135. löggjafarþing — 47. fundur
 15. janúar 2008.
jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla, 2. umræða.
stjfrv., 142. mál (heildarlög). — Þskj. 149, nál. 535, brtt. 536.

[14:15]
Frsm. fél.- og trn. (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Gleðilegt ár. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla á þskj. 535. Þetta er álit frá félags- og tryggingamálanefnd.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund fulltrúa frá félagsmálaráðuneyti, Samtökum atvinnulífsins, Viðskiptaráði Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg, Kvenfélagasambandi Íslands, frá Háskóla Íslands, frá Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum við Háskóla Íslands, frá Jafnréttisstofu og frá Jafnréttisráði.

Einnig hafa umsagnir borist nefndinni frá Jafnréttisstofu, Sambandi ungra sjálfstæðismanna, Samtökum iðnaðarins, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Viðskiptaráði Íslands, Kvenfélagasambandi Íslands, Samtökum atvinnulífsins, Bandalagi háskólamanna, Háskólanum á Bifröst eða rannsóknarsetri vinnuréttar og jafnréttismála þar, talsmanni neytenda, Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum við Háskóla Íslands, Alþýðusambandi Íslands, Jafnréttisráði, Mannréttindaskrifstofu Íslands og Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja. Þannig má ljóst vera að nefndinni bárust ítarleg álit og að nefndin fjallaði ítarlega um málið.

Fyrstu almennu lögin um jafnrétti kvenna og karla voru sett árið 1976 og var þeim ætlað að stuðla að jafnrétti kynjanna á öllum sviðum þjóðfélagsins. Þeim lögum hefur þrívegis verið breytt, nú síðast með núgildandi lögum nr. 96/2000, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Þegar lögin um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla voru sett árið 1976 var mótuð opinber stefna um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna og Jafnréttisráð sett á stofn til að framfylgja lögunum. Samkvæmt lögunum hvíldi sú fordæmisskylda á stjórnvöldum að vinna að því að jafnrétti kæmist á í raun. Nú þegar liðin eru þrjátíu ár frá setningu fyrstu jafnréttislaganna er ljóst að þau hafa ekki borið þann árangur sem vonast var eftir, a.m.k. ekki að fullu. Engu að síður hefur verið mikill styrkur að því að hafa slík lög og breytingar til hins betra hafa orðið á undanförnum árum.

Þegar fyrstu jafnréttislögin voru sett hér á landi var talið að erfiðast yrði að breyta viðhorfum fólks til stöðu kynjanna en auðveldast yrði að breyta launamun kynjanna og að hann yrði horfinn innan fárra ára. Reyndin hefur þó sýnt annað.

Eftir að hafa rætt um málið og kynnt sér álit gesta og umsagnaraðila vill nefndin koma á framfæri nokkrum athugasemdum sem hún telur vert að verði teknar til athugunar. Í kjölfar þess fylgja breytingartillögur á sérstöku þingskjali.

Fyrst ber að nefna að rætt var um það í nefndinni að breyta skilgreiningu á orðum í 2. gr. þ.e. orðalaginu „bein mismunun“.

Það kom til umræðu í nefndinni að réttast væri að skilgreining á beinni mismunun í 1. tölul. 2. gr. væri efnislega samhljóða skilgreiningu tilskipunar Evrópusambandsins 2002/73/EB, um breytingu á tilskipun ráðsins 76/207/EBE, um framkvæmd meginreglunnar um jafnrétti karla og kvenna varðandi aðgang að störfum, starfsþjálfun og stöðuhækkunum, sem og varðandi starfskjör, sbr. 2. tölul. 2. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar. Þarna eru viðmiðin sótt í nýrri skilgreiningu á beinni mismunun en var í upprunalega lagatextanum. Því leggur nefndin til að breyting verði gerð á framangreindri skilgreiningu í 2. gr. frumvarpsins á þann veg að hún sé efnislega í samræmi við fyrrnefnda tilskipun Evrópusambandsins án þess að vera bein þýðing hennar.

Í öðru lagi gerði nefndin tillögur varðandi gagnaöflun, það ákvæði er mildað. Nefndin hefur sérstaklega skoðað þær heimildir sem Jafnréttisstofa hefur til eftirlits með að lögunum sé fylgt eftir í framkvæmd, þar á meðal heimild stofnunarinnar til gagnaöflunar til að kanna hvort ástæða sé til að óska eftir við kærunefnd jafnréttismála að nefndin taki mál til meðferðar. Í því sambandi verður ekki talið að þær heimildir sem Jafnréttisstofu eru veittar með frumvarpi þessu séu víðtækari en almennt tíðkast í sambandi við eftirlitsheimildir opinberra stofnana sem ætlað er að fylgja því eftir að farið sé að lögum. Eðli málsins samkvæmt fellur það ávallt í hlut hlutaðeigandi eftirlitsstofnunar að meta hvaða gögn verði talin nauðsynleg eftirlitinu. Gerður er sá fyrirvari í 5. mgr. 4. gr. frumvarpsins að Jafnréttisstofa þurfi að hafa rökstuddan grun um að brotið hafi verið gegn lögunum áður en gagna er óskað auk þess sem tekið er fram í 7. mgr. sömu greinar að starfsmönnum stofnunarinnar sé óheimilt að nota aðstöðu sína til að afla sér annarra upplýsinga eða gagna en þeirra sem eru nauðsynleg eða kunna að vera nauðsynleg í þágu eftirlitsins. Enn fremur er Jafnréttisstofa bundin ákvæðum stjórnsýslulaga, þar á meðal ákvæðum um andmælarétt málsaðila, jafnræðisreglu og meðalhófsreglu, við framkvæmd gagnaöflunar.

Nefndin leggur til almenna lagfæringu á orðalagi 5. mgr. 4. gr. Efnislegar breytingar eru í fyrsta lagi að lagt er til að orðin „hvers konar“ í þeirri málsgrein verði felld brott til að undirstrika að eingöngu sé um að ræða þau gögn sem Jafnréttisstofa telur nauðsynleg til að upplýsa um málsatvik og í öðru lagi að í stað orðanna „afhenda Jafnréttisstofu“ komi „að láta Jafnréttisstofu í té“ og vill nefndin með því leggja áherslu á að ekki verði gerð krafa um afhendingu upplýsinga eða gagna sem eru málsatvikum óviðkomandi.

Jafnframt er tekið fram í 7. mgr., sem fyrr segir, að starfsmönnum Jafnréttisstofu er óheimilt að veita eða afhenda öðrum en aðilum máls og kærunefnd jafnréttismála upplýsingar eða gögn sem aflað er í þágu eftirlitsins. Ákvæði 7. mgr. 4. gr. frumvarpsins á sér fyrirmynd í 3. mgr. 10. gr. laga nr. 139/2005, um starfsmannaleigur, með síðari breytingum, 3. mgr. 13. gr. laga nr. 45/2007, um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands og starfskjör starfsmanna þeirra, og 1. mgr. 83. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum. Allar þær upplýsingar eða gögn sem aflað er á grundvelli framangreindra laga varða atvinnulífið, þar á meðal einstök fyrirtæki. Enn fremur gildir ákvæði 18. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, um starfsmenn Jafnréttisstofu en þar er fjallað um skyldu starfsmanna til þagmælsku um atriði sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum, fyrirmælum yfirmanna eða eðli máls án þess að það sé sérstaklega tekið fram í frumvarpinu. Sú þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi.

Í þriðja lagi er fjallað um jafnréttisáætlanir. Frumvarpið gerir ráð fyrir að jafnréttisnefndir sveitarfélaga geri jafnréttisáætlanir sem lagðar eru fyrir sveitarstjórnir til samþykktar. Nefndin telur þetta ákvæði vera mikilvægt enda liggur fyrir að gæta þarf vel að jafnréttismálum í starfi sveitarfélaga og þá sérstaklega við skipulagningu starfs í leik- og grunnskólum sem og á þeirri þjónustu sem sveitarfélögunum er ætlað að veita íbúum sínum. Nefndin telur í þessu tilliti þýðingarmikið að jafnréttisnefndir sveitarfélaganna, og þá einkum þeirra sem fámennari eru, geti leitað aðstoðar sérfræðinga Jafnréttisstofu við gerð og þróun slíkra áætlana en Jafnréttisstofa hefur gefið út leiðbeiningar um gerð jafnréttisáætlana sveitarfélaga sem nefndirnar geta haft til hliðsjónar við gerð slíkra áætlana.

Í fjórða lagi er fjallað um rétt einstaklinga til gjafsóknar. Fram hafa komið athugasemdir varðandi 5. gr. frumvarpsins sem fjallar um kærunefnd jafnréttismála. Hvað varðar 5. mgr. þeirrar greinar er vert að taka fram að XX. kafli laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, fjallar um gjafsókn. Í 1. mgr. 126. gr. þeirra laga er tekið fram að gjafsókn geti bæði átt við um málshöfðun eða málsvörn en samkvæmt ákvæðinu er heimilt að veita einstaklingi gjafsókn ef fjárhag hans er þannig háttað að kostnaður af gæslu hagsmuna hans í máli yrði honum fyrirsjáanlega ofviða enda sé nægilegt tilefni til málshöfðunar eða málsvarnar. Þá er tekið fram í 2. mgr. þeirrar greinar að gjafsókn verði enn fremur veitt eftir því sem fyrir er mælt í öðrum lögum. Nefndin leggur til tilfærslu á málsgreinum þannig að 6. mgr. 5. gr. verði 5. mgr. hennar en með því verður efnislegt samræmi betra. Varðandi greiðslu málskostnaðar skv. 5. mgr. frumvarpsins er ekki gert ráð fyrir að litið sé til fjárhags kæranda eins og gert er ráð fyrir í gjafsóknarreglum í lögum um meðferð einkamála. Loks leggur nefndin til breytingar á lokamálslið 5. mgr., er verði 7. mgr., um tilefnislausar kærur. Nefndin telur rétt að kærunefndin geti gert kæranda að greiða kærða málskostnað ef um bersýnilega tilefnislausa kæru sé að ræða en að kostnaður við kærunefnd jafnréttismála greiðist úr ríkissjóði, enda er kveðið á um í lokamálsgrein 5. gr. að kostnaður af störfum nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði.

Fimmta tillaga nefndarinnar um breytingar er um að fella út að kærunefnd geti tekið upp mál að eigin frumkvæði. Nefndin leggur til breytingu á 1. mgr. 6. gr. frumvarpsins. Með breytingunni er lagt til að kærunefnd jafnréttismála geti ekki tekið mál til meðferðar að eigin frumkvæði þar sem það samræmist illa hlutverki hennar sem aðila sem kveður upp endanlega og bindandi úrskurði. Áfram verði þó gert ráð fyrir að Jafnréttisstofa geti óskað eftir að kærunefnd jafnréttismála taki mál til meðferðar, sbr. 2. mgr. greinarinnar.

Í 8. gr. frumvarpsins er fjallað um Jafnréttisráð og skipan þess. Nefndin telur rétt að leggja til breytingar á skipan ráðsins. Breytingarnar felast í fyrsta lagi í því að Samband íslenskra sveitarfélaga fái að tilnefna fulltrúa í Jafnréttisráð og sé þannig virkur þátttakandi í stefnumótun stjórnvalda í málum er tengjast jafnrétti kynjanna. Sveitarfélögin annast rekstur leik- og grunnskóla í landinu sem og daggæslu og tómstundastarf fyrir börn og ungmenni þegar hefðbundnum skóladegi lýkur. Á þeim vettvangi er þýðingarmikið að fram fari markviss fræðsla um jafnrétti kynjanna þar sem m.a. er lögð áhersla á að búa bæði kynin undir jafna þátttöku í samfélaginu, sbr. 23. gr. frumvarpsins. Enn fremur er mikilvægt að kynjasjónarmiða sé gætt í allri nærþjónustu sem sveitarfélögum er ætlað að veita íbúum sínum. Í öðru lagi að þar sem fleiri aðilar sinna nú rannsóknum í kvenna- og kynjafræðum fari ekki vel á því að taka einn fram fyrir annan. Nefndin bendir þó á að Jafnréttisráð geti ávallt óskað eftir sérfræðiaðstoð við athugun mála. Þess í stað leggur nefndin til að Félag um foreldrajafnrétti fái að tilnefna fulltrúa í ráðið. Í þriðja lagi leggur nefndin til að Femínistafélag Íslands, Kvenfélagasamband Íslands og Kvenréttindafélag Íslands tilnefni sameiginlega tvo fulltrúa í stað eins. Í samræmi við framangreint leggur nefndin til að fulltrúum í Jafnréttisráði verði fjölgað úr átta í tíu. Tekið skal fram að í nefndinni voru mismunandi áherslur varðandi fjölda nefndarmanna í Jafnréttisráði, annars vegar að hafa ráðið fámennara en lagt er til í frumvarpinu og hins vegar að fjölga bæri í ráðinu og skipa því framkvæmdastjórn. Niðurstaðan varð sú að hafa ráðið ekki fjölmennt en nefndin leggur þrátt fyrir það til að fulltrúum verði fjölgað um tvo til að tryggja ákveðið jafnvægi.

Sjötta breytingin varðar það að jafnréttisnefnd þurfi ekki að vera sérstök nefnd í minni sveitarfélögum, á það er minnt í nefndarálitinu. Í tengslum við ákvæði 12. gr. um jafnréttisnefndir sveitarfélaga vekur nefndin athygli á 41. gr. laga nr. 45/1998 þar sem sveitarfélögum er heimilt að sameina nefndir þótt kveðið sé á í lögum um skipan tiltekinna nefnda. Ekki þótti ástæða til að breyta lagaákvæðum vegna þessa en bent á þetta atriði í lögum.

Sjöunda atriðið varðar framkvæmdaáætlun, hún er felld undir jafnréttisáætlun og er ekki sérplagg samkvæmt tillögum nefndarinnar. Einnig er þar fjallað um sektir. Í nefndinni komu fram athugasemdir varðandi lokamálslið 2. mgr. 18. gr. sem tekur til vinnumarkaðarins. Vill nefndin því leggja til að í stað fyrrgreinds lokamálsliðar verði tekið fram að í jafnréttisáætlun eða starfsmannastefnu skuli koma fram hvernig settum markmiðum skuli náð og að hvort tveggja skuli endurskoða á þriggja ára fresti. Þá vekur nefndin athygli á því að við ákvörðun dagsekta sé nauðsynlegt að horfa til þess að almennt verði tekið tillit til stærðar fyrirtækja og stofnana varðandi fjárhæð dagsekta sem á eru lagðar, skv. 6. mgr. 18. gr.

Áttunda atriðið sem fjallað var um og gerð tillaga um breytingar á varðar rökstuðning atvinnurekenda við ráðningu, en krafan um rökstuðning er felld út. Í 26. gr. frumvarpsins er kveðið á um bann við mismunun í starfi og við ráðningu. Í 4. mgr. er kveðið á um rétt umsækjanda um starf til rökstuðnings atvinnurekanda fyrir ráðningu manns af gagnstæðu kyni. Nefndin telur ekki rétt að leggja skilyrðislausa skyldu á atvinnurekendur um að rökstyðja allar ráðningar enda getur slík skilyrðislaus kvöð verið mjög íþyngjandi og leggur til að 4. mgr. falli brott. Þess í stað telur nefndin rétt að láta efnisatriði lokamálsgreinar greinarinnar ná til 5. mgr., er verður 4. mgr. eftir breytingu. Þar er talað um skilyrði fyrir ráðningu, hvers skuli litið til í umfjöllun um hvort gætt hafi verið jafnræðis við ráðningar. Nefndin tekur fram að þau atriði sem upp eru talin í ákvæðinu beri öll að taka til greina og meta heildstætt. Nefndin hefur ekki forgangsröðun á þeim atriðum.

Þá leggur nefndin til að lokamálsgrein 27. gr. falli brott þar sem um sé að ræða óþarfa endurtekningu.

Níunda atriðið sem ég nefni er ákvæði til bráðabirgða til að taka af allan vafa um gildistöku laganna. Nefndin leggur til að bætt verði við þremur ákvæðum til bráðabirgða er varða lagaskil og að tekin verði af öll tvímæli um að þrátt fyrir gildistöku nýju laganna gildi skipun framkvæmdastjóra Jafnréttisstofu út núverandi skipunartíma hans en að ráðherra skuli strax eftir gildistöku laganna skipa nýja kærunefnd jafnréttismála og nýtt Jafnréttisráð.

Tíunda atriðið sem ástæða er til að nefna er vottunarkerfi eða umræða um það en það kemur líka inn í bráðabirgðaákvæðin.

Nefndin ræddi ítarlega þann möguleika að koma á vottunarkerfi fyrir framkvæmd jafnréttisáætlana og jafnlaunakerfa hjá þeim aðilum sem lögin ná til. Vottun væri staðfesting óháðs aðila á því að stefna, framkvæmd eða ferli jafnréttismála fyrirtækis eða stofnunar væri í samræmi við ákveðna staðla eða viðmið sem byggjast á lögum. Óháðar vottunarstofur mundu annast framkvæmd vottana á grundvelli laga nr. 24/2006 og vottunarkerfi gæti byggst á kröfum og leiðbeiningum sem Staðlaráð Íslands gefur út. Opinber vottun á framkvæmd jafnréttisstefnu ætti að geta orðið eftirsóknarvert takmark fyrirtækja og stofnana og hluti af ímynd þeirra og væri þeim heimilt að geta þess í auglýsingum og öðru kynningarefni.

Ef koma skal slíku kerfi á fót þarf að fara fram ítarleg rannsóknarvinna og þróun á vottunarkerfi. Nefndin leggur til að sett verði ákvæði til bráðabirgða við lögin sem leggur þá skyldu á herðar félagsmálaráðherra að hlutast til um að hrinda slíkri vinnu í framkvæmd. Miðað er við að vottunarkerfi verði tilbúið fyrir 1. janúar 2010. Gera verður ráð fyrir að breyta þurfi lögum til að skjóta lagastoðum undir vottunarkerfi og réttaráhrif vottunar. Ljóst er að slík vinna mun kosta tíma og fjármuni og áréttar nefndin að tryggja þurfi fjárveitingu til verkefnisins af fjárlögum. Nefndin mun svo fylgja því eftir að nauðsynlegar lagabreytingar verði gerðar til að innleiða vottunarkerfi.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali.

Kristinn H. Gunnarsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Pétur H. Blöndal skrifar undir með fyrirvara.

Undir nefndarálitið rita: Guðbjartur Hannesson, Ármann Kr. Ólafsson, Ögmundur Jónasson, Jón Gunnarsson, Ásta R. Jóhannesdóttir, Árni Johnsen, Birkir J. Jónsson og Pétur Blöndal, með fyrirvara eins og áður sagði.

Mikill einhugur var í nefndinni um að áfram þyrfti að vinna af fullum krafti að jafnrétti enda væri langt í land enn þá í ýmsum þáttum varðandi jafnréttismálin. Því er þess freistað að skerpa á ákvæðum og gera auknar kröfur til fyrirtækja um að setja sér stefnu og markmið og Jafnréttisstofu er heimilt að beita sektarákvæðum ef á þarf að halda. Almennt var þó sá skilningur í nefndinni að gæta þurfi hófsemi og leggja áherslu á að snúa sér fyrst að opinberum fyrirtækjum og stærri fyrirtækjum. Lögð er áhersla á að Jafnréttisstofa aðstoði og leiðbeini við gerð jafnréttisáætlana og hvernig fylgjast megi með framkvæmdinni í hverju fyrirtæki.

Um leið og mikill þungi er lagður á jafnrétti kom skýrt fram í nefndinni að vilji er til að forðast um of íþyngjandi framkvæmd laganna og að reynt verði að hvetja og leiðbeina fyrirtækjum til að árangur náist. Þannig var bætt inn ákvæði um vottun sem leið til að hvetja fyrirtæki til að skapa sér sérstöðu, vera til fyrirmyndar í jafnréttismálum og geta auglýst það og kynnt sig sem fyrirtæki sem standi rétt að málum hvað varðar jafnrétti.

Þá er lögð rík áhersla á þátt ráðuneyta með skipun jafnréttisfulltrúa í ráðuneytum og sérstökum jafnréttisfulltrúa í menntamálaráðuneytinu sem sinna á sérstaklega fræðslu og fylgja eftir málum þar.

Eins og áður sagði var samstaða um nefndarálitið og treysti ég því að lögin fái afgreiðslu og komist til framkvæmda sem fyrst. Varðandi breytingartillögurnar vísast til þskj. 536 um 142. mál eins og áður sagði en þar eru þær sundurliðaðar grein fyrir grein.



[14:35]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Aðeins tvær spurningar til hv. framsögumanns félagsmálanefndar áður en lengra er haldið í umræðunni. Ég tek eftir því í breytingartillögu um 8. gr. að gert er ráð fyrir að fulltrúi Rannsóknarstofu í kvenna- og kynjafræðum sé tekinn út úr Jafnréttisráði og í stað þess er lagt til að í nefndina komi fulltrúi Félags um foreldrajafnrétti. Ég vil fá aðeins nánari rökstuðning fyrir þessari ákvörðun. Ég skil í sjálfu sér það sem hér er sagt um þá ákvörðun að taka fulltrúa frá Rannsóknarstofu í kvenna- og kynjafræðum út en það er ekki neinn rökstuðningur fyrir því að taka fulltrúa frá Félagi um foreldrajafnrétti inn.

