139. löggjafarþing — 35. fundur
 25. nóvember 2010.
fjáraukalög 2010, 2. umræða.
stjfrv., 76. mál. — Þskj. 80, nál. 294, 337 og 339, brtt. 295 og 296.

[14:28]
Frsm. meiri hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá meiri hluta fjárlaganefndar um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2010. Nefndin hefur haft frumvarpið til athugunar og í því skyni leitað skýringa hjá fjármálaráðuneyti og fagráðuneytum varðandi beiðnir um auknar fjárheimildir. Meiri hlutinn hefur enn fremur farið yfir þau erindi sem hafa borist nefndinni og gerir breytingartillögur við frumvarpið sem samtals nema 5.403,5 millj. kr. til lækkunar gjalda. Meiri hlutinn gerir tillögur um hækkun tekna að fjárhæð 6.938 millj. kr. á rekstrargrunni.

Nefndin mun á milli 2. og 3. umr. kalla eftir frekari upplýsingum um einstaka málaflokka.

Í heild var afkoma A-hluta ríkissjóðs á fyrstu átta mánuðum ársins neikvæð um 52 milljarða kr. samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar og ef þær breytingartillögur sem ég mæli nú fyrir í frumvarpi til fjáraukalaga verða samþykktar verður niðurstaða ársins neikvæð um 58 milljarða kr. en það er engu að síður rúmum 40 milljörðum kr. betri útkoma en gert var ráð fyrir.

Samkvæmt fjárlögum ársins er gert ráð fyrir að ríkissjóður verði rekinn með tæplega 99 milljarða kr. halla á árinu. Útkoman verður betri og því ber að fagna, en um leið er rétt að minna á að sá halli sem eftir stendur er gríðarlega mikill og hann er þungbær og hefur hamlandi áhrif á íslenskt samfélag. Það hlýtur því að vera forgangsatriði að eyða þeim halla og snúa í afgang á sem skemmstum tíma í samræmi við áætlun um jöfnun í ríkisfjármálum.

Ég mun nú gera grein fyrir tillögum að breytingum við frumvarp til fjárauka ársins 2010.

Skattar á tekjur og hagnað verða hærri sem nemur 6.337 millj. kr. á rekstrargrunni. Skattar á vörur og þjónustu lækka um 309 millj. kr. og aðrir skattar lítillega þannig að í heild hækka skatttekjur um 6.208 millj. kr. Hvað aðrar greiðslur varðar hækka arðgreiðslur og leigutekjur um 695 millj. kr. frá frumvarpi um fjáraukalög eins og það var lagt fram. Heildartekjur hækka samtals frá frumvarpinu um 6.938 millj. kr.

Breytingartillögur við frumvarp til fjáraukalaga er snúa að útgjaldaliðum eru þessar helstar:

Það er gert ráð fyrir að greiddar verði úr ríkissjóði samtals 42,7 millj. kr. til æðstu stjórnar ríkisins, svo sem til Alþingis vegna launakostnaðar lögfræðings vegna vinnu þingnefnda við mál er varða bankahrunið, vegna kortlagningar sóknarfæra íslensks atvinnulífs á sviði grænnar atvinnusköpunar, vegna uppsetningar tækjabúnaðar fyrir opna þingfundi og vegna þýðinga á hluta af rannsóknarskýrslu Alþingis, sérfræðiþjónustu fyrir stjórnlaganefnd og kostnaðar við störf saksóknara Alþingis og málarekstrar fyrir landsdómi.

Breytingar vegna mennta- og menningarmálaráðuneytis nema samtals 23,9 millj. kr. Það er vegna framlags til Keldna til að greiða kostnað af völdum nýrnaveiki í alifiskum, uppgjörs við Akureyrarbæ vegna viðbyggingar við VMA og framlags til Iceland Airwaves tónlistarhátíðarinnar.

Einnig eru millifærslur af lið um ýmis framlög til Ríkisútvarpsins til að tryggja stafrænar hljóðvarps- og sjónvarpsútsendingar alls 38 millj. kr. og heimild til Herhúsfélagsins á Siglufirði til að nýta styrk til uppbyggingar á gömlu Gránufélagsversluninni í stað Norðurgötu 5.

Vegna utanríkisráðuneytis er gert ráð fyrir breytingum sem lúta að því að fjárheimild verði lækkuð um 11,9 millj. kr. Það eru rúmar 4 millj. kr. til hækkunar vegna þýðinga á hluta rannsóknarskýrslu Alþingis og 16 millj. kr. lækkun til Útflutningsráðs í ljósi endurskoðaðrar áætlunar um innheimtu tekna af markaðsgjaldi.

Lagt er til að fjárheimild sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis verði aukin um alls 19,2 millj. kr. sem er framlag til rannsóknasjóðs til að auka verðmæti sjávarfangs sem til kemur vegna ákvæða í lögum þar sem ákveðið hefur verið að úthluta 400 lestum af skötusel til viðbótar þeim 800 lestum sem forsendur frumvarpsins gerðu ráð fyrir.

Framlag til dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins lækka um samtals 35,3 millj. kr. ef breytingartillögurnar ná fram að ganga en það er m.a. vegna lækkunar á fjárveitingum til sérstaks saksóknara um 37 millj. kr. Rekstrarumfang og fjárheimildir embættisins hafa nú verið endurmetnar þar sem forsendur hafa breyst. Meðal annars hætti sérstakur ráðgjafi, Eva Joly, störfum fyrr en ætlað var, auk þess sem útgjöld vegna starfa hennar reyndust lægri en ætlað var í fyrstu.

Við bætist síðan 1,5 millj. kr. vegna kostnaðar við að greina kosti þess að flytja starfsemi Landhelgisgæslu Íslands á öryggissvæðið á Miðnesheiði á Suðurnesjum.

Millifærslur eiga sér stað vegna nýrrar stofnunar, Þjóðskrár Íslands, en hún tók til starfa 1. júlí sl. Þar sameinuðust Þjóðskrá og Fasteignaskrá Íslands. Þykir heppilegra að allar fjárveitingar hinna sameinuðu stofnana séu færðar á nýju stofnunina og hún gerð upp í einu lagi í ríkisreikningi.

Framlög til Kirkjumálasjóðs, safnaða þjóðkirkjunnar og Jöfnunarsjóðs sókna verða lækkuð um 8,2 millj. kr. en sóknargjöld til annarra trúfélaga verða hækkuð um 8,4 millj. kr. og þetta stafar af því að breyting hefur orðið á fjölda einstaklinga 16 ára og eldri á milli trúfélaga.

Lagt er til að fjárheimild félags- og tryggingamálaráðuneytis verði lækkuð um 2.844,6 millj. kr. Fyrir utan nauðsynlegar millifærslur er gert ráð fyrir að fjárheimild Framkvæmdasjóðs aldraðra hækki um 107,3 millj. kr. í samræmi við endurskoðaða áætlun um ríkistekjur af gjaldi til sjóðsins.

Vegna endurhæfingarlífeyris hefur átt sér stað endurmat vegna raunútgjalda sem liggja nú fyrir vegna janúar til nóvember og þær tölur gefa til kynna að útgjöld verði lægri sem nemur 100 millj. kr.

Sama á við um tekjutryggingu ellilífeyrisþega og örorkulífeyrisþega. Rauntölur liggja fyrir vegna janúar til nóvember og því lækka fjárheimildir til tekjutryggingar ellilífeyrisþega um 390 millj. kr. og um 160 millj. kr. til tekjutryggingar örorkulífeyrisþega.

Endurmat áætlana á bótum til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna gefa ástæðu til að lækka framlög um 12 millj. kr.

Gert er ráð fyrir að sértekjur sem færast á liðinn Greiðslur frá vistmönnum öldrunarstofnana hækki um 557 millj. kr. Þessi leiðrétting hefur engin áhrif á greiðslur vistmanna á árinu heldur hefur farist fyrir hjá þeim ráðuneytum sem hafa haft umsjón með málaflokknum að uppfæra áætlanir til samræmis við raunverulega þróun greiðslna frá vistmönnum.

Lagt er til að fjárheimild vegna atvinnuleysisbóta verði lækkuð um 1.240 millj. kr. þar sem atvinnuleysi verður nokkru minna en eldri forsendur gerðu ráð fyrir. Þar er gert ráð fyrir 8,6% atvinnuleysi, en nú er áætlað að atvinnuleysi á árinu verði 8,1–8,2%. Í frumvarpinu var gert ráð fyrir viðbótarheimild til aðgerða fyrir námsmenn og atvinnuleitendur yfir sumarmánuðina. Ljóst er að kostnaður vegna þeirra aðgerða rúmast innan upphaflegrar fjárheimildar og því er gerð tillaga um 268 millj. kr. lækkun.

Lögð er til 190 millj. kr. lækkun til Fæðingarorlofssjóðs með hliðsjón af endurskoðaðri spá um útgjöld á árinu og einnig er lækkun á fjárheimild til liðarins Foreldrar utan vinnumarkaðar um 35 millj. kr. vegna endurmats.

Vegna endurskoðunar áætlunar um hlutdeild Forvarnasjóðs í ríkistekjum af áfengisgjaldi hækkar fjárheimild sjóðsins um 1 millj. kr. Þetta er breytingartillaga er varðar heilbrigðisráðuneytið.

Í þeim breytingartillögum sem nú er mælt fyrir er lagt til að fjárheimild fjármálaráðuneytis verði aukin um 1.110,8 millj. kr. og skiptist þannig að 16 millj. kr. verði millifærðar af aðalskrifstofu ráðuneytisins á liðinn Lánaumsýsla ríkissjóðs vegna samnings við Seðlabanka Íslands um lánaumsýslu fyrir ríkissjóð.

Millifærð fjárheimild að upphæð 85,1 millj. kr. af liðnum Tollstjórinn yfir á liðinn Tæki og búnaður er vegna athugasemda Fjársýslunnar sem mælist til þess að gjöldin verði færð á stofnkostnaðarviðfangsefni í stað rekstrarviðfangsefnis, svo sem bílakaup og endurnýjun tækja.

Vegna endurskoðunar áætlunar um innheimtutekjur á tryggingagjaldi á liðnum Jöfnun á örorkubyrði almennra lífeyrissjóða er lögð til um 138 millj. kr. lækkun.

Samkvæmt endurskoðaðri áætlun er gert ráð fyrir að fjármagnstekjuskattur sem ríkissjóður greiðir af vaxtatekjum, arði og söluhagnaði eigna lækki um 47 millj. kr. á rekstrargrunni og verði þar með 3.160 millj. kr. á árinu 2010. Gert er ráð fyrir því að greiðsla vegna fjármagnstekjuskatts hækki um 222 millj. kr. og verði 3.300 millj. kr. Fjármagnstekjuskatturinn færist einnig á tekjuhlið ríkissjóðs og hefur þessi breyting því ekki áhrif á afkomu ársins.

Lagt er til fjárheimild liðarins um ríkisábyrgðir verði hækkuð um 1.050 millj. kr. til að auka framlag til Ríkisábyrgðasjóðs vegna afborgana og vaxta af lánum sem voru með ábyrgð í lánasöfnum föllnu bankanna. Samkvæmt endurskoðaðri áætlun hafa greiðslurnar verið vanáætlaðar sem því nemur í gildandi fjárlögum. Þegar bankarnir voru einkavæddir á sínum tíma hvíldu á þeim ýmsar skuldbindingar vegna skuldabréfa með ríkisábyrgð sem þá höfðu verið útgefin. Ríkið ber því enn ábyrgð á þeim skuldbindingum.

Lagt er til að veittar verði 250 millj. kr. til Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar vegna fyrrum varnarsvæðis við Keflavíkurflugvöll. Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum 9. nóvember sl. að ráðast í framkvæmdir á fyrrum varnarsvæði við Keflavíkurflugvöll til þess að efla atvinnu á Suðurnesjum og flýta áætlunum um einstök verkefni. Þau verkefni sem til stendur að hrinda í framkvæmd og undirbúningur er langt kominn með eru frumkvöðlasetrið Eldey, frumkvöðlasetrið Eldvörp, hreinsun mengunar við Stafnes og á Patterson-svæðinu, endurbætur á íþróttamannvirkjum, lagfæring á íþróttavöllum og opnum svæðum, uppbygging endurhæfingaraðstöðu fyrir heilsuferðamenn, breytingar á fyrrum skotfærageymslu í atvinnuhúsnæði og gerð kvikmyndavers. Einnig verði Þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar falið að setja á stofn hersetusafn á gamla varnarsvæðinu í einu af fjölmörgum húsum félagsins. Safnið mundi kynna merkilega og umdeilda sögu bandarísks herliðs á Íslandi allt frá síðari heimsstyrjöld. Gert er ráð fyrir að heildarkostnaður umræddra framkvæmda geti numið um 1 milljarði kr. Til að auka nú þegar möguleika til frekari atvinnuuppbyggingar á þróunarsvæðinu og skapa um leið aukna atvinnu við frekari framkvæmdir er lagt til að veittar verði aukalega um 250 millj. kr. til Þróunarfélagsins þannig að félagið geti hraðað þeim verkefnum sem ákvörðun hefur verið tekin um að ráðast í.

Að lokum vegna framlaga fjármálaráðuneytisins er gert ráð fyrir 3,9 millj. kr. framlagi vegna kostnaðar af völdum nýrnaveiki í alifiskum sem millifærðar verði á lið Tilraunastöðvar Háskóla Íslands að Keldum, eins og áður sagði.

Í heild er lagt er til að fjárheimild til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins verði lækkuð um 10 millj. kr. Ástæðan er sú að í frumvarpinu er gert ráð fyrir 10 millj. kr. framlagi úr ríkissjóði vegna kostnaðar sem hlotist hefur af eldgosinu í Eyjafjallajökli, en jafnframt er gert ráð fyrir að sama fjárhæð verði millifærð af liðnum Ófyrirséð útgjöld hjá fjármálaráðuneytinu. Er því um að ræða framlög sem fyrir mistök voru lögð til í tvígang vegna sama verkefnis og er tillögu þessari því ætlað að leiðrétta það. Þess má geta að öll framlög vegna gossins í Eyjafjallajökli í frumvarpinu komu af liðnum Ófyrirséð útgjöld hjá fjármálaráðuneytinu.

Lagt er til að fjárheimild til iðnaðarráðuneytis verði aukin um samtals 26,7 millj. kr. og er það vegna lækkunar á framlagi til Staðlaráðs um 2,1 millj. kr. í ljósi endurskoðaðrar áætlunar um innheimtu tekna af tryggingagjaldi. Einnig er lagt til að veitt verði 28,8 millj. kr. framlag til liðarins Átak til atvinnusköpunar . Í lögum nr. 22/2010, um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, er m.a. gert ráð fyrir að fiskveiðiárin 2009/2010 og 2010/2011 hafi ráðherra til sérstakrar ráðstöfunar hvort ár um sig allt að 2 þús. lestir af skötusel án þess að þeim verði úthlutað á grundvelli aflahlutdeilda í tegundinni, heldur gegn greiðslu gjalds. Þá er gert ráð fyrir að þessi sömu fiskveiðiár hafi ráðherra einnig til ráðstöfunar allt að 200 lestir af óslægðum botnfiski á hvoru ári og gegn greiðslu sé heimilt að ráðstafa þessum aflaheimildum til skipa sem leyfi hafa til frístundaveiða. Í lögunum er gert ráð fyrir að á árunum 2010 og 2011 verði veitt framlag til rannsóknasjóðs til að auka verðmæti sjávarfangs sem svari til 40% af tekjunum og að Átak til atvinnusköpunar fái framlag sem svari til 60% af tekjunum. Í fjáraukalagafrumvarpinu er samtals 83,3 millj. kr. framlag veitt til liðarins samkvæmt þessari skiptingu. Nú hefur verið ákveðið að úthluta 400 lestum af skötusel til viðbótar þeim 800 lestum sem forsendur fjáraukalagafrumvarpsins gerðu ráð fyrir. Áætlað er að viðbótartekjurnar vegna þessa verði samtals 48 millj. kr. Þar af er gert ráð fyrir að Átak til atvinnusköpunar fái 28,8 millj. kr. framlag samkvæmt fyrrgreindri skiptingu. Gert er ráð fyrir að rannsóknasjóður til að auka verðmæti sjávarfangs og Átak til atvinnusköpunar fái framlag eftir sömu skiptingu og við leigu á skötuselskvóta. Áætlað er að tekjurnar verði samtals 42,8 millj. kr. á árinu 2010 og þar af fái rannsóknasjóður til að auka verðmæti sjávarfangs 17,1 millj. kr. Samtals er því hér um 55,5 millj. kr. framlag að ræða.

Lagt er til að fjárheimild efnahags- og viðskiptaráðuneytisins verði aukin um 10 millj. kr. vegna tímabundins framlags til verkefnis um athugun á skuldavanda heimilanna sem ríkisstjórnin samþykkti 1. mars 2010 að ráðuneytið hefði forgöngu um. Frumvarp um málið var lagt fram á síðasta vorþingi en fékk ekki afgreiðslu þá og hefur verið lagt fram að nýju á yfirstandandi þingi. Megináhersla verður lögð á að afla nýrra gagna og meta stöðuna á grundvelli þeirra til að hægt verði að leysa bráðavanda á skuldastöðu heimilanna. Jafnframt verði þessi vinna skipulögð þannig að hægt verði að endurtaka ferlið með reglubundnum hætti, t.d. ársfjórðungslega næstu 1–3 árin, á meðan talin er þörf á jafnítarlegri eftirfylgni og nú er raunin. Gert er ráð fyrir að rannsóknin muni í heildina kosta allt að 50 millj. kr. Þar af yrðu 40 millj. kr. vegna launakostnaðar en gert er ráð fyrir tveimur starfsmönnum. Annar kostnaður er vegna hug- og vélbúnaðar, aðkeyptrar sérfræðiaðstoðar og viðhalds og þróunar gagnagrunns. Miðað er við að rannsóknin geti hafist fyrir lok þessa árs og að kostnaður ársins verði um 10 millj. kr., einkum vegna stofnkostnaðar við vél- og hugbúnað.

Að lokum er lagt til að fjárheimild vaxtagjalda ríkissjóðs verði lækkuð um 3.736 millj. kr. Endurskoðuð áætlun um vaxtagjöld gerir ráð fyrir lækkun vaxtagjalda um 3,7 milljarða kr. frá frumvarpinu og er gert ráð fyrir að vaxtagjöld 2010 verði 70,3 milljarðar kr. Helstu breytingarnar eru að heldur betri vaxtakjör hafa fengist í útboðum vegna óverðtryggðra ríkisbréfa og ríkisvíxla en áður var áætlað og lækka vaxtagjöld um 1,8 milljarða kr. vegna þessa. Þar sem nær öllum áformuðum útboðum ársins er nú lokið er hægt að áætla vaxtagjöldin með meiri nákvæmni en í fyrri áætlunum. Þá lækka áætlaðir vextir vegna endurfjármögnunar bankanna um 1,4 milljarða kr. en ekki er gert ráð fyrir vaxtagreiðslum vegna sparisjóðanna á þessu ári. Aðrar breytingar vaxtagjalda eru minni. Greiddir vextir eru áætlaðir 75,8 milljarðar kr. og lækka því um rúmar 900 millj. kr. frá frumvarpinu. Þar munar mestu að kjör í útboðum ríkisvíxla hafa verið hagstæðari en áætlanir gerðu ráð fyrir og lækka greiðslur vegna þeirra um 1,3 milljarða kr. Greiðslur vaxta vegna endurfjármögnunar banka lækka um 0,8 milljarða kr. en á móti hækka greiðslur vaxta vegna gjaldeyrisforðalána um 1,8 milljarða kr. Aðrar breytingar eru minni.

