145. löggjafarþing — 57. fundur
 17. desember 2015.
alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl., frh. 3. umræðu.
stjfrv., 91. mál (aukin skilvirkni, skipulag, Þróunarsamvinnustofnun Íslands). — Þskj. 91, nál. 648, brtt. 595 og 649.

[13:01]Útbýting:

[13:01]
Frsm. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Mörgum kann að finnast skrýtið að ég sé þakklátur fyrir að þetta mál komist að lokum til umræðu í þinginu. Ég tel að okkur beri skylda til að reyna að vera lausnamiðuð í þessari umræðu og geri mér góðar vonir um að hv. þm. Hanna Birna Kristjánsdóttir, formaður utanríkismálanefndar, hafi að minnsta kosti notað þessa umræðu til að hlusta vel og velta fyrir sér hvort ekki sé færi á því fyrir hana sem handhafa málsins, að því marki sem hún hefur forræði á því innan þingsins sem formaður utanríkismálanefndar, að finna með okkur hinum mögulega sáttaleið í þessu máli. Ég tel að ef friður sé í boði eigi menn að taka hann, sérstaklega í málefni eins og þessu sem harðar deilur hafa staðið um, sem mikill óvilji er gagnvart því að samþykkja hjá fjölda fólks hér inni og sem nánast engir hafa lýst yfir stuðningi við. Hv. þm. Hanna Birna Kristjánsdóttir þekkir hjörtun og nýrun í þingmönnum Sjálfstæðisflokksins töluvert betur en ég og ég þarf ekkert að spá í það hvort hún viti ekki hina raunverulegu afstöðu þingmanna Sjálfstæðisflokksins til þessa máls sem mér þykir vont.

Það hefur komið fram fyrr á þessum morgni að ég er kappsfullur um þetta mál, það er alveg hárrétt, en ég vísa því hins vegar algjörlega á bug að ég eða einhverjir aðrir í liði stjórnarandstöðunnar hafi með einhverjum hætti farið umfram það sem hægt er að kalla eðlileg þingmörk í viðleitni okkar til að leiða fram hið rétta í þessu máli. Því nefni ég þetta að í morgun var talað um að menn eins og ég væru reiðubúnir að beita þingið ofbeldi í málinu. Hvað er ofbeldi í þessu máli, frú forseti? Ofbeldið hefur mér sýnst fyrst og fremst koma frá þeim sem flytur málið sem hefur ekki tekist að koma fram með nein rök fyrir því en er hér að reyna að þrýsta því í gegn í krafti vilja síns án þess að hafa fært fyrir því rök sem hafa sannfært að minnsta kosti stjórnarþingmenn um málið í þeim mæli að þeim hafi þótt taka því að reyna að létta honum róðurinn í því þunga andstreymi sem hér er. Samkvæmt þingsköpum getum ég, sem flutningsmaður nefndarálits, og hv. þm. Hanna Birna Kristjánsdóttir flutt hérna eins margar ræður og okkur sýnist. Ég geri ekki ráð fyrir að hv. þm. Hanna Birna Kristjánsdóttir muni að þessu sinni notfæra sér þann rétt út í einhvers konar öfgar, en ef það væri rétt sem til dæmis hv. þm. Ásmundur Einar Daðason lét að liggja hér í morgun, að mér væri málið slíkt kappsmál að það væri hugsanlegt að fara í einhverjar (Gripið fram í.) slíkar æfingar — eða þá skoðanabræður hv. þingmanns — (Gripið fram í.) væri mér í lófa lagið af því að ég er vel sofinn og þrekmikill miðað við aldur og fyrri störf (Gripið fram í: Og fallegur.) — ég læt aðra dæma um það — að halda hér umræðu mjög lengi áfram. Mér er hins vegar mest í mun að ná hér vitrænni umræðu um þá tillögu sem við þingmenn stjórnarandstöðunnar höfum lagt fram sem sáttaleið í málinu.

Áður en ég held lengra finnst mér nauðsynlegt að það komi algjörlega skýrt fram að mér þótti félagi minn Helgi Hjörvar borinn þungum sökum hér í morgun. Því var haldið fram að hann hefði gert samkomulag sem ekki væri verið að standa við. Nú er rétt að það komi fram að ekki vissi ég af neinu meintu samkomulagi fyrr en hv. þm. Hanna Birna Kristjánsdóttir upplýsti um það sem hún taldi niðurstöðu í því á fundum í nefndinni. En það kom líka fram í umræðu í þeirri nefnd að jafnvel þeim sem voru á vettvangi þegar það samkomulag var gert og eiga sæti í utanríkismálanefnd, fólki á báðum vængjum stjórnmálanna, þótti niðurstaðan í besta falli óskýr. Hafi niðurstaðan verið sú að þessu máli ætti að ljúka á haustþingi eru engin tilefni til þess á þessum tímapunkti að ásaka hv. þm. Helga Hjörvar um neins konar svik eða undirmál í þeim efnum vegna þess að haustþingi er ekki lokið. Því lýkur ekki fyrr en á gamlársdag. Jafnvel þó að við tölum í þessu máli fram á gamlársdag eru engin tilefni til að halda því fram fyrr. Þar að auki ætla ég að halda því fram að það sé fyrst og fremst sleifarlag meiri hlutans á þingi að það er ekki löngu búið að finna niðurstöðu í þessu máli á hvorn veg sem hún fellur. Hæstv. ráðherra getur verið hundfúll út í mig fyrir að hafa skoðanir sem eru honum fullkomlega öndverðar. Báðir höfum við lögmætar ástæður til að hafa þá skoðun sem við höfum. Það eru engin lögmæt tilefni til að ásaka stjórnarandstöðuna um einhvers konar málþóf eða tafir vegna þessa máls.

Hvers vegna er þetta mál á dagskrá núna en er ekki löngu lokið? Það er vegna þess að hv. þm. Ásmundur Einar Daðason, formaður þingflokks framsóknarmanna, hefur greinilega ekki ýtt meira eftir málinu en svo að í heilan mánuð lá það í kyrrstöðu í miðri umræðu. Það var ekki að ósk stjórnarandstöðunnar sem þessu máli var kippt úr umræðu fyrirvaralaust 22. október og látið liggja umræðulaust til 18. nóvember. Í heilan mánuð lét stjórnarliðið þetta mál liggja án þess að nokkuð væri gert í því og það var svo sannarlega ekki að ósk stjórnarandstöðunnar. Við hefðum gjarnan viljað taka þá snerru sem þarf að taka um þetta mál og leggja það síðan til hliðar og taka næsta mál á dagskrá. Það var ekki vilji okkar að fara með það með þessum hætti.

Þetta vildi ég segja í upphafi þessarar umræðu, frú forseti.

Efnisleg rök okkar í stjórnarandstöðunni liggja fyrir. Ég ætla í sjálfu sér ekki að hafa langt mál um þau. Þau komu öll fram við 1. og 2. umr. þessa máls og sömuleiðis í fyrra. Þeim sem vilja kynna sér það vísa ég sérstaklega á nefndarálit sem við lögðum fram þegar málið kom til 2. umr. í þinginu. Það sem ég ætla í stuttu máli að fara yfir eru þær hugmyndir sem við höfum í málinu. Hvað vill hæstv. ráðherra? Hann vill sameina öll verkefni á sviði þróunarsamvinnu innan utanríkisráðuneytisins. Hann vill gera það til að stytta boðleiðir millum sín og þróunarsamvinnukjarnans. Hann vill koma í veg fyrir tvíverknað. Hann vill hafa betri yfirsýn yfir málaflokkinn og hann vill hugsanlega koma málum þannig til leiðar að það sé mögulegt að í framtíðinni verði hægt að ná fram einhvers konar hagræðingu.

Þá er rétt að greina frá því að í allri umræðu málsins hér í hátt á annað ár hefur ekkert komið fram sem bendir til þess að um nokkurn tvíverknað sé að ræða millum Þróunarsamvinnustofnunar annars vegar og utanríkisráðuneytisins hins vegar. Það hefur komið fram í úttektum óháðra erlendra aðila að samskiptin séu mjög góð og mjög lipur og að ekkert skorti á þau. Það hefur sömuleiðis komið fram af hálfu þeirra sem gerst vita, þ.e. fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins, að það sé varla hætishót af von um að þetta leiði til sparnaðar upp á eina einustu krónu.

Þá veltir maður fyrir sér, og það væri gaman að fá að heyra viðhorf hv. þm. Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, formanns utanríkismálanefndar, til þess, hvers vegna við erum þá að fara þessa leið. Hvers vegna erum við að breyta stofnun sem jafnvel nýtur lofsyrða hæstv. ráðherra, stofnun sem talað er vel um af öllum sem hafa komið til nefndarinnar og sem allir eru mjög jákvæðir gagnvart? Þá er rétt að rifja upp ummæli hv. þm. Hönnu Birnu sjálfrar Kristjánsdóttur við 1. umr. málsins þegar ég spurði hana sérstaklega eftir viðhorfi hennar til stofnunarinnar og hún hlóð hana lofsyrðum, eins og aðrir. Staðreyndin er sú að Þróunarsamvinnustofnun er fyrirmyndarstofnun. Hún hefur hlotið lof innan lands og erlendis og menn hafa sérstaklega hrósað henni fyrir nýmæli í starfi. Þau nýmæli hafa orðið til þess að erlendar systurstofnanir miklu stærri ríkja eins og Þýskalands hafa óskað sérstaklega eftir því að fá að kynna sér starfsemi hennar með það fyrir augum að taka upp ýmiss konar nýmæli. Þau nýmæli sem byggja ekki síst á því með hvaða hætti stofnunin starfar með grasrótinni nálgast hana með því hugarfari að gefa heimamönnum í héraði, þar sem fjármunum Íslendinga er varið til að þétta efnahagslegar undirstöður, kost á því að hafa sitt álit á og sína þátttöku í því hvaða verkefni eru tekin upp og með hvaða hætti þau eru unnin. Þetta er ákaflega lofsverð nálgun.

Undir núverandi forustu, og reyndar fyrri forustumönnum þessarar góðu stofnunar, hefur tekist ákaflega vel að brjóta upp starfsemi hennar og ná upp nýjum takti, nálgast viðfangsefni með nýstárlegum hætti. Þetta ber auðvitað að viðurkenna og horfast í augu við. Miklu frekar en að láta verk stofnunarinnar verða til þess að hún verði felld að velli með einu bylmingshöggi ætti að ýta undir hana og styrkja hana. Það er niðurstaða þeirra sem hafa farið höndum um þessar hugmyndir hæstv. ráðherra.

Í því efni vísa ég auðvitað ekki síst til þeirra fagsérfræðinga sem hafa komið til máls við utanríkismálanefnd. Ég nefni sérstaklega umsögn félagsvísindasviðs Háskóla Íslands sem sagði einfaldlega á fundi nefndarinnar og sló það síðan í gadda í umsögn að það væri bráðræði að ætla sér að leggja stofnunina niður. Miklu frekar vildu þeir sérfræðingar sem meðal annarra orða njóta álits, ekki bara heima heldur líka erlendis, fyrir rannsóknir sínar á sviði þróunarsamvinnu leggja til að stofnunin yrði styrkt, að farin yrði sú leið sem hæstv. menntamálaráðherra Illugi Gunnarsson og fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, Davíð Oddsson, komust að 2004 og 2005 þegar þessum sömu tillögum var velt upp gagnvart þeim að það væri best að fara þá leið að sameina öll þróunarsamvinnuverkefnin á einum stað, vissulega, en gera það utan utanríkisráðuneytisins, þ.e. taka verkefnin sem eru innan þess ráðuneytis og flytja í Þróunarsamvinnustofnunina. Ég held að það væri betri kostur en sá sem núna er uppi og víst er að þeir sem hafa rannsakað þessi mál komust að þeirri niðurstöðu að það væri betra þó að menn teldu, líkt og ég, að best væri að hafa stofnunina með óbreyttu lagi.

En gott og vel, ráðherrann vill koma í veg fyrir tvíverknað, hann vill að stofnunin gangi í takt við utanríkisstefnuna, hann vill skapa möguleika til hugsanlegrar hagræðingar í framtíðinni og hann vill, eins og hann sagði hér í sinni síðustu ræðu um málið, auka yfirsýn yfir málaflokkinn. Þetta eru lögmæt sjónarmið. Þetta eru prýðileg markmið þó að það sé ekkert andlag fyrir því að það sé eitthvað sérstakt sem kalli á þetta. En gott og vel, er hægt að sameina þessi markmið hæstv. ráðherra við þau markmið sem við höfum og slá á þann kvíðboga sem við berum fyrir þessum breytingum? Og hver er hann? Jú, við óttumst að með því að þróunarsamvinna sé með þessum hætti tekin inn í utanríkisráðuneytið, vegna þess hvernig málum er þar háttað vegna flutningsskyldunnar, þynnist að lokum sú þekking og reynsla sem er til staðar og hefur byggst upp árum saman innan Þróunarsamvinnustofnunar. Þess vegna höfum við flutt hér tillögu sem við teljum að sé kjörin leið til sátta í þessu máli. Í stuttu máli felst hún í því að Þróunarsamvinnustofnun sé færð í heilu lagi inn í utanríkisráðuneytið, starfi þar áfram sem sérstök ráðuneytisstofnun og að inn í hana séu færðir allir þeir starfsmenn og öll þau verkefni sem lúta að þróunarsamvinnumálum. Það sem við erum í reynd einungis að fara fram á er að gerð verði undanþága gagnvart flutningsskyldunni. Þetta teljum við að muni leiða til þess að þekkingin tvístrist ekki og dvíni heldur geti með sama hætti haldið áfram að byggjast upp innan stofnunarinnar.

Þá velti ég fyrir mér hvaða rök séu gegn þessu. Ég spyr hv. þingmann, formann utanríkismálanefndar: Er þetta ekki sáttaleið sem er einnar messu virði að skoða? Ráðherrann nær fram öllum þeim markmiðum sem hann vill. Með þessu er í gadda slegið að það verður enginn tvíverknaður. Það er gulltryggt að stofnunin gengur í takt við utanríkisstefnuna. Ef hæstv. ráðherra vill hafa fjarstjórnarvald yfir henni er alveg ljóst að hann hefur það samkvæmt þessu. Hvers vegna að slá á þetta sáttaboð af okkar hálfu?

Allir utanríkisráðherrar, allt frá hinum stórmerka leiðtoga Framsóknarflokksins Ólafi Jóhannessyni sem segja má að hafi hrundið Þróunarsamvinnustofnun af stokkunum, hafa mann fram af manni lagt sig í líma og framkróka við að hafa sátt um þróunarsamvinnu. Hún er í eðli sínu flókinn og viðkvæmur málaflokkur. Það er mjög auðvelt að gera hana tortryggilega eins og við sjáum af umræðu sem oft sprettur upp. Það er þess vegna eftir miklu að slægjast að reyna að ná þverpólitískri sátt um málefni stofnunarinnar, um þróunarsamvinnu. Nú er stjórnarliðinu boðið upp á þessa sátt sem felur það í sér að málaflokkurinn er allur færður inn í ráðuneytið. Hæstv. ráðherra nær því öllu fram sem hann vill og það eina sem við erum í reynd að óska eftir er að flutningsskyldan verði undanskilin gagnvart starfsmönnum Þróunarsamvinnustofnunar.

Það erum ekki bara við sem höfum áhyggjur af þessu. Það eina sem ég finn að ræðu hv. þm. Hönnu Birnu Kristjánsdóttur hér áðan er að mér fannst hún tala af fullmikilli léttúð um að þessi breyting yrði ekki til þess að hafa áhrif á það hvernig þekkingin dvínar og jafnvel glutrast niður með þessu nýja lagi. Hverja hafði hún fyrir því? Hún tilgreindi eina heimild, bara eina heimild, ráðuneytisstarfsmennina, starfsmenn hæstv. ráðherra sem komu á fund nefndarinnar. Og við hverju býst hv. þm. Hanna Birna Kristjánsdóttir þegar spurt er út í frumvarp ráðherra? Vitaskuld bera þeir lof á það og telja engar hættur stafa af því með þessum rökum.

Hvað segir höfundur skýrslunnar sem lagði fram tillögur sem frumvarpið er byggt á? Í skýrslu hans upp á 218 blaðsíður fær fátt jafn þunga áherslu og einmitt hættan á því að þekking starfsmannanna fari forgörðum. Á bls. 204 og 205 er sérstaklega rætt djúpt um það og þar segir í umfjöllun um tillöguna sem frumvarpið var að lokum byggt á, með leyfi hæstv. forseta:

„Verði þróunarsamvinnuskrifstofa að miklu leyti mönnuð fólki sem getur átt von á að vera sent á starfsstöðvar sem ekkert tengjast þróunarsamvinnu er hætt við að stofnanaminni hverfi fljótt.“

Það er ekki ég sem skrifa þessi orð. Það er eini ráðgjafinn sem hæstv. utanríkisráðherra kallaði sér til ráðuneytis. Hann segir að ef þessi breyting verði gerð sé sérstök hætta á því að stofnanaminnið daprist og týnist fljótt. Hann segir jafnframt, með leyfi forseta:

„Ef mikið er um flutning á fólki inn á þróunarsamvinnuskrifstofu, sem enga reynslu hefur á þróunarsamvinnu, útvatnast þekkingin fljótt.“

Með öðrum orðum, eini maðurinn sem hæstv. ráðherra kallaði sér til ráðuneytis er á annarri skoðun og hefur dregið aðra ályktun af sinni ítarlegu rannsókn á málinu en hv. þm. Hanna Birna Kristjánsdóttir dró af tiltölulega stuttum samtölum yfir skrifborð á fundum utanríkismálanefndar. Við hverja? Við starfsmenn hæstv. ráðherra.

Hvað sögðu sérfræðingarnir? Voru þeir kallaðir til? Hvað sögðu þeir? Þeir sögðu náttúrlega ekki neitt vegna þess að það voru engir sérfræðingar kallaðir til um það mál. En við höfum einn sérfræðing, Þóri Guðmundsson, sem hér hefur verið lýst sem miklum þekkingarmanni á þessu sviði og ég dreg ekkert úr því þó að ég sé þeirrar skoðunar að það hafi verið glapræði af hæstv. ráðherra að kalla bara til augu Rauða krossins. Það er önnur saga. Þórir Guðmundsson sem er sérstakur ráðgjafi hæstv. ráðherra skrifar um það á mörgum blaðsíðum hvað það er mikilvægt að varðveita stofnanaminnið og koma í veg fyrir að þekkingin útvatnist. Hann vísar sérstaklega til þess að í öðrum stofnunum, eins og í Írlandi sem hann notar sem módel fyrir tillögu sína, eigi menn til dæmis kost á því að skorast undan flutningi. Hann greinir frá því að til þess að koma í veg fyrir að þekkingin glatist til dæmis hjá Írum sé þess gætt að þróunarfræðingar flytjist fyrst og fremst á millum þróunarskrifstofa. Hefði ekki verið að minnsta kosti einnar messu virði fyrir hv. þm. Hönnu Birnu Kristjánsdóttur að skoða okkar tillögu og jafnvel athuga hvort hægt væri á grundvelli hennar að finna eitthvað sem kæmi til móts við kvíðboga okkar varðandi þetta tiltekna dæmi? Það gæti hugsanlega verið eitthvað í átt við það sem er við lýði núna í Írlandi.

Það sem er grátbroslegast við stöðu málsins er að þegar við ræðum um þá sáttatillögu sem felst í því að Þróunarsamvinnustofnun verði í heilu lagi flutt inn í utanríkisráðuneytið byggir sú tillaga á lagabreytingum um Stjórnarráð Íslands sem tóku gildi í sumar. Ég hef fullan skilning á því að sú leið hafi ekki verið skoðuð þegar málið kom upphaflega fram vegna þess að hún var ekki fær að því marki sem fram kemur í lagabreytingunum frá því í sumar. En að frumkvæði hæstv. ríkisstjórnar samþykktum við hér síðla vors breytingar á lögum um Stjórnarráð Íslands sem tóku gildi í júlí. Þar er bókstaflega dregin upp forskrift að því hvernig á að gera þetta, sagt með hvaða hætti eigi að flytja stofnanir inn í ráðuneyti og því sömuleiðis lýst hvernig þær eru byggðar upp. Það er greint frá því að yfir þeim geti verið ákveðin forusta sem sé undir beinu boðvaldi utanríkisráðuneytisstjórans. Með öðrum orðum eru boðtengslin orðin svona: Hæstv. utanríkisráðherra > ráðuneytisstjóri > yfirmaður ráðuneytisstofnunar. Það er ekki hægt að búa til kerfi þar sem einn ráðherra getur haft meiri áhrif á eina stofnun. Hvað segir í greinargerð með lögunum sem við samþykktum síðastliðið vor og tóku gildi í júlí um ráðuneytisstofnanir? Það er beinlínis sagt að það sé verið að samþykkja þessa breytingu til að hún sé einmitt valkostur þegar áformaðar eru breytingar af því tagi sem hér eru að fara fram.

Með öðrum orðum er breytingin á stjórnarráðslögunum eins og klæðskerasniðin fyrir hið háa Alþingi til að finna sátt. Við erum að leggja fram þessa sátt og er þá rétt að slá á hana með þeim hætti sem hér hefur verið gert?

Þá vil ég brýna fyrir hv. þm. Hönnu Birnu Kristjánsdóttur að það er hún sem er í forsvari fyrir þá sem hafa forræði málsins. Hæstv. ráðherra hefur ekkert með það að gera lengur. Málið er komið til þings. Það er ekki lengur á forræði hans. Ef þetta snýst um einhvers konar bernskt stolt ráðherra verður hv. þingmaður, formaður utanríkismálanefndar, að láta hagsmuni þingsins og heildarinnar ganga fyrir. Hv. þm. Hanna Birna fór ekki með mjög sterk rök fyrir því af hverju hún teldi sér ekki kleift að fara að tillögu okkar. Hv. þingmaður sagði að hún hefði skoðað þetta mál og að það hefði verið rætt í nefndinni. Svo hefðu þau rætt þetta í meiri hlutanum og komist að þeirri niðurstöðu að málið væri ekki farsælt. Gott og vel, ég get ekki deilt um það ef menn komast að annarri niðurstöðu, en ég á kröfu og heimtingu á því að fá rökin fyrir því. Af hverju, hv. formaður utanríkismálanefndar, er ekki farsælt fyrir þróunarsamvinnu að fara þá leið sem bókstaflega er teiknuð upp í nýjum breytingum í stjórnarráðslögunum? Af hverju er ekki farsælt að fara þá leið sem felst í írska módelinu sem var undirstaða tillögunnar sem Þórir Guðmundsson lagði upp með í frumvarpi sínu og segir bókstaflega í lýsingu á írska módelinu í glærukynningu sem við fengum á sínum tíma til okkar og er vafalítið hægt að finna á vefnum? Þar lýsir hann því beinlínis að innan írska utanríkisráðuneytisins sé þróunarsamvinnan í afmörkuðu hólfi, ekki ráðuneytisstofnun, hann segir það ekki en lýsir því með þeim hætti að það er eins og það sé bara „copy/paste“, með leyfi forseta, upp úr stjórnarráðsbreytingunum sem við samþykktum hér í fyrra. Hvað veldur því að hv. formaður utanríkismálanefndar er í reynd annarrar skoðunar en Þórir Guðmundsson, annarrar skoðunar en ýmsir sérfræðingar? Mér finnst mikilvægt að fá svör við þessu vegna þess að við erum hér í efnislegri umræðu og ég er hér, a.m.k. af hálfu minna pólitísku skyldmenna, að reyna að finna leið til sátta sem byggist á málefnalegum efnisatriðum en ekki einhverjum huglægum hrifum hjá einstökum ráðherrum sem eiga erfitt með að sætta sig við það að þingið taki af þeim völdin.

Hversu oft hefur það ekki gerst, frú forseti, að mjög umdeild mál hafa komið inn á Alþingi Íslendinga sem menn, ekki síst ráðherrar, hafa beygt sig aftur á bak til þess að reyna að ná sáttum um? Hvenær í sögunni hefur það gerst að hér hafi verið samþykkt frumvörp eða þingsályktunartillögur um þróunarsamvinnu sem djúpur ágreiningur hefur verið um? Aldrei. Hingað inn hafa komið mál sem menn hafa slegist alveg rosalega um, en þá hefur þingið borið gæfu til að láta þau liggja. Síðast minnir mig að það hafi verið 2008. Þá kom inn mál sem var svakalega umdeilt og olli heiftarlegum deilum og það var látið liggja.

Nú er þetta mál komið hér inn og að minnsta kosti af hálfu okkar í stjórnarandstöðunni er mikil andstaða við það. Hér er lögð fram málefnaleg tillaga til sáttar sem byggir á sama módeli og höfundur skýrslunnar sem var undirstaða breytingarinnar lýsir, tillaga sem byggir á breytingu sem þessi ríkisstjórn kom í kring á lögum um Stjórnarráðið. Það segir bókstaflega í greinargerð að hún sé teiknuð upp fyrir breytingar af þessu tagi, fyrir utan það að í áliti nefndar frá árinu 2000 þar sem er fjallað um ráðuneytisstofnanir, vegna þess að málið hefur langan aðdraganda, er eiginlega í gadda slegið að svona eigi að gera þegar menn ætla sér að flytja verkefni inn í ráðuneyti eða sameina þau þar.

Mér er algjörlega hulið, frú forseti, af hverju menn ætla að kasta þessu svona frá sér. Ég tel að hv. þm. Hanna Birna Kristjánsdóttir skuldi mér og okkur í stjórnarandstöðunni frekari skýringar á því. Hún þarf að skýra það út af hverju þetta er ekki farsælt og hún þarf að skýra út af hverju hún tekur orð starfsmanna ráðherrans sem vill ekki breyta málinu ein gild gagnvart því að flutningsskyldan útvatni ekki þekkinguna þegar fyrir liggur að margar blaðsíður í skýrslunni sem frumvarpið byggir á útskýra með hvaða hætti það geti gerst. Og meðal annarra orða, ég bendi hv. þm. Hönnu Birnu Kristjánsdóttur á að í þeirri skýrslu er skýrsluhöfundurinn með margar ábendingar og leiðbeiningar um það hvernig hægt sé að draga úr þessum áhrifum en það er varla orð um það í frumvarpinu sjálfu.

Í síðasta lagi vildi ég benda hv. þm. Hönnu Birnu Kristjánsdóttur á eitt. Hún sagði áðan að það væri óhöndugt, ég man ekki hvaða orð hún notaði, að koma öllum starfsmönnum þróunarsamvinnunnar fyrir inni á sömu skrifstofu. Hver er tillaga Þóris Guðmundssonar? Hún er bókstaflega sú þannig að mér sýnist að hér rekist margt á annars horn.

Frú forseti. Eins og ég hef sagt virði ég lögmæti allra skoðana sem koma frá stjórnarliðinu. Ég vil hins vegar fá rökin fyrir þeim. Við erum hér loksins í málefnalegri umræðu og ég óska eftir því að það komi önnur svör en „af því bara“. Þau svör hafa komið frá hæstv. ráðherra. Hann hefur ekki fært skilmerkileg rök fyrir máli sínu eins og við útskýrum rækilega í greinargerðum og ég nenni ekki einu sinni að fara yfir það. Ég vil bara málefnalega umræðu og reyna að finna sátt. Ef menn vilja ekki sátt verður hv. þm. (Forseti hringir.) Hanna Birna Kristjánsdóttir að skýra út fyrir mér af hverju hún vill ófrið þegar friður er í boði.



[13:31]
utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Síðan ætla ég vitanlega að mótmæla því sem hv. þingmaður sagði og er alrangt eins og svo margt í umræðunni sem staðið hefur yfir í langan tíma, þ.e. að ekki verði færð rök fyrir þessum breytingum og síst að færð hafi verið rök fyrir því að hann nefndi sérstaklega eitthvað sem hann kallaði held ég tvívirkni eða það sem verið var að gera á tveimur stöðum. Það hef ég talið upp í ræðu hér og hefur jafnframt verið kynnt fyrir utanríkismálanefnd, að sjálfsögðu. Nægir að nefna að það eru tveir sem sinna fjármálum, kynningarmálum, árangurseftirliti, tvöföldum gagnagrunnverki, það eru tvöföld samskipti við sömu aðila í útlöndum o.s.frv. Þar er af nógu að taka.

Varðandi þær breytingartillögur sem hér hafa komið fram, sem þingmaðurinn kallar sáttaleið, þá ganga þær einfaldlega ekki upp. Í fyrsta lagi samræmist það ekki lögum um ráðuneytisstofnun að ráðuneytisstofnun skuli byggð á lagagrein og gerð að lögum. Þar segir einfaldlega að ráðuneytisstofnun séu þau verkfæri sem ráðherra hafi innan þeirrar stjórnsýslueiningar sem þegar séu innan ráðuneytisins. Ekki er því gert ráð fyrir að slík stofnun sé sett með sérstökum lögum, heldur er það einfaldlega ákvörðun sem er á valdi ráðherra.

