135. löggjafarþing — 25. fundur
 15. nóvember 2007.
skýrsla umboðsmanns Alþingis 2006, ein umræða.
álit allshn., 215. mál. — Þskj. 233.

[10:37]
Frsm. allshn. (Birgir Ármannsson) (S):

Herra forseti. Það hefur verið árviss viðburður á Alþingi að við þingmenn tökum til umræðu ársskýrslu umboðsmanns Alþingis en eins og kom fram í máli hæstv. forseta fer sú umræða nú fram í kjölfar breytinga sem gerðar voru á þingsköpum Alþingis í vor. Nú er mælt fyrir í 23. gr. þingskapa að allsherjarnefnd skuli fjalla um skýrslu umboðsmanns áður en hún kemur á dagskrá þingsins og kemur það í minn hlut sem formanns allsherjarnefndar að mæla fyrir henni. Álit allsherjarnefndar hljóðar svo:

Allsherjarnefnd skilar nú í fyrsta skipti áliti um skýrslu umboðsmanns Alþingis og er það í samræmi við 1. mgr. 23. gr. laga um þingsköp Alþingis eins og henni var breytt síðastliðið vor með lögum nr. 68/2007. Markmiðið með þessu nýmæli er að tryggja betur en áður tengsl embættis umboðsmanns og þingsins sjálfs og undirstrika mikilvægi þess að skýrsla umboðsmanns fái viðeigandi umfjöllun í þeirri fastanefnd þingsins sem um málefni embættisins fjallar.

Allsherjarnefnd hefur fjallað um skýrslu umboðsmanns fyrir árið 2006 á tveimur fundum. Nefndin heimsótti embættið 17. október sl. og gerði umboðsmaður þar grein fyrir meginþáttum starfseminnar og fór yfir helstu atriði skýrslunnar sem lögð var fram á þingi daginn eftir. Þá kom umboðsmaður á fund nefndarinnar í þessari viku og svaraði fyrirspurnum nefndarmanna um einstök atriði. Nefndin telur yfirferð af þessu tagi gagnlega og mikilvæga og leggur áherslu á að þessi samskipti umboðsmanns og nefndarinnar þurfi að auka og móta frekar á næstu þingum.

Á næsta ári verða 20 ár liðin frá stofnun embættis umboðsmanns Alþingis. Allsherjarnefnd telur óhætt að fullyrða að með því hafi verið stigið verulegt framfaraskref í innleiðingu góðra stjórnsýsluhátta hér á landi. Hlutverk umboðsmanns hefur frá upphafi verið að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og honum er þannig ætlað að standa vörð um réttindi borgaranna gagnvart stjórnvöldum og stuðla að því að þeir sem með opinbert vald fara gæti jafnan lagareglna og góðra stjórnsýsluhátta. Ekki er vafamál að störf umboðsmanns og það aðhald sem hann hefur veitt stjórnvöldum á hverjum tíma hefur skilað umtalsverðum árangri í þeim efnum.

Skýrslur umboðsmanns gegna mikilvægu hlutverki, enda er þar að finna ítarlega og vandaða umfjöllun um ýmsa þætti stjórnsýsluréttarins. Skýrslurnar og raunar einstök álit umboðsmanns eru mikilvæg heimild um túlkun margvíslegra reglna á þessu réttarsviði. Skýrslan fyrir árið 2006 er að vanda greinargóð og fróðleg og þakkar allsherjarnefnd umboðsmanni og starfsmönnum hans fyrir skýrsluna og vel unnin störf á liðnu ári.

Undir þetta nefndarálit rita auk þess sem hér stendur Ágúst Ólafur Ágústsson, Atli Gíslason, Ellert B. Schram, Siv Friðleifsdóttir, Ólöf Nordal, Karl V. Matthíasson og Jón Magnússon en Sigurður Kári Kristjánsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Ef ég vík nú nánar að skýrslu umboðsmanns er ljóst að frá því að embættið tók til starfa hafa skýrslurnar haft að geyma annars vegar almennt yfirlit yfir störf umboðsmanns og verkefni á viðkomandi ári og hins vegar upplýsingar um einstök mál sem umboðsmaður hefur lokið og telur tilefni til að upplýsa Alþingi sérstaklega um. Skýrsla umboðsmanns er því með vissum hætti spegill sem við alþingismenn getum litið í til að glöggva okkur á því hvernig til hefur tekist í stjórnsýslunni um framkvæmd þeirra laga sem sett hafa verið hér á Alþingi. Í sumum tilvikum kann að vera tilefni fyrir okkur alþingismenn til að huga að því hvort upplýsingar úr skýrslunum gefa tilefni til lagabreytinga eða þá til að kalla eftir frekari skýringum af hálfu ráðherra eða annarra fyrirsvarsmanna stjórnsýslunnar.

En það er ekki bara að skýrsla umboðsmanns Alþingis geymi frásögn af því sem hæst bar hjá embættinu á liðnu ári, heldur hefur þess jafnan verið gætt að afla upplýsinga hjá stjórnvöldum um hver hafa orðið viðbrögð við þeim tilmælum sem umboðsmaður hefur beint til þeirra í álitum. Eru þær upplýsingar birtar i skýrslunni.

Eins og undanfarin ár heyrir til undantekninga ef stjórnvöld fara ekki eftir tilmælum umboðsmanns. Samkvæmt þessari skýrslu varð sú raunin í einu máli sem laut að því að umboðsmaður vísaði til sérstakra tilmæla til stjórnvalds um að taka á ný til afgreiðslu mál viðkomandi einstaklings eða lögaðila og síðan í tveimur tilvikum þar sem umboðsmaður beindi almennum tilmælum til stjórnvalda um að gera breytingar á tilteknum vinnubrögðum eða reglum. Ég vek athygli á ummælum umboðsmanns í skýrslunni um mikilvægi þess að stjórnendur hjá hinu opinbera hafi frumkvæði að því að bæta úr því sem kann að hafa farið úrskeiðis í stjórnsýslu stofnana þeirra. Andvaraleysi í því efni og jafnvel það viðhorf að telja óþarft að bregðast við í slíkum tilvikum hefur ekki góð áhrif á vinnubrögð og viðhorf starfsmanna í stjórnsýslunni. Rétt viðbrögð að þessu leyti eru liður í því að auka og viðhalda trausti almennings á henni.

Ég vísaði áðan í inngang að skýrslu umboðsmanns. Eins og síðustu ár hefur sá kafli í skýrslunni ekki bara að geyma frásögn af starfi hans á árinu, heldur dregur hann saman ýmis atriði sem hann telur sérstakt tilefni til að koma á framfæri af sinni hálfu um það sem betur má fara í stjórnsýslunni. Þetta á t.d. við um ummæli hans um framkvæmd stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, en eðlilega eru þau lög hvað fyrirferðarmest í starfi umboðsmanns. Ég læt nægja að vísa þar til umfjöllunar umboðsmanns um mikilvægi þess að stjórnvöld hagi skipulagi og undirbúningi mála þannig að jafnan sé gætt að jafnræðisreglum stjórnsýsluréttarins.

Það er líka ástæða til að vekja athygli á umfjöllun sem er að finna í innganginum þar sem umboðsmaður víkur að þeirri þróun sem hann segir gæta í auknum mæli, að mál séu leidd til lykta á vettvangi stjórnsýslunnar með samningum í stað þess að teknar séu hefðbundnar ákvarðanir eða settar reglur. Umboðsmaður lýsir áhyggjum af því að þessi leið fari ekki alltaf saman við gildandi réttarreglur um meðferð mála í stjórnsýslunni og þær réttaröryggisreglur sem málsmeðferðarreglur stjórnsýslunnar kveða á um. En umboðsmaður bendir líka á að í vissum tilvikum hafi Alþingi með lögum opnað fyrir þessa leið og hvetur til að betur verði hugað að þeim málum. Frá sjónarmiði okkar alþingismanna er ástæða til að staldra við þessa umfjöllun. Það er ekki bara tilefni til að huga að því hvort rétt sé að veita slíkar heimildir, heldur þarf að minnast þess að ef stjórnsýslan eða einstakir ráðherrar gera slíka samninga án þess að hafa fyrir fram aflað sér fullnægjandi heimildar stendur Alþingi í reynd frammi fyrir gerðum hlut. Alþingi verður þá ekki sá vettvangur stefnumörkunar og málefnalegrar umræðu um hvaða leiðir eigi að fara við úrlausn viðkomandi mála eins og því er ætlað í stjórnskipun okkar.

Samningar við aðila utan stjórnsýslunnar geta verið bæði mikilvægir og nauðsynlegir en það verður að gæta að framkvæmdinni, bæði þannig að hið málefnalega frumkvæði haldist hjá Alþingi og eins að ekki sé farið á svig við góða stjórnsýsluhætti.

Í skýrslu umboðsmanns er líka að finna fróðlega samantekt á því að hvaða málum eða atriðum athugasemdir í álitum umboðsmanns hafi beinst á árunum 2002–2006. Í umfjöllun sinni um þessar tölulegu upplýsingar vekur umboðsmaður Alþingis athygli á því hversu hátt hlutfall þessara athugasemda hafi beinst að því að stjórnvöld hafi ekki fylgt hinum svonefndu efnisreglum við töku ákvarðana í málum eða setningu stjórnvaldsfyrirmæla.

Umboðsmaður bendir á að þarna sé um að ræða 23,4% athugasemda og til viðbótar komi athugasemdir vegna stjórnvaldsfyrirmæla, sem séu 5,8%, og athugasemdir um valdmörk stjórnvalda, sem séu 4,7%. Samtals er þetta um þriðjungur athugasemda þessi ár.

Þarna er, eins og umboðsmaður bendir á, verið að fjalla um lagalegan grundvöll hlutaðeigandi stjórnvaldsfyrirmæla, t.d. reglugerða eða gjaldskráa. Hér hafi því með öðrum orðum reynt á hvaða valdheimildir stjórnvaldið hafi til afskipta og ákvarðana um málefni borgaranna. Umboðsmaður tekur fram að gera verði ríkar kröfur til þess að þeir sem eru í forsvari fyrir hlutaðeigandi stjórnvöld hafi full tök á því og vald á því hvernig fara eigi með þær lagaheimildir sem þeir eiga að starfa eftir.

Á þessu geta verið margar og mismunandi skýringar. Ég tek hins vegar eftir því að þótt umboðsmaður útiloki ekki að í einhverjum tilvikum hafi skýrari löggjöf getað verið til bóta, þá telur hann að tilvikin séu fleiri þar sem hlutaðeigandi stjórnvöld hafi ekki, áður en viðkomandi ákvörðun var tekin, eða stjórnvaldsfyrirmæli gefin út, hugað nægilega að lagagrundvellinum í ljósi þeirra almennu reglna og sjónarmiða sem viðurkennt er að fylgja beri um beitingu og túlkun laga að þessu leyti.

Ástæða er til að taka undir með umboðsmanni þegar hann bendir á nauðsyn þess að betur verði hugað að þekkingu og þjálfun þeirra starfsmanna sem koma að verkum í stjórnsýslunni. Það þurfa stjórnvöld, bæði ríki og sveitarfélög, að hafa forustu um. En það er líka ástæða fyrir okkur alþingismenn að veita athygli þeim tölum sem koma fram á bls. 36 í skýrslunni um það hversu oft umboðsmaður hefur á síðustu fimm árum talið tilefni til að tilkynna Alþingi, hlutaðeigandi ráðherra eða sveitarstjórn að hann teldi að tilteknir meinbugir væru á gildandi lögum eða almennum stjórnvaldsfyrirmælum.

Alls var þetta gert í 22 skipti eða í 12,3% þeirra 179 álita sem athugunin tók til. Þarna er líka vitnað til samantektar um hliðstætt efni frá árunum 1988–1996. Voru sambærilegar tilkynningar sendar í 7,3% þeirra álita sem umboðsmaður sendi frá sér á þessum árum. Umboðsmaður bendir á að hlutfall tilkynninga um meinbugi á lögum sé mun hærra en hjá umboðsmönnum þjóðþinganna í næstu nágrannalöndum. Það er ástæða fyrir okkur alþingismenn að við gefum þessum orðum gaum og höfum þetta í huga við afgreiðslu mála hér á þingi.

Umboðsmaður gerir í skýrslu sinni grein fyrir þeim málum sem hann fjallaði um á árinu 2006 að eigin frumkvæði. Þessi þáttur í starfi umboðsmanns er afar mikilvægur og þá ekki síst sem liður í því að kalla eftir umbótum í stjórnsýslunni og rétta mál af, ef svo má segja, ef þau hafa að einhverju leyti farið úrskeiðis. Þá getur einmitt skipt máli að beina sjónum stjórnvaldsins að þeim grundvallarreglum sem stjórnsýslan á að starfa eftir. Nýleg bréf, sem umboðsmaður sendi þremur sveitarstjórnum, og nokkuð hefur verið fjallað um í fjölmiðlum, eru einmitt dæmi um slíkt.

Af þeim frumkvæðismálum sem umboðsmaður fjallar um í skýrslu sinni vek ég sérstaklega athygli á upplýsingum, sem fram koma á bls. 92–104, um það hvernig umboðsmaður hefur fylgt eftir þeirri athugun sem hann gerði á skráningu mála, málshraða og fleiru hjá alls 32 stjórnvöldum á árunum 2002–2006. Nú hefur umboðsmaður safnað saman upplýsingum um hver hafi orðið viðbrögð stjórnvalda við tilmælum hans um úrbætur á þessu sviði. Þær upplýsingar eru birtar í skýrslu hans og þá jafnframt hvernig einstök stjórnvöld hafa brugðist við. Eins og umboðsmaður bendir sjálfur á í skýrslunni sýna þessar upplýsingar og samanburður milli þessara þriggja ára, 2002, 2006 og 2007, að mál hafa almennt þokast til betri vegar miðað við upplýsingar stjórnvalda sjálfra.

Þegar tölur um fjölda skráðra mála hjá umboðsmanni fyrir árið 2006 eru skoðaðar sést að það ár, síðasta ár, fækkaði málum um nær 15% frá árinu 2005. En það er hins vegar ljóst af tölum sem umboðsmaður hefur kynnt í allsherjarnefnd að þessi fækkun hefur gengið til baka. Nú eru skráð mál um 16% fleiri en þau voru á sama tíma í fyrra.

Í ljósi þess tel ég brýnt að við gætum þess við afgreiðslu fjárlaga að umboðsmanni verði tryggt nægilegt fjármagn til þess að sinna þeim verkefnum sem honum ber. Það skiptir máli að umboðsmaður geti ekki bara sinnt þeim kvörtunum sem til hans berast heldur líka málum sem hann telur tilefni til að fjalla um að eigin frumkvæði.

Mér finnst rétt að geta þess hér að á fund allsherjarnefndar komu nýverið fulltrúar Öryrkjabandalags Íslands og var erindi þeirra að óska eftir því að umboðsmanni Alþingis yrði gert það fjárhagslega kleift að sinna frumkvæðisathugunum á málum sem lúta að réttindagæslu fatlaðra samkvæmt gildandi lögum. Ég nefni þetta sérstaklega þar sem af hálfu fulltrúa Öryrkjabandalagsins voru höfð uppi þau sjónarmið að þeir teldu ekki rétt að komið yrði á fót sérstöku embætti umboðsmanns fatlaðra heldur teldu að það mundi þjóna hagsmunum fatlaðs fólks mun betur ef skrifstofa umboðsmanns yrði efld í þeim tilgangi að umboðsmaður gæti betur sinnt þessu verkefni.

Ástæða er til að veita þessu sjónarmiði athygli með tilliti til þeirra hugmynda sem heyrast oft í opinberri umræðu í samfélaginu um þörfina á því að stofnað verði til embætta umboðsmanna fyrir hina ýmsu hópa. Nú er það svo að rétt eins og með málefni fatlaðra eru t.d. málefni aldraðra og sjúklinga að stórum hluta til viðfangsefni stjórnvalda og stjórnsýslu bæði ríkis og sveitarfélaga. Það fellur því innan starfssviðs umboðsmanns Alþingis að fjalla um athugasemdir sem gerðar eru um starfshætti stjórnvalda á þessum sviðum og ef fólk telur að það njóti ekki þeirra réttinda sem lög hljóða um.

