145. löggjafarþing — 166. fundur
 7. október 2016.
fjögurra ára samgönguáætlun 2015–2018, frh. síðari umræðu.
stjtill., 638. mál. — Þskj. 1061, nál. 1679 og 1683, brtt. 1680, 1684, 1711, 1740, 1751, 1756 og 1757.

[14:25]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil í upphafi ræðu minnar þakka hv. þm. Kristjáni L. Möller fyrir góð og falleg orð í garð þingsins og horfa í baksýnisspegilinn yfir feril sinn. Það er alltaf áhugavert. Og þar sem ég hef fylgst með hv. þingmanni í gegnum tíðina og verið með honum í nefnd frá því að ég tók sæti á þingi fyrir sjö árum get ég staðfest að hann er ötull baráttumaður landsbyggðarinnar og samgöngumála. Það verður missir að honum á þingi. Við hin sem ætlum að starfa hér áfram tökum við flagginu af honum og höldum áfram að láta bora í gegnum fjöll sem víðast um landið.

Við ræðum samgönguáætlun og hér liggur fyrir breytingartillaga sem er niðurstaða varðandi þinglokin og breytingartillögur úr umhverfis- og samgöngunefnd varðandi samgönguáætlun, bæði frá meiri hluta og minni hluta. Undir þá breytingartillögu skrifa nefndarmenn úr umhverfis- og samgöngunefnd úr öllum flokkum og taka þar inn tillögur minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar að hluta til. Er ég vissulega mjög ánægð með að sjá það því að það þurfti virkilega að spýta í lófana varðandi samgöngumálin. Þær tillögur sem meiri hlutinn lagði fram til breytinga eru allra góðra gjalda verðar og samþykki ég þær að sjálfsögðu þótt seint komi. Þessi þrjú ár hafa því miður farið til spillis í uppbyggingu innviða og samgöngumála í landinu. En betra er seint en aldrei.

Við í minni hlutanum lögðum til breytingar til að styrkja þær breytingartillögur sem komu frá meiri hlutanum. Nú sammælast menn um að taka hér inn aukið fé í viðhald vega sem ekki veitir af. Það munar um minna. Verið er að tala um að framlög hækki um rúman 1,1 milljarð árið 2017 og 1,3 milljarða árið 2018. Ég veit að margir gleðjast við að heyra það, bæði landsmenn sem búa við slæmt vegakerfi og eins Vegagerðin vegna þess að hún þarf góðan tíma til undirbúnings framkvæmda sinna og þarf að vita úr hverju menn hafa að spila. Þótt þetta sé ekki endanlega frágengið með afgreiðslu fjárlaga treysti ég því og trúi að til valda komi þing sem hefur metnað til þess að gera vel í samgöngumálum af því að þar er mikill uppsafnaður vandi. Öryggis og samgangna vegna milli heilu byggðarlaganna verður að fara að taka til hendinni strax.

Hér er einnig verið að samþykkja tillögu frá okkur í minni hlutanum um að setja 125 millj. kr. í uppbyggingu Skógarstrandarvegar árið 2017, sem ég gleðst mjög yfir, og 125 millj. kr. 2018. Einnig verður lagt fé í að laga Örlygshafnarveg um Hvallátur, leiðina út á Látrabjarg, ekki veitir af. Þar er verið að tala um og búið að leggja til að settar verði 120 millj. kr. í verkið árið 2018.

Á austursvæðinu er verið að tala um að árið 2018 fari 50 millj. kr. í undirbúning og útboð á Axarvegi og samgleðst ég íbúum þess svæðis í þeim efnum því að það er afskekkt svæði sem hefur þörf fyrir góðan uppbyggðan veg inn á miðja Austfirði.

Hérna er líka verið að tala um, það dettur svolítið niður úr skýjunum, 10 millj. kr. í rannsóknir og frumhönnun á jarðgöngum milli Siglufjarðar og Fljóta, 5 millj. kr. á næsta ári og 5 millj. kr. 2018. Ég samgleðst fólki nyrðra og er ánægð með það, en ég vil sjá sambærilega upphæð í rannsóknir á Álftafjarðargöngum sem voru til umræðu í nefndaráliti minni hlutans. Við þingmenn Norðvesturkjördæmis munum leggja mikla áherslu á það og leggja fram tillögu þess efnis og trúi ég ekki öðru en að menn gæti jafnræðis þar og leggi sambærilega upphæð í rannsóknir á Álftafjarðargöngum því að þau eru mjög brýnt verkefni.



[14:31]
Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að taka undir það með hv. þingmanni að ráðast þurfi í að athuga hvort Álftafjarðargöng séu raunverulega möguleiki. Það væri betra ef tillaga minni hlutans hefði að fullu farið inn í tillögu meiri hlutans en það er þó eitthvað sem hefur komist inn, t.d. viðhald á vegum og endurbætur á veginum að Látrabjargi. Það er gleðiefni.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hve mikið fjármagn hún heldur í reynd að þurfi til að koma Vestfjörðum í skikkanlegt horf. Til þess að vera með endurbætur af og til og til þess að viðhalda vegum telur Vegagerðin sig þurfa allt að 11 milljarða kr. á ári. Mig langar tað spyrja hv. þingmann, þar sem hún er mjög kunnug þarna, hve mikið fjármagn hún heldur að þurfi til að koma Vestfjarðarkjálkanum, og þar á meðal sunnanverðum Vestfjörðum, í þannig horf að vegir verði öruggir, að ekki verði lengur malarvegir þarna heldur alla vega bundið slitlag og þar fram eftir götunum.



[14:32]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Stórt er spurt og ég er ekki verkfræðingur í fjármálareikningum hvað varðar vegagerð. Mín þumalputtaregla er sú að segja 50 milljarðar og það væri svolítið gaman að fá að vita hvort ég er langt frá réttri tölu eða ekki, en ég hugsa að það sé ekki endilega fjarri lagi. Við erum að tala um að ljúka vegaframkvæmdum á Vestfjarðarvegi 60 og nokkrum héraðs- og tengivegum, Dýrafjarðargöngum, uppbyggingu á Dynjandisheiði og að ljúka við veginn um Strandir í Árneshreppi og við veginn út á Látrabjarg. Ég hugsa að það sé ekki fjarri lagi að segja 50 milljarðar plús. En ég ætla ekki að ábyrgjast þá tölu og vel má vera að einhver hjá Vegagerðinni — starfsmenn hennar eru ábyggilega að fylgjast með þessari umræðu — hrökkvi upp af standinum út af svo óábyrgu tali þingmanns kjördæmisins.

Við verðum líka að hafa einhverja tilfinningu fyrir þessum málum og ég legg mikla áherslu á Álftafjarðargöngin, en eins og ég skil það er búið að rannsaka ákveðnar leiðir þar. Kannski eru þau göng ekki inni í þessum 50 milljörðum. Ég held að það þurfi að taka þau út fyrir sviga, það gætu orðið 60 milljarðar ef við tökum þau göng líka. En þau eru mjög brýn vegna þess að leiðin milli Súðavíkur og Skutulsfjarðar er oft og tíðum stórhættuleg. Maður þakkar fyrir að ekki verði alvarleg slys þar.



[14:34]
Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég held að 50 milljarðar séu ekki fjarri lagi þótt það sé að sjálfsögðu óábyrgt að segja það. En ég held að það sé mjög gagnlegt, til þess að fá tilfinningu fyrir því hvernig vegakerfið er á þessu svæði, að ímynda sér hvað það gæti mögulega kostað.

Ég er sammála hv. þingmanni hvað það varðar að göng séu mikilvæg. Við sjáum það t.d. bæði í Færeyjum og í Noregi þar sem er mikið fjalllendi og byggðin dreifð. Þar er einfaldlega í gildi stefna um að hafa göng, það er ekkert múður með það, þannig er það bara. Það er langöruggast og kemur í veg fyrir að fólk þurfi að fara upp á heiðar og göng eru oft eini möguleikinn sem gengur upp. Ég styð hv. þingmann í baráttu sinni fyrir Álftafjarðargöngum.

Mig langar líka að inna hv. þingmann eftir því hverju það breytir að hafa göng milli svæða, hvaða áhrif hefur það? Ég veit að hv. þingmaður er vel að sér um svæðið og ég veit að mörg göng þar eru tiltölulega ný, t.d. á milli Bolungarvíkur og Ísafjarðar. Getur hv. þingmaður sagt mér aðeins frá því hvernig það breytir aðstæðum í þeirri byggð? Jafnvel þó að manneskja úr Reykjavík sé ekki að fara um þarna á hverjum einasta degi liggur beint við að álykta sem svo að þetta hljóti að vera mikil búbót fyrir menningu og samstarf milli bæjarfélaga og líka hvað varðar umferðaröryggi. Það væri gaman að fá að heyra í hv. þingmanni.



