135. löggjafarþing — 47. fundur,  15. jan. 2008.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

142. mál
[16:20]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er athyglisvert að hv. þm. Pétur H. Blöndal segist hafa þetta á tilfinningunni og hann telji að það þurfi að rannsaka þetta. Á sama tíma leggur hann það til sem aðili að áliti meiri hluta nefndarinnar að sá rannsóknaraðili sem mest veit og þekkir best niðurstöður þeirra rannsókna sem gerðar hafa verið, rannsóknastofa í kvenna- og kynjafræðum sé útilokuð frá setu í Jafnréttisráði. Ég vil því segja sem svo að orð hv. þingmanns í þessum efnum styrkja mig í þeirri trú að ég hafi rétt fyrir mér, að það sé verulega þýðingarmikið að Rannsóknastofan í kvenna- og kynjafræðum eigi sæti við borð Jafnréttisráðs. Ég er algerlega sannfærð um það að við hv. þingmaður getum komist að sameiginlegri niðurstöðu í þeim efnum þegar við tökum málið upp til skoðunar milli 2. og 3. umr.