135. löggjafarþing — 25. fundur,  15. nóv. 2007.

skýrsla umboðsmanns Alþingis 2006.

215. mál
[10:57]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka skýringuna þó að mér finnist hún alls ekki góð. Mér þykir það mjög ámælisvert þegar nýjum vinnubrögðum er brotin leið hér í þinginu að þá skulum við ekki sjá snefil af því að sú hugmynd sem að baki liggur skili sér.

Það er algjörlega mótað í mínum huga, ég skildi það á hæstv. forseta áðan, og ég veit að það er í þingsköpunum, og ég veit að við tókum umræðu um það þegar við breyttum þingskapalögunum, að þetta er eitt af þeim mikilvægu málum sem þingmenn treysta nefndinni sinni, allsherjarnefndinni, fyrir. Þeir treysta henni til að greina og setja niður á blað fyrir okkur hin þær aðgerðir sem þarf að fara í vegna þeirra ábendinga sem koma í skýrslu umboðsmanns. Umboðsmaður er að tala við löggjafarsamkunduna í álitum sínum meira eða minna.

Og það kemur fram í ræðu hv. þingmanns, formanns allsherjarnefndar, að í mörgum tilfellum er við okkur að sakast, löggjafann, vegna þess að lög eru ekki nægilega vel úr garði gerð. Í skýrslunni kemur fram að þegar hann ber sig saman við störf annarra umboðsmanna á Norðurlöndunum lendir hann miklu oftar í því að fást við gallaða löggjöf.

Þetta er eitthvað sem við í stjórnarandstöðunni, og ég sem stjórnarandstöðuþingmaður, hef gagnrýnt í átta ár. Við erum hér á handahlaupum að búa til lög sem eru handónýt og svo er umboðsmaður Alþingis stöðugt með vöndinn á okkur. Einu sinni á ári kemur hann og segir okkur til syndanna og við hlustum en gerum ekki neitt. Ég hélt að hin nýju vinnubrögð ættu að sýna það í áliti allsherjarnefndar að nú yrði blásið til einhverra aðgerða og hlustað yrði á umboðsmann Alþingis á nýjan hátt, á nýjum nótum. Ég hélt að við tækjum betur til okkar það sem umboðsmaður hefur við okkur að segja.

Ég veit að hv. þm. Birgir Ármannsson hefur góðar meiningar í þessum efnum en ég átel að (Forseti hringir.) það skuli ekki koma fram í áliti allsherjarnefndar til hvaða aðgerða nefndin ætlar að taka (Forseti hringir.) varðandi ámæli umboðsmanns.