132. löggjafarþing — 120. fundur
 2. júní 2006.
tóbaksvarnir, 2. umræða.
stjfrv., 388. mál (reykingabann). — Þskj. 470, nál. 1260, brtt. 1261, 1310 og 1336.

[15:22]
Frsm. heilbr.- og trn. (Jónína Bjartmarz) (F):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti heilbrigðis- og trygginganefndar á þskj. 1260, 388. mál, um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 6/2002, um tóbaksvarnir.

Í upphafi nefndarálitsins eru samkvæmt hefð og venju greindir gestir sem komu á fund nefndarinnar vegna málsins, sem voru fjölmargir og bæði fagfólk og áhugafólk um tóbaksvarnir, og eins eru greindir í nefndaráliti þeir aðilar sem sendu nefndinni umsögn sína um þetta mál.

Meginmarkmið frumvarpsins er að auka vinnuvernd starfsmanna á veitinga- og skemmtistöðum með því að afnumið er undanþáguákvæði gildandi laga um að leyfa megi reykingar þar á afmörkuðum svæðum. Er lagt til að reykingar í þjónusturými á veitinga- og skemmtistöðum verði bannaðar með öllu frá og með 1. júní 2007, sem þýðir að það er um ársaðlögun að þessu banni. Með frumvarpinu er lögð áhersla á að veita þeim sem starfa á veitinga- og skemmtistöðum sömu vinnuvernd og öðrum og að standa vörð um rétt þessara aðila eins og annarra, þann rétt sem er markaður í upphafsákvæðum tóbaksvarnalaganna að maður þurfi ekki að anda að sér lofti menguðu tóbaksreyk af annarra völdum. Leggur nefndin einmitt áherslu á þetta í afstöðu sinni til þessa máls og jafnframt á forvarnagildi þess að fækka stöðum sem heimilt er að reykja á.

Eitt af því sem var mikið rætt á fundum nefndarinnar svo og við 1. umr. málsins hér í þingsal var skaðsemi beinna reykinga, en umræðan um skaðsemi tóbaksreykinga hefur síðustu árin fyrst og fremst snúist um skaðsemi óbeinna reykinga. Í stuttu máli má segja, og það kom skýrlega fram í greinargerðinni sem fylgdi frumvarpinu frá ráðuneytinu, að alls staðar í heiminum er skaðsemi óbeinna reykinga ótvírætt viðurkennd. Í nefndaráliti er að finna tiltekna tölfræði og upplýsingar um hærri iðgjöld í líftryggingum og sjúkratryggingum hjá þeim sem reykja.

Mér finnst vert, frú forseti, í þessari umræðu að hafa orð á því að við 1. umr. málsins var vakið máls á starfi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar varðandi óbeinar reykingar og sérstaklega var rætt um tiltekna rannsókn sem gerð var af hennar hálfu. Því var meðal annars haldið fram að sú rannsókn hefði ekki leitt í ljós vísbendingar um tengsl óbeinna reykinga og lungnakrabbameins. Fréttir af þessari umræðu bárust m.a. Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni. Stofnunin brást við umræðum hér í þingsal og sendi nefndinni bréf fyrir atbeina heilbrigðisráðuneytisins þar sem þessum staðhæfingum er öllum andmælt og áréttað að umrædd rannsókn hafi einmitt sýnt fram á aukna hættu á lungnakrabbameini af völdum óbeinna reykinga. Í bréfinu sagði jafnframt að í kjölfar rannsóknarinnar hefði tóbaksiðnaðurinn hafið mikla herferð í fjölmiðlum þar sem rannsóknarniðurstöðum var andmælt sem vísindalegum grunni að lagasetningu til verndar þeim sem ekki reykja. Í þessu bréfi var jafnframt áréttað að jafnvel óbeinar reykingar í meðallagi gætu valdið lungnakrabbameini hjá þeim sem ekki reykja. Þetta var, frú forseti, um 1. umr. og afstöðu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar og framlag hennar til gagna sem lágu fyrir nefndinni við meðferð þessa máls.

Á fundi nefndarinnar var líka rætt um að fara leið sem frumvarpið gerir ekki ráð fyrir, fara svokallaða sænska leið í þessum málum og heimila að á veitinga- og skemmtistöðum séu sérstök reykherbergi sem séu þannig um búin að tryggt sé að hvorki gestir né starfsmenn verði fyrir óbeinum reykingum. Niðurstaða heilbrigðisnefndar var hins vegar sú að líka yrði að huga að vinnuverndarsjónarmiðum gagnvart þeim starfsmönnum sem annast þrif í slíkum herbergjum. Það vó vissulega þungt í afstöðu nefndarinnar að Samtök ferðaþjónustunnar, sem eru samtök þeirra sem reka veitinga-, skemmti- og gististaði, studdu þá reglu sem frumvarpið gerir ráð fyrir og heimilar ekki sérstök reykherbergi. Samtökin voru engan veginn hlynnt því að heimila sérstök reykherbergi af þessu tagi og vísuðu að hluta til þess að það mundi skekkja samkeppnisstöðu þeirra aðila sem rækju þess konar staði.

Í þessu samhengi er rétt að vísa til þess að ekki er svo ýkja langt síðan aðalfundur þessara samtaka, sem var í apríl 2005, — það er nú ár síðan — samþykkti að ganga til viðræðna við stjórnvöld um reykleysi skemmti- og veitingastaða frá 1. júní 2007. Það má því segja að frumvarpið sem hér er lagt fram sé í fullu samræmi við vilja og í þökk þessara samtaka, bæði efnislega og hvað varðar gildistíma.

Á fundum nefndarinnar var töluvert rætt um skilgreiningu á þjónusturými og um sérstakt ákvæði frumvarpsins um þjónustusvæði utan húss. Nefndin var á því að ákvæðið eins og það er orðað í frumvarpinu væri ekki nægjanlega skýrt vegna þess að erfitt væri að ráða af því hvort það svæði sem menn vildu að reykingar væru takmarkaðar við væri á einhvern hátt bundið við að verið væri að veita þjónustu þar eða ekki — það væri þá einungis einhvers konar afdrep þar sem gilda ættu hömlur við reykingum, t.d. einhvers konar tjald eða gámur eins og dæmi munu vera um að hafi verið komið upp fyrir utan skemmti- og veitingastaði til þess að skapa afdrep fyrir þá sem ekki fá að reykja innan dyra en vilja reykja utan dyra.

Nefndin lagði til breytingu á ákvæði 2. gr. frumvarpsins þar sem leitast var við að leggja til skýrara orðalag hvað varðar svæðið utan húss og lagði til að bannið næði einnig til tilsvarandi svæða utan húss, og þá var átt við svæði sem tengjast þjónustu við almenning, enda séu þau — bannið byggist á því — „ekki nægilega opin til að tryggja viðunandi loftstreymi“ að og frá þeim. Þetta fannst nefndinni skynsamlegri framsetning en eins og hún er í frumvarpinu eins og það liggur fyrir þar sem reynt er að útskýra hvað væri nægjanlegt loftstreymi og hvað ekki.

Í breytingartillögu nefndarinnar felast frekari leiðbeiningar um hvers konar skjól eða aðbúnaður sé heimill til að verja reykingamenn fyrir veðri og vindum og við leggjum til að sett verði í reglugerð, svo sem ákvæði í reglugerð um hámarkslokun reyksvæða t.d. með þaki eða skjólveggjum.

Svo áréttar nefndin að orðið „viðunandi“ í breytingartillögunni beri í þessu sambandi að túlka með hliðsjón af 1. gr. laganna um tóbaksvarnir, sbr. III. kafla tóbaksvarnalaganna almennt og meginreglu tóbaksvarnalaga um réttinn til reykleysis.

Þetta er það sem frumvarpið fjallar um, frú forseti. En í tilefni tveggja dóma Hæstaréttar, sem lutu annars vegar að sýnileikabanninu, sem sett var inn í lögin þegar þeim var breytt 2001, og hins vegar að auglýsingabanninu, skoðaði nefndin sérstaklega þessa tvo dóma Hæstaréttar. Það leiddi til breytingartillögu sem nefndin leggur fram og fjallar nefndarálitið að hluta líka um þá breytingartillögu. Í stuttu máli má segja að þessir dómar hafi gengið út á ágreining á milli tóbaksframleiðenda og íslenska ríkisins um annars vegar auglýsingabannið og hins vegar sýnileikabannið. Niðurstaða Hæstaréttar snerist um réttmæti þessara breytinga og í forsendum Hæstaréttar er í málunum fallist á að viss hvatning til að kaupa tóbak geti verið fólgin í því að stilla vörum upp á sölustað. Hæstiréttur féllst heldur ekki á þá kröfu tóbaksframleiðenda að almennt væri heimilt að hafa tóbak eða vörumerki tóbaks sýnileg viðskiptavinum á útsölustöðum og taldi það samrýmast ákvæðum 75. og 73. gr. stjórnarskrárinnar að setja skorður við því að heilsuspillandi vörur á borð við tóbak væru í augsýn annarra viðskiptavina en þeirra sem vildu kaupa eða skoða þær vörur. Hæstiréttur taldi hins vegar að með lagasetningunni 2001 hefði ekki verið gerður greinarmunur á sérverslunum með tóbak og öðrum verslunum sem selja tóbak meðal annars varnings og með tilliti til sýnileikabannsins hefði löggjafinn farið út fyrir þau mörk sem fyrrgreind ákvæði stjórnarskrárinnar setja. En að öðru leyti fóru þessi mál bæði tvö íslenska ríkinu í vil.

Vegna þessara dóma og niðurstöðu Hæstaréttar leggur nefndin til að gerðar verði breytingar á frumvarpinu þess efnis að undantekning verði gerð frá banni 6. mgr. 7. gr. laganna, sem geymir sýnileikabannið, þegar í hlut eiga sérverslanir með tóbak. Jafnframt skilgreinir nefndin sérverslun með tóbak sem verslun sem einkum hefur tóbak og reykfæri á boðstólum. Síðan útfærir nefndin nánar í reglugerðarheimild heimildir ráðherra hvað varðar leyfi til að reka sérverslanir, bæði þá að setja skilyrði fyrir leyfi til að reka sérverslanir og um umbúnað sérverslananna, hvernig þær skuli auðkenndar og hvernig koma megi tóbaki og vörumerkjum tóbaks fyrir á útsölustöðum og í sérverslunum. Þessi reglugerðarheimild ráðherra er einkum veitt til þess að unnt sé að kveða nánar á um hugsanleg takmarkatilvik að þessu leyti.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Hv. þingmenn Guðjón Ólafur Jónsson, Guðrún Ögmundsdóttir og Gunnar Örlygsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal skrifar undir álitið með fyrirvara sem hann mun gera grein fyrir, vænti ég, við þessa umræðu.

Aðrir sem rita undir þetta álit eru auk framsögumanns hv. þingmenn Ásta Möller, Ágúst Ólafur Ágústsson, Pétur H. Blöndal, með fyrirvara, Ásta R. Jóhannesdóttir og Þuríður Backman.

Að endingu, frú forseti, uppgötvaðist það þegar þessi umræða var að hefjast að meðal umsagnaraðila hefur láðst að tilgreina umsögn frá félagsmálanefnd Alþingis og hana vantar sem fylgiskjal með þessu gagni. Segja má að sú niðurstaða sem félagsmálanefnd kemst að styðji það að þetta frumvarp verði samþykkt óbreytt og þær umræður sem þar hafa verið eru í fullum takti og í samræmi við álit meiri hluta allsherjarnefndar.



[15:34]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við 1. umr. um málið lýsti ég afdráttarlausri skoðun minni á þessu máli, að það væri einhver mesta forræðishyggja sem sögur fara af í íslenskum stjórnmálum um áratugaskeið. Markmiðunum um að allir geti alltaf, þ.e. þeir sem það kjósa, verið í reyklausu umhverfi, alltaf og alls staðar, er hægt að ná með mildari leiðum en því fortakslausa forræðishyggjubanni sem hér er lagt til.

