135. löggjafarþing — 76. fundur
 6. mars 2008.
norræna ráðherranefndin 2007, ein umræða.
skýrsla samstrh., 452. mál. — Þskj. 722.

og 

norrænt samstarf 2007, ein umræða.
skýrsla ÍNR samstrh., 451. mál. — Þskj. 719.

og 

Vestnorræna ráðið 2007, ein umræða.
skýrsla ÍVN samstrh., 444. mál. — Þskj. 707.

og 

norðurskautsmál 2007, ein umræða.
skýrsla ÍNSM samstrh., 450. mál. — Þskj. 715.

[10:58]
Forseti (Sturla Böðvarsson):

Tekið er fyrir 2. dagskrármálið en áður en gengið er til þeirrar umræðu vill forseti geta þess að samkomulag er um að mælt verði fyrir 2.–5. dagskrármálinu og síðan farið í umræður um þau sameiginlega. Því er tekið fyrir 2. dagskrármálið, Norræna ráðherranefndin 2007, skýrsla, ein umræða. Til máls tekur hæstv. samgönguráðherra sem gegnir störfum samstarfsráðherra Norðurlandanna í forföllum hæstv. iðnaðarráðherra.



[10:58]
samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir skýrslu samstarfsráðherra Norðurlanda um störf norrænu ráðherranefndarinnar árið 2007 í fjarveru hæstv. samstarfsráðherra Össurar Skarphéðinssonar.

Alþjóðavæðingin og þær áskoranir sem af henni leiðir voru í fyrirrúmi á norrænum vettvangi á árinu. Finnar, sem gegndu formennsku í ráðherranefndinni lögðu í formennskuáætlun sinni megináhersluna á að auka möguleika landanna á að svara áskorunum hnattvæðingarinnar. Og enn var hnykkt á þegar forsætisráðherrarnir settu starfsemi ráðherranefndarinnar nýja dagskrá á fundi sínum í júní í Finnlandi. Það var gert í formi yfirlýsingar sem kennd er við fundarstaðinn, Punkaharju.

Í yfirlýsingunni segir að Norðurlönd skuli sameinast um að nýta eftir mætti þau tækifæri sem falist geti í hnattvæðingunni með því að þróa áfram norræna módelið þar sem velmegun íbúa, samkeppnishæfni fyrirtækja, atvinnusköpun og hagvöxtur, sameiginleg menning og sjálfbær þróun eru í öndvegi.

Forsætisráðherrarnir lögðu fyrir samstarfsráðherrana að aðlaga innra skipulag ráðherranefndarinnar og norrænu fjárlögin að því þverfaglega samstarfi sem til þyrfti til að ná þessum markmiðum. Þá töldu þeir upp ekki færri en fjórtán misstór verkefni sem vinna skyldi hafin við og kváðu svo á um að lagðar yrðu allt að 60 milljónum danskra króna á fjárlögum ársins til þessarar nýju starfsemi. Forsætisráðherrarnir lögðu jafnframt á það áherslu að reglulegt samráð yrði haft við Norðurlandaráð og stöðuskýrsla lögð fyrir næsta forsætisráðherrafund sem haldinn var í tengslum við Norðurlandaráðsþing í Ósló.

Framkvæmdastjóri norrænu ráðherranefndarskrifstofunnar lagði þegar í upphafi á það áherslu að nauðsynlegt væri að beita meiri miðstýringu en venja er í norrænu samstarfi til að framvindan yrði nægilega hröð og var sú leið valin. Og þegar litið er til þess hve skammur tími var til stefnu fram að næsta fundi forsætisráðherranna, skyldi engan undra að vel skyldi hafa þurft að halda á spöðunum. Ekki ætti það frekar að vekja undrun að ýmsum úr hópi þingmanna, ráðherra og embættismanna skuli vegna þessa á stundum hafa þótt nokkur fljótaskrift á samráðinu.

Einlægur áhugi er í hópi samstarfsráðherranna á að ráða bót á þessum vanköntum og ég vil fullvissa fulltrúa Íslands í Norðurlandaráði og aðra alþingismenn um að samstarfsráðherra Íslands telur það nauðsynlega forsendu þess að árangur náist að þingmenn og viðkomandi fagsvið verði framvegis með í ráðum og mun gera það sem í hans valdi stendur til að svo verði.

Hæstv. forseti. Ég mun nú lýsa stuttlega þeim fjórtán verkefnum sem forsætisráðherrarnir kölluðu eftir því einhver misbrestur virðist hafa verið á upplýsingagjöf um þau. Fyrst vil ég nefna norræna áætlun um hágæðarannsóknir á loftslagsbreytingum, umhverfi og hreinni orku, sem lögð verður fyrir fund forsætisráðherranna í júní. Þetta er stórt og afar mikilvægt verkefni sem vonir eru bundnar við að geti orðið árangursríkt. Þó ber að benda á að forsenda ásættanlegs árangurs er að fyrirhuguð starfsemi verði ekki bara kostuð af norrænum fjárveitingum heldur einnig af löndunum beint og atvinnulífinu. Á grundvelli reynslu sem fæst af undirbúningi þessarar áætlunar verður síðan gerð sams konar rannsóknaráætlun á sviði heilbrigðis- og velferðarmála.

Þá kölluðu forsætisráðherrarnir eftir því að skoðaðir yrðu möguleikar þess að opna norrænar nýsköpunarmiðstöðvar í Asíu og víðar. Finnland, Danmörk og fleiri ríki hafa þegar opnað slíkar miðstöðvar á nýjum markaðssvæðum í fjarlægum löndum. Þær eru reknar með mismunandi hætti en oftast í tengslum við sendiráð landanna. Könnun á möguleikum þessa er hafin en þegar er ljóst að samstarf um slíka starfsemi er einungis mögulegt á þeim stöðum þar sem ekki eru nýsköpunarmiðstöðvar fyrir. Ómögulegt er að segja fyrir um niðurstöðuna en hitt er ljóst að Ísland, sem hefur ekki burði til að reka nýsköpunarmiðstöðvar víðs vegar um heim, hefði hag af slíku samstarfi.

Forsætisráðherrarnir kölluðu einnig eftir því að lögð yrði fyrir Norðurlandaráð tillaga um að stofnað verði til nýsköpunarverðlauna fyrir norræn gæði. Verið er að undirbúa málið í samráði við viðkomandi nefndir Norðurlandaráðs og fleiri með það að markmiði að leggja tillögu fyrir forsætisráðherrana um mitt ár. Vitað er að innan Norðurlandaráðs eru ákveðnar efasemdir um að skynsamlegt sé að stofna til enn einna norrænna verðlauna en markmiðið er að finna lausn sem sátt getur ríkt um.

Það er brýnt að Norðurlönd leggi sitt af mörkum til að árangursrík niðurstaða náist í samningum um nýjan loftslagssamning eftir 2012 þegar Kyoto-samningurinn rennur út. Til að svo geti orðið er mikilvægt að samstaða náist um nýjan samning á leiðtogafundi Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn um loftslagsmál í desember 2009. Því er unnið að því að greina ákveðin vandamál sem Norðurlönd gætu sameiginlega stuðlað að lausn á.

Í samræmi við tilmæli forsætisráðherranna er einnig stefnt að því að Norðurlönd kynni sig sameiginlega í tengslum við leiðtogafundinn í Kaupmannahöfn sem svæði sem er í fararbroddi, hvað varðar umhverfisvæna og endurnýjanlega orkugjafa og sjálfbærar orkulausnir. Áhersla verður einnig lögð á að atvinnulífinu verði þar búinn góður vettvangur til að kynna sig og styrkja í sessi.

Á heimssýningunni í Sjanghæ 2010 verða Norðurlönd ekki með sameiginlegan sýningarskála, en unnið er að því að þau sameinist allt að einu um einstaka viðburði eða sýningar undir yfirskrift sýningarinnar „Betri borgir – betra líf“. Eitt af því sem kannað verður er hvort endurnýta megi eitthvað af því sem löndin hyggjast sameinast um í tengslum við leiðtogafundinn í Kaupmannahöfn.

Forsætisráðherrarnir hafa kallað til sérstaks hnattvæðingarþings í Norður-Svíþjóð í byrjun apríl. Ætlunin er að slík þing verði árlegur viðburður þar sem skipst verður á skoðunum og hugmyndum um viðbrögð landanna við hnattvæðingunni. Þema þingsins verður að þessu sinni loftslag og orka með sérstöku tilliti til samkeppnisfærni. Til þingsins hefur verið boðið fulltrúum atvinnulífsins, vísindasamfélagsins, stjórnmálamanna og frjálsra félagasamtaka.

Á árinu var lagður grunnur að sérstökum samstarfsvettvangi um afnám stjórnsýsluhindrana á Norðurlöndum. Starfsemin er nú hafin og fulltrúi Íslands þar er Guðríður Sigurðardóttir, fyrrverandi ráðuneytisstjóri. Vonir eru bundnar við að þessi nýskipan gefi góða raun. Til að svo verði þarf skilning í löndunum bæði meðal alþingismanna en ekki síður í stjórnsýslunni á því að nauðsynlegt getur reynst að breyta lögum og reglum til að þeir sem flytja milli landanna missi ekki við flutninginn rétt sinn samkvæmt Helsinki-samningnum.

Árið 2004 samþykktu rannsókna- og atvinnumálaráðherrar Norðurlanda ályktun um að gera Norðurlönd að framúrskarandi svæði á sviði rannsókna og nýsköpunar, sem nefnt var NORIA. Forsætisráðherrarnir leggja á það þunga áherslu að þessu ferli verði hraðað og því gefið aukið vægi í samstarfinu. Undirliggjandi er það markmið að styrkja Norðurlönd á heimsvísu með opnum og sameiginlegum markaði fyrir rannsóknir og nýsköpun.

Enn eitt markmiðið sem forsætisráðherrarnir settu samstarfi landanna og unnið er að, er að gera Norðurlönd að aðlaðandi svæði til náms og rannsókna á æðri stigum með því að efla tengsl milli norrænna háskólastofnana.

Þá er unnið að verkefnaáætlun um bætta menntun fyrir ungmenni og fullorðna í því skyni að auka fjölda þeirra sem afla sér menntunar eftir grunnskóla. Hún stefnir og að því að auka þekkingu á hvernig best megi haga lestrar- og skriftarkennslu fyrir fullorðna.

Skapandi atvinnugreinar eru meðal þess sem efla skal í samræmi við áherslur forsætisráðherranna. Löndin vinna hvert um sig að því að auka vægi skapandi atvinnugreina þó enn séu miklir þróunarmöguleikar vannýttir. Markmiðið er að gera Norðurlöndum kleift að markaðssetja sig sem svæði sem tekur öðrum fram hvað varðar skapandi atvinnugreinar. Að þessu er nú unnið á grundvelli grænbókar sem norræna nýsköpunarmiðstöðin NICe lét gera síðla árs 2007.

Verið er að undirbúa viðamikla úttekt á áhrifum loftslagsbreytinga á náttúruauðæfi Norðurlanda til að varpa ljósi á þær afleiðingar sem loftslagsbreytingarnar geta haft í för með sér fyrir landbúnað, sjávarútveg, skógrækt og matvælaiðnað. Þá verður leitast við að skilgreina hvernig unnt verði að bregðast við loftslagsbreytingunum með tilliti til þessara atvinnugreina.

Fjórtánda og síðasta verkefnið sem unnið er að á grundvelli yfirlýsingar forsætisráðherranna snýr að samræmingu norræna raforkumarkaðarins í því skyni að gera hann skilvirkari og sjálfbærari en hann er í dag.

Herra forseti. Heildarrammi norrænna fjárlaga ársins 2008 er 910 milljónir danskra króna og af þeim eru fjárveitingar til alþjóðavæðingarverkefnanna fjórtán 56 milljónir danskra króna. Unnt var að hækka fjárlögin fyrir árið 2008 tímabundið um 35 milljónir danskra króna án þess að inngreiðslur frá löndunum hækkuðu að sama skapi, vegna óvenju hárrar lausafjárstöðu ráðherranefndarinnar. Vegna þessarar tímabundnu hækkunar fjárlaganna þurfti einungis að beita um 2% flötum niðurskurði til að fjármagna alþjóðavæðingarverkefnin.

Hvað varðar árið 2009 er staðan önnur því upphæð fjárlaganna verður þá sú sama að raunvirði og hún var 2007. Sú leið sem ætluð er að fara til að fjármagna alþjóðavæðingarverkefnin það ár er að beita flötum niðurskurði sem ýmist verður 2 eða 5%. Eina undantekningin eru fjárveitingar til svonefndra sameiginlegra verkefna sem eru á borði samstarfsráðherranna sem verða skorin niður um 10%. Ég get ekki gefið nákvæmari upplýsingar um niðurskurðinn því það verður á valdi viðkomandi fagráðherranefndar að ákveða hvar gripið verður niður.

Vegna þessarar lækkunar á fjárveitingunum til sameiginlegra verkefna var ákveðið að segja upp þjónustusamningi ráðherranefndarinnar við upplýsingaskrifstofur Norræna félagsins utan höfuðborganna. Þess í stað hefur nú verið ákveðið að hækka styrk ráðherranefndarinnar til Norrænu félaganna jafnmikið og þjónustusamningurinn hljóðaði upp á. Mér er ánægja að skýra frá þessu hér á Alþingi vegna þess að mál þetta hefur valdið þingmönnum Norðurlandaráðs nokkrum áhyggjum.

Staða Færeyja, Grænlands og Álandseyja hefur verið til umfjöllunar í hópi norrænu samstarfsráðherranna með hléum frá árslokum 2002. Árið 2006 var lögð fyrir ráðherrana sérfræðiskýrsla um laga- og þjóðréttarlega stöðu landanna í danska og finnska ríkinu og með tilliti til norrænna samninga. Að lokinni umfjöllun um skýrsluna skipuðu ráðherrarnir starfshóp til að móta tillögur um úrbætur á stöðu landanna í norrænu samstarfi innan þess ramma sem Helsinki-samningurinn setur. Samkvæmt tillögum starfshópsins, sem samstarfsráðherrarnir gerðu að sínum, er lagt til að ráðherrar sjálfstjórnarlandanna og embættismenn geti leitt norræna fundi fyrir hönd Danmerkur eða Finnlands, að þeir geti setið í stjórnum norrænna stofnana á sömu forsendum og fulltrúar norrænu ríkjanna og að þeir geti svarað fyrirspurnum og ályktunum Norðurlandaráðs um þau málefni sem löndin hafa yfirtekið. Samstarfsráðherrar allra sjálfstjórnarlandanna hafa lýst ánægju með tillögurnar, en Færeyingar, sem óska fullrar aðildar að samstarfinu, taka fram að umsókn þeirra um aðild standi óbreytt.

