rétt. Því miður er ég ekki með þetta gagn við hliðina á mér. Þeir höfðu látið fara í gegnum áhrif af þessum samningi fyrir sig og sitt svæði, ef þetta allt gengur eftir. Þeir lýstu miklum áhyggjum og lýstu útreikningum, þetta var rosalega faglega og flott gert, um mikla lækkun til þeirra á þessum veikustu stöðum. Það er eitt af vandamálunum við þennan samning plús svo aftur það að við getum farið yfir í beitarlönd og annað slíkt þar sem beitt er miklu sauðfé á gosbelti og önnur svæði sem eru mjög góð fyrir sauðfjárbeit, þar sem kannski er samdráttur eða er að fækka. Inn í þetta blandast það auðvitað líka. En þarna komu fram hjá þeim miklar áhyggjur. Hins vegar vil ég segja, eins og ég sagði í nefndaráliti mínu, að það er hlutverk Byggðastofnunar að fara í gegnum þetta og útfæra reglur og úrræði til að koma til móts við hinar veikustu byggðir og styrkja þær sérstaklega umfram þær sem eru sterkari.



[15:32]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta sannferðuga svar hv. þm. Kristjáns Möllers sýnir hvað menn fara af stað af veikum þrótti í þetta mál. Ég fæ ekki betur skilið af svari hv. þm. Kristjáns L. Möllers en að menn hafi anað út í þennan samning af hálfu bændaforustunnar og hæstv. ríkisstjórnar án þess að gera sér grein fyrir hverjar afleiðingarnar yrðu. Það er umdeilanlegt meðal margra hvort eigi yfir höfuð að veita fé til þess að styðja landbúnaðarframleiðslu á Íslandi. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að hjá því verði ekki komist og ég tel að ef menn gera það á annað borð verði að hafa ákveðin markmið að leiðarljósi. Í fyrsta lagi þurfa menn að hugsa um landið og gæta þess að slíkum stuðningi sé einkum hnitmiðað þar sem ekki er hætta á að það leiði til gróðureyðingar eins og á viðkvæmum svæðum í grennd við gosbelti. Af því leiðir síðan í öðru lagi að það ætti að hnitmiða slíkum stuðningi á svæði eins og ég nefndi, t.d. á Vestfjörðum og í Húnavatnssýslum, þar sem ekki er hætta á svona og þar sem byggðirnar eru gisnar, þar sem þær þurfa á því að halda að hafa sterk og öflug sauðfjárbú. Samkvæmt þessu svari frá þeim manni sem ég treysti best í þessum efnum mundi ég telja að byrjun þessa máls hefði verið með slíku handarbakalagi að menn hafi ekkert vitað hvað þeir voru að gera. Það getur vel verið að núna eigi, eins og hv. framsögumaður og reyndar hv. þm. Kristján Möller segja, að það eigi að skoða þetta síðar. En hvers vegna var þetta ekki skoðað á undan? Ég veit að ég á ekki að vera að skamma hv. þm. Kristján L. Möller fyrir það, hann hefur reynt að beita sér með jákvæðum hætti í málinu, en það er meiri hlutinn sem hlýtur að þurfa að standa undir þeirri ábyrgð að skýra hvernig stendur á því að menn fara af stað með þessum hætti, með hætti sem leiðir til þess að veikustu bændurnir koma verst út.



[15:35]
Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það sem hv. þingmaður gerir að umtalsefni í seinna andsvari sínu við mig, sem er alveg rétt, er að inn í þetta þarf að blandast að skoða landsvæði þar sem gott er að beita sauðfé og annað svæði þar sem verra er að beita sauðfé. Ég tek sem dæmi gosbeltið, eins og margoft hefur komið fram og í umsögnum frá ýmsum aðilum sem ég ber mikla virðingu fyrir, sem sendu okkur umsögn hvað þetta varðar. Það er eins með það og margt annað, það er ekki hægt að taka tillit til þess.

Ég segi fyrir mitt leyti og ítreka það sem ég sagði áðan, ég veit ekkert hvað kemur út úr tillögum Byggðastofnunar en við höfum séð fyrstu drög og þau eru þannig að segja má að vonandi sé Byggðastofnun þar á réttri leið, þ.e. að taka fjarlægðarmælingu frá þéttbýlisstöðum þar sem bændur geta leitað sér vinnu og styrkja þá meira hjá þeim sem þurfa langan veg að fara eða geta jafnvel ekki sótt sér neina vinnu.

Það kom líka fram á einum bændafundi sem ég fór á, bændur í Eyjafjarðarsýslu funduðu í Hlíðarbæ rétt norðan við Akureyri, sem var mjög merkilegur fundur þar sem mér fannst eins og bændur væru hálfpartinn með handbremsuna á og að þeir ræddu ekki málin af fullri hreinskilni. Það gerðist hins vegar eftir að fundi lauk, í anddyrinu í Hlíðarbæ, í samtölum mínum við nokkra bændur og í framhaldi því af samtölum í síma við fjölmarga bændur sem hafa lýst áhyggjum sínum. Þar eru fjölmargir sauðfjárbændur og m.a. á þessum veiku svæðum sem ég nefndi áðan en önnur veik svæði eru líka, þar sem þeir eru greinilega mjög óhressir með þennan samning og það sem þar stendur og hafa áhyggjur af því hvernig þetta verður útfært fyrir þá.



[15:37]
Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Haraldur Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Kristjáni L. Möller fyrir nefndarálit hans og framsöguræðu sem endurspeglar ekki síður bara góðan hug og vinnu hans í nefndinni að þessu mikilvæga máli. Það sem ég vildi segja í andsvari við ræðu hans er að taka kannski upp þráðinn um sértæka byggðastuðninginn og það sem hann ræddi m.a. í framsögu sinni um hann. Auðvitað er þar verið að þróa nýtt stuðningsform sem í sjálfu sér liggur fyrir, þannig að búið er að róa fyrir þær víkur sem hann hefur áhyggjur af þar.

Hitt sem ég vildi nefna um afnám framleiðslustýringarkerfisins og þá umræðu sem hefur orðið vegna þess, af því að í framsögu hans kom fram að menn hafi heykst á því með einhverjum hætti að lagt hafi verið af stað með það í upphafi, að afnám framleiðslustýringar er stórt mál að því leyti að það getur líka leitt til mikillar sóunar. Þar höfum við í sjálfu sér bara tekið mjög öflugt námskeið hjá Evrópusambandinu eftir að framleiðslustýring var þar aflögð á síðasta ári. Það sem aftur á móti hefur borið minna á í fréttum hér heima er að Evrópusambandið afnam ekki framleiðslustýringuna með öðrum hætti en að færa hana yfir til framleiðenda samvinnufélaganna og eftir þeim fréttum og fréttaveitum sem ég hef ágætan aðgang að enn þá, eru framleiðendasamvinnufélögin í Evrópu núna að taka upp eigið kvótakerfi, þannig að framleiðslustýring er áfram. Ég trúi því að framleiðslustýring muni þurfa að vera áfram. Ég segi líka að þær breytingar sem gerðar eru á stuðningsformi í þeim búvörusamningi sem við ræðum eru þá til þess fallnar að skilja í sundur stuðningsformið og framleiðslustýringuna. Ég mundi því vilja fá hv. þm. Kristján L. Möller til að fjalla um hug hans til framleiðslustýringar og afnáms hennar.



[15:39]
Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Aðeins fyrst um framleiðslustýringuna sem hv. framsögumaður málsins gerir hér að umtalsefni og spyr mig út í. Ég get sagt að ég hef sveiflast svolítið til og frá í því máli eftir gestakomur og eftir umræðu um málið. Það má líka segja í þessu efni að Mjólkursamsalan, og það kom fram í reikningum Mjólkursamsölunnar á Auðhumlu, að á árinu 2015 óskaði hún eftir að bændur mundu framleiða meiri mjólk og bauðst til að kaupa það allt saman. Það gerðist á seinni hluta ársins 2015. Í ársriti þessara tveggja félaga kemur fram að þetta sé hluti af tapi annars vegar Auðhumlu og MS vegna aukins innvegins mjólkurmagns. Það hefur hins vegar komið fram og verið rætt um og kom líka fram núna við lokin, sem mér kom mjög á óvart, að fyrir umframmagnið í mjólk er Mjólkursamsalan að greiða 20 krónum minna á lítra en aðra mjólk. Það held ég að hafi komið fram síðar, eftir þá hvatningu.

En framleiðslustýringin, já, vafalaust þarf hún að vera eitthvað áfram en þá kemur önnur hlið á teningnum upp sem ég vitnaði hér í, í ágæta kynningu Haraldar Benediktssonar, þáverandi formanns Bændasamtakanna, á fundi Samfylkingarinnar, þar sem kvótakaupaliðurinn var það sem stakk mest í stúf við reikningshald og reikningssamanburð hjá bændum á Íslandi og í Skandinavíu. Þá er það spurning sem má setja fram, þó að ég eigi ekki í andsvari að setja fram, til hv. þingmanns: Hvernig afnemum við það sem Bændasamtökin ætluðu að leggja upp með í byrjun?

Ef til vill, virðulegi forseti, hef ég tíma í seinna andsvari mínu til að fjalla um það sem var rætt um áðan, sem mér fannst vera aðalatriðið, um starfsskilyrði sauðfjárræktar, þ.e. um svæðisbundna stuðninginn. Ég reyni að koma að því á eftir.



[15:41]
Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Haraldur Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vek athygli aftur á því sem ég sagði í upphafi máls míns í andsvari við hv. þingmann að aðskilnaður framleiðslustýringar og stuðningsgreiðslna er að eiga sér stað við þessa samþykkt. Það verkefni, að minnka útgjöld búanna vegna þess þáttar, er í sjálfu sér bara áfram innbyggt í samninginn.

Hv. þingmaður kom að öðru atriði í nefndaráliti sínu og varðar sauðfjárræktunina sérstaklega og málefni sauðfjárbænda. Það sem mig langar að heyra er: Hann gerði að umtalsefni útflutning og lágt verðmæti sauðfjárafurða og mikla framleiðslu. Við getum haft á því margar skoðanir en við höfum skapað atvinnugreininni þennan ramma, höfum sagt henni: Þið eigið að gera sem mest úr innanlandsmarkaði, síðan eigið þið að taka það sem umfram er á erlendan markað og það skilar ykkur þessu og það sveiflast með heimsmarkaðsverðinu. Veruleikinn er sá, virðulegi forseti, að við breytinguna á sauðfjársamningunum 2007 voru íslenskir bændur settir undir heimsmarkaðsverð á sauðfjárafurðum. Það sveiflast mikið til og það endurspeglar að hluta til þá miklu erfiðleika sem þeir eru í núna. En til að takast á við það sem hv. þingmaður fjallaði um í nefndaráliti sínu verðum við að taka aftur upp kvótastýrða sauðfjárrækt, framleiðslustýrða sauðfjárrækt, ef þingmaðurinn vill boða það sem mótvægisaðgerð við það sem hann var að gagnrýna í nefndaráliti sínu og ræðu sinni.



[15:43]
Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Staðreyndin er sú að í umliðnum búvörusamningum hefur ekki tekist það markmið sem stundum hefur verið lagt upp með, að offramleiðsla minnki. Það sýna þær töflur frá ráðuneytinu sem ég hef verið að vitna hér í og eru birtar sem fylgiskjöl með nefndaráliti mínu. Það hefur verið að aukast. Og það sem ég óttast er að það aukist áfram. Mínar upplýsingar og áhyggjur bænda eru m.a. þær að margir kúabændur, mjólkurframleiðendur, sem eru með fáar kýr í fjósi og ekki mikinn kvóta hugsi sér jafnvel til hreyfings um að selja þann kvóta nú áður en ríkið fer að kaupa um næstu áramót, ef hann selst þá á viðunandi verði núna, sem bændur þurfa að fá fyrir, kannski eru einhverjir nýbúnir að kaupa eða guð má vita hvað; að þeir muni færa sig úr mjólkurframleiðslunni og auka við sig í sauðfjárræktinni. Þess vegna er það spá mín að þær tölur sem við erum að vinna með núna um framleitt magn og innanlandsneyslu og útflutning, að það magn muni aukast og innanlandsneysla muni ekki aukast að neinu magni, þó að það gerist vonandi, en að þörfin fyrir útflutning haldi áfram að aukast og verð sem við fáum fyrir útfluttar sauðfjárafurðir lækki jafnvel eins og ég geri að umtalsefni í nefndaráliti mínu.

En aðeins í lokin út af því sem kom hér fram um svæðisbundinn stuðning sem Byggðastofnun á að útfæra, þá er það á árinu 2017 99 milljónir, árinu 2018 145 milljónir og það sama 2019 og svo svipuð tala út þetta tíu ára samningstímabil. Þetta er sú upphæð sem þarna er sett inn, sem Byggðastofnun er ætlað að nota í það göfuga markmið sem ég og hv. þm. Össur Skarphéðinsson töluðu um, af því að spurningar hans til mín í stuttu andsvari fjölluðu um það, sem þarf að nota til að styrkja sauðfjárframleiðslu á veikustu svæðum landsins.



[15:45]
Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér búvörusamninga og búnaðarlagasamning. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti 2. minni hluta og ætla að flytja það og síðan að reifa aðeins þessi mál almennt.

Annar minni hluti telur að ef frumvarpið verður að lögum verði ýmsar breytingar á starfsumhverfi íslensks landbúnaðar. Frumvarpið felur í sér lagabreytingar til að innleiða ákvæði búvörusamninga sem voru undirritaðir í febrúar 2016 og eru samningur um starfsskilyrði mjólkurframleiðslu, samningur um starfsskilyrði sauðfjárræktar, samningur um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða og rammasamningur um almenn starfsskilyrði landbúnaðarins. Málinu tengist einnig órjúfanlegum böndum tillaga til þingsályktunar um staðfestingu samnings Íslands og Evrópusambandsins, þ.e. tollasamningurinn, og gerð er grein fyrir afstöðu Vinstri grænna til þessa í sérstöku nefndaráliti þar sem ýmsir mikilvægir þættir eru gagnrýndir en einkum er bent á aðvörun sóttvarnalæknis um að útbreiðsla sýkla og sýklalyfjaónæmra baktería sé meðal helstu heilbrigðisógna samtímans. Slíkir sýkingarvaldar berast m.a. með ferskum matvælum og er talin hætta á að vaxandi innflutningur þeirra hingað til lands leiði til aukinna vandkvæða af því tagi.

Annar minni hluti telur mikilvægt að matvælaframleiðsla til innanlandsneyslu fari fram hér á landi í eins miklum mæli og aðstæður leyfa og að verja megi opinberu fé til að styðja við þetta sjálfbærnimarkmið. Opinber stuðningur til framleiðslu landbúnaðarafurða á sér langa sögu hérlendis og er mikilvægur hluti starfsskilyrða landbúnaðarins. Innlend matvælaframleiðsla snertir hag allra landsmanna og því skiptir miklu að vel takist til við gerð búvörusamninga þannig að víðtækt samkomulag geti náðst um þennan mikilvæga þátt íslensks efnahagslífs.

Einmitt sökum þess hve áhrif búvörusamninga eru margþætt er gerð þeirra ávallt vandasöm. Búvörusamningar hafa áhrif á byggð og byggðaþróun, atvinnu í dreifbýli og þéttbýli, framboð og verðlag á landbúnaðarafurðum, matvælaöryggi, sjálfbærni samfélagsins og hollustuhætti og lýðheilsu svo eitthvað sé nefnt. Búvörusamningar eru því annað og meira en kjarasamningar milli opinbera aðila og bænda, eins og stundum er haldið fram, og má með réttu segja að áhrifa þeirra gæti hvarvetna í samfélaginu.

Gildandi búvörusamningar renna sitt skeið á enda í lok árs 2016 og 2017. Því voru nýir búvörusamningar og búnaðarlagasamningur milli íslenska ríkisins og Bændasamtaka Íslands undirritaðir í febrúar að undangenginni samningalotu og hlutu samningarnir samþykki bænda nokkru síðar. Þeir voru gerðir með fyrirvara um nauðsynlegar lagaheimildir Alþingis sem eitt hefur heimild til að gera slíkar fjárskuldbindingar.

Ráðherrar ríkisstjórnarinnar önnuðust gerð búvörusamninganna við bændur upp á sitt eindæmi og án þess að leita samstarfs um það verkefni við fulltrúa stjórnarandstöðunnar. Takmarkað ef nokkurt samráð virðist einnig hafa verið við fleiri aðila sem málið varðar og er það gagnrýni vert, sem og að óheppilegt er að gildandi samningar séu því sem næst útrunnir þegar nýir eiga að taka við. Tiltekinn fyrirsjáanleiki um starfsskilyrði er að sjálfsögðu mikilvægur fyrir allar atvinnugreinar en það á alveg sérstaklega við í tilviki búvöruframleiðslunnar sem byggist á langri framleiðslukeðju. Þar sem samráð og samstarf skorti ber ríkisstjórnin ábyrgð á efni samninganna hvað ríkið varðar og framkvæmd málsins frá upphafi til enda.

Fjöldi umsagna hefur borist til Alþingis vegna málsins og mikið hefur verið fjallað um samningana á opinberum vettvangi. Eins og vænta mátti um slíkt mál hafa skoðanir verið skiptar en mikið hefur borið á gagnrýni á tímalengd samninganna, sem gerðir voru til tíu ára, og fjárhæðir sem renna eiga til landbúnaðarmála hafa mætt gagnrýni sem og áform um að afleggja framleiðslustýringu í mjólkurframleiðslu. Þá hefur sauðfjársamningurinn mætt umtalsverðri andstöðu, ekki síst á hefðbundnum sauðfjárræktarsvæðum og þar sem sauðfjárrækt er meginatvinnugrein. Margir óttast að framleiðsla geti flust af þeim svæðum til annarra héraða vegna áhrifa samningsins og einnig að hvatar til aukinnar framleiðslu geti skapað offramboð lambakjöts og annarra sauðfjárafurða á markaði. Þá hefur verið lýst áhyggjum af því að hagsmunir neytenda séu fyrir borð bornir og ekki tekið nægilegt tillit til umhverfissjónarmiða, hvorki í íslensku né alþjóðlegu samhengi. Má þar sérstaklega nefna loftslagsáhrif, sjálfbæra landnýtingu og fleira er að því lýtur. Ýmis önnur atriði samninganna hafa mætt gagnrýni, svo sem að á það skorti að samkeppnissjónarmiða sé gætt hvað varðar mjólkurafurðir. Verða ásteytingsefnin ekki öll rakin hér, en áréttað að allnokkuð vantar upp á til þess að búvörusamningarnir þjóni markmiðum um sjálfbæran landbúnað og innlenda matvælaframleiðslu í þágu samfélagsins þar sem byggt er á sjónarmiðum um umhverfisvernd, dýravelferð og hollustuhætti. Þá ættu samningarnir að kveða skýrar á um upprunamerkingar og upplýsingagjöf til neytenda, enda mikilvægt að traust ríki á milli framleiðenda og neytenda og skilvirk og trúverðug upplýsingagjöf skiptir miklu í því samhengi.

Vinstri hreyfingin – grænt framboð leggur áherslu á sjálfbæra landnýtingu í landbúnaðarstefnu sinni og telur mikilvægt að framlög hins opinbera styðji við slík markmið. Sjálfbærnihugtakið felur m.a. í sér að ekki er gengið svo að endurnýjanlegum auðlindum með nýtingu að þær rýrni eða hverfi. Beitarland telst til endurnýjanlegra auðlinda og því er mikilvægt að stilla beit í það hóf að ekki verði tjón á beitarlandinu þannig að auðlindin sem í því felst fari forgörðum. Ákvæði búvörusamninga um nýtingu og vernd gróðurlendis þyrftu að vera afdráttarlausari og mikilvægt er að áform um landgræðslu og kortlagningu gróðurlendis með tilliti til beitarþols þess nái fram að ganga og verði nýtt við framkvæmd landbúnaðarstefnu stjórnvalda. Þar sem endranær er nauðsynlegt að gæta þess að nýting náttúruauðlinda fari fram með sjálfbærum hætti, hvort sem afurðirnar fara til neyslu innan lands eða á erlenda markaði.

Vakin skal athygli á því að með ákvæðum fyrirliggjandi samnings er endanlega horfið frá því markmiði sem búvörusamningarnir frá 1991 festu í sessi og fólst í því að miða skyldi stuðning við landbúnaðarframleiðslu við innanlandsneyslu landbúnaðarafurða. Með því að tengja saman framleiðslu og innanlandsneyslu mynduðust bein tengsl milli bænda og innlendra neytenda um sameiginlega hagsmuni þessara hópa af því að halda uppi innlendri framleiðslu á landbúnaðarafurðum sem nú fara forgörðum og með þeim stór hluti forsendna þess búvörusamnings sem lýtur að sauðfjárbúskap.

Mikilvægt er að mörkuð verði skýr landbúnaðarstefna með tilliti til loftslagsmála og henni framfylgt, m.a. með því að skilyrða opinber framlög til landbúnaðar við eftirfylgni við markmið á því sviði. Landbúnaður er mjög mikilvægur í samhengi umhverfis- og loftslagsmála. Greinin hefur veruleg umhverfis- og loftslagsáhrif sem sum hver eru neikvæð en hún býr jafnframt yfir fleiri og áhrifaríkari möguleikum til að hafa jákvæð áhrif á þessu sviði en margar aðrar atvinnugreinar. Framleiðsla á landbúnaðarafurðum í námunda við neytendur dregur úr mengun og öðru umhverfisálagi af völdum flutningastarfsemi og gróðurrækt stuðlar að kolefnisbindingu. Notkun endurnýjanlegra og umhverfisvænna orkugjafa í landbúnaði er vitaskuld afar mikilvæg og ber að stuðla að henni með öllum ráðum. Tengsl búvörusamninga við framangreind markmið ættu að vera meiri og skýrari en þau eru þótt vissulega hafi áunnist margt í þessum efnum við meðferð málsins í atvinnuveganefnd. 2. minni hluti telur þó ærna ástæðu til að gera betur og leggur til með breytingartillögu að skipaður verði samráðshópur til að meta umhverfisáhrif búvörusamninganna samkvæmt aðferðafræði umhverfismats áætlana og niðurstöður matsins verði nýttar við endurskoðun samninganna árið 2019.

Annar minni hluti fagnar því að stuðningur við lífræna landbúnaðarframleiðslu aukist og að veittir verði styrkir til aðlögunar að lífrænni framleiðslu. Enda þótt það hafi verið meðal höfuðkosta íslensks landbúnaðar að notkun ýmissa varhugaverðra efna sem gjarnan er beitt í landbúnaði annars staðar hafi verið í lágmarki hér má ætla að þróunin hérlendis verði með áþekkum hætti og víðast á Vesturlöndum þannig að eftirspurn neytenda eftir lífrænum vörum aukist. Það verður því samkeppnisatriði fyrir íslenskan landbúnað að fylgja þessari þróun eftir og mikilvægt af þeim sökum og einnig vegna umhverfis- og hollustusjónarmiða að búa vel að vaxtarsprotum á þessu sviði hér á landi.

Í 34. gr. frumvarps sem varð að lögum um velferð dýra, nr. 55/2013, var upphaflega lagt til að heimilt yrði að fella niður opinberar greiðslur í landbúnaði til þeirra sem gerðust brotlegir við ákvæði laganna og reglugerða samkvæmt þeim auk ýmissa annarra viðurlaga sem tiltekin voru. En þetta ákvæði féll niður samkvæmt breytingartillögu atvinnuveganefndar, m.a. á þeirri forsendu að þetta þvingunarúrræði ætti sér ekki stoð í gildandi búvöru- og búnaðarlagasamningum og benti nefndin á að rétt væri að kanna, eins og segir, með leyfi forseta, „hvort ekki sé rétt að skapa rými til upptöku úrræðisins við síðara tilefni, t.d. við endurskoðun búnaðar- og búvörulaga og endurnýjun samninga á grundvelli þeirra“. Undir þetta tekur 2. minni hluti og vísar m.a. til þess að það athæfi sem mundi heimila beitingu slíks þvingunarúrræðis felur í sér illa meðferð á dýrum sem einnig kallast dýraníð. 2. minni hluti er sammála þáverandi atvinnuveganefnd sem taldi úrræðið eðlilegt „og í góðu samhengi við þær kröfur sem telja má eðlilegt að gera til gagnaðila ríkisins að samningum sem fela í sér ráðstöfun opinbers fjár“.

Annar minni hluti bendir á að nú gefst tækifæri til að innleiða þvingunarákvæði í þessa veru og telur einboðið að nota það. Því leggur 2. minni hluti fram breytingartillögu þess efnis.

Ljóst var orðið þegar Alþingi kom saman um miðjan ágúst að ekki væri meiri hluti fyrir samþykkt óbreyttra búvörusamninga og í raun voru þeir starfshættir ríkisstjórnarinnar með ólíkindum að leggja fyrir þingið slíka langtímaskuldbindingu þegar svo skammt var orðið til þingloka. Atvinnuveganefnd var því í erfiðri stöðu við upphaf síðsumarþings með svo brýnt og mikilvægt mál í uppnámi og afar skamman tíma til stefnu. 2. minni hluti telur jákvæða viðleitni hafa verið sýnda í starfi atvinnuveganefndar við að lagfæra málið og sníða af því ýmsa vankanta og hefur 2. minni hluti lagt sitt af mörkum í þeirri vinnu. Enn á þó eftir að taka á mörgum mikilvægum þáttum sem snerta efni og framkvæmd samninganna til þess að þeir geti þjónað vel sem tæki til að móta og styðja við haldbæra landbúnaðarstefnu þar sem tekið er tillit til hagsmuna bænda, neytenda og umhverfis og leitað leiða til að samþætta þá til hagsbóta fyrir samfélagið í heild og náttúru landsins. Með hliðsjón af þessu telur 2. minni hluti sér ekki fært að styðja málið og mun sitja hjá við afgreiðslu þess en þó styðja þær breytingartillögur meiri hluta atvinnuveganefndar sem til bóta heyra.

