140. löggjafarþing — 120. fundur,  13. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[16:18]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Við ræðum frumvarp frá hv. velferðarnefnd sem lýtur að breytingum á lögum um húsnæðismál og varða að sjálfsögðu fyrst og fremst Íbúðalánasjóð eins og ágætlega hefur komið fram í þeirri umræðu sem um þetta mál hefur átt sér stað.

Með frumvarpinu er verið að bregðast við athugasemdum sem hafa komið fram í rannsókn sem Eftirlitsstofnun EFTA gerði á starfsemi Íbúðalánasjóðs og athugasemdirnar lúta að því að sjóðurinn njóti ríkisaðstoðar í formi eigendaábyrgðar, vaxtaniðurgreiðslna og undanþágu frá arðsemiskröfum og greiðslu tekjuskatts.

Þetta er í sjálfu sér ekki ný umræða um málefni Íbúðalánasjóðs og sjálfsagt löngu tímabært að ganga til þess verks að mæta þeim athugasemdum sem gerðar hafa verið í þessu máli í allnokkur ár. En ég held að maður geti fullyrt, ef maður dregur saman þá umræðu og þá gagnrýni sem fyrir liggur af hálfu minni hluta hv. velferðarnefndar, að ýmis atriði hefði þurft að ígrunda betur áður en þau væru sett í frumvarpsform. Ég tala nú ekki um að ganga svo langt að ætla Alþingi að samþykkja það frumvarp sem hér liggur fyrir.

Það kom ágætlega fram í ræðu hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur fyrr í dag, þar sem hún var að ræða frumvarpið sem liggur fyrir, að þetta hefði átt sér alllangan aðdraganda. Hún orðaði það svo að það væri allsérstakt að ekki væru stigin stærri skref í áttina að því að taka grundvallarumræðu um málefni Íbúðalánasjóðs. Hún hefur ekki verið ein um það, hv. þingmaður, að kalla þetta frumvarp bútasaum þar sem skammtímasjónarmið ráði fremur en langtímasjónarmið. Það kom raunar fram í andsvari hv. þm. Lúðvíks Geirssonar hér áðan við ræðu hv. þm. Tryggva Þórs Herbertssonar að ýmis atriði í þessu væru hugsuð til skemmri tíma og þætti engum skrýtið að svo væri.

Jafnframt hefur komið fram í þessari umræðu að nefndin hafi ekki gefið þessu mjög rúman tíma til úrvinnslu. Það þurfi kannski að svara á ýmsum sviðum þessa máls hvert beri að stefna með Íbúðalánasjóð, og ég tek alveg heils hugar undir það. Ég staldraði til dæmis sérstaklega við eina setningu í nefndaráliti meiri hluta velferðarnefndar sem lýtur að lánveitingum Íbúðalánasjóðs. Í kaflanum um þessar lánveitingar segir, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn telur þessar breytingar jákvæðar enda getur það vart talist í samræmi við hlutverk Íbúðalánasjóðs að lána til mjög verðmæts íbúðarhúsnæðis.“

Þetta er gildishlaðin setning. Hvað er verðmætt íbúðarhúsnæði? Verðmæti íbúðarhúsnæðis sveiflast töluvert eftir markaði hverju sinni. Eins og við þekkjum ágætlega, sá sem hér stendur og hv. þm. Lúðvík Geirsson, af reynslu okkar af störfum á sveitarstjórnarstiginu þá eru aðstæður sveitarfélaga og íbúðabyggðar um allt land ærið misjafnar og verðmæti fasteigna mjög misjafnt eftir landsvæðum. Það vekur því spurningar um nauðsyn þess að skilgreina hlutverk Íbúðalánasjóðsins betur en við sjáum gert í frumvarpinu sem hér liggur fyrir. Ég held að það sé alveg ljóst, bæði út frá orðum þeirra sem tala fyrir samþykkt frumvarpsins í nefndaráliti frá meiri hluta velferðarnefndar og eins út frá orðum stjórnarandstöðunnar í viðkomandi nefnd, að allnokkur þörf sé á því að fara yfir starfsemi Íbúðalánasjóðs, ekki síst að skoða lánveitingar hans með tilliti til einstakra svæða hér á landi.