Virðulegi forseti. Ríkisendurskoðun hefur ítrekað gert athugasemdir í skýrslum sínum um framkvæmd fjárlaga og talað um almennt agaleysi í því sambandi. Framkvæmd fjárlaga hefur að mati Ríkisendurskoðunar verið ámælisverð um langan tíma en eins og stofnunin bendir á er það á ábyrgð Alþingis, ráðuneyta og forstöðumanna stofnana að sjá til þess að fjárlög séu virt. Leiða má líkum að því að miklar umframtekjur hafi ýtt undir agaleysið sem virðist hafa einkennt árið fyrir hrun er varðar útgjöldin. Hæstu tölurnar eru fyrir árið 2007 þar sem tekjur umfram áætlun námu 25% af áætluðum heildartekjum fjárlaga. Sú staða er aldeilis ekki uppi um þessar mundir og hefur agi við framkvæmd fjárlaga aukist til muna undanfarin tvö ár. Það hefur reyndar aldrei verið brýnna en einmitt nú þegar horft er í hverja krónu við ákvörðun útgjalda að taka fjármál ríkisins föstum tökum og fara vel með það fé sem ráðstafað er úr sameiginlegum sjóðum landsmanna. Sú ábyrgð hvílir á Alþingi að fylgja eftir fjárlögum hvers árs.

Eins og ég sagði í upphafi máls míns mun hv. fjárlaganefnd kalla eftir frekari upplýsingum um einstaka málaflokka milli 2. og 3. umr.



[14:47]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni yfirferðina. Ég ætla að gera athugasemdir við eitt sem kemur fram í nefndaráliti meiri hlutans. Það er ákveðin fullyrðing um að á fyrstu átta mánuðum ársins, með leyfi forseta:

„… var rekstur 64 stofnana umfram áætlun tímabilsins. Ráðuneytin telja líkur á að einungis þrjár þessara stofnana verði reknar umfram áætlun ársins í heild og gangi sú spá eftir, sem Ríkisendurskoðun gerir ekki athugasemdir við, …“

Það er þetta sem mér finnst vera dálítið vel í lagt af hálfu meiri hluta nefndarinnar vegna þess að þegar þessi texti er tekinn upp úr skýrslu Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga kemur þar fram að Ríkisendurskoðun hafi ekki forsendur til að leggja mat á það sem umfram er. Reyndar kemur líka fram í skýrslunni að tíu stofnanir hafi ekki skilað inn rekstraráætlun fyrir árið 2010. Mér finnst þetta vera slitið úr samhengi hjá meiri hlutanum og geri athugasemd við það.

Virðulegi forseti. Ég kem hins vegar upp til að spyrja hv. þingmann, út frá þeirri vinnu sem við höfum verið í saman í rúmt ár eða eitt og hálft ár, hver skoðun hennar sé og hvort hún geti verið sammála mér um að við þurfum að breyta vinnu fjárlagagerðarinnar, eins og á næsta ári þegar fjárlagafrumvarp verður lagt fram 1. október og strax boðaðar breytingar á því af sumum hæstv. ráðherrum. Hvernig sér hv. þingmaður fyrir sér gerð fjárlaga fyrir árið 2012? Hvernig sjáum við þær breytingar sem við höfum margoft rætt í hv. fjárlaganefnd verða skilvirkari en þær hafa verið undanfarin ár og áratugi?



[14:49]
Frsm. meiri hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú má vera að meiri hlutinn hafi verið heldur bjartsýnn í nefndaráliti sínu. Það verður samt ekki horft fram hjá því hve nauðsynlegt er að meiri agi ríki varðandi ríkisfjármálin og að stofnanir standi sig betur. Við vonumst til og sjáum vísbendingar um að fleiri stofnanir haldi sig innan fjárlaga núna á árinu 2010 en áður hefur verið og það er vel. Við gerum auðvitað alvarlegar athugasemdir við að rekstraráætlanir séu t.d. ekki til taks hjá þessum fjölda stofnana. Það er algerlega óásættanlegt.

Varðandi vinnulag er, eins og hv. þingmaður þekkir, hópur starfandi innan fjárlaganefndar sem á að fjalla um framkvæmd fjárlaga. Sú vinna hefur legið niðri á meðan annirnar eru akkúrat núna en strax að þeim loknum, núna á árinu 2010, geri ég ráð fyrir að við einbeitum okkur að því að endurskoða allt vinnuferlið og aðkomu Alþingis að fjárlagagerðinni og framkvæmd fjárlaga.



[14:50]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir að það eru jákvæð teikn á lofti um rekstur stofnana. Þær eru mun færri núna sem fara umfram heimildir en áður hefur verið. Ég tek undir með hv. þingmanni að það er gríðarlega mikilvægt að við höldum áfram á sömu braut og náum utan um vandamálið í heild sinni.

Mig langar kannski að ítreka seinni spurningu mína áðan í sambandi við gerð fjárlaga. Ég veit allt um það að til stendur að fara í þá vinnu. Við sögðum líka fyrir einu ári að við ætluðum að fara í hana en gerðum það samt ekki. Því vil ég nota tækifærið og hnykkja á því núna að farið verði í þessa vinnu þannig að fjárlögin verði markvissari.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hún hafi séð það fyrir sér þegar fjárlagafrumvarpið var lagt fram 1. október að á sama tíma mundu ýmsir hæstv. ráðherrar boða breytingartillögur við fjárlagafrumvarpið sem ekki væri einu sinni komið inn á borð fjárlaganefndar og ríkisstjórnin ætti eftir að samþykkja til að ná utan um vandamálið í heild sinni. Og hvað á það að þýða að vera með þjóðhagsspá frá því í júní? Fyrir tveimur dögum fengum við aðra þjóðhagsspá sem gefur því miður vísbendingar til verri vegar. Hvernig sér hv. þingmaður fyrir sér að við munum breyta þessu þannig að það verði einhver árangur af vinnunni? Það gefur augaleið að það mun koma fyrirskipun frá hæstv. velferðarráðherra sem segir: Ég mun koma með breytingartillögur, það má ekki segja neinum upp. Ef það gengur eftir og ekki verða leiðréttar þær fjárveitingar til stofnananna sem eru í frumvarpinu munu þær ekki ná hagræðingunni nema fara í enn frekari uppsagnir, en þeim er ekki heimilt að fara í uppsagnir miðað við þær forsendur sem liggja fyrir. Það þekkja allir að fólk er með 3–6 mánaða uppsagnarfrest og ef ætlast er til þess að fjárhagsstofnanir haldi sig innan fjárlaga þá verður einfaldlega að segja fleirum upp til að ná settum markmiðum. Það er þetta sem ég er að kalla eftir hjá hv. þingmanni. Þurfum við ekki líka að setja stífa bremsu á framkvæmdarvaldið þannig að það virði tímamörk og vinnu fjárlaganefndar?



[14:53]
Frsm. meiri hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég segi um þetta að ég vænti mikils af vinnu hv. þingmanns við breytingu á vinnulagi varðandi framkvæmd fjárlaga og að við stöndum saman, ég og hann, í því að gera þessa vinnu markvissa og skilvirka. En auðvitað getum við ekki, alveg sama hve gott vinnulagið er, komið í veg fyrir að eitthvað óvænt gerist og að bregðast þurfi við óvæntum atburðum með stuttum fyrirvara. En við getum sett fram vinnuferlið og vandað okkur betur við það og fengið alla með okkur í þá vegferð.



[14:54]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni, formanni fjárlaganefndar, fyrir yfirferðina. Ég ætla að taka málið aðeins nær einstökum atriðum þó svo ég geri mér grein fyrir því að hv. þingmaður leggur helst áherslu á stóru myndina í fjárlagagerðinni og er það skiljanlegt.

Ég vildi spyrja hv. þingmann um verkefni sem við þekkjum báðar verandi þingmenn Suðurkjördæmis. Það er skólinn Keilir á Ásbrú. Ég saknaði þess að sjá ekki neinar tillögur um fjárveitingar til hans í þessu nefndaráliti og veit að þar inni liggur beiðni. Mikið hefur verið rætt um nauðsyn þess að auka og hækka menntunarstig á Suðurnesjum, eins var það sérstaklega tiltekið á nýlegum víkingaskipsfundi ríkisstjórnarinnar í Reykjanesbæ um daginn sem ein af áherslunum að bæta og auka menntun á Suðurnesjum. Þess vegna vil ég spyrja hv. þingmann hvort slíkra tillagna sé að vænta við 3. umr., hvað valdi því að ekki sé gert ráð fyrir neinni aukafjárveitingu til Keilis í þessu frumvarpi og hvort eitthvað strandi á því sem við getum í sameiningu beitt okkur fyrir að verði lagfært.



[14:55]
Frsm. meiri hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú er það svo, eins og hv. þingmaður þekkir, að við glímum við alvarlega kreppu og skerum niður á öllum sviðum. Eins og hún hefur væntanlega tekið eftir er ekki gert ráð fyrir aukaframlögum til skóla nema nokkurrar rekstrarframlegðar vegna leigu á aukahúsnæði. Málið liggur ljóst fyrir. Beiðni um aukafjárveitingu fyrir árið 2010 hefur borist ráðuneytinu og fjárlaganefnd hefur í viðtölum við stofnanir fengið upplýsingar frá nánast hverri einustu skólastofnun í landinu. Engin þeirra fær framlag vegna kennslu í þessum aukafjárlögum, alla vega ekki við þessa umræðu. Hvað gerist milli 2. og 3. umr. get ég ekki sagt, við eigum eftir að taka þá umræðu, en ég get fullvissað hv. þingmann um að jafnræðis verði gætt á milli stofnana.

Til að útskýra málið aðeins betur þá stunda 1.100 Suðurnesjamenn nám í Fjölbrautaskóla Suðurnesja sem hefur beðið um að fá að taka fleiri nemendur inn og þurfti að hafna nemendum í haust. Skólinn fær heldur ekki aukaframlag ef við höldum okkur við Suðurnesin þannig að það er jafnt á komið með skólum í kreppunni. Jafnræðið birtist kannski fyrst og fremst í niðurskurðartillögunum og að ekki er gert ráð fyrir aukaframlagi fyrir nemendur sem ekki var vitað fyrir fram að kæmu í skólann við upphaf árs.



[14:57]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég er mjög ánægð með eitt í hennar svari, þ.e. hún leggur mikla áherslu á að jafnræðis verði gætt við úthlutun fjármagns til menntastofnana. Það er akkúrat það sem kvartað hefur verið yfir í þessum skóla, Keili, að ekki sé gætt jafnræðis í fjárveitingum ef miðað er við háskólabrúna hjá Keili og sambærilegar námsbrautir eins og frumgreinadeildirnar við Háskólann á Bifröst og Háskólann í Reykjavík. Ég er mjög ánægð að heyra að jafnræðis verði gætt. Ég tók að sjálfsögðu eftir því að ekki voru lagðar til auknar fjárveitingar til einstakra skóla.

Hins vegar er ekki búið að ræða á vettvangi ríkisstjórnarinnar um menntunarstig í öðrum landshlutum sérstaklega. Það var boðað og blásið til fundahalda á Reykjanesi og gefið í skyn að settur yrði aukinn kraftur í að bæta menntunarstöðu. Það gerist ekki bara með fínum og flottum fundum. Það gerist með því að styðja í verki við menntastofnanirnar. Að sjálfsögðu geri ég ekki lítið úr Fjölbrautaskóla Suðurnesja, sem hv. þingmaður nefndi í því samhengi, en það er akkúrat þetta sem Keilir fer fram á, að jafnræðis verði gætt.

Yfirlýsingar hv. formanns fjárlaganefndar vekja með mér von um að hægt verði að ná lendingu í þessu máli.



[14:59]
Frsm. meiri hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er þannig með Keili að hann hefur bara fengið fjármagn á ársgrundvelli fyrir skólahlutanum. Það er ekki til framtíðarsamningur um starfsemi skólans sem er mjög mikilvægt fyrir skólann að fá. (REÁ: Eigum við ekki að gera hann?) Jú, við skulum stefna að því. Til að treysta rekstrargrundvöll skólans verður að semja við hann um framtíðarstarfsemi og hvernig framlag skólans til menntunar á Suðurnesjum tengist fjölbrautaskólanum og Miðstöð símenntar. En varðandi framlagið sem ríkisstjórnin talaði um til menntamála á Suðurnesjum verður gerð breytingartillaga fyrir fjárlög ársins 2011 og þá fáum við tækifæri til að fara yfir hana. Það kemur ekki fjármagn frá aukafjárlögum en það verður fjármagn til menntunar á Suðurnesjum í breytingartillögu við fjárlög 2011. Þá tökum við hv. þingmaður væntanlega aftur upp þessa umræðu.



[15:00]Útbýting:

[15:01]
Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Forseti. Ég mæli hér fyrir áliti 1. minni hluta fjárlaganefndar. Að því standa auk mín hv. þm. Ásbjörn Óttarsson og Guðlaugur Þór Þórðarson.

Ég vil taka það strax fram í upphafi að álitið er unnið á þeim grunni sem vinna fjárlaganefndar hefur leitt af sér og vil ég þakka fjárlaganefndarmönnum samstarfið við það verk. Vissulega er ýmislegt í þeirri vinnu sem enn er ólokið og koma þá þau atriði væntanlega til umræðu og ákvarðana í nefndinni á milli 2. og 3. umr.

Heildarafkoma ríkissjóðs samkvæmt því frumvarpi til fjáraukalaga sem hér liggur fyrir er vissulega til muna betri en áætlun fjárlaga gerði ráð fyrir. Hv. formaður fjárlaganefndar gat réttilega um það í framlagningu sinni fyrir tillögu meiri hlutans að fjárlög hefðu gert ráð fyrir 98 milljarða halla en hér væri staðan, eftir þær tillögur sem nú liggja fyrir af hálfu meiri hluta nefndarinnar, 40 milljörðum kr. betri eða halli upp á 58 milljarða. Það munar vissulega um minna og að sjálfsögðu ber að fagna þeim bata sem náðst hefur í fjárlögum þessa árs.

Ég vil þó af þessu tilefni undirstrika mjög rækilega að skoða ber í hverju sá bati liggur. Í rauninni má segja að ekki sé tekið á grunnvanda ríkisfjármálanna. Við höfum ekki enn náð tökum á því, því að hér er fyrst og fremst um það að ræða að batinn stafar af sérstökum einskiptisaðgerðum sem eru í rauninni tvíþættar, annars vegar vegna eignasölu og hins vegar náum við miklu betri árangri, ef það má orða það svo, við greiðslu vaxtagjalda. Við áætluðum 95 milljarða í vaxtagjöld í fjárlögunum en sjáum hér tillögu um að þau verði 74 milljarðar. Ég kem að því nánar á eftir hvernig á því stendur en batinn í vöxtunum er alls 24 milljarðar og er ekkert sem bendir til að það gerist aftur á næsta ári. Hinn hluti batans liggur í eignasölu í svokölluðu Avens-samkomulagi sem gert var á milli Seðlabankans og lífeyrissjóðanna á eignum í Lúxemborg. Það skilar tekjum upp á 17,5 milljarða og loks er það eignasala á sendiráðsbústað í London upp á 1.700 milljónir. Þessir þrír þættir eru í rauninni þau atriði sem auka tekjur ríkissjóðs þannig að ég vara við því að menn dragi of miklar ályktanir af fjáraukalagafrumvarpinu varðandi hvernig okkur muni reiða af við að ná tökum á hallarekstri ríkissjóðs á næstu tveimur árum sérstaklega.

Það kemur berlega í ljós í vinnu fjárlaganefndar við fjáraukalagafrumvarpið núna að þær athugasemdir sem minni hluti fjárlaganefndar hafði uppi við fjárlagagerð ársins 2010 varðandi forsendur þess frumvarps voru réttmætar af hálfu stjórnarandstöðunnar. Áform ríkisstjórnarinnar sem birtust í fjárlögum ársins 2010 varðandi hagvöxt opinberast í greinargerðinni með fjáraukalagafrumvarpinu sem fyrst var lagt fram og sýna það svart á hvítu að þau áform um hagvöxt sem ætluð voru á árinu 2010 voru óraunhæf. Ég vil jafnframt geta þess að endurskoðuð þjóðhagsspá, sem verið hefur mikið í umræðunni í dag og ekki síst í gær leiðir í ljós að efnahagsforsendum fjárlagaársins 2011, sérstaklega því sem lýtur að hagvextinum, er kollvarpað. Það styrkir í rauninni að við verðum að meta þessi atriði og hafa þau mjög í huga þegar við ræðum batann í samanburði fjárlaga og fjáraukalaga, þegar við erum að ræða um það gríðarlega verkefni sem lýtur að því að ná markmiðum ríkissjóðs varðandi heildarjöfnuð í ríkisfjármálunum til ársins 2013.

Til viðbótar umræðunni um hagvöxtinn er vert að vekja athygli á því að fulltrúi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Franek Rozwadowski, var á fundi sem Íslensk verðbréf gengust fyrir, í morgun að ég held. Þar kynnti hann áherslur og sjónarmið Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til hagþróunar á Íslandi næstu árin. Ég tel ástæðu til að nefna það sérstaklega einfaldlega vegna þess að álit hans, og mat Alþjóðagjaldeyrissjóðsins gengur þvert á spár Seðlabanka Íslands og Hagstofu Íslands um hagvöxt á næsta ári. Rozwadowski segir að ekki sé hægt að byggja hagvöxt jafnmikið á einkaneyslu og hinar tvær spárnar gera. Það er atriði sem ég tel að fjárlaganefnd þurfi að hafa í huga við fjárlög næsta árs og sömuleiðis efnahags- og skattanefnd þegar hún leggst yfir þá hlið fjárlaganna, þ.e. tekjugreinina.

Eins og komið hefur fram, bæði í umræðu og framsögu hv. formanns fjárlaganefndar og í andsvörum við hv. þm. Ásbjörn Óttarsson, liggur fyrir að mun færri stofnanir voru reknar umfram fjárheimildir á tímabilinu sem hér um ræðir í samanburði við fyrri ár. Það er vissulega ánægjuleg breyting til batnaðar. Þó vil ég geta þess að litið er fram hjá því að enn er töluverður fjöldi stofnana í verulegum vanda, ekki síst vegna uppsafnaðs halla fyrri ára, og á honum er ekki tekið í því frumvarpi sem liggur fyrir. Fyrir liggur í skýrslu Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga ársins 2010, þ.e. fyrstu átta mánuðina, að ráðuneytin hafa tekið upp nýtt verklag við meðferð uppsafnaðs halla sem felst í því að gefa stofnunum lengri frest til að vinna á honum. Þar með hafa ráðuneytin samþykkt verulegan fjölda rekstraráætlana sem rúmast ekki innan fjárheimilda. Hér er um að ræða, samkvæmt úttekt Ríkisendurskoðunar, 10 stofnanir og rauði þráðurinn í skýringum ráðuneytanna á því háttalagi er sá, og það er mjög athyglisvert, að umræddar stofnanir og ráðuneyti telja ekki raunhæft að stofnanirnar geti unnið á uppsöfnuðum halla fyrri ára. Af því tilefni áréttar 1. minni hluti fjárlaganefndar að það verklag brjóti í bága við gildandi lög og reglur og á því þurfi að taka.

