133. löggjafarþing — 53. fundur
 17. janúar 2007.
um fundarstjórn.

ummæli forseta í hádegisfréttum.

[13:30]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég reyndi að ná í hinn kjörna forseta Alþingis, Sólveigu Pétursdóttur, áðan til að biðja hana að vera viðstadda hér í upphafi fundar eftir hlé vegna þess að ég hygðist taka til máls um fundarstjórn forseta, þ.e. vegna ummæla hv. þm. Sólveigar Pétursdóttur, forseta þingsins, í hádegisfréttum Stöðvar 2. Þar hafði hún það til mála að leggja, vegna þeirrar umræðu sem hér færi fram, að breyta þyrfti þingsköpum, það þyrfti að takmarka ræðutíma þingmanna, þetta væri alveg ómögulegt því að það væri ekki í neinu öðru landi sem það leyfðist að þingmenn gætu bara leyft sér að tala óáreittir í þinginu um hin og þessi mál. Þetta væri ráðið og lausnin á vanda þingsins.

Þegar forseti þings var fyrst kjörin, sú sem nú er kjörin, Sólveig Pétursdóttir, hafði hún tvennt að segja sem hlustað var eftir hér í þingsal. Annars vegar talaði hún um að skipa ætti störfum þingsins með þeim hætti að þau væru fjölskylduvænni, þau væru betri fyrir þá þingmenn sem væru barnafólk, mæður og feður barna á þeim aldri að fyrir þeim þarf að sjá, og aðra þingmenn væntanlega. Hins vegar talaði hún um að ná þyrfti betri starfsanda og betri starfsreglum og starfsháttum á þinginu.

Sólveig Pétursdóttir, forseti Alþingis, held ég að sé fremst í þeim flokki sem á að gera sér grein fyrir að ekki er hægt að tala um reglur í þingsköpum eða starfsreglur á þinginu þannig að hægt sé að tala um eina í einu. Þær mynda ákveðna samfellu, þær eru í ákveðnu samhengi. Það verður að minna á í tilefni þessara ummæla að stjórnarandstæðingar hafa fyrr og síðar rætt um að til þess að ná betri starfsanda á þinginu og starfsháttum þyrfti auðvitað að auka sjálfstæði þingsins og þar með að gefa stjórnarandstöðunni ákveðna möguleika sem ekki eru fyrir hendi á þessu þingi en eru fyrir hendi í flestum öðrum þingum sem forseti vitnaði til í hádegisfréttum Stöðvar 2. Ég vona að forseti heyri til mín, hún hefur a.m.k. fengið þau skilaboð sem um er að ræða. Þar á meðal er það að þingmál stjórnarandstæðinga og raunar allra þingmanna komist á dagskrá, fái hér umræðu og afgreiðslu. Þar á meðal eru kröfur um að þingnefndir fái rannsóknarvald og þingið geti kosið sérstakar rannsóknarnefndir. Þar á meðal eru óskir og tillögur um að auka ráðherraábyrgð og fleira sem gæti skapað stjórnarandstöðunni meira eftirlit með framkvæmdarvaldinu og þingmönnum öllum, gert sjálfstæði þingsins öflugra. Ef þetta væri komið skyldum við fara að tala um ræðutíma við 2. og 3. umr. um stjórnarfrumvörp.



[13:33]
Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég heyrði ekki þau orð sem síðasti ræðumaður vitnaði í að höfð hefðu verið eftir forseta þingsins í hádeginu. Ef rétt er get ég sannarlega tekið undir með hv. þingmanni að það er ekki lausn á vanda þingsins að takmarka algjörlega ræðutíma. Það skal koma hér fram af minni hálfu sem margoft hefur komið fram að ég held að löggjafarvaldið sé mjög undirgefið framkvæmdarvaldinu. Ég held að það þekkist raunverulega hvergi í nálægum þingum hvað framkvæmdarvaldið ræður mikið ferðinni á þinginu.

Við höfum sagt það við endurskoðun þingskapa sem lengi hefur staðið yfir að við værum tilbúin að takmarka ræðutíma en það er þó skilyrt því að menn séu tilbúnir að taka á öðrum mikilvægum þáttum í störfum þingsins. Við teljum t.d. að koma þurfi hér á, eins og er í öllum siðuðum þingum, rannsóknarnefndum þingsins, nefndum sem gætu starfað t.d. fyrir opnum tjöldum, að ráðherrum sé gert að mæta fyrir þingnefndir ef þær svo óska og sitja fyrir svörum og rannsóknarnefndir fái vald eins og gerist í öðrum sambærilegum þingum til að rannsaka mál.

Þetta þarf allt að koma til og auðvitað þarf þingið líka að starfa allt árið eins og gert er í flestum þingum en ekki eins gloppótt og þingið starfar hér. Hér þarf líka að herða lög um ráðherraábyrgð, að ráðherra geti ekki hagað sér að vild og leynt Alþingi upplýsingum eða sett fyrir Alþingi rangar eða villandi upplýsingar. Í danska þinginu varðar það t.d. við lög um ráðherraábyrgð ef ráðherra hagar sér með þeim hætti en hér fá ráðherrar að haga sér alveg eins og þeir vilja. Í ofanálag fá þeir að stjórna þinginu.

Það er mjög margt í þingsköpunum sem þarf að taka fyrir og það er alls ekki lausn á þeim vanda sem ég tek undir að þingið stendur frammi fyrir að takmarka ræðutíma. Það er ekki hægt að einangra það eitt og sér. Við í Samfylkingunni erum tilbúin að taka á málinu heildstætt, t.d. með þeim leiðum sem ég nefndi. Við værum sannarlega tilbúin að takmarka ræðutímann ef annað fengist í gegn, en það hefur bara ekki fengist.

Þetta er raunverulega eina tækið sem þingmenn hafa, þ.e. að standa í ræðustól og mótmæla ef á rétt þeirra er gengið sem oft og iðulega er hér í þinginu, m.a. í því máli sem nú hefur lengi verið í umræðu á Alþingi. Þetta er eina tækið sem þingmenn hafa. Ég skora á forseta þingsins, og ekki mun standa á okkur í Samfylkingunni, að drífa sig í að fara í þingsköpin, fara heildstætt í þau en horfa ekki bara einskorðað á ræðutímann (Forseti hringir.) vegna þess að ekki er rétt að gera það með þeim hætti.



