138. löggjafarþing — 38. fundur.
ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta, frh. 2. umræðu.
stjfrv., 76. mál (Icesave-reikningar). — Þskj. 76, nál. 247, 256, 257 og 258.

[11:13]
Birgir Ármannsson (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég ætla aðeins að tjá mig um dagskrá þessa fundar í tilefni af ummælum hæstv. fjármálaráðherra áðan.

Það er vissulega rétt sem hæstv. fjármálaráðherra segir að hér á dagskrá þessa fundar eru afar mörg mál. Fyrir utan Icesave-málið eru 22 mál á dagskrá og ég rengi ekki það sem hæstv. fjármálaráðherra segir að æskilegt er og nauðsynlegt að flest þessi mál komist á dagskrá, verði afgreidd fyrir áramót. Í þessu sambandi er rétt að minna á að stjórnarandstaðan hefur ítrekað lýst yfir að hún mundi ekki standa í vegi fyrir því að mál af því tagi sem tengjast fjárlögunum væru tekin á dagskrá. Stjórnarandstaðan hefur upp á hvern einasta dag lýst því yfir að hún sé tilbúin að semja um tíma við ríkisstjórnina um hversu langan tíma þessi mál taki þannig að þau geti farið hratt (Forseti hringir.) til nefndar til að greiða fyrir þeim. Eins má spyrja: (Forseti hringir.) Hvenær komu þessi mál inn í þingið? (Forseti hringir.) Þau hafa öll komið inn á allra síðustu dögum.



[11:15]
Illugi Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Vegna þeirra orða hæstv. fjármálaráðherra sem hér féllu um dagskrá þingsins í dag vil ég beina því til virðulegs forseta að samkvæmt 63. gr. þingskapalaganna er það í valdi forseta að breyta dagskrárröð mála. Ég skora á forseta, úr því að ríkisstjórnin er ekki tilbúin til að taka ábyrgu tilboði stjórnarandstöðunnar um að tryggja að þau mál sem hæstv. fjármálaráðherra nefndi sérstaklega að þyrftu að komast áfram geri það, að grípa fram fyrir hendurnar á ríkisstjórninni og segja: Við þurfum að ganga í þessi mál nú þegar. Tilboð stjórnarandstöðunnar hefur komið fram. Forseti hefur heimild til að taka þá ákvörðun að taka nú þegar á dagskrá þau mál sem hæstv. fjármálaráðherra hefur áhyggjur af, og við (Forseti hringir.) stjórnarandstæðingar líka, og ræða þau strax.



[11:16]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég ítreka að stjórnarandstaðan hefur lýst því yfir að hún sé reiðubúin að styðja það að dagskrá sé breytt og að jafnvel mjög brýn mál fái frekar litla umræðu til að hægt sé að koma þeim til nefndar. En, frú forseti, ég frábið mér það að ég standi t.d. í vegi fyrir því að brýn mál komist áfram vegna þess að þau hafa ekki legið frammi til kynningar, þau eru nýkomin til þingsins. Það er ekki stjórnarandstöðunni að kenna, frú forseti, ef ríkisstjórnin kemur allt of seint fram með þessi brýnu mál, sem er hreinlega staðreynd og allir geta séð. En ég ítreka, frú forseti, að það er hægt að hliðra til dagskrá til að koma þessum málum að. Það er hægt að gera það án þess að fresta því stóra máli sem við höfum annars rætt töluvert mikið. Við hljótum að geta fundið lendingu í því hvenær við ætlum að ljúka því máli (Forseti hringir.) ef við einbeitum okkur.



[11:17]
Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil taka fram að aldrei hefur staðið á stjórnarandstöðunni að semja um þessi mál, hvorki um dagskrá fundarins né heldur um málið sjálft. Þetta mál, Icesave-málið, er þannig vaxið að þegar það kom til þingsins var það með þeim skilaboðum að það ætti að stimpla það. (Gripið fram í.) Í rauninni var gefið út að því mætti ekki breyta á nokkurn hátt og þannig var meðferðin í fjárlaganefnd. Þar var ekki rætt það sem var til umfjöllunar. Menn neyðast til að ræða þetta mál í þingsölum fyrst staðan er þannig en við höfum ítrekað boð okkar um að taka önnur mál fram fyrir og afgreiða þau jafnvel skjótt og það boð stendur enn. Samningsviljinn (Forseti hringir.) er til staðar hjá stjórnarandstöðunni. Hann er ekki fyrir hendi hjá meiri hluta. (VigH: Rétt.)



[11:18]
Einar K. Guðfinnsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Málið sem við ræðum er dagskrá þingsins og hvernig við eigum að standa að því máli. Það er ástæða til að árétta það sem hér hefur komið fram að langflestum þessum málum hefur verið dreift á þinginu bara á síðustu klukkustundum eða dögum án þess að fara á dagskrá. Það hefði ekkert staðið í vegi fyrir því að setja þessi mál á dagskrá ef þau hefðu komið fram fyrr en það er einmitt þar sem meinið liggur. Hæstv. ríkisstjórn kemur seint og um síðir fram með þessi mál. Ég vek athygli á því að samkvæmt starfsáætlun þingsins var gert ráð fyrir því að nú væru nefndadagar sem stæðu fram yfir miðja næstu viku þannig að það er alveg ljóst mál að burt séð frá því hvernig umræðan þróast um Icesave-málið að ríkisstjórnin hefur ekki staðið sig í stykkinu. Það er ríkisstjórnin sem er sein til verka við að leggja fram nauðsynleg mál.



[11:20]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég hef alltaf varið rétt stjórnarandstöðunnar til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri með þeim hætti sem hún kýs. En ég tel að núna fari stjórnarandstaðan fram með grímulausu ofbeldi. Ég segi þetta vegna þess að nú hef ég lesið það í fjölmiðlum að einstakir þingmenn segjast vera í málþófi bókstaflega til að tefja framgang málsins. Það las ég í morgun og í gærkvöldi.

Það vill svo til að við búum við kerfi þar sem er þingbundin ríkisstjórn og þessi ríkisstjórn hefur meiri hluta á Alþingi Íslendinga. Hún var kosin af meiri hluta Íslendinga. Hún hefur sinn rétt til að koma fram þeim málum sem hún telur forgangsmál og nauðsynleg. Þessi ríkisstjórn telur mjög nauðsynlegt og brýnt fyrir endurreisnina að þetta mál sé frá og það sé samþykkt á Alþingi Íslendinga. Hún hefur fært fyrir því mörg rök og þá er það grímulaust ofbeldi af stjórnarandstöðunni þegar hún segir bókstaflega að hún sé að tefja þetta mál með skipulegu málþófi en það hefur stjórnarandstaðan nú upplýst opinberlega.



[11:21]
Tryggvi Þór Herbertsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Undanfarna daga höfum við rætt eitt mikilvægasta mál sem fyrir þetta þing hefur komið, jafnvel það mikilvægasta. Það er réttur stjórnarandstöðunnar að fá að tjá sig í þessu máli og það sem meira er, það er réttur stjórnarandstöðunnar að reyna að koma í veg fyrir þá ósvinnu sem hér er í gangi.

Þegar við munum líta yfir farinn veg, þegar afkomendur okkar munu skoða þetta mál, mun ég verða stoltur af því að hafa staðið hér í þessu ræðupúlti og talað gegn málinu. (Utanrrh.: Þú ert stoltur af öllu.) Ég er stoltur af flestu, hæstv. utanríkisráðherra, það er rétt. En þessu verð ég stoltastur af, að hafa reynt að stöðva þá ósvinnu sem hér er í gangi.



[11:22]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég kem upp vegna orða hæstv. utanríkisráðherra undir þessum lið þar sem hann fullyrðir að það brjóti á einhvern hátt gegn lýðræði að þingmenn tali óhóflega mikið í málinu, sem er mjög undarlegt að heyra frá þessari vinstri stjórn, enda hafa þeir flokkar sem hana skipa óhikað nýtt sér þetta gegnum tíðina. Það er nefnilega ekki að ástæðulausu að þingsköp eru með þessum hætti og þetta er ekki bara á Íslandi, þetta er víðast hvar í hinum vestræna heimi. Þetta er til þess að ríkisstjórnin þurfi að taka tillit til stjórnarandstöðunnar og þetta er öryggisventill þegar ríkisstjórnin er við það að gera stórkostleg mistök. Sú ríkisstjórn sem nú situr er að gera stórkostlegustu mistök í sögu íslenskrar lagasetningar. Það hefur sífellt komið betur í ljós eftir því sem dagarnir hafa liðið og eftir því sem fleiri ræður hafa verið haldnar hér hversu stórkostleg þessi mistök eru þannig að sá tími hefur svo sannarlega ekki farið til spillis. En jafnframt ítrekum við (Forseti hringir.) að stjórnin getur komið með hvaða mál sem hún vill.



[11:24]
Jón Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil segja það vegna orða hæstv. utanríkisráðherra um að minni hlutinn á Alþingi sé með grímulaust ofbeldi, að það er spurning hvort eggið eða hænan kemur á undan í þessu máli. Í aðdraganda þessa máls sýndi stjórnarmeirihlutinn, meiri hlutinn á þingi, grímulaust ofbeldi og valdhroka þegar málið var tekið úr nefnd …

(Forseti (ÁRJ): Um fundarstjórn.)

Þá sýndi þessi ríkisstjórn og meiri hlutinn valdhroka. Það hefur leitt alla umræðuna vegna þess að hér hefur þurft að draga fram ýmsar þær staðreyndir og upplýsingar sem undir venjulegum kringumstæðum hefðu átt að koma fram í nefndarstarfi um málið en þar var ekki gefinn tími til að fjalla um þetta mál. Þar var sýnt grímulaust ofbeldi að mínu mati sem hefur kallað á það að hér hefur þurft að fara í miklu ítarlegri umræðu en ella hefði þurft. Þess vegna hvet ég hæstv. ríkisstjórn (Forseti hringir.) og meiri hlutann til að taka þetta mál til baka til nefndar og vinna það betur og taka á dagskrá þau mál sem fyrir liggja og þurfa að koma til umfjöllunar.



[11:25]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Forseti vill biðja hv. þingmenn um að virða tímamörk.



[11:25]
Illugi Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég vil ítreka enn á ný tilmæli okkar í stjórnarandstöðunni til virðulegs forseta um að skoða það að breyta röð mála á dagskránni þannig að þau mál sem hæstv. fjármálaráðherra hefur nefnt sem mikilvæg fái umfjöllun. Einnig til að tryggja að fjárlög nái fram að ganga, að þau verði tekin á dagskrá og þeim komið áfram til nefndar.

Vegna þeirrar umræðu sem orðið hefur um störf þingsins og tilhögun þeirra í salnum verð ég að segja að það rifjast upp fyrir mér að sagt hefur verið að allt vald spilli, það fari illa með menn að sitja á valdastólunum og þeir gleymi jafnvel þeim meginprinsippum og hugsjónum sem þeir höfðu sjálfir áður en þeir settust í valdastólana. Það er reyndar sjaldgæft að sjá það gerast jafnhratt og með jafnafdrifaríkum og afgerandi hætti og nú virðist vera um þessar mundir þegar maður heyrir hæstv. ráðherra, sem hafa staðið hér lengur en nokkrir aðrir menn í þinginu, (Forseti hringir.) halda ræðu tala um að svipta þurfi minni hlutann í þinginu (Forseti hringir.) þeim sjálfsagða rétti sínum að ræða mál ítarlega.



[11:27]
Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs undir þessum lið til að ræða fundarstjórn forseta vegna þess að hæstv. utanríkisráðherra sagði nokkur orð um fundarstjórn forseta. Hann nefndi að hér ætti sér stað grímulaust ofbeldi. Það var grímulaust ofbeldi af hálfu meiri hlutans að þetta mál sem við munum ræða á eftir átti að samþykkja óséð. Það var grímulaust ofbeldi að hér var gögnum leynt í langan tíma. (Gripið fram í.) Það var grímulaust ofbeldi að neyða þingmenn stjórnarmeirihlutans til að ganga í takt. Það var grímulaust ofbeldi að hóta stjórnarslitum. Það var grímulaust ofbeldi að neyða ráðherra til að segja af sér. Það er grímulaust ofbeldi að neyða Alþingi Íslendinga, lýðræðislega kjörna fulltrúa þjóðarinnar, til að stimpla þetta mál án þess að á því megi verða breytingar.

Nú er því hótað (Forseti hringir.) að breyta eigi þingskapalögum til að koma í veg (Forseti hringir.) fyrir lýðræðislega umræðu. Hvað er næst, virðulegi forseti?