Ég bendi á að Félag um foreldrajafnrétti hét til skamms tíma Félag ábyrgra feðra. Það félag starfar á höfuðborgarsvæðinu. Sambærileg félög eru sennilega á öðrum stöðum á landinu, ég veit a.m.k. að á Akureyri er starfandi félag sem hefur þjappað sér saman um sömu mál. Ég spyr: Hvers vegna var ekki frekar valinn fulltrúi frá Félagi einstæðra foreldra sem eru landssamtök einstæðra foreldra og starfa á svipuðum grunni?

Hin spurningin sem mig langaði að bera upp við hv. framsögumann nefndarinnar varðar vottunarkerfi. Skoðaði nefndin einhverjar fyrirmyndir að því vottunarkerfi sem lögin gera ráð fyrir að komið verði upp? Og vegna fjármunanna sem þarf til að vinna þetta vottunarkerfi á næstu tveimur árum vil ég spyrja hv. þingmann, sem er líka nefndarmaður í fjárlaganefnd: Er gert ráð fyrir fjármunum beinlínis til vottunarkerfisins á fjárlögum yfirstandandi árs, ársins 2008?



[14:37]
Frsm. fél.- og trn. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og ég gerði grein fyrir í nefndarálitinu var töluverð umræða um skipan Jafnréttisráðs og sitt sýndist hverjum. Það voru hugmyndir allt frá því að í því yrðu fulltrúar allra þeirra félaga sem óskuðu eftir að vera þátttakendur og að hafa þá framkvæmdastjórn yfir ráðinu, yfir í það að reyna að halda fjöldanum niðri í svipaðri tölu og frumvarpið gerði ráð fyrir. Það sjónarmið kom fram í nefndinni að mönnum fannst aðeins halla á, að þær hreyfingar sem hafi fyrst og fremst barist fyrir jafnrétti hafi verið kvennahreyfingar og verið væri að leita eftir félagi sem kæmi aðeins með mótvægi þar við. Það var ástæðan fyrir þessu vali.

Ég get alveg tekið undir að auðvitað eru til fleiri félög, m.a. var verið að tilkynna hér um stofnun á nýju félagi sem á að gæta hagsmuna bæði karla og kvenna í sambandi við jafnréttismál, þannig að það geta orðið breytingar á þessu. Þetta er rökstuðningur nefndarinnar og þar varð málamiðlun um með hvaða hætti Jafnréttisráð skyldi skipað.

Um vottunina og fyrirmyndir að því kerfi skal það hreinskilnislega játað að við höfðum engar fyrirmyndir varðandi það. Þetta verður frumraun og gæti orðið mjög athyglisverð hugmynd eins og ég er viss um að kemur betur fram í umræðunni, m.a. frá Pétri H. Blöndal sem hefur verið mikill baráttumaður fyrir þessari aðferð og lagt á sig mikla vinnu til að fylgja því máli eftir. Það verður spennandi að sjá hvort okkur tekst að koma á slíkri vottun en við höfum ekki fyrirmyndir. Ekki eru sérstakir fjármunir ætlaðir til vottunarþáttarins á fjárlögum nema til framkvæmdar jafnréttislaganna allra, en það kæmi að sjálfsögðu í framhaldinu þegar náð hefur verið utan um það hvernig skuli staðið að þeim þætti.



[14:39]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Forseti vill minna hv. þingmenn á að ávarpa þingmenn með viðeigandi hætti.



[14:39]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil lýsa yfir miklum vonbrigðum með skýringu hv. þingmanns á rökstuðningnum fyrir því að Félag ábyrgra feðra skuli þurfa að eiga fulltrúa í Jafnréttisráði. Það er eins og hv. þingmaður og jafnvel nefndin öll geri sér ekki grein fyrir að það er sameiginlegt verkefni karla og kvenna að tryggja jafnrétti kynjanna samkvæmt lögum. Ég spyr: Hvers vegna var ekki bara einhverju fótboltafélagi, þar sem strákar eru ráðandi, boðin seta í ráðinu? Mér finnst þessi rök vera afar veik og byggð á afar veikum grunni en við munum auðvitað ræða það nánar í umræðum um málið.

Ég vil undirstrika það og þakka fyrir að fá að heyra það frá hv. þingmanni að þetta hafi verið einhvers konar málamiðlun þeirra sjónarmiða sem tekist var á um í nefndinni um það hverjir ættu sæti í ráðinu.

Ég harma hins vegar og lýsi verulegum vonbrigðum með að fulltrúi frá Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum skuli tekinn út úr Jafnréttisráði. Mér finnst það mjög alvarlegt því að Háskóli Íslands er flaggskip á sviði rannsókna í félagsvísindum og Rannsóknastofa í kvenna- og kynjafræðum er í mínum huga fullkomlega sjálfsagður og nauðsynlegur aðili í Jafnréttisráði.

Varðandi vottunarkerfið þá kemur fram í svari hv. þingmanns að þetta sé frumraun, að íslensk stjórnvöld ætli að fara að kosta það og sennilega setja ómælda fjármuni í það að búa til vottunarkerfi sem kann að vera að aðrar þjóðir, sem kannað hafa möguleika á að setja upp slíkt vottunarkerfi, hafi dæmt úr leik, hafi kannski komist að því að það væri nánast óframkvæmanlegt að koma á kerfi af því tagi sem verið er að leggja til hér. Mér þykir þetta byggja á mjög veikum grunni, ég sé ekki að menn hafi nokkrar rökstuddar hugmyndir um hvernig framkvæma eigi vottun af þessu tagi og ég lýsi því yfir að það eru mikil vonbrigði að ekki skuli þá hafa verið áætlaðir einhverjir fjármunir í það að byrja á rannsóknunum (Forseti hringir.) á árinu 2008 þar sem það á bara að taka tvö ár að hanna módelið.



[14:41]
Frsm. fél.- og trn. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að elta ólar við það hvort eitt félag sé betra en annað í Jafnréttisráð en ég vil þó segja varðandi Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum að það kemur fram í nefndarálitinu að við lítum svo á að þeir aðilar komi að sjálfsögðu að jafnréttisvinnu eftir sem áður og verða þá kallaðir til sem sérfræðingar. Menn töldu ekki endilega að annað af þeim tveimur rannsóknarsetrum eða stofum sem starfa í landinu ætti sérstakan fulltrúa umfram hitt því að Háskólinn á Bifröst hefur gefið sig út fyrir að vera rannsóknarsetur í vinnurétti og jafnréttismálum. Það var sjónarmiðið sem kom upp að aðkoman að Jafnréttisráði væri engu að síður fyrir hendi og menn mundu að sjálfsögðu nýta sér í allri jafnréttisumræðunni þá miklu þekkingu sem Rannsóknastofa í kvenna- og kynjafræðum við háskólann hefur.

Varðandi vottunina þá er ekki hægt að segja að slík hugmynd sé gripin algjörlega úr lausu lofti. Á vegum fyrrverandi ríkisstjórnar var starfandi nefnd sem fjallaði um launavottun, þ.e. vottun varðandi launajafnrétti. Sú nefnd var búin að finna út að vinna mætti að þessu á ákveðinn hátt en áætlunin var að vísu um gríðarlegan kostnað því að talað var um 76 milljónir ef ég man rétt. Hérna er um að ræða víðtækari vottun en þar er. Ef okkur tekst að koma upp vottun, og það er í sjálfu sér ekkert sem mælir gegn því, haft hefur verið samráð við staðlaráð og aðra um það, ef okkur tekst að koma upp vottun í jafnréttismálum þar sem fyrirtækin sjálf halda utan um það með hvaða hætti þau tryggja að jafnréttismálum sé sinnt hjá þeim og geta hlotið til þess vottun formlegra aðila þá held ég að það verði gríðarlegur áfangi í jafnréttisbaráttunni. Það sem skiptir mestu máli núna til að jafnréttismálin nái flugi og fái betra vægi í allri umfjöllun er að samstaða náist milli ákveðinna aðila í samfélaginu og atvinnulífsins, vegna þess að það þarf báða aðila til til þess að raunveruleg breyting verði í þessum málum til batnaðar (Forseti hringir.) og það er mikilvægt.



[14:43]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að frumvarp til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla skuli komið á dagskrá og stefni í að það verði að landslögum. Frumvarpið byggist að uppistöðu til á starfi nefndar sem var skipuð í júnímánuði 2006 en fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í þeirri nefnd var Valgerður H. Bjarnadóttir sem mjög hefur komið við sögu jafnréttismála hér á landi.

Ég set nafn mitt undir nefndarálit með frumvarpinu án fyrirvara þótt því sé ekki að neita að einstakar greinar þess hefði ég að sönnu viljað hafa á annan veg en eins og hér kom fram er niðurstaðan í ýmsum efnum þar byggð á málamiðlun. Nefndin starfaði afar vel, verð ég að segja, og leysti formaður hennar, hv. þm. Guðbjartur Hannesson, verkstjórnarhlutverk sitt vel af hendi.

Umsagnir með frumvarpinu skiptast nokkuð í tvö horn. Annars vegar eru umsagnir frá verkalýðssamtökum, kvennahreyfingum, aðilum sem sýsla með jafnréttismál, en þeir aðilar eru á heildina litið jákvæðir í garð frumvarpsins þó að athugasemdir séu gerðar við einstaka efnisþætti þess. Það er helst að gagnrýni komi frá atvinnurekendum, Samtökum iðnaðarins og Samtökum atvinnulífsins. Svo er það þriðji hópurinn sem hefði viljað að haft hefði verið nánara samráð við sig og það er Samband íslenskra sveitarfélaga. Sérstakt álit kemur frá Reykjavíkurborg þar sem kvartað er yfir því að þessir aðilar hafi ekki fengið frumvarpsdrögin til skoðunar og veittur til þess rýmri tími en raun bar vitni.

Af því sem best er í frumvarpinu vil ég nefna að hlutverk Jafnréttisstofu er aukið og því gefið meira inntak en verið hefur. Það er samdóma álit allra að þótt jafnréttislögin frá 1976 hafi verið til góðs hafi þau ekki þjónað hlutverki sínu eins og væntingar stóðu til. Tilgangur lagabreytinganna nú er að reyna að ná fram markvissum úrbótum. Jafnréttisstofa fær eftirlitshlutverk, fær heimildir til að fara í saumana á gögnum, ef upp kemur rökstuddur grunur um að farið sé á skjön við jafnréttislög í einstökum fyrirtækjum. Þetta tel ég vera til góðs og minni á að þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa margoft flutt frumvörp á þinginu sem eru í þessa veru og ég nefni sérstaklega hv. þm. Atla Gíslason sem ítrekað hefur flutt tillögur þessa efnis.

Í frumvarpinu er lagaákvæði sem kemur í veg fyrir að fyrirtæki geti bannað fólki að upplýsa um launakjör sín. Það tel ég vera mjög jákvætt skref fram á við. Staðreyndin er sú að launaleynd hefur heldur verið að færast í aukana og þá ekki síður hjá hinu opinbera en á einkamarkaði. Sú var tíðin að aðgangur að launaupplýsingum hjá hinu opinbera var allgóður miðað við það sem verið hefur í seinni tíð. Hvað það snertir vísa ég í álitsgerðir frá samtökum launafólks innan opinbera geirans, BHM og BSRB, sem hefðu viljað fá lagaákvæði sem opnuðu betur á innsýn í launakerfið en nú er gert. Ég tel að stjórnvöld þurfi að taka þau mál til skoðunar nú á næstu vikum og mánuðum. Það er sannfæring mín að í skjóli launaleyndar þrífist misréttið og þá ekki síst það misrétti sem er á milli kynjanna.

Sá þáttur sem mest var ræddur á síðustu metrunum við afgreiðslu úr félagsmálanefnd var skipan í Jafnréttisráð. Ég tel að heppilegt væri að fjölga í Jafnréttisráði frá því sem nú er gert ráð fyrir. Eins og fram kom í máli hv. formanns félagsmálanefndar, Guðbjarts Hannessonar, voru uppi tvö sjónarmið í nefndinni hvað það snertir. Annars vegar það sjónarmið að fækka bæri í nefndinni, hins vegar að fjölga bæri í nefndinni. Ég var í þeim hópi sem vildi fjölga í nefndinni og mig langar til að gera grein fyrir því hvers vegna.

Ef litið er á hlutverk Jafnréttisráðs þá er það fyrst og fremst vettvangur til umræðu og ráðgjafar um stefnumótun. Ekki er um að ræða framkvæmdastjórn eins og gerist í stofnunum og fyrirtækjum, heldur er ráðið fyrst og fremst umræðuvettvangur, vettvangur þar sem sjónarmið eiga að koma fram. Þar held ég að sé til góðs að reyna að virkja alla eða flesta þá sem láta sig þessi mál varða. Við erum vissulega með jafnréttisþing að auki sem gegna þessu hlutverki en ég hefði talið að útvíkkun Jafnréttisráðs hefði jafnframt verið heppileg, bæði til að veita sjónarmiðum farveg inn í stjórnkerfið til ráðherra sem fer með þessi mál og til Jafnréttisstofu eins og Jafnréttisráði er ætlað samkvæmt lögunum.

Það er einnig á þessu önnur hlið. Með því að veita stofnunum eða samtökum aðild að ráðum á borð við þetta er líka verið að virkja þau. Ég nefni sem dæmi verkalýðssamtök sem fá heimild til að skipa í nefndir og ráð. Þau kalla iðulega til sín fulltrúa sína sem gera þá grein fyrir því starfi sem farið hefur fram á þessum vettvangi, leita eftir upplýsingum um sjónarmið, stefnumótun og óskir samtakanna. Þetta örvar, með öðrum orðum, umræðu í viðkomandi samtökum. Það er eins konar lýðræðislegur vaki að veita samtökum heimild og aðgang að ráðum á borð við þetta. Það eru rök mín fyrir því að heppilegra hefði verið — og að heppilegra sé, því að við getum enn breytt þessu — að útvíkka Jafnréttisráð, hafa fleiri. Ég fagnaði því hins vegar að málamiðlunin sem við náðum var í þá átt að fjölga, hún var í þá veru. Það sjónarmið varð á endanum uppi og varð þess valdandi að ég ákvað að styðja nefndarálitið án fyrirvara. Ég ítreka að ég tel frumvarpið, þessi lög sem vonandi verða, á heildina litið til góðs og vísa þar í álit sem fram koma frá Jafnréttisstofu, frá samtökum launafólks og öðrum sem sérstaklega sýsla með þessi mál.



[14:54]
Ármann Kr. Ólafsson (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka öllum nefndarmönnum fyrir gott samstarf við vinnslu og breytingar á þessu frumvarpi. Ég held að segja megi að allir aðilar hafi verið sammála um að mikilvægt væri að frumvarpið næði fram að ganga, að það færi til 2. umr. í góðri sátt og um það væri í öllum meginatriðum þverpólitísk samstaða og sú varð raunin.

Eins og fram hefur komið er markmið lagafrumvarpsins alveg skýrt, en það er að jafna stöðu kvenna og karla og tryggja enn frekar og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Í stjórnsýsluhluta laganna er fyrst og fremst verið að fjalla um hlutverk Jafnréttisstofu og kærunefndar en eins og fram kemur í frumvarpinu er það verkefni Jafnréttisstofu að sjá um fræðslu- og upplýsingastarfsemi, að veita víðtæka ráðgjöf í tengslum við jafnrétti kynjanna, að setja fram tillögur er lúta að því að ná fram jafnrétti kynjanna, auka aðild karla að jafnréttisstarfi, fylgjast með þróun jafnréttismála, vinna að forvörnum, gegn kynbundnu ofbeldi, gegn launamisrétti og annarri mismunun á grundvelli kyns á vinnumarkaðinum og leita sátta í ágreiningsmálum sem Jafnréttisstofu berast, og nokkur önnur ákvæði til viðbótar eru þarna fram talin.

Formaður nefndarinnar hefur farið býsna ítarlega yfir þær breytingartillögur sem fram komu og líka yfir efnisinntak frumvarpsins í heild sinni.

Eins og fram kemur í frumvarpinu er fyrirtækjum og félagasamtökum skylt að veita Jafnréttisstofu, svo að maður fari aðeins ofan í hlutverk hennar, hvers konar almennar upplýsingar sem nauðsynlegar eru starfsemi hennar. Í frumvarpinu er sú stóra breyting gerð að ef hlutaðeigandi stofnun, fyrirtæki eða félagasamtök verða ekki við beiðni Jafnréttisstofu um afhendingu upplýsinga og gagna innan hæfilegs frests getur hún ákveðið að viðkomandi aðili greiði dagsektir þar til umbeðnar upplýsingar liggja fyrir. Þar er um nýmæli að ræða.

Í lögunum er skýrt kveðið á um að starfsmönnum Jafnréttisstofu sé algerlega óheimilt að nota aðstöðu sína til að afla annarra upplýsinga eða gagna en þeirra sem eru nauðsynleg eða kunna að vera nauðsynleg í þágu eftirlitsstofnunarinnar. Enn fremur er þeim óheimilt að veita eða afhenda öðrum aðilum máls og kærendum jafnréttismála upplýsingar eða gögn sem aflað er í þágu eftirlitsins, sem starfsmenn kunna að verða áskynja vegna starfa sinna við lausn ágreiningsmála. Settar eru skýrar reglur um það hvernig starfsmönnum ber að takmarka aðgang annarra að þeim upplýsingum sem þeir kunna að afla og hvernig þeir nota þær upplýsingar sem þeir afla sér.

Þá er jafnframt fjallað um það að komist Jafnréttisstofa að þeirri niðurstöðu að upplýsingar og gögn renni stoðum undir það að brotið hafi verið gegn ákvæðum laganna skuli hún óska eftir því við kærunefnd jafnréttismála að hún taki málið til meðferðar og skal þá tilkynna hlutaðeigandi skriflega um þá ákvörðun sína. Jafnréttisstofa skal að beiðni kærunefndar fylgja því eftir að úrskurði kærunefndar jafnréttismála sé framfylgt eftir því sem við getur átt. Þegar sá sem úrskurður kærunefndar beinist að fer ekki að úrskurðinum getur Jafnréttisstofa beint þeim fyrirmælum til viðkomandi að gripið verði til viðunandi úrbóta innan hæfilegs frests. Verði sá sem úrskurður beinist að ekki við fyrirmælum Jafnréttisstofu, og hér er um grundvallaratriði að ræða, getur Jafnréttisstofa ákveðið að viðkomandi greiði dagsektir þar til farið verður að fyrirmælum.

Af þessari yfirferð, sem þó er ekki næstum því eins ítarleg og hjá formanninum áðan, er augljóst að Jafnréttisstofa hefur fengið ný og öflug tæki í hendur til að fylgja markmiðum frumvarpsins eftir. Jafnvel þótt ýmsir aðilar, bæði innan þings og utan, hafi talið að verið væri að færa of mikið vald til Jafnréttisstofu voru nefndarmenn sammála um að látið skyldi á þetta reyna í trausti þess að Jafnréttisstofa færi vel með vald sitt, gæti jafnréttis og meðalhófs í störfum sínum eins og hún hefur gert hingað til. Það verður að segjast eins og er að því miður hefur ekki verið farið nægilega vel eftir niðurstöðum Jafnréttisstofu hingað til og því nauðsynlegt að fá henni ný verkfæri í hendur. Ég var sjálfur mjög hugsi yfir sektarákvæðinu en það er grundvallaratriði að þegar niðurstaða kemur frá stofnun eins og Jafnréttisstofu séu menn tilneyddir að fara eftir henni enda geta þá þeir aðilar sem úrskurðurinn beinist að farið með málið upp á næsta stjórnsýslustig, til kærunefndar.

Í frumvarpinu eins og það liggur nú fyrir með breytingartillögum er kærunefnd heimilt að úrskurða að kærandi skuli greiða gagnaðila málskostnað ef kæra er að mati nefndarinnar bersýnilega ástæðulaus. Verið er að breyta frumvarpinu í þá veru að auka jafnræði á milli aðila. Í stað þess að kostnaður greiðist í ríkissjóð, eins og áður var kveðið á um í 5. gr. frumvarpsins, er kveðið á um að greiða skuli þeim sem verður fyrir ákærunni þann kostnað.

Í 6. gr. er fellt út ákvæði sem kveður á um að kærunefndin geti tekið mál til meðferðar að eigin frumkvæði eða samkvæmt ábendingum annarra. Félagsmálanefnd taldi það hlutverk Jafnréttisstofu og geta aðilar því leitað til hennar. Ef aðilar eru ósáttir er hægt að fara með málið upp á næsta stjórnsýslustig eins og áður eða til kærunefndar. Þetta er grundvallarbreyting í frumvarpinu, það hefði verið óeðlilegt að kærunefndin sem slík hefði sjálf getað tekið upp mál á grundvelli gagna sem hún hefði undir höndum. Ég held að það hljóti að vera hlutverk Jafnréttisstofu enda mun hún væntanlega fá öll þau gögn sem kærunefndin hefur undir höndum eða hafa aðgang að þeim.