Meginmarkmiðið er skýrt. Um það held ég að sé almenn samstaða, að vernda þá sem eru á skemmti- og veitingastöðum fyrir tóbaksreyk og vernda þá sem vinna á skemmti- og veitingastöðum fyrir tóbaksreyk. Það á enginn að þurfa að anda að sér tóbaksreyk sem það ekki vill. Ekki efast ég um það eitt augnablik að reykingar, beinar og óbeinar, séu stórhættulegar og hafi valdið dauða fjölda fólks. Um það blandast mér ekki hugur, ekki frekar en að áfengi veldur mörgum hundruðum dauðsfalla hér á landi á hverju ári með einum eða öðrum hætti. Hið sama gildir um neyslu á óhollum mat, fitandi mat. Margir éta sig í hel á hverju einasta ári. Hvenær ætlar Alþingi að grípa fram fyrir hendurnar á þessu fólki? Þessi forræðishyggja er óþolandi. Við hana sætti ég mig að sjálfsögðu ekki. Þess vegna tala ég gegn þessu máli.

Að sjálfsögðu á að vernda alla þá sem vilja vera í reyklausu umhverfi fyrir tóbaksreyk. En til eru mildari leiðir til þess eins og við munum tala um í umræðunni í dag. Við flytjum breytingartillögu um það, fjórir þingmenn. Hv. þm. Birgir Ármannsson, fyrsti flutningsmaður hennar, gerir grein fyrir þeirri tillögu á eftir. En hún gengur út á að heimilt verði að leyfa reykingar í sérstökum herbergjum eða afmörkuðum svæðum. Ég vil spyrja flutningsmann nefndarinnar: Af hverju var ekki farin mildari leið til að ná fram sömu markmiðum?



[15:37]
Frsm. heilbr.- og trn. (Jónína Bjartmarz) (F) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson spyr af hverju mildari leiðin hafi ekki verið farin, þar sem hægt hefði verið að ná sömu markmiðum með henni.

Um það er ágreiningurinn, þ.e. hvort hægt sé að ná sömu markmiðum með því að fara mildari leiðina. Í því samhengi var m.a. rætt um að leyfa afmörkuð sérreykingarherbergi. Það var bara enginn sem studdi þá leið, ekki Samtök ferðaþjónustunnar eða fulltrúar starfsmanna á fundum með félagsmálanefndinni. Hvatinn til að skoða þá leið nánar var ekki fyrir hendi.

Í 1. umr. um þetta mál vakti ég máls á að Svíar hefðu farið þessa leið og eftir því sem ég vissi best hefði hún gefið góða raun þar. Ég sé enga ástæðu til að við förum þá leið. Svíar eru ekki eina þjóðin sem hefur farið þá leið. Þær eru fleiri. En það var bara enginn stuðningur við það í störfum nefndarinnar og enginn hvati til að skoða hana nánar.

Á hinn bóginn komu fram þau sjónarmið að jafnvel þótt við leyfðum þetta ættu vinnuverndarsjónarmiðin við vegna þess að þeir sem lentu í að þrífa þessa staði, þótt þar væru engar veitingar innan dyra, yrðu fyrir áhrifum óbeinna reykinga sem gætu verið heilsuspillandi fyrir þá.

Þetta er ástæðan fyrir því að heilbrigðisnefnd leggur þetta ekki til. Ég held að það sé ekki ofmælt að þeir sem hefðu haft áhuga á að skoða þessa leið nánar í heilbrigðisnefnd, þverpólitískri heilbrigðisnefnd, voru mun færri en þeir þingmenn sem vildu fortakslausa bannið, eins og það liggur hér fyrir. Það var ekki flokkspólitísk afstaða.



[15:39]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í mínum huga þarf ekki önnur rök fyrir leið þeirri sem ég tala fyrir, mildari leið þar sem hagsmunir frjálslyndis og frelsis einstaklingsins til orðs og athafna er í fyrirrúmi, en heilbrigða skynsemi.

Þegar fyrir liggur valkostur um tvær leiðir, aðra mildari en hina, til að ná fram sömu markmiðum, þá á ekki að skipta öllu máli hvernig þingnefndin er samsett. Það er hægt að fara þessa leið og fyrir þeirri leið töluðum við afdráttarlaust, nokkrir þingmenn úr a.m.k. tveimur stjórnmálaflokkum, öðrum í stjórn en hinum í stjórnarandstöðu, í 1. umr. um málið. Við töluðum afdráttarlaust fyrir því og óskuðum eftir að sú leið yrði skoðuð.

Ég er sannfærður um að sú leið er farsælli og heppilegri en þessi grófa pólitíska íhlutun í forræði yfir sjálfsákvörðunarrétti hvers einstaklings eins og hér er lögð til. Þetta er óásættanleg leið og hefði að sjálfsögðu átt að fara hina leiðina.

Það þarf ekki að rökræða skaðsemi reykinga. Það eru margir áratugir, a.m.k. tel ég svo vera, síðan það lá fyrir að reykingar eru bráðdrepandi og mjög óhollar, eins og áfengisneysla er bráðdrepandi og mjög óholl og veldur gríðarlegu tjóni í íslensku samfélagi á hverju einasta ári. Hægt væri að telja upp fjöldann allan af hlutum sem samt sem áður er einhvers konar samfélagssátt um að leyfa.

Af hverju ekki að ganga alla leið og banna reykingar alveg í staðinn fyrir að vera að þessu hálfkáki sem hér er lagt til, sem er algjörlega óásættanlegt að mínu mati? Ég kalla eftir því að hv. heilbrigðisnefnd skoði mildari leiðina, ég gerði það við 1. umr., í stað þess að hlutast svo gróflega til um líf fullorðins fólks, að það megi ekki koma saman á stað þar sem fullorðnir einstaklingar kjósa að vera saman og reykja vindla, t.d. á opinberum stað. Þetta er fráleit nálgun.



[15:41]
Frsm. heilbr.- og trn. (Jónína Bjartmarz) (F) (andsvar):

Frú forseti. Það reynir á það í atkvæðagreiðslu að skoðanir eru skiptar í öllum flokkum á þingi og í öllum þingflokkum. Enginn þingflokkur styður eindregið eða er mótfallinn þessari reglu sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Þetta er ekki flokkspólitískt mál

En í tilefni af ræðu hv. þingmanns vil ég leggja áherslu á tvennt. Í fyrsta lagi ákvað Alþingi 2001, þegar lögunum var breytt, að meginregla reykingavarnalaganna væri rétturinn til reykleysis. Það er meginreglan.

Í öðru lagi er meginregla og meginmarkmið þessa frumvarps vinnuvernd, vinnuvernd starfsmanna á veitinga- og skemmtistöðum, sem voru undanþegnir þeirri vernd eins og lögin hafa verið til þessa. Talið er að sýnt hafi verið fram á að starfsmaður sem þrífur þess konar húsakynni, gám, tjald eða eitthvað annað þar sem reykingar eru leyfðar, geti orðið fyrir heilsuspillandi áhrifum. Ég held að ekki sé hægt að halda því fram að það séu einskis verðir hagsmunir miðað við þá hagsmuni sem hv. þingmaður hélt á lofti og hafði yfir mörg og stór orð um forsjárhyggju.

Vinnuverndarsjónarmið annars vegar og rétturinn til reykleysis eru það tvennt sem Alþingi hefur áður samþykkt. Það á að aflétta undanþágunni, sem kom í veg fyrir að starfsmenn á veitinga- og skemmtistöðum nytu sömu vinnuverndar og aðrir, með þessu frumvarpi. Þetta eru rökin fyrir því að þessi leið var farin. Engir aðrir hagsmunir.



[15:43]
Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að koma upp í andsvar til að fagna því að með samþykkt þessa frumvarps muni starfsmenn á veitinga- og skemmtistöðum búa við sömu vinnuvernd og aðrir. Það eru ekki bara þeir sem bera fram veitingar heldur líka þeir sem þrífa þessa staði. Það hefur komið fram í andsvörum að það var ekki síður litið til þeirra. Það er oft fólk sem er viðkvæmt fyrir óbeinum tóbaksreykingum. Það kom einmitt fram að oft starfar ungt fólk, ungar stúlkur og jafnvel barnshafandi, við að þrífa húsakynni þar sem hefur verið reykt. Þá geta ófædd börn þeirra orðið fyrir skaða um leið.

Ég fagna því að þetta skuli verða að lögum. Sömuleiðis erum við að lögfesta atriði í takt við niðurstöðu dóms Hæstaréttar þar sem tekið er á undanþágum um sýnileika tóbaks í sérverslunum fyrir tóbak. Reyndar er ekki nema ein slík sérverslun á Íslandi þannig að við erum að gera þá breytingu um leið.

Það er algjör misskilningur hjá þeim sem hafa verið að tala um að hér sé um forræðishyggju að ræða. Það er ekki meiri forræðishyggja í þessu en að banna fólki að aka yfir á rauðu ljósi, sem getur líka verið skaðlegt, eða hvaða aðrar reglur sem við setjum. Við erum með lög um vinnuvernd við öll störf nema fyrir starfsfólk í veitingahúsaþjónustu. Það er fullkomlega eðlilegt og fagnaðarefni að það starfsfólk búi við (Forseti hringir.) sömu vinnuvernd og aðrir að þessum lögum samþykktum.



[15:45]
Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Við 1. umr. um þetta frumvarp komu fram nokkuð ítarlega þau andstæðu sjónarmið sem tekist er á um í þessu máli. Annars vegar hafa flutningsmenn frumvarpsins og ýmsir aðrir sem um það hafa talað barist fyrir samþykkt þess á grundvelli vinnuverndarsjónarmiða og hins vegar höfum við nokkrir hv. þingmenn haldið fram því sjónarmiði að jafnvel þó að markmiðið væri að ná fram aukinni vinnuvernd á þessu sviði væri engu að síður rétt að huga að öðrum þáttum. Það væri rétt að huga að þáttum eins og vernd eignarréttarins, atvinnufrelsi og hagsmunum þeirra 20% fullorðinna landsmanna sem að staðaldri reykja. Því í þessari umræðu verðum við auðvitað að hafa í huga, og það verður að vera ákveðinn grundvöllur í þessu, að tóbak er lögleg vara í landinu og ríkið hefur miklar tekjur af því að selja þessa vöru. Meðan menn eru ekki tilbúnir að stíga það skref að banna tóbak verður að meðhöndla þessa vöru eins og hverja aðra löglega vöru í landinu með þeim takmörkunum þó sem rökstyðja má með eðlilegum sjónarmiðum.

Við 1. umr. lýsti ég yfir andstöðu við frumvarpið á þeim grundvelli að ég teldi að það gengi of langt. Með þessu frumvarpi væri verið að ganga of langt í þá átt að takmarka reykingar. Það væri verið að ganga töluvert lengra en nauðsynlegt sé til að ná fram markmiðum þess um vinnuvernd og vinnuverndarsjónarmið. Það væri verið að velja ströngustu leiðina, þá leið sem felur í sér mestar takmarkanir af þessu tagi en ekki leitast við að fara mildar í sakirnar. Ekki leitast við að finna málamiðlun milli ólíkra sjónarmiða heldur farið alla leið ef svo má segja og lagt til fullkomið bann við reykingum á veitinga- og skemmtistöðum en það var það atriði sem, eins og komið hefur fram, var umdeildast í þessu.

Við 1. umr. málsins komu fram afar sterk rök að mínu mati fyrir því að fara vægar í sakirnar en gert var ráð fyrir í frumvarpinu. Það verður að segja að niðurstaða hv. heilbrigðis- og trygginganefndar veldur töluverðum vonbrigðum í því sambandi vegna þess að ekki er gengið til móts við þau sjónarmið eða rök sem komu fram við 1. umr. að þessu leyti. Þess vegna hef ég talið óhjákvæmilegt að flytja breytingartillögu ásamt fleiri þingmönnum, sem ég mun gera grein fyrir á eftir, í því skyni að fá fram þá málamiðlun sem ég tel að leiði til eðlilegustu niðurstöðu í þessu máli.