[14:36]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ef Álftafjarðargöngin yrðu að veruleika yrði þetta svæði orðið eitt heildstætt atvinnusvæði. Bolungarvíkurgöngin hafa gert það að verkum að miklu meiri samskipti eru á milli Bolungarvíkur og Ísafjarðarbæjar en voru varðandi alla atvinnu og samskipti. Það hefur gjörbreyst á stuttum tíma vegna þess að Óshlíðin var það hættulegur vegur yfirferðar og hún var oft og tíðum lokuð og er stórhættuleg. Það sama má segja um Súðavíkurhlíðina, þar er fólk reglulega á ferðinni til þess að sækja þjónustu inn á Ísafjörð. Þar er oft og reglulega lokað vegna snjóflóðahættu og vegna hættu á aurskriðum. Það er bara fólk með sterk bein sem þolir að búa við slíkt til lengdar, að eiga alltaf á hættu þegar það fer á milli með öll sín börn til að sækja sér þjónustu inn á Ísafjörð að lenda á milli tveggja snjóflóða og vera þar einangraður. Það gerir sér enginn grein fyrir þessu nema það fólk sem býr við aðstæður af því tagi.

Það yrði gífurleg breyting á högum fólks og áhuga fólks á að búa í Súðavík og mundi styrkja þetta svæði gífurlega að fá þessi göng. Þetta er líka leiðin frá Ísafjarðarbæ og Bolungarvík til höfuðborgarsvæðisins. Það þarf alltaf að fara Súðavíkurhlíðina og auðvitað jafn hættulegt fyrir allt það fólk sem fer þarna reglulega um, eins og landsbyggðarfólk gerir, til að sækja sér þjónustu á höfuðborgarsvæðið. Þetta er gífurlegt hagsmunamál og öryggismál og ég undirstrika það að við þingmenn kjördæmisins munum leggja fram breytingartillögu þess efnis að rannsóknir fari fram og fé verði ætlað í Álftafjarðargöng.



[14:39]
Anna Margrét Guðjónsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég er komin í mína aðra eða þriðju ræðu um samgönguáætlun sem nú liggur fyrir Alþingi. Það er nú gaman að sjá þegar maður lítur yfir þennan fámenna sal að það eru bara konur í salnum að ræða samgöngumál og kveður þar við nýjan tón. En kannski eru strákarnir bara í einhverju baktjaldamakki í reykfylltum bakherbergjum um það hvernig hægt sé að lenda þessari ágætu samgönguáætlun því að við heyrum á göngunum að það séu að koma inn ýmsar nýjar hugmyndir. En gott og vel.

Fyrst vil ég segja að ég fagna auðvitað breytingartillögunni sem kemur frá allri nefndinni og ríkir orðið full samstaða um, um viðbótarframlög til rannsókna. Sérstaklega gleðst ég yfir liðnum, sem samstaða ríkir um, að bæta við 2 milljörðum í viðhald og endurbætur, enda er löngu tímabært að fara að uppfæra stofnvegakerfi okkar. Ég ætla að nota síðustu mínútur mínar í ræðustól, því að þetta er síðasta ræðan sem ég held á Alþingi, til að fjalla um sérstaklega um samgönguáætlun, nánar tiltekið um vegabætur til Vestfjarða og sóknaráætlun. Í fyrsta lagi segir í tillögu til þingsályktunar að samgönguáætlun hafi skírskotun og sé í samhengi við sóknaráætlun landshluta. Ég skoðaði sérstaklega sóknaráætlun Vestfjarða fyrir tímabilið 2015–2019 og ég verð að segja það að þessi sóknaráætlun er auðvitað góðra gjalda verð, hún er skref í rétta átt og hún hefur sannarlega skírskotun til samgönguáætlunar, en að öðru leyti verð ég að lýsa því yfir að mér hafa orðið það ákveðin vonbrigði hversu mikið sóknaráætlanir landshluta hafa þynnst út frá því að sú hugmynd fyrst kom fram. Það var á síðasta kjörtímabili þegar ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna var í aðildarviðræðum við Evrópusambandið og við hófum að tileinka okkur vinnubrögð sem tíðkast þar í áætlanagerð og þá sérstaklega í byggðamálum. Þar sóttum við okkur fyrirmyndir til annarra Evrópuríkja þar sem menn gera alvörusóknaráætlanir til sjö ára í senn sem eru þannig í skjóli fyrir hugsanlegum breytingum á meiri hluta á þingum.

Sú sóknaráætlun Vestfjarða sem hér liggur fyrir, 2015–2019, er til að mynda því marki brennd að mjög fáir koma að því að leggja grunn að henni. Fjórðungssamband Vestfirðinga kallaði ítrekað eftir samráði, eftir því sem fram kemur í þessu plaggi, um það hvernig sóknaráætlunin ætti að líta út. En eftir því sem fram kemur í skjalinu var niðurstaðan sú að mjög fáir af þeim sem kallaðir voru til til að taka þátt í stefnumörkuninni lögðu hönd á plóg. Ég ætla ekkert að gefa mér hvers vegna raunin er sú, en ég hef heyrt að fólki þyki sem þetta sé orðið sýndarsamráð og því hafi þátttakan í þessu tilviki verið eins dræm og raun ber vitni. Það kemur fram á bls. 13 í sóknaráætlun fyrir Vestfirði að ítrekað var reynt að fá fólk að borðinu en aðeins fjögur sveitarfélög af níu skiluðu inn tilnefningum um samráðsvettvang.

Engu að síður er þetta áhugavert plagg og ég verð að segja það, virðulegur forseti, að sá landsfjórðungur sem stendur hjarta mínu næst er einmitt Vestfirðir því að ég bjó þar og starfaði í nokkur ár og þekki þar af leiðandi ágætlega innviðina og samfélagið þar. Því miður er það svo að kannski er stærsta vandamálið ekki endilega samgöngur vegna þess að hvað sem líður umræðunni um vonda vegi á Vestfjörðum þá hafa þeir batnað mjög mikið, þökk sé þingmönnum Norðvesturkjördæmis sem barist hafa ötullega fyrir vegabótum vestur á fjörðum. Það eru höf og lönd milli þess að keyra Vestfirði núna eða fyrir örfáum árum, hvort sem það eru sunnanverðir eða norðanverðir Vestfirðir. Nú blasir við allt annar veruleiki en bara fyrir örfáum árum síðan. Vandræðin í samgöngumálum á sunnanverðum Vestfjörðum eru ekki endilega skortur á fjárveitingum eða vilja, vandræðin snúast fyrst og fremst um deilur um vegstæðið í gegnum Teigsskóg.

Ég vil aðeins koma aftur að því sem fram kemur í sóknaráætlun Vestfjarða. Þar segir m.a. að stór hluti af vandamálum Vestfjarða í dag sé einhæft atvinnulíf. Þetta einhæfa atvinnulíf hefur ekki þróast með þessum hætti vegna þess að samgöngur séu svo vondar. Það hefur þróast þannig vegna þess að ekki hefur endilega verið vilji til þess að leggja áherslu á að byggja upp samfélag — jú, kannski hefur verið vilji en hann hefur ekki náð alla leið — sem hentar jafn vel fyrir konur og karla til að setjast að vestur á fjörðum. Það er staðfest í þessari skýrslu að atvinnulíf á Vestfjörðum er mjög einhæft og það er karllægt. Það er rót vandans, að ég held, að miklu leyti. Það er atvinnulífið en ekki vegakerfið, þó að auðvitað hangi þetta mjög mikið saman, að sjálfsögðu.

Ástæða þess að ég fór í pólitík á sínum tíma árið 2009 var einlæg trú mín á því að Ísland væri betur komið innan Evrópusambandsins og hef ég ekki vikið frá þeirri trú minni síðan jafnvel þótt ýmislegt hafi gengið á í álfunni. Oft verður mér hugsað til Vestfjarða í þeim efnum. Ef við viljum tala um kjördæmapot eða kjördæmaskipan í þessu landi þá hugsa ég að landsbyggðin á Íslandi, og sérstaklega landsbyggðarkjördæmin Norðvesturkjördæmi og Norðausturkjördæmi, og Suðurkjördæmi eftir atvikum líka, hefðu sennilega hagnast mest á aðild Íslands að Evrópusambandinu. Því held ég að tap þessara landsvæða sé gríðarlegt. Þá er ég ekki bara tala um fjármuni sem hefðu runnið þangað úr sjóðum Evrópusambandsins, ég er líka að tala um aðhald og skipulag í vinnubrögðum hér á Alþingi Íslendinga. Þess vegna er það enn þá trú mín, eins og áður er sagt, virðulegur forseti, að við eigum að halda áfram, við eigum að ganga til þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi samningaviðræður við Evrópusambandið.

Virðulegi forseti. Að þessum orðum sögðum langar mig að þakka þinginu og þingmönnum síðustu tveggja kjörtímabila fyrir ánægjulegt samstarf. Eins og ég sagði áðan kom ég fyrst inn á þing árið 2009. Það er margt minnisstætt í þingstörfunum. Þó að ég hafi dvalið hér mislengi, eða misstutt, hef ég nokkrum sinnum tekið sæti. Minnisstæðast og erfiðast er auðvitað landsdómsmálið sem var okkur öllum mjög þungt í skauti og reyndi mjög á hvert og eitt okkar og auðvitað samheldni og samstarf þingmanna á þeim tíma. Það var erfitt og ég ætla að vona að við þurfum aldrei aftur að lenda í slíku máli sem það var og að við lærum að sjálfsögðu af því líka.