Í 12. gr. frumvarpsins er kveðið á um að sveitarstjórnir skuli skipa jafnréttisnefndir að loknum sveitarstjórnarkosningum. Rétt þótti að taka fram, og er kveðið á um það í sveitarstjórnarlögum, að í smærri sveitarfélögum þyrfti ekki að vera um sérnefnd að ræða heldur gæti hlutverk jafnréttisnefndar verið hluti af störfum annarra nefnda. Við sjáum það öll í hendi okkar að það gæti verið mjög erfitt fyrir lítil sveitarfélög að skipa og standa straum af kostnaði við það að hafa sérstaka nefnd utan um jafnréttismálin. Það er eðlilegra að taka þessi mál inn sem hluta af störfum annarra nefnda eins og t.d. félagsmálanefnda sveitarfélaganna.

Í 18. gr. er kveðið sérstaklega á um markmiðssetningu jafnréttisáætlunar í stað þess sem áður var að gerðar skyldu tvær aðskildar áætlanir, jafnréttisáætlun og framkvæmdaáætlun. Tilgangurinn er sá að einfalda lögin og gera jafnréttisáætlunina sem slíka skilvirkari.

Í 26. gr. frumvarpsins er stóru atriði breytt sem snýr að rökstuðningi við ráðningu í starf. Eins og greinin var sett fram gat hver sá sem sótti um starf óskað eftir rökstuðningi fyrir ráðningu, burt séð frá því hversu stórt fyrirtæki stóð að ráðningunni, hver eignasamsetning var eða í hvaða rekstri viðkomandi fyrirtæki var. Að áliti nefndarinnar, og í ábendingum mjög margra, var þarna allt of langt gengið og talið að slíkt yrði mjög íþyngjandi fyrir fyrirtæki. Fyrirtæki, sérstaklega einkafyrirtæki með þröngt eignarhald, eiga að hafa mjög mikið svigrúm til ráðninga og geta lagt nánast hvað sem er til grundvallar. Það kristallast t.d. skýrt í fjölskyldufyrirtækjum. Fjölskyldufyrirtæki þarf að vera hægt að reka á forsendum fjölskyldna. Þetta á líka við um ýmis smærri fyrirtæki þó að allir séu sammála um að markmið tengd jafnrétti eigi að sjálfsögðu alltaf að vera hluti af heildarmynd.

Ef óskað er eftir rökstuðningi fyrir ráðningu kallar það á heilmikil sérfræðiskrif og sérhvert svar hefði eflaust orðið til þess að öll fyrirtæki hefðu þurft að leita til sérfræðinga. Ef mál hefðu verið kærð til dómstóla eða til Jafnréttisstofu á grundvelli svarsins hefði svarið orðið gagn í málinu. Segjum að lítið fyrirtæki hefði fengið fyrirspurn í tölvupósti: Af hverju var þessi ráðinn? Sá sem þarf að svara slíkri fyrirspurn er þá kannski sá sem sér um bókhaldið, sá sem sér um ráðninguna, sá sem er á akrinum og sér um að afla verkefna. Það er kannski einn og sami maðurinn sem gerir þetta allt. Það er varla hægt að ætlast til þess að sá maður hafi sérstaka þekkingu á þessu sviði og því mjög eðlilegt að fella þetta út. Eftir sem áður geta aðilar, hafi þeir rökstuddan grun um mismunun á grundvelli kynferðis, leitað til Jafnréttisstofu og hún tekið málið til meðferðar.

Í 27. gr. frumvarpsins er fjallað um bann við uppsögn o.fl. vegna kæru eða leiðréttingarkröfu. Þar var felld brott eftirfarandi málsgrein: „Við mat á því hvort ákvæði þetta hafi verið brotið skal taka mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu eða öðrum sérstökum hæfileikum sem krafa er gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum eða reglugerðum eða telja verður annars að komi að gagni í starfinu.“ Ekki verður séð að þessi grein eigi heima í 27. gr. laganna og voru nefndarmenn sammála um að hún yrði felld út í heilu lagi.

Eins og formaður félagsmálanefndar rakti hefur frumvarpið tekið ýmsum orðalagsbreytingum sem miða að því að milda nálgun gagnvart atvinnulífinu í þeim tilgangi að allir aðilar gangi í takt. Jafnréttislög verða algerlega gagnslaus nema traust ríki á milli aðila, traust ríki á milli launþega, atvinnurekenda, framkvæmdarvaldsins og löggjafans um innihald þeirra. Það er ekki nema allir þessir aðilar séu sammála því að um réttsýn lög sé að ræða, að framkvæmd þeirra sé réttlát, að við náum betri árangri í þessa veru.

Nefndin var líka sammála því að setja inn bráðabirgðaákvæði er snýr að jafnréttisvottun og hefur formaður nefndarinnar rakið það vel í máli sínu.

Frú forseti. Mig langar að nálgast þetta mál frá öðru sjónarhorni. Það er alveg klárt að við erum að auka umfang stofnunar og við erum að flækja stjórnsýsluna með það sameiginlega markmið í huga að auka jafnrétti. Við erum að leggja ákveðnar kvaðir á atvinnulífið til að auka og bæta jafnrétti hér á landi. Almennt snýst umræðan mikið um það að auka vægi ýmissa stofnana og fjölga stofnunum en í hinu orðinu tala menn líka um einfaldara Ísland og að fækka beri stofnunum og einfalda stjórnsýsluna. Ég held að við þurfum alltaf að hugsa um þessa hluti, „báknið burt“ og „báknið kjurt“ er umræða sem við verðum að fara í.

Ef við missum okkur alveg og förum út í þá einstefnu að fjölga stofnunum, efla þær og auka eftirlitið og taka upp hinar og þessar gerðir, sem við erum reyndar í flestum tilvikum skuldbundin til að gera af Evrópusambandinu, getum við lent í vandræðum sem ýmis önnur ríki hafa lent í og eru að reyna að komast út úr. Í Þýskalandi og Frakklandi hefur t.d. mikið verið rætt um það mikla skrifræði og það mikla bákn sem atvinnulífið þar býr við. Þeir eru að reyna að brjótast út úr því að einhverju marki. Í hvert sinn sem breyta á vinnulöggjöf í Frakklandi ætlar allt vitlaust að verða, allt logar í verkföllum og ekki er hægt að koma neinu til leiðar. Bretar gerðu átak í því á sínum tíma að brjótast út úr reglugerðafargani og tókst nokkuð vel til, enda varð mikil breyting þar á bæ í efnahagslegu tilliti.

Við verðum sífellt að hafa þetta í huga jafnvel þó við séum að samþykkja þessi lög, ég er alls ekki að mæla gegn þeim. En við verðum að taka, og ég held við höfum öll verið sammála því, hugmyndafræðina um einfaldara Ísland alvarlega. Upplýsingatæknin og upplýsingaöldin átti að einfalda umhverfi okkar en ekki að flækja það og því vil ég vekja sérstaklega máls á þessu. Við þurfum að viðhalda þeirri öflugu samkeppnisstöðu sem Ísland hefur vegna þess að höfum ekki fengið yfir okkur þann laga-, reglugerða- og stofnanaflækjustrúktúr sem er í ýmsum löndum sem við berum okkur saman við. Það er forskot sem við höfum og því forskoti verðum við að halda.



[15:11]Útbýting:

[15:11]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil fagna því að þetta frumvarp skuli vera komið til 2. umr. en tel nauðsynlegt að gera að umræðuefni nokkur atriði sem ég hnýt um í nefndaráliti félagsmálanefndar og breytingartillögum nefndarinnar.

Gríðarlega stór áfangi næst með frumvarpinu þó að ég hefði sjálf kosið að lengra hefði verið gengið í ýmsu tilliti. Ég nefni þar t.d. launamun kynjanna og hugmyndir Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um úrræði í þeim efnum. Við höfum lagt fram þingmál þess efnis að Jafnréttisstofa hafi stjórnvaldsúrræði en við teljum að það geti verið mjög áhrifamikið og skipt sköpum hvað það varðar að ná fram auknu launajafnrétti. Þær hugmyndir okkar ganga lengra en þær hugmyndir sem fjallað er um í frumvarpinu. Hér er þó engu að síður stigið það skref að tryggja að launamönnum sé ævinlega heimilt að gefa upp laun sín til þriðja aðila ef þeir kjósa svo. Ég hefði talið ákjósanlegra að það væri viðtekin venja hjá öllum atvinnufyrirtækjum að aflétta trúnaði af launaupplýsingum þannig að Jafnréttisstofa gæti farið þar inn og athugað hvort fyrirtæki fari að lögum í einu og öllu hvað það varðar.

Viljayfirlýsingar um að ná fram launajafnrétti kynjanna hafa ekki fært okkur þann árangur sem við mörg hefðum kosið, ekki fært okkur þann árangur sem nauðsynlegur er til þess að við getum staðhæft að hér ríki fullt jafnrétti kynjanna með tilliti til launa. Ég tel að róttækari aðgerðir í þessum efnum hefðu skilað betri árangri en það sem hér er lagt til en þetta eru engu að síður það áhrifamikil skref í rétta átt að ég sé ekki ástæðu til að hafa um það fleiri orð.

Ég velti hins vegar fyrir mér nokkrum breytingartillögum frá félagsmálanefnd, t.d. þeirri breytingu sem lögð er til á skilgreiningu hugtaksins „bein mismunun“. Í orðskýringum í 2. gr. frumvarpsins, 1. tölulið, þar sem fjallað er um beina mismunun, segir, með leyfi forseta:

„Hvers kyns aðgreining, útilokun eða takmörkun sem byggð er á kyni sem hefur þau áhrif eða markmið að hindra eða koma í veg fyrir að annað kynið fái viðurkennd mannréttindi og grundvallarfrelsi á sviði stjórnmála, efnahagsmála, félagsmála, menningarmála, borgaralegra mála eða á sérhverju öðru sviði, geti notið þeirra eða fengið þeim framfylgt.“

Nefndin leggur til að þessum orðum verði fækkað allverulega og að „bein mismunun“ verði skilgreind með eftirfarandi setningu, eins og fram kemur á þskj. 536 með breytingartillögum nefndarinnar, með leyfi forseta:

„Þegar einstaklingur fær óhagstæðari meðferð en annar af gagnstæðu kyni við sambærilegar aðstæður.“

Ég hef efasemdir um að þessi breytingartillaga sé góð. Mér finnst orðanna hljóðan í frumvarpinu með þeim hætti að hún komi merkingunni betur til skila en hin nýja hugmynd nefndarinnar um þessa óhagstæðu meðferð.

Auðvitað er hægt að segja sem svo að ef það hefði verið eitt af ágreiningsefnunum í nefndinni, en eins og komið hefur fram í umræðunni hefur nefndarmenn greint á um ákveðna þætti, þá kann að vera að hér hafi verið um ákveðna málamiðlun að ræða varðandi þetta atriði og þá verður svo að vera. Ég er ekki eins sátt við tillögu nefndarinnar eins og ég var við skilgreininguna í frumvarpinu.

Mig langar einnig að gera hér að umræðuefni breytingartillöguna sem varðar 18. gr. Þar segir að nefndin geri ráð fyrir að breyting verði á 18. gr. þar sem orðið „aðgerðir“, sem gert er ráð fyrir að tryggi starfsmönnum þau réttindi sem kveðið er á um í ákveðnum greinum frumvarpsins, fari út og í staðinn komi: „gerð áætlun um hvernig þeim skuli náð.“ Þar er ég líka í vafa um að við séum að gera rétt. Ég sé ekki betur en að 2. mgr. 18. gr. verði hálfundarleg þarna þar sem 2. málsliður 18. gr. er svohljóðandi:

„Fyrirtæki og stofnanir þar sem starfa fleiri en 25 starfsmenn að jafnaði á ársgrundvelli skulu setja sér jafnréttisáætlun eða samþætta jafnréttissjónarmið í starfsmannastefnu sína. Skal þar m.a. sérstaklega kveðið á um markmið og aðgerðir til að tryggja starfsmönnum þau réttindi sem kveðið er á um í 19.–22. gr.“

Ég hefði haldið að hér þyrfti að standa orðið „aðgerðir“ en ekki að áætlunin um hvernig þeim skuli náð sé nægileg.

Síðan vil ég gera athugasemd við Jafnréttisráð sem kveðið er á um í 8. gr. frumvarpsins. Þar er gert ráð fyrir að félagsmálaráðherra skipi átta manna Jafnréttisráð. Breytingartillögur nefndarinnar gera ráð fyrir að þeim verði fjölgað í tíu. Ég átti orðastað við hv. formann nefndarinnar í andsvörum áðan þar sem fram kom í máli hv. þingmanns að hér væri um málamiðlunartillögu að ræða.

Mér þykir nokkuð undarlegt að þegar hávær krafa kemur upp í nefndinni um að ráðið verði fámennara en átta, skuli málamiðlunin vera sú að fjölgað sé um tvo. Málamiðlunin er því upp á við. (Gripið fram í.) Í sjálfu sér er það skondið þegar maður horfir á það þessum augum. Ef ágreiningur hefði verið um fjölda ráðsmanna hefði maður haldið að málamiðlunin væri niður á við, að þá hefði verið farið bil beggja í þessum efnum því að frumvarpið gerði ráð fyrir átta. Nei, mér segir svo hugur um að átökin innan nefndarinnar hafi verið um það hverjir sætu í ráðinu, hverjir ættu þar fulltrúa en ekki nákvæmlega um fjölda fulltrúanna.

Ég nefndi í andsvari mínu að ég væri ósátt við að fulltrúi Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum, sem er ein af rannsóknastofnunum Háskóla Íslands, skyldi vera tekin út úr ráðinu með þeim rökum að fleiri háskólar starfi á þeim vettvangi og því verksviði. Hér var nefnd Rannsóknastofa um jafnrétti og vinnuvernd í Háskólanum á Bifröst.

Mig langar að upplýsa hv. þingheim um að flaggskip íslenskrar æðri menntunar, Háskóli Íslands, hefur um árabil rekið þessa öflugu rannsóknastofu undir félagsvísindadeild, rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum. Sú rannsóknastofa er óumdeild. Hún ber höfuð og herðar yfir annað rannsóknastarf sem fram fer í landinu. Rannsóknastarf í kvenna- og kynjafræðum hefur átt undir högg að sækja og þarf aukið brautargengi og aukinn stuðning stjórnvaldsins og löggjafans til að ná almennilega fótfestu. Ég hefði haldið að hér væri full ástæða til að setja fulltrúa frá flaggskipi rannsókna í kvenna- og kynjafræðum inn í ráðið eins og frumvarpið gerði ráð fyrir. Ég vil benda á að rannsóknastofan hefur mjög mikið samstarf við aðra aðila sem starfa á þessum vettvangi, eins og t.d. þá sem starfa fyrir Háskólann á Bifröst.

Háskólinn á Bifröst vinnur mjög merkilegt starf og það gerir Háskólinn í Reykjavík einnig. Þar eru aðilar sem komið hafa inn í umræðu og samstarf við Háskóla Íslands og Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum. Sú rannsóknastofa hefur því virkjað aðila annars staðar í fræðasamfélaginu, tekið þá inn á ráðstefnur og unnið verkefni í náinni samvinnu við þá. Ég tel því einsýnt að Rannsóknastofa í kvenna- og kynjafræðum þurfi að vera til staðar í Jafnréttisráði. Ég lýsi því hér yfir að ég tel að full ástæða sé til að skoða það milli 2. og 3. umr. hvort ekki eigi að gera hér einhverja bragarbót á og hvort ekki sé hægt að leiðrétta — ég vil segja leiðrétta — þessi mistök til að tryggja að fræðasamfélagið, það fólk sem stundað hefur rannsóknir á sviðinu, eigi aðkomu að Jafnréttisráði. Ég tel það mjög mikilvægt og mun leggja mikla áherslu á það í starfinu sem fram undan er að því verði kippt í liðinn, að það verði leiðrétt.

Annað sem ég hafði orð á í andsvari við hv. þingmann varðandi Jafnréttisráð, hv. formann nefndarinnar, varðaði þá ákvörðun nefndarinnar að setja inn fulltrúa frá nýjum aðila sem ekki var í frumvarpinu. Þar er ég að tala um Félag um foreldrajafnrétti. Það er hagsmunafélag sem m.a. hefur lagt áherslu á að koma karlmönnum inn í umræðu um ákveðna þætti í jafnréttisumræðunni. Hér er um að ræða feður sem misst hafa forræðið yfir börnum sínum eða hafa ekki forræði yfir börnum sínum. Eðlilegt er að starfandi séu hagsmunafélög um málefni af þessu tagi. Eins og ég sagði áðan veit ég um að minnsta kosti tvö félög á landinu sem hafa þessi hagsmunamál og berjast fyrir þeim. Ég hefði viljað fá rök frá hv. formanni nefndarinnar um það hvers vegna eitt félag á þessum vettvangi er tekið fram yfir annað.

Ég vil jafnframt segja að ég er ekki sannfærð um að félagsskapur af þessu tagi, tiltölulega lítið félag með mjög afmarkað verksvið, eigi að eiga rétt að aðkomu að Jafnréttisráði sem er eðli málsins samkvæmt fámennt ráð. Ég teldi að þar þyrftu þá að vera fulltrúar sem hefðu mjög marga á bak við sig eins og t.d. launþegahreyfingarnar og Samband ísl. sveitarfélaga. Ég vil nota tækifærið og fagna því að nefndin skyldi hafa ákveðið að bæta inn fulltrúum frá Sambandi ísl. sveitarfélaga í ráðið. Það finnst mér eðlileg ákvörðun og góð en ekki að sama skapi sú ákvörðun að setja Félag um foreldrajafnrétti, sem áður hét Félag ábyrgra feðra, inn í ráðið. Ég hefði þá talið eðlilegra, ef menn vilja taka forræðismál eða málefni einstæðra foreldra sérstaklega inn að borði hjá Jafnréttisráði, að taka stórt og mikið félag sem starfað hefur á landsvísu og þar er ég að tala um Félag einstæðra foreldra. Ég hefði viljað fá rökstuðning nefndarmanna um það hvers vegna Félag einstæðra foreldra kom þá ekki frekar til álita en Félag um foreldrajafnrétti.

Það vekur líka athygli að á listanum yfir umsagnaraðila gaf Félag um foreldrajafnrétti ekki einu sinni umsögn um málið til nefndarinnar. Því var send beiðni um að gefa umsögn en það gaf ekki neina slíka. Ég hefði því talið að hér færi mun betur á því að endurskoða þá ákvörðun nefndarinnar að setja fulltrúa frá Félagi um foreldrajafnrétti inn í ráðið. Ég hefði talið að við ættum að endurskoða ákvörðunina milli 2. og 3. umr.. Sömuleiðis legg ég til að ákvörðunin um að taka fulltrúa frá Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum út, verði endurskoðuð.

Seinni hluta ræðu minnar langar mig til að eyða í að tala um vottunarkerfið. Ég sat hér og hlustaði á hv. þm. Ármann Kr. Ólafsson ræða um vottunarkerfið rétt áðan. Hv. þingmaður á sæti í nefndinni. Honum var tíðrætt um einfaldara Ísland og var með vangaveltur um að lagafrumvarpið flækti stjórnsýsluna í stað þess að einfalda hana. Hann sagði að með frumvarpinu væri verið að leggja kvaðir á atvinnulífið og auka vægi stofnana og fjölga þeim. Hann hefur áhyggjur af því að við stefnum í vandræði. Greinilega hefur hv. þingmaður þó ákveðið að fylgja málinu og þeim hugmyndum sem það gengur út á frekar en að fylgja sinni ýtrustu sannfæringu í þessum efnum. Ég virði það við hann. Mér finnst það eðlilegt. Ég vil hins vegar gera athugasemd við orð hv. þingmanns um að jafnréttisáætlanir af því tagi sem frumvarpið gerir ráð fyrir séu íþyngjandi í eðli sínu. Ég hefði haldið að vottunarkerfi sem slíkt væri nýtt bákn sem gæti mögulega orðið íþyngjandi fyrir okkur, löggjafann og skattborgarana, umfram það sem jafnréttisáætlanir fyrirtækja og stofnana hefðu orðið.

Mín trú er sú að jafnréttisáætlanir fyrirtækja og stofnana séu tækið sem við eigum að nota til að tryggja að jafnrétti sé í raun í öllum fyrirtækjum og öllum stofnunum. Ég hefði því talið að nefndin hefði átt að skoða jafnréttisáætlanirnar þar sem best hefur tekist til og taka afstöðu til þess hvort slíkar jafnréttisáætlanir nægðu ekki til að tryggja markmið laganna.

Ég nefni hér tvær áætlanir sem eru til fyrirmyndar þar sem við þekkjum til. Þær eru aðgengilegar á vefsíðum og hafa sannað ágæti sitt. Það er í fyrsta lagi jafnréttisáætlun Tryggingastofnunar ríkisins sem er mjög vel unnin, mjög vel ígrunduð, og hefur þegar sannað ágæti sitt. Sömuleiðis vil ég nefna fyrirtæki á borð við SKÝRR sem einnig hefur gert jafnréttisáætlun sem ég tel vera til fyrirmyndar. Þessar jafnréttisáætlanir sem best hafa verið unnar eru þannig að þær gera vottunarkerfi, af því tagi sem nefndin hefur hugmyndir um að innleiða, fullkomlega óþarft. Ég veit til þess að þar sem umræður hafa komið upp um vottunarkerfi — þá er ég að tala um vottunarkerfi sem varða launamál og jöfnun launamunar milli kynja — hafa komið upp verulega alvarlegar ábendingar eða vísbendingar um að þau geti aldrei orðið fullkomin eða þjónað þeim tilgangi sem menn ætla þeim.