Af því tilefni er rétt að undirstrika það sem kemur í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar þar sem rætt er um bætta áætlanagerð, að hún hafi m.a. skilað árangri um betri útkomu á fjárlögum ársins 2010 miðað við fjáraukalagafrumvarpið eins og það liggur fyrir. Á margan hátt mætti segja að það sé ekki bætt áætlanagerð, sérstaklega ekki að því sem lýtur að eignasölunni eða vaxtaþættinum, það er miklu frekar í ætt við einhvers konar slembilukku. Þegar við bætist að áætlanir og útkoma einstakra stofnana er með þeim hætti sem lýst er í nefndaráliti 1. minni hluta með vísan til úttektar Ríkisendurskoðunar styrkist ég enn í því og lít svo á að það sé sameiginlegt verkefni fjárlaganefndar að stilla saman krafta sína til að reyna að koma böndum á verklagið.

Við bentum á það í stjórnarandstöðunni í umræðu um fjáraukalög fyrir árið 2009 og fjárlagafrumvarp fyrir árið 2010 að um væri að ræða verulegan fjölda ríkisstofnana sem ætti í raun við fjárhagsvandræði að etja. Í stað þess að takast á við vandann var honum slegið á frest og ég álít að með því háttalagi séum við í rauninni að dylja aukinn halla eða að koma í veg fyrir að sá halli sem þarna er vissulega fyrir hendi komi fram í þeim tölum sem við leggjum fram um afkomu ríkissjóðs. Það var á allra vitorði að Landspítalinn – háskólasjúkrahús átti þar við mestan vanda að glíma, uppsafnaður halli hans nam í árslok 2009 um 2,8–3 milljörðum kr. Þá gerðist það að heilbrigðisráðuneytið lánaði, með leyfi fjármálaráðuneytisins, Landspítalanum fyrir uppsöfnuðum halla með ákveðnum skilyrðum og ber að undirstrika að slíkar lánveitingar eiga sér enga stoð í fjárreiðulögum þar sem þeim hefur ekki verið breytt í þá veru að heimila slíka gjörninga.

Til viðbótar má nefna varðandi fordæmisgildið sem í þessu felst að slík lánveiting ber ekki vaxtakostnað, eftir upplýsingum sem okkur bárust í fjárlaganefnd, þar sem ríkissjóður fjármagnaði þetta. Það skekkir þá samanburðinn í því tilfelli við stöðu annarra stofnana, ef við tökum Landspítalann sem dæmi.

Ég dreg þetta fram því að þegar við ræðum þessi mál verðum við að hafa í huga samhengi hlutanna við fjárlagagerð hvers árs og reyna að vanda okkur við að hugsa fjárlögin sem heild. Mér finnst oft og tíðum það dálítið brotakennt hvernig við vinnum þau og nægir í því sambandi að nefna þær tillögur sem við eigum eftir að takast á um, væntanlega upp úr næstu helgi, ef þær koma þá fram um helgina, sem lúta að endurgerð eða niðurskurði í heilbrigðisþjónustu á landinu öllu, sérstaklega úti á landi, að þær muni leiða til þess að tvær meginstofnanirnar, Landspítalinn og Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri, skekkist mjög og að öllu óbreyttu, gangi þetta óbrjálað eftir, eins og sagt er, kalli það á að þær þurfi á fjáraukalagameðferð að halda vegna aukins fjölda þeirra sjúklinga sem til þeirra kemur.

Ég vil nefna það enn og aftur að þær efnahagsforsendur sem gengið var út frá við fjárlagagerðina árið 2010 voru of veikar. Ekki var mark takandi á þeim athugasemdum sem fram komu, því miður. Við bentum jafnframt á að þær skattbreytingar og skattahækkanir sem samþykktar voru í miklu hasti rétt fyrir áramót mundu draga kraft úr einstaklingum og fyrirtækjum sem kæmi síðan fram í hagkerfi okkar og mundi leiða af sér minni hagvöxt.

Ég vil geta þess sérstaklega þar sem við horfum til tekna ríkissjóðs að í úttekt Ríkisendurskoðunar, sem við fáum reglulega, kemur fram mjög sterk vísbending þegar skoðaðar eru tekjur A-hluta ríkissjóðs um að við náum ekki þeim árangri sem við ætlum okkur varðandi tekjurnar.

Með leyfi forseta, ætla ég að leyfa mér að lesa orðrétt upp úr greinargerð Ríkisendurskoðunar varðandi tekjuhlutann, tilvitnun sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Eftir því sem liðið hefur á árið hefur frávik skatta á tekjur og hagnað frá áætlun aukist, þ.e. tekjusamdrátturinn er meiri en gert hafði verið ráð fyrir […]. Þessi þróun er nokkurt áhyggjuefni.“

Sú er þróunin og því miður er fátt sem bendir til að hún sé að breytast. Ég minni enn aftur á þau varnaðarorð sem ég hafði í upphafi um hagvaxtarspána og hugleiðingar manna um hana. Samkvæmt tillögum meiri hlutans munu tekjur aukast um tæpa 16 milljarða kr. og ef við hefðum ekki fengið þær einskiptisaðgerðir sem er eignasalan hefðu tekjurnar dregist saman um 3,4 milljarða kr. Þar er um að ræða bata sem stafar sérstaklega af því að virðisaukaskatturinn skilar meiru en áætlanir fjárlaga gerðu ráð fyrir og ástæðan fyrir því er tvíþætt: Í fyrsta lagi hefur skatthlutfallið hækkað úr 24,5% í 25% og í annan stað skila virðisaukaskattstekjur sér vegna starfsemi á árinu 2009 inn á árið 2010.

Ef við horfum til A-hluta fjárlaganna og rýnum aðeins í það hvar helstu frávik liggja í A-hlutanum ber að nefna fyrst af öllu að í þeim hluta fjárlaganna eru 438 fjárlagaliðir og fjáraukalagafrumvarpið sem lagt er fram snertir 94 þeirra. Ef við tökum frá lækkun vaxta, sem nemur 24 milljörðum kr., hækka útgjaldaheimildir ríkissjóðs um 764 millj. kr. við þær fjáraukalagatillögur sem fyrir liggja. Það er veruleikinn sem við búum við og horfum upp á. Við það bætast síðan aðrar breytingartillögur, og vil ég nefna það sérstaklega — ég ætla raunar að koma að því örlítið á eftir — breytingar á fjárheimildum til nokkurra liða undir félags- og tryggingamálaráðuneytinu sem taka mjög miklum breytingum frá fjárlögum ársins til þess frumvarps sem lagt er fram.

Ég nefndi vaxtagjöldin áðan og þau eru eins og áður gat um 24 milljörðum lægri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Það er ekki nein smáræðis fjárhæð, í krónum er það gríðarlega há fjárhæð. Enn athyglisverðara verður það þegar við höfum í huga að það er fjórðungur, 25%, af þeirri áætlun sem fyrir lá. Ástæður breytinganna eru í rauninni í nokkrum atriðum. Þær liggja að stærstum hluta í því að ríkissjóður hefur tekið minna að láni frá samstarfssjóðum í áætluninni með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, það eru til muna lægri fjárhæðir en ráðgerðar voru. Enn fremur er um að ræða uppkaup erlendra skulda ríkissjóðs á markaði. Sömuleiðis kemur styrking krónunnar okkur til góða varðandi erlendu skuldirnar og þegar maður horfir á það þrennt er í rauninni alveg með ólíkindum að upplifa að við höfðum ekki upplýsingar um hluta þessara áforma þegar við afgreiddum fjárlögin rétt fyrir jól, 22. desember ef ég man rétt, á síðasta ári. Það varpar þar með ljósi á fjárlagagerðina, sú óvissa sem um það atriði gildir hlýtur að benda til þess að veikleikinn í skuldastýringu og áætlanagerð ríkissjóðs sé allt of mikill, alla vega hvað þann þátt snertir.

Varðandi félags- og tryggingamálaráðuneytið og þær breytingar sem þar er um að ræða vil ég nefna svokallaða bótaflokka. Það eru fjárlagaliðir 07-825 og 07-827, ef ég man rétt. Það eru í fyrsta lagi bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð og síðan lífeyristryggingar.

Það sem þar er verið að gera nemur töluverðum fjárhæðum. Þar er um að ræða allt í allt um 6,2 milljarða kr. í ótal færslum og ótal liðum. Það er brúttótala, nettótalan af því eru tæpir 4 milljarðar kr. Lækkun bóta vegna laga um félagslega aðstoð nemur nettó tæpum 1,5 milljörðum kr. og lífeyristryggingarnar, sem eru tekjutryggingar ellilífeyrisþega og fleira því um líkt, lækka um ríflega 2 milljarða kr.

Ég vil einnig geta þess sérstaklega að sértekjur vegna greiðslna frá vistmönnum á öldrunarstofnunum til stofnananna sjálfra eða til ríkisins — það eru væntanlega hjúkrunarheimilin — hækka um 557 millj. kr. en fyrir á þessum lið voru 373 millj. kr. færðar í tekjur. Þær margvíslegu og miklu breytingar hljóta að vekja upp spurningar um gæði þeirra ákvarðana sem teknar eru við fjárlagagerð. Í því tilfelli lúta þær að spurningunni um samspil bótaflokka, bótafjárhæða, skerðingarákvæða og aðstæðna bótaþega. Ég dreg í efa að þær forsendur sem liggja til grundvallar áætlanagerðinni í þessum efnum séu nægilega traustar og skerðingar sem ákveðnar hafa verið gagnvart elli- og örorkulífeyrisþegum verið ákaflega illa grundaðar. Ég leyfi mér að fullyrða að miðað við þær breytingar sem verið er að gera til lækkunar að áhrifin til skerðinga eru til muna meiri en menn ætluðu þegar til þeirra ákvarðana var gripið, fyrst í júlí 2009, síðan var það endurtekið í fjárlögum ársins 2010 og stefnir í að því verði haldið áfram í fjárlögum 2011.

Það er óhuggulegt þegar maður spyr um hvernig á þessum miklu tilfærslum standi og hvers vegna áætlanagerðin sé svona að maður fær það á tilfinninguna að enginn viti í rauninni hvers vegna þetta breytist eins og hér gerist. Það er töluvert óhuggulegt, svo ekki sé meira sagt, þegar haft er í huga að þarna er um að ræða bótaflokka sem eru gríðarlega fjárfrekir en varða fjölda einstaklinga og eru í þeim viðkvæmu málum sem við erum hvað veikust fyrir. Það er því eðlilegt, og 1. minni hluti fjárlaganefndar gerir sérstaka kröfu um það og leggur áherslu á, að yfir þessa hluti og mál verði farið sérstaklega.

Ég vil enn fremur nefna nokkur atriði sem ég tel fulla þörf á að hafa í huga þegar þetta rætt. Útgjöld vegna atvinnuleysistrygginga lækka um tæpa 2,6 milljarða kr. Menn tala um það og því ber að sjálfsögðu að fagna að atvinnuleysi er ekki jafnmikið og spáð var, það er væntanlega að dragast saman. Ég hef ákveðnar efasemdir um þá útreikninga en kýs að fara ekki ofan í það að svo komnu máli. Sá þáttur sem ég vil vekja sérstaka athygli á er að samkvæmt lögunum um tryggingagjald er ákveðnum hluta þess ætlað að standa undir greiðslum á framlagi í Atvinnuleysistryggingasjóð. Frumvarpið sem lagt er fram gerir ekki ráð fyrir lækkun á innheimtu gjaldsins þrátt fyrir lægri útgjöld úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Að óbreyttu er því hér um viðbótarskattheimtu að ræða sem draga mun úr getu fyrirtækja til fjárfestinga og vinnur gegn nauðsynlegum hagvexti. Ef það á að standa óbreytt tel ég að koma þurfi til lagabreytinga ef ætlunin er að auka skattheimtuna með þeim hætti sem lagt er upp með.

Ég tel einnig vert að minnast á málefni Íbúðalánasjóðs sem bíður, það þarf að taka ákvarðanir um hvernig á að fjármagna hann. Þær athugasemdir eiga líka við um fjármál Byggðastofnunar. Það er skoðanamunur á því milli stjórnar stofnunarinnar eða forsvarsmanna annars vegar og hins vegar stjórnenda iðnaðarráðuneytisins, sem fer með málefni Byggðastofnunar, um hversu háa fjárhæð þarf til til styrkingar á eiginfjárstöðu Byggðastofnunar. Því er haldið fram í ráðuneytinu að hér sé um að ræða einn milljarð kr. meðan forsvarsmenn stofnunarinnar sjálfrar hafa upplýst að sú fjárhæð þurfi að vera umtalsvert hærri.

Ég geri ráð fyrir því að fjárhagur ýmissa heilbrigðisstofnana sé ekki með þeim hætti sem við ætluðum, en vonandi skjöplast mér í því mati.

Ég vil einnig vekja athygli á vaxtabótaþættinum sem gerð er tillaga um að auka um 1,7 milljarða kr. Hér er um að ræða ákveðinn veikleika í forsendum fjárlaga sem við teljum að skýrist aðallega af vanmati á áhrifum af því að skuldir heimilanna hafa farið vaxandi á sama tíma og tekjur heimilanna hafa lækkað. Það er að sjálfsögðu í beinu samhengi við þær athugasemdir sem stjórnarandstaðan gerði við afgreiðslu fjárlaga, þ.e. við nefndum þá að það væri meginverkefni stjórnvalda að greiða úr skuldavanda heimilanna, en með aðgerðaleysi hefur vandi þeirra aukist jafnt og þétt. Til viðbótar vil ég nefna að skattastefnan hefur ekki liðkað til fyrir heimilum landsins og afkomumöguleikum þeirra.

Ég vil einnig fjalla um mál sem tengist Sjúkratryggingum því að það er mjög lýsandi dæmi um hvernig ekki á að vinna að fjárlagagerðinni. Þegar menn úr heilbrigðisráðuneytinu mættu til fjárlaganefndar við fjárlagagerð haustið 2009, var bent á að sá sparnaður sem þar var áformaður mundi aldrei nást fram. Ástæðan fyrir því var einfaldlega sú að engin skýr stefnumótun, stefna eða leiðsögn lá fyrir um það frá ráðuneytinu til stofnunarinnar hvernig ná ætti fram þeim 20% sparnaði sem heilbrigðisráðuneytið þóttist ætla að ná fram á þeim fjárlagalið. Á það hefur verið bent, m.a. af Ríkisendurskoðun, að ráðuneytið brást algerlega hlutverki sínu að þessu leyti bæði við gerð og framkvæmd fjárlaga og var það í fullkomnu samræmi við þær athugasemdir sem bornar voru upp af minni hluta fjárlaganefndar þegar ráðuneytið kynnti þessi áform sín.

Það segir töluvert um virðingarleysi framkvæmdarvaldsins gagnvart fjárreiðulögum og framkvæmd fjárlaga og því miður er það ekki nýr veruleiki sem ég lýsi hér. Það er full ástæða til þess að gjalda varhuga við því þegar framkvæmdarvaldið tekur sér vald og ákvarðar umfang þjónustu án samþykkis kjörinna handhafa fjárveitingavaldsins sem liggur hjá Alþingi. Það er hægt að tína til mýgrút dæma í þessu sambandi, bæði gömul og ný dæmi, ég legg áherslu á það.

Fram kemur í títtnefndri úttekt Ríkisendurskoðunar á framkvæmd fjárlaga þessa árs að forsætisráðuneytið sjálft fer ekki að þessum lögum og heimilar útgjöld á árinu 2010 sem eiga að koma til greiðslu á fjárlögum 2011, mörgum mánuðum áður en fjárlaganefndin fær fjárlagafrumvarp næsta árs til umfjöllunar.

Efnahags- og viðskiptaráðuneytið sækir um 180 millj. kr. fjárheimild í fjáraukalögunum. Burðurinn í þeirri ósk er ráðning á starfsmönnum sem var fyrir löngu búið að ráða til starfa þannig að fjárveitingavaldið er ekki einu sinni búið að staðfesta þá gjörð. En þannig ganga þessir hlutir og hafa gert það en svoleiðis á það ekki að vera. Eins og ég hef getið um er það ekki nýr veruleiki.

Sem betur fer hefur allt frá árinu 2008 ríkt mjög mikil og eindregin samstaða um það — í umræðum manna í það minnsta — að auka agann í ríkisfjármálum. Sums staðar erum við farin að sjá bata í því, sem betur fer. Fram til ársins 2008 getum við sagt að í rauninni hafi ekki verið um eiginlega útgjaldastýringu að ræða heldur miklu fremur um afkomustýringu, stofnunum leyfðist að fara fram úr útgjaldaheimildum fjárlaga í rekstri sínum svo framarlega sem þær voru innan fjárheimilda þegar tillit hafði verið tekið til markaðra tekna og ríkistekna.

Ég vil að lokum segja að ljóst er að fjárreiður ríkisins eru ekki í nægjanlega föstum skorðum enn. Markmið stjórnvalda ætti að vera að gera fjárlögin þannig úr garði að ekki þurfi að koma til grundvallarleiðréttinga ár hvert með aukafjárlögum. Þá er mikilvægt að við fjárlagagerð hvers árs sé samhengi hlutanna ljóst.

Við sem stöndum að minnihlutaálitinu viljum leggja áherslu á að stjórnvöld móti langtímastefnu sem síðan verði fjármögnuð með eðlilegum hætti í fjárlögum ár hvert. Með þeim hætti munu forstöðumenn ríkisins geta tekist á við þau miklu vandamál sem fram undan eru í ríkisrekstrinum með raunhæfum hætti.



[15:31]
Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir innlegg hans hér og málefnalega nálgun á viðfangsefnið. Það er ætíð svo þegar hv. þingmaður leggur til málanna að á það hlustar maður.

Menn tala um mikilvægi þess að gæta aðhalds og ábyrgðar í rekstri fjármála ríkisins og þingmaðurinn var á þeim nótunum, og undir niðri í minnihlutaálitinu kemur fram að menn hafi kannski ekki náð þeim árangri sem að var stefnt í útgjöldum og þeim aðhaldsmarkmiðum sem stefnt var að. En öðrum þræði koma hér svo upp hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar og kvarta sáran yfir aðgerðum ríkisstjórnarinnar til þess að ná árangri í ríkisfjármálum. Ýmist eru skattar hækkaðir of mikið eða á ranga aðila, ég man hér eftir umræðu um auðlegðarskatt eða afnám sjómannaafsláttar og svo mætti lengi telja, eða þá að niðurskurðurinn er of mikill, gengið er of hart fram gagnvart heilbrigðismálum, menntamálum, velferðarmálum, tilfærslum. Um leið kalla menn eftir aðgerðum í skuldavanda heimilanna og benda þar á ríkisstjórnina og kalla eftir útgjaldaaukningu af hálfu ríkisstjórnar.

Ég er ekki að segja að hv. þingmaður sé sekur um þetta háttalag, hann er samkvæmur sjálfum sér að miklu leyti, en mig langar að kalla eftir skoðunum hans á þessu og ég spyr: Erum við ekki öll sammála um að við þurfum að ná árangri í ríkisrekstrinum, að laga útgjöldin að tekjunum? Er það ekki sameiginlegt markmið okkar að reyna að hækka tekjurnar með einhverjum hætti og taka á útgjöldunum til þess að við náum árangri? (Gripið fram í.) Og þá langar mig að spyrja hv. þingmann: Hvar sér hann leiðir til þess að ná betri árangri í stýringu útgjalda? Hvar mundi hann bera niður til þess að ná að laga útgjöldin að þeim tekjum sem við erum að afla?



