144. löggjafarþing — 116. fundur
 1. júní 2015.
áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla, fyrri umræða.
stjtill., 775. mál. — Þskj. 1362.

[12:11]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar á þskj. 1362, sem er 775. mál, um áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla skv. 5. mgr. 8. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða.

Tillagan byggist á breytingu á 5. mgr. 8. gr. áðunefndra laga um stjórn fiskveiða sem samþykkt var á Alþingi á 143. löggjafarþingi, en þar segir að ráðherra skuli eigi sjaldnar en á þriggja ára fresti leggja fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um áætlun um meðferð aflamagns til sérstakra ráðstafana í atvinnu-, byggða- og félagslegu skyni til næstu sex ára.

Tillagan sem hér liggur fyrir er unnin í samstarfi við fulltrúa þingflokka sem eiga sæti í atvinnuveganefnd. Vil ég hér sérstaklega þakka þeim öllum fyrir þá góðu vinnu sem þeir lögðu í þetta verkefni.

Með tillögunni eru lagðar til nokkrar breytingar á núverandi skipan mála og eru þær helstar þessar: Í tillögunni er gert ráð fyrir að ráðstöfun til atvinnu-, félags- og byggðatengdra verkefna verði hlutfall af því magni sem til ráðstöfunar verður en ljóst er að dregin verða 5,3% af úthlutun aflamagns allra kvótasettra tegunda til þessara verkefna. Heildarmagn verður ekki ljóst fyrr en ákvörðun um leyfilegan heildarafla liggur fyrir sem er ekki fyrr en í byrjun júlí að venju.

Lagt er til að strandveiðiheimildir verði sambærilegar og á yfirstandandi fiskveiðiári, þ.e. um 8.600 tonn. Skel- og rækjubætur verði lækkaðar um þriðjung, úr 2 þús. tonnum í 1.400 tonn, og stefnt að því að þær falli niður á næstu þremur árum. Lækkunin gangi til aukningar á byggðakvóta Byggðastofnunar. Heimildir til hefðbundins byggðakvóta verði einnig lækkaðar en í staðinn, líkt og áður sagði, verði aukið við aflamark Byggðastofnunar og aukningin verður alls um 1 þús. þorskígildistonn. Hefur Byggðastofnun þá til ráðstöfunar um 3.900 þorskígildistonn í verkefnið Brothættar byggðir sem skilað hefur góðum árangri.

Aflaheimildir til línuívilnunar eru óbreyttar frá yfirstandandi fiskveiðiári. 300 tonnum af þorski verður ráðstafað til frístundaveiða og reglur um þær verða óbreyttar. Hætt verði að ráðstafa heimildum til áframeldis á þorski þar sem ljóst þykir að þróun í fiskeldi hnígur ekki í þá átt. Þær makrílheimildir sem til ráðstöfunar eru verði seldar til veiða á grunnslóð og 800 tonnum af síld verði ráðstafað til smábáta undir tiltekinni stærð en til þess þarf tilheyrandi breytingar á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða.

Að lokum nefni ég að ráðuneytið hefur gengið frá samkomulagi við Háskólann á Akureyri um að vinna skýrslu um framangreindar aðgerðir og leggja mat á hagkvæmni þeirra með tilliti til atvinnu-, byggða- og félagslegra þátta. Gert er ráð fyrir að skýrsla þessi liggi fyrir næsta vetur. Að henni fenginni geri ég ráð fyrir að lögð verði fram ný þingsályktunartillaga um þetta efni til næstu sex ára. Það er mín trú að nauðsynlegt sé að fara áfram vel yfir þessar ráðstafanir til að heimildunum sé ráðstafað þangað sem þær gera mest gagn.

Ég vísa að öðru leyti til þeirra athugasemda sem fylgja þingsályktunartillögunni en þar er ítarlega fjallað um og gerð grein fyrir efni hennar.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv atvinnuveganefndar.



[12:15]
Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta mál er loksins komið fram og mun ég fara betur yfir það í ræðu á eftir en ég vil nota þetta andsvar til að spyrja hæstv. ráðherra þriggja spurninga sem snúa að makríl. Hvað getur hann sagt okkur um afdrif makrílfrumvarpsins? Ég á sæti í atvinnuveganefnd og ég held að við höfum ekki rætt makrílfrumvarpið í hátt í þrjár vikur. Í öðru lagi er hér í 8. lið þessarar tillögu, bæði a- og b-lið, fjallað um makríl til handa smábátum og þá langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hversu mikið magn eigi að vera þar á ferðinni. Í þriðja lagi er í þessum a- og b-lið fjallað um hvernig þessu tiltekna magni af makríl verði úthlutað til smábáta og ég spyr hvað hæstv. ráðherra segi um það að menn mundu kannski nota einhvern ákveðinn hundraðshluta, bæði til smábáta og eins til stærri skipa, til að bjóða makrílinn upp á frjálsum markaði til að stíga það skref. Það má líka kalla það tilraun með uppboð á fisktegundum í staðinn fyrir að leigja það út og taka sérstakt gjald eins og hér er fjallað um.



[12:16]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi makrílfrumvarpið almennt er það auðvitað ekki beint til umræðu hér en það tengist þó því og eins í þeim lið sem hv. þingmaður spurði eftir með hvaða magni. Það er háð því að makríll verði kvótasettur þannig að 5,3% af þeim heimildum sem makríllinn er með séu þá fær til að fara inn í þessar aðgerðir. Annars er hann það ekki eins og þingmenn þekkja. Og 5,3% af 160 eða 165 þús. tonnum getur þingmaðurinn reiknað út að eru væntanlega 8.000–8.500 tonn.

Hvernig síðan á að færa það til þessara veiða á grunnslóð er lýst í a- og b-lið 8. liðar, eins og hv. þingmaður minntist á, þar sem fjallað er um að þær verði seldar á ákveðnu kílóverði til báta undir 30 brúttótonnum að stærð til veiða á grunnslóð og meðal annars eigi útgerð þess kost að fá úthlutað fyrir hvert skip gegn greiðslu gjalds allt að 20 lestum af makríl í senn. Þetta er sama aðferð og hefur verið notuð við síldveiði smábáta á Breiðafirði sem verður síðan opnuð líka. Þess vegna vitum við ekki hvert síldin kemur í framtíðinni.