Ég held því að með vottunarkerfi stefnum við inn á braut sem á eftir að leiða okkur í tómar ógöngur. Það hefði verið miklu nær að skoða þær fyrirmyndar jafnréttisáætlanir sem eru til staðar og fara eftir þeim. Jafnréttisáætlanir eru að mínu mati virk tæki í þessari baráttu okkar. Þær eru ekki íþyngjandi og Jafnréttisstofa er orðin mjög klók í því að veita fyrirtækjum og stofnunum ráðgjöf við samningu jafnréttisáætlana. Hún er í raun og veru búin að búa til módel sem virkar eins og best verður á kosið. Ég hefði því talið að við hefðum átt að fara hægar í þessum efnum, halda okkur við jafnréttisáætlanirnar og sleppa hugmyndafræðinni varðandi vottunarkerfið sem að mínu mati er mjög illa ígrunduð og illa rökstudd í áliti nefndarinnar.

Að lokum langar mig að gera að umtalsefni hugmyndafræðina um samþættingu kvenna- og kynjasjónarmiða. Samkvæmt A-lið 1. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að markmiðum laganna skuli náð með því að gæta jafnréttissjónarmiða og vinna að kynjasamþættingu í stefnumótunum og ákvörðunum á öllum sviðum samfélagsins.

Ég vek athygli á þessu hugtaki, samþættingu, sem er í mínum huga mjög mikilvægt og er lykill að því að við náum árangri í þessum málum. Í umsögn Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum um frumvarpið kemur fram að þetta grundvallaratriði varði víðtæka aðferðarfræði sem sjái of lítinn stað í frumvarpinu. Það skorti á að frumvarpið geri ráð fyrir því hvernig samþættingin eigi að fara fram og hvernig samþættingarsjónarmiðanna sé gætt.

Í mínum huga er orðið mjög nauðsynlegt og afar brýnt að stjórnvöld átti sig á því að þegar við tölum um samþættingu kynjasjónarmiða inn í allar ákvarðanir, er það mjög skörp og skýr krafa um að ákvarðanir í stjórnsýslunni og hjá löggjafanum séu ekki teknar öðruvísi en að upp sé brugðið sjónglerjum jafnréttis.

Þannig samþættir maður kynjasjónarmið við allar ákvarðanir og lagasetningu. Það þýðir í raun og veru að við tökum aldrei neina samfélagslega ákvörðun þar sem ekki verður spurt hvort hún komi misjafnt niður á kynjunum. Ef mögulega er um misjöfn áhrif að ræða þarf að tryggja að (Forseti hringir.) jafnaður verði út sá munur og þar með hefur samþætting átt sér stað. Hafa má mörg orð um þetta. Það er kannski einnig fræðilegt, hæstv. forseti, en ég læt hér máli mínu lokið að sinni en mun koma með frekari ábendingar í næstu ræðum.



[15:32]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Í umræðunni í félagsmálanefnd og hér í dag hefur mér fundist áberandi áherslan á formið, þ.e. umbúðirnar um Jafnréttisráð. Það er eins og silkihúfurnar séu uppteknar af því að staflast hver á aðra. Hver tekur þátt í Jafnréttisráði o.s.frv. bjargar jafnréttinu ekki neitt. Mér finnst sumir mjög uppteknir af þessu og mér finnst þetta bera vott af því sem ég hef nefnt áður, jafnréttisiðnaðinum, að þetta er orðinn iðnaður í sjálfu sér, að hafa eftirlit með, kontrólera misréttið o.s.frv. en ekki að laga misréttið sjálft.

Ég ætla að spyrja hv. þingmann: Skiptir virkilega svona miklu máli að menn eyði svo stórum tíma af ræðutíma sínum í það hverjir tilnefni í Jafnréttisráð? Það vill svo til að þarna er Femínistafélagið, Kvenfélagasambandið og Kvenréttindafélagið. Eitt af þessum félögum veitir ekki einu sinni karlmönnum aðild. Svo kvartar hv. þingmaður yfir því að eitt félag, sem hugsanlega kann að vera karlafélag, tilnefni menn þarna inn. Er hv. þingmaður yfirleitt á móti því að karlmenn taki þátt í jafnréttisbaráttunni?



[15:33]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér þykir leitt að hv. þingmaður skuli stökkva upp á nef sér í andsvari við mig og skuli spyrja svo fáránlega sem hann gerir, um hvort ég sé á móti því að karlmenn taki þátt í jafnréttisbaráttunni. Hvað á það eiginlega að þýða, virðulegi forseti? Kunna menn sér ekki hóf í orðum? Veit hv. þingmaður ekki fyrir hvað ég hef staðið í umræðum á Alþingi þegar jafnréttismál eru annars vegar? Ég tel hann vita það. Hann á að vita betur og ætti því ekki að koma með spurningu af þessu tagi í andsvari. Ég sagði meira að segja í andsvari við hv. formann nefndarinnar áðan að við vissum öll að jafnrétti kynjanna væri sameiginlegt verkefni karla og kvenna. Á það trúi ég og við það stend ég.

Hins vegar vil ég benda hv. þingmanni á eða spyrja á móti: Hverjum er mismunað, hvoru kyninu er mismunað? Það er konum sem er mismunað. Það er verið að reyna að jafna hlut kvenna á við hlut karla í samfélaginu með þessum lögum. Þessi lög væru ekki til nema vegna þess að konur hafa borið skarðan hlut frá borði í samskiptum sínum við karla í gegnum tíðina. Karlmaðurinn er normið í þessu samfélagi en ekki konan. Því þurfum við að breyta. Við þingmenn á Alþingi Íslendinga berum ríkar skyldur og mikla ábyrgð í þessum efnum. Þess vegna skiptir það okkur máli að þeir sem koma að málum séu starfi sínu vaxnir og hafi þá kunnáttu og þekkingu til að bera að líklegt sé að hægt verði að ná fram markmiðum frumvarpsins.

Ég er mjög sátt við markmið frumvarpsins. Ég hafði enga ástæðu til þess að gera neina athugasemd við þau. En ég hef efasemdir um að breytingartillögurnar sem nefndin leggur til þjóni nægilega vel þeim markmiðum.



[15:35]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel einmitt mikilvægt að bæði kynin taki þátt í baráttunni fyrir jöfnum rétti kynjanna. Ég er undrandi á hinni óskaplegu áherslu á formið, á umbúðirnar en ekki á innihaldið, þ.e. hverjir skipi Jafnréttisráð, eins og það sé ekki allt saman ágætis fólk hvaðan sem það kemur.

Það að Félag um foreldrajafnrétti sé minna virði en önnur samtök, mér þætti gaman ef hv. þingmaður upplýsti menn um af hverju svo er. Þetta félag hét reyndar áður Félag ábyrgra feðra sem mér fannst dálítið slæmt nafn. Það neyddi mig eiginlega til að ganga í félagið nema ég vildi vera flokkaður sem óábyrgur faðir. Ég sé ekkert að því að það félag taki þátt í Jafnréttisráði. Ég tel að það geti átt ágætisfulltrúa þar inni eins og önnur þau félagasamtök sem þar koma inn.

En ég spyr: Skiptir Jafnréttisráð og stjórn þess virkilega svo miklu máli að markmið frumvarpsins og laganna hverfi, þ.e. að stuðla að jafnrétti kynjanna?



[15:36]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég sagði í andsvari mínu áðan að ég hefði ekki athugasemdir við markmið þessara laga eða innihald þeirra nema í tengslum við atriði sem lúta ákveðnum formalisma. Það er eðlilegt að við á löggjafarsamkundunni skoðum formið og gefum því gaum.

Ég er sátt við innihaldið. Við höfum lýst því yfir, þingmenn frá öllum flokkum, að við séum sátt við markmið þessara laga. Við höfum hins vegar deilt um hvernig við tryggjum framtíð þess markmiðs. Við höfum í 30 ár haft lög sem kveða á um jafnrétti karla og kvenna en höfum ekki náð að praktísera þau vegna þess að eitthvað hefur verið rangt í forminu. Við þurfum að leiðrétta formið til að við náum fram þeim sjónarmiðum sem löggjöfin kveður á um. Það er það sem ég segi: Ég vil tryggja að þau sjónarmið sem rista dýpst og líklegust eru til að ná fram markmiðum þessa frumvarps eigi rödd við borð Jafnréttisráðs. Það finnst mér skipta miklu máli.

Ég vil biðja hv. þingmann að gera mér ekki upp skoðanir. Ég hef ekki sagt að Félag um foreldrajafnrétti sé minna virði en önnur félög. Hv. þingmaður má ekki gera mér upp þá skoðun. Það hef ég ekki sagt. Ég hef einungis sagt að það þurfi að vera röksemdir fyrir því hvaða áhugamenn um jafnrétti eru kallaðir að borði Jafnréttisráðs. Það eru engin rök fyrir því að þetta félag skuli sérstaklega kallað þar inn að frumkvæði nefndarinnar, nema af því að hv. þingmenn hafa sagt að karlar þurfi að koma að umræðunni um jafnréttismál. Ég er hjartanlega sammála hv. þingmönnum um það. Karlmenn þurfa að koma að því og vera virkir í að koma á jafnrétti kynjanna í samfélaginu. En líkurnar á því aukast ekki með því að þessi félagsskapur eigi sæti í Jafnréttisráði.



[15:39]
Frsm. fél.- og trn. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir kemur réttilega inn á að meginverkefni jafnréttislaga og það sem skipti mestu máli er samþætting kynjasjónarmiðanna. Við í nefndinni reyndum einfaldlega að draga fram þau álit sem komu, vinna úr þeim og leitast við að búa til lagaumhverfi þar sem bæði atvinnurekendur, launþegar, bæði karlar og konur, gætu sameiginlega unnið að markmiðum. Að því beinast breytingarnar í þessari lotu. Ef hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir les umsagnirnar og skoðar athugasemdir við frumvarpið þá skýrist kannski betur af hverju breytingarnar voru gerðar.

Þetta lýtur að ákvæðum varðandi framkvæmdaáætlunina, af því að við erum að fjalla um smæstu fyrirtæki sem þau stærstu. Það er rétt sem hv. þingmaður nefndi að nokkur fyrirtæki hafa gert jafnréttisáætlanir, sem er til fyrirmyndar, en það eru einmitt hin stóru opinberu fyrirtæki eða hálfopinberu fyrirtæki. Það sem við höfum áhuga á er að tryggja að litlu fyrirtækin, þessi einkareknu geti unnið með svipuðum hætti að jafnréttisáætlunum en það verði ekki um of íþyngjandi í stjórnskipan þeirra eða í þeirra vinnu vegna þess að við vitum að það er ekki öflugt skrifstofubatterí á bak við hvert lítið fyrirtæki.

Varðandi skipun Jafnréttisráðs þá er ástæða til að ítreka að þar er verið að breyta hlutverki ráðsins töluvert. Það starfar í nánu samstarfi við Jafnréttisstofu en sá aðili sem kallaður er til til þess að fá fram sem flesta aðila í umræðu um jafnréttismál er jafnréttisþing, sem er nýtt í lögunum. Það kemur saman á tveggja ára fresti og þar koma allir aðilar að borðinu, fara yfir stöðu mála og ræða (Forseti hringir.) með hvaða hætti við stöndum að jafnréttismálunum.



[15:41]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi tal hv. þingmanna um að jafnréttisáætlanirnar geti verið íþyngjandi eða að það þurfi að forða smáum fyrirtækjum frá íþyngjandi aðgerðum löggjafans vil ég segja þetta: Jafnréttisstofa er samkvæmt frumvarpinu ráðgefandi um setningu jafnréttisáætlana. Ég treysti Jafnréttisstofu fullkomlega til þess að gefa litlum fyrirtækjum ráð sem mundu auðvelda þeim að uppfylla markmið laganna á þann hátt sem hagkvæmast yrði og útheimti minnst útgjöld eða minnst umstang.

Ég treysti því líka og veit að Jafnréttisstofa mundi ráðleggja litlu einkafyrirtæki á allt öðrum nótum en risastórri stofnun með tugi manns í vinnu. Mér finnst þetta því ákveðið vantraust sem nefndin sýnir Jafnréttisstofu, að hún skuli ekki treysta Jafnréttisstofu til að ráðleggja fyrirtækjum miðað við stærð og umfang viðkomandi fyrirtækja. Mér finnst ákveðin uppgjöf í því sem leysa á með flóttanum inn í einhverja hugmyndafræði um vottunarkerfi, sem menn hafa ekki hugmynd um hvort yfir höfuð verður nokkurn tíma framkvæmanlegt, hvað þá að fara eftir því.

Ég tel að menn séu að íþyngja löggjafanum og málaflokknum um of með því að setja upp vottunarkerfi sem hvergi nokkurs staðar hefur verið reynt að gera með viðlíka hætti og að mínu mati eru allar líkur á því að það sé dæmt til að mistakast.

Varðandi jafnréttisþingin vil ég segja að auðvitað eru jafnréttisþingin samkvæmt frumvarpinu mjög fín hugmynd og eiga eftir að verða lífleg og þar á eftir að takast á um skoðanirnar. Þar er auðvitað vettvangur frjálsra félagasamtaka til að koma að umræðunni. En í Jafnréttisráði á Rannsóknastofa í kvenna- og kynjafræðum miklu meira erindi (Forseti hringir.) en nokkur frjáls félagasamtök, eins og Félag um foreldrajafnrétti.



[15:43]
Frsm. fél.- og trn. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér gætir misskilnings sem þarf að skýra, þ.e. varðandi málflutning hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur um vottunarkerfin. Vottunarkerfin eru alls ekki hugsuð fyrir minnstu fyrirtækin, þvert á móti snúast þau um stærstu og öflugustu fyrirtækin, sem eru með vottunarkerfi á ýmsum sviðum og geta innleitt þar jafnréttisvottun einnig. Þau eru ekki til að leysa mál litlu fyrirtækjanna. Þau munu aldrei ráða við að vera í einhverjum öflugum vottunarkerfum af þeim toga sem við þekkjum til í sambandi við vottun fyrirtækja almennt.

Ég vil taka sérstaklega fram að ég treysti Jafnréttisstofu afar vel til að fylgja eftir jafnréttismálum. En það er ekki nóg. Það þarf að vera þannig að atvinnulífið treysti Jafnréttisstofu jafn vel. Því er ekki að leyna að það hefur komið fram sem sjónarmið í umræðunni að þetta sé allt of fræðileg vinna og uppskrúfuð og að menn óttist að aukið verði á pappírsvinnu og annað slíkt. Það verður verkefni okkar eftir að þessi lög verða samþykkt að eyða þessu vantrausti hjá einstökum atvinnurekendum og tryggja að áætlanir verði auðveldar í framkvæmd en skilvirkar. Það skiptir mestu máli.

Ég ítreka það sem ég hef sagt áður, að árangurinn af jafnréttisbaráttunni ræðst af því að allir aðilar komi að borðinu og berjist sameiginlega. Enginn tjáir sig andvígan því að ná árangri í jafnréttismálum en það eru margir sem hafa komist undan því að fylgja því eftir með formlegum hætti í fyrirtækjum sínum og það er okkar verkefni að tryggja að nú komi allir að borðinu, sinni verkefninu af fullum krafti og að við náum betri árangri.



[15:45]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í þessu andsvari komu fram nokkuð alvarleg ummæli frá hv. þingmanni þar sem hann segir frá því að í umræðunni hafi komið upp einhvers konar vantraust atvinnurekenda á Jafnréttisstofu, að upp hafi komið einhvers konar ásakanir um að vinnan verði allt of fræðileg og uppskrúfuð.

Ég held, hæstv. forseti, að hér sé að gerast eitthvað sem við þurfum að fara dýpra í og það er umræðan í félagsmálanefnd. Ég held að kannski þurfi meira af umræðunni sem fram fór í félagsmálanefnd að koma upp á yfirborðið í þessari umræðu. Ef umræðan í félagsmálanefnd og rökstuðningurinn fyrir breytingartillögum félagsmálanefndar er á því plani sem hv. þingmaður upplýsti okkur um, að þar hafi komið fram einhverjar ábendingar frá atvinnurekendum um að vinnan við jafnréttismálin og það að jafna stöðu kynjanna sé allt of fræðileg og uppskrúfuð, þá tel ég að mjög alvarlegir hlutir séu á ferðinni og ástæða sé til að taka málið aftur til nefndar og hreinsa þau mál sem verið er að koma með inn í þessa umræðu á Alþingi Íslendinga. Mér finnst þetta gefa til kynna að þarna hafi komið fram einhver sjónarmið frá atvinnurekendum um að þeir vantreysti Jafnréttisstofu og það vantraust sé kveikjan að vottunarkerfinu. Ef þetta er rétt, þá finnst mér það mjög alvarlegt.



[15:47]
Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Við fjöllum hér um jafnréttismál í 2. umr. Það er spennandi að fylgjast með þessari umræðu af því að nú reynum við nýtt fyrirkomulag varðandi tímalengd umræðu. Ný þingsköp hafa tekið gildi þannig að nú tala allir í 10 mínútur í þessari umferð og geta svo talað í 5 mínútur í næstu. Ég held að við upplifum það strax að umræðan er miklu léttari og snarpari og við erum með hnitmiðaðri ræður. Menn komast hraðar að, það er auðveldara að reikna út hvenær maður kemst að af því að maður getur talið þá sem eru á undan á mælendaskránni og margfaldað með 10. Það er því svolítið gaman að prófa þetta form núna við þessa umræðu.

Hv. þm. Birkir Jón Jónsson sem hefur setið í félagsmálanefnd og átt hlut að málinu í vinnslu er ekki staddur í þinginu í dag en ég vil draga það fram að hann skrifar undir nefndarálitið sem er hér til umfjöllunar eins og þingmenn annarra flokka í félagsmálanefnd en þeir skrifa allir undir það án fyrirvara nema hv. þm. Pétur Blöndal. Það ríkir því almenn samstaða um frumvarpið.

Framsóknarmenn hafa unnið að þessum málum síðustu árin enda hafa ráðherrar í félagsmálaráðuneytinu verið frá Framsóknarflokknum og því byggir þetta frumvarp á þeim grunni sem við höfum lagt á síðustu árum og missirum. Í þessu frumvarpi eru mörg nýmæli, það er verið að breyta fyrirkomulaginu þannig að við vonumst til að ná meiri árangri í jafnréttismálum en við höfum alls ekki náð þeim árangri sem til stóð. Því fer víðs fjarri, virðulegi forseti. Auka á eftirlitshlutverk Jafnréttisstofu, hún á að fá ríkari heimildir til að afla gagna frá fyrirtækjum, stofnunum og félagasamtökum sem liggja undir rökstuddum grun um brot á lögunum og hún fær jafnframt heimild til að leggja dagsektir á viðkomandi aðila þangað til viðunandi úrbætur verða gerðar. Að okkar mati er mjög mikilvægt að hægt sé að beita dagsektum af því að allt of mikið hefur verið um það að falast hafi verið eftir upplýsingum og þeim ekki verið skilað, málin hafa verið látin danka og trassast og enginn árangur næst með þeim hætti.

Jafnréttisstofu á einnig að verða heimilt að leita sátta í ágreiningsmálum, hún skal vinna að forvörnum gegn kynbundnu ofbeldi, breyta hefðbundnum kynjaímyndum og vinna gegn neikvæðum staðalímyndum um hlutverk kvenna og karla. Markmiðin sem stefnt er að með þessu frumvarpi eru skýr og góð að mínu mati og okkar framsóknarmanna.

Ákvæðið um að allar stofnanir og fyrirtæki með fleiri en 25 starfsmenn setji sér jafnréttisáætlun eða samþætti jafnréttissjónarmið í starfsmannastefnu sína teljum við gott og réttmætt ákvæði. Það hefur verið svolítið umdeilt. Margir hafa talað um að þetta yrði allt of íþyngjandi fyrir fyrirtæki og stofnanir en nú þegar hafa fjölmargar stofnanir ríkisins gert slíkar áætlanir. Við teljum að stíga eigi þetta skref.

Varðandi umræðu sem hér hefur orðið um ýmis atriði eins og breytingar á skipan Jafnréttisráðs þá situr sú sem hér stendur ekki í félagsmálanefnd þannig að það er kannski erfitt að átta sig nákvæmlega á umræðunni sem þar fór fram. Ég skynja þetta svo, virðulegi forseti, að niðurstaðan sé einhvers konar samkomulag sem myndast hafi í félagsmálanefnd um breytingar á ráðinu. En það er alveg fullt tilefni til að koma með athugasemdir eins og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir gerði hér. Og ég verð að segja að svar formanns félagsmálanefndar, hv. þm. Guðbjarts Hannessonar, kom svolítið á óvart. Í svari hans komu fram skýringar á því af hverju breytt var um fulltrúa í ráðinu og teknir út fulltrúar. Þar var notað orðið „uppskrúfað“ um umræðuna, eitthvað slíkt, virðulegi forseti.