Síðan er mikilvægt að taka fram að í kynningu með þessari hugmynd að ráðuneytisstofnun er sagt sérstaklega að þetta sé hugsun og möguleiki fyrir ráðherra á hverjum tíma til hagræðingar og samhæfingar í ráðuneyti sínu, ekki til þess að búa til sérstaka stofnun í ráðuneytinu sem í raun er lagt til í breytingartillögunum. Í öðru lagi er lagt til að þessi stofnun annist tvíhliða þróunarsamvinnu og miði í rauninni að því að viðhalda núverandi fyrirkomulagi. Það er algjörlega andstætt markmiðum þessara laga að halda áfram með tvöfalt system.

Síðan er einnig lagt til að skipaður verði sérstakur forstöðumaður sem er embættismaður og heyri beint undir yfirstjórn ráðuneytisstjóra. Áfram er gert ráð fyrir að þetta sé aðskilið, þetta sé ekki samtvinnað og sé ekki unnið saman á einum stað.

Í fjórða lagi er hér talað um að starfsmenn verði ekki flutningsskyldir. (Forseti hringir.) Það byggir á einhverjum miklum misskilningi, því að hluti starfsmanna ÞSSÍ í dag er flutningsskyldur og töluverður hluti er meira að segja flutningsskyldur nú þegar. (Forseti hringir.) Fyrirgefðu forseti. Ég lýk máli mínu síðar.



[13:34]
Frsm. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég ætla ekki að elta ólar við skæting ráðherrans, ég ætla að reyna að ræða þetta málefnalega við hann. Fyrst ætla ég að segja eitt og ég ætla líka að beina því til hv. formanns utanríkismálanefndar: Það er ansi klént af löggjafanum að koma hingað og segja að í lögunum um Stjórnarráðið sé ekki gert ráð fyrir að séu sett sérlög heldur sé þetta bara ákvörðunarvald ráðherra. Það getur vel verið, en eins og ég hef áður sagt á fundum utanríkismálanefndar erum við löggjafinn. Þar er gert ráð fyrir því að svona stofnanir séu til, þar er dregið upp forskrift, jafnvel skipurit af því með hvaða hætti það eigi að vera. Ef það er til lausnar á þessari deilu að þingið taki af skarið og segi við hæstv. ráðherra: Þú átt að gera þetta svona, þá er það bara fullkomlega í valdi okkar og hæstv. ráðherra kemur það í sjálfu sér ekki neitt við. Það er þingsins að gera þetta. En hæstv. ráðherra gæti líka stigið langt skref til sátta í málinu með því að segja að hann ætli sér að gera það.

Sá texti sem hæstv. ráðherra las og hefur greinilega ekki skrifað sjálfur er byggður á einhvers konar misskilningi. Í greinargerð með því frumvarpi sem við samþykktum hérna, og ég líka með hæstv. ráðherra í vor, og leiddi til laga sem tóku gildi í júlí, er tekið sérstaklega fram að þegar stofnun fær stöðu ráðuneytisstofnunar í stað sérstaks stjórnvalds þarf slík breyting ekki að hafa í för með sér umfangsmiklar breytingar á skipulagi, verkefnum eða ytri ásýnd viðkomandi stofnunar. Það kemur líka fram þar að stofnun dragi nafn af starfslegum tengslum sínum við ráðuneytið.

Hæstv. ráðherra sagði sjálfur að hann ætlaði að halda áfram að nota hið enska orð ICEDA yfir verkefnin erlendis. Er eitthvað að því að nota það líka á íslensku? Þetta er sáttaleið. Hví í ósköpunum reyna menn ekki að ræða það á (Forseti hringir.) málefnalegum grunni?



[13:36]
utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nú einmitt vandinn við þessa umræðu fram að þessu í það minnsta að hún hefur lítið verið rædd á málefnalegum grunni, þetta eru aðallega einhver hnútuköst, dylgjur og eitthvað slíkt af hálfu hv. þingmanns og fleiri svo sem. Það er alveg ljóst að miðað við þau lög sem gilda í dag um ráðuneytisstofnanir á slíkt ákvæði ekki heima í lögum um slíka stofnun. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni, auðvitað getur Alþingi sett lög um alla skapaða hluti. En hérna er um að ræða stofnun sem á þegar ákveðinn stað í lögum. Þar er útskýrt hvernig hún verður til og, eins og hv. þingmaður las alveg réttilega upp, hvernig menn horfa á hana, hvernig skipulagið er og svoleiðis. Til dæmis getur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra búið til ráðuneytisstofnun í sínu ráðuneyti á morgun, telji hann það verkinu til farsældar. Það þarf enga lagabreytingu til þess, alls enga. (Gripið fram í.) Þetta er byggt (Gripið fram í.) á misskilningi hjá hv. þingmanni.

Mig langar aftur að benda á, af því hv. þingmaður talar hér um að það vanti málefnalega umræðu, að sú hugmynd sem flytjendur þessarar tillögu virðast hafa, að starfsmenn eigi ekki að geta verið flutningsskyldir, að mér finnst menn ganga mjög langt í því að vilja banna að svo sé þar sem nú þegar eru ákveðnir starfsmenn flutningsskyldir. Ég hefði viljað frekar að menn hefur þá valkost, ef það er nokkur möguleiki í systeminu að menn geti valið. Ég hef marglýst því yfir í þessum ræðustól.

Gallinn við þessa ágætu tilraun hv. þingmanns og minni hlutans í þessu máli er að tillögurnar ríma ekki við markmið frumvarpsins sem verið er að leggja fram, þ.e. að sameina stofnanir í eina, að sameina þróunarsamvinnu á einn stað, gera hana skilvirkari, gera hana betri, vinna betur, stækka hópinn sem vinnur að þessum málum, nýta betur það hugvit og þann mannauð sem þarna er. Tillögurnar ríma bara alls ekki við það. Þess vegna getur þetta, því miður, hv. þingmaður, ekki talist einhver sáttaleið þegar hún gengur þvert á markmið frumvarpsins.



[13:38]
Frsm. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að vera jafn æstur og hæstv. ráðherra (Gripið fram í.) Þó ætla ég bara að mótmæla einu. Þegar hæstv. ráðherra segir að ekki hafi verið rætt málefnalega um þetta mál er það þannig að síðasti maðurinn sem getur fellt dóm um það er hæstv. ráðherra vegna þess að hann hefur ekki viljað vera við umræðuna. Hér hefur þurft að draga hann til umræðunnar, hún tafðist um þrjá daga vegna þess að hann kaus að vera í felum í framsóknarfylgsni sínu einhvers staðar úti á landi. Það er auðvitað hans val.

Það er greinilegt að hæstv. ráðherra veit ekki hvað hann er að tala um, hann hefur ekki lesið heima. Ég nefndi hérna álitið sem lögin og lagabreytingin í vor voru byggð á, þ.e. álit nefndar sem fjármálaráðherra skipaði árið 2000 og rætt var í þinginu. Það var meðal annars um ábyrgð valdsvið og stjórnunarumboð stofnana. Í því áliti kemur fram að ráðuneytisstofnanir eru yfirleitt skilgreindar með lögum. Þær hafa jafnframt stöðu stofnana í fjárlögum og er því rétt að líta á þær sem stofnanir. Og beri menn þetta nú saman við það sem hæstv. ráðherra var að segja. Ráðuneytisstofnanir draga jafnframt nafn sitt af nánum starfslegum tengslum við ráðuneyti. Þær eru verkefnalega og stjórnunarlega aðgreindar en gegna ekki sjálfstæðum stjórnsýsluverkefnum. Veit hæstv. ráðherra ekki hvað hann er að tala um?

Í annan stað erum við löggjafinn og við ráðum því hvað fer héðan út. Það er í fyrsta lagi hægt að skipa þessum málum með þeim hætti í lögum í því frumvarpi sem hæstv. ráðherra hefur lagt hér fram og við erum að ræða, það er hægt að setja inn ákvæði þar, en menn geta líka sett inn pósitíft ákvæði í lög um ÞSSÍ um að hún skuli vera ráðuneytisstofnun af þessu tagi. Þá eru það sérlög sem ganga lengra. Þetta er „elementary, dr. Watson“. Afsakið, frú forseti.



[13:40]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm Össuri Skarphéðinssyni fyrir ræðuna og það hve vel hann fór yfir þær breytingartillögur sem við í minni hluta hv. utanríkismálanefndar leggjum til hér við 3. umr. Mér fannst þingmaðurinn spyrja margra mjög góðra spurninga og velta ýmsu upp, m.a. um sérstakar ráðuneytisstofnanir, breytingarnar á stjórnarráðslögunum og hvernig þetta allt saman tengist. Ég varð kannski fyrir svolitlum vonbrigðum með svör hæstv. ráðherra hvað varðar þessi efni.

Mig langar í þessu fyrra andsvari mínu að ræða aðeins um vinnu nefndarinnar við hv. þingmann því að eitt af því sem hefur verið talsvert mikið rætt hérna er það hversu langur tími hafi farið í umræðurnar sem að mínu viti er bara eðlilegt vegna þess að það hefur verið alveg bullandi ágreiningur um þetta mál þó að hér komi minni hlutinn með tillögu til sátta. Hefur nefndin að mati hv. þingmanns, sem hefur allmiklu meiri þingreynslu en ég, fjallað óeðlilega mikið um þetta mál? Er hv. þingmaður sammála mér um að í vinnu nefndarinnar milli 2. og 3. umr. hafi verið haldnir alveg gríðarlega góðir og mikilvægir fundir sem hafa í rauninni tekið (Forseti hringir.) málið á dálítið annan stað eins og mun líklega sjást staður í umræðunni í dag?



[13:43]
Frsm. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef setið í öllum nefndum þingsins og er náttúrlega ýmsu vanur. Ég hef komið að því að breyta flóknum lögum um stjórnkerfi fiskveiða og ég mundi telja að umfjöllun um þau mál hefði tekið töluvert lengri tíma og reyndar fleiri ár en þetta. Ég geri engar sérstakar athugasemdir við vinnu nefndarinnar. Í fyrra, eins og hv. þm. Birgir Ármannsson fór mjög vel yfir, fengum við mikinn tíma og skoðuðum þetta mál vel. Þá tengdi enginn þetta tiltekna mál við lagabreytingarnar í Stjórnarráðinu.

Ég hef heldur ekki áfellst hv. þm. Hönnu Birnu Kristjánsdóttur fyrir stjórn hennar á vinnu nefndarinnar og þær misfellur sem þar voru og voru nokkuð alvarlegar. Það var samt ekki henni að kenna, hún var ekki á þeim fundi. Ég mundi telja að merkustu fundirnir hefðu verið haldnir milli 2. og 3. umr. Ég tel að þær upplýsingar sem þar komu fram hafi skýrt það mjög vel að það er búið að búa til hólf í lagarammanum sem er beinlínis eins og teiknaður upp fyrir þá stofnun sem Þórir Guðmundsson lýsir nokkuð ítarlega og byggir á írska módelinu. Þá vísa ég hv. þingmanni sérstaklega á þá glæru í glærukynningu hans þar sem er nákvæmlega teiknað upp það sem hann vill. Á það er stimplað með „retró sixtís“ letri, Irish Aid, þ.e. írsku stofnuninni. Hann hefur beinlínis teiknað þetta upp, lýsir stofnun sem ekki var pláss fyrir í íslenskum lögum, íslenskum rétti, fyrr en þegar breytingarnar á stjórnarráðslögunum tóku gildi í júlí síðastliðnum.

Því miður þekki ég ekki afstöðu Þóris til þess, enda skiptir hún ekki máli. Við erum hér að ákveða þetta.

Ég mundi telja að fundirnir millum 2. og 3. umr. hafi verið gagnmerkir en miðað við það í hvaða stöðu málið var komið geri ég engar athugasemdir við að ekki hafi það hrosshár verið spunnið frekar.



[13:45]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég er sammála því að gríðarlega góðir fundir voru haldnir í nefndinni á milli umræðna. Ég sat sjálf ekki í hv. utanríkismálanefnd á síðasta ári en fékk engu að síður aðgang að þessari glærusýningu sem mér skilst að nefndarmenn á síðasta ári hafi fengið að sjá. Eins og kemur fram hjá hv. þingmanni gat ég ekki fengið annan skilning með því að skoða þessa glærusýningu en einmitt þann að rétta leiðin væri að taka írska módelið okkur til fyrirmyndar sem ég tel okkur reyndar vera að gera með breytingartillögunum en vitaskuld inn í hið íslenska samhengi. Þetta var gríðarlega mikilvægt.

Hér hefur komið fram að hingað til hefur verið passað upp á að þverpólitísk sátt ríki um þennan mikilvæga málaflokk. Mér heyrist, a.m.k. í orði kveðnu, allir vera sammála um mikilvægi þess að hin þverpólitíska sátt ríki, en mig langar þess vegna að gera viðbrögðin við breytingartillögum minni hlutans að umtalsefni. Er ekki dálítið skrýtið að segjast telja mikilvægt að þverpólitísk sátt sé um málið en koma hins vegar með mál sem mikil andstaða er (Forseti hringir.) við og vilja svo í rauninni ekkert ræða efnislega um kosti og hvað mætti jafnvel hugsanlega betur fara í sáttarboði minni hlutans?



[13:47]
Frsm. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Það var bara einn ljóður á ágætu máli hv. þingmanns. Hæstv. ráðherra hefur aldrei sagst vilja þverpólitíska sátt um málið. Mig rekur ekki minni til þess. Allir aðrir forverar hans hafa hins vegar sagt það, lagt sig í líma, gjörbreytt frumvörpum og þingsályktunartillögum sem hingað koma. Ég lagði fram nokkur mál sem vörðuðu þróunarsamvinnu. Þau voru öll samþykkt nánast einróma og gerðar á þeim töluverðar breytingar. Ég var spurður í þingsal yfir þetta púlt hvernig mér litist á tilteknar breytingar. Efnislega var svar mitt að mér kæmu þær varla við. Ef þetta væri niðurstaða þingsins sætti ég mig við hana. Þannig var það.

Varðandi síðan feril málsins er það þannig, og menn mega ekki gleyma því, að í fyrra var þetta mál þrautrætt í utanríkismálanefnd. Ég taldi þá að það mundi koma hingað til afgreiðslu. Það gerðist ekki og var ekki á mínu valdi eða vegna einhverra hótana stjórnarandstöðunnar þá. Það virtist bara ekki vera rosalegur stuðningur við það. Kannski óttuðust menn að það mundi setja mál hér í uppnám og kann vel að vera.

Síðan kemur nýtt ár og þá segja þingsköp að málið eigi að fá nýja rannsókn. Ef allir þingmenn sitja áfram gegnir kannski öðru máli. Í þessu tilviki voru þrír nýir fulltrúar. Tveir þeirra kváðust afsala sér rétti sínum til að fá hina ítarlegu umfjöllun, einn var úr hópi stjórnarandstöðunnar og gerði það ekki, en ég mundi segja að gróflega hefði verið broti á rétti þess þingmanns. Um þetta er órækur vitnisburður í fundargerðum nefndarinnar þar sem fram kemur að á einum tilteknum fundi þar sem formaður nefndarinnar var fjarstaddur er því lýst yfir af þeim sem stýrði fundi að málið yrði afgreitt á þeim fundi. Sömuleiðis kemur fram að ekki var gefin heimild til að fara yfir allar umsagnir (Forseti hringir.) og ekki var farið yfir tvær þeirra. Það hefur aldrei gerst í 25 ára sögu þings sem ég þekki og enginn starfsmanna þingsins kannast við það heldur. En það er ekki aðalatriði máls.



[13:50]
Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Nú erum við í 3. umr. um frumvarp til laga um breytingu á lögum um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands o.fl. Á ýmsu hefur gengið í þeirri umræðu og ef ég á að segja alveg eins og er skil ég ekki enn hvers vegna málið hefur tekið allan þennan tíma í meðförum þingsins. Frumvarpið kom til þingsins á síðasta þingi. Við náðum ekki að afgreiða málið þá vegna þess að stjórnarandstaðan kaus að hertaka það. Að lokum var gert samkomulag um að málið yrði afgreitt í september þegar þing hæfist að nýju. Því miður stóð stjórnarandstaðan ekki við gerða samninga og þóttist ekkert kannast við þá. Þrátt fyrir að frumvarpið hefði verið rætt langtímum saman um vorið og kæmi nánast óbreytt aftur inn í þingið ákvað stjórnarandstaðan að hertaka málið öðru sinni. Hið sama var uppi á borðinu í nefndarstörfum utanríkismálanefndar. Þingmenn stjórnarandstöðunnar fóru fram á að 24 umsagnarbeiðnir yrðu sendar út aftur þrátt fyrir að aðeins fjórir aðilar hefðu sent inn umsögn á síðasta þingi. Hv. formaður utanríkismálanefndar varð við þeirri beiðni og gaf fullan umsagnarfrest, sem fyrr. Ekkert nýtt kom fram í umsögnunum.

Málið var rætt ítarlega í utanríkismálanefnd. Allir gestir sem óskað var eftir komu fyrir nefndina. En hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni virtist vera það kappsmál að klára ekki málið og fór til dæmis fram á það 15 mínútum fyrir nefndarfund, þegar nokkrir gestir voru á leiðinni á fundinn að hans beiðni, að sá fundur yrði afboðaður hið snarasta þar sem hann ætlaði að hlusta á ræðu forseta Íslands við setningu Arctic Circle-ráðstefnunnar í Hörpu. Við því var ekki orðið þar sem fyrirvarinn var mjög skammur og gestir gátu ekki komið á öðrum tíma. Fundurinn var því haldinn, gestirnir mættu og málið var síðan tekið úr nefndinni þegar ljóst varð að samkomulagi yrði ekki náð í nefndinni um málið, því miður.

Umræður hófust að nýju í þingsal. Flestallir þingmenn stjórnarandstöðunnar tjáðu sig um málið, sumir af þekkingu, aðrir ekki. Ég er ekki búin að taka saman í hvað margar klukkustundir málið var rætt á yfirstandandi þingi en þær voru ansi margar. Maður velti því fyrir sér hver tilgangurinn með umræðunni var. Var hann sá að reyna að varpa nýju ljósi á málið, koma fram með nýjar röksemdir sem ekki höfðu heyrst áður eða var eini tilgangurinn að reyna að halda því sem lengst inni í þinginu svo að ekki næðist að klára það fyrir jól? Ég vil varla trúa því síðastnefnda því að ef svo er eru þingmenn stjórnarandstöðunnar vísvitandi að skaða þingið að mínu mati. Í fyrsta lagi með því að koma í veg fyrir að mikilvæg mál fáist rædd og afgreidd hjá þinginu og í öðru lagi með því að styrkja neikvæða ímynd Alþingis.

Við hljótum að geta gert betur en þetta, hagað okkur eins og fólk, rætt málin af skynsemi, efnislega, en ekki bara tala til að tala og tefja. Ætluðum við, nýja fólkið, ekki að breyta þessu? Erum við komin á sama stað og gömlu refirnir sem við ætluðum ekki að líkjast? Lét stjórnarandstaðan gamlan ref stýra sér í þessu máli? Ég vona ekki.

Svo að ég haldi áfram að fara yfir málsmeðferðina þá var málið tekið aftur inn í nefnd á milli 2. og 3. umr. til að koma aftur til móts við óskir stjórnarandstöðunnar í því skyni að skoða málið enn betur og afgreiða það síðan að lokinni fjárlagaumræðu. Um það var samið. Tilgangur inntöku í nefndina var aðallega að skoða betur hugmynd um ráðuneytisstofnun, eins og fram hefur komið, og þekkingarsjónarmiðið, þ.e. hvort sérþekking mundi hugsanlega þynnast út með þessari skipulagsbreytingu. Einnig höfðu menn miklar áhyggjur af því að meðferð fjármuna og framkvæmd verkefna yrði ógagnsærri ef frumvarpið næði fram að ganga. Fjórir fundir voru haldnir í utanríkismálanefnd til að skoða þessa þætti betur. Á þeim fundum kom fram að hugmyndin um ráðuneytisstofnun hefði verið skoðuð lauslega hjá starfshópnum sem samdi frumvarpið en verið lögð til hliðar þar sem hún samræmdist ekki markmiðum frumvarpsins, þ.e. að ná meiri krafti, sveigjanleika og samhæfingu í málaflokkinn frá því sem nú er. Menn vilja sem sagt styrkja tengsl þróunarsamvinnu við önnur verkefni ráðuneytisins, samræma og koma í veg fyrir tvítekningu, eins og kom meðal annars fram í máli hæstv. ráðherra hér í dag. Óljóst er hver ávinningurinn yrði með slíkri ráðuneytisstofnun. Auk þess kom fram að þó að menn vildu á einhverjum tímapunkti fara þá leið að ráðuneytisstofnun mundi ramma inn málaflokkinn í utanríkisráðuneytinu þá stæði núverandi frumvarp samt sem áður óbreytt vegna þess að það er ekki löggjafans að ákveða innra skipulag ráðuneyta. Ráðuneytisstofnun er eingöngu skipulagsvalkostur fyrir ráðherra. Við getum þrætt um þetta endalaust en svona er þetta.

Írar hafa til dæmis farið þessa leið, en aðrar þjóðir eru með þróunarsamvinnuverkefnin í utanríkisráðuneytum sínum. Danir eru síðan með einn eina útfærsluna, þeir eru ekki með sérstaka deild um málaflokkinn heldur skipta þeir verkefnum í ráðuneyti sínu eftir landsvæðum.

Niðurstaða meiri hluta nefndarinnar varð sú að ráðuneytisstofnun, þ.e. írska leiðin, væri ekki eitthvað sem ætti heima í frumvarpinu og tók því ekki undir breytingartillögu minni hlutans í nefndinni. Nefndin fór ítarlega yfir fjármálahliðina eins og fyrr segir. Sumir þingmenn höfðu áhyggjur af því að meðferð fjármuna yrði mun ógagnsærri ef þróunarverkefni ÞSSÍ færu inn í ráðuneytið. Í ljós kom að sá ótti var með öllu óþarfur.

Áður en lengra er haldið ætla ég að útskýra lauslega hvernig fyrirkomulag þróunarsamvinnuverkefna af Íslands hálfu er í dag og meðferð fjármála. Þróunarsamvinnusvið utanríkisráðuneytisins er með starfsemi á 2. hæð í húsnæði utanríkisráðuneytisins. ÞSSÍ er með starfsemi á 4. hæð í sama húsi. Starfsmenn ÞSSÍ og þróunarsamvinnusviðs utanríkisráðuneytisins vinna að hluta til að sömu verkefnum. Þeir vinna því saman daglega og samkvæmt sömu ferlum. Öllum sem fara með ríkisfé ber að gera það markvisst og Ríkisendurskoðun hefur eftirlit með fjármálum allra aðila. Utanríkisráðuneytið er ábyrgt fyrir fjármálum ÞSSÍ gagnvart Ríkisendurskoðun. Margoft hefur komið fram í umræðunni að fjármálum ÞSSÍ hefur verið afar vel stýrt og hið sama gildir um fjármál utanríkisráðuneytisins. Þessar upplýsingar komu ítrekað fram á fundum nefndarinnar.

Menn hafa líka nefnt að stýring verkefna verði mögulega ógagnsærri ef Þróunarsamvinnustofnun færist inn í utanríkisráðuneytið. Eftir ítarlega yfirferð um þann lið hefur komið í ljós að svo er ekki. Ríkt eftirlit er með þróunarsamvinnuverkefnum, bæði hjá utanríkisráðuneytinu og ÞSSÍ. Allir aðilar starfa samkvæmt stefnu um þróunarsamvinnu sem samþykkt er á Alþingi. Verkefni ráðuneytisins eru tvíhliða þróunarverkefni sem unnin eru í samvinnu við alþjóðlegar stofnanir, svo sem Sameinuðu þjóðirnar og undirstofnanir. Verkefni ÞSSÍ eru marghliða þróunarverkefni sem einnig eru unnin í samstarfi við ýmsa aðila. Stundum skarast verkefni ráðuneytisins og ÞSSÍ og hefur það valdið ruglingi hjá erlendum samstarfsaðilum. Í öllum tilfellum sem snúa að þróunarsamvinnu er unnið samkvæmt mjög stífum ferlum frá DAC. Eftirlitið er gott, úttektir eru gerðar reglulega og öll gögn eru birt opinberlega á heimasíðu ráðuneytisins og/eða heimasíðum þeirra stofnana sem unnið er með hverju sinni. DAC rýnir auk þess reglulega starfsemi þróunarsamvinnuverkefna, bæði hjá ráðuneytinu og hjá ÞSSÍ. Stýrihópurinn, sem eftirlit hefur með öllum þróunarsamvinnuverkefnunum, hittist reglulega þannig að ráðuneytið hefur nú eftirlit með ÞSSÍ. Ráðuneytið er líka ábyrgt fyrir skilum á fjárhagsgögnum frá ÞSSÍ til OECD. Samkvæmt núgildandi lögum leggur hæstv. utanríkisráðherra reglulega fram skýrslu til Alþingis um árangur af þróunarsamvinnuverkefnum. Að þessu sögðu er ljóst að fjármála- og verkefnisstjórn mun ekki verða ógagnsærri með færslu ÞSSÍ inn í þróunarsamvinnudeild utanríkisráðuneytisins.

Annað atriði sem ég vil nefna er starfsmannamálin. Fram hefur komið að öllum starfsmönnum ÞSSÍ verði boðin sambærileg störf hjá ráðuneytinu. Starfsmenn utanríkisráðuneytisins eru með flutningsskyldu, þ.e. menn eru fluttir á milli starfsstöðva, en þó er alltaf horft til bakgrunns starfsmanna, þekkingar hans, reynslu og færni. Hið sama gildir um starfsfólk ÞSSÍ. Það eru því afar litlar líkur á því að til dæmis sérfræðingur í þróunarsamvinnu verði sendur á starfsstöð til að gegna stöðu sérfræðings í öryggismálum, svo eitthvað sé nefnt. Ég tel því að sérþekking muni varðveitast og flutningsskyldan ógni alls ekki þekkingunni, nema síður sé. Ég vil bæta því við að menn eru mjög meðvitaðir um hve verðmætur þekkingarþátturinn er. Maður heyrði það á fundum nefndarinnar, bæði frá starfsmönnum Þróunarsamvinnustofnunar og ráðuneytisins. Fólk veit það. Fólk vinnur líka í þróunarsamvinnuverkefnum í ráðuneytinu.

Við skoðuðum starfsmannamál mjög ítarlega og fórum meðal annars yfir breytinguna sem varð 1. júlí 1996, þ.e. hvað varðar þá sem voru ráðnir fyrir og þá sem voru ráðnir eftir. Nefndin fékk minnisblað þar um en ég ætla að láta þar við sitja í bili.

Hvað flutningsskylduna varðar er hún að mínu mati mjög jákvæð fremur en neikvæð. Starfsmenn fá aukin tækifæri til starfsþróunar, eins og fyrr segir, og hverju sinni er valið í störf út frá færni, þekkingu og reynslu. Starfsfólk mun geta aflað sér endurmenntunar sem fyrr. Ráðuneytið styður eindregið að fólk sæki sér menntun sem tengist starfinu á vinnutíma og fái styrk til þess.

Ég hef nú rakið stuttlega feril málsins og þau atriði sem hafa verið hvað umdeildust. Að lokum langar mig til að segja að við erum öll sammála um að við eigum að gera vel í þróunarsamvinnu. Við eigum ekki að eyða meiri tíma en orðið er í að velta okkur upp úr því með hvaða hætti formið eigi að vera. Við eigum fyrst og fremst að sinna verkefnunum vel. Markmið fyrirliggjandi frumvarps utanríkisráðherra snýst akkúrat um að gera vinnuna enn betri, ekki endilega að spara peninga heldur nýta þá peninga sem við leggjum í þessi verkefni betur og með markvissari hætti og nýta mannauðinn betur.

Við erum í 3. umr. núna og erum búin að taka málið inn í nefnd í millitíðinni. Þar átti sér stað góð umræða eins og fram hefur komið. Ég vona að við förum að komast að þeim punkti að greiða atkvæði um málið í þinginu og að við getum klárað hin afar mikilvægu húsnæðismál sem liggja fyrir þinginu og eru á dagskrá þingsins í dag og komið þeim til nefndar vegna þess að þau eru svo sannarlega stóru málinu. Engu að síður verðum við að klára þetta mál. Við getum ekki dregið það lengur eftir að hafa verið með málið á síðasta þingi og í umsjá þingsins frá því í haust. Við hljótum að vera að komast á leiðarenda, alla vega fljótlega.



[14:02]
Forseti (Róbert Marshall):

Forseti biður þingmenn í hliðarsal að sýna stillingu.