[13:37]
Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með þeim tveimur hv. þingmönnum sem hafa talað um þetta mál. Ég held að það mál sem við höfum rætt hér lengi, Ríkisútvarpið, endurspegli í raun eða dragi mjög fram stöðu þingsins og þann vanda sem við er að etja. Það sem er uppi er að hæstv. ríkisstjórn hefur mikinn áhuga á því að tiltekið mál nái fram að ganga á hinu háa Alþingi, þ.e. að á löggjafarsamkundunni, einum af þremur meginþáttum ríkisvaldsins, hefur framkvæmdarvaldið skýlausa kröfu uppi um að tiltekið mál verði að lögum. Þegar sú krafa framkvæmdarvaldsins er uppi skirrist forseti þingsins ekki við að nánast taka allt annað út af dagskrá og ryðja völlinn svo að þetta mál komist áfram. Þingsköpin eru nánast tekin úr sambandi, réttur þingmanna til að óska eftir umræðu utan dagskrár er tekinn úr sambandi, réttur þingmanna til að fá fyrirspurnum svarað er tekinn úr sambandi, nánast þingsköpin eru tekin úr sambandi af því að ríkisstjórnin er uppi með kröfu og vilja um að tiltekið mál verði að lögum. (Gripið fram í: Hvað með þingnefndir?) Það er sú krafa sem er uppi. Ég held — ég þekki í raun ekki til þess — að hvergi nokkurs staðar hafi alþingismenn og þeir sem vilja gera athugasemdir við þennan vilja það eitt tæki að tala lengi og mikið ef þeir vilja mótmæla málum. Það hefur ekki staðið á okkur að taka þessi mál til endurskoðunar en þá verður að skoða málið heildstætt.

Í þessari umræðu hefur einmitt verið dregin fram nauðsyn þess að taka til að mynda upp rannsóknarvald þingsins, aukna ráðherraábyrgð og fleira sem skiptir máli til að þingið verði það afl sem þarf að vera í þrískiptingu ríkisvalds en ekki eins og myndbirtingin er oft og tíðum einungis verkfæri í höndum ríkisstjórnarinnar. Það má þingið aldrei verða. Það er lykilatriði í umræðunni og það má ekki vera þannig að lög — það má ekki gleyma því að þingsköp Alþingis eru lög, þingsköpin eru ekki einhverjar reglur sem hafa verið settar af forseta eða einhverjum öðrum, þau eru lög og þeim verður ekki rutt til hliðar aðeins ef hæstv. forseti þingsins tekur um það ákvörðun að breyta því. Þess vegna vekur það mikla furðu, og það hefur verið mikil umræða um það hér í morgun, hvernig á því standi og hvort það standist að öllu sé rutt til hliðar, (Forseti hringir.) einfaldlega vegna þess ríkisstjórnin hefur áhuga á því að koma sínum málum í gegn.



[13:40]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég hef ekki tölur um fjölda þingmála sem afgreidd eru sem lög frá Alþingi á ári hverju að jafnaði, en ég hygg að þau kunni að skipta hundruðum, þingmálin sem eru afgreidd, sum í góðri sátt og því betur sem málin eru unnin, þeim mun meiri sátt sem um þau er, því greiðlegar gengur umræðan.

Frá því að ég tók setu á Alþingi árið 1995 eru örfá mál sem hafa leitt til mjög mikillar umræðu í þinginu. Ég minnist breytinga á húsnæðislöggjöfinni sem var mjög afdrifarík og varð til þess að láglaunafólk átti erfiðara um vik en áður var að eignast húsnæði og því var þannig þröngvað út á mjög erfiðan leigumarkað. Við börðumst hér í þingsal til að reyna að fá því breytt, ef ekki afstýrt.

Ég minnist breytinga á vinnulöggjöfinni 1996 þar sem gert var ráð fyrir breyttum vinnureglum á vinnumarkaði. Þau lög hafa aldrei gengið eftir vegna þess að um þau ríkti ósátt. Um þau var mikið rætt í þingsal. Ég minnist breytinga á lífeyrislöggjöf, einnig á árinu 1996, sem á endanum tókst að færa út úr þingsalnum og inn á samningsborð í þjóðfélaginu, skapa sátt og samstöðu um kerfi sem ég held að allir séu núna nokkuð sáttir með.

Ég nefni Kárahnjúka, ég minnist þeirra, einkavæðingar Landssímans, ásetning ríkisstjórnarinnar um að veita fyrirtæki, deCode, ríkisábyrgð upp á 20–30 milljarða og ég minnist núna Ríkisútvarpsins.

Þetta eru málin sem kallað hafa á langa umræðu í þinginu. Er það slæmt að slík umræða skuli hafa farið fram? Eigum við ekki að beina sjónum okkar að því sem vel er gert í þinginu? Margt er vel gert á Alþingi Íslendinga, hér eru afgreidd þingmál í stríðum straumum í samstöðu og með góðum vinnubrögðum. Er það ekki hlutverk forseta Alþingis að beina sjónum sínum að þessu og reyna síðan innan þingsins, á þeim vettvangi sem við höfum hér, að finna leiðir til lausnar á þeim brotalömum sem kunna að vera uppi?

Þær eru ýmsar, það er alveg rétt, en að vilja greiða götu ríkisstjórnarvaldsins í umdeildum málum með því að takmarka málfrelsi alþingismanna er að mínum dómi fyrir neðan allar hellur og þá tek ég undir það sem aðrir hafa sagt: Skoðum málin þá heildstætt, en veikjum ekki stöðu stjórnarandstöðunnar eins og mér heyrist að gefið hafi verið til kynna í ummælum forseta þingsins í útvarpi. (Forseti hringir.) Ég heyrði sjálfur ekki ummælin en hef hlustað á umræðurnar hér.



