142. löggjafarþing — 19. fundur
 2. júlí 2013.
veiðigjöld, frh. 2. umræðu.
stjfrv., 15. mál (innheimta veiðigjalda, sérstakt veiðigjald o.fl.). — Þskj. 15, nál. 52 og 59, brtt. 60.

[14:05]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breyting á lögum um veiðigjöld. Þessi umræða stóð hér gær og á föstudaginn og sitt sýndist hverjum. Ég hitti úti á Austurvelli áðan góða vinkonu mína frá Flateyri. Hún spurði hvað verið væri að ræða núna inni á Alþingi, það eru kannski ekki allir sem fylgjast mjög vel með störfum Alþingis í sumarblíðunni. Ég sagði henni að við værum að ræða lækkun veiðigjalda. Þá sagði hún og sló sér á lær: Jæja, eiga þeir nú ekki salt í grautinn, blessaðir útgerðarmennirnir, það er kannski ekkert nýtt. En það er í lagi að þeir greiði af sínum auði þegar við sem erum ekki eins auðug þurfum að standa skil á okkar af okkar lágu tekjum.

Það finnst mér í stóra samhenginu vera kjarni þessa máls að verið er að horfa til þess að útgerðir í landinu greiði af umframhagnaði sínum eðlilega auðlindarentu til þjóðarinnar sem á auðlindina, sem ekki er deilt um. Það hefur verið sagt að í dag hafi stærstur hluti útgerðarmanna keypt sig inn í greinina og það er líka rétt en upphaflega fengu menn þessa auðlind án þess að greiða nokkuð fyrir og þannig byrjaði boltinn að rúlla. Það er enginn annar en þjóðin sjálf sem hefur skapað stærstan hluta af þeirri uppbyggingu og þeim arði og hagnaði sem er í greininni í dag. Ef það er ekki sanngjarnt núna, eftir allan þennan tíma, að menn fari að borga eðlilegri rentu af þessari sameiginlegu auðlind en verið hefur, nú þegar ríkissjóður hefur mjög mikla þörf fyrir að fá þessar tekjur, þá veit ég ekki hvenær sá tími kemur.

Það er kannski þessi réttlætiskennd almennings í landinu, og sem betur fer margra þingmanna hér inni, sem rekur á eftir. Það er með ólíkindum að það skuli vera fyrsta verk ríkisstjórnarinnar að hlaupa til og skerða tekjur ríkissjóðs um allt að 10 milljarða, eða um rúma 6 milljarða á ársgrundvelli — menn vita ekki hvað þetta hefði orðið í auknum tekjum miðað við aukinn hagnað útgerðarinnar — og koma svo hingað og segja okkur að menn geti ekki hafið þing á réttum tíma vegna þess að menn séu ekki tilbúnir með tekjuöflunarfrumvörp. Þetta er svo mótsagnakennt að manni finnst maður stundum vera staddur í leikhúsi fáránleikans.

Hjá venjulegu meðalskynsömu fólki gengur þetta ekki upp; og nú eigum við eftir að fá að vita hvar menn ætla að skera niður. Það eru örugglega margir í þjóðfélaginu sem bera fyrir því kvíðboga hvar það verður því að ekki virðist mega hrófla neitt við þeim í þjóðfélaginu sem eiga einhverja peninga eða eignir. Það virðist blasa við að leggja eigi af auðlegðarskatt, sem var settur á, og að taka eigi til endurskoðunar skattkerfið, sem breytingar urðu á á kjörtímabilinu til jöfnuðar með þrepaskiptu skattkerfi. Breytingarnar urðu í þá átt að þeir sem höfðu lægri tekjur og meðaltekjur lækkuðu hlutfallslega en hinir hækkuðu, þveröfugt við það sem var hér áður þegar þeir sem höfðu lægstu tekjurnar borguðu hlutfallslega hærra og þeir sem voru með hærri tekjur borguðu minna. En þessi hægri stjórn kemur til dyranna eins og hún er klædd. Það þarf ekkert að fara í neinar grafgötur um það fyrir hvað hún stendur. Það er kannski bara ágætt að það sé líka þannig.

Manni finnst oft að úti í þjóðfélaginu vilji menn ekki skilja hver er munur á hægri og vinstri, þetta sé allt orðið eins og enginn munur þar á. Það eigi bara að kjósa persónur og það séu engar stefnur til, það séu bara einhver gamaldags hugtök að tala um stefnur. En vinstri stjórnin brást við hruni frjálshyggjunnar á síðasta kjörtímabili á þann veg að hún lagði sig alla fram um að verja þá sem minna máttu sín og byggja þjóðfélagið aftur upp á þeim grunni að þeir sem hefðu úr meiru að spila greiddu meira til samfélagsins.

Þannig vinna menn sem telja sig vinstri menn og félagshyggjumenn, á þeim grunni, með jöfnuð í huga og réttlæti, en hægri menn telja að allt eigi að vera sem frjálsast og eru þá ekki endilega að spá í það hvort frelsið sé á kostnað einhverra, menn eiga bara að troða sér fram fyrir í röðinni og reyna að ná bita af kökunni, að skattar séu af hinu illa og að allt eigi að gera til að hafa skatta sem lægsta, frelsi sem mest og eftirlit sem minnst og þá muni þjóðfélagið blómstra og alltaf muni hrynja brauðmolar af borði þeirra ríku til þeirra sem minna hafa í þjóðfélaginu. Þetta er brauðmolakenningin sem Framsóknarflokkurinn virðist nú taka undir.

Manni þykir það sorglegt. Ég hef alltaf litið á Framsóknarflokkinn — kannski frá fyrri tíð — sem félagshyggjuflokk og góðan samstarfsaðila fyrir vinstri menn. Því að vinstri menn hér á Íslandi hafa kannski ekki alltaf og sjaldnast haft burði til að mynda ríkisstjórnir sem höfðu hreinan meiri hluta eins og gerðist í fyrsta skiptið á síðasta kjörtímabili og hafa reitt sig á Framsóknarflokkinn til að starfa með á félagslegum grunni og með samvinnuhugsjón að leiðarljósi. En Framsóknarflokkurinn virðist í seinni tíð vera genginn af þeirri trú að félagslegt réttlæti og jöfnuður sé eitthvað sem þurfi að halda á lofti. Völdin skipta hann meira máli og það að koma sínu fólki fyrir á réttum stöðum og beita sér þannig í gegnum peninga og völd.

Og hver er þá bestur til að vinna með þegar hugsjónirnar eru orðnar á þann veg frekar en að hugsa um jöfnuð og samvinnuhugsjónir og réttlæti? Jú, auðvitað er það Sjálfstæðisflokkurinn. Mér finnst það dapurt og ekki bara fyrir þá þingmenn sem hafa vilja til að vinna vel fyrir land og þjóð heldur fyrir kjósendur sem kusu Framsóknarflokkinn á allt öðrum forsendum, kusu hann vegna þess að þeir eru félagslega þenkjandi og vegna þess að þeir eru svo tryggir. Það hefur stundum verið sagt að það skipti ekki máli hver væri í framboði fyrir þá sem hafa kosið Framsóknarflokkinn í gegnum tíðina, að menn gangi alltaf inn og krossi við sinn Framsóknarflokk. Tryggðin er svo mikil og mér finnst það sorglegt fyrir þessa kjósendur.

Auðvitað verða kynslóðaskipti og menn geta ekki endalaust reitt sig á slíka kjósendur sem vaða eld og brennistein fyrir sinn flokk og kjósa hann sama hvað á gengur. En mér finnst Framsóknarflokkurinn hafa gjörbreyst og kannski verður það bara að vera svo. Ekki er lengur hægt að reikna með að hann vilji yfir höfuð starfa til vinstri. Það virðist vera orðið eitur í beinum flestra framsóknarmanna hér á þingi, það sem heitir vinstri og félagshyggja og réttlæti. Menn vilja kenna sig við aðra hluti en það og verja einkahagsmuni, einkaeignarrétt og fjármagnið, standa með því frekar en að standa með fólkinu í landinu. En aftur á móti hentaði það fyrir kosningar að gefa sig út fyrir að lofa fólkinu í landinu því að nú skyldi Framsóknarflokkurinn beita sér fyrir því að lækka skuldir heimilanna. Út á það fyrst og fremst, þó að það væri auðvitað mjög óábyrgt, var Framsóknarflokkurinn kosinn til valda.

Hann var ekki kosinn til valda af þessu sama fólki til að lækka veiðigjöld af útgerðum í landinu sem mala gull. Hann var ekki kosinn til þess, enda hvað er að gerast núna? Á undanförnum dögum hafa skoðanakannanir verið birtar og í þeim hefur Framsóknarflokkurinn verið að missa fylgi, síðast allt að fimm þingmenn, og mér finnst það bara vera mjög eðlilegt miðað við að hann hefur ekki risið undir þeim væntingum sem hann vakti fyrir kosningar.

Varðandi veiðigjöld þá segi ég það enn og aftur að mér finnst með ólíkindum að menn hafi kjark til að ganga hér fram og skera svo niður framtíðartekjur ríkissjóðs á þennan hátt án þess að nokkuð liggi fyrir um það hvernig mæta eigi þessum miklu tekjulækkunum hjá ríkissjóði. Menn hafa áhyggjur af þessu, líka þeir sérfræðingar sem komið hafa að þessari vinnu og telja að botnfisksútgerðin og bolfisksgeirinn greiði nær ekkert sérstakt veiðigjald með frumvarpinu en hafi vel burði til að greiða slíkt gjald, jafnvel hærra veiðigjald en áætlað er í dag. Uppsjávargeirinn er í bullandi gróða, eins og allir vita, og menn leggja til hækkun á þeim geira. Hann mun örugglega rísa undir því þó að eðlilega kveinki menn sér undan því innan sjávarútvegsins að það dragi á milli þessara útgerðarforma, uppsjávarveiði og bolfisksveiði. Ég tel það líka vera alveg eðlilegt að menn séu ekki alveg sáttir við það og held það hljóti að vera krafa frá uppsjávargeiranum að bolfisksgeirinn, sem hefur verið að skila miklum hagnaði heilt yfir, greiði eðlilega rentu.

Fyrir atvinnuveganefnd hafa komið ýmsir umsagnaraðilar og gestir og það hefur vissulega vakið athygli mína hve sveitarstjórnarmenn leggjast hart gegn veiðigjaldi og að þeir telji að verið sé að taka fjármagn úr samfélögunum og fara með það til höfuðborgarinnar. Ég spyr mig hvernig hægt sé að finna það út. Hafa þessi stóru útgerðarfélög, sem eru um land allt, verið að nýta hagnað sinn til uppbyggingar samfélaganna? Það er ekkert endilega þannig. Hvernig geta menn þá sett samasemmerki þarna á milli, að það sé sjálfgefið að menn séu að reikna út veiðigjaldið, sem lagt er á af ríkissjóði, á þann veg að deila því niður á íbúa viðkomandi sveitarfélaga og gefa í skyn að hver og einn íbúi þurfi að greiða þetta extra úr sínum vasa í ríkissjóð en ekki aðrir?

Mundu þessir sömu íbúar fá þessar tekjur sem veiðigjaldið væri ef útgerðirnar greiddu það ekki til ríkisins? Nei, auðvitað ekki og það hefur aldrei verið. Þessi þróun sem hefur verið víða á landsbyggðinni þar sem spila saman auður og völd — það er kannski gamaldags orðalag að tala um auðvald. En þegar maður hugsar það, og ég heyrði það í góðri ræðu í gær, að hugsunin á bak við auðvald, auður og vald, — það er ekkert skrýtið að menn hafi hér áður fyrr talað um auðvaldið, að það hefði þrúgandi áhrif og héldi hinum niðri sem ekki væru vel stæðir og minna mættu sín. Stór fyrirtæki, hvort sem er í sjávarútvegi eða öðrum atvinnugreinum, eru þannig sett að þau geta í raun beitt heilu samfélögunum fyrir sig og stjórnað heilu samfélögunum á bak við tjöldin; í krafti auðsins fá þau það vald.

Ég held að margir íbúar vítt og breitt um landsbyggðina þekki þetta mætavel. Ég er ekki að segja að fyrirtæki, hvort sem þau eru í sjávarútvegi eða öðrum greinum, eigi ekki að vaxa og dafna og hafa eðlilega rentu af vinnu sinni og uppbyggingu heldur vil ég að þau greiði með auðmjúkum hætti til baka til samfélagsins það sem þeim ber. Það á ekki að vera þannig að þau láti falla af manngæsku sinni til samfélagsins við hátíðlegar athafnir, hvort sem það heita íþróttamannvirki, hljóðfæri eða hjartastuðtæki — að þau séu ekki í þessum gír og telji sig þannig vera búin að greiða sitt til samfélagsins og vilji ekki greiða neitt í sameiginlega sjóði eða sem minnst og leita allra leiða til að komast hjá því. Það á ekki að vera eitur í þeirra beinum að greiða auðlindarentu af sameiginlegri auðlind.

Ég gæti skilið þetta kvart og kvein ef útgerðin hefði ekki borð fyrir báru, ef hún væri í miklu basli eins og hún hefur oft og tíðum verið. Ég kem úr sjávarplássi sem er lítið þorp vestur í Súgandafirði og ég hef munað tímana tvenna þar. Þar hef ég upplifað mikla og öfluga útgerð, togaraútgerð og fjölda línubáta, og ég hef upplifað að fyrirtæki fóru á hausinn og ný komu í staðinn og alls konar tilfæringar. Menn voru í basli og réttu svo úr kútnum og fóru svo aftur á hausinn. Þetta hefur oft verið sagan vítt og breitt um landið hjá útgerðarfélögum, hvort sem um má kenna vitlausri gengisskráningu, lélegum stjórnendum, lágu fiskverði, háu fiskverði eða aflabresti. Það má alltaf finna einhverjar orsakir í þeim efnum en allur gangur hefur verið á útgerð í landinu eins og með aðrar atvinnugreinar. En í dag þegar þessi grein hefur allt með sér, hefur haft gengið með sér undanfarin ár, hefur haft hátt verð á mörkuðum, hefur á síðasta ári fengið aflaaukningu upp á 20 þús. tonn í þorski og sama blasir við núna, án þess að greiða krónu fyrir þessa aflaaukningu, ekki krónu til samfélagsins þó að þetta sé sameiginleg auðlind — ég segi það sem dæmi, vegna þess að mér finnst ekkert allir skilja út á hvað þetta gengur, að menn eru alltaf að segja: Ja, við borgum nú fyrir aflaheimildir í dag, við erum ekki af þeirri kynslóð sem fékk þetta frítt upp í hendurnar. Gott og vel en hvað kostar varanlegt kíló af þorski í dag? 3.500 kr., eða þar um bil. Ef við reiknum þetta þannig að þeir sem fá þessa aflaaukningu upp á 20 þús. tonn, allir þeir aðilar, mundu selja það frá sér daginn eftir þá geta þetta verið, í verðmæti á þessu fasta verði eða meðalverði á varanlegu kílói af þorski, 3.500 krónur, á milli 60 og 70 milljarðar.

Menn verða aðeins að hugsa hlutina í þessu samhengi. Menn geta ekki bara tekið fyrir augun og sagt: Við eigum þetta og við ráðum hvað við gerum við þetta af því að við höfum einhvern tímann keypt okkur inn í kerfið. Þetta er endurnýjanleg auðlind sem þú borgar þá bara einu sinni fyrir en getur ár eftir ár gengið að henni vísri og dregið afla úr sjó. Og þú ert ekki lengi að afskrifa þann útlagða kostnað sem fylgir því að kaupa aflaheimildir í upphafi. Það tekur ekki mörg ár. Og þá ertu að ganga að þessari auðlind og veiða og hafa af henni miklar tekjur án þess að greiða fyrir nema hið sanngjarna veiðigjald sem ég tel vera.

Þegar ég kom inn á þing fyrir fjórum árum var það eitt af baráttumálum mínum að gera breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu. Efst á óskalistanum var ekki að setja á veiðigjöld, það var að gera kerfisbreytingu í stjórnkerfi fiskveiða. En veiðigjöldin eru meðfram mikið og stórt sanngirnismál fyrir þetta þjóðfélag, fyrir þá hugsun og fyrir það sjálfsagða mál að auðlindir þjóðarinnar séu sameign þjóðarinnar. Ég hef því ekkert dregið úr því að miðað við stöðu útgerðarinnar og miðað við þá hugmyndafræði sem liggur að baki auðlindarentu eigi þeir útgerðaraðilar sem hafa aflaheimildir að greiða eðlilega auðlindarentu, út frá þeirri formúlu sem auðlindarenta er hugsuð, af hagnaði viðkomandi greinar.

Í mínum huga er kerfisbreytingin öll eftir. Það segir kannski sitt, að ekki hafi tekist á síðustu fjórum árum að gera nema litlar kerfisbreytingar, samt góðar, um það hvers konar skjaldborg er í kringum útgerðir í landinu, stórútgerðir í landinu. Ég ætla ekki að fella allar útgerðir í landinu í sama flokk, það er ekki sanngjarnt. Þar er munur á. En stórútgerðir í landinu eru orðnar ríki í ríkinu. Þær virðast hafa hér á þingi sína menn sem stíga fram grímulaust og segja svo vera. Það er líka gott ef menn tala hreint út með það. Ég tel það vera orðið hættulegt lýðræðinu þegar fyrirtæki ráða orðið ferðinni, þegar þau ráða því hvernig gjaldtaka ríkisins er við þær gífurlegu erfiðu aðstæður sem þjóðfélagið er í. Menn geta bara slegið á puttann og sagt: Þetta komist þið ekki upp með. Þið lofuðuð fyrir kosningar að lækka á okkur veiðigjöldin og þið skuluð standa við það, sama hvort ríkissjóði muni blæða og skera þurfi niður í velferðarkerfinu, skera þurfi niður vítt og breitt um land varðandi samgöngur, menntamál og í öllum þeim póstum sem við viljum sjá að haldi áfram að byggjast upp eftir það áfall sem þjóðin varð fyrir af völdum frjálshyggju og markaðsafla fyrir rúmum fimm árum.

Nei, nú getur útgerðarelítan ekki meir, hún vill nýta umframarðinn sinn í eitthvað annað. Hvað er eitthvað annað? Ég var spurð að því um daginn, þegar ég var í ræðustól, hvað umframarður væri. Það virðist vera erfitt fyrir suma að skilgreina umframarð. Mér var sagt, eftir þá ræðu, af manni sem fylgst hafði með umræðunni að umframarðurinn væri til dæmis í verslunarhöllum hér í Reykjavík, Kringlunni, Smáralindinni. Þar hafa útgerðarmenn í gegnum árin verið að fjárfesta sínum umframarði í greininni. Þeir hafa ekki endilega verið að leggja það í sín samfélög eða hjálpa sveitarsjóði við að malbika götur eða eitthvað slíkt. Nei, þeir fóru margir í áhættufjárfestingar, í hlutabréfakaup í bönkum, fóru með fjármagnið utan í áhættufjárfestingar þar eða í verslunarmiðstöðvar hérna, tískuvöruverslanir og ýmislegt fleira.

Umframarðurinn — og menn hafa verið að tala um þetta sem landsbyggðarskatt — hvert hefur hann verið að renna undanfarin ár? Við sem byggjum landsbyggðina höfum séð á eftir því fjármagni hingað á höfuðborgarsvæðið og þurfti ekki veiðigjöld til. Ég held að menn þurfi nú aðeins að finna kjarnann í sjálfum sér og hugsa um þessi mál af réttlæti og sanngirni, burt séð frá pólitískum línum. Ég held að Íslendingar vilji í hjarta sínu að þeir sem afla vel og þéna vel og hafa tekjur af auðlindum þjóðarinnar greiði til sinna samfélaga. Greiði eftir álagningu en ekki eftir geðþótta hvers og eins, ekki eftir því hvort menn vilji gefa eitthvað rétt áður en skattaárið lokast til að fá afslátt á tekjuskatti eða eitthvað því um líkt. Svoleiðis góðsemi er mér ekki að skapi.

Og út af hverju ættum við ekki að treysta ríkissjóði fyrir því að deila þeim fjármunum sem veiðigjaldið skilar út til samfélagsins? Erum við þá að segja að við treystum yfir höfuð ekki ríkissjóði eða þeim stjórnvöldum hverju sinni sem eru við völd fyrir því að fara með skattfé almennings? Við vitum að það er mismunandi hvernig þingið er samsett hverju sinni og hvar áherslur liggja varðandi uppbyggingu í fjárlögum. En það er fólkið í landinu sem kýs fulltrúa hér inn á þing, það er fulltrúalýðræði, og það er fólkið sem á endanum ræður því hvaða flokka það kýs og hvernig stjórnmálamenn það fær inn á þing og í hvað þeir lofa að nýta skattfé almennings. Er það til að byggja upp gott samfélag eða er það til að lækka skatta á þá ríku og efnameiri eða til að bæta kjör þeirra sem verr eru settir? Þessu þarf fólk að spyrja sig að fyrir hverjar kosningar því að það er það sem ræður því að lokum, með þessu fulltrúalýðræði, hvernig fjármunum ríkisins er varið, hvort sem um er að ræða veiðigjöld eða aðrar tekjur. Þegar upp er staðið þá berum við sjálf ábyrgð á því hvernig skatttekjum ríkisins er varið og hvert þær renna.

Á síðasta kjörtímabili var sett í gang fjárfestingaráætlun ríkisins og veiðigjaldið átti að rísa undir framkvæmdum, jarðgöngum, samgöngubótum og uppbyggingu ferðamannastaða. Það átti að fara í nýsköpun, í rannsókna- og tæknisjóði svo að eitthvað sé nefnt. Það var líka gott að fá þetta fram því að þessi mýta að allar skatttekjur, sérstaklega ef talað er um eitthvað sem tekið er af þeim sem eru vel settir, renni til höfuðborgarinnar. Það er ekki sjálfgefið en það er heldur ekkert slæmt við það að hingað renni fjármagn til uppbyggingar stofnana, náttúrufræðistofnana eða eitthvað því um líkt, í eitthvað sem við öll sem þjóð eigum saman. Við eigum þessa höfuðborg saman. Þetta er borgin okkar, höfuðborgin okkar. Mér leiðist óskaplega þegar farið er í þær skotgrafir að etja saman landsbyggð og höfuðborg. Út af hverju er það? Hverjum gagnast það? Hvað eru menn að sækja með því að etja saman landsbyggð og höfuðborg? Stundum held ég að það sé til þess að spila á lægstu hvatir manna. Auðvitað eigum við öll að gera réttláta kröfu fyrir okkar samfélög hvar sem þau eru á landinu, það er bara eðlilegt, en við eigum ekki alltaf að stilla fólki upp sem andstæðingum í öllum málum.

Í þessu máli eru landsbyggð og höfuðborg ekki andstæðingar heldur samherjar — já, já, minnst á samherja — en landsbyggð og höfuðborg eiga sameiginlega hagsmuni af því að fá veiðigjöld, fá þær tekjur sem gert var ráð fyrir í öllum áætlunum, í þeim veiðigjöldum sem samþykkt voru síðastliðið sumar, til að byggja upp gott samfélag í öllu landinu. Það verðum við að gera. Við verðum að standa saman. Þess vegna var það líka mjög gott að af stað fór réttlætisbylgja og undirskriftalistar í þessu máli. Eins og ég skil það þá eru það hátt í 34–35 þúsund manns, 34 þúsund held ég að hafi verið síðasta talan, sem mótmæla lækkun veiðigjalda. Verða menn ekki að hlusta á þær raddir? Ætla menn að loka eyrunum fyrir þeim röddum og hugsa: Það er svo langt til næstu kosninga að þetta verður orðið fyrnt og við komumst vel upp með þetta?

Nei, ég held að menn ættu aðeins að staldra við því að þetta hefur afleiðingar og fólk lætur ekki bjóða sér vinnubrögð af þessu tagi. Almenningur hefur þurft að herða sultarólina vegna hrunsins allt þetta kjörtímabil en það fyrsta sem ríkisstjórninni dettur í hug að gera er að ganga fram með þessum hætti, vegna loforða sem gefin höfðu verið stórútgerðum í landinu, um að veiðigjöldin skyldu lækkuð og það ekkert smávegis. Þetta eru engir smápeningar. Menn fara ekki fram af neinni hógværð í þessum málum. Nei, menn taka bara allan pakkann og gera þetta grímulaust. Svo eru menn hissa á því að fólk sé að tala um hagsmunatengsl, bæði úti í þjóðfélaginu og líka hér á þingi. Menn eru óttaslegnir vegna hugsanlegra hagsmunatengsla þegar þau eru orðin svo alvarleg að þau geta haft áhrif á afkomu ríkissjóðs til eða frá.

Það hefur komið fram, í greiningu hjá fræðimanni í háskólanum, að útgerðirnar hafa verið að borga þeim flokkum sem nú eru við völd háar fjárhæðir fyrir kosningar. Þetta er grafalvarlegt mál sem mér finnst að Ríkisendurskoðun eigi að fara ofan í saumana á. Þetta er hættulegt lýðræðinu og okkur sjálfum, sjálfstæði okkar hér á þingi. Það er hættulegt sjálfstæði okkar sem þingmanna að vera undir þeirri miklu pressu að stór fyrirtæki geti beitt þessum mikla þrýstingi til að verja sérhagsmuni sína.

