140. löggjafarþing — 120. fundur
 13. júní 2012.
húsnæðismál, frh. 3. umræðu.
stjfrv., 734. mál (Íbúðalánasjóður, EES-reglur). — Þskj. 1508, nál. 1540, brtt. 1545.

[15:53]
Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um húsnæðismál, með síðari breytingum, EES-reglur o.fl. Í athugasemdum við frumvarp þetta er sagt að meginmarkmið frumvarpsins sé að bregðast við athugasemdum Eftirlitsstofnunar EFTA vegna starfsemi Íbúðalánasjóðs. Niðurstaða Eftirlitsstofnunarinnar er sú að Íbúðalánasjóður njóti ríkisaðstoðar í formi eigendaábyrgðar, vaxtaniðurgreiðslna, undanþágu frá arðsemiskröfu og greiðslu tekjuskatts. Eftirlitsstofnun EFTA hvetur íslensk stjórnvöld til að grípa til nauðsynlegra ráðstafana þannig að lánafyrirkomulag Íbúðalánasjóðs verði í samræmi við skuldbindingar Íslands samkvæmt EES-samningnum.

Auk þeirra aðgerða sem íslenska ríkið hefur ákveðið að grípa til vegna þessarar niðurstöðu rannsóknar Eftirlitsstofnunar EFTA virðist eiga að breyta ýmsum öðrum atriðum í kringum starfsemi Íbúðalánasjóðs. Talað hefur verið um að ein af meginröksemdunum fyrir Íbúðalánasjóði sé markaðsbrestur. Reyndar hefur orðið markaðsbrestur verið notað á mjög frjálslegan hátt í umræðunni. Það er sagt að orðið hafi markaðsbrestur við hrunið mikla árið 2008 en ég held að þeir sem hafa notað orðið í því sambandi hafi eitthvað misskilið það. Markaðsbrestur er einfaldlega lýsing á því fyrirbæri þegar einkamarkaðir ná ekki að sinna þeirri starfsemi sem þarf að sinna. Frægasta dæmið þar um er markaður um mengun og markaðir þar sem eru til staðar ytri áhrif þar sem gjörðir eins hafa áhrif á annan og þriðja aðila, en hvað um það.

Í frumvarpinu eru talin upp nokkur atriði sem því er ætlað að hafa áhrif á. Í fyrsta lagi eru lagðar til breytingar á starfsemi Íbúðalánasjóðs, svo sem skipan stjórnar sjóðsins, hæfisskilyrðum stjórnarmanna og forstjóra og þátttöku stjórnarmanna í meðferð mála. Þegar þær greinar sem snúa beint að þessu eru skoðaðar má ljóst vera að hér er verið að innleiða kröfur á stjórnarmenn og forstjóra sambærilegar þeim sem hafa verið innleiddar í önnur fjármálafyrirtæki, þ.e. um hæfisskilyrði, hvað menn mega og hvað menn mega ekki o.s.frv. Ég geri engar athugasemdir við það, það er bara hið besta mál að menn þurfi að vera hæfir en það skýtur reyndar svo skökku við að í þessum hæfisskilyrðum eru menn um leið gerðir háðir ákvörðun ráðherra með skipan stjórnar Íbúðalánasjóðs, það er ráðherra sem ræður í stjórnina og ráðherra ákveður jafnan þóknun stjórnarmanna. Þarna finnst mér að hæfisskilyrðin séu nokkuð sjálfkrafa skert. Ég hefði haldið að þar sem við höfum fyrirbærið sem heitir Bankasýsla ríkisins ætti ríkið að marka Íbúðalánasjóði eigendastefnu og síðan yrði það Bankasýsla ríkisins sem mundi skipa stjórnina og framfylgja í raun starfsemi sjóðsins þannig að Íbúðalánasjóður verði í armslengd, getum við sagt þótt það sé ljót þýðing og ljót sletta, frá stjórnmálamönnum.

Í öðru lagi er kveðið á um aukið eftirlit með starfsemi Íbúðalánasjóðs sem varðar til dæmis innri endurskoðun, eftirlitskerfi með áhættu og gerð ársreikninga. Þetta er af sama meiði og það sem ég rakti fyrst að hér er verið að gera auknar kröfur til eftirlits og um áhættu og það er með engu móti hægt að vera á móti því. Ef það er innan skynsamlegra marka er eftirlit af hinu góða og sérstaklega eftirlit með áhættu sem sjóðurinn býr við vegna þess að þegar allt kemur til alls er Íbúðalánasjóður fjármálastofnun.

Í þriðja lagi er kveðið á um að eitt af verkefnum Íbúðalánasjóðs eigi að vera að reka leigufélag með íbúðarhúsnæði sem Íbúðalánasjóður hefur yfirtekið á nauðungaruppboði. Við þetta geri ég verulega athugasemd vegna þess að það er ljóst að slíkt leigufélag er í samkeppni við önnur leigufélög á einkamarkaði, og á íbúðamarkaði er ekki sá markaðsbrestur fyrir hendi sem þarf að vera til að slíkt félag þurfi að vera rekið. Þó er ágætt að tekið er fram að það skuli vera aðskilið hefðbundnum rekstri auk þess sem því er gefið undir fótinn að Íbúðalánasjóður muni hugsanlega reyna að selja leigufélagið eins fljótt og auðið er í einu lagi, vegna þess að starfsemi Íbúðalánasjóðs felst tæpast í því að reka leigufélag.

En eitt virðist ekki vera neitt fjallað um hérna, það er að formleg stofnun slíks leigufélags gengur raunverulega þvert á það sem er sagt vera megintilefni frumvarpsins, að bregðast við niðurstöðum rannsóknar Eftirlitsstofnunar EFTA á starfsemi Íbúðalánasjóðs. Það er ljóst að þetta leigufélag verður í beinni samkeppni við önnur leigufélög og þar af leiðandi skekkist samkeppnisstaða og annað slíkt.

Í fjórða lagi eru gerðar breytingar er lúta að lánveitingum Íbúðalánasjóðs. Lagðar eru til breytingar á veðhlutföllum eða lánshlutföllum og ýmsar aðrar breytingar.

Í fimmta lagi er kveðið á um breytingar á almennum lánum til einstaklinga á þann veg að Íbúðalánasjóði verði óheimilt að veita lán til kaupa á íbúðarhúsnæði þegar hámarksfjárhæð Íbúðalánasjóðs-veðbréfa er lægri en 40% af fasteignamati. Þetta er af sama meiði og hitt að hér er verið að styrkja reglur. Til að mynda má sjóðurinn, ef þetta frumvarp verður að lögum, ekki veita lán til eigna þar sem fasteignamat er umfram 50 millj. kr. Það kemur kannski ekki að sök vegna þess að hámarkslán Íbúðalánasjóðs er að ég held 20 millj. kr. En hér er greinilega verið að reyna að koma til móts við athugasemdir Eftirlitsstofnunar EFTA.

Í sjötta lagi eru lagðar til breytingar á lánveitingum vegna leiguíbúða og hér kemur fram sú nýbreytni að ekki megi lána til bygginga eða kaupa á leiguíbúðum ef félögin sem reka þessar leiguíbúðir eru rekin í hagnaðarskyni. Aftur á móti ef sveitarfélög, félög eða félagasamtök skilgreina leigufélögin sem félög án hagnaðar eða „non-profit organisations“ virðist Íbúðalánasjóður mega lána til þeirra. En þetta virðist rekast beint á leigufélagið sem Íbúðalánasjóður má reka vegna þess að ekki er kveðið á um að það megi ekki reka án hagnaðar. Hér virðist því eitthvað rekast á.

Í sjöunda lagi er kveðið á um heimild til að veita sveitarfélögum, félögum og félagasamtökum sérstök vaxtakjör að fengnu samþykki ríkisstjórnarinnar vegna lána til leiguíbúða. Hér er enn og aftur fjallað um leiguíbúðir og ég skil það þannig að það verði hægt að lána sveitarfélögum, félögum og félagasamtökum sem ekki ætla sér að reka leiguíbúðir í hagnaðarsjónarmiði á einhvers konar niðurgreiddum vöxtum. En þá verða þessi leigufélög í samkeppni við önnur leigufélög sem í fyrsta lagi geta ekki fjármagnað sig hjá Íbúðalánasjóði, í öðru lagi búa við önnur vaxtakjör en Íbúðalánasjóður getur boðið upp á og þar af leiðandi get ég ekki annað en dregið þá ályktun að hér sé gengið þvert á niðurstöður rannsóknar Eftirlitsstofnunar EFTA á starfsemi sjóðsins er varðar ríkisaðstoð, en á öðru sviði en áður. Mér sýnist sem svo að hér séu ákvæði sem munu leiða til þess að atriði er varða leigumarkaðinn munu rekast hvert á annars horn og muni leiða til þess að hugsanlega getum við átt von á annarri rannsókn frá Eftirlitsstofnun EFTA um starfsemi sjóðsins er varðar ríkisaðstoð, sem beinist þá fremur gegn leigufélögum og meðhöndlun leigufélaga og leigufélaginu sem sjóðurinn rekur sjálfur heldur en útlánastarfseminni beinlínis eins og þessar athugasemdir stofnunarinnar beinast að.

Ég mælist til þessa að yfir þetta verði farið aftur vegna þess að við erum auðvitað aðilar að EES-samningnum og ekki viljum við stöðugt vera að fá einhverjar athugasemdir frá Eftirlitsstofnun EFTA. Það er óhagkvæmt að vera stöðugt að breyta lögum og reglugerðum og það er mun betra að vanda vel til verka og hugsa málin vel fyrir fram. Þannig sleppum við við athugasemdir og fólkið í landinu og lögaðilar búa þá við vissu um hvernig umhverfið verður um ókomin ár. Þannig getum við byggt mun betur upp þann leigumarkað sem greinilega er ætlað að byggja upp með þessum greinum frumvarpsins. Ég verð því að segja að mér finnst þetta ekki vandað frumvarp, þrátt fyrir að í því séu margar mjög góðar greinar. Ég er til dæmis algerlega sammála því að það eigi að gera meiri kröfur um hæfisskilyrði og það er gott að það sé aukið eftirlit með áhættu o.s.frv. Reyndar geri ég þá athugasemd að ég hefði viljað að þetta yrði í armslengd frá pólitíkinni.

Nú er tími minn búinn og ég mun í (Forseti hringir.) annarri ræðu fjalla um önnur sjónarmið er varða þetta frumvarp og mælist til þess að verða settur aftur á mælendaskrá.



[16:09]
Frsm. meiri hluta velfn. (Lúðvík Geirsson) (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni fyrir hans ágætu yfirferð yfir frumvarpið. Ég gat ekki betur heyrt en að hann fyndi margt í því sem væri til framdráttar og til að bæta lagarammann í kringum Íbúðalánasjóð. Honum varð hins vegar tíðrætt um leigufélagið sem hér er gerð tillaga um sem er tímabundin ráðstöfun til að bregðast við vanda sem blasir við. Öllum er auðvitað ljóst að Íbúðalánasjóður hefur ekki verið í eignarhaldi, hann hefur verið lánasjóður og skipt miklu sem slíkur en hann hefur lent í þeirri stöðu eftir hrun að sitja uppi með um og yfir 2.000 eignir vítt og breitt um landið. Þar af eru um 800 í útleigu í dag en aðrar eru í mismunandi ástandi.

Þessi staða er sett upp við mjög sérstakar aðstæður til að bregðast við þessum vanda. Það má vissulega hafa ýmsar skoðanir á því og það hafa menn. Það hefur verið kynnt fyrir Eftirlitsstofnun EFTA sérstaklega að fara fram með málið í þennan farveg í takmarkaðan tíma og skilja algerlega á milli stjórnar, umsjónar og reksturs þessara húsa og svo eignarhaldsins sem sannarlega er á hendi Íbúðalánasjóðs.

Ég spyr hv. þingmann hvort hann telji aðrar leiðir skynsamlegri, og hverjar þá, til að verja hagsmuni Íbúðalánasjóðs. Hér er auðvitað um gríðarlega háar fjárhæðir að ræða, þær skipta milljörðum, og það dembir enginn þessum eignum öllum í sölu einn, tveir og þrír. Menn hljóta að reyna að gera það sem skynsamlegast er gagnvart markaði. Ég tek undir með honum að það sé rétt að gera það í áföngum (Forseti hringir.) og bútum en þessi leið er til að verja stöðu sjóðsins.



[16:11]
Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Lúðvíki Geirssyni fyrir ágæta spurningu. Ég hef aðeins hugsað þetta mál og er þeirrar skoðunar að það sé ágætt að hafa leiguíbúðir á Íslandi, hafa framboð á mismunandi tegundum húsnæðis, þrátt fyrir að ég sé í grunninn þeirrar skoðunar að hér eigi íbúðarhúsnæði að vera séreign. Og þá verða að vera valmöguleikar. Ég hef talað um að ég hefði viljað sjá leiguíbúðir Íbúðalánasjóðs og bankanna, eða íbúðir sem fullnustueignir, fara í sérstakt félag sem ríkið mundi eiga annars vegar og bankarnir hins vegar. Síðan væri hægt að fara með það félag á markað í framtíðinni. Ég hefði haldið að þetta leigufélag, ríkið, gæti tekið eignirnar af Íbúðalánasjóði í skiptum fyrir ríkisskuldabréf sem er fullgild eign hjá Íbúðalánasjóði til að fjármagna sjóðinn og losa þar af leiðandi þessar eignir frá Íbúðalánasjóði inn í slíkt leigufélag sem bankarnir kæmu líka með eignir inn í. Í framhaldinu gæti það orðið almenningshlutafélag skráð á markaði sem mundi sinna þessari þörf fyrir leiguíbúðir í öllu landinu. Þannig gætum við aukið fjölbreytnina og leigan yrði þá á markaðsforsendum, ekki á forsendum einhvers sem væri með fullnustueignir sem hann væri að reyna að kroppa einhverjar krónur af, (Forseti hringir.) jafnvel niðurgreitt eins og Íbúðalánasjóður getur gert eins og staðan er í dag.



[16:13]
Frsm. meiri hluta velfn. (Lúðvík Geirsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get að mestum hluta tekið undir þær vangaveltur og hugmyndir sem hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson nefndi í þessu sambandi. Vandinn er sá að við höfum ekki haft nein alvöruleigufélög sem hafa haft burði á markaðnum hér og þess vegna hefur leigumarkaðurinn verið veikur og fólk ekki getað treyst því að eiga þar til frambúðar rétt og stöðu í sanngjarnri leigu í góðu húsnæði.

Leiguíbúðir sveitarfélaga eru allt annað dæmi og þjónustuverkefni, en almennur leigumarkaður hefur ekki orðið til. Margir ruddust fram á markaðinn og ætluðu sér stóran hlut í þeim verkum á árunum fyrir hrun. Menn misnotuðu líka aðgengi að ódýru lánsfjármagni með því að taka niðurgreidd lán og fóru síðan með þær eignir sem áttu að vera leiguíbúðir í beina sölu. Það er verið að girða fyrir það líka með þessum lögum og tryggja það að við beinum í réttar áttir lánsfjármagninu sem er á sérstökum kjörum.