Undir nefndarálitið skrifar sú sem hér stendur, Lilja Rafney Magnúsdóttir. Í fylgiriti með nefndarálitinu er landbúnaðarstefna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem ég hvet alla til að kynna sér.

Ég ætla líka að gera grein fyrir breytingartillögunni sem fylgir nefndaráliti frá 2. minni hluta atvinnuveganefndar. Í fyrsta lagi:

„Við 12. gr. bætist ný málsgrein, svohljóðandi:

Heimilt er að fella niður greiðslur til þeirra sem brotið hafa gróflega eða ítrekað gegn ákvæðum laga um velferð dýra, nr. 55/2013, með síðari breytingum.“

Og í öðru lagi:

„Við 12. tölul. brtt. á þskj. 1592 bætist ný málsgrein, svohljóðandi:

Jafnhliða skipun samráðshópsins skal ráðherra skipa starfshóp til að meta umhverfisáhrif búvörusamningsins samkvæmt aðferðafræði umhverfismats áætlana, sbr. lög nr. 105/2006. Starfshópurinn skili ráðherra umhverfisskýrslu eigi síðar en 2019 og verði hún meðal annars forsenda fyrir endurskoðun búvörusamninga.“

Þannig hljóðar nefndarálit 2. minni hluta. Ég vil bæta því við og undirstrika að mér finnst að í atvinnuveganefnd, frá því að þing kom saman í ágúst, hafi verið reynt að lagfæra málið. Það verður auðvitað að segjast eins og er að illa var staðið að þessu í upphafi, að kalla ekki fleiri til, að ekki hafi verið viðhaft víðtækt samráð um gerð búvörusamnings í upphafi og að hæstv. landbúnaðarráðherra hafi ekki notað tækifærið til að kalla fleiri að borðinu til að reyna að ná breiðari sátt um búvörusamninga á landsvísu, bæði stjórnarandstöðuna og ýmsa aðra aðila. Ég tel að það sé mikilvægt að gera það því að þótt þetta séu samningar milli þessarar greinar og ríkisins hafa þeir auðvitað víðtæk áhrif. Ég tel að það sé málinu í heild til góða að áfram verði sem mest jákvæðni gagnvart þeim ríkisstuðningi sem er til landbúnaðarins og að almenningur í landinu sjái að það skilar sér með svo mörgum hætti aftur til neytenda og skipti máli varðandi t.d. umhverfisþætti að við séum eins sjálfbær og við getum í matvælaframleiðslu hérlendis. Það er mikilvægt fyrir matvælaöryggi og byggð í landinu.

Það má segja að búvörusamningar séu ein stærsta byggðaaðgerðin í raun og veru því þetta hangir allt saman. Sveitirnar eru bæði bæjum og sjávarþorpum mikilvægar. Allt er þetta ein keðja út um allt land. Ef það hriktir í búsetu í sveitum smitar það líka út í stærri samfélögin. Mörg samfélög, segjum bara eins og hér nálægt okkur, Borgarnes, og fleiri staðir, Sauðárkrókur, mætti nefna Selfoss, og við getum farið víðar, þjóna landbúnaðargeiranum og á þessum stöðum er gífurlega mikil atvinnustarfsemi sem yrði ekki svipur hjá sjón ef landbúnaður mundi dragast mikið saman og hrikta í þeim stoðum. Það er hluti af því að við sem samfélag og þjóðfélag reynum að vera sjálfum okkur nóg og rækta eigin garð og horfa svolítið út fyrir skammtímahagsmuni, að það sé gróði í því að flytja inn sem mest af ódýrum landbúnaðarafurðum erlendis frá og missa úr höndum okkar það að vera sjálfbær í matvælaframleiðslu. Það er lítið á það að treysta hvernig verðsveiflur eru á innfluttum matvælum, gæði, aukaefni og lyfjanotkun og annað því um líkt. Allt í þessu samhengi skiptir máli, að við framleiðum hér innan lands hreina og góða afurð og það sé stutt á milli framleiðslunnar og neytandans.

Ég held að íslenskir neytendur séu alltaf að sjá það betur og betur að það skiptir máli að hafa öfluga landbúnaðarframleiðslu í landinu. En menn vilja þá líka hafa eitthvað um það að segja og stuðningurinn skili sér þangað sem hann á að skila sér. Við höfum t.d. heyrt þessa dagana, sem er mikið áhyggjuefni, að sauðfjárbændur verði fyrir miklum lækkunum á sínar afurðir. Þetta er auðvitað keðja. Það eru sláturleyfishafar sem boða afurðalækkun. Sláturleyfishafar og afurðastöðvar semja við stóru verslanirnar og verslanakeðjur um landbúnaðarafurðir frá bændum eins og lambakjöt. Það er alltaf spurning hvernig verðlagning afurðarinnar er frá bónda að lokasmásölustiginu, hvar hagnaðurinn myndast og hver situr uppi með neikvæða verðlagningu þegar einhver samdráttur verður. Það er auðvitað ekkert eðlilegt að það lendi alltaf á frumframleiðanda ef rekstrarkostnaður eykst eða eðlilegur launakostnaður eykst sem er bara í takti við það sem eðlilegt er, það gerist með reglubundnum hætti. Það er ekki eðlilegt að það sé eingöngu frumframleiðandinn sem taki lækkunina á sig þegar horft er upp á gífurlegan hagnað hjá stóru verslanakeðjunum eins og hér hefur verið nefnt, Högum og fleiri verslanakeðjum, sem skila milljarðahagnaði. Það hlýtur að vera umhugsunarefni fyrir neytendur hvort ekki sé eðlilegra að á endanum skili smásalan þeim hagnaði frekar til frumframleiðenda, hann lendi í þeirra vasa eða fari þá til neytenda. Þetta held ég að sé eitthvað sem þurfi að skoða og glíma við, hvernig verð vörunnar myndast og hvernig skipting er á milli milliliða, hver fær hvað í sinn hlut, og að bóndinn sitji ekki alltaf uppi með að vera skorinn niður við trog og hafi í raun og veru mjög lítið rekstraröryggi eða litla tryggingu fyrir því að búa einu sinni við lágmarkskjör sem aðrir launþegar í landinu telja sjálfsagðan hlut. Það verður að vera einhver grunnur til að byggja á en í þessu sambandi virðist ekki vera nokkur botn í þeim efnum. Þótt eitthvert viðmiðunarverð sé gefið út af hálfu bænda er það mikið högg að fá á sig 10–12% lækkun á afurðum eins og núna er boðuð, sem þýðir um 25% launalækkun eins og komið hefur fram í máli framsögumanns.

Ég er hlynnt því að gerður sé rammasamningur við bændur. Ég tel að þeir þurfi að búa við ákveðið öryggi til lengri tíma. Margt í þeim rammasamningi sem hér liggur fyrir er ágætt, í raun skref í rétta átt og margt gott þar á ferðinni. En þarna eru líka margir þættir sem verður að nota þennan tíma til að taka á þar til endurskoðun verður eftir þrjú ár svo að illa fari ekki fyrir sauðfjárrækt, t.d. á jaðarsvæðum þar sem menn berjast við að halda rekstri sínum áfram og þurfa að hafa einhverja framtíðarsýn og tryggingu fyrir því að fé sé á vetur setjandi, eins og sagt er til sveita.

Ég vona að samráðsnefndin sem á að skipa hafi góða heildarsýn, ekki einhverja þrönga rörsýn á hvað hægt er að ná verði mikið niður eins og þeir aðilar sem framleiða þessa vöru þurfi ekki að lifa eins og við öll hin heldur sjái greinina í þjóðhagslegu samhengi. Það sé horft til landnýtingar og hvernig stuðningurinn nýtist best, líka innan lands til neytenda og hvaða tækifæri þessi grein hefur og skoðuð áhrif búvörusamningsins þegar upp er staðið á búsetuskilyrði í landinu og áhrif til lengri tíma. Allt þetta verður að vera undirliggjandi. Þarna þurfa að koma fram afleiðingar og áhrif búvörusamningsins til þetta langs tíma á þessar greinar í landinu, búsetu í landinu, áhrif á neytendur og hvernig við nýtum best þann fjárstuðning sem þarna er verið að tala um.

Í þessu samhengi hefur líka verið talað um tollasamninginn sem gerður var. Hann er stór áhrifaþáttur gagnvart búvörusamningnum. Það er mikið áhyggjuefni hver áhrif hans verða á framleiðslu innan lands á t.d. hvítu kjöti og hætta á að verið sé að hella yfir markaðinn tímabundið mjög ódýrri vöru sem enginn veit hvar er upprunnin á kostnað innlendrar framleiðslu. Menn hafa oft talað um að það eigi bara að flytja inn það hvíta kjöt sem framleitt er hér á landi en fyrir utan að skapa fjölda starfa og hlúa að atvinnu innan lands þá er miklu umhverfisvænna að geta framleitt þessa vöru í návígi við neytendur en að flytja hana heimshafa á milli. Eins og við vitum er verið að flytja hingað kjúklingabringur frá Tælandi og Víetnam og guð má vita hvaðan. Þetta kostar allt auðvitað og mengar, slíkur flutningar heimshafa á milli.

En ég er ánægð með að atvinnuveganefnd hefur verið mjög samstiga í að reyna að laga þetta mál. Kannski er verið að skamma þann ráðherra sem fór af stað í þessa vegferð án þess að eiga neitt samráð. Þetta er ákveðinn áfellisdómur gagnvart honum. En ég tel að í nefndinni hafi farið fram mjög uppbyggileg vinna við að reyna að lagfæra þetta án þess að rífa upp allan samninginn en að bændur hefðu þá fulla möguleika á því í lok þessara þriggja ára, þegar endurskoðun færi fram, að greiða aftur atkvæði. Þá kemur í ljós hvort einhverjar tillögur koma fram um breytingar á þeim samningi sem nú liggur fyrir. Hvort sem það koma tillögur að breytingum eða hvað verður þá lít ég þannig á að verið sé að segja: Samningurinn fer aftur í atkvæðagreiðslu við endurskoðun 2019. Ég held að það sé eitthvað sem við á öllum köntum og með ýmsa ólíka gagnrýni á þetta mál getum vel við unað.

Svo ætla ég í lokin að vera sérstaklega málefnaleg gagnvart framsögumanni meiri hluta nefndarinnar sem ég tel að hafi haldið vel á þessu máli. (Gripið fram í.) og mættu fleiri taka sér til fyrirmyndar slíka vinnu. Auðvitað eiga menn, burt séð frá því hvar í flokki þeir eru, að leggja sig fram við það að ná góðu talsambandi við þingmenn annarra flokka í svo viðamiklu máli sem hér liggur undir. Þó að menn séu ekki alltaf sammála er það þess virði að leggja lykkju á leið sína og vinna að því að ná góðri niðurstöðu því að menn komast lítið áfram ef þeir ætla bara að stjórna ferðinni einir og hafa ekkert samráð. Ég vil því segja þetta að lokum og þakka hv. þm. Haraldi Benediktssyni fyrir framlagið til þessa máls.



[16:15]
Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni ræðuna og get tekið undir með henni að það er auðvitað mjög skrýtið að byrja stefnumörkun um samning þegar búið er að gera hann. Ég vil samt spyrja hv. þingmann aðeins út í orð hennar og stefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í landbúnaðarmálum. Ég var svolítið hissa að heyra að hv. þingmaður talaði með eftirsjá um framleiðslustýringarkerfið og að framleiðsla væri miðuð í kringum innanlandsneyslu. Við búum við þær aðstæður núna að fjölgun ferðamanna er að búa til ný tækifæri fyrir innlenda landbúnaðarframleiðslu og það er mjög mikilvægt að opna þessa grein og auka markaðsaðhald og leyfa framleiðendum að framleiða eins og þeir geta, líka til þess að bregðast við því að það er léleg afkoma á mörgum svæðum þar sem bændur gætu bætt við sig framleiðslu og keppt. Sér hv. þingmaður það virkilega sem skaða að bændur keppi í gæðum og framleiðslu?

Ég hlýt líka að spyrja, vegna þess að hv. þingmaður nefndi það ekki í sínu máli, um undanþágu Mjólkursamsölunnar frá samkeppnislögum. Flokksbróðir hv. þingmanns hefur lýst ofbeldisaðgerðum Mjólkursamsölunnar gegn keppinautum sem sérstaklega jákvæðum afleiðingum af félagslegum rekstri. Eru það skilaboðin sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð ætlar að senda til sprota í mjólkuriðnaði eins og Örnu í Bolungarvík, kjördæmi hv. þingmanns? Er það í alvöru þannig að Vinstri hreyfingin – grænt framboð vilji halda sig við það ofstýringarkerfi sem tryggir bændum ekki fullnægjandi afkomu og neytendum mikinn kostnað og sé ekki tilbúin að hugsa neitt sem geti opnað eða losað um þetta kerfi?



[16:17]
Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það má margt segja um framleiðslustýringu og stundum getur hún átt við og stundum ekki. Stundum gagnast það þeim sem eru í greininni að hafa einhver takmörk á. Ég held að óheft offramleiðsla geti oft komið í hausinn á bæði neytendum og þeim sem framleiða. Ég veit ekki betur en að í Evrópu hafi farið af stað mikil offramleiðsla sem síðan olli því að verð hrundi. Ég held að bændur í Evrópu margir hverjir séu ekki of sælir af sínu og lifi ekki af því lága botnverði sem þeir fá fyrir framleiðslu sína. Það er lítil framtíð í því að hafa það svona óraunhæft, jafnvel þótt verð falli og allir hoppi hæð sína af því að þeir geta keypt ódýra vöru, sem aftur verður til þess að margir bregða búi og færri verða eftir. Hvað þýðir það? Þegar færri eru eftir þýðir það oftar en ekki að vara hækkar, verð rýkur upp aftur og varan verður enn dýrari. Ég held því að alveg eðlilegt sé að farið sé varlega í því að hvetja menn í að framleiða og framleiða án þess að hafa nokkra sýn á það hvar það endar. Það getur endað í því að það verður algjört verðfall og að viðkomandi bóndi hafi ekki neina möguleika til þess að halda áfram rekstri.

Varðandi undanþágu Mjólkursamsölunnar er ég hlynnt því að það sé jöfnunarverð. Ég hefði haldið að hv. þingmaður væri jöfnunarmaður og fylgjandi jöfnun varðandi búsetu, að bændur gætu fengið sama verð fyrir mjólkina og neytendur fengju sama verð fyrir mjólkina hvar sem er á landinu. Ég tel það vera ágæta innbyrðis jöfnun og eiginlega flutningsjöfnun, eins og hv. þingmaður flutti mál um á sínum tíma á Alþingi.

Varðandi Örnu sem er í kjördæmi mínu þá komu fulltrúar hennar á okkar fund og sögðu að þeir mundu aldrei fara sjálfir út í það að safna mjólk og voru ánægðir með að geta keypt mjólkina frá (Forseti hringir.) öðru fyrirtæki en vildu fá hana á sanngjörnu verði, sem ég tek hjartanlega undir.



[16:19]
Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kom skýrt fram í atvinnuveganefnd að það er ekki nein nauðsynleg forsenda þess að hægt sé að tryggja söfnun mjólkur um allt land á sama verði og dreifingu mjólkur um allt land á sama verði að Mjólkursamsalan njóti undanþágu frá samkeppnislögum. Það kom skýrt fram að það þarf ekki þessa undanþágu. Hún er hins vegar skálkaskjól þessa fyrirtækis í ofbeldisaðgerðum gagnvart keppinautum, litlum keppinautum. Það er alveg ótrúlegt að heyra þessa varðstöðu þar sem menn sveifla aftur og aftur alls konar hindurvitniskenningum um að það þurfi nauðsynlega undanþágu frá samkeppnislögum til þess að hægt sé að leggja almennar skyldur á Mjólkursamsöluna og umbuna henni fyrir það. Það er ekkert sem kallar á undanþágur frá samkeppnislögum í því. Hins vegar er það mjög skrýtið að sjá þá túlkun frá þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, ekki endilega frá hv. þingmanni en frá flokksbræðrum hennar, um að svona ofbeldisaðgerðir séu sérstaklega jákvætt (Forseti hringir.) innlegg og hluti af félagslegum rekstri. Það kemur óorði á félagslegan rekstur.



[16:21]
Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ef hv. þingmaður getur sýnt fram á að ekki þurfi undanþágu frá samkeppnislögum til þess að hægt sé að safna mjólk og dreifa henni á sama verði vítt og breitt um landið er ágætt að það komi fram. Ég vil hafa algjöra tryggingu fyrir því að það sé þá þannig en ekki geðþóttaákvörðun hverju sinni. Ég er orðin alveg dauðþreytt á því að allt sem snýr að landsbyggðinni þurfi að sækja með tækjum og tólum og fara bónarveg á hnjánum til þess að fá það. Mér finnst eðlilegt að við sem búum í þessu stóra landi höfum innbyrðis jöfnunarkerfi. Ef lögfræðilega er talið að ekki þurfi þessa undanþágu frá samkeppnislögum ætla ég ekki að standa með því og berjast fyrir því. En það þarf þá líka að vera kvitt og klárt að það dugi annað og það verði ekki geðþóttaákvörðun MS. MS fór langt, langt fram úr sér. Þeir fengu auðvitað sína refsingu. Þeir eiga að fara þannig fram að aðrir sem eru í framleiðslu njóti þess að þeir hafi (Forseti hringir.) sterka markaðsstöðu og þeir geti fengið keypta mjólk á eðlilegu verði, en mér skilst að verið sé að stíga skref í þá átt í þeim breytingartillögum sem eru lagðar hér fram.



[16:22]
Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Haraldur Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Lilju Rafney Magnúsdóttur nefndarálit hennar og framsögu og ekki síður fyrir vitnisburð hennar um ágæta vinnu og samstarf í atvinnuveganefnd sem hún hefur ekki síst, með fullri virðingu fyrir öllum sem þar sitja, lagt sitt lóð á vogarskálarnar, svo það sé sagt. Það er alveg óhætt að segja, frú forseti, að það mætti vera meira kastljós á störf þingsins og það hvernig unnið er í nefndum og hvernig hægt er að vinna málefnalega að málum. Ég tek eftir því að tveir hv. nefndarmenn í atvinnuveganefnd, hv. þm. Kristján L. Möller og hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir, hafa borið vitni um að þingmálið hafi tekið heilmiklum framförum við vinnu nefndarinnar og orðið jákvæðar breytingar.

Það sem ég vildi taka upp við þingmanninn er tillaga hennar sem lýtur að sviptingu stuðnings við brot á velferð dýra. Nú ætla ég að taka fram að aldrei ætla ég að réttlæta slík brot, en vil aftur á móti ítreka það og tek undir að við munum ræða þessa tillögu vonandi á milli 2. og 3. umr. En telur þingmaðurinn ekki mikilvægt að við vöndum þá umræðu? Í núgildandi lögum hefur Matvælastofnun mjög víðtæk úrræði til sviptingu greiðslna, til stjórnvaldssekta og til stjórnvaldsákvarðana sem eru í raun og veru mjög fullnægjandi til þess að taka á slíkum brotum eða slíkum málum. Til viðbótar þá eru einungis örfáar búgreinar sem hafa slíkan stuðning. Spurningin er líka hvort þá gæti ekki einhvers misræmis á milli búgreina ef hægt er að svipta eina búgrein slíkum tekjustofni með aðgerðum sem eru reifaðar í tillögunni.



[16:24]
Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Já, ef ég kem strax að því sem hv. þingmaður endaði á varðandi tillögu okkar Vinstri grænna um að hægt verði að svipta framleiðendur ríkisstuðningi ef um er að ræða brot á lögum um velferð dýra, eða dýraníð. Eins og unnið var að málinu varðandi lög um velferð dýra þá kom upp í þeirri umræðu að þetta þyrfti að kallast á við búvörusamninga, það þyrfti að taka þetta upp við endurnýjun þeirra. Þetta er auðvitað ekki alveg eins og hver önnur atvinnugrein heldur er þetta atvinnugrein sem hefur að hluta til stuðning frá ríkinu. Ríkið verður líka að bera ábyrgð á því hvert greiðslurnar fara og hvernig þær eru nýttar og á auðvitað ekki að líða það að þær séu í höndum á einhverjum sem brýtur lög, í þessu tilfelli lög um velferð dýra.

Ég veit mætavel að Matvælastofnun getur beitt stjórnvaldssektum og hefur heimild fyrir aðgerðum sem hún getur beitt í þeim efnum. En ég tel að við eigum að ganga lengra og koma því sterkara að í þessum samningi að við viljum ekki líða dýraníð. Því miður er kannski oft um að ræða andleg veikindi jafnvel og annað sem er í gangi og þarf auðvitað að hjálpa viðkomandi gegnum slíkt. En ég er ekki að tala um í þessu sambandi að það eigi að grípa til þannig aðgerða að það ýti undir að skepnur fái ekki fóður eða eitthvað því um líkt. Ég tel að það eigi auðvitað að gera þetta allt (Forseti hringir.) með sem mannúðlegustum hætti bæði gagnvart viðkomandi rekstraraðila og þeim dýrum sem hann heldur.



[16:27]
Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Haraldur Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Mér fannst koma vel fram í máli hennar að þetta er vandmeðfarið. Stórnvöld hafa mjög ríkar heimildir til þess að taka á slíkum málum. Mér finnst tillaga hv. þingmanns athyglisverð og við skoðum hana nánar. Ég ætla að vekja athygli á því aftur að þetta gæti skapað misræmi á milli bænda eða milli dýraeigenda þar sem sumar búgreinar njóta ekki stuðnings meðan aðrar hafa þann stuðning sem hér um ræðir. En við förum yfir það síðar.

Í nefndaráliti því sem hv. þingmaður kynnti stendur, með leyfi forseta:

„Vakin skal athygli á því að með ákvæðum fyrirliggjandi samnings er endanlega horfið frá því markmiði sem búvörusamningarnir frá 1991 festu í sessi og fólst í því að miða skyldi stuðning við landbúnaðarframleiðslu við innanlandsneyslu á landbúnaðarafurðum.“

Ég spyr því hv. þingmann: Veruleikinn er sá að frá því snemma á árinu 2000 var raunverulega búið að leggja framleiðsluskyldu eða kvótasetningu sauðfjárræktarinnar til hliðar hér á landi. Ég held við verðum að tala svolítið skýrt í þessum efnum. Er þingmaðurinn að boða að til þess að (Forseti hringir.) takast á við þau verkefni sem hún rekur í nefndarálitinu þurfi að taka aftur upp framleiðslustýringu í sauðfjárrækt? Ég held að það verði að liggja mun skýrar fyrir en svona óljóst orðalag.



[16:28]
Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þarna er auðvitað fyrst og fremst verið að viðra ákveðnar áhyggjur af því að verið sé að beina stuðningi í of miklum mæli að vörum sem fara í sölu erlendis. Það er kannski rétt að rifja upp að í búvörusamningum frá 1991 í kjölfar þjóðarsáttarinnar beindist stuðningurinn þá að þeirri framleiðslu sem seldist á innanlandsmarkaði og í reynd voru teknar upp á ný útflutningsbætur. Nú hefur komið fram að það er ansi stór hluti af þeim tæpu 5 milljörðum sem fara í stuðning sem kemur til með að fara með einum þriðja af framleiðslunni í sauðfjárræktinni sem fer til útlanda. Um það bil 30% fara í útflutning svo það segir sig sjálft að þetta dreifist þarna yfir.

Ég tel þetta vera eitthvað sem við þurfum að skoða í þessu samhengi og það sé alveg eðlilegt. (Forseti hringir.) Þótt ég sé ekki að boða framleiðslustýringu þá þurfum við samt að skoða þetta og og taka tillit til þess.



[16:30]
Páll Jóhann Pálsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir nefndarálit hennar og fyrir samstarfið í atvinnuveganefnd. Eins og hv. þingmaður komst að orði ríkir alveg sérstakur andi í atvinnuveganefnd þar sem menn leggjast allir á árarnar til finna lausn á málinu. Einnig get ég tekið undir með hv. þingmanni að framsögumaðurinn í málinu, hv. þm. Haraldur Benediktsson, hefur staðið sig mjög vel í þessu og hefur verið fínt að hafa hann í þessum störfum og þolinmæðin sem hann sýndi hv. þm. Lilju Rafney Magnúsdóttur var alveg einstök. Þess vegna hljóta það að hafa verið mikil vonbrigði fyrir hv. þm. Harald Benediktsson að hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir skyldi svo stökkva af vagninum þegar átti að fara að skrifa undir. Nei, þá ég verð ekki með. Ég verð því að segja að það hljóta að hafa verið mikil vonbrigði fyrir hv. þingmann rétt eins og mig.

Ég veit að hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir vill landbúnaðinum vel. Mig langar að spyrja hana, því að það hefur ekki komið alveg fram hjá henni með þessar upphæðir. Menn eru ýmist með eða á móti þessum landbúnaðarsamningi en það tala fáir um hvort þeim finnist þessi styrkur of hár eða of lágur. Útgjöld á þessu ári eru um 12,8 milljarðar og fara í 13,7 milljarða á næsta ári, 2017, og enda í 13,6 milljörðum. Finnst hv. þingmanni of mikið í lagt með þessum styrkjum til bænda, eða finnst henni þetta of lágt? Eða er hún bara sammála um þessa upphæð, að þetta sé akkúrat (Forseti hringir.) upphæðin og sátt við hana?