Sú starfsemi ráðherranefndarinnar sem snýr að Eystrasaltsríkjunum, Norðvestur-Rússlandi og Hvíta-Rússlandi var töluverð á árinu. Reknar eru norrænar skrifstofur í Tallinn, Ríga, Vilníus og Pétursborg þar sem fjölbreytt starfsemi fer fram. Árið var fyrsta starfsár verkefnis sem snýr að þekkingaruppbyggingu og myndun tengslaneta í Rússlandi og annað starfsár áætlunar um stuðning við frjáls félagasamtök í Rússlandi, Hvíta-Rússlandi og Eystrasaltsríkjunum. Þá var á árinu gerður samstarfssamningur við borgaryfirvöld í Pétursborg um samstarf á sviði jafnréttis-, félags- og heilbrigðismála þar sem aðgerðir gegn mansali og félagslegum vandamálum eru í fyrirrúmi.

Norræna ráðherranefndin styður bæði með fjárframlögum og á annan hátt hvítrússneskan háskóla, European Humanities University, sem starfræktur er í Vilníus vegna þess að hann missti starfsleyfi sitt í Hvíta-Rússlandi. Um 500 hvítrússneskir stúdentar stunda nú nám þar. Auk ráðherranefndarinnar veita ESB, Finnland, Svíþjóð og fleiri aðilar háskólanum fjárstuðning.

Norræna vísindasamstarfið er í meginatriðum skipulagt með aðstoð NordForsk stofnunarinnar sem hóf störf 2005. Þar er lögð rík áhersla á að laða til starfa framsæknustu aðila í vísindum til að ná fram sem sterkustum áhrifum á alþjóða mælikvarða. Sett hafa verið á stofn norræn öndvegissetur á fimm sviðum sem snúa m.a. að hug- og félagsvísindum, velferðarsamfélaginu, sameindalíffræði, matvælum, næringu og heilsu. Í tengslum við öndvegissetrin eru starfræktir norrænir rannsóknarnámsskólar og skipulagt netsamstarf rannsóknarnámsskóla á Norðurlöndum.

Til að efla samstarf háskóla á Norðurlöndum og hinn sameiginlega norræna menntamarkað á þeim sviðum þar sem Norðurlönd eru faglega sterk ákváðu menntamálaráðherrarnir á árinu að styrkja samstarf háskóla á Norðurlöndum til að setja upp og bjóða fram sameiginlega norræna meistaragráðu. Stefnt er að því að starfsemin hefjist á árinu 2008.

Gagngerri endurskipulagningu á menningarsamstarfinu lauk á árinu. Hið nýja skipulag einkennist af því að starfsemin fer nú fram samkvæmt tímabundnum áætlunum og öll yfirbygging hefur verið einfölduð mikið.

Á félagsmálasviði var unnið að undirbúningi sérstakrar gáttar um almannatryggingar sem opnuð verður síðar á þessu ári.

Til að styrkja starfsemi þá sem snýr að erfðavísum plantna og búpenings voru norrænu genabankarnir fyrir nytjaplöntur og búpening og norræna frænefndin í skógrækt sameinuð í eina stofnun, NordGen, sem verður norræn þekkingarmiðstöð um lífbreytileika nytjategunda.

Norræna ráðherranefndin leggur ríka áherslu á að eiga sem best samstarf við Norðurlandaráð. Það á við um öll svið samstarfsins en sérstaklega um norrænu fjárlögin enda brýnt að góð sátt ríki um þau þegar þau eru afgreidd á þingi Norðurlandaráðs. Til að stuðla að því eru samráðsfundir haldnir reglulega meðan á fjárlagaferlinu stendur. Ég vil í því sambandi nefna að í tengslum við fjárlög ársins 2007 lagði ráðið sérstaka áherslu á málefni Norðurskautsins, á eftirfylgni við skýrsluna Norðurlönd sem sigursvæði á heimsvísu og á norræna félags- og heilbrigðissamstarfið. Komið var til móts við óskir ráðsins með því að veita aukalega samtals 12,2 milljónir danskra króna til þessara málaflokka.

Skýrsla samstarfsráðherra um störf norrænu ráðherranefndarinnar er nú lögð fram fyrir Alþingi í tuttugasta og fyrsta sinn. Markmiðið er að varpa upp mynd af starfseminni og gefa alþingismönnum kost á að bera fram sjónarmið sín um pólitísk stefnumið og áherslur.

Virðulegi forseti. Ég varði drjúgum hluta ræðutíma míns í að gera grein fyrir áherslum forsætisráðherranna vegna þess kastljóss sem hefur verið á þeim en fjárveitingar til þeirra verkefna nema þó einungis litlu broti af heildarfjárlögum ráðherranefndarinnar. Starfsemin er því margfalt umfangsmeiri og fjölbreyttari og mér hefur einungis gefist tími til að drepa á lítinn hluta þeirra góðu verka sem unnin voru á árinu en bendi hv. þingmönnum á skýrsluna sjálfa um frekari upplýsingar.



[11:17]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil leyfa mér að segja að það er afar miður að hæstv. samstarfsráðherra Norðurlanda, Össur Skarphéðinsson, skuli ekki vera hér og þetta segi ég algerlega að hæstv. samgönguráðherra ólöstuðum sem flutti ræðu samstarfsráðherra af stakri snilld. En þetta er auðvitað mjög mikilvægt samtal sem við sem störfum í Íslandsdeild Norðurlandaráðs þurfum að eiga á opinberum vettvangi við samstarfsráðherrann. Þetta er lykilsamtal og ég geri ekki ráð fyrir að hæstv. samgönguráðherra sé undir það búinn að taka við okkur einhverja rökræðu um þau álitamál sem eru uppi í samskiptum ráðherranefndarinnar og Norðurlandaráðs.

Fyrsti hluti ræðu hæstv. ráðherra fjallaði um samstarfið fram undan og verkefnin sem varða hnattvæðingarverkefnið, 60 milljónirnar dönsku sem nú stendur ákveðinn styr um milli ráðherranefndarinnar eða ráðherranna og Norðurlandaráðs. Sá styr kristallaðist afar vel í Stokkhólmi á fundum nefnda Norðurlandaráðs núna um mánaðamótin janúar/febrúar þar sem það er ljóst að hugmyndir ráðherranna um þetta verkefni eru mjög óljósar og þingmennirnir sem starfa í deildum Norðurlandaráðs eru mjög gagnrýnir á það hvernig verja á þessum fjármunum. Það er algerlega nauðsynlegt að ráðherra Íslands sé með það á hreinu á hvern hátt íslensku þingmennirnir hafa tekið á þessum málum í starfi sínu þannig að þau skilaboð þurfa að fara héðan að ráðstöfun þessara 60 milljóna, sem eru 600 millj. íslenskar, er á miklu reiki og það er útlit fyrir að aftur verði settar 60 millj. danskar í verkefnið á árinu 2009. Við sem störfum í vinstri grænu grúppunni hefðum viljað sjá þessum fjármunum allt öðruvísi varið og viljum þar leggja áherslu á toppfundinn í Kaupmannahöfn 2009.



[11:19]
samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur að ég verð ekki til mikilla andsvara um einstök atriði úr þessari skýrslu sem ég flutti fyrir hönd hæstv. samstarfsráðherra Össurar Skarphéðinssonar og þau atriði sem hér eru. Hins vegar tek ég auðvitað eftir því að þau sem sinna norrænu samstarfi af miklum myndarskap fyrir Alþingi og sitja í Norðurlandaráði munu eiga frekari viðræður um það. Mitt verkefni verður þá að flytja hæstv. ráðherra þau atriði sem hv. þingmaður talaði um sem eru fjárveitingarnar til þessa. Ég tók líka eftir því þegar ég var að æfa mig á skýrslunni að það er vandi þarna og vonandi finnst farsæl lausn í því mikilvæga verkefni sem þarna er verið að marka vegna þess að verkefnið er sannarlega mikilvægt.



[11:20]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, það þarf að finna lausn á þessu máli, það þarf að sætta þarna ákveðin sjónarmið. Ég segi fyrir þann hóp sem ég starfa í innan Norðurlandaráðs, vinstri græni flokkahópurinn er á því að skýrslan sem við höfum mikið fjallað um og hæstv. ráðherra nefndi Norðurlönd – sigursvæði á heimsvísu, „Norden som global vinderregion“, við höfum reyndar viljað gagnrýna þessa skýrslu talsvert, okkur finnst hún æði hægri sinnuð og hefðum viljað að aðrir þættir væru látnir vega þar jafnþungt eða þyngra þegar hnattvæðingarverkefnin eru diskúteruð á vettvangi ráðsins. Við hefðum viljað segja að við eigum að fara fram til sigurs, Norðurlandaþjóðirnar, ekki endilega í nafni hnattvæðingar á forsendum fjármagns eða viðskipta heldur á forsendum þeirrar samstöðu sem við höfum náð að sýna í samfélögum okkar, á forsendum þess velferðarkerfis sem við höfum náð að byggja upp og á allt öðrum forsendum en þeim sem eru meginþráðurinn í skýrslunni „Norden som global vinderregion“. Ég hefði viljað eiga orðastað um innihald þessara hnattvæðingarverkefna. Mér finnst afskaplega mikilvægt að púðrið sé sett í toppfundinn í Kaupmannahöfn 2009, þar verði ráðum okkar ráðið. Þar eigum við að vera með málþingin, þar eiga fræðsluverkefnin okkar að kristallast og springa út. Þar eiga skilaboð Norðurlandanna til alheimsins að komast á framfæri. Þess vegna tel mjög mikilvægt að púðrið sé sett í toppfundinn í Kaupmannahöfn og að þeim 1.200 milljónum sem væntanlega fara í hnattvæðingarverkefni ráðherranefndarinnar í ár og á næsta ári verði beint eins og mögulegt er inn á vettvang toppfundarins 2009.



[11:22]
Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur að það er svolítið sérstakt að hafa ekki hæstv. samstarfsráðherra Össur Skarphéðinsson í salnum þannig að samtalið verður allt öðruvísi fyrir vikið. Hæstv. samgönguráðherra fór með skýrsluna í hans stað þar sem hann er fjarri góðu gamni í augnablikinu. Ég vil eigi að síður spyrja hæstv. samgönguráðherra út í eitt mál — ég geri mér grein fyrir að hann veit kannski ekki alveg svarið en getur stuðst við þá embættismenn sína sem hér eru — og það er það sem kom fram í ræðu hæstv. ráðherra um að upplýsingaskrifstofur norrænu félaganna sem eru utan höfuðborgarsvæða verði lagðar niður. Við erum með slíka skrifstofu á Akureyri, hún hefur staðið sig afskaplega vel og gegnt mjög mikilvægu hlutverki og þarf ekki að fara yfir það frekar hér. Hæstv. ráðherra sagði að í stað þess að reka skrifstofurnar áfram mundi norræna félagið í hverju landi fyrir sig fá styrk upp á sömu upphæð og fór til að reka skrifstofurnar utan höfuðborgarsvæðanna. Það var ágætur árangur út af fyrir sig að ná því fram og við Íslendingar beittum okkur í því sambandi, bæði þingmenn og ráðherrar. Ég vil gjarnan vita, virðulegur forseti, hvort fara þurfi í bardaga um þetta á hverju einasta ári eða hvort það ríki skilningur innan ráðherraráðsins á því að hafa þetta fyrirkomulag inni a.m.k. næstu árin þannig að norrænu félögin í hverju landi fyrir sig geti þá nýtt þessa fjármuni í mikilvæg störf á sínum vettvangi af því að þau félög sinna alveg geysilega mikilvægu starfi á Norðurlöndunum við að efla norrænt samstarf.



[11:24]
samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Út af þeirri spurningu sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir bar fram þá er það svo að hækkun til norrænu félaganna eins og tillaga til fjárlaga næsta árs lítur út gildir að sjálfsögðu einungis fyrir það ár eins og aðrar fjárveitingar. Hins vegar eru engar fyrirætlanir uppi á borði um að lækka fjárveitingarnar aftur.



[11:25]
Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Svarið er að við vitum aldrei um framtíðina. Það er eitt ár tekið í einu svipað og í fjárlögum okkar en það eru engar fyrirætlanir um að lækka þessar fjárveitingar, þannig að ég leyfi mér að túlka það sem nokkuð jákvætt svar, að vonandi haldist þessir peningar inni.

Það er rétt sem kom fram hjá hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur áðan með 60 milljónirnar dönsku sem eiga að fara í hnattvæðingarverkefni að á móti á að skera niður í öðrum verkefnum. Þar hefur aðallega verið rætt um menningarsviðið og við sjáum eina afleiðingu þess hér varðandi Norræna félagið sem reyndar er búið að bjarga í horn miðað við stöðuna núna.

Það verður að segjast eins og er að það hefur gætt nokkurs titrings innan Norðurlandaráðs meðal þingmanna sem þar starfa af því að það er mjög óljóst í hvað fjármunirnir eiga að fara sem verið er að taka úr skilgreindum verkefnum og því sem við höfum verið að vinna að á undanförnum árum og færa þá í ný verkefni á hnattvæðingarsviðinu. Ég styð það að menn reyni að forgangsraða og bregðast við breytingum í hinu alþjóðlega samfélagi en þá verður að vera alveg skýrt í hvað fjármagnið á að fara. Maður er ekki tilbúin í að skera niður í mörgum verkefnum sem eru að vissu leyti ágæt og mikilvæg í eitthvað sem er óskilgreint. Þetta er óþægileg staða og það er alveg ljóst að það verður að greiða úr þessu nokkuð hratt. Á sama tíma vil ég segja að það þýðir ekki fyrir þingmenn að segja að þeir vilji forgangsraða og breyta áherslum en vilji svo ekki benda á einhver ný verkefni. Ráðherraráðið hefur verið að vinna með fjárlögin og maður finnur almennt í Norðurlandaráði að þar hefur gætt titrings af því að þetta er allt svo óljóst. Ég á ekki von á því að hæstv. samgönguráðherra geti svarað þessu en hæstv. samstarfsráðherra hefði líklega komist lengra en þó vil ég spyrja út í þetta og hvort samgönguráðherra sjái eitthvað fyrir sér í þessu máli.



