144. löggjafarþing — 41. fundur
 4. desember 2014.
fjárlög 2015, frh. 2. umræðu.
stjfrv., 1. mál. — Þskj. 1, nál. 638, 653, 654 og 655, brtt. 639, 640, 641, 642, 643, 644, 656 og 665.

[11:36]
Valgerður Gunnarsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2015 við 2. umr. Milli 1. og 2. umr. hafa átt sér stað breytingar í samræmi við breyttar aðstæður. Ljóst er að tekjur til ráðstöfunar eru meiri en gert var ráð fyrir við 1. umr. sem nemur 9,5 milljörðum og munar þar mest um auknar skatttekjur af einstaklingum og fyrirtækjum sem eru augljóst batamerki á efnahag og atvinnulífi þjóðarinnar. Ríkisstjórnin og meiri hluti fjárlaganefndar hafa því lagt fram ýmsar breytingartillögur frá 1. umr. í samræmi við það og sem koma fram á þskj. 638 og 639 á 144. löggjafarþingi. Það sem er sérlega ánægjulegt er að allt hagræna umhverfið er mun betra og stöðugra en við hefðum getað búist við fyrir um tveimur árum. Í dag mælist verðbólga 1%, atvinnuleysi hefur dregist saman og hagvöxtur er um 3%. Gert er ráð fyrir að hagvöxtur fyrir árið 2015 verði 3,3%. Styrk efnahagsstjórn er lykilatriði sem og batnandi hagur atvinnulífsins. Kaupmáttur hefur aukist og einkaneysla fer vaxandi, almenningur finnur á eigin skinni að það er meira til ráðstöfunar en verið hefur undanfarin ár.

Boðuð niðurfelling á vörugjöldum um næstu áramót mun enn frekar styðja við efnahag almennings en það munar um allt að 25% lækkun á ýmsum vörum til heimila. Hið sama má segja um lækkun á efra þrepi virðisaukaskatts úr 25,5% í 24%. Hækkun neðra þreps úr 7% í 11% er mætt með ýmsum mótvægisaðgerðum eins og hér hefur verið rakið, eins og til dæmis 1 þús. millj. kr. hækkun á barnabótum og lækkun á lyfjakostnaði til almennings um 5%. Þegar litið er til annarra norrænna ríkja sjáum við hvergi svo lága virðisaukaskattsprósentu á matvæli og á Íslandi.

Það er fagnaðarefni að annað árið í röð stefnir í hallalausan rekstur hjá ríkissjóði. Skuldasöfnun er hætt og það er von mín að svo verði áfram og brátt verði svo komið að hægt sé að greiða niður skuldir ríkissjóðs. Vaxtabyrði ríkissjóðs er þriðji stærsti útgjaldaliður ríkisútgjalda á eftir velferðar- og heilbrigðismálum. Útgjöld til velferðar- og heilbrigðismála eru rétt um helmingur allra útgjalda ríkisins og ljóst er að sá gjaldaliður mun aukast á næstu árum þar sem Íslendingar ná almennt hærri aldri en var fyrir nokkrum áratugum. Það er auðvitað á sinn hátt ánægjulegt en við þurfum að búa okkur fjárhagslega undir þennan veruleika.

Í þessu fjárlagafrumvarpi er lagt verulega aukið framlag til menntamála, framlög til háskóla eru aukin og framlög til framhaldsskóla sömuleiðis. Við stöndum frammi fyrir því að þeir árgangar sem koma inn í framhaldsskóla á næstu árum eru fámennari og því fækkar í framhaldsskólum til viðbótar þeirri fækkun sem stytting náms til stúdentsprófs hefur í för með sér. Þrátt fyrir það er ekki skorið niður sem þeirri fækkun nemur heldur er fjármagninu haldið inni í framhaldsskólakerfinu og það nýtt til að hækka framlag á hvern nemanda sem sannarlega var þörf á. Ekki er gert ráð fyrir að 25 ára og eldri einstaklingar verði áfram í framhaldsskólakerfinu en sveigjanleiki verður þó til staðar fyrir þá skóla sem hafa svigrúm til þess. Það er mér sérstakt ánægjuefni að meiri hluti fjárlaganefndar leggur til að 35 milljónir verði settar sérstaklega inn til að koma til móts við litla framhaldsskóla sem áður voru á gólfi og eru með undir 150 nemendaígildum. Það skiptir verulega miklu máli að ekki sé kippt grundvelli undan þeim fjárhagslega meðan á umbreytingu til styttingar á sér stað. Í fjáraukalögum fyrir árið 2014 er þessi sama upphæð, 35 milljónir, inni til þessa sama verkefnis. Það er því verið að setja samtals 70 milljónir sérstaklega inn í fámenna framhaldsskóla með fjáraukalögum 2014 og á fjárlögum fyrir árið 2015.

Meiri hluti fjárlaganefndar hefur lagt til að Isavia greiði arð til ríkissjóðs upp á 500 milljónir og að það fjármagn verði nýtt til að lagfæra og endurbæta flugvelli á landsbyggðinni. Það er alveg ljóst að full þörf er á því og víða orðið hættuástand á flugvöllum á landsbyggðinni. Það gerðist til dæmis á dögunum að veruleg hætta skapaðist á Húsavíkurflugvelli þegar lendingarljósin biluðu skömmu fyrir lendingu flugvélar þar en sem betur fer tókst viðgerð rétt fyrir lendingu. Húsavíkurflugvöllur hefur ítrekað leitað eftir því við Isavia að bæta öryggi og aðstæður á flugvellinum án þess að fá þar hljómgrunn. Á Akureyrarflugvelli hefur lengi verið beðið eftir að ákvörðun verði tekin um nýframkvæmdir á flughlaði þar, en í rúmt ár hefur komið efni úr Vaðlaheiðargöngum sem ætlað var að nota til þeirrar framkvæmdar. Það er sannarlega tímabært að framkvæmdir hefjist hið fyrsta við flughlað þessa fjölfarnasta innanlandsflugvallar utan Reykjavíkurflugvallar og eins af mikilvægum varaflugvöllum landsins. Fleiri flugvelli á landsbyggðinni þarf að setja í forgang, flugvelli sem eru lífæðar heimabyggðar og jafnvel eina færa samgönguleiðin á þungum snjóavetrum, stundum mánuðum saman eins og á Gjögri.

Á öllum fundum fjárlaganefndar að heitið geti og þingmanna í kjördæmaviku með sveitarstjórnarmönnum kom skýrt í ljós að fjarskipti og netsamband voru eitt stærsta áherslumál þeirra. Mörg sveitarfélög hafa lagt í framkvæmdir með íbúum og fjarskiptafyrirtækjum nú þegar enda grundvallaratriði í nútímaþjóðfélagi og ígildi vegalagningar að vera í sambandi við umheiminn í gegnum netið, hvort heldur er vegna atvinnu, menntunar, viðskipta, afþreyingar eða annars. Meiri hluti fjárlaganefndar leggur því til að 300 milljónir verði lagðar í fjarskiptasjóð til að framkvæma fyrsta hluta fyrirhugaðrar ljósleiðaravæðingar um landið.

Meiri hluti fjárlaganefndar hefur lagt til lækkun á útvarpsgjaldi úr 19.400 kr. í 17.800 kr. Ríkisútvarp allra landsmanna hefur í gegnum tíðina gegnt mikilvægu hlutverki. Nú er staðan sú að útsending næst ekki til allra landshluta og því má velta fyrir sér hvort það öryggishlutverk sem það á að gegna sé svo í raun. Það er líka svo að einstaklingar, fyrirtæki og félög hafa ekkert val um það að greiða eða greiða ekki útvarpsgjald jafnvel þótt viðkomandi einstaklingur, félag eða fyrirtæki eigi ekki og noti ekki sjónvarp eða hljóðvarp.

Tekin var ákvörðun um að hraða skuldaleiðréttingunni sem ríkisstjórnin hefur unnið að frá upphafi þessa kjörtímabils. Það sem er ánægjulegt við þessa leiðréttingu er að hún nær til svo margra, hún vegur þyngst fyrir fólk sem er undir meðaltekjum og var innan við fertugt við forsendubrestinn, fyrir fólk sem á lítið eigið fé í húsnæði sínu og fer við leiðréttinguna jafnvel úr neikvæðri eign í allt að 4 millj. kr. jákvæða eign. Skuldaleiðréttingin gagnast best ungu fólki og fólki undir miðjum aldri.

Nú þegar hefur verið og er verið að vinda ofan af þeirri kjaraskerðingu sem aldraðir urðu fyrir hinn 1. júlí 2009 í valdatíð vinstri stjórnarinnar. Frá 1. júlí 2013 hefur skerðing á grunnlífeyri ellilífeyrisþega vegna lífeyrissjóðstekna verið afnumin. Frá sama tíma var frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega hækkað úr 40 þús. kr. í 110 þús. kr. á mánuði. Skerðingarhlutfall tekjutryggingar var lækkað úr 45% í 38,35% og skerðingarhlutfall vegna heimilisuppbótar lækkaði samsvarandi 1. janúar 2014 og frítekjumark vegna lífeyrissjóðstekna ellilífeyrisþega hækkaði úr 10 þús. kr. í 27 þús. kr. á mánuði 1. janúar 2014.

Frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega við útreikning á fjárhæð tekjutryggingar hækkaði því úr 480 þús. kr. á ári í 1.315.200 kr. á ári. Þetta er sama frítekjumark og gildir gagnvart atvinnutekjum örorkulífeyrisþega en tilgangurinn með þessu var fyrst og fremst sá að stuðla að aukinni atvinnuþátttöku eldri borgara því að mikilvægt er að fólki sé gert kleift að stunda vinnu sem lengst til að auka lífsgæði þess og virkja kraft eldri borgara sem vinnuafls.