[16:32]
Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er gaman að hlusta á samnefndarmenn sína halda þá tölu að einhverja sérstaka þolinmæði hafi þurft í samstarfi við mig. Ég held að hv. framsögumaður nefndarinnar taki ekki undir hans orð í þeim efnum. Við erum bæði mjög þolinmóð að eðlisfari og getum alveg rætt málin þó að við séum ekki í sama flokki. Það var nú ekki það sem fylgdi því samtali að ég ætlaði að ganga í Sjálfstæðisflokkinn. En ég tel rétt, og það er kannski það sem framsóknarmenn kunna ekki, að hafa samráð. Það er kannski það sem Sjálfstæðisflokkurinn er að gera núna, að draga Framsóknarflokkinn upp á eyrunum í þessari vinnu og hafa samstarf sem hefði átt að vera áður en samningurinn var undirritaður. En gott og vel.

Ég hef ekki gagnrýnt þær upphæðir sem þarna eru á ferðinni. Ég tel miklu brýnna að þær nýtist greininni sem slíkri, fari ekki í milliliði og endi ekki í ofurhagnaði hjá Högum. Ég vil að þessi stuðningur endi í vasa neytenda og endi hjá bændunum sjálfum og þessari búgrein svo hún geti vaxið og dafnað. Það er skoðun mín á málinu. Ég hef ekki verið að gagnrýna þær upphæðir sem slíkar, heldur skiptir máli hvar þær lenda, hvernig þær nýtast og að það komi okkur öllum sem samfélagi til góða. Það er mín sýn á þær upphæðir. Ég tel ekkert athugavert við að styðja íslenskan landbúnað ef það skilar sér aftur til baka til okkar allra.



[16:34]
Páll Jóhann Pálsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið og fagna því að henni finnist ekki of mikið í lagt. En annað mál, þótt það hafi ekki verið beint til umræðu, tollasamningarnir, mig langar að heyra álit hennar á þeim breytingum og þeirri aukningu á tollkvótum á landbúnaðarvörum, þetta eru háar tölur, og hvort hún hræðist þær ekki. Nautakjöt, það er 100 tonna kvóti þar í dag, hann fer á næstu fjórum árum í 700 tonn, svínakjöt úr 200 tonnum í 700 tonn, alifuglar úr 200 tonnum í 856 tonn. (Gripið fram í: 1056, taktu … með.) Já, ókei, 1056 tonn. Mig langar að fá álit hennar á því hvort hún sé sátt við þessa aukningu, (Forseti hringir.) og af því að henni er vel til landbúnaðarins, hvort hún hræðist ekki þennan innflutning fyrir hönd landbúnaðarins.



[16:35]
Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Jú, ég hef bara mjög miklar áhyggjur af þessum mikla innflutningi á þeim vörum og er mjög ósátt við þennan tollasamning sem liggur fyrir. Það er hæstv. ríkisstjórn sem hv. þingmaður styður sem ber ábyrgð á þeim samningi, og hans ráðherra. Ég er mjög gagnrýnin á tollasamninginn eins og hann lítur út og tel hann ekki vera til hagsbóta hvorki fyrir landbúnaðinn né endilega neytendur. Það hefur sýnt sig oftar en ekki að þó að innflutningur sé aukinn og auknir tollar þá skilar það sé ekki endilega til neytenda. Sagan hefur sýnt að þar fara fjármunir á milli skips og bryggju og lenda í vasanum á stórversluninni oftar en ekki. Svo ég er alveg hjartanlega sammála, og það hefði verið gott ef hv. þingmaður og þingflokkur hans hefðu reynt að stoppa gerð þessa tollasamnings þegar hann lá undir.



[16:37]
Frsm. 3. minni hluta atvinnuvn. (Björt Ólafsdóttir) (Bf):

Frú forseti. Hér er ég komin upp til þess að gera grein fyrir áliti okkar í Bjartri framtíð á þessum búvörusamningum og þeim lögum sem þarf að breyta til þess að þeir samningar sem fóru fram á milli fyrrverandi ráðherra, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, og bænda — þar er helst að nefna að við leggjum til frávísunartillögu, um að þessum samningum verði vísað frá, og að víðtækt samráð verði haft áður en við förum í að lögfesta einhverjar breytingar á landbúnaðarkerfinu. Það er byrjað á öfugum enda og mér þykir alltortryggilegt að meiri hlutinn vilji fyrst lögfesta nýjan samning með öllu sem honum fylgir en síðan eigi að spyrja álits. Það þykja mér mjög skringileg vinnubrögð.

Frumvarp um breytingar á búvörulögum er lagt fram til að lögfesta breytingar á lögum í kjölfar þess að undirritaðir voru nýir búvörusamningar og búnaðarlagasamningur milli íslenska ríkisins og Bændasamtaka Íslands þann 19. febrúar 2016. Með nýgerðum búvörusamningum er ekki sköpuð sú festa eða fyrirsjáanleiki sem er nauðsynlegt fyrir jafn mikilvæga atvinnugrein. Markmið samninganna eru líka að mörgu leyti óljós því að á sama tíma og talað er um sóknarfæri íslensks landbúnaðar á heimsvísu með aukinni framleiðslu og margbreytilegum afurðum er hert á einokunaraðstöðu markaðsráðandi aðila og niðurgreiðslu útflutnings landbúnaðarafurða haldið áfram. Þetta er gert þrátt fyrir þau teikn á lofti sem við sjáum mjög sýnilega núna, að sauðfjárbændur eru t.d. að fá lækkun til sín, það er verðlækkun til bænda upp á 10–12% vegna þess að það gengur illa að selja út og vegna þess að krónan er að styrkjast. En það á að halda sig við sama fyrirkomulag hér og bæta í. Með þessu er ætlunin að verja miklum fjármunum til ýmissa greina á þessu sviði og festa í sessi fyrirkomulag sem er löngu úr sér gengið, án samráðs við helstu hagsmunaaðila í samfélaginu. Þetta teljum við í Bjartri framtíð með öllu óásættanlegt.

Fimmtíu umsagnir bárust frá ýmsum hagsmunaaðilum. Fyrir liggur að ekki var haft samráð við flesta af þeim stóru hagsmunaaðilum sem búvörulög og búvörusamningar varða. Í fjölmörgum umsögnum er lýst verulegum áhyggjum af samráðsleysi og íhaldssamri landbúnaðarstefnu sem er fyrir löngu úr sér gengin og þar sem er ekki er gætt að hagsmunum neytenda, skattgreiðenda, launþega, atvinnurekenda og annarra hagsmunaaðila. 3. minni hluti telur að endurnýja beri núgildandi samninga og vinna málið upp á nýtt. Samráði á ekki að slá á frest. Það þarf að gerast fyrir lögfestingu. Lagði 3. minni hluti því fram frávísunartillögu og leggur til að núverandi samningur verði framlengdur og að þegar verði hafist handa við gerð nýrra samninga í samráði og samvinnu við allra hagsmunaaðila og skýrri pólitískri sýn um framtíð íslensks landbúnaðar.

Þá ætla ég aðeins að fjalla um verðlagsnefndina því að hún er enn þá við lýði. Ég ætla að fara í gegnum hvernig þar hefur verið að málum staðið. Launþegasamtökin sem samkvæmt lögum áttu aðild að verðlagsnefnd búvara sögðu sig frá þeim störfum um mitt ár 2015 en Neytendasamtökin höfðu þá þegar sagt sig frá nefndinni. Forsendur þess voru þær að í ljósi breyttra viðhorfa og aðstæðna, m.a. vegna þess að eftirspurn eftir mjólkurvörum hefur verið meiri en rúmast innan samþykkts mjólkurkvóta og að kúabændur hafa lýst vilja til að hverfa frá opinberri verðlagningu á mjólkurafurðum, væri ljóst að endurskoða þyrfti allt skipulag mjólkurframleiðslu, þar með talda verðlagningu. Þessu hnykkjum við á og viljum halda til haga því að í nýju búvörusamningunum er lagt til að halda sig enn þá við það gamla form að hafa verðlagsnefnd t.d. í mjólkurframleiðslu.

Samkeppniseftirlitið tekur svo djúpt í árinni að halda fram í umsögn sinni að frumvarpið þarfnist gagngerrar endurskoðunar í því skyni að tryggja almannahagsmuni. Þetta eru auðvitað dálítið þung og mikil orð og við verðum að átta okkur á því hvað þau þýða. Samkeppniseftirlitið segir að þessir landbúnaðarsamningar tryggi ekki almannahagsmuni. Með öðrum orðum: Þetta eru samningar um sérhagsmuni. Það getur Björt framtíð alls ekki stutt. Þess vegna viljum við vísa málinu frá. Í þessu felst m.a. að í frumvarpinu er að finna ákvæði sem ganga þvert gegn ákvæðum samkeppnislaga, ákvæði sem eru án fordæma í annarri löggjöf og refsiverð undir öðrum kringumstæðum. Er þar m.a. átt við 3. mgr. 13. gr. og 71. gr. núgildandi laga þar sem kveðið er á um samráð og samkomulag milli afurðastöðva og breytingar á áðurnefndri 13. gr. sem festir í sessi samráð um verðtilfærslu sem alla jafna teldist ólöglegt samkvæmt samkeppnislögum. Meiri hluti nefndarinnar leggur ekki til neinar lagfæringar eða breytingar hvað þetta varðar til hagsbóta fyrir almenning.

Björt framtíð telur ekki ásættanlegt að Alþingi samþykki frumvarpið í þeirri mynd sem nú er. Markmið samkeppnislaga er að gæta hagsmuna almennings. Lögunum er ætlað að vinna gegn óhóflegum hindrunum og takmörkunum á frelsi í atvinnurekstri, vinna gegn skaðlegri fákeppni og samkeppnishömlum og auðvelda aðgang nýrra keppinauta á markað. Með frumvarpinu er gengið gegn öllum þessum meginreglum þar sem heimildir til sameiningar, samráðs og samvinnu markaðsráðandi aðila yrðu lögfest sem og verðsamráð. Þá er þak einnig sett á það magn sem markaðsráðandi afurðastöð er heimilt að selja sjálfstæðum vinnsluaðilum og þannig komið í veg fyrir samkeppni. Jafnvel þó að breytingartillögur meiri hlutans miði að því að hækka það þak frá því sem áður var í fyrstu tillögum að þessu frumvarpi eru samt sem áður með því lögfestar reglur sem heimila skaðlega fákeppni og samþjöppun á þessum markaði. Slíkt er auðvitað óásættanlegt. Landbúnaður þarf að geta og á að þrífast á samkeppnismarkaði. Atvinnugrein sem er niðurgreidd með almannafé verður að gangast undir samvinnu og samráð við hagsmunaaðila og byggjast á samfélagslegum sjónarmiðum þar sem tekið er tillit til allra hagsmunaaðila.

Björt framtíð telur að með endurskoðun málsins og gerð nýrra búvörusamninga séu fólgin tækifæri til að tryggja bændum hámarksverð fyrir afurðir sínar, að vöruúrval og hagstætt verð til neytenda verði tryggt og að sátt megi nást um slíka samninga og framkvæmd þeirra þannig að ákvæðum samkeppnislaga sé einnig fylgt. Nýlegar fregnir af einhliða ákvörðun sláturleyfishafa um að lækka verð til sauðfjárbænda um 10–12% hafa sætt furðu og hafa bændur gagnrýnt harkalega ásetning þeirra, þ.e. sláturleyfishafa, við að velta fortíðarvanda og kostnaðar- og launahækkunum yfir á bændur. 3. minni hluti atvinnuveganefndar telur að með endurskoðun búvörusamninga megi gera mun betur þannig að hagsmuna allra hlutaðeigandi sé gætt við framkvæmd, og ekki síst bænda.

Þá ætla ég aðeins að bregðast við því sem fram hefur komið í ræðum þeirra hv. þingmanna sem á undan mér töluðu. Í þessu sambandi var verið að ræða stuðning við sauðfjárbændur, eins og ég hef verið að gera. Hv. þm. Kristján L. Möller ræddi mikið um svæðisbundinn stuðning við sauðfjárbændur sem ætlunin er að Byggðastofnun komi með útfærslur að með það að markmiði að koma til móts við hinar veikustu byggðir og veita þeim aukinn stuðning. Hugmyndirnar eru á þá leið að því lengra sem menn eru frá kaupstað, þeim mun meiri stuðning fái þeir. Rökstuðningurinn fyrir því, sem mér þykir allrar athygli verður, er að af því að menn eiga heima svo langt frá kaupstað er erfitt fyrir þá að sækja aðra vinnu, þess vegna þurfa þeir meiri stuðning. Þetta getur allt passað. Ég mótmæli því ekki neitt. En mér þykir mjög eftirtektarvert og vil vekja athygli á því að við séum að búa til umgjörð og taka því sem gefnum hlut að sauðfjárbændur þurfi að sinna annarri vinnu til þess að ná endum saman. Ég kem af sauðfjárbúi. Það var ekkert stórt sauðfjárbú. Þar voru á þeim tíma eitthvað um 350 kindur. Það var ekki 10% vinna að sjá um það. En auðvitað var það þannig að foreldrar mínir gátu ekki verið með þann búrekstur einan og sér, fólk þarf að vinna við annað. Mér finnst að við þurfum aðeins að staldra við. Ég tel að við þurfum að styðja landbúnað í landinu, höfum það alveg á hreinu. En það er ekki sama hvernig það er gert. Ef forsendurnar eru þannig að sauðfjárbændur þurfi alltaf að vera að vinna við eitthvað annað til að ná endum saman, erum við þá ekki á rangri braut? Þurfum við ekki að skoða það aðeins betur? Þetta er ekki ásættanlegt fyrir fólk. Þetta er eins og námsmenn sem verða að vinna með námi. Auðvitað gerir fólk það en best væri að það gæti eytt öllum sínum tíma og kröftum í að sinna náminu. Og best væri að sauðfjárbændur hefðu nægilega mikið upp úr því að reka sauðfjárbú sín og þyrftu ekki að vera að þeytast á milli til að reyna að ná endum saman. Ég vildi koma þessu að vegna þess að því er tekið sem gefnum hlut.

Þá aðeins að lífrænt ræktuðum vörum. Eftirspurn eftir lífrænt ræktuðum vörum hefur margfaldast á undanförnum árum. Frumvarpið felur vissulega í sér aukinn stuðning við lífræna ræktun en hvatinn til slíkrar ræktunar er alls ekki fullnægjandi. Engin stefna um framtíðaráform lífrænnar ræktunar hefur verið sett og er það miður. Marka þarf slíka stefnu og stuðningur við lífræna ræktun þarf að margfaldast til að okkur auðnist að halda í við aðrar Norðurlandaþjóðir hvað þetta varðar.

Með frumvarpinu er ekki með nokkrum hætti gerð tilraun til að leggja mat á það að hvaða marki íslensk framleiðsla er umhverfisvæn í samanburði við sambærilega framleiðslu erlendis. Það er talað mikið um þetta en ekki lögð nein mælistika á það hér. Til þessa þarf að taka upp mælingar á kolefnisfótsporum til að unnt sé að leggja mat á það hvort og þá með hvaða hætti stuðningur við íslenskan landbúnað ýtir undir umhverfisvæna framleiðslu.

Frumvarpið felur í sér áframhaldandi stuðning við útflutning landbúnaðarafurða sem er niðurgreiddur með almannafé íslenskra skattborgara í formi beingreiðslna eða gripagreiðslna. Nú á sem sagt að auka á gripagreiðslur. Eins og fram hefur komið þarf atvinnugrein sem niðurgreidd er með almannafé að byggjast á samfélagslegum sjónarmiðum og hagrænum ávinningi. Óásættanlegt er að íslenskir skattgreiðendur niðurgreiði landbúnaðarafurðir sem seldar eru erlendis. Til þess að byggja upp markaði erlendis með íslenskum landbúnaðarafurðum hlýtur atvinnugreinin að þurfa að standa á eigin fótum.

Ég tel einfaldlega að við séum á rangri braut þarna. Við segjum við sauðfjárbændur og þessi samningur segir: Við aukum gripagreiðslur, þið megið framleiða meira svo við getum selt meira út. En hver er veruleikinn? Það gengur ekki vel að selja út. Afurðaverð lækkar til bænda sem halda áfram að framleiða meira þannig að afurðaverð lækkar áfram. Þetta er mjög einfalt, einfaldasta útgáfan af hagfræðiformúlu sem til er. Ég átta mig ekki á því hvaða hagfræðibækur stjórnarmeirihlutinn hefur lesið.

Í frumvarpinu er ekki tekið tillit til ástands lands og stuðningur er mikill á svæðum þar sem landgæði geta verið slök. Þess utan getur aukning gripagreiðslna hvatt til fjölgunar sauðfjár án þess að hugað sé að ástandi afrétta og beitilanda í héruðum og landshlutum þar sem ástand lands getur verið viðkvæmt. Ekki verður séð að með samningunum sé gerð tilraun til að draga úr beit á illa förnu landi eða auðnum. Meiri hluti atvinnuveganefndar vitnar til rammasamnings um almenn starfsskilyrði landbúnaðarins hvað þetta varðar og segir gert ráð fyrir mati og vöktun á ástandi gróðurauðlinda. Hið rétta er að þar er eingöngu rætt um að standa fyrir verkefni um mat á gróðurauðlindum með því að draga saman rannsóknir sem fyrir liggja um efnið og beita sér fyrir frekari rannsóknum. Engin tilraun er gerð til að skýra það með hvaða hætti ætlunin er að vakta og vernda land og stuðla að sjálfbærni. Opinber fjárstuðningur við heila atvinnugrein hlýtur að þurfa að miðast við sjálfbæra landnýtingu þar sem gróður- og jarðvegseyðing er eitt alvarlegasta umhverfisvandamál Íslendinga. Björt framtíð vill stórauka áherslu á jarðræktarstuðning, ekki síst til að fylgja sóknaráætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum og skuldbindingum á alþjóðavettvangi. Þannig þarf að auka fjölbreytni í íslenskum landbúnaði í stað þess að einblína á sértækar búgreinar eins og gert er í samningunum. Með öðrum orðum: Við skulum styrkja fólk til að gera það sem það vill í landbúnaði. Mér finnst þessir fjórir samningar ekki ná utan um þetta — jú, það er kominn þarna rammasamningur sem tilgreinir geitur og eitthvað svoleiðis, en hvernig eigum við hér og fólk í ráðuneytinu, með fullri virðingu, að hafa tæmandi hugmyndir um það hvað bændur vilja gera?

Í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir því að opinber stuðningur við framleiðslu landbúnaðarafurða komi til endurskoðunar verði bændur uppvísir að ítrekaðri illri meðferð dýra. Í frumvarpi um meðferð dýra sem lagt var fram á 141. löggjafarþingi var gert ráð fyrir því að við brot á lögunum væri Matvælastofnun, sem hefur eftirlitshlutverk með dýrahaldi, heimilt að fella niður opinberar greiðslur í landbúnaði vegna ítrekaðra brota og að undangenginni áminningu. Það ákvæði var fellt út úr lögum, m.a. vegna andstöðu Bændasamtaka Íslands við ákvæðið. Helstu rök voru þau að slík tillaga stangaðist á við búvöru- og búnaðarlög. 3. minni hluti telur slík rök ekki standa í vegi fyrir því að ákvæði af þessu tagi verði tekið upp, enda þurfi þá eingöngu að taka það upp í öðrum lögum. Sjálfsagt og eðlilegt sé að skilyrða opinberan fjárstuðning við ásættanlega meðferð dýra.

Þrátt fyrir að meiri hluti atvinnuveganefndar geri ráð fyrir lítils háttar breytingum á fyrirkomulagi tollkvóta sem hafa það að markmiði að hækkanir verði ekki eins miklar og áður hafði verið gert ráð fyrir, ef ég man rétt hafði verið gert ráð fyrir um 150% hækkun en nú er gert ráð fyrir 70% hækkun, þá munu þessar breytingar á búvörulögum samt sem áður leiða til tollahækkunar á ostum. 3. minni hluti telur að hagsmunir neytenda séu enn fyrir borð bornir og slíkt er óásættanlegt. Björt framtíð hefur lagt fram frumvarp þess efnis að tollkvótar verði ekki boðnir út, enda fari kostnaður vegna útboðanna út í verðlagið, eins og við sjáum alltaf gerast.

Þriðji minni hluti telur fram komnar breytingar meiri hluta nefndarinnar sumar til bóta og tekur undir tillögu sem varða það að brýnt sé að neytendur fái skýrar og réttar upplýsingar um uppruna þeirra matvæla sem þeim eru boðin til sölu og að framfylgja þurfi af einurð banni við því að villt sé um fyrir neytendum með röngum eða óskýrum merkingum og auglýsingum. Afar mikilvægt sé að hraða innleiðingu á reglugerð um upprunamerkingar nr. 1337/2013, um reglur vegna beitingar reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 1169/2011. Ánægjulegt er að tekið skuli undir margar röksemdir í frávísunartillögu Bjartrar framtíðar og hún sé höfð til hliðsjónar í fjölmörgum umsögnum hagsmunaaðila, sem eru samt neikvæðar.

Álit 3. minni hluta er að breytingartillögur meiri hlutans séu algjörlega ófullnægjandi og því beri að vísa málinu frá. Málið er enn vanreifað og mikið vantar upp á gæði þess sem ekki verður bætt nema með heildarendurskoðun og víðtæku samráði. Björt framtíð hefur ítrekað kallað eftir slíku samráði og það áður en búvörusamningar fóru af stað árið 2014, ef ekki fyrr, og nú virðast fleiri komnir á þá skoðun og það er vel. Íslenskur landbúnaður og fjölbreytt framleiðsla þar undir getur ekki beðið í þrjú ár eftir heildarendurskoðun þeirri sem meiri hluti atvinnuveganefndar leggur til, enda er ekkert í tillögum meiri hlutans sem tryggir góða niðurstöðu og bætt umhverfi neytenda, bænda og annarra framleiðenda að þeim tíma liðnum.

Ég ætla að nota smátíma til að fara yfir frávísunartillöguna. Hún er í 13 liðum hjá okkur og tekur til þeirra atriða sem ég var að fjalla um. Ég ætla að fara hratt yfir og lesa hana upp, með leyfi forseta.

„Þar sem fram hefur komið að:

a. búvörusamningarnir, sem undirritaðir hafa verið með fyrirvara, eru mjög umdeildir bæði innan þings sem utan, sem og þær breytingar á búvörulögum sem lagðar eru til svo unnt sé að uppfylla samningana, verður ekki annað séð en leggja þurfi til umtalsverðar breytingar á frumvarpinu og því séu forsendur samninganna brostnar,

b. við gerð búvörusamninga var ekki haft samráð við mikilvæga hagsmunaaðila, svo sem fulltrúa neytenda, launþega, verslunar og þjónustu, atvinnurekenda og ýmissa stofnana ríkisins, svo sem Landgræðslunnar og samkeppnisyfirvalda,

c. í umsögnum um frumvarpið kemur fram mikil andstaða við svo mikla langtímaskuldbindingu ríkisins og slík tíu ára skuldbinding verður að byggjast á meiri sátt en ríkir um þá samninga sem fyrir liggja enda um verulegar upphæðir að ræða,

d. ekki er gert ráð fyrir að undanþága frá samkeppnislögum, sem heimilar mjólkurafurðastöðvum að renna saman án íhlutunar samkeppnisyfirvalda, verði afnumin en slík undanþága vinnur gegn hagsmunum neytenda og þeirra sem vilja hasla sér völl í greininni,

e. ekki er gert ráð fyrir að afnema undanþágur frá samkeppnislögum um verðsamráð mjólkurafurðastöðva en samráð af því tagi er alla jafna mjög skaðlegt neytendum og engin rök fyrir því að heimila slíkt í þessum geira einum,

f. í 4. gr. frumvarpsins er lagt til að afurðastöðvum verði óheimilt að selja öðrum vinnsluaðilum meira en 5% af þeirri mjólk sem þær taka við en með því er vegið að samkeppni á þessum markaði og einokunarstaða núverandi markaðsráðandi aðila styrkt,“ — meiri hluti atvinnuveganefndar ætlar að breyta þessu í 20%, að ég held.

„g. hlutverk og ábyrgð verðlagningarnefndar er ekki nógu skýrt og fyrirkomulagið er ekki til þess fallið að skapa hvata fyrir framleiðendur til að auka samkeppnishæfni og framleiðni og lækka vöruverð til neytenda,“ — varðandi þennan lið vísa ég í það sem ég sagði áðan um að kúabændur sjálfir hafa lýst vilja til þess að hverfa frá þessu fyrirkomulagi. Af hverju hlustum við ekki á það?

„h. í frumvarpinu er lögð til mikil hækkun á magntollum á innfluttum ostum og mjólkurdufti en slíkar aðgerðir hækka verð til neytenda, veikja íslenskan iðnað og stuðla að lakara vöruúrvali,

i. samspil 11. gr. samkeppnislaga og ákvæða í búvörulögum er á margan hátt óljóst, svo sem hvað varðar skyldur markaðsráðandi fyrirtækis, viðurlög við brotum markaðsráðandi afurðastöðvar, sameiningu afurðastöðva og annað samstarf,

j. hvatning til lífrænnar framleiðslu er ekki fullnægjandi með þeim breytingum sem lagðar eru til í frumvarpinu,“ — við teljum þetta vera allt of lítið skref sem þarna er stigið í þessu frumvarpi hvað þetta varðar.