[11:27]
samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og kemur fram er niðurskurður til mennta- og menningarmála 5%. Það kemur líka fram að starfsemi Norræna hússins er ekki i neinni hættu hvað þetta varðar. Það kemur líka fram frá góðum aðila í þingsalnum, hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni, formanni menntamálanefndar, að Norræna húsið hefur verið að fá mjög háa styrki. (SKK: Norræna félagið.) Norræna félagið, vegna vegna þess niðurskurðar sem hér hefur verið boðaður.



[11:28]
Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir skýrslu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs um norrænt samstarf á árinu 2007. Skýrslan liggur frammi og ég tel ekki ástæðu til að endursegja efni hennar hér úr ræðustól. Hún liggur fyrir á þingskjali 719 og þar er fjallað um fundi og starfsemi nefnda Norðurlandaráðs auk Norðurlandaráðsþingsins sem haldið var í Ósló í haust. Ég vil því í þessari ræðu horfa á stærstu málin í norrænu samstarfi um þessar mundir og starfi Norðurlandaráðs og drepa á nokkur atriði.

Vegna þess sem kom fram um í umræðu um skýrslu hæstv. samstarfsráðherra vil ég fyrst gera aðeins að umræðuefni vinnuna að stóra hnattvæðingarverkefninu á vettvangi Norðurlandaráðs á liðnu ári. Sú breyting hefur orðið á norrænu samstarfi á undanförnum árum að norrænt samstarf snýst í auknum mæli um sameiginleg verkefni Norðurlandanna í hinum stærri heimi. Hluti af því er þetta hnattvæðingarverkefni og vegna þeirrar áherslu hafa umræður á vettvangi Norðurlandaráðs og verkefni sem þar hafa verið sett á fót í auknum mæli snúið að sameiginlegum aðgerðum og atbeina Norðurlandanna allra í hinum stærri heimi.

Norðurlandaráð átti á árinu 2006 frumkvæði að því að hleypa af stokkunum þessu hnattvæðingarverkefni sem norræna ráðherranefndin tók svo upp á arma sína síðasta sumar eftir ákvörðun forsætisráðherra Norðurlandanna þar um í júní. Það er mjög athyglisvert að sú áhersla sem þetta mál hefur fengið fléttar saman alla þætti, ólíka þætti. Þarna er rætt um samkeppnishæfni Norðurlandanna og þarna er líka rætt um loftslagsmál og aðra slíka þætti. Það er því verið að nálgast þær áherslur sem Norðurlöndin geta haft á alþjóðavettvangi með samþættum hætti í gegnum þetta verkefni.

Eitt af því sem ákveðið var er að veita fé, umtalsvert fé sem hér hefur verið nefnt, 60 millj. danskra króna, í sérstök verkefni á vegum hnattvæðingarvinnunar. Þar hefur hnífurinn nokkuð staðið í kúnni því að áhyggjur þingmanna hafa beinst að því að það hefur verið ákveðin tilhneiging af hálfu norrænu ráðherranefndarinnar til að láta þann niðurskurð sem á móti þurfti að koma bitna fyrst og fremst á verkefnum á sviði menningarmála og hafa þar af leiðandi mikla tilvísun til almennings og eru kannski hinir sýnilegustu þættir norræns samstarfs gagnvart almenningi á Norðurlöndunum. Það hefur verið okkur áhyggjuefni í ljósi þess að norrænt samstarf byggir að sjálfsögðu á mjög víðtækri almannaþátttöku. Þetta er sérstakt alþjóðasamstarf að því leyti að það byggir sögulega á þátttöku almennings í gegnum norrænu félögin og það hefur haft að markmiði ýmis verkefni meðal almennings í löndunum sjálfum sem er einsdæmi í alþjóðasamstarfi. Auk þess er með formlegum hætti tryggð aðkoma kjörinna fulltrúa að ákvörðunum sem síðan eru teknar af hálfu norrænu ráðherranefndarinnar.

Við höfum haft áhuga á að tryggja þessa tengingu við almenning á Norðurlöndunum í gegnum þau verkefni sem unnin eru og við teljum og höfum talið að áætlanir norrænu ráðherranefndarinnar um ný verkefni á þessu sviði væru nokkuð í skötulíki, seint fram komnar, ekki mjög ítarlegar og ekki mjög ljóst hvaða ávinning hin nýju verkefni mundu hafa í samanburði við þau verkefni sem stefnt væri að skera niður. Það er grundvallarforsenda skynsamlegrar forgangsröðunar að menn viti þegar kemur að því að skera niður hvað þeir fá í staðinn fyrir þá peninga sem á að spara með niðurskurðinum. Við vonumst til að ná auknu samráði við ráðherranefndina um þetta atriði en það er mjög mikilvægt að við höfum í huga að mörg þeirra verkefna sem við Íslendingar leggjum mesta rækt við, sérstaklega verkefni á sviði menningarmálanna, hafa kannski hlutfallslega meira vægi á Íslandi en í öðrum löndum. Okkur er að sjálfsögðu mjög kært að tryggja starfsgrundvöll Norræna hússins til langframa og mikilvægt að sjá að þar er metnaðarfull stjórn þessa dagana.

Eins og ég nefndi eru áherslur á vettvangi Norðurlandaráðs í mikilli mótun á þessum tímapunkti. Það má segja að norrænt samstarf standi á miklum tímamótum. Við sjáum að helstu verkefnin sem unnin eru á vettvangi norræns samstarfs nú eins og hnattvæðingarverkefnið, eins og áherslan í loftslagsmálum í aðdraganda leiðtogafundar Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn 2009 og áherslan á samkeppnishæfni Norðurlanda eru allt verkefni sem snúa að hlutskipti og hlutverki og stöðu Norðurlandanna í hinum stærri heimi.

Það er tímanna tákn að æ stærri hluti af starfi Norðurlandaráðs og af þeim verkefnum sem norrænt samstarf snýst um skuli vera farinn að snúast að verkefnum af þessum toga sem snúa að því að horfa til þess að stilla saman strengi Norðurlandanna á hinu stærra sviði hvort sem er á Evrópuvettvangi eða alþjóðavettvangi. Gott dæmi um það er verkefnið um landamærahindranir sem hefur verið á vettvangi Norðurlandaráðs og norrænu ráðherranefndarinnar síðustu ár og hefur nú verið komið í gott og skilvirkt ferli á vegum nefndarinnar. Landamærahindranir milli Norðurlandanna í dag skapast að mestu leyti vegna þess hvaða hátt Norðurlöndin velja sér við innleiðingu á Evrópureglum vegna þess að á langflestum sviðum er um að ræða að ríkin eru, öll fimm á ólíkum forsendum þó, skuldbundin að innleiða Evrópureglur og helstu landamærahindranir sem skapast nýjar í dag eru vegna ólíkra aðferða við að innleiða þessar reglur. Það sýnir líka mikilvægi þess að Norðurlöndin stilli saman strengi sína á vettvangi norræns samstarfs og undirbúi þannig málflutning sinn á evrópskum vettvangi.

Í þessu samhengi held ég að það sé mikilvægt fyrir okkur sem þingmenn að hugleiða hvaða breytingar eru að verða á ákvarðanatöku innan Evrópusambandsins í kjölfar gildistöku hins nýja umbótasáttmála þar sem Evrópuþingið og þingin í aðildarríkjunum munu öðlast meiri íhlutunarrétt og áhrifarétt um ákvarðanir á vettvangi Evrópusambandsins. Það þýðir aftur að fyrir okkur sem ekki búum við slíkan aðgang vegna þess að við erum ekki aðilar að Evrópusambandinu sem og fyrir Norðmenn skapast alveg ný sýn á mikilvægi norræns samstarfs og mikilvægi alþjóðasamstarfs eða Evrópusamstarfs þingmanna yfirleitt, þ.e. að við eigum við flokksbræður okkar opin samtöl á alþjóðlegum vettvangi til þess að reyna að hafa áhrif á það hvernig þeir beita svigrúmi sínu til að hafa áhrif á reglur Evrópusambandsins þannig að það henti hagsmunum okkar. Þetta er algjörlega ný staða fyrir okkur og setur þörfina fyrir alþjóðasamstarf þingmanna í allt annað ljós. Af þessum ástæðum er ánægjulegt að til stendur af hálfu Alþingis að koma upp fulltrúa Alþingis hjá Evrópuþinginu í Brussel en ég held að með sömu rökum megi alveg segja að það sé fullkomlega eðlilegt að koma upp fulltrúa Norðurlanda í Brussel sem tali þar fyrir hönd norræns samstarfs jafnt ráðherranefndarinnar sem Norðurlandaráðs og hafi með höndum það hlutverk að vera andlit norræns samstarfs á þeim vettvangi.

Virðulegi forseti. Á síðasta ári urðu enn á ný umræður í Norðurlandaráði um stöðu sjálfsstjórnarsvæðanna innan Norðurlandaráðs. Þær urðu í framhaldi af umsókn Færeyinga um fulla aðild að Norðurlandaráði á sínum tíma. Í stuttu máli, án þess að ég ætli að rekja þá þróun alla í smáatriðum þá varð niðurstaða um það innan forsætisnefndar Norðurlandaráðs að ekki bæri að leggja til breytingar á Helsinki-sáttmálanum, stofnsáttmála Norðurlandaráðs, til að tryggja fulla aðild sjálfsstjórnarsvæðanna að Norðurlandaráði.

Á Norðurlandaráðsþinginu í Ósló urðu síðan þau tíðindi og þær breytingar að innan dönsku sendinefndarinnar myndaðist einhugur um að styðja breytingar á Helsingforssamningnum til samræmis við þessar óskir Færeyinga. Við þær aðstæður fundaði Íslandsdeildin á þinginu og það var samdóma álit okkar allra að fyrst svo væri komið að ekki væri ágreiningur um það innan dönsku sendinefndarinnar, þ.e. milli Dana og Færeyinga, hvernig taka ætti á þessu máli þá væri einboðið að við styddum einróma afstöðu dönsku sendinefndarinnar. Íslendingar hafa alltaf viljað forðast það að blanda sér í milliríkjamál milli Dana og Færeyinga og kosið að leyfa þessum vinum okkar og frændum að ráða sínum málum sjálfir án þess að við séum að hlutast þar um. En um leið og sú niðurstaða var orðin ljós að þarna var samstaða um að styðja þær nauðsynlegu breytingar sem þyrfti að gera á Helsingforssamningnum til að tryggja fulla aðild Færeyinga þá þótti okkur eðlilegt að styðja það og gerðum það öll á þinginu í Ósló. Sú breytingartillaga var felld með 37 atkvæðum gegn 20 en ég held að í ljósi þeirrar umræðu sem þar fór fram sé ljóst að á næstu árum mun koma til þess að menn horfi til þess að breyta Helsingforssáttmálanum til að tryggja þeim sjálfsstjórnarsvæðum sem það vilja fulla og rétta aðild að Norðurlandaráði.

Það hefur nokkuð borið á því í þessari umræðu að upp komi úrtöluraddir sem segja að við breytingar á Helsingforssáttmálanum væri verið að opna fyrir möguleg endalok norræns samstarfs vegna þess að ekki væri nauðsynlegur vilji ríkjanna til að halda samstarfinu áfram. Ég tel að viðbárur af þessum toga séu ekki boðlegar í lýðræðislegu samstarfi vinaþjóða ef norrænt samstarf hvílir á svo veikri stoð að það þoli ekki að veita sjálfsstjórnarsvæðunum þann rétt sem þau óska í aðild að norrænu samstarfi. Sjálfur er ég sannfærður um að hagur Norðurlandanna allra af þessu samstarfi hefur verið að aukast á síðari árum og því valda ekki síst þær breytingar sem hafa orðið á síðustu árum með stækkun Evrópusambandsins og aukinni þörf þeirra ríkja sem þar eru innan dyra til að ráða ráðum sínum annars staðar í undirbúningi ákvarðana þar. Meðan Evrópusambandið var fámennari ríkjahópur og Norðurlöndin áttu kannski meiri samhljóm með öllum ríkjunum sem þar voru inni gætti ákveðinnar tilhneigingar til að ræða málin fyrst og fremst á evrópskum vettvangi. Á síðustu árum hefur orðið vart aukinnar tilhneigingar aðildarríkjanna til að ræða á norrænum vettvangi sameiginlega afstöðu áður en kemur að því að þau tali síðan innan Evrópusambandsins fyrir sínum eigin sjónarmiðum. Það er auðvitað mjög jákvætt fyrir okkur Íslendinga sem höfum kosið að standa utan Evrópusambandsins að fá með þeim hætti aðkomu að stefnumótunarvinnu félaga okkar á Norðurlöndunum áður en þau hefja vinnu að ákvörðunum á evrópskum vettvangi.

Virðulegi forseti. Íslandsdeildin stóð fyrir tillöguflutningi á síðasta ári á sviði öryggis- og björgunarmála. Það gerðist á Norðurlandaráðsþinginu í Ósló í haust að norrænt samstarf í öryggismálum var rætt nokkuð undir dagskrárliðnum Utanríkismál. Slíkt hefði verið óhugsandi fyrir 20 árum. En umræðuhefðin hefur breyst og pólitískar aðstæður á alþjóðavettvangi hafa breyst og í síauknum mæli snýst starf á vettvangi Norðurlandaráðs um mótun afstöðu til utanaðkomandi atburða. Það hefur t.d. sýnt sig að þegar rætt er um loftslagsmál komast menn skammt í umræðu um þau mál ef þeir eru ekki tilbúnir að ræða um þau áhrif á öryggisviðbúnað og björgunarviðbúnað sem loftslagsbreytingar hafa á norðurhveli jarðar.

