143. löggjafarþing — 115. fundur
 15. maí 2014.
frestun verkfallsaðgerða Félags íslenskra atvinnuflugmanna gegn Icelandair, 2. umræða.
stjfrv., 600. mál. — Þskj. 1149, nál. m. brtt. 1150, nál. 1151.

[12:24]
Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Áður en ég geri grein fyrir nefndarálitinu vil ég þakka umhverfis- og samgöngunefnd fyrir ágæta samvinnu um meðferð málsins í nefndinni. Við náðum samkomulagi um hvenær yrði fundað og hverjir mundu mæta fyrir nefndina og það er vel.

Ég geri hér grein fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um frestun verkfallsaðgerða Félags íslenskra atvinnuflugmanna gegn Icelandair ehf.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Björn Frey Björnsson og Sigurberg Björnsson frá innanríkisráðuneyti, Hafstein Pálsson, Jón Þór Þorvaldsson, Örnólf Jónsson og Sindra Sveinsson frá Félagi íslenskra atvinnuflugmanna, Svala Björgvinsson, Guðmund Pálsson, Björgólf Jóhannsson og Guðjón Arngrímsson frá Icelandair, Magnús Pétursson ríkissáttasemjara, Ástráð Haraldsson, Hrafnhildi Stefánsdóttur og Þorstein Víglundsson frá Samtökum atvinnulífsins og Magnús Norðdahl frá Alþýðusambandi Íslands.

Með frumvarpinu er lagt til að verkfallsaðgerðum Félags íslenskra atvinnuflugmanna gegn Icelandair verði frestað. Í frumvarpinu er lagt til að aðilum verði gefið tækifæri til að semja sín á milli fyrir 15. júlí nk. en hafi aðilar á þeim tíma ekki komist að samkomulagi skuli gerðardómur ákveða kaup og kjör fyrir 15. september nk. Það eru þessi ákvæði sem gerð er breytingartillaga um.

Skal ákvörðun gerðardóms gilda frá gildistöku laganna og eins lengi og gerðardómur ákveður. Meiri hlutinn bendir á að við ákvörðun um gildistíma ákvörðunar gerðardóms beri dóminum að horfa til lengdar þeirra kjarasamninga sem samið hefur verið um á síðustu mánuðum. Á meðan gerðardómur er að störfum geta aðilar komist að samkomulagi um einstök ákvæði eða heildarsamning sín á milli og tekur þá gerðardómur ekki ákvörðun um þau atriði en dómurinn skal annars taka mið af því takist aðilum að koma sér saman um einhver atriði á starfstíma dómsins. Að öðru leyti skal gerðardómur við ákvörðun um laun aðila og önnur starfskjör hafa til hliðsjónar kjör annarra sem sambærilegir geta talist að menntun, störfum, vinnutíma og ábyrgð sem og kjarasamninga sem gerðir hafa verið nýlega og almenna þróun kjaramála.

Meiri hlutinn tekur fram að það er grundvallarregla að aðilar kjarasamninga ljúki samningum sín í milli, en þegar brýna nauðsyn ber til getur komið til þess að íhlutun löggjafans sé réttlætanleg. Hafa verður þó í huga að löggjafanum eru ákveðin takmörk sett með 74. gr. stjórnarskrárinnar og 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem tryggja rétt launþega til aðildar að stéttarfélögum og hefur verkfallsrétturinn verið talinn falla þar undir. Íhlutun löggjafans er því aðeins réttlætanleg ef ríkir almannahagsmunir eru í húfi en þá þarf að gæta þess að ekki sé um of víðtæka eða langvarandi skerðingu á samningsrétti aðila að ræða.

Líkt og fram kemur í athugasemdum við frumvarpið er um að ræða mikla efnahagslega hagsmuni fyrir þjóðarbúið. Ljóst er að verkfallsaðgerðir flugmanna munu hafa í för með sér víðtæka röskun á flugi til og frá landinu og geta valdið íslensku efnahagslífi verulegu tjóni á mikilvægum tíma fyrir störf fjölda einstaklinga og fyrirtækja í landinu. Greiðar flugsamgöngur til og frá landinu eru mikilvægar fjöldamörgum fyrirtækjum og atvinnugreinum í landinu sem munu verða fyrir áhrifum af verkfallsaðgerðum flugmanna. Ekki á það eingöngu við um ferðaþjónustuna og sjávarútveginn, heldur er um að ræða mun víðtækari áhrif á atvinnulífið. Efnahagslegt tjón af verkfallsaðgerðunum getur því orðið verulegt.

Það er mat meiri hlutans að þeir heildarhagsmunir sem í húfi eru séu það miklir að um ríka almannahagsmuni sé að ræða sem réttlæti inngrip löggjafans í þetta sinn á þann hátt sem lagt er til í frumvarpinu.

Ekki virðist sem lausn finnist á kjaradeilu aðila í bráð. Kjaradeilu Félags íslenskra atvinnuflugmanna og Samtaka atvinnulífsins, sem fara með samningsumboð fyrir hönd Icelandair, var vísað til ríkissáttasemjara 25. febrúar sl. en lítið hefur miðað í samningsátt og sáttatillögu ríkissáttasemjara var hafnað.

Á fundi nefndarinnar kom fram að deilan er í hnút og samningar ekki líklegir í fyrirsjáanlegri framtíð. Þá kom fram að um mjög rúman tíma sé að ræða í 1. mgr. 2. gr. frumvarpsins sem muni líklega ekki koma að notum. Þá verður að horfa til þess að óvissa um launakjör í langan tíma er ekki góð fyrir flugmenn og rétt að fá niðurstöðu í málið. Meiri hlutinn leggur því til að aðilar hafi svigrúm til 1. júní nk. til að komast að samkomulagi en gerðardómur taki til starfa eftir þann tíma og skili niðurstöðu sinni fyrir 1. júlí 2014.

Fyrir nefndinni kom fram að tilgreining aðila í 1. gr. frumvarpsins væri ekki nægilega nákvæm. Samningsaðilar eru annars vegar Félag íslenskra atvinnuflugmanna og Icelandair ehf. Leggur meiri hlutinn til breytingu vegna þessa.

Í ljósi framangreindra sjónarmiða leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

„1. Í stað orðsins „Icelandair“ í 1. mgr. 1. gr. komi: Icelandair ehf.

2. Í stað „15. júlí 2014“ og „15. september“ í 1. mgr. 2. gr. komi: 1. júní 2014; og: 1. júlí.

3. Fyrirsögn frumvarpsins verði: Frumvarp til laga um frestun verkfallsaðgerða Félags íslenskra atvinnuflugmanna gegn Icelandair ehf. “

Undir þetta álit skrifa sá sem hér stendur, Höskuldur Þórhallsson, formaður og framsögumaður nefndarálitsins, Páll Jóhann Pálsson, Birgir Ármannsson, Guðlaugur Þór Þórðarson og Vilhjálmur Árnason.

Eitt álitaefni var rætt lauslega á fundinum, vangaveltur um hvort gerðardómi ættu að vera sett einhver hámarkstakmörk um lengd kjarasamninganna. Niðurstaða nefndarinnar varð að ekki væri rétt að setja slíkt hámarksákvæði í lögin, en ég vil af því tilefni vísa í hæstaréttardóm frá árinu 2002 sem er mjög skýrt fordæmi um kjaradeilur og hefur verið vitnað ítrekað til í umræðum á Alþingi.

Þar segir, með leyfi forseta:

„Um gildistíma ákvarðana gerðardómsins segir í 2. mgr. 3. gr. laganna að gerðardómurinn skyldi ákveða gildistíma ákvarðana sinna. Í lögunum voru því ekki skýr fyrirmæli um gildistíma ákvarðana gerðardómsins. Í meðförum þingsins gerði meiri hluti sjávarútvegsnefndar tillögu um að setja skýrari ákvæði um gildistímann en frá þeim var horfið að því er segir í lögskýringargögnum vegna mótmæla. Gildistíma kjaraákvarðana gerðardómsins voru því aðeins settar skorður af því almenna ákvæði 3. gr. laganna að gerðardómurinn skyldi við ákvörðun sína hafa til hliðsjónar kjarasamninga sem gerðir höfðu verið á undanförnum mánuðum að því leyti sem við á og almenna þróun kjaramála, auk þess að taka mið af sérstöðu þeirra aðila sem nefndir eru í 1. gr. laganna. Í reynd þýddi þetta að gerðardómurinn skyldi ákveða gildistíma ákvarðana sinna með hliðsjón af gildistíma kjarasamninga sem gerðir höfðu verið mánuðina áður en hann starfaði. Það svigrúm sem gerðardóminum var gefið til að ákveða gildistíma ákvarðana sinna var óheppilega mikið en fól þó ekki í sér óhæfilega skerðingu á réttindum stefnanda. Þykir gerðardómurinn hafa farið hóflega með þetta vald sitt.“

Við verðum að vona að ef ekki næst samkomulag milli aðila á næstu tveim vikum muni gerðardómurinn hafa þessi tilmæli til hliðsjónar og fara mjög hóflega með það vald sem við sköpum honum í þessum umræðum.

Að lokum ítreka ég þakkir mínar til nefndarinnar og vona að þetta frumvarp verði að lögum seinna í dag.



[12:34]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fljótfærni, reynsluleysi og stefnuleysi ríkisstjórnarinnar í kjaramálum hefur gert að verkum að með lagasetningunni hér í apríl á Herjólf er hún komin í skelfileg vandræði og kröfur eru uppi um að hún setji lög á alla þá sem leyfa sér að leggja niður vinnu, svipti fólk hvað eftir annað frelsi sínu.

Hér er verið að grípa inn í kjaradeilu í einkafyrirtæki og liðsinna með lögum framkvæmdastjórn þess fyrirtækis við að framfylgja kjarastefnu sinni. Ég hlýt þess vegna að spyrja formann umhverfis- og samgöngunefndar hvort hann hafi kannað það hjá framkvæmdastjórn þessa fyrirtækis hvort hún hafi fylgt þeirri kjarastefnu gagnvart sjálfri sér, hvort yfirstjórn fyrirtækisins, forstjóri, fjármálastjóri og stjórnendur, hafi haldið sínum kjörum innan þeirra marka sem þeir telja nauðsynlegt að halda flugmönnum innan og svo nauðsynlegt að setja þurfi lög á það.