[13:44]
Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Ég tek undir með þeim sem talað hafa á undan mér í því að lýsa undrun á ummælum hæstv. forseta Alþingis í fréttatíma í hádeginu í dag þar sem vandamálið virtist vera í hennar huga það að stjórnarandstaðan talaði of mikið og menn þyrftu að fara að velta fyrir sér að takmarka ræðutíma til að taka þetta vopn af stjórnarandstöðunni. Það gengi ekki að stjórnarandstaðan gæti talað og talað út í eitt, og ekki nokkur leið að koma á hana böndum. Ef ég man rétt sagði hæstv. forseti að þetta þekktist ekki í neinu öðru þjóðþingi.

Það er ansi margt á þessu þingi sem þekkist ekki í öðrum þjóðþingum. Mér er til efs að í mörgum þjóðþingum sé þannig haldið á málum að það sé nánast regla að frumvörp og þingsályktunartillögur sem stjórnarandstöðuþingmenn leggja fram komist varla á dagskrá þingsins. Ef þannig verður að þau komast á dagskrána er það algjör regla, nánast án undantekningar, að þau koma ekki úr nefnd og til 2. umr.

Virðing sem þessum þingmálum stjórnarandstöðunnar er sýnd hér á Alþingi er engin. Hvernig í ósköpunum eiga þingmenn stjórnarandstöðu sem búa við svona starfsskilyrði á þinginu — til hvaða ráða geta þeir gripið þegar verið er að reyna að koma í gegn málum sem engan veginn er hægt að fella sig við?

Við horfum á það núna að búið er að setja herlög á þinginu. Búið er að ryðja í burtu öllu sem átti hér að vera og í raun, eins og fram hefur komið í málum þeirra þingmanna sem hér hafa talað á undan, hafa lögin um þingsköp verið hunsuð og allar hefðir og venjur eru settar til hliðar vegna þráhyggju eins ráðherra við að koma einu lagafrumvarpi í gegn.

Er hæstv. forseta kunnugt um hvort hæstv. aðalforseti þingsins, Sólveig Pétursdóttir, vissi af þessari umræðu? (Gripið fram í: Já, það kom fram.)

(Forseti (RG): Forseti vill taka fram að vegna skyldustarfa á forsetastóli heyrði forseti engar fréttir og þá ekki þessa sem vísað hefur verið til í þessari umræðu. Forseti veit einungis það sem hv. þm. Mörður Árnason gat um í upphafi umræðu, að hann óskaði eftir viðveru forseta, Sólveigar Pétursdóttur, og að hún hefði verið fjarverandi. Því miður hefur forseti ekki aðrar upplýsingar.)

Þakka þér fyrir, frú forseti. Það kemur sem sagt í ljós, ég heyrði það ekki í framsögu hjá hv. þm. Merði Árnasyni, að hann hafi látið hæstv. forseta vita af þessari umræðu en það sýnir kannski enn og aftur virðingu hæstv. forseta við stjórnarandstöðuþingmenn, forseta sem sagði hér þegar hún tók við sem forseti þingsins að hún væri forseti allra þingmanna og ætlaði að hafa (Forseti hringir.) hér víðtækt samráð.



[13:47]
Einar Már Sigurðarson (Sf):

Frú forseti. Það er rétt að taka upp þráðinn þar sem síðasti hv. þingmaður hætti og rifja örlítið upp hina fyrstu ræðu virðulegs forseta, Sólveigar Pétursdóttur, þar sem boðað var aukið samráð milli stjórnar og stjórnarandstöðu, ýmsar breytingar á þingsköpum og störfum í þinginu, fundartímum og öðru slíku. Þetta átti allt að gera í sátt og samlyndi og ég man ekki betur en að fögnuður hafi farið um þingheim við þennan boðskap og allir verið reiðubúnir til að taka þátt í slíkum breytingum. Það verður því að segja í þessu samhengi að það er afar óheppilegt innlegg virðulegs forseta í þá stöðu sem nú er í þingi þessa dagana að mæta í opinberan fjölmiðil og viðhafa þau ummæli sem hér hafa verið rifjuð upp. Það er auðvitað ekki í samhengi við eitt eða neitt og allra síst í samhengi við það hlutverk forseta að reyna að ná sáttum og reyna að halda sæmilegum aga á þingstörfum í fullu samráði við stjórnarandstöðuflokkana, að bera það á borð fyrir alþjóð að eini vandinn nú sé þetta vandræðaákvæði í þingsköpum um að stjórnarandstaðan hafi ótakmarkað málfrelsi, það sé meginvandamálið. Ég held með fullri virðingu fyrir virðulegum forseta að það sé eðlilegt að þeim skilaboðum sé komið á framfæri, að í þessari stöðu væri líklega nær fyrir virðulegan forseta að líta örlítið í eigin barm og velta því fyrir sér hvort framkoma og framgangur forseta í þessu öllu saman ætti ekki að vera annar og hvort það sé ekki hlutverk forseta að líta svo á að það sé meginverkið að halda þingheimi saman og hafa fullt samráð við þingheim en láta ekki framkvæmdarvaldið stýra hér öllu og stjórna. Það sé nóg að það sé einn ráðherra — sem við að vísu fengum upplýsingar um í þingsölum í gær að væri ekki alveg venjulegur virðulegur ráðherra heldur varaformaður í flokki og samkvæmt ummælum formanns menntamálanefndar virðist varaformaður í flokki þeirra sjálfstæðismanna hafa það meginhlutverk að vera yfir öllum þingmönnum og stýra þeim og stjórna væntanlega öllum og það er vitanlega alvarlegt umhugsunarefni ef virðulegur forseti þingsins lítur þannig á málið einnig, þ.e. að það sé varaformaður Sjálfstæðisflokksins sem taki ákvarðanir um það hvernig þinghaldi skuli háttað.

Ég held að það sé alveg nauðsynlegt, virðulegur forseti, að við fáum tækifæri einhvern tíma í dag þegar við getum aftur tekið upp umræður um fundarstjórn forseta að virðulegur forseti verði viðstaddur þannig að það megi eiga orðastað um þessa hluti því það er auðvitað lykilatriði til að koma skikki á þinghaldið að virðulegur forseti átti sig á hlutverki sínu.



[13:50]
Forseti (Rannveig Guðmundsdóttir):

Forseti hefur aflað þeirra upplýsinga að Sólveig Pétursdóttir sinnir opinberum skyldustörfum utan þinghúss eins og er og forseti mun tryggja að þær ábendingar sem nú hafa komið fram frá þingmönnum í umræðunni berist forseta.