Heilbrigðismál eru forgangsmál og ljóst er að þrátt fyrir stórhækkuð framlög til heilbrigðismála er þörf á enn meira fjármagni þar. Má í því efni nefna heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni sem þurfa verulega á meira fjármagni að halda. Þó að, eins og fram hefur komið, um helmingur ríkisútgjalda fari einungis í velferðar- og heilbrigðismál er þörf fyrir aukið fjármagn í þá málaflokka. Til Landspítalans okkar fara rétt tæpar 50 þús. milljónir á næsta ári samkvæmt frumvarpinu en það dugir vart til. Það er hins vegar rangt, villandi og ósanngjarnt að halda því fram að verið sé að skera niður og jafnvel eyðileggja heilbrigðiskerfi landsmanna þegar svo sannarlega er forgangsraðað og bætt inn stórauknu fjármagni til þess. Við þurfum hins vegar meira fjármagn og meiri tíma til þess að eiga fullkomnasta heilbrigðiskerfið.

Hæstv. forseti. Fjárlaganefnd á eftir að taka fjárlagafrumvarpið til sín á milli 2. og 3. umr. Gera má ráð fyrir að einhverjar breytingar muni eiga sér stað fyrir framlagningu frumvarpsins til 3. umr. og ég vænti þess að svo verði.



[11:49]
Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að spyrja hv. þingmann, lesa fyrir hana upp úr kosningaloforðum Sjálfstæðisflokksins fyrir síðustu kosningar þar sem segir: „Þar skal haft að leiðarljósi að heilbrigðisstarfsfólk okkar eru hin raunverulegu verðmæti heilbrigðiskerfisins.“

Þessi lína er tekin upp úr ályktun landsfundarins fyrir kosningarnar þar sem sjálfstæðismenn vildu þessa setningu inn. Hún rataði inn í stefnuskrána, rataði inn sem kosningaloforð.

Það kemur líka fram í velferðarráði, eða velferðarnefnd held ég að það heiti, innan Sjálfstæðisflokksins, alla vega ályktuðu þeir í svoleiðis batteríi inni í Sjálfstæðisflokknum, sem ályktaði um velferðarmál fyrir landsfundinn þar sem er sagt: „Þar skal haft að leiðarljósi að heilbrigðisstarfsfólk okkar eru hin raunverulegu verðmæti heilbrigðiskerfisins. Leggja verður ríka áherslu á breytta forgangsröðun varðandi fjárveitingar til endurskipulagningar og uppbyggingar á heilbrigðiskerfinu í þágu sjúklinga og með bættu starfsumhverfi og kjörum heilbrigðisstétta.“

Svo í stjórnarsáttmálanum kemur fram að íslenskt heilbrigðiskerfi verði að vera samkeppnisfært við nágrannalöndin. Það er annað mikilvægt atriði sem var líka talað um sem er brýn forgangsröðun, það eigi að forgangsraða fjármagni skattgreiðenda í brýn málefni. Mig langar að spyrja þingmanninn hvort hún sé sammála því varðandi stöðu læknamannauðsins okkar að brýnt sé að tryggja það, jafnvel með því að veita læknastéttinni og heilbrigðisstéttinni (Forseti hringir.) ákveðna sérmeðferð, þau geti fengið meiri launahækkanir en á almennum vinnumarkaði, að brýnt sé að gera það sem við þurfum að gera til að við missum ekki lækna úr landi og förum mögulega í neikvæðan spíral þar sem við missum lækna, álagið þeirra fer á aðra. Þetta segir landlæknir (Forseti hringir.) að gæti gerst miðað við núverandi ástand.



[11:51]
Valgerður Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það kemur vel á vondan þarna. Ég vil þakka hv. þm. Jóni Þór Ólafssyni fyrir þessa spurningu. Það er svo sannarlega rétt að heilbrigðisstarfsfólkið okkar er mjög mikilvægt. Ég vil hins vegar taka fram að ég ber virðingu fyrir öllum störfum og það eru öll störf mikilvægur hlekkur í starfakeðju og lífi okkar allra.

Það má alveg velta því fyrir sér hvort það sé eðlilegt að ein stétt geti farið fram á 30% launahækkun meðan aðrar stéttir verða að sætta sig við 3%. Það er alveg rétt að læknar og heilbrigðisstarfsfólk er mjög mikilvægt fyrir okkur og þjóðina. Við vitum að erlendis er ungt fólk að sérmennta sig og leggur í mikinn kostnað við það, en það er líka fólk sem er að koma inn í landið utan frá með læknismenntun, sem er jafnvel tilbúið til þess að vinna hér launalaust í heilt ár til að fá réttindi sín metin.

Með þessu er ég ekki að kasta rýrð á mikilvægi heilbrigðisstarfsmanna en hins vegar velti ég því fyrir mér hvort það sé sanngjarnt gagnvart öllum öðrum launakröfum að ein stétt fái tífalda hækkun á við aðra.



[11:53]
Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Það er gott að hv. þingmaðurinn kemur inn á þetta. Tíföld launahækkun er ekki endilega það sem er nauðsynlegt til þess að tryggja að við lendum ekki í neikvæðum spíral þar sem við missum fólk út og vinnuálagið lendir á þeim sem eftir eru sem eru þá líklegri til að fara.

Það þarf ekki endilega 30% en það þarf klárlega meira en 3% ef við ætlum ekki að lenda í þessu. Varðandi aðra lækna sem koma til landsins og þurfa að fá læknisleyfi frá landlækni þá er námið metið inni í læknadeild Háskóla Íslands, ég er byrjaður að kynna mér þetta. Það er ein af ástæðunum fyrir því að ég fór og talaði við landlækni í gær. Staðan er þannig að ástæðan fyrir fjöldatakmörkuninni er að það er takmarkað af heilbrigðisstarfsmönnum fyrir og rými til þess að taka við öllu þessum nýju starfsmönnum eða nýju nemum og starfsfólki sem þarf að fara í einhverja endurmenntun til þess að fá læknisleyfi.

Ef við förum að missa læknana þá minnkar þessi geta líka, við megum ekki horfa fram hjá því. Nú ætla ég ekki að verja klásusinn, hvernig hann er settur upp, við verðum að hætta að meta út frá einhvers konar bókmenntafræðilegu bulli þegar kemur að læknisfræði og meta (Forseti hringir.) hæfi þeirra lækna sem koma, það verður að nálgast (Forseti hringir.) málið öðruvísi, klárlega. En við stöndum frammi fyrir því að við þurfum að fara í meira en 3% launahækkanir. Finnst þingmönnum ekki réttlætanlegt (Forseti hringir.) að læknar geti fengið það, rétt eins og yfirstjórnendur í viðskiptalífinu geta (Forseti hringir.) fengið tugprósenta hækkanir?

(Forseti (KLM): Forseti vill minna þingmenn á að virða tímamörk. Þegar andsvar er aðeins ein mínúta þá er mikið þegar menn fara 20–30 sekúndum fram yfir.)



[11:55]
Valgerður Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eflaust má færa rök fyrir því að það sé réttlátt að læknar fái meiri launahækkun en aðrar stéttir, en ég tel að þá þurfi þjóðin að vera sammála um það. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að þá komi ekki allar aðrar stéttir og segi: Fyrst læknar fengu þetta er eðlilegt að við fáum sömu launahækkun.

Við erum að forgangsraða og ég sagði í ræðu minni áðan: Við erum að forgangsraða í þágu heilbrigðismála og það sér enginn eftir því fjármagni. En við erum hins vegar með ýmsa aðra málaflokka sem líka þarf að bæta fjármagni í.



[11:56]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé hættulegt að alhæfa eins og hv. þm. Valgerður Gunnarsdóttir gerði í máli sínu áðan þegar hún sagði að skuldaniðurfærslan kæmi einkum ungu fólki til góða. Það var einmitt hið unga fólk sem var verst statt í tíð fyrri ríkisstjórnar og notfærði sér þær leiðir sem þá voru settar upp, 110%-leiðina og ýmsar aðrar, og fær fyrir vikið ekkert núna. Það er ekki hægt að alhæfa með þessum hætti.

Sömuleiðis hefur það ekki reynst stjórnarflokkunum vel, eins og menn sjá á fylgistölum Framsóknarflokksins, að guma sig mikið af þessari aðgerð. Það er líka hægt að setja hana upp með eftirfarandi hætti: Þetta voru 72 milljarðar þegar allt er talið, sem er deilt niður á fjögur ár, 18 milljarðar á ári. Á móti kom því miður að sérstakar vaxtabætur voru felldar niður sem svarar til 11 milljörðum á ári, og þegar matarskatturinn, sem er upp á 7,5 milljarða, er talinn með koma menn út á sléttu. Þannig er hægt að teikna þetta líka.

Ég ætla ekki að stæla um þetta við hv. þingmann heldur ætla ég að víkja mér að einu málefni sem henni er kært. Það eru málefni háskólanna. Sem betur fer kemur fram í fjárlagafrumvarpinu og breytingartillögum að allir háskólarnir fá aukið fé. Þannig hafði Háskólinn á Akureyri fengið 91 millj. kr. til viðbótar frá fyrra ári. Síðan gerðist það að settar voru fram tillögur um 617 millj. kr. til háskólanna. Þá kemur í ljós að á meðan stóru háskólarnir fengu verðskuldað mörg hundruð milljónir hvor fékk Háskólinn á Akureyri einungis 10,3 millj. kr. Þó er þetta skóli sem hefur haldið sig innan marka, þ.e. að hann hefur nýverið greitt 100 millj. kr. til þess að ná upp slóða síðustu sjö ára. Hann hefur fengið frábærar úttektir hjá jafningjaháskólum og hefur yfirleitt staðið sig mjög vel.

Ég var mjög hissa á þessu og ég spyr hv. þingmann: Stendur hún að því að Háskólinn á Akureyri sé rassskelltur með þessum hætti og settur skör lægra en hinir háskólarnir?