Hefur formaður nefndarinnar gengið úr skugga um það að framkvæmdastjórn þess einkafyrirtækis sem í hlut á hafi gert sömu aðhaldskröfur til sín og hún gerir nú til flugmanna og formaðurinn leggur til að Alþingi styðji með sérstakri lagasetningu sem sviptir fólk samningsfrelsi sínu á vinnumarkaði?



[12:35]
Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi lít ég svo á að ríkisstjórnin og meiri hluti Alþingis skapi ekki fordæmi fyrir þær kjaradeilur sem því miður eru í gangi og fyrirsjáanlegar eru. Það kom mjög skýrt fram á fundi nefndarinnar að það yrði að vega og meta hvert mál fyrir sig og mjög mikilvægt væri að löggjafinn mundi í hvert einasta skipti meta algjörlega sjálfstætt hvort þeir hagsmunir sem væru í húfi fyrir samfélagið væru það miklir að grípa þyrfti til þeirra aðgerða sem lagt er til að fara út í hér.

Bæði meiri og minni hluti nefndarinnar einskorðuðu málflutning sinn á mjög málefnalegan hátt við þessa kjaradeilu og voru ekki, ætla ég að leyfa mér að fullyrða, að blanda öðrum málum inn í þetta mál. Svar mitt við seinni hluta spurningarinnar er því: Nei.



[12:37]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Sá sem heldur að lagasetning á kjaradeilu feli ekki í sér fordæmi hefur ekki komið mikið að gerð kjarasamninga. Það var sagt hér í apríl að Herjólfur væri ekki fordæmi. Hver er afleiðingin? Menn eru rétt einum mánuði síðar komnir með aðra neyðaraðgerð og kannski enn eina í næstu viku.

En einmitt vegna næstu viku þá er þess getið í áliti minni hlutans að mikilvægt sé að forsætisráðherra gefi um það yfirlýsingu í tengslum við þetta að eftir að þingið er farið heim verði ekki sett bráðabirgðalög á aðrar kjaradeilur. Deilir formaður nefndarinnar því ekki að nauðsynlegt sé, ef setja eigi lög á enn fleiri verkföll, meira að segja áður en þau hefjast, að þingið verði kvatt saman til að grípa til þeirra ráðstafana, ef svo óhönduglega tekst til við stjórn landsins?



[12:38]
Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ítreka það sem ég sagði hér áðan að við verðum að meta hvert tilvik fyrir sig. Það er staðreynd, eins og kom mjög skýrt fram á fundi nefndarinnar, að dæmin eru ólík. Samningaviðræður, forsendur þeirra og rök eru mismunandi og þess vegna er mjög mikilvægt fyrir löggjafann að meta hvert mál sjálfstætt.

Þess vegna segi ég og ítreka að það að við séum að setja lög hér í dag á þetta verkfall þýðir ekki að fordæmi sé fyrir því að gengið verði inn í aðrar kjaraviðræður. Við skulum bara vona, við sem sitjum á Alþingi, að (Forseti hringir.) aðilar nái að leysa öll þau deilumál sem eru í farvatninu.



[12:39]
Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Það sem veldur mér mestum áhyggjum er að það er ekki alveg skýrt hverjir mega og hverjir mega ekki fara í verkfall eða vera í verkfalli. Mig langaði að spyrja hv. þm. Höskuld Þórhallsson hvort honum finnist við ekki þurfa að hafa línurnar skýrari.

Nú er næsta víst að það stefnir í verkfall hjá flugfreyjum og flugvirkjum með svona lagasetningu yfir höfði sér. Finnst hv. þingmanni eðlilegt að starfsstéttir séu í raun strax komnar í þessa þumalskrúfu? Þarf ekki að gera eitthvað til þess að línurnar séu skýrari?

Ég átti orðastað við hæstv. innanríkisráðherra í gærkvöldi um þetta mál og mér fannst ráðherrann vera sama sinnis og ég, að það þyrfti að skýra línurnar betur. Ef maður má ekki fara í verkfall verður hann að hafa önnur réttindi, það hlýtur að vera þannig.

Mér finnst við vera í limbói með ákveðnar starfsstéttir og þær verða að fá að vita hvort þær mega eða mega ekki hafa þessi sjálfsögðu mannréttindi. Við verðum að einhenda okkur í það, núna er ófriður á vinnumarkaði nánast hvar sem mann ber niður. Það verður að skýra þetta. Þetta hlýtur að forgangsmál hjá þinginu í sumar.



[12:41]
Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Launþegar hafa rétt til aðildar að stéttarfélögum og verkfallsrétturinn er varinn annars vegar í 74. gr. stjórnarskrárinnar og hins vegar 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Við virðum þennan rétt en eins og með öll mannréttindi sæta þau einhverjum takmörkunum. Á það hefur verið fallist, og er lögfest í stjórnarskránni og í mannréttindasáttmála Evrópu, að mannréttindi eins geta stangast á við mannréttindi annars.

Því miður geta verkfallsaðgerðir tiltekinna hópa í samfélaginu beinst svo mjög að þriðja aðila sem á enga aðild að samningnum. Hæstiréttur hefur gefið það út að löggjafinn hafi mjög skýrar og í raun víðtækar heimildir til að meta hvort hinir almennu hagsmunir séu í húfi í hverju einstöku tilviki. Mér sýnist, og jafnvel eftir að ég hef rennt örstutt yfir álit minni hlutans, að flestir telji að slíkir almannahagsmunir séu fyrir hendi í þessu máli.

Ég treysti mér ekki til að svara því hér og nú hvort setja eigi einhverja skýra línu í þessum efnum. Ég held reyndar að það sé þörf umræða og vonast til þess að hún fari fram hér, jafnvel í þessari umræðu eða seinna á Alþingi. (Forseti hringir.) Niðurstaðan er einfaldlega sú að við teljum okkur vera að vinna (Forseti hringir.) á grundvelli þeirra laga sem við þurfum að vinna eftir.



[12:43]
Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég tel mjög brýnt að línurnar séu skýrar þannig að fólk viti í hvaða stöðu það er. Lögreglan má til dæmis ekki fara í verkfall og þá hlýtur að þurfa að semja við hana um launakjör á einhvern tiltekinn hátt. Ég veit að lögreglan var í erfiðri stöðu vegna þess að hún mátti ekki fara í verkfall og eins og allir muna eftir var því alltaf ýtt til hliðar að semja við hana um launakjörin.

Finnst hv. þingmanni ekki mikilvægt að við einhendum okkur í að skýra línurnar, jafnvel í sumar? Við getum ekki farið í neinar djúpar samræður um þetta mál í dag en það má hafa nefndarfundi um mikilvæg málefni þó að við séum í sumarfríi, ekki satt?



[12:44]
Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekki sannfærður um að löggjafinn eigi að grípa mikið inn í kjaraviðræður. Það á að gera í algjörum undantekningartilvikum eins og þeim sem eru fyrir hendi í dag.

Ég fellst á að það er mikilvægt að ræða hvort við eigum að skýra eða skerpa línurnar en ég er ekki alveg sannfærður um, og ítreka það, að löggjafinn eigi að skipta sér mikið af. (BirgJ: … núna.)

Hv. þingmaður minnist á lögregluna og mig langar líka að minnast á tollverði. Í samningum þeirra aðila segir einfaldlega að náist samningar ekki, ef ég man rétt, miðað við þær upplýsingar sem ég fékk á fundinum, fari málið beint í gerðardóm. Aðilar hafa að sjálfsögðu samningsréttinn. Ef ekki nást samningar (Forseti hringir.) fer málið í gerðardóm og mér skilst að þannig sé staðan með tollverði.



[12:46]
Frsm. minni hluta um.- og samgn. (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Við erum að ræða mál sem er afar viðkvæmt og margar hliðar á. Engu að síður vil ég nefna það hér í upphafi, og við segjum það líka í álitinu að það er óumdeilt af hálfu okkar sem erum í minni hluta nefndarinnar, að verkfallsaðgerðir Félags íslenskra atvinnuflugmanna gegn Icelandair hafa víðtæk samfélagsleg áhrif, þá ekki síst á ferðaþjónustu og fyrirtæki sem tengjast henni, en líka á inn- og útflutning og ferðir almennings til og frá landinu. Verkföll hafa nefnilega yfirleitt áhrif á þriðja aðila og á það við um verkfallsaðgerðir flugmanna hjá Icelandair Group eins og aðrar verkfallsaðgerðir. Víðtæk neikvæð áhrif á mannlíf og atvinnulíf eru óhjákvæmileg afleiðing verkfalla og verkföllum er beinlínis ætlað að hafa áhrif á samfélagið í því skyni. Slík áhrif þurfa því að vera mjög alvarleg og ógna ótvíræðum almannahagsmunum til að unnt sé að réttlæta lagasetningu.

Minni hluti umhverfis- og samgöngunefndar leggur gríðarlega áherslu á að samningsréttur launamanna er varinn í 74. gr. stjórnarskrárinnar og 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Við teljum ótvírætt að mjög þung rök þurfi til að grípa inn í aðgerðir með lagasetningu. Það er á ábyrgð samningsaðila að ná samningum. Ef þeir bregðast því hlutverki hefur ríkissáttasemjari samkvæmt lögum ýmsar leiðir til að knýja fram niðurstöðu. Allar slíkar leiðir þarf að fullnýta áður en inngrip löggjafans kemur til álita. Fram hefur komið, m.a. í vinnu nefndarinnar í morgun, að þótt bilið milli aðila sé mikið þá séu samningsumleitanir ekki fullreyndar, t.d. kom þar fram að ekki væri enn komin miðlunartillaga frá ríkissáttasemjara.

Við sérstakar aðstæður, þegar um einstaka kjaradeilu er að ræða sem hefur mjög víðtæk áhrif og bil milli aðila er óbrúanlegt, getur inngrip löggjafans komið til álita. Slík réttlæting hefur í ýmsum tilvikum verið talin fyrir hendi, en þá hefur ávallt verið um að ræða einstakar deilur sem hafa verið úr samhengi við heildstæða kjaramálastefnu á vinnumarkaði.