Ástæðan fyrir því að ekki er hér ákveðið kílóverð er meðal annars sú að ekki er búið að klára frumvarpið um makríl og því ekki hægt að ákveða verðið í þessu hér fyrr en nokkurn veginn liggur fyrir hvernig menn ætla að enda makrílfrumvarpið. Það tengist nokkuð og það er núna í ferli hjá nefndinni.

Það er einnig talað um að 20% af þeim verði til ráðstöfunar gegn sama verði vegna umsókna sveitarstjórna til staðbundinna veiða. Það er verið að bregðast við því þegar makríll gengur skyndilega í miklu magni á grunnslóð á ákveðnum svæðum og til að geta komið til móts við það. En til að tryggja að þær heimildir sem ekki hafa gengið út 1. september 2015 verði nýttar (Forseti hringir.) verða þær síðan boðnar stærri skipum til kaups.



[12:19]
Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka það svar sem hæstv. ráðherra gefur hér, svo langt sem það nær. Hér segir hann að á meðan makrílfrumvarpið er ekki klárt sé ekki hægt að taka ákvörðun. Má þá segja að við verðum að afgreiða makrílfrumvarpið eða einhvern hluta af því áður en við getum klárað þessa þingsályktunartillögu? Annars vegar gagnvart aflaheimildum í makríl til smábáta sem hæstv. ráðherra talar um, 5,3% af 160 þús. tonnum eru í kringum 8 þús. tonn, en á þessum óformlega samráðsvettvangi sem við vorum í vorum við að tala um 15 þús. tonn sem kæmu til smábáta.

Ég ítreka spurningu mína vegna þess að hér eru settar inn ákveðnar leiðir sem eru kannski svolítið ólíkar því sem gengur og gerist, t.d. að heimildir þessar verða ekki færanlegar milli báta. Það er nýtt að mínu mati og má segja þarna að við séum ekki með framseljanlegt. En líka verða eftirhreyturnar 1. september boðnar öllum skipum til kaups í sambærilegu ferli. Þarna er í raun verið að stíga skref til uppboðs.

Í lokin ítreka ég spurningu mína til hæstv. ráðherra um hvort ekki væri alveg einnar messu virði að skoða það með einhvern hluta af þessum aflaheimildum í makríl að setja þær á uppboð og sjá hvað út úr fengist. Mikið er talað um frjálst uppboð aflaheimilda og með þessu skapast að mínu mati mjög kærkomið tækifæri til að prófa þessa leið. Ég ítreka spurningu mína til hæstv. ráðherra hvað þetta varðar og spyr jafnframt líka: Er ekki alveg klárt að makríllinn verður ekki minna en 15 þús. tonn til smábáta?



[12:21]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi magn til smábáta fer það auðvitað eftir því hvernig menn afgreiða frumvarpið um makrílinn. Þar var lagt til að 5,3% færu til smábáta sem eru 8.000–8.500 tonn miðað við rúmlega 160 þús. tonna heildarafla. Þessi 5,3% sem þá kæmu til ríkisins við kvótasetninguna eru hugsuð til þess að þau gætu nýst við línu- og handfæraveiðar á grunnslóð. Tilgangurinn er auðvitað sá en ekki vitum við fyrir fram hvort makríll gangi á grunnslóð á hverjum tíma. Það er líka sett inn trygging og þá er hægt að nýta þær heimildir um heildarafla sem við gefum út. Það er auðvitað mikilvægt í samningum við önnur ríki að við stöndum að því að veiða allan þann afla sem við teljum eðlilegt að falli Íslandi í skaut.

Varðandi það hvort hægt sé að finna einhverja leið til að ákveða verð á makríl í þessum hluta höfum við haft núna um nokkurra ára skeið þá aðferð að festa í sessi ákveðna krónutölu verðandi síldina. Hún hefur verið um 16 kr. Það er spurning hvort það sé hægt að fara einhverja aðra leið til að finna það gjald varðandi makrílinn. Það er sjálfsagt að það verði rætt í nefndinni, en það er ekki lagt til í þessari þingsályktunartillögu.



[12:23]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir skýra og gagnyrta framsögu í þessu máli. Ég tek fram að ég hef ekki lesið málið, en mér fannst hann skýra meginatriði þess nokkuð vel. Hæstv. ráðherra veit að ég ber hag strandveiðiflotans mjög fyrir brjósti. Á sínum tíma var það mjög umdeilt að fara þá leið en ég tel að hún hafi sannað gildi sitt. Ég tel að strandveiðarnar skipti töluverðu máli fyrir hinar dreifðu strandbyggðir og að þar sé komin leið til þess að skapa atvinnu og færi fyrir menn að stunda sjó með ríkari hætti en þeir hugsanlega gátu áður. Ég tók eftir því að í framsögu sinni sagði hæstv. ráðherra að skel- og rækjubætur yrðu minnkaðar og mundu hverfa inn í sólarlagið á þremur árum. Hann sagði jafnframt að þeim hluta hygðist hann bæta við hinn hefðbundna byggðakvóta.

Ég spyr hæstv. ráðherra í fyrsta lagi: Er hann mér ekki sammála um að strandveiðarnar hafa reynst vel og heldur betur eftir því sem fram hefur undið tíma?

Í öðru lagi: Telur hann ekki koma til greina að nýta þær bætur sem falla niður vegna skeljar og rækju í jöfnum hlutföllum á milli strandveiðiflotans og hefðbundna byggðaflotans? Telur hann ekki að minnsta kosti einnar messu virði að skoða það?