Áður en ég vík að henni vildi ég í örstuttu máli bregðast við þeim breytingartillögum sem hv. heilbrigðis- og trygginganefnd leggur fram en hún gerir í meginatriðum tvær breytingar á frumvarpinu. Annars vegar er um að ræða sérákvæði sem bætast eiga við frumvarpið og fjalla eiga um sérverslanir með tóbak, en eins og kom fram í máli hv. formanns heilbrigðis- og trygginganefndar er þar verið að bregðast við dómi Hæstaréttar sem taldi að löggjafinn hefði gengið allt of langt í setningu tóbaksvarnalaganna 2001 varðandi bann við að hafa tóbak sýnilegt á sölustöðum. Þarna er vissulega um að ræða jákvætt skref í tillögu heilbrigðis- og trygginganefndar til að bregðast við þeim dómi. Þar er boðið upp á þann möguleika, ef svo má segja, að í sérverslunum með tóbak, þ.e. verslunum sem að meginhluta selja tóbak og tóbakstengdar vörur, verði leyfilegt að hafa tóbak sýnilegt. Ég tel því að fagna beri þeirri breytingartillögu þó að hún gangi vissulega ekki langt. Hún gengur raunar eins skammt og meiri hluti heilbrigðis- og trygginganefndar hefur talið sér fært að fara miðað við dóm Hæstaréttar en engu að síður er þar um að ræða jákvæðar breytingartillögur sem ber að styðja.

Á hinn bóginn er í breytingartillögum heilbrigðis- og trygginganefndar einnig fjallað um það svæði utan húss sem tilheyrir veitinga- og skemmtistöðum. Ólíkt hinni breytingartillögunni tel ég að í þessari tillögu felist þrenging sem ég get ekki stutt. Það er með öðrum orðum verið að gera bann við reykingum í einhvers konar skýlum eða tjöldum fyrir utan veitingastaði algilt í stað þess að skilja eftir ákveðna möguleika fyrir því. Ég tel að sú þrenging sem felst í þeirri breytingartillögu heilbrigðis- og trygginganefndar sé ekki til bóta og get því ekki stutt hana.

Ég vil í örstuttu máli einnig lýsa yfir stuðningi við breytingartillögu sem fram hefur komið frá hv. þm. Pétri H. Blöndal sem lýtur að málfrelsissjónarmiðum í sambandi við tóbaksvarnir. Þingmaðurinn mun væntanlega gera grein fyrir tillögu sinni á eftir. En ég tel að í tóbaksvarnalögunum eins og þau eru nú sé gengið of langt í að skerða málfrelsi með því fortakslausa banni að nefna einstakar tóbakstegundir í fjölmiðlaumfjöllun. Ég tel að það bann hafi gengið allt of langt og mótmælti því reyndar utan þings þegar það var sett á hér fyrir nokkrum árum. Því vil ég lýsa yfir stuðningi við tillögu hv. þm. Péturs H. Blöndals og tel að hún sé til mikilla bóta.

Varðandi það atriði sem ég hef ásamt þremur öðrum hv. þingmönnum lagt fram breytingartillögu um, þá vil ég benda á að tillagan er á þingskjali 1336. Meðflutningsmenn mínir eru hv. þingmenn Sigurður Kári Kristjánsson, Bjarni Benediktsson og Björgvin G. Sigurðsson. Segja má að tilgangur þeirrar tillögu sé að ná fram þeirri millileið, sáttaleið eða málamiðlun, sem við teljum að rétt sé að fara í því banni sem verið er að herða á veitinga- og skemmtistöðum.

Eins og hv. þingmenn muna gengur efni frumvarpsins út á að gera bann við reykingum á veitinga- og skemmtistöðum alveg fortakslaust. Í dag er staðan sú að veitingastaðir geta boðið upp á reykingasvæði og reyklaus svæði, þó með því skilyrði að loftræsting sé fullnægjandi og að reyklaust svæði sé meiri hluti veitingarýmis. Það er með öðrum orðum með því frumvarpi sem heilbrigðisnefnd lýsir stuðningi við verið að afnema möguleikann til að bjóða upp á slík reykingasvæði. Eins og fram hefur komið, bæði við 1. umr. og eins í ræðum hv. þingmanna hér á undan, er þetta bann rökstutt með tilliti til vinnuverndarsjónarmiða þeirra starfsmanna sem starfa á veitinga- og skemmtistöðum. Til hliðar eru nefndir hagsmunir annarra gesta á veitingastöðum en þungamiðjan er staða þeirra starfsmanna sem vinna á veitinga- og skemmtistöðum og réttur þeirra til reykleysis, eins og sagt er í frumvarpi og nefndaráliti.

Sú leið sem við bjóðum upp á í breytingartillögunni nær þessu markmiði að mati okkar flutningsmanna. Með þessari breytingu er gert ráð fyrir að reykingar séu leyfðar í sérstökum herbergjum eða á afmörkuðum svæðum á veitinga- og skemmtistöðum. Við gerum ráð fyrir að þessi rými skuli aðgreind frá öðru rými staðanna með þeim hætti að loftstreymi á milli sé í lágmarki, t.d. með veggjum eða gleri. Við nefnum jafnframt að tryggja skuli fullnægjandi loftræstingu í samræmi við reglur sem heilbrigðis- og tryggingaráðherra setur.

Við tökum fram, til þess að ná þessum markmiði um vinnuvernd starfsmanna, að sala og afgreiðsla veitinga megi ekki fara fram á þessum svæðum og teljum að þar með geti okkar leið uppfyllt markmið frumvarpshöfunda og tillöguflytjenda, vegna þess að allur rökstuðningur þeirra hefur frá upphafi snúist um að sú hætta sem starfsmönnum er búin af völdum óbeinna reykinga stafi af því að þeir þurfi stöðugt að vinna í reykmettuðu umhverfi. Hér er gert ráð fyrir að svo verði ekki. Hér er gert ráð fyrir að reykingar fari einvörðungu fram á stöðum sem eru algjörlega afmörkuð, annaðhvort sérstök herbergi eða rými sem er fullkomlega aðgreint frá öðru rými staðanna með veggjum eða gleri. Þess vegna eru þeir starfsmenn sem vinna við afgreiðslu veitinga ekki undir það seldir að þurfa stöðugt að vera í reykmettuðu umhverfi.

Við teljum með öðrum orðum að þarna sé verið að fara milliveg. Þarna sé farin millileið til að koma til móts við þau vinnuverndarsjónarmið sem frumvarpið byggir á en jafnframt gert ráð fyrir möguleika fyrir þau 20%, eða hvað það er, fullorðinna einstaklinga sem reykja til að finna sér afdrep á sumum veitinga- og skemmtistöðum þar sem þeir gætu reykt.

Mér finnst því vandséð að hægt sé að leggjast gegn þessari breytingartillögu á grundvelli vinnuverndarsjónarmiða, sem eins og menn muna eru grunnur þeirra tillagna sem hér eru lagðar fram. Ég verð að játa að ég held að það sem nefnt er í nefndarálitinu um stöðu þeirra starfsmanna sem þurfa að þrífa þessi rými, og kom raunar einnig fram í máli hv. þm. Ástu R. Jóhannesdóttur áðan, sé harla langsótt að tengja það inn í vegna þess að allur málflutningurinn hefur gengið út á það að menn þurfi að vera í reykmettuðu umhverfi langtímum saman. Ég held að þarna sé verulegur greinarmunur. Menn þurfa ekki annað en velta því fyrir sér að það er allt önnur staða hjá þeim starfsmönnum sem kannski einu sinni eða tvisvar á sólarhring fara í stutta stund inn í þessi reykrými, sem ég minni á að eru loftræst, til að þrífa. Staða þeirra er eðli málsins samkvæmt allt önnur en staða þeirra starfsmanna sem standa á bar við afgreiðslu eða þjóna til borðs þar sem reykt er eða tónlistarmanna á sviði í sal þar sem reykt er. Það segir sig sjálft að staða þeirra er allt önnur. Þó að við göngum út frá því, og ekki ætla ég að draga það í efa, að starfsmenn á veitinga- og skemmtistöðum geti verið í hættu vegna óbeinna reykinga þá er staðan með allt öðrum hætti hjá þeim starfsmönnum sem fara inn í stutta stund, sjaldan, til að þrífa rýmin en hjá þeim sem standa kannski kvöld eftir kvöld frá kvöldmatarleyti og fram á nótt í reyk. Það er allt önnur staða. Ég verð að segja að mér finnst það harla langsótt í málflutningi stuðningsmanna frumvarpsins að leggja þetta tvennt að jöfnu.

Varðandi afstöðu Samtaka ferðaþjónustunnar þá vil ég segja að ég ber mikla virðingu fyrir sjónarmiðum þeirra. Samþykkt aðalfundur þeirra á síðasta ári þar sem boðið var upp á samræður milli samtakanna og heilbrigðisyfirvalda vegna þessa máls vakti auðvitað athygli mína. Síðan hefur komið fram að samtökin hafa stutt þetta frumvarp og það bann sem í er fólgið. Sömu sjónarmið munu hafa komið fram með eindregnum hætti hjá þeim fyrir heilbrigðisnefnd. Ég virði sjónarmið þessara samtaka. Hins vegar verð ég að segja að ég efast um að þessi samtök tali fyrir hönd allra veitinga- og skemmtistaðaeigenda í landinu. Þrátt fyrir að samtökin hafi komist að þessari niðurstöðu get ég ekki fallist á sjónarmið þeirra vegna þess að ég tel að ef einstakir eigendur veitinga- og skemmtistaða vilja bjóða upp á rými af þessu tagi eigi löggjafinn ekki að koma í veg fyrir að þeir geti það. Ég tel ekki að samtök á borð við Samtök ferðaþjónustunnar hafi heldur umboð til að semja slíkan rétt frá öllum sem reka fyrirtæki á þessu sviði. Þó að ég sé afar velviljaður þessum samtökum get ég ekki fallist á málflutning þeirra í þessu sambandi.

Ég bendi á að í breytingartillögu minni og félaga minna er gert ráð fyrir að þarna sé um að ræða heimild, að sjálfsögðu ekki annað en heimild fyrir þá sem það vilja, til að bjóða upp á reykingaherbergi með þessum hætti. Við vitum auðvitað að sumir hafa aðstöðu til þess og aðrir ekki, með sama hætti og sumir veitinga- og skemmtistaðir hafa matsölu og aðrir ekki, sumir veitinga- og skemmtistaðir hafa dansgólf og aðrir ekki. Við gerum auðvitað aldrei að ráð fyrir því í lögunum að allir veitinga- og skemmtistaðir séu settir í sama flokk. Þeir búa við mismunandi aðstæður. Við leggjum til að þeir sem hafa aðstöðu til og vilja leggja í kostnað, hugsanlega, við aðgreiningu rýmis og loftræstingu geti gert það. Við teljum að þessi breytingartillaga sé vel til þess fallin að ná sáttum og miðla málum milli þeirra andstæðu sjónarmiða sem takast á í þessu máli.



[16:02]
Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég á sæti í félagsmálanefnd sem fjallaði um vinnuverndarþátt frumvarpsins. Ég velti fyrir mér þeirri hugmynd sem hv. þingmaður talar fyrir og þeir sem flytja þetta mál með honum, að flytja tillögu um að leyfa reykingar í sérstökum herbergjum eða á afmörkuðum svæðum á veitinga- og skemmtistöðum og horfði þá til persónufrelsis eða réttar þeirra sem reykja, þótt vissulega vegi þyngst í öllu dæminu að draga úr heilsutjóni og dauðsföllum af völdum tóbaks með því að minnka tóbaksneyslu, vernda fólk fyrir áhrifum tóbaksreyks og vernda rétt þeirra sem ekki reykja.