[13:51]
Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Sjálfsagt er að virða það við hæstv. forseta að hún þarf að sinna opinberum erindum utan þinghúss. Ekki drögum við hana frá þeim skyldustörfum. Það er hins vegar alveg ljóst að ekki er það innan skyldustarfa hæstv. forseta að ganga fram með þeim hætti sem hún hefur gert í dag og varla er hægt að segja að hægt sé að skilgreina það með öðrum hætti en að bera olíu á eld við þær aðstæður sem hér ríkja. Það er hlutverk forsetans að reyna að sætta og ná málamiðlunum en það er ekki hlutverk hæstv. forseta við það upplausnarástand sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur skapað nú í þinghúsinu, að koma fram opinberlega með ógnunum þar sem hv. þingmenn geta ekki átt orðastað við hana.

Þau orð sem hæstv. forseti lét falla í dag er tæpast hægt að skilgreina með öðrum hætti en sem hótanir í garð stjórnarandstöðu, að ef hún láti ekki af ræðuhöldum í þessu máli þá komi til greina af hálfu Sjálfstæðisflokksins og hugsanlega Framsóknarflokksins líka að skerða lögbundið málfrelsi. Nú er það svo, frú forseti, að stjórnarskráin og lögin gera ráð fyrir því að þingmenn hafi þann möguleika að tjá sig sterklega og lengi ef þeir eru ákaflega mikið á móti máli og telji að það horfi til mikilla óheilla fyrir þjóð. Til þess hafa þeir flokkar sem saman mynda ríkisstjórnina gripið áður. Það má rifja það upp að flokkur hv. þm. Sæunnar Stefánsdóttur stóð fyrir langvinnu málþófi sem stóð milli jóla og nýárs og allan janúarmánuð árið 1993 til að koma í veg fyrir það sem sá flokkur telur í dag þjóðþrifamál, þ.e. aðild Íslands að EES. Enginn sagði neitt við því. Mönnum fannst það fullkomlega eðlilegt. Og það er rétt að rifja það upp að Sjálfstæðisflokkurinn, flokkur hæstv. menntamálaráðherra, stóð vikum saman fyrir málþófi gegn því þjóðþrifamáli sem fólst í því að setja á stofn umhverfisráðuneyti og einn af helstu forustumönnum flokksins stóð í þessum stóli heila nótt og las upp alla bókina Raddir vorsins þagna eftir R. Carson, svo því sé haldið til haga.

Það kemur alveg til greina að skoða hvort það eigi með einhverjum hætti að reisa skorður við tímalengd og fjölda ræðna þingmanna en það verður aldrei gerð slík grundvallarbreyting nema á móti verði gerðar aðrar grundvallarbreytingar sem styrkja stöðu þingmanna. Við sjáum bara eitt dæmi sem ég hef nefnt fyrr í dag, Byrgið. Þingið hefur engin tök á því að kanna það mál og fylgja því eftir, nánast engin, og það segir allt sem segja þarf um það hvað við erum vopnlaus, frú forseti, í viðureign við ofríkisfullt ríkisvald.



[13:54]
Valdimar L. Friðriksson (U):

Frú forseti. Ég vil leyfa mér að taka undir flest það sem hér hefur verið sagt og verð að viðurkenna að mér finnst ekki rétt af æðsta forseta þingsins að koma fram með slík ummæli eins og hér var farið yfir áðan sem í raun er erfitt að túlka öðruvísi en sem hótun, nema það sé samkvæmt þingsköpum að forseti geti í raun og veru ráðið því hvort ræðutíminn verður styttur eða ekki. Það væri fróðlegt að fá að vita það, frú forseti, hvort það sé í raun og veru vald sem forsetinn hefur. Ekki veit ég það en varðandi ræðutíma ítreka ég enn og aftur að það hefur enginn gert neitt samkomulag við mig varðandi ræðutíma, það hefur enginn samið um það við mig að ég tali lengi eða stutt.

Ég reifaði í gær í nokkuð langri ræðu réttindi starfsmanna Ríkisútvarpsins og benti m.a. á það hvernig er verið að skerða réttindi og kjör starfsmanna Ríkisútvarpsins með þessu frumvarpi, með því að kippa hreinlega úr sambandi ákveðnum lögum, lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Ég benti á þetta sem ég tel vera galla í frumvarpinu en það má vel vera að þetta sé vísvitandi gert og þá er það hreinlega spurning hvort ekki sé betra fyrir framkvæmdarvaldið að krukka þá í lögin beint heldur en að koma svona aftan að fólki með því að kippa þessu úr sambandi í frumvarpinu.

En varðandi störf þingsins þá er ég eins og fleiri, frú forseti, farinn að sakna þess að hér skuli ekki vera komin á dagskrá utandagskrárumræða um Byrgið sem ég tel afskaplega þýðingarmikið og jafnframt bendi ég á þau mál sem hér bíða, þar má m.a. nefna stjórnarfrumvörp um almenn hegningarlög, um kynferðisafbrot sem við höfum beðið lengi eftir að fá að ræða, einnig þingsályktunartillögur um afnám verðtryggingar lána sem hafa verið nokkuð hátt í umræðunni undanfarið og ég vildi gjarnan að færi að koma á dagskrá. Hér bíður mál um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna, málefni aldraðra, málefni heyrnar- og talmeinastöðvarinnar, um almannatryggingar og málefni aldraðra o.s.frv. Hér bíða fjölmörg góð mál en því er haldið fram að gert hafi verið samkomulag um að ekkert komist á dagskrá fyrr en búið er að ræða RÚV-frumvarpið út. Ég ítreka enn og aftur, slíkt samkomulag var aldrei gert við mig. Ég veit ekki um hvað menn eru að tala. Ég mundi gjarnan vilja fá það helst á prenti, hvað fór fram á þessum fundi, hvar fór hann fram, hverjir voru þar og voru allir þar allsgáðir?



[13:57]
Forseti (Rannveig Guðmundsdóttir):

Vegna fyrirspurnar sem beint hefur verið til forseta bendir forseti þingmönnum á 57. gr. þingskapa um takmörkun umræðna auk þess sem forseti vill taka það sérstaklega fram að sú er hér stendur þekkir ekki nein áform þess að til standi að takmarka þá umræðu sem hér fer fram.