Við sitjum uppi með þennan stóra bunka af íbúðum og þurfum að verja þær eignir. Það að skapa hér grundvöll fyrir það að bankar, lífeyrissjóðir og aðrir aðilar séu tilbúnir að koma inn og stofna jafnvel opið hlutafélag um slíkt rekstrarfélag og eignaumsýslu á leiguíbúðum þarf ákveðinn tíma og ákveðna gerjun. Það gerist ekki á einni nóttu. Það er mikil umræða í gangi um þessi efni og stærstu sveitarfélög landsins eru þátttakendur í því til að geta þá horft til svæða og uppbyggingar á hentugum stöðum undir slíkar leiguíbúðir. Á meðan tel ég að við þurfum að leysa úr þessum bráðavanda með því að fara þessa millileið, en í mínum huga er hún algerlega tímabundin ráðstöfun og þarf helst að standa sem allra styst.



[16:15]
Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um að það er algerlega bráðnauðsynlegt að Íbúðalánasjóður verji eignir sínar vegna þess að nóg er komið af tapinu þótt þessar eignir yrðu ekki látnar einhvern veginn drabbast niður eða seldar á slikk. Ég er líka sammála því að þessi leið gæti verið byrjunin á því sem ég var að tala um áðan, að hér komi fram stórt leigufélag sem ætti eignir á öllu landinu sem lífeyrissjóðir og bankar sem sitja nú uppi með fullnustueignir gætu verið aðilar að. Í framtíðinni yrði þetta allt saman sett á almenningsmarkað og þar með væri komin viss fjölbreytni í íbúðamarkaðinn á Íslandi. Við hv. þingmaður erum sammála um að þetta eigi í besta falli að vera tímabundin ráðstöfun og þess vegna held ég að það væri æskilegt að hafa einhver sólarlagsákvæði í þessu frumvarpi sem kvæðu á um það hve langan tíma Íbúðalánasjóður hefur til að losa sig út úr þessu félagi. Eins og við þekkjum er tilhneigingin oft sú að menn stofni einhver félög undir ríkissjóði og svo gleymist þetta allt saman og er ekkert á radarnum hjá pólitíkusum sem oft hugsa bara í fyrirsögnum, getum við sagt. Það er engin trygging fyrir því að það verði unnið að því hratt og vel að losa sig við þetta. Þar fyrir utan tel ég að sú hugmynd að losa einfaldlega Íbúðalánasjóð undan þessu með því að (Forseti hringir.) ríkið taki þetta inn í einhvers konar eignarfélag væri jákvæð.



[16:18]
Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Við ræðum frumvarp frá hv. velferðarnefnd sem lýtur að breytingum á lögum um húsnæðismál og varða að sjálfsögðu fyrst og fremst Íbúðalánasjóð eins og ágætlega hefur komið fram í þeirri umræðu sem um þetta mál hefur átt sér stað.

Með frumvarpinu er verið að bregðast við athugasemdum sem hafa komið fram í rannsókn sem Eftirlitsstofnun EFTA gerði á starfsemi Íbúðalánasjóðs og athugasemdirnar lúta að því að sjóðurinn njóti ríkisaðstoðar í formi eigendaábyrgðar, vaxtaniðurgreiðslna og undanþágu frá arðsemiskröfum og greiðslu tekjuskatts.

Þetta er í sjálfu sér ekki ný umræða um málefni Íbúðalánasjóðs og sjálfsagt löngu tímabært að ganga til þess verks að mæta þeim athugasemdum sem gerðar hafa verið í þessu máli í allnokkur ár. En ég held að maður geti fullyrt, ef maður dregur saman þá umræðu og þá gagnrýni sem fyrir liggur af hálfu minni hluta hv. velferðarnefndar, að ýmis atriði hefði þurft að ígrunda betur áður en þau væru sett í frumvarpsform. Ég tala nú ekki um að ganga svo langt að ætla Alþingi að samþykkja það frumvarp sem hér liggur fyrir.

Það kom ágætlega fram í ræðu hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur fyrr í dag, þar sem hún var að ræða frumvarpið sem liggur fyrir, að þetta hefði átt sér alllangan aðdraganda. Hún orðaði það svo að það væri allsérstakt að ekki væru stigin stærri skref í áttina að því að taka grundvallarumræðu um málefni Íbúðalánasjóðs. Hún hefur ekki verið ein um það, hv. þingmaður, að kalla þetta frumvarp bútasaum þar sem skammtímasjónarmið ráði fremur en langtímasjónarmið. Það kom raunar fram í andsvari hv. þm. Lúðvíks Geirssonar hér áðan við ræðu hv. þm. Tryggva Þórs Herbertssonar að ýmis atriði í þessu væru hugsuð til skemmri tíma og þætti engum skrýtið að svo væri.

Jafnframt hefur komið fram í þessari umræðu að nefndin hafi ekki gefið þessu mjög rúman tíma til úrvinnslu. Það þurfi kannski að svara á ýmsum sviðum þessa máls hvert beri að stefna með Íbúðalánasjóð, og ég tek alveg heils hugar undir það. Ég staldraði til dæmis sérstaklega við eina setningu í nefndaráliti meiri hluta velferðarnefndar sem lýtur að lánveitingum Íbúðalánasjóðs. Í kaflanum um þessar lánveitingar segir, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn telur þessar breytingar jákvæðar enda getur það vart talist í samræmi við hlutverk Íbúðalánasjóðs að lána til mjög verðmæts íbúðarhúsnæðis.“

Þetta er gildishlaðin setning. Hvað er verðmætt íbúðarhúsnæði? Verðmæti íbúðarhúsnæðis sveiflast töluvert eftir markaði hverju sinni. Eins og við þekkjum ágætlega, sá sem hér stendur og hv. þm. Lúðvík Geirsson, af reynslu okkar af störfum á sveitarstjórnarstiginu þá eru aðstæður sveitarfélaga og íbúðabyggðar um allt land ærið misjafnar og verðmæti fasteigna mjög misjafnt eftir landsvæðum. Það vekur því spurningar um nauðsyn þess að skilgreina hlutverk Íbúðalánasjóðsins betur en við sjáum gert í frumvarpinu sem hér liggur fyrir. Ég held að það sé alveg ljóst, bæði út frá orðum þeirra sem tala fyrir samþykkt frumvarpsins í nefndaráliti frá meiri hluta velferðarnefndar og eins út frá orðum stjórnarandstöðunnar í viðkomandi nefnd, að allnokkur þörf sé á því að fara yfir starfsemi Íbúðalánasjóðs, ekki síst að skoða lánveitingar hans með tilliti til einstakra svæða hér á landi.

Menn horfa þá oft og tíðum til þeirrar skiptingar sem er á milli svokallaðrar landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis. Í mínum huga, svo að það sé sagt, er höfuðborgarsvæðið líka landsbyggð. Ég hef sagt það áður og segi það enn að ég er að fara út á land þegar ég fer að heiman til Reykjavíkur. Ég tel að þetta tal um landsbyggðina og höfuðborgarsvæðið sé á margan hátt efniviður í ágreining á milli ólíkra hluta landsins. Við ættum að temja okkur að tala um landið sem eina heild þó svo að aðstæður fólks séu misjafnar, fólksfjöldi á þessum svæðum misjafn o.s.frv.

Ég vil því taka undir gagnrýni sem lýtur að því að æskilegt væri að leggja meiri vinnu í stefnumörkunina. Ég geri mér það fullljóst, ekki síst í ljósi ræðu hv. þm. Lúðvíks Geirssonar og einnig út frá nefndaráliti meiri hlutans, að tíminn til að vinna þetta var ærið knappur og þess vegna lítur þetta út eins og það gerir. Vilji manna stendur greinilega til þess að gefa þessu lengri og rýmri tíma og leggja þá niður betri og skilmerkilegri stefnumörkun fyrir Íbúðalánasjóð til lengri tíma. Ég tel mjög brýna þörf á því.

Það kom einnig fram í morgun í gagnrýni á frumvarpið að í 16. gr. væru ákvæði sem lúta að ákvörðun vaxtakjara í Íbúðalánasjóði. Þá held ég að ástæða væri til að nefna það að í greinargerð með frumvarpinu frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins er að sjálfsögðu gert ráð fyrir að fjárveitingavaldið sé hjá Alþingi og verði þar og að ekki sé verið að gera neinar breytingar á því. Það sé framkvæmdarvaldsins að vinna úr þeim fjárveitingum sem skammtaðar eru á fjárlögum hvers árs og ákveða þar með vaxtastigið sem um er rætt í 16. gr. frumvarpsins. Í mínum huga er enginn misskilningur varðandi þessa tvískiptingu valdsins.

Í greinargerðinni kemur fram að á fjárlögum eru á árunum 2012 um 118 millj. kr. vegna lánveitinga, meðal annars til sveitarfélaga, félaga og félagasamtaka sem gætu notið þeirra sérstöku vaxtakjara sem ákvörðuð væru af ríkisstjórninni hverju sinni vegna lána til leiguíbúða — eins og hér er ítrekað og maður treystir því einfaldlega að svo sé — að teknu tilliti til þeirra fjárveitinga sem til þess verks eru hverju sinni.

Stærsta einstaka málið í þessum efnum er í mínum huga það sem hlotið hefur allnokkra umræðu og lýtur að leiguíbúðahluta þessa máls. Eins og staðan er í málefnum Íbúðalánasjóðs þá átti hann í febrúar sl. 1.751 fasteign, að bókfærðu virði 22,5 milljarða kr. Af þeim íbúðastabba eru um 700 íbúðir í útleigu og þúsund eignir standa eftir margar hverjar auðar eða ófullgerðar. Að sjálfu leiðir að það er ekki arðbær fjárfesting að liggja með. Í frumvarpinu sem liggur fyrir er sú tillaga gerð að Íbúðalánasjóði verði heimilt að eiga og reka leigufélag um íbúðarhúsnæði sem sjóðurinn hefur yfirtekið á nauðungaruppboði. Þetta atriði tel ég mjög gagnrýnisvert í frumvarpinu. Mér finnst raunar meiri hluti velferðarnefndar og talsmaður hennar í þessu máli, hv. þm. Lúðvík Geirsson, taka undir þá gagnrýni þegar hann lýsir því yfir að þetta sé eingöngu hugsað til skamms tíma og algjörlega til bráðabirgða. Vilji manna stendur til þess að finna aðrar leiðir og eðlilega hlýtur að koma fram gagnrýni á það, þegar maður spyr hver staða þeirra mála sé, hvort við hefðum getað gefið okkur rýmri tíma til að vinna þennan stóra íbúðastabba betur en raun ber vitni um í því formi að setja hann inn í heimildarákvæði til Íbúðalánasjóðs um að stofna sérstakt félag sem óneitanlega yrði í þeirri sérkennilegu stöðu að vera í samkeppni um leigjendur við fyrirtæki eða félagasamtök sem starfa á sama markaði. Þetta er einhver blanda sem er ekki æskileg.

Það kom ágætlega fram í orðaskiptum hv. þm. Lúðvíks Geirssonar og Tryggva Þórs Herbertssonar áðan að aðrar lausnir eru mögulegar í þessu. Af orðum hv. þm. Lúðvíks Geirssonar má ráða að vilji stendur til þess að skoða þær lausnir og í því sambandi mælist ég til þess við hv. þingmann að menn einbeiti sér þá að því og einhendi sér í að skoða þetta hvort tveggja í samstarfi við fjármálastofnanir sem eru á margan hátt í sömu stöðu og Íbúðalánasjóður. Þær eru líka að eignast íbúðarhúsnæði á uppboði eða eftir öðrum leiðum þannig að þetta er á margan hátt sameiginlegt viðfangsefni.

Ég vil hins vegar leggja áherslu á að ég hef engan áhuga á því að leiguíbúðavæða íslenskan húsnæðismarkað. Ég held að menn þurfi aðeins að greina hann betur og reyna að leggja betur en við höfum gert mat á æskilega stærð hans. Við getum svo tekist á um það. Ég veit að hv. þingmaður hefur leitt ákveðna vinnu á vegum velferðarráðuneytisins í þessum efnum og þekkir þetta væntanlega mætavel. Í mínum huga væri mjög æskilegt að geta leitað leiða til að koma út í einkaeign íbúðum sem safnast hafa að Íbúðalánasjóði og öðrum fjármálastofnunum í kjölfar hrunsins og raunar fyrir hrun. Ég hef ekki síður fullan skilning á því að menn þurfi að koma þessu fyrir í leiguíbúðaformi.

Spurning vaknar við athugasemd fjárlagaskrifstofunnar með frumvarpinu sem er mjög ítarleg og góð. Þar eru dregnir fram sjö meginþættir við frumvarpið sem hér er til umfjöllunar. Sjöundi þátturinn lýtur að því að kveðið sé á um það að heimilt sé að veita sveitarfélögum, félögum og félagasamtökum sérstök vaxtakjör vegna lána til leiguíbúða. Þá spyr maður sig hvort ekki sé líka flötur á því, í stað þess að við horfum til þess að ríkið leggi til fé til vaxtaniðurgreiðslu eða að sveitarfélögin fari að efna til útboðs á lánsfé í tengslum við byggingar nýrra íbúða, að breyta hluta af þeim íbúðastabba sem hér liggur undir í leiguíbúðir á vegum sveitarfélaga. Þá geti menn líka leyft sér, við þá vinnu sem fram undan er við það að reyna að fá þetta húsnæði til að renta sig, að horfa fram hjá eða breyta núgildandi mörkum sem lúta að stærð eða öðru því um líku, hvort heldur um er að ræða íbúðir eða fjölskyldur. Ég held að það sé mjög mikils virði fyrir alla aðila að reyna að fá þá fjárfestingu sem í þessu liggur til að renta sig með einhverjum hætti.

Forseti. Síðasta athugasemdin sem ég geri hér varðar sjötta atriðið í umsögn fjárlagaskrifstofunnar og lýtur að breytingum á lánveitingum vegna leiguíbúða. Þar er gert ráð fyrir að lánveitingar verði heimilaðar til byggingar eða kaupa á leiguíbúðum til sveitarfélaga, félaga eða félagasamtaka. Þarna í frumvarpinu er sett sú takmörkun að þau félög sem starfa þarna undir séu ekki rekin í hagnaðarskyni og þessir aðilar hafi að langtímamarkmiði að byggja, eiga og hafa umsjón með rekstri leiguhúsnæðis. Ég held að í þessu sambandi sé vert að nefna það að gæta verður að því að þessi félagasamtök eða sveitarfélögin verða með einhverjum hætti að hafa einhvern hagnað af þessari starfsemi þótt ekki væri til annars en að greiða upp sinn hlut í þessu eða eiga möguleika á að fjárfesta frekar í húsnæði ef þörf er á.

Ég vil því draga það saman, forseti, í lok þessarar umfjöllunar minnar að sá þáttur sem lýtur að leigufélögunum í frumvarpinu krefst að mínu mati mestrar ígrundunar. Ég treysti því að hv. velferðarnefnd, viðkomandi ráðuneyti og þeir einstaklingar sem hafa verið í forsvari fyrir þessa vinnu einbeiti sér að því að finna viðunandi lausn á því máli nú þegar. Það tekur tíma að finna þá lausn en ég lít svo á að í orðum hv. þm. Lúðvíks Geirssonar felist viðurkenning á því að brýnt væri að vinna það verk.



[16:33]
Frsm. meiri hluta velfn. (Lúðvík Geirsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er full ástæða til þess að fagna því að þingmenn Sjálfstæðisflokksins sýna þessu máli mikinn áhuga og hafa rætt það síðan í morgun, og núna eftir nýliðnar atkvæðagreiðslur um Vaðlaheiðargöng eru þeir búnir að raða sér á mælendaskrá fram eftir kvöldi til að ræða málefni og stöðu Íbúðalánasjóðs.