Við tókum þetta mál upp í kjölfar Norðurlandaráðsþingsins og það varð einhugur um það innan Íslandsdeildar Norðurlandaráðs að leggja fram tillögur fyrir fund forsætisnefndar Norðurlandaráðs í Reykjavík í desember. Það er skemmst frá því að segja að á þeim fundi varð sú niðurstaða að óska eftir því við norrænu ráðherranefndina að ráðstefna hennar um samfélagsöryggi, sem búist er við að haldin verði á þessu ári, taki sérstaklega til umfjöllunar aukið borgaralegt samstarf um öryggismál og að greining á borgaralegu öryggi á Norður-Atlantshafi og við norðurskaut verði hluti af skýrslu ráðherranefndarinnar um samfélagsöryggi sem lögð verður fyrir Norðurlandaráðsþing í haust. Norðurlandaráð hefur kynnt norrænu ráðherranefndinni þessar hugmyndir og Íslandsdeildin hyggst fylgja því eftir að norræna ráðherranefndin sinni þessu verki.

Það er mikilvægt að Íslendingar þrýsti á um að þetta mál verði tryggilega á dagskrá í norrænu samstarfi. Það er líka mikilvægt að við áttum okkur á því að loftslagsbreytingar munu hafa gríðarleg áhrif á lífsskilyrði á norðurhveli jarðar og tímabært að umræða um það efni þroskist á íslenskum stjórnmálavettvangi. Hlýnun heimsins er ekki eitthvert atriði sem Íslendingar geta gantast með og látið sig dreyma um að tveggja til þriggja gráðu hlýnun væri bara ágætishugmynd hér á hjara veraldar. Þvert á móti getur hnattræn hlýnun haft gríðarleg áhrif á lífsafkomu okkar og möguleika til að búa í þessu landi til langframa og því mikilvægt að við áttum okkur á að það er mikilvægt pólitískt innanlandsverkefni ekki síður en verkefni á alþjóðavettvangi að vinna gegn loftslagsbreytingunum.

Virðulegi forseti. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka mjög gott og náið samstarf milli þingmanna innan Íslandsdeildar Norðurlandaráðs. Ég nefndi hér tillögu þá sem við lögðum fram um borgaralegt öryggi á norðurslóðum og það var sérstakt ánægjuefni að allir þingmennirnir í deildinni voru einhuga um þá tillögu þvert á flokksbönd. Við höfum unnið náið og vel saman og ég vona að það góða samstarf haldi áfram. Ég vil að síðustu leggja áherslu á að norrænt samstarf er líklega sá grunnur sem skiptir okkur mestu að halda í á næstu árum og áratugum vegna þess að þar eigum við fjölþættari aðkomu að alþjóðasamstarfi en með nokkrum öðrum hætti, tryggari lýðræðislega aðkomu en nokkurs staðar annars staðar og þar höfum við mikla möguleika til að styrkja stöðu Íslands á hinum stærra alþjóðlega vettvangi.



[11:48]
Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get í sjálfu sér tekið undir meginatriðin í sambandi við það sem hv. þm. Árni Páll Árnason rakti í ræðu sinni. En það var eitt sem hann vék að í lok ræðu sinnar sem ég staldraði aðeins við, það var þegar hann talaði um hina hnattrænu hlýnun sem við höfum í sjálfu sér ákaflega takmarkaðar vísindalegar staðreyndir um.

Heimurinn hefur iðulega verið mun hlýrri og sjávarborð mun hærra en nú er og það er ekkert sem segir okkur að sú hlýnun sem nú er stafi af mannavöldum. Eða hver var hlýnunin sem var á jörðinni fyrir 7.000 árum?

Maður les um það í þessari ágætu og vel unnu skýrslu að ráðgert sé að halda ráðstefnu í Kaupmannahöfn árið 2009 til þess að taka mun meira á þessum málum og setja strangari reglur en Kyoto-bókunin gerir ráð fyrir. En ef menn skoða hvaða þýðingu Kyoto-bókunin mundi hafa ef allar þjóðir færu eftir henni — nú gera mestu mengunarvaldarnir það ekki, þ.e. ekki Indland, Kína eða Bandaríkin en ef allar þjóðir færu eftir henni þá þýðir hún ekki annað en það að við yrðum á sama stað árið 2115 án Kyoto eins og við værum annars árið 2100. Það munar einungis 15 árum, það er nú ekki meiri árangur sem næst.

Á sama tíma kostar þetta gríðarlega fjármuni, billjónir á billjónir ofan sem á að eyða í þetta og fyrir það fé mætti gera hluti sem mundu verða líklegri til þess að vera umhverfisvænni en það sem verið er að gera ráð fyrir með þessum hætti. Eins og hv. þm. Pétur Blöndal vék réttilega að í morgun þá skiptir máli fyrir okkur Íslendinga að nýta m.a. okkar vistvænu orkugjafa sem við höfum yfir að ráða svo ekki þurfi að moka (Forseti hringir.) upp kolum og koma upp kolaverum í Kína.



[11:50]
Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fara að deila við hv. þingmann um það hvort loftslagsbreytingar séu af mannavöldum. Ég held að það sé fullsannað mál og óþarfi að berja hausnum við steininn í því efni.

Hv. þingmaður fór nokkuð í hringi í röksemdafærslu sinni. Ég held akkúrat að sú staðreynd að Íslendingar eiga vistvæna orkugjafa eigi að vera okkur hvatning til þess að kalla eftir ströngum og hörðum reglum um útblástur, til þess að styrkja samkeppnisstöðu okkar á alþjóðlegum vettvangi. Við eigum að hvetja til stífra reglna, því þar með búum við í haginn fyrir okkur út frá röksemdafærslu hv. þingmanns.

En þetta snýst ekki bara um okkur heldur snýst þetta líka um aðrar þjóðir. Þetta snýst um fátækar þjóðir sem hafa af því mikinn hag að við styðjum þær við sjálfbæra orkuöflun, bæði með nýtingu vistvænna orkugjafa og með aukinni fjárfestingu í rannsóknum á núverandi orkugjöfum til þess að gera nýtingu þeirra vistvænni. Líka til þess að styðja við starf þar, t.d. gegn gróðureyðingu sem er ein helsta ástæða landeyðingar og efnahagslegrar óáranar.

Ég held þess vegna að þarna falli allt hvað með öðru. Við megum heldur ekki gleyma því að það eru margar breytingar í vistkerfinu núna og það er óþarfi að horfa 7.000 ár aftur í tímann. Það voru kannski aðrar kröfur sem við gerðum til jafnvægis í vistkerfinu á þeim tíma. Við vitum að sjórinn fer stöðugt hlýnandi hér úti fyrir landinu, við vitum að það eru miklar breytingar að koma fram í vistkerfinu hér. Margir setja þetta í samhengi við breytingar á fiskgengd þannig að ég held að það sé engin ástæða fyrir okkur að (Forseti hringir.) líta fram hjá mögulegum skaðlegum áhrifum loftslagsbreytinga.



[11:52]
Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við getum vafalaust verið sammála um það að láta náttúruna njóta vafans. En hins vegar verða menn að fara fram af fullri skynsemi í því hvernig þeir ætla að taka á þeim málum. Það er alltaf spurningin um hvort á að eyða gríðarlegum fjármunum í það að fylgja því sem Kyoto-bókunin tekur til eða nýta hugsanlega þá fjármuni með öðrum hætti, t.d. til að leyfa meiri losun. Þá fjármuni sem kæmu til viðbótar ætti hins vegar að nýta til þess að skapa vistvænna umhverfi, ekki síst í þróunarlöndunum þar sem fólk líður fyrir það að hafa ekki rennandi vatn, eðlilega heilbrigðisaðstöðu og annað í þeim dúr. Það skiptir líka gríðarlegu máli. Það er alltaf spurningin með hvaða hætti og hvernig við forgangsröðum. Það er alveg ljóst að það sem þarna er verið að boða kostar gríðarlega fjármuni. Það hefur alltaf verið horft fram hjá því að þetta mun kosta atvinnulífið og stjórnvöld í þeim ríkjum sem taka þátt í þessari tilraun gríðarlega fjármuni.

Þegar ég segi að við eigum að láta náttúruna njóta vafans þá eigum við að gera það en við eigum ekki að falla í það að vera sporgöngumenn einhverrar pólitískrar veðurfræði, einhverra pólitískra hugmynda sem hafa ákaflega stuttan þróunarferil. Það er ekki lengra síðan en upp úr 1980 sem svipaðir aðilar hinnar pólitísku veðurfræði þá, spáðu fyrir að kuldaskeið væri að hefjast en ekki að loftslag færi hlýnandi.

Það er nú einu sinni þannig með þær helvítisspár sem við erum iðulega að fá frá ýmsum að það er verið að skapa vá. Það er verið að segja að vegna þess að þessi vá getur komið þá þurfum við að gera ráðstafanir sem takmarka möguleika okkar til betri lífskjara. Síðast var það í sambandi við fæðuöflun en núna í sambandi við loftslagsbreytingar. En það er spurningin um að við lifum eðlilegu lífi í veröldinni. (Forseti hringir.)



[11:55]
Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef hv. þingmaður trúir ekki vísindamönnum um hættuna af loftslagsbreytingum þá get ég prófað aðra útgáfu á hann. Fyrir mér er þetta ekki síður spurningin um félagslegt réttlæti. Ég held að það sé margljóst að án breyttra áherslna í sjálfbærri nýtingu auðlinda er tómt mál að tala um að fátæk ríki komist til bjargálna. Án þess að við komum með þeim hætti sem nú er stefnt að í nýjum alþjóðasamningum böndum á ósjálfbæra orkunýtingu ríkari hluta heimsins þá stöndum við í vegi fyrir framþróun þeirra fátækari.

Ég vil taka undir með hv. þingmanni um að það er náttúrlega alls ekki nægur árangur af aðgerðum á sviði loftslagsmála ef Kyoto-samningurinn væri það eina sem stefnt væri að. Þess vegna skiptir svo miklu máli að samstaða myndist um markmið ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum og ég fagna orðum hv. þingmanns en ég túlka þau þannig að hann styðji stefnumörkun ríkisstjórnarinnar um að stefna að 25–40% samdrætti á næsta losunartímabili.

Það er nákvæmlega þangað sem þetta er að stefna, við verðum að stefna í enn stífari og harðari reglur. Ég vil undirstrika það í lokin að af þessum 60 millj. danskra króna sem nú er stefnt að því að verja í hnattvæðingarverkefni Norðurlandaráðs þá hefur verið lögð mikil áhersla á rannsóknir og þróun ávistvænum orkugjöfum.

Það sem við höfum horft til að verði innlegg norræns samstarfs til leiðtogafundar Sameinuðu þjóðanna 2009 í Kaupmannahöfn er útlistun á vistvænum orkugjöfum og þeirri reynslu sem við höfum á þeim vettvangi á Norðurlöndunum. Þar höfum við auðvitað mikla reynslu, bæði af nýtingu vatnsfalla og nýtingu jarðhita og þar hafa Norðurlöndin líka mikla reynslu, af nýtingu vindorku og nú í rannsóknum á sólarorku sem standa mjög framarlega. (Forseti hringir.)



[11:57]
Karl V. Matthíasson (Sf):

Hæstv. forseti. Skýrslu Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins fyrir árið 2007 er að finna í þingskjali 936 sem hefur verið lagt fyrir Alþingi.

Vestnorræna ráðið fagnaði tíu ára afmæli sínu á síðasta ári. Meginmarkmið ráðsins er að vinna að sameiginlegum hagsmunum og standa vörð um menningararfleifð Vestur-Norðurlandanna sem eru Færeyjar og Grænland og Ísland. Til að sinna hlutverki sínum koma þingmenn Vestnorræna ráðsins, 18 talsins, þ.e. sex frá hverju landi, saman tvisvar sinnum á ári, annars vegar til ársfundar og hins vegar til þemaráðstefnu. Þar að auki fundaði forsætisnefnd ráðsins, sem skipuð er formönnum landsdeildanna þriggja, fjórum sinnum á árinu 2007.

Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins er skipuð hv. þm. þeim Árna Johnsen, Guðbjarti Hannessyni, Guðjóni A. Kristjánssyni, Guðna Ágústssyni, Jóni Gunnarssyni og þeim er hér stendur.

Á ársfundum ráðsins eru tilmæli og ályktanir er varða sameiginlega hagsmuni samþykktar og komið áleiðis til þjóðþinga landanna til þinglegrar meðferðar sem þingsályktanir. Slíkt var gert fyrir skömmu þegar ég mælti hér á Alþingi fyrir fimm þingsályktunum hinn 17. janúar sl.

Á þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins mæta þingmenn þess ásamt fyrirlesurum og öðrum gestum eins og ráðherrum landanna þriggja, fulltrúum Norðurlandaráðs og forsætisnefndar Stórþings Noregs. Vestnorræna ráðið tekur virkan þátt í öðru alþjóðasamstarfi eins og fundum Norðurlandaráðs og þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál. Það eru nokkur mál sem mig langar að gera sérstaklega grein fyrir hér í dag, með leyfi hæstv. forseta.

Fyrst vil ég gera grein fyrir þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins og samstarfi við önnur þingmannasamtök og þing á árinu 2007.

Þemaráðstefna Vestnorræna ráðsins um fríverslun og Vestur-Norðurlönd var haldin á Húsavík dagana 14.–17. júní. Ráðstefnan var sérstaklega upplýsandi og hvatti til skoðanaskipta um gildi fríverslunar fyrir einstök vestnorræn lönd og sameiginlega hagsmuni svæðisins í þeim efnum. Ráðstefnan var jafnframt liður í því að stofnað var til aukins samráðs milli utanríkisráðherra Íslands, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, og ráðherra utanríkismála Grænlands, Alequ Hammond, sem báðar fluttu erindi á ráðstefnunni. Samstarf Íslands og Færeyja varð einnig nánara á árinu en 15. september opnaði sendiskrifstofa Færeyja hérlendis en hún er ekki í sama húsnæði og danska sendiráðið eins og tíðkast annars staðar. Opnun sendiskrifstofunnar kemur í kjölfar opnunar aðalræðisskrifstofu Íslands í Þórshöfn í Færeyjum hinn 2. apríl og er hér um að ræða fyrstu sendiskrifstofu erlends ríkis sem starfrækt hefur verið í Færeyjum. Jóannes Eidesgaard, lögmaður Færeyja, sagði að opnun sendiskrifstofu Færeyja væri staðfesting á því gagnkvæma mati landanna að Hoyvíkursamningurinn, sem tók gildi í nóvember 2006 og gerir Færeyjar og Ísland að einu samræmdu markaðssvæði, væri báðum löndunum mikilvægur og að Færeyingar álíti samninginn fyrsta raunverulega skref Færeyinga út í hinn hnattvædda heim. Það er gleðiefni hversu náin tengsl Vestur-Norðurlandanna eru orðin og margt bendir til þess að þau muni verða nánari á komandi árum.