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir mig.



[14:48]
Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir ræðu þingmannsins, enda kom hún inn á þau málefni sem samgöngumálefni þurfa líka að taka tillit til og það eru konur og réttindi kvenna í heiminum. Mig minnir að þegar verið var að fjalla um þessa samgönguáætlun hafi einhver úr Fjórðungssambandi Vestfjarða, gott ef ekki, einfaldlega sagt að fjölskyldufólk og konur væru m.a. að flytjast úr þessari byggð, úr þeirri brothættu byggð sem Vestfjarðarkjálkinn er í heild sinni, út af vegum, af því að vegakerfið er svo slæmt og óöruggt. Það er mikið sjálfsákvörðunarmál að geta búið þar sem maður upplifir sig öruggan, þar sem konur upplifa sig öruggar, ef maður á að nota það til samanburðar.

Það er mjög mikilvægt, held ég, að líta á samgönguáætlun í miklu heildstæðara ljósi og jafnvel út frá kynjafræðilegum sjónarmiðum. Mér þótti þetta því mjög áhugavert. Að sama skapi er þessi afstaða þegar kemur að Vestfjörðum og ég deili því með hv. þingmanni þó að ég eigi hvorki ættir að rekja til Vestfjarða né hafi búið þar.

Mig langar að spyrja hv. þingmann, þar sem hún hefur sjálf búið á Vestfjörðum og þar sem hún er kona, hvort hún hafi einhvern tímann upplifað það að vera óörugg á vegum sem þar eru, hvort þessi tilfinning sem margir hafa gagnvart vegamálum og sér í lagi slæmum vegum sé sönn eða hvort þetta sé aðeins tilfinning sem maður hefur heyrt af en er kannski ekki mikið til í.



[14:50]
Anna Margrét Guðjónsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Ástu Guðrúnu Helgadóttur fyrir andsvar hennar. Ég bjó og starfaði vestur á fjörðum á árunum 1992–1995 og þá sem ferðamálafulltrúi Vestfjarða. Eðli málsins samkvæmt var ég mikið á ferðinni og oftast ein og allan ársins hring. Ég bjó á Vestfjörðum og með Vestfirðingum þegar mestu náttúruhamfarir fjórðungsins gengu yfir og auðvitað leið mér ekkert alltaf vel, nema síður sé. En mér leið samt oftast vel vegna þess að þetta er dásamlegt svæði að búa á og þarna býr gott fólk, raungott fólk. Eins og ég sagði áðan þá fer ég mjög oft vestur og vegirnir hafa breyst svo svakalega mikið að það er algjörlega ólíku saman að jafna.

Virðulegur forseti. Ég vil líka bæta því við að þegar Íslendingar voru í aðildarviðræðum við Evrópusambandið og ég fór mjög mikið um landið og var að undirbúa svonefnd IPA-verkefni að það var mjög ánægjulegt að fara og eiga samtal við fólk, stofnanir, fyrirtæki og einstaklinga, sem gat allt í einu hugsað sig inn í sjö ára byggðaáætlun, þar sem mátti taka kynjavinkil. Lögð var áhersla á að taka kynjavinkilinn í byggðamálunum. Það voru beinlínis þau skilaboð sem við fengum að það væri viðhaft í byggðamálum Evrópusambandsins að gæta jafnræðis og þar sem hallaði á atvinnumál annars kynsins, og það er jú oftast kvenna, þá skyldum við sérstaklega skoða þann möguleika.

Þegar við fórum um landið með þau skilaboð að undirbúa stór og metnaðarfull verkefni — það voru vitaskuld miklir peningar í boði, virðulegur forseti, það er nú bara þannig í byggðamálum Evrópusambandsins — þá var eins og opnaðist ný gátt og miklu frjórri hugmyndir um það hvernig hægt er að byggja upp atvinnulíf, m.a. á Vestfjörðum.



[14:52]
Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er mjög áhugaverður vinkill sem hv. þingmaður kemur með, þ.e. hversu mikil áhrif aðild Íslands að Evrópusambandinu gæti haft á samgöngukerfið. Nú veit ég ekki hvort það er mýta, en mér hefur alla vega verið sagt að eitt af því fyrsta sem Evrópusambandið geri sé að styrkja innviði þess lands sem ákveður að ganga í það. Með því að styrkja innviði erum við í raun að styrkja það samfélag sem þar er innan borðs og þar af leiðandi að skapa frið. Evrópusambandið er í grunninn mikil friðarsamtök sem hafa jöfnuð milli landa að leiðarljósi. Ég man ekki hvort það var hv. þingmaður sem talaði um vegina í Austur-Rúmeníu, að þeir hafi jafnvel verið skárri en vegirnir á Íslandi. Nú hef ég sjálf ferðast mjög mikið og ég get fullyrt að vegirnir bæði í Armeníu og Georgíu, í Íran og Austur-Tyrklandi eru skárri en margir fjallvegirnir hérlendis, einfaldlega út af því að þar eru peningar settir í vegakerfið, því að þungaflutningar fara þar um.

Við erum á eyju sem þýðir að flugvellir og skipaflutningar eru eina leiðin til að flytja varning inn og út úr landinu. Þrátt fyrir það þurfum við líka að geta ferðast um og hvað varðar það jöfnunarhlutverk sem vegakerfið á að gegna þá held ég að Evrópusambandið sé að gera mjög góða hluti í því. Það væri gaman að fá að fræðast meira um þetta því að eins og hv. þingmaður kom inn á áðan hefur hún sjálf ferðast um landið til að biðja um metnaðarfull verkefni. Ég spyr hvort einhverjir samgöngustyrkir hafi verið í boði til að byggja upp þau mannvirki sem við þurfum að hafa til að stuðla að þeim jöfnuði sem Evrópusambandið vill stuðla að.



[14:55]
Anna Margrét Guðjónsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Ástu Guðrúnu Helgadóttur andsvarið öðru sinni. Ég get ekki sagt að ef við gengjum í Evrópusambandið í dag mundi það láta mikla fjármuni í vegagerð á Íslandi, ég dreg það í efa. Það var hins vegar ákvörðun að byggja samgöngukerfið í Austur-Evrópu upp vegna þess að það var í mjög bágu ástandi þegar Austur-Evrópuþjóðir gengu í sambandið, þetta var sérstakt átak. Hins vegar, af því að við erum svo heppin að vera á þeim hluta hnattarins, í Evrópu ef við förum niður á minni skala, búum við mikla velsæld. Það er bara forgangsmál að ákveða að byggja upp samgöngur umfram annað. Það sem mér fannst mjög lærdómsríkt í þessu ferli var m.a. þessi nálgun hvað varðar byggðasjónarmið, byggðauppbyggingu, og þar er útgangspunkturinn ekki samgöngumál út af fyrir sig heldur að byggja upp innviði fyrir menntun, atvinnuþróun, nýsköpun og annað því um líkt. Þar er, eins og ég sagði í fyrri ræðu minni, lögð sérstök áhersla á að styrkja konur sem búa í brothættum byggðum til að mennta sig og til að skapa sér tilveru og tilvist í dreifðum byggðum á eigin forsendum.

Eins og ég kom inn á í ræðu minni áðan þá segir beinlínis í sóknaráætlun Vestfjarða að kannski sé helsti vandi Vestfjarða núna, og ástæða fólksfækkunar þar, ekki endilega vegakerfið eitt og sér, þótt það skipti auðvitað máli, heldur líka einhæft atvinnulíf og mjög karllægt, árstíðabundin sveifla í ferðaþjónustu og annað slíkt. Það er ánægjulegt að fá aukafjárveitingu í veginn út á Látrabjarg og allar þær vegabætur sem lagðar eru til í samgönguáætlun sem liggur fyrir þinginu, en það er annað og meira sem er hugsanlega vandi Vestfjarða og tengist ekki samgönguáætlun sem slíkri.



[14:57]
Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Frú forseti. Fyrir austan, í Vík í Mýrdal, er mikill áhugi á því að fá göng í gegnum Reynisfjall. Heimamenn þar hafa í áratugi vonast eftir því að stuðningur og fjármagn fáist frá Alþingi á samgönguáætlun til að ráðast í þá framkvæmd. Það er hins vegar ekkert í umferðarmagni eða ytri aðstæðum sem réttlætir slíka ráðstöfun og verður örugglega seint gripið til hennar. Engu að síður hafa heimamenn lagst alfarið gegn öllum viðgerðum á núverandi vegalínu í þeirri von að þeir muni fá þetta fjármagn. Þeir hafa ekki viljað láta lagfæra götubrúnina sem hækkar frá láglendinu upp á hálendið, ef svo má til orða taka, um 125 m há vegalína norðan við Reynisfjall, vegna þess að þeir óttast að það leiði til þess að ekki fáist fjármagn í að grafa göngin í gegnum Reynisfjall. Því miður verða svona meinlokur oft til í vegakerfinu, í samgöngumálum, í samspili fjárveitingavaldsins og sveitarstjórnanna. Mér hefur lengi fundist það sama vera uppi á teningnum þegar kemur að vegarlagningu í gegnum Teigsskóg. Þar hafa heimamenn lagt gríðarlega áherslu á að fá veg gerðan í gegnum Teigsskóg, vissulega til að lagfæra miklar samgönguhamlanir sem felast í Ódrjúgshálsi og Hjallahálsi, en það eru ekki stærstu hindranirnar á þessum vegi. Þetta er ekki það sem helst er að.