Að þessu leyti kann að vera ástæða til að við hugum að því að efla embætti umboðsmanns Alþingis til að sinna viðfangsefnum á þessum sviðum í stað þess að stofna til sérstakra embætta umboðsmanna eða talsmanna fyrir hina einstöku hópa. Við verðum að muna að það er hlutverk umboðsmanns að hafa eftirlit með því að stjórnsýslan starfi í samræmi við lög og vandaða stjórnsýsluhætti en það fellur hins vegar utan starfssviðs hans að hafa uppi sjónarmið um á hvern veg æskilegt sé að skipa lagareglum eða hvernig til hafi tekist með löggjöf nema þá að umboðsmaður telji að um meinbugi á lögum sé að ræða.

Af umræðunni verður helst skilið að auk þess að sinna þeim viðfangsefnum í málefnum þessara hópa sem falla undir starfssvið umboðsmanns Alþingis standi hugur manna stundum til þess að umræddir hópar fái einhvers konar launaðan eða opinberan starfsmann sem talsmann sinn og þar á meðal til að ná fram breytingum á lögum sem gilda um þessi málefni. Við megum ekki gleyma því í þessu sambandi að þau verkefni hafa fyrst og fremst verið viðfangsefni frjálsra félaga og hagsmunasamtaka og raunar stjórnmálamanna. Ég spyr: Er rétt að víkja frá því prinsippi? Er rétt að víkja frá þeirri meginreglu og koma upp ríkisvæddum talsmönnum fyrir hina einstöku hópa í samfélaginu? Ég tel svo ekki vera.

En svo ég víki aftur að ábendingum Öryrkjabandalagsins þá er það ekki svo að einstakir hagsmunahópar geti komið til allsherjarnefndar og fengið hana til að hlutast til um að umboðsmaður taki einstök mál upp. Umboðsmaður er sjálfstæður í störfum sínum og tekur ekki við fyrirmælum frá okkur sem sitjum á þingi um það hvaða mál hann tekur fyrir og hver ekki. Hins vegar er ljóst að þessi ábending frá Öryrkjabandalaginu átti þátt í því að við í allsherjarnefnd tókum þessi mál til umræðu og vöktum raunar athygli fjárlaganefndar á því takmarkaða svigrúmi sem umboðsmaður hefur til að taka upp mál að eigin frumkvæði og hvöttum til þess að þetta yrði haft í huga við mótun fjárlagatillagna fyrir embættið.

Herra forseti. Ég vil að lokum árétta það sem segir í áliti allsherjarnefndar: Embætti umboðsmanns Alþingis hefur mikilvægu hlutverki að gegna við að stuðla að betri stjórnsýsluháttum og auknu réttaröryggi borgaranna. Álit umboðsmanns eru að sönnu ekki bindandi og hafa ekki beina réttarverkan með sama hætti og t.d. úrlausnir dómstóla. Engu að síður fela álitin oft í sér mikilvægar leiðbeiningar til stjórnvalda um hvernig haga beri vinnubrögðum og ákvörðunartöku í stjórnsýslunni.

Eins og dæmin sanna eru álit umboðsmanns ekki alltaf óumdeild og stundum kann að vera nauðsynlegt að fá úrlausn dómstóla um mál sem embættið hefur fjallað um. Ekki er óeðlilegt að stundum séu skiptar skoðanir um þá niðurstöðu sem umboðsmaður kemst að. Það dregur á engan hátt úr mikilvægi embættisins og þeirra álita og athugasemda sem frá því berast. Þau hljóta alltaf að skipta verulegu máli.

Ég vil að lokum ítreka þakkir mínar og allsherjarnefndar til umboðsmanns og starfsfólks hans fyrir skýrsluna og góð störf á liðnu ári.



[10:54]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil nota tækifærið og þakka hv. þingmanni fyrir skýrslu allsherjarnefndar. Áður en almenn umræða um efni skýrslunnar hefst vil ég spyrja hvernig þessi nýju vinnubrögð, eða þetta nýja form sem hæstv. forseti kynnti áður en ræða hv. þingmanns hófst, leggist í nefndina.

Ég spyr vegna þess að ég varð fyrir miklum vonbrigðum með álit nefndarinnar sem er hér á prentuðu þingskjali, hluti úr blaðsíðu. Ég tek það þó fram að ég var ánægð með að hv. þingmaður skyldi ekki hafa látið nægja að lesa álitið heldur komið með yfirgripsmeiri ræðu til okkar þingmanna.

Ég hef átt sæti í allsherjarnefnd í fjögur ár en á það ekki lengur. Ég hélt að ég fengi að vita meira um efni skýrslunnar, sem ég hef því miður ekki haft tíma til að lesa, í áliti allsherjarnefndar, sem prentað er á þingskjali. Ég vil fá að heyra, áður en umræðan hefst, um þessi formlegu atriði. Hver var hugmyndin að þessum nýju vinnubrögðum? Reyndar lýsti hæstv. forseti því. En ég sé ekki að þau markmið gangi eftir í álitinu sem dreift hefur verið á skjali sem við höfum haft tækifæri til að kynna okkur. Það skjal segir okkur sem ekki höfum lesið skýrsluna ekki nokkurn skapaðan hlut.



[10:56]
Frsm. allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt að geta þess að við erum að stíga fyrstu skref í nýjum vinnubrögðum og við höfðum ekki fyrir okkur fordæmi fyrir því hvernig álitið ætti að vera úr garði gert.

Þetta mun hins vegar þróast, hygg ég, á næstu árum og í umræðum í allsherjarnefnd kom fram mikill áhugi nefndarmanna á því að þróa þessi vinnubrögð enn frekar þannig að við munum fara ítarlegar í efni skýrslu umboðsmanns en gert hefur verið.

Nú er það reyndar svo að umfjöllun okkar í allsherjarnefnd um skýrslu umboðsmanns var öllu meiri en verið hefur undanfarin ár. Við áttum tvo fundi með umboðsmanni þar sem við fórum ítarlega yfir skýrsluna með honum þannig að allsherjarnefndarmenn eru vissulega betur undir það búnir að taka þátt í umræðum um skýrsluna en oft hefur verið.

Það er, eins og ég segi, ljóst að ríkur áhugi er hjá allsherjarnefnd að veita þessari skýrslu umboðsmanns meiri athygli og meiri tíma í störfum sínum og þau vinnubrögð verða þróuð á næstu þingum.



[10:57]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka skýringuna þó að mér finnist hún alls ekki góð. Mér þykir það mjög ámælisvert þegar nýjum vinnubrögðum er brotin leið hér í þinginu að þá skulum við ekki sjá snefil af því að sú hugmynd sem að baki liggur skili sér.

Það er algjörlega mótað í mínum huga, ég skildi það á hæstv. forseta áðan, og ég veit að það er í þingsköpunum, og ég veit að við tókum umræðu um það þegar við breyttum þingskapalögunum, að þetta er eitt af þeim mikilvægu málum sem þingmenn treysta nefndinni sinni, allsherjarnefndinni, fyrir. Þeir treysta henni til að greina og setja niður á blað fyrir okkur hin þær aðgerðir sem þarf að fara í vegna þeirra ábendinga sem koma í skýrslu umboðsmanns. Umboðsmaður er að tala við löggjafarsamkunduna í álitum sínum meira eða minna.

Og það kemur fram í ræðu hv. þingmanns, formanns allsherjarnefndar, að í mörgum tilfellum er við okkur að sakast, löggjafann, vegna þess að lög eru ekki nægilega vel úr garði gerð. Í skýrslunni kemur fram að þegar hann ber sig saman við störf annarra umboðsmanna á Norðurlöndunum lendir hann miklu oftar í því að fást við gallaða löggjöf.

Þetta er eitthvað sem við í stjórnarandstöðunni, og ég sem stjórnarandstöðuþingmaður, hef gagnrýnt í átta ár. Við erum hér á handahlaupum að búa til lög sem eru handónýt og svo er umboðsmaður Alþingis stöðugt með vöndinn á okkur. Einu sinni á ári kemur hann og segir okkur til syndanna og við hlustum en gerum ekki neitt. Ég hélt að hin nýju vinnubrögð ættu að sýna það í áliti allsherjarnefndar að nú yrði blásið til einhverra aðgerða og hlustað yrði á umboðsmann Alþingis á nýjan hátt, á nýjum nótum. Ég hélt að við tækjum betur til okkar það sem umboðsmaður hefur við okkur að segja.

Ég veit að hv. þm. Birgir Ármannsson hefur góðar meiningar í þessum efnum en ég átel að (Forseti hringir.) það skuli ekki koma fram í áliti allsherjarnefndar til hvaða aðgerða nefndin ætlar að taka (Forseti hringir.) varðandi ámæli umboðsmanns.



[10:59]
Frsm. allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst málflutningur hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur vera ys og þys út af engu. Það er álitamál hvað nákvæmlega á að koma fram í áliti allsherjarnefndar og hvað ekki. Ný vinnubrögð fela í sér að allsherjarnefnd fer nánar yfir skýrsluna með umboðsmanni og hefur lýst vilja til að þróa þessi vinnubrögð frekar.

Það er hins vegar allt annað mál hvort nefndin sem slík fer að gera tillögur um einstök úrlausnarefni í þessum efnum. Þar getur verið um að ræða mál sem heyra undir verkefnasvið fjölmargra nefnda þingsins. Það er því ekki sjálfgefið að slík atriði séu tekin til í áliti allsherjarnefndar.

Raunar er það svo að skýrsla umboðsmanns er lögð fyrir þingið allt. Allsherjarnefnd hefur verið skapað ákveðið rými til að fjalla nánar um skýrsluna. Síðan kemur skýrslan til umræðu í þinginu og menn geta rætt þau atriði út frá skýrslunni sem þar liggur fyrir og raunar út frá þeirri framsöguræðu sem ég flutti áðan, sem ég hygg að sé ítarlegri en áður hefur verið af sama tilefni.

Það er sá grundvöllur sem umræðan á að byggjast á. Ég hafna því að allsherjarnefnd hafi með einhverjum hætti staðið fyrir ámælisverðum vinnubrögðum í þessu sambandi þó að ég viðurkenni að þessi vinnubrögð megi þróa áfram. En stóryrði um ámælisverð vinnubrögð eiga á engan hátt við.



[11:01]
Atli Gíslason (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á að þakka umboðsmanni Alþingis fyrir vel unnin störf á árinu 2006 og fyrr. Ég held að skýrslan sem hér liggur fyrir sé órækur vitnisburður um að vel hafi verið að verki staðið almennt séð þótt ýmislegt megi betur fara. Ég get vel viðurkennt að ég hefði kosið að þetta álit væri ítarlegra og tekið á fleiri þáttum. En í störfum á þingi er oft tímaleysi og fljótaskrift á hlutum. Ég get hins vegar tekið undir það með hv. formanni nefndarinnar að í nefndarstörfum okkar ákváðum við að móta okkur vinnureglur um hvernig við tækjum á þessari skýrslu, hvernig við skiluðum nefndarálitum og hvort við reyndum að ná samstöðu um álitið eða ekki. Ég held að í þetta skipti hafi niðurstaðan orðið sú að skila hreinlega stuttu áliti sem samstaða væri um. Á næsta ári verður örugglega breyting á því og ítarlegri sjónarmið koma fram.

Skýrslan er afar umfangsmikil og mikill lestur í henni. Ég hygg að þetta nýmæli sem hér er á borð borið, af þeirri litlu reynslu sem á það er komin, sé til bóta. Við höfum eins og hv. formaður allsherjarnefndar, Birgir Ármannsson, lýsti, bæði átt fund með umboðsmanni á starfsstöð hans og eins kom hann á fund nefndarinnar. Þar komu fram upplýsingar og tillögur og margt fleira sem ég hygg að birtist í ræðum þeirra sem taka til máls í dag og hafa þegar komið fram í ræðu hv. formanns allsherjarnefndar. En við verðum betri á næsta ári, vonandi.

Ég get tekið undir margt af því sem hv. formaður nefndarinnar sagði um skýrsluna. Ég lít svo á að umboðsmaður Alþingis gegni afar veigamiklu hlutverki í íslensku lýðræði. Ég lít svo á að umboðsmaður Alþingis sé einn af hornsteinum íslensks lýðræðis ásamt stjórnsýslulögum, upplýsingalögum og þá Ríkisendurskoðun, ef ég tel hana síðast. Af því hef ég reynslu. Réttarumhverfi, stjórnsýsla og annað hefur á síðustu 20 árum gjörbreyst með þeim lögum sem ég nefndi og með umboðsmanni Alþingis. Bara fyrir mig, starfandi sem lögmann er aðstaðan allt önnur og betri.

Þegar embættið var sett á stofn mun embættismaður í einu ráðuneytinu hafa sagt: Nú þarf maður að fara að svara þessum kverúlöntum sem eru að skrifa okkur. Það var nefnilega þannig að ríkið eða ríkisstofnanir hirtu ekki um að svara og hirtu ekki um að rökstyðja. Menn skyldu gjarnan horfa til baka og rifja upp stöðu mála áður en þessar gagnmerku réttarbætur komu til. Umboðsmaður hefur skilað verulegum árangri og hefur um margt lagað stjórnsýsluna þótt ýmislegt mætti betur fara, sem hann bendir sjálfur á og hefur bent á undanfarin ár.

Af skýrslunni er að sjá að umboðsmanni gangi þokkalega að afgreiða kvartanir. Fjöldi kvartana, erinda og fyrirspurna og afgreiðslur kvartana sýna að embættið stendur þokkalega að því leyti. Þó er ýmislegt sem umboðsmaður gagnrýnir í framkvæmd stjórnsýslunnar. Fyrst og fremst má segja að gagnrýni umboðsmanns lúti m.a. að því að stjórnvöld skipuleggi sig ekki fyrir fram, séu ekki nógu meðvituð um að setja sér fyrir fram gegnsæjar reglur, sem borgararnir geti gengið að, um hvernig þau eigi að haga málsmeðferð, hvernig þau eigi að beita reglum stjórnsýslulaga o.s.frv. Því er enn ábótavant, stjórnsýslan er enn tilviljunarkennd í mörgum tilfellum. Umboðsmaður bendir jafnframt á að fræðslu skorti til stjórnenda ríkisstofnana, þ.e. að þegar nýir starfsmenn koma inn sé þeim hreinlega leiðbeint, þeir fari í skóla í stjórnsýslulögunum.

Stjórnsýslulögin eru ekki flókin. Fyrir þá sem lesa þau eru þau ekki flókin en þetta er eilíft umkvörtunarefni umboðsmannsins, að fræðslan komist ekki til skila til starfsmanna. Ég heyri á tóni umboðsmanns hreinan pirring í þeim efnum, ekki endilega á fundum með nefndinni en ég hef hlustað á hann fjalla um fræðslumál á semínari.

Hann kvartar líka undan því, sem hv. formaður allsherjarnefndar Birgir Ármannsson kom inn á, að mál séu leidd til lykta með samningum. Auðvitað þurfa ríkið og ríkisstofnanir að gera mikið af samningum en það er verið að leiða mál til lykta með samningum, sem er að því leyti röng aðferð vegna þess að vilji stjórnsýslunnar og vilji ríkisins á að birtast í reglum og ákvörðunum. Þegar reglur og ákvarðanir liggja fyrir á að byggja samninga á þeim. Ég kem betur að því síðar.

Umboðsmaður kvartar enn yfir því að jafnræðisreglunni sé ekki nógsamlega fylgt og að meðalhófsreglunnar sé ekki gætt. Þar bendir umboðsmaður sérstaklega á ráðstöfunarfé ráðherra, eins og menn muna að var í fréttum í sumar. Þar er ekki gengið út frá fyrir fram gegnsæjum reglum. Ég get bent frú forseta á að við hér á Alþingi stöndum frammi fyrir sama vandamáli. Ég sat nefndarfund í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd nýverið og við ræddum um það hvert við ættum að beina 47 eða 50 millj. kr. safnliðum á umsækjendur. Ég upplifði það að við vorum að úthluta tilviljunarkennt, úthluta án þess að við settum okkur fyrir fram gegnsæjar reglur, án þess að ákveða forganginn fyrir fram, hvaða verkefni við legðum meiri áherslu á en önnur og hreinlega flokkuðum þau fyrir fram.