Ég lýsi hér einnig yfir ánægju vegna mjög jákvæðrar afstöðu hæstv. utanríkisráðherra Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur hvað samstarf Vestur- Norðurlandanna varðar.

Nú vil ég, með leyfi hæstv. forseta, geta um næstu þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins sem haldin verður í Færeyjum dagana 2.–5. júní. Þá verður aðalumfjöllunarefnið aukið samstarf um öryggis- og björgunarmál á Norður-Atlantshafi og er það í samræmi við eina ályktun Vestnorræna ráðsins sem samþykkt var í ágúst síðastliðnum á ársfundinum í Nuuk, höfuðstað Grænlands. Því er svo við að bæta að ályktun þessi var einnig móttekin af Norðurlandaráði á Norðurlandaráðsþingi í lok október og tekin til málsmeðferðar í kerfi Norðurlandaráðs sem víkur athyglinni að samstarfi Vestnorræna ráðsins við aðrar þingmannasamkundur og þing á síðasta ári. Var það gert á grundvelli samstarfssamnings ráðanna frá árinu 2006. Fundur forsætisnefndar Norðurlandaráðs sem haldinn var 14. desember síðastliðinn í Reykjavík gerði björgunar- og öryggismál að þema sínu og var þar ákveðið var að fella þemað inn í skýrslu um samfélagslegt öryggi fyrir næsta Norðurlandaráðsþing. Þetta er dæmi um hvernig Vestnorræna ráðinu tókst til við að koma vestnorrænu hagsmunamáli á dagskrá norræns samstarfs í víðara samhengi, sem er sérstakt fagnaðarefni að mínu mati. Samstarfssamningur ráðanna er einnig dæmi um mikilvægi þess að eiga góða bandamenn og vini í norrænu samstarfi. Einn þeirra var Ole Stavad, danskur þingmaður og fyrrum forseti Norðurlandaráðs, en hann hefur beitt sér mikið í þágu Vestnorræna ráðsins. Hann lagði áherslu á nauðsyn þess að færa athygli Norðurlandaráðs aftur til vesturs en segja má að athygli Norðurlandaráðs hafi beinst til austurs frá lokum kalda stríðsins, þ.e. að Eystrasaltslöndunum, Rússlandi og Austur-Evrópu almennt. Ole Stavad gaf ekki kost á sér til áframhaldandi þingsetu í dönsku þingkosningunum sem fóru fram síðastliðið haust. Var honum þakkað með virktum á forsætisnefndarfundi Vestnorræna ráðsins í janúar síðastliðnum sem haldinn var í Kaupmannahöfn fyrir gott og jákvætt starf sem hann hefur lagt af mörkum í þágu vestnorræns samstarfs.

Á Norðurlandaráðsþingi sem haldið var í Ósló í lok október sl. óskaði ég sem formaður Vestnorræna ráðsins eftir því við formann og varaformann sendinefndar Evrópuþingsins, sem sér m.a. um samskiptin við Norðurlandaráð að ráðið og Evrópuþingið taki upp formlegt samstarf. Þar fylgdi ég eftir frumkvæði fyrirrennara míns Jonathans Motzfeldts sem í ræðu hjá Evrópuþinginu gerði það að tillögu sinni að Evrópuþingið og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins mundi opna sérstaka upplýsingaskrifstofu um málefni norðurslóða í Brussel til að auðvelda stjórnmálamönnum og embættismönnum upplýsingaöflun og öflun gagna eða koma á formlegu samstarfi. Fundur minn með téðum formanni og varaformanni sendinefndar Evrópuþingsins, þeim Bilyana Raeva frá Búlgaríu og Jens-Peter Bonde frá Danmörku, varð til þess að formaður sendinefndarinnar mælti með því við forseta Evrópuþingsins að nefndin mundi einnig sinna samskiptum við Vestnorræna ráðið. Í þessu sambandi vil ég einnig greina frá því að Vestnorræna ráðið mun halda fyrsta formlega fund sinn með sendinefnd Evrópuþingsins í lok apríl þegar hún kemur til fundar við þingmannanefnd EES á Íslandi.

Sem formaður Vestnorræna ráðsins sótti ég fund þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál sem haldinn var í Kanada í október sl. Þar voru m.a. til umfjöllunar mál er varða vestnorrænu löndin svo sem björgunarmál, jafnréttismál, menntamál og heilbrigðismál, einkum tengd misnotkun áfengis og fíkniefna.

Í annan stað vil ég víkja að ályktunum Vestnorræna ráðsins frá því á síðasta ársfundi og þakka jákvæðar viðtökur þeirra ráðherra við ályktunum ráðsins sem ég kynnti fyrir þeim á sérstökum fundum sem formaður Vestnorræna ráðsins á sama tíma og Norðurlandaráðsþingið fór fram í Ósló. Það er ósk mín að ályktanir ráðsins verði teknar til framkvæmda af ríkis- og landstjórnum allra Vestur-Norðurlandanna.

Næsti ársfundur ráðsins verður haldinn 25.–28. ágúst næstkomandi í Grundarfirði. Í tengslum við ársfundinn verður einn dagur sérstaklega helgaður sameiginlegri sögu og menningu vestnorrænu landanna sem unnið hefur verið að síðan árið 2002 og stefnt er að út komi á bók haustið 2009. Vestnorræna ráðið hvetur í ályktun frá árinu 2006 ríkisstjórnir landanna þriggja að gera sameiginlegt námsefni til kennslu í grunnskólum um sögu, menningu, trúmál og tungumál landanna.

Halldór Pálsson bókaútgefandi hefur gefið út bók um hvert og eitt vestnorrænu landanna í máli og myndum og farið þess á leit við mennta- og menningarmálaráðherra Vestur-Norðurlandanna að bækurnar um hvert land verði þýddar og gefnar út sem námsefni um vestnorræna sögu, menningu og tungumál. Vestnorræna ráðið hefur í ljósi fyrrnefndar ályktunar nr. 5/2006 lýst yfir stuðningi við framtakið þar sem það uppfyllir væntingar og tilgang hennar. Fjárlaganefnd Alþingis hefur veitt eina milljón króna til verksins sem er 1/6 af upprunalegri fjárbeiðni til íslensku ríkisstjórnarinnar en fullur stuðningur hefur fengist bæði í Færeyjum og á Grænlandi. Það er einlæg ósk mín að hæstv. ríkisstjórn geti lagt þessu máli frekara lið svo lyktir þess verði sem til stóð.

Hafin er vinna við ritun sameiginlegrar sögu Vestur-Norðurlandanna á grundvelli ályktunar ráðsins frá árinu 2000. Verkið endurspeglar eitt meginhlutverk Vestnorræna ráðsins sem er að varðveita og viðhalda menningararfleifð landanna og skapar þar með samkennd með löndunum og viðheldur tengslum á milli þeirra. Áætlað er að ritið komi út á allra næstu árum. Barna- og unglingabókaverðlaun Vestnorræna ráðsins eru einnig liður í þessari viðleitni en annað hvert ár tilnefna dómnefndir í löndunum þremur eina bók, hver frá sínu landi, sem keppa um verðlaunin. Í desember 2007 var skáldsagan Draugaslóð eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur tilnefnd af íslensku dómnefndinni til barna- og unglingabókaverðlauna Vestnorræna ráðsins. Vestnorræn dómnefnd velur síðan eina af þessum bókum til verðlauna, sem veitt verða í ágúst á næsta ári og verður það í fjórða sinn sem verðlaunin eru veitt.

Markmiðið með barnabókaverðlaununum er að hvetja vestnorræna barna- og unglingabókahöfunda til dáða. Auk þess er vonast til að með verðlaununum verði ungmennum Vestur-Norðurlanda gert betur kleift að kynna sér vestnorrænar bókmenntir og menningu. Þær bækur sem hljóta tilnefningu eru þýddar á vegum menntamálaráðuneyta landanna á vestnorrænu málin og á dönsku. Til að stuðla enn frekar að kynnum vestnorrænna barna að menningu hvers annars var ákveðið í tilefni tíu ára afmælis Vestnorræna ráðsins að setja á stofn sérstakan afmælissjóð í samræmi við ályktun ráðsins nr. 4/2006. Markmið sjóðsins verður að efla ungmennasamskipti milli Vestur-Norðurlandanna með reglulegum heimsóknum skólabarna og sá þannig fræjum að tengslum landanna til framtíðar.

Frú forseti. Það er ljóst að margvísleg sameiginleg málefni hafa verið tekin fyrir og eru á döfinni hjá Vestnorræna ráðinu, málefni sem varða mannlíf og menningu og auðlindir, velferð og umhverfi vestnorrænu landanna. Það er von Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins að málefnum vina okkar hér í vestrinu verði áfram sýndur áhugi hér á Alþingi eins og vera ber. Að lokum leyfi ég mér að þakka Magneu Marinósdóttir, ritara Íslandsdeildarinnar, sem og Þórði Þórarinssyni, framkvæmdastjóra ráðsins, fyrir samviskusamlega og vel unnin störf í þágu ráðsins. Einnig færi ég þingmönnum Íslandsdeildarinnar hinar bestu þakkir fyrir samstarf.

Ég vil í lokin, frú forseti, hnykkja á því að þingsályktunartillögur Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins sem nú liggja fyrir Alþingi, fjalla um björgunarmál, sameiginlegar vestnorrænar rannsóknir á nytjastofnum sjávar, um jafnréttismál og menntamál. Lýsi ég yfir ánægju minni hversu góðar undirtektir tillögurnar hafa hlotið almennt, ekki síst hér á Alþingi.

Lýk ég hér með máli mínu um störf Vestnorræna ráðsins.



[12:12]
Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Á þskj. 715 liggur fyrir ársskýrsla Íslandsdeildar þingmannaráðstefnunnar um norðurskautsmál og mun ég í stuttu máli kynna þingheimi helstu mál í brennidepli innan norðurskautssamstarfsins á liðnu ári.

Ársskýrsla Íslandsdeildar fyrir árið 2007 gerir störfum þingmannanefndar um norðurskautsmál ítarleg skil og auk þess skipan Íslandsdeildar. Ég mun því aðeins stikla á stóru en vísa að öðru leyti í skýrsluna sem mælt er fyrir.

Ég vil byrja á að nefna að fyrsta ráðstefna þingmanna og fulltrúa norðurskautssvæða var haldin í Reykjavík árið 1993 en nokkur samvinna norðurskautsríkja hófst þegar áætlun um umhverfisvernd á norðurslóðum var samþykkt í Rovaniemi í Finnlandi árið 1991. Ráðstefnan í Reykjavík árið 1993 markaði hins vegar upphafið að stofnun þingmannanefndar um norðurskautsmál sem sett var á laggirnar árið 1994. Nefndin er stjórnarnefnd þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál sem haldin er á tveggja ára fresti. Á ráðstefnunni kemur saman stór hópur þingmanna frá ríkjum við norðurskaut sem og sérfræðingar frá ríkisstjórnum, háskólastofnunum og félagasamtökum er láta sig málefni norðursins varða.

Eitt meginviðfangsefni þingmannanefndarinnar er að fylgja eftir samþykktum ráðstefnunnar sem og að fylgjast grannt með störfum norðurskautsráðsins en þingmannanefndin fundar að jafnaði þrisvar á ári og einn þingmaður frá hverju aðildarríki situr í nefndinni. Þjóðþing Bandaríkjanna, Kanada, Rússlands og Norðurlanda eiga fulltrúa í nefndinni og auk þess á Evrópuþingið fastan fulltrúa.

Segja má að helstu verkefni norðurskautssamstarfsins lúti að umhverfismálum og sjálfbærri þróun. Undanfarin ár hefur aukin áhersla einnig verið lögð á varðveislu menningararfleifðar og lífshátta þeirra þjóðflokka sem byggja landsvæðin við norðurskaut sem og aukna efnahagslega og félagslega velferð og velmegun íbúa norðursins.

Frú forseti. Af þeim málum sem fjallað var um á vettvangi þingmannanefndar um norðurskautsmál árið 2007 vil ég leggja áherslu á nokkur atriði sem voru í brennidepli í starfi nefndarinnar. Í fyrsta lagi voru umhverfismál og sérstaklega loftslagsbreytingar að venju mjög áberandi í umræðunni. Kynntar voru rannsóknir um loftslagsbreytingar sem hafa átt sér stað á norðurskautssvæðinu síðustu áratugi en ekki sér fyrir endann á þeim breytingum. Norðurslóðir einkennast af sérlega viðkvæmum vistkerfum og bendir ýmislegt til að þróunin við norðurskaut sé eins konar fyrirboði þess sem verður annars staðar í heiminum.

Í öðru lagi voru umræður um siglingaleiðir og björgunarmál áberandi á árinu. Með minnkandi hafís á norðurskautssvæðinu og auknum þrýstingi alþjóðavæðingar um sífellt stærri flutningaskip má búast við að siglingaleiðir milli Asíu annars vegar og Evrópu og austurstrandar Norður-Ameríku hins vegar opnist á næstu árum. Þar með styttast siglingaleiðir verulega eða um allt að helming. Auknar siglingar um norðurskautið munu hafa veruleg áhrif á Ísland sem gæti legið vel við sem umskipunarhöfn fyrir þessa miklu flutninga. Þeim tækifærum sem í þessu felast fylgir einnig nokkur áhætta, m.a. vegna meiri hættu á umhverfisslysum og verulega auknum verkefnum fyrir Landhelgisgæsluna. Einnig hafa Norðmenn hafið mikla olíu- og gasvinnslu í Barentshafi og fylgja Rússar líklega í kjölfarið. Hluti þeirrar orku verður fluttur með skipum til Norður-Ameríku um íslenska landhelgi.

Í þriðja lagi var lögð áhersla á alþjóðaár heimskautasvæðanna eða International Polar Year sem gekk í garð í mars 2007 og var haldið í þriðja sinn. Vísindamenn frá yfir 60 löndum taka þátt í rannsóknum alþjóðaársins sem lýkur í mars 2009. Markmiðið með árinu var að leiða til stórátaks í rannsóknum og athugunum á heimskautasvæðum jarðar. Rannsóknir á loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra á umhverfi, lífríki og samfélag voru í brennidepli á rannsóknarárinu en lögð var sérstök áhersla á þverfaglegar rannsóknir. Einnig varð mönnum tíðrætt um öryggi í orkumálum á árinu og þörfina fyrir aukna notkun orkugjafa sem ekki hafa mengandi áhrif á andrúmsloftið.