„k. ekki er gert ráð fyrir því að ríkisstuðningur geti skerst eða fallið niður við alvarleg brot á lögum um velferð dýra þótt atvinnuveganefnd hafi við síðustu meðferð frumvarps til breytinga á búvörulögum hvatt til þess að skoðað yrði við endurskoðun búvörulaga að fella slíkt úrræði inn í lögin,

l. í þeim samningum sem liggja fyrir er ekki tekið fullt tillit til ástands lands og stuðningur er t.d. mikill á svæðum þar sem landgæði geta verið slök, auk þess sem hærra hlutfall styrkja til greinarinnar fer í gegnum gripagreiðslur en sú leið hefur virkað framleiðsluhvetjandi og er ekki til þess fallin að verja viðkvæmt land,

m. auka þarf fjölbreytni í íslenskum landbúnaði í stað þess að einblína á sértækar búgreinar eins og gert er í samningnum og stórauka þyrfti áherslu á jarðræktarstuðning,

er lagt til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar og henni verði falið að framlengja gildandi samninga.“

Við erum ekki að segja að gildandi samningur sé góður. Við erum að segja: Það þarf að spyrja fólk fyrst áður en við á Alþingi komum með lög um hitt og þetta. Það er lágmarkskrafa. Það er satt að segja algert gerræði að við séum ekki búin að gera það. Við erum að ræða um 13 milljarða á ári og þetta er bara gert á einhverri skrifstofu uppi í ráðuneyti. Og svo er komið núna og sagt: Það er rétt hjá ykkur, við hefðum kannski átt að spyrja einhvern álits. Við skulum gera það á eftir þegar við erum búin að samþykkja þetta.

Hvar annars staðar en á Alþingi væri svona málflutningur í lagi?

Nú er ég búin að fara í gegnum þessa frávísunartillögu og ég er búin að færa fyrir henni góð rök. Ég tel að við séum rétt að byrja að sjá hvaða afleiðingar það muni hafa fyrir komandi framtíð að hleypa þessu svona í gegn. Þá er ég að tala um sjálfbærni landsins okkar og landnýtingu. Ég er að tala um hag bænda sem ég ber mjög fyrir brjósti og vil sjá meiri. Ég tel ekki að þessi samningur hugi að hag bænda á nægilegan hátt. Ég tel allar hugmyndir um hvernig megi bæta hag bænda í þessum samningi vera úreltar og gamaldags og hafa sýnt sig margoft að gangi ekki upp.

Við erum rétt að byrja að sjá hvaða áhrif þessi nýi samningur mun hafa fyrir neytendur. Við erum að tala um að tollar munu hækka á ostum. Jú, það má henda í fólk einhverjum vörubrettum af parmesan og mozzarella, en hvað? Ætlar Alþingi að fara að velja úr hvaða sérosta við ætlum að flytja hingað inn og passa upp á að það séu örugglega ekki þeir sem eru framleiddir á Íslandi? Af hverju er frjáls samkeppni og val ekki í boði í þessum búvörusamningum? Af hverju er það ekki í boði? Ég er stolt af íslenskum landbúnaði og er þess fullviss að hann getur fyllilega staðist kröfur á ýmsum sviðum jafnt á við þann erlenda. En fólk verður að hafa val um hvað það fær að kaupa. Hvers lags eiginlega forræðishyggja er þetta? Ég veit að það verða margir þingmenn hér sem munu halda áfram að kaupa lambakjötið sitt og meginþorri Íslendinga mun halda því áfram af því að það er góð afurð. (Gripið fram í.) Við eigum að treysta bændum. Meðvitund þeirra um gæði í framleiðslu sinni hefur stóraukist, það er verið að markaðssetja lambakjöt sem t.d. fjallalömb og hvað það heitir. Við veljum þetta. Leyfið okkur að gera það og leyfið okkur líka að velja það sem kemur erlendis frá án þess að stýra því með tollum og einhverri frekju.



[17:04]
Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér fannst í ræðu hv. þm. Bjartar Ólafsdóttur gæta ýmissa missagna eða mótsagna. Í upphafi ræðunnar mátti skilja það svo að bændur og landbúnaður ættu bara að standa sig í frjálsri samkeppni, standa á eigin fótum. Svo heyrði ég síðar í ræðunni að hún væri nú ekki á móti stuðningi við bændur, bara ekki þessa útfærslu. Þá vil ég vita: Hvaða útfærslu er þingmaðurinn að tala um? Nú sér maður alls staðar annars staðar stuðning til bænda. Hann er með tvennum hætti: Með niðurgreiðslu og tollvernd. Ég gat ekki skilið þingmanninn öðruvísi en svo að öll þessi tollvernd væri gamaldags og vitlaus. Hér mættu bara allir flytja inn tollfrjálsa osta og hvaðeina frá löndum þar sem þessi sami landbúnaður er styrktur með tollvernd og niðurgreiðslum. Hvers lags samkeppni er það? Það er auðvitað ekki eðlileg samkeppni.

En auðvitað er ekki sjálfgefið að stuðningurinn við landbúnaðinn skuli endilega vera nákvæmlega í því formi sem núverandi samningar segja til um. Það má vissulega ræða það. Eru til skynsamlegri útfærslur? Er eitthvað til betra? En það er alveg ljóst að stuðningur við landbúnað, sem er mikilvæg atvinnugrein, er nauðsynlegur til að hér verði framleitt áfram það góða kjöt sem við erum að niðurgreiða með þessum samningi til neytenda til að gera þeim kleift að kaupa það. Skiptir það ekki máli? Snýst þetta ekki um það? Við erum að styðja alls konar atvinnugreinar með skattaívilnunum. Við gerðum það við kvikmyndaiðnaðinn síðast, við gerum það við listir og menningu, mikill peningur fer í niðurgreiðslur. Vegna þess að við teljum að þjóðhagslegir hagsmunir skipti máli í því. Almannahagsmunir eru undir í þessum stuðningi, alveg jafnt við landbúnað eins og aðrar atvinnugreinar sem við erum að styðja. (Forseti hringir.) Og þetta er ekki orðið nema 1% af landsframleiðslu eins og er víðast hvar annars staðar í Evrópusambandinu. Það er nú ekki meira en það.



[17:07]
Frsm. 3. minni hluta atvinnuvn. (Björt Ólafsdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það getur vel farið saman að vilja ekki þennan landbúnaðarsamning, þennan búvörusamning, og sjá það samt sem áður fyrir sér að styrkja landbúnað á Íslandi. (BN: Hvernig?) Ef það eru einhverjar fréttir fyrir hv. þm. Brynjar Níelsson þá er gaman að segja honum frá því. Tollvernd. Það hefur t.d. sýnt sig, svo ég svari spurningu hv. þingmanns, í ylræktinni að aukin samkeppni, lækkuð tollvernd, hefur verið greininni til góðs. Greinin og afurðirnar geta nefnilega vel keppt við erlendar afurðir. Fólk hefur valið íslensku gúrkuna, valið íslensku tómatana, fram yfir hitt. Og ylræktin stendur vel og blómstrar. Mér finnst það vera vantrú á íslenskum afurðum að halda samkeppni frá. Alger vantrú. Þið eruð með þessu að segja að þetta sé ekki nógu gott og að samkeppnin muni ekki vera góð fyrir þessar afurðir, þessu verði rutt út af borðinu um leið og fólk getur bara um frjálst höfuð strokið. Það er það sem felst í þessu. Ég hef meiri trú á íslenskum landbúnaði en þetta. Um það erum við hv. þingmaður þá bara ósammála.



[17:08]
Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er mikill stuðningsmaður samkeppni. En mér finnst engin samkeppni, eðlileg samkeppni í því að íslenskir bændur þurfi að keppa við niðurgreiddan og tollverndaðan landbúnað í Evrópu sem flytur hingað inn þá tollfrjálst. Það er ekki eðlileg samkeppni. Það má flytja alla þessa osta inn. Þeir eru bara tollaðir. Mér finnst það eðlilegt að þegar við flytjum inn vörur sem eru niðurgreiddar frá Evrópu að við jöfnum samkeppnina á milli þeirrar vöru og íslensku framleiðslunnar. Það skiptir máli.

Við erum og höfum verið í mikilli hagræðingu í landbúnaði. Kúabúum hefur fækkað um hvað, úr 1.800 í 600 á mjög fáum árum. Það er mikil hagræðing. Þetta þarf að gerast í skrefum. Við getum ekki tekið risastökk og lagt þessa atvinnugrein í hættu. Við getum ekki leyft okkur neitt glapræði í því. Stutt skref í einu, látum þetta þróast, aukum jafnt og þétt hagræðinguna þannig að menn geti staðist betur samkeppnina. Við getum þá lækkað tollana og samkeppnin verður eðlilegri. Það er miklu betra að nálgast þetta með þeim hætti. Ég geri mér hins vegar alveg grein fyrir því að vel má vera að í þessum búvörusamningi séu mörg atriði sem við ættum að ræða hvort skynsamlegt sé að gera nákvæmlega svona eða öðruvísi. En hvað þessi prinsipp varðar, atvinnugreinin er mikilvæg. Mikilvægt er að hér sé byggð um allt land. Býlin eru hluti af innviðum landsins. Þetta er líka öryggismál í öllum ferðamannaiðnaðinum. Við getum ekki leyft okkur að taka einhverjar ákvarðanir sem geti fellt þessa atvinnugrein eða gert henni enn erfiðara fyrir en nú er.



[17:11]
Frsm. 3. minni hluta atvinnuvn. (Björt Ólafsdóttir) (Bf) (andsvar):

Já, nú segi ég það í annað skipti að ég tel eðlilegt, því að ég held að hv. þingmaður hafi kannski ekki heyrt í mér áðan, að styðja við landbúnaðinn. En ég geri kröfu um frjálsa samkeppni á þeim markaði. Mér finnst það einboðið þegar við styrkjum einhvern. Við getum ekki haft tvöfalt meðlag hérna. Það er ekki einu sinni gott fyrir iðnaðinn sjálfan. Hv. þm. Brynjar Níelsson telur forræðishyggju við neytendur eðlilega, að það eigi að segja þeim hvort þeir megi kaupa þennan ost eða hinn eða borga meira fyrir hann, fyrir erlenda ostinn, sætta sig þá bara frekar við þann innlenda sem er allt annar ostur. Ég tel það ekki eðlilegt. Mér finnst að það megi vera val og ég tel íslenskan landbúnað fyllilega geta staðið undir samanburðinum. Ég hef enga trú á því að við hættum að kaupa íslenskar landbúnaðarafurðir. Þær eru margar hverjar dásamlegar. Það mun halda áfram. Ég ítreka að mér finnst vantrúin á íslenskum landbúnaði ótrúleg í þessum sal.



[17:12]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég vil vekja athygli á því að ég hef ekki orðið var við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í þessum sal, hvorki núverandi né fyrrverandi. Jafnvel nefndarmenn í atvinnuveganefnd hefðu mátt sinna umræðunni betur.

Framsögumaður 2. minni hluta atvinnuveganefndar, hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir, hefur gert vel grein fyrir okkar afstöðu og ég vísa til þess almennt talað og þeirra hluta sem ég kem ekki inn á í mínu máli eða hef tíma til að gera. En nokkur atriði vil ég leggja í púkkið. Í fyrsta lagi er óhjákvæmilegt að rifja upp að það sætti nokkurri gagnrýni hvernig hæstv. ríkisstjórn stóð að gerð þessa samnings. Samráðið var ekki mikið og þetta lokaðist af í tiltölulega þröngum hóp að mestu leyti flokksbræðra í Framsóknarflokknum. Þar bera bændur auðvitað nokkra sök líka. Þeir hefðu getað haft breiðari sveit af sinni hálfu sem hefði betur tengt og valdað samningana pólitískt og faglega.

Það er líka gagnrýnisvert hversu seint verkið gekk hjá ríkisstjórninni. Hún gaufaðist við þetta og er í raun og veru fyrst að skila þessum samningum til þingsins í vor og haust þegar sumir þeirra voru í raun útrunnir, aðrir í þann veginn að renna út og eitt ár eftir af sauðfjársamningnum. Það er ekki gott verklag að draga það svo lengi að endurnýja og skýra inn í framtíðina starfsskilyrði landbúnaðarins þannig að einhver lágmarksfyrirsjáanleiki sé til staðar. Eins og hv. þingmenn þekkja sjálfsagt er framleiðslukeðjan löng og nokkur aðdragandi að því að menn fari að mjólka kýr eða senda lömb í sláturhús. Það gerist ekki bara með því að smella fingri. Það er mjög mikilvægt í þessari grein eins og víða á við að einhver fyrirsjáanleiki sé til staðar varðandi meginstarfsskilyrði.

Samningarnir, eða drögin að þeim sem fóru að kvisast út á haustmánuðum, sættu mikilli gagnrýni og leiddu til breytinga. Þannig gerðu kúabændur, eða að minnsta kosti hluti þeirra, nánast uppreisn gegn því sem þeim var ætlað í upphaflegum samningsdrögum og höfðu erindi sem erfiði því að þeir fengu inn hreint endurskoðunarákvæði 2019. Þeir geta kosið þá um hvort þeir vilji halda áfram niður þá götu sem tíu ára ramminn markar eða látið þar staðar numið, og sæta litlum breytingum fram að því. Það undarlega var að sauðfjárræktarhluti samningsins tók ekki sambærilegum breytingum. Var óánægjan þó mjög megn víða meðal sauðfjárbænda þegar þeir fóru að sjá á afurðirnar.

Því eru breytingartillögur atvinnuveganefndar að því leyti fagnaðarefni að sauðfjárbændur og garðyrkjubændur og út af fyrir sig allur samningurinn sætir núna hreinni endurskoðun 2019 og það er vel.

Sérstaklega voru það bændur á aðalsauðfjárræktarsvæðum landsins sem urðu uggandi þegar þeir sáu framan í tillögurnar. Það hlýtur að vera mönnum nokkurt umhugsunarefni að andstaðan var mest á þeim svæðum í landinu þar sem menn eru háðastir sauðfjárrækt og þar sem hún er helst heils árs atvinnugrein og stendur undir tekjum fjölskyldna; í Strandasýslu, Dölum, á norðausturhorninu, Skaftafellssýslum, Húnavatnssýslum og víðar. Enda kom í ljós þegar bændur sjálfir höfðu fyrir því að láta reikna út hvernig þeirra hlutur yrði, sauðfjárbændur í þessum héruðum, fyrst Strandamenn og síðan Norður-Þingeyingar, að á þessum tíu ára samningstíma, ef allt gengi eftir óbreytt, mundu svæðin tapa 19% af sínum stuðningi, aðalsauðfjárræktarsvæðin í landinu. Það er vegna innbyggðs vatnshalla eða hagræðingarkröfu. Það er vegna þess að svonefnd 70% regla fellur út. Og það er vegna þess að augljóslega flyst eitthvað af framleiðslu annað þegar kerfið er opnað og hver sem er getur farið að framleiða og sótt sér þannig hlutdeild í gripagreiðslum og stuðningi á hvert framleitt kíló. Það þynnir hlut hinna og getur ekki, eðli málsins samkvæmt, orðið annað en á kostnað aðalsauðfjárræktarsvæðanna. Útkoman er þessi. Nokkurn veginn sambærileg niðurstaða kom út úr óháðri athugun á þessu í Strandasýslu og Norður-Þingeyjarsýslu, að stuðningurinn mundi minnka um ein 19% yfir samningstímann. Var þetta meiningin? Að draga sérstaklega úr stuðningnum við þau svæði sem þó byggja helst á sauðfjárrækt enn í dag? Og vel að merkja: Þetta eru svæði þar sem ástand beitarlands er almennt gott og ekki endilega gáfulegt að reikna með því að framleiðslan aukist á öðrum svæðum.

Það er t.d. alveg ljóst að þessir samningar eru alger kúvending frá núgildandi fyrirkomulagi hvað sauðfjárræktina varðar. Þeir eru framleiðsluhvetjandi. Ef menn færa allan stuðninginn yfir í annars vegar greiðslur á hvern ásettan grip og hins vegar greiðslur á hvert innlagt kíló af kindakjöti þá er auðvitað freistandi að auka magnið. Setja á fleira fé og senda meira í sláturhús og fá stærri hluta af pottinum. Þetta eru ólympískar veiðar eða ólympísk keppni um tiltekið fjármagn. En í núgildandi samningi er t.d. nefnd 70% regla sem verkar frekar bremsandi á framleiðslu en hitt. Hún er þannig að það nægir að setja 70% af fullu greiðslumarki viðkomandi býlis á en maður heldur óskertum beingreiðslum, svo lengi sem maður er með a.m.k. 70% af ásettum bústofnum. Þetta getur hentað mörgum eldri bændum vel eða öðrum sem af einhverjum ástæðum rifa heldur seglin tímabundið. Framleiðslan minnkar en tekjurnar haldast. Að mínu mati er þetta regla sem hefur verkað mjög vel í þessu kerfi. Hún getur meðal annars brúað bilið meðan beðið er eftir kynslóðaskiptum á býlum o.s.frv. Er skynsamlegt að færa allan stuðninginn yfir í framleiðsluhvetjandi stuðning? Hvaðan kom mönnum sú speki? Ég staldra mjög við það.

Hér voru menn að ræða kjör bænda. Flestir, í orði kveðnu a.m.k., segjast finna til með bændum og þá kannski ekki síst sauðfjárbændum, að þeirra kjör séu nú ekki beysin sem er rétt, því miður, þó að auðvitað sé þar mismunur innan hópsins eins og annars staðar. Hvað er að gerast í haust? Er ekki verið að boða um 10% lækkun á afurðaverði til bænda frá afurðastöðvunum? Er þá akkúrat rétti tíminn að leggja af stað í að draga úr hinum tekjustofninum, beingreiðslunum? Hvað ætli það sé nú sem sauðfjárbændur sjá í formi peninga mest allt árið annað en beingreiðslurnar, mánaðarlegar inn á reikning? Þeir leggja inn einu sinni á ári og fá uppgjör í einhverjum slöttum og oftast er þegar áfallinn kostnaður vegna framleiðslunnar búinn að klára það. Það er nú bara þannig að það eru beingreiðslurnar sem hafa fyrst og fremst tryggt mönnum lágmarksafkomu. Og ég er mjög hugsi yfir því að menn skuli telja það sérstakt framfaraspor að kippa þeim í burtu. Ég er það.

Annað hef ég staldrað mikið við í þessum samningum sem vissulega er ekki alveg nýtt að gerast núna. Það er að með þeim er ætlunin, gangi þetta tíu ára ferðalag eftir, að sökkva alveg allri tengingu hins opinbera stuðnings við framleiðslu í þágu innlends markaðar. 1991 var landbúnaðarkerfið á Íslandi gjaldþrota. Þá voru milljarða skuldir á útflutningsuppbótaliðnum og það voru hundruð milljóna skuldir á jarðarbótastyrkjum o.s.frv. Það var enginn pólitískur vilji eftir í landinu til þess að halda því fyrirkomulagi að reiða fram gríðarlega fjármuni úr ríkissjóði til þess að niðurgreiða framleiðslu ofan í útlendinga. Það kerfi var slegið af á einu bretti, útflutningsuppbætur lagðar af og niðurstaðan var: Beinum öllum stuðningi ríkisins til framleiðslu í þágu innanlandsmarkaðar. Ef menn vilja svo þar til viðbótar spreyta sig við útflutning gera þeir það á sína ábyrgð, bændur og afurðastöðvar. Þetta hélt lengi framan af. Það var með fullum rökum og réttu hægt að benda á að hver einasta króna frá ríkinu fór í að bæta kjör bænda og lækka verð til neytenda. Beingreiðslur tóku við af niðurgreiðslum á smásölustigi. Ég tel að þetta fyrirkomulag hafi í grunninn gefist vel og íslenskur landbúnaður væri svipur hjá sjón ef menn hefðu ekki farið í þessar grundvallarbreytingar, sem vissulega voru erfiðar og sársaukafullar og m.a. tóku framleiðsluna í sauðfjárrækt niður, ásett fé var yfir 900 þúsund í landinu en fór niður fyrir 500 þúsund. Framleiðslan aðlagaði sig í miklu nánara samhengi að innanlandsmarkaði. Og stuðningurinn tengdist honum. Svo fór þetta vissulega að leka með afnámi útflutningsskyldunnar eða kvaðarinnar í sauðfjárræktinni og á vissan hátt líka þegar mjólkuriðnaðurinn fór að borga fullt verð fyrir alla mjólk óháð því hvort hún væri innan greiðslumarks eða ekki.

En það þýðir ekki að rétt sé að halda áfram þessa leið. Ég hef spurt: Hver ætlar að svara eftir tíu ár þegar beðið verður um upplýsingar um það hvað mikið af ríkisstuðningnum fer í framleiðslu sem er borðuð í útlöndum? Er það þriðjungur, eru það 40%? Hver ætlar að verja það kerfi? Ég er ekki viss um að menn átti sig á því hvað þeir eru að gera hér. Samningarnir 1991 voru gerðir í breiðri sátt í kjölfar þjóðarsáttarinnar og studdir af aðilum vinnumarkaðarins og það skapaðist miklu betra andrúmsloft árin á eftir í þessum samskiptum sem því miður hefur að einhverju leyti glatast núna.

Ég bið menn að hugsa sig mjög vel um áður en þeir leggja inn á þessa braut eða ganga þá götu til enda. Þeir ættu að a.m.k. að fara á smánámskeið hjá mér og Hauki Halldórssyni um það hvernig ástandi í landbúnaðarkerfinu var fyrir 1991.

Við í Vinstri grænum söknum miklu nánari og sterkari tengingar samninganna við umhverfismálin. Eiginlega skil ég ekki hvers vegna í ósköpunum menn gripu ekki það upplagða tækifæri sem hér var að landbúnaðurinn og stjórnvöld tækju höndum saman og segðu: Já, við ætlum, m.a. í gegnum þessi samskipti okkar og þessa samninga, að taka á saman hvað það varðar að mæta markmiðum Íslands og skuldbindingum í loftslagsmálum. Landbúnaðurinn getur leikið þar mikilvægt hlutverk. Honum er í sjálfu sér ætlað það. En það er eins og menn hafi lítið vitað af því þegar þeir voru að klára þessa samninga. Jú, menn geta sagt að það verði gert til hliðar í skógræktaráætlunum og landgræðsluáætlunum og einhverju slíku en auðvitað ætti að gera það hér. Það ætti að flétta inn í þetta samstarf ríkis og landbúnaðarins metnaðarfull áform um að stuðla að orkuskiptum í landbúnaði, endurheimta votlendi, planta skógum á bújörðum, fara í landgræðslu o.s.frv. Það væri langeðlilegast að búa um það í þessu stóra heildarsamhengi fjárhagslegra og samningsbundinna samskipta ríkis og greinarinnar. En menn hafa misst af því tækifæri sem hefði verið gott fyrir báða aðila. Sjá menn ekki tækifærin fyrir landbúnaðinn að geta stoltir komið og sagt: Við leggjum mikið af mörkum með þessu og þessu í þágu glímunnar við loftslagsbreytingar? Ríkið hefði getað sagt: Við erum í samstarfi við landbúnaðinn að leggja mikið af mörkum í bindingu kolefnis og svo framvegis.

Að sjálfsögðu er ýmislegt gott í þessum samningum. Ég ætla ekki að draga úr því að menn sýna viðleitni á ýmsum sviðum eins og með því að styðja lítillega betur við lífræna ræktun, passa upp á geitastofninn eða hvað það er. Styðja eitthvað við nýliðun með örlítinn svæðisbundinn stuðning á móti til sauðfjárræktarsvæðanna. En það er allt óskaplega veikburða og litlir fjármunir settir í það.

Svo mega menn ekki gleyma því, af því við vorum að tala um kjör bænda, að inn í þennan samning er áfram byggður sérstakur vatnshalli, sérstök skerðing sem safnast upp í hátt í 10%. Það á sem sagt að draga beinlínis úr stuðningnum yfir tíma að raungildi. Menn geta sagt að þeir ætlist til framleiðniaukningar og einhverrar hagræðingar. En hefur nú veitt af að bændur héldu þó a.m.k. þessum stuðningi óskertum til þess að ná kjörum sínum eitthvað upp í áttina að öðrum stéttum í landinu? Eru menn nokkuð að gleyma því að hér á að skerða sérstaklega þennan þáttinn í kjörum stéttarinnar? Auðvitað eru beingreiðslurnar eða ríkisstuðningurinn stór hluti af afkomu bænda, nema hvað, upp undir helmingurinn af brúttótekjum búanna. Ef það er skert þá þrengist auðvitað um, nema menn hafi trú á að afurðastöðvarnar geti stórhækkað afurðaverð á næstu árum. Er það líklegt? Það er ekki í hendi.

Ég vil leyfa mér að nefna, því að ýmsir voru að tala um að þessir samningar væru alveg sérstaklega verðtryggðir: Hvernig eru þeir verðtryggðir? Þeir eru verðtryggðir með neysluverðsvísitölu. Hvað þýðir það? Það þýðir að ef kaupmáttaraukning verður í landinu á næstu tíu árum og launavísitalan hækkar meira en neysluvísitalan þá er ein stétt sérstaklega með það samningsbundið að hún fái ekkert í þeirri kaupmáttaraukningu. Hennar kjör eru að þessu leyti verðtryggð með neysluverðsvísitölu en ekki launavísitölu. Kaupmáttaraukning í landi verður eins og kunnugt er þegar kaupið hækkar meira en verðlagið, þegar launavísitalan hækkar meira en neysluverðsvísitalan. Ég velti fyrir mér: Gerðu menn sér ekki þennan mun ljósan þegar þeir gengu svona frá þessum mikilvæga kjaraþætti þessarar stéttar í landinu? Ég veit það ekki.