Menn horfa þá oft og tíðum til þeirrar skiptingar sem er á milli svokallaðrar landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis. Í mínum huga, svo að það sé sagt, er höfuðborgarsvæðið líka landsbyggð. Ég hef sagt það áður og segi það enn að ég er að fara út á land þegar ég fer að heiman til Reykjavíkur. Ég tel að þetta tal um landsbyggðina og höfuðborgarsvæðið sé á margan hátt efniviður í ágreining á milli ólíkra hluta landsins. Við ættum að temja okkur að tala um landið sem eina heild þó svo að aðstæður fólks séu misjafnar, fólksfjöldi á þessum svæðum misjafn o.s.frv.

Ég vil því taka undir gagnrýni sem lýtur að því að æskilegt væri að leggja meiri vinnu í stefnumörkunina. Ég geri mér það fullljóst, ekki síst í ljósi ræðu hv. þm. Lúðvíks Geirssonar og einnig út frá nefndaráliti meiri hlutans, að tíminn til að vinna þetta var ærið knappur og þess vegna lítur þetta út eins og það gerir. Vilji manna stendur greinilega til þess að gefa þessu lengri og rýmri tíma og leggja þá niður betri og skilmerkilegri stefnumörkun fyrir Íbúðalánasjóð til lengri tíma. Ég tel mjög brýna þörf á því.

Það kom einnig fram í morgun í gagnrýni á frumvarpið að í 16. gr. væru ákvæði sem lúta að ákvörðun vaxtakjara í Íbúðalánasjóði. Þá held ég að ástæða væri til að nefna það að í greinargerð með frumvarpinu frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins er að sjálfsögðu gert ráð fyrir að fjárveitingavaldið sé hjá Alþingi og verði þar og að ekki sé verið að gera neinar breytingar á því. Það sé framkvæmdarvaldsins að vinna úr þeim fjárveitingum sem skammtaðar eru á fjárlögum hvers árs og ákveða þar með vaxtastigið sem um er rætt í 16. gr. frumvarpsins. Í mínum huga er enginn misskilningur varðandi þessa tvískiptingu valdsins.

Í greinargerðinni kemur fram að á fjárlögum eru á árunum 2012 um 118 millj. kr. vegna lánveitinga, meðal annars til sveitarfélaga, félaga og félagasamtaka sem gætu notið þeirra sérstöku vaxtakjara sem ákvörðuð væru af ríkisstjórninni hverju sinni vegna lána til leiguíbúða — eins og hér er ítrekað og maður treystir því einfaldlega að svo sé — að teknu tilliti til þeirra fjárveitinga sem til þess verks eru hverju sinni.

Stærsta einstaka málið í þessum efnum er í mínum huga það sem hlotið hefur allnokkra umræðu og lýtur að leiguíbúðahluta þessa máls. Eins og staðan er í málefnum Íbúðalánasjóðs þá átti hann í febrúar sl. 1.751 fasteign, að bókfærðu virði 22,5 milljarða kr. Af þeim íbúðastabba eru um 700 íbúðir í útleigu og þúsund eignir standa eftir margar hverjar auðar eða ófullgerðar. Að sjálfu leiðir að það er ekki arðbær fjárfesting að liggja með. Í frumvarpinu sem liggur fyrir er sú tillaga gerð að Íbúðalánasjóði verði heimilt að eiga og reka leigufélag um íbúðarhúsnæði sem sjóðurinn hefur yfirtekið á nauðungaruppboði. Þetta atriði tel ég mjög gagnrýnisvert í frumvarpinu. Mér finnst raunar meiri hluti velferðarnefndar og talsmaður hennar í þessu máli, hv. þm. Lúðvík Geirsson, taka undir þá gagnrýni þegar hann lýsir því yfir að þetta sé eingöngu hugsað til skamms tíma og algjörlega til bráðabirgða. Vilji manna stendur til þess að finna aðrar leiðir og eðlilega hlýtur að koma fram gagnrýni á það, þegar maður spyr hver staða þeirra mála sé, hvort við hefðum getað gefið okkur rýmri tíma til að vinna þennan stóra íbúðastabba betur en raun ber vitni um í því formi að setja hann inn í heimildarákvæði til Íbúðalánasjóðs um að stofna sérstakt félag sem óneitanlega yrði í þeirri sérkennilegu stöðu að vera í samkeppni um leigjendur við fyrirtæki eða félagasamtök sem starfa á sama markaði. Þetta er einhver blanda sem er ekki æskileg.

