136. löggjafarþing — 59. fundur
 16. desember 2008.
ráðstafanir í ríkisfjármálum, 1. umræða.
stjfrv., 243. mál (breyting ýmissa laga). — Þskj. 357.

[15:30]
forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum á þskj. 357, 243. máli. Í frumvarpinu eru gerðar tillögur um nauðsynlegar lagabreytingar til samræmis við breytingartillögur meiri hluta fjárlaganefndar sem fram komu við 2. umr. um fjárlagafrumvarpið og sem Alþingi var að afgreiða rétt í þessu.

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um aðdraganda þessara tillagna. Allt frá því lög nr. 125/2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., voru samþykkt á Alþingi 6. október sl. hafa störf þingsins markast af því að takast á við hrun íslensku bankanna og efnahagskreppu þá sem fylgdi í kjölfarið.

Ein augljósasta afleiðing kreppunnar er sú að skatttekjur ríkisins lækka vegna minnkandi umsvifa í þjóðfélaginu og útgjöld aukast vegna hækkandi verðlags og gengisfalls íslensku krónunnar. Að óbreyttu stefndi í að halli ríkissjóðs á árinu 2009 gæti orðið um 215 milljarðar kr. Í efnahagsáætlun fyrir Ísland sem unnin var í samvinnu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn er hins vegar gert ráð fyrir að hallinn verði ekki meiri en sem nemur 165–170 milljörðum kr. Það þurfti því að bregðast við með mjög afgerandi hætti. Með aðhaldssemi í ríkisbúskapnum stuðlum við að því að þjóðfélagið nái sér sem fyrst upp úr kreppunni.

Ríkisstjórnin kynnti hinn 11. desember sl. sparnaðaraðgerðir sem lagðar voru til við fjárlaganefnd. Meiri hluti hennar gerði þær að sínum og þingið afgreiddi þær í atkvæðagreiðslu fyrr á þessum fundi. Megintónninn í þeim breytingum er að standa vörð um velferðarkerfið, menntun og löggæslu en þess í stað verði hagrætt sem mest í rekstri ráðuneyta og hefðbundinna stjórnsýslustofnana. Þá mun tekjuskattur hækka og sveitarfélögum verður heimilað að hækka útsvar. Þessar aðgerðir munu bæta afkomu ríkissjóðs alls um allt að 45 milljarða kr. Þar af munu þær aðgerðir sem kveðið er á um í frumvarpi því sem hér er til umræðu bæta afkomuna um 16,5–17 milljarða kr.

Ég mun nú stikla á stóru í frumvarpinu sem hér er mælt fyrir en það skiptist í 11 kafla og er þeim raðað upp í aldursröð þeirra laga sem lagt er til að breytt verði.

Í I. kafla er lögð til breyting á lögum um sóknargjöld þannig að fjárhæð þeirra hækki ekki eins og núgildandi lög gera ráð fyrir milli áranna 2008 og 2009. Þess í stað munu þau lækka tímabundið árið 2009, um 2% frá því sem var árið 2008. Þessi gjöld renna úr ríkissjóði til þjóðkirkjusafnaða, skráðra trúfélaga og Háskólasjóðs. Með þessum hætti sparast 328 millj. kr.

Í II. kafla er lagt til að sett verði þak á útgjöld ríkisins árið 2009 vegna búvörusamninga. Verðhækkunin verði þannig óbreytt frá því sem reiknað var með í fjárlagafrumvarpinu, þ.e. 5,7%. Til að ná þessu fram er lagt til að bætt verði bráðabirgðaákvæði við búvörulögin þess efnis að búvörusamningar við bændur um sauðfjárrækt, mjólkurframleiðslu og garðyrkjuafurðir hækki einungis upp að vissu marki árið 2009 en ekki í takt við vísitölu neysluverðs.

Þarna er lagt til að Alþingi heimili að gripið verði inn í gerða samninga við bændur og ríkisstjórnin vill alls ekki gera lítið úr afleiðingum sem þetta kann að hafa í för með sér fyrir þá. Líkt og aðrir þjóðfélagshópar verða bændur hins vegar að axla nokkrar byrðar. Laun hafa skerst á almennum vinnumarkaði og hið sama mun eiga sér stað í opinbera geiranum, samanber frumvarp ríkisstjórnarinnar um breytingu á lögum um kjararáð. Við undirbúning frumvarpsins hefur verið hugað að samræmi við 72. gr. stjórnarskrárinnar sem verndar eignarréttinn. Niðurstaða ríkisstjórnarinnar er sú að lagabreyting þessi fái fyllilega staðist.

Skerðingin er almenn með því að hún kemur jafnt niður á þá sem eiga rétt til framlaga samkvæmt búvörusamningum, en þeir eru á þriðja þúsund talsins.

Sú ráðstöfun sem felst í frumvarpinu tekur einungis til eins árs, samningsársins 2009.

Loks er rétt að benda á að réttur til framlaga samkvæmt búvörusamningum er af allsherjarréttarlegum meiði. Eignarréttarvernd slíkra réttinda er að því leyti til veik að játa verður löggjafanum mikið svigrúm við að takmarka réttindin við þær aðstæður sem nú eru uppi þegar nauðsynlegt reynist að draga ríkisútgjöld verulega saman til að verjast þeim gríðarlegu efnahagslegu áföllum sem yfir þjóðina hafa dunið.

Sparnaður af þessari ráðstöfun fyrir ríkið verður um 800 millj. kr. árið 2009.

Í III. kafla frumvarpsins er lagt til að sveitarfélögum verði heimilað að hækka útsvar um 0,25 prósentustig, þ.e. úr 13,03% í 13,28%. Áætlað er að þessi hækkun geti skilað sveitarfélögum allt að 2 milljörðum kr. í útsvarstekjur miðað við það að öll sveitarfélög landsins fullnýti heimildina. Verði frumvarpið að lögum mun það skapa mun betri forsendur fyrir rekstri sveitarsjóðanna á næstu árum, en að öllu óbreyttu hefði stefnt í allnokkra tekjulækkun hjá mörgum sveitarfélögum vegna hinna miklu umskipta sem orðið hafa í efnahagsmálum þjóðarinnar.

Í V. og IX. kafla frumvarpsins er að finna tillögur til breytinga á lögum um málefni aldraðra annars vegar og almannatrygginga hins vegar. Felur þetta í sér að aukin verða áhrif fjármagnstekna á lífeyristryggingar auk þess sem frítekjumarki 70 ára og eldri verður breytt til samræmis við aðra hópa. Sparnaður verður um 1 milljarður kr. fyrir ríkið. Þá verður ákveðið að bætur almannatrygginga hækki ekki fyllilega og að öllu leyti í samræmi við vísitölu neysluverðs milli áranna 2008 og 2009, heldur um 9,6% fyrir aðra hópa en þá sem lægstu bæturnar fá. Þannig verður komið í veg fyrir 5,9 milljarða kr. aukningu útgjalda. Á móti kemur sérstök viðbót elli- og örorkulífeyrisþega að fjárhæð samtals um 2 milljarðar kr.

Í VI. kafla er gert ráð fyrir að greiðslur vegna fæðingarorlofs verði að hámarki 400.000 kr. á mánuði í stað 480.000 kr. Mun breytingin ná til foreldra barna sem fæðast frá og með 1. janúar nk. Gert er ráð fyrir að þessi breyting spari ríkissjóði um 400 millj. kr. miðað við það sem annars hefði orðið.

Í VII. kafla eru lagðar til ýmsar breytingar á lögum um tekjuskatt. Helsta breytingin er sú að lagt er til að tekjuskattur einstaklinga verði hækkaður um 1,25 prósentustig, úr 22,75% í 24%. Markmiðið með þessari hækkun er tvíþætt. Annars vegar er hækkun um 1 prósentustig til að mæta versnandi afkomu ríkissjóðs og hins vegar er hækkun um 0,25 prósentustig sem ætlað er að fjármagna sérstakt 1 milljarðs kr. framlag ríkisins til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og greiðslur ríkissjóðs á fasteignagjöldum, samtals um nálægt 1,5 milljörðum kr. Áætlað er að tekjuskattur geti hækkað um samtals 8,5–9 milljarða kr. vegna þessara breytinga.

Í VIII. kafla frumvarpsins er lagt til að lög nr. 133/2005, um ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf., verði felld úr gildi. Breytingartillögur við 2. umr. fjárlaga munu gera ráð fyrir að frestað verði ýmsum þeim framkvæmdum sem kveðið er á um í lögunum og hefur atkvæðagreiðsla þegar farið fram um þau atriði hér í dag. Vegna gjörbreyttra aðstæðna í efnahagslífi þjóðarinnar frá því lögin voru sett þykir réttast og hreinlegast að fella þau úr gildi og að ákvarðanir um fjármögnun framkvæmda og verkefna sem þar er fjallað um verði teknar árlega á vettvangi fjárlaga, eins og raunin hefur reyndar verið ár hvert frá því þessi lög voru samþykkt. Sparnaður á árinu 2009 vegna þessa, umfram það sem þegar hafði verið ákveðið í fjárlagafrumvarpinu, er um 700 millj. kr.

Í X. kafla er lögð til sú breyting á nýsettum lögum um sjúkratryggingar að heimilað verði að taka komugjald vegna innlagnar á sjúkrahús. Gjaldið sem heilbrigðisráðherra mun ákveða í reglugerð mun ná fyrst og fremst til kostnaðar vegna innritunar og aðstöðu til innritunar og verður heimilt að innheimta það einu sinni fyrir hverja legu. Ekki verður þó heimilt að taka gjald vegna innlagnar á fæðingardeild, og gjald fyrir þjónustu skal vera lægra hjá öldruðum, öryrkjum og börnum.

Sértekjur heilbrigðisstofnana af gjaldinu eru áætlaðar um 360 millj. kr. á næsta ári.

Lagt er til að frumvarpið taki gildi um áramótin að undanskildum ákvæðum er varða hækkun útsvars sem taki gildi þegar í stað þannig að sveitarfélög hafi svigrúm til að ákveða hvort þau nýti sér umrædda heimild.

Virðulegi forseti. Þær breytingar sem lagðar eru til með frumvarpinu eru vissulega umfangsmiklar, og sparnaður fyrir ríkið sem í þeim felst þýðir auknar álögur eða minni tekjur fyrir marga þjóðfélagshópa. Ríkisstjórnin hefur leitast við að fara fram af fullri sanngirni þannig að aðgerðirnar komi síst niður á þeim sem minnst mega við því. Vonir standa til þess að í flestum tilfellum verði hér um tímabundnar aðgerðir að ræða sem hægt verði að endurskoða að ári liðnu.

Að svo mæltu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og efnahags- og skattanefndar og hún geri jafnframt ráðstafanir til að vísa þeim hlutum frumvarpsins sem undir aðrar nefndir heyra til þeirra til umsagnar.



[15:39]
Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil vekja athygli þingheims og þeirra sem fylgjast með hér á Alþingi á að nú er lagt til að nema úr gildi lögin sem lutu að ráðstöfun á söluandvirði Landssímans í þessum efnum, m.a. hvað Fjarskiptasjóð varðar. Ég bið hæstv. forsætisráðherra að horfa til baka til þeirra röksemda sem beitt var er reynt var að selja þjóðinni að það væri mjög gott að selja Landssímann, þá fengi hún fjármagn sem væri merkt í sérgreindar framkvæmdir. Það voru fjarskiptamálin, vegamálin, bygging hátæknisjúkrahúss o.s.frv. Það var mikið úr þessu gert og ég minnist þess að um það leyti sem þáverandi ríkisstjórn undir forustu Sjálfstæðisflokksins gekk frá sölu Landssímans var gerð skoðanakönnun sem sýndi að yfir 70% þjóðarinnar, milli 70 og 80%, vildu ekki að Síminn yrði seldur. Samt var hann seldur og á þessum gylliboðum sem fylgdu með um það hvernig fénu skyldi ráðstafað.

Nú er verið að nema þessi lög úr gildi og ég spyr hæstv. forsætisráðherra hvernig honum líði með þessum röksemdum sem þá var beitt.

Í öðru lagi spyr ég hæstv. forsætisráðherra um búvörusamningana. Það er gert ráð fyrir því að þeir verði skertir um einar 800 millj. kr. og ég velti fyrir mér hvort það hafi verið greint hvaða áhrif þessi skerðing muni hafa t.d. á matvöruverð í landinu annars vegar — mun þetta ekki leiða til hækkunar á matvöruverði? — og hins vegar (Forseti hringir.) hvaða áhrif þetta muni hafa á kjör bænda sem eru með tekjulægri stéttum landsins.



[15:41]
forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að sú breyting sem hér er lögð til varðandi ráðstöfun á söluhagnaði af Símanum breyti ekki því að það var rétt að selja það fyrirtæki á þeim tíma sem það var gert. Það frumvarp sem forveri minn, Halldór Ásgrímsson, flutti á sínum tíma um ráðstöfun þess fjármagns var hins vegar umdeilanlegra, það var umdeilanlegt hvort það ætti að setja um söluhagnaðinn sérstök lög vegna þess að þrátt fyrir þau þurfti á hverju ári að veita fé samkvæmt þeim lögum eins og þarf með allar ráðstafanir fjár úr ríkissjóði.

Öll árin sem liðin eru síðan höfum við þurft að ráðstafa fénu öðruvísi en gert var ráð fyrir í þessum lögum. Núna horfum við náttúrlega framan í gjörbreyttar aðstæður og þá er hreinlegast, í stað þess að breyta lögunum eða hverfa frá þeirri stefnu sem mörkuð var í lögunum á ári hverju, að fella lögin úr gildi. Það breytir þó ekki því að peningarnir sem fengust fyrir Símann hafa nýst okkur vel og koma nú til annarra nota en þessara. Það breytir heldur ekki því að öll verkefnin sem voru í þessum lögum sérstaklega tilgreind verða áfram aðnjótandi fjárveitinga úr ríkissjóði og í öll þessi verkefni verður ráðist þó að það verði ekki gert með nákvæmlega sama hætti og þau lög gerðu ráð fyrir.

Varðandi síðari spurningu hv. þingmanns vil ég af því tilefni segja við hann að ég hef ekki svar á reiðum höndum varðandi matvælaverðið og áhrif þessara breytinga á búvörusamningum á það verðlag. Það er eðlilegt að sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd kanni það sérstaklega.



[15:43]
Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Sú blekking sem höfð var í frammi þegar verið var að selja almenningi það að best væri að selja Landssímann sýnir nú best hversu fáránleg salan var. Eitt af því sem átti m.a. að verja stórfé í og var mikið gert úr var bygging hátæknisjúkrahúss sem átti að byggja að stórum hluta fyrir söluandvirði Símans þá. Ekki sést neitt til þeirrar byggingar og ég er viss um að landsmenn, ekki síst úti um hinar dreifðu byggðir, vildu heldur að ríkið, samfélagið, ætti nú sinn Landssíma þannig að hægt væri að tryggja öruggan framgang fjarskipta, háhraðanettenginga og símasambands um allt land.

Það hefur gengið sorglega hægt og eins og hæstv. forsætisráðherra kom inn á áðan hafa allar áætlanir um það verið sviknar. Var það ekki 2007 sem átti að vera komin háhraðanettenging um allt land, á alla bæi? Mig minnir það.

Það er einmitt þetta sem skiptir svo miklu máli fyrir jöfnuð og jafnrétti í landinu, fyrir jafna möguleika allra til þess að þróa og byggja upp sitt atvinnulíf. Jöfnun búsetunnar felst einmitt í þessum fjarskiptum. Ég vil ítreka að það hefði verið nær að landsmenn ættu Landssímann. Ég vil kannski spyrja í lokin: Hver er staða Landssímans og eigna hans í því umróti sem orðið hefur á eignamarkaðnum? Það voru einhver ákveðin fyrirtæki sem eignuðust Landssímann og ég spyr hæstv. forsætisráðherra: Hver á núna (Forseti hringir.) Landssímann?



[15:45]
forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég trúi ekki öðru en hv. þingmaður viti að forsætisráðherra er ekki til frásagnar um það hverjir eiga einstök fyrirtæki í landinu. (JBjarn: Þetta er nú stærsta fjarskiptafyrirtækið.)



[15:46]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir sagði í atkvæðaskýringu fyrir stundu að með lagabreytingum ríkisstjórnarinnar væri verið að brjóta blað í neikvæðum skilningi. Þar vísaði hv. þingmaður fyrst og fremst í þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að krefja sjúklinga sem leggjast inn vegna veikinda á sjúkrahús um aðgangseyri. Svo sjáum við þessa stað í þessu frumvarpi sem hæstv. forsætisráðherra kynnti um heimild til að innheimta gjald fyrir legu á sjúkrahúsum. Þetta er að finna í 17. gr. frumvarpsins sem hæstv. forsætisráðherra kynnti okkur áðan.

Ef ég hef skilið það rétt hefur ríkisstjórnin og einnig Sjálfstæðisflokkurinn sagt okkur að heilbrigðiskerfið eigi að vera gjaldfrjálst. Það megi markaðsvæða framkvæmdina en það eigi að vera sjúku fólki að kostnaðarlausu. Þetta er það sem þjóðinni hefur verið sagt fyrir kosningar og eftir kosningar. Þetta er sagt á fundum, í ræðu og í riti. Nú vil ég spyrja hæstv. forsætisráðherra: Hvernig stendur á því að ekki fara saman orð og athafnir í þessum efnum? Finnst hæstv. forsætisráðherra léttvægt að kynna okkur frumvarp sem í fyrsta skipti á Íslandi kveður á um að fólk sem leggst veikt inn á sjúkrahús skuli krafið um aðgangseyri? (Forseti hringir.)



[15:48]
forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta ákvæði er liður í því að gera stjórnendum þessara stofnana betur kleift að gæta samræmis milli sjúklinga eða þess fólks sem leitar til þeirra. Það er greitt fyrir mikið af þeirri þjónustu sem fólk fær, t.d. á Landspítalanum, göngudeildarþjónustu og aðra þjónustu sem ekki kallar á innlögn. Spurningin er með hvaða hætti sé best hægt að nýta það fjármagn sem ríkið veitir í þessa mikilvægu þjónustu. Það er mat mjög margra að til að hægt sé að gera það með sem skynsamlegustum hætti eigi að vera samræmi í þessum hlutum. Út á það gengur þetta mál.

Ég er ekki á því að þarna verði mikilvægur tekjustofn fyrir sjúkrahúsin eða ríkissjóð enda er málið ekki hugsað sem slíkt. Hins vegar minnir mig að það hafi verið talað um rúmar 300 millj. kr. yfir árið hjá öllum þeim spítölum sem þarna gætu átt hlut að máli. Málið snýst um að geta nýtt tæki og mannafla spítalans á sem hagkvæmastan hátt þannig að ekki verði óeðlileg stýring í þá þjónustu sem ókeypis er frá þeirri sem greitt er fyrir. Þetta er kjarni málsins.



[15:50]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð að viðurkenna að ég hef heyrt hæstv. forsætisráðherra Geir H. Haarde tala af meiri sannfæringu fyrir lagafrumvörpum sem hann hefur flutt á Alþingi. Hann segir að þetta sé ekki mikilvægur tekjustofn fyrir sjúkrahúsin í landinu, en gæti verið að þetta væru mikilvæg eða afdrifarík útgjöld fyrir þá sem í hlut eiga? Sú spurning sem við Íslendingar stöndum frammi fyrir er hvernig við ætlum að fjármagna heilbrigðiskerfið. Ætlum við að fjármagna það með sköttum meðan við erum heilbrigð, aflögufær, vinnandi og getum látið eitthvað af mörkum eða ætlum við að fara að stefnu ríkisstjórnar hæstv. forsætisráðherra Geirs H. Haarde og bíða þangað til við verðum veik? Þá á að byrja að rukka. Þegar fólk er orðið veikt og þarf að leggjast inn á sjúkrahús, þá er reiknivélin tekin fram.

Hæstv. forsætisráðherra. Ég kaupi ekki þau rök að þetta sé gert vegna bókhaldsins, til að samræmi sé í bókhaldi sjúkrahúsanna. Þá vil ég benda hæstv. forsætisráðherra á að hægt er að ná þessu samræmi fram með öðrum hætti. Hvernig? Með því að afnema gjaldtöku á göngudeildunum og annars staðar í heilbrigðiskerfinu. Því hefur ríkisstjórnin margoft lofað landsmönnum að yrði gert, sem og hæstv. forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins eigin flokksmönnum á þingum flokksins. Þar hefur því verið lofað að heilbrigðisþjónustan eigi að vera gjaldfrjáls. (Forseti hringir.)



[15:52]
forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég hafði ekki tíma til að geta þess í svari mínu áðan að með þessu ákvæði er auðvitað ekki gert ráð fyrir því að það leggist af sama þunga á þá sem höllum fæti standa í þjóðfélaginu. Það er gert ráð fyrir því að fullfrískir menn eins og t.d. ég og hv. þingmaður (ÖJ: Eru þeir á spítala?) sem þurfum annað slagið að nýta okkur þjónustu spítala borgum þetta innlagnargjald. Það er verið að vitna í greinargerð frumvarpsins, virðulegi forseti, með þínu leyfi:

„Með töku komugjalds vegna innlagnar á sjúkrahús skapast meira samræmi og jafnræði í gjaldtöku, enda er tekið komugjald vegna komu á slysadeild, bráðamóttöku og göngudeild, auk gjalds vegna rannsókna hjá þeim sem ekki eru inniliggjandi. Þess má geta að komugjöld vegna innlagnar eru innheimt á sjúkrahúsum í Svíþjóð og Finnlandi og er því síður en svo um einsdæmi að ræða á Norðurlöndunum.“

Síðan segir:

„Sú breyting á gjaldtöku sem hér er lögð til mun falla undir hámark á greiðsluþátttöku einstaklinga vegna heilbrigðisþjónustu, í samræmi við vinnu nefndar um gjaldtöku í heilbrigðisþjónustunni sem þingmennirnir Pétur H. Blöndal og Ásta R. Jóhannesdóttir hafa stýrt.“

Með öðrum orðum, þetta gjald mun falla undir þær reglur sem nú eru fyrir hendi um uppsöfnun gjalda þar til kemur að því að viðkomandi fær afsláttarkort. Auðvitað er þetta bara einn liður í því að auka samræmi og þar með jafnræði sem þarf að vera fyrir hendi í þessum rekstri þannig að stjórnendur þessara stofnana geti með markvissum hætti rekið þær eins vel og hægt er. (ÖJ: Ég sit í þessari nefnd og þekki ill störf hennar.)



[15:54]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Hæstv. forsætisráðherra hóf mál sitt á að ræða vandann sem við stöndum frammi fyrir vegna mikils tekjufalls hins opinbera vegna samdráttar í hagkerfinu og hruns bankanna og afleiddra afleiðinga þeirra óskapa sem yfir okkur hafa gengið í efnahagslegu tilliti. Ekki er deilt um að þar er mikill vandi á ferð og merkilegt að menn skuli nenna að leggja leið sína í ræðustólinn og saka einhverja þingmenn um að vera ómeðvitaða um það eða horfa alveg fram hjá því þó að þeir hafi sjónarmið fram að færa um hvernig skynsamlegast sé að bregðast við og hvernig réttast sé að reyna að dreifa byrðunum. Þannig skil ég umræðurnar sem hér voru í gær um fjárlagafrumvarpið og eru nú í dag um þetta frumvarp.