Á fundi nefndarinnar komu fram þrjú atriði sem urðu til þess að ég a.m.k. dreg í efa, svo ekki sé meira sagt — hv. þingmaður verður þá að sannfæra mig betur ef ég á að styðja tillögu hans — sem settu mig í vafa um að skynsamlegt væri að styðja slíka breytingartillögu.

Í fyrsta lagi kom fram í nefndinni að við verðum að virða rétt þeirra sem vinna á veitingahúsum eins og hér hefur komið fram. Lýðheilsustöð benti á það vinnuverndarsjónarmið að það gilti líka gagnvart þeim herbergjum sem starfsmenn þurfa að þrífa. Nefndin lagði áherslu á að vinnuverndarlöggjöfin yrði að gilda um allt starfsfólk og engin rök standi til þess að starfsfólk veitinga- og skemmtistaða, sem m.a. þarf að þrífa þessi herbergi, njóti ekki heilsusamlegs umhverfis.

Í annan stað var bent á að veitingamenn vilja ekki fá þessa breytingu. Það kom skýrt fram í nefndinni. Þeir kalla ekki einu sinni eftir því að til staðar sé heimild eins og hv. þingmaður lagði til.

Í þriðja lagi spyr ég hv. þingmann, auk þessara tveggja atriða, hvort hann telji ekki að þetta geti skekkt samkeppnisstöðu þeirra sem hafa ekki möguleika til að koma á sérstökum reykherbergjum. Mundi það ekki skekkja samkeppnisstöðuna (Forseti hringir.) í veitingabransanum ef þetta yrði tekið upp með þeim hætti sem hv. þingmaður leggur til?



[16:04]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð að lýsa ánægju minni með að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir skuli hafa íhugað þetta mál og skoðað það með jákvæðum huga í félagsmálanefnd að taka breytingu af þessu tagi til greina.

Í fyrsta lagi, ef ég svara þeim þremur atriðum sem hv. þingmaður nefndi í ræðu sinni, held ég að mín tillaga og þriggja annarra þingmanna byggi á því að ná fram ákveðinni málamiðlun. Það er ljóst að staða þeirra starfsmanna sem, eins og ég nefndi í ræðu minni, fara einu sinni eða tvisvar á sólarhring inn í svona rými til að þrífa þau sé allt önnur en þeirra sem klukkustundum saman þurfa að standa í reykjarmekki. Það er allt önnur staða og ekki hægt að líkja saman aðstöðu þeirra eða áhrifum af tóbaksreyk með neinum hætti.

Við gerum ráð fyrir því að þessi rými séu að auki reykræst, að þar sé boðið upp á fullnægjandi lofthreinsibúnað sem gerir það líka að verkum að þeir starfsmenn sem einu sinni, tvisvar á sólarhring eða hve oft sem það er þurfa þar inn til að þrífa verða fyrir óverulegum áhrifum af þeim reykingum sem þar hafa átt sér stað. Þetta eru tóbaksreykingar og menn geta orðið fyrir áhrifum af þeim. Þetta er hins vegar ekki geislavirkur úrgangur sem menn skaðast af bara við að snerta hann einu sinni. Það er bara ekki þannig.

Varðandi samkeppnisstöðuna vil ég bara nefna að samkeppnisstaða veitingastaða er mismunandi að mörgu leyti. Það er ekki verið að neyða neinn til eins eða neins. Menn hafa mismunandi aðstæður til þess að bjóða upp á mismunandi þjónustu á sínum stöðum og þetta er bara einn þáttur af því.



[16:06]
Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst hv. þingmaður gera of lítið úr því hvað lagt er á það starfsfólk sem þarf að fara inn í þessi herbergi og þrífa þau. Þar er kannski um lítil herbergi að ræða þar sem tugir reykingafólks hafa farið í gegn á nokkrum klukkutímum. Sá sem fer inn í slíkt herbergi, þótt ekki sé nema í skamma stund, lyktar eins og öskubakki þegar hann kemur út.

En varðandi samkeppnisstöðuna þá kemur það mér mjög á óvart ef hv. þingmaður hefur ekki meiri áhyggjur af samkeppnisstöðunni en hv. þingmaður lætur í ljós. Fjöldi veitingastaða sem hefur ekki aðstöðu til þess að koma upp reykaðstöðu. Það yrði auðvitað til þess að reykingafólk mundi sækja á aðra staði, kannski næsta stað við hliðina af því að hann byði upp á slíkt reykherbergi. Með þessu er því verið að skekkja samkeppnisstöðu veitingastaða með óeðlilegum hætti.

Ég spurði ítrekað eftir því í félagsmálanefnd hvort ekki væri t.d. hægt að hafa þessa heimild fyrir þá sem vildu það. Því var neitað að veitingamenn mundu óska eftir því að slík heimild væri til staðar, að þetta yrði ákveðið sett inn í lögin. Að öllu þessu virtu tel ég ekki skynsamlegt að styðja slíka breytingartillögu. Ég spyr hvað hv. þingmaður sé að fara og þeir sem flytja tillöguna með honum þegar talað er um sérstök herbergi eða á afmörkuð svæði á veitinga- og skemmtistöðum. Hvað þýðir „afmörkuð svæði“? Er það bara eitthvert horn, eins og er núna almennt á veitingastöðum, eða hvað er hv. þingmaður að tala um þegar hann talar um afmörkuð svæði?

Þótt ég hafi, eins og ég sagði áðan, íhugað mjög að skoða réttindi reykingafólks og finna einhverja leið til þess að halda einhverjum stað opnum sem reykingafólk (Forseti hringir.) gætti nýtt þegar það fer á veitingastaði held ég, að öllu virtu, að þetta sé ekki skynsamleg leið.



[16:08]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í fyrsta lagi hlýtur hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir að gera greinarmun á stöðu þeirra starfsmanna sem eru stöðugt í reykjarkófi og hinna sem þurfa kannski í örstutta stund á hverjum sólarhring að fara inn í reykræst rými til að þrífa það. Það er bara spurning um að beita örlítilli skynsemi og reynslu til að átta sig á því að það er með engu móti hægt að bera stöðu starfsmanna saman að því leyti.

Varðandi samkeppnisstöðuna er um það að ræða að löggjafinn getur með engu móti skikkað alla veitingastaði í landinu til þess að vera eins. Löggjafinn getur ekki skikkað alla veitingastaði til þess að bjóða t.d. upp á dansgólf, upp á mat eða tiltekna matseðla. Veitingastaðir eru ólíkir. Samkeppnisstaða þeirra er ólík vegna alls konar þátta, vegna stærðar, vegna staðsetningar og þess háttar. Þrátt fyrir að sumir geti nýtt sér heimild til að bjóða upp á reykingar en aðrir ekki þá tel ég ekki að löggjafinn skekkti samkeppnisstöðu þeirra, alls ekki. Samkeppnisstaða þeirra er ólík. Það sem löggjafinn mundi segja væri: Ef menn geta og vilja bjóða upp á svona rými þá geta þeir gert það, þá ætlar löggjafinn ekki að stoppa það.

Varðandi það sem oft kemur fram í máli þeirra hv. þingmanna sem vilja fullkomið reykingabann, að þetta muni vera svo óhagstætt fyrir þá veitingastaði sem ekki geta boðið upp á reykingarými, þá minni ég á að í frumvarpinu og greinargerð með því er m.a. greint frá því að 80% fullorðinna reyki ekki. Þar eru menn því að slást um lítinn hluta markaðarins, ef menn eru bara að stíla inn á reykingamenn, fyrir utan það sem nefnt hefur verið sem rök fyrir málinu (Forseti hringir.) að fleiri muni fara á reyklausa veitingastaði (Forseti hringir.) þannig að reykleysið ætti að vera aðdráttarafl fyrir veitingastaði ekki síður en reykingaherbergin.

(Forseti (JóhS): Forseti vil biðja hv. þingmann að virða ræðutíma.)



[16:11]
Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður vék að máli mínu áðan þar sem ég talaði um vinnuvernd þeirra sem þyrftu að þrífa veitinga- og skemmtistaði og jafnvel svonefnd reykherbergi. Ég furða mig á því að hv. þingmaður geri lítið úr vinnuvernd þeirra sem þrífa þessi rými.

Það kom fram í umræðum um þetta frumvarp, þar sem hv. þingmaður var ásamt mér, hjá ungliðahreyfingu flokks hans, þar sem Kristinn Tómasson, læknir hjá Vinnueftirlitinu, ræddi um þetta við okkur, að rykið sem yrði eftir þar sem reykt hefði verið væri mjög heilsuspillandi og oft væru ungar konur í þessu hreingerningarhlutverki, jafnvel barnshafandi, jafnvel án þess að vita það, og þetta gæti skaðað fóstur, bara það ryk sem verður eftir reykingar þar sem er verið að þrífa.

Það hefur einnig komið fram í umræðu um þetta frumvarp og þetta mál, hvort það ætti að leyfa reykingar eða ekki, að læknar sem hafa kynnt sér rannsóknir á þessu hafa bent á að það geti verið heilsuspillandi, jafnvel fyrir ungbörn, að hvíla upp við flík sem hefur verið lengi inni í reykingamettuðu lofti. Þetta er því vissulega heilsuspillandi. A.m.k. hafa læknar sem hafa verið að skoða þetta sannfært mig um það þótt ég sé ekki sérfræðingur í því. Ég tel fulla ástæðu til þess að huga að vinnuvernd allra, ekki bara þeirra sem eru í reykmettuðu lofti heldur líka þeirra sem þurfa að búa við að þrífa skítinn eftir reykingamennina þótt þeir séu búnir að ræsta út.



[16:13]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef ekki miklu að bæta við það sem ég hef áður sagt um þetta efni. Ég held að hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir hljóti að fallast á að staða þeirra starfsmanna, sem fara tiltölulega sjaldan í stuttan tíma inn í umhverfi þar sem hefur verið reykt, hlýtur að vera með allt öðrum hætti en staða þeirra starfsmanna sem standa í reyk klukkustundum saman. Ég held að hv. þingmaður hljóti að fallast á það sjónarmið.



[16:14]
Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel fulla ástæðu til að það starfsfólk sem sér um að þrífa skítinn eftir reykingamenn, þó að búið sé að ræsta út, fái að njóta vafans og búa við heilsusamlegt vinnuumhverfi. Það á ekki að bjóða neinum upp á að þurfa að ræsta eftir slíkt þegar mjög margir sem vinna við þetta og hafa rannsakað það telja heilsuspillandi og jafnvel mjög hættulegt heilsunni að þrífa upp eftir reykmettað loft, þann sóðaskap sem þar verður eftir.



[16:15]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tel að íslenski löggjafinn gangi allt of langt með þessu máli. Ég er sannfærður um að verið sé að stíga mikið óheillaskref í forræðisátt þar sem nokkuð taumlausu stjórnlyndi og mikilli forræðishyggju er beitt af fullu afli, þvert á alla flokka því miður. Menn sjást alls ekki fyrir því það er hægt að ná markmiðunum á annan hátt. Markmiðum sem samstaða er um og ég tek heils hugar undir og er baráttumaður fyrir, þ.e. reyklaust umhverfi fyrir alla þá sem vilja ekki anda að sér reyk og alla þá sem starfa á veitinga- og skemmtistöðum. Því markmiði er að sjálfsögðu hægt að ná.