Nú horfir öðruvísi við. Sú deila sem hér um ræðir kemur beint í kjölfar lagasetningar á yfirvinnubann örfárra undirmanna á Herjólfi fyrir sex vikum. Í þeirri deilu var notuð fallbyssa vegna staðbundinna hagsmuna og örfárra einstaklinga. Deilan nú er ein margra í langri röð kjaradeilna sem stefna í vinnustöðvanir að óbreyttu. Á afgreiðsludegi þessa frumvarps stendur yfir daglangt verkfall grunnskólakennara, verkfallsaðgerðir sjúkraliða standa yfir og nýafstaðið er verkfall framhaldsskólakennara. Þá standa einnig yfir kjaraviðræður við flugvirkja og flugliða hjá Icelandair Group svo dæmi séu tekin. Þetta einstaka mál er því ekki í neinu tómarúmi. Það er hluti af hrinu verkfallsaðgerða sem eru í gangi og voru fyrirsjáanlegar og eru hluti af gríðarlegri ólgu á vinnumarkaði. Það er umhverfið sem við erum stödd í núna og menn grípa til lagasetningar í.

Virðulegi forseti. Dómstólar hafa ekki hafnað því að löggjafinn grípi inn í kjaradeilu svo fremi sem ríkir almannahagsmunir séu í húfi eða efnahagsleg vá vofi yfir. Í því sambandi er rétt að vísa til, og gerum við það í nefndarálitinu, dóms Hæstaréttar í máli ASÍ gegn ríkinu frá 2002 þar sem fram kemur að dómstólar geri ríkar kröfur um skilgreiningu almannahagsmuna og afgerandi rökstuðning til að slík inngrip geti talist réttlætanleg og m.a. er þar ítarlega vísað til lögskýringargagna.

Í morgun komu fulltrúar Alþýðusambands Íslands fyrir nefndina. Í þeirra máli kom fram að þetta frumvarp stæðist ekki þá sáttmála sem við erum aðilar að, m.a. reglur Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, og að þetta frumvarp sé brot á 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Núverandi stjórnarmeirihluti hefur þegar samþykkt lög á verkfallsaðgerðir starfsmanna á Herjólfi á grunni staðbundinna hagsmuna sem hæpið er að geti talist uppfylla þá ríku kröfu um skilgreiningu almannahagsmuna sem fram kemur í fyrrnefndum dómi. Því er full ástæða til að gera athugasemdir við þá vegferð sem stjórnarmeirihlutinn virðist vera kominn á. Með lagasetningu út af Herjólfsdeilunni gaf stjórnarmeirihlutinn skýr skilaboð til vinnuveitenda í greinum sem sinna mikilvægri þjónustu á borð við samgöngur um að gripið yrði inn í kjaradeilur við minnstu truflun á reglulegri starfsemi. Með því var samningsstaða launamanna veikt verulega og hún sett í mjög mikla óvissu. Það hefur komið á daginn að lögin sem sett voru vegna Herjólfsdeilunnar voru mjög afdrifarík mistök eins og minni hlutinn varaði við á sínum tíma.

Við í minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar höfum líka áhyggjur af því að hér sé um endurtekna lagasetningu að ræða án stefnu af hálfu þessarar ríkisstjórnar sem mun veikja verkfallsréttinn til frambúðar. Ef viðsemjendur eru farnir að líta á lagasetningu á verkfallsaðgerðir sem eðlilegt inngrip er hætt við því að litlir hvatar séu til að ná samningum með hefðbundnum hætti. Það er hið alvarlega í málinu nú, hið alvarlega samhengi sem við stöndum frammi fyrir. Það er ekki hægt að láta lagasetningu á verkföll, trekk í trekk, koma í stað kjaramálastefnu af hálfu stjórnvalda.

Nú blasir við að fleiri stéttir gætu farið í verkfall á næstu vikum og mánuðum. Því leggjum við á það mjög mikla áherslu að ekki verði gripið til neyðarlagasetningar af hálfu ríkisstjórnarinnar í því þinghléi sem fram undan er. Lög á kjaradeilur virðast vera orðin hluti af almennri kjaramálastefnu ríkisstjórnarinnar og geta því ekki verið réttlætt af neyðarréttarsjónarmiðum í þinghléi. Þau eru þvert á móti orðin fyrirsjáanlegur þáttur kjaramálastefnu stjórnvalda. Það er fagnaðarefni að innanríkisráðherra hefur lýst því yfir fyrir sitt leyti að heimildir til setningar bráðabirgðalaga verði ekki nýttar í þinghléi vegna vinnustöðvana, en ekki eru allar vinnudeilurnar sem núna eru í gangi á sviði þess ráðherra. Þess vegna er það óhjákvæmilegt að okkar mati og við gerum kröfu um það hér að forsætisráðherra stígi í ræðustól og lýsi því yfir við þingheim að hann sé sama sinnis hvað varðar aðrar deilur.

Virðulegi forseti. Það ástand sem er komið upp á vinnumarkaði er sjálfskaparvíti núverandi ríkisstjórnar. Þetta er afleiðing kjaramálastefnu ríkisstjórnarinnar. Framlag ríkisstjórnarinnar til kjarasamninganna 21. desember sl. var langt undir væntingum. Ríkisstjórnin lofaði þá gjaldskrárlækkunum og öðru sem er ekki enn komið til framkvæmda þó að hálft ár sé liðið frá yfirlýsingunni. Við erum komin inn á mitt ár og ekki hefur enn verið staðið við loforðið. Sú fyrirætlan var líka sett í uppnám með því að byggja alla kjarasamninga á viðleitni til að tryggja langtímastöðugleika. Svo hafa aðgerðir ríkisstjórnarinnar allar lagst á það eitt að létta byrðar þeirra tekjuhæstu en þyngja byrðarnar á þá sem hafa lægstu tekjurnar. Um það getur aldrei skapast friður. Þetta er framlag ríkisstjórnarinnar í þessari erfiðu stöðu.

Ég get nefnt hækkun á gjaldskrám í heilbrigðisþjónustu. Því hefur verið mótmælt harðlega af aðilum vinnumarkaðarins. Menn sitja við sinn keip og standa við það en halda áfram að lækka álögur á þá sem hæstar hafa tekjurnar.

Virðulegi forseti. Núverandi ríkisstjórn hefur líka keppst við að eyða öllum möguleikum til að skapa samstöðu um framtíðarsýn um stöðugleika með því að reyna að draga til baka aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Það eitt og sér var ófriðarleiðangur þessarar ríkisstjórnar vegna þess að þar með ætluðu menn sér að loka dyrum sem geta skapað hér hagsæld til lengri tíma án umræðu. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Það er gripið hér fram í eins og þetta komi málinu bara ekkert við. (Gripið fram í.) Ég held að hv. þingmaður sem grípur fram í fyrir mér ætti að hafa það í huga að það er ólga á vinnumarkaði í öllu samfélaginu. Þetta mál er ekki í neinu tómarúmi. Það er í þessari ólgu sem ríkisstjórnin hendir hverju málinu á fætur öðru sem gerir ekkert annað en að rugga bátnum og skapa enn meiri óstöðugleika og enn meiri óvissu. Það er staðreyndin sem menn þurfa að horfast í augu við. Við erum ekki bara að tala um eina kjaradeilu, að setja lög á hana, við erum að tala um að þessi ríkisstjórn sé lögð af stað með seríu af lagasetningum á vinnudeilur. Í því andrúmslofti erum við núna. Það er nýjasta framlag ríkisstjórnarinnar í þeirri ólgu sem er á vinnumarkaði. Við erum að vara við því.

Við hljótum að spyrja: Hvar á að enda þá vegferð sem menn hófu með Herjólfslögunum fyrir sex vikum gegn kjaradeilu átta eða níu manna? Hagsmunirnir voru staðbundnir, stóðust ekki prófið hvað varðaði nein formsatriði eða dóma sem fallið hafa í slíkum málum. Fram undan er verkfallshrina og önnur verkföll eru í gangi. Í því samhengi verðum við að ræða þessi mál. Hvað er löggjafinn að segja um þær verkfallsdeilur?

Verði þetta frumvarp að lögum hér í dag er Alþingi og ríkisstjórnin að senda þau skilaboð til kennara, sem hófu verkfallsaðgerðir sínar í dag, að sama hvort hagsmunirnir séu staðbundnir eða um sé að ræða þjóðhagslega hagsmuni, hátekjuhópa eða lágtekjuhópa þá skipti það engu máli, lagasetningum verði beitt af þessari ríkisstjórn á vinnudeilur. Okkur er sagt það. Það er verið að staðfesta það með þessum gerningi. Af því hef ég verulegar áhyggjur. Við erum ekki stödd í tómarúmi með þessa einu deilu. Þeir kennarar sem eru að sækja leiðréttingu á kjörum sínum fá þau skilaboð frá Alþingi í dag.

Virðulegi forseti. Ég verð að koma inn á það í lok ræðunnar að mér þótti undarlegt af hæstv. ráðherra sem flutti þetta mál í gær að nota lögin sem sett voru á flugvirkja árið 2010 sem eitthvert dæmi eða réttlætingu á því sem nú er verið að gera. Ég verð að nefna það hér vegna þess að ég tók þátt í þeirri lagasetningu. Þá höfðu öll úrræði verið gernýtt, en það er ekki uppi á teningnum nú. Þá var búið að semja, búið að aflýsa verkfalli og samningur hafði verið felldur, þannig að öll úrræði höfðu verið nýtt. Að auki var rúmt ár frá efnahagshruni okkar Íslendinga og tveim dögum fyrr varð eldgos á Fimmvörðuhálsi sem hleypti ferðaþjónustu í algjöra óvissu. Að sama skapi, virðulegi forseti, var ekki ólga á vinnumarkaði á þeim tíma heldur var samfélagið almennt að draga saman vegna efnahagsáfallsins sem hafði dunið á okkur rúmu ári fyrr. Það voru aðstæðurnar þá.