Mig langaði að spyrja hv. þingmann, vegna þess að hún kom í ræðu sinni inn á ástand vega á Vestfjörðum, um skoðanir hennar á þeirri stöðu sem þar er uppi. Hvernig væri hægt að hennar mati að lagfæra hana?



[14:59]
Anna Margrét Guðjónsdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Róberti Marshall fyrir andsvar hans. Nú verð ég að viðurkenna að ég þekki ekki nýjustu stöðuna hvað varðar Teigsskóg á sunnanverðum Vestfjörðum, þannig að ég get ekki svarað þessari spurningu. Það er hins vegar þannig, og ég kom aðeins inn á það í ræðu minni í gær, að vegagerð í botni Berufjarðar hefur meðal annars strandað á ósamkomulagi eða þvergirðingshætti milli landeigenda og Vegagerðarinnar um vegstæðið. Þannig er háttað víða um land að við lendum í vandræðum með að leggja þá vegi sem kallað er eftir og við viljum sjálf að séu hluti af góðu vegakerfi landsins.

Ég vona, fyrir hönd Vestfirðinga og allra þeirra sem vilja leggja leið sína vestur á firði, sem er jú sístækkandi hópur, hvort sem það eru ferðamenn eða þeir sem huga á búsetu eða vilja byggja upp atvinnu í þessum fjórðungi, að þessum deilum um Teigsskóg linni. Tveir þingmenn af Vestfjörðum eru hér í salnum og þær geta kannski upplýst okkur um stöðu mála hvað varðar vegalagningu um Þorskafjörð og Teigsskóg.



[15:01]
Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef verið viðloðandi þennan málaflokk, samgöngumálin, mjög lengi og hef oft velt því fyrir mér hvort ástæða væri til að finna nýja og kannski fræðilegri og faglegri leið til að forgangsraða en nákvæmlega með aðkomu stjórnmálamanna. Það er auðvitað okkar hlutverk að ráðstafa fjármagni og ákveða að hve miklu leyti það fari til nýframkvæmda og viðhalds og þar fram eftir götunum. En því miður er það oft þannig, þegar kemur að þessum málaflokki, að innan sveitarstjórnarstigsins er litið á það sem sjálfsagða skyldu þingmanna að endurspegla vilja heimamanna í þessum efnum. Þess vegna nefndi ég dæmið um Reynisfjall. Þegar ég var þingmaður Suðurkjördæmis og kom á fundi í Vík í Mýrdal var ég spurður álits á gangagerð í gegnum Reynisfjall. Ég sagði að mér þætti það fráleit ráðstöfun vegna þess að það væri ekkert vandamál til að leysa, að það mætti leysa með öðrum hætti. Ég uppskar fyrir vikið mörg upphrópunarmerki yfir því að ég skyldi ekki standa með heimamönnum í þessu sjálfsagða verkefni, sem er að mínu mati gríðarlega vafasamt með tilliti til náttúruverndar og þess viðkvæma lífríkis sem er við Dyrhólaósinn, sem er á náttúruminjaskrá. Þar fyrir utan þættu mér þetta miklir fjármunir í verkefni sem hægt væri að leysa með öðrum hætti. Vegagerðin hefur sýnt fram á að með því að færa veglínuna til og minnka hallann við götubrúnina væri hægt að gera þar miklu skaplegri veg sem væri miklu kostnaðarminni ráðstöfun.

Ég hef líka viljað velta þessu upp í tengslum við fyrirhugaðar vegaframkvæmdir í Reykhólahreppi. Mér finnst að þar eigi að láta fagleg sjónarmið ráða för, að það séu beinlínis tölur og útreikningar verkfræðinga sem verði til þess að besta niðurstaðan fáist í málið.



[15:04]
Anna Margrét Guðjónsdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Róberti Marshall andsvar öðru sinni. Ég held að við getum verið sammála um það, ég og hv. þingmaður, að skynsamlegt sé að fá sérfræðinga að sunnan til að fara yfir vegamálin og reyna að finna bestu leiðir fyrir vegarstæði hverju sinni. En auðvitað skiptir mjög miklu máli að hafa heimamenn með í ráðum. Þá vil ég aftur nota tækifærið og benda á að áætlunargerð á Íslandi er enn frumstæð og að mínu viti frekar tilviljunarkennd. Það vantar langtímasýn á það hvert við viljum fara í þróun byggðar í landinu. Í flestum landshlutum fækkar fólki og væntanlega verður svo áfram, það þarf mjög mikið til að snúa þeirri þróun við. Hún er ekki séríslensk, hún er ekki sérevrópsk, þetta er vandamál í öllum heiminum. Fólk þyrpist til borga og vill búa í borgum. Það er m.a. vegna þess sem við komum inn á áðan, þ.e. að atvinnumöguleikar kvenna úti á landi eru miklu takmarkaðri. Einhverra hluta vegna hafa mál skipast þannig mjög víða, ekki bara hér á landi, en við erum að tala um Ísland og íslenska samgönguáætlun, og fer kostum sífellt fækkandi fyrir konur til að mennta sig og starfa. Auðvitað eru kröfur um fjölbreyttara atvinnulíf orðnar meiri, orðið erfiðara að fá ungar fjölskyldur til að flytja út á land og hefja þar búskap og láta til sín taka. Ungt fólk nú til dags, bæði konur og karlar, er yfirleitt mjög vel menntað, sífellt betur menntað, og þá verða bæði hjónin að finna sig á nýjum stað og í nýjum hlutverkum. Það skiptir því gríðarlega miklu máli fyrir byggðaþróun hér á landi, sem og annars staðar, að við hugsum atvinnumál jafnt fyrir konur sem karla.



[15:06]
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Í framhaldi af umræðum sem spunnust um ræðu síðasta ræðumanns, hv. þm. Önnu Margrétar Guðjónsdóttur, má ég til að blanda mér aðeins í þá umræðu um landsvæði eins og t.d. Vestfirði, hvort samgöngurnar séu helsti þröskuldurinn þar eða þá einhæft atvinnulíf, eins og fram kom í ræðu hv. þingmanns. Ég vil aðeins fá að leggja orð í belg varðandi þetta. Ég er hrædd um að hið einhæfa atvinnulíf velti m.a. á samgöngunum. Það er ekki gott að þróa atvinnulíf og ýta undir nýsköpun, efla menntun og auka atgervi í landshlutum sem ekki búa við eðlilegar samgöngur. Samgöngurnar eru svo gríðarlega þýðingarmikill þáttur fyrir landsvæði hvað varðar samkeppnishæfi þeirra við aðra landshluta. Landshlutarnir keppa um mannafla, keppa um hæft fólk, keppast við að ná fyrirtækjum og atvinnustarfsemi inn á sín svæði. Það veltur mikið á samgöngum. Ég vildi aðeins fá að leggja orð í belg varðandi það.

En svo er annað sem ég er hugsi yfir. Hv. þingmenn í hv. samgöngunefnd eru farnir að semja undir þinglok um afdrif mála og einstakra tillagna í sambandi við samgönguáætlun. Nú er skyndilega komin upp á borðið tillaga, skilst mér, um að veita 5–10 millj. kr. rannsóknarfé vegna jarðgangagerðar í Fljótum, sem ég skal ekki leggjast á móti, enda er ég aldrei á móti jarðgöngum. En það skýtur skökku við að slík tillaga skuli fram komin á síðustu metrunum þegar fyrir liggur formlegt mál í þinginu sem lýtur að því að koma Álftafjarðargöngum inn á samgönguáætlun, bráðnauðsynlegu umferðaröryggismáli sem í tvígang hefur verið flutt þingsályktunartillaga um í þinginu, bæði á þessu kjörtímabili og því síðasta. Það er samgöngubót sem minni hluti samgöngunefndar vakti sérstaklega athygli á í minnihlutanefndaráliti sínu. Ég vil bara upplýsa að þó að ég sé ekki í hv. samgöngunefnd er ég tilbúin með breytingartillögu við samgönguáætlun sem lýtur að því að það fari að minnsta kosti jafn miklir fjármunir til rannsókna og undirbúnings að því að gera fýsileikakönnun eða vinna með öðrum hætti faglega að undirbúningi þess að koma Álftafjarðargöngum inn á samgönguáætlun. Þar er ekki verið að fara fram á annað en að bráðnauðsynleg samgöngubót sem leysir af hólmi Súðavíkurhlíðina með sínum 22 snjóflóðagiljum sem úr falla flóð, bæði krapa- og snjóflóð, í verstu veðrum, stundum öllum í einu, samtímis, verði tekin til faglegra efnisátekta svo hægt sé að koma þeim í forgangsröðunina á samgönguáætlun. Ekki er verið að fara fram á annað. Ég held að allir sanngjarnir menn hljóti að sjá skynsemi í því að koma þeim göngum inn á samgönguáætlun og verja einhverjum fjármunum, þó að þeir séu ekki miklir, kannski 5–10 millj. kr. til að koma því máli áleiðis. Ég mundi fagna því ef það tækist. Kannski þarf ég ekki að leggja fram þessa breytingartillögu, kannski endurskoða menn afstöðu sína eða sýna vilja í hv. samgöngunefnd til að bæta þessu við. En það er eiginlega ekki ásættanlegt að á síðustu metrum samgönguáætlunar séu að koma inn einhverjar framkvæmdir sem hvergi og aldrei hefur verið fjallað um í málinu sjálfu á meðan annað er látið sitja á hakanum, eins og sú framkvæmd sem ég nefndi.