Frú forseti. Þingmannanefndin hélt þrjá fundi á árinu og sótti ég þá sem formaður Íslandsdeildar. Haldinn var fundur í Reykjavík 1. júní þar sem Þórir Ibsen, skrifstofustjóri auðlinda- og umhverfisskrifstofu utanríkisráðuneytisins, hélt m.a. erindi um öryggis- og björgunarmál í Norðurhöfum út frá sjónarhorni Íslendinga. Hann ræddi um skýrsluna Fyrir stafni haf – Tækifæri tengd siglingum á norðurslóðum, sem gefin var út á Íslandi 2005 og fjallar um opnun norðaustursiglingaleiðarinnar. Í skýrslunni eru m.a. metin viðskiptaleg áhrif og umhverfisáhrif af fyrirsjáanlegri opnun alþjóðlegra siglingaleiða fyrir Ísland, ekki síst með tilliti til mögulegrar umskipunarhafnar í landinu. Þórir vitnaði einnig í niðurstöðu ráðstefnunnar sem haldin var á Akureyri í mars 2007 og fjallaði um áhrif og tækifæri með opnun nýrra siglingaleiða um Norðurhöf.

Á fundum nefndarinnar fjallaði ég sem formaður Íslandsdeildar um þróun mála hér á landi og mikilvægi norðurskautsins fyrir Ísland sem mætti m.a. sjá í fjölda verkefna sem íslensk stjórnvöld hafa unnið að í kjölfar formennskuárs Íslands í norðurskautsráðinu árin 2002–2004. Ég lagði m.a. áherslu á umræðu um siglingaleiðir, eftirlit og björgunarmál í Norðurhöfum og greindi frá samkomulagi sem undirritað var af utanríkisráðherra Íslands við Dani og Norðmenn, um samstarf á sviði öryggis-, varnar- og björgunarmála á Norður-Atlantshafi og við Ísland á friðartímum, en fyrir þessu er gerð frekari grein í skýrslu Íslandsdeildar. Enn fremur lagði ég áherslu á þýðingarmikið hlutverk hinnar norðlægu víddar sem samstarfsvettvangs í Norður-Evrópu og benti á að meiri áherslu mætti leggja á norðurskautið í því samstarfi.

Frú forseti. Eins og áður sagði er gerð nákvæm grein fyrir því sem fram fór á fundum nefndarinnar í skýrslu þeirri sem ég hef mælt fyrir og vísa ég til hennar varðandi frekari upplýsingar um störf nefndarinnar. En um leið og ég læt lokið umfjöllun minni um skýrslu Íslandsdeildar þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál fyrir árið 2007 vil ég þakka Örnu Gerði Bang fyrir framúrskarandi störf í þágu Íslandsdeildar þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál.



[12:20]
Forseti (Þuríður Backman):

Eins og getið var um í upphafi, áður en farið var í umræður um skýrslur, varð samkomulag um það að taka saman 2.–5. dagskrárlið og ræða þá saman. Fer sú umræða nú fram, þ.e. um skýrslur um norrænu ráðherranefndina, norrænt samstarf, Vestnorræna ráðið og norðurskautsmál.



[12:20]
Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Norrænt samstarf hefur verið Íslandi mjög mikilvægt gegnum tíðina og má í því sambandi nefna samnorræna atvinnu- og menntamarkaði sem standa Íslendingum opnir. Ég vil líka nefna mjög víðtækt samstarf á embættismannasviði, embættismenn norrænna ríkja hittast reglulega eins og stjórnmálamenn gera líka og ég tel að það hafi haft geysilega mikil áhrif á löggjöf hér á landi. Hún væri með allt öðrum hætti ef þetta víðtæka norræna samstarf væri ekki fyrir hendi.

Ég vil líka nefna að sveitarfélögin eru í miklu norrænu samstarfi. Það byggist m.a. á vinabæjarsamstarfi sem er mjög mikilvægt og einnig stundar fjöldinn allur af grasrótarsamtökum mikið og blómlegt norrænt samstarf, einnig skólar og svo Norræna félagið — ég vil gjarnan nefna það sérstaklega því að það heldur utan um svo mikið af þessu samstarfi okkar.

Í Norðurlandaráði er stöðugt til umræðu að reyna að bæta það umhverfi sem Norðurlandabúar búa við. Þar er mjög horft til félagslegra og umhverfislegra þátta utan við atvinnumarkaðinn. Ég held að það sé við hæfi í umræðunni um norrænt samstarf á árinu 2007 að sú er hér stendur greini nánar frá starfi einnar af málefnanefndum ráðsins, þ.e. velferðarnefndarinnar, þar sem ég er formaður nefndarinnar. Tók ég þar við formennskukeflinu af mætum þingmanni sem ekki gaf kost á sér til endurkjörs í síðustu alþingiskosningum, Jóni Kristjánssyni, og vil ég nota tækifærið hér og þakka honum fyrir góð störf í þágu velferðarnefndar og ráðsins alls eins og hans er von og vísa.

En áður en ég kem inn á störf velferðarnefndarinnar í Norðurlandaráði vil ég aðeins segja nokkur orð um öryggismálin sem formaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs, hv. þm. Árni Páll Árnason, gerði ágæt skil hér áðan. Það er alveg ljóst að það er mjög mikilvægt fyrir Ísland við breyttar aðstæður að öryggismál á norðurslóðum séu eins og best verður á kosið. Því er mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að stuðla að því á þann hátt sem okkur er mögulegt og Norðurlandaráð er nærtækur vettvangur til þess. Eftir að loftslagsbreytinga tók að gæta í auknum mæli, og þiðnun íssins norður frá varð greinanlegri, hafa augu heimsins og sér í lagi Norðurlanda opnast fyrir því aðkallandi verkefni sem það er að búa svo um hnútana að hægt sé að fyrirbyggja og bregðast við skakkaföllum sem geta orðið, til að mynda varðandi björgunarmál á sjó. Auknar siglingar stærri flutninga- og farþegaskipa í kjölfar greiðari siglingaleiða krefjast þess beinlínis að við gerum ráðstafanir. Skemmst er að minnast strands Wilsons Muuga í því sambandi. Það er flókið að sigla í Norðurhöfum og veður oft mikil og það þarf að passa mjög vel upp á björgunarmálin. Við gætum þurft að horfa upp á miklu stærri slys á sjó en við höfum séð áður, bæði hvað varðar þann mannfjölda sem getur verið í hættu og líka hvað varðar umhverfið og á ég þá við siglingar stórra olíuskipa.

Áður hefur verið minnst á að gerðir hafa verið tveir samningar um varnar- og öryggismál og björgunarmál á Norður-Atlantshafi. Hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir, þá utanríkisráðherra, skrifaði undir samninga við bæði Norðmenn og Dani og þeir samningar eru okkur mjög mikilvægir, þessir rammasamningar. Ég vil líka nefna að utanríkisnefnd norska Stórþingsins var hér í fyrra og heimsótti utanríkismálanefnd og var þá komið inn á þessa rammasamninga. Það var greinilegt að Norðmennirnir höfðu sömu tilfinningu og við Íslendingar fyrir því hvað þessir samningar væru mikilvægir. Í næstu viku mun íslenska utanríkismálanefndin fara til Noregs og ræða aftur við utanríkisnefnd norska Stórþingsins um þessi mál og önnur, hvernig haldið er á EES-málunum í Stórþinginu, þróunarsamvinnumál og það sem okkur finnst bera hæst í samstarfi landanna.

Umræðan um öryggis- og björgunarmál á vettvangi Norðurlandaráðs sýnir okkur hvernig áherslur og umfjöllun í ráðinu hafa breyst á síðustu árum. Umræðurnar um utanríkismál á Norðurlandaráðsþinginu í Ósló voru með öðrum hætti en þegar sú er hér stendur tók þátt í norrænu samstarfi fyrst á vettvangi þjóðþinganna. Það var fyrir 12 árum eða svo þannig að mjög margt hefur breyst á alþjóðavettvangi og Norðurlandaráð beinir nú sjónum sínum í auknum mæli út á við eins og áhersla þess á hnattvæðinguna ber vitni um. Nærsvæðasamstarf ráðsins er einnig mikilvægur þáttur í starfsemi þess. Má þar nefna það samstarf sem Norðurlöndin hafa átt við Eystrasaltsríkin á síðustu áratugum sem án vafa hefur verið skerfur til stöðugleika á svæðinu. Það var eftirtektarvert í tengslum við öryggismálaumræðuna á forsætisnefndarfundinum í Reykjavík hversu mikill samhugur og samstaða ríkti innan Íslandsdeildarinnar um það mál. Voru allir sammála um að Ísland ætti að beita sér í því máli og framsetning tillagna frá landsdeild með þessum hætti er ekki algeng í dag eftir að vægi flokkahópanna innan Norðurlandaráðs jókst þannig að það var gleðiefni hve góð samstaða tókst í þessu máli.

Á sviði velferðarmála hafa ýmis mál verið til umfjöllunar á síðasta ári hjá velferðarnefnd Norðurlandaráðs og vil ég nefna nokkur. Tvær tillögur sem nefndin afgreiddi urðu að tilmælum ráðsins til norrænu ráðherranefndarinnar, annars vegar um geðheilbrigðismál og hins vegar um starfsfólk í heilbrigðisstéttum.

Tilmælin um geðheilbrigðisþjónustu á Norðurlöndum miða að því að Norðurlöndin móti norræna stefnu á sviði geðheilbrigðismála sem þjóni því hlutverki að vera umgerð um miðlun, reynslu og samstarf milli norrænu landanna. Í tilmælunum eru líka tilgreindar aðgerðir sem felast skuli í áætluninni. Dæmi um aðgerðir sem lagðar eru til eru að vinna gegn fordómum í samfélaginu gagnvart geðrænum vandamálum, að gera úttekt á og tillögur um aðgerðir ríkis og sveitarfélaga varðandi húsnæðisúrræði og stuðning í daglegu lífi fyrir einstaklinga með geðfatlanir, og aukin áhersla er lögð á þróun þekkingar og menntun starfsfólks og sérfræðinga á sviði geðlækninga.

Önnur tillaga sem var til umfjöllunar í velferðarnefnd Norðurlandaráðs og varð að tilmælum ráðsins er á þann veg að norrænu ríkin hafi frumkvæði að því að gera alþjóðasamning sem fjalli um ráðningar ríkra ríkja á heilbrigðisstarfsfólki frá þróunarríkjum. Í dag er mjög mikil tilhneiging til þess að hin ríkari ríki lokki til sín heilbrigðisstarfsmenn frá þróunarríkjunum og í svo miklum mæli að í sumum þróunarríkjum eru ekki nógu margir læknar, hjúkrunarfræðingar og heilbrigðisstarfsfólk til að sinna bólusetningum og heilbrigðismálum almennt. Það hefur verið nefnt að í Frakklandi eru fleiri læknar frá Benín en er í Benín sjálfu. Á Manchester-svæðinu í Bretlandi eru sömuleiðis fleiri heilbrigðisstarfsmenn frá Malaví en í Malaví sjálfu og hlutfall heilbrigðisstarfsmanna frá vanþróuðum ríkjum fer hækkandi á Norðurlöndum. Þrýstingurinn er auðvitað mikill af því að hlutfall eldri borgara er að hækka í okkar heimshluta og þá verður tilhneigingin þessi. Meðan við erum ekki nógu dugleg að mennta sjálf heilbrigðisstarfsfólk og halda því að störfum freistumst við til að lokka til okkar heilbrigðisstarfsfólk frá öðrum ríkjum. Norðurlandaráð vill að menn snúi þessu við og mun beita sér í því á næstunni.

Ég vil einnig nefna að velferðarnefnd Norðurlandaráðs hefur skoðað stöðuna í Murmansk í Norðaustur-Rússlandi. Mjög mikil tengsl eru við það svæði yfir til norrænna ríkja, landamæri nokkurra norrænna ríkja liggja að Norðaustur-Rússlandi. Við skoðuðum ástandið í Murmansk hvað varðar berkla og þá sérstaklega fjölónæma berkla, sem engin meðferð dugir á, og hvað varðar eyðni og alnæmi. Menn sjá hækkandi tölur í þessum heimshluta, í Norðaustur-Rússlandi, og er eðlilegt að norrænu ríkin geri það sem í þeirra valdi stendur til aðstoðar svo að hægt verði að koma böndum yfir starfsemi heilbrigðisþjónustunnar á þessu svæði.

Ég vil einnig nefna mál sem hefur verið rætt á sameiginlegum fundi velferðarnefndar Norðurlandaráðs og neytendanefndarinnar. Það var gert fyrir stuttu og eðlilegt að við miðlum reynslunni frá þeim vettvangi hingað inn á Alþingi. Þar fengum við upplýsingar um transfitusýrur. Danir hafa sett sérstaka löggjöf um hlutfall transfitusýra í mat og nú hefur ratað inn í þingið þingsályktunartillaga er sú sem hér stendur er 1. flutningsmaður að en ásamt mér eru nokkrir hv. þingmenn úr Íslandsdeild Norðurlandaráðs á tillögunni, m.a. hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Kjartan Ólafsson, Kolbrún Halldórsdóttir, Árni Páll Árnason og Björk Guðjónsdóttir ásamt fleiri þingmönnum sem eru hvorki aðal- né varamenn í Norðurlandaráði. Tillagan á því rætur í norrænu samstarfi og vona ég að hún verði samþykkt en þá munum við tryggja að hlutfall tranfitusýra í mat á Íslandi verði lágt.