Rétt er að fram komi vegna þess sem sagt hefur verið hér af hálfu einstakra þingmanna flokksins að þetta hafi verið unnið með hraði á snubbóttan hátt að það er alls ekki svo. Málið fékk ágæta yfirferð og umræðu í velferðarnefnd eins og öll þau mál sem þar eru til lykta leidd. Hins vegar liggur kannski ágreiningurinn í því að einstaka þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa viljað fara lengra í endurskoðun og uppstokkun en þetta frumvarp gerir ráð fyrir. Hér er verið að taka á ákveðnum þáttum sem gerðar hafa verið athugasemdir við og menn hafa viljað stíga þar ákveðin, hæfileg og eðlileg spor miðað við aðstæður.

Hitt er annað að okkar bíður ítarleg umræða og yfirferð á stöðu og framtíðarhlutverki Íbúðalánasjóðs en þá er líka rétt að bíða eftir því að við fáum þau gögn og upplýsingar í hendur sem er verið að vinna, meðal annars í ítarlegri rannsókn og úttekt á stöðu sjóðsins. Það má því reikna með og eðlilegt að búast við því að við tökum þá umræðu þegar að því kemur.

Ég hjó eftir því að hv. þm. Kristján Þór Júlíusson nefndi að staðan varðandi fasteignamat væri ólík eins og við þekkjum og 50 millj. kr. matið verandi lán væri umdeilanlegt. Það er rétt. Fasteignasalar hafa mótmælt því og hafa talið það allt of lágt á sama tíma og samtök fjárfesta og fjármálastofnana hafa talað í allt aðra átt og talið að þarna væri um allt of háa tölu að ræða. Mig langar því að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi einhverjar hugmyndir eða tölur inn í þessa umræðu.



[16:35]
Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég held að ástæða sé til að þakka hv. þingmanni andsvarið og eftirfylgni hans með því máli sem hann fylgir hér úr hlaði. Ég vil fyrst af öllu þakka honum fyrir það og nefna það einnig, af því að hann nefndi atkvæðagreiðslu sem átti sér stað áðan varðandi Vaðlaheiðargöng, að 3. umr. og afgreiðsla um það mál er eftir þannig að ekki er endilega ástæða til fagnaðar fyrr en henni er lokið.

Ég vil enn fremur segja að oft og tíðum hnykkja menn á því í andsvörum og spyrja þann ræðumann sem gaf tilefni til andsvarsins eftir skoðun hans á því hver tiltekin fjárhæð eða viðmið ættu að vera, fullkomlega eðlilegar spurningar, en það er líka mjög hæpið að ætlast til mikils svars því að úr ræðustól Alþingis munum við ekki sjá um verðmyndun á fasteignum á markaði á Íslandi.

Ég geri mér fullkomlega grein fyrir þeim mismunandi sjónarmiðum sem eru annars vegar hjá fjármálafyrirtækjunum og hins vegar Íbúðalánasjóði, spurning mín snýr miklu fremur að hlutverki Íbúðalánasjóðs og hvaða tilgangi hann á að þjóna. Ég sé í rauninni engan mun á því hvort Íbúðalánasjóður er að lána einstaklingi til íbúðarkaupa fyrir 50–60 milljónir eða 20–30 milljónir. Í mínum huga snýst ákvörðunin miklu frekar um það hvaða hlutverki sjóðurinn á að gegna við lánsfjármögnun Íbúðalánasjóðs. Það er þannig sem ég horfi til þess. Aðstæður eru mjög breytilegar eftir svæðum, landshlutum eða sveitarfélögum í þeim efnum.

Ég treysti því að hv. þingmaður hafi lagst í mjög ítarlega rannsókn sem gaf honum þá niðurstöðu að 50 milljónirnar séu hin ágætasta tala sem hann hefur komist að niðurstöðu um.



[16:37]
Frsm. meiri hluta velfn. (Lúðvík Geirsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum svarið. Það var eins og mig grunaði að það er kannski erfitt að nefna einhverjar ákveðnar tölur í þessu sambandi. Ég tók þetta dæmi inn í umræðuna einmitt vegna þess að þær tölur sem hafa verið uppi á borði eru mjög ólíkar og hvernig viðbrögðin eru sem ráðast auðvitað af því hverjir hagsmunirnir eru, og hvernig menn líta á þessa hluti út frá stöðu sinni og hagsmunum.

Ég nefndi að Félag fasteignasala mótmælti því sérstaklega og segði að þessi tala væri allt of lág og verið væri að útiloka aðra frá því að geta farið inn á þennan lánamarkað Íbúðalánasjóðs. Það liggur hins vegar fyrir að yfir 96% allra fasteigna á landinu eru gjaldgengar til lána úr Íbúðalánasjóði eftir sem áður.

Hins vegar telja Samtök fjármálafyrirtækja að þessi tala sé allt of há, ekki bara tvöfalt hærri en raun ber vitni heldur enn þá hærri og nefndu í samtölum við velferðarnefnd að kannski væri eðlileg tala 20 milljónir sem ætti að miða við þannig að það væri ekki verið að lána í gegnum Íbúðalánasjóð til húsnæðiskaupa vegna íbúða sem væru með fasteignamat yfir 20 milljónum. Það væri áhugavert að heyra hvað hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni þykir um slíka tölu.



[16:39]
Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Það eru allir að passa sitt, sama hvort það eru fasteignasalar eða fjármálafyrirtæki, það eru allir að hugsa um sinn eigin stól í þessum efnum. Það er ekkert óeðlilegt við það að fasteignasalar vilji hafa þessa fjárhæð hærri, það gefur þeim meira svigrúm á markaði til þess að selja eignir og það er ekkert óeðlilegt við það að Samtök fjármálafyrirtækja vilji hafa þessa tölu sem lægsta því að það gefur þeim meira svigrúm til þess að fara á sínum forsendum inn á íbúðalánamarkað hér á landi.

Meginatriðið í mínum huga snýr að hlutverki ríkisins á þeim sama markaði. Hvert á hlutverk ríkissjóðs í gegnum Íbúðalánasjóð að vera varðandi lánveitingar til íbúðarhúsnæðis? Ég skal alveg viðurkenna að ég hef, af þeirri umræðu sem við höfum notið að hlýða á hér í dag um þetta mál, ekki áttað mig fyllilega á því hvert við ætlum að stefna í þeim efnum.

Það er alveg ljóst að á undanförnum árum, sérstaklega í þeirri miklu sprengju sem varð hér og hófst 2004 á íbúðamarkaði — og það voru fjármálafyrirtækin sem sprengdu hana í rauninni upp — var tilhneigingin sú hjá fjármálastofnunum á markaði að lána síður út á landsbyggðina. Íbúðalánasjóður var í því hlutverki miklu fremur en fjármálafyrirtækin að lána þangað út vegna íbúðarhúsnæðis. Það er í ljósi þess veruleika sem við verðum að ræða um þetta hlutverk sem Íbúðalánasjóður á að gegna. Það kallar að sjálfsögðu á miklu lengri umræðu en fært er í stuttum andsvörum þó svo að þau séu á allan hátt skemmtileg og upplýsandi.

Til að svara hv. þingmanni svona í lokin hefur mér alltaf þótt 20 milljónir falleg tala en ég veit ekki hvort það gagnast okkur í því að setja einhver hámörk eða lágmörk varðandi lánveitingar út úr Íbúðalánasjóði, ég dreg það mjög í efa.



[16:41]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 44/1998, um húsnæðismál, með síðari breytingum. Með þessu frumvarpi eru lagðar til breytingar á lögum um húsnæðismál og er ætlunin meðal annars að bregðast við niðurstöðum Eftirlitsstofnunar EFTA á starfsemi sjóðsins varðandi ríkisaðstoð. Þá eru lagðar til breytingar til að efla og skýra eftirlit Fjármálaeftirlitsins með sjóðnum og jafnframt eru lagðar til breytingar á lánveitingum sjóðsins er varða lán til einstaklinga annars vegar og hins vegar lán til leiguíbúða.

Varðandi þau ákvæði og það sem snýr að skipan stjórnar í þessu máli er í sjálfu sér ágætt að verið sé að setja hér inn ákvæði af þessu tagi. Vissulega er hér farið með mikla fjármuni og það er rétt að menn sem gegna stjórnarstörfum í þessum mikilvæga sjóði uppfylli ákveðin skilyrði og þeim sé skapaður sá starfsvettvangur að allt sé með fullnægjandi hætti og eftirlit sé fullnægjandi.

Varðandi þær athugasemdir sem hér er verið að reyna að svara varðandi Eftirlitsstofnun EFTA vekur þessi nálgun ákveðnar spurningar. Eins og fram kom í ræðu hv. þm. Lúðvíks Geirssonar hér fyrr í dag, framsögumanns þessa máls, þá á þetta mál sér langa sögu, allt frá árinu 2004. Það ætti auðvitað að kveikja spurningar hjá okkur um hvers vegna við erum að fá þetta mál inn í þingið svo seint og hvers vegna við gefum okkur, að mínu mati, stuttan tíma til að fara yfir það í velferðarnefnd fyrst sagan og aðdragandinn er svona langur.

Þá kvikna spurningar: Af hverju erum við ekki með frumvarp sem felur í sér ríkari og efnismeiri breytingar og dýpri hugsun varðandi sjóðinn í heild sinni, varðandi það hvernig Íbúðalánasjóður á að vera til framtíðar? Hverjum á hann að lána? Á hvaða sviði á hann að vera? Af hverju hefur þessari umræðu ekki verið hleypt af stað innan nefndarinnar? Mér finnst þetta vera spurningar sem við eigum að leyfa okkur að spyrja í umræðunni vegna þess að í gegnum tíðina hafa fjölmargir gert athugasemdir við starfsemi sjóðsins, og flestar þær erlendu eftirlitsstofnanir sem fylgjast með efnahagsmálum á Íslandi hafa ítrekað varað við þátttöku ríkisins í almennum íbúðalánum og hvatt til þess að starfsemi sjóðsins verði takmörkuð og horft sé þá einkum til þeirra sem hafa lágar tekjur eða þurfa af öðrum félagslegum ástæðum aðstoð frá hinu opinbera, þ.e. ríkinu, til að leysa sín húsnæðismál. Þetta er nokkuð sem hefur legið í loftinu í mörg ár og því til viðbótar má nefna að í umfjöllun rannsóknarnefndar Alþingis þar sem fjallað er um Íbúðalánasjóð í ákveðnum kafla er því atriði velt upp hvort heppilegt sé að fasteignalánastarfsemi sé á vegum hins opinbera. Þessum spurningum hefur vissulega verið varpað fram og þá vaknar sú spurning sem ég tel að við eigum að velta fyrir okkur í þessari umræðu: Af hverju höfum við ekki brugðist betur við og látið þessa umræðu fara fram?

Þeim athugasemdum hefur verið hreyft að vegna þess hve umfang Íbúðalánasjóðs hefur verið mikið í lánastarfsemi til fasteignakaupa á Íslandi — það má eiginlega segja að Íbúðalánasjóður hafi verið lykilaðili í að fjármagna fasteignakaup — hvers vegna hann sé undir yfirstjórn velferðarráðherra, hvers vegna hann sé ekki undir stjórn efnahags- og viðskiptaráðherra til að heildarsýn sé yfir fjármálakerfið. Þessi mikla markaðshlutdeild Íbúðalánasjóðs í að fjármagna fasteignakaup hér á landi hlýtur að segja okkur að annaðhvort á hann að vera í þeim bransa undir þeim formerkjum og þá undir yfirstjórn efnahags- og viðskiptaráðherra eða vera einfaldlega félagslegur sjóður sem vinnur innan ákveðinnar skilgreiningar sem félagslegur sjóður og getur þá verið undir yfirstjórn velferðarráðherra. Mér finnst við ekki alveg vera með það á hreinu hvort við viljum og hvað við ætlum að gera. Sjálfsagt eru skiptar skoðanir á því á milli flokka. Ég veit að Framsóknarflokkurinn hefur til dæmis lagt á það áherslu í gegnum tíðina að Íbúðalánasjóður verði undir stjórn velferðarráðherra og gerðar verði, að því er mér skilst, sem minnstar breytingar á sjóðnum.

Mér finnst rétt að við horfum svolítið á heildarmyndina fyrst við erum á annað borð að breyta lögum um sjóðinn. Ég hélt að hugsunin væri almennt sú í þinginu og umræða um það mundi fara af stað, en svo er ekki. Hér er verið að sýna lágmarksviðbrögð við athugasemdum Eftirlitsstofnunarinnar. Af hverju erum við að því? Eru þessar athugasemdir ekki eitthvað sem við teljum vert að hlusta á? Eru þessar athugasemdir ekki eitthvað sem við teljum rétt að bregðast við? Var ekki hluti af þeirri gagnrýni sem sett hefur verið fram á fjármálastarfsemi hér á landi fyrir hrun að við hlustuðum ekki á viðvörunarraddir og ábendingar sem okkur bárust frá eftirlitsaðilum? Ég spyr því: Höfum við eitthvað lært? Ég átta mig ekki alveg á því, frú forseti. Stundum finnst mér eins og við höfum einfaldlega ekki lært nokkurn skapaðan hlut.

Athyglisvert er að fara aðeins yfir umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins við þetta frumvarp. Þar er farið yfir öll helstu atriðin. Grípum hérna aðeins niður, því að ég hef ekki eytt miklum tíma í það hér, í lánveitingar er varða leiguíbúðir, þ.e. lánveitingar til leiguíbúða. Hér er gert ráð fyrir því að lánveitingar til byggingar eða kaupa á leiguíbúðum til sveitarfélaga, félaga og félagasamtaka verði takmarkaðar við það að félögin séu ekki rekin í hagnaðarskyni. Það er svo sem ágætt að þessir aðilar hafi það sem langtímamarkmið að byggja, eiga og hafa umsjón með rekstri leiguhúsnæðis. Hér er verið að bregðast við athugasemdum frá Eftirlitsstofnun EFTA sem er svo sem ágætt. En afleiðingarnar að mati ráðuneytisins verða þær að draga muni mjög úr lánveitingum sjóðsins til leiguíbúða, sem segir okkur að sjóðurinn hefur verið starfandi á samkeppnismarkaði á þessu sviði og við því er verið að bregðast. Þá er spurningin: Áttum við okkur alveg á því hvað stendur þá eftir? Munu þessi ákvæði hafa það þrengjandi áhrif að lánveitingar muni dragast of mikið saman? Ég átta mig ekki alveg á heildarmyndinni en ráðuneytið bendir alla vega á að þarna muni verða verulegur samdráttur.

Mig langar að vekja aðeins athygli á nokkrum umsögnum sem komu um þetta mál. Við fengum á fund nefndarinnar fulltrúa frá Samtökum fjármálafyrirtækja og svo auðvitað frá ráðuneytinu og Íbúðalánasjóði og nokkrum fleiri aðilum, eins og tínt er til í nefndaráliti meiri hlutans. Í þeirri umræðu kom fram að menn, annars vegar hjá fjármálastofnunum og hins vegar hjá Íbúðalánasjóði, greinir á um hvort um markaðsbrest sé að ræða.

Hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson fór hér ágætlega yfir skilgreininguna á því hvað markaðsbrestur er, en svo virðist sem Eftirlitsstofnun EFTA hafi fallist á það að hér á landi sé tímabundinn markaðsbrestur sem virkar með þeim hætti að eðlilegt sé að Íbúðalánasjóður sé starfandi vegna þess, að því er mér skildist af umfjöllun nefndarinnar, að ástandið eftir hrun sé slíkt að fjármálastofnanir láni almennt ekki til fasteignakaupa á allri landsbyggðinni. Þá spyr maður: Er verið að tala um markaðsbrest á öllu landinu eða erum við að tala um markaðsbrest á völdum svæðum á landsbyggðinni eða um hvað er verið að tala?