Út af fyrir sig er umhugsunarefni af hverju tekjusamdráttur ríkisins verður jafnharkalegur og mikill og raun ber vitni þegar veltan dregst saman í þjóðfélaginu, eins og nú er að gerast. Skyldi það ekki vera í einhverjum tengslum við breytingar sem gerðar hafa verið undanfarin ár á skattkerfi landsmanna og hvernig menn kusu að fjármagna ríkissjóð og samneysluna á óráðsíuárunum? Orðið óráðsía á við þegar miklar tekjur flutu inn í ríkissjóð af viðskiptahalla og erlendri skuldasöfnun. Hvað gerðu menn þá? Þeir slógu um sig og voru miklir karlar — miklir menn skulum við segja, kerlingar voru líka eitthvað með í þessu — og lækkuðu kerfisbundið og ítrekað hina beinu og traustu tekjustofna ríkisins. Menn lifðu með öðrum orðum á gróðatekjunum, sköttum af viðskiptahalla og skuldasöfnun í allt of ríkum mæli. Það kemur mönnum nú í koll í formi miklu harkalegri tekjusamdráttar hins opinbera en hefði orðið ef menn hefðu ekki verið orðnir jafnháðir sveiflugjörnum tekjustofnum og raun ber vitni. Sjálfsagt hefur enginn áhuga á því að velta þessu lengur fyrir sér af því að menn eru ekki mikið fyrir að horfa í eigin barm og velta fyrir sér hvort þeir hafi hugsanlega gert einhver mistök en ég verð þó að segja eins og er að athyglisvert er ef ekki einu sinni þetta kemst á dagskrá núna þegar valkostirnir eru — hverjir? Að ganga jafnharkalega fram í sársaukafullum niðurskurði á ýmsum sviðum og nú á að gera. Að sjálfsögðu hljóta menn í viðbrögðum sínum að gæta ýtrasta aðhalds og reyna að spara peninga þar sem það er hægt. En gríðarlega miklu máli skiptir hvernig það er gert. Það skiptir kannski aðallega máli af tvennum ástæðum. Annars vegar að menn hafi félagslega hugsun og réttlætissjónarmið að leiðarljósi í þeim efnum hvernig byrðunum er dreift og hins vegar að menn séu á varðbergi gagnvart því að grípa ekki til aðgerða, jafnvel vanhugsaðra og fljótræðislegra aðgerða sem auka á vandann og búa til vandamál annars staðar um leið og menn þykjast vera að leysa þau á einum stað. Þar á ég alveg sérstaklega við hættuna á að dýpka kreppuna og auka atvinnuleysi umfram það sem ella væri mögulegt að verjast.

Ég held því miður að þrátt fyrir tal á undanförnum mánuðum þar sem menn hafa sagst ætla að reyna að forðast uppsagnir, verja atvinnustigið og mannaflsfrekar framkvæmdir lendi þeir í því að gera í mörgum tilvikum hið gagnstæða. Það gagnrýni ég og finnst vanhugsað og fljótræðislegt og þar sýnist mér hæstv. ríkisstjórn hafa valið þá einföldu útleið að taka við skilmálum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eins og þeir koma hráir af skepnunni og reikna þá meira og minna flatt yfir rekstur hins opinbera. Það held ég að sé ekki gæfuleg aðferð og gæti leitt til þess að við misstum atvinnuleysisstigið hærra en ella þyrfti að vera og gæti leitt til annars og enn verri hlutar sem er verulegur landflótti. Hversu dýrt verður það íslensku samfélagi ef við missum kannski 5% til 8% mannaflans úr landi? Við vitum alveg hvaða hluti íbúanna er hreyfanlegastur og líklegastur til þess að fara. Það er ungt og gjarnan vel menntað fólk sem á auðveldara með að höndla tækifærin í öðrum löndum og sem er hreyfanlegast af búsetuástæðum og þannig á vegi statt í sínu lífi að það getur kannski með auðveldari hætti en aðrir breytt til ef það er ekki bundið á klafa þess að eiga húsnæði sem það borgar af o.s.frv.

Í þriðja lagi verða menn að horfa til þess hvernig við ætlum að auka verðmætasköpun og umsvif í þjóðarbúskapnum á nýjan leik þannig að við eigum einhverja von til að ráða við skuldirnar sem hæstv. ríkisstjórn setur á herðar landsmanna þessa mánuðina.

Rætt var um niðurskurð til menntunar fyrr í dag og bent á þá hættu að ef við höldum ekki einu sinni þeim dyrum opnum að þeir sem eru að missa atvinnuna geti þá notað tækifærið og farið í nám — vel að merkja á eigin kostnað að verulegu leyti, með því að taka til þess námslán hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna — þá ýtum við beinlínis þeim sem ekki eiga kost á slíku eða telja sig ekki búnar aðstæður til þess yfir í annað tveggja — það er augljóst — atvinnuleysi eða brottflutning af landinu. Þetta er að mínu mati stóra hættan sem hæstv. ríkisstjórn tekst ekki á við af neinni alvöru, eða hvar er stóra planið? Hvar er áætlun ríkisstjórnarinnar í þessum efnum? Hvar er hin heildstæða hugsun? Hver reynir að hafa yfirsýn yfir þetta í heild sinni? Enginn innlendur aðili. Biblían er hér, starfsmannaskýrsla Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem ég er farinn að halda að ískyggilega fáir hafi haft rænu á að lesa en ætti þó að vera grundvallarlesning þeirra sem eru að reyna að átta sig á hlutunum. Þangað er leitað því að engu slíku er til að dreifa hjá hæstv. ríkisstjórn. Hún kemur algerlega úrræða- og tillögulaus, ber á borð flatan og meira og minna órökstuddan niðurskurð fyrir utan það litla sem segja má að eigi að reyna að gera til að verja kjör þeirra allra verst settu innan almannatryggingakerfisins, sem vissulega er þarna til staðar, en að því slepptu er þetta sorglega lítið hugsað og sorglega flatt.

Í bandormi þessum sem hæstv. forsætisráðherra mælti fyrir er byrjað á að fara inn í löggerning, samning við bændur, sem ég tel að orki mjög tvímælis af tveimur ástæðum. Annars vegar vegna þess að bændur eru með tekjulægstu stéttum landsins og miklir rekstrarerfiðleikar eru í landbúnaðinum og hafa þeir verið til umræðu á undanförnum missirum. Landbúnaðurinn fékk á sig kannski umfram flestar aðrar atvinnugreinar gríðarlegar kostnaðarhækkanir á undangengnu einu og hálfu ári og allir vita að tekjur t.d. sauðfjárbænda eru mjög lágar. Allir vita að kúabændur eru mjög skuldsettir vegna fjárfestinga í þeirri grein á undanförnum árum og jafnvel talið að allt að þriðjungur þeirra sé í reynd gjaldþrota, a.m.k. bókhaldslega séð. Búvörusamningurinn byggir á lögum og á ákveðnu ferli, bændur afla samningsumboðs frá umbjóðendum sínum og gera bindandi samning, löggerning, við ríkið um grundvöll greinarinnar fram í tímann og bera síðan samningsniðurstöðuna undir atkvæði félagsmanna sinna. Það þýðir að búvörusamningurinn hefur að þessu leyti ekki bara stöðu sem löggerningur heldur líka hliðstæða stöðu og kjarasamningur. Það þýðir að bændaforustan hefur ekkert umboð til að gera á honum breytingar nema bera það undir félagsmenn sína. Hér tel ég teflt á tæpasta vað og ég gef ekki mikið fyrir þá lögfræði sem hér er að finna í umsögnum um lagagreinina að þetta megi teljast í lagi gagnvart 72. gr. stjórnarskrárinnar eða eins og þar stendur, með leyfi forseta:

„Verður því ekki talið að þessi breyting stríði gegn 72. gr. stjórnarskrárinnar jafnvel þótt gripið yrði inn í gildandi samninga ríkis og bænda.“

Einhverjar skrúplur hafa menn haft yfir því úr því að þeir þurftu að setja þetta orðalag inn í frumvarpið.

Í öðru lagi er vikið að fjármálum sveitarfélaganna og þar er lögð til hækkun á útsvari til þeirra upp á hálft prósentustig og ég vil segja alveg eins og er að jafnmikið og við höfum talað fyrir því að staða sveitarfélaganna sé styrkt við þessar aðstæður og þeim gert kleift að sinna mikilvægu hlutverki sínu þá er ég ekki andvígur þessari breytingu. Einhvers staðar verður að afla þeirra tekna og útsvarið er langstærsti tekjustofn sveitarfélaganna, um 60% að meðaltali af tekjum þeirra koma frá útsvari þannig að erfitt er að gera stóra hluti þar nema hreyfa því eitthvað til. Þetta dugar hins vegar skammt eins og afkomu margra sveitarfélaga er háttað. 0,25% af hækkun tekjuskatts eiga síðan að renna til jöfnunarsjóðs til að mæta niðurskurði, sem áður hafði verið ákveðinn gagnvart sveitarfélögum upp á 1.400 millj. kr. í sérstökum jöfnunarframlögum og vegna þess að ríkið hyggst lækka greiðslu fasteignaskatts til sveitarfélaganna. Eftir stendur því að hagur sveitarfélaganna verður mjög erfiður við þessar aðstæður á sama tíma og þau fá á sig stórauknar byrðar.

Fyrst og fremst gagnrýni ég framgöngu ríkisstjórnarinnar hvað varðar tekjuöflun, ekki vegna þess að reynt sé að afla tekna. Það er sjálfsagt mál við þessar aðstæður að reyna að leita leiða til að styrkja tekjugrundvöll ríkis og sveitarfélaga en það á að gera á sanngjarnan hátt. Ég gagnrýni að ríkisstjórnin skuli ekki einu sinni leggja hugsun í að þeirra tekna sé aflað þannig að meira sé lagt á þá sem betur eru aflögufærir, t.d. með þrepaskiptum tekjuskatti eða upptöku einhvers konar hátekjuálags í tekjuskatti. Heldur ódýrt er að skríða bak við þessa flötu hækkun með óbreyttum skattleysismörkum, sem samið var um fyrir meira en ári síðan, sem þýðir áframhald á þeirri lágtekjuskattspíningarstefnu sem fyrri ríkisstjórn gat sér frægð fyrir að endemum að ástunda.

Hér er einnig lagt til að fella niður lög um ráðstöfun á söluandvirði Landssímans. Þar með lýkur hinum dapurlega kafla einkavæðingar Pósts og síma, sem seinna varð Íslandspóstur og Landssími, og nú veltir maður fyrir sér: Var sá leiðangur til fjár? Var ekki Landssíminn gott og traust almannaþjónustufyrirtæki nær skuldlaust í opinberri eigu með opinberar þjónustuskyldur, veitti góða þjónustu og greiddi eiganda sínum, ríkinu, tvo, þrjá og upp í sjö milljarða kr. í arð á hverju ári? Hvar er hann í dag? Er hann ekki í höndunum á einhverju illa settu og kafskuldugu eignarhaldsfélagi einhvers staðar úti í bæ og hæstv. forsætisráðherra veit ekki einu sinni hvar? Þar er undir að uppistöðu til nánast allt dreifikerfi landsmanna í fjarskiptum. Væri kannski ekki betra að eiga trausta og góða, skuldlausa eign í Landssímanum og dreifikerfið í höndum þjóðarinnar sjálfrar þannig að m.a. væri hægt að beita því með félagslega og byggðalega hugsun að leiðarljósi við núverandi aðstæður?

Almannatryggingakaflinn er dapurlegur vegna þess að þar er um að ræða mikla skerðingu á alla sem ekki eru á lágmarkstryggingunni og athyglisvert er hvernig uppreikningur viðmiðunarfjárhæða er, þar er allt á rúi og stúi. Grunntrygging er hækkuð um 20%, aðrar bætur um 9,6%, viðmiðunarupphæðir barnabóta og vaxtabóta um 5,7%, sjómannafrádráttur um 12,9% og þar fram eftir götunum. Hvar er samræmið? Hvaða reiknitölu ætlar ríkisstjórnin almennt að nota eða stendur til að skekkja þetta innbyrðis milli þessara aðila? Já, niðurstaðan er sú, það á í reynd að skerða barna- og vaxtabætur umtalsvert með því að nota þar lægri uppreikningstölu en á öðrum stöðum í frumvarpinu.

Að síðustu um hinn nýja sjúklingaskatt upp á 360 millj. kr. Það á að selja inn á sjálf sjúkrahúsin og hver var málflutningur og rök hæstv. forsætisráðherra þar? Þetta var ekki aðallega hugsað sem tekjupóstur. Nei, þetta var samræmingaratriði, réttlætismál eða hvað? Þá er það orðið þannig að fyrst innleiða menn sjúklingaskatta, komugjöld og gjaldtöku hér og þar í kerfinu, koma svo og segja: Heyrðu, við verðum að samræma þetta og taka þetta upp alls staðar þannig að borgað verði fyrir heilbrigðisþjónustuna alls staðar á Íslandi. Var það einhvern tíma ætlunin? Gengu einhvern tíma einhverjir fram og sögðu við kjósendur sína: Við viljum að menn borgi alls staðar hvort sem þeir eru komnir á heilsugæslustöð, inn á sjúkrahús, eru fárveikir eða fullfrískir og sækja sér þjónustu (Forseti hringir.) á eigin fótum úti í bæ. Nei, ég held að það hafi ekki verið gert þannig að auðvitað nota menn falsrök til þess að innleiða enn einn sjúklingaskattinn (Forseti hringir.) í íslenska heilbrigðiskerfinu.



[16:10]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað hefði enginn kosið að fara inn í búvörusamningana með þeim hætti sem við gerum með frumvarpinu sem hér er rætt. Þegar við lögðum fram fjárlagafrumvarpið í haust var gert ráð fyrir því að bæta búvörusamningana að fullu með vísitölu. Þar var lögð til grundvallar tiltekin vísitöluhækkun sem var grundvöllur fjárlagafrumvarpsins en við vitum hins vegar hvað hefur gerst síðan. Tekjukerfi ríkissjóðs hefur hrunið og við höfum orðið að takast á við miklu meiri vanda en nokkurt okkar gat ímyndað sér. Hluti af því er auðvitað það að við þurfum að fara yfir þá hluti sem við getum reynt að hagræða í og hér er sett tiltekið þak á vísitöluhækkun á búvörusamningunum. Ekki er verið að fara inn í grundvöll sjálfra samninganna. Sá grundvöllur stendur að sjálfsögðu og auðvitað er það þannig að þegar við stöndum frammi fyrir efnahagsvanda af stærðargráðu sem við höfum ekki áður séð hlýtur samningurinn að ráðast af þeim fjárveitingum sem unnt er að veita til hans.

Ég vil vekja athygli á því að í fyrsta lagi verður þessi samningur virtur að fullu á árinu 2008. Í fjáraukalagafrumvarpinu sem verður rætt í dag eða á morgun er síðan gert ráð fyrir því að, eins og hv. þingmaður vék að, setja tiltekið þak á þær hækkanir sem verða á samningnum og gert er ráð fyrir því að þær vísitölubætur sem lagðar verði til grundvallar séu vísitöluhækkunin sem fjárlagafrumvarpið gekk út frá. Þannig að sú tala sem verður virk í samningunum er talan sem kemur fram í fjárlagafrumvarpinu eins og það var lagt fram í upphafi þings í byrjun októbermánaðar.

Hv. þingmaður vék að því hvort skrúplur væru um hvort þetta stæðist stjórnarskrána. Vitaskuld er það eðlilegt af hálfu fagráðuneytisins, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis, að velta þessum hlutum fyrir sér og það verður auðvitað gert og niðurstaðan er sú að þetta stenst ákvæði stjórnarskrárinnar, enda gerir stjórnarskráin bókstaflega ráð fyrir því að réttur á fjárgreiðslum úr ríkissjóði sé háður ákvæðum stjórnarskrárinnar og bundinn því skilyrði að fjárveiting fáist með samþykkt Alþingis.



[16:12]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ekki hvarflar að mér að halda því fram að hæstv. landbúnaðarráðherra sé að gera þetta að gamni sínu eða honum þyki þetta skemmtilegt en menn verða að ræða gerninginn eins og hann er og velta honum fyrir sér hvað sem tilfinningum líður. Þetta er í fyrsta lagi löggerningur. Samningurinn er lögvarinn. Hver er staða einstakra bænda sem við hann búa og telja sig hafa tiltekinn rétt á grundvelli hans? Það var það sem ég var að vísa til. Ég veit ekkert um hvernig á slíkt gæti reynt fyrir dómstólum. Svo mikið er víst að mér sýnist augljóst — enda bera viðbrögð bændaforustunnar merki um að hún lítur ekki svo á að hún hafi heimild til þess að semja við stjórnvöld um breytingu á þessum samningi nema aflað sé til þess umboðs. Auðvitað ætti þá ráðherra að fara formlega í málið þannig að óska eftir viðræðum við stéttina um breytingar og helst eitthvað sem samkomulag gæti orðið um, því svo vel þekki ég íslenska bændur að ekki mundu þeir skorast undan að reyna að leggja sitt af mörkum í þágu þjóðarbúsins eftir því sem þeir teldu sig vera í aðstöðu til.

Í öðru lagi tölum við um afkomu og rekstrargrundvöll atvinnugreinar sem er okkur ákaflega mikilvæg, þ.e. matvælaframleiðslu og undirstöðu mikilvægs matvælaiðnaðar sem skapar örugglega á milli 12 þúsund og 15 þúsund störf í landinu. Við þurfum líka að huga að því að ganga ekki svo fram að þarna verði frekari vandræði en orðin eru og vísa ég til þess sem ég áður sagði um þá erfiðleika landbúnaðarins sem fyrir voru. Nú lofa allir og prísa íslenskan landbúnað og íslenskan matvælaiðnað en hinir þegja sem undanfarin ár hafa viljað hann feigan og út af fyrir sig er það þakkarvert. Nú er lítið talað um að auka innflutning á matvælum.

Loks skulum við ekki gleyma því að við tölum um mjög tekjulága stétt sem á þá í vændum 800 millj. kr. skerðingu á afkomu sinni miðað við verðlagshorfur fyrir ári. Ég óttast að eins og aðstæður eru í greininni komi þetta fyrst og fremst fram í kjaraskerðingu hjá bændum.



[16:14]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að við hv. þingmaður séum sammála um mikilvægi atvinnugreinarinnar. Við erum alveg sammála um mikilvægi landbúnaðarins og auðvitað var reynt að nálgast þetta viðfangsefni með þeim hætti og með því sjónarmiði sem þar liggur til grundvallar. Ekki var verið að ganga svo hart fram að okkar mat væri að það væri slík röskun á grundvelli landbúnaðarins, enda er ekki farið inn í grundvöll sjálfs búvörusamningsins. Eingöngu er verið að — og ég veit að ýmsum þykir nóg um — setja tiltekið þak á þær vísitölubætur sem verða á búvörusamningnum á næsta ári. Auðvitað má segja sem svo að ekki sé nein fullvissa um hver niðurstöðutalan verður. Gert er ráð fyrir því miðað við þær forsendur sem við höfum um verðlag að þarna geti munað um 700 millj. kr. til 800 millj. kr. en það mun ráðast af verðlagsþróun og að sjálfsögðu er það keppikefli okkar að verðlagsþróunin verði jákvæðari en þarna er talað um.

Hv. þingmaður velti fyrir sér hver væri staða einstakra bænda. Auðvitað hafa einstakir bændur möguleika á því að leita réttar síns ef þeir telja að brotið sé á þeim og ekkert sem kemur í veg fyrir það. En ég er alveg sammála hv. þingmanni um að ég held að mjög æskilegt væri ef samkomulag gæti tekist milli bænda og ríkisvaldsins um aðrar útfærslur á búvörusamningunum sem gætu þá kannski gert það að verkum að greiðslum sem renna í búvörusamninginn verði breytt með þeim hætti að þær gagnist beinlínis kjörum bænda betur en ella og ég vil lýsa því yfir að ég er að sjálfsögðu reiðubúinn til að ræða allar slíkar útfærslur. Ég skil vel að forustumenn bænda geti ekki á þessari stundu tekið jákvætt undir slíkar hugmyndir. Þetta þarf að ræða betur en ég vil ítreka það að af minni hálfu er að velkomið og væri raunar fagnaðarefni ef við gætum reynt að ræða aðra útfærslu þó að ég beri að sjálfsögðu pólitíska ábyrgð á þeirri niðurstöðu að setja þak á vísitöluhækkanir á búvörusamningunum.



[16:16]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað er það hálfgerður orðaleikur að tala um að ekki sé verið að fara inn í grundvöll samningsins sjálfs, því að verðtryggingarákvæðin eru hluti samningsins og eru ætluð til þess að greiðslurnar haldi raungildi sínu miðað við verðlagsþróun, þegar það liggur fyrir að tilkostnaðarhækkanir í landbúnaði undanfarin missiri hafa orðið langt umfram meðaltalsverðlagsþróun í landinu. Því getur hæstv. landbúnaðarráðherra ekki neitað, við vitum það. Þessar gríðarlegu hækkanir á fóðri, sem af vissum ástæðum á heimsmarkaði hefur hækkað langt umfram meðaltalsverðlag, hækkanir á áburðarverði, sem eru gríðarlegar, og olíuverði hafa þegar leitt til þess að tilkostnaðarhækkanir í landbúnaði eru langt umfram almenna verðlagsþróun. Vonandi og mögulega gengur eitthvað af þessu til baka eins og olíuverðshækkanirnar núna og það er vel. Kannski hefur það afleidd áhrif, ástandið í heimsmálunum, yfir í að matvælaverð eða kornverð fari aftur eitthvað lækkandi, mögulega á áburðarverð með lækkun orkuverðs á nýjan leik. Þetta eru allt saman óráðnir hlutir enn sem komið er. Veruleikinn er sá að verðtryggingarákvæði búvörusamningsins hafa þrátt fyrir allt reynst bændum alveg gríðarlega mikilvæg, þeir segja allir þegar maður ræðir það við þá að hinar mánaðarlegu, reglubundnu og verðtryggðu greiðslur hafi gersamlega skipt sköpum fyrir þá til að ráða við þær erfiðu aðstæður sem þeir hafa búið við í atvinnurekstri sínum undanfarin ár.

Mér finnst líka að við eigum ekki að gleyma einum hlut og hann er þörfin á því að auka verðmætasköpun í landbúnaðinum, að auka framleiðsluna. Það eru miklir möguleikar til þess að auka umsvif í íslenskum landbúnaði, leggja grunn að meiri úrvinnslu og meiri verðmætasköpun og fleiri störfum. Nú eru markaðsaðstæður hagstæðar, jafnvel ekki bara til þess að ná stærri hlutdeild á innlendum markaði heldur einnig mögulega að flytja út. Er það ekki það sem menn tala um í öðru orðinu, að við þurfum á öllu því að halda sem við mögulega getum virkjað til að auka verðmætasköpun hér og skapa störf?



[16:19]
heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vildi aðeins út af orðum þingmannsins biðja hann að halda til haga þeim staðreyndum að nú eru komugjöld á spítölunum, það ætti hv. þingmaður að vita. Ef menn leggjast á spítala eftir að hafa farið í gegnum bráðamóttöku greiða menn komugjald, sömuleiðis á endurkomudeild á slysadeild, á bráðamóttökuna og á göngudeild þannig að þetta er allt saman til staðar og er búið að vera það mjög lengi.

Þetta er ekkert öðruvísi en gerist þegar við berum saman heilbrigðismál ef við berum okkur saman við þau lönd sem við venjulega gerum, þ.e. Norðurlöndin. Þó að það sé nokkuð mismunandi hvernig þetta er útfært þá er almenna reglan sú að það er kostnaðarhlutdeild þegar kemur að heilbrigðisþjónustu á Norðurlöndum. Það væri fróðlegt að heyra hvort það er skoðun hv. þingmanns að svo eigi ekki að vera, hvort menn eigi ekki að nota norræna módelið í þessu, þ.e. um kostnaðarþátttökuna. Ég teldi eðlilegt í þessari umræðu að það kæmi skýrt fram. Þess vegna spyr ég hv. þingmann hvort hann sé ósáttur við þetta norræna módel sem við svo sannarlega höfum reynt að fylgja þegar kemur að þessum málum og flestum öðrum í heilbrigðisþjónustunni. Er hv. þingmaður ósammála því?



