141. löggjafarþing — 15. fundur
 9. október 2012.
verndar- og orkunýtingaráætlun, frh. 1. umræðu.
frv. BjarnB o.fl., 3. mál (flokkun virkjunarkosta og gerð orkunýtingaráætlunar). — Þskj. 3.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[14:43]

[14:09]
Flm. (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Hér er um að ræða þingmál sem felur í sér tillögu um ákveðna málsmeðferð. Það hefur verið lengi í undirbúningi hjá þinginu að afgreiða það. Í allt má segja að málið eigi sér allt að tveggja áratuga sögu en það hefur ratað í pólitískar skotgrafir og þingsályktunartillaga þessi gengur út á það að við náum málinu þaðan aftur upp. Ég vitna til þess að á fyrri stigum málsins var frumkvæði þess að meira eða minna leyti í iðnaðarráðuneytinu.

Á síðasta þingi, þegar rætt var um rammaáætlun, var atvinnuveganefnd þingsins með málið til meðferðar. En jafnvel þótt meiri hluti þingsins hafi tekið annað mál hæstv. umhverfisráðherra um rammaáætlun í heild sinni og sent til umhverfisnefndar af einhverjum óskiljanlegum ástæðum er ekkert tilefni til að þessi tillaga fari þangað. Þetta er annað mál, (Forseti hringir.) það fjallar um form málsins, um það hvernig við tökum það inn í framtíðina. Tillagan á að mínu áliti hvergi annars staðar heima en í atvinnuveganefnd.



[14:11]
Mörður Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Þessi atkvæðagreiðsla er undarleg tímasóun hér á þinginu því að það hefur þegar greitt atkvæði um í hvaða nefnd málefni rammaáætlunar skuli rædd, að minnsta kosti á þessu þingi. Það var gert um daginn þegar greidd voru atkvæði um nefndarumsjón þingsályktunartillögu um rammaáætlun sem flutt er samkvæmt þeim lögum um rammaáætlun sem hér er flutt frumvarp um að breyta.

Þingsályktunartillagan er nú til umræðu í umhverfis- og samgöngunefnd og að sjálfsögðu á breytingarfrumvarpið þá að vera það líka nema við viljum taka upp þann sið á Alþingi að greiða atkvæði um sérhvert mál eftir 1. umr. eins og gert var í gamla daga og leika okkur að því að gera það þvers og kruss og á víxl eftir því hvað hentar hverju sinni. Hér fer ekki fram efnisleg atkvæðagreiðsla heldur atkvæðagreiðsla um að þingið haldi rétt og skynsamlega á málunum og (Forseti hringir.) að við eigum að senda málið í sömu nefnd og þingsályktunartillöguna sem gerð er samkvæmt sömu lögum (Forseti hringir.) og hér er verið að reyna að breyta.



[14:12]
Birgir Ármannsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Allir vita það sem verið hafa í þessum sal síðustu vikur og mánuði að ástæðan fyrir því að meiri hlutinn tók þá ákvörðun um daginn að vísa málinu til umhverfis- og samgöngunefndar hafði ekkert með þingsköp að gera eða málið að öðru leyti en því að margir álitu að atvinnuveganefnd væri öðruvísi samsett en umhverfis- og samgöngunefnd. Það væru aðrir fulltrúar ríkisstjórnarflokkanna í atvinnuveganefnd en í umhverfis- og samgöngunefnd. Það var auðvitað skýringin á þeirri sveiflu sem átti sér stað um daginn.

Það er hins vegar alveg rétt sem hv. þm. Bjarni Benediktsson lagði upp með, hér er um annað mál að ræða, aðra málsmeðferð, og það er ekkert óeðlilegt að málið fari í atvinnuveganefnd. Minna má á að málið var til umfjöllunar í atvinnuveganefnd á síðasta vetri en auðvitað sker þingið (Forseti hringir.) úr um það. En menn verða að mínu mati að vera dálítið ærlegri þegar þeir gefa skýringar á því til hvaða nefnda (Forseti hringir.) þeir ætla að vísa einstökum málum.



[14:13]
Þór Saari (Hr) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Sem nefndarmaður í atvinnuveganefnd tek ég ógjarnan þátt í því að vísa málum eitthvert annað en til þeirrar hv. nefndar, en varðandi þetta frumvarp langar mig að útskýra af hverju ég hafna því að það fari til atvinnuveganefndar.