[11:58]
Valgerður Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. 4. þm. Reykv. n. fyrir andsvar. Ég vil fyrst víkja að skuldaleiðréttingunni. Ég biðst afsökunar ef ég hef alhæft. Það er alveg rétt að ungt fólk fékk skuldaleiðréttingu hjá síðustu ríkisstjórn en það var líka stór hópur eftir, og leiðréttingin kemur sér vel fyrir þann hóp.

Hv. þingmaður veit vel að það er fjöldi manns, ungt fólk og fólk á miðjum aldri, sem hefur verið að berjast við erfiðleika, út af þessu svokallaða hruni og hækkun á öllum lánum, sem sér loksins ljós í myrkrinu og ég hef heyrt í því persónulega.

Varðandi Háskólann á Akureyri ætla ég að segja að ég er alls ekki sátt við þessa skiptingu. Ég hef spurt í ráðuneytinu hverju sæti að það sé svona gríðarlega ójafnt skipt. Við erum með þessa mjög mikilvægu stofnun, sem er Háskólinn á Akureyri, og sem þingmaður Norðausturkjördæmis er ég mjög ósátt við þetta. Hins vegar, eins og hv. þingmaður veit, þá er kvóti á öllu mögulegu og ómögulegu í samfélagi okkar og það er verið að reikna framlög til ýmissa hluta eða deila út í samræmi við tiltekna reglu og sú regla sem þarna er notuð skiptir þessu fjármagni á þann hátt.

Það hefði hins vegar mátt skipta þessu á annan hátt. En sem betur fer hefur fjárlaganefnd hug á að bæta eitthvað í þarna fyrir Háskólann á Akureyri.



[12:00]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Afsökunarbeiðnin er góðfúslega tekin til greina. Varðandi Háskólann á Akureyri segi ég það að ég hef fylgst með honum og stutt hann með ráðum og dáð. Ég gerði mitt til þess að flytja þangað fleiri verkefni vegna norðurslóða. Eins og hv. þingmaður veit kom ég þar á sérstöku prófessorsembætti í norðurslóðavísindum. Ég tel að það eigi að byggja upp þennan háskóla. Ég held að hann hafi sýnt það af verkum sínum að hann er kominn til þess að vera í fremstu röð. Og þannig eru verk hans dæmd af öðrum háskólum.

Sú upphæð sem hér er verið að ræða um er skýrð þannig að verið sé að jafna þann mun sem er á meðaltalsframlagi til íslenskra háskóla ef borið er saman við háskóla í OECD-löndunum. Þá skil ég ekki hvernig í ósköpunum hægt er að fá þessa niðurstöðu út. Ég skil ekki heldur hjá hv. þingmanni, ef hún er mér sammála um það, af hverju gat hún þessa þá ekki hreinskilnislega í ræðu sinni þar sem hún fjallaði dálítið ríkt um menntamálin?

Það gleður mig hins vegar að hv. þm. Valgerður (Forseti hringir.) Gunnarsdóttir hefur lýst því yfir að hún sé óánægð með þetta og hún lýsir því sömuleiðis yfir að það eigi að breyta þessu milli 2. og 3. umr. Það líkar mér.



[12:02]
Valgerður Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég sagðist vonast til þess að einhverjar breytingar yrðu á milli umræðna, ég vona að hv. þingmaður hafi heyrt orð mín.

Ég vil taka undir það sem hann segir um hlutverk Háskólans á Akureyri, það er mikilvægt. Norðlendingar voru hv. þingmanni afskaplega þakklátir meðan hann var utanríkisráðherra fyrir hans stuðning og hans framlag til Háskólans á Akureyri og ég vona svo sannarlega að Háskólinn á Akureyri hafi vilja og metnað til þess að halda því starfi áfram. Það er reyndar svo að það eru eyrnamerktir fjármunir til þess starfs og það á eftir að koma í ljós hvernig Háskólinn á Akureyri vinnur úr því.



[12:03]
Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Mig langar að spyrja hana aðeins út í RÚV, af því að hún nefndi lélegt dreifikerfi og ýmislegt í því sambandi.

Nú sat hún fund eins og ég þar sem forsvarsmenn RÚV komu í heimsókn til fjárlaganefndar. Farið var yfir stöðu Ríkisútvarpsins og hvað þyrfti að gera. Þar var meðal annars rætt um þetta dreifikerfi og uppsafnaðan vanda sem þyrfti að fara í upp á að minnsta kosti 400 milljónir á næstu árum. Einnig kom þar fram að óhagræði væri vegna lélegs tækjabúnaðar og annars og því þarf frekar að bæta í til að lagfæra starfsemina í stað þess að draga úr fjárframlögum.

Nú var ég á fundi í morgun í allsherjar- og menntamálanefnd þar sem öll stjórn RÚV kom ásamt útvarpsstjóra. Þar var í raun neyðarkall á ferð. Þar var þeirri spurningu varpað til okkar þingmanna sem þar sátum: Hvað viljið þið velja burt? Ef þetta gengur eftir, þetta fjárlagafrumvarp óbreytt, með þessum viðbótarframlögum sem meiri hlutinn hefur lagt til, það eru 17.800 kr. gjaldið, þá þýðir það niðurskurð upp á 600–900 millj. kr. Það þýðir gjörbreytt Ríkisútvarp og þá þarf að velja eitthvað burt.

Ég spyr þingmanninn hvað hún telur að mætti missa sig hjá RÚV og hvort hún sé tilbúin til að leggja þar eitthvað af. Ég spyr líka: Telur hún réttu leiðina til að gera mjög drastískar breytingar á Ríkisútvarpinu í gegnum fjárlög, frekar en það sé gert í gegnum mikla umræðu á þingi um Ríkisútvarpið?



[12:05]
Valgerður Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. 9. þm. Norðaust. fyrir spurninguna. Ríkisútvarpið, eins og staða þess er, er sannarlega áhyggjuefni. En Ríkisútvarpið hefur ekki sömu stöðu og það hafði meðan það var eini miðillinn sem var hér á landi með eina rás og öllum þótti það sjálfsagður hlutur að Ríkisútvarpið gegndi því öryggishlutverki, sem er mjög mikilvægt, sem það gerir auðvitað á sinn hátt enn þann dag í dag.

Ég hins vegar vil segja það sem fyrrverandi forstöðumaður að ég hef staðið frammi fyrir því að þurfa að forgangsraða og það hafa fleiri forstöðumenn þurft að gera. Menn hafa beint spurningum til ráðuneyta, ekki til hins háa Alþingis: Hvað á að gera? Og svörin hafa verið: Það er ykkar val. Það eruð þið sem þekkið best stofnunina, það eruð þið sem verðið að forgangsraða. Það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt. Hins vegar er það auðvitað pólitísk ákvörðun hver framtíð Ríkisútvarpsins á að verða.

Ég vil jafnframt benda á að það eru margir ósáttir við þann skatt, við getum nefnt það því nafni, sem afnotagjöldin eru, og sérstaklega hafa menn bent á það ítrekað að verið er að innheimta af einstaklingum sem ekki eiga útvarp eða sjónvarp. Það er verið að innheimta af félögum sem aldrei hafa notað Ríkisútvarpið okkar og menn eru ekki sáttir við það. Og það er náttúrlega líka samkeppnisstaða Ríkisútvarpsins gagnvart öðrum fjölmiðlum sem við þurfum aðeins að velta fyrir okkur með þetta.



[12:07]
Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nú búið að takmarka mjög auglýsingatekjur RÚV gagnvart samkeppninni. Miðað við útvarpslögin eins og þau eru þá treystir stjórn Ríkisútvarpsins sér ekki til að ljúka við þjónustusamning og skrifa undir hann, þar sem ekki sé hægt að uppfylla hann miðað við þær skyldur sem útvarpslögin kveða á um að þeirra mati, þessar almannaútvarpsskyldur meðal annars. Þau telja hjá RÚV að ef þetta nær fram að ganga þurfi þingmenn að byrja á því að taka útvarpslögin upp til að breyta því hvert hlutverk Ríkisútvarpsins eigi að vera.

Við vitum öll að Ríkisútvarpið hefur haft það umfram einkafjölmiðlana að allir hafa aðgengi sem þangað vilja fara inn. Það á ekki við um aðra fjölmiðla. Ég veit til dæmis til þess að tónlistarmenn hafa staðið frammi fyrir því að fá hvergi (Forseti hringir.) spilun eða innkomu nema hjá RÚV, svo að einungis eitt atriði sé nefnt.



[12:09]
Valgerður Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki í þessu stutta andsvari að forgangsraða fyrir RÚV eða segja fyrir um hvað ætti að skera niður. Það er meira og stærra mál en svo að það verði leyst hér á hálfri mínútu.

Það er alveg rétt að þetta er miðill í ríkiseigu en hann er þrátt fyrir það óháður. Hlutverk hans er að flytja okkur fréttir og annað efni og sjá til þess að við séum upplýst án þess að til komi áhrif frá stjórnmálamönnum.

Með það í huga finnst mér ekki rétt að við stöndum hér og segjum: Þú átt að skera þetta niður, þú átt að skera þetta niður og þú átt að leyfa þessu að standa. Það er ekki hlutverk okkar að gera það.



[12:10]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég met það að sjálfsögðu mikils að formaður fjárlaganefndar hefur að minnsta kosti fram undir þetta verið í salnum við umræðuna sem eðlilegt og skylt er, en ég verð nú að segja að daufleg hefur mér þótt mönnunin á ráðherrabekkjunum, kannski af skiljanlegum ástæðum ef svo stendur á að við fundum á Alþingi á sama tíma og ríkisráðsfundur fer fram. Ég hefði haft áhuga á því að eiga þess kost undir þessari umræðu að bera upp nokkrar spurningar við hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra. Ég treysti því að fyrir því verði séð að ráðherra heiðri okkur með nærveru sinni við umræðuna.