[14:02]
Frsm. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Úr hvaða pípulögn hljómaði þessi rödd? Það er töluverður munur á því að hlusta hér á hv. þm. Hönnu Birnu Kristjánsdóttur tala málefnalega um aðdraganda þessa máls og efni og hv. þm. Silju Dögg Gunnarsdóttur varaformann. Ég hef hingað til ætlað að hlífa þeirri hv. þingkonu við því að fjalla um hennar þátt í aðdraganda og meðferð þessa máls. Engin manneskja sem ég hef setið með hefur farið jafn harkalega með hlutverk sitt og stöðu sem varaformaður við að stýra nefnd eins og hv. þingmaður sem bókstaflega braut ítrekað lög um þingsköp. (Gripið fram í: Rangt.) Ég gerði ráð fyrir því að það væri einungis vegna þekkingarleysis og vegna þess að hún væri ný, ég skil slíka hluti, en það breytir ekki hinu að í samþykktum fundargerðum nefndarinnar kemur ákaflega skýrt fram hvernig hún lýsti því yfir áður en búið var að fara yfir umsagnir að það ætti að klára málið á þeim fundi. Þegar tókst að koma í veg fyrir það kallaði hún utan fundar, þegar við vorum að ganga út, a.m.k. ég, að það ætti að vera fundur daginn eftir. Ég mótmælti því harðlega. Hvers vegna? Vegna þess að við höfðum á þeim tíma verið boðin til að hlýða á forseta lýðveldisins, utanríkismálanefnd sérstaklega, flytja setningarræðu sína við upphaf „Hringborðs norðurslóða“. Svo getur hún kallað mig gamlan ref vegna þess að ég (Gripið fram í.) virði forseta lýðveldisins og reyndi að koma í veg fyrir að starfandi formaður utanríkismálanefndar sýndi honum vanvirðu og ósóma. Það gerði hún og það setti blett á heiður þingsins.

Að öðru leyti velti ég fyrir mér: Eru þetta nýju vinnubrögðin? Hv. þingmaður kemur hér og stærir sig af því að vera ein af nýja fólkinu. Er það nýja fólkið sem ætlar að vinna svona, brjóta þingsköp, vanvirða forseta? Ég spyr. (Forseti hringir.) Ef það er nýi tíminn, má ég þá, herra forseti, vera partur af gamla tímanum (Forseti hringir.) sem sýnir forseta Íslands virðingu? Það sem skiptir þó mestu máli er að ég virði rétt þingmanna og (Forseti hringir.) brýt ekki lög þingsins.



[14:05]
Silja Dögg Gunnarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson þarf ekki að hlífa mér en ég þakka honum hugulsemina samt sem áður. Það er rangt og ég fyrirbýð honum að saka mig um að brjóta þingsköp. Hins vegar blekkti hv. þm. Össur Skarphéðinsson mig á fundi nefndarinnar á fimmtudegi, hann man það örugglega eins vel og ég, og taldi mér trú um, í krafti reynslu sinnar, vitandi um reynsluleysi mitt, að ég mundi brjóta þingsköp. Ég man ekki greinina en held að það hafi verið 15. gr. Ég fékk síðan lögfræðiálit og varaði mig á þessu. Ég bakkaði svo að ég mundi örugglega ekki brjóta nein þingsköp þannig að ég hef ekki gert það. Ég mundi gjarnan vilja vita hvað þingmaðurinn á við vegna þess að þetta er rangt.

Fundarboð um aukafund nefndarinnar á föstudegi var sent út milli fjögur og fimm á fimmtudeginum. Þangað voru boðaðir gestir sem þingmaðurinn sjálfur, Össur Skarphéðinsson, hafði óskað eftir að fá til fundar við nefndina. Hv. þingmaður óskaði eftir að fundur yrði afboðaður um áttaleytið næsta morgun. Hann hafði tæpan sólarhring til að óska eftir að fundur yrði afboðaður. Hann gerði það þegar sú sem hér stendur var á leiðinni á fundinn. Eins og þingmaðurinn veit ekur sú sem hér stendur langar vegalengdir til vinnu daglega þannig að hún er ekki í símanum að skoða skilaboð á þeim tíma heldur sér þau korteri fyrir fund þegar gestirnir eru á leiðinni til fundarins. Það hefði verið alger dónaskapur gagnvart gestum nefndarinnar að afboða fundinn með svo skömmum fyrirvara þegar þeir voru líka búnir að segja að þeir gætu ekki mætt á öðrum tíma. Ég hafna þessum dylgjum þingmannsins.



[14:06]
Frsm. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það kann vel að vera að sumir þingmenn skeyti hvorki um skömm né heiður þings eða forseta lýðveldisins. Ég er ekki í þeim hópi. (Gripið fram í: Heyra þetta.) Á sínum tíma var það þannig að hv. þingmaður braut þingskapalög með því að hafna því að við þingmenn stjórnarandstöðunnar fengjum til fundar fulltrúa stofnana sem höfðu sent inn umsagnir. Það hefur aldrei gerst. Hér í húsinu krossuðu menn sig þegar þeir fréttu af þessu. Hún hafnaði þessu. Það má kannski segja að ég hafi í krafti reynslu minnar bjargað því sem eftir var af heiðri nefndarinnar með því að hafa frumkvæðið að því að þrír þingmenn notfærðu sér rétt sem þeir hafa samkvæmt síðustu breytingum á þingsköpum til að óska eftir því að fólk kæmi til fundar til að fjalla um tiltekið mál. Þetta er alsiða og menn gera það. Ég tel að ég hafi bjargað tætlunum af heiðri hv. þingmanns með því. (Gripið fram í.) En það er önnur saga.

Í ræðu hv. þingmanns kom fram mjög merkilegt efni. Nú bið ég hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur að leggja við hlustir. Í ræðunni sagði hv. þingmaður, og ég ætla að spyrja hana út í það, að með þessari breytingu vekti það líka fyrir stjórnarliðinu að samræma þróunarsamvinnu við önnur verkefni. Hvað er átt við með því? Getur verið að hér sé komið að kjarna málsins? Ég hef aftur og aftur borið það af hæstv. utanríkisráðherra, vegna þess að ég tel að hann sé vandaður maður þó að við séum pólitískt ósammála, að það kunni að vera að á bak við þessar breytingar liggi sú fyrirætlan að blanda þróunarsamvinnu til dæmis inn í utanríkisviðskipti Íslendinga. Ég hef sagt að ekkert slíkt telji ég að vaki fyrir hæstv. ráðherra. (Forseti hringir.) En hvað vakir fyrir hv. þingmanni þegar hún segir að þessi breyting sé gerð (Forseti hringir.) til að samhæfa þróunarsamvinnu við önnur verkefni? Getur virkilega verið að það eigi að fara (Forseti hringir.) að nota þróunarsamvinnu til að koma fram öðrum hagsmunamálum?



[14:09]
Silja Dögg Gunnarsdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er afar áhugavert að hlusta á þingmanninn. Hann lítur á sjálfan sig sem bjargvætt, hafi bjargað heiðri mínum og annarra með einhverjum klókindum. Ég tel svo ekki vera. Ég hafna því enn og aftur að ég hafi brotið þingsköp. (Gripið fram í.) Það er rangt.

Tilgangurinn er alls ekkert dularfullur. Ég fór ágætlega yfir það í ræðu minni að þær þjóðir sem við berum okkur helst saman við eru með þessi mál inni í sínum utanríkisráðuneytum. Það er ekkert einkennilegt við það og enginn illur hugur býr þar að baki, þvert á móti. Við viljum að það fjármagn sem við setjum í þennan málaflokk sé betur nýtt. Hæstv. utanríkisráðherra fór ágætlega yfir það líka, (Gripið fram í.) að það væri ekki tvöfalt tölvukerfi, tvöfaldur gagnagrunnur og tvöföld stjórn úti um allt.

Ég vil nefna það hér líka að á milli 2. og 3. umr. á fundum nefndarinnar, þegar hv. þingmaður var ekki viðstaddur heldur varamaður hans, hv. þm. Kristján Möller, að flestar spurningar þingmannsins sneru að starfsmannamálum. Ég skil það mætavel, en honum varð tíðrætt um hvort starfsmenn Þróunarsamvinnustofnunar fengju sömu mannaforráð og sömu starfstitla þegar þeir væru fluttir inn í ráðuneytið, eins og það skipti einhverju máli. Þetta á ekki að snúast um einstaklinga, þetta á ekki að snúast um hv. þm. Össur Skarphéðinsson eða þá sem hér stendur eða hæstv. ráðherra. Þetta snýst um að við gerum vel í þeim þróunarsamvinnuverkefnum sem Ísland tekur þátt í. Mér finnst að við eigum að einbeita okkur að því að svo komnu máli.



[14:11]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli mjög eindregið gegn því að það frumvarp sem við ræðum hér í 3. umr., þ.e. frumvarp til laga um breytingu á lögum um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands og fleira skipulag, verði samþykkt í þeirri mynd sem það liggur fyrir, sem mundi fela í sér að Þróunarsamvinnustofnun yrði lögð niður og verkefni hennar flutt í utanríkisráðuneytið. Í þeirri breytingu felast að mínu mati ýmsar hættur sem bæði ég og aðrir fulltrúar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa ítrekað bent á við umræðu málsins, bæði nú í vetur og í fyrra og við 1. og 2. umr. þessa máls. Ég er þeirrar skoðunar að ástand mála í heiminum sé með þeim hætti að það sé alveg gríðarlega mikilvægt að hlúa alveg sérstaklega að þróunarsamvinnuverkefnum sem eru til þess fallin að styrkja innviði fátækra landa. Ég tel að það eigi að vera eitt af meginmarkmiðunum með þróunarsamvinnu. Þess vegna er ég líka þeirrar skoðunar að fyrirkomulag þróunarsamvinnunnar skipti miklu máli til þess að góður árangur náist. Rannsóknir hafa sýnt að ef að henni er staðið með faglegum hætti bætir hún lífskjör, heilsu og menntun á þeim svæðum þar sem hennar nýtur við. En rannsóknir hafa hins vegar einnig sýnt að gæði og afköst þróunarsamvinnu minnka þegar ríki láta eigin hagsmuni, til dæmis viðskiptahagsmuni eða pólitíska hagsmuni, hafa áhrif á úthlutun framlaga til þróunarsamvinnu. Bæði gömul og ný reynsla annarra þjóða hefur sýnt að sambýli þróunarsamvinnu og utanríkisviðskipta innan eins og sama ráðuneytisins getur skapað ákveðinn freistnivanda og getur þá með tímanum dregið úr gæðum starfsins.

Þó er ekki þar með sagt að það muni gerast á Íslandi en ég hef áhyggjur af því að með því að koma málunum svona fyrir aukist líkurnar á því að þetta gerist. Ég hef reyndar farið yfir það í fyrri ræðum mínum. Það sem vekur mér enn meiri ugg um fyrirkomulag þróunarsamvinnunnar er að á milli 2. og 3. umr. um þetta mál ræddum við, og afgreiddum síðan í gær, frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2016, en í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar er svolítill kafli þar sem fjallað er um þróunaraðstoð. Mér finnst hann því miður ekki bera þess merki að þar sé sérstaklega mikill áhugi á þessum málaflokki. Þar er gefið í skyn að framlög til þróunarsamvinnu hafi hækkað um 50% frá árinu 2011. Það er vissulega rétt að í krónum talið hefur framlagið hækkað. Það er hins vegar svo að framlög Íslands eru ekki nema 0,21% af þjóðarframleiðslu meðan þjóð með okkar þjóðarframleiðslu og ríkidæmi ætti að leggja til 0,7% af þjóðarframleiðslu sinni í þróunarsamvinnu. Í stað þess að meiri hluti hv. fjárlaganefndar leggi til leiðir til þess að við gætum hækkað þetta hlutfall, sem er nú allt of lágt, er látið í veðri vaka að verið sé að hækka framlögin og svo fundin leið — ekki hjáleið því að það er vissulega rétt að það má fara þá leið — að telja með útgjöld vegna hælisleitenda og flokka það sem þróunarsamvinnu. Ég er alfarið á móti þeirri leið en það er ekki bannað að gera það. Með því væri hægt að reikna það út að við settum 0,25% af þjóðartekjum okkar í þróunarsamvinnu sem og útgjöld vegna hælisleitenda.

Þegar ég les þetta tvennt saman, það frumvarp sem hér liggur fyrir og það sem lesa má um í nefndaráliti meiri hlutans, verð ég ekki rólegri gagnvart því hvort hér sé fyrst og fremst verið að hugsa um hvað sé málaflokknum þróunarsamvinnu fyrir bestu. Og vegna þess að fram kom í orðaskiptum milli hv. þm. Silju Daggar Gunnarsdóttur og Össurar Skarphéðinssonar, þá er það einmitt það sem ég hef haft einna mestar áhyggjur af, þ.e. tengslunum milli þróunarsamvinnu og utanríkismála. Í textanum, athugasemdum með lagafrumvarpinu sjálfu, er millifyrirsögn sem heitir hreinlega Sterkari tengsl milli þróunarsamvinnu og annarra utanríkismála. Ég hef áhyggjur af þessu máli og viðurkenni það hér og nú. Það kom ítrekað fram hjá gestum sem komu fyrir nefndina að það fæli í sér ákveðnar hættur að styrkja tengslin milli þróunarsamvinnu og annarra utanríkismála. Þeir sögðu að hætta væri á að diplómatískar áherslur og viðskiptapólitískir hagsmunir blönduðust inn í þróunarsamvinnu með þeim hætti að framlagsríki færu að reka hana með eiginhagsmuni að leiðarljósi en ekki hagsmuni fátækra ríkja eingöngu. Svo var bent á að enn meiri hætta væri á því þar sem þróunarsamvinna væri rekin undir sama þaki og utanríkisviðskipti viðkomandi ríkis.

Þetta hefur verið meginþunginn í gagnrýni minni á þetta mál, en það eru vissulega fleiri atriði sem ég hef haft áhyggjur af og lýst í ræðum mínum. Ég hef áhyggjur af því að þekkingin geti útvatnast ef starfsmennirnir verða flutningsskyldir. Ég skal ekki hafa neitt á móti því að starfsmenn sem vinna að þróunarsamvinnu séu flutningsskyldir innan málaflokksins, þ.e. ef þeir eru flutningsskyldir í öðrum þróunarverkefnum. Ég hef hins vegar áhyggjur af því ef þeir verða flutningsskyldir í utanríkisþjónustunni almennt og hef nefnt það hér að ég sjái fyrir mér að það gæti orðið einhvers konar stökkpallur fyrir fólk; það byrjar til dæmis í Malaví og fer síðan til Evrópu og þannig vinnur það sig upp í goggunarröð utanríkisþjónustunnar. Jafnframt kom skýrt fram hjá gestum nefndarinnar ótti við að fagþekkingin og reynslan sem byggst hefur upp innan ÞSSÍ glatist.

Það áhyggjuefni er reifað margoft í skýrslu Þóris Guðmundssonar sem hér hefur títt verið nefnd og er sögð liggja frumvarpi ráðherrans til grundvallar. Það kom líka vel fram í glærukynningu sem mér skilst að hv. utanríkismálanefnd hafi fengið á síðasta ári, ég var ekki í nefndinni en fékk aðgang að þeim glærum og þar kom það vel fram.

Þróunarsamvinna er málaflokkur sem ég tel mikilvægt að um sé almenn og breið pólitísk samstaða. Þannig hefur það verið hér á landi hingað til. Ég er þeirrar skoðunar að farsælast sé að halda stofnanaramma þróunarsamvinnu í óbreyttu horfi. Ef ég fengi ein að ráða mundi ég vilja að ÞSSÍ mundi starfa áfram í núverandi formi en ég átta mig líka á að það er ekki í boði. Og vegna þess að ég tel svo mikilvægt að reyna að halda pólitískri sátt um málið og ekki síst nú á tímum þegar mjög miklar hnattrænar breytingar eru og þar sem öflug þróunarsamvinna er gríðarlega mikilvæg og líklegt að verði enn meiri á komandi árum, flyt ég ásamt öðrum fulltrúum minni hlutans í hv. utanríkismálanefnd hér breytingartillögu sem ég tel að ætti að geta verið grundvöllur til sátta um málið. Breytingartillöguna er að finna á sérstöku þingskjali. Ég vil hvetja hv. þingmenn til að kynna sér hana. Stærstu drættirnir í henni felast í því að Þróunarsamvinnustofnun verði áfram til sem sérstök starfseining sem væri þá flutt í utanríkisráðuneytið í formi ráðuneytisstofnunar líkt og heimild er fyrir. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefur farið ágætlega yfir það að heimild er fyrir slíku í lögum um Stjórnarráð Íslands.

Tillagan tekur ekki til míns stærsta áhyggjuefnis sem er meiri nánd milli þróunarsamvinnu og annarra utanríkismála. Ég átta mig fyllilega á því. En ég átta mig líka vel á því að ef ná á sátt þurfa allir að slá af kröfum sínum. Ég er tilbúin að bíta á jaxlinn varðandi þetta vegna þess að mér finnst annað svo mikilvægt atriði nást fram með breytingartillögu minni hlutans, þ.e. að við leggjum til að starfsmenn Þróunarsamvinnustofnunar Íslands verði undanskildir lögum um flutningsskyldu. Ég er alveg til í að ræða það hér áfram hvort við viljum hafa þá flutningsskylda innan þróunargeirans. Ég er opin fyrir því að ræða það. Mér hugnast hins vegar illa að hafa starfsmenn almennt flutningsskylda innan allrar utanríkisþjónustunnar. Ég er tilbúin að slá af minni draumsýn um hvernig verkefnið eigi að vera og að það eigi að vera óbreytt. Þess vegna tek ég þátt í að flytja þessa breytingartillögu sem ég vona svo sannarlega að við eigum eftir að fá meiri umræðu um á eftir og vonandi að endingu að geta hreinlega fallist á hana.



[14:26]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur fyrir framlag hennar hér í dag í þessu efni. Hún minntist á fjárframlögin til þróunarmála hér á landi. Það eru núna 0,21% af vergri þjóðarframleiðslu. Menn guma sig mikið af því að krónutalan sé há en þá ber að hafa í huga að öll þjóðarframleiðsla er að aukast. Ef þetta helst í 0,21% mun það aukast eitthvað í krónutölu, en það er almennt samkomulag í þessum bransa, ef þannig má að orði komast, að miða ekki við krónutölu, ekki við pund hjá Bretum eða danskar krónur hjá Dönum, heldur hlutfall af þjóðarframleiðslu.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort það hafi ekki verið rétt skilið hjá mér að hún sýni afskaplega mikla víðsýni og góðvild þegar hún fer að leggja framlög, sem við ætlum að leggja til hælisleitenda og flóttamanna í því átaki sem við erum í núna, saman við það sem við ætlum að leggja til þróunarsamvinnu, og þá komumst við hugsanlega upp í 0,25%, er það ekki? Svo það sé rétt skilið hjá mér. Og er þar víðsýni og góðvild þingmannsins í hæsta máta mikil, finnst mér.



[14:29]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur fyrir spurninguna. Til að leiðrétta hér misskilning: Annaðhvort hef ég ekki verið nógu skýr í máli mínu eða ekki komið þessu öðruvísi frá mér en mér heyrist, að hv. þingmaður hafi annaðhvort misskilið mig eða ég einhvern veginn komið þessu frá mér vitlaust. Það sem ég var að vísa í eru reikningskúnstir meiri hluta hv. fjárlaganefndar. Það er með reikningskúnstum sem meiri hluti hv. fjárlaganefndar segir í nefndaráliti sínu, ég ætla að lesa upp úr því, með leyfi hæstv. forseta:

„Meiri hlutinn bendir á að hlutfallið hefur ekki verið reiknað rétt“ — þ.e. þessi 0,21% — „þar sem stór hluti útgjalda vegna hælisleitenda ætti að flokkast sem þróunaraðstoð. Ef rétt er reiknað er hlutfall Íslands um 0,25% af þjóðartekjum og enn hærra ef verkefni Þróunarsjóðs EFTA sem snúa að flóttamönnum eru meðtalin.“

Það er ekki ég sem er að leggja til þessa reiknireglu og það er alls ekki svo að það eigi að flokka þetta svona, að taka eigi hælisleitendurna með, en það er ekki óleyfilegt og sum ríki gera það. Ég er hins vegar alfarið á móti því að það sé gert, svo það sé alveg klárt. Ég er alfarið á móti því að hælisleitendur séu teknir einhvern veginn inn í framlögin til þróunarverkefna og mér finnst það bara ömurlegt að við séum með (Forseti hringir.) svona reikningskúnstum að reyna að toga hlutfallið sem við veitum í þessi mál upp.



[14:31]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að þessum mínútum okkar hafi verið vel varið í þessi andsvör. Þetta er þá alveg á hreinu að þær reikningskúnstir sem ég tel að þingmaðurinn kalli réttilega svo koma frá hv. fjárlaganefnd. Reikningskúnstir hv. fjárlaganefndar koma mér almennt ekki á óvart og síst af öllu í þessum málaflokki vegna þess að forustumaður þeirrar nefndar hefur náttúrlega sýnt af sér að sá málaflokkur er ekki henni mjög að skapi og vakti það sérstaka athygli þegar hún greiddi hér ein atkvæði á móti hækkun í þennan málaflokk fyrir nokkrum árum.

En mig langar samt sem áður aðeins að halda áfram með þetta á öðrum nótum. Ég er alveg þeirrar skoðunar að þessar tölur sé ekki hægt að leggja saman og ekki hægt að kalla þróunarhjálp eða þróunarsamvinnu, en á hinn bóginn er það þannig í mínum huga, einmitt vegna þess hvernig aðstæður eru í heiminum í dag að þá skiptir svo miklu máli að þróunarsamvinnan fái það fjármagn sem hún þarf vegna þess að það gæti þá hugsanlega dregið úr flóttamannavanda í heiminum. En það er önnur hlið. Ég er ekki einu sinni viss um að þetta sé sami peningurinn. En ef þetta er sami peningurinn er það alla vega allt önnur hlið.



[14:33]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, ég tel svo sannarlega að við sem rík þjóð þurfum að leggja miklu meira fjármagn í þróunarsamvinnu. Það er í mínum huga ekkert annað en eitt af því sem er kjarninn í minni pólitík, ég vil berjast fyrir því að auka jöfnuð. Það er ekki bara að auka jöfnuð hér á Íslandi heldur líka á heimsvísu. Það er það sem ég tel að við verðum að gera, sérstaklega núna á 21. öldinni. Verkefnin verða bara stærri. Það er einmitt svo gríðarlega mikilvægt að setja peninga í þessi grunninnviðastyrkingarverkefni í fátækum ríkjum, eins og það að byggja brunna. Maður er að heyra tölur um að konur sérstaklega gangi allt upp í 12, 14 tíma á sólarhring til að sækja vatn til heimilisins. Hættan er á að þetta muni bara versna með loftslagsbreytingum, sem við erum nú sem betur fer að reyna að berjast gegn.

Ég held því að gríðarlega mikilvægt sé að setja peninga í að styrkja innviðina í fátækari löndum. Svo er gríðarlega margt fólk á flótta í heiminum í dag, mjög margir vitanlega að flýja stríðsátök, en sumir eru líka að flýja fátækt og ömurlegar aðstæður sem fólk sér ekkert fram á að komast úr. Þess vegna fer þetta saman, annars vegar að setja peninga í að taka á móti hælisleitendum en það tengist svo þróunarsamvinnunni með því að gera skilyrðin í heimalandi fólks þannig að það þurfi ekki að fara af stað, það geti búið sér betri lífskjör (Forseti hringir.) heima fyrir. Þess vegna þurfum við að setja peninga í hvort tveggja, að taka á móti fólki en líka að gera það að verkum að fólk geti búið heima.



[14:35]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Það hefur verið gert nokkuð úr því í þessum þingsal að sú umræða sem farið hefur fram um breytingar á Þróunarsamvinnustofnun sé af einhverjum annarlegum ástæðum. Ég vil mótmæla því. Þetta er mjög merk stofnun. Hún hefur unnið gott og mikið starf. Ég er alfarið á móti þeim tillögum sem liggja hér fyrir um að flytja stofnunina inn í ráðuneytið. Ég mun koma að því síðar af hverju það er helst.

Ég kann mjög illa að meta það þegar ég kem í ræðustól til að tjá skoðanir mínar, hvort sem það er á ríkisfjármálum eða Þróunarsamvinnustofnun, að vera sökuð um að ég geri það af einhverjum öðrum ástæðum en þeim að ég er kjörin til þings og vil að skoðanir mínar komist á framfæri. Þá verð ég í framhaldi af því að undra mig mjög á þeirri ræðu sem haldin var fyrr í dag þegar varaformaður utanríkismálanefndar talaði hér. Ég hef aldrei séð hana hérna við umræðuna áður, ekki einu sinni séð hana í þingsal. Ég held að ég fari rétt með að hún hafi ekki talað um þetta efni áður í þingsal. Ég held að eini maðurinn …(Utanrrh: Hún var allan tímann í þingsal. Hvernig dettur þér í hug að brigsla þingmönnum um svona bull?) Vill hæstv. ráðherrann koma hér í ræðustól, eða hvað? (Utanrrh: Bara biðja þingmanninn að vera ekki að bulla.) Biðja þingmanninn að vera ekki að bulla? Er það það sem hæstv. ráðherra hefur til málanna að leggja þegar fólk er í ræðustól? Er hann orðinn svo pirraður á að það sé rætt um þetta vonda frumvarp hans? (Gripið fram í.) (Forseti hringir.)

(Forseti (RM): Ég vil biðja þingmenn um að flytja ræður og vera ekki í samtölum úr ræðustól.)

Nei, þá er kannski rétt, virðulegi forseti, að biðja hæstv. ráðherra að vera ekki að tala við mig þegar ég er í ræðustól.

Virðulegi forseti. Varaformaður utanríkismálanefndar rakti mikinn málatilbúnað um þetta mál og síðan sagði hún að fólk hefði komið í ræðustól mikið og oft og sumir talað af þekkingu og aðrir ekki. Mér finnst þetta undarlegt. Fyrir utan að við þingmenn sem tökum til máls erum sökuð um að gera það af einhverjum annarlegum ástæðum en ekki af því að við höfum áhuga á efninu eða eins og í þessu tilfelli viljum koma því mjög eindregið á framfæri að við séum mótfallin því frumvarpi sem hér liggur frammi, þá eigum við líka að sitja undir því að okkur séu gefnar einkunnir. Ég átta mig alveg ekki á því á hvaða skala einkunnirnar eru gefnar. En þetta finnst mér mjög einkennilegt og sannast að segja óskemmtilegt líka.

Það sem liggur fyrir er það sem hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir nefndi sem svo að samhæfa ætti utanríkisþjónustuna og þróunarsamvinnuna, þetta væri gert til þess. Það hefur oft komið fram að þetta er ekki gert til að hagræða. Það hefur komið fram hjá hæstv. ráðherranum líka, held ég, að það liggi ekki hagræðing í þessu. Það hefur komið fram í umræðunni og ég held líka að hæstv. ráðherra hafi sagt að það væru svo sem ekki gerðar neinar athugasemdir við störf Þróunarsamvinnustofnunar, en samt sem áður þarf að samhæfa þetta. Þá virðist liggja beinast við að álykta sem svo að starfsmennirnir sem núna eru í ráðuneytinu og í hinni almennu utanríkisþjónustu og starfsmenn Þróunarsamvinnustofnunar eigi að fara allir í eina púllíu, ef ég má orða það svo, og ganga í störf hver annars.

Nú er það svo að það að starfa í utanríkisþjónustunni, hinni almennu diplómasíu sem svo er kölluð, er sérstakt fag. Það er eiginlega fag í því, held ég en ég hef svolítið fylgst með starfi utanríkisþjónustunnar og fólki sem þar starfar, að vera generalistar. Það er sérstakt fag að vera generalisti. En það er einmitt ekki það sem á við þegar talað er um þróunarsamvinnu. Það er alveg sérstakt fag að sinna þróunarsamvinnu og gera það á þann veg að það sé ljóst að þróunarsamvinnan sé samvinna. Mér finnst það sýna sig svolítið í því hvernig orðanotkun okkar hefur breyst í tímans rás. Einu sinni var þetta alltaf kallað þróunarhjálp, nú er þetta kallað þróunarsamvinna. Það er mikill munur á. Það er unnið í þróunarlöndunum með fólkinu til að reyna að koma aðstæðum þar sem þær eru verri en hjá okkur til betri vegar. Hverju höfum við beitt okkur fyrir sérstaklega? Við höfum beitt okkur fyrir að fólk hafi aðgang að vatni, við höfum beitt okkur fyrir menntun, við reynum að hjálpa konum. Konur skipta náttúrlega alltaf mjög miklu máli en það virðist vera þannig að þær skipti ekki síður máli í hinum frumstæðari þjóðfélögum ef ég má orða það svo, þar sem þær sjá um allt, allt sem er heima fyrir, á meðan karlarnir eru kannski einhvers staðar annars staðar. Við höfum lagt áherslu á að vinna með þessu fólki þannig að líf þess geti orðið bærilegra. Þetta er allt öðruvísi starfsemi en er unnin í hinni almennu diplómasíu. Þess vegna er ég á sömu slóðum og hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir sem segir: Ég er tilbúin til að ræða hvort það eigi að vera flutningsskylda innan þróunarsamvinnunnar, að fólk flytjist þar á milli verkefna, væntanlega er sama grunnþekkingin sem þarf að vera fyrir hendi í þeim verkefnum. Ég get fallist á það. Mér finnst alveg mega ræða hvort fólk eigi að geta flust á milli verkefna innan þróunarsamvinnuverkefnanna. En alls ekki úr hinni almennu diplómasíu inn í þróunarsamvinnuna.