Aðstæðurnar núna eru allt aðrar. Nú erum við með viðsemjendur sem hafa ekki fullnýtt sín verkfæri. Við erum líka í þeirri stöðu að þetta er hluti af verkfallshrinu úr af gríðarlegri ólgu á vinnumarkaði. Ég bið hv. þingmenn, sérstaklega stjórnarþingmenn, að reyna að sjá fyrir sér hvaða afleiðingar það geti haft að halda áfram þessari vegferð. Það er verið að veikja samningsstöðuna hjá launamönnum í landinu, þeim sem standa núna í harðvítugum kjaradeilum, hvort sem er á einkamarkaði eða hinum opinbera. Það er verið að sýna á spilin annað skiptið í röð. Þessi tvö deilumál sem stöðvuð hafa verið með lagasetningu eru svo ólík að þau sýna það að þessari ríkisstjórn er trúandi til alls. Það eru engin prinsipp, það eru engin viðmið þegar kemur að lagasetningum. Munurinn er svo stór á milli þessara tveggja mála að allt þar á milli getur rúmast í ákvarðanatöku þessarar ríkisstjórnar hvað varðar lagasetningu á vinnudeilur.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu. Fyrri hluti ræðu minnar var hefðbundinn. Ég gerði grein fyrir minnihlutaálitinu með ákveðnum viðbótum. Staðan er alvarleg og ég tel að við á hinu háa Alþingi þurfum að eiga alvörusamtal um það hvað við ætlum að gera. Hvernig ætlum við að virða verkfallsréttinn? Hvað ætlum við að gera við hann í framtíðinni? Þetta gengur ekki svona, stefnulaus lagasetning aftur og aftur og ítrekað.



[13:01]
Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Því er haldið hér fram að ekkert samhengi sé á milli þeirrar lagasetningar sem hefur verið sett á verkfallið í Vestmannaeyjum, á Herjólfi, og það verkfall sem nú er hafið hjá flugmönnum. Samhengið liggur augljóslega í því að gríðarlega miklir hagsmunir eru undir fyrir mjög mikinn fjölda fólks. Því var haldið hér fram áðan af hv. ræðumanni að það hefði verið um mjög fáa að ræða í Vestmannaeyjum — það er 5 þús. manna samfélag. Það er ekki lítið samfélag á íslenskan mælikvarða.

Verkfall í 300 manna stétt hefur áhrif á þúsundir og aftur þúsundir manna. Það hefur áhrif á okkar helstu útflutningsgreinar, á margar sterkar stoðir í atvinnulífi okkar. Það er ekkert hægt að líkja því í sjálfu sér við annað en afleiðingar náttúruhamfara fyrir þessar atvinnugreinar.

Ég vil aðeins biðja hv. þingmann að skýra það betur út fyrir okkur hvaða samhengi hún fær með slíkum samanburði við mögulegt verkfall annarra stétta og nefnir það að kennarar megi eiga von á lagasetningu. Hvernig dregur hún þá ályktun þegar hópur kennara er nú nýbúinn að vera í verkfalli sem tók bara nokkuð langan tíma?

Það er í mínum huga með ólíkindum hve skinheilagir margir þingmenn minni hlutans eru hér þegar þeir ræða þetta mál í ljósi þess, og ég bið þingmanninn að bregðast aðeins betur við því, að á síðasta kjörtímabili var ein stétt, flugstéttin í landinu, að fara í verkfall með tilheyrandi afleiðingum og þá var lagasetning tilbúin hér hjá þessu sama fólki. Þetta sama fólk var tilbúið með lagafrumvarp (Forseti hringir.) til að fara með í gegnum þingið en þá féll stéttin frá því að fara í verkfall. Nú er það mat ríkissáttasemjara (Forseti hringir.) að lengra verði ekki haldið, það sé enginn samningsgrundvöllur á milli þessara hópa. (Forseti hringir.) Eigum við bara að sitja hér hjá? Ég vil heyra það frá hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur: Eigum við að sitja hér hjá á Alþingi og gera ekki neitt í málinu?

(Forseti (SilG): Forseti biður hv. þingmenn um að virða ræðutíma.)



[13:04]
Frsm. minni hluta um.- og samgn. (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hv. þingmaður hafi ekki hlustað á ræðu mína. Ég sagði mjög skýrt að það geti komið upp tilvik þar sem lagasetning er réttlætanleg. Þá þurfa menn að hafa fylgt samningsferlinu alla leið og það er ekki búið í þessu tilfelli. Það er einfaldlega þannig. Menn skulu ekkert reyna að búa til einhvern annan sannleik um það. Til að mynda hefur ekki komið miðlunartillaga frá ríkissáttasemjara. Við getum ekki bara verið með eitthvert kalt mat hérna, ráðherrar og alþingismenn, um það hvenær nóg sé komið.

Það þarf að vera formlegra. Við þurfum að fylgja ákveðnum formalisma í þessu vegna þess að formalisminn ver einstaklingana.

Annað sem ég vil líka nefna er það að í andsvari hv. þingmanns kristallast viðhorfið gagnvart því að verkfallsrétturinn eigi í raun ekki rétt á sér. Það sem hann sagði í fyrri hluta andsvars síns staðfestir það sem ég óttaðist mest, staðfestir þann ótta sem ég var að lýsa í ræðu minni áðan, þ.e. að menn telji verkfallsréttinn ekki eiga rétt á sér undir nokkrum kringumstæðum, hvort sem um er að ræða 5 þúsund manns eða 100 þúsund.

Það er sá samanburður sem ég var að gera hér áðan á þessum tveimur málum, þ.e. að ríkisstjórnin verður þá, ef hún telur að verkfall eigi ekki rétt á sér undir einhverjum ákveðnum kringumstæðum og til þess að ganga svona glaðbeitt til verka við að beita lagasetningu á verkföll, alla vega að senda út til þeirra sem eiga þessa samningsstöðu, eiga þennan rétt, hver hann sé þá í raun. Úr honum er mjög lítið gert í máli hv. þingmanns, mjög lítið gert. Ég tel mig hafa farið fullnægjandi yfir það hver munurinn er á Íslandi árið 2014, í ólgusjó umbrota á vinnumarkaði, kjaradeilur víða, verkfallshrina í gangi, eða árið 2010, þegar ekkert slíkt var í gangi, ekki neitt. Ég fór ágætlega yfir það í ræðu minni áðan og tel mig ekki þurfa að gera það betur.



[13:06]
Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er hinn dæmigerði útúrsnúningur í málflutningi, pólitíski útúrsnúningur. Hver gat skilið það svo hér að ég væri að segja að verkfallsrétturinn ætti ekki við og að launafólk í landinu ætti ekki að hafa verkfallsrétt? Er þetta ekki hinn dæmigerði samfylkingarspuni sem gjarnan er rætt um og eru svo sterk rök og margítrekuð dæmi um? Er það ekki það sem við erum að horfa hér framan í? (SII: Það er ekki rétt.) Ég held það.

Við eigum að hætta því. Að sjálfsögðu eigum við að virða verkfallsrétt. Þetta hefur ekkert með það að gera en verkfallsvopnið er misbeitt, og þá á ég við bitið í því, eftir því hvaða starfsstéttir eiga í hlut. Það er bara svoleiðis. Ákveðnar starfsstéttir leggja niður störf og þá hefur það mismunandi áhrif á mismunandi þætti samfélagsins. Það hefur gríðarlega víðtæk áhrif ef flugfólk okkar beitir því, það fólk sem gegnir þessum gríðarlega mikilvægu störfum í tengingu samgangna við landið — við erum eyland og aðstæður okkar eru sérstakar að þessu leyti.

Hvort þetta eru 5 þúsund manns eða 100 þúsund manns, það getur líka verið mismikil sem áhrifin eru á fólk og samfélög. Verkfallið í Vestmannaeyjum hafði mjög alvarlega afleiðingar fyrir það samfélag. Auðvitað verðum við að horfa á dæmin í hvert sinn. En gæti það verið, virðulegi forseti, að þessi málflutningur minni hlutans væri byggður á ákveðnum misskilningi? Mér fannst það koma fram í ræðu hv. þingmanns þegar hún sagði að sáttatillaga hafi ekki verið lögð fram. (Gripið fram í: Miðlunartillaga.) Miðlunartillaga hafi ekki verið lögð fram. Það er bara ekki rétt samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef. (Gripið fram í: Sáttatillaga.) Var það sáttatillaga? (Gripið fram í: Það er …) Já, ókei. En það var lögð fram sáttatillaga og það er mat ríkissáttasemjara að ekki verði lengra haldið. Ég vil þá bara spyrja hv. þingmann: (Forseti hringir.) Vildi hún láta verkfallið á Vestmannaeyjaferjunni ganga miklu lengur og þá hve miklu lengur? Vill hún láta þetta flugmannaverkfall ganga miklu lengur og þá hve miklu lengur?



[13:09]
Frsm. minni hluta um.- og samgn. (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var ekki verkfall á Herjólfi, það var yfirvinnubann sem var verið að stöðva með lögum, yfirvinnubann sem menn stöðvuðu. (Gripið fram í.) Það er það sem menn gerðu.

Málflutningur hv. þingmanns hér er með þeim hætti að maður hefur ástæðu til að óttast viðhorfin gagnvart verkfallsréttinum. Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni um að ef flugfólk leggur niður störf hefur það gríðarleg áhrif. Ég held að við deilum ekkert um það. Við segjum það mjög skýrt.

Réttur launafólks til að sækja sér kjarabætur er líka gríðarlega mikilvægur. Þar er um að ræða mannréttindi og við þurfum þess vegna alltaf að vega og meta hverju sinni hvenær réttlætanlegt er að beita lagasetningu. Það sem ég er að segja hér er að mér finnst ríkisstjórnin gera þetta fullfjálglega í ljósi þess að aðrar vinnudeilur eru í gangi og aðrar kjaradeilur fram undan (Gripið fram í.) og önnur verkföll í gangi. [Kliður í þingsal.] Ég vil þess vegna segja það hér — hv. þingmaður er búinn að hafa hér ræðustólinn tvisvar til að spyrja mig, ég hlýt að mega fá að klára. (JónG: … svarar ekki spurningunni.) Það er einfaldlega þannig að það sem sagt var hér áðan af hv. þingmanni er að annað flugfólk, sem nú stendur í kjaradeilu, megi búast við hinu sama. Flugfreyjur, stór kvennastétt, standa líka í kjaradeilu og það mun hafa sömu áhrif ef þær leggja niður störf. Flugvirkjar eru líka í kjaradeilu. (JónG: Stór karlastétt.) Hvaða skilaboð er verið að senda þessum aðilum núna?