[11:28]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það er ákaflega mikilvægt að hafa í huga þegar við ræðum dagskrá þingsins, sérstaklega í ljósi orða hæstv. utanríkisráðherra, að hér er ekki um að ræða mál sem mun losa um einhvern vanda og gera efnahagslega endurreisn auðveldari. Hér er um að ræða mál sem mun festa varanlega í sessi hindrun fyrir efnahagslegri endurreisn Íslands. Hér er um að ræða mál sem mun ár eftir ár, hugsanlega áratugum saman, verða til þess að íslenskar fjölskyldur þurfa að bera aukakostnað upp á 100 millj. kr. á dag sem þýðir að það þarf að skera niður annars staðar á hverjum einasta degi um 100 millj. kr. miðað við það sem ella hefði verið. Og það er ekki eins og þau mál sem ríkisstjórnin getur þó komið með hér inn hvenær sem hún vill ef hún væri tilbúin með þau, séu mál sem munu gagnast íslenskum almenningi eða íslenskum fyrirtækjum. Nei, þetta eru allt mikil ógæfumál, hræðilegir skattar, verstu hugsanlegu skattar fyrir þær aðstæður (Forseti hringir.) sem við erum í nú, breytingar á fæðingarorlofslögum. Hvað annað, frú forseti? Ekkert jákvætt (Forseti hringir.) bíður á hliðarlínunni.



[11:29]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Enn biður forseti menn um að virða tímamörk.



[11:29]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég held að hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar geti ekki haldið því fram að ekki sé tekið tillit til þeirra. Þeir hafa lýst vilja sínum til að ræða þetta mál út í hörgul og það er þess vegna sem það er samþykkt dag eftir dag að auka við fundartíma, bæta við fundardögum til að hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar geti talað eins og þeir vilja. Hins vegar hefur það auðvitað komið fram að þeir hafa engan sérstakan áhuga á því. Þeir setja hér á vaktir þar sem eru tveir og þrír frá hverjum flokki tala, ekki þessi breiði fjöldi sem hefur áhuga á að ræða málin. (Gripið fram í.) Það er ofbeldi (Gripið fram í.) þegar menn standa vaktir bara til að koma í veg fyrir að ríkisstjórn sem er lýðræðislega kjörin, hefur meiri hluta (Gripið fram í.) meðal landsmanna í kosningum, hefur meiri hluta á þingi, nái að koma málum sínum til atkvæðagreiðslu. Við hvað eru þingmenn stjórnarandstöðunnar hræddir? Eru þeir hræddir við lýðræðið? (Gripið fram í.) Eru þeir hræddir við að þingmenn (Gripið fram í.) fái að greiða atkvæði? (Gripið fram í: Icesave-samninginn.) (Gripið fram í: Icesave-samninginn.) Hér er um að ræða skemmdarverk (Forseti hringir.) af hálfu stjórnarandstöðunnar, vonandi þó bara af gáleysi. (Gripið fram í.) Ég hef ekki trú á því að menn séu vísvitandi að reyna að skemma (Forseti hringir.) fyrir (Gripið fram í.) en í pólitískum barnaskap sínum skemma hv. þingmenn (Forseti hringir.) (Gripið fram í.) eins og Tryggvi Þór Herbertsson (Gripið fram í.) fyrir hag íslensku þjóðarinnar. (Gripið fram í.)

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður um þögn í salnum (Gripið fram í: Á ekki að virða tímamörk núna?) og að virða tímamörk, að sjálfsögðu. )



[11:31]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég kem upp til að ræða fundarstjórn forseta og ég fagna því að hæstv. utanríkisráðherra segir að hann sé sammála því að ég hafi málfrelsi og það er gott að eiga þann stuðning vísan. Hins vegar er mikill tvískinnungur í málflutningi hans þar sem hann heldur því jafnframt fram að ég sé að beita einhverju ofbeldi. Ég hef áhyggjur, frú forseti, af því að þetta frumvarp sem við ræðum, Icesave-frumvarpið, verði að veruleika. Ég skal leggja mig alla fram eins og ég hef gert í umræðunni um að fá stjórnarþingmenn til að kynna sér þetta mál en hlýða ekki í blindni leiðtogum flokka sinna um að greiða atkvæði eins og þeir segja þeim að greiða atkvæði.

Frú forseti. Ég frábið mér hótanir frá hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur um að nú skuli breyta þingsköpum svo ég fái ekki að segja mitt í þessu máli.



[11:32]
Einar K. Guðfinnsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með hæstv. utanríkisráðherra. Ég held að — hann hleypur alltaf úr salnum þegar ég tek til máls. Ég veit ekki hvað þetta er eiginlega. (Gripið fram í.) Ég tek undir með hæstv. utanríkisráðherra í þeim efnum að ríkisstjórnin eða stjórnarliðar hafa sýnt okkur mikla tillitssemi sem hefur birst sérstaklega í því að þeir hafa gefið okkur fullkomið svigrúm til að komast á mælendaskrá, þeir hafa að minnsta kosti ekki verið að þvælast fyrir með því að taka sjálfir til máls í þessu máli. Kannski er það tillitssemi af þeirra hálfu en miklu líklegra er að þeir hafi ekki þorað að taka þátt í efnislegri umræðu um Icesave-málið, enda vita þeir að þetta er heldur vont mál.

Hins vegar komst formaður þingflokks Vinstri grænna mjög vel að orði áðan þegar hann talaði um félaga sína, að þar væri verið að reka trippin, og líkti þar með öðrum orðum stjórnarliðinu við einhvers konar hrossastóð.



[11:33]
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Það er dálítið athyglisvert að hlusta á þetta málþóf sem er í boði Sjálfstæðisflokksins með tilliti til þeirrar forsögu (Gripið fram í.) sem málið hefur. Ég þykist vita það, virðulegi forseti, að sjálfstæðismenn fara að grípa fram í (Gripið fram í.) en það mál sem er verið að ræða hér er framhald af viljayfirlýsingu sem gerð var í ríkisstjórn undir forsæti fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra Geirs H. Haardes. Sú viljayfirlýsing var undirrituð af tveimur sjálfstæðismönnum, Davíð Oddssyni, þáverandi seðlabankastjóra, og Árna M. Mathiesen fjármálaráðherra (Gripið fram í.) þar sem m.a. sagði í IX. kafla að Ísland (Gripið fram í.) ætlaði sér að viðurkenna skuldbindingar gagnvart öllum tryggðum innstæðueigendum. Þá væri og ætlunin að vinna með öðrum alþjóðlegum (Gripið fram í.) mótaðilum Tryggingarsjóðs innstæðueigenda, þ.e. breska og hollenska tryggingarsjóðnum, eins og gert var ráð fyrir í EES-lagarammanum. Þetta er gert með því fororði að lánsfjármögnun skuldbindinga fáist hjá hinum erlendu ríkisstjórnum, þ.e. Bretum og Hollendingum. (Gripið fram í.) Samningaviðræður um nákvæm kjör muni eiga sér stað næstu daga.

Virðulegi forseti. Það getur ekki verið skýrara leiðarljósið sem fyrrverandi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks (Forseti hringir.) og Samfylkingar setti og hérna er verið að vinna eftir því. Þess vegna er undarlegt að hlusta á það lýðskrum sem er í boði Sjálfstæðisflokksins á hinu háa Alþingi, (Forseti hringir.) forustuflokksins um hrun íslensks efnahagslífs. (Gripið fram í: Málið er á dagskrá á eftir.)



[11:35]
Forseti (Siv Friðleifsdóttir):

Forseti biður hv. þingmenn og hæstv. ráðherra að virða tímamörk og fjalla um fundarstjórn forseta undir þessum lið.



[11:35]
Birgir Ármannsson (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Það er alltaf gaman að því þegar hæstv. samgönguráðherra kemur og tekur þátt í umræðum um fundarstjórn forseta. Hann tekur ekki þátt í umræðum að öðru leyti þannig að það er þá skárra en ekkert að hafa hann í þeirri umræðu. Hæstv. samgönguráðherra hefur t.d. ekki komið í ræðu í málinu til að útskýra fyrir okkur með hvaða rökum hann styður það frumvarp sem hér liggur fyrir. (Gripið fram í.) Hann hefur ekki gert það. Það er dálítið merkilegt að hæstv. samgönguráðherra er algerlega fastur í októbermánuði 2008. (Gripið fram í.) Síðan hefur heilmikið gerst í málinu, hæstv. samgönguráðherra. Við stöndum frammi fyrir frumvarpi sem þarf að afgreiða og við þurfum að taka efnislega og málefnalega afstöðu til þess. Ég spyr hæstv. samgönguráðherra: Hver eru hans rök fyrir því að við eigum að samþykkja þetta frumvarp? Hver eru gagnrök hans vegna þeirra athugasemda sem komið hafa fram í umræðum undanfarna daga? Ég hef ekki heyrt þau.

Sama á við um flesta hv. stjórnarliða. Þeir hafa komið hérna, látið reka sig (Forseti hringir.) eins og trippi en ekki svarað með rökum fyrir skoðanir sínar í þessum málum.



[11:37]
félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Þetta málþóf er farið að ganga ansi langt. Það eru brýnir þjóðarhagsmunir að ljúka þessu máli (Gripið fram í: Já, er það?) og hörmulegt að sjá hvernig (Gripið fram í.) málþófsflokkarnir láta í þingsal. Hér er mikið kvartað yfir því af hálfu þingmanna Sjálfstæðisflokksins að fulltrúar stjórnarflokkanna tali ekki efnislega í málinu. Okkur er nokkur vorkunn því að ekki viljum við setja úr skorðum hinar glæsilegu vaktatöflur sem stjórnarandstaðan hefur stillt upp (Gripið fram í.) til að tryggja (Gripið fram í.) málþófsliði sínu hæfilegan hvíldartíma. (Gripið fram í.) Við viljum auðvitað ekki skekkja þessa fallegu mynd, þessa undarlegu mynd af lýðræðislegu þingstarfi (Gripið fram í.) sem stjórnarandstaðan hefur verið að stilla upp. Við viljum auðvitað leyfa stjórnarandstöðunni að halda áfram að láta eins og hún sé að tala efnislega um málið því að (Gripið fram í.) þá hlýtur henni að líða betur. (JónG: Þú hefur ekkert að segja af viti hvort eð er, kallinn minn.)



[11:38]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég vil hvetja hv. þingmenn og hæstv. ráðherra til að virða fundasköp Alþingis og tala í þessum stól um fundarstjórn forseta þrátt fyrir að hæstv. ráðherrar treysti sér ekki til að koma í ræðu og útskýra sjónarmið sín og misnoti þennan lið á dagskránni til að koma upp í einnar mínútu yfirlýsingu. Það er hreinlega með ólíkindum, frú forseti, að svo sé komið í þinginu að menn treysti sér ekki til að koma í ræðu og treysti sér ekki til að halda á lofti þeim rökum sem þeir byggja ákvarðanir sínar á.

Frú forseti. Ég mælist til þess að gert verði hlé á þessum fundi og að formenn þingflokka fundi með forseta til að fara yfir það hvernig bragurinn er í þingsalnum og ekki síst hvernig þátttöku hæstv. ráðherra ríkisstjórnarinnar í þessum lið er háttað.



[11:39]
Jón Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil endilega hvetja hæstv. félagsmálaráðherra til að taka þátt í þessari umræðu þótt ég eigi ekki von á neinu merkilegu innleggi frá honum í þetta mál frekar en svo mörg önnur. (Gripið fram í.) En það er alveg rétt hjá hæstv. samgönguráðherra að gefin var út viljayfirlýsing hjá síðustu ríkisstjórn um að fara í samningaviðræður um þetta mál (Gripið fram í.) og reyna að leysa það á pólitískum vettvangi. (Gripið fram í: … með bundið fyrir augun.) En hæstv. ríkisstjórn hefur klúðrað tveimur samningaviðræðum og það er niðurstaða þeirra samningaviðræðna sem við ræðum hér í dag og höfum allar þessar athugasemdir við.

Það kristallast kannski helst í orðum fyrrverandi forustumanns hæstv. samgönguráðherra og hæstv. félagsmálaráðherra, hæstv. fyrrverandi utanríkisráðherra Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, þegar hún lýsti því þannig að við hefðum komið eins og kjölturakkar eða sakamenn til þessara samningaviðræðna. Það er einkunnin sem fyrrverandi forustumaður Samfylkingarinnar gefur hæstv. ríkisstjórn í þessum efnum og það eru þær niðurstöður sem við ræðum í dag. Við getum ekki annað en tekið undir með (Forseti hringir.) fyrrverandi hæstv. utanríkisráðherra, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur. (Gripið fram í: … um fundarstjórn forseta.)