Ég held að það sé enn ferskt í minni fólks þegar Austurvöllur fylltist af sjómönnum. Og út af hverju? Það var línan hjá útgerðarfélögum: Sjómenn, farið þið út á Austurvöll, standið með okkur í kjarabaráttunni og mótmælið veiðigjöldum. Og menn voru reknir hingað í réttirnar, þorðu ekki öðru. Hvað hefði gerst ef menn hefðu látið heyra í sér? Ég hef heyrt að mönnum hafi blöskrað en menn höfðu ekki í margt að hverfa ef þeir hefðu misst pláss sín um borð. Er þetta í lagi? Nei, þetta er ekki í lagi. Svona þjóðfélag vill maður ekki sjá, þjóðfélag þar sem menn eru beittir óbeinum þvingunum og þeim beitt fyrir vagninn til að verja sérhagsmuni, þjóðfélag þar sem menn vilja ekki greiða til samfélagsins eðlilega auðlindarentu af nýtingu náttúruauðlindar allra landsmanna.

Ég vona að menn taki til greina þann stóra og ríka vilja sem kemur fram hjá því fólki sem hefur skrifað undir mótmæli við þessum breytingum og lækkunum. Ég vona að ríkisstjórnin sjái að sér og að henni verði ljóst að ef hún ætlar að byggja upp gott samfélag þarf hún á þessum tekjum að halda.



[14:45]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þá ágætu umræðu sem farið hefur fram hér um þetta mikilvæga mál, frumvarp um breyting á lögum um veiðigjöld, sem er mikið prinsippmál og þarfnast þess vegna eðlilegra nokkurrar umræðu í þinginu.

Fram kom við umræðuna í gærkvöldi að nú sé staðan orðin sú að hæstv. fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson og stjórnarmeirihlutinn hér í þinginu treysta sér ekki til að leggja fram fjárlög á haustdögum þann 10. september næstkomandi, eins og gert er ráð fyrir í þingskapalögum. Það séu uppi óskir um að fresta því að Alþingi komi saman í haust vegna þess að stjórnarmeirihlutinn getur ekki lagt fram fjárlagafrumvarp. Það bendir til þess að nokkuð sé til í því sem menn hafa haft áhyggjur af við umfjöllun þessa máls og raunar nokkurra annarra á þessu stutta sumarþingi að hér sé verið að taka ákvarðanir um að gefa eftir tekjur ríkissjóðs sem er í þröngri stöðu og er að koma úr mikilvægu uppbyggingarstarfi eftir efnahagslegt hrun landsins, um að falla frá umtalsverðum tekjum og stofna til ýmissa útgjalda án þess að stjórnarmeirihlutinn hafi nokkra hugmynd um hvað hann ætli að láta koma í staðinn. Eftir að hafa meira af kappi en forsjá farið fram með þessi mál í því að gefa eftir við 5 þúsund efnuðustu fjölskyldurnar í landinu þá eignarskatta sem þær fjölskyldur hafa þurft að standa skil á meðan við erum inni í gjaldeyrishöftum og með því að gefa núna þessari 10 milljarða eftir til útgerðarinnar og ýmsum öðrum ákvörðunum þá sé stjórnarmeirihlutinn búinn að skapa sér vanda af þeirri stærðargráðu að hann hafi satt að segja ekki hugmynd um hvernig hann ætli að leysa hann vegna þess að peningarnir vaxa ekki á trjánum. Þeir falla ekki af himnum ofan, sérstaklega ekki á tímum alþjóðlegra erfiðleika á fjármálamörkuðum.

30 milljarða gat hefur verið nefnt af einum af ráðherrum ríkisstjórnarinnar. Það blasir við núna eftir að þessar ákvarðanir hafa verið teknar, til viðbótar við þá stöðu sem fyrir var, að þess fjár verður að afla, það er ósköp einfalt, því að ekki er hægt að halda áfram að reka ríkissjóð með halla og safna skuldum á komandi kynslóðir því að skuldabyrði ríkissjóðs er við þolmörk. Þess vegna verður annaðhvort að skatta einhverja aðra en útgerðina til að afla þeirra tekna sem hér er verið að leggja til að falla frá og þar er nú ekki um sérlega auðugan garð að gresja. Það er þá fyrst og fremst spurningin um hvort stjórnarmeirihlutinn ætlar að ráðast í frekari skattlagningu á almenning í landinu. Hins vegar er hægt að skera niður til þess að mæta þessu en það yrði sannarlega mjög tilfinnanlegur niðurskurður að skera niður á jafnskömmum tíma og hér um ræðir, á þessum tveimur árum, um 10 milljarða kr. í velferðarþjónustu á Íslandi. Það er algerlega óhjákvæmilegt að sá niðurskurður mundi bitna á grunnþjónustu, mikilvægri þjónustu. Það kemur mér satt að segja ekkert á óvart þó að hæstv. fjármálaráðherra, sem er því miður nú ekki við þessa umræðu, sé í nokkrum vandræðum með þessar fyrirætlanir og sjái ekki á þessu augnabliki þegar þó er verið að ætlast til þess að þessi gjafabréf séu samþykkt til útgerðarinnar, með hvaða hætti eigi að loka dæminu og sé þess vegna farinn að biðja um frest á því að leggja fram fjárlög.

Ég held að almennt sé það ágæt regla fyrir stjórnarmeirihluta þegar hann tekur ákvarðanir um umtalsverðar fjárhæðir í opinberum rekstri að gerð sé grein fyrir því hvaðan féð eigi að koma um leið og menn taka þær ákvarðanir, annars er mjög fljótt í óefni komið. Það er ekki þannig að veiðigjöld annars vegar og auðlegðarskatturinn hins vegar séu skattar sem leiði til þess með því að þeir lækki til sérstakra umsvifa í efnahagslífinu að heitið geti eða þá að það hvetji umfram annað til sérstakra nýfjárfestinga í atvinnulífi og leiði þannig til aukinnar verðmætasköpunar og geti þar með skilað meiri skatttekjum eins og þó eru dæmi um. Auðvitað er hægt að grípa til ráðstafana í skattamálum sem geta haft slík áhrif að nokkru marki en því er ekki að heilsa. Ef vilji manna stæði til þess að örva efnahagslífið með skattalegum ráðstöfunum eru um það bil allar aðrar skattalegar ráðstafanir í bókinni betri en þessar tvær til að örva efnahagslífið, fjölga störfum, auka veltuna í samfélaginu og verðmætasköpunina. Allt ber þetta því að sama brunni, að hér sé fyrst og fremst á ferðinni sérhagsmunapólitík fyrir þá aðila sem hafa sterk ítök í stjórnarmeirihlutanum og njóta þess að vera fremstir í forgangsröðuninni þegar úthluta á fjármunum og að vera þeir hópar sem hægt er að úthluta til miklum fjármunum alveg vandræðalaust á meðan ýmsar ástæður eru taldar fyrir því að ekki er með sama hætti hægt að efna loforð við aðra hópa í samfélaginu.

Það er auðvitað bara pólitík. Pólitík er bara spurningin um forgangsröðun. Ekki síst er hún spurningin um forgangsröðun á opinberu fé, á endurdreifingu teknanna í samfélaginu. Þetta er alveg skýr forgangsröðun. Það eru einfaldlega 5.000 efnuðustu heimilin í landinu sem eru í fyrsta forgangi og í öðrum forgangi koma síðan útgerðarmennirnir með þetta 10 milljarða gjafabréf. Það þarf ekki að koma neinum á óvart að það er í mínum huga vond forgangsröðun af því að ég held að ríkissjóður þurfi sannarlega á þessum tekjum að halda og að allt þetta fjármagn sé betur komið hjá öðrum hópum í samfélaginu, hjá öðrum heimilum en þeim sem eiga kvótann í landinu en sem verið er að gera hér. Miklu skynsamlegra væri horfa á málið út frá efnahagspólitík, atvinnusköpun og öðrum hlutum og grípa til annarra ráðstafana en hér er gert.

Þetta er vond ákvörðun, vond pólitík af mörgum öðrum ástæðum, ekki bara af því að þetta er forgangsröðun í þágu forréttindahópanna í samfélaginu, grímulaus sérhagsmunagæsla og forréttindapólitík. Ein er sú að það að koma á hinu sérstaka veiðigjaldi á síðasta kjörtímabili var að mínu viti býsna farsælt skref. Hvers vegna segi ég það? Ég segi það vegna þess að allt of lengi höfum við Íslendingar blandað saman ólíkum sjónarmiðum um fiskveiðistjórnarkerfið sem slíkt og hins vegar þeirri eðlilegu sanngirniskröfu að almenningur njóti tekna af auðlindinni sem við eigum saman og að komandi kynslóðum Íslendinga, börnum okkar og barnabörnum sé líka tryggður hlutur í arðinum af þessari auðlind sem við eigum saman. Allt of lengi blönduðust þessar tvær óskyldu umræður saman og ósættið vegna þess að almenningur naut ekki arðs af auðlindinni varð til þess að uppi voru ýmsar hugmyndir um breytingar á sjálfu fiskveiðistjórnarkerfinu sem ég held að hefðu ekki verið skynsamlegar.

Það er einfaldlega þannig að fiskveiðistjórnarkerfið hefur skilað okkur umtalsverðum efnahagslegum árangri, kannski ekki síst á 10. áratugnum, aukinni framleiðni, hagræðingu, betri arðsemi og hefur leitt til þess að í þessari grunnatvinnugrein okkar er meira til skiptanna. Það tókst að aðskilja annars vegar umræðuna um fiskveiðistjórnarkerfið, sem enn er í meginatriðum hið sama, og hins vegar að hefja töku arðs, auðlindarentu úr greininni, sem er alger forsenda fyrir því að það geti verið sæmilegur friður um þessa grundvallaratvinnugrein okkar Íslendinga. Það er mikilvægt að sæmilega breið sátt geti tekist um greinina og að þar geti menn búið við fyrirsjáanleika og öryggi í rekstrarumhverfinu til nokkuð langrar framtíðar, sem er sannarlega mikilvægt fyrir atvinnugreinina.

Þess vegna var það framför að í staðinn fyrir að greiða það klink sem hér var haft að málamyndagjaldi á árunum upp úr síðustu aldamótum hefur greinin nú í ár sannarlega lagt umtalsvert til til samneyslunnar. Sem betur fer er gjaldinu þannig hagað að greinin gerir það þegar vel árar. Þegar illa árar lækka gjöldin eða hverfa því sem næst.

Það er líka ákaflega mikilvægt því að það er brýnt að afkoma í sjávarútvegi sé góð, að þar sé hagnaður sem getur verið undirstaða frekari fjárfestinga og aukinnar framsóknar í þessari mikilvægu atvinnugrein okkar. En þegar framlegðin er eins og hún er á árinu í ár, kannski hátt í 100 þúsund millj. kr., eða sem nemur um milljón kr. á hvert heimili í landinu, er það ósköp eðlileg sanngirniskrafa að einhver hluti af því renni í sameiginlega sjóði. Ekki á það síst við núna eftir þau miklu efnahagslegu áföll sem við Íslendingar urðum fyrir og þær miklu og þungu byrðar sem allur almenningur í landinu þarf að bera og hefur þurft að bera síðan bæði í skuldum og sköttum og skertri þjónustu, þegar horft er á þær álögur sem allt almennt atvinnulíf í landinu hefur þurft að taka á sig sem hefur þó búið við miklu lakari afkomu nú undanfarin ár en sjávarútvegurinn nokkurn tíma. Sá hluti sem gert er ráð fyrir að greinin skili í auðlindagjaldi er aðeins pínulítill hluti af þessari gríðarlega miklu framlegð — ætli það séu ekki um 13 milljarðar á ársgrundvelli.

Þá er spurningin: Er það sanngjarnt? Er það eðlileg gjaldtaka? Og um það á umræðan hér auðvitað að snúast. Svarið við því er býsna augljóst: Já, það er sanngjarnt. Allir, sem stendur það til boða, hafa þegið að veiða fisk við Íslandsstrendur upp á það að greiða þetta auðlindagjald. Hér er lagt til að gjaldið fyrir það að veiða kíló af þorski lækki úr 35 kr. á kílóið niður í 17. Allir sem eitthvað þekkja til mála vita að hvaða útgerðarmaður sem er á Íslandi mundi, af einhverjum öðrum aðila en ríkinu, vera á hvaða degi vikunnar sem vera skal tilbúinn til að leigja til sín aflaheimildir á 35 kr. fyrir kílóið.

Það er þannig algerlega augljóst og þarf ekki mikla stærðfræðikunnáttu til eða nána þekkingu á þessu umhverfi að átta sig á því að það gjald sem hér er verið að lækka er býsna sanngjarnt fyrir, það er sannarlega ekki ýkja íþyngjandi fyrir. Þó hafa verið færð nokkur rök fyrir því að gjaldið geti lagst þungt á einstaka útgerðarflokka, á smærri útgerðir eða útgerðir sem sækja tilteknar tegundir, og þá kannski heldur of létt á einhverja aðra útgerðarflokka. Það geta verið málefnaleg sjónarmið að baki slíku og er ekkert sjálfsagðara en hafa gjald sem þetta í stöðugri endurskoðun og gera á því tilfærslur og breytingar. Það er ekkert tilefni til að lækka auðlindagjald af sjávarútvegi á Íslandi einmitt á því ári þegar ríkissjóður þarf sannarlega á tekjunum að halda og þegar hagnaðurinn í íslenskum sjávarútvegi er meiri en hann hefur nokkru sinni verið í Íslandssögunni. Það hefur aldrei verið annar eins hagnaður í íslenskum sjávarútvegi og nú. Við það bætist að hér við umræðuna, og það sýnir nú hvað umræðan í þingsal getur verið gagnleg, upplýsti sá ágæti hv. þm. Haraldur Benediktsson okkur um að það sé ekki bara þannig að afkoma í greininni núna sé svona gríðarlega góð heldur sé það líka þannig að matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna, FAO, spái því, og það megi sjá á vef þeirra, að á næstu átta árum verði 15–18% raunhækkun á fiskverði í heiminum, sem bendir til þess að horfurnar fyrir greinina séu jafnvel enn glæsilegri en afkoman í ár. Hvers vegna er óskynsamlegt að lækka gjaldið? Jú, það er vegna þess að ríkissjóður þarf á tekjunum að halda. Við þurfum að fara í Landspítalann og skólana okkar til að halda sköttum á almenningi í skefjum. Í öðru lagi vegna þess að gjaldið eins og það hefur verið undanfarið er bara ósköp sanngjarnt. En í þriðja lagi vegna þess að með því að lækka gjaldið skapa stjórnarflokkarnir á ný þær hörðu deilur sem einkenndu alla stjórnmálaumræðu um sjávarútveg ár eftir ár, allt frá því að kvótakerfið var innleitt. Þeir rífa upp þá tilraun til sáttar sem gerð hefur verið, taka eðlilegan og sanngjarnan hlut almennings í arðinum af sinni eigin auðlind og lækka hann óhóflega án þess að fyrir því sé nokkur haldbær rökstuðningur. Þar með rífa þeir upp sáttina um sjávarútveginn og þar með er öll umræðan komin af stað aftur, líka um fiskveiðistjórnarkerfið, sem ég hefði haldið að skipti okkur sem þjóð miklu máli að halda frið um.

Hvers vegna er þessi sterka krafa um að hafa arð af auðlindinni sinni? Það er einfaldlega þannig að það er munurinn á því að vera þróað lýðræðisríki eða bananalýðveldi hvort þjóðin hefur arð af auðlindum sínum eða hvort hún lætur litla hópa eignarmanna ræna sig þeim arði. Fyrir land eins og Ísland sem er ríkt að auðlindum er það gríðarlega mikilvægt að við á löggjafarsamkomunni tryggjum að ekki bara ríkissjóður í dag heldur börnin okkar og barnabörnin um alla framtíð njóti arðsins af auðlindinni, ekki bara af fiskinum í sjónum heldur líka af olíunni, líka af vatnsréttindunum, líka af jarðhitanum o.s.frv. Ef það hendir okkur að missa úr höndunum þessar auðlindir til einkaaðila, alþjóðlegra aðila þá getur auðvitað farið svo yfir lengri tíma að hér sitji almenningur og horfi á aðra hagnýta sér auðlindir landsins án þess að það komi þessu samfélagi sérlega til góða. Það er gildra sem margar þjóðir hafa fallið í, einkum þær sem lent hafa í fjárhagserfiðleikum og það er nokkuð sem við Íslendingar þurfum sérstaklega að varast. Í auðlindalöggjöf í þinginu var unnið stórmerkilegt starf snemma á síðustu öld, t.d. við setningu vatnalaganna sem alþingismenn þess tíma vönduðu sig sérstaklega við og tóku mörg ár í smíðum. Þau dugðu í hátt í heila öld til að leysa úr hinum flóknustu álitaefnum, m.a. um efni og þróun í tækni og öðrum slíkum hlutum sem enginn gat séð fyrir í kringum árið 1920. Þar var sú grundvallarhugsun að skilja til að mynda ekki réttindin frá vatnsbakkanum þannig að bóndinn mundi ekki horfa á menn hagnýta sér veiðiréttinn í ánni án þess að hafa af því nokkrar tekjur sjálfur vegna þess að einhvern tíma á leiðinni fyrir einhver skammtímasjónarmið höfðu þau verið skilin frá jörðinni sjálfri. Það eru þessi langtímasjónarmið um auðlindir okkar sem við þurfum að standa vörð um sem alþingismenn.

Hér hefur stundum verið reynt að draga í dilka landsbyggð og höfuðborg. Það er leikur sem oft er leikinn þegar reyna á að hylja reyk sérhagsmunagæslu. Ég hlýt að minna þar á í fyrsta lagi að héðan frá Reykjavík er nú býsna mikið gert út og býsna mikill hluti af auðlindagjaldinu greiddur, en einnig eru ýmsar aðrar útgerðir staðsettar hér. Fyrst og síðast er gjaldið á þá sem eru handhafar kvótans og ég hygg að býsna margir af þeim búi bara hér uppi í Þingholtunum eða úti í Vesturbæ í fremur veglegum húsum, ef ég veit rétt. Það er þess vegna býsna mikil einföldun að halda því fram að þetta sé sérstakur landsbyggðarskattur því að mikið af þeirri atvinnu- og fjárfestingarstarfsemi sem hefur þá minna úr að spila eftir að það gjald er til komið er náttúrlega bara staðsett hér í Reykjavík, í 101 í aðalatriðum, hvort sem það er úti á Granda eða uppi á horninu á Öldugötu og Bræðraborgarstíg.

Hins vegar er þetta auðvitað ekki eina auðlindin sem við eigum saman. Ég hef margítrekað í umræðunni lagt á það ríka áherslu að við þurfum með sama hætti að búa um hin. Við höfum sem betur fer gert það varðandi olíuna með þeirri lagasetningu sem við beittum okkur fyrir á síðasta kjörtímabili, en við eigum líka að gera það með orkuauðlindir. Með því að gera það er hægt að mæta þeim sjónarmiðum, að svo miklu leyti sem þau eru yfir höfuð gild, að þetta leggist meira á landsbyggðina en höfuðborgina þó að gjaldið leggist auðvitað á bæði höfuðborg og landsbyggð. Það er auðvitað þannig að orkuauðlindirnar eru mikið til nýttar hér á suðvesturhorninu og til starfsemi sem er á suðvesturhorninu og auðvitað mundi auðlindagjald í orkuiðnaðinum leggjast þyngra á suðvesturhornið en á hinar dreifðu byggðir. Það gæti þá komið til móts við þau sanngirnissjónarmið sem ég held að hljóti að búa að baki því að það að taka auðlindagjöld megi ekki skekkja stöðu landsbyggðarinnar gagnvart höfuðborginni. Ég held að við eigum að vinda okkur í það verkefni á þessu kjörtímabili að tryggja að í sameiginlega sjóði renni eðlileg auðlindagjöld af bæði jarðhitanum og vatnsaflinu því að þetta eru líka mikilvægar auðlindir og þetta eru líka auðlindir sem við eigum saman. Þetta eru auðlindir sem skiptir máli að við tryggjum réttarstöðuna um til langrar framtíðar og tryggjum komandi kynslóðum arð til langrar framtíðar. Það færi auðvitað best á því að við gerðum það með því að gera þær nauðsynlegu breytingar sem gera þarf á stjórnarskrá lýðveldisins til að það sé sem best tryggt í löggjöf, eins vel og við getum yfir höfuð tryggt það, að auðlindirnar séu eign almennings og að almenningur eigi að njóta arðs af þeim. Það sé fest í stjórnarskrá og þá staðfest í þjóðaratkvæðagreiðslu ef stjórnarmeirihlutinn lætur það frumvarp til laga um breytingar á stjórnarskrá ná fram að ganga sem formenn stjórnarandstöðuflokkanna þriggja fluttu á síðasta þingi og samþykkt var fyrir alþingiskosningarnar eins og menn þekkja.

Ég held að það sé eitt af brýnustu verkefnum íslenskra stjórnmála. Ég tel að verið sé að spilla því verkefni með því órökstudda og þarflausa gjafabréfi til útgerðarinnar sem verið er að henda inn í alla þessa umræðu og alla þessa vinnu. Verkefnið á svo miklu fremur að vera það að koma t.d. á fót auðlindasjóði með svipuðum hætti og Norðmenn hafa komið sínum auðlindamálum fyrir, þar sem tryggt væri að í rynni arðurinn af vatnsaflinu, í jarðhitanum, auðlindarentan í sjávarútveginum og þær tekjur af sama eðli sem við megum vænta að hafa af olíuvinnslu í einhverri framtíð. Einnig mundu fara þangað tekjur af öðrum þeim auðlindum sem hagnýta má með þeim hætti að í sé umframarður eða auðlindarenta eða sérstök gæði sem sú atvinnustarfsemi sem hana nýtir hefur frá samfélaginu og eðlilegt er að komi gjald fyrir.

Kannski væri þó farsælast að þróa auðlindagjaldið með þeim hætti að það réðist sem allra mest á markaði, af hlutlægum mælikvörðum sem þyrfti ekki pólitískar deilur um hér á þingi frá einu kjörtímabili til annars, frá einum meiri hluta til annars vegna þess að það sem skiptir atvinnugrein eins og sjávarútveginn svo miklu máli er að það sé festa, stöðugleiki og býsna víðtæk sátt um það fyrirkomulag sem þar er, um þær reglur sem þar eru í gildi og um þá sýn sem við höfum til framtíðar fyrir þá atvinnugrein. Sífelldar deilur, ósætti og átök um atvinnugrein þar sem skiptir á milli frá einu kjörtímabili til annars eftir því hvort vinstri menn eru í forustu eða hægri menn, er ekki gott fyrir atvinnugreinina sjálfa og við eigum ekki að búa henni þau skilyrði. Það er einfaldlega skammsýni af hálfu stjórnarmeirihlutans að byrja nýtt kjörtímabil á því að rífa upp þessi sár með því að ætla að láta það verða sitt fyrsta verk að gefa útgerðarmönnum 10 milljarða sem engin þörf er fyrir að gera en mikil þörf er fyrir að nota til mikilvægra samfélagsmála. Stjórnarmeirihlutinn ætti miklu fremur að kappkosta að ná sem víðtækastri sátt um framtíðarfyrirkomulag í sjávarútvegi, framtíðarfyrirkomulagið um þessa auðlind. Við vitum öll að það verður aldrei bærilega víðtæk sátt um það umhverfi allt nema tryggður sé eðlilegur arður til þjóðarinnar fyrir afnotin af auðlindinni. Ef hann er tryggður eru auðvitað margir tilbúnir til að ganga býsna langt til að tryggja sem best starfsskilyrði og arðsamasta starfsemi í þessari grein. En alger forsenda fyrir því að víðtæk sátt geti náðst er að almenningur fái þetta eðlilega endurgjald sem ég hygg að allir menn geti fallist á að 35 kr. fyrir hvert kíló er.

Ég held að það viti það allir í þessum sal að það er ekki mikið gjald. Trúlega væru þeir allnokkrir útgerðarmennirnir sem væru tilbúnir til að veiða ekki bara upp á 35 kr. heldur upp á umtalsvert hærri fjárhæðir fyrir hvert kíló en það, en ég held ekki að það eigi að vera rök fyrir því að hækka gjaldið upp úr öllu valdi. Ég held að það sé mikilvægt að hér á þjóðþinginu leggi menn áherslu á að það sé ábatasamt að vera í sjávarútvegi. Það á að vera ábatasamt. Það er áhættusöm atvinnugrein. Hún býr auðvitað við miklar sveiflur í gæftum, kostnaði, þróun á mörkuðum, verði og öðru slíku og það á að vera ábatasamt að stunda sjávarútveg. Það er mikilvægt að grundvallaratvinnugrein þjóðarinnar búi við sterkan efnahag og góða afkomu en hún mun nú gera það þó að hún borgi 35 kr. fyrir kílóið. Hún hefur verið að gera það þó að hún hafi greitt veiðigjald núna undanfarið.