Það kom ágætlega fram í orðaskiptum hv. þm. Lúðvíks Geirssonar og Tryggva Þórs Herbertssonar áðan að aðrar lausnir eru mögulegar í þessu. Af orðum hv. þm. Lúðvíks Geirssonar má ráða að vilji stendur til þess að skoða þær lausnir og í því sambandi mælist ég til þess við hv. þingmann að menn einbeiti sér þá að því og einhendi sér í að skoða þetta hvort tveggja í samstarfi við fjármálastofnanir sem eru á margan hátt í sömu stöðu og Íbúðalánasjóður. Þær eru líka að eignast íbúðarhúsnæði á uppboði eða eftir öðrum leiðum þannig að þetta er á margan hátt sameiginlegt viðfangsefni.

Ég vil hins vegar leggja áherslu á að ég hef engan áhuga á því að leiguíbúðavæða íslenskan húsnæðismarkað. Ég held að menn þurfi aðeins að greina hann betur og reyna að leggja betur en við höfum gert mat á æskilega stærð hans. Við getum svo tekist á um það. Ég veit að hv. þingmaður hefur leitt ákveðna vinnu á vegum velferðarráðuneytisins í þessum efnum og þekkir þetta væntanlega mætavel. Í mínum huga væri mjög æskilegt að geta leitað leiða til að koma út í einkaeign íbúðum sem safnast hafa að Íbúðalánasjóði og öðrum fjármálastofnunum í kjölfar hrunsins og raunar fyrir hrun. Ég hef ekki síður fullan skilning á því að menn þurfi að koma þessu fyrir í leiguíbúðaformi.

Spurning vaknar við athugasemd fjárlagaskrifstofunnar með frumvarpinu sem er mjög ítarleg og góð. Þar eru dregnir fram sjö meginþættir við frumvarpið sem hér er til umfjöllunar. Sjöundi þátturinn lýtur að því að kveðið sé á um það að heimilt sé að veita sveitarfélögum, félögum og félagasamtökum sérstök vaxtakjör vegna lána til leiguíbúða. Þá spyr maður sig hvort ekki sé líka flötur á því, í stað þess að við horfum til þess að ríkið leggi til fé til vaxtaniðurgreiðslu eða að sveitarfélögin fari að efna til útboðs á lánsfé í tengslum við byggingar nýrra íbúða, að breyta hluta af þeim íbúðastabba sem hér liggur undir í leiguíbúðir á vegum sveitarfélaga. Þá geti menn líka leyft sér, við þá vinnu sem fram undan er við það að reyna að fá þetta húsnæði til að renta sig, að horfa fram hjá eða breyta núgildandi mörkum sem lúta að stærð eða öðru því um líku, hvort heldur um er að ræða íbúðir eða fjölskyldur. Ég held að það sé mjög mikils virði fyrir alla aðila að reyna að fá þá fjárfestingu sem í þessu liggur til að renta sig með einhverjum hætti.

Forseti. Síðasta athugasemdin sem ég geri hér varðar sjötta atriðið í umsögn fjárlagaskrifstofunnar og lýtur að breytingum á lánveitingum vegna leiguíbúða. Þar er gert ráð fyrir að lánveitingar verði heimilaðar til byggingar eða kaupa á leiguíbúðum til sveitarfélaga, félaga eða félagasamtaka. Þarna í frumvarpinu er sett sú takmörkun að þau félög sem starfa þarna undir séu ekki rekin í hagnaðarskyni og þessir aðilar hafi að langtímamarkmiði að byggja, eiga og hafa umsjón með rekstri leiguhúsnæðis. Ég held að í þessu sambandi sé vert að nefna það að gæta verður að því að þessi félagasamtök eða sveitarfélögin verða með einhverjum hætti að hafa einhvern hagnað af þessari starfsemi þótt ekki væri til annars en að greiða upp sinn hlut í þessu eða eiga möguleika á að fjárfesta frekar í húsnæði ef þörf er á.

Ég vil því draga það saman, forseti, í lok þessarar umfjöllunar minnar að sá þáttur sem lýtur að leigufélögunum í frumvarpinu krefst að mínu mati mestrar ígrundunar. Ég treysti því að hv. velferðarnefnd, viðkomandi ráðuneyti og þeir einstaklingar sem hafa verið í forsvari fyrir þessa vinnu einbeiti sér að því að finna viðunandi lausn á því máli nú þegar. Það tekur tíma að finna þá lausn en ég lít svo á að í orðum hv. þm. Lúðvíks Geirssonar felist viðurkenning á því að brýnt væri að vinna það verk.