Ég vil líka gera að umfjöllunarefni nærsvæðasamstarf Norðurlandaráðs sem ég kom aðeins inn á í upphafi ræðu minnar. Í október á síðasta ári gafst mér tækifæri til að taka þátt í málþingi í Litháen sem Norðurlandaráð skipulagði með þátttöku þingmanna frá Norðurlöndunum, þingmanna frá Eystrasaltsríkjunum, þingmanni frá Hvíta-Rússlandi og fulltrúum stjórnarandstöðuflokka frá Hvíta-Rússlandi — þeir eru reyndar ekki í þinginu þar enda tæpast hægt að kalla Hvíta-Rússland lýðræðisríki. Málþingið var mjög eftirminnilegt fyrir þær sakir hve viðkvæm og jafnvel brothætt sú umræða sem þar átti sér stað var en rætt var um loftslagsmál og hlutverk þingmanna á breyttum tímum. Að sjálfsögðu beindist umræðan mjög mikið að lýðræði í Hvíta-Rússlandi og er ljóst, virðulegi forseti, að sú tengslamyndun sem varð á þessari fyrstu ráðstefnu sinnar tegundar getur orðið mjög dýrmæt þegar fram líða stundir við að efla lýðræði og stöðugleika í Hvíta-Rússlandi ef vel er á spilum haldið. Málþingið tókst afar vel og því verður fylgt eftir með öðru málþingi í upphafi næstu viku og mun ég sækja það. Ég tel að ef vel tekst til í framhaldinu gæti þetta frumkvæði Norðurlandaráðs undirstrikað enn frekar mikilvægi nærsvæðasamstarfs ráðsins og tengslastarfs Norðurlandanna á alþjóðavettvangi. Það er alveg ljóst að Norðurlandaráð spilaði geysilega stóra rullu þegar Eystrasaltsríkin urðu frjáls og var hlutverkið aðallega fólgið í því að minnka velferðargjána á milli Eystrasaltsríkjanna og Norðurlandanna. Þar liggja mjög mikil öryggissjónarmið að baki og nú þarf að teygja sig lengra austur. Hvíta-Rússland er upplagt ríki til að efla tengslin við og það hefur Norðurlandaráð sett á dagskrá.

Ég vil líka nefna vestnorræna samstarfið sem nokkrir hv. þingmenn hafa gert að umræðuefni. Ég vil sérstaklega fagna því að á síðasta ári var opnuð aðalræðisskrifstofa Færeyja við Austurvöll en fyrir skömmu opnuðum við sendiráð í Færeyjum. Við höfum líka gert mjög mikilvægan tvíhliða samning um fríverslun við Færeyinga, Hoyvíkursamninginn svokallaða. Það var rætt á síðasta ári í vestnorrænu samstarfi hvort Grænlendingar gætu tekið þátt í þeim samningi líka og var það tekið fyrir á fundi á Húsavík. Efasemdir komu frá Grænlendingum um að þeir mundu ganga alla leið í því en þeir óskuðu þó eftir því að það yrði skoðað hvort Grænland gæti verið með í hluta samningsins og hlýtur að vera spennandi að skoða hvort það sé hægt.

Ég vil líka nefna á síðustu metrunum í ræðu minni, virðulegi forseti, að í norrænu samstarfi felast mikil tækifæri fyrir okkur. Ég tel t.d. mikil tækifæri til útrásar á norðurslóðum fyrir Íslendinga. Talið er að um 20% af olíu- og gasauðlindum heimsins sé að finna á Barentssvæðinu og nú þegar mjög mikill óróleiki er við botn Miðjarðarhafs líta margir þangað norður eftir hvað varðar fjárfestingar. Það á að fjárfesta á svæðinu fyrir 140 þús. milljarða kr. á næstu árum í olíuiðnaði og norska ríkisstjórnin hefur sett það mál mjög ofarlega á dagskrá, sett upp 11 manna ráðherranefnd sem á að fylgjast með því. Ég tel að við Íslendingar getum verið þátttakendur í þeirri útrás sem þar verður, við erum vön því að vinna á norðlægum slóðum og erum í næsta nágrenni.



[12:35]
Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Siv Friðleifsdóttur góða ræðu. Ég vil einungis nefna að í máli sínu rakti hún mjög mikilvægan þátt í starfi Norðurlandaráðs sem hófst á síðasta ári, sem er nágrannasamstarf við Hvíta Rússland, og hún hefur sinnt því verkefni með miklum ágætum. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við áttum okkur á því hvað norrænt samstarf er mikilvæg fyrirmynd í samskiptum við nágrannaþjóðir sem eru í breytingaferli. Sumum kann að finnast það nokkuð fjarstæðukennt að elta ólar við það hvernig ástand er í Hvíta-Rússlandi eða leggja sig sérstaklega fram við að stuðla að lýðræðisþróun og framförum þar. Staðreyndin er hins vegar sú að þetta er eina einræðisríkið sem eftir er í Evrópu, sem sannanlega er hægt að stimpla þannig, og það er í okkar allra næsta nágrenni, þ.e. rétt við Eystrasaltið og á landamæri að mörgum af nánustu samstarfsríkjum okkar. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við sýnum þá fyrirmynd sem norrænt, lýðræðislegt samstarf er og sérstaklega hvert hlutverk þingmanna og þingmannasamstarfs getur verið í samskiptum við stjórnarandstöðuna í Hvíta-Rússlandi. Við lögðum áherslu á það á vettvangi Norðurlandaráðs að þessi samskipti yrðu að vera við stjórnarandstöðuna líka og við það hefur þó verið staðið þrátt fyrir að þessi samskipti þurfi að eiga sér stað í Vilníus vegna þess að það er ekki hægt að treysta stjórnvöldum í Hvíta-Rússlandi ef samskiptin eru færð þangað.



[12:38]
Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rétt að ég hef verið fulltrúi Íslands í þessu samstarfi sem er nýlega hófst. Það er svolítið sérstakt að fulltrúi stjórnarandstöðunnar, sem ég er, skuli vera í því en ég vil sérstaklega þakka fyrir það að Íslandsdeildin kom því þannig fyrir af því að ég hef mikinn áhuga á þessu og ég mun reyna að standa mig með sóma í því samstarfi.

Það er alveg rétt að Norðurlöndin spiluðu stórt hlutverk gagnvart Eystrasaltsríkjunum og nú hafa þau tekið geysilega stórt skref. Þau eru komin inn í Evrópusambandið og eru komin inn í allt annað lagaumhverfi en þau voru í og eru í mikilli sókn og þar er verið að vinna á mjög öflugan hátt gagnvart öryggismálum og því að auka velferð á allan hátt. Þá hlýtur kastljósið að beinast að ríkjunum sem eru þar í grendinni. Íslendingar, eins og öll önnur norræn ríki, hafa mikla hagsmuni af því að vera í mjög góðu samstarfi við Rússa og við löndin sem þar liggja í kring eins og Úkraínu og Hvíta-Rússland. Ráðstefnan sem var í fyrra og verður fram haldið í næstu viku er mjög mikilvæg fyrir þær sakir að við viljum gjarnan byggja upp traust og góð tengsl við Hvíta-Rússland.

Þarna kom fulltrúi frá Lúkasjenkó-flokknum, þingmaður frá Hvíta-Rússlandi, en líka fulltrúar stjórnarandstöðunnar. Það er enn þá þannig að það er verið að fangelsa fulltrúa stjórnarandstöðunnar og einn þingmaður komst t.d. ekki á ráðstefnuna af því að hann var í fangelsi og það kom varamaður fyrir hann. Það eru mjög mörg mál sem er mikilvægt að ræða við nágrannaríki okkar í austri. Þar má nefna loftslagsmálin, orkumálin, það er mjög mikið tekist á um orkumál á þessu svæði og svo auðvitað viðskipti að öðru leyti. Ég tek því undir með hv. þm. Árna Páli Árnasyni varðandi það samstarf sem þarna er að hefjast, (Forseti hringir.) ég hef fulla trú á því að þetta sé bara fyrsta skrefið á mjög langri og gæfuríkri leið.



[12:40]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér skýrslur Norðurlandasamstarfsins, fjórar skýrslur í einum pakka, og hér er gríðarlega mikið efni undir og svo sem ekki einfalt að höndla umræðuna eða hafa hana hnitmiðaða eða mjög einbeitta því að það er farið afar vítt yfir. Ofan í kaupið er samstarfsráðherra Norðurlanda, hæstv. iðnaðarráðherra Össur Skarphéðinsson, ekki með okkur hér í dag, sem ég tel afar miður, því að samstarf nefndanna eða þeirra deilda sem starfa, hvort sem það eru deildir í Norðurlandaráði, Vestnorræna ráðið eða deild um norðurskautsmálin þá höfum við eðli máls samkvæmt mikið samstarf við samstarfsráðherrann og það sem við höfum að segja hér höfum við fyrst og síðast að segja við samstarfsráðherrann. Ég undirstrika því gagnrýni mína í þessari umræðu, ég tel það afar miður að forseti skyldi hafa komið málum þannig fyrir að þessi umræða færi fram þegar samstarfsráðherrann er fjarri góðu gamni, ég átel að þetta skyldi ekki hafa verið gert með þeim hætti að hér gætu allir verið til staðar.

Það kom fram í máli hv. þm. Árna Páls Árnasonar að loftslagsbreytingar og afleiðingar þeirra hafi verið til mikillar umfjöllunar á vettvangi Norðurlandaráðs á síðustu árum og árið 2007 var kannski það ár sem mest hefur farið fyrir þessari umræðu. Ég geri ráð fyrir að umræðan komi til með að vaxa á þessu ári og næsta, ekki síst vegna fyrirhugaðs loftslagsfundar Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn 2009. Fundinn á að halda 30. nóvember til 11. desember og það verður í verkahring þeirra sem starfa að Norðurlandasamvinnu að undirbúa hann að mjög miklu leyti. Ein af tilmælunum sem samþykkt hafa verið á Norðurlandaráðsþinginu varða þennan fund og mig langar til að fara nokkrum orðum um þau tilmæli hér. Ég álít að þetta varði mál sem íslenskir þingmenn og Alþingi Íslendinga verði að taka til beinnar umfjöllunar og meðhöndlunar á Alþingi því að við höfum hlutverki að gegna í undirbúningi þessa mikilvæga fundar í Kaupmannahöfn.

Norðurlandaráð beindi tilmælum til norrænu ráðherranefndarinnar í sex liðum um að undirbúa þennan fund. Í fyrsta lagi með því að standa fyrir fræðsluátaki meðal skólanema um loftslagsbreytingar og leiðatogafund Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál. Þetta er fræðsluátak sem þarf að hefja í öllum norrænu ríkjunum. Okkur þingmönnum sem störfum á vettvangi Norðurlandaráðs langar öll til þess að okkar fólk, æskan og upprennandi þjóðfélagsþegnar, þeir sem eiga að taka við stjórninni að okkur gengnum, sé vel menntað á þessu sviði og geti fært fram skilaboðin, hin mikilvægu skilaboð um aðferðir til úrbóta í þessum efnum. Norðurlandaráð tekur undir þau sjónarmið.

Norðurlandaráð vill líka að norræna ráðherranefndin sjái til þess að staðið verði fyrir umræðum um markmið í loftslagsmálum með breiðri þátttöku almennings og að sjónum verði beint að ábyrgð einstaklingsins ásamt félagslegum afleiðingum loftslagsbreytinga fyrir samfélagið þar sem áhrifin verða mest og íbúa þeirra.

Í þriðja lagi eru tilmælin um það að við stöndum fyrir sýningum og kynningu á endurnýjanlegum orkugjöfum og umhverfistækni í tengslum við loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Þessi liður heyrir mjög upp á okkur Íslendinga. Við þurfum að átta okkur á því hversu framarlega við stöndum varðandi orkumál, þ.e. endurnýjanlega orkugjafa og ýmsa þætti er varða umhverfistækni og við þurfum þess vegna að undirbúa það í tíma að okkar framlag á fundinum í Kaupmannahöfn verði stórt, umfangsmikið og gott og að eftir því verði tekið.

Sömuleiðis er í tilmælunum gert ráð fyrir því að skipulagðar verði norrænar hringborðsumræður með fremstu sérfræðingum Norðurlandanna á sviði orkumála til undirbúnings ákvarðana um ný metnaðarfull markmið Norðurlanda í orkumálum. Við Íslendingar eigum sérfræðinga á þessu sviði sem við þurfum að fara að undirstinga núna til þess að undirbúa það að taka þátt í svona hringborðsumræðum sem verða á mjög háu háu plani þar sem helstu sérfræðingar Norðurlandanna eiga samtal við restina af heimsbyggðinni, við þá sem starfa innan Sameinuðu þjóðanna og leiða starfið í loftslagsmálunum. Ég held því að þarna höfum við verk að vinna og þurfum að fara að undirstinga sérfræðinga okkar.

Í fimmta lagi er gert ráð fyrir í tilmælunum að hrint verði úr vör verkefni sem miði að því að þróa nýjar lausnir í orkumálum til að draga úr koltvísýringsmengun, auk þess að þróa enn frekar rannsóknarsamstarf í umhverfismálum á norrænum og alþjóðlegum vettvangi.

Að lokum gengur sjötti punkturinn út á það að tryggja í fjárlögum norrænu ráðherranefndarinnar fyrir árin 2008 og 2009 nægilega fjárveitingu til að undirbúa loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn 2009. Þessi síðasti punktur kemur inn á 60 milljónirnar sem við ræddum hér fyrr í dag. Það kostar gríðarlega mikið að hýsa þennan fund Sameinuðu þjóðanna og ef Norðurlandaráð ætlar að hafa fundinn svona ítarlegan, svona umfangsmikinn og að hann risti jafndjúpt og eigi jafnríkan stað í samfélaginu og vilji stendur til þarf í það gríðarlegt fjármagn. Mín tilfinning er afar sterk um að — við erum að tala um 120 milljónir, ef ég tek tvisvar sinnum 60 milljónir þá erum við að tala um rúmlega einn milljarð íslenskra króna, 1,2 milljarða ísl. kr. — ef þetta hnattvæðingarverkefni norrænu ráðherranefndarinnar verður ekki í tengslum við þessa metnaðarfullu yfirlýsingu Norðurlandaráðs þá séum við að eyða peningunum í vitleysu eða henda þeim út um gluggann. Það er því mjög mikilvægt að þau skilaboð fari í gegnum samstarfsráðherra okkar, inn á vettvang ráðherranefndarinnar og að skilaboðin séu skýr og þau séu með þessum hætti: Fjármunirnir eiga á næstu tveimur árum, þessu og næsta, að fara í fundinn í Kaupmannahöfn. Það er gríðarlega mikilvægt og ég efast um að við séum aflögufær um rúman einn milljarð í eitthvað annað verkefni.