Ég verð að segja að safnliðaafgreiðsla sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, sem eflaust fleiri nefndir í þinginu standa frammi fyrir, fór fyrir brjóstið á mér og þeirri tilfinningu sem ég hef fyrir jafnræði og meðalhófi. Ég ætla ekki að deila á einstakar fjárveitingar nefndarinnar. Það dettur mér ekki í hug en ég veit að við gætum legið undir hörðu ámæli ef menn bera saman einstakar úthlutanir í þessum safnliðum, ef við setjum það í samhengi og jafnvel sleppum af þeim nöfnunum, þá mundi ég lenda í vandræðum með að útskýra sumt út frá jafnræðisreglunni. Af hverju fékk þessi en ekki hinn? Af hverju fékk þessi minna en hinn meira? og þar fram eftir götunum.

Það vekur ánægju að viðbrögð stjórnvalda við ábendingum umboðsmanns Alþingis eru góð. Sú þróun hefur orðið á síðustu 20 árum en algengt var að ráðherrar hreinlega hunsuðu tilmælin. Nú heyrir það til undantekninga. Ég ítreka það sem kemur fram í skýrslunni á bls. 16, að það skortir fræðslu um stjórnsýslulög, upplýsingalög og réttarstöðu borgaranna, fræðslu til stjórnenda ríkisstofnana.

Það er einn merkilegur þáttur í skýrslunni sem m.a. má sjá á bls. 16 og áfram. Það eru svokölluð frumkvæðismál sem umboðsmaður Alþingis fjallar um í skýrslu sinni. Þau eru afar mikilvægur þáttur og svo virðist sem umboðsmaður Alþingis feti sig frekar inn á þessa braut. Frumkvæðismálin voru sex árið 2006 en eru nú orðin 15 á þessu ári. Ég hygg að styrkja verði umgjörð og fjárveitingar til umboðsmanns Alþingis vegna slíkra frumkvæðismála. Síðasta og þekktasta frumkvæðismál umboðsmanns Alþingis er fyrirspurn hans til Reykjavíkurborgar varðandi Orkuveitu Reykjavíkur, vegna hins svokallaða REI-máls, sem er afar merkilegt inngrip.

Ef maður sviptir af sér flokkspólitískri þoku og horfir faglega á þetta eru viðbrögð umboðsmanns Alþingis að mínu mati til fyrirmyndar í þessu máli. Í þessu máli vöknuðu afar margar mikilvægar og merkilegar spurningar um framkvæmd stjórnsýslu, um hvernig sveitarfélag með almannaveitu á sínum vegum getur samið við einkahlutafélag og allt í einu rofið stjórnsýslutengslin. Tímans vegna mun ég ekki rekja það mál en frumkvæði umboðsmanns var gott.

Annað mál sem hv. formaður kom inn á er ÖBÍ-málið. Þar stöndum við frammi fyrir spurningunni: Eigum við hv. alþingismenn að skipta okkur af því eða á Alþingi að beina tilmælum til umboðsmanns? Erum við að fara inn á sjálfstæði hans? Ég lít ekki svo á. Hann er umboðsmaður Alþingis. Við getum haft tilmæli. Öryrkjabandalagið gekk á fund umboðsmanns, við nefndum þetta á fundi með umboðsmanni, á nefndarfundi, og það er samdóma álit okkar að leggja til að umboðsmaður taki þetta mál upp sem frumkvæðismál. Hann hefur sjálfur áhuga á því og telur ekki að með því skerðum við sjálfstæði hans. En við leggjum til að veita sérstaka fjárveitingu í þetta vegna þess að þetta er brýnt almennt mál. Þetta varðar geðsjúka fyrst og fremst, sem almennt hafa ekki hafa tök á að gæta réttar síns. Málið varðar það hvort framkvæmdin sé nógu góð, hvort réttindi öryrkja komist til skila, hvort þeir geti gætt réttar síns o.s.frv. þannig að þetta er almenn og brýn athugun. Ég styð að því að veita sérstaka fjárveitingu til þessarar almennu athugunar, sem yrði auðvitað frumkvæðisathugun umboðsmanns því að hann getur valið og hafnað. Við getum sett fram tilmæli um eitt og annað en auðvitað er umboðsmaður sjálfstæður í störfum sínum. Við skipum honum ekki fyrir, hvorki um hvaða verkefni hann tekur að sér né hvaða niðurstöðum hann kemst að.

Ég vil nefna eitt að lokum og það eru áhyggjur umboðsmanns Alþingis af því sem hann kallar að þróunin sé að grugga vatnið, hann talar um afkima stjórnsýslunnar. Hvað á umboðsmaður við? Jú, hann á við hlutafélagavæðingu, hann á við opinber hlutafélög. Hann segir að réttarrammi þeirra sé ekki nógu góður. Ég vil bæta við það og segja að stjórnsýslan hefur ekki fyllt inn í þessi hlutafélög, Matís og mörg fleiri. Hann heldur því fram að lagaumhverfið um opinberu hlutafélögin dugi ekki og ég tek fyllilega undir það. Ég hef sjálfur sagt að það eigi að einkavæða stjórnsýslulögin og upplýsingalögin. Ég held því fram að þau þurfi að ná yfir stórfyrirtækin. Póstur og sími fóru í einkarekstur og fjöldi annarra fyrirtækja veita borgurum þjónustu án þess að við höfum andmælarétt, upplýsingaréttinn og annað af því tagi. Þessi stóru fyrirtæki sem veita þjónustu, almanna- og grunnþjónustu, eiga ekki að vera yfir það hafin að neytandinn spyrji og fái upplýsingar. Alls ekki.

Það er áhyggjuefni, eins og hv. formaður allsherjarnefndar benti á, að efnisreglur verða í 23,4% tilfella umtalsefni eða kvörtunarefni. Það er gagnrýni, frú forseti, sem beinist að þinginu. Lagagrundvöllur stjórnvaldsákvarðana er 27,3% tilefna umkvartana. Það segir mér að styrkja verði löggjafarvaldið, Alþingi, styrkja lagasetninguna. Ég ítreka það sem ég minntist á í upphafi að við afgreiðum lög oft í fljótræði. Ég hygg að vandi Alþingis liggi fremur í innra skipulagi þess en ræðutíma við 2. umr., ef ég má nefna það sem dæmi. Það er hægt að bæta Alþingi og gera það skilvirkara með margvíslegum öðrum hætti án þess að breyta þingsköpum, það segir mér reynsla mín sem varaþingmaður og nú sem þingmaður á haustdögum og í sumar. Þetta er áhyggjuefni og þetta þurfa forsetar Alþingis að skoða til hlítar.



[11:17]
Frsm. allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Atla Gíslasyni fyrir ágæta ræðu. Ég get tekið undir mjög mörg sjónarmið sem fram komu í máli hans. Hins vegar er eitt atriði sem ég ætla að nefna, bara svo því sjónarmiði hv. þingmanns sé ekki ómótmælt hér, og það er þegar hann nefnir að stjórnsýslulög eða stjórnsýslureglur eigi að gilda um einkaaðila og hann nefndi stórfyrirtæki sérstaklega.

Ég vildi koma því að að stjórnsýslureglur eru auðvitað settar til að verja borgarana í þeim tilvikum þar sem þeir þurfa að lúta valdi hins opinbera, valdi stjórnsýslunnar sem er sérstætt, allt öðruvísi en þau áhrif sem einhver stórfyrirtæki hafa eða staða á markaði eða annað þess háttar. Enginn getur valið hvort hann á samskipti við stjórnsýsluna eða ekki, menn eru þvingaðir til þess. Menn eru undir stjórnsýsluna settir hvort sem þeim líkar betur eða verr og þess vegna er auðvitað þörf á sérstökum reglum til að vernda borgarana í þeim samskiptum.

Þegar við tölum hins vegar um einkamarkaðinn vitum við auðvitað að það getur verið ójafnvægi milli aðila en engu að síður höfum við annað regluverk sem á að tryggja stöðu manna að því leyti. Við höfum samkeppnisreglur, við höfum reglur á fjármálamarkaði sem gilda sérstaklega um fjármálafyrirtækin, við höfum hlutafélagalöggjöf sem m.a. er ætlað að vernda minni hluta í hlutafélögum o.s.frv. Þegar við ræðum um þetta verðum við að hafa í huga að stjórnsýslan er sérstaks eðlis vegna þess að sá sem á samskipti við hana á ekkert val. Hann á bara að hlýða. Þess vegna þarf að gæta réttinda hans (Forseti hringir.) sérstaklega.



[11:19]
Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er mikil þörf á að einkavæða stjórnsýslu- og upplýsingalögin gagnvart stóru fyrirtækjunum, þau eiga ekki við um einkarekstur. Það er verið að færa opinbera þjónustu yfir í einkarekstur. Talað er um að úthýsa verkefnum í stórum stíl. Það er talað um að einkafyrirtæki taki að sér opinbera þjónustu við borgarana.

Þarna er fullt af gráum svæðum, bæði varðandi opinberu hlutafélögin og önnur einkahlutafélög sem taka að sér opinbera þjónustu við borgarana, og á því sviði verðum við að styrkja grundvöll umboðsmanns Alþingis. Við verðum að styrkja, víkka og endurskoða valdsvið umboðsmanns Alþingis. Á það hefur umboðsmaður Alþingis sjálfur bent þó að hann hafi ekki sagt að hann vilji einkavæða stjórnsýslulögin eins og ég sagði. Hann notaði ekki þau orð en hann talaði um þoku og um afkima stjórnsýslunnar. Og fjármálaeftirlit eða samkeppniseftirlit er ekki nægjanlegt í þeim efnum.



[11:20]
Frsm. allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ef hv. þm. Atli Gíslason er sérstaklega að tala um svið þar sem verið er að færa opinbera þjónustu yfir í einkarekstrarlegt umhverfi þá er auðvitað klárt að þar þarf að vanda til verka. Enginn deilir um það. Það snýst um það að í þeim tilvikum þegar verkefni eru færð, hvort sem er með útvistun, með stofnun opinberra hlutafélaga um eitthvað tiltekið svið eða þjónustusamning eða annað, þá er alltaf fyrir hendi eitthvert stjórnvald sem á að hafa eftirlit með viðkomandi starfsemi sem einkaaðilarnir geta þá rekið. Þetta er auðvitað í þróun en ég held hins vegar að eftirlit umboðsmanns hljóti alltaf að beinast að þeim aðilum innan stjórnsýslunnar sem eiga að hafa eftirlit með viðkomandi starfsemi. Þeim ber síðan skylda til að hafa eftirlit með því að þeir einkaaðilar sem taka að sér tiltekin verkefni uppfylli þau skilyrði sem þeim eru sett.

Hins vegar get ég alveg tekið undir að þær kröfur sem hið opinbera gerir til aðila sem taka að sér verkefni sem flokka má undir þjónustu við almenning þurfa að vera skýrar. Það má ekki liggja í lausu lofti, það má ekki vera á gráu svæði. En ég get ekki tekið undir ummælin um að einkavæða eigi stjórnsýslulögin. Við hv. þm. Atli Gíslason erum á öndverðum meiði um einkavæðingu í flestum tilvikum og líka í þessu. Hann vill halda því hjá ríkinu sem ég vil einkavæða og öfugt.

Við getum hins vegar áreiðanlega verið sammála um að þegar um útvistun eða þjónustusamning eða annað slíkt er að ræða skiptir máli að kröfurnar sem gerðar eru til einkaaðilanna sem framkvæma þjónustuna séu skýrar og skilmerkilegar og að fyrir hendi sé eftirlit hjá þeim stjórnsýslulegu aðilum sem bera ábyrgð á viðkomandi málaflokki á þeirri starfsemi, þannig að (Forseti hringir.) þetta gangi eins og til er ætlast.



[11:22]
Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Ég er hjartanlega sammála hv. þm. Birgi Ármannssyni að vanda þurfi til verka. Ég er algerlega sammála honum um það. Er það að vanda til verka þegar veita þarf Matís 130 millj. aukafjárveitingu á fjáraukalögum? Er það að vanda til verka að Flugstoðir eru í tómarúmi? Er það að vanda til verka að fela þessum fyrirtækjum opinbera þjónustu án þess að afmarka skyldur þeirra, réttindi borgaranna? Þarf ekki, áður en við förum í úthýsingu, einkarekstur, einkavæðingu, hlutafélagavæðingu eða hvað það kallast allt, að spyrja: Hvernig munu þessar breytingar reynast almenningi? Er það í þágu almennings að gera þetta? Erum við að fara úr öskunni í eldinn? Hvernig munu þessar breytingar reynast þeim, hv. þm. Birgir Ármannsson, sem greiða svo fyrir þjónustuna og eiga ekki andmælarétt? Bætir einkareksturinn almannaþjónustuna? Eða eru þetta guðspjöll? Er þetta biblíutrú, pólitísk trúarbrögð að einkavæðing sé alltaf betri án þess að horfa fyrst á markmið og greina vandann og spyrja sig grundvallarspurninga? Eigum við að haga okkur þannig að við segjum: Einkavæðum, einkavæðum, það er betra?

Það hefur verið gert í biblíubelti einkavæðingar á Íslandi, í Reykjanesbæ. En það reynist bara ekki vel. Bæjarstjórinn í Kópavogi, Gunnar Birgisson, sá talnaglöggi maður, hefur reiknað það út að þetta borgi sig ekki fyrir íbúa Kópavogs. Það má ekki horfa og einblína á einkarekstur sem guðdómlegan. Það á að markmiðsskoða og greina og umfram allt þegar þetta er gert á að tryggja réttindi borgaranna.



[11:25]
Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil í fyrstu aðeins gera að umfjöllunarefni álit allsherjarnefndar. Ég vek athygli á, eins og hæstv. forseti gat um áðan, að við erum að ræða skýrslu umboðsmanns Alþingis á allt öðrum nótum en við höfum áður gert á hinu háa Alþingi. Við breyttum þingsköpum og ætlum að tryggja betur tengsl embættis umboðsmanns og þingsins sjálfs og meiningin er að þessi skýrsla fái miklu meiri umfjöllun í þinginu en áður hefur verið. Áður stóð virðulegur forseti í þessum stól og flutti skýrslu um störf umboðsmanns Alþingis og síðan var umræða um hana. Ég held að það sé mjög góð nýbreytni sem við erum að taka upp hér, þ.e. að taka málið betur fyrir í þinginu sjálfu, í nefndum þingsins, og fara dýpra í skýrsluna.

Við hittum umboðsmann á tveimur fundum, fórum fyrst í heimsókn til hans og hann kom síðan á fund til okkar og svaraði spurningum. Ég tel, eins og kemur fram í álitinu, að móta þurfi frekar starfsferlið eða hvernig við tökum á verkefninu á næstu árum. Það hefur þegar komið fram í andsvörum að það gætir einhverrar óánægju. Ég heyrði á hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur að hún var ekki ánægð með nefndarálitið en ég vek athygli á að hv. þm. Atli Gíslason í Vinstri grænum er án fyrirvara á áliti nefndarinnar þannig að það var full samstaða um það álit.

Það er alveg rétt að ekki er farið ofan í efnisatriði skýrslunnar í álitinu. Það má vel vera að við gerum það síðar. Álitið er almenns eðlis þar sem verið er að draga fram tilgang starfa umboðsmanns og hve mikilvæg þau eru. Umboðsmaður hefur eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og hann á að standa vörð um réttindi borgaranna gagnvart stjórnvöldum og stuðla að því að þeir sem fara með opinbert vald gæti lagareglna og góðrar stjórnsýsluhátta í störfum sínum. Þetta er ekki lítið starf, virðulegi forseti, umboðsmaður Alþingis á að gæta réttinda borgaranna. Og af þessari skýrslu má sjá að margt má betur fara í því sambandi.