[12:24]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekki alveg rétt hjá hv. þingmanni, eða hæstv. ráðherra hefur ekki verið nægilega skýr í máli, að sá hluti sem lækkar skel- og rækjubætur fari inn í hefðbundna byggðakvótann, hann fer til byggðakvóta Byggðastofnunar. Þetta kerfi hefur reyndar ekki varað lengi en það eru vísbendingar um að það sé okkar besta aðferð til þess að auka byggðafestu, auka atvinnu og koma til móts við félagsleg réttindi ýmissa byggða að fara þann veg og þess vegna er hinn almenni byggðakvóti líka lækkaður til að færa auknar heimildir til Byggðastofnunar, byggðakvótans getum við kallað. Við þurfum hins vegar að fá skýrari niðurstöður í skýrslu sem Háskólinn á Akureyri er að vinna um það áður en við göngum lengra til verks. Það var almennt rætt í þessum hópi að byggðakvótinn sem slíkur sé ekki að virka sem skyldi og þess vegna þurfi það að virka.

Varðandi strandveiðarnar er ég sammála hv. þingmanni um að þær hafa fært líf í hafnirnar. Hins vegar eru líka allir sammála um að þær eru ekki mjög arðsamar í samanburði við aðrar veiðar og þegar menn kalla stundum hárri röddu eftir því að hér eigi að bjóða upp heimildir þar sem öllum sé frjálst að veiða, strandveiðarnar, er ég ekki viss um að menn væru tilbúnir að borga til dæmis mikið fyrir þær heimildir. Ég er hins vegar sammála hv. þingmanni um að þær hafa skipt máli í að halda lífi yfir sumartímann og reyndar að tryggja ákveðinn afla að landi fyrir sumar vinnslur. Þetta er það helsta sem ég held að ég geti svarað hv. þingmanni.



[12:26]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það kann vel að vera að ég sé eins og hæstv. ráðherra svolítið rómantískur í nálgun minni gagnvart þessu atriði. Hæstv. ráðherra orðar það svo að líf hafi færst í hafnirnar. Sannarlega hefur færst líf í hafnirnar, en strandveiðiflotinn hefur líka skapað atvinnu sem skiptir máli bæði fyrir þá sem sækja sjóinn á þessum litlu bátum, en sömuleiðis fyrir þá sem vinna aflann í landi. Þetta hefur mælst ákaflega vel fyrir, held ég, hjá flestum. Í upphafi töldu menn að það mætti finna að meðferð aflans. Miðað við þær upplýsingar sem ég hef hafa menn gert reka að því að bæta það. Ég er ekki alveg viss um að strandveiðiflotinn sé honum fullkomlega sammála um að þessi tegund veiða sé ekki nægilega afgæf, en það kann vel að vera að skýrslur sýni annað þegar þær koma fram. Ég er þeirrar skoðunar að það eigi eftir föngum að reyna að finna leiðir til að ýta undir þennan part af flotanum. Það er ekki bara af rómantískum hvötum sem ég geri það, ég tel að það skipti máli fyrir þessar byggðir.

Þess vegna tek ég svona að endingu líka undir það sem mér heyrðist hv. þm. Kristján L. Möller vera að tala um áðan. Þegar kemur að makríl er það mín skoðun að smábátarnir eigi að fá meira til sín af honum. Ég vildi bara koma þeirri skoðun minni á framfæri til að spara hæstv. ráðherra það að þurfa að hlusta á langar og kannski ekki mjög skemmtilegar ræður af minni hálfu um þau mál síðar í dag.



[12:28]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi strandveiðarnar og atvinnuna hefði þessi fiskur auðvitað verið veiddur hvort sem var þannig að spurningin er þá bara hverjir hafa atvinnu af honum. Er það þjóðhagslega hagkvæmast? Það er umræða sem við getum (Gripið fram í.) tekið og það er bent á það af hagfræðilegum úttektum að það sé ekki mikil arðsemi af þessum strandveiðum. Hins vegar held ég að við séum öll sammála um að þær séu komnar til að vera á því formi sem þær eru. Þær eru skynsamlegt innlegg í það hversu mikið á að fara til þeirra. Ég tel og það var mat starfshópsins að þetta væri í ákveðnu jafnvægi. Það voru skiptar skoðanir. Sumir vildu að þarna yrði aukið meira við, en það er komið ákveðið jafnvægi, m.a. vegna veiða smábátanna, handfæraveiða, á makríl og síld. Menn geta ekki verið allir í öllu þannig að það er komið ákveðið jafnvægi þarna á. Þær hófust í 6 þús. tonnum. Síðan var bráðabirgðaákvæði sem jók þær í 8.600 og við erum að viðhalda því ástandi í þessari þingsályktunartillögu. Ég held að þarna á sé nokkuð gott jafnvægi.

Varðandi smábátaflotann fer það auðvitað eftir því hvort makríllinn gangi á grunnslóð hvort það verði hægt að nýta annars vegar þau 5% sem eru í frumvarpinu og hugsanlega þessi 5,3%. En það er mjög mikilvægt að við höfum líka tryggingu til að það verði nýtt af þjóðinni til þess að við stöndum betur að vígi eða höldum stöðu okkar gagnvart öðrum ríkjum í samningaviðræðum um makrílinn.



[12:30]
Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Loksins er komin fram tillaga til þingsályktunar um áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamarks sem dregið er frá heildarafla skv. 5. mgr. 8. gr. laga um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006.

Eins og fjallað er um í þingsályktunartillögunni var ákveðið samráð í gangi þar sem ráðuneytið leitaði til fulltrúa allra flokka, sem voru fulltrúar úr atvinnuveganefnd, og áttu þeir nokkra fundi í ráðuneytinu um þessi mál. Hér er lögð áhersla á að ekki var um formlegan samráðsvettvang að ræða né formlegan starfshóp.

Um þetta vil ég segja að það er alveg hárrétt sem þarna er sett fram, en ég vil líka segja að mér finnst þetta samráð til eftirbreytni og fyrir fleiri ráðherra að fara eftir. Þarna settust menn niður og skiptust á skoðunum, þótt ekki væri þar með sagt að allir yrðu sammála um niðurstöðuna eða það sem kom fram. Rætt var við fulltrúa til að mynda frá Landssambandi smábátaeigenda, Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, Landssambandi línuveiðibáta, Sjómannasambandinu, Farmanna- og fiskimannasambandinu, Félagi vélstjóra og málmtæknimanna, Samtökum smærri útgerða og stjórn Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga og auk þess, eins og ég sagði áðan, við fulltrúa stjórnmálaflokka sem eiga sæti á Alþingi.