Álftafjarðargöngin eru nefnilega ekki bara mikilvæg sem greiðari leið milli byggðarlaga, þau eru hreint og klárt öryggismál vegna þeirrar miklu hættu sem skapast á Súðavíkurhlíðinni alla jafna á vetrum og eru af fagaðilum metin hættulegasti vegurinn vegna ofanflóðahættu (Forseti hringir.) eins og sakir standa eftir að vegurinn var lagður af um Óshlíð með Bolungarvíkurgöngum. Það á því að vera ljóst hvað hér er í húfi.



[15:12]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þar sem við erum í jarðgangaþema, í ræðum um samgönguáætlun, langar mig að heyra skoðanir hv. þingmanns á áhrifum Álftafjarðarganga, ef þau verða að veruleika, á samfélagið fyrir vestan og á norðanverða Vestfirði. Við héldum upp á 20 ára afmæli Vestfjarðaganga nýlega, 14. september voru 20 ár frá því að þau voru vígð. Fyrrverandi samgönguráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, átti stærstan þátt í því að þau yrðu að veruleika á sínum tíma og sýnir það að menn geta unnið út fyrir sitt kjördæmi og þannig á það að vera.

Í kjölfarið á þeirri framkvæmd voru sveitarfélög sameinuð á Vestfjörðum. Ísafjarðarbær átti 20 ára afmæli í ár, ástæða þess að hægt var að sameina þær byggðir sem runnu inn í Ísafjarðarbæ var að samgöngur voru orðnar greiðar þar á milli og varð gjörbylting fyrir allt mannlíf og atvinnulíf á því svæði. Það er kannski ekki alltaf skilningur á því hvað jarðgöng gera. Sumir halda að það sé bara spurning um styttingu á leið en hugsa ekki út í öryggisþáttinn og allt það sem gjörbreytist í framhaldinu, að samfélögin verði sterkari, eflist, geti nýtt betur menntun og menningu, heilbrigðisþjónustu og svo mætti áfram telja.

Mig langar að fá aðeins framtíðarsýn hv. þingmanns þar sem hún flutti ásamt fleirum tillögu um Álftafjarðargöng, að koma þeim á vegáætlun, en sú tillaga liggur fyrir þinginu.



[15:14]
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa fyrirspurn. Stundum er talað um jarðgangaframkvæmdir eins og þær séu einfalt kjördæmapot og gæluverkefni, en þetta eru gríðarlegar mikilvægar framkvæmdir í landi eins og okkar þar sem samgöngur og landslag er eins og raun ber vitni, ekki síst á svæði eins og Vestfjörðum. Við skulum taka Dýrafjarðargöngin sem dæmi. Þau leysa af hólmi fjallveg sem er lokaður níu mánuði ársins. Ef þú kemst ekki Dynjandisheiði og yfir Hrafnseyrarheiði að vetrinum þarftu að fara sjö hundruð kílómetra sveig milli Ísafjarðar og Patreksfjarðar, leið sem tekur ekki nema tvo og hálfa klukkustund að aka yfir sumarmánuðina. Það segir sig sjálft að þetta er gríðarlegt hagsmunamál fyrir samfélögin beggja vegna hinna væntanlegu ganga út af heilbrigðisþjónustu, atvinnuuppbyggingu og til að ná fram markmiðum um samlegðaráhrif, um sameiningu stjórnsýslustofnana o.s.frv.

Álftafjarðargöngin — úttektir sýna að snjóflóðum á Súðavíkurhlíð hefur fjölgað mjög mikið eftir 1991 vegna breytinga á veðurfari og vindáttum í Ísafjarðardjúpi sem valda snjósöfnun í hlíðinni. Þannig mældust 56 snjóflóð á ári á Súðavíkurhlíðinni 1991–2000, samanborið við 42 á hinni stórhættulegu Óshlíð sem nú hefur verið leyst af hólmi með Bolungarvíkurgöngunum. Úttektaraðilar, fagaðilar, hafa bent á að jarðgöng séu eina aðgerðin sem getur tryggt fyllsta öryggi á þeirri leið og mundu auk þess stytta vegalengdina milli byggðarlaga töluvert. Talið er að á skalanum 1–10 mundu þessi jarðgöng fá árangurseinkunnina 10, en óbreytt ástand einkunnina 5. Það þýðir að Súðavíkurhlíðin er í raun rússnesk rúlletta. (Forseti hringir.) Þarna aka skólabílar með börn og fólk þarf að sækja alla þjónustu til Ísafjarðar daglega, margir sækja líka vinnu. Það er því ekki verjandi annað en að grípa til einhverra framkvæmda þarna.



[15:16]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að venda mínu kvæði í kross og fara í flugið. Rætt hefur verið um að skoða ýmsa möguleika. Flugfélag Íslands er að byrja að fljúga beint frá Keflavík til áætlunarstaða eins og Akureyrar; gæti verið til fleiri staða. Hvað finnst hv. þingmanni um að boðið sé upp á slíkt, burt séð frá deilunni um staðsetningu Reykjavíkurflugvallar?

Ef við tökum það alveg út fyrir sviga og horfum bara til þess að ferðaþjónustuaðilar, hvort sem er Icelandair eða minni ferðaskrifstofur sem eru starfandi og eru að kynna sér mál á kaupstefnum erlendis, byðu upp á það að hægt væri að fljúga frá Keflavík á þessa flugvelli; Ísafjörður, Bíldudalur, Akureyri, Egilsstaðir, Höfn í Hornafirði, þess vegna Gjögur eða að endurræsa Alxeandersflugvöll á Sauðárkróki. Eru þetta ekki akkúrat tengisvæði, seglar, sem hægt væri að nýta í ferðaþjónustu og ættu ekki að trufla neitt annað, væru bara búbót og aukning?

Það gerist ekki neitt ef varan er ekki í boði, varan verður fyrst að vera í boði til að hún seljist. Hvað finnst hv. þingmanni um þetta? Hvað finnst henni um að skoða skosku leiðina um að innanlandsflug sé almenningssamgöngur og niðurgreiddar af ríkinu til þeirra sem eiga lögheimili fjærst markaðssvæðinu hér á höfuðborgarsvæðinu?



[15:18]
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni um að varan verður að vera í boði og möguleikinn verður að vera til staðar til þess að einhver nýti sér hann. Þess vegna skiptir miklu máli að efla innanlandsflugið. Ég lít á innanlandsflug sem almenningssamgöngur þó að það sé ekki almenn skilgreining í dag, en ég tel að það þyrfti að líta þannig á. Skilgreina þarf hlutverk innanlandsflugsins og stjórnvöld ættu að leita sem flestra leiða til að geta haldið fargjöldum niðri svo að almenningur geti nýtt sér þennan valkost, ég tala ekki um þegar ástand veganna er eins og raun ber vitni.

Sú hugmynd að fljúga beint frá Keflavíkurflugvelli til staða úti á landi tel ég að sé góð og fullkomlega skoðunarvert að leyfa þá líka fleirum að njóta góðs af því. Ferðamannastraumurinn er að aukast og fyrir landsvæði sem vilja og þurfa gjarnan að geta notið góðs af ferðamannabylgjunni þá skiptir flugið auðvitað miklu máli og að hægt sé að gefa ferðamönnum kost á að fljúga beint til staða eins og Ísafjarðar, á Sauðárkrók og víðar. Það er liður í því að fleiri fái að njóta góðs af þeirri auðlind sem ferðaþjónustan er.

Fyrst við erum farin að tala um þetta vil ég líka nefna, sérstaklega í sambandi við Ísafjörð, að þar hefur verið varaflugvöllur, á Þingeyri, um allnokkurt skeið sem hefur sáralítið verið notaður og eiginlega eins og það hafi verið þegjandi samkomulag á tímabili að hætta að nota þann völl, til mikils óhagræðis fyrir fjölda íbúa sem þurfa að nýta sér flugsamgöngur, ekki síst vegna atvinnu sinnar. Það skiptir því líka máli að þau (Forseti hringir.) flugsamgöngumannvirki sem eru til staðar nýtist, að þeim sé viðhaldið og þau séu notuð. En ég tek undir með hv. þingmanni, það er góð hugmynd að fara að taka upp beint flug frá Keflavík á fleiri staði en til Akureyrar.