Í skýrslunni er mjög mikið og spennandi efni. Hún er afar ítarleg að mínu mati og vönduð. Þetta er mikill doðrantur og afar mikið lestrarefni, letrið er smátt til að skýrslan taki ekki enn fleiri blaðsíður. Ég verð að viðurkenna að þetta er mjög seinlesið efni. Ég las langt inn í nóttina í gær, til klukkan tvö, það er ekki til fyrirmyndar að gera slíkt en þetta er mjög seinlesið en mjög spennandi líka.

Ég tel að við þurfum að fara betur í skýrsluna. Á næstu árum þurfum við að taka meiri tíma í að fara dýpra í málin. Það kom fram hjá hv. þm. Birgi Ármannssyni, formanni allsherjarnefndar, og það er alveg rétt. Við ræddum það í nefndinni hvernig við ættum að taka á málum í framhaldinu og það var samstaða um að við þyrftum að fara betur ofan í skýrsluna og móta verkferlið meira í þinginu sjálfu. Það stendur því ekki á meiri hlutanum í því sambandi, virðulegi forseti, eins ég skynja hann í allsherjarnefnd.

Hér hefur verið rætt um löggjöfina og það hefur komið fram að við setjum oft og tíðum lög sem eru að einhverju leyti gölluð. Þetta hefur nú verið rætt meðal þingmanna og tengist svolítið því starfi sem á sér stað núna milli þingflokksformanna og forseta Alþingis, um vinnubrögðin í þinginu. Alþingi Íslendinga setur afar mörg lög og maður veltir því fyrir sér hvort þörf sé á að setja svona mörg lög. Af hverju setur þingið svona mörg lög? Er það vegna þess að ráðherrarnir vilja það? Þeir leggja fram lagafrumvörpin, ekki alveg öll en mjög mörg. Hæstv. ráðherrar hafa tilhneigingu til að koma með mörg lagafrumvörp og telja að það sé mælikvarði á hvort þeir standi sig vel eða illa í starfi. Ég hef vissar efasemdir um að þetta sé rétt hugsun. Ég held að nær væri að setja aðeins færri lög en vanda betur til verka, virðulegi forseti, og þá kæmu væntanlega færri gallar fram.

Ég ætla að drepa á nokkrum atriðum í skýrslunni. Það er alveg ljóst að málin sem koma til kasta umboðsmanns Alþingis eru fjölmörg. Á síðasta ári, sem skýrslan fjallar um, voru skráð 273 ný mál og umboðsmaður tók sjálfur sjö mál formlega til athugunar að eigin frumkvæði, þ.e. svokölluð frumkvæðismál. Þetta eru mörg mál, það slagar hátt upp í að það komi eitt nýtt mál á dag, alla daga ársins, líka laugardaga og sunnudaga ef maður metur það þannig.

Á árinu 2006 hlutu 282 mál lokaafgreiðslu og 69 mál voru óafgreidd í árslok. Í skýrslunni rekur umboðsmaður af hverju þau eru óafgreidd og ég sé ekki neitt óeðlilegt í því sambandi. Það eru ákveðnir frestir í gangi, það á eftir að svara o.s.frv. og það er ósköp eðlilegt að þau klárist ekki öll.

Í skýrslunni kemur fram að umboðsmaður stefnir að því að endanlegri afgreiðslu kvartana sé í síðasta lagi lokið innan sex mánaða frá því að þær bárust. Hann hefur einsett sér að setja þau tímamörk. Þetta eru mjög flókin mál þannig að ég tel þessi tímamörk ekki óeðlileg. Þetta eru yfirleitt geysilega flókin og tímafrek mál. Oft eru þetta álitaefni sem ekki hefur verið tekin skýr afstaða til í löggjöf og ekki nýtur við dómafordæma og þar af leiðandi taka málin stundum lengri tíma. En það er mikið atriði fyrir réttaröryggi borgaranna að hægt sé að ljúka athugunum á kvörtunum eins fljótt og unnt er innan hæfilegs tíma. Til þess að það verði unnt, virðulegi forseti, þarf embættið að hafa þyngd og hafa öfluga starfsemi, búa þarf vel að embættinu og ráða hæfilega margt hæft starfsfólk. Að mínu mati þarf umboðsmaður Alþingis að hafa mjög öfluga lögfræðinga að störfum og þar eru afar öflugir aðilar miðað við öll afköstin sem við sjáum í skýrslunni. En ég vil taka fram, virðulegi forseti, að einungis tíu starfsmenn vinna hjá umboðsmanni Alþingis, þ.e. umboðsmaður sjálfur og níu aðrir starfsmenn. Og ég spyr: Er þetta nægilegur mannskapur miðað við hvers eðlis þessi stofnun er? Ég efast um að svo sé.

Ég vil líka gera að umtalsefni að í heimsókn okkar til umboðsmanns Alþingis velti ég því fyrir mér hvort ekki væri rétt að huga að því að færa starfsemina í annað húsnæði. Ég tel að embætti umboðsmanns Alþingis sé starfsemi sem eigi að búa yfir mikilli reisn og virðingu og vera traust og góð. Auðvitað er starfsemin afar traust og mikið traust er borið til umboðsmanns Alþingis og starfseminnar sem þar fer fram, en ég tel að að huga þurfi að húsnæðismálum til framtíðar fyrir þessa stofnun. Ég vil benda á að stofnunin verður 20 ára á næsta ári þannig að það er kannski tilefni til að fara aðeins dýpra og betur í þau mál en ella vegna þess.

Varðandi málin sem hafa verið skráð vil ég nefna að málum á sviði almannatrygginga fjölgaði um helming, þau voru 9% skráðra mála árið 2006. Málum vegna skatta og gjalda fækkaði en flokkurinn tafir hjá stjórnvöldum á afgreiðslu mála var fyrirferðarmikill eða nær 17% skráðra mála. Því er greinilegt að mjög margir eru óánægðir með tafir í stjórnsýslunni, að þeir fái ekki úrlausn sinna mála. Ég held að fólk leiti ekki til umboðsmanns til að kvarta nema virkileg þörf sé á því, þá er fólk orðið mjög leitt.

Varðandi mál sem umboðsmaður hafði frumkvæði að á fyrri tíð vil ég nefna að umboðsmaður hefur kannað sérstaklega skráningu mála, málshraða, eftirlit með afgreiðslu mála, setningu fresta, tilkynningar um tafir og annað slíkt árin 2002 og 2006 og borið þetta saman hjá 32 stjórnvöldum. Hann fer því mjög skipulega ofan í það hvernig stjórnvöld vinna og ber það saman milli ára. Hann kannaði líka afgreiðslutíma 48 sjálfstæðra stjórnsýsluúrskurðarnefnda. — Ég sé, virðulegi forseti, að tíminn gengur mjög hratt og ég er bara rétt að byrja á umfjölluninni.

Þær reglur sem umboðsmaður getur sérstaklega um í skýrslu sinni eru jafnræðisreglan og meðalhófsreglan. Hann færir rök fyrir því af hverju hann nefnir sérstaklega þessar tvær reglur og nefnir tvö álit sem varða jafnræðisregluna. Komið hefur verið inn á þau bæði hér. Það eru styrkveitingar ráðherra af ráðstöfunarfé, ráðherraliðnum, og svo ráðstöfun námuréttinda í eigu sveitarfélaga með leigusamningi. Þar er verið að vitna í mál á Akureyri þar sem bæjarfélagið fór ekki alveg eðlilegar leiðir í því sambandi, þ.e. ekki var auglýst þannig að aðrir gætu komið að því máli heldur úthlutað gæðum, ef svo má segja. Ég heyri að hv. þm. Atli Gíslason tengir þetta við svokallað REI-mál, en það er alveg ljóst, og umboðsmaður telur það líka, að gæta þarf mjög vel að öllum reglum varðandi úthlutun réttinda. Þar verður að vera einhvers konar opið ferli þar sem þeir sem hafa áhuga á geta komist að en ekki þannig að valið sé úr bak við tjöldin, ef svo má orða. Það er mjög athyglisvert að lesa þetta í skýrslunni.

Varðandi meðalhófsregluna þá er þess getið sérstaklega að ekki megi taka íþyngjandi ákvörðun hjá stjórnvaldi og þar eru nefndar uppsagnir ríkisstarfsmanna. Ekki má segja upp fólki nema athugað hafi verið hvort hægt sé að flytja það til í starfi innan stofnunar, það er skylda forstöðumanns að gera það, og vitnað er í mál sem sneri að Fasteignamati ríkisins. Það er alveg greinilegt að umboðsmaður reynir að gæta hagsmuna borgaranna hvar sem þeir vinna innan stjórnsýslunnar.

Ég vil líka gera að umtalsefni viðbrögð stjórnvalda við tilmælum umboðsmanns. Það kemur fram að það heyri til algerra undantekninga að stjórnvöld fari ekki að tilmælum. Það er mjög jákvætt, virðulegi forseti, og sýnir að stjórnvöld almennt hlýða umboðsmanni, ef svo má segja, þau fara eftir ábendingum hans. Að vísu var í einu tilviki ekki farið að tilmælum, í svokölluðum sérstökum tilmælum, þau flokkast í sérstök og almenn tilmæli. Það var vegna kvörtunar einstaklings gagnvart sjávarútvegsráðuneytinu þar sem búið var að úthluta byggðakvóta en sá sem kvartaði fékk ekki úthlutað kvóta. Hann kvartaði en fékk ekki eðlilega málsmeðferð í kerfinu, hjá sjávarútvegsráðuneytinu. Það er rakið á blaðsíðu 14 hvernig ráðuneytið kom fram. Sagt var að búið væri að úthluta þessu og viðhorfið var svolítið þannig að það þýddi ekkert að kvarta yfir því, það væri búið að úthluta og það þýddi ekkert að breyta því. Við eftirrekstur umboðsmanns svaraði ráðuneytið þessu ekki þannig að ásættanlegt væri að mati umboðsmanns, þ.e. ráðuneytið brást ekki við eins og eðlilegt hefði verið og reyndi ekki að taka málið upp aftur og laga það. Það getur skipt mjög miklu máli fyrir viðkomandi, enda þótt búið sé að úthluta kvótanum og hann sé farinn, að hann fái úrlausn sinna mála, þó að ekki sé kannski hægt að endurúthluta kvóta eftir á.

Tilgreind eru fleiri atriði, virðulegi forseti, sem ég ætla ekki að fara nánar út í af því að ekki er tími til þess. Að endingu vil ég gera að umtalsefni kaflann á blaðsíðu 23, Samningar í stað ákvarðana og reglna. Mér finnst það afar athyglisverður kafli. Þar er sagt að stjórnvöld geri í of ríkum mæli samninga um alls kyns verkefni, líka verkefni sem löggjafinn hefur sagt að stjórnvöld eigi sjálf að sinna. Þetta þurfum við að skoða. Færð eru rök fyrir því að þetta sé óeðlilegt í ýmsum tilvikum. Það er alveg ljóst að verði þróunin mjög rík að þessu leyti, eins og rætt var um í nefndinni, mun sá sterkari sigra að lokum og það er yfirleitt ekki borgarinn sjálfur heldur sá sem samningurinn er gerður við, sem oft og tíðum (Forseti hringir.) er einkaaðili.



[11:40]Útbýting:

[11:40]
Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Frú forseti. Við ræðum nú skýrslu umboðsmanns Alþingis sem er árlegur og mikilvægur viðburður hér á þingi. Það væri óskandi að fleiri þingmenn, sérstaklega fleiri ráðherrar, væru viðstaddir þar sem meðal annars er verið að fjalla um hvernig löggjöfin virkar. Við vitum að langflest frumvörp sem verða að lögum eru búin til í ráðuneytunum og því held ég að okkar blessuðu ráðherrar hefðu gott af að fylgjast með umræðunni en ég treysti því að þeir kynni sér skýrsluna vel.

Ég óska embætti umboðsmanns Alþingis til hamingju með skýrsluna og þá vinnu sem unnin hefur verið undanfarið ár og óska starfsfólki umboðsmanns Alþingis velfarnaðar í starfi. Það eru ekki margir einstaklingar sem starfa hjá embættinu en engu að síður er það gríðarlega mikilvægt. Embættið sem slíkt hefur engin völd en þó gríðarleg áhrif og það skiptir miklu máli að svo haldist áfram. Það helst auðvitað í hendur við þann trúverðugleika sem þarf að ríkja innan dyra hjá því embætti en það tengist því einnig hvernig menn tala um embætti umboðsmanns Alþingis. Þótt menn geti stundum verið ósáttir við álit umboðsmanns Alþingis skiptir miklu máli að tala alls ekki niður embættið því að með því værum við að grafa undan því. Ég set umboðsmann Alþingis á svipaðan stall og dómstólana og við eigum að virða sjálfstæði hans í hvívetna.

Í skýrslunni kemur fram að nýskráð mál voru 273 sl. ár þannig að fjöldi mála er stöðugur. Stjórnsýslan virðist almennt séð hafa batnað á ákveðnum sviðum og það er sérstaklega ánægjulegt að álitamálum sem lúta að réttarstöðu og stöðu fanga hefur fækkað. Ég leyfi mér að álykta að ástandið fari einfaldlega batnandi en því miður eru verkefni embættisins enn þá næg.

Umboðsmaður Alþingis talar talsvert um viðhorf stjórnvalda í þessari skýrslu og í skýrslum fyrri ára. Hann bendir á það sama ár eftir ár, að stjórnsýslan sé til fyrir borgarana en ekki öfugt. Umboðsmaður Alþingis segir jafnframt að stjórnsýslan sé lögbundin og grunnurinn og markmiðið sé að borgararnir og almenningur hafi trú á stjórnsýslunni og upplifi að virtar séu ákveðnar meginreglur. Hann talar einnig um uppeldisleg áhrif innan stjórnsýslunnar, þ.e. að embættismenn og opinberir starfsmenn temji sér rétt og gott hugarfar gagnvart erindum borgaranna. Umboðsmaður Alþingis hefur sérstaklega bent á viðhorf sem heyrist stundum í stjórnsýslunni um að viðkomandi kvartari eða borgari geti einfaldlega farið í mál. Það er viðhorf sem ekki á að heyrast í íslenskri stjórnsýslu.

Fyrir nokkrum árum benti umboðsmaður Alþingis á að stundum einkenndi afgreiðslu stjórnvalda ákveðinn hroki gagnvart almenningi. Það er auðvitað mjög alvarlegt og opinberir starfsmenn þurfa að taka það til sín. Þetta helst auðvitað í hendur við aukna fræðslu en einnig ákveðið viðhorf um hvernig stjórnsýslan á að haga sér gagnvart borgurunum.

Það er eitt mál sem mig langar að minnast aðeins á í þessu sambandi sem lýtur að sjávarútvegsráðuneytinu.

Í skýrslunni stendur, með leyfi forseta:

„Síðan segir þó að það sé á hinn bóginn mat ráðuneytisins að hvorki sé raunhæft né tilefni til að rannsaka nú hvort málsmeðferð og undirbúningur ákvarðana um úthlutun byggðakvóta á liðnum fiskveiðiárum hafi í einu og öllu verið í samræmi við þær kröfur sem leiði af reglum stjórnsýsluréttar og/eða öðrum lagareglum sem þýðingu geti haft í því sambandi, enda sé sá byggðakvóti sem til ráðstöfunar hefði verið á liðnum fiskveiðiárum bundinn við þau tilteknu ár og aðeins nýtanlegur á þeim.“

Hér birtist ákveðið viðhorf stjórnvalds sem á ekki að birtast, á ekki að vera sýnilegt, að í ljósi þess að tiltekin réttindi, í þessu tilviki byggðakvóti, hafi verið runninn út eða verið bundinn við tiltekin ár sem voru þá liðin, að þá væri engin ástæða til að bregðast við. Að sjálfsögðu ber stjórnvaldi að bregðast við í svona tilvikum þó að það væri ekki nema bara til að fá hið rétta fram í dagsljósið en svo getur að sjálfsögðu líka myndast skaðabótaréttur í svona málum, þannig að þetta skiptir miklu máli.