Menn skiptust á skoðunum, lögðu gott til málanna. Að sumu leyti var tekið tillit til þeirra, kannski ekki allra. Ég ítreka að það er ekki þannig að menn stimpli þetta hér og nú. Mér finnst þetta hins vegar gott vinnulag.

Ég lét jákvæða punktinn koma fyrst fram en verð svo því miður að segja að það að málið skuli koma fram 1. júní er allt of seint. Nú þarf það að ganga til nefndar, nefndin þarf að kalla til gesti og fá umsagnir o.s.frv. og við vitum ekki hversu mikið er eftir af þinginu. Þetta er auðvitað gagnrýnivert. Það hefði verið hægt að leggja málið fram fyrr. Þarna er vitnað í skýrslu sem Vífill Karlsson hefur verið að taka saman, og er ágætisrit, en inn í hana vantar nokkra þætti, eins og til dæmis um afkomu strandveiðibáta o.fl. og ýmisleg fleiri atriði sem sá ágæti maður er að vinna frekar að og verður þá notað til. Í lögunum segir að eigi sjaldnar en á þriggja ára fresti skuli leggja fram þingsályktun um þessa ráðstöfun og hún sé til sex ára. Það kemur hins vegar skýrt fram í þessu, vegna þessa verklags og vegna þess hversu seint málið er komið fram, í ljósi þeirra ákvæða að gera tillögur til ráðstöfunar heimilda næsta fiskveiðiárs eingöngu, að við þurfum að hafa í huga að þetta kemur aftur fram á næsta þingi og verður þá væntanlega gert til lengri tíma. Þetta er um það sem við köllum sérstök atvinnu-, félags- og Byggðastofnunarúrræði, sem ekki veitir af. Við sjáum af því sem Byggðastofnun hefur til ráðstöfunar, sem er of lítið miðað við þörf byggðarlaga í vanda, að þetta skilar góðum árangri og það er það sem þarna kemur fram, því er úthlutað til nokkurra ára í senn.

Virðulegi forseti. Ég þreytist ekki á að segja frá því þegar við nokkrir þingmenn Samfylkingarinnar áttum fund með ágætisfyrirtæki í fundaferð okkar á Húsavík fyrir kannski ári síðan. Þar var okkur sýnt fram á að með svo og svo miklum kvóta frá Byggðastofnun, að mig minnir um 400 tonnum, var búið til plan um fiskvinnslu á Raufarhöfn, þeim ágæta stað sem hefur átt í vanda vegna þess að stór hluti af kvótanum, eða megnið af honum, er farinn í burtu. Þar var gerð áætlun, sem ég hef aldrei séð áður, um að ef þessi kvóti kæmi plús annað sem viðkomandi aðilar legðu fram væri búið að búa til vinnsluplan í fiskvinnslu fyrir 35–40 manns í 11 mánuði á ári, eðlilega er tekið sumarfrí og viðhaldshlé og annað slíkt en ég hef aldrei séð slíkt plan áður fyrir Raufarhöfn og þannig má gera fyrir fleiri staði.

Við getum nefnt Djúpavog sem lenti í miklum hremmingum eftir að Vísir í Grindavík ákvað að fara þaðan með allt sitt hafurtask. Þar voru miklir erfiðleikar í framhaldi af því og 400 tonn inn í þau 4.000 tonn sem voru að fara er auðvitað ekki neitt neitt, en þarna er möguleiki á að breyta því.

Ég gerði að umtalsefni 8. lið um aflaheimildir í makríl sem geta orðið allt að 15 þúsund tonn. Talað um að hann verði seldur á ákveðnu kílóverði. Ég vil segja að ég er efins um að Alþingi geti framselt þetta vald svona til ráðuneytisins. Ég held að þarna þurfi að setja inn á hvað á að selja þetta, í krónum á kíló, eins og gert er með síldina. Það hefur komið fram að Alþingi getur ekki framselt ákvörðunarvald á þennan hátt og þess vegna held ég að finna eigi tölu á vettvangi nefndarinnar.

Ég gerði jafnframt að umtalsefni það sem eftir er af makrílkvóta 1. september. Þá er hann boðinn öllum skipum til kaups í sambærilegu ferli og ráðherra falið að setja reglugerð um hvernig að því verður staðið. Ég ítreka það sem ég sagði í andsvari. Ég held að þetta sé kærkomin leið til að taka ákveðinn hundraðshluta af kvóta og prufa uppboðsleiðina. Með því er ég að segja að greiðslur á kvótagjaldinu falli niður og kemur þá auðvitað fram í útboðsupphæðinni sem þarna verður.

Virðulegi forseti. Í tíu mínútna ræðu um þetta stóra mál er ekki hægt að dvelja lengi við hvern lið. Ég segi fyrir mitt leyti að ég hefði viljað sjá, eins og hefur komið fram hjá fleirum, að kvótinn í strandveiðunum yrði aukin og ég er hugsi yfir því. Af hverju notum við ekki tækifærið þegar það er gott ástand í hafinu og útlit fyrir að kvóti verði aukinn mikið? Af hverju tökum við ekki ákveðinn hundraðshluta og sendum meira þarna inn? Af hverju segi ég þetta? Jú, vegna þess að þetta ásamt því að leggja á hófleg veiðigjöld og ýmislegt fleira á að vera liður í frekari sátt um sjávarútveginn, sem við erum alltaf að leita að á Alþingi og verður einhvern tíma að nást vegna þess að við getum ekki haft þessa höfuðatvinnugrein þannig að í raun og veru sé aðeins rekstrarskilyrði til eins árs í senn, eins og það er í dag.

Skel- og rækjubætur eru færðar niður um 600 tonn og ráðherra sagði að þær mundu detta alveg út á þremur árum. Það var alveg skýrt í byrjun að um tímabundna ráðstöfun væri að ræða og það var ákveðið í upphafi að upphaflegur tími og tímalengdir væru fallnar úr gildi en síðan hefur þetta verið framleitt árlega. Þarna eru tekin 600 tonn og færð yfir í byggðapottinn, sem er sérstakur byggðakvóti Byggðastofnunar.