[15:34]
Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Þetta er nú svo lítil og léttvæg spurning að ég þyrfti varla tæpar tvær mínútur til að svara henni. Ég var raunar búinn að hvísla því að hv. þm. Oddnýju Harðardóttur í fjárlaganefnd hvernig við ættum að gera þetta allt saman.

Það sem ég vil segja af þessu tilefni er þetta: Við höfum og munum alltaf hafa þau sjónarmið uppi sem hv. þingmaður lýsir gagnvart einstökum tillögum í því hvernig á að auka tekjur eða hvernig á að skera niður gjöld. Meginlínurnar eiga hins vegar að liggja fyrir og á vera þokkaleg samstaða um þær og ég tel raunar að svo sé varðandi afkomu ríkissjóðs, þ.e. á hvaða tíma við ætlum okkur að ná heildarjöfnuði í ríkisfjármálum, þ.e. árið 2010.

Við gerðum tilraun til þess við fjárlagagerð fyrir árið 2010, sjálfstæðismenn, að efna í þetta samráð sem ég tel nauðsynlegt ef við ætlum að ná þokkalegum tökum á þessu. Ég tel það grundvallaratriði ef við eigum að ná tökum á þessu að við náum saman um það.

Við buðum upp í þann dans, sjálfstæðismenn, að skera niður og lækka ríkisútgjöldin í sameiningu. Við lögðum þessa tillögu fram við fjárlagagerðina og slík tillaga hafði ekki komið fram í mörg, mörg herrans ár ef þá menn minntust þess nokkurn tíma. Við buðum upp á það að lækka ríkisútgjöldin ef ég man rétt um 10–15 milljarða, en menn leiðrétta mig þá ef þetta er röng tala. (PHB: Átta.) Átta, er kallað hér framan úr sal, það gæti vel verið. Engu að síður er þetta töluverð fjárhæð. Því tilboði var því miður ekki tekið.

Ég er raunar þeirrar skoðunar að við eigum fullt af færum, áður en við förum að skera eða tæta niður grunnþjónustu eigum við (Forseti hringir.) fullt af færum til þess að létta okkur það verk. Ég kem væntanlega að því í síðara andsvari mínu.



[15:36]
Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir hans nálgun og hlakka til að heyra seinna andsvar hans. Ég er til í að koma í 8–10 milljarða niðurskurð, það er ekki vandamálið, en mér þætti vænt um að heyra hvar hv. þingmaður mundi bera niður í viðkomandi málaflokka.

Ég er sammála honum að við getum ekki vænst þess að einkaneyslan muni halda uppi eða veita okkur þá viðspyrnu sem við þurfum í efnahagskerfi okkar. Ég held að við hljótum að horfa til þess að við þurfum með einhverjum hætti — og um það held ég að við hv. þingmaður séum sammála — að auka fjárfestingar í hagkerfi okkar. Við þurfum að auðvelda fyrirtækjum að fara að gera áætlanir til framtíðar, að þau hafi lygnan sjó til að sigla eftir, að menn viti hvað framtíðin ber í skauti sér og þori þess vegna að fara að ráðast í fjárfestingar.

Við getum hjálpað til, stjórnmálamenn, með því að flækjast ekki allt of mikið fyrir svo að fyrirtækin í landinu geti aftur farið að fjárfesta, ráða fólk í vinnu og afla meiri tekna. Við hljótum að horfa til aukinna fjárfestinga fyrirtækja með því að endurskipuleggja skuldir þeirra. Við hljótum líka að horfa til þess að geta með einhverjum hætti stutt við erlendar fjárfestingar inn í hagkerfi okkar. Ég tel að meginviðfangsefni stjórnmálamanna næstu vikurnar sé að takast á við það verkefni: Hvernig getum við aukið fjárfestingu í hagkerfi okkar?

Mér þætti vænt um að heyra hvaða skoðanir hv. þingmaður hefur á því og með hvaða hætti við gætum þá best aðstoðað til að fyrirtækin í landinu geti aftur farið að fjárfesta, til að t.d. orkufyrirtækin í landinu geti aftur fengið aðgengi að erlendu lánsfé til þess að þau geti ráðist í fjárfestingar o.s.frv.



[15:38]
Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni málefnalega umræðu og góða. Frá því að okkur lenti fyrst saman hér eftir að við byrjuðum á þingi, í örsnörpum orðræðum þá, höfum við alltaf getað átt þess kost að eiga góð skoðanaskipti og mér sýnist engin breyting á því og ég fagna því.

Til að gera þetta þokkalega greinargott verður maður oft að draga saman og reyna að ræða þetta í stærri heildum. Fyrst, hvar ég teldi réttast að byrja á að bera niður. Það er að stækka skattstofna ríkisins og til þess tel ég full færi með því í rauninni að breyta um stjórnarstefnu. Ég veit ekki hvort ég á að nefna það hér með þeim orðum, sem þó væri heiðarlegast að gera, að ég teldi réttast að skipta um ríkisstjórn en ég held að það dygði að skipta út þeim áherslum sem vinstri græn hafa í atvinnumálum í ríkisstjórninni og þeim viðhorfum sem vinstri græn hafa gagnvart erlendri fjárfestingu í landinu.

Eitt lítið dæmi, af því að ég veit að hv. þingmaður er mikill áhugamaður um það mál og hefur barist fyrir því að reyna að ná því fram, er fjárfesting í gagnaveri suður með sjó. Ég held að við deilum þeirri skoðun báðir að við skiljum ekki í rauninni hvað veldur því að það mál er ekki komið lengra en raun ber vitni. Ég held að öflugasta efnahagsaðgerðin sem við gætum gripið til í dag væri að skipta út þeim áherslum sem standa í vegi slíkra mála, hvernig svo sem við förum að því. Ég skal tylla mér niður við fyrsta tækifæri með hv. þingmanni. Og af því að hann kallar eftir hugmyndum mínum og tillögum varðandi niðurskurð bendi ég honum á grein í Morgunblaðinu fyrir nokkrum vikum eftir þann sem hér stendur. (MSch: Ég les ekki Moggann. ) Hv. þingmaður bendir mér á það að hann lesi ekki Morgunblaðið. Þá hefur hann ekki efni til þess að fara í þroskaða (Forseti hringir.) umræðu við mig um niðurskurðartillögur í fjárlögum. [Hlátur í þingsal.]



[15:40]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Í fjáraukalögum er tekið á þeim óvæntu útgjöldum eða tekjum sem ríkissjóður hefur eða afleiðingu af nýrri lagasetningu. Þau eiga að taka á því.

Þann 6. febrúar sl. ákvað íslenska þjóðin að taka úr gildi lög sem höfðu verið samþykkt á Alþingi hinn 30. desember um Icesave. Við það hefði átt að lækka skuldsetning ríkissjóðs, lán sem búið var að taka með lögum upp á 700 milljarða kr. Við það hefðu átt að minnka gjöld ríkissjóðs vegna vaxta af þessu sama láni upp á 40 milljarða kr. Af hverju í ósköpunum minnist hv. þingmaður ekkert á þetta?



[15:41]
Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Forseti. Ástæða þess að ég minnist ekki á þetta mál er einfaldlega sú að ég er enginn áhugamaður um að þessar fjárhæðir komi inn í reikninga ríkisins.



[15:41]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þessir reikningar áttu að vera inni í fjárlögum, þeir áttu að vera þar en þeir voru það ekki. Ég hef gagnrýnt það aftur og aftur. Þeir áttu að vera þar, bæði lánsfjárheimildin fyrir 700 milljörðum sem og útgjöldin, vextir af þeirri sömu upphæð í heilt ár frá ársbyrjun 2009, sem voru um 40 milljarðar, áttu að vera inni í fjárlögunum. Maður hlýtur að gera kröfu til þess að það sé minnst á þetta. Ég ætla svo sem ekki að gagnrýna hv. þingmann fyrir það vegna þess að það var hæstv. fjármálaráðherra sem brást í þessu sem og meiri hluti fjárlaganefndar sem samþykkti fjárlögin fyrir árið 2010.



[15:42]
Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal mikla og öfluga baráttu sína í Icesave-málinu meðan við vorum að glíma við það og hann á heiður skilinn fyrir framgöngu sína í því.

Í grunninn er ég alveg sammála þeim athugasemdum og sjónarmiðum sem hv. þingmaður setti hér fram en ætli við verðum ekki einfaldlega að gera ráð fyrir því að fyrirhyggjan hafi verið svo mikil við setningu fjárlaga ársins 2010 að menn hafi séð það fyrir að við mundum ekki leggja þær byrðar sem í stefndi á herðar íslenskum skattgreiðendum á árinu 2010. Ég held að það sé að koma í ljós og þess vegna höfum við ekki haft þessar heimildir inni.



[15:43]Útbýting:

[15:45]
Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Forseti. Ég vil í upphafi þakka þeim sem hér hafa tekið til máls. Þetta hafa verið góðar og málefnalegar umræður. Ég held að menn séu um margt sammála en áherslur manna eru þó mismunandi. Það var gaman að hlusta á sjálfstæðismenn ræða um mikilvægi Icesave og ég tel að ég þurfi að koma að þeim lið nú strax svo ég verði ekki sakaður um að hafa gleymt því stóra og mikilvæga máli. Ef við hefðum ákveðið að samþykkja þá afarkosti sem voru settir fyrir okkur og þjóðin kaus um værum við að borga á bilinu 36–40 milljarða bara fyrir árið 2010. Þá er ótalið allt árið 2009 vegna þess að til stóð að við mundum borga vexti aftur í tímann og jafnvel umfram skyldu.

Síðan verð ég nú að koma félögum mínum í Vinstri grænum til bjargar. Ég gat ekki skilið hv. þm. Kristján Þór Júlíusson öðruvísi en að þeir einir stæðu í vegi fyrir atvinnuuppbyggingu í Þingeyjarsýslum. Ég tek undir að þeir hafa ekki verið sérstaklega þægilegir en bendi á að það var ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins sem gerði það að verkum að áformin um álver á Bakka á Húsavík voru sett í sameiginlegt mat (Gripið fram í.) Ég held að það verði að koma skýrt fram. Þetta er bara staðreynd, hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson sem ég held að við verðum að ræða (Gripið fram í.) svo heiðarleika sé gætt í umræðunni.

Eins og ég benti á í upphafi umræðunnar fyrir fjárlögin fyrir árið 2010 eru menn einfaldlega ekki öruggir með þær tölur sem þeir bera á borð fyrir þjóðina. Þetta sagði ég í umræðunni fyrir um ári og hér stend ég ári seinna og það hefur komið í ljós að ég hafði rétt fyrir mér. Nú liggur það fyrir að vaxtagjöld eru um 25 milljörðum kr. undir áætlun tímabilsins. Í fjárlögum var gert ráð fyrir að heildargjöld A-hluta ríkissjóðs á tímabilinu janúar til ágúst 2010 yrðu 379 milljarðar kr. en raunin varð 354 milljarðar kr. sem er 25 milljörðum kr. undir áætlun tímabilsins.

Áður en ég held lengra áfram verð ég að taka fram að ég mæli hér fyrir áliti 2. minni hluta fjárlaganefndar en ásamt þeim sem hér stendur ritar undir álitið þingmaður Hreyfingarinnar, Þór Saari.

Í fjárlögum 2010 var gert ráð fyrir að vaxtagjöld næmu 94,3 milljörðum kr. en við 2. umræðu um fjáraukalagafrumvarpið er gert ráð fyrir að þau nemi 70,3 milljörðum kr. Þau hafa því lækkað um 24 milljarða kr. Að mati 2. minni hluta er stór hluti af skýringunni ónákvæmni í áætlanagerð fjármálaráðuneytisins, m.a. í minni lántökum en ráð var fyrir gert frá samstarfsþjóðum í efnahagsáætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins

Ég vil taka það skýrt fram að sá sem hér stendur og formaður Framsóknarflokksins börðumst gegn því á sínum tíma að Íslendingar mundu taka öll þau lán sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn lagði til að þjóðin mundi taka. Því fagna ég að ríkisstjórnin hefur (TÞH: Hvað með norsku lánin?) ákveðið að taka minni lán frá nágrannaþjóðum, m.a. Noregi, en gert var ráð fyrir. Við börðumst einmitt fyrir því að þetta yrði (Gripið fram í.) sett í lánalínu (Gripið fram í.) og það varð að veruleika. Ég tel því að ríkisstjórnin hafi stigið mjög jákvæð skref í þessum efnum.

Það er fleira sem kemur til en þessar erlendu lántökur eða vextirnir sem við þurfum að greiða af þeim. Einnig komu til uppkaup á erlendum skuldum ríkissjóðs fyrir gjalddaga sem ekki virðist hafa verið gert ráð fyrir í áætlunum. Auk þess hefur gengi íslensku krónunnar styrkst og við það lækka erlendar skuldir. Á móti þessum lækkunum koma aukin vaxtagjöld vegna skuldabréfs sem ríkissjóður gaf út í evrum við kaup á bréfum Avens B.V. Ítarlega hefur verið farið yfir tilurð þess láns í umræðunni svo ég tel óþarfa að gera það hér.

Við fall bankanna kom í ljós að ríkissjóður bar enn ábyrgð á skuldum sem einkabankarnir yfirtóku við einkavæðingu þeirra. Í fjáraukalagafrumvarpinu þarf að hækka fjárheimild Ríkisábyrgðasjóðs um ríflega 1 milljarð kr. vegna afborgana og vaxta lána sem voru með ábyrgð ríkisins í lánasöfnum föllnu bankanna þriggja. Því kemur það mjög á óvart að svo virðist sem milljarðar króna kunni að falla á ríkissjóð vegna þessa. Telur 2. minni hluti mikilvægt að upplýst verði sem fyrst um fjárhæð þeirra heildarkrafna sem ríkissjóður mun yfirtaka vegna þessa en ríkissjóður hefur greitt af lánunum frá því að bankarnir féllu árið 2008. Mun 2. minni hluti fjalla nánar um þessi mál við afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins.

Í fjáraukalagafrumvarpinu er gert ráð fyrir að útgjöld Atvinnuleysistryggingasjóðs lækki um ríflega 2,5 milljarða kr. frá forsendum fjárlagafrumvarps vegna minna atvinnuleysis en spáð var. Útgjöld vegna lífeyristrygginga hafa reynst mun lægri en áætlað var og liggur skýringin m.a. í betri lífeyrisréttindum en gert var ráð fyrir. Einnig hafa fjármagnstekjur ellilífeyrisþega lækkað greiðslur samkvæmt reglum þar um. Loks má nefna að bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð hafa lækkað verulega.

Hvað varðar tekjuhliðina er í fjárlögum 2010 gert ráð fyrir 98,8 milljarða kr. halla á rekstri ríkissjóðs en við 2. umr. um frumvarp til fjáraukalaga 2010 er hallinn kominn niður í 58,1 milljarð kr. og hefur því lækkað um 40,7 milljarða kr. Í fljótu bragði mætti halda að náðst hefði mjög góður árangur í fjármálastjórn ríkisins. Þegar betur er að gáð skýrist allt of stór hluti árangursins af einskiptisaðgerðum. Má þar fyrst nefna Avens-snúninginn svokallaða en í honum felst samkomulag milli Seðlabankans og lífeyrissjóðanna um kaup á íbúðabréfum. Forsaga málsins er í stuttu máli sú að í maí sl. gerði ríkissjóður samkomulag við Seðlabankann í Lúxemborg um kaup á þessum bréfum þar sem að baki voru aðallega íbúðabréf en einnig ríkisbréf og reiðufé. Greiddi ríkissjóður fyrir þessar eignir með skuldabréfi að fjárhæð 401,5 milljónir evra, jafngildi um 64 milljarða kr., auk 35 milljóna evra og 5 milljarða kr. í reiðufé. Með kaupunum tryggði ríkissjóður sér full yfirráð yfir eignum Avens B.V. sem var stærsti einstaki eigandi krónueigna utan Íslands en krónueignir félagsins námu um fjórðungi allra krónueigna erlendra aðila. Bókfærðar tekjur ríkissjóðs vegna samkomulagsins nema um 17,5 milljörðum kr. Í öðru lagi var ekki gert ráð fyrir sölu sendiherrabústaðar í London að fjárhæð 1,7 milljarðar kr. Alls skila þessar tvær aðgerðir 19,2 milljarða kr. tekjum til ríkissjóðs sem ekki var gert ráð fyrir í áætlunum fjárlaga.

Í þessu sambandi gagnrýnir 2. minni hluti að í frumvarpinu er gert ráð fyrir að keyptur verði sendiherrabústaður í London fyrir 835 milljónir kr. í stað þess sem seldur var og að til viðhalds hans verði varið milljónum króna. Telur 2. minni hluti að ekki eigi að kaupa nýjan bústað á meðan verið er að skera niður fjárframlög til grunnstoða samfélagsins.

Annar minni hluti lýsir yfir áhyggjum af því að tekjur ríkissjóðs af tekjuskatti einstaklinga og staðgreiðslu hafa lækkað um 5,1 milljarð kr. frá áætlunum fjárlaga. Minnkandi kaupmáttur getur valdið meiri samdrætti í efnahagslífinu en orðið er. Er í þessu sambandi lýst yfir áhyggjum af því hve mikið fjárfesting hefur minnkað eða um 19,3% frá forsendum fjárlaga.

Það er rétt að vekja athygli á því í þessu samhengi að fyrirhugaðar skattahækkanir munu draga kraft úr einstaklingum og fyrirtækjum og gera það að verkum að eftirspurnin verður minni og hagvöxturinn minni. Til að mynda var hagvöxtur minni en forsendur fjárlaga gerðu ráð fyrir en helstu frávik eru að fjárfesting hefur minnkað á milli ára um 14,5% en gert var ráð fyrir að hún ykist um 4,8%. Jafnframt lýsi ég því yfir að samdráttur í kaupmætti er áhyggjuefni, því öflugur kaupmáttur er ein af forsendum hagvaxtar.

Samkvæmt frumvarpinu og breytingartillögum meiri hlutans aukast tekjur um 15,8 milljarða kr. Hefði eignasalan ekki komið fram hefðu tekjur dregist saman um 3,4 milljarða kr. Það sem einkum veldur áhyggjum er að skattar á tekjur og hagnað einstaklinga lækka um 4,7 milljarða kr. frá forsendum fjárlaga þrátt fyrir minna atvinnuleysi en gert var ráð fyrir í frumvarpinu.

Í máli hv. formanns fjárlaganefndar kom fram að meiri hlutinn telur að góður og mikill agi í ríkisfjármálum hafi náðst og bendir máli sínu til stuðnings á að fjölmargar stofnanir eru nú betur innan marka og ramma fjárlaga heldur en áður hefur verið. Að því leyti vill 2. minni hluti fjárlaganefndar benda á að á undanförnum tveimur áratugum hefur Ríkisendurskoðun gagnrýnt framkvæmd fjárlaga og bent á ýmsa misbresti í fjárlagagerðinni. Hefur stofnunin þannig ítrekað bent á að almennt agaleysi hafi verið í rekstri fjölmargra stofnana, sem og að bindandi fyrirmæli fjárlaga hafa ekki verið virt. Hefur stofnunin því hvatt til þess að ábyrgð ráðuneyta á fjárreiðum ríkisstofnana verði gerð afdráttarlaus í gildandi lögum og reglum.