[15:21]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég ákvað nú að blanda mér enn í þessa umræðu sérstaklega til að fagna breytingartillögu sem nú er flutt af sameinaðri umhverfis- og samgöngunefnd undir forustu hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur þar sem í aðalatriðum verða teknar inn í samgönguáætlunina breytingartillögur minni hlutans sem hér voru lagðar fram með nefndaráliti fyrr í umræðunni. Það bendir kannski til þess að við ættum jafnvel að halda samgönguáætlun enn þá lengur opinni ef hún heldur áfram að batna svona, eða samstaðan í kringum hana. Það er að sjálfsögðu fagnaðarefni þegar stórt mál af þessu tagi fær farsæla afgreiðslu og meiri sátt verður um það á lokametrunum.

Ég held það sé óumdeilt að þörfin er til staðar og jafnvel þótt meira væri, en hér er sem sagt að takast samkomulag um að setja á annan milljarð kr. sérstaklega inn í viðhaldsþáttinn og síðan til undirbúning eða upphafs nokkurra brýnna framkvæmda sem mjög var búið að ræða í umræðunni að hefðu orðið út undan, eins og vegur á Skógarströnd og Örlygshafnarvegur.

Svo er þarna tekið af skarið með að hefja skuli undirbúning að gerð vegar yfir Öxi í beinu framhaldi af því að framkvæmdum lýkur í Berufjarðarbotni, sem vel að merkja ættu löngu að vera búnar ef ekki hefðu orðið miklar tafir á því verki af ýmsum ástæðum aðallega vegna ágreining um vegarstæði og deilna við eða milli landeigenda. Að lokum sér nú fyrir endann á því og nú er allt til staðar, held ég, sem þarf til að fara í þá framkvæmd. Þá blasir við að uppbyggður vegur yfir Öxi er gríðarlega góð framkvæmd, mikil stytting á öllum flutningum og samgöngum af sunnanverðum Austfjörðum og upp á Hérað og reyndar í sjálfu sér fyrir alla þá umferð sem kemur austur með ströndinni og endar uppi á Héraði eða Norðausturlandinu. Vegurinn er mjög mikið ekinn. Umferðin er hundruð bíla á sólarhring á meðan vegurinn er opinn og á einstaka snjóléttum vetrum að undanförnu hefur hann verið opinn stærstan hluta ársins. Það hafa komið það mildir vetur þarna á þessu svæði, en að sjálfsögðu háir það því mjög að vegurinn nýtist að hann er ekki uppbyggður, þannig að ég fagna þessari framkvæmd alveg sérstaklega.

Varðandi þær umræður sem hér hafa orðið um jarðgöng, sem ég hef fylgst með og áhugamaður um það eins og fleiri sem hér hafa talað, verð ég að segja að það er eiginlega mitt mat að Íslendingar hafi gert ein af sínum stærri mistökum í samgöngumálum að fara ekki miklu fyrr af stað með jarðgangaáætlun og af umtalsverðum krafti. Það kom langt og sorglegt hlé eftir að hin óburðugu göng í Oddsskarði og Strákagöng voru gerð og vældu menn þá undan því að reynslan af gerð þeirra ganga væri nú ekki góð og þetta væri sennilega erfitt á Íslandi o.s.frv. Ég man ekki hvað hléið var svo langt, um 15, 20 ár, en á sama tíma hófu Færeyingar sín metnaðarfullu plön um að tengja flestallar eyjarnar saman með jarðgöngum og eru langt komnir með það. Nú stefnir í göng til Sandeyjar og göng undir Kollafjörð. Þá er ekkert eftir nema Suðurey, sem ekki er ein af stóru byggðu eyjunum, sem ekki er komin í eitt samtengt net. Þetta hafa Færeyingar gert af mikilli þrautseigju. Þeir taka gjöld í tilteknum göngum og með tugum jarðganga eru þeir búnir að búa til eitt atvinnu-, þjónustu- og samskiptasvæði á öllum norðurhluta eyjanna, sem auðvitað gjörbreytir aðstæðum fyrir nútímasamfélag þar.

En við erum auðvitað svo langt á eftir sem raun ber vitni vegna þess að það liðu ár og áratugir án þess að nokkuð væri aðhafst hér. En betra er seint en aldrei og má heita að núna síðustu 20 eða 25 árin hafi nokkurn veginn verið samfelldar jarðgangaframkvæmdir. Því miður er yfirleitt ekki nema ein framkvæmd í gangi í einu, sem þyrfti að vera tvær eða a.m.k. þannig að göng sköruðust það myndarlega að menn væru byrjaðir á nýjum stað á meðan verið væri að ganga frá og gera klárt fyrir umferð næstu göng þar á undan. Þá halda áfram að gerast góðir hlutir í þessum efnum.

Ég tek að sjálfsögðu undir það að göng til að leysa af hólmi þennan hættulega vegarkafla milli Ísafjarðar og Súðavíkur eru mjög nauðsynleg og eðlilegt að fara að huga að undirbúningi þeirra, en það á líka við um göng sem leysa af hólmi hinn stórhættulega veg í skriðunum norðan við Siglufjörð, sem gæti þess vegna (Forseti hringir.) farið allur saman á haf út í flóði hvenær sem er, því að þar er allt landið að síga og stórir stallar (Forseti hringir.) á veginum. Það er því líka eðlilegt að horft sé til undirbúnings þeirrar framkvæmdar.



[15:26]
Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir um margt fróðlega ræðu. Það er skemmtilegt að velta þessum hlutum fyrir sér í því samhengi sem hv. þingmaður gerði varðandi Færeyjar, vegna þess að hægt er að horfa á stöðuna með gestsauga og sjá í hendi sér að þar hefur orðið uppbygging sem þjónar öllu svæðinu vel. Ef menn ættu að beita sömu gleraugum eða reyna að fjarlægja sig helstu hagsmunum og því togi sem einkennir þessa umræðu á Íslandi þá blasir við sú staða að við þyrftum að gera átak, kannski tíu ára átak, þar sem við einsetjum okkur að ljúka þeim verkefnum sem fyrir liggja til þess að geta gert landið að einu eins samfelldu atvinnusvæði og mögulegt er með ákveðna þungamiðju í hverjum fjórðungi fyrir sig. Þar blasir við að ljúka þeim verkefnum sem við þurfum að ráðast í á Vestfjörðum, sem eru fólgin í samtengingu á milli sunnanverðra Vestfjarða og norðurbyggðarinnar, og svo auðvitað göngum, ég tek undir það, sem tengja Ísafjarðarbæ við Súðavík.

Svo er það Austurlandið líka. Það mundi margt leysast með vegi yfir Öxi, það væri ákaflega jákvætt ef það ætti sér stað. En ef maður horfir á heildarmyndina getur maður ekki horft fram hjá mikilvægi þess að fara í vegabætur og aðskilnað akstursstefna á milli Reykjavíkur og Akureyrar, þessa helstu byggðakjarna landsins, og eins að leysa með sambærilegum hætti umferðarþungann á Suðurlandi.

Meðal þess (Forseti hringir.) sem ég vil líka nefna er tenging Reykjavíkur við Vesturlandsveg með nýrri Sundabraut.



[15:29]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að í næstu langtímaáætlun eigi að stilla upp áætlunum um leiðirnar út frá höfuðborginni, a.m.k. austur að Þjórsá í suður og að sjálfsögðu til Suðurnesja og síðan upp á Vesturlandið og í fyllingu tímans til Akureyrar, það verður undirbúið að fara þar í aðskildar akstursstefnur. Það er ekkert annað sem framtíðin ber í skauti sér en það, en það er auðvitað stórt og mikið verkefni. Að því þarf að hyggja vegna þess að í vissum tilvikum koma til endurbyggingar á næstu árum elstu kaflarnir á þeim leiðum. Það eru enn býsna gamlir kaflar, mjóir vegir með lélegu slitlagi sem tilheyra þjóðvegi 1 og Vegagerðin er að huga að því að taka suma þeirra til endurbyggingar. Að sjálfsögðu á þá að endurbyggja þá sem 2+1 veg a.m.k.