Síðan er maður náttúrlega enn þá nokkuð óttasleginn yfir því hvort það geti virkilega verið, ég vil samt varla trúa því að svo sé, að menn séu með það á bak við eyrað að hægt sé að fara að blanda viðskiptahagsmunum landsins inn í þróunarsamvinnuna. Það yrði væntanlega gert þannig að áhersla yrði lögð á einhver atriði þar sem íslensk fyrirtæki eiga hagsmuna að gæta og reynt að tvinna þannig saman viðskiptalega hagsmuni og þróunarsamvinnuna. Þetta var til og þótti ekkert voðalega vond danska fyrir allnokkru síðan en eftir því sem ég best veit og þekki til þykir þetta ekki fínt í dag. Þannig að ég vil alls ekki trúa því að svo sé.

Mig langar að nefna breytingartillögu meiri hlutans við frumvarpið, það er ein breytingartillaga frá honum, og ég verð að segja að ég gleðst yfir henni. Hún kemur inn á eitt atriði sem ég hef nefnt ítrekað þegar ég hef talað um þessi mál. Mér hefur þótt einkennilegt að í frumvarpinu er gert ráð fyrir að í samstarfsnefnd um þróunarmál, ég held að hún heiti það, eigi að sitja fjórir menn tilnefndir af Alþingi. Ég hef undrað mig á því og velt fyrir mér hvort það ættu að vera þrír frá meiri hluta og einn frá minni hluta eða hvernig það ætti að vera. En nú hefur meira að segja meiri hlutinn lagt til að þessu verði breytt og það verði einn frá hverjum þingflokki. Það finnst mér ánægjulegt. Ég þakka meiri hlutanum fyrir það þótt ekki séu þau tilbúin til að gera annað.

Það liggur fyrir mjög merk breytingartillaga frá minni hluta utanríkismálanefndar. Hún er í þeim anda að reyna að halda því sem hefur verið lögð áhersla á með þessi verkefni allt þangað til núna, að það ríki pólitísk sátt, að menn séu pólitískt nokkuð sammála að minnsta kosti um hvernig hlutum er fyrir komið, stofnanalega og á annan hátt, um þessi mikilsverðu mál. En nú liggur frumvarp utanríkisráðherrans fyrir og breytingartillaga minni hlutans gengur út á það að stofnunin verði ráðuneytisstofnun, hún sé sem sagt alveg klárlega í ráðuneytinu og haldi sér þar sem ráðuneytisstofnun, og, og þá komum við aftur inn á flutningsskylduna, að starfsmenn Þróunarsamvinnustofnunar séu ekki flutningsskyldir. Þetta er nefnilega grundvallaratriði. En þá kemur hæstv. ráðherrann og segir: Það er ekki hægt að fallast á þetta og taka í þessa útréttu sáttarhönd, sem hann nefndi nú ekki svo en ég ætla að kalla svo, af því að það stríðir gegn meginsjónarmiðum frumvarpsins. Meginsjónarmið frumvarpsins er sem sagt að rjúfa það samkomulag sem hefur verið hér á landi um hvernig þessum málum er fyrir komið og var stofnað til fyrst af Ólafi heitnum Jóhannessyni, fyrrverandi formanni Framsóknarflokksins, held ég að ég fari rétt með. Nú vilja menn ekki ganga áfram í samkomulagi með þetta.

Það er rétt að málið hefur verið rætt lengi og ítarlega. En það er ekki vegna þess að menn geri það til að tefja tímann. Menn gera það vegna þess að okkur er mikið niðri fyrir. Mér er mjög mikið niðri fyrir því ég hef áhyggjur af því að almennu samkomulagi um þennan viðkvæma og mikilsverða málaflokk sé hent út um gluggann. Þannig er það, virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu.



[14:50]
Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegur forseti. Ég er fulltrúi í utanríkismálanefnd og var það sömuleiðis á síðasta vetri þannig að ég hef fylgt þessari tillögu og umræðu um hana alveg frá upphafi í gegnum nefndina og tekið þátt í umræðum hér í þinginu bæði í vor og síðan aftur í haust. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu með því að endurtaka þær ræður. (ÖS: Þær voru góðar.) Þær voru góðar og mér hefur verið sagt að þær hafi jafnvel verið skemmtilegar. Þær eru allar á vísum stað og aðgengilegar á hinum góða vef Alþingis þannig að fólk getur leitað í þær. Ég var tiltölulega nýkominn í utanríkismálanefnd og inn á Alþingi, þegar þetta mál rak á okkar fjörur, og áhugamaður um málaflokkinn, en viðurkenni fúslega að ég var ekki neitt sérstaklega inni í honum, ekki með djúpan skilning á honum.

Þó svo að mér hafi frá upphafi fundist þetta ólukkans tillaga og verið andsnúinn þeim breytingum sem var verið að leggja til hefur umræðan um tillöguna og meðferð nefndarinnar, sem hefur verið ítarleg eins og farið hefur verið yfir, dýpkað mjög skilning minn á málaflokknum, á eðli starfsemi Þróunarsamvinnustofnunar Íslands og líka skilning á því hvernig Þróunarsamvinnustofnunin rækir skyldur sínar og hvernig stofnunin og starfsemi hennar hefur þróast. Þessi innsýn, þessi lærdómur, sem sá þingmaður sem hér stendur hefur öðlast í umræðunni, hefur stóraukið álit mitt og trú á Þróunarsamvinnustofnun Íslands. Þróunarsamvinnustofnun Íslands fer með mjög mikilvæg verkefni fyrir hönd Íslands. Mikilvæg verkefni í því að taka þátt í þessu alþjóðlega átaki, ef svo má kalla það, til að minnka ójöfnuð í heiminum, með því að lyfta upp þeim samfélögum sem eiga hvað erfiðast og þurfa mest á því að halda. Það er mjög verðugt verkefni. Það er ekki eintóm góðmennska af hendi hinna ríku að hjálpa hinum sem eru fátækari heldur, svo að ég leyfi mér að sletta, virðulegi forseti, „kommon sens“. Það er fullkomlega eðlilegt að við hugsum hvað sé heildinni fyrir bestu því að á endanum er það okkur líka fyrir bestu sem höfum það betra en aðrir.

Ég hef fengið innsýn í hvernig starfsemi Þróunarsamvinnustofnunar hefur þróast, hvernig stofnunin hefur unnið sín störf og ég hef fyllst djúpri aðdáun á stofnuninni. Við höfum fengið raðir af gestum sem allir eru sammála um það; sömuleiðis þingmenn báðum megin úr málinu. Þróunarsamvinnustofnun Íslands er fyrirmyndarstofnun og hefur rækt starfsskyldur sínar mjög vel, farið vel með fjármagn og fengið mjög mikið út úr þeim verkefnum sem hún hefur staðið í.

En ég ætla ekki að endurtaka ræður mínar frá því fyrr en ítreka samt að í umræðunum og meðferð málsins hef ég, ef eitthvað er, styrkst í þeirri trú að það sé óráð að leggja niður Þróunarsamvinnustofnun og færa verkefnin inn í ráðuneytið. Ekki vegna þess að ég trúi að það sé slæmt fólk eða óvandvirkt sem starfar í ráðuneytinu heldur meira út frá þeirri hugsun annars vegar að ef eitthvað virkar mjög vel er betra að breyta því ekki eða breyta því hægt en að setja það í kollsteypur, en líka vegna þess að ég hef styrkst í þeirri trú að það skipti máli að svona stofnun sé sjálfstæð, bæði upp á sinn trúverðugleika en líka upp á einbeitinguna á verkefnunum. Ef maður setur fram aðalpunktana — og þá er ég kannski farinn að tala inn í breytingartillögur minni hlutans sem ég á þátt í — þá eru þeir á þann veg að passað sé upp á að halda verkefnum og aðaltilgangi Þróunarsamvinnustofnunar, sem er að halda utan um tvíhliða þróunarsamvinnu og beina tengingu á gólfið eða út til þeirra landa sem verið er að vinna með, skýrt skilgreindum og aðgreindum frá öðrum verkefnum. Í ljósi samtala minna og þess sem ég hef kynnt mér í þróunarsamvinnu annarra landa, nágrannalanda sem við miðum okkur oft við, og eru undir hjá DAC, þá er ég dálítið hræddur við það þegar þróunarsamvinnan fer að tengjast almennri utanríkisstefnu, jafnvel utanríkisviðskiptalegri stefnu landa. Því miður eru dæmi um að þar hafi orðið til grá svæði. Ég tel í það minnsta fulla ástæðu til að forðast það.

Ég hef sömuleiðis styrkst í virðingu fyrir því að þróunarsamvinna er sérstakt fag. Starfsfólk sem starfar við þróunarsamvinnu þarf að vita hvað það er að gera. Þar þarf ákveðna tegund af þekkingu og reynslu. Það er mikilvægt, sérstaklega á landi eins og Íslandi, með litlar stofnanir, að við höldum í þá sérþekkingu sem við þó eigum og missum hana ekki út. Þess vegna er ég vægast sagt dálítið hræddur við að starfsfólk í tvíhliða þróunarsamvinnu detti inn í almenna flutningsskyldu í utanríkisráðuneytinu. Þess vegna tel ég að það sáttaboð sem við í minni hlutanum leggjum fram með breytingartillögu okkar — sem leggur til að reyna að kvitta upp á tilgang ráðherrans, að því er virðist með tillögunni, að tengja ráðuneytið og ráðherra sjálfan betur við verkefnið með því að færa starfsemina inn í ráðuneytið og sömuleiðis að tryggja betur, þó svo ég sjái nú ekki að það hafi verið vandamál hingað til, eða hafi heyrt neinn halda því fram nema óljóst að svo hafi verið, að starfsemi Þróunarsamvinnustofnunar hafi ekki verið í nógu nánum tengslum við utanríkisstefnu Íslands.

Engu að síður er í breytingartillögunni rétt fram sú sáttarhönd að starfsemin fari inn í ráðuneytið en í svokallaðri sérstakri ráðuneytisstofnun sem hefur ákveðna sérstöðu innan ráðuneytisins sem er fyrst og fremst fagleg, til að halda utan um faglega vinnu og til að halda utan um starfsfólkið þannig að flutningsskylda starfsfólksins sé innan málaflokksins en ekki yfir í önnur og óskyld verkefni utanríkisráðuneytisins.

Ég ætla ekki að eyða meiri tíma hér í umræðurnar enda erum við komin fram úr starfsáætlun Alþingis og farið að líða að jólum. Ég er viss um að almenningur hér úti, sem er að fylgjast með okkur, er kominn með hálfan hugann við jólaundirbúninginn frekar en Alþingi. Ég ætla ekki að endurtaka ræður mínar frá því fyrr. Breytingartillögu meiri hlutans, um samsetningu í þróunarsamvinnunefnd, tel ég vera til bóta. Þar er gert ráð fyrir að allir flokkar, hversu margir eða fáir sem þeir eru, sem eigi sæti á Alþingi eigi sæti í þessari nefnd. Ég held að það sé mikilvægt hreinlega til að tengja Alþingi betur við þennan málaflokk og við starfsemina. Það verður að segjast eins og er að utanríkismálanefnd er stór nefnd, hefur mörg stór verkefni á sínum höndum. Ég held að það skipti miklu máli að hafa sérvettvang þar sem einhver hópur þingmanna hefur nána aðkomu að þróunarsamvinnu. Þá skiptir máli að allir eigi þar sæti.

Rétt til að ljúka ræðu minni held ég að aðalatriðið sé að við erum ekki að reka stofnanir í þróunarsamvinnu stofnananna vegna. Við erum ekki að reka þróunarsamvinnu fyrir starfsfólkið eða stofnunina; ekki Íslands vegna. Við erum að reka Þróunarsamvinnustofnun og þróunarsamvinnu fyrst og fremst út frá því stóra alþjóðlega verkefni okkar að hjálpa til þegar við getum og þar sem við getum. Það er á grundvelli heimamanna eða þeirra landa sem verið er að veita aðstoð að skilgreina verkefni og kalla eftir því á hverju er þörf. Okkar hlutverk er að koma þá faglega í það verkefni. Ég hef eiginlega meiri áhyggjur af því og finnst óþægilegt, þó að ég sé ósáttur við þessar breytingar og þessa tillögu eins og ég hef ítrekað sagt, að við séum að ræða utanumhald um það hvernig við vinnum verkefnið í stað þess að ræða grundvöllinn í verkefninu. Það er viðmið Sameinuðu þjóðanna að hin þróuðu eða ríku lönd skuldbindi sig til að leggja 0,7% af þjóðarframleiðslu í alþjóðlega þróunarsamvinnu til að flýta einmitt því verkefni að minnka misskiptingu í heiminum og ná öllum í sama hlaup, ekki endilega á sama stað. Ísland hefur því miður aldrei náð að vera nálægt því að uppfylla þessi skilyrði frekar en flest lönd í heiminum. Því miður höfum við síðustu ár frekar verið að leka niður í þessu. Sú aukning sem maður getur mögulega séð í prómillum af framlögum Íslendinga kemur aðallega til vegna annarra verkefna, eins og í sambandi við flóttamannavandamálið og neyðaraðstoð og slíkt. Mér fyndist fara betur á því, og ég brýni hæstv. ráðherra til þess, að flýta því sem mest megi að við fáum þróunarsamvinnuáætlun sem skylt er að leggja fram. Auðvitað óska ég eftir og brýni ráðherra til að hún verði eins myndarleg og metnaðarfull og orðið getur. En mér finnst sú umræða í raun ákveðið grundvallaratriði. Ég sakna þeirrar umræðu.

Að öðru leyti er ég á nefndaráliti minni hlutans og tek heils hugar undir það; sömuleiðis á breytingartillögu minni hlutans. Hérna er mitt aðalinnlegg í 3. umr. um málið, að hvetja þingheim allan til að fylkja sér um breytingartillögur okkar til að málið verði skárra. Ég hef lokið máli mínu.



[15:04]
Frsm. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég hygg að það sé óskhyggja hjá hv. þingmanni að sá mikli fjöldi landsmanna sem hugsanlega er staddur heima hjá sér á þessari stundu sé límdur við sjónvarpstækin til að fylgjast með okkur. Ég efast um að mjög margir fórni jólaundirbúningi til að fylgjast með. Hins vegar gleður mig að hv. þingmaður hafi svona gott álit fyrir hönd okkar sem stofnunar.

Það er alveg hárrétt sem hv. þingmaður sagði, þróunarsamvinnan af hálfu Íslendinga hefur verið að leka niður á allra síðustu árum, þ.e. frá því þessi ríkisstjórn tók við. Staðreyndin er sú að ef við hefðum staðið við þá áætlun sem var meðal annars samþykkt og gefið í af hálfu utanríkismálanefndar, meðal annars með atkvæði hæstv. utanríkisráðherra, værum við núna að greiða 4,7 milljörðum meira í þróunarsamvinnu. Það eru háar upphæðir. En þegar litið er til þess að við erum samkvæmt síðustu fréttum næstríkasta þjóð í Evrópu er það nú hugsanlega ekki nema það sem ætti að gerast til að við gætum haft þokkalegan frið í samviskunni. Okkur ber að láta af hendi rakna.

Virðulegi forseti. Sú tillaga sem hér liggur fyrir af hálfu okkar í stjórnarandstöðunni er beinlínis sniðin til þess að reyna að búa til sátt. Það er alveg ljóst að sáttarvilji er hjá mörgum þingmönnum stjórnarliðsins. Miðað við fortíð hv. formanns utanríkismálanefndar og tal hennar um mikilvægi samtals og samkomulags og sátta í stjórnmálum hefði maður ætlað að hægt væri að ná sátt.

Hvað finnst hv. þingmanni um undirtektirnar? Hér erum við með útrétta sáttarhönd til að ná þverpólitískri sátt um magnað deilumál en það er ekki nokkur maður (Forseti hringir.) sem virðist hafa einn einasta áhuga á því. Er það rétt mat hjá mér að það sé eins og menn vilji frekar ófrið en frið í þessu máli?



[15:06]
Óttarr Proppé (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og hugleiðingarnar. Sá þingmaður sem hér stendur hefur reynt að gera ekki of miklar tilraunir til að kafa ofan í hugarheim annarra þingmanna. Ég átta mig ekki alveg á hvað aðrir þingmenn eru að hugsa og vil síður gera þeim upp skoðanir. Ég get svo sem tekið undir með hv. þingmanni að ég hefði óskað þess að sjá meiri vilja til að ná sáttum í þessu máli. Ég held að það skipti miklu. Þessi málaflokkur skiptir miklu meira máli en að hann sé einkamál einhverra, einkamál Íslendinga, einkamál stjórnarflokkanna eða stjórnarandstöðuflokkanna eða einhverra í samfélaginu eða pólitíkinni en ekki annarra. Sátt í málaflokknum eða í það minnsta samstaða er alger grundvöllur. Samstaða um það hvert eigi að stefna. Mér þykir miður að með þessari tillögu er ákveðin breyting í sögu íslenskrar þróunarsamvinnu. Það virðist stefna í ósamkomulags- eða ósamstöðuátt um málaflokkinn. Ég held því miður að það geti frekar skaðað hann en bætt hann.

Síðan minntist hv. þingmaður örlítið á hve framlögin hafa verið að lækka. Nú hef ég upplifað í samtölum við bæði embættismenn og stjórnmálamenn í Bretlandi, þar sem Bretar hækkuðu sitt hlutfall í þróunarsamvinnu einmitt í miðri kreppunni og litu á það sem sína siðferðislegu skyldu, (Forseti hringir.) að það hefur verið mikill innblástur fyrir mig og hvatning til að gera betur. Ég mun halda áfram að boða það fagnaðarerindi.



[15:09]
Frsm. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þegar það hefur gerst að hv. þm. Óttarr Proppé hefur kastað sér til sunds í ónumdum og óþekktum djúpum hefur hann nánast alltaf komið aftur upp úr kafinu með þekkingu og vitneskju sem hefur kastað skýrara ljósi á veruleikann. Nú er kannski komið að því að hv. þingmaður skyggnist ofan í þau sálardjúp sem hann sagðist hafa kinokað sér við að kafa ofan í, þ.e. inn í hugardjúp hv. þingmanna stjórnarliðsins, þó ekki væri nema til þess að búa til verkfæri fyrir okkur sem viljum reyna að finna einhverja fleti á því að hægt sé að ná samtali við þá um þetta mikilvæga mál.

Hér hafa allir utanríkisráðherrar, hver einasti, frá Ólafi Jóhannessyni og fram að þeim sem síðast var, lagt sig í líma við að ná sátt um málaflokk sem er í eðli sínu viðkvæmur. Við vitum það vel af umræðu sem sprettur stundum upp í tengslum við þróunarsamvinnu að þar geta fallið þung og hörð orð. Við þurfum öll að umgangast málaflokkinn af gætni. Þess vegna skiptir svo miklu máli að hægt sé að ná um hann sátt sem sker á pólitíska flokka. Það erum við að reyna hér. Í ljós kemur að ekki er nema örlítill munur á viðhorfum manna gagnvart þessari tillögu. Þá velti ég því að minnsta kosti fyrir mér og hv. þingmaður má síðan ráða því sjálfur hvort hann er mér sammála, hvort þetta sé einhvers konar kergja í hæstv. ráðherra. Er þetta einhvers konar barnalegt stolt hans? Hann getur ekki hugsað sér að þingið komist að niðurstöðu í sáttaskyni sem er öðruvísi en sú sem hann tók við blóðhrárri úr höndum embættismanna sem allir vita að hafa áratugum saman reynt að koma á þessari breytingu til að auka sín eigin völd. Hér liggur fyrir sáttatillaga sem hægt væri að nota til að setja niður (Forseti hringir.) deilur um ÞSSÍ. Ég er eiginlega furðu lostinn yfir því af hverju menn vilja ekki einu sinni skoða hana og hafa lítil rök. Ég geri ekki ráð fyrir að hv. þingmaður geti varpað ljósi á það og er eiginlega ekki einu sinni að biðja hann um að reyna það.



[15:11]
Óttarr Proppé (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það kemst nú enginn með tærnar þar sem hv. þingmaður Össur Skarphéðinsson hefur hælana í því að mæra samþingmenn sína og útlista kosti þeirra. Ég vil alls ekki taka til mín það hól (Gripið fram í.) sem hann kom með hér. Hafi þessi þingmaður einhvern tíma verið djúpur er það nú kannski ekki síður vegna samvista sinna við hv. þm. Össur Skarphéðinsson á köflum. Sem ég þakka fyrir.

Ég vil samt sem áður ekki reyna að gerast neinn Nostradamus eða skilningsaðili. Eins og ég minntist á í ræðu minni hef ég ekki alveg almennilega skilið ástæðu tillögunnar og ekki heldur þrákelknina við að halda henni til streitu, sérstaklega eftir þá miklu vinnu í nefndinni undir stjórn formanna hennar, bæði í vor og núna í haust. En alla vega er ekki annað að skilja en að mikill vilji sé til að knýja málið óbreytt í gegn. Breytingartillaga minni hlutans þykir mér vera sáttatilboð sem kvittar upp á það sem ráðherra talar um í tillögunni sem ætlunarverk hennar. Satt að segja gengur breytingartillagan lengra en mér líður endilega vel með. Ég vil taka fram að þó svo að ég leggi fram breytingartillögu er þetta sáttatillaga. Ég vildi fegnastur og helst vilja að Þróunarsamvinnustofnun væri áfram sjálfstæð stofnun eins og verið hefur og hefði getað haldið áfram í sínu fyrirmyndarstarfi sem allir virðast sammála um. Ég leyfi mér því að hafa takmarkaðan skilning (Forseti hringir.) á þessari miklu breytingaþörf.



[15:14]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil segja að mér þykir það leitt að við skulum standa frammi fyrir niðurstöðu meiri hlutans, hann virðist ekki taka vel í þær breytingartillögur sem minni hlutinn leggur til og er það bagalegt.

Við erum búin að ræða þetta mál töluvert og höfum skiptar skoðanir á þessu fyrirkomulagi, þessu utanumhaldi. Auðvitað væri mun vænlegra að við værum að ræða hér um innihald en ekki utanumhald. En það skiptir máli hvernig utanumhaldið er. Við höfum áhyggjur af því að það verði ekki það sama eða það verði ekki sambærilegar áherslur verði stofnunin flutt eins og ráðherrann vill gera inn í ráðuneytið. Þess vegna leggjum við til breytingar sem snúast um að þetta verði stofnun inni í ráðuneytinu og auðvitað undir yfirstjórn ráðherra en haldi sjálfstæði sínu engu að síður. Það er auðvitað munurinn á tillögu okkar og ráðherrans því miðað við það sem ráðherrann leggur til þá missir stofnunin sem slík sjálfstæði sitt og það þykir okkur bagalegt. Það er líka bagalegt í ljósi þess að alla jafna hefur ríkt nokkuð góð sátt um þessi mál. Þrátt fyrir skiptar skoðanir þá hefur niðurstaðan fram til þessa að minnsta kosti verið sú að málinu hefur ekki verið hreyft þegar andstaðan hefur verið mikil eins og hún hefur verið nú en hæstv. ráðherra ætlar engu að síður að hafa hana að engu og það þykir mér miður.

Minni hlutinn bendir á í framhaldsnefndaráliti sínu að hægt sé að breyta fyrirkomulaginu með þeim hætti sem minni hlutinn leggur til, þ.e. að gera ÞSSÍ að stofnun inni í ráðuneytinu á grundvelli laga sem tóku gildi í júlí á þessu ári. Þegar ráðherra lagði málið fyrst fram var það ekki hægt þar sem lögin voru ekki til. En það er hægt núna og hefði verið hægt þegar málið fór til nefndar milli umræðna. Það er val ráðherrans að gera það ekki. Ég lýsi vonbrigðum með að það hafi verið niðurstaðan og skil eiginlega ekki alveg hvers vegna ráðherrann er feiminn við að koma til móts við hugmyndir okkar eða ræða þær. Það kemur fram í áliti minni hlutans þar sem farið er yfir írska módelið sem tillaga minni hlutans byggir á að það hafi verið einn af þeim valkostum sem Þórir Guðmundsson lagði fram í skýrslu sinni sem er jú undirliggjandi plagg fyrir ákvörðun ráðherrans. Írar hafa þróunarsamvinnu innan utanríkisráðuneytisins eins og ráðherrann vill gera hér en það er þó í sérstakri stofnun eins og við viljum leggja til.

Hér hefur flutningsskylda starfsmanna aðeins verið rædd og mér finnst áhugavert að bera aðeins niður þar því það hefur verið sagt að þessi farvegur gæti orðið einhver tröppugangur í diplómasíunni. Það er ekki hægt að taka það neitt út fyrir sviga, ég held að það geti alveg verið svo. En það er svo mikilvægt að halda utan um það fólk sem hefur aflað sér þessarar þekkingar og ég hef áhyggjur af því að það verði ekki með sama hætti og ef um væri að ræða sérstaka stofnun. Þrátt fyrir að í írska módelinu séu þróunarsérfræðingarnir flutningsskyldir er það þó fyrst og fremst í kringum þróunarmál og þeir geta farið fram á að vera ekki fluttir úr þróunargeiranum því að það er vissulega hægt að flytja fólk á milli starfa. En það er bagalegt ef það fer að vinna einhvers staðar allt annars staðar í utanríkisþjónustunni og staldrar jafnvel stutt við. Það kallar á að þekkingin verður ekki eins stabíl og hún annars gæti orðið og er mjög nauðsynlegt fyrir svona málaflokk.

Við verðum auðvitað að muna að hér er ekki verið að ræða um að þessi stofnun sé til fyrir það fólk sem þar vinnur akkúrat núna eða yfirleitt heldur ræðum við um hana vegna þeirra verkefna sem hún sinnir. Það er það sem er svo mikilvægt, þekkingin sem skapast vegna þeirra verkefna sem Þróunarsamvinnustofnun hefur sinnt. Við höfum verið að byggja upp gríðarlega mikla þekkingu hjá okkar starfsfólki og það er hætt við því að þegar stofnunin fer undir ráðuneytið geti orðið meiri hreyfing á því. Þess vegna er bagalegt að hæstv. ráðherra og nefndin hafi ekki látið skoða ítarlega þann möguleika sem hér er lagður til og tryggja að starfsmennirnir geti, hvað á ég að segja, verið lengi í þjónustunni en ekki stutt því að hugmyndafræði utanríkisráðuneytisins byggist á því að starfsmenn eigi að kynnast sem flestum hliðum utanríkismálanna og þá er við því að búast að sérhæfingin fari dvínandi, eða að þeim fækki sem sinna þessari starfsemi að minnsta kosti.

Ég á ekki beinlínis mikið ósagt í þessu máli en ég vil þó segja um sjálfsmynd málaflokksins að ég hefði viljað styrkja hana frekar en að draga tennurnar úr málaflokknum eins og mér finnst verið að gera hér að miklu leyti. Ég hef líka horft mikið til þess og finnst það skipta máli að Ríkisendurskoðun hefur varað við þessu, stofnun sem við treystum á að veiti starfsemi Alþingis og stofnunum Alþingis óháð aðhald. Ég tek það mjög alvarlega þegar Ríkisendurskoðun varar við breytingunni.

Ég hef líka nefnt ógagnsæi ráðuneyta og þar eru fordæmi fyrir hendi. Það var nú bara síðast verið að kvarta yfir því í fjárlagaumræðunni varðandi safnliði, fólk vissi ekkert hvert það færi, það væri meira ógagnsæi og erfiðara aðgengi að upplýsingum. Utanríkisráðuneytið er ekkert öðruvísi hvað það varðar. Við höfum tekið dæmi um bæði friðargæsluna og skóla Sameinuðu þjóðanna sem ekki hafa verið mjög gagnsæ verkefni, það verður að segjast eins og er. Þrátt fyrir að verið sé að gera einhverja úttekt á skóla Sameinuðu þjóðanna að mér skilst, þá er það jú eftir allan þennan tíma. Þegar við erum með stofnun í höndunum sem hefur skilað mjög góðum faglegum úttektum, alltaf fengið plús í kladdann fyrir allt sitt starf, þá finnst mér erfitt að segja að þetta sé gert á grundvelli mikillar hagræðingar. Eflaust er hagræðingin einhver og hún gæti náðst með því að flytja ÞSSÍ sem stofnun inn í ráðuneytið eins og við leggjum til.