Hnattvæðingarverkefnið sem slíkt er hins vegar ágætt, góðra gjalda vert, en það er ekki komið nægilega langt til þess að við getum farið að eyða í það svona miklum peningum. Á fundi nefndar Norðurlandaráðs nú í janúar kom fram mjög hörð gagnrýni á ráðherranefndina vegna þess að hún hefur ekki enn sýnt á spil sín, í hvað hún ætli að setja þessar 60 milljónir. Það eina sem er haldfast í þeim efnum eru fjórar milljónir sem eiga að fara í skilgreindan fund sem varðar hnattvæðingarmálin en það er eina verkefnið sem búið er að lýsa af þessum 60 milljónum.

Ég tel líka að grundvöllurinn sem hnattvæðingarverkefni norrænu ráðherranefndarinnar hvílir á sem er að hluta til skýrslan um Norden som global vinderregion , eða Norðurlöndin sem sigursvæði í hnattvæðingu, sú skýrsla er að mínu mati meingölluð. Hún er skrifuð af dönsku fyrirtæki Den danske tænketank Mandag Morgen ráðgjafarfyrirtæki, sem gæti kallast „Thinktank“ upp á engilsaxnesku og gefur út mjög athyglisvert blað á hverjum mánudagsmorgni, held ég, sem fjallar um samfélagsmál og þar eru sjónarmið viðskiptalífsins mjög ofarlega á baugi. Ég hef talað fyrir því að við áttum okkur á því þegar við erum að taka við vinnu svona sérfræðinga að þá á það eftir að fara í gegnum hina pólitísku síu og ef þau sjónarmið sem norræna ráðherranefndin ætlar að keyra eftir eru samhljóma því sem kom fram í skýrslunni um Norden som global vinderregion þá held ég að það skorti aðeins upp á þann væng sem ég starfa fyrir í pólitíkinni, þ.e. vinstri vænginn. Frú forseti. Ég tel því að hér séu ákveðnir þættir sem beri að hafa aðgát við og þetta sé ekki allt svo einfalt í framkvæmd.

Eitt af því sem mig langar til að nefna í skýrslu þeirri sem hér liggur fyrir á þskj. 719 er umræðan um sjálfsstjórnarsvæðin en í skýrslunni kemur fram að vegna óska Færeyja um aðild að opinberu norrænu samstarfi á sama grundvelli og norræn ríki hafi verið gerð stór og mikil úttekt á vegum norrænu ráðherranefndarinnar árið 2006 og niðurstaða þeirrar úttektar birtist í svokölluðu Álandsskjali. Eins og kom fram í ræðu hv. formanns Íslandsdeildarinnar fékk hún ákveðna afgreiðslu á Norðurlandaráðsþinginu í Ósló í nóvember á síðasta ári.

Nú er það svo að samstarfsráðherrar Norðurlandanna voru krafðir svara af þeirri sem hér stendur á Norðurlandaráðsþinginu um hver hafi verið rökin fyrir því að þeir lögðust gegn því að Helsingfors-samningnum yrði breytt til þess að sjálfsstjórnarsvæðin gætu átt sjálfstæða aðild að Norðurlandaráði. Svör þessara samstarfsráðherra, Noregs, Svíþjóðar og Finnlands, komu ekki fram á Norðurlandaráðsþinginu og því að ítrekaði ég spurningu mína skriflega og sendi þeim hana og nú hafa borist svör frá þessum þremur ráðherrum. Þetta er reyndar sameiginlegt svar allra ráðherranna og það verður að segjast eins og er að það olli mér talsvert miklum vonbrigðum því að svör ráðherranna þriggja sem hér um ræðir voru mjög loðin. Af þeim má skilja að þeir styðji andann í Álandsskjalinu, að þeir vilji auka möguleika sjálfsstjórnarsvæðanna á því að koma beint að Norðurlandasamstarfinu, þess vegna séu tillögurnar í Álandsskjalinu þeim að skapi, en þeir skýra ekki hvers vegna þeir eru mótfallnir því að Helsingfors-samningnum verði breytt. Ég tel að Færeyingar komi til með að reka þetta mál áfram, við séum ekki búin að heyra síðasta vers í þessum söng. Við vitum líka að sjálfstæðisbarátta Færeyinga og jafnvel Grænlendinga er undirliggjandi í þessum óskum þannig að ég tel að um þær óskir verði fjallað nánar í nánustu framtíð. Ég er ánægð með þá niðurstöðu sem náðist í Ósló í nóvember sl., þ.e. að Íslandsdeild Norðurlandaráðs skyldi einhuga standa með Dönum í atkvæðagreiðslunni en þar studdum við að farin yrði sú leið sem Færeyingarnir hafa óskað eftir.

Hér hefur verið rætt um það að niðurskurðurinn vegna hnattvæðingarverkefnisins bitni mögulega á menningarsamstarfinu og upplýsingaskrifstofunum. Ég vona auðvitað að okkur takist að standa vörð um upplýsingaskrifstofurnar, það er okkur verulegt áhyggjuefni ef fara á að skerða framlögin til þeirra. Við þingmennirnir í Íslandsdeildinni höfum staðið sem einn maður á bak við sjónarmið upplýsingaskrifstofanna og komum til með að berjast áfram fyrir því að það mál fari örugglega á réttan veg og endi ekki með ósköpum.

Það er dálítið athyglisvert varðandi menningarsamstarfið að í skýrslu þeirri sem hér liggur fyrir á þskj. 719 er fjallað sérstaklega um verðlaun Norðurlandaráðs, bókmenntaverðlaunin, tónlistarverðlaunin, náttúru- og umhverfisverðlaunin og kvikmyndaverðlaunin. Það er mjög mikill fengur að slíkum upplýsingum um þessi verðlaun og þá listamenn sem hafa hlotið þau á síðasta ári. Ég bendi því á að skýrslurnar sem slíkar hafa að geyma mikinn fróðleik sem ekki ratar inn í þessa umræðu en af því að menningarsamstarfið er nú undir skurðarhnífnum vil ég hvetja þá hv. þingmenn sem áhuga hafa á að kynna sér það samstarf og þau verðlaun sem við höfum verið að veita. Í skýrslunni er ríkulegt lesefni sem lýsir því hversu mikilvægt þetta samstarf er og hversu þessi verðlaun opna okkur aðgang að verkum einstakra listamanna sama hvar á Norðurlöndum viðkomandi býr.

Ég tel því að hér sé um gríðarlega mikilvægt samstarf að ræða sem sé í okkar verkahring og í okkar þágu að standa vörð um. Framkvæmdastjóri norrænu ráðherranefndarinnar sagði á fundi sem hann átti með þingmönnum Norðurlandaráðs í Stokkhólmi fyrir skemmstu að þrátt fyrir að menningargeirinn hafi alltaf verið fjárfrekur, hafi fengið mikið og hafi virkilega notið stuðnings og þessa norræna samstarfs, þá mætti ekki líta á hann sem einhverja heilaga kú, þ.e. að við yrðum að átta okkur á því að á endanum þyrfti kannski að skera þar líka. En eins og málum er háttað núna og eins vel og menningarsamstarfið hefur heppnast segi ég fyrir minn hatt: Ég kem til með að mótmæla því kröftuglega ef niðurskurðurinn á að vera fyrst og síðast þar, í menningargeiranum.

Hæstv. forseti. Aðeins eitt að lokum. Samhliða Norðurlandaráðsfundunum og samstarfi Norðurlandaráðs hefur verið haldið þing ungra Norðurlandabúa. Það þing á sér enga sérstaka rödd hér og mér þykir það dálítið miður, en það hafa verið haldin „semínör“ og ráðstefnur á vegum ungra norrænna borgara sem hafa verið athyglisverð og það væri kannski þörf á því að huga að því að birta einhverjar niðurstöður frá ungu norrænu þingunum í skýrslunni okkar frá Norðurlandaráði, þannig að ég bið um að það verði hugleitt.



[12:56]
Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir góða og efnismikla ræðu, hún nefndi mörg athyglisverð atriði.

Ég er prestssonur og hefur alltaf leiðst sá plagsiður presta að skamma þá sem mæta í kirkju fyrir lélega kirkjusókn. Ég vildi því ekki færa fjarveru samstarfsráðherra sérstaklega í tal við hv. starfandi samstarfsráðherra, Kristján Möller, meðan hann var hér áðan. Þetta er af vangá og við þurfum að læra af þessu. Engum dettur í hug að ræða samgönguáætlun að samgönguráðherra fjarstöddum og engum dettur í hug að ræða utanríkismál að utanríkisráðherra fjarstöddum, það er slysalegt að þetta gerðist og við verðum að gæta þess næst að samstarfsráðherra verði hér viðstaddur.

Ég vil aðeins í þessu samhengi benda á, og líka í framhaldi af orðum hv. þingmanns um áherslurnar í aðdraganda leiðtogafundar Sameinuðu þjóðanna 2009 og áherslur Norðurlandanna í loftslagsmálum í því efni, að vissulega er hér um stórt verkefni að ræða en líka gríðarlega spennandi verkefni, ekki síst í ljósi þess að svo vel vill til að hæstv. samstarfsráðherra tekur við formennsku í hópi samstarfsráðherra í byrjun næsta árs þannig að þessi fundur verður á formennskutímabili hans, og hæstv. umhverfisráðherra mun þá leiða umhverfisráðstefnu Norðurlanda. Þetta er því að sjálfsögðu einstakt tækifæri fyrir okkur til að koma skynsamlega og vel að málum og vinna vel. Ég bind við það miklar vonir að takist. Í kjölfarið árið eftir verður Ísland síðan með forsætið í Norðurlandaráði og getur þá haft forustu um að vinna úr því sem þarna gerist. Ef skynsamlega er á málum haldið er því hægt að stilla þessar tímasetningar nokkuð vel af þannig að við eigum að geta haft þarna mikil áhrif ef við viljum.

Ég vil líka undirstrika að utanríkisráðherra lýsti í ræðu sinni um utanríkismál í haust norrænu samstarfi og aðild okkar að Norðurlandaráði sem einum af grunnþáttum íslenskrar utanríkisstefnu. Sú yfirlýsing hlýtur að hafa áhrif á þá forgangsröðun sem stjórnvöld marka í kjölfarið.



[12:58]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil lýsa yfir ánægju minni með að hv. formaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs skuli sakna samstarfsráðherrans jafnmikið og ég geri. Ég tek undir það með honum að við þurfum að læra af þessu, þetta á ekki að geta gerst.

Það eru verulega góðar fréttir — sem ég vissi raunar ekki — að téður samstarfsráðherra, hæstv. iðnaðarráðherra Össur Skarphéðinsson, skuli vera að taka að sér formennsku í samstarfinu milli samstarfsráðherranna á næsta ári. Mér finnst tónninn í ræðu og andsvari hv. þingmanns líka gefa mér vísbendingar um að Íslandsdeild Norðurlandaráðs muni standa sameinuð að baki ráðherrum sínum í því samstarfi að gera fundinn í Kaupmannahöfn sem veglegastan og þá þátt okkar Íslendinga, íslenskra vísindamanna, íslensks almennings, íslensks skólafólks og íslenskrar æsku, og ekki er ráð nema í tíma sé tekið. Ég held að það sé mjög nauðsynlegt að við förum að sjá hjá ráðherrunum einhverja áætlun um það á hvern hátt við ætlum að standa að þessari vinnu.



[12:59]
Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er mjög mikilvægt að þessi undirbúningur hefjist fljótt. Ég vil taka fram að við höfum átt mjög gott samstarf við hæstv. samstarfsráðherra um þau mál sem á okkur hafa brunnið undanfarið. Hann tók upp á vettvangi samstarfsráðherra athugasemdir Íslandsdeildarinnar við fjárveitingar til upplýsingaskrifstofanna og hafði mikinn árangur af því starfi. Hann hefur staðið góðan vörð um fjárveitingar til Norræna hússins á þessum vettvangi og ég treysti því að við eigum áfram gott samstarf við hann í þeim efnum.

Menn eiga að horfa til þessa fundar sem nokkurs konar heimsstefnu eða heimssýningar um umhverfismál, um áherslur í rannsóknum og þróun, um áherslur í nýjum lausnum til að taka á loftslagsvandanum og að þar sé allt undir, líka kynningar þeirra fyrirtækja sem eru með búnað til að selja þannig að í sjálfu sér sé um að ræða vísindastefnu, almannaráðstefnu og kaupstefnu, allt í senn. Þessa hugsun þarf að útfæra og verður það skemmtilegt verkefni að fá að móta þetta. Ekki síst verður það skemmtilegt fyrir ráðherrann að fá að vera í forustu fyrir því að móta hið norræna svar að þessu leyti.



[13:01]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni, gríðarleg tækifæri eru í þessu fólgin og ég fagna því vissulega að hann skuli vera sama sinnis og ég hvað það varðar að við þurfum að nýta tækifærið vel.

Í þessu eru kannski líka fólgin skilaboð til samstarfsráðherra Norðurlanda, hæstv. iðnaðarráðherra Össurar Skarphéðinssonar, og hæstv. umhverfisráðherra, Þórunnar Sveinbjarnardóttur, um það að hafa áhrif á forsætisráðherra, en hann situr jú í norrænu ráðherranefndinni fyrir hönd íslensku ríkisstjórnarinnar. Það er norræna ráðherranefndin sem ætlar sér að eyða rúmum einum milljarði íslenskra króna í hnattvæðingarverkefni á sama tíma og Norðurlandaráð og samstarfsráðherrarnir eru ákafir í að undirbúa verkefni tengd fundi Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn 2009. Þessir tveir ráðherrar, sem hv. þm. Árni Páll Árnason nefnir, verða þá að tala þessu máli við hæstv. forsætisráðherra þannig að ekki fari frá okkur misvísandi skilaboð.

Það er mikilvægt að draga úr þeim fjármunum sem eiga að fara í hnattvæðingarverkefnið og auka fjármuni sem eiga þá í staðinn að fara í toppfundinn í Kaupmannahöfn.



[13:02]
Forseti (Þuríður Backman):

Vegna þeirra ummæla sem hér hafa fallið, og þar sem kallað hefur verið eftir viðveru samstarfsráðherra, vill forseti geta þess að þessi liður hefur verið á dagskrá þingsins í vetur og legið fyrir að umræður um skýrslurnar yrðu í dag.