135. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2008.

skýrslur um norrænt samstarf 2007.

452. mál
[12:35]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Siv Friðleifsdóttur góða ræðu. Ég vil einungis nefna að í máli sínu rakti hún mjög mikilvægan þátt í starfi Norðurlandaráðs sem hófst á síðasta ári, sem er nágrannasamstarf við Hvíta Rússland, og hún hefur sinnt því verkefni með miklum ágætum. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við áttum okkur á því hvað norrænt samstarf er mikilvæg fyrirmynd í samskiptum við nágrannaþjóðir sem eru í breytingaferli. Sumum kann að finnast það nokkuð fjarstæðukennt að elta ólar við það hvernig ástand er í Hvíta-Rússlandi eða leggja sig sérstaklega fram við að stuðla að lýðræðisþróun og framförum þar. Staðreyndin er hins vegar sú að þetta er eina einræðisríkið sem eftir er í Evrópu, sem sannanlega er hægt að stimpla þannig, og það er í okkar allra næsta nágrenni, þ.e. rétt við Eystrasaltið og á landamæri að mörgum af nánustu samstarfsríkjum okkar. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við sýnum þá fyrirmynd sem norrænt, lýðræðislegt samstarf er og sérstaklega hvert hlutverk þingmanna og þingmannasamstarfs getur verið í samskiptum við stjórnarandstöðuna í Hvíta-Rússlandi. Við lögðum áherslu á það á vettvangi Norðurlandaráðs að þessi samskipti yrðu að vera við stjórnarandstöðuna líka og við það hefur þó verið staðið þrátt fyrir að þessi samskipti þurfi að eiga sér stað í Vilníus vegna þess að það er ekki hægt að treysta stjórnvöldum í Hvíta-Rússlandi ef samskiptin eru færð þangað.