Hér segir umboðsmaður Alþingis enn fremur, með leyfi forseta:

„Ástæða þess að ég geri þessi viðbrögð ráðuneytisins sérstaklega að umfjöllunarefni hér er að ég verð iðulega var við viðbrögð af þessum toga hjá stjórnvöldum þegar um er að ræða úthlutun gæða, t.d. styrkja og tímabundinna réttinda. Gæðin sem til úthlutunar voru séu uppurin og því tjói lítt að fást um það þótt einhver mistök hafi orðið við töku ákvarðana. En eru það virkilega ásættanleg viðbrögð og samrýmanleg þeim skyldum sem hvíla á stjórnvöldum að haga viðbrögðum sínum með þessum hætti? Ég tel rétt að vekja athygli á því að eftir situr einstaklingur eða lögaðili sem hefur fengið þá niðurstöðu óháðs eftirlitsaðila að stjórnvaldið hafi ekki leyst réttilega úr máli hans.“

Þetta er því eitthvað sem ég held að við eigum að vekja sérstaklega athygli á gagnvart stjórnvaldinu og ráðherrunum sem bera ábyrgð á sínum ráðuneytum og undirstofnunum.

Af öðrum þáttum í þessari skýrslu höfum við þessar lykilreglur sem birtast auðvitað í stjórnsýslulögunum en það er líka til eitthvað sem heitir óskráðar reglur í stjórnsýslunni. Þegar stjórnsýslulögin voru sett á sínum tíma var það markmiðið að hafa þau einföld og skýr og þau eru það, en þessar lagareglur hafa gjörbreytt, held ég, íslenskri stjórnsýslu til batnaðar og þetta eru stjórnsýslureglur sem flestar lúta að undirbúningi og töku hinna svonefndu stjórnvaldsákvarðana. Þó eru tvö ákvæði stjórnsýslulaganna sem skera sig úr og það er jafnræðisreglan og meðalhófsreglan sem eru tvær grundvallarreglur sem eru báðar skráðar í stjórnsýslulögum en eru líka óskráðar.

Það er auðvitað grundvallaratriði þegar rætt er um stjórnsýsluna að stjórnsýslan sé lögbundin og það skiptir miklu máli að stjórnsýslan sé með það á hreinu að það sem stjórnvöld vilja gera þarf að eiga sér einhvers konar stoð í lögum eða reglum.

Af öðrum þætti í skýrslunni langar mig að minnast hér á, eins og aðrir þingmenn við þessa umræðu, athugasemdir umboðsmanns sem lúta að samningum ráðherranna. Þetta er mjög umhugsunarvert. Þetta kom talsvert til umræðu í síðustu kosningabaráttu og hefur svo sem verið rætt í gegnum árin með hvaða hætti framkvæmdarvaldið er að beita valdi sínu og þá kannski sérstaklega í aðdraganda kosninga. Ég held að fyrir síðustu kosningar höfum við séð öfgakennd dæmi um loforð ráðherranna, rétt áður en kosningar voru og skuldbindingar framkvæmdarvaldsins fyrir hönd löggjafarvaldsins voru tugir milljarða kr. á einungis hálfu ári. Það er fyllilega gagnrýnisvert og ég tek undir það sem umboðsmaður Alþingis segir í þeim efnum. Auðvitað geri ég mér grein fyrir því að ráðherrar þurfa að hafa vald til að gera samninga, svigrúm til að gera þá, en við hljótum að geta treyst dómgreind ráðherranna að fara vel með þetta vald.

Hér segir umboðsmaður Alþingis, með leyfi forseta:

„En það er ekki aðeins að stjórnvöld geri samninga sem rata í frásagnir fjölmiðla heldur hef ég tekið eftir því í starfi mínu að þess gætir í meira mæli en áður að stjórnvöld, og stundum með beinni aðkomu Alþingis, leysi með samningum ýmis þau úrlausnarefni sem áður hafa verið viðfangsefni hefðbundinna ákvarðana stjórnvalda eða átt undir reglur sem þau hafa sett einhliða á grundvelli laga. Þessi þróun mála hefur orðið mér tilefni til að staldra við.“

Svo stendur neðar:

„En hvað sem ástæðum þessarar þróunar líður þá er ljóst að hún fer ekki alltaf saman við gildandi réttarreglur um meðferð mála í stjórnsýslunni. Stundum hvarflar það meira að segja að manni hvort stjórnvöld kjósi að fara samningsleiðina beinlínis til að komast hjá því að fylgja nákvæmlega þeim leiðum sem lög mæla fyrir um, bæði um efni máls og málsmeðferð.“

Aðeins síðar segir hann:

„En það eru ekki slíkir samningar sem kalla fram þær áhyggjur sem hér er lýst. Áhyggjuefnin eru annars vegar tilvik þar sem stjórnvöld gera slíka samninga án þess að séð verði að skýr lagaheimild af hálfu Alþingis liggi fyrir og hins vegar tilvik þegar stjórnvöld fara þessa leið þrátt fyrir að lög geri ráð fyrir að stjórnvöld ráði málum til lykta með hefðbundnum ákvörðunum eða samkvæmt reglum sem þau setja.

Með tilliti til stjórnarskrárbundins fjárstjórnarvalds Alþingis vakna því spurningar um þá leið ráðherra að gera samninga um fjárstuðning úr ríkissjóði til einkaaðila eða til einstakra stofnana hins opinbera umfram þær heimildir sem eru í gildandi fjárlögum, og þá stundum til nokkurra ára.“

Þessum orðum umboðsmanns Alþingis þurfum við að taka mark á, sérstaklega ráðherrar.

Umboðsmaður Alþingis gerir einnig að umtalsefni fræðslu til opinberra starfsmanna og sérstaklega forstöðumanna opinberra stofnana. Hann bendir á að hann hafi kallað eftir fræðslu í bréfi í fyrra, 14. nóv. 2006. Hann tekur síðan fram að hann hafi ekki orðið var við þessa fræðslu og kallar eftir henni. Hér hlýtur að vera ástæða fyrir stjórnvöld að bregðast við til að bæta úr hvað slíka fræðslu varðar.

Það hefur verið minnst á frumkvæðismál umboðsmanns Alþingis sem eru að sjálfsögðu gríðarlega mikilvæg. Því miður hefur svigrúm hans til frumkvæðismála og athugana ekki verið nægjanlegt undanfarin ár, það vantar einfaldlega peninga inn í þessi mál. Ég vona að við náum að rétta þann kúrs á þessu kjörtímabili, því frumkvæðismálin skipta miklu máli í því aðhaldi sem umboðsmanni Alþingis ber að veita.

Ég vil líka fara yfir það þar sem umboðsmaður Alþingis minnist á vanda eða meinbugi á lögum. Hann nefnir sérstaklega að hér á landi sé óvenju mikið um meinbugi á lögum ef við berum okkur saman við hin Norðurlöndin og það segir okkur auðvitað bara að við þurfum að vanda okkur miklu betur, við þurfum að hægja á lagasetningunni. Ég er alveg sannfærður um að við eigum ekki að setja eins mörg lög og við gerum hér ár eftir ár, sérstaklega þegar unnið er á þeim hraða sem hér hefur verið árum saman, rétt fyrir jól eða rétt fyrir sumar. Við þurfum að fara að breyta þessu vinnulagi. Ég held að það sé miklu skynsamlegra, eins og með frumvörp ráðherra sem flest verða að lögum, að það sé vandað betur til verka, það sé meira samráð á vinnslustiginu.

Oft þegar frumvörpin koma til þingnefnda þá eru kannski veigamiklir hagsmunaaðilar að sjá frumvörpin í fyrsta sinn og þá er þingnefndin að reyna að púsla saman hugsanlegum breytingum og mæta réttmætum athugasemdum undir tímapressu og það eru mismunandi sjónarmið frá mismunandi hagsmunaaðilum. Ég held að það sé miklu farsælla ef við vinnum þetta með þeim hætti að samráð sé virkt á vinnslustiginu. Þá náum við þeim sjónarmiðum a.m.k. þar fram og síðan er að sjálfsögðu hin pólitíska ákvörðun um hvora leiðina skuli fara, hvernig útfærslan eigi að vera o.s.frv. bara tekin á einhverjum tímapunkti. Þetta snertir þingið og þetta snertir ráðherrana og við ættum að geta lagað þetta hér ef við kærum okkur um.

Það er auðvitað umhugsunarvert að það sé óvenjuhátt hlutfall lélegra laga á Íslandi miðað við það sem þekkist á Norðurlöndunum. Ég minni einnig á að það er talsvert algengara að lög séu álitin vera brot á stjórnarskrá á Íslandi en þekkist á hinum Norðurlöndunum. Við höfum þó nokkur dæmi undanfarin 50 ár í íslenskri réttarsögu eða dómssögu. Mig minnir að það hafi í einu tilviki verið niðurstaða Hæstaréttar í Danmörku að lög þar í landi hafi farið í bága við stjórnarskrá. Það er því eitthvað að í lagasetningu hér á landi.

Að lokum vil ég minnast á heimsókn Öryrkjabandalagsins til umboðsmanns. Þeir eru að kalla eftir frekari réttargæslu. Þeir tóku sérstaklega fram að þeir vilja ekki sérstakan umboðsmann og ég vona að umboðsmaður Alþingis fái þá svigrúm til að sinna þessari réttindagæslu, a.m.k. til að byrja með, í formi frumkvæðisathugunar. En það þarf auðvitað að taka mark á því þegar svona veigamikil hagsmunasamtök kalla eftir hjálp og aðstoð, kalla eftir athugun á hver staðan er varðandi réttindagæslu fatlaðra. Við hljótum að geta brugðist við með einhverjum hætti og sömuleiðis farið yfir þá þætti þar sem þetta eftirlit á að fara fram í dag en fúnkerar kannski ekki.

Að lokum í ljósi þess að tíminn er að renna út vil ég undirstrika að ég held að allir þingmenn séu sammála um að embætti umboðsmanns Alþingis sé mikilvægt, það skipti miklu máli að það sé sjálfstætt og óháð, það hafi trúverðugleika, menn séu ekki að tala niður embættið og það hafi nægjanlegt svigrúm til að sinna sínu verki. Það eru ákveðin tímamót á næsta ári, 20 ára afmæli embættisins. Embættið þarf sömuleiðis nýtt húsnæði þannig að það eru fjölmörg verkefni sem við ættum að huga að. Síðan er áhugaverð umræða sem ég hef ekki tíma til að fara yfir núna, um hvort lögfræðileg umræða hér á landi sé orðin of hagsmunatengd, og síðan hvað varðar stöðu þeirrar opinberu þjónustu sem er sett í einhvers konar einkarekstur en ég get tekið undir það (Forseti hringir.) að á því sviði er vafi sem við þurfum að taka til umræðu hér í þingsalnum.



[11:56]
Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vil leyfa mér að taka undir þau orð sem hv. þm. Atli Gíslason viðhafði í umræðunni, umboðsmaður Alþingis gegnir afar mikilvægu hlutverki og er einn af hornsteinum íslensks lýðræðis. Það er einu sinni svo hvað varðar öll embætti að þar veldur hver á heldur og sem betur fer hefur mjög vel tekist til fram að þessu varðandi mannaval í embætti umboðsmanns. Hér liggur fyrir vönduð og ítarleg skýrsla um það sem umboðsmaður hefur verið að fást við á árinu 2006 sem álit allsherjarnefndar vísar til og við höfum verið að fjalla um.

Taka má undir ýmislegt í athugasemdum hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur vegna þeirra umræðna sem urðu eftir ræðu hv. framsögumanns allsherjarnefndar, hv. þm. Birgis Ármannssonar. Það er æskilegt að allsherjarnefnd skili í framtíðinni fyllra og ítarlegra áliti þannig að það geti orðið til að stytta umræður hér um skýrsluna. Hafa nokkrir nefndarmenn í allsherjarnefnd vakið athygli á því. Með ítarlegra áliti gæti nefndin væntanlega skipað sér einn talsmann sem færi yfir þau álitaefni sem fram kæmu og nefndin hefði þá gengið frá fyrir fram. Þetta væru sjálfsagt skilvirkari og betri vinnubrögð og til þess fallin að stytta umræður. Þá lægju fyrir í hnotskurn helstu atriði sem allsherjarnefndarmenn vilja koma á framfæri og telja nauðsynlegt að víkja að fyrir þá þingmenn sem ekki vilja fara í að lesa yfir alla skýrslu umboðsmanns. Ég tek þó fram að ég tel hverjum þingmanni hollt að gera það.

Vikið hefur verið að ýmsum þeim atriðum sem ég ætlaði að fjalla um og þar af leiðandi get ég stytt mál mitt þó að ég geti eftir sem áður nýtt allan ræðutímann. Ég staldra fyrst við umfjöllun umboðsmanns um frumkvæðismál, á bls. 17 og 18 í skýrslunni, þar sem getið er um hvaða mál umboðsmaður fjallaði um. Ég fæ ekki betur séð en að í mörgum tilvikum hafi verið nauðsyn á því að umboðsmaður beitti sér með þeim hætti vegna þess að stjórnsýslan og löggjafarvaldið hafði hreinlega ekki sinnt málum sem báðir þessir aðilar hefðu þurft að koma að fyrir fram en ekki eftir á. Fjögur þeirra atriða sem umboðsmaður taldi nauðsynlegt að þessir aðilar hefðu frumkvæði að tengjast aðstöðu útlendinga sem hingað koma til lengri dvalar þannig að þeir njóti almennra mannréttinda og geti nýtt rétt sinn. Í fyrsta lagi er það spurningin um framkvæmd reglna um gildi skólagöngu barna sem hingað hafa komið með erlendum foreldrum, í öðru lagi málsmeðferð Útlendingastofnunar vegna veitingar dvalarleyfa til EES-borgara, í þriðja lagi innheimtugjald fyrir afgreiðslu umsagna með EES-dvalarleyfi og í fjórða lagi framkvæmd Vinnumálastofnunar á löggildri skráningu einstaklinga sem hingað koma frá nýju EES-ríkjunum. Ég hef ítrekað vakið athygli á að íslensk stjórnvöld og íslensk stjórnsýsla hafi verið algerlega óundirbúin að taka á þessum málum svo að þess væri gætt að eðlilegir hlutir gerðust í þjóðfélaginu og girt yrði fyrir að mannréttindi væru brotin á því fólki sem hingað kemur til lengri dvalar og til vinnu og komið í veg fyrir að um víðtæk félagsleg undirboð væri að ræða.

Það er samt sem áður að gerast í þjóðfélaginu í dag, það bera fréttir í dagblöðum gjarnan með sér. Enn er verið að misbjóða erlendu verkafólki sem hingað kemur. Öllum varnaðarorðum — um að gætt sé að því að stjórnvöld hlutist til um að hafa eftirlit og umsjón með því að þessir hlutir gerist á þann veg að hægt sé að fylgjast með því að fólksstreymið sé með þeim hætti að ekki komi til félagslegra undirboða — hefur venjulegast verið snúið við. Snúið hefur verið út úr þeim og reynt að halda því fram að þar væri á ferðinni málflutningur sem væri til þess fallinn að valda þeim sem hingað koma erfiðleikum. Þvert á móti er nauðsynlegt að vekja athygli á þessu máli. Stjórnsýslan og löggjafarvaldið á að setja eðlilegar reglur, og þá umgjörð sem nauðsynleg er, um réttindi þess fólks sem hingað kemur. Allir sem koma til landsins til lengri dvalar njóta mannréttinda og okkur ber að gæta þess að þeim sé fylgt. Því verður að ætlast til þess að félagsmálaráðherra fylgi eftir því átaki sem hún byrjaði á fyrir nokkru — það hefur greinilega ekki skilað nægilega miklum árangri — í því skyni að koma í veg fyrir að mannréttindi séu brotin á þeim sem dvelja í landinu.