Jafnframt er byggðapotturinn sem slíkur, sá hefðbundni, lækkaður um að mér sýnist 698 tonn, þannig að úr því kemur lækkun upp á 1.298 tonn sem er ráðstafað annars staðar, svo 1.198 tonnum í sérstakan byggðakvóta Byggðastofnunar til að bregðast við vanda smærri byggðarlaga, eins og ég hef getið um. Ég nefni til dæmis Grímsey í því sambandi. Þar er verið að vinna að lausn á þeim mikla vanda sem er þar vegna of mikillar skuldsetningar nokkurra sjávarútvegsfyrirtækja. Grímsey hlýtur að koma til álita hjá Byggðastofnun, að setja inn einhver hundruð tonna til Grímseyjar sem lið í þeirri endurreisn, til að viðhalda þeirri byggð. 100 tonnum er svo varið í frístundaveiðarnar en áframeldi á þorski er tekið niður um þau 500 tonn sem voru þar einhvern tíma og það kemur auðvitað til út af því að upplýsingar eru komnar fram um að þetta gangi ekki og að fyrirtæki sem voru í þessu séu að fara út úr því. Einnig hefur komið fram, sem er dapurlegt, að þetta var misnotað þannig að það var ekki smáfiskur sem var tekinn og settur í kvíar og gefið heldur eru upplýsingar um að stór fiskur hafi verið settur þar í og jafnvel tekinn daginn eftir. Það er ekki áframeldi á þorski að mínu mati ef þetta er eingöngu gert til að ná í pottinn sem þarna var. Það eru óljósar upplýsingar sem komu fram um þetta mál.

Í lokin er talað um hvað á að gera við peningana sem fást fyrir sölu á þessum heimildum og talað er um að þeir renni til byggðatengdra verkefna samkvæmt reglugerð sem ráðherra setur. Ég er hlynntur því að þetta sé tekið frá og til dæmis sett í sóknaráætlun landshluta, en ég velti fyrir mér hvort Alþingi þurfi ekki að koma að því og einnig er ég hugsi yfir því, vegna þess að þetta er þingsályktunartillaga, að ekkert mat hefur verið lagt á það (Forseti hringir.) hvaða upphæð gæti verið um að ræða.

Þetta eru mín fyrstu orð á þeim 10 mínútum (Forseti hringir.) sem okkur er ætlað til að ræða um þingsályktunina. Eins og fram hefur komið sit ég í atvinnuveganefnd og þar verða menn að bretta upp ermar og vinna þetta frumvarp vegna þess hversu seint það er fram komið. Það er það sem ég gagnrýni hvað harðast í þessu máli.



[12:40]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Það er gott að þessi tillaga er komin fram. Hún hefði auðvitað mátt koma fram miklu fyrr. Nú þegar stuttur tími er eftir af þessu þingi er knappur tími til að ræða þetta mikilvæga mál um ráðstöfun þess afla sem fer til félagslegra og byggðalegra aðgerða.

Ég hef talað fyrir því frá því að ég settist á þing að mikilvægt sé að hækka hlutfallið af úthlutuðum aflaheimildum. Hlutfallið er 5,3% í dag en ég tel að það þyrfti að vera miklu hærra og ráðstafað með öðrum hætti. Í því frumvarpi sem var hér til umfjöllunar í lok síðasta kjörtímabils var settur á leigupottur af hálfu ríkisins og átti hann að stækka og auka möguleika manna á að komast inn í greinina og auka þannig nýliðun í greininni, sem ég tel vera mjög brýnt. Það er ómögulegt að komast sem nýliði inn í sjávarútveg í dag nema vera með fullar hendur fjár og gott aðgengi að fjármagni hjá fjármálastofnunum sem venjulegt fólk hefur ekki. Í upphafi síðasta kjörtímabils var strandveiðum hleypt af stað með opnun sem skilaði góðum árangri að ég tel. Ég er alltaf að fá meiri og meiri vissu fyrir því að það var hárrétt ákvörðun. Menn urðu sáttari við það kerfi þó að sú sátt væri langt í frá til staðar að fullu, þá var þó einhver sátt í kjölfar þess að strandveiðar fóru í gang.

Ég var að ræða við einn trillukarl, eins og maður kallar oft sjómenn sem stunda veiðar á minni bátum, um helgina. Hann rökstuddi hve brýnt það væri að auka við í strandveiðum og nefndi sem dæmi að við hvert starf á strandveiðum dygðu 15 tonn til að skapa þokkalegar tekjur þann tíma sem strandveiðar eru leyfðar, þ.e. fjóra mánuði, en það þyrfti um 200 tonn til að skapa sambærilegar tekjur fyrir háseta um borð í skuttogara. Mér finnst þetta vera umhugsunarvert í því samhengi að oft og tíðum er verið að tala niður strandveiðar, að þær séu ekki hagkvæmar. Vissulega eru þær öðruvísi. Menn skapa sér vinnu sem einstaklingar en auðvitað eru einhver margfeldisáhrif í þjónustu í landi. Strandveiðum fylgir sáralítill útgerðarkostnaður. Þetta eru umhverfisvænar veiðar og auka möguleika í veikari byggðum til að skapa betri byggðafestu og möguleika á að menn geti búið á þessum stöðum áfram. Ég er ósátt við að það sé ekki aukið neitt við strandveiðar og það sé bara látið standa eins og verið hefur og ekki tekið tillit til umsagna sem hafa komið frá bæjarfélögum eins og Vesturbyggð og Ísafjarðarbæ um hve mikilvægt sé að auka strandveiðar. Landssamband smábátaeigenda hefur einnig bent á það.