Við fjórir þingmenn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar leggjum til, eins og hv. þm. Birgir Ármannsson, sem er 1. flutningsmaður kynnti hér í ræðustól á undan mér, tillögur til sátta þar sem markmiðinu er náð með mildari aðferðum, markmiðinu um reyklaust umhverfi fyrir þá sem ekki reykja, fyrir þá sem vilja ekki vera í reyk, fyrir þá sem starfa á veitinga- og skemmtistöðum en vilja vera í reyklausu umhverfi. En um leið er því fólki, fullorðnu og sjálfráða fólki, gefið svigrúm til að reykja kjósi það svo. Og kjósi einhverjir skemmtistaðaeigendur að halda úti stað þar sem boðið er upp á sérstök herbergi eða afmörkuð svæði á veitinga- og skemmtistöðum, segir hér í tillögunni, með leyfi forseta:

„Þessi rými skulu aðgreind frá öðru rými staðanna með þeim hætti að loftstreymi á milli sé í lágmarki, t.d. með veggjum eða gleri, og tryggja skal fullnægjandi loftræstingu í samræmi við reglur sem heilbrigðisráðherra setur, sbr. 6. mgr. Sala eða afgreiðsla veitinga er ekki heimil á svæðum þar sem reykingar eru leyfðar samkvæmt þessari málsgrein.“

Hér er verið að rétta út sáttarhönd af fjórum þingmönnum sem eru afdráttarlaust á móti þessu fortakslausa banni. Hér er verið að þrengja mjög að. En sáttin felst í að markmiðinu um reykleysi fyrir þá sem vinna á stöðunum og vilja ekki vera í reyk er náð fullkomlega. En hins vegar er komið til móts við það fullorðna og sjálfráða fólk sem vill reykja eða vera í reyk, að fá að gera það á veitinga- og skemmtistöðum sem veitingahúsaeigandi kýs að halda úti.

Þá er spurt: Skekkir það ekki samkeppnisstöðu veitingahúsa því ekki geta öll veitingahús sett upp slík rými? Allt skekkir þá samkeppnisstöðu. Ekki þetta frekar en annað. Ekki hafa öll veitingahús pláss til að setja upp dansgólf eða diskókúlur, eða eldhús af einhverri sort eða þessa og hina aðstöðuna sem lokkar og laðar ákveðna hópa fólks inn á staðinn. En eitthvað annað lokkar og laðar fólk inn á aðra staði.

Reykleysi er aðlaðandi fyrir einn og reykherbergi er aðlaðandi fyrir annan. Það er val hvers veitingahúsaeigenda hvernig stað hann rekur eða hvar hann kýs að setja sinn stað niður, hvernig stað hann kýs að starfrækja. Lítinn stað þar sem ekki er kostur á sérstöku rými og er þar af leiðandi reyklaus eða stærri stað þar sem hægt er að vera með sérstakt reyksvæði þar sem ekki er þjónusta fyrir þá sem reykja. Að sjálfsögðu á að gefa veitingahúsaeigendum og fullorðnu og sjálfráða fólki frelsi til að athafna sig með ákveðnum hætti ef það veldur ekki öðrum skaða.

Hér er verið að hafa vit fyrir fólki með mjög forræðislegum og fráleitum hætti að mínu mati. Vek ég athygli á því að margt það fólk sem berst gegn þessu fortakslausa banni er fyrst og fremst að berjast og vernda frelsi einstaklinga en reykingarnar eru þar algjört aukaatriði. Fyrst löggjafinn fetar sig inn á þessa braut, að hafa svo mikið og djúpt vit fyrir fólki að hann grípur fram fyrir hendurnar á því og bannar því að gera þetta og bannar því að gera hitt, má allt eins spyrja: Af hverju er ekki gengið lengra? Af hverju fer ekki löggjafinn að ræða áfengisbann eins og hér var fyrir 80 árum? Það liggur algjörlega ljóst fyrir að áfengi veldur miklu meiri skaða í íslensku samfélagi en nokkurt annað fíkniefni. Miklu meiri skaða en reykingar. Miklu meiri skaða en kannabis, kókaín eða amfetamín. Margfaldlega meiri skaða en nokkurt annað einstakt fyrirbæri í samfélaginu. Ég held það valdi miklu meiri skaða en t.d. umferðin. Af hverju grípur löggjafinn ekki inn í og þrengir að neyslu þess í staðinn fyrir að veita fólki meira svigrúm?

Kannski af því að það er einhvers konar sátt í samfélaginu um að neysla áfengis sé lögleg og heimil rétt eins og neysla á óhollum og bráðdrepandi mat, djúpsteiktum skyndibitamat sem allir vita að er stórkostlega óhollur og veldur sérstöku tjóni börnum og unglingum sem eru sólgin í hann og vanin á hann af þeim sem reka veitingastaðina. Af hverju er ekki gengið lengra í að koma í veg fyrir þetta fyrst verið er að hafa vit fyrir fullorðnu og sjálfráða fólki þegar jafnvel er boðið upp á þá mildu sátt að reykingar séu bannaðar þar sem þjónusta er veitt? Reykingar séu bannaðar þar sem almenningur er en eingöngu heimilaðar í sérstökum rýmum þar sem tryggt er að reykurinn valdi engum þeim skaða sem ekki kemur þangað inn og þar sem engin þjónusta er veitt. Ég veit ekki. Engum af þessum spurningum hafa baráttumenn fyrir þessari forræðishyggju svarað.

Þegar 1. umr. um þetta mál lauk hér fyrr í vetur var ég sannfærður um að málið kæmi töluvert betra út úr nefndinni aftur. En það kemur þaðan engu betra að þessu leyti. Þar var greinilega enginn vilji til staðar. Vissulega þvert á stjórnmálaflokka og er það sorglegt í sjálfu sér að þverpólitískt bandalag skuli vera um þessa forræðishyggju en ekki tekið tillit til vel rökstuddra og málefnalegra athugasemda og tillagna um að reykingar skuli leyfðar á afmörkuðum svæðum á veitinga- og skemmtistöðum. Þetta er mild leið sem hér er lögð til. Stigið alla leið í þá átt að ná því markmiði sem ég er alveg sannfærður um að hver einasti maður hér á Alþingi vill ná, sem er að tryggja að allir þeir sem fara á veitinga- og skemmtistaði geti verið reyklausir og allir þeir sem þar vinna geti verið reyklausir. En einungis að þeim sem kjósa að reykja og þeim sem kjósa að bjóða upp á slíka þjónustu á sínum veitinga- og skemmtistöðum sé ekki bannað það með lögum. Að það sé ekki bannað með lögum að vera með sérstakt herbergi til að leyfa mönnum að setjast niður á veitinga- og skemmtistað og reykja vindla í einhvers konar vindlaklúbbi.

Það er lögbrot á Íslandi ef þetta frumvarp nær fram að ganga. Þetta er fáránlegt frumvarp. Þetta er fáránleg forræðishyggja og fyrir henni hafa engin boðleg rök verið færð. Það er hægt að ná markmiðinu með mildari leið en hér er lagt til. Við höfum fært ítarleg rök fyrir því við 1. og 2. umr. um málið.

Ef fer fram sem horfir virðist málið því miður ætla að ná fram að ganga, af því að það eru allt of fáir sem eru að berjast gegn þessu máli. Við erum fjórir sem flytjum tillöguna. Ég trúi því nú og vona að það séu fleiri sem eru á móti því. Það kemur í ljós í atkvæðagreiðslunni. En hér er einfaldlega gengið gegn stjórnarskrárvörðum rétti fólks til friðhelgi einkalífs. Þetta er grundvallarmál. Þetta er nefnilega grundvallarumræða um frelsi og forræði fullorðinna og sjálfráða einstaklinga yfir athöfnum sínum og orðum. Algjörlega. Þetta tengist líka tjáningarfrelsinu. Það má ekki tala um einstakar tóbakstegundir í fjölmiðlum með neinum hætti. Sjónarmiðum vinnuverndar, öryggis og allra þeirra hluta er hægt að ná fram með þeirri tillögu sem við, fjórir þingmenn, flytjum hér og leggjum til sem sátt í þessu máli.

Það kemur á óvart hvað tillagan fær dræmar undirtektir hjá þeim sem hafa talað hér í dag. Það veldur mér vonbrigðum og það kemur mér mjög á óvart hvað það er sterkur pólitískur rétttrúnaður fyrir því að það fortakslausa bann gegn reykingum á veitinga- og skemmtistöðum sem hér er lagt til skuli ná fram að ganga. Pólitískur rétttrúnaður sem er ámælisverður og dapurlegur. Ég vona að þessi umræða leiði til þess að málamiðlunin, sáttatillagan, nái fram að ganga. Af því markmiðin eru mildari leiðir eins og við leggjum fram hér. Alveg sama þó það sé hægt að tína til hluti eins og samkeppnisstöðu veitingahúsa o.s.frv.

Það er ekki Alþingis að jafna samkeppnisstöðu veitingahúsa, að sjálfsögðu ekki. Sumir veitingastaðir eru nógu stórir til að bjóða upp á dansgólf og aðrir ekki. Sumir eru nógu stórir til að bjóða upp á reykrými og aðrir ekki o.s.frv. Sumir geta boðið upp á þjónustu sem aðrir geta ekki boðið upp á af því þeir eru staðsettir þarna en ekki hér, af því þeir eru svona stórir og af því aðrir eru svona litlir. Það er bara eins og hlutirnir ganga fyrir sig. Það er ekki löggjafans að jafna sérstaklega samkeppnisstöðu veitingahúsa með einhverjum sértækum aðgerðum.

Við erum að tala um fullorðið sjálfráða fólk og hvað það tekur sér fyrir hendur þegar það er tryggt að það valdi ekki öðrum skaða — það er kjarni málsins — þessir fullorðnu sjálfráða einstaklingar sem kjósa að reykja einstöku sinnum eða oft af því tóbak er lögleg vara. Af hverju þá ekki að banna tóbakið alveg? Það hlýtur að vera miklu áleitnari spurning en þessi hér.

Fullorðnir sjálfráða einstaklingar sem kjósa að reykja þegar þeir fara út að skemmta sér eða borða góða máltíð, fullorðnir sjálfráða einstaklingar sem dettur í hug að stofna veitingastað þar sem kjarninn í starfseminni yrði lítill vindlareykingaklúbbur — segjum að ég vildi stofna stað þar sem menn borðuðu nokkurra rétta máltíð og gætu eftir það sest niður og reykt vindil, kannski á milli máltíða, kannski á milli rétta, kannski eftir matinn, það er algjörlega þeirra mál. Þá er löggjafinn, Alþingi Íslendinga, búinn að banna það. Það er búið að banna það rétt eins og um sé að ræða einhvers konar áhlaup að ólöglegu fíkniefni eins og heróíni, kókaíni, kannabis eða einhverju slíku.

Aldeilis ekki. Tóbak er lögleg vara á Íslandi, rétt eins og áfengi. En þá þarf að fara þessa ósmekklegu leið til að þrengja að því að fólk neyti þess. Það eru margar aðrar miklu betri leiðir. Langbesta leiðin er einfaldlega forvarnir og fræðsla. Rétt eins og þegar talið berst að neyslu fíkniefna. Það er hægt að vera hér með menn með Schäfer-hunda eltandi uppi einhverja smáglæpamenn og dópsala út um allt land og það skilar engum árangri. Langbesta leiðin og sú árangursríkasta er einfaldlega forvarnir og fræðsla fyrir ungt fólk til að koma í veg fyrir að eftirspurn skapist eftir eitrinu. Það er langbesta leiðin til að koma í veg fyrir fíkniefnaneyslu, áfengisneyslu og tóbaksreykingar. Í stað þess að löggjafinn sé með einhverjum ósmekklegum hætti, yfirgengilegri forræðishyggju, að vaða inn í einkalíf fullorðins fólks og stjórna því hvað það kýs að gera við löglega neysluvöru hér á landi.