[13:58]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Það er náttúrlega orðið afar sérstakt þegar einn ráðherra, þótt hæstv. menntamálaráðherra sé, getur ráðið því jafnvel út þessa viku eða lengur hvernig staðið verður að verki í hv. Alþingi. Það er líka sérstætt að hæstv. forseti þingsins skuli samþykkja það vinnulag að þannig sé að málum staðið að öllu sé rutt til hliðar.

Ég kannast ekki við það, hæstv. forseti, að samkomulag sem gert var fyrir jól hafi náð til þess að ýta burtu umræðum utan dagskrár eða fyrirspurnum sem hér eru venjulega á dagskrá einu sinni í viku. Ég hélt að samkomulagið hefði náð til þess að það yrðu kannski ekki önnur frumvörp eða þingsályktunartillögur teknar á dagskrá meðan þetta mál væri til umræðu. Ég vil spyrja hæstv. forseta sem situr á stóli núna hvort hæstv. forseti viti til þess, svo við fáum um það upplýsingar, hvort hér eigi að taka kvöldumræðu í kvöld eða jafnvel fram á nóttina þriðja daginn í röð. Ég held að það hafi ekki verið venja í þingsölum að þannig væri staðið að verki. Niðurstaða mín af þessu vinnulagi er einfaldlega sú að ráðherrann ræður þessari för og hann fær að komast upp með það með vilja og samþykki forseta þingsins. Fyrirspurnum er rutt til hliðar og utandagskrárumræðum er rutt til hliðar. Það tel ég að hafi ekki falist í því samkomulagi sem gert var um málsmeðferð í þinginu fyrir jól.

Það er líka rétt að vekja athygli á því, hæstv. forseti, að að því er ég þekki best til hefur ríkisstjórnin fengið að keyra fram með nánast öll sín mál á undanförnum árum en stjórnarandstaðan hefur fyrir náð og miskunn fengið að koma fram einu eða tveimur málum og jafnvel látið að því liggja í þinglok hvaða mál ætti hugsanlega að taka út úr nefnd til að það fengi að rúlla í gegn og þá valið eitthvað sem stjórnarliðum fannst ekki skipta miklu máli.



[14:01]
Forseti (Rannveig Guðmundsdóttir):

Vegna fyrirspurnar hv. þingmanns vill forseti upplýsa að eina vitneskjan sem forseti hefur um málið er að gengið hefur verið frá svokallaðri forsetavakt alla vikuna til og með föstudegi. Eini fundur forsætisnefndar var á mánudaginn, en eins og þingmönnum er kunnugt er samkomulag um framvindu þingstarfa afgreitt á fundum forseta og þingflokksformanna. (GAK: … forsetavakt … á miðnætti alla daga.) Það er ekki tímasetning á forsetavakt önnur en að það er kvöldvakt.



[14:01]
Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Sú umræða sem fer hér fram um fundarstjórn forseta hefur í raun og veru fjallað um sjálfstæði þingsins, fyrst og fremst gagnvart framkvæmdarvaldinu. Framkvæmdarvaldið hefur öll tök á þinginu. Það er greinilegt að undir það ok ganga þeir sem styðja ríkisstjórnina. Það er ekki þar með sagt að við í stjórnarandstöðunni föllumst á að það eigi bara yfir okkur að ganga hér.

Menn kvarta undan því að þetta mál sé tekið í gíslingu. Hvaða mál hefur fengið meiri tækifæri hér í þinginu á þessu kjörtímabili en þetta? Er þetta ekki í þriðja skiptið sem tíma þingsins er eytt í mál sem hefur verið svo illa undirbúið að því hefur verið breytt í hvert einasta skipti sem aftur hefur verið komið með það inn?

Við almennir þingmenn megum hins vegar búa við það að mál sem við höfum lagt hér fram jafnvel ár eftir ár fá ekki umræðu í þinginu, ekki eina umræðu, komast aldrei á dagskrá þingsins. Þetta er auðvitað gjörsamlega óviðunandi og það er ekki lýðræðislegt að hafa slíkt fyrirkomulag. Þegar menn ræða um að breyta þingsköpum hljóta menn að þurfa að taka á þeim málum þannig að hér komist á fyrirkomulag sem er eðlilegt og lýðræðislegt og að mál fái hér afgreiðslu. Stjórnarmeirihlutinn hefur viljað koma í veg fyrir það. Mönnum hefur fundist þægilegra að drepa mál stjórnarandstæðinga eða almennra þingmanna með því að þau komi annaðhvort aldrei hér til umræðu eða séu svæfð í nefndum þannig að stjórnarliðið þurfi ekki að standa í því að greiða atkvæði kannski gegn einhverjum frumvörpum sem ríkisvaldinu sem hverju sinni ríkir er ekki geðfellt að verði samþykkt.

Þetta er óviðunandi ástand og menn þurfa að leita að sameiginlegri niðurstöðu um það hvernig sjálfstæði þingsins verður tryggt. Það verður ekki gert öðruvísi en að taka ráðin af framkvæmdarvaldinu að einhverju leyti. Við getum ekki búið við svona fyrirkomulag. Við vitum það í gegnum langan tíma í Alþingi að hér hafa mál farið fram og verið samþykkt á Alþingi þó að það sé ekki raunverulegur meiri hluti fyrir þeim, einfaldlega vegna þess að það er um það samið í ríkisstjórn: Það skal í gegn, og menn rétta upp hendurnar með þeim í þingsal.



[14:05]
Hlynur Hallsson (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér fundarstjórn hæstv. forseta. Hæstv. forseti nefndi áðan 57. gr. þingskapa Alþingis en sú grein fjallar einmitt um takmörkun ræðutíma. Þessi umræða er í framhaldi af viðtali sem mér skilst að 1. forseti þingsins hafi veitt fréttamanni á Stöð 2 í hádegisfréttunum í dag. Ég missti því miður af hádegisfréttunum, hér var þingfundur til klukkan eitt og mér gafst ekki tækifæri til að sjá þessar fréttir en mun auðvitað skoða síðar mjög vel þetta viðtal við hæstv. forseta.

Mér skilst á ræðumönnum hér á undan að hæstv. forseti hafi talað um að jafnvel kæmi til greina að takmarka ræðutíma þingmanna en ég mun kanna það. Ég mundi mjög gjarnan vilja fá að vita, frú forseti, hvort þessari 57. gr. hafi oft verið beitt hér í þinginu á síðustu árum, eða hefur henni einhvern tíma verið beitt, frú forseti? Nú spyr ég bara sem óbreyttur varaþingmaður. Ég þekki ekki störf þingsins síðustu árin, hvað þá áratugina, það vel að ég eigi svör við svona og spyr því mér þingreyndara fólk. Sú sem nú situr á forsetastóli er einmitt búin að vera hér lengi góður og dyggur þingmaður og getur vonandi upplýst mig um hvernig þessari grein, sem mér þykir nokkuð merkileg og hún er auðvitað mjög róttæk, 57. gr. um takmörkun umræðna, hafi verið beitt.

Það væri mjög sorglegt, frú forseti, ef grípa þyrfti til þessarar greinar og það er í raun og veru líka mjög sorglegt að það þurfi þá að hóta því að þessari grein verði beitt, frú forseti.



[14:08]
Forseti (Rannveig Guðmundsdóttir):

Vegna fyrirspurnar þingmannsins kannast sú er hér stendur ekki við að því hafi nokkurn tíma verið beitt að forseti hafi takmarkað umræður þó að það sé auðvitað öllum kunnugt sem hafa verið hér um tíma að þingmenn hafa komið sér saman um að umræður standi einhvern tiltekinn tíma.

Forseti áréttar jafnframt að forseti þekkir ekki til þess að nokkur umræða hafi farið fram um að beita einhverri takmörkun á ræðutíma í þessari umræðu. Forseti undirstrikar það.



[14:08]
Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Sú umræða sem nú fer fram undir liðnum fundarstjórn forseta skiptir miklu máli. Hún snýst um grundvallaratriði í störfum og starfsháttum þingsins og hún er farin að fjalla um samskipti Alþingis við hæstvirta ráðherra og ríkisstjórn.

Ég get alveg viðurkennt að eitt af því sem hefur komið mér mest á óvart þann tíma sem ég hef setið hér á Alþingi er einmitt hvernig þessum samskiptum milli hæstvirtra ráðherra og Alþingis er háttað. Ég gerði mér grein fyrir því sem áhorfandi utan frá að ráðherrarnir höfðu hér mikil áhrif á störf þingsins og höfðu mikil áhrif á framvindu og hvernig mál gengju fyrir sig. Ég verð þó að viðurkenna alveg um leið að ég gerði mér enga grein fyrir því að þetta væri svona svakalegt eins og ég hef upplifað það frá því að ég settist hér á þingbekki. Það verður að segjast alveg eins og er að framkvæmdarvaldið ræður þinginu í einu og öllu, nema framkvæmdarvaldið hefur enn ekki vald yfir ræðutíma stjórnarandstöðuþingmanna. Að öðru leyti fara þingstörf að öllu leyti eftir óskum, kröfum og vilja framkvæmdarvaldsins og einstakra ráðherra. Ég veit að þetta eru stór orð en svona er þetta og ég held að við ættum bara að vera heiðarleg við okkur sjálf, sem sitjum hér, og viðurkenna þetta.

Þess vegna kemur mér á óvart í svona grundvallarumræðu, sem skiptir miklu máli, að þeir fáu stjórnarþingmenn sem í salnum sitja telji sig ekki þurfa að taka þátt í umræðunni. Annaðhvort vita þeir upp á sig skömmina eða þeir treysta sér ekki til að koma hingað og verja það að verklagið sé með þessum hætti. Eins og verklagið er liggur mér við að segja að það skipti sáralitlu máli hvaða stjórnarþingmenn sitja hér á Alþingi, einfaldlega vegna þess að það eru ráðherrarnir sem ráða og stjórnarþingmennirnir sem beygja sig undir vilja ráðherranna.

Ég held að það sé kominn tími til þess fyrir hv. stjórnarþingmenn að gera sér grein fyrir því að þeir eru kjörnir alþingismenn. Þeir eiga að hafa skoðanir og þeir eiga að taka hér þátt í umræðu. Þeir eiga ekki að beygja sig undir þetta sjálfgefna ok sem framkvæmdarvaldið virðist hafa lagt á herðar þeirra. Það tekur afar stuttan tíma að beygja unga þingmenn sem koma hér inn, það tekur afar stuttan tíma að setja okið á herðar þeirra þannig að þeir fari að kinka hér kolli eins og allir hinir. Þetta er alvarlegt mál, frú forseti.



[14:11]
Valdimar L. Friðriksson (U):

Frú forseti. Þetta var mikil tímamótaræða sem hv. þm. Jón Gunnarsson flutti hér, hún var eins og töluð út úr mínum huga. (Gripið fram í: … tímamótin.) Já, ég hélt um tíma að ég væri einn með þessar vangaveltur en eins og kom fram í minni ágætu og örstuttu ræðu í gær sem væntanlega allir þingmenn hafa hlustað á — (Gripið fram í: Já, hún var örstutt.) já, hún var í styttra lagi og bara aðdragandi að seinni ræðu — vitnaði ég í varaþingmann Framsóknarflokksins, einn af þessum ungu og efnilegu þingmönnum sem því miður eiga margir það til að láta beygjast undir flokksvaldið eins og hv. þm. Jón Gunnarsson gaf hér í skyn. Varaþingmaður þeirra, Eygló Harðardóttir, tók það fram einmitt bæði í blaðagrein og síðan líka í viðtali í sjónvarpi hvað henni blöskruðu starfshættir á Alþingi. Það er sérstakt að varaþingmaður Framsóknarflokksins skuli opna þessa umræðu því að hún er þá í raun og veru að skamma sinn eigin flokk. Það eru að sjálfsögðu þeir sem ráða í Framsóknarflokknum sem stýra því hvernig þingið starfar. Það er mjög miður, frú forseti, að það skuli vera þannig eins og kom fram hjá varaþingmanni Framsóknarflokksins að lagafrumvörpin koma nánast tilbúin, að hennar áliti, frá starfsfólki ráðuneyta, og eftir blessun frá ráðherrum er ekki ætlast til, eins og Eygló orðaði það, að þingnefndir krukki í þau. Þetta er háalvarlegt mál. Hvað erum við þá að gera hér á þingi? Er þetta bara sjónarspil? Til hvers eru þessir nefndarfundir, til hvers eru þessir 150 gestir sem forsvarsmaður menntamálanefndar er stöðugt að hæla sér af að hafi verið kallaðir fyrir á fundi? Er ekkert hlustað á þá? Þetta eru störf þingsins sem ég er að ræða hérna. Mér finnst mjög magnað að varaþingmaður Framsóknarflokksins skuli voga sér að uppljóstra um það hvernig Framsóknarflokkurinn starfar á þingi.

Þingmenn ráða í sjálfu sér engu, það er bara framkvæmdarvaldið, og hinn almenni þingmaður í stjórnarflokkunum er gjörsamlega knésettur af ráðherrunum, því miður. Þetta er varaþingmaður Framsóknarflokksins búinn að viðurkenna og, frú forseti, þetta finnst mér stóralvarlegt mál og mjög mikil ádeila á störf a.m.k. núverandi stjórnarflokka. Það er kannski merki um það hvað þeir eru búnir að sitja lengi og gleyma sér.



[14:15]
Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það má taka undir margt sem sagt hefur verið í þessari umræðu. Ég held að þeir sem setið hafa hér um skeið geti vottað það og viðurkennt að þinginu hefur þó fleygt fram, a.m.k. frá því sem var fyrir áratug eða svo. Aðstaðan í þinginu hefur batnað til mikilla muna og möguleikar þingmanna á því að setja sig vel inn í mál. Það hefur margt verið fært til betri vegar. Þetta skiptir máli og það er mikilvægt að hafa þetta í huga. Þess vegna, og einkanlega í ljósi þeirrar þróunar sem hér hefur verið um nokkurra ára skeið, koma ummæli hæstv. forseta mjög á óvart, að mótmæli stjórnarandstaðan af krafti máli sem hún hefur sannfæringu fyrir að sé vont og vill berjast gegn, sé lausnin sú að takmarka málfrelsi þingmanna, að það sé lausnin þegar stjórnarandstaðan reynir að koma, leyfi ég mér að segja, vitinu fyrir ríkisstjórnina í þessu máli.

Þetta er mælt af vörum hæstv. forseta Alþingis, forseta allra þingmanna. Í þessum orðum felst það í raun og veru að leyfi þingmenn sér þann munað að berjast gegn viðhorfum ríkisstjórnarinnar sem hér fer nánast alfarið með ferðina, þá skuli bregðast við á þennan hátt. Það lýsir ekki mikilli virðingu fyrir störfum þingsins að gera þetta á þennan hátt.

Ég held að sú umræða sem hér hefur farið fram eigi eftir að halda áfram. Ég held að það sé afar mikilvægt að við eigum þessa umræðu við forseta þingsins, að hún verði viðstödd þessa umræðu þannig að við getum skipst hér á skoðunum. Það er mjög athyglisvert að ekki einn einasti stjórnarþingmaður hefur enn tekið til máls (Gripið fram í.) til að fjalla um þá umræðu sem hér hefur farið fram. Vel má vera að það takist að særa einhvern upp í þessa umræðu en enn hefur enginn stjórnarþingmaður fundið sig knúinn til að koma upp í ræðustól og ræða ummæli forseta þingsins sem höfð voru eftir henni á Stöð 2 núna í hádeginu.



[14:17]
Dagný Jónsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að ég hlustaði ekki á hádegisfréttirnar og ætla því ekki að tjá mig beint um þær. Hins vegar vildi ég kveðja mér til hljóðs til að ræða örstutt um það sem menn hafa verið að ræða hér varðandi þingsköpin.

Við vitum að við erum með þau þingsköp sem gilda núna og auðvitað starfar fólk eftir þeim. Það er enginn að tala um að skerða ræðutíma þingmanna í þessari umræðu. En af því sem mér hefur skilist tilkynnti hæstv. forseti það þegar hún tók við sem forseti þingsins að hún mundi beita sér fyrir endurskoðun á þingsköpum. Ég tel það vera hið besta mál. Það eru mörg atriði sem við þurfum að skoða þar. Það er mikilvægt fyrir okkur að það verði engar breytingar gerðar nema í sátt við alla. Það er það sem skiptir máli. Þó svo að einhverjir lýsi yfir skoðunum á því hvað þeim fyndist vera æskilegt, þá er það engin niðurstaða. Ég vona að það sé skilningur allra hv. þingmanna að þingsköpum verði ekki breytt nema í sátt við alla.

Margir hafa rætt um að það sé kannski tilefni til þess, virðulegi forseti, að stytta ræðutíma þingmanna. Ég ætla ekkert að úttala mig um það. Ég held að það séu mörg önnur atriði sem við ættum ekki síður að horfa á varðandi þingsköpin. Fulltrúar allra flokka hafa nýtt sér ótakmarkaðan ræðutíma til að koma skoðunum sínum á framfæri. Það er þeirra tæki.

Ég vildi líka vísa því á bug hér, virðulegi forseti, að nefndir séu ekki að breyta og vinna í málum. Þetta er algjör fjarstæða. Við vitum það sem sitjum hér í atkvæðagreiðslum um margar breytingartillögur að nefndir eru að vinna mjög fagmannlega að málum og gera margar breytingartillögur. Ég vísa því þess vegna til föðurhúsanna að nefndir á hinu háa Alþingi vinni ekki að því að breyta málum til betri vegar þegar ástæða er til. Við höfum t.d. dæmi hér í frumvarpi til laga um Ríkisútvarpið þar sem fjölmargar breytingar hafa verið gerðar á því frumvarpi.

Virðulegi forseti. Ég vildi bara koma upp og greina frá því að það er auðvitað svo að breytingar á þingsköpum verða ekki gerðar nema í sátt við alla. Sumir hafa kannski þá skoðun að stytta mætti ræðutíma þingmanna en að svo stöddu þá störfum við samkvæmt þeim þingsköpum sem eru í gildi og þau kveða á um ótakmarkaðan ræðutíma.



[14:20]
Einar Már Sigurðarson (Sf):

Frú forseti. Það er rétt að þakka hv. þm. Dagnýju Jónsdóttur fyrir orð hennar hér. Það er augljóst að hv. þingmaður er sammála okkur sem höfum verið að tjá okkur um ummæli virðulegs forseta. Það er ekki hægt að skilja ummæli hv. þingmanns öðruvísi þegar hún segir að það verði engar breytingar gerðar nema í sátt við alla. Hárrétt, en eins og hv. þingmaður benti á sagði virðulegur forseti í fyrstu ræðu sinni að það væri tilgangur hennar að breyta þingsköpum. Við vitum ekki betur en að það sé ferli í gangi að sinna þeim breytingum og þar sé reynt að ná sátt við alla. Þess vegna eru ummæli forseta nú í hádeginu enn verri tíðindi vegna þess að það er hlutverk forseta að ná sátt um mál en ekki að tjá skoðanir sínar í bútum á einstaka þáttum málsins, ef það er í raun og veru áhugi fyrir því hjá virðulegum forseta að ná sátt um málið. Því miður er ekki hægt að skilja ummæli eins og þessi öðruvísi en svo en að stefnt sé á það að ná ekki sátt um málið. Vegna þess að þá hefði virðulegur forseti væntanlega sagt að þetta væri hluti af því sem rætt væri um en á móti þyrfti auðvitað ýmislegt annað að koma til að tryggja stjórnarandstöðunni stöðu sína í þinginu. Þetta er lykilatriði. Ég vil því enn á ný þakka hv. þingmanni fyrir ummælin sem eru algjörlega í anda þess sem við höfum verið að segja hér.

Það er líka rétt hjá hv. þingmanni að vissulega er oft unnið mjög gott starf í nefndum. Við höfum talað um að að stórum hluta hafi t.d. vinnan í menntamálanefnd við frumvarpið um Ríkisútvarpið verið til sóma, enda ýmsar breytingar á því frumvarpi verið gerðar og ég held að ég geti fullyrt allar til bóta. Það sýnir auðvitað hversu illa frumvarpið var unnið í upphafi. En, virðulegi forseti, málið er auðvitað þannig að breytingarnar sem gerðar hafa verið hafa ætíð verið bornar undir hæstv. ráðherra og ráðherra og framkvæmdarvaldið hafa alltaf þurft að samþykkja slíkt. Þetta sjáum við því miður allt of oft í nefndum. Dæmið sem við sáum skýrast var auðvitað í lok nefndarstarfanna þegar bæði formaður og varaformaður menntamálanefndar létu þau ummæli falla hvernig staðið var að kynningu á ESA- gögnunum. Þá hefðu hv. þingmenn auðvitað átt að segja við framkvæmdarvaldið, ef þeir hefðu haft kjarkinn og duginn: Hingað og ekki lengra. Nú gefum við okkur tíma til að fara yfir gögnin en látum ekki duga að skima aðeins yfir bunkann og segja að hér sé ekkert sem um þurfi að fjalla. Og láta þar með framkvæmdarvaldið ákveða hvernig við högum nefndarstörfum í þinginu.

Meginvandamálið er að við þurfum að tryggja sjálfstæði þingsins, löggjafarvaldsins, gagnvart framkvæmdarvaldinu. Til þess þurfum við í stjórnarandstöðunni að sjálfsögðu liðsinni kröftugra þingmanna í stjórnarliðinu.



[14:24]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ummæli Sólveigar Pétursdóttur forseta í hádeginu um takmörkun á ræðutíma þingmanna hafa að vonum vakið athygli í þinginu. Það er því miður svo að forseta hefur ekki verið unnt að vera viðstödd þessa umræðu. Ég tel að forseti hefði átt að átta sig á því, úr því að hún gat ekki verið viðstödd umræðuna á eftir, að þá hefði hún kannski átt að haga orðum sínum öðruvísi í hádegisfréttunum. Því það hlýtur að vera frumskylda forseta þingsins að standa við ummæli sín og skýra þau út fyrir þinginu sjálfu og vera reiðubúinn til þess þegar forseta hlýtur að renna í grun hver viðbrögð verða við ummælum eins og viðhöfð voru í hádegisfréttum Stöðvar 2.

Það hlýtur því að gerast þegar forseti kemur í hús og verður viðstödd umræðuna, annaðhvort í salnum eða í forsetastóli, að þá verði meginatriði hennar tekin upp aftur — og ég bið um að þeim skilaboðum sé komið til forseta að skilningur okkar sé sá að þetta hljóti að vera þannig. Heppilegast er auðvitað að forseti taki sjálf upp þessa umræðu og skýri fyrir okkur hvað átt var við í þessum hádegisfréttum. Vegna þess að þau orð koma ekki fram sem almenn yfirlýsing, eins og menn geta séð þegar þeir skoða fréttina aftur á netinu eða útskrift af henni, heldur koma þau fram í framhaldi af umræðum um nákvæmlega þetta þingmál. Það bætist við að forseti kemur með þessa skoðun sína í miðju nefndarstarfi sem hér er stundað um þingsköp og endurskoðun á þeim. Ég geri ekki ráð fyrir að slík ummæli almennt verði til að hjálpa slíku starfi.

Forseti stendur því miður þannig, þremur mánuðum áður en störfum Sólveigar Pétursdóttur, hv. þingmanns og forseta Alþingis lýkur, að hvorugt af því sem hún hét í fyrstu ræðu sinni á þinginu, að skapa annars konar starfshætti hér og meira í samræmi við nútímann og það fjölskyldulíf sem við leggjum upp úr og hins vegar að reyna að ná almennri samstöðu á þinginu um skynsamlegri starfsreglur, er líklegt að verði að nokkrum einasta veruleika. Þá ábyrgð ber því miður fyrst og fremst forseti þingsins sjálf.



[14:27]
Forseti (Rannveig Guðmundsdóttir):

Eins og áður hefur komið fram mun forseti sjá til þess að þeim ábendingum sem hér hafa komið fram verði til skila komið. Forseti telur fullvíst að hæstv. þingforseti Sólveig Pétursdóttir muni hvenær sem er ræða þessi mál við þingmenn og vilji eiga góða sátt við þá um framvindu mála.