Ég ætla aðeins að staldra fyrst við stóru myndina í tekjuöflun og fjárhagsstöðu ríkisins. Mér finnst umræðan hér stundum snúast um einstaka breytingartillögur eða einstaka fjárlagaliði sem að sjálfsögðu er rétt og skylt að ræða, en það breytir ekki hinu að það þarf af og til að líta yfir stóru myndina og velta því fyrir sér hvert ríkisfjármálin, hvert ríkisbúskapurinn er almennt að þróast hjá okkur.

Til að taka af allan vafa er ég í þeim hópi sem gleðst að sjálfsögðu á hverjum degi yfir því sem betur gengur á Íslandi, skárra væri það nú. Á hinn bóginn tel ég að við þurfum að kunna fótum okkar forráð og tala af yfirvegun um stöðu landsins og þá ekki síst ríkisins eins og hún er, viðkvæm vegna mikilla skulda og þjóðarbúskapurinn allur í brothættu jafnvægi bak við gjaldeyrishöft og handstýrt gengi á krónunni með gjaldeyrisinngripum Seðlabankans. Mörg stór, óleyst úrvinnsluverkefni eru enn framan við okkur sem tengjast hruninu sem hér varð 2008. Þar af leiðandi finnst mér á köflum menn of fljótir að gleyma og fljótir að síga aftur í sama farið og láta eins og nú sé allt eins og áður var og við getum farið að hegða okkur með svipuðum hætti og við gerðum á óráðsíuárunum fyrir hrun.

Ég las ágætan pistil þar sem lagt er til að menn hverfi frá þessari orðanotkun um góðæri fyrir hrun því að það var ekkert góðæri. Hvort við eigum að kalla það óráðsíuár, veltiár, bóluár eða þensluár má ræða. Þetta er hárrétt ábending. Það er eins og argasta öfugmæli að kalla árin í aðdraganda þess að Ísland varð fyrir mesta efnahagsáfalli í sögu sinni sem lýðveldi, og þó lengra aftur væri farið, góðærisár. Þau voru það svo sannarlega ekki. Enn erum við að glíma við þungbærar afleiðingar af þessu hruni. Það mun fylgja okkur áratugi inn í framtíðina. Það er því miður dæmt til að gera það.

Margir hv. þingmenn tala um vaxtakostnaðinn sem ríkið ber vegna endurreisnar fjármálakerfisins og fleiri útgjalda sem fylgdu hruninu og miklast mjög yfir því sem eðlilegt er, það eru háar tölur. Ég kem betur að því síðar. En það er birtingarmynd þeirra skulda sem hið opinbera, fyrst og fremst ríkið en í einhverjum mæli sveitarfélög, varð að taka á sig eftir hrunið og munu fylgja okkur langt inn í framtíðina og marka aðstæður okkar sem samfélags og þjóðar. Það er bara þannig. Menn skulu hafa þessar staðreyndir allar í huga áður en þeir missa fram af sér beislið.

Ég hef gagnrýnt hæstv. ráðherra fyrir að leggja inn á braut sams konar meinlokuhugmyndafræði í fjármálum ríkisins og reyndist afar illa á veltiárunum fyrir hrun, þ.e. að nota það svigrúm sem myndast vegna hagvaxtar í samfélaginu og aukinnar veltu sem skilar í gegnum sjálfvirkan margfaldara tekjuöflunarkerfisins ákveðnum tekjuauka inn til þess að auka útgjöld en fyrst og fremst þó til að lækka tekjugrunn ríkisins. Það er það sem er verið að gera í þó nokkuð miklum mæli. Menn eru kannski orðnir þreyttir á þessari tuggu, herra forseti, en ég held að sé ágætt að fara yfir þetta einu sinni enn.

Þessi ríkisstjórn er í þrígang búin að lækka veiðigjöld. Þau eiga nú ekki að skila nema um 7,5 milljörðum kr. í heild á þessu ári. Það eru heildargreiðslur sjávarútvegsins bæði vegna almenns og sérstaks veiðigjalds með þeim tímabundna hætti sem veiðigjöld eru nú lögð á. Þetta er væntanlega af upp undir 80 milljarða framlegð í greininni; hún er að minnsta kosti vel réttum megin við 70 milljarða og stefnir sennilega í að verða talsvert meiri á þessu ári en spár gerðu ráð fyrir. Við fáum ánægjulegar vísbendingar upp á nánast hvern dag um að það er meira góðæri — raunverulegt góðæri — til sjávarins en menn hafa viljað vera láta.

Dæmi: Fimm kvótahæstu fyrirtækin gerðu upp í fyrra með rúmlega 15 milljarða hagnaði og hafa þegar greitt sér út á þessu ári yfir 7 milljarða í arð. Það er svipuð tala og veiðigjöldin í heild úr greininni verða á þessu ári, bara arðgreiðslur fimm kvótahæstu fyrirtækjanna. Þau eru vissulega stór og vega þungt í sjávarútveginum, eru með rétt um þriðjung kvótans, en þetta segir ákveðna sögu. Þetta þýðir að arðgreiðslurnar í heild á þessu ári verða vel á annan tug milljarða þegar ýmis önnur stöndug fyrirtæki, þótt þau séu ekki í hópi hinna allra stærstu, bæta við sínum arðgreiðslum 300–500 milljónum og upp undir milljarð væntanlega þau sem best standa, þ.e. í stærðarflokknum 6–20. Arðgreiðslurnar gætu orðið hátt í tvöföld veiðigjöld á þessu ári. Það eru umhugsunarverð hlutföll.

Við sáum fyrir nokkrum dögum væntanlega besta ársfjórðungsuppgjör sögunnar hjá íslenskum sjávarútvegsfyrirtæki þegar HB Grandi skilaði uppgjöri fyrir þriðja ársfjórðung — 20 milljónir evra í hagnað. Það munar nú um það. Veiðigjöldin sem fyrirtækið greiddi, þó að það sé ekki mjög marktækt innan þess ársfjórðungs, eru einungis brot af þeirri tölu.

Verðvísitala sjávarútvegsins hefur hækkað ánægjulega á þessu ári þannig að verðin eru nú að meðaltali í íslenskum sjávarútvegi hærri en þau hafa nokkurn tímann fyrr verið mæld. Þau hafa hækkað jafnt og þétt í bolfiski og þó að þau hafi lítillega gefið eftir frá toppnum í uppsjávarveiðum er áfram mjög hátt verð í sögulegu samhengi á mjöli og lýsi o.s.frv. Það er engin leið að komast að annarri niðurstöðu en þeirri að örlæti ríkisstjórnarinnar í garð sjávarútvegsfyrirtækja sé algerlega án ástæðu. Það er góðvildargerningur. Sjávarútvegurinn hefur núna afkomu sem býður upp á að hann leggi meira af mörkum í sameiginlega sjóði. Við höfum þörf fyrir það.

Ég held að það láti nærri og sé ekki ósanngjarnt að segja að ríkisstjórnin hafi með lækkunum sínum af veiðigjöldum helmingað tekjur ríkisins frá því sem afkoma greinarinnar byði vel upp á að greiða. Segjum að 6–8 milljarðar séu farnir fyrir borð.

Auðlegðarskatturinn innheimtist í síðasta sinn á þessu ári, þ.e. menn borga hann vegna eigna sinna á fyrra ári samkvæmt framtölum. Þar fær ríkið um 10 milljarða í tekjur. Hann fellur síðan niður á einu bretti. Það er ekki eins og hann sé eitthvað endurskoðaður eða lækkaður — nei, hann fellur niður á einu bretti á næsta ári. Tekjurnar af honum þá verða núll.

Breytingarnar á tekjuskatti í fyrra þegar ríkisstjórnin kom með þá ótrúlegu tillögu að lækka eingöngu prósentuna á miðþrepi, lækka ekkert lægsta þrepið, skila engu til tekjulægstu hópanna, voru metnar á 5 milljarða á þágildandi verðlagi og miðað við þágildandi veltu í tekjuskattskerfinu. Það er augljóst mál að tekjutapið vegna þeirra á næsta ári verður rúmlega 6 milljarðar.

Breytingarnar sem eru núna áformaðar með niðurfellingu vörugjalda á einu bretti, þar með talinn sykurskattur og lækkun efra þreps virðisaukaskatts úr 25,5% í 24%, kostar ríkið umtalsvert í töpuðum tekjum þó að á móti komi hækkun matarskattsins úr 7% í 11%. Það er tekjutap af stærðargráðunni 6–8 milljarðar kr.

Hvað þýðir þetta fernt sem ég hef nefnt? Og ef við bætum t.d. við að um önnur áramót fellur orkuskatturinn niður, eftir því sem ríkisstjórnin segir? 1,5 milljarðar fyrir borð þar. Þetta er tekjutap upp á 30–40 milljarða kr. Ef allar þessar tekjur væru inni á árinu 2015 mundi það næstum því skila meðferðarkjarnann í nýjum Landspítala. Það færi langt með að borga hann. Þetta tekjutap fylgir okkur fram í tímann ár frá ári og safnast hratt upp. Hinn trausti, stöðugi tekjugrunnur ríkisins hefur verið veiktur.

Jú, jú, það koma inn einhverjar auknar tekjur í óbeinum sköttum af aukinni neyslu, auknum innflutningi. Við þekkjum þá mynd. Þegar hagvöxtur er í kerfinu, launaskrið og annað í þeim dúr, þá virka hinir sjálfvirku margfaldarar þannig að tekjustofnarnir gefa meira af sér án þess að menn þurfi að hækka eina einustu prósentu. Þannig geta menn haft það þægilegt á meðan slíkt ástand varir. Um leið og slær í bakseglin, sem við skulum öll vona að gerist ekkert á næstunni en reynslan sýnir okkur að er líklegt að gerist einhvern tímann, þá versnar í því, herra forseti, þá snýst þetta nefnilega við. Þá má segja að sjálfvirkir margfaldarar breytist í sjálfvirka frádráttarliði. Þá snarlækka allt í einu tekjurnar án þess að nokkrar skattprósentur séu lækkaðar því að froðan úr hagkerfinu hverfur og tekjurnar hrynja.