Varðandi jarðgöngin er alveg ljóst að við eigum þar óunnin brýn verkefni. Við erum náttúrlega að fara af stað með Dýrafjarðargöng og hér hafa verið nefnd Súðavíkurgöng. Seyðisfjörður, tenging Seyðisfjarðar er algert forgangsverkefni því að það verður ekkert við það unað til frambúðar, það ástand sem er á Fjarðarheiðinni, og síðan þarf að halda áfram þar, tengja Austfirðinga saman með göngum um Mjóafjörð og yfir í Norðfjörð. Það þurfa að koma í fyllingu tímans göng undir Hellisheiði eystri þannig að hægt sé að aka með ströndinni og láglendi alla norðausturleiðina úr Ljósavatnsskarði og með ströndinni og síðan upp á Hérað. Og það þurfa að koma göng undir Siglufjarðarskarð og einhvern tímann koma göng sem þvera Tröllaskaga úr Hörgárdal yfir í Skagafjörð. Það er að vísu mikil framkvæmd, en hún er þjóðhagslega alveg gríðarlega góð vegna þess að hún mundi stytta leiðina um sennilega eina 20 km, 15, 20 km, og við værum að losna við (Gripið fram í.)einn erfiðasta fjallveg á meginumferðaræðum. (Forseti hringir.) Það er af nógu að taka en málið er bara að raða þessu skynsamlega upp og leggja plön sem horfa til nokkuð langrar framtíðar.



[15:31]
Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þeim mun alvarlegra verður það þegar maður horfir framan í algert frammistöðuleysi eins og verið hefur á þessu kjörtímabili hjá núverandi stjórnarflokkum í þessum málaflokki, að hafa í rauninni frammi fyrir þeim gríðarstóru verkefnum sem blasa við í þeim efnum algerlega sofið í málaflokknum, og í raun og veru erum við á síðustu metrum þessa þings að reyna að bjarga í horn fyrir stjórnarflokkana þegar kemur að því að a.m.k. afgreiða eina samgönguáætlun á kjörtímabilinu. Skárra væri það nú.

Til hliðar við þau gríðarstóru verkefni sem við höfum nefnt, sem væru eðlilegu skrefin á næstu tíu árum eða svo, þurfa menn auðvitað líka að fara í heildstæða uppbyggingu á almenningssamgöngukerfi þannig að það nýtist öllum, það sé tenging á milli helstu svæða, sé tenging á milli flugvalla.

Enn fremur vil ég nefna hjólreiðaáætlun. Það er engin hjólreiðaáætlun, engin áætlun í gangi í landinu um það hvernig menn ætla að byggja upp svo hægt sé að nota reiðhjólið sem samgöngumáta, bæði á milli sveitarfélaga og innan þeirra. Ég hef reynt að leggja fram í þinginu tillögu til þingsályktunar um það að menn hefji þannig vinnu, að það sé búin til áætlun á þessu sviði.

Enn fremur vil ég nefna sem hluta af langtímastefnu í samgöngumálum áætlanir sem taka mið af þróun mála í loftslagsmálum, að menn horfi til þess stóra málaflokks og hvernig við getum skilað af okkur í þeim efnum. Það er vissulega af nógu að taka.



[15:33]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um að mjög mikilvægt sé að horfa til framtíðar, vera með framsækna stefnu í þeim efnum þar sem m.a. almenningssamgöngur og hjólreiðar og allt það er undir. Ég er reyndar þeirrar skoðunar, af því flugið hefur aðeins borið á góma, að skilgreina eigi innanlandsflugið sem almenningssamgöngur. Það er ekkert annað en almenningssamgöngur og í sumum tilvikum er það einu almenningssamgöngurnar sem menn eiga aðgang að, íbúar í Grímsey, á Gjögri, þetta eru einu almenningssamgöngurnar sem það fólk hefur og stóran hluta ársins á það við um fleiri byggðarlög. Það þarf að ná niður verðinu.

Samningurinn við höfuðborgarsvæðið og í framhaldinu við landshlutasamtökin um strætó og almenningssamgöngurnar á síðasta kjörtímabili markaði mikil tímamót. Það var í fyrsta sinn sem þess sá almennilega stað að við værum að komast inn í nútímann í þeim efnum. Það hafa býsna góðir hlutir gerst í framhaldinu, eins og við verðum vör við á höfuðborgarsvæðinu, þau okkar sem stundum förum út að skokka eða hjóla. Það er auðvitað mjög ánægjulegt að sjá þá þróun. Svo er það strætó, þrátt fyrir ýmsa byrjunarörðugleika hefur ástandið verið gjörbætt og það eru aftur í boði almenningssamgöngur.

Ég er sammála hv. þingmanni, búinn að segja það nokkrum sinnum í umræðunni um þessa blessuðu samgönguáætlun, sem væntanlega fæst nú loksins afgreidd og það í breiðari sátt en til stóð, enda búið að laga hana heil ósköp til og fyrst og fremst í þinginu. Hún var óskaplega metnaðarlaus og ónýt eins og hún kom fram í vor, enda skorin niður í þann ramma sem ríkisfjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar setti henni, nokkurn veginn. Nú eru menn búnir að ákveða að ýta því til hliðar og setja umtalsvert meiri fjármuni í þetta. Það er góður áfangi svo langt sem það nær en í mínum huga bíður ekkert annað nýrrar ríkisstjórnar en að setja kraftmikla vinnu í það að skoða horfurnar til lengri tíma litið og hefur margt ágætt borið á góma einmitt í því sambandi í umræðunni. Það er ágætisveganesti (Forseti hringir.) í það t.d. fyrir samgönguráð og Vegagerðina að lesa vel þessa góðu umræðu sem hér hefur orðið.



[15:35]
Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Hann kom inn á mjög áhugaverðan punkt, sem er hvernig Norðmenn og Færeyingar hafa tekið á samgöngumálum sínum. Ég þekki vel til í Noregi, enda býr móðir mín þar, og þekki það að þar eru vegtollar mjög algengir, jafnvel í litlum byggðarlögum. Móðir mín býr í u.þ.b. 16.000 manna byggð, þ.e. á því svæði, og aðalvegurinn liggur inn í stóra bæinn þar í kring. Og af því að þar er verið að fara í miklar framkvæmdir, verið er að laga veginn, breikka hann og gera hann öruggari, er núna kominn 20 kr. skattur eða tollur á að keyra inn í bæinn og út úr honum, þ.e. fyrir að nota veginn. Þetta er allt saman á vegum ríkisins eftir því sem ég best veit. Þarna er í raun og veru ekki um einkaframkvæmd að ræða. Gjaldtakan fer bara í það að borga fyrir veginn.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann út í eitt, Hvalfjarðargöngin á Íslandi sem eru nú gott ef ekki bara í einkaeign í raun og veru, þótt einhverjir skilmálar séu um að það eigi mögulega að afhenda íslenska ríkinu þann veg þegar Hvalfjarðargöngin eru búin að borga sig upp. Er þetta fyrirkomulag eitthvað sem við ættum mögulega að fara að skoða betur? Þá er ég að hugsa t.d. um vegi sem eru aðallega notaðir af ferðamönnum, taka hóflegt gjald, 200 kr., eitthvað því um líkt, hvort það mundi í raun og veru brúa það bil sem þarf til að svona framkvæmdir séu raunverulegur valmöguleiki. Þá hugsa ég t.d. um veginn að Látrabjargi. Það eru ekki margir sem fara þar um í einhverjum öðrum erindum en til að skoða fugla og landslag. Mig langar til að velta þessari spurningu upp með hv. þingmanni.



[15:38]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef náttúrlega alltaf verið þeirrar skoðunar að langbest væri að Vegagerðin annaðist um allar svona framkvæmdir sjálf og ætti þær og líka gjaldtökuframkvæmdir. Ég var þó ráðherrann sem flutti frumvarpið um Hvalfjarðargöngin. En það var einfaldlega vegna þess að þá voru einkaaðilar, eða ekki einkaaðilar heldur sveitarfélög og ríkisfyrirtæki, bæði hálfopinber og opinberir aðilar, búnir að mynda félag og buðust til að annast um framkvæmdina fengju þeir leyfi til gjaldtöku. Niðurstaðan varð sú að flutt var um þetta frumvarp, ég flutti um það frumvarp og ég kláraði samninga við Spöl. Það var algjör forsenda af minni hálfu og kom aldrei annað til greina en þegar göngin hefðu verið greidd upp þá gengju þau til ríkisins. Það stóð ekki til að fara að vera með einkarekna búta af vegakerfinu til framtíðar. Í raun er Spölur ekki rekinn í hagnaðarskyni að öðru leyti en því að rekstraraðilinn hefur heimild til að taka inn tekjur eftir að lánin eru greidd upp þar til hann er búinn að endurheimta hlutafé sitt með vöxtum, þá afhendir hann ríkinu göngin. Þegar upp er staðið þá er þetta þannig framkvæmd og þetta er svona nær því að vera félagsskapur, sem á vondu máli er kallað „public-private partnership“ eða hvað það er.