Mér finnst leitt að heyra ef þetta eru einhverjar forsendur á bak við breytingarnar og ég tek undir með hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur að vert er að íhuga þá stöðu sem komin er upp þegar við gerum breytingar sem byggja á einhverjum slíkum sjónarmiðum. En ég skil það svo að þessi niðurstaða sé einhvers konar samkomulag. Flokkarnir hafi reynt að ná saman um niðurstöðu og þeir hafi náð henni og þess vegna séu þessar breytingar gerðar. Einhverjir fengu sitt í gegn hér og aðrir annars staðar og þetta er sem sagt niðurstaðan og ég geri ekki alvarlegar athugasemdir við hana.

Hér hefur líka orðið talsverð umræða um vottunarkerfið. Það kemur fram í nefndarálitinu að nefndin hafi rætt ítarlega þann möguleika að koma á vottunarkerfi fyrir framkvæmd jafnréttisáætlana og jafnlaunakerfa hjá þeim aðilum sem lögin ná til. Svo er það rökstutt síðar að nefndin leggi til að sett verði inn ákvæði til bráðabirgða um að þetta verði skoðað mjög alvarlega. Í því bráðabirgðaákvæði, verði það samþykkt, er lögð sú skylda á herðar hæstv. félagsmálaráðherra að hlutast til um að hrinda þeirri vinnu í framkvæmd að undirbúa slíkt vottunarkerfi og miðað er við að vottunarkerfið verði tilbúið fyrir 1. janúar 2010. Það er einbeittur vilji nefndarinnar að svona vottunarkerfi komist á, svo mjög er það útskýrt í nefndarálitinu. Sagt er að gera verði ráð fyrir að breyta þurfi lögunum til að skjóta lagastoð undir vottunarkerfið og réttaráhrif vottunar og þetta kosti tíma og fjármuni o.s.frv.

Ég átta mig ekki alveg á því sem fram kom í máli formannsins, virðulegi forseti, miðað við það svar sem formaður félagsmálanefndar gaf áðan, að þessi mál hefðu verið skoðuð í tíð síðustu ríkisstjórnar og þá hefði launavottun verið skoðuð og út úr þeirri vinnu hafi komið að slíkt fyrirkomulag kostaði gífurlega háar fjárhæðir. Það má alltaf deila um hvað er hátt í því sambandi þegar svo mikilvægt mál er undir eins og 15% launamunur á milli kynjanna. Það hlýtur að vera geysilega alvarlegt mál og tilefni fyrir tugþúsundir kvenna að mæta til mótmæla í miðborginni. Við eigum þess vegna að gera allt sem við getum til að laga þá stöðu þó að það kosti einhver fjárútlát. Hv. þm. Guðbjartur Hannesson gaf í skyn að það sem nefndin væri að ræða núna væri um eitthvað annað en það sem fyrri ríkisstjórn hefði verið að skoða en ef maður les nefndarálitið kemur fram að koma eigi á vottunarkerfi, eða svo ég vitni bara beint í textann, með leyfi forseta:

„Nefndin ræddi ítarlega þann möguleika að koma á vottunarkerfi fyrir framkvæmd jafnréttisáætlana og jafnlaunakerfa hjá þeim aðilum sem lögin ná til.“

Þarna er verið að tala um jafnlaunakerfi þannig að ég sé því ekki stóran mun á þessu og því sem fyrri ríkisstjórn var að skoða nema að verið er að bæta við vottunarkerfi fyrir framkvæmd jafnréttisáætlana, ef miðað er við þau rök sem voru færð fram áðan af formanni nefndarinnar. Ég teldi því gott ef formaður nefndarinnar eða hæstv. félagsmálaráðherra Jóhanna Sigurðardóttir gætu í lok umræðunnar farið aðeins yfir þennan þátt í vottunarkerfinu, hvort það sé einhver sérstakur munur á því sem nú á að stefna að og því sem fyrri ríkisstjórn var að skoða, af því ég skildi hv. þm. Guðbjart Hannesson svo að þar væri munur á. Ég sá það ekki fyrir mér og hafði ekki áttað mig á því áður en þessi umræða hófst.

Virðulegi forseti. Það liggur mikil ástæða að baki því að við ræðum þessi mál hér. Mig langar aðeins að tæpa á nokkrum málum sem eru mikilvæg í jafnréttisumræðunni. Í fyrsta lagi er allt of mikill launamunur hér á landi. Það er 15% launamunur milli kynja. Við héldum á sínum tíma að auðvelt yrði að leiðrétta launamuninn en erfiðara að breyta viðhorfum í jafnréttismálum en sagan segir okkur að það er þveröfugt. Það er geysilega erfitt að minnka launamuninn en viðhorfin hafa svo sannarlega breyst og að talsverðu leyti til batnaðar. Við þurfum því að spýta í lófana til að minnka launamun kynjanna. Kjarasamningar eru fram undan og ríkisstjórnin hefur þau ákvæði í stjórnarsáttmála sínum að minnka launamun kynjanna um allt að helming. Það er stefnt að því og það gefst tækifæri á næstunni að taka stór skref í því sambandi. Fjölmennar stéttir á vinnumarkaði bíða eftir því að ná góðum samningum í þá veru að launamunur kynjanna minnki. Ég get nefnt þar umönnunarstéttirnar, t.d. á sjúkrahúsum og í umönnunarstörfum almennt, kennarastéttina og fleiri stéttir. Ég vil líka nefna að heimilisofbeldi er allt of útbreitt í okkar samfélagi og þar eru konur þolendurnir og við þurfum að vinna samhent að því að minnka slíkt ofbeldi eins og unnt er.

Ég vil líka nefna að það er mikið verk að vinna hvað varðar valdahlutföll kynjanna, hvernig völdum er fyrir komið í samfélagi okkar. Þar vil ég nefna fyrirtækin og markaðinn, að konur eru þar ekki fremstar í flokki, m.a. hvað varðar efnahagsleg völd, stöður í stjórnum fyrirtækja. Þar gætir óþols hjá konum. Þær komast ekki þangað sem þær stefna. Allt of fáar konur eru í stjórnum fyrirtækja. Félag kvenna í atvinnurekstri hefur látið til sín taka á þessum vettvangi og er það vel. Staðan á markaði því ekki ásættanleg.

Ég nefni líka völd innan fjölmiðla. Fjölmiðlar eru geysilegt vald, oft er talað um fjölmiðla sem fjórða valdið og ég held að það sjái allir, ef maður skiptir því upp milli kynja, að karlarnir halda utan um þyngri völdin í fjölmiðlum. Þar þurfa konur líka að ná betri stöðu til þess að fjölmiðlavaldið átti sig á hvernig lýðræðinu er best fyrir komið og að sjónarmið kvenna fái að hljóma þar jafnsterkt og sjónarmið karla.

Ég vil einnig nefna hér stjórnmálin, bæði sveitarstjórnir og Alþingi. Í sveitarstjórnum eru konur núna í kringum 35%. Þetta er of lágt hlutfall, það þarf að stefna að hærra hlutfalli. Á þinginu náðu karlar þeim árangri að ná tæplega 70% hlutfalli í síðustu alþingiskosningum. Þar varð mikið bakslag árið 2003. Árið 1999 náðum við árangri, þá hækkaði hlutfallið. Karlar náðu 65% hlutfalli, konur 35%, en svo lækkaði það verulega í næstu kosningum á eftir og við höfum ekki náð aftur því sem við náðum 1999. Þetta er alvarlegur hlutur, virðulegi forseti, en ég bind vonir við að þetta frumvarp, sem við samþykkjum væntanlega bráðlega og er ágæt samstaða um, komi okkur til aðstoðar varðandi launamun kynjanna, heimilisofbeldið, stöðuna á markaði, stöðuna í stjórnmálunum og stöðuna hjá fjórða valdinu, hjá fjölmiðlunum. Ég vona að það hjálpi okkur á öllum þessum póstum.

Virðulegi forseti. Ég læt máli mínu lokið hér þó að ég hafi ekki notað allar mínar 20 mínútur. Ég vil enn á ný lýsa því yfir að það er spennandi að taka þátt í umræðunni núna þegar við höfum skemmri tíma en fyrr til að taka til máls í 2. umr. og gef hér með næsta ræðumanni 5 mínútur af mínum 20.



[16:02]
Frsm. fél.- og trn. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get í meginatriðum tekið undir orð hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur um jafnréttismálin og stöðu jafnréttis í landinu. Þar er mikið verk að vinna og mikilvægt að vel takist til varðandi lagasetninguna.

Mig langar að leiðrétta þann misskilning, ef skilja mátti það af máli mínu um að tortryggni eða vantraust ríkti á milli smærri fyrirtækja og jafnréttisstofnana, að tortryggni ríkti gagnvart Jafnréttisráði. Tortryggnin tengist ekki skipun Jafnréttisráðs, hún tengist öðrum atriðum, t.d. varðandi það hvernig við högum framkvæmdaáætlun og öðrum slíkum kröfum. Við reyndum að hafa ákvæðin mildandi til að reyna að eyða þeirri tortryggni.

Sömuleiðis hefur hv. þm. Siv Friðleifsdóttir rétt fyrir sér varðandi launavottunina. Ég vil taka undir orð hennar um að auðvitað er afstætt hvort það er dýrt ef við hefðum getað komið á launavottun fyrir 76 millj. kr., þótt að ég segi að það sé hátt verð. Við gerum engu síður tillögu um að fara einu skrefi lengra, þ.e. að vera með launavottun en til viðbótar vottun á atriðum sem snúa að öðrum þáttum jafnréttislaganna. Ef fyrirtæki getur sett inn í vottunarkerfi sitt vottun sem varðar öll jafnréttislögin og sýnt að það sinni öllum þeim þáttum í skipulagi sínu þá losnar það hugsanlega við þann eftirlitsiðnað eða það eftirlit sem fylgir að öðru leyti, þ.e. viðurkenndur aðili mundi þá staðfesta að viðkomandi fyrirtæki fylgi jafnréttislögum í gegnum vottunina.

Það er ástæða til að ítreka að vottunarhugmyndin er viðbót við jafnréttislögin. Hún kemur ekki í staðinn fyrir neitt annað en er valkostur fyrir stærri og öflugri (Forseti hringir.) fyrirtæki til að beita öðrum aðferðum en við gerum ráð fyrir í lögunum.



[16:04]
Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er gott að búið er að skýra það betur að ekki var átt við Jafnréttisráð í þeim orðum sem áðan féllu, að þau uppskrúfuðu orð beindust ekki að Jafnréttisráði. Það er gott af því að af þeim orðum mátti skilja að þetta væri persónutengt. En ég heyri að svo er ekki miðað við útskýringarnar sem nú eru komnar fram og það er gott.

Hins vegar þykist ég hafa heyrt þennan tón áður í umræðunni um jafnréttismál. Sumir telja að þetta séu mál sem einungis konur hafi nánast atvinnu af og einoki þann slag. En það er alls ekki svo. Þær konur eru svo mikilvægar að það skal enginn ýta þeim í burt, svo ég segi það bara hreint út. Það er mikilvægt að hafa baráttukonur sem vinna í þessum geira og fylgja eftir þeim framförum sem hér verða.

Varðandi launavottunina þá skil ég það svo, og er ánægð ef það er rétt, þá skil ég það svo að ekki sé vikið frá því sem fyrri ríkisstjórn vann að, en þar vorum við framsóknarmenn í fararbroddi, með félagsmálaráðuneytið á okkar könnu. Hæstv. forseti Magnús Stefánsson er einn af þeim aðilum. Það er sem sagt áfram unnið á þeim grunni. Ég tel reynandi að fara út í vottunarmálin af því að við höfum náð svo lélegum árangri. Það liggur við að maður sé til í að prófa allt af því að við höfum ekki náð nógu góðum árangri í jafnréttismálum. Ég tel, þrátt fyrir þau varnaðarorð sem ég hef heyrt hér frá hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur, að það sé reynandi (Forseti hringir.) að prófa þetta.



[16:07]
Frsm. fél.- og trn. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel ástæðu til að undirstrika að samstaðan er lykilatriði varðandi breytingar á stefnunni. Okkur hefur ekki miðað eins langt og við ætluðum okkur. Ein af þeim breytingum sem við verðum að ná fram er einmitt að ná samstöðu og detta ekki niður í að togast á um einstök smærri atriði sem skipta engu máli. Ég vil taka það fram að það skiptir mig engu máli hvort frumvörp hafa komið fram frá fyrri ráðherrum eða vinnan átt sér stað af fyrri ríkisstjórn, málið sjálft skiptir mestu og sá árangur sem við náum í framhaldinu.

Ég tek undir orð hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur um mikilvægi þeirra sem hafa staðið í þessari baráttu. Ég vil líka taka undir það að það er sorglegt að þær konur sem hafa staðið í þessari baráttu séu oft afgreiddar þannig að þær hafi uppskrúfaðar hugmyndir eða eitthvað slíkt. Það breytir ekki þeirri staðreynd að við þurfum að ná að tala saman, þeir aðilar sem hafa þetta viðhorf, þeir sem koma að jafnréttismálum og líta niður á þessa baráttu og þeirra sem hafa staðið í henni til lengri tíma. Við þurfum að sameina þessa aðila í baráttunni fyrir bættum kjörum og tryggja þann skilning sem þarf til að við náum árangri.



[16:08]
Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Það er ekki jafnrétti á Íslandi, a.m.k. ekki á milli kynjanna. Það er nóg að fara á aðalfund Seðlabanka Íslands til að sjá það. Ég hef oft notað hann sem mælikvarða á hvort eitthvað miði í jafnréttisátt. Mér fannst í hittiðfyrra að þar væru eilítið fleiri konur, ætli þær hafi ekki verið tíu, en árið 2007 fækkaði þeim aftur. Ég held því að lítið hafi unnist í jafnréttinu. Það hefur mjög lítið áunnist frá kvennafrídeginum og það ætti að hreyfa við hörðustu baráttumönnum um jafnrétti kynjanna. Þeir ættu að staldra við og spyrja hvort eitthvað sé að baráttuaðferðunum.

Svo má spyrja: Er ekki í lagi að hafa misrétti? Ég held að það sé alls ekki í lagi. Það er ekki í lagi vegna réttlætis. Við viljum að fólk sé ráðið eftir hæfileikum en ekki eftir annarlegum sjónarmiðum, hvort sem eru karlar eða konur. Það er líka tap þjóðfélagsins að hæfasti einstaklingurinn sinni ekki hverju starfi. Það er tap atvinnulífsins, tap fyrirtækjanna og einstaklinganna sem fara halloka. Það sem er kannski verst í því þegar fólk er ekki ráðið eftir hæfileikum er áhugaleysi viðkomandi starfsmanns, starfsleiði og kulnun í starfi eins og menn hafa kallað. Það er mjög alvarlegt þegar starfsmaður uppgötvar, hvort sem er karl eða kona, að hann á enga möguleika á frama.

Svo kann maður að spyrja: Hvernig stendur á því að fyrirtækin ráða ekki hæfasta fólkið? Hvernig stendur á því? Vilja þau ekki græða? Er ekki nógu mikil krafa um arðsemi? Ég get svo sem skilið það hjá opinberum fyrirtækjum því að samkvæmt eðli sínu vilja þau ekki græða, ekkert endilega. Þau eru ekki endilega að hugsa um hag skattgreiðenda alla daga sem eiga þau og borga. En þegar kemur að einkafyrirtækjum þá skil ég ekki af hverju þau ráða ekki hæfasta fólkið. Það skyldi ekki vera að einhverjar aðrar ástæður búi á bak við það, t.d. fordómar karla gagnvart konum, fordómar kvenna gagnvart konum og fordómar kvenna gagnvart sjálfum sér? Ég held að menn ættu að skoða það sérstaklega hvernig stendur á því að konur sækja ekki nógu mikið fram, eru nógu grimmar í því að ná frama, skipta um starf o.s.frv. Getur verið að skólakerfið bregðist í að þjálfa ungmenni, kannski sérstaklega konur, í að koma fram? Það er eitthvað sem við þurfum að skoða.

Varðandi mælinguna á jafnrétti þá eru tekin sambærileg störf og skoðað hvort fólk sé með sömu laun fyrir sömu störf. En það segir ekki neitt ef konur eru allar í láglaunastörfunum og karlarnir allir í hálaunastörfunum, allt saman slétt og fellt og allar konurnar með jafnhá laun, jafnlág laun sín á milli og allir karlarnir með jafnhá laun sín á milli fyrir miklu betri störf, hærri embætti. Það segir ekki nokkurn skapaðan hlut um jafnréttið. Mælingin getur því verið skökk.

Í umræðunni í félagsmálanefnd barðist ég fyrir því að ná fram ákveðnum ákvæðum um vottun. Það er til stofnun sem heitir Löggildingarstofa og hún löggildir vottunarstofur. Það er til vottun sem vottar mál og vog á bensínstöðvum o.s.frv. og víðar í verslunum, það eru til vottunarstofur sem votta umhverfismál og vottun um jafna staðla við framleiðslu, þ.e. ISO-staðla. Hvers vegna skyldum við ekki láta okkur dreyma um vottun á jafnrétti? Hvers vegna skyldum við ekki láta okkur dreyma um að slíkt verði til? Ég treysti opinberum aðilum til að búa til slíkt kerfi að hægt sé að votta jafnrétti nákvæmlega eins og umhverfismál og framleiðslu á vörum.

Það var mikið tekist á um þessi mál. Ég verð að segja eins og er, að ég tapaði því máli. Inn kom frekar bragðlaust ákvæði um að hæstv. félagsmálaráðherra ætti að sjá til að þróað yrði sérstakt vottunarkerfi. Það má vel vera að eitthvað komi út úr því á næstu árum, ég skal ekki útiloka það. Það kemur bara í ljós. En það var greinilegt í vinnu nefndarinnar að það er djúp og mikil tortryggni á milli femínista annars vegar, kvennafræðinga úr Háskólanum og fræðimanna á þessu sviði og hins vegar atvinnulífsins. Hvor aðilinn grunar hinn um græsku og þetta er mjög djúpstætt. Kvennafræðingana grunar að atvinnulífið vilji endilega klekkja á konum. Ég veit ekki af hverju það ætti endilega að vilja klekkja á konum. En atvinnulífið grunar femínista um að vilja fá upplýsingar á upplýsingar ofan og drekkja fyrirtækjunum í kröfum um að upplýsa um þetta og hitt, stýra ákvörðunum og jafnvel gera ómögulegt að reka fyrirtækin.

Þetta fannst mér koma fram hjá þeim sem komu fyrir nefndina og mér finnst oft bera á mikilli vanþekkingu á atvinnulífi og rekstri fyrirtækja, t.d. hvað það er erfitt, herra forseti, að finna réttlát laun að teknu tilliti til menntunar, reynslu, snilli, dugnaðar o.s.frv. Það eru svo mörg atriði sem koma inn að það er nánast útilokað að finna laun sem allir aðilar eru sáttir við eða launamun milli tveggja einstaklinga. Mér fannst lítill skilningur á vanda fyrirtækjanna við að greiða réttlát laun og byggja upp mannauð því að það er mesti auður fyrirtækja. En atvinnulífið er þó farið að uppgötva að það er mesta auðlegð fyrirtækjanna.

Fyrirtækin óttast fjarstýringu og innantóma skriffinnsku þannig að fyrirtækin geti ekki sinnt því að framleiða vöru og þjónustu fyrir þjóðfélagið, að þau verði upptekin af því að framleiða gögn og jafnréttisáætlanir. Þetta er það sem þau óttast. Í framhaldi vaknar spurningin: Veldur hver á heldur, hvernig verður framkvæmd laganna? Hver er afstaða ráðuneytisins, gætir það þess að fara mildilega að mönnum eða verður farið fram með offorsi? Þar kemur aftur upp tortryggni milli aðila. Atvinnulífið hreinlega óttast framkvæmd laganna. Reyndar voru í nefndinni ýmis ákvæði milduð mjög mikið.

Ég bendi á það, herra forseti, að allir geta stofnað fyrirtæki og greitt há laun og jöfn laun og gætt jafnréttis kynja sem og fólks almennt. Þetta er það sem hver og einn einasti maður getur gert. Af hverju gera menn það þá ekki, þeir sem telja að ekki sé jafnrétti í atvinnulífinu? Ég bara skora á þá að stofna fyrirtæki og framkvæma hugsjónir sínar á þeim vettvangi, ef það er svona auðvelt.

Ég vonast til að innan ekki langs tíma verði tekin upp jafnréttisvottun þannig að fyrirtæki geti skreytt sig með því að vera umhverfisvottuð, með góða staðla um jafna framleiðslu og þjónustu og vottað sé að þau gæti jafnréttis.



[16:17]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það kom fram í máli hv. þm. Péturs H. Blöndals að hann hafi barist í nefndinni fyrir ýtrustu hugmyndum varðandi vottun og staðla í þessum efnum en það er þýðingarmikið að fá það sjónarmið fram vegna þess að það er ljóst að sá hinn sami hv. þingmaður varð fyrir miklum vonbrigðum með niðurstöðuna, með þá tillögu sem liggur fyrir í nefndarálitinu og í breytingartillögum nefndarinnar. Hv. þm. Pétur H. Blöndal óttast að þessi tillaga færi okkur eitthvert kerfi þar sem er hætta á innantómri skriffinnsku og óttast um framkvæmd laganna út frá þeim hugmyndum eða tillögum sem nefndin kemst að sameiginlegri niðurstöðu um.