Það er þetta samhengi — ég er ekki að biðja hv. þingmann um að standa og setja upp boxhanskana og segja við mig: Ja, þú verður að rökstyðja þitt mál betur. Ég er að biðja þá um að segja mér (Forseti hringir.) hvernig þeir ætli að vinna sig út úr þessu samhengi sjálfir. Hvernig ætlar ríkisstjórnin að enda þessa vegferð sem hún hefur hafið? Það er bara það sem ég er að biðja um, virðulegi forseti. (JónG: Svaraðu spurningunum.)

Virðulegi forseti. Mér þætti rétt (Forseti hringir.) að í staðinn fyrir (Gripið fram í.) að vera hér að berja bjölluna á mig að hv. þm. Jón Gunnarsson …

(Forseti (SilG): Ræðutíma hv. þingmanns er lokið og ræðumaður hefur orðið í þingsal.)

Það hefði mátt segja það við hv. þingmann örlítið fyrr vegna þess að hann er afar órólegur hér. Ég verð að segja það, virðulegi forseti, (Forseti hringir.) að hans orð hér í stólnum hjálpuðu ekki málstað ríkisstjórnarinnar mikið. Það verð ég bara að segja alveg eins og er.

(Forseti (SilG): Ræðutíma hv. þingmanns er löngu lokið. Ég bið hv. þingmenn um að virða ræðutíma.)



[13:12]
Katrín Jakobsdóttir (Vg):

(SII: Á þessi … að standa hérna æpandi á stjórnarandstöðuna í ræðustól? Bæði í gær …) (Gripið fram í: Er það leyfilegt?) (SII: Er það bara …?) (Forseti hringir.)

(Forseti (SilG): Ræðumaður hefur orðið.)

Virðulegi forseti. (JónG: Róaðu þig, Sigga mín.)(Gripið fram í: … alþingisstól.) (SII: Ég er alveg róleg. Það ert þú sem ert svolítið æstur.) (Forseti hringir.)

(Forseti (SilG): Forseti biður hv. þingmenn um að sýna háttsemi og gefa hv. ræðumanni orðið.)

Takk fyrir það, virðulegi forseti. Hér er mál komið til umfjöllunar og meðferðar Alþingis, annað frumvarp til laga á verkfallsaðgerðir sem við eigum við hér á mjög stuttum tíma. Mig langar í upphafi máls míns aðeins að taka þær aðstæður fyrir út frá því, og þar með er ég ekki að benda sérstaklega á þann meiri hluta sem nú situr í þinginu heldur almennt það hvernig við fjöllum um mál, að það er niðurstaða mín eftir meðferð þessara tveggja mála, þó að ágætismálsmeðferð hafi verið fyrir hendi í hv. umhverfis- og samgöngunefnd, gestir fengnir á fundi og öllum gefist tækifæri til að viðra sjónarmið, að það sé staðreynd að hraðinn sem við afgreiðum þessi mál á sé allt of mikill.

Það er hefð fyrir því og fordæmi fyrir því áður í þinginu undir öðrum ríkisstjórnum en þegar við erum að ræða svona stór grundvallaratriði finnst mér, og ég trúi ekki öðru en að meiri hluti hv. þingmanna sé sammála mér um það, að þarna þyrftum við að gefa okkur meiri tíma til umræðu um grundvallaratriði sem er mjög óheppilegt að ræða í slíkum flýti.

Það hefur til að mynda komið fram í báðum málunum að menn telja þessa aðferðafræði, og þá er ég að vitna sérstaklega til þeirra sérfræðinga sem við höfum fengið á fund hv. umhverfis- og samgöngunefndar, ekki góða. Menn eru líka sammála um að mjög nauðsynleg sé að líta til Norðurlandanna hvað varðar heimildir ríkissáttasemjara á Norðurlöndunum og þeirrar aðferðafræði sem þar er beitt þegar kemur að vinnudeilum sem er önnur en á Íslandi.

Við erum að ræða, getum við sagt, „akút“ mál án þess að ná að fara inn í umræðu um grundvallaratriði, sem er samt auðvitað það sem ætti að vera hlutverk löggjafans í málum sem þessum.

Mér fannst líka athyglisvert, áður en ég kem að áliti því sem ég skrifa undir ásamt öðrum fulltrúum minni hlutans í hv. umhverfis- og samgöngunefnd, það sem hefur hvarflað að mér og ég náði ekki að nefna á fundi nefndarinnar. Þegar við erum að ræða ólíka hópa, sjúkraliða, grunnskólakennara, flugmenn og um daginn starfsmenn Herjólfs veltir maður fyrir sér hvernig við förum með lagasetningu á verkföll í þinginu og hvort það væri ekki í raun eðlilegra, og þetta segi ég aðeins til umhugsunar fyrir hv. þingmenn, að það væri ein og sama nefndin sem færi með vinnumarkaðsmál og velferðarmál sem tæki öll þessi mál til umfjöllunar fremur en að hv. umhverfis- og samgöngunefnd fjalli um verkföll á samgöngustarfsmenn og hv. allsherjar- og menntamálanefnd fjalli hugsanlega um lagasetningu á verkfall grunnskólakennara. Ég velti þessu fyrir mér. Ef þetta á eftir að verða tíður viðburður held ég að það sé komin mjög stór þörf á að við ræðum vinnulag.

Eins og ég sagði áðan leitaðist hv. formaður nefndarinnar við að leyfa sem flestum sjónarmiðum að koma fram á fundi nefndarinnar í morgun og það eru auðvitað ýmsar spurningar sem vakna sem við höfum svo sem ekki svarað til fulls eftir umfjöllun nefndarinnar. Hv. þm. Höskuldur Þór Þórhallsson nefndi það til að mynda hér að það álitamál hefði komið upp hvort eðlilegt væri að ákvarðanir gerðardóms eigi að gilda þann tíma sem gerðardómur ákveður. Þetta höfðum við hreinlega ekki tíma til að ræða neitt út í hörgul, þ.e. hvort það eigi að vera einhver tímasetning á slíkum ákvörðunum.

Önnur athugasemd sem kom fram, sem ég er ekki viss um að hafi komið fram í máli annarra hv. þingmanna, er að það sé ekki endilega sérstaklega heppilegt að það sé Hæstiréttur sem tilnefni þriðja mann í gerðardóm þar sem Hæstiréttur kunni að taka þessi mál fyrir á síðari stigum. Þá veltir maður því fyrir sér hvort þar gæti hugsanlega einhver annar aðili verið heppilegri. Það er ekki þar með sagt að það sé á nokkurn hátt auðvelt mál að finna þann sem á að tilnefna aðila í gerðardóm. Nefndur var hugsanlega ríkissáttasemjari, en hér er ég aðeins að sýna fram á, og þetta snýst einungis um hin fræðilegu úrlausnarefni um framkvæmd slíkrar lagasetningar, ekki endilega um hin pólitísku og lögfræðilegu álitaefni. Því náum við ekki að svara á þeim hraða sem þessi mál fara hér í gegn þannig að mér finnst það vera umhugsunarefni fyrir okkur öll, alla hv. þingmenn, þvert á flokka, hvernig við viljum standa að svona málum í framtíðinni sem ég segi að sjálfsögðu að ég vona að verði ekki fleiri.

Hér hefur verið talað mikið um það að um neyðarúrræði sé að ræða. Þá fullyrðingu hljótum við að setja í samhengi við það að við stóðum hér 1. apríl og þá voru samþykkt önnur lög, raunar í andstöðu við ýmsa þingmenn í stjórnarandstöðu, m.a. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, þar sem við töldum í því máli að ekki hefði verið sýnt fram á þá ríku almannahagsmuni sem réttlættu slíkt inngrip í verkfallsréttinn, í þessi mannréttindi, til þess að standa við slíkt verkfall.

Við færðum fyrir því rök og þau eru tíunduð hér stuttlega, rifjuð upp í nefndaráliti minni hluta hv. umhverfis- og samgöngunefndar en þau eru einfaldlega þau að samningsréttur launamanna er varinn í 74. gr. stjórnarskrárinnar og 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og það þarf mjög þung rök til að grípa inn í hann með lagasetningu. Það hefur hins vegar verið dæmt í slíku máli og komið fram að, þrátt fyrir þessi ákvæði mannréttindasáttmálans, þrátt fyrir þessi ákvæði stjórnarskrárinnar, þrátt fyrir ákvæði alþjóðlegra samþykkta sem við höfum gerst aðilar að, svo sem Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, hafa dómstólar ekki hafnað því að löggjafinn grípi inn í kjaradeilur svo fremi sem ríkir almannahagsmunir séu í húfi eða efnahagsleg vá vofi yfir.

Ég fór með þessa ágætu klásúlu í gærkvöldi sem snýst um það hvernig við metum almannahagsmuni, en það hefur verið sagt svo ég rifji það upp, með leyfi forseta, „verkfallsrétturinn eins og hann birtist og er túlkaður í mannréttindasáttmálanum er ekki háður öðrum takmörkunum en þeim sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðisþjóðfélagi vegna þjóðaröryggis, almannaheilla eða efnalegrar farsældar þjóðarinnar, til þess að firra glundroða eða glæpum, til verndar heilsu manna eða siðgæði eða réttindum og frelsi annarra“, eins og þar segir.