[11:40]
Forseti (Siv Friðleifsdóttir):

Forseti vill að gefnu tilefni ítreka við marga þingmenn og marga hæstv. ráðherra að þessi liður á að fjalla um fundarstjórn forseta en ekki vera almennar umræður og rökræður manna á milli.



[11:40]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Mig langar að biðja forseta að skoða hvort hægt sé að hliðra til dagskrá þannig að hin brýnu mál sem hér er rætt um komist á dagskrá. Ég vil jafnframt biðja forseta, því að hæstv. ráðherrar virðast ekki heyra í okkur, að hvetja þá til að setja sig á mælendaskrá, ekki síst félags- og tryggingamálaráðherra því að það væri sönn ánægja að fá að heyra efnislega afstöðu hans til þessa máls. Það vill svo skemmtilega til, hæstv. forseti, að hér eru þrír ráðherrar úr ríkisstjórn Samfylkingarinnar, þrír menn sem bera einna mesta ábyrgð á þessum Icesave-samningum sem við fjöllum um. Samfylkingin var með viðskiptaráðuneytið, frú forseti, hún var í Seðlabankanum og í Fjármálaeftirlitinu. (Utanrrh.: Og í iðnaðarráðuneytinu.) Og hugsið ykkur, hv. þingmenn og frú forseti, svo ráða þeir blygðunarlaust til sín aðstoðarmenn, eins og hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra, beint úr hrunadansinum sem gera svo kröfur um bætur til fallinna banka án þess að blikna. Og þetta styður ráðherrann.



[11:42]
Tryggvi Þór Herbertsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil hafna því að ég hafi stundað málþóf. Ég hef komið upp í fjórar ræður og í öllum þeim ræðum hef ég tekið efnislega á málinu og fjallað um það út frá sjónarhornum sem jafnvel aðrir þingmenn hafa ekki gert. Ég ætla að halda því áfram í dag og ég ætla að bjóða stjórnarandstöðunni að hlusta á þá ræðu. Sú ræða mun fjalla um að ábyrgð á Icesave-reikningunum (Gripið fram í.) sé e.t.v. á könnu fleiri en okkar Íslendinga. (Gripið fram í.)

Varðandi fundarplanið (Gripið fram í: Það er ekkert fundarplan.) er eitt sem hefur kannski ekki komið nægilega skýrt fram, það var stjórnarþingmaður sem stal fundarplaninu af borði hv. þm. Birgittu Jónsdóttur og fór með það í blað sitt, Fréttablaðið, (Gripið fram í.) þar sem það var … (Utanrrh.: Hvaða stjórnarþingmaður var það?) — Það er nefnilega ekki vitað og það er það næsta sem ég ætla að segja, forsætisnefnd ætti að láta fara fram rannsókn á því að þingmenn steli gögnum af borðum hver annars.



[11:44]
Björn Valur Gíslason (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Mér finnst illa farið með vinnutímann á Alþingi þegar stjórnarandstaðan byrjar hvern einasta dag á að biðjast undan umræðu um Icesave-samningana. Hvern einasta dag byrjum við að ræða um hvort við getum ekki með nokkru móti fundið einhvern flöt á því að hætta við þessa umræðu sem allir eru þó búnir að biðja um. (Gripið fram í.) Menn hafa verið að ræða um þetta atriði undir fundarstjórn forseta, nánast ekkert annað, en biðjast svo undan umræðunni. (Gripið fram í.) Ég er með þrjár tillögur til forseta um fundarstjórn forseta. Það er í fyrsta lagi að byrja fyrr á morgnana þannig að umræðan geti hafist í síðasta lagi kl. 8–9 á morgnana í stað hádegis. (Gripið fram í: Það er fjölskylduvænna.) Í öðru lagi að excel-flokkarnir birti skjöl sín á heimasíðu Alþingis þar sem hægt er að ganga að ræðutíma þeirra og hverjir muni fara í andsvör og jafnvel um efnisinnihald væntanlegra ræðna á hverjum einasta morgni þegar þingmenn ganga til vinnu sinnar. Í þriðja lagi ætlast ég til þess að forseti taki alvarlega ásakanir hv. þm. Tryggva Þórs Herbertssonar um að stjórnarþingmenn (Forseti hringir.) gangi rænandi og ruplandi um sali þingsins, þetta verði rannsakað og skoðað, eða að hv. þingmaður biðjist afsökunar á orðum sínum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[11:46]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Forritið excel er til margra hluta nytsamlegt. Til að mynda skrifaði ég ræðu mína í excel og ástæðan er sú að það eru svo mörg stór efnisatriði í þessu máli sem þarf að fjalla um að það þurfti slíkt forrit til að halda utan um það. Ég er enn ekki hálfnaður með að fara yfir þessi stærstu atriði málsins og er þar af leiðandi langt frá því að vera kominn í stöðu til að geta yfirleitt hafið málþóf þó að þetta mál mundi svo sannarlega réttlæta slíkt. En áður en að því kemur þarf ég að fara yfir þessi meginatriði málsins og ég tek undir það sem hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson nefndi áðan, fjölmargir þingmenn hafa hvað eftir annað flutt ræður þar sem fram koma nýjar staðreyndir, jafnvel hlutir sem ég hafði ekki heyrt af áður þrátt fyrir að hafa fylgst ágætlega með þessu máli í meira en heilt ár. Ég held að það væri mjög gagnlegt fyrir stjórnarliðið, að ég tali ekki um hæstv. ráðherra, að fylgjast með umræðum en ef þeir hafa ekki tök á því að gætu þeir flett upp ræðunum á netinu. Meira að segja ég hef flett upp ræðum á netinu til að fara betur yfir hluti sem þar koma fram.

Nú mun ég halda áfram upptalningu þessara stærstu atriða Icesave-málsins. Hvert og eitt þeirra mundi réttlæta heila umræðu í þinginu en ég mun reyna að tala tiltölulega stuttlega um hvert og eitt atriði til að byrja með.

Númer 36 er býsna stórt atriði, enda er það sú upphæð sem um er að ræða, sú upphæð sem lendir á íslenskum almenningi, skattgreiðendum í formi vaxtagreiðslna. Vextirnir munu alltaf lenda á íslenskum almenningi, sama hversu mikið innheimtist af þrotabúi gamla Landsbankans. Það hefur ekkert með það að gera. Vextirnir sem verða greiddir næstu árin munu alltaf og óhjákvæmilega lenda á íslenskum skattgreiðendum. Þeir eru 100 millj. kr. á hverjum einasta degi. Á hverjum einasta degi, ár eftir ár þurfa íslenskir skattgreiðendur að borga 100 millj. kr. fyrir ekki neitt. Það væri hægt að gera eitt og annað fyrir 100 millj. kr. Ef við snúum dæminu við má líta svo á að það þurfi að skera niður um 100 millj. kr. á dag miðað við það sem ella hefði verið gert, einungis til að standa undir vaxtagreiðslunum af þessum Icesave-samningum. Og í ljósi þess hvað ríkisstjórnin hefur átt erfitt með að skera niður, erfitt með að takast á við fjárlagafrumvarpið, sér maður ekki fyrir sér hvernig ríkisstjórnin, ef hún verður eitthvað áfram, ætlar að fara að því að skera niður um 100 millj. kr. á hverjum einasta degi. (Gripið fram í.) Fyrir 100 millj. kr. væri hægt að gera ýmislegt, eins og sjá má ef fjárlagafrumvarpinu er flett. (Gripið fram í.) Fyrir 100 millj. kr. væri hægt að koma til móts við íslenskar fjölskyldur og íslensk heimili og jafnvel hægt að koma til móts við íslensk fyrirtæki sem flest eiga í verulegum erfiðleikum. Það kostar t.d. ekki nema 99 millj. kr. að halda Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna gangandi, þ.e. eftir þær viðbætur sem nú er gert ráð fyrir að renni til þeirrar stofnunar. Jafnréttisstofa eru 72 millj. kr. á ári. Þegar menn skera niður um 100 millj. kr. á dag í mörg ár hefur það áhrif á líf hvers einasta manns í landinu. Það hefur áhrif á heilbrigði fólks því að það verður óhjákvæmilegt að spara í heilsugæslunni miðað við það sem ella hefði verið og það mun birtast til að mynda í því að menn hafa ekki efni á þeim lyfjum sem þeir hefðu ella haft efni á, þeim tækjum, og það mun hafa bein áhrif á jafnvel lífslíkur fólks. Það er mjög einfalt dæmi. Það er því miður samasemmerki milli þess sem ríki geta varið í heilbrigðisþjónustu og þess heilbrigðis sem íbúar landa geta vænst. 100 millj. kr. á dag munu því hafa áhrif á efnahag hvers einasta Íslendings, áhrif á heilsu þeirra, áhrif á menntun, áhrif á allt í íslensku samfélagi. Það er þess vegna ekki að ástæðulausu sem við teljum mikilvægt að ræða þetta mál í þaula og að reyna til þrautar að útskýra fyrir ríkisstjórninni grunnstaðreyndir þessa máls en enn vantar mikið upp á að hæstv. ráðherrar sýni skilning á því.

Atriði nr. 37 varðar gjaldeyrismálin, annað atriði sem oft er litið fram hjá í þessu máli. Þegar reynt er að halda því fram að við getum á einhvern hátt skrapað saman 100 millj. kr. á dag með því væntanlega að skera niður hér og þar og spara við okkur, gleymist að skuldin er í erlendri mynt. Það er ekki nóg að safna saman 100 millj. kr. á dag í íslenskum krónum. Það þarf að vera hægt að kaupa bresk pund og evrur fyrir þessar krónur. Fjölmargir eru búnir að sýna fram á það, m.a. hafa þeir sýnt fjárlaganefnd fram á að það er nánast ómögulegt að spara þennan gjaldeyri þótt ekki sé nema með því að líta til þess hvernig gjaldeyrisöflun Íslendinga hefur verið háttað í gegnum tíðina og hvers má vænta af því í framtíðinni. Jafnvel þó að alger umsnúningur yrði og flutt yrði út miklu meira en flutt er inn, eins og staðan er reyndar núna, það er flutt út töluvert meira en flutt er inn af vörum, dugar það ekki til vegna þess að vaxtagreiðslurnar eru það háar, ekki bara vegna Icesave heldur annarra vaxta líka. Það er því ekki með nokkru móti hægt að sýna fram á hvernig við eigum að verða okkur úti um þennan gjaldeyri. Það hafa verið skrifaðar heilu greinargerðirnar um þetta, m.a. frá IFS-greiningu, og dr. Sigurður Hannesson hefur skilað greinargerð til fjárlaganefndar þar sem þetta er útlistað mjög nákvæmlega.

38. Það atriði lýtur að því hvaða áhrif þessi gjaldeyrisskortur hefur því að ef ríkið og Landsbankinn reyna að taka til sín allan lausan gjaldeyri hefur það áhrif á allt samfélagið. Ég er búinn að nefna áhrif á gengi krónunnar og áhrif á gengið hefur augljóslega gríðarlega mikil áhrif fyrir nánast öll fyrirtæki í landinu. Þau eru skuldsett í erlendri mynt og fjöldi heimila situr þá uppi með háar skuldir.

En áhrifin verða líka veruleg t.d. bara á viðskipti við aðrar þjóðir vegna þess að það má svo litlu skeika þegar einn aðili sankar að sér öllum gjaldeyri. Það má ekkert út af bera til að gjaldmiðillinn hrynji jafnvel eða að það verði hreinlega skortur á gjaldeyri til að kaupa nauðsynjavörur að utan. Það gerðist til að mynda í Austur-Þýskalandi sem var með fjármálakerfi sem er að verða dálítið líkt því íslenska eftir því sem gjaldeyrishöft eru hert og stefna sósíalistastjórnarinnar í efnahagsmálum festist betur í sessi. Þar gerðist það árið 1976 að uppskerubrestur á kaffi í Brasilíu olli kreppu í Austur-Þýskalandi. Hvernig má það vera? Ástæðan var sú að Austur-Þjóðverjar drukku býsna mikið kaffi eins og Íslendingar og þeir voru alltaf í vandræðum með gjaldeyri því að ríkið þurfti að skrapa saman öllum þeim gjaldeyri sem það náði í til að standa undir erlendum lántökum. Lánin höfðu verið tekin til að reyna að keppa við Vesturlönd í tækniþróun m.a. svo ríkið tók til sín allan gjaldeyri. Síðan var ákveðnum upphæðum varið í kaffi. En þegar heimsmarkaðsverðið á kaffi hækkaði skyndilega vegna uppskerubrests í Brasilíu var ekkert aflögu, það var ekki til gjaldeyrir til að standa undir kaffiinnflutningnum og það olli keðjuverkun þannig að gjaldeyrisskortur varð viðvarandi alls staðar. Menn höfðu ekki lengur efni á helstu nauðsynjavörum og Austur-Þýskaland fór í þriggja ára efnahagskreppu vegna þess eins að það varð uppskerubrestur á kaffi í Brasilíu. Svona er keðjuverkunin af því þegar menn hafa svona naumt bil, þegar ekkert má út af bregða vegna þess að allur gjaldeyrir rennur á einn stað.