Auðvitað voru breytingarnar á árunum 2008 og 2009 með því dramatískasta sem sést hefur á byggðu bóli á Íslandi. Þá var enn meiri froða á ferðinni sem hvarf eins og dögg fyrir sólu. Tekjur ríkisins nánast hrundu þegar allar skatttekjur úr fjármálageiranum hurfu á einu bretti, ofurlaunin þar og allt, innflutningurinn datt niður og hinn gríðarlegi viðskiptahalli hvarf, ofþaninn byggingargeirinn skrapp saman í 1/3 á örfáum mánuðum. Þetta var gríðarlegt högg og tekjutap fyrir ríkið á sama tíma og útgjöldin ruku af stað. Við sáum einhverja svakalegustu sveiflu í afkomu hins opinbera sem sést hefur á byggðu bóli.

Jafnvel þó við séum ekki að tala um neinar hamfarir af því tagi þá eru þetta vel þekkt lögmál, herra forseti. Menn þurfa að hafa varann á sér gagnvart slíku. Það kostar óhemjuerfiði. Það er pólitískt erfitt og kostnaðarsamt að gera það sem þarf ef erfiðleikar steðja að, að afla tekna til þess að standa undir nauðsynlegum útgjöldum. En það er auðvelt að lækka tekjurnar, það er mjög auðvelt. Það er þessi ríkisstjórn að gera.

Við höfum alltaf haft einhverjar hetjur í Íslandssögunni sem geta velt steininum niður. Það var ekki bara á Húsafelli sem það var gert, herra forseti. Það hafa alltaf verið einhverjar hetjur sem geta velt steininum niður, en það eru ekki allir sem koma honum upp aftur. Mundi þessi ríkisstjórn reynast öflug í því ef þess yrði þörf? Ég veit það ekki. Ég efast um það.

Hagsagan kennir okkur að við eigum að vera ábyrg og horfa fram í tímann áður en við tökum ótímabærar ákvarðanir af því tagi sem núverandi ríkisstjórn hefur gert, sem er ekkert annað en pólitísk kredda Sjálfstæðisflokksins, hægri manna, nýfrjálshyggja, Chicago-skóli, að það sé ævinlega gott að lækka skatta, það muni alltaf þýða að allt blómstri. Ég vissi ekki að Framsóknarflokkurinn væri algjörlega orðinn ofurseldur þessari hugmyndafræði, en hann hefur að minnsta kosti lítið andæft. Burt séð frá þessu er staðan á Íslandi einfaldlega þannig, óháð hagsveiflum, að það er óábyrgt að draga stórfellt úr tekjuöflun ríkisins. Fyrir því má færa mjög sterk félagsleg og efnahagsleg rök. Það er óábyrgt og óskynsamlegt vegna hinna miklu skulda. Með því að standa ekki sómasamlega að tekjuöflun á þessum árum og nota þá sæmilega hagfellt árferði til þess að byrja að greiða niður skuldir þá veltum við byrðunum inn í framtíðina. Ríkisfjármálaáætlunin gerir ekki ráð fyrir því að nafnverð skulda lækki neitt á næstu árum. Þær lækka sem hlutfall af vaxandi landsframleiðslu en ekki vegna þess að þær séu borgaðar niður sem slíkar. Það er óábyrgt í öðru lagi vegna þess að við erum ekki að mæta þörfinni sem hefur byggst upp til þess að hefja nú uppbyggingu og endurnýjun innviða samfélagsins. Það er óábyrgt í þriðja lagi vegna þess að það er mikil þörf á því að skila til baka einhverjum fjármunum inn í þá geira samfélagsins sem hefur orðið að þrengja að undanfarin ár, heilbrigðiskerfið, menntakerfið, almannatryggingar, elli- og örorkubætur o.fl. Það er ekki verið að gera það í þeim mæli sem hægt væri með því að láta tekjurnar fjúka fyrir borð.

Ég gef ekkert fyrir hagfræðina sem menn færa fram máli sínu til varnar í þessum efnum. Hún hefur afsannast aftur og aftur, reynst röng. Hún afsannaðist reyndar rækilega á öllu síðasta kjörtímabili. Sömu menn og núna standa svona að málum í ríkisfjármálum jörmuðu úr þessum ræðustóli samfellt árin 2009, 2010, 2011, 2012 og 2013 um það að skattahækkanir ríkisstjórnarinnar og áherslur okkar í ríkisfjármálum mundu kæfa allan hagvöxt og þýða að engin efnahagsleg uppbygging og endurreisn yrði á Íslandi. Það afsannaðist, herra forseti, með glæsilegum árangri. Það hefur vakið athygli út fyrir landsteinana og er meir metið þar en kannski hér heima hvernig tókst að snúa ríkisfjármálunum við og skila þeim í jöfnuði á árinu 2013 með aðferðum sem spekingarnir sögðu að væru alveg dauðadæmdar, mundu aldrei geta gengið upp því að við værum að kæfa allt með skattahækkunum o.s.frv. Það fór ekki þannig. Við fengum ágætishagvöxt í gang undir lok árs 2010 og það er búinn að vera hagvöxtur á Íslandi síðan, mismikill að vísu, en öll árin meiri en í okkar helstu viðskiptalöndum. Við höfum það í huga að batinn á Íslandi á árunum 2011, 2012 og 2013 hefði auðvitað orðið meiri ef ástandið hefði verið betra á helsta viðskiptasvæði okkar í Evrópu. Árangurinn er í raun merkilega góður í ljósi þess að Evrópa, þar sem 70% okkar markaða liggja, er í miklum vandræðum.

Ég hef verulegar áhyggjur af því ábyrgðarleysi sem mér finnst hæstv. ríkisstjórn sýna með því að sleppa tekjum út í öllum tilvikum og leysa vandamálin á kostnað ríkissjóðs. Það er eins og hann eigi enga vini, alla vega ekki í þessari ríkisstjórn. Það er bara þannig. Það þýðir ekkert að vera með eitthvert orðagjálfur í kringum það, þetta er bara svona, hvort sem menn hafa gaman af því að heyra það eða ekki.

Mér finnst líka að vissu leyti vera að myndast lausatök aftur á fjármálastjórninni hinum megin. Þá ber auðvitað langhæst þau miklu útgjöld sem ríkið tekur á sig vegna skuldamillifærslunnar. Það er dýrt fyrir ríkið. Það er reikningur upp á annað hundrað milljarða króna og hátt á annað hundrað milljarða ef framtíðartekjutapið vegna séreignarsparnaðarins er tekið með í reikninginn. Beinn kostnaður fer á annað hundrað milljarða króna vegna Íbúðalánasjóðs í viðbót við beinu niðurfærslunnar og allt það.

Vissulega er flest af því sem bæði meiri hluti og minni hluti leggur hér til til að fá betri úrlausn með breytingartillögum mjög þarft, ég dreg ekkert úr því. Maður verður sjálfsagt ekki vinsæll ef maður segir að það þurfi samt að standa þar að af yfirvegun. Við verðum að forgangsraða því mjög samviskusamlega hvaða svið við látum fá aukna fjármuni eftir því sem við teljum okkur hafa ráð á. Allt væri það auðvitað miklu léttara ef menn væru ekki að afsala ríkinu tekjum á móti.

Svo að ég nefni liði af handahófi sem ég er mest hissa á hvað fá þrátt fyrir allt litla úrlausn þá eru það vegamálin. Ég er alveg gáttaður á því að ríkisstjórnin ætli ekki að láta Vegagerðina fá meiri úrlausn sinna mála en hér er lagt til. Samkvæmt breytingartillögum sem laga fjárlagafrumvarpið örlítið þá duga fjármunirnir aðeins í viðhald og rannsóknir, sem er að sjálfsögðu gott. Svo er örlítið dregið úr skerðingunni á nýframkvæmdafé Vegagerðarinnar, en það er samt skerðing og mikil miðað við þá samgönguáætlun sem ríkisstjórnin lagði sjálf til. Ég held að ýmsir innviðir eins og vegirnir séu orðnir þannig að aðkallandi þörf sé fyrir úrlausn.

Nýbyggingu Landspítalans er vissulega sýndur litur loksins núna. Það má segja að sé ánægjuleg stefnubreyting hjá hæstv. ríkisstjórn, ekki síst Framsóknarflokknum sem talaði meira og minna gegn nýbyggingu Landspítalans fyrir kosningar, reyndi að minnsta kosti að fá atkvæði út á það á landsbyggðinni með því að segja að það þyrfti ekkert að byggja spítala í Reykjavík. Það sjónarmið hefur greinilega orðið undir og núna er sýndur litur í þeim efnum.

Tökum Framkvæmdasjóð ferðamannastaða, herra forseti. Hann á að fá 140–150 milljónir í framkvæmdafé á næsta ári. Ríkisstjórnin ætlar að halda vitleysunni áfram. Hún beinskar hann niður í fyrra og endaði svo með því að setja háar aukafjárveitingar inn í hann á árinu til að horfast í augu við það neyðarástand sem þar er á ferðinni og viðurkenna ósigur sinn gagnvart því að innleiða tekjustofninn, þ.e. náttúrupassann fræga sem er ekki í höfn enn og verður vonandi aldrei. En að ríkisstjórnin skuli leggja aftur fram frumvarp þar sem Framkvæmdasjóður ferðamannastaða á ekki einu sinni að fá óskert gistináttagjald heldur á að skerða þann tekjustofn um 13 millj. kr., sem rennur annars vegar í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða að 3/5 og hins vegar til þjóðgarða og friðlýstra svæða, finnst mér vera að bíta höfuðið af skömminni.

