139. löggjafarþing — 139. fundur
 1. júní 2011.
skýrsla fjármálaráðherra um endurreisn viðskiptabankanna, ein umræða.
skýrsla fjmrh., 694. mál. — Þskj. 1213.

[10:00]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Samkomulag náðist milli þingflokka um tilhögun umræðunnar. Andsvör verða leyfð í lok umræðunnar, einnig eftir samkomulagi.



[10:00]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka fyrir að þessi umræða skuli nú geta farið fram. Og ég leyfi mér að segja: Þó fyrr hefði verið. Auðvitað var miður að ekki tókst að hafa umræðu um skýrsluna strax eftir að hún kom fram, ég held að það hefði getað verið gagnlegt að menn hefðu getað skipst á skoðunum um hana strax í byrjun með málefnalegri umræðu á Alþingi, sem þetta vonandi verður.

Það er auðvitað kunnara en frá þurfi að segja að þegar stóru viðskiptabankarnir þrír féllu á Íslandi í október 2008 þá voru það stóratburðir og eins og allir vita er rækilega um það fjallað í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Þar er meðal annars rakið hið ævintýralega þensluskeið þessara banka sem segja má að hafi svo vakið heimsathygli. Það gekk í grófum dráttum þannig fyrir sig að frá og með þeim tíma að Landsbankinn og Búnaðarbankinn voru einkavæddir þróuðust þessir þrír viðskiptabankar úr því að vera um það bil tvöföld landsframleiðsla að stærð í tí- til tólffalda landsframleiðslu. Þessi gríðarlegi vöxtur, og það sérstaklega á hve skömmum tíma hann átti sér stað, er sennilega óþekktur í nokkurri annarri hagsögu.

Vandi stjórnvalda þegar þetta ofvaxna bankakerfi síðan hrundi var augljóslega mikill. Leiðin var mörkuð með neyðarlögunum þann 7. október 2009. Í neyðarlögunum eru Fjármálaeftirlitinu veittar áður algerlega óþekktar heimildir að íslenskum lögum til að yfirtaka fjármálafyrirtæki og ráðstafa eignum þeirra og skuldum eftir því sem nauðsyn krafði. Þar var og gengið frá því að innstæður hefðu forgangsrétt við slitameðferð og má segja að það sé hinn lagalegi grundvöllur aðgerðanna að mörgu leyti. Jafnframt höfðu stjórnvöld á þessum tíma og síðar ítrekað lýst því yfir að þau ábyrgðust allar innstæður. Loks fékk fjármálaráðherra í þessum lögum meðal annars heimild til að stofna ný fjármálafyrirtæki til að taka við innlánum og eignum úr þeim gömlu.

Þegar þessari viðamiklu aðgerð lauk, eða í þeim skilningi að samningar höfðu tekist á síðustu mánuðum ársins 2009, ákvað ég og gerði síðan opinbert að tekin yrði saman skýrsla um þessa aðgerð, enda eðlilegt og sjálfsagt jafnviðamikil og stór og afdrifarík og hún er, og þegar henni yrði lokið yrði gerð grein fyrir málinu opinberlega, Alþingi, almenningi og öllum viðkomandi.

Gerð skýrslunnar lauk í marsmánuði. Hún var kynnt ríkisstjórn 31. mars og samdægurs send Alþingi og lögð fram á vef þess. Ég vona að það sé í anda þeirrar opnu stjórnsýslu og þeirra vinnubragða sem við viljum temja okkur að upplýst sé með skilmerkilegum hætti um stórar aðgerðir og mikilvæga hluti af þessu tagi. Skýrslan er að mínu mati eins raunsönn og greinargóð skýrsla um þessa aðgerð og kostur er. Hún er samin með því hugarfari að vera fyrst og fremst upplýsandi gagn. Hún var ekki hugsuð sem málsvörn til eða frá. Hún er ekki pólitísk í eðli sínu heldur fyrst og fremst unnin af fagmönnum en auðvitað yfirfarin af mér og á mína ábyrgð. Þá var haft samráð við alla helstu málsaðila. Þeim gafst kostur á að koma með athugasemdir og var unnið úr þeim. Reynt var að vanda verkið eins og kostur væri þannig að bæði nýju bankarnir og þeir sem fara með málefni gömlu bankanna, Fjármálaeftirlitið, Seðlabankinn, efnahags- og viðskiptaráðuneytið og aðrir sem aðgerðinni tengdust, ættu kost á því að koma sínum sjónarmiðum að.

Ég mun nú, frú forseti, eftir því sem tíminn leyfir, reyna að bregðast við mörgum þeim helstu atriðum sem uppi hafa verið í umræðum um skýrsluna. Í fyrsta lagi ber að taka það fram að aðferðafræðin var skilgreind í neyðarlögunum. Það er í neyðarlögunum sem Fjármálaeftirlitið fær hinar víðtæku heimildir til að ráðstafa eignum bankanna eftir að þeir eru komnir í þrot. Ríkisstjórn á hverjum tíma, hvorki á haustmánuðum 2008 né síðar, hefur ekki slíkar heimildir. Það er grundvallarmisskilningur og á þeim misskilningi, að mér virðist, grundvallast ýmsar rangtúlkanir sem uppi hafa verið í umræðunni, menn ganga út frá því að heimildir séu hjá ríkisstjórn sem ekki eru það heldur hjá Fjármálaeftirliti. Það á því ekki við rök að styðjast að stefnubreyting hafi orðið af þeirra hálfu eða að hún hefði skipt máli sem slík.

Við ráðstöfun innlendra eigna og skulda til nýrra banka ákvað Fjármálaeftirlitið að fram færi eðli málsins samkvæmt óháð mat á mismun eigna og skulda og að nýr banki gæfi út skuldabréf til gamla bankans sem samsvaraði verðmæti yfirfærðra nettóeigna eða verðmæti eigna umfram skuldir. Ef það væri á hinn veginn gengi uppgjörið að sjálfsögðu í þá átt.

Í bréfi stjórnvalda til stjórnar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá 3. nóvember 2008, samanber breytingar á 9. tölulið yfirlýsingarinnar sem gerðar voru 15. nóvember 2008, lýsa íslensk stjórnvöld þeim atriðum sem lögð væru til grundvallar við mat fluttra eigna frá gömlu bönkunum til hinna nýju. Þar kemur fram að það sé lykilatriði í réttlátri meðferð gagnvart innstæðueigendum og kröfuhöfum á hendur yfirteknu bönkunum að nýju bankarnir greiði sannvirði fyrir þær eignir sem fluttar voru frá gömlu bönkunum. Stjórnvöld segjast þar hafa komið upp gagnsæju ferli þar sem tvö teymi sjálfstæðra endurskoðenda sjái um að meta sannvirði eigna. Almennt muni stjórnvöld tryggja að meðferð á innstæðueigendum og lánardrottnum sé sanngjörn, jöfn og án mismununar og í samræmi við lög. Nema hvað? Hér heita íslensk stjórnvöld því að þessi málsmeðferð uppfylli öll þessi skilyrði og eftir því hefur verið reynt að vinna síðan, enda væri annað ekki björgulegt og gæfulegt og stæðist ekki lengi fyrir dómstólum af menn vikju af leið í þeim efnum.

Til að framkvæma hið óháða mat var ráðið ráðgjafar- og endurskoðunarfyrirtækið Deloitte í Lundúnum og jafnframt ráðgjafarfyrirtækið Oliver Wyman til að taka út þá aðferðafræði sem beitt var við það. Þegar FME samdi við matsaðilana í desember 2008 var þegar orðið ljóst að matið yrði ekki einhver ákveðin tala heldur matsbil. Þar með var ljóst að FME mundi ekki geta notað hið óháða mat til að ákveða endanlega fjárhæð skuldabréfsins eða skuldabréfa milli bankanna og að setjast yrði að samningaborði til að komast að niðurstöðu um greiðslu nýs banka til hins gamla fyrir yfirfærðar nettóeignir. Ef samningar næðust ekki yrði þá FME væntanlega að ákveða greiðsluna upp á sitt eindæmi. Breytingar á endurgreiðsluáætluninni snerust eingöngu um þetta atriði og byggir á því, sem þegar var orðið ljóst í desember, að matið yrði ekki einhver ein tala heldur verðbil.

Hlutverk Fjármálaeftirlitsins samkvæmt neyðarlögunum var og er að ráðstafa eignum banka ef til slíks kemur. Samkvæmt neyðarlögunum er það Fjármálaeftirlitið sem er hið óháða stjórnvald sem hafði heimild til að ráðstafa eignum bankanna, ekki stjórnvöld. Með hliðsjón af eignarréttarákvæðum stjórnarskrár var nauðsynlegt að sjá til þess, eðli málsins samkvæmt, að sanngjarnt gjald kæmi fyrir slíka eignayfirfærslu, óháð því hver aðilinn var sem yfirfært var frá, t.d. hvort aðilinn var innlendur eða erlendur. Þetta hljóta allir hv. alþingismenn að sjá.

Hliðstætt dæmi getum við kallað eignarnám þar sem greiða verður fyrir eignir sem yfirteknar eru samkvæmt óháðu mati en ekki samkvæmt einhliða ákvörðun þess sem tekur eignina yfir til sín. Eða dettur einhverjum í hug að það fengi staðist að menn stæðu þannig að verki að þeir tækju einhliða yfir eignir og ákvæðu sjálfir verðið á þeim? Nei, þá verðum við að minnsta kosti að afnema stjórnarskrána fyrst.

Vangaveltur um að sú ríkisstjórn sem sat út janúar 2009 hafi verið með áætlanir um 60–70% afslátt af lánasöfnum sem hafi átt að ganga til einstaklinga og fyrirtækja eru því algerlega úr lausu lofti gripnar. Í öllu falli hafði sú ríkisstjórn engar heimildir til slíkra aðgerða og slíkt hefði aldrei staðist eins og það sem ég hef á undan sagt sýnir fram á. Í bráðabirgðastofnefnahagsreikningum, sem Fjármálaeftirlitið birti 14. nóvember 2008, var talið að verðmæti yfirfærðra eigna viðskiptabankanna væri 2.886 milljarðar kr. Í verðmati Deloitte, sem birt var í apríl 2009, var verðbilið 1.880–2.200 milljarðar kr. Það verðmæti sem samið var um að lokum, á síðari hluta ársins 2009, var 1.760 milljarðar sem svarar um 56% af fyrra eignarmati. Hugmyndir um verðmæti eignanna virðast því hafa verið hærri á síðari hluta ársins 2008 en samið var um að lokum. Ég vek athygli manna á þessari tölu, að niðurstaðan í samningunum síðla árs 2009 er neðan við neðri mörk verðbilsins sem Deloitte gaf út í apríl 2009.

Þessi útfærsla samninganna tryggir óumræðanlega stöðu ríkissjóðs og allra aðila með sanngjörnum hætti. Fyrir nýju bankana og ríkissjóð var mikilvægt að semja um lágt mat á yfirfærðum eignum til að tryggja rekstur bankanna. Til að ná því markmiði var jafnframt samið um að gömlu bankarnir hefðu þann valkost að yfirtaka eignarhlut í bönkunum, eins og það endaði með Arion banka og Íslandsbanka, eða að um skilyrt uppgjörsbréf yrði að ræða ef eignirnar reyndust verðmætari en samið var um, samanber Landsbankann. Þess var gætt að hin skilyrta aukning næði aldrei til lána einstaklinga heldur einungis til fyrirtækja þar sem ágreiningur var mikill um rétt verðmat. Ef menn hefðu bara haft þessa staðreynd í huga hefði umræðan getað orðið öðruvísi undanfarnar vikur, að eignir einstaklinga voru og eru ekki þarna undir gagnvart hinu skilyrta bréfi og uppgjörinu þar.

Það er rétt að taka fram að það hefði aldrei samist um hið lága verðmat án nefndra valkosta um annaðhvort eignarhald eða skilyrt upphafsbréf, að sjálfsögðu ekki. Það var grundvöllur þess að samkomulagið tókst þó og dróst ekki að þessi tæki voru útbúin til að klára málið. Líklegast er að yfir höfuð hefði ekki náðst neitt samkomulag án þessara valkosta. Hvar hefðum við þá verið stödd? Án samkomulags, eins og ég segi, hefði Fjármálaeftirlitið mjög líklega ekki átt annan valkost en að taka miðgildi verðmats hins óháða aðila. Hvað hefði það þýtt? 280 milljörðum kr. hærri fjárhæð fyrir nýju bankana en hið umsamda verðmat. Hinu lága verðmati er meðal annars ætlað að tryggja arðsemi ríkissjóðs af hlutafjárframlögum sínum og örugga tryggingu fyrir endurgreiðslu víkjandi lána með auknu eigin fé og styrk bankanna.

Þessir samningar voru staðfestir af Alþingi í desember 2009. Að athuguðu máli töldum við í fjármálaráðuneytinu þörf á því að lögfesta skýra og afdráttarlausa heimild fyrir fjármálaráðherra, til viðbótar heimildum neyðarlaganna, til að staðfesta breytingar á eignarhlutum ríkisins í Íslandsbanka hf., Arion banka hf. og NBI hf. við skilanefndir Glitnis, Kaupþings og Landsbanka Íslands. Þetta var gert. Í þessu frumvarpi var mælt fyrir um staðfestingu á þeim ráðstöfunum sem leiddu af samningum fjármálaráðuneytisins fyrir hönd ríkissjóðs og þessara aðila um endurfjármögnun og uppgjör og snerta eignarhald ríkisins í hinum nýju bönkum. Í umræðum á þingi upplýsti ég mjög nákvæmlega um þessa aðkomu ríkisins að málinu í formi hlutafjárframlaga og víkjandi skuldabréfa. Það er því undarlegt að menn telji þær upplýsingar nýjar af nálinni sem hér lágu fyrir og var mælt sérstaklega fyrir og voru útskýrðar á Alþingi þarna í desembermánuði. Frumvarpið var samþykkt á Alþingi eftir skammar umræður með fjórum mótatkvæðum þannig að ekki var annað ráðið af viðtökum Alþingis á þessum tíma en menn teldu að aðgerðin hefði gengið vel.

Menn hafa rætt mikið um afskriftir lána í tengslum við þessa aðgerð og þá hvort möguleikar hafi verið til að auka sérstaklega svigrúm bankanna til afskrifta lána í gegnum þessa samninga. Þá vísa ég til alls þess sem áður hefur verið sagt um þau skilyrði sem svona aðgerð verður að uppfylla og standast til að hún hrynji ekki um sjálfa sig. Veruleikinn er sá að þeir afskriftasjóðir sem nýju bankarnir fengu til sín munu í meginatriðum ganga til viðskiptavina bankanna. Staðan mun reyndar nú þegar stefna í að verða þannig að viðskiptabankarnir munu veita einstaklingum meiri afslátt af lánum þeirra en samið var um við yfirfærsluna. En aukin verðmæti fyrirtækjalána munu bera það uppi. Dæmi um slík fyrirtækjalán eru lán til útflutningsfyrirtækja sem ganga betur eftir gengisfellingu krónunnar. Slík þróun getur orðið til þess að minnka má viðkomandi afskriftasjóði en hingað til hefur verið um mjög takmarkaðar fjárhæðir að ræða miðað við heildarstærð þeirra.

Því hefur verið haldið fram að þar sem erlendir kröfuhafar séu eigendur tveggja banka muni þeir ganga harðar að viðskiptamönnum sínum og jafnvel setja þá í þrot. Staðreyndin er sú að erlendir kröfuhafar sem slíkir koma ekki nálægt nýju bönkunum því að eignarhald þeirra, óbeint, fer í fyrsta lagi í gegnum hendur skilanefndar og slitastjórna sem aftur eiga að setja stjórnarmenn í sjálfstætt eignarhaldsfélag og þar eru eldveggir á milli og meiri hluti stjórnar þeirra félaga skulu koma úr öðrum áttum en frá hagsmunaaðilum, skilanefndum og kröfuhöfum. Gömlu bankarnir munu væntanlega, eða skilanefndirnar fyrir þeirra hönd, selja hluti sína í bönkunum innan fárra ára og aldrei mun koma til þess að einstakir kröfuhafar leysi til sín þá hluti. Það er langlíklegasta þróunin og að því er unnið. Skiptir þá ekki máli að byggja upp traustan og seljanlegan banka og gera menn það nema með góðum viðskiptamannahópi? Nei, væntanlega ekki. Eina leiðin til að tryggja verðmæti þessara hluta er að bankarnir gangi vel, að þeir hafi trausta viðskiptamenn og að þeir séu seljanleg eining í góðum rekstri. Og að ganga of hart að viðskiptavinum og hrekja þá burtu væri ekki aðferð til að hámarka þessi verðmæti.

Þessi frágangur mála er ósambærilegur því að viðkomandi kröfuhafar hefðu beinan aðgang að þeim sem þeim skuldaði en það er ekki í þessu tilviki. Skuldaaðlögunin er síðan á grundvelli laga sem sett hafa verið á Alþingi og á grundvelli samkomulags milli banka, lífeyrissjóða og stjórnvalda og lúta þeim reglum sem þessir bankar eins og aðrir eru bundnir af.

Varðandi matsforsendur, og hvernig verðmæti breytast með tímanum, er rétt að menn hafi í huga að þar geta komið fram verðmætabreytingar á marga fleiri vegu en þann einan að lánasöfnin hafi reynst vanmetin. Sem dæmi má nefna, og það er mikilvægt að menn hafi það í huga, að bankarnir gera að sjálfsögðu upp á grundvelli alþjóðlegra reikningsskilareglna og hið óháða mat var sömuleiðis gert á grundvelli núvirðisaðferða, íslensku bankarnir eru gerðir upp á sama hátt. Það felur meðal annars í sér að lán eru verðmetin á grundvelli framtíðarsjóðsflæðis lánsins og ekki höfuðstóls þess eins og það stendur á uppgjörsdegi. Það þýðir að þessar framtíðargreiðslur eru síðan færðar til uppgjörsdags með vöxtum sem taka mið af markaði; greiðslur eru með öðrum orðum núvirtar. Þegar vextir lækka, eins og gerst hefur á Íslandi síðan haustið 2008, hækkar því að öðru óbreyttu verðmæti lánsins í bókum bankans. Hið sama á raunar við um aðrar eignir með framtíðartekjur, eins og t.d. fasteignir og hlutabréf. Almennt séð skapar vaxtalækkun því betri rekstrarskilyrði fyrir banka, bæði með verðmætaaukningu eigna en ekki síður með lækkun innlánsvaxta. Þannig verða breytingarnar í umhverfinu sem áhrif hafa á verðmæti lánasafnanna og mönnum hefur að miklu leyti yfirsést þetta í umræðum að undanförnu.

Það var samdóma álit þeirra sem mest komu við sögu í þessum aðgerðum, þ.e. Fjármálaeftirlitsins, Seðlabankans, fjármálaráðuneytis, efnahags- og viðskiptaráðuneytis og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, að það væri ákjósanlegt, og það drægi úr áhættu bæði fyrir ríkið og fjármálakerfið, að aðrir en ríkið ættu einhvern hluta bankakerfisins. Þetta var meðal annars stutt af Samtökum atvinnulífsins og, ef ég man rétt, af mörgum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins sem fögnuðu því sérstaklega að niðurstaðan varð á þessa vegu. Enda þótti mér það merkilegt í gær — ef ráða mátti af framgöngu sumra þingmanna Sjálfstæðisflokksins, að ekki sé talað um aðila úti í bæ — að það væri orðin stefna Sjálfstæðisflokksins að ríkið hefði átt að eiga bankakerfið allt. Er það orðið svo? Er það þá orðið þannig að menn hafi algerlega skipt um skoðun frá því sem var þegar þessi niðurstaða náðist? Á þeim tíma voru allir sammála um að þetta væri góður kostur og dreifði áhættunni (Gripið fram í.) af þeirri ástæðu að þetta þýddi að ríkissjóður þurfti ekki að skuldsetja sig sjálfur til hins ýtrasta. Höfðu menn meðal annars í huga að þá hefði hann fremur bolmagn til þess, ef á þyrfti að halda, að mæta frekari áföllum sem kynnu að verða í fjármálakerfinu. Það var að sjálfsögðu enginn þrýstingur á Fjármálaeftirlitið eða aðra aðila í þessum efnum. Menn voru einfaldlega sammála um að þetta væri heppilegasta lausnin.

Gömlu bankarnir eru að sjálfsögðu þrotabú og þar með varð að finna brúklega lausn á fyrirkomulagi þessa eignarhalds. Það útfærði Fjármálaeftirlitið og samþykkti að lokum. Í heildina urðu hlutafjárframlög til gömlu bankanna 135 milljarðar kr., þ.e. hlutafjárframlög gömlu bankanna til hinna nýju og skuldsetning ríkisins beint lægri sem því nemur af þeim sökum. Alls nemur eiginfjárframlag ríkisins til bankanna 135 milljörðum kr. Upphaflega var gert ráð fyrir að það gæti farið í 385 milljarða og það er því 250 milljörðum kr. lægri fjárhæð í beinu eigin fé. Auk þess veitti ríkið tveimur bönkum víkjandi lán, þ.e. Arion banka 32 milljarða og Íslandsbanka 25 milljarða, til að þeir gætu uppfyllt skilyrði Fjármálaeftirlitsins um 16% eiginfjárhlutfall; það var auðvitað mikilvægt að það náðist sömuleiðis fram í þessari aðgerð að bankarnir lögðu af stað mjög sterkt fjármagnaðir og hafa reyndar enn styrkt stöðu sína síðan lagt var upp. Þessi víkjandi lán skila ríkinu vaxtatekjum. Þau eru ekki baggi á ríkinu, þau skila vaxtatekjum og hljóta að teljast mjög vel tryggð í ljósi sterkrar eiginfjárstöðu bankanna. Samtals nemur því fjárbinding ríkissjóð vegna endurreisnar viðskiptabankanna þriggja 190 milljörðum. Það er staðreyndin. Menn hafa síðan blandað ýmsu öðru inn í þessa tölu sem hefur ekkert með samninga gömlu og nýju bankanna að gera, þ.e. hlutum sem urðu vegna áfalla annars staðar í fjármálakerfinu og hafa í för með sér skuldbindingar fyrir ríkið eða ábyrgðir vegna þess að menn gáfu út allsherjarábyrgð á innstæðum í landinu. (Gripið fram í.) Hverjir gerðu það? Fyrst gerði það ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. (Gripið fram í.) Hún hefur síðan verið ítrekuð, já, að sjálfsögðu enda væri ekki gæfulegt að snúa við í miðri á í þeim efnum með tóman innstæðutryggingarsjóð o.s.frv.

Fyrir fall bankanna haustið 2008 hafði Seðlabankinn veitt þeim gríðarlega lausafjárfyrirgreiðslu sem allir vita hvernig endaði. Þar af leiðandi átti Seðlabankinn gríðarlegar kröfur á þrotabúin og mikið af þeim kröfum hefur þegar verið afskrifað. Hluti af fyrirgreiðslunni var gegn veði í útlánum Glitnis og Kaupþings, aðallega húsnæðislánum. Í stað þess að taka lánin til sín og innheimta þau náðist samkomulag um að þau væru færð frá Seðlabankanum og inn í hina nýju banka, en á móti gæfu bankarnir út skuldabréf til Seðlabankans um veð í yfirfærðu lánunum. Skuld Arion banka er í mörgum myntum og færir Seðlabankanum gjaldeyristekjur. Umsamið verðmæti lánanna var samtals 116,9 milljarðar kr. Um var að ræða skynsamlega lausn á vandamáli sem skapaðist við fall gömlu bankanna og er algerlega óháð eignarhaldi á nýju bönkunum.

Í samræmi við hlutverk sitt veitir Seðlabanki Íslands bönkum lausafjárfyrirgreiðslu. Til að koma í veg fyrir að hlutir endurtaki sig, eins og þeir sem gerðust 2008, samþykkir Seðlabankinn nú eingöngu ríkistryggð skuldabréf sem tryggingu fyrir slíkri lausafjárniðurgreiðslu, og hefði betur verið gert fyrr. Samhliða gerir Fjármálaeftirlitið kröfur um 20% lausafjárhlutfall, það er að laust fé í bönkunum nemi að lágmarki 20% af innlánum. Við yfirfærslu á lánum SPRON til Arion banka og Straums, og til að tryggja innstæður eigenda, og þeim aðgang að þeim, hafa bankarnir, til að verja sig fyrir mögulegu útstreymi, fengið lausafjárfyrirgreiðslu á móti. Þetta fyrirkomulag tengist falli SPRON og Straums og er óháð endurreisn viðskiptabankanna þriggja svo að reynt sé að fara yfir nokkur af þeim atriðum sem grautað hefur verið saman við þessa umræðu. Ég mæli með því. Þessi skýrsla er í grunninn um endurreisn viðskiptabankanna þriggja, það gríðarlega stóra, flókna og viðamikla ferli.

Það eru margir aðrir atburðir til hliðar úti í fjármálakerfinu sem full ástæða er til að fara yfir og kannski þarf þrjár skýrslur um þetta að lokum, skýrslu nr. 2, um endurreisn sparisjóðanna þegar hún verður öll um garð gengin, og skýrslu nr. 3, um það sem þá stendur út af í fjármálakerfinu. Það stendur ekki á mér að upplýsa Alþingi um það eftir því sem það heyrir til mín og/eða væntanlega efnahags- og viðskiptaráðherra, eftir því sem það væri á hans könnu, sérstaklega ekki í ljósi þess hversu góðar viðtökur þessi skýrsla hefur fengið og hversu þakklátt Alþingi hefur verið mér fyrir að láta taka hana saman og hversu menn hafa vandað sig við að vitna rétt og nákvæmlega í hana.

Það má beita mörgum aðferðum til að reyna að meta útkomuna fyrir ríkið í þessari aðgerð og aðkomu þrotabúa gömlu bankanna að fjármögnun þeirra nýju. Eins og ég sagði gerði upphaflega áætlun ráð fyrir hlutafjárframlögum til bankanna sem hljóðuðu upp á 385 milljarða kr. Heildarfjárhæðirnar sem fóru í endurreisn bankanna eru ekkert langt frá þeirri tölu þegar allt er talið sem ríkið og skilanefndirnar leggja af mörkum, það er rétt. Sumir hafa misskilið það sem stendur í skýrslunni um það á þann veg að þar með þýði þetta að aðgerðin hafi ekki komið betur út fyrir ríkið en þar er verið að vísa til heildarfjármunanna og trygginganna sem lagðar eru af mörkum og af þeim kemur stór hluti frá öðrum en ríkinu. Ef við tökum þetta, bein eiginfjárframlög upp á 135 milljarða kr. auk 55 milljarða kr. víkjandi lána, þá munar eftir atvikum hvort menn vilja taka 250 milljörðum eða 195 milljörðum yfir það sem ríkissjóður hafi þurft að leggja minna af mörkum miðað við að hann hefði staðið einn að fjármögnun bankanna. Þetta eru staðreyndir og það munar um minna en vextina af þessu. Niðurstaðan er mjög hagstæð fyrir ríkissjóð hvernig sem reiknað er og hefur þegar, frú forseti, leitt til minni vaxtagreiðslna svo að munar tugum milljarða kr. Það er veruleiki. Það þýðir ekki að afneita slíkum staðreyndum. Þær blasa við og liggja á borðinu. Það hefur munað um það í glímunni við hallarekstur ríkissjóðs að þurfa ekki að bókfæra tugmilljarða vaxtakostnað sem annars væri þegar áfallinn vegna áranna 2009 og 2010.

Að lokum verð ég að segja, frú forseti, að mér finnst það mikill ábyrgðarhlutur, sem því miður hefur hent suma í þessari umræðu undanfarnar vikur, að halda því að almenningi að í gegnum þessa aðgerð og uppgjör milli gömlu og nýju bankanna — sem var sett í þann farveg sem ég fór rækilega yfir í byrjun, og sem alltaf hlaut að þurfa að lúta þeim lögmálum sem við eiga, alltaf hlaut að þurfa að standast þær kröfur að vera í samræmi við stjórnarskrá og lög og gæta jafnræðis og með eðlilegum hætti finna uppgjör þarna á milli — hafi stjórnvöld, ríkisstjórn eða ríkisstjórnir, getað fært til fjármuni sérstaklega, sértækt, til að leggja í sjóð til afskrifta á lánum. Það vald var í fyrsta lagi aldrei í höndum ríkisstjórna, það var ekki þar, það var hjá Fjármálaeftirlitinu og í öðru lagi hefði slík aðgerð aldrei haldið vatni fyrir dómi.

Ég bið menn að hugleiða að lokum hversu mikið var undir að þessi aðgerð gæti gengið í gegn og klárast, að hættum á langvinnum töfum og málaferlum væri bægt frá, að nýju bankarnir kæmust af stað fullfjármagnaðir og gætu farið að sinna hlutverki sínu; allt þetta skipti sköpum við að komast áfram við endurreisn hagkerfisins. Þetta ræddum við á árinu 2009 og þá vorum við gagnrýnd fyrir tafir, að þetta gengi of hægt, var það ekki? En nú finnst mér menn vera að segja að við hefðum þess vegna getað látið þetta vera á hliðinni og liggja flatt í málaferlum árum saman og það hefði ekkert gert til. Hvers konar málflutningur er þetta? Þetta var gríðarlega stór, flókin, viðamikil og dýr aðgerð. Ég hef aldrei á ævinni séð aðra eins reikninga og lögfræðikostnaðinn í þessum aðgerðum sem þetta kerfi að vísu, eðlilega og sem betur fer, varð að bera sjálft.

Þarna var verið að takast á um hvað? Hvað var verið að gera uppi á litla Íslandi 2009? Það var verið að byrja að vinna úr fjórða og mér er sagt níunda og tíunda stærsta gjaldþroti veraldarsögunnar. Kaupþing er talið vera fjórða stærsta gjaldþrot í heimi. Að uppistöðu til voru lögfræðingarnir sem að þessu unnu að koma að stærsta máli á sínum ferli báðum megin borðsins. Að lokum tókst þessi aðgerð vel. Hún var leidd heil í höfn með farsælum hætti fyrir íslenska ríkið og fyrir íslenskt hagkerfi. Hún stenst skoðun og ég er ófeiminn við það að hún sé rýnd, hvort sem það er í gegnum þessa skýrslu eða aðgerðina sem slíka að öðru leyti. Ég tel að það hafi meira og minna verið unnið þrekvirki við að koma þessu óhemjuflókna og erfiða verkefni þó í höfn á ekki lengri tíma en rétt um einu ári.



[10:31]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Við erum hér í umræðu um skýrslu sem búið er að semja um. (Gripið fram í: Má ég gera athugasemd …?) Allir þingflokkar tóku þátt í að semja um umræðuna og forseti biðst undan því að hún verði brotin upp með umræðum um fundarstjórn. (ÞSa: Það er skammarlegt hvernig þessi umræða fer fram, forseti. Ég tel að við eigum að ræða það.)

Það var samkomulag við þingflokksformenn um hvernig umræðan ætti að fara fram. Hún fer fram samkvæmt því samkomulagi. (Gripið fram í.) Hv. þingmaður hefur sinn hluta af umræðunni.



[10:31]
Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Það er skiljanlegt að hæstv. fjármálaráðherra vilji hafa umræðuna um þessa skýrslu á dálítið tæknilegum nótum. Við verðum að fara ofan í efni máls og við þurfum að skoða þann veruleika sem við okkur blasir eftir að ríkisstjórnin hefur lagt sitt af mörkum við endurreisn bankakerfisins. Veruleikinn sem við okkur blasir er sá að þeir sem fá að soga til sín hagvöxtinn sem hæstv. forsætisráðherra hefur áhyggjur af eru kröfuhafarnir. Niðurstaða ríkisstjórnarinnar er að búa þannig um hnútana í samskiptum við eigendur gömlu bankanna að allur mögulegur ávinningur sem hlýst af starfsemi nýju bankanna rennur meira eða minna óskiptur inn í gömlu þrotabúin. Þetta er kjarni málsins.

Það er líka kjarni máls í þessari umræðu að spyrja sig: Hvernig hefur bönkunum gengið, þeim nýju, þeim endurreistu, að sinna hlutverki sínu gagnvart heimilunum í landinu? Og hvernig hefur þeim gengið að vinna að því mikilvæga hlutverki að endurskipuleggja skuldir fyrirtækjanna í landinu?

Hér er nærtækt að rifja eitt og annað upp frá þeim tíma sem liðinn er frá því að ríkisstjórnin tók við. Eitt er til dæmis það að ríkisstjórnin sagði í stjórnarsáttmálanum frá vormánuðum ársins 2009 — 2009, takið eftir því — að í september skyldi vera komin heildarlausn fyrir fyrirtækin í landinu. Það var 2009. Núna er árið 2011. Er komið inn á það í ræðu hæstv. fjármálaráðherra hvers vegna hefur gengið svo illa við endurreisn bankanna að koma til móts við þarfir fyrirtækjanna? Nei, það er látið hjá líða. Það er farið ofan í tæknileg atriði um verðmat á eignasöfnum og annað þess háttar.

Það sem langmestu máli skiptir er að ræða hér um kostnað ríkisins af þessum aðgerðum. Hvaða árangri hefur sú stefnubreyting sem hér var lýst skilað fyrir ríkissjóð, heimilin og fyrirtækin? Hvers konar banka erum við með í dag? Vitum við hverjir eiga þá? Nei, við vitum það ekki. Er kominn skýr eigendastrúktúr á nýja bankakerfið? Nei, því var fórnað með sérstakri ákvörðun sem hér er búið að fara yfir. Því var fórnað. Hvað fékkst í staðinn? Ja, af máli hæstv. ráðherra fékkst í staðinn einhvers konar vissa fyrir því að við værum ekki að fremja lögbrot. En í allri þeirri umræðu virðist sem ráðherrann hafi mestar áhyggjur af því að túlka öll lög og allar reglur sem um þessi efni gilda kröfuhöfunum í vil.

Við skulum hafa í huga hér þegar við ræðum um kröfuhafana, þegar við ræðum um eigendur gömlu bankanna, að um það bil helmingur þeirra sem áttu kröfur á þrotabúin við hrunið á þessum viðkvæma tíma er horfinn á braut, búinn að selja frá sér sínar kröfur. Það eru aðrir komnir í staðinn. Hverjir eru þeir? Við getum kallað þá hrægamma eða við getum kallað þá hákarla. Þetta eru alþjóðlegir viðskiptamenn sem sækjast eftir kröfum sem þeir vonast til að hækki í verði eftir að þeir hafa keypt þær. Á hverju byggir sú von í tilfelli kröfunnar á íslenskan banka, íslenskt þrotabú? Það byggir meðal annars á þeim samningum sem ríkisstjórnin gerði og eru til grundvallar þessari skýrslu, þ.e. liggja til grundvallar samskiptum gömlu og nýju bankanna.

Ég verð að segja fyrir mitt leyti að það er algerlega ótrúlegt að hlusta á hæstv. fjármálaráðherra vísa til þess sér til afsökunar að þær heimildir sem hér hafa verið virkjaðar, þær heimildir sem Fjármálaeftirlitið hefur virkjað, hvíli hjá því einu en ekki hjá ríkisstjórninni, ríkisstjórnin sé einhvers konar einangrað fyrirbæri frá eftirlitsstofnununum. Ríkisstjórnin er eitt, Fjármálaeftirlitið eitthvað allt annað. Þetta er það sem hæstv. fjármálaráðherra hefur sagt hér áður og sagði aftur í dag.

Þetta var dálítið öðruvísi þegar hæstv. fjármálaráðherra og margir aðrir í þessum sal í stjórnarliðinu vildu ákæra fyrrverandi forsætisráðherra. Þá var þetta talsvert öðruvísi. Þá átti hann að svara til saka fyrir að hafa ekki flutt Icesave-reikninga Landsbankans yfir í dótturfélag. Eigum við að ræða það, hæstv. fjármálaráðherra, hvort það er mál sem hvílir hjá Fjármálaeftirlitinu eða ríkisstjórninni? Hvers konar málflutningur er þetta? Hvers konar flótti frá ábyrgð birtist í þessum orðum? Auðvitað stenst þetta enga skoðun.

Ég rakti það í upphafi máls míns að það skiptir máli að leggja mat á það hvernig nýja bankakerfið sinnir því grundvallarhlutverki sínu að koma til móts við heimilin og fyrirtækin. Nú höfum við hér nýtt innlegg í það mál. Við höfum hér skýrslu Seðlabanka Íslands frá því í gær, hún er ekki eldri en það, um fjármálastöðugleikann. Hvað kemur þar fram? Þar kemur fram að stór hluti tekna viðskiptabankanna er tilkominn vegna endurmats á eignasafninu. Ég leyfi mér að lesa upp úr frétt í Morgunblaðinu, með leyfi forseta: (Gripið fram í: Ertu viss um að það sé …?)

„Stór hluti tekna viðskiptabankanna í fyrra er tilkominn vegna uppfærslu á virði útlána og á sama tíma hefur endurskipulagning útlána gengið hægt fyrir sig, meðal annars vegna óvissu um aðgerðir yfirvalda og um lögmæti lánasamninga. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu Seðlabankans …“

Hér segir jafnframt „að þar sem útlán stóru viðskiptabankanna voru færð til þeirra frá gömlu bönkunum með ríflegum afslætti þá hafi þeir enn töluvert svigrúm til endurskipulagningar útlána. Þrátt fyrir þetta telur Seðlabankinn að endurskipulagning útlána hafi gengið hægt fyrir sig“.

Það segir í þessari skýrslu að Fjármálaeftirlitið hafi á sínum tíma vakið athygli stjórnvalda á því að það væri hætta á því að einmitt þetta mundi gerast, að hagsmunir bankanna færu ekki saman með almannahagsmunum þannig að bankarnir mundu nota tímann, nota hvert tækifæri, nota hverja glufu, til að láta virði eignasafnsins ná hámarki áður en þeir hyrfu á braut. Hvers vegna hafði Fjármálaeftirlitið áhyggjur af þessu? Jú, vegna þess að með vaxandi hagvexti á Íslandi eftir hrunið var nokkuð fyrirsjáanlegt, eins og gerist alls staðar, að smám saman mundi eignasafnið endurheimta fyrri stöðu sína, a.m.k. bæta talsvert miklu við sig.

Þarna liggur kjarni þessa máls. Hann liggur í því að það er horfið frá þeirri aðferðafræði að fá hlutlausan aðila til að meta eignasafnið, taka síðan ákvörðun um að færa það yfir á þessu verði og setja nýja bankakerfið af stað með fast land undir fótum, eða fara þá leið sem ríkisstjórnin hefur hér gert, að vera með ógegnsæja samninga sem við höfum aldrei rætt í þaula hér í þinginu. Samkvæmt því sem segir í þessari skýrslu munu þeir tryggja gömlu bönkunum meira eða minna allan ávinning af þeim hagvexti sem hér verður.

Þess vegna segi ég: Það er búið að finna þá sem fá að soga til sín hagvöxtinn á Íslandi. Hagkerfi Íslands dróst saman og hagvöxturinn féll. Þegar við erum hérna niðri á botninum, þegar heimilin og fyrirtækin í landinu eru í kröggum, er gerður samningur við gömlu bankana um að taki landið að rísa muni ávinningurinn skila sér til þeirra. Þetta er vandamálið og það er þetta sem veldur því að nú tveimur og hálfu ári eftir hrunið bendir Seðlabankinn á hversu hátt hlutfall lána er enn í vanskilum og hversu illa bankarnir hafa skilað til fyrirtækjanna og til landsmanna því svigrúmi sem þeir hafa haft. Ríkisstjórnin verður að horfast í augu við það að við erum núna á miðju kjörtímabili og það eru enn málefni dagsins í dag hvernig eigi að reikna útlán. Seðlabankinn sagði í gær að það væri mikil óvissa um aðgerðir stjórnvalda. Fólkið í þessu landi er enn að bíða eftir dómum. Tillögu hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar um að þessi efni fengju flýtimeðferð í dómstólunum var hafnað af ríkisstjórninni. (Gripið fram í.) Henni var hafnað. Við lögðum til fyrir rúmu ári, bráðum tveimur árum, að þessi mál fengju flýtimeðferð fyrir dómstólunum. Því var hafnað. (Gripið fram í.) Við erum enn á þessum fasta stað.

Varðandi kostnað ríkisins finnst mér hæstv. fjármálaráðherra dálítið hlaupa í kringum málið eins og köttur í kringum heitan graut. Það er ekki bæði hægt að segja að hlutafjárframlag ríkisins myndi eign og feli í sér gríðarlega mikinn kostnað, en að annað framlag sé einungis kostnaður en myndi ekki neina eign. Staðreynd málsins er sú að með gríðarlega mikilli lausafjárfyrirgreiðslu ríkisins til bankanna og Seðlabankans til bankanna langt umfram það sem hefðbundið er hefur til dæmis peningamagn í umferð verið stóraukið sem setur þrýsting á gjaldmiðilinn, setur þrýsting á verðbólguna og hækkar verðlag í landinu sem kemur sér illa fyrir skuldara. Fyrir lántakendur. Þetta er önnur hlið málsins. Hin er auðvitað líka mjög mikilvæg, að fjármálaráðherra hefur lýst því yfir ítrekað í þinginu og annars staðar að þessi aðferð hafi kostað ríkið svo miklu minna, en staðreynd málsins er sú að það er ekki þannig.

Meira að segja er það orðað svo í skýrslunni að það muni nánast engu, það sé einungis 40 milljarða munur af þessari nokkurra hundruða milljarða fjárhæð. (Gripið fram í.) Skýrslan ber það sjálf með sér að þessi málflutningur stenst ekki þá skoðun að ríkið hafi sparað eitthvað sérstaklega á þessari aðferðafræði.

Mig langar að ræða stuttlega líka um það hvort við höfum verið í einhverjum sérstökum erfiðleikum með að láta matsvirði þessara hlutlausu aðila gilda í viðskiptum við gömlu bankana. Við settum lög, við veittum Fjármálaeftirlitinu heimild til að færa eignasöfnin á milli. Síðan er fenginn þriðji aðili til að leggja mat á virði eignanna. Það er inni á einhverju bili, en þýðir það að við séum nauðbeygð til þess að semja um það sem hentar kröfuhöfunum betur? Ég segi ekki. Ég segi að það sé ekki þannig. Ég segi að það séu einmitt hagsmunir almennings í þessu landi að við fáum sem allra besta niðurstöðu út úr þeim samningum. Þá þarf ekki að miða við eitthvert miðgildi eins og hæstv. ráðherra gerir ráð fyrir. Það þarf bara að fá niðurstöðu sem þjónar almannahagsmunum best.

Niðurstaðan sem valin var skildi eftir margra ára uppgjörstímabil sem við svíðum enn fyrir. Það er staðreynd málsins.

Bankarnir í landinu þurfa að sjálfsögðu sem allra fyrst að komast í hendur framtíðareigenda sinna. Hér var því lýst sem einhverjum sérstökum kosti við það skipulag sem við höfum í dag að kröfuhafarnir séu einhvers staðar víðs fjarri. En hverjir eru þá yfir stjórn bankanna? Ekki hefur hæstv. fjármálaráðherra viljað taka ábyrgð á stjórn þeirra. Ekki hefur efnahags- og viðskiptaráðherra viljað taka ábyrgð á stjórn þeirra. Ekki getum við kallað Bankasýsluna hingað inn. Það er enginn sem ber ábyrgð á bönkunum í dag. Enginn er tilbúinn til að svara fyrir bankana. Þar situr fólk sem velst til þess að sitja í stjórnum, sumir koma frá útlöndum, aðrir eru málsmetandi og hæfir einstaklingar úr íslensku samfélagi, en er einhver sem tekur ábyrgð á rekstrinum? Nei, það er enginn sem tekur ábyrgð á honum. Og við þurfum ekki þannig banka.

Þess vegna er ég þeirrar skoðunar að það þurfi að hraða sem allra mest uppgjöri þrotabúanna, helst með nauðasamningum. Það á að vera fullur þrýstingur á það af hálfu stjórnvalda að fá nauðasamninga þannig að hlutur þrotabúanna í íslensku bönkunum fari frá þessum óskilgreindu eigendum í hendur framtíðareignarhalds. Það er það sem þarf að gerast. Við þurfum eigendur sem taka ábyrgð á rekstrinum, eigendur sem sjá að hagsmunir þeirra liggja með fólkinu í landinu og fyrirtækjunum þannig að einhver framtíð verði fyrir viðskiptamenn bankanna og fyrir starfsemi bankanna sjálfra.

Við erum í millibilsástandi þrátt fyrir að ríkisstjórnin hafi lofað því að einstakar aðgerðir yrðu endanlega komnar fram í september 2009. Þetta er klúðrið. Það er engin ástæða til að efast um að þeir aðilar sem voru fengnir að málinu á sínum tíma hafi verið að vinna með rétt verðmat sem hafi verið hægt að leggja til grundvallar. Sá valkostur var til staðar að ríkið legði fram hlutaféð og yfirtæki eignarhaldið. Að sjálfsögðu fylgdi þá þeirri aðferðafræði sú ákvörðun í framhaldinu að ríkið seldi eignarhlut sinn.

En það var ánægjulegt að hlusta á hæstv. fjármálaráðherra lýsa því yfir að fráleitt væri að ríkið ætti bankana, formaður Vinstri grænna, formaður þess flokks sem harðast gekk fram í gagnrýni sinni á sölu bankanna á sínum tíma. Þetta var alveg stórkostlegur viðsnúningur hér í ræðustól, eitt það skemmtilegasta sem ég hef séð hér síðan ég settist á þing árið 2003. (Gripið fram í.)

Frú forseti. Niðurstaðan í þessu máli er sú að það hefur algerlega mistekist að sýna þinginu og þjóðinni fram á einhvern ávinning af þeirri leið sem ríkisstjórnin hefur valið. (Forseti hringir.) Hverjir eru kostir þessarar leiðar umfram það sem áður hafði verið ákveðið? Það er stóra spurningin. Það sem við vitum er að heimilin og fyrirtækin eru enn í gíslingu þessa fólks. Þeir sem munu njóta hagvaxtarins sem forsætisráðherra þykist núna hafa séð fyrir eru þeir sem birtast í þessari skýrslu og eru kallaðir kröfuhafar.



[10:48]
efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er mikils virði að ræða þessa skýrslu og fara vel yfir hana því að um er að ræða líklega stærsta verkefnið sem glímt var við í kjölfar bankahrunsins. Hv. þm. Bjarni Benediktsson gerði hér að umtalsefni aðferðafræðina við uppbyggingu hinna nýju banka og virtist gefa sér tvennt; annars vegar að eignarhald ríkisins á öllum bönkunum hefði ekkert kostað ríkið, hann sagði að það væri hvergi hægt að finna því stað að einhver sparnaður hefði verið að því að ríkið legði ekki út fé til að setja á stofn hina nýju banka, og hins vegar að hægt hefði verið að ráða málum fjármálakerfisins til lykta með einhvers konar fullnaðaruppgjöri við kröfuhafa sem ekki hefðu getað haft fram einhverjar frekari kröfur um endurgjald fyrir þær eignir sem þeir áttu. Ég held að báðar forsendurnar séu á veikum grunni reistar. Sú fyrri horfir fram hjá því að það er algerlega ljóst að þurft hefði ríkara eiginfjárframlag í þessa tvo banka til viðbótar ef ríkið hefði kosið að taka yfir eignarhaldið. Menn geta reynt að trúa Morgunblaðinu um að heildarkostnaðurinn við aðgerðirnar eins og þær standa í dag séu rúmir 400 milljarðar. Það skiptir mig svo sem ekki máli hvar menn kjósa að sækja sér leiðsögn lífs síns, en hitt er jafnljóst að kostnaðurinn hefði samt verið einhverjum hundruðum milljörðum meiri ef bankarnir hefðu verið endurfjármagnaðir til fulls. (Gripið fram í.) Þannig verða menn að horfast í augu við staðreyndirnar. Það hefði að líkindum þurft 200 milljarða meira framlag af hálfu ríkisins í þessa tvo banka ef ríkið hefði kosið að eiga þá og vaxtakostnaður af þeirri fjárhæð væru 15 milljarðar á ári.

Við getum líka horft á þá stöðu sem enn er uppi í fjármálakerfinu þar sem við erum að glíma við einingar í eigu ríkisins eða á ábyrgð ríkisins sem eru orðnar helsta hindrunin í meðferð skuldamála og hafa verið á undanförnum mánuðum og missirum. Hvar hafa stoppararnir verið í framgangi skuldamálanna? Við höfum séð það í hinum opinberu stofnunum sem ríkið á fullt í fangi með að endurfjármagna eins og staðan er í dag, í Íbúðalánasjóði, Byggðastofnun, litlum sparisjóðum, þannig að það er ekki eins og maður geti gefið sér að ríkið hefði getað endurfjármagnað heilt fjármálakerfi algerlega án nokkurra útláta fyrir íslenskt samfélag. Þvert á móti er með naumindum að við ráðum við það í dag að endurfjármagna þann hlut sem er á ábyrgð ríkisins þó að við höfum komið af okkur endurfjármögnunarábyrgðinni í tilviki þessara tveggja banka.

Hefði verið hægt, eins og hv. þingmaður Bjarni Benediktsson gefur sér, að ganga frá skiptum við kröfuhafa með einni fjárhæð og ljúka þannig því máli hratt og örugglega og ekki hefði komið til neinna frekari eftirkrafna? Ég held að það hafi verið borin von. Þeim mun meira sem ríkið hefði haft af eignarhaldi í hinum nýju bönkum, þeim mun meiri hefði tortryggni kröfuhafanna verið gagnvart ríkinu. Það hefði þá verið í senn ráðandi á markaðnum, skapað löggjöf um umgjörð skuldamála og jafnframt verið eigandi bankanna. Það er alveg ljóst, enda hafa komið fram margar athugasemdir af hálfu kröfuhafa alveg frá upphafi þegar við komum á regluverki um skipulega lækkun skulda til þess að koma efnahagslífinu aftur af stað. Þá stóðu upp úr kröfuhöfum hótanir um að aðgerðir stjórnvalda stæðust ekki að öllu leyti almennt viðurkenndar aðferðir um meðferð flókinna skuldamála og að ríkið misbeitti valdi sínu sem löggjafi til þess að létta sér eigendahagsmuni í bönkunum.

Sú staða hefði alltaf verið uppi. Það er alveg ljóst að við hefðum alltaf þurft að ljúka málum gagnvart kröfuhöfum þannig að þeir hefðu alla vega látið okkur í friði og í því hefði þurft samninga. Ég held að í öllum tilvikum hefði verið erfitt að standa gegn því að kröfuhafar hefðu getað fengið einhvern ávinning af því ef betur rættist úr horfum um eignir þeirra en gert var ráð fyrir.

Eða er það ekki grundvallarviðmið um framkvæmd eignarnáms að íslenskum rétti að greiða skuli raunvirði fyrir eignir? Ef kröfuhafar hefðu getað haldið því fram með góðum rökum fyrir Hæstarétti að verið væri að verðmeta eignir þeirra niður og gefa sér lélegar endurheimtur lána — þeir hefðu haft af því lögvarða hagsmuni og sterk rök að íslenskum rétti að fá viðurkenna hlutdeild í því sem kynni að innheimtast af þeim.

Ég held að það séu tveir veikleikar í málflutningi hv. þm. Bjarna Benediktssonar sem setji umgjörðina í ræðu hans í nokkuð uppnám.

Varðandi skýrsluna að öðru leyti held ég að það sé alveg ljóst að við stóðum frammi fyrir tveimur stórum kostum; eiginfjármögnun af hálfu ríkisins með tilheyrandi kostnaði og þeim ýmsu göllum sem því fylgja, m.a. því að ríkið væri allt ábyrgt fyrir fjármálakerfinu og þyrfti stöðugt að vera í togstreitu við sjálft sig þegar kæmi að t.d. löggjöf um skuldaniðurfærslu og leiðréttingu skulda vegna þess að ríkið tapaði með annarri hendinni ef það gæfi eitthvað með hinni hendinni í löggjöf sem auðveldaði niðurfærslu skulda. Við sjáum þá togstreitu kristallast í umræðunni í dag um Íbúðalánasjóð og á undanförnum missirum þar sem það er mjög erfitt fyrir ríkið að endurfjármagna sjóðinn til fulls til þess að gera honum kleift að standast þeim snúning sem færa niður kröfur á almennum markaði.

Ég held að það sé líka mikilvægt að ljúka málum í friði gagnvart hinu alþjóðlega umhverfi. Það liggur fyrir að það var mikið horft til þess á vettvangi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins með hvaða hætti Ísland mundi endurreisa fjármálakerfið og hvort það yrði gert í samræmi við alþjóðlega viðurkennd viðmið um aðferðafræði eða ekki. Okkur tókst að gera það þannig. Ég held að það hafi verið virði í því að gera það með þeim hætti að eiginfjárþörfin lenti ekki öll á ríkinu. Eins og ég hef rakið áður á ríkið fullt í fangi með þá takmörkuðu eiginfjárþörf sem það býr við núna þegar allt er tekið saman, varðandi Landsbankann, hinar smærri fjármálastofnanir og aðrar lánastofnanir í eigu ríkisins.

Þá kemur að því sem hefur oft komið fram í umræðunni og hefur gætt nokkurs misskilnings um, að hægt hefði verið, ef menn hefðu bara borið sig saman með einhverjum öðrum hætti, að búa til einhver verðmæti við flutninginn á milli gömlu og nýju bankanna. Ég held að búið sé að ræða það svo í þaula að menn eigi að vera komnir með fast land undir fætur þar, að það hefði aldrei staðist íslenska stjórnskipun að stilla kröfuhöfum upp gagnvart því að eignirnar yrðu færðar á undirverði í einhverja nýja banka og síðan væri ávinningnum af því dreift út til almennings með almennum hætti. Það var hægt og er enn markmið stjórnvalda að tryggja aðlögun skulda að raunvirði, að greiðslugetu. Það er hægt að íslenskum rétti en lengra verður ekki farið út frá grunnviðum íslenskrar stjórnskipunar. (Gripið fram í.)

Fram undan er úrvinnsla skuldamálanna. Þá komum við að þeim þætti þessa máls þar sem við getum horft á hvort að öllu leyti hafi verið gengið eins langt og hægt var og kerfið nógu rétt byggt upp til þess að greiða fyrir skuldaúrvinnslunni. Það held ég að sé hið stóra verkefni efnahagslífsins þessi missirin, skuldaúrvinnsla, sem er auðvitað mjög erfitt við þessar aðstæður í kjölfar algers bankahruns.

Hv. þm. Bjarni Benediktsson rakti sumar af þeim ástæðum ágætlega áðan. Ein sem hann rakti er vissulega skortur á virku eignarhaldi og því að eignarhaldshagsmunirnir eru ekki nægjanlega skýrir. Það er hluti af vandanum í hvatakerfinu, í fjármálakerfinu. Við þurfum þess vegna að rækja þar það hlutverk sem segja má að sé hlutverk ríkisins sem eiganda til þrautavara, í gegnum regluverkið sem við setjum, og agann sem við reynum að hafa á fjármálakerfinu í gegnum regluverk fjármálamarkaðar. Þegar eigendahagsmunir eru ekki nægjanlega virkir í fjármálakerfinu verður ríkið að koma inn og vinna í þágu almannahagsmuna og þvinga bankana til að vinna þar. Það erum við að gera núna. Við erum að þvinga bankana til þess að hraða skuldaúrvinnslu og ganga þar fram með skipulegri hætti.

Það hefði alltaf verið almennur eigendavandi óháð því hvaða leið hefði verið valin. Ég held að betur hefði mátt búa um hnútana að þessu leyti. Það hefði mátt hafa skýrara hvatakerfi í hinum nýju bönkum til þess að auðvelda skuldaúrvinnsluna. Ég held ekki að hagsmunir kröfuhafanna af skuldaúrvinnslu gangi gegn hagsmunum ríkisins. Ég held að ef horft er á grundvallarviðmið um umbreytingar á skuldastrúktúr banka í kjölfar efnahagskreppu sé það þannig að það hefði átt að fá kröfuhafana til að skrifa upp á þau grundvallarviðmið sem þar hafa verið höfð í heiðri. Ég tel að þess hafi ekki verið nægjanlega vel gætt við aðskilnaðinn milli gömlu og nýju bankanna að greiða fyrir hraðri skuldaúrvinnslu. Það hefði þurft að skapa hvatakerfi sem ríkið hefði styrkt til þess að hraða skuldaúrvinnslu í bönkunum.

Þegar við tökum þetta saman tel ég því að niðurstaðan geti ekki verið önnur en sú að skynsamlegt hafi verið að leita leiða til þess að koma ríkissjóði undan eiginfjárfjármögnun á svona stóru fjármálakerfi. Það hafi verið æskilegt að ráða málum til lykta í eins góðum friði við kröfuhafa og mögulegt var, án þess þó að fórna almannahagsmunum. Það er mikilvægt núna að hraða uppgjörum og koma bönkunum sem fyrst í hendur réttra eigenda. Ég er algerlega sammála hv. þm. Bjarna Benediktssyni um að það skiptir miklu máli að nauðasamningaferli allra gömlu bankanna hefjist og að þeir komist í hendur réttra eigenda þannig að eðlilegt hvatakerfi byggist upp í fjármálakerfinu. Að við þrengjum kost skilanefnda og komum þeim í skilning um að það sé ekki til þess ætlast af hálfu neinna í þessu landi að skilanefndir reki banka til langframa heldur sé það markmið að þær leggi sjálfa sig niður sem allra fyrst og komi rekstri bankanna í hendur réttra eigenda sem fyrst. Við munum áfram vinna að því að tryggja að skuldaúrvinnslunni verði hraðað. Við heyrum ágætisfyrirheit um árangur á seinni hluta þessa árs, en bankar sem hafa á vissan hátt lítið eigendaaðhald, eins og bankarnir hafa í dag sem er að flestu leyti óumflýjanlegt miðað við uppleggið, þurfa enn frekari aga af hálfu ríkisins, enn meiri aga af hálfu samfélagsins til þess að halda sér við efnið og vinna í þágu almannahagsmuna. Við eigum mikið undir því að endurreisn fjármálakerfisins takist vel og að lækkun skuldastöðu heimila og fyrirtækja verði hraðað eins og kostur er.



[11:02]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Efnahagsvandi Íslands er fyrst og fremst skuldavandi, hvort sem litið er til ríkisins, sveitarfélaga, fyrirtækja eða heimila. Að öðru leyti er Ísland, eða var að minnsta kosti áður en ríkisstjórnin tók við, vel í stakk búið til að takast á við nauðsynlega uppbyggingu. Innviðir eru sterkir eða þeir voru það þangað til núverandi ríkisstjórn hóf að vega að grundvallarinnviðum samfélagsins og gera því erfiðara að byggja upp efnahagslega. En það er ekki til umræðu hér heldur skuldamálin og þau tækifæri sem eru eða voru til staðar til þess að vinna bug á meginvandanum, í raun eina stóra efnahagsvandanum sem að okkur steðjaði. Það var nefnilega einstakt tækifæri til þess þegar bankarnir féllu. Ísland hafði þá verið efnahagslega afskrifað. Því var lýst yfir um allan heim að Ísland væri gjaldþrota og íslenskir bankar gjaldþrota, bankar í gjaldþrota landi. Við þessar aðstæður voru neyðarlögin sett sem var mjög djörf aðgerð. Mjög djörf en nauðsynleg og vel réttlætanleg eins og betur og betur hefur verið að koma í ljós. Þá hófst ferli sem var hins vegar aldrei klárað. Hugað var að eignahliðinni, að verja eignirnar eins og kostur var við þær aðstæður sem þá ríktu, en það skref var ekki stigið til fulls, ekki var hugað að skuldum.

Hæstv. fjármálaráðherra segist telja ólíklegt að það hefði verið gert jafnvel þó ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar hefði setið áfram. Það kann að vera rétt enda var líklega meginástæða fyrir falli þeirrar ríkisstjórnar þær tafir sem urðu á því að ráðast í seinni hluta nauðsynlegra aðgerða og takast á við skuldavandann. Þegar í byrjun árs 2009 töldu menn að þar mætti engan tíma missa, ekki mættu líða margir dagar, hvað þá margar vikur. Við þær aðstæður féll ríkisstjórnin sem þá sat. Í framhaldinu hefði maður reyndar viljað sjá meiri stuðning frá Sjálfstæðisflokknum við nauðsynlegar aðgerðir í skuldamálum í ljósi þess að sá flokkur hafði haft forustu um að ráðast í setningu neyðarlaganna. Ég vil þó nefna sérstaklega hv. þm. Tryggva Þór Herbertsson sem sýndi því máli áhuga strax frá byrjun og reyndar líka hv. þm. Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Lilja Mósesdóttir.

En tækifærin voru ekki nýtt á þeim tíma. Tilfærsla, sem hæstv. fjármálaráðherra kallar svo, var möguleg og mjög vel réttlætanleg vegna þess að á þeim tíma voru eignasöfn bankanna ákaflega lágt metin. Hvað sem líður mati Deloitte og Wymans sem í sjálfu sér hefði réttlætt töluvert meiri niðurfærslu en raunin varð, eins og fram hefur komið, hefði mátt líta til markaðarins vegna þess að hinn frjálsi markaður gerði bönkunum kleift að stofna til þeirra skulda sem síðan felldu þá. Þeir fóru óvarlega og féllu fyrir vikið. En hvað sagði markaðurinn í framhaldinu? Hann mat þessa banka nánast einskis virði. Skuldabréf í bönkunum voru keypt og seld á 1, 2 og 3% að nafnvirði í mörgum tilvikum á þessum tíma. Á sama tíma voru lánasöfn banka í Bandaríkjunum og Bretlandi sem höfðu lent í skipbroti seld á broti af nafnvirði. Það var því fullkomlega réttlætanlegt fyrir ríkið að færa þessi lánasöfn, m.a. fasteignalán, yfir með verulegri afskrift og láta þá afskrift ganga að minnsta kosti að hluta áfram til þeirra sem skulduðu. Það hefði líka verið siðferðislega rétt vegna þess að skuldirnar höfðu hækkað töluvert vegna óeðlilegra vinnubragða bankanna. Bæði lagalega og siðferðislega hefði það verið rétt niðurstaða.

Hversu miklu hefði munað? Það sem var undir hjá bönkunum á sínum tíma að núvirði, ætli það nálgist ekki hátt í 20.000 milljarða kr. Nokkur hundruð til viðbótar af þessum 20.000 milljörðum hefðu skipt sköpum fyrir íslensk heimili og íslensk fyrirtæki. Eins og ég fór yfir áðan hefði það verið framkvæmanlegt og réttlætanlegt. Nú segir hæstv. fjármálaráðherra að það vald hafi ekki verið í höndum ríkisstjórnarinnar. Slíkt hefði verið miklu minni aðgerð en fólst í neyðarlögunum. Menn hefðu verið að ganga mun skemur á hlut kröfuhafa en gert var með neyðarlögunum með því að huga að skuldahliðinni.

Hæstv. fjármálaráðherra segir líka að menn hafi viljað forðast málaferli og viljað væntanlega, eins og kom sérstaklega fram í máli hæstv. efnahagsráðherra, ganga í augun á alþjóðasamfélaginu sem er með aðsetur í Brussel að mati efnahagsráðherra. Á þessu byggðust ákvarðanirnar, annars vegar að gleðja þetta svokallaða alþjóðasamfélag sem er þröngt skilgreint af ríkisstjórninni og hins vegar að forðast málaferli. En forðuðust menn málaferli með þessari niðurstöðu? Aldeilis ekki. Í gangi eru málaferli um allt vegna þeirra aðgerða sem ráðist var í þannig að ekki varð með nokkru móti komið í veg fyrir slíkt.

Þá að eiginfjárframlagi ríkisins sem hæstv. ráðherrum var tíðrætt um áðan. Það er svolítið erfitt að ræða það þegar hæstv. fjármálaráðherra kemst í mótsögn við sjálfan sig, meira að segja í ræðu sinni áðan, þegar hann lýsir því að þetta sé ákaflega góð fjárfesting, skili ríkinu miklum vaxtatekjum og tryggingarnar séu góðar. Af því má ætla að ríkið hafi tapað á því að setja ekki 200 milljörðum meira inn í bankana. (Gripið fram í.) Annars vegar tala menn um mikinn sparnað, 200 milljarða, með því að leggja bönkunum til minna eigið fé, hins vegar mikinn hagnað af því sem ríkið þó lagði í bankana. Svoleiðis að rökin um eiginfjárframlagið halda ekki vatni frekar en annað.

Ástæða er til að vekja athygli á því að þingflokkur framsóknarmanna lagði fram tillögur, ekki aðeins um úrvinnslu skuldamálanna, heldur líka hvernig mætti standa að því að stofna nýju bankana og gera þá strax betur í stakk búna til að sinna hlutverki sínu sem bankar, lána fjármagn til atvinnuuppbyggingar. Þeir virðast enn ekki vera farnir að sinna því hlutverki sem skyldi enda eru mörg þúsund heimili og fyrirtæki í algjörri óvissu í bankakerfinu með skuldir sínar. Tveimur og hálfu ári eftir efnahagshrunið ríkir enn algjör óvissa um þessa hluti. Fyrir vikið hefur íslenskt efnahagslíf staðnað á meðan efnahagslíf flestra ríkja í kringum okkur, jafnvel þeirra sem lentu í verulegri kreppu, hefur verið að rétta úr kútnum, a.m.k. hagvöxtur að mælast.

Ég vil í lokin nefna eitt atriði til viðbótar sem fram kemur í þessari merku skýrslu þó að mörgum nái ég ekki að sinna í þessari ræðu. Þar kemur skýrt fram að frá upphafi var litið á breska og hollenska ríkið sem meginkröfuhafa Landsbankans og í rauninni eiginlega meginkröfuhafa bankakerfisins. Frá byrjun er litið á breska og hollenska ríkið sem meginkröfuhafana. Með öðrum orðum, menn litu ekki svo á að íslenska ríkið eða íslenski innstæðutryggingarsjóðurinn væri kröfuhafinn. Nei, það var breska og hollenska ríkið frá upphafi eins og eðlilegt er. En þrátt fyrir það hófst hér tveggja ára stríð, tveggja ára barátta ríkisstjórnarinnar við að færa þessar kröfur sem þeir höfðu þá þegar samið um við Breta og Hollendinga yfir á íslenskan almenning. Þetta er því miður eftir öðru í vinnubrögðunum sem lýst er í skýrslunni og við höfum séð opinberast smátt og smátt á undanförnum árum. Löngu er orðið tímabært að verulegur viðsnúningur verði þar á.



[11:10]
Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Ég vil byrja á að þakka fjármálaráðherra fyrir hreinskilna skýrslu um endurreisn bankanna. Ég velti þó fyrir mér hvort honum þyki virkilega að endurreisnin hafi farið fram með eðlilegum hætti og á eðlilegum forsendum eða hvort hann skilji hreinlega ekki hvernig sú leið sem hefur verið farin leikur skuldsett heimili og fyrirtæki landsins. Spurningin í mínum huga er hvort um einbeittan brotavilja var að ræða eða stórfellda vangá.

Það er þyngra en tárum taki að íslensk stjórnvöld hafi í einu og öllu ákveðið að taka hagsmuni kröfuhafa fram yfir hagsmuni landsmanna, venjulegra Íslendinga. Hér hefur nefnilega orðið verulegur eignabruni hjá venjulegu fólki. Venjulegt fólk á aldrinum 25–50 ára er upp til hópa tæknilega gjaldþrota. Stjórnvöld hafa beint fólki til dómstóla með mál sín. Þegar hillir í réttlætið þar er leikreglunum breytt með lagasetningu gagngert til að tefja fyrir réttlátri niðurstöðu.

Það má hafa samúð með þeim sem lánuðu íslensku bönkunum fé þótt þeir hefðu átt að vita og vissu í flestum tilvikum hvað þeir voru að gera. En þeir treystu á að íslenska ríkið bakkaði bankana upp. Kröfurnar gengu kaupum og sölum á broti af upprunalegum virði. Þeir sem keyptu kröfurnar voru sem sagt braskarar eða vogunarsjóðir eins og þeir eru kallaðir spari. Að mínu viti er engin sérstök ástæða til þess að taka upp málstað þeirra fremur en venjulegs fólks — venjulegs fólks sem hefur þurft að þola gífurlegan eignabruna og hefur misst alla trú á íslensk stjórnvöld og að réttlæti sé möguleiki á Íslandi.

Við vitum að bankarnir tóku lán heimilanna yfir á gífurlegum afslætti en hafa reynt að innheimta þau að fullu. Markmið hinna endurreistu banka var að hámarka endurheimtur og viðhalda greiðsluvilja. Það þýðir á mannamáli að blóðmjólka fólk þar til það getur ekki meira.

Forseti. Mér finnst í meira lagi varasamt að fullyrða að ríkisstjórn Geirs H. Haarde hafi ætlað að koma fram við heimili og fyrirtæki af sanngirni. Mörg okkar leituðu merkja þess en sáum engin. Sú leið sem hafði verið ráðgerð, þ.e. að bankarnir hefðu verið áfram í eigu ríkisins í einhvern tíma en svo seldir, hefðu þó auðveldað allar aðgerðir til sanngjarnra og réttmætra leiðréttinga á stökkbreyttum skuldum fólks. Hef ég trú á því að ríkisstjórn sjálfstæðismanna og Samfylkingar hefði beitt sér sérstaklega fyrir því? Nei, ég hef nákvæmlega enga sannfæringu fyrir því.

Endurreisn bankanna og það skotleyfi sem stjórnvöld hafa gefið á heimilin er eitt en þegar við horfum á heildarmyndina verður hryllingurinn óbærilegur. Á sama tíma og stjórnvöld gáfu vogunarsjóðum skotleyfi á almenning ákváðu þau að hvetja fólk til að þreyja þorrann með því að taka út viðbótarlífeyrissparnaðinn sinn. Það gerði fólk í örvæntingu sinni til að reyna að standa í skilum og hafa ofan í sig og á. Viðbótarlífeyrissparnaðurinn er það eina sem fólk á almennt sem er ekki aðfararhæft, það eina sem fólk hefði getað átt eftir gjaldþrot. Nú er hann farinn hjá mörgum, horfinn til bankanna og bankarnir eru enn sveimandi yfir fólki eins og hrægammar, tilbúnir að hirða allt um leið og færi gefst. Það mun gefast.

Ráðherra fjármála talaði áðan um eldveggi á milli kröfuhafa og stjórna bankanna. Ég leyfi mér að minna á að slíkir eldveggir voru víða í hinu fallna bankakerfi. Við vitum að þeir voru gagnslausir. Við höfum engar forsendur til að gera ráð fyrir því að þeir nýju haldi betur. Allir sem eru í einhverjum tengslum við íslenskan veruleika vita hversu hart fjármálafyrirtækin ganga gegn heimilum og smærri fyrirtækjum. Eina nothæfa úrræði stjórnvalda virðist vera gjaldþrotaleiðin. Ég ætla rétt að vona að þeir sem hana velji geri það áður en þeir taka út séreignarlífeyrissparnaðinn sinn og eyða honum.

Ég vil minna á að fjármálafyrirtæki eru ekki góðgerðarstofnanir. Þau eru sett á laggirnar til þess að græða peninga, ekki til að hjálpa fólki. Bankarnir eins og þeir eru reknir nú eru gífurlega athyglisverðir og virðast lúta eigin lögmálum sem erfitt getur verið að átta sig á. Sé gluggað í ársskýrslu þeirra má sjá bókfærðan gífurlegan hagnað af rekstri síðasta árs. En bíðum nú við, hvaðan er hann kominn? Verið er að eignfæra lán heimila og fyrirtækja sem færð voru úr gömlu bönkunum yfir í þá nýju með gríðarlegum afslætti, afslætti sem á ekki að láta ganga áfram til lántakanda sem þó virðist hafa verið ætlunin í upphafi. Afslátturinn á stökkbreyttum lánum heimila hefur verið eignfærður. Samt er stórt hlutfall þessara lána skilgreint af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sem óvirk lán eða um 40%. Það eru lán sem ýmist eru í vanskilum eða frystingu og ekki hefur verið greitt af síðustu mánuði. Ljóst er að mörg þessara lána verða aldrei innheimt.

Hagsmunir bankanna í núverandi mynd og heimilanna fara einfaldlega ekki saman. Það er á ábyrgð núverandi stjórnvalda.

Forseti. Ég tek þessu persónulega því mér er málið skylt. Ég er nefnilega venjulegt fólk og venjulegt fólk hefur verið rænt afrakstri ævistarfsins. Ógjörningur er að fyrirgefa slíkt þegar um viljaverk er að ræða. Ég velti fyrir mér hvort sá ráðherra sem ber ábyrgð á því hvernig bankarnir voru endurreistir og færðir í hendur vogunarsjóðina þurfi ekki að svara fyrir það fyrir dómstólum.



[11:17]
Lilja Mósesdóttir (U):

Virðulegi forseti. Þegar ég ákvað stuttu fyrir kosningar 2009 að bjóða mig fram fyrir hönd Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs trúði ég að forustu VG væri best treystandi til að reisa við efnahagslífið með hagsmuni almennings að leiðarljósi. Aldrei grunaði mig að formaður VG mundi ásamt forustu Samfylkingarinnar verða uppvís að því að gæta hagsmuna erlendra kröfuhafa, eins og Breta, Hollendinga og vogunarsjóða, í Icesave-málinu og nú við endurreisn bankakerfisins. Í febrúar 2009 tók forustufólk stjórnarflokkanna ákvörðun um að ganga til samninga við kröfuhafa í stað þess að bíða eftir óháðu mati á verðmæti lánasafna gömlu bankanna, ákvörðun sem er óskiljanleg í ljósi þess að í dómsmálum hefði verið tekið meira mark á eignamati Deloitte og Olivers Wymans en kröfum vogunarsjóða um hærra mat. (Utanrrh.: Hvar varst þú þá?)

Hæstv. utanríkisráðherra spyr hvar ég hafi verið. Ég var kennari við Háskóla Íslands (Gripið fram í.) á þessum tíma.

Frú forseti. Ég óska eftir að hæstv. fjármálaráðherra upplýsi okkur um raunverulega ástæðu þessarar ákvörðunar. Var ákvörðunin tekin til að hámarka endurheimtu kröfuhafanna, Breta og Hollendinga, þannig að hægt yrði að semja við þá um Icesave og liðka þannig fyrir ESB-umsókn?

Fram kemur í skýrslunni að markmið ríkisstjórnar vinstri flokkanna í viðræðum við kröfuhafa hafi verið að tryggja réttláta meðferð kröfuhafanna. Hvergi er minnst á nauðsyn þess að tryggja hagsmuni skuldsettra heimila og fyrirtækja. Fyrir hrun lánuðu gömlu bankarnir ólögleg erlend lán og tóku síðan stöðu gegn krónunni sem hrundi í verði og át upp eignir venjulegs fólks. Gömlu bankarnir bökuðu sér þannig skaðabótaskyldu. Kröfuhafar hefðu því tæpast unnið dómsmál gegn ríkinu ef hagsmunir skuldara hefðu verið hafðir að leiðarljósi við endurreisn bankakerfisins.

Frú forseti. Ég krefst þess að hæstv. fjármálaráðherra útskýri fyrir öllum þeim sem sitja uppi með stökkbreyttar skuldir hvers vegna ríkisstjórn vinstri flokkanna var ekki tilbúin að berjast fyrir hagsmunum þeirra í samningum við kröfuhafa.

Í skýrslunni kemur fram að lánasöfn gömlu bankanna hafi farið á miklum afslætti yfir í nýju bankana. Afsláttinn átti að nota til að bæta hluta af eignabrunanum og ólöglegar lánveitingar. Þess í stað var samið við erlenda kröfuhafa, hrægamma sem höfðu keypt lánasöfnin á hrakvirði, og samið við þá um að þeir nytu góðs af hörðum innheimtuaðgerðum bankanna. Ríkisstjórnin fylgdi síðan þessu samkomulagi við kröfuhafa eftir með skuldaúrræðum sem annaðhvort lengdu í hengingarólinni eða flýttu gjaldþroti. Afslátturinn myndar núna myndarlegan hagnað í bönkunum.

Frú forseti. Ríkisstjórn vinstri flokkanna reisti skjaldborg um kröfuhafana og skildi skuldsett heimili og fyrirtæki eftir vopnlaus úti á vígvelli þar sem sífellt fleiri falla í valinn. Það er ákvörðun sem aukið hefur ójöfnuð milli þeirra sem eiga og hinna sem skulda, þvert á loforð um að láta breiðu bökin bera þyngstu byrðarnar.

Þegar endurreisn bankanna var kynnt haustið 2009 fullyrti hæstv. fjármálaráðherra að einkavæðing bankanna hefði sparað ríkinu stórar fjárhæðir. Nú hefur komið í ljós að heildarkostnaður var ekki 185 milljarðar eins og kynnt var heldur um 400 milljarðar.

Frú forseti. Kostnaður ríkissjóðs af bankakerfinu er enn meiri ef við tökum tillit til þess að Seðlabanki Íslands hefur greitt háa vexti síðustu tvö árin til nýju bankanna sem kusu frekar að geyma innstæður hjá Seðlabankanum en að lána þær út. Auk þess hefur stjórnarformaður Bankasýslunnar viðurkennt að bankakerfið sé of stórt. Rekstrarkostnaður bankanna er því hár og lítið svigrúm til vaxtalækkana. (Forseti hringir.)

Frú forseti. Skjaldborg um bankana skapar ekki velferð og hagvöxt. Það gerir hins vegar skjaldborg um heimilin og fyrirtækin. Endurreisn bankakerfis á forsendum vogunarsjóða en ekki hagsmuna almennings er vinstri stjórn til ævarandi skammar. (BirgJ: Heyr, heyr.) (Gripið fram í.)



[11:23]
Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Ég hef hlýtt á þessar umræður hér í morgun og reynt að átta mig á því í fyrsta lagi um hvað forustumenn stjórnarandstöðunnar eru að tala og þá út frá hvaða grunni. Hv. þingmaður og formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, hóf ræðu sína í morgun á því að umræðan væri of tæknileg, sérstaklega af hálfu fjármálaráðherra sem var að útskýra þá skýrslu sem hér hefur legið fyrir vikum og mánuðum saman en virðist nú hafa komið stjórnarandstöðunni á óvart. Hv. þingmaður taldi sömuleiðis að það væri í sjálfu sér rangt að aðskilja stjórnmálin frá eftirlitsstofnununum, frá þeim stofnunum sem þyrfti að hafa eftirlit með, t.d. fjármálafyrirtækjum. Það er kannski sá stjórnarstíll sem hv. þingmaður hefur vanist og alist upp við, að gera stjórnmálin og eftirlitsstofnanirnar að einu og hinu sama enda fór það eins og það fór.

Hv. þm. Bjarni Benediktsson sagði á sömu leið að hætta væri á því að hagsmunir bankanna færu ekki saman með hagsmunum þjóðarinnar. Það er hárrétt. Þetta er ekkert mjög tæknilegt mál. En eigum við þá að ræða almennt um það hvernig hagsmunir bankanna og almennings fóru saman þar til þeir hrundu í hausinn á almenningi? Eigum við að ræða um það? Það er ekkert mjög tæknilegt mál, það er almenns eðlis.

Seðlabanki Íslands skilaði í gær skýrslu um fjármálastöðugleikann á Íslandi og þar fer hann enn og aftur og ítrekað yfir það hvernig hagsmunir bankanna, hvernig hagsmunir Sjálfstæðisflokksins, hvernig stefna Sjálfstæðisflokksins í efnahagsmálum fór saman með íslensku þjóðinni. Sú stefna fór ekki saman. Hagsmunir þessara aðila fóru ekki saman, virðulegi forseti. Það er alveg sama hvað hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins kalla hér oft fram í og hvað þá svíður undan þessari staðreynd sem sagan sýnir þeim, (Gripið fram í.) sagan sem þeir skrifa ekki sjálfir, sem betur fer. (Gripið fram í.) Það þarf að fá niðurstöðu sem þjónar almannahagsmunum best, segir hv. þm. Bjarni Benediktsson. Það er algjörlega hárrétt. Það er sú niðurstaða sem skýrsla fjármálaráðherra um endurreisn bankanna sýnir.

Því hefur verið haldið fram að ríkisstjórn Geirs Hilmars Haardes hafi verið með stórkostlega áætlun í gangi, svakalegt plan til að bjarga íslenskum heimilum með endurreisn bankanna. Sama ríkisstjórn kallaði til landsins Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sér til hjálpar haustið 2008. Í skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í byrjun árs 2009 er fjallað um áætlanir Sjálfstæðisflokksins og ríkisstjórnar Geirs Hilmars Haardes um hvernig ætti að þjóna almannahagsmunum og endurreisa bankana, hvert stóra planið var sem breytt var frá þegar ný ríkisstjórn tók við. Hvert var þetta stóra plan að mati Alþjóðagjaldeyrissjóðsins? Framarlega í þeirri skýrslu er farið yfir það og þar segir að það hafi verið áætlun íslensku ríkisstjórnarinnar undir forustu Sjálfstæðisflokksins að veita hátt í 400 milljarða kr. frá íslenskum skattgreiðendum inn í bankakerfið. Ríflega 20% af vergri landsframleiðslu áttu að fara úr ríkissjóði inn í bankakerfið. Það er stóra planið (Gripið fram í.) sem þar var rætt um, virðulegi forseti.

Síðan kemur hingað hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, og segir — með réttu: Vandi Íslands er skuldavandi. En var hér allt í góðu lagi þar til núverandi ríkisstjórn tók við? Eru öll afglöpin núverandi ríkisstjórn Íslands að kenna? Var hér allt í fínasta lagi, innviðirnir í góðu lagi, allt í góðu lagi nema smáskuldavandi þar til þessi vonda ríkisstjórn tók við sem mylur allt niður, allan þann árangur sem þá fyrri ríkisstjórn hlýtur að hafa skilið eftir sig þegar hún hrökklaðist frá völdum undan barningi úti á Austurvelli, undan pönnuslætti og pottabarningi, virðulegi forseti?



[11:27]
Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu um skýrslu fjármálaráðherra. Það vekur að sjálfsögðu undrun að hæstv. forsætisráðherra sjái ekki ástæðu til að vera við hana. Það er reyndar eftirtektarvert að í hvert skipti sem stóru málin eru til umfjöllunar í þinginu er hæstv. forsætisráðherra víðs fjarri. Ég hefði haldið að þegar við tölum um mál eins og við erum að tala um hér í dag, endurreisn bankakerfisins, þá fjármuni sem settir hafa verið í það af hálfu ríkisstjórnarinnar, (Gripið fram í.) þyrfti hæstv. forsætisráðherra að vera hér (Utanrrh.: … upptekin …) og standa fyrir sinni ríkisstjórn. [Frammíköll í þingsal.]

Skýrsla fjármálaráðherra sem hér er verið að fjalla um vekur nefnilega upp miklu fleiri spurningar en svör. Það er með ólíkindum að lesa hvernig hæstv. fjármálaráðherra og ríkisstjórnin öll hefur haldið á hagsmunum Íslands í hverju málinu á fætur öðru. Það sem upp úr stendur er að það er búið að spinna ótrúlegan vef í kringum endurreisn bankanna. Hæstv. fjármálaráðherra hefur í engu svarað því hvers vegna var horfið frá þeirri stefnumörkun sem lagt var upp með haustið 2008. Hver er munurinn á þeirri leið og leið kröfuhafanna sem valin var? (Utanrrh.: Þið vilduð einkavæða.) Stórkostlegt tap fyrir ríkissjóð og íslenskar fjölskyldur. (Gripið fram í.) Hæstv. fjármálaráðherra verður að axla ábyrgð á því. Eða kann þessi ríkisstjórn bara að segja: Ekki benda á mig? Og nú skal bent á Fjármálaeftirlitið. Fjármálaeftirlitið virðist núna, eftir því sem hæstv. fjármálaráðherra segir, fara með ríkissjóð og ákveða hvaða fjármunir eru teknir úr honum. Það er Fjármálaeftirlitið, segir hæstv. forsætisráðherra, sem ákvað hvaða leið yrði farin.

Þetta kemur nokkuð á óvart, sérstaklega í ljósi þess að Alþingi og fjármálaráðherra, þegar hann leggur fram fjárlagatillögur, ákveða hvort peningar eru teknir út úr ríkissjóði en ekki Fjármálaeftirlitið.

Eða hvernig var það hér í desember 2009 þegar verið var að klára fjárlagagerðina og spurt af hálfu fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd: Hvaða heimildir eru fyrir þeim fjármunum sem eru lagðir í þessa banka? Ég horfi hér á hv. þm. Sigmund Erni Rúnarsson sem sat með mér í fjárlaganefnd og hann man þetta. (Gripið fram í: Jæja.) Það þurfti að ganga eftir því (Gripið fram í.) við fjármálaráðuneytið að þessar heimildir yrðu lagðar fram. Og þegar Ríkisendurskoðun benti á að slíkar heimildir þyrfti að leggja fram kom um síðir frumvarp frá hæstv. fjármálaráðherra á milli jóla og nýárs árið 2009, í miðju Icesave-inu. Þá bættist þetta við. Þannig var það.

Engar vonir eru til þess að þeir gríðarlegu fjármunir sem ríkissjóður hefur varið í það að afhenda kröfuhöfum bankanna náist til baka, þveröfugt við það sem áður var ætlað að gera. Þar var hugsað til langs tíma. Hér hröktust menn undan hótunum kröfuhafa.

Og vegna orða hæstv. efnahagsráðherra, Árna Páls Árnasonar, um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn er það nú svo að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur í hverri endurskoðuninni á fætur annarri gagnrýnt hægagang við skuldaúrlausn heimila og fyrirtækja, kannski ekki síst vegna þess að sú leið sem síðan var farin, eftir að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafði komið hér að málunum og verið kynnt sú áætlun sem lagt var upp með, byrjaði þetta allt saman að hökta. Hagsmunir kröfuhafanna sem nú eiga þessa banka fara bara alls ekkert með okkar íslensku hagsmunum.

Hvernig stendur á því að hæstv. fjármálaráðherra hefur látlaust klifað á því að stórkostlegur sparnaður hafi falist í þessari kröfuhafaleið? Það kom margoft fram í þinginu, okkur var sagt að gríðarlegur sparnaður hefði náðst. Við lestur þessarar skýrslu er augljóst að svo var ekki. Þessir fjármunir koma ekki til baka, þeir nást ekki til baka. Þeir hafa verið afhentir þessum erlendu kröfuhöfum og þar með hafa auknar byrðar verið lagðar á landsmenn alla í álögum og sköttum.

Niðurstaðan er því sú að hér hafa glutrast niður stórkostlegir hagsmunir heimila og fyrirtækja til erlendra kröfuhafa. Og getur hæstv. fjármálaráðherra upplýst um það hverjir þessir erlendu kröfuhafar eru? Hverjir eru það í útlöndum sem sáu hag sinn í því, eins og fram kemur í þessari skýrslu, að komast inn í nýju bankana og taka þar út fjármuni í stað þess að þeir nýttust hér heima? Hverjir eru það?

Því hefur verið haldið fram að helmingur upprunalegu kröfuhafanna sé horfinn á braut og bankarnir hafi skipt um eigendur. (Utanrrh.: … kvóta…) Hverjir komu í staðinn. (Utanrrh.: … kvótakerfið?) Hæstv. utanríkisráðherra getur kannski upplýst okkur um það af því að hann er í góðum samskiptum við útlönd: Hvaða erlendu kröfuhafar komu í staðinn fyrir þessi 50% sem eru horfin á braut? Eru það vogunarsjóðir? Eru það hrægammar? (Gripið fram í: Eða …?) Er það svoleiðis? (Gripið fram í.) Eða eru það braskararnir í New York og London? Hverjir eru það? (Utanrrh.: Þið þekkið þá betur.) Það væri fróðlegt fyrir okkur að fá að vita það.

Það er alveg á hreinu, virðulegi forseti, að þrátt fyrir það sem kom fram hjá hæstv. fjármálaráðherra sem nánast hélt því fram að eigendur þessara banka skiptu sér ekkert af því hvað hér væri á ferðinni fylgjast þessir erlendu kröfuhafar (Gripið fram í.) mætavel með því sem er að gerast í bönkunum. Dettur einhverjum annað í hug? (Gripið fram í.) Það er svo augljóst mál að það þarf ekki einu sinni að ræða það. (Gripið fram í.)

Hvaða máli skiptir þótt þessir erlendu kröfuhafar sem hér er um að ræða hóti málsókn? Kemur það einhverjum á óvart? Eru ekki endalaus málaferli í gangi í kjölfar hrunsins? Og er ekki allt í lagi að láta bara reyna á rétt sinn? Erum við ekki búin að ræða það nógu lengi undanfarin ár að það kemur kannski að því að það þurfi að láta reyna á hagsmunina sem slíka? Og hvernig stendur á því að við hrekjumst hér undan hótunum um málsóknir trekk í trekk? Í ljósi þess að í skýrslunni stendur skýrum stöfum að stjórnvöld hafi talið óréttmætt það sjónarmið kröfuhafa að þeir hefðu einhvern rétt á að komast inn í þessa banka spyr ég virðulegan fjármálaráðherra hvers vegna gefið hafi verið eftir gagnvart þessu fólki. Þá ættu þessar hótanir um málsókn engu máli að skipta. Hvaða hagsmunir voru það?

Það blasir við að erlendir kröfuhafar hafi séð hag sinn í því að komast þarna inn þvert á okkar hagsmuni. Hvernig stendur á að það var gefið eftir? Þessu verður hæstv. fjármálaráðherra að svara. Það þýðir ekkert fyrir hæstv. fjármálaráðherra að benda á Fjármálaeftirlitið.

Tæpum þremur árum eftir gjaldþrot bankanna eru heimilin í landinu ekki enn búin að fá úrlausn sinna mála og fyrirtækin berjast í bökkum. Hagvöxtur hæstv. forsætisráðherra, sem sér ekki ástæðu til að vera viðstödd þessa umræðu, er tálsýnin ein, og allt á forsendum erlendra kröfuhafa. Þessum kröfuhöfum hefur tekist, virðulegi forseti, að spinna ótrúlegan vef. Þar sitja heimili og fyrirtæki á Íslandi föst.

Virðulegi forseti. Hverju ætlar þessi ríkisstjórn að svara þeim fjölmörgu fjölskyldum sem berjast í bökkum og kröfuhafar bankanna ætla ekki að svara? (Gripið fram í.) Eða öllum þeim litlu og meðalstóru fyrirtækjum, virðulegi forseti, sem engin svör hafa fengið? Í ljósi alls þessa er ekki að furða þótt hin beina braut hæstv. efnahagsráðherra sé orðin kræklótt einstigi. Það er nefnilega ljóst af lestri þessarar skýrslu að hagsmunir eigenda bankanna eru allt aðrir en hagsmunir okkar Íslendinga. Hæstv. fjármálaráðherra getur kannski svarað því hversu líklegt hann telji að þessir erlendu kröfuhafar vilji koma til móts við heimili og fyrirtæki á Íslandi.

Hæstv. fjármálaráðherra hefur greinilega vikið sér í burtu, ég vona að hann sé engu að síður að hlusta.

Hversu líklegt telur hann (Gripið fram í: Hann er inni í …) að þessir erlendu kröfuhafar hugsi eignir sínar með langtímahagsmuni okkar Íslendinga í huga? Hversu trúlegt er það? Hvað skiptir mestu máli þegar svona gerist? Skiptir ekki mestu máli að langtímahagsmunir Íslendinga ráði sem mestu en ekki það hvort hægt sé að fá peninga á þessu augnabliki inn í ríkissjóð? Skiptir ekki mestu máli hvað gerist til lengri tíma, hvernig íslenskum fjölskyldum og fyrirtækjum vegnar? Var það ekki það sem hæstv. fjármálaráðherra var að hugsa um, eða hvað? Um hvað var hann að hugsa? (Fjmrh.: Er ég ekki vondur maður?)

Búið er að spandera hundruðum milljarða af skattfé landsmanna í þetta ævintýri erlendra kröfuhafa. Og hvernig ætlar hæstv. fjármálaráðherra að axla ábyrgð á því?

Þessi ríkisstjórn þarf að fara að snúa sér að þeim meginverkefnum sem skipta máli í landinu ellegar bara víkja sem væri það albesta, að hún viki og léti aðra taka við. (Gripið fram í.) Það er hins vegar löngu runnið upp fyrir fólkinu í landinu að mesta efnahagslega áfallið sem hefur riðið yfir þessa þjóð er þessi vonlausa ríkisstjórn, ríkisstjórn sem berst gegn atvinnuuppbyggingu, ríkisstjórn sem vegur að grundvelli efnahagslífs þjóðarinnar með árásum á grunnatvinnugreinar, ríkisstjórn sem afhendir erlendum óþekktum kröfuhöfum hagsmuni fjölskyldna og fyrirtækja, (Gripið fram í.) ríkisstjórn þar sem annar flokkurinn lætur öll prinsipp frá sér til að halda völdum, hvort sem það heitir gagnvart Evrópusambandsumsókn eða núna síðast hinu ótrúlega NATO-/Líbíu-máli. (Gripið fram í: Hvað var það?)

Það er alveg augljóst mál að gríðarleg mistök áttu sér stað á fyrstu mánuðum ársins 2009. Þessi ríkisstjórn, hæstv. fjármálaráðherra, verður að svara fyrir það allt.



[11:37]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Vart þarf að minna á það hér að hrun fjármálakerfisins og efnahagssamdrátturinn sem fylgdi í kjölfarið hefur valdið miklu tjóni. Allir hafa borið skarðan hlut frá borði, þar á meðal íslensk heimili, fyrirtæki, þeir sem áttu fjármuni í bönkunum sem hrundu, innlendir og erlendir fjárfestar og ríkissjóður. Gripið hefur verið til margvíslegra aðgerða til að koma efnahagslífinu í landinu í eðlilegt horf og lágmarka þann skaða sem samfélagið hefur orðið fyrir. Í slíku ástandi og umhverfi sem hrunið skapaði eru engir valkostir við endurreisn svo góðir að með þeim þurrkist slæmar afleiðingar út því að engin töfralausn er til en margir hafa orðið fyrir skaða, sárir út í sjálfa sig og aðra.

Í þannig andrúmslofti er líklegast til vinsælda og einnig ábyrgðarminnst að gagnrýna allt sem stjórnvöld gera. Það er svo auðvelt að hrópa slagorð sem ýta undir tortryggni og vantraust því að jarðvegurinn fyrir slíkt er góður. Margir urðu fyrir fjárhagslegu tjóni og atvinnumissi vegna efnahagshrunsins. Reiði hefur blindað mörgum sýn og komið í veg fyrir að þeir sjái í réttu ljósi hvað áunnist hefur og hverju má búast við í framtíðinni. Reiðin kraumar í mönnum vegna þess að það sem gerðist var óréttlátt og í slíku ástandi er auðvelt að spila á neikvæðar tilfinningar í pólitískum tilgangi og þar liggja þeir sem stóran þátt áttu í hruninu síst á liði sínu.

Umfjöllun um þá skýrslu fjármálaráðherra sem hér er rædd hefur einkennst af slíkum áróðri. Sama taktík er notuð sem virkaði vel í umræðunni um Icesave. Þeirri sem hér stendur þykir það sérlega ámælisvert þegar forustumenn stjórnmálaflokka láta sem skýrslan sé áfellisdómur þegar hún sýnir aðeins það sem vitað var, að endurreisn bankanna kostaði ríkissjóð minna en áætlað hafði verið í fyrstu.

Hv. þm. Ólöf Nordal, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, lék slíkan leik hér áðan í ræðustól og einnig í útvarpsþættinum Í bítið á Bylgjunni þann 26. maí sl. þegar hún túlkaði niðurstöður skýrslunnar og sagði meðal annars, með leyfi forseta:

„… sýnir bara því miður algert getuleysi þessarar ríkisstjórnar til að takast á við þann vanda sem við erum í. Það er það sem kemur fram í þessari skýrslu.“

Þar með var skilaboðum varaformanns Sjálfstæðisflokksins komið til hlustenda sem hún byggir á skýrslu sem sýnir að ágætlega tókst til við endurreisn bankanna og þeir sjá sem hana lesa.

Hæstv. forseti. Eitt brýnasta verkefni sem stjórnvöld stóðu frammi fyrir eftir hrun var endurreisn fjármálakerfisins. Það skipti miklu máli að það yrði gert þannig að sem minnstur skaði yrði fyrir ríkissjóð til viðbótar þeim mikla tekjubresti sem orðið hafði. Eitt af stærstu höggum sem ríkissjóður varð fyrir var vegna tapaðra krafna Seðlabankans á fjármálafyrirtæki sem ríkið þurfti að taka yfir og afskrifa til að koma í veg fyrir gjaldþrot Seðlabankans. Endurfjármögnun banka og sparisjóða, lántökur hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og fleirum til að stækka gjaldeyrisforðann og hallarekstur ríkissjóðs hafði í för með sér gríðarlega hækkun á vaxtakostnaði ríkissjóðs. Í ár eru það 75 milljarðar kr. eða um 15% af útgjöldum ríkisins sem fara í greiðslu vaxta. Með þetta í huga sjá allir þeir sem sjá vilja að það að mögulegt var að endurreisa bankakerfið með rúmlega 200 milljarða minni kostnaði fyrir ríkissjóð en áætlað var skiptir sköpum fyrir íslensk heimili, þjónustu ríkisins og þá sem þurfa mest á þeirri þjónustu að halda.

Virðulegur forseti. Eins og fram kemur í skýrslu hæstv. fjármálaráðherra námu hlutafjárframlög gömlu bankanna 156 milljörðum kr. og skuldsetning ríkisins þá lægri sem því nemur. Ef ekki hefði náðst samkomulag við kröfuhafana hefði verðmætið verið hærra og þrír ríkisbankar orðið að glíma við hærra eignamat. Slíkt hefði leitt til mjög veikburða bankakerfis sem ekki hefði haft burði til að standa að skuldaaðlögun heimila og fyrirtækja eins og þó hefur verið gert.

Ríkissjóður greiddi hlutafjárframlög sín til bankanna og fjármagnaði víkjandi lán með ríkisskuldabréfum sem afhent voru bönkunum eins og kunnugt er. Upprunalega var gert ráð fyrir að greiðslan færi fram með hefðbundnum ríkisskuldabréfum með föstum vöxtum en þar sem fyrirsjáanlegt var að vextir færu lækkandi mátti því gera ráð fyrir miklum gengishagnaði á skuldabréfunum hjá bönkunum. Því var brugðið á það ráð að stofna nýjan skuldabréfaflokk hjá ríkissjóði, þ.e. skuldabréf með breytilegum vöxtum. Vaxtaviðmið bréfanna var skilgreint sem innlánsvextir Seðlabanka Íslands á hverjum tíma þó að þeir væru frekar háir í byrjun en þeir eru nú 3,25%. Þannig mundi ríkissjóður sjálfur njóta góðs af vaxtalækkuninni.

Lokagjalddagi skuldabréfaflokksins er á árinu 2018 eða á svipuðum tíma og gjalddagi hinna víkjandi lána. Þrátt fyrir að lán bankanna séu veitt með ríkisskuldabréfum í krónum eru skuldabréfin gefin út af bönkunum í evrum til að minnka gjaldeyrismisvægi í efnahagsreikningum þeirra. Vaxtakjör banka eru þriggja mánaða millibankavextir í evrum að viðbættu 4% álagi fyrir fyrstu fimm árin og síðan 5%. Í dag eru þeir grunnvextir 1,43% og greiða því bankarnir miðað við stöðuna í dag 5,43% vexti í evrum af skuldabréfum til ríkissjóðs en fá í staðinn greidda 3,25% vexti í krónum úr ríkissjóði. Ríkissjóður er því með jákvæðan vaxtamun af þessum lánveitingum.

Nú kann að vera að mönnum finnist þetta tæknilegar útskýringar en þetta eru útskýringar sem fram koma í skýrslunni.

Samningar varðandi Landsbankann eru þannig úr garði gerðir að ef til verður skilyrt skuldabréf vegna aukningar eigna mun gamli bankinn afhenda ríkissjóði hlutabréf í sinni eigu í sömu hlutföllum og hið skilyrta hlutabréf verður til. Samkvæmt ársfjórðungsuppgjöri Landsbankans er skilyrta skuldabréfið nú um 30 millj. kr., sem er um 33% af umsaminni hámarksfjárhæð skuldabréfsins, sem er 92 milljarðar. Miðað við þessa stöðu þarf Landsbanki Íslands, þ.e. gamli bankinn, að afhenda ríkissjóði án endurgjalds hlutabréf sem nema um 8 millj. kr. að nafnvirði.

Látið hefur verið í veðri vaka að þetta samningsatriði verði til þess að Landsbankinn þjarmi að viðskiptavinum sínum til að reyna að hækka verðmæti hins skilyrta skuldabréfs. Ekkert er fjarri sannleikanum eins og síðustu aðgerðir Landsbankans bera með sér og eins og fram kemur í skýrslu hæstv. fjármálaráðherra og í máli hans hér fyrr í dag var þess vandlega gætt að hin skilyrta aukning næði aldrei til lána einstaklinga heldur einungis til fyrirtækja þar sem ágreiningur var mikill um rétt verðmat.

Hæstv. forseti. Mikilvægt er fyrir ríkissjóð að farið sé að huga að því að losa um eignarhluti ríkissjóðs í bönkunum og greiða upp ríkisskuldabréfin. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur fjallað um endurreisn íslenska bankakerfisins og hvernig verð eigna var ákvarðað. Þótt erfitt sé að meta virði eigna í miðri kreppu og á árunum fyrst þar á eftir hafa ytri endurskoðendur bankanna eigi að síður undirritað reikninga bankanna og þar með staðfest að þeir telji að matið á virði eignanna hafi verið rétt á þessum tíma.

Í skýrslu starfsmanna Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í tengslum við aðra endurskoðun efnahagsáætlunarinnar, sem dagsett er 8. apríl 2010, er fjallað um endurreisn bankanna. Þar kemur fram, á bls. 5, að endurfjármögnun bankanna árið 2009 var fyrir fram talin kosta 20,3% af vergri landsframleiðslu en kostaði í raun, vegna þeirra leiðar sem valin var og lýst er í skýrslu fjármálaráðherra, 12,1% af vergri landsframleiðslu. Munurinn er því 8,2 prósentustig eða 40% lægri upphæð en áætlað var. Í skýrslunni er einnig farið yfir jákvæð áhrif á ríkissjóð vegna þessa og á opinberar skuldir. Þar er einnig flóknu ferli endurreisnar bankanna lýst.

Virðulegi forseti. Frá sjónarhóli ríkisfjármála sýnir skýrslan sem hér er til umræðu að endurreisn viðskiptabankanna þriggja hafi heppnast vel og líklegt, miðað við stöðuna í dag, að ríkissjóður fái framlög sín til baka þegar fram líða stundir með ásættanlegri ávöxtun. Ég hvet alla sem hlusta á orð mín til að kynna sér skýrslu fjármálaráðherra um endurreisn viðskiptabankanna og bera það sem þar stendur saman við málflutning stjórnarandstöðunnar hér í dag. Þá munu allir sanngjarnir menn sjá af hverju þessi leið var farin í erfiðu máli og að hagur Íslendinga var varinn.

Það er vissulega rétt að bankahrunið kostaði okkur miklar fjárhæðir og hafði í för með sér óréttlátar afleiðingar fyrir heimili og fyrirtæki. Kreppan hefur haft afdrifarík áhrif á hagkerfið allt en ekki síst á atvinnustig og ráðstöfunartekjur heimila. Endurreisn fjármálakerfisins var einnig mjög kostnaðarsöm fyrir ríkissjóð. Skýrslan sem hér er til umræðu sýnir að valin var skásta leiðin til endurreisnar bankanna eftir langt og flókið ferli. Niðurstaðan dró verulega úr útgjöldum ríkissjóðs miðað við það sem áætlað hafði verið og skiptir það mjög miklu máli á erfiðum tímum.



[11:47]
Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Þegar maður hlustar á það sem kemur fram í þessari umræðu og við lestur skýrslu hæstv. fjármálaráðherra er sú hugsun mér efst í huga hversu lítið við höfum lært. Skýrsla fjármálaráðherra staðfestir að það er verið að nota sömu aðferðafræðina og þegar verið var að semja um Icesave. Hún sýnir líka og sannar hversu mikilvæg lýðræðisleg umræða er, það er ástæðan fyrir því að Alþingi er eins og það er, að hér leggjum við fram mál og við tökum umræðuna, við hlustum á sjónarmið annarra og tökum síðan ákvörðun í framhaldi af því. Skýrsla hæstv. fjármálaráðherra staðfestir gallana við að gera þetta ekki. Hún staðfestir hættuna við það að gefa framkvæmdarvaldinu of mikið vald yfir svona stórum ákvörðunum, að það geti tekið jafnstórar og mikilvægar ákvarðanir án þess að það fari nokkurn tíma fram umræða innan veggja þingsins um hvort þetta sé rétta leiðin eða ekki.

Hæstv. fjármálaráðherra fór líka í gegnum það að nákvæmlega sömu aðilar og töluðu fyrir því að best væri að skrifa undir skuldbindingar upp á hundruð milljarða í vaxtakostnað ráðlögðu líka varðandi uppgjör bankanna, fjármálaráðuneytið, Seðlabankinn, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, og svo tróðu menn Fjármálaeftirlitinu líka þarna inn.

Ef við rifjum upp hvernig okkur var tilkynnt um þessar ákvarðanir þá var haldinn blaðamannafundur og stuttu áður fengu þingmenn að vita að ætlunin væri að gera þetta. Sú sem hér stendur tók þá ákvörðun að mæta á þann blaðamannafund vegna þess að það virtist vera eina leiðin sem þingmaður, sem kjörinn fulltrúi þjóðarinnar, að fá einhverjar upplýsingar um hvað væri nákvæmlega verið að gera. Maður hafði heyrt orðróm, maður hafði heyrt sögur, maður hafi reynt að spyrjast fyrir í þinginu, maður hafði reynt að spyrjast fyrir í nefndastarfi, en besta leiðin virtist vera að mæta á blaðamannafund og spyrja þá beint sem voru að semja við kröfuhafana. Og þar, eins og kemur fram í þessari skýrslu, hafði maður því miður rétt fyrir sér, að það voru teknar ákvarðanir sem að mínu mati voru einstaklega óskynsamlegar.

Hv. þm. Oddný Harðardóttir fór í gegnum það í ræðu sinni að þetta hefði verið besta mögulega ákvörðun sem hægt var að taka og það sæjum við núna á hinum endurreistu bönkum. Í þingsályktunartillögu sem við framsóknarmenn lögðum fram fyrir tveimur árum, eina tillagan sem komið hefur inn í þingið þar sem rædd er hugmyndafræði um hvernig við eigum að endurreisa bankakerfið, töluðum við um að nýju bankarnir verði of stórir með lág meðalgæði á lánasöfnunum, við töluðum um að þeir verði illa samstilltir, það verði mikil áhætta hjá Seðlabankanum í viðskiptum við bankana, þeir muni illa geta þjónað fyrirtækjum og nú getum við bætt við heimilunum, og það verði gífurlega miklir hagsmunaárekstrar við það fyrirkomulag sem þarna verði sett upp. Við færðum líka rök fyrir því að það væri hægt að leggja fram minni fjármuni en áður hafði verið áætlað eða 248 milljarða og jafnvel ef við mundum endurreisa betri banka væri möguleiki að lækka eiginfjárkröfuna frá FME niður í 8%. Allt þetta var hunsað.

Það sem mér er efst í huga hér er að hæstv. fjármálaráðherra gerði sömu mistök og ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar í aðdraganda hrunsins, að þeir ræddu ekki hlutina, þeir töluðu ekki um hvað ætti að gera. Þeir höfðu ekki einu sinni vit á því að tala við sína eigin stuðningsmenn um það sem þeir voru að gera.



[11:52]
Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Við ræðum skýrslu fjármálaráðherra í mjög svo skertum tíma miðað við það sem skýrslur almennt eru ræddar þar sem talsmenn þingflokka hefðu haft 20 mínútur og þingmenn sjálfir 15 mínútur. Þetta er dæmi um þann feluleik sem meiri hluti þingsins er í með þessa skýrslu.

Þessi skýrsla fjármálaráðherra er einfaldlega hrikalegur vitnisburður um aðgerðir manns sem virðist ekki hafa haft hugmynd um hvað hann var að gera eða þá að hann hefur verið algerlega skeytingarlaus um almannahag. Þegar skýrslan er lesin skýrist raunar vel hvers vegna hæstv. fjármálaráðherra reyndi að láta sem minnst fyrir henni fara og hvers vegna stjórnarmeirihlutinn er sama sinnis og vill ekki að hún sé rædd í þaula. Skýrslan sýnir svart á hvítu hvernig fjármálaráðherra og ríkisstjórn Íslands gaf skilanefndum gömlu bankanna skotleyfi á íslenska skuldara, fórnaði hagsmunum íslenskra heimila og fyrirtækja til að vernda hagsmuni erlendra kröfuhafa og gömlu bankanna. Svo koma þeir hér upp stjórnarliðar hver á fætur öðrum og þylja upp tölur eins og ekkert sé sjálfsagðara.

Frú forseti. Þegar nýju bankarnir voru reistir á rústum hinna gömlu voru öll innlend innlán færð yfir í nýju bankana og mynduðu þau uppistöðuna af skuldum hinna nýju banka. Yfirlýsing var líka gefin um ábyrgð ríkissjóðs á öllum innlendum innlánum. Til mótvægis voru lánasöfn gömlu bankanna, þ.e. lán til einstaklinga og fyrirtækja í rekstri stórra sem smárra, færð yfir í þá nýju með miklum afskriftum. Afskriftir áttu að ganga til viðskiptavina.

Í skýrslunni kemur fram að unnar voru nákvæmar greiningar og afskriftaþörf hjá hverju einstöku fyrirtæki þar sem lánafyrirgreiðsla var 2,5 milljarðar eða meira en smærri lán til fyrirtækja og lán til einstaklinga voru metin í einsleitum söfnum. Þessi matsvinna hefði því átt að geta leitt til greiðrar og skjótrar úrvinnslu á málum skuldara hinna nýju banka ef við hana hefði verið stuðst við endurreisn hagkerfisins en svo var hins vegar ekki.

Skýrslan sýnir svart á hvítu að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur ákvað að breyta um stefnu í þessum efnum í febrúar 2009 og víkja frá markmiðum neyðarlaganna frá 2008. Í stað þess að ganga frá skuldabréfi vegna yfirfærðra eigna á matsverði var ákveðið að ganga til samninga við kröfuhafa gömlu bankanna um verðmæti þeirra eignasafna sem flutt voru yfir í nýju bankana, en um þetta má lesa í kafla 2.4.2 á bls. 22 í skýrslunni. Það vekur sérstaka athygli að þessi stefnubreyting, sem sögð er til komin til að reyna að friðþægja órólega erlenda kröfuhafa bankanna, var ákveðin tveimur mánuðum áður en Deloitte og Oliver Wyman skiluðu skýrslu um matið á niðurfærslunum en hún var lögð fram 22. apríl 2009. Í skýrslunni segir m.a. orðrétt, með leyfi forseta:

„Eftir því sem tíminn leið frá falli bankanna fór óánægja kröfuhafa gömlu bankanna, ekki síst þeirra erlendu, vaxandi. Sjónarmið þeirra var að lagt væri upp með áætlun sem væri einhliða, ekki væri gætt sjónarmiða þeirra og því yrðu þeir óhjákvæmilega að leita réttar síns hjá þar til bærum yfirvöldum.“ — Og svo segir, frú forseti: „Þrátt fyrir að þetta sjónarmið væri ekki réttmætt var orðið ljóst í ársbyrjun 2009 að gera yrði breytingar á upprunalegum áætlunum um endurreisn bankanna.“

Með þetta í huga ákvað ríkisstjórnin að koma á formlegum samningaviðræðum og fyrir hönd ríkisins fékk fjármálaráðuneytið það verkefni að leiða og samræma þessar viðræður, en það ráðuneyti fer með eignarhald ríkisins í nýju bönkunum. Þetta skref sem hæstv. ríkisstjórn tók er eitthvert mesta afglapaskref í sögu efnahagsmála á Íslandi.

Rammasamningar náðust svo síðari hluta árs 2009, í október og nóvember 2009, við þessa banka. Það er athyglisvert að á nákvæmlega sama tíma eða hinn 30. október 2009 samþykkti Alþingi lög nr. 107/2009, um endurreisn fjárhags heimila og fyrirtækja. Nákvæmlega samtímis því var samninganefnd hæstv. fjármálaráðherra að véla nýja samninga við skilanefndir bankanna til að hafa þá lagasetningu að engu. Það er því greinilegt að ríkisstjórnin ætlaði sér aldrei að standa við lögin um endurreisn fjárhags heimila og fyrirtækja.

Hvað var svo eiginlega samið um? Í stuttu máli var verið að opna leiðir fyrir skilanefndir gömlu bankanna til að láta endurmeta til hækkunar útlánasöfn nýju bankanna þrátt fyrir niðurfærsluskýrslur Deloitte og Olivers Wymans og opna leiðir til að fénýta betur yfirfærð lánasöfn. Á venjulegri íslensku heitir þetta, frú forseti, að skilanefndum og kröfuhöfum var gefið leyfi til að mergsjúga íslensk heimili og fyrirtæki. Hvernig fóru svo bankarnir að? Ólafur Arnarson svarar því ágæta í einni af fjölmörgum greinum sínum um málið en þar segir hann m.a., með leyfi forseta:

„Fyrirtæki eru felld eða þvinguð til að afhenda eignir í skuldauppgjörum. Afskriftir eyrnamerktar lánasöfnum þeirra samkvæmt Deloitte/Wyman eru leystar upp. Eignir teknar á hrakvirði á bækur bankans og síðan seldar inn í dótturfélög hans á matsvirði. Þannig stofnast söluhagnaður á bókum bankans. Þessi hagnaður styrkir eigið fé hans. Eftir sitja með sárt ennið eigendur fyrirtækja, sem bankinn hefur í raun og veru rænt með sérstöku samkomulagi við Steingrím J. Sigfússon, fjármálaráðherra. Fjársvik, myndu einhverjir kalla svona atferli.“

Hér gerir sem sagt ríkissjóður Íslands samkomulag við erlenda kröfuhafa fyrrum stærsta banka Íslands um rétt þeirra til að fénýta eignir viðskiptavina bankans eins og þeir mögulega geta í stað þess að ganga til endurskipulagningar og afskrifta eins og upphaflega hafði verið gert ráð fyrir.

Frú forseti. Spurningin sem hefur enn ekki verið svarað er sú: Af hverju í ósköpunum var þetta gert svona? Hvers vegna gerir íslenskur fjármálaráðherra svona samning um að fórna íslenskum heimilum og fyrirtækjum í þágu erlendra kröfuhafa? Málið er að vísu ekki flókið og liggur ljóst fyrir, sama hvað hæstv. fjármálaráðherra segir þegar hann gefur þær skýringar einar um málefni skuldara og þjónkun við erlenda kröfuhafa að ef ekki hefði verið orðið við kröfum þeirra um að blóðmjólka íslensk heimili og fyrirtæki hefðu orðið margra ára málaferli og hefur hann sagt að ef ekki hefði verið gefið eftir hefðu menn þurft að kljást við kröfuhafana og herskara þeirra af lögfræðingum.

Frú forseti. Það er deginum ljósara að það hefði enginn dómstóll tekið til greina kröfur vogunarsjóðanna um að meira félli í þeirra hlut en mat Deloitte kvað á um, ekki síst vegna þess hve vandað það var. Þá er spurningin: Hvers konar afstaða er þetta eiginlega hjá fjármálaráðherra þjóðar sem er að fara í gegnum algert efnahagshrun? Er maðurinn einfaldlega ekki að gera það sem honum hefur verið falið að gera, þ.e. að sýna ábyrgð og festu í því að gæta hagsmuna þjóðarinnar? Heldur betur ekki.

Frú forseti. Nú höfum við fyrir framan okkur skýrslu frá fjármálaráðherra sjálfum sem sýnir svart á hvítu að hann gaf erlendum vogunarsjóðum skotleyfi á íslenskt atvinnulíf og heimili. Það var ekki af neinu gáleysi heldur mjög vísvitandi er ráðherrann hvarf sérstaklega frá stefnu fyrri ríkisstjórnar sem tryggt hefði leiðréttingu skulda fyrirtækja og heimila og þar með stuðlað að öflugri endurreisn íslensks atvinnu- og fjármálalífs. Það liggur því fyrir hvað hæstv. fjármálaráðherra gerði og gerði rangt og hvaða afleiðingar það hafði og hvað hann hefði átt að gera til að forða tjóni. (Forseti hringir.) Þetta eru einhver mestu afglöp sem nokkurn tíma hafa verið gerð í embættisfærslu á Íslandi.



[11:59]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla að byrja á því að svara ákalli hæstv. fjármálaráðherra og þakka honum kærlega fyrir þessa skýrslu og fyrir það tækifæri að fá að ræða hana hérna, og þótt fyrr hefði verið. Þetta er mjög merkileg skýrsla, margar og miklar upplýsingar koma þarna fram. Mér fannst nokkuð merkilegt hvað hæstv. fjármálaráðherra var brattur, eiginlega eins og hans er háttur jós hann skömmum yfir okkur í stjórnarandstöðunni fyrir að hafa ekki gert hitt og þetta og skilja ekki hversu frábær hann og hans ríkisstjórn eru. Það er efni í aðra ræðu.

Þetta er sami hæstv. fjármálaráðherra og hefur kveðið upp þann dóm að venjulegt fólk hafi ekki tapað neinu í hruninu. Eignatap fjölskyldnanna sem hafa horft á virði fasteigna sinna hrynja, lánin hækka og launin lækka er þá væntanlega tap fjárglæframannanna. Þetta er ekki venjulega fólkið. Það er líka athyglisvert í þessari skýrslu að fara yfir söguna vegna þess að hún mun dæma okkur öll, það er það sem við höfum lært af sögunni.

Það er farið mjög vel yfir valkostina sem ríkisstjórn Íslands stóð frammi fyrir við fall bankanna. Neyðarlögunum er gefin sú einkunn að setning þeirra hafi verið eina færa leiðin fyrir ríkisstjórn Íslands. Hvað gerði stjórnarandstæðingurinn Steingrímur J. Sigfússon þá? Hann sat auðvitað hjá, hann tók ekki ábyrgð á neyðarlögunum, það var ekki hans að taka ábyrgð á þeim. Þetta er sami maðurinn og talar hæst um ábyrgð stjórnarandstöðunnar núna og skammar okkur í stjórnarandstöðunni fyrir að þvælast fyrir öllum hinum misvitru ákvörðunum ríkisstjórnarinnar. En það er málið eins og hér hefur komið fram að ríkisstjórnin hefur tekið sér stöðu með kröfuhöfunum og gegn íslenskum almenningi.

Hér hefur komið fram að Fjármálaeftirlitið galt varhuga við þeirri stefnubreytingu að kröfuhafarnir fengju að reka bankana því að hagsmunir þeirra færu ekki saman við hlutverk fjármálastofnana og yrðu því andstæðir hagsmunum viðskiptamanna bankanna. Með galopin augun og eftir leiðsögn hæstv. fjármálaráðherra valdi ríkisstjórnin þá leið að leyfa kröfuhöfunum að reykspóla á Range Rover-num í burtu með allan mögulegan ávinning íslenska bankakerfisins og láta hagsmuni almennings lönd og leið. Það var ákvörðunin. Þetta er enn eitt kornið í mæli misheppnaðrar endurreisnar. Of mikið fé hefur farið í bankana án þess að því hafi fylgt nokkrar kvaðir. Við sitjum uppi með fullan reikning af stökkbreyttum lánum í eigu andlitslausra kröfuhafa, vogunarsjóða eins og sagan segir.

Hverjir eiga bankana? Kröfuhafarnir eru ekki þeir sömu og þeir voru upphaflega þegar vinstri stjórnin fann sig knúna þvert gegn lagaskyldu til að semja við þá. Hæstv. fjármálaráðherra hefur lýst því og útskýrt af hverju það var gert. Jú, það var til að koma í veg fyrir málaferli og lögfræðikostnaðurinn var svakalegur. Hæstv. fjármálaráðherra fullyrti 1. apríl 2009 á opnum fundi fjárlaganefndar að það eitt væri víst að hörmungarsagan frá árinu 2009 yrði ekki endurtekin núna þegar hann færi í stórfellda einkavæðingu. En hver var sú hörmungarsaga? Var það ekki að mati vinstri manna, með hæstv. ráðherra Steingrím J. Sigfússon í broddi fylkingar, að einkavæðingin 2002 hefði leitt til falls íslenska bankakerfisins? Að eigendur bankanna, þeir sem keyptu bankana af ríkinu árið 2002, hefðu verið ómögulegir og ekki hæfir, að þeir hefðu farið með íslenskt samfélag í gjaldþrot og ekki staðið undir þeim kröfum sem gera þarf til eigenda fjármálafyrirtækja?

Hvernig lýsir þessi sami maður eigendum tveggja stærstu bankanna í dag, bankanna sem hann einkavæddi fyrir luktum dyrum fyrir tæpum tveimur árum? Hæstv. fjármálaráðherra hafði ekki miklar áhyggjur af þessu núna vegna þess að það væri kominn eldveggur. Kröfuhafarnir væru ekki þeir sömu, við vissum ekki hverjir þeir væru en þeir kæmu aldrei að rekstri bankanna. Ég veit ekki alveg hvaðan hann fékk þær upplýsingar. Árið 2008 skrifaði stjórnarandstæðingurinn Steingrímur J. Sigfússon grein um vogunarsjóði undir fyrirsögninni „Græðgi sem þekkir engin takmörk“. Já, vogunarsjóðirnir eru samkvæmt þessari grein gráðugir og þeir græða á þeim veikustu auk þess að vera fjarlægir og ópersónulegir, svo notuð séu orð sem hann hefur sjálfur notað um vogunarsjóði sem ég endurtek að eiga víst stærsta hlutann af íslensku einkavæddu bönkunum. Þeir voru gráðugir, ópersónulegir, fjarlægir og græða á þeim veikustu. Það eru eigendurnir sem hæstv. fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon færði hið nýja bankakerfi Íslands. Og hann hefur ekki áhyggjur af því. Ég ætla að fá að lesa beint upp úr þessari grein vegna þess að hún er stórmerkileg. Undir millifyrirsögninni „Grætt á þeim veikustu“ segir, með leyfi forseta:

„En það nýjasta sem rekið hefur á fjörur undirritaðs og tengist framferði sumra vogunarsjóða (á ensku er stundum talað um „vulture funds“ eða „hrægammasjóði“ í þessum tilvikum) er af því tagi, að það vekur spurningar um hvort siðleysi og græðgi í þessum heimi séu yfir höfuð einhver takmörk sett. Hér vísa ég til þess að nú liggur fyrir að allmargir vogunarsjóðir hafa tekið upp á því að kaupa upp skuldir fátækra og oft mjög skuldugra ríkja, höfða síðan mál gegn ríkjunum eða knýja þau með málaferlum eða hótunum um málaferli og jafnvel hótunum um skemmdarverk á veikburða efnahagslífi þeirra til að greiða lánin að fullu til baka og hina upphaflegu kröfu með vöxtum.“

Af hverju samdi hæstv. fjármálaráðherra við þessa kröfuhafa? Jú, það var til að koma í veg fyrir málaferli. Lögfræðikostnaðurinn, sagði hann hér áðan, var svívirðilegur. Þetta sem helst nú varast vann varð þó að koma yfir hann.

En þessi sinnaskipti fjármálaráðherrans koma mér svo sem ekkert á óvart. Við sjáum þetta nánast á hverjum degi. Þetta er maðurinn sem var á móti einkavæðingu og hann fór fyrir stærstu einkavæðingu Íslandssögunnar fyrir luktum dyrum. Hann er á móti aðild að ESB og hann er núna á hraðferð með okkur inn í Evrópusambandið. Og ekki einu sinni heldur tvisvar, eins og við fréttum nú síðast af með ákvörðun Atlantshafsbandalagsins í morgun, staðfestir ríkisstjórn Vinstri grænna með fulltingi Vinstri grænna þátttöku Atlantshafsbandalagsins í aðgerðum í Líbíu. Sinnaskiptin koma þannig ekki á óvart. Þessi skýrsla sýnir fram á það að sú stórfellda einkavæðing sem hæstv. fjármálaráðherra stóð fyrir er staðreynd og hæstv. fjármálaráðherra missti einfaldlega tökin á einkavæðingunni.



[12:07]
Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Hæstv. fjármálaráðherra stofnaði þrjú hlutafélög um innlenda starfsemi gömlu bankanna og í bráðabirgðastofnefnahagsreikningum þeirra sem gerðir voru 14. nóvember 2008 var gert ráð fyrir því að heildarefnahagsreikningur nýju bankanna yrði tæplega 3 þús. milljarðar kr. með tæplega 400 milljarða eiginfjárframlagi ríkisins. Gert var ráð fyrir því í endurreisnaráætluninni að óháður aðili, Deloitte, mundi svo leggja mat á yfirfærðar eignir og skuldir og var matinu skilað í apríl 2009. Matið gaf til kynna að endurheimtur lánanna gætu verið á bilinu 47–55% og útgefin skuldabréf til gömlu bankanna yrðu frá tæplega 500 milljónum upp í rúmlega 750 milljarða.

Í samningagerð Fjármálaeftirlitsins um framkvæmd matsins varð snemma ljóst að matseðillinn mundi ekki skila einni tölu heldur ákveðnu verðbili. Þá var einnig orðið ljóst að kröfuhafar bankanna voru mjög ósáttir við fyrirliggjandi áætlun um verðmatið, töldu hana einhliða og að þeir hefðu ekki möguleika á að gæta hagsmuna sinna.

Menn hafa hér rætt um einhliða ákvörðun sem hefði átt að koma til og ég heyrði ekki betur en að formaður Sjálfstæðisflokksins óskaði eftir því, en hann ætti að vita manna best að slíkt hefði í för með sér alvarlegt inngrip í eignarrétt og jafnvel brot á stjórnarskrá. Það varð því sem sagt snemma ljóst að mjög erfitt mundi reynast að ná samkomulagi um ákveðið verðmat enda matið háð mismunandi forsendum. Markmið ríkisins var að semja um ákveðið grunnmat, þ.e. að fá lánasafnið yfir á sem lægstu verði sem stofnfjármögnun bankanna gæti svo tryggilega grundvallast á. Þegar upp var staðið reyndist fjárfesting ríkissjóðs vegna endurreisnar bankanna þriggja um 135 milljarðar kr. vegna hlutabréfaframlaga og svo 55 milljarðar vegna víkjandi lána, samtals 190 milljarðar. Auk þess kom til lausafjárstuðningur.

Endanlegt mat var sem sagt í neðra bili verðbils Deloitte en mat kröfuhafa í efra bilinu og var matið því í raun og veru samþykkt af báðum aðilum þegar í samningaviðræðurnar var farið. Í upphaflegum endurreisnaráætlunum var gert ráð fyrir því að hægt væri að taka einhliða ákvörðun um útgáfu skuldabréfs, en svo varð snemma ljóst í viðræðum aðila að um verðbil yrði að ræða. Menn verða sem sagt ósammála um verðmatið og ef ríkið hefði einhliða sagt: Matið er þetta, við ætlum að yfirtaka lánasafnið á því verðmati, geta allir gert sér grein fyrir því að slíkt hefði farið í bága við eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar og menn verið komnir út á mjög hálan ís. Við værum því í raun að ganga á eignir annarra án þess að í staðinn kæmi sanngjarnt endurgjald.

Hinir íslensku nýju bankar fullyrtu að lánin væru ekki betri en svo að ríflegur afsláttur þyrfti að koma til en erlendu kröfuhafarnir fullyrtu að ástandið væri miklu betra, þ.e. að endurheimtur af lánunum væru betri, og þess vegna væru nýju bankarnir með fulltingi ríkisins að taka af þeim eignir.

En hver varð svo lausnin? Hún varð sú að miða við lægra verðmatið og koma þannig til móts við sjónarmið nýju íslensku bankanna en ef endurheimturnar yrðu betri og meira í átt við það sem gömlu bankarnir töldu, þ.e. erlendu kröfuhafarnir, ætti viðkomandi að njóta þess.

Hér hefur þessi lausn verið gagnrýnd án þess að menn hafi komið með aðra betri. Ég hef ekki heyrt neinn stjórnarandstæðing sem hér hefur talað og gagnrýnt þessa leið harðlega benda á aðra lausn sem gæti tekið á þeim vandamálum sem menn stóðu frammi fyrir. Hefðu menn viljað nota verðmat nýju bankanna, lægra verðmatið, og taka áhættu á dómstólaleið, hefðu menn viljað fara miðgildið og þar með greiða hærra verð fyrir lánasafnið en við gerum í raun eða hefði átt að miða við hærra matið og borga þannig meira? Ég tel bestu lausnina þá að miða við lægra matið en viðurkenna um leið að ef endurheimtur yrðu betri væri ekki verið að ganga á eignarréttinn með því að hinir erlendu kröfuhafar nytu þess þá. Hér er mikilvægt að hafa í huga að hinir erlendu kröfuhafar njóta þess eingöngu ef lán til fyrirtækja standa sig betur, en lán einstaklinga og heimila eru undanskilin þessu skilyrta framlagi.

Í raun má segja að málið snúist um að ríkið hefði þurft að leggja fram 385 milljarða ef það hefði yfirtekið alla bankana þrjá. Það leggur hins vegar fram 135 milljarða. Önnur fjárútlát sem hafa tengst þessari umræðu í dag og t.d. Morgunblaðið hefur birt á forsíðu sinni tengjast öðrum þáttum og þau útgjöld hefðu komið til hvort sem ríkið hefði keypt einn banka eða þrjá. Þannig má segja að samanburðurinn sé sá að hefði ríkið keypt bankana þrjá hefði það lagt fram á bilinu 200–250 milljörðum kr. meira til að yfirtaka bankana þrjá en 135 milljarða sem dugðu til að kaupa einn banka og lítinn hlut í hinum tveimur. Þannig má segja að ef ríkið hefði keypt alla bankana þrjá hefði stuðningur þess við endurreisn bankakerfisins heilt yfir numið á bilinu 600–700 milljörðum kr. Þess vegna má segja að sparnaðurinn hafi verið um 250 milljarðar kr. með því að kaupa bara einn banka en það er um 46 milljarða vaxtakostnaður bara á árunum 2009 og 2010. Þá er ég ekki að tala um það sem við þurfum að borga í vexti 2011 o.s.frv.

Það má því segja að leið Sjálfstæðisflokksins í þessari umræðu, hann hefur sagt að ríkið hefði átt að koma inn og yfirtaka alla bankana þrjá, hefði kostað ríkissjóð 46 milljarða í vaxtakostnað árin 2009 og 2010. Markmið ríkisins og hinna nýju banka var að semja um lágt eignamat, grunnmat sem gæti svo hækkað síðar ef vel gengi. Mat Fjármálaeftirlitsins var að tvíhliða samkomulag mundi ekki síður gagnast vel en óháð mat við ákvörðun endurgjalds í samræmi við neyðarlög. Slíkt mundi draga úr deilum og málaferlum í kjölfarið og styðja þar með miklu betur við rekstur hinna nýju fjármálafyrirtækja og nýja fjármálakerfið í heild. Við það bættist sá ávinningur að tvíhliða samningar leiða til þátttöku gömlu bankanna í þeirri áhættu sem tengist óvissu á verðmatinu og umtalsvert fjárframlag við endurreisn nýja bankakerfisins sem mundi stuðla að auknu öryggi þess á þeim viðsjárverðu tímum sem við lifum nú. Ljóst er að ríkiseign allra bankanna þriggja hefði bundið mun meira af almannafé í stuðningi við fjármálakerfið en annars varð raunin. Eiginfjárframlag eigandans til fjármálafyrirtækisins er það fé sem fyrst tapast ef framvindan verður óhagstæð og því mundi ríkissjóður sem eini eigandi bankanna þriggja bera alla áhættuna af rekstri þeirra, óskipta, ef þetta hefði orðið raunin og leið Sjálfstæðisflokksins, flokks einkaframtaksins, að ríkisvæða bankana þrjá hefði leitt það í ljós Við þær kringumstæður var hætt við að geta ríkisins til að mæta frekari áföllum á fjármálamarkaði yrði minni og lánshæfismat þess yrði lengur en ella að styrkjast. Eignaraðild gömlu bankanna hafði hins vegar í för með sér að umtalsvert nýtt fjármagn kom inn í íslenska launakerfið. Menn deila hagnaðarvon bankanna ef vel gengur en það stuðlar að því markmiði neyðarlaganna að tryggja sanngjarnt endurgjald fyrir yfirfærðar eignir og dregur enn fremur úr matsáhættu.

Ég vil því segja, virðulegi forseti, að mér finnst ótrúlega holur hljómur í málflutningi þeirra sem hér hafa talað í dag og gagnrýnt þessa leið því að mér finnst mönnum ekki hafa tekist að benda á aðra betri leið sem hefði verið hægt að fara. (Gripið fram í.) Ég heyri ekki betur á formanni Sjálfstæðisflokksins en að hann hefði frekar viljað að ríkið hefði yfirtekið alla bankana þrjá. Eins og ég hef sýnt fram á í minni ræðu hefði það kostað okkur um 200–250 milljörðum kr. meira sem hefur í för með sér umtalsverðan vaxtakostnað fyrir ríkið. Á hvaða mati hefðu menn byggt þá yfirtöku? Á lægra matinu, miðgildinu eða hærra matinu? Eins og ég hef sömuleiðis sýnt hér fram á hefði það haft í för með sér umtalsverð vandræði. Þess vegna var langhyggilegast að hafa verðmatið opið en láta endurheimtur af lánunum ráða því hvert matið yrði í raun og veru.

Ef menn hefðu farið alla leið og ákveðið einhliða hvert matið ætti að vera, hvert svo sem matið hefði á endanum orðið, hefðu menn líklega gengið á eignarrétt annarra og greitt umtalsvert hærri upphæðir úr ríkissjóði með tilheyrandi vaxtagjöldum. Þá hefðu menn verið í óvissu með eignarhaldið vegna þess að vitaskuld hefðu fylgt úrlausnir fyrir dómstólum, kærur o.s.frv. á þessa einhliða ákvörðun ríkisins. Sú leið sem sjálfstæðismenn, úr flokki einkaframtaksins, hefðu farið í að ríkisvæða bankana þrjá hefði kostað ríkið 46 milljörðum meira í vaxtakostnað á undanliðnum tveimur árum. Það er lykilatriðið í umræðunni í dag.

Það er mikilvægt að við ræðum þessa skýrslu í þaula, enda hafa verið teknar mikilvægar ákvarðanir um endurreisn fjármálakerfisins á undanförnum missirum, en við skulum gæta að því að hafa þann málflutning og þau skoðanaskipti byggð á gögnum og gæta þess að fara rétt með staðreyndir. Og staðreyndirnar eru þær að ríkið gat valið á milli þess að kaupa þrjá banka eða einn, það ákvað að kaupa bara einn banka og spara sér um leið 200–250 milljarða í eiginfjárframlag og tæplega 50 milljarða í vaxtakostnað á árunum 2009 og 2010.



[12:17]
Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég vil í upphafi máls míns bregðast aðeins við ræðu hv. þm. Magnúsar Orra Schrams sem fullyrti áðan að engar tillögur eða hugmyndir hefðu komið frá stjórnarandstöðunni um endurreisn bankakerfisins og því væri nokkuð holur hljómur í málflutningi þeirra sem tekið hefðu til máls á undan mér. Nú er það svo að þingflokkur Framsóknarflokksins lagði fram árið 2009 þingsályktunartillögu um endurreisn íslensku bankanna þar sem við bentum á ákveðnar leiðir til að standa betur að því að þeir væru ekki eins stórir og þeir eru í dag og fleira, og ég hvet hv. þingmann til að kynna sér það. Það er því ekki hægt að bera það upp á þingflokk Framsóknarflokksins að hann hafi ekki verið með efnislegt innlegg í þetta mikilvæga mál. Enda erum við að ræða um stórmál. Ég vil þakka hæstv. fjármálaráðherra, sem er reyndar ekki staddur hér, fyrir þessa skýrslu (Gripið fram í.) — hæstv. ráðherra er í hliðarsal — sem hann hefur sjálfur lesið yfir. En því miður blasir sú nöturlega staðreynd við okkur að hin norræna velferðarstjórn, og það er staðfest með þeirri skýrslu sem fjármálaráðherrann hefur sjálfur lagt fram í þinginu og við ræðum hér, hefur tekið stöðu með fjármagnseigendum en ekki skuldurum, fjármagnseigendum og erlendum kröfuhöfum sem eiga bankana tvo. Við vitum reyndar ekki hverjir þeir eru og litlar tilraunir hafa verið gerðar til að upplýsa okkur alþingismenn um hverjir keyptu þessa banka í þeirri einkavæðingu sem átti sér stað þegar þeir voru seldir.

Ríkisstjórnin, með hæstv. fjármálaráðherra í broddi fylkingar, ákvað að semja við kröfuhafana. Ríkisstjórnin hafði áhyggjur af óánægju fjármagnseigenda eða hinna meintu kröfuhafa, mun meiri áhyggjur en af stöðu skuldugra heimila. Við fundum það, við framsóknarmenn, þegar við lögðum fram tillögur um það hvernig hægt væri að leiðrétta stökkbreytt lán heimila og fyrirtækja í kjölfar efnahagshrunsins í ársbyrjun 2009. Fálega var tekið í þær tillögur og þegar hv. stjórnarliðar tala um að holur hljómur sé í málflutningi okkar framsóknarmanna þá er það svo að í febrúarmánuði 2009 lagði Framsóknarflokkurinn fram 18 tillögur í efnahagsmálum um hvernig við gætum snúið úr vörn í sókn. Ein af þeim tillögum var um að leiðrétta stökkbreyttar skuldir heimila og fyrirtækja.

Nú er þessi skýrsla búin að sanna það enn eina ferðina að það svigrúm var fyrir hendi ef viljinn hefði verið til staðar. Það vantaði einfaldlega forustu hjá hinni norrænu velferðarstjórn til að taka á skuldavanda heimila og fyrirtækja. Sá vilji var einfaldlega ekki fyrir hendi. Þess í stað eyddi ríkisstjórnin miklum tíma í að tala niður þær hugmyndir og tillögur sem þingflokkur Framsóknarflokksins lagði fram þá.

Það er nöturlegt að horfa á hæstv. fjármálaráðherra koma upp og hreykja sér af þessari skýrslu og þeim árangri sem ríkisstjórnin hefur verið að ná að eigin sögn. Sá árangur er ekki ýkja merkilegur. Hæstv. forsætisráðherra hefur talað um kraftaverk þegar kemur að málefnum skuldugra heimila. Maður veltir því fyrir sér í hvaða veröld hæstv. ráðherrar lifa. Þetta er óhugnanlegur málflutningur og nú síðast var hæstv. fjármálaráðherra að guma sig af því að Svavarssamningarnir hefðu verið svo glæsilegir að við hefðum átt að samþykkja þá á sínum tíma. Það væri orðinn 100 milljarða vaxtakostnaður á þessu ári ef þeir hefðu verið samþykktir.

Það er því eðlilegt að við spyrjum, ekki bara við hér inni heldur hagfræðingar úti í samfélaginu: Á hvaða plánetu er þessi ríkisstjórn? Það er með ólíkindum að fylgjast með í máli eftir máli hvernig ríkisstjórnin, sem í orði kveðnu kallar sig norræna velferðarstjórn, hefur tekið stöðu með fjármagnseigendum á kostnað skuldugra heimila sem gerðu það eitt af sér að fjárfesta í húsnæði en horfðust í augu við þann blákalda veruleika í kjölfar efnahagshrunsins að skuldirnar stökkbreyttust. Það hefur ekki verið neinn vilji fyrir því, með róttækum aðgerðum, eins og við framsóknarmenn höfum talað fyrir, að koma til móts við heimilin, hvað þá fyrirtækin í landinu. Því miður ganga þessir hlutir allt of hægt og ríkisstjórnin verður að fara að breyta um verklag og vinnulag en því miður er ekki margt sem bendir til þess. Mér heyrist á hv. stjórnarliðum að lítið sé hlustað á málflutning okkar í minni hlutanum og þær tillögur sem við höfum þó lagt fram hingað til.



[12:23]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum skýrslu fjármálaráðherra. Það vakti athygli mína að hann tók það sérstaklega fram, sem ætti að vera augljóst, að hann bæri ábyrgð á þessari skýrslu og hefði yfirfarið hana en ekki skrifað hana sjálfur, ég veit ekki hvort nokkur bjóst svo sem við því.

Hvað stendur í þessari skýrslu? Í fyrsta lagi er skýrt tekið fram að neyðarlögin hafi reynst vel og hafi verið eina leiðin sem var fær við þær aðstæður sem voru uppi. Það er áhugavert að hæstv. fjármálaráðherra samþykkti ekki neyðarlögin. Kannski var það vegna þess að neyðarlögin fóru mjög gegn hagsmunum svokallaðra kröfueigenda. Kröfuhafar höfðu á sínum tíma stór orð uppi þegar neyðarlögin voru samþykkt og vönduðu íslenskum stjórnvöldum ekki kveðjurnar. En hins vegar er athyglisvert að hugsa til þess að núna er ríkissjóður að leggja 200 millj. kr. í að koma þeim aðila í fangelsi sem ber mestu ábyrgðina á neyðarlögunum og hæstv. fjármálaráðherra er ábyrgur fyrir því.

Það kemur einnig fram, virðulegi forseti, að breytt var um kúrs. Orðrétt segir, með leyfi forseta, á bls. 5 í skýrslunni:

„Þetta varð til þess að endurreisnaráætluninni var breytt þannig að reynt yrði með samningum að ná niðurstöðu um verðmat frekar en einhliða ákvörðun. Fyrir hönd nýju bankanna leiddi fjármálaráðuneytið viðræðurnar en fjármálaráðherra fór með eignarhald ríkisins í nýju bönkunum. Hinum megin borðsins voru skilanefndir gömlu bankanna studdar af fulltrúum kröfuhafa.“

Skýrara verður það ekki að það var hæstv. fjármálaráðherra sem leiddi þetta. Hann getur ekki skýlt sér á bak við það nema hann sé að segja að hans eigin skýrsla sé fullkomið rugl og ekki mark takandi á staf þar.

Hæstv. fjármálaráðherra hefur mikið talað um að hér sé farið rangt með tölur, menn séu að fara rangt með tölur, og nefndi ákveðna fjölmiðla sérstaklega til sögunnar. En ég vil lesa beint úr skýrslu fjármálaráðherra, með leyfi forseta. Þar segir þegar verið er að ræða um framlögin í tengslum við þetta:

„Samtals var því varið 346 milljörðum kr. til stofnfjármögnunar bankanna eða einungis 40 milljörðum kr. minna en ráðgert var í upphaflegri áætlun.“

Þetta segir í þessari skýrslu hæstv. fjármálaráðherra og skýrara getur það ekki verið. (Gripið fram í.) En ég vek athygli á því, virðulegi forseti, að þessar tölur eru ekki í samræmi við svör hæstv. fjármálaráðherra við fyrirspurnum mínum um framlög til bankanna. Það var því ekki samræmi þar á milli þegar kemur að eiginfjárframlagi og eru ekki öll kurl komin til grafar hvað það varðar.

Förum nú aðeins yfir hver eru rök hæstv. fjármálaráðherra fyrir því að fara í þessa stefnubreytingu en stefnan var lögð þegar menn fóru af stað með neyðarlögin sem allir eru sammála um að hafi farið afskaplega vel. Rök fjármálaráðherra, sem hann fór skýrt í, eru hefðbundin frjálshyggjurök. Einhver hefði verið kallaður ýmsum nöfnum ef hann hefði farið með þau sömu rök og hæstv. fjármálaráðherra fór með áðan. Hann taldi mikilvægt að ríkið ætti ekki bankana og að þeir sem ættu bankana mundu hugsa um langtímahagsmuni þeirra og það væri best fyrir viðskiptavinina. Vandinn er sá að það er mjög illa skilgreint hver á bankana. Það er alveg ljóst að það eru ekki sömu kröfuhafar og töpuðu hvað mest í hruninu. Þessar kröfur hafa gengið kaupum og sölum á mjög lágu verði og ljóst að kröfuhafarnir, sem keyptu eftir hrun, hafa nú þegar haft af þessu nokkuð góðan hagnað. Vandinn er sá að nýju bankarnir eru um margt munaðarlausir.

Önnur rök hæstv. ráðherra voru minni útgjöld fyrir ríkissjóð en hann tekur þá ekki tillit til þess að hugmyndin var sú í þessari þverpólitísku samstöðu innan þingsins meðal allra flokka að mikilvægt sé að ríkið eigi ekki banka, að það kæmi eitthvert endurgjald þegar menn mundu selja þá. Þetta snýst hins vegar um það hvert hagnaðurinn sem verður eftir kreppu fer. Nú eru það ársreikningar bankanna — hagnaður þeirra, sem er mikill, er fyrst og fremst vegna þess að menn eru að endurmeta lán. Sá hagnaður, og það hefur verið sýnt fram á það í hv. viðskiptanefnd, fer beint til kröfuhafanna.

En það var lagt upp með meira en einungis það að semja neyðarlögin á sínum tíma. Hvað átti að gera? Það átti að hagræða í bankakerfinu. Hefur það verið gert? Hefur verið hagrætt í bankakerfinu? Ég vek athygli á ummælum forstjóra Bankasýslu ríkisins sem segir að bankakerfið sé allt of stórt. Við erum ekki enn þá komin að niðurstöðu um hvað eigi að gera við sparisjóðina tveimur árum eftir að okkur var sagt í þessum sal að við þyrftum að drífa löggjöf í gegn vegna þess að það yrði að bjarga þeim, eins og það var orðað.

Það þurfti að fara í skuldaleiðréttingar. Til þess var leikurinn gerður. Hefur það verið gert? Ég vek athygli á því að vanskilalánahlutfallið í nýju bönkunum, nú tveimur og hálfu ári eftir hrun, er 40%. Það er hærra en var í þeim löndum í Asíu sem fóru verst út úr bankakreppunni þar.

Virðulegi forseti. Þegar maður fer að skoða þetta er öllum ljóst að eftirleikurinn hefur verið fullkomin mistök, og á því ber hæstv. ríkisstjórn ábyrgð. Ég vek athygli á orðum hv. þm. Lilju Mósesdóttur, sem þekkir innviði ríkisstjórnarflokkanna betur en við flest. Hvað sagði hv. þingmaður? Benti á hið augljósa orsakasamhengi — þegar menn voru að ganga frá Icesave-málunum var í gangi þjónkun við ESB-umsóknina. Það læðist að manni sá grunur að hér sé það nákvæmlega sama á ferðinni, að menn hafi verið að ganga til þessara samninga með aðildarumsóknina að ESB í huga, fyrst og fremst. Við sáum þetta í Icesave-málinu, við sáum þetta í innstæðutryggingarsjóðsmálinu og þegar menn líta á þetta og fá engin svör frá hæstv. fjármálaráðherra — af hverju var farið í þessa stefnubreytingu og af hverju hefur þeim markmiðum ekki verið náð sem lagt var upp með í byrjun, og allir eru í orði kveðnu sammála um — þá hlýtur maður að hugsa til þess hvort hér sé enn og aftur á ferðinni einhver minnimáttarkennd eða eitthvað þaðan af verra hjá hæstv. ríkisstjórn, að það þurfi að gera allt til að öðlast meinta viðurkenningu forustumanna ESB. Það er gert með því að fórna hagsmunum Íslands í Icesave, í því sem lýtur að endurreisn bankanna og þar með talið í innstæðutryggingakerfinu.



[12:30]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Þegar sumarið lætur aðeins á sér standa og vorið er kalt er gott að geta komið til Alþingis og fengið tilefni til þess undir sumum ræðum að brosa lítið eitt. Það er ótrúleg hugkvæmni sem við höfum orðið vitni að í morgun hjá formanni Framsóknarflokksins og forustu Sjálfstæðisflokksins að efna til þeirrar umræðu að vandi Íslendinga sé ekki fall bankanna heldur endurreisn þeirra. Með svipuðum hætti er hægt að kíma nokkuð þegar formaður Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Bjarni Benediktsson, og varaformaður Sjálfstæðisflokksins ganga í ræðustól Alþingis og lýsa því yfir að alþjóðlegir fjárfestar séu hrægammar. Það er ekki orðræða sem við eigum að venjast úr þeirri átt, en eðlilegt að gefa forustu Sjálfstæðisflokksins nokkuð tilfinningalegt svigrúm því að hún hefur auðvitað nýlega orðið illilega undir í eigin flokki, hefur legið undir ámæli fyrir að ganga of langt til móts við einmitt kröfuhafa, og þarf kannski á því að halda að taka undir ræður formanns Framsóknarflokksins og sá tortryggni og efasemdum og ótta í garð útlendinga hvort sem þeir eru kröfuhafar eða á atvinnuleysisskrá í Reykjavík.

Það gefur samt fullt tilefni til þess, þó að forustu Sjálfstæðisflokksins finnist að hún geti með hvaða hætti sem er talað um þessa aðila, að minna á að hvaða skoðanir sem menn kunna að hafa á vogunarsjóðum þá eru kröfuhafar bankanna af ýmsu tagi. Það er ekki þannig að kröfuhafar í gjaldþrota fyrirtæki séu almennt einhverjir aðilar sem eigi ekki að njóta sanngirni, mannréttinda eða annarra slíka hluta heldur einfaldlega aðilar sem lánuðu fjármálafyrirtækjum sem störfuðu í landinu á ábyrgð þeirra stofnana sem hér eru, lánuðu þeim fé og töpuðu því að mestu leyti. Stundum eru þetta lífeyrissjóðir, lífeyrissjóðir fólks sem hefur verið að safna upp alla sína ævi og það hefur nú tapað þeim sparnaði. Þess vegna er algerlega fráleitt að fjalla um þessi mál þannig að hægt sé að svipta þessa aðila réttindum sínum. Auðvitað var það það sem upp á okkur stóð að ganga frá þessum málum með sanngjörnum hætti. Það er grundvallaratriði og sannarlega ætlum við ekki að taka okkur stöðu sjóræningja eins og í Súdan. Ekki lítum við svo á að okkur sé heimilt að gera upptæka farma þeirra skipa sem eiga leið um lögsögu landsins þó að eigendur þeirra skuli vera af ýmsu tagi, nei fjarri því.

Sannarlega var það líka hluti af alþjóðlegum skuldbindingum sem við í Samfylkingunni höfðum gengist undir með Sjálfstæðisflokknum, og með glöðu geði, yfirlýsingar um að við ætluðum að virða grundvallarleikreglur í samskiptum á fjármálamörkuðum. Þess vegna var auðvitað mikilvægt að ná samningum við þá sem í hlut áttu og ekki síst vegna þess að þegar unnið var að þessu var Ísland í gríðarlegri gjaldþrotahættu og mikilvægi þess að endurreisa hratt og vel orðspor Íslands var sem aldrei fyrr. Örfáum mánuðum áður, síðast þegar við vorum í stjórn með Sjálfstæðisflokknum, var staða málsins sú að enginn vissi með hvaða hætti við ætluðum að fjármagna þetta samfélag og hvort hér yrði til nauðsynlegur gjaldeyrir til að útvega brýnar nauðþurftir á næstu mánuðum. Við vorum að koma út úr algeru neyðarástandi og það verða menn auðvitað líka að hafa í huga.

Ég hélt satt að segja að nokkurt sammæli hefði verið um að það hefði verið snjöll lausn að leysa ágreininginn með því að gera kröfuhafana að hluthöfum í tveimur bankanna, gera þá að haghöfum í samfélaginu í endurreisninni og leysa úr ágreiningnum með þeim hætti að það væri þeirra hagsmunamál að hér gengi allt sem best. Það yrði sameiginlegt hagsmunamál okkar allra. Ég verð að segja að þó að deila megi um ýmislegt í kringum það, og ekki nema sjálfsagt að hafa ýmsar skoðanir á því, þá er sú viðleitni sem hér hefur verið uppi til að hafa mannorðið af hæstv. fjármálaráðherra fyrir að hafa lent þeim málum með þessum hætti vægast sagt ósæmileg og að veifa dómum yfir hæstv. fjármálaráðherra fyrir að reyna á hinum pólitíska vettvangi að leita lausna á málum sem fengu tilstyrk meiri hluta þingheims.

Hér er hins vegar eitt og annað sem full ástæða er til að ræða. Það er ástæða til að ræða það hvað þessi leið kostaði og hvað hin leiðin hefði kostað. Bent hefur verið á að lausafjármögnun eftir þessari leið hafi verið ívið meiri en hefði verið ef við hefðum fjármagnað þetta að fullu með eigin fé. Á móti hefur hæstv. fjármálaráðherra bent á að það sem gerðist við að velja þessa leið á móti var að kröfuhafarnir breyttu 156 milljarða kröfum í eigið fé í íslenska fjármálakerfinu. Auðvitað vegur það þarna á móti.

Sannarlega er ástæða til að fara yfir þessar tölur og skoða hvorn kostinn um sig. En að beitt hafi verið blekkingum eða að um einhver gríðarleg mistök hafi verið að ræða, það hygg ég að sé fjarri öllum sanni. Ég held hins vegar að það sem, og er kannski ekki eitt af því réttmætasta í gagnrýninni, væri þarft að ræða málefnalega í staðinn fyrir þetta pólitíska „jargan“ sem menn hafa haft (Gripið fram í.) hér, ekki síst af hálfu forustu Sjálfstæðisflokksins, er að það hefur tekið allt of langan tíma að koma kröfuhöfunum raunverulega að eignarhaldinu því að það að bankarnir séu í þessari slitameðferð ár eftir ár er sannarlega vandamál og það er ágalli á okkar löggjöf. En það er ekkert sem menn geta hengt hæstv. fjármálaráðherra, Steingrím J. Sigfússon, fyrir. Það er bara vegna þeirrar löggjafar sem hér var í landinu og er á ábyrgð þeirra stjórnmálaflokka sem hér starfa, sennilega miklu meira en Steingríms J. Sigfússonar, dómsmálayfirvalda, slitastjórna og margra annarra. En það er alveg rétt að það er mikilvægt, einmitt til að nýta kostina í þeirri leið sem farin var, að kröfuhafarnir komist sem fyrst að eignarhaldi á hlut sínum í Kaupþingi og Íslandsbanka og hann hætti að vera í þeirri slitameðferð sem hann er og best væri ef þar næðust nauðasamningar.

Hitt gagnrýnisatriðið, sem ég vil taka undir, er ég sannfærður um að verðskuldi málefnalega umræðu en ég held að menn drekki henni í þessum svikabrigslum og í því að reyna að ala á einhvers konar andúð á útlendingum eða lögaðilum sem eru svo óheppnir að eiga kröfur á fyrirtæki sem hér í landinu hafa farið á hausinn og hafa kannski ekkert annað til saka unnið (SKK: … kröfur …) eða lánuðum þeim bara í upphafi. Það er ekki svo, hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, að allar kröfur í þessi þrotabú séu bara í höndum einhverra vondra manna sem hafi keypt þau einhvers staðar á markaði, (Gripið fram í: Eigum við ekki bara að …) það er auðvitað ekki þannig (Gripið fram í: Og búið að margselja þær kannski.) og skiptir engu máli hvers eðlis þeir kaupendur eru. Þeir njóta einfaldlega ákveðinna réttinda og þær úrlausnir sem við finnum á málinu verða auðvitað að halda fyrir dómi. Við getum ekki farið um og tekið eignir manna nema gjalda sannarlega fyrir það sanngjarnt og eðlilegt verð. Það hljóta að vera grundvallaratriði réttarríkis sem allir þingmenn í öllum flokkum virða.

Ég held hins vegar að það sýni sig og kannski nú síðast með myndarlegum aðgerðum Landsbanka Íslands að sú gagnrýni sem hefur verið á það hve hægt hafi gengið í skuldaúrvinnslunni, hversu illa svigrúmið þar í bönkunum hafi verið nýtt til aðgerða gagnvart skuldsettu atvinnulífi, gagnvart skuldsettum heimilum, sé gagnrýni sem eigi sannarlega rétt á sér. Það hafi tekið allt of langan tíma, menn hafi ranglega upplýst um svigrúmið. Það sé augljóslega nú, til að mynda í Landsbankanum, tugmilljarða meira svigrúm en menn sögðu. En að fara í umræðu um að við hefðum bara getað tekið það svigrúm eins og einhverjir sjóræningjar og útdeilt því eftir okkar geðþótta er ekki málflutningur sem hægt er að bjóða upp á á þessum vettvangi. Það er miklu flóknara mál því að það þarf líka að koma til móts við þá sem skulda hjá Íbúðalánasjóði. Það þarf líka að koma til móts við venjulegt fólk sem skuldar í lífeyrissjóðunum og það er þannig og óhjákvæmilegt að það muni m.a. bitna á helstu fjármagnseigendum í landinu, sem eru lífeyrissjóðir, því að ekki er hægt að fara þannig með skipan samfélagsmála í landinu að menn ræni einhverja erlenda kröfuhafa og niðurfæri skuldir í nokkrum bönkum en skilji svo alla aðra skuldara í landinu eftir óbætta hjá garði. (Gripið fram í: Það má gera það öfugt.)



[12:41]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir skýrsluna. Ég vil líka í upphafi segja, frú forseti, að sú ræða sem hér var að klárast er með þeim undarlegri sem hafa verið fluttar í dag þar sem hv. þm. Helgi Hjörvar gagnrýnir sjálfan sig væntanlega fyrir að hafa staðið að þeim ákvörðunum sem átti að fara í en var svo hætt við, ákvörðun sem hann kallar að ræna kröfuhafana, ef ég skildi orð hans rétt.

Frú forseti. Ég var mjög undrandi yfir ræðu hæstv. fjármálaráðherra, fannst ræðan bæði ótrúleg og í raun furðuleg verð ég að segja. Hæstv. ráðherra eyddi miklum tíma ræðu sinnar í að varpa ábyrgðinni á Fjármálaeftirlitið, að tala um að það væri Fjármálaeftirlitið sem bæri ábyrgðina á því hvernig staðið hefur verið að endurreisn bankanna en ekki fjármálaráðherrann sjálfur eða fjármálaráðuneytið. Nú veit ég ekki hvernig hlutirnir ganga fyrir sig í fjármálaráðuneytinu. Ég veit þó að það er ráðherrann sem ber ábyrgðina. Hæstv. fjármálaráðherra ætti að þekkja það þar sem hann dró ekki af sér að koma einum af forverum sínum fyrir landsdóm.

Hæstv. ráðherra ber að sjálfsögðu ábyrgð á þeirri skýrslu sem hér er og þeim fullyrðingum sem í henni eru, það er alveg ljóst. Það kemur fram hvað eftir annað í skýrslunni hver það er sem ber ábyrgð. Ef það er ekki hæstv. fjármálaráðherra einn, þá má bæta við hinni norrænu velferðarstjórn sem gjarnan er talað um, norrænu velferðarstjórninni sem ákvað að stilla upp heimilunum gagnvart kröfuhöfunum og taka hagsmuni kröfuhafanna fram yfir hagsmuni heimilanna. Það er hin norræna velferðarstjórn. Mér þykir leitt að þetta fallega orð, norræna, skuli vera dregið ofan í þetta svað, ég ætla leyfa mér að segja það.

Auðvitað er búið að benda á fjölmargar leiðir til að endurreisa heimilin, til að endurreisa efnahagslífið og til að endurreisa bankana, aðrar leiðir en þessi ríkisstjórn ákvað að fara. En á það var ekki hlustað. Ég vil benda á, frú forseti, að í einni þingnefndinni er m.a. tillaga frá þingmönnum Framsóknarflokksins um efnahagsaðgerðir og atvinnuuppbyggingu, þ.e. tillaga til þingsályktunar um samvinnuráð um þjóðarsátt, en ekkert hefur til hennar spurst síðan hún fór til nefndar.

Frú forseti. Það var fjármálaráðherra sem fékk heimildir til að stofna ný fjármálafyrirtæki og það var fjármálaráðherra sem stofnaði þrjú hlutafélög um innlenda starfsemi bankanna. Það var fjármálaráðuneytið sem leiddi viðræður við kröfuhafana. Það var fjármálaráðherra sem lét ráðgjafa sína meta stöðu bankanna. Þetta allt eru tilvitnanir, frú forseti, í þá skýrslu sem fjármálaráðherra mælti fyrir og flutti okkur þingmönnum.

Það var vinstri stjórnin sem fór í það að einkavæða bankana, selja þá í hendur kröfuhafa, sem ég held að ríkisstjórnin viti ekki í raun hverjir eru, og allt var þetta gert fyrir luktum dyrum og vitnað í skýrslur sem voru í dulkóðuðum herbergjum í fjármálaráðuneytinu því til staðfestingar. En það kemur fram hvað eftir annað í skýrslu hæstv. ráðherra hver hugmyndafræðin er og var í rauninni við þetta allt saman. Ég ætla að leyfa mér að segja, frú forseti, að það er mjög sérkennilegt að sjá á bls. 21 í skýrslunni að það hafi í rauninni verið, ef má lesa þessa skýrslu rétt, vegna þess að eitthvert fyrirtæki, sem heitir Deloitte, hafi talið að snúið væri að fara þá leið sem í upphafi var ætlað að fara, að ákveðið var að fara að semja við þessa kröfuhafa. Hér stendur, með leyfi forseta:

„Með viðræðum og samningum við Deloitte í lok desember varð hins vegar ljóst að útkoman úr hinu óháða mati yrði verðbil en ekki ein ákveðin tala, enda gekk Deloitte út frá að matið yrði grundvöllur viðræðna en ekki grundvöllur einhliða ákvörðunar.“

Það var sem sagt Deloitte sem gekk út frá því að farið yrði að semja og svo virðist vera sem hæstv. fjármálaráðherra eða fjármálaráðuneytið í það minnsta hafi ákveðið að fara að þeim tillögum eða þeim hugmyndum sem þetta fyrirtæki hafði um hvernig ætti að leysa þetta mál.

Áfram má halda í skýrslunni. Það kemur vitanlega fram að upphaflega markmiðið var að láta afsláttinn af eignasöfnunum ganga til skuldaranna, ganga til þeirra sem skulduðu, heimilanna og fyrirtækjanna. Ætli efnahagsstaða Íslands væri ekki eitthvað örlítið skárri í dag, þó svo að hæstv. fjármálaráðherra og forsætisráðherra berji sér á brjóst og gumi af því að vel hafi tekist til? Ætli staða heimilanna og fyrirtækjanna væri ekki betri og meiri snúningur í efnahagslífinu og atvinnulífinu ef farin hefði verið upphaflega leiðin, ef klafanum hefði ekki verið velt yfir á heimilin og fyrirtækin?

Staðreyndirnar eru vitanlega þær að neyðarlögin frá 6. október 2008 gerðu ráð fyrir að afsláttur af lánasafninu gengi til skuldaranna. Við þekkjum hvernig átti að gera það. Það átti að gefa út skuldabréf til gömlu bankanna sem væru endanleg greiðsla fyrir yfirtöku lánanna að teknu tilliti til afskrifta. En ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur ákvað að breyta þessu. Hæstv. fjármálaráðherra ákvað að breyta þessu og taka stöðuna með öðrum hætti. En það vekur athygli okkar, sem hér hefur verið bent á, að á sama tíma og þetta gekk yfir var verið að semja, og voru bresk og hollensk yfirvöld og fulltrúar breskra sveitarfélaga dregnir að því samningaborði, dregnir að því sem kröfuhafar. Hvernig í ósköpunum stóð á því? Var hæstv. fjármálaráðherra og ríkisstjórnin að taka á sig eða viðurkenna eitthvað sem ekki hefur fengist uppgefið? Ég velti því fyrir mér. (Gripið fram í: Viltu ekki tala skýrt?) Hverjir voru kúgarar okkar í Icesave-málinu? Það voru þeir sem hæstv. fjármálaráðherra dró að því borði og vildi semja við. (Gripið fram í: … segðu bara …) Það er bara svoleiðis. Hæstv. fjármálaráðherra verður að viðurkenna það og standa undir því að þarna hófst undirlægjuhátturinn gagnvart Evrópusambandinu og Bretum og Hollendingum. Ég skal alveg segja það skýrt, hæstv. fjármálaráðherra. Það er einfaldlega svo að þarna gafst ríkisstjórnin upp. Þarna lagðist hún flöt, þarna gaf hún eftir og þarna átti að fórna heimilunum og fyrirtækjunum fyrir Evrópusambandið. (Gripið fram í: Hárrétt.) Hæstv. fjármálaráðherra hlær enda veit ég að honum er skemmt yfir þeirri stöðu. Það held ég að hljóti að vera, það er mjög merkilegt. (Gripið fram í.) Ja, sannleikanum er hver sárreiðastur, segi ég nú bara. Hæstv. fjármálaráðherra iðar í sæti sínu yfir því að þetta er dregið fram í dagsljósið. En þetta kemur fram í skýrslunni sem hæstv. ráðherra las upp og er að kynna fyrir Alþingi.

Ég verð að segja, frú forseti, að í ljós hefur komið hvað eftir annað, ekki síst eftir að hæstv. forsætisráðherra sagði að ekki yrði meira gert fyrir heimilin, að það var aldrei ætlun þessarar ríkisstjórnar að koma til móts við heimilin. Ætlunin var aldrei að gera það. Það átti að verja kröfuhafana. Hvers vegna ætli það hafi verið? Jú, það kom fram í hálfkveðnum vísum, held ég að megi orða, í ræðu hv. þm. Helga Hjörvars, það var út af hinu magnaða alþjóðasamfélagi sem ríkisstjórnin vill ekki styggja.

Virðulegi forseti. Ég tel að kominn sé tími á að ríkisstjórn sem hagar sér með þessum hætti íhugi alvarlega sinn gang. Það hlýtur að vera kominn tími á það að hér verði skipt um forustu fyrir landinu. Átakanlegt er að horfa upp á það að fá staðfest að hér erum við að taka hagsmuni erlendra kröfuhafa í flestum tilfellum fram yfir hagsmuni íslenskra heimila og alþýðu og það í nafni norrænnar velferðarstjórnar. Ríkisstjórnin, í það minnsta fjármálaráðherra, hlýtur að segja af sér.



[12:50]
Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Alvarlegustu fréttirnar fyrir almenning í landinu sem finna má í skýrslu hæstv. fjármálaráðherra eru þær að nú er komið í ljós að eftir að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar tók við völdum í febrúarbyrjun árið 2009 varð grundvallarstefnubreyting hjá íslenskum stjórnvöldum varðandi endurreisn bankakerfisins. Sú stefnubreyting reyndist íslenskum almenningi dýrkeypt. Fólkið í landinu er enn að súpa seyðið af henni og hefur þurft að gjalda hana dýru verði. Þessi svarta skýrsla sem við ræðum í dag er dapurlegur vitnisburður um afdrifarík mistök og afglöp núverandi ríkisstjórnar sem því miður verða ekki aftur tekin en hljóta að hafa afleiðingar.

Virðulegi forseti. Ekki þarf að lýsa því í mörgum orðum hvað varð um viðskiptabankana þrjá eftir hrun. Þeim var skipt upp í gamla banka og nýja. Við þessar aðgerðir voru skuldabréfasöfn bankanna, lánin, flutt úr gömlu bönkunum og í þá nýju með miklum afslætti eða afskriftum sem námu líklega 60–70%, hvorki meira né minna. Þessi afsláttur helgaðist annars vegar af því að talið var að dómstólar mundu líklega dæma gengistryggð lán sem höfðu stökkbreyst ólögleg, eins og síðar kom í ljós, og hins vegar lá fyrir að hvorki heimilin né fyrirtækin í landinu mundu geta staðið skil á nema hluta þeirra.

Skýrslan verður ekki skilin öðruvísi en svo að ríkisstjórn Geirs H. Haardes hefði ákveðið að láta þessi miklu afsláttarkjör renna til íslenskra heimila og fyrirtækja. Hefði sú ákvörðun fengið að standa hefði hún leitt til þess að stjórnvöldum hefði verið mögulegt að ráðast í leiðréttingar og niðurfærslur á stökkbreyttum skuldum heimilanna og fyrirtækjanna í landinu. Það var hins vegar því miður ekki gert. Eftir að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar tók við völdum í febrúar árið 2009 var endurreisnaráætluninni breytt, eins og fram kemur í skýrslunni á bls. 5 og bls. 22. Núverandi ríkisstjórn tók sem sagt ákvörðun um grundvallarstefnubreytingu sem fólst í því að í stað þess að nota afsláttinn á skuldabréfasöfnunum til bjargar heimilunum og fyrirtækjunum í landinu var ákveðið að ganga til samninga við erlenda kröfuhafa um það hversu stóran hluta afsláttarins væri hægt að láta ganga til baka til þeirra. Frá þeim samningum var gengið og afslátturinn og afskriftirnar runnu í vasa útlendinga. Almenningur sat eftir slyppur og snauður með skuldirnar á herðunum og bankarnir fengu skotleyfi til að innheimta hjá fólki kröfur sem þegar höfðu að stórum hluta verið afskrifaðar. Allt þetta var gert í boði núverandi ríkisstjórnar, norrænu velferðarstjórnarinnar, og afleiðingarnar þekkja allir.

Hæstv. fjármálaráðherra hefur reynt að verja þessa ákvörðun sína og ríkisstjórnarinnar annars vegar með því að hann hafi viljað forða málsóknum og hins vegar með því að segja að með ákvörðunum sínum hafi ríkisstjórnin sparað ríkissjóði stórfé. Hvorug afsökunin hefur reynst tæk. Sýnt hefur verið fram á að kostnaður ríkissjóðs af ákvörðun hæstv. fjármálaráðherra varð meiri en hann hefði orðið ef ríkið hefði átt bankana áfram og bæði Eftirlitsstofnun EFTA og íslenskur dómstóll hafa staðfest lögmæti neyðarlaganna sem sýnir að ótti hæstv. fjármálaráðherra við málshöfðun var óþarfur.

Virðulegi forseti. Stefnubreyting ríkisstjórnarinnar um endurreisn viðskiptabankanna verður ekki lýst öðruvísi en sem tilræði við almenning í þessu landi. Með því að láta afskriftir á skuldabréfasöfnunum renna til erlendra kröfuhafa gerðist ríkisstjórnin sek um að bregðast almenningi og heimilum landsins og bregðast íslenskum fyrirtækjum. Í stað þess að standa vörð um hagsmuni sinnar eigin þjóðar sló ríkisstjórnin upp skjaldborg en ekki skjaldborg um heimilin í landinu heldur skjaldborg um erlenda vogunarsjóði og erlenda spákaupmenn. Eftir sitja hins vegar íslensk fyrirtæki og íslensk heimili í sárum.

Að mínu mati staðfestir þessi svarta skýrsla að ráðherrar í ríkisstjórn Íslands hafa gerst sekir um alvarleg afglöp í störfum sínum og hagsmunagæslu fyrir almenning í landinu. Nú þýðir ekki að kenna Sjálfstæðisflokknum um eða skýla sér á bak við Fjármálaeftirlitið eins og hæstv. fjármálaráðherra reyndi að gera í ræðu sinni. Á þessum afglöpum ber hæstv. fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon alla ábyrgð en ekki síður hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir og í raun allir hæstv. ráðherrar ríkisstjórnarinnar. Framganga þeirra hlýtur að hafa afleiðingar ekki síst í ljósi þess að nú standa yfir réttarhöld fyrir landsdómi yfir fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra fyrir að því er virðist minni sakir en núverandi ríkisstjórn hefur gerst sek um gagnvart íslensku þjóðinni. Ég krefst þess að hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra útskýri nú hvernig þau ætla að axla ábyrgð á þeim alvarlegu mistökum sem nú liggja fyrir og þessi skýrsla leiðir svo sannarlega í ljós.



[12:56]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Aðalatriði þessa máls er það að í neyðarlögunum var búið um það í lögum hvernig staðið yrði að verki á grundvelli heimilda Fjármálaeftirlitsins sem fékk þar víðtækar heimildir til að ráðstafa eignum banka sem færu í þrot. Ríkisstjórn hvorki þess tíma né seinni tíma ríkisstjórnir hafa haft slíkar lögheimildir í höndum. Stjórnvöld sem slík hétu því hins vegar, og var svo sem ekki dýrt loforð því að það liggur í hlutarins eðli að þannig yrði það að vera, að vanda sig við þessa aðgerð, gæta þar sanngirni og jafnræðis. Og þannig var, eins og ég rifjaði upp í byrjun umræðunnar, því heitið í fyrstu samstarfsyfirlýsingu Íslendinga við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, og hana undirrituðu Geir Hilmar Haarde, Árni M. Mathiesen og Davíð Oddsson, að, og aftur með leyfi forseta: „það væri lykilatriði“ — eins og þar segir — „í réttlátri meðferð gagnvart innstæðueigendum og kröfuhöfum á hendur yfirteknu bönkunum að nýju bankarnir greiði sannvirði fyrir þær eignir sem fluttar voru frá gömlu bönkunum“. Nema hvað?

Það er auðvitað alveg yfirgengilegt að hlusta hér á þingmann eftir þingmann koma upp og láta eins og að einhvern veginn öðruvísi hefði verið hægt að standa að þessu. Það er það. Segjum nú að eignirnar sem fluttar voru yfir til nýju bankanna hefðu ekki verið útlánasöfn af ýmsu tagi þar sem ákaflega erfitt var að meta raunverulegt verðmæti, segjum að það hefði verið gull. Segjum að það hefði verið eitt tonn af gulli sem fór úr gamla Landsbankanum … [Frammíköll í þingsal.] (Gripið fram í: Það var ekki gull.) Frú forseti. Segjum að það hefði verið eitt tonn af gulli hefði farið úr gamla Landsbankanum yfir í þann nýja, 600 kg af gulli sem hefðu farið úr Glitni yfir í Íslandsbanka og 500 kg af gulli sem hefðu farið úr Kaupþingi yfir í Arion, halda menn þá, miðað við opinbert heimsmarkaðsverð á gulli, að menn hefðu komist upp með að borga eitthvað annað en það verð fyrir þær eignir eða meta það öðruvísi en þannig? Nei, auðvitað ekki, eðlilega. Enda voru menn búnir að lýsa því yfir, það stóð væntanlega aldrei annað til af hálfu íslenskra stjórnvalda en að reynt yrði að nálgast það eins vel og kostur væri að sannvirði yrði greitt fyrir þær eignir sem þarna færðust á milli. Er það ekki þannig í svona viðskiptum að menn reyni að gera það? Jú, það held ég.

Meira og minna allur málflutningurinn hér hrynur til grunna þegar það er sett í þetta samhengi að það var auðvitað aldrei annað í kortunum í þessari aðgerð en að reyna að nálgast það eins og kostur væri að greiða sannvirði fyrir eignir sem þarna færðust á milli. Það er einfaldlega þannig.

Hv. þingmenn mega taka því eins og þeir vilja þegar vísað er í gildandi lög í landinu um valdmörk og hlutverk. Það var allt og sumt sem ég gerði í tilviki Fjármálaeftirlitsins að ég vísaði í það hlutverk sem því er þar falið með lögum, þau valdmörk sem þar myndast milli sjálfstæðs stjórnvalds eins og Fjármálaeftirlitsins og annarra stjórnvalda.

Nýju bankarnir eru fyrirtæki í rekstri sem skilanefndirnar halda fyrir hönd búsins sem þær gæta. Þegar að því kemur að menn losa eign sína í þessum bönkum mun það gerast með því að þeir verða seldir og nýir eigendur koma að þeim. Og til þess að þeir verði seljanlegir og sæmilegt verð fáist fyrir þá þurfa þeir að vera bankar í góðum rekstri. Þeir þurfa að hafa staðið sig vel, þeir þurfa að hafa komið vel fram við viðskiptavini sína og unnið vel úr þeirra málum.

Í tilviki Landsbankans er um uppgjörsbréf að ræða og það liggur þegar fyrir að Landsbankinn mun greiða talsvert upp í það. Í staðinn fær ríkið til baka eignarhlut skilanefndarinnar í Landsbankanum. Þar kemur á móti verðmætur eignarhlutur í banka sem hefur reyndar vaxið verulega að verðmæti miðað við eigið fé frá því að hann var stofnaður. Ég er sammála hv. þm. Bjarna Benediktssyni um bæði að það er mikilvægt að nýju bankarnir, þeir sem eru nú í höndum eignarhaldsfélaga á vegum skilanefnda eða slitastjórna, komist sem fyrst í hendur framtíðareigenda. Það er mikilvægt. Hverjir það gætu orðið, lífeyrissjóðir, aðrir bankar, norrænir bankar, skal ósagt látið en eitthvað af því tagi væri tvímælalaust jákvæð þróun.

Ég er sömuleiðis mjög sammála því að það væri mjög góð aðgerð, svo við beinum sjónum aðeins fram á veginn, það væri auðvitað mjög gott að það ynnist hratt úr málefnum búanna í gegnum eftir atvikum nauðasamninga og þar liggja fordæmi fyrir þar sem ég sé ekki annað en að vel hafi tekist til t.d. í tilviki Straums, þannig að þeir yrðu aftur eining sem ekki væri bú í skiptum heldur fjárhagslega endurskipulögð eining og málin kláruð. Það mundi m.a. væntanlega hafa það í för með sér, sem væri ákaflega gott, að í slíkum fjárhagslegum endurskipulagningarsamningum er langlíklegast að minni kröfuhafar eða óverulegir kröfuhafar yrðu borgaðir út úr búunum að fullu. Í því væru fólgnir hagsmunir stóru kröfuhafanna, sem eru bankar og sjóðir og ýmsir aðilar, lífeyrissjóðir íslenskir o.s.frv., að einfalda málin með því að fækka þeim sem ættu atkvæðisrétt á fundum o.s.frv. Það gæti orðið aðgerð sem kæmi verulega til móts við mjög marga litla íslenska kröfuhafa sem enn eiga hagsmuna að gæta í þessum búum. Þetta væri t.d. jákvæð þróun.

Frú forseti. Ég ætla að leiða algerlega hjá mér að svara stóryrðum og dylgjum nokkurra þingmanna. Ég tel það ekki svara vert. Það er ekki flugufótur fyrir þeim áburði, ásökunum og dylgjum sem hv. þingmenn Margrét Tryggvadóttir, Lilja Mósesdóttir og Þór Saari, sérstaklega, hafa beint hér að mér. Ég held ég verði að fá að nefna þau þrjú saman í ákveðnum sérflokki hvað þetta varðar. Það er að sjálfsögðu ekki þannig að menn hafi ekki í þessu ferli reynt að gera sitt besta til að vinna þetta samkvæmt viðurkenndum leikreglum sem stæðust og héldu og þar sem (Gripið fram í.) sanngirni væri gætt á báða bóga.

Varðandi þessa skýrslu, sem sumir þingmenn lesa út úr alveg óskaplegan áfellisdóm yfir þeim sem hér stendur og guð má vita hvað — ég yrði þá varla sakaður um að hafa verið að hlífa sjálfum mér, er það, ef þetta stæði allt saman í skýrslunni, ef hún væri gagn til rökstuðnings svona málflutningi? En það er hún auðvitað ekki, að sjálfsögðu ekki. Hún er fyrst og fremst greinargóð og raunsönn lýsing á þessu ferli frá upphafi til enda þar sem útskýrt er skref fyrir skref hvers vegna málin þróuðust eins og þau þróuðust. Allt tal um pólitíska stefnubreytingu er á misskilningi byggt eins og ég hef rækilega útskýrt og rökstutt, allt tal um það. Það lá fyrir þegar í desember 2008 og í byrjun janúar 2009 að niðurstaða Deloitte-matsins yrði eins og hún varð, verðbil, það lá fyrir og þá þegar var undirbúningur hafinn að því og það yrði að takast á við niðurstöðuna í því ljósi. Það liggur algerlega skýrt fyrir.

Hér hefur rækilega verið útskýrt hvernig fjárhagslegar stærðir í þessu eru og að niðurstaðan varð sannanlega mjög hagstæð fyrir íslenska ríkið borið saman við það sem í byrjun leit út fyrir að vera. Hv. þingmenn verða að átta sig á því hvað þeir eru að lesa upp og hvað þeir eru að vitna í, eins og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson þegar hann tekur samtöluna af hlutafjárframlögum og víkjandi lánafyrirgreiðslum til endurreisnar bankanna og inni í því er framlag skilanefnda og notar það sem rök fyrir því að ríkið hafi ekki sloppið betur frá þessu. Svona einfalt er ekki hægt að hafa þetta. Að sjálfsögðu er í skýrslunni verið að tala þarna um samtöluna sem fór í … (GÞÞ: Ég las þetta úr …) Já, ég er að útskýra það að þú misskilur í grundvallaratriðum … (GÞÞ: Ég las orðrétt úr skýrslunni.) Já, og hvað er verið að segja þar? Það er verið að tala um samtölukostnað við að endurreisa þessa þrjá viðskiptabanka (GÞÞ: Af hverju …?) og þar af komu 156 milljarðar frá kröfuhöfum. Hv. þingmaður misskildi þetta algerlega.

(Forseti (SF): Forseti biður þingmenn að vera ekki með samtöl hér, og það á líka að ávarpa hv. þingmenn með nafni.)

Ég biðst velvirðingar, frú forseti. Varðandi það sem hv. þm. Birkir Jón Jónsson sagði þá er það rétt að Framsóknarflokkurinn lagði þarna fram tillögur og þar á meðal var sú hugmynd reifuð hvort hægt væri að hafa efnahagsreikning nýju bankanna minni. Það var skoðað en niðurstaðan varð sú að það væri ekki hægt að snúa við þegar komið var jafnlangt inn í ferlið og raun bar vitni vegna þess að búið var að aðgreina eignirnar sem urðu eftir í gömlu bönkunum og þær sem fluttar voru yfir í nýju bankana og leiðin til baka var ekki fær. Efnahagsreikningur nýju bankanna, ef við tökum hann í þjóðhagslegu samhengi, er ekki í sjálfu sér of stór. Þegar menn tala um að bankakerfið sé of stórt eiga menn fyrst og fremst við það að yfirbygging þess, útibú og (Forseti hringir.) mannahald í bili, er auðvitað mikið miðað við stærð okkar hagkerfis. Því er ég sammála að sjálfsögðu en í grófum dráttum er efnahagsreikningur a.m.k. þessara (Forseti hringir.) þriggja viðskiptabanka ekki stór miðað við stærð íslenska hagkerfisins.



[13:06]
Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er kominn tími til að nefna nokkra af þessum kröfuhöfum sem alltaf er verið að tala um hérna. Burlington Loan Management Limited, Crédit Agricole Vita S.p.A., Centerbridge Credit Partner Master, L.P. Þetta er listi af alls konar fyrirtækjum sem fáir hafa heyrt um. Hefur það verið okkar málflutningur að við hefðum átt að svína á þeim, við hefðum átt að sýna einhver klækjabrögð og hafa af þeim eitthvað sem þau áttu lögmæta kröfu til að eignast í tengslum við þrot bankanna? Að sjálfsögðu ekki. Það þarf ekkert að rifja það upp fyrir okkur hér að því hafi verið lýst yfir í samskiptum við AGS að þessir aðilar fengju allir réttláta málsmeðferð, að þeir fengju sannvirði fyrir eignir sínar. Nei, það þarf ekkert að rifja það upp. Það sem gerst hefur hins vegar er að þeir hafa fengið sannvirðið og alla framtíðarverðmætaaukningu til viðbótar. Ef við notum dæmi hæstv. fjármálaráðherra um gullið fengu þeir greitt fyrir gullið og svo hafa þeir fengið framtíðarhækkun á verði gulls í kjölfarið. Það er þetta sem gerðist. Þeir fengu meira en það sem sanngjarnt var. (BJJ: Þetta er skjaldborgin.) Og á hinum endanum eru Íslendingar sem hafa tekið lán hjá þessum bönkum og fyrirtækjum og endanlegur dómur um það hvernig til hefur tekist við að endurreisa bankakerfið hlýtur að vera staða heimilanna, fyrirtækjanna og bankanna.

Hvers vegna er til dæmis þessi ofurhagnaður hjá bönkunum? Hvernig stendur á honum? Hvernig stendur á því að í efnahagskerfi sem er í mikilli lægð skila bankarnir tuga milljarða hagnaði? Hvers vegna? Hvers vegna hefur þeim verið búið skjól til að mynda slíkan ofurhagnað? Hver er staða heimilanna? Er ríkisstjórnin ánægð með stöðu heimilanna, þ.e. hvernig fjármálafyrirtækin hafa gert upp við þau? Er ríkisstjórnin ánægð með stöðu fyrirtækjanna? Ekki heyrist mér það. Við höfum til viðbótar kostnað ríkisins sem ég ætla að koma aðeins inn á í mínu seinna andsvari. Allir mælikvarðar á það hvernig til hefur tekist (Forseti hringir.) sýna að þetta er klúður.



[13:09]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Nú varð alveg geysileg framför hér í umræðunni, mjög mikilvæg framför þegar hv. þm. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, viðurkenndi að vitaskuld hefði orðið að viðhafa þarna réttláta málsmeðferð og að menn fengju eftir því sem kostur væri sannvirði fyrir eignir sínar. Þá getum við farið að tala saman. Þetta skiptir miklu máli. Ég vona að allir aðrir hv. þingmenn taki sér nú formann Sjálfstæðisflokksins til eftirbreytni og gangi héðan í frá í umræðum um þessi mál út frá þessari augljósu grundvallarstaðreynd. Þá erum við laus við alls konar vitleysu sem vaðið hefur uppi ef við bara höldum okkur við þessa augljósu staðreynd. Það var hún sem ég reyndi að draga hérna fram í dagsljósið sem að sjálfsögðu markar grundvöll allra aðgerða af þessu tagi ef þær eiga að fá staðist.

Það er ekki rétt að bankarnir hafi fengið sannvirðið og svo eigi þeir ávinningsvon upp á við. Það er nefnilega alls ekki svo. Þeir fengu minna en neðri mörk. Matið var undir neðri mörkum Deloitte-matsins í samningunum. Þar á er mikill munur upp í til dæmis efri mörkin sem þeir hefðu gjarnan viljað sjá niðurstöðuna enda í, um 280–350 milljarða munur frá samningsniðurstöðunni upp í miðgildið sem þeir hefðu sjálfsagt talið sanngjarnt að væri notað að lágmarki.

Það var kappsmál eins og útskýrt er í skýrslunni og ég fór yfir í framsöguræðu minni að reyna að ná þessu verðmati niður eins og kostur væri þannig að meira svigrúm væri til staðar. Það tókst. Niðurstaðan sem byggir þó á samkomulagi lagði upp með mjög hagstæðan grunn einmitt vegna þess. Það er í þágu viðskiptavina bankanna og innlenda hagkerfisins. Það var mjög mikilvægt að lendingin varð einmitt á þeim nótum.

Að sjálfsögðu var það andlag allrar þessarar vinnu að ná eins hagstæðri niðurstöðu og mögulegt væri fyrir íslenskt (Forseti hringir.) efnahagslíf, heimili og fyrirtæki út úr þessari endurreisn en þó þannig að það stæðist og við kæmumst upp með það gagnvart hinum aðila málsins.



[13:11]
Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það hefur verið með miklum ólíkindum að fylgjast hér með hæstv. fjármálaráðherra og nokkrum stjórnarliðum, eins og hv. þm. Helga Hjörvar og fleirum til, sem hafa eytt bróðurparti tíma síns í ræðustól í dag í að taka málstað kröfuhafanna, til að útskýra fyrir þingheimi hvers vegna hafi þurft að passa svo sérstaklega upp á þá. Þegar við köllum eftir umræðu um stöðu heimilanna og fyrirtækjanna, um það hvernig tekist hefur til við að koma á starfhæfu bankakerfi hér og eigendastrúktúr að því, hlaupa þessir sömu menn allir á brott. Hæstv. fjármálaráðherra forðast þessa umræðu eins og aðrir.

Ræðum hér um það hvernig sannvirði gengur á milli manna og spyrjum okkur að þessu: Hvernig eiga samskipti banka og heimila sér stað í dag? Fá heimilin sannvirði fasteigna þegar þær eru seldar á nauðungaruppboði við þær ömurlegu aðstæður sem eru í dag? Fá heimilin að njóta framtíðareignavirðis heimilanna þegar fasteignamarkaðurinn tekur við sér í framtíðinni? Að sjálfsögðu ekki. Bankarnir taka fasteignirnar til sín á lægsta mögulega verði. Þannig haga kröfuhafar sér yfirleitt, en þegar þessir sömu kröfuhafar semja við ríkisstjórnina fá þeir lágmarksverðið og framtíðaraukninguna.

Við sjáum það á uppgjörum bankanna í dag og það birtist ágætlega í þeim pappírum sem Seðlabankinn sendi frá sér í gær að hagnaður bankanna á síðasta ári er að uppistöðu til kominn til vegna ofmetinnar afskriftaþarfar. Það stendur upp á fjármálaráðherrann að svara því hér hvers vegna ríkisstjórnin hafi skapað umhverfi fyrir íslensku bankana sem gerir þeim kleift að hagnast um tugi milljarða þegar efnahagskerfið sjálft, heimilin og fyrirtækin, er í algerri lægð. Hvernig stendur á því? Hvað veldur þessari ofmetnu afskriftaþörf sem stendur undir hagnaði bankanna og skilar þessum mikla hagnaði á sama tíma og bankarnir segja við almenning í landinu: (Forseti hringir.) Afskriftagetu okkar hefur allri verið skilað? Þeir segja að henni hafi allri verið skilað út til heimilanna en það stenst enga skoðun.



[13:13]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð bara að segja alveg eins og er að mér finnst það ævintýralega ódýrt af formanni Sjálfstæðisflokksins að hann, meira að segja hann, hv. þm. Bjarni Benediktsson, skuli leggjast með í þann kór að hér hafi bara verið gengið erinda (Gripið fram í.) og teknir hagsmunir kröfuhafa. Ég kæri mig kollóttan um það þótt ýmsir aðrir í salnum geri það, en mér finnst alveg stórmerkilegt að meira að segja formaður Sjálfstæðisflokksins sé kominn í þvílíka kastþröng einhvern veginn í sinni pólitísku rökræðu að hann (Gripið fram í.) skuli fara í málflutning af þessu tagi. Auðvitað veit hann betur. (Gripið fram í.) Auðvitað veit formaður Sjálfstæðisflokksins á grundvelli reynslu sinnar og menntunar úti í viðskiptalífinu alveg að hlutirnir eru ekki svona vaxnir. Það efast ég ekkert um þannig að mér finnst heldur dapurlegt að heyra meira að segja formann Sjálfstæðisflokksins í þessum kór.

Hagnaður bankanna núna eins og ég reyndi að fara hér yfir í framsöguræðu minni er ekki síður til kominn vegna þess að vextir hafa lækkað í landinu. Vegna þeirra aðferða sem notaðar eru og voru notaðar við yfirfærslu eignasafnsins og núvirðingaraðferðanna myndast hagnaður hjá bönkunum þegar vextir lækka vegna framtíðarsjóðstreymisáhrifanna af eignasöfnum. Ég kann ekki nákvæmar tölur um hve stór hluti (Gripið fram í: Og með afskriftaþörf.) afkomunnar er þannig til kominn og að einhverju leyti vegna endurmetinnar afskriftaþarfar en þetta er sannarlega stór þáttur eins og reynt er að útskýra aðeins í skýrslunni og ég reyndi að útskýra í framsöguræðu minni.

Í þriðja lagi er mikilvægt að hafa í huga að lán til einstaklinga eru ekki undir þegar verðmæti eignasafns bankanna er metið, heldur lán fyrirtækjanna. Bankarnir hafa í þessu skyni ekkert út úr því að reyna að kreista meira út úr lánum einstaklinga. (Gripið fram í.) Þannig er það í samningunum, það liggur fyrir. Þar af leiðandi fellur um sjálfan sig allur þessi mikli málflutningur um veiðileyfi á einstaklinga, (Forseti hringir.) á almenning. Það hefur ekkert með það að gera, einfaldlega vegna þess hvernig samningarnir eru úr garði gerðir. Fyrirtækin gætu hins vegar miklu frekar kvartað undan því (Forseti hringir.) að þetta kynni að hafa áhrif á samskipti bankanna við þau.



[13:16]
Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð nú eiginlega að byrja andsvar mitt á því að víkja aðeins að því sem fór fram í fyrra andsvari. Formaður Sjálfstæðisflokksins viðurkenndi að kröfuhafar ættu að fá sannvirði eigna sinna. (Gripið fram í: Nema hvað.) Formaður Sjálfstæðisflokksins sagði svo að kröfuhafar fengju sannvirðið í endurmatinu plús auknar endurheimtur til framtíðar. Hvernig má það vera? Það er alveg ljóst að gefinn var afsláttur frá upphaflegri lánsupphæð. Menn fóru niður fyrir neðra matið á stöðu mála. Og svo eru menn að gefa kröfuhöfunum (Gripið fram í.) möguleika á hlutdeild ef endurreikningarnir verða betri en lægsta matið. (Gripið fram í.) Þannig eru menn að reyna að fá hlutdeild í sannvirðinu. Smátt og smátt er verið að gefa kröfuhöfum gegnum þessa samninga hlutdeild í sannvirðinu til lengri tíma litið. (Gripið fram í.) Það er lykilatriðið í þessum samningum sem við erum hér að ræða. Þess vegna er ótrúlegt að menn segi hér í öðru orðinu að þeir vilji að kröfuhafarnir fái sannvirði eigna sinna en hlaupi svo í skjól í hinu orðinu og séu á stöðugum flótta undan því sem skiptir máli. Mönnum hefur ekki tekist að benda í þessari umræðu á annan valkost. (Gripið fram í.) Valið sem við stóðum frammi fyrir var þetta: Eigum við að kaupa einn banka eða eigum við að kaupa þrjá banka? (Gripið fram í.) Ef við kaupum einn banka kostar það okkur 135 milljarða (Gripið fram í.) — ég er bara að beina orðum mínum til þín, hv. þm. Bjarni Benediktsson, vegna þess að það var farið með ótrúlegan málflutning í rökstuðningi Sjálfstæðisflokksins í umræðunni í dag. Mér þótti skylda mín að benda á þennan veikleika vegna þess að hér tala menn hver í sína áttina.

Það er ágætt að hæstv. fjármálaráðherra getur komið og brugðið ljósi sínu á þá umræðu sem hér hefur farið fram vegna þess að fjármálaráðherra hafði um tvennt að velja, að kaupa einn banka eða þrjá. Það munaði 250 milljörðum í fjárframlagi fyrir hönd ríkissjóðs. Það hefði kostað okkur tæplega 50 milljarða í vaxtakostnað árin 2009 og 2010. (BjarnB: En … á móti?) (Gripið fram í: Ráðherrann …)



[13:18]
Forseti (Siv Friðleifsdóttir):

Ég bið hv. þingmenn og hæstv. ráðherra að hætta frammíköllum.



[13:18]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég fór yfir hina fjárhagslegu þætti þessara mála. Það hafa reyndar fleiri gert, þar á meðal formaður fjárlaganefndar í mjög góðri ræðu. Hvað sem menn rembast hér mun þeim ekki takast að víkja til hliðar þeirri borðleggjandi staðreynd að það hefur sparað ríkinu mjög mikla peninga að þurfa ekki að reiða fram allt eiginfjárframlagið í bankana með vaxtaberandi skuldabréfum til langs tíma. Sá sparnaður hefur þegar leitt til þess að við höfum getað lækkað vaxtakostnað ríkisins tvö ár í röð í fjáraukalögum, bæði árin. (Gripið fram í: … hagnaðinum?) Sérstaklega var á árinu 2009, þegar bakfærð niðurstaðan lá fyrir, hægt að lækka vaxtakostnaðinn sem gert hafði verið ráð fyrir í fjárlögum ársins 2009 um háar fjárhæðir eins og ég veit að hv. alþingismenn muna. Þar munaði mest um þennan þátt.

Samningarnir byggðu á valkvæðum möguleikum þess að uppgjör skuldabréfa eru á milli nýja bankans og gamla bankans eða að gamli bankinn tæki í stað þess bréfs eignarhlut í nýju bönkunum sem varð niðurstaða kröfuhafanna á grundvelli vals þeirra í tveimur tilvikum af þremur. Reyndar var það svo að í öðru tilvikinu breytti bankinn kröfu á nýja bankann vegna umframeigna sem fluttar höfðu verið yfir í hlutafé, en í hinu tilvikinu varð hann að koma með nýjar eignir inn í bankann vegna þess að meiri skuldir en eignir höfðu verið yfirfærðar. Þá kom beinlínis viðbótarfé inn í endurreisn nýja bankans frá þrotabúinu sem var Kaupþing í því tilviki.

Fjárhagslega er ég algerlega sannfærður um að þessari orrustu tapa þeir hv. stjórnarandstæðingar sem hér hafa reynt að elta Morgunblaðið út í ófæruna en það var með dæmalausar æfingar í þessum efnum sem ganga þvert á staðreyndir.



[13:20]
Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er að hugsa um að beina andvari mínu til hæstv. fjármálaráðherra, Steingríms J. Sigfússonar.

Ég held að það sé fróðlegt að við vörpum aðeins ljósi á samspil neyðarlaganna og samspil þess að hafa lokið samningum um endurreisn bankanna með samningum við hina erlendu kröfuhafa. Það vita allir sem hér eru að gildi neyðarlaganna fyrir endurreisn hins íslenska samfélags var mjög mikið, þ.e. við fórum fram með það með lagasetningu í þessu húsi að afskrifa og ýta frá okkur öllum erlendum skuldum hinna þriggja stóru banka en um leið að vernda hinar íslensku innstæður, eigur íslenskra sparifjáreigenda.

Hvaða áhrif telur hæstv. fjármálaráðherra það hafa á stöðu neyðarlaganna að tekist hafi að ljúka viðskiptum við hina erlendu kröfuhafa með þeim samningum sem hér eru ræddir í dag? Ef farin hefði verið til dæmis leið Sjálfstæðisflokksins og bankarnir þrír ríkisvæddir, en þess má geta að Sjálfstæðisflokkurinn hefur á undanförnum árum talið sig flokk einkaframtaksins, og við jafnvel tekið einhliða ákvörðun, eins og sjálfstæðismenn hafa fullyrt í umræðunni í dag, um matið á eignasafninu, hvað hefði það þýtt fyrir stöðu neyðarlaganna, stöðu hins íslenska samfélags veturinn 2008–2009?



[13:22]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg ljóst að neyðarlögin — sem skýrslan vel að merkja rökstyður og útskýrir mjög vel að hafi verið besti kosturinn sem við áttum, kannski eini kosturinn í stöðunni, þannig að ekki er þar kuldalega vikið að þeim sem þau settu á sínum tíma, eða hvað? (Gripið fram í.) Er ódrengilegt að fjalla (Gripið fram í.) um það með þeim hætti sem þar er gert? — voru mikilvægur grundvöllur þessarar aðgerðar og sérstaklega það atriði þeirra að gera innstæður að forgangskröfum. Á þeim grunni er síðan hægt að færa eignir á móti innstæðunum sem eru forgangskröfur í búið hvort sem er. Þar af leiðandi verða aðrir kröfuhafar að sætta sig við að þessi mikla eignatilfærsla á móti innstæðunum er á grunni þess að þær eru forgangskröfur. Á því byggir aðgerðin.

Að sjálfsögðu var þar af leiðandi mikilvægt að þeir sem áttu mesta hagsmuni undir í þessu sættu sig við þá aðgerð. Hættan var tvíþætt, annars vegar að neyðarlögunum sjálfum yrði frekar ógnað ef þetta tækist ekki sæmilega og hins vegar að uppgjörið sjálft milli nýrra og gamalla banka yrði í uppnámi vegna málaferla sem aftur hefði tafið það að hægt væri að fjármagna bankana og aftur hefði tafið að þeir hefðu getað tekið til starfa. Tók það nógu langan tíma samt.

Það að menn ná samkomulagi um uppgjörið og falla frá öllum rétti til málaferla og að samið er um frið um aðgerðina skiptir gríðarlega miklu máli. Sú hætta var auðvitað yfirvofandi ef menn hefðu neyðst út í einhliða ákvarðanir að þeim yrði umsvifalaust stefnt fyrir dómstóla og langvinn málaferli hefðu getað lamað hér uppbyggingu þess fjármálakerfis sem við sannanlega þurftum á að halda og þurfum á að halda. Hvað sem mönnum finnst um banka og framgöngu þeirra í heiminum sjáum við varla fyrir okkur nútímasamfélag rekið án þeirra.



[13:24]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Höldum okkur aðeins við hina gagnlegu samlíkingu hæstv. fjármálaráðherra við gullið. Hæstv. ráðherra segir að ef þessir gjaldþrota bankar hefðu átt gull hefði ekki verið hægt að færa það yfir í nýju bankana nema að huga að heimsmarkaðsverði gulls. Eignir bankanna voru náttúrlega ekki gull en hins vegar var til heimsmarkaðsverð á eignum þessara banka. Skuldabréf á þessa banka gengu kaupum og sölum á heimsmarkaði á 1–5% af nafnverði sem sýndi hvaða mat menn lögðu á verðmæti þessara þrotabúa, þar með verðmæti eignasafna bankanna. Þar af leiðandi var fullkomlega réttlætanlegt fyrir ríkisstjórnina sem á þessum tíma stýrði bönkunum að færa eignir yfir á hrakvirði, fyrir mjög lága upphæð og láta eitthvað af þeirri upphæð ganga áfram. Það er ekki hægt að halda því fram að með því hefðu menn á einhvern hátt verið að svína á kröfuhöfunum, þvert á móti hefðu þeir fengið sitt heimsmarkaðsverð.

Hins vegar hefur hæstv. fjármálaráðherra lýst því yfir að hann og fleiri hafi talið rétt að vera ekki að storka mönnum um of, viljað koma til móts við þessa kröfuhafa, þessa vogunarsjóði og hverjir það nú voru, m.a. til að forðast málaferli, en forðuðust ekkert málaferli með þessu. Kannski var það til þess að koma á starfhæfu bankakerfi sem væri svo mikilvægt eins og hæstv. fjármálaráðherra lýsti í andsvari áðan. Er komið á almennilega starfhæft bankakerfi á Íslandi tveimur og hálfu ári eftir efnahagshrunið? Eru bankarnir farnir að starfa sem skyldi? Eða eru skuldamál heimila og fyrirtækja enn þá algjörlega óleyst og liggja eins og farg ofan á íslensku efnahagslífi? Hefði ekki verið ráð að nota tækifærið sem gafst á meðan þessi eignasöfn voru lágt metin á heimsmarkaðsverði og láta íslenskan almenning og fyrirtæki njóta góðs af því, góðs sem (Forseti hringir.) þau áttu inni vegna þeirra áhrifa sem efnahagskrísan hafði valdið?



[13:26]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er mjög frumleg hugmynd hjá hv. þingmanni. Ég hef eiginlega ekki heyrt áður að það hefði verið hægt að nota til viðmiðunar markaðinn með kröfur á bankana fyrstu dagana eftir að þeir hrundu og að menn hefðu sæst á það sem sanngjarnan vegvísi um hvernig ætti að meta eignirnar. (Gripið fram í.) Ég hef ekki alveg heyrt áður að mönnum hafi dottið það í hug, en hv. þingmaður er hugmyndaríkur og hefur fært hér rök fyrir þessari skemmtilegu kenningu sinni.

Öðru var samt heitið eins og ég hef nú þegar komið að. Íslensk stjórnvöld hétu því og settu í lög að reynt yrði að greiða sannvirði fyrir þær eignir sem fluttar voru úr gömlu bönkunum yfir í þá nýju. Út á það gengur þetta.

Síðan er mikill misskilningur í gangi um að kröfuhafar hafi setið sem slíkir við þetta samningaborð. Svo var ekki. Það gerðu þeir ekki. Samkvæmt lögum eru settir gæslumenn yfir búin, skilanefndir sem bera ábyrgð á því og þær eru samningsaðilar við nýju bankana og ríkið á bak við þá í þessum viðræðum. Þannig er það, enda getur kröfuhafahópurinn tekið breytingum á hverjum tíma.

Allt þetta óskaplega tal um að það hafi verið gefið eftir fyrir þeim og gengið erinda þeirra er óskaplega dapurlegt. Það er satt best að segja óskaplega dapurlegt að hlusta á slíkt, og það er ódýrt að ætla að slá keilur í pólitískri umræðu með því að gera út á hlutina með þessum hætti þegar menn ættu að vita betur, að halda því að almenningi sem er að berjast við erfið skuldamál sín að þarna hefði verið hægt að fara einhverja leið til þess að færa hundruð milljarða sérstaklega til þeirra án þess að það hefði nokkurs staðar komið við, eins og það hefði verið í valdi stjórnvalda.

Ég veit ekki hversu rækilega þarf að reyna að útskýra að slíkt sé ekki hægt í svona ferli þegar menn verða að ganga út frá grundvallarreglunum sem ég hef farið yfir hér, þegar stjórnarskrá er í gildi þar sem eignarréttur er til staðar og varinn (Forseti hringir.) og verndaður og þegar stjórnvöld í ofanálag hafa heitið því að viðhafa sanngjarna málsmeðferð í svona uppgjöri. (Gripið fram í.)



[13:29]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Rökstuðningur minn var ekki frumlegri en svo að ég var bara að notast við þá röksemdafærslu sem hæstv. fjármálaráðherra sjálfur notaði um gullið. Allt í einu hefur hann skipt um skoðun. Væntanlega hefði ekki mátt leggja heimsmarkaðsverð á gull ef bankarnir hefðu átt gull, en ekki lánasöfn, ef það markaðsverð hefði verið of lágt. Ef gull hefði verið farið niður í 500 dollara, ætli menn hefðu þá þurft að segja: Nei, þetta er kannski dálítið lágt verð á gulli núna, eigum við ekki að meta það á þúsund dollara? Þetta eru rök ríkisstjórnarinnar fyrir því að stjórnvöld hafi látið kröfuhafana fá allt sem þeir báðu um. En hvers vegna var það gert? Við sjáum meðal annars í þessari skýrslu að það var rætt við breska og hollenska ríkið sem kröfuhafa bankanna. Hæstv. fjármálaráðherra sagði reyndar áðan að menn hefðu ekkert verið að ræða við kröfuhafa, en í skýrslunni kemur fram að litið var á breska og hollenska ríkið sem kröfuhafa. Strax frá byrjun er sú túlkun uppi þótt menn hafi síðar reynt að færa þær kröfur og skuldir yfir á íslenska ríkið og íslenska innstæðutryggingarsjóðinn.

Mig langar að biðja hæstv. ráðherra að setja sig í spor Steingríms J. Sigfússonar, þess sem var hér árið 2008 og áratugina þar á undan, sérstaklega með hliðsjón af því sem sá ágæti maður sagði, m.a. um vogunarsjóði, hrægammasjóði og aðra sem keyptu kröfur í skuldsettum ríkjum til að pína menn til að greiða sem mest fyrir: Hvað telur hæstv. fjármálaráðherra að þessi Steingrímur J. Sigfússon hefði sagt ef ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar hefði setið áfram og gert það sem þessi ríkisstjórn hefur gert gagnvart kröfuhöfum bankanna, staðið eins að stofnun nýju bankanna og látið kröfuhafana njóta vafans? Hvað hefði gamli Steingrímur J. Sigfússon sagt við þær aðstæður? (Gripið fram í: Svaraðu nú.)



[13:31]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Í fyrra lagi held ég að það sé ákaflega fjarlægt að menn hefðu nokkurn tímann getað tekið sem einhverja raunhæfa viðmiðun algerlega spekúlatífan markað sem byrjar að myndast á dögunum eftir hrun bankanna þar sem almennar kröfur ganga kaupum og sölum og menn eru að veðja á að hugsanlega innheimtist eitthvað eða kannski svo og svo mikið upp í almennar kröfur. (Gripið fram í.) Þegar búið verði að sortera allar kröfur í bankana og samþykkja forgangskröfur komi eftir dúk og disk í ljós hvað verður viðurkennt af almennum kröfum og hvað fæst upp í þær. Svo er auðvitað óvissan hinum megin um hvernig vinnst úr eignasafninu. Þótt þetta sé skemmtileg kenning held ég að við sjáum öll í hendi okkar að hún gengur ekki upp og er algerlega fjarstæðukennd, að þetta sé einhver viðmiðun um raunvirði eða sannvirði eignanna sem færðust þarna yfir. Um það snýst þetta, að verðleggja þær og finna út einhverjar aðferðir til þess, annaðhvort með beinum hætti eða uppgjörshætti eins og hér varð niðurstaðan.

Ég hef ekki skipt um skoðun á vogunarsjóðum eða hrægammasjóðum sem ég hef kannski orðið einna fyrstur manna til að skrifa um á Íslandi, m.a. vegna þess að ég stúderaði á þessum árum framferði nokkurra þeirra í Afríku. Hvað voru þeir að gera og í hvað er ég að vitna í þarna í grein minni um þá fyrir mörgum árum? Ég er að upplýsa það sem ég var að skoða bæði í gegnum Norðurlandaráð og seinna Evrópuráðið á þeim vettvangi ásamt fleirum, að þeir keyptu upp kröfur á skuldugustu og fátækustu ríki heimsins, HIPC-ríkin, og reyndu að þvinga þessi ríki til að endurgreiða þær að fullu þrátt fyrir niðurfellinguna (Gripið fram í.) sem lánardrottnarnir voru búnir að veita þeim. (Gripið fram í.) Þetta voru mjög illræmdir aðilar og að sjálfsögðu er svona framferði hneykslanlegt. Þetta á bara ekkert erindi inn í þessa umræðu, ekki nokkurn skapaðan hlut. (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) Þetta er svo gjörsamlega fráleitur samanburður sem nokkuð getur verið sem hv. þingmenn eru hér með uppi. (Gripið fram í.)



[13:33]
Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að andmæla þeirri skoðun hæstv. fjármálaráðherra að hv. þrír þingmenn, Lilja Mósesdóttir, Margrét Tryggvadóttir og ég sem hér tala, hafi verið með einhverjar ávirðingar í hans garð um að hann eigi að sæta ábyrgð fyrir þar til bærum dómstólum. Það er ekki við hæfi að ráðherrann tali svona til fólks sem hefur engin tök á að koma hingað og svara til baka, það er illa gert.

Svo hæstv. ráðherra viti það kom í ljós í samtali mínu við hæstv. forseta Alþingis áðan að það kom aldrei til greina að þessi skýrsla fengi þá umræðu sem kveðið er á um í þingsköpum. Það kom aldrei til greina að þingmenn fengju að tjá sig hér með þeim hætti sem kveðið er á um í þingsköpum, heldur var það krafa af hálfu fjármálaráðherra og forseta Alþingis að umræðan um skýrsluna yrði skert. Þess vegna komast ekki öll málefnaleg rök til skila með þeim hætti sem þau eiga að gera. Þess vegna nota menn stóru orðin til að það sé öruggt að eitthvað komist til skila.

Mig langar að beina þremur spurningum til hæstv. ráðherra í mínu fyrra andsvari. Á bls. 23, í kafla 2.4.2. um breytta endurreisnaráætlun, er talað um að sett hafi verið á fót þriggja manna stýrinefnd til að semja við kröfuhafa. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hverjir voru í þessari stýrinefnd? Hvert var nákvæmlega „mandat“ hennar og hvers vegna var ekki reynt að gæta hagsmuna lántakenda, þ.e. íslenskra heimila og fyrirtækja, þegar það hefur komið í ljós að kröfurnar gengu hér kaupum og sölum á 6–10%? Jafnframt var þeim í framhaldinu gefið skotleyfi á almenning til að innheimta þær að fullu, miklu meira en upp að einhverju ákveðnu lágmarksbili, eins og hv. þm. Magnús Orri Schram hélt fram áðan. Það var einfaldlega rangt hjá honum.

Ég bið hæstv. ráðherra vinsamlegast að svara þessum spurningum.



[13:35]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Í sambandi við umræður um þessa skýrslu er alllangt síðan ég hafði samband við forseta og lýsti sérstökum áhuga á að hún kæmist sem fyrst á dagskrá. Ég setti það í hendur þingsins, eins og venjan er þegar svona skýrsla er send inn, hvernig þingið færi með hana. Það er alfarið í höndum þingsins. Ekki hefur staðið á mér að ræða hana og það er alllangt um liðið síðan ég hafði að eigin frumkvæði samband við forseta og óskaði eftir því að ef mögulegt væri yrði, þrátt fyrir annir á þinginu, þessi skýrsla tekin til umræðu eins fljótt og mögulegt væri og gefinn góður tími fyrir hana. Það er ekki við mig að sakast í þeim efnum. Hins vegar fagnaði ég því að þó að aðstæðurnar byðu upp á að það yrði að semja um einhvern afmarkaðan tíma vegna anna í þinginu væri mun betra að slík umræða færi fram en engin.

Varðandi þá sem leiddu þessa samninga verð ég að játa að var Þorsteinn Þorsteinsson, afar reyndur bankamaður og með mikla reynslu í þessum efnum, bæði af innlendum vettvangi og ekki síður erlendis. Hann hefur sinnt slíkum málum lengi og ég tel að hann hafi unnið það starf afar vel og leitt það af miklum dugnaði ásamt með lögfræðingum sem með honum voru. Ég þori ekki að nefna nöfnin, það borgar sig ekki að fara með nöfn nema maður sé alveg öruggur um þau, en mig rámar í nafn annars af tveimur lögfræðingum sem ég hygg að hafi verið með honum í þessu sérstaka stýriteymi. Fyrst og fremst stjórnaði þó Þorsteinn Þorsteinsson þessum viðræðum. Á grundvelli útboðs var síðan alþjóðlega lögfræði- og ráðgjafarfyrirtækið Hawkpoint valið til að vera íslenskum stjórnvöldum til aðstoðar í þessum samningaviðræðum og þar var unnið gríðarlega mikið starf í gegnum og á grundvelli sérfræðinga þess fyrirtækis enda verð ég að segja alveg eins og er að ég held að íslensk stjórnvöld hefðu ekki án utanaðkomandi hjálpar af því tagi ráðið við þetta risavaxna, flókna og mikilvæga verkefni.



[13:37]
Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra útskýringarnar á skýrsluumræðunni og tímanum. Þá stendur hér orð gegn orði og væri ágætt að fá leyst úr því síðar í dag.

Hæstv. ráðherra svaraði ekki einni spurningu minni: Hvers vegna var ekki reynt að gæta hagsmuna lántakenda í þessum samningaviðræðum og sett eitthvert hámarksþak á það sem kröfuhafar fengju að innheimta af þessum skuldum þannig að einhver hluti þeirra gengi þá til lántakenda?

Svo er ég með aðrar spurningar um þá aðferðafræði og ákvörðun að ganga til samninga við kröfuhafa þrátt fyrir hlutlaust og vandað mat Deloitte. Það kemur fram í skýrslunni að hæstv. fjármálaráðherra hafi verið hræddur við lögsóknir kröfuhafa og herskara þeirra af lögfræðingum og þess vegna gengið til samninga. Því langar mig að vita og fá svar frá hæstv. ráðherra: Liggja fyrir einhver lögfræðiálit um að Ísland mundi tapa fyrir dómstólum málum þar að lútandi þrátt fyrir hlutlaust og vandað mat Deloitte? Hvar eru þessi lögfræðiálit, ef þau liggja fyrir, og verða þau birt? Ráðherrar hljóta að taka mikilvæga ákvörðun sem þessa á einhverjum málefnalegum forsendum, væntanlega byggðum á lögfræðiálitum. Þá hlýtur þingið að eiga rétt á því að fá að vita hver þau álit eru.



[13:39]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hagsmuna innlends efnahagslífs, heimila og fyrirtækja var gætt eins og nokkur kostur var í þessum samningaviðræðum. Það var meðal annars ein af ástæðunum fyrir því að menn töldu mikilvægt að reyna að ná þessu saman með samningum. Ástæðurnar voru fjölmargar, ein var sú að tefja ekki frekar tímann, reyna að klára þetta verkefni þannig að hægt væri að fjármagna bankana og þeir gætu tekið til starfa en væru ekki með þann veikburða efnahagsreikning sem þeir voru settir af stað með, hver um sig með lágmarksfjárhæð sem þarf til að stofna fjármálafyrirtæki, 800–900 milljónir.

Í öðru lagi var auðvitað mjög mikilvægt að yfirfærsluverðið væri eins lágt og kostur er. Það hljóta allir að skilja hvers vegna. Og það tókst.

Í þriðja lagi voru uppgjörsbréfin og/eða eignarhluturinn í bönkunum, sem þeir menn áttu val um, afmörkuð fjárhæð, mjög vel afmörkuð. Í tveimur tilvikum völdu kröfuhafarnir eignarhlutinn og gera þá ráð fyrir því að bankinn þróist þannig að hann verði verðmæt eining og í fyllingu tímans fái þeir betri hlut út úr því en að hafa tekið uppgjörsbréfin. Það var þeirra val. Í báðum tilvikum er um afmarkaða fjárhæð að ræða. Það er algjör grundvallarmisskilningur að í því sé fólgið eitthvert allsherjarveiðileyfi utan takmarkana og að menn geti náð alltaf meiri og meiri aurum til sín. Þannig er það ekki.

Í tilviki Landsbankans var 92 milljarða bréf en á móti færist verðmætur 19% eignarhlutur til baka til ríkisins. Það mál getur með sama áframhaldi klárast mjög fljótt og orðið af heimi, einfaldlega með því að Landsbankinn geri það bréf upp og þá þurfa menn ekki að hafa frekari áhyggjur af því.

Í hinu tilvikinu geri ég frekar ráð fyrir því að um leið og skilanefndirnar meta það hagstætt fari þær að þreifa fyrir sér um sölu á bönkunum (Forseti hringir.) til nýrra framtíðareigenda. Og þá geta menn líka hætt að hafa áhyggjur af því.