Í 1. gr. frumvarpsins er ákvæði um afnám friðlýsingarákvæða laga um vernd og orkunýtingu. 2. gr. frumvarpsins rústar þeim svæðum sem eru í biðflokki. 4. gr. frumvarpsins tekur fyrir allt samráð um rammaáætlun. B-liður 5. gr. frumvarpsins fellir brott ákvæði um umhverfismat og 6. gr. tefur málið og gerir það óskiljanlegt, hún gerir það að verkum að rammaáætlun klárast ekki á þessu ári eða því næsta. Það eru allt saman atriði sem snúa að umhverfinu en ekki atvinnumálum. Þess vegna á þetta mál að fara til umhverfis- og samgöngunefndar. Þetta endurspeglar hins vegar, sem mér þykir mjög miður, viðhorf þingflokks Sjálfstæðisflokksins til náttúruverndar á Íslandi og það viðhorf er vægast sagt óhugnanlegt.



[14:14]
Jón Gunnarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég get fullvissað hv. þm. Þór Saari um að það er ekkert óhugnanlegt við umhverfisskoðanir eða umhverfisvernd Sjálfstæðisflokksins. (Gripið fram í.) Vinnan var einmitt sett af stað til að reyna að komast að málamiðlun í einu mikilvægasta máli þjóðarinnar, þ.e. rammaáætluninni.

Búið er að koma málinu í algerar ógöngur af núverandi meiri hluta. Rammaáætlun, hin víðtæka sátt og málamiðlun sem átti að ná um forgangsröðun í virkjunarkostum okkar og vernd og nýtingu, er í uppnámi. Við sjálfstæðismenn leggjum til að málið fari aftur til faghópanna. En hverjir hafna því að málið fari aftur í faglega meðferð? Það eru vinstri flokkarnir sem ríkja í landinu. Þeir ætla að stoppa það af því að þeir geta ekki afgreitt það nema með pólitískum fingraförum. (Forseti hringir.) Við leggjum til mjög málefnalegar tillögur á þessum nótum og þingið ætti að sjá sóma sinn í því að afgreiða þær.

Málið (Forseti hringir.) á auðvitað að fara til atvinnuveganefndar, það hefur verið þar og atvinnuveganefnd er best til þess fallin að afgreiða það sem fyrst.



[14:16]
Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Það er athyglisvert að lagt skuli vera til að mál sem heyrir efnislega undir sömu nefnd og rammaáætlun fari annað, hvort sem við erum sammála um að það skuli vera umhverfis- og samgöngunefnd eða atvinnuveganefnd. Sömu sjónarmið hljóta að gilda um þetta mál og rammaáætlun.

Alþingi Íslendinga er búið að taka ákvörðun um að vísa rammaáætlun til umhverfis- og samgöngunefndar. Hvers vegna í ósköpunum ættum við þá að vísa þessu máli sem á saman með rammaáætlun til annarrar fastanefndar? Það stríðir gegn heilbrigðri skynsemi að fara út í slíkt. (Gripið fram í.) Það er mjög athyglisvert að sjálfstæðismenn skuli ævinlega vilja ræða málefni náttúrunnar og umhverfisins á forsendum atvinnulífsins. (Gripið fram í: ... þetta er rangt.) En það er fullkomlega óeðlilegt úr því að rammaáætlun er komin í umhverfisnefnd að þetta mál eigi (Forseti hringir.) að fara í einhverja aðra nefnd. Það sjá allir sem hafa opin augu.



[14:17]
Einar K. Guðfinnsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Í vor þegar ákveðið var að vísa rammaáætluninni til atvinnuveganefndar var það gert á grundvelli núgildandi þingskapa. Atvinnuveganefnd vann að mínu mati mjög vel að þessu máli. Hún kallaði fyrir fjölda gesta og kallaði eftir umsögnum, þær hlupu á einhverjum hundruðum. Ég tel að vinnulag nefndarinnar hafi verið algerlega óaðfinnanlegt.