Fjármálastofnanirnar könnuðust ekki við að ekki væri lánað til íbúðakaupa og lögðu fram tölur um hversu mikið fjármagn hefur verið veitt eða lánað til að fjármagna fasteignakaup. Það kemur fram í umsögn Samtaka fjármálafyrirtækja að það meginsjónarmið hefði legið til grundvallar svari íslenskra stjórnvalda til Eftirlitsstofnunar EFTA að fullyrt var að markaðsbrestur væri í framboði á lánsfé til íbúðaviðskipta og íbúðabygginga. Ástæðan fyrir því væri veikleikar og vantraust á fjármálafyrirtæki í kjölfar fjármálahrunsins og að fjármálafyrirtæki hefðu almennt ekki verið reiðubúin að veita lán nema helst í þéttbýli, þess vegna væri nauðsynlegt að Íbúðalánasjóður væri starfandi með þeim hætti sem hann hefur starfað.

Samtök fjármálafyrirtækja taka ansi djúpt í árinni og fullyrða að hvorug þessara fullyrðinga eigi við rök að styðjast. Samtök fjármálafyrirtækja segja í umsögn sinni, með leyfi forseta:

„Þrátt fyrir fall bankanna í október tókst endurreisn nýju bankanna það vel að þeir voru starfhæfir nánast frá fyrsta degi. Óvissa var þó fram eftir ári 2009 meðan gengið var frá samningum um mat yfirtekinna eigna …“

Svo segir:

„Þrátt fyrir þetta hóf til dæmis Landsbankinn þegar í maí 2009 að veita ný óverðtryggð íbúðalán. Meðfylgjandi tafla sýnir fjölda kaupsamninga samkvæmt þjóðskrá, fjölda almennra lána ÍLS og fjölda lána þriggja stærstu bankanna og fyrirrennara þeirra. Eins og sést var markaðshlutdeild bankanna þriggja um helmingur árið 2007, um fjórðungur árið 2008 en 7% árið 2009 þrátt fyrir erfiðleika. Árinu 2010 var hlutdeild bankanna komin yfir 10% og á árinu 2011 var hlutdeild bankanna yfir 30%.“

Við sjáum að það er ekki hægt að segja annað en að fjármálastofnanir séu að lána til íbúðakaupa. Þá er spurningin: Erum við að fara of hratt í að lögfesta eða innleiða þetta frumvarp í íslenska löggjöf? Eigum við frekar að sjá til hvernig hlutirnir þróast, eins og hv. þm. Lúðvík Geirsson sagði og fullyrti í ræðu sinni áðan að umtalsverð endurskoðun væri fram undan og yfirstandandi gagnvart sjóðnum? Þá spyr ég: Hefði ekki verið hægt að vísa einfaldlega til þeirrar vinnu og segja að í henni yrði meðal annars horft til athugasemda Eftirlitsstofnunar EFTA með það fyrir augum að mæta þeim athugasemdum sem þar koma fram þegar fyrir lægi niðurstaða þeirrar vinnu sem hv. þm. Lúðvík Geirsson vísaði til og farið væri í heildarendurskoðun á löggjöfinni um sjóðinn? Hefði það ekki verið réttari nálgun en að fara með þetta frumvarp í gegnum þingið? Ég ítreka það, vegna þess sem kom fram í ræðu hv. þm. Lúðvíks Geirssonar, að vissulega var málið tekið fyrir í nefnd og kallaðir til gestir en ég tek fram að það var tekið út í ósátt við minni hluta nefndarinnar.

Eftir 2. umr. kallaði hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir eftir því að nefndin færi yfir þetta mál í samráði við Evrópusérfræðinga sem gætu ráðlagt okkur um það hvort hér væri nægilega vel komið til móts við athugasemdir Eftirlitsstofnunar EFTA eða ekki. Við því var ekki orðið. Það var einfaldlega látið duga að kalla til fulltrúa velferðarráðuneytisins og Íbúðalánasjóðs sjálfs.

Ég hefði kosið, frú forseti, að þetta mál hefði fengið lengri tíma og meiri umfjöllun í velferðarnefnd fyrst það er búið að vera í pípunum síðan 2004. Ráðuneytið hefði hugsanlega getað lagt frumvarpið fram strax sl. haust þannig að nefndinni hefði gefist tími í vetur til að fara ítarlega yfir málið. Sá vani er afskaplega hvimleiður sem virðist vera hjá stjórnvöldum að leggja mál fram það seint að ekki gefist tími til að fara gaumgæfilega yfir þau og síðan er þess einfaldlega krafist að við afgreiðum mál sem mörg hver hafa, að mínu mati, ekki fengið nægilega umfjöllun í nefndum þingsins. Það er allt að því talinn dónaskapur að óska eftir frekari skýringum, fleiri gestum og ég tala nú ekki um, eins og kom fyrir hér í morgun, að fá að taka til máls um mál og veita andsvar.



[16:57]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum nefndarálit frá meiri hluta hv. velferðarnefndar með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 44/1998, um húsnæðismál. Auk þess er nefndarálit frá minni hluta velferðarnefndar sem hv. þm. Eygló Harðardóttir sendir inn með breytingartillögu.

Eins og ég ræddi í 1. umr. er Íbúðalánasjóður ein stærsta lánastofnun landsins og örugglega sú stærsta á sviði íbúðalána. Hún veitir þar af leiðandi öðrum lánastofnunum mikla samkeppni og sú athugasemd frá ESA sem við ræðum hér grundvallast á því að reyna að bæta samkeppnisstöðu annarra aðila sem eru á markaðnum.

Frumvarpið sem við ræðum tekur á ýmsum þáttum sem eru sjálfsagðir eins og hæfisskilyrði stjórnarmanna. Það hefur farið vaxandi eftir hrun að sett séu hæfisskilyrði varðandi forstjóra og stjórnarmenn, og stjórnunarmenn eða forsvarsmenn lífeyrissjóða, og mér finnst alveg sjálfsagt að það eigi við um þessa lánastofnun eins og aðrar lánastofnanir. Það má líka nefna að það er nokkuð síðan að Íbúðalánasjóði var veitt heimild til að lána óverðtryggt. Það gekk svona og svona, mjög hægt og rólega, og þetta sýnir hvað opinberar stofnanir, opinber stjórnsýsla og Alþingi, eru svifaseinar og lengi að taka upp svona sjálfsagða hluti. Nú eru bankarnir búnir að skjóta Íbúðalánasjóði ref fyrir rass í þessu því þeir tóku upp óverðtryggð lán fyrir nokkru síðan og eru komnir meira að segja með ýmiss konar vöru á þeim markaði sem hafa notið mikillar hylli, t.d. hámark á óverðtryggða vexti o.s.frv. Sumt af því minnir reyndar á verðbótaþátt vaxta sem einu sinni var tekinn upp og var óskaplega flókinn og illskiljanlegur og enginn skilur enn, en það er önnur saga.

Íbúðalánasjóður hefur ekki tekið upp óverðtryggð lán enn þá, ætlar að gera það í haust. Þetta er eins og risaeðla sem hreyfir sig afskaplega hægt og missir þar af leiðandi af bitunum sem einkabankarnir eru að fá með því að sópa til sín íbúðakaupendum með óverðtryggðum lánveitingum sem eru mjög vinsælar í dag vegna þess að það hefur verið ákveðinn áróður gegn verðtryggingu. Öll lán Íbúðalánasjóðs eru og hafa verið verðtryggð þó að þessi heimild sé til staðar.

Ég spurði um það í andsvari við hv. þm. Eygló Harðardóttur af hverju ekki kæmi fram breytingartillaga um það að Íbúðalánasjóður lánaði eingöngu óverðtryggt, þ.e. hætti að lána verðtryggt. Það ætti að vera í anda þeirra sem segjast vera að berjast gegn verðtryggingu. Ég er dálítið undrandi á því að í meðförum nefndarinnar og meðförum Alþingis skuli ekki koma fram þessi hugmynd að afnema verðtryggingu hjá Íbúðalánasjóði og láta hann lána eingöngu óverðtryggt. Það skyldi þó ekki vera að menn séu einmitt hræddir við ókosti óverðtryggðra lána sem eru þó nokkuð miklir. Það sýndi sig einmitt í hruninu að fyrir heimilin var ágætt að hafa verðtryggt lán þegar verðbólgan fór upp í 18 eða 20%. Þá hefðu óverðtryggðir vextir þurft að vera 20% yfir árið og það hefði riðið flestum heimilum að fullu að borga 20% af lánunum eingöngu í vexti. Nema að meiningin með þessari umræðu um verðtryggingu sé að hlunnfara sparifjáreigendur en það er ekki óvenjulegt í þessu landi að sparifjáreigendur séu hlunnfarnir. Það var gert í 30 ár og þótti mikil íþrótt.

Samkvæmt ákvörðun Alþingis ákvað ríkissjóður að veita Íbúðalánasjóði 33 milljarða og það er lítið talað um það í þessu samhengi. Ég benti á það í 1. umr., en því miður hefur sú ábending ekki skilað sér í nefndarálit meiri hlutans, að menn reyndu að greina hvers vegna var verið að borga 33 milljarða til Íbúðalánasjóðs sem er með ein öruggustu lán sem til eru, þ.e. íbúðalán, því fólk lætur það yfirleitt ganga fyrir öllu öðru að borga af íbúðunum sínum. Það hefur sýnt sig víða um heim að það eru íbúðalánin sem eru öruggust á meðan þau eru með sæmilegu veði. Ég ætla ekki að tala um það fyrirbæri sem var í Bandaríkjunum þegar menn voru að lána með mjög hættulegum hætti. Þetta hefur ekki ratað inn í nefndarálitið en ég tel að það hefði verið alveg nokkurra setninga virði vegna þess að ástæðan fyrir þessum 33 milljörðum er sú að Íbúðalánasjóður er ekki með sambærileg kjör á þeim skuldabréfum sem hann gefur út og þeim lánveitingum sem hann veitir þótt það sé mjög auðvelt að koma því við.

Húsbréfin sem voru í gildi einu sinni voru með útdráttarheimild þannig að Íbúðalánasjóður gat dregið meiri bréf út ef hann þurfti að greiða eitthvað út en sá möguleiki hvarf og menn breyttu ekki útlánastefnunni með hliðsjón af því að menn gætu lent í því að fá miklar inngreiðslur. Mér finnst það sýna enn einu sinni hversu svifasein og þunglamaleg þessi stofnun er að hún skuli ekki gæta sín á þessari áhættu. Helsta áhætta Íbúðalánasjóðs er að það verði miklar uppgreiðslur. Ég óttast það núna þegar bankarnir eru komnir á undan Íbúðalánasjóði með óverðtryggðu lánin og vinsældir þeirra eru miklar að mjög margir muni sjá sér leik á borði. Þeir eru sennilega að því núna, frú forseti, án þess að ég viti það nákvæmlega, og taka óverðtryggð lán í banka og greiða upp verðtryggða lánið sitt hjá Íbúðalánasjóði vegna þeirrar neikvæðu umræðu og að mínu mati óréttmætrar neikvæðu umræðu sem hefur verið um verðtryggingu. Verðtrygging hefur nefnilega kosti og galla. Ég hugsa að sjóðurinn sé í þeirri stöðu að hann sitji uppi með mikið fé sem hann nær ekki ávöxtun á í samræmi við þau skuldabréf sem hann hefur selt til að fjármagna starfsemi sína þegar hann þurfti á peningum að halda. Hann sé því núna með neikvæðan vaxtamun og sá vaxtamunur lendir bara á einum stað, frú forseti, hjá skattgreiðandanum, hjá ríkissjóði og er ekki bætandi á þá stöðu. Ég hefði viljað að nefndin skoðaði þetta pínulítið en hún gerði það ekki þótt henni hefði verið bent á það í 1. umr., ég fór mjög nákvæmlega í gegnum þetta.

Ég benti líka á að hér hefur lítið verið framkvæmt síðan nokkuð fyrir hrun. Það má segja að 2009 hafi verið síðasta árið sem eitthvað var byggt af viti af íbúðum á Íslandi. Það má segja að árið 2007 hafi verið offramboð á íbúðum en 2008 var þokkalegt eða frekar lélegt en eftir það hefur verið alger ördeyða, að minnsta kosti miðað við lánveitingar Íbúðalánasjóðs. Ég óttast að við munum standa frammi fyrir því eftir ekki mjög langan tíma, jafnvel mjög skamman tíma, að það vanti íbúðir. Það var byggt of mikið af íbúðum fyrir hrun, að einhverju leyti fóru þær í að hýsa mikinn fjölda af erlendu verkafólki en það hefur síðan flutt brott þannig að það losnaði eitthvað um íbúðir. Þær eru reyndar ekki alveg eins góðar og það sem Íslendingar sætta sig við. Eftir það hefur lítið verið byggt. Hver árgangur er um 4.000–4.500 manns og þegar tekið er tillit til þess að sá hópur parast eitthvað þarf sennilega um 2.000 íbúðir fyrir unga fólkið á hverju ári. Eitthvað kemur til baka á markað af íbúðum þeirra sem falla frá en það er töluvert minna og miklu lélegra húsnæði. Það þarf því örugglega að byggja á Íslandi 1.500–2.000 íbúðir á ári, og það hefur alls ekki verið gert. Við munum lenda í því innan ekki mjög langs tíma að það verður skortur á íbúðum. Hækkandi leiga virðist benda til þess og líka hækkandi verð á íbúðarhúsnæði þótt þar spili náttúrlega inn í neikvæðir vextir og ofurskattlagning fjármagnstekna og ótti sparifjáreigenda við nýtt hrun bankanna. Við þær aðstæður leita menn inn á íbúðamarkaðinn og síðustu eitt eða tvö árin hefur verðið hækkað umfram verðbólgu. Það bætir reyndar veðstöðu Íbúðalánasjóðs og bankanna en ég óttast að við lendum í svona skelli.

Svo er hér breytingartillaga um að stofna megi leigufélag. Það finnst mér ekki góð hugmynd. Mér finnst allt í lagi að Íbúðalánasjóður stofni leigufélag en hann á að reyna að selja það sem allra fyrst því það fer ekki saman að lána til leigufélaga með sérstökum lánaflokki og vera jafnframt í samkeppni við þá sömu leigusala. Það fer ekki saman, og jafnvel þótt maður reyni að byggja upp eldveggi á milli eins og hv. þm. Eygló Harðardóttir gerir með breytingartillögu sinni og rökstyður í nefndaráliti sínu hefur það sýnt sig að þeir halda ekki alltaf.

Uppgreiðsluáhætta sjóðsins er ekki löguð í þessu frumvarpi þótt bent hafi verið á hana. Það getur vel verið að það verði þá vandamál með nýjar ríkisskuldbindingar Íbúðalánasjóðs.