Þetta færir mér heim sanninn um að málamiðlunartillagan sem liggur fyrir í áliti nefndarinnar sé slæm. Hún sýnir í raun og veru hvorki það sem hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur barist fyrir né heldur það sem við sem höfum viljað fara lengst í hina áttina viljum, þ.e. að láta völdin og úrræðin fara í hendur Jafnréttisstofu, hún gerir því í raun og veru hvorugu sjónarmiðinu nægilega hátt undir höfði til þess að úr því verði eitthvað vitrænt. Mér sýnist hv. þm. Pétur H. Blöndal staðfesta það sem ég hef verið að segja hér, þ.e. efasemdir mínar um vottunarhugmyndina, að hún verði aldrei að neinu viti.

Síðan vil ég spyrja hv. þingmann: Hvað hefur hv. þm. Pétur Blöndal fyrir sér í því að konur sæki ekki fram eins og hann orðaði það eða geri ekki kröfu um að þær séu metnar að verðleikum? Þær upplýsingar sem ég hef úr rannsóknum sem ég hef kynnt mér í þessum efnum segja þvert á móti að konur sæki fram og þær geri kröfu um það að komast í betur launuð störf. Hins vegar séu það karlarnir sem hafa valdið sem láti þeim ekki í té þau áhrif sem þær þurfa eða koma í veg fyrir að þær sæki fram.



[16:19]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Það hefur mjög margt breyst á undanförnum árum, t.d. í menntun kvenna. Meiri hluti þeirra sem lýkur háskólaprófi eru konur núorðið og það getur vel verið að þetta sé tímabundið ástand þar til þær konur hafa fengið nægilega mikla reynslu í fyrirtækjunum til að ná upp en ég hef það á tilfinningunni þó að ég geti ekki sannað eitt eða neitt, að konur sæki minna fram og einhver hlýtur skýringin að vera. Ekki getur það verið að fyrirtækin vilji ekki nýta starfskrafta þeirra og græða á þeim eins og körlum. Ég get ekki ímyndað mér það. Mér finnst að það ætti að skoða og rannsaka hvernig stendur á því að ekki eru fleiri konur á aðalfundi Seðlabankans.



[16:20]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er athyglisvert að hv. þm. Pétur H. Blöndal segist hafa þetta á tilfinningunni og hann telji að það þurfi að rannsaka þetta. Á sama tíma leggur hann það til sem aðili að áliti meiri hluta nefndarinnar að sá rannsóknaraðili sem mest veit og þekkir best niðurstöður þeirra rannsókna sem gerðar hafa verið, rannsóknastofa í kvenna- og kynjafræðum sé útilokuð frá setu í Jafnréttisráði. Ég vil því segja sem svo að orð hv. þingmanns í þessum efnum styrkja mig í þeirri trú að ég hafi rétt fyrir mér, að það sé verulega þýðingarmikið að Rannsóknastofan í kvenna- og kynjafræðum eigi sæti við borð Jafnréttisráðs. Ég er algerlega sannfærð um það að við hv. þingmaður getum komist að sameiginlegri niðurstöðu í þeim efnum þegar við tökum málið upp til skoðunar milli 2. og 3. umr.



[16:21]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að hryggja hv. þingmann með því að ég hef ekki svo mikinn áhuga á Jafnréttisráði. Það er bara þannig. Ég tel að það séu umbúðir um einhvern pakka, ég hef miklu meiri áhuga á innihaldinu. Það getur hver sem er sest niður og rannsakað það hvernig stendur á því að konur eru svona fáar á aðalfundi Seðlabankans og af hverju konur sækja ekki í hærri störf eða komast ekki þangað. Eða af hverju fyrirtæki vilja ekki nýta sér þessa hæfileika og þennan kraft í þjóðfélaginu því þetta skaðar fyrirtækin sjálf. Hvernig stendur á því? Það getur hver sem er rannsakað það og hann þarf ekki að vera í Jafnréttisráði til þess.



[16:22]
Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Pétur H. Blöndal sagði áðan að það hefði ekki náðst neinn árangur og baráttuaðferðirnar væru rangar. Ég beið eftir góðum leiðbeiningum um hvernig ætti að berjast til að ná meiri árangri en þær komu ekki en það var þessi tónn sem kom frá hv. þingmanni um að konur sæki ekki fram. Þær verði að vera grimmari og þær verði að gera kröfur um að vera metnar að verðleikum. Það stuðaði mig svolítið hvernig þetta var sett fram. Ég tel að konur hafi sótt fram, þær séu grimmar og þær vilji vera metnar að verðleikum.

Hv. þingmaður vitnaði í aðalfund Seðlabankans. Ég vil leyfa mér að taka dæmi sem er hérna við sjóndeildarhringinn. Lítum á Alþingi Íslendinga, þennan sal hér. Af hverju eru ekki fleiri konur hér? Af hverju varð svona mikið bakslag árið 2003 eftir að við náðum betri árangri árið 1999? Af hverju fækkaði konum um 5% á þinginu, ef maður horfir bara þröngt í þessum sal? Meginskýringin á þessu stóra bakslagi á þeim tíma var flokkur hv. þm. Péturs Blöndals, Sjálfstæðisflokkurinn. Konum fækkaði verulega hjá Sjálfstæðisflokknum. (Gripið fram í.) Að minnsta kosti kusu konurnar ekki Sjálfstæðisflokkinn í kosningunum þar á eftir, það var alveg sannað með rannsóknum þannig að konur hrökkluðust frá Sjálfstæðisflokknum af því að það voru svo fáar konur sem voru þar í boði en það voru konur sem gáfu kost á sér í prófkjörum Sjálfstæðisflokksins. Þær sóttu fram, þær voru grimmar og þær vildu vera metnar að verðleikum en þær náðu ekki árangri. Hvernig ætlar hv. þm. Pétur Blöndal að skýra það?



[16:24]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er að sjálfsögðu sama fyrirbærið, þátttaka kvenna í stjórnmálum og þátttaka kvenna í atvinnulífinu. Ég held að það sé ekkert innan stjórnmálaflokkanna sem hindri konur í því að sækja fram. En það virðist einhvern veginn vera að kjósandinn, sem eru 50% konur, gjarnan pínulítið meira, velji ekki konur og þá kann maður að spyrja sig: Hvernig stendur á því? Er það ekki líka rannsóknarefni? Ég held að það sé mjög margt sem er óleyst og mér finnst að 30 ára reynsla manna af kvennabaráttunni ætti að velta þeirri spurningu upp hvort baráttan sé háð á réttum nótum, hvort það sé svona mikið atriði að leggja áherslu á jafnréttisáætlanir, jafnréttis þetta, skriffinnsku þetta og skriffinnsku hitt, í staðinn fyrir að kanna og skoða hvernig maður rekur fyrirtæki. Ekki að skoða það ofan frá, hvernig getum við keyrt jafnréttið ofan í kokið á atvinnulífinu heldur hvernig er búið að umhverfi fyrirtækja þannig að þau vilji velja hæfasta fólkið í hvert einasta starf. Það er ekki bara misrétti milli karla og kvenna, það er líka misrétti milli fólks. Það er mörg kona sem hefur orðið að lúta í lægra haldi fyrir annarri konu sem var systir eða frænka eða eitthvað slíkt. Það er líka margur karlmaðurinn sem hefur þurft að lúta í lægra haldi fyrir öðrum óhæfari karlmanni sem var frændi, í réttum flokki eða eitthvað slíkt. Þetta er því ekki bara misrétti á milli kynjanna þótt það komi fram þannig. Ég held að þetta sé misrétti á milli fólks.



[16:26]
Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum hér núna að tala um jafnrétti milli kynja, a.m.k. flest, og við styðjumst við hlutfallstölur þar sem það er alveg ljóst að konur hafa náð slakari árangri en karlar á mjög mörgum sviðum en þær standa betur á ýmsum sviðum. Ég vil nefna hér samvistir við börn í fjölskyldum. Þar hafa konurnar vinninginn ef svo má að orði komast en karlarnir hafa betri aðkomu að því með feðraorlofi sem framsóknarmenn voru í fararbroddi við að koma á á sínum tíma.

Ég kann ekki við þann tón sem kemur fram í ræðu hv. þm. Péturs Blöndals, að þetta sé einhvern veginn konunum að kenna. Ég kann ekki við þann tón. Hv. þingmaður segir að það sé ekkert innan stjórnmálaflokkanna sem hindri konur í að ná árangri. Ég er algerlega ósammála þessu. Það er mjög margt innan stjórnmálaflokkanna sem hindrar konur í að ná árangri. Ef svo væri ekki þá hefðu þær náð meiri árangri. Það er alveg á hreinu. Ég kann ekki við þennan tón sem er gefinn út í samfélagið með svona yfirlýsingum að þetta sé á einhvern hátt konum að kenna, þær hafi ekki náð nægilegum árangri varðandi hin ýmsu mál, völd, laun, betri stöðu gagnvart ofbeldi o.s.frv. Þetta vandamál er allt annars eðlis en að það sé konum að kenna.



[16:27]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég var í rauninni ekki að kenna einum eða neinum um neitt. Ég var að segja að eftir 30 ára mislukkaða jafnréttisbaráttu ættu menn að fara að skoða hvort það séu einhverjar aðrar ástæður. Ég nefndi þetta sem dæmi um hugsanlegar ástæður. Það getur vel verið að þær séu einhverjar aðrar. Ég nefndi t.d. líka fordóma karlmanna gagnvart konum, ég nefndi það. En það skyldi þó ekki vera líka og það mætti gjarnan skoða betur hvort konur hafi ekki fordóma gagnvart sjálfum sér. Mjög margt fólk, bæði karlar og konur, hefur fordóma gagnvart sjálfu sér og treystir sér ekki í ýmislegt, slíkt er ekki bundið við konur. En það getur vel verið að þetta sé meira hjá kvenkyninu, það getur vel verið segi ég, að hér sé hægt að leita að einhverri skýringu. En maður læknar ekki sjúkdóminn, herra forseti, nema vita hver hann er. Það þýðir ekkert að fara í hjartauppskurð á nýrnasjúklingi, það er a.m.k. mjög slæmt. Maður þarf að vita hver sjúkdómurinn er. Hver er ástæðan fyrir því misrétti sem er til staðar og mér finnst kristallast í aðalfundi Seðlabankans, svo ég nefni hann í þriðja skipti?



[16:29]
Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vildi fjalla í nokkrum orðum um þetta mál eins og það stendur eftir umfjöllun í nefndinni og breytingartillögur sem fram hafa komið. Ég vil vísa til ræðu minnar við 1. umr. málsins þar sem ég lýsti yfir stuðningi við markmið málsins og það að menn sæki fram í þessum efnum.

Ég vil geta þess að í nefndaráliti kemur fram að ég hafi verið fjarstaddur við afgreiðslu málsins úr nefndinni. Fyrir því er sú ástæða að ákveðið var að vinna mjög mikið í málinu á síðustu dögum þinghaldsins fyrir jól jafnvel þótt ekki lægi fyrir að meiningin væri að afgreiða frumvarpið sem lög fyrir jól. Þá var mikill annatími vegna mála eins og fjárlagafrumvarps og annarra mála sem þingið stefnir eðlilega að því að ljúka afgreiðslu á í desember. Þess vegna var mjög óheppilegt að halda marga aukafundi í félagsmálanefnd á þeim dögum. Það varð til þess að ég gat ekki sótt nefndarfundi þá daga vegna anna við önnur þingstörf sem urðu að ganga fyrir. Það er skýringin á því að ég skrifa ekki undir nefndarálitið, að ég tók ekki þátt í nefndarstörfum síðustu daga fyrir jól. Ég tel reyndar að þetta vinnulag hafi ekki verið heppilegt og ekki til eftirbreytni. Ég vænti þess að menn gæti þess framvegis að haga álagi í nefndum í samræmi við aðstæður. Ég bendi á að það er mjög gott svigrúm til að vinna í þingnefndum í janúar og febrúar fram að páskum sem hefði verið mjög góður tími til að fara vandlega yfir þetta mál á vorþingi, sem reyndar heitir núna vetrarþing samkvæmt nýju þingsköpunum ef ég man rétt.

Ég mun með vísan til nýrra ákvæða þingskapalaga óska eftir því að þetta mál gangi til félagsmála- og trygginganefndar milli 2. og 3. umr. eins og kveðið er á um að gert verði ef þingmaður óskar þess og ef málið tekur breytingum, eins og það augljóslega gerir. Ég vænti þess að geta þá tekið þátt í störfum nefndarinnar og farið betur yfir einstök atriði sem ég hafði áhuga á að ræða í þingnefndinni, a.m.k. reifa þau sjónarmið og ég vænti þess að vel verði tekið undir það.

Ég held að skynsamlegt væri, með breyttu vinnulagi, að fá til nefndarinnar, ég hugsa að það nægði að fá athugasemdir munnlega frá þeim sem höfðu verulegar athugasemdir við frumvarpið, t.d. Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Viðskiptaráði Íslands, Sambandi ungra sjálfstæðismanna og Samtökum atvinnulífsins. Það kann að vera að umsögn þeirra, sem var að miklu leyti neikvæð í garð frumvarpsins, verði önnur og jákvæðari eftir þær tillögur sam lagðar hafa verið fram af félagsmálanefnd um breytingar á málinu. Það væri gott að fá fram afstöðu áðurnefndra samtaka til málsins að gerðum þeim breytingum sem fyrir liggja tillögur um. Ég held að það gæti verið jákvætt fyrir málið að fá endurskoðað mat neikvæðra umsagnaraðila, sérstaklega ef þeir fallast á að breytingarnar séu til góða og draga úr gagnrýni sinni eða falla frá henni. Ég vildi óska eftir því við hv. formann nefndarinnar að hann tæki þetta til athugunar fyrir vinnu nefndarinnar í málinu á milli umræðna.

Ég vil árétta þau sjónarmið sem ég setti fram í málinu. Mér finnst frumvarpið líta afar þröngt á jafnrétti og um of takmarkandi þar sem ekki er tekið á mismun á milli kynja eða milli fólks eftir búsetu. Það er heimilt samkvæmt þessu frumvarpi og það tekur ekki á því þótt mismunandi laun séu greidd fyrir sama starf á ólíkum stöðum á landinu, jafnvel hjá sama fyrirtæki. Mér sýnist að það brjóti ekki í bága við ákvæði frumvarpsins að framkvæmdin sé með þeim hætti að t.d. konur á höfuðborgarsvæðinu hafi hærri laun fyrir sama starf og konur á Norðurlandi fyrir sama starf, jafnvel hjá sama fyrirtæki. Ég tel að auðvitað eigi að horfa á búsetuna líka þegar menn skoða þessi mál og vega og meta það misrétti sem kann að vera fyrir hendi. Það á að leitast við að draga úr því misrétti ekki síður en því sem frumvarpinu er ætlað að taka á.

Það kemur reyndar fram í umsögn eins umsagnaraðilans að eitt af því sem hefur verið mest áberandi í byggðaþróun undanfarna áratugi sé brottflutningur kvenna af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins vegna þess að launakjör, starfsaðstæður og atvinnumöguleikar, eru lakari þar en á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er auðvitað misrétti sem þarf að taka á og hafi menn áhuga á því að vinna að því að draga úr fólksflóttanum af landsbyggðinni inn á höfuðborgarsvæðið verður að taka á þessum þætti málsins og mér finnst það falla undir fyrirsögn málsins um jafna stöðu, ekki bara jafnan rétt á milli karla og kvenna heldur líka jafna stöðu.

Mér finnst líka að í 26. gr. frumvarpsins hefði átt að kveða á um það og setja fram þá stefnu, sem væri þá stefna Alþingis, að í þeim tilvikum þar sem verulega hallar á milli kynjanna í einstökum atvinnugreinum, þar sem mjög margir eru af öðru kyninu umfram hitt, eigi að setja fram þá stefnu að þegar auglýst er og ráðnir starfsmenn þá sé hafður forgangur á því kyni sem fámennara er í viðkomandi grein til að vinna gegn muninum. Það er ekki gengið svo langt í frumvarpinu heldur látið duga að hafa það á valdi auglýsandans hverju sinni hvort gripið sé til þessa ákvæðis þannig að það er heimilt að beita því en ekki almenn stefna sem skylt er að fara eftir.

Í þriðja lagi bendi ég á að það kann að torvelda svolítið framkvæmd frumvarpsins að horfa á launin eftir störfum. Sú þróun er í gangi, sérstaklega á almennum vinnumarkaði, að störfin verða síður sambærileg en áður. Þessi þróun er mjög hröð og hennar gætir líka í starfi verkalýðshreyfingarinnar sem er smátt og smátt að breyta starfi sínu frá því að semja um laun fyrir tiltekin störf yfir í það að aðstoða einstaklingana sjálfa við að semja um launakjör. Störfin eru svo breytileg. Ég hugsa að ef þróunin heldur svona áfram þá verði varla hægt að gera samninga eins og var áður fyrr, þar sem allir þeir sem unnu í tiltekinni atvinnugrein unnu eftir sama kjarasamningi, sömu launatöflu og höfðu sömu laun. Þetta er að breytast.

Ég held að það sé ákaflega erfitt að ráða við þessa þróun og sýna fram á að það sé svo og svo mikill munur á launagreiðslum milli karls og konu. Störfin sem þau gegna geta verið ólík að einhverju leyti og það verður endalaus þræta um það hvernig eigi að meta mismunandi störf og launin í samanburðinum. Ég er hræddur um að þessi þróun verði málinu erfið og menn þurfi að velta fyrir sér til hvaða ráða er best að grípa til að bregðast við. Þetta mun þýða að í framkvæmdinni verða lögin meira og minna gagnvart opinberum aðilum sem eru fastari í þessu formi, þar sem þróunin er ekki eins hröð og á almennum vinnumarkaði, að þetta verði fremur löggjöf sem lýtur að opinberum aðilum.

Í þessu máli eru tillögur sem horfa til bóta frá því sem menn glíma við í gildandi lögum. Bryddað er upp á úrræðum sem ekki hafa verið til staðar í þeim tilgangi að reyna að ná betri árangri. Þótt ekki sé hægt að segja með vissu að nýju úrræðin hafi þau áhrif sem ætlast er til þá held ég að það verði að fallast á að rétt sé að grípa til þeirra í þeirri von að árangur náist umfram það sem verið hefur, svo sem með því breyta hlutverki Jafnréttisstofu þannig að hún geri bindandi úrskurði. Ég held að það úrræði eigi eftir að skila jákvæðum árangri.

Ég held líka að ákvæðin í 16. og 17. gr. frumvarpsins séu til bóta. Að greina tölfræðiupplýsingar á þann veg sem gert er ráð fyrir í 16. gr. held ég að hjálpi þeim sem eiga að vinna að jafnréttinu og ekki síður einstaklingunum sjálfum, að hafa þessar upplýsingar tiltækar. En ég hefði viljað bæta inn í 16. gr. ákvæði eða a.m.k. að sjá til þess að þeir sem vinna þessi talnagögn greini þau eftir búsetu, eftir landshlutum, en ekki bara eftir kynjum. Það þarf líka að skoða þá þróun. Þær tölur sem tiltækar eru eru þó nægjanlega góðar til að segja okkur að þar er verulegur munur á og fer vaxandi. Það er mismunur sem bitnar á báðum kynjum eftir búsetu og sá mismunur er auðvitað jafnslæmur og annar mismunur í launum. Launamunur vegna búsetu er ekkert betri en launamunur vegna kynferðis, a.m.k. ekki gagnvart þeim sem fær launin. Hann er jafnilla settur og geldur þess jafnilla.

Virðulegi forseti. Ég hef staldrað við einn þátt í 1. gr. sem ég er í sjálfu sér er ekki endilega andvígur. Það á ekki að skilja það þannig. En það segir í i-lið 1. gr. að það eigi að vinna gegn kynbundnu ofbeldi. Auðvitað held ég að segja megi að allir séu á þeirri skoðun að vinna eigi gegn því, en fyrst og fremst að vinna gegn ofbeldi. En miðað við það sem fram kemur í frumvarpinu er fyrst og fremst verið að tala um ofbeldi gagnvart konum. Til þess að endurspegla það eiga sérstök samtök sem starfa á þessu sviði að tilnefna fulltrúa í Jafnréttisráð.

Virðulegi forseti. Ég er ekki tilbúinn til að fallast á að karlmenn séu ofbeldismenn, það sé kynbundinn og eðlislægur þáttur í karlmönnum. Ég get alveg fallist á það sem blasir við, að ákveðnir karlmenn beita konur ofbeldi en það er líka til annað ofbeldi en það. Ég held að ofbeldi gangi í báðar áttir og sé ekki kynbundið, ég held það. Það má vel vera að það sé búið að sanna hið gagnstæða. Þá fæ ég vonandi upplýsingar um það og endurskoða þá afstöðu mína í því ljósi. En ég er ekki tilbúinn til að skrifa upp á að líta eigi á karlmenn almennt sem ofbeldismenn. Ég lít svo á að það séu einstaklingar meðal karlmanna sem beita ofbeldi og ég tel það afleitt. En þegar verið er að tala um kynbundið ofbeldi og stimpla karlmennina almennt þessu finnst mér stundum að það sé með sama hætti og stundum er talað um útlendinga, þegar útlendingar eru stimplaðir sem ofbeldismenn eða sérstaklega hættulega menn. Ég tel það algerlega fráleit sjónarmið.