Hvers vegna er þá verið að reyna að freista þess að koma í veg fyrir að það mál sem hér er verið að ræða, hluti af rammaáætluninni, geti farið til atvinnuveganefndar? Er verið að lýsa vantrausti á starf nefndarinnar? Er verið að lýsa vantrausti á starf formanns nefndarinnar? Ég tók eftir því að hv. þm. Mörður Árnason sagði að þetta mál snerist um að haldið væri rétt og skynsamlega á málunum. Hv. þingmaður var greinilega að gefa til kynna að það hefði ekki verið gert og atvinnuveganefnd væri ekki treystandi í þessu máli. (Gripið fram í.) Þá finnst mér rétt að menn segi það bara opinskátt og séu ekkert að tala neitt utan að því.

Þetta mál á auðvitað heima í atvinnuveganefnd. Það er tillaga 1. flutningsmanns málsins. Þetta mál á sér rætur í starfi (Forseti hringir.) iðnaðarráðuneytis og þess vegna er eðlilegt að það fari til atvinnuveganefndar og menn séu ekki með þennan hráskinnaleik í upphafi málsmeðferðar.



[14:19]
Álfheiður Ingadóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Það er ekkert óskiljanlegt við það að hér komi fram tillaga um að vísa breytingartillögu Sjálfstæðisflokksins við rammaáætlun til umhverfis- og samgöngunefndar (Gripið fram í.) sem þegar hefur verið vísað þangað frá Alþingi sjálfu. Hins vegar virðist hafa farið fram hjá hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins að 1. september sl. varð sú breyting á skipulagi og verkaskiptingu í Stjórnarráðinu (Gripið fram í.) að forsjá rammaáætlunar var flutt til umhverfis- og auðlindaráðuneytis. Sá ráðherra sem flutti tillöguna í þinginu vísaði henni að svo búnu til umhverfis- og samgöngunefndar þingsins. (Gripið fram í.)

Þetta er samkynja mál sem við ræðum og reyndar sama mál með öðrum formerkjum og áherslum eins og hér hefur verið tíundað. Það er fráleitt verklag sem hér er stungið upp á að vísa máli í aðra fastanefnd (Forseti hringir.) sem þegar er til umfjöllunar í nefnd samkvæmt ákvörðun Alþingis.



[14:20]
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Ég ætlaði ekki að segja neitt við þessa atkvæðagreiðslu vegna þess að mér finnst, eins og kom fram hér áðan, þetta vera tímasóun á dýrmætum tíma okkar sem höfum ærin verkefni fyrir höndum.

Það er ekki verið að lýsa vantrausti á einn né neinn og ég vísa því alfarið til föðurhúsanna. Hér er farið eftir eðlilegum farvegi. Það er búið að vísa rammaáætlun til umhverfis- og samgöngunefndar. Alþingi hefur þegar tekið þá ákvörðun. Þá blasir að sjálfsögðu við að það er eðlilegt, skynsamlegt og í réttu samhengi að vísa þessu máli, sem hefur með rammaáætlun að gera, beint inn til þeirrar nefndar þar sem rammaáætlun er nú þegar til umræðu og umfjöllunar.

Að öðru leyti hvet ég ykkur öll til að þiggja frið jafnvel þótt ófriður sé í boði. Það er svo mikill óþarfi að standa fyrir þessari uppákomu um það til hvorrar nefndarinnar eigi að vísa málinu því að þegar í þingsal er komið geta allir þingmenn greitt atkvæði og tjáð sig eins og þeir vilja í þessu máli.



[14:21]
Flm. (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Það kann að vera að einhverjum þyki þetta allt saman vera alger óþarfi. Þá bendi ég á að það er ekki að okkar kröfu sem þessi atkvæðagreiðsla fer fram. Ég lagði til að málið sem ég sjálfur mælti fyrir færi til atvinnuveganefndar þar sem málið hefur alltaf verið unnið fram til þessa, þar til þetta þing tók ákvörðun um að fara með rammaáætlun í umhverfisnefnd. Sú ákvörðun á sér ekki rætur neins staðar annars staðar en í klofningi innan ríkisstjórnarinnar vegna þess að flokkarnir geta ekki komið sér saman um nokkurn skapaðan hlut. Þetta er gagngjald Samfylkingarinnar til Vinstri grænna út af öðrum málum. Þess vegna er þetta mál komið þar inn.