Þá erum við auðvitað komin að því að þótt það væri óskaplega þægilegt ef við gætum einhvern veginn fest það í lög nákvæmlega hvað þetta þýðir er þetta alltaf matsatriði. Það má þó segja það um þetta frumvarp, og kom fram í máli þeirra gesta sem sóttu fund hv. umhverfis- og samgöngunefndar, að þar er þó að minnsta kosti leitast við að leggja eitthvert mat á efnahagslega vá sem getur stafað af verkfallsaðgerðum atvinnuflugmanna.

Það kom hins vegar líka fram á fundinum að við erum í sjálfu sér ekki í neinum aðstæðum til að leggja neitt sjálfstætt mat á það hversu mikil þessi efnahagslega vá er og það kom líka fram að menn sem mættu fyrir nefndina voru ekki á eitt sátt um það hver hún væri nákvæmlega.

Minni hlutinn tekur hins vegar undir að það er alveg ljóst að þessar aðgerðir hafa mikil og víðtæk efnahagsleg og samfélagsleg áhrif, ekki síst á ferðaþjónustuna og fyrirtæki sem tengjast henni, en að sjálfsögðu líka á inn- og útflutning og ferðir almennings til og frá landinu. Spurningin er hvort við teljum ástandið komið á þann stað eftir mjög stuttar verkfallsaðgerðir, til að mynda ólíkt sjómannaverkfallinu sem ég vitnað til dóms um áðan frá 2002 sem hafði þá staðið í sex vikur, hvort við metum að þessir almannahagsmunir séu orðnir nægjanlega ríkir. Eitt af því sem háir okkur í því máli er að geta lagt sjálfstætt mat á þessa efnahagslegu hagsmuni.

Það væri auðvitað æskilegt að við hefðum á einhvern hátt getað gert það.

Síðan er að sjálfsögðu mikilvægt, eins og hv. þm. Katrín Júlíusdóttir fór yfir, að sá fjöldi mála sem liggur á borði ríkissáttasemjara vekur okkur áhyggjur sem og hvert stefni. Það er eðlilegt að benda á það eins og við gerum í nefndaráliti að ef hér verður um endurtekna lagasetningu að ræða veikir það að sjálfsögðu verkfallsréttinn til frambúðar. Spurningar vakna hvort ekki dofni í raun hvatar aðila til að ná samningum ef reikna má með því að lög verði sett á verkfallsaðgerðir.

Það hefur vissulega verið bent á hins vegar að það ber mjög mikið á milli aðila og ég held að við getum alveg staðfest það eftir fund nefndarinnar í morgun að það er svo, það ber mjög mikið á milli aðila og það hefur líka verið bent á að þarna sé ekki um láglaunahóp að ræða sem sé að berjast fyrir auknum réttindum, hann sé að gera kröfur umfram það sem við höfum til að mynda séð í samningum Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambandsins og þarna sé ekki um láglaunahóp að ræða.

Þar komum við aftur að hinu matskennda í þessu máli. Í fyrsta lagi getum við sagt að við höfum mismikla samúð með kröfum þeirra hópa sem berjast fyrir kjörum sínum, en getum við dregið eitthvert strik í sandinn um það hverjir eiga að hafa verkfallsréttinn til að berjast fyrir launum sínum og hverjir ekki? Mannréttindi, eins og gestur á fundi nefndarinnar í morgun orðaði það, geta ekki verið tekjutengd. (Gripið fram í: Nei.) Það horfumst við í augu við að ef við ætlum að skoða þetta út frá þessum grundvallarréttindum sem hafa verið skilgreind og við höfum undirgengist, bæði á alþjóðlegum vettvangi en eru líka skilgreind í stjórnarskrá okkar, þá getum við eiginlega ekki verið að taka tillit til slíkra þátta þótt þessir hópar hafi að sjálfsögðu mismikla samúð og við getum rætt það út frá öðrum þáttum.

Mér finnst mikilvægt að við höldum því til haga að hér er um grundvallarréttindi að ræða, það eru mjög óvenjulegar aðstæður uppi á vinnumarkaði, það er fjöldi mála á borði ríkissáttasemjara og þó að við verðum, eins og hér hefur verið rætt talsvert í máli þeirra hv. þingmanna sem hafa tekið til máls á undan mér, að horfa á hvert einstakt tilfelli fyrir sig er það svo að í þessu tiltekna máli hefur umræða um lagasetningu, vegna þess að hér voru sett lög í Herjólfsmálinu 1. apríl, þó að það sé ekki sambærilegt mál, verið uppi alllengi í umræðunni.

Við skulum ekki ímynda okkur að það hafi ekki einhver áhrif á umræðuna við samningaborðið.

Það hefur líka talsvert verið rætt um verkfall flugvirkja 2010. Hv. þm. Katrín Júlíusdóttir fór ágætlega yfir aðstæður í samfélaginu þá. Ég held að málflutningur hennar þar sýni að það er mjög mikilvægt að við tökum afstöðu til hvers máls í aðstæðum á hverjum tíma. Ég vil líka halda því til haga, eins og ég gerði í umræðunni um Herjólfsverkfallið eða yfirvinnubannið, að í þessum málum er ekki hægt að segja: Aldrei. Það er ekki hægt. Við verðum að horfast í augu við það að við erum með, getum við sagt, ákvæði sem heimila inngrip í verkfallsaðgerðir. Það sem er vandi löggjafans er að leggja mat á það hvenær slík róttæk inngrip séu réttlætanleg.

Hér kom fram í gær af hálfu hæstv. innanríkisráðherra að fari svo að menn meti það mikilvægt eða nauðsyn að grípa inn í aðrar verkfallsaðgerðir sem kunna að vera fram undan verði það ekki gert með bráðabirgðalögum af hálfu hæstv. innanríkisráðherra. Hún styður það að Alþingi verði kallað saman ef til þess kæmi.

Ég fagnaði þeirri afstöðu í gær og geri það aftur hér og við gerum það í nefndaráliti minni hlutans, en ég ítreka það eins og hv. þm. Katrín Júlíusdóttir að það er mikilvægt að fá slíka yfirlýsingu af hálfu ríkisstjórnarinnar og hæstv. forsætisráðherra. Ég teldi eðlilegt að hæstv. forsætisráðherra við umræðu eða atkvæðagreiðslu hér á eftir greindi þinginu frá afstöðu sinni í því máli. Það verður algjörlega að liggja fyrir áður en boðað verður til þingloka.

Ég tel að lokum að það sé ekki ástæða til að lengja þessa umræðu neitt sérstaklega. Ég tel að ég hafi farið ágætlega yfir þau atriði sem eru undir, þau grundvallarréttindi sem eru undir, þær aðstæður sem nú eru uppi á vinnumarkaði og vil alls ekki lengja umræðuna neitt frekar um það. Ég tel að fyrir þessum sjónarmiðum sé gerð ágætlega grein í nefndaráliti minni hlutans og síðan við atkvæðagreiðslu síðar um málið en nota samt tækifærið að lokum til að þakka fyrir ágæta málsmeðferð af hálfu hv. umhverfis- og samgöngunefndar um málið í morgun.



[13:26]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Í málefnalegu tómarúmi væri auðveldara að taka ákvörðun um þetta mál vegna þess að hér eru vel mögulega ríkir almannahagsmunir í húfi. Löggjafinn má ekki grípa inn í verkfallsréttinn nema ríkir almannahagsmunir séu í húfi og svo kemur það til okkar kasta að ákveða hvenær svo er og hér getur vel verið að svo sé.

Mér er það ekki enn þá ljóst sjálfum eftir þessa stuttu umræðu sem við höfum haft og tiltölulega lítið af upplýsingum hefur ratað til mín, alla vega hingað til.

Vandinn sem ég stend frammi fyrir hér er Herjólfslögin, lögin sem sett voru á verkfall starfsmanna Herjólfs á sínum tíma. Herjólfslögin lækkuðu þröskuldinn eins og bent var á.

Icelandair hlýtur að hafa séð það þótt þingmenn loki augunum fyrir því. Vandinn er sá að Herjólfslögin gætu rétt eins borið ábyrgð á þeirri stöðu sem við erum í nú. Afstaða Icelandair gagnvart starfsmönnum sínum getur vel verið bein afleiðing af setningu Herjólfslaga. Það er það sem gerir þetta mál erfitt. Það er ekki hægt að horfa á hvert mál fyrir sig, þetta er allt í einu samhengi. Jafnvel þótt við sjáum ekki samhengið sér Icelandair það alveg. Þar er vandinn.

Ég tók eftir því að í nefndaráliti minni hlutans kemur fram að ríkissáttasemjari hafi ekki komið fram með miðlunartillögu. Mér finnst að þegar við erum að ræða stjórnarskrárvarin réttindi hljótum við að þurfa að fullreyna allar aðrar leiðir áður en við förum í það að brjóta á þeim réttindi. Stundum þarf að brjóta á þeim ef til dæmis ríkir almannahagsmunir eru í húfi. Mér finnst að við þurfum að fullreyna hinar aðferðirnar.

Ég áskil mér fullan rétt til að skipta um skoðun þegar kemur að niðurstöðu í þessu máli en mér finnst í raun og veru ein tiltekin klausa í minnihlutaálitinu segja allt sem segja þar, með leyfi forseta:

„Ef viðsemjendur eru farnir að líta á lagasetningu á verkfallsaðgerðir sem eðlilegt inngrip er hætt við því að litlir hvatar séu til að ná samningum með hefðbundnum hætti. Það er hið alvarlega í málinu nú. Það er ekki hægt að láta lagasetningu á verkföll, trekk í trekk, koma í stað kjaramálastefnu af hálfu stjórnvalda.“

Það er það sem gerir málið erfitt í mínum huga.

Ég sé samt þessa ríku almannahagsmuni, eða tel mig sjá þá, en það er ekki hægt að líta á þetta mál eins og það sé einstakt. Það er ekki einstakt og það er ekki eitt og sér. Það er í samhengi.



[13:29]
Jón Þór Ólafsson (P):

Frú forseti. Þegar við lítum á kjarasamninga og samninga á vinnumarkaði hlýtur markmiðið í heild að vera að menn gangi sáttir frá þeim samningum. Það er markmiðið. Þá hugsar maður: Hvernig skipulag hefur verið sett í kringum þá samninga, þá samningagerð og kjarasamninga á Íslandi miðað við hvernig það hefur verið gert í nágrannalöndum okkar? Maður hlýtur að spyrja þessarar spurningar þegar Alþingi þarf í annað skipti núna á nokkrum vikum að koma að með lagasetningu til að stöðva verkfall. Það stöðvaði yfirvinnubann í fyrra skiptið og núna verkfall sem er búið að standa í 12 klukkustundir.