Ég tel að það sé ekki hægt að rekja svona hluti til kynþáttar eða kynferðis. Ég hef ekki séð nein gögn sem sanna að menn af tilteknu þjóðerni, hvort sem að eru karlmenn eða konur, séu meiri ofbeldismenn en fólk af öðru þjóðerni. Það held ég ekki. Sama gildir um karlmenn. Ég get ekki fallist á það að karlmenn séu almennt þannig að setja þurfi í lög ákvæði til að vinna gegn ofbeldishneigð þeirra.

Ég veit ekki hvort þetta er endilega það sem vakir fyrir þeim sem setja þetta fram í frumvarpinu. Það kann að vera að ég oftúlki þetta. En mér finnst mega lesa það úr textanum. Og þegar samtökin Stígamót og Kvennaathvarfið, sem eru merk samtök sem unnið hafa gott starf, eru sérstaklega sett inn í Jafnréttisráð: Hvaða sjónarmið eiga þau að færa fram? Sjónarmið fólks sem hefur lífsreynslu af ofbeldi karlmanna gagnvart konum. Eru það sjónarmiðin sem þarf í Jafnréttisráð, að karlmenn séu ofbeldismenn? Þarf að setja þar inn konur sem hafa glímt sérstaklega við það? Ég er ekki viss um að það sé nægjanlegt jafnvægi í þessum málum, virðulegi forseti. Ég hefði kosið að menn litu almennar á málið og ljóst væri að ekki yrði með þessu sett íslensk lög með texta sem hefði þennan skilning á karlmönnum.

Ég sé, virðulegi forseti, að það sneiðist um tímann en ég hef sérstakar athugasemdir við 2. mgr. 15. gr. Ég vek athygli á því að sú málsgrein var ekki í því frumvarpi sem fulltrúar stjórnmálaflokkanna náðu samkomulagi um og skiluðu til ráðherra. Þar er svo búið um hnútana að valdið er tekið úr höndum þeirra sem eiga að tilnefna menn, eða er gefinn kostur á því, í nefndir, ráð eða stjórnir á vegum ríkisins og sveitarfélaga, og það fært í hendur ráðherra. Ég veit ekki hver fær það vald hjá sveitarfélögunum, forseti sveitarstjórnar, bæjarstjórinn eða sveitarstjórnin sjálf sem á að afgreiða það. Mér finnst, a.m.k. út frá starfi stjórnmálaflokkanna, algerlega óviðunandi að setja lög sem binda hendur stjórnmálaflokkanna til að tilnefna fulltrúa sína í störfum af þessum toga. Mér finnst það ekki lýðræðislegt. Stjórnmálaflokkarnir starfa á grundvelli umboðs sem þeir sækja til kjósenda og kjósendur sem gera upp málin við flokkinn í almennum kosningum. Ég sætti mig ekki við það að einhverjir ráðherrar fái slíkt vald og eigi að leiðrétta hlut kjósenda. Mér finnst að Alþingi geti ekki látið svona lagasetningu frá sér þar sem menn telja sig hafa vit fyrir kjósendum.

Eigi stjórnmálaflokkur að tilnefna fulltrúa í nefnd í einhverju starfi þá á hann að gera það og ráða því hver sá fulltrúi er en ekki hæstv. félagsmálaráðherra, viðskiptaráðherra eða einhver annar. Það er fráleitt. Ég geri miklar athugasemdir við þetta ákvæði sem var bætt inn í meðförum ríkisstjórnarinnar en bendi á að þetta er greinilega ekki eins gott ákvæði og ætla mætti þegar kemur að ríkisstjórninni sjálfri. Hvað gerir hún þegar kemur í lagatextanum að skipun Jafnréttisráðs? Þá á þetta ekki við. Frumvarpið gerir ráð fyrir sérmeðferð fyrir Jafnréttisráð. Þar er skipað, eftir því sem þar segir í frumvarpinu, eftir annarri útfærslu en gildir í frumvarpinu varðandi aðra. Það dæmir málið best að ríkisstjórnin telur sig ekki geta stuðst við þessa reglu sem hún vill að gildi að öðru leyti þegar kemur að skipun í Jafnréttisráð. Þá eiga tilnefningaraðilar að ráða því hver er valinn fulltrúi en það er ekki í höndum ráðherra að velja á milli fulltrúa sem nefndir eru.

Virðulegi forseti. Ekki fleira um þetta mál að sinni. Ég ítreka það sem fram kom hjá mér í upphafi og í 1. umr. um málið um almennan stuðning við málið og markmið þess.



[16:49]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður kom inn á svæðisbundið misrétti og það snertir það sem ég nefndi í 1. umr., að frumvarpið bannaði ekki misrétti milli fólks af sama kyni. Ég vil bæta því við að aldursbundið misrétti er greinilega í gangi í þjóðfélaginu. Þeir sem komnir eru yfir fimmtugt eiga erfitt með að fá störf og þurfa að sætta sig við lægri laun en þeir sem yngri eru. Það er því heilmikið misrétti í gangi sem frumvarpið tekur ekki á.

Ég spyr hv. þingmann hvort hann telji ekki eins og sumir að það mundi þynna lögin ef menn vikju frá því að ræða bara um misrétti milli kynjanna og færu að tala um misrétti milli fólks af ýmsum toga, bæði svæðisbundið misrétti sem er greinilega til staðar, og eins aldursbundið misrétti sem einnig er til staðar?

Svo fannst mér athyglisverð umræðan um kynbundið ofbeldi og vil spyrja hv. þingmann að því hvað hann telji vera tákn eða merki frá lagasetningunni til ungra drengja sem geta ekkert að því gert að þeir eru karlmenn? Þeir fá í rauninni signal um það frá löggjafanum að þeir séu mjög ofbeldishneigðir.



[16:51]
Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvað varðar fyrri spurninguna finnst mér það ekki þynna málið að taka á misrétti víðar en gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Mér finnst það styrkja málið og átta mig ekki á því hvernig menn geta komist að þeirri niðurstöðu að skilja eigi ákveðna hluta misréttisins eftir og með hvaða rökum þá. Er það vegna þess að mannafla skortir til að fylgja því eftir eða er ekki mögulegt að gera það? Ég held ekki, ég get ekki fallist á það, virðulegi forseti.

Samkvæmt frumvarpinu sýnist mér, ef ég skil það rétt, að karlmaður sem vinnur starf á landsbyggðinni og er með lægri laun en kona sem vinnur sama starf á höfuðborgarsvæðinu — ég sé ekki annað en að frumvarpið geri ráð fyrir að það sé í lagi af því að þau eru ekki í sama sveitarfélagi. Kannski er það ekki svo en svona dæmi eru til þó að hin séu mun algengari, að mismunun sé innbyrðis hjá hvoru kyni fyrir sig eftir búsetu. Það finnst mér líka vera misrétti sem engin ástæða er til fyrir Alþingi að láta kyrrt liggja. Af hverju ætti Alþingi að láta sem það misrétti sé þannig að ástæða sé til að bregðast við því?

Varðandi síðari spurninguna heyrði hv. þingmaður vangaveltur mínar. Mér finnst þetta koma fram í textanum. Ég vona að það sé nú ekki meiningin hjá frumvarpshöfundum eins og ég lagði út af. Mér finnst þó ansi mikið sagt að setja í löggjöf texta sem beinlínis vísar til þess að karlmenn séu ofbeldishneigðir og að sérstaklega þurfi að bregðast við því. (Forseti hringir.) Mér finnst það bara ansi mikið, virðulegi forseti.



[16:53]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég lýsi hér í andsvari yfir vonbrigðum mínum með útlistun hv. þingmanns á því markmiði frumvarpsins að vinna beri gegn kynbundnu ofbeldi. Hv. þingmaður segir eitthvað á þá leið að texti sem útlisti tiltekinn skilning á eðliseiginleikum karlmanna eigi ekki heima í þessari löggjöf og að hann sé ekki tilbúinn til að samþykkja að karlmenn almennt séu ofbeldismenn. Ég er heldur ekki tilbúin til að samþykkja að karlmenn séu almennt ofbeldismenn og það er ekkert í textanum sem gefur það til kynna. Hins vegar er vitað að ofbeldi karla gegn konum er rótgróið samfélagsmein. Um það má lesa fjölda fræðilegra rannsókna, að ofbeldi karla gegn konum er þáttur — (Gripið fram í.) já, sumra karla, það er auðvitað alveg rétt, að ofbeldi sumra karla gegn konum er mjög ríkur þáttur í því að halda konum niðri í samfélaginu. Tilhneiging eða tilraun hv. þingmanns til þess að bera þetta saman við útlendingamál og umræðu um mismunandi þjóðerni er afleit og fráleit að mínu mati því að það eru engar rannsóknir mér vitanlega sem leiða það í ljós að einhver ein þjóð sé ofbeldishneigðari annarri. Hins vegar eru eflaust hundruð rannsókna sem sýna fram á að karlar eru líklegri til þess að beita konur ofbeldi og gera það en að konur beiti karla ofbeldi.

Sem sagt, ég vildi frekar sjá að farið verði í þessari löggjöf og frumvarpi að tillögu frá Mannréttindaskrifstofu Íslands um að kynbundið ofbeldi verði sérstaklega skilgreint í löggjöfinni (Forseti hringir.) og kem til með að berjast fyrir því.



[16:55]
Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Í þeim samanburði sem ég greip til í máli mínu, að vísa til umræðu um útlendinga, var grunntónninn sá að menn eigi að líta á einstaklinginn og dæma hann af verkum sínum en ekki á þjóðerni eða kynþátt. Ég þekki ekki að til séu hundruð rannsókna sem sýni fram á að karlmenn séu líklegri til að vera ofbeldishneigðir en konur, ég þekki það bara ekki. Ég held að svo sé ekki, ég held að menn hafi þá ekki rannsakað alla hluti í málinu. Ég held að það eigi alveg jafnt við að sumir karlar beiti konur ofbeldi og hið gagnstæða, að konur beiti karla ofbeldi, ég held það. Sjálfsagt þarf að fara yfir það sem tiltækt er í þeim efnum. Ég er ekki sérfræðingur á þessu sviði og ef til eru rannsóknir sem sýna það þá beygi ég mig auðvitað fyrir þeirri þekkingu og vitneskju, en ég tel að svo sé ekki. Ég tel að ekki séu til upplýsingar sem sanna að karlmenn séu líklegri en konur til að beita aðra ofbeldi.



[16:56]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að setja mig á háan hest yfir hv. þingmanni með því að halda því fram að ég viti eitthvað meira en hann um þessi mál. Ég tel orðaskipti okkar hér styrkja og styðja það sjónarmið mitt að Rannsóknastofa í kvenna- og kynjafræðum eigi að eiga aðild að Jafnréttisráði og eigi að vera virkur þátttakandi í því að móta framkvæmd þessarar löggjafar. Þar eru saman komnar upplýsingar um þær rannsóknir sem við þekkjum bestar.

Ég vil hins vegar benda hv. þingmanni og þingheimi öllum á að Mannréttindaskrifstofa Íslands leggur til að í þessum lögum verði sett fram skilgreining á kynbundnu ofbeldi, t.d. í samræmi við yfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna um afnám ofbeldis gegn konum. Ég bendi á að við erum aðilar að sérstökum samningi um það sem Sameinuðu þjóðirnar hafa gefið út. Mannréttindaskrifstofa leggur til að í lögunum standi, með leyfi forseta:

„... ofbeldi á grundvelli kynferðis sem leiðir til, eða gæti leitt til, líkamlegs, kynferðislegs eða sálræns skaða eða þjáninga kvenna, einnig hótun um slíkt, (Forseti hringir.) þvingun eða handahófskennda sviptingu frelsis, bæði í einkalífi og á opinberum vettvangi.“



[16:58]
Frsm. fél.- og trn. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hægt er að taka undir margar af þeim athugasemdum sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson gerði í máli sínu, m.a. varnaðarorð um að forðast alhæfingar eða flokkun fólks í sambandi við umfjöllun og eins að fyrirsjáanlegt er að launasamanburður verður að mörgu leyti erfiðari með tilkomu einstaklingssamninga.

Það sem mig langar að ræða er í fyrsta lagi álagið í nefndinni og að hv. þingmaður átti ekki möguleika á að taka þátt í starfinu í lokaáfanganum. Það var vissulega mjög leitt en aftur á móti hafði vinnan tekið mjög langan tíma og okkur fannst mikilvægt, m.a. vegna verkefna sem fyrirsjáanleg eru, að við lykjum þeim störfum fyrir jól. Samstaða var um það í nefndinni og reynt var að upplýsa aðila. Ljóst var að sumir nefndarmenn létu félaga sína í eigin þingflokki um að fylgja málinu eftir og skoða það samhliða til að koma til móts við álag í nefndarvinnunni. Ég lofa því að við reynum almennt að vinna þannig að allir aðilar geti verið með.

Það sem mig langar að spyrja um er hvað hv. þingmaður sér fyrir sér í þessum lögum sem hindrar að borin verði saman launakjör á milli landsvæða. Ég sé ekkert sem hindrar það ef um er að ræða sama fyrirtæki eins og hann nefndi sjálfur. Fram kom í nefndinni að erfitt verður, t.d. þar sem um er að ræða sveitarfélög þar sem ólíkir samningar eru á milli ólíkra svæða — að kjarasamningar geta boðað einhverja mismunun sem erfitt verður að bera saman.

Hitt atriðið sem mig langar að spyrja um er af hverju hv. þingmaður telur að þessar nýju reglur gildi ekki um Jafnréttisráð í framtíðinni, að tilnefna þurfi tvo aðila? Það er ekkert í lögunum sem segir það og ég sé ekki að talið verði upp í hverjum lögum hvernig eigi að tilnefna heldur verði það almennt ákvæði sem gildi um allar tilnefningar í ráð, þar með Jafnréttisráð framtíðarinnar.



[17:00]
Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kemur skýrt fram í 16. gr. Ekki er ætlunin að talnaefnið sé þannig niðurgreint að hægt sé að átta sig á mismunandi launakjörum eftir búsetu. Ég sé því ekki að stefnt sé að því að safna þeim upplýsingum saman. Þá hafa viðkomandi aðilar heldur ekki upplýsingar til að vinna sitt starf í eftirfylgni hvað varðar jöfn laun og jöfn kjör. Ég sé því ekki að þetta muni ganga, en ef það kemur fram í frumvarpinu væri gott að hv. formaður nefndarinnar bendi á það og taki það fram. Það hefur mikið gildi ef formaður þingnefndar skýrir lagatexta úr ræðustóli Alþingis, eftir því mun verða tekið.

Varðandi síðara atriðið þá er það lagatextinn eða frumvarpstextinn sjálfur sem svarar því. Ég geri athugasemdir við 2. mgr. 15. gr. sem segir að þegar tilnefnt er í nefndir og ráð, og ráð er Jafnréttisráð m.a., nefndir ráða stjórnir, eigi að tilnefna bæði karl og konu og síðan eigi tilnefningaraðilinn að velja hvorn hann setur í viðkomandi starf. En lagatextinn um Jafnréttisráð hljóðar ekki svo heldur skipar ráðherra tvo fulltrúa sem tilnefndir eru sameiginlega af samtökum launafólks t.d. Fulltrúar sem tilnefna á eru ekki fjórir og ráðherra á ekki að velja tvo af fjórum heldur eru þeir bara tveir sem tilnefna á og eiga báðir að fara inn o.s.frv. Það er alveg skýrt í frumvarpinu.



[17:02]
Frsm. fél.- og trn. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég skil málið á þann veg að samanburður á launum verði innan fyrirtækja. Fyrirtækið verður að gera grein fyrir því að það borgi sömu laun fyrir sömu vinnu innan fyrirtækisins. Þar með kemur landsbyggðin inn í umræðuna. Ekki þarf sérstakar kannanir til að kanna þann þátt utan þess sem kannað er hjá viðkomandi fyrirtæki gegnum jafnréttisáætlun og launastefnu þess og framkvæmd hennar.

Varðandi Jafnréttisráðið þá lít ég þannig á, að með nýju lögunum, ef frumvarpið verður samþykkt eins og það er núna, verði skilgreining á því hvernig standa skuli að skipun þar ekki sett inn í öll lög heldur gildi hið almenna ákvæði um allar tilnefningar, einnig í Jafnréttisráð. Þannig vil ég túlka þetta.

Ég hef aldrei skilið kynbundið ofbeldi á þann veg að það varði einungis ofbeldi karla gegn konum, þó svo megi skilja af skýringum í athugasemdum við greinina. (Forseti hringir.)



[17:03]
Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ágætt að fá það á hreint að þetta er þá afmarkað við fyrirtæki. Ef fyrirtæki hefur starfsstöð í ólíkum sveitarfélögum og innan þess eru ólík launakjör fyrir sama starf þá brýtur það í bága við lögin.

Ég spyr þá: Hvernig á að bregðast við ef eigandi skiptir fyrirtækinu í tvennt? Annað fyrirtækið er á landsbyggðinni og hitt á höfuðborgarsvæðinu. Hann mun þá væntanlega vera laus undan hinum langa armi jafnréttislaga og komast upp með að greiða mismunandi laun fyrir sama starf eftir búsetu.

Ég læt ekki sannfærast af skilningi formanns nefndarinnar á skipun í Jafnréttisráð. Það er sjálfstæð grein sem stendur fyrir sínu og 15. gr. tekur hana ekki af. Þannig að það verður farið eftir henni og engu öðru. Það gengur ekki upp, virðulegi forseti, það sem hv. formaður nefndarinnar bar fram í því.



[17:04]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það hillir undir lokin á 2. umr. um frumvarp um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni fyrir að óska eftir því formlega úr þessum ræðustóli að málinu verði vísað til nefndar á ný milli 2. og 3. umr. Eins og kom fram í máli mínu áðan tel ég afar mikilvægt að ákveðnir þættir málsins séu skoðaðir áfram. Ég sannfærðist í þeirri trú minni þegar hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson sagði frá því á hvern hátt hefði verið unnið á síðustu dögum þingsins fyrir jól. Það kannski skýrir ákveðna fljótaskrift á hlutunum í breytingartillögum nefndarinnar og þá nefni ég sérstaklega hugmyndir um vottunarkerfið. Ég fagna því mjög að nú skuli tryggt að málinu verði vísað til nefndar á nýjan leik, ég lít svo á að það hljóti að verða gert úr því að komin er fram formleg ósk um það.

Ég varð að skilja þar við í fyrri ræðu minni, um aðferðir til að samþætta kynjasjónarmiðin í allar ákvarðanir, að ég hafði ekki tíma til að vitna til umsagnar sem mig langar að vitna í. Það er umsögn Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum sem fjallar sérstaklega um þetta atriði í umsögn sinni til nefndarinnar. Þar segir, með leyfi forseta:

„Samkvæmt a-lið 1. gr. frumvarpsins, segir að markmiðum laganna skuli náð með því „að gæta jafnréttissjónarmiða og vinna að kynjasamþættingu í stefnumótun og ákvörðunum á öllum sviðum samfélagsins“. Þetta er grundvallaratriði því hér er um víðtæka aðferðafræði að ræða en þess sér of lítinn stað í frumvarpinu hvernig þetta eigi að ganga fyrir sig. Jafnréttissérfræðingar hafa varað við að samþættingarhugtakið geti veikt jafnréttisstarf ef því er ekki gefið innihald.

Gagnrýnin á samþættingarhugmyndina snýst m.a. um hvernig hugtakið hefur verið notað, hvaða forsendur þurfa að vera fyrir hendi til að samþætting beri varanlegan árangur. Rangtúlkanir á innihaldi samþættingarhugtaksins eru ein helsta hindrunin fyrir árangri. Margir rugla samþættingu saman við fyrstu jafnréttisáherslu ESB, meginregluna um jafnan rétt og bann við mismunun. Sé samþætting skilgreind þannig felur hún í sér hugmyndalegt afturhvarf um nokkra áratugi og lækkar metnaðarstig málaflokksins. Allt veltur á því hvernig samþættingu er hrundið í framkvæmd. Hún kallar á fjármagn, kynjavitund og pólitískan vilja.

Annað grundvallaratriði er sérfræðiþekking og hvernig hún er nýtt. Eigi embættismenn kerfisins að fá þjálfun og það þekkingarstig sem þarf til að fella samþættingu inn í viðtekin verkferli, kallar það á stórtækt fræðsluátak. Ef þetta er ekki fyrir hendi getur samþætting orðið máttlaust orð á blaði, ekki bara gagnslaus, heldur „fjarvistarsönnun“, afsökun fyrir að gera ekki neitt“.

Í umsögninni er vitnað til umfjöllunar Þorgerðar Einarsdóttur í grein sem hún skrifaði og ber heitið Jafnrétti án femínisma, pólitík án fræða. Greinina er að finna á heimasíðu Þorgerðar sem er vistuð undir Háskóla Íslands. Þorgerður segir í þessari grein sinni, sem er uppistaðan í umsögn Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum hvað þetta málefni varðar, með leyfi forseta:

„Reynslan sýnir að bandalög og samstöðutengsl jafnréttissérfræðinga, feminískra fræðimanna, embættismanna og stjórnmálamanna hafa reynst með mikilvægustu tækifærum í þessu ferli.“

Ég vil leyfa mér að taka undir þessi sjónarmið og ítreka þau. Ég tel mjög mikilvægt að við áttum okkur á því hvað við erum að segja hér og að við gefum þessu samþættingarhugtaki sem er notað í frumvarpstextanum, og verður að öllum líkindum í lagatextanum, það innihald sem nauðsynlegt er.