39. Það er þessi endalausi spuni ríkisstjórnarinnar. Af hverju er hann sérstakt áhyggjuefni í þessu máli, því að nú er það ekkert nýtt að þessi ríkisstjórn beitir spuna í nánast öllum málum? Það er sérstakt áhyggjuefni í þessu máli vegna þess að það er ákaflega óheiðarlegt að blekkja þjóðina í máli sem er þess eðlis að það mun skerða lífskjör Íslendinga hugsanlega um kynslóðir. Þess vegna er það sérstaklega óheiðarlegt þegar vinir og vandamenn ríkisstjórnarinnar, eins og gerst hefur aftur og aftur, eru fengnir til að skrifa greinar um málið. Og þannig hefur það verið að nánast öll þau álit eða þær greinar sem stutt hafa málflutning ríkisstjórnarinnar hafa komið frá fólki sem er með bein tengsl við helstu gerendur þessa máls eða er á launum hjá ríkisstjórninni við að verja afstöðu hennar. En þeir hins vegar sem ekki eru á launum hjá ríkisstjórninni eða eru ekki háðir henni eru nánast allir á einu máli um að það sé óforsvaranlegt að fallast á þetta frumvarp. Þannig gerist það enn og aftur að til að mynda lögfræðingar sem ekki hafa verið í vinnu fyrir ríkisstjórnina, hafa ekki verið skuldbundnir í þessu máli að einhverju leyti, skrifa greinar til að vara við því að samþykkja þetta frumvarp, þar á meðal líklega virtasti lagaprófessor Íslands, Sigurður Líndal. Hann útskýrir (Gripið fram í.) að málið brjóti líklega í bága við stjórnarskrá Íslands. En þeir sem eru á framfæri ríkisstjórnarinnar hverju sinni hafa aðra sögu að segja. Það er alvarlegt mál þegar ríkisstjórnin beitir sér með þeim hætti, rétt eins og bankarnir gerðu á sínum tíma, (Forseti hringir.) þeir beittu sér á nákvæmlega sama hátt.



[11:56]
Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður hefur í ræðu sinni nú og í fyrri ræðum farið yfir mjög marga þætti sem eru umdeildir og í mikilli óvissu og það vitum við öll. Í mínum huga er það svo að við stöndum enn þá í efnahagshruni sem er stærra og meira en nokkur Íslendingur gat gert sér grein fyrir að við gætum lent í, enda var því afneitað alveg fram á síðustu stundu að nokkuð slíkt gæti gerst þótt staðreyndin blasti við okkur. Við erum ekki enn þá búin að vinna okkur út úr þessu hruni. Það sér ekki enn í land. Við stöndum frammi fyrir því að leysa þessa deilu, sem er í raun milliríkjadeila eins og hún hefur þróast. Að koma hjólum efnahagslífsins í gang, að standa vörð um að það hrynji ekki meira en þegar er hrunið, byggir að hluta á því að við getum samið um þetta mál eða komist út úr þessu máli með einum eða öðrum hætti. Við fáum núna skilaboð frá Norræna fjárfestingarbankanum, frá mismunandi aðilum, en við vitum í raun að við höfum verið undir þvingunum undanfarið. Við erum eyland og við fáum hvergi stuðning nema frá frændum okkar í Færeyjum. Við fáum stuðning frá vinum okkar á Norðurlöndunum að því tilskildu að við klárum þetta mál. Telur hv. þingmaður að það sé áhættunnar virði að við drögum það að leysa þetta mál miðað við aðra þætti sögunnar?



[11:58]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel að hv. þm. Þuríður Backman sé heiðarlegur þingmaður og vilji vel. En ég er dálítið hræddur um að hv. þingmaður hafi ekki fylgst með gangi þessa máls að undanförnu, hugsanlega vegna þess að ég held að innst inni viti hv. þingmaður hversu óheppilegt það er að fallast á þetta. Til að mynda liggur nú algerlega fyrir að Norðurlöndin og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn eru búin að lýsa því yfir að lánafyrirgreiðsla þeirra sé ekki háð nákvæmlega því hvernig Icesave-málið klárast, þ.e. það sé ekkert því til fyrirstöðu að afgreiða lánin og greiðslur þessara lána til Íslendinga eru reyndar hafnar, enda ef raunin væri sú að verið væri að þvinga okkur til að fallast á þennan samning þyrftum við engu að síður að hugsa okkar gang og velta því fyrir okkur hvort við séum þjóð sem er tilbúin að láta þvinga sig með þeim þætti, en sú staða er ekki fyrir hendi.

Hv. þingmaður velti því fyrir sér hvort klára þurfi þetta mál til að endurreisn efnahagslífsins geti haldið áfram. Því er þveröfugt farið og má öllum ljóst vera sem skoða tölurnar að með því að ljúka þessu máli á þann hátt sem hér er lagt upp með er ekki verið að ryðja úr vegi hindrun fyrir endurreisn efnahagslífsins. Það er verið að festa í sessi hindrun sem kemur í veg fyrir að endurreisnin geti nokkurn tíma átt sér stað, alla vega ekki næstu árin eða áratugina, vegna þess að vandinn sem við stöndum frammi fyrir er númer eitt, tvö og þrjú skuldavandi. Vandi Íslands er ekki framleiðsluvandi eða skortur á náttúruauðlindum. Vandinn liggur í skuldunum og að ætla að leysa skuldakreppu með enn frekari skuldsetningu er fáheyrt. Það hefur reyndar verið reynt og hverjir reyndu það? Það voru íslensku bankarnir sem voru þá lentir í verulegri skuldakreppu og gripu til þess ráðs að reyna að skuldsetja sig enn frekar til að komast út úr kreppunni í von um að þeir gætu þá haldið áfram og málið mundi einhvern veginn leysast. Afleiðingin voru Icesave-reikningarnir.



[12:01]
Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við erum að steypa okkur í enn meiri skuldasúpu og það verður þjóðinni erfitt, segir hv. þingmaður, að reisa efnahagslífið við á enn meiri erlendum skuldum. Hefur hv. þingmaður ekki áhyggjur af því að núna 30. nóvember telja þessar þjóðir, Hollendingar og Bretar, sig geta, samkvæmt því samkomulagi sem gert var milli landanna, gjaldfellt alla þá upphæð sem ríkissjóður þessara landa greiddi út til innstæðueigenda í bönkum viðkomandi landa við hrunið? Það var hver einasti reikningur greiddur að fullu á sömu forsendum og við gerðum á neyðarlögunum, og nú telja þeir sig hafa fulla heimild til að gjaldfella þetta lán. Hefur hv. þingmaður ekki áhyggjur af því að gjaldfelling á allri upphæðinni, öllum innstæðunum skilyrðislaust geti valdið okkur enn meiri erfiðleikum? Og hefur hv. þingmaður engar áhyggjur af því að með því að við reynum ekki að semja við þessar þjóðir og stöndum við skuldbindingar okkar geti það valdið okkur pólitískt miklum erfiðleikum? Það mundi hafa óendanlega mikil áhrif á möguleika okkar til frekari uppbyggingar hvað varðar lán og stuðning og allt sem fylgir því að standa einn í þessu alþjóðasamfélagi án þess að fá stuðning utan frá.



[12:03]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Hér er nefnd dagsetningin 30. nóvember, ein af mörgum dagsetningum sem nefndar hafa verið sem heimsendadagsetningar, þá gæti eitthvað ógurlegt gerst ef við yrðum ekki búin að klára að ganga frá þessum Icesave-samningum nákvæmlega eins og Bretar og Hollendingar vilja hafa þá. Nú hefur meira að segja hæstv. fjármálaráðherra viðurkennt að að sjálfsögðu sé 30. nóvember ekki áhyggjuefni, Bretar og Hollendingar muni ekki gjaldfella samninginn. Enda væri algerlega fráleitt fyrir þá að gera það því að með samningum sem undirritaðir voru fyrir hönd ríkisins en hafa þó ekki verið endanlega staðfestir fá Bretar allt sem þeir vilja. En það væri hins vegar það besta sem fyrir okkur gæti komið ef þeir mundu reyna að gjaldfella samninginn, að þeir segðu: Já, nú gjaldfellum við samninginn, nú þarf innstæðutryggingarsjóðurinn að borga. Hvað gerist þá, frú forseti? Þá er innstæðutryggingarsjóðurinn gjaldþrota, sem hann reyndar er, og hvað gerist í framhaldi af því? Þá þurfa Bretar og Hollendingar að leita réttar síns. Og hvar gera þeir það? Hérna úti í Héraðsdómi Reykjavíkur. Ef menn hafa áhyggjur af því og eru jafnvel enn að velta því fyrir sér núna þegar Norðurlöndin og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn eru búin að staðfesta lánafyrirgreiðslu til okkar. En að hafa áhyggjur af því að við verðum ekki nógu vinsæl meðal einhverra erlendra ríkja ef við gerum ekki allt sem Bretar og Hollendingar fara fram á. Eru menn orðnir það litlir í sér að þeir hljóti að velta því fyrir sér hvort Íslendingar eigi yfir höfuð að vera sjálfstæð þjóð ef þeir eru ekki einu sinni tilbúnir til að standa á grundvallarlagalegum rétti sínum, ekki einu sinni tilbúnir til að halda honum fram af ótta við að einhverjir kunni að taka því illa? (Gripið fram í.) Við hljótum að vera tilbúnir til þess a.m.k. að halda því fram sem er lagalegur réttur okkar og trúa því nú að aðrar þjóðir séu ekki það illar að þær muni beita okkur einhvers konar refsiaðgerðum vegna þess eins að við reynum að standa á lögvörðum rétti okkar. Þetta er hræðsluáróður sem engin innstæða er fyrir, frú forseti.



[12:05]
Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég veit ekki hvað á að segja við ræðu sem hér hefur verið flutt, jafnjákvæð, innihaldsrík og lausnamiðuð og hún var. Hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur ítrekað kallað fram í eða komið í ræðustól og sagt að menn hafi ekki skoðað málin, þeir hafi helst ekkert vit á því, þeir hafi einhverja annarlega löngun til að taka á sig þessar byrðar. Ég ætla að biðjast undan því að sitja undir slíkum orðræðum frá hv. þingmanni.

Hér var rætt um upphæðina. Var eitthvað nýtt í henni? Hér er rætt um gjaldeyrismálin. Var eitthvað nýtt í því? Áhrif gjaldeyrishafta. Var eitthvað nýtt í því? Spuni ríkisstjórnarinnar? Var eitthvað nýtt í þeirri orðræðu hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, sem þekkir spuna manna best og heldur alltaf að allir aðrir séu að beita spuna af því að hann hefur notað hann sjálfur? (Gripið fram í.) Það gengur svo gjörsamlega fram af manni sá hroki sem kemur fram í orðræðunni við okkur sem höfum eytt í þetta fleiri hundruð klukkutímum, að við séum að kalla eftir vinum og félögum. Að maður eins og Eiríkur Tómasson sem hefur unnið með okkur langtímum saman, vinur og félagi, gangi væntanlega erinda erlendra stjórnvalda í málum eins og hér hafa átt sér stað. Það gengur svo fram af mér hvernig menn tala í þinginu og eru komnir upp í 39 liði og þeir eru margir hverjir ekki ítarlegri en þetta.

Mig langar líka að hv. þingmaður svari því einfaldlega hér og nú þegar við ræðum fjárlög sem við glímum nú við: Er eitthvað af þeim málum sem við glímum við núna í fjárlögum vegna Icesave? Er eitthvað af því sem hann nefndi áðan vegna Icesave? Ég skora á hann að koma með tillögurnar sem hann auglýsti að hann hefði varðandi niðurskurð. Við munum þiggja öll góð ráð varðandi það að stilla samfélaginu upp að nýju miðað við raunverulegt umhverfi, miðað við það sem við höfum efni á og (Forseti hringir.) miðað við forsendur gersamlega án Icesave.



[12:07]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ekki veit ég hvaða niðurskurðartillögur hv. þm. Guðbjartur Hannesson er að tala um og ég veit ekki heldur hvers vegna hann veltir upp nafni Eiríks Tómassonar. (Gripið fram í.) Væntanlega vegna þess að hann er einn af þeim mönnum sem hv. þingmaður fékk á fund fjárlaganefndar til að ræða hvort það frumvarp sem hér er til umræðu kunni að brjóta í bága við stjórnarskrá. Það er reyndar rétt sem hv. þingmaður nefnir að Eiríkur Tómasson hefur unnið fyrir nefndina töluvert lengi og mikið í þessu máli.

Það sem er undarlegast í málflutningi hv. þingmanns er að hann skuli halda því fram að það sé ekkert nýtt í því hver séu áhrif hruns gengisins. Hv. þingmaður segist gera sér grein fyrir því. Engu að síður ætlar hann að fallast á þetta samkomulag. Hann segir að það sé ekkert nýtt í því hver kostnaðurinn sé og virðist hafa gert sér fulla grein fyrir því. Engu að síður ætlar hann að fallast á þetta. Þingmaðurinn segist vera búinn að heyra allt saman en ætlar samt að fallast á þetta. Hvaða skýring getur verið á því? Það hlýtur að vera fullkomin sjálfsblekking, eins og birtist í orðum hv. þm. Guðbjarts Hannessonar þegar hann fullyrti að það sem hér væri lagt fram, fyrirvararnir eftir að Bretar og Hollendingar fóru í gegnum málið, væru svipaðir og jafnvel betri en þeir voru á sínum tíma áður en lögfræðingar Breta og Hollendinga tættu þá í sig. Þeir væru núna betri. Bretar og Hollendingar væru búnir að gæta hagsmuna okkar betur en fjárlaganefnd, væntanlega undir forustu hv. þm. Guðbjarts Hannessonar, gerði. Hvernig á að vera hægt að taka mark á því þegar hv. þingmaður kemur upp og segist vera búinn að taka tillit til allra efnahagslegra afleiðinga þessa máls, maður sem telur að lögmenn Breta og Hollendinga, eftir að hafa lokið við að fara í gegnum alla fyrirvarana og rústa þá, gæti hagsmuna Íslendinga betur en fjárlaganefnd undir forustu hans?



[12:10]
Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður heldur áfram. Það er sjálfsblekking ef maður hefur aðra skoðun en hv. þingmaður. Hann veit e.t.v. ekki af því en þegar við byrjuðum á þessu máli var megingagnrýnin á að við værum að vinna með fyrirvara, að það þyrfti að fara inn í lögin, það þyrfti að fara inn í samninginn til þess að hann héldi. Frá hverjum kom það? Meðal annars frá Indefence-hópnum, meðal annars frá hv. þingmönnum Framsóknarflokksins, að það væri gagnslaust að setja fyrirvara, það þyrfti að fara inn í samningana. Hvað hefur gerst núna? Það er búið að taka einmitt þessi atriði sem voru með fyrirvara og setja þau inn í lánasamninginn eins og hann var gerður síðar. Þess vegna hef ég haldið því fram að margt af því sem áður var í óvissu, vegna þess að það mundi ekki verða viðurkennt fyrir dómi, er núna komið inn í samningana.

Hv. þingmaður talaði um gjaldeyrismálin, sem fjölmargir hafa fjallað um, og nefndi í því sambandi tvennt, IFS og Sigurð Hannesson. Hvað margir ætli hafi komið fyrir nefndina með gagnstætt álit? Fjölmargir. Ég skora á hann að halda áfram þessari upptalningu, eða er það orðið þannig að Framsóknarflokkurinn er orðinn vanur því að þegar hann getur nefnt tvo teljist þeir fjölmargir?

Mig langar aðeins að heyra varðandi gengið, hvaða áhrif hefur það á gengið ef 680–700 milljarðar eru teknir að láni í íslenskum krónum en verða eftir sem áður greiddir til útlanda, erum við þá ekki komin með nýtt jöklabréfamál? Hvernig lítur þá málið út þegar þar að kemur?

Mig langar líka að biðja hv. þingmann að koma nú með lausnina á málinu. Hvað á að gera? Við stöndum í þeirri stöðu að við þurfum að leysa þetta mál. Hv. þingmaður hefur ítrekað sagt að við berum okkar skyldu, að við stöndum við okkar skuldbindingar. Hverjar eru þær að mati hv. þingmanns? Hvernig væri að heyra einhvern tíma lausnamiðaðar hugmyndir í staðinn fyrir að koma ítrekað með niðurrifsstarfsemi?



[12:12]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er best að byrja á að víkja að því síðasta, lausnunum. Lausn málsins er að sjálfsögðu sú að Íslendingar verji lagalegan rétt sinn. Það er áhugavert að heyra hv. þingmann tala hér eins og hann telji að með þessum samningum sé eingöngu verið að uppfylla lagalega skyldu Íslendinga vegna þess að það gengur í berhögg við það sem ríkisstjórnin hefur haldið fram opinberlega, að hún sé að reyna að verja einhvers konar lagalegan rétt og að við göngumst ekki við því. (GuðbH: Lestu nefndarálitið.) Það segir ríkisstjórnin. (Gripið fram í.) Ríkisstjórnin segir að okkur beri ekki lagaleg skylda til að greiða þetta. Engu að síður koma upp ráðherrar og segja: Við verðum að gera þetta til að uppfylla skyldur. Það er ekki von að erlendir viðsemjendur taki mikið mark á málflutningi fólks sem talar þannig í kross við sjálft sig.

Hv. þingmaður sagði að við þyrftum að taka fyrirvarana inn í samninginn. Það birtist m.a. í þessum svokallaða lagalega fyrirvara þar sem nú kemur fram að Íslendingar telji sig ekki vera lagalega skuldbundna til að greiða þessa reikninga en þeir ætli samt að gera það. Hvernig í ósköpunum er hægt að telja að það sé Íslendingum í hag að þetta komi fram? Við viðurkennum það að við ætlum að borga þetta þrátt fyrir að við teljum okkur ekki lagalega skuldbundin til þess og getum þá væntanlega ekki sagt í framtíðinni að við höfum ekki verið skuldbundin og að við höfum þess vegna ekki átt að greiða.

Hv. þingmaður virtist efast um að margir séu búnir að benda á áhrif gengisins og skort á erlendri mynt til að standa undir þessu. Ég bendi hv. þingmanni á að fletta upp í blaðasöfnum, í þeim fjölmörgu greinum sem skrifaðar hafa verið um þetta mál. En hins vegar kannast ég ekki við að margir hafi komið til fjárlaganefndar nema þá helst menn á vegum Seðlabankans sem voru augljóslega ekki í aðstöðu til annars en halda því fram að menn gætu staðið undir þessu. Það er hlutverk Seðlabanka að sýna fram á að ríki geti staðið undir skuldum sínum (Gripið fram í.) enda hefur Hagfræðistofnun Háskóla Íslands gagnrýnt skýrslu Seðlabankans töluvert.



[12:14]
Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Þetta er fjórða ræðan mín í þessu alræmda Icesave-máli, þ.e. í þessari umferð. Í fyrri ræðum fjallaði ég fyrst um vexti og horfur á alþjóðamörkuðum hvað varðaði vexti í nánustu framtíð. Í öðru lagi fjallaði ég um hagvöxt og síðan fjallaði ég um gengisforsendurnar sem Seðlabankinn hefur gefið sér í þessu.

Í dag ætla ég að fjalla um hver ábyrgð okkar Íslendinga er í þessu máli um leið og ég hafna því að ég sé hér með eitthvert ómálefnalegt tuð, eins og stjórnarþingmenn hafa haldið ítrekað fram.

Það virðist mikils misskilnings hafa gætt í umræðunni um hver ábyrgð Breta og Hollendinga er í raun á Icesave-reikningunum. Því er ekki úr vegi að rekja hvernig staðið er að opnun útibús sem tekur á móti innlánum innan EES-svæðisins og hvernig eftirliti með þessum útibúum er háttað. Ef fjármálafyrirtæki með starfsleyfi hyggst opna útibú í öðru landi á EES-svæðinu er um tiltölulega einfalt ferli að ræða. Í fyrsta lagi sendir fjármálafyrirtækið tilkynningu til fjármálaeftirlits þar sem móðurfélag er staðsett. Í tilfelli t.d. Landsbankans sendir Landsbankinn tilkynningu til Fjármálaeftirlitsins á Íslandi.

Í öðru lagi getur viðkomandi fjármálaeftirlit stöðvað opnun útibús ef fjármálafyrirtæki er fjárhagslega vanbúið á þeim tímapunkti sem umsókn er send inn eða tilkynning er send inn og stjórn er ekki nægilega traust. Þegar Landsbankinn sendi tilkynningu til Fjármálaeftirlitsins þá hefði því verið hægt að stöðva opnun útibús í Hollandi og Bretlandi af tveim ástæðum, annars vegar að Landsbankinn hefði verið fjárhagslega vanbúinn og hins vegar ef stjórnin hefði ekki verið nægilega traust.

Í þriðja lagi, ef fjármálafyrirtæki uppfyllir kröfur um fjárhagslega burði til að stjórna slíku útibúi tilkynnir fjármálaeftirlit heimaríkis gistiríki um fyrirætlanir fjármálafyrirtækisins. Í tilfelli Landsbankans, ef hann hefði uppfyllt kröfur um fjárhagslega burði og getað uppfyllt skilyrði til þess að stjórna slíku útibúi, hefði Fjármálaeftirlitið á Íslandi tilkynnt fjármálaeftirlitum Hollands og Bretlands um fyrirætlan Landsbankans.

Í fjórða lagi getur fjármálafyrirtækið opnað útibú í gistiríki að uppfylltum almennum skilyrðum gistiríkis, þ.e. ef Landsbankinn hefur uppfyllt almennt skilyrði í Bretlandi og Hollandi þá getur hann opnað útibú þar. Það er því ekki raunverulegt leyfi frá Fjármálaeftirlitinu íslenska eða íslenskum stjórnvöldum fyrir opnun útibús heldur er um einfalda tilkynningu að ræða. Þær fjármálaafurðir sem fyrirtækið ætlar að bjóða upp á þurfa að hljóta samþykki fjármálaeftirlits gistiríkis en eru óháðar fjármálaeftirliti heimaríkis. Þetta er mikilvægt, þ.e. að Landsbankinn þurfti að fá samþykki fyrir afurðum sem hann ætlaði að bjóða upp á hjá gistiríkinu, þ.e. Hollandi og Bretlandi, íslenska fjármálaeftirlitið hafði ekkert um það að segja.

Ef um innlán er að ræða eins og í tilfelli Icesave gera tryggingarsjóðir heima- og gistiríkis með sér samning, þ.e. ef um mismunandi tryggingarupphæð er að ræða, þá er gert svokallað „top-up agreement“, og fjármálafyrirtækið getur hafið móttöku innlána. Með öðrum orðum að í tilfelli Landsbankans gerði íslenski tryggingarsjóðurinn samning við Breta vegna þess að þeir voru að borga meiri tryggingarvernd en íslenski tryggingarsjóðurinn og Landsbankinn gat eftir það hafið móttöku innlána.

Þá kemur að eftirlitinu. Það hefur verið gagnrýnt mikið að Íslendingar hafi verið með slælegt eftirlit með Landsbankanum og Icesave-reikningunum. Reglurnar eru raunverulega af tvennum toga. Fjármálaeftirlit heimaríkis, þ.e. Fjármálaeftirlitið hér á Íslandi, hefur hefðbundið eftirlit með móðurfélagi og reyndar útibúum líka. Hefðbundið eftirlit með móðurfélagi þýðir það að Landsbankinn hér á Íslandi er undir eftirliti Fjármálaeftirlits og þarf að uppfylla lög og reglur sem lúta að starfsemi fjármálafyrirtækja, fjármálaeftirliti gistiríkis, og þetta er gríðarlega mikilvægur punktur, hæstv. utanríkisráðherra, gríðarlega mikilvægur punktur.

Fjármálaeftirlit gistiríkis, þ.e. fjármálaeftirlit í Bretlandi og Hollandi, hafa með neytendavernd að gera, þ.e. eftirlit með innlánsreikningum í þessu tilfelli auk þess sem þeir eiga að tryggja eða gæta að lausafjárstöðu útibúsins. Þetta felur í sér að Bretar og Hollendingar, fjármálaeftirlitið í þeim löndum hafði með neytendavernd að gera en ekki íslenska fjármálaeftirlitið. Eftirlit með útibúi er því bæði í höndum fjármálaeftirlits gistiríkis og heimaríkis. Eins og hér hefur verið rakið getur heimaríkið, í þessu tilfelli Ísland, stöðvað opnun útibús ef það hefur réttmæta ástæðu til að ætla að stjórnun og fjárhagsstaða hlutaðeigandi fjármálafyrirtækis sé ekki nægilega traust, og fjármálastofnunin þarf að uppfylla bæði skilyrðin.

Það að stöðva fjármálafyrirtæki í þeirri ætlan sinni að opna útibú á þessum tveim skilyrðum jafngildir því að svipta þurfi móðurfélag starfsleyfi í heimaríki. Út af hverju segi ég það? Jú, vegna þess að ef fjárhagslegir burðir eru ekki fyrir hendi eða stjórnun fyrirtækisins er ábótavant er fjármálaeftirlitinu skylt að svipta móðurfélagið starfsleyfi. Það er því augljóst að þessi leið var ekki fær hér heima. Einungis gistiríkið, þ.e. Bretland og Holland í þessu tilfelli, getur stöðvað útibú í þeirri fyrirætlan að opna innlánsreikninga að því gefnu að móðurfélag hafi þá starfsleyfi í heimaríki. Það eru því Bretar og Hollendingar — og þessu er mikilvægt að halda til haga — sem gáfu leyfi fyrir því að netreikningarnir sem báru ofurvexti voru boðnir í þessum löndum. Þessari ábyrgð hafa þeir vikið sér undan og Íslendingar ekki sótt það nægilega fast að þeir beri líkt því mikla ábyrgð og Íslendingar ef ekki meiri, þ.e. hvað varðar eftirlit.

Það voru einnig Bretar og Hollendingar sem áttu að hafa eftirlit með lausafé í útibúum en eins og er kunnugt var það lausafjárskortur sem knésetti Landsbankann. Að vísu átti íslenska fjármálaeftirlitið líka að hafa eftirlit með lausafé, en það var fyrst og fremst á ábyrgð breskra og hollenskra stjórnvalda í þessu tilfelli að tryggja lausafjáreftirlit. Ábyrgð breskra og hollenskra yfirvalda virðist því vera umtalsverð í ljósi þess sem ég hef sagt. Til að undirstrika enn frekar ábyrgð gistiríkis, þ.e. Hollands og Bretlands, er rétt að benda á að fjármagnstekjuskattur af reikningum, Icesave-reikningunum, rann til gistiríkjanna en ekki hingað til Íslands og rökin voru m.a. þau að það þurfti að standa undir eftirliti með reikningunum í gistiríkjunum.

Það er rétt að halda þessum atriðum til haga þegar lagaleg, þjóðréttarleg og siðferðileg ábyrgð Íslendinga á Icesave-reikningunum er tíunduð. Það eru þessi atriði sem eru grunnurinn að samábyrgð og jafnræði sem okkur stjórnarandstöðuþingmönnum hefur verið svo tíðrætt um. Hér hafa gengið um aðilar í þjóðfélaginu eins og kaþólikkar í Brasilíu á trúarhátíð og barið sjálfa sig á bakið með svipu og talið sig bera siðferðilega ábyrgð á þessu. Eins og ég hef sýnt hér fram á er það alrangt að fólk þurfi að pína sjálft sig með því. Þetta er vissulega á ábyrgð Íslendinga en líka Hollendinga og Breta.



[12:24]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var fróðleg upprifjun og yfirferð hjá hv. þingmanni um það hvaða umbúnaður þarf að vera fyrir hendi til þess að íslenskur banki geti opnað útibú í Hollandi og Bretlandi. Ég er samt ekki alls kostar sáttur við röksemdafærsluna hjá hv. þingmanni en látum það vera. En vantaði ekki eitt í þessa upptalningu? Vantaði ekki að það þarf líka sérstaka heimild íslensks ráðherra til þess að bankinn geti opnað útibúið og þessa netreikninga? Ef svo er hvaða ráðherrar voru það sem gáfu það starfsleyfi?

Í annan stað: Hv. þingmaður heldur því fram að það hafi ekki verið fær sú leið hér heima af hálfu Fjármálaeftirlitsins að hafna leyfi til starfrækslu þessara útibúa vegna þess að það jafngilti því að svipta móðurfélag starfsleyfi. Ég vil spyrja hv. þingmann: Af hverju var sú leið ekki fær?

Í þriðja lagi: Ef hollenska fjármálaeftirlitið hefði staðið undir því sem hv. þingmaður telur að því er ég best skildi vera skyldu þess, að leyfa ekki starfræksluna í Hollandi, hvernig hefði þá fjármálaeftirlitið hér á Íslandi átt að bregðast við?



[12:26]
Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir andsvarið og jafnframt vil ég þakka fyrir hvað hann hefur lagt sig eftir að hlusta eftir ræðu minni, sem ég met mikils.

Fyrsta spurningin: Hvaða ráðherra hefði átt að veita þetta leyfi? Nú er það svo að þetta hefur ekkert með framkvæmdarvaldið að gera, ráðherrar veita engin leyfi í þessu. Það er bara einföld tilkynning frá fyrirtækinu til fjármálaeftirlits að athuga hvort það uppfylli skilyrði og síðan getur fyrirtækið opnað útibú. Það er engin leyfisveiting í þessu og enginn ráðherra sem bar ábyrgð á þessu nema bara sú ábyrgð sem Björgvin G. Sigurðsson bar á Fjármálaeftirlitinu.

Í öðru lagi: Af hverju var sú leið ekki fær að hafna út af fjárhagslegum burðum? Nú er það þannig að Landsbankinn, alveg fram á hið síðasta var talinn uppfylla öll starfsleyfi hér á Íslandi og ef það hefði átt að stöðva opnun útibús hefði raunverulega átt að setja Landsbankann á hausinn, vegna þess að það að svipta banka starfsleyfi jafngildir því að setja hann í gjaldþrot. Bæði var það leið sem hefði ekki verið hægt að fara í fyrsta lagi og í öðru lagi var það leið sem þurfti ekki fara eða það var ekkert sem gaf tilefni til þess.

Varðandi þriðju spurninguna um Fjármálaeftirlitið, hvað hefði Fjármálaeftirlitið getað gert? Fjármálaeftirlitið gat ekkert gert. Það var bara einfaldlega þannig að Landsbankinn uppfyllti lög og reglur, Fjármálaeftirlitið lét þá uppfylla lög og reglur og þeir voru sagðir uppfylla lög og reglur í Bretlandi og Hollandi, sem ég er reyndar ekki alls kostar sammála, sérstaklega ekki í Hollandi vegna þess að (Forseti hringir.) reikningarnir voru leyfðir þegar það var ljóst að íslenskir bankar voru komnir í mjög slæma stöðu.



[12:28]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnast þetta athyglisverðar vangaveltur og rökræður sem ég á við hv. þingmann en ég tel að það sé rökvilla í þeim. Ef Landsbankinn hér heima uppfyllti öll lög og allar reglur, og af því dregur hv. þingmaður þá ályktun að það hafi ekki verið hægt fyrir Fjármálaeftirlitið að svipta hann starfsleyfi, hann hefði orðið gjaldþrota, hvernig átti þá hollenska fjármálaeftirlitið, í tilviki Hollands, að stemma stigu eða reisa skorður við starfsemi hans vegna þess að Landsbankinn hlýtur líka gagnvart hollenska fjármálaeftirlitinu að hafa uppfyllt þessar skyldur og reglur? Málið ber því að sama brunni. Mér sýnist að þarna sé ákveðin nauðhyggja hjá hv. þingmanni að það hafi einfaldlega ekki verið hægt, hvorki af hálfu hins íslenska né hollenska fjármálaeftirlits, að grípa til nauðsynlegra ráðstafana, sem mér finnst að hefðu verið nauðsynlegar þegar ég horfi til baka úr þessum ræðustóli, vegna þess að það hefði leitt til þess að Landsbankinn hefði komist í greiðsluþrot.

Þetta er sú ályktun sem ég dreg þannig að þá mætti náttúrlega líka segja að ef íslenska fjármálaeftirlitið gat ekki brugðist við gat hið hollenska það ekki heldur. En ég spyr hv. þingmann: Hefði það samt sem áður ekki verið betra? Ég veit það ekki, hv. þingmaður er miklu meiri sérfræðingur en ég, en hefði það bara ekki verið betra að þetta hefði verið gert á þessum tíma? Hefði það ekki leitt til þess að þessi banki hefði hugsanlega hrotið fyrir ætternisstapa en hinir tveir hefðu samt sem áður lifað? Ég spyr hv. þingmann um það hvort þetta hafi kannski ekki bara verið bölvuð mistök.



[12:30]
Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei, þetta er ekki rökvilla vegna þess að það var eitt hlutverk sem hollenska og breska eftirlitið höfðu sem það íslenska hafði ekki og það var neytendaverndin. Það hefði verið hægt að segja að vegna neytendasjónarmiða væri ekki hægt að leyfa internet-reikninga sem byðu svona háa vexti vegna þess að það væri talið of áhættusamt fyrir neytendur. Það hefði verið hægt. Þá hefði það verið það eina sem Landsbankinn hefði gert, hann hefði getað stofnað útibúið, það hefði ekki verið neitt mál. En hann hefði ekki getað opnað innlánsreikningana í landinu og það hefði engan veginn verið vegið að því eða gefið í skyn að hann væri fjárhagslega óburðugur til að gera þetta.

Spurningin er þá, hefði ekki verið betri leið að setja Landsbankann á höfuðið með því að svipta hann starfsleyfi? Í því sambandi verður að hafa eitt í huga og það er að endurskoðunarfyrirtæki, matsfyrirtæki, Fjármálaeftirlitið, markaðurinn og aðrir, allir sögðu: Það er í góðu lagi með þennan banka. Eftir á að hyggja hefðum við getað gert svo margt til að minnka það tjón sem varð en eitt af því sem við hefðum ekki getað gert var að setja Landsbankann á hausinn. Ég er alveg sannfærður um að það hefði ekki verið betri leið og ekki raunverulegri leið og það var heldur ekki raunverulegur valkostur, það var ekkert sem gaf tilefni til þess að fara út í svo drastískar aðgerðir. Enginn þeirra aðila sem ég nefndi áðan lýsti áhyggjum af því að Landsbankinn væri að fara á hausinn. Meira að segja Landsbankinn fékk hæstu einkunn á markaðnum frá fjárfestum vegna internet-reikninganna í Hollandi og Bretlandi. Moody's, Standard & Poor's og Fitch verðlaunuðu þá með hæstu lánshæfismatseinkunninni af sömu ástæðum.



[12:33]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ágæta yfirferð varðandi tryggingarnar og fjármálaeftirlit, hver ber ábyrgð á hverju og slíkt. Nú virðist það vera ljóst að erlendir aðilar séu að eignast banka á Íslandi. Væntanlega gilda þá þær reglur sem á Íslandi gilda og íslenska fjármálaeftirlitið mun væntanlega hafa eftirlit með þeim banka sem er í erlendri eign en er íslenskt fyrirtæki, ef ég skil dæmið rétt. Það er ágætt ef hv. þingmaður gæti staðfest þetta.

Það hefur komið fram að ríkisstjórnin ábyrgist innstæður í bönkum á Íslandi sem þýðir þá væntanlega að ríkisstjórnin ábyrgist einnig allar innstæður í þessum banka sem verður í eigu erlendra aðila. Ég spyr: Er það eitthvað sem við þurfum að hafa áhyggjur af?

Síðan langar mig að velta því upp að nú hefur Alistair Darling, fjármálaráðherra Bretlands, lýst yfir að Bretar muni ekki ábyrgjast innstæður utan lögsögu breska fjármálaeftirlitsins, ég held að hann hafi orðað það þannig. Ég velti því fyrir mér hvað það þýðir. Er það ekki í raun staðfesting á því að Íslendingum og íslenska ríkinu ber þá ekki að ábyrgjast þær innstæður og þá reikninga sem voru í Bretlandi og Hollandi? Ég fæ ekki skilið þessi orð öðruvísi og velti fyrir mér hvers vegna annað eigi að gilda um Ísland.

Ég vil líka þakka hv. þingmanni fyrir að hafa dregið fram ábyrgð Samfylkingarinnar í þessu máli, verandi með viðskiptaráðherra, Fjármálaeftirlitið og varaformann Seðlabankans á sínum snærum.



[12:35]
Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir ágætisspurningar. Hvað varðar það að við ábyrgjumst að fullu innstæður í bönkum sem útlendingar eiga þá hef ég alls ekki áhyggjur af því. Í fyrsta lagi er það óhjákvæmilegt og í öðru lagi held ég að það skapi enga nýja áhættu eða öðruvísi áhættu. Að vísu hef ég þó nokkrar áhyggjur af því að eignarhaldið — við vitum ekki hverjir þessir erlendu eigendur eru. Það hafa verið sögur um að það hafi verið það sem menn kalla hrægammasjóði eða „vulture funds“ sem hafi verið að hirða upp skuldabréf bankanna og hafi á þann hátt eignast hlut í bönkunum og spurningin er þá: Eru það nægilega traustir bakhjarlar fyrir íslenska bankakerfið að vogunarsjóðir eigi stóra hluti þar? Það er spurning sem mér finnst meira varið í að spyrja.

Jafnframt er athyglisvert að velta fyrir sér því að nú er gengið mjög hart fram gagnvart fyrirtækjum og einstaklingum í að innheimta skuldir af bönkunum og það mun eingöngu verða til að hámarka hlut þessara útlendinga, ekki hlut ríkisins nema að örlitlu leyti.

Eitt atriði hvað varðar breska eftirlitið. Breska eftirlitið hefur gefið út að þeir ábyrgist ekki innstæður í dótturfélögum fyrir utan Bretland. Þar stóð hnífurinn í kúnni, að þeir vilja ekki ábyrgjast innstæður í dótturfélögum á Ermasundseyjunum. Ég held að þeir ábyrgist í útibúum og ég held að það standi ekki ágreiningur um það.



[12:37]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er einmitt þetta atriði, er varðar eignarhaldið á bönkunum. Er ekki sjálfsagt mál og í raun mikilvægt að upplýsa það hverjir eru í raun að eignast og hverjir eiga bankann, þennan nýja Arion banka í dag, í ljósi þess að ríkisstjórnin hefur lýst því yfir að hún ábyrgist allar innstæður í þeim banka líkt og öðrum, ef ég hef skilið þetta rétt? Nú hef ég ekki hugmynd um frekar en aðrir hverjir eiga þennan Arion banka í dag, þar eru hugsanlega einhverjir hrægammar eða hvernig á að orða það, einhverjir sem munu reyna að hámarka gróða sinn og mögulega hverfa svo út úr þeim rekstri. Er ekki mikilvægt að upplýsa um hvaða aðilar þetta eru og þá um leið hvort þeir eru traustir, í ljósi þess að ríkisvaldið hefur lýst því yfir að það muni ábyrgjast innstæður í bönkum á Íslandi?

Mig langar líka að spyrja hv. þingmann, ég veit ekki hvort hann nær að svara því á þeim stutta tíma sem hann hefur, en ég hef miklar áhyggjur af því ef greiða á þessar greiðslur í erlendri mynt. Það var sett inn í neyðarlögin, og ég hef reynt að spyrja um þetta áður, að hægt væri að greiða í íslenskum krónum. Það hefur væntanlega ekki verið gert af tilviljun einni saman og mig langar að biðja hv. þingmann ef hann hefur tíma til að rifja það upp fyrir okkur af hverju það var gert en meginspurningin er varðandi þá sem eiga þennan banka.



[12:39]
Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir góðar spurningar. Í fyrsta lagi hvað varðar eignarhaldið þá er ég algerlega staðfastur í því að greina eigi frá eignarhaldi á Íslandsbanka og Arion banka sem eru orðnir í eigu kröfuhafa. Við verðum að vita hverjir þessir kröfuhafar eru, a.m.k. stærsti hlutinn sem myndar einhvers konar hóp kjölfestufjárfesta.

Vissulega hefur maður áhyggjur af því hverjir það gætu verið sem eiga þetta og ef það er t.d. mikið af vogunarsjóðum sem mynda þarna stóran hlut þá geta langtímahagsmunir kannski verið bornir fyrir borð. Það er eitt af hlutverkum Fjármálaeftirlitsins að það verður að samþykkja eigendurna, að þeir hafi þann fjárhagslega styrkleika sem þarf til að fara með eignarhald í bönkum þegar um stóra hluthafa er að ræða. Það verður eflaust farið yfir það og þeir látnir uppfylla þau skilyrði sem til þarf. Með öðrum orðum, það má ekki hver sem er eiga stóran hlut í banka.

Í þriðja lagi var hugsunin með því að greiða út í erlendri mynt — og þetta var sett inn í neyðarlögin vegna þess að menn sáu fyrir sér að það gæti einfaldlega verið erfitt að þurfa að greiða upp í erlendri mynt eins og nú á að gera vegna gjaldeyristekna og annars slíks. Svo var líka alltaf í bakhöfðinu að ef allt færi á versta veg væri a.m.k. hægt að eyða þessu með verðbólgu.



[12:41]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Enn á ný kem ég í þennan ræðustól til að ræða hið mikilvæga mál, Icesave-málið svokallaða. Það er eiginlega orðið kostulegt að fylgjast með því sem hefur verið kallað „spinn“ stjórnarliðanna. Núna snýst spinnið greinilega um, miðað við þann málflutning sem þeir hafa viðhaft í andsvörum, að það sé ekkert nýtt í þessari umræðu, það hafi ekkert nýtt komið fram. Þeir viti þetta allt saman og við stöndum hér og höldum uppi grímulausu málþófi, segir þetta fólk. Þrjóska ríkisstjórnarinnar er svo mikil að þessir hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar hlusta ekki, þeir geta ekki viðurkennt að hér hafa oft komið mjög áhugaverðar upplýsingar, nú síðast í ræðu hv. þm. Tryggva Þórs Herbertssonar. En allt er þetta eins og að skvetta vatni á gæs og það er orðið verulega þreytandi.

Hæstv. utanríkisráðherra Össur Skarphéðinsson kom í andsvar á bloggtímanum sínum í gærnótt og hélt því fram fullum fetum að það frumvarp sem við ræðum núna væri miklu betra en fyrirvararnir og lögin sem við samþykktum í sumar. Það gerir hann í þeirri von og trú að það enginn taki mark á því sem hann segir, alla vega eftir kl. 12 á nóttunni, og það er sorglegt. Auðvitað er þetta mál ekki betra en það sem við vorum með í sumar. Það vita það allir og þeim hefur stundum orðið á að viðurkenna það ef hart hefur verið gengið eftir en svo koma þeir hér og reyna að halda þessu fram einungis til að blekkja. Það er alltaf eitthvað nýtt að koma fram.

Formaður Sjálfstæðisflokksins talaði í gær um að þetta snerist um sjálfstæðisbaráttu íslenskrar þjóðar, kannski ekki síst vegna efnahagslegs sjálfstæðis sem mörgum þykir vera í stórhættu, verði þetta samþykkt. Ég hef sagt það áður að mér er fyrirmunað að skilja hvers vegna við erum komin í þá stöðu að stjórn og stjórnarandstaða á Íslandi séu farin að karpa um mál sem ættu að vera svo borðleggjandi að við ættum að standa saman gegn viðsemjendum okkar. Við erum að karpa og rífast, við erum að slíta þjóðina í sundur út af þessu. Fólk er orðið þreytt á þessu, við erum öll orðin þreytt á þessu en við getum ekki beygt okkur í duftið og gefist upp. Við eigum að standa saman sem aldrei fyrr en það ríkir fullkomið vantraust á milli stjórnar og stjórnarandstöðu í þessu máli.

Það eru sífellt að birtast nýjar greinar. Það eru nýjar greinar í Morgunblaðinu í dag og ein vakti athygli mína. Hún er skrifuð af Kristjáni Gíslasyni sem er fyrrverandi framkvæmdastjóri og núverandi stjórnarformaður tveggja íslenskra fyrirtækja. Hann talar um þetta út frá virðingu gagnvart þjóð sinni. Með leyfi forseta vil ég fá að grípa niður í grein Kristjáns. Hann segir:

„Það eru hin gríðarlegu áhrif sem aðdragandi og úrvinnsla Icesave-málsins hefur haft á okkur sem þjóð – hvernig við höfum smátt og smátt verið að missa sjálfstraustið og í raun sjálfsvirðinguna.“

Það er það, frú forseti, sem mér þykir svo alvarlegt og ég tek undir með Kristjáni. Þá bendir stjórnarandstaðan á okkur og segir að við séum óábyrg, að við séum lýðskrumarar og það er talað um að við séum með grímulaust málþóf. Hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir gekk svo langt að segja að það væru gloppur í þingsköpunum í umræðum í morgun vegna þess að minni hlutinn hefur rétt á að tjá sig og hann getur beitt þingsköpunum þannig að á hann sé hlustað. Það er mjög sorglegt. Síðast þegar ég gáði, fyrir svona 5 mínútum, voru það 24.142 Íslendingar sem kalla á okkur í stjórnarandstöðunni og biðja okkur um að verja hagsmuni Íslands. Ég er ekki viss um að þeir 39 stjórnarliðar sem hafa gefið sig út fyrir að styðja þetta mál … (Gripið fram í.) Fyrirgefið, við erum 29 í stjórnarandstöðunni, takk fyrir leiðréttinguna hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir, við erum 29, þau eru 34 og svo kemur náttúrlega í ljós hversu margir styðja þetta á endanum. Það hafa einhverjir fallið úr fylkingunni og Samfylkingarfélög hér og þar um landið ákalla samstarfsflokkinn um að ganga í takt, við vitum það. En gefum okkur að það séu 34 stjórnarliðar sem styðja þetta mál, þá bendi ég þeim á að það eru 24.142 Íslendingar sem eru þeim ósammála. Enn sem komið er eru það 24.142 og ég trúi því að þeim eigi eftir að fjölga. Það er í þeirra nafni sem við tölum hér vegna þess að þetta snýst um áhættu fyrir íslenska þjóð fyrir utan það sem ég nefndi um virðingu. Þetta snýst um að við sem stöndum hér getum ekki tekið þessa áhættu í nafni íslenskrar þjóðar. Geta t.d. hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra komið hér og staðfest við okkur sem sitjum í þessum sal að endurheimtur úr þrotabúi Landsbanka Íslands verði í kringum 90% og það „litla“ sem eftir er, vegna þess að þetta eru allt stórar fjárhæðir, munu falla á íslenska ríkið? Geta þessir ágætu hæstv. ráðherrar fullyrt við og þjóð að þessi niðurstaða verði ofan á og að það sé ekki nokkur möguleiki á því að þetta hlutfall lækki og verði t.d. eitthvað innan við 50% eða fari niður í 0? Geta þessir hæstv. ráðherrar staðfest það? Ég held nefnilega ekki. Þeir geta ekki staðfest þetta og það sem meira er, ef það er eitthvað sem við hefðum átt að læra af þessu hruni er það að taka ekki séns. Við getum ekki gengið áfram með eitthvert „þetta reddast“-hugarfar. Við settum það í lög í sumar að Íslendingar væru ekki lengur tilbúnir að taka áhættu. Við takmörkuðum efnahagslegu áhættuna með því að setja þessa fyrirvara inn og hæstv. utanríkisráðherra kemur og segir að þetta frumvarp sé betra.

Af hverju er ekki gerður aðsúgur að hæstv. utanríkisráðherra af fjölmiðlamönnum og hann látinn útskýra mál sitt? Af hverju er hæstv. utanríkisráðherra ekki látinn standa fyrir máli sínu? Hvað er það í þessu sem er betra? Mér er fyrirmunað að skilja það og þetta var efnahagslegi fyrirvarinn sem ég nefndi. Hvað þá með lagalegu fyrirvarana, einkum þann sem kenndur er við Ragnar H. Hall sem Ragnar H. Hall sjálfur segir að sé búið að tæta niður? Ragnar H. Hall segir í grein sinni sem er búið að vitna margoft í, með leyfi forseta:

„Það er sjálfsagt til lítils að rökræða um efni þess, þar sem málið er talið „þreytt“ og fullvíst talið að stjórnarþingmenn muni samþykkja frumvarpið, hvað sem tautar og raular. En það má reyna.“

Þess vegna stöndum við hér og ef hv. stjórnarþingmenn vilja kalla það málþóf þá verði þeim að góðu. Ég tala fyrir sjálfa mig og ég er ekki að beita neinu málþófi.

Svo eru sjónarmiðin sem koma fram t.d. í máli hæstv. fjármálaráðherra fullkomlega ósamrýmanleg. Það hefur allt gengið svo vel, sagði hann í gær, miklu betur en Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn spáði. Hann sagði að við í stjórnarandstöðunni værum með dómsdagsspár og gekk svo langt að segja að það væru alvarlegar dylgjur — óstaðfestar lausafregnir, kallaði hann þau orð sem sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins lét falla. Sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hér á landi er farin að vera með óstaðfestar lausafregnir. Hvers konar málflutningur er þetta? En þótt allt sé svo gott og það eru óstaðfestar dylgjur ef eitthvað er gagnrýnt, kemur hræðsluáróðurinn. Ef Icesave klárast ekki verður hér ísöld, þá verður hér frostavetur, þá fer allt á hliðina. Það eru ekki óstaðfestar lausafregnir, það er sannað, og þau bera lánshæfismatsfyrirtækin fyrir sig, sömu lánshæfismatsfyrirtæki og gáfu okkur alltaf bestu einkunn. Frú forseti. Mér er nákvæmlega sama um þessa einkunn lánshæfismatsfyrirtækjanna. Þau geta hlustað á málflutning okkar og þau geta verið algerlega viss um að við ætlum ekki að láta kúga okkur í þessu.

Frú forseti. Það er eftir sem áður. Nú á ég 25 sekúndur eftir og ég er rétt að byrja. Ég ætlaði að tala um ummæli hæstv. fjármálaráðherra þegar hann talaði um að það væru stórkostleg afrek, og ég get alveg tekið undir það, sem lítil íslensk stjórnsýsla hefur unnið við að endurreisa efnahag okkar. Hann kvartaði undan því að hún kæmist ekki yfir margt. Á sama tíma leggur hann þessa sömu stjórnsýslu undir Evrópusambandsumsókn sem hann er á móti. Ég ætlaði t.d. að fjalla um það í nokkru máli. (Forseti hringir.)

Frú forseti. Ég kemst því miður ekki yfir það í þessari ræðu þannig að ég óska eftir því að verða sett aftur á mælendaskrá.



[12:52]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hennar. Hér er búið að spá ísöld, frostavetri og slíku og fór hæstv. forsætisráðherra mikinn í því. Hún man kannski hvernig var umhorfs á þeim tíma en ekki veit ég hvernig frostaveturinn var. En mig langar að velta því upp við hv. þingmann að það lítur stundum út á Alþingi eins og hér hafi ekki verið nein ríkisstjórn fyrir rúmu ári síðan, að hér hafi ekki verið tveir flokkar í ríkisstjórn heldur eingöngu einn flokkur við völd. Nú langar mig að spyrja hv. þingmann sem þingmann Sjálfstæðisflokksins hvort Sjálfstæðisflokkurinn kannist við að hafa verið í ríkisstjórn á þeim tíma þegar allt fór niður á við, þegar hrunið varð, og hvort sá flokkur hafi verið einn við stjórnvölinn. Auðvitað ber ríkisstjórn þess tíma mikla ábyrgð og ég held að það sé rangt þegar reynt er að hlaupa frá henni líkt og mér finnst þingmenn og ráðherrar Samfylkingarinnar reyna að gera. Ég held að það sé mikilvægt að spyrja hv. þingmann hvort hún telur að frá því að hrunið varð, frá því að þau stjórnvöld sem þá voru tóku ýmsar ákvarðanir sem eru mjög umdeilanlegar, svo vægt sé til orða tekið, hafi þetta mál breyst með einhverjum hætti, hvort Icesave-málið sé sama mál og það var fyrir rúmu ári síðan. Hér hafa þau orð verið látin falla að svo sé, menn hafa verið að vitna aftur í tímann í ákvarðanir og eitthvað sem sagt hefur verið.



[12:54]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ágætar spurningar. Það er ekki skrýtið að menn velti því fyrir sér hvort Sjálfstæðisflokkurinn hafi verið einn í stjórn frá miðju ári 2007 til 1. febrúar 2008. Nei, það var víst þannig að það voru tveir flokkar við stjórn. Ég get tekið undir orð hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar sem lýsti hreinlega eftir þeim ráðherrum sem sátu með honum við ríkisstjórnarborðið af því að hann kannaðist við fullt af fólki í salnum sem hafði verið með honum á fullt af fundum en enginn kannast neitt við neitt núna.

Að sjálfsögðu er ábyrgð Samfylkingarinnar mikil í þessu máli líkt og ábyrgð okkar hinna. Sjálfstæðisflokkurinn var búinn að vera við völd í 18 ár og bankakerfið hrundi á okkar vakt. Það er ömurlegt, ég get alveg sagt það, og við berum okkar ábyrgð í því. En það eru fleiri sem bera ábyrgðina og mér var kennt strax í æsku að maður á ekki að skjóta sér undan ábyrgð, eins og mér finnst Samfylkingin vera að gera. Þeir skjóta sér svo mikið undan ábyrgð að þeir meina meira að segja formanni sínum frá þessum tíma að koma fyrir fjárlaganefndina þó að óskað hafi verið eftir því. Það er ekki eins og það hafi verið óskað eftir því út í bláinn heldur tjáði sá ágæti fyrrverandi stjórnmálamaður sig um þessi mál og var það mjög athyglisvert sem hún sagði. Það lá því beint við að fá hana á fund nefndarinnar, en nei, þeir voru víst búnir að gleyma henni líka og það mátti ekki kalla hana fyrir fundinn.

En varðandi hvort þetta sé sama Icesave-málið núna eða ekki verður að bíða seinna andsvars míns.



[12:56]
Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. fjármálaráðherra hélt mikla hvatningarræðu fyrir meiri hlutann, ræðu sem var eingöngu til þess fallin að hvetja meiri hlutann til að halda áfram að kúga minni hlutann á Alþingi, eins og ég skildi hana. En það sem var kannski alvarlegast í ræðunni var að hann er ekki reiðubúinn að bakka með hræðsluáróðurinn jafnvel þó að allt sem hann hefur sagt nú í nokkra mánuði hafi verið hrakið. Ekkert af því stórhættulega sem átti að koma fyrir íslenskt efnahagslíf hefur gengið eftir.

Hæstv. fjármálaráðherra kom með hótanir um eitthvað óskilgreint, eitthvað sem enginn veit hvað er og enginn getur ímyndað sér hvað er. Jafnvel barn er ekki með það frjótt ímyndunarafl að það geti búið til eitthvað hræðandi úr orðum hæstv. fjármálaráðherra. Ég vil spyrja hv. þm. Ragnheiði E. Árnadóttur hvort hún telji ekki að fara verði betur yfir orð hæstv. fjármálaráðherra og hvort honum beri ekki skylda til þess sem nánast einvaldi á Íslandi, nánast eina starfandi ráðherranum, þannig virðist það a.m.k. vera, að upplýsa þjóðina um af hverju skattpeningar 80 þúsund Íslendinga næstu sjö árin fari bara í það að greiða niður vexti af Icesave-láninu.



[12:58]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar og ég er sammála honum um að þessi málflutningur hæstv. fjármálaráðherra er algerlega óskiljanlegur. Þetta er ósamrímanlegt, eins og ég fór yfir í ræðu minni. Það er annars vegar verið að segja að allt gangi svo vel, miklu betur en við hefðum getað búist við og miklu betur en Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefði getað búist við, en alltaf kemur svo nýtt „en“. Þá heyrist: En ef Icesave verður ekki samþykkt í þessum skýra og endanlega búningi eins og það er fer allt á hliðina. Ég fór yfir það, eins og þingmaðurinn veit, í ræðu minni að nú er lánshæfismatsfyrirtækjunum beitt fyrir okkur. Ég sagði það áðan og ég segi það enn: Mér er nákvæmlega sama um hvað lánshæfismatsfyrirtækjum finnst um þetta mál. Við látum samt ekki kúga okkur til að ljúka því með þessum hætti. Það er alveg klárt að það þarf að fá það fram hvað hæstv. fjármálaráðherra átti við þegar hann talaði um grímulausar hótanir aðila innan Evrópusambandsins þar sem sagt var að við mundum hafa verra af ef við gengjum ekki frá Icesave-málinu. Hæstv. forsætisráðherra segist ekkert kannast við þetta, það hljóti að vísa til þess hvernig Bretar létu strax eftir hrun. Þess vegna hef ég lagt fram formlega fyrirspurn á þinginu, það er eina leiðin til að reyna að komast að á þessu þingi, ekki þó til hæstv. fjármálaráðherra vegna þess að ef þetta snýst um þessa fyrstu daga er það hæstv. utanríkisráðherra, sem var einmitt í ríkisstjórn á þeim tíma, sem á að svara því hverjir það voru sem voru með grímulausar hótanir. Hverjir sögðu að við mundum hafa verra af, hvernig brást hæstv. utanríkisráðherra við og hvernig var utanríkisþjónustunni beitt? Ég hef lagt fram þessa fyrirspurn ofan í allar þær fjölmörgu sem ég hef áður lagt fram til að biðja um alls konar gögn og ég hef ekki enn þá fengið svar við. Ef það eitt og sér er ekki ástæða til að halda þessari umræðu gangandi (Forseti hringir.) þangað til þessum ágætu ráðherrum sýnist vera kominn rétti tíminn til að svara mér þá veit ég ekki meir.



[13:01]
Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágætt andsvar og ég tek heils hugar undir með henni að þessi umræða verður að fara fram þjóðfélagsins vegna þangað til við fáum skýringar á því hver hefur rétt fyrir sér og hver er að segja ósatt varðandi þær hótanir sem fjármálaráðherra fullyrðir að Evrópusambandið og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi beitt Íslendinga. Þarna ber mönnum ekki saman og ég hef velt fyrir mér hvernig stendur á því að fjármálaráðherra þorir að vinna með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum þegar hann heldur því fram að þeir aðilar sem þar starfa séu beinlínis að segja ósatt. Hvernig getur staðið á því að hann heldur áfram samstarfi við þessa aðila? Það er spurning sem ég tel að sé mjög brýnt að við fáum svör við í umræðunni.

Mér fannst ágætt þegar hv. þingmaður benti á að lánshæfismatið er ekki alveg eins alvarlegt og hæstv. ráðherra vill vera láta vegna þess að því skuldsettari sem þjóðin er, þeim mun verra er lánshæfismatið. Það er alveg sama hvort um er að ræða einstaklinga, fyrirtæki eða þjóðir. Því meira sem hver aðili skuldar, þeim mun verra verður lánshæfismatið. Fólk getur bara reynt það á sjálfu sér, ef það er stórskuldugt á það ekki greiðan aðgang að lánum og það batnar ekki ef fólk skuldsetur sig meira. Hverjum dytti í hug að fara til bankastjórans síns og segja: Ja, þú vildir ekki veita mér lán um daginn en ég ætla að skuldsetja mig (Forseti hringir.) um 800 milljarða. Viltu þá ekki lána mér? Nei, það gengur ekki upp, virðulegi forseti.



[13:03]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er algerlega sammála þingmanninum. Þeim mun skuldsettari sem maður er, því lægra lánshæfismat fær maður og við leysum það með því að taka frekari lán. Þessi röksemd gengur einfaldlega ekki upp, ekki frekar en sú röksemdafærsla að ef við klárum Icesave getum við fyrst farið að endurreisa bankakerfið. Ef við klárum Icesave fáum við lánin. Ef við klárum Icesave fáum við endurskoðun áætlunar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins o.s.frv. Það voru líka rökin sem við heyrðum þegar verið var að troða Evrópusambandsumsókninni í gegnum þingið og tekinn var dýrmætur tími frá endurreisninni og frá íslenskri stjórnsýslu sem á að vera að sinna endurreisninni einungis og engu öðru.

Það þarf að komast að því hvað hæstv. fjármálaráðherra átti við þegar hann talaði um hótanirnar frá ESB en líka, eins og hv. þingmaður benti á, þau ummæli sem hæstv. fjármálaráðherra hafði varðandi Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Hann sagði að til væru skrifleg gögn og ég á eftir að leggja fram þá fyrirspurn en ég hef hana í vinnslu. Hann sagði að til væru skrifleg gögn sem staðfestu það hverjir væru að segja satt og hverjir ósatt. Hann á ekki að ýja að því, hann á að segja okkur það hreint út. Hann ýjaði líka að því að önnur endurskoðun áætlunarinnar væri háð því að Icesave-frumvarpið yrði samþykkt. Mér þykir það hreint með ólíkindum að við ættum að sætta okkur við það og ég tek ekki þátt í því. Við þurfum að bera örlítið meiri virðingu fyrir okkur en að halda slíkum málflutningi á lofti. Þar að auki virðist virðing hæstv. fjármálaráðherra gagnvart Alþjóðagjaldeyrissjóðnum fara þverrandi þegar hann talar um það sem óstaðfestar lausafregnir sem sendinefndin segir á Íslandi við stjórnarandstöðuþingmenn.