Ég velti fyrir mér í þessari atkvæðagreiðslu hvað þingmennirnir í Samfylkingunni ætla að gera, sem undanfarna daga hafa talað fyrir því að flokkurinn verði að færa sig frá þeim vinstri áherslum sem hann hefur gerst sekur um á þessu kjörtímabili. Hvað ætla þeir að gera? Er einhver alvara á bak við þau orð hv. þingmanna Samfylkingarinnar sem eru farnir að tala mjög frjálslega um þetta eftir að formaðurinn ákvað að gefa ekki kost á sér til endurkjörs? (Forseti hringir.) Hvað gera þeir þegar mál eins og þetta koma upp í þinginu? Ná þeir að sýna það í verki að einhver alvara er á bak við orð þeirra? Munu þeir lyppast niður og fylgja foringjanum eða ætla þeir að fara eftir eigin sannfæringu? (Gripið fram í: Er þetta stórmál?)



[14:23]
Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég stend upp vegna þess að mér ofbauð ræða hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur um atkvæðagreiðsluna vegna þess að þingið er sjálfstæð stofnun og framkvæmdarvaldið sér um sig. Þó að ráðherra ákveði að vísa máli til einhverrar nefndar er ekki þar með sagt að þingið eigi að taka við því sísvona (Gripið fram í: Heyr, heyr!) og ef svo er þá er fulltrúi sem talaði fyrir því máli. Hv. þm. Bjarni Benediktsson talaði fyrir þessu máli, sem þingflokkur Sjálfstæðisflokksins leggur fram, og óskar eftir því að málið gangi til atvinnuveganefndar. Það er ósk þeirra sem flytja málið að málið fari þangað. Ætlar þingheimur að virða þá ósk þeirra sem bera málið fram eða senda það eitthvert annað í ljósi þess að framkvæmdarvaldið ákvað að hitt málið ætti að fara til umhverfis- og samgöngunefndar? [Frammíköll í þingsal.] Þingið ákveður það. (Forseti hringir.) Þingið hlýtur þá samhliða að taka ákvörðun um þetta mál. Ósk flutningsmanns er að það fari í atvinnuveganefnd og ætli (Forseti hringir.) þingið sér að hunsa þá beiðni kemur það bara í ljós en það á ekkert skylt við framkvæmdarvaldið.

(Forseti (ÁRJ): Forseti minnir þingmenn á að virða tímamörk.)



[14:24]
Mörður Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Það var þannig, svo að hv. síðasti ræðumaður fái tækifæri til að hlusta á það, að Alþingi Íslendinga tók ákvörðun um hvert þetta mál ætti að fara. (RR: Það var …) Það gerði þingið í þarsíðustu viku (Gripið fram í.) með 28 atkvæðum gegn 18. Einn af þessum 18 var vissulega hv. þingmaður og hefur hann fullkominn rétt sem hluti af minni hlutanum í þinginu til að flytja tillögu í hverri einustu 1. umr. um hvert einasta mál að það fari til annarrar nefndar en flutningsmaður telur eðlilegt. Hann getur gert það og ef hann vill gera það þá getum við átt margar skemmtilegar og fróðlegar stundir hér í stólnum til að ræða um þær atkvæðagreiðslur.

Um það að hér sé um vantraust að ræða á einhverja einstaka menn (Gripið fram í.) er auðvitað sérkennilegt. Þá verða menn að nefna þá sem vantraustið er á. (Gripið fram í: Þeir sitja í nefndinni.) En þeir sem leggja til, (Gripið fram í.) hv. þm. Bjarni Benediktsson og flokksfélagar hans og ekki síst hinn mikli umhverfisverndarsinni og náttúruverndarsnillingur hv. þm. Jón Gunnarsson sem hér situr, verða þá að svara því hvaða vantraust fer fram á (Forseti hringir.) hv. þingmenn Birgi Ármannsson, Ásmund Einar Daðason og (Forseti hringir.) sjálfan Árna Johnsen? Hvaða vantraust er það?



[14:26]
Illugi Gunnarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Málið er þannig vaxið að það er tillaga frá flutningsmanni um í hvaða nefnd málið eigi að fara. Það kunna að vera deildar meiningar um það en það er algerlega fráleitt að leggja það svo upp, af því að flutningsmaðurinn heldur fast við sína skoðun, að það sé tímasóun af hálfu flutningsmanns og þeirra sem styðja þann málflutning sem þar kemur fram, að þeir séu að sóa tíma þingsins, þegar önnur tillaga kemur fram þá sé sá aðili að sóa tíma þingsins. Hvers konar málflutningur er þetta, virðulegi forseti? Hér er öllu snúið á haus.