Þó kunna að vera rök fyrir því að gera þurfi einhverjar breytingar innan gjaldsins sem létta af einhverjum tilteknum flokki útgerða en þyngja á öðrum eftir atvikum. En ég vara líka við því að menn tali um sjávarútveginn og gjaldtöku í honum með þeim hætti að þar eigi að friða umhverfið eins og það er í dag, að það megi engar frekari kröfur gera um arðsemi í greininni af því að þá gætu verið einhver fyrirtæki sem ekki réðu við það. Það er óheppilegt sjónarmið þegar grundvallaratvinnuvegurinn er annars vegar vegna þess að það er mikilvægt að fyrirtæki í sjávarútvegi haldi áfram að hagræða og að þau fyrirtæki sem skila mestri framleiðni, bestum hagnaði og eru í færum til að skila bæði eigendum og þjóðinni mestri arðsemi eiga að vaxa og dafna og fyrirtæki sem ekki eru eins hagkvæm, eiga annaðhvort að sameinast öðrum fyrirtækjum eða víkja. Það er grundvöllurinn fyrir efnahagslegum framförum í hverju landi að atvinnugreinarnar haldi áfram að þróast og batna og gera auknar arðsemiskröfur og þeir sem ekki standa sig í samkeppni geta orðið undir. Þannig er það. Við ætlum ekki að hafa eins sjávarútveg eftir 20 ár og við erum með í dag, ekki sömu fyrirtækin, ekki sömu skiptinguna á milli flokka og greina. Við viljum að atvinnugreinin breytist og arðsemiskrafa af hálfu eigenda auðlindarinnar, þjóðarinnar til þeirra sem sækja sjóinn, þrýstir sannarlega á um að staðið sé þannig að rekstri að hann sé sem hagkvæmastur, að framleiðni sé sem mest, að sóun sé sem minnst og að greinin sé í færum til þess að bera sem allra mestan arð bæði til þeirra sem eiga hlutaðeigandi fyrirtæki og eins í sjóði okkar almennings.

Ég held að áhyggjur manna af þessu frumvarpi núna séu kannski ekki af sömu stærðargráðu og af því frumvarpi sem við væntum þess að fá í vetur því að þrátt fyrir allt er þetta tímabundið ráðstöfun, 10 milljarða gjafabréf sem gildir bara í afmarkaðan tíma. En menn boða frekari breytingar á veiðigjaldinu. Ég hef áhyggjur af því að eins og lagt er af stað í þá vegferð með þessu frumvarpi sé ástæða til að ætla að sá leiðangur um endurskoðun á veiðigjaldakerfinu til framtíðar verði ekki farinn til að auka sátt um sjávarútveginn í landinu eða efla samstöðu um þessa grundvallaratvinnugrein, heldur sé ætlunin að hafa ekkert samráð, eins og í þessu máli, að taka ekkert tillit til sjónarmiða og keyra málin áfram í fullkomnu ósætti. Það hefur kallað á umtalsverð viðbrögð hjá almenningi þegar á örfáum dögum. Ég hygg að það hafi verið 35 þúsund manns sem mótmæltu þessari vondu forgangsröðun Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks í þinginu sem kölluðu eftir því að veiðigjöldin yrðu óbreytt, enda er hún hverjum manni augljós. Sjávarútvegurinn hefur aldrei grætt eins mikið á Íslandi og í dag og ef það er einhver aðili á Íslandi sem þarf ekki á skattalækkunum að halda þá eru það kvótahafarnir á Íslandi því að gróðinn í sjávarútveginum hefur aldrei verið meiri. Það er einfaldlega þannig. Og ekki verður annað séð en að það haldi bara áfram að batna og batna ár frá ári, eins og hv. þm. Haraldur Benediktsson hefur bent okkur á í þeim spám sem fyrir liggja á alþjóðlegum vettvangi um þróun í þessari grein. Það er bara eðlilegt að fólk kalli eftir því að Alþingi endurskoði þessa ákvörðun. Ég man að á síðasta kjörtímabili sömdum við í stjórnarliðinu við minni hlutann um fjárhæðina á veiðigjaldinu. Við gengum til samninga við Framsóknarflokk og Sjálfstæðisflokk um það hvað væri hóflegt að leggja á í þessu veiðigjaldi. Ég átti sjálfur þátt í þeim samningaviðræðum vegna þess að það var af ýmsum ástæðum talið nauðsynlegt að koma til móts við sjónarmið minni hlutans í þessu efni til að skapa meiri sátt um málið en þá var uppi.

Mér finnst eftirtektarvert að þessir sömu flokkar sem hafa reynsluna af því að stjórnarflokkar gengu til samninga við þá um málamiðlanir til að auka sátt og draga úr andstöðu við það frumvarp sem hafði fram komið, að nú þegar þeir mæta sterkri andstöðu bæði á þingi og hjá þjóðinni við þessum fyrirætlunum, þá örlar ekki á viðleitni. Það örlar ekki á viðleitni til að hugsa málið aftur, að endurskoða afstöðu sína, taka til athugunar hvort koma megi til móts við þessi sjónarmið, hvort miðla megi málum í því skyni að auka samstöðu í málinu. Það örlar ekki á viðleitni. Ekkert samráð er þar um og það er varla að tillögur og afgreiðsla málsins fengi efnislega umræðu í nefndinni. Það var bara rifið út.

Ég vona sannarlega að slík vinnubrögð séu ekki fyrirboði um það sem koma skal þegar kemur að heildarendurskoðun á veiðigjaldinu. Það er auðvitað alveg ljóst að ef stjórnarflokkarnir ætla bara að rífa í gegn einhverja sérhagsmunagæslusýn án tillits til annarra sjónarmiða mun það auðvitað vekja á ný þær hörðu deilur og miklu átök um íslenskan sjávarútveg sem við þekkjum frá fyrri árum og ég hélt að við vildum í lengstu lög forðast að lenda í aftur. Við þurfum að skapa víðtæka sátt um þessa grein og það að greiða 35 kr. fyrir kíló af þorski er sanngjarnt endurgjald til almennings fyrir afnot af auðlindinni.



[15:25]
Jón Þór Ólafsson (P):

Frú forseti. Þingmenn Pírata hafa í þessu máli skorað með yfir 34 þúsund landsmönnum á forsetann að hann synji lögum um lækkun veiðigjalda staðfestingar og skjóti málinu í þjóðaratkvæðagreiðslu. Fyrir helgi sendum við forseta Íslands bréf um að við mundum þæfa málið um að lækka veiðigjaldið þar til hann kæmi til landsins. Þar segir, með leyfi forseta:

„Við þingmenn Pírata þurfum að vita hvort og þá hvenær við þurfum að nota þau verkfæri sem kjósendur okkar treystu okkur fyrir til að auka beint lýðræði, eins og málþófi, þar til þú kemur aftur til landsins til að beita því valdi sem þjóðin treysti þér fyrir, málskotsrétti forsetaembættisins, öryggisventli þjóðarinnar. Okkur þætti vænt um að vita hve lengi við þingmenn Pírata þurfum að þæfa málið þar til þú kemst til landsins til að taka við málskotsréttinum úr höndum stjórnarliða.“

Forsetaritari hefur staðfest við okkur í dag að forsetinn er kominn til landsins. Meginmarkmiði málþófs pírata er því náð.

Við höfum rætt um það hvort við ættum að koma með víðtækari kröfur og halda málþófinu áfram en okkur þykir það ekki góð regla og viljum frekar fylgja fordæmi ungs indversks lögfræðings í Suður-Afríku sem fór af stað með borgaralega óhlýðni sem varðar fjöldahreyfingu. Þegar hreyfingin var komin í þá stöðu að ná fram kröfum sínum þótti lögfræðingnum Mohandas Gandhi ekki rétt að bæta við þær kröfur.

Við píratar höfum í framhaldinu óskað eftir fundi með forsetanum til að ræða framgöngu beins lýðræðis á Íslandi og hvernig við getum best unnið að vegferð þess og brautargengi en eins og staðan er núna er forsetinn kominn til landsins, málskotsrétturinn er í höndum forseta. Málþófi pírata er lokið.



[15:28]
Jón Þór Ólafsson (P):

[15:29]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það sem ég vil fara aðeins fyrst yfir í tengslum við 2. umr. þessa frumvarps um breytingar á lögum um veiðigjöld er hugmyndafræðin sem að baki liggur og forsaga málsins í þeim skilningi að veiðigjöld sem hafa verið lögð á í nokkrum mæli, hafa takmörkun að vísu, um alllangt árabil studdust við eina grein í lögum um stjórn fiskveiða. Þegar ráðist var í heildarendurskoðun á fyrirkomulagi þessara mála á öndverðu ári 2012 varð niðurstaðan fljótlega að stefna að því að búa um þá gjaldtöku í sérstökum lögum, færa það út úr lögum um stjórn fiskveiða og til varð frumvarp til laga um veiðigjöld sem var svo lögfest á Alþingi á því ári.

Lögin eru í grunninn þannig uppbyggð að um er að ræða almennt gjald sem allir aðilar sem fá úthlutað veiðiréttindum greiða. Það er hóflegt og við það miðað að í öllu venjulegu árferði ráði öll sjávarútvegsfyrirtæki sem eru í rekstri og hafa aðgang að auðlindinni auðveldlega við það gjald. Það tekur líka visst mið af því að tekjur af gjaldinu mæti þeim kostnaði sem þjónusta við atvinnugreinina, rannsóknir og ýmis stjórnsýsla ber með sér. Þetta er hið almenna gjald og samkvæmt frumvarpinu stendur það óbreytt nú milli fiskveiðiára.

Hinn meginhluti laganna um veiðigjöld eru ákvæðin um sérstakt veiðigjald, viðbótargjald, sem er háð afkomu greinarinnar og á með næmum hætti að lesa framlegðina eins og hún er á hverjum tíma og taka breytingum til lækkunar eða hækkunar eftir því hvernig árferðið er í sjávarútveginum. Og það byggir sérstaklega á þeirri hugmyndafræði að við vissar aðstæður myndast mikil umframframlegð eða auðlindarenta vegna hins verðmæta aðgangs sem fyrirtækjunum er veittur að takmarkaðri auðlind í sameign þjóðarinnar.

Í sjálfu sér bind ég vonir við og veit ekki til að djúpstæður ágreiningur sé um slíkt fyrirkomulag. Ég er algerlega sannfærður um það sjálfur að þetta er skynsamleg nálgun, að byggja á annars vegar almennu gjaldi sem eigi að geta haldist óbreytt í öllu venjulegu árferði. Það var að minnsta kosti við núverandi aðstæður langsótt að sjá það fyrir sér að greinin hafi ekki alltaf afkomu til að bera það og þá ekki óskynsamlegt að horfa kannski til upphæðarinnar með hliðsjón af þeim kostnaði sem þjónusta, rannsóknir og ýmis stjórnsýsla sem tengist greininni hefur í för með sér og hið opinbera ber.

Sérstaka veiðigjaldið er síðan innleiðing þeirrar hugmyndafræði í löggjöf sem orðin er býsna þróuð og við þekkjum fordæmi fyrir víða að, í of litlum mæli að vísu enn á Íslandi, að þegar um takmarkaðar verðmætar náttúruauðlindir er að ræða þá myndar aðgangurinn að þeim oft forsendur til mikillar viðbótarframlegðar, auðlindarentu. Þetta er náttúrlega þekktast úr olíu- og/eða jarðefnaiðnaðinum þar sem kolvetni í jörðu gefa af sér mikinn arð. Yfirleitt eru þær auðlindir í sameiginlegri eigu, ég tala nú ekki um á landgrunni ríkja, og þá er held ég ekkert um það deilt að eðlilegt sé að eigandinn, þjóðin eða ríkið, láti ekki einkaaðila eina um að sópa upp þeim arði og hafa af því ótæpilegan gróða.

Þjóðir hafa auðvitað farið mismunandi leiðir í þessum efnum og gert sér mismikinn mat úr slíkum verðmætum náttúruauðlindum. Við þurfum ekki að fara lengra en yfir sundið til hinna Norðurlandanna til að sjá býsna ólíka nálgun þar sem annars vegar Noregur mótaði sér þá aðferðafræði, og hafði reyndar gert áður í sambandi við vatnsafl og fleiri slíkar verðmætar auðlindir, að norska þjóðin skyldi að sjálfsögðu hafa arðinn af olíu- og gasauðlindunum á norska landgrunninu. Þeir stofnuðu um landgrunnsréttindin sjálf sérstakt félag, olíugrunninn, og þeir stofnuðu ríkisolíufélag til að vera síðan þátttakandi í nýtingu auðlindarinnar og innleiddu í lög ákvæði um að stærstur hluti viðbótarauðlindarentunnar er í raun tekin árlega til norska ríkisins. Þegar olíuverð hefur farið upp úr öllum hæðum geri ég ekki ráð fyrir að menn ætlist til annars en ríkið taki þann viðbótargróða til sín. Það hefur norska ríkið sannarlega gert og hefur verið blómlegur búskapur þar á búinu undanfarin ár á tímum þegar olíufatið er á 100–110 dollara, þarf ekki annað en kíkja aðeins á norska ríkisreikninginn eða norsku fjárlögin til að sjá það.

Hinum megin við Norðursjóinn fóru Danir dálítið aðra leið. Vissulega taka þeir skatta af leyfunum en þeir stofnuðu ekki opinbert félag, afhentu stórfyrirtækinu AP Möller réttindin sem hefur haft gott upp úr sér og var gerð á því rannsókn einhvern tíma að danska ríkið hefði orðið af ómældum fjárhæðum vegna þess að Danir fóru þá leið að afhenda einkaaðila vinnsluréttindin borið saman við ef þeir hefðu farið hliðstæðar leiðir og Norðmenn.

Í raun erum við að gera það sama varðandi okkar eina stærstu og verðmætustu einstöku auðlind þar sem eru fiskimiðin við landið að innleiða þá skipan mála að þegar mikil umframrenta myndast, sem sprettur af því að menn fá aðgang að þessari verðmætu auðlind, eigi þjóðin hlutdeild í henni. Þá er eftir útfærslan og að finna hvar hófleg mörk liggja í þeim efnum. Talað hefur verið mikið um ofurskattlagningu og allt of há veiðigjöld og um það allt saman mætti býsna margt segja. Afkoma sjávarútvegsins er sem betur fer mjög góð. Hún tók auðvitað stakkaskiptum hvað varðar tekjustreymið þegar gengi krónunnar féll um 40–50%. Vissulega voru mörg fyrirtækin með skuldir á móti í erlendri mynt þannig að efnahagsreikningur þeirra allra leit ekki glæsilega út. Þau voru allt of skuldsett við hrunið og sátu uppi með neikvæðan höfuðstól að meðaltali, fyrirtæki í sjávarútvegi upp á eina 60 milljarða kr. í árslok 2008. En þau voru fljót að rétta úr kútnum og sum þeirra fengu einhverja fyrirgreiðslu í formi fjárhagslegrar endurskipulagningar hjá lánardrottnum sínum en þó ekki mörg, enda reyndust þau ekki þurfa á því að halda. Í ótrúlega miklum mæli réðu fyrirtækin sjálf strax við afborganir af þeim skuldum, og það sem meira er þá borguðu þau mjög hratt niður. Því veldur að skilyrðin hafa verið afbrigðilega hagstæð að segja má lengst af þessa tíma. Gengi krónunnar var mjög lágt skráð, verð á mörkuðum héldust mjög há og gera sumpart enn eins og í uppsjávarveiðum, bæði á frystum afurðum, mjöli og lýsi. Það er fyrst nú á síðustu einu, tveimur missirum sem verð hafa farið að gefa eftir svo að marki sé einkum í tilteknum tegundum botnfisks á saltfisksmörkuðunum við Miðjarðarhafið, sérstaklega hvað varðar stóra fiskinn og einnig hefur þess gætt í nokkrum mæli á öðrum botnfisksmörkuðum. Það er þó ekki verra en það að verðvísitala sjávarútvegs fyrir bolfisk hefur lækkað um 5–6% frá 2011.

Í frumvarpinu eru rakin dæmi um þá batnandi stöðu sjávarútvegsins en þar er horft á skuldahliðina og tafla er í greinargerð frumvarpsins um það hvernig skuldir sjávarútvegsins hafi lækkað byggt á upplýsingum frá Hagstofu úr 523 milljörðum í árslok 2008 í 443 milljarða í árslok 2011. En líka má horfa á hina hliðina þar sem er eigið fé sjávarútvegsins og þar lætur nærri að sveiflan sé um 250 milljarðar, úr 60 milljarða neikvæðum höfuðstól í að nálgast 200 milljarða í jákvæðan höfuðstól síðast þegar ég gáði að því, einnig byggt á gögnum Hagstofu og greiningum fleiri aðila.

Þetta er náttúrlega mjög gott og var kærkomið að sjávarútvegurinn styrkti svona stöðu sína. Hann þurfti á því að halda miðað við útlitið á honum í árslok 2008. Var hann þó ekki að borga veiðigjöldin fram að þeim tíma, ekki voru það þau sem íþyngdu honum en vissulega var gengisskráningin útflutningsstarfseminni óhagstæð. Það var hluti af ruglinu sem í gangi var á útrásarárunum að gengisskráningin tók ekki mið af þörfum okkar hefðbundnu útflutningsatvinnugreina, enda var það annað sem henni réði, innstreymi erlends áhættufjármagns og bólan í hagkerfinu og allt það sem við þekkjum. En sveiflan er stór í hina áttina og framlegðartölur úr sjávarútveginum sem við sjáum núna þessi árin upp á um 80 milljarða kr. í fjármunamyndun í greininni er auðvitað ævintýri. Það er Íslandsmet, það er engum blöðum um það að fletta að sjávarútvegurinn hefur núna ár eftir ár slegið Íslandsmet í framlegð. Það skýrir að sjálfsögðu þá miklu sveiflu í sterkari stöðu hans efnahagslega.

Þetta eru miklu hærri framlegðartölur en menn gerðu ráð fyrir alveg svo seint sem á árunum 2009–2010 og 2010–2011, hinir vísustu spekingar sem svo telja sig vera, eins og Deloitte gerði ráð fyrir að framlegðin í sjávarútvegi yrði kannski 40–45 milljarðar á þeim árum en hún fór í 70, 75 og síðan 80 milljarða. Þó að við drögum frá þessum framlegðartölum 13 eða 15 milljarða í veiðigjöld þá stendur samt eftir meiri framlegð en eiginlega nokkurn tíma fyrr í sögunni. Það yrði eftir sem áður skilin eftir meiri fjármunamyndun í greininni en hún hefur eiginlega nokkurn tíma fyrr eða síðar búið við. Þetta eru staðreyndir, það þarf nú ekkert að rífast um þetta, er það? Þetta er allt saman svo rækilega skjalfest að ekki þarf um að deila.

Þegar kemur hins vegar að því að rökstyðja efni frumvarpsins verður fátt um svör. Kannski ætti ég fyrst að nefna það að mikið hefur verið talað, sérstaklega af hálfu stjórnarliða, jafnvel hæstv. ráðherra, um vandkvæðin við að framkvæma gildandi lög um veiðigjöld og höfð voru uppi stór orð um það að þau séu algerlega ónothæf og það hafi legið fyrir síðan um áramót og guð má vita hvað. Ekkert af þessu er rétt. Í grunninn eru það ekki lögin um veiðigjöld sem eru vandamálið heldur girðingar milli opinberra stofnana sem neita að afhenda eða taka við gögnum hver frá annarri. Ég hef farið nokkuð rækilega yfir þetta. Ég prentaði út öll bréf og gögn sem mér sýndist að atvinnuveganefnd hefði fengið og las mig svolítið í gegnum þau og tel mig hafa komist sæmilega til botns í því hvar vandinn liggur. Mér var að sjálfsögðu vel kunnugt um það að um áramótin og á fyrstu mánuðum þessa árs var veiðigjaldsnefnd að leita eftir því að fá sundurgreindari upplýsingar um tiltekna hluti. Það var aðallega tvennt sem þar var á ferðinni. Það fyrra var og skiljanlega að til að hægt væri að aðgreina með réttum hætti og leggja á sérstök veiðigjöld annars vegar á uppsjávarveiðar og vinnslu og hins vegar botnfisksveiðar og vinnslu þurfti að greina þetta tvennt að. Þar vafðist fyrir mönnum að hluti uppsjávartegundanna er að sjálfsögðu unninn á sjó og það er augljóst að það hefði skekkt niðurstöðurnar ef framlegðin úr þeirri vinnslu teldist óskipt til fiskvinnslu og lenti á bolfiskshlutanum sem andlag gjalds. Þess vegna þurfti að aðgreina þetta og það hefur verið gert. Hagstofan er búin að gera það og þau gögn liggja nú fyrir. Nú er til algerlega klár aðgreining á framlegðinni í uppsjávarveiðum, framlegðinni í uppsjávarvinnslu og framlegðinni í þeim hluta útvegsins sem er vinnsla uppsjávartegunda á sjó og hún blandast ekki lengur saman við hitt. En þetta þurfti að vinna, það er rétt, það liggur núna fyrir.

Hinn hnúturinn sneri að því að það þurfti að fá sundurliðaðar upplýsingar og aðgreiningu í sömu þá flokka á stofnverði rekstrarfjármuna og það þarf síðan að uppreikna, vegna þess að það er uppreiknað stofnverð rekstrarfjármunanna sem gengur inn í grunninn og dregst frá áður en andlag sérstaka veiðigjaldsins er fundið. Nú ber svo við að þau gögn liggja líka fyrir. Ríkisskattstjóri er búinn að vinna þau gögn enda hefur verið fundað linnulaust og bréfað milli þessara aðila alveg frá því upp úr áramótum til að koma þessu öllu á koppinn. Þetta liggur fyrir, ég veit ekki annað. Ég vil þá að mér sé andmælt ef aðrir telja sig vita betur. En það strandar á því að ríkisskattstjóri segist ekki afhenda þessi gögn nema hann fái um það beiðni frá aðila sem er til þess bær að lögum að taka við þeim.

Að vísu er það svo að ríkisskattstjóri sendir Hagstofunni viðamikil gögn árlega sem Hagstofan notar í störfum sínum og til hagsýslugerðar o.s.frv. En hvað gerist þegar ráðuneytið og ríkisskattstjóri eru búin að bréfa þetta allt saman og ríkisskattstjóri skrifar Hagstofunni og biður Hagstofuna um að biðja sig um gögnin þannig að þetta verði nú leyst? Það bréf gengur á milli 28. maí. Þá svarar Hagstofan og segir einfaldlega nei. Við viljum ekki biðja um þau gögn. Við erum hagsýslustofnun og lítum ekki svo á að okkur sé skylt að standa í þessu. Og þar strandar málið, þannig liggur það og á þessu þarf að taka, það er alveg rétt. Það er miklu betra að fá gögnin sundurliðuð og greind frá skattinum heldur en þurfa að áætla það. Það er alveg augljóst, ég viðurkenni það. Þá er einfalt mál að taka á því. Þá er að setja það í lög að slík gögn skuli ganga á milli aðila. Það má búa um trúnað eftir því sem þarf, til dæmis hvað varðar nefndarmenn í veiðigjaldsnefnd. Það þarf að sjálfsögðu ekki varðandi starfsmenn ríkisskattstjóra og Hagstofunnar því að þeir eru bundnir af trúnaði hvort sem er. Það þarf að ganga frá því skýrt og skilmerkilega að ríkisskattstjóri eða skatturinn vinni þau gögn sem hann er búinn að gera eða eftir atvikum önnur sem til þarf og að honum beri að senda það Hagstofunni og Hagstofunni beri að taka við þeim. Ef menn telja ekki hægt að hafa Hagstofuna inni í þessum málum verður að láta annan aðila annast um þessa framkvæmd. Þá verður það bara að vera ríkisskattstjóri og veiðigjaldsnefndin beint. En það eðlilega væri auðvitað að það væri Hagstofan einfaldlega vegna þess að hún fær hvort sem er nánast allar þær upplýsingar árlega frá skattinum, nema hvað, það eru mikilvæg gögn að fá raunveruleg framtöl fyrirtækjanna til hagsýslugerðar, og það er notað til að leiðrétta ýmislegt eftir á sem byggir á áætlunum þegar hin raunverulegu gögn koma en hún fær þau ekki svona sundurgreind, enda hefur þess ekki þurft vegna hinnar almennu hagsýslugerðar.

Þetta eru nú öll ósköpin sem strandar á eftir því sem ég kemst næst hafandi skoðað þetta eins vel og ég hef getað miðað við gögnin sem ég hef í höndunum. Það er allt og sumt, það eru öll ósköpin sem hafa verið gerð hér að stórkostlegu máli.

Varðandi frumvarp hæstv. ríkisstjórnar sem ber svo við að er komið á borð okkar þingmanna, það ekki mikið að vöxtum hvað varðar pappír og málslengd en það er auðvitað mjög stórt því að það felur í sér umtalsvert tekjutap fyrir ríkið frá fyrirliggjandi áætlunum og verulega sveiflu í álagningu sérstakra veiðigjalda annars vegar á botnfisk og hins vegar á uppsjávarveiðar. Og munar nú um minna en sem þarna er lagt til, þ.e. að sérstaka veiðigjaldið á botnfisk lækki í 7,38 kr. úr þeim 23,20 kr. sem það er á yfirstandandi ári, ef ég man rétt, en hækki hins vegar á uppsjávarveiðum um tæpar 11 kr., í 38,25 kr. Ég var auðvitað spenntur að sjá útreikningana þegar ég fékk frumvarpið fyrst í hendur, ég var spenntur að sjá töflurnar, ég var spenntur að sjá nálgunina við það að þetta væri eitthvert tiltekið hlutfall af umframrentunni eða fjármunamynduninni í greininni. Það hljóta að liggja að baki allviðamiklir útreikningar á því sem yrðu sýndir í frumvarpinu, að þetta væri þá hin rétta tala fyrir botnfiskinn og hitt fyrir uppsjávarfiskinn. Ég las síðan í gegnum greinargerðina og ég fann eina setningu. Hún er svona, með leyfi forseta:

„Umtalsverð lækkun álagningar á botnfisksveiðar miðað við yfirstandandi fiskveiðiár speglar m.a. lækkun á verði þorsks á mörkuðum en hækkun á álagningu á uppsjávarveiðar ræðst af bættri afkomu uppsjávarveiðifyrirtækja.“

Hvað nákvæmlega átt er við með orðinu „speglar“ veit ég ekki. Er það einhver 100% speglun eða hvernig ber að skilja það? Ég veit það ekki. Þetta er ekki nákvæmt og ekki venjulegt hagfræðilegt orðalag, rekstrarlegt eða viðskiptalegt.