Í skýrslu sinni fyrir fyrstu átta mánuði ársins 2010 gagnrýnir Ríkisendurskoðun harðlega að enn fari stofnanir umfram heimildir í rekstri sínum og að enn vanti upp á að rekstraráætlanir stofnana hafi verið samþykktar eða færðar inn í kerfið. 2. minni hluti tekur undir með Ríkisendurskoðun um að gera verði skýlausa kröfu til ráðuneyta að stofnanir sem undir þau heyra séu reknar innan fjárheimilda. Taka þurfi á uppsöfnuðum halla stofnana með afgerandi hætti, annaðhvort með kröfu um samdrátt í rekstri þeirra eða að þær fái nægilegar fjárheimildir. Nýleg dæmi sem upp hafa komið um afleiðingar slælegs eftirlits í einstökum málum eru til vitnisburðar um að efna þarf eftirlit með umsýslu opinbers fjár.

Ekki hefur verið tekið tillit til ábendinga Ríkisendurskoðunar um aukið eftirlit með þeim fjármunum sem Alþingi úthlutar og eftirfylgni með fjárreiðum ríkisins og áætlanagerð hefur ekki tekið miklum breytingum síðastliðin tvö ár. Engin lög hafa verið sett til að styrkja eftirlitið utan heimilda sem Ríkisendurskoðun fékk til að afla skýrslna fyrir fjárlaganefnd með lögum nr. 56/2009 og með þingsályktunartillögu frá 11. júní sama ár þar sem Ríkisendurskoðun er heimilt að veita fjárlaganefnd Alþingis aðgang að þeim gögnum sem hún aflar eða leggja fram skýrslu. 2. minni hluti bendir því á að langur vegur er frá því að Alþingi geti rækt eftirlitshlutverk sitt með skýrum hætti og þann þátt stjórnkerfisins verður að styrkja.

Annar minni hluti gagnrýnir að ríkisstjórnin virðist ekki fylgja langtímaáætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum á árunum 2009–2013 sem Alþingi hefur samþykkt. Þar er kveðið á um með hvaða hætti ætlast er til að ríkisstjórnin og þingið vinni. Þar kemur m.a. fram:

„Einstakir ráðherrar geri ekki samkomulag eða gefi yfirlýsingar sem feli í sér útgjaldaskuldbindingar af hálfu ríkisins nema gert hafi verið sérstaklega ráð fyrir því að í fjárheimildum gildandi fjárlaga og fjármálaráðherra hafi fallist á skuldbindinguna.“

Rík samstaða hefur ríkt um það frá því bankarnir féllu haustið 2008 að auka agann í ríkisfjármálum og auknar heimildir Ríkisendurskoðunar til gagnaöflunar sýna að okkur miðar í rétta átt. Því harmar 2. minni hluti að í fjáraukalagafrumvarpinu komi fram fjölmörg dæmi um að ráðherra geri samkomulag eða gefi út yfirlýsingar sem fela í sér útgjaldaskuldbindingar án þess að gert hafi verið ráð fyrir þeim í fjárheimildum fjárlaga.

Virðulegi forseti. Að því búnu vil ég benda á að vandinn sem Íslendingar glíma við er mikill. Við horfum upp á að vaxtakostnaður hefur aukist gríðarlega á undanförnum árum. Hann er þó minni en áður var talið. Það er erfitt í sjálfu sér að henda reiður á af hverju það stafar. Upplýsingar vantar um tilgang lánanna, í hvað þeim er ætlað að fara og hvort Seðlabankinn eða ríkissjóður taki þessi lán. Eitthvað af þeim fer í að mæta hallanum. Um það er ekki deilt. Einhver hluti fer í að styrkja gjaldeyrisvaraforða Seðlabankans. Við horfum samt fram á það vandamál að inni í hagkerfinu liggja um 600 milljarðar, eftir því sem ég best veit, í svokölluðum krónubréfum. Fjármunir sem bíða í rauninni eftir því að við tökum gjaldeyrishöftin af. Ég held að því miður sé staðan einfaldlega þannig að við verðum að hafa gjaldeyrishöftin til þó nokkurrar framtíðar vegna þess að okkur hefur í rauninni ekki tekist að búa til hagvöxt og fá meiri tekjur inn í samfélagið til að standa undir þeim greiðslum. Þá hefur ríkisstjórnin því miður ekki gert nógu mikinn reka í að ná samkomulagi við þessa aðila en á það benti ég strax í kjölfar bankahrunsins að það væri mjög mikilvægt að gera.

Þegar við ræddum þessa stöðu fyrir um ári síðan benti ég á að skuldastaða þjóðarinnar væri mikið áhyggjuefni. Ég ræddi Icesave og þær skuldir sem þá stóð til að leggja á heimilin og unga fólkið okkar í framtíðinni. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn nefndi í skýrslu sinni á þeim tíma að hann teldi að erlendar skuldir Íslendinga hefðu verið um 300% af vergri þjóðarframleiðslu. Ég benti á það þá og geri nú að við þurfum að ræða þessa skuldastöðu og taka hana alvarlega. Við skulum minnast orða Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem nefndi á sínum tíma að ef skuldahlutfallið færi yfir 240% teldi hann að staða þjóða væri einfaldlega þannig að þær væru hugsanlega tæknilega gjaldþrota.

Þegar menn líta til sjálfbærni skuldastöðunnar verða menn einnig að horfa til verðmætis útflutnings, innflutnings, lánskjara erlendra lána og ávöxtunar erlendra eigna Íslendinga. Okkur hefur því miður ekki tekist að skapa nægilegan gjaldeyri til að mæta vöxtum og afborgunum. Fyrst okkur tekst það ekki held ég að það blasi við að ríkisstjórnin verður að leita einhverra leiða til að mæta þessum vöxtum og afborgunum.

Ég vona að sú leið verði ekki farin að taka aukin lán eða selja eignir. Ég vona að ríkisstjórnin breyti í stefnu, t.d. í efnahagsmálum. Það skiptir gríðarlega miklu máli að auka fiskveiðikvóta, að koma í gang framkvæmdum, álversframkvæmdum, annars vegar á Bakka við Húsavík og hins vegar í Helguvík á suðvesturhorninu. Um leið getum við skapað tekjur þannig að við horfum ekki upp á það í framtíðinni að þurfa að greiða þessa gríðarlegu vexti sem eru í rauninni stór hluti af þeim niðurskurði sem við glímum við í dag.

Að lokum vil ég þó benda á að fjárlagafrumvarpið sem við fjöllum um hér, þ.e. fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2010 og líka fjárlagafrumvarpið fyrir 2011 sem við munum ræða eftir tvær vikur, þau byggjast bæði í rauninni á röngum tölum. Til að mynda var fjárlagafrumvarp fyrir árið 2011 byggt á hagtölum frá því í júní sem miðuðu við 3,2% hagvöxt. Nú hefur OECD og ný spá frá Hagstofunni leitt í ljós að hagvöxturinn verður undir 2%. OECD segir að hann verði eitthvað í kringum 1,5%. Þetta þýðir í rauninni að tekjur hafa verið ofmetnar hér á landi um 15 milljarða eða svo. Það mun væntanlega leiða af sér að atvinnuleysi verður meira sem er gríðarlegt áhyggjuefni að mínu mati. Ég bendi á að það kemur hvergi fram í tillögum ríkisstjórnarinnar, hvorki í núverandi fjáraukalögum né í fjárlögum, að það eigi að ráða bót á því atvinnuleysi. Það er í rauninni gert ráð fyrir því að atvinnuleysistölurnar verði áfram svipaðar og þær hafa verið. En ef við tökum mið af nýju hagvaxtarspánum held ég að við verðum því miður að horfast í augu við að atvinnuleysi muni aukast. Það þýðir einfaldlega meiri útgjöld fyrir ríkissjóð sem síðan leiðir af sér meiri niðurskurð.

Svo ég dragi þetta saman tel ég að við verðum að fara þá braut að sækja meiri tekjur. Við verðum að taka á skuldavanda heimilanna. Ef okkur tekst það, ef við komumst upp úr þeim hjólförum sem ríkisstjórnin hefur verið í, í rauninni alveg frá því hún tók til starfa, getum við komið okkur út úr vandanum. Það verður því miður ekki gert með þeirri stefnu sem við höfum horft upp á að undanförnu.

Að lokum vil ég þakka fyrir umræðuna. Hún hefur verið góð og málefnaleg. Það eru fjölmörg mál sem við munum taka á inni í fjárlaganefnd á milli 2. og 3. umr. og skila svo af okkur fyrir 3. umræðu.



[16:07]
Björn Valur Gíslason (Vg):

Eins og fram kemur í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar sem lagt hefur verið fram varð ríkissjóður fyrir gríðarlegu áfalli haustið 2008 í kjölfar falls íslensku bankanna. Ríkissjóður sem nánast var skuldlaus tók þá á sig gríðarlegar skuldbindingar og skuldir og setti íslenska ríkið og íslensku þjóðina í allt aðra og verri stöðu en við höfum áður búið við. Erfiðleikarnir sem við okkur blöstu voru gríðarlegir sem birtust m.a. í miklu atvinnuleysi, skuldasöfnun heimila, fyrirtækja og sveitarfélaga sem settu hlutina í allt annað samhengi en áður hafði verið. Þar við bættust langvarandi lausatök á ríkisfjármálum sem gerðu það að verkum að enn erfiðara var að bregðast við þessum miklu erfiðleikum sem við glímdum við. Þjóðin var almennt illa búin undir þetta áfall og ríkissjóður þar með talinn. Um þetta þarf ekki að fara mörgum orðum enda hefur margoft verið rætt hér á þingi bæði um orsakir og afleiðingar sem við glímum við varðandi efnahagshrunið og fall bankanna. Litlu er við það að bæta.

Við erum samt komin óraveg frá þeim sporum sem við stóðum í árið 2009 þegar ríkisstjórnir Samfylkingar og Vinstri grænna tóku við. Ég tala nú ekki um þeim ósköpum sem við okkur blöstu árið 2008 við fall bankanna. Þær raddir heyrast í það minnsta ekki lengur í þessum sal að rétt sé að innlima íslenska ríkið í hinn svokallaða Parísarklúbb þjóða sem efnahagsleg örbirgð hrjáir hvað mest. Ég hef hvorki heyrt á það minnst úr þessum ræðustól né annars staðar úr samfélaginu frá því í fyrrasumar. Þó töluðu einhverjir af fullri alvöru, meira að segja hv. þingmenn sumir hverjir, um að við ættum að sækja um aðgöngu að þeim mikla og skemmtilega klúbbi.

Það er ekki lengur talað um þjóðargjaldþrot í dag. (ÞSa: Ó, jú.) Það er ekki lengur talað um uppgjöf fyrir verkefninu eins og svo oft var rætt um í þessum sal og spekingar í samfélaginu sem sáu yfirleitt enga leið út úr vandanum aðra en að fela okkur á vald annarra þjóða. Hér heyrist nú reyndar hv. þm. Þór Saari kalla fram í úr salnum „ó, jú“ og tekur þar með undir að hann óttist þjóðargjaldþrot. Ég er ósammála því. Við erum á allt öðrum stað en við vorum. Við erum á réttri leið. Við skulum sleppa því hverjum það er að þakka eða hverjum það er að kenna af hverju við erum ekki komin lengra. Við erum svo sannarlega á réttri leið eins og ræður þingmanna í dag hafa svo sannarlega fjallað um.

Efnahagsástandið er miklu betra en það var. Það er betra en því var spáð. Um það verður ekki deilt þó menn kunni að hafa ýmsar skoðanir á því eins og ég sagði áðan hverju er um að kenna og hverju er að þakka, eftir því hvernig á það er litið.

En eigum við samt ekki að vera sammála um þessa meginniðurstöðu og gleðjast yfir því að okkur hefur miðað í rétta átt? Er einhver ástæða til að gera minna úr árangrinum sem blasir við okkur? Þó vildum við öll vera laus úr þessum vanda nú þegar. Sá árangur hefur þó náðst í ríkisfjármálum að ríkissjóður, sem stefndi í hátt í 180–200 milljarða halla sumarið 2009, er nú kominn niður í hallarekstur upp á 58 milljarða eins og blasir við okkur í dag. Einhvern veginn hefur það nú gerst. Einhvern veginn tókst það samt sem áður. Þrátt fyrir að margt hafi lagst með okkur og annað hafi reynst okkur erfitt og tafið endurreisnina er ekki hægt að líta fram hjá því að margar aðgerðir sem við höfum gripið til í efnahagsmálum hafa skilað tilætluðum árangri. Sumt hefur gengið betur en áætlað var en sumt ekki eins og gengur og gerist.

Þetta þýðir þó ekki að verkinu sé lokið og ekkert óunnið á þessum vettvangi. Það er langt því frá að svo sé eins og meiri hluti fjárlaganefndar bendir á í nefndaráliti sínu og reyndar aðrir þingmenn hafa komið inn á í máli sínu í dag. Árangurinn sem hefur náðst þrátt fyrir allt og staðan sem við erum í er betri en áætlað var þrátt fyrir allt. Þetta á að hvetja okkur til dáða. Reka okkur áfram til að ná betri árangri og standa við áætlunina í efnahagsmálum sem við ætlum okkur að gera.

Næsta ár verður okkur mjög erfitt. Það mun að mörgu leyti ráða úrslitum um það hvernig okkur muni til takast við áframhaldandi uppbyggingu efnahagslífsins og byggja undir velferðarkerfið sem við viljum flest búa við hér á landi. Það mun kosta fórnir, við vitum það, og áframhaldandi erfiðleika, við vitum það. Erfiðleikarnir verða aldrei umflúnir hvort sem við ætlum að takast á við vandann í dag eða fresta honum. Með því að fresta honum aukum við á erfiðleikana og gerum það enn sársaukafyllra en það þarf að vera. Við þurfum að enda á því að eiga fyrir útgjöldum okkar.

Þegar ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar tók við völdum vorið 2009 stefndi hátt í 200 milljarða kr. halla ef ekkert yrði að gert. Það var ekki glæsileg aðkoma, hvorki stjórnvalda sem tóku við né nýrra þingmanna eða eldri sem settust í þennan sal eftir alþingiskosningarnar. Verkið er auðvitað okkar allra. Það var alveg ljóst að ef ekki yrði gripið til aðgerða mundum við lenda í fullkomnum ógöngum í ríkisrekstrinum með alvarlegum afleiðingum sem ekki þarf að fjölyrða um hér.

Strax um sumarið 2009, fljótlega eftir að ný ríkisstjórn var mynduð, var gripið til umfangsmikilla aðgerða, bæði við tekjuöflun sem og samdrátt í ríkisútgjöldum. Aðgerðirnar skiluðu umtalsverðum árangri auk þess lagðist eitt og annað með okkur sem var sem betur fer ekki fyrirséð. Þannig er það bara annað slagið.

Niðurstaða ársins 2009 var halli upp á 136 milljarða ef ég man rétt, innan við 140 milljarðar, í stað 188–200 sem að stefndi. Mun minni halli en blasti við þó gríðarlega há upphæð hafi staðið eftir á hallareikningnum. Halli upp á tæp 140 milljarða árið 2009 þýddi að ríkissjóður var rekinn með nærri 400 millj. kr. tapi á hverjum einasta degi ársins.

Í fjárlögum ársins í ár var lagt upp með rétt um 100 milljarða kr. halla eins og margoft hefur komið fram í dag sem er ígildi þess að ríkissjóður sé rekinn með rétt tæplega 300 millj. kr. halla á hverjum degi. Þetta mikla tap og það sem á undan hafði gengið getur ekki haldið áfram. Það sér hver maður og undirstrikar nauðsyn þess að halda fast í áætlanir um jöfnuð í ríkisfjármálum, þó það kunni að kosta tímabundnar óvinsældir eða jafnvel ævarandi óvinsældir þeirra sem þurfa að taka ákvarðanirnar. Hér er ekki um einstaklinginn að ræða, heldur er þjóðin öll undir. Þetta er hafið yfir einstaklingsvinsældir eða tímabundnar aðgerðir. Þetta eru aðgerðir sem þurfa að standa.

Á niðurskurðarhliðinni hefur verið farið í aðgerðir til að draga úr útgjöldum ríkisins. Þar sem lögð hefur verið meiri áhersla á að verja heilbrigðis-, félags- og menntamál í tvígang, bæði við fjárlög við upptöku gildandi fjárlaga ársins 2009 sem og við fjárlagagerð fyrir árið 2010 þar sem gerð hefur verið minni krafa á félagslega hluta ríkisrekstrarins en annars staðar — helmingi minni krafa.

Aðgerðirnar sem hafa hins vegar snúið að því að afla ríkissjóði meiri tekna hafa verið umdeildar og falist í margvíslegum tekjuaflandi aðgerðum, skattahækkunum og fleiru slíku sem ég ætla að gera að umfjöllunarefni mínu. Ég vitna þá, með leyfi forseta, í áfangaskýrslu starfshóps um breytingar og umbætur í skattkerfinu sem skilaði í haust þessari áfangaskýrslu um árangur sem náðst hefur í þeim skattbreytingum sem gripið hefur verið til

Aðgerðir sem gripið hefur verið til eru hækkun tekjuskatts, hækkun tryggingagjalds, vörugjald á gjaldskrárhækkanir, hækkun á efra þrep virðisaukaskatts, upptaka nýrra skatta, svo sem auðlegðarskatts, umhverfis- og auðlindaskatts auk þess sem séreignarsparnaður hefur skilað umtalsverðum tekjum bæði til ríkis og sveitarfélaga. Um þetta segir, með leyfi forseta, í áðurnefndri skýrslu, áfangaskýrslu starfshóps um breytingar og umbætur í skattakerfinu:

„Við gerð áætlunar um jöfnuð í ríkisfjármálum var grunnlínan miðuð við áætlun AGS um hver þróun ríkisfjármála yrði ef ekki yrði gripið til aðhaldsaðgerða. Var í þeirri áætlun og í aðgerðaáætluninni fyrst og fremst unnið með frumgjöld og frumtekjur þar sem stjórnvöld geta breytt þeim stærðum með ákvörðunum sínum en vaxtagreiðslur og þar með heildarjöfnuður eru afleiddar stærðir.“

Áfram segir, með leyfi forseta:

„Tekjur ársins 2009 reyndust nokkuð hærri en áætlað hafði verið vegna þess að ráðstafanir í tekjuöflun ríkisins skiluðu sér vel og eins reyndist fall VLF minna en áætlað hafði verið. Hækkun tekna á árinu 2009 frá grunnáætlun AGS reyndist vera 1,6% og áætlað er að á árinu 2010 verði hækkun frá grunnáætlun orðin 2,3%“ frá því sem áætlað var.

Samkvæmt niðurstöðum sem lesa má úr skýrslunni hefur tekist vel í heildina, þ.e. tekjujöfnunaraðgerðir sem gripið var til, hafa tekist vel. Þær hafa skilað árangri, þó sumar séu enn undir áætlun meðan aðrar eru yfir. Ég ætla að hlaupa örstutt yfir helstu aðgerðir sem gripið var til til að útskýra það.

Varðandi tekjuskatt á einstaklinga var áætlað að 8% hátekjuskattur og 5% skattur á háar fjármagnstekjur sem lagður var á seinni hluta ársins 2009 mundi skila 2,6 milljörðum í tekjuauka. Sú spá gekk eftir. Nýtt þriggja þrepa kerfi sem tekið var upp 2010 var talið að mundi skila um 15 milljörðum í tekjuauka. Innheimtur tekjuskattur í staðgreiðslu hefur aukist um 4,6 milljarða, eða 11,2% á fyrri helmingi árs en er samt sem áður undir áætlun. Þess er að gæta að heildaráhrif munu ekki liggja fyrir fyrr en við álagningu árið 2011.