Atvinnuveganefnd hefur auðvitað sýnt viðleitni í að laga málið. Það skal tekið undir það. Þar munar að mínu mati mest um þetta hreina endurskoðunarákvæði eftir þrjú ár. Það er mjög mikilvægt. Það er líka mikilvæg og ágætistillaga að nota þá tímann vel í víðtækt samráð um málefni þessarar mikilvægu atvinnugreinar því að hún er það. Hún er mikilvæg af mörgum ástæðum og er miklu stærri í raun og veru en umfang hennar gæti bent til í fljótu bragði. Réttilega hefur verið á minnt á það hér að t.d. hinn opinberi stuðningur við landbúnað á Íslandi er í dag kominn ofan í ótrúlega lágar fjárhæðir borið saman við það sem hann var fyrir ekki mörgum árum síðan þegar upp undir 5% af vergri landsframleiðslu fóru í beinar og óbeinar greiðslur inn í landbúnaðinn. Nú er þetta komið niður í 1% og varla það einu sinni, hálft prósent rúmlega ef við tökum ekki tollverndina með. Þjóðhagslega er þetta því ekki nein óskapleg byrði á mönnum borið saman við það sem áður var. En hvað fáum við í staðinn? Við varðveitum byggð í landinu sem er undirstaða margra annarra hluta en landbúnaðar. Ætli ferðaþjónustan og vöxtur hennar á stórum svæðum í landinu eigi ekki sitt undir því að þar sé fólk? Þar eru bæir. Hvað margir bóndabæir hafa breyst í gistiheimili eða hótel á undanförnum 10–20 árum? Hvernig ætli gengi að finna gistingu á Suðurlandi og í Skaftafellssýslum ef engin ferðaþjónusta bænda væri til staðar? Ég held að maður ætti að hugleiða það.

Og sama á við um fjöldamargt annað afleitt sem tengist því að það er fólk í sveitunum. Þar er byggð og þeir möguleikar og þær auðlindir sem þær eru, eru nýttar. Þetta er hluti af fæðu- og matvælaöryggi þjóðarinnar. Við erum að berjast við það með þessu að framleiða sjálf um helming fæðuþarfar þjóðarinnar, náum því varla. Hafa menn engar áhyggjur af því að það hlutfall minnki og við verðum enn þá háðari innflutningi og sviptingum sem honum geta tengst með okkar matvæla- og fæðuöryggi? Ég hefði haldið það.

Hver sér fyrir framtíðarmöguleikana sem glatast ef byggð eyðist í sveitum landsins? Ætlar einhver að gerast sá spámaður að þá séum við ekki að glata neinu? Fyrir utan menningarlega, byggðalega og tilfinningalega þætti sem þar með fara forgörðum? Það tapast nefnilega mjög mikið ef fólk hættir að búa á svæðum og þekkja þar til, kunna söguna, þekkja örnefnin. Geta tekið á móti gestum, sýnt þeim og verið stolt af sínu og sinni arfleifð og sinni menningu. Það er nokkurs virði, finnst mér, að varðveita það Ísland sem þannig er samansett, með borgum og bæjum en líka sveitum. Tölum bara mannamál um þetta. Viljum við þannig Ísland eða eitthvað annað? Mér finnst ansi grunnt oft undir málflutningi manna sem afgreiða bara málin með því að segja: Það er ekkert vandamál, íslenskur landbúnaður er svo ágætur og sterkur að hann mun bara spjara sig í samkeppni. Menn nefna garðyrkjuna sem dæmi. Það er rétt, tollverndin var afnumin af garðyrkju, en hvað kom í staðinn? Á sjötta hundrað milljónir í stuðning við greinina frá ríkinu til að mæta afleiðingunum af því að hún missti tollverndina. Það var í formi beingreiðslna til framleiðslu á papriku, gúrkum og tómötum og í formi lækkunar á flutningskostnaði og raforkuverði. Og það er rétt, á þeim grunni hefur garðyrkjan síðan spjarað sig vel og framleiðir stórkostlegar afurðir og er að færa út kvíarnar, fjölga tegundum o.s.frv. Það er ágætisgróska og ágætisþróun í mörgum greinum íslensks landbúnaðar. Í raun og veru er bara eitt að í landbúnaði á Íslandi og það er að kjör bænda eru ekki nógu góð. Það er auðvitað það sem er erfiðast. Það þarf nánast hugsjónafólk til að fara í landbúnað. Nýliðun er erfið af þeim sökum, ef foreldrarnir eiga ekki bara að gefa börnunum sínum búin til að taka við þeim. Það er staðreynd.

Ég mundi að vísu kannski bæta við öðru sem ég hefði viljað sjá tekið fastari tökum á umliðnum árum og það eru umhverfismálin. Það takmarkaða tæki sem er fólgið í gæðastýringunni sem innbyggð er í núverandi samninga bítur ekki mjög mikið. Það væri æskilegt ef menn gætu smíðað sér reglur og tekið á því að reyna að stýra því hvar framleiðslan færi fram, sérstaklega þar sem notað er beitiland, í betra samræmi við landkostina. Það hefur mikið áunnist, fækkunin ein á sauðfé úr 900 niður í 500 þúsund fjár, það að hrossabeit á afréttum er að mestu leyti aflögð, að vetrarbeit er að mestu leyti aflögð, fóðuröflun miklu öflugri, hefur allt saman stórbreytt þessari stöðu. Með hlýnandi loftslagi þýðir það í viðbót að Ísland er auðvitað að gróa upp í stórum stíl. Það vitum við núna. Og birkið er í framför eiginlega um allt land. En það eru samt því miður ákveðin svæði þar sem þetta er ekki alveg nógu gott. Við gætum gert betur í þeim efnum. Þessi samningur finnst mér ekki nema þá bara ágætisorðalag í nefndaráliti, taka nógu vel utan um það. Þannig að betur hefði mátt takast til.

Atvinnuveganefnd á hrós skilið fyrir sína viðleitni og hún hefur að ýmsu leyti lagað þetta mál. Við munum að sjálfsögðu, eða ég, styðja breytingartillögur hennar sem ég tel vera til bóta, ég held að þær séu það allar. (Forseti hringir.) En í ljósi margs sem ég hef farið hér yfir mun ég með félögum mínum sitja hjá við afgreiðslu málsins, enda verða stjórnarflokkarnir að bera einir ábyrgð á(Forseti hringir.) vinnubrögðunum við gerð þessa samnings og þeirri afurð sem þau vinnubrögð gáfu af sér.



[17:33]
Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Haraldur Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir ræðuna og hans ágætu brýningu sem þar kom fram að mörgu leyti eins og eðlilegt er þegar hann á í hlut, með góða og styrka þekkingu á bakgrunni landbúnaðarsamningana og sögunnar í þeim efnum.

Það eru tveir hlutir sem mig langar að árétta við þingmanninn í andsvari mínu við hann. Í fyrsta lagi varðandi þau svæði landsins sem byggja fyrst og fremst á sauðfjárrækt og ótta okkar margra að veikist vegna þessa samnings og ákvæða þar eru. Um það vil ég segja tvennt. Fyrir það fyrsta liggja núna nánast fyrir í drögum tillögur Byggðastofnunar um útfærslu á sérstökum stuðningi við þær byggðir þar sem verið er að feta sig út á nýjar brautir. Þá er verið, eins og hefur áður komið fram í umræðunni í dag, að horfa til sveita sem hafa þá fábreytni í atvinnulífi að þurfa að vera háð sauðfjárrækt eða eru meira háð sauðfjárrækt.

Í annan stað vil ég taka fram að í nefndarálitinu er tekið sérstaklega utan um hagsmuni nýliða í sauðfjárrækt sem hafa hafið búskap á undanförnum árum, fjórum fimm árum, og hafa núna setið í þeirri stöðu að vera með skekkt hlutfall margra ærgilda og fátt sauðfé. Tekið er sérstaklega utan um hagsmuni þeirra, t.d. með því að veita þeim viðbótarnýliðunarframlag sem við gerum raunverulega beina tillögu um. Þannig teljum við að við höfum komið til móts við unga fólkið sem er að brjótast í gegnum það stóra verkefni að hasla sér völl í sauðfjárrækt.



[17:35]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Þetta er hvort tveggja út af fyrir sig alveg rétt svo langt sem það nær. Ég komst í það að kíkja á þessar tillögur Byggðastofnunar þegar ég hljóp í skarðið sem varamaður í atvinnuveganefnd og í sjálfu sér lýst mér ekki illa á þær. Ég held að þær séu ágætisnálgun að því vandasama verkefni sem það verður alltaf að afmarka einhvern hóp til að fá sérstakan stuðning af þessu tagi.

Það sama gildir um nýliðunina, það er gott, en í það fara nú takmarkaðir fjármunir eftir sem áður það ég best veit í þessum samningi. Og það undarlega er að svæðisstuðningurinn er lægri á næsta ári en á að vera árið þar á eftir af einhverjum ástæðum, aðeins 90 milljónir í staðinn fyrir 140. Ég spurði að því hvort það væri einhver möguleiki á að kippa því í liðinn þannig að þessi svæðisbundni stuðningur færi af stað af fullum krafti strax á næsta ári.

Það er því ýmislegt rétt um það að segja, það er ágætisviðleitni sýnd á mörgum svæðum, mörgum stöðum í þessu. Atvinnuveganefnd hefur gert sitt besta. Ég tek undir það. En það er reyndar fleira sem hefur á mig nokkur áhrif. Tíminn leið svo hratt í ræðustólnum, þessar skitnu 20 mínútur, að ég komst ekki í að nefna tollasamninginn. Það mun ég þó gera í umræðum um það mál. En ég hefði auðvitað gjarnan viljað komast í að segja nokkur orð um samhengi tollasamningsins og þessara breytinga í búvörusamningunum. Það verður að skoðast allt sem eitt heildarsamhengi, afleiðingarnar af tollasamningnum, búvörusamningurinn og ég tala nú ekki um ef bann Íslands við innflutningi á hráu kjöti er í uppnámi og fellur. Þá þurfum við nú heldur betur að fara að huga að ýmsu.



[17:37]
Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Haraldur Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er mikilvægt að halda því til haga í þessari umræðu um þingmálið sem við ræðum að á því hangir tollasamningur Evrópusambandsins og þess vegna erum við að gera tíu ára ramma fyrir landbúnaðinn til að takast á við þær stórkostlegu breytingar sem honum fylgja.

Það var annar þáttur í ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar sem ég vildi gera athugasemd við og vekja athygli á því sem segir í meirihlutaáliti atvinnuveganefndar um umhverfismál. Atvinnuveganefnd komst að því þegar hún fór að velta þeim þætti sérstaklega fyrir sér að við erum býsna fátæk af mælistikum og ráðgjöf um þann þátt er snýr að loftslagsmálum og hlutverki landbúnaðar í þeim efnum. Við getum jú heimfært ýmsar mælingar um losun lands, losun ákveðinna plantna og bindingu ákveðinna plantna, losun jórturdýra og hvernig við getum brugðist við á móti. En þær litlu mælingar sem við höfum gert á tiltölulega stuttum tíma sýna okkur að við þurfum að leggja í verulega mikla vinnu við að aðlaga þær mælingar að íslenskum veruleika. Ég vil því ekki taka undir með hv. þingmanni að við séum að skauta léttilega fram hjá umhverfismálunum en tek hins vegar undir með honum þegar hann segir að nú sé upplagt tækifæri til þess að gera landbúnaðinn meira gildandi í því stóra verkefni sem við ætlum að takast á við. Það er grunnur að því sem meiri hluti nefndarinnar leggur til með tölusettum tillögum sem við vísum til samráðsvettvangsins sem á að vinna á næstu árum.



[17:38]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er út af fyrir sig alveg rétt að menn hafa fært fram þau rök fyrir ramma til tíu ára að landbúnaðurinn hafi að þessu leyti meiri og lengri fyrirsjáanleika en venjulega vegna þess að hann þarf að takast á við miklar breytingar af öðrum ástæðum. Það er innleiðing tollasamningsins, það eru nýjar aðbúnarreglugerðir svo ég tala nú ekki um ef bannið á hrámetinu bættist við. Fyrir því eru alveg rök. En eitt er að semja um ramma um stuðninginn og annað að ganga frá því hvernig þeir fjármunir eru síðan nýttir og hvernig hlutunum er stýrt og hvernig þeir eru framkvæmdir. Mér sýnist að það sé það sem menn hafa meira og minna strandað með, a.m.k. að hluta til. Menn vilja áskilja sér rétt til að skoða á nýjan leik, 2019 eða hvenær það er, hvort sú stefna sem hér er mörkuð sé að öllu leyti sú rétta.

Varðandi loftslagsmálin. Jú, ég las þetta í nefndarálitinu. Það er ágætt að nefndin reyni aðeins að styrkja umfjöllun um þá þætti. Það breytir auðvitað ekki efnislegu inntaki samninganna. Ég hef gengið út frá því að Ísland hafi, þegar skrifað var undir í París, áttað sig á því að við munum þurfa að setja fjármuni í að ná markmiðum okkar. Það mun ekki gerast af sjálfu sér. Við erum svo sem þegar að gera það t.d. með skattaívilnunum í þágu grænnar umferðar o.s.frv. Eins hlýtur það að vera ef við ætlum að nota landbúnaðinn sem tæki í bindingu með endurheimt votlendis og skógrækt og öðru slíku að þá þarf til þess fjármuni. Ég var í barnaskap mínum að láta mér detta í hug að það mundi fæðast inn í þennan samning einn milljarður eða tveir sem yrðu eyrnamerktir sérstaklega aðgerðum Íslands í loftslagsmálum í gegnum samstarf ríkis og landbúnaðar. Þá hefði verið eitthvað til þess að skála fyrir.



[17:41]
Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um ýmislegt sem hann rekur, sérstaklega er varðar umhverfisþátt þessara samninga og hefði svo glaður viljað sjá fjármagni varið til þess að nýta landbúnaðinn til að vinna gegn loftslagsvandanum. Mér fannst hins vegar ýmislegt í máli hv. þingmanns bera vitni ákveðinnar þversagnar. Ég er sammála honum um mikilvægi þess að við höfum öflugar sveitir og fjölbreytt atvinnulíf í sveitum og möguleika og það hversu fjölbreytt landbúnaðarframleiðsla getur stutt við ferðaþjónustu, sem er í sjálfu sér að gerbreyta þessi missirin umgjörð íslensks landbúnaðar. En á sama tíma talar hv. þingmaður eins og framleiðslustýring sé sjálfstætt markmið og góð í sjálfu sér. Er ekki vandi landbúnaðarins sá að stuðningskerfið hvetur ekki nægjanlega til nýsköpunar, til vöruþróunar, til fjölbreytni í framleiðsluháttum? Á ekki markmiðið að vera að styðja við landbúnaðinn frekar til að styðja við fjölbreytta byggð og fjölbreytta atvinnuhætti, frekar en að stuðningurinn sé framleiðslutengdur eins og hann hefur verið frá 1991? Og í sjálfu sér þar með stutt mest við þá sem mest framleiða og minnst við þá sem eru á veikustu búunum í veikustu sveitunum? Hlýtur ekki lausnin fyrir okkur í landbúnaðinum að vera að losa um þetta allt saman, brjóta upp ofbeldiskerfið sem flokkur hv. þingmanns hefur varið með undanþágu Mjólkursamsölunnar frá samkeppnislögum og auka möguleika lítilla framleiðenda á að koma með fjölbreyttar afurðir beint frá býli og mæta þar með fjölbreyttari þörfum á nýjum tímum?



[17:43]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður hefur eitthvað misskilið mig ef hann skildi mál mitt þannig að ég væri eindreginn talsmaður beinnar framleiðslustýringar. Ég hef alltaf verið opinn fyrir því að skoða það að stuðningsfyrirkomulagið byggði eftir atvikum á öðrum þáttum, að minnsta kosti að hluta til. Það er ekkert vandamál að útfæra það þannig ef við t.d. yrðum sammála um að einhverju leyti væri þetta stuðningur við búsetu og byggð í sveitum. Það væri hægt að hafa bara beinar fastar greiðslur á býli, á hvert lögbýli þar sem er heils árs búseta og einhver lágmarkstilgreind búskaparumsvif. Það er mikill munur á því og að fara yfir í hitt að útfæra stuðninginn þannig að hann sé beinlínis framleiðsluhvetjandi. Ég hef áhyggjur af því. Vegna þess að við erum með afar lítinn og viðkvæman markað og lítið þarf til að raska jafnvæginu þar. Ekki er hægt að horfa fram hjá því að ef þú tekur tiltekið fjármagn, setur það í pott og síðan er opið inn í þann pott fyrir alla þá sem setja á fé og framleiða kjöt, að það er framleiðsluhvetjandi. Þú stækkar þinn hlut af kökunni með því að auka framleiðsluna. Af því hef ég áhyggjur vegna þess að ég hef ekki þá tilfinningu að það sé það sem við þurfum á að halda. Ég er ekki endilega að spá því að framleiðslusprenging verði eða sauðfé muni stórfjölga en sú hætta er þarna til staðar. Einhvers konar hlutlaust stuðningsfyrirkomulag væri þó að minnsta kosti laust við þá hættu.

Mikil ósköp, öll nýsköpun, fjölbreyttari atvinnustarfsemi og fleiri stoðir undir byggðinni í strjálbýlinu eru náttúrlega afar mikilvægar. Í því sambandi er vöxtur ferðaþjónustunnar ákaflega ánægjulegur, við mættum að vísu standa okkur betur í að dreifa henni betur um landið og auðvelda fjarlægari landshlutum að vera þátttakendur í þeim vexti, svo sem um Vestfirðina, norðausturhornið o.s.frv. Það vill svo til að í mörgum tilvikum eru það einmitt líka sauðfjárræktarsvæði sem liggja hvað fjærst stóru miðjunum í landinu. Það væri vissulega hægt að gera ýmislegt betur í því.



[17:45]
Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé nefnilega sorglegt með þennan samning að í honum blasa við svo mörg glötuð tækifæri. Eitt er það sem hv. þingmaður rakti að ekki væri nýtt tækifærið til þess að fela bændum verkefni í endurheimt votlendis og öðrum þjóðþrifaverkefnum til að glíma við loftslagsvandann. Annað er að maður sér óþægilega lítil merki þess að stjórnvöld átti sig á þeirri grundvallarbreytingu sem er að verða í landbúnaðinum og getur orðið í landbúnaðinum með aukningu í ferðaþjónustu. Það er auðvitað bæði matvælaframleiðsla fyrir ferðamenn en líka, eins og hv. þingmaður nefndi, að möguleiki sé til að dreifa ferðamönnum betur með því að þróa betur staðbundnar vörur, staðbundin sérkenni og auka þar með á sérhæfingu í sveitum. Í sjálfu sér held ég að við stöndum frammi fyrir því að margt af hugmyndafræðinni í landbúnaðarkerfinu, allt frá mjólkursölulögunum 1934, er orðið úrelt. Þá var áherslan á ódýra mjólk, heilnæma mjólk og massaframleiðslu. Það mátti ekki hafa nein sérkenni, upprunasérkenni. Bannað var að selja Borgarnesskyr o.s.frv. Núna er krafa tímans, krafa ferðaþjónustunnar og krafa nýrra tíma uppruni, skýrari tenging milli framleiðslu og markaðar. Ég held að allt sem þurfi að gerast núna sé í sjálfu sér að sprengja upp þetta gamla úldna stofnanakerfi sem heldur aftur af þeirri framþróun sem við þurfum raunverulega á að halda fyrir hinar dreifðu byggðir.



[17:47]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég verð að taka undir það. Ég varð svolítið hryggur þegar ég sá þetta upplegg, mér fannst vanta í það meiri framsækni og metnað og trú á ýmsa nýja möguleika og að þess sæi stað. Á sínum tíma var sett á laggirnar fyrirbærið Framleiðnisjóður landbúnaðarins, sérstaklega til þess að styðja við búháttabreytingar og nýsköpun. Sá sjóður hefur margt ágætt gert og er enn að því það tókst að halda honum rétt á lífi í gegnum hrunið. Vonir manna stóðu til þess að hann yrði efldur á nýjan leik. Hann hefur átt drjúgan þátt í að stuðla að búháttabreytingum úr hefðbundnum landbúnaði yfir í ferðaþjónustu, yfir í ylrækt eða ýmsa smáframleiðslustarfsemi á býlum o.s.frv. Og hægt væri að gera miklu betur. Staðreyndin er sú að þetta getur orðið alveg ótrúlega fjölbreytt og skemmtileg flóra ef vel tekst til. Maður sér þetta sums staðar annars staðar, eins og í Sviss eða Austurríki, þar sem menn hafa ekkert verið feimnir við að hlúa að þeim fjallahéruðum og svæðum sem þeir ætla að styðja við bakið á, hvort sem það er til að geta séð kýr með bjöllur uppi í hlíðum eða eitthvað annað.

En veruleikinn er sá að ferðaþjónusta og ýmislegt blómstrar á þeim svæðum sem tengt er afurðum beint frá býli, staðbundinni úrvinnslu og mörgu slíku. Þessi þróun fór seint af stað hér. Það er alveg rétt. Og menn geta sagt eins og hv. þingmaður að kerfið hafi verið svolítið staðnað eða stamt í þeim efnum og mætti margt gera betur. Ég get því alveg tekið undir það og samningurinn er pínulítið byggður á þeim gamla grunni, að styðja við þessa hefðbundnu framleiðslu og ég hefði alveg getað hugsað mér að einhverjar áherslur væru beinlínis færðar til og eitthvað af fjármununum fært yfir í meiri aðgerðir sem horfðu til framtíðar og að skapa breiðari grunn. Bændur hefðu þá að vísu orðið að sætta sig við að það væri að einhverju leyti á kostnað stuðningsins við framleiðsluna (Forseti hringir.) ár frá ári en menn væru að fjárfesta í framtíðinni. Menn væru að trúa á að með þessu væri verið að fjárfesta í framtíð búsetunnar í strjálbýlinu.



[17:49]
Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegur forseti. Björt framtíð hefur lagt fram frávísunartillögu um að þessum búvörulögum verði vísað frá, ríkisstjórninni falið að framlengja gildandi búvörusamninga og hefja vinnuna upp á nýtt með samráði við fleiri aðila sem hafa verið út undan í þessu ferli. Þetta er í raun og veru prinsippafstaða um ferli, prinsippafstaða um það að svona mikilvæg vinna sem skiptir svona miklu máli fyrir stór svæði landsins, fyrir þúsundir og tugþúsundir bænda, fyrir neytendur í landinu og framleiðslu, að svona ákvarðanir séu ekki teknar í þröngum bakherbergjum þar sem aðilum á borð við neytendur, samkeppnisyfirvöld, Umhverfisstofnun, Landgræðslu o.s.frv. sé beinlínis haldið fyrir utan. Ég verð að taka undir með hv. formanni atvinnuveganefndar í stuttu viðtali í Morgunblaðinu í dag, það er mikilvægt að þetta samráð eigi sér stað. Í nefndaráliti og breytingartillögu meiri hluta atvinnuveganefndar er mælst til þess að auka einmitt þetta samráð, að stytta tímann úr tíu árum í þrjú ár og nýta þann tíma til að eiga þetta samráð. Við í Bjartri framtíð viljum meina að þar sé farið algjörlega öfugum megin að, þ.e. hér er lagt til við samþykkjum þennan samning sem hefur verið gerður án þessa samráðs, segjum í leiðinni, en það verður að vera samráð þannig að við skulum hafa það fram í tímann á næstu þremur árum á meðan þessi samningur gildir — og þá hvað? Getum við komist að einhverri annarri niðurstöðu?

Við í Bjartri framtíð teljum algjörlega óþarft að byrja á því að stíga það skref að fara í þennan búvörusamning með þeim breytingum sem í honum felast og hafa orðið til án samráðs við neytendur, við Landgræðslu og án tillits til umhverfisþátta, fullkomlega í trássi við og fram hjá öllum samkeppnissjónarmiðum, við teljum óþarft að það þurfi að gera þessa breytingu fyrst til að geta átt samráðið sem við hefðum átt að viðhafa áður en við gerðum breytinguna. Þetta er prinsippíel afstaða hjá okkur og hún lýsir í engu andúð okkar á íslenskum landbúnaði eða stuðningi við íslenska landbúnaðarframleiðslu, þvert á móti.

Ég, eins og við í Bjartri framtíð, er mikill stuðningsmaður íslenskra bænda, ég er mikill stuðningsmaður íslenskrar landbúnaðarframleiðslu, ég hef trú á því að íslensk landbúnaðarframleiðsla standi sig í samkeppni við innflutta framleiðslu. Hún hefur sýnt sig gera það, breytingarnar sem voru gerðar á ylræktinni þegar horfið var frá tollvernd og farið yfir í framleiðslutengdan stuðning sýndu fram á það að íslensk ylrækt er fullkomlega samkeppnishæf við innflutning og blómstrar. Það sem meira er, með þeirri breytingu ýttum við undir fjölbreytni í framleiðslu sem ekki veitir af í þessu litla landi og þeim litla landbúnaðarbransa sem við eigum.

