138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:10]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður heldur áfram. Það er sjálfsblekking ef maður hefur aðra skoðun en hv. þingmaður. Hann veit e.t.v. ekki af því en þegar við byrjuðum á þessu máli var megingagnrýnin á að við værum að vinna með fyrirvara, að það þyrfti að fara inn í lögin, það þyrfti að fara inn í samninginn til þess að hann héldi. Frá hverjum kom það? Meðal annars frá Indefence-hópnum, meðal annars frá hv. þingmönnum Framsóknarflokksins, að það væri gagnslaust að setja fyrirvara, það þyrfti að fara inn í samningana. Hvað hefur gerst núna? Það er búið að taka einmitt þessi atriði sem voru með fyrirvara og setja þau inn í lánasamninginn eins og hann var gerður síðar. Þess vegna hef ég haldið því fram að margt af því sem áður var í óvissu, vegna þess að það mundi ekki verða viðurkennt fyrir dómi, er núna komið inn í samningana.

Hv. þingmaður talaði um gjaldeyrismálin, sem fjölmargir hafa fjallað um, og nefndi í því sambandi tvennt, IFS og Sigurð Hannesson. Hvað margir ætli hafi komið fyrir nefndina með gagnstætt álit? Fjölmargir. Ég skora á hann að halda áfram þessari upptalningu, eða er það orðið þannig að Framsóknarflokkurinn er orðinn vanur því að þegar hann getur nefnt tvo teljist þeir fjölmargir?

Mig langar aðeins að heyra varðandi gengið, hvaða áhrif hefur það á gengið ef 680–700 milljarðar eru teknir að láni í íslenskum krónum en verða eftir sem áður greiddir til útlanda, erum við þá ekki komin með nýtt jöklabréfamál? Hvernig lítur þá málið út þegar þar að kemur?

Mig langar líka að biðja hv. þingmann að koma nú með lausnina á málinu. Hvað á að gera? Við stöndum í þeirri stöðu að við þurfum að leysa þetta mál. Hv. þingmaður hefur ítrekað sagt að við berum okkar skyldu, að við stöndum við okkar skuldbindingar. Hverjar eru þær að mati hv. þingmanns? Hvernig væri að heyra einhvern tíma lausnamiðaðar hugmyndir í staðinn fyrir að koma ítrekað með niðurrifsstarfsemi?