Í fjárlögum 2010 var reiknað með að nýr auðlegðarskattur mundi skila 3,5 milljörðum á árinu. Samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra nam álagning hans 3,8 milljörðum, aðeins yfir því sem áætlað var. Ekkert bendir til annars en þessi tekjuöflun muni ganga eftir á yfirstandandi ári, þ.e. 2010.

Önnur gjöld líkt og bensíngjöld sem voru hækkuð á árinu 2009 hafa skilað sér inn á því ári og munu halda í horfinu það sem af er ársins. Sama á við um olíugjald og umhverfis- og auðlindagjöld sem virðast ætla að halda í horfinu frá því sem var á árinu 2009 fram til ársins 2010.

Virðisaukaskattur sem í ársbyrjun 2010 kom til framkvæmda, þ.e. almenn hækkun á virðisaukaskattsþrepinu úr 24,5% í 25,5% skilaði ríkissjóði 4 milljörðum kr. viðbótartekjum á heilu ári. Fyrstu sjö mánuði yfirstandandi árs eru skil á virðisaukaskatti tæplega 3% yfir áætlun og ekkert sem bendir til þess að hækkun hlutfallsins hafi ekki skilað sér.

Virðulegi forseti. Í skýrslu hópsins segir almennt um skattbreytingarnar sem hefur verið gripið til varðandi tekjuöflunarhliðina að samanlagt hafa þær tekjuöflunaraðgerðir sem gripið var til á árunum 2009 og 2010 nokkurn veginn gengið eftir þótt frávik sem gangi í báðar áttir sé að finna varðandi einstaka tekjustofna. Það er ljóst að þrátt fyrir þá gagnrýni sem höfð hefur verið uppi varðandi tekjuöflunarleiðirnar sem sannarlega var ekki farið í að gamni sínu, ríkisstjórnin og Alþingi tók þessar ákvarðanir ekki bara til að taka þær. Það var ekki lagt upp með að hafa þetta í einhverjum flimtingum, það var ástæða til þess að afla ríkinu tekna. Ríkissjóður hafði orðið fyrir miklu tekjutapi og það varð að ná því upp á móti því að draga úr útgjöldum.

Ásamt því að afla ríkinu tekna með breytingum á skattkerfinu, bæði með hækkun skatta og upptöku nýrra skatta, var áætlunin og markmiðið ekki síður að bæta skattkerfið. Gera það eins og núverandi stjórnarflokkar vilja standa fyrir, þ.e. jafnræðis verði gætt í skattlagningu og skattbyrðin dreifist á skattborgara með sanngjarnari hætti en gert hefur verið fram til dagsins í dag. Fram til síðasta árs réttara sagt. Jafna tekjudreifingu í þjóðfélaginu, stuðla að félagslegum markmiðum og tryggja félagslegt öryggi. Tryggja þjóðinni ekki síst mesta hlutdeild í arði auðlinda hennar. Þessum málum hefur ekki verið sinnt á undanförnum árum og áratugum. Skattkerfið var orðið flatt og ómarkvisst og skilaði ekki þeim árangri sem til var ætlast. (Gripið fram í.)

Ég segi þetta og fjalla um þetta, virðulegi forseti, til að minna á að náðst hefur árangur við rekstur ríkisins. Auðvitað er það líka þannig, eins og ég hef bent á áður og fleiri hafa nefnt, að ýmislegt hefur lagst okkur til við endurreisn efnahagslífsins. Þó það nú væri. Þó svo að okkur finnist við glíma við eilíf vandræði frá degi til dags, eldgos og hrun í loðnuveiðum og fleira slíkt sem hefur verið að hrjá okkur sem hefur svo sannarlega ekki gert okkur hlutina léttari en þeir þurftu að vera. Sem betur fer fellur eitt og annað með okkur. Þannig er lífið einu sinni og sem betur fer. Okkur hættir þó stundum til að festast í því sem miður fer en því sem vel tekst upp. Auðvitað eigum við að fagna því þegar vel tekst til.

Sala eigna umfram það sem áætlað var í fjárlögum hefur hjálpað verulega til. Þar vega þyngst tekjur vegna Avens-samkomulagsins sem allir ræðumenn hafa rætt um í þessari umræðu. Ég ætla ekki að fara inn í þá umræðu frekar, það hefur margoft komið fram í hverju það felst. Allt þetta leggst auðvitað með okkur í þeirri baráttu sem við eigum við að etja að reisa efnahagslíf landsins við. Að sjálfsögðu eigum við að gleðjast yfir því þegar blæs í seglin, jafnvel þótt tímabundið sé, svo framarlega sem við þokumst í rétta átt.

Við eigum ekki heldur að tæta niður það sem vel hefur tekist til, stjórnvaldsaðgerðir sem hafa leitt til þess að við stöndum betur að vígi en við gerðum áður en lagt var af stað. Það ber ekki síður að gleðjast yfir árangrinum sem stjórnendur og forstöðumenn stofnana ríkisins hafa náð við rekstur stofnana sinna. Eins og fram hefur komið hefur stofnunum sem farið hafa umfram fjárheimildir fækkað umtalsvert. Af þeim fjárlagaliðum sem skilgreindir hafa verið veikastir í upphafi ársins hefur ríflega helmingi þeirra tekist að halda sig innan fjárlagaheimilda sem þeim var sniðinn og ber að fagna því. Öll ráðuneyti utan heilbrigðisráðuneytisins eru innan settra marka um rekstur og útgjöld sem er mun betra en þekkst hefur til margra ára. Þetta sýnir glöggt getu og metnað sem starfsmenn ríkisins, stjórnendur, embættismenn og annað starfsfólk hefur til að koma böndum á rekstur stofnana sinna.

Árangur næst ekki nema allir leggist á árarnar og rói í sömu átt. Það gerum við flest held ég þó róðrarlagið megi stundum vera betra. Ekki síst ber að þakka fjárlaganefnd og þeim sem hafa starfað þar, bæði í ár og á síðasta ári, og þeirri vinnu sem þar hefur verið unnin og viðhorfinu sem endurspeglast í störfum þeirra sem þar sitja gagnvart þessu verkefni sem við stöndum frammi fyrir.

Ég leyfi mér að fullyrða að þrátt fyrir minni hluta og meiri hluta og flokkadrætti sem koma oft upp er markmiðið okkar það sama. Okkur kann að greina á um leiðir en við erum einhuga um markmiðið sem betur fer. Þá óttast ég ekkert að við munum ná því sem við ætlum okkur eins og kemur fram í frumvarpinu til fjáraukalaga sem við ræðum í dag. Það er til vitnis um að við höfum flest með einum eða öðrum hætti reynt að leggjast á árarnar og róa í sömu átti. Við höfum reynt að leggja okkur fram um að ná árangri. Við eigum hvorki að draga úr okkar hlut í þeim ágæta árangri sem náðst hefur né gera of mikið úr honum, við skulum ekki gera það heldur. Við skulum tína til það sem vel hefur tekist og við skulum læra af því sem miður hefur farið og leggja upp í erfiðan leiðangur sem fram undan er á næsta ári og við fjárlagagerð næsta árs með það að leiðarljósi að vera raunsæ í verkum okkar. Þá mun okkur farnast vel eins og mér finnst við vera að gera og frumvarpið sem hér er til umræðu vitnar um að mínu mati.



[16:27]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna sem var nánast að öllu leyti mjög málefnaleg. Ég staldra hins vegar við tvennt. Annars vegar gerir hv. þingmaður mikið úr þeim árangri sem náðst hefur með skattahækkunum. Ég geri mér grein fyrir því að ég get ekki rætt þær hér þar sem við erum afar ósammála um þær leiðir. Það kemur fram í fjáraukalögunum að tekjuskattur á einstaklinga er að dragast saman um 5,1 milljarð og bæta þarf við vaxtabætur upp á tæpa 1,8 milljarða. Í ljósi þess langar mig að spyrja hvort hv. þingmaður hafi ekki töluverðar áhyggjur af stöðu fjölskyldnanna í landinu. Ég hef verulegar áhyggjur af því að við séum búnir að taka of mikið af ráðstöfunartekjum fjölskyldnanna en okkur berast fréttir alla daga um ástandið hjá fjölskyldunum.

Hins vegar kemur líka fram í fjáraukalagafrumvarpinu að gerðar eru breytingar um 4 milljarða í tekjubótunum hjá elli- og örorkulífeyrisþegum. Þær aðgerðir sem ríkisstjórnin fór í gagnvart þessum tveimur veiku hópum, ef ég má nota það orð — staða þeirra er yfirleitt mjög bágborin, þó ekki allra — miðað við það sem ríkisstjórnin ætlaði sér þá er búið að skerða um 4 milljarða í viðbót hjá þessum hópi.

Því vil ég spyrja hv. þingmann hvort hann hafi ekki verulegar áhyggjur af því að við séum að ganga of hart fram gagnvart elli- og örorkulífeyrisþegum miðað við þær hugmyndir sem menn höfðu í upphafi og einnig af stöðu fjölskyldnanna. Það kemur mjög skýrt fram að það vantar 5,1 milljarð upp á tekjuskatt einstaklinga. Um það gerir meiri hlutinn breytingartillögu.



[16:29]
Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Vissulega hef ég áhyggjur af fjölskyldum þessa lands, skuldugum fjölskyldum, þeim sem eiga við erfiðleika að etja, atvinnuleysi og annað slíkt. Vissulega hef ég áhyggjur af því, þó það nú væri. Ég er fjölskyldumaður sjálfur. Börnin mín glíma við þessa erfiðleika rétt eins og hverjir aðrir í landinu, eins og allir aðrir sem tengjast háttvirtum þingmönnum sem sitja hér í þessum sal og þeim 63 sem hingað voru kosnir. Auðvitað höfum við áhyggjur af því. Auðvitað höfum við áhyggjur af því hvort gengið er of hart fram gegn íbúum þessa lands, nóg er nú samt sem á fólk er lagt.

Tekjuskattur dregst saman og er undir áætlunum, það er áhyggjuefni. Það er fyrst og fremst áhyggjuefni vegna þess að tekjur eru að lækka. Tekjur hafa lækkað umfram það sem við áætluðum. Við höfum reynt að ná í meiri tekjur með hækkun tekjuskatts en af þeim sökum hefur það ekki gengið eftir.

Vaxtabæturnar aukast vegna þess að tekjurnar eru að lækka, það eru fleiri sem fara undir þau mörk sem vaxtabætur miðast við. En að bæta í vaxtabæturnar er þó aðgerð til að koma til móts við það fólk, eins og gert er í frumvarpi sem við ræðum hér og verður væntanlega gert í fjárlagafrumvarpinu sem við eigum eftir að afgreiða á þinginu.

Það er algjörlega hárrétt sem kemur fram hjá hv. þm. Ásbirni Óttarssyni, við eigum að hafa áhyggjur af þeim erfiðleikum sem fjölskyldur í landinu eiga við að etja. Við eigum alltaf að hugsa um hvort verið sé að ganga of langt gegn rétti þeirra, án þess að lofa því að ekki verði um erfiðleika að etja um alllanga hríð héðan í frá, því þannig mun það nú einfaldlega verða. (Forseti hringir.)



[16:31]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Ég heyri það á hv. þingmanni að hann er meðvitaður um að vægar þurfi að ganga fram gagnvart fjölskyldunum í landinu. Mér finnst hins vegar öll teikn vera á lofti um að við séum að fara of harkalega fram, t.d. gegn ellilífeyris- og örorkuþegum.

Hv. þingmaður kom inn á það í ræðu sinni að mikill árangur hefði náðst. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni og ætla ekki að gera lítið úr 40 milljarða viðsnúningi. Við ætluðum að reka ríkissjóð með 98 milljarða halla og förum niður í 58 milljarða. Hv. þingmaður kom líka inn á það í ræðu sinni, sem var mjög fínt, að það eru í raun og veru tvær aðgerðir eða tveir liðir sem gera það að verkum að við náum þessum mikla bata. Í fyrsta lagi er það sala eigna og hið svokallaða Avens-samkomulag og síðan lækkun vaxtagjalda. Ég lít á svo, virðulegi forseti, að þetta séu einskiptisaðgerðir. Hefðu þær ekki komið til væri hallinn á ríkissjóði kominn yfir 100 milljarða.

Ég er sammála hv. þingmanni um að við verðum að ná tökum á útgjöldum ríkisins, gera ríkissjóð sjálfbæran. Það er verkefni númer eitt og númer tvö og númer þrjú. Þess vegna vil ég spyrja hv. þingmann hvort það sé ekki mjög mikilvægt að við séum meðvituð um það í þessum sal — af því ég sé nú að það er ekki mikill áhugi hjá þingmönnum að taka þátt í umræðunni, hér eru einungis fjórir, fimm þingmenn í salnum — þegar við erum að takast á við framhaldið, eins og hv. þingmaður kom inn á í ræðu sinni. Árið 2012 og 2013 þurfum við hugsanlega að skera jafnvel enn frekar niður þannig að við verðum að vera meðvituð um verkefnið og megum ekki að hlaupa undan því á harðahlaupum. Það er gríðarlega mikilvægt að við náum tökum á halla ríkissjóðs.

Ég er sammála því sem hv. þingmaður sagði til viðbótar að samstaðan og samstarfið inni í hv. fjárlaganefnd er mjög gott. Við getum örugglega verið í 95% tilfella sammála um að við þurfum að efla og styrkja það samstarf enn frekar því verkefnið er jú velferð landsins og það er okkar allra að sinna því.



[16:33]
Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég ítreka það sem ég sagði áðan að auðvitað verðum við ævinlega að hafa í huga hvaða afleiðingar aðgerðir okkar hafa hverju sinni, hvort of harkalega er gengið fram gagnvart einstökum aðilum í samfélaginu eða ekki.

Ég ítreka og bendi líka á, eins og hv. þingmaður Ásbjörn Óttarsson nefndi í síðara andsvari sínu, að við horfum lengra fram í tímann en til ársins 2011. Við horfum fram til ársins 2012 og til ársins 2013 þegar við ætlum okkur að vera búin að ná jöfnuði í ríkisfjármálum. Á það markmið eigum við að einblína umfram annað. Það er nauðsynlegt að halda áfram á þeirri vegferð sem við erum, þ.e. að ná árangri sem þessum, ef við ætlum að byggja upp velferðarsamfélag og öryggi fyrir íbúa landsins. Það verður eingöngu tryggt með öruggri og traustri fjármálastjórn. Það mun breyta öllu í þeirri framtíð sem við eigum að horfa til. Það verður ekki gert ef við drögum á langinn þau verkefni sem verður hvort eð er að fara í. Þá er eins gott að gera það af þeim krafti sem við erum að gera og ætlum okkur að gera og standa við.

Varðandi þá tvo þætti sem þingmaðurinn hv. nefndi áðan og taldi að hefðu breytt öllu, söluna á Avens-bréfunum og minni vaxtagreiðslur, þá er ég ósammála því. Það sem ég reyndi að segja í ræðu minni áðan var að jafnvel þótt þeir þættir væru teknir út til hliðar, værum við samt að ná árangri. Þær aðgerðir sem við gripum til skiluðu árangri. Við værum auðvitað í verri stöðu. En hvað hefði gerst ef við hefðum ekki gripið til þeirra aðgerða sem við þó gerðum og skiluðu okkur meiri og betri árangri? Um það verður ekki deilt.



[16:36]
Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér fjáraukann svokallaða eða heimildir vegna fjáraukalaga fyrir árið 2010. Það má ýmislegt um þetta segja og hafa um þetta langt mál, það hefur að vísu flest allt komið fram sem máli skiptir í ræðum hv. þingmanna á undan mér. Það sem sést skýrt er að hér er unnið að gerð fjárlaga við miklar óvissuaðstæður og það hefur verið svo undanfarin ár og e.t.v. er það að mörgu leyti skiljanlegt að fjáraukalögin þurfi að taka mið af því vegna þess að sjaldan hefur verið meira óvissuástand í efnahagsmálum hér en undanfarin ár. Ég er ekki endilega sammála meiri hluta fjárlaganefndar um árangurinn. Það er auðveldi hlutinn að horfa á debet- og kreditdálkana í fjárlögunum. Þar er ekki tekinn með sá kostnaður sem fylgir niðurskurðinum, þ.e. öllu því fólki sem ber skarðan hlut frá borði, missir atvinnuna, lækkar í launum eða þarf að flytja úr landi. Það er erfitt að reikna slíkt tjón inn í fjárlög eða fjáraukalög en að tala um fjárlögin sem góðan árangur er til of mikils mælst að mínu áliti.

Ég ætla að tæpa hér á einu sérstöku atriði í fjáraukalögunum sem mér finnst þurfa að ræða betur og fjalla betur um á vettvangi fjárlaganefndar. Það er sá kostnaður sem er að byrja að falla til núna og er vegna þeirra ríkisábyrgða sem voru á sumum skuldum bankanna þegar þeir voru einkavæddir, ríkisábyrgðir sem fylgdu lántökum Landsbankans og Búnaðarbankans og fylgdu lánunum þegar þeir voru seldir. Einnig er um að ræða einhverjar ríkisábyrgðir á lánum sem voru í Glitni og svo skuldir Lánasjóðs landbúnaðarins en einkavæðingarsinnunum góðu hugnaðist einnig mjög að sá sjóður yrði einkavæddur á sínum tíma og hann var seldur Landsbankanum. Þetta er bara til marks um það að auk kreppunnar glímum við enn við afleiðingar einkavæðingaræðisins sem hér ríkti og var framkvæmt af ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og við súpum nú seyðið af. Mörgum var óskiljanlegt hvers vegna fyrirbæri eins og t.d. Lánasjóður landbúnaðarins var einkavæddur, og það hefur enn ekki komið í ljós hvers vegna þær skuldir sem voru með ríkisábyrgðunum voru skildar eftir í gömlu bönkunum við flutninginn yfir í nýju bankanna. Þetta er eitthvað sem við munum óska eftir upplýsingum um áður en kemur að framhaldsumræðu um fjárlögin vegna þess að hér er um að ræða umtalsverðar upphæðir á næstu árum sem munu geta fallið á ríkissjóð. Að mínu mati er skylt að það verði upplýst með mjög skýrum hætti hvers vegna þau útgjöld eru komin til en þau eru komin til vegna þeirrar einkavæðingar sem fór fram. Það verður að halda því til haga eins og kostur er hvað hún hefur kostað og mun kosta samfélagið inn í framtíðina. Nánari sundurliðanir á þessum liðum munu því vonandi liggja fyrir fljótlega. Við munum óska eftir því formlega ef með þarf.

Annað sem hér hefur verið talað um og er mjög mikilvægt atriði og hv. þm. Björn Valur Gíslason tæpti á er langtímastefna í fjárlögum. Það er mjög mikilvægt líka að stofnanir geti gert ráð fyrir til lengri tíma en árs í senn þeim fjármunum sem þær fá úthlutað. Þetta hefur komið mörgum stofnunum mjög illa, en því hefur oft verið haldið á lofti að þessar stofnanir líði fyrir það á fjárlögum að þær hegði sér á einhvern hátt pólitískt óæskilega. Hér þarf að vera ákveðinn lagarammi um það hverjar fjárveitingar eru til stofnana a.m.k. fimm ár fram í tímann með einhvers konar bráðabirgðaákvæðum um að þær megi víkja út af því vegna sérstakra ástæðna eða eitthvað svoleiðis. Hér hef ég kannski fyrst og fremst í huga mikilvægar stofnanir sem standa vörð um lýðræðið eins og t.d. Ríkisútvarpið, að í þeim hrærigraut sem íslenskir fjölmiðlar eru í í dag er hlutverk Ríkisútvarpsins í lýðræðislegu umræðunni mikilvægara en nokkru sinni fyrr. Við sáum það í aðdraganda kosninga til stjórnlagaþingsins hvernig stofnunin getur í raun ekki sinnt hlutverki sínu nema með einhverjum bráðabirgðaatriðum eða dagskrá sem er hrist fram úr erminni á síðustu dögum fyrir kosningar.