Það segir sig sjálft að landbúnaður á norðurhjara í þessu litla landi getur ekki verið mjög fjölbreyttur. Landbúnaðarkerfið og sú stífa framleiðslustýring sem hefur verið á íslenskum landbúnaði áratugum saman hefur í raun stuðlað að einsleitni í íslenski landbúnaðarframleiðslu. Ekki það að íslensk mjólk sé ekki alveg frábærlega góð en það er samt dálítið merkilegt að það skuli bara vera til ein íslensk mjólk, ríkismjólkin. Það er ekkert í kerfinu, ekkert sem ýtir undir fjölbreytni, vöruþróun og nýsköpun í þessum bransa. Síðustu árin, einn, tvo áratugina, höfum við séð talsverða hreyfingu íslenskra bænda þar sem þeir hafa farið út í nýsköpun, sérhæfingu á sinni framleiðslu. Frægt er nú hvannalambið úr Dölunum sem er mjög skemmtileg nýbreytni, en auðvitað er þetta bara pínulítið agnarbrot af heildarframleiðslunni.

Við í Bjartri framtíð gagnrýnum það að ekki sé sérstaklega stutt betur við nýsköpun og að ekki sé nein sýn á að færa framleiðsluna meira út í lífræna og fullkomlega sjálfbæra ræktun sem er engin spurning að ætti auðvelt með samkeppni, jafnvel útflutning með hinu fræga Íslandsmerki á.

Við gagnrýnum það að í búvörusamningunum er ekki horft til umhverfissjónarmiða eins og kom ágætlega fram í ræðu Bjartar Ólafsdóttur, framsögumanns nefndarálits 3. minni hluta, Bjartrar framtíðar. Áður en samningarnir lágu fyrir var rætt um að menn mundu færa sig frá framleiðslutengingum og yfir í tengingar við fjölbreyttari framleiðslu en líka tengingar út frá byggðasjónarmiðum við byggð, svokallaða býlastyrki eða styrki sérstaklega fyrir býli og hreinlega styrki til þess að búa í sveitum, hvort sem menn eru þar með mikla framleiðslu eða stunda einhverja aðra starfsemi, eins og t.d. ferðamannaiðnað eða hvað. Því miður, þegar búvörusamningarnir koma síðan fram, er búið að draga þennan hluta niður í lítið sem ekki neitt og enn er styrkt við í raun og veru framleiðslutengingu stuðningsins.

Nú höfum við haft framleiðslustýringu og tengt stuðninginn við framleiðsluna áratugum saman og hver er niðurstaðan byggðalega séð? Við höfum séð það síðustu 20, 30 eða 40 árin að það hefur verið stórkostleg fækkun mjög víða í sveitum á Íslandi. Úr mörgum sveitum hefur fólk því sem næst alveg flosnað upp og því miður sjáum við ekkert hér sem ýtir undir það að færa þá þróun til baka. Þvert á móti sjáum við þessi árin stórkostlega samþjöppun í íslenskum landbúnaði, sérstaklega í mjólkuriðnaði þar sem við sjáum færri býli en fjölgun risabýla sem eru það stór að þau eru löngu hætt að vera einhvers konar fjölskyldueiningar, enda fjármagnaðar og reknar af stórfyrirtækjum sem eru í raun og veru komin í landbúnaðariðnað. Hvers skyldi vera ástæðan fyrir því að Kaupfélag Skagfirðinga er orðið svona risastór eigandi hlutfallslega í Mjólkursamsölunni? Það er auðvitað vegna þess að Kaupfélagið hefur verið að kaupa sig inn í íslenskan landbúnað og rekur hann eins og hvern annan bisness. Það er kannski eðlilegt viðskiptalega séð og út frá framleiðslunni en það hefur hins vegar ekkert með byggðastuðning að gera. Ég vil meina að það sé mikilvægt að við aftengjum byggðastefnuhugsunina við landbúnaðarstuðning og framleiðslukerfi okkar — það á svo sem alveg eins við um sjávarútveginn — og séum með fjölbreyttan byggðastuðning sem er stuðningur við byggð í sveitum eða byggðum landsins sem er ekki bundinn einhverri ákveðinni framleiðsluaðferð, einhverri ákveðinni afurð eða ákveðinni tækni, heldur býður íbúum sveitanna og í þeim byggðum upp á að velja sjálfir hvað þeir fást við og velja sjálfir hvaða iðnað, þjónustu, framleiðslu eða hvað það er sem þeir kjósa að starfa við og hafa trú á.

Í þessum samningum viðhöldum við í raun og veru mjög þröngri stýringu á það hvað fólk í sveitum landsins má gera. Það er miður, það hefði verið gott tækifæri að ganga lengra í að opna þessar dyr. Það er jákvætt að hér er að einhverju leyti verið að opna á fjölbreytni en það er bara allt of lítið.

Neytendavinkillinn er mikilvægur vegna þess að stuðningurinn er ekki bara byggðastuðningur heldur er hann stuðningur við íslenskan landbúnað og íslenskt matvælaöryggi. Ég vil taka það fram, þó að mér finnist það næstum óþarft en miðað við umræðuna í dag er mikilvægt að taka það fram, að mér þykir íslensk matvælaframleiðsla mikilvæg, mér þykir stuðningur við hana mikilvægur, mér finnst matvælaöryggi Íslendinga vera mikilvægt mál. En matvælaöryggi Íslendinga er ekki bara falið í því að við framleiðum einhver ókjör af sykruðu jógúrti eða að við framleiðum ókjör af svínaskönkum eða bara kjúklingum heldur hlýtur það að geta falist í fjölbreyttari framleiðslu. Hér er verið að opna t.d. á að geitarækt komi betur inn. Hvað um býflugnarækt? Einhvern tímann var hugmynd um krókódílarækt í Þingeyjarsveitum. Ég spyr mig hvort það geti mögulega verið framtíð í því.

Hinn endi matvælaframleiðslunnar er dreifing og sala og neysla á þeirri framleiðslu. Þar kemur að neytendum á Íslandi sem hafa vegna framleiðslustýringar í gegnum áratugina, með mjög stífri tollvernd og takmörkun á innflutningi á matvælum sem gætu mögulega verið í samkeppni við íslenska framleiðslu, í raun setið eftir og hafa dálítið þurft að láta sér verða að góðu það sem í boði er.

Ég vil ítreka að ég hef svo mikla trú á íslenskri matvælaframleiðslu, t.d. íslenska lambinu, að ég hef engar áhyggjur af því að með eðlilegum stuðningi sem er tengdur framleiðslunni muni íslensk landbúnaðarframleiðsla ekki spjara sig fullkomlega vel í samkeppni við sambærilegar vörur, alveg eins og íslensk framleiðsla ylræktarinnar, íslenskar gúrkur og tómatar, hefur gert og sannað sig.

Hér er gert ráð fyrir, í raun og veru til þess að vega upp á móti nýgerðum tollasamningum við Evrópusambandið sem gera ráð fyrir auknum innflutningi, m.a. á ostum, mótvægisaðgerðum þar sem tollar á þessum vörum eru hækkaðir til að vernda íslenska ostaframleiðslu. Það er verið að handtína út einhverjar tegundir af mögulega innfluttum ostum sem ekki eru framleiddar hér á landi og þær mega koma í gegn. Það má vel segja að þetta komi sér örugglega ágætlega fyrir íslenska ostaframleiðendur. Þetta mun að vísu ekki hvetja þá til nýbreytni eða nýsköpunar þar sem þá er ljóst hvar þeir njóta verndar. Þetta mun ekki hvetja þá til að keppa við erlenda osta í gæðum, ferskleika, nýjum brögðum eða hverju sem er sem hefði einmitt verið jákvætt, bæði fyrir framleiðendurna en ekki síður neytendurna.

Það að binda íslenskt landbúnaðarkerfi í tíu ár, þó svo að með breytingartillögu meiri hluta hv. atvinnuveganefndar sé verið að stytta það mögulega í þrjú ár, að binda framleiðsluna áfram við það að taka ekki tillit til hagsmuna neytenda, að hafa talsmenn neytenda ekki við borðið, er algjörlega óásættanlegt. Það er eiginlega óskiljanlegt hvernig fólki dettur það í hug. Þetta er dálítið eins og að skipuleggja heilbrigðiskerfið bara með samtali ráðuneytis við lækna en hlusta aldrei á sjúklinga eða hjúkrunarfræðinga. Þetta er stórfurðuleg aðferðafræði og því miður verður hún eiginlega bara súrrealískari við tilmæli meiri hluta hv. nefndar um að taka samráðið eftir á.

Ég get ekki lokið máli mínu án þess að koma aðeins inn á samkeppnisvinkilinn. Það er óskiljanlegt og fullkomlega óásættanlegt að heil atvinnugrein, hversu mikilvæg sem hún kann að vera í byggðalegu, sögulegu, matvælaöryggislegu tilliti o.s.frv., sé tekin út fyrir sviga þegar kemur að samkeppni. Það að ekki sé horft til samkeppnissjónarmiða er svo skaðlegt þegar kemur að hagsmunum neytenda, en ekki síður að hagsmunum bænda sjálfra vegna þess að það hefur sýnt sig að hver sú atvinnugrein sem ekki nýtur samkeppni, sem ekki þarf að ástunda nýsköpun, þarf ekki að slást aðeins um nýjar hugmyndir, meiri gæði o.s.frv., á ekki annað fyrir sér en að staðna og falla frá. Það að útiloka eðlileg samkeppnislög sem gilda um allt annað á þessu landi og í íslensku hagkerfi er fullkomlega óásættanlegt.

Á það hefur verið bent að hér sé verið að setja í lög og í raun hvetja til verðsamráðs og samráðs og athafna sem beinlínis eru refsiverðar og varða allt að sex ára fangelsi í öllum öðrum brönsum og það er fullkomlega óskiljanlegt, herra forseti, og full ástæða til að mótmæla þeim enda skorti á samkeppnisvinkli á umhverfi og framþróun þessarar mikilvægu atvinnugreinar.

Bent hefur verið á það í andsvörum fyrr í kvöld og hægt er að lesa það á milli línanna að sé maður ekki fullkomlega sáttur við þessa búvörusamninga og umhverfi landbúnaðarins eins og það er sé maður á móti landbúnaðinum og á móti því að landbúnaðurinn hljóti stuðning. Ég mótmæli því í lok máls míns. Ég er þvert á móti stuðningsmaður þess að við styðjum við íslenskan landbúnað en að við gerum það ekki með belti og axlaböndum og gjörð, við gerum það ekki bæði með tollvernd og með því að undanskilja landbúnaðinn samkeppnissjónarmiðum, með því að styðja framleiðsluna og horfa ekki til áhrifa framleiðslunnar á umhverfissjónarmiðið.

Íslenskar kvikmyndir keppa við niðurgreiddar kvikmyndir erlendis frá í kvikmyndahúsum á Íslandi. Þær pluma sig ágætlega vegna þess hreinlega að (Forseti hringir.) þær eru góðar. Þær njóta stuðnings eins og hinar innfluttu myndir en út af samkeppninni við erlendar myndir verða þær betri.



[18:10]
Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil fara hér nokkrum orðum um búvörusamninginn og um þær breytingartillögur sem meiri hluti atvinnuveganefndar gerir. Ég vil fyrst lýsa miklum vonbrigðum með að við skulum búa við ríkisstjórn sem gerir búvörusamning á síðustu metrunum og er að reyna að berja hér í gegn samning til tíu ára, kveður samt á um að í honum skuli vera einhvers konar endurskoðun eftir þrjú ár, sem er þó óljóst hvort yrði gert lagalega með þeim hætti að ríkinu sé frjálst að ganga frá samningnum. Þegar málið var kynnt fyrir mér á sínum tíma meðan á samningsgerðinni stóð af hæstv. þáverandi landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra lagði ég sem formaður Samfylkingarinnar á það þunga áherslu að kallað yrði til alvörusamráðs um þetta mál. Það væri eðlilegt þegar svona stórir hagsmunir væru í húfi að ríkisstjórnin hefði skýrt samningsumboð frá Alþingi áður en lagt væri af stað í samninga. Við þeim viðvörunum var skellt skollaeyrum. Reyndar lýsti ráðherrann þó athyglisverðum markmiðum sem öll lutu að því að losa um þetta stífa framleiðslustýringarbixerí sem landbúnaðurinn hefur illu heilli verið hnepptur í, en síðan kom samningur til tíu ára um mjög litlar breytingar. Í lagafrumvarpinu sem hér var lagt fram upphaflega er afturför á mörgum sviðum og sérstaklega hvað varðar samkeppnisþátt málsins.

Það er alveg ótrúlegt að þessi uppgefna ríkisstjórn, þar sem samskipti milli manna eru algjörlega hrunin, ætli að fara fram á það við Alþingi að við þolum frá henni að hún og meiri hlutinn, sem er hér á síðustu metrunum, bindi hendur næsta þings og reyna að búa til ramma sem geti bundið Alþingi til tíu ára.

Það er líka athyglisvert að hér er ekki um að ræða neinar smáfjárhæðir. Útgjöldin samkvæmt þessum samningi og verðmæti tollverndarinnar saman nema um 200 milljörðum á tíu árum. Það er eins og dýrasta útgáfan af óhagstæðasta Icesave-samningnum. Mér þykja stjórnarflokkarnir nálgast þetta verkefni af gríðarlegri léttúð, svo ekki sé meira sagt. Það er fagnaðarefni að nefndin skuli leggja upp með þetta víðtæka samráð á næsta kjörtímabili, en það er algjörlega fráleitt að byrja á að gera samning til tíu ára og fara svo í að leita samráðs um hvernig haga eigi samningsgerðinni.

Við í Samfylkingunni höfum verið fylgjandi opinberum stuðningi við landbúnaðarframleiðslu, en það er lykilatriði þegar honum er fyrir komið að hann raski ekki samkeppni meira en nauðsyn krefur og tryggi bændum og neytendum hámarksávinning. Það gerir núverandi kerfi ekki og það gerir þetta kerfi ekki heldur með þeim breytingum sem hér eru lagðar til. Við getum horft á breytingar sem gerðar hafa verið í fortíðinni í öðrum atvinnugreinum. Grænmetisframleiðslan var nefnd hér fyrr í dag og hún er mjög gott dæmi. Það er nefnilega þannig að í henni hefur tekist að búa til kerfi þar sem vissulega eru umtalsverð framlög úr ríkissjóði til greinarinnar, en það hvetur til samkeppni, það ýtir undir vöruþróun og frumkvæði bænda og auðveldar greininni að keppa við innflutta framleiðslu. Það hlýtur að vera markmið okkar, ekki að skapa atvinnugreinum falskt öryggi með tollmúrum og höftum heldur búa til þannig kerfi að þær geti keppt á ágætisgrundvelli í frjálsum viðskiptum.

Ég nefndi hér áðan að upphafleg markmið um afnám framleiðslustýringar og aukið markaðsaðhald hafi þynnst svo út í gerð samninganna að ekkert hafi staðið eftir. Nú er sem sagt meiri hluti nefndarinnar búinn að leggja það alfarið á hilluna. Við erum því að samþykkja hér samning sem mun hvorki tryggja greininni né neytendum fullnægjandi ávinning. Í samningnum er líka fullt af glötuðum tækifærum.

Hér hefur umhverfisþáttur málsins verið nefndur. Það liggur fyrir að Ísland þarf að uppfylla skuldbindingar í loftslagsmálum. Af hverju í ósköpunum var tækifærið ekki notað núna og fjármagn sett í það að gera bændum kleift að starfa við það að endurheimta votlendi og draga þannig úr loftslagsáhrifum? Við þurfum að grípa til aðgerða sem þjóð. Ég held við séum öll sammála um að það sé mjög skilvirk leið. Af hverju í ósköpunum var ekki tækifærið notað núna?

Það er líka athyglisvert að hér er ekkert gert til þess að auka fjölbreytnina í greiðslufyrirkomulagi. Það skortir að stuðningur sé veittur með fjölbreyttari hætti og ekki er neitt gert til þess að greiða fyrir samkeppnisstöðu minni keppinauta í afurðasölu.

Í því samhengi er vert að hafa í huga að undanþágan frá samkeppnislögum sem Mjólkursamsalan nýtur var sett á árið 2004 og yfirlýst markmið hennar þá var að gera greininni fært að sameina afurðastöðvar án samrunaeftirlits en ekki að undanskilja eftirlit með markaðsráðandi stöðu. Það ætti að vera tímabundið til að draga úr dreifingarkostnaði, draga úr kostnaði í afurðakerfinu og búa greinina undir samkeppni erlendis frá. Það tókst svo vel að árið 2007 var fjallað um lagabreytingar í athugasemdum með frumvarpi til breytinga á búvörulögum sem hæstv. þáverandi landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra og núverandi forseti Alþingis, Einar K. Guðfinnsson, lagði fram. Hann fjallaði um undanþáguna með eftirfarandi hætti:

„Var því talið nauðsynlegt þar til markaðurinn yrði talinn þroskaður í þeim skilningi, að verðmiðlun og verðtilfærsla afurðastöðva í mjólkuriðnaði yrði undanskilin gildissviði samkeppnislaga. Frá setningu breytingalaganna hefur átt sér stað mikil hagræðing og er staða iðnaðarins í dag talin það stöðug að óþarft sé lengur að lögbinda undantekningu um verðtilfærslu og verðmiðlun frá samkeppnislögum.“

Þetta segir Einar K. Guðfinnsson, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, í athugasemdum með frumvarpi í árslok 2007.

Engu að síður er áfram haldið með þessa undanþágu sama þótt við blasi að hún hefur reynst Mjólkursamsölunni skálkaskjól til ofbeldisaðgerða gagnvart samkeppnisaðilum og að Mjólkursamsalan hefur misbeitt valdi sínu ítrekað og reynt að túlka þessa undanþágu miklu víðar en hún gildir í raun samkvæmt orðanna hljóðan. Undanþágunni er viðhaldið núna af meiri hluta nefndarinnar.

Hvað kom síðan fram fyrir nefndinni? Jú, að undanþágan er óþörf. Hún er óþörf ef markmiðið er að tryggja að hægt sé að safna mjólk á sama verði um allt land og selja hana á sama verði um allt land. Það er engin þörf fyrir undanþágu frá samkeppnislögum til þess að ná þeim árangri. Þetta sagði Samkeppniseftirlitið og stafaði það ofan í nefndarmenn. En fulltrúar meiri hlutans ákveða að taka ekki einu sinni mark á efnislegum rökum og halda þessari undanþágu áfram. Þetta er víðtækari undanþága en landbúnaðurinn nýtur frá samkeppnislögum í nokkru nágrannalandi okkar.

Og það sem verra er, tilburðir Mjólkursamsölunnar til þess að misnota þessa undanþágu með mismunun í verðlagningu, sem hefur valdið gríðarlegum sektum frá Samkeppniseftirlitinu, góðu heilli, hafa verið látnir óátaldir af meiri hluta nefndarinnar.

Það er líka vert að hafa í huga að í frumvarpinu eins og það útbúið var í upphafi var gert ráð fyrir að undanþágan yrði enn hert og að bannið við misnotkun á markaðsráðandi stöðu mundi ekki lengur gilda um ofbeldismanninn. Það átti sem sagt bara að opna upp á gátt möguleika Mjólkursamsölunnar til ofbeldisaðgerða.

Blessunarlega er nú undið ofan af því í breytingartillögunum sem nefndin gerir nú, vona ég. Ég tek eftir því að menn tala um óbreytt ástand í greinargerðinni. Ég tel þess vegna afar mikilvægt að halda því hér til haga að í því lögskýringargagni og í þeim umræðum sem hér fara fram að það sé hafið yfir vafa að Samkeppniseftirlitið hefur áfram eftirlit með misnotkun á markaðsráðandi stöðu í mjólkuriðnaði. Undanþágan dugar ekki til að koma ofbeldismanninum í skjól enn einn ganginn.

Það er síðan athyglisvert að í umfjöllun meiri hluta nefndarinnar er gefið í skyn að samningurinn sem nú verði staðfestur sé einungis til þriggja ára. Mér þykir það samt veikburða þegar aðstæðurnar eru eins og hér um ræðir því að í fjölmörgum greinum frumvarpsins er vísað til ársins 2026, þannig að við erum að fara að lögfesta skuldbindingar til 2026. Hefur ríkið frjálst val um það eftir þá endurskoðunarvinnu sem nú á að fara af stað, það mikla samtal sem menn eru búnir að ákveða að taka um hvert þeir vilji stefna eftir að þeir ákveða að fara af stað? Það er svolítið fyndið. Þetta er eins og að við búum við stjórnarmeirihluta sem er lagður af stað vesturleiðina til Akureyrar, en hann er ekki alveg viss hvert hann er að fara, hann veit ekki hvort hann er að fara til Akureyrar, til Vestmannaeyja eða hvert hann er að fara og sýnir það betur en nokkuð annað ráðleysi ríkisstjórnarmeirihlutans í þessu máli.

Ég vil algjörlega skýr svör um að ríkið hafi fullt svigrúm til þess að víkja frá þessum samningi eftir þrjú ár ef það er vilji meiri hlutans þá, sem blessunarlega margt bendir til að verði frjálslyndari og opnari fyrir markaðslögmálum í þessari atvinnugrein en nú er. Það stefnir í að hér verði ákveðin landhreinsun af þingi af fulltrúum afturhaldsaflanna og það sé von til þess að hér komi sterkari hópur frjálslyndra þingmanna á nýju kjörtímabili. Það er kannski þess vegna sem við sjáum krampakennda tilraun þessarar úrvinda ríkisstjórnar sem drattast fram úr til að troða þessu máli í gegn til þess að reyna að láta hina afturhaldssömu samsetningu þessa þings gilda út yfir gröf og dauða og langt fram yfir lok þessa kjörtímabils. Það er kannski það sem er raunverulega í gangi hér.

Ég held að við munum þess vegna gera breytingartillögu sem hv. þm. Kristján L. Möller mælti fyrir fyrir okkar hönd hér fyrr í umræðunni um að gildistíminn verði ótvírætt til þriggja ára. Við munum líka gera breytingartillögu um brottfall 71. gr. Ég hlýt að horfa á þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem hafa látið teyma sig eins og blindingja í þessu máli. Hvað á þessi þjónkun við ruglið að ganga langt? Það liggur fyrir eftir umfjöllun í atvinnuveganefnd að það eru engin efnisleg rök fyrir undanþágunni. Það er engin þörf á því að viðhalda henni til þess að tryggja að hægt sé að safna mjólk á sama verði um allt land og selja hana á sama verði um allt land. Af hverju er þá verið að viðhalda þessari undanþágu? Það verður mjög athyglisvert að sjá hvort enn þá finnist einhverjir talsmenn atvinnufrelsis í Sjálfstæðisflokknum þegar kemur að atkvæðagreiðslu um þetta mál. Ég er efins um það, en ég bind þó vonir við að nokkrir þeirra eru að leita eftir endurkjöri akkúrat þessa dagana og nokkrir þeirra þurfa að setja upp sparifrjálslyndissvipinn, þótt ekki væri nema til þess að fá endurkjör. Ég sé tvo fulltrúa þeirra í þessum sal, hv. þingmenn Vilhjálm Bjarnason og Birgi Ármannsson. Ég held að það væri virkilega gleðilegt ef gæti kviknað hjá þeim og tekið sig upp langdeyfð og dauð frjálslynd taug við afgreiðslu þessa máls.

Þó að við séum ekki að ræða tollasamninginn við Evrópusambandið er mjög mikilvægt að hafa heildarsamhengið í huga vegna þess að til að heildarsamhengið virki þarf ákveðið jafnvægi. Við styðjum útgjöld til stuðnings við landbúnaðarframleiðslu og markmiðið hlýtur að vera að stuðningurinn raski sem minnst heilbrigðri samkeppni og markaðslögmálum, skili bændum og neytendum hámarksávinningi. Hluti af þeirri heildarmynd hefur verið að Ísland hefur undirgengist skuldbindingar um að leyfa innflutning á landbúnaðarvöru annars vegar á lágum tollum og hins vegar á kvótum. En framkvæmdin hefur verið sú af varðstöðumönnum um óbreytt ástand áratugum saman að menn hafa búið til kerfi til þess að reyna að koma í veg fyrir að það skapist nokkurt verð- eða gæðaaðhald með þessum innflutningi. Yfirlýst markmið þessara samninga af hálfu Íslands þegar Ísland hefur skrifað undir þátttöku í þessum samningum hefur verið að menn vilji að þeir skapi aðhald í verði og gæðum. En þegar innflutningskvótarnir eru boðnir upp skapast hvorugt. Verðið verður nokkurn veginn það sama og á hinni innlendu framleiðslu og vegna þess hve mikið er borgað fyrir kvótana fara menn í það að flytja inn lélegustu vöruna, ódýrustu vöruna.

Þess vegna er mjög mikilvægt, líka í ljósi þess að fyrir liggja hæstaréttardómar um ágalla í þessu innflutningsuppboðskvótakerfi, að breyta lögum og úthluta innflutningskvótum með hlutkesti. Við munum gera breytingartillögu þar um. Samtök verslunar og þjónustu hafa sent Alþingi aðrar hugmyndir þar sem þrír fjórðu hlutar ættu að úthlutast á grundvelli reynslu og fjórðungur á grundvelli hlutkestis. Ég tel það einfaldlega ófært vegna þess að í fortíðinni hafa framleiðendur keppst um að bjóða hátt í þessa kvóta til þess að verja sig fyrir erlendri samkeppni. Ég sé þess vegna enga ástæðu til að byggja á sögulegri reynslu þegar kemur að úthlutun þessara kvóta. Það er þvert á móti mjög mikilvægt að úthluta þeim með hlutkesti, með eins einföldum hætti og mögulegt er, rétt eins og meiri hluti nefndarinnar leggur til. Það er kannski eitt af því fáa sem ég get hrósað meiri hlutanum fyrir, þ.e. að sama fyrirkomulag muni gilda fyrir alla innflutningskvóta eins og meiri hlutinn gerir ráð fyrir að gert verði hvað varðar upprunamerkta osta. Það er mjög mikilvægt til þess að árangurinn af heildarsamhengi hlutanna verði fullnægjandi og að aðhald skapist bæði í gæðum og verði.