Það að grípa inn í með löggjöf, eins og kom fram á nefndarfundi í morgun, gegn grunnréttindum fólks, réttindum sem það hefur ákveðið að beita, hlýtur að þurfa að vera það síðasta sem menn gera. Þetta kom alveg skýrt fram á nefndarfundi, líka þegar menn fara af stað í verkfall, þá verða þeir að gæta meðalhófs og leita allra annarra leiða. Það kom líka fram á nefndarfundi í morgun.

Það sem er öðruvísi á Íslandi en í nágrannalöndum okkar er að ríkissáttasemjari hefur til dæmis ekki jafn mikil verkfæri til að grípa inn í. Hann hefur ekki verkfæri eins og það að hnýta smærri stéttarfélög við stærri samningagerðir, sem kemur í veg fyrir að lítil stéttarfélög geti beitt verkfallsréttinum til að taka heilt samfélag í gíslingu. Þessi verkfæri eru ekki til staðar á Íslandi og það þarf klárlega að endurskoða þetta allt. Það gengur ekki að löggjafinn sé alltaf að stíga inn í verkfallsdeilur með lögum. Það er ekki góð regla.

Ég ætla ekki að taka afstöðu til þess hver hefur rétt eða rangt fyrir sér í málinu. Ásakanir eru á báða bóga sem menn bera af sér. Þegar maður spurði hvort einn aðilinn hefði haft rétt fyrir sér um að það væri verið að ganga svona á rétt hans þá báru menn það af sér og sögðu annað um hinn. En staðan er þessi: Við erum í annað skipti að setja lög á verkstöðvun. Ókei, hvernig verður þá framtíðin? Það er nokkuð ljóst að ef þetta eru ríkir almannahagsmunir eða efnahagsleg vá stafar af þessum aðgerðum, sem eru forsendurnar sem verða að vera til staðar samkvæmt dómafordæmi á Íslandi til að setja lög á verkföll, og ef Herjólfsyfirvinnubannið var það þá komum við náttúrlega að því að þetta eru flugmenn, og hvað þá með flugfreyjur? Hvað með flugvirkja? Það er verið að setja nokkuð skýrt fordæmi.

Þá er kannski spurning hvort við eigum ekki að ganga hreinna til verks. Í fyrsta lagi að setja betri reglur um það að koma á samningum og sátt á vinnumarkaði, líta til nágrannalanda okkar í því samhengi. Í öðru lagi að menn verði bara heiðarlegir með það að þessar stéttir megi ekkert fara í verkfall, þær hafi ekki þann rétt. Þá eiga menn að vera heiðarlegir með það og skilgreina það í lögum að það varði almannahagsmuni og réttlæta þá ef menn vilja og ganga heiðarlega til verks í því efni.

Annað sem stjórnvöld verða að horfa á í þessu samhengi er það sem kom fram á nefndarfundinum: Ef aðilar á vinnumarkaði, sem sagt stéttarfélög, ganga að stjórnarskrárvörðum rétti sínum til að fara í verkfall, sem er vissulega lögbundið ofbeldi sem aðilum er heimilt að beita og stöðva jafnframt að aðrir taki upp vinnu þeirra — það er að sjálfsögðu lögbundið ofbeldi en þeir hafa þennan rétt — og ef þeim finnst að löggjafinn, yfirvöld, gangi óþarflega hart gegn þeim og troði á þeim rétti þá beita þeir öðrum leiðum. Það kom skýrt fram á nefndarfundi í morgun. Þá beita menn öðrum leiðum. Menn verða veikir, það verða ofboðslega mikil veikindi, menn fá í magann, menn draga lappirnar í vinnunni og það verða tafir sökum þess. Þannig að þegar menn setja slík lög núna verða þeir að horfa til þess að þetta er í annað skiptið. Þetta eru lög, það er ekki búið að reyna allar aðrar leiðir sem á að vera meðalhófsreglan, bæði hjá þeim sem beita lögbundnum ofbeldisrétti sínum til verkfalla og hjá þeim sem ætla að stöðva verkföllin og þennan rétt fólks. Það þarf að sjálfsögðu að gæta meðalhófs og ganga ekki lengra en þörf er. Hérna er lagasetning aftur notuð þegar hefði verið hægt að gera aðra hluti. Það er ekki búið að fullreyna öll verkfæri til að ná samningum. Það er ekki búið að fullreyna þau öll. Það er ekki búið að fara í gegnum tékklistann og tékka þau af. Með þetta allt í huga ættu stjórnvöld að fara virkilega varlega.

Þetta frumvarp verður náttúrlega samþykkt en í framtíðinni ættu stjórnvöld virkilega að stíga varlega til jarðar því að annars vitum við ekki hvað getur gerst. Það getur orðið upplausn.



[13:35]
Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ef horft er til þeirrar umræðu sem átt hefur sér stað, bæði í umhverfis- og samgöngunefnd og eins í umræðunni í þinginu, er ákveðinn samhljómur um vissa grundvallarþætti. Í fyrsta lagi er samhljómur um að þær aðgerðir sem hér liggja til grundvallar, þ.e. verkfallsaðgerðir flugmanna, hafa mikil áhrif og alvarleg af efnahagslegum forsendum. Eins og rakið er í nefndarálitum bæði meiri og minni hluta er þar auðvitað um að ræða gríðarleg áhrif á ferðaþjónustuna og fyrirtæki sem tengjast henni en líka á inn- og útflutning, fyrir svo utan almenn ferðalög fólks til og frá landinu.

Efnahagslegu áhrifin, það er erfitt að festa hönd á því hvað þau eru mikil í krónum og aurum, en það er hins vegar mikilvægt og það liggur fyrir bæði af hálfu meiri hluta og minni hluta, að óumdeilt er að þau eru óhemjumikil, enda blasir það við að fyrir land sem er jafn háð samgöngum í lofti og Ísland er hefur truflun af þessu tagi gríðarleg áhrif.

Áætlað hefur verið að þetta verkfall hefði áhrif á 70% farþegaflutninga til og frá landinu og trúlega 90% af vöruflutningum í lofti, þannig að þetta er verulega umtalsvert að því leyti og gott að það liggur fyrir af allra hálfu að menn gera sér grein fyrir að þarna er um að ræða gríðarlega mikla efnahagslega hagsmuni, þjóðarhagsmuni, sem eru í húfi.

Í annan stað er heldur ekki dregið í efa að okkar reglur, lagaumhverfi geri það að verkum að álitið er heimilt að löggjafinn grípi inn í aðgerðir af þessu tagi þegar miklir almannahagsmunir eru í húfi. Það er líka mikilvægt að þetta liggi fyrir.

Það sem kannski skilur á milli, og kannski ekki óeðlilegt, er að menn meta með mismunandi hætti annars vegar hvort allt hafi verið reynt sem hægt var áður en lagasetning af þessu tagi kemur til og hins vegar liggur auðvitað í loftinu líka álitamál um það hvort almannahagsmunirnir eru nægir til að það réttlæti inngripið sem hér á sér stað.

Menn verða seint sammála um slíka hluti en ég held að af hálfu meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar og ríkisstjórnarflokkanna sé það ótvírætt mat að nauðsynlegt sé að grípa til aðgerða af þessu tagi núna í þessu tilviki við þær aðstæður sem hér eru uppi, þrátt fyrir að það liggi jafnframt fyrir af hálfu bæði þess ráðherra sem flytur málið og okkar sem stöndum að meirihlutaáliti í umhverfis- og samgöngunefnd að þetta eru auðvitað þung spor. Það er ekki með neinni léttúð sem menn ganga til þessa verks, það er auðvitað þannig að það er meginhlutverk aðila á vinnumarkaði að semja um kaup og kjör sína á milli. Aðkoma ríkisvaldsins með löggjöf í því sambandi er gríðarlega óheppileg og óæskileg og hlýtur í öllum tilvikum að skoðast sem neyðarúrræði.

Ég vék að því að menn mætu hugsanlega á mismunandi hátt hvort reynt hefði verið til þrautar að láta hlutina ganga saman hjá ríkissáttasemjara, og þá var réttilega bent á að miðlunartillaga samkvæmt lögum hefur ekki verið lögð fram. Hins vegar lagði ríkissáttasemjari fram sáttatillögu sem að efni til er ekki ástæða til að ætla að sé með neinum hætti öðruvísi en miðlunartillaga af hans hálfu. Henni var hafnað af hálfu Félags íslenskra atvinnuflugmanna. Að mínu mati standa öll rök til þess að miðlunartillögu hefðu beðið sömu örlög. Í ljósi þess að hér er um viðkvæma starfsemi að ræða þar sem tímafaktorinn skiptir mjög miklu máli held ég að það væri óskynsamlegt af löggjafanum að bíða með lagasetningu í þessum efnum eftir því að það ferli yrði látið ganga til enda, eins og mér heyrðist sumir hv. þingmenn vera að gefa í skyn að væri æskilegt í umræðunni áðan.

Ég held líka að það liggi alveg ljóst fyrir, ekki síst eftir fund okkar í umhverfis- og samgöngunefnd í morgun, að gríðarlega langt er á milli aðila. Þeir eru mjög ósammála um þessa hluti og því miður var ekki, svo vægt sé til orða tekið, mikið samkomulagshljóð í mönnum á þeim vettvangi. Þetta varð til þess að styrkja alla vega mig í því áliti að hér væri inngrip nauðsynlegt.

Um aðra þætti málsins ætla ég svo sem ekki að fjalla nánar. Ég fagna því að innan meiri hlutans tókst samstaða um að stytta þá tímafresti sem gert var ráð fyrir í frumvarpinu, það er auðvitað til þess fallið að stytta það óvissutímabil sem ella gæti dregist fram eftir sumri og fram á haust. Það er mikilvægt þegar málin eru komin í þennan farveg að óvissan vari sem skemmst, ég held því að það sé jákvæð breyting á málinu.