Eins og komið hefur fram er þessi þingsályktunartillaga eingöngu til eins árs. Það á að fara fram miklu betri greining á hvernig skiptingin á því magni sem þarna er til ráðstöfunar hefur nýst. Ráðherra kom inn á að skel- og rækjubætur ættu að fjara út á þrem árum og það ætti að taka úr hefðbundnum byggðakvóta og færa yfir í aflamark Byggðastofnunar. Ég tel að það sé rétt ákvörðun. Sú greining sem hefur verið gerð á aflamarki Byggðastofnunar hefur leitt í ljós að það er góð ráðstöfun og hefur gagnast vel í byggðarlögum sem ég þekki ágætlega til eins og á Þingeyri, Flateyri, Suðureyri og í fleiri byggðarlögum, Tálknafirði. Þar hefur aflamark Byggðastofnunar nýst vel og líka á öðrum stöðum eins og nefnt hefur verið, á Raufarhöfn og fleiri stöðum.

Ég held að það þurfi að fara þá leið í þessari skoðun að stokka upp hinn hefðbundna byggðakvóta. Ég held að hann sé orðinn barn síns tíma sem þurfi að endurskoða og leita annarra leiða, bæði til að styrkja strandveiðar og hafa möguleika á aðgengi að aflamarki Byggðastofnunar. Nú þegar miklir erfiðleikar eru í minni sjávarbyggðum þá þarf það að vera til staðar svo að hægt sé að grípa strax inn í aðstæður með forvörnum. Við þingmenn Vinstri grænna höfum lagt fram þingsályktunartillögu um að skoðaðir yrðu í þessu samhengi möguleikar á að byggðafesta aflaheimildir. Ég mun halda áfram að tala fyrir því.

Hér er talað um að línuívilnun verði óbreytt. Ég veit að línuívilnun skiptir mörg byggðarlög miklu máli, en ég tel samt að við þurfum að horfa á þetta allt í heildarsamhengi þegar við tökum stærri ákvarðanir um að stokka þessa hlutdeild upp. Þá þarf að horfa til þess hvort við séum kannski að hefta að einhverju leyti atvinnuþróun. Nú eru menn að smíða beitningarvélar í minni báta svo að hægt sé að stokka upp um borð. Auðvitað viljum við ekki gera ráðstafanir sem hefta tæknilega þróun í minni bátum þar sem er mögulegt að hafa beitningarvélar um borð. Það er ekkert keppikefli í sjálfu sér að beitt sé í landi. Við þurfum að horfa til þess að fjölga störfum í sjávarbyggðum með tæknina að leiðarljósi. Ég held að við þurfum að skoða þetta allt í því samhengi. Það er enginn að tala um að eitthvað verði rifið frá mönnum án þess að þeir sjái þá fram á að annað komi í staðinn til að styrkja viðkomandi byggðir og sjávarútveg á svæðum vítt og breitt um landið sem hafa fyrst og fremst notið góðs af ráðstöfun á þessum hluta aflaheimilda, þessum 5,3%.

Eins og hefur komið fram þá áttum við þingmenn stjórnarandstöðunnar nokkra fundi með ráðuneytinu og starfsmönnum ráðuneytisins. Vissulega höfðum við tækifæri til að koma okkar sjónarmiðum á framfæri. Ég vil samt undirstrika að þetta var ekki eins og ég lít á samráð þar sem tekið er tillit til sjónarmiða og tillagna frá minni hlutanum. Það var upplýst að fundirnir væru fyrst og fremst hugsaðir til upplýsingar. Menn hlustuðu á sjónarmið okkar sem vorum þarna í minni hlutanum en ekki var gefið í skyn að tekið yrði tillit til þeirra. Mér finnst sá munur á samráði og upplýsingafundi að í samráði vilja menn að tekið sé tillit til skoðana minni hlutans og þær finnist líka í þeim tillögum sem verið er að vinna og undirbúa. Við munum ræða þetta mál betur í atvinnuveganefnd í framhaldinu.



[12:51]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður talaði um að það væri hennar skoðun samkvæmt reynslu nýliðinna ára að sá kvóti sem Byggðastofnun hefur til ráðstöfunar sem sérstakan byggðakvóta nýttist vel. Ég er henni sammála um það, en almennt hefur mér fundist að hinn almenni byggðakvóti hefði ekki haft þær jákvæðu afleiðingar í öllum tilvikum, ekki verið nógu hnitmiðaður eins og menn vildu. Í frumvarpinu er verið að lækka almenna byggðakvótann um 600 tonn og verið er að auka sérstaka byggðakvótann um næstum 1.200 tonn sýnist mér og það er jákvætt.

En mig langar til að spyrja hv. þingmann: Miðað við mismunandi reynslu sem við þingmenn teljum okkur hafa, og landsmenn og byggðarlögin, af þessum tveimur tegundum byggðakvóta er þá ekki bara ráðlegt að draga enn meira úr hinum almenna kvóta og setja sem því nemur í auknum mæli yfir í sérstakan byggðakvóta sem Byggðastofnun hefur til ráðstöfunar? Hvað segir hv. þingmaður um það?

Í öðru lagi er ég þeirrar skoðunar að ýta eigi undir strandveiðiflotann. Ég tel að hann hafi skipt miklu máli. Þar er um að ræða oft og tíðum litlar fjárfestingar. Þeir bátar eru til og þetta hefur skipt mjög miklu máli eins og hæstv. ráðherra sagði fyrir lífið og fjörið í höfnunum í mörgum plássum, en það hefur líka skapað atvinnu og gert mönnum kleift að stunda sjó að sumarlagi. Hvað segir hv. þingmaður um þá hugmynd að nú þegar blasir við að vegna góðrar stöðu í hafinu verður að öllum líkindum aukið við þorskinn í kvóta, hvað segir hún um þá hugmynd að hluti af því verði tekinn til að auka það sem strandveiðiflotinn má veiða og stefna að því í framtíðinni að auka umfram þessi 8.600?



[12:53]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég væri mjög hlynnt því að sú væntanlega aukning sem við sjáum fram á í þorski skilaði sér í hlutfalli í strandveiðipottinn. Mig minnir að í því frumvarpi sem var á síðasta kjörtímabili til umræðu hér í lokin hafi verið ákveðið að nokkur prósent færu alltaf í aukningu sjálfkrafa inn í strandveiðar. Ég held að það væri mjög gott að tengja það þannig aukningu, að það yrði sjálfkrafa aukning inn í strandveiðihlutann.