Að öðru leyti eru margar af breytingartillögum meiri hlutans þannig að auðvitað er verið að laga liði sem voru svo fráleitir í frumvarpinu að allir vissu að mundu ekki verða endanlega afgreiddir. Sami leikurinn og í fyrra var að leggja 15 milljónir í sóknaráætlun og með þjáningum var þeirri upphæð komið aftur upp í 100 milljónir sem er ekki neitt miðað við þá viðamiklu vinnu og umgjörð og þau fjölmörgu verkefni sem heimamenn á svæðunum hafa valið að forgangsraða fjármunum í og höfðu til þess 400 milljónir í fyrsta sinn á árinu 2013.

Brothættar byggðir. Hvernig gátu menn búist við því að ríkisstjórnin kæmist upp með að slá það verkefni af? Hvað ætluðu stjórnarþingmenn að segja í heimsóknum sínum um svæðin ef brothættar byggðir hefðu verið slegnar af? Þetta er verkefni sem veikustu byggðarlög landsins binda núna miklar vonir við og eru velflest komin í einhvers konar áætlun eða prógramm á þeim grundvelli.

Vinnustaðanámssjóður. Er það eitthvað sem ríkisstjórnin á að hæla sér af eða berja sér á brjóst fyrir að hætta við að eyðileggja vinnustaðanámssjóð og skila honum aftur upp í þó það litla sem í honum var? Nei. Þannig gæti ég áfram talið, þess vegna nefnt Hafnabótasjóð sem var augljóst mál að var ekki hægt að fara með eins og frumvarpið gerði ráð fyrir.

Herra forseti. Ég vil gera eina athugasemd sérstaklega við breytingartillöguskjal meiri hlutans. Ég vona að formaður og varaformaður fjárlaganefndar hér í hliðarsal geti farið að ljúka einkafundi sínum og hlustað á umræðuna. Ég tala um alvörumál. Það er rökstuðningur með breytingartillögu í tilviki Háskólans á Akureyri. Það er að sjálfsögðu þakkarvert að meiri hlutinn hefur fallist á þær 30 milljónir sem háskólinn hefur í tvígang haft og var viðurkennt að hann ætti allan rétt á og þyrfti að fá vegna rannsóknarmissira fastráðinna kennara, en skólinn hafði eins og kunnugt er gripið til þess ráðs á árunum 2010 og 2011 að fella rannsóknarmissirin niður til þess að lifa af í þrengingunum. Vel að merkja, Háskólinn á Akureyri hefur sýnt aðdáunarverða ábyrgð með því að halda rekstrinum innan ramma á öllum þessum erfiðu árum og hann hefur í viðbót borgað upp skuldahalann sem á honum hvíldi vegna hallareksturs frá gamalli tíð. Geri aðrir betur. Hann hefur engin verðlaun fengið fyrir það. Hann er búinn að þrengja að sér öll þessi ár til þess að mjatla upp hægt og bítandi gamlan skuldahala í viðbót við það að reka sig innan fjárlaga. 30 milljónirnar voru settar inn og þær eru til þess að kosta rannsóknarmissiri fastráðinna kennara. Formúleringin frá meiri hlutanum um að 20 milljónir af þessum 30 eigi að fara til eflingar kennslu í heimskautarétti gengur ekki upp og verður að hverfa. Fjárlaganefnd verður að koma með nýjan rökstuðning á prenti eða munnlega sem leysir Háskólann á Akureyri undan því að vera bundinn af þessu. Þetta gengur ekki. Auk þess tel ég ansi langt gengið að grípa svo langt inn í sjálfstæði háskólans til að ráða námsframboði sínu og öðru slíku að ætla að segja honum fyrir verkum í þessum efnum með eina tiltekna námsgrein, eins gríðarlega mikilvæg og hún er, þ.e. námið í heimskautarétti. Má enginn skilja það svo að ég sé ekki hlynntur því og stuðningsmaður þess. (Gripið fram í: … þú sért ekki hlynntur því.) Það er ekki svona sem við eigum að ganga frá málum. Háskólinn fékk þessar 30 milljónir til þess að hann gæti aftur fært fastráðnum starfsmönnum sínum þau sjálfsögðu og umsömdu réttindi sem eru í háskólakerfinu (VigH: … skorin …) að þeir ættu kost á rannsóknarmissirum. Þau voru skorin í samstarfi innan háskólans. Menn féllust á að leggja það af mörkum að afsala sér þessum rétti. Ég held að um það hafi verið ágætisfriður. Það sýnir náttúrlega þá fórnarlund sem fastráðnir kennarar við háskólann sýndu og samstöðuna með honum á erfiðum tímum að menn létu sig hafa þetta. Ég er ekki að segja að allir hafi verið ánægðir, en þannig var þetta.

Í öðru lagi er mjög skrýtið að Háskólinn á Akureyri skuli aðeins fá 10 millj. kr. úr þeim stóra potti sem síðan er útdeilt til háskólanna. Það stingur í augu að Háskólinn í Reykjavík, sem er ekkert svo mikið stærri, skuli fá 20 falda þá upphæð eða hvað það nú er. Rök menntamálaráðuneytisins eru að þetta sé vegna fjölda nemenda sem ekki hafi verið borgað fyrir. Háskólarnir hafa farið misjafnar leiðir í þeim efnum. Á þá að refsa þeim sem beinlínis drógu úr nemendafjöldanum vegna skertra fjárveitinga í formi þess að fella niður einhverja námsáfanga? Eiga þeir að fá það í bakið núna að þeir tókust þannig á við erfiðleikana í staðinn fyrir að halda bara úti fullu námsframboði, taka fleiri inn í skólann og gera hann upp með halla? Þetta gengur ekki. Við verðum að ýta þessu til hliðar og horfa á það hlutverk og mikilvægi sem háskólarnir hverjir um sig hafa.

Með fullri virðingu fyrir mínum gamla góða Háskóla Íslands og þess vegna Háskólanum í Reykjavík þá er Háskólinn á Akureyri háskólastofnun með mikla sérstöðu í landinu sem móðurskip háskólamenntunar eða náms á háskólastigi utan Reykjavíkur og ber höfuð og herðar yfir aðra skóla í þeirri stöðu, með fullri virðingu fyrir háskólunum á Hvanneyri, Bifröst og Hólum sem mér þykir að sjálfsögðu vænt um.

Ég fer fram á að fjárlaganefnd endurskoði þetta, verði við beiðnum yfirstjórnar háskólans um að honum sé ekki sagt fyrir verkum með þessum hætti og að þessi 10 millj. kr. upphæð verði endurskoðuð, a.m.k. eitthvert tillit tekið til almenns hlutverks og mikilvægis háskólanna en ekki bara notuð einhver formúla úr fortíðinni. Ég kíkti aðeins á rökstuðning menntamálaráðuneytisins, að búin hefði verið til einhver vægisformúla, 20% nemendafjöldi 2012 og 60% 2013 og 20% áætlunin 2014 eða 2015. Þetta er mjög skrýtinn grautur verð ég að segja. Af hverju er ekki bara hægt að horfa á þessa skóla, fjárhag þeirra og afkomu og hlutverk, og útdeila þessum fjármunum með hliðsjón af því?

Herra forseti. Hér hafa menn aðeins gert að umtalsefni lið sem tengist sannarlega fjárlögum og tengist spurningu um sparnað vegna sameiningar ráðuneyta. Ég held ég noti þetta tækifæri til að gera athugasemdir við ummæli sem féllu hér áðan hjá fyrirspyrjanda, hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni, þegar hann hældist um af svarinu sem hann fékk frá fjármála- og efnahagsráðherra. En hann gerði mikið úr því að í fyrsta lagi væri kannski ekki auðvelt að aðgreina algerlega hagræðinguna sem fólst í sameiningu og stækkun ráðuneyta frá hinum almennu aðhaldsaðgerðum tímans frá 2009–2013 og hins vegar kæmi mikill sparnaður fram á árinu 2014. Hann þakkaði það núverandi ríkisstjórn. Það sýndi hvað hún væri snjöll í þessum efnum. Ég tel að þetta lýsi mikilli vankunnáttu. Það lá alltaf fyrir að sparnaðurinn af stórfelldu ráðstöfununum á árinu 2011 og með sameiningu ráðuneytanna sem varð virk frá áramótum 2011/2012 skilaði sér ekki strax. Þvert á móti var talsverður kostnaður í byrjun en fjárfesting í framtíðarsparnaði. Þeir sem tala um sameiningar stofnana eða endurskipulagningu ríkisrekstrarins verða að átta sig á þessu. Þetta ferli tekur tíma. Menn geta þurft að eyða pínulitlum peningum til að spara meiri peninga síðar, t.d. í að endurskipuleggja húsakost og færa starfsemi saman undir eitt þak. Það getur þurft að ráðast í einhverjar breytingar eins og kemur fram í svarinu. Stærstur hluti þess kostnaðar sem tengdur er sameiningu ráðuneyta á síðasta kjörtímabili er varanleg fjárfesting í húsnæði upp á rúmlega 300 millj. kr. af tæplega 440 milljónum í heild. Annar kostnaður er óverulegur, en sparnaðurinn er mikill og hann er einmitt að koma fram núna. Það var alltaf reiknað með því. Þegar líður á árið 2013 og árið 2014 kemur sparnaðurinn fram að fullu. Hann er umtalsverður. Það er ástæða til að hafa um þetta nokkur orð, ekki síst í ljósi þess að núverandi ríkisstjórn hefur í þessum efnum eins og öðrum stillt áttavitann aftur á bak og til fortíðar, er byrjuð að skipta í reynd upp ráðuneytunum með því að setja tvo ráðherra inn í þau og hyggst jafnvel meira fyrir í þeim efnum.