Virðulegi forseti. Það er gott að sjá af hálfu meiri hluta nefndarinnar að menn leggja upp með alvöruvinnu á næstu árum í endurskoðun búvörusamninga. En það er ekki þessa afturhaldssama þings að binda hendur næstu þinga. Það á þvert á móti að vera þannig að ný ríkisstjórn komi að hreinu borði. Það skiptir mjög miklu máli að nýr meiri hluti Alþingis hafi frjálst val um með hvaða hætti þetta mál verði þróað aftur. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að þingmenn Sjálfstæðisflokksins ætli að standa að því að binda hér afturhald og forsjárhyggju í sessi næstu tíu árin með óafturkræfum hætti. Ég held þess vegna að það sé mjög mikilvægt að gengið verði ríkt eftir því að það sé ótvírætt að ný stjórnvöld hafi fullt frelsi til þess að taka ákvarðanir á miðju næsta kjörtímabili.

Það er ágætistími til stefnu ef við horfum til þriggja ára, þannig að samningarnir gildi til ársloka 2019. Það þarf auðvitað að eiga um það samtal. Það þarf að þróa nýjar hugmyndir og nýjar leiðir. Við eigum það öll skilið. Landbúnaðurinn þarf mjög nauðsynlega á því að halda að öðlast meira frelsi í framleiðslu, í vöruþróun og fá þannig tækifæri til þess að nýta alla þá miklu möguleika sem samfélagsbreytingarnar sem við lifum núna skapa, aukin ferðaþjónusta, mikill fjöldi munna að metta í þessu landi og ný tækifæri sem geta skapast í útflutningi.



[18:30]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir mjög skelegga ræðu þar sem hann sýndi mjög skilning sinn á högum og kjörum bænda en jafnframt hélt mjög skýrt fram þeirri stefnu okkar í Samfylkingunni að við viljum ekki sjá þær undanþágur frá samkeppnislögum sem enn er að finna í þessum lögum.

Hv. þingmaður lagði á það áherslu að mjög mikilvægt væri að hendur nýrra þinga yrðu ekki bundnar inn í framtíðina til tíu ára. Þá langar mig til þess að spyrja hann um tvennt:

Í fyrsta lagi. Telur hann einboðið eins og um hnúta er búið í breytingartillögum meiri hlutans að það sé algjörlega í gadda slegið að næsta þing fái málið til afgreiðslu?

Í öðru lagi. Af því hv. þingmaður hefur verið virkur í umræðu um stjórnarskrá og þekkir hana mörgum öðrum betur, telur hann að það standist stjórnarskrána að samþykkja lög af því tagi sem hér er verið að ræða sem kunna hugsanlega að binda hendur þingsins, þess vegna til nánast þriggja kjörtímabila? Er algjörlega ljóst að það sé heimilt samkvæmt stjórnarskránni?



[18:32]
Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er mjög góð spurning og sú sem ég hef miklar áhyggjur af. Við vitum að ef búið er að gera bindandi búvörusamning er ekkert auðveldlega úr honum komist nema með samkomulagi beggja aðila. Við reyndum það eftir hrun þegar gerðir voru breytingar á gildandi búvörusamningi en svigrúm okkar þá í ríkisstjórn var takmarkað vegna þess að það var gildur samningur fyrir hendi.

Á hinn kantinn má auðvitað segja að það er stjórnarskráin sem ljær Alþingi algjört sjálfdæmi um það að samþykkja fjárveitingar frá einu ári til annars. Samningar allsherjarvaldsins að því leyti eru bundnir fjárveitingum Alþingis á hverjum tíma.

Vegna þess að hv. þingmaður spyr hvort eitthvað sé í gadda slegið þarna þá er það nefnilega akkúrat ekki. Það er ekkert í gadda slegið. Meiri hlutinn slær í og úr. Hann segir að nú séu fyrstu þrjú ár samninganna staðfest og mörkuð framtíðarsýn til tíu ára. Hann leggur samt upp aðferðafræði fyrir endurskoðun samninganna, segir á bls. 3 í nefndaráliti, og leggur til að endurskoðunin byggist á aðferðafræði sem feli í sér víðtæka samstillingu um landbúnaðinn, á atkvæðagreiðslu um endurskoðaða samninga meðal bænda og afgreiðslu Alþingis á lagabreytingum sem sú endurskoðun kann að kalla á.

Mér finnst þetta býsna óljóst. Er þá Alþingi í seldri stöðu? Verða samningarnir alltaf að lágmarki að hljóða upp á það sem kveðið er á um í frumvarpinu sem við eigum að fara að afgreiða og á að gilda til 2026 samkvæmt orðanna hljóðan? Eða getur Alþingi breytt því sem eftir er frá 2019–2026? Það finnst mér að þeir sem koma hér upp, þingmenn Sjálfstæðisflokksins, sem eru náttúrlega í sinni úlfakreppu að reyna að losa sig úr þessu haftabixi sem þeir eru búnir að flækja sig í, skuldi okkur skýringar á því. Er það þá nákvæmlega þannig að menn komist (Forseti hringir.) út úr þessu, að samningarnir séu ekki skuldbindandi eftir 2019?



[18:34]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Árni Páll Árnason vísaði til þingmanna Sjálfstæðisflokksins. Eitt af því sem er merkilegt í þessari umræðu hér í dag er að þingmenn Sjálfstæðisflokksins sitja og þruma þegjandi í sætum sínum úti í sal og virðast ekki hafa kjark til þess að koma og segja hver þeirra afstaða er. (Gripið fram í: Enginn framsóknarmaður hefur talað heldur.) Enginn framsóknarmaður talar heldur, segja hv. þingmenn. Ég hef svo sem tekið eftir því. Ég skil vel að þeir vilji ekki taka mikið til máls. Þeir eru þó sammála þessu bixi og eiga það með húð og hári.

Ég velti því fyrir mér hvernig er með frjálslynda þingmenn eins og hv. þm. Vilhjálm Bjarnason. Ætlar hann ekki að taka þátt í þessari umræðu? Fáir hafa með jafn skeleggum hætti og hann talað um gildi samkeppninnar og gagnrýnt höft og helsi af þeim toga sem er að finna í þessu frumvarpi og breytingartillögu sem við erum að ræða. Mig undrar ef hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason ætlar ekki að segja neitt af því að hann er nú viðstaddur umræðuna.

Varðandi spurninguna um stjórnarskrána er það ekki úr lausu lofti gripið. Ég ber virðingu fyrir þeim mönnum sem hafa stúderað stjórnarskrána. Ég ber virðingu fyrir þeim mönnum sem hafa verið í forustu stjórnmálaflokka, jafnvel lengi, jafnvel þótt það sé annarra stjórnmálaflokka en þeirra sem ég tilheyri. Það vill svo til að fyrrverandi forsætisráðherra og fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins hefur ritað mjög djúpristar greinar þar sem hann sýnir fram á að það séu sterk rök sem hníga að því að með samþykkt samnings af þessu tagi förum við yfir þau mörk sem stjórnarskráin heimilar. Það er þess vegna sem ég vildi fá fram þessa afstöðu hjá hv. þingmanni sem virðist, eins og Þorsteinn Pálsson, telja mikinn vafa leika á því að þarna göngum við í takt (Forseti hringir.) við stjórnarskrána. Ef það er einhver sem á að njóta (Forseti hringir.) vafans í þessu máli er það stjórnarskráin.



[18:36]
Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er einmitt athyglisvert að sjá fjarveru þingmanna Sjálfstæðisflokksins og þingmanna Framsóknarflokksins úr þessari umræðu. En ég skil það vel að þeir þingmenn Sjálfstæðisflokksins á suðvesturhorninu sem eru að rembast við að ná endurkjöri vilji ekki verja þessa grímulausu haftavitleysu sem hér er í gangi. Þeir eru að reyna að passa að láta kjósendur sína ekki fatta hvers konar rugl er í gangi. Þess vegna hefur hv. þm. Jón Gunnarsson verið sendur út með þetta reykský, hugmyndina um einhvers konar þriggja ára samning sem samt sé tíu ára samningur en enginn veit hvernig raunverulega er, til þess að reyna að draga athyglina frá bullinu sem hér er í gangi. Ég held að kjósendur í prófkjörum Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi og í Reykjavík þurfi að hugsa sinn gang yfir framgöngu hv. þingmanna Vilhjálms Bjarnasonar, Sigríðar Á. Andersen, Birgis Ármannssonar, Brynjars Níelssonar, Elínar Hirst. Eigum við að fá að hlusta á fleiri meintar frjálslyndisræður frá þessu fólki? Guð forði okkur frá því. Þetta fólk verður að fara í þann Framsóknarflokk sem það á heima í og útskýra það fyrir kjósendum sínum að það hefur enga heimtingu til þess að tala fyrir frjálslyndi á einn eða annan hátt. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

Af því að hv. þingmaður hins vegar spyr um stjórnarskrána þá er það þannig að Samtök verslunar og þjónustu, held ég það hafi verið frekar en Samtök atvinnurekenda, höfðuðu mál til ógildingar búvörusamnings. Því var vísað frá vegna þess að ekki væri búið að staðfesta hann hér. Það mun því reyna á það fyrir dómstólum ef menn ætla að reyna að böggla einhverjum tíu ára samningi í gegn. Ég er sammála hv. þingmanni um að það stenst ekki stjórnskipan Íslands að binda svo hendur Alþingis um ókomin ár. Ég held að það sé mjög mikilvægt þess vegna að kreista það þá alla vega út úr þessum þykjustufrjálslyndisþingmönnum Sjálfstæðisflokksins að þeir gangi alla vega tryggt fram hér þannig að þetta bindi hendur næstu þinga (Forseti hringir.) af því að það kann nefnilega að vera að það komi alvörufrjálslyndisþingmenn á næsta þing, ekki svona (Forseti hringir.) þykjustufrjálslyndisþingmenn eins og við höfum fengið í boði Sjálfstæðisflokksins á þessu kjörtímabili.



[18:39]
Vilhjálmur Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Í upphafi ræðu minnar, þar sem fjallað er um búvörulög og þær nauðsynlegu breytingar á búvörulögum sem gera þarf til að staðfesta samning sem nefndur er búvörusamningur, ætla ég að frábiðja mér þær góðu óskir sem hv. þm. Árni Páll Árnason sendi mér um að ganga í björg hjá Framsóknarflokknum. Það verður seint, kannski á efsta degi í lífi mínu. (ÖS: Þú ert húskarl þar.) Sömuleiðis voru þessi frýjunarorð hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar óþörf.

Ég hef á fyrri stigum lýst ákveðnum efasemdum um búvörusamninga. Ég hef lýst því að sú vegferð sem lagt var upp í kringum árið 1940 til dagsins í dag hefur ekki skilað þeim árangri sem óskhyggja hefur ætlað þessum samningum. Niðurgreiðslur á landbúnaðarafurðir, eða beingreiðslur eins og þær heita, út á framleitt magn hafa ekki skilað þeim árangri sem til er ætlast.

Ég hef leyft mér að horfa á þetta mál út frá öðrum miðum en aðrir þingmenn. Það hefur enginn í þessari yfirferð nefnt afkomu bænda. Í þessu máli liggja ekki fyrir neinar tölulegar upplýsingar um afkomu bænda eftir greinum. Það hefur heldur enginn nefnt stærðir landbúnaðar í þjóðhagsreikningum utan þess sem ég gerði eitt sinn í ræðu, en samkvæmt mínu mati og minni skoðun á þjóðhagsreikningum er vinnsluvirði þessara tveggja höfuðgreina, alla vega sauðfjárræktar, næstum því núll. Það sem sauðfjárræktin hefur í tekjur upp í fastan kostnað og vinnulaun er nánast það sem kemur úr beingreiðslu. Það getur engin atvinnugrein lifað með þeim hætti til lengdar. Það getur heldur engin atvinnugrein lifað til lengdar í vernduðu umhverfi, algjörlega vernduð fyrir allri samkeppni, enda er fjöldinn allur af vörum sem eru staðkvæmdarvörur landbúnaðarafurða sem meintar samkeppnishömlur taka ekki til og hafa leitt til þess að neysluvenjur til þjóðarinnar hafa breyst á undanförnum árum.

Við reiknum með því í þeim samningi sem liggur undir að hann leiði til þess að greiddir verði 12 milljarðar á ári til sauðfjárræktar og mjólkurframleiðslu. 12 milljarðar er býsna há upphæð. Það er u.þ.b. 0,5% af landsframleiðslu. Þetta eru næstum þær tekjur sem deilt er um að séu of lágar nú þegar í skattlagningu á aflagjöldum í sjávarútvegi. Þetta eru gríðarlega háar greiðslur. Það sem farið hefur afskaplega í taugarnar á mér í þessu máli er að þessum háu greiðslum er deilt út án þess að vitað sé hver verður hagur móttakanda í málinu. Stærstu styrkveitingar síðustu aldar held ég að hafi verið svokölluð Marshall-aðstoð. Íslendingar eiga ekki heimsmet í styrkjum þótt ýmsir vilji eiga heimsmet á ýmsum sviðum, en í Marshall-aðstoðinni, sem hófst 1947 getum við sagt og stóð 6. áratuginn að einhverju leyti, var það ein af grundvallarkröfum veitenda aðstoðar að færðir yrðu þjóðhagsreikningar í Evrópu þannig að menn vissu hvernig staða mála væri hjá móttakendum. Ég held að allir hafi orðið að uppfylla það skilyrði nema Íslendingar, þeir fengu endalausa traktorsbætur sem voru þá hluti af framleiðslustyrkjum þess tíma. Íslenskur landbúnaður fór í gegnum heila Marshall-aðstoð en ekki dugði það til þess að viðhalda byggð á brothættum svæðum.

Sá svæðisbundni styrkur sem hér er talað um getur hugsanlega frestað ákveðinni þróun en hann getur ekki komið í veg fyrir hana. Það er ósk flestra sem hér eiga sæti, held ég, að viðhalda byggð í öllu landinu. Það er líka mín ósk að viðhalda byggð í landinu. En því miður hef ég orðið vitni að því í mínu lífi að það er ekki alltaf hægt. Til dæmis var ekki hægt að bjarga þeirri byggð þar sem foreldrar mínir fæddust og ólust upp. Það kann að vera að það séu einhvers staðar brothætt svæði. Einhvers staðar hef ég lesið að Byggðastofnun hafi skilgreint brothætt svæði þar sem u.þ.b. 1% íbúa búa. Það kann að vera að þau bresti.

Á þeim árum sem svokallaðar beingreiðslur hafa átt sér stað hafa menn haft það að markmiði að viðhalda byggð í landinu. Hvernig hefur það gengið? Jú, það hefur gengið með þeim hætti að framleiðendum mjólkur hefur fækkað úr 1.700 úr 700. Markmiðið um dreifða byggð hefur því ekki haldist þar. Afkoma í sauðfjárrækt hefur, eftir þeim tölum sem ég hef skoðað, ekki verið með þeim hætti að það sé til að hrósa sér af.

Ég lít svo á að þessi samningur sé til þriggja ára. Á þeim þremur árum sem fram undan eru þarf að skera upp. Það þarf að leggja fyrir Alþingi betur undirbúið plagg en það sem lagt var hér fram í upphafi þessa máls í frumvarpsformi, þar sem t.d. kemur fram hver afkoman er í greinunum. Hverja er verið að styrkja? Njóta einhverjir ofurstyrkja? Eru þar einhverjir sem ekki er á vetur setjandi? Hvernig munu kynslóðaskipti ganga? Hvað þarf til þess að kynslóðaskipti gangi á sauðfjárbúi? Ég ítreka að það kemur á óvart hversu litlar upplýsingar liggja fyrir í þessu máli.

Ég tel að nauðsynlegt sé að tryggja að aðrar greinar sem byggja að einhverju leyti á aðföngum á afurðum landbúnaðar þurfi ekki að taka þátt í þessu beingreiðsluframlagi. Hægt er að kaupa ýmsar afurðir til iðnaðar á heimsmarkaðsverði, en sælgætisframleiðsla, framleiðsla á súkkulaði og ís, hefur orðið að greiða það öðru verði. Það gengur náttúrlega ekki. Ég hélt í barnaskap mínum að það sem gerðist hér árið 1970 þegar Ísland gekk í EFTA — þá voru allir tollar á hráefni til iðnaðar felldir niður. Ég tel að tryggja verði hag þeirra greina sem virðast hafa setið eftir með einhverjum hætti. Það er nefnilega ekkert eins einfalt eins og að framleiða súkkulaði. Þessar greinar starfa hér í verulegri samkeppni við erlendar greinar og það er allt í lagi, þær hafa bara dafnað vel. Það er einfaldlega þannig að samkeppni skilar sér í bættum hag neytenda. Sú atvinnugrein sem býr við ofurvernd er dæmd til að tapa því að það er alltaf til einhver staðkvæmd þar sem greinin tapar.

Ég vænti þess að á þeim þremur árum sem í hönd fara verði tekið á ýmsu því sem ég hef orðað hér, t.d. eins og því hvað verið er að styrkja og eins hvaða framtíðarsýn íslenskur landbúnaður hefur. Mér hefur stundum fundist íslenskur landbúnaður hafa þá framtíðarsýn að horfa í baksýnisspegil. Það er nú hin dapra framtíðarsýn sem ég sé. Það gengur náttúrlega ekki. Hér hafa orðið neyslubreytingar og ekki verður barist gegn neyslubreytingum þar sem fólk á frjálst val. Íslendingar fara til útlanda, dvelja í útlöndum. Þar kynnast Íslendingar annarri fæðu og hafa nú komið bara nokkuð heilbrigðir heim. Ég tel að íslenskur landbúnaður þurfi að takast á við það sem er að gerast í löndunum í kringum okkur.

Og þó að það sé utan þessa efnis ætla ég ósköp einfaldlega að segja að markmiðið með þeim tollasamningi sem hér kemur til umræðu hugsanlega síðar í dag eða á morgun, tollasamningur um landbúnaðarafurðir frá Evrópusambandinu, er að skila þeim ábata til neytenda í staðinn fyrir að vera hirtur upp af ríkissjóði ellegar smásöluverslun.

Í þessari ræðu minni ætla ég að undirstrika að ég tel að við séum ekki að fara hér yfir á þriðja kjörtímabil, við séum fyrst og fremst að framlengja þann búvörusamning sem í gildi hefur verið, með smávægilegum breytingum, í þrjú ár og sá tími verði notaður til þess að skera þetta kerfi upp. Menn hafa hrósað sér af því sem gert var 1992 eftir að niðurgreiðslukerfi 50 ára þar á undan var komið á heljarþröm, en ég tel að það kerfi sé jafnvel komið að endamörkum sínum í dag.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja mál mitt. Ég tel ég hafi komið sjónarmiðum mínum á framfæri. Ég óska þess að hver sú vinnufæra hönd í þessu landi sjái einhvern arð af starfi sínu en að standi ekki í uppgjöf í dagslok.



[18:52]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason, sem yfirleitt er skeleggastur þingmanna í þessum sal og fer aldrei dult með skoðanir sínar, lauk sínu máli með því að segja að hann hefði komið viðhorfum sínum á framfæri. Ég leyfi mér að vera ósammála því. Það birtust engin viðhorf í máli hv. þingmanns nema tvenn; í fyrsta lagi að hann teldi að kerfið væri að fótum fram komið og í öðru lagi að hann teldi að hér væri verið að framlengja búvörusamningana.

Það sem ég ætla þó að gera að meginefni í fyrirspurn minni til hv. þingmanns er að hann segir að hann líti svo á að þessi samningur sé til þriggja ára. Ætlar þingmaðurinn að byggja afstöðu sína til verulegra útgjalda til kerfis, sem hann segir sjálfur að sé komið að hruni, á einhvers konar óskhyggju sinni? Hann veit það jafn vel og ég að það komu samningsréttarfræðingar fyrir viðeigandi þingnefndir sem sögðu að á meðan það væri ekki sérstaklega tekið fram af þinginu, meiri hlutanum, og sérstök bókun gerð af hálfu bæði Bændasamtakanna og fjármálaráðuneytisins um að sá skilningur væri fyrir hendi og sameiginlegur að það yrði skoðað aftur og endurskoðað eftir þrjú ár, þá gæti þessi samningur þess vegna siglt til tíu ára.

Ég er þeirrar skoðunar að í þessu felist m.a. að Alþingi geti ekki afnumið undanþágur frá samkeppnislögum fyrir mjólkuriðnaðinn um alllanga hríð, hugsanlega tíu ár. Telur hv. þingmaður að það samrýmist hugsunum okkar um framsal valds Alþingis?

Sömuleiðis vegna þess að hv. þingmaður er áhugamaður um viðskiptasamninga tel ég að þessi samningur, verði hann samþykktur með þeim hætti sem hv. þingmaður ætlar bersýnilega að leggja mat sitt við, þá sé svigrúm Alþingis til þess að gera nýja viðskiptasamninga um lækkun tolla á búvörum verulega takmarkað á þessum sama tíma.

Ég spyr hv. þingmann: Telur hann að þetta valdaframsal til Bændasamtakanna frá þinginu samrýmist stjórnarskrá? Telur hann að hér sé fetað meðalhóf (Forseti hringir.) um framsal valds þingsins?



[18:54]
Vilhjálmur Bjarnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst nú leitt að hv. þm. Össur Skarphéðinsson hafi ekki skynjað nein viðhorf í ræðu minni. Ég ætti þá að endurtaka ræðu mína og athuga hvort hann skilji hana í annarri umferð.

Ég tel að Alþingi geti undir engum kringumstæðum framselt neitt vald til Bændasamtakanna, það liggur náttúrlega alveg í augum uppi. Ef vafi er á þá eru þó dómstólar í þessu landi og þeir geta úrskurðað ef svo ber undir. Það eru hér vilyrði um að þessi samningur verði endurskoðaður. Það er sömuleiðis fjárveitingavald þings á hverju ári sem þarf til þess að fullnusta þennan samning. Þetta er viljayfirlýsing með þessum tímapunkti til þriggja ára. Ég ætla að treysta því að þingmenn virði það. Það er oft og tíðum þannig að ég hef ekki hugmyndaflug til þess að sjá í gegnum alla þá smáskekla sem einhverjir kunna að sjá. Ef vilji næsta þings er sá að halda þessu óbreyttu verð ég að láta það yfir mig ganga. En atvinnugreinin sjálf mun ekki hafa ávinning af því að það verður hér áframhaldandi hnignun ef menn taka ekki á. Það er þannig að ég fer um sveitir lands á sumrin og hef farið víða. Mér finnst mörgu fara aftur í sveitum landsins. Ég held að þessi samningur, sem er óbreytt framlenging á því sem hefur gerst frá 1992, bæti ekki úr því sem var að gerast í hinum dreifðu byggðum, því miður.



[18:57]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Bændur eru ekki ofsælir af kjörum sínum. Ef þeir hefðu fengið að koma að samráði um þessa samninga og ef menn væru á annað borð sáttir við það að setja þessar miklu fjárhæðir til landbúnaðarins þá hefðu þeir viljað nýta það með allt öðrum hætti. Það hefði verið hægt að nýta þessa fjármuni miklu betur fyrir landbúnaðinn, miklu betur fyrir hinar gisnu byggðir, miklu betur fyrir Ísland. Enginn sýndi jafn vel fram á það og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hér fyrr í dag.

En aftur að afstöðu hv. þingmanns. Hann hrasar um sín eigin rök. Seinni ræða hans er ekki í samræmi við meginefnin í fyrri ræðunni. Í fyrri ræðunni sagðist hann líta svo á að þessi samningur væri einungis til þriggja ára. Í seinni ræðunni var hann búinn að smætta það niður í að segja að það sé vilyrði fyrir því að hugsanlega verði þetta bara þrjú ár. Staðreyndin er auðvitað sú, eins og hv. þingmaður hefur greind og gáfur til þess að skilja, að Bændasamtökin og eftir atvikum stjórnmálamenn þurfa ekkert að gera annað en þvælast fyrir þessu samráði sem hann segir að sé gefið vilyrði fyrir. Þar með er ljóst að samningurinn fetar áfram í tíu ár. Þar með er líka klárt að frjálslyndir sjálfstæðismenn hafa þá tekið þátt í því að framselja vald Alþingis til Bændasamtakanna um það hvort Alþingi geti gert nýja viðskiptasamninga sem tengjast innflutningi á landbúnaðarvörum og sömuleiðis um fjárveitingar, sömuleiðis um það hvort hægt sé yfir höfuð af hálfu Alþingis að breyta þessum samningum í tíu ár.

Ég er þeirrar skoðunar að þetta sé á verulega gráu svæði gagnvart stjórnarskránni. Það er partur af því að ég get ekki stutt þetta mál. En mér detta flestar, jafnvel allar, lýs steindauðar úr höfði við það að hlusta á hv. þingmann, talsmann hins frjálslynda vængs Sjálfstæðisflokksins, ætla að beygja sig undir þennan (Forseti hringir.) skilning, vera ekki einu sinni samkvæmur sjálfum sér. Nú bíð ég eftir því, frú forseti, að heyra (Forseti hringir.) hv. þm. Sigríði Andersen sýna hvort hún líka hrasi um sína eigin (Forseti hringir.) rökfimi eins og (Forseti hringir.) restin af frjálslynda vængnum.