Eins og hv. þingmaður nefndi hafa strandveiðarnar skipt mjög miklu máli. Sveitarfélög eins og Ísafjarðarbær og Vesturbyggð hafa fundið það á sínu atvinnusvæði hve miklu þetta hefur skipt, bæði fyrir hafnirnar og að fækka á atvinnuleysisskrá og möguleikum manna á að skapa sér vinnu á móti annarri vinnu hluta úr ári. Auðvitað eru margir líka með kvótalitla báta sem eru þá að róa yfir veturinn en geta farið á strandveiðar á sumrin, þetta sameinast því vissulega þannig.

En ég hefði viljað stokka þetta enn meira upp. Mér finnst að þessi hefðbundni byggðakvóti sé orðinn barn síns tíma. Hann hefur farið finnst mér allt of oft í hendur þeirra sem þurfa í rauninni ekkert á honum að halda og hefur ekki nýst sem skyldi, en styrkja eigi þetta sérstaka aflamark Byggðastofnunar, það hefur reynst vel, en mér finnst að reyna eigi að koma þessum byggðakvóta í öflugan leigupott ríkisins sem færi vaxandi til að auka möguleika á nýliðun greininni og það væri mikil styrking fyrir umræddar byggðir og sem mundi beinast frekar í rétta farveginn.



[12:55]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður er mér miklu framar að því er varðar skilning á gildi þessara veiða fyrir lítil byggðarlög. Hún kemur sjálf frá einu slíku og getur því trútt um talað. Mér finnst það merkilegt og fagna því að tilfinning hennar fyrir nytsemd hins almenna kvóta er mjög svipuð og mín. Ég hef í gegnum árin heldur orðið krítískari á hann og hef bent á að hann hefur í mörgum tilvikum ekki nýst með þeim hætti sem menn ætluðu.

Ég skal viðurkenna það líka að ég var ekki viss um að þessi sérstaka aflahlutdeild sem færð var til Byggðastofnunar mundi ganga upp eða þjóna tilgangi sínum betur en hinn almenni kvóti, en reynslan á stuttum tíma er sú að það hefur gerst. Mér finnst að við eigum að taka mið af þeirri reynslu og við eigum hugsanlega að velta fyrir okkur að auka þá hlutdeild sem Byggðastofnun hefur til ráðstöfunar með þessum hætti. Við þekkjum það öll sem höfum fylgst með sjávarútvegi lengi að á kvótakerfinu, hvað sem mönnum finnst um það, eru bæði jákvæðar og neikvæðar hliðar. Skuggahliðin er auðvitað sú sem við höfum séð til dæmis birtast í kjördæmi hv. þingmanns aftur og aftur, þar sem kvóti hefur flust með eigendunum í burtu og skilið eftir sviðna jörð, skilið eftir byggðarlag í rúst, og mér hefur ekki fundist sem hinn almenni kvóti hafi með nokkru móti getað tekið rækilega, alla vega ekki nægilega á slíkum kringumstæðum sem upp koma. Ég held því að við séum sammála um þetta.

En hitt er alveg hárrétt sem hv. þingmaður segir að skoða ber þá leið að nýta tækifærin sem kunna að vera fram undan núna með stækkandi stofni til að búa til almennilegan leigupott sem hægt væri að sækja í og auka þannig nýliðun og tök manna á því að sækja sjó. Það er eitt af því sem við höfum bæði barist fyrir.



[12:57]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er alveg inni á því að mjög ódýr byggðaleg aðgerð og atvinnuaðgerð við að skapa störf sé að efla leigupott ríkisins og vera með þær aflaheimildir, eins og núna makrílinn. Það er auðvitað skref í þá átt þótt hann sé ekki framseljanlegur. Mér finnst gott að sjá að þannig sé um það búið hér og tel að það ætti að vera fyrirmynd að öðru að við setjum einhverjar aflaheimildir sem færu síðan vaxandi í hlutfalli við aflaaukningu og mundi styrkja mjög þessar byggðir. Það þarf oft ekki mikið til en menn eru oft hræddir við að hrófla eitthvað við þessu niðurnjörvaða kvótakerfi því það ógni þá eitthvað þeim stóru og sterku, en þetta mun ekki gera það.

Svo ég vitni áfram í útgerðarmenn og trillukarla fyrir vestan sem ég hitti á helginni þá heyrði ég hjá einum öflugum útgerðarmanni með stórt fyrirtæki að það væri ekkert gaman að vera eina tréð eftir í skóginum. Og það er svolítið mikið til í því. Ef minni útgerðir hafa engan grundvöll og engir möguleikar eru á nýliðun og greinin bara eldist og hverfur eða það að hinir stóru og sterku séu með leiguliða til að gera út sína báta, það er ekki það sem ég vil sjá í framtíðinni, heldur að menn geti á eigin forsendum gert út sína báta en þurfi ekki að vera leiguliðar hjá hinum stóru og sterku. Miðað við reynslu af strandveiðum tel ég að setja eigi fasta daga inn í hvern mánuð og þá yrðu veiðarnar miklu hagkvæmari frekar en að menn séu að pressast í hundleiðinlegu veðri við að fara rétt út fyrir fjarðarkjaftinn og komi svo með lítinn afla í land.



[13:00]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Nú ætla ég að byrja á því að segja að ég er almennt ekki hlynnt mörkuðum tekjum en þær hafa reynst nauðsyn í ýmsum tilfellum af því að löggjafinn treystir ekki sjálfum sér til að hugsa til langs tíma og standa við fyrirætlanir sínar. Hér er dæmi um slíkt, í 11. lið þingsályktunartillögunnar, þar sem segir:

„Tekjur sem fást af ráðstöfun aflaheimilda á grundvelli þessarar þingsályktunar renni til byggðatengdra verkefna samkvæmt reglugerð sem ráðherra setur.“

Ég er algerlega sammála þessari áherslu. Ég held að það sé mjög eðlilegt að tekjurnar af þessu, fyrst við erum með fyrirkomulag markaðra tekna, renni til byggðanna og er sammála því markmiði. En málinu er dreift seint og það er tekið inn með afbrigðum og ég er að reyna að fóta mig í þessu; þetta er nú ekki sú löggjöf sem ég kann hvað best í lagasafni Íslands, en þar er þetta reglugerðarheimild en ég sé hvergi vísan í reglugerð. Nú kann að vera, hefði ég haft lengri tíma, að ég hefði fundið einhverja reglugerð um það hvernig ráðherra á að gera þetta.