Ég beið þar af leiðandi mjög spenntur eftir nefndaráliti meiri hlutans og ég geri ráð fyrir að fleiri þingmenn hafi gert það sem höfðu ekki meira í höndunum en þessa einu fátæklegu setningu til rökstuðnings þessum tillögum, þessum niðurstöðum sem meiri hlutinn leggur til eða hæstv. ráðherra í frumvarpi sínu. Það hlyti þá að koma í nefndaráliti meiri hlutans mjög rækilegur rökstuðningur og útlistun á því að þarna hefðu menn höndlað sannleikann, það væri hið eina rétta. Skoðum það. Hvað kemur í nefndarálitinu sem er heldur ekki mikið að vöxtum? Þar fann ég setningu, með leyfi forseta:

„Samkvæmt því sem fram kemur í athugasemdum við frumvarpið“ — nefndarálitið vísar í frumvarpið — „endurspeglar lækkun álagningar á botnfisksveiðar, miðað við álagningu yfirstandandi fiskveiðiárs, m.a. lækkun á verði þorsks á mörkuðum.“

Meðal annars. Þarna er að vísu sagt endurspeglar en ekki speglar. Hvort að það hefur beinlínis merkingarmun að tala um „speglar“ í öðru tilvikinu en „endurspeglar“ í hinu, það veit ég ekki. Hækkun á álagningu á uppsjávarveiðum endurspeglar hins vegar bætta afkomu uppsjávarfyrirtækja.

Síðar í álitinu kemst meiri hlutinn að þeirri niðurstöðu eins og þar segir, með leyfi forseta:

„Mat meiri hlutans er að leið ráðherrans muni auka jafnræði milli uppsjávarveiða og botnfisksveiða frá því sem er samkvæmt gildandi lögum.“

Og í framhaldinu:

„Í ljósi allra kringumstæðna sér meiri hlutinn ekki betur en að sú leið sem lögð er til í frumvarpinu sé skynsamleg.“

Þar með endar þessi saga, þar með endar rökstuðningurinn. Engir útreikningar, engar töflur, ekkert sýnt á spilin hvað menn áætla til dæmis að hár hluti framlegðarinnar gangi í sérstök veiðigjöld í hvorri grein um sig. Nú getur verið að nefndin hafi einhvers staðar í bakskjölum eitthvað slíkt í höndunum. En af hverju eru þá ekki birtir og sýndir einhverjir útreikningar? Af hverju reyna menn ekki að rökstyðja og undirbyggja mál sitt? Eigum við að taka það gilt að byggt sé einungis á huglægu mati? Það er erfitt að ætla annað þegar engir útreikningar eru fram færðir. Ég gef ekki mikið fyrir þetta vegna þess að engin leið er að fá þá útkomu af því að skoða breytingarnar á afkomu þessara tveggja greina sjávarútvegsins, ef við tökum það svo, að svona gríðarlegur munur eigi að vera á sérstöku veiðigjöldunum. Það er vissulega rétt að þróunin teiknar í þá átt að verulega dragi í sundur. Því mótmælir enginn samanber það að verðið, sé talað í uppsjávarveiðum, hefur hækkað um fjórðung eða svo frá 2011 en lækkað í botnfisksveiðum, en munurinn er ekki svona mikill.

Menn verða að átta sig á því að hér er lagður til miklu, miklu meiri munur en maður hefði getað ímyndað sér að yrði ef við horfum bara á hlutföllin eins og þau voru í ár og eins og þau þá verða núna, þá nær sérstaka veiðigjaldið á botnfiskinum því ekki einu sinni að vera 1/5 af sérstaka veiðigjaldinu á uppsjávarveiðum. Getur það staðist? Það held ég ekki. Ég mótmæli þeim forsendum sem menn gefa sér að með þessu hafi menn fundið sanngjarnara jafnvægi milli álagningarinnar á uppsjávarveiðarnar og botnfisksveiðarnar. Það eru engin rök fyrir því, ekki er reynt að rökstyðja það. Það er bara talið að leið ráðherrans sé skynsamleg og menn meta það svo að þetta endurspegli meðal annars eitthvað og búið. Þetta er ekki hægt, finnst mér. Ég er hræddur um að á síðasta kjörtímabili hefðu verið gerðar ríkari kröfur um útreikninga en þetta. Þá hneyksluðust menn nú á minna en því að ekki væri meira lagt í að reyna að undirbyggja ákvarðanatöku af þessari stærðargráðu.

Það ber annað við þegar kemur að nefndaráliti minni hlutans sem er mjög rækilegt og vel unnið. Ítarlega er farið yfir það, birtir útreikningar og töflur og komist að niðurstöðum sem ég tel vera vel undirbyggðar, að botnfisksveiðarnar geti ágætlega við unað að vera með óbreytt veiðigjald, eða einhvers staðar mjög nálægt því að minnsta kosti, og ef afslættirnir eru rýmkaðir á móti eins og minni hlutinn leggur til þá held ég að menn séu mjög nálægt því jafnvægi sem mér sýnist vera miðað við áætlaða framlegð eða rentu, ef við tökum hana sem slíka, að hún sé upp 67–68 kr. á þorskígildi í botnfisksveiðum og vinnslu en 179 í uppsjávarveiðum og vinnslu. Þá erum við búin að taka framlegðina sem eftir stendur frá rekstrinum, fjármunamyndunina, draga frá ávöxtun rekstrarfjármuna upp á 8% og ávöxtun miðað við vátryggingaverðmæti skipa og veiðarfæra. Og þá stendur eftir þetta hugtak, þessi renta, sem er þá upp á um það bil 47 milljarða í sjávarútveginum í heild og í krónum á þorskígildi skiptist hún þá þannig að um 67 kr. eru á botnfisksveiðar og vinnslu og 178 kr. á uppsjávarveiðar og vinnslu. Þetta er ekki svona mikill munur. Þetta teiknar ekki til þess að botnfisksveiðarnar eiga að vera með 1/6 eða svo af sérstaka veiðigjaldinu á móti uppsjávarveiðunum.

Ein röksemdin sem færð hefur verið fram fyrir lækkuninni önnur en sú sem við öll vitum, að verðvísitala botnfisks hefur lækkað, að það hefði að sjálfsögðu leitt sjálfkrafa til lægra veiðigjalds en ella samkvæmt gildandi lögum, hefur verið sú að menn tala um að þeir hafi áhyggjur af afkomu minni og meðalstórra fyrirtækja.

En þetta er ekki skilvirk leið til að mæta því satt best að segja og það væri auðvitað mun nærtækara að fara þá leið sem minni hlutinn leggur til, að færa frítekjumarkið upp. Gerð er um það breytingartillaga sem þýðir samanber fylgigögn að býsna stór hluti minni og jafnvel það sem menn telja vera litlir eða meðalstórir aðilar eru þá annaðhvort alveg eða að mestu leyti undanþegnir veiðigjaldi. Auðvitað er það heilmikill stuðningur við slíka aðila ef sú leið væri farin að hafa hreint frítekjumark upp í 50 þúsund þorskígildi og hálft gjald á næstu 200 þúsund þorskígildi þar á eftir, sem jafngildir því að menn greiði þá, ef við notum þá aðferð, hálft gjald fyrir fyrstu 350 tonn. Það munar nú um það sem stuðning og vegur auðvitað talsvert langt upp í fyrirtæki með 500–800 tonna heimildir. Það kostar hins vegar mun minna vegna þess að samþjöppun veiðiheimildanna og stærð stóru fyrirtækjanna gerir það að verkum að það kostar ekki mikla fjármuni að styðja við bakið á minni aðilunum með þeim hætti, rúmar 300 millj. kr. í viðbót, að auka frítekjumarkið á þann hátt. Af hverju fara menn ekki þá leið? Ef það er rétt að aðaláhyggjur manna hafi verið afkoma og hagur smærri fyrirtækjanna, minni og meðalstóru fyrirtækjanna, þá leita menn auðvitað leiða til að koma stuðningi til þeirra sem eru skilvirk, en það á ekki að þurfa að þýða, ef afkoman að öðru leyti býður upp á það, að stórfyrirtækin sem eru með miklar veiðiheimildir í botnfiski fái tugmilljóna og jafnvel hundruð milljóna króna lækkun og afkoma þeirra býður fyllilega upp á að þau greiði það. Mér er mjög til efs að í þessu sé fólgin meiri sanngirni innbyrðis milli fyrirtækjanna, þó að ég viðurkenni fúslega og styð það að sjálfsögðu að hin afbrigðilega góða afkoma í uppsjávarveiðunum sé andlag þess að þau greiði myndarlegt sérstakt veiðigjald á þessum árum. Það er algerlega rétt. (Gripið fram í: Það var of lágt í upphafi.) Það var meðal annars vegna þess að í samningaþófi við þáverandi stjórnarandstöðu í þessu húsi var það ragað niður, var lækkað frá því sem ég lagði til, og verulega. Ég vissi vel að afkoman bauð upp á að það væri hærra og gerir enn reyndar þó að síðan hafi dregið í sundur í þessum efnum. Það ánægjulega er að uppsjávarveiðarnar búa enn þá við alveg afbrigðilega góða afkomu, mikla fjármunamyndun.

Hér er ekki um sterkan málatilbúnað að ræða, herra forseti, svo vægt sé til orða tekið. Ég verð að segja alveg eins og er að ég varð undrandi, ég var eiginlega gáttaður á því hversu fátæklegar röksemdirnar eru sem hér eru fram færðar, að ekki skyldi hafa verið haft fyrir því að setja upp að minnsta kosti eins og eina töflu eða koma með einhverja útreikninga máli sínu til stuðnings þannig að maður sæi svolítið á spilin. Nei, það þarf stjórnarandstöðuna til til að skila til mikilla muna myndarlegra og betur útbúnu nefndaráliti með útreikningum og rökstuðningi fyrir sínum tillögum en slíkt fáum við ekki frá hæstv. ríkisstjórn, hvorki frá ráðherrunum í frumvarpinu né nefndinni í nefndarálitinu.

Ég varð mest hissa á því að málið skyldi koma óbreytt úr nefnd af hálfu meiri hlutans. Ég er satt best að segja gáttaður á því að meiri hlutinn skyldi ekki reyna eitthvað að betrumbæta málið af mörgum ástæðum. Í fyrsta lagi vegna þess að röksemdirnar halda ekki. Í öðru lagi vegna þess að orðin er hér þung umræða um það mikla tekjutap sem ríkið verður fyrir og ef menn hafa það á tilfinningunni að engar sérstakar ástæður séu fyrir því að missa þær tekjur, eða að minnsta kosti ekki svona miklar, þá finnst mér menn býsna brattir að setja undir sig hausinn og leggja til afgreiðslu á frumvarpinu óbreyttu.

Það er að mínu mati þannig að ekki þarf að gera nema tiltölulega mjög einfaldar breytingar hvað varðar tekjuskattslögin til að leysa það mál sem eftir stendur og er óleyst milli stofnana sem þurfa að leggja í púkkið varðandi framkvæmd gildandi laga. Það er vissulega þannig að þegar kemur að útreikningum og birtingu á svokölluðum rentugrunni þá er það viðurkennt að sundurgreina þarf og afla tiltekinna upplýsinga til að það sé hægt. Út af fyrir sig væri skynsamlegt að ýta því ákvæði til hliðar á þessu ári enda er það ekki nauðsynleg forsenda þess að útreikningar til grundvallarálagningu sérstaks veiðigjalds fari fram. Það er annar þáttur og þar liggja öll gögn fyrir. Það er bara spurningin um að fá að nota þau eins og áður sagði.

En það sem eftir stendur er að hér er hæstv. ríkisstjórn í einu fyrsta máli sínu, númer eitt eða tvö held ég, að gera það að forgangsverkefni að afsala ríkissjóði samtals um 10 milljörðum kr. á tveimur árum, þessu og hinu næsta, í formi minni tekna af sérstöku veiðigjaldi. Það er mjög athyglisvert. Annað frumvarp sem var svona svipað örlátt þó lægri fjárhæðir væru hefur nú þegar verið lögfest það ég best veit og það er afsláttur eða fráhvarf frá boðaðri hækkun á virðisaukaskatti ferðaþjónustunnar, hótelgistingar í 14%. Þar fjúka aðrir 2 milljarðar á þessu ári og hinu næsta. Þá erum við komin í 12 milljarða á þessum tveimur árum. Síðan má nefna þriðja frumvarpið af því að ég er að tala um ríkisfjármálin sem ég kíkti aðeins í áðan, þ.e. frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, að vísu allt annars eðlis því að þar er verið að auka útgjöld og ég hygg að menn séu ekki að mótmæla því. Deila má mjög um þá útfærslu sem farin er og verður örugglega gert þegar það mál kemur til umræðu. Þar virðist líka stefna í að útgjöld aukist um 850 milljónir á þessu ári og um 1,6 milljarða plús 3 milljarða á hinu hæsta, þó að það tengist ekki efni þess frumvarps beint en ef ekki verður framlengt ákvæði um að tekjutengd skerðing tekjutryggingar haldist í 45% sem rennur út um áramótin þá er í kostnaðarmati fjármálaráðuneytisins metið að þar bætist 3 milljarðar í útgjöldum við.

Ef við lítum þá aðeins á þetta, virðulegur forseti, hvað varðar árið í ár eru útgjöldin í almannatryggingunum upp á 850 milljónir sem eru umfram fjárheimildir ársins. Það eru minni tekjur af virðisaukaskatti vegna gistingar á þessu ári sem er upp á 535 milljónir og það eru minni tekjur af veiðigjöldum upp á 3,2 milljarða. Þetta er gat í fjárlög yfirstandandi árs sem ríkisstjórnin sjálf er að leggja til án þess að segja eitt einasta orð um mótvægisaðgerðir eða aðra hluti upp á 4.585 milljarða Þetta eru ekki neinir smáaurar. Var ekki verið að segja að ríkisstjórnin hefði sent út bréf þar sem hún boðar 1,5% aðhald á rekstur ríkisstofnana á næsta ári? Og ætlar að hafa upp úr því, hvað? Kannski um 6,5 milljarða giska ég á. Sennilega verður það eitthvað minna því að hæstv. fjármálaráðherra hefur gefið í skyn að því aðhaldi verði ekki beitt á alla, eins og skattinn og tollinn og einhverja fleiri. Sem sagt, við erum að tala um útgjöld og tekjutap af næstum svipaðri stærðargráðu á þessu ári, stærra gat í fjárlögin sem þessu nemur og ríkisstjórnin ætlar svo að reyna að krafla í á næsta ári með því að útdeila flötum 1,5% niðurskurði. Það mun ekki ganga sársaukalaust fyrir sig, það verða þjáningar í því, eins og ég spái að hv. þingmenn stjórnarmeirihlutans fái að kynnast. Og ættu menn þá ekki að hugsa sig um áður en þeir búa sér til vandamál af þessu tagi fyrir fram? Þetta verður auðvitað enn stórfelldara á næsta ári því að þá mundu þessi þrjú frumvörp ein sem við höfum hér í höndunum teikna til þess að það yrði erfiðara sem næmi um 12,5 milljörðum kr. að koma saman hallalausum fjárlögum árið 2014, 12,5 milljörðum kr. Það verða 4,6 í almannatryggingaútgjöldum, 1,5 í virðisaukaskattinum og 6,4 í veiðigjöldunum.

Hafandi barist við það fjögur ár í röð og eiginlega fimm að koma saman fjárlögum og velta fyrir mér hverri krónu, reyna að ná niður útgjöldum um 10 milljónir hér eða 50 milljónir þar, reyna að afla tekna fyrir þetta eða hitt upp á nokkrar milljónir, 100 milljónir eða milljarða, þá held ég að menn ættu að átta sig á því að þetta eru ekki auðveldir hlutir þegar til stykkisins kemur. Ég verð því að segja alveg eins og er að mér finnst það stórkostlega undarlegt að hæstv. ríkisstjórn skuli leggja svona af stað í þessi mál. Menn bera fyrir sig tímaleysi og þeir hafi ekki haft tíma til að leggja niður fyrir sig nýja ríkisfjármálaáætlun og séu að hamast við að reyna að koma saman fjárlagafrumvarpi sem virðist ganga svo illa að ríkisstjórnin er farin að biðja um að þingið komi seinna saman. En af hverju þá ekki að bíða bara með þetta og reyna þá að taka þetta samræmt í einni heildarmynd? Er þetta virkilega svona ofboðslegt forgangsmál að þarna skuli fyrst borið niður óháð því hvaða erfiðleika það bakar svo viðkomandi aðilum sjálfum strax á haustmánuðum? Þetta er auðvitað sjálfskaparvíti, þetta er ekkert annað en sjálfskaparvíti. Mér finnst það algerlega undarlegt að stjórnarmeirihlutinn, til dæmis stjórnarmeirihlutinn hér inni í þinginu skuli þá ekki hafa vit fyrir ríkisstjórninni. Ef þeir hefðu tekið sig til meirihlutamennirnir í atvinnuveganefnd og komist að þeirri niðurstöðu að þetta væri óþarflega rausnarlegt hjá ráðherranum, sem er augljóst mál, og lagt til að sérstaka veiðigjaldið á botnfiskinn yrði alla vega um 15–18 kr., ekki 7,38 kr. hefði það þó verið til marks um einhverja meðvitund. Tekið upp tillögur minni hlutans, tekið því fegins hendi að fara í samstarf við minni hlutann um að færa upp afsláttinn, frítekjumarkið, þá hefði kannski verið hægt að finna út úr því niðurstöðu sem hefði orðið miklu minna umdeild og að mínu mati staðið efnislega sterkar rök til en því sem meiri hlutinn þumbast áfram með hjá ráðherranum af því að hann virðist hafa trú á því að leið ráðherrans sé svo skynsamleg í þessum efnum.

Það er mat meiri hlutans að leið ráðherrans muni auka jafnvægi í greininni. Mat, er til minnisblað um þetta mat meiri hlutans eða er það huglægt líka? Er þetta niðurstaðan af hugarstormum meirihlutamannanna einhvers staðar á sérfundi? Það hefði verið gaman að vera þar.

Nei, herra forseti. Þetta er mjög misráðið af hæstv. ríkisstjórn og ákaflega dapurlegt. Ég verð að segja alveg eins og er að ég fyrir mitt leyti hefði alveg verið tilbúinn til að eiga hér málefnalega rökræðu um það ef einhver vilji væri til að skoða þetta og mætast einhvers staðar í málinu eins og við sýndum á sínum tíma þegar við á endanum tókum heilmikið tillit til viðhorfa stjórnarandstöðunnar við afgreiðslu málsins á sumarmánuðum 2012. En það er ekkert slíkt uppi enn þá þó að málið eigi að vísu eftir að ganga væntanlega til nefndar aftur milli 2. og 3. umr.



[16:09]
Þorsteinn Sæmundsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans ágætu ræðu. Það eru ýmsir þættir sem komu mér spánskt fyrir sjónir. Um frumvarpið sjálft segir í athugasemdum, með leyfi forseta, örstutt:

„Og útséð er um að ekki er unnt að leggja á sérstakt veiðigjald samkvæmt lögunum fyrir komandi fiskveiðiár 2013–2014.“

Hvað er skýrara en þetta, hv. þingmaður? Það hefur komið fram í upplýsingum hagstofustjóra að fram komu athugasemdir af hálfu Hagstofunnar, um meinbugi á upplýsingaöflun út af frumvarpinu, í umsögnum um frumvarpið strax í maí í fyrra samkvæmt hans upplýsingum.

Það kemur líka fram í athugasemdum með frumvarpinu að þessar athugasemdir hafi komið fram um síðustu áramót og í mars. Hv. þingmaður segir að þetta sé vitleysa og ég vildi gjarnan fá að vita í hverju hún liggur.

En síðan er annað líka sem hefur valdið mér heilabrotum. Hv. þingmaður hélt ágæta ræðu við 1. umr. þessa máls þar sem hann sagði meðal annars, með leyfi hæstv. forseta:

„Stjórnarflokkarnir hafa sagt að þeir hafi áhyggjur af afkomu lítilla og meðalstórra fyrirtækja í bolfisksveiðunum. Ég deili þeim áhyggjum að hluta til. Ég hef sagt það opinberlega og sagði meðan ég var ráðherra að það er að sýna sig að þetta er hvað þyngst og erfiðast fyrir lítil og kannski meðalstór bolfisksveiðifyrirtæki, sérstaklega þau sem eru eingöngu í veiðum og njóta ekki framlegðar af vinnslu með í sínum rekstri.“

Það held ég að sé ljóst. Ég er sammála því mati, það er líklega huglægt, að það er sá hluti útgerðarinnar í dag sem á hvað erfiðast með þetta.

Frekari fyrirspurnum ætla ég að beina til hv. þingmanns í seinna andsvari.



[16:11]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það var unnið með þær athugasemdir sem Hagstofan og skattstjóri komu með á sínum tíma vormánuðina og sumarmánuðina 2012, af nefndinni sem fjallaði um málið. Menn gengu þá eins vel frá því máli og þeir töldu sig geta á því stigi málsins. Það er því ekki eins og ekkert hafi verið brugðist við þeim athugasemdum þegar þær komu. Síðan er það þannig að veiðigjaldsnefndin vinnur að því að afla og byggja upp sinn gagnagrunn eins og henni ber samkvæmt lögum og það kom ekkert sérstaklega á óvart að í þeirri vinnu kæmi upp eitthvað sem þyrfti að leggja grunn að í formi sundurliðunar upplýsinga o.s.frv. Fyrstu ábendingarnar um hvað til þurfi koma fyrir og eftir áramótin síðustu. Ráðuneytið tekur þær að sjálfsögðu allar til skoðunar og fer í vinnu með veiðigjaldsnefnd og Fiskistofu og fer í viðtöl og viðræður við viðkomandi stofnanir, Hagstofuna og skattinn. Það starf stóð linnulaust fram í maí eins og menn sjá af bréfaskriftum, fram undir maílok. Skipuð var sérstök tækninefnd með fulltrúum frá þessum aðilum til að ganga í að leysa þetta og það var mat manna að það væri hægt.

Það er ekki fyrr en í maílok sem menn bréfa þetta með afgerandi hætti eins og Hagstofan gerir þegar hún svarar skattinum. Og ég stend við það sem ég sagði, upplýsingarnar eru til núna. Uppreiknað stofnverð rekstrarfjármuna liggur fyrir sundurliðað hjá skattinum en Hagstofan vill ekki taka við því. Það er þar sem vandinn liggur núna. Það er þetta sem á vantar, að hægt sé að reikna út sérstaka veiðigjaldið, og ekki annað.

Varðandi lítil og meðalstór fyrirtæki þá er allt rétt sem í mig var vitnað í þeim efnum. Þess vegna komum við með frítekjumarkið á sínum tíma, við gerðum okkur alveg grein fyrir því að það gæti verið hæpið að ætla mjög litlum einingum í greininni að greiða strax fullt sérstakt veiðigjald og við sáum það, meðal annars á gögnum sem við vorum að rýna í varðandi afkomuna, að þetta var skynsamleg ráðstöfun. Kannski leiðir athugun í ljós að skynsamlegt sé að hækka þessi mörk (Forseti hringir.) og það er þess vegna sem ég styð það algjörlega að breytingartillaga minni hlutans nái fram að ganga. Hún mætir þessum sjónarmiðum.



[16:14]
Þorsteinn Sæmundsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það kom nú líka fram hjá hagstofustjóra, og það er rétt hjá hv. þingmanni, að bréfaskipti áttu sér stað í maímánuði síðastliðnum. Að hans sögn voru það fyrstu bréfin sem Hagstofan fékk um þetta mál, ári síðar en Hagstofan kom með athugasemdir í umsögn um frumvarpið á sínum tíma.

Hv. þingmaður hefur líka talað um þann mikla mun sem er réttilega á sérstöku veiðigjaldi milli bolfisksútgerðar og uppsjávarfyrirtækja. Sá meðaltalsgrunnur sem er verið að vinna með í frumvarpinu er kannski erfiður út af fyrir sig, sem betur fer er þetta því bráðabirgðaráðstöfun til eins árs þannig að hægt er að bregðast við.

Það sagði í ágætri ræðu hv. þingmanns við 1. umr. um þetta mál, með leyfi forseta:

„Hitt kemur líka til sögunnar, sem ætti nú ekki að þurfa vinstri manninn til að benda sumum hér í þingsal á, samkeppnissinnuðum þingmönnum, að þá færa menn þunga greiðslnanna á best reknu fyrirtækin og hlífa lakast rekna hlutanum ef þeir láta afkomu hvers og eins fyrirtækis vera andlagið að fullu og öllu leyti. Þá bera best reknu fyrirtækin með mestu framlegðina, mesta hagnaðinn, þungann af gjöldunum og hinum er hlíft. Og hvaða áhrif hefur það til lengdar á atvinnugrein af þessu tagi, er það það sem við viljum?“

Þetta þykir mér furðulegasti sósíalismi sem ég hef nokkurn tímann heyrt vegna þess að ef tveir aðilar hafa mismunandi tekjur hlýtur væntanlega sá að greiða hærra sem hefur það betur, ekki satt? Það er einmitt mergurinn málsins með þessu frumvarpi að meiri hluti nefndarinnar leggur til og reynir að koma því þannig til að þeir sem geti borið byrðarnar geri það, hinum sé hlíft, en þetta er bráðabirgðaráðstöfun. Að ári liðnu kemur fram nýtt frumvarp, eða núna í haust, og þá geta menn væntanlega lagt grunn að farsælla kerfi til framtíðar og vonandi góðri sátt.