Saga þessa máls, uppruni þess og reyndar einnig það sáttaferli sem átti að koma á og hefur verið eyðilagt af núverandi ríkisstjórnarflokkum byggði einmitt á þeim sjónarmiðum sem hér hefur verið lýst og þess vegna er alveg eðlilegt að tillagan ganga út á það að málið fari í þá nefnd sem flutningsmaður málsins hefur lagt til. (Forseti hringir.)

Ég frábið mér það, virðulegi forseti, að talað sé um að sóa tíma þingsins af þeim sem lagt hafa til aðra tillögu og hafa þar með kallað fram atkvæðagreiðsluna.



[14:27]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við komumst ekki hjá því að hlusta á hv. þm. Álfheiði Ingadóttur sem sagði það mjög skýrt að hv. þingmenn sem legðu þetta til og styddu þetta hefðu ekki tekið eftir því hvað gerðist í Stjórnarráðinu og þeir ættu bara að fylgja því. Það er það sem hv. þingmaður sagði. Hér kemur alveg skýrt í ljós hjá hv. stjórnarliðum hver raunverulegur vilji þeirra er í verki þegar kemur að virðingu þingsins. Það kemur líka í ljós hver meiningin er á bak við þau orð hv. þingmanna Samfylkingarinnar þegar þeir tala um atvinnumál úti í bæ. Leiðtogi þeirra í atvinnumálum er hvorki meira né minna (Forseti hringir.) en hv. þm. Mörður Árnason. Menn skyldu hætta að tala digurbarkalega um (Forseti hringir.) að þeir vilji sjá einhverjar aðrar áherslur, (Forseti hringir.) kæru hv. þingmenn Samfylkingarinnar.



[14:29]
Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Málið er mjög einfalt. Það eru tvær tillögur uppi. Þingið hefur sjálft ákveðið fyrir nokkru hvert máli af þessum toga skuli vísa en flutningsmaður þessarar tillögu er annarrar skoðunar. Það þarf ekki að koma á óvart að stjórnmálaflokkur sem lýst er af sínum eigin fyrrverandi varaformanni sem teboðshreyfingu (BjarnB: Þetta er rangt.) skuli ekki geta hugsað sér að fjallað sé um málefni umhverfisins nema á forsendum atvinnulífsins en ekki umhverfissjónarmiða. Það er aftur á móti nokkuð sem almennir kjósendur og þeir sem fylgjast með störfum þingsins hljóta að taka eftir og hafa í huga. (Gripið fram í.)



[14:30]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Eins og fram kemur í þessari atkvæðagreiðslu og kom fram í atkvæðagreiðslu fyrir nokkrum dögum er ekki einhugur um hvert þetta mál á að fara. Hitt málið var sent til umhverfis- og samgöngunefndar á vegum meiri hluta þingsins. Nú leggur flutningsmaður til að þetta mál fari til atvinnuveganefndar.

Ég minni á að rammaáætlunin er einmitt um vernd og nýtingu þeirra náttúruauðlinda sem við erum að fjalla um. Er það ekki málinu til framdráttar að bæði þau sjónarmið fái að heyrast og koma til álita í vinnu þingsins? Er það ekki gott fyrir málið í heild og fyrir vinnu við rammaáætlunina að þetta sé sett í vinnu og í farveg innan beggja þessara nefnda? Hvað er að því? Eru það þá ekki bara öll sjónarmið sem verða tekin til greina við vinnu (Forseti hringir.) Alþingis? Ég held að það hljóti að vera. (Forseti hringir.)



[14:31]
Álfheiður Ingadóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Alþingi er sjálfstæð stofnun. Alþingi hefur þegar ákveðið að umhverfis- og samgöngunefnd þingsins skuli fjalla um þingsályktunartillögu um rammann eins og við köllum það hér dags daglega. Hér liggur fyrir tillaga um að önnur fastanefnd þingsins fjalli um sama mál. Ég segi nei. (Gripið fram í: Sama mál.)

(Forseti (ÁRJ): Atkvæðaskýringar fara fram eftir að atkvæðagreiðsla hefst.)