Ég vil líka nefna að í þessu tilviki er ekki verið að taka samningsfrelsið af aðilum. Þeir halda því auðvitað áfram og geta náð samkomulagi með bindandi hætti sín á milli áður en gerðardómur kemur saman og jafnvel eftir að hann kemur að málum. Sá möguleiki er ekki tekinn af þeim að komast að frjálsu samkomulagi sín á milli ef forsendur af þeirra hálfu breytast.

Í mínum huga hefur sú umfjöllun sem vissulega hefur verið afar stutt en þó þess eðlis að hún hefur gefið okkur tækifæri til að glöggva okkur á flestum hliðum málsins orðið til þess að styrkja mig í þeirri trú að þetta sé réttlætanlegt í þessu tilviki, þetta sé nauðsynlegt í ljósi efnahagslegra hagsmuna og að mikilvægt sé að ferlið gangi þá hratt fyrir sig þannig að neikvæðar afleiðingar verði sem minnstar.



[13:43]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni málefnalega ræðu þar sem hann fór vel yfir atriði máls og rakti afstöðu sína til þeirra. Ég get um margt verið sammála ýmsu sem þar kom fram en ég er líka ósammála þingmanninum að ákveðnu leyti.

Nú hefur það til dæmis verið sagt hér í þingsal, sem mér finnst merkilegt, hv. þingmaður gerði það þó ekki, að þetta væri hálaunastétt, en formaður Vinstri grænna benti á að sagt hefði verið á fundi nefndarinnar að mannréttindi væru ekki tekjutengd.

Ég vil spyrja (HöskÞ: Hver sagði þetta?) hv. þingmann (Gripið fram í: Hver sagði þetta?) hvort hann telji (Gripið fram í.) svona inngrip er alltaf byggt á matskenndum atriðum. Við vitum að fram undan eru kjarasamningar flugliða og ef við segjum já, ef Alþingi heimilar lagasetninguna núna, hvað ætlar þá þetta sama Alþingi að gera eftir nokkra daga ef við blasir verkfall flugliða og það er langt á milli aðila? Mig langar að spyrja hv. þingmann: Mun hann verða tilbúinn gagnvart annarri stétt hjá sama fyrirtæki að beita sömu rökum eftir nokkra daga?



[13:45]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla að láta nægja í þessu svari að taka undir það sem fram kom í máli hv. þm. Katrínar Jakobsdóttur áðan, að í svona undantekningartilvikum, neyðartilvikum, þarf að meta hvert tilvik fyrir sig.



[13:45]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið sem sýndi okkur að hann er ekki tilbúinn að svara því augljósa, að með því að samþykkja þetta frumvarp setjum við að sjálfsögðu komandi kjaradeilur á þessu sumri í algjört uppnám og köllum yfir okkur frekari inngrip löggjafans.

Ég þekki ekki rekstur Icelandair sem er í þessu tilfelli mótaðilinn. Ég geri ráð fyrir að hæstv. ráðherra hafi átt fund með fyrirtækinu og að menn hafi farið yfir hvernig þeir ætla að halda á þessu máli, því að þetta er mikið áhyggjuefni, þetta er fyrirtæki sem samkvæmt fréttum skilar góðum hagnaði, ég hef þó ekki lesið ársreikninga félagsins. Þetta er fyrirtæki sem er í stærstu útflutningsgrein landsins. Hver er ábyrgð fyrirtækja í útflutningi fyrir því að ógna ekki almannahagsmunum? Ég tek undir það, verkfall flugmanna mun hafa hér mjög víðtæk áhrif og það er mjög alvarlegt mál. En hver er ábyrgð fyrirtækisins sem er leiðandi fyrirtæki sem skilar 27% aukningu í hagnaði á milli ára í stærstu útflutningsgrein landsins? Á þetta fyrirtæki von á því að það þurfi ekki að semja við starfsfólk sitt því að hér á Alþingi ætli þingmenn með lögum að taka þann rétt af starfsfólki fyrirtækisins?



[13:47]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég greindi ekki beina spurningu til mín í þessu sambandi en vil þó geta þess að auðvitað er það skoðun mín, og ekki frumleg, að ábyrgð allra sem sitja við samningaborðið í málum af þessu tagi hlýtur að vera rík.



[13:48]
Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þeim þingmönnum sem tóku þátt í þessari umræðu. Hún var um margt málefnaleg og flestir viku að efnisatriðum málsins. Mig langar til þess að bregðast við nokkrum fullyrðingum, kannski leiðrétta misskilning og hnykkja á nokkrum atriðum.

Fyrsta atriðið sem mig langar til þess að hnykkja á er að ég tek undir með öllum þeim, bæði í meiri hluta og minni hluta sem komið hafa hér og sagt að það þurfi að meta hvert tilvik fyrir sig. Það er algjört lykilatriði vegna þess að hér hafa þingmenn, einkum þingmenn Samfylkingarinnar, komið í pontu og talað um að þessi löggjöf kalli yfir okkur frekara inngrip löggjafans. Svo er ekki. Þessi mál verða alltaf — og ég ítreka það — þau verða alltaf að vera sjálfstæð og þau verður að meta sjálfstætt út frá þeim veruleika sem við blasir í hvert og eitt skipti.

Þá er eitt sem er algjört lykilatriði og í rauninni eina matið sem löggjafinn á að byggja á varðandi það hvort hann setur lög eða ekki, það er að þeir hagsmunir sem eru undir fyrir almenning og þjóðina verða að vera það ríkir að það réttlæti lagasetningu sem eins og hér um ræðir. Ég tek undir með þeim sem sagt hafa að þetta séu þung skref sem stigin eru hér.

Hv. þm. Katrín Jakobsdóttir gerði hér að umtalsefni ábendingu sem fram kom á fundinum, að það gæti verið óeðlilegt og leitt til einhvers konar vanhæfis að Hæstiréttur skipaði einn mann í gerðardóminn. Það er rétt að okkur gafst ekki tækifæri til þess að fara mjög ítarlega yfir það, en ég vil þó taka það fram af því að menn hafa vitnað hér í hæstaréttardóm nr. 167 frá árinu 2002. Í því máli skipaði Hæstiréttur alla þrjá aðilana í gerðardóm. Héraðsdómur, sem var nú staðfestur með vísan til forsendna, gerði engar athugasemdir eða vék að því á nokkurn hátt, væntanlega vegna þess að hvorugur aðilinn gerði neinar athugasemdir við það. En ég sé því ekkert til fyrirstöðu að Hæstiréttur tilnefni mann, ég sé ekki að hann eigi að vera vanhæfur á nokkurn hátt.

Ég vil leiðrétta eitt meðan ég man. Í nefndarálitinu gleymdist að geta eins aðila sem mætti á fundinn, Björgólfs Jóhannssonar, og Hrafnhildur Stefánsdóttir kom á fund nefndarinnar sem sérfræðingur, ekki sem aðili.

Ég vil líka taka það fram hér og benda á að þó að það séu óvenjulegar aðstæður á vinnumarkaði breytir það ekki mati löggjafans. Þegar löggjafinn metur það þannig að þessir ríku almannahagsmunir séu til staðar má það ekki skipta máli að aðrar kjaradeilur séu í farvatninu, það verður að vera sjálfstætt mat á hverju tilviki fyrir sig. Löggjafinn mundi lenda í allverulegum vandræðum með að taka svona ákvarðanir ef hann þyrfti að taka mið af því að aðrar aðgerðir eða ágreiningur væru í gangi. Ég held að það skipti miklu máli.

Varðandi það að nefndin þurfi að taka sér lengri tíma þá er það sjónarmið út af fyrir sig, en það er líka sjónarmið þegar ákvörðun er tekin um að setja lög á verkfall að það þurfi að vinna hratt og örugglega. Ég ítreka þakkir mínar til nefndarmanna fyrir það að ágætissamstaða var um málsmeðferðina, hún gekk vel.

Hér var fullyrt í ræðu að þetta væri einhver stefna ríkisstjórnarinnar, að þetta væri fyrirsjáanlegur þáttur. Svo er ekki, alls ekki. Ég vara við því að send séu út slík skilaboð úr ræðustól Alþingis að samningsaðilar eigi að fara að gera ráð fyrir því í kjaraviðræðum sínum að þetta sé það sem koma skuli. Svo er ekki, en auðvitað verða hagsmunirnir metnir í hverju tilviki.

Hér var fullyrt að fulltrúar frá ASÍ teldu að hér væri brot á alþjóðlegum samningum sem Ísland væri aðili að. Reyndar kom aðeins einn aðili frá ASÍ á fund nefndarinnar, lögfræðingur samtakanna. Hann vísaði í ILO, en ég tek það fram að túlkun mín á þeim samningi er ekki sambærileg við túlkun hans. En ég spurði þann ágæta aðila hvort ASÍ tæki undir kröfugerð flugmanna. Hann vildi engu svara um það.

En vegna þess að hér var fullyrt að menn væru að vísa í laun og launakjör almennt, þá hef ég ekki orðið var við það í þessari umræðu. Það hefur enginn úr meiri hlutanum í umræðunni í dag vísað til þess að hér sé um stétt að ræða sem borið hefur meira úr býtum en aðrir. Það eru ekki rök í þessu máli. Það eiga allir sama samningsrétt hvar sem þeir standa. Það verður að virða.

Við Íslendingar erum háðir flugsamgöngum, ekki bara vegna þess að við búum á eyju í miðju Atlantshafi heldur búum við líka frekar strjálbýlt í mjög stóru landi. Flugsamgöngur eru gríðarlega mikilvægar, ekki bara innan lands, heldur líka við umheiminn. Þegar þessar samgöngur eru skertar skerðast lífsgæði allra landsmanna. Það er þess vegna sem við stígum þessi þungu skref í dag að setja lög á verkfallið.

Ég ítreka þakkir mínar til nefndarmanna og þeirra sem tóku þátt í umræðunni og vonast til þess að frumvarpið verði að lögum hér seinna í dag.