Mig langaði að spyrja þingmanninn, þetta er kannski ekki alveg sanngjörn spurning því að þetta er umfangsmikill lagabálkur, hvort hún viti hvort þessi reglugerð sé til og hvort hún þekki til hennar. Ég ætla að segja það líka sem leikmaður að það er mjög erfitt fyrir mig að átta mig á hvaða fjármuni við erum að tala um hérna. Því vil ég spyrja þingmanninn hvort hún viti hvort þessi reglugerð sé til. Ef hún veit um hana, spyr ég hvort hún sé sammála markmiðum hennar. Ég vil líka spyrja hvort hún sé ekki sammála því sem fram kom í ræðu hv. þm. Kristjáns L. Möllers að það væri best að setja þessa fjármuni í sóknaráætlanir.



[13:02]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Nú er ég ekki orðin sjávarútvegsráðherra en kannski kemur að því, ekki enn. En eins og ég skil þetta þá er þessi reglugerð ekki til en hæstv. ráðherra hefur trúlega heimildir í lögum til að setja slíka reglugerð á og ég reikna með því að búið sé að tryggja það.

Ég er sama sinnis og hv. þingmaður og hv. þm. Kristján L. Möller hvað það varðar að mjög brýnt sé að eitthvað af þessum tekjum renni til sveitarfélaga. Í því frumvarpi sem ég hef vitnað til hér, um þessi mál, frá síðasta kjörtímabili, var reiknað með að hluti af tekjum, sem kæmu inn vegna leigupotts ríkisins á aflaheimildum, færi til landshlutasamtaka. Þá lít ég þannig á að það mundi nýtast í sóknaráætlun og í uppbyggingu sem þar er á ferð. Í mínum huga hafa sóknaráætlanir verið ein besta byggðaaðgerð sem farið hefur af stað og það tæki sem hefur gagnast vel.

Auðvitað eru allt of litlir fjármunir áætlaðir í sóknaráætlun. Ég tel að það væri gott mál að þessir fjármunir, sem reiknað er með að komi inn vegna útleigu á makríl og fleiri tegundum, mundu nýtast og fara í gegnum sóknaráætlun því að þar eru menn með puttann á púlsinum, hvað brennur á mönnum á viðkomandi svæðum og í sveitarfélögunum. Ég tel að það eigi að skoða þann farveg því að ég held að hann sé bara mjög góður og aðkoma margra lýðræðislegra fulltrúa sveitarfélaga á þeim vettvangi.



[13:04]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka svörin. Eins og ég tók fram áðan þá var þetta kannski ósanngjörn spurning því að þetta er ekki aðgengileg löggjöf og það er ansi mikið af reglugerðum og millivísunum í önnur lög um enn smásmugulegri útfærslu varðandi þessi mál.

Ég er ánægð að heyra þetta með sóknaráætlanirnar því að ég er mjög hlynnt byggðastefnu og byggðaaðgerðum. En ég er andsnúin byggðaaðgerðum sem felast í ívilnunum til einstakra fyrirtækja eða einstaklinga sem ráðherra hefur sjálfdæmi til að taka ákvörðun um.

Ég held að sóknaráætlanirnar séu hin raunverulega leið til jákvæðrar byggðaþróunar þar sem sveitarfélögin og íbúarnir á svæðinu taka sameiginlegar ákvarðanir um það sem brýnast sé á hverju svæði til að efla það til framtíðar. Ég vona að þetta verði skoðað sérstaklega í atvinnuveganefnd.

Síðan ætla ég bara að óska eftir því við þingmanninn, og þarf engin sérstök svör um það, að atvinnuveganefnd reyni líka að slá tölu á það fyrir okkur þingmenn hvaða tekjur við erum að tala um fyrir ríkissjóð af þessum úthlutunum.



[13:06]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Jú, það hlýtur að skýrast, þegar við förum að ræða þessi mál í atvinnuveganefnd, hvaða tekjur er hugsanlega um að ræða, sem gætu nýst til uppbyggingar vítt og breitt um landið í sjávarbyggðum. Ég tel að hugsa þurfi til blandaðra leiða. Eins mikið og ég hef talað fyrir eflingu sjávarbyggða á forsendum sjávarútvegs, bæði til lands og sjávar, og möguleika á nýliðun; að það fólk sem byggir sjávarbyggðirnar hafi möguleika á að lifa sjálfbæru lífi miðað við þær auðlindir sem eru allt í kringum þessar sjávarbyggðir.

Þá er líka mikilvægt að horfa til fjölbreytni í atvinnulífi og möguleika á að styrkja fjölbreyttari vinnu svo að ég held að þær tekjur sem koma inn með slíkum hætti eigi að miðast við að horfa til þess að auka möguleika á fjölbreytni í atvinnulífi og styrkja þær frumgreinar sem eru á þessum svæðum eins og sjávarútveg.

Ferðaþjónustan hefur verið að byggjast upp víða og líka í þessum minni sjávarplássum. Þá hefur það spilað saman, sjávarútvegur og ferðaþjónusta, eins og í sjóstangveiðifyrirtækjum sem hafa gengið mjög vel og eru að eflast mjög á þessum stöðum. Þetta þarf allt að haldast í hendur. Ferðaþjónustuaðilar á þessum minni stöðum segja mér að það að öflugar strandveiðar séu yfir sumarið geri mjög mikið fyrir ferðamenn sem heimsækja þessa staði og sjá að þetta eru ekki einhver söfn og sýningar heldur er þarna lifandi byggð sem blómstrar og lifir af því sem landið og sjórinn gefa.