[14:32]
Árni Þór Sigurðsson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Alþingi er greinilega mikill vandi á höndum að ráða fram úr þessu álitamáli sem hér er til umfjöllunar og ef það má verða til þess að auðvelda þinginu ákvörðun sína þá er guðvelkomið að taka málið til umfjöllunar í utanríkismálanefnd. [Hlátur í þingsal.]



[14:32]
Birgitta Jónsdóttir (Hr) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Mig langaði bara að minna þingmenn á að akkúrat á þessari stundu er verið að afhenda friðarverðlaun Johns Lennons og Yoko Ono og mikið væri nú gott ef sá friðarandi mundi streyma hingað inn í þetta hús.



[14:33]
Illugi Gunnarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Vissulega er okkur nokkur vandi á höndum. Ég ætla að lesa, með leyfi forseta, úr þingsköpum um verksvið þessara nefnda þar sem segir að atvinnuveganefnd fjalli um sjávarútvegsmál, landbúnaðarmál, iðnaðar- og orkumál, nýsköpun og tækniþróun, atvinnumál almennt og einnig nýtingu auðlinda á grundvelli rannsókna og ráðgjafar.

Umhverfis- og samgöngunefnd fjallar um umhverfismál, skipulags- og byggingarmál og rannsóknir, ráðgjöf, verndun og sjálfbærni á sviði auðlindamála almennt.

Málið er að þetta er nýting og þetta er vernd. Það er nýting sem byggir á rannsóknum og ráðgjöf. Og það er ekki hægt og ekki æskilegt eða skynsamlegt, virðulegi forseti, að reyna með þessum hætti að slíta svo í sundur þau sjónarmið að öðrum megin séu nýtingarsjónarmið og þau séu ósamrýmanleg verndunarsjónarmiðum. En þannig finnst mér hér að nokkru talað, virðulegi forseti, og get ekki að því gert.

Þess vegna tel ég (Forseti hringir.) að skynsamlegra sé að senda málið í þann farveg sem flutningsmaður málsins, hv. þm. Bjarni Benediktsson, hefur lagt til.



[14:34]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Stemningin í salnum, hlátrasköllin og leiðindin yfir því að þurfa að hanga hérna eru svolítið lýsandi fyrir það í hvaða ferli málið er komið. Ábyrgðin á því liggur hvergi annars staðar en hjá ríkisstjórnarflokkunum. Ég vil minna hv. þingmenn á það af hverju þetta mál og vinna við gerð rammaáætlunar var sett af stað. Það var til að reyna að ná sátt, reyna að ná sátt um það hvar skyldi vernda og hvar skyldi nýta. Nú sjáið þið hvert við erum komin eftir að tillagan frá ríkisstjórnarflokkunum kom fram.

Hér stöndum við og sumir þingmenn sitja í sætum sínum og kvarta hástöfum yfir því að þurfa að vera hér undir þessari atkvæðagreiðslu. Svona er þetta einfaldlega — lýðræðið, hv. þm. Margrét Tryggvadóttir.

Málið er komið í þennan farveg vegna afstöðu þeirra sem hér ráða ríkjum og fylgifiska þeirra. (Gripið fram í: … ríkisstjórnarinnar.)



[14:35]
Þór Saari (Hr) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Þetta er svolítið sérkennilegt karp því að samkvæmt því frumvarpi sem við erum að fara að greiða atkvæði um skiptir engu máli hvert rammaáætlun fór. Frumvarpið snýr eingöngu að umhverfismálum.

1. gr. er um afnám friðlýsingarákvæða. 2. gr. er um það að rústa þeim svæðum sem eru í biðflokki, þ.e. að afnema verndina á þeim. 4. gr. tekur fyrir allt samráð við umhverfisverndarsamtök. 5. gr. afnemur umhverfismatsákvæðið úr lögunum og 6. gr. tefur málið enn óendanlega og er algjörlega óskiljanleg.

Þetta eru allt saman greinar sem snúa að umhverfismálum beinlínis og koma atvinnumálum lítið sem ekkert við. Að sjálfsögðu á þetta að fara til umhverfis- og samgöngunefndar. Annað er náttúrlega algjörlega út í hött.