Því er ekki fyrir að fara í skilgreiningum með frumvarpinu, ekki svo nægilegt eða fullnægjandi megi teljast. Ég tel því að við þurfum, annaðhvort í nýju nefndaráliti eða í einhvers konar yfirlýsingum frá löggjafanum, að kveða skýrar á um hvað við eigum við með því hugtaki og hvað okkur finnst að þurfi að gera, hvernig hrinda eigi í framkvæmd slíku átaki til samþættingar.

Varðandi rannsóknaþáttinn almennt er getið um það í frumvarpinu, í 23. gr., að efla þurfi rannsóknir á stöðu kynjanna í íslensku samfélagi, jafnt fræðilegar rannsóknir, grunnrannsóknir sem hagnýtar rannsóknir og miðla þurfi niðurstöðum þeirra markvisst innan skólastarfsins og til fjölmiðla. Undir það sjónarmið tek ég en ég tek líka undir það sjónarmið Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum að þó mikilvægt sé að fræða yngra fólkið sé ekki síður mikilvægt að fræða fullorðið fólk um jafnréttissjónarmið og jafnréttismál. Rannsóknastofan tekur dæmi í umsögn sinni og segir frá því að í niðurstöðum rannsóknaverkefnis sem var unnið á vegum rannsóknastofunnar um fæðingarorlof sé bent á mikilvægi þess að fræða karla um fæðingarorlofið, um gildi þess, réttindi feðra og skyldur gagnvart börnum sínum. Við þekkjum öll hvað sú fræðsla sem átt hefur sér stað á þeim vettvangi hefur verið dýrmæt og hvað hún hefur skilað miklu út í samfélagið. Sú fræðsla hefur átt þátt í því að breyta sjónarmiðum sem er ekki hvað síst tilgangur þessara laga. Við þurfum því að átta okkur á því hve fræðsluhlutverkið er mikilvægt og vera okkur meðvituð um hve mikið þarf að gerast til þess að efla það.

Ég vil í lokin segja örfá orð í viðbót við það sem rætt var áðan í tilefni af ræðu hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar, sem fjallaði um kynbundið ofbeldi. Ég ítreka það sjónarmið mitt að ég tel að ábendingin sem nefndin hefur fengið frá Mannréttindaskrifstofu Íslands, um það að skilgreina beri kynbundið ofbeldi í lagatextanum, sé mikilvæg. Ég tel tillögu Mannréttindaskrifstofu, sem ég setti fram í andsvari áðan, afar skynsamlega og legg til að það verði skoðað í nefndinni hvort ekki sé tilefni til að taka þá skilgreiningu inn í lagatextann.

Nokkrar aðrar ábendingar í umsögn Mannréttindaskrifstofu Íslands eru athyglisverðar. Það hefði t.d. verið gagnlegt að heyra hvernig nefndin brást við tillögum Mannréttindaskrifstofu Íslands sem lýsir sig reiðubúna til að eiga fulltrúa í Jafnréttisráði. Skrifstofan vinnur að mannréttindamálum á heildstæðan hátt og fulltrúar hennar gætu að mati skrifstofunnar varpað ljósi á ýmislegt sem lýtur að jafnréttismálum. Í umsögninni er fjölþáttamismunun t.d. nefnd, mismunun sem konur verða fyrir, tvöföld mismunun á grundvelli kynferðis og kynþáttar. Ég hefði gaman af að vita, í ljósi þess sem við höfum rætt um skipan Jafnréttisráðs, hvernig nefndin brást við þessu tilboði. Það hefur ekki komið fram í umræðunni hingað til að þetta hafi staðið nefndinni til boða. Ég geri ráð fyrir að þetta hafi verið skoðað þar sem nefndin tók upp skipanina í Jafnréttisráð.

Mannréttindaskrifstofan hvetur stjórnvöld einnig til að auka fjárframlög til Jafnréttisstofu umtalsvert svo að hún geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu. Undir það sjónarmið tek ég og við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum ítrekað bent á það í fjárlagaumræðunni að það sé grundvallaratriði í því að koma fram sjónarmiðum og ná fram markmiðum þessarar löggjafar að vel sé gert við Jafnréttisstofu. Ég þekki það eftir fjárlagaumræðuna nú í haust að Jafnréttisstofa fær aukin stöðugildi en mér er til efs að svo miklu sé bætt við stofuna að það nægi til þess að hún geti tekið við, svo vel sé, öllum þeim auknu verkefnum sem hún fær með frumvarpinu.

Mannréttindaskrifstofan bendir okkur einnig á í umsögn sinni að Ísland hafi undirritað en ekki fullgilt ýmsa samninga sem snúa að jafnréttismálunum og hún hvetur stjórnvöld til að fullgilda hið fyrsta samningsviðauka nr. 12 í mannréttindasáttmála Evrópu en í honum er að finna sjálfstætt bann við mismunun. Ég tek undir þetta sjónarmið. Hún hvetur stjórnvöld líka til að fullgilda Evrópusamninginn um aðgerðir gegn mansali og samning Sameinuðu þjóðanna um aðgerðir til að sporna gegn skipulagðri fjölþjóðlegri glæpastarfsemi ásamt viðaukum. Ég bendi hv. þingmönnum á að þetta er samhljóma tillögum og þingmálum sem við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum flutt hér ítrekað þannig að ég tek líka undir þessi sjónarmið. Ég hefði talið eðlilegt að nefndin sýndi okkur í nefndaráliti sínu einhver viðbrögð við þeim tillögum sem Mannréttindaskrifstofan fer fram á í umsögn sinni.

Að lokum, hæstv. forseti, vil ég þakka hæstv. félagsmálaráðherra fyrir að sitja alla þessa umræðu. Það er til eftirbreytni. Eins og hér hefur oft verið sagt áður er það allt of sjaldan sem ráðherrar hafa úthald í að sitja og hlýða á allar þær umræður sem eiga sér stað við 2. umr. frumvarpa sem undir þá (Forseti hringir.) heyra. Það er virðingarvert af hæstv. félagsmálaráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, að gera það og fyrir það þakka ég.



[17:15]Útbýting:

[17:15]
félags- og tryggingamálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég stend upp í lok þessarar umræðu til að þakka þá umræðu sem hér hefur farið fram og fagna henni. Þetta er mjög áhugaverð umræða sem staðið hefur í rúmar þrjár klukkustundir. Menn hafa skipst á skoðunum um jafnréttismálin almennt og mér finnst umræðan endurspegla þann áhuga sem er á jafnréttismálum og þó að menn séu kannski ekki sammála um leiðir eða einstök ákvæði í frumvarpinu held ég að allir hafi sama markmið, að stuðla að jafnrétti, en hafa e.t.v. skiptar skoðanir á hvaða leiðir eigi að fara til að ná því markmiði.

Mér finnst ákvæði í því frumvarpi sem við erum að fjalla um við 2. umr. gefa tilefni til og færi á að taka með öðrum og nýjum hætti á jafnréttismálunum en gert hefur verið til þessa. Vonandi leiða þau til þess að við náum betri og meiri áfanga í að minnka kynbundinn launamun og einnig að auka hlut kvenna í stjórnum fyrirtækja og í nefndum og stjórnum á vegum hins opinbera, sem er nauðsynlegt að gera að mínu mati, og ýmis ákvæði í frumvarpinu og breytingartillögum hv. félags- og tryggingamálanefndar gefa einmitt færi á því að mínu mati.

Farið var vítt og breitt yfir þær breytingartillögur sem nefndin leggur til og almennt um stöðu jafnréttismála, sem er mjög jákvætt. Talsvert var stoppað við það ákvæði sem nefndin flytur sem ákvæði til bráðabirgða, um jafnlaunavottunina, og skoðun mín er sú að nefndin hafi nálgast það viðfangsefni mjög skynsamlega. Ég tjáði mig aðeins um þetta við 1. umr. málsins og taldi áhugavert að skoða þessa leið. Hún hefur verið töluvert lengi í umræðunni en ég hygg að samráðshópur á vegum fyrrverandi félagsmálaráðherra, sem hann skipaði í nóvember 2005 til að undirbúa slíka vottun, sé byrjunin á þessu. Ég hef orðið vör við það eftir að ég kom í félagsmálaráðuneytið að þar hafa ýmsir áhuga á að fara þessa leið en eins og gerist og gengur hafa aðrir minni áhuga á því og hafa kannski ekki mikla trú á henni. Að mínu viti er það því skynsamleg nálgun sem farin er með þeirri breytingartillögu sem hér er lögð fram en þar segir, með leyfi forseta:

„Félagsmálaráðherra skal sjá til þess að þróað verði sérstakt vottunarkerfi á framkvæmd stefnu um launajafnrétti og framkvæmd stefnu um jafnrétti við ráðningar og uppsagnir í samvinnu við samtök aðila vinnumarkaðarins. Verkefninu skal lokið fyrir 1. janúar 2010 og skal þá fara fram endurskoðun á lögum þessum.“

Ég mun ekki draga það að setja þessa vinnu í gang. Hún á að vera í gangi í nokkurn tíma og það er samdóma álit þeirra sem gerst þekkja til að það taki nokkurn tíma að þróa slíkt vottunarkerfi og hvernig meta eigi vægi einstakra jafnréttisþátta í slíkum stöðlum. Það er mikilvægt, eins og nefndin leggur áherslu á, að veitt verði til þess tilskilið fjármagn til að hægt sé að standa að þeirri vinnu eins og réttilega kemur fram í áliti nefndarinnar en þar segir, með leyfi forseta:

„Ef koma skal slíku kerfi á fót þarf að fara fram ítarleg rannsóknarvinna og þróun á vottunarkerfi.“

Það er alveg rétt sem þar kemur fram að þetta er örugglega töluverð vinna. Lagt var mat á það hve mikill kostnaður fylgdi slíkri þróunarvinnu og jafnlaunavottun af þeim aðilum sem unnu með málið á fyrri stigum, þ.e. af aðilum sem tengjast háskólunum þremur, og þar var áætlað að þetta kostaði um 73 millj. kr. Það eru heldur meiri peningar en almennt er ætlað til að hrinda í framkvæmd ákvæðum þessa frumvarps þannig að við erum að tala um töluvert mikla peninga í þessu sambandi.

Ég tel mjög jákvætt ef fyrirtæki eða stofnanir vilja afla sér jafnlaunavottunar en þróun vottunarinnar er skammt á veg komin og ýmsum spurningum er enn ósvarað sem munu auðvitað skýrast eftir því sem þessari vinnu vindur fram og vonandi getur hún farið af stað fljótlega. Ég held að þetta geti unnið vel saman, bæði jafnlaunavottun og framkvæmd á ákvæðum þess frumvarps sem hér liggur fyrir, en ég tel að það hefði verið of bratt af stað farið að lögfesta slík ákvæði áður en menn hefðu farið yfir þróunarvinnuna sem er alveg nauðsynleg og hvernig þessum stöðlum verður best fyrir komið.

Ég vil nefna jafnréttisþingið sem var töluvert nefnt og ég bind miklar vonir við og ef vel tekst til og þetta frumvarp verður fljótlega að lögum verður hugsanlega hægt að hafa slíkt þing í maílok. Ég legg áherslu á að það verði haldið eins fljótt og hægt er vegna þess að ég tel mikilvægt að nýta slíkt þing til að fá fram hugmyndir sem gætu nýst vel í þá vinnu sem þarf að fara fram við gerð framkvæmdaráætlunar í jafnréttismálum kynjanna sem lögð verður fyrir Alþingi. Ég bind miklar vonir við þetta jafnréttisþing og tel að hægt sé að halda það mjög fljótlega, hugsanlega í maímánuði en í síðasta lagi í ágúst/september á þessu ári.

Ég tel ekki út af fyrir sig ástæðu til að fara ítarlega yfir þær breytingartillögur sem nefndin gerði í meðferð sinni á málinu. Ég geri mér fulla grein fyrir því að í mörgum tilvikum er um að ræða málamiðlanir og ég geri engar athugasemdir við það. Ég geri mér alveg ljóst, eins og ég nefndi í upphafi máls míns, að það geta verið skiptar skoðanir um aðferðir og leiðir til að ná fram þeim tilgangi sem jafnréttislögin hafa og ég sætti mig vel vil þá niðurstöðu sem nefndin komst að í vinnu sinni og sé ástæðu til þess í lok umræðunnar að þakka nefndinni fyrir þá miklu vinnu sem var lögð í þetta mál og þá góðu samstöðu sem náðist í nefndinni um breytingartillögur sem hér hafa verið kynntar og þá frumvarpið í heild þó að ég geri mér grein fyrir, eins og ég sagði áðan, fyrirvara hv. þm. Péturs H. Blöndals og því sjónarmiði sem kom fram hjá hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni í þessu máli. Ég vil ítreka það sem mér fannst formaður heilbrigðis- og trygginganefndar skýra alveg ágætlega að það er misskilningur hjá hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni varðandi þá leið sem farin er við tilefningarnar, að tilnefna karl og konu. Af því að hv. þingmaður hélt því fram að þetta ákvæði hefði ekki verið í upphaflega frumvarpinu sem þetta frumvarp var að miklu leyti byggt á, þá var það í 22. gr. gamla frumvarpsins sem ekki var lagt fyrir þingið en er nú komið í 15. gr. Ég hygg að það sé orðrétt sama ákvæðið um að tilnefna eigi karl og konu. Í núgildandi lögum er þetta tilgreint sérstaklega fyrir Jafnréttisráð vegna þess að þetta var ekki almennt í lögum um skipan annarra nefnda, stjórna og ráða nema að því er varðar Jafnréttisráð. Með þessu ákvæði, verði það að lögum, á þetta almennt við um allar nefndir og stjórnir og ráð og þarf þá ekki að tiltaka það sérstaklega í þessum lögum um Jafnréttisráð.

Hv. þingmaður gerði raunar líka athugasemdir við efnisatriði 15. gr. um að skipa ætti bæði karl og konu. Hann hefur þá skoðun á því sem ég virði en ég er ósammála hv. þingmanni um að ekki sé rétt að fara þá leið að tilnefna bæði karl og konu. Það er leið til þess að ná fram meira jafnrétti í nefndir, stjórnir og ráð á vegum hins opinbera en það vantar töluvert mikið upp á það. Ef þetta væri ekki gert með þessum hætti þá væri þetta þannig að fulltrúar í opinberar stjórnir, nefndir og ráð væru oftar en ekki skipaðir á grundvelli tilnefninga hagsmunaaðila og væru eingöngu karlmenn skipaðir af þeim hagsmunaaðilum sem hafa tilnefningarrétt í kannski fimm eða sjö manna nefndir þá gæti ráðherra eða sá sem skipa á viðkomandi stjórn eða ráð staðið frammi fyrir því að vera með nefnd eða stjórn sem stefndi í að vera sex karlar og hann mundi þá væntanlega skipa konuna. Ég held þess vegna að það sé leið til að ná fram jafnrétti að lögbinda þetta með þessum hætti.

Ég hef sannarlega orðið vör við það eins og þetta er núna, þegar þetta er ekki lögbundið nema gagnvart Jafnréttisráði og jafnvel þótt óskað sé bréflega tilnefningar karls og konu, að ýmsir aðilar hunsa það og sumir hafa það að reglu að tilnefna bara einn aðila, þann sem þeir vilja sjá í viðkomandi nefndir. Ef þetta væri með þessum hætti væri erfiðara að ná þessu fram vegna þess að auðvitað hlýtur sá sem tilnefna á aðila í stjórn, nefnd eða ráð að tilnefna tvo hæfa einstaklinga sem hann treystir. Síðan er það ráðherrans eða þess sem skipar í nefndina að meta út frá því af því að hann skipar yfirleitt formanninn, hvort hann þarf að skipa karl eða konu og þá fer það eftir því hvaða hátt aðrir tilnefningaraðilar hafa haft á. Því tel ég að þetta sé rétta leiðin, virðulegi forseti.

Ég ítreka þakklæti mitt fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram og fyrir það góða starf sem nefndin hefur unnið. Ég vona að með þessu frumvarpi, þegar það verður að lögum, séum við að samþykkja framsækin lög sem gefa okkur færi á að ná fram meira jafnrétti en raunin hefur orðið á hingað til.



[17:28]
Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir lokaorð í ræðu hæstv. ráðherra og hef svo sem ekki miklu við það að bæta. En varðandi frumvarpið sem nefndin samdi og sendi ráðherra á sínum tíma þá fékk ég það sent frá formanni Frjálslynda flokksins þegar þetta frumvarp kom fram í haust og samkvæmt því er þetta atriði ekki í 22. gr. frumvarpsins. Þarna fer því eitthvað á milli mála. Ef til vill er hæstv. ráðherra með einhverja aðra útgáfu af þessu frumvarpi en ég og málið breyst frá því skjali sem ég hef undir höndum og þess vegna sagði ég það sem ég hef sagt um þetta atriði, virðulegi forseti.

Það er út af fyrir sig ekki aðalatriðið heldur hitt sem mér finnst ástæða til að halda á lofti, a.m.k. varðandi stjórnmálaflokkana, að ég get ekki fallist á að annaðhvort Alþingi eða einstakir ráðherrar ráði því hvaða fulltrúar flokkanna starfi í einstökum nefndum og ráðum. Ég tel að það sé stjórnarskrárbundið að stjórnmálaflokkarnir ráði sér sjálfir. Ég tel að enginn aðili sé til þess bær að ráða því umfram þá sjálfa og umbjóðendur flokkanna sem eru kjósendur. Kjósendur hafa kosið viðkomandi flokk og gera upp við hann að lokum og ég sé ekki neinar forsendur fyrir því að Alþingi eða ríkisstjórn taki valdið í sínar hendur og leiðrétti vilja kjósenda og takmarki áhrif stjórnmálaflokks á því að ákveða hver starfar fyrir hans hönd í tiltekinni nefnd.



[17:30]
félags- og tryggingamálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við þurfum að leggjast í rannsóknarvinnu varðandi þetta eldra frumvarp — ég veit ekki hvaða eintak hv. þingmaður hefur í höndum — um hvort þetta hafi staðið í fyrra frumvarpi, að það ætti að tilnefna karl og konu í nefndir, stjórnir og ráð. Ég hef verið upplýst um að svo sé, þetta hafi verið í eldra frumvarpi. Ég hef það ekki undir höndum þannig að við skulum hafa það klárt fyrir 3. umr. og skoða það enda held ég að það sé ekki stórmál. Aðalatriðið er að þetta er í frumvarpinu sem við fjöllum um hér og ég hef lýst því áður að ég tel það til mikilla bóta.

Varðandi síðara efnisatriðið sem hv. þingmaður nefnir þá get ég ekki tekið undir það, að með því setja upp jafnréttisákvæði með þessum hætti sé valdið tekið af hagsmunaaðilum eða stjórnmálaflokkum sem eiga að tilnefna í nefndir, stjórnir eða ráð, og gengið gegn vilja kjósenda. Mér finnst það ansi langsótt að taka þannig til orða, eins og hv. þingmaður gerir. Í þeim tilvikum sem um er rætt er stjórnmálaflokki eða hagsmunaðilum gefið færi á að tilnefna tvo hæfa einstaklinga sem viðkomandi treystir. Síðan er það eingöngu ráðherra eða valdhafans sem skipar að velja úr þeim tveimur einstaklingum. Út frá hverju? Út frá því sjónarmiði að gætt sé jafnræðis milli kynja að því er varðar fulltrúa í nefndum, stjórnum eða ráðum. Ég get ekki fallist á það, virðulegi forseti, að með því sé valdið tekið frá stjórnmálaflokkunum eða gengið gegn vilja kjósenda. Við erum bara ósammála um það. En ég held að við séum sammála um margt annað í þessu ágæta frumvarpi.



[17:32]
Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, við erum vissulega ósammála um þetta sjónarmið, að einstakir stjórnmálamenn séu þess umkomnir að hafa vit fyrir kjósendum og leiðrétta niðurstöður þeirra. Það er þekkt, enda vísa ég í ýmis prófkjör þar sem niðurstaðan hefur verið leiðrétt og úrslitum eða niðurstöðu stillt upp í samræmi við reglur sem menn hafa sett sér, sem endurspegla ekki val kjósenda í prófkjörinu. Sérstaklega er þetta áberandi hjá Samfylkingunni. Til eru mýmörg dæmi um að úrslit hafi verið túlkuð á annan veg en atkvæðafjöldi gefur til kynna.

Þegar ráðherra skipar og hann biður um tilnefningu frá stjórnmálaflokkunum og biður um tvö nöfn, einn af hvoru kyni, er valdið í hans höndum að ráða því hver er valinn fyrir hönd viðkomandi flokks. Fyrsta valið hefur auðvitað áhrif á það sem á eftir kemur. Ef ráðherrann velur konu frá Samfylkingu þá væntanlega velur hann karl frá Sjálfstæðisflokki. Ráðherra ræður þessu því út í gegn og mér finnst það óeðlilegt. Mér finnst að flokkurinn eigi að ákveða það, ef honum er á annað borð boðið að skipa fulltrúa sinn til þess að taka þátt í nefndarstarfi. Hann ætti að ráð því. Ég tel enga þörf á því að ráðherra sé yfirdómari í þeim efnum.