[16:20]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Skrýtin er tilveran orðin þegar þingmenn Sjálfstæðisflokksins og hæstv. ráðherrar koma hér upp sem alveg sérstakir talsmenn hins norræna fyrirkomulags og spyrja þann sem hér stendur hvort hann sé orðinn eitthvað bilaður í trúnni á það. En það er ekki aðalsmerki hins norræna fyrirkomulags að menn borgi fyrir undirstöðuþjónustu af þessu tagi þó að vissulega hafi frjálshyggjuveikin víða haldið innreið sína og menn hafi bilast að hluta til í ágætum löndum eins og Svíþjóð og jafnvel Finnlandi. Veruleikinn er nú sá að það mun hafa verið í þeim tveimur löndum sem einhver hliðstæð innritunargjöld á sjúkrahús er að finna en ekki á öðrum Norðurlöndum ef marka má meira að segja fylgiskjal með þessu frumvarpi og þá er verið að færa Ísland yfir í þann hópinn sem var áður í minni hluta þar sem slík gjöld voru ekki við lýði.

Ég veit vel um það, frú forseti, sem hæstv. heilbrigðisráðherra nefndi sökum tiltekinnar nýlegrar lífsreynslu að það eru komugjöld, rannsóknargjöld og endurkomugjöld á slysadeildir o.s.frv. ef menn lenda í slíkum hremmingum en menn hafa ekki borgað sérstaklega fyrir að innritast á sjúkrahúsin. (Gripið fram í.) Nei, það hafa menn ekki gert. (Heilbrrh.: Hvað af þessu?) Til innlagnarinnar sjálfrar, hæstv. heilbrigðisráðherra. (ÁI: Þekkir ekki ráðherrann lögin?) Hæstv. ráðherra veit ekki hvað hann er að leggja til sjálfur í frumvarpi. Annaðhvort er ekkert að marka ráðherrann eða ekkert að marka frumvarpið og fylgiskjölin með því. Það stendur hér að þetta sé innritunargjald á sjúkrahús. Nú segir hæstv. ráðherra að það sé til, það er ekki þannig. Það á að taka upp nýjan sjúklingaskatt með þeim rökum að vegna þess að slíkir skattar séu þegar orðnir fjölmargir hér og þar í kerfinu sé um að gera að fjölga þeim, bæta þeim við, þannig að það verði hvergi nokkurs staðar hægt að fá neina þjónustu í íslenska heilbrigðiskerfinu nema borga sérstaklega fyrir hana. Þá erum við að færast enn lengra út á þá braut að við stöndum ekki undir þessari þjónustu með sameiginlegum aflatekjum heldur látum þá borga sem eru orðnir veikir. Það er tiltekið módel en það er ekki aðalsmerki norræna módelsins. Það er ameríkanisering íslenskra heilbrigðismála.



[16:22]
heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þekki það alveg ágætlega, bæði liggur það fyrir í reglugerð sem var til staðar þegar ég tók við sem ráðherra og svo þekki ég það bara ágætlega og persónulega af eigin raun að þegar menn fara á bráðamóttöku og fara þaðan í innlögn greiða menn komugjald og menn greiða sömuleiðis komugjald og þjónustugjöld þegar þeir fara á göngudeild sjúkrahúsa. Þetta liggur fyrir og hefur legið fyrir lengi.

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður getur ekki haldið því fram að það sé ekki almenna reglan í norræna heilbrigðiskerfinu að hafa kostnaðarhlutdeild, hún er vissulega mismunandi, en það er meira að segja svo að fulltrúi Vinstri grænna er í nefnd sem er að skoða sérstaklega og bera saman þau módel. Það er nefnd á mínum vegum sem skoðar sérstaklega módel á Norðurlöndunum til að sjá hvernig greiðsluþátttökukerfinu er best fyrir komið því að það er alls ekki sama hvernig það er gert. Þessi nefnd er undir forustu hv. þingmanna Péturs H. Blöndals og Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur og í þeirri nefnd er hv. þm. Ögmundur Jónasson. Menn geta ekki haldið því fram að sé það ekki almenna reglan á Norðurlöndunum að þar sé kostnaðarþátttaka almennings. Það sýna opinberar og alþjóðlegar tölur sem auðvelt er að fletta upp og hver og einn getur gert það. Það er því alrangt að halda því fram að norræna módelið sé með þeim hætti að notandi greiði ekki ákveðna kostnaðarhlutdeild. Það er alrangt.

Það er hins vegar afskaplega mikilvægt að við reynum að gera þetta vel og með sem sanngjörnustum hætti. Auðvitað hefur enginn gaman af því að leggja á gjöld, sama hver þau eru, ég tala ekki um þegar það snýr að heilbrigðisþjónustunni en ef við ætlum að vera málefnaleg legg ég til að menn tali um þetta eins og þetta er og menn geta ekki haldið því fram að vinir okkar á Norðurlöndunum séu með eitthvað allt annað en þeir eru með.



[16:25]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég átta mig ekki á því hvað hæstv. heilbrigðisráðherra er að þvæla. Í athugasemd um 17. gr. frumvarpsins stendur um það sem hér á að fara að gera, með leyfi forseta: „Lagt er til að í 2. tölul. verði sett inn ákvæði er heimilar að taka upp komugjald við innlögn á sjúkrahús …“ Það var það sem ég var að segja að hefði ekki verið til staðar hér, nákvæmlega. Hitt þekki ég allt saman.

Ég veit líka að í lögum um heilbrigðisþjónustu stendur í 18. gr. (Gripið fram í: Sjúkratryggingar.) Í lögum um sjúkratryggingar stendur í 18. gr., með leyfi forseta: „Sjúkratryggingar taka til ókeypis vistar að ráði læknis í sjúkrahúsum sem rekin eru af ríkinu eða samkvæmt samningum …“ Á þá ekki að breyta þessu? Það verður að slátra þessu ákvæði, það á ekki við lengur. Það er enginn ókeypis vist eftir inni á sjúkrahúsum þó að ráði læknis sé. Við erum að tala um innritun til dvalar á sjúkrahús sem læknir ákveður í samráði við sinn sjúkling. Þetta er ekki þannig að menn labbi inn af götunni að gamni sínu og það detti bara í það einn góðan veðurdag að leggjast á spítala, eins og ráða mátti af hæstv. forsætisráðherra sem taldi að þetta gæti jafnvel bremsað það aðeins niður. Ég þekki engan mann og engan lækni á Íslandi sem er að leika sér að því að gamni sínu að spýta mönnum inn á sjúkrahús. Þetta er ekki þannig. Þetta er svipað og þegar ráðherra Alþýðuflokksins taldi svo mikilvægt að taka upp kostnaðargreiðslu sjúklinga af því að þeir væru alltaf að láta taka úr sér botnlangann að óþörfu aftur og aftur. Það þyrfti að innprenta mönnum kostnaðarvitund. Þetta er þvæla. Við erum ekki að tala um svona hluti hér. Hér er alvarleg prinsippbreyting á ferðinni vegna þess að þetta vígi, sjúkrahúsin sjálf hafa þó staðið þeim sem svo veikir eru að þeir þurfa að leggjast inn, innritast þangað til dvalar, til boða áður án sérstakrar greiðslu.



[16:27]Útbýting:

[16:27]
Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Hæstv. forsætisráðherra hóf mál sitt þegar hann mælti fyrir frumvarpi til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum á því að benda á að margvíslegar ráðstafanir væru nauðsynlegar vegna hruns íslensku bankanna og skal ekki dregið úr því. Það er vissulega rétt að þannig er það. Spurningin er um hvort nóg sé að gert og hvort verið sé að gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegar eru.

Að mínu mati er margt gott um frumvarpið að segja og það sem lagt er til, annað miður. Þannig er það stundum þegar lagðar eru til margvíslegar ráðstafanir og ætla ég að fara í gegnum það á eftir. Ég vil þó í upphafi geta þess, virðulegi forseti, að ég hefði talið að þurft hefði að gera mun víðtækari ráðstafanir mun fyrr en gert hefur verið. Ég hafði talið að strax þegar bankahrunið átti sér stað þann 6. október sl. og neyðarlögin voru sett mundi ríkisstjórnin þá þegar grípa til þess að mynda aðgerðahóp, fá fólk úr öllum stjórnmálaflokkum til að taka á þeim málum og vísa til þeirra atriða sem þyrfti svo virkilega að taka á. Það var ekki gert.

Hér stöndum við nokkru fyrir áramót að skoða hvað og hvernig, eftir þeim pípum sem ríkisstjórnin leikur á og þeim frumvörpum ríkisstjórnin hefur lagt fram, hvernig hægt er að forðast hin verstu áföll en við erum í raun ekki að stýra undan því áfalli sem við höfum lent í. Af því að við vorum áðan að ganga frá og vísa fjárlagafrumvarpi til fjárlaganefndar til 3. umr., liggur fyrir að verið er að afgreiða fjárlög með verulegum halla, allt upp undir 100 milljarða halla samkvæmt niðurstöðum frumvarpsins. Það er að mínu viti óásættanlegur halli og óásættanlegt að vísa kostnaði á framtíðarkynslóðir, á börnin okkar og barnabörnin. Við umræðuna í gær var vísað til ýmissa niðurskurðaraðgerða og hluta sem þyrfti að taka til. Ég vísaði til margvíslegra atriða sem ég taldi nauðsynlegt að yrði tekið á til að fjárlög yrðu ekki afgreidd með halla.

Það eru tvær leiðir í því sambandi, að draga saman útgjöldin eða hækka álögurnar eða hafa blöndu af hvoru tveggja. Ég tel að lengra verði ekki haldið, að ríkisútgjöld séu þegar orðin svo mikil og opinber útgjöld sem taka um helming þjóðarframleiðslu séu langt umfram það sem eðlilegt eða ásættanlegt geti talist.

Kallað hefur verið eftir því að við fengjum erlenda sérfræðinga til að aðstoða okkur í þessu ástandi, gera grein fyrir því hvað við eigum að gera. Einn slíkur var hér fyrir nokkrum dögum síðan, ekkert ómerkari maður en fyrrum forsætisráðherra Svía, Göran Persson, sem flutti ræðu í hátíðarsal Háskóla Íslands. Þarna er um að ræða forsætisráðherra sem fór með mál þegar Svíar þurftu að taka á sinni bankakreppu á sínum tíma. Hvað hafði þessi merki stjórnmálamaður að segja við okkur? Jú, hann sagði að við þyrftum að taka strax á okkar málum og þeim mun fyrr sem við gerðum það og ákveðnar þeim mun fyrr kæmumst við út úr þeirri kreppu sem við fyrirsjáanlega mundum lenda í.

Ég er sannfærður um að þessi sjónarmið og ráðleggingar Görans Perssons eru rétt, að brýna nauðsyn beri til að taka með ákveðnum hætti og af festu á þeim málum sem um er að ræða, gera það strax, láta höggið koma og við verðum öll að sætta okkur við það. Þess vegna þurfti strax í október að fara ákveðið í gegnum alla útgjaldaliði fjárlaga, skoða hvernig hægt væri að taka á þeim til að draga úr útgjöldum ríkisins þannig að fjárlög yrðu afgreidd hallalaus. Sjaldan hefur verið eins mikil nauðsyn á því, virðulegi forseti, að afgreiða hallalaus fjárlög en einmitt núna þegar aðstæður eru þær sem um ræðir í okkar þjóðfélagi. Það hefur þurft að skera niður útgjöld, takmarka millifærslur, fara í allar þær sparnaðarleiðir sem hægt hefur verið að koma við.

Venjulegir einstaklingar, heimilin í landinu, hafa ekki möguleika á að eyða meira en tekjurnar leyfa nema að taka lánsfé. Ef mikið er gert af því endar það alltaf með ófarnaði, skuldirnar vaxa heimilunum eða einstaklingnum yfir höfuð. En það sama gildir um ríkið, sama gildir einfaldlega um að þegar farið er fram með þessum hætti er ekki verið að gera neitt annað en prenta seðla og taka lán hjá framtíðinni. Ég tel að staða okkar sé þannig að óásættanlegt sé að fara þá leið. Það þurfi að vera mun alvarlegri aðstæður uppi en þær sem nú eru til að ásættanlegt sé að afgreiða fjárlög með 100 milljarða halla eins og gert var við atkvæðagreiðslu eftir 2. umr. fjárlaganna í dag.

En þá er spurningin: Er möguleiki eða tilefni til að hækka álögur á fólkið í landinu? Þá segi ég: Þar er svigrúmið ekki fyrir hendi. Af hverju ekki? Vegna þess að í fyrsta lagi eru skattar á almenning í landinu þegar það háir, beinir skattar eru það háir og óbeinu skattarnir eru með því hæsta sem þekkist. Við erum með virðisaukaskatt upp á 24,5% og það sem fólkið í landinu stendur frammi fyrir, sem nánast hver einasti einstaklingur verður að horfast í augu við, er launalækkun, kjara- og eignarýrnun vegna verðbólgu, lífskjaraskerðing vegna hækkunar lána vegna verðbólgunnar þar sem verðtryggingin étur upp andvirði eigna og eins er um að ræða hækkað vöruverð. Það þýðir að ráðstöfunartekjur einstaklinganna eru mun minni en ella væri.

Þrátt fyrir að fólkið í landinu verði nú fyrir verulega mikilli lífskjaraskerðingu er lagt til í 3. gr. frumvarpsins að hækka útsvar um 0,25% og í 8. gr. er lagt til að hækka tekjuskatt um 1,25%. Hvað þýðir það? Það þýðir að samtala tekjustofna sveitarfélaga og tekjuskatts til ríkisins nemur hvorki meira né minna en 37,28% af tekjum einstaklinganna. Til viðbótar við það er síðan þvingaður sparnaður til lífeyrissjóða, sem virðast hafa að hluta til það markmið að fólki geti hugsanlega liðið vel í ellinni þó að því eigi að líða jafnvel illa í dag, en þá erum við að tala um 37,28% sem ríki og sveitarfélög taka til sín í beinum sköttum. Þar ofan á koma 12% framlag til lífeyrissjóða eða 49,28% sem þannig er. Það sem um er að ræða er að verið er að leggja þær byrðar á alla launþega í landinu að greiða helming tekna sinna í opinber gjöld og til lífeyrissjóða. Það er einfaldlega of mikið, fólk hefur ekki tök á því í mörgum tilvikum að hafa bjargráð þegar ríkisvaldið eða hið opinbera tekur jafnmikið.

Í 7. gr. frumvarpsins er talað um fæðingar- og foreldraorlof, um að hámark fæðingarorlofs fari úr 480 þús. niður í 400 þús. kr. Ég hef átt afskaplega erfitt með að átta mig á því velferðarkerfi sem komið var á fyrir ríkt fólk í landinu. Ég tel eðlilegt að velferðarkerfið sé fyrst og fremst fyrir þá sem þurfa á því að halda. Eins og nú háttar til í þjóðfélaginu þurfum við að einbeita okkur að því að halda við því velferðarkerfi þannig að allt fólk geti haft það þannig að það líði ekki skort, að það búi við þokkaleg lífskjör en við eigum ekki að vera með velferðarkerfi hinna sem ekki þurfa á því að halda. Hér er verið að tala um að skerða fæðingar- og foreldraorlof úr 480 þús. niður í 400 þús. og þá spyr ég: Á hvaða forsendum? Hvaða rök mæla með því að hafa hærri greiðslur fyrir fæðingar- og foreldraorlof en fyrir öryrkja og aldraða? Við verðum einhvers staðar að setja okkur mörk í velferðinni. Hvort sem okkur líkar það betur eða verr hafa þeir sem ungir eru fleiri möguleika og bjargráð en hinir sem eru öryrkjar og aldraðir. Það verður að hyggja að því á tímum eins og þessum. Þess vegna hefði ég talið að það eðlilegra að hafa fæðingar- og foreldraorlof með öðrum hætti en hér er gert.

Í 9. gr. frumvarpsins er verið að fjalla um sjómannaafsláttinn og hækkun hans. Þar getur verið um eðlilegan hlut að ræða en í raun þegar það er skoðað er fyrst og fremst verið að tala um að ríkisvaldið niðurgreiði launakostnað útgerðarinnar. Með þessum hætti, sem og með svo mörgum öðrum, er verið að rétta fram peninga almennings í landinu til hjálpar kvótagreifunum, til hjálpar sægreifunum, og það er ekki ásættanlegt. Ég hefði talið eðlilegra að vísa þessum málum og launakerfinu í heild þannig að þeir stæðu undir því sem eiga að gera það.

Síðan eru það önnur atriði eins og t.d. varðandi sölu Landssímans og komið hefur til umræðu. Hv. þm. Jón Bjarnason gerði athugasemd við að Landssíminn hefði verið seldur á sínum tíma og velti fyrir sér ýmsum hlutum í því sambandi. Ég verð að segja að sem betur fer var Landssíminn seldur á sínum tíma vegna þess að hefði það ekki verið gert væru verðmæti Landssímans til muna minni í dag en á þeim tíma þegar Landssíminn var seldur. Ég taldi það fyrirsjáanlegt þegar Landssíminn var seldur að seinna mætti það ekki vera vegna þess að þær breytingar voru að verða í fjarskiptum að ríkinu lá á að koma þessum verðmætum í verð meðan þau voru virkileg verðmæti. Ég verð því að segja að ég tel að mjög vel hafi tekist til við sölu Landssímans enda fjarskiptamálum þannig háttað að engin ástæða var til að ríkið stæði í þeim rekstri áfram.

Ég tel það jákvæða breytingu sem lögð er til í 13. gr. frumvarpsins hvað varðar að lög um ráðstöfun og sölu Landssímans verði felld niður. Ég sé ekki að þau eigi við miðað við stöðuna í dag.

Það eru nokkur atriði sem ég vil sérstaklega benda á sem ég tel vera til verulegra bóta. Þá vil ég sérstaklega taka 10. og 12. gr. frumvarpsins þar sem verið er að fjalla um hækkun barnabóta og að ekki sé heimilað að skuldajafna við kröfur ríkissjóðs. Ég tel það til verulegra bóta. Það sem hér kemur fram er ekki með öllu illt en það sem ég vara sérstaklega við og hlýt að mæla eindregið á móti og berjast gegn er að enn skuli eiga að hækka gjöld á almenning í landinu. Það er óásættanlegt og almenningur í landinu hefur ekki svigrúm til að taka slíkri gjaldahækkun.



[16:42]
Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Það hryggir mig mjög hversu fámennt er oft í þessum sal þegar við ræðum svo stórt mál sem þetta. (Gripið fram í.) Þetta mál skiptir fólkið í landinu máli upp á 16 eða 17 milljarða kr. (Gripið fram í.) og ríkisstjórnin hefur lagt það fram til að bæta stöðu ríkissjóðs um þá upphæð. Ég ætla ekki að draga neitt úr því. Að sjálfsögðu þarf að standa vörð um ríkissjóð í erfiðu árferði en mér finnast áherslur ríkisstjórnarinnar í því hvert sækja eigi fjármunina sem mælt er fyrir um í frumvarpinu einkar athyglisverðar. Það á að sækja 360 millj. til sjúklinga vegna nýs gjalds vegna innlagna á sjúkrahús, 400 millj. til foreldra nýfæddra barna með skerðingu á Fæðingarorlofssjóði og 800 millj. í vasa bænda. Þar voru breiðustu bökin fyrir, hæstv. forseti. Af einni mestu láglaunastétt landsins á að taka 800 millj. kr. Það á að ná í tæpa 4 milljarða kr. frá öldruðum og öryrkjum, 3,9 milljarðar sem hefðu átt að renna til þeirra eru skertir með þessu frumvarpi. Fyrir utan það að 400 millj. kr. lækkun er á sérstöku framlagi til sveitarfélaga, sem glímt hafa við kreppu mörg undanfarin ár. Þetta er hin nöturlega staðreynd um forgangsröðun ríkisstjórnarinnar.

Málaflokkarnir sem ég nefndi eru vitaskuld grafalvarlegir, því að mér sýnist að verið sé að seilast til þeirra sem síst skyldi og ég fagna því að hæstv. heilbrigðisráðherra skuli vera viðstaddur umræðuna sem og hæstv. forsætisráðherra í hliðarsal.

Ég hefði kosið, hæstv. forseti, að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra væri viðstaddur umræðuna (Gripið fram í.) vegna þess að mig langar til að ræða breytingar á búvörusamningnum, þar sem takmarka á starfsskilyrði með því að lækka fyrir fram gerða samninga. Bændur hafa gert langtímaáform með tilliti til þess að ríkið stæði við samningana og margir þeirra fóru út í miklar fjárfestingar til að byggja upp bú sín. Nú er ljóst að annar samningsaðilinn, ríkið, mun ekki standa við gerða samninga og talið er að þar muni allt að 800 millj. kr. fyrir íslenskan landbúnað. Það munar um minna, hæstv. forseti. Ég spyr hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hvort ekki sé mikilvægt að stjórnvöld standi vörð um innlenda landbúnaðarframleiðslu á tímum sem þessum. Ég held að ágæti íslensks landbúnaðar hafi aldrei sannað sig eins mikið og á þessum síðustu og verstu tímum og ef eitthvað er hafa landbúnaðarstéttin og landbúnaðarframleiðslan haldið aftur af annars gríðarlega mikilli verðbólgu sem hækkar lán allra landsmanna. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hafi átt formlegar viðræður við forustu Bændasamtakanna um breytingar á samningnum, sem sumir vilja meina að geti jafnvel falið í sér brot. Hvaða samskipti hafa átt sér stað við forustu bænda í málinu? Þegar ríkisstjórnin tók við völdum var mikið predikað um samræðustjórnmál og að menn þyrftu að tala saman.

Í annan stað vil ég spyrja hæstv. landbúnaðarráðherra hvað megi áætla að þetta hækki matvælaverð í landinu mikið og vísitöluna og verðbólguna. Nýlegar hækkanir á áfengi og tóbaki hafa ruðst fram í hækkun á vísitölunni af tvöföldum krafti. Hvaða áhrif mun þessi breyting hafa á vísitöluna? Ljóst er að bændur munu ekki geta tekið þessar 800 millj. á sig. Því er mikilvægt að við höfum í huga að þetta mun hafa áhrif á allar fjölskyldur í landinu, á lán allra fjölskyldna vegna þess að þetta mun auka verðbólguna í ljósi þess að bændur þurfa að hækka verð á vörum sínum.