Sparnaðurinn sem birtist til dæmis í töflu 5 á 4. blaðsíðu svarsins sýnir okkur svart á hvítu að skrifstofustjórum í Stjórnarráðinu hefur fækkað um 22 frá 2009. Þeir eru næstdýrustu starfsmenn ráðuneytanna að ráðuneytisstjóranum og ráðherranum sjálfum frátöldum. Gegnum þessar skipulagsbreytingar hafa verið lagðar niður fjölmargar skrifstofur og skrifstofustjórar án starfsmanna, skrifstofur með breyttum skipuritum stækkaðar og breikkaðar. Það munar um að dýrustu stöðugildi ráðuneytanna fækki um 22 án þess það hafi að mínu mati kallað á veikingu ráðuneytanna eða neitt slíkt, heldur þvert á móti eru þau sterkari eins og kemur ágætlega fram í svarinu. Þetta er ágætissvari frá fjármála- og efnahagsráðherra. Fróðlegt að lesa það sem þar segir.

„Áhrif sameiningar ráðuneyta og almennra hagræðingaraðgerða hafa haft þau áhrif að rekstrarkostnaður ráðuneytanna hefur almennt lækkað. Launakostnaður hefur lækkað, stöðugildum fækkað, þar á meðal skrifstofustjórum án skrifstofu. Með sameiningunni varð ýmis stoðþjónusta hagkvæmari, svo sem símaþjónusta, móttaka, skjalavistun, rekstur bókasafns og mötuneytis þar sem það á við.“

Hagræðingin hefur þannig komið fram í fækkun starfsmanna sem sinna þessum störfum. Það þýðir að hlutfall sérfræðinga hækkar innan ráðuneytanna. Það er hægt að ráða fleira sérhæft fólk eftir því sem fyrirkomulag á þjónustunni, rekstrinum og umsýslunni er praktískara. Það liggur í hlutarins eðli. Um hvað eru ráðuneytin? Snúast þau ekki um að hafa hæft, vel menntað og sérhæft starfsfólk í þeim störfum sem þar þarf að vinna, þ.e. í hinum eiginlegu störfum ráðuneytanna?

„Með stærri skipulagsheildum hefur skipulag ráðuneyta verið einfaldað og skrifstofum fækkað. Ráðuneytin geta nýtt betur sérhæfingu starfsmanna, styrkt faglegt starf og komið í veg fyrir óskýra verkaskiptingu eða tvíverknað. Stærri ráðuneyti hafa þannig burði til að takast á við fleiri verkefni sem tengjast málefnasviði þess.“

Ég tel að þetta svar staðfesti að þessar breytingar hafi sannarlega skilað sínu og hafi verið mikilvægar. Ég ætla rétt að vona að núverandi ríkisstjórn hugsi sig um áður en hún kastar þeim.

Herra forseti. Hefði hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra verið hér hefði ég viljað ræða við hann um Bankasýslu ríkisins. Það er kannski ágætt að ræða það við forustufólk fjárlaganefndar. Er búið að fara yfir það hvort tímabært sé að leggja Bankasýsluna niður? Af hverju eru engar fjárveitingar ætlaðar til reksturs hennar á næsta ári? Ekki er hægt að leggja hana niður kostnaðarlaust allt í einu á einum degi rétt fyrir jól eða 31. desember. Það þarf væntanlega að ljúka starfseminni einhvern veginn og gera hana upp. Það er þó ekki aðalatriði málsins heldur hitt: Eru stjórnarliðar almennt á því að það sé tímabært að færa eignarhaldið á bönkum og sparisjóðum inn í fjármálaráðuneytið eins og það er, að leggja til hliðar öll armslengdarsjónarmið, að það þurfi að vera með einhverjum óháðum hætti haldið á eignarhaldinu, að það eigi ekki að vera of nálægt hinu pólitíska valdi? Er mig að dreyma, herra forseti? Voru ekki haldnar einhverjar ræður hérna á síðasta kjörtímabili um það? Þá var að vísu stórhættulegur maður fjármálaráðherra og stjórnarandstaðan, íhaldið og Framsókn, treystu honum mjög illa til þess að fara með eignarhald í bönkum. Það voru þvílíkar ræður og þvílíkur heilagleiki um að það yrðu að vera algjörir eldveggir á milli eignarhaldsins í bönkunum og hins pólitíska valds.

Hefur eitthvað breyst? Nei, við eigum Landsbankann að fullu. Við eigum meira í honum núna en við áttum á þeim tíma af því við fengum 18% í honum gefins. Við eigum áfram (Gripið fram í: … prósent.) minni hluta í Arion banka og Íslandsbanka og ríkið á stóran hluta í einum fimm sparisjóðum, kannski fjórum í dag eftir sameiningu. Þar við bætist að fjármálaráðuneytið er ráðuneyti fjármálamarkaðarins. Það var það ekki á sínum tíma. Það var á margan hátt einfaldara fyrir fjármálaráðuneytið að fara með eigendahlutverkið, þótt það væri gagnvart fjármálastofnunum, á meðan til var efnahagsráðuneyti sem var ráðuneyti fjármálamarkaðarins þar sem eftirlitið var. Það er ekki í dag. Nú er þetta allt komið inn í fjármálaráðuneytið. Er notaleg tilhugsun að eignarhald í fjármálafyrirtækjunum fari inn á einhverja skrifstofu þar? Mér er ekki kunnugt um að fjármálaráðuneytið hafi einu sinni breytt skipulagi sínu, eins og vissulega var rætt að kæmi til greina til undirbúnings því að Bankasýsla ríkisins hyrfi, sem var vissulega alltaf meiningin að hún gerði en þá reiknuðu menn með því að eignarhlutur ríkisins yrði kannski orðinn mjög afmarkaður; ríkið ætti kannski í einum banka einhvern tiltekinn hlut en ekki í öllum stóru bönkunum og í fjölda sparisjóða. Þá var samt rætt um að það væri hugsanlega skynsamlegt að undirbúa stofnun einhvers konar eignarhaldseiningar innan ráðuneytisins sem væri sjálfstæð í skipulagi og stjórnun og þannig reynt að tryggja óhæði og armslengdarsjónarmið. Mér er ekki kunnugt um að slíkt hafi verið gert.

Sömuleiðis vil ég gera að umtalsefni umræður sem hér hafa orðið um vaxtakostnað ríkissjóðs vegna lána til að endurreisa fjármálakerfið eða bjarga því eins og sagt er í fyrirspurninni af hálfu fyrirspyrjanda sem er hv. þm. Elsa Lára Arnardóttir. Hv. þingmaður gerði svarið sem hún fékk að umtalsefni í gær. Eðlilega var hún mjög upptekin af þeim mikla kostnaði sem ríkið hefur haft af því að fjármagna Landsbankann, leggja honum til eigið fé svo að hann yrði starfhæfur, vegna minni hlutanna í Arion banka og Íslandsbanka, vegna þátttökunnar í endurreisn sparisjóðanna og síðast en ekki síst þar sem einn stærsti reikningurinn liggur, að endurfjármagna Seðlabankann eftir að hann varð gjaldþrota haustið 2008. Það er rétt, þetta er mikill kostnaður. Það er búið að borga í vexti og verðbætur 150 milljarða kr. Mér fannst svolítið undarlegt að heyra rætt um þetta eins og við hefðum átt eitthvert val. Líta menn almennt svo á að þetta sé eitthvað sem við hefðum getað ákveðið að komast undan? Þurfti Ísland ekki fjármálakerfi? Gat Ísland verið með gjaldþrota seðlabanka? Áttu menn eitthvert val haustið 2008, 2009 eða 2010? Ég held ekki. Kostnaðurinn er mikill, það er alveg rétt. Þetta er einn af stóru reikningunum vegna hrunsins og skyldi engan undra því að það eru eiginlega engin dæmi um land sem hefur misst nánast allt sitt fjármálakerfi á örfáum mánuðum, sennilega um 95–97% af íslenska fjármálakerfinu hrundu. Stóru bankarnir voru með 85% og svo bættust minni fjármálastofnanir við á næstu mánuðum. Þegar upp var staðið voru rúmlega 95% af íslenska fjármálakerfinu fallin. Í ofanálag var seðlabankinn okkar gjaldþrota. Hrunið getur ekki orðið fullkomnara í einu landi. Auðvitað fylgdi þessu gríðarlegur kostnaður, gríðarlegt tjón fyrir íslenska ríkið, því miður, og stóri reikningurinn vegna hruns íslensku bankanna var líka í útlöndum. Erlendir fjármögnunaraðilar þessara banka bera langstærsta reikninginn sem er áætlað að geti orðið um 7.500 milljarðar kr., þar af liggur stærsti einstaki hlutinn í Þýskalandi. Þýskir bankar, fjárfestar og fjármálastofnanir töpuðu nokkur þúsund milljörðum vegna hruns íslensku bankanna sem var vel að merkja þriðja stærsta gjaldþrot veraldarsögunnar á eftir Lehman Brothers og Washington Mutual Bank, þ.e. þegar íslensku bankarnir þrír eru lagðir saman. Ég tel að við höfum ekki átt mikið val í þessum efnum. Það ber að ræða þetta sem hluta af þeim kostnaði sem var því miður engin leið að komast undan úr því að svona fór, en hann var mikill. Það skulum við gjarnan ræða.

Hér hafa lífeyrisskuldbindingarnar líka verið nefndar af sumum, þ.e. hallinn á B-deildinni og það framtíðarverkefni að byggja hana upp. Það er alveg rétt. Það er gott að menn ræði það, hafi uppgötvað það. Menn mættu þá minnast þess af hverju ekki var borgað meira inn á þessa skuldbindingar á veltiárunum þegar var bullandi afgangur af ríkissjóði. Okkur var held ég nokkur vorkunn frá hruni (Forseti hringir.) að fara ekki að gera okkur lífið erfiðara með því að byrja strax að borga inn á þessar skuldbindingar, en það þarf auðvitað fyrr en síðar að gera það, herra forseti.