[14:36]
Jón Gunnarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Í formála rammaáætlunar stendur:

„Í september 2007 skipaði iðnaðarráðherra 11 manna verkefnisstjórn til að ljúka 2. áfanga rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. […] „Ríkisstjórnin hefur einsett sér að skapa sátt um vernd og nýtingu náttúrusvæða og leggur því áherslu á að ljúka sem fyrst rannsóknum á verndargildi þeirra og gildi til annarrar nýtingar, með sérstaka áherslu á mat á verndargildi háhitasvæða landsins og flokkun þeirra með tilliti til verndar og orkunýtingar.“ Einnig kemur fram að markmið rammaáætlunar sé „að skapa faglegar forsendur fyrir ákvörðun um vernd og nýtingu náttúrusvæða með áherslu á vatnsafls- og jarðhitasvæði.““

Þetta getur auðvitað ekki verið skýrara. Það er algjör útúrsnúningur að halda því fram að þetta mál eigi ekki heima hjá atvinnuveganefnd enda vitum við af hvaða pólitískum toga sú niðurstaða kemur fram í þinginu. Það eru bara þær skoðanir sem hér eru uppi um áherslur á þessi mál.

Lagt var af stað í vegferð hérna til að ná einhverri sátt. Við sjálfstæðismenn leggjum til að við förum aftur til faghópanna, aftur í hið faglega starf. Við erum tilbúin að leggja okkar skoðanir (Forseti hringir.) — jafnvel við sem viljum ganga langt í virkjunum erum tilbúin að hlíta þeirri niðurstöðu sem þar kemur (Forseti hringir.) (MÁ: … málamiðlun?) í þeirri faglegu umfjöllun frá öllum þeim sérfræðingum í umhverfismálum (Forseti hringir.) og nýtingarmálum sem voru skipaðir til þeirra verka. En það er þessi meiri hluti ekki til í, hann skal með ofbeldi fara með þetta mál í gegn og eyðileggja (Forseti hringir.) þá miklu vinnu sem hefur verið lögð í það.



[14:38]
Forseti (Sigurður Ingi Jóhannsson):

Forseti hvetur þingmenn til að virða ræðutíma.



[14:38]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er einhver hugsanavilla hjá hv. stjórnarliðum. Ef menn ætluðu ekki að fara að nýta þá hefði málið ekki verið lagt fram. Þetta gengur út á að nýta, það segir sig sjálft.

Rammaáætlun er til þess að ákveða hvaða auðlindir við ætlum að nýta. Og það stendur alveg skýrt í þingsköpum Alþingis að þetta eigi að vera í atvinnuveganefnd. Málið er ekki flóknara en það. Það segir sig sjálft að við þyrftum ekki að leggja þetta mál fram ef við værum búin að ákveða að það ætti ekkert að nýta.

Síðan getur hver og einn lesið upp úr þingsköpum Alþingis hvað atvinnuveganefnd á að gera. Ef menn eru farnir að túlka það þannig að senda eigi mál þangað sem mönnum dettur í hug þá skulu menn ekki vera með neina upptalningu úr þingsköpum Alþingis. (Forseti hringir.) (Gripið fram í: … bara svona …) Hv. þingmaður segir það bara. (Forseti hringir.) Virðulegi forseti. Það er spurning hvort við endurskrifum þetta ekki, ég held við ættum ekkert að halda nöfnum á nefndum. Það er engin ástæða til þess. (Gripið fram í: Jæja, eigum við ekki bara …?)



[14:40]
Guðmundur Steingrímsson (U) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég held að það hafi komið alveg skýrt fram í þessari umræðu um atkvæðagreiðsluna að drjúgur hluti þingmanna telur að málið eigi að fara í atvinnuveganefnd. En mér finnst hins vegar ekki talað af nægilega mikilli virðingu um hinn hluta þingmanna sem vill að það fari í umhverfis- og samgöngunefnd og byggir það á ákveðnum sjónarmiðum.

Ég hef ítrekað tekið eftir því í umræðunni að látið er að því liggja að þeir sem eru þeirrar skoðunar að málið eigi að fara í umhverfis- og samgöngunefnd séu einhvers konar fylgifiskar þeirra sem ráða en geti alveg örugglega ekki byggt þau sjónarmið sín á málefnalegum forsendum.

Þetta er auðvitað dálítið stórt deilumál sem við erum að glíma við. Hvort á rammaáætlun meira að vera umhverfismál heldur en atvinnumál? Það er mjög athyglisverð rökræða sem þarf að fara fram í samfélaginu. Og ég held að við séum að upplifa það núna, sem betur fer að mínu mati, að hér er meiri hluti á þingi sem telur rammaáætlun eiga frekar heima í (Forseti hringir.) umhverfis- og samgöngunefnd, sem fer með umhverfismál, en vissulega sé það líka atvinnumál. (Forseti hringir.)

Svo vil ég vekja athygli á ákveðnum tækjabúnaði. Við erum með takka (Forseti hringir.) hérna og töflu til að útkljá svona mál og í því birtist (Forseti hringir.) líka sjálfstæði þingsins þannig að ég legg til að drífa í því.



[14:41]
Forseti (Sigurður Ingi Jóhannsson):

Forseti ítrekar enn að þingmenn virði ræðutíma.



[14:41]
Skúli Helgason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við greiðum atkvæði um það í hvaða nefnd þetta ágæta þingmál á að fara. Ég vil koma hingað upp og minna á það að við greiddum atkvæði fyrir tæpum tveimur vikum um það í hvaða nefnd rammaáætlun skyldi fara og ég held að það sé afar mikilvægt að eitthvert samræmi sé í vinnubrögðum þingsins.

Tvö mál sem fjalla að stofni til um sama hlutinn eiga að sjálfsögðu að vera til meðferðar í sömu nefnd og mér finnst eiginlega ótrúlegt að menn þurfi að koma hér upp og fara með þann málflutning.

Hingað hafa menn komið upp og haldið fallegar ræður um málamiðlanir innan Sjálfstæðisflokksins, væntanlega milli virkjunarsinna og stóriðjusinna [Hlátur í þingsal.] og það er gott ef menn eru að reyna að ná saman og byggja brýr. En þetta mál snýst aðeins um aðra hluti. Það snýst um að við séum með jafnvægi á milli verndunarsjónarmiða og virkjunarsjónarmiða. Ég held að við eigum að hafa augun föst á þeirri sáttargjörð. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



Till. um að vísa frv. til atvinnuvn. felld með 28:17 atkv. og sögðu

  já:  ÁsbÓ,  ÁsmD,  BÁ,  BjarnB,  EKG,  EyH,  GÞÞ,  GBS,  IllG,  JónG,  REÁ,  RR,  SIJ,  SF,  TÞH,  UBK,  VigH.
nei:  ÁI,  ÁPÁ,  ÁÞS,  BirgJ,  BjörgvS,  BVG,  GLG,  GStein,  HHj,  JóhS,  JRG,  KaJúl,  LRM,  LMós,  LGeir,  MSch,  MT,  MÁ,  ÓÞ,  RM,  SII,  SkH,  SJS,  VBj,  ÞSa,  ÞBack,  ÖJ,  ÖS.
1 þm. (SER) greiddi ekki atkv.
17 þm. (AtlG,  ÁJ,  ÁRJ,  BJJ,  GuðbH,  HöskÞ,  JBjarn,  KJak,  KÞJ,  KLM,  OH,  ÓN,  PHB,  SDG,  SSv,  ÞKG,  ÞrB) fjarstaddir.

Frv. vísað til um.- og samgn.  með 28:17 atkv. og sögðu

  já:  ÁI,  ÁPÁ,  ÁÞS,  BirgJ,  BjörgvS,  BVG,  GLG,  GStein,  HHj,  JóhS,  JRG,  KaJúl,  LRM,  LMós,  LGeir,  MSch,  MT,  MÁ,  ÓÞ,  RM,  SII,  SkH,  SJS,  VBj,  ÞSa,  ÞBack,  ÖJ,  ÖS.
nei:  ÁsbÓ,  ÁsmD,  BÁ,  BjarnB,  EKG,  EyH,  GÞÞ,  GBS,  IllG,  JónG,  REÁ,  RR,  SIJ,  SF,  TÞH,  UBK,  VigH.
1 þm. (SER) greiddi ekki atkv.
17 þm. (AtlG,  ÁJ,  ÁRJ,  BJJ,  GuðbH,  HöskÞ,  JBjarn,  KJak,  KÞJ,  KLM,  OH,  ÓN,  PHB,  SDG,  SSv,  ÞKG,  ÞrB) fjarstaddir.