Við erum fyrst og fremst að hugsa um að þróunarsamvinnan takist vel á vettvangi. Hún tekur tíma, það þarf undirbúning og framkvæmd og allt það. Við erum að tala um fólk í framandi umhverfi sem er viðtakendur þessarar aðstoðar og við erum að hluta til að tala þeirra röddu, ég tel mig að minnsta kosti að vera að reyna að gera það vegna þess að ég tel málum betur fyrir komið með þeim hætti sem er í dag en að stofnunin fari undir ráðuneytið. Ég sé ekki beinlínis hagræðinguna fyrir fólkið og verkefnin sem við vinnum að í samstarfslöndunum með því fyrirkomulagi sem lagt er til af hálfu ráðherrans. Þetta eru langtímaverkefni alla jafna og það þarf að vera skilvirkni og ráðuneytin eru ekki þekkt fyrir að vera mjög spontant, virðulegi forseti, ef ég má nota það orð, eða bregðast hratt við eins og gjarnan þarf að gerast í þessum málaflokki. Ég á ekki von á því að svo verði. Mér finnst því ekki hafa verið færð nægjanleg rök fyrir þessari breytingu en stend frammi fyrir því að hún verði að veruleika. Mér þykir miður að ráðherrann ætli ekki einu sinni að velta hinu fyrir sér, þ.e. að hafa þetta sem stofnun inni í ráðuneytinu.

Ég hef heldur ekki skilið þennan asa að geta ekki beðið eftir niðurstöðu DAC, að hverju þetta þarf að gerast akkúrat núna. Það hefur ekki komið fram að það sé einhver tími sem skipti máli, eitthvað renni út eða eitthvað gerist ef frumvarpið verður ekki að lögum núna eða áður en skýrsla DAC kemur út. Það er ekkert sem hefur komið fram sem styður það. Þess vegna þykir mér í rauninni algjör óþarfi að ræða þessi mál akkúrat núna því það er auðvitað töluverð breyting að sameina ráðuneyti eða sameina fagstofnun ráðuneyti. Þetta er eina stofnun þessa ráðuneytis og maður hefur frekar á tilfinningunni að verið sé að styrkja utanríkisráðuneytið frekar en þróunarmálin. Það hefur líka komið fram að við getum tapað góðu fólki sem hefur sinnt þessum málum.

Hér hefur mikið verið rætt um tiltekna ráðgjafa, mestmegnis tvo, sem hafa gert skýrslur og fólk hefur togast á um það sem er í sjálfu sér allt í lagi. En það eru miklu fleiri sem hafa haft á þessu skoðanir og taka ætti mark á, fólk sem ég tel vert að hlusta á eins og prófessor Jónína Einarsdóttir sem er okkar helsti fræðimaður á sviði þróunarfræða. Hún leggst alfarið gegn þessu og kemst að sömu niðurstöðu og ráðherrar sem hafa setið á undan þeim sem nú situr, að þróunarsamvinnu sé betur fyrir komið með þeim hætti sem er í dag en inni í ráðuneytinu. Ég verð að taka undir það,

Það er vissulega ein breyting sem meiri hluti nefndarinnar leggur til og minni hlutinn tekur undir, þ.e. að hver þingflokkur sem eigi sæti á Alþingi skuli tilnefna fulltrúa í þróunarsamvinnunefnd. Það er auðvitað gott, en það er afskaplega lítið komið til móts við hugmyndir minni hlutans sem raktar hafa verið og vel rökstuddar að ég tel. Rökstuðningur ráðuneytisins er haldlítill og mér þykir rökstuðningur þess fólks sem starfar í þessu og hefur lagt fram athugasemdir miklu dýpri og faglegri en svona „af því bara“ og „ég má þetta og ég get þetta“ rökstuðningur, ég hef svolítið á tilfinningunni að það sé þannig.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta. Ég er bara svolítið sorgmædd yfir þessu. Mér þykir leiðinlegt að við stöndum frammi fyrir því að þetta sé að verða að veruleika í staðinn fyrir að við eflum þróunarstarf og innviði þróunarsamvinnunnar. Ég vildi að ég hefði verið að afgreiða í fjárlögum í gær aukið framlag til þróunarsamvinnu en ekki sama framlag og er á yfirstandandi ári. En það er ekki gert og við erum langt undir markmiðum Sameinuðu þjóðanna hvað það varðar. Ég vildi fremur vera að ræða verkefnin sem ég þekki aðeins til sem unnin eru á vettvangi af hálfu starfsfólks Þróunarsamvinnustofnunar og starfsnema hennar. Ég er ekki viss um að allir þeir sem greiða frumvarpinu atkvæði sitt á þingi séu meðvitaðir um það hvers konar starfsemi fer fram hjá Þróunarsamvinnustofnun og hvað það er sem gæti gerst og gæti breyst. Ég hef miklar efasemdir um það.



[15:28]
Frsm. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst vildi ég nú segja það — af því að ég nefndi það í andsvari áðan, að líkast til væru engir að horfa á þessa umræðu — að síðan ég gerði það hafa mér borist boð bæði frá Breiðdalsvík, Akureyri, Ísafirði og Reykjavík sem sanna hið gagnstæða. Þannig að bersýnilega eru fleiri sem enn halda sig frá jólaundirbúningi og eru hér við sjónvarpið til að fylgjast með okkur en ég hugði.

Herra forseti. Ég held að þetta mál, burt séð frá kjarna þess sem viðfangsefnis, spegli svolítið slæma þróun hér á Alþingi Íslendinga. Við höfum lagt fram sáttatillögu í málinu og hún byggist meðal annars á því að það hefur komið skýrt fram að stuðningurinn af hálfu stjórnarliða er nánast enginn.

Hv. formaður utanríkismálanefndar heldur auðvitað sinn skyldustíl sem hún þarf að gera sem framsögumaður stjórnarliðsins. Síðan hefur komið hér einn þingmaður annar og haldið ræðu en það eru allar ræðurnar sem haldnar hafa verið samanlagt. Í reynd einungis ein ræða sem stjórnarliði hefur haldið ef frá eru talin stöku andsvör og framsögur fyrir nefndarálitum.

Þetta rennir stoðum undir þá skoðun mína að við málið er ákaflega lítill stuðningur og enginn veigamikill, enginn af sannfæringu. Þess þá heldur hefði átt að vera unnt, þegar deilurnar eru svona miklar, að ná einhvers konar sátt. En það er ekki gert.

Nú tel ég að það séu öll föng til þess að hægt væri að ná samtali við hv. þm. Hönnu Birnu Kristjánsdóttur vegna þess að hún hefur svo oft sagt að hún vilji önnur vinnubrögð í stjórnmálunum. En þegar henni gefst kostur á að sýna það í framkvæmd þá gerir hún það ekki. Af hverju? Vegna þess að við sjáum hér þróun sem hnígur að því sem var verst hér á árum fyrri. Ráðherraræðið. Þar sem framkvæmdarvaldið þröngvar sínum skoðunum fram og þingmenn verða bara að taka því.

Er hv. þingmaður sammála mér um þetta?



[15:31]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Já, ég er yfir höfuð ósátt við vinnubrögð ríkisstjórnarinnar og ekki bara í þessu máli heldur mörgum öðrum. Hún stendur afskaplega lítið við stefnuyfirlýsingar sínar um sátt og samvinnu.

Við höfum að sjálfsögðu skiptar skoðanir í pólitík og ólíka nálgun á málin. En hér finnst mér vera svo ótrúlega — hvað á ég að segja, ég vil ekki segja gott tilboð. En hér finnst mér við vera að nálgast ráðherra málaflokksins afskaplega vel og þykir mjög miður að það skuli nánast ekki vera rætt um þá samvinnu sem hv. þingmaður var að nefna, sátt sem þarf að ríkja um þennan málaflokk. Það olli mér miklum vonbrigðum að nefndin skyldi ekki láta skoða það mjög vel. Við vitum að ráðherra er mjög í mun að fá þetta inn í ráðuneyti sitt og þá hefði að sjálfsögðu þurft að eiga einhvers konar samtal við hann.

Mér finnst það óbilgirni að vilja ekki nálgast þetta á nokkurn hátt því að hér fær ráðherra, eins og kemur fram í nefndarálitinu, nánast allt sem hann hefur viljað gera og sagt að gæti orðið til batnaðar. Það skilar sér með þessari tillögu. Það sem er hins vegar öðruvísi í breytingartillögunni er að áfram er um sjálfstæða stofnun að ræða og það er eins og hann vilji það ekki. Þá fer maður auðvitað að velta því fyrir sér hvers vegna svo sé.



[15:33]
Frsm. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það yrði þó stofnun sem yrði undir beinu boðvaldi hæstv. ráðherra, þ.e. boðleiðirnar væru þá frá hæstv. ráðherra til ráðuneytisstjóra, til yfirmanns stofnunarinnar. Það er skýrt tekið fram að einnig er um að ræða fjárstjórnarvald.

Ráðherrann hefur öll föng til að ráða því sem hann vill í reynd og þarna er að minnsta kosti tekið á öllum þeim þáttum sem ráðherrann sagði að hann vildi sjá á annan veg. Hann gat að vísu ekki fundið nein rök fyrir staðhæfingum sínum um tvíverknað og taktleysi gagnvart utanríkisstefnunni o.s.frv. Þau komu aldrei fram.

Í öllu falli væri girt fyrir að slíkt gæti gerst með þessari breytingu. Samt vill hæstv. stjórnarlið alls ekki taka þátt í því að reyna að finna þarna einhvers konar lausn. Maður veltir því fyrir sér af hverju það er og eina skýringin sem ég finn á því er sú að við erum aftur komin í þetta gamla far þar sem að löggjafinn var beygður undir framkvæmdarvaldið, nánast þræll þess í mörgum málum.

Ég er ekki að halda því fram að ástandið sé orðið eins svart og á svartasta skeiði fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins þegar þingheimur varð að sitja og standa eins og þáverandi forsætisráðherra vildi. En þetta hnígur í sömu átt og ég finn enga aðra skýringu á því. Mér finnst það vitaskuld miður, í ljósi þess að ég taldi að jarðvegur væri fyrir því í nýrri forustu utanríkismálanefndar, miðað við allar þær yfirlýsingar sem frá þeim hv. þingmanni hafa gengið síðustu tíu árin, held ég að ég megi segja. Ég á safn tilvitnana í hv. þingmann þar sem það kemur fram allt frá því að hún tók að sér að vera forseti borgarstjórnar. (Forseti hringir.)

En það er enginn vilji til þess og ekki er hægt að komast að annarri niðurstöðu en að það sé bernsk þrá hæstv. ráðherra að ráða öllu í þessu máli. Ég skil það vel því að þetta er eina málið sem hæstv. ráðherra hefur einhverju fengið ráðið um.



[15:35]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er spurning hvað ráðherranum gengur til og hvers vegna hann varð sá sem féll á hakann eftir allar þær atlögur sem gerðar hafa verið að ráðherrum margra stjórnmálaflokka undanfarinn áratug að minnsta kosti og var aðeins rakið í fyrra nefndaráliti minni hlutans.

Ég tek undir það að það er svolítið óþægilegt að vita að það skipti engu máli hvað þinginu finnist, það skipti engu máli hvaða athugasemdir komi fram, það verði samt gert; það er enga breytingu þar að fá, af því að ég ætla að hafa það svoleiðis. Það er Alþingi ekki boðlegt.

Ég hef miklar áhyggjur af ógagnsæi. Ég hef áhyggjur af þeim athugasemdum sem Ríkisendurskoðun hefur sett fram vegna þessa máls. Svo er það hið diplómatíska ferli sem gæti orðið fyrir starfsfólk utanríkisþjónustunnar, þetta gæti orðið svona kanall í það. Ég hef það miklu frekar á tilfinningunni en að hér sé einhver væntumþykja um málaflokkinn. Mér finnst ekki að það sé sýnt, sérstaklega ekki þegar fram er komin breytingartillaga sem mætir athugasemdum ráðherra klárlega, sem hann setur fram án þess að hafa rökstutt með dæmum, um tvíverknað eða sparnað eða eitthvað annað; án þess að það hafi verið rökstutt.

Þannig að: Já, þetta er áhyggjuefni, virðulegi forseti.



[15:38]
Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þá er þessi gamli draugur kominn aftur á dagskrá og ráðherrann situr yfir því máli og passar það eins og köttur passar afkvæmi sín (Gripið fram í: Dauða mús.) — eða dauða mús.

Ég þakka hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur fyrir yfirferð hennar á málinu. Hv. þingmaður á sæti í fjárlaganefnd og hefur mikla þekkingu á þeirri vinnu og því langar mig aðeins að fara aftur til ársins 2013, til síðustu daga þingsins í desember þar sem formaður og varaformaður utanríkismálanefndar stóðu fyrir alveg sérstökum niðurskurði á utanríkisráðuneytið, sem var óskiljanlegt. Sá niðurskurður kom inn með töluverðum hvelli, það var aukaniðurskurður og umfram það sem önnur ráðuneyti fengu á sig. Hæstv. utanríkisráðherra bar sig mjög illa þótt hann hafi nú ekki beint farið að grenja, en hann taldi sig beittan mjög miklu óréttlæti hvað það varðar. Ég hygg að það hafi nú verið svolítið til í því og veit ekki hvað hæstv. ráðherra hafði unnið til þess að það var gert á þessum tíma.

Í fyrra andsvari mínu langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hún sé sammála mér í því sem ég hef haldið hér fram, vegna þess að ég hef ekki séð nein rök fyrir að gera þetta, engin, þ.e. að ráðuneytið ásælist stofnunina vegna fjármuna hennar og vilji skella þeim inn í ráðuneytið. Síðan byrjar starfsmannavelta og svo framvegis og þá er (Forseti hringir.) meira að segja hægt að skipa menn í ráðuneytinu í störfin. Þeir eru ýmsir þar sem ekki eru með föst verkefni. Er hluti af markmiðinu með þessum gjörningi að ásælast peninga stofnunarinnar og fá meira fyrir ráðuneytið sjálft?



[15:40]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að enginn skildi af hverju þessi hvellur varð. Ég tók ekki undir það þegar meiri hluti fjárlaganefndar lagði til með mjög skömmum fyrirvara aukinn niðurskurð á öll ráðuneyti og ráðuneyti utanríkismála umfram það sem hin ráðuneytin fengu á sig, eins og hv. þingmaður benti á.

Nú vill svo til að í þeim fjárlögum sem við vorum að afgreiða í gær á allt í einu að opna sendiráð í Frakklandi sem við höfðum áður lokað. Við þurfum ekki tvö. Ég veit ekki hver á að sinna því. Það kemur auðvitað í ljós. Hvers vegna þörf er á því hefur heldur ekki verið rökstutt en það er auðvitað kannski eitt af því sem manni þykir óþægilegt að hægt sé að opna sendiráð án svona einhverrar umræðu.

Ég hef áhyggjur af því að fjarað geti undan faglegheitunum. Ég er hrædd um að orðið geti meiri hreyfing á þekkingunni og mannauðnum sem við búum við nú þegar og að einhver viðskiptamál geti farið að blandast inn í þróunarmálin, að haldið verði betur utan um þau en minna hlúð að þróunarsamvinnunni sjálfri.

Það er þetta tvennt sem ég hef sérstakar áhyggjur af, fyrir utan það að þegar þetta er komið inn undir ráðuneytið höfum við sem þingmenn og almenningur minni aðgang að því. Mál og verkefni Þróunarsamvinnustofnunar eru tekin út mjög reglulega, það birtist allt opinberlega og hingað til hefur maður getað haft aðgang að því. En það gerum við ekki þegar það er komið inn í ráðuneytið. Við getum auðvitað óskað eftir því sem þingmenn að fá einhverjar upplýsingar en það er ekki (Forseti hringir.) með sambærilegum hætti og ég þekki heldur ekki dæmi þess að Ríkisendurskoðun hafi tekið út ráðuneyti í tengslum við slíkt verkefni.



[15:42]
Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir undirtektirnar og svarið við þeirri spurningu sem ég setti fram. Ég segi fyrir mitt leyti við yfirferð á þessu máli um Þróunarsamvinnustofnun, sem er margverðlaunuð stofnun og hefur fengið mikla og góða úttekt hjá Ríkisendurskoðun, alþjóðasamtökum og fleirum, að þetta er alveg óskiljanleg ráðstöfun.

Ég styrkist í þeirri trú vegna þess hversu mikla áherslu hæstv. utanríkisráðherra leggur á þetta mál, hann leggur eiginlega bara allt undir til að ná sínu fram. Einhvern tímann hefði maður kallað það þrjósku eða þvergirðingshátt að þegar menn eru einu sinni búnir að taka ákvörðun skuli hún bara standa og þeir skuli ná henni í gegn sama hvað það kostar.

Þess vegna finnst mér það mjög undarlegt eftir þá miklu deilu sem búin er að standa um þetta mál að tillaga minni hlutans er tillaga til sátta varðandi ráðuneytisstofnun miðað við lög sem tóku í gildi í sumar, lög sem þessi ríkisstjórn og ríkisstjórnarflokkar komu í gegnum Alþingi. Maður skyldi halda að það væri einhvern tilgangur með því, að það hafi ekki bara verið tilgangurinn að opna ráðuneytisskrifstofu ráðuneytisstofnunar húsameistara ríkisins í forsætisráðuneytinu til þess að reyna að pína okkur á Alþingi til að nota einhverja tillögu frá 1918 eftir Guðjón Samúelsson, þann mikla meistara, til að byggja við húsnæði Alþingis.

Það er óskiljanlegt að við skulum hafa eytt öllum þessum tíma í þessa deilu. Hún hefur eingöngu skapast af þráhyggju utanríkisráðherra að ljá ekki máls á neinu öðru en því sem hann hefur ákveðið. (Forseti hringir.)

Ég spyr hv. þingmann. Getur hún tekið undir þau sjónarmið, fyrir utan það sem ég sagði áðan með fjárhagstillögurnar, sem ég held að sé eitt af veigamiklum atriðum?



[15:45]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Já ég get tekið undir það. Ég held að þetta sé einmitt svona: Hæstv. ráðherra er búinn að bíta þetta í sig og ætlar bara að klára málið með þeim hætti sem hann er búinn að ákveða.

Eins og fram kom í samskiptum mínum og hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar áðan varðandi þessi mál er það þessi þvergirðingsháttur sem veldur því að ég hef áhyggjur af því að framkvæmdarvaldið sé að valta yfir þingið.

Þess vegna þykir mér það frekar bagalegt að ekki sé einu sinni rætt eða skoðað almennilega að koma til móts við tillögu minni hlutans af því að hún uppfyllir drauma ráðherrans um að fá stofnunina inn í ráðuneytið til sín. En eitthvað annað býr að baki fyrst það er ekki hægt. Fyrst hann hafnar faglegri stofnun í ráðuneyti sínu vekur það auðvitað upp spurningar. Það er erfiðara þegar stofnunin er komin inn í ráðuneytið, að sinna innra aðhaldi við ákvarðanatöku og að styrkja faglega stefnumótun, eins og er hægt að gera með því að hafa þetta sem sérstaka stofnun. Hafa verið færð fram rök fyrir því fyrr í umræðunni um málið.

Það er það sem Ríkisendurskoðun hefur verið að benda á, þ.e. að það er allt annað að vera með eftirlit utan ráðuneyta og það hefur ekki tíðkast að verkefnum sé fylgt eftir með þeim hætti í ráðuneytunum. Skipuleg stefnumótun er lykillinn að framförum þróunarsamvinnu og við eigum að einbeita okkur að fjárframlögum (Forseti hringir.) til hennar, auka þau og styrkja innra starfið en ekki utanumhaldið sem við ræðum hér. Það á að fá að vera eins og það er.



[15:47]
Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég ætla að nýta mér rétt minn til að ræða í þær 15 mínútur sem ég hef í fyrri ræðu í dag um þingmál nr. 91, hjartans mál hæstv. utanríkisráðherra og hans eina mál (Gripið fram í: Aleina.) — aleina. Þetta eina mál hæstv. utanríkisráðherra er 100% meira en mál atvinnuvegaráðherrans, Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, vegna þess að þaðan hefur ekkert komið.

Það sem ég vildi segja, virðulegi forseti, í byrjun er að sú breytingartillaga sem minni hluti nefndarinnar flytur á þessu máli snýst í stuttu máli um að í staðinn fyrir að stofnunin renni inn í ráðuneytið og allt hennar hafurtask og fari þar inn í diplómasíuna og hlíti þeim reglur sem þar gilda í einu og öllu þá er tillagan millileið um að við nýtum okkur nýsamþykkt lög ríkisstjórnarinnar og leiðsögn hennar um að stofna ráðuneytisstofnun. — Ef ég hef tíma til þess á eftir langar mig að fara svolítið í gegnum umræðuna á einum af þeim fundum sem ég sat í hv. utanríkismálanefnd fyrir hv. þm. Össur Skarphéðinsson þegar hann gegndi skyldustörfum erlendis. Ég vona að ég komist í það, en fyrst ætla ég að tala meira um þessa tillögu. — Tilgangurinn hlýtur að hafa verið sá að opna fyrir þann möguleika að ráðuneytið gæti farið þessa leið. Eins og kom fram á fundi nefndarinnar með fulltrúa úr forsætisráðuneytinu, sem ég hygg að hafi komið að samningu þeirra frumvarpa og hugmynda sem sótt eru til annarra Norðurlandaþjóða, þá var það ótvírætt að þetta væri hægt og væri skynsamleg leið. Ríkisstjórnin hefði valið að gera þetta að lögum til þess að ráðuneyti gætu gripið til þessa ráðs í endurskipulagningu stofnkerfisins ríkisins. Við verðum auðvitað að hafa í huga tillögu sparnaðarnefndar ríkisstjórnarinnar, sem hv. þm. Vigdís Hauksdóttir og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, formaður og varaformaður fjárlaganefndar, leiddu, þar sem var eiginlega boðað að leggja niður allar litlar stofnanir og steypa þeim saman í eitthvað meira og stærra. Þess vegna var þetta örugglega flutt. Mér finnst þess vegna með ólíkindum að hæstv. utanríkisráðherra taki ekki í útrétta sáttarhönd minni hlutans og fallist á að við höldum fullri sátt um Þróunarsamvinnustofnun með því að gera hana að ráðuneytisstofnun inni í ráðuneytinu og fá fullt samþykki á Alþingi fyrir þeirri leið.

Ég spyr mig að því, virðulegi forseti, hvort ástæðan tengist bara hæstv. utanríkisráðherra, vegna þess að hann vill ná sínu fram og getur ekki beygt af leið, og nokkrum þingmönnum Framsóknarflokksins sem styðja hann. Það gerist auðvitað oft að þingmenn ræða saman á nefndarfundum og eftir nefndarfundi til þess að reyna að finna sáttaleið í deilumálum og ég fullyrði að innan hins stjórnarflokksins, Sjálfstæðisflokksins, eru sjálfstæðismenn sem segja: Við skiljum ekkert í því af hverju hæstv. utanríkisráðherra kom fram með þetta mál. Við skilum ekkert í því af hverju þarf að leggja niður stofnun sem er margverðlaunuð. Við skiljum ekkert í hvað hæstv. utanríkisráðherra er að fara með þessu máli. — En þetta er hjartans mál framsóknarmanna og eina mál þeirra og það verður að keyra í gegn hvað sem tautar og þá verða þingmenn hins flokksins ásamt óbreyttum þingmönnum Framsóknarflokksins að kyngja því veskú og samþykkja þetta arfavitlausa frumvarp.

Þetta er eitt af því, virðulegi forseti, sem er að hér á Alþingi. Fyrst og fremst er ekki rætt um málin áður en þau koma inn. Þetta mál var ekki skoðað af þverpólitískri nefnd fulltrúa allra þingflokka sem íhuguðu hvað ætti að gera og reyndu að komast að niðurstöðu um hvað skyldi leggja fram áður en málið færi til þings og sköpuðu um það sátt. Nei, það var komið inn með deilumál sem tekur langan tíma og hefur mikið verið rætt og farið í eitthvert þrátefli. Því næst hefst nefndarvinna og í nefndinni fæðast skynsamlegar og góðar tillögur, eins og minni hlutinn er með, en þá er algjör stífni og þvergirðingsháttur. Ráðherrann getur ekki beygt af leið og sagt: Ókei, við skulum fara þessa leið og skapa fulla sátt um þetta mál. Nei, það er ekki hægt. Áfram skal halda veginn hvað sem tautar og raular. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins, samstarfsflokks Framsóknarflokksins, verða að gjöra svo vel og mæta í þingsal og greiða atkvæði með máli af því að Framsóknarflokkurinn og hæstv. utanríkisráðherra krefjast þess þó að þeir hafi engan áhuga á málinu og telji það jafnvel arfavitlaust, eins og sumir. Það verður að segjast eins og er, virðulegur forseti, og bera virðingu fyrir því, vegna þess að mér finnst það alltaf virðingarvert þegar menn segja skoðanir sínar í þingsal, að hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason hefur gert það.

Virðulegi forseti. Þetta er að mínu mati góð leið. Þetta er sáttaleið. Ég ætla enn einu sinni að skora á hæstv. utanríkisráðherra að koma til móts við okkur í þessum deilum og standa upp, fara upp á stóran hól og verða miklu stærri og meiri með því að segja: Já, við skulum fara þessa leið og halda sáttinni um þetta mál. Ég held að utanríkisráðherrann nái nánast öllu sínu fram hvað þetta varðar með því að fara þessa leið, a.m.k. er í greinargerð vitnað til ýmissa þátta hvað varðar ráðuneytisstofnun. Það er fjallað hér um hvað kom fram í greinargerðum og hvað sagt var þar og á fundum utanríkismálanefndar eins og ég sagði áðan, sem ég sat á, voru fulltrúar sem kunnu þetta mál utan að og mæltu með þessari leið í raun og veru, það væru engin tormerki á þeirri leið, enda er því pakkað saman í ágætu nefndaráliti minni hlutans sem rökstuðningi þessa máls, eins og segir, með leyfi forseta:

„Samþykkt hennar [sáttatillögunnar] gerir utanríkisráðherra kleift að ná öllum markmiðum sínum í sátt við Alþingi. Hún ætti því að vera góður grunnur að sátt.“

Virðulegi forseti. Ég get ekki annað en eytt seinni hluta ræðutíma míns í málsmeðferðina í nefndinni. Málsmeðferðin í nefndinni, sérstaklega á fyrri stigum, hefur staðfest það fyrir mér að hæstv. ráðherra lagði einstaklega mikla áherslu á málið. Það er reyndar nr. 91 en fór mjög fljótlega á dagskrá og var keyrt í gegnum nefndina til 2. umr. á óskiljanlegan hátt. Flaustursleg vinnubrögð eru formanni og varaformanni nefndarinnar til skammar. Hv. þm. Hanna Birna Kristjánsdóttir hefur sagst ætla að beita sér fyrir nýjum vinnubrögðum í stjórnmálum á Íslandi, hún hafi svo mikinn áhuga á því. (Gripið fram í.) Þess vegna ætlaði hún að halda áfram í stjórnmálum eftir hrakfarir sem ráðherra. En það bólar ekkert á þeim nýju vinnubrögðum. Ég verð því miður að segja að vinnubrögð hv. formanns nefndarinnar eru jafnvel verri en maður hefur kynnst annars staðar hjá þeim sem hafa setið á þingi. Nýir vendir sópa ekki best hvað það varðar. Vendirnir eru reyndar hálfstrálausir.

Þá kem ég að varaformanni nefndarinnar, hv. þm. Silju Dögg Gunnarsdóttur, sem situr í salnum og gerði að mér skilst fundi nefndarinnar að umtalsefni hér áðan. Þó að ég hafi ekki verið nefndur á nafn tek ég það til mín vegna þess að ég var sá eini sem spurði út í þá þætti er vörðuðu starfsmenn, þ.e. um skipulag, biðlaunarétt og hvort væri verið að bjóða þeim sambærileg störf. Hún vitnaði til minnisblaðs ríkisstjórnarinnar frá því í febrúar um nýjar leiðir við sameiningu stofnana, þ.e. allsherjaruppsagnir, t.d. hvað starfsmenn Hafrannsóknastofnunar og starfsmenn Veiðimálastofnunar eiga að fá sem þeir skilja sjálfir ekkert í. Hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir gerði það að umtalsefni hér áðan. Mér er sagt og ég hef reynt að hlusta á þá ræðu, ég var að vísu ekki í þingsal, ég var í jarðarför, að þar hafi hún gert lítið úr því sem ég spurði um. Til dæmis um fjármálastjóra, er honum boðið sambærilegt starf? Um upplýsingafulltrúa, er honum boðið sambærilegt starf? Nei, auðvitað ekki vegna þess að þessu verður skellt inn í þær stofnanir sem eru í ráðuneytinu fyrir. Þar með fullyrði ég, virðulegi forseti, að biðlaunaréttur mun vakna. Það er alveg með ólíkindum að í umsögn fjármálaráðuneytis um þetta frumvarp skuli ekki vera fjallað um það. Þar eru reyndar sömu slugsvinnubrögðin og voru við sameiningu Hafrannsóknastofnunar og Veiðimálastofnunar. Það var enginn tilraun gerð til að skoða það mál. Það hefur ekki enn verið gert af ráðuneytinu. Þess vegna skora ég á hv. þm. Silju Dögg Gunnarsdóttur að koma í andsvar og leyfa mér að heyra hvað hún setti út á í sambandi við þær spurningar sem ég spurði á nefndarfundi um ráðuneytisfólkið hvað þetta varðar vegna þess að svörin sem ég fékk voru þannig að mér varð verulega brugðið. Mér brá verulega vegna þess að það var ekkert búið að skoða þau mál. Það voru engin svör. Eins tók steininn úr þegar stjórar úr ráðuneytinu, sem ég ætla ekkert að nefna en eru ráðuneytisfólk, komu á fundinn og ég spurði út í stjórnskipulagið í ráðuneytinu, sem fjallað var um í einhverjum greinargerðum og umsögnum, ef ráðherra tækist að „sjanghæja“ stofnunina inn með húð og hári. Þetta var í endaðan nóvember, 30. nóvember held ég. Mér varð verulega brugðið vegna þess að í máli þeirra sem voru úr ráðuneytinu kom fram að ekkert starfsskipulag væri til um þetta. Menn hefðu jú rætt málin og skoðað þau en það hefði ekkert verið gert í því. Þá var mánuður í að þessi gjörningur átti að eiga sér stað, um áramótin. Nú er 17. desember og ég veit ekki hvort þessir 17 dagar hafi verið notaðir eitthvað í það. Mér kæmi það hins vegar ekki á óvart að gefið hefði verið í eftir þennan dag og eftir gagnrýni mína á það að menn væru virkilega ekki búnir að upphugsa það hvernig ætti að skipa starfsmönnum og Þróunarsamvinnustofnun, ef hún kæmi inn í ráðuneytið, til borðs þar innan húss. Þetta var alveg með ólíkindum. Auðvitað verður maður alltaf að fara varlega með það sem maður heyrir á fundum vegna þess að við megum ekki vitna í það. Þetta getum við sagt að sé í stórum dráttum það sem þar kom fram.

Aftur að hugsanlegum biðlaunarétti sem gæti myndast. Það er ekki búið að skoða málin hvað hann varðar. Það hefur ekkert verið rætt við starfsmenn og ekkert skoðað hvort þeir muni þiggja flutning eða hvort þeim verður boðið sambærilegt starf. Ég leyfi mér að fullyrða, virðulegi forseti, að hið allt að því kolvitlausa minnisblað sem samþykkt var í ríkisstjórninni ryður ekki í burtu lögum um aðilaskipti, alls ekki. Minni ég nú á skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um að ríkisstjórn verði að fara varlega í að setja niður ákvæði sem eru ekki bundin við lög eða boða eitthvað sem er á skjön við lög. Ég leyfi mér að fullyrða að í tilfelli eins og hjá Hafrannsóknastofnun og Veiðimálastofnun mun vakna upp biðlaunaréttur sem hvorki fagráðuneytin né fjármálaráðuneytið hafa fjallað um. Ég gagnrýni þau vinnubrögð.

Það var líka fjallað um á fundi nefndarinnar, virðulegi forseti, hvað gerðist þegar starfsmennirnir væru komnir inn í utanríkisráðuneytið. Þá var talað um að það væri allt annar hugsunarháttur í utanríkisráðuneytinu en hjá Þróunarsamvinnustofnun þar sem er mikil breidd og mikil fagleg þekking sem nýtist Þróunarsamvinnustofnun og hefur nýst en þegar starfsmenn væru komnir inn í ráðuneytið, í raun og veru ráðnir eins og aðrir starfsmenn ráðuneytisins, þá kynni að vakna upp löngun til að taka þátt í því sem ráðuneytisfólkið kallaði að setja í gang ákveðna flutningsfléttu, að fá að taka þátt í flutningsfléttunni. Ég hváði við og spurði: Hvað er flutningsflétta? Jú, það er þegar hringrásin fer í gang, einhverjir utanríkisráðherrar eru skipaðir eins og þarf að gera í nýja sendiráðinu í Strassburg og einhverjir póstar sem talað var um að menn vildu komast inn á. Með öðrum orðum, þegar þeir sem eru með sérþekkingu í Þróunarsamvinnustofnun verða komnir inn í ráðuneytið til jafns við hina þá (Forseti hringir.) langi þá jafnvel til að fara að vinna í ráðuneytinu í Strassburg, sem dæmi. (Gripið fram í.) Þá getur þessi flutningsflétta farið í gang og menn fengið pósta og fagþekking á málum Þróunarsamvinnustofnunar (Forseti hringir.) og því öllu glatast og fer eitthvert annað og kannski verður hægt að setja einhverja aðra sem eru með aðra pósta, alls óskylda, inn í þróunarstofnun.

Virðulegi forseti. (Forseti hringir.) Mér þykir leitt að þurfa að segja það undir bjölluhljómi en ég verð samt að gera það, ég held að þetta sé eitt vitlausasta og versta frumvarp sem hefur komið fram í langan tíma á Alþingi.



[16:03]
Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Skiptar skoðanir eru um hversu mikilvægt þetta mál er. Hæstv. ráðherra hefur haldið því fram að þetta sé bara einhver svona smotteríis formbreyting. Hv. þm. Hanna Birna Kristjánsdóttir sagði um fundarstjórn forseta fyrr í dag að það hefði enginn áhuga á málinu, enginn væri að fylgjast með þessu, þetta væri svo ómerkilegt. En við erum bara því miður nokkur hér sem teljum þetta mjög merkilegt og mikilvægt mál, þ.e. hvernig farið er með þróunarsamvinnu hér á landi. Þróunarsamvinnustofnun Íslands hefur verið ein af þeim stofnunum sem hefur náð markmiðum sínum aftur og aftur. Í fyrsta lagi markmið um faglega og góða starfsemi sem hefur hlotið alþjóðlegar viðurkenningar og í öðru lagi hefur hún sem stofnun verið gríðarlega vel rekin og ein af fyrirmyndarstofnunum ríkisins og fengið lof fyrir að halda sig innan ramma fjárlaga og hún hefur náð að sinna þeim verkefnum sem hún hefur ætlað sér svona að mestu leyti. Það er því ekki vandamálið að hún hafi fengið á sig harða gagnrýni út á sín faglegu störf né heldur er þetta vandræðastofnun fjárhagslega innan ríkisbatterísins.

Þess vegna er það þannig að við sem teljum mikilvægt að það sé viðurkennt innan stjórnkerfisins að þarna sé um að ræða gríðarlega viðkvæmt og mikilvægt fag sem eigi heima í sérstofnun, okkur finnst þessi stofnun og starfsemi léttvæg fundin með þeim ummælum sem ráðherrann hefur viðhaft hér og formaður nefndarinnar líka. Þetta er stórmál, hvernig við förum með þróunarsamvinnu. Það skiptir svo miklu máli að safna slíkri þekkingu. Það eru ekki margir með sérþekkingu á þessu sviði ef við skoðum heiminn allan og hvað þá Ísland. Það eru ekki margir einstaklingar. Þess vegna er mikilvægt að safna þeirri þekkingu saman. Það kom út skýrsla að ég held þegar de Cuellar var framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna þar sem dregin voru fram söguleg mistök í þróunaraðstoð sem gerð hafa verið þegar menn töldu enn lykilinn að uppbyggingu í þróunarríkjum að koma með stór verkefni utan frá inn í samfélögin, stórar verksmiðjur og ýmislegt slíkt. Það skilaði sér síðan á endanum í því að menn höfðu raskað samfélagsgerðum ýmissa viðkvæmra samfélaga í þróunarlöndunum þannig að ekki varð aftur snúið. Þess vegna skiptir svo miklu máli að þessi fagþekking sé til staðar, þ.e. hvernig menn nálgast samfélögin sem þeir vinna í. Niðurstaðan hefur verið sú að það skipti mestu að menn stuðli að breytingum innan frá, þ.e. að unnið sé með heimafólki að því að gera breytingar og þannig sé stuðlað að eðlilegum, heilbrigðum innri vexti sem byggir á grunngerð samfélaganna þar sem verið er að vinna. En ekki vestrænum hugmyndum um stórar verksmiðjur eða stór verkefni sem öllu eiga að umbylta.

Þróunarsamvinnustofnun hefur tekist þetta ótrúlega vel. Í skýrslu DAC-nefndarinnar, undirstofnunar OECD, var gerð úttekt á þróunarsamvinnunni þegar við gengum þar inn og þar kemur þetta einmitt fram. Þróunarsamvinnustofnun er líka sérstaklega hrósað fyrir hversu valddreifð hún er í ákvarðanatöku og hversu mikið svigrúm starfsmenn og sérfræðingar Þróunarsamvinnustofnunar hafa í þeim útstöðvum til þess einmitt að taka ákvarðanir á staðnum byggðar á þeirri hugmyndafræði að verið sé að vinna með fólkinu á staðnum og valdefla það á þeirra forsendum.

Peningar sem okkur finnast kannski ekki miklir en eru stórir hjá móttakandanum geta haft mjög mikil áhrif. Þeir geta líka haft skaðleg áhrif. Það er hægt að hræra þannig upp í þeim samfélögum að þau lendi í vanda í framhaldinu. Samfélagsgerðirnar þar eru bara af allt öðrum toga en hér. Það ber að virða og reyna frekar að styrkja samfélögin út frá þeim forsendum en okkar eigin. Fólk er þjálfað í þessu sem nemur slík fræði öll sömul. Við höfum áhyggjur af þessu þegar stofnunin er beinlínis lögð af. Þegar við erum með stofnun utan um málaflokk sem krefst svona mikillar sérþekkingar er það ekki þannig að við séum að segja að ef málaflokkurinn komi inn í ráðuneytið séum við að vantreysta starfsmönnum þar til að fara með þetta. Það snýst miklu frekar um að málaflokkurinn er varinn faglega. Allt það starfsfólk og sérfræðingar með þessa sérþekkingu eru varin faglega inni í stofnun, þ.e. þau setja mörkin og ráða stefnu sinni að mestu leyti. Ég verð að segja alveg eins og er að það angrar mig alveg gríðarlega hversu lítið formaður nefndarinnar og ráðherrann hafa gert úr málinu, þetta sé bara einhver formbreyting og enginn hafi áhuga á þessu í samfélaginu, bara einhverjir kverúlantar inni á þingi séu að velta þessu fyrir sér, svona er talað, miðað við það finnst mér alveg ótrúlegt hvað mikill þungi er á að koma málinu hér í gegn. Það er alveg með hreinum ólíkindum. Það er lögð slík áhersla á málið að ég hef ekki séð einu sinni stór stefnumál ríkisstjórnarinnar lögð fram og borin í gegn af jafn miklum ákafa.

Þess vegna gerist það að maður verður skeptískur. Maður fer að velta fyrir sér hvað búi þarna að baki. Hvers vegna keyra menn mál fram með þessum hætti? Sérstaklega á málasviði eins og þessu. Málasviði sem okkur hefur tekist að halda friðinn pólitískt um og ráðherra málaflokksins núna ætlar að vera svo ábyrgðarlaus að hann er til í að rjúfa friðinn um þróunarsamvinnu á Íslandi til að koma í gegn einhverri formbreytingu. Hver trúir svoleiðis vitleysu? Það er nefnilega þannig að hér er um eðlisbreytingu að ræða. Það er engin formbreyting í þessu. Þegar málaflokkur er tekinn með þessum hætti inn í ráðuneyti þá breytist eðlið. Þá er ekki lengur þessi vörn utan um hina faglegu starfsemi heldur er það þannig að pólitískir duttlungar eru komnir inn í málaflokkinn. Ráðherrann er á næstu skrifstofu. Ráðherrann leggur línurnar. Hann getur haft gríðarleg áhrif á það sem þar er gert og það aftur síðan grefur undan faglegu starfi og faglegri umgjörð þeirra sem í þessu vinna og getur gert starf þeirra algerlega óbærilegt. Við erum að mótmæla þessu. Þetta er ekki bara einhver sérviska einhverra einstaklinga hér. Við erum öll búin að vera að tala um þetta, þingmenn stjórnarandstöðunnar sem höfum talað í þessu máli. Við erum búin að reyna og reyna að fá áheyrn hjá stjórnarflokkunum gagnvart þessu máli. Við höfum lagt fram fleiri, fleiri tillögur um málamiðlanir. Það er fúlsað við þeim öllum af því að það á einfaldlega að trukka þessu svona í gegn. Við höfum lagt til að beðið sé eftir jafningjamati frá DAC sem á að fara fram á næsta ári. Í framhaldi af því fari þverpólitískur hópur í að taka ákvarðanir um framvindu og framhald. Því var hafnað. Búið er að bjóða að gildistímanum á málinu verði frestað fram yfir næstu kosningar. Því var líka hafnað. Núna hefur verið lögð fram tillaga af hálfu fulltrúa okkar í nefndinni, tillaga sem ég tel að í raun og veru gangi allt of langt í áttina að ráðherranum. Allt of langt. En það sýnir hversu mikið við erum tilbúin að leggja á okkur til að reyna að skapa frið um þennan málaflokk, þ.e. að þetta verði beinlínis stofnun inni í ráðuneytinu. Hvað vill ráðherrann meira? Það koma engar málamiðlunartillögur frá honum. Ráðherra málaflokksins er svo ábyrgðarlaus gagnvart málaflokknum að hann vill frekar vera í stríði með málaflokkinn, sprengja upp alla sátt, en að hlýða á tillögur sem við höfum lagt fram. Hvað á þetta að þýða? Hvers vegna? Er það þessi ofboðslega djúpstæða andúð á flokkunum sem tilheyra minni hlutanum og fyrrverandi ríkisstjórn að hann getur bara ekki hugsað sér að eiga samstarf við okkur á einu einasta málasviði? Ekki einu sinni þróunarsamvinnu. Ja, lítill er sá maður sem ekki er tilbúinn til að eiga samtal við okkur um þær tillögur sem við höfum lagt hér fram. Og megi ráðherrann eiga skömm fyrir þetta. Fullkomna.

Ég verð að segja eins og er, virðulegi forseti, að maður sem er í ráðherrastóli sem hefur ekki áhuga á að ræða við fólk um sjónarmið þeirra í málaflokki sem hann fer fyrir og hvað þá eiga samtal um tillögur sem ganga langt til móts við hann þó að við höfum aðrar hugmyndir, hann er ekki starfi sínu vaxinn. Hann er bara, virðulegi forseti, fyrst og fremst í starfi sínu til þess að kynda ófriðarbál. Það er ekki það besta sem gert er fyrir þennan málaflokk. Framganga ráðherrans í málinu hefur gengið algerlega fram af mér. Svo koma menn hingað upp og reyna að halda því fram að málið sé léttvægt, skipti ekki máli og við séum hér öll að elta dellu einhvers eins þingmanns. Það er bara ekki þannig. Það eru margir hér í salnum sem hafa verið að reyna að koma því á framfæri að þeim stendur ekki á sama um málaflokkinn og eru búnir að biðja fallega en líka ákveðið þegar ekki hefur verið á þá hlustað um áheyrn ráðherrans um málaflokkinn. Hvort hann sé tilbúinn að setjast niður og ræða hann. Nei. Það kemur ekki til greina. Og með þennan stóra meiri hluta á þingi sem ráðherrann hefur er hann að beita ofbeldi í málinu. Eftir því verður munað.

Virðulegi forseti. Ég er alveg ótrúlega leið yfir því á hvaða vegferð ráðherrann er með málaflokkinn. Ekki bara eru menn búnir að taka ákvörðun um að halda okkur niðri þegar kemur að framlögum til þróunarmála, nei, núna á að taka þessa faglegu stofnun þar sem safnast hefur saman mikil þekking þeirra fáu einstaklinga sem hana hafa hér á landi og grauta henni inn í verkefni ráðuneytisins. Hann hefur ekki kynnt eina einustu stefnu eða farið yfir það með hvaða hætti það verði gert og hvernig þetta fagsvið verði varið fyrir pólitískum duttlungum hvers tíma. Ekki treysti ég ráðherranum eftir þessa umræðu og eftir það hvernig málið hefur farið hér í gegn til að vera faglegur á þessu sviði. Það geri ég ekki. Menn sem eru ekki einu sinni tilbúnir að ræða einhvers konar málamiðlun um þróunarsamvinnu, hvers konar menn eru það?

Það fýkur í mann yfir þessu. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem menn koma svona fram. Þegar einhver gagnrýnir það sem þeir gera, þessi stjórnarmeirihluti með 38 þingmenn, fær hann á sig stimpil. Þá er settur einhver svona stimpill á hann. Þessi er bara í einhverjum leiðindum. Já, já, þau eru búin að vera að tala um fjárlögin af því að það er einn maður í stjórnarandstöðunni sem vill þróunarsamvinnuna út og er búinn að tala hin til. Auðvitað er þetta ekki svona. Þetta er hugsjónamál okkar. Þarna kristallast líka hugmyndafræðilegur ágreiningur þessara tveggja pólitísku arma, vinstri og hægri. Okkur er ekki sama. En ykkur er sama. Þess vegna hafið þið keyrt málaflokkinn út í þennan skurð.



[16:18]
Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þarf auðvitað ekki að taka það fram að ég tek undir hvert orð flokkssystur minnar hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur í þessu máli. Hún hefur ráðherrareynslu eins og ég hafði í þrjú ár og við þurftum á erfiðleikatímum að grípa til ýmissa ráðstafana, skera niður. Sá sem hér stendur fór í að sameina stofnanir og gerði það á mjög faglegan hátt þar sem myndaðir voru vinnuhópar og farið í gegnum málin. Mikil vinna og samstarf var við starfsmenn sem meðal annars var kvartað mjög mikið yfir við sameiningu Hafrannsóknastofnunar og Veiðimálastofnunar.

Þá er spurning mín þessi til hv. þingmanns: Kveður hér ekki við algerlega nýjan tón? Hér virðist ekki vera neitt atriði að gera þetta í samvinnu og sátt við starfsmenn. Hér er göslast áfram. Í raun og veru fara menn um eins og naut í flagi, samanber hið dæmalausa minnisblað ríkisstjórnarinnar frá því í febrúar síðastliðnum þar sem ríkisstjórnin tók þá ákvörðun að við sameiningu lítilla og meðalstórra stofnana, og reyndar kannski allra, ætti vinnureglan að vera sú að segja upp öllum starfsmönnum.

Getur verið að við það að gera þetta þannig kunni að koma til meiri biðlaunaréttur og freisting til þess til að fara þá leið sem ég hef mjög verið að gagnrýna, leið utanríkisráðherra, að þá verði til aukinn kostnaður? Fram kom í svari við fyrirspurn hv. þm. Katrínar Jakobsdóttur til allra ráðherra að kostnaður við skýrslugerð við vinnu eins manns í skýrslugerðinni var 9 millj. kr. Á fundi nefndarinnar spurði ég út í frekari kostnað og þar kom fram að alls konar aukakostnaður eins og ferðakostnaður og fleira væri um 1,7 millj. kr. þannig að heildarkostnaður var tæpar 11 millj. kr. (Forseti hringir.) við þessa skýrslugerð. Er ekki örugglega aukakostnaður þarna inni sem ekki er rætt um, sem mundi falla til vegna þessa?



[16:20]
Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú. Það er ég algerlega sannfærð um. En talandi um kostnað er annað sem ég er að átta mig á í þessari umræðu. Hv. þm. Jón Gunnarsson kom hér upp í dag undir liðnum um fundarstjórn forseta og sagði eitthvað á þá leið að af þessum breytingum ætti að hljótast mikið hagræði og hagræðing. Ráðherrann hefur hins vegar haldið því fram að svo verði ekki. Það verði engin breyting, þetta sé svo agalega lítið mál. En samt virðist málið hafa verið selt þingmönnum stjórnarflokkanna þannig að út úr þessu eigi að koma einhver hagræðing. Það er einhvern veginn verið að draga fólk á asnaeyrunum með einhverjum upplýsingum sem henta hverju sinni. Einn fær að vita að þetta sé hagræðing til að hann styðji málið, öðrum er sagt til að reyna að friðþægja hann að að þessu verði engin hagræðing, þarna sé bara verið að flytja verkefni úr stofnun inn í ráðuneyti. En ekkert af þessu liggur fyrir. Það mun kosta fé að flytja stofnun inn í ráðuneyti. Að sjálfsögðu. Sá kostnaður kemur úr mörgum áttum.

Það eru mjög misvísandi upplýsingar í þessu máli sem gera mig tortryggna gagnvart tilganginum. Kannski hafa menn bara engan áhuga á þróunarsamvinnu og sjá þarna einhverja leið til þess að friðþægja hagræðingarhópinn því að hann hefur ekki fengið neinar af sínum tillögum í gegn, en nú skuli hæstv. ráðherra Gunnar Bragi taka eitthvert eitt verkefni af listanum og láta af því verða. Ég held að það sé meira þannig. Svo mun það grautast saman við önnur verkefni í ráðuneytinu og sú þróunarsamvinna sem Þróunarsamvinnustofnun hefur verið að vinna til dagsins í dag og er alþjóðlega viðurkennd mun hverfa eins og hún er. Því hef ég áhyggjur af.

Virðulegi forseti. Hvað mundu menn segja ef svona skýrt afmarkað fagsvið eins og þetta, t.d. vegagerð (Forseti hringir.) yrði nú tekið inn í innanríkisráðuneytið?



[16:22]
Forseti (Þorsteinn Sæmundsson):

Forseti beinir því til hv. þingmanns að nefna aðra hv. þingmenn og hæstv. ráðherra með fullu nafni.



[16:22]
Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já. Hér kemur fram í máli hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur, fyrrverandi ráðherra í ríkisstjórn Íslands, staðfesting á því sem ég hef haldið fram, að þarna er ýmis dulbúinn kostnaður, falinn, allt að því leyndur, bara út af slugsvinnubrögðum. Hann er ekki metinn, sennilega til þess að fá fleiri til liðs við málið. En í nefndarvinnu koma hlutirnir fram. Því verður ekki móti mælt að við þessa leið kann að vakna biðlaunaréttur, jafnvel þannig að starfsmenn taki ekki störf. Þá getur hann orðið meiri. Það er svolítið misjafnt eftir því hvenær starfsmenn eru ráðnir og við hvaða lög er miðað og í hvaða stéttarfélagi viðkomandi er. Því til staðfestu vil ég taka dæmi sem kemur af því að hæstv. forsætisráðherra hefur sennilega fyrir augunum á sér alla daga þegar hann gengur út úr Stjórnarráðinu gamlan hafnargarð frá 1928 sem reistur var hér í Reykjavíkurborg. Forsætisráðherra, sem er mjög annt um gamla hluti, Ísland allt, beitti sér fyrir því að þessi garður yrði friðaður. Ég tek undir það að það á að sjálfsögðu ekki að skemma svona hluti. Þarna er verið að byggja hótel og spurning er hvort ekki hefði mátt breyta teikningum og hafa garðinn inni á reitnum.

En nú er komið fram samkvæmt frétt á Vísi að kostnaður við að færa hafnargarðana er um 500 millj. kr., segi og skrifa 500 millj. kr. Minjastofnun er að vinna, í samvinnu við verktakafyrirtæki og verkfræðistofur, við að flytja þessa garða, og talið er að búið verði að flytja hafnargarðinn innan eins mánaðar, stein fyrir stein. (Forseti hringir.) Það verður nú engin söfnun á Karolina Fund eða eitthvað svoleiðis fyrir þessum 500 millj. kr. Minjastofnun segir beinlínis: Við munum sækja það til ríkisins, til forsætisráðherra, (Forseti hringir.) að fá þessar 500 millj. kr. fyrir að flytja garðinn í geymslu og setja svo upp aftur. (Forseti hringir.) Er þetta ekki táknrænt dæmi fyrir slugsvinnubrögð?



[16:25]
Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo sannarlega og það verður tekið eftir þeim minnisvarða sem þar verður reistur í næstu fjárlögum. Hv. þingmaður dregur fram að vinnubrögðin í þessu máli og öðrum eru með þeim hætti að menn vanda sig ekki. Það er bara búið að taka ákvörðun og bíta eitthvað í sig og þá gera menn það sama hvað það kostar. Mönnum er sama þótt þeir rjúfi frið um mikilvæga málaflokka og mönnum er sama um kostnaðinn. Það er bara einhver reikningur sem þeir fá þá í hausinn síðar. Mönnum er líka algerlega sama um þá starfsemi sem þeir gera breytingar á, bara ef þeir fá sínu framgengt. Þessir 38 þingmenn í stjórnarmeirihlutanum vaða í villu. Þeir koma hér upp hver með sínar upplýsingarnar um það af hverju þeir styðja þetta mál. Einn segir að það sé svo fín hagræðing að þessu, annar kemur upp og segir: Starfsemin verður óbreytt, það verður engin hagræðing að þessu, hvers vegna hafið þið þá áhyggjur af þróunarsamvinnu? Eftir stöndum við hin sem er alls ekki sama um þennan málaflokk og erum með rosalegar áhyggjur af því í hvaða höndum þessi málaflokkur er.

Það hefur verið hlegið að því hér þegar ég hef líkt Vegagerðinni og Þróunarsamvinnustofnun saman. Fyrir mér eru það jafn mikilvægar stofnanir. Þær eru jafn settar. Þetta er algerlega sambærilegt því að báðar sinna gríðarlega sérhæfðum verkefnum þar sem safna þarf saman þekkingu, þar sem þekkingin er ekki hjá mörgum. Það þarf að safna henni saman og það er mjög dýrmætt að halda í hana. Ég held að menn mundu nú segja eitthvað ef ákvörðun (Forseti hringir.) væri tekin um að taka Vegagerðina og grauta henni inn í starfsemi innanríkisráðuneytisins. Alveg eins líður mér gagnvart þessu máli.



[16:28]
Frsm. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Nú þegar segja má að þessi umræða sé að komast á flug og menn séu að tala sig heita þá er rétt að fara yfir meginatriði þessa máls. Þau eru þessi: Við erum stödd í 3. umr. og öll þessi umræða hefur snúist um eitt, hún hefur snúist um þá tillögu sem stjórnarandstaðan hefur sameiginlega lagt fram um sættir í þessu máli.

Þróunarsamvinna er viðkvæmur og flókinn málaflokkur. Viðkvæmur, segi ég, af því að við vitum að deilt er um þróunarsamvinnu, ekki bara í þinginu, heldur eru margir sem telja að hún sé hugsanlega ekki það þarfasta sem Íslendingar eyði fjármunum í. Við höfum hins vegar litið svo á að okkur sem ríkri þjóð — ein auðugasta þjóð í heimi, næstríkasta þjóð í Evrópu miðað við nýjar upplýsingar — beri siðferðisleg skylda til að reiða af höndum fram miðað við efni og okkar efni eru mikil. Nú blasir við að eftir að fjórar ríkisstjórnir hafa sameiginlega unnið að því að greiða úr þeim miklu flækjum sem hið ófyrirsjáanlega hrun leiddi yfir þjóðina hefur í fimm ár samfellt verið meiri hagvöxtur á Íslandi en í nokkru öðru ríki Evrópu að jafnaði. Og við þær aðstæður, þegar við erum að sigla nokkuð góðum skriði upp úr efnahagshruninu, er það skylda okkar að standa okkur vel gagnvart þróunarsamvinnu. Það er þess vegna sem það er svo mikilvægt að sátt ríki um þessi mál. Við sjáum það í nálægum löndum, eins og til dæmis á Stóra-Bretlandi, að þar leggja menn sig í líma við að ná sátt um þetta málefni.

Forsætisráðherra Breta, íhaldsmaðurinn David Cameron, sem hér var nýlega í heimsókn, sýndi heldur betur skörungsskap og meiri framsýni og meiri reisn en íslensk stjórnvöld. Í miðri kreppu gaf íhaldsforinginn í Bretlandi í og setti meiri peninga í þróunarsamvinnu en nokkru sinni fyrr. Honum og þeirri ríkisstjórn til hróss segi ég það að einmitt þegar Bretar stóðu hvað höllustum fæti eftir hrunið þá réðust þeir í gríðarlega bólusetningarherferð í Afríku sem að öllum líkindum bjargaði tugum þúsunda barnslífa. Þetta er rétta viðhorfið. Bretar eru fyrir löngu búnir að ná því takmarki sem Sameinuðu þjóðirnar hafa sett þjóðum sínum, að greiða af vergri landsframleiðslu 0,7% í málaflokkinn. Við erum ekki einu sinni hálfdrættingar í því. Við náum ekki einu sinni 1/3 af því sem Bretar ná hvað landsframleiðslu varðar. Undir þessari ríkisstjórn hefur orðið árleg afturför.

Í ár erum við til dæmis að greiða minna, lægra hlutfall, af landsframleiðslu en í fyrra. Í ár er það 0,21% samkvæmt nýbirtum upplýsingum Þróunarsamvinnustofnunar, var í fyrra 0,23%. Hefði átt að vera 0,40% miðað við það sem hæstv. utanríkisráðherra greiddi atkvæði með, þegar utanríkismálanefnd ákvað að framhlaða áætlun sem ég lagði á sínum tíma fyrir þingið. Í dag, miðað við áætlunina sem leiðtogi Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, sagði að hann teldi að væri raunhæf, þegar hann greiddi henni atkvæði sitt árið 2011, ættum við að vera að greiða 4,7 milljörðum meira. Þetta er nauðsynlegt að hafa í huga til að setja hlutina í samhengi.

Við ræðum hér um það hvernig á að halda utan um þá miklu fjármuni sem fara til þróunarsamvinnu. Það skiptir mjög miklu máli að það sé gert með þeim hætti að um það ríki þverpólitísk sátt. Það hefur verið aðall okkar í stjórnarandstöðunni. Það hefur verið hið sama markmið sem hver einasti utanríkisráðherra frá hinum glæsilega leiðtoga Framsóknarflokksins Ólafi Jóhannessyni til þessa ráðherra sem er sá eini sem sker sig úr; allir þeir sem á undan komu hafa verið fullir af vilja og kappi til að halda þverpólitískri sátt. Svo kemur þessi hæstvirti ráðherra með mál sem mætir gríðarlegri andstöðu. Þegar málið dagar uppi á þingi í fyrra hafði hæstv. ráðherra ráðrúm til að hugsa sig um, ráðrúm til að leita eftir samstöðu við stjórnarandstöðuna, skoða málið hugsanlega upp á nýtt og athuga hvort hægt væri að leggja það fram með einhverjum öðrum hætti sem gerði að verkum að líklegra væri að ná þverpólitískri sátt. Það var engin tilraun gerð til þess. Í sjálfu sér er það líka stórskrýtið að eina málið sem hæstv. ráðherra leggur fram sem eitthvað kveður að, gerir það að máli númer eitt, er þetta. Allt hitt eru mál sem varða allt það sem hann varast vildi, þ.e. auknar innleiðingar á ESB-löggjöf, það eru EES-mál. Þetta er mál númer eitt hjá hæstv. ráðherra, sett í forgang og þetta er eina málið sem hann er í reynd að leggja hér fram og telur að marki einhver spor.

Í því ljósi get ég út af fyrir sig vel skilið það að hæstv. ráðherra sé kappsmál að ná því fram vegna þess að öll önnur stórmál hafa lekið niður í höndum hans. Var þetta ekki ráðherrann sem ætlaði að slíta aðildarumsókn að ESB? Hvernig reiddi því máli af? Hver er afstaða ESB sjálfs til þess? Jú, þeir sendu honum fingurinn, storka honum fyrir hvað, minna en tveimur vikum, þegar þeir segja blákalt við blaðamenn að Íslendingar geti hvenær sem þeir vilja, bak næstu kosningum, sótt um eins og ekkert hafi í skorist, haldið áfram, tekið upp umsóknina. Með öðrum orðum hefur ekkert gerst í því máli sem hægt er að segja að hafi kallað fram einhverjar meginbreytingar. Málið er sannarlega á ís, á þeim sama ís og það var lagt á í tíð fyrri ríkisstjórnar. Það hefur ekkert breyst.

Tökum annað mál sem hæstv. ráðherra ætlaði að gera hér að stórmáli líka, það var að halda fram stefnu fyrri ríkisstjórnar sem fyrst ríkisstjórna setti norðurslóðir með formlegum hætti á dagskrá. Hvar eru norðurslóðir í dag? Það heyrir enginn af þeim nema af því að okkar ágæti forseti, Ólafur Ragnar Grímsson, er stöðugt með þau á dagskrá. Forseti lýðveldisins setti á fund mestu ráðstefnu um þau mál sem haldin hefur verið, bauð mörgum þjóðarleiðtogum þar að borðinu. Þegar hann bauð utanríkismálanefnd að sitja þá ráðstefnu og hlýða á setningarræðu sína var það samkvæmt sérstakri skipan hæstv. utanríkisráðherra að framhandleggur hans í nefndinni kom með handrit úr utanríkisráðuneytinu þar sem bókstaflega var fyrirskipað að ljúka máli fyrir tiltekinn tíma. Það var smekkur þeirra sem þar um réðu að setja fundinn, sennilega forseta lýðveldisins til háðungar, á sama tíma og hann hélt ræðu sína. Þetta var framlag Framsóknarflokksins og hæstv. utanríkisráðherra og hv. þm. Silju Daggar Gunnarsdóttur til norðurslóða á þessu kjörtímabili. (Gripið fram í.) Það mál er týnt. En sem betur fer það í góðum höndum forseta lýðveldisins. Svona er mál eftir mál sem hæstv. utanríkisráðherra hugðist í (Gripið fram í.) upphafi kjörtímabilsins bera hér fram, þau eru öll týnd, þau eru gufuð upp.

Hvernig fór með hið bætta samband við Bandaríkin? Var það ekki eitt sem átti líka að gera? Hvernig fór það? Jú, það hafa aldrei verið meiri hótanir af hálfu Bandaríkjamanna gagnvart Íslandi út af hvalveiðum en einmitt núna. Hingað kemur ekki nokkur maður nema einhverjir kontóristar í heimsókn og svo hefur það ekki verið. Muna menn þegar hæstv. ráðherra sagði hér í upphafi að hann ætlaði að sýna allt önnur vinnubrögð og viðmót gagnvart Bandaríkjunum og fann eðlilega að því að fyrri ríkisstjórn tókst ekki að fá nokkurn ráðherra Bandaríkjanna hingað í heimsókn? Hvað hefur gerst síðan? Jú, hann hefur fengið einhverja strompa úr ráðuneytum, en Bandaríkjamenn vilja ekki tala við hæstv. ráðherra. Við þessar aðstæður er það helsta bjargræði og haldreipi hæstv. ráðherra að leggja fram tillögu um að slá af þá stofnun sem sennilega má segja að hafi aukið hróður Íslands í útlöndum mest. Er það verk og hlutverk utanríkisráðherra að slá í einu höggi til jarðar þá stofnun sem mest og best hefur borið hróður Íslands um heila meginálfu? Herra guð, segi ég bara, það eru aldeilis verkin sem liggja eftir þessa ríkisstjórn í utanríkismálum. Ef ekki væri fyrir forseta lýðveldisins þá hygg ég að það mætti segja að hlutur Íslands í utanríkismálum væri ansi léttvægur í dag.

En því segi ég þetta sem var það sem olli því að ég taldi að ástæða væri til að spyrna við fótum þegar varaformaður utanríkismálanefndar, hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir, sýndi hæstv. forseta lýðveldisins þá vanvirðingu að koma í veg fyrir að utanríkismálanefnd gæti sýnt forsetanum þann sóma að vera við setningarræðu hans við einhverja mikilvægustu ráðstefnu sem haldin hefur verið um norðurslóðir hér á landi og sem í reynd bjargaði heiðri Íslands, vegna þess að norðurslóðir eru gleymt hugtak af hálfu ríkisstjórnar Íslands.

Aðeins til að svara því sem sami hv. þingmaður sagði hér áðan, að það hefði verið með vélabrögðum sem við hefðum knúið hana til þess að fá til fundar við okkur þrjá fulltrúa sem höfðu sent inn álit og við höfðum ekki fengið að ræða við. Ég segi það enn og aftur: Hún kallar það vélabrögð, en ég tel að þar hafi ég, með því að notfæra mér rétt í þingsköpum, bjargað þeim tætlum sem eftir voru af heiðri hennar sem varaformanns í nefndinni. Því hefði það ekki gerst hefði það orðið að stórkostlegu máli hér í þingsölum sem hefði dregið langan slóða á eftir sér. Það er mikilvægt að þetta komi fram, herra forseti.

Meginatriði þessarar umræðu hefur verið tillaga okkar um sátt. Hún gengur út á það að í staðinn fyrir að Þróunarsamvinnustofnun sé slegin af verði hún, í anda laga sem samþykkt voru og flutt af hæstv. ríkisstjórn á síðasta vori og tóku gildi í júlí, færð í heilu lagi inn í ráðuneytið og hún verði þar ráðuneytisstofnun í anda þeirra laga eða eins og lýst er í greinargerð með frumvarpinu. Það vill svo til að það var fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins sem lagði grunn að þessu árið 2000 og bókstaflega lýsti tilganginum í því að skapa rými fyrir ráðuneytisstofnun innan íslensks réttar, innan laga um Stjórnarráð Íslands, til að svara aðstæðum eins og þessum. En stjórnsýslulegt flaustur hæstv. ráðherra og eftirtektarleysi á umhverfi sínu, eins það birtist í þessu mál, var slíkt að hæstv. ráðherra vissi bersýnilega ekki að hann sjálfur hafði samþykkt lög sem hann segir að ríkisstjórn hafi lagt fram sem gerði ráð fyrir því að svona vinnubrögð yrðu viðhöfð til þess að svara aðstæðum eins og þessum þegar menn vilja flytja verkefni inn í ráðuneytið. Hæstv. ráðherra virðist einfaldlega ekki hafa vitað af því. Það er vel hægt að fyrirgefa honum það, en það er hins vera erfitt að sjá í gegnum fingur sér við hæstv. ráðherra þegar hann kemur og beinlínis bítur og slær á þær hendur sem eru réttar honum til að reyna að ná sáttum.

Það kom glögglega fram í ræðu og andsvari hæstv. ráðherra hér fyrr í dag að hann hefur ekki einu sinni lesið heima. Hann þekkti hvorki haus né sporð á þeim málum sem við vorum hér að tala um. Hann virtist í fyrsta lagi ekki vita að skýrslan, sem hann sagðist hafa byggt sitt eigið frumvarp á, gerir ráð fyrir fyrirkomulagi af þessu tagi. Það kemur skýrt fram í skýrslu Þóris Guðmundssonar, sem ráðherra segir sjálfur að hann byggi frumvarpið á. Í öðru lagi kom það skýrt fram að hann vissi ekki einu sinni hvað lögin sem við samþykktum hér um Stjórnarráð Íslands í sumar fælu í sér. Í þriðja lagi þá kom það líka fram hjá hæstv. ráðherra að hann hefur svo vélrænt viðhorf til embættismannaveldisins og til laganna að hann skilur ekki að löggjafinn er framkvæmdarvaldinu æðri. Hann hélt því fram að ekki væri hægt að fara þessa leið vegna þess að stjórnarráðslögin gerðu ráð fyrir því að það væri ákvörðun ráðherra. Herra trúr. Er það ekki Alþingi Íslendinga sem ræður því sjálft hvort það gefur hæstv. ráðherra fyrirmæli um að búa til stofnun af þessu tagi innan vébanda ráðuneytisins í anda tiltekinna laga? Eða veit hæstv. ráðherra heldur ekki af þeim möguleika að hægt væri að setja pósitíft ákvæði (Forseti hringir.) inn í lögin um Þróunarsamvinnustofnun, að svona skyldi fyrirkomulag hennar vera — og það eru sérlög sem taka hinum fram.



[16:43]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir ræðuna. Nú finnum við fyrir mjög eindregnum ásetningi hæstv. utanríkisráðherra að keyra þetta mál fram enda þótt fram hafi komið mjög vel rökstudd og víðtæk gagnrýni á frumvarpið af hálfu stjórnarandstöðunnar og í samfélaginu almennt, sem sagt ekki bara hér innan dyra heldur utan dyra einnig.

Ef svo fer sem tölfræðin segir okkur, að það gæti vel hent að þetta frumvarp yrði samþykkt, þá kemur dagur eftir þennan dag. Sér hv. þm. Össur Skarphéðinsson einhvern möguleika eða kost í stöðunni að þessari ákvörðun yrði snúið til baka? Ég geri mér grein fyrir því sem formaður BSRB til margra ára að slíkt er ekki auðvelt. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að þegar ráðist er í kerfisbreytingar er erfitt að vinda ofan af þeim, á nákvæmlega sama hátt og það hefur áhrif á starfsemi stofnunar og líf starfsmanna þegar þær eru teknar upp með rótum og skipulagi breytt, en mig langar til að heyra álit hv. þingmanns á þessu eða vangaveltur hans um möguleika í þessu efni. Hvað gæti morgundagurinn borið í skauti sér að þessu leyti?



[16:45]
Frsm. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það gáfulegasta sem sagt hefur verið í þessari umræðu voru orð hv. þm. Vilhjálms Bjarnasonar sem sagði: Það á ekki að skakast í stofnunum sem hafa staðið sig vel. Hann er eini þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem hefur tekið til máls um málið og hann gagnrýndi það. Ég er sammála því. Það á hvorki að skakast í stofnuninni né í málaflokknum.

Hv. þingmaður orðaði það svo að það væri einbeittur vilji ráðherrans að knýja þetta mál fram. Það kann vel að vera, en þá verða ég að draga hér eina markalínu og hún er þessi: Þetta mál kemur hæstv. ráðherra ekki lengur við. Málið er á forræði þingsins. Það er þingið sem á að ákveða þetta.

Það vill svo til að formaður utanríkismálanefndar, sem nú hefur reyndar hopað af hólmi, er sú okkar allra sem sitjum í þinginu sem hefur haft hæst um það, reyndar síðustu tíu árin, að ný vinnubrögð þurfi í stjórnmálunum. Það er rétt að rifja það hér upp að á afdrifaríkasta degi í stjórnmálaferli hennar gaf hún yfirlýsingu þar sem hún sagðist vilja vinna með fólki, leita sátta og velta upp nýjum kostum. Það hefur komið í ljós að í þeim efnum er heldur ekkert að marka hv. þm. Hönnu Birnu Kristjánsdóttur. Hún hefur varla tekið þátt í umræðum og ekki svarað fyrirspurnum sem til hennar er beint.

Spurningu hv. þingmanns um hvað morgundagurinn ber í skauti sér svara ég með þessum hætti: Ef það fer svo, eins og allt bendir til, að þetta verði samþykkt þá verða menn að sjá hvaða reynsla kemur á málið. Það getur auðvitað ekkert fylgt af okkar hálfu nema góðar óskir í nýjum leiðangri. En ef í ljós kemur að sá kvíðbogi sem við höfum borið fyrir málinu reynist réttur um að þekking glatast, hún þynnist, hún byggist ekki áfram upp eða því sem hefur verið haldið hér fram að málaflokkurinn verði ruslakista fyrir starfsmenn sem eru á millum pósta og ekki hægt að finna neitt starf fyrir — ég veit af fyrri störfum að það kemur fyrir og ég veit hvernig menn hafa gert þetta í ráðuneytinu — þá þurfum við auðvitað að skoða málið aftur (Forseti hringir.) og þá finnst mér einboðið (Forseti hringir.) að við förum sömu leið og Ítalir, hugsum málið (Forseti hringir.) upp á nýtt og komumst að þeirri niðurstöðu að íslenska fyrirkomulagið núverandi er best.



[16:48]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get að mörgu leyti tekið undir það sem fram kom í máli hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar sem þekkir mjög vel til þessa málaflokks, ekki aðeins hefur hann gegnt stöðu utanríkisráðherra og fylgst með þróunarvinnunni frá þeim sjónarhóli heldur hefur hann lengi verið mikill áhugamaður um þetta málefni sem ég held að skýri þann hita sem hefur einkennt málflutning hans. Honum er ekki sama um þetta starf. Honum er ekki sama um þessa stofnun og það ber að virða.

Ég tek einnig undir að það á ekki, eins og hann orðar það og vitnar í þingmann Sjálfstæðisflokksins, að skakast í stofnunum sem hafa staðið sig vel. Það er alveg rétt. Ég er algerlega sammála því. Einhvern tíma var það orðað svo af hálfu Philips Boyers, sem var aðalframkvæmdastjóri heimssambands símamanna og kom hingað til að ræða um einkavæðingu í þeim geira, að það ætti ekki að reyna að gera við það sem ekki væri bilað. Það er náttúrlega vinnureglan sem við eigum að hafa sem útgangspunkt okkar.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég get alveg tekið undir að það er eðlilegt að meta málin í ljósi reynslunnar, en því er ekki lokið. Atkvæðagreiðsla hefur ekki farið fram um málið. Við þekkjum vilja margra innan stjórnarmeirihlutans, sem eru málinu í hjarta sínu ósammála og vilja ekki að það nái fram að ganga. Þar til endanleg atkvæðagreiðsla hefur farið fram um málið skulum við ekki gefa okkur neina niðurstöðu.



[16:50]
Frsm. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er náttúrlega alveg ljóst að þingmenn Framsóknarflokksins eru fullkomlega fjötraðir í þessu máli. Við heyrðum það best á dómadagsræðu hv. þm. Silju Daggar Gunnarsdóttur hér fyrr í dag, sem notaði helming af ræðu sinni til þess að fara í persónulegar árásir. Vitaskuld uppskar hún viðmót af sama toga. Fram að því hafði umræðan verið fullkomlega málefnaleg af minni hálfu, annarra og ekki síst hv. þm. Hönnu Birnu Kristjánsdóttur sem gerði mjög efnislega grein fyrir máli sínu og talaði með allt öðrum hætti en hæstv. ráðherra en þó sérstaklega hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir sem hér í dag hélt áfram skelfilegri píslargöngu sinni í þessu máli. Það er ekki saman að jafna vinnubrögðum hennar, sem voru óskapleg og þinginu til vansæmdar, og vinnubrögðum hv. þm. Hönnu Birnu Kristjánsdóttur sem hélt sig, þegar upp var staðið, við þau lög sem bjóða okkur þingmönnum ákveðinn rétt.

En um það hvernig málið fer þá verður náttúrlega að undirstrika að hér hefur enginn þingmaður Sjálfstæðisflokksins flutt ræðu málinu til stuðnings, ekki einu sinni komið upp í andsvör. Það getur vel verið að hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir sé komin í salinn þeirra erinda að flaðra upp um hæstv. ráðherra fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins í þessu vitlausa máli. Hins vegar verð ég að segja það sjálfstæðismönnum til hróss að þeir hafa ekki einu sinni talað um að málið sé ágætt. Hv. þingmenn eins og Brynjar Níelsson, sem hafa skoðanir á öllum sköpuðum hlutum, hlaupa héðan út eins og hraktir hundar þegar þeir koma í salinn og heyra um hvað er verið að ræða. Þeim liggur við uppsölum út af þessu máli.

Við eigum ekki að hringla í málaflokkum eða stofnunum. Ef við komumst í ríkisstjórn eftir næstu kosningar eigum við ekki að segja núna að við ætlum að breyta þessu aftur vegna þess að við eigum að skoða hvort ótti okkar reynist (Forseti hringir.) réttur. Við skulum vona ekki. Við höfum alla vega rétt hér fram sáttarhönd sem hefur ekki bara (Forseti hringir.) verið slegið á heldur beinlínis bitið (Forseti hringir.) í af hálfu stjórnarliðsins.



[16:52]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Þetta er að mörgu leyti búin að vera athyglisverð umræða. Mig langar til að víkja að einum þætti sem fram kom í máli hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar varðandi viðveru ráðherra og þingmanna í þeirri nefnd sem fjallar um málið. Það er alveg rétt sem hann segir að eftir að mál er komið inn til þingsins þá er það á forræði þingsins og á forræði þeirrar nefndar sem um málið fjallar. Auðvitað eigum við að horfa til þess fyrst og fremst að formenn nefnda og nefndarmenn séu viðstaddir og síðan aðrir eftir atvikum sem vilja taka þátt í umræðunni. Hins vegar og ég vék að því aðeins í umræðunni um fjárlögin skiptir líka máli að hafa ráðherra til staðar einfaldlega vegna þess að þeir eru upphaflegir ábyrgðarmenn mála. Þeir þekkja markmiðin, þeir þekkja umgjörðina um smíði málanna og á endanum eru það þeir sem koma að allri málamiðlunarvinnu. Þannig er samspilið á milli framkvæmdarvaldsins og þingsins. Þess vegna þótti mér góður bragur á því þegar hæstv. menntamálaráðherra kom hingað til þingsins á lokastigum fjárlagumræðunnar að okkar ósk til þess að við fengjum sýn hans á það sem undir ráðuneyti hans heyrði. Þá var það náttúrlega fyrst og fremst eins og við þekkjum öll Ríkisútvarpið sem kom þar til álita.

Að sama skapi þótti mér gott að sjá til þess að hæstv. utanríkisráðherra var hér og er í húsinu og hefur fylgst með þessari umræðu. Ég verð að viðurkenna að ég las það úr andlitssvip hans að hann þurfti talsvert á sig að leggja til að vera við umræðuna og hlýða á það sem gagnrýnendur frumvarps hans höfðu fram að færa. En ég hygg að það hefði verið gott ráð hjá honum að koma til umræðunnar á fyrri stigum. Þetta mál á sér langan aðdraganda í þinginu. Það hefur áður komið fram og umræðan hefur verið löng og það sem má læra af umræðunni er að hún hefur einkennst af vaxandi þunga. Sífellt fleiri hafa komið til umræðunnar með sín sjónarmið og það hefur mátt merkja á henni að það er vaxandi sannfæring fyrir því að málið sé ekki þess eðlis að við eigum að hrapa að því að afgreiða það. Það stendur enn af minni hálfu að svo er.

Mig langar þessu næst að fara aðeins inn á mikilvægi stofnanabreytinga af þessu tagi og þá með hvaða hætti eigi að bera sig að við þær. Í grófum dráttum eru tvær línur uppi. Annars vegar er sú hugsun að hlutverk Alþingis eigi fyrst og fremst að vera almenn stefnumótun. Síðan eigi það að vera framkvæmdarvaldsins að sjá um hvernig þeirri stefnu er komið í framkvæmd innan þess ramma sem fjárveitingavaldið ákveður, stofnanaleg umgjörð eigi ekki að skipta máli. Þetta hefur iðulega verið notað af hálfu þeirra sem hafa viljað einkavæða opinbera þjónustu. Þeir hafa sagt: Það sem skiptir þegnana máli er tvennt, það sem tekið er upp úr þeirra vösum inn í skatthirslurnar, hvernig farið er að því og svo hins vegar að peningarnir nýtist í samræmi við það sem Alþingi ákveður, við þá stefnu sem mótuð er af Alþingi. Þetta er annar þráðurinn. Síðan er það hinn þráðurinn sem segir: Stofnanalegt umhverfi getur skipt máli. Það er ekki hægt að alhæfa um það, alls ekki. Það skiptir máli hvernig stofnanir eru gerðar að umgjörð utan um samkeppni eða samvinnu eftir atvikum.

Við höfum fengið núna upp á okkar borð hugmyndir hæstv. heilbrigðisráðherra um að peningar eigi að fylgja sjúklingi. Þetta er mantra frá Milton Friedman og nýfrjálshyggjunni sem er að reyna að taka skipulagsvaldið frá samfélaginu og færa það yfir til markaðshyggjunnar. Hæstv. heilbrigðisráðherra hefur talað fyrir þessu. Nú erum við að sjá fyrstu merki þess að hann er að byrja að skipuleggja heilbrigðiskerfið með þá hugsun í huga. Þarna skiptir miklu máli hvaða fyrirkomulag við höfum á þeim stofnunum sem eiga að ná fram þeim markmiðum sem löggjafinn setur og síðan fjárveitingavaldið.

Í anda fyrri hugsunarinnar eru breytingar sem voru gerðar á stjórnarráðslögunum síðastliðið vor í kjölfar deilna um Fiskistofu eins og við munum. Eftir þær breytingar sem gerðar voru á lagabálknum er núna kveðið á um það í 6. gr. laganna að heimilt sé að setja á fót sérstakar starfseiningar og ráðuneytisstofnanir sem eru starfræktar sem hluti af ráðuneyti. Nú vitna ég í 6. gr., með leyfi forseta:

„Slíkum starfseiningum stýrir embættismaður, í skilningi laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, undir yfirstjórn ráðuneytisstjóra.“

Ég lagðist algerlega gegn þessu þótt ég telji að það eigi að vera mikill sveigjanleiki í hinu opinbera kerfi og því kerfi eigi stöðugt að vera hægt að breyta og laga að breyttum þörfum og óskum og viðhorfum sem uppi eru, það á stöðugt að vera hægt. Þegar gerðar eru hins vegar breytingar á stofnanaveldinu eða stofnanakerfinu sem hafa áhrif á starfsemina þá á það að koma inn til Alþingis sem sníður þennan stakk. Þar er kominn samanburðurinn sem ég var að taka upp með heilbrigðisþjónustuna. Þar skiptir stofnanaþátturinn skiptir máli um sjálfa framkvæmd stefnunnar. Þessu hafa menn haldið fram í tengslum við þetta frumvarp um Þróunarsamvinnustofnun. Menn telja að það skipti máli hvaða háttur er hafður á í þessu efni, hvort um er að ræða afmarkaða stofnun sem sinnir hlutverkinu eða hvort hún er hluti af ráðuneyti til að mynda. Ég held að þetta geti skipt máli. Menn hafa verið að taka það upp hér líka í þessari umræðu að við erum með veigamikla starfsemi eins og Vegagerðina sem starfar sjálfstætt samkvæmt samgönguáætlun, samkvæmt fyrirmælum sem Alþingi og framkvæmdarvaldið setur að öðru leyti, en hún er aðgreind og sjálfstæð.

Mig langar til að víkja að einum þætti sem ég held að skipti máli í stofnanalegu tilliti. Ég hef reyndar gert það áður. Þegar landbúnaðarráðuneytið var fært inn í atvinnuvegaráðuneytið á sínum tíma þá held ég að flestir hafi séð skynsemina í því. Það er skynsamlegt að vera með stjórnsýslu atvinnunnar almennt undir sama þaki, undir sömu regnhlíf, að vera þar með sjávarútveginn, vera þar með landbúnaðinn og jafnvel með iðnaðinn, hafa það allt undir einni regnhlíf. Það er að mörgu leyti skynsamlegt. En að öðru leyti ekki. Að hvaða leyti gæti það verið vanhugsað? Jú, það verður nefnilega eðlisbreyting þegar lagt er niður nokkuð sem heitir landbúnaðarráðuneyti. Landbúnaðarráðuneytið hefur bara eitt hlutverk, það er að vera stjórnsýsluleg umgjörð utan um landbúnaðinn í landinu. Það er ákveðin viðurkenning á landbúnaðinum sem mikilvægs hluta af efnahagslífi okkar að hafa utan um hann tiltekið ráðuneyti sem hugsar síðan um ekkert annað en hann. Mér finnst þetta vera þáttur sem er alveg þess virði að hugleiða, vegna þess að þetta tengist umræðuefni okkar hér sem er Þróunarsamvinnustofnun. Það er stofnun sem hefur bara þetta tiltekna hlutverk, að sinna þróunarvinnu, ekki allri heldur að hluta til, og hún á ekki að hugsa um neitt annað en það. Í því er fólgið nokkuð sem Bretar kalla „commitment“, þ.e. að menn hafa ákveðna skuldbindingu og þetta einkennir síðan allt starfið vegna þess að þetta er eina markmiðið. Það kynni hins vegar að breytast þegar komið er með starfsemina inn í annað ráðuneyti.

Hæstv. forseti. Nú líður að því að tími minn renni út, en ég hefði haldið að stjórnarmeirihlutinn gæti farið að þeirri ósk sem fram hefur komið við þessa umræðu af hálfu þeirra sem þekkja til starfs sem fer fram t.d. á vegum OECD um skipulag í þessum efnum og beðið eftir hvað kemur út úr athugunum þeirra. Það hefur komið fram í umræðunni að nokkuð sem heitir DAC-nefnd, það er nefnd sem starfar á vegum OECD, er að gera úttekt á starfsemi í ýmsum ríkjum sem er sambærileg við það sem við erum að fjalla um núna. Eftir því sem ég skil málið þá á þessi úttekt að fara fram á komandi ári, árinu 2016, og liggja fyrir eftir það. Við höfum fengið ábendingar um það í þessari umræðu að margir horfi til þess fyrirkomulags sem við höfum á Íslandi sem eftirsóknarverðs. Ég man ekki betur en það væri vísað til Ítalíu í þeim efnum, að Ítalir væru að horfa til okkar fyrirkomulags. Ef það er nú þannig að þetta er ekki mál sem liggur lífsins á að fá í gegn — það eru engar slíkar stórvægilegar breytingar sem það hefði til bóta, þetta á t.d. ekki að spara peninga, svo dæmi sé tekið — og ef það er engin hætta á ferðum að bíða og ef það er svo í annan stað að mikil gagnrýni er á málið innan sem utan Alþingis og ef það er verið að vinna þessa samanburðarvinnu erlendis, væri þá ekki gott ráð að hinkra við og bíða og kanna hvað kemur út úr þeim viðræðum?

Annar kostur væri sá að gefa sér tiltekinn tíma, að við gæfum okkur einhverja mánuði, segjum fyrir þinglok, og reyna að ná sáttum, þverpólitískri sátt um þetta mál innan veggja þingsins. Það hefur vissulega komið til kasta utanríkismálanefndar og segja má sem svo að þar sé verkefnið að komast að niðurstöðu og leita eftir þverpólitískri samstöðu um hugsanlega sátt í málinu. En ég hef það á tilfinningunni að það hafi ekki verið í boði nokkru sinni. Mér hefur fundist þetta vera ansi mikið stál í stál. Það má hugsanlega gagnrýna okkur í stjórnarandstöðunni fyrir að hafa uppi svipuð sjónarmið, svipaða læsta stöðu í málinu. En þó hefur örlað á því undir lok þessarar umræðu eða á seinni stigum hennar að stjórnarandstaðan hefur verið að tefla fram ýmsum hugmyndum, ýmsum millileiðum í þessu efni.

Ég vil nota þessar fáu sekúndur sem eftir eru til þess að hvetja hæstv. utanríkisráðherra, hvetja hæstv. utanríkismálanefnd og verkstjórann þar á bæ að íhuga það tilboð sem hefur komið fram af hálfu stjórnarandstöðunnar um að við reynum að ná þverpólitískri sátt í máli sem á engan hátt getur kallast flokkspólitískt. Hér hafa menn mismunandi skoðanir og mismunandi viðhorf þvert á stjórnmálaflokka. Það eru engar skýrar línur í þeim efnum þegar kemur að stjórn og stjórnarandstöðu. Það sem hins vegar hefur gerst er að málinu hefur verið teflt inn í þann farveg. Það tel ég ekki hafa verið hyggilegt.



[17:07]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég hef orðið fyrir miklum vonbrigðum með að hæstv. utanríkisráðherra hafi ekki léð máls á því að koma á nokkurn hátt til móts við eða viljað taka til greina þær tillögur sem minni hluti hv. utanríkismálanefndar hefur lagt fram við 3. umr. Hæstv. ráðherra virðist vera algjörlega sama um að djúpstæð gjá sé á milli meiri hluta og minni hluta á Alþingi. Miðað við þátttökuna í þessari umræðu og þann fjölda sem hefur verið í þingsal af hálfu stjórnarmeirihlutans þá hef ég því miður ekki mikla von um að áhugi sé á því að samþykkja þá sáttatillögu sem minni hlutinn í hv. utanríkismálanefnd hefur lagt fram, sáttatillögu sem gengur mjög langt í þá átt að teygja sig að vilja ráðherrans og teygir sig reyndar svo langt að mörgum okkar finnst það nálega erfitt en við vorum engu að síður tilbúin til þess að setja nafn okkar við vegna þess að við teljum málaflokkinn svo mikilvægan að okkar ýtrustu kröfur séu ekki aðalatriðið heldur að gera málaumbúnaðinn sem allra bestan miðað við það að uppi séu gríðarlega ólík sjónarmið.

Ég fæ ekki betur séð en að það verði skilið við þetta mikilvæga mál í miklu ósætti á milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Það finnst mér gríðarlega dapurlegt því að þróunarsamvinna er verkefni sem mun því miður bara verða mikilvægara, að því er ég tel, á komandi árum. Þess vegna þurfum við að hafa þetta í sem allra bestu horfum.

Hæstv. forseti. Ég vil því aftur lýsa yfir vonbrigðum mínum með það hvernig umræðan hefur farið hér í dag. Það er náttúrlega smávon eftir þegar kemur að atkvæðagreiðslunni, en ég hef ekki nógu góða tilfinningu fyrir því hvernig hún fer. Það finnst mér miður.



[17:11]
Frsm. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég trúi á hið góða í manninum. Hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir spurði mig snemma í þessari umræðu í vetur hvort ég teldi einhvern möguleika á því að fyrir hæstv. ráðherra vekti, með þessari breytingu, að nota hugsanlega þá miklu fjármuni sem er að finna innan þróunarsamvinnugeirans til að koma fram öðrum hagsmunum Íslands. Þá svaraði ég henni að ég teldi að ekkert slíkt vekti fyrir hæstv. ráðherra. Það væri enginn möguleiki á því að það væri eitt af því sem að baki lægi. Hv. þingmaður spurði mig þá hvort ekki væru dæmi um það að nábýli þróunarsamvinnu og annarra pólitískra þátta í einu og sama ráðuneytinu hefði haft óheppileg áhrif. Ég svaraði því til að vissulega þekkti ég dæmi þess og vísaði reyndar til þeirra fyrir talsvert löngu síðan í öðrum löndum en taldi að þetta væri praxís sem væri búið að leggja af.

Ég fór hins vegar heim til mín og rannsakaði málið og kannaði betur og kom aftur síðar í umræðunni og sagði við hv. þingmann að hugsanlega hefði ég haft rangt fyrir mér. Ég benti á nýlegt dæmi sem var Holland þar sem þróunarsamvinna og utanríkisviðskipti voru fyrir fimm árum sett í sama ráðuneyti. Það er alveg klárt að það hafði veruleg áhrif þegar fram í sótti og var nýlega gagnrýnt mjög harkalega í skýrslu.

Því nefni ég þetta hér að mig rak í rogastans þegar hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir sagði í ræðu sinni í dag að eitt af markmiðum með þessari breytingu væri að samhæfa þróunarsamvinnu við önnur verkefni. Ég spurði þá hv. þingmann: (Forseti hringir.) Hvað þýðir það? Ég fékk engin svör. (Forseti hringir.) Kynnu grunsemdir hv. þm. Steinunnar Þóru Árnadóttur að vera (Forseti hringir.) réttar þegar upp er staðið?



[17:14]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vona svo sannarlega að ég hafi ekki rétt fyrir mér í þessu máli. Ég vona svo sannarlega að það liggi enginn hvati nokkurs staðar til þess að haga utanríkispólitíkinni með þeim hætti að viðskiptahagsmunir okkar Íslendinga fari að vega þyngra en hagsmunir fátækra þjóða. En ég tel aukna hætta á því með því að flytja málaflokkinn inn í ráðuneytið þar sem utanríkismál eru að öðru leyti. Það verður þar með styttra á milli málaflokka. Eins og ég hef nokkrum sinnum bent á í umræðunni þá gerir millifyrirsögnin í athugasemdunum með sjálfu frumvarpinu mig sérstaklega órólega yfir þessu þar sem hreinlega stendur, með leyfi forseta:

„Sterkari tengsl milli þróunarsamvinnu og annarra utanríkismála.“

Mér finnst þetta gefa ádrátt um að eitthvað meira liggi undir. Það kom skýrt fram hjá þeim sérfræðingum sem komu fyrir hv. utanríkismálanefnd að þessu tvennu mætti alls ekki blanda saman, þróunarsamvinnu þyrfti alltaf að framkvæma á forsendum fátæka ríkisins. Þannig vil ég hafa það. Þannig tel ég að það eigi að vera. Ég er hrædd um að Íslands sé mögulega að færast inn á grátt og vont svæði.



[17:16]
Frsm. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hvað vakir þá fyrir hv. þingmanni sem lét þessi orð falla? Hvað þýðir að samhæfa eigi þróunarsamvinnu við önnur verkefni ráðuneytisins? Kannski gæti hv. þm. Karl Garðarsson upplýst okkur um það? Hann á líka sæti í utanríkismálanefnd og er mikill sérfræðingur um margt sem lýtur að utanríkismálum eins og ég þekki mjög vel af góðu samstarfi við hv. þingmann. Ég held að það þurfi að skýra þetta. Ég hef spurt eftir þessu hér í dag. Engin svör hafa komið.

Herra forseti. Það er auðvitað orðið mjög framorðið í þessu máli. Í dag hafa komið fram nýjar upplýsingar af hálfu bæði hæstv. ráðherra og hv. þingmanns sem ég nefndi hér áðan, Silju Daggar Gunnarsdóttur, sem mér finnst að þurfi að skoða áður en við lokum málinu. Hæstv. ráðherra sagði hér í dag að það væri tóm vitleysa að það hefðu engar skýringar komið fram í þessari umræðu um tvíverknað milli Þróunarsamvinnustofnunar og utanríkisráðuneytisins. Síðan þuldi hann upp mörg tilefni sem ég hafði aldrei heyrt. Ég hef setið flesta fundi og alla framan af, sem um þetta mál hafa fjallað. Ég hef spurt hæstv. ráðherra mjög oft um þessi mál og það hafa engin svör komið. Þetta er óupplýst. Að vísu sagði hv. ráðherra að það væri tvöfaldur gagnagrunnur. Ég veit ekki hvaða gagnagrunnur það er sem er svo stór að vöxtum að hann kosti stórkostlegt fé og fokdýra fjármálastjórn.

Gott og vel. Ef hæstv. ráðherra telur að þetta sé eitthvað sem þarf að vinda bug að þá liggur fyrir þinginu sáttatillaga sem kemur í veg fyrir þennan möguleika. Þó að það sé framorðið, herra forseti, ætla ég samt að spyrja hæstv. ráðherra, ég veit að það er fjandans frekja af mér, hvort hann telur ekki algjörlega nauðsynlegt að þessari umræðu verði frestað og málið skoðað í nefndinni (Forseti hringir.) áður en við göngum til atkvæða. Við þurfum að vita hvað við erum að greiða atkvæði um og (Forseti hringir.) hér hafa komið fram nýjar upplýsingar.



[17:18]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get því miður ekki svarað því hvað vakti fyrir hv. þm. Silju Dögg Gunnarsdóttur eða hvernig túlka beri orð hennar í umræðunni fyrr í dag. Þau eru vissulega umhugsunarverð og bæta óþægilegum þætti í þessa umræðu, að því er mér finnst.

Mér er minnisstætt þegar hæstv. forsætisráðherra talaði, líklega fyrir einhverjum missirum, um sóknarfærin fyrir Ísland sem væru fólgin í bráðnun íss og hlýnun jarðar og átti þá líklega við siglingar um norðurhvel jarðar. Ég ætla rétt að vona að Framsóknarflokkurinn og hæstv. utanríkisráðherra ætli ekki að fara að líta til sóknarfæra fyrir Ísland þegar kemur að þróunarsamvinnumálunum og nota þau sem einhvers konar sóknarfæri hvort sem er fyrir íslenska framleiðslu, íslenskan iðnað eða íslenskt hyggjuvit sem getur vissulega verið gott að kynna erlendis en það verður þó alltaf að gera það vegna þess að beðið var um það að frumkvæði ríkisins sem á að taka við því en ekki þannig að við séum að troða hagsmunum okkar sem ríkrar þjóðar upp á aðra og fátækari þjóð.



[17:21]
Frsm. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir sagði að hún hefði ekki hugmynd um það hvað stallsystir okkar, hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir, hefði átt við þegar hún sagði að eitt af markmiðunum með því að breyta Þróunarsamvinnustofnun með þessum hætti væri að samhæfa verkefni í þróunarsamvinnu við önnur verkefni utanríkisráðuneytisins. Ef enginn getur svarað því, er þá ekki nærtækast að hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir svari því sjálf? Jú, ég hef hér fyrr í dag mörgum sinnum innt hana eftir því hvað þetta þýði. Ég tel nauðsynlegt að það komi fram hvað átt er við. Það getur ekki verið flókið mál að útskýra þetta, hæstv. ráðherra hefur sannarlega sagt, mörgum sinnum held ég, fyrr í þessari umræðu að hér sé ekki átt við að það verði einhvers konar nábýli og mengun milli utanríkisviðskipta og þróunarsamvinnu. Ég hef sagt við þingmenn sem hafa rætt þetta mál við mig yfir ræðupúltið að ég hef ekki nokkra trú á því að slíkt vaki fyrir hæstv. ráðherra, en það vill svo til að hér hafa talað þingmenn í dag sem kalla sjálfa sig hina nýju vendi Framsóknarflokksins, töluðu um sjálfa sig sem nýtt fólk. Sannarlega getum við hæstv. utanríkisráðherra ekki endilega fellt okkur í þann flokk. Enginn veit hversu löng ævi okkar á þinginu verður þannig að það er hugsanlegt að nýtt fólk komi í stað okkar, maður í manns stað, og að einhver annar taki við af hæstv. utanríkisráðherra, hugsanlega einhver af þeim sem sitja í utanríkismálanefnd. Þarf þá ekki að liggja fyrir hvað það er sem þau eiga við með þessu? Í mínum huga er um lykilatriði að ræða.

Herra forseti. Ég hef í ýmsum ræðum og andsvörum í dag fjallað örlítið um það hvílík vonbrigði mér eru að hv. þm. Hanna Birna Kristjánsdóttir virðist ekki einu sinni vera reiðubúin að skoða þær hugmyndir að sátt sem er að finna í tillögum okkar. Ég sagði að það hefði vakið mér vonbrigði og ég vil jafnvel vera svo róttækur í orðavali að kalla að ég sé sorgmæddur yfir því vegna þess að enginn þingmaður sem á sæti á hinu háa Alþingi hefur undirstrikað jafn skýrt og hv. þm. Hanna Birna Kristjánsdóttir hversu mikilvægt það sé að taka hér upp ný vinnubrögð. Ég hef sæg af tilvitnunum, þá elstu tíu ára gamla, í hv. þingmann allar götur frá því að hún tók, við litlar vinsældir ritstjóra Morgunblaðsins, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og forustu flokksins, að sér að vera forseti borgarstjórnar í skjóli annars meiri hluta en Sjálfstæðisflokksins. Hún gerði það með vísan í það að nauðsynlegt væri að innleiða ný vinnubrögð í íslensk stjórnmál. Þetta hefur hún allar götur síðan endurflutt með einhverjum hætti og það var gleðilegt að rekast á tilvitnun í hana frá því daginn eftir kosningar þegar ljóst var að nýir flokkar væru að taka við landsstjórninni, hún sagði að þjóðin hefði sannarlega kosið sér nýja ríkisstjórn og það væri til marks um að fólkið í landinu vildi breytt fyrirkomulag í stjórnmálunum, það væri að kalla eftir nýjum tímum. Hvað er það, herra forseti, sem fólkið í landinu var að kalla eftir? Því að á það væri hlustað og eftir samvinnu og víðtækri sátt í stjórnmálunum.

Hér leggur stjórnarandstaðan fram tillögu til sátta í mikilvægu máli, deilumáli sem hefur slitið þingið sundur, a.m.k. hvað varðar þennan mikilvæga málaflokk, þróunarsamvinnu. Þegar rétt er út sáttarhönd finnst hv. þingmanni, formanni utanríkismálanefndar, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, þingmanninum, manneskjunni, konunni sem kallar eftir nýjum vinnubrögðum og víðtækri sátt, það ekki einu sinni svara vert. Ég spyr, herra forseti: Hvar er formaður utanríkismálanefndar? Hvernig stendur á því að þeim spurningum sem til hennar hefur verið varpað er ekki svarað?



[17:26]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig langar til að hrósa hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir staðfestu hans í þessu máli. Hann er að tala um málefni sem er honum hugsjónamál, sem hann hefur kynnst af eigin raun í starfi sem einstaklingur og lagt þar mikið af mörkum sem slíkur. Hann hefur sinnt þessu máli sem utanríkisráðherra Íslands og ber hag þessa málefnis mjög fyrir brjósti af þeim sökum þannig að hann verður ekki sakaður um að hafa ekki reynt að koma á framfæri þeim sjónarmiðum sem hann telur skipta máli í þessu efni. Hann hefur talað þessu máli innan veggja Alþingis en einnig utan veggja þess á fundum, skrifað blaðagreinar og þar fram eftir götunum. Nú þegar hillir undir að síðustu orðin verði sögð í þessari umræðu langar mig til að beina einni spurningu til hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar sem hefur talað fyrir málamiðlun í þessu efni: Getur hann í nokkrum setningum sagt okkur í hverju sú málamiðlun væri fólgin? Ég geri mér fyllilega grein fyrir því, og það hefur komið fram í hans máli, að hann vill helst engar breytingar gera á núverandi fyrirkomulagi og vill að við höldum okkur við það fyrirkomulag sem nú er við lýði. Síðan eru gagnstæð sjónarmið, hæstv. núverandi utanríkisráðherra er (Forseti hringir.) á öðru máli.

Hverjar teldi hv. þm. Össur Skarphéðinsson helstu mögulegu málamiðlanir í þessu efni?



[17:28]
Frsm. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður spyr mig: Hverjar eru hugsanlegar málamiðlanir í þessu máli? Það hefur komið fram í máli þeirra sem standa að tillögunni ásamt mér að þau telja jafnvel fulllangt gengið með þessari málamiðlun. Ég tel að í stöðunni sé rétt af okkur að stíga svona langt. Við höfum sömuleiðis sagt algjörlega skýrt að ótti okkar við að sérhæfing og reynslusjóður ÞSSÍ glatist er helsta ástæða okkar fyrir því að við erum málinu svona harkalega andsnúin. Þarna deilum við viðhorfum með höfundi skýrslunnar sem var lögð til grundvallar þessu frumvarpi. Hann talar um að það sé hætta á að stofnanaminnið glatist og ef mikið er um flutning á starfsmönnunum út og inn úr geiranum geti, eins og hann segir, þekkingin útvatnast fljótt. Ég hef sagt að það skipti miklu máli í þessum efnum að þetta viðhorf sé virt. Kannski er það rangt viðhorf, kannski hefur ráðherrann rétt fyrir sér, en hann er þá á annarri skoðun en við Þórir Guðmundsson. Einn möguleiki að sátt í þessu efni væri vitaskuld að fyrir lægi að starfsfólkið sem væri í þessum geira og kemur inn í ráðuneytið með þessari lagabreytingu væri ekki orpið undir flutningsskylduna. Það skiptir töluverðu máli.



[17:30]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir þetta svar. Við erum augljóslega að hlaupa lokametrana í þessari löngu umræðu um Þróunarsamvinnustofnun. Við hefðum að sjálfsögðu kosið að málalyktir yrðu á annan veg en nú blasir við en ég minni á að atkvæðagreiðslu um málið er enn ekki lokið. Ég hef sett mig að nýju á mælendaskrá og mun flytja mjög stutta ræðu um mat mitt á þeirri stöðu sem nú er uppi og læt lokið þessu andsvari.



[17:31]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þarf ekki langa ræðu að þessu sinni. Ég reifaði málið hér fyrr í dag, fór yfir helstu efnisþætti og reyndi að skilja og skilgreina hvað veldur því að eins mikil andstaða er við málið og raun ber vitni. Ég tel þessa andstöðu sprottna af margvíslegri rót. Annars vegar eru þeir sem horfa til kerfisbreytinga sem verið er að framkvæma erlendis og starfs sem unnið er á vegum OECD um samanburð á fyrirkomulagi í ýmsum ríkjum. Þeir aðilar hafa bent á að ýmsar þjóðir horfi til Íslands sem dæmis, Ítalir telji að mörgu leyti ákjósanlegt það fyrirkomulag sem við höfum. Aðrir líta svo á að það veiki starfsemina að setja hana undir stærri regnhlíf. Ég hef tekið sem samanburðardæmi þar að þó að ýmsir kostir hafi verið við það að sameina atvinnuvegaráðuneytin hafi það að mörgu leyti veikt landbúnaðinn sem slíkan að tapa sinni stjórnsýslulegu umgjörð. Umgjörð getur nefnilega skipt máli og það er mergur málsins í málflutningi ýmissa sem hafa kvatt sér hljóðs um þetta mál að slík breyting komi til með að veikja Þróunarsamvinnustofnun að þessu leyti.

Síðan hafa ýmsar aðrar ástæður verið tíndar til og þess er að lokum að geta að jafnvel þótt menn hafi læst sig í ákveðinni niðurstöðu á báða vegu hefur ekki skort á það, stjórnarandstöðumegin, að menn hafi viljað leita lausna og sátta í þessu máli, millilendingar, setja málið í bið í fáeina mánuði og freista þess að taka það út úr hita umræðunnar þannig að menn komi örlítið kældari að borði og leiti niðurstöðu í máli sem er ekki flokkspólitískt á nokkurn hátt. Þetta er praktískt mál fyrst og fremst og á ekki að þurfa að sundra okkur flokkspólitískt eða eftir landamærum sem liggja á milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Málið verður að sjálfsögðu ekki til lykta leitt fyrr en við göngum til atkvæða um það.

Ég sagði, hæstv. forseti, að ég ætlaði að tala stutt í þessari umferð og hef því lokið máli mínu.



[17:35]
utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegur forseti. Mig langar að taka fram að í fyrsta lagi hygg ég að þetta sé mín síðasta ræða í umræðu um þetta mál og því vil ég endurtaka nokkur atriði, sér í lagi eitt, það að markmiðið með þessari breytingu er ekki að skaða það starf sem unnið hefur verið í þróunarsamvinnu. Þvert á móti ætlum við að reyna að búa til öflugra lið til að vinna að því að bæta, ef hægt er að bæta, starfsemi okkar þegar kemur að þróunarmálum. Mig langar líkt og hv. þm. Ögmundur Jónasson sem talaði á undan mér, og það geri ég einlæglega, að þakka þingmönnum fyrir þann áhuga sem þeir hafa sýnt málinu, sér í lagi hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni sem talar hér fyrir þessu máli út frá heiðarleika sínum og trú á þennan málaflokk. Það geri ég reyndar líka en okkur greinir á um hvaða leið eigi að fara. Ég virði það svo sannarlega.

Mig langar að nefna biðlaun sem mig minnir að hv. þm. Kristjáni L. Möller hafi minnst á. Um þau gilda almennar reglur og það verður ekkert svínað á neinum um neitt slíkt ef menn kjósa þau. Ég tek það fram þannig að það liggi fyrir. Ég held að það sé alveg laukrétt sem fram hefur komið, m.a. hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að ég held, að Alþingi getur sett alls konar lög. Alþingi getur í sjálfu sér ákveðið að búa til ráðuneyti, stofnun eða hvaðeina inni í ráðuneyti. Það mundi að sama skapi stangast á við 17. gr. stjórnarráðslaganna sem er eitthvað á þá leið að ráðherra skipuleggi ráðuneyti sitt. Þá er Alþingi farið að setja ráðherra fyrir hvernig hann skuli skipa sitt ráðuneyti. Það getur vel verið eðlilegt í einhverjum tilvikum, ég ætla ekkert að segja að svo sé ekki, en að minnsta kosti þarf að hafa það í huga.

Það sem ég tel einna mest að þeirri tillögu sem hér kom fram og menn hafa sett fram örugglega í góðri meiningu sem sáttatillögu er að í henni felst að mínu mati mjög lítil breyting í sjálfu sér. Tillögurnar ganga út á að búa til áfram sjálfstæða stofnun en að vísu inni í ráðuneytinu. Það er ekki það samspil sem við vorum að reyna að ná með þeim tillögum sem hér hafa verið settar fram.

Að öðru leyti þakka ég fyrir umræðuna.



[17:38]
Frsm. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Þessi dagur byrjaði með því að hér féllu, að mér þótti, digur svigurmæli í garð stjórnarandstöðunnar, kannski sérstaklega í garð stallbróður míns, hv. þm. Helga Hjörvars. Hér voru menn ásakaðir um að hafa gengið á bak meintum samningum sem þó var alveg ljóst af umræðum í utanríkismálanefnd, þar sem voru staddir tveir af þeim sem áttu aðild að hinum meintu samningum, að það voru mismunandi skoðanir og ég fullyrði líka að í hópi stjórnarliða sem komu þar að var alveg ljóst að mönnum þótti fátt í gadda slegið. Eigi að síður var því haldið fram af mönnum að hv. þm. Helgi Hjörvar hefði svikið samkomulag um að menn mundu afgreiða þetta mál fyrir lok haustþings.

Ég vil benda á þá staðreynd, herra forseti, að okkur þingmönnum stjórnarandstöðunnar hefði verið í lófa lagið að beita einhvers konar vísi að þinglegu ofbeldi í þá veru sem menn sáu hér á síðasta kjörtímabili, að skipuleggja að minnsta kosti þriggja og hálfs dags málþóf um þetta mál. Það hefði ekki verið nokkur vandi fyrir reynslubolta eins og er að finna í hópi stjórnarandstöðunnar að láta stjórnarliðið hanga á snúrunni í að minnsta kosti á fjórða sólarhring. Núna er þessari umræðu að ljúka, herra forseti, án þess að liðið hafi sex klukkustundir. Þá finnst mér í lok dags að þeir hv. þingmenn stjórnarliðanna sem tóku til máls með þeim hætti um formann þingflokks Samfylkingarinnar sem þeir gerðu í morgun að þeir ættu að minnsta kosti í einrúmi að fara og horfa í spegil og skammast sín pínulítið og síðan eiga þeir að leita hv. þm. Helga Hjörvar uppi og biðja hann afsökunar.

Það er alveg hárrétt hjá hæstv. ráðherra að hann hefur skoðanir sem hann hefur fyllilega rétt til að hafa, eins og ég hef alltaf sagt. Lögmæti skoðana hans dreg ég ekkert í efa en hann verður samt að færa rök fyrir þeim og mér finnst hann hafa flutt ákaflega léleg rök fyrir því af hverju ekki er rétt að taka í framrétta sáttarhönd hjá okkur. Hæstv. ráðherra segir að honum finnist það of lítil breyting. Ja, herra trúr, það er þó breyting sem tryggir í fyrsta lagi að það verður ekki um neinn tvíverknað að ræða. Í öðru lagi verður ljóst að þeir sem sinna þróunarsamvinnu og ráðuneytið ganga samræmt að því er varðar utanríkisstefnuna. Í þriðja lagi gerir það honum kleift að hafa fullt fjárstjórnarvald og haga málum eins og hann vill og ná þannig fram því hagræði sem hann telur sig ná en fjármálaráðuneytið telur engan möguleika að ná fram. Þetta liggur alveg ljóst fyrir. Þetta hefði svarað öllum þeim þörfum sem hæstv. ráðherra hefur sagt að hann hafi.

Ég held hins vegar að þetta sé allt saman tóm vitleysa. Ég held ekkert að ráðherrann hafi neinar sérstakar þarfir í þessu. Ég held að niðurstaðan í þessu máli hafi verið gefin fyrir fram og að allt hitt hafi verið sjónarspil. Ég er þeirrar skoðunar, sérstaklega núna þegar við leggjum fram tillögu sem er nánast eins og klippt út úr skýrslu Þóris Guðmundssonar.

Svona er þetta bara og við höfum alltént átt nokkuð heiðarlega umræðu í dag og málefnalega og ég er þeirrar skoðunar að þessi langi ferill hafi að minnsta kosti leitt fram, með ítarlegri rannsókn í utanríkismálanefnd, að til eru aðrir möguleikar. Það eru sáttamöguleikar í málinu. Hvað stendur þá eftir þegar upp er staðið? Jú, það að formaður utanríkismálanefndar, hv. þm. Hanna Birna Kristjánsdóttir, er sá þingmaður sem hér er stöðugt með á vörunum einhvers konar yfirlýsingar um að það þurfi nýja tegund af stjórnmálum og að hún sé hin nýja tegund af stjórnmálamanni. Þessar yfirlýsingar skipta mig máli. Nú sjáum við hvernig nýju stjórnmálin líta út í augum hv. formanns utanríkismálanefndar. Þegar menn koma hér, leggja sig nánast á hnén fyrir framan hana, koma með sáttatillögu sem nær yfir öll mismunandi sjónarmið í málinu hverfur hún. Þá er hún ekki hér, þá hlustar hún ekki og hún svarar engu. Ég er hér með bunka af tilvitnunum en ég ætla ekki að þreyta hana með.

Í öðru lagi, herra forseti, og það er það sem skiptir máli fyrir þingið, er hér talað um að of mikið ósætti sé í þinginu og að menn þurfi að reyna að vinna saman. Þegar stjórnarandstaðan kemur svo með ítarlega tillögu, býður samkomulag, gengur svo langt að sumir aðilar að tillögunni til sátta eru henni nánast ósammála vegna þess að þeir telja svo mikið gefið eftir er ekki bara slegið á þá hönd heldur er líka bitið í hana. Lærdómurinn er (Forseti hringir.) að það þýðir ekkert að bjóða þessu stjórnarliði frið vegna þess að það kýs frekar ófrið.