139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[14:54]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni, formanni fjárlaganefndar, fyrir yfirferðina. Ég ætla að taka málið aðeins nær einstökum atriðum þó svo ég geri mér grein fyrir því að hv. þingmaður leggur helst áherslu á stóru myndina í fjárlagagerðinni og er það skiljanlegt.

Ég vildi spyrja hv. þingmann um verkefni sem við þekkjum báðar verandi þingmenn Suðurkjördæmis. Það er skólinn Keilir á Ásbrú. Ég saknaði þess að sjá ekki neinar tillögur um fjárveitingar til hans í þessu nefndaráliti og veit að þar inni liggur beiðni. Mikið hefur verið rætt um nauðsyn þess að auka og hækka menntunarstig á Suðurnesjum, eins var það sérstaklega tiltekið á nýlegum víkingaskipsfundi ríkisstjórnarinnar í Reykjanesbæ um daginn sem ein af áherslunum að bæta og auka menntun á Suðurnesjum. Þess vegna vil ég spyrja hv. þingmann hvort slíkra tillagna sé að vænta við 3. umr., hvað valdi því að ekki sé gert ráð fyrir neinni aukafjárveitingu til Keilis í þessu frumvarpi og hvort eitthvað strandi á því sem við getum í sameiningu beitt okkur fyrir að verði lagfært.