Það sem ég ætlaði að ræða um er krafan um að lánveitingar til leiguhúsnæðis fari aðeins til fyrirtækja sem eru ekki rekin í hagnaðarskyni. Það er greinilegt að menn skilja ekki í hverju vandinn liggur. Vandinn liggur í því að einhver byggingameistari byggði kannski 200 íbúðir og sat uppi með þær óseldar á þeim tíma. Hann mundi reyndar ekki gera það í dag eða mjög ólíklega en sú staða gæti komið upp aftur. Hvað gerir hann þá? Þá stofnar hann leigufélag sem starfar án hagnaðarmarkmiða og kaupir af honum íbúðirnar og leigufélagið fær lán frá Íbúðalánasjóði til að kaupa íbúðirnar af honum. Hann á að sjálfsögðu þetta leigufélag og hann ræður verðinu nokkurn veginn og hefur það huggulega hátt þannig að hann sleppi óskaðaður, jafnvel þótt hann fái ekki nema 90% lán eins og hér er gert ráð fyrir. Hann hefur þá bara verðið 10% hærra. Þannig fær hann í raun greitt það verð sem hann þarf á að halda og losnar við allar íbúðirnar. Svo þegar íbúðirnar seljast ekki eða leigjast ekki fer þetta leigufélag á hausinn og þá skiptir engu máli hvort það er sjálfseignarstofnun eða fyrirtæki sem ekki er með hagnað. Það geta allir stofnað sjálfseignarstofnun. Það geta allir stofnað félag sem hefur göfugan tilgang. Það er bara að hóa saman nokkrum mönnum og þá stofna þeir hið göfugasta félag í kristilegum anda til að kaupa íbúðir af eigendunum og Íbúðalánasjóður lánar blint samkvæmt lögunum til slíkra kaupa. Ég benti á þetta atriði en meiri hlutinn hefur annaðhvort ekki heyrt það eða ekki tekið það til greina. Ég sakna dálítið í nefndarálitinu að ekki skuli vera tekið mið af þeirri umræðu sem fór fram um þetta. En hér er mikil áhersla lögð á hæfisskilyrði.

Það hefur verið bent á það í umræðunum að þessar úrbætur séu frekar hraðsoðnar, menn hafi brugðist seint við og það er svo sem ekkert nýtt, frú forseti. Við erum vön þessari frábæru verkstjórn hæstv. ríkisstjórnar og mál eru unnin seint. Athugasemdir ESA koma í júlí 2011 og við erum núna að ræða viðbrögð við þeim og jafnvel gera þau að lögum og sumir telja að það hafi ekki verið tekið mið af öllum athugasemdum ESA. Það væri gaman að heyra frá nefndarmönnum sem eru viðstaddir umræðuna, ég sé að framsögumaður er hérna staddur, hvort nefndin hafi farið í gegnum þessar athugasemdir ESA og fengið það fram hvort allar þær kröfur séu uppfylltar. Ég vil síðan nefna að það vantar bæði umsögn ESA og annarra um að það er ekki bara ríkisábyrgðin sem gera má athugasemdir við og ekki bara eigendaábyrgð, vaxtaniðurgreiðsla og annað slíkt heldur er CAD-hlutfallið hjá Íbúðalánasjóði líka töluvert mikið lægra en hjá bönkunum. Það er 16% hjá bönkunum samkvæmt ákvörðun ríkisvaldsins sem á bankana, þarf að vera 8% en síðast þegar ég vissi var það ekki nema 5% hjá Íbúðalánasjóði og það er líka brot á samkeppnisreglum.



[17:12]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það mál sem við ræðum varðar Íbúðalánasjóð og við komumst ekki hjá því að ræða það í stóru samhengi og vísa ég þá til þeirrar stöðu sem er uppi hjá fólki í landinu og því fólki sem er í þessum svokallaða skuldavanda. Því miður hefur lítil umræða verið — og við þurfum að bæta úr því — um þá skýrslu sem fjármálaráðherra skilaði um áhrif lækkunar höfuðstóls húsnæðislána samkvæmt beiðni nokkurra þingmanna Sjálfstæðisflokksins. Þar eru mjög áhugaverðar upplýsingar og þær tengjast þessum málum beint. Í skýrslunni á bls. 7, töflu 3, geta menn í rauninni séð kjarnann í vandanum, þ.e. eiginfjárhlutfall í upphafi árs 2012 miðað við 5–35% eiginfjárhlutfall á kaupdegi. Það er augljóst þegar menn skoða þetta að það fólk sem er í langmestum vanda er það fólk sem tók lán á árinu 2008. Ég ætla ekki að lesa öll árin því að hér eru árin 2004, 2005, 2006, 2007 og 2008, en ef við berum saman til dæmis árin 2004 og 2008 þá er verið að bera saman stöðu einstaklinga sem keyptu sér íbúð annars vegar 1. janúar 2004 og hins vegar 1. janúar 2008. Ef við skoðum dálkinn þar sem verið er að skoða í hvernig stöðu viðkomandi einstaklingur er ef hann hefur lagt 5% af kaupverði inn með eigið fé, þá á hann núna, ef hann keypti árið 2004, 12,1% í íbúðinni. Ef hann keypti hins vegar 1. janúar 2008 þá er neikvæð staða hans 40%. Ef við skoðum 15% eiginfjárhlutfall, þ.e. 15% sem viðkomandi hefur sett inn í íbúðina, þá á viðkomandi einstaklingur eða hjón 21,4% í íbúðinni, þ.e. þeir sem keyptu 2004, en hjá þeim sem keyptu 1. janúar 2008 er 15% eignin orðin neikvæð um 25%.

Lítil umræða hefur verið um það að á árinu 2008, og svo sem á stórum hluta árs 2007, þó aðallega 2008, var aðeins einn aðili sem lánaði og ég hef fengið upplýsingar um að það var Íbúðalánasjóður. Og ekki aðeins að hann væri að lána heldur var hann að gefa í, ef þannig má að orði komast. Þáverandi hæstv. félagsmálaráðherra, núverandi hæstv. forsætisráðherra, stóð fyrir því og hreykti sér af því að gefa í að lána, og voru lánaðir í júlí 2008 nærri 7 milljarðar. Sambærileg tala í júlí 2007 var 6 milljarðar en í september árið 2008 voru það 5,5 milljarðar. Við getum rétt ímyndað okkur hvernig ástandið er hjá þessu fólki núna sem tók þessi lán.

Lítill gaumur hefur verið gefinn að þeirri staðreynd að á þeim tíma þegar bankarnir voru hættir að lána fólki til húsnæðislána og við hefðum mátt eiga von á því að hið opinbera yrði til baka í því af augljósum ástæðum, gerðist hið gagnstæða. Þáverandi hæstv. félagsmálaráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, sem var með Íbúðalánasjóð áfram þrátt fyrir að stjórnarsáttmáli þeirrar ríkisstjórnar kvæði á um annað lagði á það áherslu að veita mikil lán. Og það fólk sem var svo óheppið að taka þau lán er í mestum vanda núna.

Við höfum lítið rætt það að sú skuldastefna sem við höfum haft í húsnæðismálum er auðvitað ein af ástæðunum fyrir þeim skuldavanda sem er í dag. Öll áherslan af hálfu hins opinbera hefur verið á að ýta undir skuldsetningu, bæði með hærra lánshlutfalli, eins og 90% lánunum, og sömuleiðis með vaxtabótum.

Nú kynni einhver að segja: Er það ekki bara gott? Er einhver önnur leið til? Já, nærtækara hefði verið að fara þá leið að ýta frekar undir eignamyndun en skuldsetningu. Það er bara einn galli við skuldir og þó að það sé bara einn galli þá er hann alveg gríðarlega stór. Og gallinn við skuldir er sá að þær þarf að greiða til baka. Við erum núna þess vegna í þeirri stöðu að þeir sem voru með gengislán hafa fengið mestu leiðréttinguna. Það hefur ekkert að gera með nein afskipti ríkisstjórnarinnar, öðru nær. Mér sýnist sem svo að þar sem ekki var gert ráð fyrir neinum fyrirvörum í samningum milli gömlu og nýju bankanna, að gengislánaleiðréttingarnar þar sem gengislán voru dæmd ólögmæt, það gangi svona yfir, skerði möguleika bankanna til að leiðrétta önnur lán. Við erum núna í þeirri stöðu að það fólk sem er í mestum vanda er í Íbúðalánasjóði, alla vega stór hluti þess, þar sem leiðréttingar í bönkunum hafa ekki að fullu gengið yfir hjá Íbúðalánasjóði. Þetta fólk er oftar en ekki fast inni í Íbúðalánasjóði. Það eru miklar áhyggjur hjá fólki af því að við munum sjá nýtt verðbólguskot. Það er í rauninni alveg sama hvað fræðingar ræða til dæmis um afnám gjaldeyrishaftanna. Almennt er talið að það muni hafa verðbólguáhrif þegar við losum um þau hvenær sem það verður og að auki er umtalsverð verðbólga í landinu. Eðlilega er fólk hrætt við að þetta muni koma fram í lánunum og þrátt fyrir að það sé rétt að hér sé um jafngreiðslulán að ræða, þessi verðtryggðu lán sem eru hjá Íbúðalánasjóði og á öðrum stöðum, þá hækkar það samt sem áður mjög höfuðstólinn og ef menn eru með neikvæða eign í íbúðum sínum þá hafa menn eðli málsins samkvæmt áhyggjur af því að þeir festist inni til lengri tíma.

Við erum núna í þeirri stöðu, og það hefur komið fram, að inngreiðslur eru meiri í Íbúðalánasjóð en útgreiðslur úr honum. Fólk er að greiða upp lán en ekki að taka lán hjá Íbúðalánasjóði og það er mjög áhugaverð staða. Þá erum við með þennan ríkisbanka, virðulegi forseti, sem við erum búin að greiða um 33 milljarða með. Það liggur fyrir að við þurfum að setja, ef ég man rétt, um 12 milljarða í viðbót til að uppfylla það eiginfjárhlutfall sem sjóðurinn þarf að hafa, þ.e. 5%, sem er 3 prósentustigum lægra en í hefðbundnum viðskiptabönkum, og við erum með verstu kjörin á markaði hjá ríkisbankanum. Þetta er orðin mjög sérstök staða.

Í ofanálag erum við með óeðlilega stöðu á markaðnum vegna þess að hið opinbera og síðan bankarnir eru með mjög stóran hluta af eignum þar sem eitthvað af þeim er leigt út en þær eru í það minnsta ekki seldar, við sjáum það. Ég sá að Bloomberg-fréttaveitan vakti athygli á því að menn hafa áhyggjur af eignabólu á Íslandi sem á sér auðvitað enga stoð í raunveruleikanum. Það er ekkert í umhverfinu sem kallar á það að nú ætti að vera eignabóla í fasteignum, þvert á móti hefði fasteignaverð átt að lækka verulega. En þegar við erum með tæplega þúsund íbúðir, sýnist mér, í eigu banka, sparisjóða og lífeyrissjóða, og þá er eftir að taka dótturfélag bankanna með inn í það, og síðan erum við með tæplega 1.800 hjá Íbúðalánasjóði, þá erum við með tæplega 3 þús. íbúðir í eigu banka og Íbúðalánasjóðs. Ekki er verið að setja þessar eignir á markað enda mundi það væntanlega hafa þau áhrif að lækka verðið. Síðan erum við í þeirri stöðu, kannski fyrst og fremst út af gjaldeyrishöftunum og sömuleiðis út af skattlagningarstefnu ríkisstjórnarinnar, að fólk er að fjárfesta í íbúðum á ákveðnum svæðum vegna þess að því finnst ekki vænlegur kostur að hafa fjármuni sína annars staðar, t.d. í bönkum. Innstæður í bönkum hafa minnkað alveg gríðarlega. Það kemur að stærstum hluta til út af ofurskattstefnu ríkisstjórnarinnar.

Þess vegna er mjög erfitt fyrir ungt fólk að kaupa sér íbúð. Þær eru of dýrar miðað við þau laun sem fólk hefur og vísa ég þá sérstaklega til höfuðborgarsvæðisins. Maður kynni því að spyrja: Erum við að koma fram með frumvarp sem muni koma eitthvað til móts við þessa stöðu? Ef við skoðum frumvarpið eru í fyrsta lagi lagðar til breytingar sem snúa að skipan í stjórn, hæfisskilyrðum stjórnarmanna, forstjóra o.s.frv. Það er auðvitað góðra gjalda vert, en það er áhugavert að sjá að rekstrarkostnaður sjóðsins mun aukast um 30 millj. kr. vegna þessa. Það er fjármagnað með vaxtamun sjóðsins.

Í öðru lagi er verið að auka eftirlit með starfsemi Íbúðalánasjóðs, einkum hvað varðar innri endurskoðun, eftirlitskerfi o.s.frv. Það mun kalla á fjölgun stöðugilda Fjármálaeftirlitsins sem þýðir 22 millj. kr. aukningu á umfangi Fjármálaeftirlitsins á ári sem Íbúðalánasjóður mun þá greiða. Ég verð að viðurkenna, virðulegi forseti, að ég mundi ætla í þeirri gríðarlegu aukningu á stöðugildum í Fjármálaeftirlitinu að menn gætu hugsanlega fundið einhverjar leiðir til að hagræða þar. Það er sú stofnun sem ekki þurfti að hagræða neitt, þvert á móti, á undanförnum árum.

Í þriðja lagi er verið að tala um að setja á leigufélag með íbúðarhúsnæði fyrir Íbúðalánasjóð. Þar erum við að fara inn á mjög hæpnar brautir. Ég veit ekki hvort það hefur verið skoðað eitthvað sérstaklega hvort það samræmist samkeppnislögum. En það segir sig sjálft að ef risi eins og ríkið fer inn á þennan veika leigumarkað, sem gæti auðvitað verið stærri ef við gætum selt þessar íbúðir, þá er endalaus hætta í því. Maður heyrir það strax hjá leigumiðlurum að menn séu hér að fara í að undirbjóða, leigumiðlarar, og menn gætu hugsað sér að það væri bara gott af því að þetta yrði lægri leiga fyrir fólk, en það kynnu að verða einhver vandræði í tengslum við það því að ef þeir aðilar sem leigja núna út íbúðir geta ekki staðið undir þeim rekstri þá kæmi það beint niður á Íbúðalánasjóði sem hefur lánað í það. Þá erum við að bíta svolítið í skottið á sjálfum okkur hvort sem okkur líkar betur eða verr.

Mér sýnist að við séum komin með uppsafnaðan gríðarlegan vanda hjá Íbúðalánasjóði. Ég get ekki séð með fullri virðingu fyrir frumvarpinu að menn taki á því með neinum hætti. Sumar breytingarnar hér eru minni háttar en kannski er stóra málið það að ríkið fari núna af fullum þunga inn á leigumarkaðinn með eignir sínar. Ég get ekki séð miðað við þá umræðu sem hér hefur farið fram eða þau fylgigögn sem eru með frumvarpinu að menn séu búnir að greina það hvernig menn sjái fyrir sér hvernig það mál muni verða. Það að ríkið komi með 2 þús. íbúðir inn á leigumarkaðinn er nærtækasta samlíking við fíl í postulínsbúð og það er eins gott að hugsa það mál alla leið áður en þau skref eru stigin.



[17:28]
Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það frumvarp sem við ræðum um húsnæðismál er komið til, eins og fram hefur komið, vegna ábendinga frá Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, varðandi starfsemi sjóðsins. Af því tilefni hefur hæstv. ríkisstjórn brugðist við með þeim hætti sem fram kemur í frumvarpinu.

Áður en ég kem að efni þessa frumvarps hef ég hugsað mér að mæla fyrir breytingartillögu sem ég hef flutt, á þskj. 1545, 734. mál, og snertir þetta mál. Þannig er mál með vexti að í mars, fyrir sléttum þremur mánuðum, lagði ég fram frumvarp til laga um breytingu á þessum sömu lögum sem lutu í meginatriðum að því að heimila Íbúðalánasjóði að fara þá leið sem Landsbanki Íslands fór varðandi skuldir heimilanna.