Hvað með skyndibitaruslið sem er verið að troða upp á börn í auglýsingum í barnatíma á hverjum einasta morgni á Íslandi um helgar? Það er verið að auglýsa sælgæti, skyndibitadrasl og allar þessar vörur sem eru stórhættulegar börnum og unglingum. Stórhættulegar. Það er ekkert verið að gera í að þrengja að því að þeim óþverra sé haldið að börnum, óþverra sem veldur þeim miklu meiri skaða en margt annað. Ég er ekki að segja að það eigi að banna það. Ætli foreldrar þurfi ekki að hafa vit fyrir börnum sínum og frelsi til að velja þeim mat og annað.

Við þurfum einfaldlega ekki að ganga svona langt. Fjarri því. Tillagan sem lögð er fram af þeim sem eru andstæðir þessu fortakslausa banni er ákaflega sanngjörn sáttaleið, mildari leið til að ná fullkomlega fram markmiðum bannsins sem er að þeir sem vinna á veitinga- og skemmtistöðum þurfi ekki að anda að sér tóbaksreyk enda eiga þeir að sjálfsögðu alls ekki að þurfa að gera það. Það efast enginn um það, og alls ekki ég, eitt augnablik að reykingar eru bráðdrepandi og virkilega óhollar. Bæði beinar og óbeinar. Svo er hægt að rífast um hversu óhollar þær eru og hvað þær drepi marga. En þær drepa gríðarlegan fjölda fólks út um allan heim á hverju ári og eru í sjálfu sér hörmulegt fyrirbrigði. En við erum að tala um löglega vöru og við erum að tala um inngrip stjórnvalda inn í líf fullorðins, sjálfráða fólks með þeim hætti sem mér finnst algjörlega óþolandi. Það er nefnilega hægt að ná fram öllum markmiðunum, öryggismarkmiðunum, varúðarmarkmiðunum, vinnuverndarsjónarmiðunum, sem eru allt sjálfsögð sjónarmið sem löggjafinn á að beita sér fyrir að tryggð séu, með öðrum hætti.

Að sjálfsögðu á enginn sem vinnur á veitinga- og skemmtistað að þurfa að anda óþverranum að sér. En því markmiði er hægt að ná með allt öðrum og mildari hætti. Hér er lögð til mjög skynsamleg, jákvæð og sanngjörn leið að því marki. Ég hefði haldið að þeir sem eru að berjast fyrir banninu mundu nýta sér hana sem sáttaleið, sanngjarna, vitræna og jákvæða sáttaleið í þessu máli.

Í sjálfu sér var ég að vonast eftir því að þegar þetta mál kæmi til 2. umr. yrði hlutur þess miklu meiri hér í Alþingi. En við erum á síðustu dögum þingsins núna og það er hastað á menn að dvelja ekki um of við hvert mál. Ég hef reynt að ná fram á tæpum 20 mínútum öllum þeim helstu sjónarmiðum sem ég tel vera uppi í málinu þó að það megi vissulega fara miklu ítarlegar og dýpra í málið, og að sjálfsögðu leiða umræðuna þangað sem hún á heima. Umræðan á að snúast um frelsi einstaklingsins í þjóðfélaginu. Frelsi einstaklingsins og heimild löggjafans til að grípa með svo freklegum hætti inn í líf hans. Það er stór spurning. Það er sú grundvallarumræða sem liggur að baki þessari lagasetningu. Þessari fráleitu og dapurlegu lagasetningu. Þessari miklu forræðishyggju sem ég hélt fyrst að væri eitthvert dekurmál einstakra þingmanna en kæmi aldrei fram með þessum hætti og ætti að keyra í gegnum þingið á síðustu dögum inni í einhverjum samkomulagstillögum um að klára þingið á tilteknum tíma. Þetta er vont mál. Ég vona að það nái aldrei fram að ganga nema þá með breytingartillögunni sem við flytjum hér fjórir þingmenn og höfum talað fyrir tveir flutningsmenn, hv. þm. Birgir Ármannsson og sá sem hér stendur.



[16:31]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég skrifaði undir nefndarálitið með fyrirvara og það lýtur að tvennu. Í fyrsta lagi er ég á móti málinu sjálfu, frú forseti. Þannig að ég skrifa undir nefndarálitið með fyrirvara að því leyti og þá kann einhver að spyrja af hverju í ósköpunum ég skrifi undir nefndarálitið yfirleitt. Það er vegna þess að nefndin brást við tilmælum Hæstaréttar og er að breyta lögum í kjölfar þess hæstaréttardóms. Það styð ég eindregið.

Ég styð einnig breytingartillögu sem fjórir hv. þingmenn flytja á þskj. 1336 og hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson flutti alveg ágæta ræðu um áðan. Ég tek undir hvert orð í þeirri ræðu. Ég er á móti þeirri miklu forræðishyggju sem hér ríður húsum. Auk þess er ég með breytingartillögu sjálfur.

Hún varðar 7. gr. í núgildandi lögum, nr. 6/2002, þar sem segir að hvers konar auglýsingar á tóbaki og reykfærum séu bannaðar hér á landi. Þar segir enn fremur í 3. tölulið sömu greinar að með auglýsingum sé átt við hvers konar umfjöllun í fjölmiðlum um einstakar vörutegundir til annars en að vara sérstaklega við skaðsemi þeirra.

Þetta ákvæði er alveg með ólíkindum, frú forseti.

Ef einhver fjölmiðlamaður skyldi nú senda út það sem ég segi hér á eftir þá ætla ég að vara hann við að ég er að fara að brjóta lög. Ég ætla nefnilega að segja að ég hafi aldrei reykt Camel. Þetta er lögbrot. Ég ætla að segja að það sé langt síðan ég hafi keypt Chesterfield. Annað lögbrot. Ég ætla að segja að nú er hann Jón gamli dáinn, ég segi það af því að ég er að skrifa minningargrein um hann, en eldri bróðir hans Gunnar sem reykti alltaf Raleigh, lifir góðu lífi. (Gripið fram í.) Eða systir hans sem reykti lifir enn, háöldruð. Þetta má ég ekki segja heldur.

Þetta er náttúrlega alveg með ólíkindum frú forseti, svona umræða. Svona lagatúlkun. Þetta minnir á trúboð. Þetta minnir á trúboð bókstafstrúarmanna. Þetta eru einstrengingslegar skoðanir. Þetta er forsjárhyggja og þetta er skoðanakúgun. Þetta er rétttrúnaður. Ekkert annað. Heilbrigð umræða og skynsemi er látin veg allrar veraldar.

Ég skora á hv. þingmenn að styðja breytingartillögu mína þannig að það sem ég sagði hér áðan sé ekki lengur lögbrot og menn geti t.d. sagt í grein í Morgunblaðinu eða í einhverjum öðrum fjölmiðli að einhver hafi reykt Raleigh eða að einhver hafi reykt þetta eða hitt. Þetta er náttúrlega alveg með ólíkindum. Fyrir utan það að þegar við bönnum auglýsingar þá styrkjum við náttúrlega samkeppnisstöðu þeirra fyrirtækja sem eru á markaði. Það getur enginn nýr komið inn og þannig styrkjum þá sem eru á markaðnum. Þeir þurfa ekkert að hafa fyrir því. Þeir þurfa ekkert að auglýsa. Fólkið veit ekki neitt um neitt annað til að kaupa en þær sígarettur eða tóbak sem þeir hafa selt. Þannig að þetta er til hagsbóta fyrir tóbaksiðnaðarinn.

Umræðan í nefndinni var alveg með ólíkindum. Það kom fram að það eru 16–20% meiri líkur að deyja úr vissum sjúkdómum ef menn eru svokallaðir meðreykingarmenn, ef þeir anda að sér reyk frá öðrum. Ef yfirleitt er hægt að merkja einhvern marktækan mun eða einhverja aukningu á dánarlíkum þá er það með stuðlinum 1,16 til 1,20.

Hins vegar ef menn reykja sjálfir þá er það með stuðli 20 falt í vissum sjúkdómum. Þannig að það er varla hægt að segja að þetta sé sambærilegt, að vera meðreykjandi eða reykja sjálfur. Langt í frá. Það eru bara sárafáar kannanir sem sýna yfirleitt marktækan mun á eða sanna yfirleitt að skaðlegt sé að reykja eða anda að sér lofti sem aðrir hafa reykt í.

Umræðan í nefndinni gekk út á að þetta væri eins og verið væri að fjalla um blásýru. Ég fagna bara hverjum degi sem ég lifi. Þegar ég var unglingur og barn sat ég iðulega í rútum þar sem mikið var reykt. Ég ætti að vera löngu dauður miðað við umræðuna í nefndinni. Þetta er náttúrlega alveg með ólíkindum, trúboðið er svoleiðis endalaust að maður bara stendur á öndinni yfir þessu. Í nefndinni var verið að tala um einhverja veggi upp í hálfa hæð, einn metra á hæð og ég veit ekki hvað og hvað. Þessi umræða var fyrir neðan allar hellur.

Ég ætla nú ekki að hafa þetta lengra en ég segi að það var bíó að fylgjast með umræðunni í hv. heilbrigðis- og trygginganefnd og mér þykir mjög miður að ég hef ekki hæfileika til að semja gott gamanleikrit, því nóg efni var til þess.



[16:37]Útbýting:

[16:38]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Það er best að gera strax þá játningu að ég hef nokkra hríð verið í vafa um hverja afstöðu eigi að taka til þess frumvarps sem er hér til umræðu. Annars vegar er auðvitað sjónarmið persónufrelsis og að hinu opinbera sé ekki rétt að ganga á rétt manna til að haga sér eins og þeim sýnist nema sérstakar brýnar ástæður komi til. Sú gamla kenning um frelsið að það eigi að vera eins mikið og hægt er og eins gervallt og það getur orðið þangað til það fer að skerða annarra manna frelsi.

Það er ágætt að halda þessu fram og auðvelt að taka undir þetta. En síðan eru markalínurnar auðvitað óskýrari. Á hinn bóginn er þetta auðvitað heilbrigðismál og það hefur verið skoðun mín nokkra hríð, hvert sem samband mitt hefur hverju sinni verið við þetta fíkniefni, tóbakið eða nikótínið, að í augum seinni tíma manna muni verða litið á öskubakka okkar og ýmislegt athæfi kringum sígarettur og aðrar tegundir reyktóbaks sömu augum sem við lítum nú hrákadalla 19. aldar.

Ég hef að lokum komist að því að hagsmunir heilbrigðisins og lifenda, lífsins hreinlega, eigi að vega meira en tillit það sem menn kunna að taka hér til persónufrelsisins og hef ákveðið að styðja frumvarpið. Ég átti líka í ákveðnum erfiðleikum með að taka afstöðu til breytingartillögunnar sem fjórir félagar hv. þingmenn hafa hér flutt. Vegna þess að að einhverri slíkri millileið var ég sjálfur að leita einkum til þess að gera þessi viðbrigði ekki eins snögg og þau sýnilega verða. Ég hafði t.d. hugmynd sem ég bar upp við kunnáttumenn um hvort hægt væri að skipta veitingastöðum með einhverjum hætti í drykkjubari annars vegar og hins vegar kannski aðeins kurteislegri matstaði. Mér var tjáð að menn yrðu mjög fljótir að sjá við því að gera drykkjubarina að matstöðum eða einhvers konar framreiðslustöðum og þetta væri úrræði sem ekki gengi.

Ég held því miður, án þess að ég ætli að fara að orðlengja um það, að hið sama gildi um hin sérstöku reyksvæði þeirra Birgis Ármannssonar og félaga hans hv. þingmanna. Mér sýnist af reynslunni af því að íslensk veitingahús haldi uppi sérstökum reyklausum svæðum, sem þeim ber að gera, að þeim muni ekki ganga betur að virða ákvæði um stranglega afmörkuð reyksvæði.