Ég vil spyrja hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra út í þær aðgerðir sem er ráðist í hér gagnvart öldruðum og öryrkjum. Ég ætla að grípa í greinargerð með frumvarpinu þar sem stendur orðrétt, með leyfi forseta:

„Einnig er gert ráð fyrir því í þessum hluta frumvarpsins að hækkun á bótum almannatrygginga um næstu áramót verði óbreytt frá forsendum fjárlagafrumvarpsins, eða 9,6%, fremur en að miðað verði við vísitölu neysluverðs. Er áætlað að þannig verði komið í veg fyrir um 5,9 milljarða kr. aukningu útgjalda.“

Aukningu útgjalda til aldraðra og öryrkja. Reyndar er síðan farið í aðgerðir sem bæta hag hluta öryrkja upp á 2 milljarða kr. þannig að kjör aldraðra og öryrkja eru skert um 3,9 milljarða kr. með frumvarpinu. (Gripið fram í.) Ég ætla að rifja það upp, hæstv. forseti, af því að ég heyri að hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir mælir þessu í mót, hvort hv. þingmaður mælir því þá ekki líka í mót að ríkisstjórnin hafi breytt um viðmið í kjölfar síðustu kjarasamninga gagnvart öldruðum og öryrkjum? Það fullyrða aldraðir, öryrkjar og forsvarsmenn Alþýðusambands Íslands og í þeim samningum tókst ríkisstjórninni að ná 3,6 milljörðum af þessum hópum með því að lækka þetta viðmið. Það segir sig sjálft, hæstv. forseti, að ef forgangsröðun ríkisstjórnarinnar er að veitast að þessum hópum þegar óðaverðbólga geysar og lán þeirra hækka gríðarlega er ekki forsvaranlegt að eitt meginefni frumvarpsins skuli vera að skerða kjör þessara hópa. Ég fer fram á að hæstv. ráðherra félagsmála svari spurningum er lúta að kjörum þessa hóps.

Mig langar líka að spyrja, hæstv. forseti, ef hæstv. samgönguráðherra hefði verið hér hvort ekki hefði þurft að endurnýja það tímabundna framlag sem sveitarfélögin sem hvað verst hafa staðið í landinu hafa fengið frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Það lækkar úr 1.400 millj. niður í milljarð, ef ég skil frumvarpið rétt, eða um ein 30%. Þessi sveitarfélög eru, svo ég nefni nokkur dæmi: Ísafjörður, Norðurþing, Sveitarfélagið Skagafjörður, Vestmannaeyjar, Hornafjörður og ég gæti haldið áfram. Þessi sveitarfélög hafa á undanförnum árum átt mjög erfitt með að ná endum saman, enda er orðið „kreppa“ í þessum samfélögum er ekki nýtt hugtak. Það hefur geysað kreppa í þessum sjávarbyggðum á undanförnum 20 árum og nú þegar þessi kreppa skellur á samfélögum sem tóku ekki þátt í góðærinu og urðu jafnvel fyrir barðinu á því, því góðærið bitnaði á útflutningsatvinnuvegunum, þá á að skerða tímabundið framlag til þessara sveitarfélaga sem geta varla komið saman rekstrar- og efnahagsreikningum sínum.

Síðan nefnir ríkisstjórnin það og telur mikilvægt hlutverk fyrir þessi sveitarfélög að standa vörð um nærþjónustuna, um íbúana. [Kliður í salnum.] En hvað ef þau geta ekki sinnt því lögboðna hlutverki sínu vegna þess að þau hafa ekki tekjustofna til þess? Það verður mjög fróðlegt að sjá hverjar fjárhagsáætlanir þessara sveitarfélaga verða, sérstaklega í ljósi þess að tekjustofninn skerðist hjá þeim og svo mörgum öðrum. Hæstv. forseti. Það væri ágætt að fá þögn í salinn þegar maður heldur ræðu eða ágætir þingmenn tali saman frammi á göngunum vegna þess að við erum að tala um stórmál, ekkert smámál. Við tölum um breytingar, tekjutilfærslur frá einstaka hópum til ríkisins upp á 16–17 milljarða kr. Ég hef minnst á barnafólk, bændur, öryrkja og aldraða og nú er tekinn upp nýr skattur, sérstök komugjöld á heilbrigðisstofnunum, frá fólki sem þarf að leggjast á spítala, upp á 360 millj. kr. (ÁRJ: Þið voruð með þau líka.) Hv. þingmaður bendir á að fyrri ríkisstjórn hafi verið með ýmis slík gjöld. Hér er verið að taka upp nýjan skatt og ég ætla að benda hv. þm. Ástu R. Jóhannesdóttur, þingmanni Samfylkingarinnar, á að sjálfstæðismenn sögðu að hægt að væri gera ýmsa hluti í velferðarmálum, í heilbrigðismálum sem þeim hefði ekki tekist að gera með Framsóknarflokknum. Enda var það þannig í upphafi kjörtímabilsins (Gripið fram í.) að menn boðuðu aukna einkavæðingu þar. Við framsóknarmenn vorum ekki tilbúnir að ráðast í slíkar aðgerðir.

Hæstv. forseti. Hægt væri að halda langa ræðu um þessi mikilvægu mál og ég vonast til að mjög ítarleg umræða verði um þau. Þetta frumvarp sem lagt er síðdegis fram skiptir máli fyrir þúsundir Íslendinga og eins og ég hef rakið eru þetta þeir Íslendingar sem mega einna síst við því á erfiðustu tímum sem við höfum gengið í gegnum á síðustu árum að verða fyrir því að gjöld séu stórhækkuð á þá og tekjur þeirra minnkaðar. Við verðum að fara mjög vandlega yfir þetta og ekki mun líðast að við afgreiðum frumvarpið, þennan bandorm, með einhverjum brjálæðislegum hraða. Í umræðum um fjárlög fyrr í dag á fundi efnahags- og skattanefndar Alþingis í morgun óskaði ég eftir forsendum er varða tekjuhlið fjárlaganna. Við þingmennirnir sem eigum að bera ábyrgð á afgreiðslu málsins höfum ekki enn fengið það sent. Ég mun alla vega ekki afgreiða fjárlög íslenska ríkisins árið 2009 án þess að vita hvaða tölur og skuldbindingar liggja á bak við einstaka útgjaldaliði. Það er einfaldlega ekki hægt að Alþingi Íslendinga láti koma fram við sig með þeim hætti.

Það er eins með þetta frumvarp. Við þurfum að ræða við hópa aldraðra og öryrkja og forustumenn bænda og þá sem frumvarpið og bandormurinn snertir. Við skóflum þessu ekki í gegnum þingið sisvona. Því miður hef ég það á tilfinningunni að ríkisstjórnin sem ræður að mestu leyti hvernig þetta þing starfar ætli sér að keyra þetta mál í gegn á örfáum dögum þótt það snerti hátt í 20 milljarða kr. að umfangi og þúsundir Íslendinga. En við í hv. efnahags- og skattanefnd munum gera hvað við getum til að fá ítarlega umræðu um þessi mál.

Hæstv. forseti. Ég vil að lokum segja að vinnubrögð síðustu daga á vettvangi þingsins er varða fjárlögin og nú þetta mál eru því miður ekki til eftirbreytni. Þegar ég leit á þetta frumvarp fyrr í dag trúði ég varla mínum eigin augum hverjar áherslurnar voru, sérstaklega að næla í fjármuni til einstakra hópa, því mér datt einfaldlega ekki í hug að einn stærsti einstaki sparnaðarliðurinn í frumvarpinu væri gagnvart öldruðum og öryrkjum. Mér kom það ekki til hugar. Við fórum í gegnum mjög harða umræðu fyrr á árinu þar sem við í stjórnarandstöðunni bárum það upp á ríkisstjórnina að hafa lækkað viðmið gagnvart þessum hópum, gagnvart kjarasamningum þeirra í kjölfar síðustu samninga. Forusta Alþýðusambandsins, eldri borgarar og öryrkjar staðfestu það með bréfi sem ég las upp í þingsölum Alþingis. Forsvarsmenn Samfylkingarinnar í þeirri umræðu komu upp og sögðu að þessir aðilar færu með rangt mál. Það verður þá væntanlega líka í þessu þegar verið er að taka tæpa fjóra milljarða af þessum hópum aftur að sá sem hér stendur fari bara með fleipur og vitleysu. Ég er alveg viss um að ráðherra félagsmála mun koma hingað upp og rifja upp hvernig síðasta ríkisstjórn var í þessum málum. Ég er alveg viss um það. Ég þekki orðið þau vinnubrögð hér. (Fél.- og trmrh.: Finnst þér það nokkuð skrýtið?) En þegar við horfum á það að verið er að skerða stórlega kjör þessara hópa, sem með öllum útreikningum er ekki hægt að sýna að hafi verið gert á undangengnum árum, þá er tími til kominn að menn andmæli og ég vitna til þess að Öryrkjabandalag Íslands mótmælti þessu harðlega í dag og lýsti vantrausti á ríkisstjórnina, vantrausti. Áherslur ríkisstjórnarinnar í frumvarpinu bera þess merki að þar er skorið niður sem síst skyldi.



[16:58]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spurði hvort ekki væri ásetningur okkar að standa vörð um íslenska landbúnaðarframleiðslu. Auðvitað er það ásetningur okkar að gera það og þess vegna fullyrði ég að það sem við erum að gera hefur það einmitt að augnamiði að reyna að tryggja íslenska landbúnaðarframleiðslu. Það sem verið er að gera með frumvarpinu sem hér er rætt um, þessum bandormi sem snýr að landbúnaðarmálunum, er einfaldlega að verið er að setja tiltekið þak á þær verðlagshækkanir eða þær vísitöluhækkanir sem geta orðið á búvörusamningunum á næsta ári. Búvörusamningarnir hafa verið verðbættir að fullu og verða verðbættir að fullu eins og kemur fram í fjáraukalagafrumvarpinu sem nú liggur fyrir þinginu en það sem verið er að gera núna er að verið er að setja sérstakt þak á árið 2009 og miðað við að tölurnar sem lagðar voru fram í fjárlagafrumvarpinu í upphafi októbermánaðar munu standa.

Við vitum að þær breytingar sem hafa orðið í efnahagslífi okkar hafa kallað á aðgerðir af þessu tagi og það er alveg rétt. Hv. þingmaður spurði hvort ég hefði átt viðræður við forustumenn bænda út af þessu. Já, ég kynnti þessi mál fyrir forustumönnum bænda, raunar áður en frumvarpið kom fram, til að gera þeim grein fyrir því hvað væri í aðsigi og viðbrögð þeirra voru, eins og fram hefur komið í fjölmiðlum, að þeir treystu sér ekki til að ganga til einhverra samninga um þessi mál. Eins og ég vakti athygli á fyrr í þessari umræðu eru ýmsir möguleikar í því sambandi og ég lýsi mig fúslega reiðubúinn til að taka þátt í einhverri slíkri samningagerð við bændur þó að auðvitað beri ég pólitíska ábyrgð á þeirri niðurstöðu sem hefur fengist með því að setja þetta tiltekna þak á vísitöluhækkanir á búvörusamningnum á næsta ári. Hins vegar er það örugglega svo að hægt er að gera tilteknar breytingar á búvörusamningunum sjálfum ef um það skapast samkomulag sem tryggir að þessar greiðslur renni betur til bænda en áður.

Enginn getur svarað með fullnægjandi hætti hvort þetta muni hækka matvælaverð. Auðvitað munu bændur freista þess að velta kostnaðarhækkunum sínum út í verðlagið eins og þeir hafa möguleika á en við vitum ekki á þessari stundu hvernig það mun birtast. Það mun skýrast á næsta ári.



[17:00]
Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi svör og hvet hann til að eiga áfram samskipti við bændur, sérstaklega í framhaldinu því að það er eins og hæstv. ráðherra benti á ekki sama hvernig menn halda á málum á næstunni. Ég held að hæstv. ráðherra hljóti að vera mér sammála um það í ljósi þess að hér er verið að skerða framlög vegna þessara samninga um 800 millj. kr. Þetta er mjög skuldsett stétt og lágtekjustétt og það er óumflýjanlegt að hluti eða jafnvel stærstur hluti af þessum 800 millj. kr. fari með einhverjum hætti út í verðlagið. Það er mikilvægt líka fyrir okkur sem störfum hér að við áttum okkur þá á afleiðingum þess. Hvað mun það þýða ef matvælaverð hér á landi, lambakjöt, mjólk og aðrar nauðsynjavörur, mun hækka? Mun það ekki af sjálfu sér leiða til þess að verðbólgan hækki í framhaldinu, lán heimilanna líka og þar fram eftir götunum? Hér er um stórmál að ræða og ég hvet hæstv. ráðherra til að íhuga vel hvernig að þessum málum verður staðið í framhaldinu en við á vettvangi efnahags- og skattanefndar munum að sjálfsögðu reyna að fá svör við því hvaða áhrif þetta muni hafa á verðbólguna og lán Íslendinga. Þau eru að hækka gríðarlega þessi missirin með hárri verðbólgu og það bætir náttúrlega gráu ofan á svart ef þessi aðgerð leiðir til þess að verðbólgan muni aukast enn meir.



[17:02]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það þarf í sjálfu sér ekki að brýna mig til þess að eiga góð samskipti við bændur. Ég hef einmitt kappkostað að eiga slík samskipti við bændur. Það hefur gengið ágætlega og ég veit að bændum er alveg ljóst og alveg kunnugt um það að ég hef áhuga á því að ræða þessi mál áfram við þá ef þeir telja að það sé flötur á því að gera einhverjar þær tilteknu breytingar innan búvörusamninganna sem gætu orðið til að stærri hluti þeirra rynni beint til bænda sjálfra. Auðvitað er ákveðið svigrúm í þeim efnum en þetta er mál sem þarf að ræðast þá af samningsaðilunum báðum og ég hef lýst því yfir að ég er mjög opinn fyrir hvers konar breytingum sem bændur telja skynsamlegar til að auka sem mest tekjustreymið beint til bændanna sjálfra.

En varðandi það sem hv. þingmaður var að velta fyrir sér um verðlagsþróunina vil ég segja það að almennt talað er mín skoðun sú að það sé skynsamlegast að bændurnir geti sótt sér sem mest af tekjum sínum í gegnum afurðaverðið sjálft. Það er það eðlilega og skynsamlega í þessum viðskiptum, að bændurnir hafi sem mestan hluta tekna sinna af því að selja afurðir sínar. Beingreiðslurnar eru síðan til viðbótar við það. Í verðlagsnefnd búvara hefur tvisvar sinnum á þessu ári tekist ágæt samstaða á milli fulltrúa neytenda, bænda og afurðastöðvanna um tilteknar hækkanir á mjólkurverði. Við vitum hins vegar varðandi sauðfjárafurðirnar að sá hluti tekna bændanna ræðst af samningum við afurðastöðvarnar við sláturhúsin og niðurstaðan var heilmikil vonbrigði fyrir ýmsa bændur í haust en það endurspeglaði mat afurðastöðvanna á því hvað þeir gætu velt stórum hluta af þessum kostnaðarauka með hækkandi verði til bænda út í verðlagið sjálft.

Við vitum ekki nákvæmlega hvernig þessi mál munu þróast. Það mun ráðast mjög mikið af því hvernig samkeppnisstaðan verður á þessu ári. Við vitum hins vegar að samkeppnisstaða íslenskrar búvöruframleiðslu og íslenskrar matvælaframleiðslu almennt hefur batnað með lækkandi gengi krónunnar og við verðum vör við vaxandi áhuga á íslenskum framleiðsluvörum. Vonandi verður það til þess að bændur geti sótt sér í meiri mæli tekjur sínar út á markaðinn en þetta er hlutur sem við gerum okkur ekki grein fyrir. Hins vegar er alveg rétt að verðlagning á búvörum hefur verið hamlandi á verðbólguna á þessu (Forseti hringir.) ári.



[17:04]
Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég átti erfitt með að sitja þegjandi undir ræðu hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar í ljósi þess að Framsóknarflokkurinn sat í 12 ár í heilbrigðisráðuneytinu, þar til eftir síðustu kosningar, og hann gagnrýnir nú m.a. komugjald á sjúkrahús. Ég ætla bara að minna á hvað Framsóknarflokkurinn gerði í bullandi góðæri. Þá var heldur betur rukkað á spítölunum því að við sitjum uppi með komugjöld á slysadeild. Mjög margir sjúklingar leggjast inn á spítala af slysadeild. Þar eru komugjöld frá Framsóknarflokknum. Á bráðadeildum kemur fólk líka inn á spítala og leggst inn. Þar eru komugjöld frá Framsóknarflokknum. (Gripið fram í.) Fjöldi manns sækir göngudeildarþjónustu á spítalana. Þar eru komugjöld frá Framsóknarflokknum og ekki voru þessi gjöld tekin af þegar þjóðin bjó við bullandi góðæri.

Hér er verið að samræma milli sjúklingahópa og sett samræmt komugjald á alla sem sækja spítalann. (ÁI: Samræmt komugjald?) Það er verið að setja komugjald á alla sjúklinga sem koma inn á spítalann, ekki bara þá sem koma inn á slysadeild, koma í gegnum bráðadeild og (Gripið fram í.) koma á göngudeild. (Gripið fram í.) Það sem er verið að gera um leið er að það verður sett þak yfir þannig að það verður hámark og öll þessi gjöld fara undir það hámark. (ÁI: 2020?) Nei, það verður gert núna á næstu mánuðum og það verður látið virka aftur fyrir sig þannig að útgjöld frá áramótum munu koma undir þetta þak. Það verður tryggt.

Ég vil líka minna á hvað gerðist í tíð Framsóknarflokksins, m.a var heimilt að leggja fólk inn á spítala án þess að innrita það (Forseti hringir.) og heimilt að taka af því allar greiðslur, læknisþjónustu, rannsóknarkostnað o.s.frv. (Forseti hringir.) Það voru verulega há útgjöld hjá mörgum sjúklingum, allt upp í tugi þúsunda áður en þeir lögðust inn.



[17:06]
Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að Samfylkingin átti sig ekki á því að hún er að verða búin að vera í ríkisstjórn í bráðum tvö ár. Samt kemur alltaf sama bilaða platan hér upp. Ég ætla að minna hv. þingmann, sem virtist vera hreykin af því að hér væri verið að samræma þannig að allir þyrftu að greiða, á að forstjóri Landspítalans sagði á dögunum að það ætti að hagræða í rekstri. Ríkisstjórnin hefur boðað það. Í hverju var sú hagræðing fólgin? Jú, hún var m.a. fólgin í því að auka framboð á göngudeildum, að fólk yrði ekki lagt eins mikið inn. Hvað þýðir þetta á íslensku? Það er ekki verið að hagræða. Nei, ríkið ætlar að rukka fólk í stórauknum mæli fyrir þessa þjónustu. Það er sem sagt verið að breyta kostnaðarhlutdeildinni frá því að ríkið borgi og í það að almenningur borgi. Er hv. þingmaður stolt af þessu? Það sem ég segi er að við erum bara að sjá toppinn af ísjakanum í hagræðingaraðgerðum ríkisstjórnarinnar þegar kemur að velferðarmálum.

Hæstv. forseti. Ég gleymdi óvart 1 milljarði. Með leyfi forseta stendur í greinargerð:

„Í þriðja lagi eru lagðar til breytingar á málefnum aldraðra og almannatryggingum varðandi aukin áhrif fjármagnstekna á lífeyristryggingar, auk þess sem frítekjumarki 70 ára og eldri er breytt til samræmis við frítekjumark annarra hópa. Samtals lækka þessar breytingar útgjöld ríkissjóðs um rúman 1 milljarð kr.“

Þetta er ofan á þessa 3,9 sem ég fór ranglega með. Þetta eru 4,9. Ég spyr hv. þingmann hvort hún ætli að koma hér upp og halda áfram að rifja upp 12 ára valdatíð Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks eða hvort hv. þingmaður ætli að fara að kannast við sín verk. Hér er stórfelldur niðurskurður gagnvart þeim sem hvað lakast standa. Við hv. þingmann vil ég segja það að íslensk heilbrigðisþjónusta og framlög til velferðarmála (Forseti hringir.) jukust um tugi milljarða í tíð síðustu ríkisstjórnar. Það sem við erum að gagnrýna (Forseti hringir.) hér er samdráttur um marga milljarða kr.



[17:09]
Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fara að rífast við hv. þingmann um það hvað þessi ríkisstjórn hefur gert í sambandi við almannatryggingarnar. Þar var verulega gefið í. Þar hafa hækkað greiðslur til bæði aldraðra og öryrkja verulega frá því að þessi ríkisstjórn kom til valda, allt að 50% í sumum tilvikum.

Ég ætlaði að ræða við hv. þingmann um spítalana af því að þar byrjaði hv. þingmaður gagnrýnina áðan og ég komst ekki til að segja frá því hvernig Framsóknarflokkurinn í góðærinu hagaði sér. (BJJ: Ætlarðu enn að fara að rifja upp?) Fyrirgefðu, hv. þingmaður. Það er bara þannig, virðulegi forseti, að í tíð Framsóknarflokksins var heimilað að leggja fólk inn á spítala og rukka það fullt fyrir þjónustu meðan það var inniliggjandi án þess að vera innritað, í allt að tvo daga. Fyrst var það einn dagur og síðan, þó að það væri blússandi góðæri, var bætt við seinni deginum þannig að það mátti leggjast inn í tvo daga og alltaf var sjúklingurinn rukkaður fyrir alla þjónustu.

Það var ekkert hámark á ýmsum af þessum gjöldum. Nú á að setja öll þessi gjöld, öll útgjöld sjúklinga, undir hámark þannig að þeir sem eru mikið veikir og þurfa að greiða háar upphæðir, þurfa að greiða mikinn lyfjakostnað, þurfa að borga oft fyrir læknisþjónustu eða aðra heilbrigðisþjónustu munu fara undir ákveðið þak og ekki greiða meira en það á ákveðnu tímabili. Þetta þekkir hv. þingmaður enda á flokkur hans fulltrúa í þeirri nefnd sem er að vinna að þessum tillögum. Þarna er verið að grípa inn í þannig að mikið veikir sjúklingar eða þeir sem þurfa mikið á heilbrigðisþjónustunni að halda munu verða varðir fyrir miklum kostnaði — sem er vel. En á því hafði Framsóknarflokkurinn ekki hugsun þegar hann jók greiðsluþátttöku sjúklinga verulega á spítölum.



[17:11]
Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að hv. þingmaður hafi nefnt Framsóknarflokkinn mun oftar á nafn en aldraða og öryrkja í málflutningi sínum. Þetta kannski sýnir hugarfarið hjá Samfylkingunni í þessari umræðu, hún er föst í fortíðinni. Staðreyndin er sú að við Íslendingar búum við eina bestu heilbrigðisþjónustu í heimi. Um það verður ekki deilt.

Síðasta ríkisstjórn varði tugmilljörðum til að bæta þá þjónustu á meðan kostnaðarhlutdeild sjúklinga — (ÁRJ: Á kostnað sjúklinga.) Ekki á kostnað sjúklinga, það er rangt hjá hv. þingmanni og ég mun ræða það betur við hana í framhaldinu á Alþingi Íslendinga. Hv. þingmaður minntist ekki á það þegar síðasta ríkisstjórn var með ákveðin viðmið í kjarasamningnum gagnvart öldruðum og öryrkjum og núverandi ríkisstjórn breytti og sparaði sér þannig 3,9 milljarða hjá öldruðum og öryrkjum. (ÁRJ: Andskotans bull er þetta.) Andskotans bull, segja hv. þingmenn og passa ekki mál sitt í þessum sal en þeir segja það þó gagnvart forustumönnum aldraðra, öryrkja og Alþýðusambandi Íslands. Ég spyr: Er Samfylkingin alveg búin að missa jarðtenginguna gagnvart forustumönnum Alþýðusambands Íslands? Síðan er hér lagt til að tekjur aldraðra og öryrkja lækki um aðra 4,9 milljarða — ofan á 3,9. Við erum að verða komin upp í allverulegar upphæðir hjá þessari ríkisstjórn sem gumar af því að aldrei hafi verið staðið eins vel að kjörum þessara hópa. Ég held að þessi ríkisstjórn lifi í draumi, hæstv. forseti.



[17:13]
félags- og tryggingamálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Birki J. Jónssyni fyrir að gefa mér tækifæri til með ræðu sinni áðan að bera saman hvernig aldraðir og öryrkja hafa það í landinu þegar við jafnaðarmenn erum við stjórnvölinn og þegar framsóknarmenn eru við stjórnvölinn. Ég vil bara segja, virðulegi forseti: Guð hjálpi þessari þjóð að það séu ekki framsóknarmenn núna við stjórnvölinn í þeim hremmingum sem við erum.

Ég ætla að byrja á því að rifja upp nokkrar stærðir fyrir hv. þingmann. Þegar frumvarp til fjárlaga var lagt fram var 57 milljarða halli á fjárlögum. Það stendur núna í 215 milljarða halla, það er enginn smáviðsnúningur. Niðurskurðurinn sem verið er að fara í núna er um 43–45 milljarðar. Mig langar til að hv. þingmaður svari einni spurningu: Er þetta of mikill niðurskurður, er þetta of lítill niðurskurður og hvar hefði hv. þingmaður borið niður ef hann hefði verið við stjórnvölinn?

Hv. þingmaður ræðst með miklu offorsi á það hvernig lífeyrisþegar koma út úr þeim tillögum sem við erum að ræða í þeim viðsnúningi sem hér er. Ég held að hv. þingmaður verði, ef hann sýnir einhverja sanngirni, að halda því til haga að við erum að bæta í fjárlagafrumvarpið að því er varðar lífeyrisbætur eða lífeyristryggingar almannatrygginga frá því að frumvarp til fjárlaga var lagt fram, tveimur milljörðum. Til lífeyrisþega og öryrkja, þ.e. til lífeyrisgreiðslna þeirra, er því ekki varið einungis 5,5 milljörðum eins og átti að gera heldur tveim milljörðum meira en gert var ráð fyrir þegar frumvarpið var lagt fram, eða 7,5 milljarðar. (BJJ: Þetta var nú bara bull.) Við settum á lágmarksframfærsluviðmið 1. september sl. sem fór í 150 þús. kr. og það sem nú er verið að gera er að það er hækkað upp í 180 þús. kr. Þeir sem hafa 150 þús. kr. í dag munu hækka um 30 þús. kr. um áramótin.

Þegar núverandi ríkisstjórn tók við voru lágmarksgreiðslur í almannatryggingakerfinu fyrir þá sem ekkert höfðu úr lífeyrissjóðum 126 þús. kr. Hvað verður þetta lágmarksframfærsluviðmið um áramótin? Það fer úr 126 þús. kr. í 180 þús. kr., það hækkar um 50 þús. kr. Á sama tíma hefur daglaunatrygging hjá fólki á almennum vinnumarkaði hækkað um 25% og mun fara sennilega í 153 þús. kr. þegar dagvinnulaunatryggingin hækkar næst, þ.e. 1. mars.

Hvernig voru lægstu bætur lífeyrisþega árið 1995, þegar Framsóknarflokkurinn tók við, samanborið við dagvinnutrygginguna sem núna hefur hækkað um 50 þús. kr. eða um 50%? Ég vil biðja hv. þingmenn að taka eftir því að 1995 voru lægstu bætur lífeyrisþega samanborið við dagvinnutrygginguna, ef við miðum við 100, 103. Þegar Framsóknarflokkurinn tók við lækkaði þetta alveg niður í 80 á góðæristímum, þegar uppsveifla var í samfélaginu. Þegar lágmarksframfærsluviðmiðið er komið í 180 þús. kr. er þetta sem var lægst meðan Framsóknarflokkurinn stjórnaði árið 2001, 80 komið í tæplega 114 eða 113,6.

Þetta lágmarksframfærsluviðmið hefur aldrei frá upphafi verið hærra en það verður um næstu áramót, aldrei verið hærra, og við erum í bullandi kreppu og hremmingum. Getur hv. þingmaður haldið því með réttu fram að við séum að ráðast á kjör þeirra í almannatryggingunum sem verst hafa það? Nei, auðvitað getur hv. þingmaður ekki gert það.

Við erum að bæta kjör þeirra sem eru yfir 180 þús. kr. á mánuði um 9,6%. Það er enginn í landinu sem er með verðtryggingu í þessari verðbólgu nema lífeyrisþegar og það er vel. En ég ætla líka að halda því til haga að þegar Framsóknarflokkurinn tók við 1995 var eitt hans fyrsta verk að kippa úr sambandi almannatryggingum við launavinnu og þá byrjaði það sem þetta súlurit sýnir, það sést glöggt hvað skeður með því að þessu var kippt úr sambandi.

Ég ætla líka að halda því til haga að í góðærinu, þegar Framsóknarflokkurinn stjórnaði, sl. tólf ár, lækkuðu barnabætur og vaxtabætur hlutfallslega miðað við það sem þær voru 1995. Ég ætla að leyfa mér að halda því hér fram að í þeirri miklu kreppu sem við erum í núna þar sem þarf að taka á alls staðar þar sem það er mögulegt, hafa kjör lífeyrisþega sem lægst hafa launin aldrei verið betri. Þau eru betri núna í 215 milljarða halla en var í 80–100 milljarða góðæri þegar Framsóknarflokkurinn stjórnaði. Ég leyfi mér að halda því fram vegna þess að við erum með gögnin fyrir framan okkur sem sýna þetta.

Við erum ekki að skerða barnabætur eða vaxtabætur, við erum að auka þær núna. Við stöndum við það sem var samið um í síðustu kjarasamningum að barnabætur mundu hækka, mig minnir að ég fari rétt með að það séu 3–4 milljarðar. Það er ekki farin sú leið sem framsóknarmenn fóru þegar þeir stjórnuðu að hækka tekjuskattinn og skerða skattleysismörkin sem fyrst og fremst … (BJJ: Hækka tekjuskattinn? Þið lækkuðuð tekjuskattinn.) lækka tekjuskattinn, alveg rétt, lækkuðum tekjuskattinn en skattleysismörkin hækkuðu, takk fyrir að benda mér á þetta. Það leiddi til þess að þeir sem hæstar höfðu tekjurnar, og það sýna allar skoðanir sem hafa verið gerðar á þessu máli, t.d. hjá ríkisskattstjóra, að það bætti kjör þeirra sem mest hafa, þ.e. þeir fengu mestu skattalækkunina en skattbyrði lægst launaða fólksins, líka almannatryggingaþeganna, jókst á þessum tíma. Ég spyr: Er þetta eitthvað til þess að státa sig af?

Nú verjum við skattleysismörkin en hækkum eilítið tekjuskattinn sem ekki bitnar á lægst launaða fólkinu. (BJJ: Nú?) Nei, það bitnar ekki á lægst launaða fólkinu, þ.e. því fólki sem við erum að tala um, skattar þess hækka ekki vegna þess að skattleysismörkin verja það. (Gripið fram í.) Skattleysismörkin verja lægstu launin. Ég er meira að segja með dæmi sem sýnir að 800 þús. kr. maðurinn hækkar ekkert voðalega mikið. Hann hækkar t.d. um 5 þús. kr. á mánuði, það er nú ekki meira en það.

Því skal líka haldið til haga að allar þær aðgerðir sem við fórum í á sl. ári til þess að bæta kjör almannatryggingaþega, svo sem makabætur, frítekjumark vegna atvinnutekna, sem var 25 þús. kr. í góðærinu, fór í 100 þús. kr., skerðingarhlutfall sem var lækkað úr 30% í 25%, eignarskattur á íbúðarhúsnæði var felldur niður og tryggt var að uppbót vegna lágra greiðslna úr lífeyrissjóði allt að 25 þús. kr. mundi ekki skerða bætur almannatrygginga, þetta heldur allt. Vasapeningar voru hækkaðir verulega. Þetta heldur allt og við förum ekki í að skerða þetta, fyrir utan það að séreignarlífeyrissparnaður, sem skerti almannatryggingar meðan hv. þingmaður var við stjórnvölinn, mun ekki skerða bætur almannatrygginga um næstu áramót. Það er einn af þeim ávinningum sem við náðum fram og þessu höldum við.

Við förum í tvær breytingar á því sem við gerðum og hv. þingmaður nefndi það réttilega og ég ætla ekkert að koma mér hjá að nefna það. Það er að frítekjumark fyrir 70 ára og eldri, sem var ótakmarkað meðan það var takmarkað í 100 þúsund hjá 67–70 ára og hjá öryrkjum en fer núna undir sama 100 þús. kr. þakið. Frítekjumark öryrkja, sem átti að renna út um áramótin, er framlengt um heilt ár.

Við förum líka út í það að fjármagnstekjuskattur sem skerti bætur almannatrygginga um 50% skerði þær um 100%. Ég spyr: Er það eitthvað sem er hægt að gera ofboðslega mikið veður út af í þeim hremmingum sem við erum í? Ég held ekki, virðulegi forseti. Miðað við þá stöðu sem við erum í, þær hremmingar sem við erum í og þann mikla viðsnúning sem hefur orðið þá ætla ég að leyfa mér að halda að okkur hafi tekist bærilega að verja kjör lífeyrisþega.

Undir þetta 180 þús. kr. þak, sem er hækkað úr 150 þús. kr. í 180 þús. kr. falla tólf þúsund lífeyrisþegar, þar af milli sjö til átta þúsund aldraðir og fjögur til fimm þúsund öryrkjar. Ég held að ég geti staðið alveg sæmilega keik hér vegna þess að í þessari ríkisstjórn höfum við náð að verja kjör þessara lægst launuðu hópa, sem hafa hækkað helmingi meira en daglaunatryggingin á bara rúmu ári, einu og hálfu ári.

Virðulegi forseti. Mér finnst þessi gagnrýni, harða gagnrýni sem kemur að mínu viti úr hörðustu átt frá hv. þm. Birki J. Jónssyni, ekki vera sanngjörn þegar við lítum til almannatryggingakerfisins, barnabóta og vaxtabóta sem hér eru varðar. Ég tel það afar mikilvægt í þessari stöðu að við höldum því og því verði ekki breytt nú við lokaafgreiðslu fjárlaga að vaxtabætur verði skertar. Það er afar þýðingarmikið í þeirri stöðu sem við erum í að halda í vaxtabætur og auka í þær eins og við erum að gera. Í raun og sanni hefðum við líka þurft að hækka vaxtabæturnar, staðan er með þeim hætti og við munum við fyrsta tækifæri fara í það að hækka vaxtabæturnar. En það er mikilvægt að þurfa ekki að skerða þær og líka að við getum staðið við barnabætur vegna þess að eins og staðan er nú skipta barnabæturnar og vaxtabæturnar öllu máli fyrir barnafólkið í landinu.

Við höfum náttúrlega farið í gegnum þetta, ég og hv. þingmaður áður, þetta var raunverulega svo komið að miðað við þá uppsveiflu sem við vorum í og hvernig var farið í raunverulega öryggisnet almannatryggingakerfisins á tólf ára valdaferli Framsóknarflokksins með Sjálfstæðisflokknum þá vorum við farin að fjarlægjast skandinavíska velferðarkerfið, við vorum komin meira í átt til bandaríska velferðarkerfisins og velferðarkerfið var orðið meira ölmusukerfi en sjálfsagður réttur fólks. Ég vildi svo sannarlega að okkur hefði tekist á tímum þeirrar uppsveiflu sem var, þar sem voru tugir milljarða afgangur af ríkissjóði, að gera velferðarkerfið þannig úr garði að það gagnaðist líka fólki með meðaltekjur sem það þarf sannarlega að gera núna, að gagnast fólki með meðaltekjur en ekki bara lægst launaða fólkinu. Ef við hefðum gert það, staðið betur vörð um velferðarkerfið þegar við höfðum efni á því hefðum við verið miklu betur stödd á þessari stundu, virðulegi forseti.

Ég held að ég hafi ekki fleiri orð um þetta en mér ofbauð ræða hv. þingmanns áðan, hvernig hann talaði og var raunverulega með blekkingarleik. Ég er ekkert að draga úr því að við erum ekki að bæta að fullu um 20% hjá öllum lífeyrisþegum, við erum ekki að því, hjá lífeyrisþegum sem sumir eru kannski með 300 þús. kr., 350 þús. kr., sem eru þó nokkrir, við erum ekki að því. En það er þó verið að bæta kjör þeirra sem eru með langminnst úr tryggingakerfinu. Ég held að það sé eitthvað, miðað við þessar aðstæður, virðulegi forseti, sem við getum verið bærilega sátt við og að takast líka að standa vörð um skattleysismörkin.

Ég skal síðan, virðulegi forseti, ljósrita þetta hér til þess að gefa hv. þingmanni sem minningu um tíð Framsóknarflokksins á tólf ára valdaferli hans, hvernig hann fór með almannatryggingakerfið og lífeyrisþega.



[17:27]
Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir að hafa beðið um orðið og hún tekur þar fram fyrir marga af samráðherrum sínum þar sem við erum að ræða hér um mjög mikilvægt mál. Hæstv. ráðherra veifaði hér einhverju súluriti, um hlutfall í þróun lægstu launa, sem reyndar hækkuðu alveg gríðarlega á síðustu árum, við vitum það. Það fóru tugir milljarða inn í þann málaflokk á sínum tíma. Við getum deilt um hvort þeim hafi verið rétt skipt, við getum líka deilt um hvort þeir hafi verið nægilega miklir, en eitt er á hreinu að kjör allra bötnuðu á tímabilinu en margir vildu hafa það meira. Það getur vel verið að hæstv. ráðherra hafi þar að einhverju leyti eitthvað til síns máls. Ég get alveg staðið hér og viðurkennt það ef hæstv. ráðherra vill sýna mér dæmi um það. Það er enginn minni við að viðurkenna að eitthvað hefði betur mátt fara í fortíðinni.

Hæstv. ráðherra er búin að vera ráðherra félagsmála í 18 mánuði. Ég nefndi það í ræðu minni vegna þess að síðasta ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks gerði sérstakt viðmið, gerði sérstakan kjarasamning við aldraða og öryrkja og núverandi ríkisstjórn með hæstv. ráðherra, sem ég veit að meinar vel, og ákvað að breyta því viðmiði. Það lækkaði kjör aldraðra og öryrkja um 3,9 milljarða á þessu ári, á ársgrundvelli. Hæstv. ráðherra leggur nú til annan niðurskurð upp á 4,9 milljarða. Við erum að tala um niðurskurð upp 8,8 milljarða.

Ég ætla samt ekki að falsa það þannig að ekkert hafi komið í staðinn en ég fullyrði að það eru miklu lægri upphæðir en ég ræði um hér og kjör þessa hóps, og ég hvet hæstv. ráðherra þá til þess að koma með súlurit yfir það hvernig kjör aldraðra og öryrkja (Forseti hringir.) hafa þróast á sl. tólf mánuðum. Það er ekki glæsileg staðreynd, hæstv. forseti, og hæstv. ráðherra verður líka að viðurkenna þá staðreynd.



[17:29]
félags- og tryggingamálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skal með mikilli ánægju láta útbúa súlurit fyrir hv. þingmann um það hvernig kjör aldraðra og lífeyrisþega hafa þróast meðan ég hef setið hér í stóli félags- og tryggingamálaráðherra í rúmlega eitt og hálft ár eða hvað það er. Það er sko nokkuð sem ég skammast mín ekki fyrir. Þið gátuð ekki einu sinni komið á makatengingunni, afnumið hana, meðan þið voruð við stjórn. Það gerðum við þó eftir að þessi ríkisstjórn tók við. Frítekjumarkið hækkaði, við komum á frítekjumarki líka varðandi lífeyrisgreiðslur fyrir öryrkja, ég fór aðeins yfir það áðan.

Af því að hv. þingmaður talar um tíð mína sem félagsmálaráðherra er náttúrlega ágætt að hann viti það líka að samkvæmt ríkisreikningi hafa útgjöldin í þessum málaflokkum hækkað um 42% á sl. einu og hálfa ári. Hv. þingmaður svaraði því ekki sem ég spurði hann um og ég skora á hann að svara því: Vill hv. þingmaður minnka niðurskurðinn, vill hann auka útgjöldin? Hvar mundi hv. þingmaður skera niður?

Það þýðir ekki bara að tala um Varnarmálaskrifstofuna, eins og ég heyri hér aftur og aftur. Það eru peningar þar, það má vel nefna hana, en það nægir ekki í þann niðurskurð sem þarf. Það þarf að nefna fleiri hluti. Það þýðir ekki að koma hér, eins og hv. þingmaður gerði, og segja að verið sé að troða á öldruðum og öryrkjum þegar við höfum sýnt fram á að við höfum sérstaklega verið að verja kjör þeirra.

Útgjöld ríkisins eru 472 milljarðar, ef ég man það rétt. Ef við tökum saman hvað mikið fer til velferðarmála af því þá eru það 302 milljarðar eða tveir þriðju. Í þeim hremmingum (Forseti hringir.) sem við erum í hlýtur einhvers staðar að vera komið við velferðarkerfið en ég fullyrði að við höfum staðið vörð um þá sem verst standa í þeim hremmingum sem við erum í núna.



[17:31]
Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. ráðherra bregður á þann leik eins og allir aðrir ráðherrar í þessari ríkisstjórn og spyr stjórnarandstöðuna: Hvar viljið þið skera niður? Við höfum einmitt verið að gagnrýna ríkisstjórnina fyrir samráðsleysi. Stjórnarandstöðunni hefur ekki verið hleypt að því borði að móta fjárlög. Við höfum ekki einu sinni verið spurð. Ríkisstjórnin fer nefnilega sínu fram og hæstv. ráðherra er þar ekkert undanskilinn í þeim hópi.

Hæstv. ráðherra nefnir hér að aldraðir og öryrkjar hafi trúlega aldrei haft það eins gott. Ég spyr: Hvernig stendur þá á því að forsvarsmenn Alþýðusambands Íslands og eldri borgarar og öryrkjar mótmæla því harðlega hvernig hæstv. ráðherra hefur staðið að samningagerð gagnvart þessum hópum eða samningagerð gagnvart þeirra eigin kjarasamningi þar sem viðmiðið var lækkað um heila 3,9 milljarða? Það voru ekki samningaviðræður. Nei, hæstv. ráðherra kallaði fulltrúa þessara félagasamtaka á sinn fund og tilkynnti þeim að viðmiðið hefði verið lækkað.

Hæstv. ráðherra getur komið hér upp og sagt að hér sé allt í besta standi og hlutirnir hafi aldrei verið eins góðir og nú þegar hæstv. ráðherra hefur verið félagsmálaráðherra. Tölurnar sýna það einfaldlega ekki. Sá niðurskurður sem ráðherra hefur beitt sér fyrir á síðustu mánuðum, ég nefni hérna tvö dæmi, lækkunin á viðmiðuninni 3,9 milljarðar og þessi bandormur hér upp á 4,9 milljarða gera 8,8 milljarða kr. Það er það sem forsvarsmenn aldraðra og öryrkja hafa verið að mótmæla harðlega. Hæstv. ráðherra getur líka komið hingað upp og eytt meira en helmingnum af ræðutíma sínum í að tala um hvað hafi gerst á síðustu 12 eða 14 árum. Það gagnast einfaldlega ekki fólki í dag. Eins og ég segi, hæstv. forseti, (Forseti hringir.) ég hvet hæstv. ráðherra sem ég veit að hefur góðan hug til þessa málaflokks en hefur greinilega ekki stuðning innan ríkisstjórnarinnar, ég brýni hana hér til góðra verka (Forseti hringir.) í þessum efnum og þar þarf að bæta verulega úr.



[17:34]
félags- og tryggingamálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í fyrsta lagi af því að hv. þingmaður minnist á að ég hafi kallað á minn fund forsvarsmenn Öryrkjabandalagsins og aldraðra, þá er það rétt. En hv. þingmaður getur þess ekki, fyrst hann er að tala um þennan fund, hver voru viðbrögð aldraðra og öryrkja á þessum fundi við því sem ég fór í gegnum með þeim og núna er hér í fjárlagafrumvarpinu. Ég ætla ekkert að upplýsa um það nema að einu leyti, þeir fóru ekki óánægðir út. Ég gæti sagt meira en af því að hv. þingmaður nefnir þennan fund, þá vil ég bara staðfesta að þessir aðilar komu á minn fund. Ég ætla ekkert að segja um innihald fundarins nema að þeir fóru ekki óánægðir út. Hv. þingmaður verður að muna það að þegar fjárlagafrumvarpið var lagt fram 1. október, áður en þessar hremmingar gengu yfir, var gert ráð fyrir 9,6% hækkun á fjárlögum til aldraðra og öryrkja, sem sagt fullar vísitölubætur.

En þarf nokkurn að undra þótt það sé skoðað að þeir sem hafa betri kjörin líka í þessum hópi og fá að halda þessum 9,6%, að kjör þeirra séu að einhverju leyti skert? Við bætum að fullu hjá þeim sem voru með 150 þús. að 180 þús. Og mér finnst, miðað við þá stöðu sem við erum í, vel viðunandi. Auðvitað hefði ég viljað hafa málin þannig að við hefðum getað bætt hverjum einasta lífeyrisþega að fullu 20% vísitöluhækkanir. Ég hefði viljað að við gætum bætt hverjum einasta láglaunamanni í landinu þessar vísitölubætur að fullu. En staðan er einfaldlega ekki þannig. Og hv. þingmaður verður að skilja að það lætur eitthvað undan þegar viðsnúningur á fjárlögum er frá 57 milljarða halla upp í 215 milljarða halla. Það hlýtur eitthvað að láta undan. Og mér finnst það ósanngjarnt (Forseti hringir.) ef hv. þingmaður kemur hér upp í ræðustól og segir að við í ríkisstjórninni höfum ekki staðið vörð um kjör þeirra verst settu.



[17:36]Útbýting:

[17:36]
Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Hæstv. forsætisráðherra hóf mál sitt í framsögu fyrir frumvarpi til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum á því að víkja nokkrum orðum að aðdraganda frumvarpsins, þ.e. að bankahruninu.

Mig langar til að rifja aðeins upp stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar sem er eins og hálfs árs gömul eða svo og varpa nokkru ljósi á það hvaða augum menn litu verkefni sitt fyrir einu og hálfu ári. En þar segir m.a. í kaflanum um trausta og ábyrga efnahagsstjórn, með leyfi forseta:

„Eitt brýnasta verkefni nýrrar ríkisstjórnar er að tryggja stöðugleika í efnahagslífinu í þágu heimila og atvinnulífs. Markmið hagstjórnarinnar er að tryggja lága verðbólgu, lágt vaxtastig, betra jafnvægi í utanríkisviðskiptum, jafnan og öflugan hagvöxt og áframhaldandi trausta stöðu ríkissjóðs.“

Það má auðvitað öllum vera ljóst að þetta eru öfugmæli miðað við stöðuna í dag. Og það er auðvitað öllum ljóst og það er skiljanlegt að forsvarsmönnum ríkisstjórnarinnar sem svona skrifuðu fyrir einu og hálfu ári finnist að nú þurfi að fara að endurskoða stjórnarsáttmálann. Í kaflanum um kraftmikið atvinnulíf segir, með leyfi forseta:

„Íslenskt atvinnulíf mun einkennast í sívaxandi mæli af þekkingarsköpun og útrás.“

Og síðar segir í sama kafla:

„Í umbreytingu íslensks atvinnulífs á undanförnum árum felst meðal annars aukið vægi ýmiss konar alþjóðlegrar þjónustustarfsemi, þar á meðal fjármálaþjónustu. Ríkisstjórnin stefnir að því að tryggja að slík starfsemi geti áfram vaxið hér á landi og sótt inn á ný svið í samkeppni við önnur markaðssvæði og að útrásarfyrirtæki sjái sér áfram hag í að hafa höfuðstöðvar á Íslandi. Áhersla verður lögð á að efla Fjármálaeftirlitið til þess að íslenski fjármálamarkaðurinn njóti fyllsta trausts. Tímabært er að leysa úr læðingi krafta einkaframtaksins svo að íslensk sérþekking og hugvit fái notið sín til fulls í útrás orkufyrirtækja.“

Ég endurtek, frú forseti, að það er ósköp skiljanlegt að þeir sem standa fyrir þessari ríkisstjórn vilji endurnýja þennan stjórnarsáttmála. Þeir vilja kannski strika yfir allt daðrið við útrásina og fjármálamarkaðinn eins og málum er nú komið í landinu. Alla vega er þetta ekki stefna sem eðlilegt er að fara fram með við núverandi aðstæður og var væntanlega þegar hún var sett jafnvitlaus og hún er í dag.

Margt í þessari stefnuyfirlýsingu er þvert á það sem ríkisstjórnin boðar í dag, m.a. hvað varðar frekari lækkun skatta, aukna notkun á upplýsingatækni til að bæta opinbera þjónustu, að endurskoða tekju- og verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga til þess að efla sveitarstjórnarstigið, að lengja fæðingarorlofið og fleira og fleira.

Allt er þetta nú á fallanda fæti vegna hruns bankanna og ekki síður vegna þeirra miklu skulda og þess skuldaklafa sem ríkisstjórnin hefur bundið um háls þjóðarinnar og mun koma niður á fjárlögum næstu ár ef ekki heilan áratug. Þá er ég sérstaklega að vísa til þess að menn leyfðu sér að kyngja afarkostum Evrópusambandsins og gangast undir kröfur Breta og Hollendinga um að íslenska ríkið stæði að fullu undir skyldutryggingu samkvæmt EES-sáttmála, um skyldutryggingar innlána, enda þótt engin ákvæði séu um slíkt í þeirri tilskipun.

Þessi dýra skuldsetning upp á allt að 660 milljarða kr. var síðan aðgangseyririnn að lánum hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Og ekki bara að lánum hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum heldur líka að þeim skilyrðum sem sjóðurinn hefur sett Íslandi og ætlar nú að koma hér á þriggja mánaða fresti og athuga hvernig gengur að framfylgja. Það er því miður þannig að það frumvarp sem við ræðum hér í dag ber þessa merki.

Ég ætla að nefna hér tvennt. Annars vegar þá fáránlegu tillögu um að selja inn á sjúkrahúsin, að selja aðgang að sjúkrahúsunum, að selja aðgang að sjúkrarúmunum í landinu. Og hins vegar hvernig á að svína á bændum og gera þá að nýjum misgengishóp. Það er margt annað sem ræða mætti í frumvarpinu en ég ætla að takmarka mig við þetta tvennt.

Ég ætla að byrja á bændunum. Í fjárlagafrumvarpinu er við það miðað í samræmi við búvörusamninga um sauðfjárrækt, mjólkurframleiðslu og garðyrkjuafurðir, að ríkið greiði ríflega 10 milljarða kr. til bænda samkvæmt sérstökum samningi og hann skal verðtryggður, taka mánaðarlegum breytingum samkvæmt vísitölu neysluverðs. Hann er sem sagt vísitölutryggður. Hér hefur ríkisstjórnin fundið leið sem fasteignaeigendur og þeir sem skulda húsnæðislán hafa verið að kalla eftir. Ríkisstjórnin hefur hér fundið sér leið til að setja þak á vísitöluhækkanir ársins 2009. Og ríkisstjórnin segir að fyrst ekki sé um sértæka heldur almenna skerðingu að ræða, fyrst hún sé tímabundin, þ.e. út árið 2009, og af því að þetta sé neyðarráðstöfun sem ríkinu er nauðugt að ráðast í vegna þeirra miklu efnahagsáfalla sem yfir þjóðina hefur dunið, þá verði ekki talið að þessi skerðing á vísitölugreiðslum brjóti eða stríði gegn 72. gr. stjórnarskrárinnar um eignarréttinn. Þar með hefur hæstv. forsætisráðherra sagt að það sé í lagi að grípa inn í gildandi samning ríkis og bænda.

Frú forseti. Þetta er nákvæmlega það sama og gert var 1983 þegar búinn var til misgengishópur þáverandi íbúðarkaupenda og þeirra sem skulduðu húsnæðislán annars vegar og voru launþegar um leið með því að launavísitölunni var kippt úr sambandi en vísitalan hélt áfram að hækka húsnæðislánin. Þetta er að gerast með íbúðarkaupendur núna og þó jafnvel verra í raun vegna þess að verðmæti fasteignanna minnkar líka þannig að húsnæðiseigendur eiga sífellt minna í húseignum sínum.

Ég hlýt að benda á það hér að bændur eru allir, leyfi ég mér að fullyrða, nær allir er kannski betra að segja, með öll sín lán verðtryggð, öll sín lán til uppbyggingar á býlum sínum hvort heldur er um að ræða íbúðarhúsnæði, gripahús eða hvað það er. Þetta eru örugglega allt saman verðtryggð lán. Það stendur ekki til af hálfu ríkisstjórnarinnar að skerða þá vísitölu. Nei, það á að búa til nýjan misgengishóp bænda á Íslandi með því að skerða laun þeirra. Með því að skerða samningsbundin laun, skerða vísitöluna þar en ekki á lánum þeirra og alls ekki á lánum annarra fasteignaeigenda heldur. Hér á sem sagt að taka 800 millj. kr. af launalið bænda og miða við að vísitöluhækkunin á næsta ári sé 5,7% eins og hún var fyrirhuguð í fjárlagafrumvarpinu þegar það var lagt fram 1. október sl. þegar staðreyndin er sú að nýjustu tölur frá Seðlabankanum benda til að vísitalan muni verða 14,1%. Það er það sem skuldir bænda munu hækka um en launin þeirra verða miklum mun lægri.

Ég hvet hv. efnahags- og skattanefnd til að skoða þá leið sem ríkisstjórnin hefur hér fundið og nota hana, sé hún tæk, til að skera verðbólgukúfinn af húsnæðislánum í landinu. Það hefur verið kallað eftir því í samfélaginu að gripið verði til aðgerða til að skera af þann kúf sem verður núna vegna hækkandi vísitölutryggingar á húsnæðislánum. Menn hafa fullyrt í þessum stól að það yrði of dýrkeypt og það væri ekki hægt að gera. En ríkisstjórnin hefur hér komið fram með leið sem ætti að gagnast, ef hún á að geta gagnast gagnvart bændum hlýtur hún að geta gagnast gagnvart lánum þeirra líka, fyrst hún gerir það gagnvart launaliðnum.

Mig langar síðan til að víkja að máli sem hefur verið mikið í sviðsljósinu í dag og það er að nú á að fara að selja inn á sjúkrahúsin fyrir 360 millj. kr. á næsta ári. Ég harma það að hvorki hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir né hv. formaður heilbrigðisnefndar eru í salnum. — Fyrirgefið, hér situr á forsetastóli hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir. — En ég hlýt að harma það að hæstv. heilbrigðisráðherra og hv. formaður heilbrigðisnefndar eru ekki í salnum.

Ég tek fram að hér hefur margt rangt verið sagt um það hvernig háttað er greiðslum fyrir þjónustu á sjúkrahúsum. Það er ekki lengra síðan, frú forseti, en 16. september síðastliðinn, það eru sléttir þrír mánuðir síðan Alþingi samþykkti lög um sjúkratryggingar og þar segir í 18. gr., með leyfi forseta:

„Sjúkratryggingar taka til ókeypis vistar að ráði læknis í sjúkrahúsum sem rekin eru af ríkinu eða samkvæmt samningum skv. IV. kafla, þ.m.t. á fæðingarstofnunum …“ — Síðan kemur undanþágan sem vísar til læknisþjónustu erlendis.

„Sjúkratryggingar taka til ókeypis vistar að ráði læknis í sjúkrahúsum“, sem sagt það er ókeypis að vera á sjúkrahúsum á Íslandi samkvæmt þessum lögum. Í 29. gr. sömu laga er fjallað um gjaldtöku. Þar er listað upp það sem heimilt er að taka gjald fyrir. Þar segir í 2. tölulið að taka megi gjald samkvæmt reglugerð sem ráðherra setur fyrir almenna og sérhæfða heilbrigðisþjónustu á göngudeild, dagdeild, slysadeild og bráðamóttöku sjúkrahúsa sem veitt er „án þess að um innlögn á sjúkrahús sé að ræða“ — án þess að um innlögn á sjúkrahús sé að ræða. Hvað þýðir það? Það þýðir að ef maður er lagður inn á bráðadeild eða slysadeild og hann fer síðan í innlögn á sjúkrahús þá er hann ekki rukkaður fyrir komugjald. Þessu hafa hæstv. forsætisráðherra sem og hæstv. heilbrigðisráðherra neitað hér í dag, kannast ekki við sín eigin lög. Það er þannig að þurfi menn að leggjast inn á sjúkrahús á Íslandi þurfa þeir ekki að borga, hafa ekki þurft að borga. Það eru lög í landinu sem segja að þeir eigi ekki að borga en nú á að breyta því.

Ég held því fram að fara þurfi inn í sjúkratryggingalögin og breyta 18. gr. um sjúkrahúsþjónustu, ef menn ætla að halda áfram með þetta sem hér er fyrirhugað, að selja inn á sjúkrahúsin fyrir 360 millj. kr. á næsta ári.

Ég hef í umræðu um gjaldtökuákvæði sjúkratrygginga mótmælt því hvernig Landspítalinn sérstaklega og önnur sjúkrahús reyndar líka, hafa leyft sér að taka gjald fyrir rannsóknir sem eru hluti af aðgerðum, þ.e. þegar læknir fyrirskipar að sjúklingur eigi, til að mynda eins og sú sem hér stendur, að fara í beinaskann áður en hann fer er í aðgerð og þá skuli sjúklingurinn greiða úr eigin vasa beinaskannið og allar rannsóknir sem eru undanfari aðgerðarinnar samkvæmt ákvörðun læknis sem leggur sjúklinginn inn. Ég hef gagnrýnt þetta og mótmælt þessu og ég mun halda því áfram (Forseti hringir.) og mér þykir miður að í þessu frumvarpi er þetta atriði, sem ég tel stríða gegn lögum, (Forseti hringir.) notað sem rökstuðningur fyrir því að fara nú að selja inn á sjúkrahúsin.



[17:52]
Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Við fjöllum hér um svokallaðan bandorm, sem er frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Þar er farið inn á ýmis núgildandi lög sem verður að breyta til að koma fjárlagafrumvarpinu og þeim aðgerðum sem hæstv. ríkisstjórn stendur núna fyrir í gegn með löglegum hætti. Breyta þarf ýmsum lögum eins og komið hefur fram.

Þetta eru misþungar aðgerðir en sumar eru ansi þungar og munu taka í. Þá vil ég sérstaklega nefna kjör bænda sem munu skerðast umtalsvert þegar taka á í burtu vísitölutryggingu á greiðslu til þeirra varðandi afurðalánin. Bændur hafa ekki verið sú stétt manna í þjóðfélaginu sem fleytti rjómann í góðærinu. Þeir hafa talið sig standa nokkuð betur að vígi núna vegna þeirrar verðtryggingar sem þeir hafa haft á búfjárgreiðslum sínum en nú á að taka hana af.

Hæstv. forseti. Það er góð ástæða fyrir því að ég kem í ræðustól. Ég vil nefna alveg sérstaklega og mótmæla þeirri breytingu sem gera á varðandi gjaldtöku á sjúklinga, þ.e. að ætla sér að taka gjald af sjúklingum sem lagðir eru inn á sjúkrahús. Þetta er gert, að sagt er, til að halda jafnræðisreglu miðað við aðra gjaldtöku en ef við lítum aðeins aftur í tímann hefur jafnræðisreglan skrúfast upp á við í staðinn fyrir að vera bremsuð niður til að hún verði eins og hún var áður.

Það eru ekki mörg ár síðan heilsugæslan var gjaldfrjáls. Það hefur alltaf tíðkast að sjúklingar greiddu gjald ef þeir færu til sjálfstætt starfandi sérfræðinga og nytu þeirrar þjónustu. Eftir því sem starf sérfræðinga hefur eflst og tæknin breyst hafa þeir sérfræðingar sem starfa utan sjúkrahúsanna getað boðið upp á meiri þjónustu og þar hefur verið tekið gjald eftir gjaldskrá.

Á mörgum sviðum hefur þessi þjónusta verið sú sama og innt hefur verið af hendi á göngudeildum sjúkrahúsanna, þ.e. sjúklingar fara í meðferð við einhverjum sjúkdómum, leggjast inn á sjúkrahús og síðan þarf að sinna eftirliti eða framhaldsmeðferð sem þá er gerð í sparnaðarskyni á göngudeildum sjúkrahúsanna.

Þar töldu að hluta til sömu sérfræðingar og veita sérfræðiþjónustu utan sjúkrahúsanna að jafnræðisreglunni væri ekki beitt, ef verið væri að veita samsvarandi þjónustu á göngudeildunum ætti að taka gjald þar samkvæmt gjaldskrá.

Í staðinn fyrir að halda í þá reglu að sú þjónusta sem veitt er á göngudeildunum væri sú þjónusta sem er í einhvern tiltekinn tíma í framhaldi af þeirri meðferð sem veitt er á sjúkrahúsunum eftir innlögn, var farin sú leið að taka gjald á göngudeildunum. Nú á sem sé að nota jafnræðisregluna enn og aftur og beita henni með því að skrúfa þetta upp og koma þá gjaldi á innlagnir líka.

Er þetta ekki grátlegt? Að mínu viti er verið að seilast svo langt að það er í raun og veru þyngra en tárum taki. Þetta segi ég sérstaklega með tilliti til þess að við sjáum ekki hvernig útfæra á hugsanlegar breytingar á greiðslum, taka þegar upp nýtt kerfi hvað varðar greiðsluþátttöku sjúklinga í lyfjum og öðru slíku. Verið er að taka þessa greiðsluheimild inn á sjúkrahúsin en það er enginn sem gengur inn á sjúkrahús og leggur sig þar inn. Aftur á móti getur fólk gengið inn til sérfræðinga, pantað sér tíma og fengið þjónustu þar. Það tel ég að við hefðum miklu frekar átt að setja girðingar fyrir í sparnaðarskyni og hafa með einhverju móti hemil á því hversu auðveldlega fólk getur valið sér sérfræðinga. Við ættum að reyna að stjórna því eftir eðli sjúkdómanna og reyna að ná þar einhverjum sparnaði í staðinn fyrir að koma gjöldum yfir á sjúklinga sem þurfa að leggjast inn á sjúkrahús. Það leggst enginn inn á sjúkrahús öðruvísi en að það sé gert að læknisráði, t.d. með því að læknar leggi sjúklinga inn eða eftir bráðaslys eða önnur slys.

Ég verð bara að segja eins og er að það er ekki endilega upphæðin sem skiptir þarna máli, verið er að brjóta blað í heilbrigðismálum hér á landi með því að koma gjaldtöku yfir á þá sem síst skyldi. Við höfum talið okkur geta verið nokkuð stolt af því að þarna greiði samfélagið. Sjúkrahússþjónusta hefur verið það sem við höfum fjármagnað með sameiginlegum sköttum en nú á að taka hluta af því af sjúklingunum sjálfum.

Ég segi bara ekki annað en það, hæstv. forseti, að verði ríkisstjórninni að góðu að sitja uppi með þessa smán og að brjóta þetta blað. Ég óska þess heitt og innilega að hér komi ný ríkisstjórn sem hafi þá sýn að létta gjaldtöku af sjúklingum, gjaldtöku á heilbrigðisstofnunum, í heilbrigðisþjónustunni. Við reynum þá bara að stýra betur en gert er í dag aðgengi sjúklinga í ódýrari þjónustu, efla heilsugæsluna og gera hana gjaldfrjálsa, efla forvarnir og draga úr sjúkdómum og sjúkdómavæðingu. En að fella það vígi sem við höfum staðið vörð um tel ég ekki þessari ríkisstjórn til sóma frekar en margt annað sem verið er að gera í fjárlögunum og hinum svokallaða bandormi sem þeim fylgja.



[18:00]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Við erum að ræða eitt af þeim málum sem ríkisstjórnin hefur séð ástæðu til að leggja fyrir þingið á síðustu dögum þess, fyrir fyrirhugað jólaleyfi, og kemur inn með þennan pakka með afbrigðum eins og sennilega 60–70% af öllum málum sem komið hafa fyrir þetta þing á þessu hausti. Þau koma inn með svokölluðum afbrigðum sem segir auðvitað að mál koma iðulega til meðferðar í þinginu undir mikilli tímapressu. Það hefur einkennt störf þingsins í haust að við höfum afgreitt hér ýmis lög og löggerninga á tiltölulega mjög skömmum tíma. Þessi ráðstöfun hér, frumvarp um ráðstafanir í ríkisfjármálum, er oft kölluð einu nafni bandormur þegar verið er að breyta ýmsum lögum í einu og tengjast gerð fjárlaganna. Þau voru afgreidd eftir 2. umr. með atkvæðagreiðslu í dag undir athugasemdum okkar í stjórnarandstöðunni um að þar hefði eigi verið nægilega vandaður undirbúningur og margar upplýsingar hefði vantað varðandi fjárlagagerðina svo að vel væri að verki staðið og almennilega undirbúin þau mál sem verið er að vinna að.

Það eru nokkur atriði í þessu frumvarpi, hæstv. forseti, sem mig langar að víkja að. Í fyrsta lagi er rétt að vekja athygli á því að ríkisstjórnin hefur fundið hin breiðu bök. Hún fann þau hjá bændum landsins sem nú er ætlað að taka á sig verulega skerðingu miðað við það sem þeim hafði áður verið tryggt í svokölluðum búvörusamningum, þ.e. samningum við ríkið um það sem tengist framleiðslu bænda, sauðfjárframleiðslu, mjólkurframleiðslu og garðyrkju, en þetta eru þeir samningar sem einu nafni eru nefndir búvörusamningar. Þeir hafa á undanförnum árum verið stór þáttur í því annars vegar að reyna að tryggja stöðu bænda og tryggja þeim laun og hins vegar, sem hefur ekki verið lítill þáttur í okkar þjóðfélagi, að reyna að sjá til þess að bændur gætu komst af við störf sín án þess að sá kostnaður sem framleiðslunni fylgir færi út í verðlagið í auknum mæli í matvælaframleiðslunni, í búvörunni. Þar af leiðandi hafa samningarnir verið þáttur í því að halda niðri verðlagningu á landbúnaðarvörum hér á landi og til hagsbóta fyrir alla þjóðina.

Hér er sem sagt gengið á gerða samninga til að ná niður kostnaði ríkissjóðs og þessi stétt, bændurnir í landinu, hafa nú ekki haft úr of miklu að spila á undanförnum missirum vegna gengishreyfinga og hækkandi orkuverðs. Það er að vísu sem betur fer að lækka núna en ríkið sá þá einnig tækifæri þar til að ná í nýjar tekjur fyrir ríkissjóð með nýsettum lögum á Alþingi.

Ég verð að segja eins og er að ég tel það ekki góða aðferð að ganga á gerða samninga. Ég velti líka fyrir mér hvort sú aðgerð muni ekki hafa þau áhrif að verð á matvöru hækki sem síðan mælist inn í vísitöluna og verði til þess að hækka lán landsmanna í gegnum verðtryggingu vegna vísitöluviðmiðunar. Það er margt að athuga við þetta mál og þarf auðvitað að gaumgæfa þetta mjög vandlega í nefnd þegar farið verður yfir þessi mál.

Ég geri mér vel grein fyrir því, eins og ég sagði í ræðu minni í sambandi við fjárlögin, að ríkissjóður er í þeirri stöðu að þurfa að ná í nýjar tekjur. Hann er líka í þeirri stöðu að þurfa að draga úr kostnaði en við þurfum líka að horfa á hliðarverkanirnar við það sem af því leiðir þegar við breytum ákveðnum forsendum. Mér er til efs að það sem verið er að gera hér gagnvart bændum verði okkur til hagsbóta þegar upp er staðið ef við lítum annars vegar á væntanlega hækkað vöruverð í verslunum, því að einhvers staðar þurfa bændur að bæta sér upp þá skerðingu sem sett er á þá, og hins vegar hvernig það mun þá mælast inn í vísitöluna og verða til hækkunar á lágmarksskuldbindingum allra í landinu. Ekki er þar á bætandi og stefnir þar nú í misgengisátt.

Það er hins vegar alveg réttmæt spurning sem komið hefur fram úr þessum ræðustól í dag, hvort snúa eigi þessari aðferð við og miða við að ekki megi reikna hærra vísitölustig á hæstu lán en 5,7%, þar eigi menn að draga einhverja löglega línu um það sem mest megi reikna verðtryggingu í öllum lánum. Hér er verið að ákveða það, sýnist mér, í þessu máli eins og það snýr að bændum. Ég hef reyndar verið talsmaður þess í mörg ár og við höfum flutt um það margar tillögur í hv. þingi að menn tækju til við að skoða þetta verðtryggingarfyrirbæri okkar Íslendinga með það að markmiði að leggja það niður eða setja því verulegar skorður. Markmiðið yrði þá að stefna úr þeirri stöðu sem verðtryggingin hefur valdið og varðar skuldbindingar fólks.

Það er algjörlega ljóst að eins og nú stefnir í íslensku þjóðfélagi gengur hratt á eignastöðu fólks. Fólk hefur litið svo á að íbúðir þess væru ákveðinn lífeyrissjóður til framtíðar, þar eignaðist fólk smátt og smátt þó nokkra eign sem það gæti svo selt á efri árum þegar það þyrfti ekki á stóru húsnæði að halda, eins og iðulega er meðan fólk er með börn og þarf þess vegna stærra húsnæði. Þar af leiðandi hafa menn oft litið á eignamyndun í húsnæðiskerfinu sem hluta af lífeyrissjóði sínum.

Eins og nú stefnir er eignamyndun fólks í húsnæði sínu að hverfa og það er að myndast mikið misgengi á milli þróunar lánaskuldbindinga og þróunar tekna. Það er auðvitað mjög alvarlegt.

Hér eru einnig lagðar til skattahækkanir og sú leið er farin, eins og svo oft áður þegar Sjálfstæðisflokkurinn fer í skattalagabreytingar, að ákveðin er föst prósentutala flatt til að breyta sköttum. Á það hefur margsinnis verið bent að það væri ekki aðferðin til að jafna skattbyrðina í landinu í hlutfalli við greiðslustöðu fólks. Við höfum margsinnis bent á það í Frjálslynda flokknum og á persónuafsláttinn m.a. sem leið til að tryggja að allir hafi nægilegt fé til framfærslu, líka þeir sem lægst hafa launin. Við lögðum til á hv. Alþingi að persónuafslátturinn væri að sumu leyti tvískiptur og það væri sérstakur persónuafsláttur sem yrði til þess að fólk með 150.000 kr. tekjur greiddi enga skatta en síðan væri sérstakur persónuafsláttur þar fyrir ofan sem eyddist út þegar laun væru komin upp í 300.000. Þetta er reyndar sama tillaga og ASÍ var með í kjarasamningaviðræðum sínum en ríkisstjórnin lagðist gegn þegar síðasta samráð var við ríkisstjórnina um kjarasamninga um hvernig tryggja ætti stöðu láglaunafólksins í landinu. Hins vegar var farin sú leið að semja um fastar hækkanir í krónutölu á persónuafslættinum og sem betur fer er ekki ætlun ríkisstjórnarinnar að afnema það. En allt að einu mun þessi skattahækkun vera eins og allar skattahækkanir sem eru flatar en þær koma iðulega verr út fyrir þá sem lægri hafa launin.

Ég verð að spyrja enn og aftur, hæstv. forseti: Hvar er nú stefna Samfylkingarinnar um þrepaskipt skattkerfi? Af hverju var því ekki fylgt eftir núna? Við gerum okkur væntanlega öll grein fyrir því hér á hv. Alþingi að það þarf að afla ríkinu viðbótartekna á komandi árum. Undan því verður ekki vikist en það er ekki sama hvernig það er gert, það er ekki sama hvernig þeim byrðum er dreift. Við höfum m.a. bent á hvort ekki væri ástæða til að líta til hátekjuskattsins á nýjan leik til að jafna byrðunum við að afla ríkissjóði nýrra tekna.

Ég sé líka eina breytingu hér sem mér finnst réttlætanleg í núverandi stöðu og það er að breyta því ákvæði sem sett var inn á vormánuðum 2007 að afloknum alþingiskosningum. Sjálfstæðisflokkurinn setti hana fram sem sérstaka aðferð sína við að bæta kjör eldri borgara, þ.e. að setja inn sem reglu að þeir sem eru 70 ára og eldri megi hafa eins háar tekjur og þeir vilja í þjóðfélaginu án þess að þeir fái neina skerðingu. Nú er verið að fella þessa breytingu aftur út og setja þá sem eru sjötugir og eldri í sama hóp og aðra með ákveðin frítekjumörk sem núna eru um 100.000 kr. á mánuði. Í sjálfu sér tel ég það eðlilegt, mér fannst alltaf mjög óeðlilegt þegar það var sett í sérstakan forgang við lagfæringu á kjörum lífeyrisþega að þeir sem væru sjötugir mættu þess vegna hafa 20 millj. kr. í árslaun og fengju engar skerðingar á bætur frá Tryggingastofnun ríkisins. Þeir fengju þær að fullu en hinir sem væru yngri en sjötugir, milli 67 og 70 ára, ættu að búa við skerðingar eftir sem áður. Við höfum ekki mikið við það að athuga að þessu sé breytt.

Við höfum heldur ekki mikið við það að athuga að viðmiðunarfjárhæðunum í fæðingarorlofi sé breytt. Ég tel það eðlilegt í núverandi stöðu ef verið er að leita leiða til að takast á við þær geysilegu byrðar sem skollið hafa á íslensku þjóðinni vegna fjárglæfranna — ég vil leyfa mér að kalla það svo — sé þeim byrðum dreift þar sem hægt er að finna tekjur án þess að ganga verulega á lífskjör fólks. Ég tel að breytingin varðandi fæðingarorlof, þ.e. að viðmiðunarfjárhæðin fari niður í 400.000 kr. á mánuði, geri það ekki.

Hér er komin inn ný skattlagning upp á 0,25 prósentustig sem er sérstaklega ætlað að renna til sveitarfélaganna, upp á 1 milljarð kr. í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Ég tek undir að það var nauðsynlegt að koma fjármunum út til sveitarfélaganna. Hvort það átti að gera það með flatri skattahækkun leyfi ég mér hins vegar að efast um og bendi á að ég tel að við eigum alltaf að leitast við að dreifa skattbyrðunum sem réttlátast á þegna landsins.

Hæstv. forseti. Ég sé að tími minn flýgur frá mér við þessa umræðu og mun mér ekki takast að fara yfir allt það sem ég hefði viljað víkja að en hef bent á nokkur atriði sem ég tel að þurfi sérstaklega að gaumgæfa. Þar vil ég síðan bæta við komugjöldunum á sjúklinga sem á að leggja hér á samkvæmt þessu frumvarpi og gefa 360 millj. kr. í nýjar tekjur.



[18:15]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum, frumvarp sem stundum hefur verið skírskotað til sem bandorms því að þar kennir ýmissa grasa.

Ég kvaddi mér hljóðs í umræðunni fyrr í dag, í andsvari við hæstv. forsætisráðherra, og vék sérstaklega að 17. gr. lagafrumvarpsins þar sem veitt er heimild til innheimtu gjalda fyrir legu á sjúkrahúsum. Hér er því miður, hæstv. forseti, verið að brjóta blað með neikvæðum formerkjum í sögu heilbrigðismála á Íslandi. Það hefur ekki tíðkast að fólk sé krafið um aðgangseyri þegar það kemur veikt inn á sjúkrastofnanir landsins. Hæstv. forsætisráðherra sagði að þetta ætti ekki að bitna á frísku fólki, sem hljómaði undarlega í eyrum þeirra sem átta sig á því að verið er að fjalla um veikindi, svo veikt fólk að það þarf að leggja það inn á sjúkrahús — og nú á að rukka það.

Skýringar hæstv. forsætisráðherra urðu mér umhugsunarefni því að í ljós kom að hann réttlætir þessar ráðstafanir með skírskotun til bókhalds, að verið sé að gæta að og leita eftir samræmi í bókhaldi. Það sé nefnilega svo víða rukkað á göngum spítalanna en gleymst hafi að rukka fyrir það að leggjast inn í sjúkrarúm. Nú þurfi að bæta úr því til að gæta að jafnræði og passa upp á bókhaldið, þannig að allt sé með sama hætti, öll gjaldtaka innan veggja sjúkrahúsanna.

Ég minnti hæstv. forsvarsmann ríkisstjórnarinnar á að flokkur hans, og sú ríkisstjórn sem nú fer með völd í landinu, hefði margoft sagt, bæði hér í sölum Alþingis og einnig utan veggja þingsins, að stefnumarkmið ríkisstjórnarinnar væri að heilbrigðisþjónustan væri gjaldfrjáls. Ríkisstjórnin mundi að sönnu leita eftir aukinni fjölbreytni í rekstri heilbrigðiskerfisins, og jafnvel vera reiðubúin að nýta markaðslausnir í því efni, en hvað gjaldtöku áhrærir yrði stefnt að því að hún kæmi öll úr vasa skattborgarans, sjúklingarnir yrðu ekki látnir borga brúsann. Okkur hefur verið sagt að þetta væri stefna Sjálfstæðisflokksins. Okkur hefur verið sagt að þetta væri stefna ríkisstjórnarinnar og að sjálfsögðu Samfylkingarinnar sem lét kjósa sig á þeim forsendum að hún væri að leita eftir stuðningi þjóðarinnar svo að hún gæti komið velferðarbaráttumálum sínum í höfn, m.a. gjaldfrjálsu heilbrigðiskerfi. Þetta var okkur sagt. Nú birtist hins vegar í verki sá ásetningur ríkisstjórnarinnar að auka gjaldtökur. Allt er það í einhverju bókhaldsbrelluskyni.

Hæstv. forsætisráðherra vísaði í nefnd sem nú er að störfum undir forsæti hv. þm. Péturs H. Blöndals og hv. þm. Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur. Þarna væru fulltrúar beggja stjórnarflokkanna, Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, og nefndin væri að komast að niðurstöðu. Nú vill svo til að ég á sæti í umræddri nefnd og þekki vel til starfa hennar. Það sem vakir fyrir þessari ágætu nefnd er að koma á nýju greiðslufyrirkomulagi í heilbrigðiskerfinu með samræmingu að markmiði. Sitthvað er þar ágætt að finna, sem ég get og skrifað upp á, að sett verði þak á gjaldtöku í heilbrigðiskerfinu og horft til allra þátta kerfisins. Það er vissulega staðreynd að sjúklingar greiða á ýmsum sviðum vegna sjúkdóma sinna, á heilsugæslustöðvum, við þjónustu á spítulunum, á göngudeildum sjúkrahúsanna, lyfjakostnað og þar fram eftir götunum. Ég er því vissulega fylgjandi að málin verði skoðuð heildstætt og þak sett á þessa gjaldtöku. Það er allt góðra gjalda vert, upp á það get ég skrifað.

Vandinn verður síðan til því að okkur er sagt að þetta eigi að gera til að jafna byrðarnar. Já, gott og vel. Jafna byrðarnar í þjóðfélaginu? Nei, innan sjúklingahópsins. Það er mengið sem nefndin horfir til, sjúklingahópurinn. Okkur var sagt í nefndinni að ekki stæði til að lækka þessi gjöld heildstætt heldur dreifa þeim á annan veg. Nú er reyndar að koma á daginn að verið er að stórauka gjaldtöku á sjúklingum sem samkvæmt frumvarpinu skrifast á annan milljarð króna, það er staðreynd, gott ef það eru ekki 1,2 milljarðar að hluta til í lyfjakostnaði og að hluta til í gjaldtöku á heilbrigðisstofnunum. Nú er þetta að birtast okkur hérna — nú hristir hæstv. heilbrigðisráðherra höfuðið svona álíka mikið og af álíka miklum krafti og þegar hann neitaði því að send hefði verið út tilskipun frá fjármálaráðuneytinu á sínum tíma, um flatan 10% niðurskurð, nokkuð sem síðan var áframsent af hálfu ráðuneytis hans og síðan, af hálfu sama ráðuneytis, fagnað þegar menn fóru að bregðast við með niðurskurðarhnífinn á lofti.

Þetta er svona, það er verið að tala um að jafna eða dreifa byrðunum á annan hátt innan sjúklingahópsins. Ég spurði að því á sínum tíma hvort þá stæði til að fara að taka gjald af sjúklingum á spítulunum sem ekki greiddu slík gjöld núna, þar á meðal fyrir innlagnir á spítala. Svarið var já, og nú er þetta að birtast okkur.

Í nefndinni hafa orðið mjög umhugsunarverðar umræður. Spurt hefur verið hvort forsvarsmenn nefndarinnar, talsmenn hennar, formaður hennar, væru því fylgjandi að auglýsingar yrðu leyfðar, að læknum yrði heimilað að auglýsa þjónustu sína. Jú, hv. þm. Pétur H. Blöndal er því mjög fylgjandi. Og á hvaða grundvelli eiga þeir síðan að auglýsa þjónustu sína? Á grundvelli gæða væntanlega og á grundvelli verðlags. Við hvað á þá ríkið að miða í stuðningi sínum við lækna og heilbrigðisþjónustuna? Jú, eitthvert lágmarksverð. Þá erum við komin ansi nálægt því sem tíðkast hjá tannlæknum þar sem ríkið greiðir ákveðinn grunn en það sem upp á vantar á síðan að vera háð samkeppni. Undir þessi auglýsingasjónarmið hafa talsmenn Samfylkingarinnar ýmsir skrifað. Vísa ég þar í varaformann Samfylkingarinnar, hv. 4. þm. Reykv. s., Ágúst Ólaf Ágústsson. Við gjöldum varhuga við þessu.

Ég vek enn og aftur athygli á þeim mótsögnum sem birtast í málflutningi ríkisstjórnarinnar, Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar, annars vegar og í gjörðum þeirra hins vegar. Þar stangast allt á. Annars vegar heita þeir þjóðinni heilbrigðisþjónustu sem á að vera gjaldfrjáls og síðan framkvæma verkin á þann veg sem birtist okkur í 17. gr. þess frumvarps sem hér er til umræðu.

Ég er orðinn óskaplega spenntur, hæstv. forseti, að sjá hver afurðin verður af öllum þessum hristingi á höfði hæstv. heilbrigðisráðherra. Hann hristir svo ákaft höfuðið undir málflutningi mínum. Er þetta rangt sem ég held fram? Er það rangt sem ég held fram um áherslur í nefnd hv. þm. Péturs H. Blöndals, um að jafna eigi kjörin innan sjúklingahópsins en ekki horfa á þjóðfélagið heildstætt? Er það rangt sem hann hefur sagt að ekki eigi að draga úr heildarkostnaði sem sjúklingar greiða heldur jafna byrðarnar innbyrðis? Er það rangt sem ég segi hvað þetta snertir? Ég held ekki. Ég held ég hafi verið sæmilega vakandi á öllum þeim fundum nefndarinnar sem ég hef setið.

Ég get líka upplýst hæstv. heilbrigðisráðherra um það að þegar þessi mál hafa komið til umfjöllunar á opinberum vettvangi, m.a. á ráðstefnu sem Öryrkjabandalagið og fleiri aðilar stóðu að ásamt heilbrigðisráðuneytinu, þá sætti þessi aðferð, að hefja gjaldtöku hjá sjúklingum sem ekki borga gjald fyrir þjónustu núna, mikilli gagnrýni. Því miður var hæstv. heilbrigðisráðherra horfinn af vettvangi þegar sú gagnrýni kom fram. Hann hlustaði á sjálfan sig og fulltrúa ráðuneytanna tala en þegar gagnrýni sjúklingahópanna fór að koma fram, í umræðum á þessu málþingi, var hann horfinn á braut. Hann hefur kannski ekki heyrt þessa gagnrýni sem ég get fullvissað hann um að er mjög mikil og er vaxandi meðal þess fólks sem núna greiðir ekki gjöld í heilbrigðiskerfinu en yrði rukkað þegar þessar ráðstafanir yrðu að veruleika.

Ég ítreka hitt, og það hef ég alltaf tekið undir, að ráðstafanir sem verða þess valdandi að þakið lækkar hjá einhverjum hópi finnst mér góðar. Ég er þeirrar skoðunar að afnema eigi gjaldtöku í heilbrigðiskerfinu almennt. Spurningin stendur nefnilega ekki um það hvort við ætlum að hafa þessa þjónustu eður ei. Við erum öll sammála um það, íslenska þjóðin er sammála um að reka öflugt og kröftugt heilbrigðiskerfi. Það sem við deilum um er hvernig við ætlum að greiða fyrir það. Eigum við að greiða fyrir það í gegnum skattkerfið, borga til þess meðan við erum heilbrigð og aflögufær, þegar við erum vinnandi, eða á að bíða þangað til við verðum veik? Frumvarpið gengur út á það að bíða þar til fólk verður veikt. Þegar það leggst inn á sjúkrahúsið er reiknivélin reidd fram og farið að taka gjald fyrir. Við viljum taka þetta í gegnum almenna skattheimtu og dreifa þannig byrðinni á þjóðina alla. Þetta er nokkuð sem við eigum að forðast í lengstu lög, að þyngja byrðarnar á veiku fólki, það eigum við ekki að gera undir neinum kringumstæðum.

Því miður er ríkisstjórnin að kikna undan skipunum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sem hefur skipað henni að draga úr halla á ríkissjóði á sama tíma og hún er að hlaða byrðunum á herðar skattborgara, ekki bara þeirra sem nú greiða skatta heldur komandi kynslóða einnig. Við fáum að vísu ekki upplýsingar um hverjar þessar byrðar eru en hitt vitum við að á næsta ári bendir allt til þess að vaxtabyrðin ein af þessari lántöku verði á annað hundrað milljarða króna.

Við þessar aðstæður eigum við að horfast í augu við þann veruleika að við verðum að taka því að mikill halli verði á fjárlögum. Ég hef lagt það til, alls staðar þar sem ég hef getað komið því við að koma þeim sjónarmiðum á framfæri, að lífeyrissjóðum landsmanna eigi í verulegum mæli að beina, þ.e. fjárfestingum þeirra, til ríkis og sveitarfélaga. Nú eigi að beina fjármagninu í að styrkja innviði samfélagsins. Þannig verðum við sterk. Þannig verðum við sterk til frambúðar. Það er besta fjárfestingin sem við getum lagt í.

Þær tillögur sem ríkisstjórnin læðir hér í skammdeginu inn í þingið, og ætlar að fá okkur til að samþykkja fyrir jólin, að byrja að leita ofan í vasann á veiku fólki uppi á Landspítala, á Sjúkrahúsinu á Akureyri og á öðrum sjúkrahúsum í landinu, finnst mér af og frá. Ég spyr: Hafa allir þingmenn kynnt sér það frumvarp sem ætlast er til að þingið samþykki? Er það virkilega skoðun þingmanna Sjálfstæðisflokksins að rukka eigi fólk sem leggst veikt inn á Landspítalann eða inn á önnur sjúkrahús (Forseti hringir.) landsins? Er það skoðun Samfylkingarinnar að svo eigi að verða? Ég skora (Forseti hringir.) á þingmenn sem allra flesta til (Forseti hringir.) að koma í pontu og gera greina fyrir sjónarmiðum sínum í þessu efni.

(Forseti (ÞBack): Forseti biðst velvirðingar á því en það var bilun í klukkunni og rauða ljósið lét ekki á sér standa þegar tíminn var útrunninn.)



[18:32]
heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Ögmundur Jónasson fór nokkuð frjálslega með staðreyndir eins og oft áður. Hann talaði um að hér væri verið að breyta miklu frá því sem verið hefði og að menn hefðu lofað gjaldfrelsi í heilbrigðismálum en nú sé eitthvað allt annað upp á teningnum. Til upplýsingar, ég hélt að vísu að allir væru meðvitaðir um þetta sem á annað borð fjalla um heilbrigðismál á þessum vettvangi, þá er kostnaðarþátttaka almenna reglan, og sérstaklega á Norðurlöndunum. Síðan er það verkefni hvernig henni er best fyrir komið. Mér fyndist eðlilegt að hv. þm. Ögmundur Jónasson ræddi þetta málefnalega vegna þess að hér er nefnd að störfum með fulltrúum allra stjórnmálaflokka og við eigum að leggja mikið upp úr því að það náist eins góð sátt og mögulegt er um það endurgreiðslukerfi sem við byggjum upp. Verkefnið er einfaldlega þetta, við viljum sjá til þess að þeir sem veikastir eru og þurfa mest á þessari þjónustu að halda, langveikir og slíkir, þurfi ekki að bera of miklar byrðar. Það er þetta sem menn leggja upp með. Hins vegar er það sársaukalítið fyrir þann sem hér stendur og þá sem hér eru inni, með fullri virðingu fyrir því ágæta fólki, að þurfa að leggja eitthvað út þegar við lendum í því að þurfa á þessari góðu þjónustu að halda. Þetta hefur alltaf verið brot af því sem þjónustan kostar. Það er alla vega sársaukalaust af minni hálfu að þurfa að leggja eitthvað fram þegar maður lendir í slíku. En við viljum koma í veg fyrir að þeir sem virkilega þurfa á þjónustunni að halda beri of miklar byrðar. Til þess er nefndin sett á laggirnar.



[18:34]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. heilbrigðisráðherra lýsti því yfir að það væri sársaukalaust af hans hálfu að þurfa að greiða eitthvað fyrir læknisþjónustu. Það er skoðun, allt í lagi, hann getur haft þá skoðun, ég get haft aðra skoðun. En hann gerði annað og meira. Hann sagði að ég færi mjög frjálslega með staðreyndir. Á hvern hátt fór ég frjálslega með staðreyndir? Hann vísaði til nefndar sem er að endurskoða greiðsluþátttöku sjúklinga í heilbrigðiskerfinu og að þar sætu fulltrúar allra flokka. Ég sit í þeirri nefnd og tel að ég hafi unnið nokkuð vel í þeirri nefnd, ég hef kynnt mér þau gögn sem liggja fyrir nefndinni. Á hvern hátt nákvæmlega fór ég frjálslega með staðreyndir?



[18:35]
heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi, svo ég taki bara nokkra þætti, talaði hv. þingmaður um að við hefðum lofað gjaldfrelsi. Ég kannast ekki við það. Í annan stað talaði hann um það enn og aftur að send hefði verið tilskipun, ég átta mig ekki á hvort það var frá fjármálaráðuneytinu eða heilbrigðisráðuneytinu, um að það ætti að spara um 10%. Það er ekki rétt eins og margoft hefur komið fram. Hins vegar voru öllum forstöðumönnum sendar hugmyndir um sparnað sem næmi 10% af rekstrarkostnaði. Þetta hefur margoft komið fram, enda vita menn sem fjalla um fjárlögin að það er engin tilskipun um 10% niðurskurð.

Síðan talaði hann um að það væru sjúklingagjöld upp á 1,2 milljarða í þessum bandormi og því sem liggur fyrir þinginu. Eins og menn vita erum við að reyna að ná niður kostnaði, aðeins lítið brot af þessum 1,2 milljörðum snýr að greiðslum sjúklinga en við erum hins vegar að reyna að lækka lyfjakostnað. Ég mundi ætla að þokkaleg samstaða væri um það í þinginu en kannski er það ekki. Það er gert með öðru móti en því að taka aukin gjöld af sjúklingum ef þess er nokkur kostur eins og kemur fram í textanum.

Loks segir hv. þingmaður að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn skipi okkur fyrir verkum og að við séum að kikna í hnjáliðunum, eða hvernig hann orðaði það, við að minnka fjárlagahallann. Það liggur fyrir og það er alveg sama hvaða ríkisstjórn væri hér og hvaða leið hún færi, að þegar tekjuforsendur bresta þurfa menn að ná endum saman. Það er algerlega óumdeilt og menn eiga ekki að ræða það öðruvísi. Í flestum löndum þar sem menn takast á við sambærileg vandamál þá eru stjórnmálamenn, bæði í stjórn og stjórnarandstöðu, það ábyrgir að þeir fara í það verkefni að reyna að vinna bug á vandanum en reyna ekki að gera sér pólitískan mat úr honum. Þess vegna legg ég þessa hluti fram með þeim hætti að það sé mjög sérkennilegt að halda því fram að við viljum koma á sama fyrirkomulagi og viðgengst hjá tannlæknum. Það er algerlega fráleitt enda erum við búin að reyna mikið til að ná þeim inn á samning en það hefur því miður ekki gengið. Svo ég taki bara nokkur brot af því sem hér var farið frjálslega með.



[18:37]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að reyna að einskorða mig við afmörkuð dæmi. Sagt var að rangt sé að komið hafi tilskipun um 10% niðurskurð. Í bréfi frá fjármálaráðuneytinu til ráðuneyta 14. nóvember segir, með leyfi forseta:

„Núverandi áætlanir benda til að ná þurfi það miklum árangri að því er beint til ráðuneyta að vinnuviðmið þeirra verði að útfæra tillögur um lækkun útgjalda sem nemi að minnsta kosti 10% af veltu, miðað við fjárlagafrumvarpið 2009.“

Þetta var sent til heilbrigðisstofnana, og ég er með lista yfir þær stofnanir frá heilbrigðisráðuneytinu, og þar segir m.a.:

„Eins og ykkur öllum er ljóst er íslenskt efnahagslíf í alvarlegum vanda. Meðfylgjandi er bréf sem ráðuneytinu barst fyrr í dag þar sem farið er fram á að útfærðar verði tillögur um lækkun útgjalda sem nema a.m.k. 10% af veltu miðað við fjárlagafrumvarpið 2009.“ — Síðan kemur frá heilbrigðisráðuneytinu líka, með leyfi forseta: „Heilbrigðisráðherra vill nota þetta tækifæri til að þakka forstöðumönnum hve hratt og örugglega þið hafið brugðist við tilmælum þeim sem þið fenguð í kjölfar tilmæla fjármálaráðuneytisins um 10% samdrátt útgjalda stofnana ríkisins vegna þeirrar alvarlegu kreppu sem riðið hefur yfir íslenskt þjóðfélag.“

Er ég að fara með staðlausa stafi? Eða er hæstv. heilbrigðisráðherra að fara með staðlausa hafi? (Gripið fram í.) Síðan hef ég séð þessar tillögur. Því miður er það svo að hæstv. heilbrigðisráðherra hefur farið með rangt mál. Hann hefur gert það áður en hér er ég með gögnin. (Gripið fram í.) Ég er með þessi gögn. Ég óska eftir því að ráðherrann kveðji sér þá máls í ræðu eða beri af sér sakir. Ég er að vitna í gögn frá fjármálaráðuneytinu til ráðuneyta. Ég er að vitna í gögn sem komu frá heilbrigðisráðuneytinu og þakkir þess ráðherra sem hér stendur og hefur sakað mig um að fara með staðlausa stafi. (Gripið fram í: Hver er niðurstaðan ... ?) Niðurstaðan er sú að hæstv. heilbrigðisráðherra hefur ekki sagt satt og rétt.



[18:39]Útbýting:

[18:40]
Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Hér hafa menn rætt frumvarp ríkisstjórnarinnar um sérstakar ráðstafanir í ríkisfjármálum sem fela í sér ýmsar lagabreytingar til að hægt sé að koma á auknum skerðingum í ýmsum málaflokkum í tengslum við þá stefnu ríkisstjórnarinnar að helst sé að bregðast við efnahagsvandanum með niðurskurði og sérstaklega á þeim þáttum sem snúa að velferðarkerfinu.

Þau afmörkuðu atriði sem ég ætla að taka fyrir í stuttri ræðu minni eru í fyrsta lagi það sem lýtur að framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, þ.e. að með lagaaðgerð á að kippa ákveðnum þáttum búvörusamninganna úr sambandi, samninga sem gerðir voru við samtök bænda, annars vegar við nautgripabændur og hins vegar við sauðfjárbændur og reyndar einnig við garðyrkjubændur.

Það er hollt að hafa í huga um hvers konar samninga hér er að ræða. Þetta eru samningar við bændur, framleiðendur matvæla- og landbúnaðarvara, um að þeir tryggi öruggt framboð af matvörum, mjólk, mjólkurvörum, kjöti og kjötvörum og grænmeti, að þeir tryggi ákveðið magn af þessum vörum á íslenskum markaði. Við gerum okkur grein fyrir því að sjálfstæði og öryggi þjóðar er ekki hvað síst fólgið í fæðu- og matvælaöryggi. Þessi samningur sem gerður hefur verið við landbúnaðarframleiðendur miðar einmitt að því að tryggja fæðuöryggi þjóðarinnar. Það er hinn pólitíski vilji sem Alþingi og ríkisstjórn hefur farið með gagnvart þessum atvinnuvegi.

Á hinn bóginn er markmið þessa samnings að tryggja atvinnugreininni ákveðinn fjárhagsgrundvöll, ákveðinn fjárhagsstuðning til að geta staðið við ábyrgðir sínar í fæðuöryggi þjóðarinnar. Þessir samningar hafa verið fullkomlega gagnkvæmir með þeim hætti að þeir eru undirskrifaðir og ég veit að af hálfu Bændasamtakanna a.m.k. er litið svo á að þeim sé ekki hægt að breyta öðruvísi en bera þær breytingar undir samtök bænda sem gáfu þá samningaheimild og staðfestu þá samninga sem hér um ræðir. Á sama hátt hefur verið litið á að ríkisvaldið, Alþingi, ríkisstjórn, væri líka skuldbundið til að standa við þessa samninga og gæti ekki breytt þeim einhliða. Það gerir hins vegar ríkisstjórnin í þessu frumvarpi því að með frumvarpinu er verið að kippa úr sambandi hluta af grunnþáttum þessa samkomulags sem er verðtryggingin eða hluti hennar með þeim hætti að greiðslur samkvæmt þessum samningi geta skerst miðað við áætlaða verðbólgu á næsta ári um 800–1.000 milljónir. Þetta er hluti af ráðstöfunum í ríkisfjármálum. Við gerum okkur öll grein fyrir að vandinn þar er mikill. Okkur greinir hins vegar á í fyrsta lagi um forgangsröðun í þeim efnum. Það að ætla að ráðast að einum grunnþætti öryggis þjóðarinnar, sem er matvælaframleiðslan, er að minni hyggju mjög óskynsamlegt. Okkur ber einmitt nú að standa sem klettur að baki íslenskum landbúnaði, mjólkurframleiðslu, kjötframleiðslu og grænmetisframleiðslu, því að í þessa framleiðslu sækjum við styrk, byggjum upp innviði íslensks samfélags, sköpum atvinnu, öflugan matvælaiðnað og treystum fæðuöryggi þjóðarinnar. Jafnvel eru möguleikar á útflutningi á þessum góðu hágæða landbúnaðarvörum í breyttu gengi. Að mínu mati er það röng forgangsröðun af hálfu ríkisstjórnarinnar að ráðast með þeim hætti að íslenskum landbúnaði eins og hér er verið að gera.

Hitt er svo atriði líka að þetta er hluti af tekjugrunni og tekjuöryggi bænda, og 4–5 þúsund bændur, eða hvort þeir eru einu sinni svo margir, og grænmetisbændur munar um það ef tekjur þeirra hrökkva saman um 1 milljarð. Aðföng hafa hækkað, ekki síst vegna breyttrar gengisskráningar hafa erlend aðföng hækkað, áburður, olía o.s.frv. sem bændurnir verða þá að taka af launalið sínum. Hér er verið að koma inn með skerðingu á tekjum upp á 800 millj. eftir því sem hér er tilgreint að gæti orðið og gæti breyst eftir því hver verðbólgan verður og þá numið nokkur hundruð þúsundum króna á hvert býli eða hvern bónda í landinu og eru þeir ekki vel haldnir fyrir. Þetta er gert með því að brjóta einhliða þennan samning. Ríkið brýtur einhliða samning sem er að mínu viti eins konar kjarasamningur við bændur samtímis því að vera öryggissamningur um að tryggja fæðuframboð og fæðuöryggi á Íslandi.

Í vor þegar talað var um að nú ætti að fara í þjóðarsáttarumræður og tilkynnt var að stofnaður hefði verið samráðsvettvangur af hálfu ríkisstjórnarinnar og helstu aðila vinnumarkaðarins, gott og vel með það, þá spurði ég hæstv. forsætisráðherra á Alþingi af hverju bændur hefðu ekki verið kallaðir til líka og beðnir um að koma að þessu borði, hringborði þar sem ræða ætti hvernig bregðast ætti við aðsteðjandi efnahagsvanda þá í mars fyrr á þessu ári. Þá gerði hæstv. forsætisráðherra frekar lítið úr Bændasamtökunum og viðurkenndi að það væri alveg rétt að þau væru ekki með og sagði orðrétt, með leyfi forseta: „Það er fullt af samtökum sem ekki eru með. Það er ekki hægt að taka alla að sama borðinu.“

Ég minnist þess að í þjóðarsáttarsamningunum frægu gegndu einmitt bændur lykilhlutverki. Þeir tóku á sig miklar byrðar og var umdeilt hversu miklar byrðar þeir tóku, en hlutverk bænda í íslenskum þjóðarbúskap og ekki síst þegar herðir að er mikið eins og ég hef rakið. Ég hef ítrekað lagt til að ríkisstjórnin ætti að koma fram af heilindum og að hún hefði átt að kalla Bændasamtökin að slíkri þjóðarsáttarumræðu sem síðan reyndar rann því miður út í sandinn og ekki síst vegna þess að það virtist aldrei hugur fylgja máli.

Ég legg áherslu á að mér finnst þessi vinnubrögð óásættanleg af hálfu ríkisstjórnarinnar og mér finnst þau vanhugsuð. Ég spurði hæstv. forsætisráðherra í andsvari hvort gerð hefði verið úttekt á því hvaða afleiðingar þessi tekjuskerðing hefði á hlut landbúnaðarins og hvort gerð hefði verið úttekt á því hvaða áhrif þetta hefði á matvælaverð og fæðuöryggi þjóðarinnar. Svar forsætisráðherra var nei, hann vissi ekki til þess og var hann þó að mæla fyrir frumvarpinu. Og þegar ég spurði hvort hann hefði ekki gert sér grein fyrir því hvaða áhrif þetta hefði á afkomu bænda og hvernig þeir væru í stakk búnir til að taka þessari tekjuskerðingu, þá var líka svarið hjá hæstv. forsætisráðherra: Nei, hann vissi ekki til þess að það hefði verið gert. Þetta sýnir hversu handahófskennd vinnubrögðin eru og hversu óábyrg þau eru. Ég mótmæli því að gengið sé fram með þessum hætti í að skerða grunn landbúnaðarins með því að skera af honum þessi samningsbundnu réttindi.

Hitt sem ég ætla að gera að umtalsefni er svo Landssíminn. Lagt er til í þessu frumvarpi að þau sérstöku lög sem sett voru um ráðstöfun á söluandvirði Landssímans þegar hann var seldur verði felld úr gildi. Ég minnist þess, og ég hygg að þingheimur og landsmenn allir minnist þeirra átaka sem stóðu um sölu Landssímans. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs stóðum hér og börðumst gegn sölu Landssímans. Við töldum að þjóðinni væri miklu betur borgið með því að eiga sín fjarskiptafyrirtæki, sinn Landssíma. En hann var seldur gegn vilja mikils meiri hluta þjóðarinnar. Ég vil þess vegna spyrja nú þegar verið er að nema þessi lög úr gildi: Hvað stendur þá eftir ógert af því fé sem áætlað var að ráðstafa í vegaframkvæmdir upp á 15 milljarða kr. af ráðstöfunarfé Landssímans? Hvar stendur það sem áætlað var að verja til Fjarskiptasjóðs? En samkvæmt þeim ákvæðum var áætlað að verja 2,5 milljörðum kr. til nýs fjarskiptasjóðs sem hefði það hlutverk að stuðla að uppbyggingu á sviði fjarskiptamála, bættri fjarsímaþjónustu á landsbyggðinni og víðtækari dreifingu stafræns sjónvarps um gervihnött og átaki í háhraðatengingum á landinu, eins og segir í lögunum. Ég spyr: Hvar eru þessi mál stödd árið 2007? Samkvæmt fjarskiptaáætlun og þeim loforðum sem gefin voru á sínum tíma við sölu Landssímans áttu að vera komnar háhraðatengingar á öll heimili í landinu. Ég er hér með mjög góða grein eftir Jón Jónsson þjóðháttafræðing sem býr á Hólmavík, um stöðu háhraðanetstenginga hér á landi. Greinin er á vefnum strandir.is og þar segir, með leyfi forseta:

„Nú hefur um nokkurn tíma staðið til að koma háhraðaneti til fólks og fyrirtækja í dreifbýli á Íslandi, samtals um það bil 1.200 staða þar sem heilsársbúseta er til staðar eða starfandi fyrirtæki. Þessir staðir eru fyrir utan þau svæði þar sem ráðist hefur verið eða verður í slíka uppbyggingu á markaðsforsendum fjarskiptafyrirtækjanna. Fjölmargir af þessum stöðum sem enn eru án sambands eru á Vestfjörðum. Samkvæmt fjarskiptaáætlun 2005–2010 átti þessu verkefni að vera lokið í lok ársins 2007 og hluti af söluandvirði Símans var settur í þetta framfaramál og Fjarskiptasjóður átti að sjá um framkvæmdina.“

Ég hvet þingmenn til að lesa þessa ágætu grein en henni lýkur með þessum orðum:

„Uppbygging háhraðanets í dreifbýlinu er í senn réttlætismál og eitt af þeim verkefnum sem er allra mikilvægast fyrir verðmætasköpun í dreifbýlinu, mannlíf, menningu og atvinnulíf. Það eiga allir íbúar landsins að sitja við sama borð í upplýsingasamfélagi nútímans, dreifbýlisbúar eiga að hafa jöfn tækifæri á við aðra til að nýta þau sóknarfæri sem gefast …“

Nú þegar Landssíminn og þessi lög (Forseti hringir.) hafa verið lögð af þá er það lágmark að ríkisstjórnin komi og biðjist afsökunar á því að hafa selt Landssímann og í öðru lagi svari fyrir þau verkefni sem var lofað að yrðu gerð og unnin og tímasett fyrir söluandvirði Símans, frú forseti.



[18:55]
Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Tekið var til umræðu í dag með afbrigðum frumvarp ríkisstjórnarinnar til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Þetta er svo sannarlega ekki fyrsta málið sem kemur á dagskrá þingsins með afbrigðum nú undanfarna daga. Eftir því sem ég fæ best upplýsingar um hefur fjöldi mála verið tekinn til umfjöllunar á Alþingi með afbrigðum í haust það sem af er þessu þingi, að minnsta kosti tíu sinnum fleiri mál en tekin voru með afbrigðum fyrir ári.

Það segir mikið um ástandið og um stjórn þingsins og hvernig komið er fyrir efndum á þeim loforðum sem gefin voru og heitstrengingum af hálfu forustu þingsins þegar núverandi hæstv. forseti tók við starfi sínu og þegar gerðar voru breytingar á þingsköpum fyrir um ári sem áttu að leiða til breyttra vinnubragða í þingstörfum. Við sjáum árangurinn af þessu. Við sjáum árangurinn í því að skipti eftir skipti eru mál tekin inn með afbrigðum vegna þess að ríkisstjórnin hefur þann mikla meiri hluta í atkvæðum talið sem nauðsynlegur er til þess að samþykkja að mál komi inn með afbrigðum. Það sýnir líka vinnubrögðin eins og t.d. við þau mál sem við fjöllum um þessa dagana; fjárlög, fjáraukalög og ráðstafanir í ríkisfjármálum, efnahagsmálin almennt séð.

Þetta er sem sagt enn eitt málið sem kemur inn með þessum hætti og það er ámælisvert og það er áfellisdómur yfir ríkisstjórninni og þeim vinnubrögðum sem hún ástundar, það að hún kemur hér sýknt og heilagt með illa undirbúin mál á síðustu stundu og keyrir þau í gegn og þau fá litla umfjöllun á vettvangi þingnefndar. Það er óvirðing við þingið og það er óvirðing við þjóðina að mál skuli afgreidd með þeim hætti.

Í frumvarpinu er verið að gera tillögur um breytingar á allmörgum lögum — svokallaður bandormur — það tekur til breytinga á ýmsum lögum sem heyra undir mörg ráðuneyti. Af þeim sökum mælti hæstv. forsætisráðherra fyrir frumvarpinu. Í þessari umræðu hefur þegar verið farið yfir mörg þessara atriða. Sum eru ekki umdeild í sjálfu sér. Ég get sagt fyrir mig að ég tel að í frumvarpinu séu ýmis mál sem ég get út af fyrir sig stutt. En í þessu lagafrumvarpi eru líka stórmál á ferðinni sem ég tel alvarleg. Ég ætla að nefna nokkur atriði í því efni á þeim tíma sem ég hef til ráðstöfunar.

Ég ætla að nefna fyrst II. kafla frumvarpsins sem fjallar um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvöru. Þar er verið að taka úr sambandi með lögum þau ákvæði í samningum ríkis og bænda að greiðslur til bænda skuli bundnar með vísitölu og taka reglubundinni breytingu með vísitölu. Hér er því haldið fram að þetta sé unnt að gera án þess að það varði við eða stríði gegn ákvæðum 72. gr. stjórnarskrárinnar. Hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sem tekið hefur þátt í þessari umræðu, hefur haldið því fram.

Nú hlýtur það að vera atriði sem verður að skoðast sérstaklega og þá ekki síst af Bændasamtökunum hvernig þessu víkur við. Það er ljóst að hér er verið að taka úr sambandi samningsbundna launahækkun til bænda. Það er það sem verið er að gera. Þetta er ígildi þess að verið sé að taka úr sambandi kjarasamninga með lögum. Það er nú bara svo einfalt vegna þess að þessar greiðslur til bænda eru kjaratrygging þeirra, og er nú bændastéttin í landinu ekki sú sem best hefur kjörin eða breiðust hefur bökin til þess að taka á sig skerðingar af því tagi sem hér er um að ræða.

Vitaskuld verður þess freistað að varpa þessari skerðingu yfir á neytendur í formi hækkaðs vöruverðs. Þannig að annað tveggja gerist, og sennilega hvort tveggja, að vöruverð hækkar og kjör bænda versna. Það er það sem mun gerast og er það mín skoðun að hér sé höggvið í raðir þeirra sem síst skyldi.

Það kom raunar fram m.a. í máli hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar hér fyrr í dag, að bændastéttin mundi væntanlega ekki skorast undan því að taka þátt í að bregðast við þeim aðstæðum sem uppi eru í íslensku samfélagi með því að taka einhverja skerðingu á sig eins og almennt er að gerast í samfélaginu en við verðum að sjálfsögðu að reyna að taka mið af því hver staða einstakra stétta og hópa er til þess að bera slíkar byrðar. Hér er þung byrði lögð á bændastéttina til viðbótar við þau áföll sem hún hefur orðið fyrir í sambandi við fóðurverð, í sambandi við áburðarverð og í sambandi við olíuverð sem bændastéttin hefur þurft að glíma við að undanförnu.

Vísitalan er svo í raun og veru tekin úr sambandi, sett hámark, sett þak á það hvað hún má hækka. Við ræddum hér fyrir örfáum dögum eða vikum nákvæmlega það sama varðandi íbúðareigendur í landinu. Við, þingmenn stjórnarandstöðunnar, spurðum: Af hverju er ekki hægt að setja þak á hækkun vísitölu á íbúðarlánum? Af hverju er það ekki hægt? Nei, það var ekki hægt. Það gat ríkisstjórnin ekki gert. Það kostaði svo mikla peninga og það var ómögulegt að setja þak á hækkun vísitölu á íbúðareigendur. En það er hægt að gera það hér gagnvart bændastéttinni. Það er auðvitað fullkominn ósómi, virðulegi forseti, af ríkisstjórninni að standa svona að málum. Og það er skömm fyrir hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sem ég veit að er þarna í hliðarsal, að koma fram með þetta mál með þessum hætti.

Annað mál sem ég vil líka nefna varðar tekjustofna sveitarfélaga, III. kaflann, þar sem lagt er til að útsvarsprósenta til sveitarfélaganna hækki um 0,25 prósentustig úr 13,03 í 13,28, þ.e. hámarksútsvar. Ég er ekki andvígur því að þessi breyting verði gerð í sjálfu sér og við höfum margoft í vetur rætt vanda sveitarfélaganna — tekjutapið sem þau verða fyrir ásamt fyrirsjáanlegum auknum útgjöldum vegna erfiðra aðstæðna í atvinnulífi, aukinnar fjárhagsaðstoðar o.s.frv., hefur þýtt að þau munu eiga í vaxandi erfiðleikum með að sinna grundvallarþjónustu sinni. Ég leggst því ekki gegn því að þessi hækkun komi inn á útsvarið en tel ákaflega þýðingarmikið að sveitarfélögin nýti hana til þess að efla eða standa vörð um grundvallarkjarnaþjónustu sem þau veita. Ég nefni t.d. skólamáltíðirnar í því sambandi. Fyrirsjáanlegt er að foreldrar munu í vaxandi mæli veigra sér við kostnaði sem þeir gætu ella losnað við eins og t.d. í leikskólum, eins og t.d. í skólunum, grunnskólunum, frístundaþjónustu, skólamáltíðir o.s.frv. Ég tel mikilvægt að sveitarfélögin nýti þetta svigrúm til þess að standa vörð um eða bæta þjónustuna á þessu sviði.

Hér er líka lögð til sérstök 0,25% hækkun á tekjuskatti sem hugsuð er til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Það hefur verið gagnrýnt hér æ ofan í æ í vetur að í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar var ekki gert ráð fyrir sérstöku aukaframlagi til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga upp á 1.400 millj. kr. sem er algerlega lífsnauðsynlegt fyrir mörg sveitarfélög vítt og breitt um landið, sveitarfélög þar sem greiðslur úr jöfnunarsjóðnum vega kannski 30–40 og jafnvel upp í 50% af tekjunum. Þetta hefur verið mjög gagnrýnt hér og ríkisstjórnin hefur ekki farið varhluta af þeirri gagnrýni. Hún hefur orðið vör við hana. Hún hefur heyrt hana hér í þingsölum og hvarvetna þar sem ráðherrar hafa komið og hitt sveitarstjórnarfólk, á fjármálaráðstefnum sveitarfélaga hefur ríkisstjórnin verið sérstaklega gagnrýnd fyrir þetta.

Hvernig ætlar hún að bregðast við þessu? Hún ætlar að gera það í gegnum almenna skattahækkun, almenna tekjuskattshækkun. Taka sem sagt 0,25% til viðbótar í tekjuskattinn og standa þannig undir hluta af þessu viðbótarframlagi í jöfnunarsjóðinn, ekki öllu en hluta. Hún ætlar líka að nýta þessa hækkun til þess að standa skil á fasteignasköttum ríkisins af opinberum byggingum til sveitarfélaganna sem er að mínum dómi forkastanleg aðferðarfræði. Þannig að ég gagnrýni þessa þætti alveg sérstaklega.

Ég hlýt að velta upp því sem nokkuð hefur komið við sögu í þessari umræðu og það er sjúkrahúsgjaldið, að nú eigi að innleiða aðgöngumiða að sjúkrahúsum landsins. Nú á að selja aðgang að sjúkrahúsunum rétt eins og seldur er aðgangur að bíóhúsunum. Þá ætlar ríkisstjórnin að taka upp nýtt gjald, innlagnargjald á sjúkrahúsin, og reynir svo að koma hér, bæði hæstv. heilbrigðisráðherra og ýmsir þingmenn beggja stjórnarflokkanna, og tala um að í sjálfu sér sé ekkert nýmæli á ferðinni af því það kosti að leggjast inn á sjúkrahús ef menn koma inn á sjúkrahús í gegnum slysadeild eða bráðamóttöku, eða ef menn fara t.d. á göngudeild.

Það breytir ekki því að hér er brotið blað. Hér er nýmæli á ferðinni. Hér er verið að innleiða nýjar álögur — á hverja? Á sjúklinga. Lagt er til að það verði gert í hvert skipti sem einstaklingur leggst inn á spítala. Og á hverja leggst þetta þyngst? Það leggst þyngst á þá sem eru langveikir, á króníska sjúklinga, á langveik börn sem koma skipti eftir skipti inn á spítala, á krabbameinssjúklinga sem þurfa að koma æ ofan í æ í meðferð. Þetta eru nú bökin sem ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar telur að geti borið auknar byrðar.

Þetta er fráleitt að þetta eigi nokkuð skylt við jafnaðarmennsku. Það er Samfylkingunni til mikillar háðungar og í raun til skammar að hún skuli koma með þessi mál hér inn í þingið og bjóða upp á þetta. Við höfum vitað að það hefur verið pólitísk stefna Sjálfstæðisflokksins, og það er í eðli frjálshyggjunnar, að vilja taka gjöld fyrir alla þjónustu af þessum toga frekar en að gera það í gegnum samneysluna, í gegnum sameiginlega sjóði með almennri skattheimtu.

Um þetta snýst auðvitað hinn pólitíski ágreiningur og hin pólitíska rökræða. Hún snýst um það hvernig við ráðstöfum sameiginlegum tekjum. Hvernig öflum við tekna fyrir sameiginlegum verkefnum og hvernig ráðstöfum við þeim? Það er þetta sem ágreiningurinn snýst um og þess vegna þarf ekki að koma á óvart að Sjálfstæðisflokkurinn hafi rekið þessa stefnu. Hún er ekki ný af nálinni af þeim bæ. En að Samfylkingin, jafnaðarmannaflokkurinn, skuli bjóða okkur upp á þessa nýju gjaldtöku, sölumennskuna inn á sjúkrahúsin, er fyrir neðan allar hellur og þeim lítt til sóma.

Hér er sagt að ráðherrar geti ákveðið í reglugerð hámark komugjalds fyrir þá sem þurfa að leggjast inn á sjúkrahús oft á ári en í því felst að sjálfsögðu að einstaklingar eiga að borga í hvert skipti. Þannig að það sjá allir í hendi sér að þetta mun koma illa við langveika sjúklinga, við börn sem eru langveik og koma inn aftur og aftur. Ég fordæmi þá breytingartillögu sem felst í þessu lagafrumvarpi harðlega og skora á ríkisstjórnina að taka hana til endurskoðunar og draga hana til baka, að því væri mestur sómi fyrir ráðherra, ekki síst fyrir ráðherra Samfylkingarinnar.