Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 76. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Prentað upp.

Þskj. 256  —  76. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 96/2009, um heimild til handa fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, til að ábyrgjast lán Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frá breska og hollenska ríkinu til að standa straum af greiðslum til innstæðueigenda hjá Landsbanka Íslands hf.

Frá 1. minni hluta fjárlaganefndar.



    Fyrsti minni hluti átelur málsmeðferð fjárlaganefndar þar sem meiri hlutinn hafnaði því að ræða ýmis brýn álitamál varðandi greiðslugetu þjóðarbúsins, efnahagslegar forsendur Icesave-samkomulagsins og óvissuþætti sem upp gætu komið. Meiri hlutinn hafnaði því einnig að skoðaðar væru nýjustu tölur sem sýna fram á að erlendar skuldir ríkissjóðs eru hugsanlega orðnar óviðráðanlegar.
    Ljóst er að skuldsetning þjóðarbúsins erlendis er komin langt umfram það sem gerist hjá mjög skuldugum þjóðum heims og miklar líkur á að þjóðarbúið komist í greiðsluþrot haldi ekki þær forsendur sem stjórnvöld gefa sér varðandi endurheimtuhlutfall á eignum Landsbanka Íslands, hagvöxt á Íslandi, gengi krónunnar, mannfjöldaþróun og verðlag í Bretlandi og á evrusvæðinu.
    Greiðslur af Icesave-lánunum eru í erlendum myntum (evrum og pundum) og þarf að afla þess gjaldeyris með afgangi af útflutningstekjum. Tölur Seðlabankans sýna hins vegar að halli á vöru- og þjónustujöfnuði hefur verið neikvæður 12 af síðustu 19 árum. Afgangur hefur mest verið 22 milljarðar kr. árið 1994 og fyrir þau sjö ár á tímabilinu 1990–2008 þegar ekki var halli á viðskiptunum var afgangurinn samanlagt um 76 milljarðar kr. Samanlagður halli á vöru- og þjónustujöfnuði frá árinu 2000 er 632 milljarðar kr. eða 70 milljarðar kr. að meðaltali á ári. Umsögn Seðlabankans frá í sumar gerir hins vegar ráð fyrir 163 milljarða kr. afgangi af viðskiptum við útlönd á hverju ári að meðaltali næstu 10 árin. Nýjustu spár Seðlabankans gera einnig ráð fyrir að útflutningstekjur verði um helmingur vergrar landsframleiðslu, hlutfall sem er algerlega óraunhæft og hefur þetta hlutfall hæst náð um 33% af vergri landsframleiðslu þegar best var. Þess má geta að við afgreiðslu málsins í sumar taldi Seðlabankinn óraunhæft að þetta hlutfall breyttist.
    Í ljósi þróunar á viðskiptum við útlönd undanfarna áratugi og þeirrar staðreyndar að Ísland er aðili að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES) og getur því ekki hindrað flæði vöru og þjónustu virðist spá Seðlabankans einfaldlega vera algerlega óraunhæf, svo óraunhæf að hún virðist jaðra við skáldskap.
    Skoða þarf skuldastöðu þjóða með hliðsjón af aðstæðum í hverju landi. Spurningin er ekki hvort ríkið geti staðið undir skuldbindingum sínum – heldur hvort þjóðin geti það. Ríkið getur staðið í skilum með því einfaldlega að taka þessa upphæð af þjóðinni í formi hærri skatta eða/og skertrar velferðarþjónustu. Málið snýst um efnahag Íslands meðan á greiðslum stendur en hugsanlegt er að farið verði svo djúpt í skattlagningu að upp úr því verði seint komist. Fólk og fyrirtæki eru hreyfanleg og mörg þeirra munu flýja land ef of langt verður gengið í skattheimtu og skerðingu lífskjara til að standa í skilum með erlend lán þjóðarbúsins. Afar lítið af auði landsins er bundið við landið nema e.t.v. landbúnaðurinn, stóriðjan og hluti af fiskveiðunum.
    Hvað varðar mat á eignum þrotabús Landsbanka Íslands hf., þá hefur enginn fengið að sjá hverjar þessar eignir eru fyrir utan skilanefnd bankans. Gert er ráð fyrir að 75% eignanna í eignasafninu gangi upp í skuldina vegna Icesave-reikninganna. Við venjubundin gjaldþrot teljast 20% endurheimtur á eignum góðar en 30% endurheimtur mjög góðar.
    Í skýrslu finnska fjármálaeftirlitsins frá árinu 2003 kom fram að eignir finnsku bankanna hefðu verið ofmetnar og skuldirnar vanmetnar í a.m.k. ár eftir að bankarnir lentu í erfiðleikum við upphaf fjármálakreppunnar á tíunda áratug síðustu aldar. Miðað við þá reynslu má telja líklegt að eignir Landbankans séu enn ofmetnar og skuldir vanmetnar og þá bendir 1. minni hluti á að ekki hefur enn fengist uppgefið hversu stór hluti af eignum Landsbankans sé veðsettur. 1. minni hluti bendir á að ofmat á eignum bankans mun þýða að minna endurheimtist af þeim á næstu árum, þannig að höfuðstóll Icesave-lána verði hærri eftir sjö ár en gert er ráð fyrir. Þess má geta að íslenskir ráðamenn hafa haldið því á lofti að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi á sínum tíma lagt blessun sína yfir matið á eignum Landsbankans en af hálfu fulltrúa sjóðsins á Íslandi hefur þvert á móti verið staðfest að það hafi aldrei verið gert.
    Í ljósi þess að með samþykkt Icesave-samninganna verður skuldabyrði þjóðarbúsins á mörkum þess að vera viðráðanleg, og er jafnvel nú þegar orðin óviðráðanleg, og að lítið eða ekkert megi út af bregða til að þjóðin lendi í greiðsluþroti, telur 1. minni hluti sig ekki geta mælt með að Alþingi samþykki nýja útgáfu af ríkisábyrgð vegna Icesave-samninganna. Það eru einfaldlega of miklar líkur á að þjóðin geti ekki staðið undir skuldum á næstu árum.
    Þessu frumvarpi fylgir mikil óvissa um greiðslugetu ríkissjóðs sem og um greiðslugetu þjóðarbúsins í heild og það er einfaldlega mjög varasamt að rýmka þá fyrirvara sem Alþingi samþykkti við ríkisábyrgðina nú í sumar.
    1. minni hluti telur afgreiðslu meiri hlutans gagnrýniverða og telur það lýsa fádæma þjónkun við framkvæmdarvaldið að þingnefnd skuli afgreiða frumvarp sem felur í sér svo veigamiklar breytingar á lögum sem Alþingi sjálft er nýlega búið að samþykkja umyrðalaust. Aðkoma fjárlaganefndar að málinu ber einkenni sýndarmennsku í stað vandaðrar úttektar á þeim efnisatriðum málsins sem nefndin átti að fjalla um. Fjárlaganefnd fjallaði heldur ekki efnislega um álit efnahags- og skattanefndar sem hún hafði þó óskað eftir. 1. minni hluti telur einfaldlega hneykslanlegt að ekki skuli hafa verið skoðað að fá úttekt á framlögðum gögnum frá Seðlabankanum og fjármálaráðuneytinu og enn fremur ábyrgðarlaust af hálfu meiri hlutans að afgreiða málið með þessum hætti.

Alþingi, 17. nóv. 2009.

Þór Saari.