135. löggjafarþing — 25. fundur,  15. nóv. 2007.

skýrsla umboðsmanns Alþingis 2006.

215. mál
[11:25]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil í fyrstu aðeins gera að umfjöllunarefni álit allsherjarnefndar. Ég vek athygli á, eins og hæstv. forseti gat um áðan, að við erum að ræða skýrslu umboðsmanns Alþingis á allt öðrum nótum en við höfum áður gert á hinu háa Alþingi. Við breyttum þingsköpum og ætlum að tryggja betur tengsl embættis umboðsmanns og þingsins sjálfs og meiningin er að þessi skýrsla fái miklu meiri umfjöllun í þinginu en áður hefur verið. Áður stóð virðulegur forseti í þessum stól og flutti skýrslu um störf umboðsmanns Alþingis og síðan var umræða um hana. Ég held að það sé mjög góð nýbreytni sem við erum að taka upp hér, þ.e. að taka málið betur fyrir í þinginu sjálfu, í nefndum þingsins, og fara dýpra í skýrsluna.

Við hittum umboðsmann á tveimur fundum, fórum fyrst í heimsókn til hans og hann kom síðan á fund til okkar og svaraði spurningum. Ég tel, eins og kemur fram í álitinu, að móta þurfi frekar starfsferlið eða hvernig við tökum á verkefninu á næstu árum. Það hefur þegar komið fram í andsvörum að það gætir einhverrar óánægju. Ég heyrði á hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur að hún var ekki ánægð með nefndarálitið en ég vek athygli á að hv. þm. Atli Gíslason í Vinstri grænum er án fyrirvara á áliti nefndarinnar þannig að það var full samstaða um það álit.

Það er alveg rétt að ekki er farið ofan í efnisatriði skýrslunnar í álitinu. Það má vel vera að við gerum það síðar. Álitið er almenns eðlis þar sem verið er að draga fram tilgang starfa umboðsmanns og hve mikilvæg þau eru. Umboðsmaður hefur eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og hann á að standa vörð um réttindi borgaranna gagnvart stjórnvöldum og stuðla að því að þeir sem fara með opinbert vald gæti lagareglna og góðrar stjórnsýsluhátta í störfum sínum. Þetta er ekki lítið starf, virðulegi forseti, umboðsmaður Alþingis á að gæta réttinda borgaranna. Og af þessari skýrslu má sjá að margt má betur fara í því sambandi.

Í skýrslunni er mjög mikið og spennandi efni. Hún er afar ítarleg að mínu mati og vönduð. Þetta er mikill doðrantur og afar mikið lestrarefni, letrið er smátt til að skýrslan taki ekki enn fleiri blaðsíður. Ég verð að viðurkenna að þetta er mjög seinlesið efni. Ég las langt inn í nóttina í gær, til klukkan tvö, það er ekki til fyrirmyndar að gera slíkt en þetta er mjög seinlesið en mjög spennandi líka.

Ég tel að við þurfum að fara betur í skýrsluna. Á næstu árum þurfum við að taka meiri tíma í að fara dýpra í málin. Það kom fram hjá hv. þm. Birgi Ármannssyni, formanni allsherjarnefndar, og það er alveg rétt. Við ræddum það í nefndinni hvernig við ættum að taka á málum í framhaldinu og það var samstaða um að við þyrftum að fara betur ofan í skýrsluna og móta verkferlið meira í þinginu sjálfu. Það stendur því ekki á meiri hlutanum í því sambandi, virðulegi forseti, eins ég skynja hann í allsherjarnefnd.

Hér hefur verið rætt um löggjöfina og það hefur komið fram að við setjum oft og tíðum lög sem eru að einhverju leyti gölluð. Þetta hefur nú verið rætt meðal þingmanna og tengist svolítið því starfi sem á sér stað núna milli þingflokksformanna og forseta Alþingis, um vinnubrögðin í þinginu. Alþingi Íslendinga setur afar mörg lög og maður veltir því fyrir sér hvort þörf sé á að setja svona mörg lög. Af hverju setur þingið svona mörg lög? Er það vegna þess að ráðherrarnir vilja það? Þeir leggja fram lagafrumvörpin, ekki alveg öll en mjög mörg. Hæstv. ráðherrar hafa tilhneigingu til að koma með mörg lagafrumvörp og telja að það sé mælikvarði á hvort þeir standi sig vel eða illa í starfi. Ég hef vissar efasemdir um að þetta sé rétt hugsun. Ég held að nær væri að setja aðeins færri lög en vanda betur til verka, virðulegi forseti, og þá kæmu væntanlega færri gallar fram.