Þannig að svona er nú mín afstaða í þessu. Ég ætla ekkert að rökstyðja hana frekar satt að segja og er ekki kominn hér upp til að lýsa henni sérstaklega þótt ég teldi mig þurfa að gera það fyrst þegar ég tók þátt í umræðu um málið, heldur að taka undir með hv. þm. Pétri Blöndal, tillögu hans að afnema ákvæðið um að mönnum sé ekki heimilt að tala öðruvísi um tóbaksvöru en henni til lasts. Ástæða mín fyrir þessum stuðningi er ósköp einfaldlega sú að þarna gengu tóbaksvarnamenn of langt og höggva í það sem hlýtur að teljast vera kjarni tjáningarfrelsisins, svo langt að þessu var mótmælt á sínum tíma mjög harðlega, því miður of seint. Það gerðu samtök blaðamanna, rithöfundar og einstakir áhugamenn vegna þess að þau dæmi sem Pétur Blöndal nefnir hér eru auðvitað fullkomlega gild. Rithöfundar, fræðimenn, áhugamenn um tóbak eða fíkniefni eða hvað sem vera skal verða að hafa fullan rétt til þess að tala um tóbaksvöru eins og hverja aðra vöru. Hvort sem hún er frá í upphafi 6. áratugarins, eins og hjá Pétri Blöndal sem nefndi hérna sérstaklega tegundirnar Camel, Chesterfield og Raleigh, sem vekja upp nánast hugljúfar minningar hjá mér, svo ég brjóti nú lögin með sama hætti og Pétur Blöndal. Ekki af því ég hafi reykt mjög mikið af þessum tegundum eða einhverjum öðrum tóbaksvörum heldur var þetta reykt í kringum mig á barnsárum mínum.

Ég veit hins vegar að meiningin með þessu ákvæði var góð. Hún var sú að loka glufum sem menn kynnu að notfæra sér til auglýsinga á tóbaki. Ég er ósammála Pétri Blöndal um að ekki eigi að banna auglýsingar á tóbaki. Ég tel að það eigi að gera og tek eftir að það eru öll ríki að gera með einhverjum hætti, nálgast það mark vegna þess að þetta er auðvitað heilbrigðisvandamál sem við erum að glíma við. Þó það hafi gengið skrykkjótt þá hefur það almennt gengið vel á síðustu árum, að minnsta kosti í Vestur-Evrópu, að gera það. Við eigum að vera öðrum heimssvæðum til fyrirmyndar um það efni.

Þrátt fyrir að þessi setning sé í rauninni sett inn til að auðvelda eftirlit með auglýsingabanninu, og má færa henni það til bóta, þá gengur hún ósköp einfaldlega á það svið sem ekki er hægt að leyfa sér að ganga á. Þegar um þetta ræðir verður að ætlast til að lögregla og dómstólar hafi sérstök úrræði til að ráða við verkefni sem vissulega er ekki einfalt, án þess að þessum aðferðum sé beitt. Hér er í raun um meðalhófsreglu að ræða enda er efast um það í þessari umræðu að þetta ákvæði standist stjórnarskrá. Þannig að það sem Pétur Blöndal hv. þingmaður er hér að gera og ég með honum og vonandi margir fleiri, er að koma í veg fyrir að hér reyni á stjórnarskrána gagnvart þessu ákvæði.

Ég hef tekið eftir því, og held ég hafi rétt fyrir mér hér, að það hefur ekkert reynt á þetta gagnvart dómstólum. Ég man eftir einu dæmi þegar ágætur félagi minn, Karl Th. Birgisson, skrifaði rétt eftir að þetta var samþykkt grein í blað, ég man nú ekki hvaða blað, þar sem hann ræddi um tóbaksvörur með ýmsum hætti. Sú grein var auðvitað á sinn hátt ögrun og það var eftirtektarvert að þeirri ögrun var ekki tekið. Lögreglan fór ekki á staðinn að ræða við Karl Th. Birgisson. Ekki var höfðað mál af hálfu saksóknara gegn Karli Th. Birgissyni. Þannig stóðu yfirvöld í raun og veru ekki við þau lög sem Alþingi hafði sett í þessu efni, og það er kannski ástæða til að líta á hlutina fyrst svo er.

Ég kem hér til að hrósa hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir þessa tillögu sem ég hefði gjarnan viljað flytja sjálfur. En hann varð fyrri til og reyndar nær vettvangi að þessu leytinu, og ég heiti stuðningi mínum við hann og hvet menn til að ljá henni sitt atfylgi.



[16:46]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vildi bregðast örstutt við einu atriði í annars ágætri ræðu hv. þm. Marðar Árnasonar þar sem ég gat tekið undir afar margt í málflutningi hans. Mér fannst hann horfa á breytingartillögu mína og þriggja annarra þingmanna með jákvæðari augum en sumir aðrir sem hér hafa talað í dag þótt hann, eftir því sem ég skildi mál hans, styddi hana ekki eða treysti sér ekki til að styðja þessa breytingartillögu.

Í máli hans komu fram ákveðnar áhyggjur af því að sú aðgreining á milli reykingasvæða eða reykingaherbergja og annars rýmis veitingastaða yrði vandamál, hugsanlega með sama hætti og það er ákveðið vandamál í dag hvernig á að greina á milli reykingavæða og reyklausra svæða á veitingastöðum. Ég vildi bara draga það fram í umræðunni með skýrum hætti að sá reginmunur er á því sem felst í tillögu okkar og núverandi ástandi að gert er ráð fyrir að aðskilnaður milli reyksvæða og reyklausra svæða verði með veggjum, gleri eða einhverjum sambærilegum hætti þannig að tryggt á að vera að ekki komi upp einhver jaðartilfelli eða óljós tilfelli að því leyti þar sem gert er ráð fyrir að aðskilnaðurinn sé svo tryggilegur að það séu veggir, gler eða eitthvað sambærilegt sem greini þessi svæði að. Í dag er þetta miklu óljósara og hefur valdið ýmsum vandamálum í framkvæmd. En af því að það er einlægur ásetningur okkar flutningsmanna breytingartillögunnar að koma til móts við sjónarmið frumvarpshöfunda og þeirra sem langt vilja ganga í tóbaksbanni, við viljum koma til móts við slík sjónarmið, þá gerum við ráð fyrir heilum veggjum, gleri eða einhverju sambærilegu.



[16:49]
Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég hef haft það sjónarmið í þessu efni og er nú ekki frumlegt að um tóbaksvarnir eigi það að gilda að við eigum að stíga þar eins smá skref og við getum til þess að vera samferða eins og hægt er þróuninni í þessu efni sem hefur verið sú að færri og færri reykja. Ég held að lokamarkmið okkar sé að koma tóbakinu burt, að reyktóbakið sé ekki lengur almenn neysluvara eins og við ólumst upp við öll sem erum hér í salnum. Áhyggjur mínar af þessu frumvarpi varða ekki markmið þess heldur eru þær spurning um hvort við séum að stíga of stórt skref í einu. Við umhugsun mína, sem sjálfsagt hefur ekki verið af því umfangi sem hún hefur verið fyrir menn í heilbrigðisnefndinni, hef ég hins vegar komist að því að hér sé ekki um annað að ræða en að stíga nógu stórt skref til að það sé afdráttarlaust, að menn viti það áður en þeir nálgast þennan geira mannlífsins að ætla að fara á veitingastað að það sé klárt að þar sé ekki hægt að neyta tóbaks innan dyra.

Ég tek eftir því í öðrum ríkjum þar sem þetta bann hefur verið innleitt að þar virðist það hafa verið afdráttarlaust. Ég var t.d. í Noregi í vetur, á kuldaskeiði þar í landi, og bjó hjá kunningja mínum og við fórum aðeins út á bari á kvöldin sem er ekki til tíðinda. Þá búa reykingamenn sig afar vel, fara í dúnúlpur sínar og hafa með sér trefla og hanska og sitja gjarnan utan við barina þannig að á sumum stöðum sem við sóttum þarna, í verkamannahverfinu í Austur-Ósló, voru iðulega fleiri gestir utan dyra en innan en voru þó á staðnum. Þeim sem voru innan dyra leið náttúrlega ákaflega vel í sínu ágæta hreina lofti og gátu neytt sinnar drykkjarvöru betur en ella.



[16:51]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Örstutt. Þessi skemmtilega lýsing hv. þm. Marðar Árnasonar af reynslu sinni frá Noregi leiðir auðvitað hugann að þeirri spurningu hvort honum hefði ekki þótt eðlilegt að þessir kappklæddu reykingamenn fyrir utan veitingastaðina í Ósló hefðu haft eitthvert afdrep þar sem þeir gátu setið saman og reykt án þess að trufla aðra.



[16:51]
Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég lýsi fullri samúð með sjónarmiðum hv. þingmanns í þessu efni en það er skoðun mín að ekki sé til neitt almennilegt millistig hér. Ég hef leitað þess eins og ég lýsti áðan og ég hef ekki trú á tillögu þeirra félaga sem ég þó skil hvatir á bak við og ætla ekki að fara að úthrópa þá hér sem einhverja eyðileggingarmenn eða fíknisinna. Ég hef ósköp einfaldlega ekki trú á að það gangi að hafa svona tvöfalt kerfi í þessum efnum og ég held að það sama verði að ganga yfir alla í þessu.

Að hluta til eru Íslendingar komnir inn á þessa braut. Það er mjög algengt núna að menn hverfi sjálfkvaddir frá borðum, t.d. í veislum eða í mat og jafnvel á reykingasvæði, vegna þess að menn eru farnir að taka tillit til annarra í þeim efnum og telja það ekki viðkunnanlegt, jafnvel ekki í heimahúsum, að reykja við matborð. Við erum óvanari þessu á drykkjustöðum eða börum og þess vegna var ég að hugleiða það á sínum tíma hvort hægt væri að aðgreina þetta tvennt. Ég held að það verði eitt yfir alla að ganga í þessu og við verðum að reyna að stíga þetta skref öll í einu. Ég vona að það takist farsællega.



[16:53]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég fagna þessu frumvarpi mjög og þó fyrr hefði verið. Það eina sem er dapurlegt við það er að við höfum glatað fimm góðum árum sökum þess að við heyktumst á að stíga skrefið til fulls 2002 þegar tóbaksvarnalög voru þá til heildarendurskoðunar, ef ég man rétt. Ég man vel óánægju þeirra sem höfðu undirbúið þá lagasetningu, m.a. sérstakrar nefndar, og þáverandi tóbaksvarnafulltrúi, Þorgrímur Þráinsson, var ákaflega ósáttur við það hvernig sú niðurstaða þess nefndarstarfs, að stíga skrefið til fulls og gera þar á meðal veitingastaði reyklausa með þeim breytingum, týndist í meðförum stjórnvalda. Sú var tíðin að Ísland var jafnan í allra fremstu röð í þeim efnum hvað varðaði tóbaksvarnir og baráttu gegn skaðsemi reykinga. En við höfum því miður heykst svolítið á því á síðustu árum að vera áfram í forustu þjóða að þessu leyti og nú er svo komið að ýmsar aðrar þjóðir eru komnar fram úr okkur. Þar hefur tekist vel til og menn eru almennt mjög ánægðir með þær breytingar.

Ég verð að segja alveg eins og er út frá ræðuhöldum hér fyrr, frú forseti, og breytingartillögum o.fl., að úr því að Írum hefur tekist jafn vel til að gera sína bari reyklausa, trúlega hafa einhverjir þingmenn komið inn á þær stofnanir eins og þær voru á árum áður, þá ætti okkur Íslendingum ekki að vera mikill vandi á höndum að gera slíkt hið sama og fylgja fordæmi þeirra og annarra þjóða sem hafa rekið af sér slyðruorðið og stigið þetta skref til fulls. Það er auðvitað miklu meira en tímabært að gera það og eiginlega ekkert annað að gera en að harma að við skyldum ekki gera þetta strax 2002 með heildarendurskoðun laganna þá.