Ég fagna því, og mun í framhaldinu leggja meiri áherslu á það innan fjárlaganefndar, að það verði skoðað með hvaða hætti langtímastefna í fjárlagagerð fer fram í nágrannaríkjunum. Það er ekki alltaf best að gera hlutina eins og við höfum gert þá á Íslandi. Það hefur komið okkur rækilega í koll að halda það. Og það eitt og sér ef næst að koma skikki á langtímaáætlanir ríkissjóðs í fjárlögum mun leiða til meiri stöðugleika í efnahagsmálum hér en verið hefur hingað til.

Að öðru leyti ætla ég ekki að hafa fleiri orð um fjáraukann. Við munum útskýra betur afstöðu okkar til fjárlaganna þegar þau koma fram fyrir næsta ár. Þar er enn þá um að ræða, eins og hér í fjáraukanum, vanáætlanir í skattamálum og gjaldamálum. Það eru áætlanir sem hægt er að lagfæra án þess endilega að láta almenning í landinu bera þær byrðar, það má ná í það fé annars staðar. Við munum því koma fram með breytingartillögur á þeim vettvangi.



[16:43]
Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Í upphafi máls míns fagna ég þeirri niðurstöðu sem náðst hefur í rekstri ríkissjóðs. Það var gert ráð fyrir að ríkissjóður yrði rekinn með 98 milljarða kr. halla á þessu ári. Niðurstaðan er hins vegar sú að hallinn verður um 58 milljarðar kr., sem er um 40 milljarða kr. viðsnúningur á rekstri ríkissjóðs. Það er gríðarlega ánægjulegt. Því til viðbótar ber að nefna að við höfum glímt við það í mörg ár að stofnanir fara umfram fjárheimildir í rekstri og þeim stofnunum hefur fækkað. Það er mjög jákvætt að þetta tvennt skuli gerast, annars vegar að hallinn sé mun minni en gert var ráð fyrir og hins vegar að mun færri stofnanir eru umfram fjárheimildir en verið hefur undanfarin ár. Það er mikilvægt að maður haldi því til haga sem vel gengur.

Ég held að það sé mjög mikilvægt að við gerum okkur öll grein fyrir því þó að við sem störfum í fjárlaganefnd ættum að gera okkur betur grein fyrir því en aðrir, ekki það að ég sé að gera lítið úr störfum annarra þingmanna, það má ekki skilja það þannig, að það er fyrst og fremst tvennt sem veldur þessum góða bata. Annars vegar eru lægri vaxtagjöld hjá ríkissjóði upp á 24 milljarða kr. sem skýrist af þremur liðum aðallega, það er minna tekið af erlendum lánum, gengið hefur styrkst og síðan hefur Seðlabankinn keypt upp erlend skuldabréf. Það er annar stóri pósturinn upp á 24 milljarða kr.

Hinn pósturinn er sala eigna. Tvennt skýrir það sem skilar okkur um 19,5 milljörðum kr. í tekjuauka, annars vegar svokallað Avens-samkomulag sem var gert við Seðlabankann í Lúxemborg þar sem keypt voru svokölluð jöklabréf og hins vegar að við seldum sendiherrabústað upp á 1,7 milljarða kr. í London.

Það er hins vegar mjög mikilvægt út af því verkefni sem fram undan er að hv. þingmenn geri sér grein fyrir því að þetta tvennt ræður að stærstu leyti þeim viðsnúningi sem kemur fram í frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2010.

Af hverju er ég að ítreka þetta? Ég er ekki að gera það af neinni neikvæðni, ég er að benda á staðreyndir. Árið 2011 mun verða mjög erfitt eins og við höfum séð af fréttum undanfarinna daga í ljósi nýrrar hagspár þar sem verulega er dregið úr hagvexti sem mun kosta ríkissjóð 6, 8 eða jafnvel 10 milljarða kr. í tekjumissi. Fjárlagaskrifstofa fjármálaráðuneytisins á reyndar eftir að greina okkur frá því hvað það mun þýða í raun og veru en þetta eru mjög stórar tölur. Þetta er mjög mikilvægt að hafa í huga þegar við tökumst á við vandamálin fram undan. Mín skoðun er alveg klár í því að við verðum að ná niður hallarekstri ríkissjóðs. Það verður ekkert hlaupist undan því verkefni. Síðan greinir okkur á um það hvernig við eigum að gera það. Við höfum lagt fram efnahagstillögur sjálfstæðismanna og teljum þær leiðir sem við viljum fara að sjálfsögðu skynsamlegri en stjórnarmeirihlutans. Það er svo sem ekkert nýtt undir sólinni með það. Ég ætla ekki að fara inn í þá umræðu við þessi fjáraukalög. Ég mun frekar gera það við fjárlagafrumvarpið þegar við ræðum það.

Eigi að síður, þó að vel hafi tekist til við að ná utan um eins og ég sagði áðan að færri stofnanir eru reknar með halla eru samt þrjár enn þá sem verða klárlega með halla á árinu 2010, og 10 stofnanir til viðbótar hafa ekki skilað rekstraráætlunum og allt bendir til að þær verði ekki innan fjárlagaramma síns árið 2010.

Mig langar í framhaldi af þessu að nefna það að við gerð fjárlaga fyrir árið 2010, þ.e. fyrir tæpu ári, bentum við margoft á það hér, fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og margir hverjir aðrir, að það væri innbyggður halli í fjárlögunum og þá væru menn að fresta vandanum og vildu ekki horfast í augu við hann. Það var eitt dæmi sem við nefndum sérstaklega. Ég ræddi það margoft og benti á það en mér var tjáð í þeirri umræðu að þetta væri ekki sanngjarnt og ekki rétt því að það mundi ganga eftir. Þetta var Landspítalinn. Ef við rifjum það aðeins upp var gerð krafa á árinu 2010 um niðurskurð á Landspítalanum upp á 3,2 milljarða kr. og síðan var hann með uppsafnaðan halla upp á 2,8 milljarða kr. Í raun og veru átti Landspítalinn að spara 6 milljarða kr. á árinu 2010. Þetta taldi ég ekki framkvæmanlegt nema þá að menn gæfu mjög skýr skilaboð um það frá heilbrigðisráðuneytinu að leggja niður einhverja ákveðna starfsemi til að draga úr þessum halla. Síðan kemur í ljós að heilbrigðisráðuneytið gerir samkomulag við Landspítalann um að frysta, eins og kallað er, þennan 2,8 milljarða kr. uppsafnaða halla. Forsendur fyrir því samkomulagi frá heilbrigðisráðuneytinu voru þá að Landspítalinn mundi halda sig innan fjárlaga á árinu 2010, þ.e. hann mundi þá spara um 3,2 milljarða kr. á þessu ári. Það hefur komið fram að undanförnu að Landspítalanum er að takast þetta ætlunarverk sitt og það er mikið fagnaðarefni. En ég bendi á þetta þannig að við sleppum því ekki oft og tíðum að horfast í augu við vandann og skilja eftir innbyggðan halla.

Síðan er það alveg klárt að þessi heimild heilbrigðisráðuneytisins er ólögleg samkvæmt fjárreiðulögunum. Hvaða skoðun sem menn kunna að hafa á því hvort þessi aðgerð sé skynsamleg eða ekki er þetta samt ekki heimilt. Við þurfum að fara eftir fjárlögum. Ég er þeirrar skoðunar að við þurfum að gera það vegna þess að það er ekki hægt að fá athugasemdir frá Ríkisendurskoðun ár eftir ár um að það sé verið að brjóta fjárlögin. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar eins og ég sagði áðan að við þurfum að breyta þeim til þess einmitt að gera hluti sem þessa, þ.e. ef stofnanir standa sig vel og geta sýnt fram á að þær munu ráða við þann halla sem þær eru með er það mjög skynsamlegt. Við þyrftum að ganga í það hið fyrsta.

Það kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar að 10 aðrar stofnanir eru ekki með samþykktar fjárhagsáætlanir inn í árið 2010 og það er akkúrat vegna þessara hluta. Þær eru með uppsafnaðan halla og það er ekki fræðilegur möguleiki fyrir stofnanirnar að ráða við hann á einu ári. Ef við mundum hins vegar breyta fjárreiðulögunum væri hægt að gera samninga við viðkomandi stofnanir um að þær mættu vinna hann niður á lengri tíma. Þess vegna tel ég mjög mikilvægt að við gerum það.

Það er líka mikið áhyggjuefni sem kemur fram í breytingartillögunum að tekjuskattur einstaklinga er 5,1 milljarði kr. minni en gert var ráð fyrir. Veltuskattarnir eru hins vegar margir hverjir að skila sér, sumir meira, aðrir minna, en helsta áhyggjumál mitt er að tekjuskattar einstaklinga dragast saman um 5,1 milljarð kr. Þetta finnst mér, virðulegi forseti, grafalvarlegt mál. Þetta er nefnilega þrátt fyrir að það er minna atvinnuleysi en gert var ráð fyrir í forsendum fjárlaga 2010. Samt skila skattar sér ekki. Ég hef verið að velta þessu dálítið fyrir mér. Margir hæstv. ráðherrar hreykja sér af því að atvinnuleysið sé nú minna en reiknað var með og það er ekki vegna þess að ríkisstjórnin skapi störf, um það er ekki deilt. Ég held hins vegar að skýringin á þessu sé sú að vinnumarkaðurinn er miklu sveigjanlegri en við reiknuðum með. Hvað hefur verið til að mynda í fréttum á undanförnum vikum og mánuðum um að í mörgum fyrirtækjum, bæði stærri og smærri, bæði í einkareknum og eins hjá ríkinu, er fólk tilbúið til að taka á sig lægra starfshlutfall, lægri laun til að verja heildarhagsmuni starfsfólksins? Það segir: Ég vil frekar skerða mín laun um 10% en láta fækka starfsmönnum um 10%. Ég held að þetta sé skýringin og ég held að það væri mjög gott fyrir hæstv. ríkisstjórn og hv. stjórnarliða að fara að átta sig á því að það er ekki vegna þess að þeir hafi skapað störf. Það hafa þeir alls ekki gert. Það þarf ekki að deila um það. (Gripið fram í.) Við deilum ekki, hæstv. utanríkisráðherra, um þann hluta.

Mig langar aðeins að koma inn á annað sem er mjög sláandi og væri mjög mikilvægt fyrir okkur að greina betur, þá lækkun sem á sér stað í bótaflokkum. Það er í raun og veru alveg heill frumskógur. Ég hef verið að velta þessu fyrir mér ásamt öðrum hv. þingmönnum. Tekjufærslan inni í bótaflokkunum eru 6,2 milljarðar kr. en nettóniðurstaðan er tæpir 4 milljarðar kr. sem ríkið greiðir minna í bótaflokkana, þ.e. til elli- og örorkulífeyrisþega. Fyrir þessu eru margar ástæður, fjármagnstekjuskatturinn, nú er farið að ganga harðar gagnvart honum, hærri lífeyrisréttindi fólks og þar fram eftir götunum. Ég hef verið dálítið hugsi yfir forsendunni fyrir þessu. Það hefur reyndar komið í ljós að þetta var fært til félagsmálaráðuneytisins 2008 og síðan hafa menn einhvern veginn ekki náð utan um flokkinn. Þegar lagðar voru fram tekjuskerðingar á elli- og örorkulífeyrisþega reiknuðu menn með því að gera það með þeim hætti að það væri 4 milljörðum kr. minni skerðing. Það hlýtur að hafa verið hugsunin. Þess vegna leggjum við í 1. minni hluta mikla áherslu á að þetta verði skoðað sérstaklega og til að hnykkja á einu atriði til viðbótar, til að undirstrika hvað menn fálma út í myrkrið, er í einum liðnum gert ráð fyrir 373 millj. kr. greiðslum vistmanna á öldrunarstofnunum. Það er í fjárlögum 2010. Í breytingartillögunum er hins vegar gert ráð fyrir að þessi liður sé hækkaður um tæpa 600 millj. kr. En það stóðu 373, það er 140% hækkun. Það er mjög mikilvægt að það verði farið sérstaklega yfir þetta og það hygg ég að hv. fjárlaganefnd mundi gera og hefur þegar lagt fyrsta grunn að því en við höfum ekki náð að festa höndina á því hvað skýrir þennan svakalega halla.

Það sem líka kemur fram hér og er mjög sláandi miðað við hagvaxtarprósentuna og hagvaxtarspána fyrir árið 2010 og það sem gerist hér er að fjárfestingin dregst saman um tæp 20%. Við reiknuðum með aukningu upp á tæp 5% og niðurstaðan er rúmur 14% samdráttur. Þetta er minnsta fjárfesting á lýðveldistímanum. Hvað er það sem skapar hagvöxt, virðulegur forseti? Það er að sjálfsögðu geta fyrirtækja og heimila til að fjárfesta. Það liggur alveg klárt fyrir, ekki deilum við um það. Tekjuskattur einstaklinga er 5,1 milljarði kr. minni, oftekið tryggingagjald af fyrirtækjunum er 2,6 milljarðar kr. Ég velti fyrir mér, virðulegi forseti, og hef af því áhyggjur þar sem ríkisvaldið tekur of mikið af tryggingagjaldi sem er mjög óheppilegt við núverandi aðstæður þegar þarf að fjárfesta, þegar fyrirtækin þurfa að hafa getu til að fjárfesta til að búa til hagvöxt. Þá eru teknir 2,6 milljarðar kr.

Ég teldi mjög skynsamlegt fyrir ríkisvaldið að lækka tryggingagjaldið því að það er ekkert annað en skattur á atvinnu. Eftir því sem skatturinn er hærri, því minna svigrúm hafa fyrirtækin til að ráða til sín starfsfólk. Í ofanálag árétta ég það sem ég hef svo margsagt í þessum ræðustóli: Hvað er að gerast gagnvart fyrirtækjunum í landinu, bæði stórum og smáum? Það sem er að gerast þar er að fjármálastofnanirnar eru að hækka vaxtaálagið á fyrirtækjunum. Um hvað? Þær rúmlega tvöfalda það og ég hef séð dæmi um það. Til mín kom maður sem rekur fyrirtæki, hann er með öll sín lán í skilum, hefur alla tíð verið, og var með 2% vaxtaálag. Síðan er þessi fjármálastofnun búin að setja vaxtaálagið upp í 7%. Það ætti að vera álitamál fyrir Samkeppniseftirlitið að fara í þessa hluti, 7% segir allt sem segja þarf, á meðan fjármálastofnanirnar soga fjármagnið út úr fyrirtækjunum munu þau ekki geta fjárfest. Eru þetta hugsanlega þær vísbendingar sem við hefðum átt að sjá fyrir? Eins og ég sagði áðan hefur fjárfestingin dregist saman um tæp 20%. Þetta er hlutur sem menn verða að skoða og fara sérstaklega yfir. Fyrir utan það tel ég mjög skynsamlegt fyrir ríkisvaldið að lækka tryggingagjaldið.

Ég get ekki sleppt því að minnast á einn þátt fyrst hæstv. utanríkisráðherra er hér, ég ætlaði ekki að minnast á það til að spara ræðutíma, það er þetta bruðl að kaupa sendiherrabústað fyrir 913 millj. kr. í London. Hins vegar verð ég að halda því til haga að utanríkisráðuneytið seldi reyndar bústað upp á 1,7 milljarða kr. þannig að það er hægt að segja að það sé verið að minnka kostnaðinn svo maður sé algjörlega sanngjarn. Ég hefði talið bara skynsamlegt að menn mundu þá frekar fjárfesta í húsnæði fyrir stofnanir á Íslandi en að gera það á þeim tíma sem erlendur gjaldeyrir er mjög dýr. Það er hægt að reka utanríkisþjónustuna, a.m.k. í þessu tilfelli, á mun hagkvæmari hátt. Það hefur komið í ljós að kostnaðurinn við að leigja á þessum tíma frá því að sá gamli var seldur og nýi keyptur er í kringum 20 millj. kr. á ári. Ég tel þetta algjört bruðl.

Síðan er eitt líka mjög bagalegt og um það verðum við að taka höndum saman, og eru kannski ekki miklar deilur um það í fjárlaganefnd, það er að koma skikki á framkvæmdarvaldið. Framkvæmdarvaldið tekur sér bara það vald sem því sýnist og við sjáum í fjáraukalögunum tvennt sem ég ætla að vekja sérstaklega athygli á. Annars vegar er efnahags- og viðskiptaráðuneytið, það er búið að ráðstafa núna um 200 millj. kr. á þessu ári án þess að hafa heimild frá Alþingi til að gera það og við erum að fara að samþykkja það hér eftir viku eða tvær, þ.e. í byrjun desember. Þegar búið er að ráða starfsfólkið, búið að eyða peningunum, eigum við að samþykkja það.

Hins vegar er hitt að m.a.s. hæstv. forsætisráðherra brýtur fjáraukalögin með því að gefa heimild til þjóðgarðsins á Þingvöllum um að ráðstafa af fjárlögum ársins 2011. Það er dálítið umhugsunarvert og þessu verðum við að breyta. Það kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar þar sem sérstaklega er vakin athygli á því að forsætisráðuneytið brýtur lög. Þetta er algjörlega óviðunandi staða. Á þessu verðum við að taka og af því að hæstv. utanríkisráðherra er hér og segir að þegar aðra vanti í salinn svari hann fyrir þá, er þetta nokkuð sem gengur ekki lengur. Um þetta þarf ekki að vera pólitískur ágreiningur, þetta er eflaust búið að vera hér í mörg ár en þessu verðum við að breyta. Framkvæmdarvaldið gerir mjög lítið úr Alþingi með þessum háttum. Þó að Alþingi mundi vilja grípa inn í er það bara ekki hægt vegna þess að það er búið að eyða peningunum.

Eitt mikilvægt að lokum, virðulegi forseti, þar sem tími minn er á þrotum. (Utanrrh.: Þú getur talað aftur.) Já, kannski ég taki áskorun hæstv. ráðherra og tali aftur. (Utanrrh.: Þú ert svo helvíti fínn.) Já, já. Það sem er mjög mikilvægt að gera núna er að breyta svokölluðum mörkuðum tekjum og sértekjum stofnana. Þær verða allar að fara inn í ríkissjóð. Síðan ákvarðar Alþingi umfang og rekstur viðkomandi stofnana. Það er algjörlega óþolandi að mínu viti að núna á þessum erfiðu niðurskurðartímum skuli sumar stofnanir leika algjörlega lausum hala og fá jafnvel að bólgna út. Jafnvel stofnanir þar sem gerð er krafa um 9% niðurskurð bæta við sig. Meira að segja er eitt dæmi um stofnun sem bætir við sig 15,4% frá fjárlögum og fjáraukalögum, öllum heimildum Alþingis. Ef við náum ekki að setja markaðar tekjur og sértekjur inn í ríkissjóð, ákveða umsvif stofnunar á Alþingi og setja skýran ramma um það munum við ekki ná tökum á útgjaldastýringu ríkissjóðs. Það er ekki flóknara en það í mínum huga. Þetta eru hlutir sem verður að breyta og ættu ekki að þurfa að vera einhverjar pólitískar deilur um. Við ættum að einhenda okkur í þetta öll saman til þess að ná tökum á ríkissjóði sem er svo gríðarlega mikilvægt verkefni á þeim erfiðu tímum sem fram undan eru.