Ég staldra líka við, eins og hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson gerði að umtalsefni, umfjöllun umboðsmanns, á bls. 23–30 í skýrslunni, um samninga. Umboðsmaður gerði í umfjöllun í allsherjarnefnd ítarlega grein fyrir vandamálum sem færast í vöxt, þ.e. þegar framkvæmdarvaldið kemur að málum og útdeilir verkefnum með samningum til ákveðinna aðila. Oft og tíðum háttar þá þannig til að hin pólitíska umræða, stjórnmálaumræðan um þörfina á þjónustunni, hefur ekki farið fram. Ekki hefur verið rætt um það hverjir eigi að njóta þjónustunnar, þeir hlutir eru með einum eða öðrum hætti lagðir í hönd þess aðila sem samið er við. Það er í sjálfu sér ekki skilvirk stjórnsýsla. Það býður ekki upp á að jafnræðisreglu sé fylgt og gerir allt eftirlit með þeim aðilum sem um er að ræða, og m.a. eftirlit umboðsmanns Alþingis, mun erfiðara. Þessar athugasemdir umboðsmanns þarf að skoða sérstaklega. Alþingi þarf að athuga að ekki sé af hálfu framkvæmdarvaldsins verið að taka fram fyrir hendur löggjafarvaldsins, ganga frá og binda í samningum ákveðnar fjárheimildir og fjárveitingar án þess að um það hafi verið fjallað á réttum vettvangi.

Í þessu sambandi vísar umboðsmaður m.a. til þess, á bls. 24 í áliti sínu, að áhyggjuefnin séu m.a. vegna þess að í fyrsta lagi hafi samningar verið gerðir án þess að skýr lagaheimild Alþingis hafi legið fyrir. Hann vísar í öðru lagi til þess að stjórnvöld fari þessa leið þrátt fyrir að lög geri ráð fyrir að þau leiði mál til lykta með hefðbundnum ákvörðunum eða samkvæmt reglum sem þau setja. Í þriðja lagi vísar hann til þess hvenær samningar komist á og hvenær þeim sé slitið, hvaða réttindi borgararnir njóti í reynd, jafnvel þótt lög geri ráð fyrir að sú aðstoð eða þjónusta standi til boða. Þetta er atriði sem vikið er að og hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson gerði grein fyrir þessu þannig að ég ætla að taka undir þau sjónarmið sem hann rakti í ræðu sinni og gera þau að mínum. Ég vil vekja athygli á lokaorðum, á bls. 30, í skýrslu umboðsmanns hvað þetta varðar. Þar segir, með leyfi forseta, að „það kunni að rýra réttaröryggi sem hinum hefðbundnu stjórnsýslureglum er ætlað að veita borgurunum að fara þá leið sem hér er verið að fjalla um,“ að ganga frá samningum við aðila um framkvæmd þeirra atriða sem borgararnir eiga rétt á að sé sinnt vegna þeirra og spurning hvort verið sé að rýra réttaröryggi sem hinum hefðbundnu stjórnsýslureglum er ætlað að veita borgurunum.

Löggjafarvaldið hlýtur að staldra við og skoða hvað nauðsynlegt er að gera til að stemma stigu við því að framkvæmdarvaldið taki frumkvæðið og í raun valdið af löggjafarvaldinu með þessum hætti. Ég hygg að það sé verðugt verkefni fyrir okkur sem sitjum í allsherjarnefnd, sem og aðra þingmenn, að hyggja vel að þessu atriði. Ég leyfi mér því að gera þetta að umtalsefni á sama tíma og ég tek undir sjónarmið hv. þm. Ágústs Ólafs Ágústssonar. Nauðsynlegt er að þingmenn átti sig á alvarlegu inngripi framkvæmdarvaldsins sem stundum er gert fyrir fram án þess að heimildir löggjafarvaldsins og fjárveitingavaldsins liggi fyrir.

Ég vil einnig víkja að atriðum sem fram koma á bls. 36 í skýrslu umboðsmanns. Þar er fjallað um það að iðulega hafi þurft að gera athugasemdir við ákvæði laga, reglugerða og stjórnvaldsfyrirmæla. Hann rekur það síðan í skýrslunni í hve mörgum tilvikum á árunum 2002–2006 hafi þurft að gera athugasemdir við sett lög sem fram komu frá Alþingi auk stjórnvaldsfyrirmæla. Þegar það er borið saman við þau lönd sem við miðum okkur oftast við hvað þetta varðar, Danmörku og Noreg, kemur í ljós að vandamálið er að nokkru leyti séríslenskt fyrirbrigði. Svo virðist sem við vöndum ekki nægilega vel til lagasetningar. Þessi ummæli og ábendingar umboðsmanns eru áskorun til Alþingis um að vanda til verka hvað þetta varðar, sinna betur þeirri skyldu sem Alþingi er falin að lögum. Þessi atriði finnst mér skipta mestu máli fyrir okkur alþingismenn að skoða sem löggjafarvaldið í landinu, þ.e. þetta inngrip framkvæmdarvaldsins í það sem á að gerast hjá löggjafarvaldinu áður en framkvæmdarvaldið grípur inn í, þ.e. þá samninga sem framkvæmdarvaldið er að gera. Í öðru lagi talaði ég um það að of oft þarf að gera athugasemdir við sett lög sem Alþingi hefur afgreitt. Það er ekki vansalaust fyrir Alþingi að standa þannig að málum.

Virðulegi forseti. Full ástæða hefði verið til að fjalla um fleiri atriði. Ég tel í sjálfu sér óþarfa að rekja einstök mál. Út frá félagslegum áhuga hefði ég haft gaman af að fjalla um skylduaðild að Félagi fasteignasala en það verður að bíða betri tíma. Ég tel ástæðu til að færa umboðsmanni þakkir fyrir góða og ítarlega skýrslu og vel unnin störf. Þær ábendingar sem þar koma fram, og ég hef gert að umræðuefni, eigum við þingmenn að taka til okkar. Við eigum að ganga þannig frá málum að umboðsmaður þurfi ekki ítrekað að gera athugasemdir við þau störf sem okkur er ætlað að rækja.



[12:11]
Ellert B. Schram (Sf):

Herra forseti. Hér er á dagskrá skýrsla umboðsmanns Alþingis og sem nefndarmaður í allsherjarnefnd finnst mér það sjálfsögð kurteisi að sýna honum þá virðingu að taka hér til máls og þakka fyrir þessa ítarlegu og greinargóðu skýrslu.

Allt frá örófi alda hefur saga mannkynsins snúist um völd og valdabaráttu, völd yfir löndum, þjóðum og öðru fólki og meiri hluti mannkynssögunnar sýnir okkur og segir frá því að allur þorri almennings lengst af þjónaði og þrælaði fyrir konunga og keisara, aðalsmenn og landeigendur svo eitthvað sé nefnt. Lýðræði eins og við þekkjum það í dag er tiltölulega nýtt af nálinni og á sér ekki nema um 200 ára gamla sögu og er í rauninni enn þá að þroskast, langt frá því að vera fullmótað. Milljónir og milljónatugir manna og kvenna um allan heim eru enn undirokaðar, kúgaðar og vanvirtar þegar kemur að lögum og almennum réttindum. Þrælahald er meira að segja enn þá afar útbreitt og kannski aldrei meira en einmitt núna í veraldarsögunni, ekki aðeins vegna valdníðslu, ríkisstjórna, einræðisherra og valdamanna heldur ekki síður vegna vansældar, vanmenntunar, fátæktar, ótta svo að eitthvað sé nefnt. Jafnvel í okkar eigin Evrópu viðgengst enn þá þrælahald sem birtist okkur m.a. í mansali og vændissölu.

Lýðræðið gengur út á það að borgararnir eigi sinn rétt og ekki sé á þeim rétti troðið. Það gengur út á friðhelgi einkalífs, dómstóla, aðskilnað löggjafarvalds og framkvæmdarvalds, takmarkanir á stjórnvaldsaðgerðum, lög og reglur og síðast en ekki síst meðvitund fólks um rétt sinn og réttarstöðu. Út á allt þetta gengur lýðræðið.

Skýrsla umboðsmanns Alþingis, herra forseti, segir okkur að við eigum enn langt í land með að skilja og útfæra og fara eftir þessum meginreglum lýðræðisins. Á árinu 2006 hafði umboðsmaður til meðferðar 266 kvartanir. Þar til viðbótar tók hann upp að eigin frumkvæði önnur sjö mál. Þessi málafjöldi segir auðvitað sína sögu.

Okkur getur gengið misjafnlega í lífinu, efnahagslega, félagslega og svo framvegis. Við getum skipst á skoðunum í pólitískum ágreiningsmálum og verið hatrammir andstæðingar um stefnur, trú og siði. En ég geng út frá því að við öll viljum hafa grundvallarmannréttindi að leiðarljósi. Við viljum ekki að troðið sé á samborgurum okkar í krafti yfirgangs, valdníðslu eða misréttis. Við viljum sem sagt að allir séu jafnir fyrir lögum og það er auðvitað tilgangur þessa embættis og tilgangur þessa starfs sem sér stað í þessari skýrslu. Þess vegna er embætti umboðsmanns Alþingis afar mikilvægt. Það veitir aðhald. Það veitir aðstoð og leiðbeiningar, gefur út álit sitt og reynir þannig af fremsta megni að beita sér gegn misbeitingu valds. Stjórnvöld hafa mikil áhrif og stjórnkerfið, stjórnsýslan er umfangsmikil og flókin og það er ekki á hvers manns færi að skilja allt sem þar stendur og fyrir er lagt, jafnvel ekki einu sinni stjórnvöld sjálf eru fær um að túlka og framkvæma lög og reglugerðir til hlítar svo allir séu sáttir við. Það er út af fyrir sig mannlegt og eðlilegt en þess frekar er auðvitað umboðsmaður Alþingis nauðsynlegur og afar mikilvægur.

Ég vil sem sagt þakka fyrir þessa skýrslu sem hér er lögð fram. Meginniðurstaðan er sú að þetta embætti á fullan rétt á sér og það er aðhald og vernd sem borgararnir og við úti í þjóðfélaginu þurfum á að halda. Dómstólar eru eitt og hafa auðvitað mikla og sína skýringu og þýðingu í stjórnskipun landsins. Umboðsmaður Alþingis hefur ekki þetta dómsvald. En smám saman, að manni best getur sýnst, hafa aðfinnslur hans, ábendingar og niðurstöður fengið meiri vigt og meiri tiltrú og það skiptir máli fyrir almenning, fyrir hinn óbreytta borgara og fyrir framgang lýðræðislegra stjórnarhátta. Það skiptir líka máli fyrir stjórnvöldin sjálf að lesa þessa skýrslu og taka mark á skoðunum umboðsmanns. Þannig styrkir þetta embætti bæði lýðræðið og leikreglur þess.

Ég hafði út af fyrir sig ekki hugsað mér að fjalla um einstaka þætti í þessari skýrslu. En að gefnu tilefni vil ég aðeins leggja orð í belg að því er varðar þær umræður sem hér hafa farið fram um örfá atriði, það er fyrst að því er varðar fleiri umboðsmenn með vísan til þess að við höfum þegar stofnað embætti umboðsmanns barna og talað hefur verið um umboðsmann aldraðra og jafnvel fleiri minnihlutahópa ef svo má nefna. Umboðsmaður Alþingis hefur með frambærilegum rökum bent á að það sé ekki endilega víst að það sé skynsamlegt að setja á stofn embætti launaðs talsmanns slíkra hópa, enda væru og eru möguleikar á því að embætti hans sjálfs geti hugsanlega annað slíkum þörfum. Mér finnst það út af fyrir sig, eins og ég segi, frambærileg rök þó að ég hafi verið talsmaður þess að embætti umboðsmanns aldraðra yrði sett á laggirnar. Hér hefur verið talað um að öryrkjar hafi komið á fund allsherjarnefndar og mælst til þess að umboðsmaður Alþingis tæki þeirra mál upp á sína könnu. Hér var líka talað áðan um hagsmuni innflytjenda. Þarna er um að ræða kannski tvo „minnihlutahópa“. Ég vil jafnframt líka nefna í því sambandi aldrað fólk, eldri borgara. Þessir hópar eiga það sameiginlegt að hafa kannski ekki alveg full tök eða getu til þess að gæta hagsmuna sinna í samfélaginu vegna líkamlegrar eða andlegrar höftunar öryrkja, vegna aldurs hinna eldri og vegna tungumálavandamála hjá innflytjendum. Það er full þörf á því að hugsa til þessara hópa. Þess vegna er ég eftir atvikum þeirrar skoðunar að það sé góð stefna og hugmynd að styrkja stöðu umboðsmanns Alþingis á þann veg að hann geti þá sinnt hagsmunamálum þessara aðila betur en fram að þessu. Þá er ég ekki að tala um að hann gerist talsmaður þessara hópa heldur geti hann flutt þeirra mál ef þeir telja á sér brotið í stjórnsýslu.

Hér var líka minnst á og nokkuð fjallað um það í orðaskaki áðan einkavæðingu og opinber hlutafélög, einkavæðingu opinberra fyrirtækja eða stofnana, hvort það væri pólitískt skynsamlegt eða ekki eða viturlegt. Ég ætla ekki að fara inn í þá umræðu heldur aðeins að undirstrika það að hvora leiðina sem við veljum, hvort við viljum einkavæða eða ekki þá höfum við stigið þau skref að stofna til opinberra hlutafélaga og umboðsmaður Alþingis hefur bent á það í sinni skýrslu að þetta sé á gráu svæði, að ýmislegt þurfi að gera betur og skýra, gera gegnsærra og meðan sú staðreynd er fyrir hendi að opinber hlutafélög eru stofnuð og rekin og þetta er eitthvað óljóst lagalega eða stjórnsýslulega þá tek ég auðvitað undir þessar athugasemdir umboðsmanns Alþingis um að fara þurfi fram vinna í að skýra þessa stöðu á hvorn veginn sem það verður gert.

Ég hjó líka eftir því að gerðar voru athugasemdir um að álit hv. allsherjarnefndar væri í styttra lagi og það gagnrýnt. Að því leyti sem sú gagnrýni kemur fram þá tek ég undir þær útskýringar sem formaður nefndarinnar hefur flutt inn í þingsalinn og aðrar skýringar sem á þessu hafa verið gefnar. Ég hef satt að segja litið svo á að sú umræða sem hér fer fram og er kannski samkvæmt þingsköpum og við erum kannski undir tímapressu, sé ekki neinn endapunktur í þeirri umræðu sem hugsanlega og á að fara fram um þessa skýrslu. Okkur eru sett mörk samkvæmt þingsköpum til að ræða málið hér Það má raunverulega segja að það sé á byrjunarstigi. Það hefur meira að segja komið fram að sumir sem hér hafa tekið til máls hafa ekki talið sér fært að geta lesið þessa skýrslu svo vel sé. Að einhverju leyti er ég kannski í þeim hópi að hafa ekki alveg lesið hana upp til agna. En ég lít svo á að starfi allsherjarnefndar hvað varðar þessa skýrslu sé engan veginn lokið og mér finnst vel koma til greina að í framhaldinu gefum við okkur tækifæri til að fara betur yfir skýrsluna, tína til þau atriði þar sem ábendingar eru um það sem betur megi fara hjá löggjafarvaldinu og í stjórnsýslunni eftir atvikum þannig að við getum búið til lista yfir þau viðfangsefni og síðan rætt það í nefndinni hvort við getum orðið sammála um að koma slíkum hugmyndum, tillögum eða ábendingum frekar á framfæri gagnvart annaðhvort ríkisstjórn eða Alþingi eftir atvikum.

Herra forseti. Að öðru leyti ætla ég ekki að hafa þetta lengra og ekki orðlengja um þetta. Ég þakka fyrir þessa skýrslu. Ég held að hún sé afar gagnleg og hún styrkir lýðræðið og leikreglur þess tvímælalaust.



[12:23]
Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að færa umboðsmanni Alþingis þakkir fyrir vandaða og vel unna skýrslu að vanda. Það er sérstakt ánægjuefni hvernig umboðsmaður hefur haldið á starfi sínu undanfarin ár. Það er ekki sama hvernig þessu verki er sinnt og mikilvægt að farið sé af skynsemi með það agavald sem umboðsmaður óneitanlega hefur og að vandað sé til verka til að árangurinn af starfinu verði eins mikill og kostur er. Það er sérstakt ánægjuefni hvernig umboðsmaður hefur staðið að útgáfumálum með því að gefa út efnismiklar skýrslur þar sem drepið er á helstu mál sem hann telur þörf á að víkja að. Skýrslur umboðsmanns eru fyrir löngu síðan orðnar afar mikilvæg hjálpargögn allra lögfræðinga sem fást við stjórnsýslurétt með einum eða öðrum hætti.