[16:16]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Nú hef ég ekki verið á þessum fundum eða rætt þetta við hagstofustjóra, en ég geri ekki ráð fyrir því að Hagstofan reyni að halda því fram að hún hafi ekkert af þessu vandamálum vitað fyrr en í maí, það kæmi mér afar spánskt fyrir sjónir. Ég hef auðvitað ekki tölu á þeim fundum … (ÞorS: Fyrsta bréfið …) Fyrsta bréfið, já. En lítur hv. þingmaður svo á að það sé ekkert að marka nema bréf? (Gripið fram í.) Skipta þá formlegir fundir undir forustu ráðuneytisstjóra atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og sú staðreynd að Hagstofan skipaði mann, einn af yfirmönnum sínum í tækninefnd til að vinna að lausn á þessum málum, skiptir það ekki máli? Getur Hagstofan sagt að hún hafi ekki fengið bréf fyrr en í maí? (Gripið fram í: Kom fram í maí …) Ég gef nú lítið fyrir svona lagað. (Gripið fram í.) Það þýðir ekkert að halda því fram á nokkurn hátt.

Ráðuneytið vann að þessu af fullum krafti með veiðigjaldsnefnd og Fiskistofu. Það voru óteljandi fundir um þessi mál. Skipuð var sérstök tækninefnd og annar starfshópur á grundvelli þess (Gripið fram í: … margar vikur.) sem þingað var um, skýrslur afhentar o.s.frv., þannig að það er ekki eins og það skipti einhverju máli að Hagstofan (Gripið fram í.) svarar á endanum neitandi bréfi í maímánuði síðastliðnum. Það skiptir ekki máli.

Þegar ég ræddi við 1. umr. um mismunun á tvenns konar grundvallaraðferðafræði í þessu, annars vegar því að horfa til afkomu hvers fyrirtækis og nota framlegðartölur þar og hins vegar þess að horfa til einhvers konar meðalafkomu innan tiltekinna greina, var ég fyrst og fremst að ræða um þann vanda sem það skapaði og allir þekkja eða eiga að þekkja sem grúskað hafa í þessi fræði, þá koma til sögunnar alls konar aðferðir til þess að færa upp kostnað í bókhaldinu eins og hægt er og sýna sem minnsta framlegð og svo framvegis eða minnstan endanlegan hagnað, það er kallað að gullhúða handriðin. Það er einn meginágallinn á þeirri aðferð. En fleira mætti nefna.

Ég stend við það sem ég segi. Það er skrýtið ef orðið hafa hér þau algjöru hlutverkaskipti að hv. þingmaður (Forseti hringir.) telji að það eigi sérstaklega að refsa vel reknum fyrirtækjum en verðlauna hin sem eru ekki eins vel rekin.



[16:18]
Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Hér er til umfjöllunar í 2. umr. frumvarp hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, um breyting á lögum nr. 74/2012, um veiðigjöld, fjallar um innheimtu veiðigjalda, sérstakt veiðigjald o.fl. Bæði í 2. umr. og eins í 1. umr. um málið má segja að hv. þingmenn hafi nálgast umræðuna frá ýmsu sjónarhorni og er fullt tilefni til þess. Þetta mál er þannig vaxið að hægt er að horfa á það frá ólíku sjónarhorni. Hér hafa sumir hv. þingmenn einkum fjallað um einstakar tæknilegar útfærslur í frumvarpinu að því er varðar veiðigjöldin, fjárhag útgerðarinnar, útreikning, umræður um auðlindarentuna, umframarðinn o.s.frv. Hér hafa ýmsir þingmenn fjallað um þetta út frá lýðræðissjónarmiðinu, ef svo má segja, afstöðu þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu til málsins, en í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október 2012 var sérstaklega spurt um afstöðu manna til auðlinda í þjóðareign þar með talið fiskstofnanna. Einnig hafa ýmsir nálgast þetta mál út frá áhrifum frumvarpsins á afkomu ríkissjóðs. Eins og ég segi þá er hægt að fara í þessa umræðu út frá ólíkum sjónarhornum og ég hyggst að einhverju leyti gera það í þessari ræðu minni, að koma inn á þessa þætti alla saman.

Ég ætla að byrja á því að ræða aðeins um lýðræðismálið, umræðuna um náttúruauðlindirnar og hverjir eigi þær. Á undanförnum árum hefur verið mikil umræða um það í samfélaginu að tryggja þurfi þjóðareign á auðlindum í stjórnarskrá. Nú hafa ýmsir haldið því fram að með 1. gr. laga um stjórn fiskveiða sé tryggt að sjávarauðlindin sé í eigu þjóðarinnar og í raun þurfi ekki að gera meira í þeim efnum. Hinir eru þó miklu fleiri, hygg ég, sem aðhyllast það viðhorf að mikilvægt sé að tryggja eignarhaldið á auðlindunum, bæði sjávarauðlindinni sem hér er undir en í raun á auðlindum þjóðarinnar í heild sinni, í stjórnarskrá. Þetta er atriði sem var mikið til umræðu í vinnu við endurskoðun stjórnarskrárinnar á síðasta kjörtímabili. Í tillögum stjórnlagaráðs til Alþingis er mjög afdráttarlaust tekið af skarið um það að í stjórnarskrána eigi að setja ákvæði um auðlindir í þjóðareigu. Í tillögum stjórnlagaráðs, sem voru sendar inn á hvert heimili í landinu í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar 20. október sl., er fjallað um náttúruauðlindir í 34. gr. þess frumvarps. Þar segir meðal annars, með leyfi forseta:

„Við nýtingu auðlindanna skal hafa sjálfbæra þróun og almannahag að leiðarljósi. Stjórnvöld bera, ásamt þeim sem nýta auðlindirnar, ábyrgð á vernd þeirra. Stjórnvöld geta á grundvelli laga veitt leyfi til afnota eða hagnýtingar auðlinda eða annarra takmarkaðra almannagæða, gegn fullu gjaldi og til tiltekins hóflegs tíma í senn. Slík leyfi skal veita á jafnræðisgrundvelli og þau leiða aldrei til eignarréttar eða óafturkallanlegs forræðis yfir auðlindunum.“

Þetta ákvæði kom að sjálfsögðu til umfjöllunar í þinginu á vettvangi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar á síðasta kjörtímabili og í umræðum í þingsal þegar verið var að ræða stjórnskipunarfrumvarpið. Á grundvelli umsagna frá fjölmörgum aðilum, sem veittu stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd umsagnir um málið, gerði stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd tilteknar breytingar á orðalagi í þessari grein sem varðar náttúruauðlindirnar. En grundvellinum, kjarnanum í þeirri umfjöllun sem þarna er að finna, var eftir sem áður haldið til haga, það er að segja að leyfi til nýtingar auðlindar í þjóðareigu skyldi ávallt veita á jafnræðisgrundvelli og að þau mættu aldrei leiða til eignarréttar eða óafturkallanlegs forræðis yfir auðlindunum.

Þetta er mikið meginatriði í þeirri hugsun sem hefur einkennt umræðuna og mjög margir hafa verið stuðningsmenn, meðal annars í mínum flokki, Vinstri hreyfingunni — grænu framboði, á bak við þá hugsun að binda í stjórnarskrá eignarhald þjóðarinnar á náttúruauðlindunum. Ég tel mikilvægt að þessu sé haldið til haga í umræðunni sem hér á sér stað um þetta mál. Einhverjir kynnu að halda því fram að það frumvarp sem hér er til umfjöllunar breyti engu sérstöku í þessu efni, hafi engin grundvallaráhrif á þá hugsun sem þarna er á bak við. Ég tel að færa megi rök fyrir því að það eigi ekki við rök að styðjast, þetta tengist beint og það leiðir af þeirri hugsun sem er í þessu frumvarpi, um útreikningsaðferðirnar og upphæð veiðigjaldsins.

Ég held að sú hugsun sem verið hefur í umræðunni um náttúruauðlindirnar sé mjög mikilvæg. Það er mikilvægt að vinna áfram af því að ekki tókst að afgreiða stjórnarskrárfrumvarpið fyrir vorið, einkum og sér í lagi, eins og menn muna, fyrir afstöðu þáverandi stjórnarandstöðuflokka, þeirra tveggja sem nú mynda ríkisstjórn í landinu. Þeir lögðust gegn því að þjóðareign á auðlindum yrði bundin í stjórnarskrá með nægilega tryggilegum hætti, að mínu mati. Það voru að vísu hér uppi hugmyndir, einkum og sér í lagi frá Framsóknarflokknum, kannski ekki mikið handfast sem kom úr herbúðum sjálfstæðismanna, um hvernig ætti að orða ákvæði í stjórnarskrá um þjóðareign á auðlindum. Ég verð að segja fyrir mína parta að ég tel að þær hugmyndir hafi gengið allt of skammt og í raun gefið færi á því að nýting auðlindanna gæti leitt til eignarréttar. Um þetta var deilt hér á þinginu, tekist var harkalega á um þetta en það er mín afstaða að þar hafi allt of skammt verið gengið í þá átt að tryggja þjóðinni óafturkallanlegt forræði yfir auðlindunum.

Herra forseti. Þessu finnst mér mikilvægt að halda til haga í þessari umræðu til að þetta mál, sem mörgum finnst kannski ekki stórt í sniðum, verði ekki tekið úr samhengi við hina stóru umræðu, kjarnann í þeirri umræðu sem átt hefur sér stað í samfélaginu og mun halda áfram á næstunni, um eignarhald þjóðarinnar og fullan yfirráðarétt yfir sínum eigin auðlindum.

Herra forseti. Ég ætla einnig að fjalla aðeins um þann þátt þessa máls sem snýr að tekjum ríkissjóðs, áhrifunum á tekjur ríkissjóðs. Það er eftirtektarvert að eitt af þeim forgangsmálum sem núverandi hæstv. ríkisstjórn leggur fram hér, á sumarþingi í kjölfar alþingiskosninga og í kjölfar þess að ríkisstjórnin var mynduð, skuli vera þetta frumvarp og ýmis önnur sem skerða tekjur ríkisins, bæði á yfirstandandi ári og næsta ári og, ef þessu er haldið til streitu, að sjálfsögðu áfram inn í framtíðina. Á sama tíma kvartar hæstv. ríkisstjórn yfir því að miklir erfiðleikar séu í rekstri ríkisins, hún kvartar yfir því að hún hafi tekið við erfiðu búi jafnvel þótt að engum dyljist sá árangur sem náðst hefur í stjórn ríkisfjármála á umliðnum fjórum árum, frá hruninu 2008, þar sem rekstri ríkissjóðs var snúið úr halla, sem var yfir 200 milljarðar, ef ég man rétt, og niður í það að verða nálægt jafnvægi.

Engum dylst þessi miklu árangur en engu að síður kvartar hæstv. núverandi ríkisstjórn yfir að hafa tekið við erfiðu búi. Hún óskar meira að segja eftir því hér í þinginu að lögum um samkomudag Alþingis verði breytt, honum frestað í því augnamiði að hún hafi lengri tíma til að undirbúa fjárlagafrumvarp og tekjuöflunarfrumvörp sem fylgja fjárlagafrumvarpi fyrir haustið. Þó hefur það nú legið fyrir í alllangan tíma að fjárlagafrumvarp er fyrsta mál hvers þings og er lagt fram við þingsetningu. Það hefur verið í þingskapalögum núna frá því, hygg ég, 2012 að frá og með árinu 2013 skyldu tekjuöflunarfrumvörp fylgja fjárlagafrumvarpi þegar það er lagt fram. Gildistöku á því ákvæði var reyndar frestað eða það var haft síðar en gildistaka þingskapalaganna að öðru leyti til þess einmitt að gefa fjármálaráðuneytinu og þá ríkisstjórninni svigrúm til að vinna þá vinnu.

Virðulegi forseti. Í þessu samhengi kemur ríkisstjórnin hér inn á fyrstu dögum þingsins með nokkur frumvörp sem skerða tekjur ríkissjóðs umtalsvert. Við höfum þegar fjallað um frumvarpið um breytingu á lögum um virðisaukaskatt, þar sem hætt var við fyrri áform um að virðisaukaskattur á gistináttaþjónustu færi úr 7% í 14%, eins og hann var reyndar áður. Þar voru sennilega einar 500 milljónir á þessu ári og 1,5 milljarðar á næsta ári. Síðan fáum við þetta frumvarp hér, um veiðigjaldið og sérstaka veiðigjaldið, þar sem verið er að afsala ríkinu tekjum upp á um 10 milljarða kr. á þessu ári og næsta. Þetta eru auðvitað ekki litlar fjárhæðir sem hér eru undir og þær skipta verulega miklu máli í rekstri ríkissjóðs ef horft er til þess að við höfum í kjölfar hrunsins þurft að gæta mikils aðhalds í rekstri ríkisins, draga saman útgjöld og auka tekjur.

Auðvitað hefur margt af því verið þannig að það hefur ekkert verið óskastaða þeirra sem borið hafa ábyrgð á stjórn ríkisins hér undanfarin ár en óhjákvæmilegt. Stundum þarf að taka óhjákvæmilegar og sársaukafullar ákvarðanir. Staða ríkisins eftir hrun var einfaldlega sú að ekki var um annað að tefla en að fara í slíkar ráðstafanir, draga úr útgjöldum, auka tekjur, vegna þess að þriðji kosturinn sem ríkisvaldið stendur frammi fyrir, þriðji kosturinn sem ríkisvaldið á jafnan möguleika á, við aðstæður eins og þessar, er erlend lántaka. Sá kostur var ekki í boði við kjölfar hrunsins. Ísland var í þeirri stöðu að geta ekki aflað sér lánsfjár á erlendum mörkuðum þannig að sú leið var einfaldlega ekki fær. Þá varð að grípa til annarra ráðstafana ella hefði íslenska ríkið farið í þrot. Þetta er nú sá kaldi veruleiki sem við stóðum frammi fyrir og var unnið að hörðum höndum, vil ég segja, og með býsna góðum árangri hér á landi, ef við berum okkur saman við það sem aðrar þjóðir þurftu að glíma við eftir hrunið, sem var að sjálfsögðu ekki bara á Íslandi heldur miklu víðar, en auðvitað alveg fordæmalaust hér á landi. Árangurinn hjá okkur í þessu efni hefur orðið aðdáunarefni í augum margra sem horfa utan frá, og oft er gestsaugað glöggt, á þróun mála hér á landi.

Ég tel að ríkisstjórnin verði í fyrsta lagi að færa fram mjög sterk rök fyrir þeim ráðstöfunum sem hún grípur til þegar hún ákveður að lækka tekjur ríkissjóðs svona umtalsvert eins og hér er á ferðinni. Hún þarf að sýna fram á, með greinargerð, rökstuðningi, útreikningum, áhrifin til að undirbyggja tillögur sínar í málinu. Eins og komið hefur fram í þessari umræðu þá skortir mjög á í þessu efni að það sé gert annars vegar í frumvarpinu sjálfu sem hér liggur fyrir og eins af hálfu meiri hlutans í atvinnuveganefnd sem hefur sent frá sér sitt nefndarálit, er hér á þingskjali 52. Ríkisstjórnin er með þessu frumvarpi að afsala sér tekjum upp á um 10 milljarða kr. á þessu ári og næsta. Fjármunum sem hljóta þá, við þær aðstæður sem við búum við, að verða teknir af samfélagslegum verkefnum sem við erum öll að glíma við og sem við leggjum mikla áherslu á. Hvort sem það er skólakerfið okkar, menntakerfið, heilbrigðiskerfið eða velferðarþjónustan almennt séð, löggæslan, innviðir í samfélaginu eins og samgöngur, uppbygging nýrra atvinnuvega eða stuðningur við nýsköpun og þróun, rannsóknir og vísindi o.s.frv.

En það er ekki gert hér. Það er ekki gert í þessu frumvarpi og það er ekki gert í málflutningi stjórnarliða og ekki liggja fyrir neinar tillögur, samhliða þessu frumvarpi og öðrum ámóta, um það hvernig eigi að mæta þeim áhrifum sem samþykkt þessa frumvarps hefur á afkomu ríkisins. Það er auðvitað mjög ámælisvert, vil ég leyfa mér að segja, að það sé ekki gert. Menn hafa sagt í umræðunni hér að undanförnu að það sé geysilega þýðingarmikið, og ég deili því sjónarmiði, að samhliða fjárlagafrumvarpi liggi fyrir frumvörp um tekjuöflun ríkissjóðs þannig að menn sjái heildarmyndina fyrir sér strax í upphafi þegar fjárlagafrumvarpið kemur fram; menn sjái útgjaldahliðina, menn sjái tekjuhliðina og hvernig afla eigi ríkissjóði tekna fyrir þeim útgjöldum sem fylgja samneyslunni.

En í þessu frumvarpi og í þessu máli liggur ekkert slíkt fyrir. Það liggur ekkert fyrir hvernig hæstv. ríkisstjórn ætlar að mæta því tekjutapi sem hér er á ferðinni og ég ítreka að ég tel það ámælisvert og það hljóti að verða kallað eftir því. Nú þykist ég viss um að þetta mál muni ganga til atvinnuveganefndar á milli 2. og 3. umr. og þá finnst mér eðlilegt að farið verði í það og leitað eftir því að fá frekari skýringar á því hvernig eigi að mæta áhrifum þessa frumvarps.

Herra forseti. Það er sérkennilegt að ný ríkisstjórn, sem var mynduð hér í kjölfar kosninga, af núverandi stjórnarflokkum sem gáfu mikil fyrirheit í kosningabaráttunni — einkum og sér í lagi að vísu flokkur hæstv. sjávarútvegsráðherra, hann gaf mikil fyrirheit í kosningabaráttunni um hvað hann hygðist gera, kæmist hann til valda og áhrifa, í þágu heimilanna í landinu. En málin sem tengjast því loforði, hvar eru þau? Það var þingsályktunartillaga, sem hæstv. forsætisráðherra lagði hér fram, þar sem lagt var til að Alþingi fæli ríkisstjórninni að fara í tiltekna vinnu við að undirbúa eða móta hugmyndir um það hvernig koma mætti til móts við skuldsett heimili í kjölfar efnahagshrunsins. Þessi þingsályktunartillaga hefur nú verið samþykkt hér á Alþingi. Hún er í 10 liðum og hún felur í sér að skipa eigi nefndir um ákveðna og afmarkaða þætti þess máls og gert er ráð fyrir því að því nefndastarfi geti lokið fyrri part vetrar eða fyrir áramót. Þá á eftir, á grundvelli slíkrar vinnu, að semja frumvörp sem eiga síðan að koma inn í þingið, kannski á vorþingi 2014, til umfjöllunar.

Þessum miklu loforðum er varpað inn í framtíðina með mjög óljósum hætti, kannski vegna þess að stjórnarflokkarnir hafa áttað sig á því að þessi loforð voru óábyrg. Það var ekki hægt og er ekki hægt að framkvæma þau öll eins og þau voru sett fram og menn sjá að sér nokkrum dögum eftir kosningar. En það er nú ekki alveg hreinskiptin framkoma, finnst mér, af hálfu stjórnmálahreyfinga gagnvart kjósendum í landinu.

Herra forseti. Það kann að vera önnur saga en á sama tíma og þessum stóru kosningamálum er ýtt inn í framtíðina koma hér inn mál sem hægt er að ganga í að mati hæstv. ríkisstjórnar einn, tveir og þrír og það er að lækka ýmsar álögur á þá sem eru í færum til að leggja sitt af mörkum í samræmi við gildandi lög í þágu samfélagsins alls. Það eru ákveðnir sérhópar sem ríkisstjórnin tekur upp á sína arma, mætir þeim í þeim frumvörpum sem við höfum séð og þá ekki síst í frumvarpinu sem hér er til umræðu.

Það er mjög mikið umhugsunarefni að þetta skuli vera það sem hæstv. ríkisstjórn leggur mest kapp á á þessu sumarþingi. Veiðigjöldin sem hér eru til umræðu eru auðlindagjöld og tilgangur þeirra er að sjálfsögðu að tryggja þjóðinni sanngjarnan arð af þeirri auðlind sem er og á að vera í eigu þjóðarinnar sem er sjávarauðlindin. Eins og ég gat um áðan þá hefur það viðhorf komið mjög skýrt fram meðal þjóðarinnar að það er ríkur vilji til þess að í stjórnarskrá sé sterkt ákvæði um sameign þjóðarinnar á náttúruauðlindunum.

Þetta hefur bæði komið fram í þjóðaratkvæðagreiðslunni í október 2012 og hefur komið fram í skoðanakönnunum sem gerðar hafa verið í þessu efni líka. Það er þetta sem lögin um veiðigjöld fela í sér að því er varðar sjávarauðlindina og það er mjög mikilvægt að arðurinn af nýtingu þessarar auðlindar verði ekki einhvers konar einkaeign fárra heldur sé hann réttmæt eign þjóðarinnar allrar. Þess vegna finnst mér þýðingarmikið að í þessari umræðu séu ekki slitin tengslin milli auðlindarentunnar og veiðigjaldsins því að þetta er samtengt.

Það hefur verið gagnrýnt í þessari umræðu af talsmönnum stjórnarmeirihlutans að gallar á gildandi lögum um veiðigjöld hafi gert að verkum að ekki hefði verið hægt að innheimta veiðigjöldin samkvæmt gildandi lögum frá og með fiskveiðiárinu 1. september næstkomandi með þeim hætti sem lögin gera ráð fyrir. Um þetta hefur verið fjallað allmikið í þessari umræðu og þessu hefur verið svarað af hálfu fulltrúa okkar í stjórnarandstöðunni. Það sem mér finnst merkilegt í því samhengi er þetta: Ef það er þannig að ekki er hægt að innheimta veiðigjöldin í samræmi við gildandi lög vegna þess að Hagstofuna skortir lagaheimildir, hvernig má það þá vera að lausnin á því vandamáli sé að lækka veiðigjöldin um 10 milljarða?

Herra forseti. Ég fæ ekki séð hvernig þetta hangir saman. Hagstofan fær ekkert meiri heimildir til þess að vinna úr þessum upplýsingum eða afhenda þær veiðigjaldsnefnd með því að veiðigjaldið á útgerðirnar í landinu sé lækkað um 10 milljarða. Hún gengur ekki upp, þessi röksemdafærsla. Lausnin á því vandamáli sem ýmsir fulltrúar stjórnarflokkanna hafa verið að ræða um í þessari umræðu hlýtur að vera fólgin í því að skapa nægilega tryggan lagagrundvöll til þess að veiðigjaldsnefndin geti fengið upplýsingar, að Hagstofan geti unnið með upplýsingar og afhent þannig að hægt sé að reikna út veiðigjaldið.

Jafnvel þó að menn færu í einfaldari útgáfu af veiðigjaldinu sem hefði kannski kallað á eitthvað minni gagnaöflun af hálfu veiðigjaldsnefndar eða Hagstofunnar eða ríkisskattstjóra o.s.frv. sem hefði líka verið hægt að ræða um þýðir það ekki heldur að niðurstaðan eigi að vera 10 milljarða kr. afsláttur af veiðigjaldinu. Það er bara engin lógík, það eru engin rök í þessum málflutningi. Menn gætu auðvitað komið hér og sagt: Setjumst yfir það að laga þarf umgjörðina um útreikninginn á veiðigjaldinu, að styrkja þarf lagaheimildir Hagstofu o.s.frv., en höfum það sem útgangspunkt að heildarveiðigjaldið, sem rennur í ríkissjóð, sé óbreytt. Þannig hefði að sjálfsögðu átt að nálgast þetta mál, að mínu viti. Göngum út frá því að útgerðin sé að skila því sem lög nr. 74/2012, um veiðigjöld, gera ráð fyrir að útgerðirnar skili en gerum nauðsynlegar lagfæringar á lögunum til þess að með tryggilegum hætti sé hægt að framkvæma þau telji menn að eitthvað skorti upp á í því efni.

Þegar glöggt er skoðað fæ ég ekki séð að sú útfærsla sem finna má í frumvarpi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, og sem meiri hluti atvinnuveganefndar tekur algjörlega undir, taki á þessu vandamáli nema síður sé. Hins vegar hefur minni hluti atvinnuveganefndar, fulltrúar Samfylkingarinnar, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Bjartrar framtíðar, lagt fram breytingartillögur. Í fyrsta lagi hefur minni hlutinn lagt fram ítarlegt nefndarálit þar sem er að finna útreikninga sem skortir algjörlega í nefndarálit meiri hlutans — eins og fram kom í ræðu á undan minni kunna þeir að vera til í fórum einstakra nefndarmanna, það er óljóst, en þá er alla vega ekki að finna í gögnum málsins sem liggja fyrir þinginu. En í áliti minni hluta nefndarinnar er að finna ítarlega umfjöllun um málið þar sem fjallað er almennt um auðlindamálið, þar sem fjallað er um auðlindarentuna og það réttlæti sem er fólgið í henni og fjallað um tillögur sem minni hlutinn leggur til um breytingar á lögunum til að koma til móts við helstu gagnrýni sem uppi hefur verið í málinu.