Það er tvennt sem ég vil taka fram almennt áður en ég kem að málinu sjálfu. Í fyrsta lagi vek ég athygli á því að Íbúðalánasjóður er að fullu í eigu ríkisins. Eins og nafnið bendir til hefur Íbúðalánasjóður einkanlega það hlutverk að lána til húsbygginga, bæði til einstaklinga og félaga, og hefur það auðvitað birst í margs konar formi. Kjarninn í því sem ég vil segja er að Íbúðalánasjóður er algerlega í eigu ríkisins — hann er sem sagt ríkisfyrirtæki sem lánar út peninga, þ.e. fjármálastofnun í eigu ríkisins.

Á hinn bóginn höfum við banka sem er að langmestu leyti í eigu ríkisins þó að ég hafi tekið eftir því að hæstv. forsætisráðherra er farin að boða einkavæðingu á þeim banka, a.m.k. að hluta til, sem er út af fyrir sig áhugavert. Eftir stendur að eins og sakir standa er Landsbanki Íslands banki eða fjármálastofnun sem er að langmestu leyti í eigu ríkisins.

Þá erum við komin í þá stöðu að annars vegar höfum við Landsbanka Íslands, ríkisbankann, sem hefur boðið upp á tiltekin úrræði fyrir skuldug heimili, skulduga íbúa, og hins vegar Íbúðalánasjóð sem hefur ekki átt þess kost að bjóða fram álíka úrræði og Landsbankinn. Af hverju skyldi það vera? Ætli það sé meinbægni stjórnvalda? Ætli það sé meinbægni stjórnenda Íbúðalánasjóðs? Ætli það sé meinbægni stjórnar Íbúðalánasjóðs? Ekkert af þessu er í raun og veru til staðar nema ef vera skyldi meinbægni íslenskra stjórnvalda almennt talað. Ég vil ekki ganga svo langt. Það sem hefur skort upp á er að engar lagalegar heimildir eru fyrir því að Íbúðalánasjóður fari þá leið sem Landsbanki Íslands, fjármálastofnunin, fjármálafyrirtækið, bankinn, sem er í eigu ríkisins, getur farið.

Þá erum við komin í þá undarlegu stöðu að einstaklingur sem hefur tekið sér lán til íbúðarkaupa í ríkisbankanum Landsbanka Íslands er í raun og veru betur settur en einstaklingur sem hefur tekið lán í ríkisfjármálafyrirtækinu Íbúðalánasjóði. Þetta er ástand sem við getum auðvitað ekki búið við.

Ég hef því leyft mér að flytja breytingartillögu sem er samkynja frumvarpi sem ég lagði fram, eins og ég nefndi áðan, í marsmánuði sl. með nokkuð ítarlegri greinargerð þar sem gerð er grein fyrir þeim viðhorfum sem liggja til grundvallar þessari hugsun. Ég leyfi mér að lesa breytingartillöguna eins og hún liggur fyrir eftir að hún var prentuð upp, en þegar henni var dreift upphaflega höfðu verið gerð smávægileg mistök sem hafa nú verið lagfærð í hinu uppprentaða eintaki og má finna á vefnum. Hefst þá lesturinn, með leyfi forseta:

„Á eftir 17. gr. komi tvær nýjar greinar, svohljóðandi:

a. (18. gr.)

2. og 3. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XIV í lögunum orðast svo:

Heimilt er að færa niður veðkröfur samkvæmt 1. mgr. um allt að 15 millj. kr. hjá einstaklingum og um allt að 30 millj. kr. hjá hjónum, sambýlisfólki og einstæðum foreldrum enda sé veðkrafan á veðrétti umfram 110% af verðmæti eignar.“

Þetta er ákaflega mikilvægt atriði. Hér er eingöngu verið að taka til þeirra sem eru með lán umfram 110% þannig að við erum að fara í rauninni þá 110%-leið sem ríkisstjórnin boðaði og hefur verið lögfest.

Hefst nú lesturinn að nýju, með leyfi forseta, úr þessari breytingartillögu:

„Nemi niðurfærslan hærri fjárhæð en 10 millj. kr. hjá einstaklingi og 20 millj. kr. hjá hjónum, sambýlisfólki eða einstæðum foreldrum skal lækka niðurfærslu veðkröfu sem nemur veðrými á aðfararhæfri eign í eigu lántaka eða maka hans, að hluta eða heild, að því marki sem veðrýmið er umfram 1 millj. kr. að viðbættum tvöföldum útborguðum mánaðartekjum viðkomandi einstaklings.

Við verðmat fasteigna samkvæmt ákvæði þessu skal miða við fasteignamat. Þó er Íbúðalánasjóði heimilt að byggja verðmat á markaðsverði fasteignar yfir fasteignamat 2011. Ekki er rétt að mynda verðmæti eignar. Sé fasteign ekki fullbyggð miðast verðmæti við markaðsverð eignar. Til grundvallar mati á markaðsverði skal liggja verðmat löggilts fasteignasala sem Íbúðalánasjóður aflar á eigin kostnað.

b. (19. gr.)

Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

Íbúðalánasjóður skal endurgreiða einstaklingum 20% vaxta almennra lána og endurbótalána sem þeir greiddu sjóðnum á tímabilinu frá 31. desember 2008 til 1. janúar 2011.

Endurgreiðsla samkvæmt 1. mgr. fer aðeins fram eigi Íbúðalánasjóður ekki eða hafi átt vangoldna kröfu á hendur lántaka eldri en 90 daga gamla. Hafi lán verið endurútreiknað eða skilmálum þess breytt á tímabilinu frá 31. desember 2008 til 1. janúar 2011 skal aldur vangoldinnar kröfu miðaður við tímabilið frá upphafi greiðsludráttar fram að dagsetningu endurútreiknings eða skilmálabreytingar.

Hver einstaklingur getur að hámarki fengið endurgreidda vexti að fjárhæð 1 millj. kr.

Íbúðalánasjóður skal ráðstafa vaxtaendurgreiðslu samkvæmt 1. mgr. til niðurgreiðslu lána einstaklinga hjá sjóðnum á eigin kostnað. Eigi einstaklingur ekki lengur lán hjá sjóðnum skal vaxtaendurgreiðslan greidd út.“

Það sem hér er einfaldlega verið að gera er að færa þá leið sem í daglegu tali hefur verið kölluð landsbankaleiðin yfir á Íbúðalánasjóð í heimildarformi. Ástæðan fyrir því að það er gert er sú sem ég nefndi áðan, að fyrir hendi eru lagaskilyrði sem gera að verkum að Íbúðalánasjóður getur ekki vegna þeirra farið þá leið sem Landsbankinn hefur farið með góðum árangri. Niðurstaðan af því sem við höfum séð af úrræðum Landsbankans er sú að þau hafa gagnast mjög mörgum. Kosturinn við úrræðin er að þau eru tiltölulega fljótleg. Það er hægt að framkvæma þau tiltölulega hratt þannig að þeir sem eru í þeirri stöðu sem kveðið er á um í frumvarpinu og í þessum breytingartillögum við frumvarpið sem við ræðum núna geta þá fengið úrræði sín tiltölulega fljótlega afgreidd. Það skiptir miklu máli.

Það er engin spurning að þetta yrði til þess að létta á stöðunni hjá mjög mörgum, en það sem vakir fyrir mér einkanlega með þessari breytingartillögu er að tryggja það að þeir sem eru í þeirri stöðu, eins og ég nefndi, að eiga lán hjá Íbúðalánasjóði geti átt þess kost að fá frekari úrræði en þeir hafa notið frá Íbúðalánasjóði gagnvart skuldum sínum.

Eins og við munum var á sínum tíma gert samkomulag um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja og gert ráð fyrir því að fara hina svokölluðu 110%-leið. Gallinn hefur hins vegar verið sá að sú leið hefur verið framkvæmd mjög misjafnlega af einstökum fjármálastofnunum. Ég er búinn að rekja það efnislega út á hvað landsbankaleiðin hefur gengið en aðrir bankar hafa farið aðrar leiðir.

Íslandsbanki hefur til dæmis farið sína leið, sem ég ætla í sjálfu sér ekki að gera að umtalsefni, til að koma til móts við skuldug heimili og þar hefur þess verið freistað að ganga lengra en gert var ráð fyrir í lögunum.

Arion banki tilkynnti 26. janúar sl. að skilvísir einstaklingar í viðskiptum við bankann fengju sérstakan afslátt af greiðslum síðasta árs vegna lána þeirra hjá bankanum. Afslátturinn nam tveimur gjalddögum síðasta árs miðað við að 12 gjalddagar hefðu verið greiddir, þ.e. 16,7% af greiddum gjalddögum. Þá var líka veittur 30% afsláttur af vaxtagreiðslum síðasta árs vegna yfirdráttarlána en að meðaltali nemur greiðsla vegna íbúðalána 125 þús. kr. og greiðsla vegna yfirdráttarlána 13 þús. kr. Samtals fengu 33 þús. viðskiptavinir bankans greitt til baka frá Arion banka föstudaginn 27. janúar. Kostnaður vegna þessa frá Arion banka var áætlaður 2,5 milljarðar kr. Þar með er kostnaður bankans vegna aðgerða sem snúa að einstaklingum og heimilum orðinn 40 milljarðar kr. sem er rúmir 5 milljarðar umfram það svigrúm sem bankinn telur að hann hafi fengið við yfirtöku lánanna frá gamla Kaupþingi yfir til Arion banka.

Af þessu blasir við að bankar eru í vaxandi mæli að koma til móts við viðskiptamenn sína. Þá stendur eftir að Íbúðalánasjóður hefur ekki haft lagalegar heimildir til að bjóða sambærileg úrræði og þar með skapast ójafnræði á milli skuldara þar sem helst virðist halla á viðskiptavini Íbúðalánasjóðs. Það blasir því við hverjum einasta manni að við svo búið getur ekki lengur staðið. Það er að minnsta kosti eðlilegt að jafnræði verði látið gilda um þá sem eru með íbúðalán sín í ríkisstofnuninni Íbúðalánasjóði og þá sem tóku sams konar lán í Landsbanka Íslands sem er að langstærstum hluta í eigu ríkisins.

Í þessu sambandi vek ég athygli á að í skýrslu eftirlitsnefndar sem skipuð var samkvæmt lögum nr. 107/2009, um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins, kemur fram í samantektarkafla skýrslunnar, með leyfi forseta:

„Nefndin telur að 110%-úrræðið hafi verið útfært of þröngt í samkomulaginu frá 15. janúar 2010 og hefði mátt vera einfaldara og þar með fljótlegra í framkvæmd. Með því að miða við 110% af fasteignamati í stað markaðsvirðis ódýrari eigna, láta aðrar aðfararhæfar eignir ekki dragast frá niðurfærslu að ákveðnu marki og taka upp fríeignamark með fastri fjárhæð, hefði mátt einfalda og flýta málum að mati nefndarinnar. Aðilar samkomulagsins hefðu átt að standa að sameiginlegri, samræmdri breytingu á samkomulaginu í stað þess að standa hver að sinni útfærslu á úrræðinu þegar í ljós kom hversu erfitt það var í framkvæmd.“

Þetta er ákaflega mikilvæg ábending og ber að harma það að hæstv. ríkisstjórn hefur ekki treyst sér til að bregðast við þessu máli með einhverjum hætti. Það er því nauðsynlegt að gera þær lagabreytingar núna sem þessi breytingartillaga kveður á um úr því að þær koma ekki frá hæstv. ríkisstjórn.

Í þessu sambandi vil ég líka nefna að mánuðum saman, liggur mér við að segja, hefur verið boðað að efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis hyggist á næstunni leggja fram tillögur um aðgerðir fyrir skuldug heimili. Margoft hefur verið kallað eftir því hvar þessi mál væru á vegi stödd. Ég kallaði til dæmis eftir því núna síðast í morgun, löngu áður en þessi umræða hófst, hvort þess væri ekki að vænta að slíkar tillögur kæmu fram. Ég vakti athygli á því að núna liggur nokkurn veginn fyrir að það stefni í sumarþing í júlí og þá væri auðvitað góður kostur fyrir efnahags- og viðskiptanefnd að ljúka vinnu sinni við að gera tillögur til úrbóta fyrir skuldug heimili og leggja fram slíkar tillögur þannig að menn gætu þá tekið afstöðu til þeirra.

Ég nefndi það líka áðan að ég hafði lagt þetta mál fram í marsmánuði og auðvitað gert mér vonir um að málið kæmist með eðlilegum hætti til efnahags- og viðskiptanefndar sem gæti þá tekið afstöðu til málsins. Það hefur ekki tekist og þess vegna sé ég mér ekki aðra leið færa en reyna að koma þessu máli á dagskrá með því að leggja fram þessa breytingartillögu.

Menn velta kannski fyrir sér hvort þessi breytingartillaga sé svo frábrugðin efni þess frumvarps sem hér um ræðir að ekki sé eðlilegt að hún komi til umfjöllunar. Svarið er þá þetta: Hún hefur í fyrsta lagi verið borin upp og veitt hafa verið afbrigði til að tryggja það að hún kæmist á dagskrá. Í öðru lagi eru auðvitað mýmörg dæmi um það að menn hafa flutt tillögur sem hafa ekki verið nákvæmlega í samræmi við meginkjarna þeirra þingmála sem hafa síðan verið á dagskrá. Síðan er það hitt að málið er auðvitað mjög brýnt því að það snertir hag heimilanna í landinu.

Mikil samstaða virðist vera um að leita leiða til að minnka skuldabyrði heimilanna. Ekki hefur nægilega mikið verið gert í þeim efnum. Það vill svo til að langstærsti lánardrottinn heimilanna í landinu er Íbúðalánasjóður og þess vegna er alveg ljóst að þessi mál hljóta að þurfa að koma á dagskrá og ég er með þessari breytingartillögu að setja þetta mál á dagskrá í samhengi við þær efnismiklu breytingar sem verið er að gera á starfsumhverfi Íbúðalánasjóðs og eru auðvitað almenns eðlis. Það er verið að gera breytingar á verkefnaskilgreiningu Íbúðalánasjóðs, skipulagi og mati á rekstri og áhættu og eftirliti með starfsemi sjóðsins og fyrirkomulagi og skilyrði lánveitinga þannig að þessi tillaga rímar, að mínu mati, prýðilega við það sem verið er að gera með breytingum á sjóðnum og á þess vegna fullt erindi í þessa umræðu.



[17:43]
Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Í fyrri ræðu minni fór ég yfir þetta frumvarp, á hverju það tekur og benti á galla sem ég tel vera á frumvarpinu og galla sem gætu jafnvel leitt til þess að það sem málinu er ætlað að lagfæra leiði til annarra athugasemda frá Eftirlitsstofnun EFTA um starfsemi sjóðsins varðandi ríkisaðstoð.

Ég get að nokkru leyti tekið undir þær niðurstöður Eftirlitsstofnunar EFTA að Íbúðalánasjóður njóti ríkisaðstoðar í formi eigendaábyrgðar. Við vitum að ríkið baktryggir fjármögnun sjóðsins, vaxtaniðurgreiðslur, undanþágu frá arðsemiskröfu og greiðslu tekjuskatts. Ég hefði haldið að í kjölfar hrunsins og gríðarlega mikilla breytinga sem orðið hafa á fjármálamarkaði væri núna upplagt tækifæri til að breyta eðli og umfangi Íbúðalánasjóðs.