[17:03]
Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Ég kem kannski svona í almenna athugasemd. Ég tek undir með hv. þingmanni að nauðsynlegt er að gæta aðhalds og ná jafnvægi í ríkisbúskapnum og þess vegna langar mig að forvitnast aðeins um viðhorf viðkomandi þingmanns til aðhaldsaðgerða, hvernig við getum náð betri árangri í niðurskurðinum. Vill hv. þingmaður horfa til niðurskurðar í yfirstjórn? Eru það utanríkismálin? Er það búvörusamningurinn, að auka samkeppni í sölu á búvörum? Mér þætti vænt um að heyra ákveðnar hugmyndir hv. þingmanns vegna þess að í þessum sal hefur maður heyrt þingmenn koma fram og kvarta undan leiðum til tekjuaukningar, kvarta undan því að við séum að reyna að auka tekjurnar, kvarta undan því að við séum að beita óvinsælum aðhaldsaðgerðum, kvarta undan því að ekki sé hægt að ganga nær heimilum og fyrirtækjum í landinu. Ég spyr þá: Hverjir eiga að borga skattana ef það eru ekki heimilin eða fyrirtækin? Þeir koma hér upp og krefjast þess að aðhalds sé gætt í ríkisfjármálum, krefjast þess af okkur, sem berum þann kaleik að þurfa að taka við ríkisbúskapnum með 180–200 milljarða halla, að við þurfum að fara í þessar óvinsælu aðgerðir. Ég skora á þingmenn alla að koma með raunhæfar hugmyndir um hvernig við eigum að fara að í verkefninu.

Þingmaðurinn bendir á það vissulega að um er að ræða einskiptisaðgerðir sem bæta stöðuna um 40 milljarða kr. Það er minni greiðsla vaxtakostnaðar og það er Avens-samningurinn. En meðal þeirra hugmynda sem sjálfstæðismenn flögguðu hér við afgreiðslu þessara fjárlaga var sömuleiðis einskiptisaðgerð eða skattlagning séreignarsparnaðar. Horfa sjálfstæðismenn enn á þá aðgerð til að rétta af fjárlagahallann? Er það ekki dæmi um einskiptisaðgerð sem við getum ekki horft til við núverandi stöðu?



[17:05]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni andsvarið. Ná árangri í niðurskurði? Ég er alveg sammála hv. þingmanni um að það þarf að ná árangri í niðurskurði. En fyrst held ég að við verðum að gera okkur grein fyrir hver staðan er í heildinni. Ég rakti það í ræðu minni að við erum að fálma inn í eitthvert umhverfi sem við áttum okkur ekki almennilega á. Fyrst og fremst þurfum við að greina vandann. Ég vil segja það, virðulegi forseti, að ég tel t.d. að það samstarf sem er í hv. fjárlaganefnd sé gríðarlega gott og við gætum sennilega, ef við hefðum skynsemi til þess að taka pólitíkina undan og ákveða að rífast ekki um hana. (Gripið fram í.) Það er aðallega stjórnarmeirihlutinn, svo ég svari hæstv. utanríkisráðherra strax, en auðvitað er það ekki þannig, virðulegi forseti. Ef við bara settumst niður værum við sennilega sammála í 95% tilfella.

Hv. þingmaður spyr sérstaklega um séreignarsparnaðinn. Þar greinir okkur á hvernig við viljum fara í þá vegferð. Við lögðum til að séreignarsparnaðurinn yrði nýttur og það lá alveg á borðinu. Að sjálfsögðu var það einskiptisaðgerð að taka þá 80 milljarða inn í ríkissjóð en á sama tíma lögðum við til að ekki yrði farið í neinar skattahækkanir. Þá langar mig að spyrja hv. þingmann á móti af því að hann kemur aftur í andsvar: Hefur hann aldrei efast um það, sérstaklega í ljósi þess sem við horfum á núna, að skatttekjurnar eru að dragast saman? Við vorum að ræða fyrir nokkrum dögum síðan skattatillögur fyrir fjárlagaárið 2011, hvað er innbyggt þar? Tekjuskerðing á heimilin þar sem ráðstöfunartekjur heimilanna minnka um 9 milljarða, skuldir heimilanna hækka um 3 milljarða. Ég hef verulegar áhyggjur af þessu, virðulegi forseti, og tel að við hefðum betur átt að fara þá leið sem við lögðum til, sjálfstæðismenn, í fyrra.



[17:08]
Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt að heyra að aðilar í fjárlaganefnd eru að miklu leyti sammála um það sem gera þarf, 95% sammála sagði hv. þingmaður. Ég skil það þá þannig að sjálfstæðismenn séu 95% sammála um þær aðgerðir sem grípa verður til í aðhaldi eða skattahækkunum. (REÁ: Nei, nei.) Ja, ég heyrði ekki betur en þá verður hv. þingmaður að leiðrétta það því að það mátti skilja af orðum hans. (Gripið fram í.) Mér þótti hins vegar athyglisvert að heyra að við séum að fálma okkur í einhverju umhverfi sem við erum óviss vegna þess að mér fannst það einmitt ágætislýsing á þeim efnahagstillögum sem sjálfstæðismenn komu fram með. Þar voru menn með það alveg kristaltært hvar þeir ætluðu að auka útgjöldin en hins vegar var tekjuaukningin byggð á því að ákveðnar aðgerðir ættu að leiða til aukins hagvaxtar. Þar horfðu menn t.d. á Helguvík og við vitum alveg hvað stoppar Helguvík, það eru ekki aðgerðir stjórnmálamanna, það eru fyrst og fremst deilur um orkuverð, og þar ætluðu menn að fara í orkutengda uppbyggingu á Bakka. Við vitum öll hver staðan er á þeim verkum, þau eru ekki að detta inn, því miður, á næstu missirum, samanber t.d. álit Skipulagsstofnunar frá því í dag. Það er langt í land og þess vegna er fálmkennt að byggja aukin útgjöld á óvissutekjum eins og sjálfstæðismenn eru að leggja til. Það væri óábyrg fjármálastjórn og þess vegna er hún á veikum grunni byggð.

80 milljarða einskiptisaðgerð og fresta þar með nauðsynlegum aðhaldsaðgerðum þar sem við tengjum saman útgjöld og tekjur er líka óábyrg fjármálastjórn. Við verðum að ná aðhaldi og einskiptisaðgerð t.d. með því að skattleggja séreignarsparnaðinn — við skattleggjum ekki þessar tekjur aftur, við erum að taka af framtíðartekjum ríkissjóðs — væri óábyrg fjármálastjórn. Við ættum frekar, ef við ætluðum að fara í slíkar aðgerðir, að gæta vel að því og ekki fresta því að ná jafnvægi í útgjöldum og tekjum ríkissjóðs.



[17:10]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að bera af mér sakir þar sem hv. þingmaður heldur því fram að við sjálfstæðismenn séum allt að því 95% sammála því sem ríkisstjórnin er að gera, það er ekki svo. (Utanrrh.: Þú sagðir það.) Nei, ég sagði það ekki neitt, hæstv. utanríkisráðherra, þó að þú vonir sannarlega að það sé með þeim hætti.

Ég hugsa að það væri óhætt að snúa þessu við, að það væru svona um það bil 5% sem við værum sáttir við af því sem ríkisstjórnin er að gera. En hvað um það, við skulum ekki detta niður í þessa umræðu. Það sem ég sagði var einfaldlega það að ef við næðum að taka út þessar pólitísku deilur um hvað þetta þýddi, hvort sem það eru skattahækkanir eða hvað það er, þá var ég að tala um niðurskurðinn. Ég var að vísa til þess. Og ég vil bara rifja það upp fyrir hv. þingmanni, ég tel að það hafi ekki verið gert oft og sennilega aldrei, enda sögðu það margir við mig þegar við lögðum til, við sjálfstæðismenn, við þóttumst vera að sýna mjög ábyrga afstöðu í fyrra og sögðum við stjórnarmeirihlutann: Við skulum koma í þá vegferð með ykkur að skera niður um 8 milljarða til viðbótar. Þá hefðum við að sjálfsögðu farið að verja niðurskurðartillögurnar. Og það er alrangt sem hv. þingmaður segir að við sem ætlum að taka séreignarsparnaðinn til þess að taka halla ríkissjóðs. Það er ekki rétt. Við höfum aldrei sagt það og munum aldrei segja það. Við erum algerlega sammála um það, ég og hv. þingmaður, að það verður að ná niður halla ríkissjóðs. Það eru aðrir þingmenn hér inni sem hafa haldið því fram, ekki í Sjálfstæðisflokknum heldur í öðrum flokki, að það væri hægt að fara þá leið sem hv. þingmaður heldur og hefur misskilið að við viljum fara. En það er ekki rétt, við höfum aldrei viljað það og það verður að horfast í augu við þetta. Því miður var þessu tilboði hafnað og það hefði verið betur gert að fara í það frekar en niðurskurð. Þá hefðu menn sest yfir verkefnið í heild sinni og ákveðið hvað hægt væri að gera og lagt þá allt inn í púkkið saman. Ég er ekki fjarri því að við hefðum getað náð niðurstöðu í það að mestu ef ekki öllu leyti hvernig ætti að gera það. Ég ætla ekki að gefa mér það fyrir fram, enda væri það mjög óskynsamlegt að fara í samstarf og samvinnu um einhver ákveðin verkefni ef menn gæfu sér forsendurnar fyrir fram um að menn mundu ekki ná samkomulagi. Þetta er alveg klárt í mínum huga.



[17:12]
Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég brá mér aðeins fram eftir að hv. þm. Ásbjörn Óttarsson hóf ræðu sína og kom inn nokkrum sekúndum síðar en ég hélt hreinlega að það væri búið að skipta um umræðuefni miðað við tóninn sem var í ræðunni hjá hv. þingmanni þar sem var talað um einhvers konar fálm og kukl út í myrkrið og enginn vissi hvað væri að gerast.

Ég reyndi að fara mjög skýrt yfir það áðan hvernig sala eigna hefur haft áhrif á bætta stöðu ríkissjóðs og lægri vextir. En var það ósjálfrátt? Gerðist það óvænt? Var það eitthvað sem datt af himnum ofan eða gaus upp úr jörðinni og enginn átti von á? Hvort kom á undan hænan eða eggið í þessu sambandi hjá hv. þingmanni? Getur það verið að lægri vextir og lægri vaxtagreiðslur séu afleiðing stjórnvaldsaðgerða eða er það eitthvað sem spratt upp úr jörðinni eins og ég sagði áðan?

Auðvitað er það svo að þær aðgerðir sem hefur verið gripið til — og það er ekki hægt að neita því, ég fór svo vel yfir það áðan með hv. þingmanni og því var ekki mótmælt — hafa, margar hverjar, skilað þeim árangri að við erum ekki að greiða hærri vexti og höfum ekki þurft að taka öll þau lán sem stóð til að við þyrftum að taka í upphafi árs. Að sjálfsögðu er það þannig.

Ég spyr hv. þingmann: Veit hægri höndin hvað hin hægri höndin er að gera í Sjálfstæðisflokknum? Hvað er að gerast á erfiðum niðurskurðartímum? Ég hljóp fram áðan þegar ég missti af stefnubreytingunni í ræðu hv. þingmanns, og hér liggja fyrir að mér skilst ein 10 eða 12 frumvörp eða þingsályktunartillögur og hv. þingmaður er á þeim flestum, (ÁsbÓ: Nei.) allmörgum í það minnsta, sem kveða á, held ég, allar um aukin ríkisútgjöld, um aukin ríkisútgjöld á þessum erfiðu tímum sem hlaupa vel á annan milljarð króna. Hvað er eiginlega að gerast á þessum erfiðu niðurskurðartímum sem hv. þingmaður nefndi áðan? Er hann í orði á annarri leið en hann er á borði?



[17:14]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er að verða fjörugt í restina og það er líka mjög fínt. En hv. þingmaður sagði áðan, og ég þakka honum fyrir andsvarið, að hann hefði misst af upphafi ræðu minnar. Þar fór ég mjög skilmerkilega yfir þetta. Ég fór mjög vel yfir það og dró ekkert úr þeim árangri sem hefði náðst. En ég benti hins vegar á að það væri með þeim hætti að þetta væru einskiptisaðgerðir, þannig að við værum bara meðvituð um verkefnin. Ég var ekkert að gera lítið úr því sem vel hefur tekist til.

Síðan spyr hv. þingmaður hvort komi á undan eggið eða hænan og eitthvað svona álíka gáfulegt. Og það sem hann heldur vera stjórnvaldsaðgerðir, ætli það hafi ekki frekar verið stjórnarandstöðuaðgerðir sem hafa ráðið gagnvart því sem snýr að vöxtunum? Ætli það sé ekki einhver hluti af því að það dróst að fá lánið hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum? Þá kemur nú eitthvert kunnuglegt nafn upp í hugann svona á aðventunni. Ætli það sé ekki eitt stykki Icesave eða svo? Og að halda að það séu stjórnvaldsaðgerðir sem hafi lækkað vaxtastig í heiminum, nei, það hafa þær ekki gert. Ég tók hins vegar ekki þann pól í hæðina í ræðu minni.

Okkur greinir hins vegar á um hvernig við eigum að fara að því að skera niður og ná tekjum og ná halla ríkissjóðs niður. Um það deilum við ekki að það sé mjög mikilvægt að gera það. Ég er hins vegar algerlega á móti því að fara þessa skattpíningarstefnu ríkisstjórnarinnar, það hefur alltaf legið ljóst fyrir. Ég vil gera þetta með öðrum hætti. Ég vil gera það með því að taka séreignarsparnaðinn eins og við lögðum til í fyrra. Ég vil fara að skapa störf, skapa vinnu, bæta við veiðiheimildir, flytja út og skapa tekjur fyrir þjóðina, skapa störf en ekki skattpína þjóðina enn frekar. Það er svo furðulegt. Við verðum líka að fara að átta okkur á því að það eru mörg ljós að blikka — eins og gerist í púltinu hjá mér núna þar sem tími minn er að líða — sem bendir til þess að við séum að ganga of hart fram gagnvart heimilunum í landinu og fyrirtækjunum. Við verðum að horfast í augu við það. Það verður mjög sárt til þess að hugsa ef við síðan upplifum það að þau varnaðarorð sem við höfum haft uppi hér muni rætast á árinu 2011. Ég ætla hins vegar að vona, og ítreka það, að þau reynist ekki rétt (Forseti hringir.) en ég hef miklar áhyggjur af því að það sé verið að ganga allt of hart fram gagnvart heimilunum í því ástandi sem nú er.



[17:16]
Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Það dróst ekki að Ísland þyrfti að taka lán, hv. þm. Ásbjörn Óttarsson, Ísland þurfti þess ekki, Ísland þarf þess ekki. Lántakan dróst ekki á langinn heldur breyttust aðstæður í íslensku efnahagslífi með þeim hætti að við þurftum ekki á þeim lánum að halda sem við héldum að við þyrftum á að halda. Þess vegna erum við að greiða lægri vexti en áætlað var að við þyrftum að gera á árinu. Og hvers vegna þurftum við ekki á þeim lánum að halda sem við töldum okkur þurfa á að halda í upphafi árs? Það er vegna þess að efnahagsástandið er betra. Það er betra en var áætlað, við erum að ná betri árangri en áætlað var og um það vitnar fjárlagafrumvarpið, um það vitnar fjáraukalagafrumvarpið sem við erum að ræða í dag og undan því getur hv. þingmaður ekki vikið sér.

Hv. þingmaður nefndi áðan Landspítalann og þá sérstaklega það uppsafnaða tap sem núverandi stjórnvöld sátu uppi með, tóku við af fyrri stjórnvöldum upp á 2,8 milljarða og var sett til hliðar meðan reynt var að ná tökum á rekstri Landspítalans, sem er rekinn innan ramma fjárlaga í fyrsta skipti. Söguleg tíðindi, sagði Ríkisendurskoðun í skýrslu sinni. (Gripið fram í.) Þetta eru söguleg tíðindi ef Landspítalinn verður rekinn innan fjárlagaramma ársins 2010. En það var ekki heldur nefnt. Það var talað um skattpíningu þó að það liggi ljóst fyrir að skattar í dag, eftir þær aðgerðir sem þegar er búið að fara í, eru innan þess sem áður var á tímum Sjálfstæðisflokks og Framsóknar, Alþýðuflokks og Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks. Allan þann tíma sem hlutfall af þjóðarframleiðslu eru skattar innan þess sem þá var þrátt fyrir þær hækkanir sem er farið í. Það er hægt að hrista hausinn endalaust daginn út og daginn inn yfir þeim en þetta eru samt staðreyndir sem blasa við öllum sem vilja á þær horfa.



[17:18]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessi umræða milli okkar hv. þm. Björns Vals Gíslasonar er komin út í ógöngur. Hv. þingmaður nefndi Landspítalann. Ég vék sérstaklega að því í ræðu minni áðan og fagnaði því að Landspítalinn væri að ná þeim árangri að vera innan fjárlaga ársins 2010. Ég fagnaði því sérstaklega, hældi stjórnendum Landspítalans og starfsfólki fyrir það, algerlega. Ég sagði hins vegar og benti á að það væri óraunhæft að gera 6 milljarða kröfu til hagræðingar á Landspítalanum. Ég var að benda á að það sem er gert hér og heilbrigðisráðuneytið gerði stenst ekki fjárreiðulög ríkisins og ég vil breyta því. Af hverju vil ég gera það? Vegna þess að þegar stofnanir sýna fram á árangur eigum við að virða það við þær. En við megum ekki gera það með því að fá ábendingar frá Ríkisendurskoðun um að það sé verið að brjóta lög. Það er það sem ég var að benda á, en ég fagnaði þessu sérstaklega.

Hvað varðar þær skattahækkanir sem hv. þingmaður nefndi hér. Hann miðaði hér við þjóðarframleiðslu. Hvað þýðir það, virðulegi forseti, ef menn fara í svoleiðis útúrsnúninga? Það þýðir að gengið hefur fallið um hvað? helming á einu ári. Ætla menn þá að miða við þjóðarframleiðsluna og miða við það sem var fyrir og eftir gengishrun? Þessi umræða þarf nú kannski að vera dálítið dýpri og markvissari og þess vegna sagði ég áðan að umræðan væri komin út í ógöngur og það þurfum við að forðast. Það liggur alveg klárt fyrir að mínu mati, og ég vona svo sannarlega að hv. stjórnarliðar fari að kveikja á því, að það hefur verið gengið allt of langt fram í því að skattpína heimilin í landinu, það er búið að því og enn frekar á að bæta í. Hvað gerist? Fólk mun flýja land, það er alveg hreint og klárt. Það er þegar byrjað, því miður. Það sem þarf að fara að gera er að skapa fólkinu þannig umhverfi að það geti unnið og fengið vinnu. Það er alveg skýrt og ég er margbúinn að benda á þær aðferðir og aðgerðir sem þarf að gera til þess. Öðruvísi munum við ekki ná okkur út úr efnahagsvandanum. Við munum hvorki skera okkur niður úr honum né skattleggja okkur út úr honum, við þurfum að framleiða okkur út úr honum. Þar greinir okkur hv. þingmann greinilega á (Gripið fram í.) og ég held því miður að ég hafi réttara fyrir mér en hv. þingmaður.