Ég ætla að drepa á nokkrum atriðum í skýrslunni. Það er alveg ljóst að málin sem koma til kasta umboðsmanns Alþingis eru fjölmörg. Á síðasta ári, sem skýrslan fjallar um, voru skráð 273 ný mál og umboðsmaður tók sjálfur sjö mál formlega til athugunar að eigin frumkvæði, þ.e. svokölluð frumkvæðismál. Þetta eru mörg mál, það slagar hátt upp í að það komi eitt nýtt mál á dag, alla daga ársins, líka laugardaga og sunnudaga ef maður metur það þannig.

Á árinu 2006 hlutu 282 mál lokaafgreiðslu og 69 mál voru óafgreidd í árslok. Í skýrslunni rekur umboðsmaður af hverju þau eru óafgreidd og ég sé ekki neitt óeðlilegt í því sambandi. Það eru ákveðnir frestir í gangi, það á eftir að svara o.s.frv. og það er ósköp eðlilegt að þau klárist ekki öll.

Í skýrslunni kemur fram að umboðsmaður stefnir að því að endanlegri afgreiðslu kvartana sé í síðasta lagi lokið innan sex mánaða frá því að þær bárust. Hann hefur einsett sér að setja þau tímamörk. Þetta eru mjög flókin mál þannig að ég tel þessi tímamörk ekki óeðlileg. Þetta eru yfirleitt geysilega flókin og tímafrek mál. Oft eru þetta álitaefni sem ekki hefur verið tekin skýr afstaða til í löggjöf og ekki nýtur við dómafordæma og þar af leiðandi taka málin stundum lengri tíma. En það er mikið atriði fyrir réttaröryggi borgaranna að hægt sé að ljúka athugunum á kvörtunum eins fljótt og unnt er innan hæfilegs tíma. Til þess að það verði unnt, virðulegi forseti, þarf embættið að hafa þyngd og hafa öfluga starfsemi, búa þarf vel að embættinu og ráða hæfilega margt hæft starfsfólk. Að mínu mati þarf umboðsmaður Alþingis að hafa mjög öfluga lögfræðinga að störfum og þar eru afar öflugir aðilar miðað við öll afköstin sem við sjáum í skýrslunni. En ég vil taka fram, virðulegi forseti, að einungis tíu starfsmenn vinna hjá umboðsmanni Alþingis, þ.e. umboðsmaður sjálfur og níu aðrir starfsmenn. Og ég spyr: Er þetta nægilegur mannskapur miðað við hvers eðlis þessi stofnun er? Ég efast um að svo sé.

Ég vil líka gera að umtalsefni að í heimsókn okkar til umboðsmanns Alþingis velti ég því fyrir mér hvort ekki væri rétt að huga að því að færa starfsemina í annað húsnæði. Ég tel að embætti umboðsmanns Alþingis sé starfsemi sem eigi að búa yfir mikilli reisn og virðingu og vera traust og góð. Auðvitað er starfsemin afar traust og mikið traust er borið til umboðsmanns Alþingis og starfseminnar sem þar fer fram, en ég tel að að huga þurfi að húsnæðismálum til framtíðar fyrir þessa stofnun. Ég vil benda á að stofnunin verður 20 ára á næsta ári þannig að það er kannski tilefni til að fara aðeins dýpra og betur í þau mál en ella vegna þess.

Varðandi málin sem hafa verið skráð vil ég nefna að málum á sviði almannatrygginga fjölgaði um helming, þau voru 9% skráðra mála árið 2006. Málum vegna skatta og gjalda fækkaði en flokkurinn tafir hjá stjórnvöldum á afgreiðslu mála var fyrirferðarmikill eða nær 17% skráðra mála. Því er greinilegt að mjög margir eru óánægðir með tafir í stjórnsýslunni, að þeir fái ekki úrlausn sinna mála. Ég held að fólk leiti ekki til umboðsmanns til að kvarta nema virkileg þörf sé á því, þá er fólk orðið mjög leitt.

Varðandi mál sem umboðsmaður hafði frumkvæði að á fyrri tíð vil ég nefna að umboðsmaður hefur kannað sérstaklega skráningu mála, málshraða, eftirlit með afgreiðslu mála, setningu fresta, tilkynningar um tafir og annað slíkt árin 2002 og 2006 og borið þetta saman hjá 32 stjórnvöldum. Hann fer því mjög skipulega ofan í það hvernig stjórnvöld vinna og ber það saman milli ára. Hann kannaði líka afgreiðslutíma 48 sjálfstæðra stjórnsýsluúrskurðarnefnda. — Ég sé, virðulegi forseti, að tíminn gengur mjög hratt og ég er bara rétt að byrja á umfjölluninni.