Varðandi Noreg væri mjög gaman að fara yfir það, ég hef aðeins skoðað þau mál og fylgst með þeim. Norðmenn eru með miklu þróaðra módel í þessu en eiginlega nokkrir aðrir. Það er einfaldlega þannig að þeir meta það í tilviki hverrar stórframkvæmdar hvað er sanngjarnt eða eðlilegt að umferðin sem mun nýta mannvirkið borgi háan hluta kostnaðarins. Í sumum tilvikum getur það verið framkvæmdin öll sem þá væri endurheimt þannig á kannski 25, 30 árum, en í öðrum tilvikum er mannvirkið það dýrt og umferðin það lítil að það væri ósanngjarnt. Þá er hlutfallið lækkað. Þá eru vegtollarnir stilltir af miðað við það að þeir beri 75% kostnaðarins, 50% kostnaðarins, jafnvel bara 25%. Þetta gætum við mjög vel gert og hefðum (Forseti hringir.) átt að gera. Þá væri smá vegtollur í Héðinsfjarðargöngum, smá vegtollur yrði í Seyðisfjarðargöngum, en hann yrði stilltur (Forseti hringir.) af þannig að það væri sanngjarnt gagnvart umferðinni og bæri auðvitað aldrei (Forseti hringir.) nema hluta kostnaðarins.



[15:40]
Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst þetta mjög áhugaverð hugmynd. Þegar ég hugsa um vegtolla, það fyrsta sem mér dettur í hug eru einkaframkvæmdir, en það er rétt sem hv. þingmaður segir, þetta þarf náttúrlega ekkert að vera í einkaframkvæmd, þetta getur líka oft verið á vegum ríkisins eins og hefur sýnt sig víða annars staðar. Ég held að það sé eitthvað sem við ættum að skoða og ég held að það sé ekki of seint að fara að skoða t.d. norska módelið þegar kemur að gjaldheimtu fyrir ákveðna vegi. Þetta hefur líka jákvæð umhverfisáhrif því að það hvetur fólk til að nota almenningssamgöngur. Sem dæmi í Bergen, ef farið er frá ysta hluta Bergen niður í bæ þarf að borga vegtolla á tveimur, þremur köflum. Fólk er hvatt til þess að nota „bybanen“ svokallaða, með leyfi forseta, eða léttsporvagninn til að minnka umferð inni í bænum. Þetta hefur náttúrlega jákvæð áhrif á umhverfið. Við notum þá ekki öll einkabílinn sem er náttúrlega slæmur fyrir umhverfið. Þetta er framlag þeirra til loftslagsmarkmiðanna sem við erum einfaldlega allt of metnaðarlaus í. Mig langar til að athuga, er hv. þingmaður ekki bara með mér á því að þetta sé eitthvað sem við ættum að skoða í framtíðinni? Er það ekki hreinlega framtíðin að reyna í raun og veru að minnka ásókn í einkabílinn með því að vera með vegtolla, með því að vera með þægilegar almenningssamgöngur í hjarta bæjarins eða til hjarta bæjarins frá úthverfunum og stuðla þannig að því að vegirnir borgi sig sjálfir að einhverju leyti og jafnframt að líta til umhverfisáhrifa.



[15:42]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Að sjálfsögðu finnst mér að góðar og greiðar almenningssamgöngur eigi að vera hluti af okkar lífi, og eiginlega hvort sem er, þær eru líka mikið innlegg í loftslagsmálin og svo auðvitað að stuðla að orkuskiptum í öðrum samgöngum með hvetjandi aðgerðum.

En aftur að þessum skattlagningar- og gjaldtökumálum. Það þarf að móta heildstæða stefnu um þetta á Íslandi og hún er ekki til enn þá. Við getum að mínu mati í aðalatriðum lært af Norðmönnum. Þeir gera hvort tveggja, eru með sértæka vegtolla í stórum dýrum framkvæmdum, t.d. núna á vesturströndinni þar sem mikil hraðbraut er í byggingu frá Bergen og alveg upp til Þrándheims, en þeir eru líka með gjaldtöku í kringum Ósló, „bompenger“, á hraðbrautunum inn og út úr Ósló er líka gjaldtaka, þannig að þeir gera þetta hvort tveggja. Þeir stilla þessu svona af eins og ég sagði áður, að þeir taka tillit til þess hvað er sanngjarnt að umferðin greiði hátt hlutfall af kostnaði við viðkomandi framkvæmd.

Við reyndum þetta aðeins hér árið 2010 framan af ári í botni kreppunnar, við könnuðum möguleikann á því að ráðast í miklar framkvæmdir, tvöfalda veginn austur fyrir fjall og klára Keflavíkurveginn og leggja af stað upp á Vesturlandið og hvort vilji væri til þess að einhver gjaldtaka kæmi til. Flestir voru jákvæðir, en það vildi svo illa til að það átti svo að kjósa til sveitarstjórna um vorið þannig að einstaka sveitarstjórnir hlupu út undan sér og lögðust gegn þessu og varð ekki af þessu frekar.

Mér fyndist það alveg eðlilegt að þegar í boði er hraðbraut, tveggja akreina hraðbraut með aðskildum akstursstefnum, þá greiði sú umferð sem nýtur þess lítillega, aukalega fyrir það rétt eins og menn greiði fyrir það að stytta sér leiðina fyrir Hvalfjörð með því að fara undir hann. Það eru kannski aðalrökin fyrir vegtollunum, að tengja það við þau not sem menn fá af mannvirkjum. Menn stytta sér leið, menn aka á öruggari vegi, menn spara sér tíma, slit á bíl og allt þetta.

Það þarf auðvitað að réttlæta viðbótarskattlagninguna (Forseti hringir.) á þennan hluta umferðarinnar því að síðan borga allir sitt bensíngjald, olíugjald, þungaskatt o.s.frv.



[15:45]
Róbert Marshall (Bf):

Virðulegi forseti. Hér er mjög athyglisverð umræða í gangi um samgöngumál. Ef menn velta því fyrir sér hvað eigi að ráða röð samgönguframkvæmda, hvar eigi að bera niður þegar kemur að ráðstöfun opinbers fjármagns í uppbyggingu á samgöngukerfinu, þá hlýtur umferðaröryggi að vera mjög ofarlega á blaði. Auðvitað eru alls konar byggðarlegir hagsmunir og atvinnulegir hagsmunir í húfi, en umferðaröryggi hlýtur að vera það sem við setjum í fyrsta sæti þegar að því kemur að ákvörðun um það í hvað fjármagn skuli fara. Hin svokallaða núllsýn sem Vegagerðin hefur haft til hliðsjónar í störfum sínum er mjög jákvæð, þ.e. að reyna að haga uppbyggingu samgöngumannvirkja eða vegamannvirkja þannig að reynt sé eftir fremsta megni að draga úr umferðarslysum, að það sé alla vega ekki samgöngukerfið sem valdi slysunum, eitthvað í uppbyggingu vegarins sem geti valdið auknum skaða. Auðvitað á að reyna að halda slíka sýn í heiðri eftir fremsta megni. Ég hef alltaf verið hlynntur því að menn leiti allra leiða til að fjármagna nauðsynlegar framkvæmdir. Þó að á endanum sé það þannig að samgöngumannvirkin verði eign samfélagsins skiptir kannski ekki alveg máli hver sá aðdragandi er.

Fyrir um það bil sjö til átta árum voru miklar vangaveltur um það í íslenskri pólitík að taka upp vegtolla í auknum mæli og nota einhvers konar rukkunarkerfi til að fjármagna framkvæmdir. Þá höfðu menn miklar áhyggjur af því að það gæti orðið umsvifamikið og stangaðist kannski á við persónuverndarsjónarmið, að hægt væri að sjá hvar hverjir voru á ferðinni. Ég held að allir hljóti að vera sammála um að síðan hefur tækninni fleygt það mikið fram að hægt á að vera með einföldu símaappi að innheima fyrir afnot af vegi. Það góða við það að vera með rafræna notendaskrá yfir samgöngumannvirki er að hægt væri að stýra umferðinni á margvíslegan hátt. Hægt væri að taka tillit til félagslegra sjónarmiða, að reyna að auka umferð á þeim tímum þegar minna álag er, þ.e. að það mundi kosta minna að aka fyrir tiltekna álagspunkta. Hægt væri að veita námsmönnum, öryrkjum og eldri borgurum sérstakan afslátt. Hægt væri að hafa lægra gjald eftir því sem maður mengar minna og þar fram eftir götunum, bara með því að skrá tegund ökutækis, með því að skrá um hvers lags ferðalag sé að ræða o.s.frv. væri hægt að innheimta þannig að það skilaði tekjum, að það stæði undir þeim framkvæmdum sem nauðsynlegt er að ráðast í. Ég er sannfærður um að á sama tíma væri hægt að gæta að persónuverndarsjónarmiðum.

Hægt er að stilla þau símtæki sem við notum flest frá degi til dags þannig að einhver gæti í raun verið að fylgjast með ferðum manns allan daginn. Það er hægt að vita, út frá þeim tækjum sem fólk er með í vösum sínum og hefur hjá sér, jafnvel þegar það sefur, hvar viðkomandi er staddur. En það er líka hægt að stilla þau þannig að það komi ekki fram. Það er auðvitað nokkuð sem menn þurfa að hafa í huga. Tæknin hefur búið til möguleika á því að gera meira og fyrr og hraðar. Og með því að gera meira og vera með öruggari vegi aukum við umferðaröryggi. Við fækkum slysum. Það er það sem er mikilvægast af öllu og það er það sem við eigum að horfa í og láta önnur sjónarmið frekar mæta afgangi.