[12:50]
Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir ræðu hans. Nokkuð mikið af henni hef ég nú heyrt áður frá þingmanninum, en það er ágætt að rifja upp fortíðina. Fór hann yfir nýlegt svar sem barst þinginu um hvað endurreisn bankanna hefði kostað ríkið mikið og fór orðum um það. Í þeirri upptalningu þingmannsins gleymdi hann að tala um hvað ríkið lagði Íbúðalánasjóði mikið fjármagn til á síðasta kjörtímabili, það losar líklega bráðum tæpa 50 milljarða. Þingmaðurinn fór vel yfir það að hann væri stoltur af því að íslenska ríkið ætti Landsbankann, en það var aldeilis ekki ókeypis, virðulegi forseti. Þegar ríkið tók Landsbankann yfir og nýja bankann var skrifað undir umdeilt skuldabréf, svo ekki sé meira sagt. Það voru reyndar tvö skuldabréf, annað var skilyrt og hitt var upp á tæpa 280 milljarða, þannig að samtals er upphæðin á þeim um 300 milljarðar að núvirði og það allt saman í erlendri mynt. Mér skilst að skuldabréfið hafi verið á þann hátt að ef bankastarfsmenn sem störfuðu í þessum banka gætu rukkað skuldug heimili og fyrirtæki upp í topp mundi gulrótin vera sú að gefa starfsmönnunum 2% í bankanum. Þetta er gjörningur sem við sitjum uppi með um langa framtíð. Þetta er alveg einsdæmi, virðulegi forseti, og gott að rifja það upp af því að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon var að fara aðeins yfir fortíðina.

Þá að spurningunni. Hann átelur skattstefnu núverandi ríkisstjórnar og telur að menn séu að afsala sér tekjum með því að lækka skatta. Ég spyr því þingmanninn: Hvernig stóð þá á því að þegar erfðafjárskattur var hækkaður úr 5 (Forseti hringir.) og upp í 10% á síðasta kjörtímabili dróst erfðafjárskattur sem skilaði sér til ríkisins saman um milljarð einungis á einu ári?



[12:53]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Það hefur sennilega verið vegna þess að það var svo almenn ánægja og gleði í þjóðfélaginu að það dóu miklu færri eftir að sú ríkisstjórn tók við. Kannski hafa menn dregið og fært eitthvað til uppgjör dánarbúa til að fresta greiðslu á skattinum eftir að hann hækkaði eða eitthvað slíkt, en til lengri tíma litið held ég að þetta skili ósköp einfaldlega þeim tekjum sem til er ætlast til ríkisins.

Það kann vel að vera að hv. þm. Vigdís Hauksdóttir hafi einhvern tímann áður heyrt sumt af því sem ég var að segja. Það dregur ekki úr gildi þess að segja það aftur, því sjaldan er góð vísa of oft kveðin. Ég held, herra forseti, að ekki veiti af að halda þessum stjórnarmeirihluta aðeins við efnið í sambandi við ábyrgð þegar kemur að ríkisfjármálum, því það á að vera lykilorð allra okkar umræðna um stöðu mála á Íslandi í þessu samhengi. Þegar kemur að fjárhagsstöðu ríkisins og þess mikilvæga hlutverks sem það hefur í okkar velferðarsamfélagi er það ábyrgð sem menn eiga að sýna.

Að sjálfsögðu er ýmiss kostnaður vantalinn í þessu svari, enda var bara spurt um kostnaðinn við endurreisn fjármálakerfisins. Það má vissulega nefna Íbúðalánasjóð sem fékk sinn hluta af högginu og er þegar búið að þurfa að aðstoða með um 50 milljörðum, en það er fjölmargt þar fyrir utan eins og svo sem uppsafnaður eiginlegur rekstrarhalli ríkisins á þessum árum. Það eru háar tölur enda er niðurstaðan sú að bankahrunið hafi kostað Ísland langleiðina í 50% af vergri landsframleiðslu. Þar með erum við í efstu sætum listans við hliðina á Írlandi hvað varðar beinan kostnað þjóðarbús af hruni af þessu tagi. Örfáar hliðstæður eru þekktar í heimssögunni.

Við getum rætt samninginn milli gamla og nýja Landsbankans hvenær sem er. Það sem ég var eingöngu að vísa til í þessu tilviki er sá hluti hans að til ríkisins færðist endurgjaldslaust 18% eignarhlutur í nýja (Forseti hringir.) Landsbankanum. Það er býsna gott miðað við það hversu vel honum hefur gengið og hversu mikið eigið fé hann á og hversu verðmætur hann er orðinn. Menn glöddust yfir því að færa það inn í bókhaldið hjá sér í fyrra, eina 20 (Forseti hringir.) milljarða í plús.



[12:55]
Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þetta andsvar. Þess ber að geta að Landsbankinn er nú það skuldsettur í erlendum gjaldmiðli að það háir ekki einungis bankanum heldur ríkissjóði sjálfum líka, þannig að þetta lítur ekki alveg eins vel út eins og þingmaðurinn vill meina. Eins og flestir vita náttúrlega er þarna mjög erfið staða. Þó að hægt hafi verið að greiða arð af hagnaði í fyrra og leggja það inn sem tekjur í ríkissjóð erum við ekkert komin yfir þann hjalla og alls ekki komin yfir þann hjalla sem varðar fjármál ríkisins, því eins og þingmaðurinn veit verður árið 2016 sem nálgast mjög hratt mjög erfitt rekstrarár í sögu ríkisins vegna himinhárra gjalddaga lána sem við þurfum að reiða af hendi.

Ég er ekki sammála þingmanninum um að fólk hafi hætt að deyja á síðasta kjörtímabili, því það er nú svo í aldurssamsetningu þjóða að fæðingar og dauðsföll eru í ákveðnum hlutföllum. Skýringin á þessu er sú að þegar skattur er orðinn of hár þá hættir hann að skila sér í ríkissjóð. Þegar skattur er orðinn jafn hár og var í tíð síðustu ríkisstjórnar skapast freistnivandi og sá freistnivandi leiðir til skattundanskota. Það kom beinlínis fram í máli fulltrúa fjármálaráðuneytisins á fundum á síðasta kjörtímabili þegar ég spurði út í þetta. Þegar erfðafjárskatturinn var hækkaður svona mikið var það einmitt þannig að fólk kom eigum sínum undan, kannski fólk komið á aldur og farið að gefa börnum sínum fyrir dauðsfall. Þetta er dæmi um að skattprósentan sé orðin allt of há. Til rökstuðnings má geta þess að eftir að ríkisstjórnin tók við og lækkaði skatta og álögur hafa tekjur streymt í ríkissjóð eins og kom fram á uppgjöri (Forseti hringir.) ársins. Tekjuafgangur er orðinn langt yfir 40 milljarða þegar gert (Forseti hringir.) var ráð fyrir í fjárlögum að hann ætti að vera einungis 900 milljónir. Það er vegna þess að skattarnir eru að skila sér betur.



[12:58]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef heyrt þessa möntru áður um hvað skatttekjurnar aukist gríðarlega með því að lækka skatta og gef ekki mikið fyrir hana. Ég afgreiði það ósköp einfaldlega með því að spyrja á móti hv. þingmann: Hvað verða skatttekjurnar miklar þegar prósenturnar verða orðnar núll? Þetta er gömul þvæla sem við þurfum væntanlega ekki að fara út í. Ég hef enga trú á því að það hafi orðið stórfelld undanskot á erfðafjárskatti af því einu að hann fór úr 5 í 10%, enda er það ekki hátt skatthlutfall, ætti þá að vera verra að eiga við slíka neikvæða hvata annars staðar þar sem skattprósentur eru miklu hærri.

Tekjurnar hafa aukist með auknum umsvifum í þjóðfélaginu vegna hagvaxtar í algerlega línulega samræmi við það sem gera má ráð fyrir, en ekki vegna þeirra takmörkuðu skattalækkana í beinum sköttum sem núverandi ríkisstjórn hefur staðið fyrir. Hún hefur til dæmis ekki hróflað við álagningu skatta á fyrirtæki. Hún hefur eiginlega ekkert lækkað tryggingagjaldið þótt atvinnuleysi hafi lækkað. Hún hefur ekki breytt tekjuskattsprósentu á hagnað lögaðila en samt er sá skattstofn sennilega að aukast meira en allt annað. Ætli það sé ekki ein aðalbúbótin? Þegar nýjar forsendur komu inn og ný tekjuáætlun fyrir fjárlög næsta árs frá fjármálaráðuneytinu í nóvember var óvenju ánægjulegur vöxtur í tekjusköttum frá lögaðilum, þ.e. álagningin hélt mjög vel og var lítið um endurgreiðslur. Það er einfaldlega ávísun á það að fyrirtækin eru farin að hagnast í stórum stíl. En tekjuskattsprósentunni hefur ekki verið breytt. Hún stendur óbreytt í sínum 20%, alveg frá því hún var færð þangað 2009 ef ég man rétt. Það ætti að afsanna kenninguna. Skattar frá fyrirtækjum ættu ekkert að hækka því prósentan væri of há, en það er ekki það sem hefur gerst frekar en í tekjuskattinum eða beinu sköttunum almennt. Eða óbeinu. Þannig að þessi kenning heldur ekki vatni.

Varðandi Landsbankann er það ekki bara þannig að hann hafi greitt arð á þriðja tug milljarða, þökk sé velgengni hans, heldur bókfærðu menn (Forseti hringir.) líka í fyrra þau 18% sem þeir fengu án endurgjalds í reikninga ríkisins sem hagnað upp á eina 20 milljarða kr. (Forseti hringir.) Þannig að Landsbankinn hefur gefið þó nokkuð af sér.