Varðandi breytingartillögu frá þeim félögum, hv. þingmönnum Birgi Ármannssyni, Sigurði Kára Kristjánssyni, Bjarna Benediktssyni og Björgvini G. Sigurðssyni, þá finnst mér heldur dapurlegt að fjórir ungir, frískir þingmenn skuli flytja tillögu af þessu tagi, því að það er auðvitað ekkert annað en að reyna að læða aftur inn í þetta frumvarp óbreyttu ástandi eins og ég lít á það. Nú hristir hv. 1. flutningsmaður hausinn og það merkir væntanlega að hann sé mér ekki sammála. Það kann vel að vera að hv. þingmenn telji í hugarheimi sínum að þarna sé til einhver önnur millileið en sú sem að nafninu til átti að fara 2002. En hvernig hefur það reynst í framkvæmd, hvernig hefur það gengið í framkvæmd að tryggja að á öllum veitingastöðum séu aðskilin rými fyrir reykingafólk og reyklaust? Það er ekki merkileg framkvæmd á því á öllum þorra veitingastaða hér á landi. Ég þekki það bara mjög vel, ekki endilega vegna þess að ég sæki þessa staði svo gríðarlega heldur m.a. vegna þess að þannig háttar til að ég þekki mjög vel eða mér eru nákomnir og í minni fjölskyldu einstaklingar sem eiga við það að stríða annars vegar að vera haldnir algjöru reykingaofnæmi og hins vegar að vera með astma eða snert af astma og þola þar af leiðandi alls ekki að komast í snertingu við reykingaloft. Ég get vel borið um það hvers konar hausverkur það er t.d. ef menn vilja fara ekki endilega á krár eða bari heldur bara á venjulega matsölustaði og það er hringt og pantað og spurt: Er ekki alveg klárt að þarna sé algjörlega reyklaust rými samkvæmt lögum? Jú, jú. Svo mæta menn á staðinn, fólk sem svona er ástatt um og það skiptir þúsundum hér á landi, fólk sem alls ekki þolir heilsu sinnar vegna að komast í snertingu við reykingaloft.

Hver er útkoman? Það er iðulega þannig að hinum megin við ganginn, einn og hálfan metra frá borðinu sem á að heita reyklaust og er í reyklausu svæði, er reykt. Menn eiga tvo kosti, að fara heim eða láta sig hafa þetta. Veitingahúsin og einhverjir þjónar fórna höndum og segja: Þetta er bara svona hjá okkur. Þetta gerist aftur og aftur, bæði á Íslandi og annars staðar, þar sem reglurnar eiga að vera svona. Þetta er framkvæmdin, þetta er veruleikinn. Hitt er einhver hugarheimur.

Þá spyr ég: Getur það verið að mannréttindi þeirra sem heilsu sinnar vegna verða að geta treyst því að þeir geti farið á veitingahús og verið lausir við reykloft víki fyrir hinum sem eitra andrúmsloftið fyrir öðrum? Nei, það getur ekki verið. Það getur ekki verið að þetta eigi að snúa þannig. Þess vegna er enginn vafi í mínum huga að úr því að framkvæmdin er gjörsamlega vonlaus með því fyrirkomulagi sem á að heita við lýði í dag, og ég held að þessi breytingartillaga sé ávísun á meira og minna það sama því miður, þá þýðir þetta ekki neitt. Það þýðir enga hálfvelgju í þessu. Það verður bara að stíga þetta skref til fulls. Og ég bið hv. þingmenn að fella þessa breytingartillögu. Ég skora á alla hv. þingmenn og helst flutningsmenn hennar að draga hana til baka en alla aðra þingmenn þá að fella hana. Ég vona sannarlega að hún fái ekki nema fjögur atkvæði í mesta lagi, þ.e. atkvæði flutningsmannanna. Ég vona það innilega og að þeir muni sjá að það var yfirsjón og fljótræði að flytja þessa tillögu.

Sama tel ég að gera eigi við breytingartillögu frá hv. þm. Pétri H. Blöndal þó að það kunni að vera einhver djúp hugmyndafræðileg rök fyrir því að styðja hana eins og hv. þm. Mörður Árnason var eitthvað að reifa áðan, ég verð að játa að ég náði því nú ekki öllu saman, en hún tengist að einhverju leyti því sem varðar auglýsingar á tóbaki, sem að sjálfsögðu er fráleit hugmynd. Ég vil að menn sýni þar líka fyllstu hörku og að heilsa manna og velferð eigi að njóta vafans í þessu tilviki og legg til að sú tillaga verði líka felld.

Mér sýnast breytingartillögur heilbrigðis- og trygginganefndar í sjálfu sér vera til bóta þó að ég hafi enga óskapa samúð með þessum sérverslunum með tóbak, að þær þurfi að vera undir öðrum ákvæðum en aðrar verslanir, en það má þó kannski til sanns vegar færa að það gildi nokkuð annað um þá sem leggja leið sína inn í slíkar verslanir og dómaniðurstaða mun liggja hér einnig til grundvallar breytingartillögunni. (Gripið fram í.) Ég sagði það, hv. þingmaður, að dómaniðurstöður munu einnig liggja til grundvallar því að heilbrigðis- og trygginganefnd flytur þessa breytingartillögu.

Ég er ákaflega ánægður með að loksins skuli menn ætla að reka af sér slyðruorðið og stíga þetta skref sem átti auðvitað að gera 2002 og fimm ár hafa þá farið í súginn miðað við að gildistakan sé 1. júní 2007, sem eðlilegt má telja, auðvitað þarf einhvern svolítinn aðdraganda og eitthvert tilhlaup að þessu. En ég er alveg sannfærður um það, það er enginn efi í mínum huga að fljótlega í framhaldi af því að þessi lög ganga í gildi og menn eru komnir í sátt við þau og farnir að framkvæma þau verða allir ánægðir. Það er niðurstaðan annars staðar, bæði hjá reykingafólki og þeim sem ekki reykja og líka hjá veitingastöðunum og rekstraraðilunum. Þetta er öllum fyrir bestu. Auðvitað vilja rekendur svona staða ekki vera á einhverju gráu svæði gagnvart t.d. heilsu starfsmanna sinna. Það liggur alveg í augum uppi, það vill enginn. Þetta er öllum fyrir bestu hvernig sem á málið er litið og einboðið að samþykkja þetta og fella breytingartillöguna.



[17:02]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið en mér finnst samt óhjákvæmilegt að svara ákveðnum atriðum sem komu fram í ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar varðandi breytingartillögu mína og þriggja annarra þingmanna.

Sá reginmunur er á útfærslunni sem við leggjum til og núverandi ástandi að gert er ráð fyrir að reykingasvæðin verði aðgreind með veggjum, gleri eða einhverju slíku. Sú staða sem er uppi í dag og hv. þingmaður lýsti réttilega, að menn geta lent í því að vera á reyklausu svæði en búa við það að reykt sé á næsta borði, kannski einn og hálfan metra í burtu, verður ekki uppi verði breytingartillaga okkar samþykkt. Breytingartillagan gengur út á að þau afmörkuðu svæði sem um er að ræða verði aðgreind frá öðru rými með veggjum, gleri eða einhverju sambærilegu og með því móti er auðvitað verið að stíga mjög stórt skref í áttina til þeirra sjónarmiða sem hv. þingmaður hefur mælt fyrir. Það er reginmunur á ástandinu eins og það er í dag og því ástandi sem yrði ef breytingartillaga okkar næði fram að ganga. Þá yrði um að ræða verulega breytingu í þá átt sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefur talað fyrir. Ég hafna þess vegna þeim ummælum hans að verið sé að gera ráð fyrir í máli okkar að meira og minna verði ástandið óbreytt. Það er ekki þannig sem við hugsum það og framkvæmdin verður ekki þannig.



[17:03]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég sannfærðist ekki vitund við þessa ræðu hv. þingmanns, hún breytti engu. Það kann vel að vera að tillögumenn hugsi sér þetta þannig og í þeirra heimi, besta heimi allra heima gæti með fullkominni framkvæmd þetta orðið skárra en núverandi ástand. En við vitum bara hvernig hefur gengið að framkvæma gildandi lög og er einhver ástæða til að ætla að það gengi miklu betur að framkvæma þessa hugmynd? Það yrðu áfram mjög túlkanleg og grá svæði og hv. þingmenn bjóða meira að segja upp á það með ákveðnu loðnu orðalagi. Þetta er frekar óvenjulegur lagatexti, verður að segja, þó að löglærðir menn komi að því að semja þetta í hópi flutningsmanna. Eru þeir ekki allir löglærðir nema einn?

Það segir hér:

„Þessi rými skulu aðgreind frá öðru rými staðanna með þeim hætti að loftstreymi á milli sé í lágmarki,“ — það má þó vera eitthvað — „t.d. með veggjum eða gleri.“

Þetta er nú býsna fljótandi. Hvað segir júristinn, hv. þingmaður, um þetta? Þetta er nú ekki alveg afdráttarlaust. Svo eru vinnuverndarsjónarmiðin eftir í þessu máli þó svo að þetta gengi alveg fullkomlega í framkvæmd, sem ég hef enga trú á að mundi gera. Þetta yrði því áfram loðið og grátt og ekkert sem segir því miður að framkvæmdin gæti ekki orðið á þann veg að sáralítil breyting yrði frá núverandi ástandi, jafnlítil breyting og því miður varð með lögunum 2002 sem áttu að breyta heilmiklu en í reynd hafa gert sáralítið gagn.



[17:05]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hlýtur að átta sig á því að reginmunur er á því hvort mörkin milli reykingasvæða og reyklausra svæða á veitingastöðum eru einungis táknræn eða með engu móti aðgreind öðru en einhverjum merkimiðum á borðum eða því hvort veggur er á milli eða gler er á milli eða hvort reykingasvæðið er í sérstöku herbergi, hugsanlega jafnvel á annarri hæð en annað veitingarými. Mér finnst hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon gersamlega loka augunum fyrir því að með þessu er verið að stíga verulegt skref í þá átt sem hann vill, verið er að stíga verulegt skref til þess að greina þarna á milli. Aðgreiningin verður fullkomin, það yrði ekki heimilt samkvæmt þessu ákvæði að hafa fyrirkomulagið með þeim hætti sem er í dag, að reykingar og reyklaust svæði yrði í sama rými án þess að einhver aðgreining með veggjum, gleri eða einhverjum sambærilegum hætti væri á milli.

Af því að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon er sannfærður og einlægur í baráttu sinni gegn reykingum og andstöðu sinni við reykingar þá sér hann einfaldlega ekki eða vill ekki sjá að sú leið sem við erum að leggja til felur í sér verulega bót frá núverandi fyrirkomulagi og verulegt skref í þá átt að sætta sjónarmið í þessum efnum, verulegt skref í þá átt að tryggja aðstöðu fyrir reykingamenn án þess að gengið sé á rétt hinna því að það er auðvitað markmiðið með þessu öllu.



[17:07]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Stundum eru engar málamiðlanir til, það verður bara annaðhvort að gera hlutina eða gera þá ekki. Ég held að við séum nákvæmlega með svoleiðis mál hér í höndunum. Hv. þingmaður var nú kominn út í heilmikla verkfræði og útfærslur af því tagi. Ég er búinn að segja það sem ég tel að mundi verða í sambandi við framkvæmdina á þessu ef menn færu þessa leið. Mér finnst þetta vera einhver hálfvelgja sem á ekkert við í málinu.

Hvernig í ósköpunum ætlar svo hv. þm. Birgir Ármannsson að tryggja þá framkvæmd sem hann talar svona fjálglega og fallega um, glerveggina og lofstreymið og allt þetta? Ætlar hv. þingmaður að stofna glerveggja- og loftstreymiseftirlit ríkisins til að fara um og athuga að þessi kúnstuga framkvæmd hans eða útfærsla haldi? Það sjá það allir menn að hitt hefur svo margfalda og ótvíræða kosti í framkvæmd að hafa þetta hreinar línur að það hálfa væri nóg, þannig að þetta eiginlega bara afgreiðir sig sjálft.