Ég hef tekið eftir því að hér hafa margir nefndarmanna í allsherjarnefnd talað. Ég er ekki einn þeirra og tel satt að segja að það sé mjög slæmt ef sú hefð kemst á að umræður um álit umboðsmanns Alþingis verði einhvers konar innannefndarumræður í allsherjarnefnd fyrir opnum sal. Það er mjög skaðlegt. Og ég verð að segja að ég sakna viðveru ráðherra við umræðuna og tel slíka fjarveru ekki til fyrirmyndar.

Í umræðu um skýrslu hv. umboðsmanns eiga að geta spunnist hér efnismiklar umræður um stefnu í löggjafarmálum hins opinbera að mörgu leyti. Ég vil gera að umtalsefni aðallega tvö atriði sem að því lúta. En áður en ég byrja á því ítreka ég þakkir til umboðsmanns fyrir vel unnin störf og líka það hvernig hann og hans embætti hafa rækt þá skyldu sína að fræða samhliða því að sinna eftirlitshlutverki og hvað umboðsmaður sjálfur og starfslið hans hafa verið aðgengileg fyrir þá sem á leiðsögn og ráðgjöf hafa þurft að halda í gegnum tíðina.

Virðulegi forseti. Í áliti sínu víkur umboðsmaður nokkuð að hinni vandasömu sambúð laganna um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna og stjórnsýslulaga. Hann vekur athygli á því að hann hafi beint þeirri ábendingu til fjármálaráðuneytisins að efla ráðgjöf við stjórnendur ríkisstofnana um starfsmannamál. Hann vekur athygli á því að jafnt ákvarðanir um ráðningarmál, sem og ákvarðanir um starfslok, eitt af álitum í skýrslu hans fjallar um niðurlagningu starfa vegna hagræðingar og hann vekur athygli á að auka þurfi þekkingu að þessu leyti meðal forstöðumanna ríkisstofnana.

Þarna er ég algjörlega sammála. Ég held að við séum satt að segja komin að miklum krossgötum hvað varðar þessa, að því ég vil meina, nokkuð óheppilega og þvingaða sambúð stjórnsýslulaga annars vegar og laganna um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna hins vegar.

Það er alveg rétt sem umboðsmaður rekur í álitum sínum jafnt nú sem áður að stjórnsýslulögin gilda um starfsmannamál hins opinbera. Eftir því sem umboðsmaður síðan vinnur það mál betur og betur í samræmi við það sem honum er falið þá koma upp margs konar undarleg vafatilvik, svo ekki sé meira sagt. Sem dæmi er það afar umdeilanlegt hvernig fara eigi með ákvörðun um að auglýsa stöðu opinbers starfsmanns. Eins og þingheimur veit þá er gert ráð fyrir meginreglunni um tímabundna ráðningu starfsmanna. En þegar tekin er ákvörðun um að auglýsa starf sem einhver situr í þá þarf að gera það með sex mánaða fyrirvara.

Sú spurning vaknar því hvers eðlis sú ákvörðun sé, þ.e. ákvörðunin um að auglýsa. Fyrir því hafa verið færð gild rök sem ég er ekki alveg sannfærður um, að sú ákvörðun kunni að teljast stjórnsýsluákvörðun í skilningi stjórnsýslulaga og því vera háð skyldu um rökstuðning og vera háð andmælarétti þess sem situr í starfinu sem ákvörðunin beinist að að auglýsa. Þetta sýnir kannski betur en mörg önnur dæmi hversu þvingað umhverfi stjórnunar í opinberum rekstri verður þegar stjórnsýslulögin gilda alfarið um starfsmannamál hins opinbera.

Annað dæmi er að sjálfsögðu starfslokasamningar. Ég er alveg sammála því sem umboðsmaður rekur í áliti sínu að ákvarðanir um starfslokasamninga kalla auðvitað á umræðu um það hvers eðlis slíkir samningar eru og jafnframt hvernig jafnræðis er gætt varðandi slíka samninga, þ.e. hverjir eiga völ á þeim og hverjir ekki. En hitt er aftur annað mál að það er afar erfitt að sjá fyrir sér að hægt sé að viðhafa starfslokasamninga með einhverjum opinberum hætti í anda stjórnsýslulaganna.

Annað atriði sem hefur komið upp og umboðsmaður hefur mikið fjallað um varðandi ráðningarháttu er skráningarskylda á upplýsingum sem fram koma. Það er alveg ljóst að ekki bara þarf að fræða stjórnendur ríkisstofnana um þýðingu starfsmannalaga og stjórnsýslulaga að þessu leyti, heldur þarf einfaldlega að búa til einhvers konar gátlista um verklag við auglýsingar og mannaráðningar. Því það er t.d. þannig að í mörgum tilvikum nota opinberir aðilar ráðningarstofur á einkamarkaði til að aðstoða við ráðningu starfsfólks og til að taka fyrstu umferð af viðtölum og síðan færist ákvörðunarvaldið síðar inn í stjórnsýsluna.

Umboðsmaður hefur réttilega bent á að upplýsingar sem þarna komi fram verði að skrá í samræmi við 23. gr. stjórnsýslulaga ef á þeim eigi að byggja við ákvörðun um ráðninguna. Ég held að það sé gagnlegt að fá ráðningarskrifstofu til að sinna þessum verkefnum, þar er ákveðin þekking í starfsmannamálum en ég held að það sé alveg ljóst að þekking þeirra á lagaumhverfinu er engin og að því leyti séu menn í fleiri tilfellum en færri að bjóða hættunni heim með því að nota ráðningarstofur án þess að það sé algjörlega ljóst á hvaða forsendum vinna ráðningarstofunnar er og að hvaða leyti hinn endanlegi ákvörðunaraðili getur byggt á þeim upplýsingum sem fram hafa komið í viðtalsferli og upplýsingaöflunarferli ráðningarstofunnar.

Ég held að það sé full ástæða til þess að við stöldrum við og hugleiðum í hvaða umhverfi við erum með starfsmannamál hins opinbera. Ég held að sú staðreynd að við erum að velta upp spurningum og efasemdum um gildi starfslokasamninga sem eru gerðir á ógagnsæjan hátt sé eðlileg. Umboðsmaður vekur réttilega upp efasemdir um að unnt sé að leggja niður stöðu vegna hagræðingar nema fyrir því séu færð efnisleg rök. Hann kallar eftir því í einu af álitum sínum sem getið er í skýrslunni, að færð séu fyrir því efnisleg rök sem standist að virkilega hafi verið þörf á að leggja niður viðkomandi stöðu í hagræðingarskyni og hvaða forsendur séu þá lagðar þar til grundvallar.

Ef við horfum á það hversu þröngan stakk stjórnsýslulögin að öðru leyti búa ákvörðunum um starfslok og ráðningu þá tel ég að tjónið sem af því hlýst fyrir samfélagið að hafa hér tvískiptan vinnumarkað að þessu leyti sé fyrir löngu síðan orðið miklu meira en ávinningurinn. Það er brýnt að einfalda gildissvið stjórnsýslulaganna gagnvart starfsmannalögunum. Í starfsmannalögunum eru nú kappnógir fyrirvarar samt við því hvernig hægt er að taka ákvarðanir í starfsmannamálum hins opinbera, en þegar báðum lögunum er beitt saman, þá er þetta orðið gríðarlega þvingað ástand. Ég held að það sé engum til góðs.

Ég held að það sé eðlilegt að við reynum að byggja upp opinn, flæðandi vinnumarkað með svipaðar reglur jafnt á almennum markaði og hjá hinu opinbera. Síðan eru sérstök sjónarmið sem eiga auðvitað að gilda um embættismenn í þröngum skilningi, þá menn sem fara með stefnumörkun í daglegu starfi sínu. Um þá eiga að gilda sérstakar reglur til þess að verja þá fyrir pólitískri misnotkun valds. En við eigum í sem ríkustum mæli að reyna að skapa einn og sameiginlegan vinnumarkað í landinu og láta sömu reglur gilda um ráðningu og uppsögn meðal opinberra starfsmanna og annarra.

Ég held að álit umboðsmanns Alþingis og þær spurningar sem hann hefur vakið upp á undanförnum árum geri ekkert annað en að staðfesta mikilvægi þessa. Því það eru orðin svo mörg álitamálin sem er orðið erfitt að taka á og við erum í svo mörgum tilvikum farin að bjóða hættunni heim með því fyrirkomulagi sem við búum við núna.

Umboðsmaður nefnir einnig skilsmuninn á milli opinberra ákvarðana og ákvarðana sem teknar eru af hinu opinbera með samningum einkaréttarlegs eðlis. Ég fagna nú ádrepu hans í garð samningagleði ráðherra án fullnægjandi fjárheimilda Alþingis og mál að linni þeim ósköpum og við stemmum þá á að ósi og að ráðherrar fari að temja sér heilbrigðari vinnubrögð í þeim málum. Ég held að mikilvægt sé að komið verði á einhvers konar kyrrstöðuákvæði í aðdraganda kosninga þannig að einfaldlega verði bönnuð undirritun skuldbindandi samninga af hálfu ráðherra í einhvern mánaðafjölda fyrir kosningar og hún verði þannig stjórnskipulega óheimil.

Ég vek hins vegar athygli á því að umboðsmaður gerir að umtalsefni hvernig fari um málsmeðferðarréttindi borgaranna þegar í auknum mæli er farið að fela einkaaðilum framkvæmd verkefna. Þarna reynir auðvitað á mjög athyglisverð sjónarmið. Þarna held ég hins vegar að um sé að ræða að sumu leyti alþjóðlega þróun og hún skapast af mörgum efnahagslegum þáttum sem ég hef því miður ekki tíma til að víkja að hér. En hún skapast líka af þáttum er lúta að samkeppnisstöðu milli ríkisrekinna aðila og aðila á einkamarkaði. Það er samt alveg ljóst að vegna þess hversu ósveigjanlegt starfsmannakerfi hins opinbera er, þá er ákveðinn undirliggjandi þrýstingur í íslenska stjórnkerfinu til þess að fela fleiri og fleiri verkefni einkaréttarlegum aðilum. Annaðhvort einkaréttarlegum aðilum í eigu hins opinbera eða einkaréttarlegum aðilum alfarið.

Þannig að ég held ef menn vilji raunverulega verja hag almennings í viðskiptum við stjórnsýsluna og verja það grundvallarhlutverk ríkisins að halda utan um ákveðna grunnþætti samfélagsþjónustu, þá verðum við líka að losa rekstrarumhverfi hins opinbera undan þeirri áþján að það sé illmögulegt að reka þær stofnanir sem síðan eiga að veita slíka þjónustu.

Ég vil ítreka í lokin þakkir mínar til umboðsmanns. Það er mikilvægt að við temjum okkur að taka álit hans alvarlega og við temjum okkur að ræða um þau af virðingu. Það er mikilvægt að ráðherrar taki sig á og mæti í salinn næst þegar skýrsla umboðsmanns verður flutt og það er líka mikilvægt að ráðherrar temji sér hóf í samskiptum við umboðsmann. Umboðsmaður er mikilvæg stofnun í íslensku samfélagi og það er afar mikilvægt að þau ágreiningsmál sem ráðherrar og þingmenn kunna að eiga við umboðsmann séu rædd af virðingu og yfirvegun og þess vegna er líka full ástæða að fagna þeim opna hætti sem umboðsmaður hefur haft á skoðanaskiptum um lögfræðileg álitamál sem hann hefur til umfjöllunar.



[12:38]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Árni Páll Árnason kom mjög víða við í ræðu sinni og hún var mjög athyglisverð. Ef ég skildi rétt þá taldi hann að stjórnsýslulögin og starfsmannalögin fyrir opinbera starfsmenn rækjust illa saman og hann lagði til að einfalda stjórnsýslulögin hvað varðar opinbera starfsmenn. Ég vil spyrja hv. þingmann. Væri ekki líka til í dæminu að einfalda og gera starfsmannalögin minna hemjandi eða jafnvel leggja þau af?



[12:39]
Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem ég var að vekja athygli á í ræðu minni er þessi erfiða sambúð þessara tveggja lagabálka og það sem umboðsmaður hefur verið að vekja athygli á undanfarin ár og dómafordæmi Hæstaréttar hafa verið að þróa líka, þ.e. hversu ríkar málsmeðferðarreglur verði að gera t.d. við meðferð starfsmannamála þannig að það samrýmist stjórnsýslulögunum.

Eftir því sem slíkum dómafordæmum vindur fram þá held ég að þessi umgjörð sé orðin miklu, miklu meira takmarkandi heldur en löggjafinn stefndi að þegar starfsmannalögin voru samþykkt 1996 eða 1997. Ég tel þess vegna fulla ástæðu til að aðskilja þetta tvennt. Ég held að stjórnsýslulögin séu mjög mikilvæg og mjög skynsamlegur lagabálkur og leggi mjög eðlilegar skyldur á stjórnsýsluna í þeim tilvikum þegar stjórnsýslan á í beinu sambandi við borgarana um réttindi þeirra og skyldur.

Ég tel einfaldlega að starfssamband atvinnurekenda og starfsmanna jafnt í hinum opinbera rétti sem annars staðar sé annars eðlis og því eigi að undanskilja skyldur ríkisins eða vinnuveitanda starfsmannalögunum.

Síðan held ég að það sé sjálfstætt athugunarefni að horfa á hver á að vera réttargrundvöllur réttarverndar opinberra starfsmanna og hver mörk réttarverndar opinberra starfsmanna eigi að vera. En ég ítreka það sem ég sagði áðan. Í sem ríkustum mæli eigum við að hafa sama lífeyriskerfi fyrir alla landsmenn. Við eigum að hafa sömu réttarreglur á vinnumarkaði fyrir alla landsmenn.

Það er ekkert skynsamlegt að hafa þannig lífeyriskerfi að opinberir starfsmenn geti ekki hugsað sér að skipta um starf eftir fimmtugt. Það er algjörlega fráleitt. Við eigum að hafa opinn og einfaldan vinnumarkað og hafa sem líkastar reglur og hafa svo takmarkaða réttarvernd þar sem hennar er nauðsynlega þörf.



[12:41]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég á nú erfitt með að vera á öndverðri skoðun við hv. þingmann þar sem ég er honum hjartanlega sammála. Það er svona spurning hvort hv. þingmaður muni vinna að því í sínum flokki og annars staðar meðal þingmanna að þingmenn taki sér tak og breyti starfsmannalögunum. Og jafnvel afnemi þau ef þurfa þykir og eins að stjórnsýslulögin verði sniðin að því sem þeim var upphaflega ætlað að taka á, sem voru samskipti borgarans, hins almenna borgara við ríkisvaldið en ekki endilega starfsmanna ríkisins við yfirboðara sína.



[12:42]
Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get svarað því til að það er bjargföst skoðun mín að við eigum að horfa á þetta fyrirkomulag frá grunni. Við verðum að taka alvarlega þau teikn sem eru á lofti. Við verðum að búa opinberum stofnunum þannig rekstrarumgjörð að hún sé skynsamleg. Það er fullkomlega rökrétt að það sé tiltekin meiri réttarvernd fyrir tiltekna æðstu embættismenn ríkisins sem fara sérstaklega með opinbert vald og stefnumörkun til þess að þeir geti varist pólitískri misbeitingu valds.

Eitt af álitunum sem nefnt er í áliti umboðsmanns snýr að hagræðingaraðgerðum í Fasteignamati ríkisins. Hverjir eru almannahagsmunirnir af því að þannig reglur gildi um starfsmenn slíkra stofnana? Ég tel einfaldlega að sem flestar af þessum sjálfstæðu ríkisstofnunum eigi að losna undan þessari umgjörð.

Ég held líka að það væri mikilvægt ef hægt væri að vekja almenna umræðu í samfélaginu um þetta mál og mér finnst eðlilegt að við reynum að skapa ákveðna sátt um slíkt heildstætt fyrirkomulag á vinnumarkaði þannig að réttindi og skyldur falli saman. Síðan er líka mikilvægt að byggja upp að eins miklu leyti og hægt er eitt og sama réttarumhverfið fyrir alla í landinu, þannig að við höfum einn og sama vinnumarkaðinn til þess að tryggja eðlilegt flæði fólks og eðlilega möguleika fólks og koma í veg fyrir að við sköpum stéttskipta forréttindastöðu.



[12:44]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Það væri í sjálfu sér áhrifaríkt að spinna áfram þann þráð byrjað var að spinna hjá þeim tveimur þingmönnum sem töluðu á undan mér en ég læt það spunaverk bíða betri tíma.

Hér erum við að ræða skýrslu umboðsmanns Alþingis fyrir árið 2006. Ég kom að því í andsvari mínu við ræðu hv. framsögumanns allsherjarnefndar, Birgis Ármannssonar, að ég teldi hin nýju vinnubrögð ekki með þeim hætti sem ég teldi að þau ættu að vera því álit allsherjarnefndar sem birt er á þskj. 233 væri fremur rýrt í roðinu.

Nú ætla ég að fara örlítið nánar í þessi sjónarmið mín, hæstv. forseti. Hér hafa þingmenn lokið upp einum rómi um ágæti embættisins sem Tryggvi Gunnarsson gegnir, embætti umboðsmanns Alþingis og hafa mært hann fyrir það hversu vel hann standi að málum og hversu góðum skýrslum hann skilar. Þessi skýrsla fyrir árið 2006 er engin undantekning.

Ég er sannfærð um það, virðulegi forseti, að starf umboðsmanns Alþingis hefur skilað mjög miklum árangri í stjórnsýslunni. Ég hef þá trú að þeir sem starfa í stjórnsýslunni lesi þessa skýrslu. Ég tel þó að árangur af starfi umboðsmanns Alþingis mætti vera betri þegar horft er til starfs löggjafarsamkundunnar, þ.e. þeirrar ábyrgðar sem við berum á herðum okkar. Ég er talsmaður vandaðra vinnubragða og tel að svo sé um fleiri þingmenn, m.a. þá sem talað hafa í þessari umræðu núna. Menn eru einhuga um að við eigum að stunda vönduð vinnubrögð. Ég er líka á því að það sé af hinu góða að breyta vinnubrögðum, endurnýja það hvernig við nálgumst hlutina. Ég tel að það skili oft betri árangri eða nýjum sjónarhornum. Ég ætla enn að vona að sú breyting sem gerð var á þingskapalögunum í fyrra verði til þess að við náum að fóta okkur í því mikla verkefni sem Alþingi fær á hverju ári upp í hendurnar með skýrslu umboðsmanns Alþingis.

Hv. þm. Ellert B. Schram hvatti í ræðu sinni áðan til þess að þessi umræða yrði ekki endapunktur á umræðu um skýrslu umboðsmanns Alþingis frá árinu 2006. Ég tek undir þá hvatningu. Ég tel að þessi skýrsla eigi áfram að vera, ekki bara á borðum allsherjarnefndar heldur á borðum þeirra sem starfa í stjórnsýslunni, á borðum ráðherra, á borðum allra sem hlut eiga að máli í þessu og tek því undir þau vonbrigði sem menn hafa lýst með að ráðherrar skuli ekki sitja á ráðherrabekkjunum og hlusta á þessa umræðu. Það eitt gefur mér til kynna að hér sé ekki um ný vinnubrögð að ræða. Venjulega þegar við ræðum skýrslu umboðsmanns Alþingis taka sex til átta þingmenn til máls. Nákvæmlega sama er upp á teningnum núna. Núna hafa sex þingmenn talað. Ég held að það séu einn eða tveir á mælendaskrá á eftir mér. Eini munurinn er sá að hv. formaður allsherjarnefndar fylgdi skýrslunni úr hlaði en hingað til hefur það verið forseti Alþingis.

Það sátu engir ráðherrar á bekkjunum í fyrra heldur og ekki í hittiðfyrra að ég held og ekki árið þar áður. Þeir sitja hér ekki heldur núna og ég spyr: Hver eru þá nýju vinnubrögðin? Hvað er það sem við ætlum að innleiða hér? Er að form eða innihald? Í mínum huga skiptir mestu máli að nýbreytni hafi eitthvert innihald og við sameinumst um aðgerðir. Þessu hef ég kallað eftir í hvert einasta sinn sem ég hef tekið til máls um skýrslu umboðsmanns Alþingis, að aðgerðir fylgi orðum þegar við ræðum þau álitaefni sem umboðsmaður hreyfir í skýrslum sínum.

Ég er sammála hv. þm. Siv Friðleifsdóttur um að tilefni sé til að dýpka umræðuna. En ég tel ekki að þessi umræða sýni svo óyggjandi sé að það verði áframhald eða dýpkun á umræðunni. Ég er líka sammála hv. þm. Siv Friðleifsdóttur um að það þurfi að móta betur hvernig tekið verði á málum í framtíðinni. Ég teldi að hv. allsherjarnefnd hefði átt að hafa í höndunum nú þegar stefnumótun sem hefði verið kynnt í þessari umræðu. Ég nenni ekki að bíða þangað til á næsta ári eftir mótun nýrrar stefnu í þessum efnum. Við verðum að gæta okkar á því að hér verði ekki eitthvert innihaldslaust hjal eina ferðina enn um alvarleg álitaefni sem umboðsmaður hreyfir í skýrslum sínum.

Ég tók það fram í andsvari mínu áðan að ég hefði ekki lesið skýrsluna og ég tel það mjög miður. Ég tel mig þess vegna vanbúna til að ræða um innihald hennar að öðru leyti en því að ég hef rennt augunum yfir V. kafla og VI. kafla í inngangi skýrslunnar. Þar er fjallað um áhugaverða þætti, annars vegar um samninga í stað ákvarðana og reglna, sem er yfirskrift V. kafla og hins vegar er rætt um í VI. kafla að hverju athugasemdir og álit umboðsmanns Alþingis hafi beinst á árunum 2000 og 2006. Hvort tveggja eru afar athyglisverðir kaflar og hvor um sig útheimtir mikla vinnu af okkar hálfu og umræður. Í þessum töluðu orðum langar mig að biðja um, og ég mun gera það formlega á eftir, umræðu utan dagskrár um V. kafla í skýrslunni sem fjallar um samninga sem stjórnvöld gera í auknum mæli eins og þau séu frjálsir viðskiptaaðilar á markaði, sem þau eru ekki. Hér er gríðarlega alvarlegt mál á ferðinni og koma upp í hugann kosningavíxlar og loforð rétt fyrir kosningar í vor. Ég tel tilefni til að við þingmenn höldum áfram að ræða það sem umboðsmaður ber á borð fyrir okkur og spinna þann þráð sem hann leggur upp í hendurnar á okkur.

Ég bendi á, hæstv. forseti, eftir að hafa rifjað upp umræðuna frá í fyrra, að við þurfum að gæta okkar á því að umræðan hafi innihald. Hugur verður að fylgja máli og aðgerðir þeim orðum sem við höfum á hverju ári látið falla í þessum umræðum. Ég velti fyrir mér nokkrum þáttum skýrslunnar frá í fyrra og umræðunnar í fyrra. Mig langaði að velta því upp hvort við hefðum eitthvað gert með þau mál sem við hétum sjálfum okkur að sinna í fyrra eða hvort það hefði kannski bara legið í láginni síðan. Ég ætla að nefna af handahófi nokkur atriði.

Í skýrslunni sem flutt var 2006 og fjallaði um árið 2005 segir að stærsti einstaki málaflokkurinn sem umboðsmaður hafi fengist við hafi verið tafir á afgreiðslu mála hjá stjórnvöldum. Ég veit að þetta hljómar kunnuglega í eyrum þeirra sem fjölluðu um þá skýrslu sem nú hefur verið til umfjöllunar. Þetta hljómaði kunnuglega í eyrum okkar í fyrra. Við höfum fjallað um þetta umtalsefni á fyrri þingum. Umboðsmaður hafði bent okkur á þetta áður. Aftur og aftur hafði hann komið inn á þessi atriði. Ég verð að segja fyrir mig að við höfum haft tækifæri til að taka upp umræðuna og efna til aðgerða í þeim efnum en höfum ekki látið kné fylgja kviði. Það hefur því ekki tekist að fækka þessum málum sem hafa verið svona fyrirferðarmikil hjá umboðsmanni. Við höfum kannski látið hana okkur í of léttu rúmi liggja.

Í skýrslu sinni fyrir árið 2005 gerði umboðsmaður stjórnsýslumat vegna lagafrumvarpa að sérstöku umtalsefni, sem mér fannst afar athyglisvert. Hann varpaði þá fram þeirri hugmynd að við framlagningu lagafrumvarpa á Alþingi gæti fylgt þeim auk hefðbundins kostnaðarmats, sem við þekkjum öll, sérstakt stjórnsýslumat. Þá kæmi fram greining á áhrifum frumvarpsins á verkefni stjórnsýslunnar og hvaða breytingar þyrfti að gera á stjórnsýslunni, á verklagi, fjölda starfsmanna eða öðru af því tagi. Einnig var talað um að slíkt mat gæti falið í sér greiningu á samspili verkefna og ákvarðana, sem viðkomandi frumvarp fæli í sér, við almennar reglur í stjórnsýslu og upplýsingalögum.

Umboðsmaður benti okkur, í þeirri skýrslu sem ég vitna til, á að með þessum hætti ætti stjórnsýslan auðveldara með að átta sig á því fyrir fram hvernig bregðast ætti við nýjum verkefnum. Það væri afar þarft og Alþingi ætti auðveldara með að átta sig á því hvort frumvarpið einfaldaði stjórnsýsluna eða hvort tilefni væri til að auka umfang hennar. Síðast en ekki síst yrði kostnaðarmatið sem fylgdi frumvörpunum mun nákvæmara, ef það byggði á slíku stjórnsýslumati, enda gerði umboðsmaður ráð fyrir því að stjórnsýslumatið yrði lagt fram áður en kostnaðarmatið yrði gert.

Nú tel ég fyllilega tímabært í þessari umræðu, virðulegi forseti, að spyrja hvað gert hafi verið í þessum efnum, hvað forseti Alþingis og hvað ríkisstjórnin hafi gert í þessum efnum með bara þetta eina tiltekna atriði í ábendingum frá síðasta ári. Ég held raunar að ég geti svarað spurningunni sjálf. Ég hef starfað á Alþingi síðan. Ég vil benda þingmönnum á að við höfum til umfjöllunar í þinginu afar viðamikið frumvarp, stóran og mikinn bandorm frá ríkisstjórninni um breytingar á ýmsum lögum og tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðs Íslands, mjög viðamikið mál. Hvar er stjórnsýslumatið í því máli? Auðvitað er það hvergi. Auðvitað er ekkert stjórnsýslumat hér og ekki einu sinni kostnaðarmat. Það er ekki gert ráð fyrir því að þessar breytingar eigi að kosta neitt. Þetta dæmi er til marks um að ríkisstjórn og forseti Alþingis hlustuðu ekki á umræðuna um skýrslu umboðsmanns á síðasta ári. Ef þau hlustuðu, ætluðu þau sér ekki að gera neitt með niðurstöðurnar, eða hvað? Ég bið um að mér verði svarað hafi ég hef rangt fyrir mér. Ég spyr: Hvar eru efndir þeirra orða sem viðhöfð voru í umræðunni á síðasta þingi? Ætlum við að láta taka okkur í bólinu aftur að ári þegar farið verður yfir skýrsluna sem við ræðum núna og hið nákvæmlega sama kemur í ljós. Þetta verðum við að laga. Það stendur upp á okkur öll að gera það, okkur í nefndunum, í einstökum þingflokkum, það stendur upp á ríkisstjórnina, en síðast en ekki síst stendur það upp á forseta Alþingis og forsætisnefnd.

Virðulegur forseti. Hér hafa verið nefndar frumkvæðisathuganir umboðsmanns. Þær eru mjög athyglisverðar. Ég er sleðinn í hópnum og ekki búin að lesa skýrslu ársins í ár. En ég las skýrsluna frá því í fyrra afar vel og frumkvæðisathuganir sem voru gerðar þá. Þær fjölluðu annars vegar um afgreiðslutíma 48 sjálfstæðra stjórnsýslu- og úrskurðarnefnda. Við höfðum orð á því að þær væru allt of margar í kerfinu að gera þyrfti eitthvað í því að breyta þessu, þetta væri svo óskilvirkt. Hin athugunin sem umboðsmaður gerði að eigin frumkvæði og gaf okkur skýrslu um í fyrra varðaði skráningu afgreiðslumála hjá 32 stjórnvöldum, samanburður fyrir árið 2002 og 2006.

Nú verð ég að segja, virðulegi forseti, að ég tel að þessar athuganir hefðu átt að vera á okkar borðum stanslaust frá því að við ræddum skýrsluna fyrir ári. En svo hefur ekki verið. Í fyrri athuguninni kemur fram að stjórnvöld skrá mál með skipulegum hætti og af könnunum á afgreiðslu erinda má ráða að stjórnsýslan sé fremur skilvirk og afgreiði megnið af þeim erindum sem henni berast á nokkuð skömmum tíma. Þó getur verið nokkur misbrestur á því að þau svari erindum innan eðlilegra tímamarka og einhver dæmi finnast um að mál hafi hreinlega dagað uppi. Í athuguninni sem um ræðir kom fram að tvö ráðuneyti hefðu sett sér skráðar reglur um málshraða á þarsíðasta ári, sem ekki hefðu verið til staðar áður, sex ráðuneyti höfðu einhvers konar viðmið eða höfðu einhvers konar málsbætur í þessum efnum en fjögur ráðuneyti höfðu hvorki sett sér reglur né viðmið árið 2006. Nú spyr ég: Hver er staðan nú? Hafa þessi fjögur ráðuneyti, sem voru rassskellt í athugun umboðsmanns í fyrra gert einhverja bragarbót? Var farið ofan í það hjá allsherjarnefnd eða getur forseti svarað fyrir um það? Hefur hann fylgst með ráðherrunum? Ekki eru ráðherrarnir hér til að svara fyrir sig. Mögulega kemur þetta fram í skýrslunni sem ég hef ekki lesið. Ég skal ekki taka fyrir það.

Í seinni athuguninni sem umboðsmaður gerði í fyrra að eigin frumkvæði segir að fjöldi erinda sem sjálfstæðar stjórnsýslu- og úrskurðarnefndir beri sé vaxandi og þar kemur fram að helmingur nefndanna hafi afgreiðslutíma sem mælt er fyrir um í lögum, þ.e. lagaskyldu um hversu lengi þau megi vera með málin til afgreiðslu og að þessar nefndir nái einungis að afgreiða tæpan helming þeirra mála sem bárust á tímabilinu sem skoðað var innan hins lögbundna frests. Helmingur nefndanna náði að vinna innan hins lögbundna frests og í athuguninni komu fram vísbendingar um að málsmeðferðartími stjórnsýslu- og úrskurðarnefnda væri almennt að lengjast. Umboðsmaður benti okkur þá á að það væri hans mat að ástæða væri til að tilkynna málsaðilum tafir á vinnslu í um það bil 800 málum á því tímabili sem könnunin tók til en það hafði einungis verið gert í 75 tilfella. Í minna en 10% tilvika hafði verið tilkynnt til þess sem kvörtunina bar fram að um tafir væri að ræða og hverjar ástæður þess væru. Nú spyr ég: Hvað hafa ráðherrar og við þingmenn gert til að bæta þetta ástand frá því að okkur var kynnt það á síðasta ári?

Hér hef ég lagt fram margar spurningar sem spanna tímabilið sem liðið er frá því að við ræddum síðast skýrslu umboðsmanns Alþingis. Ég vona að ég fái svör frá ríkisstjórn og ráðherrum í síðari umræðunni.