[18:59]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Þetta eru skarpar umræður í þingsal um þetta mikilvæga mál og er vel, veitir ekki af að takast aðeins á og skiptast á skoðunum því það er alveg ljóst að þær eru margbreytilegar. Það er eitt af því sem hefur hvað skýrast komið fram. Það hefur margt verið skrifað og rætt um þessa búvörusamninga sem við höfum verið að fjalla um í dag og ljóst að sitt sýnist hverjum í þeim efnum.

Gagnrýnin á vinnubrögðin við gerð þessara samninga er auðvitað til komin vegna lélegs samráðs. Ég tel að hæstv. þáverandi landbúnaðarráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson hafi gert veigamikil mistök þegar hann var ekki með fleiri aðila í þessu ferli, m.a. fulltrúa þingflokka, því að það lá alveg ljóst fyrir og hefur legið lengi ljóst fyrir að um þetta yrðu skiptar skoðanir, bæði úti í samfélaginu og ekki síst hér á þingi. Svo sem ekkert skrýtið með það, þetta eru stórar fjárhæðir úr sameiginlegum sjóðum okkar landsmanna. Það hefði verið skrýtið ef slíkar fjárhæðir og slíkur samningur hefði ekki valdið einhverjum deilum þegar kæmi að umfjöllun um hann bæði úti í samfélaginu og þegar Alþingi er að afgreiða hann eins og hefur komið í ljós í dag og kom reyndar í ljós strax við 1. umr. málsins. Svo verður auðvitað að gagnrýna hversu seint var farið af stað. Á lokadögum þingsins erum við að afgreiða jafn mikilvægt og viðamikið mál og raun ber vitni þegar gildistími núverandi samninga lá ljós fyrir fyrir margt löngu. Það er ekkert annað en slóðaskapur að ekki skuli hafa verið hafist handa fyrr við að fara í gegnum þessa samninga.

Hvað er búvörusamningurinn og til hvers er hann? Markmiðið ætti að vera að efla íslenskan landbúnað og auka gæði búvörunnar, sérstaklega þegar við horfum til matvælaöryggis, bæta afkomu bændanna og í raun samkeppnishæfni landbúnaðarins í heild. Við viljum efla nýliðun og fjárfestingu bæði í frumframleiðslunni, landbúnaðinum í heild sinni og úrvinnslunni. Öll held ég að við viljum efla rekstrarumhverfi sprotafyrirtækja og stuðla að virðisauka matvæla heima í héraði. Umfram allt kannski að tryggja fæðuöryggi og leggja ríka áherslu á umhverfismálin, þ.e. kolefnisfótsporin. Og kannski ekki síst er það takmarkið að banna að mínu viti innflutning dýraafurða sem framleiddar eru við lakari aðstæður og minni kröfur um aðbúnað en við gerum hér til í innlendu framleiðslunni. Það er eitt af því sem mér hefur þótt skorta svolítið á í umræðunni.

Málið hefur þó tekið einhverjum breytingum í atvinnuveganefnd. Flestar eru þær til bóta. Fulltrúar Vinstri grænna hafa lagt sitt af mörkum þar. Hið fortakslausa endurskoðunarákvæði núna árið 2019 skiptir miklu máli og ekki síður að fresta eigi niðurlagningu verðlagsnefndar mjólkuriðnaðarins og því að taka upp einhvers konar tekjumarkaðsaðferð sem var ekki vel undirbúin og er auðvitað umdeild. Það vantar að mati okkar vinstri grænna töluvert upp á að búvörusamningarnir þjóni markmiðum um sjálfbæran landbúnað og innlenda matvælaframleiðslu í þágu samfélagsins þar sem við byggjum á sjónarmiðum um umhverfisvernd, dýravernd, velferð og hollustuhætti. Það þarf að kveða mun skýrar á um upprunamerkingar og upplýsingagjöf til neytenda enda mikilvægt m.a. til að ná þeirri samfélagslegu sátt sem við þurfum svo mikið á að halda í þessu stóra máli og að það ríki traust á milli framleiðenda og neytenda. Þar er skilvirk og trúverðug upplýsingagjöf mikilvæg.

Samningarnir hafa verið gagnrýndir af mörgum og þinginu bárust fjölmargar umsagnir. Fljótt á litið sýnist mér mesta gagnrýnin hafa verið á tímalengdina, þ.e. þessi tíu ár, að verið væri að festa samningana langt inn í framtíðina. Eins og kom fram hjá þeim sem tókust á hér á undan mér þá eru um það mjög skiptar skoðanir. Gagnrýnin hefur ekki síður verið á alla þá miklu fjármuni sem eiga að renna til landbúnaðarmála og þessa samnings og gagnrýni á þau áform að leggja niður framleiðslustýringuna í mjólkurframleiðslunni, ekki síst frá bændum sjálfum. Það átti að byggja til framtíðar á mjög framleiðsluhvetjandi styrkjafyrirkomulagi en þeir knúðu fram endurskoðunarákvæði.

Sauðfjársamningurinn þótti bera skarðan hlut frá borði, sérstaklega gagnvart helstu sauðfjárræktarsvæðunum þar sem fólk hefur búskapinn nánast alfarið að atvinnu. Áhyggjurnar sneru að því að framleiðslan gæti m.a. flust á milli svæða þar sem beitarland væri ekki sérlega gott og ekki síst að aukinn hvati til framleiðslu gæti skapað offramboð af lambakjöti. En sauðfjárbændur komu ekki eins vel út úr þessum samningum og kúabændur. Þeir fengu ekki sams konar rétt til að kjósa um framhaldið. Það er þó breyting á núna því miðað við þær tillögur sem fram eru komnar í atvinnuveganefnd og við erum að ræða er allt saman til endurskoðunar árið 2019. Það er mikilvægt, sérstaklega fyrir sauðfjár- og garðyrkjubændur. Þeir fá þá þennan sama rétt, þ.e. að kjósa sjálfstætt um framhaldið.

Um leið og við ræðum landbúnaðarkerfið og stefnuna þurfum við að ræða um alla virðiskeðjuna og velta fyrir okkur kostnaðarferlinu og hvernig kostnaðurinn verður til. Í umsögn okkar fulltrúa í minni hluta atvinnuveganefndar kemur fram, með leyfi forseta:

„Vinstri hreyfingin – grænt framboð leggur áherslu á sjálfbæra landnýtingu í landbúnaðarstefnu sinni og telur mikilvægt að framlög hins opinbera styðji við slík markmið. Sjálfbærnihugtakið felur m.a. í sér að ekki er gengið svo að endurnýjanlegum auðlindum með nýtingu að þær rýrni eða hverfi. Beitarland telst til endurnýjanlegra auðlinda og því er mikilvægt að stilla beit í það hóf að ekki verði tjón á beitarlandinu þannig að auðlindin sem í því felst fari forgörðum. Ákvæði búvörusamninga um nýtingu og vernd gróðurlendis þyrftu að vera afdráttarlausari og mikilvægt er að áform um landgræðslu og kortlagningu gróðurlendis með tilliti til beitarþols þess nái fram að ganga og verði nýtt við framkvæmd landbúnaðarstefnu stjórnvalda. Þar sem endranær er nauðsynlegt að gæta þess að nýting náttúruauðlinda fari fram með sjálfbærum hætti, hvort sem afurðirnar fara til neyslu innan lands eða á erlenda markaði.“

Þetta er auðvitað afar skýrt. Manni finnst kannski ekki nógu langt gengið í þeim samningi sem hér er undir.

Við höfum lagt á það áherslu að mörkuð verði skýr landbúnaðarstefna með tilliti til loftslagsmála og opinber framlög til landbúnaðar verði skilyrt við eftirfylgni við markmið á því sviði þannig að við náum þeim markmiðum. Við teljum landbúnaðinn afar mikilvægan í samhengi umhverfis- og loftslagsmála. Hér hefur aðeins verið komið inn á notkun endurnýjanlegra og umhverfisvænna orkugjafa sem er auðvitað afar mikilvæg. Við þurfum að stuðla að slíkri notkun og í þessum samningi er ekki nóg að gert. Tengslin við búvörusamninga þyrftu að vera skýrari þó að eitthvað hafi áunnist í því efni með því sem atvinnuveganefnd hefur tekið til umfjöllunar og lagfært.

Það er komið inn á lífræna framleiðslu. Stuðningur við hana á aðeins að aukast og það á að veita aðlögunarstyrki en eins og sagt er oft í þessu sem öðru, betur má ef duga skal. Við þurfum í því eins og öðru að móta okkur framleiðslustefnu. Ef við ætlum að stefna að því að framboðið á lífrænt ræktuðum landbúnaðarvörum sé í takti við eftirspurnina þurfum við sem neytendur að vera meðvituð um að slík framleiðsla kostar alltaf mun meira en hin hefðbundna. Staðan er því miður sú að fólk sem er í slíkri sprotastarfsemi, þ.e. er að prófa sig áfram í lífrænni framleiðslu, hver svo sem hún er, rekst á veggi eftir ákveðinn tíma og fær ekki viðhlítandi stuðning þótt það sé komið á góðan rekspöl. Við höfum dæmi úr mínu kjördæmi þar sem fólk er í óhefðbundnum landbúnaði, á Karlsstöðum í Berufirði, en þar er Havarí með matvælaframleiðslu. Þar hefur styrkjakerfið t.d. ekki komið heim og saman eins og það þyrfti að gera til að slíkur sproti nái að vaxa sæmilega hratt. Það er eitt af því sem hefði þurft að taka betur á hér. Þótt verið sé að bæta í þetta hef ég áhyggjur af að verið sé að ýta fólki af stað í eitthvað sem stuðningurinn nær svo ekki utan um þegar það þarf á því að halda. Það vantar þolinmótt fjármagn.

Við þurfum líka að fara skipulega í þá vinnu að sjá hvernig landið getur reitt sig á innlenda matvælaframleiðslu miklu meira en nú er. Það er mikilvægt að innlend matvælaframleiðsla og landbúnaðarframleiðsla anni innlendri eftirspurn eftir þessum afurðum. Við þurfum að tryggja fæðu- og matvælaöryggi þjóðarinnar. Í því sambandi getum við litið í margar áttir, hvort sem það er til kornræktunar eða bara hefðbundinnar búfjárræktunar eða garðyrkju.

Svo er áhugavert og þörf á að skoða kosti og galla þess að leggja umhverfisgjöld á t.d. innfluttar landbúnaðarafurðir. Af því að hér á eftir á að tala um tollamál þá hljómar það kannski ekki vel í eyrum margra en mér fyndist ástæða til að skoða það þannig að við sem neytendur mundum kannski átta okkur á vistsporinu sem fylgir því að flytja inn ólíkar afurðir og velta fyrir okkur hvort við værum í raun tilbúin að greiða verð sem passar við það. Það er jú fátt mikilvægara held ég en að efla umhverfisvitund neytenda um leið og við styrkjum stöðu innlendra landbúnaðarafurða.

Upprunamerking er mikilvæg í markaðssetningu íslenskra landbúnaðarafurða, hvort sem það er hérna heima eða erlendis. En hún er líka liður í öflugri neytendavernd. Við þurfum að tryggja fullnægjandi merkingar á afurðum og aðföngum hvort sem þær eru innfluttar eða ekki, t.d. með tilliti til notkunar erfðabreytta lífvera við framleiðsluna. Í dag er ekki, mér vitanlega, eftirfylgni með þessu. Ég held að 25. gr. laga um velferð dýra hafi t.d. aldrei verið beitt en hún fjallar um takmarkanir á innflutningi frá öðrum löndum. Við höfum heyrt dæmi um það að verið er að kaupa vörur víðs vegar um heiminn og þeim er jafnvel endurpakkað á Norðurlöndum eða eitthvað slíkt og seldar sem slíkar hingað til lands og víða um heim. Ég spyr mig hvernig ég geti verið viss um að vörurnar sem við flytjum inn komi ekki frá löndum þar sem t.d. barnaþrælkun á sér stað. Hér hefur verið rætt um kjúklingabringur frá Asíu. Fleira hefur verið nefnt í því sambandi. Við þekkjum hvernig háttar til mjög víða í hinum fátækari löndum, þessum stóru löndum þar sem fabrikkurnar eru og börn jafnt sem fullorðnir vinna í óheilbrigðu umhverfi.

Svo er eitt sem mér finnst að við höfum staðið okkur afskaplega vel í, það er sýklalyfjagjöfin. Við takmörkuðum verulega notkun sýklalyfja hér í fóðri. Ég held að það hafi verið mikilvæg ákvörðun sem hefur sett okkur meðal fremstu þjóða í matvælaframleiðslu af því að notkun slíkra lyfja er í algeru lágmarki hér á landi. Það hefur áhrif á lýðheilsu okkar. Það er ekki langt síðan við lásum í fréttum að mikið magn sýklalyfja hefði fundist í dönskum börnum. Ég held að við þurfum um leið að horfast í augu við að það að við gerum þessar miklu kröfur gerir íslenskan landbúnað að mörgu leyti óhagkvæmari en þann sem við keppum við. En ég styð að slíkt sé gert. Ég held að það sé mjög mikilvægt að hafa afurðina okkar sem allra hreinasta.

Í þessu sambandi var áhugavert að mér var sagt frá því, þó að við framleiðum kannski ekki mikið af eplum, en ég hafði ekki hugmynd um að í kringum 90% epla koma frá Kína. (ÖS: Ekki miklir tollar af þeim.) Nei. En í sambandi við sýklalyfin þá velti ég fyrir mér: Hvernig haldast þau svona fersk? Ef maður hugsar um það þannig. Mig langar alla vega ekki lengur að borða hýðið. En þetta er eitthvað sem við þurfum að velta fyrir okkur sem vel vakandi neytendur. Ég held að við getum ekki horft fram hjá velferðarlöggjöfinni sem margir bændur, sérstaklega í framleiðslunni á hvíta kjötinu, hafa þurft að taka á sig, og reyndar kúabændur líka, þar sem er milljarðakostnaður við að innleiða hinar nýju aðbúnaðarreglur sem fylgja aukinni dýravelferð. Ég er mjög ánægð með aukna velferð dýra, en það er alveg ljóst að það er hverfandi stuðningur hér samanborið við samkeppnislöndin, sem við fjöllum væntanlega um á eftir, sem fá aukinn aðgang að okkar markaði. Við þurfum að vera sanngjörn í umfjöllun okkar og bera saman og vera tilbúin að horfast í augu við það hvort við séum að flytja inn lakari vörur frá löndum þar sem aðbúnaður og umgjörð er lakari en hér eða jafnvel vita það ekki og vera þá svo óforskömmuð að horfa fram hjá því og gera svo kröfur hér, horfa í það að hér sé verið að leggja of mikið til þess að framleiða hreina vöru.

Ég tek undir það sem hér hefur verið sagt að við eigum að nota tækifærið og semja við bændur um að taka fullan þátt í þeim samningum sem við höfum undirritað til að draga úr kolefnisnotkun. Við þurfum að breyta nýtingunni á landinu. Þá má velta fyrir sér hverjir eiga stóran hluta af landi og hverjir þekkja það manna best. Eru það ekki bændurnir? Ég held að við hefðum þurft að taka betur á því hérna en við gerum. Um leið þurfum við að horfa til þess að í markaðssetningu okkar á landinu hefur okkur einhverra hluta vegna ekki tekist að selja miklu meira lambakjöt til útlanda og í markaðssetningu hérna heima hefur okkur ekki tekist að fá túristana til að borða nógu mikið af innlendum matvælum. (ÖS: Við erum ekki að bjóða þeim það.) Þetta þarf nefnilega að kallast á. Markaðssetningin þarf að tengjast innlendum matvælum, sérstaklega svæðisbundnum matvælum. Það á að vera hluti af ferðamannastefnu okkar Íslendinga að gera það, byggja á staðbundinni ferðaþjónustu. Við þurfum að koma þessu áleiðis til erlendra ferðamanna í staðinn fyrir að segja: Þeir vilja bara borða það sem þeir þekkja. Ég held að það sé ekki raunin, en það hefur verið töluvert sagt.

Í dag var talað um að nánast engar hækkanir væru til bænda eða afurðastöðvanna. Hækkandi verð á kjöti virðist þá fara allt til verslunar. Verðlækkun er yfirvofandi hjá sauðfjárbændum sérstaklega, þ.e. í afurðastöðvunum, 10–12% verðlækkun. Þegar þetta leggst ofan á það sem hér er verið að gera og leggja til með tollasamningum og öðru slíku vitum við að það er yfirvofandi að fjöldi sauðfjárbænda gæti lagt upp laupana. Það sjáum við bara í samanburðartölum frá löndunum í kringum okkur. Það liggur alveg fyrir. Það er ekki bundið við Ísland að gera svona samninga eins og hér er verið að gera. Það liggur alveg fyrir hvernig Danir hafa farið út úr því, sérstaklega þeir sem eru með hvíta kjötið. Þar hrundu búin þegar aukinn innflutningur var leyfður og samningum breytt. Við erum ekkert öðruvísi sem eyland og þurfum að vera með báða fætur á jörðinni. Mér finnst ágætt að samningurinn verði endurskoðaður. Það er margt í honum sem þarf að laga eins og hefur verið rakið hér af mínu fólki í dag en líka margt til bóta. En eins og hefur komið fram getum við ekki kvittað undir þennan samning margra hluta vegna. Auðvitað á meiri hlutinn bara að eiga hann, sérstaklega vegna þess að við fengum ekki að koma að þessu máli þegar það var í smíðum.



[19:19]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mér fannst hv. þingmaður vekja máls og varpa ljósi á marga þætti þessa máls sem enginn hefur tekið upp í umræðunni, sem enga áherslu fékk hjá þeim sem hafa mælt fyrir málinu. Hv. þingmaður talaði um eplin frá Kína og velti því fyrir sér upphátt hér í ræðustól af hverju þau væru svona fersk þegar þau koma þennan langa veg og taldi kannski að það væri ekki nógu grunnt vistspor. Ég er alveg sammála henni um það. Alveg eins og hún veltir fyrir sér hvort eplin frá Kína séu með einhverjum hætti meðhöndluð með efnum sem við helst viljum ekki borða, þá eru mjög margir aðrir um allan heim sem velta hinu sama fyrir sér. Það er að verða vitundarbreyting. Menn eru farnir að hugsa eins og hv. þingmaður hugsaði upphátt í ræðustól áðan. Þá veltir maður fyrir sér hvers konar aumingjaskapur það er af hálfu þeirra sem hafa stýrt þessum málum að hafa ekki getað markaðssett Ísland og íslenskan landbúnað einmitt út frá því sem hv. þingmaður talaði um áðan. Hér er notkun tilbúins áburðar svo lítil að áburðarmengun mælist varla. Hér er nýting eiturefna í landbúnaði algerlega í núllpunkti. Hér er landbúnaðarframleiðsla miklu vistvænni en annars staðar. Á köflum má segja að hún sé nánast lífræn í mörgum efnum.

Ég held að hérna hafi bændaforustunni og þeim parti framkvæmdarvaldsins sem fer með þennan málaflokk mistekist hrapallega. Er ekki hv. þingmaður sammála mér um það? En auðvitað geta Vinstri græn sem græn umhverfishreyfing ekki samþykkt þennan samning. Hv. þingmaður nefndi sérstaklega sjónarmið í loftslags- og umhverfismálum. Hér hefði nefnilega verið frábært tækifæri til að taka höndum (Forseti hringir.) saman við bændur á Íslandi, eins og þeir vilja, til að vinna að þeim markmiðum (Forseti hringir.) sem við höfum sett okkur sem þjóð. En í nefndaráliti meiri hlutans er talað um að skerpa áherslur, það eru engin tímamörk og engin viðmið. (Forseti hringir.) Þetta er hraksmánarleg vinna, finnst mér.



[19:22]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég tek undir það að vitundarvakning er víða um heim. Við erum ekki eyland að velta fyrir okkur einhverjum spurningum varðandi sýklalyfjanotkun eða eiturefnanotkun. En hún er þó gríðarlega mikil og miklum mun meiri en við gerum okkur grein fyrir. Ef við höfum rænu á að lesa utan á umbúðir er óheyrilega mikið af alls konar efnum sem eru okkur ekki holl, hvort sem það eru litarefni eða einhver önnur innihaldsefni sem við horfum, held ég, daglega fram hjá en viljum síður neyta. En það breytir því ekki að við getum gert betur hér heima einmitt í ljósi þess hversu smá við erum og að við erum eyland. Ég tek undir það líka að mér finnst ótrúlega sérstakt hvað það hefur gengið illa að markaðssetja íslenskar afurðir út frá hreinleika, sérstaklega lambakjöt, skyrafurðir og guð má vita hvað. Þetta er í einhverju míníformi. Við höfum verið með aðila hér á launum við að markaðssetja slíka vöru í áratugi. Einhvern veginn gengur þetta hægar en skyldi.

Svo er hitt auðvitað sem þarf að gerast hér heima, þ.e. að ná, eins og ég sagði áðan, túristunum til að nýta meira af þessum íslensku afurðum. Þá þarf kannski ekki bara bændur, bændur þurfa auðvitað að standa sig í þessu líka, en fyrst og fremst þarf ferðaþjónustan að taka sig saman um það með bændum; hvað getum við gert og hvernig gerum við það best?

Svo varðandi loftslagsmálin, ég kem kannski betur inn á það á eftir, sem er einmitt ein af stóru ástæðunum fyrir því að við horfum ekki í gegnum fingur okkar með það sem kemur fram í áliti meiri hlutans.



[19:24]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Örlítil reynslusaga af liðnu sumri. Ég fékk marga erlenda gesti til mín í sumar og fór með þeim á veitingahús. Eitt skiptið gengum við á milli þriggja, ég mundi segja höfuðveitingahúsa í Reykjavík án þess að þar væri hægt að finna rétt sem flokkaðist undir íslenskt lambakjöt. Það var með öðrum orðum ekki hægt að labba hér um, jú, hægt var að fara á kebabstaði auðvitað og svoleiðis staði, þeir standa sig vel, arabarnir standa sig vel í því að koma íslensku lambakjöti á framfæri hérna í Mandi og hjá Ali Baba. En ef menn fara á ýmsa aðra, svo ég nefni bara veitingastaðinn Snaps, þá var ekki hægt að fá slíkt þar í sumar. Ég gæti nefnt fleiri. En það var nú ekki það sem ég ætlaði að nefna.

Málið er að framsýnir bændur gera sér alveg grein fyrir að þeir hafa siðferðilegar skyldur til að haga verkum sínum þannig að það samræmist þeim markmiðum sem bæði þeir og við höfum sett okkur sem þjóð varðandi loftslagsmálin og umhverfisvernd. Þeir voru hins vegar ekkert spurðir ráða. Það sem er að koma fram svo skýrt í þessari umræðu er að þessi samningur er búinn til í einhverjum reykfylltum bakherbergjum þar sem almennir bændur, neytendur, hvað þá stjórnmálamenn utan framkvæmdarvaldsins, fengu ekki að koma að. Það er hinn stóri galli við þennan samning. Það hefur t.d. komið hér fram að bændur sjálfir, samtök sauðfjárbænda urðu sjálf að fara í það að reikna út hverjar yrðu afleiðingar þessa samnings fyrir sauðfjárræktina í landinu. Niðurstaðan var skelfileg. Í ljós kemur að þeir sem við ættum helst að vera að styðja, ef stuðningur á að vera á annað borð, koma hvað verst út úr þessu, þ.e. bændurnir þar sem gisnar byggðir eru, í Dölunum, í Norðurþingi og á Ströndum. Mér finnst þetta vera alveg svakaleg niðurstaða og get ekki annað en sagt: Það var illa af stað (Forseti hringir.) farið í þessa samninga. Menn hefðu betur haft meira samráð, ekki síst við Alþingi Íslendinga en (Forseti hringir.) auðvitað við bændurna sjálfa.



[19:26]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg rétt. Það er kannski eitt af því sem er afar gagnrýni vert. Ég þekki svo sem ekki fjöldann allan af bændum en ég þekki þó nokkra og allir hafa þeir talað þannig að þeir eru tilbúnir til að takast á við það, eins og hv. þingmaður sagði, að sinna sínum siðferðislegu skyldum þegar kemur að loftslagsmálum. Bændur eru ekki einhverjir sem vilja beita þar sem ekki er hagkvæmt að beita, ég fullyrði það, flestallir að minnsta kosti, þótt maður geti ekki alhæft í þessum málum frekar en öðrum. Þess vegna er auðvitað synd að tækifærið sé ekki notað í þessum samningum þar sem ljóst er að flestir bændur þurfa að vinna með, sauðfjárbændur sérstaklega, búskapnum. Að gera samninga við þá um m.a. að efla skógrækt eða hvaða leið sem yrði farin til þess, það er tækifæri sem menn eru hér að láta renna sér úr greipum.

Ég vona svo sannarlega að þegar kemur að endurskoðun samningsins, verði hann samþykktur, höfum við tækifæri til að gera þar á breytingar í þá veru. Það er, eins og hv. þingmaður nefndi, afar sérstakt að koma inn með svo stóran samning sem hér um ræðir, að hann sé ekki reiknaður með afleiðingum úti um allar koppagrundir. Þetta er svona eins og annað sem virðist vera að koma, dettur mér í hug LÍN-frumvarpið sem kemur hálfkarað úr ráðuneyti menntamála. Þetta er eitt af þeim málum sem koma illa undirbúin. Og eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar: Ef samráðið hefði verið haft við alla aðila sem að þessu hefðu átt að koma værum við ekki hér að ræða þetta. Þá hefðum við verið búin að því. Ég held að það væri svoleiðis, virðulegi forseti.