Viðskiptabankar þekkja best greiðslugetu viðskiptavina sinna út frá sögu og öðru slíku og þekkja best þá áhættu sem fylgir hverjum viðskiptavini, m.a. vegna upplýsinga sem fást vegna útibúanets bankanna. Útibúanetið er náttúrlega um allt land þrátt fyrir að nú sé verið að loka einhverjum útibúum. Ég held því að eðlilegt sé að viðskiptabankarnir sjái um að lána út í gegnum net sitt.

Hlutverk Íbúðalánasjóðs gæti hæglega breyst í að verða heildsölubanki sem sæi um fjármögnun á íbúðalánastarfsemi viðskiptabankanna. Þessi hugmynd hefur heyrst áður en mönnum leist ekki á að framkvæma hana vegna þess að þeir töldu að Íbúðalánasjóður hefði sérstakt félagslegt hlutverk. Ég tel reyndar að sú niðurstaða sé á misskilningi byggð vegna þess að hæglega er hægt að lækna markaðsbresti á einhverjum stöðum þar sem einkafjárfestar eru ekki tilbúnir að bjóða fram lánsfjármagn með því að Íbúðalánasjóður verði bakhjarl þeirra. Á þann hátt væri hægt að hafa mun betra eftirlit með þeirri áhættu sem fylgir hverju íbúðaláni eða hverjum viðskiptavini. Það væri hægt að gera þetta á mun ódýrari hátt og síðast en ekki síst væri hægt að eyða þeirri samkeppni sem niðurgreidd íbúðalán, samkvæmt niðurstöðu Eftirlitsstofnunar EFTA, veita viðskiptabönkunum þannig að tekjumöguleikar þeirra gætu orðið betri sem þýddi að bankakerfið á Íslandi yrði burðugra.

Ég sagði í fyrri ræðu minni að ég teldi að þrátt fyrir að margt ágætt væri í þessu frumvarpi ætti ekki að keyra það fram eins og gert er núna heldur ætti að gera mun umfangsmeiri breytingar á Íbúðalánasjóði en hér er lagt til og kerfinu öllu. Ég hefði gjarnan viljað sjá lagt til að Íbúðalánasjóður yrði heildsölubanki fyrir viðskiptabankana.



[17:48]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Við höldum nú áfram með umræðu um frumvarp til laga, sem kemur frá stjórnarflokkunum, um breytingu á lögum nr. 44/1998, um húsnæðismál, með síðari breytingum.

Þetta frumvarp tengist aðild okkar að EES-samningnum og er megintilefni þess, eins og kemur fram í frumvarpinu og í athugasemdum við frumvarpið sjálft, það að íslenska ríkið þarf að bregðast við niðurstöðu rannsóknar ESA, Eftirlitsstofnunar EFTA, á starfsemi Íbúðalánasjóðs, en sú ákvörðun á rót sína að rekja til júlímánaðar á síðasta ári þar sem Eftirlitsstofnunin dregur fram að Íbúðalánasjóður njóti ríkisaðstoðar, m.a. í gegnum vaxtaniðurgreiðsluformið. Íbúðalánasjóður nýtur undanþágu frá arðsemiskröfu og greiðslu tekjuskatts og Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, hvatti íslensk stjórnvöld með ákvörðun sinni til að grípa til nauðsynlegra ráðstafana þannig að lánafyrirkomulag Íbúðalánasjóðs yrði í samræmi við skuldbindingar Íslands í tengslum við Evrópska efnahagssvæðið, þ.e. samning okkar þar. Þetta eru mjög skiljanlegar athugasemdir.

Ég tek undir með félögum mínum í Sjálfstæðisflokknum, þar á meðal hv. þingmanni og síðasta ræðumanni, Tryggva Þór Herbertssyni, sem velti fram ýmsum sjónarmiðum eins og hlutverki og tilgangi Íbúðalánasjóðs. Það höfum við rætt í gegnum tíðina og ljóst er að hinar pólitísku skoðanir og stefnur stjórnmálaflokkanna hafa ekki alltaf verið einhlítar og það er kannski ekkert óeðlilegt að þær séu mismunandi. Ég held að það skipti máli að ákveðinn grundvöllur sé til staðar, að ákveðið félagslegt kerfi sé til staðar til að hjálpa þeim sem minna mega sín, þeim sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð, ungu fólki, fólki sem er búið að vera í námi o.s.frv., að koma sér þaki yfir höfuðið. Það er spurning hvernig það er gert. Það er hægt að gera það í gegnum banka eins og Íbúðalánasjóður er. Það er líka hægt að breyta honum, eins og hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson benti á, í heildsölubanka sem mundi þá tryggja það að einkaaðilar á markaði, þ.e. viðskiptabankarnir sem núna eru á markaði, mundu með ákveðnum grunni tryggja þá félagslegu stöðu.

Þegar maður les í gegnum þetta mál sér maður að ESA hefur áhyggjur af því að ríkið sé í rauninni að niðurgreiða ákveðna þætti hjá Íbúðalánasjóði sem eru á samkeppnissviði. Það má kannski segja að þetta sé ekkert ólíkt því sem er hjá annarri ríkisstofnun sem ég og fleiri þekkjum vel, þ.e. Ríkisútvarpinu. ESA hefur margítrekað komið með ábendingar þar um og menn hafa reynt að bregðast við því eins og framast er unnt en við verðum einfaldlega að viðurkenna að ekki hefur alltaf verið pólitískur vilji, frú forseti, til að breyta hlutverki Ríkisútvarpsins í þá veru sem ábendingar og ákvarðanir ESA hafa gefið okkur til kynna, þ.e. á þá leið sem ESA hefur hvatt okkur til að skoða sérstaklega. Það varðar afnotagjöldin, síðan nefskattinn svokallaða, sem er kannski ekki beint nefskattur því að ekki greiða allir landsmenn nefskattinn, 16 ára og eldri gera það til sjötugs, og síðan er ákveðið tekjuviðmið þannig að það er tryggt að þeir sem litlar tekjur hafa greiða ekki nefskatt. Þetta er reyndar fyrirbæri sem þyrfti að endurskoða betur með tilliti til þeirrar reynslu sem við höfum fengið í því efni.

Varðandi Ríkisútvarpið er ljóst að hluti af afnotagjöldunum fyrrum og nú þessum nefskatti hefur meðal annars farið í ákveðinn samkeppnisrekstur Ríkisútvarpsins. Við því hefur verið brugðist, eins og ég kom að áðan, og það sama gildir nú um Íbúðalánasjóð.

Það er því skiljanlegt að við ræðum þetta frumvarp. Það er margt ágætt í því og ég tek undir hluta af því sem kemur fram í nefndaráliti hv. þingmanns Framsóknarflokksins, Eyglóar Harðardóttur, sem bendir á að mikil hætta sé á hagsmunaárekstrum þar sem Íbúðalánasjóður verður í beinni samkeppni við leigu- og húsnæðissamvinnufélög á markaði sem fá lán hjá sjóðnum. Síðan dregur hún réttilega fram að samkeppnisstaða slíkra félaga er afar bág gagnvart félagi í eigu ríkisins og ljóst er að samkeppnisstaða félaganna sem eru nú þegar á markaði verður verri ef ekki er tryggður fullkominn stjórnunar- og rekstrarlegur aðskilnaður. Þetta eru mjög skýrar ábendingar hjá hv. þingmanni minni hlutans sem ég vil leyfa mér að taka undir.

Dregið er fram í nefndaráliti meiri hlutans að hlutverk sjóðsins, þ.e. hvernig hann heldur utan um þær íbúðir sem hann á, skiptir máli. Mér skilst að þær hafi verið um 1.750 í upphafi þessa árs og séu núna í þessum mánuði eða næsta að nálgast 2.000 miðað við þær upplýsingar sem ég hef. Ríkið verður auðvitað að bregðast við því að móta sér stefnu um hvernig Íbúðalánasjóður á að vera til lengri tíma á þessum markaði þannig að samkeppnisstöðu þeirra félaga sem ég kom inn á áðan verði ekki raskað. Þess vegna má í sjálfu sér taka undir þá grundvallarbreytingu á starfsemi Íbúðalánasjóðs að tryggja að eitt af hlutverkum hans verði að eiga og reka leigufélag með þær eignir sem sjóðurinn hefur eignast í gegnum aðfarar- og fullnustugerðir.

Ég sakna hins vegar heildarmyndarinnar varðandi Íbúðalánasjóð. Í fjárlögum árið 2011, minnir mig, tryggðum við Íbúðalánasjóði 32 milljarða til að auka eiginfjárhlutfallið og ljóst er að hann þarf að minnsta kosti 10–12 milljarða til viðbótar til að geta uppfyllt kröfur sem hann þarf að standa undir.

Frú forseti. Við sjáum vísbendingar um ákveðna erfiðleika á íbúðalánamarkaði þegar inngreiðslur til sjóðsins eru meiri en útgreiðslur. Svo virðist vera sem fólk sé á vissan hátt fast með lán sín og um leið eignir sínar. Þetta er hluti af því stóra verkefni sem ríkisstjórnin hefur engan veginn verið fær um að leysa, sem er skuldavandi heimilanna. Skuldavandinn tengist náttúrlega Íbúðalánasjóði. Margt hafi verið gert til að koma til móts við fólk í skuldavanda, ég ætla ekki að draga dul á það, ég ætla ekki að detta í þann gír að segja að ekkert hafi verið gert, það er ekki þannig. Margt hefur verið gert en það hefur bara ekki verið nóg og menn hafa ekki verið með heildarmyndina á hreinu, kannski hafa þeir verið uppteknir við það á þingi að reyna að leysa þær deilur og þær erjur sem hafa verið á milli stjórnarflokkanna og allir þekkja.

Við getum talað um stjórnarskrármálið þar sem stjórnarflokkarnir voru engan veginn á sama máli. Við getum talað um rammaáætlun. Það er hægt að tala um fiskveiðistjórnarmálin og veiðiskattsmálið sem við höfum haft hér til umræðu. Auðvitað hafa farið miklir kraftar af hálfu ríkisstjórnarinnar og stjórnarflokkanna og forustumanna þeirra í það að reyna að laga og tala niður þau átök sem hafa verið innan stjórnarflokkanna. Þess vegna erum við komin í þessar miklu ógöngur með þingið. Ég heyrði það fyrr í dag að stjórnarþingmenn sumir hverjir eru þegar farnir að hóta því að beita svonefndri 64. gr. þingskapalaga þess efnis að níumenningar hið minnsta geti breytt dagskrá þingsins. Það ákvæði hefur reyndar ekki verið notað í sögu þingsins og yrði þá enn einn bautasteinninn sem ríkisstjórnin og ríkisstjórnarflokkarnir hafa beitt sér fyrir, að grípa inn í lýðræðislegar reglur og vald sem stjórnarandstaðan hefur til að ræða mál. Komið hefur fram að svona inngrip í dagskrána hefur ekki verið með neinum hætti síðan 30. mars 1949.

Ég hefði gjarnan viljað hafa skýra sýn í þessu máli varðandi Íbúðalánasjóð og stefnumótun hans til lengri tíma. Ég vil líka taka undir þau sjónarmið sem nefndarmenn okkar í velferðarnefnd, þar á meðal hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir og hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir, hafa dregið fram um hvernig við viljum sjá Íbúðalánasjóð. Ég dreg fram það sem ég kom að í upphafi máls míns, að það skiptir máli að hér séu félagsleg úrræði fyrir fólk sem á í erfiðleikum, fyrir fólk sem er að koma sér upp sinni fyrstu íbúð, að það hafi aðgang að fjármagni, að lánum og lánsfjármagni til að taka þessi fyrstu skref sem eru svo mikilvæg í lífi hverrar fjölskyldu og einstaklings. Gerum við það í gegnum Íbúðalánasjóð? Já, það er hægt að segja að að hluta til gerum við það þó að ég treysti fyllilega þeim viðskiptabönkum sem eru á markaði til að sinna þeim skyldum að uppfylltum ákveðnum reglum og forsendum sem þeir vinna eftir og lifa með. Ég treysti fyllilega þeim aðilum á markaði. Í sjálfu sér þarf ekki Íbúðalánasjóð til en engu að síður held ég, eins og staðan er og hefur verið í gegnum tíðina, að mikilvægt sé að tryggja þeim hóp sem þarf á félagslegum úrræðum að halda til íbúðarkaupa slík úrræði. Út á það gengur álit Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA, sem varar okkur Íslendinga við því að nota skattpeninga, fjármagn frá almenningi, í að niðurgreiða starfsemi Íbúðalánasjóðs sem er á samkeppnismarkaði.

Þetta frumvarp er kannski ekki mikið meira en tilraun til að nálgast þetta sjónarmið. Ég hefði gjarnan viljað að frumvarpið fengi meiri umfjöllun í velferðarnefnd til að knýja fram stefnu, sem núverandi ríkisstjórn og þá vonandi líka allir stjórnmálaflokkar á þingi gætu náð að sameinast um, um það hvernig við búum umhverfi Íbúðalánasjóðs til lengri tíma litið. Það ætti að vera hægt að ná samkomulagi um það þó að mönnum sé ekki tamt á þessum síðustu dögum að komast að niðurstöðu, frekar er farið í að breyta hefðum, venjum og fara jafnvel gegn reglum á þingi varðandi þingsköp o.s.frv.

Ég vil þó taka undir að það sem er að mínu mati ágætt í þessu frumvarpi, þó að það liggi ekki beint á því er samt gott að það sé komið fram, eru hæfisskilyrði og hæfisreglur laga um fjármálafyrirtæki þar sem farið er inn á hvernig æðsta stjórn Íbúðalánasjóðs á að vera. Það er eðlilegt að æðstu stjórn Íbúðalánasjóðs verði breytt í takt við það sem gengur og gerist í fjármálafyrirtækjum. Ég held að þetta sé ágætisbreyting og eins og kemur fram í 3. gr. frumvarpsins er skýrt kveðið á um hæfisskilyrði stjórnarmanna og forstjóra og farið yfir það sem gildir um önnur fjármálafyrirtæki á markaði.

Að öllu samanteknu, herra forseti, tel ég ágætt að þetta mál sé komið fram. Ég hefði viljað sjá skýrari reglur um starfsemi Íbúðalánasjóðs, að við mundum tala um þann raunveruleika sem blasir við okkur Íslendingum í tengslum við Íbúðalánasjóð og gætum þá reynt, kannski í samhengi við þetta frumvarp, að nálgast þann vanda sem ótal fjölskyldur á Íslandi búa við sem er skuldavandi heimilanna en sá skuldavandi tengist ekki síst verðtryggðum lánum sem voru meðal annars tekin árið 2008 hjá Íbúðalánasjóði. Sá hópur er að margra mati í einna verstu stöðunni af viðskiptavinum Íbúðalánasjóðs.

Herra forseti. Ég hvet til þess að þetta verði skoðað betur, að þetta verði eitt af þeim málum sem við fáum tækifæri til að ræða og fara betur yfir þó að vissulega séu ákveðin atriði til batnaðar.