Á þskj. 60 í 1. tölulið segir:

„Ríkisskattstjóri skal afhenda Hagstofu Íslands skv. 2. mgr. 117. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, og veiðigjaldsnefnd rekstrarframtöl og aðrar upplýsingar úr skattframtölum sem hafa þýðingu fyrir ákvörðun veiðigjalda samkvæmt lögum þessum, þ.m.t. upplýsingar um verðmæti rekstrarfjármuna, sbr. 5. mgr. 11. gr. og 2. mgr. 12. gr. Hagstofu Íslands ber að taka við gögnunum og vinna úr þeim í samræmi við ákvæði laga þessara. Um veiðigjaldsnefnd og starfsmenn hennar gilda jafnframt sömu ákvæði um þagnarskyldu og kveðið er á um í 1. mgr. 117. gr. laga um tekjuskatt.“

Hér er sem sagt gerð tilraun til að setja undir þennan leka sem segja má að hafi verið eitt af gagnrýnisatriðunum sem fram hafa komið í umræðunni, þ.e. að slíkar lagaheimildir skorti. Ég tek eftir því að í umsögn Hagstofunnar um málið skrifar hagstofustjóri meðal annars að þessar lagaheimildir skorti. Það þýðir ekki að ekki sé hægt að afla þeirra með breytingum á lögum því að það getur verið verkefni okkar hér á Alþingi að breyta lögum eins og kunnugt er. Hér er því reynt að setja undir þann leka.

Það hefur líka verið sagt í þessari umræðu að þær breytingar sem frumvarpið geri ráð fyrir séu til að koma til móts við minni og meðalstór fyrirtæki í sjávarútvegi af því að þeim sé íþyngt of mikið með gildandi lögum. Í tillögu minni hlutans er brugðist við þessu og í nefndaráliti hans segir, með leyfi forseta:

„Í því skyni að minnka álögur á minni og meðalstór sjávarútvegsfyrirtæki leggur minni hlutinn til breytingar sem fela í sér að sérstakt veiðigjald verði ekki greitt af fyrstu 50.000 þorskígildiskílóunum í stað fyrstu 30.000 eins og kveðið er á um í a-lið 2. mgr. 9. gr. laganna. Þá verði aðeins greitt hálft gjald af næstu 200.000 þorskígildiskílóum, í stað 70.000 eins og kveðið er á um í b-lið 2. mgr. 9. gr. laganna, þannig að fullt gjald verði ekki lagt á fyrr en afli fer umfram 250.000 þorskígildiskíló. Með þessum hætti telur minni hlutinn komið til móts við lítil og meðalstór fyrirtæki á mun hnitmiðaðri hátt en lagt er til í frumvarpinu.“

Hér eru sem sagt rakin áhrifin af þessu á afkomu ríkissjóðs og í áliti minni hlutans segir um það, með leyfi forseta:

„Af tillögum minni hlutans um breytingar á frímarki og afsláttarþrepi leiðir að tekjur ríkissjóðs verða um 310 millj. kr. lægri en annars hefði orðið að óbreyttu.“

Það er langur vegur á milli áhrifanna á tekjur ríkissjóðs af þeim breytingartillögum sem minni hluti gerir hér annars vegar og því sem er að finna í frumvarpi hæstv. sjávarútvegsráðherra og meiri hluta atvinnuveganefndar tekur undir — 310 milljónir á móti 3,2 milljörðum á þessu ári og 6,4 milljörðum á því næsta. Ég tel því að minni hlutinn hafi einmitt brugðist við þessu, með tillögum sínum, á mjög ábyrgan hátt. Meiri hlutinn ætti að íhuga mjög vandlega hvort ekki sé með viðhlítandi hætti komið til móts við gagnrýni á gildandi lög með þeim tillögum sem minni hluti atvinnuveganefndar leggur til.

Herra forseti. Að öðrum kosti verður maður að draga þá ályktun að það sé frummarkmið þessa frumvarps að lækka álögur á útgerðina, lækka veiðigjaldið, sem útgerðin á að greiða í sameiginlegan sjóð landsmanna, um 3,2 milljarða á þessu ári og 6,4 á því næsta. Það hlýtur þá að vera meginmarkmiðið en ekki það að ekki sé hægt að framkvæma lögin vegna þess að einhverjar heimildir vanti til handa Hagstofunni. Ef það væri málið væru tillögur meiri hlutans hér og frumvarp ráðherrans öðruvísi útbúið.

Í framhaldi af þessu vil ég segja að þegar verið er að tala um að þessi lækkun á sérstaka veiðigjaldinu sé gerð til að bæta stöðu meðalstórra og lítilla sjávarútvegsfyrirtækja hafa í fyrsta lagi engin gögn verið reidd fram sem styðja þá fullyrðingu. Þegar þessi mál eru skoðuð kemur fram að þær tillögur sem liggja fyrir, um lækkun sérstaka veiðigjaldsins á botnfisk, munu lækka veiðigjöldin af þessum afla um rúmlega 4,5 milljarða kr. Og hvernig skiptist sú lækkun, upp á 4,5 milljarða kr.? Hún skiptist þannig að þau sjö fyrirtæki sem hafa mestan kvóta fá lækkun sem nemur um 2 milljörðum og næstu 12 fyrirtæki að stærð munu fá um 1,2 milljarða kr. Sem sagt 19 stærstu fyrirtækin fá 3,2 milljarða kr. í lækkun eða yfir 70% af heildarlækkuninni sem um er að ræða.

Herra forseti. Hvernig má það þá vera að í þessu felist sérstök aðgerð til að bæta stöðu lítilla og meðalstórra fyrirtækja þegar langstærsti hlutinn, yfir 70% af því sem ég er hér að tala um, fer til 19 stærstu fyrirtækjanna miðað við kvóta? Síðan er því einnig haldið fram að þessar aðgerðir séu sérstaklega komnar til í þágu landsbyggðarinnar. En er það svo? Það eru auðvitað eigendur fyrirtækjanna sem greiða veiðigjöldin og fá þar af leiðandi þennan afslátt og þessa lækkun. Og stóru fyrirtækin sem fá mestu lækkunina eru, kemur í ljós, einkum í eigu fárra aðila á suðvesturhorninu og á fáum öðrum stöðum. Það er því ekki aðgerð sem er sérstaklega í þágu landsbyggðarinnar. Eða er það, herra forseti? Að minnsta kosti finnst mér þá vanta ítarlegri rökstuðning til að styðja þær fullyrðingar. Þegar menn skoða málið kemur nefnilega allt annað í ljós. Og hverjir eru svo þessir stóru eigendur? Í hópi þeirra eru bankar, það eru lífeyrissjóðir, það eru tryggingafélög, það eru eignarhaldsfélög með eignarhald sem er óþekkt, að einhverju leyti að minnsta kosti, og það er þessum aðilum sem á að færa arðinn af fiskveiðiauðlindinni með þeim hætti sem lagt er til í frumvarpi sjávarútvegsráðherra. Menn hljóta að spyrja sig: Bíddu, eru það þessir aðilar sem eiga auðlindina? Eru það þeir sem eiga þennan arð?

Herra forseti. Ég verð að segja að mér finnst ekki vel til þessa máls vandað. Ég fæ ekki betur séð, af því sem ég hef hér verið að rekja og margir aðrir í þessari umræðu, en að megintilgangur frumvarpsins sé að flytja til fjármuni í samfélaginu, að flytja fjármuni til þeirra sem meira mega sín í samfélaginu frá hinum. Það er líka kjarninn í þeim tillögum sem hæstv. ríkisstjórn hefur nú lagt fram, um breytingar á almannatryggingakerfinu, þ.e. þær nýtast best þeim sem hæstar hafa tekjur og síst þeim sem hafa minna á milli handanna. Það er rauði þráðurinn í stefnu núverandi hægri stjórnar í landinu að færa til fjármuni í samfélaginu og það er hún svo sannarlega að gera með því frumvarpi sem hér liggur fyrir um breytingar á veiðigjöldum.



[16:59]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir sköruglega ræðu. Þó að ég geti tekið undir nánast allar röksemdirnar sem hann flutti í sínu góða máli vil ég samt segja að þetta frumvarp, af hálfu ríkisstjórnarinnar, er ekki alvont. Í fyrsta lagi hefur komið fram alveg skýrt og er viðurkennt í sjálfu sér af hálfu minni hlutans í nefndaráliti að í ljós komu ákveðnir agnúar, tæknilegir, á útfærslu málsins af hálfu framkvæmdarvaldsins. Það er verið að setja undir það af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Ég er hins vegar sammála hv. þingmanni um að þær breytingartillögur, og sérstaklega fyrsta breytingartillagan sem hv. þingmaður gerði að umræðuefni snemma í sinni ræðu, og lögð er fram af minni hlutanum, bætir með miklu sterkari hætti úr þeim annmörkum sem voru á áframhaldandi framkvæmd fyrri laga.

En það sem er jákvætt í þessu frumvarpi frá ríkisstjórninni, sem gerir það að verkum að ég segi að það sé alls ekki alslæmt, er auðvitað sú staðreynd að ríkisstjórnin leggur til að hið sérstaka veiðigjald á uppsjávarútgerðina sé hækkað. Að því marki get ég ekki annað en tekið undir þann part frumvarpsins. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann sé mér ekki sammála um það að þar er algjörlega farið miðað við þann mikla umframhagnað sem hefur komið fram vegna góðæris í þeim parti útgerðarinnar.

Ég vil einnig spyrja hv. þingmann hvort hann hafi einhverjar efasemdir um að þær breytingartillögur sem minni hlutinn gerir, varðandi hækkun frítekjumarksins sem á að vernda minni eða litlar og meðalstórar útgerðir — er hv. þingmaður algjörlega sannfærður um að það dekki allar útgerðirnar í þeim útgerðarflokki?



[17:01]
Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það má kannski segja að fátt sé svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott og að það sé hægt að halda því fram að einstök atriði í sjálfu frumvarpinu séu ekki alslæm. Hv. þingmaður nefnir nokkur atriði þarna. Hann nefnir meðal annars þær athugasemdir sem komið hafa fram varðandi heimildir viðkomandi stofnana eins og Hagstofunnar, veiðigjaldsnefndar, til þess að vinna með upplýsingar eða afhenda og láta þær fara á milli. Komið hefur fram að þessi ágalli gerði það að verkum að erfitt væri að innheimta veiðigjaldið með þeim hætti sem gildandi lög gera ráð fyrir.

Já, það er rétt að þær athugasemdir komið hafa fram, en eins og ég gat um í ræðu minni er ekki lausnin á því vandamáli að Hagstofan geti ekki unnið með einhver gögn eða afhent gögn, að lækka veiðigjaldið um 10 milljarða. Hagstofan er ekkert betur sett með það. Hún þarf þá að fá undirbyggðar og styrkar lagaheimildir. Ég tel að sú útgáfa sem er að finna í breytingartillögu minni hlutans sé traust til þess að setja undir þennan leka, hafi menn talið að hann væri til staðar.

Varðandi síðan hækkunina á veiðigjaldi á uppsjávarfiski kann það vel að vera rétt hjá hv. þingmanni að það sé eitt af því góða í frumvarpinu. En munurinn sem hér er búinn til á veiðigjaldinu í uppsjávarfiski annars vegar og botnfiskinum hins vegar er auðvitað orðinn miklu meiri samkvæmt þessu frumvarpi en sem rök eru fyrir, ef við horfum til dæmis á þróun verðvísitölunnar í uppsjávarfiski annars vegar og botnfiskinum hins vegar. Það réttlætir að mínu viti ekki þann gríðarlega mikla mun sem þarna er orðinn.



[17:03]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég get nú verið hv. þingmanni sammála um það. Sömuleiðis þótti mér það áréttað í alveg prýðilega málefnalegri ræðu sem hv. þm. Haraldur Benediktsson flutti í gær eða fyrradag þar sem hann lagði fyrir þingið upplýsingar sem hann hafði aflað sér frá FAO sem bentu til þess að á næstu átta árum mundu afurðir eins og sjávarafurðir, fiskfang, hækka í verði kannski um 15–20%. Þannig að miðað við það að bullandi afkoma er nú í ár hjá útgerðinni allri að heita má og meiri en nokkru sinni fyrr og mjög líklegt er að sú góða staða haldi áfram enn um sinn, er auðvitað algjörlega fráleitt að fara þá leið að lækka veiðigjaldið.

Með tilliti til þess að menn eru að reyna að ná saman hefði ég talið að það væri algjörlega upplagt, eins og hér hefur verið reifað af stjórnarandstöðunni, að taka hluta úr frumvarpi hæstv. ríkisstjórnar, einkum þann hluta sem lýtur að hækkun veiðigjalds á uppsjávarútgerðirnar, en halda áfram hinu sérstaka veiðigjaldi eins og það var lagt upp af fyrrverandi ríkisstjórn, þó með þeim breytingum að hækka frímarkið til þess að vernda litlar og meðalstórar útgerðir. Eins og ég hef skilið það mál þá sýnist mér að miðað við þær tillögur sem reifaðar hafa verið af minni hlutanum sé það nánast ljóst að hálft fjórða hundrað útgerða, sem allar falla í flokkinn litlar og meðalstórar útgerðir, mundu njóta þeirra breytinga.

Ég tel því að það sé vel sett undir þá leka sem framkvæmdin sýndi að var á hinu fyrra frumvarpi sem við samþykktum og gerðum að lögum. Þegar upp er staðið held ég að ekki sé mjög langt á milli okkar, mín og hv. þingmanns. Getur hv. þingmaður upplýst mig um hvað veiðigjaldið yrði ef þeirri tölu yrði haldið sem nú er í frumvarpi ríkisstjórnarinnar og síðan þeirri tölu sem minni hlutinn leggur til? Gæti það ekki verið 17–18 milljarðar? Ég tel að það sé það sanngjarnasta sem er að finna (Forseti hringir.) í þessari stöðu.



[17:06]
Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er sammála hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að mestu í því sem hann ræðir hér. Ég tel sem sagt að varðandi litlu og meðalstóru fyrirtækin séu tillögur minni hlutans í raun miklu hnitmiðaðri til þess að koma til móts við þau sjónarmið eða þá gagnrýni sem komið hefur fram hvað þau varðar en lagt er til í frumvarpinu. Það er ágætlega reifað í áliti minni hlutans og þar er að finna töflur og útreikninga sem undirbyggja þessa niðurstöðu. Það er nú meira en hægt er að segja um álit meiri hluta atvinnuveganefndar sem ekki leggur fram nein slík gögn máli sínu til stuðnings fyrir þingið, eins og ég gat um í ræðunni. Það kann að vera að einhverjir nefndarmenn úr meiri hlutanum hafi einhver gögn í fórum sínum en þau eru ekki sjáanleg eða sýnileg í gögnum málsins við umræðuna á Alþingi.

Ég er því sammála hv. þingmanni um þetta. Að því er upphæðina varðar sem komið gæti út ef því yrði með einhverju móti blandað saman sem hv. þingmaður vísar til, þá skal ég ekki alveg fullyrða um hvort sú tala sem hann nefnir, sem eru kannski 17 milljarðar, sé nákvæm. Það kann vel að vera að hún fari nærri lagi. Um það skal ég ekki alveg fullyrða vegna þess að ég hef ekki tekið þátt í vinnunni í nefndinni, ég á ekki sæti í atvinnuveganefnd þannig að ég hef ekki tekið þátt í þeirri vinnu eða hef legið yfir einstökum útreikningum í því efni. En ég held að það sé samt nokkuð nærri lagi miðað við það sem hv. þingmaður ræddi hvað þetta snertir.



[17:08]
Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það mál sem við fjöllum um hér í dag er og hefur verið umdeilt í samfélaginu í langan tíma og kannski ekki nema eðlilegt. Ég er sjómannsdóttir og ber mikla virðingu fyrir sjómönnum og ekki síst mökum þeirra og fjölskyldum sem búa alla jafna við mikla fjarveru sinna nánustu.

Sjávarútvegurinn er einn af undirstöðuatvinnuvegum landsins og hefur bein og óbein áhrif á flesta landsmenn. Stór hluti byggða landsins hefur mótast með einum eða öðrum hætti í gegnum sjávarútveginn og þá ekki síst hinn síðari tíma í gegnum kaup á kvóta. Fjársterkir aðilar hafa keypt upp kvóta sem hefur svo hægt og bítandi safnast á fárra hendur. Eftir hafa setið íbúar byggða sem áður höfðu lífsviðurværi sitt af sjávarútvegi og eru í átthagafjötrum. Sem betur fer hafa margar þessara byggða spyrnt við fótum og hafist handa við ný verkefni til að tryggja áfram búsetu í heimabyggð sinni. Það breytir því þó ekki að almenningi í landinu þykir rétt og sanngjarnt að þeir aðilar sem nýta auðlindina greiði fyrir hana sanngjarnan arð. Það er einnig mín skoðun og ég tel að eitt stærsta framfaramál síðasta kjörtímabils hafi verið álagning hins nýja veiðileyfagjalds. Með því varð loksins tryggt að útvegsmenn greiddu sanngjarnt gjald fyrir afnot af sameiginlegri auðlind þjóðarinnar.

Sú lækkun sem er boðuð hér á veiðigjaldi hefur kallað á mikil viðbrögð sem birtast meðal annars í undirskriftasöfnun tugþúsunda Íslendinga og miklum skrifum á samfélagsmiðlum.

Þessar boðuðu breytingar draga okkur aftur til fortíðar og minna á þá tíma sem ég rakti áðan þegar eigendum fárra stórútgerða var færður arður af fiskveiðiauðlindinni á silfurfati og margar byggðirnar blæddu fyrir.

Í umræðunni hefur aðeins verið rætt um sérhagsmuni og í mínum huga er afar mikilvægt að við fórnum ekki þeim sérhagsmunum á kostnað almennings með lækkun veiðigjalda. Þær ástæður sem gefnar hafa verið sem rökstuðningur fyrir lækkun eru ekki nægilegar að mínu mati því að lækkunin er stórfelld eins og hér hefur komið fram, allt að 10 milljarðar.

Almenningur í landinu kaupir heldur ekki að veiðigjöld séu ósanngjörn skattheimta, að þau séu of há og verði til þess að útgerðir fari á hausinn, að þau íþyngi um of litlum og meðalstórum fyrirtækjum, leggist fyrst og fremst á landsbyggðina, skerði laun sjómanna, mismuni útgerðum eftir því hvaða veiði er stunduð, standi í vegi fyrir nýfjárfestingu og endurnýjun og að þau séu óframkvæmanleg af tæknilegum ástæðum. Tæknilegar ástæður má lagfæra og það er hlutverk okkar á Alþingi, en að afleggja þau að stórum hluta eins og hér á að gera er gerræðisleg ákvörðun.

Í nefndaráliti minni hlutans segir, með leyfi forseta, að mikilvægt sé „að gera greinarmun á hefðbundnum arði sem stafar af fjárfestingu, þekkingu, reynslu og útsjónarsemi í rekstri og auðlindarentu. Slíkur arður rennur beint til eigenda og/eða fjárfesta en skilar samfélaginu óbeinum arði með sköpun atvinnu, tekjum, eftirspurn, afleiddum störfum, sköttum og gjöldum. Þetta á við um allan atvinnurekstur. Auðlindarenta eða umframarður stafar af verðmætum auðlindar og kemur fram í rekstri vegna sérleyfa til nýtingar þeirra.“

Eins og komið hefur fram hefur Hagstofa Íslands árum saman unnið úr skattframtölum og öðrum gögnum og birt yfirlit yfir afkomu veiða og vinnslu. Fiskistofa tekur líka saman og birtir ítarlegar upplýsingar um aflabrögð og það er ekki margt annað sem þarf til að ákveða veiðigjöldin. Ef eitthvað annað er í veginum breytum við því.

Fram kemur í tillögu minni hlutans, með leyfi forseta:

„Það þarf ekki að koma á óvart að ófyrirséð vandkvæði hafi komið upp við framkvæmd laga um veiðigjöld. Þau fela í sér nýjung sem hefur ekki verið reynd hér áður. Samhliða nefndaráliti þessu leggur minni hlutinn fram tillögur til breytingar á lögum um veiðigjöld.“ — Það er nefnilega þannig að það má laga margt og engin ástæða til annars en að viðurkenna það. En það er eitt að laga og annað að fella niður. — „Fram hefur komið að vafi leiki á hvort veiðigjaldsnefnd, sem starfar samkvæmt lögum um veiðigjöld, hafi aðgang að öllum þeim upplýsingum sem hún þarf á að halda til að ákvarða sérstakt veiðigjald. Til að mögulegt verði að bregðast við framangreindum vanda leggur nefndin til að ríkisskattstjóra verði gert skylt að afhenda Hagstofu Íslands og veiðigjaldsnefnd rekstrarframtöl og aðrar upplýsingar úr skattframtölum sem hafa þýðingu fyrir ákvörðun veiðigjalda, þar með taldar upplýsingar um verðmæti rekstrarfjármuna.“

Almenna veiðigjaldinu er ætlað að standa undir þeim kostnaði sem hið opinbera hefur af fiskveiðistjórn. Sérstaka veiðigjaldið er svo hlutdeild þjóðarinnar í auðlindarentunni, hluti af þeim arði sem eftir stendur þegar búið er að greiða allan tilkostnað, launin, orkuna, viðhaldið og allan þann útgerðarkostnað, kaup á skipum og fjármagnskostnað, þ.e. vextina af lánsfénu, og arð til eigenda. Útgerðir greiða því ekkert sérstakt veiðigjald fyrir afnot af sameiginlegri auðlind fyrr en allir hafa fengið sitt. Við getum varla ætlast til þess að aðrir greiði þennan kostnað, eða hvað?

Ef rekstrarskilyrði versna, t.d. með lækkun fiskverðs eða hækkun gengis, er það sérstaka veiðigjaldið sem lækkar og hverfur ef umframarðurinn dugar ekki til að greiða meira en kostnaðinn, þ.e. almenna gjaldið. Það að útgerðin hefur einkaleyfi til að nýta þessa sameiginlegu auðlind okkar eru sterk rök fyrir því að hún greiði það. Það verður að líta á veiðigjaldið sem afnotagjald þar sem nýtingaraðilar eru með því að skila auðlindarentunni til réttmæts eiganda hennar, þjóðarinnar, í sameiginlega sjóðinn okkar allra.

Það liggur nefnilega fyrir að tekjurnar af gjaldinu eiga meðal annars að renna til samgönguframkvæmda um land allt, m.a. boðaðra Norðfjarðarganga sem við höfðum áhyggjur af hér þegar boðaðar breytingar komu fram á þessu sumarþingi, þar sem tekjur ríkissjóðs eru skertar um marga milljarða. Þá er ekki nema eðlilegt að fólk láti sér detta í hug að eitthvað verði slegið af.

Þessar tekjur á líka að nota til nýsköpunar í atvinnulífi og í öll önnur framfaramál, t.d. til hækkunar barnabóta sem er afar mikilvæg fyrir fjölskyldurnar í landinu, ungu fjölskyldurnar.

Það má hins vegar velta því upp, og á að gera með þessi lög eins og önnur, hvort forsendur fyrir ákvörðun veiðigjaldanna séu eðlilegar og gjöldin réttilega ákvörðuð.

Mig langar að vitna í dósent í viðskipta- og hagfræði, Stefán Björn Gunnlaugsson, sem hefur verið að rannsaka áhrif nýrra laga um veiðigjöld, annars vegar á 25 stærstu útvegsfyrirtækjunum og hins vegar þeim minni þar sem haft er eftir honum:

„Ljóst er að staða íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja er æðiólík innbyrðis. Sum þeirra eru vafin skuldum en önnur svo gott sem skuldlaus. Þegar málið er kannað betur kemur þó í ljós að aðeins fjögur af stærstu 25 fyrirtækjunum eiga í verulegum fjárhagsvanda. Hin fyrirtækin standa vel eða mjög vel ef marka má niðurstöður Stefáns, sem finna má í umsögn hans við veiðigjaldafrumvarpið. Því kann slæm skuldastaða fárra fyrirtækja að skekkja heildarmyndina þegar reynt er að meta getu stóru útgerðanna til að standa undir veiðigjaldinu.“

Hann tiltekur svo fyrirtækin sem standa misvel og hvet ég þá sem eru að ræða þessi mál hér sem og nefndina til að skoða það enn frekar því að það virðist ekki vera sem þeir hafi lesið það miðað við frumvarpið sem liggur fyrir.

Miðað við reikninga ársins 2010 voru um 34 fyrirtæki með veltu yfir milljarði. Þau höfðu yfir 80% heildarkvótans og hefðu greitt um 85% af sérstaka veiðigjaldinu, þ.e. yfir 15 milljarða af þeim 18 sem hefðu verið til greiðslu.

Það er því afar sérstakt þegar því er haldið fram að veiðigjöldin bitni mest á litlum og meðalstórum fyrirtækjum og að þau séu sérstakur landsbyggðarskattur. Almenna veiðigjaldið er jafn hátt á hvert kíló sama hver stærð fyrirtækisins er og sérstaka veiðigjaldið er lægra á kíló hjá litlum fyrirtækjum en hjá stórum. Því er ekki hægt að segja að veiðigjaldið sé litlum fyrirtækjum meiri byrði en stórum, þvert á móti, og enginn skynsamleg rök til að tengja það rekstrarlegum forsendum einstakra fyrirtækja.

Það kemur reyndar fram í tillögu minni hlutans sem var rædd rétt áðan að þar sem ójafnvægi hefur skapast í greininni er gerð tillaga til lagfæringar.

Mér finnst heldur ekki rétt í þessari umræðu um veiðigjöldin að búa til togstreitu á milli höfuðborgar og landsbyggðar með því að tala um landsbyggðarskatt. Veiðigjöld eru gjöld á eigendur útgerða. 34 stærstu fyrirtækin greiða um 85% veiðigjaldanna, eins og ég sagði áðan. Þessi gjöld lenda á útgerðunum og engum öðrum.

Eitt af því sem einkennir veiðigjöldin er að þau aðlaga sig afkomu útgerðanna. Sú afkoma ræðst að stórum hluta af fiskverði sem ræðst svo af gengi krónunnar. Ef krónan styrkist lækkar fiskverð og þar með lækkar sérstaka veiðigjaldið.

Veiðigjöldin hafa engin áhrif á það verð sem fæst fyrir afla á markaði og þar af leiðandi ekki á laun sjómanna, eins og mjög mikið hefur verið rætt. Laun sjómanna hafa hækkað með lægra gengi og hækkandi fiskverði, sem betur fer. Því er með ólíkindum þegar reynt er að halda því fram að veiðigjöldin hvetji útgerðir til að reyna að lækka laun sjómanna. Hvers lags vitleysa er það? Launakostnaður kemur til frádráttar og ef launin eru hærri lækka veiðigjöldin, ef launin eru lægri hækka veiðigjöldin þannig að það stenst enga skoðun.

Svo er vert að hafa í huga að eftir því sem launin eru hærri skilar það sér í hærri útsvarstekjum til sveitarfélaganna. Því er það svolítið sérstakt þegar sveitarfélög hafa tekið sig saman, þar á meðal mitt sveitarfélag, og ég játa hér að ég studdi það ekki af því að mér finnst ekki eðlilegt í því ferli sem hefur átt sér stað í gegnum árin, með tilfærslu kvóta, að núverandi kvótahafar í byggðum landsins ætli að eigna sér hlutdeild í auðlindagjaldinu.

Hvað með byggðirnar sem eiga engan kvóta lengur? Hvers eiga þær að gjalda? Mér finnst það skynsamlegra sem fyrri ríkisstjórn lagði til og lögin kveða á um, að þetta renni í okkar sameiginlega sjóð og fjárfestingaráætlun fyrri ríkisstjórnar ber þess merki að meðal annars átti að dreifa þeim tekjum um land allt þannig að þær yrðu sem best nýttar en ekki tilfallandi í nokkrum sveitarfélögum, útgerðarsveitarfélögum landsins.

Það er undarleg hagfræði þegar menn fullyrða að veiðigjöldin verði til þess að ekki verði hægt að fjárfesta og endurnýja í sjávarútveginum. Tilgangurinn þegar maður er að fjárfesta hlýtur alltaf að vera sá að framleiðslan og það verðmæti sem verður til aukist umfram það sem kostar að fjárfesta.

Jón Steinsson segir í DV á dögunum þar sem hann talar um forgangsröðun ríkisstjórnarinnar, og ég tek undir það með honum, að forgangsröðun ríkisstjórnarinnar við lækkun skatta komi honum á óvart. Hann telur ekki að lækkunin sé til þess fallin að auka hagvöxt í sama mæli og lækkun annarra skatta. Hann segir, með leyfi forseta:

„Ég held að þetta hafi engin örvandi áhrif. Og sérstaklega er þetta náttúrulega athyglisvert í ljósi þess að skattar eru háir á Íslandi og það væri mjög gott að geta lækkað til dæmis virðisaukaskattinn eða tekjuskattinn. Ein leið til að gera það væri að vera með hátt auðlindagjald og þá miklu, miklu lægri virðisaukaskatt. Og það væri örvandi. Það væri virkilega örvandi.“

Það væri reyndar líka mjög gott ef við gætum lækkað skatta eins og er komið inn á hér, en inntakið er að þetta hafi ekki örvandi áhrif eins og sérstaklega sjálfstæðismenn hafa haldið fram.

Hann segir einnig um lækkun veiðigjalda að hún stuðli síður að örvun hagkerfisins, með leyfi forseta:

„En auðlindagjöld — ef þau eru rétt útfærð og einungis gjöld á umframhagnað eins og gjaldið er núna — þau hafa engin vinnuletjandi áhrif á útgerðina. Það verða jafn margir fiskar dregnir úr sjó og jafn mikil verðmæti búin til úr þeim hvort sem að veiðigjaldið er 10 milljarðar eða 30 milljarðar.“

Það kemur einnig fram að hann telur að gjaldið sé lágt miðað við umframhagnað sjávarútvegsfyrirtækja og telur að langstærsti hluti hagnaðarins verði eftir hjá fyrirtækjunum.

Og hann segir, svo ég vitni aftur í hann, með leyfi forseta:

„Ég sé ekki nokkurn skapaðan hlut í þessu frumvarpi sem hlífir litlum eða meðalstórum útgerðum.“

Það er akkúrat það sem hefur svolítið verið inntakið í ræðum ríkisstjórnarflokkanna, að þetta eigi að hlífa þeim, en ég tel að minni hluti atvinnuveganefndar hafi sýnt fram á annað, vankanta sem verða betur lagaðir með þeim tillögum sem koma fram þar.

Hann segir einnig að ekkert bendi til þess að veiðigjaldið eins og það er núna dragi úr hvata til að sjávarútvegsfyrirtæki ráðist í fjárfestingar og svo ég vitni aftur í hann:

„Hagnaðurinn er svo mikill í þessum geira að það eru allir að fullnýta kvótann sinn hvort eð er. Þú veiðir ekkert meiri fisk þó veiðigjaldið sé lækkað. Hagnaðurinn er það mikill nú þegar að það er bara miklu meiri en nógur hvati til að ráðast í allar þær fjárfestingar sem sjávarútvegsfyrirtækin telja sig þurfa. Þau eru nú þegar að fá 8 prósenta arð af því fé sem lagt er í reksturinn og líka þorrann af auðlindarentunni. […]

Hvort sem við erum að tala um að gjaldið yrði 13,5 milljarðar eða 10 milljarðar, þá eru útgerðirnar hvort eð er að fá bróðurpartinn af þessu. Þær eru með svo miklu, miklu meira en nógan hvata til að gera allar þær fjárfestingar sem þörf krefur að það er algjörlega út í hött að tala um að það hafi einhver áhrif á fjárfestingu.“

Þar tekur hann undir sjónarmið okkar vinstri grænna og fleiri, að þetta sé ekki eitthvað sem setji fyrirtækin á kné eða verði til þess að ekki verði hægt að endurnýja nokkurn skapaðan hlut. Auðvitað má í því samhengi velta því fyrir sér af hverju flotinn hafi ekki verið endurnýjaður undanfarin ár, þ.e. í eins miklum mæli og nú virðist þurfa að gera. Það er ekki eins og ekki hafi átt sér stað einhverjar fjárfestingar í þessum geira.

Veiðar eru háðar aflamagnstakmörkunum. Stækkun fiskveiðiflotans eða aukning veiðigetu skipa breytir ekki aflamagni eða verðmæti aflans og eru því ekki rök fyrir aukinni fjárfestingu. Það að stækka flotann hefur ekki aukið aflamagn í för með sér og því er augljóst að stækkunin getur ekki leitt til hækkunar á tekjum af veiðigjöldum eins og haldið hefur verið fram.

Þessi krafa um auknar fjárfestingar í sjávarútvegi vekur upp ýmsar spurningar. Eins og við vitum og það er kannski það sem almenningur er hvað sárreiðastur yfir í þessari umræðum og ég held að það megi segja að reiðin beinist fyrst og fremst, eða gagnrýnin, kannski ætti frekar að tala um gagnrýnina sem beinist fyrst og fremst að því að það liggur fyrir að það höfðu átt sér stað miklar afskriftir, fjárfestingin var vissulega í kvótakaupum, mikið í hlutabréfum, framlögum í fyrirtæki erlendis og mestmegnis var þetta fjármagnað með lánsfé.

Svo hafa menn verið að greiða sér stórkostlegan arð og kvarta síðan undan því að geta ekki borgað auðlindagjald. Þá er ekki nema eðlilegt að fólk spyrji sig af hverju fyrstu skref þessarar ríkisstjórnar snúa að því að aðstoða þá sem best geta lagt til samfélagsins. Það má líka spyrja sig, eins og ég kom inn á áðan, af hverju ekki var fjárfest í skipum eða öðrum rekstrarfjármunum sem virðist vera talin sár þörf á núna. Það má spyrja sig hvort við, þjóðin, eigum þá að afsala okkur þeim rétti eða tilkalli til arðs af auðlindinni okkar til að fjármagna þessa gjörninga sem áttu sér stað og hafa átt sér stað í gegnum árin.

Það segir í nefndaráliti minni hlutans, með leyfi forseta:

„Veiðigjöld á að ákveða með hlutlægum og gagnsæjum hætti. Með lögum um veiðigjöld var búin til hlutlæg tenging milli gjalda og auðlindaarðs. Hana má ekki rjúfa þannig að álagning veiðigjalda verði háð geðþótta ráðamanna og þrýstingi hagsmunasamtaka hverju sinni. Undir slíkum kringumstæðum missa veiðigjöld gildi sitt og raunverulegt eignarhald þjóðarinnar á auðlindinni skerðist.“

Það er það sem er svo mikilvægt, að við vitum og sjáum með hvaða hætti þessir hlutir eru gerðir. Það á heldur ekki að breyta því að veiðigjöldin eða álagning þeirra samkvæmt núgildandi frumvarpi breytir því ekki að fjárfestingin í sjávarútvegi sé arðbær eins og hér hefur verið rakið.

Virðulegi forseti. Veiðigjaldslögin eru nú þegar komin í framkvæmd að öllu öðru leyti en því, eins og hefur verið rætt um hér, að útreikningi þessa sérstaka gjalds fyrir komandi fiskveiðiár hefur ekki verið lokið. Framkvæmd laganna er byggð á áralöngu fyrirkomulagi þar sem Fiskistofa leggur gjöldin á og sér um innheimtuna. Á því varð engin afgerandi breyting.

Ákvörðun veiðigjaldanna er sem sagt byggð á sömu aðferðafræði með nokkrum breytingum sem hafa mikla efnislega þýðingu en breyta framkvæmdinni ekki verulega. Vandamálið virðist vera tæknilegs eðlis, eins og ég hef áður sagt og komið hefur fram í ræðum margra þingmanna, þar sem Hagstofan og ríkisskattstjóri halda gögnunum hver hjá sér og virðast ekki vilja eða hafa ekki færi á því að láta þau gögn af hendi hver til annars til að hægt sé að framkvæma þetta.

Ég trúi því ekki að ríkisstjórnin sjái sér ekki fært eða skorti kjark til að leysa úr því vandamáli, þessu tæknilega vandamáli sem talið er að liggi í því að ein stofnun afhendi annarri upplýsingar þar sem báðar eru bundnar sams konar trúnaði og hafa skipst á upplýsingum áratugum saman. Þetta er ekkert nýtt í kerfinu. Að mínu viti, og ekkert bara mínu heldur margra annarra líka, er um að ræða einfaldar lagabreytingar og því veltir maður því fyrir sér hvort það sé hreinlega ekki vilji hjá núverandi ríkisstjórn til að innheimta auðlindagjald yfirleitt. Er það mergur málsins?

Fall krónunnar skapaði sjávarútveginum sterka stöðu og miklar tekjur en á sama tíma skertist hagur margra, allra heimila í landinu. Við vitum öll að vöruverð hækkaði, tekjurnar hjá ríkissjóði minnkuðu og það má í raun segja að orðið hafi gríðarleg tekjutilfærsla, tugmilljarðatekjutilfærsla frá almenningi til eigenda fárra stórútgerða með þessu sterka gengi krónunnar sem skapar útgerðinni auknar tekjur en hækkar vöruverð til hins almenna borgara.

Ég lít svo á að það veiðigjald sem við búum við nú sé bæði sanngjarnt sem endurgjald fyrir notkun sameiginlegrar auðlindar og það má segja að það sé líka vörn gegn því að kostnaðurinn af lækkun á gengi krónunnar lendi á almenningi en ágóðinn hjá fáum útvöldum.

Það er líka mjög mikilvægt að hafa í huga að þótt vissulega hafi verið talað mikið um tekjutenginguna, þ.e. tekjuþáttinn fyrir ríkissjóð — þetta eru engir smáaurar sem við erum að ræða og vert að minna á og hér hefur töluvert verið talað um það hvar menn ætla að skera niður og rætt um að ástæðan fyrir því að ekki verði hægt að koma fram með fjárlagafrumvarp í haust á réttum tíma sé meðal annars vegna þess að menn séu búnir að búa til mun stærra gat en hefði þurft að koma til. Í því sambandi má nefna að í áliti minni hlutans kemur fram, með leyfi forseta:

„Breytingarnar sem minni hlutinn leggur til munu hafa lítils háttar áhrif á tekjur ríkissjóðs og hverfandi miðað við þau áhrif sem hljótast munu af breytingum sem meiri hlutinn leggur til að verði samþykktar óbreyttar frá frumvarpinu.“

Hér fylgja því ágætisútreikningar, góðar töflur eins og hv. þm. Árni Þór Sigurðsson benti á áðan sem er heldur annað en kemur fram í áliti meiri hlutans.

Eins og ég sagði voru þessi lög ekki einungis tekjuöflun því að í tíð fyrrverandi ríkisstjórnar var þetta hluti af stefnumótun í auðlindamálum og það kom svo skýrt fram við stjórnarskrárvinnuna í fyrravor þar sem gert var ráð fyrir að auðlindir þjóðarinnar eigi raunverulega að vera í eigu þjóðarinnar. Það var mikið tekist á um akkúrat þetta og þeir sem leggja fram þessa breytingu á veiðigjaldinu voru þeir sem stóðu harðast gegn því. Því miður gera þær breytingar sem hér eru boðaðar þessa vinnu að engu, að mér finnst, og veiðigjöldin á ekki lengur að tengja við auðlindaarðinn.

Með leyfi forseta langar mig að lesa upp úr nefndaráliti minni hlutans:

„Yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar hefur lýst sig fylgjandi sterku stjórnarskrárákvæði um sameign þjóðarinnar á náttúruauðlindum landsins. Slíkt ákvæði er innihaldslítið form ef því fylgir ekki tilkall til sanngjarns hluta auðlindarentunnar eða umframarðsins af náttúruauðlindunum. Lög um veiðigjöld fela einmitt í sér slíkt tilkall.“

Eins og ég sagði áðan er eðlilegt að fólk berji í tunnur eða safnist saman, hvort sem það er á netinu í formi undirskrifta eða annars staðar, og láti í sér heyra þegar um svo mikilvægt mál eins og náttúruauðlindirnar okkar er að ræða.

Mig langar líka, með leyfi forseta, að lesa upp úr skýrslu sem auðlindastefnunefnd skilaði til forsætisráðherra um stefnumörkun í auðlindamálum í september 2012 þar sem þetta er kannski undirbyggt enn frekar og eru meginmarkmið auðlindastefnunnar:

„Varanlegur eignar- og yfirráðaréttur þjóðarinnar yfir sameiginlegum auðlindum sínum og arði af þeim verði tryggður“, í stjórnarskránni sem sagt.

„Auðlindaarður þjóðarinnar af nýtingu auðlinda sinna verði sýnilegur og honum ráðstafað með sýnilegum hætti.

Búa þarf svo um hnútana að hvort tveggja sé tryggt til frambúðar svo sem frekast er unnt með almennum lögum, óháð breytingum sem verða kunna á eignarhaldi nýtingarfyrirtækjanna eða pólitískum áherslum frá ári til árs. […]

Sýnileiki auðlindaarðsins er í sjálfu sér þýðingarmikill til að tryggja varanleg yfirráð þjóðarinnar yfir auðlindum sínum og að þjóðin njóti auðlindaarðsins til frambúðar. Almenn vitund um verðmæti auðlindanna og sýnilegt framlag þeirra til samfélagsins leiðir til þess að ákvarðanir um aðra ráðstöfun auðlindaarðsins þarf að rökstyðja vel og skýra fyrir þjóðinni.“

Það er kannski það sem við stöndum frammi fyrir í dag, þ.e. að skýra fyrir þjóðinni hvers vegna í ósköpunum ekki eigi að greiða sanngjarnan skatt eða öllu heldur auðlindagjald — það er eiginlega ekki hægt að tala um þetta sem skatt vegna þess að þetta er bara afnotagjald. Það er ekkert óeðlilegt við að við spyrjum okkur að því. Í rauninni á þetta á við um allar auðlindir, orkuna og hvað það nú er sem við eigum sameiginlega og þurfum að gæta þess að ganga ekki of mikið á. Þetta er til þess að viðhalda þeirri vinnu líka.

Virðulegi forseti. Ég held að í þessari umræðu eigum við að hafa það að leiðarljósi að lögin um veiðigjöld eru tilkall þjóðarinnar til arðs af fiskveiðiauðlindinni. Arðurinn er réttmæt eign þjóðarinnar og má aldrei verða einkaeign fárra. Eins og ég sagði áðan eru veiðigjöldin ekki skattheimta, þau eru afnotagjald af þessari sameiginlegu eign þjóðarinnar, fiskveiðiréttinum. Þau innheimtum við til að tryggja þjóðinni arð af eigin auðlind. Hér eigum við frekar að vera að ræða hvernig við ráðstöfum því fé sem innheimtist en ekki hvernig við lækkum það, búum til stærra gat í fjárlögin, skerum niður í velferðarkerfinu því að það er það sem er búið að boða. Ef gjöldin væru látin standa óbreytt og þá með þeim breytingum sem minni hlutinn leggur til held ég að við ættum frekar von á því að fjárlagafrumvarpið gæti komið fram á réttum tíma. Það hlýtur að vera erfitt að sitja uppi með það, eins og hæstv. ríkisstjórn gerir núna, að skerða tekjurnar eins og hún getur, að manni virðist, geyma almenninginn í landinu, hann bíður haustsins, en stórútgerðirnar og útgerðirnar yfirleitt.

Ferðaþjónustan er í blóma, sem betur fer, og sem betur fer gengur útgerðunum vel. Það er það sem við viljum og það er eiginlega svolítið sérstakt að í umræðunni sé því haldið fram að maður vilji sjávarútveginum eitthvað illt þannig að það sé af einhverri vonsku út í útgerðarmenn sem við ræðum áhyggjur okkar af þessari framkvæmd. Við höfum áhyggjur af þjóðarbúinu, við höfum áhyggjur af öllu því sem þjóðarbúið þarf að standa undir, af skólunum okkar sem eru komnir að þolmörkum vegna fyrri stefnu. Auðvitað hefur maður áhyggjur af því að við séum að fara þangað aftur, en ekki hvað, þegar byrjað er að gera það sama, þegar sama stefna er lögð fram aftur.

Þess vegna held ég að við, eins og ég sagði hér, ættum að ræða hvernig við nýtum þessa peninga, hverja við viljum láta hafa þá eða fá svör hjá ríkisstjórninni um það hvaða framkvæmdir hún ætli að slá af. Það hefur ekki komið fram. Það er margt undir þannig að ég held og vonast til þess að þegar þetta fer inn í nefndina aftur mætist menn og finni skynsamlega leið þar sem ríkissjóður verður ekki af öllum þessum tekjum og gjaldið verður áfram sanngjarnt.



[17:42]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir sköruglega ræðu. Á sínum tíma var ég sömu skoðunar og a.m.k. ýmsir hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að bylta ætti fiskveiðistjórnarkerfinu með nokkuð róttækum hætti. Ég, eins og margir, var þeirrar skoðunar að til þess að unnt væri að þjóðin nyti með réttum hætti afgjalds af eign sinni í hafinu en að sama skapi líka jafnræðis varðandi aðgang að miðunum þá ætti að fara fyrningarleið. Ég taldi það bestu leiðina.

Mér gekk hins vegar, eins og mörgum öðrum, erfiðlega að finna hina réttu leið til þess að fyrna aflaheimildir án þess að það slægi stoðir undan útgerðinni að mestum hluta hennar. Ég féllst hins vegar á það þegar menn voru hér á síðasta kjörtímabili að ræða þann möguleika að útgerðirnar fengju tiltölulega langa nýtingarsamninga, að sú leið yrði farin, en þá aðeins gegn því að veiðigjaldið yrði hækkað allríflega. Það var það gjald sem útgerðin á þeim tíma var reiðubúin til þess að láta af höndum, mjög nálægt því sem raunin varð síðan.

Nú blasir það við að þessi ríkisstjórn ætlar að taka þetta til baka. Þá er það mín skoðun að verið sé að slíta í sundur frið og það sé í reynd verið að hrinda mönnum eins og mér, sem vildu fara þessa samningaleið, aftur til baka. Ef við viljum ná fram réttlæti er engin leið nema taka aftur upp baráttu fyrir fyrningarleiðinni. Mig langar til þess að spyrja hv. þingmann hvort hún geti komist að sömu niðurstöðu og (Forseti hringir.) ég er að komast að undir þessari umræðu.



[17:44]
Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna.

Ég get alveg tekið undir með honum að við lögðum auðvitað heilmikla vinnu á síðasta kjörtímabili í ný fiskveiðistjórnarlög sem við vildum reyna að koma hér í gegn. Bylting á kerfum er alltaf erfið og þegar um slíkar fjárfestingar er að ræða eða veðsetningar eins og eru í þessu kerfi, er það vissulega rétt og ég tek undir það með þingmanninum að það hefði getað sett útgerðir á hliðina eins og upphaflega var áætlað að gera þetta. Langur tími í fyrningarleiðinni er möguleiki og það frumvarp sem fram kom á lokadögum þingsins var vissulega samkomulagsleið. Ekki er gengið eins langt og allir mundu vilja en það er nú einhvern veginn þannig að við þurfum að mætast á miðri leið.

Ég tek undir það að veiðigjaldið var hækkað m.a. til þess að mæta þessu sjónarmiði. Við töluðum um allt frá tíu árum og upp í — ég man ekki hvað það voru mörg ár, 50 eða 60 ár, þannig að það var langt á milli í fyrningarleiðinni hvað það varðaði, en niðurstaðan varð, minnir mig, að það voru 30 ár sem sett voru inn.

Það þarf að ríkja jafnræði í þessu kerfi, við viljum það öll. Það er enginn sem vill sjávarútveginum eitthvað illt. Við hljótum að vilja búa til kerfi sem gerir auðlindina nýtanlega en sjálfbæra, ég held að það sé niðurstaða málsins. Og auðvitað þarf það að vera þannig að fyrirtækin geti staðið undir þeim skuldbindingum sem þau hafa jú nú þegar komið sér í, en það verður líka að vera á (Forseti hringir.) þeirri forsendu að það sé eingöngu vegna sjávarútvegsmála.



[17:46]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér finnst ágætt að heyra það svar sem hv. þingmaður veitti við spurningu minni. Ég tel sem sagt að eins og í pottinn er búið komi það vel til greina að flokkar eins og Vinstri hreyfingin – grænt framboð og Samfylkingin og hugsanlega fleiri í stjórnarandstöðu noti það tilefni sem gefið er af hálfu ríkisstjórnarinnar sem slítur sundur frið og sáttaviðleitni í þessu máli með því að gjörbylta því veiðigjaldsfyrirkomulagi sem búið var að koma á, til þess að taka bara upp gömlu fyrningarleiðina. Menn skoði hana rækilega og kanni hvort ekki sé hægt að setja fram dálítið kerfi um það hvernig veiðiheimildirnar eru einfaldlega innkallaðar allar eins og þær leggja sig.

Við, sem féllumst á að skoða rækilega samningaleiðina annars vegar gegn því að taka upp rösklegt veiðigjaldakerfi eins og gert var, höfum ærna ástæðu til þess að ætla að verið sé að slíta í sundur þennan frið. Hingað koma menn sem segja beinlínis úr þessum ræðustóli að þeir sitji hér inni sem fulltrúar útgerðarinnar og til þess að ná fram hagsmunum hennar. Það er ljóst að þau sjónarmið hafa orðið ofan á innan ríkisstjórnarinnar. Alltaf þarf að bregðast við þegar koma upp nýjar aðstæður.

Þetta eru nýjar aðstæður. Ef það er þannig að útgerðin vilji senda hingað sína boðbera til þess að slíta sundur friðinn með þessum hætti þarf að svara því. Ef menn vilja frekar ófrið en frið, ja, þá verð ég bara að segja að það er samkvæmt mínu vestfirska eðli að taka slíku boði.



[17:49]
Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé alveg ljóst að við getum alla vega talað saman um það hvernig við mundum vilja sjá framtíðarfyrirkomulag í sjávarútvegi. Ég ætla ekki að lofa því hér og nú að ég vilji fara nákvæmlega sömu leið og hv. þm. Össur Skarphéðinsson en ég er nokkuð sannfærð um að bæði Vinstri hreyfingin – grænt framboð og Samfylkingin sem og ýmsir aðrir hér á þingi gætu eflaust fundið einhvern flöt á því.

Ég tek undir það að með því frumvarpi sem hér er lagt fram eða með þeirri breytingu á lögum sem gerð er sé klárlega verið að slíta í sundur friðinn og þær sættir sem voru komnar á. Það er mjög dapurlegt til þess að vita. Það átti nú að ávíta þá sem hér stendur, það var beðið um það um daginn þar sem ég sagði eitthvað í þá veru að ég teldi að það yrði að vera ljóst hvort fólk gengi hér erinda einhverra tiltekinna aðila. Og það opinberaðist svo rækilega í gærkvöldi.

Ég tek undir það með hv. þingmanni að við eigum að setjast yfir það nú á nýju þingi og það þarf að breyta kerfinu, það hefur ekkert breyst frá því á síðasta kjörtímabili. Við unnum að því allan tímann en það náðist ekki fram. Ég held að sú skoðun okkar hafi ekkert breyst. Við viljum breyta í grunninn þessu kerfi og ég fagna því tilboði sem hv. þingmaður leggur hér fram fyrir okkur.



[17:50]
Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tek til máls í annað sinn enda hefur margt komið fram í þessari góðu umræðu í gær og í dag og ekki vanþörf á vegna þess að það eru margar hliðar á þessu máli, ekki bara fjárhagslegar fyrir ríkissjóð heldur snýst þetta líka um að auðlindarenta og sú hugmyndafræði verði almennilega innleidd hér á landi. Ég tel að sú leið sem fyrri ríkisstjórn fór, þ.e. að innleiða raunverulega auðlindarentu inn í okkar samfélag, ég hef alltaf talið að það væri líka leið til sátta um auðlindanýtingu okkar Íslendinga.

Við byggjum meira og minna allt okkar atvinnulíf á auðlindanýtingu, hvort sem litið er til orkugeirans eða ferðaþjónustunnar sem byggir starfsemi sína meira og minna á íslenskri náttúru þannig að líta má á íslensku náttúruna sem auðlind þeirrar atvinnugreinar. Svo erum við með sjávarútveginn sem hefur verið okkar, hvað skulum við segja, undirstöðuatvinnugrein um töluvert langan tíma, áratugi og aldir. Þess vegna skiptir verulega miklu máli að það sé svo að greinar sem nýta og byggja afkomu sína að svona miklu leyti til og öllu leyti til á auðlindum þjóðarinnar greiði auðlindarentu.

Fjórða atvinnugreinin sem er til í íslenskri löggjöf, þótt hún sé ekki endilega orðin að veruleika hér á landi, er síðan við leit, rannsóknir og vinnslu á olíu og gasi. Við áttum ekki í neinum vandræðum með það í þessum sal að ná saman um auðlindarentu inn í framtíðina á ófundna olíu. Hvers vegna var það? Hins vegar stöndum við hér og tökumst mjög hart á um auðlindarentu í sjávarútvegi, sem er atvinnugrein sem er stór hér á landi. Hvers vegna er það? Það er vegna þess að það eru engir hagsmunaaðilar komnir til að verja stöðu sína í olíu- og gasvinnslu. Menn náðu ágætisniðurstöðu í þeim málum, í löggjöfinni hér, og ágætissamstaða var um það í þinginu hvernig ætti að sækja auðlindarentuna út úr því, án þess þó að ég ætli að gefa mér það hér og nú að þarna muni finnast olía. Engu að síður erum við tilbúin ef svo verður til þess að sækja þangað myndarlega auðlindarentu og sanngjarna og hóflega.

Þessar deilur sem hafa staðið áratugum saman snúast ekki um, eins og hv. þingmaður sem talaði á undan mér sagði, neina vonsku í garð sjávarútvegsins. Þetta snýst ekkert um að menn vilji knésetja einhverja atvinnugrein eða orkugeirann ef því er að skipta, því að sambærileg umræða hefur farið fram gagnvart orkugeiranum. Þetta snýst ekki um það. Þetta snýst um að við sem byggjum landið finnum fyrir því að þau fyrirtæki sem nýta sameiginlegar auðlindir og eru með sérleyfi til að nýta sameiginlegar auðlindir, það er ekki eins og hver sem er komist í þetta til þess að afla sér viðurværis, greiði eðlilegt gjald fyrir afnot af þeim auðlindum. Við erum ekki að gera neinar stórkostlegar kröfur, við erum bara að óska eftir því að þessir aðilar greiði brot af umframarði sínum þegar búið er að draga frá allan rekstrarkostnað, fjármagn sem þarf til eðlilegra áframhaldandi fjárfestinga og eðlilegan arð. Við erum að tala um hluta, auðlindarentan er það sem eftir stendur þegar allt framangreint hefur verið dregið frá, sem hvert einasta fyrirtæki á Íslandi gerir í raun og veru.

Það sem eftir stendur er það sem er sannanlega til komið vegna sérleyfanna á nýtingu á auðlindum þjóðarinnar. Það er hlutdeild í því sem við erum að tala um þegar við tölum um auðlindarentu. Við erum ekki að tala um að fara og reyna að taka fé sem ella færi til þess að greiða laun sjómanna eða starfsmanna, við erum ekki að tala um það. Við erum að tala um umframarðinn.

Ég tel að ekki verði sátt um atvinnugreinina eða stöðugleiki í hennar umhverfi fyrr en menn hafa náð saman um þessi mál hér. Þess vegna er þetta mál sem ríkisstjórnin ákveður að leggja fram sem eitt af sínum allra fyrstu málum til þess að reka fleyg, enn og aftur, í málið þannig að deilurnar eiga eftir að harðna að nýju.

Það er vegna þess að hugmyndin um að auðlindarenta sé greidd af nytjastofnum sjávar er réttlætismál. Við finnum öll til þess að eðlilegt sé að menn geri það, greiði hluta af umframarði. Þetta snýst því ekkert um neina vonsku og það sem er í núgildandi lögum, ákvæðin þar um hversu hátt gjaldið á að vera verða að teljast vægast sagt mjög hófleg. Það hefur komið fram í fjölda umsagna þeirra sem hafa sent atvinnuveganefnd umsögn, m.a. frá einum helsta sérfræðingi okkar hér á landi í þeim málum, Stefáni B. Gunnlaugssyni, að sú upphæð sem menn ætla með þessu frumvarpi að setja á bolfiskinn þýði í raun og veru að menn muni ekki vera að greiða neitt gjald. Menn eru nánast að þurrka út veiðigjaldið á bolfisk. Teljum við það rétt? Er það sú leið sem við ætlum að fara?

Við segjum nei, allir stjórnarandstöðuflokkarnir á Alþingi eins og heyrst hefur í þessari umræðu. Nei segja líka 15% þeirra kosningarbæru manna sem hafa skrifað undir áskorun á Alþingi um að draga þetta frumvarp til baka, þ.e. þann hluta þess sem snýr að því að lækka veiðigjaldið. Þess vegna skil ég ekki hvers vegna menn keyra málið svona hart fram, það á að keyra það óbreytt í gegnum þingið hér og nú. Það kemur út úr nefnd algjörlega óbreytt þrátt fyrir að þeir sem eiga að framkvæma það hafi sagt að þeir þurfi enn breytingar á lögunum eins og þau eru núna til þess að geta gert þetta. Engu má breyta, það var ekki hlustað á neinn umsagnaraðila, það á bara að keyra lækkunina áfram undir því yfirskini að menn séu að gera einhverja formbreytingu sem er bara alls ekki rétt, enda kemur það fram í umsögn fjárlagaskrifstofu að um er að ræða hvorki meira né minna en lækkun á gjaldinu upp á 6,5 milljarða á ársgrundvelli. Þetta er forgangsröðun ríkisstjórnarinnar sem nú hefur tekið við.

Þegar við vorum í kosningabaráttunni gekk helst upp úr þessum flokkum að nú þyrfti engar nefndir, bara efndir og vaða átti beint í að koma til móts við skuldug heimili á Íslandi, það átti að vera fyrsta verkefnið, forgangsverkefni, eldri borgarar, öryrkjar, að mæta þeim.

Virðulegi forseti. Hvað gerist í raun og veru eftir kosningar? Þá er það orðið svo tæknilega flókið að það þarf fjöldann allan af nefndum og menn þurfa excel-skjölin sem talað hefur verið um og voru tilbúin fyrir kosningar en þau er hvergi að sjá. Nú eru nefndir úti um allt sem eiga að taka málefni fjölskyldnanna og heimilanna og skuldugra heimila í sínar hendur. En menn geta trukkað í gegn hér á mettíma lækkun á veiðigjaldi þar sem menn eru að afsala sér, afsala þjóðinni tekjum upp á 6,5 milljarða á ársgrundvelli. Þá er ekki spurt hvort það sé lagatæknilega flókið eða hvort rétt og vel sé staðið að málum. Það þarf engar nefndir í það, nei. Þetta er aðalatriði. Hér koma efndirnar, lækkun á veiðigjaldinu. Það er þar sem við sjáum forgangsröðina hjá þessari ríkisstjórn.

Ég er mjög ósátt við það vegna þess að ég taldi og hef talið að veiðigjaldaleiðin sé sú braut sem við eigum að fara inn á til þess að tryggja réttláta skiptingu auðlindarentunnar, vegna þess að fram að þessu hefur öll auðlindarentan farið til fyrirtækjanna sjálfra. Það er eðlilegt og það er eðlilegt meira og minna úti um allan heim og sýnt hefur verið fram á það í þeim umsögnum sem liggja fyrir í málinu að hlutur ríkisins, þ.e. sameiginlegra sjóða, sé stærri en hlutur fyrirtækjanna í auðlindarentunni.

Við erum ekki einu sinni að tala um það hér, við erum ekki einu sinni að biðja um það, stjórnarandstaðan, við erum einungis að tala um hóflegan hluta af auðlindarentunni, en samt á að lækka það, sem þýðir að við erum að fara aftur inn í sýndarmennsku þegar kemur að veiðigjöldum. Menn segja glaðbeittir: Jú, jú, hér eru veiðigjöld og við innleiddum þau, eins og ég hef heyrt þingmenn Sjálfstæðisflokksins segja. En í raun og sann eru þau til á pappír en tölurnar sýna okkur ekkert, þ.e. sýna okkur að þetta er eingöngu sýndarmennska.

Virðulegi forseti. Ég kom inn á það áðan að mér finnst undarlegt hver forgangsröðun ríkisstjórnarinnar er sem birtist í þessu máli þegar kemur til dæmis að umfjöllun um ríkisfjármálin. Nýlega kemur hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra fram og segir að ekki sé hægt að koma til móts við skuldug heimili með lánsveð út frá samkomulagi sem fráfarandi ríkisstjórn gerði við skuldug heimili vegna þess að ekki sé búið að fjármagna það samkomulag. Heyr á endemi. Það var einfaldlega þannig að samkomulagið gæti verið upp á 2–3 milljarða sem ríkið fengi að láni til þriggja ára frá lífeyrissjóðunum á hagstæðum kjörum og gæti þannig greitt til baka.

Virðulegi forseti. Það mál er pínulítil hneta í stórri skál miðað við upphæðirnar hérna. En það er ekki hægt, það er ófjármagnað. Hvað er þetta? Eru 3,5 milljarðarnir hér fjármagnaðir sem menn ætla að afsala sér bara svona, [Þingmaður smellir fingrum.] keyra og trukka í gegnum þingið? Nei, þeir eru það ekki. Það getur því ekki annað verið, og það er ekkert skrýtið þó að við drögum það fram, að ríkisstjórnin sé hér að sýna sitt rétta andlit. Það skiptir engu máli hvað þetta kostar, en það skiptir öllu máli hvað sá hópur, hver kostnaðurinn er við að koma til móts við þau skuldugu heimili sem hafa hingað til setið eftir og ekki fengið eina einustu krónu í niðurfærslu, þá spyrja menn um verðmiðann. En þetta skiptir engu máli, við ætlum bara að gera það, af því að í þeirra huga er réttlæti að lækka veiðigjaldið. Það er þar sem skilur á milli okkar í Samfylkingunni og þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr.

Virðulegi forseti. Við höfum rætt þessi mál, auðlindarentumálin hafa verið til umfjöllunar aftur og aftur. Það hafa verið skipaðar þó nokkuð oft — og það er eðlilegt að þjóð eins og við Íslendingar séum með alvörustefnumörkun og okkar heildstæðu sýn á nýtingu auðlinda okkar. Það er eðlilegt og við eigum að gera það en við höfum ekki náð því hingað til. Á síðasta kjörtímabili settum við því mikla vinnu í að marka stefnu, heildstæða stefnu í auðlindamálum, lögðum af stað í þann leiðangur og ég vona að ný ríkisstjórn beri gæfu til að halda þeirri vinnu áfram af því að það er ekki áhlaupsverk, það er langtímaverkefni.

Ég vil nefna skýrslu sem var skilað til forsætisráðherra af auðlindastefnunefnd í september 2012 og hvet þingmenn og aðra áhugasama til að kynna sér skýrsluna, hún er á vef forsætisráðuneytisins. Þar er meðal annars fjallað um nytjastofna sjávar og mig langar að fara aðeins yfir það sem er sagt þar vegna þess að þar er komið inn á þær deilur sem hafa verið lengi um nýtingu sjávarstofnanna.

Þar segir, með leyfi forseta:

„Allt frá því ríkið takmarkaði nýtingu þessarar auðlindar við handhafa sérleyfa til að nýta tiltekið hlutfall leyfilegs hámarksafla úr hverri tegund, hefur fyrirkomulagið verið afar umdeilt […] Deilurnar hafa ekki snúist mikið um aðgangstakmarkanirnar sem slíkar (kvótann), enda nokkuð almenn sátt um að tryggja verði að sjávarútvegurinn sé sjálfbær með tilliti til umgengni um nytjastofna. Fyrirkomulagið hefur einnig tryggt nokkuð vel tækifæri greinarinnar til hagræðingar og ásættanlegrar arðsemi, enda þarf sjávarútvegur að vera sjálfbær með tilliti til efnahagslegra forsendna. En þegar kemur að hinni samfélagslegu vídd sjálfbærrar þróunar hafa frá upphafi staðið deilur sem einkum snúast um tvennt:

Í fyrsta lagi hefur því verið haldið fram að handhafar upphaflegra sérleyfa séu í allt annarri og betri stöðu en þeir sem á eftir koma.

Í öðru lagi og tengt fyrra atriðinu er sú staða að ekki hefur með virkum hætti verið reynt að meta eða finna skilaleið fyrir þá auðlindarentu eða umframarð sem sérleyfi til nýtingar skapa handhöfum. Virkur eftirmarkaður hefur verið með sérleyfi til nýtingar sjávarútvegsauðlindarinnar og verð þeirra verið langt umfram það veiðigjald sem innheimt hefur verið af hálfu ríkisins við úthlutun. Slíkt skapar aðstæður þar sem handhafar sérleyfanna, en ekki eigandi auðlindarinnar, geta ráðstafað auðlindaarðinum eða innheimt hann með framsali sérleyfa á eftirmarkaði. Slík fénýting eða dæmi um innheimtu einkaaðila á auðlindarentu vegna sérleyfa til nýtingar hefur verið mörgum þyrnir í augum.“

Þarna er rammað mjög vel inn það sem um er að ræða og í kjarnann um hvað deilurnar snúast. Það er nefnilega þannig að við hér á hinu háa Alþingi eigum líka að horfa til hinnar samfélagslegu víddar. Það er skylda okkar og það er þarna sem fólki svíður, það er undan því. Til að koma til móts við þau sjónarmið setja menn veiðigjald á umframarðinn, ekkert annað, ekki reksturinn, enginn aukaskattur, það er ekkert um það að ræða hér, og þó að andstæðingar veiðigjaldsins tali þannig er það beinlínis rangt hjá þeim. Þetta snýst ekki um það og er ekki það sem vakir fyrir þeirri sem hér stendur eða öðrum þeim sem hafa stutt veiðigjald, alls ekki, vegna þess að við viljum sterkan sjávarútveg. Við viljum hafa áfram öflugan atvinnuveg eins og sjávarútveginn, en sjávarútvegurinn, eins og orkugeirinn og hugsanlega einhvern tíma olíu- og gasgeirinn, á að greiða eðlilega auðlindarentu, það er krafan. Hún er ekkert flókin, mér finnst hún heldur ekkert frekjuleg, bara eðlileg.

Virðulegi forseti. Í ágætri grein sem Gauti B. Eggertsson skrifaði og er að finna á Eyjunni fjallar hann einmitt um þetta og segir að honum sýnist að oft sé miðað við í svokölluðu, eins og hann kallar það, „production sharing agreements“ að 80% þeirrar rentu sem ég hef verið að tala um, og þá er hann að tala um annars staðar en hér á landi, þ.e. erlendis, þar sem um þetta er að ræða, gangi til ríkisins og 20% til fyrirtækisins sem fær réttinn. Hann segir að oftast sé um olíu að ræða. Í íslensku löggjöfinni virðist þetta heldur hóflegra, „því að mér sýnist að þar sé gert ráð fyrir að útgerðin fái í kringum 40 prósent í sinn hlut“.

Annar fræðimaður sem skilaði okkur umsögn, Jón Steinsson, fer ágætlega yfir það í umsögn sinni að verði þetta frumvarp að lögum, þ.e. miðað við hans mat, geri frumvarpið ráð fyrir að útgerðin greiði einungis tæplega 18% af auðlindaarðinum í sjávarútvegi í veiðigjald en haldi sjálf eftir ríflega 82% arðsins. Þarna erum við ekki að tala um eðlilegan arð eins og hjá öllum öðrum fyrirtækjum, við erum að tala um arðinn sem eftir stendur þegar búið er að taka annan arð, almennan arð frá og allan rekstrarkostnað, alla eðlilega fjárfestingarfjármuni o.s.frv.

Virðulegi forseti. Ég er ósátt við það hvernig menn eru núna og þessi ríkisstjórn ákveður — ég held að þetta hljóti að vera einhvers konar fljótfærni, að hugurinn og sigurvíman eftir kosningaúrslitin hafi kannski borið þá fullgeyst inn í þetta mál. Það var ákveðið að fara helst í þau mál sem voru hvað stærstu breytingarmálin sem fráfarandi ríkisstjórn skildi eftir sig og menn ætla að fara í að þurrka þau sem mest út til þess að núlla stöðuna, koma gamla jafnvæginu á, jafnvæginu þar sem helmingaskiptaflokkarnir, Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur, höfðu þetta allt í hendi sér, skiptu milli sín samfélaginu. Menn eru að flýta sér svo mikið þangað aftur að þeir gleyma að samfélagið sjálft hér á Íslandi kallar eftir þessari auðlindarentu algjörlega óháð pólitík. Það sést á því hversu margir styðja að veiðileyfagjaldið standi óhaggað.



[18:11]
Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur fyrir ræðu hennar og vil sérstaklega gera hér að umtalsefni þann hluta í andsvari þar sem hún var að fjalla um áhrifin á tekjur ríkissjóðs og útgjöld, hvernig þetta kæmi niður á útgjöldum til ýmissa annarra málaflokka, af því að hv. þingmaður er fyrrverandi fjármálaráðherra. Það liggur ljóst fyrir í þeim gögnum sem fylgja þessu máli að tekjuáhrifin á ríkissjóð eru metin upp á 3,2 milljarða á þessu ári, 6,4 milljarða á næsta ári, þ.e. um 10 milljarða á þessu ári og því næsta, án þess að sérstaklega sé gerð grein fyrir því í gögnum málsins hvernig mæta á þessu tekjutapi ríkissjóðs með öðrum aðgerðum.

Mig langar að inna hv. þingmann eftir því hvernig hún telur að ríkisstjórnin muni þurfa og muni mæta þessu tekjutapi ríkissjóðs upp á um 10 milljarða kr. á þessu ári og næsta. Er ekki alveg ljóst að það mun hafa veruleg áhrif á útgjöld til málaflokka eins og mennta- og skólamála, til heilbrigðismála, velferðarmála, löggæslunnar og ýmissa innviða í samfélaginu eins og samgöngumála? Er ekki alveg ljóst að ef þetta frumvarp verður að lögum verði áhrifin umtalsverð á þessa málaflokka? Eða sér þingmaðurinn sem fyrrverandi fjármálaráðherra einhverjar aðrar leiðir til þess að mæta þessu tekjutapi? Er líklegt að menn fari þá í nýja tekjuöflun? Hvar mundi hún þá bera niður? Mér þætti fróðlegt að heyra frá hv. þingmanni hvernig hún metur þessa þætti málsins.



[18:13]
Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Staðan er einfaldlega þessi: Ríkissjóður og ríkisfjármálin eru í járnum. Það gekk gríðarlega vel á síðasta kjörtímabili að minnka gatið, rétta hallann, en því verki er ekki lokið og má segja, miðað við það sem við stóðum frammi fyrir fyrir fjórum árum, að nú vanti herslumuninn upp á. Það þýðir að menn þurfa að fara mjög varlega og það má ekki „gambla“ með nokkurn einasta hlut. Það er það sem menn eru að gera hér, menn taka ofboðslega áhættu hvað varðar ríkissjóð og ekki bara í þessu máli. Hér erum við með 3,5 milljarða á þessu ári. Síðan erum við með hálfan milljarð í virðisaukaskatti á ferðaþjónustu sem hefur verið lækkaður. Svo erum við líka með útgjaldafrumvörp af hálfu ríkisstjórnarinnar sem hafa verið að koma inn. Mér telst því til að við séum komin upp í 6–7 milljarða að minnsta kosti sem taka á út, bara á þessu þingi, í beinhörðum peningum á þessu ári, þar sem ekki koma tekjur á móti.

Það eru töluverðir peningar. Það hefur náttúrlega áhrif síðan inn á næsta ár vegna þess að menn afsala sér þarna tekjum fram í tímann. Hvaða leiðir fara menn þá? Þeir ætla að fara greinilega þá leið sem boðuð hefur verið hér og eins og boðuð hefur verið, að fara í 1,5% flatan niðurskurð. Það er það sem mér heyrist menn ætla að gera.

En hvað þýðir 1,5% flatur niðurskurður? Það þýðir að farið verður í stofnanir, í velferðarþjónustu, í heilbrigðiskerfi, í menntakerfi, sem nú þegar eru skornar algerlega inn að beini og þola ekki meir. Það getur því skilið eftir sig skaða hjá þessum stofnunum, í velferðarkerfinu og menntakerfinu, sem verður erfitt að laga. Ég hef áhyggjur af því vegna þess að þeir hafa ekki sýnt vilja til þess að hafa „kalt höfuð“ til að forgangsraða innan samfélags okkar.



[18:15]
Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að hv. þm. Katrín Júlíusdóttir hafi rétt fyrir sér hvað þetta snertir. Það er alla vega alveg ljóst, eins og hún rakti í svari sínu, að bara með ráðstöfun á þessu sumarþingi er verið að búa til viðbótargat í rekstri ríkissjóðs upp á 6–7 milljarða og þá væntanlega enn þá meira á næsta ári. Er ekki alveg ljóst þó að við séum einungis að tala um þetta ár og næsta að ef þetta stendur, þær ráðstafanir sem er verið að grípa til hafa þær auðvitað áframhaldandi áhrif inn í framtíðina þannig að uppreiknað yfir einhvern tíma, t.d. eitt kjörtímabil eða lengri tíma, er um umtalsverðar fjárhæðir að tefla? Mér finnst að ríkisstjórnin hafi alls ekki svarað því í gögnum málsins, ekki kostnaðarmatinu, hvernig á að mæta áhrifunum af þessu frumvarpi alveg sérstaklega.

Ég mundi líka vilja spyrja þingmanninn hvernig hún lítur á þá forgangsröðun sem birtist hér, að koma inn með mál eins og þetta sem við erum með til umfjöllunar og fleiri þar sem verið er að létta byrðum af tilteknum hópum samfélagsins. Deilir hún þeirri sýn að það sé dæmigerð hægristjórnarpólitík að færa til fjármuni í samfélaginu til þeirra sem eru þrátt fyrir allt aflögufærir og geta lagt inn í samneysluna og frá hinum sem eru lakar settir? Þetta birtist mér þannig í hverju málinu á fætur öðru, að það sé nákvæmlega það sem er verið að gera og sé (Forseti hringir.) þess vegna mjög skýr og dæmigerð hægristjórnarpólitík.



[18:17]
Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svar mitt er já. Þessi ríkisstjórn, ég kom aðeins inn á það í ræðu minni, er að opinbera sig sem mjög hrein hægri stjórn. Það er allt í lagi, svona er lýðræðið og 51% þjóðarinnar kaus þessa flokka. Þeir hafa svo sem aldrei sýnt okkur neitt annað þegar þeir hafa starfað saman en að þeir séu hægri flokkar í samstarfi.

Það sést mjög vel á þeim málum sem hafa komið hingað inn. Tökum sem dæmi málið um almannatryggingar, þar er þetta algjörlega skýrt. Ég óskaði eftir því í nefndinni að fá að sjá nákvæmlega í töflu hver áhrifin yrðu á ólíka tekjuhópa og þar er þetta algjörlega skýrt, það eru bara þeir allra hæstu sem fá eitthvað og jafnvel eru nýir hópar sem hafa áður haft of háar tekjur til að vera inni í almannatryggingakerfinu að koma inn í það. Þetta sýnir það algjörlega skýrt. Ég er ekkert að segja að það fólk sé endilega ofsælt af tekjum sínum, en það er engu að síður þannig að það eru stórir hópar þarna úti, og miklu stærri hópar, sem hafa miklu, miklu minna.

Rökin fyrir því af hálfu hægri stjórnarinnar eru þau að horfa þurfi til þeirra hópa fyrst sem hæstar hafa tekjurnar vegna þess að vinstri stjórnin varði lægstu tekjurnar og þá sem eru með örorku. Gott og vel, en þetta er forgangsröðin og hún er alveg grímulaus. Það sjáum við líka í þessu máli. Þeim finnst sjálfsagt að segja við þá hópa sem eru með lánsveð: Nei, af því að fyrri ríkisstjórn var ekki búin að fjármagna hvernig ætti að koma til móts við ykkur þá getur þetta ekki orðið. En svo koma veiðigjöldin hins vegar og þá er ekkert spurt um neinn verðmiða.

Virðulegi forseti. Ég ætla líka að nefna eitt hér sem ég hef pínulitlar áhyggjur af og það er, út af fyrra andsvari mínu: Ég hef áhyggjur af því að þessi ríkisstjórn ætli að grípa til þess í nafni einföldunar á skattkerfinu að fara að hækka 7% þrepið sem þýðir hækkun á matarskattinum svokallaða. Ég hef áhyggjur af því að menn ætli að fara þá leið þegar kemur að (Forseti hringir.) skattinum þannig að vaskurinn verði hækkaður á matvæli hér á landi. Ég vona þó að svo verði ekki.



[18:19]Útbýting: