136. löggjafarþing — 59. fundur,  16. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[16:19]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vildi aðeins út af orðum þingmannsins biðja hann að halda til haga þeim staðreyndum að nú eru komugjöld á spítölunum, það ætti hv. þingmaður að vita. Ef menn leggjast á spítala eftir að hafa farið í gegnum bráðamóttöku greiða menn komugjald, sömuleiðis á endurkomudeild á slysadeild, á bráðamóttökuna og á göngudeild þannig að þetta er allt saman til staðar og er búið að vera það mjög lengi.

Þetta er ekkert öðruvísi en gerist þegar við berum saman heilbrigðismál ef við berum okkur saman við þau lönd sem við venjulega gerum, þ.e. Norðurlöndin. Þó að það sé nokkuð mismunandi hvernig þetta er útfært þá er almenna reglan sú að það er kostnaðarhlutdeild þegar kemur að heilbrigðisþjónustu á Norðurlöndum. Það væri fróðlegt að heyra hvort það er skoðun hv. þingmanns að svo eigi ekki að vera, hvort menn eigi ekki að nota norræna módelið í þessu, þ.e. um kostnaðarþátttökuna. Ég teldi eðlilegt í þessari umræðu að það kæmi skýrt fram. Þess vegna spyr ég hv. þingmann hvort hann sé ósáttur við þetta norræna módel sem við svo sannarlega höfum reynt að fylgja þegar kemur að þessum málum og flestum öðrum í heilbrigðisþjónustunni. Er hv. þingmaður ósammála því?