[18:04]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Nú höfum við heyrt það undanfarnar vikur að það eigi að hverfa frá séreignarstefnunni í húsnæðismálum og búa til einhverja nýja hugsun, og ef ég skil þessa hugsun rétt sem ég ætla ekkert að fullyrða að ég geri, þá snýst hún um að reyna að ýta fólki meira inn í leigukerfi eða eitthvert slíkt kerfi. Það er ekkert nema gott um leiguíbúðir og leigukerfi að segja. Ég hef hins vegar efasemdir um að það eigi að hverfa frá séreignarstefnunni. Ég held að það sé ágætt að blanda þessu þokkalega saman og gera umhverfið þannig úr garði að þeir sem treysta sér til og geta fjárfest í húsnæði geri það. Þar verður gjarnan til sparnaður fólks, sem því miður hefur reyndar lent í áföllum undanfarin ár og undanfarin missiri eftir bankahrunið. Reyndar þykir mér sorglegt hve lítið er fjallað um þessa eign sem er að brenna upp hjá mörgum út frá því að þetta er sparifé fólks og líka lífeyrir því að margir hafa hugsað sér þetta sem uppbót á lífeyri sinn þegar að því kemur.

Mig langar því að spyrja hv. þingmann hvort hún sé sammála þeirri hugmyndafræði að hverfa frá séreignarstefnunni, eins og hefur verið sagt, og hvað eigi þá að taka við. Er skynsamlegra að fara þá leið að blanda þessu áfram saman þó svo að menn reyni að styrkja leiguþáttinn með einhverju móti? Íbúðalánasjóður getur spilað og á að spila að mínu viti mjög stórt hlutverk á félagslega húsnæðislánamarkaðnum og í báðum þessum kerfum eða leiðum.



[18:06]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir þessar vangaveltur og mikilvægu spurningu um séreignarstefnuna í íslensku samfélagi. Ég held að þetta sé ákveðin grundvallarspurning, viljum við halda áfram að hvetja fólk til að eignast þakið sem það kemur sér yfir höfuðið? Fólk hefur svo sannarlega álitið það sem sparnað í gegnum tíðina að fjárfesta í fasteign. Ég held að það væri glapræði að hverfa frá þeirri stefnu, ég er ekki sammála því að hverfa frá henni.

Hins vegar vil ég líka nálgast þetta út frá þeirri stefnu sem við sjálfstæðismenn höfum almennt í flestum málaflokkum og það er að skapa fólki valfrelsi, að við veitum fólki svigrúm ef það kýs að fara leigumarkaðsleiðina. Það verði til staðar ákveðinn markaður þannig að fólk geti, ekki síst fólk sem er að byrja búskap eða er í námi, valið á milli þess að fara í húsnæðiskaup eða inn á leigumarkað.

Ég hef búið í útlöndum þar sem er minna um þessa séreignarstefnu. Það hefur hentað þeim löndum ágætlega. Ísland er hins vegar byggt upp með öðrum hætti. Af því að hér var talað um séreignina sem sparnað þá höfum við líka byggt upp mjög farsællega lífeyrissjóðakerfi með öðrum hætti en annars staðar í Evrópu. Ég held að það verði að skoða þetta tvennt saman þegar við berum okkur saman við útlönd.

Mitt svar er því: Ég held að við eigum alls ekki að hverfa frá séreignarstefnunni í húsnæðismálum en við eigum að reyna að móta umhverfið þannig að fólk hafi ákveðið val. Ég kem síðar að félagslega þættinum og félagslegu uppbyggingunni sem ég held að sé afar mikilvægt að við tryggjum með ákveðnum leiðum.



[18:08]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það séu vonandi flestir sammála um að það sé mikilvægt að hafa val þegar kemur að því að koma sér þaki yfir höfuðið eða finna sér húsnæði. Það val getur að sjálfsögðu verið margs konar, það getur verið val milli þess, ef fólk á peninga, við skulum bara orða það þannig, að setja þá í fasteign og fjárfesta, búa til sparnað þar, eða nota peninginn í annað og leigja.

Svo er hitt valið sem þarf líka að vera til staðar fyrir þá sem hafa eitthvað minna á milli handanna en vilja gjarnan vera í eigin húsnæði að mynda sér einhverja eign þótt hægt gangi. Þar verður Íbúðalánasjóður að mínu viti að vera til staðar eða sambærileg stofnun.

Ef við ræðum áfram þessi sparnaðar- og lífeyrismál þá þekki ég mörg dæmi um að fullorðið fólk hafi farið úr stórum eignum, átt einhverja eign í húsnæðinu, selt það og notað svo peninginn, hagnaðinn — einhver gæti mögulega kallað það umframhagnað — til að bæta við þann lífeyri sem það fær. Þótt lífeyriskerfið okkar sé ágætt er það því miður alls ekki alfullkomið og hefur kannski ekki alltaf gengið nógu vel í því öllu saman. Fólk hefur því verið að nota þessa fjármuni til að lyfta upp tekjum sínum og gera lífið aðeins bærilegra.

Ég hef áhyggjur af því að það sé of lítið horft á þetta þegar við ræðum um stöðu fólks sem búið er að vinna fyrir samfélagið alla sína ævi, vinna baki brotnu, hvernig sem sú atvinna var, og á kannski einhverja aura sem það vill nota til þess að gera líf sitt bærilegra þegar það er komið á efri ár. Þessar eignir geta líka brunnið upp. Hitt er að við eigum ekki að draga úr fólki að horfa til framtíðar og fara sömu leið og jafnvel foreldrar þess. (Forseti hringir.) Mér finnst tónninn og stefnan hér á landi kannski hafa verið í þá átt, því miður.



[18:10]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi félagslega þáttinn þá skiptir máli að við finnum leiðir til að tryggja hann, hvort sem er í gegnum Íbúðalánasjóð eða aðila á markaði. Ég ætla ekki að draga dul á það að ég treysti líka aðilum á markaði til að sinna þessu félagslega kerfi ef þeim er settur ákveðinn rammi og ákveðnar forsendur og ríkisvaldið kemur að. En ég segi ekki að það sé eina leiðin. Ég vil ítreka það að mér hefur hugnast það frekar en hitt að hafa Íbúðalánasjóð sem ákveðið félagslegt úrræði, úrræði sem tryggir að fólk sem hefur kannski ekki mikið á milli handanna geti þó eignast þak yfir höfuðið. Ég held að það sé mikilvægt að við sameinumst að minnsta kosti um þá hugsun.

Varðandi sparnað þá kemur hv. þingmaður hér inn á risamál í rauninni og er tilefni til að við biðjum einfaldlega um sérstaka umræðu um það hvert sparnaður fólks er að fara og hvort fólk hafi almennt val um það í hvaða lífeyrissjóð það greiðir. Við höfum séð dæmi um að sparnaður fólks sem hefur starfað hjá hinu opinbera sé tryggari en sparnaður fólks á hinum almenna vinnumarkaði. Er það jafnræði? Ég efast um það. Fyrir utan hina gríðarlegu skattlagningu. Fólk er að byggja upp til framtíðar, kemur sér upp húsnæði og safnar fjármagni, selur síðan húsnæðið á efri árum til þess að hafa það notalegra o.s.frv., en þá er það skattlagt — ég ætla ekki að segja í þessum ræðustól til andskotans — fram úr hófi vegna þeirrar skattstefnu sem núverandi ríkisstjórn hefur markað. Það er ljóst að sá hópur sem ekki síst hefur orðið fyrir því að borga í auknum mæli svonefndan auðlegðarskatt er fólk sem komið er á efri ár og hefur byggt upp ákveðinn sjóð eða sparnað sem það hefur allan tímann og allt sitt líf ætlað sér að nýta á (Forseti hringir.) efri árum.

Íbúðalánasjóður getur gert ákveðna hluti en markmiðin verða að vera skýr. Í þessu frumvarpi finnst mér þau ekki nægilega skýr.

(Forseti (SIJ): Forseti biður þingmenn að gæta orða sinna í ræðustól.)



[18:13]
Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa ræðu. Þetta mál snýst, eins og fram hefur komið, að verulegu leyti um þá niðurstöðu Eftirlitsstofnunar EFTA að Íbúðalánasjóður nyti ríkisaðstoðar. Ekki er hægt að ræða þetta mál án þess að fara aðeins yfir hið mikilvæga samfélagslega gildi Íbúðalánasjóðs. Á meðan góðærið stóð sem hæst og mjög auðvelt var að fjármagna kaup á íbúðarhúsnæði átti fólk á mörgum strjálbýlustu svæðum landsins gríðarlega erfitt með að fá slíka fjármögnun. Lengi vel var það einungis Íbúðalánasjóður sem var tilbúinn til að fjármagna kaup á íbúðarhúsnæði í þessum smærri byggðarlögum.

Eins og kemur fram í minnihlutaáliti Eyglóar Harðardóttur er það afstaða minni hlutans að Íbúðalánasjóður gegni lykilhlutverki á íslenskum húsnæðismarkaði. Við þekkjum öll söguna og munum eftir því að á sínum tíma töluðu ákveðin öfl innan Sjálfstæðisflokksins mjög stíft fyrir því að Íbúðalánasjóður skyldi einkavæddur og að hann skyldi ekki fá að gegna því félagslega hlutverki sem hann hefur — og ég hef rakið hér hversu mikilvægt það er.

Nú langar mig að spyrja hv. þingmann, af því að mér fannst það ekki koma nægilega skýrt fram í ræðunni: Er hv. þingmaður sammála því sem kemur fram í áliti minni hluta velferðarnefndar að Íbúðalánasjóður gegni lykilhlutverki á íslenskum húsnæðismarkaði? Það sýndi sig fyrir hrun á strjálbýlustu svæðunum. Eða tilheyrir hv. þingmaður þeim hluta Sjálfstæðisflokksins sem telur að heppilegast sé að einkavæða Íbúðalánasjóð?



[18:15]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Skoðanir eru skiptar um ýmis málefni innan Sjálfstæðisflokksins. Eins og hv. þingmaður veit tilheyri ég til dæmis minni hluta í stóru máli innan Sjálfstæðisflokksins en mér er samt frjálst að hafa þær skoðanir.

Varðandi Íbúðalánasjóð er ljóst að ég sat í ríkisstjórn með þeim flokki sem hv. þingmaður er í og verður í, Framsóknarflokknum. Stefna þeirrar ríkisstjórnar var alveg skýr, það var alls ekki ætlunin að einkavæða Íbúðalánasjóð þó að ákveðinn hópur innan flokksins hafi þær skoðanir, og eðlilegt að sá hópur setji þær fram. Við reyndum miklu frekar að undirbyggja ákveðna starfsemi Íbúðalánasjóðs en hugsanlega má segja að á þeim tíma hafi ákveðin mistök verið gerð varðandi uppbyggingu sjóðsins.

Ég tel að við hefðum betur tekið skarpari umræðu um hið raunverulega hlutverk Íbúðalánasjóðs til skemmri og lengri tíma. Ég reyndi að koma því á framfæri í ræðu hér áðan og í fyrra andsvari að það skiptir máli að við tryggjum úrræði, félagsleg úrræði, fyrir þau svæði landsins sem eiga erfiðara með aðgang að fjármagni til íbúðarkaupa eins og er víða á landsbyggðinni. Við þurfum að tryggja að þeir einstaklingar og þær fjölskyldur standi frammi fyrir ákveðnu vali, valkosti til að koma sér upp húsnæði. Þannig hef ég viljað nálgast þetta. Við verðum að viðurkenna að við verðum að hafa leiðir, aðferðafræði sem tryggir að þeir sem hafa það erfiðara fjárhagslega af ýmsum sökum geti fjárfest í húsnæði.

Ég tilheyri þeim hópi Sjálfstæðisflokksins sem hefur viljað leggja áherslu á valfrelsi, í menntamálum, í heilbrigðismálum og líka hvað varðar Íbúðalánasjóð.



[18:17]
Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Herra forseti. Það er gríðarlega mikilvægt að við tryggjum stöðu þess hóps sem ekki hefur haft aðgang að fjármagni á hinum frjálsa markaði. Á meðan fjármagn flæddi út úr öllum bönkum og auðvelt var að fá lán var í mörgum hinum dreifðu byggðum landsins einungis hægt að fá fjármagn til að kaupa eða byggja íbúðarhúsnæði hjá Íbúðalánasjóði. Þetta var á árunum 2006–2008. Því er gríðarlega mikilvægt að við hugum að umgjörð Íbúðalánasjóðs, að við horfum til framtíðar og viðurkennum, rétt eins og segir í minnihlutaáliti hv. þm. Eyglóar Harðardóttur, að Íbúðalánasjóður gegnir lykilhlutverki á íslenskum húsnæðismarkaði og að ekkert megi gera til að veikja það með nokkrum hætti.

Af því að hv. þingmaður svaraði því ekki alveg skýrt varðandi framtíð Íbúðalánasjóðs langaði mig að spyrja hv. þingmann að því hvernig hann sjái framtíð Íbúðalánasjóðs fyrir sér kannski að fimm til tíu árum liðnum.

Eins og ég kom inn á í fyrra andsvari mínu þá voru ákveðin öfl innan Sjálfstæðisflokksins sem vildu klárlega einkavæða Íbúðalánasjóð á sínum tíma. Þá leikur mér forvitni á að vita hvort hv. þingmaður telur að það sé minnihlutahópur innan Sjálfstæðisflokksins sem vilji einkavæða Íbúðalánasjóð rétt eins og það er minnihlutahópur innan Sjálfstæðisflokksins sem vill ganga í Evrópusambandið.



[18:19]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Það fer nú bara að verða spurning hvenær minni hluti verður að meiri hluta og meiri hluti að minni hluta. Hitt vegur þyngra í umræðunni um Íbúðalánasjóð, líka innan Sjálfstæðisflokksins, að við verðum að tala meira um félagsleg úrræði, meðal annars á íbúðamarkaði.

Við þurfum að tryggja að fólk sem á í erfiðleikum með að koma sér upp þaki yfir höfuðið, hvort sem það er hér á suðvesturhorninu eða á landsbyggðinni, hafi aðgang að ákveðnum úrræðum. Ég sagði áðan að ég treysti ekki bara Íbúðalánasjóði til þess heldur líka öðrum lánastofnunum fullvel til að standa undir slíku ef þeim er markaður ákveðinn rammi. Það hefur hins vegar ekki verið gert þannig að ég hefði gjarnan viljað sjá Íbúðalánasjóð þróast með skarpari hætti en áður varðandi það að tryggja stöðu hans og hlutverk til lengri tíma litið og þá að sjá hann í minnkandi mæli í þessari samkeppnisstöðu sem hann er raunverulega í á markaði.

Ég vil vitna í það sem hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson hefur verið að draga fram. Hann segir mjög sérkennilegt að Íbúðalánasjóður gangi ekki jafnlangt fram gagnvart skuldugum heimilum og annar banki sem er í eigu ríkisins, Landsbankinn. Landsbankinn er algjörlega í eigu ríkisins og af hverju gengur Íbúðalánasjóður ekki fram fyrir skjöldu og hjálpar líka mjög skuldugum heimilum, sem ég kom meðal annars inn á í minni ræðu, til að fá lausn sinna mála?

Við vitum að fólk með verðtryggð lán, ekki síst frá árunum 2007, 2008 og hugsanlega í byrjun 2009, er fast inni með lánin sín. Það eru engar úrlausnir fyrir þennan hóp hjá Íbúðalánasjóði en öðru máli gegnir þegar kemur að hinum ríkisbankanum sem er Landsbankinn. Það er þess vegna sem ég hef verið að benda á að það vantar skýra stefnu um hvert ríkið er að fara á íbúðalánamarkaði. Það er ekki hægt að tala um þetta mál nema við skoðum hlutdeild ríkisins í heild á fjármálamarkaði.



[18:21]Útbýting: