139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

skýrsla fjármálaráðherra um endurreisn viðskiptabankanna.

694. mál
[10:31]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Það er skiljanlegt að hæstv. fjármálaráðherra vilji hafa umræðuna um þessa skýrslu á dálítið tæknilegum nótum. Við verðum að fara ofan í efni máls og við þurfum að skoða þann veruleika sem við okkur blasir eftir að ríkisstjórnin hefur lagt sitt af mörkum við endurreisn bankakerfisins. Veruleikinn sem við okkur blasir er sá að þeir sem fá að soga til sín hagvöxtinn sem hæstv. forsætisráðherra hefur áhyggjur af eru kröfuhafarnir. Niðurstaða ríkisstjórnarinnar er að búa þannig um hnútana í samskiptum við eigendur gömlu bankanna að allur mögulegur ávinningur sem hlýst af starfsemi nýju bankanna rennur meira eða minna óskiptur inn í gömlu þrotabúin. Þetta er kjarni málsins.

Það er líka kjarni máls í þessari umræðu að spyrja sig: Hvernig hefur bönkunum gengið, þeim nýju, þeim endurreistu, að sinna hlutverki sínu gagnvart heimilunum í landinu? Og hvernig hefur þeim gengið að vinna að því mikilvæga hlutverki að endurskipuleggja skuldir fyrirtækjanna í landinu?

Hér er nærtækt að rifja eitt og annað upp frá þeim tíma sem liðinn er frá því að ríkisstjórnin tók við. Eitt er til dæmis það að ríkisstjórnin sagði í stjórnarsáttmálanum frá vormánuðum ársins 2009 — 2009, takið eftir því — að í september skyldi vera komin heildarlausn fyrir fyrirtækin í landinu. Það var 2009. Núna er árið 2011. Er komið inn á það í ræðu hæstv. fjármálaráðherra hvers vegna hefur gengið svo illa við endurreisn bankanna að koma til móts við þarfir fyrirtækjanna? Nei, það er látið hjá líða. Það er farið ofan í tæknileg atriði um verðmat á eignasöfnum og annað þess háttar.

Það sem langmestu máli skiptir er að ræða hér um kostnað ríkisins af þessum aðgerðum. Hvaða árangri hefur sú stefnubreyting sem hér var lýst skilað fyrir ríkissjóð, heimilin og fyrirtækin? Hvers konar banka erum við með í dag? Vitum við hverjir eiga þá? Nei, við vitum það ekki. Er kominn skýr eigendastrúktúr á nýja bankakerfið? Nei, því var fórnað með sérstakri ákvörðun sem hér er búið að fara yfir. Því var fórnað. Hvað fékkst í staðinn? Ja, af máli hæstv. ráðherra fékkst í staðinn einhvers konar vissa fyrir því að við værum ekki að fremja lögbrot. En í allri þeirri umræðu virðist sem ráðherrann hafi mestar áhyggjur af því að túlka öll lög og allar reglur sem um þessi efni gilda kröfuhöfunum í vil.

Við skulum hafa í huga hér þegar við ræðum um kröfuhafana, þegar við ræðum um eigendur gömlu bankanna, að um það bil helmingur þeirra sem áttu kröfur á þrotabúin við hrunið á þessum viðkvæma tíma er horfinn á braut, búinn að selja frá sér sínar kröfur. Það eru aðrir komnir í staðinn. Hverjir eru þeir? Við getum kallað þá hrægamma eða við getum kallað þá hákarla. Þetta eru alþjóðlegir viðskiptamenn sem sækjast eftir kröfum sem þeir vonast til að hækki í verði eftir að þeir hafa keypt þær. Á hverju byggir sú von í tilfelli kröfunnar á íslenskan banka, íslenskt þrotabú? Það byggir meðal annars á þeim samningum sem ríkisstjórnin gerði og eru til grundvallar þessari skýrslu, þ.e. liggja til grundvallar samskiptum gömlu og nýju bankanna.

Ég verð að segja fyrir mitt leyti að það er algerlega ótrúlegt að hlusta á hæstv. fjármálaráðherra vísa til þess sér til afsökunar að þær heimildir sem hér hafa verið virkjaðar, þær heimildir sem Fjármálaeftirlitið hefur virkjað, hvíli hjá því einu en ekki hjá ríkisstjórninni, ríkisstjórnin sé einhvers konar einangrað fyrirbæri frá eftirlitsstofnununum. Ríkisstjórnin er eitt, Fjármálaeftirlitið eitthvað allt annað. Þetta er það sem hæstv. fjármálaráðherra hefur sagt hér áður og sagði aftur í dag.

Þetta var dálítið öðruvísi þegar hæstv. fjármálaráðherra og margir aðrir í þessum sal í stjórnarliðinu vildu ákæra fyrrverandi forsætisráðherra. Þá var þetta talsvert öðruvísi. Þá átti hann að svara til saka fyrir að hafa ekki flutt Icesave-reikninga Landsbankans yfir í dótturfélag. Eigum við að ræða það, hæstv. fjármálaráðherra, hvort það er mál sem hvílir hjá Fjármálaeftirlitinu eða ríkisstjórninni? Hvers konar málflutningur er þetta? Hvers konar flótti frá ábyrgð birtist í þessum orðum? Auðvitað stenst þetta enga skoðun.

Ég rakti það í upphafi máls míns að það skiptir máli að leggja mat á það hvernig nýja bankakerfið sinnir því grundvallarhlutverki sínu að koma til móts við heimilin og fyrirtækin. Nú höfum við hér nýtt innlegg í það mál. Við höfum hér skýrslu Seðlabanka Íslands frá því í gær, hún er ekki eldri en það, um fjármálastöðugleikann. Hvað kemur þar fram? Þar kemur fram að stór hluti tekna viðskiptabankanna er tilkominn vegna endurmats á eignasafninu. Ég leyfi mér að lesa upp úr frétt í Morgunblaðinu, með leyfi forseta: (Gripið fram í: Ertu viss um að það sé …?)

„Stór hluti tekna viðskiptabankanna í fyrra er tilkominn vegna uppfærslu á virði útlána og á sama tíma hefur endurskipulagning útlána gengið hægt fyrir sig, meðal annars vegna óvissu um aðgerðir yfirvalda og um lögmæti lánasamninga. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu Seðlabankans …“

Hér segir jafnframt „að þar sem útlán stóru viðskiptabankanna voru færð til þeirra frá gömlu bönkunum með ríflegum afslætti þá hafi þeir enn töluvert svigrúm til endurskipulagningar útlána. Þrátt fyrir þetta telur Seðlabankinn að endurskipulagning útlána hafi gengið hægt fyrir sig“.

Það segir í þessari skýrslu að Fjármálaeftirlitið hafi á sínum tíma vakið athygli stjórnvalda á því að það væri hætta á því að einmitt þetta mundi gerast, að hagsmunir bankanna færu ekki saman með almannahagsmunum þannig að bankarnir mundu nota tímann, nota hvert tækifæri, nota hverja glufu, til að láta virði eignasafnsins ná hámarki áður en þeir hyrfu á braut. Hvers vegna hafði Fjármálaeftirlitið áhyggjur af þessu? Jú, vegna þess að með vaxandi hagvexti á Íslandi eftir hrunið var nokkuð fyrirsjáanlegt, eins og gerist alls staðar, að smám saman mundi eignasafnið endurheimta fyrri stöðu sína, a.m.k. bæta talsvert miklu við sig.

Þarna liggur kjarni þessa máls. Hann liggur í því að það er horfið frá þeirri aðferðafræði að fá hlutlausan aðila til að meta eignasafnið, taka síðan ákvörðun um að færa það yfir á þessu verði og setja nýja bankakerfið af stað með fast land undir fótum, eða fara þá leið sem ríkisstjórnin hefur hér gert, að vera með ógegnsæja samninga sem við höfum aldrei rætt í þaula hér í þinginu. Samkvæmt því sem segir í þessari skýrslu munu þeir tryggja gömlu bönkunum meira eða minna allan ávinning af þeim hagvexti sem hér verður.

Þess vegna segi ég: Það er búið að finna þá sem fá að soga til sín hagvöxtinn á Íslandi. Hagkerfi Íslands dróst saman og hagvöxturinn féll. Þegar við erum hérna niðri á botninum, þegar heimilin og fyrirtækin í landinu eru í kröggum, er gerður samningur við gömlu bankana um að taki landið að rísa muni ávinningurinn skila sér til þeirra. Þetta er vandamálið og það er þetta sem veldur því að nú tveimur og hálfu ári eftir hrunið bendir Seðlabankinn á hversu hátt hlutfall lána er enn í vanskilum og hversu illa bankarnir hafa skilað til fyrirtækjanna og til landsmanna því svigrúmi sem þeir hafa haft. Ríkisstjórnin verður að horfast í augu við það að við erum núna á miðju kjörtímabili og það eru enn málefni dagsins í dag hvernig eigi að reikna útlán. Seðlabankinn sagði í gær að það væri mikil óvissa um aðgerðir stjórnvalda. Fólkið í þessu landi er enn að bíða eftir dómum. Tillögu hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar um að þessi efni fengju flýtimeðferð í dómstólunum var hafnað af ríkisstjórninni. (Gripið fram í.) Henni var hafnað. Við lögðum til fyrir rúmu ári, bráðum tveimur árum, að þessi mál fengju flýtimeðferð fyrir dómstólunum. Því var hafnað. (Gripið fram í.) Við erum enn á þessum fasta stað.

Varðandi kostnað ríkisins finnst mér hæstv. fjármálaráðherra dálítið hlaupa í kringum málið eins og köttur í kringum heitan graut. Það er ekki bæði hægt að segja að hlutafjárframlag ríkisins myndi eign og feli í sér gríðarlega mikinn kostnað, en að annað framlag sé einungis kostnaður en myndi ekki neina eign. Staðreynd málsins er sú að með gríðarlega mikilli lausafjárfyrirgreiðslu ríkisins til bankanna og Seðlabankans til bankanna langt umfram það sem hefðbundið er hefur til dæmis peningamagn í umferð verið stóraukið sem setur þrýsting á gjaldmiðilinn, setur þrýsting á verðbólguna og hækkar verðlag í landinu sem kemur sér illa fyrir skuldara. Fyrir lántakendur. Þetta er önnur hlið málsins. Hin er auðvitað líka mjög mikilvæg, að fjármálaráðherra hefur lýst því yfir ítrekað í þinginu og annars staðar að þessi aðferð hafi kostað ríkið svo miklu minna, en staðreynd málsins er sú að það er ekki þannig.

Meira að segja er það orðað svo í skýrslunni að það muni nánast engu, það sé einungis 40 milljarða munur af þessari nokkurra hundruða milljarða fjárhæð. (Gripið fram í.) Skýrslan ber það sjálf með sér að þessi málflutningur stenst ekki þá skoðun að ríkið hafi sparað eitthvað sérstaklega á þessari aðferðafræði.

Mig langar að ræða stuttlega líka um það hvort við höfum verið í einhverjum sérstökum erfiðleikum með að láta matsvirði þessara hlutlausu aðila gilda í viðskiptum við gömlu bankana. Við settum lög, við veittum Fjármálaeftirlitinu heimild til að færa eignasöfnin á milli. Síðan er fenginn þriðji aðili til að leggja mat á virði eignanna. Það er inni á einhverju bili, en þýðir það að við séum nauðbeygð til þess að semja um það sem hentar kröfuhöfunum betur? Ég segi ekki. Ég segi að það sé ekki þannig. Ég segi að það séu einmitt hagsmunir almennings í þessu landi að við fáum sem allra besta niðurstöðu út úr þeim samningum. Þá þarf ekki að miða við eitthvert miðgildi eins og hæstv. ráðherra gerir ráð fyrir. Það þarf bara að fá niðurstöðu sem þjónar almannahagsmunum best.

Niðurstaðan sem valin var skildi eftir margra ára uppgjörstímabil sem við svíðum enn fyrir. Það er staðreynd málsins.

Bankarnir í landinu þurfa að sjálfsögðu sem allra fyrst að komast í hendur framtíðareigenda sinna. Hér var því lýst sem einhverjum sérstökum kosti við það skipulag sem við höfum í dag að kröfuhafarnir séu einhvers staðar víðs fjarri. En hverjir eru þá yfir stjórn bankanna? Ekki hefur hæstv. fjármálaráðherra viljað taka ábyrgð á stjórn þeirra. Ekki hefur efnahags- og viðskiptaráðherra viljað taka ábyrgð á stjórn þeirra. Ekki getum við kallað Bankasýsluna hingað inn. Það er enginn sem ber ábyrgð á bönkunum í dag. Enginn er tilbúinn til að svara fyrir bankana. Þar situr fólk sem velst til þess að sitja í stjórnum, sumir koma frá útlöndum, aðrir eru málsmetandi og hæfir einstaklingar úr íslensku samfélagi, en er einhver sem tekur ábyrgð á rekstrinum? Nei, það er enginn sem tekur ábyrgð á honum. Og við þurfum ekki þannig banka.

Þess vegna er ég þeirrar skoðunar að það þurfi að hraða sem allra mest uppgjöri þrotabúanna, helst með nauðasamningum. Það á að vera fullur þrýstingur á það af hálfu stjórnvalda að fá nauðasamninga þannig að hlutur þrotabúanna í íslensku bönkunum fari frá þessum óskilgreindu eigendum í hendur framtíðareignarhalds. Það er það sem þarf að gerast. Við þurfum eigendur sem taka ábyrgð á rekstrinum, eigendur sem sjá að hagsmunir þeirra liggja með fólkinu í landinu og fyrirtækjunum þannig að einhver framtíð verði fyrir viðskiptamenn bankanna og fyrir starfsemi bankanna sjálfra.

Við erum í millibilsástandi þrátt fyrir að ríkisstjórnin hafi lofað því að einstakar aðgerðir yrðu endanlega komnar fram í september 2009. Þetta er klúðrið. Það er engin ástæða til að efast um að þeir aðilar sem voru fengnir að málinu á sínum tíma hafi verið að vinna með rétt verðmat sem hafi verið hægt að leggja til grundvallar. Sá valkostur var til staðar að ríkið legði fram hlutaféð og yfirtæki eignarhaldið. Að sjálfsögðu fylgdi þá þeirri aðferðafræði sú ákvörðun í framhaldinu að ríkið seldi eignarhlut sinn.

En það var ánægjulegt að hlusta á hæstv. fjármálaráðherra lýsa því yfir að fráleitt væri að ríkið ætti bankana, formaður Vinstri grænna, formaður þess flokks sem harðast gekk fram í gagnrýni sinni á sölu bankanna á sínum tíma. Þetta var alveg stórkostlegur viðsnúningur hér í ræðustól, eitt það skemmtilegasta sem ég hef séð hér síðan ég settist á þing árið 2003. (Gripið fram í.)

Frú forseti. Niðurstaðan í þessu máli er sú að það hefur algerlega mistekist að sýna þinginu og þjóðinni fram á einhvern ávinning af þeirri leið sem ríkisstjórnin hefur valið. (Forseti hringir.) Hverjir eru kostir þessarar leiðar umfram það sem áður hafði verið ákveðið? Það er stóra spurningin. Það sem við vitum er að heimilin og fyrirtækin eru enn í gíslingu þessa fólks. Þeir sem munu njóta hagvaxtarins sem forsætisráðherra þykist núna hafa séð fyrir eru þeir sem birtast í þessari skýrslu og eru kallaðir kröfuhafar.