Þær reglur sem umboðsmaður getur sérstaklega um í skýrslu sinni eru jafnræðisreglan og meðalhófsreglan. Hann færir rök fyrir því af hverju hann nefnir sérstaklega þessar tvær reglur og nefnir tvö álit sem varða jafnræðisregluna. Komið hefur verið inn á þau bæði hér. Það eru styrkveitingar ráðherra af ráðstöfunarfé, ráðherraliðnum, og svo ráðstöfun námuréttinda í eigu sveitarfélaga með leigusamningi. Þar er verið að vitna í mál á Akureyri þar sem bæjarfélagið fór ekki alveg eðlilegar leiðir í því sambandi, þ.e. ekki var auglýst þannig að aðrir gætu komið að því máli heldur úthlutað gæðum, ef svo má segja. Ég heyri að hv. þm. Atli Gíslason tengir þetta við svokallað REI-mál, en það er alveg ljóst, og umboðsmaður telur það líka, að gæta þarf mjög vel að öllum reglum varðandi úthlutun réttinda. Þar verður að vera einhvers konar opið ferli þar sem þeir sem hafa áhuga á geta komist að en ekki þannig að valið sé úr bak við tjöldin, ef svo má orða. Það er mjög athyglisvert að lesa þetta í skýrslunni.

Varðandi meðalhófsregluna þá er þess getið sérstaklega að ekki megi taka íþyngjandi ákvörðun hjá stjórnvaldi og þar eru nefndar uppsagnir ríkisstarfsmanna. Ekki má segja upp fólki nema athugað hafi verið hvort hægt sé að flytja það til í starfi innan stofnunar, það er skylda forstöðumanns að gera það, og vitnað er í mál sem sneri að Fasteignamati ríkisins. Það er alveg greinilegt að umboðsmaður reynir að gæta hagsmuna borgaranna hvar sem þeir vinna innan stjórnsýslunnar.

Ég vil líka gera að umtalsefni viðbrögð stjórnvalda við tilmælum umboðsmanns. Það kemur fram að það heyri til algerra undantekninga að stjórnvöld fari ekki að tilmælum. Það er mjög jákvætt, virðulegi forseti, og sýnir að stjórnvöld almennt hlýða umboðsmanni, ef svo má segja, þau fara eftir ábendingum hans. Að vísu var í einu tilviki ekki farið að tilmælum, í svokölluðum sérstökum tilmælum, þau flokkast í sérstök og almenn tilmæli. Það var vegna kvörtunar einstaklings gagnvart sjávarútvegsráðuneytinu þar sem búið var að úthluta byggðakvóta en sá sem kvartaði fékk ekki úthlutað kvóta. Hann kvartaði en fékk ekki eðlilega málsmeðferð í kerfinu, hjá sjávarútvegsráðuneytinu. Það er rakið á blaðsíðu 14 hvernig ráðuneytið kom fram. Sagt var að búið væri að úthluta þessu og viðhorfið var svolítið þannig að það þýddi ekkert að kvarta yfir því, það væri búið að úthluta og það þýddi ekkert að breyta því. Við eftirrekstur umboðsmanns svaraði ráðuneytið þessu ekki þannig að ásættanlegt væri að mati umboðsmanns, þ.e. ráðuneytið brást ekki við eins og eðlilegt hefði verið og reyndi ekki að taka málið upp aftur og laga það. Það getur skipt mjög miklu máli fyrir viðkomandi, enda þótt búið sé að úthluta kvótanum og hann sé farinn, að hann fái úrlausn sinna mála, þó að ekki sé kannski hægt að endurúthluta kvóta eftir á.

Tilgreind eru fleiri atriði, virðulegi forseti, sem ég ætla ekki að fara nánar út í af því að ekki er tími til þess. Að endingu vil ég gera að umtalsefni kaflann á blaðsíðu 23, Samningar í stað ákvarðana og reglna. Mér finnst það afar athyglisverður kafli. Þar er sagt að stjórnvöld geri í of ríkum mæli samninga um alls kyns verkefni, líka verkefni sem löggjafinn hefur sagt að stjórnvöld eigi sjálf að sinna. Þetta þurfum við að skoða. Færð eru rök fyrir því að þetta sé óeðlilegt í ýmsum tilvikum. Það er alveg ljóst að verði þróunin mjög rík að þessu leyti, eins og rætt var um í nefndinni, mun sá sterkari sigra að lokum og það er yfirleitt ekki borgarinn sjálfur heldur sá sem samningurinn er gerður við, sem oft og tíðum (Forseti hringir.) er einkaaðili.